Hergilsey

Norður af Flatey og lítið eitt til vesturs rís Hergilsey, hæst eyja í Vestureyjum. Milli eyjanna tveggja eru um fjórar sjómílur. Í Hergilsey byggði fyrstur manna, að sögn Landnámu, Hergils hnapprass, sonur Þrándar mjóbeins, landnámsmanns í Flatey. Sonur Hergils var Ingjaldur í Hergilsey sem kunnur er úr sögu Gísla Súrssonar og best reyndist Gísla í útlegðinni.

Þrjá vetur dvaldi Gísli með Ingjaldi í Hergilsey og leyndist jafnan í jarðhýsi ef gestir komu til eyjarinnar. Loks kom þar að uppvíst varð um dvöl Gísla í eynni og krafðist Börkur hinn digri þess að Ingjaldur framseldi útlagann. Ingjaldur stóð á Vaðsteinabergi og mælti til Barkar þau orð sem fastar greyptust í íslenska þjóðarvitund en flest önnur: Ek hefi vánd klæði, og hryggir mig ekki, þó at ek slíta þeim eigi gerr.[1] Kvaðst Ingjaldur fyrr mundu lífið láta en ganga frá liðveislu við Gísla. Komst Gísli á braut að því sinni en þaðan í frá varð útlegð hans örðugri en fyrr.

Um liðveislu Ingjalds í Hergilsey við Gísla orti Stephan G. Stephansson árið 1895 kvæðið Hergilseyjarbóndinn og eru tvær síðustu vísurnar á þessa leið:

 

Ég aldrei við svívirðu sæmd mína gef.

Þú selur mér tórandi aldrei mitt líf.

En Gísla, þinn útlaga, haldið ég hef

og hvenær sem get það ég verð ‘onum hlíf.

Og slitin og forn eru föt mín og ljót

að flíka þeim lengur ég skeyti ekki hót.

 

Því sál hans var stælt af því eðli sem er

í ættlandi hörðu, sem dekrar við fátt,

sem fóstrar við hættur – því það kennir þér

að þrjóskast við dauðann með trausti á þinn mátt.

Í voðanum skyldunni víkja ei úr

og vera í lífinu sjálfum þér trúr.[2]

 

Vaðsteinabergið, þar sem Ingjaldur stóð, prýðir enn Hergilsey, um 18 metra hátt, lóðréttir, ljósir stuðlabergshamrar úr fjöru á brún sunnantil á eynni. Um byggð í Hergilsey er ekki kunnugt næstu átta aldirnar eftir daga Ingjalds og fullvíst er að eyjan hafði öldum saman verið í eyði er byggð hófst hér á ný vorið 1783. Fylgdi Hergilsey þá Flatey og höfðu Flateyingar hér í seli.

Það var Eggert Ólafsson sem fyrstur reisti bú í Hergilsey á síðari tímum og hefur áður verið sagt frá umsvifum hans í Oddbjarnarskeri (sjá hér Oddbjarnarsker). Eggert fæddist í Rauðsdal á Barðaströnd um 1730 en fluttist með foreldrum sínum til Flateyjar um fermingaraldur. Foreldrar hans voru fátækir en hann hóf ungur sjósókn í Oddbjarnarskeri og varð brátt aflasæll formaður þar. Er árin liðu auðgaðist Eggert og tókst að eignast 15 hundruð í Flatey en með Hergilsey var öll bændaeignin þar þá talin 80 hundruð.[3] Frá Flatey flutti Eggert í Sauðeyjar í Barðastrandarhreppi um 1774 og var þar búsettur næstu árin.

Vegur Eggerts stóð nú með blóma. Hvað sem valdið hefur fékk hann hug á að færa bústað sinn í Hergilsey og byggja þar upp. Þeirri ráðagerð hratt hann í framkvæmd fáum árum síðar. Eigendur Flateyjareigna voru þá sjö, auk kirkjunnar sem átti 40 hundruð. Að fengnu loforði konungs um greiðslu kostnaðar við skiptin fóru þau fram haustið 1782 og lauk 13. september. Var bændaeignunum skipt í tvo jafna hluta, 40 hundruð skyldu tilheyra Flatey og önnur 40 hundruð Hergilsey. Hluti kirkjunnar skiptist líka jafnt milli eyjanna. Strax á skiptafundinum fékk Eggert 32 ½ hundrað í Hergilsey til ábúðar. Þar af átti hann sjálfur, sem áður sagði, 15 hundruð.[4] Vorið 1783 færði Ekkert bústað sinn í Hergilsey og bjó hér til dauðadags 1819.

Það var Bjarni Einarsson, sýslumaður í Haga, sem stóð fyrir skiptingu Flateyjareigna og fleiri nýbýlastofnunum. Í Ritum Lærdómslistafélagsins segir í skýrslu um konungleg verðlaun og náðargjafir fyrir árið 1782:

 

Í sama tilliti er sýslumanni Bjarna Einarssyni í Barðastrandarsýslu tilkynnt velþóknun konungs yfir hans umhyggju með að ástofna bústaðanna fjölgun á stærri jörðum, hvar henni má við koma, og honum heitið verðlaunum fyrir að framfylgja þessu í sýslunni. Líka hefur kóngur heitið að borga eftir réttum reikningi hvað skiptið á Hergilseyju og Flateyju í sama áformi kann að kosta á sínum tíma.[5]

 

Í næsta árgangi sama tímarits er staðfest að Bjarna sýslumanni hafi verið veitt þau verðlaun fyrir nýbýlabyggingar, er honum voru heitin árið áður, og tekið fram að verðlaunin fái hann m.a. fyrir nýbyggingu Hergilseyjar. Á sama stað er greint frá öðrum verðlaunum, fjórum spesíum, sem Eggert Ólafsson fékk frá konungi, þó ekki fyrir nýbygginguna heldur fyrir að hafa einkanlega gert sig nafnkenndan með sérlegri kostgæfni og heppni við lóðafiskveiðina.[6] Sýnir þetta að Eggert hefur verið forgöngumaður um línuútgerð við norðanverðan Breiðafjörð. Í Jarðabók Árna og Páls frá byrjun 18. aldar segir að lóðir séu nær aldrei brúkaðar í Oddbjarnarskeri (sjá hér Oddbjarnarsker) og í nálægri verstöð á Siglunesi á Barðaströnd mun Bjarni Þórðarson fyrstur manna hafa tekið upp línuveiðar[7] en hann var aðeins rétt um tvítugsaldur þegar Eggert fékk verðlaunin.

Eggert í Hergilsey varð mikill ættarhöfðingi og voru niðjar hans lengi fjölmennir í Hergilsey. Eggert var þríkvæntur og getið er átta barna hans með fimm konum. Var 45 ára aldursmunur á elsta og yngsta barninu. Árið 1801 voru fjögur heimili í Hergilsey. Sjálfur var Eggert húsbóndi á einu þeirra en börn hans og tengdabörn húsráðendur á öllum hinum. Á manntali frá því ári eru taldir 50 heimilismenn í Hergilsey.[8] Þann 19. júlí 1801 varð sá hörmulegi atburður að tíu manneskjur úr Hergilsey drukknuðu á heimleið frá messu í Flatey er báturinn Skíði fórst.[9] Voru það tveir karlmenn, tvö börn og sex konur, fjórar þeirra barnshafandi. Allt er þetta fólk skráð í Hergilsey í manntalinu frá 1801 nema ein manneskja. Meðal þeirra sem fórust voru tvær dætur Eggerts og fjórir aðrir niðjar hans, einnig tengdasonur. Síðar á sama ári fórust þrír heimamenn úr Hergilsey, ásamt einum lausamanni úr Flatey, í melferð í Oddbjarnarsker (sjá hér Oddbjarnarsker). Hafði þá fjórðungur hinna fimmtíu Hergilseyinga drukknað á einu og sama misserinu. Voru þar stór skörð höggvin í knérunn Eggerts bónda og landnámsmanns. Á manntali fimmtán árum síðar voru samt áfram fjögur heimili í Hergilsey og íbúarnir 38. Gamli Eggert var þá 85 ára gamall og niðjar hans allt um kring.[10]

Þegar Eggert í Hergilsey andaðist árið 1819 átti hann 149 jarðarhundruð og hefur þá verið í hópi allra ríkustu bænda við Breiðafjörð. Uppskrift á dánarbúi hans er birt í Árbók Barðastrandarsýslu, níunda árgangi, og er hin fróðlegasta. Alls var dánarbú Eggerts virt á 3.470 ríkisdali og 74 skildinga en skuldir þess voru sáralitlar.

Jarðeignirnar voru metnar á 2.496 ríkisdali eða um 72% af verðmæti heildareignanna. Eggert átti þá 20 hundruð í Hergilsey, allan Fjörð í Múlasveit og auk þess hlut í sjö öðrum jörðum, flestum í Reykhólasveit og Múlasveit. Athygli vekur að í Hergilsey var hvert jarðarhundrað virt á 50 ríkisdali en í hinum jörðunum aðeins á 9 til 14 ríkisdali. Líklega hefur verstaðan í Oddbjarnarskeri og fjölbreytt hlunnindi ráðið mestu um hið háa mat á hundruðunum í Hergilsey.

Lifandi peningur Eggerts var virtur á 462 ríkisdali eða 13,3% af verðmæti heildareignanna en tveir bátar, sem gamli maðurinn átti þá enn, aðeins taldir 38 ríkisdala virði. Dálítið átti karl af silfurpeningum eða 53 ríkisdali en sá sjóður hefur þá svarað til liðlega tveggja kúgilda. Nánar verður ekki sagt frá þessari eignaskrá hér en gaman hefði verið að sjá Hergilseyjarbóndann á bláu klæðiskápunni sem virt var á tíu ríkisdali, sömu upphæð og viðurinn í baðstofuloftinu en baðstofan var fjögur stafgólf.

Af síðari tíma bændum í Hergilsey er kunnastur Snæbjörn Kristjánsson sem hér bjó frá 1895 til dauðadags 1938. Snæbjörn var sjóhetja eins og langafi hans, Eggert landnámsmaður í eynni. Hér hefur áður verið minnst lítillega á sjósókn Snæbjarnar (sjá Oddbjarnarsker) og árið 1930 kom út Saga Snæbjarnar í Hergilsey, rituð af honum sjálfum, holl lesning hverjum manni. Fræg varð tilraun Snæbjarnar hreppstjóra í Hergilsey og Guðmundar Björnssonar, sýslumanns á Patreksfirði, til að taka breskan togara sem staðinn var að ólöglegum veiðum á Breiðafirði haustið 1910. Komust þeir sýslumaður og Snæbjörn um borð í togarann en breski skipstjórinn neitaði að hlýða fyrirmælum þeirra og sigldi með þá til Englands. Í bók sinni segir Snæbjörn m.a. frá þessari viðureign og lýsir ferðinni. Kemur þá í ljós hvað heimur Íslendingasagna og annarra fornrita var lifandi í hug þessa sjósóknara og bónda í Hergilsey. Er farið var hjá Orkneyjum segir Snæbjörn:

 

Ég hafði þá gaman af að rifja upp í huganum sögur Orkneyjajarla og ferð Kára Sölmundarsonar til Orkneyja á jólum, er hann drap Gunnar Lambason og blóðugt höfuð Gunnars hraut upp á borðið fyrir jarlana.[11]

 

Og þegar togarinn nálgaðist Humbermynni stendur hreppstjórinn úr Hergilsey í höm við skipsbátinn, ófrjáls maður:

 

– og var að hugsa um Egil Skallagrímsson, þegar hann braut skip sitt þar á söndunum, fór upp til Jórvíkur og kvað Höfuðlausn. Ég varð hálfvotur, því að hvorugur okkar sýslumanns hafði neitt til hlífðar, ekki svo mikið sem vettlinga, hvað þá annað.[12]

 

Gott var mörgum að eiga þá að, Kára úr brennunni, Egil og aðra slíka. Gæti svo verið enn ef menn aðeins kynnu að nálgast þá.

Sigurður Nordal prófessor ritaði formála að annarri útgáfu ævisögu Snæbjarnar. Hann segir þar:

 

Snæbjörn Kristjánsson var mikilmenni, í hinni gömlu og góðu merkingu, sem miðar við hvað maðurinn er af sjálfum sér. Hann var þrekmaður að allri gerð, bæði til líkama og sálar, skapfastur, geðríkur og tilfinninganæmur, vel viti borinn og djarfur í hugsun. Að sumu leyti mátti kalla hann frumstæðan og fornan í skapi því að hann stóð djúpum rótum í arferni ævagamalla uppeldishátta og lífsskoðunar. En honum varð ekki heldur skotaskuld úr því að átta sig á samtíðinni og nýjum viðhorfum, eftir því sem hann þurfti og taldi sér samboðið. … Mér hefur jafnan fundist að allmikið skarð hefði verið í þekkingu mína á Íslendingum að fornu og nýju, ef ég hefði ekki kynnst honum.[13]

 

Snæbjörn í Hergilsey var oft hætt kominn á sjó en hörðust var þolraunin í brimgarðinum á Hjallasandi undir Jökli er hann missti bátinn og alla menn sína en barðist sjálfur þrjár stundir í brimgarðinum til lífs og náði að lokum landi, einn og örmagna.

Hann brá stundum fyrir sig vísnagerð eins og Egill á Borg. Rausi þessu um Hergilsey má ljúka með vísu er Snæbjörn ljóðaði með á ungan ofláta:

 

Ég hef reynt í éljum nauða

jafnvel meira þér.

Á landamerkjum lífs og dauða

leikur enginn sér.

 

 

[1] Ísl. fornrit VI, 84.

[2] Stephan G. Stephansson/Andvökur, Reykjavík 1939.

[3] Jarðabók Á. og P. VI, 237 og 241.  Játv. J. Júlíusson 1979, 54.

[4] Sveinbjörn Guðmundsson 1951, 13-15 (Árbók Barðastrandarsýslu).  Sóknalýs. Vestfj. I, 179.

[5] Rit þess ísl. Lærdómslistafélags II, 272 – Kph. 1781.

[6] Sömu rit III, 285-286 – Kph. 1782.

[7] Gestur Vestfirðingur III, 112.

[8] Manntal 1801, vesturamt, bls. 210-211.

[9] Játv. J. Júlíusson 1979, 113-114.

[10] Manntal 1816.

[11] Snæbj. Kristjánsson 1958, 185 (2. útgáfa).

[12] Sama heimild, 187.

[13] Sigurður Nordal/Snæbj. Kristjánsson 1958, 5.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »