Hvallátur

Um helmingur allra eyja og grashólma í Vestureyjum tilheyrir Hvallátrum og kallast Látralönd, alls um 300 eyjar og hólmar sem allar skiljast sundur við stórflæðar. Þar er mörg matarholan og Hvallátur löngum talin ein mesta hlunnindajörð við Breiðafjörð og þá einkum vegna æðarvarps, selveiði og lundatekju.

Látralönd liggja í norð-norðaustur frá Svefneyjum og skammt á milli svo sem áður var frá greint (sjá hér Svefneyjar). Bæjareyjan sjálf er lítil og segir í sóknarlýsingu séra Ólafs Sívertsen frá 1840 að túnið nái yfir fullan helming eyjarinnar.[1] Séra Ólafur tekur sérstaklega fram að vel sé húsað í Látrum og segir þar vera 46 heimabæjarhús, auk innanafdeilinga. Aðalbæirnir voru þá tveir og íbúarnir alls 47.[2]

Í manntali frá árinu 1845 má sjá að þá hafa þrjú býli verið í Hvallátrum og að auk áttu hér heima fjórir húsmenn með sínar fjölskyldur.[3] Fiskveiðar eru ei frá Hvallátrum, segir séra Ólafur, en bætir við: Þó er þar á sumardag reynt að róa fyrir flyðri norður í Múlaflóa, skammt fyrir norðan Straumsker.[4]

Í Seley í Látralöndum var búfénaður frá Látrum hafður í seli, nautgripir á sumrin en sauðfé á vetrum.[5] Um miðja 19. öld stóðu sjö hús í Seley og þá var nautpeningur hafður hér í seli frá messudögum til höfuðdags[6] eða með öðrum orðum frá því í síðustu viku júní og fram undir ágústlok.

Gildir bændur hafa löngum búið í Hvallátrum en meðal íbúanna á fyrri öldum má einnig finna bæði lækni og prest. Í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar er getið um Krák Hrómundarson, lækni í Hvallátrum, sem átti fyrir langafa Hrafn Sveinbjarnarson á Eyri við Arnarfjörð,[7] góðkunnan lækni. Líklega hefur Krákur reynt að halda uppi merki langafa síns í læknislistinni þó að fátt sé nú kunnugt um lækningar hans.

Aðeins er vitað um einn prest sem setið hefur í Látrum. Var það séra Árni Jónsson sem prestur var orðinn í Vestureyjum um 1590 og þjónaði hér til 1645, samt með dálitlu hléi. Séra Árni var sonur Jóns Björnssonar í Flatey (sjá hér Flatey). Bróðir Árna, sem Finnur hét, settist í búið í Flatey en séra Árni þjónaði Flateyjarkirkju frá eignarjörð sinni Hvallátrum. Um séra Árna var sagt að hann skildi hrafnamál[8] og talinn var hann fjölkunnugur. Heldur stirt mun hafa verið með þeim séra Árna og Finni bróður hans í Flatey. Sagan segir að prestur hafi reyndar aldrei stigið fæti inn fyrir dyr hjá bróður sínum heldur gengið í og frá kirkju beint af skipi og á.[9] Séra Árni í Hvallátrum varð háaldraður og dó hér, 95 ára gamall, árið 1655.[10] Bænhús mun hafa verið í Látrum í kaþólsku og máske eitthvað fram yfir siðaskipti.[11] Heitir hér enn Bænhúshóll í túninu.[12]

Margar þjóðsögur hafa verið skráðar úr Hvallátrum. Hólmi einn í Látralöndum heitir Múli og hafði því lengi verið trúað að ekki mætti slá þann hólma. Einn bænda í Látrum, Ingimundur að nafni, hafði bann þetta að engu og sló hólmann. Skömmu síðar kom kona ein til hans í draumi og kvaðst hafa orðið að farga kú sinni þar eð hann hefði slegið Múla. Í draumnum snart konan hönd bónda og er hann vaknaði kenndi hann verkjar í hendinni. Visnaði hún svo upp og gat hann aldrei úr því neitt með henni unnið. Þetta er satt og er þetta eitt bevís til að sama er búskaparlag þessara jarðarbúa sem vort, stendur þar.[13] Önnur saga er svona:

 

Maður nokkur í Látrum, Eyjólfur að nafni, gekk einhverju sinni út úr bænum. Varð honum reikað þar að, er álfhóll einn stóð. Heyrði hann þar söng forkunnarfagran og var verið að syngja þennan sálm í Grallaranum: „Heimili vort og húsin með”, – því þá var verið að vígja álfahjón saman inn í hólnum. Hann fór til heimilisfólksins og sagði því frá. Fór þá hver af öðrum að hlusta á og heyrðu allir sálmasönginn.[14]

 

Margar álfasögur tengjast selinu í Látralöndum. Þriggja ára stúlkubarn hvarf eitt sinn á brott að kvöldlagi frá öðru selfólki og fannst heilt á húfi nær þremur sólarhringum síðar. Hafði þá dvalið hjá álfum.[15] Stúlka þessi hét Ingibjörg Guðmundsdóttir og var faðir hennar hálfbróðir Eyjólfs eyjajarls. Sú var trú manna að huldufólkið byggi í Skarðhól þar skammt frá Látraseli.[16]

Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir á þessa leið frá pilti í Látrum er Sveinn hét:

 

Sveinn átti að reka kýr hjá hól þeim kvöld og morgna og var þá oft með hávaða og glensi því heldur var hann óstýrilátur þó móðir hans bannaði honum það margsinnis. Var það þá eitt kvöld að hann kom eigi heim frá kúarekstrinum að venju. Undraðist móðir hans þá um hann og fóru hún og Ingibjörg (Pétursdóttir) að leita hans. Fundu þær hann hjá Skarðhól villtan og sem frá sér. Fékk móðir hans ei orð af honum fyrri en morguninn eftir heima í selinu. Sagði hann þá að bláklædd kona hefði komið til sín við hólinn, hringlað framan í sig lyklum mikillega, gripið síðan til sín og snúið sér í snarkringlu kringum sig. Þótti hann aldrei fullheill síðan og komst undir tvítugt.[17]

 

Annars var sambýli manna og álfa yfirleitt einkar farsælt í Hvallátrum og fólk undi þar vel hag sínum.

Árið 1894 hóf Ólafur Bergsveinsson frá Sviðnum búskap hér og bjó rausnarbúi á fimmta áratug. Nær allan þann tíma var Ólafur eini bóndinn í Látrum en áður hafði verið margbýlt.[18] Ungur að árum hóf Ólafur Bergsveinsson bátasmíðar hjá afa sínum, Ólafi Teitssyni í Sviðnum, og taldi í elli líklegt að alls hefði hann smíðað 60-70 báta.[19] Snæbjörn í Hergilsey segir að Ólafur í Látrum hafi um langt skeið verið mestur bóndi á norðanverðum Breiðafirði og bestur skipasmiður við fjörðinn á meðan heilsa og kraftar leyfðu.[20]

Bárur Breiðafjarðar hlífðu þó ekki heimilinu í Látrum við ærnu gjaldi. Á árunum 1915 til 1925 drukknuðu þrír uppkomnir synir Ólafs Bergsveinssonar, ýmist skammt frá heimalöndum eða litlu fjær.[21] Fyrstur þeirra týndi lífi, þann 21. ágúst 1915, Eyjólfur Ólafsson, næstelsti sonur hjónanna í Látrum, og var tæplega tvítugur.[22] Þennan síðsumardag fórust fjórir heimamenn í Látrum á heimleið úr kofnafari er bát þeirra hvolfdi á Véleyjarsundi í Látralöndum í vestanstormi og illum sjó.[23] Einn þeirra var Eyjólfur en formaður á bátnum í þessari örlagaríku ferð var Daníel Jónsson, 36 ára vinnumaður í Látrum, mágur Ólafs bónda Bergsveinssonar.[24] Hinir tveir, sem drukknuðu líka, voru Friðrik Jónsson, fertugur vinnumaður í Látrum, og tólf ára sonur Daníels sem Guðmundur hét.[25] Fimmti bátsverjinn, Hafliði Pétursson, er var búsettur í Skáleyjum en kaupamaður í Látrum þetta sumar, bjargaðist.[26] Hann komst á kjöl og náði að hanga á bátnum uns komið var í nánd við grashólmann Dritsker.[27] Þar öslaði Hafliði í land þó ósyndur væri og beið birtingar en bátinn rak frá.[28]

Sú saga flaug víða að álög hefðu valdið drukknun Daníels Jónssonar á Véleyjarsundi og hinna þriggja sem með honum fórust. Líklega hefur Magnús Hjaltason, alþýðuskáld og dagbókaskrifari, sem árið 1915 var búsettur á Suðureyri í Súgandafirði, orðið manna fyrstur til að færa þá sögu í letur, en hann skráir hana í dagbók sína þann 18. september 1915[29] þegar aðeins voru liðnar fjórar vikur frá því slysið átti sér stað. Fimm árum síðar rakti Ólína Andrésdóttir, skáldkona úr Breiðafirði, þessa sömu sögu um álögin fyrir öðrum skrásetjara og í búningi hans er hún birt í Gráskinnu hinni meiri, þjóðsagnasafni í tveimur bindum sem Sigurður Nordal prófessor og Þórbergur Þórðarson rithöfundur sendu frá sér árið 1962[30] en sama ritverk þeirra hafði áður verið gefið út í fjórum bindum og undir sama nafni á árunum 1928-1934.

Hér verður sá kostur tekinn að rekja meginatriði sögunnar eins og Magnús skráði hana en svo má heita að hann fari rétt með allar staðreyndir sem kannanlegar eru.

Hjá Ólínu eða skrásetjara hennar hafa hins vegar slæðst með ýmsar villur, m.a. hvað varðar æviferil Daníels Jónssonar en það var hann sem álagadómurinn átti að hafa hvílt á.

Kjarninn úr sögu Magnúsar er þessi. – Sumarið 1903 var Daníel við slátt í einni af fjölmörgum eyjum í Látralöndum sem liggja allar undir Hvallátur. Stundarkorn sofnaði hann í slægjunni og dreymdi þá að til sín kæmi huldukona og bæði hann að slá ekki ákveðinn blett þar í grennd. Er Daníel vaknaði sagði hann samverkafólki sínu drauminn en kvaðst ekki munu taka mark á honum og sló blettinn sem hann hafði verið beðinn að hlífa. Skömmu síðar vitjaði huldukonan hans á ný í draumi, var þá með reiðisvip og mælti:

 

Fyrst þú vildir ekki gera bón mina, þá verð ég að láta eitthvað koma á móti. Þú munt vilja giftast og skaltu fá konu en ekki muntu njóta hennar lengi. Þið munið fara að búa en flosnið upp eftir tvö ár. Konan þín deyr af barnsförum. Verður þú svo ekkjumaður þaðan í frá. Svo muntu drukkna milli þessarar eyjar og þeirrar sem þú átt þá heima á.[31]

 

Af frásögn Ólínu Andrésdóttur má ráða að eyjan með álagablettinum er varð Daníel að falli sé Seley[32] sem liggur í um það bil einnar sjómílu fjarlægð til suðausturs frá heimaeynni í Látrum.

Fyrir nær hundrað árum voru ærið margir fúsir að trúa slíkum sögum og var Magnús Hjaltason í þeim hópi, – enda tekur hann fram að allt hafi þetta gengið eftir.[33] Ljóst er að sagan hefur fengið vængi og flogið sveit úr sveit vegna þess að Daníel hafði í raun orðið fyrir flestum eða öllum þeim áföllum sem þau Magnús og Ólína Andrésdóttir greindu frá. Enn finnast ýmsir sem leggja trúnað á slíkar sögur. Hinir munu þó að líkindum fleiri sem grunar að hrakföll Daníels hafi ekki átt rætur að rekja til konunnar sem hann dreymdi en sagan um álögin orðið víðfleyg vegna áfallanna sem yfir hann dundu. Ástæðulaust mun þó að bera brigður á að Daníel hafi í raun slegið blett sem bannhelgi var talin hvíla á því það gerðu margir á hans dögum. Æviferill Daníels Jónssonar var í stuttu máli sem hér segir.

– Hann fæddist 12. nóvember 1878 í Hlíð í Þorskafirði, sonur Jóns bónda Þórðarsonar og konu hans, Kristínar Daníelsdóttur, sem þar bjuggu.[34] Haustið 1901 var hann orðinn vinnumaður í Hvallátrum hjá Ólínu systur sinni og eiginmanni hennar, Ólafi Bergsveinssyni.[35] Í manntali frá því ári er Daníel sagður vera vefari og sláttumaður. Haustið 1902 gekk hann að eiga Maríu Guðmundsdóttur, þá vinnukonu í Skáleyjum, en þau voru á líkum aldri.[36] Vorið 1906 fluttust Daníel og María frá Hvallátrum með þrjá syni og eina dóttur, öll fædd á árunum 1903-1906, og hófu búskap í Gufudal þar sem verið hafði prestssetur um aldir og allt til ársins 1905.[37] Þau fengu þá þegar alla jörðina til ábúðar en bjuggu þar aðeins í tvö ár.[38]  Í Gufudal misstu þau Steinunni, dóttur sína,[39] og að sögn Ólínu Andrésdóttur líka allt sitt búfé, kindur, kú og hest.[40]

Árið 1908 fóru þau Daníel og María frá Gufudal og gerðust á ný vinnuhjú hjá Ólafi Bergsveinssyni í Hvallátrum.[41] Þau reyndu ekki að hefja að nýju sjálfstæðan búskap en héldu kyrru fyrir í Látrum næstu ár. Í ársbyrjun 1913 voru börn þeirra orðin sjö og öll á lífi nema dóttirin sem þau misstu í Gufudal. Börnin sex, fimm synir og ein dóttir, voru þá öll hjá foreldrum sínum í Látrum, hið elsta á tíunda ári.[42] Um haustið lagðist María á sæng í áttunda sinn en nú voru kraftar hennar á þrotum. Hún dó af barnsförum 26. október 1913 og að því sinni fæddist barnið andvana.[43] Tæplega tveimur árum síðar drukknaði Daníel svo sem fyrr var frá sagt. Börnin sex, sem á lífi voru, urðu þá munaðarlaus en flest þeirra dvöldust áfram í Hvallátrum og ólust þar upp sem fósturbörn hjá Ólínu, föðursystur sinni, og bónda hennar, Ólafi Bergsveinssyni.[44] Eitt barna Daníels og Maríu var Jón, fæddur 1904, sem í fyllingu tímans varð bóndi í Látrum og bjó hér við farsæld og barnalán fram á elliár með konu sinni, Jóhönnu Sesselju Friðriksdóttur.

Fyrr var nefnt að Ólafur Bergsveinsson í Látrum hefði um langt skeið verið  bestur skipasmiður í byggðum Breiðafjarðar (sjá hér bls. 3). Í Hvallátrum voru bátasmíðar lengi stundaðar eftir daga Ólafs og hélt sonarsonur hans, Aðalsteinn Aðalsteinsson, uppi því merki langt fram á áttunda áratug tuttugustu aldar. Smíðahús Ólafs Bergsveinssonar stendur enn (1990) í Látrum og þar bíður betri tíma flutningaskipið Egill, teinæringur að stærð, áttróinn. Egill var stærsta skipið sem Ólafur smíðaði og mesta opið skip í Breiðafirði um sína daga.[45]

 

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Sóknalýs. Vestfj. I, 151.

[2] Sama heimild, 151 og 159.

[3] Manntal 1845.

[4] Sóknalýs. Vestfj. I, 159.

[5] Bergsv. Skúlason 1964, 71.

[6] Sóknalýs. Vestfj. I, 157.

[7] Sturlungasaga I, 443.

[8] Þjóðsögur J. Á. II, XXVIII.  Blanda VII, 189-192.

[9] Játv. J. Júlíusson 1979, 66.

[10] Ísl. æviskrár I, 53.

[11] Sóknalýs. Vestfj. I, 179.

[12] Bergsv. Skúlason 1974, 208.

[13] Þjóðsögur J. Á. I, 36-37.

[14] Sama heimild III, 47.

[15] Vestfirskar sagnir I, 416-418.

[16] Vestf. sagnir III, 53-55.

[17] Þjóðsögur J. Á. I, 35.

[18] Bergsv. Skúlason 1964, 86.

[19] Sama heimild, 90.

[20] Snæbjörn Kristjánsson 1958, 215.

[21] Sama heimild, 209-211 og 214-215.

[22] Prestsþj.bækur og sóknsrm.töl Flateyjar.

[23] Sama heimild. Bergsveinn Skúlason 1964,I, 68-69.

[24] Sömu heimildir.

[25] Sömu heimildir.

[26] Bergsv. Skúlason 1964,I,68-69.

[27] Sama heimild.

[28] Sama heimild.

[29] Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 18.9. 1915.

[30] Gráskinna hin meiri 1962,II,82-84.

[31] Lbs. 22334to, Dagbók M.Hj. 18.9. 1915.

[32] Gráskinna hin meiri 1962, II, 78-84.

[33] Lbs. 22334to, Dagbók M.Hj. 18.9. 1915.

[34] Prestsþj.bækur og sóknarm.töl Staðar á Reykjanesi og Flateyjar.

[35] Manntal 1901.

[36] Prestsþj.bækur Flateyjar.

[37] Prestsþj.bækur Gufudals. Sveinn Níelsson 1950, 174-176 (Prestatal og prófasta).

[38] Prestsþj.bækur og sóknarm.töl Gufudals og Flateyjar.

[39] Sömu heimildir

[40] Gráskinna hin meiri 1962, II,78-82.

[41] Prestsþj.bækur og sóknarm.töl Gufudals og Flateyjar

[42] Sömu heimildir.

[43] Prestsþj.bækur Flateyjar. María Jónsdóttir frá Hvallátrum. – Viðtal K.Ó. við hana í desember 2007.

[44] Prestsþj.bækur og sóknarm.töl Flateyjar.

[45] Bergsv. Skúlason 1964, 90.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »