Hóll á Hvilftarströnd

Hóll á Hvilftarströnd

Bærinn Hóll á Hvilftarströnd stóð skammt frá sjó rétt innan við ána Hólsá en utan við hana eru Garðar og var örstutt á milli bæjanna. Landamerkjum Hóls á móti Kaldá hefur áður verið lýst (sjá hér Kaldá) en á móti Görðum er það Hólsá sem skiptir löndum.[1] Ofan við Hól og Garða er svolítill fjalldalur sem áin fellur um. Á síðari tímum mun sá partur af dalnum sem liggur fyrir innan ána yfirleitt hafa verið nefndur Hólsdalur en hinn parturinn Garðadalur.[2] Einnig þekktist að dalurinn í heild væri ýmist nefndur Hólsdalur eða Garðadalur.[3] Gamalt nafn á dalnum mun vera Grímsdalur[4] og upp úr dalbotninum lá leiðin á Grímsdalsheiði sem enn heitir svo.[5] Yfir Grímsdalsheiði var farið frá Hóli eða Görðum að bænum Kvíanesi í Súgandafirði og liggur sá fjallvegur efst í 661 metra hæð yfir sjávarmáli. Vegalengdin frá Hóli að Kvíanesi er aðeins sjö og hálfur kílómetri og örstutt milli dalbotna. Norðan við heiðina liggur leiðin niður í Kvíanesdal. Af Grímsdalsheiði er einnig hægt að fara niður í Vatnadal í Súgandafirði en sú leið er mun lengri milli bæja eða um 17 kílómetrar og mun sjaldan hafa verið farin.[6] Yfir Grímsdalsheiði fór Magnús Hjaltason á þorranum árið 1899 frá Bæ (Langhól) í Súgandafirði áleiðis á Ingjaldssand með viðkomu í Botni.[7] Alfaraleið frá Bæ að Flateyri lá um Klofningsheiði en af því Magnús þurfti að koma við í Botni áður en hann fór úr Súgandafirði var hentugast að fara Grímsdalsheiði.

Í sögum sem síðari tíma menn spunnu upp segir frá Grími sem Grímsdalur á að hafa verið kenndur við. Í sumum þessara sagna er hann gerður að stýrimanni hjá Önundi Víkingssyni, landnámsmanni Önundarfjarðar, og ýmist sagður hafa búið á Hóli, Hvilft eða Görðum.[8] Þeir sem þessu trúðu töldu Grím vera heygðan uppi á Grímshjalla sem er ofan við bæinn á Görðum (sjá hér Garðar). Þrjú örnefni í landi Hóls tengdu menn við sögurnar um Grím. Í Grísavík, niður við sjóinn innst í Hólslandi, átti hann að hafa urðað börn sín, sem hann stytti aldur, en eiginkonuna í Kumlu[9] sem var strýtumyndað holt rétt fyrir utan og ofan Grísavík.[10] Þetta holt er nú horfið og mun hafa verið notað í ofaníburð við uppbyggingu akvegarins sem liggur út Hvilftarströnd.[11] Drekahryggur heitir hár melhryggur ofan við gamla bæjarstæðið á Hóli og nær hann nokkuð upp í hlíðina.[12] Í hrygg þessum átti skip Gríms að vera grafið en væri reynt að grafa það upp brá svo við að Holtskirkja sýndist standa í björtu báli.[13] Einn þeirra sem skráð hafa þessa sögu er Magnús Hjaltason og segir frá á þessa leið:

 

Inn og upp af Hóli á Hvilftarströnd í Önundarfirði er hryggur allmikill sem Drekahryggur heitir. Þar á drekaskip frá fornöld að vera grafið. Einu sinni er sagt að menn hafi tekið sig til að grafa í hrygginn. Rufu þeir hrygginn uns þeir komu að siglutré og hékk eirketill mikill í toppnum. Í því varð þeim litið við og sáu yfir að Holti að kirkjan þar stóð í björtu báli. Hættu þeir við haugrofið og skunduðu til bjargar kirkjunni en er þeir komu að Holti var engin hætta á ferðum. Hafði aldrei kviknað í kirkjunni og var þetta missýning ein. Var þetta eignað veru þeirri er varðveitti drekaskipið. Sagt er að grjót það og mold sem mennirnir mokuðu upp hafi aftur hrunið niður í gryfjuna og birgt siglutréð og ketilinn. Þó á að vera laut í hrygginn þar sem til var rofið.[14]

 

Hér var þess áður getið að fjallið ofan við Hól heitir Hólsfjall og klettanípan, sem blasir við frá túninu á Hóli og er efst í fjallinu, heitir Hólshorn.[15] Hólsfjall rís hæst í 721 metra hæð en Garðafjall, sem er utan við dalinn, er lítið eitt lægra. Fjær sjáum við Eyrarfjall ofan við Flateyri en frá Hóli eru aðeins tveir og hálfur kílómetri út á Flateyri og tæplega fjórir kílómetrar inn að Neðri-Breiðadal.

Að þessu sinni komum við að Hóli innan frá Kaldá og fórum yfir landamerkin í Grísavík, um 800 metrum innan við Hól. Á utanverðum sjávarbökkunum við Grísavík var áður stórt aurholt, sem nú er komið undir veg, og hét það Arnarþúfuholt.[16] Há þúfa sem var á miðju holtinu og hafði stein í kollinum hét Arnarþúfa. Þar sátu oft ernir á steininum[17] Innan við túnið á Hóli skagar svolítið nes í sjó fram og heitir það Hólsnes.[18]

Bærinn á Hóli stóð á háum hól en utan við þann hól er annar hóll sem heitir Smiðjuhóll því á honum stóð smiðja.[19] Lægðin sem liggur frá síðarnefnda hólnum í átt að ánni heitir Árdalur.[20] Bæjarlækurinn er innan við bæjarhólinn og skiptir túninu í tvennt.[21] Í brekkunni út við ána, ofan við Árdal sem fyrr var nefndur, er Ból og ofan við það Barð en inn frá því Drekahryggsholt.[22] Frá innri enda þess gengur Drekahryggur, sem hér var frá sagt, upp í hlíðina.[23] Breiðiteigur er í hlíðinni inn af Drekahrygg en nokkru ofar.[24] Klettanef í fjallinu ofan við teiginn heitir Hrútanef.[25] Á því er allmikill gróður og má þetta heita eini gróðurbletturinn í Hólsfjalli.[26]

Árið 1907 fór Hóll í eyði (sjá hér bls. 12) og búskapur hófst hér ekki á ný fyrr en árið 1932.[27] Að því sinni var aðeins búið hér í sjö ár, frá 1932-1939,[28] og síðan þá hefur Hóll verið eyðijörð.

Tóttir gömlu bæjarhúsanna, sem fólkið yfirgaf árið 1907, standa enn á sínum stað uppi á fögrum bæjarhól sem mikið ber á svolítið ofan við þjóðveginn. Þetta eru miklar rústir og bera með sér að hér hefur lengi staðið bær. Á hólrana sem er svolítið neðar og mjög skammt frá þjóðveginum stóð svo húsið er Guðmundur Jónsson, sem lengst bjó á Görðum, reisti hér og bjó í frá 1932 til 1939 (sjá hér Garðar). Grunnurinn sem hús Guðmundar stóð á er þarna enn en það hús var að sögn kunnugra lítið timburhús.[29] Þar rétt hjá stóð líka norska bjálkahúsið, sem brátt verður sagt frá, og var aðeins mjótt sund á milli þessara tveggja húsa.[30] Hús Guðmundar sneri horni að hlið bjálkahússins.[31]

Einu mannvirkin frá fyrri tíð sem enn standa uppi á Hóli (1995) eru reykháfurinn mikli hér rétt ofan við fjöruna og ketill sem honum fylgir. Skorsteinninn var reistur á fyrstu árum tuttugustu aldar eftir verksmiðjubrunann á Sólbakka árið 1901 (sjá hér Sólbakki). Hans Ellefsen, forstjóri hvalveiðistöðvarinnar þar, var þá með ráðagerðir um að endurreisa stöðina hér á Hóli og lét hlaða úr múrsteinum þennan mikla reykháf sem enn stendur þó orðinn sé nær helmingi lægri en hann var í fyrstu.[32] Frá athöfnum hvalveiðiforstjórans hér segir Ólafur Þ. Kristjánsson svo:

Lét hann leggja þar [þ.e. á Hóli] grunn að húsi eða húsum, setja ketil mikinn á stokka, hlaða geysiháan reykháf úr múrsteinum og reisa húsgrind. Jafnframt lét hann sökkva flutningaskipinu Ínu frammi á marbakkanum og átti hún að verða bryggjuhaus. Húsgrindina tók hann síðan niður og flutti austur en ketillinn og reykháfurinn stóðu eftir og Ína varð blindsker á róðrarleið, hættulaus um flæðar en um stórstraumsfjörur kom stefnið og eitthvað meira af henni úr sjó.[33]

 

Á Hóli lét Ellefsen líka reisa bjálkabyggt íbúðarhús, sem hér var áður minnst á, og var því valinn staður á nýnefndum hólrana.[34] Verksmiðjan var hins vegar aldrei byggð því Ellefsen sneri blaðinu við og ákvað að hætta öllum rekstri í Önundarfirði, enda hafði hann skömmu fyrir brunann komið upp nýrri hvalstöð á Asknesi við Mjóafjörð eystra (sjá hér Sólbakki). Aðdjúpt mjög er með ströndinni innan við Flateyri og nær þetta mikla dýpi alveg inn að Hóli.[35] Frá náttúrunnar hendi gat því vel komið til greina að reisa vinnslustöð á Hóli ef nóg hefði verið af hvölum í hafinu úti fyrir Vestfjörðum.

Jörðin Hóll á Hvilftarströnd er landlítil en var þó talin 12 hundruð að dýrleika.[36] Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 er kostum og göllum jarðarinnar lýst með þessum orðum:

 

Útigangur lakur og er rosknu fé í burt komið jafnlega að Hvilft eður Eyri fyrir 5 álna, þriggja fjórðunga [þ.e. 7,5 álna – innsk. K.Ó.] eður 10 álna virði. Torfstunga bjargleg, rista þrotin. Elt er sverði. Hrognkelsatekja góð í netjum, þykir þó ganga til þurrðar.

Túnið er mjög grýtt og blæs upp. Engjar eru að kalla eyðilagðar fyrir skriðum. Úthagar ogsvo mjög skriðurunnir og í hrjóstur komnir. Hætt er kvikfé fyrir sjávarflæðum og móðsköflum.[37]

 

Í jarðabók frá árinu 1805 er tekið fram að frá Hóli sé hægt að stunda sjóróðra og vertíðarhlutir hjá þeim sem héðan rói séu yfirleitt álíka háir og hjá þeim sem reru frá Mosdal, það er 1¾ úr vætt þorskur, ⅔ úr vætt riklingur, 2 vættir steinbítur og ¼ úr vætt ýsa.[38] Gera má ráð fyrir að þarna sé miðað við verkaðan fisk. Í hverri vætt voru 40 kíló og tekið er fram í jarðabókinni að þetta sé meðalhlutur yfir allt árið.[39] Verðmæti þessa hásetahlutar var árið 1805 talið vera um það bil 97 álnir[40] eða sem svaraði liðlega fjórum fimmtu hlutum úr kýrverði. Í byrjun 19. aldar var líka stunduð hrognkelsaveiði frá Hóli og gaf árlega af sér sem svaraði andvirði þriggja vætta af fiski.[41]

Í varðveittum heimildum er Hóls á Hvilftarströnd fyrst getið í máldaga Holtskirkju frá árunum upp úr 1570 en kirkjan í Holti var þá eigandi jarðarinnar.[42] Í máldaga Holtskirkju frá árinu 1397 má sjá að kirkjan hefur ekki eignast Hól fyrr en síðar (sjá hér  Holt) og mun jörðin því hafa orðið kirkjueign á 15. eða 16. öld. Um aldamótin 1900 átti Holtskirkja jörðina enn[43] en um 1920 var Kristján Torfason á Sólbakka orðinn eigandi hennar.[44]

Í máldaganum frá síðari hluta sextándu aldar er tekið fram að landskuldin, sem bóndinn á Hóli þurfti að greiða Holtskirkju á hverju ári, sé 10 aurar[45] það er 60 álnir. Frá því á síðari hluta 17. aldar og fram um miðja 19. öld var landskuldin ýmist 60 eða 80 álnir og virðist á því skeiði ætíð hafa verið hin sama og á Kaldá (sjá hér Kaldá) sem einnig var kirkjujörð og 12 hundruð að dýrleika eins og Hóll. Í byrjun 20. aldar var landskuldin af Hóli aðeins ein ær,[46] það er 20 álnir.

Á 17. öld og fyrstu árum 18. aldar voru landsetar Holtskirkju á Hóli bundnir af þeirri kvöð að leggja til mann í skiprúm á einhverjum báti kirkjunnar á vorvertíð en árið 1710 varð breyting á í þeim efnum. Frá þessu segir svo í Jarðabókinni frá því ári:

 

Kvöð er skipsáróður um vertíð allt hingað til en þetta ár hefur verið áskilið að staðarhaldarinn skyldi eignast annan hlutinn af skipi ábúandans um vertíðina, sem gengi á Kálfeyri, og skyldi staðarhaldarinn til leggja menn á skipið að helmingi og eitt færi.[47]

 

Á þessu sést að Sigurður Sigurðsson, sem bjó á Hóli árið 1710, hefur átt bát sem hann gerði út frá Kálfeyri á vorin og skiptakjörin verið með þeim hætti að báturinn fékk tvo hluti.[48] Annan þessara tveggja hluta varð Sigurður nú að greiða prestinum í Holti og keypti sig þannig undan kvöðinni um mann í skiprúm hjá presti.

Árið 1695 fylgdu Hóli þrjú og hálft leigukúgildi sem Holtskirkja átti.[49] Fimmtán árum síðar hafði þessum innstæðukúgildum fækkað niður í þrjú[50] og árið 1753 voru þau ekki nema tvö.[51] Sú tala var óbreytt um miðja nítjándu öld og í byrjun hinnar tuttugustu.[52]

Á 18. og 19. öld bjó nær alltaf aðeins einn bóndi í senn á Hóli og hafði alla jörðina til ábúðar.[53] Dæmi finnast þó um tvíbýli á jörðinni því árið 1703 bjuggu hér tveir bændur og svo var einnig um 1735.[54] Árið 1880 bjuggu líka tveir bændur hér á Hóli og þá var hér einnig húsfólk, karl og kona.[55]

Fyrsti bóndinn á Hóli á Hvilftarströnd sem unnt er að nefna með nafni hét Hannes Illugason og byrjaði sinn búskap hér eigi síðar en 1681.[56] Á því ári bjó hann einn á allri jörðinni[57] en árið 1703 var hann hér í tvíbýli.[58] Á manntalinu frá því ári sést að Hannes var þá 56 ára gamall en kona hans, Hallgerður Magnúsdóttir, 49 ára.[59] Fjögur börn þeirra á aldrinum 13-24 ára voru þá heima en eina hjúið var Guðbjörg Lífgjarnsdóttir vinnukona sem sögð er burðaveik.[60] Á hinu býlinu voru yngri hjón, Bergur Sigmundsson og Valgerður Bjarnadóttir.[61] Líklegt er að eitthvað af þessu fólki hafi fallið í stórubólu árið 1707 og svo mikið er víst að hvorki Hannes né Bergur voru í bændatölu í Mosvallahreppi árið 1710.[62] Þá var maður að nafni Sigurður Sigurðsson farinn að búa hér á Hóli[63] og átti bát fyrir landi eins og hér var nýlega minnst á. Bústofninn hjá Sigurði þetta ár var 3 kýr, 1 kálfur, 18 ær, 12 sauður tvævetra og eldri, 8 veturgamlir sauðir, 17 lömb og eitt hross með fyli.[64]

Um 1735 bjó Sigurður Sigurðsson enn á jörðinni[65] og kynni að vera sá hinn sami og hér var aldarfjórðungi fyrr. Sambýlismaður hans á árunum kringum 1735 hét Jón Jónsson[66] en bóndi með því nafni hafði líka ábúð á allri jörðinni 1753 og 1762.[67] Allt gæti þetta verið sami maðurinn en óvíst er þó hvort svo sé. Árið 1753 þurfti Jón bóndi á Hóli að greiða tíund af fimm lausafjárhundruðum.[68] Af níu bændum sem þá bjuggu á Hvilftarströnd og á Eyri tíunduðu fjórir meira lausafé en hann en þrír minna.[69] Einn stóð honum jafnfætis.[70] Árið 1762 var Jón Jónsson á Hóli 51 árs gamall og kona hans, sem við vitum ekki hvað hét, á svipuðum aldri.[71] Hér heima áttu þau þá þrjú börn á aldrinum 10-23ja ára, tvo syni og eina dóttur.[72] Annað heimilisfólk var einn vinnumaður og 57 ára gömul kona sem var niðursetningur.[73] Sonur Jóns þessa á Hóli var Sveinn Jónsson sem lengi bjó á Kaldá[74] og annar sonur hans var, að sögn Sighvats Borgfirðings, Gils Jónsson, hreppstjóri á Görðum.[75]

Árið 1801 bjuggu hjónin Guðmundur Guðmundsson og Elísabet Bjarnadóttir hér á Hóli.[76] Guðmundur var þá 42ja ára gamall en Elísabet sex árum eldri.[77] Guðmundur bóndi var sonur Guðmundar Sveinssonar og Önnu Guðmundsdóttur, sem bjuggu á Eyri upp úr miðri 18. öld, en sá Guðmundur fórst í snjóflóði á leið yfir Klofningsheiði um 1760.[78] Seinni maður Önnu Guðmundsdóttur var Þorsteinn Bjarnason á Hvilft (sjá hér Hvilft) svo Guðmundur Guðmundsson á Hóli var stjúpsonur hans. Elísabet, kona Guðmundar, var hins vegar frá Suðureyri í Súgandafirði, dóttir Bjarna Brynjólfssonar, bónda þar, og konu hans, Halldóru Jónsdóttur.[79] Hjónin Guðmundur Guðmundsson og Elísabet Bjarnadóttir á Hóli voru fjórmenningar að frændsemi, bæði komin frá Þorgils Jónssyni og Ástu Tómasdóttur konu hans sem var liðlega sjötug í Botni í Súgandafirði árið 1703.[80] Sú Ásta var dóttir séra Tómasar Þórðarsonar á Stað á Snæfjallaströnd sem kunnastur varð fyrir liðsinni sitt við Margréti Þórðardóttur, sem nefnd var Galdra-Manga, en henni tókst með hjálp góðra manna að hreinsa sig af galdraáburði og varð að lokum seinni kona séra Tómasar og stjúpmóðir Ástu í Botni.[81]

Þau Guðmundur Guðmundsson og Elísabet Bjarnadóttir gengu í hjónaband 25. júlí 1784 og bjuggu fyrst á Vöðlum en munu hafa flust að Hóli skömmu eftir 1790 og bjuggu hér uns Guðmundur andaðist sumarið 1819.[82] Guðmundur á Hóli var meðhjálpari og árið 1803 segir séra Jón Ásgeirsson í Holti að hann sé frómur og skikkanlegur en um Elísabet, konu Guðmundar, kemst prestur svo að orði að hún sé skikkanleg og sköruleg.[83] Ekki var bústofninn stór hjá þeim Guðmundi og Elísabet á Hóli ef marka má jarðabók frá árinu 1805 en þar er hann sagður vera fimmtán sauðkindur og ein og hálf kýr.[84]

Börn Guðmundar og Elísabetar urðu sex og af þeim náðu fjögur fullorðinsaldri, einn sonur og þrjár dætur.[85] Elstur þessara barna var Jóhannes sem fæddist árið 1788 og dó árið 1820.[86] Hann kvæntist árið 1818 Margréti Bjarnadóttur, sem var ekkja eftir Ebenezer Guðmundsson í Innri-Hjarðardal (sjá hér Innri-Hjarðardalur), og eignaðist með henni eina dóttur.[87] Þau Margrét og Jóhannes bjuggu í Innri-Hjarðardal.[88]

Eins og áður sagði komu þau Guðmundur og Elísabet á Hóli upp þremur dætrum. Elst þeirra var Halldóra sem giftist Guðmundi Pálssyni, hreppstjóra á Höfða í Dýrafirði,[89] en þau bjuggu síðar hér á Hóli (sjá hér bls. 9). Næst í röðinni kom Vigdís sem giftist fyrst Móses Jónssyni og bjó með honum á Sæbóli á Ingjaldssandi en varð seinna kona Guðmundar Guðmundssonar norðlenska[90] (sjá hér Nesdalur). Yngsta systirin frá Hóli var svo Anna Guðmundsdóttir sem giftist frænda sínum, Markúsi Eyjólfssyni[91] og bjuggu þau lengi á Kroppstöðum (sjá hér Kroppstaðir). Allar eignuðust þessar systur mörg börn[92] og er nú mikill fjöldi niðja kominn frá þeim Guðmundi Guðmundssyni og Elísabet Bjarnadóttur á Hóli.

Þegar Guðmundur andaðist sumarið 1819 var Elísabet kona hans 66 ára gömul eða því sem næst. Hún lifði enn í 20 ár og mun á því skeiði hafa dvalist alllengi hjá Vigdísi dóttur sinni á Sæbóli. Þegar Vigdís og seinni maður hennar, Guðmundur norðlenski, fluttust þaðan á nýbýlið í Nesdal vorið 1839 (sjá hér Nesdalur) fór gamla konan til Önnu dóttur sinnar á Kroppstöðum og dó hjá henni þá um haustið.[93]

Á árunum 1819-1841 bjuggu hér hver fram af öðrum tveir tengdasynir þeirra Guðmundar Guðmundssonar og Elísabetar Bjarnadóttur, fyrst Móses Jónsson og síðan Guðmundur Pálsson. Móses fæddist í Ögri við Ísafjarðardjúp árið 1796 eða því sem næst[94] en átti heima í Bolungavík þegar hann kvæntist Vigdísi Guðmundsdóttur frá Hóli á Hvilftarströnd árið 1818.[95] Eins og áður var nefnt andaðist faðir Vigdísar, Guðmundur bóndi á Hóli, árið 1819 og á því sama ári fluttust ungu hjónin, Móses og Vigdís, frá Bolungavík hingað á Hvilftarströndina.[96] Líklegt er að Móses hafi þá þegar tekið við búsforráðum hér á Hóli og svo mikið er víst að árið 1821 var það hann sem bjó á jörðinni með 2 kýr og 18 ær.[97] Báturinn sem Móses átti þá var tveggja eða þriggja manna far.[98] Móses varð síðar merkisbóndi á Sæbóli á Ingjaldssandi og formaður í hákarlalegum. Í slíkri leguferð týndist skip hans með allri áhöfn 11. apríl 1836 og var Móses sjálfur formaður í þessari hinstu för (sjá hér Sæból og Nesdalur).

Líklegt er að þau Móses Jónsson og Vigdís kona hans hafi flust frá Hóli árið 1822 en á því ári hófu hér búskap Halldóra Guðmundsdóttir, systir Vigdísar, og eiginmaður hennar, Guðmundur Pálsson, sem áður hafði búið á Höfða í Dýrafirði.[99] Guðmundur fæddist á Höfða árið 1774 eða því sem næst og var sonur hjónanna Páls Bjarnasonar og Helgu Þorvaldsdóttur sem þar bjuggu.[100] Helga var dóttir Þorvaldar Jónssonar í Haukadal en hann var sonarsonarsonur séra Ólafs skálds Jónssonar á Söndum.[101] Árið 1801 bjó Guðmundur Pálsson á Höfða með fyrri konu sinni, Arnfríði Aradóttur frá Reykjarfirði við Djúp, en hún var um það bil tuttugu árum eldri en eiginmaðurinn.[102] Nokkru síðar andaðist Arnfríður og þeim Guðmundi mun ekki hafa orðið barna auðið.[103]

Vorið 1818 kvæntist Guðmundur í annað sinn og gekk þá að eiga Halldóru Guðmundsdóttur frá Hóli á Hvilftarströnd, sem hér var áður nefnd, en hún var um það bil 20 árum yngri en brúðguminn.[104] Þau Guðmundur og Halldóra bjuggu fyrstu árin á Höfða en fluttust þaðan hingað að Hóli vorið 1822.[105] Þegar Guðmundur fór úr Dýrafirði, 48 ára gamall, var hann hreppstjóri í Mýrahreppi.[106] Þau Guðmundur Pálsson og Halldóra kona hans bjuggu á Hóli í 19 ár, frá 1822 til 1841, en um miðjan júní árið 1841 dó Halldóra af takverk fyrir brjósti.[107] Að konu sinni látinni bjó Guðmundur hér enn í tvö ár sem ekkjumaður.[108] Þegar Halldóra andaðist voru liðin um það bil 50 ár frá því foreldrar hennar, þau Guðmundur Guðmundsson og Elísabet Bjarnadóttir, hófu búskap hér á Hóli og allan þann tíma höfðu nánir ættingjar hennar og venslafólk setið hér að búi, fyrst foreldrarnir, síðan systir hennar og mágur og svo hún sjálf með sína fjölskyldu.

Þau Guðmundur Pálsson og Halldóra kona hans eignuðust níu börn og af þeim náðu sjö að verða fullorðin.[109] Ekkert þessara barna tók samt við búinu á Hóli úr höndum foreldra sinna, enda voru þau elstu vart komin af unglingsaldri þegar móðir þeirra féll frá[110] en þá var faðir þeirra orðinn 67 ára gamall. Elst barnanna var Arnfríður Guðmundsdóttir, fædd 1819, er síðar giftist Friðbert Guðmundssyni og bjuggu þau lengi í Vatnadal í Súgandafirði.[111] Af öðrum börnum í þessum systkinahópi má nefna Jóhönnu sem giftist Þórði Andréssyni og bjuggu þau á Ytri-Veðrará (sjá hér Ytri Veðrará), Helgu sem giftist Andrési Sakaríassyni (sjá hér Hvilft og Garðar), Jóhannes sem bjó m.a. á Tannanesi (sjá hér Tannanes) og Guðmund sem bjó lengi á Kroppstöðum og í Neðri-Breiðadal en síðast í Bæ í Súgandafirði (sjá hér Kroppstaðir, Neðri-Breiðadalur og Bær).

Árið 1845 var Guðmundur Pálsson hættur búskap á Hóli og orðinn vinnumaður á prestssetrinu í Holti.[112] Hann andaðist þremur árum síðar.[113]

Árið 1843 fóru hjónin Guðlaugur Þorsteinsson og Jóhanna Jónsdóttir að búa á Hóli og tóku þá við af Guðmundi Pálssyni.[114] Guðlaugur fæddist á bænum Efri-Miðvík norður í Aðalvík árið 1813 eða því sem næst, sonur hjónanna Þorsteins Jónssonar og Solveigar Jónsdóttur.[115] Foreldrar Guðlaugs fluttust seinna til Súgandafjarðar og voru þar húsfólk á Stað árið 1835.[116] Þá var Guðlaugur vinnumaður á Stað í Súgandafirði, liðlega tvítugur að aldri.[117] Jóhanna Jónsdóttir, sem seinna varð eiginkona Guðlaugs, var þá vinnukona í Bæ í Súgandafirði[118] en til Súgandafjarðar hafði hún flust frá Neðri-Breiðadal með móður sinni árið 1821.[119] Jóhanna var fædd í Neðri-Breiðadal 9. mars árið 1812, dóttir hjónanna Jóns Jónssonar og Guðrúnar Oddsdóttur sem áttu heima þar.[120] Faðir Jóhönnu var einn hinna mörgu Önfirðinga sem drukknuðu 6. maí 1812 (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli og Neðri-Breiðadalur) en þá var hún aðeins átta vikna gömul.

Þau Guðlaugur Þorsteinsson og Jóhanna Jónsdóttir voru gefin saman í hjónaband í Súgandafirði haustið 1839[121] og ári síðar voru þau bæði vinnuhjú þar hjá Bergljótu Össurardóttur í Bæ.[122] Árið 1842 bjuggu þau Guðlaugur og Jóhanna á Görðum[123] en 1843 fóru þau að búa hér á Hóli eins og áður var nefnt. Hér bjuggu þau í 18 ár, frá 1843 til 1861, en fluttust þá að Fremri-Breiðadal (sjá hér Fremri-Breiðadalur). Þar dó Guðlaugur vorið 1875 og var þá kominn í húsmennsku hjá dóttur sinni og tengdasyni[124] (sbr. hér Fremri-Breiðadalur). Jóhanna kona Guðlaugs lifði talsvert lengur en hann. Árið 1880 var hún á Kaldá en dó á Flateyri sumarið 1890.[125]

Árið 1845 var sjö manna heimili hér á Hóli hjá þeim Guðlaugi og Jóhönnu.[126] Þá áttu þau bara eitt barn en hjá þeim var líka faðir Guðlaugs og tvær vinnukonur.[127] Sjöundi heimilismaðurinn var tökubarnið Jóhann  Ferdinand Adam Jónsson sem í manntalinu frá 1845 er sagður eins árs að aldri[128] en mun þó hafa fæðst árið 1842.[129] Um miðbik 19. aldar var enn fátítt að hérlendir menn bæru tvö skírnarnöfn og sérstök undantekning að heita þremur nöfnum eins og pilturinn Jóhann Ferdinand Adam. Foreldrar hans voru hjónin Jón Einarsson skútuskipstjóri og Þóra Sigurðardóttir sem þá áttu heima á Flateyri.[130] Frá föður drengsins er sagt hér á öðrum stað (sjá hér Hvilft, Sveinseyri og Flateyri) en hann var bróðir Magnúsar Einarssonar á Hvilft. Pilturinn, sem skírður var þremur nöfnum, varð síðar kjörsonur Jóhanns Grundtvig, snikkara á Ísafirði, og konu hans, Steinunnar Árnadóttur.[131] Frá þeim fermdist hann árið 1859.[132]

Þegar Guðlaugur Þorsteinsson og Jóhanna kona hans fóru frá Hóli árið 1861 tóku við jörðinni ung hjón sem bjuggu hér síðan allt til ársins 1907 eða í 46 ár.[133] Þau hétu Halldór Halldórsson og Guðrún Jónsdóttir og höfðu verið gefin saman í hjónaband haustið 1859.[134] Halldór var fæddur 4. júlí 1835 á Grafargili í Valþjófsdal, sonur hjónanna Halldórs Eiríkssonar og Þórunnar Einarsdóttur[135] sem bjuggu þar lengi (sjá hér Grafargil). Föðurafi Halldórs Halldórssonar var séra Eiríkur Vigfússon sem lengst var prestur á Stað í Súgandafirði. Guðrún Jónsdóttir sem giftist Halldóri og bjó með honum hér á Hóli í 46 ár var fimm árum yngri en eiginmaðurinn, fædd á Vöðlum árið 1840.[136] Hennar foreldrar voru hjónin Jón Jónsson og Abigael Guðmundsdóttir sem bjuggu um skeið á Görðum (sjá hér Garðar) en dóu bæði hjá dóttur sinni hér á Hóli.[137]

Áður en Halldór gekk að eiga Guðrúnu eignaðist hann eina dóttur með Friðriku Friðriksdóttur, síðar húsfreyju á Norðureyri í Súgandafirði, en það barn dó á þriðja eða fjórða ári.[138] Með Guðrúnu konu sinni eignaðist hann síðan á árunum 1861-1881 16 lifandi börn og eitt sem fæddist andvana.[139] Sjö þessara systkina komust upp en hin dóu á ungum aldri.[140] Elst var Friðrika Halldórsdóttir sem fæddist á Hóli árið 1861 en hún varð eiginkona Ebenezers Sturlusonar, skipstjóra á Flateyri.[141] Yngri systur hennar voru Abigael, sem fluttist suður á Vatnsleysuströnd, Bessabe, sem varð húsfreyja á Kirkjubóli í Bjarnardal, og Júlíana sem giftist ekki en náði háum aldri og var síðast hjá Bessabe systur sinni á Kirkjubóli.[142] Hún fékkst m.a. við gerð leikfanga, smíðaði líkön af hestum og kindum og var af mörgum nefnd Júlíana hestasmiður[143] (sjá hér Fremri-Breiðadalur). Þrír synir Halldórs á Hóli og Guðrúnar konu hans náðu að vaxa úr grasi, Halldór, Guðmundur Ágúst og Guðjón sem var yngsta barn foreldra sinna.[144] Halldór varð trésmiður og dó 34 ára gamall á Patreksfirði árið 1904[145] en Guðmundur og Guðjón fluttust báðir til Súgandafjarðar þar sem hinn síðarnefndi starfaði lengi sem járnsmiður.[146]

Ætla má að hér á Hóli hafi lífsbaráttan oft verið hörð þegar marga munna þurfti að fæða og bústofninn ekki mjög stór. Árið 1870 bjuggu þau Halldór og Guðrún með 2 kýr, 14 ær, 6 gemlinga, 1 hest og 1 tryppi.[147] Halldór bóndi átti þá lítinn bát sem var 2ja eða 3ja manna far og að auk einn fjórða part í sexæring eða fjögra manna fari.[148] Tíu árum síðar var bústofn Halldórs nánast hinn sami og verið hafði 1870.[149] Árið 1880 átti hann enn litla bátinn en engan hlut í fjögra manna fari eða sexæring.[150] Enginn kálgarður var þá kominn á Hóli ef marka má búnaðarskýrslur en á árunum 1870-1880 náði Halldór að koma sér upp færikvíum.[151]

Fardagaárið 1880-1881 voru hjónin Eyjólfur Jónsson og Kristín Jónsdóttir í húsmennsku hér á Hóli, svo og Steinþór Jónsson sem var bróður Eyjólfs.[152] Eyjólfur bjó síðar lengi á Kirkjubóli í Valþjófsdal en þangað fluttist hann vorið 1881 (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal, Dalshús þar). Steinþór bróðir hans, sem hér var nefndur, varð hins vegar bóndi í Dalshúsum árið 1887 og bjó þar í nær fjóra áratugi (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal (Dalshús)). Veturinn sem þeir bræður sátu hér á Hóli áttu þeir tvær kindur og tvo gemlinga hvor og engan annan búfénað en saman áttu þeir bát sem var sexæringur eða fjögra manna far.[153] Á honum munu þeir hafa farið í hákarlaróðurinn sem um er getið á öðrum stað í þessu riti og lögðu upp þann 15. desember 1880 héðan frá Hóli (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal). Sú leguferð mun vera einhver allra síðasti hákarlaróður sem farið var í á opnum báti úr Önundarfirði á haf út um hávetur.

Árið 1905 varð Halldór Halldórsson, bóndi á Hóli, sjötugur og tveimur árum síðar hætti hann búskap og fluttist til Guðmundar sonar síns sem þá var orðinn bóndi í Botni í Súgandafirði.[154] Þar andaðist Halldór sumarið 1909 en Guðrún kona hans dó í Botni 19. mars 1915.[155] Þegar Halldór og Guðrún fóru frá Hóli árið 1907 fór jörðin í eyði[156] en seinna var búið hér í sjö ár (sjá hér bls. 3), frá 1932-1939 (sjá hér Garðar).Um Guðrúnu Jónsdóttur, nýnefnda húsfreyju hér á Hóli, ritar alþýðuskáldið Magnús Hjaltason svo:

 

Hún var hin mesta fríðleikskona og gáfuð með afbrigðum og hin mesta bókmenntamanneskja. Las hún eigi aðeins íslenskar bækur allar og blöð er hún yfir komst heldur líka dönsku. Er slíkt fátítt um konur á hennar aldri og í hennar stöðu því hún átti 16 börn með manni sínum.[157]

 

Minningargrein skrifaði Magnús líka um Guðrúnu og birtist hún í Ísafjarðarblaðinu Vestra 14. apríl 1915.[158]

Um 1920 var þessi eyðijörð virt á 1.300,- krónur en timburhúsið sem hér stóð á 1.800,- krónur.[159] Hús þetta hafði Ellefsen, hvalveiðiforstjóri á Sólbakka, látið reisa á allra fyrstu árum aldarinnar (sjá hér bls. 3) og stóð það hér fram um 1940 en á stríðsárunum síðari var það tekið niður og efni þess notað í íbúðarhús sem enn stendur á Ísafirði.[160] Húsið var einlyft og í fasteignabók frá árinu 1921 er flatarmál þess sagt vera 14 x 8 álnir.[161] Eigandi jarðarinnar um 1920 var Kristján Torfason á Flateyri og leigði hann hana til slægna.[162] Í leigu fékk hann að eigin sögn 160,- krónur á ári.[163] Um 1930 var jörðin nytjuð frá Flateyri og var talið að þá fengjust hér 30 hestar af töðu og 55 hestar af útheyi.[164] Búið var að girða túnið og stærð þess talin tveir og hálfur hektari.[165] Árið 1932 hófst búseta á jörðinni að nýju og að því sinni var búið hér í sjö ár eins og áður var frá sagt.

Áður en haldið verður burt frá Hóli er vert að minnast þess að vorið 1894 voru uppi ráðagerðir um að byggja hér íshús[166] en ekkert slíkt  hús til geymslu á fiski og beitu var þá til hérlendis.[167] Ráðagerðirnar um byggingu íshúss á Hóli tengdust áformum um útflutning á ísuðum fiski frá Flateyri á markað í Englandi.[168] Árið 1894 voru erlendir bátar farnir að stunda kolaveiðar í Önundarfirði (sjá hér Flateyri) og þá um sumarið var ísuð rauðspretta flutt frá Flateyri til Englands með flutningaskipinu Cimbria.[169]

Sá sem samdi við séra Janus Jónsson í Holti vorið 1894 um leigu á sjávargrundinni á Hóli til að reisa þar íshús og aðrar byggingar hét Niels Chr. Nielsen[170] en hann var einn þriggja hluthafa í Íslenska útflutningsfyrirtækinu sem stofnað var á Flateyri árið 1893 og búsettur þar í eitt ár eða því sem næst, frá 1893 til 1894 (sjá hér Flateyri). Íslenska útflutningsfyrirtækið varð skammlíft en sumarið 1895 var búið að stofna í Önundarfirði sérstakt hlutafélag sem átti að koma upp íshúsi[171] og þá að líkindum hér á Hóli. Íshúsið sem þá var talað um að byggja mun þó aldrei hafa komist upp[172] en fyrstu íshúsin sem reist voru hérlendis og komu að notum voru tekin í notkun í Reykjavík og á Brekku í Mjóafirði eystra á árunum 1894 og 1895[173] (sbr. hér Flateyri, bls. 211 og 279).

Af því sem hér hefur verið sagt má ráða að árið 1894 stóð til að byggja hér á grundinni íshús sem hefði orðið hið fyrsta eða næst fyrsta á öllu landinu. Mál þróuðust hins vegar á annan veg og Fiskveiðafélagið Dan sem stóð að fiskflutningunum frá Flateyri til Englands réðst árið 1895 í kaup á sérstöku skipi sem notað var sem birgðaskip með ís á Önundarfirði.[174] Skip þetta hét Roma og mun fyrst hafa verið sent til Önundarfjarðar sumarið 1895[175] (sjá hér Flateyri).

Á einum stað er frá því greint að hér á grundinni innan við Hólsána hafi á sínum tíma verið byggður grunnur að íshúsi.[176] Eyjólfur Jónsson, sem borinn er fyrir þessu,[177] fullyrðir hins vegar að svo sé ekki og þetta hafi hann aldrei sagt.[178] Hér á sjávargrundinni eru að vísu tveir mjög stórir grunnar eða upphlaðnir reitir en Eyjólfur, sem hefur aflað sér mikillar þekkingar á framkvæmdum í Önundarfirði á áratugunum kringum 1900, telur þá hafa verið byggða fyrir forgöngu Hans Ellefsen, hvalveiðiforstjóra á Sólbakka, og án nokkurra tengsla við ráðagerðirnar um íshús.[179] Annar þessara grunna eða reita er alveg niður við fjörukambinn og er flatarmál hans 100-200 fermetrar. Hinn, sem er svolítið ofar, er um það bil 12 x 7 metrar að stærð og á honum stendur skorsteinninn mikli sem Hans Ellefsen lét reisa á fyrstu árum 20. aldar og hér hefur áður verið minnst á (sjá hér bls. 3). Þessi rauðleiti reykháfur kallar enn á athygli þeirra sem um veginn fara en hann er minnismerki um áform sem aldrei var hrint í framkvæmd. Grunnflötur reykháfsins er 2 x 2 metrar eða því sem næst. Hæðin sýnist nú (1995) vera 10-12 metrar en áður var hann miklu hærri.

Járnketillinn sem stendur hjá reykháfnum er líka verður skoðunar. Á sínum tíma mun Ellefsen hvalveiðiforstjóri hafa látið flytja hingað tvo katla og er þetta sá minni.[180] Þegar Þjóðverjar hófu rekstur á Sólbakka árið 1912 var stærri ketillinn færður þangað.[181] Hér við sjóinn, rétt innan við Hólsá, eru allmargar tóttir af eldri byggingum, tengdum búskapnum á Hóli, og er þar helst að nefna tvö naust innarlega á grundinni. Annað þeirra er 5 til 6 metrar á lengd en hitt um það bil 7 metrar.

Við hinn hlaðna skorstein sem gerður er úr tígulsteinum er gott að sitja í glöðu sólskini og horfa fram á fjörðinn og yfir í fjallið Þorfinn sem gnæfir við himin hér beint á móti. Innan skamms stöndum við samt á fætur og röltum sem leið liggur eftir þjóðveginum og yfir brúna á Hólsá en árspræna þessi var fyrst brúuð haustið 1893.[182] Utan við ána tekur við land Garða og örskammt frá brúnni heim í túnið. Nú eru Garðar í eyði og bærinn brunninn nema útveggir úr steinsteypu sem ef til vill mætti nýta ef ráðist yrði í endurbyggingu.

 

 

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Örnefnaskrá.

[2] Sama heimild.  Óskar Einarsson 1951, 84.

[3] Örn.skrá.  Sóknalýsingar Vestfjarða II, 99.

[4] Örn.skrá.

[5] Sama heimild.  Sóknalýs. Vestfj. II, 98.

[6] Sbr. Kristján G. Þorvaldsson 1951, 70 (Árbók F.Í.).

[7] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 4.2.1899.

[8] Vestfirskar sagnir II, 86 og 326-327 og III, 292-293.

[9] Sömu heimildir.

[10] Sömu heimildir og Örn.skrá.

[11] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.8.1994.

[12] Örn.skrá.  Vestf. sagnir II, 326.

[13] Vestf. sagnir II, 86.

[14] Frá ystu nesjum III, 172-173.

[15] Örn.skrá.

[16] Sama heimild.

[17] Sama heimild.

[18] Hjörleifur Guðmundsson 1973, 76-77 (Ársit S.Í.).

[19] Örn.skrá.

[20] Sama heimild.

[21] Sama heimild.

[22] Örn.skrá.

[23] Sama heimild.

[24] Sama heimild.

[25] Sama heimild.

[26] Sama heimild.

[27] Sóknarmannatöl Holts í Önundarfirði.

[28] Sama heimild.

[29] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.8.1994.

[30] Sama heimild.

[31] Sama heimild

[32] Sama heimild.

[33] Ól. Þ. Kr. 1949, 97 (Frá ystu nesjum V).

[34] Eyjólfur Jónsson. Bréf hans 27.3.1992  til K.Ó.

[35] Kristján G. Þorvaldsson 1951, 70 (Árbók F.Í.).

[36] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII, 123.  Sóknalýs. Vestfj. II, 101.

[37] Jarðab. Á. og P. VII, 123.

[38] Rtk. Jarðabækur V. 16. – Ísafj.sýsla 1805.

[39] Sama heimild.

[40] Sama heimild.

[41] Sama heimild.

[42] D.I. XV, 573.

[43] Manntal 1901, fylgiskjöl.

[44] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[45] D.I. XV, 573.

[46] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[47] Jarðab. Á. og P. VII, 123.

[48] Sama heimild.

[49] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Vestur-Ísafj.sýslu frá árinu 1695.

[50] Jarðab. Á. og P. VII, 123.

[51] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[52] J. Johnsen 1847, 196.  Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[53] Jarðab. Á. og P. VII, 123.  Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.  Rtk. Jarðabækur V. 16. –

Ísafj.sýsla 1805.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX . 1., búnaðarskýrslur 1821 og 1830.  Manntöl 1762, 1801,     1816, 1835, 1840, 1845, 1850, 1855, 1860, 1870, 1890 og 1901.

[54] Manntal 1703.  Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, eftirrit, Ísafj.sýsla um 1735.

[55] Manntal 1880.

[56] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.

[57] Sama heimild.

[58] Manntal 1703.

[59] Sama heimild.

[60] Sama heimild.

[61] Sama heimild.

[62] Jarðab. Á. og P. VII, 94-127.

[63] Sama heimild, 123.

[64] Sama heimild.

[65] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, eftirrit, Ísafj.sýsla um 1735.

[66] Sama heimild.

[67] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.  Manntal 1762.

[68] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[69] Sama heimild.

[70] Sama heimild.

[71] Manntal 1762.

[72] Sama heimild.

[73] Sama heimild.

[74] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.  Sbr. Manntal 1816, bls. 689.

[75] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[76] Manntal 1801.

[77] Sama heimild.

[78] Ól. Þ. Kr. 1949, 97-98 og 1948, 81-82 (Frá ystu nesjum IV og V).

[79] Ól. Þ. Kr. 1949, 98.

[80] Sama heimild, 99-100.

[81] Sama heimild.

[82] Sama heimild, 102.

[83] Sama heimild.

[84] Rtk. Jarðabækur V. 16. – Ísafj.sýsla 1805.

[85] Ól. Þ. Kr. 1949, 103-115.

[86] Sama heimild.

[87] Sama heimild.

[88] Ól. Þ. Kr. 1949, 103-115.

[89] Ól. Þ. Kr. 1949, 103-115 (Frá ystu nesjum V).

[90] Sama heimild.

[91] Sama heimild.

[92] Sama heimild.

[93] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[94] Sama heimild.  Manntal 1816, bls. 703.

[95] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[96] Sama heimild.

[97] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1821.

[98] Sama heimild.

[99] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[100] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[101] Ól. Þ. Kr. 1949, 106 (Frá ystu nesjum V).

[102] Sama heimild.  Manntal 1801, vesturamt, bls. 277.

[103] Ól. Þ. Kr. 1949, 106.

[104] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[105] Sama heimild.

[106] Sama heimild.

[107] Sama heimild.

[108] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[109] Ól. Þ. Kr. 1949, 106-110.

[110] Sama heimild.

[111] Sama heimild.

[112] Manntal 1845, vesturamt, bls. 282 og 283.

[113] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[114] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[115] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[116] Sama heimild.

[117] Sama heimild.

[118] Sama heimild.

[119] Sama heimild.

[120] Sama heimild.

[121] Sama heimild.

[122] Manntal 1840.

[123] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[124] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[125] Sama heimild.

[126] Manntal 1845.

[127] Sama heimild.

[128] Sama heimild.

[129] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[130] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[131] Sama heimild.

[132] Sama heimild.

[133] Sama heimild.

[134] Sama heimild.

[135] Sama heimild.

[136] Sama heimild.

[137] Sama heimild.

[138] Sama heimild.

[139] Sama heimild.

[140] Sama heimild.

[141] Sama heimild.

[142] Sama heimild.

[143] Gunnar M. Magnúss 1977, 351-352.

[144] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[145] Vestfirskar ættir I, 368.

[146] Ól. Þ. Kr. 1945, 156 (Frá ystu nesjum).

[147] VA III, 421, búnaðarskýrslur 1870.

[148] Sama heimild.

[149] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[150] Sama heimild.

[151] VA III, 421 og 424, búnaðarskýrslur 1870 og 1880.

[152] Manntal 1880.  VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[153] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[154] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[155] Sama heimild.

[156] Sóknarm.töl Holts í Önundarfirði.

[157] Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 19.3.1915.

[158] Vestri 14.4.1915.

[159] Fasteignabók, Rvík 1921.

[160] Eyjólfur Jónsson. Bréf hans 27.3.1992 til K.Ó.

[161] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.  Fasteignabók 1921.

[162] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[163] Sama heimild.

[164] Fasteignabók 1932.

[165] Sama heimild.

[166] Lbs. 45824to, Dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili 30.5.1894.

[167] Haukur Sigurðsson 1990, 87-119 (tímaritið Saga).

[168] Haukur Sigurðsson / Lesbók Mbl. 19.2.1994 og 19.3.1994.

[169] Sama heimild, 19.3.1994.

[170] Lbs. 45824to, Dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili 30.5.1894.

[171] Haukur Sigurðsson / Lesbók Mbl. 19.3.1994.

[172] Haukur Sigurðsson / Lesbók Mbl. 19.3.1994.

[173] Haukur Sigurðsson 1990, 87-119 (tímaritið Saga).

[174] Haukur Sigurðsson / Lesbók Mbl. 19.3.1994.

[175] Sama heimild.

[176] Sama heimild.

[177] Sama heimild.

[178] Eyjólfur Jónsson. – Viðtal K.Ó. við hann 14.8.1995.

[179] Sama heimild.

[180] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.8.1994.

[181] Sama heimild.

[182] Eyjólfur Jónsson 1986, 145 (Ársrit S.Í.).

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »