Vaðlar

Frá landamerkjunum á móti Holti er skammur spölur heim í hlað á Vöðlum. Bærinn stendur neðst í vestanverðum Bjarnardal en handan Bjarnardalsár eru Mosvellir, nær beint á móti Vöðlum. Framar í dalnum eru tvær jarðir, Tröð, sem er vestan ár, og Kirkjuból sem er austan við ána. Loftlína frá Vöðlum yfir að Mosvöllum er um það bil 600 metrar, rúmlega einn kílómetri fram að Tröð en nær tveir og hálfur að Kirkjubóli.

Þegar gengið er fram Bjarnardal er stefnt í suðurátt og vegalengdin frá Vöðlum og fram í dalbotn er um það bil 5 kílómetrar. Frá botni Bjarnardals gengur þröngur afdalur til suðausturs og heitir Mjóidalur. Hann er líka nær 5 kílómetrar á lengd sé dalskoran sem endar í Vesturkika talin með. Neðst er Bjarnardalur nokkuð á annan kílómetra á breidd en mjókkar verulega skammt neðan við Tröð.

Frá hlaðinu á Vöðlum er gott að líta yfir dalinn og virða fyrir sér fjöllin sem skýla byggðinni þar. Upp frá bænum á Vöðlum er Vaðlafjall sem í raun er suðurendinn á Holtsfjalli.[1] Nokkru framar er fjallið Messuhorn en milli þessara tveggja fjalla er svolítill fjalldalur sem heitir Berjadalur.[2] Framan við Messuhorn er Galtardalur, sem hér er nánar frá sagt á öðrum stað, (sjá hér Tröð) en þar fyrir framan blasir við augum fjallið Kaldbakur með sínum dökku hamraveggjum sem setja sterkan svip á allt umhverfið.[3] Hinum megin í dalnum er Mosvallafjall næst Vöðlum með klettahorni sem ber við himin og heitir það Mosvallahorn.[4] Sé litið yfir Bjarnardal frá hlaðinu á Vöðlum eru fjöllin sem hér hafa nú verið nefnd mest áberandi en hæstu brúnir þeirra ná víða 700-750 metra hæð.

Eitt fjallið sem hér var nefnt er Messuhorn, milli Berjadals og Galtardals, í um það bil þriggja kílómetra fjarlægð frá kirkjustaðnum í Holti. Nafnið á fjalli þessu er merkilegt en séð frá hlaðinu í Holti er sólin yfir því klukkan þrjú síðdegis, það er um klukkan tvö að réttum sólartíma sem áður var jafnan miðað við, allt fram á 20. öld (sannreynt 18.8.1995). Fullvíst má því telja að nafnið Messuhorn hafi fjallið fengið vegna þess að yfir því var sólin jafnan á ferð á björtum sumardögum þegar hringt var til tíða á hinum forna kirkjustað.

Ebenezer Henderson, sem ferðaðist um Ísland á árunum 1814 og 1815 á vegum breska Biblíufélagsins og kynnti sér meðal annars kirkjusiði, segir að hérlendis byrji prestar sunnudagsmessuna hvergi fyrr en á hádegi og sums staðar ekki fyrr en klukkan tvö.[5] Líklegt er að þessi skipan hafi haldist frá því um eða upp úr siðaskiptum um miðbik 16. aldar. Í kaþólsku mun hins vegar hafa verið algengast að hérlendir klerkar byrjuðu helstu messu sérhvers sunnudags klukkan níu fyrir hádegi[6] og því er nafnið á fjallinu varla eldra en frá miðri 16. öld. Gaman er að sjá skýringu Hendersons á því hvers vegna íslenskir prestar, sem hann átti samskipti við, byrjuðu guðsþjónustuna ekki fyrr en um eða eftir hádegi en um þetta ritar hinn breski biblíumaður svo:

 

Ástæðan til þess að svo seint er byrjað er sú að Íslendingar verða fyrst að smala ánum og mjalta þær, leita uppi hesta til kirkjuferðarinnar og síðan að búa sig. Allt þetta samanlegt, að viðbættri síðan langri leið margra þeirra til kirkjunnar, gerir það ómögulegt fyrir þá að mæta fyrr.[7]

 

Hér hefur áður verið gerð grein fyrir landamerkjum Vaðla á móti Holti (sjá hér Holt) en á móti Tröð eiga Vaðlar land fram að Merkisbletti sem er grasblettur í hlíðinni undir Messuhorni.[8] Tvær skriður eru sín hvorum megin við Merkisblett en í sjálfum blettinum er stór steinn og grænt dý.[9] Grasblettur þessi mun einnig hafa verið nefndur Merkjateigur[10] og ofan við hann er Einhamar í neðstu klettum.[11] Á þessum landamerkjum er nú kúagirðing sem nær upp í fjallshlíðina og endar þar í farvegi Berjadalsár þar sem áin beygir í átt að Mosvöllum.[12] Milli Vaðla og Mosvalla skiptir Bjarnardalsá löndum að mestu leyti en þó eiga Mosvellir svolitla landræmu vestan ár, Sturleyri sem svo heitir, neðan við túnið á Vöðlum.[13]

Að fornu mati voru Vaðlar taldir vera 12 hundraða jörð.[14] Í einni heimild frá fyrstu áratugum 20. aldar er jörðin sögð vera grösug og notasæl.[15] Í annarri heimild frá sama tíma er tekið fram að túnið á Vöðlum sé gott og jörðin hæg til slægna.[16] Séra Tómas Sigurðsson getur þess líka í sóknarlýsingu sinni frá árinu 1840 að Vaðlar séu heyskaparjörð en tekur fram að beitin sé mögur og land jarðarinnar hafi orðið fyrir skemmdum af völdum skriðufalla.[17] Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 er látið vera að nefna hin góðu heyskaparskilyrði á Vöðlum en þeim mun meira gert úr ókostunum. Þar er Berjadalsá sögð bera aur og grjót á slægjulöndin sem einnig spillist á ári hverju af völdum skriðufalla.[18] Í Jarðabókinni eru hagarnir á Vöðlum sagðir vera litlir mjög og spilltir af skriðum og því bætt við að vegna beitarleysi liggi búpeningur frá Vöðlum upp á öðrum vetur og sumar.[19] Ekki er ólíklegt að þarna hafi heimildarmenn Árna Magnússonar dregið upp dekkri mynd en ástæða var til og nú er sumarbeit talin góð á þessari jörð (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 356) þó að landareignin sé ekki stór. Lítið mun hins vegar hafa verið um hlunnindi ef frá er talið mótak sem getið er um í heimild frá árunum kringum 1920.[20]

Í varðveittum heimildum er Vaðla í Önundarfirði fyrst getið í Oddgeirsmáldaga frá árinu 1377 eða því sem næst en Holtskirkja var þá þegar orðin eigandi jarðarinnar.[21] Verið getur að kirkjan í Holti hafi eignast jörðina þó nokkru fyrr og fullvíst að Vaðlar voru kirkjujörð frá 1377 til 1913 eða í 536 ár.[22] Árið 1913 seldi Holtskirkja loks hálfa jörðina fyrir 1.250,- krónur[23] og árið 1932 voru báðir bændurnir á Vöðlum orðnir sjálfseignarbændur.[24]

Um bændur á Vöðlum fyrir 1680 er allt ókunnugt en árið 1681 var þríbýli á jörðinni og þá bjuggu hér Jón Ketilsson á 6 hundruðum, Sveinn Þorvaldsson á 3 hundruðum og Vilborg Gilsdóttir á 3 hundruðum.[25] Árið 1703 var tvíbýli á Vöðlum[26] og líka 1710. Þá bjuggu á jörðinni þeir Jón Jónsson og Gísli Bjarnason og höfðu 6 hundruð hvor til ábúðar.[27] Árleg landskuld af hvorri hálflendu var þá 40 álnir[28] en hafði verið 30 álnir á árunum upp úr 1570 (sjá hér Holt). Algengt var að annar helmingur landskuldarinnar væri greiddur með innleggi í kaupstað en hinn með því að fóðra búpening frá Holti.[29] Í byrjun 20. aldar taldist landskuld af Vöðlum vera 5 gemlingar.[30]

Í byrjun 18. aldar átti Holtskirkja 6 innistæðukúgildi á Vöðlum og svo hafði þá verið frá fornu fari.[31] Í leigu fyrir þessi sex kúgildi urðu bændurnir á Vöðlum að greiða Holtspresti 60 kíló af smjöri á ári hverju sem í landaurareikningi jafngilti heilu kýrverði (sjá hér Holt). 200 árum síðar fylgdu þessi sex kúgildi (24 ær) jörðinni enn en leigan eftir þau var þá komin niður í 40 kíló af smjöri eða kr. 72,80.[32] Í Jarðabókinni frá 1710 er þess líka getið að Vaðlabændum sé skylt að róa á staðarskipinu frá Holti, sem gert sé út frá Kálfeyri, og standa einn dag á sumri hverju við slátt á Holtsengjum.[33] Þess er þó jafnframt getið að annar bændanna á Vöðlum sé sem stendur laus frá þessum kvöðum vegna veikinda.[34]

Á 18. og 19. öld var yfirleitt tvíbýli á Vöðlum.[35] Einstaka undantekningar eru þó finnanlegar frá þessari reglu. Sem dæmi um það má nefna að árið 1816 bjó maður að nafni Jón Ásmundsson einn á allri jörðinni[36] og árið 1835 var þríbýli á Vöðlum.[37] Þá var hér líka húskona og lausamaður[38] svo bekkurinn hefur verið þétt setinn. Fardagaárið 1836-1837 sat séra Tómas Sigurðsson á Vöðlum og þar var þá líka séra Sigurður sonur hans, sem var aðstoðarprestur föður síns (sjá hér Holt). Þess utan er ekki kunnugt um að prestar hafi búið á þessari kirkjujörð frá Holti. Á síðari hluta 19. aldar voru heimilin stundum þrjú á Vöðlum, enda þótt bændur þar væru ekki nema tveir. Á þriðja heimilinu var þá jarðnæðislaust tómthúsfólk eins og sjá má í manntölum frá 1870 og 1880.[39]

Í byrjun 19. aldar bjuggu hjónin Ólafur Jónsson og Sesselja Jónsdóttir á annarri hálflendunni á Vöðlum.[40] Í manntali frá árinu 1801 er Ólafur á Vöðlum sagður vera 43ja ára gamall en kona hans tíu árum yngri.[41] Þau áttu þá fjögur börn á lífi, hið elsta 7 ára og var það drengur sem hét Páll. Á fyrstu árum 19. aldar var oft mjög hart í ári en þó keyrði fyrst um þverbak í hinni miklu dýrtíð sem siglingateppan í lok Napóleonsstyrjaldanna olli á árunum 1811-1814. Varð þá bjargarskortur víða um land svo fólk féll úr hungri. Veturinn 1811-1812 mun heimili Ólafs og Sesselju á Vöðlum hafa verið bjargarlítið og sultur í búi þegar kom fram á góuna. Þann 9. mars andaðist Páll sonur þeirra, sem þá var 17 ára, en frá dauða hans greinir séra Þorvaldur Böðvarsson í Holti svo: Mars 13. 1812. Jarðaður í Holti Páll Ólafsson sonur hjónanna Ólafs og Sesselju að Vöðlum, 17 ára gamall, dáinn þann 9. sama mánaðar af hor og óþrifnaði, illa kynntur og upp alinn.[42]

Gera má ráð fyrir að pilturinn Páll hafi verið einn hinna síðustu sem dóu hungurdauða í Önundarfirði en átta vikum og tveimur dögum eftir andlát hans urðu Önfirðingar fyrir hinum mikla mannskaða þegar nær 50 menn á bátum þeirra drukknuðu, allir á einum degi (sjá Mosvallahreppur, inngangskafli).

Um 1820 fór maður að nafni Guðmundur Jónsson að búa á Vöðlum og bjó hann í allmörg ár á nokkrum hluta jarðarinnar.[43] Hann var fæddur um 1780 og átti fyrir konu Guðrúnu Hallsdóttur sem ranglega er nefnd Halldórsdóttir í manntalinu frá 1816.[44] Þau höfðu áður búið á Vífilsmýrum.[45] Guðmundur mun hafa verið meðhjálpari við guðsþjónustur í Holtskirkju og var oft vottur við barnsskírnir.[46] Ásgeir prófastur í Holti kallar hann erkidjákna eins og sjá má í prestsþjónustubókinni.[47] Dætur Guðmundar og Guðrúnar konu hans voru þær Abigael og Rósa.[48] Abigael var um skeið húsfreyja á Görðum (sjá hér Garðar) en Rósa átti alllengi heima á Þórustöðum og lenti þar í galskap sem sagt er frá á öðrum stað (sjá hér Holt).

Síðustu árin sem Guðmundur erkidjákni lifði átti hann heima á Kirkjubóli í Bjarnardal.[49] Þar andaðist Guðrún kona hans sumarið 1838 en hann dó 26. júlí 1843 og var þá ekkill á Kirkjubóli.[50]

Svo virðist sem fáir bændanna á Vöðlum á 18. og 19. öld hafi búið þar mjög lengi, nema Halldór Bernharðsson sem bjó hér allan eða nær allan síðasta þriðjung nítjándu aldarinnar[51] en börn hans tóku síðan við jörðinni á árunum kringum aldamótin 1900 og Bernharður sonur hans bjó á Vöðlum allt til ársins 1937.[52]

Halldór var fæddur árið 1842, sonur hjónanna Bernharðs Guðmundssonar og Helgu Jónsdóttur á Þórustöðum í Önundarfirði.[53] Þegar Halldór var á fyrsta ári drukknaði faðir hans í hákarlalegu[54] en móðir hans bjó áfram á Þórustöðum fyrst um sinn. Árið 1869 kvæntist Halldór Elínu, dóttur Jóns Sigurðssonar hreppstjóra sem lengi bjó á Kirkjubóli í Korpudal, og um það leyti fóru þau að búa á Vöðlum.[55] Auk búskaparins mun Halldór hafa fengist mikið við smíðar.[56]

Árið 1870 var Halldór annar tveggja bænda á Vöðlum og hefur þá líklega búið á fremri hálflendunni því þar bjó hann 15 árum síðar.[57] Bústofn hans árið 1870 var 2 kýr, 9 ær og 1 hestur.[58] Árið 1880 var bústofn hans orðinn mun stærri. Á því ári bjó Halldór með 3 kýr, 16 ær og 9 gemlinga.[59] Þá átti hann líka 2 hesta og á Vöðlum voru komnir tveir litlir kálgarðar og einnig færikvíar sem bændurnir þar áttu saman.[60] Hjónin Guðmundur Pálsson og Ingileif Ólafsdóttir, er seinna bjuggu á Kirkjubóli í Bjarnardal, voru þá sambýlisfólk Halldórs og Elínar á Vöðlum.[61] Halldór Bernharðsson var framfarasinnaður bóndi og talið að hann hafi verið einn af sex stofnendum Búnaðarfélags Önfirðinga árið 1886 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 326). Í heimild frá árinu 1895 sést að þá var vatnsmylla til kornmölunar komin í notkun á Vöðlum[62] og er líklegt að Halldór hafi komið henni fyrir í bæjarlæknum. Þegar Halldór Bernharðsson var um það bil hálfsextugur hætti hann búskap og fór í húsmennsku. Hann var enn húsmaður á Vöðlum á árunum kringum 1920[63] og lifði til 1928.[64] Á árunum rétt fyrir aldamótin 1900 fóru sonur Halldórs og tengdasonur að búa á Vöðlum, þeir Kristján Halldórsson og Hólmgeir Jensson dýralæknir. Frá Hólmgeiri er nánar sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Þórustaðir og Tunga í Firði) en á Vöðlum bjó hann aðeins í fáein ár. Kristján Halldórsson var bóndi á Vöðlum til 1913 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 356), síðast á móti Bernharði bróður sínum sem hóf hér búskap árið 1912 og bjó á Vöðlum til æviloka en hann andaðist 15. desember 1937.[65] Á sínu öðru búskaparári var Bernharður á Vöðlum fulltrúi Búnaðarfélags Mosvallahrepps á aðalfundi Búnaðarsambands Vestfjarða[66] og tveimur árum síðar var samþykkt að veita honum 50,- króna verðlaun fyrir framkvæmdir í búnaði.[67] Frá 1933 bjuggu Bernharður og Kristín Tómasdóttir, kona hans, ein á allri jörðinni en áður var hér jafnan tvíbýli.

Gömlu torfbæirnir á Vöðlum stóðu báðir á lágum hól, um það bil 50 metrum neðar en eldra íbúðarhúsið sem hér er nú í stefnu aust-norðaustur frá því.[68] Bæir þessir voru jafnan nefndir ytribær og fremribær.[69] Snorri Sigfússon, sem var skólastjóri á Flateyri frá 1912-1929, segir bæina tvo sem þá stóðu hér hafa verið ekki óreisulega.[70]

Á Vöðlum eru í boði merkilegar upplýsingar um sólargang, það er að segja breytingar sem orðið hafa síðustu 80-90 árin á áhrifasvæði kvöldsólarinnar þar í túninu. Kristín Tómasdóttir, sem varð húsfreyja á Vöðlum árið 1912, sagði Brynjólfi Árnasyni, sem hér býr nú (1994), að á sínum fyrstu búskaparárum hefði kvöldsólin aldrei náð alveg upp að gamla ytri bænum sem áður var nefndur.[71] Þegar Brynjólfur byrjaði búskap á Vöðlum árið 1947 náði aftanskinið hins vegar á norðurgafl þess bæjar.[72] Alllöngu seinna fóru geislar kvöldsólarinnar að leika um veggi íbúðarhússins sem byggt var árið 1947 en það stendur um það bil 50 metrum ofar í túninu en bæirnir stóðu áður.[73] Allt er þetta miðað við þann tíma ársins þegar sól er hæst á lofti.[74] Á allra síðustu árum er kvöldskin sólarinnar svo farið að ná upp fyrir hlöðuna sem stendur enn ofar en íbúðarhúsið en þar á milli eru 30-40 metrar eða því sem næst.[75] Ætla má að stjörnufræðingar eigi létt með að gefa skýringu á þessari framsókn sólargeislanna en út í þá sálma verður ekki farið hér.

Árið 1921 var jörðin Vaðlar metin á 3.000,- krónur og hús sem á henni stóðu á 2.500,- krónur samtals, 1.000,- krónur á öðru býlinu en 1.500,- krónur á hinu.[76] Til samanburðar má nefna að á þeim sex býlum sem þá var búið á í Bjarnardal var meðalverð húsanna 1.533,- krónur.[77] Bernharður Halldórsson átti árið 1921 þann jarðarhelming sem hann bjó á en hinn jarðarpartinn átti prestlaunasjóður[78] sem tekið hafði við kirknaeignum nokkrum árum fyrr. Árið 1932 var enn búið í gömlu torfbæjunum á Vöðlum.[79] Stærð túnsins var þá 5,2 hektarar og meðalheyfengur talinn vera 180 hestar af töðu og 360 hestar af útheyi.[80] Búið var að girða túnið og byggja hlöður sem gátu tekið 330 hesta af heyi.[81] Þá voru 6 kýr á Vöðlum, 95 sauðkindur og 6 hross.[82]

Fjalldalurinn upp frá bænum á Vöðlum heitir Berjadalur eins og hér hefur áður verið nefnt. Sagnir herma að sel frá Vöðlum hafi verið í Berjadal.[83] Brekkan neðan við dalsmynnið er dálítið brött en samt er auðvelt að komast neðan frá bæ og upp í dalinn á 30-40 mínútum. Áin sem fellur um dalinn heitir Berjadalsá[84] og þegar komið er upp á dalbrúnina skulum við ganga upp með henni að norðanverðu. Fyrr en varir sjáum við þá á hægri hönd hringlaga tótt sem við lauslega mælingu reynist vera um það bil 13 metrar að ummáli. Lögun tóttarinnar bendir fremur til sauðabyrgis en selhúsa en um það bil 30 metrum frá þessari tótt og nær ánni er önnur langtum minni tótt sem greinilegt er að hefur verið kví. Öllum seljum fylgdu ein eða fleiri kvíar þar sem ærnar voru mjaltaðar og kvíin í Berjadal styrkir mjög hinar gömlu sagnir um að hér hafi verið sel. Enginn veit hins vegar nú hvenær hætt var að hafa hér búsmala í seli en svo mikið er víst að árið 1840 var Holtsselið það eina í öllu prestakallinu.[85] Í sóknarlýsingu sinni frá því ári tekur séra Tómas Sigurðsson í Holti hins vegar fram að í Önundarfirði sjáist víða þess háttar tóttarbrot í dölum frá ýmsum bæjum.[86] Að sögn hans mundi þó enginn maður sem uppi var í Önundarfirði árið 1840 eftir seljabúskap þar í sveit nema þeim sem þá var enn rekinn frá Holti.[87] Ef marka má orð séra Tómasar ætti Vaðlaselið hér í Berjadal að hafa fallið úr notkun fyrir 1780 og er mjög líklegt að svo hafi verið. Seinna kynnu menn svo að hafa reist sauðabyrgi upp úr selhúsunum og gæti það skýrt lagið á áðurnefndri tótt sem er nokkurn vegin hringlaga.

Í suðurhlíð Berjadals er allmikill klettahjalli og heitir hann Hríshjalli.[88] Hjallinn teygir sig úr Berjadal fyrir fjallið Messuhorn og yfir í Galtardal sem er handan þess.[89] Öxlin á Hríshjalla, sem blasir við frá Berjadal, er nefnd Einhamar.[90]

Í Berjadal er talsvert mýrlendi og þar var heyjað stöku sinnum á fyrri tíð en þó aðeins í neyð.[91] Rétt utan við dalinn er grasigróinn blettur fyrir ofan mitt fjall og heitir hann Kýrblettur.[92] Ýmsum hefur dottið í hug að þangað hafi kýr verið reknar til beitar frá selinu í Berjadal.[93]

Ofan frá Berjadal liggur leið okkar til baka heim að Vöðlum því ætlunin er að staldra þar enn við litla stund og rifja upp eitt og annað um farandsvein af Suðurnesjum sem þar var skráður til heimilis í þrjú ár undir lok 19. aldar. Hann hét Álfur Magnússon og dvaldist á Ísafirði og í Ísafjarðarsýslu síðustu níu árin sem hann lifði, 1889-1898. Álfur varð hvergi rótfastur en á þessum níu árum var hann lengst skráður til heimilis hjá Halldóri Bernharðssyni á Vöðlum eða í þrjú ár en skemur á öðrum stöðum.[94]

Álfur fæddist 26. febrúar 1871, sonur fátækra hjóna sem þá áttu heima á Gauksstöðum í Garði.[95] Foreldrar hans hétu Magnús Magnússon og Þuríður Jónsdóttir. Móður sína missti Álfur þegar hann var fjögra ára gamall og stóð faðir hans þá uppi ekkjumaður með þrjú börn, tvær dætur og Álf sem var yngsta barnið.[96] Í skránni yfir þá sem önduðust í Útskálaprestakalli árið 1875 tekur sóknarpresturinn fram að Þuríður, móðir Álfs, hafi látist af barnsförum og segir hana hafa verið orðlagða fyrir dugnað.[97] Þegar Þuríður dó átti þessi fimm manna fjölskylda heima á Eiði sem var þurrabúðarkot ekki langt frá Gauksstöðum. Fáum árum síðar var Álfur kominn að Melbæ í Garði með föður sínum sem þá var vinnumaður þar.[98] Þar var Álfur árið 1879, þá átta ára gamall, og er þá sagður lesa vel og kunna vel.[99] Í ritgerð frá árinu 1901 um barnaskólann í Garðinum segir að Álfur hafi verið bráðgáfaður drengur og hafi hann leikið sér að því að fá hæstu einkunn í öllum námsgreinum sem kenndar voru við skólann.[100]

Árið 1884 virðist Álfur hafa átt heima í Reykjavík því þá um vorið er hann fermdur í dómkirkjunni,[101] ári fyrr en vænta mátti. Við ferminguna ritar prestur í kirkjubókina að faðir Álfs sé Magnús Magnússon nú í Garði syðra[102] og gefur drengnum þessar einkunnir: Les dável, kann ágætlega, skrifar og reiknar dável, siðlátur.[103]

Á þessum árum var aðeins einn lærður skóli í öllu landinu og harla sjaldgæft að synir tómthúsmanna fengju þar sæti á skólabekk. Haustið 1885 var Álfur Magnússon þó einn þeirra 13 nýsveina er hófu skólanám við lærða skólann í Reykjavík[104] sem síðar fékk nafnið menntaskóli. Á fyrsta vetri Álfs í skólanum drukknaði faðir hans og þrengdist þá mjög um fjárhaginn hjá drengnum.[105] Séra Jens Pálsson, sem varð prestur á Útskálum sumarið 1886, mun þá hafa lagt Álfi lið og borgað námskostnað hans næstu árin.[106]

Séra Jes A. Gíslason, sem var bekkjarbróðir Álfs í lærða skólanum, sagði svo frá löngu síðar að Álfur hefði horfið úr skóla þegar farið var að lesa undir vorpróf í 4. bekk[107] sem ætti þá að hafa verið vorið 1889. Séra Jes kemst svo að orði að Álfur hafi þá verið fúll og félaus og uppgefinn á þessu öllu saman. Annar bekkjarbróðir Álfs var Karl Nikulásson, síðar kaupmaður og konsúll á Akureyri, en frá honum er komin mun nákvæmari lýsing á Álfi og brottför hans úr lærða skólanum. Frásögn Karls Nikulássonar er á þessa leið:

 

Álfur var þrjá vetur í skóla. Hann átti þar góða kunningja meðal bekkjarbræðra sinna og þótti margt fremur um hann en ýmsa af jafnöldrum hans. Syndur var hann sem selur og flestum betri í líkamsíþróttum, skarpur og næmur og nokkuð skáldmæltur en stundum keskinn í kveðskap sínum. Skapmikill mun hann hafa verið en viðkvæmur og dulur og seintekinn fyrir þá er hann hirti ekki um að kynnast. En í hópi kunningja glaður og örglettinn og jafnan græskulaus.

Sá atburður varð að afstöðnum sumarmálafagnaði, þá er Álfur hafði verið þrjá vetur í skóla, að hann lenti í orðahnippingum við miðaldra kvenmann er bjó í sama húsi og hann. Var hann að koma af áðurnefndri skemmtun og var ör af víni en víndrykkju var hann þá með öllu óvanur. Endaði þessi orðasenna milli Álfs og konunnar á þann hátt að hann laust hana kinnhest. Fékk hann að vonum harðar ávítur fyrir enda sá hann mjög eftir þessu er runnið var af honum ölæðið.

Nokkru síðar vildi svo til að konan fékk bólu á þessa sömu kinn. Hirti hún eigi um hana sem skyldi. Varð úr því blóðeitrun er varð konunni að bana. Sá orðrómur komst á loft og var í hámælum hafður að löðrungur sá er Álfur laust konuna hefði verið orsök í dauða hennar. Og þó að Jónas Jónassen, er þá var héraðslæknir en síðar landlæknir, fullyrti að milli þessara tveggja atvika væri ekkert samband að sínum dómi varð ekki söguburðinum hnekkt með því.

Álfur tók sér þetta mjög nærri og við orðróm þennan, þó ósannur væri, hafði hann beðið það tjón er varð miklu ráðandi um líf hans og gæfuleysi þaðan í frá. Uppfrá þessu tók Álfur að hafa vín um hönd. Hafði hann áhyggjur af getuleysi sínu til áframhaldandi skólagöngu sökum fátæktar og umkomuleysis. Mun hafa verið umtal um að synja honum skólavistar áfram en til þess þurfti ekki að koma. Álfur stakk af um haustið með hrossatökuskipi norður til Skagafjarðar.[108]

 

Orð Karls kaupmanns liggur beinast við að skilja á þann veg að Álfur hafi horfið frá námi vorið 1888 en séra Jes segir að hann hafi ekki yfirgefið skólann fyrr en vorið 1889. Fullvíst er að árið 1889 kom Álfur vestur á Ísafjörð frá Reykjavík og frá Ísafirði fór hann sem vinnumaður árið 1890 að Holti í Önundarfirði til séra Janusar Jónssonar.[109]

Hjá séra Janusi var Álfur aðeins vistráðinn í eitt ár, fardagaárið 1890-1891[110] en eitthvað mun hann síðar hafa unnið að búverkum í Holti ef marka má frásögn Guðlaugs Kristjánssonar frá Rauðbarðaholti sem var kunningi Álfs og skipsfélagi á Ísafirði.[111]

Svo virðist sem þessi fyrrverandi skólapiltur hafi unað sér illa í stétt vinnuhjúa. Til þess bendir m.a. kvæði sem hann orti í Holti og nefnt er Vinnumannslífið í uppskriftum. Fyrsta vísan í því kvæði er svona:

Vinnumannslífið er þrælkun og þraut,

hvar þekking og frelsi er bannað.

Að vinna fyrir skammir og gutl’  í sig graut

− ég get ekki kallað það annað.[112]

Frá árinu í Holti, þegar Álfur var rétt um tvítugt, mun einnig vera söngkvæði hans um ferðalag sitt til Ísafjarðar en þar eru tvær fyrstu vísurnar á þessa leið:

 

Ég arkaði norður á Ísafjörð

og ofan Hnífa ég stökk

og snævi þakin þá var jörð

í þoku röðull sökk.

Til Vedholms kaldur ég kom

og hellti í mig toddý svo hyrfi burt kuldi.

Það hressti sál nú hreyfðist mál

og seinast saup ég þar romm.

 

Ég lofaði stöðugt að halda heim

að Holti næsta dag

en margan ég hitti í manna sveim

sem mér bauð kátur „God dag”.

− „Þú færð þér frændi eitt glas.

Við sjáumst ei alltaf, æ súptu á betur,

ég segi skál, að syngja er mál,

− allt bindindi bölvað er mas.” [113]

 

Í þriðju vísu þessa sama kvæðis kveðst Álfur enn sitja að sumbli á Ísafirði að kvöldi hins fjórða dags og vill gleðjast við glasahljóm í nótt.[114] Lausar sagnir um drykkjuskap Álfs benda eindregið til þess að í nýnefndu kvæði sé hann að lýsa sinni eigin kaupstaðarferð, ímyndaðri eða raunverulegri, og þar sé fátt orðum aukið.[115] Því fór þó fjarri að Álfur ætti þess kost að liggja alla daga við stútinn svo bláfátækur sem hann var og reyndar líklegt að hinn skáldmælti vinnumaður í Holti hafi sjaldan komist í brennivín nema í kaupstaðarferðum.

Þegar Álfur kom að Holti voru átta ár liðin frá því fyrsta orgelið kom í kirkjuna þar (sjá hér Holt) en líklega hefur enginn kunnað að spila á það svo sómi væri að. Í traustri samtímaheimild sést hins vegar að Álfur hafði nokkurn hug á að gerast organisti í Holti og máske hefur hann fengið að grípa eitthvað í hljóðfærið. Jón Guðmundsson frá Grafargili segir í dagbók sinni frá fundi sem haldinn var á Þórustöðum 23. febrúar 1891[116] og var það eins konar undirbúningsfundur fyrir árlegan sýslufund.[117] Fámennt var á þessum Þórustaðafundi en þar kom m.a. til umræðu að brúa Bjarnardalsá og að einhver lærði að spila á orgelið í Holtskirkju.[118]Og var helst á Álfi í Holti að heyra að hann væri líklega fáanlegur til þess, skrifar Jón í dagbók sína og lýkur þar með frásögn hans af fundinum.[119] Álfur var maður söngglaður og ekki ólíklegt að hljóðfærasláttur og önnur tónlist hafi orkað sterkt á hann. Vel má þó vera að í þorralok árið 1891 hafi hann fyrst og fremst séð í hillingum þá löngu kaupstaðarferð sem hlaut að fylgja námi í organleik.

Líklega hefur Álfur verið kominn að Vöðlum þegar efnt var til þjóðhátíðar á Þingeyri 12. september 1891 í minningu þess að 1000 ár voru talin liðin frá því hinir fyrstu landnámsmenn settust að í Dýrafirði. Í löngu kvæði sem Álfur orti af þessu tilefni kemur fram að sjálfur var hann einn gesta á hátíðinni og náði að fagna öllu því mikla brennivíni sem þar var á boðstólum. Kvæðið sem hann yrkir þegar hátíðin var um garð gengin byrjar hann svo:

 

Ó þjóðhátið, ó þjóðhátíð

á Þingeyri var hún.

Þar mátti stórum líta lýð

og létt var hvers manns brún

því þúsund ára þraut og böl

menn þarna áttu að skilja við,

já þeyta því burt og þamba öl

og þar var fagurt Bacchilið

og meyjar ótal máttu hópinn prýða.[120]

 

Í þjóðhátíðarkvæðinu eru ellefu vísur, meðal annarra þessar tvær, númer þrjú og fjögur:

 

 

Úr flöskum ölið freyddi burt

í fríðum glösum toddý rauk.

Þá byrjaði svei mér súrumbrugg

og söngur, dans og fleira brauk.

Þá flestir urðu mælskumenn,

já meira að segja Gram. Hann stökk á háan stól

og hafði í staðinn húrra þrenn

en enginn vissi um hvað karlinn ræddi.*)

 

________________________________________________________________________________________

*) Tvær síðustu línurnar í þessari vísu virðast hafa brenglast í uppskriftinni sem byggt er

á en hafa hér verið lagaðar svolítið til.

 

 

 

 

 

 

En eftir því sem á leið nótt

og ölið tók að svífa á

í tjöldum vildi verða órótt,

menn viku beinum strikum frá.

Þeir kræktu tóman krákustig

og kompánlega rákust á.

Þeir hoppuðu og hristu sig,

í hópnum var ég og það sá

− að segja meðan heila sjón ég hafði.[121]

 

 

 

 

Við lok áranna 1891, 1892 og 1893 var Álfur skráður til heimilis hjá Halldóri Bernharðssyni á Vöðlum.[122] Tvö fyrri árin af þessum þremur er hann titlaður kennari í sóknarmannatölum en í desember 1893 er hann sagður vera sjómaður.[123] Ætla má að á þessum árum hafi Álfur stundað barnakennslu í Önundarfirði um lengri eða skemmri tíma en tvímælalaust er að fyrri part vetrar 1891-1892 var hann við kennslu á Stað í Súgandafirði (sjá hér Staður í Súgandafirði).

Ólafur Þ. Kristjánsson segir í Kennaratali að Álfur hafi kennt í Önundarfirði eftir nýár veturinn 1891-1892[124] og í marsmánuði árið 1893 var hann aftur við kennslu á Stað í Súgandafirði.[125] Veturinn 1892-1893 mun hann einnig hafa kennt á Ósi í Bolungavík um nokkurt skeið, ef marka má orð Guðlaugs Kristjánssonar frá Rauðbarðaholti sem hér verður brátt vikið nánar að.

Veturinn 1893-1894 er Álfur sagður hafa kennt á Suðureyri í Súgandafirði (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli) og tvímælalaust er að hann var þar við kennslu veturinn 1894-1895 og víðar í Súgandafirði (sjá hér Suðureyri og Suðureyrarhreppur, inngangskafli). Á Stað í Súgandafirði kenndi Álfur ungviðinu meðal annars að dansa og fóru dansæfingarnar fram í kirkjunni (sjá hér Staður).

Barnakennarinn sem átti heima hér á Vöðlum var mikið gefinn fyrir ferðalög og í rökkrinu á skemmsta degi ársins 1891 lagði hann upp í ferð frá Eyri í Önundarfirði að Stað í Súgandafirði með tveimur Súgfirðingum og tveimur húsmönnum á Eyri sem fylgdu þeim upp á Klofningsheiði.[126] Þegar lagt var af stað var Álfur þéttölvaður, Súgfirðingarnir rétt hýrir en fylgdarmennirnir tveir frá Eyri algáðir.[127] Þeir hétu Salómon Jónsson og Sigurður Jóhannsson og bar sá síðarnefndi auknefnið skurður.

Þetta skammdegisferðalag varð örlagaríkt. Brennivínsflaska var látin ganga á milli og þegar upp kom á heiðina var Salómon orðinn mjög drukkinn. Hann tók þá að áreita Sigurð skurð og þegar Álfur gekk á milli réðst hann að honum.[128] Í þeim átökum hafði Álfur betur og féll Salómon tvisvar flatur í snjóinn.[129] Á norðurbrún heiðarinnar sneru fylgdarmennirnir við, fyrst Salómon og síðan Sigurður en Álfur hélt áfram að Stað og dvaldist í Súgandafirði um jólin.[130]

Að kvöldi þessa sama desemberdags kom Sigurður Jóhannsson einn til baka að Eyri en daginn eftir fannst lík Salómons uppi í hlíðarhallanum fremst í Klofningsdal.[131] Sá grunur féll á Sigurð að hann hefði orðið Salómon að bana en aldrei sannaðist neitt í því máli. Réttarhöldin sem hófust með rannsókn á dauða Salómons og önnur réttarhöld sem sú rannsókn leiddi til urðu hins vegar áður en lauk illvígari og víðfeðmari en nokkur önnur réttarhöld sem fram hafa farið á Vestfjörðum á síðari tímum. Sú saga verður ekki rakin hér en minnt á að í þeim stórpólitísku átökum skiptust nær allir íbúar Ísafjarðarkaupstaður og Ísafjarðarsýslu upp í tvær harðsnúnar en andstæðar fylkingar – með eða móti Skúla sýslumanni Thoroddsen. Vegna rannsóknarinnar á dauða Salómons var Skúli settur frá embætti en að lokum sýknaður með dómi hæstaréttar í Kaupmannahöfn sem upp var kveðinn 15. febrúar 1895.[132]

Í Skúlamálunum, sem svo hafa verið kölluð, kom Álfur Magnússon reyndar ekki mikið við sögu, enda var hann svo heppinn að halda áfram norður af þegar Salómon og Sigurður skurður sneru við á brún Klofningsheiðar. Hann var því aldrei grunaður um að hafa ráðið Salómon bana. Margir mundu hins vegar lengi að þarna hafði Álfur verið með í för og hjá alþýðu heyrðist stundum haft á orði löngu síðar að í átökunum við Álf uppi á heiðinni kynni Salómon að hafa orðið fyrir einhverju því hnjaski sem um munaði á hans síðustu lífsstundum.

Veturinn 1892-1893 virðist Álfur hafa verið við kennslu bæði í Súgandafirði eins og fyrr var nefnt og norður á Ósi í Bolungavík. Engan þarf að undra þó svo hafi verið því að á þessum árum var kennslutíminn oft ekki nema nokkrar vikur á hverjum stað. Í sóknarmannatali frá 31.12.1892 er Álfur sagður vera barnakennari á Vöðlum[133] og hugsanlegt er að hann hafi kennt í þremur byggðarlögum sama veturinn. Guðlaugur Kristjánsson frá Rauðbarðaholti, sem síðar varð skipsfélagi Álfs á skútum, kvaðst hafa kynnst honum fyrst í Bolungavík og þá hafi Álfur verið barnakennari á Ósi en áður við kennslu í Önundarfirði.[134] Í ævisögu Guðlaugs, sem Indriði Indriðason færði í letur, er hvergi sagt beinum orðum að þetta hafi verið veturinn 1892-1893 en fyrst vitað er að Guðlaugur kvæntist vorið 1896[135] má ráða af ævisögunni að þennan vetur hafi hann verið síðast í Bolungavík. Með þetta í huga má telja nær fullvíst að Álfur hafi kennt um tíma á Ósi nefndan vetur, 1892-1893, og þá að líkindum eftir áramót.

Útliti Álfs lýsti Guðlaugur frá Rauðbarðaholti svo:

 

Álfur var röskur meðalmaður á hæð, mjög þrekinn og karlmenni í betra lagi. Hann var fríður sýnum og vel eygður. Það einkenni hafði hann að augu hans voru mislit. Var annað dökkbrúnt en hitt ljósblátt. Hann var dökkur á hár með miklar brúnir og dökkar en fölur í andliti.[136]

 

Við lok ársins 1893 var Álfur enn skráður til heimilis á Vöðlum og er þá sagður vera sjómaður.[137] Haustið 1894 hafði hann átt heima á Vöðlum í þrjú ár en þá fluttist hann til Súgandafjarðar og er tekið fram í prestsþjónustubókinni að hann komi frá Vöðlum.[138] Í Súgandafirði dvaldist Álfur veturinn 1894-1895. Hann var þá við barnakennslu og bjó hjá Kristjáni Albertssyni á Suðureyri.[139] Vorið 1895 fer hann frá Suðureyri að Hjarðardal[140] í Önundarfirði en þar mun hann aðeins hafa dvalist skamma hríð og veturinn 1895-1896 var þessi rótlausi farandsveinn við kennslu og ritstörf á Ísafirði að sögn Guðlaugs kunningja hans sem hér var áður nefndur.[141]

Einhverjar ferðir hefur Álfur þó farið í Önundarfjörð þennan vetur því á þorranum gerir hann ungri heimasætu í Ytri-Hjarðardal barn sem kom í heiminn 2.11.1896.[142] Barnsmóðir hans í Hjarðardal hét Stefanía og var hún dóttir Arngríms Vídalíns Jónssonar, bónda og skútuskipstjóra, sem hér er frá sagt á öðrum stað (sjá hér Ytri-Hjarðardalur). Í handritum Magnúsar Hjaltasonar sem varðveitt eru í Landsbókasafni er að finna fjórar vísur sem Magnús fullyrðir að Álfur hafi ort til Stefaníu.[143] Barnið sem þau eignuðust var stúlka og fékk hún nafnið Arnfríður Lára. Þegar séra Janus skráir fæðingu Arnfríðar í prestsþjónustubókina segir hann föðurinn vera á Ísafirði.[144]

Eins og hér hefur verið rakið benda allgóðar heimildir eindregið til þess að Álfur hafi dvalist að mestu á Ísafirði eða í næsta nágrenni við kaupstaðinn veturna 1895-1896 og 1896-1897. Í sóknarmannatölum Eyrarprestakalls í Skutulsfirði frá þessum árum finnst hann þó hvergi.[145] og nafn hans er ekki heldur að finna í íbúaskrám nálægra byggðarlaga frá þessum árum.[146] Ljóst virðist því vera að á þessu skeiði hafi Álfur hvergi verið skráður til heimilis og mátti því segja að hann væri dottinn út úr mannfélaginu og orðinn að eins konar huldumanni.

Frá þessum árum er að öllum líkindum það kvæði Álfs sem kunnast varð á sínum tíma og enn lifði á vörum fólks þegar margir áratugir voru liðnir frá andláti höfundarins. Kvæði þetta nefndu sumir Álfs-kvæði og eru tvær fyrstu vísurnar svona:

 

 

Mín huggun er stærsta að heiti ég Álfur

og hafa þá afsökun jafnan ég skal.

Þótt náunginn segi: Ja nú ertu hálfur,

ég neita að virða hans siðferðistal.

Ég svar’ ‘onum engu en segi með mér:

Hann sannlega hálfur af vitleysu er!

En hvað er að undra þótt Álfur sé hálfur.

Sá aul’ á það nafn er hann flytur með sér.

 

Ef hreppsnefndin spyr mig hvar hafi ég heimili,

ég held að ég far’ ekki að taka upp vörn.

Ég býð henni ef hún vill skjót’  í mig skætingi

að skaff’  ‘enni á ein’ ári þrjátíu börn.

Ég veit að heimili ekkert ég á

og ótrauður valsa því skal til og frá.

Ég stopp’ ekki fyrr en ég stingst o’ní gröfina

og staðfastast heimili öðlast ég þá.[147]

 

Ekki liggur á lausu vitneskja um hvenær Álfur réði sig fyrst á skútu en sumarið 1895 var hann á kútter Kalla sem Ásgeirsverslun á Ísafirði gerði út.[148] Vorið 1896 fór Álfur tvo túra á Hildi Maríu sem Torfi Halldórsson átti og gerð var út frá Flateyri. Skipstjóri á þeirri skútu var Gísli Kristjánsson frá Lokinhömrum, sem þá var aðeins liðlega tvítugur, faðir Guðmundar G. Hagalín rithöfundar.[149] Hagalín segir að Álfur hafi verið mjög vel að manni, góður fiskimaður og duglegur við verk, rostafenginn og svaðalegur með víni en óáleitin … fálátur og þunglyndislegur þegar hann var ódrukkinn.[150] Frásagnir sínar af veru Álfs á Hildi Maríu mun Guðmundur G. Hagalín, að því er ætla má, hafa haft frá föður sínum. Að sögn rithöfundarins var Álfur aðeins tvo túra á því skipi.[151] Þegar lagt var upp í þriðja túrinn varð Álfur eftir í landi og hafði þá selt af sér sjóstígvélin og öll hlífðarföt til að geta keypt sér brennivín.[152]

Ekki mun þó hafa liðið á löngu uns Álfur komst í annað skiprúm og þá á kútter Lilju frá Ísafirði. Þar var hann sumarið 1896 að sögn Guðlaugs Kristjánssonar frá Rauðbarðaholti sem var skipsfélagi Álfs bæði á Kalla og Lilju.[153] Nær hálfri öld síðar mundi Guðlaugur enn mjög vel eftir Álfi og kunni af honum ýmsar sögur. Sumarið þeirra á Lilju lágu þeir eitt sinn inni á Hornvík í norðaustan hvassviðri og skammt frá var þar önnur skúta sem talið var að væri nýlega komin frá Ísafirði.[154] Þar um borð taldi Álfur að eitthvað hlyti að vera til af brennivíni. Báðir stóðu þeir félagar við borðstokkinn á Lilju og sér þá Guðlaugur að Álfur tekur viðbragð. Því sem bar fyrir augu á næstu sekúndum og mínútum gleymdi Guðlaugur aldrei. Frá þeim atburði segir ævisöguritari hans með þessum orðum:

 

Snögglega tók Álfur viðbragð. Vatt hann sér úr jakkanum og kastaði honum frá sér, stökk svo upp á öldustokkinn og stakk sér á kaf. Varð þetta í einni svipan og varð Guðlaugi handfátt. Hljóp hann út að borðstokknum og skimaðist um eftir félaga sínum. Guðlaugur sá hvar Álfi hafði skotið upp. Síðan sá Guðlaugur hann synda með hröðum, föstum tökum áleiðis til hins skipsins. Lengi stóð hann við stokkinn og fylgdi Álfi eftir með augunum. Missti hann sjónir af honum tvívegis í særokinu en að lokum sá hann Álf ná haldi á kænu er lá aftur frá hinu skipinu. Komst hann upp í hana, dró hana fram með skipshliðinni og las sig þvínæst uppeftir skipshliðinni og um borð.

…  Þegar leið að kvöldi var komið með Álf á báti frá hinu skipinu, dauðadrukkinn og steinsofandi. Var þá komið slörkuveður. Þeir á Lilju brugðu kaðli undir Álf og höluðu hann um borð. Varð hann ekki vakinn af þessum svefni og mátti fara með hann sem dauður væri. Lá hann í roti næsta dag allan. Á öðrum degi batnaði veðrið og fóru þeir þá út.[155]

 

Fram skal tekið að allar sögur Guðlaugs af hinum þorstláta skipsfélaga hans eru Álfi vinsamlegar og sagði Guðlaugur hann hafa verið ósérhlífinn og liðugan verkmann þegar unnt var að halda honum frá víni.[156] Í byrjun september lauk þessu sumarúthaldi á Lilju og vel mundi Guðlaugur fagran söng Álfs á þiljum uppi þegar komið var inn undir Hnífsdal í vertíðarlok þó ekki kannaðist hann við lagið sem var mjög einkennilegt. Vísurnar þrjár sem Álfur kyrjaði á þessari sólskinsstund kunni Guðlaugur enn hálfri öld síðar. Ætla má að söngmaðurinn hafi sjálfur verið höfundur þeirra og hver veit nema hið einkennilega lag hafi líka verið hans eigin hugarsmíð:

 

Nú vil ég feginn biðja um bjór,

því best mun hann svala.

Trauðla synd mun talin stór

toddý að fala.

Húrra! nú glymji gleðinnar lag.

Af hug og sál

hljómi skál

allra dugandi drengja.

 

Skál fyrir okkar áa-grund

í ólgandi legi

og lifi Íslands litfríð sprund

á lukkunnar vegi.

Húrra! nú glymji gleðinnar lag.

Af hug og sál

hljómi skál

fyrir friðsemd og gleði.

 

Að þessu sinni steig Álfur glaður í land þegar komið var til Ísafjarðar en tveimur árum síðar fleygði hann sér fyrir borð á öðru skipi og hvarf sjónum manna. Í blaðinu Þjóðviljanum unga sem út var gefið á Ísafirði segir 7. júlí 1898 að Álfur hafi þá ný skeð varpað sér fyrir borð af fiskiskipinu Springeren inni á Höfn á Hornströndum og drukknað.[157] Í blaðinu er greint svo frá að Álfur hafi verið háseti á þessu skipi Ásgeirsverslunar og sagt að hann hafi framið sjálfsmorð.[158] Þegar frétt Þjóðviljans var skrifuð voru aðeins liðnir fáir dagar eða örfáar vikur frá því Álfur hvarf í öldurnar. Ef marka má Árbók Íslands 1898 í Almanaki Þjóðvinafélagsins hefur Álfur þó látið sig hverfa fyrir lok júní því þar segir að hann hafi drekkt sér í júnímánuði af fiskiskipi við Horn á Hornströndum.[159] Í Almanakinu er Álfur nefndur skólapiltur[160] þó að níu eða tíu ár væru liðin frá því hann síðast sat á skólabekk í lærða skólanum.

Eitthvað mun hann Eggert minn svamla, sagði gamli Ólafur Gunnlaugsson í Svefneyjum þegar honum bárust þau tíðindi að Eggert sonur hans hefði týnst í bárum Breiðafjarðar vorið 1768. Eins og Eggert var Álfur góður sundmaður og snemma kviknuðu sögur um að hann kynni að hafa komist í erlent skip.

Guðlaugur frá Rauðbarðaholti, sem hér var áður nefndur, kannaðist vel við þessar sögur og sagði ævisöguritara sínum að fáum árum eftir hvarf Álfs hefðu ýmsir talið sig þekkja hann í hópi sjómanna á franskri skútu sem kom á Flateyri og enn síðar hafi þeim fréttum verið haldið á lofti að Álfur hafi sést í Ameríku.[161]

Sjálfur virðist Guðlaugur ekki hafa viljað vísa þessum sögusögnum algerlega á bug.[162] Þegar Álfur fleygði sér fyrir borð af þilskipinu Springeren var Jens Jónsson frá Veðrará stýrimaður á því skipi og bjó í sama húsi og Guðlaugur á Ísafirði.[163] Frá Jens hafði Guðlaugur þá sögu að þeir á Springeren hefðu verið farnir af Hornvíkinni og staddir í álnum vestur af Straumnesi þegar Álfur stökk fyrir borð, berhöfðaður og á skyrtunni.[164] Að sögn Guðlaugs hafði Jens stýrimaður hins vegar aldrei viljað svara því hvort einhver skip hefðu verið sjáanleg í nánd þegar Álfur kastaði sér í hafið og með þögninni taldi Guðlaugur hann hafa gefið til kynna að svo hefði verið.[165]

Annar skipsfélagi Álfs í hans síðasta túr hét Guðbjörn Björnsson, ættaður úr Dýrafirði. Hann sagði svo frá löngu síðar að þeir á Springeren hefðu verð út af Ísafjarðardjúpi þegar Álfur fleygði sér fyrir borð og skip verið þar til og frá í nokkurri fjarlægð.[166] Að sögn Guðbjörns hafði Álfur verið á kojuvakt en kom upp í lúkaragatið og staldraði þar við litla stund.[167] Síðan svipti hann sér upp og var í sömu andrá kominn fyrir borð svo Guðbjörn sá í iljar hans.[168] Ekki sást Álfi skjóta upp úr kafinu ef marka má orð Guðbjörns sem taldi nær óhugsandi að hann hefði komist í annað skip.[169]

Árið 1932 voru 34 ár liðin frá því Álfur hvarf í hafi. Í ágústmánuði á því ári birtist undarleg frétt í blaðinu Skutli á Ísafirði og segir þar svo:

 

Með Goðafossi seinast var kona ein sem mikið spurðist fyrir um dóttur Álfs Magnússonar. Var það systurdóttir Álfs, búsett í Kaupmannahöfn. Skýrði hún svo frá að Álfur hefði komist til Ameríku og hefði hann skrifað þaðan um sína hagi. Væri hann kvongaður og hefði búið við allgóð kjör er seinast fréttist. Hefði hann í bréfum sínum spurt mjög eftir dóttur sinni … .[170]

 

Gallinn á þessari frétt er sá að þarna eru engin nöfn nefnd, hvorki á konunni frá Kaupmannahöfn né þeim sem hún átti að hafa talað við á Ísafirði. Öll er frásögnin því lítt trúverðug. Lýsingin á Álfi sem fylgdi sögunni í Skutli kynni hins vegar að vera nálægt lagi en hún var orðuð á þessa leið:

 

Þeir sem best muna eftir Álfi segja hann verið hafa í hærra lagi meðalmann, þéttan á velli, ljósan á hár og þykkleitan í andliti. Mjög er það rómað hversu Álfur hafi verið skemmtilegur í félagsskap, enda var hann prýðilega skáldmæltur og einkar hnyttinn og gamansamur.[171]

 

Fáir munu nú telja líklegt að Álfur Magnússon hafi bjargast úr hafi og komist til framandi landa en svo magnaðar voru slíkar sögusagnir á fyrri tíð að séra Jes A. Gíslason í Vestmannaeyjum, sem verið hafði bekkjarbróðir Álfs í skóla, segir í ritgerð frá árinu 1946 að síðast er hann frétti hafi þessi gamli skólabróðir sinn verið í Ameríku.[172]

Þegar Álfur týndist í hafi var hann aðeins 27 ára gamall. Hans var víða sárt saknað og einn þeirra sem treguðu þennan söngvasvein var alþýðuskáldið Magnús Hjaltason sem var á líkum aldri og Álfur og fékkst eins og hann við barnakennslu í Ísafjarðarsýslu á þessum árum. Þann 18. september 1898 færir Magnús 9 vísur inn í dagbók sína og kallar eftirmæli eftir Álf. Þar er fjórða vísan svona:

 

Ævin þín var stutt en ströng

stálalundur fagur

lipran ætíð ljóðasöng

lagaðir samt óragur.[173]

 

Í litlum pistli sem fylgir vísunum segir Magnús að Álfur hafi verið gáfumaður mikill, sannmenntaður og hugljúfi allra sem hann þekktu.[174] Til skýringar á brennivínsástríðu Álfs setur Magnús fram þá tilgátu að líklega hafi hann viljað drekkja hinum þungu hugsunum er á hann stríddu.[175]

Í frétt Þjóðviljans um drukknun Álfs er þess getið að hann hafi verið ókvæntur en átt eitt barn.[176] Þetta eina barn var Arnfríður Lára sem fæddist í Ytri-Hjarðardal í Önundarfirði 2. nóvember 1896 eins og hér hefur áður verið nefnt (sjá hér bls. 14). Ekki er kunnugt um að Álfur hafi sjálfur gengist við fleiri börnum en þegar fimm mánuðir voru liðnir frá því hann stytti sér aldur var honum kennt barn í Bolungavík og annað tveimur mánuðum síðar. Stúlkurnar tvær, sem kenndu Álfi börn sín veturinn 1898-1899, áttu báðar heima í Bolungavík, önnur á Ósi en hin á Geirastöðum.[177] Þær hétu Sigríður Pálmadóttir og Halldóra Geirmundsdóttir.[178] Ljóst er að ýmsir töldu fulla ástæðu til að véfengja báðar þessar barnsfaðernislýsingar.[179] Barn Sigríðar fæddist á Ósi 18. nóvember 1898 og að athugun lokinni var framburður hennar um faðerni barnsins tekinn gildur.[180] Þetta stúlkubarn fékk nafnið Áslaug og var hún annað barnið sem Álfur Magnússon eignaðist. Lakar tókst til hjá Halldóru Geirmundsdóttur, vinnukonu á Geirastöðum, sem í fyrstu kenndi Álfi piltbarn er hún fæddi 19. janúar 1899.[181] Hún varð síðar að draga þá faðernislýsingu til baka og reyndist drengurinn vera sonur bóndans á Geirastöðum sem var kvæntur maður.[182]

Dætur Álfs, þær Arnfríður og Áslaug, áttu báðar lengi heima á Flateyri og frá þeim er kominn fjöldi niðja.[183]

Hér hefur nú verið dvalist um sinn við frásagnir af Álfi Magnússyni sem staldraði við á Vöðlum frá 1891 til 1894 á sinni hröðu lífsgöngu sem hann lauk fjórum árum síðar. Engar minjar eru hér nú sjáanlegar sem tengjast Álfi sérstaklega en nafn þessa draumlynda söngvasveins lifir.

Yst í túninu á Vöðlum, þar sem árbakkinn er einna hæstur, heitir Hreggnasi.[184] Hér var áður melholt sem nú er orðið hluti af túninu.[185] Sagt var að í Hreggnasa byggju álfar og á fyrri tíð töldu ýmsir sig sjá til ferða þeirra í nánd við hann.[186] Á gamlárskvöld fóru þeir í flokkum yfir ísilagða ána og stefndu til kirkju sinnar í Mjóanesi.[187] Álfur Magnússon var ekki í þeirri för en líklegt er að hér á Hreggnasa hafi hann stundum staldrað við í von um að niður árinnar næði að svæfa óró blóðsins um sinn.

Við kveðjum hann hér og þá álfaþjóð sem forðum rann um ísa. Stefnan er í suður frá Vöðlum að Tröð.

 

 

Viðbætir frá árinu 2005.

 

Í nóvembermánuði árið 2005 greindi Sigurjón Björnsson, sálfræðingur og fyrrverandi prófessor, mér frá því að í vísnasafni tengdaföður síns, Margeirs Jónssonar, bónda og fræðimanns á Ögmundarstöðum í Skagafirði, væri vísa er Margeir segði Álf Magnússon, skáld af Suðurlandi, hafa ort við fuglatekju í Drangey og má ætla að þar hafi Álfur þá verið vorið 1888 eða 1889. Vísan er svona:

 

Hvergi má ég finna frið

                              fyrir þráum Kára.

                              Dimma og háa Drangey við

                              dynur sjávarbára.    

 

K.Ó.

 

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

 

 

[1] Óskar Einarsson 1951, 110.

[2] Sama heimild, 108-110.

[3] Sama heimild.

[4] Guðm. Ingi Kr. – Viðtal K.Ó. við hann 30.6.1993.

[5] Ebenezer Henderson 1957, 79.

[6] Hjalti Hugason 1988, 238, sbr. þar bls. 221 og 234 (Ísl. þjóðmenning V).

[7] Ebenezer Henderson 1957, 79.

[8] Óskar Einarsson 1951, 109.

[9] Sama heimild.

[10] Magnús Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 27.6.1994.

[11] Brynjólfur Árnason. – Viðtal K.Ó. við hann 27.6.1994.

[12] Sama heimild.

[13] Óskar Einarsson 1951, 105 og 110.

[14] Jarðabók Á. og P. VII, 105.

[15] Snorri Sigfússon 1969, 115 (Ferðin frá Br. II).

[16] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916, bls. 71.

[17] Sóknalýs. Vestfj. II, 103.

[18] Jarðab. Á. og P. VII, 105-106.

[19] Sama heimild.

[20] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916, bls. 71.

[21] D.I. III, 324.

[22] D.I. III, 324, IV, 141 og XV, 573. Jarðab. Á. og P. VII, 105. Sókn.lýs. Vestfj. II, 107. Manntal 1901 og f.skj.

[23] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916, bls. 70.

[24] Fasteignabók 1932, 52.

[25] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.

[26] Manntal 1703.

[27] Jarðabók Á. og P. VII, 105-106.

[28] Sama heimild.

[29] Sama heimild.

[30] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916, bls. 70.

[31] Jarðabók Á. og P. VII, 105-106.

[32] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916, bls. 70.

[33] Jarðabók Á. og P. VII, 105-106.

[34] Sama heimild.

[35] Sama heimild. Manntal 1703. Bænda- og skuldaskrár 1720-1765, eftirrit, þar í Jarða- og bændatal úr

Ísafjarðarsýslu, talið vera frá 1735. Manntöl 1762, 1801, 1840, 1845, 1850, 1855, 1860, 1870, 1880 og 1890.

[36] Manntal 1816.

[37] Manntal 1835.

[38] Sama heimild.

[39] Manntöl 1870 og 1880.

[40] Manntal 1801.

[41] Sama heimild.

[42] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[43] Sama heimild og Ól. Þ. Kr./„Önfirðingar”. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1821-1830.

[44] Prestsþj.b. Holts í Önundarf. Ól. Þ. Kr../„Önfirðingar”. Manntal 1816.

[45] Manntal 1816.

[46] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[47] Sama heimild.

[48] Ól. Þ. Kr./„Önfirðingar”.

[49] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[50] Sömu heimildir.

[51] Manntöl 1870, 1880, 1890 og 1901.

[52] Vestf. ættir II, 493-495. Sbr. Firðir og fólk 1900-1999, 356.

[53] Sama heimild. Manntal 1845, vesturamt, bls. 289.

[54] Sömu heimildir og Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[55] Vestf. ættir II, 493-495. Sbr. Manntal 1870.

[56] Sama heimild.

[57] Þórður Sig. 1986, 21.

[58] VA III, 421, búnaðarskýrsla 1870.

[59] VA III, 424, búnaðarskýrsla 1880.

[60] Sama heimild.

[61] Manntal 1880.

[62] Lbs. 45824to, Dagb. J.G. frá Grafargili 25.5.1895.

[63] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916, bls. 70.

[64] Vestf. ættir II, 493.

[65] Sama heimild, 495.

[66] Skýrsla Bún.samb. Vestfj. fyrir árið 1913, bls. 3.

[67] Bún.samb. Vestfj.: Skýrslur og rit 1914-1915 (prentað 1916), bls. 33-35.

[68] Brynjólfur Árnason. – Viðtal K.Ó. við hann 27.7.1994.

[69] Sama heimild.

[70] Snorri Sigfússon 1969, 115.

[71] Brynjólfur Árnason. – Viðtal K.Ó. við hann 27.7.1994.

[72] Sama heimild.

[73] Sama heimild.

[74] Sama heimild.

[75] Sama heimild.

[76] Fasteignabók 1921, 79.

[77] Sama heimild.

[78] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916, bls. 70-71.

[79] Fasteignabók 1932.

[80] Sama heimild.

[81] Sama heimild.

[82] Sama heimild.

[83] Óskar Einarsson 1951, 111.

[84] Óskar Einarsson 1951, 111.

[85] Sóknalýs. Vestfj. II, 104.

[86] Sama heimild.

[87] Sama heimild.

[88] Óskar Einarsson 1951, 109.

[89] Sama heimild.

[90] Sama heimild.

[91] Sama heimild, 110.

[92] Sama heimild, 111.

[93] Sama heimild.

[94] Prestaþj.b. og sóknarm.töl Holts í Ön.f., Staðar í Súg.f., Hóls í Bol.vík og Eyrar í Skutulsf. frá 1889-1898.

[95] Ísl. æviskrár V, 271.

[96] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Útskálaprestakalls í Gullbringusýslu.

[97] Sama heimild.

[98] Sama heimild.

[99] Sama heimild.

[100] Frá ystu nesjum 2. útg. 2. bindi, bls. 185 (Hafnarf. 1981).

[101] Prestsþj.b. Dómkirkjunnar í Reykjavík.

[102] Sama heimild.

[103] Sama heimild.

[104] Jes A. Gíslason 1946, 99-117 (Minningar úr menntaskóla).

[105] Indriði Indriðason 1947, 159.

[106] Frá ystu nesjum 2. útg. 2. bindi, bls. 185 (Hafnarf. 1981).

[107] Jes. A. Gíslason 1946, 99-117 (Minningar úr menntaskóla).

[108] Indriði Indriðason 1947, 159-160.

[109] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Holts í Önundarf. og Eyrar í Skutulsfirði.

[110] Sömu heimildir.

[111] Indriði Indriðason 1947, 160.

[112] Indriði Indriðason 1947, 161.

[113] Frá ystu nesjum II, 177-178. Lbs. 1404 8vo, ÍB 979 C 8vo.

[114] Sömu heimildir.

[115] Indriði Indriðason 1947, 159-172.

[116] Lbs. 45824to, Dagb. J.G. frá Grafargili 23.2.1891.

[117] Sama heimild.

[118] Lbs. 45824to. Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 23.2. 1891.

[119] Sama heimild.

[120] ÍB. 979 C 8vo.

[121] ÍB. 979 C 8vo.

[122] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[123] Sama heimild.

[124] Kennaratal 1965, II, 336.

[125] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 271.

[126] Jón Guðnason 1968, 143-144.

[127] Sama heimild.

[128] Jón Guðnason 1968, 146.

[129] Sama heimild.

[130] Sama heimild, 146-147 og 157-158.

[131] Sama heimild, 148-151.

[132] Jón Guðnason 1968, 331-333 og 394-395.

[133] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[134] Indriði Indriðason 1947, 160-162.

[135] Prestsþj.b. Eyrar í Skutulsf., hjónavígslur.

[136] Indriði Indriðason 1947, 162.

[137] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[138] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[139] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[140] Sömu heimildir.

[141] Indriði Indriðason 1947, 164.

[142] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[143] Lbs. 22364to, bls. 54-55.

[144] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[145] Sóknarm.töl Eyrar í Skutulsf. 1895-1897.

[146] Sóknarm.töl Ögurþinga, Staðar í Súgandaf., Holts í Önundarf. Dýrafj.þinga og Sanda í Dýraf. 1895-1897.

[147] Indriði Indriðason 1947, 163-164. Frá ystu nesjum II, 170-171. Lbs. 14048vo. ÍB 979C8vo.

[148] Indriði Indriðason 1947, 164.

[149] G.G. Hag. 1951, 60-62.

[150] Sama heimild.

[151] Sama heimild.

[152] Sama heimild.

[153] Indriði Indriðason 1947, 157-158. Sbr. Prestsþj.b. Eyrar í Skutulsf., hjónavígsla 7.4.1896.

[154] Indriði Indriðason 1947, 164-165.

[155] Indriði Indriðason 1947, 164-165.

[156] Sama heimild.

[157] Þjóðviljinn ungi VII, 158, 7. júlí 1898.

[158] Sama heimild.

[159] Almanak hins ísl. Þjóðvinafél. XXVI, 38.

[160] Sama heimild.

[161] Indriði Indriðason 1947, 172.

[162] Sama heimild, 170-172.

[163] Sama heimild.

[164] Sama heimild.

[165] Sama heimild.

[166] Frá ystu nesjum, 2. útg., 2. bindi, bls. 187.

[167] Sama heimild.

[168] Frá ystu nesjum, 2. útg., 2. bindi, 187.

[169] Sama heimild.

[170] Sama heimild, bls. 199-200.

[171] Frá ystu nesjum, 2. útg., 2. bindi, bls. 199-200.

[172] Jes A. Gíslason 1946, 99-117 (Minningar úr Menntaskóla).

[173] Lbs. 22174to, Dagb. M.Hj.. 18.9.1898.

[174] Lbs. 22174to, Dagb. M.Hj.. 18.9.1898.

[175] Sama heimild.

[176] Þjóðviljinn ungi VII, 158 – 7.7.1898.

[177] Prestsþj.b. Eyrar í Skutulsf.

[178] Sama heimild.

[179] Lbs. 22184to, Dagb. M.Hj.. 13.7.1899. Lbs. 22274to, Dagb. sama manns 25.2.1911.

[180] Prestsþj.b. Eyrar í Skutulsf.

[181] Sama heimild.

[182] Sama heimild og Vestf. ættir II, 730-731.

[183] Vestf. ættir I, 112 og 134. Eyjólfur Jónsson 1967, 88.

[184] Brynjólfur Árnason. – Viðtal K.Ó. við hann 3.8.1993. Sbr. Kristján Þorvaldsson 1951, 76.

[185] Óskar Einarsson 1951, 110.

[186] Kr. Þorv. 1951, 76.

[187] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »