Garðar

Jörðin Garðar er gömul hjáleiga frá Hvilft og í Jarðabókinni frá 1710 er tekið fram að hún hafi byggst fyrir minni allra þálifandi manna.[1] Þar segir einnig frá gömlu bæjarstæði hér í túninu og tekið fram að þaðan hafi bærinn verið fluttur fyrir manna minni vegna snjóflóðs.[2] Óhætt mun því að fullyrða að búskapur hafi hafist á Görðum fyrir 1650 og líklegt má kalla að fyrsti Garðabóndinn hafi farið að hokra hér í hjáleigunni alllöngu fyrr, máske á 15. eða 16. öld. Beinar heimildir um byggð á Görðum fyrir 1650 liggja þó ekki á lausu og fyrsti bóndinn á Görðum sem hægt er að nefna með nafni mun vera Margrét Jónsdóttir sem bjó hér árið 1681.[3] Óljóst er nú hvar hið eldra bæjarstæði á Görðum muni hafa verið því tóttirnar sem minnst er á í Jarðabókinni frá 1710 virðast nú vera horfnar eða sokknar þannig í jörð að erfitt er um að dæma.

Á 18. og 19. öld töldust Garðar vera 6 hundruð að dýrleika en Hvilft 18 hundruð[4] svo að hjáleigan hefur fengið í sinn hlut einn fjórða af upphaflegri landareign Hvilftar. Árið 1710 var beitiland Hvilftar og Garða enn sameiginlegt en engjunum var búið að skipta og túnið á Görðum hafði hjáleigubóndinn fyrir sig.[5] Seinna á 18. öld eða rétt um aldamótin 1800 var beitilandinu skipt og þar með urðu Garðar sjálfstæð bújörð.[6] Í landamerkjabréfi frá 27. maí 1890 er tekið fram að milli Garða og Hvilftar ráði Garðalækur merkjunum að neðan en frá læknum liggi þau síðan í stóran stein á engjunum og þaðan í barðhorn og úr barðhorninu til norðurs á fjallsbrún.[7] Í öðru landamerkjabréfi, sem dagsett er 11. júlí 1921, er getið um merkjagarð sem þá hafði verið hlaðinn á nokkrum hluta þessara sömu landamerkja.[8] Sá garður er enn mjög greinilegur á löngum kafla, rétt fyrir utan og ofan túnið á Görðum. Í landamerkjalýsingunni frá 1921 segir að neðan við garðinn ráði stefna hans merkjum til sjávar en um legu merkjanna ofan við garðinn, í átt til fjalls, er tekið fram að þau liggi eins og girðing [þ.e.garðurinn] vísar í læk þann eða gil sem rennur niður úr svokölluðu Sauðanefsflesi en síðan ráði téð gil og stefna þess merkjunum á fjallsbrún.[9] Í þessu landamerkjaskjali frá árinu 1921 er einnig tekið fram að Hvilft eigi tveggja mánaða ásauðabeit á Garðadal[10] í landi Garða. Beitilandið sem fylgir Görðum er ekki víðlent og á þjóðveginum eru aðeins um 300 metrar milli innri og ytri landamerkja jarðarinnar.

Í byrjun 18. aldar var vetrarbeit fyrir sauðfé þó talin vera í meðallagi hér á Görðum en engjablettirnir að mestu eyðilagðir af skriðum.[11] Mótakið var að sögn á þrotum og fólkið sem hér bjó notaði klíning og sauðatað til eldiviðar.[12] Húsum og heyjum var þá talið hætt fyrir stórveðrum.[13] Árið 1710 var bústofninn á Görðum þessi: 3 kýr, 1 kálfur, 24 ær, 21 lamb, 11 sauðir tvævetra og eldri, 6 veturgamlir sauðir og 1 hestur.[14]

Í jarðabók frá árinu 1805 er að finna danskan texta um aðstöðu til sjósóknar frá Görðum. Þar segir að héðan sé ekki hægt að gera út bát til fiskveiða því sá litli búskapur sem jörðin geti borið nægi ekki til að halda hér uppi mannafla sem nauðsynlegur sé til fiskiróðra.[15] Þarna er hins vegar tekið fram að dálitlar hrognkelsaveiðar sé þó hægt að stunda frá Görðum en vegna manneklu megi gera ráð fyrir helmingi minni afla en á Hóli, næstu jörð hér fyrir innan.[16]

Um 1920 fengust hér 50 hestar af töðu og 120 hestar af útheyi.[17] Túnið var þá í meðalrækt en þýft, engjar snögglendar og votlendar, beitiland lítið en nokkur fjörubeit.[18] Þá var talið að hér mætti fleyta fram 2 kúm, 40 sauðkindum og einum hesti.[19] Helstu hlunnindi jarðarinnar töldu matsmenn þá vera góð skilyrði til hrognkelsaveiða.[20]

Bærinn á Görðum stóð í um 200 metra fjarlægð frá sjó fyrir mynni dalsins sem Hólsá fellur um og nú er nefndur Garðadalur fyrir utan ána en Hólsdalur innan ár. Talið er að gamalt nafn á þessum dal muni vera Grímsdalur og um hann liggur leiðin á Grímsdalsheiði sem stundum var farin yfir í Súgandafjörð (sjá hér Hóll á Hvilftarströnd). Eins og áður var getið er örskammt frá Görðum inn að Hóli eða um 200 metrar og skilur Hólsáin að lönd þessara jarða. Út að Hvilft er einn kílómetri en landamerkjum Garða og Hvilftar hefur áður verið lýst.

Jörðin Garðar mun hafa farið í eyði árið 1956 (sjá Firðir og fólk  1900-1999, 420) en íbúðarhúsið sem hér stóð var eitthvað notað til sumardvalar allt til ársins 1993. Á því ári sló langt að kominn brennuvargur eldi í húsið og nú (1995) standa hér aðeins útveggirnir sem eru úr steinsteypu og gátu því ekki brunnið. Örskammt frá þessum eyðilegu veggjum stendur enn stór og álitlegur harðfiskhjallur sem minnir á að fyrir fáum árum var ágætur harðfiskur verkaður hér þó að jörðin stæði í eyði. Á sjávargrund neðan við túnið á Görðum gefur enn að líta tótt af gömlum hjalli eða sjóhúsi og þar eru líka svolitlar leifar af mannvirki sem líklega hefur verið hróf. Innan og ofan við túnið rekumst við hins vegar á grjóthlaðna rétt sem ef til vill hefur verið notuð sem stekkur. Réttin er alveg inn við Hólsá og flatarmál hennar 6,5 x 8 metrar eða því sem næst.

Fjallið utan og ofan við Garða heitir Garðafjall. Hamrabrún þess liggur í tæplega 700 metra hæð yfir sjávarmáli en hæsti kollurinn, sem er talsvert norðar, nær 717 metrum. Innan við túnð á Görðum er hryggur sem heitir Höfði og nær upp með Hólsá að Fossabrekkum sem svo heita.[21] Brekkur þessar skiptast í Ytri-Fossabrekkur og Innri- eða Fremri-Fossabrekkur.[22] Milli þeirra eru tveir lækir og verður sá ytri að Garðalæk en sá innri að Bæjarlæk og rennur hann niður mitt túnið á Görðum.[23] Talsvert ofan við Fossabrekkur og skammt neðan við klettana í háfjallinu liggur Grímshjalli.[24] Líklega er hann í 200-300 metra hæð yfir sjávarmáli. Þetta er klettahjalli í mynni Garðadals en neðan við hann eru engir klettar. Klettarnir í hjallanum eru auðveldir uppgöngu og ofan við hann liggur fjárgata fram í dalinn. Hjallinn mjókkar strax rétt framan við dalsmynnið en sagt er að hann nái alveg fram á Smalahrygg en það er stór grjóthryggur sem liggur niður að ánni alllangt frammi í dalnum.[25] Heiman við Smalahrygg er Djúpilækur en framan við hrygginn er Langiteigur og liggur upp í fjallið.[26] Fremsta leitið í dalnum sem við sjáum heiman frá bæjarhlaðinu á Görðum heitir Heimra-Vatnsleiti[27] en þar fyrir framan er Fremra-Vatnsleiti.[28]´

Út frá nafni Grímshjalla urðu til munnmælasögur um Grím bónda sem sagt var að hefði búið á Görðum eða Hvilft til forna og átti hann að vera heygður uppi á hjallanum.[29] Af Grímshjalla er víðsýnt og í munnmælasögu sem skrásett var árið 1943 segir að Grímur hafi mælt svo fyrir að hann skyldi heygður þar sem sæist um allan Önundarfjörð og svo vítt til hafs sem verða mætti.[30] Í Vestfirskum sögnum segir á einum stað að mikið fé hafi verið lagt í haug með Grími og oft hafi menn séð vafurloga þar við hauginn.[31] Eitt dæmi um þetta er nefnt sérstaklega og sagt frá á þessa leið:

 

Haustið 1913 sá Kristján, sonur Reinalds pósts, vafurloga í þeirri átt sem haugurinn er. Með Kristjáni var þá maður sem ekki þekkti sögnina um Grím og sá hann einnig vafurlogann.[32]

Í jarðaskrám úr Ísafjarðarsýslu frá árunum 1658 og 1695 eru Garðar ekki nefndir á nafn.[33] Í þessum jarðaskrám er Hvilft talin 24 hundraða jörð svo ljóst er að höfundar skránna hafa litið á Garða sem afbýli frá Hvilft. Áður en beitilandinu var skipt voru Garðar í raun hjáleiga og þeir sem áttu Hvilft á hverjum tíma voru þá líka eigendur Garða. Frá hinum fyrstu eigendum þessara jarða sem um er kunnugt er sagt lítið eitt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Hvilft). Árið 1658 voru Garðar hluti af Hvilftareigninni og svo var enn 1695, 1710 og 1762.[34] Árið 1805 var þetta hins vegar orðið breytt því að þá átti Henkel, kaupmaður á Þingeyri, Hvilft en Jón Grímsson í Lambadal í Dýrafirði var orðinn eigandi Garða.[35] Jón þessi Grímsson var árið 1801 annar tveggja bænda í Innri-Lambadal, sagður 31 árs í manntalinu frá því ári.[36] Um miðbik 19. aldar voru Garðar í leiguábúð[37] eins og löngum fyrr og svo var enn árið 1901. Ragnheiður Finnsdóttir á Hvilft átti þá bæði Hvilft og Garða.[38] Hún hafði verið gift Magnúsi Einarssyni sem lengi bjó á Hvilft (sjá hér Hvilft) og var á fyrsta ári nýrrar aldar orðin 85 ára gömul.[39] Um 1920 var jörðin hins vegar komin í sjálfsábúð því eigandi hennar þá var Guðmundur Jónsson sem byrjaði hér sinn búskap árið 1893 og bjó á Görðum til 1925.[40]

Árið 1710 var landskuldin af Görðum 60 álnir,[41] það er hálft kýrverð, og átti að borgast með peningum upp á landsvísu til umboðsmanns innan hreppsins.[42] Í Jarðabókinni frá því ári er tekið fram að landskuldin hafi lengi verið óbreytt.[43] Á síðari hluta 17. aldar þurftu leiguliðarnir á Hvilft og Görðum að greiða 200 álnir samtals í árlega landskuld[44] svo ætla má að landskuldin af Görðum hafi þá verið 30% af því jarðarafgjaldi sem greitt var fyrir alla Hvilftareignina. Sé litið á hundraðatöluna voru Garðar þó ekki nema fjórðungur eignarinnar eins og hér hefur áður verið nefnt. Á fyrri hluta 18. aldar eða um miðbik hennar lækkaði landskuldin af Görðum úr 60 í 40 álnir[45] og í því sama horfi var hún enn um miðja 19. öld.[46] Í byrjun 20. aldar var landskuldin svolítið lægri, það er ein á og einn gemlingur[47] en í hverju ærgildi voru 20 álnir.

Um 1700 voru innstæðukúgildin á Görðum þrjú en í drepsóttinni stórubólu, sem hér geisaði árið 1707, fækkaði þeim um eitt.[48] Tala þessara leigukúgilda sem fylgdu jörðinni hélst síðan óbreytt mjög lengi og enn voru þau tvö árið 1847.[49] Í hverju kúgildi voru sex ær eða ein kýr svo gera má ráð fyrir að þeir sem hófu búskap á Görðum á árunum 1707-1847 hafi jafnan fengið í hendur 12 leiguær þegar þeir tóku við jörðinni. Þegar Guðmundur bóndi á Görðum keypti þessa ábýlisjörð sína á fyrstu áratugum tuttugustu aldar hafði leiguánum hins vegar fækkað úr tólf í níu.[50] Í leigur fyrir þessar níu ær hafði Guðmundur þurft að greiða 30 pund af smjöri á hverju ári[51] eða 20 pund fyrir hvert kúgildi, það er tvo fjórðunga eins og vera bar samkvæmt Jónsbókarlögum (sjá hér Mosdalur).

Á Görðum var mjög sjaldan tvíbýli, enda var jörðin aðeins 6 hundruð að dýrleika. Einstöku sinnum kom þó fyrir að hér byggju tveir bændur í senn en þá aðeins í skamman tíma. Sem dæmi má nefna að árið 1870 voru hér tveir ábúendur, ekkjan Kristín Sveinsdóttir, sem þá hafði búið hér alllengi, og svo Andrés Sakaríasson sem staldraði stutt við.[52] Bústofninn var álík stór hjá þeim báðum, ein kýr og níu ár hjá hvoru.[53] Andrés átti líka hest en á búi Kristínar var enginn klár.[54]

Hér hefur áður verið nefnd Margrét Jónsdóttir sem bjó hér árið 1681 en hún er fyrsti bóndinn á Görðum sem vitað er um nafn á (sjá hér bls. 1). Líklegt er að Margrét hafi verið ekkja þegar hún stóð hér fyrir búi. Árið 1703 var Margrét ekki lengur á Görðum en þá bjuggu hér ung hjón sem hétu Halldór Sigurðsson og Guðrún Einarsdóttir.[55] Á heimili þeirra var vinnupiltur um tvítugt og líka móðir bóndans, Eygerður Gísladóttir.[56] Þessar fjórar manneskjur voru þá eina heimilisfólkið á bænum.[57]

Um Jón Sigurðsson, sem bjó á Görðum árið 1710,[58] er ekkert vitað og ekki heldur um Pál Þorgilsson sem hokraði hér á árunum kringum 1735.[59] Um Magnús Jónsson, sem bjó á Görðum árið 1753 og líka 1762,[60] gegnir nokkuð öðru máli. Í manntalinu frá 1762 er hann sagður 54 ára gamall[61] og hefur því verið fæddur árið 1708 eða því sem næst. Í þessu sama manntali er kona Magnúsar sögð vera tveimur árum eldri en hann.[62] Börn sem þau áttu hér heima voru þá fimm, þrír synir og tvær dætur.[63] Í nýnefndu manntali frá árinu 1762 eru synirnir sagðir vera 13, 15 og 20 ára gamlir en dæturnar 7 ára og 19 ára.[64] Úr þessum systkinahópi voru að minnsta kosti þrjú á lífi árið 1801, Sigríður, sem þá var húsfreyja á Seljalandi í Álftafirði, og tveir Jónar.[65] Jón eldri Magnússon frá Görðum var fæddur um 1742 og var árið 1801 bóndi á Sæbóli á Ingjaldssandi en hafði áður búið á Eyri í Önundarfirði og á Kirkjubóli í Valþjófsdal.[66] Fyrri kona hans hét Guðrún Jónsdóttir og dóttir þeirra, sem líka hét Guðrún Jónsdóttir, fæddist á Görðum árið 1769.[67] Hún giftist Sveini Jónssyni 13. apríl 1789 og bjuggu þau í allmörg ár á Hesti[68] en Sveinn týndi lífi í mannskaðanum mikla vorið 1812 (sjá hér Hestur). Daginn sem nýnefnd dóttir Jóns eldri Magnússonar gekk að eiga Svein Jónsson kvæntist faðir hennar í annað sinn.[69] Brúður hans að því sinni var Þóra Guðmundsdóttir, 53ja ára gömul ekkja á Kirkjubóli í Valþjófsdal, en brúðguminn, Jón eldri Magnússon frá Görðum, var þá 47 ára gamall eða því sem næst.[70] Bæði gengu þessi feðgin upp að altarinu með sínum tilvonandi mökum í kirkjunni á Kirkjubóli í Valþjófsdal[71] en harla fátítt mun vera að feðgin gangi í hjónaband á einum og sama deginum. Um börn Magnúsar Jónssonar sem bjó á Görðum 1762 skal þess að lokum getið að yngri Jón bjó á Kirkjubóli í Valþjófsdal árið 1801 með konu sinni, Hallberu Guðmundsdóttur.[72] Hann var þá hreppstjóri[73] en þau Hallbera munu hafa hafið búskap á Kirkjubóli þegar Jón eldri fluttist þaðan að Sæbóli á Ingjaldssandi.[74] Jón yngri og Hallbera kona hans eignuðust ellefu börn[75] en móðir Hallberu var Etilríður Þórðardóttir sem hér var áður sagt frá (sjá hér Tannanes og Mosvellir).

Árið 1801 mun Magnús Jónsson, sem var bóndi á Görðum árið 1762, hafa verið látinn en þá bjó á jörðinni annar maður með sama nafni.[76] Sá Magnús Jónsson var fæddur 1743 eða þar um bil en kona hans, Járngerður Jónsdóttir, var nokkrum árum eldri.[77] Hún hafði áður verið gift manni sem hét Jón Sturluson en sonur þeirra var Gissur Jónsson, hreppstjóri á Vífilsmýrum,[78] (sjá hér Vífilsmýrar og Tunga í Firði). Um þennan seinni Magnús Jónsson á Görðum segir prestur árið 1803 að hann sé forstandsmaður, vel máli farinn og minnugur en Járngerði konu hans gaf prestur þá einkunn að hún væri hægferðug og greind í andlegum efnum.[79] Árið 1776 áttu Magnús og Járngerður heima í Ytri-Hjarðardal og árið 1787 bjuggu þau á Eyri.[80] Um aldamótin 1800 var Magnús orðinn hreppstjóri og farinn að búa á Görðum.[81] Þau Járngerður áttu árið 1801 að minnsta kosti þrjú uppkomin börn á aldrinum 25-32ja ára sem öll voru þá hér heima hjá foreldrunum.[82] Eins og nafni hans, sem áður bjó á Görðum og hér var frá sagt, átti þessi Magnús Jónsson tvo Jóna fyrir syni en dóttirin Kristín var þriðja barn þeirra Járngerðar sem um er kunnugt.[83] Þeir sem nálgast vilja fólkið sem hér átti heima á fyrri tíð þurfa að hafa góðan vara á svo bændurnir tveir sem báðir hétu Magnús Jónsson ruglist ekki saman og hinir tvennir bræður sem allir báru nafnið Jón Magnússon.

Magnús Jónsson, bóndi og hreppstjóri á Görðum, andaðist sumarið 1803[84] en synir hans, Jón eldri og Jón yngri, hlutu báðir þau örlög að týna lífi í mannskaðanum mikla vorið 1812.[85] Í því manndrápsveðri (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli) drukknaði líka eiginmaður Kristínar systur þeirra, Sveinn Oddsson, bóndi á Vífilsmýrum, en Kristín varð síðar húsfreyja í Fremri-Breiðadal (sjá hér Vífilsmýrar og Fremri-Breiðadalur). Jón Magnússon eldri, sem drukknaði vorið 1812, var þá bóndi hér á Görðum, kvæntur Guðrúnu Jónsdóttur frá Hvilft,[86] en Jón yngri, bróðir hans, var nýlega orðinn bóndi á Eyri og hafði haustið 1810 gengið að eiga ekkjuna Þuríði Gísladóttur.[87] Þessir Garðabræður sem biðu hel vorið 1812 eiga nú enga niðja á lífi[88] en frá Kristínu systur þeirra er kominn fjölmennur ættstofn.[89] Eitt barna hennar var Járngerður Indriðadóttir,[90] sem bar nafn Járngerðar ömmu sinnar á Görðum, en þessi yngri Járngerður giftist Jóni Sveinssyni og varð húsfreyja í Fremri-Breiðadal og á Hvilft (sjá hér Fremri-Breiðadalur  og Hvilft).

Sumarið 1811 tók séra Þorvaldur Böðvarsson við embætti sóknarprests í Holti og með honum fluttist þá hingað vestur séra Böðvar sonur hans sem gerðist aðstoðarprestur föður síns og gegndi því embætti í ellefu ár (sjá hér Holt). Séra Böðvar fékk Garða til ábúðar vorið 1815 en áður hafði hann búið tvö ár í Neðri-Breiðadal.[91] Hér á Görðum sat prestur þessi í fjögur ár[92] en síðustu þrjú árin sem hann var í Önundarfirði átti hann heima á Þórustöðum (sjá hér Þórustaðir).

 

 

 

 

Býr á Görðum Böðvar séra,

byrstur valla,

hollur reynist hann við alla

 

segir í bændarímu sem Gunnlaugur Arason orti um Önfirðinga árið 1815.[93] Frá höfundi rímunnar er nánar greint hér á öðrum stað (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli).

Séra Böðvar Þorvaldsson er eini presturinn sem búið hefur á Görðum svo kunnugt sé. Hann fæddist árið 1787 á Flókastöðum hjá Breiðabólsstað í Fljótshlíð en séra Þorvaldur, faðir hans, var þá aðstoðarprestur í Fljótshlíðinni.[94] Móðir séra Böðvars var Guðrún Einarsdóttir, miðkona séra Þorvaldar.[95] Af hinum mörgu börnum séra Þorvaldar Böðvarssonar var Böðvar það elsta sem náði að komast upp og sjálfur kenndi Þorvaldur prestur þessum elsta syni sínum nær allan skólalærdóm til stúdentsprófs.[96] Einn vetur sat Böðvar þó í Bessastaðaskóla og útskrifaðist þaðan vorið 1806.[97] Hann var síðan í nokkur ár skrifari hjá Stefáni amtmanni Stephensen á Hvítárvöllum í Borgarfirði en vígðist vorið 1811 aðstoðarprestur föður síns sem þá hafði fengið veitingu fyrir Holti í Önundarfirði.[98]

Þegar séra Böðvar kom hingað vestur var hann 24 ára gamall og ókvæntur. Tveimur árum síðar gekk hinn ungi kapellán að eiga Þóru Björnsdóttur frá Bólstaðarhlíð í Húnaþingi og hóf þá búskap í Neðri-Breiðadal. Sjö árum fyrr höfðu systir Þóru og faðir séra Böðvars verið gefin saman í hjónaband.[99] Þeir feðgar, séra Þorvaldur og séra Böðvar, voru því svilar en eiginkonur þeirra, Kristín og Þóra, voru dætur séra Björns Jónssonar í Bólstaðarhlíð og konu hans, Ingibjargar Ólafsdóttur.[100] Kristín Björnsdóttir frá Bólstaðarhlíð, sem var stjúpmóðir og mágkona séra Böðvars, var þriðja eiginkona föður hans (sjá hér Holt).

Þegar Böðvar prestur hóf búskap í Neðri-Breiðadal var aðeins eitt ár liðið frá því bændurnir þrír sem þar bjuggu fórust allir í hinu mikla mannskaðaveðri vorið 1812 (sjá hér Neðri-Breiðadalur). Fardagaárið 1814-1815 bjó séra Böðvar í þríbýli í Neðri-Breiðadal[101] en fluttist þaðan hingað að Görðum vorið 1815 eins og áður var nefnt. Hér var hann með átta manna heimili þegar manntal var tekið 1. desember 1816.[102] Tvö elstu börn þeirra hjóna voru þá á fyrsta og öðru ári en auk fjölskyldu prestshjónanna voru hér ein vinnukona, einn vinnumaður, eitt fósturbarn og einn sveitarómagi.[103] Um bústærð séra Böðvars árin sem hann bjó á Görðum skortir upplýsingar en á Þórustöðum var bústofn hans þessi árið 1821: 3 kýr, 2 kálfar, 21 ær, 18 gemlingar 10 lömb og 2 hestar.[104] Búnaðarskýrslan frá árinu 1821 sýnir að séra Böðvar átti þá líka áttæring eða jafnvel teinæring[105] sem bendir til þess að efnahagurinn hafi verið viðunandi. Óvíst er hins vegar hvort hann hefur sjálfur róið til fiskjar frá Kálfeyri á vorin.

Um útlit séra Böðvars Þorvaldssonar á Görðum og líkamsburði hans kemst Sighvatur Borgfirðingur svo að orði að prestur þessi hafi verið mikill vexti og rammur að afli … dökkur á hár, brún og skegg en smámæltur nokkuð og blíður viðurmælis.[106] Í Íslenskum æviskrám er að finna nánari lýsingu á séra Böðvari en um hann segir þar svo:

 

Hann var skörulegur maður, búsýslumaður góður, mikill vexti, rammur að afli og starfsamur, kennimaður góður, raddmaður í meðallagi, skáldmæltur og er allmargt sálma og erfiljóða varðveitt eftir hann.[107]

 

Einhverjir sálmar eftir séra Böðvar munu finnanlegir í handritum Landsbókasafns en auk þess að yrkja sálma og erfiljóð fékkst hann svolítið við að þýða guðrækileg rit úr erlendum tungumálum.[108]

Sumarið 1821 fékk séra Þorvaldur Böðvarsson veitingu fyrir Melum í Melasveit í Borgarfjarðarhéraði en hann fór þó ekki frá Holti fyrr en ári síðar (sjá hér Holt). Síðasta árið sem séra Þorvaldur þjónaði Holtsprestakalli hafði hann losað sig við prófastsembættið í vesturhluta Ísafjarðarsýslu og gegndi séra Böðvar sonur hans því embætti sem settur prófastur frá 1821-1822.[109] Umboðsmaður konungsjarða í Ísafjarðarsýslu var séra Böðvar öll árin sem hann þjónaði Önfirðingum[110] og hefur við veitingu þess umboðs að líkindum notið kunningsskapar við Stefán Stephensen amtmann en hjá honum hafði hann verið skrifari eins og hér var áður nefnt.

Þann 19. janúar 1822 var séra Böðvari Þorvaldssyni veitt Gufudalsprestakall[111] og hálfu ári síðar tók hann sig upp og fluttist að Gufudal. Þeir feðgar, séra Þorvaldur og séra Böðvar, fóru því báðir úr Önundarfirði sumarið 1822. Af börnum séra Böðvars og Þóru konu hans sem náðu að komast til manns voru fjögur fædd í Önundarfirði en hið fimmta skaust í heiminn á ferðalaginu frá Holti eða Þórustöðum að Gufudal,[112] dóttirin Hólmfríður sem fæddist í Vigur 10. júlí 1822.[113] Fæðingarstaður hennar sýnir hvaða leið foreldrarnir hafa farið í þessum búferlaflutningum.

Í Gufudal var séra Böðvar prestur í 5 ár en fékk þá veitingu fyrir Stað í Steingrímsfirði og sat þar í 10 ár.[114] Árið 1837 var honum veitt Stafholt en vorið 1843 fékk hann Staðarbakka í Miðfirði og þá um haustið Mel í Miðfirði.[115] Á Mel var séra Böðvar prestur í 16 ár en sagði af sér embætti 72ja ára gamall árið 1859.[116] Í Gufudal og á Stað í Steingrímsfirði hafði hann verið prófastur.[117] Konu sína, Þóru Björnsdóttur frá Bólstaðarhlíð, missti séra Böðvar þegar hann var í Stafholti en kvæntist í annað sinn vorið 1841 og gekk þá að eiga Elísabet Jónsdóttur frá Steinnesi, sem var systurdóttir fyrri konu hans.[118] Með fyrri eiginkonunni eignaðist séra Böðvar 14 börn[119] og af þeim náðu 8 að verða fullorðin.[120] Með seinni konunni eignaðist hann svo tvö börn og komst annað þeirra upp.[121]

Þegar séra Böðvar lét af prestskap fluttist hann að Svarðbæli[122] í Ytri-Torfustaðahreppi og þar andaðist hann 12. desember 1862.[123] Þrír synir hans og fyrri konunnar, sem bjó með honum hér á Görðum, urðu prestar, séra Þorvaldur Böðvarsson í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, séra Árni Böðvarsson á Eyri í Skutulsfirði og séra Þórarinn Böðvarsson í Vatnsfirði og seinna í Görðum á Álftanesi.[124]

Þegar Böðvar prestur fór frá Görðum vorið 1819 tóku við jörðinni hjónin Guðmundur Jónsson og Herdís Sveinsdóttir sem áður höfðu búið um nokkurt skeið á Kaldá (sjá hér Kaldá). Búskaparár þeirra hér urðu sjö en árið 1830 var Friðrik Busch farinn að búa á Görðum.[125] Frá uppruna Friðriks hefur áður verið sagt á þessum blöðum og skal til þess vísað (sjá hér Kaldá). Friðrik fæddist á Kaldá árið 1801 og kvæntist 1830 Þuríði Jónsdóttur frá Hvilft en hún var dóttir Jóns silfursmiðs á Hvilft Jónssonar og konu hans Karitasar Ívarsdóttur.[126] Búskapur Friðriks og Þuríðar á Görðum stóð stutt því hún andaðist haustið 1831 og hafði fáum dögum áður fætt andvana barn. Friðrik kvæntist þremur árum síðar annarri konu og bjó alllengi á Brekku á Ingjaldssandi.[127] Í rituðum heimildum er hann stundum aðeins nefndur Friðrik Pétursson.[128]

Vorið 1832 fóru hjónin Guðmundur Jónsson og Ingibjörg Jónsdóttir að búa á Görðum og tóku hér við af Friðriki Busch.[129] Þeir sem kunna vilja skil á fólki í Önundarfirði á fyrri hluta 19. aldar þurfa að gæta sín á því að rugla þessum Guðmundi Jónssyni ekki saman við annan Guðmund Jónsson sem bjó á Görðum á árunum 1819-1826 og áður var frá sagt (sjá hér bls. 10 og Kaldá). Þarna er ekki síst hætta á ruglingi vegna þess að nafnar þessir bjuggu líka báðir á Kaldá, annar fór þaðan 1819 (sjá hér Kaldá) en hinn, sá sem giftur var Ingibjörgu, hóf þar búskap árið 1821 eins og hér verður brátt gerð grein fyrir.

Guðmundur Jónsson sem nú verður frá sagt bjó á Kaldá 1821-1826 og á Görðum frá 1832-1841.[130] Hann fæddist á Hesti á árunum 1775-1780[131] en óvíst er hver hinna ýmsu Jóna sem til greina koma muni hafa verið faðir hans. Móðir Guðmundar hét Sigríður Pálsdóttir og þegar hún fluttist með honum úr Súgandafirði að Breiðadal árið 1818 er hún sögð vera örvasa ekkja, 76 ára gömul.[132] Enda þótt Sigríður hafi tvímælalaust verið á lífi árið 1818 finnst hún ekki í manntalinu frá 1816.[133] Líklegasta skýringin á því er sú að hún hafi þá átt heima í einhverju þeirra prestakalla í Ísafjarðarsýslu sem vantar að mestu eða öllu leyti í nýnefnt manntal en þar má nefna Sandaprestakall, Dýrafjarðarþing og Ögurþing. Aftur á móti má telja líklegt að það sé þessi Sigríður Pálsdóttir sem nefnd er í manntalinu frá 1801 og var þá vinnukona hjá Gísla Oddssyni á Vífilsmýrum, sögð 64 ára gömul ekkja.[134] Sigríður dó hjá Guðmundi syni sínum 9. febrúar 1824 og var þá talin 85 ára gömul.[135] Við andlát hennar tekur Ásgeir prófastur í Holti fram að hin látna hafi verið móðir bóndans Guðmundar á Kaldá og alla ævi ráðvönd[136] en þessa er getið hér vegna þess að í minningarorðum um son Guðmundar Jónssonar segir Sighvatur Borgfirðingur að Guðmundur hafi almennt verið nefndur Halldóruson af því Jón faðir hans hafi synjað fyrir faðernið.[137] Líklega er þarna einhver misskilningur á ferð hjá Sighvati því eins og hér hefur verið gerð grein fyrir hét móðir Guðmundar Sigríður en ekki Halldóra. Þó er hugsanlegt að hann hafi alist upp hjá einhverri Halldóru og verið kenndur við hana en líklegra er hitt að Sighvatur hafi ekki munað nafn móðurinnar rétt og honum orðið á að nefna Halldóru í stað Sigríðar. Úr þessu er þó ekki unnt að skera en hafa verður í huga að Guðmundur Jónsson, sem hér er fjallað um, dó háaldraður árið 1863,[138] tíu árum áður en Sighvatur kom að Höfða (sjá hér Höfði) og fór að kynnast fólki í Vestur-Ísafjarðarsýslu.

Spurnir hefur Sighvatur þó haft af Guðmundi og í fyrrnefndum minningarorðum lýsir hann honum svo:

 

Guðmundur, faðir Friðberts, var gáfumaður mikill og hagmæltur vel. Var hann talinn manna æfðastur að stíla bréf en miður skrifandi, enda mun hann sem marga fleiri hafa vantað tilsögnina. Var hann mjög ráðagóður og ráðhollur ef hans var leitað, trúfastur og trúmaður mikill. Komst hann oft í kappræður við lærða menn og bar oftast hærri hlut. Felldi hann oft kenningar þeirra með eigin breytni, vildi að menn lifðu eftir kenningu Krists og því er menn kölluðu trú sína en ekki gagnstætt því er þeir kenndu.[139]

 

Um feril þessa sonar Sigríðar Pálsdóttur allt fram undir fertugt er lítið vitað og ekki unnt að fullyrða hver hann muni vera af hinum ýmsu Guðmundum Jónssonum sem nefndir eru í manntölunum frá 1801 og 1816 og helst koma til greina. Eitt af barnabörnum Guðmundar Jónssonar var Sigríður Friðbertsdóttir sem fæddist árið 1852 og dó, 92ja ára gömul, árið 1945. Hún mundi eftir Guðmundi afa sínum og kunni sögur af honum sem ætla má að hún hafi lært af föður sínum, Friðbert Guðmundssyni sem lengst bjó í Vatnadal í Súgandafirði (sjá hér Fremri-Vatnadalur). Svolítið brot af þessum sögum Sigríðar festi Valdimar Þorvaldsson, sonur hennar, á blað og segir svo frá Guðmundi langafa sínum á Görðum:

 

Guðmundur var orðlagður námsmaður á sinni tíð og hagmæltur vel. Þó hann væri kominn yfir sjötugt er hann kom í Súgandafjörð tók hann að sér barnakennslu og var heimiliskennari í Selárdal og víðar, og er hann sá fyrsti í Súgandafirði sem nefndur er við þann starfa.

Honum sagðist svo frá að er hann kristnaðist í Holti í Önundarfirði voru börnin aðeins þrjú, einn piltur og ein stúlka auk hans. Öll voru börnin bráðnæm, hafi stúlkan t.d. lært „Ponta” á mánaðartíma en hann hafði þó mörgum reynst erfiður, enda stór bók. Stúlkan gaf strákunum í engu eftir en öll voru þau mjög lík …

Á þeim árum fiskuðu Hollendingar hér við land og höfðu mikil viðskipti við menn. Guðmundur hafði mikil kynni af þeim og lærði hann hollensku af þeim svo að hann gat talað hana eins og móðurmál sitt. Eignaðist hann meðal Hollendinga nokkra vini og einn þeirra bauð honum með sér út til Hollands. Mjög fýsti Guðmund þeirrar farar en gat þó ekki tekið boðinu sökum þess að hann var fyrirvinna móður sinnar. Frönsku lærði hann einnig af kynnum við franska sjómenn en þau kynni voru ekki jafn mikil og náin og kynni hans við Hollendinga, enda varð hann ekki jafnfær í frönsku og hollensku. Með sjálfsnámi lærði hann að lesa ensku, dönsku og sænsku svo að hann gat lesið sér til nota bækur á þeim málum. Nam hann þar sögur og ýmsan fróðleik sem hann síðar sagði börnum og unglingum.[140]

 

Vera kann að hér sé gert of mikið úr tungumálakunnáttu þessa búandmanns en vart mun ástæða til að draga í efa að hann hafi lært eitthvað í hollensku og frönsku af hinum erlendu sjómönnum sem hér stunduðu fiskiveiðar því um aldamótin 1800 og á fyrri hluta 19. aldar lágu oft fjölmargar hollenskar duggur og franskar loggortur inni á fjörðum hér vestra.

Í embættisbókum prestanna í Holti í Önundarfirði og á Stað í Súgandafirði verður fyrst vart við nefndan Guðmund með ótvíræðum hætti árið 1818 en á því ári flyst hann úr Súgandafirði að Breiðadal.[141] Hann er þá sagður vera 38 ára gamall lausamaður sem vinni fyrir gamalli móður sinni en hún fylgdi honum að Breiðadal.[142] Að öllum líkindum er það þessi Guðmundur Jónsson sem í febrúarmánuði árið 1820 var einhleypur húsmaður hjá Finni Guðmundssyni, bónda á Hvilft, sagður 42ja ára.[143] Svo virðist sem Guðmundur hafi á þessum árum verið með annan fótinn í Súgandafirði og þaðan flyst hann 1820, líklega um haustið, að Kirkjubólshúsum,[144] hjáleigu frá Kirkjubóli í Korpudal. Úr Súgandafirði hafði hann þá með sér móður sína, Sigríði gömlu Pálsdóttur, og Ingibjörgu Jónsdóttur, sem þá var liðlega þrítug og orðin bústýra hans.[145] Í Kirkjubólshúsum munu þau aðeins hafa dvalist einn vetur því vorið 1821 fóru þau að búa í tvíbýli á Kaldá[146] með eina kú og sex ær.[147]

Vorið 1822 var bústýra þessa frumbýlings orðin barnshafandi af hans völdum og 8. júní á því ári voru þau gefin saman í hjónaband.[148] Ingibjörg Jónsdóttir, sem varð eiginkona Guðmundar, var nokkru yngri en hann, fædd 1. júlí 1789 á Hanhól í Bolungavík.[149] Hún var dóttir Jóns Guðmundssonar hreppstjóra þar[150] en langafi hans var Sæmundur Magnússon, lögréttumaður á Hóli í Bolungavík, fæddur um 1634 og var af ætt Magnúsar prúða.[151] Móðir Ingibjargar hét Gróa Jónsdóttir og var hún þriðja kona Jóns Guðmundssonar á Hanhóli.[152] Sighvatur Grímsson Borgfirðingur segir að Gróa, móðir Ingibjargar, hafi alist upp á sveit hjá Jóni Guðmundssyni á Hanhóli sem hún giftist síðar.[153] Í marsmánuði árið 1817 mun Ingibjörg frá Hanhóli hafa verið komin í Súgandafjörð og má ætla að hún sé sú Ingibjörg Jónsdóttir sem þá var vinnukona hjá Örnólfi Snæbjörnssyni á Suðureyri.[154] Þremur árum síðar gerðist hún bústýra Guðmundar Jónssonar og fluttist með honum til Önundarfjarðar eins og hér var áður nefnt.

Á Kaldá bjuggu Guðmundur og Ingibjörg frá 1821 til 1826 (sjá hér bls. 11) og þar fæddust börn þeirra tvö sem náðu að vaxa úr grasi, Friðbert árið 1822 og Sigríður árið 1824.[155]

Haustið 1826 voru þau farin frá Kaldá[156] og þegar Hálfdán sonur þeirra fæddist í ágústmánuði árið 1827 voru þau orðin vinnuhjú á Flateyri.[157] Í sóknarmannatali frá árinu 1829 sjáum við að Guðmundur var þá með konu sína og börn á heimili Friðriks J. Svendsen, kaupmanns á Flateyri. Nafn kaupmannsins er reyndar ekki að finna á þessu sóknarmannatali svo verið getur að hann hafi verið í Danmörku en fyrir heimilishaldinu stóð eiginkona hans, hin danska prestsdóttir Jakobine Susanne Lovise Svendsen, fædd Köbke, og hafði sér við hlið Svein Sölvason faktor sem aðeins var 22ja ára gamall.[158] Hjá kaupmannsfrúnni á Flateyri voru alls tuttugu heimilismenn árið 1829 og í þeim hópi þau Guðmundur og Ingibjörg með börn sín tvö.[159] Hann er þá sagður vera lausamaður en hún vinnukona.[160] Í sóknarmannatalinu frá þessu ári segir Ásgeir prófastur um Guðmund að hann sé hæglætismaður og sérlega vel gáfaður en Ingibjörg, kona Guðmundar, fær þá einkunn hjá prófasti að hún sé vönduð og fróm kona og kunnáttan í meðallagi.[161]

Ekki verður nú séð í fljóti bragði hversu lengi Guðmundur hafðist við á Flateyri en fullvíst er að vorið 1832 fóru þau Ingibjörg að búa hér á Görðum og höfðu ein ábúð á allri jörðinni.[162] Bústofn þeirra hér árið 1834 var 2 kýr, 9 ær, 4 gemlingar, 6 lömb og 1 hestur sem ekki var búið að temja.[163] Bóndi á Görðum taldist Guðmundur vera í níu ár, frá 1832 til 1841[164] og í sóknarmannatali frá árinu 1838 er þess getið að hann sé fæddur á Hesti inn,[165] það er í Hestþorpinu hér inni í Firði sem kallað var.

Árið 1841 fluttust bæði börn Guðmundar og Ingibjargar, þau Friðbert og Sigríður, sem þá voru 17 og 19 ára, frá Görðum til Súgandafjarðar.[166] Foreldrar þeirra hættu þá búskap en dvöldust áfram á Görðum sem húsfólk eða hjú næsta ár.[167] Sagt er að á árunum milli 1840 og 1850 hafi Guðmundur m.a. fengist við barnakennslu (sjá hér Selárdalur).

Börn Guðmundar og Ingibjargar ílentust bæði í Súgandafirði og á árunum 1849-1859 voru gömlu hjónin mest hjá Sigríði dóttur sinni og manni hennar, Brynjólfi Jónssyni, fyrst í Botni og síðan í Bæ og þar dó Ingibjörg 10. nóvember 1859.[168] Árið 1861 var Guðmundur kominn til Friðberts sonar síns í Vatnadal og þar dó þessi aldni fróðleiksmaður 28. september 1863, sagður 86 ára gamall.[169]

Hér var þess áður getið að kotbóndi þessi á Kaldá og Görðum hefði verið hagmæltur vel (sjá hér bls 12). Ýmsir hafa talið hann vera höfund ágætrar vísu frá fyrstu árum skútualdarinnar en vísa þessi er svona:

 

Á jaktinni eyddist flest

á sem þurfti að halda hvur,

en guðsóttinn entist best

því aldrei var hann brúkaður.

 

Valdimar Þorvaldsson sem ritað hefur um Guðmund kvaðst hafa fullar heimildir fyrir því að vísan hér að ofan væri eftir hann[170] en séra Ólafur Sívertsen, sem lengi var prestur í Flatey, segir að höfundur vísunnar sé Bjarni Þórðarson á Siglunesi á Barðaströnd.[171] Séra Ólafur gerir grein fyrir af hvaða tilefni umrædd vísa varð til[172] og verður að telja býsna líklegt að hann greini rétt frá höfundinum.

Önnur vísa sem ýmsir kunna mun almennt vera talin eftir Guðmund Jónsson og sýnist ástæðulaust að véfengja það. Í henni er fjallað um skútuna Charlottu sem hér er sagt frá á öðrum stað (sjá hér Flateyri) en hún var fyrsta þilskipið sem gert var út frá Flateyri og hóf veiðar þaðan árið 1815. Vísan sem reyndar er sú fyrsta í alllöngu kvæði[173] er svona:

 

Gamla Lotta, gamla Lotta

gengið er þitt skraut,

áður sem þú áttir,

um þig segja mátti

− þú varst skip með þokkasvip

er þorska fórst um braut.

 

Hér er vísa þessi um gömlu Lottu birt eins og Kristjana Friðbertsdóttir, sonardóttir Guðmundar Jónssonar, mælti hana fram.[174]

Í Ársriti Sögufélags Ísfirðinga frá árinu 1982 birtir Valdimar Þorvaldsson nokkur kvæði eftir Guðmund.[175] Öll eru þau skrifuð niður eftir minni og sýnast vera dálítið brengluð hér og þar. Þar sést að kvæðið um Gömlu Lottu hefur verið a.m.k. níu vísur og í einni þeirra kemur fram að Guðmundur hefur sjálfur verið skipverji á Lottu.[176] Athyglisverðast má líklega telja kvæðið Eykona, móðir mín sem virðist ort undir áhrifum frá Bjarna Thorarensen en hann var um það bil tíu árum yngri en Guðmundur. Kvæði Guðmundar er ort undir sama bragarhætti og hið alkunna kvæði Bjarna er hann nefndi Íslands minni (Eldgamla Ísafold) og bæði má því syngja undir sama lagi. Kvæði Guðmundar er tíu vísur[177] og í munni Kristjönu sonardóttur hans hljóðuðu fyrsta og þriðja vísan svo:

 

Eykona, móðir mín,

meðan vér börnin þín

þér skríða um skaut,

er skylt þér unnum vér,

oss sem fæðir og ber

á barmi og brjóstum þér

í blíðu og þraut.

 

Af þér ég fram dreg fjör

við farsæl heilsukjör,

þó mæði margt.

Þinn eljuþungi hér

þrykkir daglega mér

en ég finn að það er

þín eðlisart.[178]

 

Þetta kvæði Guðmundar stendur vel fyrir sínu en mjög ólíklegt er að höfundurinn hafi sett það saman án þess að þekkja kvæði Bjarna. Fróðlegt hefði verið að vita með hvaða hætti kvæði assessorsins í Gufunesi, sem síðar varð amtmaður á Möðruvöllum, bárust í hendur almúgafólki vestur í Önundarfirði á árunum 1820-1840 en slíkrar vitneskju er nú erfitt að afla.

Kvæði Bjarna, þar sem hann ávarpar fósturjörðina með orðunum Eldgamla Ísafold, birtist fyrst í Studenterviser árið 1819[179] en hefur varla farið víða fyrr en það var prentað í Íslenskum sagnablöðum árið 1825. Tímaritið Íslensk sagnablöð var gefið út af Hinu íslenska bókmenntafélagi á árunum 1816-1826 og má telja líklegt að eitt eða tvö eintök af árgangnum 1825 hafi verið send vestur í Önundarfjörð. Líklegasti kaupandinn þar er Friðrik J. Svendsen, hinn merki kaupmaður og útgerðarmaður á Flateyri, en Guðmundur, sem síðar bjó á Görðum, settist að á Flateyri eigi síðar en 1827 og var árið 1829 heimilismaður hjá nýnefndum kaupmanni (sjá hér bls. 14). Tilgátu um að Guðmundur hafi séð kvæði Bjarna hjá Friðriki kaupmanni er því hægt að rökstyðja þó að engin sönnum sé í boði. Hugsanlegt er líka að umrætt kvæðu Bjarna hafi gengið í uppskriftum manna á milli á árunum upp úr 1825 og komið þannig fyrir sjónir Guðmundar. Hið hljómmikla ættjarðarkvæði Bjarna skálds var hins vegar ekki prentað í þriðja sinn fyrr en í heildarútgáfu af ljóðum amtmannsins sem út kom árið 1847.[180] Ólíklegt er að kvæði Guðmundar sé ort svo seint því þá var hann kominn um sjötugt. Hér er á öðrum stað  sagt frá draumnum sem sagt var að Guðmund hefði dreymt skömmu fyrir mannskaðann mikla í Önundarfirði vorið 1812 og kemur kveðskapur þar einnig við sögu (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli).

Þegar Guðmundur Jónsson hætti búskap á Görðum árið 1841 tóku við jörðinni hjónin Guðlaugur Þorsteinsson og Jóhanna Jónsdóttir,[181] sem hér hefur áður verið gerð grein fyrir, en þau bjuggu síðar á Hóli á Hvilftarströnd og svo í Fremri-Breiðadal (sjá hér Hóll á Hvilftarströnd). Árið 1845 var Guðlaugur kominn að Hóli en hjónin Jón Örnólfsson og Ólöf Hallgrímsdóttir voru þá farin að búa á Görðum.[182] Þau voru bæði fædd um aldamótin 1800, hann í Keflavík í Suðureyrarhreppi (sjá hér Keflavík) en hún á Hóli í Bolungavík.[183] Ólöf var dóttir hjónanna Hallgríms Lárentíussonar og Þórdísar Pálmadóttur sem bjuggu á Hóli í Bolungavík árið 1801 en á Ósi í Bolungavík árið 1816.[184] Þau Jón og Ólöf giftust í Súgandafirði haustið 1821 og árið 1825 komu þau að Efrihúsum í Hestþorpinu.[185] Árið 1829 var Jón Örnólfsson bóndi í Efrihúsum[186] og einu ári síðar bjó hann þar með 3 kýr, 18 ær, 8 gemlinga, 12 lömb og 3 hesta.[187]

Á árunum 1834 og 1835 bjuggu þau Jón og Ólöf á Hvilft[188] en þaðan fóru þau að Innri-Hjarðardal og voru ábúendur á þeirri jörð 1837 og 1838.[189] Saman virðast hjón þessi ekki hafa eignast börn en árið 1836 eignaðist Jón Örnólfsson dóttur fram hjá konu sinni.[190] Móðir hennar hét Guðrún Atladóttir en telpan var skírð Herdís[191] og var hjá föður sínum og Ólöfu konu hans á Görðum árið 1845.[192]

Búskap sinn á Görðum munu Jón Örnólfsson og Ólöf Hallgrímsdóttir hafa hafið árið 1843, þegar Guðlaugur Þorsteinsson færði sig að Hóli (sjá hér Hóll á Hvilftarströnd), og hér stóðu þau enn fyrir búi árið 1850.[193] Bú þeirra hafði þá skroppið saman frá því sem verið hafði 1830 og hér var áður nefnt því árið 1850 bjuggu hjón þessi með eina kú, eina kvígu, tíu ær, fimm gemlinga, tíu lömb og tvo hesta.[194] Árið 1854 hættu Jón og Ólöf að búa og gerðust þá eða skömmu síðar vinnuhjú á Flateyri.[195] Jón Örnólfsson dó í marsmánuði árið 1866 og var þá húsmaður í Kirkjubólshúsum[196] hjá Kirkjubóli í Korpudal. Ólöf kona hans lifði mun lengur og var árið 1880 niðursetningur í Mosdal.[197] Hún andaðist í Dalshúsum 11. desember 1887, sögð 90 ára gömul[198] en var í raun 86 ára (sjá hér Keflavík).

Árið 1854 byrjuðu hjónin Jón Jónsson og Abigael Guðmundsdóttir búskap sinn á Görðum og bjuggu hér í þrjú eða fjögur ár[199] en 1858 var Jón þessi orðinn vinnumaður á Kaldá.[200] Jón fæddist 1799 í Fremri-Breiðadal, sonur hjónanna Jóns Egilssonar og Ólafar Þórðardóttur sem þar bjuggu[201] og hér hafa áður verið nefnd (sjá hér Fremri-Breiðadalur). Abigael var tíu árum yngri en eiginmaður hennar, fædd 1809, og átti heima á Vöðlum þegar hún fermdist árið 1822.[202] Foreldrar hennar voru Guðmundur Jónsson og Guðrún Hallsdóttir, sem bjuggu á Vífilsmýrum árið 1816 og seinna á Vöðlum (sjá hér Vaðlar), en systir hennar var Rósa Guðmundsdóttir[203] sem hér er sagt frá á öðrum stað (sjá hér Þórustaðir og Holt).

Þau Jón Jónsson frá Fremri-Breiðadal og Abigael Guðmundsdóttir voru gefin saman í hjónaband haustið 1829 en hann var þá talinn fyrirvinna á Tannanesi.[204] Árið 1838 var Jón vinnumaður á Vöðlum en 1845 var hann bóndi þar á annarri hálflendunni.[205] Árið 1849 fluttust þau Jón og Abigael kona hans frá Sveinseyri í Dýrafirði að Innri-Hjarðardal í Önundarfirði[206] og bjuggu þar á 6 jarðarhundruðum árið 1850.[207] Skömmu síðar fengu þau ábúð á Görðum eins og áður var frá greint. Síðustu árin sem Jón og Abigael lifðu áttu þau heima á Hóli á Hvilftarströnd hjá Guðrúnu dóttur sinni sem var eiginkona Halldórs Halldórssonar, bónda á Hóli (sjá hér Hóll á Hvilftarströnd). Þar andaðist Jón Jónsson, áður bóndi á Görðum, sumarið 1862 en Abigael kona hans lifði tíu árum lengur og dó á Hóli 2. nóvember 1872.[208]

Skömmu eftir 1855 fengu hjónin Ólafur Árnason og Kristín Sveinsdóttir ábúð á Görðum og fluttust hingað frá Hvilft.[209] Ólafur fæddist í Mosdal árið 1813 en Kristín á Brekku á Ingjaldssandi árið 1820.[210] Haustið 1853 voru þau gefin saman í hjónaband[211] og fengu skömmu síðar til ábúðar svolítinn jarðarskika á Hvilft[212] en þar höfðu þau áður verið vinnuhjú.[213] Búskapur Ólafs og Kristínar á Hvilft stóð mjög stutt og hér á Görðum bjuggu þau aðeins í örfá ár því Ólafur andaðist úr langvinnri brjóstveiki haustið 1858.[214] Kristín Sveinsdóttir, ekkja hans, hélt búskapnum hins vegar áfram og bjó hér enn þegar hún dó sumarið 1873.[215] Árið 1870 var tvíbýli á jörðinni því Andrés Sakaríasson hafði þá part úr Görðum til ábúðar.[216] Börn Ólafs Árnasonar og Kristínar Sveinsdóttur voru tvö, sonurinn Bjarni og dóttirin Guðrún er giftist Jóhannesi Hannessyni sem lengi bjó í Botni í Súgandafirði.[217]

Andrés Sakaríasson, sem hér var nefndur, mun aðeins hafa búið á Görðum í örfá ár en hann var áður á Hvilft (sjá hér Hvilft) og bjó um 1880 í Lækjarkoti sem var afbýli frá Stað í Súgandafirði.[218]

Á árunum 1874-1893 bjuggu á Görðum hjónin Einar Jónsson og Margrét Jónsdóttir.[219] Einar fæddist á Flateyri 28. nóvember árið 1845 en hann var sonur hjónanna Jóns Einarssonar, skipherra frá Kollafjarðarnesi (sjá hér Hvilft og Flateyri), og konu hans, Þóru Sigurðardóttur.[220] Á uppvaxtarárum var Einar meira eða minna á Hvilft[221] hjá Magnúsi Einarssyni sem var föðurbróðir hans. Árið 1870 átti Einar heima á Flateyri og haustið 1873 kvæntist hann Margréti sem var dóttir Jóns Sveinssonar, bónda í Fremri-Breiðadal og síðar á Hvilft, og konu hans, Járngerðar Indriðadóttur.[222] Vorið eftir giftinguna fóru Einar og Margrét að búa á Görðum. Þau áttu þá eitt barn en á þeim 19 árum sem þau bjuggu hér bættust tíu við.[223] Af þessum ellefu börnum náðu sjö að verða fullorðin.[224] Bú Einars Jónssonar og Margrétar konu hans mun jafnan hafa verið smátt og má sem dæmi nefna að árið 1880 bjuggu þau með eina kú, níu ær, tvo gemlinga og einn hest.[225] Engan bát átti Einar það árið ef marka má búnaðarskýrslur[226] en lífsviðurværi sitt hlýtur þessi fjölskylda þó að hafa haft af sjósókn að stórum hluta til. Vorið 1893 hætti Einar búskap og gerðist húsmaður á Eyri.[227] Þar andaðist hann einu ári síðar, 48 ára að aldri, en Margrét kona hans dó á Suðureyri í Súgandafirði haustið 1912.[228]

Síðasti 19. aldar bóndinn á Görðum var Guðmundur Júlíus Jónsson sem bjó hér ásamt konu sinni, Gróu Finnsdóttur, frá 1893 til 1925.[229] Guðmundur fæddist 2. júlí 1870 í Innri-Hjarðardal, sonur Jóns Andréssonar og Margrétar Jónsdóttur sem þá voru ógift vinnuhjú en gengu í hjónaband tveimur árum síðar.[230] Árið 1874 fluttist Guðmundur með foreldrum sínum norður í Bolungavík en kom þaðan að Breiðadal árið 1881 (sjá hér Neðri-Breiðadalur). Jón faðir hans gerðist þá húsmaður í Neðri-Breiðadal en hann drukknaði við róðra frá Bolungavík vorið 1884.[231] Þá var Guðmundur á fjórtánda ári. Margrét móðir hans baslaðist áfram í Neðri-Breiðadal og bjó þar á litlum jarðarskika fram um 1920 (sjá hér Neðri-Breiðadalur)

Gróa Finnsdóttir, eiginkona Guðmundar Jónssonar á Görðum, var sex árum eldri en hann, fædd 1864.[232] Foreldrar hennar voru Finnur Magnússon og Sigríður Þórarinsdóttir sem gengu í hjónaband nokkru eftir fæðingu Gróu (sjá hér Hvilft) og bjuggu alllengi á Hvilft.[233] Faðir Gróu var sonur hins merka bónda Magnúsar Einarssonar á Hvilft. Þau Gróa Finnsdóttir og Guðmundur Júlíus Jónsson voru gefin saman í hjónaband 10. september 1892 en þremur árum áður hafði hún eignast dóttur með öðrum Guðmundi Jónssyni sem dó sama ár og barnið fæddist (sjá hér Eyri).[234] Með eiginmanni sínum eignaðist Gróa ellefu börn, tíu syni og eina dóttur, sem öll komust upp nema einn drengur sem dó á fyrsta ári.[235] Úr þessum barnahópi dóu svo tveir synir innan við tvítugt, annar 18 en hinn 19 ára.[236] Öll börn Guðmundar og Gróu fæddust á Görðum nema það elsta.[237]

Guðmundur bóndi á Görðum var á yngri árum formaður á bátum sem reru frá Kálfeyri og verstöðvum í Súgandafirði og þótti dugmikill sjósóknari. Vorið 1899 reri hann frá Súgandafirði og var þá formaður á árabát.[238] Vorið 1911 reri Guðmundur enn frá Súgandafirði og var þá formaður á vélbát sem hann átti sjálfur.[239] Þennan bát, sem hét Hinrik, lét hann smíða árið 1906[240] og var hann um það bil fjórar smálestir með fjögurra hestafla Alfavél.[241] Reinald Kristjánsson póstur, sem lengi bjó á Kaldá, var nágranni Guðmundar og þeir á svipuðum aldri. Hann segir að Guðmundur á Görðum hafi verið hinn röskasti sjómaður[242] og bætir við: Ekki veit ég neinn annan er farið hefur einn á árabát frá Önundarfirði til Ísafjarðar og til baka aftur.[243] Frá Flateyri til Ísafjarðar munu vera um 29 sjómílur[244] og ekki heiglum hent að damla alla þá vegalengd aleinn með tvær árar úti á opnu hafi.

Í frásöguþætti, sem sonur Guðmundar á Görðum og Gróu konu hans færði í letur veturinn 1969-1970, segir hann að faðir sinn hafi verið vínhneigður í meira lagi og farið illa með vín en vínið ennþá verr með hann.[245] Í rituðum heimildum er víðar haft á orði að Guðmundi hafi þótt sopinn góður og stundum hafi hann verið nokkuð fyrirferðarmikill við drykkju. Í níðkvæði sínu Önfirðingarímu, lætur Magnús Hjaltason flakka þrjár vísur um Guðmund á Görðum og er ein þeirra svona:

 

Ægilega orðvondur,

öls að drykkju fimur,

en í forsmán fjötraður

fjandans verka limur.[246]

 

Í ágústmánuði árið 1908 var Guðmundur á Görðum fenginn til að flytja 2 tonn af kolum á bát sínum Hinrik frá Flateyri og inn í Holtsmel.[247] Í þá ferð fór hann með fimm unga syni á aldrinum 8-14 ára og henni lýsir Hjörleifur Guðmundsson í sinni hjartnæmu en hófstilltu frásögn er hann nefndi Þegar við fluttum kolin og birt var í Ársriti Sögufélags Ísfirðinga árið 1973.[248]

Frá Görðum fóru þeir bræður klukkan sex að morgni í góðu veðri en þegar búið var að hlaða bátinn á Flateyri var komið rok og faðir þeirra orðinn drukkinn.[249] Á leiðinni inn eftir urðu allir skipverjarnir holdvotir því sjódrifið gekk yfir bátinn og þeir án allra hlífa.[250] Guðmundur bóndi stóð þá sjálfur við stýrið en þegar komið var inn að Grjóttanga við Holtsmel, þar sem setja átti kolin í land, fór hann að súpa á og varð brátt ófær til allra verka.[251] Öllum kolunum, um það bil fjörutíu 100 punda pokum, urðu drengirnir að koma í land á litlum árabát og bera hvern poka upp fyrir flæðarmörk.[252] Elstur bræðranna frá Görðum sem þarna voru með var Össur og á heimleiðinni varð þessi 14 ára drengur að stýra bátnum alla leið í  hífandi roki og ólgusjó[253] og bera á ungum herðum alla ábyrgð á lífi föður síns og bræðra. Hamförum sjávarins í álnum norðantil í Holtsós lýsir Hjörleifur með þessum orðum:

 

Nú þegar við komum þarna í álinn aftur var hann hroðalegur á að líta. Það var rétt eins og óteljandi villidýr væru þarna í hörkuáflogum, risu ýmist upp á afturlappir í ólman bardaga eða koðnuðu niður. Rokið var algert, dró sjaldan niður svo nokkur skil yrðu milli hviða. Báturinn hjó og kastaðist til og einstaka straumhnútur náði að flaðra inn í hann.[254]

 

Þegar utar dró virtist rokið enn harðna og fram af Hreggnasanum, rétt utan við Selaból, fór árabáturinn, sem bundinn var aftan í mótorbátinn, á hvolf. Þegar hann rétti sig við var hann fullur af sjó og allur farviður flotinn burt.[255] Nú var svo komið að mótorbáturinn komst varla neitt áfram fyrir veðrinu og allt í einu sáu drengirnir að faðir þeirra, sem hafði setið hreyfingarlaus á lunningunni aftast á bakborða, var fallinn í sjóinn.[256] Þá voru þeir staddir fram undan lendingunni á Kaldá.[257] Með því að beita ýtrustu kröftum tókst þeim Hinrik og Hjörleifi að tosa föður sinn inn fyrir borðstokkinn þegar honum skaut upp úr kafinu en Össur hélt um stýristaumana og mátti ekki sleppa hendinni af þeim því þá var voðinn vís.

Við að falla í sjóinn fékk Guðmundur bóndi slæman skurð á bakið af skrúfublöðunum og það þótt Össur næði að slá skrúfu bátsins úr sambandi um leið og faðir hans hvarf í djúpið.[258] Við lá að báturinn kastaðist upp í fjöruna en þegar yngri bræðurnir höfðu náð að tosa föður þeirra upp á borðstokkinn setti Össur aftur á fulla ferð og báturinn Hinrik mjakaðist áfram út með ströndinni. Utan við Kaldá munaði litlu að þeir hrektust upp í fjöruna og til að forðast strand urðu þeir að losa sig við árabátinn með því að skera á festina.[259] Ekki þýddi að leggja mótorbátnum í legufærin fram undan Görðum því nú höfðu þeir engan bát til að komast á í land. Stefnan var því tekin á Sólbakkabryggjuna og þangað náðu piltarnir loks þegar liðnar voru ellefu klukkustundir frá því þeir fóru að heiman um morguninn og á sjöttu klukkustund frá því heimferðin hófst.[260] Á Sólbakka gerði læknir að sári því sem Guðmundur bóndi á Görðum hafði hlotið í þessari svaðilför en í hálfan mánuð varð hann að liggja rúmfastur til að jafna sig eftir volkið.[261]

Líklegt er að sjóhetjan Guðmundur á Görðum hafi oft komist í hann krappan en sjaldan mun Bakkus hafa leikið hann verr en í þetta sinn þegar svo litlu munaði að hann færði synina fimm til heljar. Össur Guðmundsson, sem þá bjargaði lífi föður síns og bræðra, varð skammlífur því hans biðu þau örlög að drukkna 19 ára gamall þegar mótorbáturinn Hlín frá Súgandafirði fórst 11. nóvember 1913.[262]

Um 1920 bjó fólkið á Görðum í portbyggðu timburhúsi og var grunnflötur þess 12 x 9 álnir,[263] það er 42,5 fermetrar. Útihús á jörðinni voru þá fjögur fjárhús, þrjár hlöður, fjós, hesthús, sjóarhús og brunnhús.[264] Á þeim árum var talið að hér mætti framfleyta tveimur kúm, fjörutíu fjár og einum hesti (sjá hér bls. 2) og matjurtagarðurinn gaf af sér þrjár tunnur af garðávöxtum.[265] Um 1920 var Guðmundur Jónsson, bóndi á Görðum, orðinn eigandi jarðarinnar[266] en á fyrstu búskaparárum hans hér hafði jörðin verið í eigu Ragnheiðar Finnsdóttur á Hvilft (sjá hér bls. 4), sem var amma eiginkonu Guðmundar.

Snorri Sigfússon, sem var skólastjóri á Flateyri frá 1912 til 1929, segir að Guðmundur og Gróa kona hans á Görðum hafi verið hin mestu dugnaðarhjón.[267] Hann lýsir þeim báðum nánar og kemst þá svo að orði:

 

Gróa (var) fríðleikskona, hlédræg, yfirlætislaus og umhyggjusöm móðir og maður hennar hinn gjörvilegasti, umsvifamikill og atorkusamur. Var fast sóttur sjórinn frá Görðum því að tekjur búsins urðu að mestu að koma þaðan. Þóttu Guðmundur og synir hans miklir sægarpar og aflaklær og hvergi deigir. Var Guðmundur vínhneigður nokkuð og þótti þá hrjúfur og fyrirferðarmikill. En drengskaparmaður var hann og líkaði mér að ýmsu leyti vel við þennan hispurslausa og þrekmikla dugnaðarmann.[268]

 

Yngsta barn hjónanna á Görðum fæddist árið 1906[269] en tíu árum síðar eignaðist Guðmundur dóttur fram hjá konu sinni.[270] Barnsmóðir hans að því sinni hét Þuríður Kristjánsdóttir.[271] Árið 1923 fæddist honum enn einn sonur og hét móðir þess drengs Salóme Jónsdóttir.[272] Hún var þá 36 eða 37 ára gömul ekkja og átti þrjú börn áður en þetta bættist við.[273] Ef mark má taka á sóknarmannatali prestsins í Holti voru þær báðar á Görðum við lok ársins 1923, eiginkonan Gróa og hjákonan Salóme.[274] Á árinu 1924 fór Gróa burt frá Görðum[275] og munu þau Guðmundur þá hafa skilið að borði og sæng. Hún var þá sextug en hann 54 ára.

Eftir brottför Gróu bjó Guðmundur í eitt ár á Görðum og hafði þar hjá sér Salóme, barnsmóður sína.[276] Árið 1925 fluttust þau frá Görðum að Kaldeyri í landi Kaldár[277] en Finnur Guðmundsson, elsti sonur Guðmundar og Gróu, hafði þá búið á Kaldá um nokkurt skeið (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 418). Þau Guðmundur og Salóme, ráðskona hans og barnsmóðir, áttu heima á Kaldeyri í nokkur ár[278] en vorið 1932 hófu þau búskap á Hóli á Hvilftarströnd,[279] jörð sem hafði þá legið í eyði í 25 ár (sjá hér Hóll á Hvilftarströnd). Búskaparár þeirra á Hóli urðu sjö en Guðmundur andaðist í febrúarmánuði árið 1939 og þá um vorið tók Salóme sig upp og fluttist austur á Norðfjörð.[280] Þangað fylgdi henni drengurinn Einar Garðar sem þá var 16 ára eða því sem næst, sonur þeirra Guðmundar.[281]

Með þessari frásögn af síðasta nítjándu aldar bóndanum á Görðum lýkur dvöl okkar í túni þessarar fornu hjáleigu sem nú hefur staðið í eyði í 40 ár (frá 1956). Eins og áður var getið byggðust Garðar í fyrstu sem hjáleiga frá Hvilft sem er næsti bær hér út með ströndinni. Þangað höldum við nú. Vegalengdin milli Garða og Hvilftar er um það bil einn kílómetri. Landamerkin liggja rétt fyrir utan túnið á Görðum en þeim hefur áður verið lýst á þessum blöðum (sjá hér bls. 1).

 

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII, 123-124.

[2] Sama heimild.

[3] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.

[4] Jarðab. Á. og P. VII, 123-124.  Jarða- og bændatöl 1752-1767, Íafj.sýsla 1753.  Rtk. Jarðabækur V. 16. –

Ísafj.sýsla 1805.  Sóknalýsingar Vestfjarða II, 101.

[5] Jarðab. Á. og P. VII, 123-125.

[6] Rtk. Jarðabækur V. 16. – Ísafj.sýsla 1805.

[7] Landamerkjabréf Hvilftar frá 27.5.1890, varðveitt á Hvilft.

[8] Þinglýst landamerkjabréf, dagsett 11.7.1921, afrit varðveitt á Hvilft.

[9] Sama heimild.

[10] Sama heimild.

[11] Jarðab. Á. og P. VII, 123-125.

[12] Sama heimild.

[13] Sama heimild.

[14] Sama heimild.

[15] Rtk. Jarðbækur V. 16. – Ísafj.sýsla 1805.

[16] Sama heimild.

[17] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[18] Sama heimild.

[19] Sama heimild.

[20] Sama heimild.  Fasteignabók 1932.

[21] Óskar Einarsson 1951, 83.

[22] Sama heimild.

[23] Sama heimild.

[24] Sama heimild.

[25] Sama heimild.

[26] Sama heimild.

[27] Sama heimild.

[28] Örnefnaskrá – Hóll á Hvilftarströnd.

[29] Sama heimild.  Vestfirskar sagnir II, 326 og III, 292-293. Sbr. hér Hóll á Hvilftarströnd.

[30] Vestf. sagnir II, 326.

[31] Sama heimild, 86-87.

[32] Sama heimild.

[33] Lbs. 7974to, Jarðaskrár úr Ísafj.sýslu frá árunum 1658 og 1695.

[34] Lbs. 7974to, Jarðaskrár úr Ísafj.sýslu frá árunum 1658 og 1695. Jarðab. Á. og P. VII, 123-125.  Manntal 1762.

[35] Rtk. Jarðabækur V. 16. – Ísafj.sýsla 1805.

[36] Manntal 1801.

[37] J. Johnsen 1847, 196.

[38] Manntal 1901, fylgiskjöl.

[39] Manntal 1845 og 1901.

[40] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916. Sóknarm.töl Holts í Ön.f.

[41] Jarðab. Á. og P. VII, 124.

[42] Sama heimild.

[43] Sama heimild.

[44] Lbs. 7974to, Jarðaskrár úr Ísafj.sýslu frá árunum 1658 og 1695.

[45] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[46] J. Johnsen 1847, 196.

[47] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[48] Jarðab. Á. og P. VII, 124.

[49] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.  J. Johnsen 1847, 196.

[50] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.

[51] Sama heimild.

[52] Manntal 1870.  Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[53] VA III, 421, búnaðarskýrslur 1870.

[54] Sama heimild.

[55] Manntal 1703.

[56] Sama heimild.

[57] Sama heimild.

[58] Jarðab. Á. og P. VII, 124.

[59] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, eftirrit, Ísafj.sýslu um 1735.

[60] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.  Manntal 1762.

[61] Manntal 1762.

[62] Sama heimild.

[63] Sama heimild.

[64] Sama heimild.

[65] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.  Manntal 1801, vesturamt, bls. 285, 300 og 328.  Eyjólfur Jónsson 1979, 85-86

(Ársrit S.Í.).

[66] Eyjólfur Jónsson 1979, 85-86.

[67] Sama heimild.

[68] Sama heimild.

[69] Prestsþj.bækur Holts í Önundarf.

[70] Sama heimild.

[71] Sama heimild.

[72] Sama heimild.  Manntal 1801.

[73] Manntal 1801.

[74] Eyjólfur Jónsson 1979, 86.

[75] Sama heimild.

[76] Manntal 1801.

[77] Sama heimild.

[78] Ól. Þ. Kr. 1949, 88-89 (Frá ystu nesjum V).

[79] Sama heimild.

[80] Ól. Þ. Kr. 1949, 88-89 (Frá ystu nesjum V).

[81] Manntal 1801.

[82] Sama heimild.

[83] Manntal 1801.  Ól. Þ. Kr. 1949, 92 (Frá ystu nesjum V).

[84] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[85] Ól. Þ. Kr. 1949, 92.

[86] Sama heimild.

[87] Sama heimild.

[88] Sama heimild.

[89] Sama heimild, 92-96.  Eyjólfur Jónsson 1967, 65-133 (Niðjatal Sveins á Hesti).

[90] Sama heimild.

[91] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 1. Hreppsbók 1786-1819 og 2. Hreppsbók 1819-1835.

[92] Sama heimild.

[93] ÍB. 7838vo, Bændaríma kveðin Anno 1815.

[94] Íslenskar æviskrár I, 296 og V, 240-241.

[95] Sama heimild.

[96] Sama heimild.

[97] Sama heimild.

[98] Sama heimild.

[99] Sama heimild.

[100] Sama heimild.

[101] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 1. Hreppsbók 1786-1819.

[102] Manntal 1816.

[103] Manntal 1816.

[104] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1821.

[105] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1821.

[106] Lbs. 23704to, Prestaæfir Sighvats Grímssonar Borgfirðings, bls. 395-411.

[107] Ísl. æviskrár I, 296.

[108] Sama heimild.

[109] Sama heimild I, 296 og V, 240-241.

[110] Halldór Kristjánsson 1987, 86-88 (Ársrit S.Í.).

[111] Ísl. æviskrár I, 296.

[112] Lbs. 23704to Prestaæfir S.Gr.B. bls. 395-411.

[113] Sama heimild.

[114] Ísl. æviskrár I, 296.

[115] Sama heimild.

[116] Sama heimild.

[117] Sama heimild.

[118] Sama heimild.

[119] Lbs. 23704to, Prestaæfir S.Gr.B. , bls. 395-411.

[120] Ísl. æviskrár I, 296.

[121] Sama heimild.

[122] Sama heimild.

[123] Sama heimild.

[124] Sama heimild.

[125] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1830.

[126] Ól. Þ. Kr. 1953, 137-138 (Frá ystu nesjum VI).

[127] Ól. Þ. Kr. 1953, 137-138 (Frá ystu nesjum VI).

[128] Manntal 1845, vesturamt, bls. 278.

[129] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 2. Hreppsbók 1819-1835.

[130] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 2. Hreppsbók 1819-1835. Prestsþj.b. og sóknarm.töl Holts í Ön.f.

[131] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Holts í Önundarf. og Staðar í Súgandafirði.

[132] Prestsþj.b. Holts í Önundarf., innfluttir 1818.

[133] Manntal 1816, nafnalykill.

[134] Manntal 1801 og nafnalykill með því.

[135] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[136] Sama heimild.

[137] Sighvatur Grímsson Borgfirðingur / Þjóðviljinn ungi 3.6.1899.

[138] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[139] Sighvatur Grímsson Borgfirðingur / Þjóðviljinn ungi 3.6.1899.

[140] Valdimar Þorvaldsson 1982, 86-87 (Ársrit S.Í.).

[141] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Holts í Önundarf. og Staðar í Súgandaf.

[142] Sömu heimildir.

[143] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[144] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[145] Sama heimild.

[146] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 2. Hreppsbók 1819-1835.

[147] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur.

[148] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[149] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[150] Sama heimild.

[151] Bogi Benediktsson / Sýslumannaæfir II, 224-226.

[152] Sighv. Gr. Borgf. / Þjóðviljinn ungi 3.6.1899.

[153] Sighv. Gr. Borgf. / Þjóðviljinn ungi 3.6.1899.

[154] Manntal 1816 (þar sóknarm.tal frá Suðureyri mars 1817).

[155] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[156] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1826.

[157] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[158] Sóknarm.tal Holts í Önundarf. 1829. Gils Guðmundsson / Skútuöldin I, 109 (2. útg.).

[159] Sóknarm.tal Holts í Önundarf. 1829.

[160] Sama heimild.

[161] Sama heimild.

[162] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., bún.sk. 1830, 1831, 1833 og 1834. VA-J, 6, nr. 3117 II, bún.sk. 1832.

Manntal 1835.

[163] Sama heimild.

[164] Sama heimild. Sóknarm.töl Holts í Önundarf. Manntöl 1835 og 1840.

[165] Sóknarm.tal Holts í Önundarf. 1838.

[166] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Holts í Önundarf. og Staðar í Súgandaf.

[167] Sóknarm.töl Holts í Önundarfirði.

[168] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[169] Sama heimild.

[170] Valdimar Þorvaldsson 1982, 95 (Ársrit S.Í.).

[171] Ólafur Sívertsen / Gestur Vestfirðingur III, 108-123.

[172] Sama heimild.

[173] Valdimar Þorvaldsson 1982, 93-94.

[174] Minnisblað í vörslu K.Ó. með vísum eftir Guðmund Jónsson sem Kristjana Friðbertsdóttir, fædd 1884, kunni.

[175] Valdimar Þorvaldsson 1982, 85-96 (Ársrit S.Í.).

[176] Sama heimild, 93-94.

[177] Sama heimild.

[178] Minnisblað í vörslu K.Ó. með vísum eftir Guðmund Jónsson sem Kristjana Friðbertsdóttir, fædd 1884, kunni.

[179] Jón Helgason / Bjarni Thorarensen II, 1935, 5.

[180] Jón Helgason / Bjarni Thorarensen II, 1935, 5.

[181] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[182] Manntal 1845.

[183] Manntal 1816, bls. 701 og 706.  Sbr. Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[184] Manntal 1801, vesturamt, bls. 314-415.  Manntal 1816, bls. 701.

[185] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[186] Sama heimild.

[187] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1830.

[188] Sama askja, búnaðarskýrslur 1834.  Manntal 1835.

[189] VA III, 407, búnaðarskýrslur 1837.  Sóknarm.tal Holts í Önundarf. 1838.

[190] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[191] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[192] Manntal 1845.

[193] Sama heimild.  Manntal 1850.  Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[194] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[195] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar. Sbr. Sóknarm.töl Holts í Ön.f.

[196] Sama heimild.

[197] Sama heimild.

[198] Sama heimild.

[199] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[200] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.  Manntal 1855.

[201] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[202] Sama heimild.

[203] Manntal 1816, bls. 692.

[204] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[205] Sama heimild.  Manntal 1845.

[206] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[207] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[208] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[209] Manntöl 1855 og 1860.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[210] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[211] Sama heimild.

[212] Manntal 1855.

[213] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[214] Sama heimild.

[215] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[216] Manntal 1870.

[217] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[218] Sama heimild.

[219] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[220] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[221] Sama heimild.

[222] Sama heimild.  Eyjólfur Jónsson 1967, 65-67 og 96-110 (Niðjatal Sveins á Hesti).

[223] Sömu heimildir.

[224] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar. Eyjólfur Jónsson 1967, 65-67 og 96-110 (Niðjatal Sveins á Hesti).

[225] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[226] Sama heimild.

[227] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[228] Eyjólfur Jónsson 1967, 96 (Niðjatal Sveins á Hesti).

[229] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[230] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[231] Sama heimild.

[232] Sama heimild.

[233] Sama heimild.

[234] Sama heimild.

[235] Sama heimild.

[236] Sama heimild.

[237] Sama heimild.

[238] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1932, 65-66.

[239] Gunnar M. Magnúss 1977, 276.  Hjörleifur Guðmundsson 1973, 72 (Ársrit S.Í.).

[240] Sömu heimildir.

[241] Hjörleifur Guðmundsson 1973, 72.

[242] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1936, 32-33.

[243] Sama heimild.

[244] Sama heimild.

[245] Hjörleifur Guðmundsson 1973, 75.

[246] Lbs. 25604to /M.Hj.

[247] Hjörleifur Guðmundsson 1973, 71-72.

[248] Sama heimild, 71-87.

[249] Sama heimild, 71-76.

[250] Sama heimild, 76.

[251] Hjörleifur Guðmundsson 1973, 76-79 (Ársrit S.Í.).

[252] Sama heimild, 78-79.

[253] Hjörleifur Guðmundsson 1973, 79.

[254] Sama heimild, 80.

[255] Sama heimild, 81.

[256] Sama heimild, 79 og 82-83.

[257] Sama heimild, 82-83.

[258] Sama heimild.

[259] Sama heimild, 83-84.

[260] Hjörleifur Guðmundsson 1973, 79-86 (Ársrit S.Í.).

[261] Sama heimild, 86-87.

[262] Hjörleifur Guðmundsson 1973, 86.  Gunnar M. Magnúss 1977, 294-298.

[263] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[264] Sama heimild.

[265] Sama heimild.

[266] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.

[267] Snorri Sigfússon 1969, 105.

[268] Sama heimild.

[269] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[270] Sama heimild.

[271] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[272] Sama heimild.

[273] Sama heimild.  Vestf. ættir I, 401-402. Gunnar M. Magnúss 1977, 100, 366 og 368.

[274] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[275] Sama heimild.

[276] Sama heimild.

[277] Sama heimild.

[278] Sama heimild.

[279] Sama heimild.

[280] Prestsþj.bækur og sóknarm.töl Holts í Ön.f..

[281] Sömu heimildir.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »