Kjaransstaðir

Næsta jörð fyrir innan Ketilseyri er Kjaransstaðir og skammt á milli bæjanna, einn og hálfur til tveir kílómetrar. Neðst eru landamerkin á Digranesi, er svo heitir, þar sem akvegurinn tekur stefnu frá landi í átt að brúnni yfir fjörðinn.[1] Þaðan liggur merkjalínan í Grænateig og frá honum á fjall upp.[2] Hjallinn innan við Grænateig heitir Nautahjalli[3] en úr hlíðinni neðan við hann var tekið mikið af grjóti í Dýrafjarðarbrúna. Innan og ofan við túnið á Kjaransstöðum opnast Kjaransstaðadalur og er hann um það bil fjórir kílómetrar á lengd. Fjall sem stendur stakt í miðjum dalnum, skammt frá ytri hlíðinni, heitir Búrfell.[4] Undir því sátu börn yfir kvíaánum á fyrstu áratugum 20. aldar.[5] Fjallið milli Ketilseyrardals og Kjaransstaðadals heitir Töflufjall og er kennt við klettastallinn Töflu sem er í fjallsbrúninni ofan við Bæjarhvilft í landi Kjaransstaða.[6] Innan við dalinn er annað klettafjall sem menn nefna Kjaransstaðahorn. Kjaransstaðaá á upptök sín í botni dalsins og fellur til sjávar á Kjaransstaðaeyri, skammt fyrir innan túnið.[7] Landamerki Kjaransstaða á móti Dröngum liggja úr Innri-Gjá í Kjaransstaðahorni og til sjávar á Hellunesi[8] sem er að heita má beint á móti utanverðri Valseyri en hún er handan við fjörðinn. Frá ytri merkjum Kjaransstaða að innri merkjunum eru 2,9 kílómetrar.[9]

Kjaransstaða er fyrst getið  í heimildum frá 15. öld[10] en ætla má að hér hafi verið búið allt frá fyrstu öldum byggðar í landinu. Nafn jarðarinnar sýnist dregið af karlmannsnafninu Kjaran sem er írskt að uppruna og merkir lítill jarphærður maður.[11] Vera kann að norrænir höfðingjar sem fyrstir manna reistu bú í Hvammi eða annars staðar í Dýrafirði hafi haft með sér írska þræla er síðar hafi verið leystir úr ánauð og kynnu þá, sumir hverjir, að hafa fengið úthlutað landskika til að koma upp sínu eigin búi. Hvort byggð á Kjaransstöðum hefur hafist með slíkum hætti veit enginn en sú hugmynd er áleitin.

Að fornu mati voru Kjaransstaðir taldir vera 12 hundraða jörð.[12] Á fyrri hluta 15. aldar var jörðin um skeið í eigu Guðmundar ríka Arasonar á Reykhólum sem þá átti tuttugu jarðir í Dýrafirði.[13] Jörðin var þá leigð með þremur kúgildum,[14] eitt kúgildi á hver fjögur jarðarhundruð eins og algengt var. Á næstu öldum voru Kjaransstaðir oft í eigu einhverra stórhöfðingja, sem sumir hverjir voru búsettir í fjarlægum sveitum, en leiguliðar sátu jörðina. Líklegt verður að telja að Hannes Eggertsson hirðstjóri, sem um skeið bjó á Núpi í Dýrafirði, hafi átt jörðina því fullvíst er að hún var í eigu a.m.k. tveggja sona hans, fyrst Björns og síðan Eggerts. Björn Hannesson, lögsagnari frá Núpi, gekk árið 1545 að eiga Þórunni, dóttur Daða Guðmundssonar í Snóksdal, sem fáum árum síðar varð Jóni biskupi Arasyni þyngstur í skauti. Björn og Þórunn gerðu með sér kaupmála þar sem brúðguminn leggur m.a. fram Kjaransstaði á móti jarðeignum brúðarinnar.[15] Aldarfjórðungi síðar var bróðir Björns, Eggert Hannesson, lögmaður í Bæ á Rauðasandi, orðinn eigandi Kjaransstaða. Hann skrifar árið 1570 í reikningakver sitt: Item hjá Jóni á Kiæranstodum 80 álnir í landskuld, lagt í þetta þrevetran hest fyrir 80 álnir.[16] Í þessu kveri Eggerts sjáum við nafn fyrsta bóndans á Kjaransstöðum sem nefndur er í heimildum. Að vísu er það aðeins skírnarnafnið Jón sem nefnt er en föðurnafn hans er þoku hulið. Í kveri Eggerts kemur líka fram að landskuldin sem Jón á Kjaransstöðum þurfti að greiða lögmanninum ár hvert var 80 álnir (2/3 úr kýrverði) og var árið 1570 greidd með þrevetrum hesti en í annað sinn um svipað leyti gengu fjórar ær með lömbum upp í landskuldina.[17]

Síðar lækkaði landskuldin af Kjaransstöðum úr 80 í 60 álnir og þannig stóðu málin um aldamótin 1700 en þá fylgdu jörðinni þrjú leigukúgildi.[18] Á fyrri hluta 19. aldar var landskuldin af Kjaransstöðum líka 60 álnir eða sem svaraði hálfu kýrverði og fjöldi leigukúgilda var þá hinn sami.

Svo virðist sem Kjaransstaðir hafi lengi verið í eigu niðja Hannesar Eggertssonar, hirðstjóra á Núpi, sem fyrr var nefndur. Þeirri kenningu til styrktar má benda á að sonarsonur Guðrúnar, dóttur hans, og Þorláks Einarssonar sýslumanns, Jón Gizurarson, lögréttumaður á Núpi, átti tvo þriðju hluta úr Kjaransstöðum um 1630 og séra Páll Björnsson í Selárdal, sem var dóttursonarsonur Eggerts Hannessonar lögmanns og því fjórði ættliður frá Hannesi, átti þriðja þriðjunginn úr jörðinni fáeinum áratugum síðar.[19]

Jón Gizurarson seldi sín 8 hundruð úr Kjaransstöðum, ásamt fleiri jarðeignum, í hendur stjúpsyni sínum, Þorvaldi Björnssyni, haustið 1634 er hann kvæntist náfrænku Jóns, barnabarni Þorláks sýslumanns Einarssonar (sjá hér Hvammur). Þau 4 hundruð sem séra Páll í Selárdal átti eignaðist hins vegar Sæmundur Magnússon, lögréttumaður og lögsagnari á Hóli í Bolungavík, í jarðaskiptum þeirra árið 1666[20] en faðir Sæmundar og séra Páll voru systkinasynir og áttu báðir Ragnheiði, dóttur Eggerts lögmanns Hannessonar, fyrir ömmu.[21]

Þegar nær dró lokum 17. aldar skipuðust mál svo að 8 hundruð úr Kjaransstöðum komust í hendur séra Sæmundar Oddssonar í Hítardal[22] en hann og nýnefndur Sæmundur Magnússon á Hóli í Bolungavík voru systkinasynir úr niðjahópi Eggerts lögmanns.[23] Þessi jarðarhundruð greiddi séra Sæmundur Ólöfu Guðmundsdóttur, sem árið 1703 var sextug að aldri hjá syni sínum á Bakka í Hnífsdal, upp í skuld föður síns við móður hennar.[24] Þessi 8 hundruð átti Ólöf enn árið 1710 og er þá sögð eiga heima í Hrauni í Hnífsdal[25] en sonur hennar, Brynjólfur Bjarnason í Þjóðólfstungu í Bolungavík, taldi reyndar að hún hefði gefið sér sex af þessum átta jarðarhundruðum.[26] Ólöf var ekkja eftir Bjarna Snorrason, bónda í Hrauni í Hnífsdal, sem var stjúpsonur séra Jóns þumlungs Magnússonar.[27]

Þau 4 hundruð úr Kjaransstöðum sem Ólöf átti ekki voru árið 1710 í eigu Jóns Pálssonar, bónda í Haukadal, sem var sonarsonur séra Ólafs Jónssonar, hins góðkunna skálds á Söndum,[28] en séra Ólafur hafði reyndar alist upp hjá Eggerti lögmanni Hannessyni í Bæ á Rauðasandi[29] svo að Jón sonarsonur hans var með þeim hætti tengdur hinum fyrri eigendum Kjaransstaða. Nærtækari skýring á þessari jarðeign hans kynni þó að vera sú að hann var tengdasonur Þorvalds Björnssonar söngmanns í Hvammi[30] sem eignast hafði 8 hundruð í Kjaransstöðum árið 1634 og fyrr var nefnt (sjá hér Hvammur).

Á fyrri hluta 18. aldar komust Kjaransstaðir í eigu Snæbjarnar Pálssonar, sem flestir nefndu Mála-Snæbjörn og lengi bjó á Sæbóli á Ingjaldssandi. Þegar Mála-Snæbjörn kaupir Sæból um 1740 voru Kjaransstaðir ein þeirra jarða er hann setti að veði til tryggingar greiðslu á eftirstöðvum kaupverðsins.[31] Árið 1774 virðist dóttursonur Snæbjarnar, Jóhann Bergsveinsson, síðar prestur í Garpsdal, hafa verið orðinn eigandi Kjaransstaða því 14. júní á því ári selur maður með því nafni jörðina fyrir 70 ríkisdali í krónumynt.[32] Kaupandinn var Ingimundur Narfason[33] en skil á honum kunnum við ekki. Hvert jarðarhundrað hefur þá verið selt á nær sex ríkisdali sem er verð í hærra lagi, því samkvæmt opinberri viðmiðun var eitt jarðarhundrað talið rösklega fimm ríkisdala virði á þessum tíma ef greitt var með krónumynt.[34]

Árið 1710 bjó á Kjaransstöðum bóndi sem Guðmundur Magnússon hét og var hann þá eini ábúandinn hér.[35] Guðmundur bjó með tvær kýr, fjórtán ær, átta sauði, fjórtán lömb og tvö hross.[36] Ekki var þá talið að jörðin gæfi af sér nema hálft annað kýrfóður en útigangur hins vegar sagður í skárra lagi fyrir fé.[37] Í Jarðabókinni frá 1710 eru skriðuföll sögð mjög til baga á Kjaransstöðum, engi, tún og hagar allt meira eða minna fordjarfað af skriðum.[38]

Í lýsingu Sandasóknar frá árunum kringum 1840 er Kjaransstaðaland engu að síður sagt vera notagott fyrir fénað á sumrum og vel látið af vetrarbeitinni.[39] Séra Bjarni Gíslason er samdi sóknarlýsinguna tekur þó líka fram að á Kjaransstöðum sé hrjóstrugt, heyskaparlítið og næðingssamt.[40]

Í Jarðabókinni frá 1710 er nefnt Kjaransstaðakot og sagt vera örnefni fyrir innan Kjaransstaðaá. Í Jarðabókinni er komist svo að orði um þann stað:

 

… þar sjást tóttarústir og girðingar og því er sýnilegt að þar hafi að fornu byggð verið en hvört það hafi verið hjáleiga af Kjaransstöðum eður jörð fyrir sig vita menn ekki. Ekki má hér byggja aftur því þetta pláss er yfirrunnið af aur og grjóti og uppblásið þar með í óberjumosamóa.[41]

 

Af orðum Jarðabókarinnar er ljóst að Kjaransstaðakot hefur í síðasta lagi farið í eyði á fyrri hluta 17. aldar og ef til vill löngu fyrr. Í byrjun 19. aldar var enn talað um Kjaransstaðakot sem eyðihjáleigu er nytjuð væri til beitar.[42]

Tóttir af koti þessu eru enn á sínum stað, skammt innan við Kjaransstaðaá og lítið eitt ofan við þjóðveginn. Tóttirnar eru rétt innan við fyrstu hæðina á þjóðveginum sem komið er að innan við brúna á ánni. Þær sýna að þarna hafa staðið þrjú hús. Örfáum metrum innar gefur að líta það sem eftir er af allstóru hringlaga fjárbyrgi og virðist sú tótt vera mun yngri. Hér heita Kotbakkar fyrir neðan[43] og þarf vart að efast um tengsl þess örnefnis við kotið sem hér stóð á fyrri tíð.

Á 18. og 19. öld mun sjaldan hafa búið nema einn bóndi í senn á Kjaransstöðum.[44] Stöku sinnum var þar samt tvíbýli[45] og dæmi finnst um þríbýli á þessari 12 hundraða jörð.[46]

Um miðja 19. öld bjuggu hér alllengi hjónin Sigurður Magnússon og Ingibjörg Jónsdóttir sem bæði voru fædd í Barðastrandarsýslu.[47] Hjá þeim brann bærinn til kaldra kola árið 1852 og komst fólkið út á nærklæðum einum.[48] Árið 1867 hófu hér búskap hjónin Kristján Þórðarson og Guðfinna Bjarnadóttir[49] en þau og niðjar þeirra bjuggu æ síðan á Kjaransstöðum[50] uns jörðin féll í eyði árið 1975. (Sbr. Firðir og fólk 1900-1999, 194).  Kristján fæddist á Rafnseyri árið 1815 eða því sem næst[51] en Þórður faðir hans, sem kallaður var Tómasson, var almennt talinn sonur séra Jóns Sigurðssonar á Rafnseyri, afa Jóns Sigurðssonar forseta.[52] Haustið 1816 var Kristján hjá föðurömmu sinni, Guðrúnu Jónsdóttur á Borg í Arnarfirði,[53] en hún fékkst nokkuð við skáldskap og var af mörgum nefnd Guðrún skálda (sjá hér Borg). Í fyllingu tímans gekk hann að eiga Guðfinnu Bjarnadóttur frá Tungu í Önundarfirði.[54] Hingað að Kjaransstöðum fluttust þau frá Rauðsstöðum í Arnarfirði vorið 1867 en höfðu áður búið um skeið í Mýrahreppi.[55] Kristján Þórðarson hafði smíðar að atvinnu með búskapnum[56] og fékk árið 1867 þessa einkunn hjá presti: Vel að sér, listamaður, ráðvandur.[57] Elsti sonur Kristjáns og Guðfinnu var Þórður Páll og tók hann hér við búi af foreldrum sínum vorið 1873.[58] Hann var þá nýlega kvæntur Sigríði Árnadóttur en í janúarmánuði árið 1889 varð hann fyrir þeirri þungu raun að missa á tveimur vikum eiginkonuna og sex börn þeirra, hið elsta tíu ára,[59] og dóu öll börnin úr barnaveiki, að sögn nákominna.[60] Tvö önnur börn missti Þórður líka á árunum 1888 og 1889[61] en hélt eftir syninum Friðfinni er seinna tók við búinu. Árið 1891 fékk ekkjumaðurinn á Kjaransstöðum sér ráðskonu, Jónínu Þórðardóttur, sem kom innan úr Djúpi.[62] Með henni eignaðist hann dóttur sem fæddist 1894.[63] Haustið 1901 stóð Þórður enn fyrir búinu, kominn fast að sextugu, og hafði ráðskonuna og soninn Friðfinn sér til halds og trausts.[64] Hér lifði þá enn móðir Þórðar, gamla Guðfinna Bjarnadóttir, sem fæddist á Gelti í Súgandafirði árið 1819.[65] Fólkið sem hélt lífi í mannfellinum mikla á Kjaransstöðum þjappaði sér saman og á árunum 1910-1930 tókst Friðfinni og eiginkonu hans, Jóhönnu Jónsdóttur, að fylla bæinn af ungviði á nýjan leik.

Kjaransstaðir fóru í eyði árið 1975[66] en þá hafði sama ættin búið á jörðinni nokkuð á aðra öld og sonur eða synir jafnan tekið við af föður. Á holti einu skammt frá bæjarhólnum er vígður heimagrafreitur og heitir holtið Fjölskylduholt. Nafnið á holtinu mun þó vera eldra en grafreiturinn.[67] Hjá grafreitnum kveðjum við niðjahóp Guðrúnar skáldu og gamla prestsins á Rafnseyri og líka alla hina sem hér hafa unað lífinu í sæld og þraut.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Gunnar Sigurðsson á Ketilseyri. – Viðtal K.Ó. við hann 28.8.1998.

[2] Örnefnaskrá.

[3] Gunnar Sigurðsson á Ketilseyri. – Viðtal K.Ó. við hann 28.8.1998.

[4] Örnefnaskrá.

[5] Sama heimild.

[6] Sama heimild.

[7] Sama heimild.

[8] Sama heimild.

[9] Gunnar Sigurðsson á Ketilseyri. – Viðtal K.Ó. við hann 28.8.1998.

[10] D.I. IV, 687.

[11] Hermann Pálsson / Íslensk mannanöfn.

[12] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 53.

[13] D.I. IV, 687-688.

[14] D.I. IV, 687-688.

[15] D.I. XI, 526.

[16] D.I. XV, 474.  Sbr. Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir (Kph 1993), 103-104.

[17] D.I. XV, 474 og 523.

[18] Jarðab. Á. og P. VII, 53.

[19] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir (Kph 1993), 113-114 og 157.  Íslenskar æviskrár I, 235 og

319-320, II, 90, IV, 111-112 og V, 155.

[20] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir (Kph 1993), 113-114.

[21] Ísl. æviskrár I, 235 og 319-320, III, 431 og 460-461 og IV, 385.

[22] Jarðab. Á. og P. XIII, 277-278.  Sbr. Ísl. æviskrár IV, 385-386.

[23] Ísl. æviskrár IV, 385-386.

[24] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdr. (Kph 1993), 277-278.  Manntal 1703, 216.  Sbr. Vestf. ættir IV, 385.

[25] Jarðab. Á. og P. VII, 53.

[26] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdr. (Kph 1993), 277-278.

[27] Vestfirskar ættir IV, 384-385.

[28] Jarðab. Á. og P. VII, 53.  Sbr. Vestf. ættir I, 48.

[29] Ísl. æviskrár IV, 58.

[30] Vestf. ættir I, 48-49.

[31] Alþingisbækur Íslands XIII, 66-67.

[32] Sama heimild XV, 437.

[33] Sama heimild.

[34] Sigfús H. Andrésson 1988, I, 144-145.

[35] Jarðab. Á. og P. VII, 53.

[36] Sama heimild.

[37] Sama heimild.

[38] Sama heimild.

[39] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 55-56.

[40] Sama heimild.

[41] Jarðab. Á. og P. VII, 53.

[42] J. Johnsen 1847, 193.

[43] Örn.skrá.

[44] Manntöl frá tímabilinu 1703-1901.

[45] Sóknarm.töl Sandapr.kalls frá árunum kringum 1875.

[46] Manntal 1816.

[47] Manntöl 1840, 1845, 1850 og 1855.

[48] P.G. Annáll nítjándu aldar II, 349.

[49] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[50] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Sandapr.kalls.  Sbr. Firðir og fólk 1900-1999, 194.

[51] Manntal 1816, 681.

[52] Prestsþj.b. Rafnseyrar.  Ísl. æviskrár III, 263.  Lbs. 23684to, Sighv. Gr. Borgf. Prestaæfir XI, 47.

[53] Manntal 1816.

[54] Ólafur Þ. Kristjánsson 1948, 73 (Frá ystu nesjum IV).

[55] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Rafnseyrar, Sanda og Dýrafj.þinga.  Sbr. Manntal 1845, vesturamt, 263.

[56] Manntal 1860.

[57] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[58] Sama heimild.

[59] Prestsþj.b. Sandapr.kalls.  Lbs. 23744to, Dagbók Sighv. Gr. Borgf. janúar og febrúar 1889.

[60] Sigurður Friðfinnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 28.8.1998.

[61] Prestsþj.b. Sandapr.kalls.

[62] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Sandapr.kalls.  Manntal 1901.

[63] Sömu heimildir.

[64] Manntal 1901.

[65] Sama heimild.  Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[66] Sjá Firðir og fólk 1900-1999, 194.

[67] Örn.skrá.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »