Haukadalur

Úr fornsögum er Haukadalur í Dýrafirði kunnari flestum öðrum stöðum á Vestfjörðum því hér er höfuðsvið Gísla sögu Súrssonar. Þó dalurinn eigi forna frægð sína einkum að þakka margþættum og kostulegum stílvef hins nafnlausa höfundar sögunnar, þá er eigi að síður vert að halda einnig á lofti minningum um það mannlíf sem hér þróaðist síðar í aldanna rás. Að fornu mati var Haukadalur 60 hundraða jörð og á síðari öldum var hér oftast þríbýli en stundum voru býlin þó fleiri. Hér verður nú reynt að festa hönd á örfáum myndum úr sögusafni dalsins en fyrst skulum við líta skamma stund yfir sviðið.

Haukadalur liggur í nær beina stefnu frá norðri til suðurs og er um fimm kílómetrar á lengd. Niður við sjó er dalurinn 700 metra breiður eða því sem næst en mjókkar dálítið þegar framar dregur. Haukadalsá á upptök sín í fjalllendinu fyrir botni dalsins en í þriggja kílómetra fjarlægð frá sjó bætist í hana vatn úr Þverá sem kemur ofan af Lambadal. Fyrir framan Þverá var Haukadalsáin nefnd Langá.[1] Lambadalur, sem hér var nefndur, er fjalldalur sem teygist í suðvesturátt frá Haukadal. Um hann liggur gönguleið á Lokinhamraheiði (sjá hér Lokinhamrar) sem í  Haukadal var stundum nefnd Lambadalsheiði.[2] Fremst í Lambadal eru nokkrir stórir steinar eða Grettistök sem heita Ónshús. Í Haukadal létu menn sér detta í hug að nafnið hefði upphaflega verið Óðinshús og þá í merkingunni skrattabæli.[3]

Fyrir botni Haukadals rísa fjöllin í 800-1000 metra hæð og þar í fjalllendinu, suður af dalbotninum, er Kaldbakur, hæsta fjall Vestfjarða, en hans var áður getið á þessum blöðum (sjá hér Þingeyrarhreppur, inngangskafli, þar bls. 1). Úr Haukadal er ekki hægt að ganga á Kaldbak en hins vegar er fjallið auðvelt uppgöngu frá Kirkjubóli í Dýrafirði og úr Fossdal í Arnarfirði. Hátt í hlíðum dalbotnsins skerast tvær skálar eða hvilftir inn í fjalllendið, önnur inn á við og heitir Skál en hin út á við og heitir Koltursdalur. Norðan við Koltursdal, milli hans og Lambadals, gnæfir Kolturshorn, 865 metra há fjallsstrýta sem bregður stórum svip yfir umhverfið, sést víða að og er augnayndi á að horfa. Ekki mun vera hægt að ganga á Kolturshorn nema um eitt ákveðið gildrag en þar geta allir komist upp sem lausir eru við svima í fjöllum.[4] Úr Lambadal í Koltursdal var stundum farin kindagata um hjalla í fjallinu og var það kallað að fara fram úr Horni en út úr Horni ef farið var á hinn veginn.[5]

Undir hlíðum Kolturshornsins, niður við Haukadalsá, heita Seljaeyrar en selin frá Haukadal voru utan við Haukadalsána og rétt framan við ármótin þar sem Þverá sameinast meginánni.[6] Þar kúra seltóttirnar enn þó öllum seljabúskap hafi verið hætt í Haukadal árið 1828.[7] Neðantil í dalnum eru fjöllin beggja vegna hans mun lægri en í kringum dalbotninn. Þar rís Haukadalsfell yfir ytri hlíðum dalsins og nær frá mynni Lambadals langleiðina til sjávar en hinum megin gnæfir Hæðin (Meðaldalshæð), fjallshryggur sem skilur að Haukadal og Meðaldal. Efstu brúnir síðarnefnda fjallsins eru í liðlega 500 metra hæð en Haukadalsfell er heldur hærra og nær tæplega 600 metrum þar sem það er hæst.

Á síðari öldum stóðu öll býlin í Haukadal í sama túni, spölkorn frá sjó, við hlíðarfótinn utantil í dalnum. Á dögum Gísla Súrssonar og Þorgríms goða voru býlin mun fleiri en síðar varð og þá stóðu bæirnir hér og þar um dalinn.

Er Þorbjörn Þorkelsson, sem kallaður var Þorbjörn súr, hélt frá Súrnadal í Noregi til Íslands kom hann skipi sínu í ós Haukadalsár. Í Landnámabók segir að Vésteinn Végeirsson, landnámsmaður í Haukadal, hafi gefið Þorbirni hálfan dalinn[8] en höfundur Gísla sögu greinir svo frá að Þorkell, sonur Eiríks landnámsmanns í Keldudal, hafi selt Þorbirni land á Sæbóli í Haukadal.[9] Reyndar gæti hvorttveggja verið rétt því ljóst virðist, ef eitthvert mark er tekið á Gísla sögu, að Þorbjörn og synir hans hafi eignast allan dalinn.

Með Þorbirni súr komu út hingað kona hans, Þóra Rauðsdóttir, og börn þeirra Þorkell, Gísli og Þórdís. Bjuggu þau í fyrstu öll saman á Sæbóli. Þar gerði Gísli bæ og búa þar síðan, segir í sögunni.[10] Er Þórdís Súrsdóttir var gefin Þorgrími goða, syni Þorsteins þorskabíts í Þórsnesi á Snæfellsnesi, tóku þau við búi á Sæbóli en bræður Þórdísar, Þorkell og Gísli, reistu bú á Hóli, litlu framar í dalnum. Þar bjuggu þeir með konum sínum, Auði Vésteinsdóttur og Ásgerði Þorbjarnardóttur, uns Þorkell og Ásgerður fluttust aftur að Sæbóli til Þorgríms goða. Þorgrímur goði dýrkaði Frey og á hans dögum var jafnan efnt til Freysblóta hér á Sæbóli að veturnóttum, segir sagan[11] (sbr. hér Saurar í Keldudal).

Höfundur Gísla sögu, sem talin er hafa verið rituð um 1250, greinir með listrænum hætti frá harmrænum örlögum bræðranna tveggja og mága þeirra, Þorgríms goða og Vésteins, bróður Auðar. Á Valseyrarþingi, handan Dýrafjarðar, hugðust þeir sverjast í fóstbræðralag, allir fjórir, en á síðustu stundu hnykkti Þorgrímur að sér hendinni og neitaði að gerast fóstbróðir Vésteins – Svo munum vér þá fleiri gera, segir Gísli, og hnykkir og sinni hendi, – og skal ég eigi binda mér vanda við þann mann er eigi vill við Véstein mág minn.[12] Þar með var vináttan úti og þræðir tóku að spinnast sem að lokum leiddu til þess að allir þessir ungu menn féllu fyrir vopnum sér nátengdra manna eða hnigu í val fyrir banaráð eigin mága. Gísli og Vésteinn mágur hans héldu sitt fóstbræðralag en Þorkell Súrsson batt trúss sitt við Þorgrím goða án þess þó að slíta til fulls bræðraböndin við Gísla.

Í Gísla sögu er hlutur kvenna stór og þá sérstaklega þáttur Auðar Vésteinsdóttur, konu Gísla, sem af skörungsskap og trúfestu lagði bónda sínum lið í útlegð hans. Af tali kvenna fékk Þorkell Súrsson grun um að hugur Ásgerðar konu sinnar væri fremur bundinn Vésteini en sér. Engar eru sóttir á mér en sóttum verra er þó, svaraði Þorkell í þessari hugraun er hann var spurður hví honum væri svo þungt. Er Gísla var sagt frá tali kvennanna um hug Ásgerðar til Vésteins og hann spurður á hvern veg úr mætti bæta, kvaðst hann engin ráð sjá til að eyða töluðum orðum en tíðindunum tók hann þó með jafnaðargeði og gat þess eins að mæla verður einhver skapanna málum.[13] Það voru örlögin sem lögðu konunum hin afdrifaríku orð á tungu.

Er Vésteinn, sem bjó á Hesti í Önundarfirði, kom úr utanför nokkru síðar sendi Gísli honum boð og varaði hann við að ríða vestur yfir heiði og í Haukadal því hann uggði að líf þessa fóstbróður síns lægi við. Þau varnaðarorð virti Vésteinn að vettugi og meðan hann dvaldist á Hóli hjá Gísla var hann lagður spjóti í hvílu sinni á náttarþeli.

Í hinni styttri gerð Gísla sögu, sem flestir hafa talið eldri, er hvergi sagt beinum orðum hver hafi vegið Véstein en í lengri gerðinni er tekið fram að Þorgrímur goði hafi unnið honum bana.[14] Sú staðhæfing er þó að líkindum síðari tíma viðbót einhvers misviturs afritara sem skáldað hefur í eyðurnar því öll rök mæla gegn því að slíkt meginatriði í framvindu sögunnar hefði verið fellt brott ef það hefði staðið í hinni upphaflegu gerð hennar.

Öll verður sagan hins vegar merkilegri sé ráð fyrir því gert að Þorkell Súrsson, bróðir Gísla, hafi vegið Véstein og í raun gefur hin styttri gerð sögunnar sterklega í skyn að svo hafi verið. Það var Þorkell sem átti við hugraun að stríða vegna girndar konu sinnar á Vésteini og það var hann sem synir Vésteins töldu síðar að yrði að falla svo föður þeirra væri fullhefnt. Hefði Þorgrímur goði verið vegandinn var slíkt með öllu ástæðulaust.

Sé ráð fyrir því gert að Þorkell hafi verið banamaður Vésteins, þess mágsins sem Gísla var sérstaklega kær, þá er hins vegar fullkomlega eðlilegt að Gísli svaraði í sömu mynt og réði bana Þorgrími goða, systurmanni þeirra bræðra, sem Þorkell hafði bundist vináttuböndum, því ekki gat hann borið vopn að sínum eigin bróður. Þannig er jafnvægi sögunnar eins og best verður á kosið. Til hefnda eftir Véstein fór Gísli um nótt frá Hóli niður að Sæbóli og lagði spjótinu Grásíðu í gegnum Þorgrím goða þar sem hann hvíldi í lokrekkju við hlið konu sinnar, systur Gísla. Komst Gísli óséður á braut svo hér kom launvíg fyrir launvíg. Þessari för Gísla er vandlega lýst í sögunni og segir þar meðal annars:

 

Hann tekur spjótið Grásíðu úr örkinni og er í kápu blárri og í skyrtu og í línbrókum og gengur hann síðan til lækjar þess er fellur á milli bæjanna og tekið var neytingarvatn af hvárumtveggja bænum. Hann gengur götu til lækjarins en veður síðan lækinn til götu þeirrar er lá til hins bæjarins.[15]

 

Þessa leið hlaut Gísli að velja svo spor hans sæust ekki í snjónum. Grimm örlög réðu gerðum bræðranna tveggja í Haukadal og því hlutu þeir að höggva svo nærri hvor öðrum. En blóðböndin voru þó sterk og er Þorkell Súrsson og aðrir Sæbólsmenn komu að Hóli morguninn eftir víg Þorgríms goða varð Þorkell til þess að fela eina sönnunargagnið sem bent gat til ferðar bróður hans að Sæbóli um nóttina. Frá þeirri björgunartilraun er sagt með þessum einföldu orðum:

 

… en Þorkell, bróðir Gísla, gengur upp fyrir í hvílugólfið og sér hvar að skór Gísla liggja, frosnir og snæugir allir, hann skaraði þá upp undir fótborðið og svo að eigi skyldu sjá þá aðrir menn.[16]

 

Enn um sinn lá öll vitneskja dulin um vegendur Vésteins og Þorgríms goða en þar kom að Gísli kvað vísu, nokkuð torráðna, þar sem hann lýsti sig banamann Þorgríms:

 

Teina sák í túni

tál-gríms vinar fólu,

Gauts þess ‘s geig of veittak

 

Vísunni kastaði Gísli fram við knattleika á Seftjörn, rétt hjá haugi Þorgríms, en konur sátu þar hjá í brekkunni og horfðu á leikana. Í þeim hópi var ekkja goðans, Þórdís systir Gísla, og náði hún að nema vísuna og ráða merkingu hennar.[17] Hún var þá gift í annað sinn Berki hinum digra Þorsteinssyni, bróður fyrri manns síns, og bjuggu þau á Sæbóli. Ekki greindi Þórdís manni sínum strax frá vitneskju sinni en nokkru síðar leiddi hún Börk á götu og er þau komu að haugi Þorgríms stakk hún við fótum og skýrði Berki frá vísunni er Gísli hafði kveðið. Skömmu síðar var Gísli dæmdur sekur skógarmaður fyrir víg Þorgríms goða. Varð hann þá að yfirgefa bú sitt í Haukadal og var æ síðan friðlaus útlagi. Báðir féllu þeir Súrssynir, Þorkell og Gísli, að lokum fyrir vopnum. Banamenn Þorkels voru ungir synir Vésteins Vésteinssonar er vildu hefna föður síns og náðu að gera Þorkel höfðinu styttri heima við búðir á Þorskafjarðarþingi.[18] Síðastur féll sjálfur Gísli við Einhamar í Geirþjófsfirði en þar sótti að honum Eyjólfur grái í Otradal við fimmtánda mann, sendur af Berki hinum digra, mági Gísla, í þeim erindum að ná lífi hins frækna útlaga.[19]

Enn blasir sögusviðið í Haukadal við augum allra er þangað koma. Seftjörnin þar sem ungir menn í Haukadal reyndu með sér í leikum ber enn hið forna nafn þó vatn sé nú nánast ekkert í þeirri tjörn. Hún er skammt utan við árósinn í nær 400 metra langri kvos og aðeins malarkambur á milli hennar og fjörunnar. Fyrir nokkrum áratugum var grafið í gegnum kambinn og vatninu hleypt þannig úr tjörninni. Að sögn höfundar Gísla sögu var haugur orpinn yfir Véstein Vésteinsson í sandmel þeim er á stenst og Seftjörn, fyrir neðan Sæból [20] en áður en Vésteinn var lagður í hauginn batt Þorgrímur goði honum helskó. Talið er að haugur Vésteins hafi verið rétt hjá ytri enda Seftjarnarinnar.[21] Þar heitir nú Vésteinsholt. Haugur Þorgríms goða stóð aftur á móti við innri enda tjarnarinnar á Árholtinu, skammt frá árósnum.[22] Þar var Þorgrímur lagður í skip og haugur orpinn yfir skipið. Í Gísla sögu er getið sex býla í Haukadal. Þau voru Sæból, Hóll, Annmarkastaðir, Orrastaðir, Skammfótarmýri og Nefsstaðir. Af sögunni er unnt að sjá nokkurn veginn hvar í dalnum sum þessara býla voru en ekkert þeirra hélst í byggð til langframa.

Um hið forna Sæból, bæ Þorgríms goða, segir Árni Magnússon í Jarðabókinni frá 1710: Fornt eyðiból skammt austur frá heimatúninu. Þar eru girðingar stórar og tóttaleifar miklar en ekki hefur hér byggð verið síðan í gamallri tíð.[23]

Þessar tóttir á Sæbóli, sem Árni getur um, voru skammt frá Seftjörninni eða nánar til tekið tæplega 200 metrum fyrir ofan ytri hluta hennar, sem nú er þornaður upp, og skammt austur frá túninu í Haukadal.[24] Sigurður Vigfússon fornfræðingur rannsakaði tóttir þessar 1882 og 1888. Hann taldi sig finna þar skála, fjós og hof. Sigurður taldi skálatóttina eina vera 98 fet (30,8 m) á lengd og 38-39 fet (um 12 m) á breidd[25] eða um 370 fermetra. Dr. Björn M. Olsen rannsakaði líka hinar fornu tóttir í Haukadal um svipað leyti og taldi hann skálatóttina vera mun minni eða um 200 fermetra.[26] Ekki voru þeir heldur alveg sammála um stærð fjóstóttarinnar. Hana sagði Björn vera 56 fet á lengd og 30 fet á breidd eða um 165 fermetra en Sigurður mældi lengd hennar 69 fet og breiddina 36 fet.[27] Samkvæmt því hefði grunnflötur fjóssins verið um 245 fermetrar.

Í slíku fjósi taldi Sigurður vel gerlegt að hýsa 60 kýr, með því að básaraðirnar hafi verið fjórar og kýrnar í miðröðunum snúið saman hausunum, en í Gísla sögu er þess getið að 60 nautgripir hafi verið í fjósinu á Sæbóli.[28]

Hoftóttin sem Sigurður fornfræðingur taldi sig finna á Sæbóli sumarið 1882 var rétt austan við skálatóttina. Þar hafði greinilega staðið ferhyrnd bygging, um 50 fermetrar að flatarmáli, með allar hliðar jafnlangar. Utan um þessa byggingu var hlaðinn garður sem líka var ferningslaga og mældist 14 til 15 metrar á hverja hlið.[29] Ennfremur ritar Sigurður:

 

Þar sem ég eigi fann hér nein þau merki, hvorki í girðingunni í kring eða tóttinni að hún hafi verið neitt íbúðarhús eða nokkurs konar peningshús, eins og líka bæði lag og allt ásigkomulag þessarar byggingar sýnir, þá verð ég að álíta það víst að hér sé fundið hof með garði í kring.[30]

 

Árið 1939 voru 56 ár liðin síðan þessi orð hans komu fyrir sjónir lesenda. Þá var ráðist í miklar fornleifarannsóknir austur í Þjórsárdal þar sem vísindamenn frá hinum ýmsu Norðurlöndum lögðu saman krafta sína. Meðal þeirra sem þátt tóku í rannsóknunum í Þjórsárdal voru Kristján Eldjárn, síðar forseti íslands, og Aage Roussell, danskur fornleifafræðingur og arkitekt sem lengi var deildarstjóri á danska Þjóðminjasafninu. Á næstu árum ritaði Dr. Aage Roussell stóra bók um hinar samnorrænu fornleifarannsóknir á Íslandi. Bókin kom út í Kaupmannahöfn árið 1943 og heitir Forntida gårdar i Island. Hinn danski vísindamaður fjallar þar nokkuð um heiðin hof á Íslandi og er yfirleitt mjög varkár í öllum dómum um þau efni. Hann segir hins vegar margt benda til þess að tilgáta Sigurðar Vigfússonar um hof í Haukadal sé rétt. Sterkustu rökin sem Roussell færir fram í þeim efnum eru að í Arkona á eynni Rügen í Eystrasalti sé að finna frægar rústir af hofi sem hafi verið byggt með nákvæmlega sama hætti og hofið í Haukadal. Lengd innri og ytri veggjanna sé meira að segja að kalla alveg hin sama.[31] Reyndar bætir hinn danski doktor því við að margir hafi talið hofið í Arkona vera beina eftirlíkingu af Uppsalahofinu í Svíþjóð, því frægasta á Norðurlöndum, þar sem hofgarðurinn var þó mun stærri að hans sögn.[32] Um Freysblót Þorgríms goða á Sæbóli geta menn lesið í Gísla sögu[33] en í Uppsölum var það líka Freyr sem ákafast var blótaður.

Með hliðsjón af því sem hér hefur nú verið sagt er óneitanlega nokkur eftirsjá að hinum fornu rústum í Haukadal en öllum mun þeim hafa verið gjöreytt í jarðabótaframkvæmdum á fyrri hluta 20. aldar.[34]

Fyrir um það bil 1000 árum hættu bændur og búalið í Haukadal að blóta Frey en tóku þess í stað trú á Hvíta-Krist. Alllöngu síðar reis bænhús hér í dalnum og hefur að líkindum staðið fram að siðaskiptum um miðja 16. öld og hugsanlega aðeins lengur.Bænhús hefur hér verið að fornu sem af er fallið fyrir manna minni, segir í Jarðabókinni frá 1710.[35]

Í túninu á Sæbóli voru á árunum milli 1870 og 1880 reistar tvær þurrabúðir með Sæbólsnafni[36] og var það fyrsti vísir að þorpinu sem myndaðist í Haukadal undir lok 19. aldar. Heimamenn í dalnum munu reyndar hafa átt til að nefna allt þorpið niðri á sjávarkambinum Sæból því þannig tekur Ólafur Ólafsson, skólastjóri á Þingeyri og gamall heimamaður í Haukadal, til orða er hann segir að vegur hafi um aldamótin 1900 legið frá Haukadalsbæjunum niður til þurrabúðarþorpsins Sæbóls.[37]

Hið forna Sæból mun aðeins hafa haldist í byggð skamma hríð eða í hæsta lagi í fáar aldir. Svo mikið er víst að þegar minnst er á byggð í Haukadal í 13. aldar ritum sem segja frá samtímaatburðum þá er aldrei minnst á Sæból og ekki annað að sjá en helsta og máske eina býlið í dalnum hafi þá þegar verið samnefnt honum.[38]

Um hin býlin fimm í Haukadal sem í byggð voru fyrir 1000 árum er svipaða sögu að segja. Þeirra er hvergi getið nema í Gísla sögu og öll hafa þau farið snemma í eyði. Árni Magnússon nefnir nöfn þeirra allra í Jarðabókinni frá 1710 og greinir nokkuð frá legu þeirra í dalnum. Hann segir þar að ljós byggingamerki af tóttarústum og sums staðar af túngarðsleifum sjáist á þeim öllum nema einu.[39] Kemur það út af fyrir sig vel heim við sannanlegar staðreyndir.

Í sögu Gísla Súrssonar segir að hann og Auður kona hans hafi búið á Hóli. Ljóst er af sögunni að örskammt hefur verið milli Hóls og Sæbóls því þar lágu saman garðar og neysluvatn fyrir báða bæina var tekið úr sama læknum.[40] Tvö til þrjú hundruð metrum fyrir framan bæina í Haukadal og sömu megin ár stendur algrænn hóll undir fjallshlíðinni, stór og vel gróinn. Hóll þessi heitir nú Gíslahóll og hefur borið það nafn síðustu aldirnar.[41] Vart þarf að draga í efa að þarna á hólnum hafi bær Gísla staðið, enda kemur það í alla staði vel heim við texta sögunnar.[42] Á Gíslahól er gott bæjarstæði og þaðan sér vel um allan Haukadal. Í byrjun 18. aldar sáust þar ljós byggingamerki af tóttarústum [43] og þegar fjárhús voru byggð á hólnum á 19. öld fundust þar gamlar hleðslur djúpt niðri og aska.[44] Við fjárhúsbyggingar á Gíslahól hefur fornum tóttum verið raskað en árið 1882 sáust ljós merki fyrir digrum garði sem lá niður eftir hólnum í stefnu á Sæból.[45] Menjar frá þessum garði sáust þá líka í mýrinni milli bæjanna[46] og má ætla að garður þessi hafi verið hlaðinn svo komast mætti þurrum fótum milli bæjanna á Sæbóli og Hóli.

Árni Magnússon gerir í Jarðabókinni frá 1710 grein fyrir röð bæjanna sex í Haukadal sem nefndir eru í Gísla sögu. Hann segir þar að næsti bær fyrir framan Gíslahól hafi verið Annmarkastaðir þar sem allt sé komið undir stórt jarðhlaup.[47] Hann virðist telja að annaðhvort Stóraskriða eða Jarðfallsskriða hafi eytt Annmarkastöðum en þessar tvær skriður eru báðar heiman við Koltur þar á dalnum.[48] Orrastaði telur hann hafa verið nokkru framar í dalnum þar sem nú sé kallað Kolltur og Skammfótarmýri virðist hann álíta að hafa verið framan við Þverá þar sem selið frá Haukadal var síðar.[49] Kenning Árna um staðsetningu þessara þriggja bæja sýnist marklaus, þó ekki væri nema vegna þess að hann setur Annmarkastaði neðst en í sögunni er tekið fram að þeir hafi verið í ofanverðum dalnum.[50]

Áður en lengra er haldið skal tekið fram að máske hafa þessi þrjú býli aldrei verið til nema á blöðum sögunnar. Engu að síður skulum við líta á tóttir þær sem enn finnast í ofanverðum dalnum þar sem ætla má að býli þessi hafi staðið sé mark tekið á sögunni og rifjum í leiðinni upp örfá brot úr sagnasjóði hins forna höfundar.

Tæplega tveimur kílómetrum fyrir framan Gíslahól og nokkuð heiman við Þverá eru fornar rústir sem á síðari árum hafa borið nafnið Koltur. Þarna eru sýnilegar a.m.k. fjórar vallgrónar tóttir og er sú stærsta dálítið hringlaga. Ummál hennar er ekki langt frá 20 metrum. Allar eru tóttirnar það stórar að vel mætti hugsa sér að hér hafi verið býli, enda er þúfnakraginn í kring algrænn og heitir Koltnaþúfur en skriðan í fjallinu hér fyrir ofan Koltnaskriða.[51] Farðu fram í Kolturnar, var sagt á árunum kringum aldamótin 1900 ef börn eða unglingar voru send á þessar slóðir.[52] Sigurður Vigfússon fornfræðingur leiddi á sínum tíma nokkur rök að því að þarna hafi bærinn Annmarkastaðir verið[53] en í Gísla sögu segir að Þorkell annmarki og Auðbjörg kona hans hafi búið á Annmarkastöðum í ofanverðum Haukadal.[54] Þorsteinn sonur þeirra og Bergur á Skammfótarmýri áttust illt við og kom Þorsteinn sér eftir fund þeirra heim til móður sinnar. Auðbjörg batt um sár hans en frá gerðum hennar næstu klukkustundir segir svo í Gísla sögu:

 

Kerling fær ekki sofnað um nóttina, svo var henni bimbult. Veður var kalt úti og logn og heiðríkt. Hún gengur nokkrum sinnum andsælis um húsin og viðrar í allar áttir og setur upp nasirnar. En við þessa hennar meðferð þá tók veðrið að skipast og gerir á fjúk mikið og eftir það þey og brestur flóð í hlíðinni og hleypur snæskriða á bæ Bergs og fá þar tólf menn bana og sér enn merki jarðfallsins í dag.[55]

 

Bergur á Skammfótarmýri var vinur Barkar digra sem bjó á Sæbóli er þessir atburðir gerðust og er Börkur frétti þessi fákynstur þá fer hann upp á Annmarkastaði og lætur taka Auðbjörgu og fer með hana út á Saltnes og ber hana grjóti í hel.[56]

Við könnun á bæjarrústunum sem hér standa komst Sigurður Vigfússon að þeirri niðurstöðu að hér muni hafa verið búið nokkuð fram eftir öldum.[57] Hafi svo verið má ætla að nafnið Annmarkastaðir hafi þó horfið snemma úr munni fólks en býlið fengið nafnið Koltur sem síðan hélst á rústunum. Í byrjun 18. aldar var þó langt um liðið síðan byggð lagðist hér af.[58]

Í Gísla sögu er getið um Þorgeir orra er var við leika á Seftjörninni í Haukadal og er hann sagður hafa búið á Orrastöðum.[59] Í sögunni er þess ekki getið hvar Orrastaðir voru en Sigurður Vigfússon lét sér detta í hug að þeir myndu hafa verið þar sem nú eru seltóttirnar, rétt fyrir framan Þverá, sem kemur úr Lambadal.[60] Þarna var búsmali frá bæjunum í Haukadal hafður í seli allt fram til ársins 1828 (sjá hér bls. 1-2).

Þessar seltóttir eru enn mjög greinilegar. Neðst er hringlaga tótt, vallgróin, um það bil 25 metrar í ummál og gæti hafa verið fjárrétt. Nær fjallinu er lítil vallgróin tótt, um það bil 3 x 4 metrar að flatarmáli. Síðan kemur allstór fjárrétt, hlaðin úr grjóti, og eru undirveggir hennar gamlir. Þar fyrir ofan, nær rótum fjallsins, eru tóttir af að minnsta kosti þremur húsum og einum kofa. Þessar síðast nefndu tóttir eru allar á sama hólnum og mynda eina þyrping en algrænn þúfnakargi í kring. Selhúsin þrjú virðast hvert um sig hafa verið 2 til 3 x 4 metrar að flatarmáli en eitt þeirra er þó eitthvað minna og kofinn svo langminnstur. Þarna í þúfnakarganum mótar líka fyrir stærri tótt sem virðist vera af nær 20 fermetra húsi og er að sjá mun eldri. Enn ein tótt, lítil, er svo norðan undir hólnum, nær Þverá.

Fljótleg skoðun þessara tótta vekur þá hugmynd að hér kynni upphaflega að hafa verið bær en síðan sel. Eins og áður sagði lét Sigurður Vigfússon sér detta í hug að hér hefðu Orrastaðir verið en um slíkt er  ekkert hægt að fullyrða. Vilji menn halda sig við Gísla sögu gætu Annmarkastaðir ekki síður komið til greina því eins og áður sagði er tekið fram í sögunni að þeir hafi verið í ofanverðum dalnum. Sú var líka kenning Ólafs Ólafssonar, skólastjóra á Þingeyri, sem ólst upp í Haukadal, en hann hélt því fram að Selið væri á hinum fornu Annmarkastöðum en Koltur á Orrastöðum.[61] Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín er líka sagt að Orrastaðir hafi verið þar sem nú heitir Koltur.[62]

Skammfótarmýri hét bærinn sem Auðbjörg á Annmarkastöðum grandaði með fjölkynngi sinni. Í handritum Gísla sögu er sá bær sagður hafa staðið vestan Haukadalsár og P. E. Kristian Kålund sem kom í Haukadal árið 1874 segir heimamenn í dalnum telja að hann hafi verið þar sem Árni Magnússon staðsetti Annmarkastaði (sjá hér bls. 8), nokkru lengra inn í dalnum en Hóll.[63] Þar bentu Haukdælir hinum danska fræðimanni á gamla skriðu og sögðu hana nefnda jarðfallið, – en í Gísla sögu segir að enn sjái merki jarðfallsins er grandaði bænum á Skammfótarmýri.

Sigurður Vigfússon fornfræðingur kom fáum árum síðar í Haukadal og þá var honum tjáð að fremsta mýrin austan ár héti Skammfótarengi og lét hann sér þá detta í hug að bærinn Skammfótarmýri hefði verið þar í grennd og farið undir skriðu sem er heimantil við mýrina.[64] Þessa kenningu Sigurðar hafa útgefendur Gísla sögu tekið gilda og fellt þann úrskurð að í stað orðanna fyrir vestan ána í handritum sögunnar hafi átt að standa fyrir austan ána og sé um ritvillu að ræða.[65] Skynsamlegt virðist þó að fullyrða sem minnst um hvar Skammfótarmýri hafi verið og mun flestum reynast örðugt að leysa þá gátu.

Hér hafa nú verið talin fimm fornbýli í Haukadal og öll voru þau utan við ána nema ef vera skyldi Skammfótarmýri. Sjötta býlið í dalnum á tíundu öld var Nefsstaðir sem tekið er fram í lengri gerð sögunnar að hafi verið innan við ána og þar með austan hennar.[66] Er Árni Magnússon kom í Dýrafjörð árið 1710 sáust enn ljós byggingamerki á eyðibýlinu Nefsstöðum[67] og er Sigurður Vigfússon kannaði söguslóðir í Haukadal árið 1882 lifði örnefnið Nefsstaðir enn góðu lífi. Heimafólk í Haukadal benti Sigurði á tóttir Nefsstaða austan árinnar, – nokkru ofar í dalnum en Hóll og nær því beint upp undan Sæbóli, svo sem lítilfjörlegan stekkjarveg, eins og Sigurður kemst að orði.[68] Að sögn hans mótaði þarna fyrir lítilfjörlegu túni og nokkrum tóttum.[69] Á þeim 117 árum sem nú (1999) eru liðin frá því Sigurður fornfræðingur var á ferð í Haukadal hefur land verið brotið til ræktunar á þessum slóðum. Þeir sem nú búa í Haukadal kunna hins vegar frá því að segja að þarna heiti enn Nefsstaðir og þar sem nú er rennislétt tún á árbakkanum hafi áður verið tóttir fornlegar.[70] Enn eru reyndar sjáanlegar a.m.k. tvær ævafornar tóttir ekki langt frá túninu á árbakkanum. Nánar til tekið eru þær um það bil 500 metrum fyrir framan sumarbústaðinn sem þarna stendur (1991) og beint niður af ysta gili (því sem er næst sjó) í Hæðinni, fjalli því sem skilur að Haukadal og Meðaldal. Frá tóttum þessum er skammt til árinnar og vel gætu þær verið frá þeim löngu liðnu tímum er búið var á Nefsstöðum.

Um bóndann þar, Þorgrím nef, segir í Gísla sögu að hann hafi verið seiðskratti sem mestur mátti verða, fullur af gjörningum og fjölkynngi.[71] Þorgrímur var bróðir Auðbjargar á Annmarkastöðum og lauk ævi sinni með svipuðum hætti og hún. Frá háttalagi hans og ævilokum segir svo í sögunni:

 

Það er næst til tíðinda að Börkur kaupir af Þorgrími nef að hann seiddi seið, að þeim manni yrði ekki að björg er Þorgrím [goða] hefði vegið þó að menn vildu duga honum. Uxi níu vetra gamall var honum gefinn til þess. Nú flytur Þorgrímur fram seiðinn og veitir sér umbúð eftir venju sinni og gerir sér hjall og fremur hann þetta fjölkynngilega með allri ergi og skelmiskap.[72]

 

Tröllskapurinn í seið bóndans á Nefsstöðum varð Gísla síðar þungur í skauti og líklega hefur hann snemma grunað að svo kynni að fara. Þess var áður getið að Börkur digri lét berja Auðbjörgu á Annmarkastöðum grjóti í hel. Sonur hennar var í vinfengi við Gísla og er unnið hafði verið á Auðbjörgu fór Gísli að Nefsstöðum og tók Þorgrím nef sem var vinur Barkar en bróðir Auðbjargar höndum. Á Saltnesi, litlu sjávarnesi sem enn heitir svo, milli Haukadals og Meðaldals hafði Auðbjörg verið grýtt í hel.[73] Þangað fór Gísli nú með seiðskrattann frá Nefsstöðum. Belgur var dreginn á höfuð Þorgrími og hann síðan grýttur líka og kasaður hjá systur sinni á hryggnum milli Haukadals og Meðaldals.[74] Belgurinn sem dreginn var yfir höfuð Þorgríms nefs áður en grjóthríðin dundi á honum mun að líkindum hafa átt að verja þá sem viðstaddir voru fyrir illu augnaráði seiðskrattans á banastund hans.

Við höfum nú skoðað öll fornbýlin í Haukadal og lokið hringferð okkar um dalinn. Áður en lengra er haldið skal þess getið að árið 1874 kunnu menn að greina frá enn einu eyðibýli í dalnum. Hét það Sólheimar og var innan við ána, fyrir neðan Nefsstaði og því ekki langt frá sjó.[75] Býli þetta er hvorki nefnt í Jarðabókinni frá 1710 né í Jarðatali Johnsens frá árinu 1847 og hefur því að líkindum aðeins verið í byggð í skamman tíma.

Hér var áður á það bent að strax á 13. öld virðist nafnið Haukadalur hafa verið orðið fast á þeirri einu bújörð í samnefndum dal sem æ síðan hefur haldist í byggð. Ótvírætt er þetta í skjallegum heimildum frá 15. öld og má sem dæmi nefna að haustið 1467 kaupir Eyjólfur mókollur Halldórsson jörðina Haukadal fyrir 60 hundruð.[76] Hundraðatalan er þarna hin sama og jafnan síðar uns hætt var að meta dýrleika jarða í hundruðum. Sú staðreynd bendir til þess að Haukadalur hafi þá þegar verið eina bújörðin í öllum dalnum. Í skránni frá 1446 yfir jarðeignir Guðmundar ríka Arasonar á Vestfjörðum segir að hann hafi átt 50 hundruð í Haukadal[77] og sýnir það líka að jörðin hefur þá tvímælalaust heitið Haukadalur. Þær fáu heimildir sem til eru frá 13. öld benda líka í sömu átt en eru þó ekki jafn ótvíræðar. Þar er helst að nefna Prestssögu Guðmundar Arasonar sem talin er vera rituð um 1240.[78] Þar segir frá ferðum Guðmundar prests Arasonar um Vestfirði sumarið 1200, ári áður en hann var kjörinn biskup, og frá komu hans í Haukadal á þessa leið:

 

Þaðan [úr Keldudal] fór hann í Haukadal til Árna rauðskeggs. Og um kvöldið, er hann kom í hvílu, var fengin til kona að klá fót hans. Hún var handmeidd svo að þrír fingur lágu í lófa. En er honum þótti of kyrrt klegið, þá spyrnir hann við fætinum mjög hart og kemur hællinn í bug fingranna, þeirra er krepptir voru, og spyrnir hann þar í svo að henni verður sárt við nokkuð. En fáum nóttum síðar kom hún á fund hans og sýndi honum hönd sína heila. Og þökkuðu allir guði þeir er sáu.[79]

 

Vonandi hafa fleiri en konan í Haukadal fengið bót meina sinna við að klóra Gvendi hinum góða en hvað sem því líður sýnist orðalagið benda til þess að Árni rauðskeggur hafi búið á jörðinni Haukadal en ekki annars staðar í dalnum þó fullvíst sé það ekki.

Á 16. öld kemur Haukadalur nokkrum sinnum við skjöl og alltaf er það bújörðin með því nafni. Sumarið 1538 seldi Ari lögmaður Jónsson Þorsteini Torfasyni hálfan Haukadal á Öxarárþingi fyrir 30 hundruð.[80] Sex árum síðar eða því sem næst varð heimilisfólk í Haukadal fyrir harðræði er ofbeldismaðurinn Ólafur Gunnarsson í Lokinhömrum, sem hér hefur áður verið frá sagt (sjá Lokinhamrar), reið þar í hlað með sínum fylgjurum. Í sakaskrá Ólafs og bræðra hans segir svo frá atburðum:

 

Um haustið reið Ólafur Gunnarsson með öðrum ómildum mönnum heim í Haukadal. Bjó þar sá maður er hét Ólafur Sigurðsson og var hann borinn fullu og öllu ofríki sjálfur. Var hans húsfreyja slegin og jarðvörpuð. Hér með var þar raskað húsum með stingjum  og höggum. Hljóp Ólafur Gunnarsson með glaðél að þeim manni sem heitir Andrés Ólafsson og ætlaði að leggja hann í gegn. En Andrés gat skotið sér undan og inn í bæinn. Gekk Ólafur þá svo fast á skaftið að vopnið stóð fast í veggnum.[81]

 

Sem betur fer hafa bændur og búalið í Dýrafirði ekki þurft að þola margar slíkar heimreiðir á þeim 450 árum sem nú (1994) eru liðin frá því Lokinhamramenn jarðvörpuðu húsfreyjunni í Haukadal og réðust með glaðélum að friðsömum almúga.

Eins og áður var getið var oftast þríbýli í Haukadal á síðari öldum og stóðu bæirnir allir í sama túni, skammt frá sjó en þó nær fjalli en fjöru í utanverðum dalnum. Þaðan er örskammt að hinu forna Sæbóli.

Hér litlu framar voru nefndir fjórir menn sem áttu Haukadal, allan eða að hluta til, á 15. öld og fyrri hluta 16. aldar, en það voru þeir Guðmundur ríki Arason á Reykhólum, Eyjólfur mókollur Halldórsson, Ari Jónsson lögmaður og Þorsteinn Torfason (sjá hér bls. 11-12) lögréttumaður, sem var sonur hins víðkunna Torfa Jónssonar, sýslumanns í Klofa, og dóttursonur Guðna sýslumanns Jónssonar á Kirkjubóli í Langadal við Djúp, föður héraðshöfðingjans Björns Guðnasonar í Ögri.[82] Þorsteinn bjó í Hjörsey á Mýrum en keypti hálfan Haukadal á Alþingi árið 1538.[83]

Nær 40 árum síðar átti Eggert Hannesson lögmaður 18 hundruð hér í Haukadal[84] en hann var dóttursonur Björns Guðnasonar í Ögri og afi Þorsteins Torfasonar því langafi Eggerts. Vorið 1608 seldi Ari sýslumaður Magnússon í Ögri, sem var dóttursonur Eggerts lögmanns, mági sínum Sæmundi Árnasyni á Hóli í Bolungavík, síðar sýslumanni, 24 hundruð úr Haukadal en Sæmundur var kvæntur Elínu, systur Ara.[85] Árið 1645 átti sonarsonur Sæmundar og Elínar, Hákon Árnason í Hofgörðum í Staðarsveit, 42 hundruð í Haukadal en seldi þau á því ári frændum sínum, bræðrunum Magnúsi Jónssyni, sýslumanni í Haga á Barðaströnd, og Guðmundi Jónssyni, lögréttumanni í Hvammi á Barðaströnd.[86] Allt voru þetta niðjar Eggerts Hannessonar lögmanns sem var langafi nýnefndra bræðra en seljandinn fjórði ættliður frá lögmanninum.

Árið 1648 keypti séra Jón Jónsson í Holti í Önundarfirði um það bil hálfan Haukadal, líklega 32 hundruð, en seljandinn að því sinni var Ólöf Torfadóttir.[87] Ekki liggur fyrir hvaða manneskja þessi Ólöf var en séra Jón var ættingi hinna fyrri eigenda Haukadals, dóttursonarsonur Björns Hannessonar sem var bróðir Eggerts lögmanns Hannessonar[88] og eiginkona séra Jóns, Halldóra Jónsdóttir, var systir bræðranna sem keyptu 42 hundruð í Haukadal árið 1645.[89] Um miðbik 17. aldar átti séra Páll Björnsson í Selárdal líka 10 hundruð í Haukadal en hann var niðji Eggerts lögmanns eins og svo margir fleiri eigendur þessarar jarðar, dóttursonarsonur lögmannsins.[90] Tíu hundruðin í Haukadal seldi séra Páll í Selárdal Páli Ólafsyni,[91] syni séra Ólafs skálds Jónssonar á Söndum en sá Páll bjó árið 1658 á Suðureyri í Súgandafirði (sjá Firðir og fólk 900-1900, 438).

Á árunum kringum 1700 virðast að minnsta kosti sumir jarðarpartarnir í Haukadal hafa skipt nokkuð ört um eigendur. Árið 1693 seldi Ástríður Jónsdóttir á Mýrum í Dýrafirði 18 hundruð í Haukadal[92] en hún var einkabarn séra Jóns Jónssonar í Holti og Halldóru, konu hans, sem keypt höfðu hálfan Haukadal árið 1648.[93] Þegar Ástríður seldi þessi 18 hundruð úr Haukadal var hún fyrir alllöngu skilin við mann sinn, Magnús digra Jónsson í Vigur, sem reyndar var náfrændi hennar, áttu bæði Magnús Jónsson prúða fyrir langafa en hann var tengdasonur títtnefnds Eggerts Hannessonar lögmanns.[94]

Umboðsmaður Ástríðar við sölu hundraðanna í Haukadal árið 1693 var Torfi Magnússon, lögréttumaður á Auðkúlu í Arnarfirði, en kaupandinn frændi hennar, séra Björn Þorleifsson á Álftamýri.[95] Faðir Ástríðar, séra Jón Jónsson í Holti, og séra Björn á Álftamýri voru hálfbræðrasynir en afi beggja var séra Sveinn Símonarson í Holti. Við þessi jarðakaup fékk Ástríður Innri-Hjarðardal í Önundarfirði, sem var 18 hundraða jörð, fyrir hundruðin átján í Haukadal en séra Björn setti einnig það skilyrði að hann fengi að auk greidda 20 spesíudali í milligjöf þar sem Innri-Hjarðardalur væri jörð út af fyrir sig.[96]

Átján hundruðin í Haukadal, sem séra Björn Þorleifsson keypti af Ástríði árið 1693 átti hann enn er hann andaðist tveimur árum síðar en við skipti á dánarbúi hans haustið 1697 skiptust þau á milli þriggja sona hans, Gísla og Guðmundar sem fengu 7 hundruð hvor og Árna sem fékk 4 hundruð.[97] Fáum árum síðar var tengdasonur séra Björns, Guðmundur Þorbjörnsson, bóndi í Stapadal í Arnarfirði, einnig orðinn eigandi að 12 jarðarhundruðum hér í Haukadal.[98]

Sá sem stærstan hlut átti í Haukadal árið 1703 var Árni Guðmundsson, bóndi á Hóli í Bíldudal, en hann átti þá liðlega hálfan dalinn, 32 hundruð.[99] Ekki liggur fyrir hvenær Árni náði að eignast þennan stóra part úr jörðinni en minnt skal á að faðir hans, Guðmundur Jónsson, lögréttumaður í Hvammi á Barðaströnd, keypti, ásamt bróður sínum, 42 hundruð í Haukadal árið 1645.[100]

Árið 1710 átti Árni Guðmundsson á Hóli enn sama hundraðafjölda og áður hér í Haukadal en meðal annarra eigenda jarðarinnar voru þá Guðmundur Þorbjörnsson, bóndi í Stapadal, sem hér var nýlega nefndur, og átti hann 12 hundruð, svo og barnið Bjarni Gíslason, sem átti 2 hundruð, en hann var einnig til heimilis í Stapadal.[101] Af þeim 14 hundruðum sem þá eru enn ótalin átti Dís Jónsdóttir í Hvammi í Dýrafirði 4 hundruð og Jón Pálsson, bóndi hér í Haukadal, 10 hundruð.[102] Jón var sonur Páls Ólafssonar, sem keypt hafði þessi tíu hundruð af séra Páli Björnssyni í Selárdal árið 1655 (sjá hér bls. 14).

Jón var eini sjálfseignarbóndinn í Haukadal árið 1710 og hafði til ábúðar sinn eigin jarðarpart og að auk níu og hálft hundrað úr eignarhluta Árna Guðmundssonar.[103] Þríbýli var þá á jörðinni en hinir bændurnir tveir voru leiguliðar.[104] Landskuld af þeim 50 hundruðum í Haukadal sem ekki voru í sjálfsábúð var, árið 1710, 9 og ½ vætt fiska og skyldi gjaldast í kaupstað.[105] Leigukúgildi á jörðinni voru þá átta.[106]

Í Jarðabókinni frá 1710 segir m.a. svo um Haukadal:

 

Útigangur í fjörunni sæmilegur en á landi lítill. Torfrista hefur verið næg en er að mestu þrotin. Móskurður til eldiviðar hefur verið en verður nú ei skorinn því skriða hefur fallið yfir það pláss sem mótakið var. Silungsveiði lítil í Haukadalsá. ….. Hrognkelsaveiði lítil. Túninu hafa skriður spillt til stórskaða og eyðileggingar sem að sýnilegt er að áaukist meir og meir. Engjarnar í sama máta fordjarfast stórlega af skriðum og hafa eyðilagt þær til helminga. Úthagar eru enn nú bjarglegir. … Hætt er kvikfé fyrir afætudýjum, forum, torfgröfum og einnri seftjörn.[107]

 

Fróðlegt er að sjá að í byrjun 18. aldar hefur búpeningi verið talin stafa hætta af seftjörninni, þeirri sömu og alkunn er úr Gísla sögu. Annars staðar má sjá að á síðari hluta 19. aldar var sefið á tjörninni slegið og gefið kúm[108] og í frásögn er lýsir atvinnuháttum í Haukdal árið 1912 sést að farið var á litlum bát til að slá sefið.[109]

Mikið er gert úr skriðuföllum í Haukadal í Jarðabókinni og reyndar tekið fram að tvö fjós sem þar stóðu allnærri bænum hafi orðið að færa vegna skriðuhættu.[110] Vafalaust hafa skriðurnar gert bændum í Haukadal marga bölvun en þó má ætla að áföll af þeirra völdum hafi verið minni en Jarðabókin gefur til kynna. Í Haukadal var og er mikið heyskaparland, enda segir séra Bjarna Gíslason í sóknarlýsingu sinni frá því um 1840 að hér sé sérlega góður heyskapur á þerrasumrum.[111] Hann greinir einnig frá því að geldfé frá öðrum bæjum sé rekið til beitar í Haukadal[112] svo ekki hafa heimamenn nýtt allt það gras sem var í boði. Ofarlega í dalnum, þar sem landið í dalbotninum tekur að hækka, sjást enn merki um gamlan vörslugarð sem hefur verið hlaðinn yfir þveran dalinn. Fyrir framan garðinn mun geldfé hafa verið haft á beit, að líkindum þar á meðal naut því þetta hefur verið mikill garður, hlaðinn úr torfi og grjóti.[113]

Um sjósókn frá Haukadal á fyrri tíð segir svo í Jarðabókinni frá 1710:

 

Heimræði er hér og lending góð en langræði ærið þegar að fiskur gengur ekki inn á Dýrafjörð og því ganga hér ekki skip heima um vertíð heldur út í verstöðvum. Þrír bátar ganga hér nú heima sem ábúendur eiga.[114]

 

Með líkum hætti og þarna er lýst mun sjósókn bænda í Haukadal hafa verið háttað allt þar til þilskipaútgerð kom til sögunnar. Á vertíðinni, sem stóð frá páskum til Jónsmessu, fóru Haukadalsbændur með báta sína í útver en á öðrum tímum ársins var róið úr heimavör þegar færi gafst. Fjöldi báta í Haukadal hefur vafalaust verið dálítið misjafn þó ætla megi að stærri bátar þar hafi oftast verið einn til þrír. Árið 1710 eru bátarnir sagðir þrír eins og hér var nýlega getið en um stærð þeirra er ekki vitað. Árin 1835 og 1838 áttu Haukadalsbændur tvo stóra báta en árin 1843 og 1851 var hér aðeins einn stór bátur, áttæringur í eigu bræðranna Jóns og Ólafs Ólafssona.[115]

Í manntalinu frá 1. febrúar 1801 er Ólafur Bjarnason, faðir þessara bræðra, talinn fyrstur í röð bænda í Haukadal, enda var maðurinn hreppstjóri og heimili hans hið fjölmennasta í dalnum.[116] Í þessu manntali eru bæði Ólafur og kona hans, Guðrún Jónsdóttir, sögð 47 ára gömul og hafa því verið fædd upp úr miðri 18. öld. Hér hefur áður verið sagt frá kaupum Ólafs á jörðinni Höfn í Dýrafirði (sjá hér Höfn) en þau jarðakaup sýna að hann hefur verið allvel efnum búinn á mælikvarða sinnar samtíðar. Framar á þessum blöðum var líka greint frá gamalli sögn um viðureign tveggja sona Ólafs Bjarnasonar við illvíga forynju í Höfn er þeir gættu þar sauða föður síns (sjá hér Höfn). Ólafur Ólafsson komst sæmilega heill úr þeirri raun en sagan segir að Sturla bróðir hans hafi aldrei orðið samur maður.

Á öðrum stað segir svo frá að þessir sömu bræður hafi krækt sér í segldúk og snæri sem vafið hafði verið utan um lík af frönskum sjómanni er jarðsettur hafði verið á Hafnarnesi. Sá franski hafi þá gengið aftur og gert að þeim harða hríð er þeir voru við sauðagæsluna í Höfn en síðan hafi sá franski orðið fylgja Haukadalsfólks í marga ættliði.[117]

Hér verður ekki sagt frekar frá Sturlu en Ólafur, sem með honum var við sauðagæsluna í Höfn, og Jón bróðir þeirra urðu síðar bændur í Haukadal og koma hér enn við sögu. Þeir eru báðir kvæntir bændur hér árið 1845 og er Ólafur þá sagður 60 ára gamall en Jón 63ja.[118]

Alls munu börn Ólafs Bjarnasonar í Haukadal hafa verið átta, sex synir og tvær dætur, og er mikill fjöldi niðja frá þeim kominn.[119] Svo virðist sem trú á drauga og dulmögn hafi lagst nokkuð þungt á suma þessara Haukadalsbræðra því varla hafa sögurnar sem færðar voru í letur fáum áratugum eftir þeirra dag orðið til úr engu.

Í Vestfirskum sögnum segir margt frá reimleikum í Haukadal á fyrri hluta 19. aldar er synir Ólafs Bjarnasonar, Jón og Ólafur, bjuggu þar búi sínu.[120] Skal nú greint frá meginefni þeirrar sögu.

Guðmundur Guðmundsson, sem átti heima í Skógum í Mosdal í Arnarfirði, leitaði til Haukadalsbræðra og bað þá smíða fyrir sig bát en þeir bræður þóttu góðir skipasmiðir og til þeirra leitað af mörgum. Vegna anna synjuðu þeir beiðni Guðmundar en við það reiddist hann mjög. Guðmundur fékkst við kukl og magnaði nú upp sendingu á hendur skipasmiðunum. Uppvakningurinn gerði brátt vart við sig í Haukadal og fyrr en varði gekk hann þar ljósum logum. Frá ástandinu þar þegar kraftur sendingarinnar var mestur segir svo:

 

Þeir bræður áttu smíðahús niður við sjóinn og störfuðu þar að bátasmíði sinni. Þangað vandi draugurinn komur sínar þegar bræðurnir voru þar og glettist við þá svo að þeir höfðu engan frið fyrir honum við vinnuna. Stóðu þeir þá með axir sínar reiddar til höggs um hábjartan dag og vildu verja sig með þeim. En draugurinn virtist hvorki hræðast þá né vopn þeirra og heldur ásókninni áfram þar til þeir verða að hætta við smíðarnar. Gerðust nú svo mikil brögð að glettum draugsins að allir heimamenn í Haukadal urðu skelkaðir mjög nema kona Ólafs er Þórdís hét. Hún var eina manneskjan á bænum sem ekki hræddist drauginn því að hún var einbeitt mjög og gat hún varið mann sinn nokkuð fyrir ásóknum hans.

Ólafur var vefari góður og reyndi að vefa þegar hann varð að hætta smíðunum. En það gat hann því aðeins að Þórdís kona hans sæti hjá honum við vefstólinn og verði hann.[121]

 

Er leið á haust og myrkrið lagðist yfir fólkið í Haukadal átti ásókn draugsins, sem nefndur var Hali, þó enn eftir að aukast og þar kom að bræðurnir báðir, Jón og Ólafur, tóku þann kost að flýja frá heimilum sínum til að forðast vominn.

 

Þó gátu þeir ekki komist undan draugnum því að hann elti þá hvert sem þeir fóru og gaf þeim engin grið, hvorki á nótt né degi, og gátu þeir lítið sofið fyrir ásókninni um nætur. Höfðu þeir víða náttstaði en alls staðar fór eins með svefninn þar til er þeir komu að Þingeyri og bjuggust þar um á efra búðarloftinu. Þar sváfu bræðurnir óáreittir nokkrar nætur.[122]

 

Eftir hvíldina á efra búðarloftinu sneru þeir heim á ný en þar héldu ósköpin áfram með litlum hléum og sást draugurinn meðal annars sitja klofvega á baðstofumæninum og berja fótunum í þekjuna. Sagt er að á jólaföstu annan reimleikaveturinn í Haukadal hafi bæði Jón og Ólafur verið orðnir svo aðþrengdir að þeim lá við vitfyrringu.[123]

Þrautaráðið varð að leita til Jóhannesar Ólafssonar, hins kunna galdramanns á Kirkjubóli í Mosdal, og lofaði hann að senda vikapilt sinn Tobías til að sækja drauginn ef auðið yrði. Nóttina sem Tobías kom í þessum erindum varð hávaðinn á baðstofuþekjunni í Haukadal meiri en nokkru sinni fyrr en síðan datt allt í dúnalogn og aldrei síðar varð vart við ódáminn Hala í Haukadal. Tobías náði að koma honum í hendur húsbónda sínum og Jóhannes galdramaður setti þá báða niður í þúfu á Skeleyri, rétt innan við Mosdal (sjá hér Ós og Kirkjuból í Mosdal).

Ef við nú leyfum okkur að gera ráð fyrir að Haukadalsbræður hafi í raun talið sig verða fyrir hatrammri ásókn af völdum Guðmundar í Skógum, sem vel kynni rétt að vera, þá má ætla að það hafi verið á árunum 1820-1830. Guðmundur varð ekki tvítugur fyrr en um 1817[124] en fluttist burt úr Arnarfirði árið 1830 og drukknaði örskömmu síðar.[125]

Hvað sem öðru líður virðast báðir bræðurnir hafa náð sér vel eftir skelfinguna sem yfir dundi er draugurinn Hali sat um þá nætur og daga. Árið 1845 bjuggu þeir enn góðu búi í Haukadal[126] og næstu 70-80 árin höfðu niðjar þeirra margvíslega forystu á hendi hér í dalnum.

 

Á síðari hluta 19. aldar voru heimabæirnir í Haukadal þrír og hétu Höll, Miðbær og Ystibær.[127] Ekki er vel ljóst hversu gömul þessi bæjanöfn muni vera en í eldri heimildum er yfirleitt talað um jörðina Haukadal án þess að getið sé nafna á einstökum bæjum. Hallarnafnið er sagt vera frá 18. öld og þannig til komið að nágrannar hafi farið að kalla nýjan og rúmgóðan bæ, sem þá var reistur þar, höllina.[128]

Á áratugunum kringum aldamótin 1900 var Guðmundur Eggertsson lengi bóndi í Höll og þar átti þá líka heima Andrés Pétursson skútuskipstjóri. Um 1890 höfðu þeir Andrés og Guðmundur, að sögn, báðir hug á að taka sig upp og flytjast til Ameríku.[129] Eiginkonur þeirra, þær Elinborg Jónsdóttir og Sigríður Jónsdóttir, snerust þá öndverðar gegn þessum ráðagerðum.[130] Úr varð að hætt var við flutningana til Ameríku en þess í stað ráðist í að reisa nýtt íbúðarhús úr timbri heima í Höll og stendur það (1997) hér enn.[131]

Árið 1703 bjuggu fimm bændur í Haukadal og að auk tveir húsmenn sem lifðu á sjóróðrum.[132] Árið 1801 var tala bændaheimilanna óbreytt en þá átti ekkert húsfólk heima í dalnum.[133] Árin 1845 og 1870 var þríbýli á jörðinni en ekkert húsfólk var þá skráð hér til heimilis.[134] Á árunum milli 1870 og 1880 voru reistar fyrstu tvær þurrabúðirnar er urðu vísir að svolitlu þorpi er hér myndaðist á árunum kringum aldamótin 1900. Þessar tvær þurrabúðir voru báðar byggðar í gamla Sæbólstúninu (sjá hér bls. 2-8) og í manntalinu frá 1. október 1880 eru þær sagðar vera á Sæbóli.[135]

Í vissum skilningi var Haukadalur orðinn miðstöð mikilla umsvifa löngu áður en hér fór að myndast þorp. Ástæða þessa var sú að á Haukadalsbót safnaðist oft saman fjöldi erlendra fiskiskipa. Þangað komu þau til að lagfæra eitt og annað sem úr sér hafði gengið um borð, líka stundum til að umsalta afla, og þar lágu þau af sér veður. Flest skipanna sem leituðu inn á Haukadalsbót, áður en farið var að gera út togara á Íslandsmið, voru frönsk. Bresk og hollensk skip munu þó líka hafa leitað hér vars og reyndar var ysti hluti Haukadalsbótar nefndur Engelskabót, – frá Sveinseyrarodda inn að Eyrará.[136] Sagt er að þar hafi enskir legið er þeir voru við heræfingar.[137]

Oft safnaðist mikill floti saman á Haukadalsbót yfir hvítasunnuhelgina er hlé var gert á veiðum. Einkum voru þetta franskar skútur. Þarna á bótinni var eitt besta lægi fyrir seglskip sem finnanlegt var á öllum Vestfjörðum og um aldamótin 1900 mundu gamlir menn til þess að allt upp í sextíu skip hefðu legið þar í einu.[138] Á fyrstu áratugum tuttugustu aldar var hér enn fjölsótt skipalægi, bæði seglskipa og togara.[139]

Opinberar tölur um fjölda franskra fiskiskipa sem lestagjald var tekið af í Haukadal gefa líklega mjög brenglaða mynd af heildarfjölda þessara skipa. Þess má þó geta að 18. ágúst 1873 hafði Ólafur Jónsson, bóndi í Ystabæ í Haukadal, innheimt lestagjald af 22 frönskum fiskiskipum það árið en í skýrslu til sýslumanns lætur hann þess getið að flest skipanna hafi komið inn vegna vatnsskorts.[140] Í nefndri skýrslu eru nöfn allra þessara skipa vandlega skráð.[141]

Á 19. öld sigldi mikill fjöldi franskra skipa árlega á Íslandsmið og svo hafði reyndar verið allt frá því á 17. öld.[142] Í Alþingisbókunum gömlu má finna dæmi um komu franskra sjómanna í Dýrafjörð fyrir 1700 en þar er meðal annars sagt frá uppboði á hjólstokkum sem franskir lögðu á land í Keldudal árið 1696.[143] Fátt er þó vitað um samskipti Frakka við Dýrfirðinga á 17. og 18. öld en frá 19. öld hefur varðveist talsverð vitneskja um þau. Hér verður síðar sagt stuttlega frá tilmælum Frakka árið 1855, er þeir reyndu að fá heimild til að stofna franska nýlendu á Þingeyri og hefja þar fiskverkun (sjá hér Þingeyri). Um það leyti áttu franskir sjómenn margvísleg skipti við fólk í Dýrafirði eins og bæði fyrr og síðar og miðstöð þeirra var á Haukadalsbót. Fáir Dýrfirðingar munu þó hafa lært frönsku nema þá Haukadalsfrönsku, er svo var kölluð, en það var hrognamál sem stundum gat dugað til að gera sig skiljanlegan með hjálp látbragðs og handahreyfinga. Þeir menn voru samt til í Haukadal sem komust allvel niður í frönskunni með því einu að ræða við hina erlendu sjómenn og heyra þá tala sitt móðurmál. Um Ólaf Jónsson, sem bjó í Ystabæ í Haukadal á síðari hluta 19. aldar, er sagt að hann hafi talað frönskuna reiprennandi[144] og hafði þó aldrei í skóla komið og því síður til Frakklands. Ólafur var innheimtumaður hafnargjalda á Haukadalsbót og kölluðu Frakkar hann Lawrens.[145] Matthías son sinn lét Ólafur læra frönsku hjá séra Jóni Jónssyni á Gerðhömrum[146] en Matthías varð síðar kaupmaður í Haukadal og um skeið alþingismaður Vestur-Ísfirðinga.

Um eina húsfreyjuna í Höll í Haukadal lifir reyndar sú sögn að hún hafi kunnað að syngja Marseillaisinn, þjóðsöng Frakka, á móðurmáli þeirra[147] og má gera ráð fyrir að hún hafi lært bæði lag og texta af frönskum sjómönnum í Haukadal. Ólafur Ólafsson skólastjóri, sem fæddur var í Haukadal árið 1886, segir að umgengni við þá og viðskipti með sokka og vettlinga fyrir kex, sápu eða snæri hafi verið hversdagsviðburður á sínum uppvaxtarárum.[148]Við strákarnir sem ólumst upp í Haukadal umgengumst útlenda fiskimenn svo til daglega og þeir okkur árekstralaust, segir Ólafur.[149]

Eitthvað mun hafa verið um að bændur í Haukadal tækju prjónles frá öðrum í umboðssölu til að selja Frökkum[150] en frönsku sjómennirnir keyptu líka nautgripi af Dýrfirðingum og greiddu m.a. með brauði og kartöflum.[151] Algengt var að Dýrfirðingar færu um borð í frönsku skúturnar á Haukadalsbót. Sighvatur Grímsson Borgfirðingur segir m.a. frá einni slíkri heimsókn vorið 1883. Hann var þá ásamt fleirum að koma utan af Fjallaskaga úr veri og stöldruðu þeir við hjá Frökkum á Bótinni. – Frakkar börðust meðan við vorum uppi á skipinu og lá við manntjóni, ritar Sighvatur í dagbók sína sama dag.[152] Ekki fylgir sögunni hvort franska herskipið, sem jafnan fylgdi skútunum á Íslandsmið, hafi verið nærstatt að þessu sinni en í dagbókum Sighvats má sjá að það kom mjög oft inn á Dýrafjörð á síðustu áratugum 19. aldar. – Frakkar voru hér um fjörðinn æðandi á gufubát og fleiri bátum frá herskipinu sem liggur á Þingeyri, skrifar Sighvatur 21. maí 1885 og þótti nóg um ófriðinn sem þessu fylgdi.[153]

Að minnsta kosti eitt örnefni í Haukadal er talið eiga rætur að rekja til Frakka en það er nafnið á Dunesarholti (eða Dunansholti). Holt þetta er allstórt og stendur í mýrinni fyrir neðan Leiti, – skammt fyrir framan túnið í Haukadal.[154] Sagt er að holtið sé kennt við franskan sjómann sem þar hafi fundist sofandi[155] en nafnið gæti reyndar alveg eins verið írskt.

Eins og nærri má geta kom fyrir að einn og einn franskur sjómaður reyndi að koma sér í mjúkinn hjá blómarósunum í Haukadal og urðu þá stundum nokkuð ágengir. Unnur Arnbjörnsdóttir var um skeið ung vinnukona í Höllinni í Haukadal á árunum kringum aldamótin 1900. Einhverju sinni fór hún þá ein síns liðs fram á dal og tók heimafólk eftir því að franskur sjómaður veitti henni eftirför.[156] Húsbóndi Unnar snaraðist þá á bak hesti sínum og bjargaði henni frá Fransmanninum.[157]

Hér var þess áður getið að Þingeyrarverslun fór ekki að gera út þilskip fyrr en á árunum kringum 1870 (sjá hér Þingeyrarhreppur, inngangskafli) og fyrir þann tíma var engum innlendum þilskipum haldið til veiða frá vesturströnd Dýrafjarðar. Á síðasta fjórðungi 19. aldar varð hins vegar meiriháttar breyting á í þessum efnum og á árunum 1870 til 1920 voru a.m.k. 28 þilskip gerð út frá Þingeyri eða einstökum bæjum í Þingeyrarhreppi. Sú umbylting í atvinnulífi sem fylgdi skútuútgerðinni hafði margvíslegar afleiðingar og ný tækifæri sköpuðust til starfa bæði á sjó og landi. Án þeirra breytinga hefðu engin þorp risið í Haukadal og á Þingeyri á síðustu áratugum 19. aldar.

Á árunum 1800 til 1870 voru íbúar í Haukadal yfirleitt á milli 40 og 50 en árið 1703 höfðu þeir verið 51.[158] Árið 1880 var íbúatalan komin upp í 55, árið 1890 í 76, árið 1901 í 87 og árið 1910 í 100.[159] Úr því fór íbúunum að fækka á ný. Árið 1920 voru þeir 74, árið 1940 78 og árið 1950 54.[160]

Árið 1890 voru þurrabúðarheimilin í Haukadal orðin sjö. Fimm húsráðenda voru þá sagðir lifa á sjávarútvegi og þar af var einn skipstjóri.[161] Sjötti húsráðandinn lifði á grasnyt og sá sjöundi var söðlasmiður.[162] Allt þetta þurrabúðarfólk bjó í þorpinu neðan við tún heimabæjanna í Haukadal. Vegurinn frá bæjunum niður í þorpið lá yfir mýri. Hann var upphlaðinn og kallaður Veitugarður. Nokkru utar lá annar garður yfir mýrina niður að skipahrófum heimabændanna og var nefndur Sjóargarður.[163] Árið 1891 var reist nýbýlið Húsatún, yst í túnjaðrinum í landi Ystabæjar.[164] Árið 1901 áttu 38 manneskjur heima á gömlu heimabæjunum í Haukadal, 9 áttu þá heima í Húsatúni og 40 í þorpinu en þar voru heimilin sjö eins og verið hafði 1890.[165] Íbúðarhús í þorpinu virðast þá hafa verið fimm og eru í manntali nefnd þessum nöfnum: Hús verslunarstjóra, Vésteinsholt, Sæból, Elíasarhús og Benóníshús,[166] þeir Elías og Benóní voru oft sagðir búa á Sæbóli.[167] Síðar bættust við Grund, Vegamót, Brautarholt, Litlaholt og Árholt.[168] Eru þá flest íbúðarhúsin í þorpinu talin en þó að líkindum ekki öll.

Fróðlegt er að skoða atvinnuheiti þorpsbúa í Haukadal árið 1901. Matthías Ólafsson er þá titlaður verslunarstjóri, bóndi og forstöðumaður íshúss Dýrfirðinga. Hinir heimilisfeðurnir sex skiptast þannig að þrír eru sagðir vera sjómenn, einn verslunarmaður, einn skipstjóri og járnsmiður og einn allt í senn skipstjóri, útgerðarmaður og bóndi.[169] Þessi sömu þrjú atvinnuheiti hafa þá líka bændurnir í Miðbæ og Húsatúni, þeir Ólafur Guðbjartur Jónsson og Sigurður Jónsson.[170] Það sýnir að atvinnuskipting milli þeirra sem bjuggu á heimabæjunum og þorpsbúa hefur alls ekki verið skýr.

Árið 1920 voru 14 heimili í Haukadal. Í manntali frá því ári eru atvinnuheiti forráðamanna skráð sem hér segir. Einn var skráður bóndi, annar bóndi og fyrrverandi skipstjóri, þriðji bóndi og íshúsvörður, fjórði bóndi og búfræðingur, fimmti og sjötti skipstjórar, sjöundi kaupmaður og stöðvarstjóri, áttundi húsmóðir, níundi matsveinn á þilskipi, tíundi formaður á vélbát, ellefti og tólfti sjómenn en þrettándi og fjórtándi formenn á róðrarbátum.[171]

Barnaskólahús var byggt í Haukadal árið 1885, eitt hið allra fyrsta á Vestfjörðum, og hófst skólahald þá um haustið.[172] Húsið var vígt 31. október 1885 og var Sighvatur Borgfirðingur fenginn til að flytja frumort kvæði við þá athöfn.[173] Fimm menn úr Haukadal og næsta nágrenni höfðu forgöngu um skólabygginguna og lögðu sjálfir fram allt sem til þurfti, fé til efniskaupa og vinnu.[174] Einn þeirra var Matthías Ólafsson sem þá var 28 ára gamall og hafði lokið gagnfræðaprófi norður á Möðruvöllum í Hörgárdal þremur árum fyrr. Varð Matthías fyrsti kennarinn við skólann í Haukadal.[175] Skólahúsið var reist á sjávarkambinum, rétt utan við Seftjörnina, tvílyft timburhús og þar var auk kennslurýmis íbúð fyrir kennara og þá sex nemendur sem lengst áttu að sækja til skólans.[176] Sextán nemendur á aldrinum 9 til 14 ára tóku próf frá skólanum vorið 1886 en að þessu sinni starfaði skólinn í fjóra vetur.[177]

Á því skeiði mun barnaskólahúsið stundum hafa verið notað til að halda samkomur fyrir þá sem orðnir voru fullorðnir. Sem dæmi má nefna að fyrsta veturinn sem skólinn var starfræktur var Sighvatur Borgfirðingur, bóndi og fræðimaður á Höfða, fenginn til að flytja þar fyrirlestur. Þann 30. desember 1885 fór Sighvatur yfir í Haukadal og gisti hér tvær nætur hjá Jóni Ólafssyni. Á gamlaárskvöld eða nýársnótt ritar Sighvatur í dagbók sína þessi orð: Hélt um kvöldið fyrirlestur í skólahúsinu um íslenska biskupa. Húsið var troðfullt af áheyrendum. Ég orti þar á eftir nýársvísur.[178]

Seinna risu í Haukadal önnur hús til samkomuhalds. Stúkan Fortúna byggði hér Templarahús fyrir 1917[179] og árið 1936 var annað stærra samkomuhús reist (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 144).

Árið 1892 var löggiltur verslunarstaður í Haukadal[180] og á því ári hóf Matthías Ólafsson, sem áður var nefndur, verslunarrekstur hér.[181] Matthías var bóndasonur frá Ystabæ í Haukadal, fæddur 1857. Ungur hóf hann þátttöku í brauðstriti dalbúa á sjó og landi og fór í hákarlalegur sautján eða átján ára gamall.[182] Snemma kom í ljós að Matthías var vel til forystu fallinn og um tvítugsaldur hóf hann útgáfu á handskrifuðu sveitarblaði í Haukadal.[183] Að loknu námi á Möðruvöllum hafði Matthías kennslu að aðalstarfi í nokkur ár en á árunum 1889-1892 var hann verslunarmaður, fyrst hjá Torfa Halldórssyni á Flateyri en síðan hjá Gramsverslun á Þingeyri.[184]

Er Matthías hóf verslunarrekstur í Haukadal hafði hann fest kaup á skólahúsinu sem áður var nefnt og látið breyta því í verslunarhús.[185] Vorið 1891 var Jón Guðmundsson frá Grafargili í Önundarfirði að smíða innanum skólahúsið í Haukadal og segir í dagbók sinni að í öðrum enda þess ætli Matthías Ólafsson og hans fólk að búa.[186] Um þetta leyti eða síðar mun húsinu hafa verið breytt og það stækkað.[187] Gekk það þá jafnan undir nafninu Matthíasarhús uns það var rifið um 1920.[188]

Frá 1892 til 1897 rak Matthías verslunina fyrir eigin reikning en seldi hana þá Gramsverslun á Þingeyri og gerðist verslunarstjóri hennar í Haukadal.[189] Stóð svo til 1908 er Matthías keypti verslunina á ný og rak hana síðan fyrir eigin reikning næstu sex árin.[190] Hann átti jafnan talsverð viðskipti við franska sjómenn og hafði vörur frá þeim á boðstólum.[191] Fyrir forgöngu Matthíasar lét Gramsverslun koma upp íshúsi í Haukadal.[192] Var það reist árið 1897 við innri enda Seftjarnarinnar og ísinn tekinn þar á tjörninni.[193] Sjálfur stjórnaði Matthías rekstri íshússins og seldi fjölda skipa frysta beitusíld og ís. Jafnframt gekkst hann fyrir stofnun síldveiðifélags og á þess vegum var síld veidd í kastnót fyrir íshúsið í Haukadal.[194] Íshúsið var síðar flutt til Þingeyrar og í fyllingu tímans var því breytt í hraðfrystihús.[195]

Matthías í Haukadal var líka einn þriggja ráðamanna í Verslunarsambandi Vestfjarða sem á árunum 1909 og 1910 annaðist vörupantanir erlendis frá fyrir fólk í Tálknafirði, Arnarfirði, Dýrafirði og Önundarfirði og ef til vill víðar að á Vestfjörðum.[196] Hinir tveir sem skrifa með Matthíasi undir bréf frá Verslunarsambandinu eru Jóhannes Ólafsson, bróðir hans á Þingeyri, og séra Böðvar Bjarnason á Rafnseyri.[197] Í gögnum sem varðveist hafa sést að samband þetta hefur starfað í a.m.k. tvö ár, 1909 og 1910, og að umboðsmaður þess í Kaupmannahöfn var þá Thor E. Tulinius stórkaupmaður.[198] Deildir sem nefndar eru á nafn í varðveittum gögnum eru a.m.k. sjö, það er Flateyrardeild, Valþjófsdalsdeild, Mýradeild, Þingeyrardeild, Haukadalsdeild, Auðkúludeild og Tálknafjarðardeild.[199] Í bréfi Verslunarsambandsins frá 19. mars 1910 er m.a. beðið um uppskipun á Bakkabót í Arnarfirði sem bendir til þess að einhverjir þátttakendur í þessum samtökum hafi verið búsettir í Ketildölum. Í bréfi sambandsins 20. desember 1909 til Thors E. Tulinius má sjá að viðskiptin hafa hafist á því ári[200] og í bréfum frá 5. júní og 17. júlí 1910 sést að ætlunin hefur verið að borga erlendu vörurnar með fiski, ull, kjöti og peningum.[201]

Árið 1914 fluttist Matthías til Reykjavíkur. Hann var þá orðinn 57 ára gamall og hafði stjórnað verslunarrekstri í Haukadal í 22 ár. Matthías Ólafsson var alþingismaður Vestur-Ísfirðinga frá 1911 til 1919 en áður hafði Jóhannes bróðir hans verið fulltrúi þeirra á Alþingi frá 1903 til 1908. Er Matthías fluttist suður árið 1914 héldu Dýrfirðingar mikla útisamkomu á Sveinseyrarodda honum til heiðurs.[202] Í Reykjavík starfaði Matthías um skeið sem erindreki Fiskifélags Íslands en varð síðan gjaldkeri Landsverslunar og gegndi að lokum gjaldkerastarfi hjá Olíuverslun Íslands.

Á fyrsta áratug tuttugustu aldar voru um skeið tvær verslanir í Haukadal. Önnur var sú sem Matthías Ólafsson stýrði en hina átti Guðmundur Kristjánsson skipstjóri sem frá er sagt hér litlu aftar (sjá bls. 29). Guðmundur var tengdasonur Guðmundar Eggertssonar í Höll í Haukadal og þar var hann heimilisfastur árið 1905, titlaður skipstjóri í sóknarmannatali frá því ári.[203] Í manntali frá 31.12.1906 er hann hins vegar nefndur kaupmaður og svo var enn í árslok 1909 en ári síðar var hann farinn úr Haukadal og hættur þessum verslunarrekstri.[204] Með hliðsjón af þessum upplýsingum úr manntölum sýnist óhætt að slá því föstu að Guðmundur Kristjánsson hafi ekki verslað í Haukadal nema í fjögur eða fimm ár. Hann byggði reisulegt steinsteypuhús niður við sjó, spölkorn fyrir utan hús Matthíasar Ólafssonar en beint niður undan Húsatúni.[205] Í þessu steinhúsi var Guðmundur skipstjóri með verslunarrekstur sinn og þar í búðinni drakk Guðmundur Hagalín límonaði í fyrsta sinn á ævinni.[206]

Tvær verslanir munu aldrei hafa verið reknar samtímis í Haukadal nema þessi fáu ár, frá 1906 til 1910, en skömmu eftir að Matthías Ólafsson fluttist suður setti Bent Bjarnason frá Reykhólum á stofn verslun hér í dalnum og rak hana í tíu ár eða því sem næst, frá 1916 til 1926.[207]

Enda þótt þilskipaútgerð hafi verið undirstaða þéttbýlismyndunar í Haukadal voru aldrei gerðar út þaðan margar skútur. Heimamenn í Haukadal stunduðu hins vegar margir sjó á skútum sem gerðar voru út frá Þingeyri eða nálægum fjörðum og sumir þeirra voru skútuskipstjórar og áttu hlut í skipunum sem þeir stýrðu.[208] Tveggja slíkra manna skal nú getið með fáum orðum, enda vart boðlegt að fjalla um byggðina í Haukadal án þess að nöfn þeirra Andrésar Péturssonar og Ólafs Guðbjartar Jónssonar séu nefnd.

Flest bendir til þess að Andrés Pétursson hafi fyrstur manna í Haukadal tekið við stjórn á þilskipi. Hann var fæddur á Kjaransstöðum í Dýrafirði árið 1832 og ólst þar upp fyrstu árin en síðan í Hvammi og á Hofi.[209] Um 25 ára aldur fluttist Andrés að Höll í Haukadal og átti þar heima æ síðan.[210] Ungur að árum varð hann formaður á áraskipi, m.a. í hákarlalegum, og átti lengi áttæringinn Hreggvið sem hann stýrði til veiða (sjá hér Þingeyrarhreppur, inngangskafli). Þeir sem mundu hákarlaskip Dýrfirðinga á dögum Andrésar sögðu svo frá að á siglingu hefðu þau verið fljótari í förum en hraðskreiðustu gufuskip um 1930.[211] Til marks um þetta var nefnt að í rekaviðarflutningum hefði Andrés farið á fimm klukkutímum norðan frá Almenningum á Hornströndum að Sveinseyrarodda í Dýrafirði[212] en sú vegalengd er varla minna en 47 sjómílur. Hlaðinn rekavið hefur báturinn þá farið níu til tíu sjómílur á klukkustund. Á öðrum stað í þessu riti er sagt frá frækilegu afreki Andrésar Péturssonar er hann bjargaði sex mönnum af hákarlaskipinu frá Hólum í Dýrafirði sem fórst á uppsiglingu til lands í janúar 1881 (sjá hér Hólar). Þá mátti litlu muna og kom sér vel að vera fljótur í förum.

Í minningarorðum sem rituð voru um Andrés að honum látnum segir að hann hafi fyrst ráðist á þilskip 23ja ára gamall og orðið skútuskipstjóri þremur árum síðar.[213] Andrés var skipstjóri á þilskipum á hverju sumri í nær aldarfjórðung, frá 1858 til 1889[214] og hefur því verið orðinn þrautþjálfaður á þeim vettvangi er þilskipaútgerð hófst frá Þingeyri á árunum kringum 1870.

Ekki er alveg ljóst hvert var fyrsta þilskipið sem Andrés gerðist skipstjóri á en kunnugt er að árið 1861 var hann skipstjóri á jaktinni Hildi Maríu sem þá var gerð út frá Ísafirði.[215] Löngu síðar var hann lengi skipstjóri á skútunni Guðnýju sem smíðuð var í Danmörku að tilhlutan Mýramanna í Dýrafirði árið 1878 (sjá hér Mýrar) og átti Andrés hlut í henni.[216] Frá Gramsverslun hlaut Andrés einhverju sinni sjónauka ágætan að gjöf fyrir framúrskarandi dugnað á sjó.[217] Sá sjónauki gerði mönnum síðar kleift að bjarga lífi Hannesar Hafstein, þá sýslumanns Ísfirðinga en síðar fyrsta ráðherra Íslands (sjá hér Mýrar). Í minningarorðunum sem fyrr voru nefnd segir svo um Andrés Pétursson:

 

Formennska þótti láta Andrési heitnum mjög vel og mun það einmælt af flestum sem hjá honum voru hásetar að eigi hafi þeir kynnst betri sjómanni eða röggsamari skipstjóra. Um langan tíma var Andrés heitinn mestur aflamaður hér vestanlands. Á vetrum fór hann í hákarlalegur á opnu skipi eins og lengi hefur tíðkast hér í vesturhluta Ísafjarðarsýslu. Hafði hann oft mikið mannval í þær ferðir, enda fengust nógir til því þá var góð hagsvon af slíkum ferðum en formaður öruggur og skip gott.[218]

 

Andrés Pétursson var harðfengur sjósóknari en svo veðurglöggur og öruggur stjórnandi að hann varð aldrei fyrir verulegum skaða á sjó.[219] Hann stundaði bæði þorsk- og hákarlaveiðar á þilskipum og héldu sumir að hann fyndi það á lyktinni hvort hákarl væri undir. Öll skynfæri voru í góðu lagi hjá Andrési og á miðum úti þefaði hann stundum og hnusaði í allar áttir eða smakkaði á sjónum til að kanna hvort hákarl væri í nánd.[220] Andrés var sjómaður í húð og hár en hafði lítinn sem engan búskap. Í Höll, fremsta bænum í Haukadal, var hann í húsmennsku hjá svila sínum, Eggerti Magnússyni, og síðar hjá Guðmundi syni hans.[221]

Í minningarorðunum, sem rituð voru að Andrési látnum, segir að hann hafi jafnan verið mjög áhugasamur um allar framfarir í sínu byggðarlagi og ör á fé, hvort heldur var til verklegra framkvæmda eða umbóta á sviði mennta og menningar.[222]Hið síðasta verk hans sem þýðingu hefur fyrir almenning var að hann gekkst fyrir að lögð yrði brú á Haukadalsá og gaf meirihlutann af brúarefninu, [223] segir höfundur minningarorðanna sem að líkindum hefur verið Matthías Ólafsson. Andrés Pétursson andaðist heima í Haukadal 1. júlí 1892.

Ólafur Guðbjartur Jónsson, skipstjóri í Miðbæ í Haukadal, var nær 30 árum yngri en Andrés, fæddur í Haukadal árið 1861. Hann hafði aflað sér réttinda til að stjórna skipi og var skipstjóri á þilskipum í 25 ár en bjó jafnframt búi sínu í Miðbæ.[224] Í allmörg ár var Ólafur Guðbjartur skipstjóri hjá Ásgeirsverslun á Ísafirði[225] en árið 1904 eða þar um bil keypti hann litla jakt sem Alpha hét frá Suðurnesjum og stýrði henni til veiða frá Þingeyri næstu sex ár.[226] Meðeigandi hans að þessu skipi var Guðni Guðmundsson sem þá var kaupmaður á Þingeyri og sá hann um reksturinn í landi.[227] Alpha var tæplega 16 brúttólestir að stærð, smíðuð á Borgundarhólmi í Danmörku árið 1882.[228]

Um 1910 keypti Ólafur Guðbjartur þilskipið Dýra og var skipstjóri á honum næstu árin. Dýri var norsk skúta einsigld, 22 rúmlestir að stærð.[229] Hann var smíðaður í Tönsberg árið 1892[230] og hafði áður verið í eigu Guðmundar Hagalíns á Mýrum og fleiri manna og svo Gramsverslunar á Þingeyri.[231] Nokkru eftir að Ólafur Guðbjartur keypti Dýra stóð hann ásamt Nathanael Mósessyni, kaupmanni á Þingeyri, og Stefáni Guðmundssyni, skipstjóra í Hólum í Dýrafirði, að stofnun Útgerðarfélagsins hf.[232] Tók félagið þá við útgerð Dýra og um skeið voru gerð út fjögur þilskip á þess vegum.[233] Félag þetta mun hafa verið stofnað árið 1914 eða því sem næst og starfaði allt til ársins 1929.[234] Gamall Dýrfirðingur lýsir Ólafi Guðbjarti svo að hann hafi verið ágætis sjómaður, heppinn að fiska og prúður í allri framkomu.[235] Einn hásetanna á Dýra sumarið 1915 var ungur piltur sem flust hafði í Haukadal þremur árum fyrr frá Lokinhömrum, Guðmundur Hagalín Gíslason, verðandi rithöfundur. Hann lýsti síðar veru sinni hjá Ólafi Guðbjarti á Dýra og lofar þar mjög sinn gamla skipstjóra.[236] Á öðrum stað kemst Hagalín svo að orði um Ólaf Guðbjart og fólk hans í Miðbæ í Haukadal:

 

Miðbæjarfólkið var nokkuð á annan veg en aðrir Haukdælir. Það tók þátt í félagslífi og sótti skemmtanir en samt sem áður var það ómannblendnara en annað fólk í dalnum. Það var hljóðlátara, fasminna og sinnti síður glensi og gamni.[237]

 

Ólafi Guðbjarti farnaðist jafnan vel á sjó en árið sem hann varð sextugur týndist Dýri í hafi. Gamli skipstjórinn var þá kominn í land og ráðgert var að sonur hans, Ólafur Ólafsson, skólastjóri á Þingeyri, yrði með Dýra á handfæraveiðum þetta sumar, árið 1921.[238] Ólafur gat þó ekki farið út í fyrsta túrinn því hann var þá enn bundinn við skólann.[239] Markús Jónsson, sem var nýlega kvæntur dóttur Ólafs Guðbjartar,[240] hljóp þá í skarðið fyrir mág sinn og tók við skipstjórninni. Úr þeim veiðitúr kom Dýri ekki aftur og aldrei hefur síðan til hans spurst né þeirra tíu manna sem þar voru um borð.[241] Má því ætla að skipið hafi týnst í hafi. Þeir sem fórust með Dýra voru flestir úr Haukadal og Keldudal.[242]

Hér hefur nú verið sagt lítillega frá Andrési Péturssyni í Höll og Ólafi Guðbjarti Jónssyni í Miðbæ en fleiri húsmenn og bændur í Haukadal voru lengi skipstjórar á skútum við góðan orðstír. Má þar nefna Sigurð Jónsson í Húsatúni, sem var í fjöldamörg ár skipstjóri á þilskipum frá Ísafirði, og Jón Jónsson á Vésteinsholti er áður bjó í Hrauni í Keldudal og hafði lengi verið skipstjóri á skútum sem gerðar voru út frá Ísafirði.[243]

Ungir menn sem ólust upp í Haukadal á árunum 1875-1915 fóru flestir á skútur og urðu sumir kunnir skipstjórar síðar. Einn þeirra var Guðmundur Kristjánsson sem fæddur var í Haukadal árið 1871. Hann var systursonur Andrésar Péturssonar, er hér var áður nefndur, og varð 18 ára gamall formaður á áraskipi.[244] Árið 1894 réðst Guðmundur í siglingar á erlendu skipi og árið 1897 lauk hann skipstjóraprófi frá stýrimannaskóla í Rönne á Borgundarhólmi.[245]

Á árunum 1899 og 1900 voru fyrst gerðar tilraunir til togaraútgerðar frá íslenskum höfnum og kvað þar mest að útgerð Vídalínsfélagsins, sem svo var kallað, en það hóf útgerð sex togara frá Hafnarfirði vorið 1899.[246] Guðmundur Kristjánsson frá Haukadal varð þá strax stýrimaður á einum þessara togara og hét sá Akranes.[247] Í Íslenskum æviskrám er staðhæft að hann hafi verið fyrsti íslenskur togaraskipstjóri hér við land.[248] Frá 1906 til 1910 var sægarpur þessi kaupmaður í Haukadal (sjá hér bls. 25) og kenndi þá líka nokkrum nemendum siglingafræði.[249] Næstu ár var hann skipstjóri á innlendum og erlendum flutningaskipum en skipamiðlari í Reykjavík frá 1918-1932[250] og síðan kaupmaður og útgerðarmaður í Keflavík. Í fjórða bindi ritsins Frá ystu nesjum er þáttur af Guðmundi Kristjánssyni og segir þar margt frá svaðilförum hans á sjó.[251]

Vélvæðing íslenska bátaflotans hófst sem kunnugt er á Ísafirði árið 1902 en fjórum árum síðar mun fyrsti vélbáturinn hafa verið keyptur til Dýrafjarðar (sjá hér Meðaldalur). Fimm eða fleiri vélbátar voru gerðir út frá Haukadal árið 1912 og voru sumir þeirra í eigu heimamanna og mannaðir sjómönnum úr dalnum að einhverju eða öllu leyti[252] en þess voru þá líka dæmi að formenn úr grenndinni reru frá Haukadal og skipshafnir lægju þar við í verbúð.[253] Um þetta leyti reru vélbátar úr vestanverðum Dýrafirði yfirleitt með lóðir vor og haust en voru á færum yfir hásumarið.[254] Ekkert var róið frá byrjun jólaföstu og fram undir páska, enda voru bátarnir litlir. Í Haukadal var siðvenja að gefa allan aflann úr fyrsta róðri á haustvertíð þeim sem ekki voru við sjó[255] og mun sá siður hafa haldist fram um 1920.[256]

Á fyrri hluta 20. aldar voru bátar jafnan gerðir út frá Haukadal en síðustu sjóróðrana héðan fór Gunnar Einarsson í Miðbæ á árunum upp úr 1960.[257] Þá var þorpið í Haukadal komið nær alveg í eyði. Tvær manneskjur voru þó enn á íbúaskrá á Sæbóli árið 1973 og árið 1982 var skráð þar til heimilis ein 85 ára gömul kona. Öll húsin stóðu þá auð að vetrinum. En þó þorpið sé komið í eyði þá er enn (1991) búið á tveimur bændabýlum í dalnum, Miðbæ og Húsatúni. Á sumrin fjölgar fólkinu því ýmsir koma þá hingað til dvalar um lengri eða skemmri tíma og gömlu húsunum fjórum sem enn standa uppi í þorpinu er haldið vel við. Þau eru Sæból, Vésteinsholt, Barnaskólinn og Kvenfélagshúsið (samkomuhúsið). Þrjú hin fyrst nefndu eru notuð til sumardvalar en Kvenfélagshúsið hafa hestamenn fyrir afdrep.

Við lítum nú enn einu sinni yfir sögusviðið í Haukadal, stöldrum við hjá Seftjörninni en örkum síðan inn á Saltnes þar sem seiðskrattinn Þorgrímur nef og Auðbjörg systir hans á Annmarkastöðum voru barin grjóti í hel. Hér voru þau síðan kösuð á hryggnum milli Haukadals og Meðaldals (sjá hér bls. 8-11). Á Saltnesi sem gengur í sjó fram um það bil miðja vega milli bæjanna í Haukadal og Meðaldal eru landamerki þessara tveggja jarða. Upp frá nesi þessu, lítið eitt neðan við bílveginn, blasir við svolítill reitur með trjágróðri innan steinsteyptra veggja. Þetta er Fransmannagrafreitur sem steypt var utan um fyrir rösklega hálfri öld.[258] Leiðin frá Haukadal að Meðaldal er stutt, aðeins tæplega hálftíma gangur eftir þjóðveginum.

Á fyrri tíð mun hafa verið um tvær leiðir að ræða úr Haukadal í Meðaldal og áfram að bænum Hólum og kirkjustaðnum Söndum. Lá önnur með sjó og var kölluð Sandaleið en hin þétt við fjallsrætur og var kölluð Bæjaleið.[259] Sandaleið er nefnd í Gísla sögu Súrssonar[260] og hefur að líkindum verið sú sem venjulega var farin en Bæjaleið mun þó vera lítið eitt styttri.[261]

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Ólafur Ólafsson 1954, 75-81 (Helgafell 1. h.).

[2] Örnefnaskrá.

[3] Sama heimild.

[4] Sama heimild.

[5] Sama heimild.

[6] Kristján G. Þorvaldsson 1951, 127 (Árbók Ferðafél. Ísl.).

[7] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 58.

[8] Íslensk fornrit I, 180-181.

[9] Sama heimild VI, 15 og 36.

[10] Sama heimild, 15.

[11] Sama heimild, 50-56.

[12] Sama heimild, 23-24.

[13] Ísl. fornrit VI, 33-34.

[14] Sama heimild, bls. XLV.

[15] Ísl. fornrit VI, 53-54.

[16] Sama heimild, 55.

[17] Sama heimild, 58-59.

[18] Sama heimild, 89-91.

[19] Ísl. fornrit VI, 109-117.

[20] Sama heimild, 45.

[21] Sama heimild, bls. XXXI.  Sigurður Vigfússon 1883, 24 (Árbók Hins ísl. fornleifafélags).

[22] Ísl. fornrit VI, 56.  Örn.skrá.

[23] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 39.

[24] Ísl. fornrit VI, bls. XXXI og 48 (mynd).

[25] Sigurður Vigfússon 1892, 133-136 (Árbók Hins ísl. fornleifafél. 1888-1892).  Sbr. Sami 1883, 17-19.

[26] Björn M. Olsen 1885, 22 (Árb. Hins ísl. fornl.fél.).

[27] Sömu heimildir.

[28] Ísl. fornrit VI, 53.

[29] Sigurður Vigfússon 1883, 17-19 (Árbók Hins ísl. fornleifafélags).

[30] Sama heimild.

[31] Aage Roussell 1943, 220.

[32] Sama heimild.

[33] Ísl. fornrit VI, 50-51 og 57.

[34] Sama heimild, bls. XXXI.  Kristján G. Þorvaldsson 1951, 126 (Árbók F.Í.).

[35] Jarðab. Á. og P. VII, 37.

[36] Manntöl 1870 og 1880.  P. E. Kr. Kålund 1985, II, 173.

[37] Vestfirskar sagnir I, 303-305.

[38] Sturl. I, 233 og II, 278.  Bisk. II, 259.

[39] Jarðab. Á. og P. VII, 39.

[40] Ísl. fornrit VI, 19 og 52-53.

[41] Jarðab. Á. og P. VII, 39.  Sigurður Vigfússon 1883, 20-21 (Árbók Hins ísl. fornleifafélags).

[42] Sigurður Vigfússon 1883, 20-24.

[43] Jarðab. Á. og P. VII, 39.

[44] Sigurður Vigfússon 1883, 20-21 og 1892, 133-136 (Árbók Hins ísl. fornleifafélags).

[45] Sama heimild.

[46] Sama heimild.

[47] Jarðabók Á. og P. VII, 39.

[48] Örn.skrá.

[49] Jarðab. Á. og P. VII, 39.

[50] Ísl. fornrit VI, 57.

[51] Örn.skrá.

[52] Ólafur Ólafsson 1954, 75-81 (Helgafell 1. h.).

[53] Sigurður Vigfússon 1883, 28 (Árbók Hins ísl. fornleifafélags).

[54] Ísl. fornrit VI, 57.

[55] Ísl. fornrit VI, 59-60.

[56] Sama heimild.

[57] Sigurður Vigfússon 1883, 28 (Árbók Hins ísl. fornleifafélags).

[58] Jarðab. Á. og P. VII, 39.

[59] Ísl. fornrit VI, 59.

[60] Sigurður Vigfússon 1883, 29.

[61] Ólafur Ólafsson 1954, 75-81 (Helgafell 1. h.).

[62] Jarðab. Á. og P. VII, 39.

[63] P. E. Kr. Kålund 1985, 173.

[64] Sigurður Vigfússon 1883, 29-30 (Árbók Hins ísl. fornleifafélags).

[65] Ísl. fornrit VI, bls. XXXI-XXXII og 59.

[66] Sama heimild, 37.

[67] Jarðab. Á. og P. VII, 39.

[68] Sigurður Vigfússon 1883, 31.

[69] Sama heimild.

[70] Unnur Þórarinsdóttir og Kristján Gunnarsson. – Viðtal K.Ó. við þau í júlí 1991.

[71] Ísl. fornrit VI, 37.

[72] Sama heimild, 56-57.

[73] Sama heimild, 60.

[74] Sama heimild.

[75] P. E. Kr. Kålund 1985, II, 173.

[76] D.I. V, 495.

[77] D.I. IV, 688.

[78] Sturl. I, bls. XII.

[79] Sama heimild, 233.

[80] D.I. X, 367.

[81] D.I. XI, 636-637.

[82] Lögréttumannatal, 582-583.

[83] Sama heimild.  D.I. X, 367.

[84] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir (Kph. 1993), bls. 103-104.

[85] Sama heimild, 156.  Íslenskar æviskrár I, 18-19 og IV, 379.

[86] Jarðabr. frá 16. og 17. öld. Útdr. (Kph. 1993), bls. 78.  Ísl. æviskrár III, 432.  Lögréttumannatal, 187.

[87] Jarðabr. frá 16. og 17. öld. Útdr. (Kph. 1993), bls. 159.

[88] Ísl. æviskrár III, 172-173 og 282.

[89] Sama heimild III, 217.

[90] Jarðabr. frá 16. og 17. öld. Útdr. (Kph. 1993), bls. 165.  Ísl. æviskrár I, 235.

[91] Jarðabr. frá 16. og 17. öld. Útdr. (Kph. 1993), bls. 165.

[92] Sama heimild, 159.

[93] Ísl. æviskrár III, 172-173.

[94] Sama heimild, 41-42, 217, 431 og 433.

[95] Jarðabr. frá 16. og 17. öld. Útdr. (Kph. 1993), bls. 159.

[96] Sama heimild.

[97] Sama heimild, 177.  Sbr. Ísl. æviskrár I, 257-258.

[98] Jarðab. Á. og P. VII, 37. Sbr. Jarðabr. frá 16. og 17. öld. Útdr. (Kph. 1993), bls. 179.

[99] Jarðab. Á. og P. XIII, 226.

[100] Jarðabr. frá 16. og 17. öld. Útdr. (Kph. 1993), bls. 78. Lögréttumannatal, 187.

[101] Jarðab. Á. og P. VII, 37.

[102] Sama heimild.

[103] Sama heimild.

[104] Sama heimild, 37-39.

[105] Sama heimild.

[106] Sama heimild.

[107] Sama heimild.

[108] P. E. Kr. Kålund 1985, II, 172.

[109] Guðmundur Gíslason Hagalín 1978 (frumútgáfa1952), 5.

[110] Jarðab. Á. og P. VII, 39.

[111] Sóknalýs. Vestfj. II, 57.

[112] Sama heimild, 59.

[113] Sigurður Vigfússon 1883, 28 (Árbók Hins ísl. fornleifafélags).

[114] Jarðab. Á. og P. VII, 39.

[115] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Þingeyrarhreppur 2. Hreppsbók 1835-1851.

[116] Manntal 1801.

[117] Vestf. sagnir III, 78-82.

[118] Manntal 1845.

[119] Ólafur Ólafsson 1957, 9-12 (Ársrit S.Í.).

[120] Vestf. sagnir I, 202-209.

[121] Sama heimild, 204-205.

[122] Vestf. sagnir I, 204-205.

[123] Sama heimild, 206.

[124] Manntal 1816.

[125] Vestf. sagnir I, 212.

[126] Manntal 1845.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Þingeyrarhreppur. 2. Hreppsbók 1835-1851.

[127] Ólafur Ólafsson 1959, 85. (Ársrit Sögufél. Ísf.).

[128] Örn.skrá.

[129] Gunnar H. Jónsson frá Höll í Haukadal, f. 1922. – Viðtal K.Ó. við hann 2.12.1997.

[130] Sama heimild.

[131] Sama heimild.  Sbr. Manntal 1890.

[132] Manntal 1703.

[133] Manntal 1801.

[134] Manntöl 1845 og 1870.

[135] Manntal 1880.  Sbr. P. E. Kr. Kålund 1985, II, 173.

[136] Örn.skrá.

[137] Sama heimild.

[138] Ólafur Ólafsson 1957, 36-37 (Ársrit S.Í.).

[139] Sama heimild.  Ottó Þorvaldsson 1980, 100.

[140] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. B. 2. Verslunarskýrslur 1850-1878, ár 1873, skýrsla yfir þau frönsk skip

      sem lestagjald hefur verið tekið af á Dýrafirði sumarið 1873, dags. 18.8.1873 í Haukadal og undirrituð

af Ólafi Jónssyni.

[141] Sama heimild.

[142] K.Ó. 1986, 156 (Saga, tímarit).

[143] Alþingisbækur Íslands IX, 74.

[144] Ólafur Ólafsson 1957, 36-37 (Ársrit S.Í.).

[145] Sama heimild.

[146] Sama heimild.

[147] Örn.skrá.

[148] Ólafur Ólafsson 1962, 90-93 (Ársrit S.Í.).

[149] Ólafur Ólafsson 1962, 90-93 (Ársrit. Í.).

[150] Guðm. G. Hagalín 1978 (1952), 130.

[151] Ægir 35. árg. 1942, 67.

[152] Lbs. 23744to, Dagbók Sighvats Grímssonar Borgfirðings 26.5.1883.

[153] Sama dagbók, 21.5.1885.

[154] Örn.skrá.

[155] Sama heimild.

[156] Gunnar H. Jónsson frá Höll í Haukadal, f. 1922. – Viðtal K.Ó. við hann 2.12.1997.

[157] Sama heimild.

[158] Manntöl 1703, 1801, 1845 og 1870.

[159] Manntöl 1880, 1890, 1901 og 1910.

[160] Manntal 1920.  Tölfræðihandbók 1984, 21.

[161] Manntal 1890.

[162] Sama heimild.

[163] Ólafur Ólafsson 1959, 86 (Ársrit S.Í.).

[164] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.  Ólafur Ólafsson 1959, 88.

[165] Manntal 1901.

[166] Manntal 1901.

[167] Sóknarm.tal 1891.  Manntal 1910.  Guðm. G. Hagalín 1978 (1952), 7-8.

[168] Manntal 1920. Ólafur Ólafsson 1959, 86 (Ársrit S.Í.)

[169] Manntal 1901.

[170] Sama heimild.

[171] Manntal 1920.

[172] Bjarni Guðmundsson 1984, 116-128 (Ársrit S.Í.).

[173] Lbs. 23744to, Dagbók Sighv. Gr. Borgf. 29. og 31.10.1885.

[174] Bjarni Guðmundsson 1984, 116-128.

[175] Sama heimild.

[176] Sama heimild.

[177] Sama heimild.

[178] Lbs. 23744to, Dagbók Sighv. Gr. Borgf. 31.12.1885.

[179] Guðm. G. Hagalín 1953, 249-250.  Örn.skrá.

[180] Stjórnartíðindi 1892 A, bls. 10-11.

[181] Ólafur Ólafsson 1959, 89 (Ársrit S.Í.).  Skj.s. landshöfð. Verslunarskýrslur. Askja XXXIV. Fastar verslanir.

[182] Ægir 35. árg. 1942, 66-70.

[183] Ægir 35. árg. 1942, 66-70.

[184] Sama heimild.

[185] Sama heimild.

[186] Lbs. 45824to, Dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili 26.4.1891.

[187] Bjarni Guðmundsson 1984, 116-128 (Ársrit S.Í.).

[188] Sama heimild.

[189] Ægir 35. árg. 1942, 66-70.

[190] Ólafur Ólafsson 1959, 89 (Ársrit S.Í.).

[191] Guðm. G. Hagalín 1978 (1952), 130.

[192] Ægir 35. árg. 1942, 66-70.

[193] Guðm. G. Hagalín 1952, 5. Firðir og fólk 1900-1999, 168-169.

[194] Ægir 35. árg. 1942, 66-70.

[195] Kristján G. Þorvaldsson 1951, 128 (Árbók F.Í.).

[196] Verslunarbók Verslanasambands Vestfjarða, bréf og vörupantanir. (Varðv. í bókasafninu á Þingeyri).

[197] Sömu heimildir.

[198] Sömu heimildir.

[199] Verslunarbók Verslanasambands Vestfjarða, bréf og vörupantanir. (Varðv. í bókasafninu á Þingeyri).

[200] Sömu heimildir.

[201] Sömu heimildir.

[202] Ottó Þorvaldsson 1980, 59-60.

[203] Sóknarm.tal Sandapr.kalls 1905.

[204] Sóknarm.töl Sandapr.kalls 1906-1910.

[205] Guðm. G. Hagalín 1978 (1952), 9.

[206] Sama heimild.

[207] Ottó Þorvaldsson 1980, 78.  Sóknarm.töl Sandapr.kalls 1915-1928.

[208] Skútuöldin IV, 206 og sama V, 117.  Ólafur Ólafsson 1962, 85-86 (Ársrit S.Í.).

[209] Þjóðviljinn ungi 1893, II, 43-44.

[210] Sama heimild.

[211] Nathanael Mósesson: Hákarlaskip í Dýrafirði 1865-1892, ljósrit í eigu K.Ó.

[212] Sama heimild.

[213] Þjóðviljinn ungi 1893, II, 43-44.

[214] Sama heimild.

[215] Arngrímur Fr. Bjarnason 1980, 24-25 (Inng.orð að Gullkistu Á.G.).

[216] Skútuöldin IV, 206.

[217] Ólafur Ólafsson 1959, 104 (Ársrit S.Í.).

[218] Þjóðviljinn ungi 1893, II, 43-44.

[219] Skútuöldin IV, 204.

[220] Sama heimild, 208.

[221] Ólafur Ólafsson 1959, 103 (Ársrit S.Í.).

[222] Þjóðviljinn ungi 1893, II, 43-44.

[223] Sama heimild.

[224] Ólafur Ólafsson 1959, 87 (Ársrit S.Í.).

[225] Skútuöldin V, 116-117.

[226] Ólafur Ólafsson 1962, 85-88 (Ársrit S.Í.).

[227] Ólafur Ólafsson 1962, 85-88 (Ársrit S.Í.).

[228] Aðalskipaskrá 1870 – sept 1896, bls. 102 (Skjöl Sigl.málastofnunar í Þjóðskjalasafni).

[229] Skútuöldin III, 323, I, 226 og V, 116-117.

[230] Aðalskipaskrá 6.9. 1895 – 17.6. 1920, bls. 95.

[231] Skútuöldin I, 226 og 234.

[232] Sama heimild V, 116-117.

[233] Sama heimild og Skútuöldin I, 238-239.

[234] Sömu heimildir.

[235] Sömu heimildir.

[236] Guðm. G. Hagalín 1978 (1953), 77-149.

[237] Sama heimild, 39.

[238] Sami 1978 (1952), 209.

[239] Sama heimild.

[240] Skútuöldin III, 323 og V, 116-117.

[241] Skútuöldin III, 323.

[242] Sama heimild.  Gísli Vagnsson 1956, 63 (Ársrit Sögufél. Ísf.).

[243] Skútuöldin V, 117.  Ólafur Ólafsson 1959, 88 (Ársrit S.Í.).

[244] Frá ystu nesjum IV, 117-118.

[245] Sama heimild.

[246] Sama heimild.

[247] Sama heimild.

[248] Ísl. æviskrár V, 346.

[249] Skipstjóra- og stýrimannatal I, 266-267.

[250] Frá ystu nesjum IV, 117-118.

[251] Sama heimild, 117-135.

[252] Guðm. G. Hagalín 1978 (1952), 8, 9 og 16.

[253] Sama heimild.

[254] Guðm. G. Hagalín 1978 (1952), 8, 9 og 16.

[255] Lúðvík Kristjánsson 1985, 135.

[256] Sama heimild.

[257] Kristján Gunnarsson. – Viðtal K.Ó. við hann í júlí 1991.

[258] Örn.skrá.

[259] Ólafur Ólafsson 1954, 75-81 (Helgafell, 1. h.).

[260] Ísl. fornrit VI, 61.

[261] Ólafur Ólafsson 1954, 75-81.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »