Villingadalur

Gengið þaðan fyrir Hrafnaskálarnúp

Frá Brekku er 10 mínútna gangur eða tæplega það út að Villingadal. Land Villingadals nær frá Merkisgili, sem áður var nefnt, og rétt út fyrir Síkiseyri sem er stór eyri við Langá, í um það bil eins kílómetra fjarlægð frá túninu á Villingadal þegar gengið er í átt til sjávar (sjá hér Svipast um á Ingjaldsandi). Að öðru leyti takmarkast landareignin af fjallinu og ánni.

Jörðin Villingadalur hefur nú (1996) verið í eyði í 60 ár því síðasti bóndinn fór héðan með allt sitt árið 1936 (sjá hér Firðir og fólk 1900-1999). Hvilftin mikla í fjallinu ofan við túnið setur hér svip á umhverfið. Hún heitir Villingadalshvilft og nær niður í mitt fjallið.[1] Sitt hvoru megin við hvilftina og lítið eitt neðar í fjallinu eru litlar dældir sem heita Fremri-Koppur og Ytri-Koppur.[2] Framan við túnið er allstórt gil í fjallinu og heitir Kerlingargil.[3] Gilið nær frá brún og niður á láglendi og mun taka nafn af steindrang sem Kerling heitir og stendur á gilbarminum, hátt í fjallinu.[4] Allt fjallið milli Villingadalshvilftar og Hrafnaskálar, sem er mun norðar, heitir Villingadalsfjall[5] en norðurendi þess, framan við Hrafnaskál, heitir Dagmálahorn.[6]

Að fornu mati var Villingadalur talinn 18 hundruð að dýrleika.[7] Jarðarinnar er fyrst getið í heimild frá árinu 1508 en þá var hún ein þeirra jarða sem Björn Guðnason í Ögri fékk í arf eftir Jón dan Björnsson á Rafnseyri.[8] Hér hefur áður verið greint frá eigendum jarðarinnar Brekku á Ingjaldssandi á árunum 1508-1541 (sjá hér Brekka) og er skemmst frá því að segja að á þessu tímaskeiði voru ætíð sömu eigendur að Brekku og Villingadal.[9]

Báðar komust þessar jarðir í eigu Ögmundar Pálssonar, Skálholtsbiskups og urðu síðan konungseign árið 1541 þegar kóngur rak Ögmund úr embætti og tók jarðeignir hans undir sig.[10] Villingadal lét kóngur ekki af hendi fyrr en árið 1841[11] og hafði þá átt kotið í nákvæmlega 300 ár. árið 1571 fékk kóngur 80 álnir í landskuld af Villingadal og voru þær goldnar í fríðu með fjórum ám og þeirra lömbum.[12] Árið 1710 var landskuldin fjórar vættir fiska sem eftir landaurareikningi var reyndar sama upphæð og 80 álnir.[13] Bændunum í Villingadal var þá gert að koma með fiskinn sem kóngur átti að fá í kaupstað eða borga landskuldina í peningum eftir dönskum taxta.[14]

Í byrjun 18. aldar héldu Sandmenn því fram að Villingadalur hefði í upphafi byggst úr landi Brekku en tóku þó fram að jörðin hefði verið sjálfstæð bújörð svo lengi sem elstu þálifandi menn myndu og þeirra feður hefðu munað.[15] Við réttarhöld á Mýrum sumarið 1727 kváðust vitni hafa heyrt að Brekka og Villingdalur hefðu verið ein jörð og þar hafi búið 3 bræður og hafi einn þeirra tekið sér bústað á Villingadal og þar af hafi þessi bær nafn tekið að bróðirinn hafi verið sem villtur frá hinum.[16] Varla getur nú talist líklegt að þessi skemmtilega tilraun til að skýra uppruna bæjarnafnsins sé byggð á sögulegum staðreyndum en aftur á móti má heita nær fullvíst að Villingadalur hafi á sínum tíma byggst úr landi Brekku (sjá hér Sæból og Brekka). Þeir Sandmenn sem ræddu um upphaf búskapar á Villingadal í fyrrnefndum réttarhöldum árið 1727 kváðust hafa heyrt að bærinn hefði verið reistur á fornu stekkjarstæði frá Brekku[17] og má telja líklegt að þau munnmæli hafi átt við rök að styðjast.

Enginn veit nú hvenær fyrsti bærinn á Villingadal var reistur en ætla má að það hafi verið fyrir 1500 því 1508 var jörð þessi orðin sjálfstæð bújörð eins og hér var áður nefnt. Nokkra athygli vekur að þegar Guðmundur Arason ríki ráðstafaði fjórum jörðum á Ingjaldssandi, Sæbóli, Álfadal, Hrauni og Brekku, á árunum kringum 1420, þá fylgdi Villingadalur ekki þar með.[18]

Í vitnisburði frá árinu 1428 er samanlagður dýrleiki Brekku, Sæbóls og Hrauns talinn vera hundrað hundraða og þar með hinn sami og árið 1710.[19] Árið 1710 var Brekka metin á 48 hundruð og með hliðsjón af því sem hér hefur verið sagt má ætla að svo hafi einnig verið á árunum kringum 1420. Hafi Villingadalur byggst úr landi Brekku verður hins vegar að gera ráð fyrir að Brekka hafi verið metin nokkru hærra áður en jörðinni var skipt. Bréfið frá 1428 bendir því til þess að Villingadalur hafi orðið sjálfstæð bújörð fyrir 1420.

Fyrsti bóndinn hér á Villingadal, sem um er kunnugt, mun vera Ólöf Símonsdóttir er hér bjó á átta hundruðum árið 1681 en í jarða- og bændatali frá því ári verður ekki séð að þá hafi verið búið á hinum tíu hundruðunum á Villingadal.[20] Tvíbýli var á Villingadal árið 1703 en þá var Ólöf Símonsdóttir þar bústýra hjá syni sínum sem hét Þorleifur Þorláksson.[21] Hinn bóndinn sem þá bjó á jörðinni hét Jón Grímsson og fyrir framan hjá honum var dóttir hans, Guðfinna að nafni.[22]

Manntalinu sem tekið var árið 1703 fylgir skrá yfir gesti þá sem dvöldust í hreppnum nóttina fyrir páska á því merkilega ári. Næturgestur á Villingadal var maður að nafni Gísli Jónsson og um hann segir svo í þessari skrá:

 

Gísli Jónsson, kallaður lærði Gísli … segir sig 68 ára gamlan, fæddur á Eyri í Seyðisfirði, á sveit í Ögurs- og Vatnsfjarðarsóknum. Hans kona heitir að hans sögn Solveig Magnúsdóttir, um 80 ára aldur, sé í setu í Grunnavíkursókn. Þau barnlaus.[23]

 

Gott hefði verið að kunna einhver skil á þessum aldraða ferðamanni sem kallaður var lærði Gísli en hefur máske verið ósköp venjulegur flakkari. Nánari rannsókn í þeim efnum verður þó að bíða betri tíma. Annar næturgestur í Mýrahreppi nóttina fyrir páska árið 1703 var böðull sunnan úr Breiðafjarðarbyggðum. Ekki sést á hvaða bæ hann var en í skránni yfir næturgesti í hreppnum stendur skýrum stöfum: Þorleifur böðull Björnsson, segist 49 ára, úr Reykhólahrepp, ósjúkur og einhleypur.[24]

Um erindi böðulsins í Dýrafjörð eða á Ingjaldssand er ekkert vitað en fyrst hann átti heima í Reykhólasveit má ætla að hann hafi unnið sín böðulsverk fyrir sýslumennina í Barðastrandarsýslu. Annar þeirra var á þessum tíma Ari Þorkelsson í Haga á Barðaströnd sem hafði umboð konungsjarða á Ingjaldssandi[25] og var því fulltrúi kóngsins í öllum samskiptum við leiguliðana á Brekku og Villingadal. Máske böðullinn hafi verið sendur á Ingjaldssand í hans erindum?

Báðir bændurnir sem bjuggu á Villingadal árið 1703, þeir Jón Grímsson og Þorleifur Þorláksson, héldu lífi í Stórubólu sem hér geisaði á árunum 1707-1709 og voru enn við bú á Villingadal árið 1710 þegar Árni Magnússon reið um sveitir á Vestfjörðum og safnaði efni í hina miklu Jarðabók er hann og Páll lögmaður Vídalín settu saman.[26] Annar þessara tveggja Villingadalsbænda, Þorleifur Þorláksson, virðist reyndar hafa liðsinnt Árna við öflun upplýsinga um jarðir á Ingjaldssandi og ritar ásamt Þorleifi Hannessyni, hjáleigubónda í Króki á Sæbóli, undir yfirlýsingu sem fylgir skýrslunni um jarðir á Sandinum.[27] Þar segir:

 

Að svo hafi almúginn undirréttað um þessar fimm fyrrskrifaðar jarðir sem framanskrifað stendur, votta undirskrifaðir, sem jafnan höfum þessu verki nálægir og áheyrandi verið.[28]

 

Undir þessa yfirlýsingu skrifa þeir báðir með eigin hendi Þorleifur á Villingadal og Þorleifur í Króki.[29]

Svo virðist sem kóngsbóndinn Þorleifur Þorláksson á Villingadal hafi ekki séð marga eða mikla kosti við ábýli sitt því ætla verður að hann beri öðrum mönnum frekar ábyrgð á því hvernig búskaparskilyrðum á Villingadal er lýst í Jarðabókinni. Sú lýsing er svona:

 

Útigangur við lakari kost. Torfrista og stunga lök. Móskurður til eldiviðar lakur. Túnið hefur spillst af skriðum og sýnist enn nú hætt fyrir því. Úthagarnir eru mjög fordjarfaðir af skriðum og í hrjóstur komnir. Hætt er útigangspeningi á vetur fyrir snjóflóðum og svo fyrir harðfenni og svellalögum í snarbrattri fjallshlíð. Hætt er húsum og heyjum fyrir stórveðrum.[30]

 

Hér mun ekkert vera orðum aukið um brattann í fjallshlíðinni og ærnar hafa skriðurnar verið en jörðin fær þó mun betri dóm í sóknalýsingu séra Jóns Sigurðssonar frá árinu 1840. Hann segir að túnið á Villingadal sé grasgefið en þýft og tekur fram að útislægjur þessarar jarðar séu góðar þó að landið sé skriðurunnið og votlent á engjunum niður við ána.[31] Í enn annarri heimild er talað um gott engjaland með ánni hér á Villingadal og þar er hlíðin sögð vel gróin og fjallið nokkuð.[32]

Á 18. öld virðist oftast hafa verið tvíbýli á Villingadal.[33] Í byrjun 19. aldar var enn tvíbýli á jörðinni[34] en síðustu 100 árin sem jörðin var í byggð bjó hér yfirleitt aðeins einn bóndi í senn.[35] Þó var tvíbýli á Villingadal árið 1845.[36]

Hér var þess áður getið að kóngur hefði selt þessa eignarjörð sína árið 1841. Í sóknalýsingunni sem séra Jón Sigurðsson á Gerðhömrum lauk við að rita 4. janúar 1840 segir um Villingadal: Það er kóngsjörð enn nú en fyrir meir en ári var hún að kóngs boði uppboðin við Auction en boðið ekki þá staðfest.[37]

Á uppboði sem haldið var 29. júní 1840 tókst hins vegar að selja jörðina og fékk kóngur fyrir hana býsna gott verð eða 648 ríkisdali og 72 skildinga.[38] Í landaurareikningi var hvert hundrað í jörð talið jafngilt kýrverði en opinbert kýrverð var á þessum tíma um það bil 28 ríkisdalir.[39] Við söluna á Villingadal fékk kóngur hins vegar 36 ríkisdali fyrir hvert jarðarhundrað eða liðlega fjórðungi hærri upphæð en svaraði til hins opinbera viðmiðunarverðs. Þrjú leigukúgildi (18 ær) sem fylgdu jörðinni voru boðin upp sérstaklega og seldust á 56 ríkisdali eða tæplega 19 dali hvert kúgildi.[40] Sá sem keypti Villingadal af kóngi hét Sakarías Illugason.[41] Í uppboðsbók sýslumanns er ekki tekið fram hvar hann átti heima en í manntalinu frá 1845 finnst aðeins einn maður með þessu nafni á öllu landinu.[42] Sá átti þá heima á Hjöllum í Gufudalssveit, var 42ja ára gamall og sagður lifa á kaupavinnu.[43]

Þann 7. október árið 1884 voru Jón Jónsson, yngismaður á Villingadal, og Sveinfríður Sigmundsdóttir, bóndadóttir í Hrauni, gefin saman í hjónaband og vorið 1885 tóku þau við búi á Villingadal.[44] Jón Jónsson var fæddur árið 1861, sonarsonur Jóns Bjarnasonar er lengi bjó á Sæbóli á fyrri hluta 19. aldar[45] og hér hefur áður verið frá sagt (sjá Sæból), en Sveinfríður, sem gekk að eiga Jón Jónsson haustið 1884, var eitt margra barna Sigmundar Sveinssonar og Þuríðar Eiríksdóttur í Hrauni[46] (sjá hér Hraun). Bæði voru þau hjónin ung að árum er þau gengu í hjónaband, Jón 23ja ára og Sveinfríður ári yngri.[47] Fyrsta barn þeirra fæddist sumarið 1885 og haustið 1886 bættust tvíburar við.[48] Fjórir vinnumenn voru á Villingadal haustið 1886 og er þar fyrst að nefna Jón Bjarnason sem var á fimmtugsaldri. Hann hafði verið bóndi á Álfadal en fluttist að Villingadal vorið 1886 og gerðist vinnumaður.[49] Jón Jónsson bóndi á Villingadal og Jón þessi Bjarnason voru bræðrasynir, báðir sonarsynir Jóns Bjarnasonar á Sæbóli.[50] Annar vinnumaður á Villingadal haustið 1886 var Jón Halldór Jónsson, 19 ára gamall sonur Jóns Bjarnasonar, og hafði flust þangað frá Álfadal um vorið með föður sínum.[51] Þriðji vinnumaðurinn hét Halldór Jónsson og var bróðir bóndans á bænum en sá fjórði hét Jens Jónsson[52] og mun hafa verið annarrar ættar. Halldór var fæddur 1864 en Jens um 1865.[53]

Jón Jónsson, bóndi á Villingadal, var mikill dugnaðarforkur og kappsfullur við búskapinn. Sagt er að sumarið 1886 hafi hann slegið álagablettinn í Kattarlág.[54]

Hér hefur áður verið minnst á þessa lág (sjá hér Brekka) en hún er býsna löng og liggur ofan við túnið á Brekku og síðan áfram alveg út að Villingadal en þar er hún fyrir neðan túnið.[55] Utan við landamerki Brekku og Villingadals skerst svolítil lægð frá Kattarláginni inn í Kattarholtið, sem er neðan eða framan við lágina, en þessi lægð er að sögn kunnugra sá álagablettur sem hér var nefndur.[56] Gamli reiðvegurinn frá Villingadal í átt til Sandsheiðar mun hafa legið um þessa laut því í örnefnalýsingu Guðmundar Benediktssonar frá Hálsi segir:

 

Frá bænum á Villingadal liggur heiðarvegur fram og niður túnið, yfir Kattarlág og fram Kattarholt eftir grasgefinni smálaut sem orð liggur á að eigi megi slá og er því oftast nefnd Álagablettur.[57]

 

Er vetur gekk í garð árið 1886 tók Jón bóndi á Villingadal að reka fé sitt til beitar ofar í fjallið en áður hafði tíðkast og á jólaföstunni stóð hann þar sjálfur yfir því dag hvern frá morgni til kvölds.[58]

Þann 20. desember dundu ósköpin yfir. Um hádegi þann dag komu hundarnir heim úr fjallinu og hélt þá heimilisfólkið að Jón bóndi væri í fjárhúsunum að taka til hey eða sinna öðrum verkum.[59] Þegar kom fram í rökkur tók strjálingur af fénu að tínast heim að húsunum en engin styggð var sjáanleg á því.[60] Var nú farið að svipast um eftir Jóni bónda. Fyrst var leitað í fjárhúsunum og sent fram að Brekku til að spyrjast fyrir um hvort hann hefði komið þangað.[61] Sú könnun bar engan árangur og lögðu þá vinnumennirnir fjórir, sem hér voru áður nefndir, af stað upp í fjall að leita að húsbónda sínum.[62]

Magnús Hjaltason, sem gerðist kennari á Ingjaldssandi haustið 1896 og átti þar heima í fáein ár (sjá hér Brekka), ritaði síðar stuttan þátt um atburðina á Villingadal þennan desemberdag árið 1886 og byggði á frásögnum Sandmanna. Hann segir:

 

Fóru þeir svo áleiðis upp í fjall [þ.e. vinnumennirnir]. Var nú komið myrkur og bylur gekk að. Þó tókst þeim að komast upp í Hærrafjall. Þar fundu þeir nokkrar kindur en bóndinn sást hvergi. Snéru þeir svo heimleiðis. Á leið þeirra var gil allmikið er þeir urðu að fara yfir. Varð Halldór síðastur og stóð á gilbrúninni en hinir þrír voru komnir niður í kjölinn. Í því heyrir Halldór hljóð mikið fyrir ofan sig. Var það snjóflóð og tók það alla mennina þrjá er niðri í gilinu voru en Halldór var eftir á gilbrúninni og heyrði hann hróp hinna og vein er þeir fóru fram af klettunum.[63]

 

Halldór hraðaði sér nú niður á jafnsléttu og er hann kom niður undir Langá fann hann tvo mannanna í snjódyngjunni.[64] Var annar þeirra í andarslitrunum en hinum tókst Halldóri að koma heim til bæjar.[65] Var nú safnað liði um allan Ingjaldssand og leit hafin að nýju.[66] Á næsta sólarhring fannst lík Jóns bónda uppi undir klettum og hafði snjóflóð orðið honum að bana.[67] Lík vinnumannanna tveggja sem farist höfðu í seinna snjóflóðinu fundust einnig og voru flutt til bæjar.[68] Þeir sem þar týndu lífi voru feðgarnir Jón Bjarnason og Jón Halldór Jónsson (sjá hér bls. 5) en Jens Jónsson vinnumaður slapp naumlega því hann var síðubrotinn og tannbrotinn og hökuskinnið fráflakandi út á kinn.[69] Að sögn Magnúsar Hjaltasonar saumaði Guðrún Sigmundsdóttir í Hrauni hökuskinnið á Jens með silkiþræði og sagði hún honum þetta sjálf er þau voru samtíða á Brekku tíu árum síðar.[70]

Í heimild frá miðri 20. öld segir beinum orðum að Jón bóndi hafi staðið yfir fé sínu uppi á Urðarhjalla þegar snjóflóðið tók hann[71] en sá hjalli liggur hátt í fjallinu, upp af Síkiseyri sem er yst í landareign Villingadals.[72] Hjalli þessi er reyndar partur af Efstagangi sem liggur þarna eftir endilöngu fjallinu. Óskar Einarsson læknir, sem segir slysið hafa orðið á Urðarhjalla, getur ekki um hvaðan sú vitneskja sé komin en þeir sem nú (1993) búa á Ingjaldssandi telja með öllu fráleitt að fé hafi verið haldið til beitar svo hátt í fjallinu.[73]

Líklega hefur Jón bóndi þó staðið yfir fé sínu talsvert ofan við mitt fjall þegar snjóflóðið tók hann. Til þess benda orð Jóhannesar Davíðssonar sem fæddist á Álfadal á Ingjaldssandi árið 1893 og ólst þar upp. Þegar Jóhannes fæddist voru aðeins liðin sjö ár frá því Jón bóndi á Villingadal og vinnumenn hans fórust í snjóflóðunum svo öruggt má telja að hann hafi oft heyrt gjörkunnuga menn segja frá slysinu á sínum uppvaxtarárum. Þegar Jóhannes var um áttrætt og enn við góða heilsu greindi hann frá því í blaðagrein að sem barn og unglingur hefði hann oft heyrt um það talað að fáum vikum fyrir slysið á Villingadal hefði Jón bóndi þar farið að beita fé sínu í hærra fjallið og hefðu menn ekki vitað til þess að það hefði áður verið reynt.[74] Sjálfur kveðst Jóhannes hafa undrast hvernig hægt hafi verið að koma fénu svo hátt í fjallið í snjó og skammdegismyrkri.[75]

Ætla má að ýmsir þeir sem Jóhannes Davíðsson ræddi við á uppvaxtarárum sínum hafi vitað nákvæmlega hvar í fjallinu Jón bóndi á Villingadal var með fé sitt en orðalag Jóhannesar er ekki nákvæmara en svo að hann lætur duga að tala um hærra fjallið án þess að tilgreina hæðina nánar eða vísa til örnefna. Vinnumennina tvo segir hann hafa farist í gili skammt fyrir utan Villingadalshvilftina en bóndann Jón í gili miklu utar í fjallinu.[76]

Döpur hafa þau verið jólin á Villingadal árið 1886. Þar var Sveinfríður húsfreyja, sem misst hafði bónda sinn frá þremur kornungum börnum, og þar var líka Matthildur Guðmundsdóttir, kona Jóns Bjarnasonar, en hún missti bæði eiginmann sinn og einkason þennan dimma dag í vikunni fyrir jól.

Óvíst er hvort frétt um mannskaðann á Villingadal hefur borist vestur yfir Sandsheiði áður en jólahátíðin gekk í garð en á annan dag jóla skráir Sighvatur Borgfirðingur á Höfða tíðindin í dagbók sína.[77] Fáum dögum síðar fór hann út á Ingjaldssand og var staddur á Sæbóli 4. janúar 1887. Þann dag voru lík þeirra sem fórust í snjóflóðunum flutt til kirkju en frá þeim flutningum greinir Sighvatur á þessa leið: Átján manns af Ingjaldssandi drógu á sleðum frá Villingadal ofan að Sæbóli þrjár líkkisturnar þeirra sem fórust í snjóflóðunum 20. fyrri mánaðar.[78]

Útför Jónanna þriggja, sem týndu lífi í snjóflóðunum, fór fram þann 7. janúar og var séra Kristinn Daníelsson á Söndum fenginn til að jarðsyngja þá því prestlaust var í Dýrafjarðarþingum.[79]

Vorið 1887 hætti ekkjan, Sveinfríður Sigmundsdóttir, búskapnum á Villingadal og fluttist aftur að Hrauni til foreldra sinna. Með henni fóru þangað tvö af börnum hennar, Jónína og Sigmundur en hann varð síðar kaupmaður á Þingeyri.[80] Þriðja barninu, sem var tvíburabróðir Sigmundar, var komið fyrir hjá frændfólki í Mosdal við Önundarfjörð.[81] Sá drengur óx þar úr grasi og varð síðar mörgum kunnur undir nafninu Guðmundur Jónsson frá Mosdal (sjá hér Mosdalur). Hann var lengi kennari og myndskeri á Ísafirði. Sveinfríður Sigmundsdóttir, hin unga ekkja Jóns bónda á Villingadal, giftist aftur er tímar liðu. Seinni eiginmaður hennar var Jón Bjarnason frá Arnarnesi og áttu þau lengi heima á Sæbóli á Ingjaldssandi þar sem Jón Bjarnason hafði svolítinn jarðarskika til ábúðar (sjá hér Sæból) Sveinfríður varð gömul kona og hélt til æviloka gamla vestfirska framburðinum, sagði nordan, hardan og Bardann.[82]

Vinnumennirnir tveir, sem komu lifandi úr dauðaleitinni að Jóni bónda, áttu mislanga ævi fyrir höndum. Halldór Jónsson, sem var 22ja ára gamall er hann sá og heyrði félaga sína hverfa með snjóflóðinu fyrir björg, átti þá skammt eftir ólifað því hann fórst með Magnúsi Össurarsyni á þilskipinu Skarphéðni frá Ísafirði vorið 1887.[83] Jens Jónsson, sem bjargaðist naumlega úr snjóflóðinu, varð hins vegar gamall maður og átti lengi heima í Bolungavík.[84]

Er Halldór Jónsson frá Villingadal drukknaði vorið 1887 ritaði kunnugur maður nokkur orð um hann í dagbók sína og lýsir honum svo:

 

… einhver mesti gáfumaður hér nálægt og eftir því var hann búinn að mennta sig í dönsku og nokkuð í ensku en það sögðu vel menntaðir menn að hann tæki víst öllum fram hér vestanlands í reikningi.[85]

 

Er Sveinfríður Sigmundsdóttir fluttist frá Villingadal vorið 1887 fékk bróðir hennar, sem Guðmundur hét, jörðina til ábúðar. Þau Sveinfríður og Guðmundur voru reyndar bara hálfsystkini því Sigmundur faðir þeirra hafði eignast Guðmund áður en hann gekk í hjónaband.[86] Guðmundur Sigmundsson bjó á Villingadal frá 1887-1920[87] og var því síðasti 19. aldar bóndinn sem þar bjó. Kona Guðmundar Sigmundssonar var Jakobína Jónsdóttir en hún var dóttir Jóns Bjarnasonar sem týndi lífi í snjóflóðinu 20. desember 1886[88] og hér hefur áður verið frá sagt. Allir sem fórust í snjóflóðunum á Villingadal 20. desember 1886 voru því nátengdir þessum hjónum sem tóku þar við búi næsta vor.

Þau Guðmundur og Jakobína höfðu bæði alist upp á Ingjaldssandi. Guðmundur fluttist þriggja ára gamall með föður sínum úr Dýrafirði að Hrauni árið 1856 og ólst þar upp en Jakobína sem var fædd árið 1868 ólst upp hjá foreldrum sínum á Álfadal.[89] Á árunum 1888-1911 eignuðust þessi Villingadalshjón 14 börn.[90] Eitt þessara barna misstu þau í frumbernsku og fimm dóu úr berklum á árunum 1913 til 1924, hið yngsta ellefu ára og það elsta innan við þrítugt.[91] Sjöunda barn sitt misstu þau Guðmundur og Jakobína árið 1925 er Sigurður Andrés, sonur þeirra, fórst með togaranum Leifi heppna í Halaveðrinu mikla.[92] Er það högg reið yfir áttu gömlu hjónin enn heima á Villingadal þó búsforráðin væru komin í annarra hendur.[93]

Fyrstu árin sem Guðmundur Sigmundsson og Jakobína kona hans bjuggu á Villingadal var móðir Guðmundar þar hjá þeim.[94] Hún hét Guðbjörg Ólafsdóttir og drukknaði í Langá vorið 1890. Sighvatur Borgfirðingur segir að hún hafi drekkt sér á hvítasunnudag, þann 25. maí[95] og í bókum sóknarprestsins er sama dánarorsök gefin upp.[96]

Sumarið 1898 var alþýðuskáldið Magnús Hjaltason kaupamaður á Villingadal í átta vikur.[97] Í kaup fyrir þessa átta vikna vinnu fékk hann fjórar kindur sem samtals voru virtar á 50,- krónur og 10 pund af smjöri en hvert smjörpund var þá verðlagt á 70 aura.[98] Þrjár kindanna frá Villingadal seldi Magnús á Ísafirði um haustið en fékk þá ekki fyrir þær fullt verð (sjá hér Brekka) svo sumarkaupið varð í reynd nokkru lægra en hann hafði gert ráð fyrir.

Í skrifum sínum var Magnús Hjaltason oft dómharður um menn og vandaði ekki kveðjurnar til þeirra sem hann taldi sig eiga sökótt við af hinum eða þessum ástæðum. Lýsing hans á Guðmundi Sigmundssyni, bónda á Villingadal, er líka heldur kuldaleg svo ekki sé meira sagt. Um hann ritaði Magnús svo:

 

Guðmundur Sigmundsson var vinnuharður ákaflega og níddist á þjónum sínum, ókurteisastur manna á heimili með svívirðilegu klámi og kjafthætti daglega og lyginn mjög. Bar þó varla neinum á bak sem hann ekki gat sagt honum sjálfum svo hann heyrði. Allraungóður í mat og heldur bónþæginn. Hann var meðalmaður á hæð, gildur fremur með allbreitt andlit og heldur ljóslitað. Einarður við hvern sem var og ekki greindur, þó verkséður.[99]

 

Til er önnur lýsing á Guðmundi og langtum vinsamlegri. Höfundur hennar er Jóhannes Davíðsson sem vappaði 5 ára gamall um hlaðið á Álfadal, hinum megin við Langá, sumarið sem Magnús Hjaltason var kaupamaður á Villingadal. Jóhannes kynntist Guðmundi síðar náið og var heimagangur hjá þeim Villingadalshjónum á sínum uppvaxtarárum. Um Guðmund Sigmundsson, bónda á Villingadal, ritar Jóhannes meðal annars á þessa leið:

 

Guðmundur var um margt sérstæður. Hann var ólgandi af lífsfjöri, dugnaðarforkur að hverju sem hann gekk … …, fjörkálfur fram á elliár svo mikill að fátítt er, orðgífur nokkuð og gat verið dálítið grófyrtur þó að nú þætti ekki tiltökumál. Neftóbaksmaður mikill. Ekki var Guðmundur óhófsmaður á aðra hluti en vín þótti honum gott og átti stundum lögg heima en mun aldrei hafa bragðað það nema með góðum gestum sem stundum munu þá hafa lagt til hressinguna. Enginn mundi hafa kallað hann vínmann … . Guðmundur var lagtækur við smíðar og til fleiri verka, svo sem að bera upp hey og járna hesta. … Dugnaðurinn og kappið, einkum við heyskapinn, var einstakt. Til dæmis var það á góðum þerridögum þegar mikið lá undir af heyi að hann lét fólkið ekki fara inn til miðdegisverðar heldur setjast snöggvast undir skemmuvegginn úti og borða skyr sem ekki þurfti að tefjast við að matbúa.[100]

 

Um þennan bónda á Villingadal segir sami höfundur á öðrum stað að öllum hafi liðið vel í návist hans.[101] Þar lætur Jóhannes þess einnig getið að Guðmundur og Jakobína á Villingadal hafi komist vel af með sinn stóra barnahóp og aldrei þurft að þiggja neitt af öðrum.[102]

Síðustu 16 árin sem Villingadalur var í byggð bjuggu þar börn Guðmundar Sigmundssonar og Jakobínu konu hans, fyrst Margrét og hennar eiginmaður en síðan Guðjón Guðmundsson og hans kona frá 1924 til 1936.[103]

Fyrsta daginn í þorra árið 1935 féll mikil aurskriða yfir allan ytri hluta túnsins á Villingadal og náði hún fast að bænum.[104] Skriðan sem olli miklu tjóni kom úr grasigrónum klettaslitrum neðan við Villingadalshvilft en þau heita Bringir.[105] Það þótti mönnum einkennilegt, segir á einum stað, að flögin í fjallinu glitruðu öll á meðan sárin voru ný og töldu að málmar hlytu að valda.[106]

Loks brann bærinn í manndrápsöskubyl í desembermánuði árið 1935 og vorið eftir fór jörðin í eyði.[107]

Bæjarhóllin á Villingadal er hér rétt utan við bæjarlækinn.[108] Rústir bæjarhúsanna standa þar enn (1993) og eru hinar stæðilegustu. Sagt er að einhverju sinni þryti vatnið í bæjarlæknum og hafi þá orðið að sækja það í pytt einn framan við túnið.[109] Þann starfa hafði kerling ein sem Bryngerður hét og fékk hann nafnið Bryngerðarpyttur.[110] Sumir sögðu að kerlingin hefði reyndar farið sér að voða í þessu dýi.[111]

Rétt fyrir framan bæjarlækinn er Eyrisvöllur hér í Villingadalstúni og nær niður á túnbrekkuna.[112] Ein dagslátta var að fornu kölluð eyrisvöllur og talin 30 faðmar á hvern veg.[113] Orðið eyrisvöllur á sér þá skýringu að samkvæmt Búalögum var kaupamönnum ætlað að slá túnblett af þessari stærð á einum degi og fyrir dagsverkið áttu þeir, auk fæðis, að fá greiddan einn sex álna eyri,[114] þ.e. einn tuttugasta hluta úr kýrverði. Í hverjum fornum málfaðmi eru 172 sentimetrar[115] svo eyrisvöllurinn á þá að vera 51,6 metrar á hvern veg. Með þetta í huga geta svo góðir mælingamenn spreytt sig á því að mæla túnstykki það hér á Villingadal sem ber nafnið Eyrisvöllur.

Hér var áður minnst á lautir þær í fjallinu fyrir ofan Villingadal sem heita Ytri-Koppur og Fremri-Koppur (sjá hér bls. 1). Á fyrri hluta tuttugustu aldar sá móta fyrir gömlum tóttum í Fremri-Kopp og var sagt að þar hefði verið sel frá Villingadal.[116] Leiðin þangað upp liggur þó um snarbratta hlíð sem ekki er laus við kletta og má því fullyrða að flutningar frá selinu hafi verið erfiðir hafi það verið á þessum stað. Aðrar gamlar tóttir eru svo upp í Villingadalshvilft.[117]

Frá bæjarhólnum á Villingadal göngum við nú í átt til sjávar. Utan við túnið stiklum við yfir Móalækinn sem fellur í stóru og djúpu gili niður úr utanverðri Villingadalshvilft.[118] Gilið heitir Dalgil og utan við lækinn er Dalskriða.[119] Handan við skriðuna er Stekkjarhvammur og þar var stekkur fólksins á Villingadal.[120] Spölurinn frá stekknum og út að landamerkjunum er ekki langur. Þó eru þrír hvammar á milli Stekkjarhvamms og Votahvamms sem er ysti hvammurinn í Villingadalslandi.[121] Upp af Votahvammi er Urðarhjalli, hátt í fjallinu, þar sem bóndinn á Villingadal er sagður hafa staðið yfir fé sínu 20. desember 1886 þegar snjóflóðið tók hann og færði til heljar (sjá hér bls. 7-8).

Beint niður undan Votahvammi er Síkiseyri niður við Langá og er hún sjötta eyrin austan ár ef talið er frá ytra horninu á Villingadalstúni.[122] Á miðri Síkiseyri var áður stórt síki en það hefur nú verið þurrkað upp (sjá hér Svipast um á Ingjaldssandi). Í krikanum utan við Síkiseyri eru landamerki Villingadals og Sæbóls og fylgja þaðan línu sem hugsast dregin beint á fjall upp.[123]

 

 

 

 

Héðan frá landamerkjum Villingadals og Sæbóls er ætlunin að ganga niður að sjó og síðan fjöruna sem leið liggur fyrir Hrafnaskálarnúp að hreppamörkunum, þar sem lýkur langri ferð um Mýrahrepp, og síðan áfram að Mosdal sem var ysti bær í Mosvallahreppi.

Vegalengdin frá Villingadal niður að sjó er rétt liðlega tveir kílómetrar og frá landamerkjunum er varla nema einn kílómetri til sjávar. Þegar komið er yfir landamerkin við Síkiseyri tekur við Brekkunes og nær niður að sjó. Allt Brekkunesið er nú í landareign Sæbóls en mun áður hafa fylgt Brekku (sjá hér Svipast um á Ingjaldssandi). Norðan við landamerkin hjá Síkiseyri er gott að virða fyrir sér Hrafnaskálina sem blasir við augum upp við efstu brúnir.

Spölkorn norðan við Síkiseyri er göngubrú á Langá og ná Sæbólstúnin fram undir brúna. Nokkru hærra og aðeins nær sjó er Sæbólsstekkur sem hér hefur áður verið minnst á (sjá hér Svipast um á Ingjaldssandi og Sæból). Gilið sem gengur niður úr Hrafnaskál heitir Skálargil og er stekkurinn rétt framan við það.[124] Stekkjartóttin hefur lítið látið á sjá í tímans rás en oft mun hafa verið líflegt hér við stekkinn á dögum Þorkötlu ríku á Sæbóli. Sjálf megintóttin er 10-12 metrar á lengd og séu sambyggðar krær taldar með virðist öll byggingin hafa verið um það bil 20 metrar á lengd og 3-4 metrar á breidd. Láta mun nærri að stekkurinn sé í 300 metra fjarlægð frá sjó og sé horft yfir að Sæbóli kemur í ljós að hann er að kalla beint á móti fremri endanum á Hærri-Kúlum sem þar eru neðarlega í fjallshlíðinni fyrir ofan túnið.

Fjallshlíðin sem nú er á hægri hönd hefur á síðari öldum jafnan verið nefnd Sæbólshlíð[125] eða bara Hlíðin.[126] Framan við Hrafnaskál er fjallsbrúnin í liðlega 500 metra hæð yfir sjávarmáli en lækkar nokkuð út við sjóinn. Þar við ströndina og norðan við Hrafnaskál er ytri endinn á hinu mikla klettafjalli, Hrafnaskálarnúp, sem liggur milli Ingjaldssands og Mosdals og snýr framhliðinni út að firðinum. Fjallseggin norðan við Hrafnaskál heitir Rönd og klettastrýturnar í henni munu áður hafa verið nefndir Standar.[127]

Í Sandvíkinni, sem er rétt austan við ós Langár, nemum við staðar og bíðum þess að fjöruleiðin undir Hrafnaskálarnúp verði fær. Hér í Sandvík var á fyrri tíð skipsuppsátur bændanna á Brekku en lendingin var brimasöm og gerði það erfitt fyrir með alla sjósókn. Á fyrri hluta 18. aldar lifðu sagnir um skipsskaða er orðið hefðu í Sandvík[128] og haft var fyrir satt að þeirra vegna hefðu Brekkumenn leitað samninga við eigendur Sæbóls um uppsátur fyrir báta sína við Sæbólssjó.[129] Um þau réttindi náðust samningar eins og hér hefur áður verið skýrt frá, að öllum líkindum á síðari hluta 16. aldar (sjá hér Svipast um á Ingjaldssandi). Síðan þá mun aldrei hafa verið róið úr Sandvík en skerin sitt hvoru megin við víkina bjóða brimöldunni birginn enn í dag.

Nú er liðið á kvöld og háfjara í nánd svo fært mun vera orðið fyrir Palla en svo heita klettabelti sem ganga í sjó fram undir Hrafnaskálarnúp. Þar verður að sæta sjávarföllum þegar farið er fyrir Núpinn því ómögulegt er að komast fyrir framan þá nema á fjörunni. Þegar stórstreymt er má gera ráð fyrir að fært sé fyrir Palla þar til þrír klukkutímar eru liðnir frá háfjöru en í smástraum komast menn aðeins með naumindum fyrir Palla á fjörunni.[130] Heiman frá Sæbóli geta menn séð hvort fært sé orðið fyrir Palla því Sandvíkursker, sem er rétt innan við Sandvíkina ,segir til. Skerið blasir við frá bæjarhlaðinu á Sæbóli og sé það komið upp er orðið fært nema brim sé til baga.[131] Í miklu brimi getur gönguleiðin framan við Palla reynst algerlega ófær þó að lágsjávað sé.

Vanir klettamenn, sem létu sér fátt fyrir brjósti brenna, töldu sig að vísu ekki þurfa að sæta sjávarföllum til að komast fyrir Núpinn. Væri hásjávað eða mikið brim fóru þeir Tök en það eru mjóar hillur eða þræðingar uppi á Pöllunum og heita Lægstutök, Miðtök og Hæstutök. Af þessum þræðingum munu Lægstutök vera skárst.[132] Fyrir þá sem lítt eru kunnugir hér um slóðir mun hins vegar vera hyggilegast að forðast slíkt klifur.

Leiðin fyrir Hrafnaskálarnúp er um það bil þrír kílómetrar en hér er seinfarið því fjaran er sums staðar mjög stórgrýtt. Fjallsbrúnin er nær alla leiðina í 500 til 600 metra hæð og snarbrattir hamraveggir teygjast frá fjarðarströndinni upp á efstu brún. Helstu gangar eða þræðingar í Hrafnaskálarnúp eru þessir: Hæst er Efstigangur, þá Tóuhillur (eða Tóarhillur), svo Mórilluhillur, efri og neðri, neðar og neðan við mitt fjall er Kroppsstaðahilla og enn neðar Pallaslappshilla sem líka er nefnd Pallasleppishilla.[133] Efstigangur nær alveg út í Hrafnaskál. Hinar hillurnar ná flestar frá ytri rönd núpsins og inn að Rauðubjörgum sem er klettabelti um mitt fjallið, innan við hreppamörkin sem eru við Reyðarsker.[134] Í Tóuhillum vex hvönn og töðugresi, enda sækir fé í þær og hefur oft reynst mjög erfitt að ná því.[135] Pallaslappshilla er sundurskorin af Pallaslappsgili og heitir Pallasleppi eða Pallaslapp þar sem gilið sker hilluna.[136] Þar er bergið slétt eins og fjöl og ófært öllum venjulegum mönnum.[137] Fyrir utan gilið greinist Pallasleppishilla í tvennt og eru þær hillur nefndar Sjóarhillur.[138] Innan við Kroppsstaðahillu eru svo þræðingar í fjallinu sem menn nefna Holur. Þangað kemst stundum fé og verður þá að kalla til hina alfærustu fjallamenn ef reyna á að sækja það.[139]

Við Reyðarsker, sem er stórt sker, um það bil mitt á milli Mosdals og ytri randarinnar á Hrafnaskálarnúp, eru hreppamörk milli Mýrahrepps og Mosvallahrepps. Mörkin liggja um mitt skerið og þaðan í beina stefnu á fjallsbrún.[140] Grónir klettastallar í fjallinu upp af Reyðarskeri heita Ytrihreppar[141] en hellir, sem nú er að mestu horfinn, er neðst í klettunum rétt fyrir utan og ofan skerið.[142] Hann heitir Vökumannahellir[143] og sumarið 1993 var hellismunninn enn sjáanlegur. Sagnir herma að Reyðarsker dragi nafn af reyðarhval sem þar hafi hlaupið á land og í Vökumannahelli hafi þá verið vakað yfir hvalnum.[144]

Leiðin fyrir Hrafnaskálarnúp var jafnan talin erfið, enda var hún oft illfær og jafnvel ófær með öllu að vetrarlagi. Grjóthrun úr fjallinu er mikið, ekki síst innan við hreppamörkin[145] og oft mátti litlu muna að öskrandi brimið næði að hrífa menn á sitt vald. Þegar sjór er sæmilega stilltur getur hvaða fullfrískur maður sem er þó gengið fyrir Núpinn en torleiði má það kallast fyrir fólk sem ekki er vant að ganga um stórgrýttar fjörur.

Á fyrri tíð var stundum farið með naut fyrir Hrafnaskálarnúp að vetrarlagi og hafa menn þá orðið að velja góðan dag. Dæmi um slíkt ferðalag sjáum við í dagbókum Sighvats Grímssonar Borgfirðings sem 19. mars 1883 fór með naut hér inn fjörurnar, frá Sæbóli að Mosdal, og var þá í fylgd með bóndanum á Sæbóli, Guðmundi Hagalín Guðmundssyni, er síðar bjó á Mýrum.[146] Líklegt er að þá hafi verið ládauður sjór því Sighvatur getur þess tveimur dögum fyrr að mikill hafís sé úti fyrir Ingjaldssandi.[147]

Í dagbókum Magnúsar Hjaltasonar frá árum hans á Ingjaldssandi, 1896-1899, er stöku sinnum minnst á ferðir fyrir Hrafnaskálarnúp. Á fjórða degi jóla árið 1896 lögðu nokkrir Sandmenn af stað í ver norður að Djúpi. Frá upphafi þeirrar ferðar greinir Magnús svo í dagbók sinni:

 

Útróðramenn af Ingjaldssandi fóru áleiðis norður að Djúpi um morguninn. Komust þeir í Mosdal og sneru þar til baka. Undir Núpnum komust þeir í hættu mikla fyrir svonefndum Pöllum. Tók brimið einn manninn út, Bjarna Þorláksson frá Brekku, en honum skolaði upp aftur.[148]

 

Vorið 1897 fór Magnús sjálfur utan af Ingjaldssandi til vers á Kálfeyri þann 3. maí. Þeirri ferð sinni fyrir Hrafnaskálarnúp lýsir hann með þessum orðum:

 

Klukkan 8 um morguninn fórum við Jón fingralausi af stað frá Brekku áleiðis inn á Kálfeyri. Gengum fyrir Núp. Þegar við komum að svonefndum Pöllum undir Núpnum komumst við ekki fyrir þá sökum brims. Skall það yfir höfuð okkar og ætlaði að kaffæra okkur þar sem við vorum komnir. Fórum við þá að klifrast í Tök en svo heita smáhillur uppi yfir Pöllunum. Fór Jón á undan og lyfti ég undir hann og rétti honum síðan poka hans. Síðan lét Jón síga snæri til mín. Batt ég poka minn í það er Jón svo dró upp. Fór ég svo sjálfur upp í Tökin með hjálp Jóns. En er við komum innanvert í Tökin tók ekki betra við því ómögulega gátum við komist þar niður sökum svells er var í klettaþrepunum. Urðum við svo að snúa til baka og fara sömu leið niður á utanverðu. Biðum svo eftir útfalli og sættum þá lagi að komast fyrir Pallana. Héldum síðan inn í Dal [Valþjófsdal] og komumst með sjómönnum þaðan yfir á Kálfeyri.[149]

 

Þessi frásögn Magnúsar sýnir vel hversu erfitt gat verið að komast fyrir Núpinn og á ferð sinni 25. október 1898 komst Magnús ekki fyrir Pallana um fjöru vegna brims og varð að fara Tök.[150]

Þegar gengnar voru fjörurnar undir Hrafnaskálarnúp mun oftast hafa verið komist svo að orði að menn færu eða hefðu farið fyrir Núp. Heimamenn á Ingjaldssandi og máske fleiri áttu þó til að segjast hafa farið Sandsfjörur er þeir greindu frá slíkum ferðalögum.[151]

Við höfum nú komist fyrir Palla og kveðjum Mýrahrepp við Reyðarsker. Fram undan er ganga um Mosvallahrepp en þar er Mosdalur fyrsti áfangastaðurinn.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Óskar Einarsson 1951, 166.

[2] Sama heimild og Örnefnaskrá.

[3] Sömu heimildir.

[4] Óskar Ein. 1951, 166.

[5] Örn.skrá. Guðmundur og Guðni Ágústssynir. – Viðtal K.Ó. við þá 1.7.1993.

[6] Sömu heimildir.

[7] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 92-93.

[8] D.I. VIII, 262-263.

[9] D.I. IX, 368-370, D.I. X, 679-680, D.I. XI, 567 og Arnór Sigurjónsson 1975, 457-458.

[10] D.I. X, 679-680.

[11] J. Johnsen 1847, 194, 435 og 440.

[12] D.I. XV, 522, sjá líka D.I. XV, 508.

[13] Jarðab. Á. og P. VII, 92-93. Almanak Hins ísl. Þjóðvinafélags 1875, 32.

[14] Jarðab. Á. og P. VII, 92-93.

[15] Sama heimild.

[16] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 2. Dóma- og þingbók Markúsar Bergssonar 1720-1729, réttarhöld á

Mýrum 17. og 18.6.1727, bls. 218-220.

[17] Sama heimild.

[18] D.I. VI, 41-43, sbr. D.I. IV, 264-265.

[19] Sama heimild, sbr. Jarðab. Á. og P. VII, 87-92.

[20] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.

[21] Manntal 1703.

[22] Sama heimild.

[23] Sama heimild.

[24] Sama heimild.

[25] Ísl. æviskrár I, 21.

[26] Jarðab. Á. og P. VII, 92-93.

[27] Sama heimild.

[28] Jarðab. Á. og P. VII, 92-93.

[29] Sama heimild.

[30] Sama heimild.

[31] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 87.

[32] Jóhannes Davíðsson 1968, 62.

[33] Manntal 1703. Jarðab. Á. og P. VII, 92-93. Bændatal frá því um 1735. Jarða- og bændatal 1753. Manntal

1762.

[34] Manntal 1801.

[35] Manntöl 1835, 1840, 1850, 1855, 1860, 1870, 1880 og 1890. Sjá Firðir og fólk 1900-1999, 312).

[36] Manntal 1845.

[37] Sóknalýs. Vestfj. II, 86-87.

[38] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ísafjarðarsýslu. X. 1. Uppboðsbók 1826-1844, uppboð 29.6.1840.

[39] Skýrslur um landshagi I, 262 (Kph. 1858).

[40] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. X. 1. Uppboðsbók 1826-1844, uppboð 29.6.1840, sbr. J. Johnsen 1847, 194,

435 og 440.

[41] Sama heimild.

[42] Manntal 1845. Nafnalykill.

[43] Manntal 1845.

[44] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[45] Guðmundur Jónsson frá Mosdal 1949, 158 (Frá ystu nesjum V).

[46] Jóh. Dav. 1970, 101-102. Guðm. Jónsson frá Mosdal 1949, 158.

[47] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[48] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[49] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga og Guðm. Jónsson frá Mosdal 1949, 158. Sbr. Prestsþj.b. Dýrafj.þinga, − dánir

20.12.1886.

[50] Guðm. Jónsson frá Mosdal 1949, 158.

[51] Sama heimild.

[52] Sama heimild.

[53] Sama heimild.

[54] Frá ystu nesjum IV, 113-114.

[55] Guðm. og Guðni Ágústssynir. – Viðtal K.Ó. við þá 1.7.1993.

[56] Sama heimild.

[57] Örn.skrá.

[58] Frá ystu nesjum IV, 113-114.

[59] Sama heimild.

[60] Sama heimild.

[61] Sama heimild.

[62] Sama heimild.

[63] Frá ystu nesjum IV, 113-116.

[64] Sama heimild.

[65] Sama heimild.

[66] Sama heimild.

[67] Sama heimild.

[68] Sama heimild.

[69] Sama heimild.

[70] Sama heimild.

[71] Óskar Ein. 1951, 166.

[72] Sama heimild.

[73] Guðm. og Guðni Ágústssynir. – Viðtal K.Ó. við þá 1.7.1993.

[74] Jóh. Dav. / Sunnudagsblað Tímans 22.9.1973.

[75] Sama heimild.

[76] Sama heimild.

[77] Lbs. 23744to, Dagbók Sighvats Grímssonar Borgfirðings 26.12.1886.

[78] Sama dagbók 4.1.1887.

[79] Sama dagbók 7.1.1887. Guðm. Jónsson frá Mosdal 1949, 153-158 (Frá ystu nesjum V).

[80] Jóh. Dav. 1970, 101-102.

[81] Sama heimild.

[82] Sigurvin Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 28.6.1993.

[83] Guðm. Jónsson frá Mosdal 1949, 153-158.

[84] Sama heimild.

[85] Lbs. 45824to, Dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili.

[86] Jóh. Dav. 1978, 70-71.

[87] Sama heimild, 70-72.

[88] Sama heimild, 76-77.

[89] Sama heimild, 70-76.

[90] Sama heimild, 70-74.

[91] Sama heimild.

[92] Sama heimild.

[93] Jóh. Dav. 1978, 70-74.

[94] Sama heimild.

[95] Lbs. 23744to, Dagbók S.Gr.B. 28.5.1890.

[96] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[97] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 3.9.1898.

[98] Sama dagbók 20.9.1898.

[99] Sama dagbók 3.9.1898.

[100] Jóh. Dav. 1978, 71-75.

[101] Sami 1970, 113.

[102] Sama heimild.

[103] Sami 1978, 72-73.

[104] Óskar Ein. 1951, 166 (Aldafar og örnefni). Sami 1951, 91-92 (Árbók Ferðafél. Ísl.).

[105] Sami 1951, 166.

[106] Sami 1951, 91-92 (Árbók Ferðafél. Ísl.).

[107] Jóh. Dav. 1968, 62, sami 1970, 114 og sami 1978, 73.

[108] Örn.skrá.

[109] Óskar Ein. 1951, 165.

[110] Sama heimild.

[111] Sama heimild.

[112] Óskar Ein. 1951, 165-166. Örn.skrá.

[113] Þorvaldur Thoroddsen / Lýsing Íslands III, 96.

[114] Sama heimild.

[115] Sama heimild, 97.

[116] Örn.skrá.

[117] Sama heimild.

[118] Sama heimild.

[119] Sama heimild.

[120] Sama heimild.

[121] Sama heimild.

[122] Sama heimild.

[123] Óskar Ein. 1951, 166.

[124] Guðm. og Guðni Ágústssynir. – Viðtal K.Ó. við þá 1.7.1993.

[125] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 2. Dóma- og þingbók Markúsar Bergssonar 1720-1729, réttarhald að

Mýrum 17.6.1727, bls. 212.

[126] Óskar Ein. 1951, 163.

[127] Sama heimild, 162-163.

[128] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 2. Dóma- og þingbók Markúsar Bergssonar 1720-1729, réttarhald á

Mýrum 17.6.1727, bls. 218.

[129] Sama heimild.

[130] Guðni Ágústsson. – Viðtal K.Ó. við hann 1.7.1993.

[131] Sama heimild.

[132] Óskar Ein. 1951, 162-163. Guðm. og Guðni Ágústssynir. – Viðtal K.Ó. við þá 1.7.1993.

[133] Óskar Ein. 1951, 162-163 og Örn.skrá.

[134] Sömu heimildir.

[135] Óskar Ein. 1951, 162-163.

[136] Sama heimild og Örn.skrá.

[137] Sömu heimildir.

[138] Óskar Ein. 1951, 162-163.

[139] Óskar Ein. 1951, 162-163.

[140] Sama heimild og Örn.skrá.

[141] Sömu heimildir.

[142] Sömu heimildir.

[143] Sömu heimildir.

[144] Örn.skrá.

[145] Sama heimild.

[146] Lbs. 23744to, Dagbók S.Gr.B. 19.3.1883.

[147] Sama dagbók 17.3.1883.

[148] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 28.12.1896.

[149] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 3.5.1897.

[150] Sama dagbók 25.10.1898.

[151] Guðmundur Bernharðsson 1985, 43.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »