Ytri-Lambadalur

Það var stutt á milli bæjanna í Lambadal og enn er fljótlegt að vaða yfir ána eða rölta yfir brúna niðri á þjóðveginum. Túnið í Ytri-Lambadal nær alveg niður að ánni og bærinn stendur örskammt frá þjóðveginum, rétt utan við Lambadalsá. Nær beint niður af bænum teygist Lambadalsoddi út í fjörðinn, eyri sem myndast hefur af framburði árinnar. Þar er nú brú yfir Dýrafjörð.

Að fornu mati var Ytri-Lambadalur 60 hundraða jörð og þar með ein stærsta jörðin í hreppnum. Aðeins Alviðra og Mýrar voru stærri, ef hjáleigur og afbýli þeirra eru talin með, en Núpur, Neðri-Hjarðardalur og Sæból voru líka 60 hundruð.[1] Fyrir mynni Lambadals er talsvert undirlendi en þó ekki nægilegt til að skýra hið háa mat jarðarinnar. Til skilnings á því verður að hafa í huga að af sjálfum dalnum átti Ytri-Lambadalur um tvo þriðju hluta eða nánar til tekið allt land sín megin Lambadalsár og einnig landið handan árinnar þegar komið var fram fyrir þverána Selá (sjá hér Innri-Lambadalur). Á dalnum eru góðir sumarhagar.[2] Þar voru hross látin ganga úti árið um kring og þangað var gengið til rjúpna á vetrardögum.[3]

Heiman frá bæ og fram í dalbotn eru fimm til sex kílómetrar en milli landamerkja jarðarinnar á fjarðarströndinni er hins vegar aðeins rösklega einn kílómetri, frá Lambadalsá að Merkjalæk.

Úr botni Lambadals lá fjallvegur um Lambadalsskarð yfir að Seljalandi í Álftafirði við Ísafjarðardjúp. Skarðið er í um það bil 800 metra hæð milli Lambadalsfjalls og Þverfells. Loftlína heiman frá bæjum í Lambadal og upp í skarðið er um tíu kílómetrar og síðan sex kílómetrar niður að Seljalandi. Þetta er erfiður fjallvegur og var sjaldan farinn, enda aðeins fær gangandi mönnum.[4]

Yfir ytri hlíð Lambadals gnæfa klettabrúnir, víðast hvar í 500-600 metra hæð. Fjallið skiptist í fjóra hluta. Í mynni dalsins og upp af bænum er Kúlnafjall og nær fram að hamragili sem Seljagil heitir.[5] Þar tekur við Seljafjall og nær fram að Svarthamarsgili en framan við það er Hólafjall og loks Flatafjall fremst og er það lægra.[6] Rétt heiman við Seljagil var selið í dálítilli kvos upp við fjallsræturnar.[7] Seltóttirnar sjást þar enn en fram að selinu er um það bil 15 mínútna gangur heiman frá bæ í Ytri-Lambadal.[8] Séra Jón Sigurðsson getur um sel frá Ytri-Lambadal í sóknalýsingu sinni frá árinu 1840 og segir það hafa verið fram í dalnum. Hann segir þar að selstaða þessi hafi lengi legið ónotuð en nú fyrir fáum árum hafi aftur verið farið að hafa þar í seli.[9] Einhver fleiri dæmi voru um það að seljabúskapur væri tekinn upp á ný í Dýrafirði á árunum um eða eftir 1840 og á einstaka bæjum var búsmali hafður í seli fram um 1880 (sjá hér Meðaldalur). Ekki er vitað hvenær ær voru síðast mjaltaðar í seljunum á Lambadal.

Yfir innri hlíð dalsins rís Lambadalsfjall stall af stalli, klettalaust víðast hvar þegar kemur fram fyrir miðjan dal. Það nær hæst í 957 metra hæð langt austur af Lambadal, á mörkum Vestur- og Norður-Ísafjarðarsýslu. Fjallið er mikið um sig og í raun hluti af Glámuhálendinu, ber öll einkenni þess en er ólíkt fjarðafjöllunum vestfirsku. Hlíðin sem snýr að dalnum sker sig þó ekki svo mjög úr, enda segir séra Jón Sigurðsson í sóknalýsingu sinni að fjöllin beggja vegna Lambadals séu mjög álík að lögun og hillnafjölda og tekur fram að hillurnar liggi allar horizontalt.[10]

Í landi Ytri-Lambadals innan við Lambadalsá er talsvert skógarkjarr milli Selár, sem áður var nefnd, og Þverár sem fellur í Lambadalsá nokkru framar, þar sem dalurinn tekur mjög að þrengjast. Þarna í skóglendinu, skammt fyrir framan Selá, eru hólar sem Krosshólar heita.[11] Þar mátti hvorki rífa lyng né hrís því talið var að þá ólánaðist Lambadalsbændum skepnueign.[12] Fram við Þverá er önnur hólaþyrping í skóginum og heitir sú Fremrihólar.[13] Gilið sem Þverá fellur um heitir Vélindisdalur en við ármót Þverár og Lambadalsár er Vörðuhóll og standa þar margar vörður, sumar hlaðnar af þeim sem fóru Lambadalsskarð.[14]

Fram úr botni Lambadals gengur djúpt gljúfur til norðvesturs og heitir Ónshús.[15] Ofan í gljúfrið steypist hár og vatnsmikill foss sem við það er kenndur og heitir Ónshúsfoss.[16] Gangar í Flatafjalli, er fyrr var nefnt, heita Ónshúsahillur[17] en fjallið nær alveg fram undir gljúfrið. Sagt er að í hillum þessum sé mikið um surtarbrand.[18] Þann 29. ágúst árið 1892 var Sighvatur Grímsson Borgfirðingur hér á ferð ásamt franska náttúrufræðingnum Gaston Buchet sem m.a. vildi athuga surtarbrandinn. Sighvatur segir í dagbók sinni að þeir hafi farið fram fyrir Ónshús og orðið að saga brandinn í sundur framan í snarbrattri skriðu en gljúfur fyrir neðan.[19]

Minnt skal á að fremst í öðrum Lambadal, sem líka er í Dýrafirði, eru önnur Ónshús. Sá dalur er afdalur fram úr Haukadal á vesturströnd (suðurströnd) fjarðarins og Ónshúsin sem þar er að finna eru stórir steinar (sjá hér Haukadalur). Í Haukadal létu menn sér detta í hug að nafnið hefði upphaflega verið Óðinshús og þá í merkingunni skrattabæli (sjá hér Haukadalur) og gæti ekki síður átt við um gljúfrið mikla sem hér heitir Ónshús. Skýring sem gefin er á nafninu í Vestfirskum þjóðsögum er hins vegar dálítið kátleg.  Þar segir:

 

Norðanvert í Lambadal í Dýrafirði, hátt í fjallinu eru Ónshúshillur. Þar er surtarbrandur mikill. Örnefni þetta er sjáanlega ekki mjög fornt. Er það dregið af því að einhver Dýrfirðingur hefur hitað stofu eða hús með óni eða ofni og látið taka eldsneyti fyrir sig í hillum þessum sem síðan nefnast Ónshúshillur.[20]

 

Enn eina tilraun til skýringar á nafninu er að finna hjá alþýðuskáldinu Magnúsi Hjaltasyni, sem var barnakennari í Lambadal veturinn 1895-1896, en hann lét sér detta í hug að nafnið á Ónshúsum hefði upphaflega verið Ómshús og væri þá dregið af niði fossins þar í gljúfrunum.[21]

Í Jarðabókinni frá 1710 er sagt að fjórðungur af engjunum í Ytri-Lambadal sé kominn undir skriður og tekið fram að haustið áður hafi jarðfall tekið sig upp í einni brekku og hlaupið á túnið.[22] Árið 1710 var aðeins búið á annarri hálflendunni hvort sem jarðfallinu eða bólunni hefur verið um að kenna að hin var í eyði. Dýrfirðingar sem ræddu við Árna Magnússon sumarið 1710 gerðu ekki mikið úr kostum jarðarinnar en létu þess þó getið að góð silungsveiði hefði verið í Lambadalsá en þó engin teljandi í nokkur ár.[23] Torfristu og stungu sögðu þeir vera nægilega og reiðingsristu bjarglega fyrir heimili.[24] Þegar rætt er um stungu í Jarðabókinni kynni að vera átt við mótak en öruggt er það samt ekki því einnig stungu menn torf og hnausa sem mikil þörf var fyrir í allar byggingar. Mjög líklegt verður þó að telja að mór hafi verið stunginn í landi Ytri-Lambadals á fyrstu árum 18. aldar og fyrr því þar er eitt besta mótak á öllum Vestfjörðum sem óspart var nýtt á síðari hluta nítjándu aldar og fram um miðja tuttugustu öld. Mógrafirnar voru yst í Lambadalslandi, út undir landamerkjunum þar sem land jarðarinnar Næfraness tekur við. Í Jarðabókinni frá 1710 er reyndar getið um móskurð í Næfraneslandi en tekið fram að hann brúkist lítt.[25]

Í sóknalýsingu séra Jóns Sigurðssonar frá árinu 1840 segir skýrum orðum að í Ytri-Lambadal sé gott mótak en jafnframt tekið fram að það sé mjög lítið notað því til eldiviðar hafi menn einkum sauðatað og svo dálítið af hrísi.[26] Í ritgerð frá árinu 1968 lætur Jóhannes Davíðsson, sem þá hafði lengi átt heima í Neðri-Hjarðardal í Dýrafirði, þess getið að í Ytri-Lambadal og á Næfranesi, beggja vegna við landamerkin, hafi verið hið besta mótak þar í sveit, upp undir 20 skóflustungur á dýpt.[27]

Á fyrstu áratugum tuttugustu aldar kom fólk víða að úr Dýrafirði í mógrafirnar í Lambadal. Einn þeirra var Kristján Nói Kristjánsson, síðar bátasmiður, en hann átti heima á Kjaransstöðum sem barn og unglingur á árunum 1904-1912. Mótekjunni í Lambadal lýsir hann svo:

 

Þegar að mógröfunum kom varð að byrja á því að ryðja þykku jarðvegslagi ofan af en þar undir var mórinn, kannski tólf skóflustungur og jafnvel enn fleiri þar sem mest var af þessum dýrindis mó, svörtum og hörðum, dálítið blönduðum sprekum. Þetta voru sagðar einhverjar bestu mógrafir á landinu. Einn stakk, annar kastaði hnausunum upp á bakkann en þaðan var þeim ekið á þurrkvöll í hjólbörum. Síðan voru hnausarnir stungnir í flögur svo sem hæfilegar þóttu á þykktina. Þegar mórinn var farinn að þorna dálítið var honum grindað, sem kallað var, og síðan var hann borinn saman í hrauka og þar var hann þar til hann var fluttur heim á haustin.[28]

 

Fróðlegt hefði verið að vita hvenær fyrstu hjólbörurnar sáust í Lambadalsgröfum en varla hefur það verið mjög mörgum áratugum áður en Kristján Nói fór að grinda þar og hreykja móflögum Kjaransstaðafólks.

Flestir sem um Lambadal hafa ritað lofa engjar jarðarinnar. Séra Jón Sigurðsson segir að þar sé mikið slægnaland[29] og Jóhannes Davíðsson getur þess að í Ytri-Lambadal sé engjaland samfellt um 20 hektarar að stærð.[30] Túnið var hins vegar lítið á fyrri tíð og ekki talið samsvara hinu háa mati sem á jörðinni var.[31]

Í fornum heimildum er jarðarinnar Lambadals fyrst getið í Jarteiknabók Guðmundar biskups góða sem talið er að hafi verið rituð á 14. öld. Þar eru margar sögur sagðar af kraftaverkum þessa ástsæla Hólabiskups. Ein er á þessa leið:

 

Hann vígði brunn í Vestfjörðum á bæ þeim er á Mýrum heitir. Svo er sagt að kona ein fór til Mýra af bæ þeim er í Lambadal heitir og eru þar fimm bæir í millum. Hún mæltist illa um er hún hafði ekki til að hafa heim vatnið með sér. Hún tók línhúfu af höfði sér og mælti svo: „Eigi mun ég minna af fá vatninu en það að vinda húfuna vota.” Tekur hún nú húfuna og fyllir af vatninu en hún lak ekki heldur en hið þéttasta kerald og eigi var hún heldur vot. Nú þótti þetta merkilegur atburður.[32]

 

Bænhús var í Ytri-Lambadal í kaþólsku en var fallið fyrir manna minni í byrjun 18. aldar.[33] Sighvatur Grímsson Borgfirðingur segir að bænhúsið hafi staðið uppi á Pallabrekkum fyrir neðan fremri bæinn gamla.[34] Máske hefur bænhúsið hangið uppi um aldamótin 1600 en þá bjó í Ytri-Lambadal séra Gils Ólafsson prestur í Dýrafjarðarþingum.[35] Er hann eini presturinn sem vitað er að hér hafi búið og jafnframt fyrsti bóndinn á þessari jörð sem menn kunna að nefna með nafni. Í Lambadal var fram á 20. öld uppistandandi gamalt fjárbyrgi sem við hann var kennt og kallað Gilshlað.[36] Árið 1615 var séra Gils veittur Staður í Súgandafirði og fluttist hann þá þangað frá Lambadal.[37] Ekki verður nú séð í fljótu bragði hver eða hverjir áttu Ytri-Lambadal þegar séra Gils Ólafsson hafði jörð þessa til ábúðar en líklegt má telja að Jón Magnússon sýslumaður, sem lengi bjó í Haga á Barðaströnd, fæddur 1566, hafi þá þegar átt jörðina eða einhvern part úr henni.[38] Hann var sonur Magnúsar prúða Jónssonar, skálds og sýslumanns, og konu hans Ragnheiðar, dóttur Eggerts Hannessonar, lögmanns í Saurbæ á Rauðasandi og áður á Núpi í Dýrafirði.[39] Sterkar líkur benda reyndar til þess að Eggert hafi á sínum tíma átt annan eða báða Lambadalina því að hann nefnir Lambadal í reikningskveri sínu frá árinu 1571 og kemst þá svo að orði: Item gekk skip úr Lambadal og Skaga og voru á 5 menn.[40] Þarna mun efalítið hafa átt að standa á Skaga en ekki og Skaga og mun þetta vera elsta heimild um róðra manna úr Lambadal á Fjallaskaga. Jón Magnússon sýslumaður, sem hér var nefndur, dóttursonur Eggerts Hannessonar, andaðist 15. nóvember 1641 og við arfaskipti eftir hann og konu hans, Ástríði Gísladóttur, sem fram fóru 9. apríl 1642 komu 6 hundruð úr Lambadal í hlut Gísla Jónssonar, síðar lögréttumanns og lögsagnara í Reykjarfirði í Suðurfjörðum Arnarfjarðar, en hann var eitt margra barna þessara hjóna.[41]

Sextán árum síðar, árið 1658, átti Þorsteinn Þorleifsson Ytri-Lambadal[42] og má ætla að þar sé um að ræða Þorstein Þorleifsson, síðar alllengi sýslumann í Múlaþingi og umboðsmann klausturjarða eystra og nyrðra, því eina barn hans sem upp komst, Þrúður Þorsteinsdóttir, biskupsfrú á Hólum, átti Ytri-Lambadal tvímælalaust árið 1710.[43] Þeir Gísli lögsagnari í Reykjarfirði og Þorsteinn sýslumaður eystra voru bræðrasynir, báðir sonarsynir Magnúsar prúða.[44] Árið 1695 hafði Ari Þorkelsson, sýslumaður í Haga á Barðaströnd, byggingarráðin hér í Ytri-Lambadal, án þess þó að vera eigandi jarðarinnar.[45] Sú staðreynd styrkir þá kenningu að eigandinn hafi verið búsettur í fjarlægu héraði sem kemur heim hvað varðar fyrrnefndan Þorstein sýslumann Þorleifsson sem árið 1695 mun hafa búið á Víðivöllum í Skagafirði.[46] Þrúður Þorsteinsdóttir, hér áður nefnd, sem átti Ytri-Lambadal árið 1710, hafði árið 1689 gengið að eiga Björn Þorleifsson, þá aðstoðarprest í Odda á Rangárvöllum, sem varð Hólabiskup árið 1697 og hélt því embætti uns hann andaðist 13. júní 1710.[47]

Þessi biskupshjón á Hólum voru reyndar náskyld því Magnús prúði var langafi beggja[48] en hann var, að því er ætla má, auðugasti maður á Vestfjörðum um nokkurt skeið. Þrúður Þorsteinsdóttir, biskupsekkja á Hólum, andaðist árið 1738 en mun alllöngu fyrr hafa látið Ytri-Lambadal af hendi því árið 1723 var Teitur Arason, sýslumaður í Barðastrandarsýslu, orðinn eigandi jarðarinnar en hann var sonur Ara Þorkelssonar, sýslumanns í Haga,[49] sem verið hafði umboðsmaður biskupsfrúarinnar og föður hennar vegna jarðeigna þeirra á Vestfjörðum eins og hér var áður nefnt. Svo virðist sem á árunum upp úr 1720 hafi það ýmist verið Teitur Arason eða Steinn Jónsson, þáverandi biskup á Hólum, sem taldist eiga Ytri-Lambadal[50] en árið 1728 keypti séra Páll Pétursson, prestur á Álftamýri í Arnarfirði, jörðina af Teiti[51] og var hún síðan alllengi í eigu niðja hans. Árið 1762 var séra Hallgrímur Jónsson á Rafnseyri einn þriggja eigenda Ytri-Lambadals[52] en hann var tengdasonur séra Páls á Álftamýri.  Annar tengdasonur séra Páls var Magnús Ólafssson í Súðavík og síðar í Tröð í Álftafirði og átti hann 45 hundruð í Ytri-Lambadal árið 1777 eða þrjá fjórðu hluta úr jörðinni.[53]      Magnús var sonur Ólafs Jónssonar lögsagnara á Eyri í Seyðisfirði við Djúp.[54]

Magnús Ólafsson seldi Hans Oddssyni Hjaltalín verslunarmanni þessi 45 jarðarhundruð í Ytri-Lambadal árið 1777[55] Hans Hjaltalín varð síðar sjálfstæður kaupmaður og verslaði bæði á Búðum og Arnarstapa á Snæfellsnesi.[56] Hans kaupmaður Hjaltalín var enn aðaleigandi jarðarinnar árið 1805.[57] Hann var sonur Odds Jónssonar Hjaltalín lögréttumanns, sem bjó á Rauðará í grennd við Reykjavík.[58]

Verðið á hverju jarðarhundraði í Lambadal var á átjándu öld oftast 5 spesíudalir eða því sem næst.[59] Landskuldin sem bændurnir í Ytri-Lambadal þurftu að greiða á hverju ári var í byrjun 18. aldar tvö hundruð eða sem svaraði tveimur kúgildum.[60] Landeigendurnir hafa þá fengið sem svaraði 3,33% vöxtum af eign sinni. Um greiðslu landskuldarinnar segir svo í Jarðabókinni frá 1710:

 

Hefur betalast lengstum með peningum upp á landsvísu en nú um nokkur fyrirfarandi ár hefur umboðsmaður áskilið að landskuld betalaðist með fiski og lýsi eður annarri duktugri kaupmannsvöru en þó hefur ábúandi sjaldan goldið stórum meira en helming í kaupstað og hitt í peningum eður fiski á haustnóttum.[61]

 

Tíu leigukúgildi fylgdu jörðinni í byrjun 18. aldar og leigurnar af þeim átti þá að greiða í smjöri eður fiskifangi eður peningum í Arnarfjörð.[62] Um miðja 19. öld var landskuldin enn óbreytt en leigukúgildunum hafði þá fækkað úr tíu í sex.[63]

Ekki nægði alltaf það eitt að bændurnir stæðu skil á landskuld og leigum. Er Þrúður Þorsteinsdóttir, biskupsekkja á Hólum, átti Ytri-Lambadal hvíldi líka á bændunum hér sú kvöð að færa smjör, hákarl og fiskifang sem umboðsmaður hennar átti að fá frá öðrum bæjum, annars staðar í nánd, að Fossi eða Reykjarfirði í Suðurfjörðum Arnarfjarðar.[64]

Á 18. öld og fyrri hluta 19. aldar var oftast þrí- eða fjórbýli í Ytri-Lambadal og stöku sinnum var hér líka húsfólk.[65] Árið 1860 voru bændurnir orðnir sex og hafa þá haft tíu hundruð hver til ábúðar að jafnaði.[66]

Á árunum um og upp úr 1870 bjuggu hjónin Jón Arnfinnsson og Margrét Kjartansdóttir hér í Ytri-Lambadal.[67] Þau komu hingað frá Kirkjubóli í Bjarnardal í Önundarfirði árið 1868 (sjá Kirkjuból í Bjarnardal) og bjuggu hér í um það bil áratug en voru upp úr 1880 við búskap í Innri-Lambadal og þar andaðist Jón árið 1885, kominn á áttræðisaldur.[68] Hann var ættaður frá Hallsteinsnesi í Gufudalssveit við Breiðafjörð[69] og hafði verið skipstjóri á skútum, líklega einhverri þeirra sem gerðar voru út frá Ísafirði (sjá hér Kirkjuból í Bjarnardal).

Á síðustu árum nítjándu aldar kunni fólk í Lambadal frá því að segja að eitt sinn á búskaparárum sínum hér hefði Jón Arnfinnsson dreymt að kona kæmi til sín og þakkaði sér fyrir bátslánið.[70] Kvaðst konan vona að hann tæki ekki hart á sér þó að hún hefði gripið snöggvast til bátsins hans til að komast yfir fjörðinn því sér hefði legið svo á.[71] Við það vaknaði Jón og sá þá eftir konunni ofan stigann.[72]

Nú þarf enginn að fá lánaðan bát í Lambadal til að komast ferða sinna því örskammt frá bænum er nú komin brú og bílvegur yfir Dýrafjörð.

Skömmu fyrir 1880 fékk einn maður allan Ytri-Lambadal til ábúðar og var það Bergþór Jónsson, bróður séra Janusar Jónssonar sem nokkru síðar varð prestur í Holti í Önundarfirði. Bergþór bjó einn í Ytri-Lambadal haustið 1880, kallaður bóndi og snikkari.[73] Hann var uppgangsmaður og lagði árið 1883 út í skútuútgerð í félagi við Hvammsbændur (sjá hér Hvammur). Sú útgerð mun ekki hafa gengið nógu vel og fjórum árum síðar fluttist Bergþór til Ameríku ásamt konu sinni og börnum.[74] Hann var þá 44 ára gamall.

Til er bréf sem Bergþór skrifaði Sighvati Grímssyni Borgfirðingi 28. desember 1888 frá Brandon í Manitoba en þá var liðið nokkuð á annað ár frá því hann fór vestur um haf. Í bréfinu lætur hann vel af sér og segir meðal annars:

 

Það er þá þér að segja að auk þess sem maður hefur hér allt betra, bæði til fata og matar, en heima, þá gengur maður undir mannlegri nöfnum hér. Ég er t.d. kallaður meistar Johnson, konan mín kölluð missis (frú) Johnson og börnin okkar kennd við Johnson.  En heima var ég kallaður Bergþór og konan mín Jónína.  …  Já, mikill er munurinn, fyrr má nú vera. Ég vildi að allir mínir kunningjar væru komnir hingað frá andskotans okri, ólögum og harðstjórn. Satt er orðið þótt ljótt sé.

… Allar konur og stúlkur ganga hér á kjólum og yfirkjólum á veturna þegar þær fara út fyrir húsdyr með loðna húfu á höfði. Það gjörir missis mín líka. Þetta átti hún eftir, gamla konan. Og þá er ég búinn að eignast einhverja slypru utan yfir mig líka, skaltu trúa.[75]

 

Við förum nú líka að yfirgefa Lambadal og rölta út að Næfranesi en látum hins vegar vera að elta smiðinn Bergþór til Ameríku. Sveinstóttir, sem áður voru hér í túnjaðrinum, gefst okkur ekki kostur á að skoða því þær eru löngu horfnar en í Jarðabókinni frá 1710 segir að þá hafi rústir með þessu nafni verið neðantil við heimatúnið í Ytri-Lambadal og þar hafi áður, fyrir manna minni, verið hjáleigukot.[76]

Eftir tíu mínútna göngu frá bænum í Ytri-Lambadal liggur leið okkar um túnið á Grænanesi, nýbýli sem reist var árið 1954 en þar var aðeins búið í fimm ár.[77] Íbúðarhús úr steinsteypu stendur þar enn (1992). Beint niður af Grænanesi gengur svolítið nes fram í fjörðinn og heitir Torfnes.[78] Gömlu mógrafirnar voru að kalla beint upp af Torfnesi en þó rétt utan við túnið á Grænanesi.[79] Í þessar grafir sótti fólk víða að úr Dýrafirði á fyrri hluta tuttugustu aldar (sjá hér bls. 3-4) og lágu sumir við í tjöldum. Mógrafasvæðið nær út fyrir landamerkin sem eru hér rétt fyrir utan.

Í örnefnaskrá sem samin var á árunum 1930-1960 er sagt að býli er nefndist Kot hafi eitt sinn staðið hér rétt hjá mógröfunum og lítið eitt utar, yst í Lambadalslandi, hafi endur fyrir löngu staðið bær þar sem nú heiti Hlað fyrir ofan Torfnesblett.[80] Allt er þetta dálítið óljóst og verður að takast með fyrirvara. Jóhannes Davíðsson segir í ritgerð frá árinu 1968 að engar menjar sjáist um býlið Kot. Árni Magnússon nefnir hvorugt þessara eyðibýla í Jarðabókinni frá 1710 en Ólafur Olavius, sem ferðaðist nokkuð um Dýrafjörð árið 1775 og leitaðist við að gera grein fyrir eyðibýlum, nefnir Hlaðnes í Mýrahreppi sem farið hafi í eyði árið 1709.[81] Í röð eyðibýlanna skipar Olavius Hlaðnesi þannig niður að ætla má að það hafi annað hvort verið í landi Botns eða jarðanna í Lambadal. Líklegt er því að kot þetta hafi einmitt staðið hér, þar sem heitir Hlað, og vel má vera að það sem menn kölluð Kot á fyrri hluta tuttugustu aldar hafi verið þetta sama eyðibýli.

Utan við Hlaðið förum við yfir Merkjalækinn, sem einnig er nefndur Grafalækur, en hann skiptir löndum milli Lambadals og Næfraness.[82]

 

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

 

[1] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 55-93.

[2] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 65.

[3] Sama heimild, 66.  Jóhannes Davíðsson 1968, 43 (Ársrit S.Í.).

[4] Sóknalýs. Vestfj. II, 65-66.

[5] Örnefnaskrá.

[6] Sama heimild.

[7] Sama heimild.

[8] Guðmundur Steinþórsson. – Viðtal K.Ó. við hann 4.7.1992.

[9] Sóknalýs. Vestfj. II, 65.

[10] Sóknalýs. Vestfj. II, 66.

[11] Örnefnaskrá.

[12] Vestfirskar sagnir II, 371.

[13] Örnefnaskrá.

[14] Sama heimild.

[15] Sama heimild.

[16] Sama heimild.

[17] Sama heimild.

[18] Sóknalýs. Vestfj. II, 65.

[19] Lbs. 23754to, Dagbók Sighvats Grímssonar Borgfirðings 29.8. 1892.

[20] Vestfirskar þjóðsögur II-1, 59.

[21] Lbs. 25604to , Magnús Hjaltason: Lambadalur í Dýrafirði.

[22] Jarðab. Á. og P. VII, 59.

[23] Sama heimild.

[24] Sama heimild.

[25] Sama heimild.

[26] Sóknalýs. Vestfj. II, 65.

[27] Jóhannes Davíðsson 1968, 43 (Ársrit S.Í.).

[28] Erlingur Davíðsson/ Kristján Nói Kristjánsson 1978, 30-31.

[29] Sóknalýs. Vestfj. II, 65.

[30] Jóhannes Davíðsson 1968, 43 (Ársrit S.Í.).

[31] Sóknalýs. Vestfj. II, 65.

[32] Biskupasögur,  II, 479.

[33] Jarðab. Á. og P. VII, 58.

[34] Lbs. 23684to XI, 336 (Prestaæfir).

[35] Íslenskar æviskrár II, 38-39.

[36] Lbs. 23684to XI, 336  (Prestaæfir).

[37] Ísl. æviskrár II, 38-39.

[38] Sbr. Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir. Kph. 1993, 119-120.

[39] Ísl. æviskrár I, 319-320 og III, 217.

[40] D.I. XV, 523.

[41] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir. Kph. 1993, 119-120. Lögréttumannatal II, 158-159.

[42] Lbs.  7974to, jarðaskrár úr Ísafj.sýslu frá árunum 1658 og 1695.

[43] Jarðabók Árna og Páls VII, 58. Ísl. æviskrár V, 235.

[44] Ísl. æviskrár III, 217 og V, 182-183 og 235.

[45] Lbs. 7974to, jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695

[46] Ísl. æviskrár V, 235. Manntal 1703.

[47] Ísl. æviskrár I, 258-259.

[48] Ísl. æviskrár I, 235 og 258-259, III, 431 og V, 182-183 og 235

[49] Alþingisbækur Íslands XI, 159-160. Ísl. æviskrár V, 5.

[50] Alþ.bækur Íslands XI, 159-160, 227 og 290.

[51] Sama heimild, bls. 494-495.

[52] Manntal 1762.

[53] Alþingisbækur Íslands XV, 541. Sbr. Manntal 1801, vesturamt, 330.

[54] Ísl. æviskrár IV, 61. Lögréttumannatal, bls. 417.

[55] Alþ.bækur Íslands XV, 541.

[56] Annálar IV, 455, V, 244-245 og VII, 126.

[57] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[58] Lögréttumannatal, bls. 398.

[59] Alþingisbækur Íslands XI, 159-160, 290, 494-495, og XV, 541 og 601.

[60] Jarðab. Á. og P. VII, 58.

[61] Jarðab. Á. og P. VII, 58.

[62] Sama heimild.

[63] J. Johnsen 1847, 193.

[64] Jarðab. Á. og P. VII, 58.

[65] Manntöl 1703, 1762, 1801, 1835, 1840, 1845, 1850.

[66] Manntal 1860.

[67] Manntal 1870. Sóknarm.töl Dýrafjarðarþinga. Prestsþj.bækur og sóknarm.töl Holts í Önundarfirði og Dýrafjarðarþinga.

[68] Ól.Þ.Kr. 1948,73-75 (Frá ystu nesjum IV).

[69] Ól.Þ.Kr. 1948,73-75 (Frá ystu nesjum IV).

[70] Lbs. 4708 4to/Magnús Hjaltason (Þjóðsögur skrásettar 1907-1908).

[71] Lbs. 4708 4to/Magnús Hjaltason (Þjóðsögur skrásettar 1907-1908).

[72] Sama heimild.

[73] Manntal 1880.

[74] Vestfirskar ættir I, 142-143.

[75] Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1960, 107-111.

[76] Jarðab. Á. og P. VII, 59.

[77] Jóhannes Davíðsson 1968, 43 (Ársrit S.Í.).

[78] Örnefnaskrá.

[79] Sama heimild.

[80] Sama heimild.

[81] Ólafur Olavius 1964, I, 177.

[82] Örnefnaskrá.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »