Drangar

Frá Kjaransstöðum höldum við að Dröngum, innsta bæ í vestanverðum Dýrafirði. Milli bæjanna er klukkutíma gangur, fimm kílómetrar eða því sem næst. Um það bil 1500 metrum fyrir utan Dranga stóð býlið Haugsnes en þar var búið skamma hríð á síðari hluta 19. aldar[1] og fólk var þar einnig við búhokur í fáein ár undir lok 17. aldar.[2] Löngu fyrr mun býlið Haugur hafa staðið á svipuðum slóðum. Um það segir svo í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710:

 

Haugur heitir fornt eyðiból hér í landinu. Þar eru sýnileg byggingamerki af tóttarústum og girðingaleifum. Á þessu eyðibóli hefur einn maður byggt hér upp hús fyrir 20 árum og verið þar við búhokur í 3 ár og galt hann þá í landskuldar nafni 20 álnir. Ekkert var þar kúgildi en grasnautnin sem þá var er nú talin heimajörðinni [Dröngum].[3]

 

Í Jarðatali J. Johnsens frá árinu 1847 er Haugur líka nefndur sem eyðihjáleiga.[4]

Sá sem fyrstur byggði á Haugsnesi á 19. öld hét Guðmundur Torfason en hann settist þar að árið 1871, þá hátt á sextugsaldri.[5] Guðmundur var fæddur norður í Ögursveit við Djúp en hafði búið á Dröngum um skeið.[6] Á Haugsnesi bjó hann fyrst með konu sinni, Maríu Kjartansdóttur, og er þá kallaður bóndi en hún andaðist 5. ágúst 1872.[7] Í desembermánuði á því ári var Guðmundur einn í kotinu og talinn þurrabúðarmaður.[8] Ekki var karl þessi þó dauður úr öllum æðum því 14. apríl 1873 kvæntist hann Ragnheiði Justsdóttur sem var 24 ára en hann um sextugt.[9] Ragnheiður var systir Guðmundar Justssonar, bónda á Dröngum.[10] Þau Guðmundur Torfason og Ragnheiður bjuggu á Haugsnesi til 1878 en Guðmundur andaðist í ágústmánuði það ár.[11] Næstu tvö ár stóð kotið autt en vorið 1880 settist þar að maður sem Jón Einarsson hét með konu og þrjú ung börn.[12] Þau bjuggu á Haugsnesi í tvö ár og er Jón ýmist kallaður bóndi eða húsmaður.[13] Frá 1882 hefur enginn búið hér á þessu afbýli frá Dröngum.

Rústir bæjarhúsanna á Haugsnesi eru niðri á sjávarbökkunum, alllangt fyrir neðan akveginn. Héðan er gott að virða fyrir sér fjöll og hvilftar í landareign Dranga. Yst er Haugshvilft og innan við hana Nónhorn, þá Bæjarhvilft og innan við hana Drangatindur, beint fyrir ofan túnið á Dröngum.[14] Hvilftin innan við Drangatind heitir Stórahvilft og er upp af fjarðarbotninum en þar fyrir framan er Dýrahvilft og fyrir framan hana Sandfell sem liggur að undirhlíðum Glámu.[15] Áin sem kemur úr Bæjarhvilftinni heitir Bæjará og fellur til sjávar skammt fyrir utan Drangatúnið.[16] Í Dýrahvilft átti Dýri landnámsmaður að vera heygður.[17] Neðan við hana er Smjörteigur sem talinn var gósenland til beitar fyrir kvíaær.[18] Í grennd við hann var líka heyjað og heyið dregið heim á sleða að vetrinum.[19] Á sjávarbökkunum innan við Haugsnes stendur mjög stór steinn, alveg á bakkabrúninni. Hann heitir Hágrátur.[20] Sagt var að hann hefði fengið nafnið af hljóðum barns sem örn tók á Dröngum og flaug með út að þessum stóra steini (sbr. hér Borg).[21]

Drangar voru 12 hundraða jörð að fornu mati[22] en hafa legið í eyði frá árinu 1937.[23] Landareignin er talsvert stór því Drangaland nær langt upp í hálendi Glámu fyrir fjarðarbotninum. Botnsá sem skiptir löndum milli Þingeyrarhrepps og Mýrahrepps rennur á landamerkjum Dranga og jarðarinnar Botns sem er í Mýrahreppi. Frá Dröngum eru tæplega tveir kílómetrar inn í fjarðarbotn.

Eins og áður var getið eru forn landamerki Kjaransstaða og Dranga við helluna á Hellunesi undir Kjaransstaðahorni (sjá hér Kjaransstaðir) en á landamerkjum Dranga og Botns er til gömul lýsing sem sögð er vera frá árinu 1507. Bréfið hlýtur reyndar að vera nokkrum áratugum yngra, það er að segja frá lögmannsárum Eggerts Hannessonar í Bæ á Rauðasandi, 1553-1568, eins og fram kemur í sjálfum textanum sem er á þessa leið:

 

Vitnisburður um landamerki milli Dranga og Botns. – Það gjörum vér, Játgeir Helgason, Magnús Sveinsson, Helgi Þorvarðsson og Jón Þórarinsson góðum mönnum kunnugt með þessu voru opnu bréfi að þá liðið var frá hingaðburð vors herra, Jesú Christi, 1507 ár [á líklega að vera 1557 – innsk. K.Ó.], degi eftir Maríumessu seinni að Meðaldal í Dýrafirði vorum vér í hjá, sáum og heyrðum upp á að Eggert Hannesson lögmaður kallaði fyrir sig hreppstjóra og hina elstu menn í Dýrafirði og að spurði þá hvað þeir hefðu heyrt og vitað um sína daga, nú og af eldri mönnum í sínum ungdómi um landamerki millum Dranga og Botns og handsöluðu þeir honum svo látandi vitnisburð að þeir hefðu aldrei annað heyrt fyrr né síðar um sína daga og af sér eldri mönnum sagt en Drangar ættu land allt fram á fjallgarð og ofan eftir miðjum dalnum svo sem áin rennur til fjalls og fjöru og í helluna fyrir innan Kjaransstaði, fyrir utan þá skógarparta er kirkjur eiga, jafn vel læk þann sem kallaður er Drangalækur og allan þann veiðiskap sem í honum kann hafður að vera. Til sanninda hér um setjum vér vor innsigli fyrir neðan þetta bréf hvert skrifað var að Saurbæ á Rauðasandi viku síðar en fyrr segir.[24]

 

Útgefendur fornbréfasafns töldu bréf þetta nokkuð tortryggilegt á sínum tíma[25] en Árni Magnússon, prófessor og handritasafnari, virðist hafa tekið það sem gott og gilt. Sjálfur skrifar hann árið 1712, ásamt þremur öðrum mönnum, undir vitnisburð um ástand þessa landamerkjabréfs og er sá vitnisburður á þessa leið:

 

Það meðkennum vér eftirskrifaðir menn að vér höfum séð og lesið svo látandi landamerkjabréf sem hér fyrir framan skrifað stendur. Var það á kálfskinn ritað með undirhangandi tveimur heilum og læsilegum innsiglum, Helga Þorvarðssonar og Jóns Þórarinssonar, en þau fyrstu tvö innsiglin voru frá bréfinu slitin. Ártalið var í originalnum eins skrifað sem í þessu voru transskriftarbréfi og í öllu öðru ber nærverandi transskriftarbréfi orðrétt saman við sagðan original, hverju til sannindamerkis vér vor nöfn hér undir setjum í Skálholti þann 24. maí Anno 1712.[26]

 

Ekki er annað vitað en þessi lýsing á fornum landamerkjum Dranga sé enn í fullu gildi þó jörðin hafi nú legið í eyði í allmarga áratugi.

Drangar voru innsti bær við vestanverðan Dýrafjörð og þaðan var kirkjuvegur að Söndum býsna langur eða um það bil sautján kílómetrar. Í lýsingu Sanda- og Hraunssókna frá árunum kringum 1840 segir svo um Dranga: Þar er víðlendi mikið, góðir hagar á sumrum og nægur heyskapur en næðinga- og illviðrasamt og oft mikil fannalög á vetrum.[27]

Allur dalurinn upp frá botni fjarðarins heitir Dýrafjarðarbotn og þar eiga Drangar allt land vestan Botnsár (sbr. hér Botn í Dýrafirði) en þar er mikið beitiland og góðar slægjur. Frá bænum á Dröngum og inn í fjarðarbotn eru tæplega tveir kílómetrar en tveir  og hálfur kílómetri frá fjarðarbotninum fram á móts við Sandfell. Þar þrýtur láglendið og  við taka brekkur sem rísa hver af annarri í átt til Glámu. Í Smjörteig, sem er heiman við Sandfell og niður undan Dýrahvilft, þótti sérdeilis góð beit fyrir kvíaær eins og fyrr var nefnt.

Í botni Dýrafjarðar var blómlegur birkiskógur lengi fram eftir öldum og þó nokkur hluti hans í landi Dranga. Kirkjurnar fjórar í Dýrafirði áttu allar rétt til skógarhöggs í botni fjarðarins. Holtskirkja í Önundarfirði átti þar líka skógarítak og sömu sögu er að segja um a.m.k. þrjár bújarðir í Dýrafirði sem ekki voru kirkjustaðir.[28] Mýrakirkja mun hafa átt skógarreiti í landi beggja jarðanna, Dranga og Botns (sjá hér Botn í Dýrafirði). Kirkjan á Núpi og Hraunskirkja í Keldudal áttu skóg í landi Dranga og skógarítak þar fylgdi líka jörðinni Hvammi.[29] Skógarreitir Holtskirkju og Sandakirkju voru hins vegar norðan ár og einnig þeir reitir sem jarðirnar Meðaldalur og Brekka í Þingeyrarhreppi áttu (sjá hér Botn í Dýrafirði).

Ítak Núpskirkju í landi Dranga er fyrst nefnt í Þórarinsmáldaga frá árinu 1363 en þar er skógarteigur kirkjunnar sagður vera á kleifum fyrir vestan Dýrafjarðarbotn.[30] Sama orðalag er notað um ítak þetta í Vilchinsmáldaga frá árinu 1397[31] og í Gíslamáldaga frá því um 1570.[32]

Núpstunga heitir enn í dag tungan sem liggur á milli Drangaár og Botnsár í Dýrafjarðarbotni[33] en frá fjarðarbotninum eru um það bil 1800 metrar fram að ármótunum þar sem Drangaá mætir Botnsá. Þar heita Kleifar neðst í tungunni en þær ná reyndar þvert yfir dalinn sem liggur upp frá fjarðarbotninum.[34] Enginn vafi mun leika á því að þarna í Núpstungu hafi eigendur Núpskirkju átt rétt til skógarhöggs frá fornu fari. Um aldamótin 1900 var enn talsverður skógur neðantil í Núpstungu og sagt er að þar hafi þá verið fleiri beinvaxin tré en á nokkrum öðrum stað í öllum Dýrafjarðarbotni.[35]

Núpstunga er tvímælalaust í landi Dranga og þar með í Þingeyrarhreppi því Botnsá, sem skilur að lönd jarðanna Dranga og Botns, fellur norðan við tunguna.[36] Á Uppdrætti Íslands, blaði 12 sem út var gefið árið 1977, er Drangaá, sem fellur vestan (sunnan) við Núpstungu og skammt frá Sandfelli, hins vegar sögð renna á hreppamörkum[37] sem er augljóslega rangt. Í landamerkjalýsingu frá 16. öld, sem hér er birt á öðrum stað (sjá bls. 2-3), segir að Drangar eigi land allt fram á fjallgarð og ofan eftir miðjum dal svo sem áin rennur til fjalls og fjöru. Þarna er greinilega átt við Botnsá sem segja má að falli ofan eftir miðjum dal en ekki við Drangaá sem byltist fram allra vestast (syðst) í hlíðum dalbotnsins og sameinast Botnsá niðri á Kleifunum. Öllum eldri og yngri heimildum ber saman um að það sé Botnsá sem skipti löndum milli jarðanna og allir sem kunnugir eru staðháttum í Dýrafjarðarbotni fullyrða að það sé áin norðantil við Núpstungu sem heiti Botnsá.[38] Þetta er líka staðfest í Örnefnaskrá og þar má sjá að hin kvíslin, sem er nær Sandfellinu, heitir Drangaá.[39] Einn heimildarmanna sem rætt var við sumarið 1992 er Sigríður Jónsdóttir frá Botni í Dýrafirði, fædd árið 1901. Sem krakki eða unglingur sat hún oft hjá kvíaám fram á dal og mundi glöggt, nær 80 árum síðar, að hennar smalaland var allt norðan Botnsár en krakkarnir á Dröngum sáu hins vegar um að smala Núpstunguna því hún var í Drangalandi.[40]

Í byrjun 18. aldar átti Núpskirkja enn rétt til skógarhöggs í Drangalandi sunnanfram í Dýrafirði þar sem Kleifar heita, – eins og komist er að orði í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710[41] og er þar greinilega átt við neðsta hluta Núpstungu. Sama kirkja hafði þá líka eignast rétt til skógarhöggs á öðrum stað í sama Drangalandi þar sem Kollamýri heitir.[42] Í örnefnaskrá sem rituð var um miðja 20. öld segir að Kleifahjalli sé rétt heiman við ármót Botnsár og Drangaár en heiman við þann hjalla séu Kollumýrar og nái að Drangaeyrum er liggi upp frá fjarðarhorninu.[43] Kollumýrar sem þarna eru nefndar má ætla að séu hinar sömu og Árni Magnússon nefnir Kollamýri og einmitt þar er nú mestur skógur í Dýrafjarðarbotni, enda girtur af og friðaður.

Hin fornu réttindi eigenda Núpskirkju til skógarhöggs í landi Dranga munu síðast hafa verið nýtt frostaveturinn mikla árið 1918 er Kristinn Guðlaugsson, óðalsbóndi á Núpi og eigandi Núpskirkju, réðst í að höggva þar skóg til eldiviðar.[44] Kristinn og Sigtryggur sonur hans fóru í þessa skógarferð með tvo hesta og sleða á ís úr Mýramel eða Höfðaodda inn í fjarðarbotn og gekk ísinn í bylgjum undir þeim fram undan Lambadalsánni svo þeir urðu að færa sig lengra fram á fjörðinn.[45]

Um skógarítak Hraunskirkju í landi Dranga er getið í ýmsum máldögum frá 14. öld[46] og einnig í Gíslamáldaga frá því um 1570.[47] Í máldögunum er komist svo að orði að Hraunskirkja eigi skóg á Kleifum í Dýrafirði[48] og í Jarðabókinni frá 1710 er tekið fram að skógarítak þetta sé vestantil í Dýrafirði og í Drangalandi.[49] Fyrst skógarteigur Hraunskirkju var á Kleifum í landi Dranga hefur hann verið í næsta nágrenni við skógarteiginn sem Núpskirkja átti frá fornu fari, það er að segja á kleifunum vestantil (sunnantil) við ármót Drangaár og Botnsár. Í byrjun 18. aldar var hins vegar orðið óljóst hversu stór þessi teigur Hraunskirkju væri. Um það segir svo í Jarðabókinni frá 1710:

 

Skógarhögg til kolagjörðar á kirkjan á Kleifum vestan til í Dýrafirði en ekki vita menn glögglega takmörk sem að afdeilir þetta skógarhögg. Hefur þar um og ekki heldur öldungis ágreiningslaust verið og hafa því stundum ábúendur brúkað þetta skógarhögg en stundum ei.[50]

 

Um skógarreit Mýrakirkju í Drangalandi er það eitt vitað að hann var fyrir neðan Kleifarnar og ekki alveg rétt hjá þeim því milli hans og þeirra var annar reitur sem ekki er ljóst hver átti (sjá hér Botn í Dýrafirði). Vera kann að sá skiki hafi fylgt jörðinni Hvammi en í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 er tekið fram að Hvammur eigi skógarítak í takmörkuðu plássi í landi Dranga.[51] Engin nánari staðsetning er þó gefin upp í Jarðabókinni en þar er hins vegar tekið fram að skógarteigur þessi sé að kalla gjörsamlega eyddur og ekki lengur nothæfur til kolagerðar.[52] Líklegt er að hálfkirkjan, sem enn gegndi sínu hlutverki í Hvammi um 1570 (sjá hér Hvammur), hafi fyrrum átt þennan skógarteig.

Er Árni Magnússon ferðaðist um Dýrafjörð sumarið 1710 var skógurinn í botni fjarðarins víðast hvar ekki nema svipur hjá sjón miðað við það sem fyrrum hafði verið. – Skógur til raftviðar þrýtur mjög og fellur í fauska, ritar Árni er hann lýsir búskaparskilyrðum á Dröngum, en bætir við að hér sé þó enn nægur skógur til kolagjörðar og eldiviðar.[53] Á þeim tæplega 300 árum sem liðin eru frá komu Árna Magnússonar í Dýrafjörð hafa mörg tré fallið en enn er þó talsverður skógur hér í fjarðarbotninum.

Fátt er nú vitað um búendur á Dröngum á fyrri tíð en jörðin kemur fyrst við skjöl á fyrri hluta 15. aldar og var þá í eigu Guðmundar hins ríka á Reykhólum Arasonar.[54] Rösklega hundrað árum síðar voru Drangar komnir í eigu Þorláks Einarssonar, er lengi var sýslumaður á Núpi í Dýrafirði, og er Þorlákur keypti Núp af Eggerti Hannessyni lögmanni, mági sínum, árið 1556, greiddi hann fyrir höfuðbólið með ýmsum jarðeignum, þar á meðal Dröngum.[55] Tveimur árum síðar seldi Eggert Hannesson Dranga en kaupandinn var þá Jón Ólafsson, sýslumaður í Hjarðardal í Dýrafirði.[56]

Að Jóni Ólafssyni önduðum erfði sonur hans, Ólafur Jónsson í Hjarðardal, Dranga og síðar dóttir Ólafs, Þóra.[57] Fyrri eiginmaður hennar var Björn Þorvaldsson í Haukadal (sjá hér Haukadalur og Hvammur) en sá seinni Jón Gizurarson, fræðimaður og lögréttumaður á Núpi (sjá hér Núpur). Árið 1634 fékk sonur Þóru, Þorvaldur Björnsson, Dranga og fleiri jarðeignir í Dýrafirði til eignar og umráða[58] en hann bjó síðar lengi í Hvammi (sjá hér Hvammur). Árið 1710 voru Drangar enn í eigu þessarar sömu ættar en eigandi jarðarinnar var þá Jón Þorvaldsson yngri, bóndi á Ketilseyri, sonur Þorvaldar Björnssonar í Hvammi[59] og var hann fimmti ættliðurinn í þessari samfelldu eigendaröð.

Í byrjun 18. aldar var landskuld af Dröngum þrjár vættir (1/2 kýrverð) en lækkaði niður í tvær vættir í stórubólu á árunum 1707-1709.[60] Á fyrri hluta 19. aldar var landskuldin þrjár vættir eins og verið hafði fyrir bóluna.[61] Þrjú leigukúgildi fylgdu löngum jörðinni og voru leigurnar fyrir þau goldnar í smjöri eins og algengt var.[62] Á 18. og 19. öld var sjaldan eða aldrei tvíbýli á Dröngum[63] nema ef svo má kalla þau fáu ár sem búið var á Haugsnesi í landi jarðarinnar (sjá hér bls. 1-2). Yfirleitt sat einn bóndi alla jörðina.

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[64] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar, en hann bjó hér frá 1868 til 1888.[65] Mikið orð fór af kröftum Guðmundar en hið sérkennilega föðurnafn studdi líka að því að nafn hans héldist í minni. Guðmundur Justsson var af mörgum talinn sterkasti maður á öllum Vestfjörðum[66] og til marks um krafta hans kunnu menn meðal annars að nefna að hann hefði borið tvö hundruð pund af kornmat frá Ísafirði heim að Dröngum í einni ferð[67] en sú leið er um það bil 50 kílómetrar og yfir tvo fjallvegi að fara. Þeir sem fóru þessa ferð með Guðmundi báru allir mun minna. Síðar sögðu þeir svo frá að ekki hefði Drangabóndinn varpað af sér byrðunum meðan matast var uppi á Breiðadalsheiði en látið nægja að halla sér upp að steini með pokana í bak og fyrir.[68] Annað sem haft var til marks um krafta Guðmundar Justssonar var að menn höfðu séð hann lyfta 500 punda lóði með löngutöng einni í hnéhæð og þótti furðu gegna.[69] Sögur voru líka sagðar af kerskni amerískra lúðuveiðara og danskra kolaveiðimanna við heljarmennið á Dröngum sem ávallt fór með sigur af hólmi þegar á kraftana reyndi með einum eða öðrum hætti. Eitt sinn tók hann þrjá Ameríkumenn og hlóð þeim hverjum ofan á annan á klefagólfi. Settist svo sjálfur á þann efsta svo enginn þeirra gat sig hreyft. Manaði hann þá skipsfélaga þessara þriggja bandingja að reyna að leysa þá úr haldi en enginn þorði að nálgast heljarmennið.[70]

Guðmundur Justsson var að sögn kunnugra hár vexti og að sama skapi gildvaxinn, herðabreiður og bolvaxta.[71] Hann var stillingarmaður og skipti sjaldan skapi.[72] Lýsissopa fékk hann sér á hverjum morgni og taldi sig geta þakkað lýsinu góða krafta.[73] Arngrímur Fr. Bjarnason ritar nánar um Guðmund á þessa leið:

 

Það var einn háttur Guðmundar að smyrja allan skrokk sinn með grænsápu og strjúka síðan yfir með volgri dulu. Þetta taldi hann heilnæmustu hreinsun á líkamanum og opna best svitaholurnar. Var það karlmannlegt að sjá líkama Guðmundar beran og sjá hvarvetna hnykla stóra, ekki eingöngu í aflvöðvum heldur einnig á baki, einkum aftanverðum hálsinum og einnig á brjósti. Margir kunnugir menn Guðmundi telja að honum hafi aldrei orðið aflfátt og hann muni aldrei hafa þreytt svo stór eða mikil tök sem orka leyfði.

… Guðmundur þótti heldur sérhlífinn hversdagslega en væri hann hvattur að sýna afl eða dug lagði hann fúslega fram krafta sína til þess að bjarga eða bæta úr sem þurfti. Orð var á því gert meðan Guðmundur bjó að Dröngum að hann risi seint úr rekkju og að kona hans, sem var búforkur, hafi oftsinnis vakið hann. Eitt sinn sem oftar var konan að koma karli út til að slá. Var þá besta veður og verk hafið á nágrannabæjum fyrir alllöngu en erfiðlega gekk að fá Guðmund á fætur. Húsfreyja gekk þá til hans í annað eða þriðja sinn og mælti af móði hvort hann ætlaði ekki strax á fætur, það stæði loft og sjór af blessuðu blíðviðrinu. Guðmundur yppti öxlum og svaraði: „Og þó blakta blessuð stráin.” Varð svar hans síðan að orðtæki ef svipað stóð á.[74]

 

Kona Guðmundar Justssonar var Sigurborg Ebenezersdóttir og ber heimildum saman um að hún hafi verið hinn mesti dugnaðarforkur.[75] Fjósbaðstofa var á Dröngum á búskaparárum þessara hjóna.[76]

Nokkru eftir að Guðmundur Justsson og fjölskylda hans fluttust frá Dröngum tóku við jörðinni hjónin Jón Sakaríasson og Ingibjörg Jóhanna Jónsdóttir.[77] Þau höfðu áður búið í Botni í Dýrafirði og síðustu þrjú árin á Klukkulandi.[78] Eitt barna þessara hjóna var Kristín sem síðar fékk við giftingu ættarnafnið Dahlstedt og var um skeið kunn veitingakona í Reykjavík. Endurminningar hennar, skráðar af Hafliða Jónssyni frá Eyrum, voru gefnar út árið 1961.

Kristín var á fimmtánda ári er hún fluttist með foreldrum sínum að Dröngum vorið 1891, fædd 14. september 1876, og hér átti hún heima í sjö ár en sigldi til Danmerkur haustið 1898 og vann þar fyrir sér næstu árin. Heima á Dröngum varð Kristín fyrir þeirri lífsreynslu að binda ást við alþýðuskáldið Magnús Hjaltason, en dagbækur hans urðu Halldóri Laxness löngu síðar dýrmæt uppspretta skáldskapar er hann vann að ritun snilldarverksins um Ólaf Kárason Ljósvíking. Marga drætti eiga þeir sameiginlega Magnús og Ólafur Kárason, annar persóna í skáldverki en hinn lifandi manneskja sem í öllum sínum armóði gat jafnan leitað á vit skáldgyðjunnar sér til hugsvölunar.

Þau Magnús og Kristín sáust fyrst sumarið 1895 en hann var þá að vinna við hvalveiðistöð Norðmanna á Höfðaodda í Dýrafirði og kom einn sunnudag í skemmtiferð að Dröngum.[79] Kristín var þá að verða 19 ára en Magnús þremur árum eldri. Mörgum áratugum síðar sagði hún frá þessari komu hans að Dröngum og komst þá m.a. svo að orði:

 

Það var einn sunnudag um mitt sumar að heim að Dröngum gekk ungur og fríður piltur, bjartur yfirlitum, fagureygður, vel vaxinn og hinn snyrtilegasti í klæðaburði. Hann var í flestu ólíkur öðrum piltum. Hann hét Magnús Hjaltason og ég kannaðist við nafn hans. Hann var þá þegar orðinn þekktur hagyrðingur. … Magnús var mjög ræðinn og virtist einkar laginn á að finna umræðuefni er fólk hefði áhuga á. Um það var hann öllum öðrum mönnum ólíkur að hann gerði sér far um að ná til allra er viðstaddir voru, jafnt hinna yngri sem eldri, og fá alla til að taka þátt í samræðum.

Ég hlustaði á hann öðru vísi en ég hafði fyrr hlýtt á tal gesta sem komið höfðu að Dröngum. Hann var gjörólíkur öllum þeim mönnum sem ég hafði séð. Allt látbragð hans var frjálsmannlegt, festa í framsögn hans og skoðunum, einhver sérstæð ólga eða einurð og vottaði sjaldan fyrir undanlátssemi þótt hreyft væri andmælum gegn orðum hans. … Augu hans voru skær og dálítið stingandi. Það var ekki hægt að horfa í þau án þess að roðna. Hann virtist horfa meira á mig en aðra. Kannski fannst mér þetta. En ég fann til notalegrar kenndar sem var öllum tilfinningum sætari er ég hef fundið um mína daga og ég trúi því núorðið að slíkt eigi sér ekki stað nema eitt sinn í lífi hvers manns. … Eftir að hann hafði kvatt hélt ég áfram að heyra rödd hans í eyrum mínum. Mynd hans hélst í huga mínum. Um nóttina vakti ég lengi og hugsaði um sjálfa mig og þennan undarlega fallega pilt sem ég hafði í fyrsta sinn séð þennan dag. Mér var ljóst að ég þráði hann.[80]

 

Að sögn Kristínar voru dómar manna um Magnús þá þegar ærið misjafnir. Flestir töldu hann skarpgáfaðan en aðrir sögðu hann uppskafning og auðnuleysingja er reyndi að koma sér undan ærlegri vinnu.[81] Veturinn 1895-1896 var hinn ungi ljóðavinur heimiliskennari í Lambadal. Fundum þeirra Kristínar á Dröngum bar þá saman stöku sinnum án þess þó að hann sýndi henni þann áhuga sem hún vonaðist eftir.[82] Undir vor kvaddi hún hann í flýti í bæjardyrunum á Dröngum en laumaði miða í lófa hans á kveðjustundinni. Á miðanum stóðu þessi fáu orð: Mig dreymir um þig jafnt í vöku sem svefni því þú ert svo undarlegur en þó svo fallegur piltur.[83]

Í dagbókum sínum minnist Magnús aldrei á Kristínu á Dröngum fyrr en daginn sem hún laumaði miðanum í lófa hans. Það var 2. apríl 1896. Þann dag ritar hann i dagbókina:

 

Fór ég inn að Dröngum og sótti þangað bækur er ég hafði lánað Kristínu, stúlku gáfaðri mjög um tvítugt. … Og nú var það er ég var staddur á Dröngum að Kristín kallaði á mig í einrúmi og afhenti mér þar bréf frá sjálfri sér er hún hafði ritað samdægurs. Var bréf það innilega gott og lýsti ást Kristínar til mín. Ég undraðist að fá bréf þetta en varð nú sem snortinn rafmagni og fékk ég óstöðvandi ást til stúlkunnar. Þó gat ég lítið talað við hana enda var hún öll á glóðum og þaut í burt á svipstundu.[84]

 

Við lestur orðanna á miðanum komst þvílíkt rót á hug og hjarta skáldsins að hann ákvað þegar í stað að biðja stúlkunnar er þau hafði ritað. Næsta dag, sem var föstudagurinn langi, ritaði hann henni bónorðsbréf[85] en þá var það hún sem fór að hika. Skynsemin sagði henni að enn þekktust þau ekki nægilega til að bindast hvort öðru og ýmsir urðu til þess að vara hana sterklega við.[86] Hinu skyndilega bónorði svaraði hún fáum dögum síðar á þá leið að sig langaði til að kynnast honum betur en gæti ekki að svo stöddu gefið honum jáyrði sitt.[87] Þetta bréf Kristínar fékk Magnús í hendur 6. apríl og skrifaði henni aftur þann sama dag.[88] Í því bréfi kemst hann m.a. svo að orði:

 

Þar sem þér, hjartkæra elskan mín, segið þér séuð mér ekki samboðin þar sem þér séuð uppalin hjá fátækum foreldrum og séuð því ekki fullkomin á neinn veg í menntalegu tilliti, þá veit heilög hamingjan að slíkt hefði mér aldrei dottið í hug að álasa yður fyrir á nokkurn veg, heldur þvert á móti leitast við að gjöra yður til ánægju í því efni sem öðru.

… mun ég ætíð minnast yðar sem göfugrar stúlku en sárt mun mér falla að sjá yður, hjartans yndið mitt, hverfa í geim fjarlægðarinnar þar sem ég kannske hef enga von um að sjá yður aftur. Já, svo sárt mun mér falla að sjá af yður, elskan mín, að ég mun minnast yðar lengst ævi minnar, ég leyfi mér að segja með trega þótt ég beri harm minn í hljóði.

… Þegar þér skrifið mér nú næst, kærasta vina, vil ég mega biðja yður að láta mig vita annaðhvort hreint frá yðar hendi, já eða nei. Ég tek það fram að ef yður er það á móti skapi að vera hjá mér, að þá vil ég helst að þér segið mér nei, því ég vil engri stúlku svo illt að eiga hana nauðuga.[89]

 

Mjög skömmu eftir að Kristín á Dröngum fékk þetta bréf fluttist Magnús frá Lambadal til Ísafjarðar en milli páska og hvítasunnu bárust henni þær fréttir að vonbiðill hennar þætti nokkuð upp á kvenhöndina og ætti barn með konu suður á Barðaströnd.[90] Þessi tíðindi komu Kristínu í opna skjöldu og einkum féll henni þungt að Magnús skyldi ekki hafa nefnt við sig þessa barneign áður en hann bað hennar.[91] Hún skrifaði honum nú enn eitt bréf og lét í ljós reiði sína og vonbrigði[92] en hann svaraði að bragði með bréfi rituðu á Ísafirði 10. maí 1896. Um bónorð sitt til Kristínar og barneignina á Barðaströnd kemst skáldið svo að orði í því bréfi:

 

… En svo beiddi ég yðar af því ég var og er engum kvenmanni háður; eða haldið þér að ég hefði beðið yðar hefði ég átt aðra kærustu?(!) En það er satt að barn hef ég átt en stúlka sú er ég átti það með gerði sig ómerkilega með hér ósögðu er snertir sjálfan mig persónulega og fyrir þá skuld kvongaðist ég henni ekki því ég hafði hugsað mér að eiga ærlega stúlku en ekki óærlega. Barnið sem ég átti með stúlkunni er dáið … . Mér datt sannast að segja ekkert í hug að segja yður frá þessu í bréfum mínum til yðar því þess var engin þörf sem þér sjálf getið skilið.[93]

 

Seinna þetta sama vor réð Kristín sig í vist á Ísafirði og dvaldist þar í eitt ár. Lítið sá hún af Magnúsi en þó var hann alloft á Ísafirði eða í næsta nágrenni sumarið 1896.[94]

Sumarið 1897 var Kristín við fiskvinnu á Þingeyri. Enn var hún að hugsa um Magnús þó hvorki hefði hún séð hann né frá honum heyrt í meira en heilt ár. Hún vissi þó að hann var á Ingjaldssandi og stundum var hún að skrifa honum bréf, sem hún sendi þó aldrei fyrr en komið var fram í september en þá lét hún eitt þeirra frá sér fara.[95] Í bréfinu bauð hún Magnúsi að heilsa upp á sig ef hann kæmi til Þingeyrar.

Er Magnús fékk bréf Kristínar í hendur átti hann heima á Brekku á Ingjaldssandi. Þar ritar hann í dagbók sína 14. september 1897: Fékk ég bréf frá Kristínu á Dröngum í Dýrafirði. Var það gott bréf og innilegt. Vakti það ást mína á ný til Kristínar.[96] Daginn eftir lagði hann af stað til Þingeyrar að hitta stúlkuna og þann 16. september náðu þau saman á Þingeyri. Um þessa samfundi ritar Magnús svo í dagbókina þann sama dag: – Var nú auðfundið að hún bar tryggð til mín. Kom hún sjálfviljug í faðm minn og beiddi mig að kveða vísu um ást okkar. Ég kvað þrjár vísur.[97] Sextíu árum síðar lét Kristín frá Dröngum þau orð falla um þennan fund þeirra á Þingeyri að er þau kvöddust hafi hún ekki lengur getað efast um að Magnús Hjaltason væri sá maður er hún myndi ávallt elska.[98]

Haustið 1897 var Magnús við kennslu á Næfranesi í Dýrafirði og ekki langt á milli þeirra Kristínar. Þau hittust af og til og í nóvembermánuði biður hún hann fara og kaupa trúlofunarhringana svo að við gætum verið saman eins og kærustupar án þess að samband okkar yrði tilefni til frekara slúðurs í sveitinni, eins og Kristín kemst að orði í frásögn sinni löngu síðar.[99] Magnús var hins vegar algerlega félaus maður og vildi því bíða til vorsins með að kaupa hringana.[100] Kristín bauðst þá til að borga annan hringinn en það boð afþakkaði skáldið og vildi ekki að það yrði um sig sagt að hann hefði látið kærustu sína kaupa trúlofunarhringana.[101] Litlu síðar kom Magnús að Dröngum og ritar sama dag í dagbókina að þá hafi hann fundið vaknaðan efa hjá henni um að verða unnusta mín.[102] Að sögn Magnúsar sagði Kristín þá við hann þessi orð: Það er ekki nóg í lífinu að elskast, það þarf miklu fleira til að geta lifað.[103] Þó tók hún fram að hann mætti reiða sig á að hún yrði honum trú.[104] Þennan nóvemberdag bað Kristín piltinn að lána sér fimm krónur. Fáum dögum síðar ritar hann á þessa leið í dagbókinni: Mest særði mig að ég var svo fátækur að geta ekki hjálpað Kristínu, vinstúlku minni, á Dröngum um fimm krónur sem hún beiddi mig um 17. mánaðarins.[105] Úr þessu fór fundum þeirra Kristínar á Dröngum og Magnúsar Hjaltasonar að fækka.

Á Þorláksmessu lagði Magnús af stað frá Næfranesi út á Ingjaldssand og dvaldist þar fram yfir áramót. Síðustu nóttina á Næfranesi dreymdi hann Sigurð Breðifjörð, – og talaði mikið við hann.[106] Milli jóla og nýárs barst Kristínu til eyrna sá orðrómur að Magnús væri tekinn saman við fullorðna konu úr Önundarfirði.[107] Kristín segir nánar frá tíðindum og skilnaði þeirra Magnúsar og þá með þessum orðum:

 

Ég sagði honum frá þessum fréttum í bréfi og fullvissaði hann um að ég tryði ekki slíkum kjaftasögum um hann. Það urðu mér eins og geta má nærri mikil vonbrigði er ég fékk svarbréf frá honum þar sem hann segist hafa „tekið á sitt framfæri vegna gamalla loforða konu er verið hefði sér góð þegar hann hefði verið sem mestur vesalingur, rúmliggjandi í Breiðadal”. Við þetta bréf Magnúsar kólnaði mjög ást mín til hans og þótti mér nú sýnt að móðir mín hefði gert sér réttar hugmyndir um hann. Nokkrum dögum síðar skrifaði ég Magnúsi mitt síðasta bréf. Þar sagði ég sambandi okkar slitið. Þótti mér það með ólíkindum að maður er ekki ætti fyrir trúlofunarhringum gæti treyst sér til að sjá þurfaling farborða og allra síst þar sem hann virtist eiga fullt í fangi með að sjá sjálfum sér farborða.[108]

 

Konan fullorðna úr Önundarfirði, sem með sérstökum hætti komst upp á milli þeirra Magnúsar og Kristínar á Dröngum, hét Ingibjörg Guðmundsdóttir og var ærið miklu eldri en Kristín, önnur liðlega tvítug en hin komin á fimmtugsaldur. Ingibjörgu hafði Magnús kynnst er hann átti heima í Fremri-Breiðadal í Önundarfirði árið 1892-1893, þá nítján ára gamall. Hann var þá löngum rúmliggjandi vegna tæprar heilsu en Ingibjörg, sem átti heima á næsta bæ, sýndi honum þá mikla umhyggju og margvísleg blíðuhót (sjá hér Fremri-Breiðadalur).

Er Kristín á Dröngum fékk þær fréttir að Magnús væri tekinn saman við fullorðna konu úr Önundarfirði, – í árslok 1897, voru í raun liðnir átta mánuðir frá því Magnús hafði tekið Ingibjörgu í Breiðadal á sitt framfæri og flutt hana til sín út á Ingjaldssand[109] (sjá hér Brekka á Ingjaldssandi). Ekki virðist hann hafa séð ástæðu til að greina Kristínu frá því góðverki sínu. Sumarið 1897 voru þau Magnús og Ingibjörg bæði á Brekku á Ingjaldssandi og dvaldist hún þar á hans vegum. Um samband þeirra ritar Magnús á þessa leið í dagbók sína 13. apríl 1897:

 

Ingibjörgu vildi ég taka að mér sem manneskju er hafði verið mér hlýleg mjög í heilsuleysis- og ófrelsisvandræðum mínum í Fremri-Breiðadal árið 1892-1893. … Hún hafði verið mest ævinnar heilsulaus og var nú komin á fimmtugsaldur, 42ja ára. Áleit ég því að það félli í góðan stað ef ég framvegis gæti rétt henni hjálparhönd og launað henni þar með sem hún áður var mér alúðleg. Það var þó meira en hlýleg orð er Ingibjörg vildi fá af minni hendi, vildi hún fá mig sem eiginmann en það hafði mér ekki dottið í hug. Sem kærustu gat ég ekki elskað hana. Hún var manneskja ófríð mjög og auk þess eyðilögð af hryllilegum veikleika, slagaveiki.[110]

 

Svo virðist sem Ingibjörg hafi sótt fast að Magnúsi sumarið þeirra á Brekku og henni orðið nokkuð ágengt meðan sól var hæst á lofti. Í dagbókum sínum segir Magnús frá því að sunnudaginn 25. júlí hafi séra Þórður Ólafsson á Gerðhömrum messað á Sæbóli og kallað sig á eintal eftir messu.[111] Klerkur kvaðst þá hafa heyrt að þau Magnús og Ingibjörg sænguðu saman og fór þess eindregið á leit að Magnús sliti þá þegar þeim samvistum.[112] Dagbókarskrif Magnúsar benda til þess að hann hafi mjög gjarnan viljað rífa sig lausan úr faðmi Ingibjargar og losnað úr álögum hennar er leið á sumarið, máske þó ekki fyrr en hann fékk bréfið frá Kristínu á Dröngum um miðjan september. Er Magnús greinir frá tiltalinu sem séra Þórður veitti honum 25. júlí bætir hann við nokkrum orðum og segir:

 

Það var að vísu satt að ég hafði um hálfsmánaðartíma sængað saman við Ingibjörgu frá því við fluttum úr hærri bænum á Brekku niður í neðri bæinn og þangað til ég fór ferðina að Mýrum 16. mánaðarins. Ég varðist þó svo lengi að sofa hjá Ingibjörgu sem ég gat.[113]

 

Þann 6. janúar 1898 kom Magnús Hjaltason utan af Ingjalddssandi að Lambadal en þar átti hann að kenna börnum næstu vikurnar. Þann dag fékk hann í hendur uppsagnarbréfið frá Kristínu á Dröngum.[114]Það féll mér afarþungt, ritar Magnús í dagbókina. Hann nefnir þar ekki að tengsl sín við Ingibjörgu hafi átt þátt í að svona fór en segir móður Kristínar hafa knúið hana til að segja sér upp. – Féll Kristínu það ekki síður þungt en mér og hét hún því að giftast engum fyrst hún fengi ekki að eiga mig, segir þar.[115]

Sagan af brotgjörnum ástum hins draumlynda alþýðuskálds og bóndadótturinnar tápmiklu geymist hér á Dröngum þó bærinn sé kominn í eyði. Ljóðabréf hans héldu áfram að berast hingað næstu mánuði eftir uppsögnina, sum löng, önnur styttri. Í einu þessara síðustu bréfa Magnúsar til Kristínar á Dröngum voru níu vísur, þar á meðal þessar tvær:

 

Ljúf armbanda Sunna svinn,

sveipuð dyggðum mætum,

hjá þér unir andi minn

oft um dimmar nætur.

 

Vertu sæl og síblessuð

á sönnum gæfuvegi,

meðan sjálfur Guð er Guð

gleymi ég þér eigi.[116]

 

Þessum bréfum svaraði Kristín ekki og haustið 1898 ákvað hún að rífa sig burt frá öllu sem var henni kært í Dýrafirði og hefja nýtt líf þar sem Magnús Hjaltason væri víðs fjarri. Hún sigldi með kútter Daniu frá Þingeyri til Danmerkur þá um haustið en er hún steig um borð í kútterinn þann 6. september var einu bréfinu enn laumað í lófa hennar. Þar hafði Magnús skrifað: Það eina sem ég get sagt við þig, vina mín, – varaðu þig á heiminum, því ekki er allt gull sem glansar, né gimsteinn þó hreinn sýnist í bráð.[117] Þessi orð þótti Kristínu vænt um og festi sér í minni ásamt þremur vísum sem bréfið hafði að færa. Hin fyrsta var svona:

 

Um mig vefjast amaský,

enga miskunn sýna,

fyrst þú hefur hert á ný

harmastrengi mína.[118]

 

Kristín Jónsdóttir frá Dröngum starfaði mörg ár í Danmörku en kom að lokum heim og gerðist veitingakona í Reykjavík. Árið 1910 opnaði hún veitingahús sitt, Fjallkonuna, á Laugavegi 23. Nafnið færði Magnús Hjaltason henni í draumi skömmu fyrir opnunina þó tólf ár væru liðin frá skilnaði þeirra.[119]

Skömmu eftir að Magnús fékk uppsagnarbréfið frá Kristínu sleit hann endanlega sambandi sínu við Ingibjörgu frá Breiðadal. Vorið 1898 skrifaði hann Guðmundi Eiríkssyni, hreppstjóra á Þorfinnsstöðum í Valþjófsdal, og tilkynnti að hér með skilaði hann þessari slagaveiku konu aftur á sína sveit.[120]Til þess að skilja ekki við Ingibjörgu eins og hundur, þá gaf ég henni vasaúr mitt, ritar skáldið í dagbók sína sama dag og hann greinir þar frá bréfinu til hreppstjórans á Þorfinnsstöðum.[121]

Nokkrum vikum eftir brottför Kristínar á Dröngum, haustið 1898, gisti Magnús eina nótt á Langhól í Súgandafirði og fór þá á fjörurnar við frænku sína, Guðrúnu Önnu Magnúsdóttur, sem þar átti heima.[122] Hét hún honum eiginorði litlu síðar og fylgdust þau að upp frá því meðan bæði lifðu. Magnús varð mæðumaður að flestra dómi en átti sér jafnan huggun í goðveig skáldskaparins. Haustið 1910 gerðist hann eitt sinn of fjölþreifinn við stúlku á fermingaraldri og var dæmdur til eins árs fangavistar í hegningarhúsinu við Skólavörðustíg í Reykjavík.

Fyrsta verk Magnúsar Hjaltasonar er hann losnaði úr tugthúsinu vorið 1912 var að vitja um leiði Sigurðar Breiðfjörð í kirkjugarðinum við Suðurgötu[123] en fyrr en varði gekk hann inn Laugaveg í leit að veitingahúsinu Fjallkonunni. Þar hitti hann vinstúlku sína, sem verið hafði, Kristínu frá Dröngum.[124] Bæði voru þau orðin breytt, enda fjórtán ár liðin frá því þau sáust síðast. Kristín lánaði honum tuttugu krónur fyrir farinu vestur en vísaði að eigin sögn öllum blíðuhótum á bug.[125] Síðan kvöddust þau og sáust aldrei framar. Ekki nefnir Magnús þessa endurfundi í dagbók sinni frá vordögunum góðu, er hann gekk frjáls maður um Reykjavík laus úr fangavistinni.[126] Rösklega tveimur árum síðar gekk Kristín að eiga Axel Dahlstedt, sænskan vélstjóra á strandferðaskipinu Hólum.[127] Öldruð kona sagði hún svo frá að allt sitt líf hefði hún leitað þeirrar notalegu kenndar, öllum tilfinningum sætari, er greip hana unga í návist Magnúsar Hjaltasonar en unað þann fann hún aldrei síðar á lífsleiðinni.[128]

Viðdvöl okkar á Dröngum er orðinn lengri en ráð var fyrir gert. Dagur er að kvöldi kominn og sól horfin af Drangatindi. Við skulum því axla okkar skinn og halda til náttstaðar í Botni.

Hér um túnið á Dröngum lá leið þeirra sem lögðu upp úr vestanverðum Dýrafirði í ferðir yfir Glámu á fyrri tíð. Enn heldur Gláma sinni fornu reisn, fjallið tigna fyrir botni Dýrafjarðar. Frá hálendi Glámu og ferðum manna um þær slóðir er sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Botn í Dýrafirði). Gamla heimatúnið á Dröngum nær inn undir árgilið þar sem Innri-Á rennur en þar fyrir innan er Húsatún.[129] Rétt fyrir innan Innri-Á var kvíabólið og þar stóð lengi vel hlaðin kví.[130] Þar sem kvíin stóð gerum við stuttan stans og lítum aftur í tímann í kveðjuskyni. Hér innan við kvíarvegginn sátu þær báðar að mjöltum á horfinni tíð Sigurborg Ebenezersdóttir, sem átti að maka sterkasta manninn á Vestfjörðum, og stúlkan Kristín sem unni þeim er sumum sýndist veikastur allra. Við skulum geyma mynd þeirra beggja lengi enn.

Frá kvíabólinu á Dröngum er spölurinn inn í fjarðarbotninn fljótfarinn. Á leiðinni svipumst við um eftir Drangalæk sem nefndur er í landamerkjalýsingunni frá árinu 1557 (sjá hér bls. 2-3). Þá var hann veiðilækur og enn er getið um silungsveiði í Jarðabókinni frá 1710.[131] Í Drangalandi eru nokkrir lækir en ekki virðist vera einfalt mál að fá úr því skorið hver þeirra hafi borið nafnið Drangalækur. Rétt utan við fjarðarhornið rennur lækur til sjávar sem mun heita Heimrilækur.[132] Annar lækur er hér litlu framar og fellur í Botnsá á Drangaeyrum. Sá heitir nú Innrilækur.[133] Báðir þessir lækir koma úr Stóruhvilft en nafn á læknum sem kemur úr Dýrahvilft þekkjum við ekki. Utan við Innrilæk er stór steinn sem Einbúi heitir.[134] Í kringum steininn er talsvert gras sem þó mátti aldrei slá því hér er álagablettur.[135] Við Einbúa nemum við staðar og lítum yfir sviðið hér í fjarðarbotninum þar sem enn er víða þó nokkurt skógarkjarr. Gaman væri að rölta héðan fram að Drangaá og upp í Dýrahvilft undir lágnættið og skoða haug landnámsmannsins sem þar er sagður vera. Sumir kenndu að sjálfur hefði Dýri mælt svo um að ekkert illt skyldi granda firði hans meðan nokkur tönn í kjafti sínum væri ófúin.[136] Við skulum vona að nokkrar geiflur séu enn heilar í karli. Í næturkyrrð vöðum við yfir Botnsá og sláum tjöldum í grænum túnfætinum í Botni. Ferð okkar um Þingeyrarhrepp er lokið og við komin heil á húfi í Mýrahrepp.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[2] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 54.

[3] Sama heimild.

[4] J. Johnsen 1847, 193.

[5] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[6] Manntöl 1855 og 1860.

[7] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Sandapr.kalls.

[8] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[9] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Sanda og Dýrafj.þinga.

[10] Sömu heimildir.

[11] Sömu heimildir.  Lbs. 23744to, Dagbók Sighvats Grímssonar Borgfirðings 21.8.1878.

[12] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Sanda og Dýrafj.þinga.  Manntal 1880.

[13] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Sanda og Dýrafj.þinga.  Manntal 1880.

[14] Örnefnaskrá.

[15] Sama heimild.

[16] Sama heimild.

[17] Vestfirskar sagnir III, 170-173.  Kristján G. Þorvaldsson 1951, 114 (Árbók F.Í.).

[18] Örn.skrá.

[19] Sama heimild.

[20] Sama heimild.

[21] Sama heimild.

[22] Jarðab. Á. og P. VII, 54.

[23] Firðir og fólk 1900-1999, 195.

[24] D.I. XIII, 222.

[25] Sama heimild.

[26] Sama heimild, 222-223.

[27] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 55.

[28] Jarðab. Á. og P. VII, 32, 40, 52, 56, 75 og 76.

[29] Sama heimild, 32, 52 og 75.

[30] D.I. III, 197.

[31] D.I. IV, 143.

[32] D.I. XV, 575.

[33] Örn.skrá.

[34] Sama heimild.

[35] Sama heimild.

[36] Sama heimild.

[37] Uppdráttur Íslands, blað 12, gefið út árið 1977 af Landmælingum Íslands.

[38] Sigríður Jónsdóttir frá Botni og Valdimar Kristinsson, Núpi. – Viðtöl K.Ó. við þau í júlí 1992.

[39] Örn.skrá.

[40] Sigríður Jónsdóttir frá Botni. – Viðtal K.Ó. við hana 13.7.1992.

[41] Jarðab. Á. og P. VII, 75-76.

[42] Sama heimild.

[43] Örn.skrá.

[44] Valdimar Kristinsson, Núpi og Sigríður Jónsdóttir frá Botni. – Viðtöl K.Ó. við þau í júlí 1992.

[45] Valdimar Kristinsson, Núpi. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[46] D.I. III, 228 og 330 og IV, 144.

[47] D.I. XV, 577.

[48] D.I. XV, 577 og IV, 144.

[49] Jarðab. Á. og P. VII, 32.

[50] Jarðab. Á. og P. VII, 32.

[51] Sama heimild, 52.

[52] Sama heimild.

[53] Sama heimild, 54.

[54] D.I. IV, 687.

[55] D.I. XIII, 152.

[56] Sama heimild, 328.  Jarðab. Á. og P. VII, 279-280.  Sjá Ísl. æviskrár III, 233.

[57] Jarðab. Á. og P. XIII, 279-280.

[58] Sama heimild.

[59] Sama heimild.  Jarðab. Á. og P. VII, 54.

[60] Jarðab. Á. og P. VII, 54.

[61] J. Johnsen 1847, 193.

[62] Jarðab. Á. og P. VII, 54.  J. Johnsen 1847, 193.

[63] Manntöl frá tímabilinu 1703-1901.

[64] Sbr. Vestf. ættir I, 212.  Sóknarm.töl Sandapr.kalls.  Manntöl 1840 og 1850.

[65] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[66] Vestf. sagnir III, 313.

[67] Sama heimild, 307-308.

[68] Sama heimild.

[69] Vestf. sagnir III, 311.

[70] Vestf. sagnir III, 309.

[71] Sama heimild, 312.

[72] Sama heimild.

[73] Sama heimild.

[74] Sama heimild, 315-316.

[75] Kristín Dahlstedt / Hafliði Jónsson 1961, 26.

[76] Sama heimild.

[77] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[78] Kristín Dahlstedt / Hafliði Jónsson 1961, 5-30.  Sbr. Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 8.6.1889.

[79] Kristín Dahlstedt / Hafliði Jónsson 1961, 40-42.

[80] Kristín Dahlstedt / Hafliði Jónsson 1961, 40-42.

[81] Sama heimild, 42.

[82] Sama heimild, 43.

[83] Sama heimild.

[84] Lbs. 22174to, Dagbók M.Hj. 2.4. 1896.

[85] Sama heimild.  Kristín Dahlstedt / Hafliði Jónsson 1961, 43.

[86] Kristín Dahlstedt / Hafliði Jónsson 1961, 43-45.

[87] Sama heimild.  Lbs. 22174to, Dagbók M.Hj. 6.4. 1896.

[88] Lbs. 22354to, bls. 35-40. Bréf Magnúsar Hjaltasonar 6.4.1896 til Kristínar Jónsdóttur, afrit.

[89] Sama heimild.

[90] Kristín Dahlstedt / Hafliði Jónsson 1961, 44-45.

[91] Sama heimild.

[92] Sama heimild.

[93] Lbs. 22174to, bréf M.Hj. 10.5. 1896, afrit.

[94] Lbs. 22174to, Dagbók M.Hj.1896.  Kristín Dahlstedt / Hafliði Jónsson 1961, 46.

[95] Kristín Dahlstedt / Hafliði Jónsson 1961, 46-47.

[96] Lbs. 22174to, Dagbók M. Hj. 14.9.1897.

[97] Sama heimild, 16.9.1897.

[98] Kristín Dahlstedt / Hafliði Jónsson 1961, 47.

[99] Sama heimild.

[100] Sama heimild.

[101] Sama heimild.

[102] Lbs. 22174to, Dagbók M. Hj. nóv. 1897.

[103] Sama heimild.

[104] Lbs. 22174to, Dagbók M. Hj. nóv. 1897.

[105] Sama heimild.

[106] Sama heimild, 23.12.1897

[107] Kristín Dahlstedt / Hafliði Jónsson 1961, 47-50.

[108] Sama heimild.

[109] Lbs. 22174to, Dagbók M. Hj. vor 1897.

[110] Lbs. 22174to, Dagbók M. Hj. 13.4.1897.

[111] Sama heimild, júlí 1897.

[112] Sama heimild.

[113] Sama heimild.

[114] Lbs. 22174to, Dagbók M. Hj. 6.1.1898.

[115] Lbs. 22174to, Dagbók M. Hj. 6.1. 1898.

[116] Kristín Dahlstedt / Hafliði Jónsson 1961, 48-50.

[117] Sama heimild.

[118] Sama heimild.

[119] Kristín Dahlstedt / Hafliði Jónsson 1961, 203-204.

[120] Lbs. 22174to, Dagbók M. Hj. vorið 1898.

[121] Sama heimild.

[122] Sama dagbók, 25.-27.10.1898.

[123] Sbr. Gunnar M. Magnúss 1956, 365-366. Lbs. 22294to, Dagbók M. Hj. 11.5. 1912.

[124] Kristín Dahlstedt / Hafliði Jónsson 1961, 208-209

[125] Kristín Dahlstedt / Hafliði Jónsson 1961, 208-209.

[126] Lbs. 22294to, Dagbók M. Hj. 11.-15 maí 1912.

[127] Kristín Dahlstedt / Hafliði Jónsson 1961, 216.

[128] Sama heimild. 41.

[129] Örn.skrá.

[130] Örnefnaskrá.

[131] Jarðab. Á. og P. VII, 54.

[132] Sigríður Jónsdóttir frá Botni. – Viðtal K.Ó. við hana 13.7.1992.

[133] Örn.skrá.

[134] Sama heimild.

[135] Sama heimild.

[136] Kristján G. Þorvaldsson 1951, 114 (Árbók F.Í.).

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »