Hagi

Frá Tungumúla liggur leiðin að hinu forna höfuðbóli Haga og eru aðeins liðlega tveir kílómetrar á milli. Í kringum Haga er gróið undirlendi meira en annars staðar á Barðaströnd, enda var áður fjöldi hjáleigna í kringum höfuðból þetta. Á sjálfri Hagatorfunni eru nú (1988) aðeins tvö býli auk Haga. Eru það nýbýlið Breiðilækur og Grænhóll, ein hinna gömlu hjáleigna.

Á síðari hluta 18. aldar var gömul niðursetukerling á Grænhól sem kölluð var Gunna Skafta. Það orð lá á að hún hefði á yngri árum alið þrjú börn en jafnan borið þau út strax eftir fæðinguna.[1] Gunna slapp þó við alla refsingu. Töldu ýmsir að þar hefði hún notið fátæktar sinnar en hjá Gunnu höfðu sýslumenn og aðrir máttarstólpar ekki eftir neinu fémætu að slægjast. Á Grænhól þótti ekki unnt að láta hana sofa í baðstofunni hjá öðru fólki því að svo mikið dálæti hafði hún á hundum að þeir flykktust að henni hvar sem vera skyldi. Var hún því jafnan látin sofa niðri á gólfi.[2] Líklega hefur dálæti Gunnu á Grænhól á prestum verið öllu minna. Að minnsta kosti segir sagan að eitt sinn hafi hún stokkið upp af krókbekknum í Hagakirkju undir messu hjá séra Eyjólfi Sturlusyni og mælt stundarhátt: Ekki ætla ég að vinna það fyrir að heyra helvíska suðuna úr prestinum að svíkja af mér fjöruna við Hagavaðal.[3] Hún var þá að fara í smalamennsku með hunda sína og strunsaði út úr kirkjunni.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín er getið um fimm hjáleigur á Hagatorfunni, auk Grænhóls, sem þar er nefndur kirkjujörð frá Haga. Hjáleigur þessar voru Krókur, Efri-Krókur, Efri-gata, Neðri-gata og Efri-Hagi, sem líka var nefndur Lambhús. Af þessum fimm hjáleigum var þó aðeins Krókur í byggð þegar Árni Magnússon fór um Barðaströnd vorið 1703 en þrjár hinar næsttöldu nýlega eyddar.[4] Í lýsingu Hagasóknar frá 1840 er getið um fjögur eyðikot í og nálægt Hagatúni, Krók, Götu, Tröð og Hagabúð. Tekið er fram að í Hagabúð hafi síðast verið búið um aldamótin 1800.[5]

Böðvar Guðjónsson í Tungumúla, sem fæddur er árið 1901 og hefur alið allan sinn aldur á Barðaströnd, nefnir fleiri fornar eyðihjáleigur í landi Haga: Dalmannsþúfur, rétt sunnan við Hagaána þar sem hún rennur út í vaðalinn, Hagastekk, lítið eitt inn og niður af Grænhól, og Bakkhús í Hagafitinni, skammt frá vaðlinum og svo sem einum kílómetra suðaustur frá ósi Hagaár.[6] Böðvar heyrði ungur að Bakkhús hefðu eyðst í stórubólu.

Norðan við túnið í Haga rennur Hagaá á leið sinni ofan af Hagadal út í Hagavaðal. Vestur frá bænum rís fjallshlíð sem hækkar stall af stalli og eru það undirhlíðar hinnar fögru Hagatöflu. Efstu brúnir hennar eru í 603 metra hæð yfir sjávarmáli og er fjallið auðþekkt sé horft til lands langt utan af Breiðafirði. Lengra inn til landsins í norðvestur frá Haga rís Þórðarhyrna, hæst fjalla hér um slóðir, 608 metrar, og eru þrír til fjórir kílómetrar milli hennar og Hagatöflu sé miðað við loftlínu. Í suðvesturátt frá Haga lokar öxlin á Múlahyrnu fyrir útsýni út á bæi. Til austurs og suðurs teygir sig samfellt gróðurlendi til sjávar austur að Hagavaðli og suður að Hagabót. Hvergi er skemmra en á annan kílómetra til sjávar og þrír og hálfur kílómetri um Hagafit austur að Steinhólmavaði.

Landrými er hér ærið, engjaslægjur miklar á fyrri tíð og góðir búfjárhagar, fjörubeit og selveiði, m.a. á Hagadrápsskerjum, um fjóra og hálfa sjómílu undan landi.[7] Í Jarðabók Árna og Páls er jörðin talin 100 hundraða að dýrleika, þar af 20 hundruð í kirkjueign en bóndaeignin 80 hundruð.[8] Í sóknarlýsingunni frá 1840 er sagt að Hagi sé venjulega talinn 60 hundruð[9]en sextíu hundraða jarðir töldust höfuðból. Frá Hagasjó var oft farið út í Breiðafjarðareyjar. Þaðan til Flateyjar eru um fimmtán sjómílur. Lá leiðin hjá Kiðhólmum, sunnan við Sauðeyjar.[10]

Fjallvegur liggur frá Haga að Norðurbotni í Tálknafirði og heitir Miðvörðuheiði. Þetta er löng heiði, nær 20 kílómetrar milli bæja, gróðurlaus að kalla. Frá Haga er lagt upp á heiðina úr mynni Hagadals. Á háheiðinni liggur reiðgatan í um 540 metra hæð yfir sjávarmáli. Á þessari heiði vann Jón gaddur, sem á síðustu öld var lengi vinnumaður í Hvestu í Arnarfirði, á draug einum ógnvænlegum með því einfalda ráði að reka atgeirsstaf sinn í brjóstið á fjanda þeim.[11]

Bæði fyrr og síðar hefur mörgum manninum þótt búsældarlegt um að litast í Haga. Svo var um Ebenezer Henderson sem ferðaðist um Barðaströnd sumarið 1815. Hann ritar á þessa leið:

 

Fyrir austan hið teningsmyndaða Hagafjall fórum við framhjá Haga, einni hinnu bestu bújörð á Íslandi. Um fegurð og landrými og frjósemi lands bera fáar jarðir af Haga. Hér hefði jafnvel útlendur maður getað notið eins konar jarðneskrar paradísar.[12]

 

Sumarið 1887 ferðaðist Hermann Jónasson um Barðastrandarsýslu á vegum amtmanns í því skyni að kynna sér búnaðarástand. Í skýrslu sinni um ferð þessa segir hann að Hagi hafi þá verið seldur fyrir þrem til fjórum árum, ásamt jörðum sem undir hann liggi, fyrir jafnhátt verð og greitt var fyrir Hóla í Hjaltadal er þeir voru keyptir til að stofna þar búnaðarskóla árið 1881.[13] Hermann lætur þess einnig getið á sama stað að margir Vestfirðingar vilji að búnaðarskóla verði komið á fót í Haga og sjálfur telur hann Haga verðmeiri jörð en Hóla í Hjaltadal.

Arnór Sigurjónsson getur þess í Vestfirðingasögu sinni að 7. ágúst 1473 hafi hálfur Hagi verið seldur fyrir níutíu hundruð og bætir við að eigi verði fundin önnur dæmi um svo dýrt selda jörð á Vestfjörðum á þeim öldum.[14] Allt sýnir þetta hvílík vildisjörð Hagi hefur jafnan verið talinn.

Í Landnámabók segir að Geirleifur Eiríksson hafi numið Barðaströnd milli Vatnsfjarðar og Berghlíða.[15] Ekki er getið bústaðar hans en líklegt verður að telja að fyrsti landnámsmaður á Barðaströnd hafi búið í Haga. Samkvæmt Landnámu var Gestur Oddleifsson sonarsonur Geirleifs en Ósvífur, faðir Guðrúnar, niðji Geirleifs í þriðja lið.

Fyrsti bóndi í Haga sem sögur fara af er Gestur hinn spaki Oddleifsson. Hans er getið í a.m.k. fimm Íslendingasögum og einnig í Landnámu. Hvar sem minnst er á Gest í Haga er mikið látið af vitsmunum hans og hann sagður forvitri. Ekki er ólíklegt að ráðning hans á draumum Guðrúnar Ósvífursdóttur, sem frá er sagt í Laxdælu, hafi orðið mörgum eftirminnileg.[16]

Í Njálu segir svo frá kristnitöku í Haga:

 

Gestur Oddleifsson bjó í Haga á Barðaströnd. Hann var manna vitrastur svo að hann sá fyrir örlög manna. Hann gerði veislu í móti þeim Þangbrandi. Þeir fóru í Haga við sex tigu manna. Þá var sagt að þar væru fyrir tvö hundruð heiðinna manna og þangað væri von berserks þess er Ótryggur hét og voru allir við hann hræddir. Frá honum var sagt svo mikið að hann hræddist hvorki eld né egg og voru heiðnir menn hræddir mjög. Þá spurði Þangbrandur ef menn vildu taka við trú en allir heiðnir menn mæltu mjög í móti. „Kost mun ég gera yður”, segir Þangbrandur, „að þér skuluð reyna hvor betri er trúin. Vér skulum gera elda þrjá, skuluð þér heiðnir menn vígja einn en ég annan, en hinn þriðji skal óvígður vera. En ef berserkurinn hræðist þann, er ég vígði, en vaði yðvarn eld, þá skuluð þér taka við trú”. – „Þetta er vel mælt”, segir Gestur, „og mun ég þessu játa fyrir mig og heimamenn mína”. Og er Gestur hafði þetta mælt þá játuðu miklu fleiri og varð að rómur mikill.[17]

 

Höfundur Njálu greinir síðan frá gjörólíkum áhrifum eldanna á berserkinn, sem varð að hopa fyrir vígðum loga Þangbrandar. – Skírði Þangbrandur þá Gest og hjú hans öll og marga aðra, segir þar.[18]

Ekki hélt þó Þangbrandur áfram för sinni lengra vestur á firðina, enda latti Gestur hann þess og sagði þar vera menn harða og illa viðureignar.[19] Við kristnitökuna í Haga var drepinn hinn illi berserkur sem áður hræddist hvorki eld né egg. Í þjóðsögum segir að hann sé heygður hjá reiðgötum fyrir utan Haga og sést þar enn grjóthrúga í holtinu.[20]

Líklega hefur kirkja verið byggð í Haga skömmu eftir kristnitöku Barðstrendinga. Hagakirkju er getið í kirknatali Páls biskups Jónssonar frá því um 1200 og frá þeim tíma fram til siðaskipta mun sjaldan hafa verið prestlaust í Haga.[21] Fáum sögum fer þó af flestum Hagaprestum í kaþólskri tíð, enda höfðu þeir yfirleitt ekki staðarforráð. Um 1570 voru Haga- og Brjánslækjarsóknir sameinaðar í eitt prestakall[22] og þaðan í frá sat prestur Barðstrendinga nær alltaf á Brjánslæk en þjónaði einnig Hagakirkju. Þess skal þó getið að frá 1890 til 1895 sat séra Þorvaldur Jakobsson í Haga en Brjánslækur var þá læknissetur. Kirkjan í Haga var bændakirkja uns söfnuðurinn tók við henni árið 1952. Núverandi Hagakirkja var byggð á árunum 1897 til 1899 en kirkja sú sem hér stóð næst á undan fauk árið 1897 og voru þá aðeins fimm ár liðin frá því hún var byggð.

Í þjóðsögum hefur varðveist gömul saga um atburð nokkurn í Hagakirkju. Einhverju sinni þegar prestur, sem Kollur hét, var þar í stólnum kom inn í kirkjuna maður og kvað á kirkjugólfi vísu þessa:

 

Fyrir pilt á ég prest að sækja,

prúðan mann fyrir brúði,

– flýttu fagri messu –

fleinameið yfir heiði.

Skírn vill skepnan þiggja,

skírist hún best í Kristi;

á laugardaginn fékk létta,

leystist fljóð af móði.

 

Það var sendimaður álfkonu sem þannig mælti og vildi fá prestinn til að skíra barn hennar en hann neitaði því.[23]

Á miðöldum komu fjölmargir höfðingjar með einum eða öðrum hætti við sögu í Haga. Vorið 1235 reið Órækja Snorrason hér í hlað og rak brott Hauk prest Þorgilsson en lagði undir sig búið.[24] Órækja sat þá í Vatnsfirði við Djúp og hugðist brjóta alla Vestfirðinga til hlýðni við sig. Sjö árum síðar kom frændi hans Þórður kakali til landsins eftir fimm ára dvöl í Noregi og hugðist hefna föður síns og bræðra er fallið höfðu á Örlygsstöðum. Hélt Þórður brátt vestur yfir Breiðafjörð og í Haga. Hér bjó þá Eyvindur prestur Ragnheiðarson en kona hans, Þórunn, var barnabarn Hvamm-Sturlu eins og þeir Órækja og Þórður kakali. Í Haga stefndi Þórður mönnum til fundar við sig og leitaði liðsinnis, sagði það saman bera, skaða sinn og alþýðunnar í þessum sveitum. – Mun þá vera annaðhvort af bragði, sagði Þórður, að vér munum rétta vorn hlut eða falla ella á fætur frændum vorum og er þar góður kostur hvor upp kemur[25] (sbr. hér Svalvogar, Sandar og Rafnseyri).

Talið er að sama ættin hafi setið í Haga frá því um 1100 og fram yfir miðja 16. öld.[26] Mest varð veldi þeirra frænda á síðari hluta 15. aldar og nokkuð fram eftir 16. öldinni. Árið 1460 kvæntist Gísli Filippusson í Haga Ingibjörgu, dóttur Eyjólfs mókolls Magnússonar, og urðu tengslin við Mókollsætt Hagamönnum mikill styrkur.[27] Frá 1473 virðist Gísli Filippusson hafa verið eigandi allrar Hagaeignarinnar[28] og um svipað leyti tók hann við sýsluvöldum í Barðastrandarsýslu. Árið 1479 varð Magnús Eyjólfsson, mágur Gísla í Haga, biskup í Skálholti og sat í embætti til dauðadags 1490. Stóð þá hamingjusól Mókollsættar í hádegisstað en í Haga var þá að vaxa úr grasi Eyjólfur mókollur yngri Gíslason, systursonur biskups.

Er Gísli Filippusson andaðist árið 1504 tók Eyjólfur mókollur, sonur hans, við búsforráðum í Haga en kona hans var Helga, dóttir Þorleifs Björnssonar hirðstjóra. Þannig voru Hagamenn nátengdir æðstu valdamönnum landsins, þó að Magnús biskup og Þorleifur hirðstjóri væru að vísu báðir látnir er hér var komið sögu.

Eyjólfur mókollur Gíslason ríkti um sinn í Haga og naut hér auðs og valda. Fimmtudaginn fyrir purificatio Maríu (þ.e. Kyndilmessu) árið 1522 var hann staddur í Krossadal í Tálknafirði og finnur dauðann nálgast. Hann gengur þá frá arfleiðslubréfi heill að viti og samvisku en nokkuð krankur í líkama. Meðal fyrirmæla sem þar er að finna eru þessi: Svo og skipa ég og gef að fátækur maður fæðist í Haga um jólaföstu og frá níuvikna föstu til hvítasunnu svo lengi sem mín börn og niðjar halda garðinn.[29]

Eigi er nú kunnugt hversu lengi var farið að þessum fyrirmælum Eyjólfs mókolls um stuðning við fátæka af Hagaauðnum. Hitt er vitað að þá börn Eyjólfs urðu fullþroska tók heldur betur að hrikta í stoðum heimilislífsins í Haga. Upp kom að Gísli sonur hans hafði gert tveimur systrum sínum barn og varð hann að fara huldu höfði til Noregs undan refsingu fyrir legorðsbrot þessi.[30] Systurnar tvær, Kristín og Þórdís, flýðu hins vegar í Skálholt á náðir Ögmundar biskups, sem talið er að sjálfur hafi verið af Mókollsætt.[31] Í Skálholti dró fljótlega saman með Kristínu Eyjólfsdóttur frá Haga og Gísla Jónssyni, sem þar hafði verið kirkjuprestur um skeið, en síðar varð prestur í Selárdal við Arnarfjörð og loks Skálholtsbiskup frá 1556 til dauðadags 1587. Sighvatur Borgfirðingur, fræðimaður á Höfða í Dýrafirði, segir að vegna fríðleiks Kristínar og upparlegra gáfna hafi séra Gísli fellt til hennar ástarhug.[32] Árið 1542 gengu þau Kristín Eyjólfsdóttir frá Haga og séra Gísli Jónsson í hjónaband. Níu árum síðar fékk Kristín uppreisn hjá konungi fyrir barneign með bróður sínum og var þá legorð þeirra systkina skilgreint sem nauðgun.

Einn sona Eyjólfs Gíslasonar mókolls í Haga var séra Magnús Eyjólfsson, sem prestur var í Selárdal frá 1515 til 1546 en settist þá sem prestur á föðurleifð sína í Haga þar sem hann bjó fram yfir 1570[33] og naut mágsemdanna við Gísla biskup í Skálholti.

Frá því snemma á 17. öld og allt til ársins 1812, eða í nær tvær aldir, var tíðum sýslumannssetur í Haga. Síðar á nítjándu öldinni sat Jón Thoroddsen sýslumaður hér í sjö ár. Lengi vel ríktu niðjar Magnúsar prúða Jónssonar í Haga en um síðir komu nýir herrar. Hér er þess enginn kostur að gera rækilega grein fyrir sýslumönnunum í Haga en fáeinir skulu þó nefndir.

Á fyrri hluta 17. aldar bjó í Haga um skeið Jón Magnússon, sýslumaður Dalamanna, sá eldri af tveimur sonum Magnúsar prúða sem báru Jónsnafn. Jón Magnússon var talinn fyrir fjögurra manna sendinefnd Íslendinga er sigldi utan árið 1619 til að leita eftir lagfæringum á þeim viðskiptakjörum sem í boði voru hjá einokunarkaupmönnum (sjá hér Mýrar í Dýrafirði). Jón Magnússon andaðist árið 1641, um 75 ára aldur, og var þá kominn í Hvamm á Barðaströnd.[34]

Magnús hét sonur Jóns þessa og fékk hann sýsluvöld yfir hálfri Barðastrandarsýslu árið 1636 og hélt til æviloka 1675. Hann bjó lengi í Haga en síðar í Miðhlíð (sjá hér Frá Haga á Siglunes). Þorleifur, sonur Magnúsar, tók við búi í Haga er Magnús fór í Miðhlíð. Hann fór ekki með sýsluvöld en árið 1695 fékk tengdasonur Þorleifs, Ari Þorkelsson, veitingu fyrir vesturhluta Barðastrandarsýslu.[35]

Talið er að Ari hafi búið í Haga frá 1682 eða svo og hér sat hann til dauðadags 1730. Um Ara segir svo í æviskrám: Hann var ekki vinsæll með sýslubúum sínum, enda stórbrotinn í skapi, óeirinn og drykkjumaður, en talinn vel viti borinn.[36] Sonur Ara Þorkelssonar, sýslumanns í Haga, var Magnús Arason, lautinant og kapteinn, sem vann sér frægðarorð í herþjónustu og við landmælingar. Magnús bjó sig undir háskólanám hjá séra Páli Björnssyni í Selárdal. Í Kaupmannahöfn nam hann aðallega stærðfræði og stjörnufræði en hafði auk þess betra lag á að læra tungumál en aðrir Íslendingar honum samtíða og kunni latínu, grísku, dönsku, þýsku, hollensku, frönsku og ensku.[37]

Magnús Arason frá Haga gekk í danska herinn og varð fyrirliði í mannvirkjaliðinu. Tók hann þátt í ýmsum herferðum gegn Svíum. Jón Ólafsson Grunnvíkingur segir að Magnús hafi gengið í herinn út úr leiðindum og hafi um það leyti ort óyndisbrag er byrji svo: Best mun vera kverum burt að kasta. Hann segir jafnframt að Magnús hafi jafnan, eftir að hann varð hermaður, verið guðhræddur og siðprúður og haft á sér skikk lærðra og heiðarlegra manna.[38]

Árið 1721 sendi stjórnin Magnús Arason til Íslands til að hefja hér landmælingar og gera kort bæði af landi og sjó. Var þetta fyrsta viðleitni í slíkum efnum sem eitthvað kvað að. Hér starfaði Magnús að mælingum í sjö ár en drukknaði við Hrappsey á Breiðafirði 19. janúar 1728, 44 ára að aldri. Heitir þar síðan Kapteinsvík.[39]

Kort þau sem Magnús gerði og varðveist hafa eru nú í þremur dönskum stofnunum, Konunglega bókasafninu, Sjókortasafninu og hjá dönsku Landmælingastofnuninni.[40]

Tveimur árum eftir drukknun Magnúsar Arasonar andaðist faðir hans Ari, fyrrum sýslumaður í Haga. Ekki löngu síðar settist hér að búi Ólafur Árnason sem var sýslumaður Barðstrendinga 1737-1752. Ólafur þótti harðdrægur í öllum viðskiptum og hikaði ekki við að dæma menn til stórhýðinga og þrælkunar í Stokkhúsinu í Kaupmannahöfn fyrir óverulegar yfirsjónir. Öllu verra orð fór þó af konu hans, Halldóru Teitsdóttur. Hér er á öðrum stað sagt frá tveimur dauðadómum sem upp voru kveðnir af Ólafi sýslumanni og aftökum hinna dæmdu (sjá hér Um Kjálkafjörð, Hjarðarnes og Vatnsfjörð, – þar bls. 5-6. Sjá einnig Geirseyri og Vatneyri).

Árið 1739 hóf Ólafur sýslumaður málarekstur á hendur Gunnlaugi Ólafssyni í Svefneyjum, afa Eggerts Ólafssonar, skálds og náttúrufræðings. Gunnlaugi, sem þá var á níræðisaldri, var gefið að sök að hafa árið áður látið taka nokkrar teistukofur í óskiptum eyjalöndum Flateyjar. Skipaði Ólafur nágranna sinn ,Björn Magnússon í Miðhlíð, setudómara í málinu. Að kröfu Ólafs var gamli Svefneyjabóndinn dæmdur ærulaus og eignir hans allar gerðar upptækar.[41] Þegar dómurinn hafði verið kveðinn upp fór Ólafur sýslumaður strax út í Svefneyjar og lét innsigla allt sem Gunnlaugur átti, bæði þar og í Hvallátrum, og tók síðan með sér lyklana. Gunnlaugur bóndi flýði undan sýslumanni á land upp og með honum tveir vinnumenn hans er dæmdir höfðu verið til hýðingar fyrir kofnatökuna. Náði Ólafur þeim ekki.[42]

Gunnlaugur í Svefneyjum áfrýjaði héraðsdómnum til Alþingis við Öxará og þar var loks dæmt í kofnamálinu þann 28. júlí 1741. Voru Gunnlaugur og vinnumenn hans þá sýknaðir af öllum ákærum. Í Alþingisdómnum segir:

 

Héraðssdómur settidómarans Björns Magnússonar, genginn að Svefneyjum á Breiðafirði 27da octobris 1739 yfir Gunnlaugi Ólafssyni og hans tveimur vinnumönnum, Bjarna Brandssyni og Tómasi Péturssyni, hvar með hann dæmt hefur Gunnlaug frá æru og aleigu fyrir það hann hefði látið kofur taka í óskiptum Flateyjarlöndum og hans vinnumenn frá æru og til húðláts … skal … aldeilis upphafinn, dauður og magtarlaus og aldrei koma Gunnlaugi Ólafssyni eður hans vinnumönnum Bjarna og Tómasi til neinnrar ærukrenkingar, straffs eður vanvirðu, hvar með undirskilst aleiga Gunnlaugs, sem honum og einnegin nú aftur tildæmist.[43]

 

Með hliðsjón af þessu dæmi um framgöngu Ólafs í nafni réttvísinnar gegn manni úr röðum gildari bænda má nærri geta hvers almúginn hafði að vænta ef út af bar.

Frægur varð dómur Ólafs genginn yfir Þorleifi Jónssyni á Stóra-Laugardalsþingi í Tálknafirði þann 20. ágúst 1743. Þar dæmdi Ólafur sýslumaður Þorleif fyrir smáþjófnað í fjórða sinn til að þola 360 vandarhögg, brennimark og ævilanga þrælkun í Stokkhúsinu í Kaupmannahöfn.[44] Sumarið 1745 kom mál Þorleifs fyrir lögmannsdóm á Alþingi. Þar á Öxarárþingi hélt Brynjólfur Bjarnason lögsagnari uppi gagnrýni á dóm Ólafs yfir Þorleifi og má í Alþingisbókinni m.a. lesa þetta:

 

Mons. Brynjólfur uppástendur einninn að síðasti processinn færi ei útþrykkilega með sér hvörsu miklum fiski að vigt Þorleifur hafi móttöku veitt, ei heldur að Jón Gíslason á Bakka hafi gefið hönum sök á neinu. Þorleifur hafi og neitað að nokkru í búð Jóns stolið hafi til þess síðasta, þá hann hafi það meðkennt, hvar fyrir hans meðkenning sýnist mjög óstöðug. Að svo vöxnu hafi sýslumaður Ólafur tildæmt hönum víst straff og látið áleggja 360 vandarhögg, sem ei finnist dæmi til.[45]

 

Ennfremur benti Brynjólfur á að þvílíkur fjöldi vandarhögga sé ekki í samræmi við ákvæði Norsku laga um refsingar sakamanna.

Ólafur í Haga lét hins vegar koma krók á móti bragði og lagði fram vitnisburð ellefu manna um að Þorleifur hafi pískaður verið með smáu laufhrísi yfir miðjan hrygg og ei hafi yfir hann liðið, heldur hafi sést bláir og rauðir þrimlar á bakinu en ekkert blóð rennandi.[46]

Þorleifur Jónsson stóð sjálfur fyrir réttinum við Öxará og spurði dómarinn hann hvört hann hefði í öngvit liðið við vandarhöggin 360. Delenquentinn Þorleifur svaraði að ekki hefði það verið að öllu leyti og hann þolað hafi að ríða samdægurs burt af þinginu.[47] Með þessum málsbótum slapp Ólafur sýslumaður í Haga við sektir eða ákúrur fyrir dóm sinn yfir Þorleifi fyrir smáþjófnað í fjórða sinn og staðfesti Sveinn Sölvason varalögmaður dóm Ólafs. Í dómi lögmanns 19. júlí 1745 segir:

 

… og skal því sami Þorleifur, sem kagstrýking og þjófsmark áður útstaðið hefur framsendast með þessa árs kaupförum til Kaupenhafnar til ævinlegs fangelsis og erfiðis á Bremerhólm eður í festingunni Fridrichs Havn.[48]

 

Þann 27. nóvember um haustið var títtnefndur Þorleifur fluttur úr Friðrikshafnarfestingu í Stokkhúsið við Austurvegg í Kaupmannahöfn og sýnir þrælaskrá Stokkhússins að hann kom fyrstur Íslendinga í þá dýflissu.[49] Í Stokkhúsinu héldu fæstir þrælkunarfanganna lífi nema í eitt til tvö ár en Þorleifur Jónsson Tálknfirðingur skrimti þar í átján ár. Vorið 1763 var hann náðaður að nafninu til og sendur ásamt nokkrum öðrum íslenskum Stokkhúsþrælum norður til Vargeyjar (Vardö) á Austur-Finnmörk í grennd við rússnesku landamærin.[50] Þaðan kom enginn aftur.

Dæmin tvö sem hér hefur verið minnt á um framgang réttvísinnar á sýslumannsárum Ólafs Árnasonar varpa nokkru ljósi á aldarfarið. Þau fela hins vegar ekki í sér neina sönnun þess að Ólafur í Haga hafi verið Barðstrendingum harðleiknari en ýmsir aðrir 18. aldar valdsmenn voru sínum undirsátum.

Hinn mikli fjöldi munnmælasagna sem varðveist hefur um harðýðgi Ólafs og þó einkum konu hans, Halldóru Teitsdóttur, bendir samt til þess að víða hafi sviðið undan valdsmannssvipu þessara Hagahjóna. Gísli Konráðsson skráði margt um þau og forðaði frá glötun. Um Halldóru sýslumannsfrú í Haga var m.a. sögð þessi saga:

 

En oft er sagt hún léti taka góðar kýr frá landsetum sínum, hversu snauðir sem þeir voru, og fá þeim stritlur í staðinn. Þótti öllum óþolandi yfirgangur þessi þó eigi þyrðu þeir berlega um að vanda. Er það ein sögnin að fátæk ekkja barnamörg bjó á Grænhól og átti kú góða. Hana lét Halldóra sækja og leiða aðra þangað í hennar stað, lítt nýta. Ekkjan átti móður gamla, er sagði, er kýrin var leidd út: „Nú hefur Halldóra rænt mig lífi og börnum og segið þið henni að ei verði kýr eilíf framar en aðrar eignir hennar.” Var mjólkuð pundfata úr henni um kveldið í Haga en um morguninn lá hún dauð á básnum, helblá og óæt með öllu, því reynt var að gefa af henni hundi og drapst hann. Var svo skrokknum sökkt í dý. En kýr sú, er leidd var að Grænhól, gerðist góður gripur. Lét og ekki Halldóra taka hana. Bar mörgum saman um sögu þessa þó heldur megi kynleg þykja.[51]

 

Sú var löngum trú alþýðu að illa fenginn auður yrði fáum til láns. Illur fengur illa forgengur er gamalt orðtak og hefur sannast á Halldóru í Haga ef marka má munnmælin.

Ólafur lét af sýslumannsembættinu 1752 en bjó áfram í Haga. Bæði gerðust þau Halldóra drykkfelld í meira lagi. Kafnaði Ólafur við drykkju og sviðaát á Vatneyri 20. september 1754, kom niður tveimur bitum en sá þriðji stóð í honum.[52] Skömmu síðar viðraði Halldóra, ekkja hans, skart sitt og breiddi úr því á hlaðinu í Haga.

 

Kom þá hrafn og flökti lengi yfir skartinu áður hann steypti sér og greip í gogg sinn skartsvuntu með 3 gylltum, stórum silfurhnöppum, gersemi mikla, og flaug með útnorður yfir Múlahyrnu.[53]

 

Lengi hefur alþýðan trúað á hrafninn og reyndist þetta fyrirboði.

Sýslumannsekkjan fluttist brátt frá Haga að Stóra-Laugardal í Tálknafirði. Í lestinni sem flutti eigur Halldóru yfir Miðvörðuheiði voru 30 hestar og á einum sviptikistur (kúffort) með peninga hennar, smíðað silfur og dýrgripi. Var þyngst á honum og hann sterkastur.

Á heiðinni brast á moldviðriskafald með gaddhörku þótt komið væri vor og sleit þar hestinn sem silfrið bar frá lestinni og sást aldrei síðan eftir af honum eða neinu því á honum var. Trúðu því sumir að á brott hefði hann heillaður verið þar í gljúfur nokkur og þóttust vita að ei mundi sjálfrátt.[54]

Á Suðureyri í Tálknafirði dvaldist Halldóra um hríð meðan verið var að undirbúa komu hennar í Stóra-Laugardal. Þar á Suðureyri reyndi sýslumannsfrúin enn að breiða út skartklæði sín og viðra þau, – en þegar rak á hvirfilbyl svo mikinn að öllum klæðnaðinum þyrlaði í loft upp og kastaði á sjó út. Þótti mörgum illsviti og ætluðu að svo mundi til skara skríða um fé Halldóru og fundu það til að illa mundi margt fengið.[55]

Halldóra Teitsdóttir átti að vísu langa lífdaga fyrir höndum er hún fluttist frá Haga í Tálknafjörð en auðsæld hennar var þorrin.

 

Sagt er að besta krás Halldóru síðustu æviárin væri jafnan að drepa hákarlsbrjóski upp úr lýsi eða lýsisgrotta. Ætti hún þá einn hempugarm, er hún byndi að sér með loðbandi, og almennt er sagt að háöldruð dæi hún á reiðingstorfu í Litla-Laugardal.[56]

 

Hannes Þorsteinsson þjóðskjalavörður bætir því reyndar við í Blöndu að sýslumannsfrúin frá Haga hafi reyndar ekki dáið í Litla-Laugardal heldur í Hálfdanarhúsum, hjáleigu frá Stóra-Laugardal, þann 29. desember 1800.[57] En vel má trúa því að ekki hafi hún þá haft annað undir sér en reiðingstorfuna.

Davíð Scheving varð sýslumaður Barðstrendinga tvítugur að aldri árið 1752 og hélt embættinu að því sinni í nær þrjá ártugi[58] (sbr. hér bls. 13). Um 1760 bjó hann í Saurbæ á Rauðasandi[59] en var árið 1763 kominn að Haga[60] og bjó hér til ársins 1809. Á því tímaskeiði sem Davíð sat í Haga tók framfarahugur víða að kvikna í byggðum landsins og margvíslegar tilraunir hófust í atvinnumálum. Davíð Scheving var maður hins nýja tíma. Hann hóf kartöflurækt litlu síðar en frumkvöðullinn Björn Halldórsson í Sauðlauksdal. Haustið 1763 fengust stórar kartöflur í Haga[61] en þá voru aðeins þrjú ár liðin síðan kartöflur voru teknar í fyrsta sinn upp úr garði á Íslandi (sjá hér Sauðlauksdalur). Árið 1778 sendi Davíð stjórnvöldum í Kaupmannahöfn skýrslu og segir þar að vel líti út með kartöflurækt í sýslunni.[62]

Davíð Scheving hóf einnig kornræktartilraunir og segir Jón Eiríksson konferenzráð að kuldar og óhagstæð veðrátta hafi dregið úr kornuppskeru í Barðastrandarsýslu og víðar árið 1777 en þó horfi vel með vorsána byggið.[63] Davíð fékkst við fleiri tilraunir í búnaðarmálum en ræktun korns og kartaflna, m.a. lét hann klippa sauðféð í stað þess að nota aðeins hendurnar við rúning svo sem hér hafði tíðkast frá alda öðli.[64] Tilraunir þessar munu hafa heppnast misjafnlega og almennt var ekki farið að nota sauðaklippur fyrr en á síðari hluta 19. aldar.[65]

Árið 1777 brann bærinn í Haga. Gísli Konráðsson segir að eldinum hafi lostið upp í stofunni að kvöldi 13. desember er menn voru nýkomnir til rekkna. Hann greinir einnig frá því á sama stað að kviknað hafi í út frá kerti er gefið hafði verið ungri meystelpu sem Margrét hét.[66] Jón Espólín greinir frá eldsvoðanum í Haga og húsakosti á þessa leið.

 

Skömmu fyrir jól brann bærinn í Haga á Barðaströnd, að Davíðs Skevings sýslumanns og Bjarna Einarssonar, dótturmanns hans og lögsagnara, hafði kviknað af kertaljósi í hálmi milli stafs og veggjar og brann sá bær allur á þremur stundum en hann var gjörr af kostum, eitt hús með 18 deilingum. Fóru þeir mágar til Vatneyrar um veturinn en lágu í tjöldum síðan meðan byggt var upp aftur.[67]

 

Í frásögn Espólíns kemur fram að átján vistarverur eða deilingar hafa verið í Hagabænum og var hér ekki í kot vísað. Pétur frá Stökkum segir að Hagastofa hafi verið enn í smíðum þegar hún brann. Getur hann þess að í stofuna muni hafa verið haft rekatré það hið mikla sem flutt var af Rauðasandi inn Sandsheiði um hávetur af átján mönnum og urðu allir úti.[68]

Bjarni Einarsson, lögsagnari, það er fulltrúi eða umboðsmaður sýslumanns, var frá Vatneyri við Patreksfjörð. Hann hafði ráðist í þjónustu Davíðs árið 1775 og kvænst Ragnheiði, dóttur sýslumanns, í febrúar 1777. Sonur Bjarna og Ragnheiðar var Guðmundur Scheving, síðar kaupmaður í Flatey með öðru, og mun hann hafa verið nýlega fæddur er bærinn í Haga brann.[69]

Árið 1781 tók Bjarni við sýslumannsembættinu af tengdaföður sínum og gegndi því í sjö ár með miklum skörungsskap. Sat hann þá í Haga. Bjarni  Einarsson beitti sér mjög fyrir margvíslegum framförum í sýslunni. Hann gekkst fyrir byggingu nýbýla, m.a. á Vatnsdalsbökkum (sjá hér Um Kjálkafjörð, Hjarðarnes og Vatnsfjörð – þar bls. 11) og í landi Haga. Fyrir þetta veitti konungur honum sérstök verðlaun.[70]

Í þriðja árgangi af ritum Lærdómslistafélagsins er að finna merka ritgerð eftir Bjarna í Haga um saltfiskverkun. Sá fiskur sem á land barst hafði fram undir þetta nær allur verið hertur.[71] Í ritgerð sinni boðar Bjarni hins vegar saltfiskverkun að Terraneufshætti, sem talið var að gæti orðið mun hagstæðara fyrir Íslendinga.[72] Þannig saltfiskverkun hafði fyrst hafist hérlendis fáum árum fyrr og með henni opnaðist fyrst markaður fyrir íslenskan fisk í Miðjarðarhafslöndum.[73] Í gömlu félagsritunum (Lærdómslistafélagsins) birti Bjarni einnig tvær aðrar ritgerðir, aðra um æskilega þegnskylduvinnu almúgans á Íslandi og hina um dyggð þjónustufólks.

Í forspjalli Jóns Eiríkssonar konferenzráðs að Ferðabók Olavíusar er frá því greint að Bjarni Einarsson, sýslumaður Barðstrendinga, hafi árið 1778, ásamt einum norskum sjómanni sem fyrrum var verslunarsveinn í Þrándheimi, sett upp tvær litlar vatnsmyllur til kornmölunar.[74] Jón segir að hver mylla kosti 5 til 6 ríkisdali og geti malað hálfa tunnu af fínu mjöli á dag. Ennfremur lætur hann þess getið að Bjarni vonist til að kornmyllur þessar nái útbreiðslu og kammerið í Kaupmannahöfn hafi í huga að láta prenta fullkomna lýsingu á þeim.

Árið 1781 var svo prentaður í Kaupmannahöfn svolítill bæklingur eftir Bjarna sýslumann í Haga og heitir Stutt undirvísun um Vatnsmilnur, sem uppteknar voru í Barðastrandarsýslu árið 1778. Bæklingurinn er nítján blaðsíður og fylgja textanum skýringateikningar. Þarna útskýrir Bjarni rækilega hvernig slíkar kornmyllur skuli byggðar og tekur fram að þær séu nú komnar á fimm bæi í Barðastrandarsýslu.

Það var þungt að snúa kvörninni við kornmölun og hefur boðskapur Bjarna um að láta vatnsafl leysa handaflið af hólmi ekki sætt litlum tíðindum. Í ritum Lærdómslistafélagsins segir svo um framgöngu konungs í þessu baráttumáli Bjarna í Haga:

 

Hefir kóngur látið grafa í eir og prenta munstur eða form af vatnsmylnum þeim, sem uppteknar eru í Barðastrandarsýslu, hver nú sendast til Íslands til að gefast þeim, er fengið hafa bækling sýslumanns, Bjarna Einarssonar, um þessar mylnur til nákvæmari skýrslu um allt þeirra smíði og saman setningu.[75]

 

Bjarni Einarsson var aðeins 22ja ára þegar hann byrjaði með vatnsmyllurnar árið 1778. Hann var þá lögsagnari tengdaföður síns og tók ekki við sýslumannsembættinu fyrr en sama ár og bæklingurinn kom út, 1781. Það var skaði að Bjarni skyldi ekki endast í sýslumannsstarfinu nema í sjö ár en 1788 sagði hann starfinu lausu, aðeins 32ja ára að aldri. Máske hafa hjúskaparmál hans átt þátt í því en hann skildi skömmu síðar við konu sína og fluttist úr húsum tengdaföður síns í Haga. Síðustu árin átti Bjarni Einarsson heima í Breiðavík í Rauðasandshreppi og var embættislaus.

Þegar Bjarni lét af sýslumannsembættinu tók við því Oddur Vídalín, hálfbróðir Reynistaðabræðra sem úti urðu á Kili haustið 1780. Oddur var launsonur Halldórs klausturhaldara á Reynistað og vinnukonu, sem Málmfríður hét, borinn í þennan heim á brúðkaupsdegi föður síns.[76] Oddur var einhleypur maður og settist að í Haga hjá Davíð Scheving. Þann 1. febrúar 1801 vék amtmaður Oddi frá embætti vegna hneykslanlegs drykkjuskapar að því er segir í æviskrám. Oddur andaðist nokkru síðar og hafði þá enn ekki fallið endanlegur dómur í máli hans.

Er Oddi Vídalín var vikið frá tók Davíð Scheving aftur við embætti sýslumanns Barðstrendinga. Var hann settur í embættið og honum til aðstoðar dóttursonur hans, Guðmundur Scheving Bjarnason. Guðmundur var þá 24 ára gamall og hafði fáum árum fyrr horfið frá námi í Kaupmannahöfn þar sem orð fór af svalli hans og sólund. Báðir sátu þeir Schevingar í Haga, afinn og dóttursonurinn sem gegndi fulltrúastörfum. Það var á öðru ári Guðmundar Scheving í fulltrúastarfinu sem hann var kvaddur til að rannsaka morðmálin á Sjöundá og kvað þá upp dauðadóm yfir þeim Bjarna og Steinunni (sjá hér Sjöundá).

Árið 1806 var Guðmundi svo veitt sýslan en Davíð afi hans lét þá af embætti, 74 ára gamall. Guðmundur Scheving var á ungum aldri kallaður Hagaljómi og þótti hið mesta glæsimenni. Gísli Konráðsson segir að hann hafi verið meðalmaður á vöxt, með bláleit augu nokkuð stór, rjóður í kinnum, nefið nokkuð hátt og dálítið bogið, hárið gult – í framkomu kurteis og hæverskur og afar snar á fæti.[77] Í æviskrám segir að hann hafi verið gleðimaður lengi framan af ævi.[78] Líklega hefur ævintýraþrá lokkað hinn unga Scheving til liðsinnis við Jörund hundadagakóng sumarið 1809 en sem frægt er skipaði Jörundur hann amtmann yfir norðuramtinu. Sú dýrð stóð að vísu aðeins í átta daga en þá var Jörundi steypt. Ekki mun Hagi á Barðaströnd hafa verið amtmannssetur í annan tíma. Guðmundur hélt Barðastrandarsýslu fyrst um sinn eftir fall Jörundar en sagði henni lausri sumarið 1812. Tveimur árum síðar keypti hann hálfan Flateyjarkaupstað og fluttist þangað áður en langt um leið. Frá umsvifum Guðmundar í Flatey segir hér á öðrum stað (sjá Flatey).

Frá því Guðmundur Scheving sagði af sér sýslumannsembætti sumarið 1812 sátu engir sýslumenn í Haga fyrr en Jón Thoroddsen fluttist hingað úr Flatey sumarið 1855. Jón Thoroddsen var liðlega hálffertugur er hann reisti bú í Haga, margreyndur í volki lífsins. Hann var bóndasonur frá Reykhólum en hafði siglt árið 1841 til laganáms og dvaldist þá í Danmörku í níu ár, án þess þó að ljúka háskólaprófi. Byltingarárið mikla 1848 stóð Jón í ýmsum stórræðum. Hann gaf þá út með öðrum tímaritið Norðurfara sem prentað var í Kaupmannahöfn og sent út til Íslands. Birtust þar allmörg kvæði hans og á sama ári stóð hann að útgáfu Snótar, kvæðasafns með ljóðum eftir ýmsa eldri og yngri höfunda. Líklega hefur Jón Thoroddsen verið orðinn ósköp þreyttur á lögfræðinni þegar hér var komið sögu og vorið 1848 gerðist hann sjálfboðaliði í danska hernum og tók þátt í nokkrum orrustum í Slésvíkurstríðinu þá um sumarið.

Lögfræðinámið vanrækti Jón fyrir skáldskapariðkanir, hermennsku og aðra skemmtan svo að tvísýnt þótti um framtíð hans.

 

Ekki er sagan álitlig:

úti á konu fjalla

bæði þý og búi mig

brotastúdent kalla.

 

Svo orti Jón Thoroddsen eitt sinn á Hafnarárum sínum er honum bárust spurnir af orðspori sínu úti á Íslandi. Að lokum reif Jón sig þó lausan frá þessari Babýlon við Eyrarsund eins og hann nefndi Kaupmannahöfn og kom heim árið 1850. Sama ár var hann settur sýslumaður Barðstrendinga og áður en árinu lauk kom út skáldsaga hans Piltur og stúlka, fyrsta íslenska skáldsagan sem út var gefin á síðari öldum.

Jón Thoroddsen, skáld og sýslumaður, settist árið 1850 að í Flatey á Breiðafirði, einhleypur og próflaus. Vorið 1852 leitaði hann ráðahags við Kristínu, dóttur Þorvalds Sívertsen, óðalsbónda í Hrappsey, og konu hans Ragnhildar Skúladóttur. Sagan segir að Þorvaldur hafi sett það skilyrði fyrir ráðahagnum að Jón lyki embættisprófi í lögum.[79] Lét sýslumaður það gott heita, sigldi aftur til Hafnar og lauk þar hinu minna lagaprófi í janúar 1854. Sama ár var hann skipaður í sýslumannsembættið sem hann hafði áður verið settur til að gegna og á höfuðdaginn, sumarið 1854, stóð í Flatey brúðkaup Kristínar frá Hrappsey og Jóns.

Með vorinu máttu skrifa mig í Haga, stendur handskrifað undir myndinni af Jóni Thoroddsen sem fylgir fyrstu útgáfu af Kvæðum hans, prentað sýnishorn af rithönd skáldsins.[80] Þessi orð hefur Jón skrifað veturinn eftir brúðkaupið og 29. júní 1855 fluttist hann úr Flatey að Haga ásamt konu sinni og elsta barni þeirra, Þorvaldi, sem þá var þriggja vikna.[81]

Jón Thoroddsen sýslumaður sat í Haga í sjö ár, til 1862, en þá fluttist hann að Leirá og gerðist sýslumaður Borgfirðinga. Gegndi hann því embætti til dauðadags 1868.

Fyrstu árin í Haga sat Jón aðeins hálfa jörðina en brátt festi hann kaup á henni allri. Lét hann þá húsa bæinn og hóf jarðabætur.[82] Í Haga mun Jón hafa lagt fyrstu drög að skáldsögunni Manni og konu sem þó var ekki gefin út fyrr en eftir dauða hans. Í því skáldverki þóttust menn snemma þekkja ýmsa samtíðarmenn skáldsins úr Barðastrandarsýslu og öðrum Breiðafjarðarbyggðum sem fyrirmyndir einstakra sögupersóna.

Eitthvað orti Jón Thoroddsen líka um nágranna sína á Barðaströnd, þar á meðal um Jón hreppstjóra í Tungumúla er síðar bjó í Haga:

 

Signor Jón er sómamaður,

sífelldlega er hann glaður,

brennivíns ef bikar fær;

kóngur á hann krossinn hengi!

krýni lofi gjörvallt mengi!

hreykjast mun þá karlinn kær.

 

Í útgáfunni frá 1871 af Kvæðum Jóns Thoroddsen fylgir skýring vísu þessari og segir þar um signorinn í Tungumúla:

 

Hann var að mörgu merkilegur maður en þótti nokkuð montinn og vildi aldrei láta kalla sig nema signor. En hann var blestur á máli og gat ekki nefnt „S”, varð þá úr því „tignor”. Jón Thoroddsen mælti fram með við stjórnina að hann yrði annaðhvort Dannebrogsmaður eða Medalíumaður og það varð hann.[83]

 

Með þessa skýringu í huga verður líka auðskilin önnur vísa sýslumanns um sama mann:

 

Tignors taka önd ef á,

út er náir sveima:

brennivíns í brúsa þá

best mun hana að geyma.[84]

 

Af slíkum kveðskap Jóns um einstaka sýslubúa munu þó hafa orðið kunnastar Goggsraunir ortar um Hjálmar gogg, sveitarlim og böðul úr Suðurfjörðum í Arnarfirði.

Er Jón Thoroddsen og Kristín kona hans settust að í Haga sumarið 1855 áttu þau einan barna Þorvald er síðar varð kunnur náttúrufræðingur. Í Haga fæddust sýslumannshjónunum fimm börn. Úr þeim hópi lifðu aðeins tveir synir og var annar þeirra Skúli Thoroddsen, sem fæddur var 6. janúar 1859, hinn merki þjóðmálaskörungur er lengi var sýslumaður Ísfirðinga og fulltrúi þeirra á Alþingi í nær aldarfjórðung.

Þorvaldur Thoroddsen náttúrufræðingur ritaði á efri árum endurminningar sínar frá fyrri tíð og minnist þar á bernskuárin í Haga:

 

Eitt af því fyrsta, sem ég man frá Haga, var það að afi minn, Þorvaldur Sivertsen, kom kynnisför þangað og hafði þá farið vestur í fjörðu og verslað við „þjóðir”, svo voru útlendir „spekúlantar” kallaðir, sem þá við og við komu á íslenskar hafnir og buðu varning sinn. Á þeim tíma voru það helst Hollendingar, sem þá verslun ráku á Vestfjörðum. Eðlilega er mér þessi koma afa míns minnisstæðust af því að hann færði mér stóran blikkkassa fullan af hollenskum piparkökum, sem ég hafði aldrei séð eða smakkað fyrr. Móður minni gaf hann stóran hollenskan ost og föður mínum hollenskar breddur (hnífa).

… Í Haga skemmtum við bræður oss við vanalega barnaleiki, höfðum mest gaman af að leika okkur að skeljum og fleyta smáskipum á pollum og lækjum, enda getur faðir minn um „börnin sem leika að skeljum á hól”.

… Á Barðaströnd voru í þá daga gamal-íslenskir hættir á öllu, sögur lesnar á kvöldum í baðstofu við grútarlampa með fífukveik, oft voru líka rímur kveðnar eftir gömlum skrifuðum skruddum, sem gengu bæ frá bæ. Fiskæti var helst steinbítur og steinbítsroð mikið notað í skó, flautir voru algengur matur á kvöldum o.s.frv. Fyrir jólin var mikið steypt af kertum og við drengirnir fengum kóngaljós með þremur álmum en helsta sælgætið var hangiket og lummur og jóladagana var spilað alkort og púkk langt fram á nótt.[85]

 

Jón Thoroddsen varð síðasti sýslumaðurinn sem sat í Haga. Næstu áratugina bjuggu þar Jón tignor og fleiri sæmilega gildir bændur.

Þorvaldur Thoroddsen ritar um framkvæmdir föður síns í Haga og ástandið er hann kom þar nær aldarfjórðungi eftir brottför þeirra feðga:

 

Faðir minn gerði töluverðar jarðabætur í Haga og var byrjaður að láta hlaða mikinn túngarð úr torfi er hann fór þaðan. Þegar ég kom síðar að Haga 1886 var allt orðið breytt, húsakynnin brjáluð og skemmd, allt fært saman og sumt rifið, en túngarðsspottinn mikli var nú orðinn þjóðvegur eða tröð, hestagata eftir hrygg hans endilöngum.[86]

 

Stórbýlið Hagi átti þó eftir að hefjast til vegs á ný. Um aldamótin 1900 bjó í Haga Guðmundur Jónsson hreppstjóri, síðar í Sauðeyjum og á Skjaldvararfossi. Aldamótaárið 1900 kvæntist Kristján Snæbjörnsson stjúpdóttur Guðmundar, Hákoníu Jóhönnu Hákonardóttur, og bjó upp frá því í Haga til dánardægurs. Kristján var elsti sonur Snæbjarnar Kristjánssonar, bónda og sjóhetju í Hergilsey. Kristján drukknaði við land í grennd við Haga aðfaranótt 14. febrúar 1908. Var hann að koma úr Hergilsey. Bát Kristjáns tók út í lendingu og fyllti en hann komst á kjöl og var talið að hann hafi haldist á kjölnum lengi nætur.[87] Snæbjörn faðir hans ritar um drukknun sonar síns og segir þá meðal annars:

 

Mér var það huggun við þetta sorglega atvik að aldrei um kvöldið heyrðist óp til Kristjáns í sjávarháskanum. Hefði þó hlotið að heyrast svo nálægt bæjum, ef hann hefði gefið nokkurt hljóð frá sér. – Svona eiga sjómenn að deyja, það er fagurt og minnir mig á fornaldarhetjurnar, sem horfðu brosandi í móti dauðanum.[88]

 

Kunnastur bænda í Haga á tuttugustu öld er Hákon J. Kristófersson, fæddur 1877, sem hér bjó frá 1907 til æviloka 1967. Hákon var þingmaður Barðstrendinga frá 1913 til 1931 og jafnan talinn sveitarhöfðingi. Hann var hreppstjóri í 61 ár og hefur vart nokkur maður annar gegnt hreppstjóraembætti á Íslandi svo lengi.[89] Um tíu ára skeið, 1930-1940, var Hákon umsjónarmaður landsímahússins í Reykjavík og gegndi því starfi með búrekstri sínum í Haga.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Ólafur Davíðsson: Íslenskar þjóðsögur III, 218-220.

[2] Sama heimild.

[3] Sama heimild.

[4] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 279.

[5] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 201.

[6] Böðvar Guðjónsson. – Viðtal K.Ó. við hann 10.8.1988.

[7] Pétur Jónsson 1942, 78 (Barðstrendingabók).

[8] Jarðabók Á. og P. VI, 278.

[9] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 199.

[10] Jóhann Skaptason 1959, 100 (Árbók F.Í.).

[11] Ólafur Davíðsson: Íslenskar þjóðsögur I, 282.

[12] Ebenezer Henderson 1957, 303.

[13] Hermann Jónasson 1888, 165 (Búnaðarritið).

[14] Arnór Sigurjónsson 1975, 325.

[15] Íslensk fornrit I, 173.

[16] Íslensk fornrit V, 88-91.

[17] Sama heimild XII, 267-268.

[18] Sama heimild.

[19] Íslensk fornrit XII, 267-268.

[20] Þjóðsögur J.Á. IV, 37.

[21] Sveinn Níelsson 1950, 177-178.

[22] Lýður Björnsson 1967, 33 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[23] Þjóðsögur J.Á.  III, 36.

[24] Sturlunga saga II, 266.

[25] Sturlunga saga III, 12-13.

[26] Arnór Sigurjónsson 1975, 325.

[27] Sama heimild, 326-327.

[28] Arnór Sigurjónsson 1975, 325.

[29] Dipl. isl. IX, 66-68.

[30] Ísl. æviskrár I, 454.

[31] Sama heimild, 461-462.

[32] Lbs.23674to. S.Gr.B./Prestaæfir X, 665-666.

[33] Ísl. æviskrár III, 420-421.

[34] Sama heimild, 217.

[35] Sama heimild I, 21, III, 432 og V, 183.

[36] Sama heimild, I, 21.

[37] Þorvaldur Thoroddsen 1892-1894/ Landfræðisaga Íslands II, 278.

[38] Þorvaldur Thoroddsen 1892-1894/ Landfræðisaga Íslands II, 279.

[39] Sama heimild II, 280-281.

[40] Haraldur Sigurðsson 1978, 136.

[41] Blanda V, 114.

[42] Sama heimild.

[43] Alþingisbækur Íslands XIII, 49.

[44] Alþingisbækur Íslands XIII, 261-265.  Björn Th. Björnsson 1975, 12-14.

[45] Alþingisbækur Íslands XIII, 262.

[46] Sama heimild, 263.

[47] Sama heimild.

[48] Alþingisbækur Íslands XIII, 264.

[49] Björn Th. Björnsson 1975, 9-11.

[50] Björn Th. Björnsson 1975, 322, 336 og 343.

[51] Blanda V, 116-117.

[52] Sama heimild, 121.

[53] Sama heimild, 122.

[54] Blanda V, 122-123.

[55] Sama heimild, 123.

[56] Sama heimild, 124.

[57] Blanda V, 127.

[58] Ísl. æviskrár I, 307-308.

[59] Manntal 1762.

[60] Þorvaldur Thoroddsen 1922: Lýsing Íslands IV, 97.

[61] Sama heimild..

[62] Jón Eiríksson  1964, 32 – formáli Jóns Eiríkssonar konferenzráðs að Ferðabók Olaviusar.

[63] Sama heimild, 25.  Þorvaldur Thoroddsen 1922. Lýsing Íslands IV, 204.

[64] Þorvaldur Thoroddsen 1919. Lýsing Íslands III, 328.

[65] Jónas Jónasson frá Hrafnagili 191, 59.

[66] Lbs. 17704to, bls. 101.

[67] Jón Espólín: Íslands Árbækur XI, 19.

[68] Pétur Jónsson 1942, 79 (Barðstrendingabók).

[69] Ísl. æviskrár I, 162-163 og II, 178-179.

[70] Rit þess ísl. Lærdómslistafélags, Kph. 1781, 272 og 1782, 285.

[71] Rit þess ísl. Lærdómslistafélags, Kph. 1782, 291.

[72] Sama, bls. 1-27.

[73] Jón Eiríksson 1964, 59 – formáli Jóns Eiríkssonar konferenzráðs að Ferðabók Olaviusar.

[74] Sama heimild, 74.

[75] Rit þess ísl. Lærdómslistafélags II, Kph. 1781, 275.

[76] Íslenskar æviskrár II, 274.

[77] Gríma hin nýja II, 12-13.

[78] Íslenskar æviskrár II, 178-179.

[79] Jón Guðnason 1968, 11.

[80] Jón Thoroddsen: Kvæði, Kph. 1871.

[81] Þorvaldur Thoroddsen 1922, 39 (Minningabók I).

[82] Jón Guðnason 1968, 13.

[83] Jón Thoroddsen 1871, 226.

[84] Jón Thoroddsen 1871, 226.

[85] Þorvaldur Thoroddsen 1922, 40-43 (Minningabók I).

[86] Þorvaldur Thoroddsen 1922, 39 (Minningabók I).

[87] Snæbjörn Kristjánsson 1958, 167 og 170-171.

[88] Sama heimild, 171-172.

[89] Árbók Barðastrandarsýslu X (fyrir árin 1959-1967) 1974, 178.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »