Lækjarós

Bærinn Lækjarós stendur örskammt frá sjó einum kílómetra fyrir utan Gemlufall en hálfum öðrum kílómetra fyrir innan Mýrar. Skýringar á nafninu þarf ekki að leita um langan veg því skammt utan við túnið er ósinn á breiðum vaðli sem liggur ofan við Mýramel. Um flæðar fellur sjór langt upp eftir Vaðlinum. Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 segir að jörð þessi meinist í fyrstu hafa verið byggð af heimalandi Mýra.[1] Slíkt orðalag bendir eindregið til þess að Lækjarós hafi verið talin sjálfstæð bújörð alla sautjándu öldina og því verið skipt út úr landi Mýra fyrir 1600.

Aftur á móti liggur fyrir mjög eindregin vísbending um að ekki hafi verið búið að skilja Lækjarós frá Mýrum árið 1532 en þá voru hálfar Mýrar metnar á 45 hundruð (sjá hér Mýrar) sem vart er hugsanlegt nema Lækjarós hafi verið talinn með. Sú staðreynd að bújörðin Lækjarós er hvergi nefnd í heimildum frá því fyrir 1600 styrkir líka þá skoðun að hún hafi ekki orðið sjálfstætt býli fyrr en á 16. öld. Nafnið er að vísu nefnt í Gísla sögu Súrssonar en líklegt sýnist að þar sé fremur átt við lækjarósinn sem jörðin dregur nafn af en heiti á sérstöku býli.[2] Hugsanlegt er þó að hjáleiga eða kotbýli hafi risið mjög snemma á öldum þarna við ós Vaðalsins en traustar heimildir liggja ekki fyrir um það.

Í annálum verður fyrst vart við Lækjarós árið 1665 og þá af heldur óskemmtilegu tilefni. Bóndinn sem þar bjó og synir hans tveir urðu þá uppvísir að þjófnaði úr dönsku einokunarversluninni á Þingeyri og voru allir húðstrýktir en kona bóndans og dóttir þeirra voru leystar undan refsingu með fégjaldi að því er segir í Eyrarannál.[3]

Í heimildum frá 18. og 19. öld er Lækjarós talinn vera 15 hundraða jörð[4] en óskipt var höfuðbólið Mýrar talið 80 hundruð að dýrleika áður en Lækjarós var gerður af sjálfstæðu býli.[5] Með fjarðarströndinni á Lækjarós land frá Gemlufallsá og út að ósi Vaðalsins sem áður var nefndur.[6] Á Gemlufallsdal (Mýradal) á Lækjarós einnig land sín megin ár allt fram að Guðlaugsvaði sem hér hefur áður verið nefnt (sjá hér Gemlufall og Mýrar) en aðeins fyrir neðan hina fornu reiðgötu.[7] Alla hlíðina ofan við götuna áttu Mýrar en bændur á Lækjarósi gátu þó nýtt sér beit í Mýralandi, hvar sem var á dalnum án endurgjalds.[8]

Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 er þess getið að skriður og aurfall hafi spillt engjum og högum á Lækjarósi en kostum og göllum jarðarinnar annars lýst með þessum orðum:

 

Skóg hefur jörðin átt sem nú er næsta eyddur en má þó hjálpa enn nú til ljádengingar naumast. Jörðin er hlunnindalaus. Flæðihætt er hér fyrir sauðfé á vetur undir sköflum sem leggur við sjóinn. Snjóskriður hafa og sauðfé grandað. … Útræði getur hér verið á sumar þá fiskur gengur svo langt inn á Dýrafjörð en sá sjávarafli er ærið svipull því fiskurinn gengur nú ekki svo langt inn í margt ár.[9]

 

Eitthvert skógarkjarr var enn í hlíðinni fyrir ofan Lækjarós árið 1840 og í Sóknalýsingunni frá því ári er getið um góða silungsveiði í mynni Vaðalsins en reyndar tekið fram að hún sé aðallega stunduð frá Mýrum.[10]

Á sjávarbökkunum innan við Lækjarós hefur ríðandi mönnum þótt gott að skella á skeið enda heita þeir Skeiðbakkar. Innst á bökkum þessum, inn undir Gemlufallsá heitir Snasi.[11] Neðan við hann var lendingin og gamalt bátanaust.[12] Á þessum slóðum komu upp mannabein þegar rutt var til bílvegar á fyrri hluta tuttugustu aldar og næstu árin á eftir töldu einhverjir sig sjá þar mannsmynd á sveimi, einkum þegar tungl óð í skýjum.[13] Upp af Skeiðbökkunum voru áður mógrafir og slægjuland en nú er þarna ræktað tún.[14]

Ábúendur á Lækjarósi bjuggu yfirleitt á allri jörðinni því þar var sjaldan eða aldrei tvíbýli.[15] Kunnastur bænda sem hér bjuggu á fyrri tíð mun vera Jón Gíslason sem gerði garðinn frægan um miðja 19. öld en áður hefur verið sagt frá séra Bjarna Brynjólfssyni, eina prestinum sem um er vitað að búið hafi á Lækjarósi en hann dó hér árið 1727 (sjá hér Neðri-Hjarðardalur). Frá Jóni Gíslasyni á Lækjarósi sem fyrstur manna hóf þilskipaútgerð frá Dýrafirði árið 1843 hefur einnig verið sagt lítið eitt annars staðar á þessum blöðum (sjá hér Mýrahreppur, inngangskafli) en skylt er að gera hér svolítið nánari grein fyrir þessum merkilega framtaksmanni. Eins og áður var rakið voru það Guðmundur Brynjólfsson á Mýrum og Jón Gíslason, er þá var að flytjast að Lækjarósi, sem fyrstir manna hófust handa um þilskipaútgerð frá Dýrafirði. Nokkrir bændur beggja vegna fjarðarins fylgdu brátt í kjölfarið en fullur aldarfjórðungur leið frá því Hákarlinum var ýtt á flot frá Lækjarósi, árið 1843, uns eigendur verslunarinnar á Þingeyri töldu tímabært að hefja skútuútgerð (sjá hér Þingeyri).

Hákarlinn var fyrsta þilskip Dýrfirðinga og það var Jón Gíslason sem bæði smíðaði skipið og stýrði því til veiða fyrstu árin (sjá hér Mýrahreppur). Guðmundur á Mýrum mun hins vegar hafa lagt fram nokkra fjármuni til að kosta smíði Hákarlsins því hann taldist frá því fyrsta eiga helming í skipinu á móti Jóni (sjá hér Mýrar). Í riti sínu Skútuöldina staðhæfir Gils Guðmundsson að Jón á Lækjarósi hafi smíðað Hákarlinn og virðist hafa vitneskju sína um það frá gömlum Dýrfirðingum og öðrum Vestfirðingum sem fæddir voru á síðari helmingi 19. aldar.[16] Í manntölum og öðrum heimildum er Jón Gíslason margoft nefndur bæði smiður og skipherra eins og hér mun nú brátt varða rakið og sýnist því engin ástæða til að rengja hinar gömlu sagnir um skútusmíðina. Heimildarmenn Gils Guðmundssonar virðast hins vegar ekki hafa treyst sér til að fullyrða hvort Jón hafi sjálfur stýrt Hákarlinum til veiða. Í Skútuöldinni er því komist þannig að orði að Gísli, sonur Jóns á Lækjarósi, hafi tekið við stjórn skútunnar en þess jafnframt getið að sumir segi að Jón faðir hans hafi verið með honum framan af.[17] Fullvíst er að um og eftir 1850 var Gísli Jónsson skipstjóri á Hákarlinum (sjá hér bls. 7-8) en útilokað má kalla að hann hafi tekið við stjórn skipsins strax og útgerð þess hófst árið 1843. Gísli var þá aðeins 19 ára gamall[18] og hefur engan titil á manntalinu frá 2. nóvember 1845. Þar er hann bara sagður vera sonur föður síns en Jón faðir hans aftur á móti titlaður skipherra.[19] Í manntölum frá þessum árum eru menn aldrei nefndir skiparar eða skipherrar nema þeir séu skipstjórar á þilskipi og óhugsandi er að Guðmundur Brynjólfsson á Mýrum sem tekur manntalið haustið 1845 hafi farið rangt með í þessum efnum. Í búnaðarskýrslum er Jón síðast titlaður skipherra haustið 1848[20] en skipherratitill er sannanlega kominn á Gísla son hans árið 1850 (sjá hér Mýrahreppur, bls. 21). Hér verður því haft fyrir satt að Jón Gíslason á Lækjarósi hafi bæði smíðað fyrsta þilskipið sem gert var út frá Dýrafirði og líka stýrt því til veiða fyrstu árin. Bein sönnun þess að hann hafi verið skipstjóri á Hákarlinum liggur að vísu ekki fyrir en líkurnar eru yfirgnæfandi. Fram skal tekið að Jón á Lækjarósi er eini maðurinn i Dýrafirði sem titlaður er skipherra í manntalinu frá 1845.[21]

Jón Gíslason var ekki Dýrfirðingur að uppruna en fluttist í Dýrafjörð um 1840. Hann var fæddur í Haga á Barðaströnd 22. júní 1798 og hét fullu nafni Sigurður Jón Gíslason.[22] Foreldrar hans voru Gísli Þorleifsson og Hallbjörg Helgadóttir er þá áttu heima í Haga.[23] Á manntalinu frá 1. febrúar 1801 er drengurinn sagður vera fósturbarn í Haga en foreldrar hans voru þá vinnuhjú þar hjá Ragnheiði Davíðsdóttur,[24] móður Guðmundar Schevings, er síðar var sýslumaður um skeið og lengi stórútgerðarmaður í Flatey. Guðmundur Scheving var þá heima í Haga og er kallaður studiosus juris í manntalinu enda þótt hann væri þá hættur öllu háskólanámi. Þar í Haga verða því fyrstu kynni Jóns Gíslasonar og Guðmundar Schevings en Jón varð síðar skipstjóri á skútum Guðmundar.

Ýmislegt bendir til þess að Jón Gíslason hafi þótt bráðger í æsku og ekki síst það að hann var tekinn í kristinna manna tölu tæplega þrettán ára gamall vorið 1811.[25] Hann var fermdur í Hagakirkju og er þá sagður hafa notið uppfræðslu hjá foreldrum sínum í fimm ár.[26] Tveimur árum síðar missti Jón móður sína sem þá átti heima á Ytri-Múla á Barðaströnd[27] en árið 1816 er hann vinnumaður hjá föður sínum er þá bjó, ekkjumaður, í Tungumúla í sömu sveit.[28] Ekki er alveg ljóst hvar Jón hefur dvalist á árunum 1819-1834 en vera má að hann sé sá Jón Gíslason er fluttist 1818 frá Gröf í Gufudalssveit út í Svefneyjar, sagður vinnumaður og ekkert tekið fram um aldur.[29] Allar líkur benda reyndar til þess að Jón hafi átt alllengi heima í Breiðafjarðareyjum á tímabilinu frá 1819-1834. Hann kvæntist á því skeiði Sigríði Jónsdóttur, sem sagt er í Skútuöldinni að hafi verið frá Hergilsey og verið formaður allmargar vertíðir áður en hún giftist.[30] Í öðrum heimildum er staðfest að Sigríður hafi verið fædd í Flateyjarsókn árið 1796 eða því sem næst[31] og mun vart þurfa að efa að hún sé sú Sigríður Jónsdóttir sem fæddist í Hvallátrum á Breiðafirði 28.1.1796 og var 5 ára gömul hjá foreldrum sínum á Firði í Múlasveit en síðar í Hergilsey með móður sinni, Ingibjörgu Arngrímsdóttur, sem þar var ráðskona hjá Jóni Eggertsyni árið 1816.[32] Sighvatur Borgfirðingur segir að Jón Gíslason hafi verið frá Hergilsey[33] og má því telja mjög líklegt að þar hafi hann verið búsettur um nokkurt skeið.

Í prestsþjónustubók Flateyjarprestakalls finnst ekkert um giftingu Jóns Gíslasonar og Sigríðar konu hans svo vera má að þau hafi verið gefin saman í öðrum sóknum. Aftur á móti er ljóst að synir þeirra tveir sem á legg komust, Gísli og Jón, eru báðir fæddir í Flateyjarsókn, sá eldri um 1824 en sá yngri árið 1829 eða því sem næst.[34]

Í febrúarmánuði árið 1835 átti Jón Gíslason sannanlega heima í Flatey og bjó þar með Sigríði konu sinni og áðurnefndum tveimur sonum.[35] Hann er þá sagður 36 ára gamall og er titlaður skipari og smiður.[36] Eins og áður var getið sýnir titillinn skipari að Jón hefur þá verið skipstjóri á þilskipi. Þremur árum fyrr voru fjögur þilskip gerð út frá Flatey, öll í eigu Guðmundar Schevings[37] sem verið hafði sýslumaður í Haga á Barðaströnd á uppvaxtarárum Jóns Gíslasonar þar og í næsta nágrenni. Allar líkur benda til þess að Jón hafi árið 1835 verið skipstjóri á einhverju þessara þilskipa Guðmundar Schevings og Sighvatur Borgfirðingur getur þess að Jón hafi verið verkstjóri á búi Schevings í Flatey.[38]

Árið 1836 fluttist Jón Gíslason ásamt fjölskyldu sinni frá Flatey til verslunarstaðarins við Skutulsfjörð sem síðar varð Ísafjarðarkaupstaður.[39] Við brottförina frá Flatey er Jón eins og áður kallaður skipari og smiður.[40] Er skútuskipstjóri þessi frá Flatey settist að á Ísafirði voru aðeins liðin 5 ár frá því fyrsta þilskipið var sent þaðan til veiða.[41] Það var Jens Benedictsen sem fyrstur manna hóf þilskipaútgerð frá Ísafirði sumarið 1831 en hann var þá eigandi Hæstakaupstaðarverslunar sem lengi var starfrækt þar í bænum.[42] Á næstu árum bætti Jens Benedictsen við sig fleiri þilskipum og hafa rök verið leidd að því að skip hans hafi verið orðin tvö eða þrjú árið 1835 og þá var a.m.k. eitt þilskip gert út frá versluninni í Neðstakaupstað á Ísafirði sem byrjað hafði þilskipaútgerð árið 1833.[43]

Líklegast er að Jón Gíslason hafi tekið við stjórn á einhverju skipa Jens Benedictsen er hann kom til Ísafjarðar árið 1836 því Jens var Breiðfirðingur og bróðir Brynjólfs Benedictsen, kaupmanns í Flatey. Hann var því miklu líklegri til þess en hinn danski verslunarstjóri í Neðstakaupstað að leita einmitt til Flateyjar ef fá þurfti reyndan mann til að taka við stjórn á fiskijakt norður við Djúp. Svo mikið er víst að Jón Gíslason var um skeið skipstjóri á þilskipi frá Ísafirði því er hann fluttist þaðan árið 1839 er hann nefndur jaktarformaður í prestsþjónustubókinni.[44]

Í marsmánuði árið 1839 var Jón sestur að í Alviðru.[45] Í manntali frá haustinu 1840 er hann skráður í Alviðru með konu sína og synina tvo.[46] Hann er þá nefndur skipherra og smiður.[47] Í Alviðru virðist Jón hafa verið jarðnæðislaus[48] en árið 1841 er hann farinn að búa á Læk í Mýrahreppi og er þá titlaður skipherra eins og áður.[49]

Fyrstu árin sem Jón Gíslason var búsettur í Dýrafirði  hefur hann að líkindum haldið áfram skipstjórastörfum á einhverju þilskipanna frá Ísafirði. Til þess bendir sú staðreynd að hann heldur skipherratitlinum þessi ár, 1840 og 1841, eins og hér var áður rakið þó kominn sé í byggðarlag þar sem þilskipaútgerð hafði aldrei verið stunduð. Á síðari hluta 19. aldar voru líka allmörg dæmi um það að bændur í Dýrafirði stýrðu þilskipum til veiða frá Ísafirði og má þar nefna Kristján Andrésson í Meðaldal og Steindór Egilsson á Brekku í Þingeyrarhreppi (sjá hér Meðaldalur og Brekka) svo slíkt þurfti engan veginn að vera fráleitt. Menn létu þá annað heimilisfólk sjá um bústörfin meðan vertíð stóð yfir, vor- og sumarmánuðina, og slíkt fyrirkomulag gat einmitt hentað Jóni Gíslasyni vel á árunum upp úr 1840 þegar Gísli sonur hans var orðinn fullfær til að sjá um búið með móður sinni í fjarveru húsbóndans.

Það að Jón skuli hefjast handa um að smíða sitt eigið skip einmitt árið 1843 gæti líka bent til þess að hann hafi verið skipstjóri á útvegi Jens Benedictsen á Ísafirði alveg til ársins 1842. Á því ári andaðist Jens snögglega[50] og þá munu flestir sem hjá honum störfuðu hafa orðið að leita nýrra úrræða til að sjá sér farborða. Hæstakaupstaðarverslunin á Ísafirði var að vísu rekin áfram en engar heimildir munu vera til um þilskipaútgerð á hennar vegum fyrstu árin eftir eigendaskiptin.[51] Með hliðsjón af því sem hér hefur verið sagt sýnist unnt að leiða nokkrar líkur að því að ótímabært andlát hins umsvifamikla athafnamanns Jens Benedictsen, sem síðustu árin rak stórútgerð bæði á Ísafirði og í Vestmannaeyjum, hafi orðið til þess að Dýrfirðingar hófust fyrr en ella handa um sína eigin skútuútgerð.

Af öllu því sem hér hefur verið sagt um feril Jóns Gíslasonar áður en hann settist að á Lækjarósi má ljóst vera að það var bæði vanur smiður og þrautreyndur skútuskipstjóri sem hófst handa við smíði Hákarlsins árið 1843. Jón var þá orðinn 45 ára gamall.

Í riti sínu Skútuöldinni segir Gils Guðmundsson að þetta fyrsta þilskip Dýrfirðinga muni Jón hafa smíðað heima á Lækjarósi.[52] Sem heimildarmenn að þættinum um skútuútgerð frá Dýrafirði nefnir Gils m.a. átta Dýrfirðinga[53] sem sumir voru orðnir stálpaðir þegar Jón Gíslason dó. Frá þeim hlýtur hann að hafa haft sínar upplýsingar um hvar skútan var smíðuð og sýnist líklegt að þar sé rétt frá sagt. Nauðsynlegt er þó að taka fram að haustið 1843, þegar fyrst er skráð í búnaðarskýrslu að þeir Guðmundur á Mýrum og Jón Gíslason eigi hálft þilskip hvor, – þá býr Jón enn á Læk og flyst ekki að Lækjarósi fyrr en vorið 1844 eins og sjá má í búnaðarskýrslum.[54] Af þessum ástæðum gætu menn reyndar dregið í efa þá fullyrðingu að skútan hafi verið smíðuð á Lækjarósi en vel má þó vera að gömlu mennirnir sem Gils ræddi við fyrir hálfri öld hafi farið rétt með er þeir greindu frá smíðastaðnum. Fimm kílómetrar eru milli bæjanna, Lækjar og Lækjaróss, og þegar Jón vann að smíði skútunnar árið 1843 hefur að líkindum verið afráðið að hann flyttist að Lækjarósi á komandi vori og þaðan yrði skipið gert út. Frá bænum Læk er talsverður spölur niður að sjó en Lækjarós stendur aftur á móti rétt ofan við fjörukambinn, við ós Vaðalsins sem áður var nefndur. Fljótt á litið sýnast aðstæður til smíði stórskipa mun hentugri á Lækjarósi en á Læk og vel má hugsa sér að Jón hafi haldið sig þar með annan fótinn árið 1843 og unnið að smíðinni enda þótt fólk hans og fé væri enn á Læk og flyttist ekki að Lækjarósi fyrr en í næstu fardögum, vorið 1844. Smíði skipsins hlýtur hins vegar að hafa lokið áður en Jón fluttist að Lækjarósi, máske þó ekki fyrr en síðla hausts árið 1843 en ef svo hefur verið má ætla að Hákarlinn hafi ekki verið sjósettur fyrr en í mars eða apríl 1844 eða rétt um það leyti er skipasmiðurinn, sem einnig var skipstjóri, tók við búi á Lækjarósi.

Skútan sem Jón Gíslason smíðaði árið 1843 var 8 lestir að því er segir í traustri heimild frá árinu 1850 (sjá hér Mýrahreppur bls. 21) en þá mun vera átt við stórlestir eins og venja var um mál á skipum á þeim tíma. Skútan hefur því verið 20,8 smálestir eða því sem næst. Hákarlinn var gerður út frá Lækjarósi og Mýrum í tíu eða ellefu vertíðir og mun oft hafa aflað prýðilega (sjá hér Mýrahreppur bls.22).

Í Sóknalýsingu sinni frá árinu 1840 segir séra Jón Sigurðsson á Gerðhömrum að ós Vaðalsins rétt fyrir utan túnið á Lækjarósi virðist vera hið hagkvæmasta pláss hér fyrir vetrarlægi þilskipa.[55] Er hann festi þau orð á blað var engin þilskipaútgerð enn hafin í Dýrafirði. Sjö árum síðar ritaði séra Jón svolítinn viðauka við lýsingu sína á Dýrafjarðarþingum og þar tekur hann beinlínis fram að ós Vaðalsins sé brúkaður til vetrarlegu fyrir dekkskip eða þilfarsbáta.[56] Þá voru þilskipin sem gerð voru út frá norðurströnd Dýrafjarðar orðin tvö (sjá hér Mýrahreppur) og bendir orðalag séra Jóns til þess að þau hafi bæði haft vetrarlægi í Vaðlinum.

Skútusmíðin árið 1843 og útgerð Hákarlsins mörkuðu þáttaskil í sjósókn Dýrfirðinga. Nokkrir bændur beggja vegna fjarðarins hófu þilskipaútgerð mjög skömmu síðar eins og hér hefur áður verið rakið (sjá Mýrahreppur og Þingeyrarhreppur) og loks kom þar um og upp úr 1870 að nýr eigandi verslunarinnar á Þingeyri hóf þaðan skútuútgerð í stórum stíl. Þá hafði Hákarlinn frá Lækjarósi legið á hafsbotni í allmörg ár því vorið 1854 týndist þetta fyrsta þilskip Dýrfirðinga í hafi (sjá hér Mýrahreppur bls.23-24). Gísli Jónsson, sonur Jóns Gíslasonar á Lækjarósi, var þá skipstjóri og fórst hann þar þrítugur að aldri ásamt öllum sínum hásetum. Gísli var þá orðinn bóndi á Gemlufalli og lét eftir sig eiginkonu og fjögur ung börn.[57]

Er Gísli drukknaði var faðir hans orðinn 55 ára gamall. Hann fluttist þá frá Lækjarósi að Gemlufalli að því er ætla má til stuðnings ekkjunni.[58] Í manntalinu sem tekið var haustið 1855 má sjá að Jón og Sigríður kona hans búa þá á Gemlufalli og er hann í manntali þessu sagður vera bóndi, smiður og blóðtökumaður.[59]

Á búskaparárum Jóns Gíslasonar á Lækjarósi reyndi hann að beita sér fyrir stofnun víðtækra samtaka í því skyni að hnekkja veldi Edwards Thomsen, kaupmanns á Þingeyri, og fá nýjan kaupmann til að setjast þar að á vegum bænda. Hugmyndir sínar um þetta kynnti Jón í bréfi er hann ritaði Magnúsi Einarssyni á Hvilft í Önundarfirði 6. nóvember 1846.[60] Bréfið er því miður svolítið skert en þar segir Jón meðal annars:

 

Ég var hjá þeim í Hvammi um veturnætur … og þá barst í tal meðal annars hjá okkur Jóni Sveinssyni hvað flestir hlutir á Þingeyri væru dýrari en annars staðar og á þessu kynni nú að mega ráða bót með því móti að allir málsmetandi menn hér úr fjörðunum, Arnar- Dýra- og Önundarfirði tækju sig saman og skrifuðu sameiginlega eftir höndlara úr Reykjavík sem skildi setja sig niður á Þingeyri. … Nú skrifa ég yður … til þess að þér fengjuð yðar áskrifendur um Önundarfjörð og Valþjófsdal hreppstjóranum norðanfram í Dýrafirði … . Ég bið yður að gjöra svo vel og skrifa mér til hvernig yður gengur liðsafnaðurinn og hvernig yður líst á þetta. … og ef því yrði framgengt ætti að koma þessu saman í eina bænarskrá af allra forgangsmanna hendi og biðja Jón Sigurðsson [þ.e. Jón forseta – innskot K.Ó.] að hafa með sér í sumar. Við höfum næga orsök til að kvarta opinberlega yfir höndlandi meðferð á okkur á næstliðnu sumri og þó ofanskrifuðu yrði framgengt verður aldrei verra en er.[61]

 

Þetta bréf Jóns á Lækjarósi sendi Magnús Einarsson á Hvilft áfram til Eggerts Briem sem þá var sýslumaður Ísfirðinga og bað um álit hans.[62] Í bréfi sínu til sýslumanns lætur Magnús þess getið að sér lítist vel á hugmynd Jóns Gíslasonar en hefur þó þennan fyrirvara á: En ekki á ég undir að loforð fáist frá Önundarfirði til verslunar á Dýrafirði ef borgari kæmi í Önundarfjörð.[63] Magnús var heldur ekki alveg sáttur við þá hugmynd að leita til kaupmanna suður í Reykjavík og taldi heppilegra að reynt yrði að fá einhvern bónda í sýslunni til að hefja verslunarrekstur á Þingeyri og þá helst Guðmund Brynjólfsson á Mýrum.[64] Líklegast sýnist að öll hafi þessi áform runnið út í sandinn því Edward Thomsen hélt velli á Þingeyri allt til ársins 1866 (sjá hér Þingeyri) og var jafnan eini kaupmaðurinn sem rak fasta verslun í Dýrafirði á öllu því skeiði.

Eins og áður var nefnt færði Jón Gíslason sig frá Lækjarósi að Gemlufalli árið 1854 eða 1855 en þaðan fluttist þessi fyrrverandi skútuskipstjóri til Önundarfjarðar árið 1858, ásamt konu sinni og átta ára gamalli sonardóttur, og átti þar heima næstu tíu árin.[65] Hann hafði þá fest kaup á jörðinni Ytri-Hjarðardal (sjá Ytri-Hjarðardalur) og hóf þar búskap vorið 1859.[66]

Árið 1868 náði þessi gamli Breiðfirðingur, sem gerst hafði upphafsmaður þilskipaútgerðar í Dýrafirði, sjötugsaldri. Á því ári fluttist hann enn búferlum og að því sinni frá Ytri-Hjarðardal að Söndum í Dýrafirði.[67] Guðrún Ólafsdóttir, sem áður hafði verið gift Gísla syni hans, var nú aftur komin í hjónaband og bjó ásamt manni sínum, Jens Guðmundssyni, á Söndum.[68] Í þeirra skjóli kaus hann að dvelja í ellinni fyrst á Söndum og síðan á Brekku í Þingeyrarhreppi. Sigríður, kona Jóns Gíslasonar, andaðist á Söndum 15. júlí 1872[69] en um það bil 50 árum fyrr hafði hún að sögn verið formaður allmargar vertíðir á áraskipum við Breiðafjörð (sjá hér bls. 4). Líklega hefur hún róið úr Oddbjarnarskeri en þar var verstöð Hergilseyinga á fyrstu áratugum 19. aldar.[70]

Jón Gíslason náði háum aldri og var enn á lífi þegar manntal var tekið haustið 1880. Guðrún tengdadóttir hans og Jens maður hennar voru þá komin að Brekku og þar var gamli maðurinn hjá þeim kominn á níræðisaldur.[71]Afi barna konunnar stendur skrifað við nafn hans í þessu manntali og þar er líka tekið fram að hann lifi á eigum sínum.[72] Hver veit nema skútuharkið á fyrri tíð hafi gert honum fært að leggja dálítið á borð með sér í ellinni. Á Söndum og Brekku naut hann návistar við börn Gísla sonar síns sem öll voru þó uppkomið fólk þegar manntalið var tekið árið 1880. Önnur tveggja dætra Gísla var þá nýlega gift Steindóri Egilssyni er þá var kunnur skútuskipstjóri sem gott orð fór af og áttu þau líka heima á Brekku.[73]

Árið 1886 voru 42 eða 43 ár liðin frá því segl voru undin við hún í fyrsta sinn á Hákarlinum frá Lækjarósi, fyrsta þilskipinu sem gert var út frá Dýrafirði. Þann 27. febrúar á því ári andaðist sá maður sem bæði smíðaði Hákarlinn og stýrði honum til veiða fyrstu árin, öldungurinn Jón Gíslason á Brekku. Hann var þá nær 88 ára gamall.[74] Á Lækjarósi hafði þessi aldni sjósóknari aðeins búið í ellefu á, 1844-1855. Engu að síður mun hans lengst verða minnst sem Jóns á Lækjarósi vegna þess að það var hér sem hann náði að brjóta blað í atvinnusögu heils byggðarlags. Héðan var Hákarlinn gerður út öll þau tíu ár sem honum var haldið til veiða og allan þann tíma var það Jón Gíslason sem stjórnaði útgerðinni. Þegar skipið týndist í hafi tók hann að búa sig til brottferðar frá Lækjarósi.

Margir bændur hafa búið á Lækjarósi á þeim fjórtán áratugum sem liðnir eru frá því Jón Gíslason fluttist héðan inn að Gemlufalli. Saga þeirra verður ekki sögð á þessum blöðum en dálítið merkilegt má það kallast að annar stórmerkur útgerðarmaður skyldi líka gerast bóndi á Lækjarósi löngu síðar en það var Gísli Oddsson sem hér bjó á árunum 1898-1902.

Gísli var fæddur árið 1836 í Meira-Garði í Dýrafirði og átti þar heima fram yfir tvítugsaldur.[75] Hann hefur því átt kost á að fylgjast með útgerð Hákarlsins á sínum uppvaxtarárum og verið meira eða minna kunnugur Jóni Gíslasyni. Árið 1858 fluttist Gísli með foreldrum sínum að Lokinhömrum í Arnarfirði. Þar bjó hann lengi í félagi við Kristján bróður sinn og síðan áfram er Kristján brá á annað ráð. Í Lokinhömrum stóð Gísli fyrir miklum umsvifum bæði á sjó og landi og gerði m.a. út þilskip um langt árabil (sjá hér Lokinhamrar). Vera má að skútuútgerð bænda í Mýrahreppi á uppvaxtarárum hans hafi orðið honum hvatning til að ráðast sjálfur í álíka stórræði. Á sínum velmektardögum í Lokinhömrum var Gísli Oddsson talinn einn ríkasti bóndi á Vestfjörðum, enda gekk honum þar flest í haginn. Einhver undarlegur órói virðist hins vegar hafa gripið þennan bændahöfðingja um sextugsaldur því þá bregður hann á það ráð að yfirgefa Lokinhamra og flytjast suður í Akureyjar á Breiðafirði (sjá hér Lokinhamrar). Þar bjó hann þó ekki nema í tvö ár en fór þá aftur vestur og settist að á Lækjarósi.

Kona Gísla var Guðrún Guðmundsdóttir frá Mýrum og þar á höfuðbólinu ríktu systur hennar enn er þau Gísli byrjuðu búskap sinn á Lækjarósi. Bæði áttu þau hjónin frændum og vinum að mæta hér á æskuslóðum við norðanverðan Dýrafjörð en samt varð dvöl þeirra á Lækjarósi lítið lengri en í Akureyjum. Eftir fjögur ár tóku þau sig upp á ný og fluttust aftur í Lokinhamra. Þar náðu þau að festa kaup á Hrafnabjörgum[76] sem þá voru aftur gerð að sjálfstæðu býli en höfðu verið lögð undir sjálfa Lokinhamra á hinum fyrri búskaparárum Gísla þar (sjá hér Lokinhamrar). Timburhúsið sem Gísli Oddsson byggði á Lækjarósi sumarið 1898[77] er nú horfið á braut[78] og fátt ber fyrir augu sem minnir á umsvif hans kringum síðustu aldamót. Því síður náum við að skoða handaverk Jóns Gíslasonar sem hér gerði garðinn frægan hálfri öld á undan Gísla. Við skulum því kveðja hér og skunda út að Mýrum. Milli bæjanna er ekki nema tuttugu mínútna gangur og því aðeins nokkuð meira en kallfæri eins og komist er að orði í Sóknalýsingunni frá 1840.[79] Á Mýrum verður dvöl okkar hins vegar talsvert löng því þar er frá mörgu að segja.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 66.

[2] Ísl. fornrit VI, 39.

[3] Annálar III, 140 og 273.

[4] Jarðab. Á. og P. VII, 66. J. Johnsen 1847, 193.

[5] Sömu heimildir.

[6] Örnefnaskrá. Gísli Vagnsson 1973, 152 (Ársrit S.Í.)

[7] Sömu heimildir.

[8] Sömu heimildir.

[9] Jarðab. Á. og P. VII, 66-67.

[10] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 70.

[11] Örn.skrá.

[12] Sama heimild.

[13] Sama heimild.

[14] Sama heimild.

[15] Manntöl 1703, 1762, 1801, 1845 og 1901.

[16] Skútuöldin I, 218-219 og 248.

[17] Sama heimild, 219.

[18] Manntal 1845. Prestsþj.b. Dýrfj.þinga – dánir 1854.

[19] Manntal 1845.

[20] Skjalasafn Vesturamts VA III, 411, búnaðarskýrslur.

[21] Manntal 1845.

[22] Prestsþj.b. Brjánslækjarprk.  Manntal 1845, Vesturamt, 271.

[23] Prestsþj.b. Brjánslækjarprk.

[24] Manntal 1801.

[25] Prestsþj.b. Brjánslækjarprk.

[26] Sama heimild.

[27] Sama heimild.

[28] Manntal 1816.

[29] Prestsþj.b. Flateyjarprk.

[30] Skútuöldin I, 219.

[31] Manntal 1845, Vesturamt, 271.

[32] Manntöl 1801 og 1816.

[33] S. Gr.B./Blanda III, 145.

[34] Manntöl 1835 (Flatey) og 1845 (Lækjarós).

[35] Manntal 2.2.1835.

[36] Sama heimild.

[37] Guðm. Schev. 1832, 87-89 (Ármann á Alþingi).

[38] S.Gr.B./Blanda III, 145.

[39] Prestsþj.b. Flateyjarprk.

[40] Sama heimild.

[41] Jón Þ. Þór 1984, 158-159.

[42] Sama heimild.

[43] Sama heimild, 159-161.

[44] Prestsþj.b. Eyrar í Skutulsfirði, skrá yfir brottflutta árið 1839.

[45] ÍB 8258vo, Dagb. séra Sigurðar Tómassonar 16.3.1839.

[46] Manntal 2.11.1840.

[47] Sama heimild.

[48] Skj.s. sýslum. og sv.stj. V-Ís. Mýrahreppur 3. Hreppsbók Mýrahrepps 1835-1848.

[49] Sama heimild, 95.

[50] Jón Þ. Þór 1984, 125.

[51] Sama heimild, 128.

[52] Skútuöldin I, 218-219.

[53] Sama heimild, 248.

[54] Skjalasafn Vesturamts, VA III, 410, búnaðarskýrslur 1843 og 1844.

[55] Sóknalýs. Vestfj. II, 70.

[56] Sama heimild, 96.

[57] Manntöl 1850 og 1855.

[58] Manntal 1.10.1855. VA III, 414, búnaðarskýrsla úr Mýrahreppi frá árinu 1854.

[59] Manntal 1.10.1855.

[60] H.Sk. 13704to, Bréf Jóns Gíslasonar 6. nóvember 1846 til Magnúsar Einarssonar, fylgir óundirrituðu bréfi

Magnúsar Einarsosnar, dagsettu 11. desember 1846, til Eggerts Briem sýslumanns.

[61] Sama heimild.

[62] H.Sk. 13704to, Bréf Magnúsar Einarss0nar á Hvilft (óundirritað) dagsett í Vigur 11.12.1846 til Eggerts

Briem.

[63] H.Sk. 13704to, Bréf M. Ein.. á Hvilft (óundirritað) dags. í Vigur 11.12.1846 til Eggerts Briem.

[64] Sama heimild.

[65] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga 1858-1887 og prestsþj.b. Holtsprk. í Önundarfirði 1849-1897.

[66] Skj.s. sýslum. og sv.stj. V-Ís. Mosvallahreppur 4. Hreppsbók 1849-1885; Ársrit S.Í. 1961, 77.

[67] Prestsþj.b. Holtsprk. í Önundarfirði 1849-1897.

[68] Manntal 1.10.1870.

[69] Prestsþj.b. Sanda í Dýrafirði 1865-1901

[70] Sóknalýs. Vestfj. I, 143-144.

[71] Manntal 1.10.1880.

[72] Sama heimild.

[73] Manntal 1.10.1880.

[74] Prestaþj.b. Sandaprk. 1865-1901.

[75] Guðmundur G. Hagalín 1951, 48-49.

[76] G.G. Hag. 1951, 113.

[77] Lbs. 22174to, Dagb. Magnúsar Hjaltasonar 15.9.1898; G.G. Hag. 1951, 113.

[78] Valdimar Gíslason/Viðtal K.Ó. við hann 30.6.1992.

[79] Sóknalýs. Vestfj. II, 71.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »