Gemlufall

Leiðin frá Gili, ysta bænum í Neðri-Hjarðardal, og út að Gemlufalli er aðeins hálfur annar kílómetri og farið yfir landamerkin við Grafandislæk sem stundum er nefndur Grafandi[1] en er í fornbréfum nefndur Grafvallalækur (sjá hér Neðri-Hjarðardalur).  Landamerkjalækur þessi er auðþekktur því hann hefur grafið sig niður í mólendið.  Lækurinn er mun nær Gili en Gemlufalli og rétt utan við hann hefur verið ræktuð upp dálítil slétta.[2]  Á leiðinni milli bæjanna er alls staðar nokkurt undirlendi, hálfur kílómetri eða svo frá fjarðarströndinni upp að hlíðarfótum, og er þar víða mýrlent.

Bærinn Gemlufall stendur skammt frá sjó, rétt innan við mynni Gemlufallsdals en um dalinn og yfir Gemlufallsheiði hefur alla tíð legið og liggur enn þjóðbraut milli Dýrafjarðar og Önundarfjarðar. Land Gemlufalls nær frá Grafandislæk sem áður var nefndur og út að Gemlufallsá[3] sem kemur af Gemlufallsdal og fellur til sjávar skammt fyrir utan túnið á Gemlufalli. Fram á dalnum á Gemlufall líka talsvert land sín megin árinnar og nær það fram að ársprænu sem Litladalsá heitir[4] en fram að landamerkjunum eru um það bil tveir og hálfur kílómetri heiman frá bæ. Norðan við Litladalsá tekur við land Mýra og nær að hreppamörkum á Gemlufallsheiði.

Fjallið yfir bænum á Gemlufalli heitir Gemlufallsfjall.[5] Fjallsbrúnin sem við blasir af bæjarhlaði er í 400-500 metra hæð yfir sjávarmáli en norður og austur af þeirri brún heldur fjallið áfram að hækka og verður hæst 724 metrar við brún Háadals sem skerst frá vestri til austurs inn í fjalllendið austur af Gemlufallsdal og liggur ofan við Fjalldal. Á Uppdrætti Íslands, blaði 12 frá árinu 1977, er þessi hæsti hnúkur nafnlaus en tveir aðrir hnúkar þar skammt frá sagðir heita Tafla og Gemla. Liggur kollur hins fyrrnefnda í 680 metra hæð en þess síðarnefnda í 700 metra hæð.

Fáir sem kunnugir eru á þessum slóðum munu geta fallist á að hnúkurinn sem nefndur er Gemla á uppdrættinum beri það nafn með réttu en erfitt virðist hins vegar vera að fá úr því skorið með ótvíræðum hætti hvar Gemla sé. Jóhannes Davíðsson sem fæddur var árið 1893 og átti mjög lengi heima í Neðri-Hjarðardal, skammt fyrir innan Gemlufall, gaf Örnefnastofnun þær upplýsingar að Gemla væri ekki þessi 700 metra hái hnúkur heldur hinn sem liggur í 724 metra hæð og er hæstur allra á þessum slóðum.[6] Milli þessara tveggja hnúka eru tæplega tveir kílómetrar og liggur sá lægri austar og aðeins sunnar.

Kristín Jónsdóttir á Gemlufalli ritaði um 1930, að sögn Ara Gíslasonar, dálítinn pistil um örnefni og eru þau skrif nú varðveitt hjá Örnefnastofnun. Þar segir að grjóthóll mikill undir Hrútahjalla sé nefndur Gemla[7] en hjalli þessi sem er stór og mikill blasir við til hægri handar þegar farið er norður yfir Gemlufallsheiði og nær frá hreppamörkum eða því sem næst og suður að Fjalldal[8] en það er þverdalur sem gengur til austurs frá Gemlufallsdal um það bil þremur kílómetrum fyrir norðan bæinn á Gemlufalli. Í Vestfirskum sögnum er þessu sami hóll undir Hrútahjalla nefndur Gimluhóll og sagt að þar hafi tröllkonan Gimla eða Gemla verið heygð en af nafni hennar sé dregið bæjarnafnið Gemlufall.[9] Ætla má að nýnefndur hóll hafi ýmist verið kallaður Gemla, Gimluhóll eða Gemluhóll. Sé gert ráð fyrir að hóllinn hafi yfirleitt verið nefndur Gemluhóll (eða Gimluhóll) má vel hugsa sér að annað fyrirbæri í fjalllendinu austan við Gemlufallsdal hafi á fyrri tíð borið nafnið Gemla. Til þess að svo hafi verið bendir ein heimild sem telja verður bærilega marktæka og nú verður frá greint.

Næsti bær fyrir innan Gemlufall er Gil og er aðeins hálfur annar kílómetri á milli bæjanna. Oddur Jónsson sem nú hefur lengi búið á Gili og er fæddur árið 1927 heyrði snemma frá því sagt að Gemla væri fjallshornið milli Gemlufallshvilftar og Litladals eða nánar til tekið sú brún þess sem snýr að Gemlufallsdal og er ekki ólík tönn þegar á hana er horft neðan frá Mýramel.[10] Hugmynd sína um þetta hefur Oddur að eigin sögn frá Kristjáni Jakobssyni, sem fæddur var alllöngu fyrir aldamótin 1900 og ólst upp á Gili að nokkru leyti, en vitneskju sína um Gemlu segir Oddur að Kristján hafi haft frá Jóni Pálssyni er hóf búskap á Gili árið 1898[11] (sjá hér Neðri-Hjarðardalur).

Í Sóknalýsingu séra Jóns Sigurðssonar frá árinu 1840 segir líka að Gemlafallsá renni spölkorn fyrir utan Gemlu eða Gemlufall[12] sem gæti bent til þess að fjallið sem Kristján Jakobsson kallaði Gemlu hafi einnig borið það nafn á fyrrihluta nítjándu aldar. Vera má að þetta klettahorn sem líkist tönn þegar á það er horft neðan frá Mýramel hafi um langan aldur verið nefnt Gemla því ein af fleiri merkingum orðsins er einmitt gömul tönn. Vilji menn hins vegar gera ráð fyrir að bæjarnafnið Gemlufall eigi rætur að rekja til þessarar Gemlu verða skýringar dálítið langsóttar. Sú hugmynd að nafnið Gemlufall sé dregið af orðinu gemlir, sem merkir fálki eða örn, er ekki heldur mjög sannfærandi því nafn bæjarins hefði þá átt að vera Gemlisfall. Ýmsar fleiri kenningar hafa verið settar fram til skýringar á hinu sérstæða bæjarnafni[13] en líklegt virðist að í þeirri viðleitni hafi margur leitað langt yfir skammt. Í fornu máli hafði orðið gemla merkinguna veturgömul kind[14] og orðið gemlingur þekkjum við enn í þeirri merkingu. Í Málsháttakvæði sem talið er að ort hafi verið í Orkneyjum á 13. öld[15] segir svo í 18. vísu:

 

Efnum þykkir best að búa,

                  brögðótt reyndisk gemlu fúa.[16]

 

Fúan sem þarna er nefnd og sögð er hafa beitt gemlu brögðum er að sjálfsögðu sú gamla lágfóta sem hefur fjölda nafna í norrænu máli og var hér m.a. nefnd fóa en í Orkneyjum fúa.[17] Nafnið á Gemlufalli virðist hvað sem öðru líður nærtækast að skýra svo að hér hafi ungri kind verið slátrað í árdaga en einnig er hugsanlegt að bæjarnafnið eigi rætur að rekja til gemlings sem fór sér að voða eða varð afvelta á þessum stað í tíð þeirra manna sem fyrstir reistu bú í Dýrafirði. Mjög líklegt má reyndar telja að bæjarnafnið Gemlufall sé eldra en nöfnin á Gemlu og Gemluhól sem hér var frá sagt en ætla má að þessi nöfn á fjallinu og hólnum hafi orðið til í hugarheimi fólks sem var að leita skýringar á hinu dularfulla bæjarnafni.

Ein er sú skýring á bæjarnafninu Gemlufalli sem flestum mun nú þykja fráleit en er samt sem áður dálítið skemmtileg. Hún er skráð í Vestfirskum sögnum og hljóðar svo:

 

Forn munnmæli herma að bærinn Gemlufall dragi nafn af tröllkonu er Gemla eða Gimla hét. Hún átti byggð í fjallgarðinum milli Önundarfjarðar og Dýrafjarðar og leitaði fanga og lét greipar sópa til beggja handa eftir því sem henni þótti ríflegast og hægast.

Þegar byggð var numin í báðum fjörðum þótti byggðarmönnum vágestur mikill í tiltekjum kerlingar og réðu liðssafnað til þess að veita henni aðsókn. Lengi fengu þeir ekkert fang á Gemlu kerlu en loks tókst bændum að ná henni í hlíðinni, nokkru innar en bærinn á Gemlufalli stendur nú. Þá var hlíðin inn frá Gemlufalli öll skógi vaxin. Settu bændur fyrirsát í skóginum en það varaðist Gemla ekki og var því ofurliði borin. Veittu bændur snarpa atgöngu að Gemlu en hún varðist af mestu hreysti og hugprýði. Sannaðist þar sem oftar að enginn má við margnum og lét Gemla þar líf sitt. Heitir bærinn siðan Gemlufall en Gemla er heygð í Gemluhól.[18]

 

Elstu heimildir um byggð á Gemlufalli er að finna í Gísla sögu Súrssonar sem talið er að hafi verið rituð um miðja 13. öld en segir frá atburðum á síðari hluta 10. aldar. Nú falla vötn öll til Dýrafjarðar og mun ég þangað ríða, sagði Vésteinn Vésteinsson er sendimenn Gísla náðu honum á Gemlufallsheiði, sýndu jarteiknir og báru þau boð að hann skyldi aftur snúa.[19] Sú örlagaríka ákvörðun sem í svarinu fólst fékk orðunum vængi. Svo víðfleyg urðu þau að flestir munu enn við þau kannast. Á þeim um það bil 750 árum sem nú eru liðin frá því Gísla saga var rituð hefur margur ferðalangur hugað að vatnaskilum á Gemlufallsheiði þó hinn sami léti slíkt ógert á öðrum fjallvegum.

Á Gemlufalli bjó Lúta, frændkona Vésteins (í sumum handritum sögunnar nefnd Luka), og er hann kom af heiðinni lét hún þegar flytja hann yfir fjörðinn því flýta vildi hann för sinni.[20]Vertu var um þig, þurfa muntu þess, sagði konan sem ferjunni réð á Gemlufalli. Máske var nafn henna Lukka en slík var ástríða Vésteins að engin varnaðarorð gátu forðað honum frá beiskum aldurtila sem beið hans í Haukadal. Við víg Vésteins réðust örlög Gísla og þess vegna hljómar dýpsti strengur harmsögunnar úr Haukadal og Geirþjófsfirði ár og síð í þessum einföldu orðum: Nú falla vötn öll til Dýrafjarðar.

Í fornritum, öðrum en Gísla sögu, er hvergi minnst á Gemlufall og í skjallegum heimildum sem varðveist hafa er jarðarinnar fyrst getið árið 1538 er Ari Jónsson lögmaður selur hana manni sem Þorsteinn Torfason hét.[21]

Að fornu mati var Gemlufall talið 24 hundruð að dýrleika eins og sjá má í kaupbréfinu frá 1538 sem hér var áður nefnt.[22]

Á 18. öld og fyrsta þriðjungi 19. aldar var oftast tvíbýli á Gemlufalli[23] og var innri bærinn nefndur Gemlufallshús.[24] Árið 1710 bjuggu tveir bændur á Gemlufalli og höfðu 12 hundruð til ábúðar hvor.[25] Í innri bænum, það er Gemlufallshúsum, bjó þá Ólafur Oddsson og átti hann liðlega þriðjung í hálflendunni.[26] Aðrir eigendur jarðarinnar voru búsettir í Arnarfirði og Tálknafirði. Í þeim hópi voru börn Þórðar heitins Jónssonar í Laugardal[27] en Þórður þessi er talinn hafa verið lögréttumaður um skeið og bjó í Stóra-Laugardal í Tálknafirði.[28] Hann keypti fjögur og hálft hundrað í Gemlufalli fáum árum fyrr og er því kaupbréfi var þinglýst á Alþingi árið 1707 er jörðin ekki nefnd Gemlufall heldur bara Gemla í Dýrafirði.[29] Í Sóknalýsingu séra Jóns Sigurðssonar á Gerðhömrum frá árinu 1840 er bærinn líka nefndur báðum þessum nöfnum, Gemla eða Gemlufall.[30]

Í Jarðabókinni frá 1710 er þess getið að skriða hafi valdið miklum spjöllum á Gemlufallstúni og eyðilagt með öllu fullan þriðjung af túni annarrar hálflendunnar.[31] Ekki sést í Jarðabókinni hvaða ár skriða þessi féll en Árni Magnússon tekur fram að skriðuföll hafi valdið því að annar bærinn á Gemlufalli var fluttur og byggður upp á eyðiholti utangarðs.[32] Um þennan nýja bæ á holtinu segir Árni að hann sé nú kallaður Gemlufallshús og hafi það nafn verið tekið upp þegar bærinn var fluttur.[33]

Árið 1834 féll mikið snjóflóð með stórgrýti úr bæjargilinu yfir þriðjung túnsins í Gemlufallshúsum og tók með sér fjárhús og hey.[34] Eftir það áfall mun búskap hafa verið hætt á Gemlufallshúsum því næstu ár er aðeins einn ábúandi á Gemlufalli.[35] Á síðari hluta 19. aldar var þó oftast tvíbýli á Gemlufalli.[36]

Allt fram yfir 1880 mun Gemlufallsbærinn hafa staðið neðarlega á Bæjarhrygg en hryggur sá er myndaður af framburði úr Bæjargili sem oft er nefnt Gemlufallsgil.[37] Skömmu eftir 1880 fór hlaup úr gilinu svo nærri bæjarhúsum að óhjákvæmilegt var talið að yfirgefa hið forna bæjarstæði.[38] Tveir nýir bæir voru þá byggðir utar og fjær gilinu og við þá festust heitin Efri bær og Neðri bær.[39] Í einni heimild segir reyndar að neðri bærinn hafi verið byggður eitthvað fyrr.[40] Vel má það rétt vera en aldrei þó fyrr en eftir 1850, því á árunum 1835-1850 var sem áður sagði einn bóndi með alla jörðina.

Nokkrir skaðar af skriðuföllum munu líka hafa orðið á engjum og úthögum Gemlufalls á fyrri tíð.[41] Sumarbeit var þó talin góð í landareigninni um miðbik nítjándu aldar, einkum á Gemlufallsdal.[42] Góð hrognkelsaveiði fyrir landi var þá líka talin til hlunninda.[43] Í Jarðabókinni frá 1710 er getið um heimræði frá Gemlufalli um sumur en jafnframt talið fram að lítið hafi verið um afla mörg undanfarin ár.[44] Á síðari hluta 19. aldar var líka skotist á sjó frá Gemlufalli þegar henta þótti að sumrinu. Sem dæmi má nefna að 17. ágúst 1873 var róið með lóðir og færi. Formaður var Magnús Sigurðsson, bóndi á Gemlufalli, en sex voru í áhöfninni. Um sólaruppkomu þann 19. ágúst komu þeir að landi og höfðu fengið 13 skötur, 14 lóur, 50 þorska í salt og 8 í hlut af smáfiski.[45]

Engum sögum fer af bændum á Gemlufalli fyrir 1700 en Gísli gamli Konráðsson, sem dó um nírætt í Flatey á Breiðafirði árið 1877, festi ýmislegt á blað um feðga sem hann segir hafa búið hér á 18. öld. Sá eldri þeirra hét að sögn Gísla Sigmundur Sæmundsson en sá yngri Sæmundur Sigmundsson.[46] Manntöl eru fá í boði frá 18. öld og í þeim sem til eru verður ekki séð að þessir feðgar hafi búið á Gemlufalli. Gísli var lítt kunnugur í Dýrafirði og líklegt að eitthvað hafi brenglast í frásögn hans. Feðgar með þessum nöfnum bjuggu hins vegar í Hrauni í Keldudal á 18. öld (sjá hér Hraun í Keldudal) og virðist Sæmundur hafa verið sá eldri þeirra. Hann átti Gemlufall árið 1762, enda þótt hann byggi þá í Hrauni og ætti líka part í þeirri jörð.[47] Varðveitt sóknarmannatöl frá árunum 1785-1800 sýna líka að Sæunn, dóttir Sæmundar, og Jón Jónsson, eiginmaður hennar, bjuggu þá á Gemlufalli[48] en Gísli nefnir þessi hjón og segir þau líka hafa búið hér.

Í sögu Gísla um feðgana Sigmund og Sæmund á Gemlufalli er m.a. þessi frásögn:

 

Það er í sögnum að hjátrúarmenn væru þeir feðgar Sigmundur og Sæmundur allmiklir og svo Jón maður Sæunnar og er til þessi munnmælasögn eftir greindu fólki og gömlu að þeir mágar Sæmundur og Jón áttu hund mórauðan er Móri var kallaður, smalahund hinn besta, dýrtækan. Þótti þeim gersemi í hundinum því engan smala þurfti við  ásauð á sumrum á Gemlufalli nema hund þennan. Sagt hefir og verið að Sigmundur gæfi syni sínum í fyrstu hvolp þennan og kallaði hann mundi að nytjum verða. Kom þá svo að það þótti reynast. Hafa og ærnar hégiljur og hjátrú viðhaldist þar vestra fram yfir miðja 19. öld að því er sannorðir menn frá segja. Varð það síðar er Móri reyndist þeim mágum ærið gagnsamur að sá siður var upp tekinn að gefa honum stekkjarlamb á voru hverju. Heppnuðust þau vel og voru alin upp fyrir hann á vetrum. Fjölgaði þá brátt því allt átti Móri það út af þeim kom. Kom þá svo að Móri átti bú sér. Og svo var mikið eftirlæti á Móra að ef hvolpur var gotinn þar menn ætluðu Móra viðriðinn var hangikjöt soðið og veisla gjör heimamönnum. Og þá þeir mágar voru efnamenn leituðu þeirra oft hinir fátækari um nauðsynjar einar og aðrar. Var það þá oft viðkvæði þeirra ef þeir þóttust ei viðkomnir að geta það: „En máske hann Móri geti það!” og var þá stundum að þeir hjálpuðu af búi Móra. Og svo feikilega er sögð saga þessi að talið er að jörð væri keypt fyrir auð Móra.[49]

 

Þannig færði Gísli söguna í letur úti í Flatey og má ætla að einhver sem kunnugri var í Dýrafirði hafi sagt honum hana. Líklegt sýnist að sá hinn sami hafi verið dálítið gefinn fyrir ýkjur en vel má þó vera að á Gemlufalli hafi góðum smalahundi verið eignuð lömb og máske nokkuð mörg ef vel þótti lánast. Kjarni sögunnar bendir til þess að þeim Sæmundi í Hrauni og Jóni tengdasyni hans á Gemlufalli hafi búnast vel og vera má að hin kátlega hugmynd um jarðakaup fyrir auð Móra hafi fyrst orðið til í hugum öfundarmanna.

Eitthvað voru þeir Sæmundur Sigmundsson og Jón tengdasonur hans á Gemlufalli líka kenndir við galdra ef marka má frásagnir Gísla Konáðssonar.[50] Guðrún Sigmundsdóttir frá Hrauni í Keldudal giftist um 1780 Eggerti Ólafssyni, bónda í Sauðeyjum á Breiðafirði, en hann reisti fyrstur manna á síðari öldum bú í Hergilsey og fluttist þangað með sínu skylduliði árið 1783. Eggert var þríkvæntur og var Guðrún Sigmundsdóttir miðkona hans. Gísli Konráðsson segir Guðrúnu hafa verið systur Sæmundar Sigmundssonar[51] og vera má að hún hafi átt bróður með því nafni og hefur hann þá verið alnafni afa þeirra, Sæmundar í Hrauni.

Þennan yngri Sæmund Sigmundsson er þó hvergi að finna í sóknarmannatölum Dýrafjarðarþinga frá árunum 1785-1800.[52] Engin sóknarmannatöl hafa varðveist úr Sandaprestakalli frá þessu skeiði en í prestsþjónustubókinni frá Söndum er nafn þessa Sæmundar hvergi að finna á árunum 1785-1800 og ekki er nafn hans í manntalinu frá 1801.[53] Mjög mikið vafamál verður því að telja hvort þessi meinti bróðir Guðrúnar Sigmundsdóttur frá Hrauni hafi yfirleitt verið til og harla ólíklegt að hann hafi átt nokkurn hlut að deilum Dýrfirðinga við Eggert í Hergilsey út af arfinum eftir Guðrúnu sem andaðist árið 1790. Sæmundur Sigmundsson, bóndi í Hrauni í Keldudal, sem ætla má að hafi verið afi Guðrínar Sigmundsdóttur í Hergilsey (sjá hér Hraun), mun ekki heldur hafa átt hlut að deilum um arf eftir hana því hann er sagður 67 ára gamall í manntalinu 1762[54] og hefur því verið um 95 ára aldur þegar Guðrún andaðist ef hann kynni að hafa verið enn á lífi. Eitthvert brengl hefur  því orðið hjá Gísla okkar Konráðssyni er hann sat við skriftirnar úti í Flatey, enda var hann lítt kunnugur  mönnum og málefnum í Dýrafirði. Á sóknarmannatali frá árinu 1789 má sjá að Guðrún er þá húsfreyja í Hergilsey, sögð 42ja ára gömul, en hún mun hafa andast 30. október 1790.[55] Ekki varð þeim Guðrúnu og Eggerti barna auðið nema eins sonar sem dó fárra vikna gamall.[56]

Áður en Guðrún Sigmundsdóttir kvaddi lífið hafði Eggert maður hennar gengið þannig frá málum að hann og börn hans af fyrsta hjónabandi sætu ein að öllum eignum sem kona þessi úr Dýrafirði hafði fært í bú með sér fáum árum fyrr.[57] Sú er frásögn Gísla Konráðssonar og fylgir það sögu hans að vegna þessa hafi ættmenn Guðrúnar í Dýrafirði lagt hatur á bóndann í Hergilsey og reynt að fyrirkoma honum með göldrum.[58]Eru mest fyrir því taldir Sæmundur á Gemlufalli og Jón mágur hans, segir Gísli og lætur þess jafnframt getið að margar sögur hafi verið á kreiki um áleikni þeirra við Eggert, enda hafi Dýrfirðingar þessir verið taldir fjölkunnugir.[59]

Margrét Guðmundsdóttir, fædd um 1725, sem verið hafði eiginkona Sæmundar í Hrauni, átti löngum heima hjá Sæunni dóttur þeirra, og manni hennar, Jóni Jónssyni á Gemlufalli, á árunum 1785-1800 en þar er Sæmundar aldrei getið á því skeiði.[60] Hitt er ljóst að hafi einhverjir ættingjar Guðrúnar í Hergilsey talið sig missa spón úr aski sínum er erfðaskráin var lögð fram, að henni látinni, þá er vart öðrum til að dreifa en niðjum Sæmundar í Hrauni og þeirra fólki. Af börnum hans nefnir Gísli bara tvær dætur[61] og líklega hafa þær verið einu börn Sæmundar á lífi þegar Guðrún í Hergilsey andaðist árið 1790 (sjá hér Hraun). Þessar systur voru Sæunn á Gemlufalli, sem var gift Jóni Jónssyni, og Guðbjörg sem gift var Guðmundi Arasyni, bónda á Auðkúlu í Arnarfirði.[62]

Sögur Gísla um tilraunir Dýrfirðinga til að ná sér niðri á Eggerti í Hergilsey út af erfðamálunum hljóta því að beinast fyrst og fremst að Jóni á Gemlufalli sem Gísli reyndar nefnir sjálfur til þeirrar sögu.

Svo kröftugar voru sendingarnar frá Gemlufalli á hendur bóndanum í Hergilsey að hann taldi að sögn nauðsynlegt að ráða sérstakan galdramann í sína þjónustu til að halda uppi vörnum.[63] Á það að hafa verið Jón skóli sem af mörgum var talinn helsti galdramaður í Barðastrandarsýslu á síðari hluta 18. aldar. Dag einn var Eggert á heimleið frá Stykkishólmi og var Jón skóli einn háseta hans í þeirri ferð. Frá Stykkishólmi lögðu þeir af stað í logni en á leiðinni brast á þvílíkt fárviðri að flestir töldu fullvíst að um gerningar væri að ræða, enda fylgdu eldglæringar veðri þessu.[64] Eftir mikinn barning náðu þeir Eggert þó landi í Flatey og lét hann bera þar farm af skipinu en tók síðan sjálfur til við að ausa það.[65]Þetta mun auður Dýrfirðinga, sagði Jón skóli er hann leit á austurinn en það sáu aðrir hásetar að ormur skreið eftir kjölsoginu og sýndist þeim hverfa skyndilega er Jón hrakyrti hann.[66] Sögu sinni lýkur Gísli með þeim orðum að veður þetta hafi menn eignað Dýrfirðingum.

Jón Jónsson á Gemlufalli, sem Gísli Konráðsson segir hafa verið göldróttan, var frá Stapadal í Arnarfirði.[67] Vera má að það eitt hafi nægt til þess að hann fengi á sig galdraorð því Arnfirðingar voru jafnan taldir kunna nokkuð fyrir sér. Þegar manntal var tekið 1. febrúar 1801 bjuggu Jón og Sæunn Sæmundsdóttir kona hans á Gemlufalli. Hann er þá sagður vera 49 ára gamall en hún 41 árs.[68] Börn þeirra sex voru þá þar heima.[69]

Margt fleira mætti segja frá bændum á Gemlufalli á fyrri tíð en hér verður þó staðar numið. Aðeins skal þess getið að ýmsir þeirra sem þar bjuggu á 18. og 19. öld voru sjálfseignarbændur eða áttu a.m.k. part í jörðinni. Áður var nefndur Ólafur Oddsson sem bjó á Gemlufallshúsum árið 1710 og átti röskan þriðjung af þeirri hálflendu (sjá hér bls. 4). Jost Jónsson sem bændatal frá árinu 1735 sýnir að þá var annar tveggja bænda á Gemlufalli[70] átti líka eitthvað í jörðinni, a.m.k. þau þrjú jarðarhundruð sem skjalfest er að hann keypti 17. apríl 1732, enda þótt kaupsamningnum væri ekki þinglýst fyrr en 19 árum síðar.[71] Hér hefur líka verið nefnt að Sæmundur Sigmundsson átti Gemlufall árið 1762 og því er mjög líklegt að tengdasonur hans, Jón Jónsson frá Stapadal, sem var annar tveggja bænda á Gemlufalli á árunum kringum 1800 hafi líka verið sjálfseignarbóndi.

Ætla má að við andlát Sæmundar Sigmundssonar og eiginkonu hans hafa dætur þeirra tvær sem hér voru áður nefndar erft Gemlufall en þær voru að sögn einu börn þessara hjóna. Önnur þessara dætra var Sæunn, eiginkona Jóns bónda á Gemlufalli sem hér var frá sagt. Skjal frá árinu 1840 bendir líka eindregið til þess að hin systirin, Guðbjörg Sæmundsdóttir húsfreyja á Auðkúlu í Arnarfirði, hafi erft aðra hálflenduna á Gemlufalli því skjalið sýnir að tengdasonur hennar, séra Jón Ásgeirsson á Álftamýri, átti þann jarðarpart síðar.[72] Séra Jón seldi þennan jarðarpart, 12 hundruð að fornu mati, 3. nóvember 1840 og í kaupsamningnum sem þá var gerður er tekið sérstaklega fram að prestur selji þessi 12 hundruð í jörðinni Gemlufalli með vitund og samþykki konu sinnar,[73] Guðrúnar Guðmundsdóttur frá Auðkúlu. Þau orð benda líka til þess að hálflendan á Gemlufalli hafi verið erfðagóss prestsfrúarinnar sem var dóttir Guðbjargar Sæmundsdóttur frá Gemlufalli.

Séra Jón Ásgeirsson seldi hálflenduna á Gemlufalli fyrir 144 spesíur (það er 288 ríkisdali) en í þeim kaupum fylgdu með sex leiguær og 12 pör sokka í landskuld og einnig forsvaranleg bæjar- og útihús.[74]

Sá sem keypti hálft Gemlufall af sér Jóni á Álftamýri haustið 1840 var Ólafur Ólafsson, þáverandi bóndi á jörðinni og greiddi hann kaupverðið út í hönd.[75] Líklegt er að Ólafur hafi verið tengdasonur hjónanna Jóns Jónssonar og Sæunnar Sigmundsdóttur, sem áður bjuggu á Gemlufalli,[76] og vera má að kona hans, Guðrún Jónsdóttir, hafi erft hina hálflenduna að einhverju eða öllu leyti. Fullvíst er að þau Ólafur og Guðrún kona hans bjuggu ein á allri jörðinni árið 1845[77] og þá var jörðin í sjálfsábúð.[78]

Um feðgana Jón Gíslason og Gísla skipherra, son hans, sem báðir bjuggu á Gemlufalli um skeið upp úr 1850, verður ekki fjallað hér fyrr en við komum að Lækjarósi en þar áttu þeir mun lengur heima. Aðeins skal þess getið að þegar Gísli drukknaði vorið 1854 átti hann heima á Gemlufalli og hafði búið hér í fáein ár (sjá hér Lækjarós). Tæpum aldarfjórðungu síðar, þann 17. apríl 1878, drukknaði Magnús Sigurðsson bóndi á Gemlufalli á heimleið frá Þingeyri.[79]

Bærinn Gemlufall stendur beint á móti hinum forna verslunarstað Þingeyri og aðeins tveir kílómetrar úr Gemlufallslendingu yfir í Þingeyrarodda. Leiðin á landi fyrir fjarðarbotninn er hins vegar rösklega 30 kílómetrar og gat því vart hjá því farið að Gemlufall yrði ferjustaður. Í Sóknalýsingu séra Jóns Sigurðssonar á Gerðhömrum frá árinu 1840 er getið um ferju á Gemlufalli[80] og ætla má að bændur hér hafi séð um flutning á fólki yfir Dýrafjörð allar götur síðan Lúta sem frá er sagt í Gísla sögu Súrssonar lét flytja Véstein Vésteinsson yfir á Þingeyri (sjá hér bls. 4). Þessarar þjónustu hafa einkum notið langferðamenn sem komu norðan yfir Gemlufallsheiði. Vegna nálægðar við heiðina og kaupstaðinn handan fjarðar var Gemlufall löngum í þjóðbraut.

Hér er á öðrum stað minnst á skólann sem byggður var árið 1910 á Lambahlaði sem er niður við sjó skammt fyrir innan túnið á Gemlufalli. Þar var barnafræðslu haldið uppi frá 1910-1947 (sjá Firðir og fólk 1900-1999,230). Í skólahúsinu á Lambahlaði var fyrsta vöruafgreiðsla Kaupfélags Dýrfirðinga sem þá hét reyndar Kaupfélag Mýrahrepps. Félagið var stofnað 8. júní 1919 og á því ári var pöntunarvörum félagsins skipað á land í víkinni utan við Lambahlað. Þaðan voru vörurnar fluttar til geymslu upp á loftið í skólahúsinu og þar voru þær afgreiddar til félagsmanna.[81] Það var Jóhannes Davíðsson í Neðri-Hjarðardal sem sá um vöruafgreiðslu á skólaloftinu en vorið 1920 hóf félagið verslunarrekstur á Þingeyri.[82]

Frá Gemlufalli er för okkar heitið lengra út með fjarðarströndinni en ekki norður yfir heiði. Bæjarleiðin að Lækjarósi er þó svo stutt að við gefum okkur tíma til að rölta fram á dalinn og skyggnast þar dálítið um. Þá ferð hefjum við niður við bryggjuna sem hér er nú en rétt hjá henni mun lending og heimavör Gemlufalls bænda jafnan hafa verið.[83] Lítið eitt utar fellur Gemlufallsá til sjávar og ber með sér öll vötn sem til Dýrafjarðar falla ofan af heiðinni. Í fjörunni rétt innan við árósinn er stór steinn sem heitir Baggi.[84] Stundum náði fjörumóðurinn fram á Bagga og sögðu gamlir menn að þá mætti búast við hörðum vetri.[85] En þegar steinninn losnaði úr greipum íss og snjóa var talið að vorhret væru úti.[86] Þannig var Baggi nýttur til spádóma um tíðarfarið.

Vað var á ánni hér niður við sjó og annað sem Guðlaugsvað heitir fram á dalnum.[87] Úr fjörunni hjá Bagga og frá vaðinu yfir árósinn tökum við strikið fram á dal, að Guðlaugsvaði. Það er hálftíma gangur eða því sem næst. Fyrir bílaöld lágu alfaraleiðir fram dalinn beggja megin ár og mættust við Guðlaugsvað. Þar koma vegir saman frá Gemlufalli og Mýrum, segir í sóknalýsingunni frá 1840.[88] Nú (1993) liggur þjóðbrautin yfir ána rétt fyrir neðan þetta gamla vað.[89]

Á leið okkar fram dalinn skulum við staldra við nálægt brúnni yfir Gemlufallsá og líta í austurátt. Hvilftin sem við blasir, ef horft er lítið eitt til baka, heitir Gemlufallshvilft[90] og klettahornið norðan við hana nefna margir kunnugir Gemlu (sjá hér bls. 2). Norðan við Gemlu er Fjalldalur sem gengur til austurs inn í hálendið norðan við Dýrafjörð.[91] Þegar austar dregur og landið hækkar skiptist Fjalldalur í tvo dali, Litladal, sem að mestu er í landi Gemlufalls, og Háadal sem liggur norðar og er í landi Mýra.[92] Fjallið sem blasir við frá þjóðveginum og er norðan við Litladal heitir Litladalshorn.[93] Þessu fjalli, sem reyndar er í landi Mýra, svipar nokkuð til Gemlu er fyrr var nefnd en Litlidalur liggur á milli þeirra.

Frá brúnni sem liggur yfir Gemlufallsá hér fram á dalnum eru um það bil 500 metrar fram að ármótunum þar sem Litladalsá sameinast Gemlufallsá en hið forna Guðlaugsvað er rétt fyrir framan brúna eins og áður var nefnt. Í örnefnaskrá er frá því greint að selið frá Gemlufalli hafi verið rétt við Gemlufallsána fram undir Litladalsánni og tekið fram að þar sjáist enn til tótta.[94]

Þessar seltóttir mega kallast stæðilegar. Tvær þær stærstu eru sambyggðar og er önnur þeirra 7 x 2 metrar að flatarmáli eða því sem næst en hin 4,5 x 2,5 metrar. Hugsanlegt er að lengri tóttin hafi verið kví. Alveg við hana má greina rústir af lítilli kytru og skammt frá en enn nær Litladalsánni er líka tótt af enn einu selhúsi. Gólfflötur þess virðist hafa verið 2,5 x 2 metrar eða því sem næst. Rétt hjá hinum tóttunum er svo a.m.k. ein eldri tótt, 3 x 2 metrar eða þar um bil að flatarmáli. Allar þessar seltóttir eru nyrst í landi Gemlufalls, við ármót Litladalsár og Gemlufallsár. Nærri lætur að vegalengdin frá bænum og fram að selinu sé 2,3 kílómetrar. Norðan við Litladalsá og örskammt frá Gemlufallsseli er svo Mýrasel sem sagt er frá á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Mýrar). Á fyrri hluta 19. aldar var búsmali frá Gemlufalli nytkaður hér í selinu á hverju sumri, a.m.k. fram til ársins 1840[95] og ef til vill nokkru lengur.

Eins og áður var getið skiptir Litladalsá löndum milli Gemlufalls og Mýra svo fremsti hluti dalsins er allur í landareign síðarnefndu jarðarinnar og einnig heiðin vestan hreppamarka. Norðan við Litladal er Litladalshorn og handan þess Fjalldalur en ofar í fjallinu Háidalur.[96] Þangað var farið til grasa.[97]

Gemlufallsheiði er mun lægri en flestir aðrir fjallvegir á Vestfjörðum, 283 metrar yfir sjávarmáli þar sem hæst er. Vegalengdin milli bæja frá Gemlufalli að Kirkjubóli í Bjarnardal í Önundarfirði er um 10 kílómetrar. Akfært varð yfir heiðina haustið 1932[98] en á fyrri tíð lá þar vel ruddur og að mestu sléttur reiðvegur eins og komist er að orði í Sóknalýsingunni frá 1840.[99] Heiðin var auðveldari en nokkur önnur sem ég hef farið um á Íslandi, segir breski biblíuvinurinn Ebenezer Henderson sem reið yfir Gemlufallsheiði 12. júní 1815.[100] Talsverður gróður er þarna á háheiðinni og þar eru hreppamörk við Folaldahvilftargil sem er rétt norðan við vatnaskilin.

Við flýtum nú för okkar til baka heim Gemlufallsdal sem áður var stundum nefndum öðru nafni og kallaður Mýradalur[101] því Mýrar eiga hér meira land en nokkur önnur jörð. Fjöllin sitt hvoru megin við neðri hluta dalsins heita líka Gemlufallsfjall og Mýrafjall.[102] Klettabrún Mýrafjalls, sem er liðlega 500 metra hátt, setur svip á dalinn. Þegar upp er komið breytir fjall þetta um nafn og heitir þá Flatafjall[103] enda mun vera lítið um mishæðir þar uppi. Könnun á fjallinu látum við þó bíða um sinn en stefnum að Lækjarósi, bænum á fjarðarströndinni, rétt utan við mynni Gemlufallsdals.

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

 

 

[1] Örnefnaskrá.

[2] Valdimar Gíslason/K.Ó. 30.6.1992.

[3] Örn.skrá.

[4] Sama heimild.

[5] Sama heimild.

[6] Jóh. Dav./Örnefnaskrá.

[7] Kristín Jónsdóttir frá Gemlufalli/Örn.skrá.

[8] Valdimar Gíslason/Viðtal K.Ó. við hann 19.7.1995.

[9] Vestf. sagnir III, 122 og 124.

[10] Oddur Jónsson í samtali við Valdimar Gíslason sumarið 1995. Minnisblað V.G. sent K.Ó. 20.7.1995.

[11] Sama heimild.

[12] Sóknalýsingar Vestfj. II, 70.

[13] Örn.skrá; Vestf. sagnir III, 122 og 124.

[14] Íslensk orðsifjabók, bls. 239; Lexicon poeticum, bls. 179.

[15] Kulturhistorisk Leksikon for nordisk Middelalder XI, 300-302.

[16] Finnur Jónsson /Skjaldedigtning B, II. bindi, 1915, bls. 142.

[17] Lexicon poeticum, bls. 159.

[18] Vestf. sagnir III, 124.

[19] Ísl. fornrit VI, 40.

[20] Sama heimild, 40-41.

[21] D.I. X, 367.

[22] Sama heimild. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 64.

[23] Manntöl 1703, 1762 og 1801. Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[24] Jarðab. Á. og P. VII 64-66. Sóknalýs. Vestfj. II, 69.

[25] Jarðab. Á. og P. VII, 64-66.

[26] Sama heimild.

[27] Sama heimild.

[28] Lögr.m.tal IV, 541.

[29] Alþ.bækur Íslands IX, 461.

[30] Sóknalýs. Vestfj. II, 70.

[31] Jarðab. Á. og P. VII, 64-66.

[32] Sama heimild.

[33] Sama heimild.

[34] Sóknalýs. Vestfj. II, 69.

[35] Manntöl 2.2.1835, 2.11.1840 og 2.11.1845 og 1.10.1850.

[36] Manntal 1855. Sóknarm.töl Dýrfj.þinga 1870-1900.

[37] Örn.skrá. Jóh. Dav. 1968, 47 (Ársrit S.Í.)

[38] Sömu heimildir.

[39] Örn.skrá.

[40] Jóh. Dav. 1968, 47.

[41] Jarðab. Á. og P. VII, 65. Sóknalýs. Vestfj. II, 69.

[42] Sóknalýs. Vestfj. II, 69.

[43] Sama heimild.

[44] Jarðab. Á. og P. VII, 66.

[45] Lbs. 2374 4to, Dagbók  S.Gr.B. 17.8.-19.8.1873.

[46] Gísli Konr. 1980, 45-55 (Syrpa II).

[47] Manntal 1762.

[48] Sóknarmannatöl Dýrafj.þinga 1785-1800.

[49] Gísli Konr. 1980, 45-55 (Syrpa II).

[50] Sama heimild, 47-55.

[51] Sama heimild bls. 44.

[52] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[53] Prestsþj.bækur og sóknarm.töl Sanda. Manntal 1801 og nafnalykill þess.

[54] Manntal 1762.

[55] Játv. J. Júl. 1979, 80 og 90.

[56] Sama heimild, 57-58.

[57] Gísli Konr. 1980,  47-48 (Syrpa II).

[58] Sama heimild.

[59] Sama heimild.

[60] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[61] Gísli Konr. 1980,  44 (Syrpa II).

[62] Sama heimild.

[63] Sama heimild, 47-48.

[64] Gísli Konr. 1980  47-48 (Syrpa II).

[65] Gísli Konr. 1980, 47-48.

[66] Sama heimild.

[67] Sama heimild, 44.

[68] Manntal 1801.

[69] Sama heimild.

[70] Bændatal og skuldaskrá úr Ísafjarðarsýslu frá árinu 1735.

[71] Alþ.bækur Íslands XIV, 36.

[72] Hsk. á Ísafirði nr. 207. Kaupsamningur dags. á Álftamýri 3. nóv. 1840.

[73] Sama heimild.

[74] Hsk. á Ísafirði nr. 207. Kaupsamningur dags. á Álftamýri 3. nóv. 1840.

[75] Sama heimild.

[76] Manntal 1845, Vesturamt, 270, – sbr. Manntal 1801, Vesturamt, 279.

[77] Manntal 1845.

[78] J. Johnsen 1847, 193.

[79] Lbs. 23744to, Dagbók S.Gr.B. 17.4.1878.

[80] Sóknalýs. Vestfj. II, 69.

[81] Kaupfélag Dýrfirðinga 1919-1979, 25-29. Örn.skrá.

[82] Sömu heimildir.

[83] Valdimar Gíslason/Viðtal K.Ó. við hann 30.6.1992.

[84] Örn.skrá.

[85] Örn.skrá.

[86] Sama heimild.

[87] Sóknalýs. Vestfj. II, 70.

[88] Sama heimild.

[89] Gísli Vagnsson 1973, 151.

[90] Valdimar Gíslason/Viðtal K.Ó. við hann 24.6.1996.

[91] Sama heimild.

[92] Sama heimild.

[93] Sama heimild.

[94] Örn.skrá.

[95] Sóknalýs. Vestfj. II, 69.

[96] Örn.skrá.

[97] Sóknalýs. Vestfj. II, 70.

[98] Ágúst Guðmundsson/Mbl. 14.6.1991.

[99] Sóknalýs. Vestfj. II, 69-70.

[100] E. Henderson 1957, 296.

[101] Sóknalýs. Vestfj. II, 69.

[102] Örnskrá. Gísli Vagnsson 1973, 150 (Ársrit S.Í.)

[103] Gísli Vagnsson 1973, 150.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »