Frá Haga og út að Haukabergsvaðli standa bæirnir í einsettri röð meðfram hlíðarrótum, undir fjögur til fimm hundruð metra hárri fjallsbrún. Er þá fyrst komið að Innri- og síðan að Ytri-Múla og standa þeir bæir skammt frá sjó undir Múlahyrnu. Í byrjun 18. aldar var Múli ein bújörð með tveimur hjáleigum, kirkjujörð frá Haga.[1] Hétu báðar hjáleigurnar Hús. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá árinu 1703 er þess getið að í Múla sé sölvafjara ánægjanleg fyrir ábúendur.
Litlu utar er bærinn Skjaldvararfoss. Ýmsum hefur þótt nafn jarðarinnar tortryggilegt og sumir viljað nefna hana Skjallandafoss.[2] Ótvírætt er þó að bæði í Jarðabók Árna og Páls frá byrjun 18. aldar svo og í sóknarlýsingu séra Hálfdans Einarssonar frá árinu 1840 er jörðin nefnd Skjaldvararfoss.[3]
Snemma á 18. öld bjó á Skjaldvararfossi Eiríkur Snorrason, afi Bjarna Þórðarsonar, síðar bónda á Siglunesi. Eiríkur var þjóðhagasmiður. Sótti hann þrisvar viðarbyrðinga á Hornstrandir og sigldi með þá fyrir alla núpa. Í tímaritinu Gesti Vestfirðingi frá árinu 1849 segir að enn sjáist nú eftir 130 ár menjar af viði þessum í húsum á Barðaströnd. Og útgefendur Gests bæta því við að þetta hafi enginn bragðað fyrr eða síðar.[4] Vestur frá Skjaldvararfossi er sagt að staðið hafi kot sem Hólshús hét og var árið 1840 löngu komið í eyði.[5]
Frá Skjaldvararfossi er stutt bæjarleið að Litluhlíð sem stendur ofan vegar við hlíðarfótinn. Litlahlíð er snoturt býli og þar hafa ábúendur stundum verið í fararbroddi hvað varðar búnaðarframfarir. Engin jörð hefir hér í seinni tíð batnað við sérlega góða ræktun svo sem Litlahlíð, segir í sóknarlýsingunni frá 1840.[6]
Í manntalinu frá 1845 eru bændur á Barðaströnd yfirleitt sagðir lifa á landi og sjó. Í Litluhlíð var þessu öðruvísi háttað. Þar voru þá tvö býli. Á öðru þeirra býr þetta ár Guðmundur Guðmundsson hreppstjóri, sagður 49 ára, – lifir af jarðar- og peningsrækt, og á hinu býlinu er húsráðandinn sjötug kona, Þorgerður Ólafsdóttir, og er sögð lifa á penings- og kálgarðarækt.[7]
Í sóknarlýsingu séra Hálfdans Einarssonar frá 1840 er tekið fram að kálgarðarækt hafi best verið stunduð í Litluhlíð og þess getið að þar séu einnig ræktaðar kartöflur.[8]
Þann 16. apríl 1853 birtist í blaðinu Þjóðólfi grein eftir séra Benedikt Þórðarson á Brjánslæk. Hann segir þar:
Fyrir 18 árum eignaðist bóndi nokkur hér á Barðaströnd, Guðmundur Guðmundsson á Litluhlíð í Hagasókn, dálítið af jarðeplum og setti niður í garðholu hjá sér og fékk um haustið hálfa tunnu af jarðeplum. Þótti honum þessi litla tilraun sín takast svo vel að hann hefir síðan alla stund á það lagt að auka hjá sér jarðeplaræktina og hefir hann nú nokkur ár fengið um 20 tunnur á ári. Ekki leið á löngu að sveitungar Guðmundar reyndu sama og nutu tilsagnar hans að og hefur vel gefist.[9]
Séra Benedikt bætir því við að haustið 1852 hafi alls fengist 280 tunnur af jarðeplum á Barðaströnd. Þessa góðu uppskeru telur hann að enn mætti margfalda en bendir á að þá vanti markað fyrir kartöflurnar. Segir prestur að Barðstrendingar hafi ekki skipakost til að koma þeim á markað og þess vegna verði væntanlegir kaupendur að sækja þær til þeirra og færa þeim aðrar nauðsynjavörur í staðinn.
Jón Guðmundsson ritstjóri Þjóðólfs segir í sama tölublaði næsta gleðilegt að geta skýrt frá jafn mikilli og mikilsverðri framför í einni sveit. Honum líst hins vegar ekkert á hugmyndina um að Reykvíkingar sendi skip eftir kartöflunum vestur á Barðaströnd, enda sé þar engin höfn. Og ritstjóri Þjóðólfs spyr:
Mundi það ekki vera nær fyrir Barðstrendinga að semja við eigendur hákallajagtanna vestra um að taka hjá þeim þau jarðepli sem aflögum væri og flytja á einhvern aðalkaupstaðinn vestanlands … til að mynda Ísafjörð, Flatey eða Stykkishólm?[10]
Þannig var skeggrætt um kartöflurnar á Barðaströnd í blöðunum um miðja 19. öld og það fer ekki milli mála að Guðmundur Guðmundsson í Litluhlíð hefur manna mest beitt sér fyrir þessari miklu kartöflurækt. Árið 1820 voru aðeins 34 matjurtagarðar í allri Barðastrandarsýslu, árið 1834, um það leyti sem Guðmundur í Litluhlíð hófst handa, voru þeir orðnir 140 og árið 1859 var tala matjurtagarða í sýslunni komin upp í 410, þar af 117 í Barðastrandarhreppi einum.[11]
Séra Benedikt á Brjánslæk skrifar aftur um kartöfluræktina á Barðaströnd í Þjóðólf í apríl 1857. Hann segir þá að kartöfluræktin megi heita að vera orðin almenn á Barðaströnd og nokkuð sé hún farin að breiðast út um nærsveitir.[12] Í þessari grein vekur séra Benedikt athygli á því að með aukinni kartöflurækt mætti draga úr kornkaupum af Dönum um a.m.k. helming. Hann bendir á að þær 300 kartöflutunnur sem fengust á Barðaströnd sumarið 1856 séu 1200 ríkisdala virði en fyrir þá upphæð hafi mátt kaupa 109 tunnur af rúgi. Hins vegar segist prestur leyfa sér að giska á að öll kornkaup Barðstrendinga þetta sama ár hafi verið innan við 60 tunnur og er þetta athyglisverður samanburður. Í þessari grein lýsir séra Benedikt sérstaklega kartöflurækt og öllum búskap Helga Sæmundssonar er þá bjó á hálfri jörðinni Skjaldvararfossi. Segir hann Helga hafa fengið 20 tunnur af kartöflum upp úr 200 ferfaðma garði haustið 1856 og bætir því við um sjö manna fjölskyldu þessa bónda að hefðu þau ekki jarðeplin við að lifa væru þau fyrir löngu flosnuð upp og komin á sveitina.[13]
Hér hefur nú verið staldrað við í Litluhlíð um sinn og rætt nokkuð um kartöflurækt svo sem tilefni var til. Nú þokum við okkur út Ströndina,
Frá Litluhlíð eru um tveir kílómetrar að Miðhlíð þar sem nú (1988) eru tvö býli í byggð, Innri- og Ytri-Miðhlíð, en voru áður fleiri og þá stundum talað um Miðhlíðarþorp. Á leiðinni frá Litluhlíð að Miðhlíð er farið yfir ársprænu sem Fossá heitir. Nokkru utan við hana var kotið Guðnastekkur sem í sóknarlýsingunni frá 1840 er sagt vera komið í eyði fyrir löngu.[14]
Innst í Miðhlíðarþorpinu var hjáleigan Gerði. Þar bjó um skeið á síðari hluta 19. aldar Jakob Aþanasíusson (sjá hér Frá Brjánslæk að Haga -Tungumúli þar). Á Gerði var búið fram undir miðja 20. öld. Í Jarðabók Árna og Páls er getið um þrjú kot í heimalandi Miðhlíðar sem öll höfðu árið 1703 verið nokkur ár í eyði og ekki talin byggileg. Kot þessi hétu Þúfa, Stekkur og Skriða.[15] Á Stekk var búið á ný í nokkur ár á fyrri hluta tuttugustu aldar.[16] Yst í Miðhlíðarþorpi og utan við Miðhlíðará er hjáleigan Hrísnes (sjá hér bls. 4). Þar var síðast búið á sjöunda áratug tuttugustu aldar.
Miðhlíð var önnur stærsta jörðin á Barðaströnd að fornu mati og taldist með hjáleigunum vera 48 hundruð. Stundum sátu hér höfðingjar svo sem Magnús Jónsson sýslumaður á 17. öld (sjá hér Hagi). Um hann segir svo í æviskrám: Var vitur maður og vinsæll, góðlátur og stilltur. Varð fyrir galdraáburði 1657 og öðrum leiðum áburði en hratt hvorum tveggja með tylftareiði 25. maí 1657.[17] Sonur Magnúsar sýslumanns í Miðhlíð var Magnús Magnússon, sýslumaður á Eyri í Seyðisfirði við Ísafjarðardjúp, sá er ritaði Eyrarannál.
Í Miðhlíð bjó líka um miðja átjándu öld Björn Magnússon, sem Ólafur Árnason sýslumaður gerði að setudómara og lét dæma æruna af Gunnlaugi Ólafssyni í Svefneyjum í kofnamálinu (sjá hér Hagi). Björn í Miðhlíð andaðist árið 1773 og bar dauða hans að með þeim hætti að hann lá úti í fimm dægur á Sölvamannagötum, vestur frá Fjarðarhorni í Hrútafirði, komst þá til bæja en dó tveimur dögum síðar.[18]
Oft var margbýlt í Miðhlíð og sumir fátækir sem hér bjuggu. Svo mun hafa verið um þá Ara og Jón, Miðhlíðarbændur á síðari hluta átjándu aldar. Þjóðsögur herma að eitt sinn hafi bátur Ara, sem var hans besta eign, fokið og brotnað í spón í ofviðri. Davíð Scheving sýslumaður lét þá einhver aumkvunarorð falla við Ara vegna bátstapans. Ari bar sig vel og svaraði: Ég læt það vera, Jón missti líka mikið af heyi, – en Jón var þá mótbýlismaður hans í Miðhlíð.[19]
Hálfkirkja var í Miðhlíð og er hennar getið í Gísla máldaga frá 1570.[20] Ætla má að hún hafi verið lögð af fyrir miðja sautjándu öld því hennar er að engu getið í Jarðabók Árna og Páls.
Yfir bæjunum í Miðhlíð gnæfir Miðhlíðarnúpur en vestan hans skerst svolítill dalur inn í fjalllendið. Heitir hann Miðhlíðardalur og áin, sem um hann fellur, Miðhlíðará. Vestantil í dalsmynninu stendur eyðibýlið Hrísnes, áður hjáleiga frá Miðhlíð, og dregur nafn sitt af samnefndu sjávarnesi beint undan dalsmynninu. Yfir Hrísnesbænum rís Hrísnesnúpur, dökkbrýnd fjallsgnípa. Sjúkraflugvöllur hefur verið byggður á Hrísnesmelum.
Í Hrísnesi bjó undir lok nítjándu aldar Vigfús Erlendsson. Hann byggði tvíhlaðinn grjótgarð kringum tún sitt og brú yfir Miðhlíðará. Var það fyrsta brú yfir ársprænu í hreppnum.[21] Þetta var göngubrú úr timbri nú löngu horfin.[22] Vigfús dó úr holdsveiki.
Í Hrísnesi var Saka-Steinunn frá Sjöundá í haldi veturinn 1802 til 1803 en dauðadómur hafði þá verið kveðinn upp yfir henni og Bjarna (sjá hér Sjöundá). Bjarni frá Sjöundá sat þennan vetur í járnum í Haga en Steinunn gekk með barn þeirra undir belti og hafði dómarinn, Guðmundur Scheving, fellt þann úrskurð að hún skyldi ganga laus í Hrísnesi uns hún yrði léttari en síðan færast í járn.[23]
Síðla vetrar ól Steinunn sveinbarn og varð drengur sá eftir á Barðaströnd er dauðadæmdir foreldrarnir voru fluttir héðan til Reykjavíkur sumarið 1803.[24] Pilturinn var skírður Jón. Hann ólst upp á kostnað Barðastrandarsýslu og var því af mörgum nefndur Sýslu-Jón[25] (sjá hér Stakkar á Rauðasandi, Krókshús þar).
Skammt vestan við Hrísnes opnast breiður dalur milli Hrísnesnúps að austan og Skriðnafells – eða Hreggstaðanúps að vestan. Eru þar grænar grundir en Haukabergsvaðall, sem að sumu leyti er eins og smækkuð mynd af Hagavaðli, skerst inn í miðjan dalinn. Haukabergsvaðall er nú (1988) mun dýpri en Hagavaðall og þaðan hefur á síðari árum verið stunduð svolítil smábátaútgerð, einkum grásleppuveiðar. Kunnugir telja að hafnaraðstöðu við Haukabergsvaðal mætti bæta með litlum tilkostnaði. Tvær ár falla í botn vaðalsins, Haukabergsá að austan en Holtsá að vestan.
Austan við Haukabergsvaðal standa nú tvö býli, Brekkuvöllur og Haukaberg. Liggja túnin saman. Á Brekkuvelli var búskap hætt fyrir nokkrum árum en búið er (1988) á Haukabergi.
Bæjarnafnið Brekkuvöllur heyrist nú ærið oft nefnt Brekkuvellir. Fyrr á tíð var nafnið jafnan ritað Brekkuvöllur.[26] Brekkuvöllur var áður hjáleiga frá Haukabergi. Í túnfætinum austan við Brekkuvöll var fyrrum önnur hjáleiga frá Haukabergi og hét Fótur. Þar var búið fram undir 1880.[27]
Kunnasti bóndi á Brekkuvelli á síðari tímum er Kristófer Sturluson, sem hér bjó um aldamótin 1900, faðir Hákonar í Haga og þeirra systkina. Með konu sinni, Margréti Hákonardóttur, eignaðist hann sautján börn og var þó alltaf bjargálna. Um Kristófer segir Guðmundur Einarsson á Brjánslæk þetta: Hann var betur menntur en flestir samtíðarmenn hans, las dönsku og lítilsháttar ensku, skrifari góður og smiður á járn og tré. Hann var hægur í framgöngu en ýtinn ef því var að skipta.[28]
Á Haukabergi á Barðaströnd efndi Hrafn Sveinbjarnarson á Eyri í Arnarfirði til sættafundar vorið eftir víg Markúsar Gíslasonar í Bæ á Rauðasandi. Gellir Þorsteinsson, tengdasonur Hvamm-Sturlu, hafði skotið skjólshúsi yfir banamann Markúsar, Inga Magnússon á Hvalskeri. Gellir fjölmennti til fundarins og fóru þeir með mikilli gemsan, enda þótti Gellir bæði hávaðasamur og heitrammur.[29] Á þessum sættafundi á Haukabergi var Ingi á Hvalskeri gerður landrækur. Markús í Bæ hafði verið þingmaður Jóns Loftssonar í Odda á Rangárvöllum og var Jóni falin ákvörðun um fésektir.[30]
Fáum árum síðar bjó á Haukabergi Eyjólfur Snorrason sem fylgt hafði Guðmundi Arasyni biskupi í vígsluför hans til Noregs. Í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar hinni sérstöku segir frá undarlegum draumi er Eyjólf dreymdi veturinn 1208-1209. Í draumnum þóttist hann sjá tungl svo mörg sem stjörnur væru, sum full en sum hálf, sum meir en sum minna vaxandi og þverrandi.[31] Og er Eyjólfur undraðist sýn þessa sá hann standa hjá sér mann er kvað vísu:
Sé þú, hvé hvarfla
heima í milli
syndauðigra
sálir manna.
Kveljask andir
í orms gini.
Skelfur rammur röðull.
Rætk þér að vakna.[32]
Draumur Eyjólfs á Haukabergi þótti vera fyrirboði og þá um vorið gerði Þorvaldur Vatnsfirðingur sína fyrstu aðför að Hrafni Sveinbjarnarsyni á Eyri.
Á fyrri hluta 18. aldar bjó á Haukabergi Þórður Jónsson lögréttumaður. Hans er getið á Alþingi 1726 og 1728. Faðir Þórðar, Jón Bjarnason í Breiðavík, og Jón Árnason, biskup í Skálholti, voru hálfbræður.[33]
Prestur sat á Haukabergi í þrjú ár, 1884-1887. Var það séra Þorvaldur Jakobsson. Hann var þá einhleypur og voru þetta hans fyrstu prestskaparár í Brjánslækjarprestakalli.
Hamrafjallið fyrir austan Haukaberg heitir Skjöldur. Í fjalllendinu austur frá Haukabergsdal er Austmannagjá og Austmannahólar heita þar neðan við gjána. Í þjóðsögum er sú skýring gefin á nöfnum þessum að í Austmannahólum hafi Haukur bóndi á Haukabergi drepið Austmenn þá er sendir voru frá Haga honum til höfuðs vegna landaþrætu. Komu þeir af fjöllum niður gjána og mættu Hauki bónda við hólana.[34] Fylgir það sögunni að á þessum slóðum hafi fundist spjót ryðgað og koparhringur.
Haukabergsdalur er stuttur en út frá honum gengur Miklidalur í norðvestur og Einisdalur í norð-norðaustur. Ár falla um dali þessa, Mikladalsá og Einisdalsá, og sameinast þær í Haukabergsá. Talsvert skóglendi er í Haukabergsdal. Í Jarðabók Árna og Páls frá byrjun 18. aldar segir að á Haukabergi sé rifhrís til kola og eldiviðar og fram kemur að bændur frá Siglunesi, Hreggstöðum, Miðhlíð og Litluhlíð notfæri sér líka þetta hrístak í landi Haukabergs.[35]
Fyrir botni Haukabergsvaðals gengur fram dálítill fjallsmúli og skilur að Haukabergsdal og Holtsdal. Upp þennan múla liggur akvegurinn á Kleifaheiði og til Patreksfjarðar. Gamla póstleiðin lá um Kleifaheiði en akfær vegur um heiðina var lagður á árunum milli 1945 og 1950. Hann liggur hæst í 404 metra hæð yfir sjávarmáli. Frá heiðinni og niður í botn Ósafjarðar, sem gengur inn úr Patreksfirði, liggur akvegurinn um brattlendi. Þar heita Kleifar. Frá vegamótum í botni Ósafjarðar eru um tveir kílómetrar að Vestur-Botni í Patreksfirði, fyrsta býlinu norðan heiðar, en tólf kílómetra leið var talin milli byggða, yfir Kleifaheiði.[36] Á heiðarbrúninni, fyrir ofan Kleifarnar, reistu vegagerðarmenn fyrir nokkrum áratugum steinvörðu mikla í mannsmynd sem enn stendur þar við veginn. Heitir varðan Kleifabúi en þykir líkjast Hákoni Kristóferssyni er þá bjó í Haga.
Þann 27. desember 1954 varð Þorsteinn Kr. Þorsteinsson póstur úti við Hjallendalág á Kleifaheiði. Hann var 51 árs að aldri og hafði farið póstferðir um heiðina í 25 ár.[37]
Við vegamótin hjá Haukabergi greinast leiðir. Liggur önnur á Kleifaheiði en hin út á Siglunes, ysta bæ á Barðaströnd. Svo sem einum kílómetra vestan við þessi vegamót og nokkru áður en akvegurinn beygir til suðurs í átt að Holti og Skriðnafelli liggur gömul reiðgata til fjalls í norðvesturátt. Þarna var lagt upp á Sandsheiði en um hana lá á fyrri tíð þjóðbraut milli Barðastrandar og Rauðasands. Er heiðin um fimmtán kílómetrar milli bæja, frá Holti eða Haukabergi og að Skógi á Rauðasandi en sú jörð er nú í eyði. Leiðin liggur hæst í um 500 metra hæð.
Eftir um það bil þriggja kílómetra göngu frá akveginum er komið að átmótum Innri-Þverár og Ytri-Þverár en þar sameinast þær og fá nafnið Þverá.[38] Ármótin eru í 260 metra hæð yfir sjávarmáli og þar sveigir gatan svolítið nær vestri í stefnu á Vatnskleifar við heiðarbrúnina. Vatnskleifahorn, sem rís yfir brún heiðarinnar, kallar á athygli vegfarenda en það er klettahorn Barðastrandarmegin í norðausturenda hinnar tignarlegu Skarðabrúnar[39] sem liggur á mörkum Barðastrandarhrepps og Rauðasandshrepps og hér er lýst á öðrum stað (sjá Frá Sjöundá að Saurbæ og Lýsing Rauðasands og Skorar).
Þórður Marteinsson, fæddur 1932, sem var bóndi í Holti á Barðaströnd frá 1954 til 1990 og tók þar við búi af tengdaföður sínum er lengi hafði búið á jörðinni, segir að Vatnskleifar séu undir Vatnskleifahorni og að efsti hluti leiðarinnar frá Barðaströnd á brún Sandsheiðar liggi um kleifarnar.[40] Í örnefnalýsingu Holts, sem varðveitt er á Örnefnastofnun, segir hins vegar að fjallið upp af Norðaraengi, engjabletti hér skammt frá, heiti Vatnskleifar. [41] Þessu hafnar Þórður og líka Ari Ívarsson frá Melanesi á Rauðasandi[42] og má telja býsna líklegt að þeir hafi rétt fyrir sér.
Nokkrum spöl fyrir vestan Vatnskleifahorn er brattur og grýttur hóll sem ýmist er nefndur Hvasshóll eða Hvarfshóll.[43] Þarna er komið upp á háheiðina. Frá Hvasshól sér ofan í Patreksfjörð.[44] Á hjallanum sem liggur frá brekkubrúninni við Vatnskleifahorn að Hvasshól er djúp tjörn eða pyttur sem heitir Átján manna bani[45] og kynni nafnið að tengjast munnmælasögunni um þá átján menn sem sagt var að orðið hefðu úti á Sandsheiði, allir í hóp, er þeir um 1777 fluttu timbur að vetrarlagi frá Rauðasandi að Haga (sjá hér Hagi). Gamla þjóðleiðin yfir Sandsheiði liggur milli Hvasshóls og norðausturenda Skarðabrúnar, fjallgarðsins langa á hreppamörkum með sinni víða örþunnri en hátignarlegu brún.[46] Vestan við Hvasshól liggur leiðin um Gljá, skammt frá Hrólfsvirki (sjá hér Frá Sjöundá að Saurbæ), og þaðan áfram í stefnu á mynni Skógardals og að eyðibýlinu Skógi á Rauðasandi.
Um Sandsheiði átti margur erindi. Í kaupstaðarferðum á Vatneyri munu Barðstrendingar fyrr á tíð oftast hafa farið þessa leið og af háheiðinni um Hrossagötuskarð að bænum Hvalskeri við Patreksfjörð þar sem þeir fengu sig flutta yfir fjörðinn.[47] Með því að fara Sandsheiði sluppu menn við Raknadalshlíðina við norðanverðan Patreksfjörð en hún var oft mjög erfið yfirferðar. Býsna langt var liðið á 19. öld þegar Barðstrendingar fóru almennt að fara Kleifaheiði í sínum kaupstaðarferðum.[48] Flokkar vermanna af Barðaströnd og úr austursveitum lögðu á Sandsheiði til róðra í Útvíkum norðan Látrabjargs, og frá verstöðvunum á Látrum og Brunnum voru skreiðarlestir teymdir um langan veg yfir Látraheiði, Kerlingaháls, Rauðasand og Sandsheiði á Barðaströnd. Heiðin geymir í dul sinni gengin spor skartbúinna höfðingja á sumardegi og einnig hinna mörgu sem hér börðust tötrum klæddir við grimma hríðina.
Vestan við Haukabergsvaðal voru þrjú býli, Holt innst við vaðalinn, á móti Haukabergi, en litlu sunnar Skriðnafell, undir fjallsnúpnum, og svo Holtsfit austur frá Skriðnafelli, nær vaðlinum. Holtsfit var upphaflega hjáleiga frá Holti og oft aðeins nefnd Fit. Bæði Skriðnafell og Fit eru nú (1988) í eyði en búið er í Holti. Í Jarðabók Árna og Páls segir að mjög sé stórviðrasamt á Skriðnafelli.[49]
Frá Skriðnafelli liggur akvegurinn fyrir Skriðnafellsnúp að bænum Hreggstöðum utan við núpinn en sú hlið hans sem snýr að Hreggstöðum heitir Hreggstaðanúpur. Undan Hreggstöðum og Hreggstaðanúp eru sker nokkur fyrir landi. Heita tvö þau stærstu Klaksker, það sem nær er landi, og Selsker dýpra. Dálítil selveiði var á Hreggstöðum. Bærinn stendur skammt frá sjó en svolítil dalskvompa að baki. Utan við bæinn fellur Hreggstaðaá.
Nafnið á Hreggstöðum hefur tekið ýmsum breytingum í aldanna rás. Í elstu heimildum, frá 15. öld, er bærinn nefndur Hrakstaðir.[50] Ólafur Lárusson prófessor, sem ritað hefur um bæjanöfn í Barðastrandarsýslu, telur að það sé hið upphaflega nafn og sé bærinn kenndur við mann er borið hafi viðurnefnið hrak. Víst getur þetta verið en er þó ekki annað en tilgáta. Í skjölum frá 15. og 16. öld má einnig sjá ritháttinn Hrakkstaðir, Rakstaðir og síðar Rekstaðir.[51] Árni Magnússon hefur fyrst skrifað Rekstaðir í handritið að Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1703 en síðan skrifað Hreggs- fyrir ofan. Rithátturinn Rekstaðir hefur þó haldist mun lengur en fram á daga Árna. Þannig er nafnið ritað í manntalinu frá 1801 og enn í sóknarlýsingu séra Hálfdans Einarssonar frá 1840.[52] Þó mun rithátturinn Rekstaðir ekki hafa verið einráður og bæjarnafnið ritað Hreggstaðir í manntali frá 1816.[53]
Til sönnunar því að H-ið í bæjarnafninu hafi á fyrri hluta átjándu aldar komið skýrt fram í töluðu máli skal minnt hér á Jón hrekk, sem tvímælalaust var kenndur við Hreggstaði, og nafnið því líklega verið borið fram Hrekkstaðir á uppvaxtarárum hans og fullvíst að Jón var nefndur hrekkur en ekki rekkur.
Jón Einarsson hrekkur, fæddur um 1685, var sonur Einars Gunnlaugssonar lögréttumanns sem bjó á Hreggstöðum og konu hans, Rannveigar Jónsdóttur úr Flatey. Hann útskrifaðist úr Skálholtsskóla og var um skeið í þjónustu Odds lögmanns Sigurðssonar, m.a. sem lögsagnari á Snæfellsnesi. Jón hrekkur bjó síðar á föðurleifð sinni Hreggstöðum en fluttist héðan í Æðey á Ísafjarðardjúpi þar sem hann andaðist vel fjáður árið 1772. Um Jón er sagt að hann hafi þótt heldur óeirinn og grályndur – var oft kenndur við Hrekkstaði og nefndur „hrekkur”.[54]
Einar sonur Jóns hrekks bjó á Hreggstöðum á síðari hluta 18. aldar. Í bókinni Sagnir Jakobs gamla er birt frásögn Jakobs Aþanasíussonar af manndrápi á Hreggstöðum á búskaparárum Einars þessa Jónssonar og greint frá undankomu hins seka.[55]
Nokkur þjóðsagnablær er á frásögninni en vera kann að þar sé samt sem áður rétt frá greint í meginatriðum, enda voru aðeins um sjötíu ár liðin frá manndrápinu þegar sögumaður hóf sinn búskap á Barðaströnd. Kjarninn í frásögn Jakobs er á þessa leið:
Vinnumaður var á Hreggstöðum er Jón hét, listasmiður og verkmaður góður en ákaflega bráðlyndur. Þar á bænum var einnig unglingspiltur, Guðmundur að nafni, sem flestum þótti bæði latur og leiður. Haustmorgun einn sendi Einar bóndi þá Jón og Guðmund að taka upp í skógi í Haukabergslandi og bera þar saman hrís. Í myrkri um kvöldið kom Jón einn heim og er hann var spurður hví Gvendur kæmi ekki með honum var svarið þetta: Það er af því að ég hjó af honum hausinn og fleygði skrokknum undir hrísköstinn. Við athugun kom í ljós að rétt var frá skýrt. Við yfirheyrslu Davíðs Scheving sýslumanns játaði Jón á sig vígið og var þá strax handjárnaður og fluttur að Haga. Þar var fanginn látinn vinna að smíðum á daginn en færður í járn á hverju kvöldi. Morgun einn um veturinn var Jón þó horfinn er fólk vaknaði og hafði stungið upp lásinn á járnunum. Í heilt ár fannst fanginn hvergi. Jón Ormsson var þá prestur í Sauðlauksdal. Hann grunaði að Davíð sýslumaður hefði sleppt fanganum lausum. Að lokum fannst Hreggstaða-Jón á Knerri í Breiðavík á Snæfellsnesi hjá Latínu-Bjarna og var fluttur aftur að Haga.
Davíð Scheving dæmdi hann nú til dauða fyrir manndráp en dómurinn hlaut að fara til hæstaréttar og fyrir konung. Jón var geymdur í afþiljuðu húsi í öðrum enda baðstofunnar í Haga. Húsið var rammgjört og tvær sterkar slár settar fyrir hurðina að utan. Var þeim læst á kvöldin með tveimur lásum. Jón svaf bæði í háls- og fótjárnum á nóttum og læsti sýslumaður hvorum tveggja á kvöldin og svo fangaklefanum og lauk upp sjálfur á morgnana.
Hér fór þó á sama veg og áður. Hreggstaða-Jón slapp úr fangavistinni á næturþeli. Stakk upp lásana og hafði með stingsög sagað stórt gat á súðina yfir rúmi sínu. Leitað var um allt að fanganum en aldrei fannst hann.
Davíð Scheving sýslumaður andaðist áratugum síðar (árið 1815 – innsk. K.Ó.) en að sýslumanni látnum fannst í plöggum hans og pappírum einkabréf frá Hreggstaða-Jóni, ritað í Hollandi. Jakob Aþanasíusson segir svo frá efni bréfsins:
Þakkar hann þar sýslumanni alla hjálp við sig og segir honum ferðasögu sína. Byrjar hann á því að fyrst hafi hann legið í Hákonarstekknum þrjá sólarhringa, eins og sýslumaður hafi gefið honum ráð til. Sá hann til leitarmanna og kvaðst hafa óttast að þeir fyndu sig þegar þeir riðu upp á Miðvörðuheiði því þá er farið fáa faðma frá stekknum. Eftir það fór hann fjallasýn að Suðureyri í Tálknafirði. Lá hann þar í hlíðinni upp frá bænum þar til er hann fékk færi á að finna Jón bónda einan [sbr. hér Suðureyri í Tálknafirði – innskot K.Ó.]. Tók bóndi við honum og leyndi honum þar í skemmu í tvær vikur. Þá kom þar inn hollensk dugga og voru þeir vinir skipstjóri og bóndi og fékk Jón far með skipstjóra til Hollands. Sagðist hann nú vera kvongaður í Hollandi og sér liði vel.[56]
Tekið skal fram að Jakob nefnir sem heimildarmann að sögunni Helga Sæmundarson á Skjaldvararfossi, fæddan 31. ágúst 1810 í Litluhlíð á Barðaströnd.[57]
Nú er þess að geta að á Alþingi árið 1781 lýsir Davíð Scheving eftir Jóni Jónssyni lífsfanga er hann segir hafa strokið frá sér á þessa árs vortíma.[58] Nær fullvíst má telja að þarna sé kominn Hreggstaða-Jón. Orðið lífsfangi hlýtur að merkja mann sem dæmdur hefur verið til dauða eða ævilangrar fangavistar. Enda þótt Jónsnafnið væri algengt er tæplega hægt að gera því skóna að margir dauðadæmdir Jónar Jónssynir hafi brotist úr járnum í Haga um þetta sama leyti. Að vísu var séra Jón Ormsson enn í Selárdal árið 1781, tók við Sauðlauksdal árið eftir en auðvitað gat hann, burtséð frá því, haft sýslumann grunaðan um hjálp við fangann eins og Jakob greinir frá. Hér verður því haft fyrir satt að lýsing Davíðs Scheving á lífsfanganum Jóni Jónssyni eigi við Hreggstaða-Jón, ekki síst vegna þess sem í lýsingunni segir um hagleik strokumannsins.
Sýslumaður lýsir Jóni svo á Alþingi:
Hann er með hærri mönnum að vexti og nokkuð seinlátur í fasi, luralega vaxinn, lang- og grannleitur, hvítleitur, þó dimmlitaður, dökkjarpur á hár og að mestu svartur á skegg. Almennilega er hann nokkuð drunga og lágmæltur en þegar hann hæðkar raustina verður hann skrækhljóðaður. Hann er brjóstveikur, ber þó stundum lítið á, en stundum liggur hann dögum og vikum saman; hann er lagtækur á tré, járn og látún; hann er á milli 3tugs og fertugs að aldri.[59]
Vonandi hefur Hreggstaða-Jóni batnað brjóstveikin í Hollandi.
Sjósókn var nokkuð stunduð frá Hreggstöðum á fyrri tíð. Í Jarðabók Árna og Páls segir að vorið 1703 hafi gengið héðan þrír bátar, fjögra og fimm manna för. Tvo þessara báta átti Rannveig Jónsdóttir, sem þá bjó ekkja á Hreggstöðum (móðir Jóns hrekks), en áhöfn þriðja bátsins leigði skipsuppsátur og afnot af verbúð hjá Rannveigu en lét á móti heimild til hagagöngu fyrir einn hest og annan að hálfu. Þrjár verbúðir voru þá á Hreggstöðum.[60]
Þrjár hjáleigur munu hafa verið hér á 17. öld. Efri-Hús og Innri-Hús í túninu og Skyrleysa[61] utan við ána. Um síðastnefndu hjáleiguna segir Árni Magnússon árið 1703 að þar hafi búskap verið hætt fyrir nokkrum árum en um hinar tvær getur hann aðeins þess að þær séu í eyði. Á Hreggstöðum er vetrarbeit betri en víðast annars staðar.[62]
Frá Hreggstöðum er aðeins hálfur annar kílómetri að Siglunesi, ysta bæ á Barðaströnd. Þar var öldum saman blómleg verstöð, lengi sú eina á Barðaströnd, nema hvað eitt og eitt inntökuskip reri stundum frá Hreggstöðum (sbr. hér Frá Brjánslæk að Haga – Rauðsdalur þar). Árið 1703 voru fimm ábúendur á Siglunesi og bjuggu þeir á fimm til átta jarðarhundruðum hver.[63] Í manntalinu frá 1801 eru ábúendur aðeins tveir en í manntali frá árinu 1845 eru þeir fjórir.[64] Pétur Jónsson frá Stökkum segir í ritgerð frá fyrri hluta 20. aldar að tvíbýli hafi jafnan verið á Siglunesi og bæirnir nefndir Hærranes og Miðbær.[65] Hann getur einnig um húsmannsbýlið Sæból sem þá hafði verið reist.
Í Jarðabók Árna og Páls segir að á Siglunesi sé unnt að fóðra sex kýr en bætt er við að fyrir fé verði menn alleina að reiða sig uppá útigang og fjöru. Fróðlegt er að sjá hver heildarbústofninn var hjá þeim fimm bændum sem bjuggu á Siglunesi árið 1703: 6 kýr, 2 kvígur, 28 ær, 2 sauðir, 3 gemlingar og einn hestur. Nær alla þessa fáu gripi áttu landeigendur.[66] Fólkið hefur lifað mest á því sem úr sjónum fékkst. Tekið er fram í Jarðabókinni frá 1703 að verstaða sé á Siglunesi frá sumarmálum og fram til Jónsmessu. Fimm verbúðir voru þá hér og hétu þessum nöfnum: Sveinssonarbúð, Ólafsbúð, Torfabúð, Staðarmannabúð og Bjarnabúð. Þrjár þessara búða átti Ari Þorkelsson, sýslumaður í Haga, en tvær Guðrún Eggertsdóttir ríka í Bæ á Rauðasandi. Þau Ari og Guðrún voru þá eigendur Sigluness, nema hvað Sauðlauksdalskirkja átti þriðjung jarðarinnar. Áður höfðu verbúðirnar verið sjö en tvær voru nú niður fallnar.[67]
Jarðabókin nefnir ekki Skottabúð, sem svo var kölluð, en þar þótti jafnan ákaflega reimt. Hafði hauskúpu Sveins skotta (sjá hér Frá Brjánslæk að Haga, bls. 4-7 þar) að sögn rekið á Siglunesi og hún verið grafin í haug fram undan dyrum verbúðar þessarar.[68]
Vorið 1703 reru fimm bátar frá Siglunesi. Voru það þrjú fjögra manna för, eitt fimm manna far og einn sexæringur. Fjóra þessara báta átti Ari sýslumaður í Haga en einn átti Guðrún Eggertsdóttir í Bæ. Árni Magnússon tekur fram að tveir þessara báta, þ.e. einn frá Ara og annar frá Guðrúnu, rói árið um kring og séu bændur á Siglunesi formenn á þeim.[69]
Um útgerðina á Siglunesi árið 1703 hefur Árni Magnússon skráð býsna fjölþættar upplýsingar sem allar fylgja Jarðabókinni. Meðal þess sem þar kemur fram er þetta:
Formenn og hásetar sem reru frá Siglunesi urðu að gjalda landeigendum, sem líka áttu bátana, tvo fjórðunga í fiski hver og hafa það verið tíu kíló á mann af verkuðum harðfiski. Heimamenn á Siglunesi sluppu þó við þennan vertoll og í fiskleysisárum var tollurinn eitthvað lægri. Dæmi voru þess að landeigendur á Siglunesi lánuðu skipshöfnum ketil til að sjóða mat sinn í. Fyrir leigu á slíkum katli voru þá tekin fimm kíló af fiski af hverjum manni. Af skipshlutnum fengu landsetar Guðrúnar þrír, er á Siglunesi bjuggu, að hirða hausa og slóg og þóttu hlunnindi. Formenn höfðu sama hlut og aðrir en var þó stundum ívilnað án þess fastar reglur væru til um slíkt. Búðavið lögðu jarðeigendur til en vermönnum var ætlað að byggja upp búðirnar. Í þjónustukaup var goldinn einn dráttur úr hverjum róðri eða tveir fiskar af hverju hundraði, hvort sem minna var. Eigendur bátanna lögðu til segl og allar færur og tóku fyrir það einhverja greiðslu. – Lóðar brúkast aldrei, segir þar, – langræði í mesta máta. Til beitu er fiskur.[70]
Árni Magnússon getur reyndar um sitthvað fleira og nefnir m.a. að á Siglunes sæki verfólk af Barðaströnd, útfrá Hvammi. Má því ætla að frá innstu bæjunum á Barðaströnd hafi menn ekki róið frá Siglunesi í byrjun 18. aldar, enda tekið fram á öðrum stað í Jarðabókinni að tvö skip frá Brjánslæk séu gerð út frá Oddbjarnarskeri.[71]
Ljóta sögu segir Árni af viðskiptum Jóns Steingrímssonar, sem þá hafði fyrir skömmu búið á Siglunesi, og Guðrúnar Eggertsdóttur ríku í Bæ. Jón á Siglunesi hafði tekið hest á leigu hjá landsdrottni sínum, Guðrúnu í Bæ. Vegna heyleysis á Siglunesi dó hesturinn úr megurð. Í fimm ár varð Jón að greiða Guðrúnu leigur fyrir þennan dauða hest og síðan að borga hann með sex vættum, sem var fullt kýrverð. Ekki nóg með þetta, – leigur fyrir tvær dauðar kýr varð Jón að borga í fjögur ár og leigur fyrir tólf dauðar ær í sautján ár en var þó að lokum látinn borga Guðrúnu bæði kýrnar og ærnar fullu verði með ungum gripum.[72] Það hefur mörgum kotbóndanum á Barðaströnd og Rauðasandi orðið þröngt fyrir dyrum á velmektarárum Guðrúnar ríku en í sveitum þessum og víðar átti hún fjölda jarða (sjá hér Saurbær á Rauðasandi).
Kunnastur bænda og sjósóknara á Siglunesi er líklega Bjarni Þórðarson sem hér bjó um 1800 og á fyrri hluta 19. aldar. Séra Ólafur Sívertsen í Flatey ritaði æviminningu Bjarna og er hún birt í þriðja árgangi tímaritsins Gestur Vestfirðingur. Hér verður byggt á því sem séra Ólafur segir í æviminningunni[73] nema annarra heimilda verði getið.
Bjarni Þórðarson á Siglunesi var fæddur á Firði í Múlasveit 9. nóvember 1761. Í æsku var hann námfús en átti þess lítinn kost að afla sér menntunar. Ungur fór hann til róðra í Oddbjarnarskeri og þar gafst honum tími til að iðka sig í að skrifa og nema eitt og annað … og naut þar umgengni og kynningar við ýmsa menn úr öðrum héruðum. Er Bjarni óx úr grasi þótti mönnum hann vera einhver hinn röskvasti maður, greindasti og ráðdeildarmesti til hvers er vera skyldi.
Tæplega þrítugur að aldri sigldi Bjarni með Flateyjarskipi til Kaupmannahafnar. Þar dvaldist hann veturinn 1790-1791 og nam skinnaverkun. Sumarið 1791 kom hann aftur heim og kvæntist þá um haustið Sigríði Jónsdóttur, sem þá hafði verið ekkja í 12 ár en áður var gift séra Guðbrandi Sigurðssyni á Brjánslæk (sjá hér Brjánslækur), er hrapað hafði til bana í Reiðskörðum. Er Bjarni kvæntist Sigríði bjó hún í Efri-Rauðsdal á Barðaströnd og tók hann þar við búsforráðum en fáum árum síðar fluttust þau á Siglunes.
Séra Ólafur segir að fyrir utanför sína hafi Bjarni verið beðinn um að gerast ráðsmaður hjá ekkjunni en hann ekki gefið þess kost nema hann fengi konunnar. – Komu orðræður þar þá niður að hann skyldi utan fara til menningar sér.
Í manntali frá árinu 1801 er Bjarni á Siglunesi nefndur sáttanefndarmaður og peltsemager sem mun þýða sútari.[74] Þá er líka hjá Bjarna nítján ára lærlingur í sútaraiðn, Magnús Árnason að nafni. Í þessu sama manntali er Bjarni sagður fertugur að aldri en Sigríður kona hans tólf árum eldri. Þau eru barnlaus en Sigríður átti nokkur börn af fyrra hjónabandi.
Bjarni var formaður í 50 ár. Þá var útræði gott á Siglunesi … og voru jafnan bestir hlutir með hans skipi. Var hann hinn fyrsti, er tók upp fiskilóðir í þeirri verstöðu, segir séra Ólafur. Bjarni var um skeið hreppstjóri á Barðaströnd og hann hóf þar fyrstur manna kályrkju.
Er Ólafur Thorlacius hóf skútuútgerð frá Bíldudal árið 1806, fyrstur manna á Vestfjörðum, gengu fáeinir menn í félag með honum um skútukaupin. Einn þeirra var Bjarni á Siglunesi. Í æviminningu Bjarna ritar séra Ólafur Sívertsen svo:
Gjörðist hann þá [þegar skútuútgerðin hófst – innsk. K.Ó.] formaður fyrir 20 lesta skútu, er hann átti hlut í. En af því að aflinn varð eigendum þeim, er til sveita voru, óhagfelldur og svaraði ekki kostnaðinum, verslunin bæði bág og ískyggileg um það leytið er 7 ára stríðið hófst, gekk Bjarni eins og aðrir úr félaginu og þótti óvaltari og notasælli hinn heimafengni afli.
Það 7 ára stríð, sem þarna er talað um, hlýtur að vísa til áranna 1807 til 1814, það er tímans frá því Englendingar réðust á Kaupmannahöfn og tóku danska flotann og þar til friður var saminn í Kiel. Á þessum árum var hér siglingateppa og verslunin ærið bág og ískyggileg eins og séra Ólafur nefnir.
Af þessum orðum er ljóst að Bjarni hefur verið skútuskipstjóri skamma hríð 1806 eða 1807, fyrstur allra Vestfirðinga (sbr. hér Litli- og Stóri-Laugardalur í Tálknafirði). Skútan sem Bjarni á Siglunesi stýrði fyrir Ólaf Thorlacius mun hafa verið Metta.[75]
Sumarið 1817 fékk Guðmundur Scheving í Flatey Bjarna á Siglunesi til að vera um tíma á fiskiskútu sem þann er kunnugastur væri fiskimiðum í Breiðaflóa norðan fram. Einmitt þetta sumar var þilskip fyrst gert út frá Flatey (sjá Flatey), skútan De tre Söskende sem Scheving keypti það ár frá Danmörku. Líklega hefur Bjarni átt að vera eins konar fiskilóss um borð. Hann var þá orðinn 55 ára og undi illa vistinni. Um það ritar séra Ólafur:
… geðjaðist þá Bjarna lítt að háttalagi skipsmanna, þótti þeir einráðir og munaðarlífir og óhúsbóndahollir. Gekk hann því af skútunni. Þegar hann yfirgaf skútuna mælti hann fram stöku þessa:
Á jaktinni eyddist flest
efnin þurfti að hafa hvur;
en guðsóttinn entist best,
því aldrei var hann brúkaður.
Til er önnur kenning um höfund vísu þessarar (sjá hér Garðar Í Mosvallahreppi) en telja verður líklegt að séra Ólafur fari hér með rétt mál, enda var hann sjálfur starfandi við rekstur Guðmundar Scheving í Flatey þegar Bjarni gekk af jaktinni og honum nákunnugur. Af öðrum kveðskap Bjarna má nefna Arnarfjarðarsálm sem varðveittur er í handriti[76] en þar fjallar hann um upplýsingu og galdratrú.
Bjarni á Siglunesi hefur verið fáum mönnum líkur. Hann var ekki aðeins einhver mesti fiskimaður við Breiðafjörð heldur lagði hann sig einnig eftir margvíslegum menntum þó að ekki væri hann skólagenginn. Séra Ólafur segir svo frá:
Hið fyrsta sem hann byrjaði á var Edda, sem hann svo að segja kunni utan að og gat heimfært upp á önnur skáldskaparrit. … Allar fornsögur Íslendinga og aðrar í íslensku ritaðar, þær er hann hafði yfirfarið, mundi hann svo að hann gat sagt upp úr sér öll aðalatriði þeirra. Mannkynssöguna (eftir Abrah. Kall) mundi hann svo að gömlu söguna kunni hann utan að orðrétt í dönsku. … Í landskipunarfræði var hann engu síður að sér en lærðir menn og á náttúru- og stjörnufræði vissi hann betri grein en flestir aðrir. … Guðfræðin var samt óðindæli hans og stundaði hann hana mest af öllu, einkum á sínum efri árum.
Um tungumálakunnáttu Bjarna segir séra Ólafur:
Danska tungu skildi hann mætavel. Um fertugsaldur var hann kominn svo langt í þýsku máli að hann gat viðstöðulítið í lestri snúið þýsku á danska tungu. Þá tók hann að leggja sig eftir enskri tungu og las til þess enska biblíu aftur og aftur. Gat hann þannig komist niður í skilningi málsins þó að hann gæti ekki numið framburðinn. Árið 1830 kom undir Sigluneshlíðar enskt skip, er leitaði eftir hafís. Var þar enginn innanborðs, sem skildi dönsku eða þýsku. Bjarni fór til skipsins og er hann vissi hverja tungu skipverjar töluðu tók hann krít og ritaðist á við formanninn og gátu þeir þannig skilið vel hvor annan.
Um læknislist Bjarna á Siglunesi segir séra Ólafur að hann hafi næstum kunnað utanbókar þýska lækningabók er út var gefin 1796. – Blóðtökur heppnuðust honum mætavel. Var það bæði að hann var sóttur til sjúkra og vanheilir menn leituðu til hans hjálpar og ráða. Fyrir björgun manna úr sjávarháska var Bjarni sæmdur heiðurspeningi úr gulli er talinn var 100 spesía virði – átti hann að bera hann á brjóstinu í rauðu bandi að mannfundum.
Í æviminningunni er skráð allítarleg lýsing á útliti og skapgerð Bjarna og segir þar m.a.:
Bjarni var með hærri meðalmönnum á vöxt, réttvaxinn og beinvaxinn, herðabreiður og nokkuð útlimagrannur, höfuðið var stórvaxið, ennið mikið og hátt, brýnnar miklar, nefið lítið og slétt og hafið upp að framan, kinnbeinin lágu hátt, augun dökk, hýr og gáfuleg. Hann var dökkur á hárslit og rjóður í andliti. Svipur hans var jafnan hýr og einarðlegur, hreinskilinn og ljúfmannlegur. Rödd hans var hvell og skír, talandinn mikill og hraður, söngröddin lág en ei óþægileg. Hann var jafnan léttur og frár á fæti, lagvirkur og lipur í handtökum öllum. Hann var hreysti- og kraftamaður, glímumaður frækinn og góður sjófaramaður. Geðfar hans var blítt og skemmtið og mátti svo að orði kveða að hann breytti aldrei sinni sínu.
Séra Ólafur gerir nokkra grein fyrir skáldskap Bjarna á Siglunesi og tilraunum hans til að þýða sitthvað úr erlendum málum. Nefnir þar m.a. Tilraun um manninn eftir Alexander Pope og segir lærða menn telja útleggingu Bjarna auðveldari en þýðingu séra Jóns Þorlákssonar á Bægisá á sama verki. Meðal frumsaminna kvæða Bjarna segir séra Ólafur þrjú vera um svefninn, tvö um fríviljann, – en hið síðasta kvæði, er hann orti, þá er hann var algjörlega lagstur í rúmið, var draumvitrun um ölæði presta.
Séra Ólafur tekur fram að allan síðari helming ævi sinnar hafi Bjarni þjáðst af svefnleysi og því sem hann nefnir Scorbutisk sjúkdóm (skyrbjúg?) er verið hafi ættarfylgja. Um baráttu hins margfróða sjósóknara á Siglunesi við sjúkdóma þessa og um endalok Bjarna ritar Ólafur prófastur svo:
Sögðu það læknar, þeir er til þekktu, að þess væru fá dæmi að nokkur maður hefði eins vel og hann varist áhrifum sýki þessarar. Valdi hann oftast sjálfur meðöl þau, er hann brúkaði, voru það bæði útvortis og innvortis hreinsanir, heitar laugar og fleira. En loksins lagðist hann rúmfastur í sýki þessari og lá lengi sumars, jafnan þó með fullri rænu og fjörugum þolgæðisanda, uns hann burtkallaðist frá þessu lífi 1. dag ágústmánaðar 1842.
Síðustu árin hafði Bjarni látið af búskap og leigt jörðina öðrum. Hann bjó þá á Siglunesi sem grashúsmaður og hefur þá enn notið kunnáttu sinnar í sútaraiðn því að í manntali frá árinu 1835 er hann nefndur hanskamakari.[77]
Hér hefur verið dvalið lengi við Bjarna Þórðarson, enda er hann verðugur fulltrúi fyrir alla þá er sótt hafa sjó frá Siglunesi á liðnum öldum. Að lokum skal minnt á gamla sögu um fund þeirra Bjarna og stjúpsonar hans, Gunnlaugs Guðbrandssonar, er nefndi sig Briem og lengst var sýslumaður á Grund í Eyjafirði.
Gunnlaugur var erlendis við nám er móðir hans giftist Bjarna. Átta árum síðar kom hann heim, hafði þá lokið námi í höggmyndasmíð og dönskum lögum. Nú hét hann Gunnlaugur Briem og hafði fyrstur manna tekið upp það nafn, ættfaðir allra Briema (sjá hér Brjánslækur).
Sagt var að Gunnlaugi hafi þótt móðir sín taka niður fyrir sig er hún giftist Bjarna. Frá komu Gunnlaugs Briem að Siglunesi árið 1799 segir svo í Vestfirskum sögnum:
Hann fer þá út að Siglunesi en tjaldar niður við sjóinn og vill ekki fara heim til bæjarins. Þaðan gerir hann móður sinni boð að finna sig. Verður hún ekki við þeirri ósk en sendir honum skilaboð og biður hann að minnast þess að þegar hann hafi verið ungur og þurft hjálpar með þá hafi hann komið að hnjánum á sér og hafi hún þá hjálpað honum. Sama geti hann gert enn ef hann sé hjálparþurfi. Þegar Gunnlaugur fær þessa orðsendingu leggur hann af stað frá tjaldi sínu, fer heim til móður sinnar og sest á tal við þau Bjarna. Er mælt að Gunnlaugur hafi þá heilsað Bjarna á útlendri tungu og Bjarni gefið viðeigandi svar á sama máli. Finnur Gunnlaugur þá að stjúpi sinn er greindur vel og fellur hann vel í geð, enda var Bjarni engu síður búinn andlegum kostum en líkamlegu atgervi og bar skyn á margt.[78]
Á síðustu árum Bjarna fór að dofna yfir sjósókn frá Siglunesi. Í sóknarlýsingu séra Hálfdans Einarssonar frá árinu 1840 segir:
Veiðistaða í sveitinni er Siglunes. En frá sumarmálum til elleftu viku sumars rær almenningur í þeim veiðistöðum í Sauðlauksdalsprestakalli sem nefnast Breiðavík, Brunnar og Keflavík, hvar mest aflast af steinbít og hann oftar vel.[79]
Þessi orð verða ekki skilin á annan veg en svo að um 1840 hafi lítið verið um róðra frá Siglunesi á vorvertíð. Trúlega hefur þá einkum verið róið héðan á haustin því séra Hálfdan segir á sama stað: Fiskveiðarnar eru stundaðar einkanlega haust og vor og það sýnist sem þeim sé að fara fram, nema hákarlaveiðar mislukkast nú miklu oftar en áður þegar þiljuskip voru engin.[80] Í sóknarlýsingunni tekur séra Hálfdan einnig fram að á haustin séu þorskur og ýsa veidd á lóðir en annars sé notast við haldfæri og hrognkelsi veidd í net.
Í tímaritinu Gesti Vestfirðingi, fyrsta árgangi frá árinu 1847, segir að veiðistaða á Siglunesi liggi þá niðri.[81]
Um 1890 bjó á Siglunesi Erlendur Kristjánsson, síðar bóndi á Hvallátrum í Rauðasandshreppi. Hann reri þá frá Brunnum og flutti aflann heim á tólfæring sínum, Agli.[82]
Um það leyti sem útræði lagðist niður frá Siglunesi, skömmu fyrir miðja 19. öld, var þessa vísa kveðin um hina gömlu veiðistöð:
Örbirgð laðar lýð að sér
lífs er skaði búinn,
veiðistaðan aflögð er,
aflinn þaðan flúinn.[83]
Lítið mun hafa verið um sjósókn frá Siglunesi eftir miðja 19. öld[84] en heimamenn skutust þó stundum á sjó.[85] Enn voru fjögur heimili á Siglunesi árið 1845 og ekki var þá margbýlla annars staðar á Barðaströnd.[86] Líklega hefur fólki verið farið að fækka hér er Jón Thoroddsen sýslumaður sat í Haga á árunum 1855-1862. Þorvaldur Thoroddsen, sonur hans, kunni þessar sögur frá þeim árum:
Sigmundur drottinskarl bjó sem einsetumaður í gömlum fjárhúsum á marbakka úti við Siglunes. Gerðu strákar honum þar margar glettur og skráveifur, byrgðu eitt sinn glugga hans svo hann svaf tvær nætur og dag á milli í bóli sínu af því hann sá aldrei birtu. Þeir hlóðu upp snjókerlingu um kvöld á haug fyrir framan kofadyr hans. Svo þegar Sigmundur kom út í hálfdimmu hélt hann þar væri komin einhver forynja, ávarpaði hana mörgum fríunarorðum en þegar hann ekkert svar fékk sótti hann hákarlasveðju og lagði í gegn snjókerlinguna en fylgdi svo fast laginu að hann stakkst sjálfur á höfuðið niður fyrir hauginn.
… Það var víst Sigmundur, sem eitt sinn kom að Haga úr kaupstað, var mikið niðri fyrir með öndina í hálsinum, sagði skip komið með ljót tíðindi, það væri komið grimmasta stríð og þrír kongar farnir að berjast: Danmerkurkongur, Kaupmannahafnarkongur og hérna-kongur.[87]
Á Siglunesi er svipmikið um að litast og sér vítt um Breiðafjörð. Fólkið er farið (1988), allt nema einn maður, en samspil hafs og lands heldur áfram. Verbúðatóttirnar tala sínu þögla máli. Þær minna á niðurlægingu landseta Guðrúnar ríku og þá endurreisn mannlegrar virðingar sem fylgdi hagmælta sútaranum Bjarna Þórðarsyni hér á Siglunesi.
Frá Siglunesi er hálftíma gangur um grónar grundir út að Ytranesi. Talið er að þar hafi verið útræði á fyrri öldum[88] en fátt er um það kunnugt. Einum kílómetra fyrir utan Ytranes fellur svolítil á til sjávar og heitir Siglá. Þegar komið er yfir hana þrýtur gróðurlendið. Eru Sigluneshlíðar þaðan í frá brattar í sjó fram og heldur óárennilegar. Á þeim er fjallsbrúnin í nokkuð breytilegri hæð, 563 metrar skammt fyrir utan Siglá, þar sem heitir Mávaskor, lækkar svo nokkuð en vestast rís Stálfjall, 650 metra hátt. Þar eru hreppamörk milli Barðastrandarhrepps og Rauðasandshrepps. Undir Stálfjalli heitir Stálhlein við sjóinn en vestan við fjallið taka Skorarhlíðar við, einnig sæbrattar.
Frá Siglá að Stálhlein eru um sjö kílómetrar. Gönguleiðin fyrir Stálfjall um Siglunes- og Skorarhlíðar er harla erfið á hásumardegi og ekki hættulaus. Á vetrum má hún heita ófær. Frá Siglunesi að Melanesi, sem nú er innsti bær í byggð á Rauðasandi, eru um sautján kílómetrar sé farið fyrir Stálfjall. Fyrir Stálhlein undir Stálfjalli er aðeins fært um háfjöru og víðar eru forvaðar á þessari leið.[89] Um skriðurunnar og snarbrattar hlíðar Stálfjals var aðeins fært um þrú einstigi og ekki talið forsvaranlegt að ókunnugir færu þar um nema í fylgd kunnugra.[90] Önnur leið var stundum farin frá Siglunesi á Rauðasand og liggur hún um Göngumannaskörð í fjallgarðinum Skarðabrún (sjá hér Frá Sjöundá að Saurbæ). Sú leið er mjög brött og aðeins fær gangandi mönnum og skörðin í brúninni í yfir 600 metra hæð. Fjárbeit er góð á Sigluneshlíðum og þar á fjörunum árið um kring[91] en erfið hlýtur smalamennskan að vera.
Á miðjum Sigluneshlíðum klýfur örmjó dalskora fjallsbrúnina og steypist þar niður lækur sem Fossá heitir. Þar sem lækurinn rennur til sjávar eru einu grónu sjávarbakkarnir á langri leið. Í sóknarlýsingunni frá 1840 er getið um eyðikotið Hústún á Sigluneshlíðum[92] og þarna á bökkunum skal það hafa verið samkvæmt nýlegu korti frá Landmælingum Íslands.[93] Þessu verða þeir að trúa sem til þess treysta sér en hér verður fyrirvari á hafður, svo naumt er landrýmið skammtað á þessum stað. Pétur frá Stökkum bendir á að þarna kynnu að hafa verið beitarhús frá Siglunesi.[94] Er sú tilgáta líklegri þó að ekki megi útiloka að einhver volaður hafi fyrr eða síðar gert tilraun til búskapar á beitarhúsunum í trausti á útiganginn.
– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –
[1] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 280-281.
[2] Guðmundur Einarsson 1951, 73 (Árbók Barðastrandasýslu.).
[3] Jarðabók Á.og P. VI, 281. Sóknalýsingar Vestfjarða I, 199.
[4] Gestur Vestfirðingur III, 108-109.
[5] Sóknalýs. Vestfj. I, 201.
[6] Sama heimild, 199.
[7] Manntal á Íslandi 1845.
[8] Sóknalýs. Vestfj. I, 204.
[9] Þjóðólfur V, 16.4.1853, bls. 58.
[10] Sama heimild.
[11] Þorvaldur Thoroddsen 1922, 118 (Lýsing Íslands IV).
[12] Þjóðólfur IX, 25.4.1857, bls. 94.
[13] Þjóðólfur IX, 25.4.1857, bls. 94.
[14] Sóknalýs. Vestfj. I, 201.
[15] Jarðab. Á. og P. VI, 282-283.
[16] Pétur Jónsson 1942, 80 (Barðstrendingabók).
[17] Ísl. æviskrár III, 432.
[18] Ísl. æviskrár I, 237.
[19] Þjóðsögur J.Á. IV, 231.
[20] Lýður Björnsson 1967, 35 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).
[21] Guðmundur Einarsson 1951, 72-73 (Árbók Barðastrandarsýslu).
[22] Böðvar Guðjónsson, Tungumúla. – Viðtal K.Ó. við hann 10.8.1988.
[23] Sagnaþættir Fjallkonunnar 1953, 42.
[24] Sama heimild, 43.
[25] Sigríður Guðbjartsdóttir Láganúpi. – Viðtal K.Ó. við hana 8.8.1988.
[26] Jarðab. Á. og P. VI, 284. Sóknalýs. Vestfj. I, 199. Manntöl 1801, 1816, 1845, 1901, 1910, 1920, og 1930.
[27] Pétur Jónsson 1942, 81 (Barðstrendingabók).
[28] Guðmundur Einarsson 1951, 77 (Árbók Barð.).
[29] Sturlunga saga I, 388-394.
[30] Sama heimild, 391 og 395.
[31] Sama heimild, 419.
[32] Sturlunga saga I, 419.
[33] Lögréttumannatal, 541-542.
[34] Þjóðsögur J.Á. IV, 30.
[35] Jarðabók Á. og P. VI, 284.
[36] Pétur Jónsson 1942, 80 (Barðstrendingabók).
[37] Árbók Barðastrandarsýslu 1954, 118.
[38] Sbr. Örnefnastofnun/ Bjarni Þorvaldsson, örnefnalýsing Holts.
[39] Þórður Marteinsson. – Viðtal K.Ó. við hann.
[40] Sama heimild.
[41] Örnefnastofnun – örnefnalýsing Holts á Barðaströnd.
[42] Þórður Marteinsson. – Viðtal K.Ó. við hann. Ari Ívarsson frá Melanesi. – Viðtal K.Ó. við hann.
[43] Örnefnastofnun/Ari Gíslason, lýsing Skarða sem eru óbyggt fjalllendi í Rauðasandshreppi.
[44] Örnefnastofnun/Bjarni Þorvaldsson, örnefnalýsing Holts á Barðaströnd.
[45] Ari Ívarsson frá Melanesi. – Viðtal K.Ó. við hann.
[46] Þórður Marteinsson. Viðtal K.Ó. við hann.
[47] Gunnar Guðmundsson á Skjaldvararfossi. – Viðtal K.Ó. við hann 11.8.1988.
[48] Sama heimild.
[49] Jarðabók Á. og P. VI, 286.
[50] Ólafur Lárusson 1952, 14 (Árbók Barðastrandasýslu).
[51] Sama heimild.
[52] Sóknalýs. Vestfj. I, 199. Manntal 1801.
[53] Manntal 1816.
[54] Ísl. æviskrár III, 98.
[55] Þorsteinn Erlingsson / Jakob Aþanasíusson 1933, 112-115.
[56] Þorsteinn Erlingsson / Jakob Aþanasíusson 1933, 115.
[57] Sama heimild. Prestsþjónustubækur og sóknarmannatöl Brjánslækjar.
[58] Alþingisbækur Íslands XVI, 42.
[59] Alþingisbækur Íslands XVI, 42.
[60] Jarðab. Á. og P. VI, 287.
[61] Sama heimild.
[62] Jóhann Skaptason 1959, 105 (Árbók F.Í.).
[63] Jarðab. Á. og P. VI, 287-288.
[64] Manntöl 1801 og 1845.
[65] Pétur Jónsson 1942, 81-82 (Barðstrendingabók).
[66] Jarðab. Á. og P. VI, 287-290.
[67] Sama heimild.
[68] Pétur Jónsson 1942, 82.
[69] Jarðab. Á. og P. VI, 290.
[70] Jarðab. Á. og P. VI, 289-291.
[71] Jarðab. Á. og P. VI, 271 og 290.
[72] Sama heimild, 289.
[73] Gestur Vestfirðingur III, 108-123.
[74] Manntal 1801.
[75] Gils Guðmundsson 1977, I, 84-85 (Skútuöldin).
[76] ÍB 979 b.8vo
[77] Manntal 1835.
[78] Vestfirskar sagnir I, 116.
[79] Sóknalýs. Vestfj. I, 200.
[80] Sóknalýs. Vestfj. I, 200.
[81] Gestur Vestfirðingur I, 15.
[82] Ásgeir Erlendsson. – Viðtal K.Ó. við hann 9.8.1988.
[83] Lúðvík Kristjánsson 1982, 53.
[84] Sama heimild.
[85] Guðmundur Einarsson 1954, 43-48 (Árbók Barð.).
[86] Manntal 1845.
[87] Þorvaldur Thoroddsen 1922, 42 (Minningabók).
[88] Guðmundur Einarsson 1951, 70 (Árbók Barð.).
[89] Ari Ívarsson frá Melanesi/Árbók Barðastr.sýslu XIII, 8-9.
[90] Sama heimild.
[91] Pétur Jónsson 1942, 82 (Barðstrendingabók). Jóhann Skaptason 1959, 106 (Árbók F.Í.).
[92] Sóknalýs. Vestfj. I, 201.
[93] Uppdráttur Íslands. Blað 13, útg. 1965.
[94] Pétur Jónsson 1942, 82 (Barðstrendingabók).