Gufudalssveit

Hinn forni Gufudalshreppur, öðru nafni Gufudalssveit, nær frá Múlaá í Þorskafirði og að Deild á vesturströnd Kollafjarðar, andspænis bænum Eyri. Innan gömlu hreppamarkanna eru fjórir misstórir firðir, tveir þeirra þó aðeins að hluta til. Austast er Þorskafjörður, síðan Djúpifjörður, þá Gufufjörður og loks Kollafjörður vestast. Allir skerast þessir firðir inn úr norðanverðum Breiðafirði og hefur byggðin nær eingöngu verið með fjarðaströndinni. Undirlendi er ekki mikið í Gufudalssveit en víða gott sauðland. Að baki sveitarfjallanna gnæfa Reiphólsfjöll, mikið og samfellt fjalllendi sem nær austan frá Þorskafjarðarheiði og vestur að Kollafjarðarheiði. Hæsti tindur Reiphólsfjalla er í 907 metra hæð yfir sjávarmáli. Snjóa leysir jafnan seint af fjöllunumm og oft ber þar mikið á fjölda hjarnskafla þó að komið sé fram á haust. Ásamt Glámuhálendinu skilja Reiphólsfjöll að byggðirnar við innanvert Ísafjarðardjúp og norðanverðan Breiðafjörð.

 

Hjallar voru austasti bær í Gufudalssveit og er þangað skammur vegur frá hinum fornu hreppamörkum við Múlaá. Bæjarstæðið er allhátt frá sjó en gamla túnið teygir sig niður undir þjóðveginn.

Um miðja 19. öld átti um skeið heima á Hjöllum maður að nafni Sakarías Illugason. Hann var einhleypur lausamaður og fékkst við lækningar, hestakaup og annað prang. Gísli Konráðsson greinir frá því að Sakarías hafi vart tímt að eta enda þótt hann væri sæmilega fjáður og hafi grafið peningakúta sína í jörð hér á Hjöllum.[1] Árið 1852 mun Sakarías á Hjöllum hafa stytt sér aldur og  var þá um fimmtugt.

Áður var því trúað að hver sá sem byggi lengur en tólf ár á Hjöllum yrði fyrir óláni og vildu fáir taka áhættuna. Þessa bannhelgi braut þó Jón Finnsson frá Eyri í Kollafirði en hann bjó lengi á Hjöllum á síðari hluta 19. aldar og farnaðist vel.[2] Sonur Jóns Finnssonar, fæddur og uppalinn á Hjöllum, var Ari Arnalds, sem ungur var kjörinn þingmaður Strandamanna í Uppkastskosningunum 1908 og ritaði endurminningar sínar á gamals aldri. Utan við Hjalla liggur vegurinn yfir Kálfárgljúfur og síðan áfram skamma bæjarleið út með Þorskafirði að Þórisstöðum sem nú er í eyði.

 

Á Þórisstöðum bjó Gull-Þórir Oddsson, að sögn Landnámu, og er hann helsta sögupersónan í Þorskfirðingasögu, sem oft er nefnd Gull-Þórissaga. Höfundur Þorskfirðingasögu virðist gera ráð fyrir kornrækt hér um slóðir því um hest Þóris, gauskan hlaupara, er sagt að hann hafi verið alinn á korni vetur og sumar.[3] Þessum hesti reið Þórir yfir Þorskafjörð hvort sem flóð var eða fjara. Í sögunni er einnig talað um geitfé á Þórisstöðum og hurfu þaðan tvö höðnukið vor hvert.[4]

Meðal margra örnefna í landi jarðarinnar, sem tengjast Gull-Þórissögu, má nefna Gullfoss og Helgastein. Gullfoss er uppi í hlíðinni nokkru fyrir ofan og rétt austan við bæinn, í læk sem þar fellur. Dauður sást Þórir stundum fljúga í drekaham frá fossinum og yfir fjörð. Var talið að drekinn legðist á gullkistur þær er Þórir hafði falið í jörð.[5] Helgasteinn er í fjörunni inn undir Hjallaá, innst í landi Þórisstaða, og fer í kaf um stórstraumsflæðar. Undir steini þessum vó Þórir Helga bónda á Hjöllum.

Snemma á öldum mun byggð hafa lagst af á Þórisstöðum og lá jörðin undir Gröf, sem er býli nokkru utar við Þorskafjörð. Í byrjun 18. aldar hafði Grafarbóndi í seli á Þórisstöðum.[6] Um miðja 19. öld hófst byggð á Þórisstöðum á ný[7] og stóð fram yfir 1960. Í manntali frá 1845 er ekki getið byggðar á Þórisstöðum en í sóknarmannatali frá 1850 má sjá að þá er búseta hafin hér á ný.

Utan við Þórisstaði beygir þjóðvegurinn til fjalls yfir Hjallaháls en vestan við hálsinn tekur Djúpifjörður við. Á hálsinum liggur vegurinn hæst í 335 metra hæð yfir sjávarmáli. Styrsbrekka heitir efst á brúninni í austanverðum Hjallahálsi en þar segir Þorskfirðingasaga að Gull-Þórir hafi fellt einn fjandmanna sinna, Styrr að nafni. Blýgslækur og Frakkamýri þar á hálsinum eiga að hafa fengið nöfn sín með líkum hætti.[8]

Ánægjulegt getur verið að aka yfir Hjallaháls en þó mun skemmtilegra að ganga frá Þórisstöðum að eyðibýlinu Hallsteinsnesi, fremst á samnefndu nesi milli Þorskafjarðar og Djúpafjarðar, og þaðan áfram inn að eyðibýlinu Barmi við Djúpafjörð. Á þessari leið er fyrst komið að bænum Gröf sem stendur undir Hrómundarfelli og liggur þangað akfær vegarslóði. Hingað vísaði draumkona Eggerti Ólafssyni, óðalsbónda í Hergilsey á Breiðafirði, þegar hann var orðinn ekkjumaður í annað sinn, og sagði honum að í Gröf væru þrjár heimasætur og hefði ein þeirra valbrá á enni. Þeirrar skyldli hann biðja.[9] Allt gekk þetta eftir og þann 13. desember 1792 voru þau gefin saman í hjónaband, Eggert í Hergilsey 60 ára að aldri og Guðrún Jónsdóttir frá Gröf, sem þá var 22ja ára.

 

Við Gröf þrýtur bílveginn en gönguslóði liggur áfram skammt frá sjó að Hallsteinsnesi við mynni Djúpafjarðar. Þangað eru um tíu kílómetrar frá Þórisstöðum. Hér á Hallsteinsnesi byggði, að sögn Landnámu, fyrstur Hallsteinn sonur Þórólfs mostrarskeggs og nam Þorskafjarðarströnd hina nyrðri. Í Eyrbyggju er sagt að Hallsteini hafi þótt lítilmannlegt að þiggja land af föður sínum sunnan Breiðafjarðar og því reist sér bú hér á nesinu. Þræla sína skoska sendi Hallsteinn til saltgerðar út í Svefneyjar á Breiðafirði[10] og þjóðsögur herma að þar hafi hann komið að þeim sofandi á vinnutíma og þá látið hengja þá sem skjótast fyrir meint vinnusvik.[11] Sú var sögð skýring á nafni eyjanna.

Hallsteinn goði blótaði Þór og hét á hann að senda sér öndvegissúlur. Um árangurinn segir svo í Landnámu:

 

Eftir það kom tré á land hans, það var sextíu og þriggja álna og tveggja faðma digurt; það var haft til öndvegissúlna og eru þar af gjörvar öndvegissúlur nær á hverjum bæ um þverfjörðuna. Þar heitir nú Grenitrésnes er tréið kom á land.[12]

 

Grenitrésnesið ber enn sitt forna nafn við mynni Þorskafjarðar og er þangað 15-20 mínútna gangur í suðaustur frá Hallsteinsnesi. Í Árbók fornleifafélagsins er upplýst að þá sjaldan trjáreki verði á þessum slóðum beri trén nær ávallt að landi á þessu sama nesi.[13]

Heima á bæ sínum reisti Hallsteinn Þórshof[14] og í miðju túninu stendur Hallsteinshaugur, stór keilulagaður hóll. Hélst sú trú lengi að þar mætti ekki bera ljá í gras án stóráfalla.[15]

Sonur Hallsteins goða var Þorsteinn surtur og hefur að líkindum verið mestur reiknimeistari á Íslandi um sína daga. Í Íslendingabók Ara fróða segir frá því að á uppvaxtarárum Þorsteins surts hafi menn aðeins talið 364 daga í árinu, það er sléttar 52 vikur. Spakir menn, sem vel fylgdust með sólargangi, veittu því hins vegar athygli að sumarið munaði aftur til vorsins, en það kunni enginn segja þeim, að degi einum var fleira en heilum vikum gegndi í tveim misserum, og það olli.[16] Þorsteinn surtur kvaddi sér þá hljóðs að Lögbergi og lagði til að hið sjöunda hvert sumar skyldi auka viku og freista hve þá hlýddi. Að ráði spakra manna var tillaga Þorsteins samþykkt og þessi sumarauki í lög tekinn.

 

Frá Hallsteinsnesi liggur vegarslóði inn með Djúpafirði. Fjörðurinn er aðeins um sex kílómetrar á lengd og skammt innan við fjarðarhlíðina miðja er komið að eyðibýlinu Barmi. Fjarri fer því að Djúpifjörður beri nafn með rentu og reyndar þorna þrír fjórðu hlutar fjarðarins alveg um fjörur. Nafn fjarðarins kynni hins vegar að vera dregið af því að dalurinn, sem gengur upp frá botni fjarðarins, er girtur háum fjöllum og heitir Djúpidalur.

Á leiðinni frá Barmi inn í fjarðarbotn þarf að fara yfir tvær ár, fyrst Hálsá og síðan Kerlingargil, sem fellur til sjávar rétt utan við fjarðarbotninn. Örskammt innan við Hálsá kemur þjóðvegurinn niður af Hjallahálsi. Tungan milli Hálsár og Kerlingargils heitir Mýraland og lá undir Miðhús, býli sem stóð vestanvert til Djúpafjörð. Þarna í tungunni var haft í seli frá Miðhúsum og ýmsir hafa talið að hér hafi staðið bærinn Þorgilsstaðir, sem nefndur er í Þorskfirðingasögu. Fyrir liðlega hundrað árum mátti sjá afargamlar tóttir austanvert við reiðgötuna upp á hálsinn.[17]

Við fjarðarbotninn opnast Djúpidalur. Hið neðra er dalurinn allbreiður og grösugur en þrengist mjög þegar komið er um fjóra kílómetra frá sjó. Eftir dalnum fellur Djúpadalsá. Einn bær stendur í Djúpadal, samnefndur dalnum. Frá fjarðarbotninum er um tíu mínútna gangur heim að bænum en tveggja og hálfs tíma gangur frá bæ og fram í dalbotn.[18] Þar í dalbotninum eru sléttar eyrar og dálítill gróður. Heita þar Hvanneyrar en Gullfoss eða Gullþórisfoss í ánni nokkru neðar. Þjóðsögur herma að á Hvanneyrum hafi Gull-Þórir barist við Ísfirðinga og misst þar hendur sínar báðar en síðan steypt sér í fossinn.[19] Í Djúpadal er allmikið vetrarríki en sauðland gott að sumarlagi. Björn Jónsson, ritsjtóri og ráðherra, fæddur 1846, sem oft var kenndur við blað sitt Ísafold, var frá Djúpadal.

 

Frá Djúpadal liggur þjóðvegurinn út með vestanverðum Djúpafirði og aðeins tveir til þrír kílómetrar að eyðibýlinu Miðhúsum. Í lækjaskriðum milli Djúpadals og Miðhúsa hefur allvíða mátt sjá mola af silfurbergi og árið 1911 voru uppi ráðagerðir um að hefja þarna vinnslu á silfurbergi.[20] Ólafur Olavius hafði fyrir 1780 spurnir af silfurbergi (kalkspati) í Djúpafirði[21] og Þorvaldur Thoroddsen, sem hér ferðaðist um sumarið 1886, segir að við vestanverðan Djúpafjörð sé bæði silfurberg og geislasteinar (zeolítar).[22]

 

Nokkru fyrir utan Miðhús sveigir þjóðvegurinn upp á Ódrjúgsháls og er skammur vegur yfir hálsinn niður í Brekkudal og að bænum Brekku við Gufufjörð. Á leiðinni yfir Ódrjúgsháls er farið hæst í 160 metra hæð yfir sjávarmáli.

 

Nesið milli Djúpafjarðar og Gufufjarðar heitir Grónes (sumir nefndu Gróunes – Pétur á Stökkum). Rétt vestan til við nesið stóð samnefndur bær, sem nú er í eyði. Gróuneshyrna heitir fjallið yfir bænum. Frá þjóðveginum við vestanverðan Djúpafjörð má ganga út að Grónesi og tekur tæplega klukkustund. Heldur skemmri gönguvegur er síðan frá Grónesi inn að Brekku. Á annesjunum við norðanverðan Breiðafjörð er yfirleitt fjöldi eyja og hólma fyrir landi. Svo er einnig á Grónesi og var hér nokkurt æðarvarp. Á Brekku var löngum gististaður ferðamanna fyrir bílaöld og þar var lengi póstafgreiðsla og símstöð.[23] Guðmundur E. Geirdal skáld (1885-1952) var fæddur á Brekku en ólst að mestu upp í Gautsdal í Geiradalshreppi. Hann átti síðar lengi heima á Ísafirði.

Gufufjörður er með minnstu fjörðum, varla fjórir kílómetrar á lengd og víða um einn kílómetri á breidd. Er því harla skammt frá Brekku inn í fjarðarbotn. Á þeirri leið mátti þó séra Erlendur Hannesson, sem prestur var í Gufudal um aldamótin 1800, jafnan glíma við danska afturgöngu, er nefnd var Stokkfrú. Alþýða manna trúði því að Stokkfrú hefði verið kærasta séra Erlendar er prestur var í Kaupmannahöfn en hann hefði svikið hana og hún þá stytt sér aldur. Frú þessi gekk jafnan í stígvélum, sem þá var fátítt bæði um mennska menn og drauga. Vegurinn lá um einstigi en neðan við það klettabrík sem Skorhamar kallast og gat var á og sæmilega manngengt í gegnum bríkina. Þarna sat Stokkfrú jafnan fyrir presti og reyndi að hindra för hans. Smeygði hún sér þá í gegnum gatið og skaust í veg fyrir séra Erlend. Að lokum lét prestur hlaða grjóti upp í gatið á Skorhamri og hefur síðan lítið borið á Stokkfrú.[24]

 

Í Gufudal, fyrir botni fjarðarins, eru tveir bæir, Gufudalur (stundum nefndur Neðri-Gufudalur) og Fremri-Gufudalur. Gufudalur er kirkjustaður og þingstaður og þar var öldum saman prestssetur. Sumarið 1307 ferðaðist Lárentíus Kálfsson, síðar biskup, víða um Ísland sem sérstakur sendimaður erkibiskups og átti að líta eftir kristnihaldi. Kom hann að Gufudal og setti þar af Eilíf prest sakir vankunnáttu Eilífs í helgisiðum.[25]

Einn presta í Gufudal á 19. öld var séra Þorsteinn Þórðarson er andaðist hér árið 1840. Hann eignaðist ellefu börn, sem upp komust, og nefndu sum þeirra sig Thorsteinsson, Meðal barnabarna séra Þorsteins var Pétur J.Thorsteinsson, hinn mikli athafnamaður á Bíldudal.

Árið 1839 lét séra Þorsteinn flytja bæjarhúsin af sléttlendinu, þar sem bær og kirkja standa nú, og upp á allháan hjalla í grenndinni. Kirkja og kirkjugarður voru þó ekki flutt. Í sóknarlýsingu sinni frá 1840 segist séra Þorsteinn hafa flutt bæinn þar eð Álftadalsá hafi í vatnavöxtum hlaupið á tún og hús á gamla Gufudalsstað. En hvar staðurinn nú stendur getur hún aldrei skaðað hann, bætir prestur við.[26] Um 1890 færði séra Guðmundur Guðmundsson bæjarhúsin þó aftur niður á sléttlendið[27] en tóttir bæjarins, sem reistur var 1839, sýna enn hvar hann stóð.

Á árunum 1849 til 1856 var séra Andrés Hjaltason prestur í Gufudal. Sonur hans var Jón A. Hjaltalín, fæddur 1840, er varð skólastjóri Möðruvallaskóla. Séra Andrés kom að Gufudal frá Stað í Súgandafirði en var síðast prestur í Flatey. Næsti prestur í Gufudal var séra Einar Br. Sívertsen, hálfbróðir Helga biskups Thordersen. Jón Árnason þjóðsagnasafnari var skrifari hjá Helga biskupi. Vorið 1862 lá Jón í taugaveiki og talaði þá sitthvað í óráði. Að sögn annars þjóðsagnasafnara heyrðu menn biskupsskrifarann tauta í óráðinu: Nú er séra Einar gráfíkja dauður. Síðar kom á daginn að þann sama dag og um svipað leyti hafði séra Einar Br. Sívertsen andast vestur í Gufudal.[28] Um séra Einar er sagt að hann hafi verið söngmaður ágætur en undarlegur í háttum.[29]

Síðastur prestur sem sat í Gufudal var séra Guðmundur Guðmundsson, prestur hér frá 1889 til 1905. Séra Guðmundur fluttist frá Gufudal til Ísafjarðar. Þar lifði hann í 30 ár og var m.a. ritstjóri blaðsins Skutuls sem Alþýðuflokkurinn gaf út. Meðal barna séra Guðmundar var Haraldur ráðherra og formaður Alþýðuflokksins. Með lögum frá 1907 var Gufudalsprestakall lagt niður og sóknin þá lögð til Staðar á Reykjanesi.

Kirkjan sem nú stendur í Gufudal var reist árið 1908. Bærinn í Gufudal stendur í um það bil hálfs annars kílómetra fjarlægð frá fjarðarbotni og örskammt fyrir framan bæinn skiptir fjallsmúli dalnum í tvennt. Gengur Gufudalur þaðan í norðaustur en Álftadalur í norður. Um dalina falla Álftadalsá og Gufudalsá. Álftadalur er hrjóstrugur en í Gufudal er mikið gróðurlendi og nær um fimm kílómetra upp frá staðnum. Þar er allstórt stöðuvatn og segir Eggert Ólafsson að mikil silungsveiði sé í vatninu.[30] Olavius getur einnig um silungsveiði í Gufudalsvatni.[31]

Lækur rennur um túnið í Gufudal og heitir Kirkjulækur. Orð fór af því að lækur þessi jafnaðist á við heilt kúgildi sökum veiðisældar og þangað mátti jafnan sækja silung í máltíðina um leið og pottur var settur á hlóðir.[32]

Árið 1616 kom upp magnaður draugagangur á prestssetrinu í Gufudal er tvær konur og einn karlmaður, sem andast höfðu úr bólusótt, gengu aftur. Þessir allir spilltu verkum og vefnaði með skrækjum, sköllum og ýmislegum látum; stóðu að messu og lestri bæði úti og inni.[33] Sitthvað óhreint var stundum talið á sveimi í nágrenni Gufudals eins og víðar. Eitt sinn villtust fjárleitarmenn frá Gufudal í þoku og dimmviðri. Létu þeir þá fyrirberast í helli einum í nálægum fjöllum. Er þeim varð litið innar í hellinn

 

sáu þeir koma upp eins og dökkrautt tungl en sumir segja að tunglin hafi verið tvö, hvort við hliðina á öðru. Jafnframt heyrðu þeir félagar að mælt var með digurri og dimmri röddu: „Andrarímur þóttu mér fallegar” eða „Andrarímur þóttu mér allra vænstar.” Svo vildi til að annar þeirra félaga kunni Andrarímur og tók hann nú að kveða þær, hvarf tunglið þá, eða tunglin, og er þeir höfðu kveðið um stund var þeim rétt grautarsleif, er taka mundi sextán merkur. – [34]

 

Fyrir svanga og villta leitarmenn hafa þvílík kvæðalaun komið sér vel, enda komust þeir heilir heim í Gufudal þegar þokunni létti.

 

Frá Gufudal er um einn kílómetri fram að Gufudalsvatni. Bærinn í Fremri-Gufudal stendur nú neðan við vatnið. Áður var hann mun framar í dalnum, lítið eitt framan við annað og minna stöðuvatn, sem þar er. Árið 1953 fór Fremri-Gufudalur í eyði um skeið en fjórum árum síðar hófst þar búskapur á ný og var þá hafist handa um byggingu íbúðarhúss á hinu nýja bæjarstæði.[35]

Alllangt frammi í dalnum, um það bil klukkutíma gang frá gamla bæjarstæðinu í Fremri-Gufudal, var selið vestan (norðan) árinnar. Þar blasa enn miklar tóttir við augum. Hér hefur augljóslega verið sel frá báðum Gufudalsbæjunum því allt er tvöfalt. Selhús hvors býlis er stúkað í þrennt svo sem venja var og að auk hefur verið hér fjórða kytran, örlítil þó. Kvíarnar eru á sínum stað. Útlit tóttanna þann 11. ágúst 1988 benti til þess að seljabúskap hafi verið haldið nokkuð lengi áfram frá öðru býlinu í Gufudal þó hætt væri að hafa búsmala í seli frá hinum bænum. Um þetta hefur þó ekki tekist að afla ótvíræðra upplýsinga né heldur um það hvenær síðasta selstúlkan gekk hér um garða.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá byrjun 18. aldar er getið um eyðibýlið Hjaltastaði í landi Fremri-Gufudals.[36] Í Jarðabókinni segir að þar sjáist byggingarleifar af tóttarústum en ekki hafi þar byggð verið um nokkra mannsaldra. Býli þetta er talið hafa verið austan (sunnan) ár í Gufudal, nokkru framar en Fremri-Gufudalur. Þar eru miklir malarhjallar og mætti geta sér þess til að bærinn hafi upphaflega heitið Hjallastaðir. Austan við dalinn er Brekkufjall og gil eitt, sem skerst inn í fjallið, heitir nú Hjaltastaðagil.

 

Frá Gufudal lá þjóðleiðin á fyrri tíð beint upp frá bænum, yfir Gufudalsháls til Kollafjarðar (sjá hér bls. 9). Nú liggur akvegurinn hins vegar út með Gufufirði að vestan og fyrir Skálanes. Á þeirri leið er fyrst komið að bænum Hofstöðum skammt utan við fjarðarbotninn. Hofstaðir voru gömul hjáleiga frá Gufudal en býlið er nú komið í eyði. Frá Hofstöðum eru um þrír kílómetrar út að Melanesi, yst við Gufufjörð, en þar er nú sjúkraflugvöllur (1988).

 

Við Melanes sveigir vegurinn til suðvesturs og þaðan eru um fjórir kílómetrar að bænum Skálanesi. Á þeirri leið er farið yfir Kraká. Rétt innan við hana er Skálanessel og mun þar hafa verið haft í seli frá Skálanesi. Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 er talað um fornt eyðibýli á þessum slóðum, nefnt Kiðaberg.

Bærinn Skálanes stendur yst á samnefndu nesi milli Gufufjarðar og Kollafjarðar. Þaðan er útsýni hið fegursta um Breiðafjörð til Vestureyja, sem margar eru í augsýn frá Skálanesi. Úr Vestureyjum hafa bændur lengi flutt fé sitt upp á Skálanes og það átt vísa sumarhaga í Gufudalssveit. Frá Skálanesi eru aðeins tíu til ellefu kílómetrar út í Skáleyjar og rösklega 16 kílómetrar í Hvallátur. Er þá miðað við sjónlínu milli bæja. Nokkru lengra er til Flateyjar eða um 26 kíkómetrar. Ljósin í Flatey blasa þó oft við frá Skálanesi. Frá austanverðu Skálanesi og yfir að Stað á Reykjanesi, utan við mynni Þorskafjarðar, eru aðeins tæplega þrír kílómetrar. Á þeirri leið er mikið um sker og grynningar og hafa verið uppi hugmyndir um brúargerð yfir þetta sund. Skálaneshyrna heitir fjallið yfir bænum á Skálanesi en Skálanesfjall er heildarnafn á fjalllendinu milli Gufufjarðar og ysta hluta Kollafjarðar. Hæð yfir sjó víðast um 400 metrar. Á Skálanesi hefur verið dálítil selveiði og hrognkelsi veiðast þar einnig.

Vorið 1230 komu Þorvaldssynir úr Vatnsfirði til fundar við Sturlu Sighvatsson á Skálanesi en þeir höfðu þá selt Sturlu sjálfdæmi um bætur fyrir Sauðafellsför. Á Skálanesi átti Sturla að lúka upp gerðum. Er flokkarnir mættust á Skálanesi voru Vatnsfirðingar öllu fjölmennari.

 

Gekk Sturla í sker eitt og Torfi prestur. Þeir bræður gengu og þangað og töluðu skamma stund. Og færðu fundinn í Önundarfjörð í Holt. Skyldi þar koma með þrjá tigu manna hvárir.[37]

 

Líklega hafa Sturlu ekki sýnst Vatnsfirðingar árennilegir á Skálanesfundi þrátt fyrir griðin og tveimur árum síðar stóð hann yfir höfuðsvörðum þeirra bræðra.

Á 18. öld var Skálanes þingstaður hreppsins.[38] Þorkell Jónsson, sem bjó á Skálanesi á síðari hluta 19. aldar, hlaut árið 1877 verðlaun úr Búnaðarsjóði Vesturamtsins. Hin síðari ár (ritað 1988) hefur verið starfrækt á Skálanesi verslunarútibú frá Kaupfélagi Króksfjarðar og þar er einnig bensínafgreiðsla..

Frá Skálanesi beygir þjóðvegurinn inn með Kollafirði og eru um 16 kílómetrar inn í fjarðarbotn. Út undir fjarðarmynni er Kollafjörður um 3 kílómetrar á breidd en mjókkar þegar innar dregur. Inni á Kollafirði og nálægum fjörðum veiðist sjaldan fiskur svo nokkru nemi. Árið 1774 hafði fiskjar ekki orðið vart þarna í manna minnum en þá um haustið fengu menn, einkum þó í Kollafirði, 300-400 fiska til hlutar frá því í október og til desemberloka.[39]

 

Fyrsti bær á leiðinni frá Skálanesi inn með Kollafirði er Kleifastaðir, nú í eyði. Reyndar eru þeir nefndir Klaufastaðir bæði í Sturlungu og í Jarðabók Árna og Páls. Bærinn á Kleifastöðum stendur á sjávargrund neðan vegar og er íbúðarhúsið stundum notað til sumardvalar.

 

Frá Kleifastöðum eru um 3 kílómetrar inn að Galtará (áður stundum Galtargjá), býli sem nú er líka í eyði. Á Galtará hefur gamall bær frá því um eða fyrir aldamótin 1900 verið gerður upp með smekklegum hætti. Stendur hann nú á sínum stað í bröttu túni og gleður augu vegfarenda.

Á Galtará bjó um eða upp úr 1750 kunnur galdramaður, Jón Arnljótsson, sem nefndur var Jón glói eða glófaxi. Hann fluttist síðar norður í Strandasýslu. Þar keypti Halldór sýslumaður Jakobsson af honum fyrir eitt tóbakspund að sýna sér hvernig fara ætti að því að vekja upp draug. Fór Jón glói síðan með sýslumanni út í kirkjugarð á Felli og hófst handa. Þegar eldglæringar tóku að þjóta um loft og upp kom kerling, Þuríður að nafni, varð sýslumaður hins vegar svo hræddur að hann bauðst til að gefa Jóni glóa annað tóbakspund fyrir að koma kerlingunni aftur í jörð niður.[40]

Innan við túnið á Galtará er svolítið gil og heitir Galtargil. Þar mjög litlu innar opnast þröng dalskora, er Galtardalur heitir, og streymir þar Galtardalsá til sjávar. Rétt utan við Galtardal var áður lagt upp á Gufudalsháls en fyrir bílaöld lá þjóðbraut um hálsinn að Gufudal.

Hin forna reiðgata hlykkjast upp fjallsranann og bratt að komast upp á Mundahjalla þar í miðri hlíð. Í brekkunni neðan við hjallann varð stundum ófært sakir harðfennis og sagnir herma að hér hafi menn hrapað í gilið og beðið bana. Þarna rétt við götuna eru tveir eða þrír allstórir steinar. Líkjast þeir smákofum og eru nefndir Gvendarhús. Gömul regla var það að hver sem færi um hálsinn í fyrsta sinni skyldi leggja þrjá steina á Gvendarhúsin til fararheilla. Sér þess enn merki.[41] Einn steinninn er nefndur Gvendaraltari, flatur að ofan.[42] Þar er nú snyrtileg varða, nýleg að sjá, og önnur minni rétt hjá. Frá þessu náttúrunnar altari blessaði Guðmundur biskup góði fjallveginn yfir Gufudalsháls og átti margur ferðamaður sitt traust hjá honum.

Efst í hálsbrúninni fyrir ofan Mundahjalla stendur svo Gullsteinn, stór og stakur. Ýmsir töldu að hér byggju dvergar í steini og smíðuðu gull. Var það gömul trú að eigi mætti neitt við Gullstein hrekkjast, þá myndu íbúar hans þess hefna grimmilega.[43]

Vegurinn yfir Gufudalsháls fer hæst í um 380 metra hæð og Þorvaldur Thoroddsen náttúrufræðingur, sem hér fór um sumarið 1886, segir að á leiðinni yfir hálsinn megi finna brimbarið grjót í 60 metra hæð.[44] Rétt innan við Galtardalsána er hvammur rétt við þjóðveginn. Þar var áður fastur áningarstaður ferðamanna þegar komið var af eða lagt á Gufudalsháls.

 

Frá Galtará eru rösklega fjórir kílómetrar inn með Kollafirði að næsta bæ, sem er Eyri. Stendur býlið á lítilli eyri við sjóinn. Utan við túnið á Eyri fellur Eyrará til sjávar, komin um þröngan dalskorning, Stakksdal, ofan úr Töglum. Sveinungseyri er gamalt nafn á Eyri í Kollafirði og svo er bærinn nefndur í Landnámu. Ef trúa má því sem þar er ritað hefur bærinn fengið nafn sitt af Sveinung, er vá banamenn Snæbjarnar galta, þá Styrbjörn og Hrólf af Rauðasandi, en féll síðan sjálfur á Sveinungseyri.[45]

Um miðja 19. öld bjó Finnur Arason á Eyri og var hann atorkumaður í búskap. Finnur lagði m.a. rammgerðan grjótgarð um allt túnið[46] og stendur sá garður að mestu enn (1988), víða rúmur metri á þykkt. Á þeim árum voru flest tún ógirt. Gamli bærinn á Eyri stóð mun ofar í túninu en íbúðarhúsið sem nú blasir við augum vegfarenda. Úr honum mun hafa verið flutt um 1930 og eru bæjartóttirnar enn greinilegar.

Í júnímánuði 1845 reið Jón Sigurðsson forseti úr Reykjavík vestur í Ísafjarðarsýslu að hitta kjósendur sína áður en hið endurreista Alþingi kæmi saman í fyrsta sinn. Hann staldraði þá við daglangt í Kollafirði og ræddi m.a. við þá Eyrarfeðga, Finn og Ara son hans, síðar bónda í Saurbæ á Rauðasandi. Ari Finnsson á Eyri átti síðan talsverð bréfaskipti við Jón forseta. Fyrsta bréfið ritar hann Jóni fáum vikum eftir samfundi þeirra sumarið 1845 og er þá 27 ára gamall. Ari ræðir þar m.a. um fjárhagsmálefni Íslands af merkilegri glöggskyggni og virðist öll talnameðferð liggja létt fyrir honum sem þá mun hafa verið fremur fátítt um óskólagengna múgamenn. Síðar í sama bréfi segir Ari:

 

Ég mundi ekki bera á móti þó einhver héldi að hefði Ísland aldrei verið lagt undir verslunarokið hefði það átt framundir 500.000 innbúa, sem hefðu getað lifað hér eins góðu lífi og aðrar þjóðir. Hér er mikil auðsuppspretta ónotuð, hér liggja tún hálfræktuð, engjar óræktaðar, sem rækt má heita, og óteljandi túnstæði nærri því í hverrar jarðar landi, sjóveiði ekki hálfnotuð, vatnaveiði að kalla ónotuð, bæði í ám og einkum í stöðuvötnum, og fleira. Í allt þetta hefði verslunin fært líf og kraft hefði hún verið frjáls og viðhaldið margföldum fjölda innbúa og vér höfum farið alls þess á mis hingað til.[47]

 

Trú bóndasonarins á Eyri á landið hefur verið sterk. Hiklaust boðar hann tíföldun íbúafjöldans á Íslandi ef þjóðin aðeins fái að njóta frelsis og framfara. Á sama tíma létu flestir aðrir sér nægja að kyrja gamla eymdaróðinn um það hungur og harðrétti sem óhjákvæmilega hlyti að fylgja umtalsverðri mannfjölgun á Íslandi.

Lúðvík Kristjánsson segir í riti sínu Vestlendingum að hiklaust megi telja bréf Ara til Jóns meðal þeirra merkustu er Jón fékk frá bændum á Íslandi alla sína stjórnmálatíð. Um Eyrarfeðga og sveitunga þeirra, Björn Arnfinnsson á Klett, segir Lúðvík að þeir hafi allir haft brennandi áhuga á þjóðmálum

 

… og höfðu kynnt sér svo sérlega vel allt sem ritað hafði verið um málefni Íslands þá að undanförnu, að óvíst er, að Jón hefði fyrir hitt annars staðar á landinu þrjá bændur, sem hefðu getað rætt við hann um þau af meiri skilningi né kunnugleika.[48]

 

Frá Eyri fylgdu þeir Jóni Sigurðssyni á leið þennan löngu liðna júnídag árið 1845 er hann stefndi héðan á heimaslóðir í Arnarfirði.

 

Skammt fyrir innan Eyri opnast breiður og grösugur dalur, er Kálfadalur heitir, og fellur Múlaá um dalinn. Í dalsmynninu, rétt við þjóðveginn, er bærinn Múli, undir Múlatöflu sem er fjalla fegurst á þessum slóðum. Hálfkirkja var enn í Múla í byrjun 18. aldar og segir frá henni á þessa leið í Jarðabók Árna og Páls: Hálfkirkja er hér og embættað þá heimamenn sacramentast.[49] Bænhúshóll heitir í túninu á Múla[50] og mun hálfkirkjan hafa staðið þar. Árið 1790 bjó í Múla Jón Jónsson hreppstjóri er var kallaður Jón glaður,[51] líklega sá hinn sami og hér bjó í þríbýli árið 1801, þá fimmtugur að aldri.[52]

Fram í Kálfadal, um það bil þrjá kílómetra frá sjó og norðan árinnar, var bærinn Kálfadalur sem fór í eyði snemma á tuttugustu öld. Á fyrri öldum var einnig búið á tveimur hjáleigum frá Múla þar í dalnum. Voru það Hyrningsstaðir og Bakki. Í byrjun 18. aldar hafði þó hvorugt þessara kota verið í byggð í manna minnum.[53] Eyrarsel og Múlasel eru enn finnanleg þar í dalnum. Eyrarsel þar sem Múlaá fellur að suðurhlíð dalsins og er selið fjallmegin við ána. Múlasel á árbakkanum, nær beint á móti bæjarrústunum í Kálfadal. Þarna hefur vafalaust verið haft í seli frá Eyri og Múla en talið hefur verið að hjáleigan Bakki hafi verið þar sem nú heitir Múlasel[54] og ekki er ólíklegt að hin hjáleigan hafi verið þar sem Eyrarsel stóð síðar.

Á áreyrunum, milli bæjarins í Kálfadal og Múlasels, töldu menn sig stundum heyra einkennileg hljóð, einkum á undan illviðrum. Var því trúað að hljóð þessi væru útburðarvæl, enda gekk sú saga að barn eitt hefði verið borið út á þessum slóðum fyrir margt löngu. Sumarið 1907 lá engjafólk við í Múlaseli og heyrðust hljóðin þá enn: Æ, æ, æ, æ, mamma, mamma. Daginn eftir gerði aftakarok og ofansóp.[55]

Upp frá botni Kálfadals gengur Mjóidalur til norðurs. Neðst í Mjóadal fellur Austurá í Mjóadalsá og úr verður Múlaá. Ari Finnsson frá Eyri í Kollafirði, sem hér var áður nefndur, sat oft yfir lömbum í Kálfadal. Árið 1888, er Ari var kominn um sjötugt, ritaði hann lýsingu á þessum slóðum og segir þar m.a.:

 

Nokkru fyrir heiman Austurána eru háir melhólar, kallaðir Villingadalshólar og Villingadalur dálítill bolli fyrir ofan þá og tjörn í bollanum. Standklettur er í hólum þessum. Fyrir framan Austurána heita Hurðarbakstungur og hátt uppi í tungunum eru mörg smá strýtufell, langstærsta fellið heitir Hurðarbak ……… og þar fyrir ofan hátt klettabelti. Niðri við tungusporðinn sameinast við Austurána Miðá, sem kölluð er, og kemur úr austnorðri ofan af fjalli. Bak við Hurðarbakið er hár og tignarlegur foss, víst allt að 30 faðma hár og er kallaður Höllufoss. Fossinn sést ekki nema maður fari upp vestanvert við Miðána upp Miðtungur, sem þar eru kallaðar. Má fara þar upp með hesta og er þar allgóður vegur norður á Kollafjarðarheiði.[56]

 

Á síðari tímum munu fáir hafa skoðað Hurðarbak og Höllufoss en leiðsögn Ara Finnssonar stendur enn til boða þeim sem þiggja vilja.

Frá bænum Múla við mynni Kálfadals og að Fjarðarhorni eru um það bil fjórir kílómetrar og er það síðasti spölurinn inn með Kollafirði austanverðum. Alla strandlengjuna, frá Skálanesi að Fjarðarhorni, liggur vegurinn með sjó. Rétt innan við Múla ganga hamrar í sjó fram og heitir þar Múlaklif. Nú hefur verið sprengt úr klifinu en í fyrri daga urðu menn að þræða þar mjótt einstigi eftir klettaþrepi þegar flóð var.

 

Við botn Kollafjarðar standa þrír bæir, Fjarðarhorn austantil, Seljaland beint upp frá fjarðarbotni, í um það bil kílómeters fjarlægð frá sjó, og Klettur, örskammt út með firðinum að vestanverðu. Fjarðarhorn og Seljaland hafa nú verið alllengi í eyði en á Klett er enn búið (1988). Jarðirnar Klettur, Múli og Eyri í Kollafirði hafa stundum farið í eyði skamman tíma á síðari árum en jafnan byggst á ný.

Á fyrri hluta 19. aldar bjó Björn Arnfinnsson á Klett í Kollafirði. Árið 1843 hafði hann forgöngu um stofnun lestrarfélags og bókasafns í Gufudalssveit. Var félag þetta hið fyrsta lestrarfélag alþýðu á öllu landinu[57] og sýnir stofnun þess vel hversu vakandi Gufdælir voru í menningarlegum efnum. Í árslok 1847 átti félagið 137 bindi af bókum og áratug síðar voru félagsbækurnar orðnar 300.[58]

Upp frá Fjarðarhorni gengur Fjarðarhornsdalur í norðaustur og fellur Fjarðarhornsá um dalinn. Suðaustan við hann er Múlafjall yfir 600 metrar á hæð og skilur að Fjarðarhornsdal og Kálfadal. Norðvestan við Fjarðarhornsdal er nokkru lægra fjall, Seljalandsmúli, en hæsta brún hans er í 444 metra hæð yfir sjávarmáli. Um Fjarðarhornsdal liggur forn þjóðleið upp á Kollafjarðarheiði og niður í Laugabólsdal við Ísafjarðardjúp. Sú leið liggur hæst í um 450 metra hæð yfir sjávarmáli. Örstutt er milli dala yfir sjálfa heiðina en milli bæja frá Fjarðarhorni að Múla við Djúp eru um 24 kílómetrar og var talið sex tíma lestagangur.

Kollafjarðarheiði var áður fjölfarin, enda margvísleg samskipti löngum milli íbúa byggðanna í Austur-Barðastrandarsýslu og Djúpmanna. Upp úr 1870 varð algengt að menn úr Austur-Barðastrandarsýslu færu til róðra á vorvertíð í verstöðvunum við Ísafjarðardjúp[59] einkum vestan Djúpsins. Einhverjir úr Gufudalssveit reru þó á Snæfjallaströnd. Úr hópi þeirra sem þangað sóttu til sjóróðra má nefna Finn Bjarna Gíslason, fæddan á Kleifastöðum hér í sveit um 1860, föður Bergsveins Gíslasonar er lengi bjó í Gufudal.[60] Með verferðunum hófust mikil viðskipti milli þessara héraða. Var landvara flutt norður yfir Kollafjarðarheiði og fleiri fjallvegi en fiskæti til baka.

Dæmi voru þess að Breiðfirðingar flyttu jafnvel vertíðarskip sín yfir Kollafjarðarheiði, norður að Djúpi, svo ótrúlegt sem slíkt kann að virðast.[61] Eyjólfur Stefánsson, sem lengi bjó á Dröngum á Skógarströnd og fæddur var árið 1868, greinir frá því að fóstri sinn, Jón Jónsson í Rauðseyjum, og Björn Brynjólfsson í Rúffeyjum hafi báðir með sínu liði sett sexæringa yfir heiðina. Frásögn Eyjólfs er á þessa leið:

 

Talaðist svo til að báðar skekturnar skyldu verða samferða. Var nú safnað liði og fóru þeir átján saman. Var fyrst róið inn í Kollafjarðarbotn en þaðan varð að setja skipin yfir heiðina. Á fyrsta degi komust þeir upp á háheiðina en um nóttina gistu þeir félagar á bæjum. Fönn var á heiðinni og nokkur ís en samt gekk setning skipanna seinlega, enda mjög erfitt um alla aðstöðu. Í bítið næsta morgun kallaði fóstri mennina en hann hafði alla forystu á hendi og var aftur haldið til skipanna. Stóð nú vindur á eftir þeim og skipaði fóstri svo fyrir að sett skyldu upp segl og þannig siglt á þurru landi. Var þetta gert og létti mikið setninguna en mennirnir hlupu með skipunum og studdu þau. … Sums staðar hlupu skipin eins og ólmir folar en annars staðar urðu mennirnir að taka á öllu sem þeir áttu til svo að þau mjökuðust áfram.[62]

 

Seint á öðrum degi komust þeir með skipin niður að Laugabóli við Djúp þar sem Breiðfirðingarnir átján fengu gistingu og ágæta aðhlynningu hjá Jóni Halldórssyni og Guðrúnu konu hans. Skip Jóns Rauðseyings, sem sett var yfir Kollafjarðarheiði, fór til róðra á Ísafirði. Það hét Freyja og var lítill sexæringur.

Ekki er kunnugt hversu margir hafa leikið það eftir Jóni Rauðseying og Birni í Rúffeyjum að setja skip yfir Kollafjarðarheiði eða fjalllendið þar í kring en svo mikið er víst að Halldór Jónsson, sem lengst bjó á Arngerðareyri við Djúp, brá tvívegis á þetta sama ráð, fyrst 1918 og aftur 1920.

Halldór átti á þessum árum heima á Skálmarnesmúla í Múlasveit og segir sjálfur frá þessum bátsferðum um fjallvegu í viðtali við Birgi Sigurðsson í Sunnudagsblaði Tímans árið 1962. Frásögn Halldórs lítið eitt stytt er á þessa leið:

 

Einu sinni varð ég bátlaus. Þá keypti ég sexæring í Bolungavík og fékk hann fluttan að Laugabóli. Það var frostaveturinn mikla 1918. Þá var svo mikið frost að það var hægt að fara á hestum frá Æðey yfir í Ögur og Breiðafjörðinn lagði út í Flatey, meira að segja sundið milli Flateyjar og Svefneyja, sem aldrei hafði lagt áður í manna minnum. Ég notfærði mér gaddinn og sótti bátinn landleiðina á sleða, sem ég beitti tveim hestum fyrir. Það var erfið ferð. … Við vorum fimm saman og fórum fjallið milli Skálmardalsheiðar og Kollafjarðarheiðar. Þegar við lögðum af stað frá Laugabóli var veðrið ágætt en þykkviðri yfir Drangajökli og þegar við komum lengra upp á landið byrjaði að snjóa og áður en varði var kominn hnésnjór ofan á gaddinn og erfitt fyrir hestana að pæla áfram með sleðann. Þegar við komum að síðustu brekkunni, sem heitir Fossafall, sátu þeir í síður og við urðum að skilja bátinn eftir þarna. … Og um vorið fórum við nokkrir saman og sóttum hann, settum bara kaðla í rangarhöldin og leiddum hann á milli okkar á gaddinum, þræddum ána niður í Kvígindisfjörðinn. Það var svo mikill gaddurinn að ég var rétt búinn að drepa í mér sjónina vegna snjóbirtunnar.

Tveim árum seinna fór ég með skektu yfir heiðina, sömu leið til baka. Þá hét ég því að það skyldi vera í síðasta skipti sem ég færi landveg á báti.[63]

 

Líklega hefur Halldór verið sá síðasti sem sigldi skipum yfir fjöll og heiðar á Vestfjörðum.

Á síðari hluta 19. aldar lá póstleiðin frá Reykjavík til Ísafjarðar um Þorskafjarðarheiði. Landpóstar fóru þó stundum um Kollafjarðarheiði og hálsana í Austur-Barðastrandarsýslu, einkum ef Þorskafjarðarheiði var talin ófær.[64] Venjuleg leið um Kollafjarðarheiði lá sem áður sagði frá Laugabóli við Djúp og að bænum Fjarðarhorni við botn Kollafjarðar. Þó kom fyrir á suðurleið að stefnan væri tekin á Kálfadal í stað Fjarðarhorns. – Við skulum fara Kálfadalsskarð, piltar. Það styttir nokkuð leiðina, sagði Jón Magnússon landpóstur við förunauta sína í hríðinni á Kollafjarðarheiði um árið.[65] Hann var Vestfjarðapóstur á árunum 1861 til 1874.[66] Orð hans, höfð eftir samfylgdarmanni, sýna að stundum hefur þótt henta að fara Kálfadalsskarð. Þar er klettalaust og mátti renna sér á skafli alveg ofan í dal.

Vestan við Fjarðarhornsdal gnæfir fjallið Seljalandsmúli og handan þess er annar dalur upp frá botni Kollafjarðar. Heitir sá Frakkadalur og um hann rennur Frakkadalsá. Út með Kollafirði að vestanverðu er ekkert undirlendi á löngum kafla. Þar rísa brattar hlíðar Bæjarfjalls upp frá fjarðarströndinni. Á um það bil tíu kílómetra langri strandlengju frá bænum Klett og út að eyðibýlinu í Múlasveit, skammt innan við mynni Kollafjarðar, reis aldrei byggt ból. Nálægt miðju þessarar strandlengju eru hin fornu hreppamörk milli Gufudalshrepps og Múlahrepps. Heitir þar Deild og eru mörkin nær andspænis bænum Eyri en þó aðeins innar.

Frá Klett í Kollafirði liggur akvegur nútímans líkt og þjóðleið fyrri alda upp á Klettsháls, í 330 metra hæð, og þaðan ofan við botn Kvígindisfjarðar um Ríkismannabrekku niður í Skálmarfjörð í Múlasveit. Á leiðinni frá Klett upp á hálsinn gnæfir bjarg mikið nær brún, rétt við veginn á hægri hönd og laust frá fjallinu. Gamalt nafn á bjargi þessu er Gunnsteinsklettur og sagt að bærinn dragi nafn af klettinum.[67] Nú er kletturinn almennt nefndur Gunnsteinn.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Ólafur Davíðsson 1895, III, 149-150.

[2] Pétur Jónsson 1942, 36 (Barðstrendingabók).

[3] Íslendingasögur IV, 354.

[4] Íslendingasögur IV, 361.

[5] Sama heimild, 382.

[6] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 218.

[7] Pétur Jónsson frá Stökkum 1942, 36 (Barðstrendingabók). Sighvatur Grímsson Borgfirðingur/Safn til sögu Íslands II, 592 (Kph. 1860-1886).

[8] Íslendingasögur IV, 365.

[9] Þjóðsögur Jóns Árnasonar I, 584-585.

[10] Íslensk fornrit I, 164.

[11] Þjóðs. J. Árn. II, 90.

[12] Íslensk fornrit I, 164.

[13] Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1986, 166.

[14] Íslendingasögur IV, 351.

[15] Vestfirskar þjóðsögur II, 1, bls. 39.

[16] Íslensk fornrit I, 9.

[17] Sighvatur Grímsson Borgfirðingur 1886, 591-592 (Safn til sögu Íslands II, Kph. 1860-1886).

[18] Sigurjón Jónsson/ Vestfirskar sagnir III, 72-73.

[19] Þjóðs. Jóns Árnasonar II, 90.

[20] Pétur Jónsson 1942, 39 (Barðstrendingabók).

[21] Ólafur Olavius 1965, II, 202.

[22] Þorvaldur Thoroddsen 1959, 45-46 (Ferðabók II).

[23] Jóhann Skaptason 1959, 50 (Árbók Ferðafélags Íslands).

[24] Pétur Jónsson 1942, 40 (Barðstrendingabók).  Hallbjörn Oddsson 1956, 141 og 143 (Ársrit Sögufél. Ísfirðinga).

[25] Biskupasögur III, 39.

[26] Sóknalýs.Vestfjarða I, 88.

[27] Jóhann Skaptason 1959, 51-52 (Árbók Ferðafélags Íslands).

[28] Ólafur Davíðsson II, 101-102 (Íslenskar þjóðsögur Akureyri 1935-1939).

[29] Íslenskar æviskrár I, 382.

[30] Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar I, 223.

[31] Ól. Olavius 1965 II, 248.

[32] Pétur Jónsson 1942, 41 (Barðstrendingabók).

[33] Vestf. sagnir III, 418.

[34] Ól. Dav. I, 163-164 (Íslenskar þjóðsögur).

[35] Kristinn Bergsveinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 12.8.1988.

[36] Jarðabók Á. og P. VI, 223.

[37] Sturlungasaga II, 191-192.

[38] Ólafur Árnason 1957, 161 (Sýslulýsingar 1744-1749).

[39] Ól. Olavius 1965 II, 248.

[40] Þjóðsögur Jóns Árnasonar III, 548-549.

[41] Pétur Jónsson 1942, 42 (Barðstrendingabók).

[42] Jóhann Skaptason 1959, 51 (Árbók F.Í).

[43] Vestf. þjóðsögur II-I, 171.

[44] Þorv. Thoroddsen 1959, 45 (Ferðabók II).

[45] Íslensk fornrit I, 195-196.

[46] Pétur Jónsson 1942, 43 (Barðstrendingabók).

[47] Þj.skj.s. E. 10. 1. Bréf Ara Finnssonar 27. ágúst 1845 til Jóns Sigurðssonar forseta.

[48] Lúðvík Kristjánsson 1955, ( Vestlendingar II, 1, 199).

[49] Jarðab. Á. og P. VI, 229.

[50] Vestf. sagnir II, 386.

[51] Ársrit Sögufél. Ísfirðinga 1993, 149.

[52] Manntal 1801, vesturamt, bls. 202-203.

[53] Jarðab. Á. og P. VI, 229-230.

[54] Pétur Jónsson 1942, 44 (Barðstrendingabók).

[55] Gráskinna hin meiri II, 63-67.

[56] Þorv. Thoroddsen 1923, 99 (Minningabók).

[57] Lúðvík Kristjánsson 1953, I, 120 og 174.

[58] Lúðvík Kristjánsson 1953, I,175-176.

[59] Pétur Jónsson 1942, 151 (Barðstrendingabók).

[60] Jón Jónsson Skálanesi. – Viðtal K.Ó. við hann 13. ág. 1988. Sbr. Manntal 1901, Illugastaðir í Múlasveit og manntöl 1920 og 1930 Gufudalur. Prestsþj.bækur og sóknarm.töl Gufudals og Flateyjar.

[61] Sama heimild. Sbr. Sturlungasaga III, 372.

[62] Vilhjálmur S. Vilhjálmsson 1953, 74-75.

[63] Sunnudagsblað Tímans 1962, I. árg. 101-102.

[64] Söguþættir landpóstanna I, 197.

[65] Sama heimild, 232.

[66] Söguþættir landpóstanna I, 208.

[67] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 83.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »