Hvammur

Leiðin yfir Brekkuháls, frá Brekku að Hvammi, er mönnum og skepnum greið. Í nútímanum er best að ganga þennan spöl síðla nætur, þegar bílaumferð er minnst og unnt er að njóta sælukyrrðar náttúrunnar. Hálsbrúnin liggur í um það bil 140 metra hæð og séu menn að flýta sér er hægt að ganga þessa stuttu bæjarleið á einum klukkutíma. Hvammur er næsta bújörð fyrir innan Þingeyri og þangað er aðeins hálftíma gangur frá innstu húsunum í þorpinu. Hin fornu landamerki Hvamms og Þingeyrar (Sanda) voru utan við innstu húsin á Þingeyri svo hluti þorpsins var í Hvammslandi allt þar til landamerkjunum var breytt árið 1986. Gamli landamerkjagarðurinn sem þarna lá milli fjalls og fjöru er nú að mestu horfinn. Enn sér þó móta fyrir garði þessum uppi í hlíðinni, innan við húsið númer 56 við Brekkugötu. Nafn hans var Ásgarður og lá hann til sjávar á Ásgarðsnesi, innan við húsið númer 45 við Fjarðargötu,[1]fyrir utan Gras en innan Þingeyri eins og segir í gamalli landamerkjalýsingu.[2]

Árið 1890 bjuggu 17 fjölskyldur í þorpinu sem þá var tekið að myndast kringum verslunina á Þingeyri en fimm þessara fjölskyldna áttu þá heima innan við Ásgarð og þar með í Hvammslandi.[3] Meðal íbúðarhúsa sem reist voru yst í Hvammslandi á fyrstu árum þorpsins á Þingeyri má nefna Dýrhól, Gras, Ásgarðsnes og Vegamót sem öll voru byggð fyrir aldamótin 1900[4] (sjá hér bls. 18-19).

Að fornu mati var Hvammur talinn 60 hundraða jörð[5] eins og Hraun í Keldudal og Haukadalur en þessar þrjár jarðir voru hinar stærstu í Þingeyrarhreppi. Í Hvammi þótti löngum gott undir bú enda mikið um gras, bæði til beitar og slægna. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá árinu 1710 er þó gert lítið úr kostum jarðarinnar og sýnilegt að þeir Jón Þorvaldsson og Jón Björnsson sem þá áttu 44 hundruð í Hvammi og bjuggu hér báðir í heimabænum[6] hafa kunnað prýðilega að berja sér. Í Jarðabókinni segir svo um landkosti í Hvammi:

 

Útigangur skárri en í meðallagi, bæði á landi og í fjörunni þó að hann bregðist stundum. Torfrista og stunga lök. Elt er taði undan kvikfé. Skógarítak á jörðin í Drangalandi í takmörkuðu plássi, hann er nú að kalla gjörsamlega eyddur og ekki nýtandi til kolagjörðar. Engjarnar eru af skriðum stórlega fordjarfaðar sem að áeykst meir og meir. Úthagarnir eru og so merkilega skriðurunnir og uppblásnir og í hrjóstur komnir og því verður búsmalinn jafnlega annað mál að ganga í slægjulandið og spillir það heyskapnum. Hætt er húsum og heyjum fyrir stórveðrum.[7]

 

Oftast var margbýli í Hvammi og má sem dæmi nefna að hér voru sjö býli árið 1703, fjögur árið 1762 og aftur sjö árið 1801.[8] Fæst voru býlin þegar vel efnaðir bændur sátu jörðina. Dæmi um það má nefna frá miðri 19. öld er tveir sjálfseignarbændur, Bjarni Þorvaldsson og Jón Sveinsson, bjuggu einir á allri jörðinni.[9] Þá voru hér engar hjáleigur í byggð né heldur þurrabúðarkot. Á síðustu áratugum 19. aldar fjölgaði töluvert fólki í Hvammi en þá risu hér nokkur býli þurrabúðarfólks sem lifði nær eingöngu á sjósókn. Árið 1901 áttu 84 manneskjur heima í Hvammi[10] og er byggðin yst í Hvammslandi þá ekki talin með, enda mátti hún kallast hluti af þorpinu á Þingeyri. Á fyrstu áratugum tuttugustu aldar tók fólki að fækka á ný í Hvammi og árið 1920 var íbúatalan komin niður í 56.[11]

Á fyrri hluta tuttugustu aldar og síðustu áratugum hinnar nítjándu voru Mið-Hvammur, Lægsti-Hvammur (eða Neðsti-Hvammur) og Hæsti-Hvammur (eða Efsti-Hvammur) yfirleitt helstu býlin í Hvammi og reyndar var þá oft tvíbýli á einum eða tveimur þessara jarðarparta.[12] Þessi skipting jarðarinnar er þó að líkindum ekki mjög gömul eða hefur að minnsta kosti ekki haldist óslitið því árið 1845 eru býlin í Hvammi bara tvö eins og áður var getið og eru þá nefnd Hærri-Hvammur og Lægri-Hvammur.[13] Fornir öskuhaugar benda til þess að á fyrri öldum hafi helsta býlið í Hvammi verið á svipuðum slóðum og bæjarhúsin í Mið-Hvammi stóðu síðar.[14]

Öllu beitilandi í Hvammi var skipt í tvennt og hafði Lægsti-Hvammur Innrihlíð og Ausudal en Mið-Hvammur og Hæsti-Hvammur höfðu báðir saman Ytrihlíð og Hvammsdal.[15] Mörkin þarna á milli voru svo skýr að féð kom yfirleitt ekki saman.[16] Þessi tvískipting afréttarlandsins bendir til þess að helstu býli í Hvammi hafi aðeins verið tvö þegar hún var ákveðin og kemur það mjög vel heim við nöfnin Hærri-Hvammur og Lægri-Hvammur í manntalinu frá 1845.

Árið 1710 var búið í þremur hjáleigum í Hvammslandi og tvíbýli var þá á heimajörðinni.[17] Hjáleigurnar eru þá nefndar Hvammshús neðri, Innrihús og Ytrihús.[18] Um Hvammshús neðri segir í Jarðabók Árna og Páls að þau hafi byggst fyrir manna minni í heimatúninu en árið 1662 hafi hjáleiga þessi raunar orðið sjálfstætt tólf hundraða býli og eigi því einn fimmta hluta úr öllu Hvammslandi.[19] Ekki er ólíklegt að Hvammshús sem þarna er talað um hafi síðar fengið nafnið Lægsti-Hvammur. Hinar hjáleigurnar báðar sem í byggð voru árið 1710, Innrihús og Ytrihús, stóðu við heimatúnið.[20] Þær byggðust báðar á árunum 1660-1680 og voru taldar fjögur hundruð hvor.[21] Í Jarðabókinni er einnig getið um Ausukot í Hvammslandi og það nafn sagt ná yfir tvennar rústir inn frá bænum og sé skammt á milli þeirra.[22] Árni Magnússon segir sýnilegt að þarna hafi einhvörntíma bygð verið en sumarið 1710 kunnu Dýrfirðingar ekki nánar frá því að segja.[23] Ytra-Kot eru nú kallaðar tóttir í grasbrekku skammt fyrir innan Ausuá, um það bil 500 metrum fyrir innan túnið í Hvammi, en Innra-Kot kallast aðrar tóttir nær einum kílómetra innar, rétt utan við Aususkriðu.[24] Líklegt er að þarna hafi Ausukotin tvö verið sem um er getið í Jarðabókinni. Árið 1805 voru í Hvammi bæði Neðri og Efri Hvammshús.[25] Öll jörðin var þá þrískipt. Stærsta jarðarpartinn áttu Neðri Hvammshús, 26 hundruð, og þar var eyðihjáleigan Ausukot talin með.[26] Mið-Hvammur taldist þá vera 22 hundruð og Efri Hvammshús 12 hundruð.[27]

Árið 1880 var búið í Hæsta-Hvammi, Mið-Hvammi og Lægsta-Hvammi og tvær þurrabúðir voru þá í Hvammi, Hvammshús og Hvammskot.[28] Hvammskot mun hafa verið innan við Ausuá þar sem talið er að ytra Ausukotið hafi verið á fyrri tíð.[29] Á árunum upp úr 1880 mun þurrabúð þessi reyndar stundum hafa verið nefnd hinu forna nafni því Sighvatur Borgfirðingur segir í dagbók sinni að 20. febrúar 1882 hafi Jónarnir úr Ausukoti komið að Höfða.[30] Þriðja nafnið á þessu sama koti, sem aðeins hélst fáein ár í byggð, var svo Kotkotin.[31] Tóttirnar voru þar lengi sjáanlegar á hárri bakkabrún.[32]

Um býlin Bræðratungu (líka nefnt Partur), Rana og Grundarhól sem öll risu í Hvammstúni eða rétt utan við það á árunum 1880-1900 er ritað hér nokkru aftar (sjá bls. 17-18).

Þurrabúðarfólkið sem átti heima í Hvammi á árunum 1880-1920 lifði flest á sjósókn en í manntölum bregður þó líka fyrir atvinnuheitum af öðrum toga. Árið 1880 átti daglaunamaður heima í Hvammskoti en smiður í Hvammshúsum.[33] Árið 1890 bjuggu tvær húskonur saman í þurrabúð í Mið-Hvammi og lifði önnur þeirra á eyrarvinnu en hin á tóvinnu. Af fjórum húsráðendum á Rana í Hvammi árið 1901 er einn sagður stunda hvalveiðar en annar húsasmíði og svo mætti lengur telja.

Í gamalli landamerkjalýsingu segir að Hvammur eigi land inn í Svartabakka og þaðan í fjall upp.[34] Örnefnið Svartibakki er nú horfið úr málinu en kunnugir telja að bakki þessi hafi verið þar sem enn eru landamerki Hvamms og Ketilseyrar, innanvert við miðja hlíðina sem liggur milli þessara tveggja bæja.[35] Þar litlu utar heitir Sortunes við sjóinn en á þessum slóðum hefur sjór brotið nokkurt land og svartur bakki myndast við landbrotið þar sem mór var í jörð.[36]

Vegalengdin milli ytri og innri landamerkja Hvamms er um það bil sex kílómetrar sé miðað við hin fornu merki og er þar alls staðar dálítið undirlendi með ströndinni, mest þó í næsta nágrenni við bæina í Hvammi. Rétt innan við hin fornu landamerki Hvamms og Sanda (Þingeyrar) liggur þjóðvegurinn yfir Brekkuháls fyrir endann á Sandafelli. Yfir hálsinn var skammur spölur frá bæjunum í Brekkudal að Hvammi, enda höfðu bændurnir á Brekku uppsátur fyrir a.m.k. einn bát í Hvammslandi um aldamótin 1900, þar sem heitir í Grasi, lítið eitt innan við gömlu landamerkin.[37] Þaðan stunduðu þeir hrognkelsaveiðar á vorin.[38] Nokkru innar er Steinkunes. Þar var sauðahús frá Brekku ofan götu og svo var um samið að Brekkubændur mættu nýta sér fjörubeit í Hvammi á veturna en til endurgjalds fengu Hvammsmenn að reka vorlömb til beitar í Brekkuhvilft eftir fráfærur (sjá hér bls. 19).

Hálsinn milli Brekkudals og fjarðarstrandarinnar nær aðeins 116 metra hæð. Hann er nú almennt nefndur Brekkuháls og þá átt við allan hálsinn frá Sandafelli að Þríhnjúkafjalli sem er skammt utan við Hvamm. Áður munu heimamenn á þessum slóðum hafa kallað ytri hlutann Sandaháls og þann innri Brekkuháls en stundum voru þessir tveir partar af sama hálsinum líka nefndir Ytriháls og Innriháls.[39]

Beint upp frá túninu í Hvammi liggur Hvammsdalur til fjalls. Dalur þessi er um það bil þrír kílómetrar á lengd og liggur frá norðri til suðurs. Um hann fellur Hvammsá og til sjávar rétt innan við túnið í Hvammi. Hvammsdalur er mjór en þar er þó allgott beitiland. Utan við dalinn er Hvammsfjall en innan við hann rís Hádegishorn sem er strýtumyndað.[40] Úr Hvammsdal lá forn vetrarvegur á Rafnseyrarheiði og yfir í Arnarfjörð. Hátt í vesturhlíð dalsins hrapaði ungur maður til bana þann 19. febrúar árið 1875 (sjá hér Álftamýri). Talið var að band hefði slitnað af mannbroddum er hann hafði á fótum.[41] Maður þessi hét Jón Jónsson, oft nefndur Jón prestsson, sonur séra Jóns Ásgeirssonar sem þá var prestur á Rafnseyri en áður á Álftamýri. Hundur hins látna kom til bæja eftir þrjá sólarhringa og vísaði fólki á líkið.[42] Þá var enn hiti í handarkrika þess þar sem hundurinn hafði legið.[43] Sighvatur Borgfirðingur hitti Jón prestsson nokkru fyrir andlát hans og segir manninn hafa verið heljarmenni að burðum. Til marks um kraftana nefnir Sighvatur þetta: Hann [Jón] hélt upp við brjóst sér fullri brennivínstunnu með því að halda í laggirnar í réttum handleggjum og drakk af sponsgatinu.[44] Þetta sá Sighvatur sjálfur í Hæstakaupstaðarbúðinni á Ísafirði.[45]

Ætla má að fleiri en Jón prestsson hafi beðið hér bana í vetrarferðum, enda er hlíðin sem farin var ærið brött. Þórðarskarð heitir við botn dalsins, utan við ána, og fylgir nafninu sú saga að þar hafi maður sem Þórður hét hrapað til bana er hann var á leið til Arnarfjarðar.[46]

Innan við Hádegishornið er annar dalur, líka í Hvammslandi, og heitir Ausudalur.[47] Innan við þann dal er Ausufjall sem yfir fjarðarhlíðinni greinist í Innra- og Ytra-Ausuhorn.[48] Milli þessara tveggja stæðilegu klettahorna er dálítil skál sem heitir Ausa. Við innra Ausuhornið eru landamerki Hvamms og Ketilseyrar en neðarlega í Ytra-Ausuhorni eru Ýluklettar. Þar heyrðist stundum útburðarvæl.[49]

Selið frá Hvammi var í Ausudal og eru seltóttirnar enn greinilegar.[50] Selið var utantil í dalnum undir hlíðum Hádegishorns og rétt heiman við Selhóla er svo heita.[51] Ekki er getið um Hvammsselið í lýsingu Sanda- og Hraunssókna frá árunum kringum 1840 þar sem minnst er á sex sel í Þingeyrarhreppi er öll var þá nýlega hætt að nota.[52] Líklegt verður því að telja að Hvammsmenn hafi verið hættir seljabúskap fyrir 1820.

Í Smjörhvilft, utantil í Ausudal, voru kvíaær frá Hvammi setnar til spektar eftir fráfærur.[53] Af gangi sólar gátu börnin í hjásetunni glöggvað sig á hvað tímanum leið og vissu að þegar forsæla var komin niður að steini, áberandi stórum á brekkubrúninni, máttu þau leggja af stað heim en fyrr ekki.[54]

Í botni Ausudals er svolítið stöðuvatn og úr því fellur Ausuá til sjávar um dal og hlíð. Skammt fyrir innan og ofan túnið í Hvammi nær hún lengst til vesturs og er þar aðeins mjó ræma milli hennar og Hvammsár. Þar heita Mjóugötur. Neðan við þær breikkar holtið og þar stendur Landdísarsteinn (sjá hér bls. 7).

 

Talsverðar líkur benda til þess að Hvammur sé landnámsjörð og fullvíst má telja að hér hafi menn hafið búskap á fyrstu áratugum byggðar í Dýrafirði. Hér hefur áður verið ritað um landnám í Þingeyrarhreppi og skal vísað til þess sem þar er sagt (sjá Þingeyrarhreppur, inngangskafli). Í Landnámabók segir að landnámsmaðurinn Dýri hafi búið að Hálsum[55] en engar aðrar heimildir eru til um bæ með því nafni í Dýrafirði. Ýmsir hafa talið að bærinn Hálsar hafi staðið þar sem nú er Hvammur og vel gæti svo hafa verið en um það hafa þó verið uppi breytilegar skoðanir og eru enn (sjá Þingeyrarhreppur inngangskafli). Á hinum fáu orðum Landnámu um Dýra landnámsmann er í rauninni lítið að byggja þar sem hans er hvergi getið í öðrum fornritum nema í Hávarðarsögu Ísfirðings sem ekki er mark á takandi. Engu að síður eru orð Landnámabókar um búsetu manna að Hálsum í Dýrafirði allrar athygli verð því hvað sem líður trú eða vantrú á sannleiksgildi frásagna Landnámu þá finnast þar harla fá dæmi um bæjanöfn sem aldrei hafa verið til. Með tilliti til þess verður að telja býsna líklegt að bær eða byggð í Dýrafirði hafi borið nafnið Hálsar á allra fyrstu öldum mannvistar hér um slóðir en máske aðeins skamma hríð. Hafi  bærinn Hálsar staðið í Hvammi má ætla að hann hafi verið kenndur við háls þann sem nú heitir Brekkuháls, rétt utan við Hvamm. Hér gat bæjarnafnið Háls talist mjög eðlilegt en fleirtölumyndin Hálsar flækir málið. Á síðari öldum mun að vísu stundum hafa verið talað um Innriháls og Ytriháls eða Sandaháls og Brekkuháls þegar nefna þurfti ákveðinn part af umræddum hálsi (sjá hér bls. 4). Hálsinn er þó aðeins einn fyrir okkar augum og eins þeirra manna sem hér komu að ónumdu landi. Tveir verða hálsarnir ekki nema horft sé frá Hvammi yfir fjörðinn, annar á vesturströndinni og hinn á norðurströndinni, – nær beint á móti (sbr. hér Höfði).

Í íslenskum fornritum er getið margra bæja með Hvammsnafni en þar er Hvammur í Dýrafirði aldrei nefndur. Jarðarinnar er fyrst getið í máldaga Sandakirkju frá því um miðja 14. öld (1346 eða svo) en þá var hálfkirkja í Hvammi og stóð hún hér fram yfir siðaskipti. – Hálfkirkja í Hvammi og syngja annan hvern dag helgan, segir í áðurnefndum máldaga og þar er tekið fram að til hálfkirkjunnar renni tíund og lýsitollur heimamanna í Hvammi.[56] Í Vilchinsmáldaga frá árinu 1397 er getið um þessa hálfkirkju[57] og í Gíslamáldaga frá því um 1570 segir: Hálfkirkjan í Hvammi á fjögur kúgildi, tvær klukkur litlar. Ekki neitt annað. Item jörðin 60 hundruð. Takast heima tíundir.[58] Orð Gíslamáldaga sýna að tíðir hafa enn verið sungnar í Hvammi er máldaginn var færður í letur um 1570, enda þótt tveir áratugir væru þá liðnir frá því prestar landsins tóku almennt upp lúterskan sið. Í Hvammi hefur verið messað annan hvern helgan dag eins og í öðrum hálfkirkjum og hér voru lík borin til grafar.

Ætla má að hálfkirkjan í Hvammi hafi horfið úr sögunni um eða fyrir 1600 því í Jarðabókinni frá 1710 segir svo: Hálfkirkja hefur hér að fornu verið og heimamanna gröftur eftir sem menn meina og sýnilegt er af fornum leiðum sem í kirkjugarðinum sjást.[59]

Þorbergur Steinsson, hreppstjóri á Þingeyri, sem fæddur var árið 1878 og ólst upp í Hvammi, lætur þess getið árið 1942 að enn séu bænhústóttin og leiðin í hinum forna grafreit vel sýnileg.[60] Hálfkirkjuna, sem hann nefnir bænhús, segir Þorbergur hafa verið innst og neðst á Dyravelli en svo heitir völlurinn fyrir neðan hið forna bæjarstæði í Hvammi. Ofan við Dyravöll stóð á síðari tímum bærinn í Neðri-Mið-Hvammi[61] og þar á bæjarhólnum standa nú íbúðarhúsin í Neðri- og Efri-Mið-Hvammi. Bæjarhóllinn ofan við Dyravöll hefur greinilega myndast á löngum tíma úr fornum öskuhaugum. Á Dyravelli er nú slétt tún svo ekki er lengur hægt að skoða þar kirkjutóttina og hinn forna grafreit. Í ritgerð sinni frá árinu 1942 lætur Þorbergur Steinsson þess hins vegar líka getið að á Dyravelli í Hvammi standi merkilegur steinn sem sagnir hermi að hafi verið aftökusteinn á fyrri tíð.[62] Um steininn segir Þorbergur að hann sé alveg einstæður, eggmyndaður að ofan og hæð upp úr jörð nálægt einum metra.[63] Breidd steinsins segir hann vera lítið eitt minni en hæðina og tekur fram að við þessum steini hafi ekki verið hróflað þegar túnið var sléttað allt í kringum hann.[64]

Steinninn sem Þorbergur lýsir stendur enn (1999) á Dyravelli og blasir reyndar við frá þjóðveginum. Enginn veit nú hvort einhver sannleikskjarni kynni að leynast á bak við munnmælin um hið sérstaka hlutverk steinsins á fyrri tíð en auðvelt mun að hryggbrjóta mann á egginni sem upp snýr. Nafnið á steininum er Hryggsteinn.[65]

Annar steinn, sem vert er að skoða, stendur einn sér, stór og strýtulaga, skammt fyrir ofan túnin í Hvammi, á holti í tungunni mjóu milli Hvammsár og Ausuár. Hæðin er nokkuð á þriðja metra og er hann vaxinn mosa og skófum. Þetta er Landdísarsteinn og holtið sem hann stendur á dregur nafn af heiti hans.[66] Sú var trú manna að í slíkum steinum byggju verndarvættir.

Um eigendur Hvamms fyrir 1500 er ekkert vitað en líklegt er að Björn Guðnason, hinn ríki héraðshöfðingi í Ögri, hafi átt jörðina í byrjun 16. aldar. Þann 10. janúar 1527 gaf Friðrik konungur I út bréf til verndar Torfa Björnssyni en hann var sonur Björns í Ögri. Í bréfinu er tekið fram að Torfi skuli halda öllum eignum sínum og í því sambandi getið sérstaklega um Vassfiordt, Adelviche og Vammer, bújarðir á Vestfjörðum.[67] Enda þótt kóngur og skrifarar hans væru ekki mjög vel að sér í íslensku virðist mega ætla að þarna sé átt við Vatnsfjörð við Djúp, Stað í Aðalvík og Hvamm í Dýrafirði.

Árið 1556 keypti Eggert Hannesson lögmaður Hvamm af Halli Ólafssyni, sýslumanni í Hjörsey á Mýrum, og er tekið fram að dýrleiki jarðarinnar sé 60 hundruð.[68] Svo virðist þó sem þessi kaup hafi gengið til baka því nokkrum áratugum síðar voru tvær dætur þessa sama Halls Ólafssonar orðnar eigendur að Hvammi en nálægt aldamótunum 1600 seldu eiginmenn þeirra Birni Þorvaldssyni í Haukadal og Halldóri bróður hans Hvamm og Gemlufall í Dýrafirði í makaskiptum fyrir þrjár jarðir í Dalasýslu.[69]

Björn Þorvaldsson í Haukadal var Norðlendingur, sýslumannssonur frá Æsustöðum í Langadal, en kona hans var Þóra Ólafsdóttir, sonardóttir Jóns Ólafssonar, lögsagnara í Neðri-Hjarðardal í Dýrafirði.[70] Að Birni önduðum giftist Þóra árið 1616 Jóni Gizurarsyni, bónda, fræðimani og lögréttumanni á Núpi í Dýrafirði.[71] Eitt barna Þóru með fyrri eiginmanni sínum var Þorvaldur Björnsson og þessi stjúpsonur Jóns Gizurarsonar á Núpi gekk árið 1634 að eiga frænku Jóns, Jarþrúði Ólafsdóttur, en Jón og Jarþrúður voru bæði barnabörn Þorláks Einarssonar, sýslumanns á Núpi, bróður Gizurar Einarssonar biskups.[72]

Þegar Þorvaldur Björnsson kvæntist Jarþrúði fékk stjúpfaðir hans honum í hendur til kaups og konumundar, auk lausafjár, þessar jarðeignir: Hvamm, 60 hundruð, 10 hundruð í Ketilseyri og 8 hundruð í Kjaransstöðum.[73] Þorvaldur gaf brúði sinni þá þegar þessi 10 hundruð í Ketilseyri og Jón Gizurarson lofaði að útvega henni 4 hundruð í þeirri jörð til viðbótar fyrir 4 hundruð í annarri fasteign.[74] Móðir Jarþrúðar, Ingveldur Þorláksdóttir, lagði hins vegar við sama tækifæri með dóttur sinni 12 hundruð í Innri-Lambadal í Dýrafirði og 5 hundruð í Sellátrum í Tálknafirði.[75]

Þorvaldur Björnsson, sem gekk að eiga Jarþrúði Ólafsdóttur árið 1634 og hér var frá sagt, bjó lengi í Haukadal en árið 1658 fór hann að búa hér í Hvammi.[76] Þorvaldur og síðan niðjar þeirra Jarþrúðar bjuggu hér mjög lengi. Hann hafði tvö merkileg viðurnefni og var ýmist nefndur Þorvaldur söngmaður eða Þorvaldur einsýni.[77] Vart þarf að efa að rödd hans hafi verið hrífandi og líklega hefur hann aðeins haft heila sjón á öðru auganu. Annar bóndi í Hvammi á 17. öld var Jón Jónsson, sem nefndur var Dýrafjarðarsmiður, [78] en ætla má að hann hafi verið hér leiguliði.

Um 1670 bjó Þorvaldur söngmaður Björnsson enn hér í Hvammi[79] en árið 1681 voru synir hans þrír teknir hér við búsforráðum, Jónar tveir og Björn.[80] Jón eldri Þorvaldsson bjó lengi í Hvammi en bróðir hans, Jón yngri, gerðist bóndi á Ketilseyri.[81] Bræðurnir þrír, sem hér voru nefndir, erfðu Hvamm eftir foreldra sína.[82] Jón eldri Þorvaldsson, bóndi í Hvammi, átti 28 hundruð úr jörðinni árið 1703 og Jón bróðir hans á Ketilseyri 4 hundruð.[83] Björn bróðir þeirra hafði hins vegar andast árið 1695[84] en sonur hans, Jón Björnsson, bóndi í Hvammi, átti 16 hundruð í jörðinni árið 1703 og Vigdís Björnsdóttir, sem árið 1703 átti heima á Arnarnúpi, átti þá 4 hundruð í Hvammi.[85] Í Jarðabókinni frá 1710 sjáum við að þau 8 hundruð úr Hvammi sem ekki voru tilgreindir eigendur að í fyrirliggjandi gögnum frá árunum 1703 og 1704 voru í eigu barna Magnúsar Sigurðssonar og Jóns Sveinssonar, sem báðir áttu heima í Hrauni í Keldudal,[86] en eiginkonur þeirra beggja voru Björnsdætur[87] og þá að líkindum systur Jóns Björnssonar, bónda í Hvammi. Tvímælalaust er líka að Jón Þorvaldsson yngri átti árið 1710 auk 4 hundraða í Hvammi, 12 hundruð í Ketilseyri og alla Dranga, tólf hundraða jörð.[88] Sé nú allt þetta haft í huga blasir við að bræðurnir þrír, synir Þorvalds einsýna Björnssonar í Hvammi, hafa erft 28 jarðarhundruð hver eftir foreldra sína.

Árið 1710 taldist heimajörðin í Hvammi vera 40 hundruð, hjáleigan Hvammshús neðri 12 hundruð, hjáleigan Innrihús 4 hundruð og þriðja hjáleigan, Ytrihús, 4 hundruð[89] (sbr. hér bls. 2-3). Fimm býli voru í Hvammi árið 1710. Jarðeigendurnir tveir, þeir Jón Þorvaldsson og Jón Björnsson, bjuggu þá annar á nítján hundruðum og hinn á sextán en hjáleigubændurnir þrír, sem allir voru leiguliðar, höfðu samtals tuttugu og fimm hundruð til ábúðar.[90]

Enda þótt sjálfseignarmenn hefðu lengi búið í Hvammi á árunum upp úr 1700 lá ljóst fyrir hver eðlileg landskuld af jörðinni var talin vera, 12 vættir, það er ein vætt (eitt ærgildi) af hverjum 5 jarðarhundruðum[91] sem þýðir að árlegt jarðarafgjald hefur verið 3,33% af verðmæti eignarinnar.

Árið 1762 var Ólafur Einarsson einn fjögurra bænda í Hvammi.[92] Kona hans var Sigríður Greipsdóttir, dóttursonardóttir Björns Þorvaldssonar bónda í Hvammi, sem hér var áður nefndur og andast hafði árið 1695.[93] Þeirra sonur var Greipur Ólafsson sem einnig varð bóndi í Hvammi og stýrði hér búi allt til ársins 1824.[94] Þeir Greipur og Ólafur, faðir hans, áttu báðir hundruðin sem þeir bjuggu á hér í Hvammi[95] og hafa þau að líkindum haldist í ættinni allt frá árunum kringum 1600.

Mjög líklegt má telja að fleiri bændur og húsfreyjur í Hvammi á 19. öld hafi verið niðjar Þorvaldar söngmanns, hins einsýna, en engin könnun á því hefur verið gerð vegna þessa rits.

Árið 1801 var Þorvaldur Sveinsson einn fimm bænda í Hvammi og var hann þá hreppstjóri, 52ja ára að aldri.[96] Hann var fæddur á Kjaransstöðum um 1750, var orðinn bóndi í Hvammi 1785 og stýrði hér búi allt til ársins 1824.[97] Kona hans var Guðrún Bjarnadóttir frá Haukadal.[98] Ólafur Ólafsson, sem lengi var skólastjóri á Þingeyri á fyrri hluta tuttugustu aldar, ritaði á sínum tíma svolítinn þátt um Hvammsmenn og segir þar um Þorvald Sveinsson:

 

Af orðspori má ráða að Þorvaldur hefir verið óvenjulega fjölhæfur maður og vel gefinn. Öldruð kona, nýlátin, 96 ára gömul og var fósturdóttir afa míns, segir hann hafa verið hagleiksmann. Þorvaldur hafi verið dverghagur á tré og járn, gullsmiður, silfursmiður, skáld og rithöfundur. Grandvar í líferni sínu og fáorður djúphyggjumaður.[99]

 

Í sömu ritgerð gerir Ólafur skólastjóri tilraun til að lýsa niðjum Þorvaldar Sveinssonar en ýmsir þeirra hafa búið í Hvammi. Þar segir:

 

Niðjar Þorvalds fengu sérstætt svipmót; dulir menn; hæglátir í framgöngu og lausir við allt yfirlæti og oflátungshátt; „lifðu inn í sig”, sem svo er kallað; hneigðir til fræðiiðkana; hugvitsmenn margir hverjir og listasmiðir. Alvörumenn meiri en gleðimenn. Seinir til stórræða en framúrskarandi þrautseigir; þurftu í byrjun að virða fyrir sér málin frá öllum hliðum, áður en hafist var handa, en þolgóðir og þrautseigir þegar á hólminn var komið, grandvarir í líferni sínu og siðferðislega traustir menn; brugðust aldrei því, „er þeim var tiltrúað”, fremur en Kolskeggur, og náðu hylli og virðingu samtíðarmanna sinna.[100]

 

Þorvaldur bjó í Neðsta-Hvammi, sem á hans dögum var enn nefndur Neðri-Hvammshús, en Greipur Ólafsson, sem fyrr var nefndur, bjó þá í Hæsta-Hvammi, er þá var nefndur Efri-Hvammshús.[101]

Eitt margra barna Þorvaldar Sveinssonar og Guðrúnar konu hans, var Bjarni sem lengi bjó í Hvammi, fæddur um 1786.[102] Á búskaparárum Bjarna voru yfirleitt bara tveir bændur í Hvammi.[103] Árið 1835 bjó Bjarni í Lægri-Hvammi en Rannveig Hjaltadóttir, mágkona hans, stóð þá fyrir búi í Hærri-Hvammi.[104] Hún hafði verið gift bróður Bjarna, Sveini Þorvaldssyni gullsmið, sem verið hafði bóndi í Hvammi en andaðist á árunum upp úr 1830, liðlega fertugur að aldri.[105] Árið 1845 var Bjarni áfram í Lægri-Hvammi og þá var Rannveig mágkona hans komin aftur að Hærri-Hvammi eftir nokkra fjarveru.[106] Hún var nú gift í annað sinn en seinni maður hennar var Jón Sveinsson, bóndi, smiður og hreppstjóri, sem ýmsir kölluðu hinn ríka en aðrir hinn sterka.[107] Þeir Bjarni Þorvaldsson og Jón Sveinsson voru um nokkurra ára skeið sambýlismenn í Hvammi og réðust þá í stórræði nokkurt sem brátt verður frá sagt. Þeir bjuggu einir á allri jörðinni og áttu hana.[108] Jón Sveinsson í Hvammi var aðfluttur maður í Dýrafirði, kom hingað árið 1842 frá Skálanesi í Austur-Barðastrandarsýslu en þar í Gufudalssveit fæddist hann um aldamótin 1800.[109]

Er Jón Sveinsson fluttist til Dýrafjarðar var útgerð þilskipa enn ekki hafin í því byggðarlagi en árið 1843 eignuðust bændur í Mýrahreppi sína fyrstu skútu (sjá hér Mýrahreppur, inngangskafli og Lækjarós). Þremur árum síðar réðust Hvammsbændur, Jón og Bjarni, í kaup á þilskipi, fyrstir manna í Þingeyrarhreppi (sjá hér Þingeyrarhreppur, inngangskafli). Sú ákvörðun Hvammsbænda má teljast djarfmannleg og til marks um ærinn stórhug. Slík framganga kemur ekki fyllilega heim við lýsingu Ólafs Ólafssonar skólastjóra á föður Bjarna í Hvammi og niðjum hans sem hér var áður vitnað til en fólk þetta segir Ólafur hafa verið seint til stórræða. Bjarni var að vísu kominn um sextugsaldur er hann réðst í skútukaupin og hefur að líkindum verið búinn að íhuga málið vandlega. Ætla má að báðir hafi þeir Hvammsbændur verið sæmilega loðnir um lófana, sjálfseignarbændur á góðri jörð. Kunnugt er að Jón Sveinsson var af ýmsum nefndur hinn ríki eins og hér var áður frá sagt og Bjarni kynni að  hafa stundað hákarlaútgerð af kappi því árið 1841 átti hann hálfan áttæring og líka minni bát sem hann átti einn. [110]  Aðeins fimm áttæringar voru þá til í Þingeyrarhreppi og sjö minni bátar.[111]

Skútan sem Hvammsmenn keyptu árið 1846 bar nafnið Hrappur og mun áður hafa verið í eigu Breiðfirðinga. Sighvatur Grímsson Borgfirðingur minnist á útgerð þessa skips í minningargrein um Kristján Jónsson í Hvammi sem dó haustið 1902. Hann nefnir þar nafn skútunnar og segir að hún hafi verið kennd við Hrappsey á Breiðafirði.[112] Um útgerðina segir Sighvatur:

 

… varð sá útvegur þeim [Bjarna og Jóni] að efnatjóni með því ýmsir aðrir miður hagsýnir höfðu hönd í bagga með útgerðinni en þá varð Kristján [Jónsson í Hvammi] formaður þilbátsins um tvö ár og lánaði Bjarna bónda peninga, eigi alllitla, sem honum höfðu fénast á vinnumannsárum hans. Komst Bjarni þannig úr allri skuld sinni en veðsetti Kristjáni 5 hundruð í Hvammi fyrir peningunum.[113]

 

Skjallegar heimildir sýna að Kristján Jónsson, sem kom vinnumaður að Hvammi árið 1842, hafði sjö árum síðar eignast hlut Bjarna Þorvaldssonar í Hvammsskútunni.[114] Bjarni í Hvammi og kona hans, Þorbjörg Ólafsdóttir frá Haukadal, áttu sjálf engin börn sem upp komust en Kristján var systursonur Þorbjargar.[115]

Athugun leiðir í ljós að meðal þinglýstra skjala úr Ísafjarðarsýslu hefur varðveist erfðaskrá frá Bjarna og konu hans, dagsett 7. maí 1847, þar sem þau lýsa Kristján Jónsson og Sigríði Símonardóttur sem nú eru trúlofuð einkaerfingja að öllum sínum eignum.[116] Gömlu hjónin settu þó það skilyrði að Kristján og Sigríður giftist saman og staðfesti sig hér hjá okkur og annist okkur í okkar aldurdómi, eins og komist er að orði í skjali þessu.[117] Annað skjal í sama heimildasafni, dagsett 27.7.1854, sýnir hins vegar að þá hefur Kristján fallist á að láta systkinum Bjarna og þeirra börnum eftir nokkurn hluta af arfinum.[118]

Kristján kvæntist Sigríði Símonardóttur haustið 1848 og tók þá þegar eða mjög skömmu síðar við öllum búsforráðum í Neðsta-Hvammi, sem þá er reyndar kallaður Lægri-Hvammur, en gamli bóndinn gerðist húsmaður hjá þessum unga fullhuga.[119]

Kristján fæddist í Hrauni í Keldudal 19. apríl 1817, sonur Jóns Sumarliðasonar frá Sveinseyri og konu hans, Guðrúnar Ólafsdóttur frá Haukadal, Bjarnasonar.[120]

Á árunum 1849-1853 áttu þeir Jón Sveinsson og Kristján Jónsson, bændur í Hvammi, jafnan hálfa fiskijakt hvor[121] og má telja nær fullvíst að það sé sama skúta og Hvammsmenn keyptu nokkrum árum fyrr. Árin 1854 og 1855 átti Kristján í Hvammi enn sinn helming í jaktinni[122] en Guðbrandur Jónsson á Fjallaskaga mun hafa keypt eignarhlut Jóns Sveinssonar í Hrappi haustið 1853 og verið meðeigandi Kristjáns í eitt ár eða þar um bil (sjá hér Fjallaskagi).

Haustið 1855 hafði Hrappur verið gerður út frá Hvammi í nær 10 ár. Engin skútuútgerð var þá hafin frá Þingeyri en næstu árin á undan höfðu fáeinir bændur í hreppnum keypt hlut í þilskipi, enginn þó meira en einn sjötta part (sjá hér Þingeyrarhreppur, inngangskafli). Í fardögum árið 1856 var þessi bændaútgerð hins vegar liðin undir lok[123] og næsta aldarfjórðung virðist enginn bóndi í Þingeyrarhreppi hafa átt hlut í skútu.[124] Þess má hins vegar geta að Jón Jónsson í Hvammi, sonur Jóns Sveinssonar, sem áður var nefndur, er á árunum um og upp úr 1860 stundum nefndur skipstjóri í opinberum skjölum.[125] Hann hefur því ugglaust verið skipstjóri á þilskipi en líklega utan Dýrafjarðar á þeim árum.

Eins og hér hefur komið fram var Hrappur fyrsta þilskipið sem gert var út frá vesturströnd Dýrafjarðar og virðast Hvammsmenn hafa haldið honum til veiða í níu eða tíu ár. Þeir mega því án allra tvímæla kallast brautryðjendur þilskipaútgerðar í Þingeyrarhreppi.

Ekki hefur tekist að grafa upp hverjir voru skipstjórar á Hrappi, aðrir en Kristján Jónsson sem að sögn Sighvats Borgfirðings stýrði jaktinni til veiða í um tvö ár. Kristján átti heima í Hvammi í 60 ár, kom hingað árið 1842 og dó hér hátt á níræðisaldri árið 1902. Sigríður kona hans var dóttir Símonar Sigurðssonar, bónda og skipstjóra á Dynjanda í Arnarfirði,[126] sem fyrstur síðari tíma Íslendinga, búsettra hérlendis, stýrði svo kunnugt sé skipi yfir Atlantshaf, frá Danmörku til Íslands (sjá hér Dynjandi). Ekki er ólíklegt að tengslin við Símon á Dynjanda hafi orðið Kristjáni viss brýning og eflt hann til dáða við útgerð skútunnar og sókn á miðin. Hjá Símoni hefur hann ef að líkum lætur átt kost á að nema ýmis undirstöðuatriði í sjómannafræði og vafalaust hefur gamli maðurinn á Dynjanda getað kennt þessum tengdasyni sínum margt sem að gagni mátti koma varðandi útgerðina. Kristjáni í Hvammi lýsir Sighvatur Borgfirðingur svo að hann hafi verið manna fáorðastur … sístarfandi og aldrei iðjulaus … trúmaður mikill, bjargfast tryggðatröll sem aldrei skeikaði, grandvar til orða og verka, gáfumaður að náttúru, fróður um margt og hagur á hendur.[127] Fyrir hjónaband eignaðist Kristján með Þorbjörgu Eyjólfsdóttur, vinnukonu í Hvammi, soninn Stein sem hóf búskap í Lægsta-Hvammi á móti föður sínum árið 1876 og stóð hér fyrir búi í 40 ár ásamt eiginkonu sinni, Jóhönnu Nathanaelsdóttur, systur Guðmundar Nathanaelssonar, bónda á Kirkjubóli hér í sveit.[128]

Ekki er fullvíst hvort þilskipið Hrappur muni hafa verið tekið í land á Þingeyri eða í Hvammi í vertíðarlok á haustin. Um miðja 20. öld lifði sú sögn á vörum eldri manna frá Hvammi að skömmu fyrir 1870 hefði þilskipi verið hrófað upp þar sem bæjarlækurinn frá Hæsta-Hvammi fellur til sjávar en þar heitir Hóp.[129] Sögunni fylgdi að líklega hefði þetta verið Hrappur.[130] Hér skeikar að vísu tíu árum hið minnsta en engu að síður kynnu aðrir þættir frásagnarinnar að vera réttir. Uppsátur báta Hvammsmanna var annars við Hvammsoddann en út að honum náði túnið í Hvammi fyrir 50 árum.[131]

Árið 1883 hófu Hvammsmenn skútuútgerð á ný og keyptu þá, með Bergþóri Jónssyni í Lambadal, norskan þilbát sem þeir fengu afhentan á Ísafirði.[132] Bátur þessi hét 17. maí og mun hafa verið 15 til 16 rúmlestir að stærð.[133] Sighvatur Borgfirðingur á Höfða í Dýrafirði segir í dagbók sinni frá fyrstu komu 17. maí til Dýrafjarðar 6. september 1883 og þá með þessum orðum:

 

Þeir komu í dag með kútterinn af Ísafirði sem heitir „17. maí”. Þeir kaupa hann í félagi Bergþór í Lambadal, Kristján Jónsson í Mið-Hvammi og bræðurnir Páll í Gryfju og Kristján Einarsson í Hæsta-Hvammi.[134]

 

Sá sem Sighvatur nefnir Pál í Gryfju mun vera Páll Einarsson sem á árunum 1883 og 1884 átti heima í Bræðratungu í Hvammi.[135]

Í Skútuöldinni eru eigendur skipsins sagðir hafa verið hinir sömu og Sighvatur nefnir með þeirri undantekningu þó að þar er Steinn Kristjánsson í Neðsta-Hvammi talinn einn eigendanna en ekki Páll í Gryfju.[136] Vert er að taka fram að Kristján Jónsson í Mið-Hvammi, sem átti hlut í 17. maí, er annar og yngri maður en Kristján Jónsson í Neðsta-Hvammi[137] sem þrjátíu árum fyrr var skipstjóri á þilskipinu Hrappi er þá var gert út frá Hvammi og hér hefur áður verið sagt frá.

Þilskipinu 17. maí var haldið til veiða frá Þingeyri í tvö sumur að sögn gamals Dýrfirðings[138] og virðist ljóst að það muni hafa verið 1884 og 1885. Skipstjóri á 17. maí var Kristján Sigurðsson[139] en hann var til heimilis í Lambadal í janúar 1884 og er þá kallaður húsmaður í sóknarmannatali.[140] Er Kristján flytur frá Lambadal að Þingeyri síðar á árinu 1884 er hann hins vegar nefndur skipstjóri[141] svo hér er ekki um að villast. Kristján Sigurðsson var fæddur á Hjallkárseyri í Arnarfirði 26. janúar 1851 og ólst þar upp.[142] Hann var föðurbróðir hins þjóðkunna skútuskipstjóra Péturs Mikaels Sigurðssonar sem fórst með kútternum Valtý árið 1920. Kristján fluttist frá Þingeyri til Kaupmannahafnar árið 1885 en kom aftur til landsins fáum árum síðar og átti heima á Ísafirði er hann andaðist árið 1891.[143]

Sumarið 1885 var þilskipið 17. maí með allmikil viðskipti við útibú Ásgeirsverslunar á Flateyri og á nafni þess var lagður þar inn fiskur fyrir 1.777,17 krónur og nokkrir kútar af lifur svo heildarinnlagið nam 1.826,41 krónu.[144] Úttektin á vörum og peningum á reikningi skipsins varð þó mun meiri svo í vertíðarlok hafði myndast skuld upp á 663,34 krónur.[145] Í viðskiptareikningi skipsins frá þessu ári sést að meðal þess sem tekið var út á Flateyri voru 67½  tunna af salti, 1 tunna af kjöti, 6 tunnur af kolum, 76 önglar, 66 pottar af brennivíni, 198 kíló af brauði, 75 kíló af hrísgrjónum og 11 kíló af kaffi.[146]

Í viðskiptareikningi skipsins hjá verslunarútibúinu á Flateyri sést að Kristján Sigurðsson skipstjóri fékk 300,- krónur í fast kaup fyrir 20 vikna úthald.[147] Auk þess fékk hann 28,- krónur í premíu af eigin drætti og 246,- krónur í premíu af 12.300 fiskum [148] en sá fjöldi fiska segir að líkindum til um heildarafla skipsins það árið. Samtals voru þetta því 574,- krónur sem skipstjórinn hafði í tekjur á þessu úthaldi. Fast kaup annarra skipverja virðist hafa verið býsna misjafnt, sex, níu eða tólf krónur á viku en við það bættist premía af eigin drætti.[149] Sumarið 1885 mun Ólafur Pétursson hafa verið stýrimaður á 17. maí því að skipstjóranum frátöldum var hann með hæst fastakaup, 240,- krónur fyrir 20 vikur.[150] Líklegt er að nýnefndur Ólafur sé sá Ólafur Pétursson sem síðar var lengi skipstjóri á skútunni Mary frá Þingeyri, fæddur 1843.[151] Nöfn flestra eða allra annarra skipverja á 17. maí sumarið 1885 sjást í viðskiptareikningnum sem hér er byggt á en þeir voru: Jón Jónsson, Bíldudal, Helgi Hallgrímsson, Guðmundur Kristjánsson, Ólafur Guðbjartur, Bjarni Kristjánsson, Þorsteinn Bjarnason, Jakob Pálsson, Þórður Jónsson, Jón Eggertsson, Þorleifur og Konráð, – alls 13 menn að skipstjóra og stýrimanni meðtöldum.[152] Í reikning skipsins hjá Ásgeirsverslun á Flateyri vantar yfirleitt heimilisföng þessara skipverja og stundum líka föðurnafnið en flestir versluðu þeir eitthvað á Flateyri á eigin nafni og með því að skoða viðskiptamannareikninga verslunarinnar þar er unnt að leiða í ljós hvar flestir þeirra áttu heima. Í þessum reikningum sjáum við að Helgi Hallgrímsson átti heima á Bakka í Dýrafirði, Guðmundur Kristjánsson á Múla í Dýrafirði, Bjarni Kristjánsson í Bræðratungu í Hvammi í Dýrafirði, Þorsteinn Bjarnason í Hvammi í Dýrafirði, Jakob Pálsson í Lambadal í Dýrafirði, Jón Eggertsson í Stykkishólmi, Þorleifur, sem var Jónsson, í Arnardal við Skutulsfjörð og Konráð, sem var Konráðsson, var frá Stykkishólmi.[153] Ólafur Guðbjartur, sem var skipverji á 17. maí sumarið 1885, er að líkindum hinn síðar kunni skipstjóri frá Haukadal í Dýrafirði, Ólafur Guðbjartur Jónsson, sem fæddur var árið 1861 (sjá hér Haukadalur). Eru þá allir taldir nema Þórður Jónsson en erfitt hefur reynst að skera úr um hver hann muni hafa verið. Í tiltækum höfuðbókum verslunarútibúsins á Flateyri frá árinu 1885 er aðeins einn mann að finna með því nafni, Þórð Jónsson í Botni í Súgandafirði,[154] en fremur ólíklegt verður að telja að hann hafi verið skipverji á 17. maí þetta ár.

Að lokum skal þess getið að Kristján Sigurðsson, skipstjóri á 17. maí, tók út býsna mikið af vörum og peningum hjá versluninni á Flateyri árið 1885 og nam úttekt hans þar liðlega 500,- krónum á þessu eina ári.[155] Þar af gengu 444,35 krónur upp í ýmsar greiðslur, m.a. til Ásgeirsverslunar á Ísafirði og forstjóra hennar en einnig til Torfa Halldórssonar á Flateyri og fleiri.[156] Varningurinn sem Kristján skipstjóri keypti í búðinni á Flateyri sumarið 1885 var af margvíslegu tagi og má þar m.a. nefna tvær skyrtur, einn hatt, eitt keyri, um 5 kíló af smjöri, eina klossa, sex potta og tvær flöskur af brennivíni, eina flösku af púrtvíni, eina flösku af líkjör, eina flösku af sérrýi, tólf flöskur af öli, fjögur og hálft pund af rullu, hálft pund af skrotóbaki, 125 vindla, eitt pund af kaffi og annað af súkkulaði.[157]

Þilskipið 17. maí fékk síðar nafnið Sæfari og fórst í janúarmánuði árið 1889 er það var að flytja matvörur frá Reykjavík til Ólafsvíkur.[158]

Á fyrri hluta 20. aldar var þilskip enn á ný gert út frá Hvammi í Dýrafirði um alllangt skeið en þá bjó hér Jón Arason sem lært hafði sjómannafræði í Bogö í Danmörku.[159] Jón var lengi skipstjóri á þilskipinu Huldu ÍS 302 sem hann átti sjálfur með Jóni Jónssyni á Þingeyri.[160] Hulda var 13 tonna eikarbátur smíðaður í Svíþjóð árið 1906.[161] Þeir nafnar, Jón Arason og Jón Jónsson, keyptu hana frá Ísafirði árið 1914 og þá var hún komin með hjálparvél,[162] máske þá sömu og hún hafði síðar og var 16 hestöfl.[163] Hulda mun hafa verið gerð út frá Hvammi í 20-30 ár en var tekin af skipaskrá haustið 1946, þá ónýt orðin.

Einn bændanna í Hæsta-Hvammi á síðari hluta 19. aldar var Einar Magnússon frá Skáleyjum á Breiðafirði.[164] Einar fæddist árið 1823 og lærði um 1850 rennismíði í Danmörku.[165] Hann kvæntist 1858 Guðrúnu, dóttur Sveins Þorvaldssonar, silfursmiðs í Hvammi, og Rannveigar konu hans Hjaltadóttur, sem hér voru áður nefnd, og bjuggu þau Einar og Guðrún hér þaðan í frá til æviloka hans en Einar andaðist 24. júní 1901.[166] Í embættisbókum Sandapresta er Breiðfirðingur þessi ýmist nefndur rennismiður eða rokkasmiður[167] og mun færni hans við smíðarnar hafa komið mörgum að góðum notum. Ýmsir niðjar Einars rokkasmiðs og Guðrúnar Sveinsdóttur voru lengi búsettir í Hvammi.

Á síðasta fjórðungi nítjándu aldar risu í landareign Hvamms allmörg þurrabúðarkot og fjölgaði fólkinu þá verulega. Sum þessara híbýla voru reist í heimatúni bændanna eða þar rétt hjá en önnur yst í landareigninni, skammt frá landamerkjunum á móti Þingeyri. Fyrsta tómthúsfólkið sem réðst á þessum árum í að byggja sér kot i grennd við bændabýlin í Hvammi voru hjónin Jón Guðmundsson og Margrét Pálsdóttir sem settust hér að árið 1876.[168] Í heimild frá 1880 er Jón sagður vera daglaunamaður.[169] Kofinn sem Jón og Margrét bjuggu í mun hafa staðið rétt fyrir innan Ausuá, neðan við Kotholtin er svo heita, en þar var á fyrri öldum Ytra-Ausukot[170] og hefur áður verið nefnt. Bær Jóns og Margrétar var aðeins nýttur sem mannabústaður í fáein ár og var ýmist nefndur Ausukot[171] eða Hvammskot.[172] Árið 1880 reistu hjónin Páll Einarsson og Bjarney Jónsdóttir lítið grasbýli í landi Hæsta-Hvamms, rétt fyrir utan heimatúnið.[173] Það var í fyrstu nefnt Hvammshús[174] en fékk brátt nafnið Bræðratunga[175] og var líka kallað Partur en af sumum Gryfja.[176] Páll var bróðir Kristjáns Einarssonar, bónda í Hæsta-Hvammi,[177] og mun hafa stundað smíðar.[178] Inn við Hvammsá reisti Sigurður Greipsson þurrabúðarkot skömmu fyrir 1890 og stóð það beint fyrir innan íbúðarhúsið sem nú er í notkun í Neðri-Mið-Hvammi.[179] Ekkja Sigurðar, Kristjana Jónsdóttir, átti enn heima í þessum kofa haustið 1890 og aflaði sér brauðs með eyrarvinnu.[180] Önnur kona bjó þarna með henni, Margrét Hallgrímsdóttir, og fékkst hún við tóvinnu.[181]

Á síðasta áratug nítjándu aldar fjölgaði tómthúsfólki í Hvammi. Hjónin Jón Jónsson og Ólöf Kristjánsdóttir byggðu sér árið 1894 lítið timburhús á Rana[182] sem er skammt frá sjó, utantil við gömlu heimatúnin,[183] nær mitt á milli Bræðratungu og húsanna í Mið-Hvammi. Það hús var stækkað fáum árum síðar og í því bjuggu um skeið tvær fjölskyldur.[184] Húsið stóð skammt fyrir ofan þjóðveginn og þar er grunnurinn enn.[185] Árið 1895 byggði Just Guðmundsson lítinn torfbæ utantil við bæinn í Lægsta-Hvammi.[186] Hann bjó þar stuttan tíma en árið 1897 settust hjónin Ásbjörn Björnsson og Guðrún Guðmundsdóttir að í þeim bæ.[187] Þau bjuggu seinna á Grundarhóli en það hús var reist eftir aldamót og stóð fyrir neðan þjóðveg, í landi Lægsta-Hvamms.[188] Árið 1898 var reistur lítill torfbær skammt fyrir ofan timburhúsið á Rana og bjuggu þar næstu ár hjónin Bjarni Bjarnason og Kristín Þorleifsdóttir.[189] Haustið 1901 áttu sjö fjölskyldur tómthúsmanna heima í þurrabúðarkotunum í Hvammi, þrjár þeirra á Rana og tvær í Bræðratungu.[190]

Enn hafa þó ekki verið nefnd kotin sem tómthúsmenn reistu yst í landareign bændanna í Hvammi en þau urðu í raun innsti hluti þorpsins á Þingeyri. Innan við landamerki Hvamms og Þingeyrar byggðu hjónin Kristján Oddsson og Ólöf Bjarnadóttir lítinn bæ árið 1879[191] Kotið þeirra var í fyrstu nefnt Dýrastaðir en frá 1881 Dýrhólar.[192] Árið 1883 settust fyrstu íbúarnir að í Grasi.[193] Ásgarðsnes var reist 1885, Vegamót 1895, Lækjartunga 1900 og hús Egils Jónssonar 1901.[194] Í þessum sex húsum, sem stóðu öll skammt fyrir innan hin gömlu landamerki Hvamms og Þingeyrar, bjuggu níu fjölskyldur haustið 1901 og aðrar sjö í þurrabúðarkotunum inni í Hvammi.[195] Á þessum sextán heimilum voru íbúarnir þá 67 en 53 á bændabýlunum.[196] Að öllu saman töldu voru því 120 manneskjur búsettar í landareigninni.

Ysta húsið í hinu forna Hvammslandi er Ásgarðsnes og stendur niður við sjó, rétt fyrir innan gamla landamerkjagarðinn.[197] Dýrhólar, sem flestir nefna nú Dýrhól, eru upp af Ásgarðsnesi, Lækjartunga var þar fyrir innan, þá hús Egils Jónssonar, síðan Gras og Vegamót innst, spölkorn utan við vegamótin þar sem gamli vegurinn yfir Brekkuháls mætti reiðgötunni sem lá inn með firðinum.[198] Eftir 1901 fjölgaði húsunum enn í þessum innsta hluta þorpsins. Gras er gamalt örnefni og innsta húsið á Þingeyri ber enn það nafn. Í Grasi var lending sem bændur í Brekkudal notuðu.[199] Frá hinum fornu landamerkjum Hvamms og Þingeyrar eru tæplega tveir kílómetrar inn að Steinkunesi sem er neðan við spennistöð Orkubús Vestfjarða.[200] Þar stóðu lengi beitarhús frá Brekku en eigendur jarðanna tveggja, Brekku og Hvamms, höfðu samið sín á milli um gagnkvæm réttindi.[201] Bændurnir á Brekku fengu að nýta fjörubeitina handan við hálsinn en á móti kom að Hvammsmenn máttu reka fráfærulömb sín í Brekkuhvilft.[202] Undir lok nítjándu aldar voru lömbin enn rekin í hvilftina en þá var sauðahúsið á Steinkunesi fallið í tótt.[203] Í stað fjörubeitarinnar höfðu Brekkubændur þá tryggt sér rétt til uppsáturs fyrir bát í Hvammslandi og stunduðu þaðan hrognkelsaveiðar á vorin.[204] Tóttir beitarhúsanna frá Brekku eru þarna enn, um það bil 50 metrum fyrir ofan akveginn, og í Steinkulág, sem er utantil á nesinu,[205] mótar fyrir gömlu bátshrófi ofan við fjöruna.

Lending heimamanna í Hvammi var við Hvammsoddann, neðan við bæina og túnið, og þar geymdu þeir báta sína.[206] Neðan frá Hvammssjónum leggjum við leið okkar upp á hinn forna bæjarhól í Mið-Hvammi og lítum enn yfir sviðið. Nú er sól í náttmálastað yfir Þingeyri en á fyrri tíð var krambúðin þar notuð sem eyktamark af fólkinu í Hvammi.[207]

Spölurinn héðan inn á Ketilseyri er þrír kílómetrar og gott að rölta inn fjöruna í kvöldkyrrðinni. Árnar tvær hér innan við túnið hafa áður verið nefndar og grein gerð fyrir fjöllum og dölum í landareign Hvamms. Innan við Ausuá eru háir bakkar og þar mun ytra Ausukotið hafa verið á öldum áður og Hvammskot er svo var nefnt um 1880.[208] Þarna er nú, á bakkabrún neðan við akveginn, hringlaga tótt og má ætla að þar hafi staðið sauðahlað en aðeins utar og ofar er grjóthlaðinn húsgrunnur, um tíu fermetrar að flatarmáli. Líklegt er að hér hafi gamlar rústir farið undir akveginn. Í Kotbótinni innan við Ausuá er góð lending og þaðan fóru heimamenn í Hvammi í mógrafir yfir í Lambadal á fyrri hluta tuttugustu aldar. Svolítið innar, rétt fyrir utan Ausugil og Aususkriðu og þó nokkuð fyrir ofan veg, sást lengi móta fyrir tóttum og túnstæði[209] og þar mun innra Ausukotið hafa verið.[210]

Að Ausuhornunum sem hér gnæfa yfir hlíðinni er mikil prýði og vel til fundið að nefna skálina á milli þeirra Ausu. Neðarlega í ytra horninu er klettabelti sem heitir Ýluklettar og þaðan barst stundum útburðarvæl sem lét illa í eyrum.[211] Neðan við Innra-Ausuhorn komum við að landamerkjunum og heitir þar Sortunes við sjóinn, rétt fyrir utan merkin.[212]

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Örnefnaskrá. D.I. XII, 72. Lbs. 39224to  (Sighvatur Grímsson Borgfirðingur).

[2] D.I. XII, 72.

[3] Örn.skrá.

[4] Sama heimild.  Sóknarmannatöl Sandaprestakalls.

[5] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 49.

[6] Sama heimild, 49-52.

[7] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 52.

[8] Manntöl 1703, 1762 og 1801.

[9] Manntal 1845.  J. Johnsen 1847, 192.

[10] Manntal 1901.

[11] Manntal 1920.

[12] Manntöl og Örnefnaskrá.

[13] Manntal 1845.

[14] Örn.skrá.

[15] Sama heimild.

[16] Sama heimild.

[17] Jarðab. Á. og P. VII, 49-52.

[18] Jarðab. Á. og P. VII, 49-52.

[19] Sama heimild.

[20] Jarðab. Á. og P. VII, 49-52.

[21] Sama heimild.

[22] Sama heimild.

[23] Sama heimild.

[24] Örn.skrá.

[25] J. Johnsen 1847, 192.

[26] Sama heimild.

[27] Sama heimild.

[28] Manntal 1880.

[29] Ingvar Jónsson frá Hvammi. – Viðtal K.Ó. við hann 12.7. 1998.

[30] Lbs. 23744to, Dagbók Sighvats Grímssonar Borgfirðings 20.2.1882.

[31] Örn.skrá.

[32] Sama heimild.

[33] Manntal 1880.

[34] D.I. XII, 72.  Lbs. 39224to  (Sighvatur Grímsson Borgfirðingur).    

[35] Örn.skrá.

[36] Sama heimild.

[37] Sama heimild.

[38] Sama heimild.

[39] Sama heimild.

[40] Sama heimild.

[41] Örn.skrá.

[42] Sama heimild.

[43] Sama heimild.

[44] Lbs. 23684to, Sighv. Gr. Borgf. Prestaæfir (séra Jón Ásgeirsson þar).

[45] Sama heimild.

[46] Örn.skrá

[47] Sama heimild.

[48] Sama heimild.

[49] Sama heimild.

[50] Sama heimild.

[51] Sama heimild.

[52] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 58-59.

[53] Sama heimild.

[54] Sama heimild.

[55] Íslensk fornrit I, 180-181.

[56] D.I. II, 832.

[57] D.I. IV, 145.

[58] D.I. XV, 577.

[59] Jarðab. Á. og P. VII, 49.

[60] Örn.skrá.

[61] Sama heimild.

[62] Sama heimild.

[63] Sama heimild.

[64] Sama heimild.

[65] Ingvar Jónsson frá Hvammi. – Viðtal K.Ó. við hann 12.7.1998.

[66] Örn.skrá.

[67] D.I. X, 64.

[68] D.I. XIII, 140.

[69] Sýslumannaæfir II, 617 og III, 326-334.

[70] Íslenskar æviskrár III, 118-119 og 233 og V, 239.

[71] Sama heimild III, 118-119 (sjá hér Núpur).

[72] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir (Kph. 1993), bls. 157.  Bogi Ben. / Sýslum.æfir II, 186-187.

Ísl. æviskrár V, 155.  Vestfirskar ættir I, 49.

[73] Jarðabr. frá 16. og 17. öld. Útdr. (Kph. 1993), bls. 157.

[74] Sama heimild.

[75] Sama heimild.

[76] Jarðab. Á. og P. VII, 49-50.  Vestf. ættir I, 49.  Sbr. Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.

[77] Vestf. ættir I, 49.

[78] Bogi Ben. / Sýslum.æfir I, 517-518.

[79] Ólafur Þ. Kristjánsson 1980, 112 og 114 (Ársrit Sögufél. Ísfirðinga).

[80] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.  ÍB 154to, Jón Esp. Ættatölub. dálkar 5499-5505.  Sýslum.æfir II, 186-187.

[81] Sömu heimildir.  Jarðab. Á. og P. VII, 49-52.  Manntal 1703.

[82] Jarðab. Á. og P. XIII, 278-279, 280-282, 284-285 og 298-299. Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.s. frá 1695.

[83] Jarðab. Á. og P. XIII, 278-279 og 280-281.

[84] Annálar III, 380.

[85] Jarðab. Á. og P. XIII, 284-285 og 298-299.

[86] Sama heimild VII, 49-50.  Manntal 1703.

[87] Manntal 1703.

[88] Jarðab. Á. og P. VII, 50, 52 og 54.

[89] Sama heimild, 49-52.

[90] Sama heimild.

[91] Sama heimild XIII, 278-279, 280-281, 284-285 og 298-299.

[92] Manntal 1762.

[93] Sama heimild.  ÍB 154to, Jón Espólín, Ættatölubækur, dálkar 5499-5505.

[94] Manntal 1762.  Manntal 1801, vesturamt, 266.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1. bún.sk. 1821-1838.

[95] Manntal 1762.  Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[96] Manntal 1801.

[97] Sama heimild. Manntal 1816, 686. Pr.þj.b. Sanda. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1. bún.sk. 1821-1838.

[98] Manntal 1816.

[99] Ólafur Ólafsson 1957, 12 (Ársrit S.Í.).

[100] Ólafur Ólafsson 1957, 35-36 (Ársrit S.Í.).

[101] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[102] Ólafur Ólafsson 1957, 35-36.  Manntal 1801 og Manntal 1845.

[103] Manntöl 1835, 1840 og 1850.

[104] Manntal 1835.

[105] Ólafur Ólafsson 1957, 16-17.  Ísl. æviskrár II, 359.  Manntöl 1835 og 1845.

[106] Manntal 1845.

[107] Sama heimild.  Ísl. æviskrár II, 359.

[108] Manntal 1845.  J. Johnsen 1847, 192.

[109] Prestsþj.b. Sandapr.kalls.  Manntal 1845.

[110] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Þingeyrarhr. 2. Hreppsbók 1835-1851.

[111] Sama heimild.

[112] Sighv. Grímsson / Þjóðviljinn 16.10.1902.

[113] Sama heimild.

[114] Manntal 1845.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 2. búnaðarskýrslur.

[115] Ólafur Ólafsson 1957, 10-11 (Ársrit S.Í.).

[116] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVII. 1. Þinglesin skjöl.

[117] Sama heimild.

[118] Sama heimild.

[119] Manntal 1850.

[120] Ólafur Ólafsson 1957, 10-11 (Ársrit Sögufél. Ísf.).  Sbr. Vestfirskar sagnir I, 289-290. Sjá ennfremur hér Haukadalur og Sveinseyri.

[121] VA III, 410-415, búnaðarskýrslur.

[122] Sama heimild.

[123] VA III, 415-424, búnaðarskýrslur.

[124] Sömu heimildir.

[125] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 2, veðmálabók 1856-1869, 87 og 134-135.

[126] Sighv. Grímsson / Þjóðviljinn 16.10.1902.

[127] Sighv. Grímsson / Þjóðviljinn 16.10.1902.

[128] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Sandapr.kalls.  Sbr. Manntal 1845, vesturamt, 263.

[129] Örn.skrá.

[130] Sama heimild.

[131] Sama heimild.

[132] Lbs. 23744to, Dagbók Sighv. Gr. Borgf. 6.9.1883.  Skútuöldin I, 242.

[133] Sömu heimildir.

[134] Lbs. 23744to, Dagbók Sighv. Gr. Borgf. 6.9.1883.

[135] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[136] Skútuöldin I, 242.

[137] Manntöl 1880 og 1890.

[138] Skútuöldin I, 242.

[139] Sama heimild.

[140] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Dýrafj.þinga, Sandapr.kalls, Rafnseyrarpr.kalls og Álftamýrarpr.kalls.

Manntöl 1860, 1870 og 1880.

[141] Sömu heimildir.

[142] Sömu heimildir.

[143] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Sandapr.kalls og Eyrar í Skutulsf.

[144] Hsk. á Ísaf. nr. 0123. Höfuðbók frá útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri, bls. 344-345.

[145] Sama heimild.

[146] Sama heimild.

[147] Sama heimild.

[148] Sama heimild.

[149] Sama heimild.

[150] Hsk. á Ísaf. nr. 0123. Höfuðbók frá útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri, bls. 344-345.

[151] Sbr. Skútuöldin IV, 211-215.

[152] Hsk. á Ísaf. nr. 0123. Höfuðbók frá útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri, bls. 344-345.

[153] Hsk. á Ísaf. nr. 091. Höfuðbók frá útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri.

[154] Hsk. á Ísaf. nr. 0123, 091 og 092. Þrjár höfuðbækur frá útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri.

[155] Hsk. á Ísaf. nr. 091. Höfuðbók frá útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri., 235.

[156] Sama heimild.

[157] Sama heimild.

[158] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 7.3. og 12.3.1889.  Skútuöldin I, 242.

[159] Skútuöldin I, 240.

[160] Skútuöldin I, 240.  Jón Björnsson 1990, II, 69 (Íslensk skip).

[161] Jón Björnsson 1990, II, 69.

[162] Sama heimild.  Almanak handa íslenskum fiskimönnum 1914, Rvík 1913, 81.

[163] Jón Björnsson 1990,II, 69.

[164] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.  Játvarður J. Júlíusson 1985, 103 og 115-117.

[165] Játv. J. Júlíusson 1985, 103 og 115-117.

[166] Sama heimild.

[167] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[168] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[169] Manntal 1880.

[170] Örn.skrá.

[171] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 20.2.1882.  Örn.skrá.

[172] Manntal 1880.

[173] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.  Örn.skrá.

[174] Manntal 1880.

[175] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[176] Manntal 1901. Örnskrá. Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 6.9.1883.

[177] Sama heimild.

[178] Manntal 1880.

[179] Gunnar Hvammdal. – Viðtal K.Ó. við hann 28.1.1998.

[180] Manntal 1890.  Sbr. Prestsþj.b. Sandapr.kalls.

[181] Sama heimild.

[182] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.  Gunnar Hvammdal. – Viðtal K.Ó. við hann 28.1.1998.

[183] Gunnar Hvammdal. – Viðtal K.Ó. við hann 28.1.1998.

[184] Sama heimild.

[185] Ingvar Jónsson. – Viðtal K.Ó. við hann 12.7.1998.

[186] Sama heimild.  Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[187] Sömu heimildir.

[188] Gunnar Hvammdal. – Viðtal K.Ó. við hann 28.1.1998.

[189] Sama heimild.  Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[190] Manntal 1901.

[191] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.  Örn.skrá.  Gunnar Hvammdal. – Viðtal K.Ó. við hann 28.1.1998.

[192] Sóknarm.töl Sandapr.kalls.

[193] Sama heimild.

[194]  Sama heimild.  Manntal 1901.

[195] Manntal 1901.

[196] Sama heimild.

[197] Örn.skrá.

[198] Gunnar Hvammdal. – Viðtal K.Ó. við hann 28.1.1998.

[199] Örn.skrá.

[200] Sama heimild.  Ingvar Jónsson. – Viðtal K.Ó. við hann 12.7.1998.

[201] Örn.skrá.

[202] Sama heimild.

[203] Sama heimild.

[204] Sama heimild.

[205] Ingvar Jónsson. – Viðtal K.Ó. við hann 12.7.1998.

[206] Örn.skrá.

[207] Sama heimild.

[208] Örn.skrá.

[209] Sama heimild.  Gunnar Hvammdal. – Viðtal K.Ó. við hann 28.1.1998.

[210] Sbr. Jarðab. Á. og P. VII, 49-52.

[211] Örn.skrá.

[212] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »