Álftamýri

Frá Baulhúsum er aðeins tæplega einn kílómetri út að landamerkjunum en liðlega tveir kílómetrar frá þeim að bænum á Álftamýri. Utantil við merkin komum við í Hlaðsbót en frá þeirri veiðistöð voru lengi stundaðir haustróðrar og lágu hér við menn frá bæjum innar í firðinum.[1] Árið 1893 var Hlaðsbót löggilt sem verslunarstaður[2] og á síðasta áratug 19. aldar var rekið hér í örfá ár lítið útibú frá verslun Péturs J. Thorsteinsson á Bíldudal sem einnig tók hér við fiski.[3] Árið 1899 lét Pétur reisa í Hlaðsbót allstórt tveggja hæða timburhús[4] sem var allt í senn verbúð, salthús og fiskgeymsla[5] og þar var „krambúð“ í einu herberginu.[6] Húsið var rifið árið 1937[7] en grjóthlaðinn grunnur þess sýnir enn hvar það stóð, rétt fyrir ofan fjöruborðið.[8] Á fyrri hluta okkar aldar voru allmargir vélbátar gerðir út frá Hlaðsbót, bæði haust og vor,[9] og þá var stundum róið héðan að sumrinu.[10] Síðastur allra reri frá Hlaðsbót Guðbjartur Jóhannesson, sem átt hafði heima á Svalbarði hjá Tjaldanesi, og var hann hér við róðra, einn á skektu, á árunum skömmu fyrir 1950.[11] Verbúð hans og hjallur voru innst í bótinni, inn undir Svarthamraskeri.[12]

Skammt fyrir utan Hlaðsbót fellur Krákudalsá til sjávar en hún á upptök sín fremst í Krákudal sem skerst inn í landið til norðausturs ofan við túnið á Álftamýri.[13] Utan við áreyrarnar er vík sem heitir Sæluhöfn og lentu menn stundum þar þegar ófært var eða illt að lenda í heimavörinni sem er neðan við túnið.[14] Mýrlendið utan og ofan við Sæluhöfn heitir Akrar.[15] Við Arnarfjörð er víðsýnið hvað mest á Álftamýri og í kyrrðinni magnast dýrð náttúrunnar, hvort sem litið er til hafs eða lands.

Hér var prestssetur um aldir og annar tveggja kirkjustaða á norðurströnd fjarðarins, en prestakallið var fámennt því innan marka þess voru aðeins fimm bújarðir, Baulhús, Álftamýri, Stapadalur, Hrafnabjörg og Lokinhamrar. Kirkjan á Álftamýri var forðum tíð helguð Maríu guðsmóður og Jóhannesi skírara en elsti máldagi hennar er talinn vera frá árinu 1211.[16] Hún hafði þá þegar eignast Stapadal og svolítinn part úr heimajörðinni.[17] Í þessum elsta máldaga er kirkjubóndanum falið að láta ljós loga í kirkjunni á hverri nóttu frá Maríumessu hinni fyrri til Filippusmessu,[18] það er frá 15. ágúst til 1. maí.

Á fyrri hluta 13. aldar var kirkjan enn bændakirkja en fyrsti bóndinn hér, sem við þekkjum nafn á, var Bjarni Sverrisson er Sturla Sighvatsson kúgaði árið 1230 til að selja sér Álftamýri, „til handa Oddi Álasyni“.[19] Nokkrum árum síðar bjó hér Jón Þorkelsson sem kvæntur var náfrænku Sturlu, Guðrúnu Tómasdóttur, dótturdóttur Þórðar Sturlusonar, bróður Sighvats og Snorra.[20] Jón þessi „Álftmýringur“ var í liði Þórðar kakala í Flóabardaga árið 1244 og stýrði þar skipi.[21] Á síðari hluta þrettándu aldar eða á fjórtándu öld eignaðist Álftamýrarkirkja alla heimajörðina[22] og þar með varð Álftamýri staður, kirkjulén undir forræði biskups. Árið 1397 átti kirkjan hér ekki aðrar jarðeignir en Álftamýri og Stapadal[23] og svo Baulhús sem munu enn hafa talist hjáleiga (sjá Baulhús). Um 1570 voru jarðeignir kirkjunnar hins vegar orðnar sex því við höfðu bæst Tjaldanes, Hjallkárseyri og Ós í Mosdal.[24] Allar þessar jarðir átti kirkjan enn um miðbik 19. aldar.[25]

Nokkur ítök náði kirkjan á Álftamýri að eignast og eru þessi talin í máldaga frá því um 1570: Réttur til skógarhöggs í Geirþjófsfirði, milli Kollagötuár og Smiðjugils, innantil við landamerki Langabotns og Sperðlahlíðar, réttur til hvannskurðar fyrir búið á Álftamýri í Neðritó í landi Lokinhamra (sjá Lokinhamrar), réttur til tollfrjálsrar verstöðu fyrir teinært skip á Brunnum í landi Hvallátra í Rauðasandshreppi.[26] Á fyrri hluta nítjándu aldar voru vinnuhjú á Álftamýri enn látin rífa hrís og gera til kola inni í Geirþjófsfirði og svo virðist sem Álftamýrarprestar hafi líka nýtt sér hvannskurðarréttindin í Neðritó á þeim árum.[27] Útgerð þeirra frá Brunnum mun hins vegar hafa fallið niður fyrir 1650 vegna sandágangs en ein verbúðin þar hét í fyrri daga Álftamýrarbúð.[28]

Jörðin Álftamýri var ýmist talin 32 eða 22 hundruð að dýrleika.[29] Engi og hagar urðu hér snemma fyrir verulegum spjöllum af völdum skriðufalla[30] en góð skilyrði til sjósóknar og ágæt fjörubeit bættu nokkuð úr.[31] Í landskuld af kirkjujörðunum fengu Álftamýrarprestar lengi 16 vættir á ári[32] eða sem svaraði 16 ærgildum og tvær vættir að auk í beitartoll, aðra frá Baulhúsum en hina frá Stapadal.[33] Jarðarafgjaldið greiddu flestir landsetarnir í prjónlesi en bændur í Stapadal borguðu þó með fiski.[34] Um 1840 urðu þeir sem héðan reru eða frá Hlaðsbót að greiða Álftamýrarpresti vertoll, fimm fiska af hverjum manni yfir vertíðina,[35] það er einn áttunda hluta úr ærverði. Um 1800 virðast útróðrarmennirnir hafa verið 24 því tekjur prestsins af vertollum voru þá tveir ríkisdalir á ári[36] en 60 fiskar voru í hverjum ríkisdal.[37] Jörðum kirkjunnar, öðrum en heimajörðinni, fylgdu árið 1710 21 kúgildi en um 1840 16 kúgildi,[38] það er 96 ær. Leigur fyrir þau fékk presturinn greiddar í smjöri,[39] tíu kíló fyrir hvert kúgildi, að fornri lagavenju.[40] Engar kvaðir fylgdu ábúð á jörðum Álftamýrarkirkju árið 1710[41] nema á Baulhúsum (sjá Baulhús) en á fyrri hluta 19. aldar urðu landsetar kirkjunnar á Tjaldanesi, Hjallkárseyri og Ósi að leggja prestinum til mann í skiprúm á vorvertíð.[42]

Haustið 1505 var Stefán Jónsson, biskup í Skálholti, á ferð um Vestfirði og vígði þá kirkju á Álftamýri.[43] Með bréfi dagsettu á Rafnseyri 10. september það ár bauð hann öllum er sæki nefnda kirkju og gefi henni gjafir „40 daga aflát“, það er fyrirgefningu allra synda er þeir kynnu að drýgja á því tímaskeiði, en þó því aðeins að syndaselirnir skriftuðu og iðruðust gerða sinna.[44] Ekki er ólíklegt að margir Arnfirðingar hafi notfært sér þetta kostaboð kirkjuhöfðingjans.

Úr kaþólskri tíð eru aðeins kunn nöfn þriggja presta á Álftamýri[45] og harla fátt um þá vitað annað en nöfnin. Öðru máli gegnir um lútersku prestana þrettán sem hér sátu á árunum 1541– 1881. Um þá alla liggur nokkur vitneskja fyrir þó hér verði aðeins minnst á suma þeirra. Annar í þeirri röð var Eysteinn Þórðarson sem hingað kom um 1550 og þjónaði á Álftamýri í röskan aldarfjórðung.[46] Hann hafði áður verið dómkirkjuprestur í Skálholti.[47] Árið 1540 tók Gizur Einarsson við biskupsráðum þar en fór þó ekki utan til vígslu fyrr en tveimur árum síðar.[48] Setti hann þá Eystein prest til forráða á stólnum.[49] Í Skálholti var heitkona Gizurar, Guðrún Gottskálksdóttir, systir Odds Gottskálkssonar[50] sem frægur varð af þýðingu sinni á Nýja testamentinu. Hún lagðist með Eysteini presti sem gat við henni þríbura er fæddust skömmu eftir heimkomu biskups úr vígsluförinni.[51] Er Gizur fékk þessar fréttir varð honum að orði: „Það var hlaup og það var hofmannshlaup. Ég skal taka Gunnu mína í sátt.“ Séra Eystein tók hann hins vegar ekki í sátt og að hinum kvensama presti sóttu þrír bræður Gizurar með vopnum, undir borðum í stóru stofunni í Skálholti, þeir Halldór, Jón og Þorlákur.[52] Beittu þeir bæði hnífi og taparexi en séra Eysteinn, sem var að sögn „manna kaskastur“, dró upp sleddu mikla og varðist vasklega en hlaut þó 14 sár.[53] Eins og nærri má geta var Eysteinn þessi sterki sviptur kjóli og kalli og mun ekki hafa fengið að messa á ný fyrr en að Gizuri biskupi önduðum.[54] Þá fékk hann Álftamýri eins og fyrr var nefnt en afreksverkin sem hann kann að hafa unnið hér vestra á ýmsum sviðum eru því miður gleymd.

Á 17. öld sat hér lengst séra Gizur Sveinsson sem hélt staðinn í 55 ár, frá 1628–1683.[55] Hann var frá Holti í Önundarfirði,[56] albróðir Brynjólfs Sveinssonar biskups (sjá Holt). Þarfasta verk séra Gizurar á hans löngu ævi var söfnun gamalla þjóðkvæða. Á kvæðasafni hans stendur ártalið 1665 og þar er meðal annars að finna Draumkvæði sem hefst á þessu stefi:[57]

 

 

Fagurt syngur svanurinn

um sumarlanga tíð,

þá mun lyst að leika sér,

mín liljan fríð.

Fagurt syngur svanurinn.

 

Fyrri kona séra Gizurar á Álftamýri var Guðrún Finnsdóttir, systir Jóns þess Finnssonar í Flatey á Breiðafirði sem ráðstafaði Flateyjarbók í hendur Brynjólfs biskups árið 1647.[58]

Á fyrsta þriðjungi 18. aldar sat hér lengi séra Páll Pétursson.[59] Hann var Austfirðingur en greri fastur á Álftamýri.[60] Í Hítardalsannál er frá því greint að árið 1729 hafi prestur þessi orðið fyrir svo „stórkostlegum áhlaupum“ af völdum reimleika að hann hafi gerst „ofsterkur“ og menn orðið að vakta hann dag og nótt.[61] Engu að síður reið hann til Alþingis tveimur árum síðar og sór þar Kristjáni konungi VI hollustueið en á heimleiðinni komst hann með þrautum að Hjarðarholti í Dölum og andaðist þar.[62]

Haustið 1731 var Ásgeiri Þórðarsyni, tæplega þrítugum stúdent úr Hrútafirði, veitt Álftamýri.[63] Hann kvæntist dóttur forvera síns, séra Páls Péturssonar, og þjónaði hér í tólf eða þrettán ár en var þá vikið úr embætti fyrir illt orðbragð og kukl.[64] Eftirmaður séra Ásgeirs varð séra Hákon Snæbjarnarson sem tók við stað og kirkju árið 1746.[65] Hélt hann staðinn í liðlega hálfa öld og efnaðist vel.[66] Hann var einn þriggja sona Snæbjarnar Pálssonar, er menn nefndu Mála-Snæbjörn (sjá Sæból), og fyrri konu hans, Kristínar Magnúsdóttur.[67] Tveir þeirra urðu prestar á Vestfjörðum og sá þriðji í Flatey á Breiðafirði.[68] Séra Hákon varð ungur prestur á Eyri í Skutulsfirði en missti þar hempuna fyrir of bráða barneign með tilvonandi eiginkonu sinni.[69] Að sögn niðja hans var Hákon prestur lipur kraftamaður og lék m.a. þá list að stökkva á hlaupum bita af bita í Eyrarkirkju, frá kór og fram að dyrum.[70] Minnisbók hans, rituð á árunum 1746–1794 hér á Álftamýri, er varðveitt í Þjóðskjalasafni[71] og er þar margvíslegan fróðleik að finna, m.a. um aflabrögð[72] og kjör vinnufólks. Bróðir Hákonar prests, séra Magnús Snæbjarnarson á Söndum í Dýrafirði, fann dauðann nálgast haustið 1782 og bað séra Hákon að vitja sín eigi síðar en á þorranum.[73] Varð hann við þeirri bón og náði að hitta bróður sinn á lífi en séra Magnús andaðist á Gvendardag árið 1783.[74] Á leiðinni heim hreppti séra Hákon illviðri og setti þá eða skömmu síðar saman þessa vísu:[75]

Norður í Dýrafjörð ég fór,

fékk minn bróður séðan.

Kyndilmessu kleppur stór

kom í haga á meðan.

Á árunum 1817–1837 var séra Markús Þórðarson frá Vigur prestur hér.[76] Sagt er að hann hafi vegið 120 kíló (sjá Tjaldanes) og mun því hafa verið feitari en góðu hófi gegndi. Haustið 1836 veiktist hann mjög alvarlega í brúðkaupsveislu og hefur að líkindum fengið slag.[77] Hann missti þá málið að mestu leyti og fluttist næsta vor inn að Baulhúsum en fékk Álftamýri í hendur ungum aðstoðarpresti.[78] Séra Markús andaðist á Baulhúsum 24. mars 1839[79] og þar var lík hans að sögn borið út í skemmu en skömmu síðar heyrðust þar inni „umbrot mikil og ryskingar“.[80]Er að var gáð lá lík prestsins á gólfinu „sundurrifið allt, blátt og blóðugt … og þótti allófrýnilegt á að líta“.[81]Við útförina sáu ófreskir menn rum einn afar mikinn vexti hér í kirkjugarðinum og nefndu hann Breiðherðung.[82] Var síðar talið að vomur þessi fylgdi niðjum hins gildvaxna prests.[83]

Ungi maðurinn sem gerðist aðstoðarprestur séra Markúsar Þórðarsonar vorið 1837 og tók þá við búsforráðum hér á Álftamýri hét Jón Ásgeirsson.[84] Hann kom frá Holti í Önundarfirði en þar hafði hann um nokkurt skeið verið aðstoðarprestur föður síns, séra Ásgeirs Jónssonar.[85] Séra Jón var fæddur árið 1804 og upp úr tvítugu var hann tvo vetur við skólanám hjá séra Sigurði Jónssyni á Rafnseyri er kvæntur var föðursystur hans.[86] Á Rafnseyri voru þeir saman við nám frændurnir Jón Ásgeirsson og Jón Sigurðsson en fram undan beið þeirra ólíkur ferill. Annar varð prestur á Álftamýri og sinnti lítt opinberum málum en hinn varð þjóðarleiðtogi Íslendinga.

Jón Ásgeirsson lauk stúdentsprófi sumarið 1828 og kvæntist fáum mánuðum síðar ungri ekkju á Auðkúlu, Guðrúnu Guðmundsdóttur Arasonar.[87] Hún var reyndar liðlega tíu árum eldri en brúðguminn[88] og hafði í æsku eignast barn með kvæntum presti, séra Daða Jónssyni í Sauðlauksdal.[89] Ól hún barnið á Vatneyri og fékk þar skjól hjá Bjarna verslunarstjóra Bjarnasyni.[90] Séra Daði var aðstoðarprestur föður síns, séra Jóns Ormssonar, og var sviptur hempunni í sjö ár vegna þessarar barneignar.[91] Barnið var drengur og gekk illa að feðra hann en Bjarni faktor gerðist forsvarsmaður Guðrúnar og krafðist játningar af feðgunum í Sauðlauksdal. Kom þá til átaka í húsum verslunarstjórans og báru vitni síðar fyrir rétti að Guðrún hefði, þegar mest gekk á, risið upp af sænginni, þar sem hún lá í blóðböndum, en prófasturinn, séra Jón Ormsson, hefði þá „stjakað við henni“.[92]Sé litið til sviptinganna sem á undan voru gengnar þarf engan að undra þótt hún gæfi þessum elsta syni sínum nafnið Benóný en það merkir harmkvælasonur. Hann varð seinna merkisbóndi og hreppstjóri í Meðaldal í Dýrafirði (sjá Meðaldalur). Svo fór að Guðrún bóndadóttir frá Auðkúlu giftist verslunarstjóranum á Vatneyri er harðast hafði gengið fram í barnsfaðernismáli hennar en þann eiginmann missti hún í sjóinn fáum árum síðar.[93] Var þá röðin komin að Jóni Ásgeirssyni, síðar presti á Álftamýri, að ekta hana og voru þau gefin saman í hjónaband haustið 1828 eins og hér var áður nefnt. Við andlát séra Markúsar Þórðarsonar var séra Jóni veitt prestakallið og var hann prestur hér í 26 ár, frá 1837 til 1863, og síðan í 19 ár á Rafnseyri.[94] Konu sína, Guðrúnu Guðmundsdóttur frá Auðkúlu, missti hann hér á Álftamýri á árunum 1855–1860[95] en þau höfðu þá eignast sex syni og er mikill ættbogi frá þeim kominn.[96] Um Guðrúnu sögðu kunnugir að hún hefði verið „gáfuð, fríð og kurteis“[97]og að sögn séra Sigurðar Jónssonar á Rafnseyri var hún „valkvendi“.[98]

Um séra Jón Ásgeirsson, sem var heljarmenni að burðum, hefur margt verið ritað og er þar greint frá snarleik hans, ljúfmennsku, ófreski og bagalegum brennivínsþorsta.[99] Eftirmaður hans í prestsembætti hér á Álftamýri varð séra Arngrímur Bjarnason[100] sem frá er sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá Staður). Hann var síðasti sóknarpresturinn sem hér sat en með lögum sem gengu í gildi árið 1881 var prestakallið lagt niður og sóknin lögð til Rafnseyrar.[101] Sum bæjarhúsin munu þá hafa verið komin til ára sinna og hér stóðu enn upp bæði skáli og stofa, svo sem verið hafði 200 árum fyrr,[102] en „ónshúsið“ sem hér var líka í góðu standi árið 1684 var horfið þegar síðasti sóknarpresturinn fór frá Álftamýri árið 1881.[103]

Vorið 1883 fluttist séra Jón Ásgeirsson hingað í annað sinn en hann var þá kominn um áttrætt og orðinn uppgjafaprestur. Hann fylgdi þá Ásgeiri syni sínum sem verið hafði bóndi á Rafnseyri frá 1866 en færði sig nú um set.[104] Séra Jón andaðist haustið 1886[105] en Ásgeir sonur hans stóð hér fyrir búi til 1896 og síðan Gísli, sonur Ásgeirs, allt til 1942.[106] Hér hefur áður verið sagt lítið eitt frá þeim feðgum (sjá Auðkúluhreppur). Ásgeir Ásgeirsson, síðar forseti Íslands, kom að Álftamýri sumarið 1923, ungur guðfræðingur og þingmannsefni. Hann ræddi hér þá við Ásgeir Jónsson sem orðinn var 93ja ára og syni hans, Gísla á Álftamýri og Matthías á Baulhúsum. Nafna sínum og sonum hans lýsir hann svo:[107]

Þeir voru allir mikilúðlegir, feðgar, og þó fríðir sýnum. Svipurinn leyndi því ekki að þeir höfðu haft mannaforráð og allir líkamsburðir voru bóndans sem jöfnum höndum stundar veiðiskap og átt hefur viðureign við sel, hákarl og hval. Þeir gátu hafa stigið út úr spjöldum Íslendingasagnanna.

Nú er tómlegra á Álftamýri en áður var því síðan 1957 hefur jörðin legið í eyði.[108] Margt ber þó fyrir hugarsjónir okkar sem hingað leitum. Síðasta kirkjan á þessum forna stað var reist árið 1896.[109] Það var timburkirkja. Hún skemmdist í ofviðri snemma á árinu 1966 og var tekin ofan skömmu síðar[110] en um kirkjugarðinn er gott að reika, því nú mun afl Breiðherðungs á þrotum. Gísli Ásgeirsson, sem bjó hér með sæmd í nær hálfa öld, keypti jörðina af því opinbera 17. apríl 1902 fyrir 2.241 krónu.[111] Stóra tveggja hæða timburhúsið, sem enn stendur þó jörðin hafi verið í eyði síðan 1957, reisti hann á árunum 1905–1906.[112] Gísli var skipstjóri á þilskipinu Katrínu í 17 sumur, reri á sjó 58 haust og var
formaður á vorvertíð í 40 ár, síðast 1941 er hann var kominn fast að áttræðu.[113] Við háseta sína fór hann í krók og krumlu en notaði þá bara löngutöng á móti allri hendinni hjá hinum.[114] Margir þeirra minntust hans lengi „með þakklæti fyrir glaðlyndi, lipurð og góða tilsögn“.[115]

Ein hjáleiga var enn í byggð á Álftamýri árið 1710, nefnd Álftamýrarhús,[116] en mun hafa fallið í eyði skömmu síðar.[117] Hjáleiga þessi var í byrjun 18. aldar rétt við túnið en hafði áður staðið utarlega í túninu, þar sem heitir Gyltuvöllur[118] eða Gyltuvellir.[119] Sá staður er utan við Bæjargilið og neðan vegar.[120] Önnur hjáleiga var á fyrri öldum á sjávarbökkunum yst í landareigninni[121] en um 1910 var hér, nokkuð innarlega í túninu, þurrabúðarkot sem kallað var Brekka.[122]

Áður var minnst á fjalldalinn innan og ofan við túnið á Álftamýri en hann heitir Krákudalur. Fremst í honum eru Búhólar.[123] Var talið að þar byggju álfar og að kirkja þeirra væri í stærsta hólnum.[124] Á síðari hluta 18. aldar var lengi á Álftamýri vinnumaður nokkur sem Jón hét og var nefndur Jón „hóli“.[125]Ekki sótti hann kirkju hjá húsbónda sínum en fór jafnan um messutíma fram á Krákudal og gaf í skyn að þar væru betri ræður í boði hjá álfaprestinum.[126] Jón þessi átti að sögn töfrasprota „sem brúkaður var til að slá á björg og hóla og opnuðust þá hýbýli álfa þeirra er þar bjuggu“.[127]Kerling Jóns hét Hlaðgerður og átti hún son sem Halldór hét.[128] Sá kvæntist er fram liðu stundir Vilborgu nokkurri og týndi töfrasprotanum góða.[129] Um Halldór var þá kveðin þessi vísa:[130]

Misst hefur Hóla-menntirnar

móins bóla þundur.

Í Vorfrúarskóla Vilborgar

vatt sinn tóla sundur.

Í holtunum innan við túnið á Álftamýri var fyrir margt löngu dysjuð ung stúlka sem Jórunn hét.[131] Hún hafði stytt sér aldur og fékk því ekki leg í kirkjugarðinum.[132] Brátt urðu menn þess varir að Jórunn lá ekki kyrr en var á sveimi um holtin.[133] Fékk hún þá nafnið Holta-Jóka.[134] Oft birtist hún umleikin hrævareldum og ætti að vera auðþekkt, með „háa skuplu á höfði og … trafhorn“ lafandi ofan á miðjan hrygg.[135]

Út og niður af bænum á Álftamýri var á fyrri tíð fagurt slægjuland er nefnt var Álar.[136] Voru þar rauðamýrarflákar með tjörnum.[137] Í sóknarlýsingu sinni frá því um 1840 segir séra Jón Ásgeirsson að þetta engjapláss sé „nú næstum því aftekið með sinni álftafegurð“ vegna aurrennslis úr fjallshlíðinni.[138] Fjallið utan við Álftamýri er ýmist nefnt Blesfjall, Blettsfjall eða Blesafjall[139] en innan og neðan við það eru skammt frá alfaravegi stórir urðarhólar sem kallaðir eru Álftamýrarmúlar.[140]

Leið okkar liggur nú frá Álftamýri út með ströndinni. Spölurinn frá túnfætinum út að Fossá, sem einnig er nefnd Fossdalsá, mun aðeins vera tveir kílómetrar. Dalurinn sem áin fellur um heitir Fossdalur[141] og er liðlega fjórir kílómetrar á lengd. Um hann liggur leiðin á Álftamýrarheiði sem á fyrri tíð var alfaravegur yfir í Kirkjubólsdal í Dýrafirði. Sjálf heiðin er aðeins mjór hryggur[142] í 544 metra hæð og upp á hana er farið úr innanverðum dalbotninum.[143] Vetrarleið úr botni Fossdals yfir í Kirkjubólsdal lá aðeins utar og var þá farið yfir Kvennaskarð.[144] Einnig er fært úr dalbotninum um Meðaldalsskarð yfir í Meðaldal í Dýrafirði og var sú leið stundum farin.[145] Jeppavegur liggur nú yfir Álftamýrarheiði en hann er sjaldan fær nema að áliðnu sumri.

Yfir innri hlíð Fossdals gnæfa klettaþil Blesafjalls en hinum megin í dalnum rís annar klettaveggur. Þar er Stapadalsnúpur næst sjó en framar Miðskjöldur og fremst sjálfur Kaldbakur, hæsta fjall Vestfjarða.[146] Efsta brún hans liggur í 998 metra hæð yfir sjávarmáli en þetta fríða fjall er auðvelt uppgöngu.[147] Um fjallið Kaldbak segir séra Jón Ásgeirsson á Álftamýri með réttu að það sé „þrístrent og hvasst að ofanverðu“.[148]Frá þjóðveginum við mynni Fossdals blasir Kaldbakur við augum, yfirbragðsmikill til að sjá.

Í botni Fossdals, niður undan miðjum Kaldbak, var stundum heyjað á fyrstu áratugum okkar aldar og heitir þar Kvenfólksengi.[149] Sláttumenn og rakstrarkonur lágu þá við í tjöldum.[150] Heimar á dalnum er tótt, rétt fyrir neðan akveginn sem liggur um innri hlíðina og ekki langt frá ánni. Útlit tóttarinnar bendir til þess að hér hafi á síðari tímum verið stekkur með lambakró en af örnefnum má ráða að á þessum slóðum hafi fyrrum verið sel frá Álftamýri og tóttina kalla menn enn Sel.[151] Hvilftin í fjallshlíðinni framan við hana heitir Seljahvilft og ofan við Selið eru Seljahjalli og Seljahyrna en tveir hryggir, sinn hvoru megin við það og báðir framan við Stóruskriðu, heita Heimra-Seljaleiti og Fremra-Seljaleiti.[152] Árið 1840 var alllangt um liðið frá því búsmali prestsins á Álftamýri var síðast mjaltaður í selinu.[153]

Við mynni Fossdals fellur áin fram af allháum sjávarbökkum og er þar laglegur foss. Utan við hana er á bökkunum gróðurlendi sem heitir Fossdalstún og sást þar lengi móta fyrir tóttum sem taldar voru bæjarrústir og líka skipanausti við sjóinn.[154] Um miðbik síðustu aldar var talið að hér hefði til forna verið hjáleiga frá Álftamýri[155] og í munnmælum var haft að hún hefði farið í eyði í svartadauða.[156] Aðeins utar og beint fram af Stapadalsnúp er við ströndina Landamerkjasker sem svo heitir og kemur það upp um fjörur.[157] Þar eru landamerki Álftamýrar og Stapadals og liggja frá skerinu beint upp í núpinn, sem ýmist er nefndur Bæjarnúpur eða Stapadalsnúpur.[158] Frá merkjunum eru varla nema 300 metrar heim á hlað í Stapadal.

 

 

[1] Sóknalýs. Vestfj. II, 39–40. ÞN 1951, 143–144 (Árbók F.Í.).

[2] Stjtíð. 1893 A, 156.

[3] Skjs. Landshöfð. Verslunarsk., askja XLVI. ÞN 1951, 143–144. JKÍ 1950, 43–44.

[4] Úttektabók fyrir Auðkhr., lögg. 8.9.1882, 130–131, varðv. á Auðkúlu.

[5] Sama heimild.

[6] JKÍ 1950, 43–44 (Árbók Barðastr.s.)..

[7] SkN KÓ 10.7.1991.

[8] HrÞ KÓ 7.7.1991.

[9] SkN KÓ 10.7.1991.

[10] ÓJ 1956, 53–58.

[11] HrÞ KÓ 7.7.1991.

[12] SkN KÓ 10.7.1991.

[13] ÖÖ.

[14] Sama heimild.

[15] Sama heimild.

[16] D.I. I, 369–372. Sbr. D.I. XII, 13.

[17] Sama heimild.

[18] Sama heimild.

[19] Sturl. II, 194.

[20] Sturl. I, 80–81og 84 og III, 15.

[21] Sturl. III, 15 og 91.

[22] D.I. IV, 147.

[23] Sama heimild.

[24] D.I. XV, 578.

[25] JJ 1847, 191.

[26] D.I. XV, 578. Sbr. ÖÖ og Jb. Á. og P. VI, 312 og VII, 22.

[27] JJ 1847, 206.

[28] Jb. Á. og P. VI, 312 og VII, 22.

[29] JJ 1847, 206.

[30] Jb. Á. og P. VII, 22. Sóknalýs. Vestfj. II, 39–41. JJ 1847, 206.

[31] Sömu heimildir.

[32] JJ 1847, 206.

[33] Sama heimild.

[34] Sama heimild.

[35] Sama heimild.

[36] Rtk. Jarðab. V. 16, Ísafjs. 1805.

[37] JJA 1971, 418–419.

[38] JJ 1847, 206. Jb. Á. og P. VII, 8–9, 12, 19–21 og 23.

[39] Sömu heimildir.

[40] ÞTh 1919 III, 45–46.

[41] Jb. Á. og P. VII 8–9, 12, 19–21 og 23.

[42] JJ 1847, 206–207.

[43] D.I. VII, 794–795.

[44] Sama heimild.

[45] SN 1950, 187–188.

[46] Ísl. æviskrár I, 466.

[47] Sama heimild.

[48] PEÓ 1922, 318–319 og 358–360.

[49] JGiz Safn til sögu Ísl. I, 689.

[50] Sama heimild.

[51] Sama heimild.

[52] Sama heimild.

[53] JE Safn til sögu Ísl. I, 84.

[54] Sbr. Ísl. æviskrár I, 466.

[55] SN 1950, 188. Sbr. ÁSig 1980 III, 165–205.

[56] Ísl. æviskrár II, 90.

[57] JMS 1964 I, xxvii og 175.

[58] Ísl. æviskrár II, 90. BBen Sýslumæfir II, 59–60. Lbs. 2368 4to. SGB Prestaæfir XI, bls. 112–115.

[59] SN 1950, 188.

[60] Ísl. æviskrár IV, 138.

[61] Ann. II, 630.

[62] Sama heimild, bls. 645.

[63] Ísl. æviskrár I, 95–96.

[64] Vestf. sagnir I, 33–36. Lbs. 2368 4to. SGB Prestaæfir XI, bls. 120.

[65] Ísl. æviskrár II, 234–235.

[66] Sama heimild. Sbr.FrEgg 1950 I, 436 og Lbs.2368.42o   SGB Prestaæfir.      

[67] Ísl. æviskrár IV, 310.

[68] Sama heimild.

[69] Ísl. æviskrár II, 234–235.

[70] FrEgg 1950 I, 65.

[71] Kirknasafn XIII. 3. E.

[72] Sbr. Ársrit S.Í. 1979, 108.

[73] FrEgg 1950 I, 65.

[74] Sama heimild. Ísl. æviskrár III, 455.

[75] FrEgg 1950 I, 65.

[76] Ísl. æviskrár III, 475.

[77] Lbs. 2368 4to. SGB Prestaæfir.

[78] Sama heimild.

[79] Ísl. æviskrár III, 475.

[80] Lbs. 23684to. SGB Prestaæfir.

[81] Sama heimild.

[82] Sama heimild. Þjóðs. JÁ I, 295–296. Lbs. 403 4to. Sbr. Vestf. þjóðs. II. 1., 34–36.

[83] Lbs. 23684to. SGB Prestaæfir.

[84] Ísl. æviskrár III, 54–55.

[85] Sama heimild. Sjá Holt.

[86] Ísl. æviskrár III, 54–55.

[87] Ísl. æviskrár III, 54–55. Sjá Auðkúlu.

[88] Smt. Rafnseyrar.

[89] Vestf. sagnir I, 250–255 og 423–424.

[90] Sama heimild.

[91] Sama heimild. Sbr. Ísl. æviskrár I, 302–303.

[92] Skjs. sm. og svstj. Barð. IV. 5. Dóma- og þingbók 1815–1826, réttarhald 7.7.1817.

[93] Vestf. sagnir I, 250–255 og 423–424.

[94] Ísl. æviskrár III, 54–55.

[95] Manntöl 1855 og 1860.

[96] Prþjb. og smt. Álftamýrar og Rafnseyrar. Lbs. 2368 4to. SGB Prestaæfir. Sbr. JÞÞ 1984, 165–166, 175–176 og 229–230. Sjá Auðkúluhreppur.

[97] Vestf. sagnir I, 251.

[98] Vestf. sagnir I, bls. 269.

[99] Vestf. sagnir I, 244–276 og II, 194–195. ÞErl 1954, 7–26. Lbs. 2368 4to. SGB Prestaæfir. Ísl. æviskrár III, 54–55.

[100] Ísl. æviskrár I, 25–26.

[101] Stjtíð. 1880 A, 10–22.

[102] Skjs. próf. XIII. 1. A, 7. Úttekt 16.6.1882. Sama skjs. XIII. 1. B, 1., bls. 137–141. Úttekt 31.5.1684.

[103] Sömu heimildir. Sbr. HÁg 1987, 259 og 332–334 (Íslensk þjóðmenning I).

[104] Smt. Rafnseyrar.

[105] Ísl. æviskrár III, 54–55.

[106] Prþjb. og smt. Rafnseyrar. Frá ystu nesjum 1953 VI, 5–9.

[107] Frá ystu nesjum 1953 VI, 6–7.

[108] Firðir og fólk 1900-1999, 129.

[109] Landið þitt Ísland I, 48.

[110] Sama heimild.

[111] Skjs. sm. og svstj. Ís. XVI, 9. Veðmb. 1898–1907, 295.

[112] Minnisblað frá Jóhönnu Gísladóttur, sent KÓ í nóvember 1998.

[113] Frá ystu nesjum 1953 VI, 7–9.

[114] HO 1959, 172–174 (Ársrit S.Í.).

[115] Sama heimild.

[116] Jb. Á. og P. VII, 22–23.

[117] Manntal 1762. Manntöl frá 19. öld.

[118] Jb. Á. og P. VII, 22–23.

[119] ÖÖ.

[120] Sama heimild.

[121] Sóknalýs. Vestfj. II, 41–42.

[122] Manntal 1910. SkN KÓ 10.7.1991.

[123] ÖÖ.

[124] Sóknalýs. Vestfj. II, 41. Vestf. þjóðs. II. 2., 84–90.

[125] ÞErl 1954, 217–219.

[126] ÞErl 1954, 217–219.

[127] ÞErl 1954, 217–219.

[128] Sama heimild.

[129] Sama heimild.

[130] Sama heimild.

[131] Sama heimild.

[132] Þjóðs. JÁ I, 296–297.

[133] Sama heimild.

[134] Sama heimild.

[135] Sama heimild.

[136] Sama heimild.

[137] Sóknalýs. Vestfj. II, 40. ÖÖ.

[138] Sömu heimildir.

[139] Sóknalýs. Vestfj. II, 40.

[140] Sama heimild, bls. 40–41. ÞN 1951, 143 (Árbók F.Í.). ÖÖ.

[141] Sóknalýs. Vestfj. II, 41.   ÖÖ.

[142] Sama heimild.

[143] Sama heimild.

[144] Sóknalýs. Vestfj. II, 41. ÞN 1951, 141 (Árbók F.Í.).

[145] ÖÖ. ÞN 1951, 141.

[146] Sömu heimildir. Sóknalýs. Vestfj. II, 41–42.

[147] ÞN 1951, 141–142.

[148] Sóknalýs. Vestfj. II, 41.

[149] ÖÖ.

[150] Sama heimild.

[151] Sóknalýs. Vestfj. II, 41. HrÞ KÓ 30.10.1998.

[152] ÖÖ.

[153] Sóknalýs. Vestfj. II, 41.

[154] ÞN 1951, 141 (Árbók F.Í.).

[155] Sóknalýs. Vestfj. II, 41–42.

[156] ÞN 1951, 141.

[157] ÖÖ. ÞN 1951, 140–141.

[158] Sömu heimildir.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »