Barðastrandarhreppur

Barðastrandarhreppur

Við Skiptá í austanverðum Kjálkafirði eru sýslumörk milli Austur- og Vestur-Barðastrandarsýslu. Hér hefst Barðastrandarhreppur sem nær yfir botn og vesturströnd Kjálkafjarðar, Hjarðarnes, Vatnsfjörð og sjálfa Barðaströnd með Sigluneshlíðum að vesturmörkum hreppsins í og undir Stálfjalli.

Árið 1703 voru 27 jarðir í byggð í Barðastrandarhreppi og að auki 5 hjáleigur.[1] Ábúendur voru þá alls 50 og íbúatala hreppsins 350.[2]

Nær 200 árum síðar voru 30 jarðir í byggð í hreppnum. Þar áttu þá heima 36 bændur og 4 húsmenn en íbúar voru 326.[3] Fyrir rösklega hundrað árum ferðuðust tveir menn um Barðastrandarsýslu í rannsóknaskyni, hvor í sínu lagi. Þetta voru þeir Þorvaldur Thoroddsen náttúrufræðingur, sem fór um sýsluna sumarið 1886, og Hermann Jónasson, búfræðingur og síðar skólastjóri Hólaskóla, sem rannsakaði búnaðarástand í Barðastrandarsýslu sumarið 1887. Báðir rituðu þeir skýrslur um ferðir sínar og er þar sitthvað fróðlegt að finna.

Um Barðaströnd segir Hermann Jónasson m.a.:

 

Útsýni er eitt hið fegursta á Barðaströnd, enda eru fá héruð á Íslandi jafnvel útbúin frá náttúrunnar hendi sem hún. Meirihluti strandarinnar liggur á móti hásuðri í skjóli undir fjallgarðinum; þar er því oft mjög heitt á sumrin. Þar sem nokkur rækt er í jörðu er grasvöxtur mikill en því miður er ræktunarleysið víða mikið. Í fyrra sumar (1886) fengust t.a.m. um 40 hestar af Brjánslækjartúni og var taðan svo smá að hún varð varla fest í reipum. Mörg tún eru þar stór en flest eru þau þýfð og víða grýtt en lega þeirra er þó haganleg. Ef túnunum væri sómi sýndur gætu þau orðið ágæt. Engjar eru þar góðar og allmiklar á mörgum jörðum og á sumum stöðum liggja þær vel við bótum. Þar er víðast vel lagað bæði til nautgriparæktar og sauðfjárræktar því haglendi er á flestum stöðum mikið og gott fyrir sauðfé og stórgripi. Vetrarríki er að sönnu nokkuð en víðast er þó fjörubeit meiri hluta vetrar. … Kartöflugarðar eru þar á hverjum bæ en fremur lítið er þar um kálrækt. Fram undan Barðaströnd veiðast hrognkelsi á vorum og dálítið af heilagfiski á sumrum. Stundum er líka ofurlítil þorskveiði þar fram undan og kópaveiði á stöku stað.

… En allt fyrir það þó margar jarðir á Barðaströnd séu mjög góðar þá eru þó fæstar þeirra fýsilegar nema fyrir kraftmenn. Þær eru komnar í svo mikla niðurníðslu sökum þess að fátækt og slóðaskapur var þar kominn á hátt stig. Nú lítur þó út fyrir að Barðaströnd fari aftur að rétta við því að áhugi er að vakna og nýir og betri menn hafa tekið sér þar bólfestu nú á síðustu árum. Hafa þeir stofnað búnaðarfélag og haldið búfræðing nú í tvö ár. … Á mörgum jörðum eru eigi nema 1-2 karlmenn og eru þeir þrásinnis yfir allt vorið við sjó, oft vestur á Látrum. Jarðabótum verður því lítið ágengt og garðrækt og kvikfjárrækt vanrækist. Einkum má nefna Jakob Aþanasíusson í Gerði og Vigfús Erlendsson í Hrísnesi sem þrifalegast hafa farið með tún sín.[4]

 

Þannig fórust Hermanni Jónassyni orð að lokinni ferð sinni um Barðaströnd sumarið 1887. Hann minnist m.a. á stofnun búnaðarfélags í hreppnum og af orðum hans að dæma hefur félagið að líkindum verið stofnað 1885 og ekki seinna en 1886. Strax árið 1888 fékk Búnaðarfélag Barðastrandarhrepps nokkurn styrk af opinberu fé vegna jarðabóta sem unnið hafði verið að. Voru það 80,- krónur.[5] Var þetta í fyrsta skipti sem einstök hreppabúnaðarfélög á Vestfjörðum fengu slíkan styrk af fjárlagafé en búnaðarfélögin í Mýrahreppi í Dýrafirði og í Önundarfirði fengu líka nokkurn styrk þetta sama ár, Dýrfirðingar 30,- krónur og Önfirðingar 100,- krónur.[6]

Í þessum efnum hafa Barðstrendingar verið í fremstu röð og er það talsvert merkilegt vegna þess að flestar heimildir draga upp dökka mynd af fátækt manna á Barðaströnd um þetta leyti. Í Stjórnartíðindum má sjá að næstu sjö árin eftir 1888 hefur búnaðarfélagið á Barðaströnd árlega hlotið styrk út á jarðabætur.

Þorvaldur Thoroddsen, sem fór um Barðaströnd árið 1886, minnist á margt varðandi búskapinn hér. Hjá honum má m.a. finna þetta:

 

Fjörubeit er ágæt á Barðaströnd og eru fjárhús alls staðar við sjóinn á malarbakkanum. Á stöku stað eru grindur hafðar í húsum en víðast hvar er sandur borinn í húsin og áburðinum og sandinum mokað í sjóinn. Úr kúamykjunni er búinn til klíningur og honum brennt.[7]

 

Greinilegt er að Þorvaldi blöskrar mjög þessi meðferð á áburðinum og hann bætir við:

 

Af þessu má ráða á hverju stigi búskapurinn er á Barðaströnd, enda er víst leit á héraði þar sem allt er jafn fagurt úr náttúrunnar hendi og þó jafn illa hagnýtt. Menntunarleysið og þar af leiðandi dugnaðarleysi og fátækt hafa lengi verið þessari strönd til hnekkis. Kaupstaðurinn Flatey hefur víst heldur aldrei verið Barðstrendingum til sérlegs hagnaðar eða framfara. Allt hefir eins og vant er gengið með eilífum lánum. Barðstrendingar hafa lánað Eyjamönnum slægjur, skógarhögg til hrístekju og kolagerðar og látið þá skemma fyrir sér landið, þeir hafa selt þeim kindur fyrir kofur o.s.frv.[8]

 

Þorvaldur Thoroddsen var yfirleitt prúður maður í orðum og má því segja að hann sé óvenjulega harðorður um eymd manna á Barðaströnd. Máske er það vegna þess að sjálfur var hann að nokkru uppalinn í Haga þar á Ströndinni og átti þaðan sínar fyrstu minningar. Jón Thoroddsen, skáld og sýslumaður Barðstrendinga, faðir Þorvalds, fluttist að Haga frá Flatey vorið sem Þorvaldur fæddist, 1855, og Þorvaldur var orðinn sjö ára að aldri er fjölskylda hans fluttist frá Haga suður að Leirá í Borgarfirði þar sem föður hans hafði verið veitt annað sýslumannsembætti.[9]

Er Þorvaldur fór um Barðaströnd sumarið 1886 var nær aldarfjórðungur liðinn frá því hann yfirgaf þessar bernskustöðvar og athyglisvert er að mest býsnast hann yfir niðurníðslunni í Haga þar sem hann segir bæinn varla vera annað en rúst.[10]

Um mataræði á Barðaströnd tínir Þorvaldur sitthvað til. Hann segir að flautir (þ.e. þeytt undanrenna) hafi enn verið þar algengur matur árið 1886 – og ég mundi þær vel frá ungdæmi mínu í Haga, bætir hann við.[11] Einnig tilgreinir Þorvaldur Barðaströnd sem einn þeirra staða þar sem hann hafi séð fjallagrös höfð til matar sumarið 1886, söxuð í graut og mjólk. Söl segir hann Barðstrendinga hafa sótt á Stórholtsfjöru í Saurbæ langt fram yfir miðja 19. öld og hafi þau þótt góð í brauð en vond í grauta.[12]

Þorvaldur Thoroddsen fjallar nokkuð um kjör vinnuhjúa á Barðaströnd um 1886. Segir hann að þar sé þá enn víðast samið um kaupgreiðslu í landaurum og sé árskaup vinnumanna 80-140 álnir (kýrverð = 120 álnir).[13] Samkvæmt opinberri verðlagsskrá Barðastrandarsýslu var kýrverðið talið vera 104,14 krónur árið 1886[14] og hefur árskaup vinnumanna mælt í krónum þá verið 70,- til 120,- krónur.

Kaup vinnukvenna á Barðaströnd var þá mun lægra eða 24,- krónur að sögn Þorvalds en á stöku bæjum 36,- krónur. Auk þess fengu þær skó, sokka og vettlinga. Til samanburðar tilgreinir Þorvaldur að í Reykjavík hafi árskaup vinnukvenna verið 30,- til 50,- krónur um 1880 og komið í 60,- krónur árið 1890.

Hermann Jónasson, sem hér var áður nefndur, segir í Búnaðarritinu árið 1888 að kostnaður bónda við að halda ársmann muni vera um 300,- krónur, auk kaupsins sem almennt sé um 100,- krónur.[15]

Hjá Þorvaldi Thoroddsen kemur fram að á Barðaströnd hafi hjú verið ráðin á haustin og þeim sagt upp fyrir jól.[16]

Þorvaldur tekur fram að um 1880 hafi yfirleitt verið hætt að vega vinnufólki út mat til vikunnar eins og áður var alsiða. Á Barðaströnd var áður algengt, að hans sögn, að karlmenn fengju 1 kíló af smjöri til vikunnar en kvenmenn 500-750 grömm. Vermönnum var þó skammtað ríflegar og fengu þeir 7 merkur af smjöri á viku eða 1¾ kíló.[17] Um þessi efni segir Þorvaldur ennfremur:

 

Á Vesturlandi var það almennt reiknað að vinnumaðurinn fengi mörk (250 grömm) af hörðum fiski á dag og mörk af smjöri. Fyrir utan það er nú er talið mun nú almennt teljast svo til að vinnufólk fái kaffi og sykur og mjólk tvisvar á dag og sums staðar oftar. Í sveitinni mun það vera almennt að fólk um sláttinn, auk hinnar áðurtöldu útvigtar í fiski og smjöri, fái 3-4 merkur af skyri eða skyrhræringi í mál auk miðmorgunskatts.[18]

 

Þessar upplýsingar Þorvalds eru teknar upp hér í því skyni að gefa ofurlitla mynd af kjörum almúga á Barðaströnd fyrir liðlega hundrað árum. Ekki vegna þess að lífskjör manna hér hafi skorið sig úr heldur fremur til að sýna dæmi um ástandið eins og það var í mörgum sveitum. Skrif þeirra Hermanns og Þorvalds um fátæktina á Barðaströnd í harðindunum upp úr 1880 minna hins vegar óneitanlega á frásögn Eyjólfs Stefánssonar á Dröngum á Skógarströnd af kjörum fátæklinga á Barðaströnd í byrjun 19. aldar.

Eyjólfur var fæddur árið 1868 og í endurminningum sínum rekur hann frásagnir gamallar konu af Barðaströnd, er Guðrún hét, en henni var Eyjólfur samtíða í Rauðseyjum á árunum kringum 1880. Að sögn Eyjólfs var Guðrún fædd aldamótaárið 1800 og fluttist fjórtán ára af Barðaströnd í Tálknafjörð. – Þá kvaðst hún oft hafa verið svo hungruð að sér hefði legið við sturlun.[19] Þegar steinbítsroðskórnir voru orðnir svo slitnir að ekki var lengur hægt að ganga á þeim þá át Guðrún skóna, en vörpin gaf hún hundunum.

En þessi gamla kona af Barðaströnd kunni líka að segja frá höppum er stundum féllu þar einstökum dugnaðarmönnum í skaut. Einn slíkra var Eyjólfur hvalamaður sem járnaði hvali að hætti Arnfirðinga. Eitt sinn rak hval sem hann hafði skutlað í Tálknafirði og gaf hann þá fátækum nær allan þann feng. Skömmu síðar rak annan hval í Noregi með skutli Eyjólfs þessa á Barðaströnd og fyrir þann hval fékk hann senda stóra fjárupphæð, heila 800 ríkisdali.[20]

Um 1840 ritaði séra Hálfdan Einarsson, þá sóknarprestur á Brjánslæk, merka lýsingu á sveitinni. Lætur hann þar að því liggja að fátækt manna á Barðaströnd eigi ekki síst rætur að rekja til þess hversu auðvelt Barðstrendingar eigi með að komast í kaupstað, hvort heldur á Bíldudal eða Patreksfjörð, ellegar út í Flatey. Séra Hálfdan ritar svo um Barðstrendinga í ágústmánuði 1840:

 

Fólkið er lastað í öðrum sveitum fyrir laklegt siðferði. Orsök þar til er að víða er hér nábýlt og þar verður oft siðferðið misjafnara og að verslunarstaðir, þrír þeir næstu, eru allir mjög auðsóttir, hvar af oft leiðir fátækt en fátæktin er fyrirlitin af auðlegðinni, fyrir utan máske fleiri orsakir. En nýnefndur dómur annarra sveita um siðferðið hér á nærverandi tið er heldur ekki réttur, t.a.m. er ofdrykkja hér miklu minni en víða annars staðar. Eðallyndi er að vísu ekki nógu mikið. En yfirhöfuð sýnist þó siðferðinu heldur fara fram en aftur.[21]

 

Þannig tekur séra Hálfdan upp hanskann fyrir sín sóknarbörn. Er hann ritaði sóknarlýsinguna árið 1840 hafa íbúar hreppsins verið um 380 (381 á manntali 1845).[22] Af þeim voru milli 40 og 50 karlmenn og um 12 kvenmenn skrifandi, að sögn séra Hálfdanar, þrír eða fjórir kunnu að spila á langspil og fáeinir að ganga á skautum.[23]

Um selveiðar og sjávarútveg Barðstrendinga fræðir séra Hálfdan okkur með þessum orðum:

 

Selkópaveiði er á 5 eða 6 bæjum, einkanlega í Haga og á Rekstöðum [þ.e. Hreggstöðum – innsk. K.Ó.]. Heilagfiski, þorskur, ýsa, skata og hákall veiðist fram undan Siglunesi og Rekstöðum og það fyrst nefnda víðar. Hrognkelsi aflast á Fossá, Brjánslæk og Siglunesi á vorin til fardaga. Þau veiðast í netum, hitt fiskakyn með haldfærum og önglum. Lóðir eru brúkaðar fyrir þorsk og ýsu á haustin. Veiðistaða í sveitinni er Siglunes. En frá sumarmálum til elleftu viku sumars [þ.e. til júníloka – innsk. K.Ó.] rær almenningur í þeim veiðistöðum í Sauðlauksdalsprestakalli, sem nefnast Breiðavík, Brunnar og Keflavík, hvar mest aflast af steinbít og hann oftar vel.[24]

 

Hér verður ekki dvalist frekar við sóknarlýsingu séra Hálfdanar, enda mál að hefja ferðina um Barðastrandarhrepp svo sem leið liggur.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 266-291.

[2] Manntal 1703.

[3] Manntal 1901.

[4] Hermann Jónasson 1888, 164-165 (Búnaðarritið).

[5] Stjórnartíðindi 1888 B, 103.

[6] Sama heimild, 95 og 103.

[7] Þorvaldur Thoroddsen 1959, 28 (Ferðabók II).

[8] Þorvaldur Thoroddsen 1959/ Ferðabók II, 27-28.

[9] Jón Guðnason 1968, 12-14.

[10] Þorvaldur Thoroddsen 1959/ Ferðabók II, 27.

[11] Sama heimild.

[12] Þorvaldur Thoroddsen 1922/Lýsing Íslands IV, 231 og 233.

[13] Sama heimild, 358.

[14] Stjórnartíðindi 1887 B, 16.

[15] Hermann Jónasson 1888, 71 (Búnaðarritið).

[16] Þorvaldur Thoroddsen 1922/Lýsing Íslands IV, 351.

[17] Sama heimild, 354.

[18] Sama heimild.

[19] Eyjólfur Stefánsson/Vilhjálmur S. Vilhjálmsson 1965, 68.

[20] Eyjólfur Stefánsson/Vilhjálmur S. Vilhjálmsson 1965, 68.

[21] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 205.

[22] Manntal 1845.

[23] Sóknalýs. Vestfj. I, 204-205.

[24] Sama heimild, 200.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »