Gerðhamrar

Gerðhamrar eru forn bújörð sem árið 1710 var talin 24 hundruð að dýrleika (sjá hér bls. 5) og á land frá MiðlendislækArnarnesá. (Sjá hér bls. 5) Strandlengjan í landareign Gerðhamra er rösklega tveir kílómetrar á lengd og álíka langt frá bænum að ytri og innri landamerkjunum. Á Gerðhamradal sem skerst inn í landið lítið eitt utan við bæinn eiga Gerðhamrar allt land innan við Arnarnesá en þar á dalnum er gott beitiland fyrir sauðpening[1] þó hrjóstrugur sé hann talinn.

Utan við landamerki Alviðru og Gerðhamra fara sjávarbakkarnir hækkandi og Gerðhamrabærinn stendur á háum bökkum mjög skammt frá sjó. Fjallið yfir bænum heitir Gerðhamrahorn og nær frá landamerkjum á móti Alviðru að Gerðhamrahvilft sem er alllangt fram á Gerðhamradal.[2] Fjallið er allt hömrum girt hið efra og brúnir þess í um og yfir 700 metra hæð.

Innan og ofan við túnið á Gerðhömrum eru mjög sérkennilegar klettaraðir sem telja má nær fullvíst að séu gerðhamrarnir sem litið var til þegar bænum var gefið nafn. Séra Jón Sigurðsson, sem átti heima á Gerðhömrum frá 1837 til 1853, lýsti fyrirbærinu svo:

 

Inn og upp af bænum gengur tún og tví-þrísett klettagirðing ofan frá fjallsrótum ofan að túninu. Sú innsta girðingin er mest og er sums staðar á að líta sem hlaðinn veggur. Í hinum er grjót dökkleitt sem líkist að lögun flötum og þrí- og ferrendum brýnissteinum. Eru sumir alin að lengd og þeir lengstu ein og hálf alin …. Beint niður undan áðurnefndri klettagirðingu byrjar önnur, álíka að lögun og grjóti niðri undir bökkunum og gengur þar fram í sjó. Þar í vex skarfakál. Af þessum girðingum dregur bærinn nafn.[3]

 

Þessi lýsing séra Jóns Sigurðssonar er enn í fullu gildi og í raun óþarft að bæta þar nokkru við en til glöggvunar er rétt að teka fram að gamli bærinn á Gerðhömrum stóð þar yst í túninu, út undir Gerðhamrahrygg og var fyrir neðan þjóðveginn sem nú liggur um túnið.[4] Þorvaldur Thoroddsen, sem var menntaður náttúrufræðingur og kom að Gerðhömrum árið 1887 á ferð sinni um Ísafjarðarsýslu, gefur okkur samt nánari skýringu á myndun þessara klettaraða. Hann ritar: Hjá Gerðhömrum koma stórir gangar fram í fjallshorninu og hefur etist frá þeim svo þeir standa eins og háar bríkur og girðingar upp úr jarðveginum. Líklega hefur bærinn tekið nafn af þessum tröllahlöðum.[5]

Að sögn Kristjönu V. Jónsdóttur, sem fæddist á Arnarnesi árið 1904 og átti heima á Gerðhömrum frá 1914 til 1920, hétu tröllahlöðin, sem Þorvaldur nefnir svo, Gjarðir í munni heimafólks.[6] Sagt var: Farðu upp í Gjarðir og það er uppi í Gjörðum.[7]

Eins og nærri má geta töldu margir að álfar byggju í þessum klettabríkum á Gerðhömrum. Í Vestfirskum sögnum segir meðal annars svo um þetta:

 

Það var almenn trú hér vestra að í álfabyggðunum við Gerðhamra væru yfirmenn allra álfa á Vestfjörðum. Þar bjó biskup þeirra álfanna og fleiri höfðingjar. … Mest þótti bera á álfafólkinu á Gerðhömrum um jóla- og nýársleytið. Sáust þá oft stórir hópar álfa, ýmist við skemmtanir og gleði eða við flutninga. Sjálfsagt þótti heimafólki á Gerðhömrum að haga svo nábýli við huldufólkið sem best mátti. Börnum var stranglega bannaður hávaði og ill læti í nánd við klettana. … Gamalt fólk hefur frá því sagt að það hafi heyrt fluttar messur í klettum þessum, oftlega sáust þeir og uppljómaðir eins og ljóshaf væri. Stúlka ein var á ferð í dimmviðri í nánd við klettana. Villtist hún fast að þeim og heyrði þá hringt þar til tíða. Staldraði stúlkan þá við um stund og heyrði flutta hámessu. Virtist henni það allt sem hjá mennsku fólki.[8]

 

Fleiri sögur af líku tagi er tengjast Gerðhömrum mætti tína til en allt er efni þeirra á eina bók lært. Þess er þó vert að geta að skammt ofan við Gerðhamratúnið en dálítið utan við Gjarðirnar er stakur klettur sem stendur neðan við grasbala og heitir Kirkjuklettur.[9] Nafnið bendir til þess að þar hafi álfakirkja verið talin vera.

Utan við túnið á Gerðhömrum liggur hár grjóthryggur ofan úr fjalli og niður á brún sjávarbakkanna. Hryggur þessi, sem heitir Gerðhamrahryggur,[10] byrgir fyrir allt útsýni frá bænum út með fjarðarströndinni en frá Gerðhömrum er fagurt að líta yfir Dýrafjörð þar sem fjallið Arnarnúpur blasir við beint á móti, rétt innan við Keldudal. Séra Jón Sigurðsson, sem átti heima á Gerðhömrum í 16 ár, taldi að grjóthryggurinn mikli, sem hér var nefndur, væri holur innan og færði rök fyrir þeirri kenningu með þessum orðum:

 

Það ber til, sér í lagi fram af sumri, að heyrist innan í hryggnum sem bjarg detti og falli niður í djúpan afgrunn. Það hefur skeð þrisvar, síðan ég kom hér (nú á þriðja ári), og áður er mælt, að það hafi við borið, hvers vegna ég meina, að hryggurinn kunni einhversstaðar að vera holur, djúpt í jörðu, og hrynji þar inni steinar niður.[11]

 

Öðru náttúrufyrirbrigði veitti séra Jón Sigurðsson líka athygli á fyrstu árunum sem hann bjó á Gerðhömrum og lýsir því svo:

 

Nokkru utar [þ.e. utan við Gerðhamrahrygg – innsk. K.Ó.] finnast oft og árlega surtarbrandsstykki sundurmoluð af sjó rekin, og vita menn að klömp eða klöpp er þar fram í sjónum, sem ekki fellur sjór fullkomlega af, hvaðan hann [surtarbrandurinn] brotnar upp, helst í haust- og vetrarbrimórum, og sjávargangi.[12]

 

Klömpin, sem prestur talar þarna um, mun heita Surtarbrandsklettur og er framarlega en heldur innantil í Steinsvogi, lítið eitt utan við Gerðhamrahrygg.[13]

Skilyrði til heyskapar þóttu heldur slæm á Gerðhömrum og munu skriður snemma hafa spillt þar slægjulöndum.[14] Tún er ekki grasgefið og útslægjur litlar, segir séra Jón Sigurðsson í sóknarlýsingu sinni frá árinu 1840 en lætur þess jafnframt getið að vetrarbeit sé góð á Gerðhömrum, bæði í fjörunni og annars staðar.[15] Helstu engjalönd Gerðhamrabænda munu hafa verið inn á hlíðinni, alveg frá túninu og inn að Miðlendishrygg sem er skammt fyrir utan Miðlendislæk.[16]

Reki var nokkur á Gerðhömrum en allur í eigu kirkna á síðari öldum.[17] Af rekanum átti Mýrakirkja helming og Núpskirkja einn fjórða part.[18] Mýrakirkja átti líka ítak í sölvafjöru á Gerðhömrum[19] sem sagt er að hafi verið góð og gagnvæn að fornu.[20] Um 1680 fordjarfaðist sölvafjaran af hafís og næstu 30 árin fengust nær engin söl á Gerðhamrafjöru.[21] Árið 1710 var silungsveiði í Gerðhamraá (sem oftast er nefnd Arnarnesá) sögð varla teljandi[22] og í Jarðabókinni frá því ári er ekki minnst á hrognkelsaveiði. Séra Jón Sigurðsson lætur þess aftur á móti getið árið 1840 að á Gerðhömrum sé hrognkelsaveiði góð fyrir framan land.[23]

Frá Gerðhömrum var á fyrri tíð róið til fiskjar árið um kring þegar gaf á sjó og á fyrstu árum 18. aldar gengu þaðan ýmist eitt eða tvö skip í eigu ábúenda.[24] Í landareigninni var þó engin lending er sæmilega trygg mætti kallast og gerði það erfiðara fyrir um alla sjósókn. Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 segir að lendingin á Gerðhömrum sé brimsöm mjög og hættuleg þegar að amar svo að sæta þurfi sjávarföllum.[25]Skipsuppsátrið er mjög illt, segir á sama stað og hafa hér jafnlega laskast skip af snjófalli úr bökkunum fyrir ofan og svo stundum af sjávargangi.[26] Séra Jón Sigurðsson segir líka árið 1840 að á Gerðhömrum sé lendingin mjög hættuleg og ólendandi þá vindur blæs af útvestri.[27] Helsti lendingarstaðurinn á Gerðhömrum mun hafa verið niður af innsta hluta túnsins, í vík sem heitir Sauðhúsvík[28] en hún er nær beint niður af nýja íbúðarhúsinu sem nú (1992) er búið í á Gerðhömrum[29] Utan við víkina er klettahlein sem heitir Barð en fyrir það er aðeins unnt að ganga þegar lágsjávað er.[30] Utan við túnið á Gerðhömrum var annar lendingarstaður, niður af innri hluta Gerðhamrahryggs. Þar heitir Skor og er svolítil skora milli kletta.[31] Þar var eingöngu lent á sumrin í logni og kyrrum sjó.[32]

Gerðhamra er fyrst getið í landamerkjabréfi, sem dagsett er 18. febrúar 1390, en það bréf er reyndar talið vera falsbréf.[33] Í þessu bréfi er landamerkjalækurinn milli Gerðhamra og Alviðru nefndur Mígandalækur[34] en það nafn sést ekki í yngri heimildum.

Á fyrri hluta 15. aldar voru Gerðhamrar ein af jörðum Guðmundar ríka Arasonar, sem fylgdu höfuðbólinu Núpi,[35] og um 1450 komst jörðin í eigu Björns Þorleifssonar, hirðstjóra á Skarði á Skarðsströnd.[36] Tveir synir Björns urðu síðar eigendur að Gerðhömrum, fyrst Árni, sem erfði jörðina eftir föður sinn árið 1467,[37] og síðar Jón danur, sem bjó á Rafnseyri.[38] Er Jón danur andaðist árið 1508 erfði Björn Guðnason í Ögri margar jarðir sem hann hafði átt og voru Gerðhamrar ein þeirra.[39] Jón danur var barnlaus en Björn var systursonur hans.[40] Er Björn Guðnason andaðist árið 1518 kom upp margvíslegur ágreiningur um ýmsar eignir sem hann hafði talist eiga og haft umráð yfir. Á árunum upp úr 1520 deildu Torfi Björnsson frá Ögri og séra Þorleifur Björnsson á Reykhólum um sex jarðir í Mýrahreppi og voru Gerðhamrar ein þeirra. Sumarið 1526 skipaði Ögmundur Pálsson biskup sex klerka í dóm til að fjalla um þetta þrætuefni á prestastefnu á Þingvöllum og dæmdu þeir séra Þorleif réttan eiganda að öllum jörðunum.[41] Þann úrskurð samþykkti líka biskup.[42] Ekki löngu síðar sló Ögmundur biskup eign sinni á flestar þessar jarðir, þar á meðal Gerðhamra, en erfingjar Björns Guðnasonar töldu biskup hafa náð þeim undir sig með ofríki.[43]

Er Ögmundur biskup var handtekinn og fluttur úr landi árið 1541 voru eignir hans gerðar upptækar og færðar konungi til eignar án dóms og laga.[44] Þaðan í frá mun Gerðhamrar hafa talist vera konungsjörð allt til ársins 1675.[45] Á árunum 1551-1580 hafði Eggert Hannesson, sem lengst bjó í Bæ á Rauðasandi, fyrrum jarðeignir Ögmundar biskups á Vestfjörðum að léni frá konungi.[46] Í reikningum Eggerts frá árinu 1570 sést að kóngur átti þá þrjú kúgildi (18 ær eða eina kú) á Gerðhömrum og hafa þau fylgt jörðinni.[47] Árið 1710 voru Gerðhamrar taldir vera 24 hundruð að dýrleika[48] en áður mun jörðin hafa verið metin á 30 hundruð eins og sjá má í heimild frá árinu 1675.[49] Líklegt er að jörðin hafi einnig verið metin á 30 hundruð árið 1570 því þá var árlegt jarðarafgjald til konungs hálft annað hundrað[50] eða nákvæmlega 5% ef jörðin hefur verið metin á 30 hundruð. Í reikningum Eggerts Hannessonar frá árinu 1571 segir svo um Gerðhamra: Item í landskyld af Gerðhömrum kúgildi og þrjár vættir fiska og í vertoll tvær og hálf vætt fiska. Lukt í þetta sex ær með lömbum og til Hannes Recka þrjár vættir í landskyld. rest tvær og hálf vætt í tolla.[51]

Fram skal tekið að kúgildi og þrjár vættir fiska er nákvæmlega sama fjárhæð og árið áður er nefnd hálft annað hundrað því kúgildið var jafnt hundraðinu og sex vættir á landsvísu jafngiltu einu kýrverði eða einu hundraði. Vertollarnir sem bændur á Gerðhömrum þurftu að greiða hafa líklega verið goldnir fyrir verstöðu og skipsuppsátur á Fjallaskaga því varla hefur kóngur látið landseta sína greiða vertolla fyrir róðra úr heimavör.

Þann 30. apríl árið 1675 tók kóngur sig til og seldi ríkisaðmírálnum Henrik Bjelke margar jarðir úti á Íslandi. Ein þeirra var Gerðhamrar.[52] Aðmírállinn hafði þá lengi farið með æðstu stjórn Íslandsmála og taldist hirðstjóri konungs yfir Íslandi frá 1648-1683.[53] Sjálfur nefndi hann sig guvernör eða landstjóra.[54] Henrik Bjelke var auðugur maður og er sagt að konungur hafi greitt honum þessar jarðir úti á Íslandi upp í skuld.[55] Er Kristján V Danakóngur seldi aðmírálnum Gerðhamra fylgdu jörðinni þrjú kúgildi alveg eins og verið hafði röskum 100 árum fyrr.[56] Landskuldin var líka óbreytt og í yfirlýsingu um eigendaskiptin, sem þinglýst var á Alþingi árið 1679, er tekið fram að Gerðhamrar séu metnir á 30 hundruð.[57] Tveimur árum síðar var matið á jörðinni hins vegar komið niður í 24 hundruð.[58]

Ekki verður nú séð með auðveldu móti hversu lengi Henrik Bjelke átti Gerðhamra en ekki hafa það verið mjög mörg ár því hann andaðist árið 1683.[59] Árið 1710 átti séra Sigurður Jónsson, prófastur í Holti í Önundarfirði, þessa jörð.[60] Hann hafði þá verið prestur í Holti í 30 ár og var áður aðstoðarprestur þar í 11 ár svo ekki er ólíklegt að hann hafi keypt Gerðhamra af Henrik Bjelke eða erfingjum hans á síðasta fjórðungi sautjándu aldar.

Elsti bóndinn sem um er kunnugt á Gerðhömrum er Arngrímur Jónsson sem þar bjó árið 1681 og hafði þá alla jörðina til ábúðar.[61] Arngrímur dó árið 1695.[62] Í byrjun 18. aldar bjuggu þar tveir leiguliðar og höfðu 12 hundruð til ábúðar hvor því þá var jörðin metin á 24 hundruð.[63] Leigukúgildin sem jörðinni fylgdu voru þá þrjú, alveg eins og verið hafði 1570 og 1675, og leigurnar fyrir þau áttu bændurnir að greiða í smjöri heim til prófastsins í Holti.[64] Landskuldin var líka hin sama og áður, það er 9 vættir, sem er eitt og hálft hundrað, og átti að greiðast í fiski og lýsi inn á kaupstaðarreikning prófastsins.[65]

Eitt barna séra Sigurðar Jónssonar í Holti var Guðbrandur og bjó hann á Gerðhömrum um alllangt skeið.[66] Guðbrandur Sigurðsson var fæddur 25. nóvember 1691 og bar nafn föðurbróður síns, séra Guðbrandar Jónssonar í Vatnsfirði við Djúp.[67] Kona hans var Ástríður, dóttir séra Jóns Tómassonar á Söndum í Dýrafirði,[68] og áttu þau fjölda barna sem urðu þó lítt nafnkennd, að sögn Hannesar Þorsteinssonar þjóðskjalavarðar er sá um útgáfu á annálsgreinum séra Sigurðar Jónssonar í Holti, – afa allra þessara barna á Gerðhömrum.[69] Guðbrandur var einn þriggja bænda á Gerðhömrum um 1735[70] en hefur líklega verið látinn árið 1753 því kona hans, Ástríður Tómasdóttir, er þá talin annar tveggja bænda á jörðinni.[71] Líklegt er að Guðbrandur hafi erft Gerðhamra eftir föður sinn, séra Sigurð í Holti, sem andaðist árið 1730, og fullvíst er að ekkja Guðbrands átti jörðina árið 1762.[72]

Á árunum upp úr 1750 átti maður að nafni Jón Guðbrandsson heima á Gerðhömrum og hefur að líkindum verið sonur Guðbrands Sigurðssonar því í ættartölum má sjá að hann átti tvo Jóna sem báðir komust upp.[73] Í harðindunum miklu sem þrúguðu landslýðinn á sjötta áratug 18. aldar greip Jón Guðbrandsson til þess ráðs að reyna að leika svolítið á fulltrúa Hörmangarafélagsins sem þá stýrði einokunarversluninni á Þingeyri. Eins og flestir aðrir bændur í Dýrafirði lagði Jón á Gerðhömrum inn blautan fisk hjá Þingeyrarverslun en fyrir innleggið munu menn hafa fengið í hendur einhvers konar kvittun, svonefnda blautfisks seðla, sem ætla má að hafi svo verið framvísað við úttekt á vörum.

Haustið 1758 voru Jón Guðbrandsson og þrír menn aðrir dæmdir á Mýraþingi fyrir umbreyting og upphækkun á slíkum kaupmanns seðlum er síðan voru notaðir við vöruúttekt hjá Þingeyrarverslun.[74] Sá sem kvað upp dóminn var Erlendur Ólafsson, sýslumaður á Hóli í Bolungavík, sem þremur árum síðar fullyrti á Alþingi að Jón á Gerðhömrum hefði verið höfuðpartur sakarinnar.[75]

Dómur Erlendar sýslumanns er enn varðveittur og þar má sjá að um var að ræða níu blautfisks seðla og játaði Jón Guðbrandsson að hafa breytt þeim öllum þannig að upphæðin á hverjum seðli var hækkuð um tíu fiska.[76] Fyrir sjálfan sig falsaði hann þó ekki nema einn seðil en fimm fyrir Einar Bjarnason á Fjallaskaga, einn fyrir Magnús Bjarnason á Gerðhömrum og tvo fyrir Just Bjarnason.[77] Þeir Jón, Einar og Magnús fóru með sína falsseðla í verslunina og notuðu þá við vöruúttekt en Just lét vera að nota þá tvo seðla sem hann fékk hjá Jóni.

Þann 23. sept. 1758 dæmdi Erlendur sýslumaður Jón Guðbrandsson til að greiða 3svar sinnum 90 fiska í sekt til konungs en auk þess skyldi hann missa sína æru, búslóð og þrjá fingur.[78] Búslóðarmissir þýddi upptöku allra eigna hins dæmda. Þeir Einar og Magnús Bjarnasynir voru einnig dæmdir til æru- og búslóðarmissis auk sekta er námu þrefalt hærri upphæð en svaraði hagnaði þeirra af notkun falsseðlanna.[79] Just Bjarnason, sem enga falsseðla hafði notað, var hins vegar aðeins dæmdur fyrir yfirhylmingu og honum gert að greiða sex ríkisdali í krónumynt til fátækra í Mýrahreppi.[80]

Þann 30. september 1759 skrifuðu þeir Jón, Magnús og Einar undir bréf til konungs og báðu um náðun eða einhverja linun á þeirri refsingu sem Erlendur hafði dæmt þá til að þola.[81] Þessar bréfaskriftir munu þó ekki hafa komið þremenningunum að neinu haldi.

Eins og áður sagði var héraðsdómur Erlendar sýslumanns kveðinn upp haustið 1758. Falsseðlamál þetta kom þó ekki til kasta Alþingis fyrr en sumarið 1761 en þá var Jón Guðbrandsson látinn fyrir nokkrum mánuðum[82] og hefur vonandi náð að komast með alla fingur heila í gröfina. Málinu var þá frestað til næsta árs en sumarið 1762 var dómur Erlendar í máli Einars og Magnúsar Bjarnasona staðfestur á Öxarárþingi[83] svo báðir misstu þeir æru sína og eignir.

Á 18. öld og fyrri hluta 19. aldar var oftast tvíbýli á Gerðhömrum.[84]Allmörg dæmi finnast þó um að hér hafi verið þríbýli, t.d. 1735, 1762, 1797 og 1840.[85] Á árunum 1837-1904 sátu prestar jafnan hér og frá því upp úr 1850 og fram yfir 1890 höfðu þeir yfirleitt alla jörðina til ábúðar.[86] Um miðja 19. öld var oft eitthvað af húsfólki á Gerðhömrum, sem máske hefur unnið á búi prestanna eða haft sitt framfæri af sjó, og á síðasta áratug þeirrar aldar fékk ungur bóndi part af Gerðhömrum til ábúðar svo þar varð aftur tvíbýli því prestur sat þar enn um sinn og hafði líka nokkurn búskap.[87]

Séra Jón Sigurðsson segir í sóknarlýsingu sinni að Gerðhamrar hafi verið útlagðir fyrir prestsbújörð hér í þingum fyrir ellefu árum.[88] Sóknarlýsinguna dagsetur hann 4. janúar 1840[89] svo ætla má að ákvörðun um að gera Gerðhamra að prestssetri hafi verið tekin árið 1828 eða 1829. Fast prestssetur varð jörðin þó ekki í raun fyrr en 1837 er nýnefndur prestur, séra Jón Sigurðsson, fluttist þangað frá Núpi (sjá hér Núpur).

Aðeins er kunnugt um einn prest sem sat á Gerðhömrum áður en jörðin var gerð að prestsbújörð með sérstökum samningi við eigendur hennar en það er séra Andrés Gíslason sem var prestur í Dýrafjarðarþingum á árunum 1715-1722.[90] Séra Andrés var fæddur árið 1692, sonur hjónanna Gísla Andréssonar og Ragnheiðar Guðmundsdóttur, sem árið 1703 bjuggu á Dynjanda í Grunnavíkurhreppi en síðar á Saurum í Keldudal í Dýrafirði og skamma hríð í Alviðru.[91] Gísli, faðir séra Andrésar, var talinn vel að sér og eitthvað fékkst hann við skáldskap.[92] Námi sínu í Skálholtsskóla lauk Andrés árið 1712 og gekk þá í þjónustu Jóns biskups Vídalíns en var vígður til prestsstarfa í Dýrafjarðarþingum árið 1715.[93] Er séra Andrés kom vestur settist hann að á Gerðhömrum en síðustu ár sín í prestakallinu var hann á Núpi.[94] Á prestskaparárum séra Andrésar í Dýrafirði bjó Snæbjörn Pálsson (Mála-Snæbjörn) á Mýrum. Sem eigandi bændakirkjunnar þar þóttist Snæbjörn hafa rétt til að hafna þjónustu sóknarprestsins og fá sér annan prest.[95] Með bréfi dagsettu 31. júlí 1716 bannaði Jón biskup Vídalín Snæbirni allar slíkar tiltektir en sá síðarnefndi hélt þó áfram ýfingum við séra Andrés sem að lokum taldi sig ekki geta rækt embætti sitt í Dýrafjarðarþingum vegna stöðugrar áreitni Snæbjarnar.[96] Haustið 1721 fékk séra Andrés veitingu fyrir Otradal og fluttist þangað árið eftir.[97]

Frá því séra Andrés Gíslason fór frá Gerðhömrum liðu meira en 100 ár uns prestur settist þar að á ný en vorið 1829 tók séra Jón Jónsson þar við búsforráðum. Hann hafði þá verið prestur í Dýrafjarðarþingum í eitt ár og átti fyrsta árið heima í Meira-Garði.[98]

Séra Jón var fæddur árið 1800, sonur Jóns hreppstjóra Jónssonar á Kornsá í Húnaþingi og fyrri konu hans, Sigríðar Bjarnadóttur. Á árunum 1822-1824 hafði prestur þessi verið skrifari hjá Birni Blöndal sýslumanni í Hvammi í Vatnsdal og bjó á Beinakeldu í Torfalækjarhreppi er hann tók prestvígslu vorið 1828 og fluttist þaðan til Dýrafjarðar.[99] Séra Jón Jónsson var prestur í Dýrafjarðarþingum í fjögur ár og fyrsti presturinn sem sat á Gerðhömrum eftir að ákveðið var að jörðin yrði fast prestssetur. Árið 1832 fengu þeir nafnar, séra Jón Jónsson á Gerðhömrum og séra Jón Sigurðsson í Otradal, leyfi kirkjuyfirvalda til að hafa skipti á brauðum og fluttist sá fyrrnefndi brott frá Gerðhömrum þá um vorið.[100] Í Otradal náði hann að messa einu sinni en veiktist síðan og dó í októbermánuði haustið 1832.[101] Kona séra Jóns Jónssonar hét Ingibjörg Ólafsdóttir og var eins og hann úr Húnaþingi. Að manni sínum látnum átti hún um skeið heima á Hóli í Bíldudal og er sagt að hún hafi á þeim árum eignast tvö börn með Þorleifi Jónssyni, kaupmanni á Bíldudal, en annar maður þó verið fenginn til að viðurkenna faðernið.[102]

Er Sighvatur Grímsson Borgfirðingur fluttist til Dýrafjarðar árið 1873 var þar enn á lífi fólk sem mundi vel eftir séra Jóni Jónssyni. Frá þessu fólki hefur Sighvatur fengið ýmsar upplýsingar um þennan norðlenska prest á Gerðhömrum en honum lýsir Sighvatur svo:

 

Séra Jón [Jónsson] var meðalmaður á vöxt, snotur á að líta og vel fallinn í andliti, hafði jarpt hár, þykkt og hrokkið, raddmaður allgóður, lipur predikari, vel liðinn í sóknum sínum, fjörmaður mikill og bar sjúkdóm sinn með aðdáanlegri þolinmæði.[103]

 

Er séra Jón Sigurðsson, sem áður var í Otradal, tók við Dýrafjarðarþingum vorið 1832 settist hann ekki strax að á Gerðhömrum en bjó á Núpi fyrstu fimm árin (sjá hér Núpur). Þaðan fluttist hann að Gerðhömrum vorið 1837 og bjó þar í 16 ár en tók við Sandaprestakalli vorið 1853 og fluttist þá yfir fjörðinn. Hér hefur áður verið sagt allrækilega frá séra Jóni Sigurðssyni (sjá hér Sandar) og meðal annars gerð grein fyrir upphafi hans og endalokum. Ekkert af því verður endurtekið hér. Prestur þessi var dökkur á brún og brá og var því af ýmsum nefndur Jón svarti. Hann var frábær tungumálamaður og átti á prestskaparárum sínum í Dýrafirði margvísleg samskipti við erlenda fiskimenn sem þangað komu, einkum Frakka, en frönsku er hann sagður hafa talað svo vel að Frakkar sjálfir kváðust ekki geta gert mismun á honum frá innfæddum mönnum í Frakklandi.[104]

Sighvatur Borgfirðingur, sem kynntist séra Jóni Sigurðssyni svarta á hans elliárum norður í Steingrímsfirði, kunni ýmislegt frá honum að segja, meðal annars þetta:

 

Það var eitt sinn meðan hann var á Núpi að hann hafði tekið barn sem hafði tunguhaft og fékk hann lækni af frakknesku herskipi sem kom á Dýrafjörð til þess að skera tunguhaftið. Héldu þeir þá spurnum uppi um frakkneskt fiskiskip sem týnst hafði árið áður hér við land og gat séra Jón gefið skýrslu um það. … Ritaði hann þá skýrslu á latínu. Paul Gaimard ferðaðist hér um land hið sama sumar [hann var hér 1835 og 1836 – innskot K.Ó.] og sendi séra Jóni tvíhlaupaða byssu með öllu tilheyrandi og var það einn hinn kostulegasti gripur en þó sá Gaimard aldrei séra Jón. … Hann tók tvo veika menn franska, sinn í hvert sinn. Var annar hjá honum í 3 vikur en hinn í rúma viku og eitt sinn var hann túlkur fyrir skipherra sem lá veikur í Alviðru í mánuð. Enga borgun fékk hann fyrir annan þann veika fyrr en hann skrifaði hinu franska stjórnarráði en þá voru honum sendir 55 frankar í silfri með frakknesku herskipi. Þá var hann kominn að Söndum og komu þeir peningar í góða þörf í hinum bágu kringumstæðum hans þar.[105]

 

Kona séra Jóns var Þórdís Þórðardóttir en faðir hennar var séra Þórður Þorsteinsson sem síðast var prestur í Ögurþingum. Um maddömu þessa á Gerðhömrum segir Sighvatur Borgfirðingur að hún hafi þótt vel að sér í fornum fræðum.[106]

Árið 1845 voru 17 í heimili hjá séra Jóni Sigurðssyni og Þórdísi konu hans á Gerðhömrum en í þeim hópi var reyndar ein húskona sem í manntali frá því ári er sögð lifa á kaupstaðarvinnu.[107] Á því ári bjó séra Jón einn á allri jörðinni en fimm árum síðar hafði hann bara 10 hundruð til ábúðar en bóndi nokkur bjó þá á hinum 14 hundruðunum.[108] Vorið 1850 var bústofn prestsins á Gerðhömrum þessi:  Tvær kýr, eitt naut, tólf ær, tíu sauðir og hrútar, fjórtán gemlingar, tólf lömb og fjórir hestar.[109] Bátur sem presturinn átti þá var aðeins tveggja eða þriggja manna far og garðhola þeirra hjóna, þar sem ræktaðar voru kartöflur, líka í minna lagi aðeins 24 ferfaðmar.[110]

Séra Jón Sigurðsson á Gerðhömrum er á einum stað sagður hafa verið mesti fríþenkjari [111] og er þá átt við frjálslyndi í trúmálum. Er fyrst var kosið til Alþingis vorið 1844 var hann í kjörstjórn í Ísafjarðarsýslu og stuðlaði þá að kosningu Jóns Sigurðssonar frá Rafnseyri er síðar var nefndur forseti.[112] Hér var áður minnst á bréf sem þeir séra Jón á Gerðhömrum og Guðmundur Brynjólfsson á Mýrum sendu hinum nýkjörna alþingismanni Ísfirðinga sameiginlega sumarið 1844 (sjá hér Mýrar) en rithöndin sýnir að það er séra Jón sem hefur skrifað bréfið. Hann segir þar m.a.:

 

Vér vonum að þér misvirðið ekki að við ókunnugir skrifum yður þessar línur. Það gladdi oss sem á kjörþingið komum að þér fremur öllum er þar voru saman komnir voruð kosnir fyrir fulltrúa vorn, Ísafjarðarsýslu innbúa, og mætti vera að vér hefðum stuðlað þar nokkuð til, í það minnsta sá sem var meðstjórnari kjörþingsins þar lítilfjörleg mótmæli voru við höfð af einum eða tveimur. En hér var ekki um annan auðugan garð að gresja og ósk vor er sú að þér gætuð komið ef guð leyfir yður líf og heilbrigði því aukafulltrúi vor líst oss miður hæfilegur þó hann tali og skrifi mikið – máske tvístrað – og því síður hinn næsti er ekki kann að skrifa nafn sitt læsilega en sem vegna velvildar var kosinn af nokkrum.[113]

 

Aukafulltrúinn sem séra Jón telur miður hæfilegan til setu á Alþingi er Magnús Einarsson, bóndi á Hvilft í Önundarfirði, sem var kosinn varaþingmaður Ísfirðinga í þessum fyrstu alþingiskosningum vorið 1844[114] en sá sem hann segir að ekki kunni að skrifa nafnið sitt læsilega hlýtur að vera Magnús Jónsson, hreppstjóri á Eyri í Seyðisfirði, sem fékk næst flest atkvæði við kosningu varaþingmanns.[115]

Svo virðist sem presturinn á Gerðhömrum hafi yfirleitt haft litla trú á bændum til þingsetu eins og hér mun brátt koma fram með enn skýrari hætti en slík viðhorf voru reyndar algeng hjá rosknum embættismönnum um miðbik 19. aldar. Bréfin sem séra Jón Sigurðsson á Gerðhömrum skrifaði nafna sínum í Kaupmannahöfn, – Jóni forseta, urðu ekki mörg því engar orðsendingar virðast hafa farið á milli þeirra eftir 1847.[116] Í línum sem séra Jón sendi Jóni forseta sumarið 1846 ávarpar hann viðtakanda með orðunum: Mikilsvirti samlandi og samnafni.[117] Í þessu bréfi kemur ýmislegt fram sem vert er að halda til haga um viðhorf prestsins á Gerðhömrum og viðleitni hans til að vekja líf og eftirþanka hjá bændum. Í bréfinu segir hann m.a. þetta:

 

Alþingistíðindin hef ég nákvæmlega lesið oftar en einu sinni og líkar mér vel. Þykir mér yður og nokkrum öörum hafa vel talast, sér í lagi í verslunarmálinu og skólamálinu. … – Bágt er að fá bændur til að hafa fundi með sér, enda eru þá fáir sem hafa greind á að tala, máske að þenkja, nema einstöku menn. Auk Guðmundar á Mýrum hef ég fengið einn eða tvo til að lesa Alþingistíðindin en ég hef þó verið að hvetja bændur  þess til að vekja líf og eftirþanka hjá þeim. Rétt finnst mér að þér hafið talað um kóngsfulltrúann og forsetann etc. í Félagsritunum áhrærandi Alþingi og fann ég það strax. Lítið gagn þótti mér leiða af bænda- eða ómenntuðu fulltrúunum og þeirra tali. Þess var líka ekki von af lítt fróðum mönnum og ókunnum öllum stjórnarreglum og formi, bæði fyrri og seinna hér á landi. Þeir voru að minni hyggju sem klumsa lamb er ekki getur jarmað og mun nú of mikið sagt.[118]

 

Viðtakandi þessa bréfs, Jón Sigurðsson frá Rafnseyri, var árið 1846 skjalavörður við handritadeild Hins konunglega norræna fornfræðafélags í Kaupmannahöfn. Í bréfinu kemur fram að í nafni þess félags hefur Jón frá Rafnseyri beðið Gerðhamraklerk að rita staðalýsingar og gera grein fyrir hvers kyns hjátrú sóknarbarna sinna. Með bréfi sínu frá 17. ágúst 1846 svarar séra Jón líka þessu erindi. Hann lofar staðalýsingum við tækifæri en segir að um eina og aðra hjátrú, galdra og átrúnað sé bágt að fá vitneskju því fólk haldi flestu slíku heimuglegu fyrir sig.[119] Jafnframt tekur séra Jón fram að í sínum sóknum muni yfirleitt vera ósköp lítið um trú á galdra og aðrar bábiljur.[120]

Bæði 1845 og 1847 kom Jón Sigurðsson, alþingismaður Ísfirðinga, hingað til lands frá Kaupmannahöfn nokkrum vikum áður en Alþingi kom saman og fór þá vestur á firði til að heimsækja foreldra sína og hitta kjósendur (sjá hér Rafnseyri). Í báðum þessum ferðum virðist hann hafa hitt nafna sinn á Gerðhömrum. Bréfið sem séra Jón og Guðmundur Brynjólfsson á Mýrum skrifuðu hinum nýkjörna alþingismanni til Kaupmannahafnar sumarið 1844 ber með sér að hvorugur þeirra hefur átt nokkur samskipti við hann fyrir þann tíma (sjá hér bls. 11-12). Í bréfinu frá 17. ágúst 1846 er séra Jón hins vegar greinilega að skrifa kunningja sínum. Lokaorð bréfsins sýna það máske greinilegast er hann kveður þingmanninn kumpánlega og segir: Konan mín biður að heilsa yður alúðlega og ég óska góðs yður og Madame yðar en ég þori ekki að segja eins og haft er eftir Önfirðingum: ófædda barninu með.[121]

Því miður fæddist nú aldrei neitt barnið hjá þeim hjónum, Jóni forseta og Ingibjörgu konu hans, en það gat prestinn á Gerðhömrum varla grunað sumarið 1846 því þá var bara tæpt ár liðið frá því til hjónabands þeirra var stofnað.

Bréfið sem séra Jón skrifaði nafna sínum í Kaupmannahöfn sumarið 1847 sýnir enn ljósar að þeir hafa átt tal saman bæði 1845 og 1847 og hljóta þá að hafa hist fyrir vestan. Þetta síðast nefnda bréf byrjar séra Jón með því að þakka þingmanninum fyrir góða viðkynningu bæði fyrri og síðar[122] svo hér fer ekkert á milli mála. Með þessu bréfi sendir prestur lýsingu á nokkrum fornminjum á Ingjaldssandi og má telja fullvíst að það sé hin sama lýsing og prentuð er á blaðsíðu 94-96 í öðru bindi af Sóknalýsingum Vestfjarða.[123]

Í bréfi séra Jóns frá sumrinu 1847 kemur fram hversu erfiðar fjárhagslegar kringumstæður hans hafa verið en þar segir hann m.a. þetta:

 

Efnin mín leyfa mér ekki að girnast, því síður að eignast, margt það er ég sé og heyri að kemur út af fornfræðum, hvörsu sem mig þó gjarnan langaði til þess að fræðast í því – því það er mín mesta lyst. … Ég bíð með löngun og augum og eyrum eftir að sjá og heyra Alþingistíðindin og allt hvað þar hefur fram farið. Forlátið þennan flýtismiða. Ég óska góðs yðar Madame og kýs mér þá ánægju að undirskrifa mig með elsku og virðingu yðar hreinskilinn elskandi vin, nafna og landa.[124]

 

Líklega hafa bréf séra Jóns Sigurðssonar á Gerðhömrum til nafna síns í Kaupmannahöfn aldrei orðið fleiri en þessi þrjú, sem hér hafa verið nefnd, – hvað sem valdið hefur. Aftur á móti er vert að minna á að þessi sami prestur ritaði á sínum tíma ágæta lýsingu á sóknunum við norðanverðan Dýrafjörð og á Ingjaldssandi en til þeirrar lýsingar hans er oft vitnað á þessum blöðum.

Á þeim árum sem séra Jón Sigurðsson bjó á Gerðhömrum voru þar oft ein eða tvær manneskjur í húsmennsku. Í manntali sem tekið var 1. október 1850 er Abígael Þórðardóttir, 39 ára prestskona, sögð vera húskona á Gerðhömrum og þar er þá hjá henni dóttir hennar á unglingsaldri sem í manntalinu er nefnd Ágústína en hét fullu nafni Guðrún Ágústína.[125] Abígael sem var ljósmóðir var þá skilin að borði og sæng við eiginmann sinn, séra Sigurð Tómasson, er verið hafði aðstoðarprestur í Önundarfirði en var nú farinn að predika norður í Grímsey.[126] Vorið 1849 höfðu þau verið gift í nær ellefu ár og síðast átt heima á Eyri í Önundarfirði en þá kom þar að Abígael yfirgaf eiginmanninn og fluttist að Gerðhömrum.[127] Séra Sigurður var víst sjaldan ódrukkinn á sínum kapelánsárum í Önundarfirði (sjá hér Holt) og mun Abígael konu hans hafa þótt nóg komið. Ástæða þess að hún leitaði á náðir prestshjónanna á Gerðhömrum hefur að líkindum verið sú að þær Þórdís, prestsmaddama á Gerðhömrum, voru bræðradætur.[128] Bræðurnir, feður þeirra, hétu báðir Þórður og voru synir séra Þorsteins Þórðarsonar sem fæddur var um 1733 og lengst var prestur á Stað í Súgandafirði en Abígael mun að einhverju leyti hafa alist upp hjá Þórði, föðurbróður sínum, er var prestur í Ögurþingum.[129] Á Gerðhömrum átti hún heima í fjögur ár, 1849-1853, en fluttist þá til Ísafjarðar.[130] Þar giftist Guðrún Ágústína, dóttir hennar, tólf árum síðar Jóni Vedholm veitingamanni sem lengi var kunnur borgari á Ísafirði.[131]

Er séra Jón Sigurðsson svarti tók við Sandaprestakalli vorið 1853 kom séra Bjarni Sigvaldason að Gerðhömrum. Hann var þá innan við þrítugt, fæddur 1824, og var vígður til Dýrafjarðarþinga þetta sama vor. Séra Bjarni var prestssonur úr Húnaþingi og hafði lokið prófi frá prestaskólanum vorið 1852. Hann var fyrsti presturinn í Dýrafjarðarþingum sem lokið hafði námi í guðfræði, enda tók prestaskólinn ekki til starfa fyrr en haustið 1847. Fjórum vikum eftir prestvígsluna gekk séra Bjarni að eiga Gróu Erlendsdóttur frá Sveinsstöðum í Þingi[132] og fluttist hún með honum vestur í Dýrafjörð. Séra Bjarni var prestur í Dýrafjarðarþingum í ellefu ár og bjuggu þau Gróa kona hans á Gerðhömrum allan þann tíma. Bjarni prestur var einn þeirra sem veturinn 1856-1857 settu nöfn sín undir hina harðorðu bænarskrá Ísfirðinga gegn fyrirhugaðri nýlendustofnun Frakka á Þingeyri.[133]

Sighvatur Borgfirðingur segir um séra Bjarna Sigvaldason að hann hafi verið talinn með betri kennimönnum, búmaður góður og unnið sjálfur á búi sínu.[134] Hann tekur fram að prestur þessi hafi verið gáfaður og skyldurækinn, glaðlyndur og skemmtinn en hneigður til drykkju á fyrri árum.[135]

Árið 1864 fluttist séra Bjarni Sigvaldason frá Gerðhömrum suður í Borgarfjörð og varð prestur í Lundi í Lundareykjadal. Síðar fékk hann Stað í Steingrímsfirði og þjónaði þar til dauðadags vorið 1883.[136]

Næstur á eftir séra Bjarna varð séra Ólafur Ólafsson prestur í Dýrafjarðarþingum. Af einhverjum ástæðum settist hann þó ekki að á Gerðhömrum heldur í Alviðru eða nánar til tekið á Leiti og þar bjó líka séra Jón Eyjólfsson sem tók við brauðinu af séra Ólafi (sjá hér Alviðra).

Er séra Jón Eyjólfsson andaðist sumarið 1869 varð prestlaust í Dýrafjarðarþingum og stóð svo í eitt ár en 11. ágúst 1870 var séra Jóni Jónssyni veitt prestakallið en hann var fæddur á Leysingjastöðum í Húnaþingi árið 1829.[137] Er séra Jón kom til Dýrafjarðar var hann liðlega fertugur að aldri. Prestvígslu hafði hann þó aldrei tekið fyrr en nú, skömmu áður en hann lagði upp í vesturferðina haustið 1870.[138] Séra Jón var sonur séra Jóns Jónssonar á Barði í Fljótum og konu hans, Guðrúnar Björnsdóttur umboðsmanns Ólsens á Þingeyrum. Enda þótt foreldrar séra Jóns væru bæði fædd og upp alin í Norðurlandi átti hann þó ættir að rekja til Dýrafjarðar því afi hans í föðurætt, séra Jón Jónsson á Auðkúlu, var sonur Jóns Teitssonar Hólabiskups, sem aftur var sonarsonur Páls Torfasonar, sýslumanns á Núpi í Dýrafirði, sem andaðist árið 1720 og hér hefur áður verið frá sagt.[139]

Séra Jón Jónsson, sem prestur varð í Dýrafjarðarþingum árið 1870, var 12 ára gamall tekinn í fóstur af föðurbróður sínum, Þorsteini Kúld, sem var kaupmaður í Reykjavík, og kostaði Þorsteinn hann til náms.[140] Jón tók stúdentspróf árið 1854 og var síðan einn vetur heimiliskennari hjá sjálfum stiftamtmanninum, Trampe greifa.[141] Næsta ár var hann við nám í læknisfræði hjá Jóni Hjaltalín landlækni en fór síðan norður að Hnausum í Húnaþingi og var þar í nokkur ár við kennslu, meðalaafgreiðslu og fleira hjá Jósep Skaftasyni lækni sem kvæntur var móðursystur hans[142] Sighvatur Borgfirðingur tekur fram að á þeim árum hafi séra Jón þótt kvenhollur svo orð fór af [143] og reyndar eignaðist þessi óvígði stúdent tvö börn áður en hann gekk að eiga konu sína, Sigríði Snorradóttur frá Klömbum í Vesturhópi, árið 1864.[144] Síðustu ár sín á Norðurlandi bjuggu þau Jón og Sigríður lengst að Höfða á Höfðaströnd í Skagafirði og þar mun Jón hafa stundað lækningar en til Dýrafjarðar fluttust þau frá Klömbum.[145]

Fyrsta veturinn í Dýrafirði var séra Jón í húsmennsku í Alviðru og þar eru þau hjónin talin til heimilis í manntali sem tekið var í desembermánuði árið 1870.[146] Vorið eftir fóru þau að búa á Gerðhömrum og bjuggu þar í tólf ár.[147] Séra Jón Jónsson ,sem hér er nú frá sagt, var annar presturinn með þessu nafni sem sat á Gerðhömrum á 19. öld en hinn fyrri bjó þar á árunum 1829-1832 (sjá hér bls. 9-10).

Séra Jón Jónsson, sem kom að Gerðhömrum vorið 1871, var síðasti presturinn í Dýrafjarðarþingum sem ekki hafði numið guðfræði. Hann kunni hins vegar ýmislegt fyrir sér í lækningum og var slyngur málamaður eins og sumir hinna fyrri Gerðhamrapresta. Sighvatur Borgfirðingur, sem var sóknarbarn séra Jóns, segir að hann hafi verið ágætlega lærður í mörgum tungumálum, einkum latínu, ensku og frakknesku og bætir því við að frönskuna hafi séra Jón talað og ritað svo vel að fáir landar hans muni hafa verið jafn færir í því sem hann.[148] Í Dýrafirði lét séra Jón ýmis framfaramál til sín taka og lagði m.a. fé í þilskipaútgerð í samvinnu við Mýramenn og fleiri (sjá hér Mýrar).

Í prestaæfum sínum fer Sighvatur Borgfirðingur mjög lofsamlegum orðum um þennan prest en í dagbókunum eru dómar hans um séra Jón hins vegar ekki allir á einn veg. Við samanburð á þessu tvennu kemur reyndar stöku sinnum í ljós nokkur munur á því sem ritað er í hita augnabliksins og svo hinu sem fest er á blað að yfirveguðu ráði. Í dagbók sína skrifar Sighvatur t.d. þetta í júlímánuði árið 1880: Bindindisfundur á Þingeyri, ómerkilegur. Þar var séra Jón á Gerðhömrum ákafastur bindindispostuli en drakk sig augafullan rétt á eftir með skömmum og áflogum við marga.[149]

Eitthvað hafa nú fréttirnar af þessari kaupstaðarferð sálusorgarans gengið fram af fræðimanninum á Höfða en margur hefur  verið breyskur í prestastétt og sumum gengið betur að kenna hin ýmsu boðorð en halda þau. Hér verður ekki vitnað frekar í dagbókarskrif Sighvats um séra Jón Jónsson á Gerðhömrum en í riti sínu Prestaæfum fer Sighvatur fögrum orðum um klerk þennan og segir þá meðal annars:

 

Séra Jón lagði gjörfa hönd á margt um dagana enda var hann gáfumaður mikill, ötull og vel menntaður. … Hann fékk almenningsorð fyrir hve laginn hann væri að kenna ungum mönnum. … Alla æfi var hann meira og minna við kennslustörf eins meðan hann var prestur í Dýrafirði. … [Séra Jón var]  fjörmaður mikill, glaðlyndur og skemmtilegur og síungur í anda til dauðadags. Hann var trygglyndur og drenglyndur, hreinskilinn og harðorður ef honum þótti réttu máli misboðið. Hann var góður raddmaður og fóru öll prestverk vel, predikari sæmilegur og sómdi sér vel í kirkju. Meðalmaður á hæð, léttur og snar á fæti, gestrisinn og gleðimaður heim að sækja en ölkær var hann um of. … Raungóður var hann við fátæka og hjartagóður, búsýslumaður í betra lagi og veitti góða forstöðu húsi sínu.[150]

 

Á þeim árum sem séra Jón Jónsson var prestur í Dýrafjarðarþingum var lengi prestlaust í Sandaprestakalli og þjónaði hann þá í öllum Dýrafirði, fyrst frá 1871 til 1872 og svo aftur frá 1875 til 1881.[151]

Haustið 1882 voru séra Jóni á Gerðhömrum veittir Sandar og fluttist hann þangað næsta vor[152] en hélt þó áfram prestþjónustu í Dýrafjarðarþingum uns hann fluttist frá Söndum vorið 1884 að Stað á Reykjanesi og gerðist prestur þar suður við Breiðafjörð.[153] Er séra Jón fór úr Dýrafirði vorið 1884 varð prestlaust í allri Vestur-Ísafjarðarsýslu og stóð svo uns séra Janus Jónsson kom að Holti síðar á því ári.[154]

Í Dýrafirði var séra Jón prestur í fjórtán ár og síðan ellefu ár á Stað á Reykjanesi. Þar lét hann af prestskap árið 1895 og var þá 66 ára gamall. Árið 1896 fluttist hann frá Stað að Ögri við Ísafjarðardjúp og var þar eitt ár í húsmennsku en frá 1897-1901 var hann búsettur á Flateyri.[155] Síðustu æviárin átti séra Jón Jónsson heima á Ísafirði og þar andaðist hann árið 1907.[156] Eitt barna hans var Magnús Runólfur sem lengi var prestur á Stað í Aðalvík

Síðasti presturinn sem sat á Gerðhömrum var séra Þórður Ólafsson, sem tók við prestþjónustu í Dýrafjarðarþingum haustið 1887 en þá hafði prestakallinu verið þjónað frá Söndum í fjögur ár. Séra Þórður var frá Hlíðarhúsum sem stóðu þar sem nú er Vesturgata 24 og 26 í Reykjavík. Hann var fæddur árið 1863 og lauk guðfræðiprófi frá prestaskólanum árið 1887.[157] Í októbermánuði á því ári voru Þórði veitt Dýrafjarðarþing og þann 6. nóvember þá um haustið tók hann prestvígslu.[158] Fáum dögum eftir vígsluna lagði hann af stað vestur einhleypur og allslaus og fór mest af leiðinni fótgangandi.[159] Í dagbókum Sighvats Borgfirðings má sjá að Þórður var kominn vestur annan desember.[160] Konu sína, Maríu Ísaksdóttur frá Eyrarbakka, skildi hann eftir í Reykjavík en hún kom vestur vorið 1888.[161] Fyrsta vetur sinn í Dýrafirði var séra Þórður hjá Guðmundi Hagalín á Mýrum en vorið 1888 fóru þau María að búa í Meira-Garði.[162] Þar voru þau þó aðeins í eitt ár en settust að á Gerðhömrum vorið 1889 og bjuggu þar í 15 ár eða til ársins 1904 er séra Þórði var veitt Sandaprestakall og hann fluttist búferlum yfir Dýrafjörð (sjá hér Sandar).

Séra Þórður Ólafsson mun hafa verið mesti dugnaðarmaður og sótti m.a. sjó frá Fjallaskaga þar sem hann var formaður á eigin bát.[163] Sjósókn hefur hann verið vanur frá Hlíðarhúsum og skrifaði reyndar merka ritgerð um fiskveiðar Reykvíkinga á síðari helmingi 19. aldar.[164]

Sighvatur Borgfirðingur minnist oft á séra Þórð í dagbókum sínum og nefnir hann þar ýmsum nöfnum, t.d. séra Sult, séra Lepil og séra Kjafta.[165] Svo virðist sem Sighvatur hafi um skeið verið fullur heiftar út í séra Þórð og þá ekki síst vegna vináttu prestsins við Lauritz Berg, forstjóra

hvalveiðistöðvarinnar á Höfðaodda.[166] Á gamlársdag árið 1893 segist Sighvatur vera hættur að sækja kirkju vegna óhæfilegs prests og ári síðar staðfestir hann að allt sé óbreytt hjá sér í þeim efnum.[167] Síðar átti mat Sighvats á séra Þórði þó eftir að breytast mjög til batnaðar, enda fékk Þórður hann til að flytja fyrirlestur við guðsþjónustugjörð í Mýrakirkju á síðasta degi 19. aldarinnar.[168]

Í Prestaæfum fær séra Þórður á Gerðhömrum góða dóma hjá Sighvati en hann segir þar meðal annars að þessi síðasti prestur á Gerðhömrum hafi stundað embætti sitt með kostgæfni og alúð og komið mörgu góðu til leiðar.[169] Sighvatur lætur mikið af dugnaði séra Þórðar við búskap og segir hann hafa unnið ósleitilega að öllu því er bú hans þurfti, vetur og sumar, enda verið verkmaður mikill.[170] Um Maríu, konu séra Þórðar, segir Sighvatur að hún hafi unnið að öllum heimilisstörfum engu síður en griðkonur á sveitabæjum.[171]

Séra Þórður lét allmjög til sín taka í hrepps- og héraðsmálum, enda getur Sighvatur þess og segir hann jafnan hafa gengið ótrauðan fram í flokki framfara- og frelsisvina.[172]

Lokaorð fræðimannsins á Höfða um séra Þórð Ólafsson eru þessi:

 

Séra Þórði fóru öll prestverk vel og aldrei kom það fyrir að embættisverk hans biðu halla þó hann væri önnum kafinn við búskap sinn. Hann hélt jafnan uppi húsvitjunum í sóknum sínum sem aðrir prestar fóru þá mjög að vanrækja, enda vann hann sér traust og hylli sóknarmanna sinna. … Honum var létt um mál, var skörulegur og einbeittur, ritfær vel og ágætur skrifari.[173]

 

Vorið 1904 voru séra Þórði veittir Sandar í Dýrafirði og fluttist hann þangað á því ári (sjá hér Sandar) en gegndi þó jafnframt prestþjónustu í sínu gamla kalli í eitt ár enn uns séra Sigtryggur Guðlaugsson tók við sumarið 1905.[174]

Hér hefur nú verið sagt stuttlega frá sex prestum sem sátu á Gerðhömrum og er þá mál að tygja sig til brottfarar. Við förum þó ekki beinustu leið að Arnarnesi, sem er næsti bær hér fyrir utan, því ætlunin er að rölta svolítið um landareign Gerðhamra og þá einkum um Gerðhamradal sem opnast skammt fyrir utan túnið.

Undir lok 17. aldar var um nokkurra ára skeið búið í hjáleigukoti sem stóð rétt við heimatúnið á Gerðhömrum.[175] Kot þetta sem bar nafnið Girði mun hafa fallið í eyði fyrir 1703 enda verður ekki séð í manntalinu frá því ári að nokkurt fólk hafi þá átt þar heima.[176] Ætla má að fleiri kot af svipuðu tagi hafi verið reist á Gerðhömrum á liðnum öldum en nöfn þeirra eru nú gleymd og reyndar ekki til þess vitað að nokkurt slíkt kot hafi náð að standa þar sem mannabústaður til lengdar.

Á fyrstu árum tuttugustu aldar, sem nú er að renna sitt skeið á enda, reisti maður að nafni Hákon Pálsson svolítið timburhús á sléttri flöt dálítið innan við Gerðhamra og nefndi Sjáland.[177] Húsið stóð örskammt frá núverandi akvegi rétt utan við Miðlendishrygg (sjá hér bls. 3).[178] Hákon og kona hans, Júlíana Þórðardóttir, bjuggu á Sjálandi í a.m.k. tvö ár, 1903-1905.[179] Í sóknarmannatölum Dýrafjarðarþinga verður þessara hjóna fyrst vart á Gerðhömrum árið 1898 en þá eru þau þar í húsmennsku hjá séra Þórði Ólafssyni.[180] Hákon var þá 58 ára en Júlíana 42ja. Næstu árin héldust þau við á Gerðhömrum með svipuðum hætti en ekki verður séð að þau hafi búið ein sér í húsi fyrr en 1903.[181] Hugsanlegt er þó að Sjáland hafi risið lítið eitt fyrr þó prestur geti þess ekki í húsvitjunarbókinni. Í lok ársins 1903 voru Hákon og Júlíana tvö ein á Sjálandi en ári síðar er hjá þeim vinnukona og þá er tekið fram að þetta sé þurrabúð.[182] Árið 1905 hverfa þau burt frá Sjálandi, ef marka má sóknarmannatöl prestsins, og þar var aldrei búið síðar.[183] Ágúst Guðmundsson, sem lengi bjó á Sæbóli á Ingjaldssandi, segir þó að Hákon og Júlíana hafi enn verið á Sjálandi í nóvembermánuði árið 1905.[184] Í litla timburhúsinu sem fékk nafnið Sjáland hefur umrætt þurrabúðarfólk dvalist í skjóli séra Þórðar en við brottför hans sumarið 1904 hafa aðstæður þess breyst. Veturinn 1908-1909 féll snjóflóð á timburhúsið sem þá stóð autt og þar með var saga þess öll en grundin sem það stóð á er enn nefnd Sjáland af þeim sem hér eru kunnugir.[185] Þar er enn sjáanlegur hlaðinn húsgrunnur rétt fyrir ofan veginn og svolítil fjárhústótt enn nær veginum.

Hér var áður minnst á Gerðhamrahrygg sem er skammt fyrir utan túnið á Gerðhömrum og lokar fyrir allt útsýni heiman frá bænum út með fjarðarströndinni. Yfir þennan hrygg liggur nú leið okkar en rétt utan við hann er hið gamla kvíaból fólksins á Gerðhömrum. Svo má heita að það sé beint út af bænum og er þar lítill hóll sem Kvíahóll heitir.[186] Þangað er um tíu mínútna gangur heiman frá bæ.[187] Á Bólinu voru ærnar síðast mjólkaðar í færikvíum og kýr voru einnig reknar þangað til mjalta.[188]

Skammt utan við Bólið er Ullarlækur sem rennur til sjávar rétt innan við ósinn á Arnarnesá en hún skiptir löndum milli Gerðhamra og Arnarness.[189] Frá Gerðhömrum út að ánni er vegalengdin aðeins einn kílómetri. Á þessi er nú jafnan nefnd Arnarnesá en í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 er hún ýmist nefnd Gerðhamraá eða Arnarnesá.[190] Dalurinn sem á þessi fellur um er nú almennt nefndur Gerðhamradalur en nafnið Arnarnesdalur finnst þó líka í heimildum frá tuttugustu öld[191] og mun þá átt við þann hluta dalsins sem er utan við ána og því í landi Arnarness.

Gerðhamradalur er um það bil fjórir kílómetrar á lengd, ef talið er neðan frá sjó og þar til komið er rétt fram fyrir Gerðhamrahvilft þar sem landið fer að hækka að marki. Stefna dalsins frá árósnum og fram í dalbotn er frá suð-suðvestri til norð-norðausturs. Þetta er þröngur dalur, girtur háum klettafjöllum. Yfir innri hlíðinni trónir Gerðhamrahornið sem áður var nefnt (sjá hér bls.1) en á móti því, hinum megin í dalnum, rís fjallið Óþoli sem er nær 700 metra hátt með þverhníptum klettaveggjum hið efra. Bæði setja þessi hamrafjöll sterkan svip á umhverfið. Akvegur liggur nú um dalinn á Sandsheiði og síðan yfir hana út á Ingjaldssand. Um dalinn og heiðina lá einnig alfaravegur á fyrri tíð og var talin þriggja tíma ferð milli byggða.[192]

Við hefjum gönguna við árósinn, þar sem enn má sjá rústir beitarhúsa frá Gerðhömrum og Arnarnesi,[193] og röltum upp með ánni. Fyrst um sinn höldum við okkur innan við hana og verður þá brátt á vegi okkar dálítil lægð sem heitir Árdalur. Framan við hann er Gránubali, mjög skammt frá ánni, og á honum stór og stakur steinn sem heitir Grákona.[194] Tilsýndar er steinn þessi líkur húsi í lögun og munu ýmsir hafa trúað því að þar byggi huldukona.[195] Dálítið framan við Gránubala kemur Litlaskriða, sem nær nokkurn veginn niður að á, en framar er Stóraskriða, sem kemur úr Stóruskriðuhvilft, og framan við þá skriðu er svo Stóruskriðuengi.[196] Í sóknarlýsingu sinni frá árinu 1840 gerir séra Jón Sigurðsson á Gerðhömrum lítið úr slægjulöndum á dalnum en segir að þar séu nokkrar grasi vaxnar mýrar, beggja megin árinnar, sem séu sjaldan slegnar.[197]

Framan við Stóruskriðuengi, sem hér var nýlega nefnt, rennur Heimri-Þverá, sem kemur úr Gerðhamrahvilft, niður í Arnarnesá.[198] Fram að ármótunum eru um það bil tveir og hálfur kílómetri neðan frá sjó. Um það bil 800 metrum framar (mælt eftir þjóðveginum) er Fremri-Þverá[199] sem líka kemur úr Gerðhamrahvilft. Hvilft þessi liggur hátt í fjallinu og er hömrum girt á þrjá vegu. Séra Jón Sigurðsson lýsti henni og umhverfi hennar svo árið 1840:

 

Framar en um miðjan dal er dalverpi nokkuð upp í fjallið. Þar er vatn lítið og rennur stór lækur úr ofan í aðalána. Það er alþýðutrú að í því vatni sé nykur eða vatnahestur en það mun á litlum rökum byggt. Þetta dalverpi kallast Gerðhamrahvilft. Allt um kring hvilftina eru klettagirðingar. En fyrir framan hana er hátt fjall eða horn sem smám saman lækkar fram að skarði því er af Núpsdal liggur.[200]

 

Ýmsar sögur munu hafa verið sagðar um nykur þann í Gerðhamrahvilft sem prestur minntist á. Til dæmis þessi:

 

Einu sinni var stúlka að leita að kindum í Gerðhamrahvilft. Hún var bæði sveitt og móð og gekk að vatninu til þess að drekka úr læk sem úr því rennur niður í Gerðhamraá. Þegar stúlkan lútir til að drekka sér hún mann með hestshöfuð standa rétt hjá sér. Varð stúlkan strax hrædd við sjón þessa. Virti samt betur fyrir sér furðuverk þetta. Sá stúlkan þá að það var bolurinn einn sem var líkur manni. Höfuðið var sem á hesti og hófar á fótum. Skyldi stúlkan þá að þetta myndi vera nykur.[201]

 

Lengi vel reyndi nykurinn að lokka smalastúlkuna á bak sér en hún kunni að forðast hættuna og lét ekki glepjast. Er stúlkan tók á rás niður dalinn elti nykurinn. Honum tókst þó ekki að ná henni en er stúlkan kom heim var hún nærri sprungin af mæði.[202]

Fjallið framan við Gerðhamrahvilft heitir Seljahorn[203] og tekur nafn af seljunum frá Gerðhömrum sem voru hér rétt fyrir framan Fremri-Þverá,[204] sem áður var nefnd, við ármótin þar sem hún fellur í Langá. Örlitlu neðar kemur Þverá úr Stóruhvilft í Arnarneslandi í Langána og úr verður Arnarnesá. Seltóttirnar eru enn greinilegar[205] en hér hefur þó líklega ekki verið haft í seli síðan nokkru fyrir 1840.[206] Tóttirnar í Gerðhamraseli eru a.m.k. fjórar og er sú stærsta um það bil 5,5 x 2,5 metrar að flatarmáli. Selin frá Arnarnesi voru handan ár og svolítið heimar á dalnum (sjá hér Arnarnes).

Landið framan við Fremri-Þverá heitir Tungur.[207] Um þær liggur vegurinn upp á Sandsheiði og er það leiðin út á Ingjaldssand.  Eins og áður var getið ræður Arnarnesá merkjum milli Gerðhamra og Arnarness alveg fram í dalbotn en í fjalllendinu fyrir botni dalsins ræður lækur sem fellur um miðjar Tungurnar.[208] Framan við fjallið Seljahorn, sem hér var nýlega nefnt, er Núpsskarð en um það liggur leiðin úr Núpsdal á Sandsheiði (sjá hér Núpur). Frá skarðinu liggur brekka fyrir þveran dalbotninn og heitir Girðisbrekka.[209] Ofan við hana er dálítill mýrarslakki og þar mun stundum hafa verið heyjað á fyrri tíð.[210] Fjallið sem rís yfir dalbotninum heitir Þverfell og er efsta brún þess talin vera í 676 metra hæð.

Landamerkjalækurinn, sem hér var áður nefndur, mun nú hafa verið færður eitthvað til[211] en merkin voru frá fossi sem rann í klettagljúfri fram af Girðisbrekku og þaðan sjónhending í Strengberg í Þverfelli.[212] Ákveðinn steinn bendir nú á gljúfrið þar sem lækurinn rann áður og sýnir hvar landamerkin eru.[213]

Á Girðisbrekku látum við ferð okkar um landareign Gerðhamra lokið og stígum yfir landamerkin. Á Ingjaldssand förum við síðar en snúum nú við og göngum heim dalinn í átt að bænum Arnarnesi. Á þeirri leið skulum við halda okkur utan við ána.

 

 

 

 

 

 

– – – – – o o o – – – – –

[1] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 79.

[2] Örnefnaskrá.

[3] Sóknalýs. Vestfj. II, 78.

[4] Valdimar Kristinsson, Núpi. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[5] Þorvaldur Thoroddsen, Ferðabók II, 122-123.

[6] Örn.skrá.

[7] Sama heimild.

[8] Vestfirskar sagnir II, 307-308.

[9] Örn.skrá.

[10] Sama heimild.

[11] Sóknalýs. Vestfj. II, 78.

[12] Sama heimild.

[13] Örn.skrá.

[14] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII, 81 og Sóknalýs. Vestfj. II, 79.

[15] Sóknalýs. Vestfj. II, 78-79.

[16] Örn.skrá.

[17] Jarðabók Á. og P. VII, 81.

[18] D.I. XV, 572-576.

[19] Jarðabók Á. og P. VII, 68.

[20] Sama heimild, 81.

[21] Sama heimild, 68 og 81.

[22] Sama heimild 81.

[23] Sóknalýs. Vestfj. II, 78.

[24] Jarðabók Á. og P. VII, 81.

[25] Sama heimild.

[26] Sama heimild.

[27] Sóknalýs. Vestfj. II, 78.

[28] Örn.skrá.

[29] Valdimar Kristinsson, Núpi. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[30] Örn.skrá.

[31] Sama heimild.

[32] Sama heimild.

[33] D.I. III, 447-448.

[34] Sama heimild.

[35] D.I. IV, 668.

[36] D.I. V, 501-502.

[37] Sama heimild.

[38] D.I. VIII, 262-263, – sbr. XI, 567.

[39] D.I. VIII, 262-263.

[40] Íslenskar æviskrar I, 216 og III, 72-73.

[41] D.I. IX, 368-370.

[42] Sama heimild.

[43] D.I. X,679-681 og XI, 567.

[44] D.I. X, 678-681.

[45] Sama heimild og Alþ.bækur Íslands VII, 443-444.

[46] Ísl. æviskrár I, 319-320.

[47] D.I. XV, 508.

[48] Jarðabók Á. og P. VII, 80.

[49] Alþingisbækur Íslands VII, 443-444.

[50] D.I. XV, 508.

[51] Sama heimild, 522.

[52] Alþ.bækur Íslands VII, 443-444.

[53] Páll Eggert Ólason 1942, 146-150.

[54] Sama heimild bls. 151.

[55] Sama heimild, bls. 150.

[56] Alþ.bækur Íslands VII, 443-444 og D.I. XV, 508.

[57] Alþ.bækur Íslands VII, 443-444.

[58] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681, jarðaskrá og búenda í Skálholtsbiskupsdæmi.

[59] P.E. Ólason 1942, 146-150.

[60] Jarðabók Á. og P. VII, 80.

[61] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.

[62] Annálar III, 380.

[63] Jarðabók Á. og P. VII, 80 og Manntal 1703.

[64] Jarðabók Á. og P. VII, 80-81.

[65] Sama heimild.

[66] Annálar III, 166 og Ísl. æviskrár IV, 234-235.

[67] Annálar III, 166.

[68] Annálar III, 166 og Ísl. æviskrár III, 293.

[69] Annálar III, 166.

[70] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, Ísafj.s. um 1735, eftirrit.

[71] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.s. 1753.

[72] Manntal 1762.

[73] Ættartölubækur Jóns Esp. I, 420-421.

[74] Skj.s. stiftamtm. III. nr. 176, „Dómsslutning í falsseðlamáli”, dags. 23.9.1758; Alþ.b. Ísl. XIV, 448,

478-479 og 481.

[75] Sömu heimildir.

[76] Skj.s. stiftamtm. III. nr. 176, „Dómsslutning … “ 23.9.1758.

[77] Sömu heimildir.

[78] Skj.s. stiftamtm. III. nr. 176, „Dómsslutning “ í falsseðlamáli,dags.23.9.1758. Alþ.bækur Íslands XIV, 448, 478, 479 og 481.

[79] Sömu heimildir.

[80] Sömu heimildir.

[81] Skj.s. stiftamtm. III. nr. 176. Bréf Jóns Guðbrandssonar, Magnúsar Bjarnasonar og Einars Bjarnasonar

  1. sept. 1759 til konungs, afrit.

[82] Skj.s. stiftamtm. III. nr. 176, „Dómsslutning … “ 23.9.1758.

[83] Sömu heimildir.

[84] Manntöl 1703 og 1762. Bændatöl frá 1735 eða svo og frá 1753. Sóknarm.töl Dýrafj.þinga 1785-1803

og 1870-1900. Manntöl frá 19. öld.

[85] Sömu heimildir.

[86] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga og Manntöl 1850-1901.

[87] Sömu heimildir.

[88] Sóknalýs. Vestfj. II, 78.

[89] Sama heimild bls. 94.

[90] Sveinn Níelsson 1950, 190-191. Ísl. Æviskrár I, 8-9, Lbs. 23674to, X, 772-774 (Prestaæfir S.Gr.B.).

[91] Sömu heimildir.

[92] Lbs. 23674to, X, 772-774.

[93] Ísl. æviskrár I, 8-9.

[94] Sama heimild.

[95] Sama heimild.

[96] Sama heimild.

[97] Sama heimild.

[98] Ísl. æviskrár III, 199 og Lbs.  2367 4to,  X, 784-788 (Prestaæfir S.Gr.B.).

[99] Lbs. 2367 4to, X, 784-788 (Prestaæfir S.Gr.B.).

[100] Lbs. 2367 4to, X, 784-788 (Prestaæfir S.Gr.B.).

[101] Sama heimild.

[102] Lbs. 2367 4to, X, 784-788 (Prestaæfir S.Gr.B.).

[103] Sama heimild.

[104] Lbs. 23684to, XI, 226 (Prestaæfir S.Gr.B.).

[105] Lbs. 23684to, XI, 223-224 (Prestaæfir S.Gr.B.).

[106] Sama heimild, 225.

[107] Manntal 1845.

[108] Manntal 1850 og Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 2., bún.skýrslur.

[109] Sama heimild.

[110] Sama heimild.

[111] Lbs. 23684to, XI,  bls. 226 (Prestaæfir S.Gr.B.).

[112] Lúðvík Kristjánsson 1955, 144-147 (Vestlendingar).

[113] E. 10. Bréf séra J. Sig. á Gerðhömrum og G. Br. á Mýrum 18.8.1844 til Jóns Sigurðssonar,

alþingismanns í Kaupm.höfn.

[114] L. Kr. 1955, 43.

[115] L. Kr. 1960, 39-40.

[116] L. Kr. 1955, 144-147.

[117] E. 10. Bréf séra J. Sig. á Gerðhömrum 17.8.1846 til Jóns Sigurðssonar forseta.

[118] E. 10. Bréf séra J. Sig. á Gerðhömrum 17.8.1846 til Jóns Sigurðssonar forseta.

[119] Sama heimild.

[120] Sama heimild.

[121] Sama heimild.

[122] E. 10. Bréf séra J. Sig. á Gerðhömrum 13.8.1847 til Jóns Sigurðssonar forseta.

[123] Sóknalýs. Vestfj. II, 94-96.

[124] E. 10. Bréf séra J. Sig. á Gerðhömrum 13.8.1847 til Jóns Sigurðssonar forseta.

[125] Manntal 1850.

[126] H. Kr. 1973, 10-21 (Ársrit S.Í.).

[127] Sama heimild.

[128] Sama heimild og Manntal 1816, bls. 716.

[129] Manntal 1816, bls. 716.

[130] H. Kr. 1973, 10-21.

[131] Sama heimild. – Sbr. Jón Þ. Þór 1984, 221 og 230-233.

[132] Ísl. æviskrár I, 191.

[133] K.Ó. 1987, 119 (Saga, tímarit).

[134] Lbs. 2369 4to, XII, 186-190 (Prestaæfir S.Gr.B.).

[135] Sama heimild.

[136] Ísl. æviskrár I, 191.

[137] Ísl. æviskrár III, 204.

[138] Sama heimild.

[139] Ísl. æviskrár.

[140] Lbs.2367 4to, X, 217-228 (Prestaæfir S.Gr.B.).

[141] Lbs. 23674to, X, 217-228.

[142] Sama heimild.

[143] Sama heimild.

[144] Sama heimild.

[145] Sama heimild

[146] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[147] Lbs. 23674to, X, 217-228 (Prestaæfir S.Gr.B.).

[148] Sama heimild.

[149] Lbs. 23744to, Dagbók S.Gr.B. 10.7.1880.

[150] Lbs. 2367 4to, X, 217-228 (Prestaæfir S.Gr.B.).

[151] Sveinn Níelsson 1950, 189.

[152] Lbs. 23674to, X, 217-228.

[153] Sama heimild.

[154] Lbs. 23674to, X, 217-228.

[155] Lbs. 2367 4to, X, 217-228  (Prestaæfir S.Gr.B.).

[156] Sama heimild. Ísl. æviskrár III, 204.

[157] Lbs. 23684to, XI, 232-238 og 394 (Prestaæfir S.Gr.B.).

[158] Sama heimild. Ísl. æviskrár V, 521-522.

[159] Sama heimild.

[160] Lbs. 23744to, Dagbók S.Gr.B. 2.12.1887.

[161] Lbs. 23684to,  XI, 232-238.

[162] Sama heimild.

[163] Sama heimild.

[164] Ísl. æviskrár V, 521-522.

[165] Lbs. 23754to, Dagbók S.Gr.B. 17.11.1894, 4.3.1895 og 15.11.1895.

[166] Lbs. 23744to og 23754to, Dagbækur S.Gr.B. 22.11.1890, 2.4.1893, 27.8.1894, 17.11.1894, 27.12.1894,

4.3.1895, 14.4.1895 og 15.11.1895.

[167] Lbs. 23754to, Dagbók S.Gr.B. ársyfirlit 1893 og 1894.

[168] Sama heimild, – ársyfirlit 1900.

[169] Lbs. 23684to, XI,232-238 og 394 (Prestaæfir S.Gr.B.).

[170] Sama heimild.

[171] Sama heimild.

[172] Sama heimild.

[173] Sama heimild.

[174] Sama heimild.

[175] Jarðabók Á. og P. VII, 81.

[176] Jarðabók Á. og P. VII, 81 og Manntal 1703.

[177] Örn.skrá.

[178] Sama heimild.

[179] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[180] Sama heimild.

[181] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[182] Sama heimild.

[183] Sama heimild.

[184] Ágúst Guðmundsson 1960, 92-94 (Ársrit S.Í.).

[185] Örn.skrá.

[186] Örn.skrá.

[187] Sama heimild.

[188] Sama heimild.

[189] Sama heimild .

[190] Jarðabók Á. og P. VII, 81-82.

[191] Örn.skrá.

[192] Sóknalýs. Vestfj. II, 79.

[193] Valdimar Kristinsson, Núpi. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[194] Örn.skrá.

[195] Sama heimild.

[196] Sama heimild.

[197] Sóknalýs. Vestfj. II, 79.

[198] Örn.skrá.

[199] Sama heimild.

[200] Sóknalýs. Vestfj. II, 79.

[201] Vestf. þjóðs. II, 2, 18-19.

[202] Sama heimild.

[203] Örn.skrá.

[204] Sama heimild.

[205] Örn.skrá.

[206] Sóknalýs. Vestfj. II, 80.

[207] Örn.skrá.

[208] Sama heimild.

[209] Sama heimild.

[210] Sama heimild.

[211] Sama heimild.

[212] Örn.skrá.

[213] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »