Laugar

Jörðin Laugar er gömul hjáleiga frá Suðureyri. Um hana segir svo í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710:

Laugar, forn eyðihjáleiga í úthögum [Suðureyrar]) hefur í auðn legið 70 ár eða lengur. Landskuld segjast menn heyrt hafa að verið hafi 30 álnir og leigukúgildi eitt og hálft. Meinast að fóðrast hafi ein kýr. Nú er þetta land mest allt í hrjóstur komið, fyrir utan lítinn part af túninu, og má því ei aftur byggja vegna heyskaparleysis. Landið brúkar heimajörðin til beitar.[1]

Um Lauga mun hvergi vera getið í heimildum frá því fyrir 1700 nema í vísunni Dökknar dreng fyrir augum  ….. sem krotuð var á spássíu rímnahandrits um miðja 16. öld (sjá hér Staður) en þar er minnst á hæverskt vífið á  Laugum. Orð Árna Magnússonar, sem hér var vitnað til, benda líka eindregið til þess að hér hafi verið búið á sextándu öld og máske á fyrri hluta hinnar sautjándu. Óvíst er samt með öllu hvenær fólk settist hér fyrst að og hversu lengi byggðin stóð á  hinum fyrri öldum.

Árið 1775 höfðu Laugar verið í eyði í a.m.k. 135 ár en á árunum kringum 1780 hófst búskapur á ný í þessari gömlu hjáleigu (sjá hér bls. 7) og þaðan í frá hélst hún í byggð nær óslitið allt til ársins 1975[2] (sbr. Firðir og fólk 1900-1999, 444).

Að fornu mati var Suðureyri, ásamt hjáleigunni Laugum, talin 24 hundruð að dýrleika.[3] Á fyrstu árum 19. aldar virðist ekki hafa verið búið að ganga frá skiptum milli Suðureyrar og Lauga með formlegum hætti því að í jarðabók frá árinu 1805 var dýrleiki Lauga talinn óviss.[4] Um það bil 30 árum síðar voru þessi skipti hins vegar komin á hreint sem sjá má á því að í búnaðarskýrslu frá árinu 1837 er Suðureyri sögð vera 20 hundruð að dýrleika og Laugar 4 hundruð.[5] Hjáleigan mun þá í raun hafa verið orðin sjálfstæð bújörð með sömu landamerkjum og haldist hafa óbreytt til þessa dags. Í sumum heimildum frá árunum um og upp úr 1840 er þó enn talað um Lauga sem hjáleigu frá Suðureyri.[6]

Það var innsti hlutinn úr landi Suðureyrar sem Laugar fengu í sinn hlut þegar hjáleigan var gerð að sjálfstæðri bújörð. Hér hefur áður verið gerð grein fyrir landamerkjunum milli þessara tveggja jarða (sjá hér Suðureyri) en innri landamerki Lauga urðu hin sömu og áður höfðu verið merki Suðureyrar á móti Kvíanesi, það er að segja innri röndin á Markskletti,[7] sem er um það bil einum kílómetra fyrir innan bæjarlækinn á Laugum og um 1150 metrum fyrir innan ytri landamerkin. Íbúðarhúsið, sem síðast var búið í hér á Laugum, var niður við þjóðveginn og aðeins rétt fyrir utan bæjarlækinn. Það stóð enn uppi sumarið 1996 en var orðið mjög hrörlegt. Gamla bæjarstæðið var nokkru ofar í túninu og til að finna það er best að ganga upp með læknum uns komið er að útihúsarústum sem talsvert ber á utantil við lækinn. Þar voru áður fjárhús, fjós og hlaða en á sléttri flöt skammt fyrir utan og ofan þau hús stóð bærinn, undir lágum hól.[8] Síðasti bærinn á gamla bæjarstæðinu var timburhús[9] klætt tjörupappa.[10] Í þessum bæ var búið allt til haustsins 1943.[11]

Frá hlaðinu á Laugum sást til fjögurra bæja sem nú eru allir komnir í eyði nema einn. Tveir þeirra, Selárdalur og Gilsbrekka, voru á norðurströnd fjarðarins en hér að vestanverðu sást inn á Kvíanes, þó aðeins neðri bærinn þar, og inn í Botn. Sú jörð er fyrir botni fjarðarins og þar er enn búið góðu búi.

Hjá Laugum er fjörðurinn mjór, ekki nema 700 metrar eða því sem næst stranda á milli. Handan fjarðarins er skógivaxin hlíð og ofan við hana hið fagurskapaða Ásfjall.[12] Skógurinn hér beint á móti heitir Selárdalsskógur en nokkru innar tekur Gilsbrekkuskógur við[13] (sbr. hér Gilsbrekka og Selárdalur). Á heitum sumardögum lagði oft birkiilm frá skóginum yfir fjörðinn og þá einkum þegar hafði rignt en stytt var upp og sól fór að skína.[14]

Fjöllin sem mest ber á í nánd við fjarðarbotninn eru Svarthamrahorn, sem er norðan við Botnsdal, og Búrfell fyrir botni dalsins (sjá hér Botn). Hér vestan við fjörðinn og nær Laugum sjáum við Kvíanesnúp og er brún hans í 632ja metra hæð yfir sjávarmáli (sjá hér Kvíanes). Neðan við Núpinn er mjög stór bunga í fjallshlíðinni, lítt gróin, og var hún jafnan nefnd Stórabunga af fólkinu sem bjó á Laugum á fyrri hluta tuttugustu aldar.[15] Annað og líklega eldra nafn mun vera Innri-Trogabunga.[16] Mun utar og aðeins tæplega einum kílómetra innan við Lauga er Markskletturinn sem einnig dregur að sér athygli sé horft inn með hlíðinni frá gamla bæjarstæðinu á Laugum. Klettur þessi er neðantil við miðja hlíðina en því fer reyndar fjarri að þetta sé einn stakur klettur. Heldur nær væri að tala um klettaröð sem afmarki á þrjá vegu, að innan, neðan og utan, sérstakan ferningslaga hallandi flöt þarna í hlíðinni. Sú hlið á Marksklettinum sem snýr að fjarðarströndinni er um 100 metrar á lengd en illfærastir eru klettarnir neðst í innri hliðinni.

Ofan við túnið á Laugum er hvilft í fjallshlíðinni og heitir hún Laugahvilft.[17] Hún nær svolítið út fyrir landamerkin (sjá hér Suðureyri) og inn að Kötlum sem eru skammt fyrir utan Marksklettinn (sjá hér bls. 34). Úr hvilftinni kemur bæjarlækurinn og einnig Leitislækurinn sem rann skammt utan við gamla túnið á Laugum og rétt fyrir innan Ytra-Leiti sem svo heitir.[18]

Fjallið ofan við Lauga nefna menn Laugafjall[19] (sbr. hér Fremri-Vatnadalur). Klettabeltin neðan við fjallsbrúnina eru illkleif og brúnin sjálf svo eggmjó að sagt var að þar uppi gæti maður setið klofvega og látið fæturna dingla sinn hvorum megin.[20] Ekki er það fjarri lagi. Sæmilega færir menn geta þó fylgt brúninni á göngu en verða að lækka sig örlítið þar sem hún er mjóst. Þessi fjallsbrún liggur víðast hvar í 500-550 metra hæð yfir sjávarmáli.

Í fjallsbrúninni ofan við Lauga eru þrjú kennileiti. Innst er Steinmaðurinn, skammt utan við landamerkin.[21] Þetta er stór lóðréttur steinn sem stendur á öðrum steini og er sá neðri láréttur.[22] Utar og beint upp af bæjarstæðinu á Laugum er Kista[23] en hæsta strýtan á þeim hnúk heitir Laugatindur.[24] Svolítið utar og aðeins rétt innan við landamerki Lauga og Suðureyrar er þriðja kennileitið í brún fjallsins, skarð sem ýmist mun hafa verið nefnt Laugaskarð[25] eða Dyraskarð[26] (sbr. hér Fremri-Vatnadalur) og skýrist það nafn af lögun skarðsins. Sé horft frá þjóðveginum upp í skarðið virðist karl og kona hafa orðið þar að steini. Þau standa þétt saman og munu vart skiljast að í bráð.

Um landslag í landareign Lauga segir Kristján G. Þorvaldsson að það sé allt með líðandi halla upp að brattri fjallshlíð[27] og er sú lýsing rétt.

Hin gömlu eyktamörk, sem fólkið á Laugum notaði á fyrri tíð til að sjá hvað tímanum liði, munu hafa verið þessi:

 

Dagmál:    Búrfell.

Hádegi:     Kvíanesnúpur.

Nón:          Innan við Laugatind.

Miðaftann: Hæð, sem svo heitir, í fjallsbrúninni utan við landamerki

Lauga og Suðureyrar.

Náttmál:    Háakleif.[28]

 

Um sumarsólstöður sést til sólar á Laugum skamma stund á kvöldin og kemur hún þá fyrst í ljós yfir Búðargili í fjallinu Gelti, handan fjarðarins, og gengur undir utan við Norðureyrargil.[29]

Í matsgerð frá árunum kringum 1920 er túnið á Laugum sagt vera snögglent og óslétt og útengi ógreiðfært en þurrlent.[30] Af túninu fengust þá að jafnaði 35 hestar af töðu en af engjunum mátti fá um það bil 70 hesta af útheyi.[31] Í nýnefndri matsgerð er beitiland jarðarinnar talið sæmilegt fyrir sauðfé en fjörubeit sögð vera lítil.[32] Þar er líka tekið fram að á Laugum sé snjólétt.[33]

Lítið sem ekkert var um hlunnindi á Laugum og svo virðist sem fyrri tíðar menn hafi ekki talið hina heitu laug út við landamerkin til landkosta. Merkilegt er að sjá í jarðabók frá árinu 1805 að þá var talið unnt að stunda fiskiróðra frá Laugum að sumri til og gert ráð fyrir að árlegur hásetahlutur úr þeim róðrum næmi á landsvísu andvirði liðlega þrettán álna[34] eða sem svaraði um 11% úr kýrverði.

Þegar Árni Magnússon kom í Súgandafjörð í jarðabókarerindum sumarið 1710 kváðust gamlir Súgfirðingar hafa heyrt að árleg landskuld af Laugum hefði á árum áður verið 30 álnir (einn fjórði úr kýrverði) og að hjáleigu þessari hefði fylgt hálft annað innstæðukúgildi.[35] Í hverju kúgildi voru sex ær. Þegar Árni Magnússon ræddi við Súgfirðinga höfðu Laugar reyndar verið í eyði í a.m.k. 70 ár eins og hér hefur áður verið nefnt. Í heimild frá því um miðja nítjándu öld sést hins vegar að þá var jarðarafgjaldið hið sama og nefnt er í Jarðabókinni frá 1710 og fjöldi innstæðukúgilda sem fylgdu jörðinni líka óbreyttur.[36] Líklegt er að hin fornu ákvæði um 30 álnir í landskuld og 9 leiguær hafi strax gengið í gildi á ný þegar aftur var farið að búa á Laugum á árunum kringum 1780. Um 1920 hafði leiguánum, sem jörðinni fylgdu, fækkað úr níu í sex og þá var hin árlega landskuld 50,- krónur.[37]

Jörðin var þá virt á 1.200,- kr. og hús sem hér stóðu á 500,- kr.[38] Að fornu mati var dýrleiki Lauga aðeins fjögur hundruð eins og hér hefur áður verið nefnt svo ljóst er að við fasteignamatið, sem fram fór á árunum kringum 1920, hefur hvert hundrað jarðarinnar verið virt á 300,- kr. Þetta er mun hærri upphæð en almennt var því að meðaltali var hvert jarðarhundrað í Suðureyrarhreppi virt á 148,87 kr.[39] Þá er Suðureyri reyndar ekki reiknuð með því þar hafði landverðið margfaldast á skömmum tíma vegna þorpsmyndunar. Sú staðreynd að þeir sem sæti áttu í fasteignamatsnefnd á árunum kringum 1920 skyldu meta Lauga svona hátt bendir eindregið til þess að þeir hafi talið jörðina vanmetna að hundraðatali á fyrri tíð.

Bændurnir, sem bjuggu á Laugum á 18. og 19. öld, munu allir eða nær allir hafa verið leiguliðar. Þó má vera að Bjarni Bjarnason, sem fyrstur manna reisti bú á Laugum á síðari tímum, hafi talist eiga þessi fjögur jarðarhundruð (sjá hér bls. 7). Á síðustu árum 18. aldar mun Jón Bjarnason, er þá bjó á Gelti í Súgandafirði, að öllum líkindum hafa átt Lauga (sjá hér Suðureyri) og fullvíst er að árið 1805 var kotið í eigu Margrétar Guðnadóttur sem bjó á Gelti og var ekkja eftir nýnefndan Jón Bjarnason.[40] Við skipti á dánarbúi Margrétar vorið 1814 komu Laugar í hlut dóttur hennar, Guðfinnu Jónsdóttur,[41] sem giftist haustið 1815 Kjartani Ólafssyni frá Eyri í Önundarfirði er síðar var lengi bóndi í Tröð í sama firði[42] (sbr. hér Tröð). Guðfinna dó 1834 en Kjartan 1863.[43]

Allt bendir til þess að dóttir Kjartans og Guðfinnu, sem Margrét hét, hafi erft Lauga* eftir foreldra sína því það var eiginmaður hennar, Jón Arnfinnsson, bóndi og skipherra í Lambadal í Dýrafirði, sem seldi þá Hjalta Sveinssyni í Súðavík fyrir 250 ríkisdali 13. ágúst 1874.[44] Þórður Magnússon í Hattardal gekk frá kaupunum á Laugum fyrir hönd Hjalta í Súðavík sumarið 1874 og Sighvatur Borgfirðingur, fræðimaður á Höfða í Dýrafirði, fylgdi Þórði inn í Lambadal þegar hann kom í þessum erindum til Dýrafjarðar.[45]

Hjalti Sveinsson andaðist vorið 1903[46] og má ætla að hann hafi þá enn verið eigandi Lauga. Í fasteignamatsskjölum frá árunum skömmu fyrir 1920 er Friðrik Guðmundsson í Súðavík sagður eiga Lauga[47] en enginn maður með því nafni var til í Súðavík eða Súðavíkurþorpi á þeim árum.[48] Þarna mun því vera átt við Friðrik Guðjónsson, sem á árunum 1915-1920 átti jafnan heima í Tröð í Súðavíkurþorpi,[49] en hann var tengdasonur hins fyrri eiganda þessarar sömu jarðar, Hjalta Sveinssonar í Súðavík.[50]

 

*Í máli Súgfirðinga var talað um Lauga og Laugana eins og  bæjarnafnið væri karlkynsorð í fleirtölu. Sbr. bæjarnöfnin Fljótar, Lyngar og Slýjar í Skaftafellssýslu.

Suðureyrarhreppur keypti síðan Lauga af Friðriki og fékk afsalsbréf fyrir jörðinni 3. júní 1923[51] en seldi hana árið 1944 Páli Helga Péturssyni, er hóf búskap á Laugum vorið 1945, og varð hann síðasti bóndinn sem hér bjó[52] (sbr. Firðir og fólk 1900-1999,444).

Á Laugum mun aldrei hafa verið tvíbýli[53] en stöku sinnum var hér húsfólk auk ábúandans og fjölskyldu hans.

 

Á árunum 1785-1900 var bústofn fólksins á Laugum oftast ein eða tvær kýr og 10-20 sauðkindur, auk lamba og gemlinga en en orðið gemlingur merkti veturgamalt fé.[54] Flestir þeirra sem bjuggu á Laugum áttu líka einn hest.[55] Á fyrstu árum nítjándu aldar var bústofninn á Laugum stundum enn minni en hér var nefnt, ef marka má opinberar heimildir, og á árunum um og upp úr 1850 var hann nokkru meiri en almennt var á þeirri öld. Sem dæmi má nefna að árið 1805 var hér engin kýr og aðeins 9 sauðkindur og árið 1821 bjó bóndinn á Laugum með eina kú og 5 ær.[56] Í búnaðarskýrslu frá árinu 1850 er bústofninn á Laugum hins vegar sagður vera ein kýr, 24 ær og 42 aðrar sauðkindur en þá eru lömbin talin með.[57] Tíu árum síðar bjó bóndinn á Laugum með 2 kýr, 13 ær, 4 hrúta og sauði, 11 gemlinga og 1 hest[58] sem líka mátti kallast viðunandi á þeirrar tíðar mælikvarða. Til marks um það má nefna að á því ári voru 5 af 17 bændum í Suðureyrarhreppi með minna bú en sá sem bjó á Laugum og 2 með álíka stóran bústofn og Laugabóndinn.[59]

Um 1920 var jörðin talin geta framfleytt einni kú, 30 sauðkindum og einu hrossi.[60]

Í búnaðarskýrslu frá árinu 1791 sést að enginn bátur var þá til á Laugum.[61] Á árunum milli 1820 og 1830 virðist Laugabóndinn líka yfirleitt hafa verið bátlaus.[62] Árið 1834 var fólkið á Laugum hins vegar búið að eignast lítinn bát sem var 2ja eða 3ja manna far.[63] Næstu 30 ár átti fólkið sem hér bjó alltaf eða nær alltaf slíkan bát[64] en árið 1870 var hér enginn bátur.[65] Árið 1880 var bóndinn sem þá bjó á Laugum búinn að koma sér upp bátsskel, 2ja eða 3ja manna fari[66] og skömmu eftir 1890 urðu þau stórtíðindi að ungur bóndi á þessari fjögurra hundraða jörð eignaðist sexæring[67] (sjá. hér bls. 23-24).

 

Sá sem fyrstur reisti bú á Laugum á síðari tímum hét Bjarni Bjarnason og var sonur Bjarna Brynjólfssonar, bónda á Suðureyri, og konu hans Halldóru Jónsdóttur (sjá hér Suðureyri). Bjarni yngri var fæddur um 1755[68] og kvæntist liðlega tvítugur að aldri Guðríði Jónsdóttur frá Vatnadal.[69] Í sóknarmannatali frá febrúarmánuði árið 1787 er Brynjólfur sonur þeirra, sem þá var á heimili ömmu sinnar á Suðureyri, sagður vera níu ára gamall[70] og hefur því að líkindum fæðst árið 1777 eða 1778. Líklegt er að Bjarni og Guðríður hafi gengið í hjónaband um svipað leyti og þessi elsti sonur þeirra fæddist og verið getur að þau hafi þá þegar farið að búa á Laugum. Með fullri vissu er vitað að vorið 1785 var Bjarni Bjarnason búandi ekkjumaður á Laugum[71] og 3. júlí á því ári kvæntist hann í annað sinn og gekk að eiga Sigríði Pálsdóttur sem þá átti líka heima hér og var sögð 24 ára gömul.[72] Sigríður var dóttir Páls Pálssonar er lengi bjó á Kvíanesi á síðari hluta 18. aldar[73] (sbr. hér Kvíanes).

Bjarni Brynjólfsson á Suðureyri, faðir Bjarna Bjarnasonar á Laugum, var sjálfseignarbóndi og bjó um skeið einn á allri Suðureyri (sjá hér Suðureyri). Hann andaðist haustið 1784 (sjá hér Suðureyrii) og má telja mjög líklegt að Bjarni sonur hans hafi þá fengið Lauga eða annan part úr Suðureyrarlandi í arf.

Bjarni Bjarnason, sem fyrstur manna reisti að nýju byggð á Laugum, bjó hér aðeins í nokkur ár því hann fluttist að Suðureyri árið 1786 ásamt konu sinni, Sigríði Pálsdóttur,[74] sem hér var áður nefnd. Með sinni fyrstu konu, Guðríði Jónsdóttur, hafði Bjarni eignast þrjá syni sem voru á aldrinum 5 – 9 ára er hann fór frá Laugum.[75] Elstur þeirra var Brynjólfur en hinir tveir hétu báðir Jón.[76] Með Sigríði Pálsdóttur eignaðist Bjarni líka nokkur börn, m.a. Guðríði og Pál, sem fæddust á árunum 1786-1788[77] og Herdísi[78] sem mun hafa alist upp á Kvíanesi hjá systur Sigríðar (sjá hér Kvíanes). Um svipað leyti og Bjarni fluttist frá Laugum að Suðureyri varð hann hreppstjóri og í sóknarmannatali frá febrúarmánuði árið 1787 er hann sagður vera vel að sér.[79]

Á Suðureyri bjó Bjarni aðeins í tvö ár, 1786-1788, en fluttist þá burt úr Súgandafirði.[80] Líklegast er að hann hafi þá þegar farið norður í Grunnavíkurhrepp og fullvíst að á árunum upp úr 1790 bjó hann á Nesi í Grunnavík.[81] Um svipað leyti og Bjarni yfirgaf Súgandafjörð missti hann Sigríði konu sína en kvæntist skömmu síðar í þriðja sinn.[82] Þriðja kona hans hét Guðríður Brandsdóttir[83] og árið 1801 bjuggu þau á Kirkjubóli í Reykjarfirði í Grunnavíkurhreppi.[84] Þau áttu þá þrjú börn á aldrinum 6 – 9 ára og í manntalinu frá 1816 sjáum við að a.m.k. tvö þessara barna voru fædd á Nesi í Grunnavík.[85] Árið 1816 var Bjarni dáinn en ekkja hans, Guðríður Brandsdóttir, og tveir synir þeirra, Rafn og Bjarni, voru þá öll á Álfsstöðum í Hrafnfirði í Grunnavíkurhreppi.[86]

Hér hefur nú verið greint frá því litla sem kunnugt er um Bjarna þann sem fyrstur síðari tíma manna reisti bú á Laugum en hann fór héðan vorið 1786 eins og áður var nefnt. Fardagaárið 1786-1787 voru Laugar í eyði en vorið 1787 hófu hér búskap hjónin Einar Magnússon og Guðrún Pálsdóttir.[87] Þau bjuggu hér í fimm ár en síðan lengi í Selárdal[88] og svo niðjar þeirra til 1912 og verður nánar frá þeim sagt þegar staldrað verður við á þeim bæ (sjá hér Selárdalur). Fardagaárið 1792-1793 voru Laugar í eyði en vorið 1793 eða 1794 settust hér að hjónin Illugi Jónsson og Arngerður Árnadóttir sem bæði voru þá um fertugt.[89] Þau höfðu áður búið í Staðarhúsum ytri, hjáleigu í landi prestssetursins Staðar í Súgandafirði,  og komu þaðan að Laugum (sjá hér Staður, Staðarhús ytri þar). Hér bjuggu þau í a.m.k. tíu ár og kynnu að hafa verið hér eitthvað lengur en voru sannanlega farin fyrir 1811.[90] Fardagaárið 1810-1811 var Arngerður á Stað í Súgandafirði en þar voru þá líka sem vinnuhjú sonur hennar, Filippus Illugason, og kona hans, Guðbjörg Þorgilsdóttir.[91] Illugi og Arngerður áttu a.m.k. fjögur börn, synina Bjarna, Filippus og Þorstein og dótturina Sigríði, sem öll voru hjá þeim á Laugum um lengri eða skemmri tíma, fædd á árunum 1778-1792.[92] Vera má að Illugi hafi dáið hér á Laugum en Arngerður andaðist árið 1821 og var þá ekkja á sveitarframfæri í Staðarhúsum.[93]

Næstu ábúendur á Laugum, sem um er kunnugt, voru hjónin Sigurður Sigurðsson og Þórunn Jónsdóttir sem hér hefur áður verið sagt frá (sjá Staður, Staðarhús fremri þar). Þau Sigurður og Þórunn hófu búskap á Laugum eigi síðar en vorið 1810 og bjuggu hér í tvö til sex ár.[94] Í sóknarmannatali frá árinu 1811 er þessi bóndi á Laugum sagður vera ekki vel ræmdur en tekið fram að Þórunn kona hans sé hægferðug og góðlynd og  fróð í andlegu. Þau Sigurður og Þórunn höfðu áður búið í Fremri-Staðarhúsum, hjáleigu frá Stað er stundum var nefnd Vandræðakot, og seinna voru þau í húsmennsku í Fremri-Vatnadal (sjá hér Fremri-Vatnadalur).

Þegar sóknarpresturinn húsvitjaði á Laugum í marsmánuði árið 1817 voru hér við bú hjónin Torfi Jónsson og Sigríður Snjólfsdóttir og kynnu að hafa búið hér allt frá vorinu 1812.[95] Frá þeim hefur áður verið sagt í þessu riti (sjá hér Staður, Staðarhús fremri þar) en þau komu hingað frá nýnefndu Vandræðakoti alveg eins og Sigurður og Þórunn sem bjuggu hér næst á undan þeim.[96]

Á Laugum bjó jafnan fátækt fólk og hjá þeim Torfa og Sigríði konu hans mun ekki hafa verið auður í búi. Í sóknarmannatali sínu frá árinu 1817 lætur presturinn þess getið að þau brúki aðfengnar bækur en séu þó ekki óskýr í andlegu.[97] Guðsorðabækur til húslestra hafa þau sem sagt orðið að fá lánaðar.

Í prestsþjónustubókinni frá Stað í Súgandafirði er Torfi Jónsson, bóndi á Laugum, sagður hafa andast á jóladag árið 1818[98] en í sóknarmannatölum frá sama presti, séra Eiríki Vigfússyni, er Torfi enn talinn fyrir búi á Laugum í marsmánuði árið 1819 og líka í sama mánuði árið 1820[99] og er þetta furðulegur ruglingur. Ætla verður að rétt sé greint frá andláti Torfa í prestsþjónustubókinni og hefur ekkjan, Sigríður Snjólfsdóttir, þá staðið hér fyrir búi árið 1819 og fram að fardögum á næsta ári.[100] Þá fór hún í húsmennsku en var þó áfram um kyrrt á Laugum.[101] Tveimur árum síðar tók hún svo aftur við búsforráðum og stóð hér fyrir búi allt til vorsins 1826[102] er hún settist að í þurrabúð á Selinu, einum kílómetra fyrir utan Lauga (sjá hér Suðureyri). Þangað fylgdi henni eina barnið sem þau Torfi eignuðust, drengurinn Jón Torfason sem var að verða 17 ára.[103] Þau mæðgin höfðust við á Selinu í tvö ár[104] og eru eina fólkið sem þar hefur haft fasta búsetu svo kunnugt sé. Þaðan fóru þau að Klúku, hjáleigu frá Botni, vorið 1828 og þar munum við hitta þau enn á ný í fyllingu tímans (sjá hér Botn, Klúka þar).

Þegar Sigríður Snjólfsdóttir hætti búskap á Laugum í hið fyrra sinn, það er að segja vorið 1820, tóku hjónin Jón Jónsson og Helga Jónsdóttir við jörðinni.[105] Þau höfðu áður búið á jarðarparti í Botni og voru þar árið 1816.[106] Í manntalinu frá því ári er Jón sagður vera 40 ára, fæddur í í Súgandafirði, en Helga 27 ára, fædd á Hanhóli í Bolungavík.[107] Jón þessi Jónsson er líklega sá hinn sami og var 25 ára gamall vinnumaður í Bæ árið 1801[108] en Helga var þá hjá móður sinni, Gróu Jónsdóttur, á Hanhóli í Bolungavík, sögð 14 ára í manntalinu frá því ári.[109] Ekkjan Gróa fluttist reyndar frá Hanhóli að Fremri-Vatnadal í Súgandafirði árið 1801 og þangað fylgdu henni fjögur börn sem hún hafði eignast með manni sínum, Jóni Guðmundssyni, bónda á Hanhóli (sjá hér Fremri-Vatnadalur). Eitt þeirra var nýnefnd Helga, síðar húsfreyja á Laugum. Systkini hennar þrjú ílentust líka öll í Súgandafirði (sjá hér Fremri-Vatnadalur).                                                                                                                                                                                                                                                           Sigmundur bróðir hennar varð bóndi í Botni (sjá hér Botn) en Ingibjörg systir þeirra giftisti Guðmundi Jónssyni, er um skeið bjó á Görðum í Önundarfirði en fluttist síðar til Súgandafjarðar, og voru þau foreldrar Friðberts Guðmundssonar, bónda og hreppstjóra í Vatnadal, sem andaðist árið 1899 (sjá hér Garðar og Fremri-Vatnadalur).

Jón Jónsson, eiginmaður Helgu Jónsdóttur frá Hanhóli, náði aðeins að búa á Laugum í eitt ár því hann dó úr landfarsótt árið 1821, þá liðlega hálffimmtugur.[110] Ekkjan, Helga Jónsdóttir, stóð hins vegar fyrir búinu til vorsins 1822[111] en virðist hafa fengið sér ráðsmann, Filippus Illugason, því að í búnaðarskýrslu frá haustinu 1821 er hann skráður fyrir búinu á Laugum sem reyndar var ekki nema ein kýr, fimm ær og einn hestur ef marka má skýrsluna.[112] Filippus var sonur Illuga Jónssonar og Arngerðar Árnadóttur, sem áður bjuggu hér á Laugum um skeið, og var hann um fertugt árið 1821[113] (sbr. hér bls. 8). Í sóknarmannatölum frá árunum 1820 til 1823 er Filippus jafnan sagður vera vinnumaður í Bæ[114] svo að hann virðist ekki hafa sinnt búinu á Laugum nema í fáa mánuði.

Ljóst er að Helga Jónsdóttir frá Hanhóli var húsfreyja á Laugum frá 1820 til 1822.[115] Einn þriggja sona hennar og eiginmannsins, Jóns Jónssonar, var Jóhannes er seinna varð bóndi á þessari sömu jörð og bjó hér frá 1850 til 1863[116] (sbr. hér bls. 13-14). Bræður hans hétu Helgi og Berthold.[117] Helga Jónsdóttir, áður húsfreyja á Laugum, dó hjá Jóhannesi syni sínum 25. júlí 1843 en hann var þá bóndi í Botni.[118]

Vorið 1822 tók Sigríður Snjólfsdóttir við búsforráðum á Laugum á nýjan leik eins og hér var áður greint frá og bjó að því sinni í fjögur ár en þegar hún hætti vorið 1826 tók Guðmundur Úlfsson við.[119] Hann var þá að verða 32ja ára gamall, fæddur í Bæ haustið 1794.[120] Foreldrar hans voru hjónin Úlfur Andrésson og Ástríður Guðmundsdóttir er bjuggu árið 1801 á Kerlingarstöðum í Grunnavík[121] en 1816 í Botni í Súgandafirði.[122]

Er Guðmundur hóf búskap á Laugum var hann enn ókvæntur en Ástríður móðir hans, sem þá var orðin ekkja, var fyrir framan hjá honum.[123] Hún var þá um sextugt og er í sóknarmannatali frá árinu 1827 sögð vera bæði sköruglynd og skýr í andlegu.[124] Ástríður var fædd á Guðnýjarstöðum í Helgafellssveit á Snæfellsnesi[125] og var systir Össurar Guðmundssonar sem hóf búskap í Bæ í Súgandafirði árið 1789[126] og bjó þar uns hann andaðist árið 1804 eða 1805 (sjá hér Bær). Bergljót Össurardóttir í Bæ, eiginkona Magnúsar Guðmundssonar, hins ríka bónda sem þar bjó um skeið á allri jörðinni, og Guðmundur Úlfsson á Laugum hafa því verið systkinabörn.

Fyrstu fjögur árin sem Guðmundur bjó á Laugum var hann ókvæntur en haustið 1830 gekk hann að eiga Guðfinnu, dóttur Þorgils Erlingssonar, bónda í Bæ, og konu hans, Solveigar Gísladóttur.[127] Guðfinna, sem var um það bil tíu árum yngri en Guðmundur, tók þá við búsforráðum innanstokks á Laugum en Ástríður gamla dvaldist hér þó áfram í skjóli sonar síns uns hún andaðist 25. júlí 1834.[128]

Árið sem Guðmundur Úlfsson kvæntist Guðfinnu eignaðist hann dreng sem nefndur var Sigurður en svo virðist sem Guðfinna hafi ekki verið móðir þessa pilts því að í sóknarmannatali frá árinu 1832 er hann sagður vera bóndans launsonur.[129] Um fæðingu Sigurðar þessa Guðmundssonar er ekki getið í prestsþjónustubók Staðar í Súgandafirði en hann ólst upp hjá föður sínum á Laugum og við fermingu vorið 1844 er hann sagður hafa fæðst í febrúarmánuði árið 1830,[130] um það bil sjö mánuðum áður en Guðmundur kvæntist Guðfinnu. Með eiginkonu sinni, Guðfinnu Þorgilsdóttur, eignaðist Guðmundur Úlfsson þrjú börn sem náðu að komast upp.[131] Elstur þeirra var Þorgils sem líklega hefur verið eitthvað tæpur til höfuðsins því við fermingu árið 1848 er hann sagður vera mjög skilningsdaufur[132] og þrítugur að aldri var hann nefndur léttingur. Hann var þá enn á Laugum hjá nýjum ábúendum.[133] Dætur Guðmundar og Guðfinnu á Laugum voru Málfríður, sem giftist Brynjólfi Jónssyni, bónda og hreppstjóra í Bæ, og Guðbjörg, sem giftist Guðmundi Þórarinssyni á Stað, en þeir drukknuðu báðir 18. desember 1873[134] (sjá hér Bær).

Guðmundur Úlfsson bjó á Laugum frá vorinu 1826 og allt til dauðadags en hann andaðist 17. desember 1847 úr brjóstveiki.[135] Búskaparár hans hér urðu því 21 og hálfu betur en ekkja hans bjó áfram til vorsins 1850[136] svo að samanlögð búskaparár þeirra beggja urðu 24.

Svo virðist sem Guðmundi Úlfssyni hafi búnast heldur vel á Laugum. Hann byrjaði smátt og var á sínu öðru búskaparári aðeins með eina kú og tíu ær.[137] Árið 1834 var búið orðið mun stærra en þá bjó Guðmundur með 2 kýr, 14 ær, 4 gemlinga og 1 hest.[138] Hann var þá líka búinn að koma sér upp litlum báti, sem var 2ja eða 3ja manna far.[139] Bátinn átti hann enn 1840 en þá bjó þessi sami Laugabóndi með 2 kýr, 12 ær og 3 gemlinga ef marka má hinar opinberu búnaðarskýrslur.[140]

Heyfeng sinn reyndi Guðmundur að auka með því að veita vatni á tún eða engi og gróf í þeim tilgangi 20 faðma langan skurð árið 1837.[141] Á því ári var hann eini bóndinn í Suðureyrarhreppi sem sinnti  slíkum framkvæmdum.[142] Fáum árum síðar lengdi hann þennan áveituskurð um 30 eða 50 metra.[143]

Flest árin sem Guðmundur Úlfsson bjó á Laugum var hann með eitthvað af vinnufólki.[144] Andrés Úlfsson, bróðir hans, var lengi vinnumaður á Laugum á því tímabili og fardagaárið 1835-1836 var hér Ástríður systir þeirra með unga dóttur sína.[145] Eitt árið, 1827-1828, fékk ekkjan Guðrún Hallsdóttir líka að dveljast hér í húsmennsku með dóttur sína, Guðfinnu Markúsdóttur, sem þá var á fermingaraldri.[146] Guðrún hafði verið gift Markúsi Jónssyni og bjuggu þau lengi í Keflavík norðan við Gölt en áður í Botni (sjá hér Botn og Keflavík).

Á síðustu búskaparárum Guðmundar Úlfssonar var alllengi hjá honum vinnumaður sem hét Eiríkur Bjarnason, sagður 50 ára árið 1847.[147] Þegar Guðmundur bóndi andaðist á jólaföstunni árið 1847 mun Eiríkur hafa gerst forverksmaður hjá ekkjunni, húsmóður sinni á Laugum. Aðstoðar hans naut hún þó aðeins í 16 mánuði og 11 daga því 28. apríl 1849 varð hann úti í kafaldsbyl.[148] Er sóknarpresturinn skráir andlát Eiríks tekur hann fram að þessi liðlega fimmtugi vinnumaður hafi verið fyrirvinna á Laugum.[149] Prestur lætur þess hins vegar ekki getið hvar Eiríkur hafi orðið úti sem bendir til þess að hann hafi orðið magnþrota við útiverk á Laugum eða á ferð milli bæja í Súgandafirði en ekki á heiðum uppi.

Á árinu 1849 voru hjónin Einar Brynjólfsson og Guðlaug Sigmundsdóttir skamman tíma í húsmennsku með börn sín tvö á Laugum, hjá ekkjunni Guðfinnu Þorgilsdóttur sem þá stóð hér enn fyrir búi.[150] Í desembermánuði á þvi ári voru Einar og Guðlaug hins vegar farin og í þeirra stað komin hjónin Jóhannes Jónsson og Rósa Guðmundsdóttir sem vorið 1850 tóku við búsforráðum er ekkjan Guðfinna Þorgilsdóttir vék frá og gerðist húskona á Norðureyri.[151]

Þau Jóhannes og Rósa, sem hófu búskap á Laugum vorið 1850, höfðu áður búið í nokkur ár í Botni[152] en hingað komu þau frá Stað og höfðu verið þar í húsmennsku á árunum 1847-1849 (sjá hér Staður).

Jóhannes var fæddur 25. september árið 1808[153] og var sonur hjónanna Jóns Jónssonar og Helgu Jónsdóttur sem þá áttu heima á Suðureyri en bjuggu síðar um skeið í Botni[154] og svo um skamman tíma hér á Laugum (sjá hér bls. 9-10). Jóhannes ólst upp hjá foreldrum sínum í Súgandafirði en árið 1831 fluttist hann frá Suðureyri og gerðist vinnumaður á Kleifum í Skötufirði við Ísafjarðardjúp.[155] Sumarið 1832 kvæntist hann Rósu Guðmundsdóttur[156] er þá mun hafa átt heima á Kleifum eða þar í grennd. Rósa var dóttir hjónanna Guðmundar Sigurðssonar og Elínar Vilhjálmsdóttur á Kleifum eins og fram er tekið af presti við fermingu hennar vorið 1821.[157] Þau höfðu áður, á árunum kringum 1810, búið í fáein ár á Stað í Súgandafirði (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli og Staður) og þar var Rósa hjá þeim árið 1811, sögð 5 ára gömul.[158] Í embættisbók sinni lætur presturinn í Ögurþingum þess getið að annar tveggja svaramanna við giftingu Jóhannesar og Rósu 26. ágúst 1832 hafi verið Guðmundur Sigurðsson[159] og má telja nær fullvíst að um sé að ræða föður brúðarinnar en hann náði háum aldri og dó á Kleifum 26. febrúar 1848.[160]

Mjög skömmu eftir brúðkaupið fluttist Rósa með Jóhannesi til Súgandafjarðar og vorið 1833 hófu þau búskap á jarðarparti í Botni.[161] Þar munu þau hafa búið í 14 ár[162] en höfðu verið tvö ár í húsmennsku á Stað er þau komu að Laugum árið 1849 eins og fyrr var nefnt. Hér töldust þau líka vera húsfólk fyrsta veturinn en tóku við búsforráðum vorið 1850.[163]

Hjónin Jóhannes Jónsson og Rósa Guðmundsdóttir virðast hafa verið barnlaus en þau ólu upp fósturdóttur sem var um fermingaraldur er þau fluttust hingað að Laugum.[164] Hún hét María Sigurðardóttir og var dóttir hjónanna Sigurðar Sigurðssonar, sem dó skömmu eftir að þessi dóttir hans fæddist, og Guðrúnar Örnólfsdóttur á Suðureyri Snæbjörnssonar.[165]

Þau Jóhannes og Rósa bjuggu á Laugum í 13 ár, frá 1850 til 1863.[166] Á sínu fyrsta búskaparári hér voru þau með eina kú, 24 ær, 18 gemlinga, sauði og hrúta og 24 lömb.[167] Jóhannes átti þá lítinn bát sem var 2ja eða 3ja manna far.[168] Tíu árum síðar bjuggu þau hér með 2 kýr, eina kvígu, 13 ær, 11 gemlinga, 4 sauði og hrúta og einn hest.[169] Bátur Laugafólksins árið 1860 var sá sami og það hafði átt tíu árum fyrr eða annar álíka stór.[170]

Þó að Jóhannes og Rósa á Laugum væru barnlaus var heimili þeirra stundum allfjölmennt og má sem dæmi nefna að árið 1855 voru heimilismennirnir átta.[171] Líklega hafa hjón þessi ekki verið alveg sárfátæk og víst er um það að þegar gamall hökull úr Staðarkirkju var boðinn upp 26. júní 1856 varð Jóhannes á Laugum hæstbjóðandi og keypti hökulinn fyrir 1 ríkisdal og 20 skildinga.[172] Sú upphæð svaraði þá til liðlega fjórðungs úr ærverði[173] en ætla má að þegar Jóhannes bauð í hökulinn hafi vakað fyrir honum að færa konu sinni efni í flík á hana sjálfa eða fósturdótturina sem þá var komin um tvítugt.

Árið 1862 giftist María Sigurðardóttir, fósturdóttir hjónanna á Laugum, Þórði Jónssyni sem fæddur var á Tannanesi í Önundarfirði haustið 1839 (sjá hér Ytri-Vatnadalur). Vorið 1863 tóku þau við búsforráðum á Laugum en Jóhannes og Rósa, sem komin voru á sextugsaldur, gerðust vinnuhjú hjá fósturdótturinni og eiginmanni hennar.[174] Einhver kjarkur hefur verið í Maríu á Laugum því er hún giftist Þórði tók hún þegar í stað að sér ungan systurson sinn úr Önundarfirði, sjö ára gamlan dreng sem hét Hálfdán Örnólfsson.[175] Móðir Hálfdáns var Sigríður Sigurðardóttir, systir Maríu, en faðir hans var Örnólfur Magnússon og bjuggu þau á Kirkjubóli í Korpudal.[176] Örnólfur andaðist úr brjóstveiki haustið 1863 (sjá hér Kirkjuból í Korpudal) og hefur líklega verið orðinn heilsutæpur þegar María mágkona hans tók drenginn að sér árið 1862. Hálfdán Örnólfsson ólst síðan upp hjá Þórði og Maríu, fyrst á Laugum en síðan í Botni. Hann fluttist á yngri árum til Bolungavíkur og varð þar kunnur bóndi og hreppstjóri í Meirihlíð.[177] Niðjar hans eru nú fjölmennur hópur. Líklega hefur Hálfdán verið nokkuð baldinn á unglingsárum því við fermingu hans vorið 1869 bókar prestur að drengur þessi sé bærilega lesandi en ekki vel artaður.[178]

Þau Þórður Jónsson og María Sigurðardóttir eignuðust sjálf 10 börn en misstu þau öll nema tvo syni (sjá hér Ytri-Vatnadalur). Hjón þessi stóðu fyrir búi á Laugum í þrjú ár, frá 1863 til 1866, en fluttust þá inn í Botn og bjuggu þar á jarðarparti uns María andaðist á fimmtugsaldri árið 1882.[179] Fáum árum síðar fluttist Þórður að Ytri-Vatnadal og bjó þar alllengi með ráðskonu (sjá hér Ytri-Vatnadalur) en andaðist á Suðureyri árið 1921.[180]

Vorið 1866 fóru hjónin Sigurður Þorleifsson og Gróa Jónsdóttir að búa á Laugum og bjuggu þau hér í átta ár.[181] Sigurður var eitt margra barna Þorleifs Þorkelssonar, bónda á Suðureyri, og konu hans, Valdísar Örnólfsdóttur, fæddur 1822[182] (sbr. hér Suðureyri). Árið 1840 var hann enn heima  hjá foreldrum sínum á Suðureyri[183] en  haustið 1845 var hann orðinn vinnumaður í Súðavík hjá Össuri Magnússyni frá Bæ í Súgandafirði er flust hafði þaðan vorið 1843 að Hvítanesi í Ögursveit og til Súðavíkur vorið 1845[184] (sbr. hér Bær). Fimm árum síðar var Sigurður Þorleifsson vinnumaður á Dvergasteini í Álftafirði hjá hjónunum Jóni Jónssyni og Sigríði Þórarinsdóttur og 13. september 1850 gekk hann að eiga Gróu, sem var dóttir húsmóðurinnar á Dvergasteini og fyrri eiginmanns hennar, Jóns Gunnlaugssonar, er búið hafði á Látrum í Mjóafirði við Ísafjarðardjúp.[185] Árið 1835 var Gróa Jónsdóttir 5 ára gömul hjá foreldrum sínum á Látrum[186] en var komin að Dvergasteini með móður sinni haustið 1845.[187] Jón Gunnlaugsson, faðir Gróu, mun hafa verið dóttursonur Bjarna Brynjólfssonar sem bjó á Suðureyri í Súgandafirði á síðari hluta 18. aldar[188] (sbr. hér Suðureyri).

Upp úr 1850 fluttust móðir Gróu og stjúpfaðir úr Álftafirði inn að Látrum og haustið 1855 voru þau Sigurður og Gróa vinnuhjú þar hjá þessum sömu hjónum.[189] Skömmu síðar fengu yngri hjónin part úr þeirri jörð til ábúðar og voru þar við bú árið 1860.[190] Að sögn bjuggu þau líka stuttan tíma í Skálavík[191] og mun þá átt við Skálavík við Mjóafjörð í Reykjarfjarðarhreppi hinum forna við Djúp. Sumarið 1865 voru Sigurður og Gróa komin til Súgandafjarðar því Sigríður Svanhildur, dóttir þeirra, fæddist í Botni 21. águst á því ári.[192]

Þegar þau fluttust að Laugum vorið 1866 áttu þau a.m.k. fjögur börn á lífi sem öll fylgdu þeim til hins nýja bústaðar.[193] Þrjár dætur bættust svo við á Laugum, Konkordía, Guðbjörg og Gróa, en frá þeim öllum er sagt annars staðar í þessu riti (sjá hér Norðureyri, Göltur og Eyri).[194] Árið 1870 var Sigurður á Laugum með minnsta búið í Suðureyrarhreppi, eina kú, sex ær og átta gemlinga.[195] Hann átti reyndar líka hest en engan bát.[196]

Þó að bú Sigurðar væri lítið átti hann í svolitlum verslunarviðskiptum við verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri. Sumarið 1874 hætti hann að búa og á því ári nam úttekt hans hjá versluninni á Flateyri tæplega 40 ríkisdölum.[197] Í júlímánuði á því ári keypti hann m.a. rokk sem kostaði 4 ríkisdali og 48 skildinga og fékk sér kaskeiti sem kostaði 64 skildinga. Þann 24. ágúst 1874 fór Sigurður í kaupstaðarferð og keypti eitt pund af rullu, tvö pund af kaffi, tvö pund af sykri, eitt pund af kaffirót, tvö pund af brauði, níu álnir af rafndúk, lítið eitt af seglgarni, einar lamir, átján skrúfur, eina skrá, einn klút, hálfa alin af fínu lérefti, einn pott af brennivíni og tók svo út einn ríkisdal í peningum.[198] Samtals kostaði þessi varningur, sem hér var síðast talinn upp, 8 ríkisdali og 44 skildinga.[199] Dýrast var kaffið því fyrir tvö pund af því varð að borga 1 ríkisdal og 32 skildinga en brennivínspotturinn kostaði aðeins 32 skildinga,[200] sömu fjárhæð og 250 grömm af kaffi.

Öll var úttektin hjá þessum bónda á Laugum við hóf og með því að leggja inn hlutinn sinn frá vorvertíðinni, virtan á 38 ríkisdali og 79 skildinga, tókst honum að jafna reikningana við Hjálmar kaupmann og átti reyndar inni 1 ríkisdal og 80 skildinga við lok ársins 1874.[201] Líklega hefur Sigurður drýgt tekjur sínar með veiðiskap því sagt er að hann hafi um skeið verið einn þeirra þriggja manna í Súgandafirði sem best kunnu að fara með byssu og mun hafa skotið bæði sel og tófu.[202]

Þegar Sigurður Þorleifsson hætti búskapnum á Laugum sumarið 1874 var hann 52ja ára gamall. Þau Gróa kona hans fóru þá í vinnumennsku til Þorbjörns Gissurarsonar á Suðureyri.[203] Er Sigurður hætti búskap hefur hann líklega verið farinn að tapa heilsu og við lok ársins 1877 var hann heilsulaus ómagi á Gelti.[204] Seinna náði hann sér þó á strik því haustið 1880 taldist hann vera vinnumaður hjá Kristjáni Albertssyni á Suðureyri.[205] Gróa, eiginkona Sigurðar, var þá vistráðin hjá Ólafi Lárentíussyni í Bæ.[206]

Vorið 1885 fór Sigurður Sigurðsson, elsti sonur þessara hjóna, að búa á Gilsbrekku og þá fóru foreldrarnir til hans.[207] Sigurður Þorleifsson dó á Gilsbrekku 22. maí 1887 en Gróa fluttist þaðan tveimur árum síðar norður í Hnífsdal.[208] Hún kom aftur í Súgandafjörð 1890 og var í sjö ár hjá Þorleifi syni sínum á Norðureyri (sjá hér Norðureyri). Haustið 1901 var Gróa enn á lífi og dvaldist þá hjá dóttur sinni, Sigríði Svanhildi Sigurðardóttur, og eiginmanni hennar, Árna Sigurðssyni pósti, en þau áttu heima á Gildrunesi í Ísafjarðarkaupstað og var Árni póstur á leiðinni frá Ísafirði til Bíldudals.[209]

Fardagaárið 1874-1875 voru Laugar í eyði en vorið 1875 hófu hjónin Guðmundur Guðmundsson og Ingibjörg Friðbertsdóttir búskap á jörðinni. Guðmundur var þá 23ja ára, fæddur 22. júní 1852.[210] Hann var sonur Guðmundar Guðmundssonar, bónda og hreppstjóra á Suðureyri, sem sagt er frá á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Suðureyri)), og konu hans, Kristínar Þorleifsdóttur á Suðureyri Þorkelssonar.[211] Þessi nýi bóndi á Laugum var því systursonur Sigurðar Þorleifssonar sem hér bjó næst á undan.

Þegar Guðmundur, síðar bóndi á Laugum, var 15 ára gamall missti hann föður sinn en dvaldist áfram hjá móður sinni sem stóð fyrir búi á Suðureyri allt til vorsins 1875.[212] Sumarið 1874 kvæntist hann Ingibjörgu Friðbertsdóttur frá Vatnadal, sem fædd var 25. ágúst 1849, en hún var elsta barn Friðberts Guðmundssonar, bónda og hreppstjóra í Fremri-Vatnadal og síðar í Hraunakoti, og fyrri konu hans, Arnfríðar Guðmundsdóttur.[213] Frá foreldrum Ingibjargar er sagt hér á öðrum stað (sjá Fremri-Vatnadalur).

Guðmundur Guðmundsson var eini sonur foreldra sinna og átti bara eina systur sem náði að vaxa úr grasi, Kristínu sem var einu ári yngri en hann.[214]  Með hliðsjón af því kann að virðast nokkuð undarlegt að hann skyldi ekki taka við búi á Suðureyri af móður sinni, er hún hætti búskap vorið 1875, en hefja þess í stað á sama tíma búhokur á Laugum sem leiguliði. Hvað mestu hefur ráðið um þetta er óljóst en vera má að Kristín Þorleifsdóttir, móðir Guðmundar, hafi haft meiri trú á tengdasyni sínum, Kristjáni Albertssyni, til stórræða en hann var reyndar líka systursonur hennar og þeir Guðmundur því systrasynir (sjá hér Suðureyri). Sú varð að minnsta kosti raunin á að Kristján tók við búinu á Suðureyri af tengdamóður sinni sem þar hafði búið á 6 hundruðum sem hún átti sjálf og 4 hundruðum sem voru í eigu föður hennar (sjá hér Suðureyri) en Guðmundur gerðist kotbóndi á Laugum, jörð sem aðeins var virt á fjögur hundruð. Vera má að hann hafi vikið glaður frá Suðureyri en hafi uppgjörið milli þeirra Kristjáns valdið einhverjum sárindum þá eru þau nú gleymd og að engu orðin í tímans hulda djúpi.

Þau Guðmundur Guðmundsson og Ingibjörg Friðbertsdóttir bjuggu á Laugum í 16 ár, frá 1875 til 1891, og voru svo hér í húsmennsku fardagaárið 1891-1892.[215] Er þau fluttust að Laugum áttu þau einn dreng sem þau misstu sumarið 1877, en hér á Laugum eignuðust þau þrjú börn og náðu tvö þeirra að komast upp, Friðbert, sem varð útgerðarmaður og hreppstjóri á Suðureyri, og Arnfríður sem varð húsfreyja þar í kauptúninu.[216]

Öll sín búskaparár á Laugum var Guðmundur leiguliði því Hjalti Sveinsson í Súðavík átti jörðina (sjá hér bls. 5). Við andlát Kristínar Þorleifsdóttur, móður Guðmundar, árið 1883, erfði hann hins vegar 3 hundruð í Suðureyri og hélt þeirri eign allt til dauðadags (sjá hér Suðureyri).

Árið 1880 bjó Guðmundur Guðmundsson á Laugum með 2 kýr, 10 ær, 10 gemlinga, 1 hest og folald.[217] Bátur sem hann átti þá var tveggja eða þriggja manna far.[218] Allt var þetta smátt í sniðum og minnsta búið í Suðureyrarhreppi ef frá eru taldir þeir sem voru kýrlausir og máttu því að réttu lagi fremur kallast þurrabúðarmenn en bændur.[219] Árið 1888 var þessi sami bóndi á Laugum þó mun nær því að komast í þrot en verið hafði 1880 því ef marka má tíundarskýrslu átti hann nú hvorki kú né bát, aðeins 12 ær, 9 gemlinga og  hest.[220] Á þessum árum í kringum 1890 mun Guðmundur á Laugum hafa verið mjög heilsulítill og líklega legið við að hann yrði að selja hundruðin sem hann átti í Suðureyri. Bókun í fundargerð hreppsfundar er haldinn var 1. mars 1890 varpar ljósi á hagi þessa fátæka bónda. Þar segir:

 

Svo var rætt um bóndann, Guðmund Guðmundsson á Laugum, að fá mann til hans en það var ekki fáanlegt. Fundarmenn höfðu góð orð um að leggja saman og gefa ofannefndum Guðmundi af hlutum sínum í vor sem svaraði meðalhlut.[221]

 

Eins og áður var frá greint hætti Guðmundur búskap vorið 1891 og ári síðar fluttist hann frá Laugum að Suðureyri.[222] Ljóst er að þá fór að rætast úr fyrir honum á ný. Á Suðureyrarmölum reisti hann árið 1892 lítið hús upp úr gamalli verbúð og nefndi það Róm eða Rómaborg (sjá hér Suðureyri). Við bærilega heilsu hlýtur þessi fyrrverandi bóndi á Laugum að hafa verið árið 1897 en þá reri hann við annan mann frá Suðureyrarmölum á tveggja manna fari er hann átti og færði að landi 7080 fiska (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli). Þetta var reyndar meiri afli á hvern skipverja en hjá nokkrum öðrum formanni er sótti sjó frá Súgandafirði það ár og eins var það bæði 1898 og 1899 (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli). Nú gætu menn haldið að sonur Guðmundar, Friðbert, sem fæddur var árið 1878, hafi róið með föður sínum á þessum árum og átt stærstan hlut í þessum mikla afla. Sú hugdetta fær þó vart staðist því Kristján G. Þorvaldsson fullyrðir að Friðbert hafi farið á þilskip strax eftir ferminguna og jafnan verið á skútum næstu sumur.[223] Þessi efnilegi piltur, sem árið 1906 varð formaður og eigandi að mótorbát, kynni þó að hafa róið með föður sínum á haustin á síðustu árum 19. aldar.

Þegar Guðmundur Guðmundsson fluttist frá Laugum og reisti Rómaborg á Suðureyrarmölum var hann fertugur að aldri og átti 26 ár ólifuð. Hann andaðist 9. mars 1918 og hafði þá verið ekkjumaður í átta mánuði (sjá hér Suðureyri).

Kristján G. Þorvaldsson segir á einum stað að ýmsir hafi talið þau álög hvíla á jörðinni Laugum að þar gæti enginn búið lengur en í 20 ár án þess að verða fyrir alvarlegu óláni.[224] Sami höfundur segir að einhverjir hafi talið veikindi Guðmundar Guðmundssonar á árunum kringum 1890 stafa af því að hann hefði brotið þessa bannhelgi.[225] Greinilegt er að hér hefur eitthvað skolast til hjá Kristjáni því nýnefndur Guðmundur stóð ekki fyrir búi á Laugum nema í 16 ár eins og fyrr var nefnt. Kenningin um álög af þessu tagi gæti hins vegar hafa komið upp þegar Guðmundur Úlfsson, bóndi á Laugum, veiktist af brjóstveiki og dó, 53ja ára að aldri, en hann andaðist á jólaföstu árið 1847 og hafði þá búið á Laugum í 20 ár og einu betur (sjá hér bls. 11-13) en allir aðrir búendur á Laugum á 18. og 19. öld bjuggu hér skemur en í 20 ár. Á tuttugustu öldinni hafa tveir bændur hins vegar búið á jörðinni í mun lengri tíma án þess að verða fyrir alvarlegu óláni, Pétur Sveinbjörnsson í 35 ár og Páll Helgi sonur hans í 30 ár (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 444).

Á búskaparárum Guðmundar Guðmundssonar og Ingibjargar Friðbertsdóttur á Laugum var hér lítið um húsfólk en vorið 1887 settist hér þó að í húsmennsku annar Guðmundur Guðmundsson og Guðný Þórðardóttir sem var fylgikona hans.[226] Guðmundur þessi húsmaður var sonur hjónanna Guðmundar Jóhannessonar og Kristínar Guðbrandsdóttur í Bæ, fæddur 20. maí 1858,[227] en Guðný var frá Ytri-Vatnadal, dóttir Þórðar Þórðarsonar og Helgu Sigurðardóttur, fædd 5. október 1863.[228]

Fyrsta barn sitt með Guðmundi Guðmundssyni frá Bæ eignaðist Guðný sumarið 1884, þegar hún var tvítug að aldri.[229] Þau voru þá bæði hjá foreldrum hennar í Ytri-Vatnadal en þegar annað barn þeirra fæddist haustið 1885 var Guðmundur kominn til Ísafjarðar og þar var hann vinnumaður í tvö ár.[230] Þaðan kom hann að Laugum vorið 1887 og fluttist Guðný þá líka hingað frá Suðureyri.[231] Þriðja barn þeirra fæddist hér sumarið 1887 en þá voru þau enn ógift.[232] Þann 11. september um haustið voru þau Guðmundur frá Bæ og Guðný frá Vatnadal loks pússuð saman af presti en sjö vikum síðar, þann 24. október 1887, drukknaði þessi unga þriggja barna móðir sem þá var búsett á Laugum.[233]

Halldór Guðmundsson, sem fæddist í Neðri-Breiðadal í Önundarfirði árið 1872 en fluttist ungur til Súgandafjarðar og átti heima á Suðureyri þegar hann andaðist árið 1951, greinir frá drukknun Guðnýjar í broti úr sjálfsævisögu er hann ritaði á gamals aldri. Hann segir þar að Guðný hafi ásamt manni sínum, Guðmundi Guðmundssyni, verið að sigla yfir fjörð, þó nokkuð innarlega [234] og bætir síðan við:

 

Kom þá vindhviða, líklega í baksegl sem kallað er og hvolfdi bátnum undir þeim hjónum. Guðmundur komst með naumindum á kjöl en Guðný drukknaði og hefur lík hennar aldrei fundist.[235]

 

Sú fullyrðing Halldórs að lík Guðnýjar hafi aldrei fundist er að líkindum hárrétt því að prestur nefnir ekki greftrunardag er hann skráir andlát hennar í bók sína.[236]

Einni viku eftir slysið er greint frá atburði þessum í blaðinu Þjóðviljanum sem gefið var út á Ísafirði. Þar segir:

 

Í Súgandafirði varð bátstapi 24. þessa mánaðar. Hjónin Guðmundur Guðmundsson á Laugum og Guðný kona hans höfðu farið tvö á bát yfir að Gilsbrekku að sækja lömb en á heimleiðinni kom rokspilda er hvolfdi bátnum. Þau hjón komust á kjöl en skömmu síðar kom önnur spilda og venti bátnum. Konan varð þá viðskila við bátinn og drukknaði en manninum skolaði á land.

Skip var eigi að fá þar nálægt nema á Suðureyri og var þá orðið um seinan að bjarga.[237]

 

Þegar liðinn var hálfur mánuður frá drukknun Guðnýjar settist hreppsnefndaroddvitinn, Jóhannes Hannesson í Botni, við skriftir og ritaði sýslumanni bréf er svo hljóðar:

 

Konan Guðný Þórðardóttir á Laugum hér í hrepp drukknaði 24. október þessa árs 23ja ára gömul.  Hún giftist í haust Guðmundi Guðmundssyni.  Þau hjón áttu þrjú börn, 1. Sigurð Guðmundsson 5 ára, 2. Guðmund Guðmundsson 2ja ára, 3. Þórð Guðmundsson 1 árs.

Þau hjón voru bláfátæk og hefi ég haldið fund og ráðstafað börnunum.

                               Botni, 8. nóvember 1887

Jóhannes Hannesson.[238]

 

Guðmundur Guðmundsson, húsmaður á Laugum, sem missti konu sína er bát þeirra hvolfdi hér inni á firðinum haustið 1887, fór þá að Suðureyri og var þar vinnumaður næstu tvö eða þrjú ár.[239] Elsti sonur hans var á þeim árum og nokkru lengur í fóstri hjá afa sínum og ömmu í Bæ, þeim Guðmundi Jóhannessyni og Kristínu Guðbrandsdóttur, en yngsti sonurinn fór í fóstur að Stað og var þar til 14 ára aldurs.[240] Miðsonurinn var sá eini sem fylgdi föður sínum og voru þeir alnafnar, hétu báðir Guðmundur Guðmundsson.[241] Árið 1889 eða 1890 fluttist Guðmundur með drenginn til Ísafjarðar[242] en um það leyti eignaðist hann sitt fjórða barn. Móðir þess var María Maríasdóttir á Suðureyri (sjá hér Botn). Haustið 1890 kvæntist hann í annað sinn og gekk þá að eiga Kristínu Rósinkarsdóttur sem átti heima á Fossum í Skutulsfirði er þau gengu í hjónaband.[243] Þegar prestur bókar hjónavígsluna segir hann Guðmund vera 33ja ára ekkjumann á Ísafirði[244] en hann var í raun einu ári yngri. Slík ónákvæmni varðandi aldur manna var enn mjög algeng á síðustu árum nítjándu aldar.

Hjónin Guðmundur Guðmundsson og Kristín Rósinkarsdóttir fluttust frá Ísafirði til Ameríku árið 1892 og með þeim fóru þá sonur þeirra, Guðni Helgi, sem fæddist á Ísafirði 22. febrúar 1891, og sonur Guðmundar af fyrra hjónabandi, sem líka hét Guðmundur, sagður 8 ára í Vesturfaraskrá[245] en var í raun 7 ára, fæddur 22. október 1885.[246] Frá dvalarstöðum Guðmundar Guðmundssonar á fyrstu árum hans í Ameríku og örlögum yngsta sonar hans, Guðna Helga, sem féll á vígstöðvunum í Frakklandi í heimsstyrjöldinni fyrri, er sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Bær).

Hér er einnig á öðrum stað frá því greint að yngsti sonur Guðmundar og fyrri konu hans, drengurinn Þórður Helgi sem ólst upp á Stað í Súgandafirði, hafi farið 14 ára gamall til Ameríku á vit föður síns árið 1901 (sjá hér Bær). Um Sigurð, elsta son Guðmundar Guðmundssonar og Guðnýjar Þórðardóttur, sést minna í tiltækum heimildum. Hann var enn hjá afa sínum og ömmu í Bæ við lok ársins 1894, þá tíu ára gamall,[247] en í sóknarmannatali frá 31.12.1895 er strikað yfir nafn piltsins.[248] Presturinn lætur þó vera að taka fram hvort drengurinn dó eða fluttist burt og þá hvert en slík embættisvanræksla hindrar alla rannsókn. Vel má vera að þessi elsti sonur Guðnýjar Þórðardóttur á Laugum hafi dáið á barnsaldri en hitt er líka hugsanlegt að hann hafi lifað lengi austan hafs eða vestan.

Vorið 1891 byrjuðu hjónin Guðmundur Sigurðsson og Arína Þórðardóttir búskap á Laugum og bjuggu hér í átta ár.[249] Er þau komu að Laugum var Guðmundur 26 ára gamall, fæddur á Gilsbrekku 14. júlí 1865[250] en Arína 24 ára, fædd í Ytri-Vatnadal 31. maí 1867 (sjá hér Bær). Guðmundur var sonur Sigurðar Jónssonar, er bjó á Gilsbrekku í allmörg ár (sjá hér Gilsbrekka), og konu hans, Guðfinnu Þorleifsdóttur á Suðureyri Þorkelssonar.[251] Faðir Guðmundar var seinni eiginmaður móður hans en hún hafði áður verið gift Albert Jónssyni á Gilsbrekku.[252] Þeir Guðmundur Sigurðsson og Kristján Albertsson á Suðureyri voru hálfbræður, áttu báðir Guðfinnu Þorleifsdóttur fyrir móður.[253] Þegar Guðmundur var þriggja ára gamall missti hann móður sína en faðir hans bjó áfram á Gilsbrekku og kvæntist fáum árum síðar Þorlaugu Þorleifsdóttur, systur fyrri konunnar.[254]

Guðmundur Sigurðsson ólst upp á Gilsbrekku, hjá föður sínum og stjúpu, en er hann var tvítugur að aldri fluttist hann með föður sínum að Selárdal og voru þeir þar í húsmennsku í tvö ár.[255] Frá 1887 til 1891 voru þeir feðgar hjá Kristjáni Albertssyni á Suðureyri.[256] Á þeim árum mun Guðmundur stundum hafa verið í skiprúmi norður í Hnífsdal eða í Bolungavík því Einar Jónsson á Suðureyri lætur þess getið í dagbók sinni 10. október 1889 að þann dag hafi þessi ungi piltur farið norður að róa.[257]

Haustið 1890 voru Guðmundur Sigurðsson og unnusta hans, Arína Þórðardóttir, gefin saman í hjónaband[258] en hún var dóttir Þórðar Þórðarsonar er bjó í Ytri-Vatnadal frá 1866 til 1885 og konu hans Helgu Sigurðardóttur (sjá hér Ytri-Vatnadalur og Bær). Arína var því systir Guðnýjar Þórðardóttur sem átt hafði heima á Laugum er hún drukknaði haustið 1887 (sjá hér bls. 20-21).

Þegar ungu hjónin, Guðmundur og Arína, fluttust hingað að Laugum og hófu búskap vorið 1891 voru þau barnlaus en næsta vor eignuðust þau fyrsta barnið, drenginn Ibsen, og á þeim átta árum sem þau bjuggu hér urðu börnin fjögur en seinna bættust fleiri við.[259] Sigurður Jónsson, faðir Guðmundar, fluttist með syni sínum og tengdadóttur að Laugum.[260] Hann var þá á sextugsaldri og átti hér heima öll árin sem Guðmundur og Arína bjuggu á þessu koti.[261] Ætla má að Sigurður hafi unnið heimilinu og verið því þarfur. Hann dó hjá Guðmundi syni sínum í Bæ árið 1903.[262]

Við upphaf búskapar síns á Laugum átti Guðmundur Sigurðsson enga kú og allur búpeningur hans var 9 ær, 1 gemlingur og hálfur hestur sem hann átti á móti Guðmundi Guðmundssyni er áður bjó á jörðinni.[263] Árið 1893 voru hjónin á Laugum komin með belju en um miðjan nóvember á því ári leit illa út með hana eins og sjá má í dagbók Einars Jónssonar sem þá átti heima í Ytri-Vatnadal. Hann skrifar 13. nóvember: Örnólfur [Jóhannesson] á Suðureyri kom hér eftir keilulýsi að bera á kúna á Laugum. Hún hva vera að drepast.[264]

Að missa kú var ekki lítill skaði en svo virðist sem keilulýsið úr Vatnadal hafi ekki dugað til að bjarga kúnni á Laugum því sumarið 1894 keyptu Laugahjónin kú norður í Bolungavík og fór Arína þangað norður að sækja hana þann 18. júlí.[265] Með Arínu í þeirri för var systir hennar, Guðrún Þórðardóttir, húsfreyja á Suðureyri, síðari eiginkona Kristjáns Albertssonar sem þar bjó (sjá hér Suðureyri).

Sumarið 1895 áttu hjónin á Laugum eina kú sem ekki var leigufær [266] og mun það að líkindum hafa verið sú hin sama og sótt var yfir heiði til Bolungavíkur einu ári fyrr.

Auk þessarar belju var bústofn Guðmundar á Laugum árið 1895 aðeins 10 ær og 10 gemlingar og tryppi sem hann átti að hálfu á móti nafna sínum, Guðmundi Guðmundssyni á Suðureyri.[267] Samt var bóndinn á Laugum engan veginn bláfátækur því hann hafði nú eignast sexæring[268] (sbr. hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli). Enginn bændanna sem áður bjuggu hér og um er kunnugt hafði átt svo stóran bát. Annað hvort áttu þeir engan bát eða þá fleytu af minnstu gerð, það er að segja tveggja eða þriggja manna far[269] (sbr. hér bls. 6).

Með komu Guðmundar Sigurðssonar að Laugum varð því í raun bylting í búskaparháttum á þessari gömlu hjáleigu því á sexæringnum urðu Guðmundi allir vegir færir til sjósóknar. Skip sitt gerði Guðmundur jafnan út frá Suðureyri og var sjálfur formaður (sjá hér Suðureyri). Hann reri bæði að vetrinum og á vorvertíðinni[270] og fiskaði vel. Árið 1897 var bátur bóndans á Laugum sá aflahæsti í Súgandafirði en þá dró hann með skipverjum sínum um það bil 13.000 fiska (sjá hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli). Sjósóknari þessi á Laugum var líka búhagur vel.[271] Árið 1894 smíðaði hann kúfiskplóg[272] og mun á langri ævi einnig hafa smíðað nokkra báta.[273]

Guðmundur Sigurðsson og Arína Þórðardóttir fluttust frá Laugum vorið 1899 en þá hófu þau búskap í Bæ og bjuggu þar í yfir 40 ár (sjá hér Bær). Sjósókn frá Suðureyri hélt hann áfram lengi vel, átti þar verbúð og hafði árið 1906 forgöngu um kaup á einum af fjórum fyrstu mótorbátunum sem Súgfirðingar eignuðust (sjá hér Suðureyri). Að lokum skal þess getið að báturinn sem Guðmundur Sigurðsson átti um það leyti sem hann hóf búskap á Laugum hét Máni en árið 1903 átti hann sexæringinn Áslaugu (sjá hér Suðureyri). Mótorbáturinn sem Guðmundur og félagar hans keyptu árið 1906 fékk nafnið Sigurvon og reyndist það nafn lengi happasælt.

Þegar Guðmundur Sigurðsson fór frá Laugum vorið 1899 tók Sveinbjörn Pálsson við jörðinni.[274] Hann var þá 45 ára og hafði áður búið á Kvíanesi og í Botni. Faðir Sveinbjörns, afi og langafi í beinan karllegg höfðu allir búið mann fram af manni á Kvíanesi[275] en þeir voru af hinni gömlu Kvíanesætt sem hér er sagt frá á öðrum stað (sjá Kvíanes). Foreldrar Sveinbjörns voru hjónin Páll Guðmundsson og Rósinkranza Guðmundsdóttir sem stóðu fyrir búi á Kvíanesi frá 1856 til 1863 og bjuggu síðan í fjögur ár á hálfri Suðureyri (sjá hér Kvíanes).

Níu ára gamall fluttist Sveinbjörn með foreldrum sínum frá Kvíanesi að Suðureyri en innan við fermingu varð hann að fara til vandalausra og var smali í Selárdal er hann fermdist vorið 1869, sagður vel að sér og siðlegur.[276] Eftir ferminguna varð hann vinnumaður í Selárdal og átti þar heima allt til ársins 1880 en þá gekk hann í hjónaband og gerðist húsmaður á Gelti.[277]

Á vinnumannsárum sínum í Selárdal var Sveinbjörn stundum í skiprúmi hjá Ólafi Gissurarsyni, bónda á Ósi í Bolungavík,[278] en Ólafur var frá Selárdal og bróðir Þorvaldar Gissurarsonar sem þar bjó á þessum árum. Á þessu skeiði ævinnar var Sveinbjörn talinn ötull liðlegheita- og frískleikamaður og að sögn var hann tvær eða þrjár vertíðir formaður á öðrum tveggja báta Ólafs á Ósi.[279]

Stúlkan sem Sveinbjörn kvæntist haustið 1880 hét Guðmundína Jónsdóttir og var dóttir Jóns Halldórssonar, bónda og hreppstjóra á Kirkjubóli í Skutulsfirði, og síðari eiginkonu hans, Rannveigar Ólafsdóttur.[280] Er Sveinbjörn og Guðmundína gengu í hjónaband var hann 26 ára en hún 19 ára. Þau höfðu áður eignast tvær dætur, fæddar 1878 og 1879.[281] Sú eldri dó á fyrsta ári en sú yngri, Pálína Ólafía, sem fæddist á Ósi í Bolungavík 16. desember 1879, náði að vaxa úr grasi[282] og með hana kom Guðmundína úr Bolungavík að Gelti vorið 1880.[283]

Á Gelti voru þau Sveinbjörn og Guðmundína aðeins eitt ár eða tæplega það. Þegar Pétur sonur þeirra fæddist í maímánuði vorið 1881 voru þau komin í Klúku, sem var hjáleiga frá Botni, og höfðust þar við í húsmennsku í tvö ár.[284] Búskap hófu þau á Kvíanesi vorið 1883 og bjuggu þar í þrjú ár en á jarðarparti í Botni frá 1886 til 1899.[285]

Áður en Sveinbjörn og Guðmundína kona hans fluttust frá Botni að Laugum vorið 1899 höfðu þau eignast ellefu börn og voru átta á lífi.[286] Þrjú bættust svo við hjá þeim á Laugum á árunum 1900-1905.[287]

Sveinbjörn var ætíð leiguliði og oft mun hafa verið þröngt í búi hjá þeim hjónum. Á árunum upp úr 1890 höfðu þau aðeins þrjú hundruð til ábúðar í Botni og við lá að þau misstu það jarðnæði vegna fátæktar (sjá hér Botn). Árið 1901 var bústofn Sveinbjörns hér á Laugum ein kýr, sem ekki var leigufær, sjö ær, fjórir gemlingar og einn hestur, ef marka má tíundarskýrslu.[288] Enginn bátur var þá til á Laugum.[289] Vera má að sauðkindurnar hafi verið eitthvað fleiri en fram kemur í skýrslunni en fremur ólíklegt verður að telja að þær hafi verið 30-40 en svo margar segir Halldór Guðmundsson þær hafa verið haustið 1904.[290] Halldór fór þá um Suðureyrarhrepp sem baðstjóri og sá um fjárböðun á öllum bæjunum.[291] Endurminningar sínar, sem hér var vitnað til, skrifaði hann hins vegar um það bil 40 árum síðar og varla við því að búast að hann myndi þá enn hver fjártalan var á hverju býli þetta löngu liðna haust. Í nýnefndri frásögn Halldórs af böðunarferðinni haustið 1904 kemst hann svo að orði að Sveinbjörn á Laugum hafi verið einna fátækastur allra bænda í sveitinni með mörg börn á litlu koti.[292]

Flest bendir til þess að Sveinbjörn Pálsson hafi fyrst og fremst verið sjómaður. Hann var háseti hjá Kristjáni Albertssyni á Suðureyri í hákarlalegu árið 1877 er þeir fengu hrakning og náðu landi í Rekavík bak Látur, norðan við Aðalvík (sjá hér Suðureyri). Tuttugu og sjö árum síðar, haustið 1904, var hann í skiprúmi hjá Jóni Einarssyni á Suðureyri, tengdasyni Kristjáns Albertssonar, þá fimmtugur bóndi á Laugum.[293] Á sexæringnum hjá Jóni voru þeir þá báðir Laugafeðgar, Sveinbjörn og Pétur sonur hans[294] sem þá var 23ja ára gamall og tók við búi á Laugum af föður sínum vorið 1908.[295]

Sveinbjörn Pálsson var síðasti nítjándu aldar bóndinn á Laugum og segir Valdimar Þorvaldsson frá Selárdal að hann hafi verið sæmdarmaður.[296] Eiginkona Sveinbjörns, Guðmundína Jónsdóttir, húsfreyja á Laugum, dó 16. maí 1907 og hafði fjórum dögum áður orðið 46 ára gömul.[297] Þau hjónin áttu þá ellefu börn á lífi og voru fjögur þeirra innan við tólf ára aldur.[298] Af þessum ellefu börnum höfðu átta alist upp hjá foreldrum sínum að öllu leyti, allt þar til Guðmundína andaðist, og hin þrjú að nokkru leyti.[299]

Fardagaárið 1907-1908 bjó Sveinbjörn áfram á Laugum en vorið 1908 tók Pétur sonur hans við búsforráðum. Hann var þá 27 ára gamall og nýlega kvæntur Kristjönu Friðbertsdóttur frá Hraunakoti í Vatnadal[300] (sbr. hér Fremri-Vatnadalur, Hraunakot þar). Sveinbjörn dvaldist þó áfram á Laugum, hjá syni sínum og tengdadóttur, allt til ársins 1919 en fluttist þá í kauptúnið á Suðureyri[301] og andaðist þar sumarið 1935.[302]

Þau Pétur og Kristjana bjuggu á Laugum í 35 ár eða allt til ársins 1943 (sjá Firðir og fólk, 1900-1999, 444) en þeirra saga heyrir tuttugustu öldinni til og verður því ekki rakin hér. Þess má þó geta að þau tóku við tveimur ungum systkinum Péturs, níu ára dreng og stúlku á öðru ári, þegar Guðmundína, móðir Péturs, andaðist og ólu þau upp.[303] Sjálf eignuðust Pétur og Kristjana tólf börn og komu þeim öllum upp nema einum dreng sem dó á fimmta ári.[304]

Pétur Sveinbjörnsson á Laugum var jafnan í skiprúmi á Suðureyri á vorvertíðinni. Um búskap hans og Kristjönu konu hans kemst Gunnar M. Magnúss svo að orði:

 

Pétur var hinn mesti garpur til allra starfa. Laugar voru ekki nægar til góðrar framfærslu en Pétur stundaði sjóinn jöfnum höndum. Var í erfiðum skiprúmum svo sem hjá Helga Sigurðssyni, sjósóknara og aflamanni. Gekk Pétur nótt eftir nótt til Suðureyrar, fór á sjóinn, síðan aftur inn eftir seint að kvöldi, oft með allþungar byrðar frá sjónum. En í bænum var hin gáfaða og forsjála kona er vann að heimilinu og stjórnaði úti og inni.[305]

 

Gunnar nefnir þarna að Pétur hafi verið í skiprúmi hjá Helga Sigurðssyni en lengst mun hann hafa verið háseti hjá Ibsen Guðmundssyni á Sigurvon.[306]

Í sóknarmannatali frá 31. desember 1911 eru Magnús Hjaltason og fylgikona hans, Guðrún Anna Magnúsdóttir, skráð sem húsfólk á Laugum hjá Pétri og Kristjönu.[307] Magnús var veturinn 1911-1912 í tugthúsinu í Reykjavík (sjá hér Suðureyri) en skráning prestsins gefur til kynna að Guðrún Anna hafi þá dvalist á Laugum með son þeirra. Svo mun þó ekki vera[308] en skýring á þessari bókun séra Þorvarðar Brynjólfssonar er vandfundin.

Annað mál er að þegar alþýðuskáldinu, Magnúsi Hjaltasyni, var birtur landsyfirréttardómurinn um 12 mánaða betrunarhús, þann 30. ágúst 1911, þá var hann að koma frá Laugum heitur af ferðinni og hafði verið að sækja hálfan fjórðung af súr til Kristjönu húsfreyju.[309] Hann átti þá heima á Suðureyri (sjá hér Suðureyri).

Þegar Pétur Sveinbjörnsson og Kristjana Friðbertsdóttir hættu að búa árið 1943 fóru Laugar í eyði en ári síðar keypti einn þriggja sona þeirra Lauga af Suðureyrarhreppi og hóf hér búskap vorið 1945.[310] Það var Páll Helgi Pétursson og bjó hann hér í 30 ár ásamt konu sinni Guðrúnu G. Guðmundsdóttur.[311] Er þau hættu búskap árið 1975 féll jörðin í eyði en búskaparár þeirra feðga, Sveinbjörns Pálssonar, Péturs Sveinbjörnssonar og Páls Helga Péturssonar, allra til samans hér á Laugum, voru þá orðin sjötíu og fjögur.

Við stöndum hér enn á gamla bæjarstæðinu á Laugum (sbr. hér bls. 2) og kominn tími til að líta á bæinn. Valdimar Þorvaldsson, sem fæddist í Selárdal árið 1878 og ólst þar upp, þurfti á sínum uppvaxtarárum aðeins að líta yfir fjörðinn til þess að virða fyrir sér bæinn á Laugum. Hann segir að á árunum milli 1880 og 1890 hafi bæjardyrnar snúið niður að ströndinni og göngin sem lágu frá þeim inn í bæinn hafi verið um það bil 15 fet,[312] það er tæplega 5 metrar. Fyrir enda ganganna var búr og þegar gengið var inn göngin voru dyr til hægri handar inn í eldhúsið og aðrar til vinstri handar inn í baðstofuna.[313] Baðstofan var að sögn Valdimars 9 x 12 fet,[314] það er 10 til 11 fermetrar. Í henni var loft, þiljað innan og með skarsúð.[315]

Utantil við bæjardyrnar var eldhúsið og skemma.[316] Þilið á skemmunni sneri fram á hlaðið.[317] Á þessum árum voru tvö fjárhús á Laugum og tvær hlöður, líka hesthús.[318] Niðri á sjávarbökkunum var þá hjallur, innantil við bæjarlækinn.[319] Geymslukró var í bökkunum ofan við uppsátrið[320] en það taldi Valdimar sýna að á Laugum hefðu búið forstands- og fyrirhyggjumenn.[321] Uppsátrið var í sjávarbökkunum nær beint niður af bænum, mjög skammt fyrir utan bæjarlækinn, og sást enn móta fyrir því sumarið 1996.

Valdimar Þorvaldsson segir á einum stað að baðstofan á Laugum hafi verið byggð upp 1890[322] en á öðrum stað segir hann að í þær framkvæmdir hafi verið ráðist 1892.[323] Líklegt er að síðara ártalið sé rétt og það hafi þá verið Guðmundur Sigurðsson sem byggði baðstofuna upp á sínu öðru búskaparári (sbr. hér bls. 22). Þá voru timburgaflar látnir í báða enda baðstofunnar.[324] Á efri gaflinum náði timbrið niður að syllubita,[325] það er bitanum sem þaksperrurnar hvíldu á, en þar fyrir neðan var torf.[326] Á neðri gafli, það er framþilinu, náði timbrið niður fyrir neðri glugga.[327] Við þessa uppbyggingu var baðstofan líka breikkuð um eitt fet.[328]

Á sínu fimmta búskaparári á Laugum, árinu 1903, byggði Sveinbjörn Pálsson baðstofuna upp og vann Valdimar Þorvaldsson með honum að því verki í fjóra daga.[329] Þá var hún lengd um 6 fet[330] og varð 10 x 18 fet eða tæplega 18 fermetrar. Árið 1903 var komið fjós utan við bæjardyrnar en skemman horfin sem þar var áður.[331] Við breytinguna, sem gerð var á bænum árið 1903, mun torfið, sem áður var neðan við neðri glugga, hafa verið fjarlægt og timbur sett í staðinn.[332] Svolítið port, sem svaraði hæð rúmanna, var á baðstofuloftinu, allt frá 1903 og ef til vill allt frá 1892.[333] Engin breyting var gerð á Laugabænum á árunum 1904-1920 en árið 1921 var innri torfveggurinn rifinn og byggður allstór timburskúr við innri hlið bæjarins.[334] Svefnstaður húsráðenda á Laugum og nokkurra annarra heimilismanna færðist þá af baðstofuloftinu í þessi nýju húsakynni.[335] Í skúrnum eða skúrinni eins og hún var jafnan nefnd var pláss fyrir þrjú rúm, kamínu og allstórt borð sem setið var við á matmálstímum.[336] Borðinu fylgdu tveir baklausir bekkir.[337]

Áður en skúrin var byggð hafði allt heimilisfólkið á Laugum sofið á baðstofuloftinu og þar fór þá líka fram öll matseld.[338] Niðri var bara geymsla.[339] Við breytinguna, sem varð á bænum árið 1921, var gamla geymsluplássinu undir baðstofuloftinu hins vegar breytt í eldhús og úr því var gengið inn í skúrina.[340] Nokkrum hluta af baðstofuloftinu var hins vegar breytt í geymslu og var hún í þeim enda sem sneri til fjalls.[341] Í hinum endanum á loftinu, við glugga sem sneri til sjávar, voru á árunum 1921-1943 tvö rúm og í þeim sváfu á árunum upp úr 1920 fimm elstu börn Péturs og Kristjönu, tvær stúlkur og þrír drengir.[342]

Árið 1930 eða mjög skömmu fyrr var ytri bæjarveggurinn rifinn og reistur annar timburskúr við þá hlið.[343] Hurfu þá gömlu torfgöngin en í staðinn komu gangur og búr, hvort tveggja úr timbri.[344] Er þessum framkvæmdum lauk mátti svo heita að ekkert væri eftir af gamla torfbænum en komið timburhús í hans stað. Sú breyting hafði átt sér stað í áföngum á tæplega fjórum áratugum eins og hér hefur verið lýst. Bæjargaflinn sem sneri til fjalls var þó áfram úr torfi, neðan við syllubita[345] (sbr. hér bls. 28) eins og verið hafði frá 1892 og gengið var um torfgöng úr ganginum inn í mókofa úr torfi þar sem áður hafði verið búr.[346]

Um 1930 eða nokkru fyrr var húsið klætt með tjörupappa.[347]Á þakinu var slétt járn.[348] Um 1930 var lögð snyrtileg stétt úr steinhellum framan við bæinn og kom hún í stað annarrar sem var eldri og lakari.[349] Síðast var breyting gerð á gamla Laugabænum árið 1935 en þá var skúrin frá 1921 hækkuð svo hallinn á þakinu varð jafn frá mæni að brún.[350] Var þetta gert til að forðast húsleka og lánaðist vel.[351]

Við höfum nú um sinn haldið kyrru fyrir á gamla bæjarstæðinu á Laugum og rifjað upp eitt og annað um fólkið sem hér átti heima á fyrri tíð og húsakynni þess. Næst liggur fyrir að rölta svolítið um túnið og heimahagana en hér hefur áður verið gerð grein fyrir helstu kennileitum í fjallinu ofan við Lauga og nokkrum megindráttum í landslaginu sem við augum blasir héðan frá bæjarhlaðinu (sjá hér bls. 2-3).

Rétt fyrir innan hið eldra bæjarstæði á Laugum rennur bæjarlækurinn sem kemur ofan úr Laugahvilft eins og hér hefur áður verið nefnt. Á fyrri tíð var lækurinn jafnan vatnsmeiri en nú[352] og mun rennsli í honum hafa minnkað þegar hafist var handa við skurðgröft og ræktunarframkvæmdir ofan við gamla túnið. Á fyrri hluta tuttugustu aldar var brunnhús í bæjarlæknum, rétt ofan við bæinn, og örfáum metrum ofan við það féll lækurinn í litlum fossi fram af kletti sem nú er talsvert lægri en áður var.[353] Þessi foss hét Buna.[354] Á sumrin var vatn sótt í Bununa en á veturna í brunnhúsið.[355] Ef bæjarlækurinn þornaði varð að sækja vatn í Leitislækinn sem er skammt fyrir utan túnið á Laugum.[356] Á árunum upp úr 1930 varð svo breyting á, því þá var vatn leitt í bæinn.[357]

Bæjarlækurinn á Laugum skipti túninu í tvennt og var oft talað um Innra-Tún og Ytra-Tún.[358] Örstutt var frá bænum upp á Hólinn er svo hét en annar hóll var líka innan við lækinn, nær beint á móti þessum, og heimafólk nefndi þá oft Innri-Hól og Ytri-Hól.[359] Báðir voru þessir hólar nær efst í gamla túninu.[360]

Framan við bæjarstéttina var Hlaðið og Hlaðvarpinn neðan við það.[361] Á árunum upp úr 1930 var sléttaður svolítill skiki úr túninu á Laugum.[362] Þessi túnskiki, sem síðan var jafnan nefndur Sléttan, var fyrir neðan Hlaðvarpann og utan við bæjarlækinn.[363] Gamla Laugatúnið náði alveg niður á sjávarbakkana.[364] Þeir voru nefndir Bakkar en oft var líka talað um Ytri-Bakka og Innri-Bakka því bæjarlækurinn skipti þessum sjávarbökkum í tvennt.[365] Á Innri-Bökkunum var um 1920 gömul hjalltótt, dálítið innan við lækinn[366] (sbr. hér bls. 28). Þegar komið var innan að lá reiðgatan uppi á Bökkunum út undir þessa tótt en þar var farið ofan í fjöruna.[367] Gatan lá svo upp úr fjörunni við túngarðsbrotið, er svo var nefnt, en það er enn á sínum stað í sjávarbökkunum, yst í gamla Laugatúninu.[368]

Túngarðsbrotið er um það bil 15 metrar á lengd og nær alveg neðan úr fjöru og upp undir ruðning sem er neðantil við akveginn. Þessi vísir að túngarði mun aldrei hafa orðið lengri.[369] Hleðslan virðist vera býsna gömul og þeir sem hér eru kunnugastir telja að hún sé frá nítjándu öld eða eldri[370] (sbr. Suðureyrarhreppur, inngangskafli).

Ofan við veginn, sem nú (1996) er ekið um, var ytri jaðar gamla Laugatúnsins færður svolítið út á árunum kringum 1920 og ræktuð þar upp landspilda er nefndist Rimi.[371] Hann var nær allur utan við túngarðsbrotið.[372]

Kvíin, sem fráfæruærnar voru mjólkaðar í, var um aldamótin 1900 rétt innan við túnið og dálítið neðar en bærinn.[373] Með ræktun frá kvínni var túnið stækkað smátt og smátt á fyrstu áratugum tuttugustu aldar og á árunum 1925-1930 var byggð ný kví talsvert innar og neðar en sú gamla.[374] Nýja kvíin stóð rétt fyrir ofan reiðgötuna og veginn sem nú er ekið um.[375] Þegar hún var byggð náði túnið þó nokkuð inn fyrir gömlu kvína.[376] Engin ummerki sjást nú um nýju kvína frá þriðja áratug tuttugustu aldar en gamla kvíin, sem svo var jafnan nefnd eftir 1930, stendur enn á sínum stað, nær full af grjóti sem upp hefur komið úr túninu þegar farið var að rækta á árunum um og eftir 1950. Þessi gamla kví er um það bil 50 metrum ofan við akveginn og vegalengdin frá bæjarlæknum inn að henni er álíka löng. Þetta er lítil kví og virðist aðeins hafa verið 2 x 4 metrar að flatarmáli.

Svolítið innar og ofar en gamla kvíin var stekkurinn.[377] Á árunum kringum aldamótin 1900 mun fólkið á Laugum hafa hætt að stía lömbunum[378] en veggjarbrot úr stekknum sjást enn innan og ofan við kvína sem hér var síðast nefnd og vegalengdin þar á milli varla nema 15 metrar.

Tvenn fjárhús voru á Laugum á árunum 1920-1940 og hlöðurnar voru líka tvær.[379] Efri fjárhúsin og hlaða, sem þeim fylgdi, stóðu á Innri-Hólnum, sem fyrr var nefndur, og alveg rétt fyrir innan bæjarlækinn.[380] Neðri fjárhúsin ásamt hlöðu og fjósi, sem byggt var skömmu fyrir 1930, stóðu rétt utan við bæjarlækinn og mjög skammt fyrir innan og neðan bæinn.[381] Tóttir þessara húsa, sem voru sambyggð, stóðu enn sumarið 1996 en þá var liðin hálf öld frá því gamli bærinn var jafnaður við jörðu og tóttir hans sléttaðar út. Gamla fjósið sem var í notkun allt þar til hið nýnefnda var byggt stóð rétt utan við bæinn og aðeins þröngt sund á milli.[382] Hlaðan ofan við neðri fjárhúsin og nýja fjósið sneri út og inn og var vindaugað á ytri gaflinum.[383] Mjög skammt fyrir ofan þessa hlöðu var lítill blómagarður[384] og þar sást enn rabarbari sumarið 1996. Innan við lækinn og á móts við neðri fjárhúsin var súrheystótt[385] og sjást enn ummerki um hana. Þar skammt frá var hesthúsið[386] en bændur á Laugum munu sjaldan hafa átt nema einn hest.

Á árunum 1920-1940 átti bóndinn á Laugum spelahjall sem stóð mjög skammt fyrir ofan sjávarbakkana og aðeins spölkorn utan við bæjarlækinn.[387] Utan við hjallinn var þá lítill kálgarður.[388] Annar kálgarður var neðan við Hlaðvarpann.[389] Sá þriðji, sem var mun stærri en hinir, stóð rétt innan við túnið, í líkri hæð og efri fjárhúsin sem hér voru áður nefnd.[390] Ytri veggur þessa kálgarðs, hlaðinn úr grjóti, stóð enn uppi sumarið 1996. Þar beint fyrir innan og skammt frá er stór steinn og mun í tali fólksins á Laugum hafa verið nefndur Stóristeinn.[391] Tveir myndarlegir steinar voru líka í sjálfu túninu, utan og neðan við bæinn.[392] Þeir munu hafa verið nafnlausir en hjá þeim léku börnin sér oft.[393] Þessir tveir steinar liggja nú afvelta ásamt öðru grjóti mjög utarlega í túninu og aðeins rétt fyrir ofan akveginn.

Mjög skammt fyrir utan Laugatúnið er Leitislækurinn og kemur eins og bæjarlækurinn ofan úr Laugahvilft.[394] Utan við Leitislæk er Leiti eða Ytra-Leiti og utantil í því var heita laugin[395] sem hér hefur áður verið gerð grein fyrir (sjá hér Suðureyri, aftast þar).

Á fyrsta þriðjungi tuttugustu aldar notaði heimafólk á Laugum vatnið úr heitu lauginni til að þvo sokkaplögg og á árunum upp úr 1920 og allt til 1933 sóttu stúlkurnar á Laugum vatn í hana á sumrin til að skúra gólf.[396] Kyndugt þótti á árunum kringum 1890 að sjá erlenda sjómenn striplast kviknakta á laugarbarminum.[397] Slíkir baðgestir munu þó oft hafa sést á þeim árum og voru þar jafnan á ferð Ameríkumenn sem stunduðu lúðuveiðar á Vestfjarðamiðum[398] á árunum 1884-1897.[399]

Þar sem laugin var eru landamerki Lauga og Suðureyrar eins og hér hefur áður verið rakið en aðeins utar sjást enn (1996) niðri í fjörunni rústir sundlaugar sem byggð var árið 1933 (sjá hér Suðureyri, aftast þar). Á Ytra-Leitinu sást heim að Laugum þegar komið var utan að.

Ofan við gamla túnið á Laugum voru Holtin, beggja vegna við bæjarlækinn, og þar fyrir ofan Brekkurnar sem náðu alveg upp að hlíðarfætinum.[400] Talað var um Innri- og Ytri-Holt og Innri- og Ytri-Brekkur því bæjarlækurinn skildi þarna á milli.[401] Fyrir utan Brekkurnar var engjapláss sem nefnt var Partur og náði alveg út að landamerkjum.[402] Þetta slægjuland náði líka lengra niður en nýnefndar Brekkur.[403] Parturinn og Brekkurnar voru að sögn kunnugra bestu engjarnar í landi Lauga[404] og á árunum 1945-1974 var þessum fornu slægjulöndum breytt í tún og líka Holtunum sem hér voru nýlega nefnd.[405] Neðarlega í fjallshlíðinni ofan við Lauga er svolítið klettabelti sem heitir Bæjarklettar en nokkru ofar er Laugahvilft.[406]

Við kveðjum nú bæjarlækinn á Laugum og þokum okkur í áttina inn að Kvíanesi sem var næsti bær. Spölurinn þar á milli er liðlega fjórir kílómetrar. Skammt fyrir innan Laugatúnið komum við á Leitið sem stundum var nefnt Innra-Leiti.[407] Frá því sást heim að Laugum þegar komið var innan að. Brekkurnar, sem hér voru áður nefndar, og nú eru orðnar að túni ná inn á móts við Leiti.[408] Sé gengið inn með fjallshlíðinni taka Urðarfæturnir við innan við Brekkur og ná þeir inn að Markshrygg.[409] Þarna er mjög grýtt en innan um allt grjótið mátti þó finna litla slægjubletti.[410] Markshryggurinn nær frá Urðarfótum og niður á bakkana ofan við fjarðarströndina.[411] Hinn mikli Marksklettur, sem hér var áður sagt frá (sjá bls. 1-2), er neðarlega í fjallshlíðinni, skammt fyrir innan Markshrygg, og nær niður að Urðarfótum. Í skjali frá árinu 1471 sést að hamrarnir í innanverðum Markskletti hafa þá verið nefndir Smilluhamrar (sjá hér Suðureyri) sem að líkindum er afbökun því að engin merking fæst í orðið smilla.

Helst má láta sér detta í hug að smyrillinn hafi í talmáli fólks verið nefndur smylla, hugsanlega aðeins kvenfuglinn. Sú staðreynd að smyrill átti sér löngum hreiður í þessum hömrum á árunum 1920-1940[412] styrkir slíka tilgátu.

Uppi í hlíðinni, utan og ofan við Marksklett, er Græniteigur og ofan við hann Katlar en svo heitir skriðuhjalli með fallega grónum kvosum.[413] Katlar þessir eru innan við Laugahvilft og liggja í álíka hæð og hvilftin.[414]

Slægjulandið neðan við Marksklett heitir Mark og nær út að Markshryggnum sem fyrr var nefndur.[415] Þarna var heyjað á hverju sumri áður en engjaheyskapur lagðist af.[416]

Frá hlíðarfætinum utan við Marksklett þokum við okkur nú niður á þjóðveginn, sem liggur rétt fyrir ofan sjávarbakkana, og hefjum göngu okkar inn með firðinum á Leitinu þar sem gamli Laugabærinn hvarf úr augsýn þegar farið var inn á við. Skammt innan við Leitið er Þorleifsvík niður við sjó.[417] Hana er auðvelt að þekkja því þar er slétt grasflöt sem talsvert ber á rétt ofan við fjöruna, fyrir neðan bakkana.[418] Hér höfðu innsveitarmenn áður báta sína á vetrum[419] og sumarið 1996 sást enn móta fyrir a.m.k. einu bátshrófi á þessum stað. Fyrir bændurna í Botni og á Kvíanesi hefur verið hentugt að geyma bátana í Þorleifsvík að vetrinum því oft var fjörðurinn ísi lagður frá Markinu og inn í Botn. Innan við víkina gengur lítið nes í sjó fram og heitið það Þorleifsvíkurnes.[420]

Uppi á bökkunum, rétt fyrir innan Þorleifsvík og mjög skammt fyrir ofan akveginn, stóð Marksteinninn, mjög stór og fallegur steinn sem setti svip á umhverfið.[421] Hann var mjög hár, varla lægri en 3 metrar. Þessa náttúruprýði sprengdi vinnuflokkur frá Vita- og hafnamálaskrifstofunni í loft upp á árunum kringum 1970[422] og verður sá skaði aldrei bættur. Svolítið innan við blettinn sem Marksteinninn stóð á og rétt utan við slægjulandið Mark, sem fyrr var nefnt, var kargaþýfi ofantil við sjávarbakkana.[423] Það var nefnt Þúfnastagggarður.[424]

Eins og fyrr var nefnt liggja landamerki Lauga og Kvíaness um innri röndina á Markskletti (sjá hér bls. 1-2) og þaðan í beinni línu til fjalls og niður að sjó en þar heitir Marksnes við ströndina.[425]

Á fyrri hluta tuttugustu aldar hafði fólkið á Laugum heimild til að láta kvíaærnar ganga á beit innantil við merkin en þær máttu þó ekki fara inn fyrir Hlaðshrygginn[426] sem er hér skammt fyrir innan (sjá hér Kvíanes). Síðast var fært frá á Laugum sumarið 1940. Börnin tvö sem sátu yfir ánum fyrstu dagana eftir fráfærurnar höfðu þá bækistöð við stein er þau nefndu Sófa. Þess minnist sá sem hér krotar orð á blað því hann var annað þessara barna, þá sjö ára gamall, við hlið frænku sinnar er var á fjórtánda ári. Steinninn Sófi var nefndur svo vegna þess að lögun hans minnir á húsgagn með því nafni. Slíka mublu hafði stúlkan í hjásetunni séð á heimili móðurbróður sins, skólastjóra á Suðureyri sem andaðist sumarið 1938. Steinninn Sófi er enn á sínum stað, rétt fyrir innan Marksklettinn og um það bil 100 metrum fyrir ofan akveginn sem nú er farið um. Bakið er innantil á steininum og leguplássið sem hann býður upp á full mannslengd.

Þegar leið að kvöldi var farið út með hvítt lak og það lagt yfir þakið á bænum. Það sáu börnin í hjásetunni og vissu að þá var kominn tími til að hóa saman ánum og reka þær heim á kvíabólið til mjalta.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

 

[1] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 133.

[2] Sóknarmannatöl og prestsþjónustubækur Staðar í Súgandafirði.

[3] Jarðab. Á. og P. VII, 132-133.

[4] Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafj.sýsla 1805.

[5] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1. búnaðarskýrslur 1837.  Sbr. VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[6] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 113.  J. Johnsen 1847, 196.

[7] Örnefnastofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 97.

[8] Sigríður Pétursdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 16.12.1992.

[9] Fasteignabók 1932, bls. 52.

[10] Sigríður Pétursdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 16.12.1992.

[11] Sama heimild.

[12] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 134.

[13] Sama heimild, 123 og 138.

[14] Sigríður Pétursdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 16.12.1992.

[15] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness, Lauga og Suðureyrar,

handrit í eigu K.Ó.

[16] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 104.

[17] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 98.

[18] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness, Lauga og Suðureyrar, handrit í eigu K.Ó.

[19] Uppdr. Suðureyrarhrepps eftir Jón Hróbjartsson, gefinn út 1983, eftirpr.af örnefnakorti frá því um 1930.

[20] Sigríður Pétursdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 16.12.1992.

[21] Uppdr. Suðureyrarhrepps eftir Jón Hróbjartsson, gefinn út 1983, eftirpr.af örnefnakorti frá því um 1930.

[22] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness … , handrit í eigu K.Ó.

[23] Sama heimild.

[24] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 98.

[25] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness … , handrit í eigu K.Ó.

[26] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 98.

[27] Kristján G. Þorvaldsson 1951, 51 (Árbók Ferðafél. Ísl.).

[28] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 96-97.

[29] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness, Lauga og Suðureyrar, handrit í eigu K.Ó.

[30] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 204.

[31] Sama heimild.

[32] Sama heimild.

[33] Sama heimild.

[34] Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafj.sýsla 1805.

[35] Jarðab. Á. og P. VII, 133.

[36] J. Johnsen 1847, 196.

[37] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 204.

[38] Fasteignabók 1921, 81.

[39] Fasteignabók 1921, 81.

[40] Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafj.sýsla 1805.

[41] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 2. Skiptabók 1811-1825. Skipti á dánarbúi Margrétar Guðnadóttur á Gelti

19.4. og 22.4.1814.

[42] Ólafur Þ. Kristjánsson 1948, 73 (Frá ystu nesjum IV).

[43] Sama heimild.

[44] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 3. Veðmálabók 1868-1882, bls. 111-112.  Sbr. Ól. Þ. Kr. 1948, 73-76.

[45] Lbs. 23744to, Dagbók Sighvats Grímssonar Borgfirðings 13.8.1874.

[46] Vestfirskar ættir I, 229.

[47] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 204.

[48] Sóknarm.töl Ögurþinga.

[49] Sama heimild.

[50] Vestf. ættir I, 229-235.

[51] Afsals og veðmálabók fyrir Ísafj.sýslu I, 361 (varðveitt án safnnúmers í Þjóðskjalasafni).

[52] Sigríður Pétursdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 16.12.1992.

[53] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. 1785-1910.  Manntöl 1801, 1816, 1835, 1840, 1845, 1850, 1855, 1860,

1870, 1880, 1890 og 1901.

[54] Rtk. Isl. Journal 9, nr. 34, bún.sk. 1791.  Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafj.sýsla 1805.  Skj.s. sýslum. og sv.stj.

Ís.  XX. 1, bún.sk. 1830 og 1837.  VA III, 408, bún.sk. 1840.  VA III, 421, bún.sk. 1870.  VA III, 424,

bún.sk. 1880. Skjöl Suðureyrarhr., varðveitt þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902, tíundarskýrslur

1888 og 1895.

[55] Sömu heimildir.

[56] Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafj.sýsla 1805.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, bún.sk. 1821.

[57] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[58] VA III, 417, búnaðarskýrslur 1860.

[59] Sama heimild.

[60] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 204.

[61] Rtk. Isl. Journal 9, nr. 34, búnaðarskýrslur 1791.

[62] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1821, 1827 og 1830.

[63] Sama askja, búnaðarskýrslur 1834.

[64] Sama askja, búnaðarskýrslur 1837.  VA III, 408, 412 og 417, búnaðarskýrslur 1840, 1850 og 1860.

[65] VA III, 421, búnaðarskýrslur 1870.

[66] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[67] Skjöl Suðureyrarhr., varðveitt þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902, tíundarskýrsla 1895.

[68] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf., hjónavígslur 1785.  Vestf. ættir II, 584.

[69] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og Suðureyrarkauptúns, bls. 28.

[70] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[71] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf., hjónavígslur 1785.

[72] Sama heimild.

[73] Sama heimild.

[74] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[75] Sama heimild.

[76] Sama heimild – Suðureyri 1787.

[77] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[78] ÍB. 94to, Ættartölubækur J. Espólín, dálkar 967-968.

[79] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[80] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[81] Vestf. ættir II, 584.  Manntal 1816, 725, sbr. Manntal 1801, vesturamt, bls. 349.

[82] Vestf. ættir II, 584.  Manntal 1816, 725, sbr. Manntal 1801, vesturamt, bls. 349.

[83] Sömu heimildir.

[84] Manntal 1801, vesturamt, bls. 349.  Sbr. Vestf. ættir II, 584.

[85] Manntal 1801, vesturamt, bls. 349.  Manntal 1816, 725.

[86] Manntal 1816, 725.  Sbr. Manntal 1801, vesturamt, bls. 349 og Vestf. ættir II, 584.

[87] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[88] Sama heimild.

[89] Sama heimild.

[90] Sama heimild.

[91] Sama heimild, mars 1811.

[92] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[93] Prestsþj.bækur Staðar í Súgandafirði.

[94] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[95] Sama heimild.

[96] Sama heimild.

[97] Sama heimild.

[98] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[99] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[100] Sbr. sama heimild.

[101] Sama heimild.

[102] Sama heimild.

[103] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[104] Sömu heimildir.

[105] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[106] Manntal 1816.  Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[107] Manntal 1816, bls. 699.

[108] Manntal 1801, vesturamt, bls. 304.

[109] Sama heimild, 313.

[110] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[111] Sömu heimildir.

[112] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1821.

[113] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[114] Sömu heimildir.

[115] Sömu heimildir.

[116] Sömu heimildir.

[117] Sömu heimildir.

[118] Sömu heimildir.

[119] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[120] Sömu heimildir.

[121] Manntal 1801, vesturamt, bls. 351.

[122] Manntal 1816, bls. 699.

[123] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[124] Sama heimild.

[125] Sama heimild, 1834.

[126] Sama heimild, 1791.

[127] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[128] Sömu heimildir.

[129] Sömu heimildir.

[130] Sömu heimildir.

[131] Sömu heimildir.

[132] Sömu heimildir.

[133] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandafirði.

[134] Sömu heimildir.

[135] Sömu heimildir.

[136] Sömu heimildir.

[137] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1827.

[138] Sama askja, búnaðarskýrslur 1834.

[139] Sama heimild.

[140] VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.

[141] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1837.

[142] Sama heimild.

[143] VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.

[144] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[145] Sama heimild.

[146] Sama heimild.

[147] Sama heimild.

[148] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[149] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[150] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[151] Sama heimild.

[152] Manntöl 1835 og 1840.

[153] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[154] Manntal 1816, 699.

[155] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[156] Prestsþj.b. Ögurþinga.

[157] Sama heimild.

[158] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[159] Prestsþj.b. Ögurþinga.

[160] Manntöl 1835, 1840 og 1845, Kleifar í Ögursókn.  Vestf. ættir I, 118.

[161] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[162] Manntöl 1835, 1840 og 1845.

[163] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[164] Sama heimild.

[165] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[166] Sömu heimildir.

[167] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[168] Sama heimild.

[169] VA III, 417, búnaðarskýrslur 1860.

[170] Sama heimild.

[171] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[172] Kirkjustóll Staðar í Súgandaf. Vísitazíugerð séra Odds Sveinssonar prófasts 26.6.1856.

[173] Skýrslur um landshagi, Kph. 1858, I, 262.

[174] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[175] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf. og Holts í Önundarf.

[176] Sömu heimildir.

[177] Vestf. ættir I, 136 og 354, II, 616, III, myndasíður á milli bls. 64 og 65, IV, 465.

[178] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[179] Sama heimild og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[180] Sömu heimildir.

[181] Sömu heimildir.

[182] Sömu heimildir.

[183] Manntal 1840.

[184] Manntal 1845.

[185] Prestsþj.b. Ögurþinga.  Manntal 1835, Látrar í Mjóafirði. Sbr. Manntöl 1845 og 1850, Dvergast í Álftaf.

[186] Manntal 1835.

[187] Manntal 1845, vesturamt, bls. 313.

[188] Valdimar Þorvaldsson 1963, 70 (Ársrit S.Í).

[189] Manntal 1855.

[190] Manntal 1860.

[191] Vestf. ættir I, 250.

[192] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[193] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[194] Sbr. Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[195] VA III, 421, búnaðarskýrslur 1870.

[196] Sama heimild.

[197] Hsk. á Ísaf. nr. 089. Höfuðbók nr. 5 frá verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri.

[198] Sama heimild.

[199] Sama heimild.

[200] Sama heimild.

[201] Sama heimild.

[202] Lbs. 44084to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 68.

[203] Sóknarm.töl Staðar í Sugandaf.

[204] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[205] Sama heimild.

[206] Sama heimild.

[207] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[208] Sömu heimildir.

[209] Manntal 1901, Ísafj.kaupst. Á. Sig. hús.  Lbs. 22204to, Dagbók M. Hj. 27. og 28.11.1901 og 8.4.1902.

[210] Vestf. ættir II, 449.

[211] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[212] Sömu heimildir.

[213] Sömu heimildir.

[214] Vestf. ættir II, 449-453.

[215] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[216] Vestf. ættir II, 449.

[217] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[218] Sama heimild.

[219] Sama heimild.

[220] Skjöl Suðureyrarhr. varðv. þar. Skýrsla um framtal til lausafj.tíundar, dags. 23.6.1888 og undirrituð af

Jóhannesi Hannessyni.

[221] Skj. Suðureyrarhr., varðv. þar. Fundabók fyrir Suðureyrarhrepp, 1889-1919, fundarg. hreppsf. 1.3.1890.

[222] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[223] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og  … , bls. 215.

[224] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 31-32.

[225] Sama heimild.

[226] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[227] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[228] Sömu heimildir.

[229] Sömu heimildir.

[230] Sömu heimildir.

[231] Sömu heimildir.

[232] Sömu heimildir.

[233] Sömu heimildir.

[234] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson: Ævisaga – Upphaf, bls. 96.

[235] Sama heimild.

[236] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[237] Þjóðviljinn 31.10.1887, bls. 118.

[238] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Suðureyrarhr. Bréfa- og gjörðabók 1881-1889, bréf Jóhannesar Hannessonar

oddvita 8.11.1887 til Skúla Thoroddsen sýslumanns, afrit.

[239] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[240] Sömu heimildir.

[241] Sömu heimildir.

[242] Sömu heimildir.

[243] Prestsþj.b. Eyrar í Skutulsf.

[244] Sama heimild.

[245] Júníus H. Kristinsson 1983, 200.  Prestsþj.b. Eyrar í Skutulsf.

[246] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[247] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[248] Sömu heimildir.

[249] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[250] Vestf. ættir I, 405.

[251] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[252] Sömu heimildir.

[253] Sömu heimildir.

[254] Sömu heimildir.

[255] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[256] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[257] Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar 10.10.1889.

[258] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[259] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[260] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[261] Sama heimild.

[262] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[263] Skjöl Suðureyrarhr. varðv. þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902, framtal til lausafjártíundar 1891.

[264] Lbs. 38584to, Dagbók Einars Jónssonar 13.11.1893.

[265] Lbs. 38594to, Sama dagbók 18.7.1894.

[266] Skjöl Suðureyrarhr. varðv. þar. Bók f. Suðureyrarhr. 1888-1902, framtal til lausafjártíundar 1895.

[267] Sama heimild.

[268] Skjöl Suðureyrarhr. varðv. þar. Bók f. Suðureyrarhr. 1888-1902, framtal til lausafjártíundar 1891

[269] Rtk. Isl. Journal 9, nr. 34, búnaðarskýrslur 1791.  Skj.s. sýslulm. og sv.stj. Ís. XX. 1, bún.sk. 1821, 1827,

1830, 1834 og 1837.  VA III, 408, 412, 417 og 421, bún.sk. 1840, 1850, 1860 og 1870.

[270] Gunnar M. Magnúss 1977, 274 og 286.

[271] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 98.

[272] Lbs. 44084to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 8-12.  Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar og … , 80.

[273] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 98.

[274] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[275] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[276] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[277] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[278] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 54-55.

[279] Sama heimild.

[280] Vestf. ættir II, 455, 462-464.

[281] Sama heimild.

[282] Sama heimild, 464-465.

[283] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[284] Sömu heimildir.

[285] Sömu heimildir.

[286] Vestf. ættir II, 464-474.

[287] Sama heimild.

[288] Skjöl Suðureyrarhr. varðv. þar. Bók f. Suðureyrarhr … , 1888-1902, framtal til lausafj.tíundar 1901.

[289] Sama heimild.

[290] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson, bls. 212-213.

[291] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson, bls. 201-246.

[292] Sama heimild, 212-213.

[293] Lbs. 38614to, Dagbók Einars Jónssonar 5.10.1904.

[294] Sama heimild.

[295] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[296] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 181-182.

[297] Vestf. ættir II, 464.

[298] Sama heimild, 464-474.

[299] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[300] Sömu heimildir.

[301] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[302] Vestf. ættir II, 464.

[303] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[304] Vestf. ættir II, 465-468.

[305] Gunnar M. Magnúss 1977, 95-96.

[306] Sigríður Pétursdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 16.12.1992.

[307] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[308] Sigríður Pétursdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 16.12.1992.

[309] Lbs. 22284to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 30.8.1911.

[310] Sigríður Pétursdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 16.12.1992.

[311] Vestf. ættir II, 466.  Gunnar M. Magnúss 1977, 96.

[312] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 53.

[313] Sama heimild.

[314] Sama heimild.

[315] Sama heimild.

[316] Sama heimild.

[317] Sama heimild.

[318] Sama heimild.

[319] Sama heimild.

[320] Sama heimild.

[321] Sama heimild.

[322] Sama heimild.

[323] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 181-182.

[324] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 53.

[325] Sama heimild.

[326] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 53.

[327] Sama heimild.

[328] Sama heimild.

[329] Lbs. 44094to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 181-182.

[330] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 53.

[331] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 53.

[332] Sigríður Pétursdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 16.12.1992.

[333] Sama heimild.

[334] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 53.

[335] Sigríður Pétursdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 16.12.1992.

[336] Sama heimild.

[337] Sama heimild.

[338] Sama heimild.

[339] Sama heimild.

[340] Sama heimild.

[341] Sama heimild.

[342] Sama heimild.

[343] Sama heimild.  Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 53.

[344] Sigríður Pétursdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 16.12.1992.

[345] Sigríður Pétursdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 16.12.1992.

[346] Sama heimild.

[347] Sama heimild.

[348] Sama heimild.

[349] Sama heimild.

[350] Skjöl Suðureyrarhr. varðv. þar. Fundargerðabók hreppsnefndar 1926-1942, fundargerðir 30.3.1934,

23.6.1934 og 1.2.1935.  Sigríður Pétursdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 16.12.1992.

[351] Sigríður Pétursdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 16.12.1992.

[352] Sama heimild.

[353] Sama heimild.

[354] Sama heimild.

[355] Sama heimild.

[356] Sama heimild.

[357] Sama heimild.

[358] Sama heimild.

[359] Sigríður Pétursdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 16.12.1992.

[360] Sama heimild.

[361] Sama heimild.

[362] Sama heimild.

[363] Sigríður Pétursdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 16.12.1992.

[364] Sama heimild.

[365] Sama heimild.

[366] Sama heimild.

[367] Sama heimild.

[368] Sama heimild.

[369] Sama heimild.

[370] Sama heimild.

[371] Sama heimild.

[372] Sama heimild.

[373] Sama heimild.

[374] Sama heimild.

[375] Sama heimild.

[376] Sama heimild.

[377] Sigríður Pétursdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 16.12.1992.

[378] Sigríður Pétursdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 16.12.1992.

[379] Sama heimild.

[380] Sama heimild.

[381] Sama heimild.

[382] Sama heimild.

[383] Sama heimild.

[384] Sama heimild.

[385] Sama heimild.

[386] Sama heimild.

[387] Sama heimild.

[388] Sama heimild.

[389] Sama heimild.

[390] Sama heimild.

[391] Sama heimild.

[392] Sigríður Pétursdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 16.12.1992.

[393] Sigríður Pétursdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 16.12.1992.

[394] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness, Lauga og Suðureyrar … , handrit í eigu K.Ó.

[395] Sama heimild.

[396] Sigríður Pétursdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 16.12.1992.

[397] Gunnar M. Magnúss / Kristján G. Þorvaldsson 1977, 237.

[398] Sama heimild.

[399] Sbr. Ragnheiður Mósesdóttir 1987, 13-25 (Ný Saga).

[400] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness, Lauga og Suðureyrar … , handrit í eigu K.Ó.

[401] Sama heimild.

[402] Sama heimild.

[403] Sama heimild.

[404] Sama heimild.

[405] Sama heimild.

[406] Sama heimild.

[407] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness, Lauga og Suðureyrar … , handrit í eigu K.Ó.

[408] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness, Lauga og Suðureyrar … , handrit í eigu K.Ó..

[409] Sama heimild.

[410] Sama heimild.

[411] Sama heimild.

[412] Sigríður Pétursdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 5.10. 1997.

[413] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness, Lauga og Suðureyrar… , handrit í eigu K.Ó. Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 98.

[414] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness, Lauga og Suðureyrar… , handrit í eigu K.Ó.

[415] Sama heimild.

[416] Sama heimild.

[417] Sama heimild.

[418] Sama heimild.

[419] Örn.stofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 98.

[420] Þórður Pétursson frá Laugum, f. 1913. Skrif hans um örnefni í landi Kvíaness, Lauga og Suðureyrar… , handrit í eigu K.Ó.

[421] Sama heimild.

[422] Sama heimild.

[423] Sama heimild.

[424] Sama heimild.

[425] Sama heimild.

[426] Friðbert Pétursson. – Viðtal K.Ó. við hann 4.8.1993.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »