Höfn

Frá Svalvogum að Höfn er um það bil hálftíma gangur og þar er gatan greið. Rétt norðan við Svalvogavita sveigir strandlengjan dálítið til norðausturs en þó verður tæplega sagt með réttu að bærinn í Höfn standi við Dýrafjörð því fjörðurinn opnast ekki fyrr en komið er á Hafnarnes, svolítið innan við túnið í Höfn. Báðir bæirnir á Sléttanesi, Svalvogar og Höfn, standa því fyrir opnu hafi.

Skömmu áður en við komum að Höfn á leið okkar frá Svalvogum opnast þröngur dalur inn til landsins, þráðbeint að kalla frá norðri til suðurs, og er hann tveir til þrír kílómetrar á lengd. Þetta er Hafnardalur og um hann fellur Hafnará.

Vestan við dalinn er fjallið Hafnarhyrna eða Hyrnufjall eins og það er nefnt í sóknarlýsingunni frá því um 1840.[1] Hafnarhyrna er norðurendinn á hinu mikla Tóarfjalli sem hér hefur áður verið kynnt (sjá Lokinhamrar). Norðan við hyrnuna er Hafnarskarð en norðan þess annað fjall sem Karl heitir,[2] – stundum nefnt Lægri-Hafnarhyrna,[3] og nær langleiðina til sjávar við mynni dalsins. Hinum megin við dalinn rís Helgafell, nær 550 metrar á hæð og skilur að Hafnardal og Keldudal, ysta fjall við vestanverðan Dýrafjörð. Seltóttir eru í austanverðum Hafnardal[4] en úr vestanverðum dalnum, framan við Hafnarhyrnu, var farið um Lambaveg til grasa upp á Tóarfjall.[5] Um aldamótin 1900 voru slíkar grasaferðir enn farnar á hverju ári frá Höfn.[6]

Þar sem vegurinn liggur fyrir endann á fjallinu Karli, vestan við mynni Hafnardals, eru landamerki Svalvoga og Hafnar. Kögur heitir klettarani sem hér gengur í sjó fram og á honum er landamerkjaþúfan.[7] Frá henni er landamerkjalínan dregin upp í mitt Hafnarskarð.[8] Fremst í Kögrinum, Svalvogamegin, er smá klettastrýta sem nær alltaf er umflotin sjó. Hún er nefnd Kögurkerling og hentu sjómenn oft til hennar smáfiski þegar komið var úr róðri.[9] Þótti slíkt lánsmerki og töldu margir að kerling þessi launaði vel fyrir sig.[10] Rétt norðaustan við Kögur gefur að líta hól allmikinn niður við ströndina og er það Svaðshóll (sjá hér bls. 7-9). Lítið eitt norðan við hann er gríðarstór klettabás við sjóinn og var hann áður notaður sem sauðabyrgi[11] eins og hér verður brátt nánar frá sagt (sjá bls. 7-9). Frá Svaðshól og sauðabyrginu er spölurinn skammur að Hafnará og þaðan örstutt til bæjar í Höfn.

Allt frá árinu 1943 hefur bærinn í Höfn legið í eyði. Þar stendur nú (1991) sumarbústaður í eigu Ottós Þorvaldssonar sem lengi bjó í Svalvogum og Ottó, sem nú er eigandi Hafnar, hefur líka látið gera upp gamla íbúðarhúsið þar. Bærinn í Höfn stóð að kalla á sjávarbakkanum og gamla túnið nær niður að fjörusteinum.

Að fornu mati var jörðin talin tólf hundruð að dýrleika. Landþröngt hefur verið í Höfn en þó voru þar 3 kýr og 109 sauðkindur árið 1710 og líka bæði naut og hestur en tekið er fram í Jarðabókinni frá því ári að sumu þessu kvikfé sé komið í fóður á öðrum bæjum.[12] Það sem úr sjónum fékkst mun hins vegar oft hafa bætt upp grasleysið hjá Hafnarbændum. Í Jarðabók Árna og Páls er greint svo frá að skriður og grjóthrun hafi skemmt túnið í Höfn og eyðilagt allar engjar í landareigninni. Þar er tekið fram að úthagar séu líka svo forspiltir af skriðum að Hafnarbóndi þurfi að þiggja haga af Selvogum, einkum vetrarbeit.[13] Í sóknarlýsingunni frá því um 1840 er heyskapur sagður lítill í Höfn en útigangur talinn góður[14] og reyndar er líka tekið fram í Jarðabókinni frá 1710 að fjörubeit sé hér í betra lagi.[15]

Hér hefur áður verið minnst stuttlega á útræði frá verstöðvum í landi Hafnar (sjá Þingeyrarhreppur, inngangskafli). Heimræði var frá Höfn árið um kring og um 1690 fóru bændur frá öðrum bæjum að sækja sjó héðan á vorvertíðinni.[16] Spruttu þá upp tvær verstöðvar í landi jarðarinnar, önnur við heimavörina en hin á Hafnarnesi, í um það bil 700 metra fjarlægð frá bænum. Í Jarðabók Árna og Páls er síðarnefnda verstöðin kölluð Innrihöfn.[17] Í Jarðabókinni er tekið skýrt fram að í hvorugum þessara staða hafi verstöðvar risið á fót fyrr en um 1690.[18] Á árunum 1690-1710 reru einn til þrír aðkomubátar frá heimavörinni í Höfn á hverri vorvertíð og tveir til fjórir frá Innrihöfn.[19] Í síðarnefndu verstöðinni voru tvær verbúðir uppistandandi árið 1710 sem skipverjar upp byggja á sinn kostnað og flytja torf til.[20] Aðrar tvær voru þá niður fallnar. Eigendur Hafnar í byrjun 18. aldar voru séra Sigurður Jónsson í Holti í Önundarfirði og Bjarni Bjarnason, lögréttumaður í Arnarbæli á Fellsströnd,[21] en hann var frá Hesti í Önundarfirði og hafði á ungum aldri verið rekinn úr Skálholtsskóla fyrir kukl (sjá hér Hestur). Þeir Bjarni frá Hesti og séra Sigurður létu á fyrstu árum 18. aldar innheimta vertoll af öllum sem reru frá Höfn eða Hafnarnesi og var tollurinn oftast einn fjórðungur af hverjum manni[22] sem svaraði til eins áttunda hluta úr ærverði. Bátar útróðramanna sýnast hafa verið fimm eða þar um bil að jafnaði á hverri vertíð og sé gert ráð fyrir að sex hafi verið á hverjum þá hafa vermennirnir oftast verið um 30. Eigendur jarðarinnar hafa þá fengið sem svaraði þremur til fjórum ærverðum í toll eftir hverja vertíð. Heimalendingin í Höfn var árið 1710 sögð brimsöm og skerjótt og hættuleg þegar að amar.[23]

Séra Bjarni Gíslason á Söndum, sem ritaði Lýsingu Sanda- og Hraunssókna á árunum kringum 1840, nefnir verstöðvarnar Selsker, Hafnarnes og Svalvogahamar.[24] Selsker er örskammt frá landi, rétt innan við túnið í Höfn, alveg við heimalendinguna. Skerið er stórt og fer ekki í kaf nema í brimi. Til lendingar var jafnan farið innan við skerið[25] og þar er gamla heimavörin í fjörunni. Rétt vestan við vörina er Brókarsteinn. Þar fóru sjómenn úr skinnbrókum sínum.[26] Nær beint upp af vörinni er forn tótt, sem vel gæti verið verbúðarrúst, en litlu utar eru yngri tóttir. Þar hefur að líkindum verið sjávarhús en líka fjárhús og rétt. Mjög er líklegt að fjárhús á þessum stað hafi á fyrri tíð verið notuð sem verbúð eins og algengt var þar sem útróðramenn héldu til heima við bæi.

Um Hafnarnes segir séra Bjarni að þar séu veiðistaða og verbúðir Dýrfirðinga vestan fram.[27] Í ritgerð sinni talar hann um tvær lendingar þar við nesið og nefnir Innri- og Ytri-Höfn.[28] Báðar þessar hafnir munu hafa verið við einn og sama voginn[29] ekki langt frá nesinu miðju. Vogurinn breikkar innst til beggja handa og greinilegt að vel hefur hentað að lenda áraskipum bæði við innanverðan og utanverðan vogsbotninn. Verbúðatóttir eru sjáanlegar beggja vegna, ein a.m.k. innantil og tvær utantil. Vel er hugsanlegt að fimm áhafnir hafi haldið til í þessum þremur búðum. Rétt utan við lendingarvoginn á Hafnarnesi er annar vogur og heitir sá Klængsvogur.[30] Þar má heita ófært að lenda en sagnir herma að þar hafi einhverju sinni lent bátur norðan af Ströndum og menn allir farist í lendingunni.[31]

Séra Bjarni getur þess í sóknarlýsingu sinni að við Hafnarnes sé yfrið brimasamt í norðanátt og tekur fram að stundum verði þar með öllu ófært til lendingar í fjöru, hvernig sem ástenst.[32] Bót var í máli að við Svalvogahamar var aftur á móti gott að lenda í norðanátt.[33] Þar við Hamarinn var hins vegar illfært til lendingar þegar vindar blésu úr vestri en þá var gott að lenda við Skerið[34] utan við Keldudal. Þeim er sjóinn sóttu frá verstöðvunum milli Dalsdals og Keldudals gafst því oft kostur á þrautalendingu í nálægri veiðistöð ef ólendandi var orðið í þeirra eigin vör.

Árið 1874 var enn verstöð á Hafnarnesi[35] og 11. nóvember 1882 kom Guðbjartur Björnsson á Höfða í Dýrafirði heim úr verinu af Nesi.[36] Ætla má að það sé Hafnarnes sem Sighvatur Borgfirðingur á við er hann færir þau tíðindi í letur. Á árunum kringum 1910 voru einstaka menn úr Mýrahreppi enn við haustróðra frá þessari gömlu verstöð eins og sjá má í dagbók Sighvats Grímssonar Borgfirðings árið 1911.[37] Líklegt er að allir sem í Höfn hafa búið á liðnum öldum hafi stundað þaðan sjósókn og flestir af kappi. Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 er getið um skip ábúanda hér er gangi til fiskjar árið um kring og hrognkelsaveiði í net sögð gagnvæn þá vel viðrar.[38]

Ekki var mikið um reka í Höfn, ef marka má orð sömu jarðabókar. Rekavon er varla teljandi því festifjara er mjög lítil segir þar.[39] Mótak var líka nánast ekkert svo brennt var taði undan kvikfé með fiskbeinum og þara[40] og má ætla að stundum hafi eldsneytisbirgðirnar verið í knappara lagi.

Í hinni eldri gerð Gísla sögu Súrssonar segir frá því að er Gísli fluttist sjóleiðis úr Haukadal í Geirþjófsfjörð hafi hann stigið á land á Húsanesi og kastað þaðan steini í hólm einn alllangt frá landi. Í yngri gerð sögunnar er hins vegar sagt að Gísli hafi stigið á land á Laugabólshlíð í Arnarfirði og kastað þaðan steininum. Þar heitir nú Gíslasker en er svo langt frá landi að óhugsandi er að maður sem stendur í fjörunni nái að kasta þangað steini (sjá hér Hokinsdalur). Þeir sem ritað hafa um Gísla sögu hafa flestir talið að Húsanes það sem nefnt er í sögunni sé sama nesið og nú hefur lengi heitið Hafnarnes, – hér yst við vestanverðan Dýrafjörð.[41] Hvað sem sannfræði Gísla sögu líður má telja fullvíst að svo sé og hefur Hafnarnes þá enn verið nefnt Húsanes á ritunartíma sögunnar sem talinn er vera um 1250.[42]

Frásögn Gísla sögu ber með sér að bær hafi þá staðið á nesi þessu eða þar rétt hjá. Nafn bæjarins er ekki nefnt – nema það hafi verið Húsanes – en líklegt verður að telja að Höfn sé hið forna bæjarnafn. Í Gísla sögu segir svo:

 

Og er þeir voru á brottu fór Gísli heim og býr þegar ferð sína og fær sér skip og flytur þangað á mikinn fjárhlut og fer Auður kona hans með honum og Guðríður fóstra hans og út til Húsaness og koma þar við land. Gísli gengur þar upp til bæjarins og hittir þar mann og spyr sá hver hann væri en Gísli sagði til slíkt er honum sýndist en ekki það sem var. Gísli tekur upp stein einn og kastar úr í hólm þann er þar var fyrir landi og bað þar bóndason eftir gera þá er hann kæmi heim og kvað hann þá vita mundu hver maðurinn þar hefði komið. En það var einskis manns að inna og kom þar þá enn það fram að Gísli var betur að íþróttum búinn en flestir menn aðrir. Eftir það gengur hann á bátinn og rær út yfir nesið og yfir Arnarfjörð … .[43]

 

Hér var áður minnst á Selsker sem er skammt frá landi örstutt frá bænum í Höfn (sjá bls. 3). Við innri enda skersins er lítill klettur sem heitir Gíslanaggur[44] og má ætla að nafn hans tengist frásögninni í Gísla sögu. Á árunum kringum 1880 sást skernaggur þessi aðeins þegar lágsjávað var[45] og svo kynni enn að vera. Bjarni Jónsson, sem átti heima í Haukadal um 1880, sagði Sigurði fornfræðingi Vigfússyni að úr flæðarmáli væru um 200 metrar út í Gíslanagg og kvaðst Bjarni hafa séð færa menn kasta steinum yfir 150 metra í átt að skerinu.[46]

Ef sleppt er frásögn Gísla sögu er byggðar í Höfn fyrst getið á fyrri hluta 15. aldar en þá var jörðin í eigu Guðmundar ríka Arasonar á Reykhólum og fylgdu henni tvö kúgildi.[47] Árið 1467 eignaðist Einar Björnsson jungkæri Höfn við arfaskipti eftir föður sinn, Björn ríka Þorleifsson hirðstjóra[48] sem Englendingar drápu í Rifi fyrr á því sama ári. Á fyrri hluta 16. aldar átti Ögmundur Pálsson, biskup í Skálholti, margar jarðir á Vestfjörðum um skeið og var Höfn ein þeirra. Árið 1530 ráðstafaði Ögmundur jörðinni í hendur Ólafar Björnsdóttur – sakir þess að Ólöf húsfreyja Björnsdóttir hefur verið oss og heilagri Skálholtskirkju til styrks og góða, segir þar.[49] Fullvíst má telja að sú Ólöf sem þarna er nefnd sé dóttir Björns Guðnasonar í Ögri með því nafni en hún var kona Sigfúsar Brúnmannssonar, lögréttumanns í Hrauni í Keldudal. Önnur gögn sýna að Sigfús hefur haft full umráð yfir Höfn á árunum kringum 1540 (sjá hér Svalvogar).

Um 1600 var jörðin í eigu Ara Magnússonar, sýslumanns í Ögri við Ísafjarðardjúp,[50] en nýnefnd Ólöf Björnsdóttir, húsfreyja í Hrauni, var langömmusystir hans.[51] Árið 1604 seldi Ari jörð þessa frænda sínum, séra Ólafi Jónssyni, hinu góðkunna skáldi á Söndum í Dýrafirði,[52] en hann hafði alist upp hjá Eggerti Hannessyni lögmanni, afa Ara í Ögri. Óvíst er hversu lengi Ólafur var eigandi Hafnar. Um 1630 var jörðin enn á ný komin í eigu Ara Magnússonar[53] en þá var séra Ólafur andaður. Árið 1632 fékk Ari þessa sömu jörð við mynni Dýrafjarðar í hendur systur sinni, Kristínu Magnúsdóttur,[54] sem var ógift og barnlaus[55] svo ætla má að umráðin hafi áfram verið í höndum Ara.

Ari sýslumaður í Ögri og Kristín systir hans dóu bæði árið 1652 en nokkrum árum síðar var bróðursonur þeirra, Eggert ríki Björnsson, sýslumaður á Skarði á Skarðsströnd, orðinn eigandi Hafnar.[56] Vorið 1679 seldi Eggert hálfbróður sínum, séra Páli Björnssyni í Selárdal, 3 hundruð í Höfn og árið 1703 var séra Páll orðinn eigandi að hálfri jörðinni, það er 6 hundruðum.[57] Árið 1710 var tengdasonur séra Páls, séra Sigurður Jónsson, prófastur í  Holti í Önundarfirði, eigandi þessarar sömu hálflendu[58] en hina hálflenduna hér í Höfn átti þá Bjarni Bjarnason, bóndi og lögréttumaður í Arnarbæli á Fellsströnd í Dalasýslu,[59] áður bóndi á Hesti í Önundarfirði (sjá hér Hestur).

Þann 17. júlí 1734 keypti séra Sigurður Sigurðsson í Holti í Önundarfirði, sonur séra Sigurðar Jónssonar sem átti hálfa jörðina árið 1710 og fyrr var nefndur, sex hundruð í Höfn fyrir sex hundruð í jörðinni Hólum í sama hreppi.[60]  Við kaupin áskildi séra Sigurður sér eins konar forkaupsrétt að jarðarpartinum í Hólum og þá ef til kæmi fyrir 42 ríkisdali í spesíumynt.[61] Þetta sýnir að hvert jarðarhundrað bæði í Hólum og í Höfn hefur verið metið til peningaverðs á 7 ríkisdali en í landaurareikningi var spesíudalurinn talinn 30 álna virði á þessum tíma[62] og eitt hundrað í jörð talið jafngilda 120 álnum. Með tilliti til þessa má ætla að meðalverð á einu hundraði í jörð hafi verið 4 ríkisdalir eða því sem næst. Hér skal þó ekki fullyrt að svo hafi verið en tölurnar benda til þess að jarðirnar Hólar og Höfn hafi árið 1734 verið taldar nokkru verðmætari en hundraðatal þeirra sagði til um.

Upp úr 1750 var kúrantmynt innleidd í peningaviðskiptum á landi hér og á næstu árum og áratugum hrapaði verðgildi peninganna mjög verulega. Láta mun nærri að árið 1787 hafi markaðsverð á einum kúrantdal numið um 70% af verði spesíudals á árunum kringum 1750[63] en samkvæmt opinberu gengi átti verðmæti kúrantsins að vera 88,88% af verðmæti spesíunnar.[64] Jörðin Höfn í Dýrafirði virðist hins vegar hafa hækkað langtum meira í verði en þessu svarar á árunum 1734 til 1788. Þess var áður getið að árið 1734 var helmingur jarðarinnar látinn af hendi fyrir annan jarðarpart sem þá var talinn 42ja ríkisdala virði (spesíumynt). Verð á jörðinni allri sýnist þá hafa verið 84 ríkisdalir. Árið 1788 var Höfn hins vegar seld á uppboði fyrir 174 ríkisdali og 24 skildinga (kúrantmynt)[65] og hafði peningaverðmæti jarðarinnar því tvöfaldast. Ekki er ólíklegt að útræðið við Selsker og á Hafnarnesi hafi átt sinn þátt í því.

Sá sem keypti Höfn á uppboði árið 1788 var Ólafur Bjarnason[66] en árið eftir seldi hann Sigurði Jónssyni í Haukadal hálfa jörðina, hvert jarðarhundrað á sama verði og hann hafði fyrir þau gefið.[67] Er kaupum Ólafs á jörðinni var þinglýst á Öxarárþingi var ekkert tekið fram um hvar kaupandinn ætti heima en hér verður út frá því gengið að hann hafi verið sá Ólafur Bjarnason sem árið 1801 bjó 47 ára gamall í Miðbæ í Haukadal.[68] Rökin fyrir því eru einkum þau að aðrar heimildir votta að Ólafur Bjarnason í Miðbæ hafi verið eigandi Hafnar (máske þó aðeins að hluta úr jörðinni) um aldamótin 1800. Í öðru bindi af Vestfirskum sögnum segir svo:

 

Í Höfn hefur oftast verið búið, þó hefur hún stundum verið nytjuð af einum ábúandanum í Haukadal. Um aldamótin 1800 bjó maður sá í Haukadal er Ólafur hét Bjarnason og voru þá fimm ábúendur þar. … Ólafur Bjarnason var dugnaðarmaður, efnaður vel og hafði mikið um sig. Sagt er að hann hafi átt Höfn og nytjaði hann hana frá Haukadal en leigði ekki til ábúðar. Heyjaði hann í Höfn að sumrinu og setti þar heyið saman. Að vetrinum hafði hann þar margt fé því að þar er fjárbeit góð.[69]

 

Allt getur þetta verið nálægt lagi. Tvíbýli var að vísu í Höfn árið 1801[70] en enginn virðist hafa búið þar árið 1816[71] og má ætla að þá hafi jörðin eingöngu verið nytjuð frá Haukadal og kynni svo að hafa verið um nokkurra ára bil.

Á fyrri hluta 20. aldar voru enn á kreiki ýmsar sagnir um átök sauðamanna frá Haukadal við drauga og forynjur í Höfn á nítjándu öld.[72] Þar kemur fram að hellir sem gengur inn í Svaðahól þar á sjávarbökkunum í Höfn var notaður sem sauðabyrgi[73] en hóll þessi mun vera hinn sami og nú er nefndur Svaðshóll (sjá hér bls. 1-2). Sagt er að hellirinn hafi rúmað 30-40 sauði.[74] Á öðrum stað segir að skammt fyrir vestan bæinn í Höfnsjálfgert byrgi niður við sjó, sem sauðir hafi verið geymdir í að næturlagi,[75] en hér hefur áður verið minnst á þann mikla klettabás rétt norðan við Svaðshól (sjá bls. 1-2).

Athyglisverðust er sagan um syni Ólafs Bjarnasonar í Miðbæ í Haukadal, Ólaf og Sturlu, sem á yngri árum gættu sauða föður síns í Höfn. Ólafur var fæddur 4. maí 1787 en Sturla 15. október 1785.[76] Í Höfn munu sauðamennirnir hafa dvalist frá því síðla hausts og fram að páskum en um páska hófst vorvertíð og eftir það litu vermenn til með sauðunum.[77] Tíminn sem þeir bræður dvöldust í Höfn hefur því verið um það bil fimm mánuðir. Þeir höfðu með sér eina kú og sváfu uppi á hálflofti sem var í baðstofunni.[78]

Sauðabyrgið sem fyrr var nefnt er umgirt af klettum og sjó svo að skepnur komast ekki út úr því nema í gegnum lítið skarð í hamravegginn sem liggur vestan að því.[79] Sturla, sem var hinn eldri bræðranna tveggja, hreyfði því við föður þeirra að heppilegt væri að hlaða upp í skarðið svo féð héldist í byrginu yfir nóttina. Ólafur bóndi latti þess, enda var það trú manna að vættur nokkur byggi í byrginu og hafði lokun þess jafnan illa gefist.[80] Þrátt fyrir aðvaranir föður síns tók Sturla sig til og hlóð upp í skarðið en ekki vildi Ólafur bróðir hans vinna að því verki.[81]

Morguninn eftir að Sturla lokaði byrginu var hleðslan hrunin og féð komið á víð og dreif og í annað sinn fór á sömu leið.

Þá um kvöldið var Ólafur við smíðar uppi á hálfloftinu en Sturla bróðir hans við matseld niðri á baðstofugólfi. Allt í einu heyrði Ólafur vein mikið. Hljóp hann þá niður með öxi í hendi og lætur hana ganga á kaf í ferlíki nokkurt er blasti við sjónum hans á baðstofugólfinu. Við það tók forynjan viðbragð, ruddist út og hvarf í myrkrið.[82] Frá Sturlu er það að segja að hann lá ósjálfbjarga á gólfinu, allur blár og marinn á mjóhrygg og handleggjum, kviðslitinn og mátti vart mæla fyrst í stað.[83] Síðar gat hann frá því skýrt að ódámurinn hefði gripið sig aftan frá heljartökum en engum vörnum varð við komið.[84]

Ólafur hjúkraði bróður sínum eftir mætti en hvorugur þeirra gat nú verið einn fyrir hræðslu sakir og þar kom að fólk úr Svalvogum veitti því athygli að Hafnarféð gekk umhirðulaust í haganum.[85] Var þá farið að vitja þeirra bræðra og lágu þá báðir í rúmum sínum en Ólafur var það betri að hann gat sótt hinum vatn að drekka.[86] Síðar fannst öxi Ólafs blóðug mjög milli byrgisins og bæjarins í Höfn. Bræðurnir voru nú fluttir heim í Haukadal og tók vinnumaður föður þeirra við fjárgæslunni. Varð Ólafur brátt albata og bjó hann sextugur fjölskyldumaður í Haukadal árið 1845. Sturla bróðir hans var þar hjá honum, einhleypur vinnumaður.[87] Ólafur Ólafsson, sem réðst með öxi að vopni á forynjuna í Höfn, á nú mikinn fjölda niðja og dálítið er frá honum sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Haukadalur). Talið var að Sturla bróðir hans hefði hins vegar aldrei orðið heill heilsu eftir hremmingarnar við sauðagæsluna og mun hann hafa dáið ókvæntur og barnlaus árið 1854.[88] Máske getur dæmi hans enn orðið einhverjum til viðvörunnar. Þess skal að lokum getið að í hamraskarðinu vestantil við sauðabyrgið má enn sjá leifar af gamalli hleðslu sem útlitsins vegna gæti verið frá dögum þeirra Haukadalsbræðra.

Á búskaparárum Ólafs Ólafssonar í Haukadal var Höfn mjög lengi í eyði og einnig síðar. Á árunum 1831-1839 átti Bjarni Ásmundsson hér heima og var þá stundum með ábúð á þriðjungi jarðarinnar en sum árin virðist hann hafa verið búlaus.[89] Á þessum árum nytjaði Ólafur Ólafsson í Haukadal jörðina að meira eða minna leyti.[90] Árið 1840 fór Höfn alveg í eyði og varanleg byggð hófst hér ekki á ný fyrr en 1875 er hjónin Steinn Guðmundsson og Guðrún Ívarsdóttir settust hér að.[91] Hugsanlegt er að einhver hafi búið í Höfn í mjög stuttan tíma á þessu 35 ára skeiði. Um það er þó ekki kunnugt og líklegra að jörðin hafi eingöngu verið nytjuð frá öðrum bæjum og þá helst Haukadal. Frá 1875 til 1943 var hins vegar ætíð búið í Höfn.

Frá Svaðshól og sauðabyrginu í Höfn höldum við för okkar áfram, stöldrum við hjá fornum búðatóttum á Hafnarnesi þar sem sýn opnast inn Dýrafjörð og fylgjum þaðan bílvegi Elísar Kjaran inn í Keldudal (sjá hér Svalvogar). Frá Höfn að Hrauni í Keldudal er aðeins einnar klukkustundar gangur og liggur leiðin skammt frá sjó undir klettahlíðum Helgafells. Uppi á því fjalli töldu menn sig lengi vita um leifar af altari sem Guðmundur biskup góði átti að hafa reist forðum tíð.[92]

Innan við Hafnarnesið er Ófæruvík og nær að Hafnarófæru en rétt innan við Ófærunefið eru landamerki Hafnar og Hrauns.[93] Í landamerkjalýsingu frá árinu 1877 segir að merkin liggi þarna úr fremsta skerinu sjónhending upp í teiginn og þaðan beint í gnípuna.[94] Að sögn kunnugra mátti komast fyrir Hafnarófæru um hálffallinn sjó eða því sem næst en fjaran framan við hana er mjög stórgrýtt og var því býsna torsótt að fara þar um með þarfanaut eða aðra stórgripi.[95] Erfitt þótti líka að flytja þurfamenn fyrir ófæru þessa á fyrri tíð.[96] Þegar ekki varð komist fyrir Ófærunefið var stundum farið yfir ófæruna eftir þræðingum uppi í hlíðinni – jafnvel á vetrum.[97] Sigríður Guðmundsdóttir, sem ólst upp í Höfn snemma á tuttugustu öld, segir að á seinni árum hafi verið farið yfir Hafnarófæru á hestum.[98] Væri farið yfir ófæruna var oftast farið upp Ófærugil sem er utanvert í henni og síðan um Hrafnholur. Væri gilið ófært vegna svellalaga var farið upp klettanef þar rétt fyrir utan og var það kallað að fara Klettinn.[99] Fyrir ofan Hrafnholur eru aðrir þræðingar sem stöku sinnum voru farnir. Heitir einn Brandsgangur en annar Guðleifsgangur og er sá síðarnefndi alveg upp við standbergið.[100] Hann er kenndur við Guðleif nokkurn, fjármann í Hrauni, sem fyrstur manna lét sig hafa að skreiðast þar með berginu.[101]

Á akbrautinni frá 1973 skulum við nema staðar um stund við Hrafnholur, rétt utan við Hafnarófæru, en þar var akvegur þessi tæpastur er hann fyrst var tekinn í notkun og svo mjór að ýmsum sem hér fóru um og ekki þurftu að stýra ökutæki þótti vissara að ganga.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 50.

[2] Örnefnaskrá.

[3] Sama heimild.

[4] Sama heimild.

[5] Sama heimild.

[6] Sama heimild.

[7] Sama heimild.

[8] Sama heimild.

[9] Sama heimild.

[10] Sama heimild.

[11] Guðmundur Friðgeir Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann í júlí 1991.

[12] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 30.

[13] Sama heimild, 31.

[14] Sóknalýs. Vestfj. II, 58.

[15] Jarðab. Á. og P. VII, 30.

[16] Sama heimild, 30-31.

[17] Sama heimild.

[18] Sama heimild.

[19] Sama heimild.

[20] Sama heimild.

[21] Sama heimild.

[22] Jarðab. Á. og P. VII, 30-31.

[23] Jarðab. Á. og P. VII, 30-31.

[24] Sóknalýs. Vestfj. II, 51, 52 og 59.

[25] Guðm. Fr. Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann í júlí 1991.

[26] Örn.skrá.

[27] Sóknalýs. Vestfj. II, 51.

[28] Sama heimild, 52.

[29] Örn.skrá.

[30] Guðm. Fr. Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann í júlí 1991.

[31] Sama heimild.

[32] Sóknalýs. Vestfj. II, 51, 52 og 59.

[33] Sama heimild.

[34] Sóknalýs. Vestfj. II, 51, 52 og 59.

[35] P. E. Kr. Kålund 1985, II, 170-171.

[36] Lbs. 23744to, Dagbók Sighvats Grímssonar Borgfirðings 11.11.1882.  Sbr. VA III, 243 – nr. 1847 II, dagb. Guðm. Guðm. norðl. 7.7.1851.

[37] Lbs. 23764to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 7.11.1911.

[38] Jarðab. Á. og P. VII, 30.

[39] Sama heimild.

[40] Sama heimild.

[41] Sigurður Vigfússon 1883, 64-66 (Árbók Hins Ísl. fornleifafélags).  P. E. Kr. Kålund 1985, II, 170-171.  Björn K. Þórólfsson 1943, XXXII.

[42] Björn K. Þórólfsson 1943, XXXIX-XLI (Ísl. fornrit VI).

[43] Ísl.fornrit VI, 66-67.

[44] Sigurður Vigfússon 1883, 65-66 (Árbók Hins ísl. fornleifafélags).

[45] Sama heimild.

[46] Sama heimild.

[47] D.I. IV, 688.

[48] D.I. V, 502.

[49] D.I. IX, 561.

[50] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir (Kph. 1993), 158.

[51] Íslenskar æviskrár I, 18-19, 216 og 319-320.

[52] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir (Kph. 1993), 158.  Sbr. Ísl. æviskrár IV, 58.

[53] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir (Kph. 1993), 164.

[54] Sama heimild.

[55] Ísl. æviskrár III, 431.

[56] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir (Kph. 1993), 114.  Sbr. Ísl. æviskrár I, 18-19, 235 og 314.

[57] Jarðab. Á. og P. XIII, 204.

[58] Sama heimild VII, 30.  Sbr. Ísl. æviskrár IV, 234-235.

[59] Sama heimild.  Sbr. Lögréttumannatal, 50.

[60] Alþingisbækur Íslands XII, 305.

[61] Sama heimild.

[62] Jón J. Aðils 1971, 418-420.

[63] Gísli Gunnarsson 1987, 70.

[64] Sama heimild.

[65] Alþ.b. Íslands XVI, 524.

[66] Sama heimild.

[67] Sama heimild.

[68] Manntal 1801.  Ólafur Ólafsson 1957, 9-12 (Ársrit Sögufél. Ísf.).

[69] Vestfirskar sagnir II, 76.

[70] Manntal 1801.

[71] Manntal 1816, 686-687.

[72] Vestf. sagnir II, 75-80.  Vestfirskar þjóðsögur II, 1, 175-176 og 182-192.

[73] Vestf. þjóðsögur II, 1, 175-176.

[74] Örn.skrá.

[75] Vestf. sagnir II, 75-76.

[76] Prestsþj.b. Sandapr.kalls.

[77] Vestf. sagnir II, 76.  Vestf. þjóðsögur II, 1, 191.

[78] Vestf. sagnir II, 75-80.

[79] Sama heimild.

[80] Sama heimild.

[81] Sama heimild.

[82] Sama heimild.

[83] Sama heimild.

[84] Sama heimild.

[85] Sama heimild.

[86] Vestf. sagnir II, 75-80.

[87] Manntal 1845.

[88] Vestf. sagnir II, 79.

[89] Skj.s. sýslum. og sv.stj. V-Ís. Þingeyrarhreppur 1. og 2. Hreppsbók 1822-1834 og sama 1835-1851.

[90] Sama heimild.

[91] Sama heimild.  Manntöl 1840, 1845, 1855, 1860 og 1870.  Sóknarm.töl Sandapr.kalls 1870-1880.

[92] Kristján G. Þorvaldsson 1951, 131 (Árbók F.Í.).

[93] Örn.skrá.

[94] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 3. Veðmálabók 1868-1882, 159.

[95] Guðm. Fr. Magnússon. – Viðtal K.Ó. við hann í júlí 1991.

[96] Jarðab. Á. og P. VII, 31.

[97] Örn.skrá.

[98] Sama heimild.

[99] Sama heimild.

[100] Sama heimild.

[101] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »