Frá Hagahrygg, er svo heitir, sést fyrst til bæjar á Laugabóli þegar komið er utan að[1] og svolítið innar opnast sýn um allan Mosdal. Upp af Hagahryggnum eru hátt í fjallinu djúpar gjár og heita þær Hrafnssonagjótur. Sagt er að þangað hafi synir Hrafns Sveinbjarnarsonar á Eyri flúið árið 1213 er faðir þeirra hafði verið tekinn af lífi.[2]
Í Mosdal er meira undirlendi en annars staðar í Auðkúluhreppi enda voru hér löngum fimm bújarðir og er Laugaból yst. Dalurinn er víðast hvar þrír til fjórir kílómetrar, hlíða á milli, en mælt frá fjöru til fjalls er gróið undirlendi einn og hálfur til tveir kílómetrar. Séra Sigurður Jónsson segir í sóknarlýsingu sinni frá árinu 1839 að Mosdalur sé „nokkurs konar stór hvilft upp í fjallaklasann“[3]og eiga þau orð enn vel við. Í Gísla sögu Súrssonar eru Bjartmarssynir, móðurbræður Auðar Vésteinsdóttur, konu Gísla, sagðir hafa búið í Mosdal og til þeirra sendi hún syni Vésteins, bróður síns, unga drengi er hefnt höfðu föður síns á Þorskafjarðarþingi.[4] Á fyrri öldum var mikið skóglendi í dalnum og hér leyndust Hrafnssynir frá Eyri í skógum er Þorvaldur Vatnsfirðingur hugðist ná fundi þeirra haustið 1224.[5] Hann var þá nýlega kvæntur Þórdísi, dóttur Snorra Sturlusonar, og sýndist voldugri en nokkru sinni fyrr. Fjórum árum síðar náðu bræðurnir frá Eyri að brenna þennan föðurbana sinn inni á Gillastöðum í Reykhólasveit.[6]
Hlíðin utan við Laugaból heitir Laugabólshlíð[7] en bærinn dregur nafn af heitri laug sem er utan við túnið. Sumarið 1887 mældist vatnið í henni 39 gráður á Celsíus.[8] Á árunum kringum 1930 var gerð hér sundlaug með torfveggjum en áður höfðu menn lítil not af heita vatninu.[9] Bærinn á Laugabóli stóð í um það bil 300 metra fjarlægð frá sjó og hér var búið allt til ársins 1998.[10]
Að fornu mati var Laugaból 18 hundraða jörð.[11] Í byrjun 18. aldar var beitilandið talið lélegt og engjaheyskapur torsóttur í slitróttu mýrlendi.[12] Hér er oft mikið vetrarríki og í norðvestanátt urðu stundum skaðar af völdum veðurs.[13]
Um 1440 átti Guðmundur ríki Arason á Reykhólum fjórar jarðir hér í Mosdal, Laugaból, Horn, Skóga og Kirkjuból.[14] Seinna eignaðist Ögmundur biskup Pálsson Laugaból, Horn og Skóga[15] en við siðaskiptin, um 1540, sló konungur eign sinni á jarðeignir Ögmundar.[16] Laugaból var æ síðan í eigu konungs[17] uns jörðin var seld með tveimur kúgildum árið 1841 fyrir 599 ríkisdali.[18] Í byrjun 18. aldar var landskuld af Laugabóli greidd með fiski í kaupstað en leigur af kúgildum sem jörðinni fylgdu með smjöri er færa varð heim til umboðsmannsins, Ara Þorkelssonar í Haga á Barðaströnd.[19] Á árunum kringum 1700 fylgdi jörðinni enn sú kvöð að ábúendur urðu að leggja til mann í skiprúm á hverri vorvertíð á skipi umboðsmannsins „sem gekk hér við Arnarfjörð“.[20]
Á liðnum öldum var oft tvíbýli á Laugabóli og svo var enn um síðustu aldamót.[21] Árið 1681 bjuggu hér bændurnir Bjarni Guðmundsson og Þórður Guðmundsson[22] og líklega er það sami Bjarni sem hér var enn við búskap árið 1703, orðinn 52ja ára gamall.[23] Sambýlismaður hans var þá Þorleifur Hannesson.[24] Hjá Þorleifi átti heima móðursystir hans, Ingibjörg Jónsdóttir, ekkja Ara Pálssonar sem brenndur var á Alþingi fyrir galdra árið 1681.[25] Hún hafði gefið Þorleifi frænda sínum þrjú hundruð í jörðinni Kirkjubóli hér í Mosdal[26] en hann fluttist síðar á Ingjaldssand (sjá Sæból).
Á Laugabóli bjuggu árið 1801 bændurnir Jón Ólafsson og Guðmundur Greipsson.[27] Guðmundur fluttist skömmu síðar að bænum Horni hér í dalnum[28] en Jón bjó á Laugabóli allt til ársins 1835 og hafði stundum alla jörðina til ábúðar.[29] Hann var kvæntur Ástríði Bjarnadóttur sem fædd var á Núpi í Dýrafirði.[30] Jón Ólafsson var bróðir Jóhannesar „galdramanns“ sem lengi bjó á Kirkjubóli hér í Mosdal og voru þeir báðir fæddir á Auðkúlu.[31] Í manntalinu frá 1801 er Jón á Laugabóli sagður vera selaskutlari.[32]
Á síðasta fjórðungi 19. aldar bjuggu um alllangt skeið á Laugabóli hjónin Bjarni Bjarnason og Jónína Jónsdóttir en þau hófu hér búskap sinn árið 1879.[33] Hann var sonur Bjarna Þorlaugarsonar sem hér er sagt frá á öðrum stað (sjá Alviðru). Bjarni Bjarnason á Laugabóli var skipstjóri, m.a. á skútunni Thjalfe frá Bíldudal og á Ingólfi frá Tálknafirði.[34] Vorið 1897 var Bjarni skipstjóri á Þráni frá Ísafirði, sem var 15–16 tonna þilskip, en það fórst með allri áhöfn þann 1. maí á því ári og týndi Bjarni þar lífi.[35] Í veðrinu sem þá geisaði fórust fimm skútur.[36] Sonur Bjarna og Jónínu, konu hans, var Sölvi er lengi bjó á Steinanesi,[37] dráttarmaður svo af bar á færafiskiríi.
Einn þeirra sem voru í skiprúmi hjá Bjarna á Laugabóli á árunum kringum 1890 var Hallbjörn Oddsson, fæddur 1867, er seinna ritaði ævisögu sína.[38] Hann var þá búsettur hér í fáein ár og kenndi börnum, bæði á Horni og Laugabóli.[39] Í ævisögunni lýsir Hallbjörn jólahaldi „á Vesturlandi“ á þessum árum og kemst þá m.a. svo að orði:[40]
Á aðfangadag var saltkjötssúpa með kjöti til miðdags og um klukkan 9 kaffi með ýmiskonar brauði, svo sem hagldabrauði (kringlum), pempólísku brauði (=fransbrauð), lummum og á stórheimilum með pönnukökum. … Á jólanóttina máttu þá engir spil taka en urðu að sætta sig við að lesa í bókum, helst guðsorð …
Á jóladagskvöldið var víst óvíða borðaður miðdagsmatur fyrr en klukkan 6 því þá þurfti oftast langan tíma til að skammta, þó hjónin gengju í það verk bæði. Þá var karlmönnum borinn skammturinn í mjólkurtrogum og börnum og konum á stærstu diskum sem fáanlegir voru. Þeir voru oftast annaðhvort úr tré frá Hornströndum eða þá úr óemaljeruðu blikki … Jólamaturinn var hangið kjöt, skötustappa, smjör og stór rúgmjölskaka eða rúgmjölsbrauð sem kallað var jólabrauð, bakað sérstakt fyrir hvern mann … Á jóladagskvöldið byrjaði gleðskapur jólanna fyrst að fullu með því að spila púkk sem í gátu verið sex menn í einu. Við það voru hafðar í peninga stað þorskhausakvarnir sem á vetrum var öllum safnað úr hausum þeim er rifnir voru og borðaðir á vetrinum og dyggði [sic] það ekki eða kvarnir væru ekki til voru óbrenndar kaffibaunir notaðar í þeirra stað.
Hallbjörn getur þess líka að er hann var í Mosdal hafi vinnuhjúum enn verið „vigtað út“ allt brauð og smjör á mánaðarfresti og harðfiskurinn „talinn út“ en þeim sem lakast fóru með mat aðeins skammtað til einnar viku í senn.[41] Vel fór á með Hallbirni og Bjarna skipstjóra á Laugabóli og þegar úthaldinu á skonnortunni Thjalfe lauk, haustið 1889, drukku þeir skilnaðarskál „í tólf gráða rommi“.[42] Heimferð Hallbjörns varð að því sinni söguleg en hann og Jón Jónsson frá Skógum voru settir í land við Folaldshlein, skammt fyrir innan Hokinsdal, og höfðu sína brennivínsflöskuna hvor en mættu á leiðinni mannýgu nauti.[43]
Annar síðasti nítjándu aldar bóndinn hér á Laugabóli var Jón Þórðarson er menn nefndu „dýralækni“ [44]en hann átti sjálfur jörðina.[45] Jón var Borgfirðingur að uppruna en kom í Mosdalinn frá Ísafirði og bjó fyrst á Horni en síðan á Laugabóli.[46] Ýmsir töldu hann göldróttan og sagt var að á Laugabóli hefði hann fundið dalakút í þúfu einni.[47] Þar voru að sögn innibyrgðir voldugir andar í glerglösum og áttu þeir að vernda fjársjóðinn.[48] Voru glösin sjö og einn andi í hverju glasi.[49]
Sé horft til sjávar frá hlaðinu á Laugabóli blasir Reykhóll við augum. Hann er innan við túnið og örskammt frá sjó.[50] Utar er Hjalltangi og rétt fyrir utan hann gamla lendingin á Laugabóli.[51] Nesið utan við vörina heitir Laugarnes[52] og er nær beint niður af heitu lauginni sem áður var minnst á.
Þegar Mosdælingar þurftu á presti að halda kveiktu þeir jafnan bál á Reykhól, ef mark má taka á gömlum sögnum.[53] Slík boðskipti hafa tvímælalaust hentað vel því loftlínan yfir að Rafnseyri er aðeins fjórir kílómetrar en langt að fara fyrir fjarðarbotninn. Sæi prestur reykinn kom hann yfir á báti og sjálfir fóru Mosdælingar ætíð sjóleiðis til kirkju.[54]
[1] HO 1960, 148–149 (Ársrit S.Í.). Sbr. ÖÖ.
[2] ÞN 1951, 162 (Árbók F.Í.).
[3] Sóknalýs. Vestfj. II, 17.
[4] Ísl. fornrit VI, 92–93.
[5] Sturl. II, 129.
[6] Sama heimild, bls. 159–161.
[7] ÞN 1951, 162.
[8] ÞTh 1959 II, 129.
[9] ÞN 1951, 162. ÁgSig KÓ 3.9.1997. Sbr. Sóknalýs. Vestfj. II, 17.
[10] Firðir og fólk 1900-1999, 109.
[11] Jb. Á. og P. VII, 4–5.
[12] Sama heimild.
[13] Jb. Á. og P. VII, 4–5. Sóknalýs. Vestfj. II, 32.
[14] D.I. IV, 684–692. Sbr. þar bls. 265 og D.I. VI, 41–43.
[15] D.I. X, 109–110 og 679.
[16] PEÓ 1924, 14–15. Sbr. D.I. XV, 473–545.
[17] Lbs. 797 4to. Jarðaskrár úr Ísafjs. frá árunum 1658 og 1695. Jb. Á. og P. VII, 4. Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafjs. 1805.
[18] JJ 1847, 435 og 440.
[19] Jb. Á. og P. VII, 4–5.
[20] Sama heimild.
[21] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681. Manntöl 1703, 1762 og 1801. Jb. Á. og P. VII, 4.
[22] Smt. Rafnseyrar. Bændatöl og skuldaskrár 1720–1765, Ísafjs. um 1735, eftirrit.
[23] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.
[24] Manntal 1703.
[25] Sama heimild.
[26] Manntal 1703 og nafnalykill þess. Alþb. Ísl. IX, 86 og 616. Sjá Lokinhamrar.
[27] Alþb. Ísl. IX, 86 og 616. Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdr. (Kph. 1993), bls. 163.
[28] Manntal 1801. Manntal 1703 og nafnalykill þess. Alþb. Ísl. IX, 86 og 616. Sjá Lokinhamrar.
Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdr. bls. 163.
[29] Manntal 1816, 680.
[30] Manntal 1816, 680. Smt. Rafnseyrar.
[31] Sömu heimildir.
[32] Manntal 1816, 680 og 681. Vestf. sagnir I, 198.
[33] Manntal 1801.
[34] Smt. Rafnseyrar.
[35] HO 1960, 129–140.
[36] GilsG 1977 III, 285–288 og V, 245.
[37] Sama heimild.
[38] Prþjb. og smt. Rafnseyrar og Otradals.
[39] HO 1956, 126. Sami 1960, 129–140.
[40] HO 1960, 139.
[41] HO 1960,, 143–145.
[42] Sama heimild.
[43] Sama heimild, bls. 140 og 145–146.
[44] Sama heimild, bls. 145–150.
[45] Vestf. ættir I, 315–319. Smt. Rafnseyrar.
[46] Manntal 1901 og fylgiskjöl.
[47] Vestf. ættir I, 315.
[48] Vestf. sagnir III, 290–291.
[49] Sama heimild.
[50] Sama heimild. Sbr. Vestf. sagnir II, 18.
[51] ÖÖ.
[52] Sama heimild.
[53] ÖÖ.
[54] Vestf. sagnir I, 193.