Mosvellir

Mosvellir eru gömul bújörð, 24 hundruð að dýrleika að fornu mati.[1] Bærinn stendur í mynni Bjarnardals austanverðu, vestan undir Mosvallahálsi. Fjallið sem gnæfir yfir bænum heitir Mosvallafjall og norður úr því gengur hálsinn sem áður var nefndur.[2] Efst á Mosvallafjalli er fögur klettabrún sem snýr horni í norðurátt. Sjálft klettahornið er líka kennt við Mosvelli og heitir Mosvallahorn.[3] Frá Mosvöllum er örskammt yfir að Vöðlum en Bjarnardalsá rennur á milli bæjanna og skilur að lönd þeirra í aðalatriðum (sjá hér Vaðlar). Héðan frá Mosvöllum blasir kirkjustaðurinn Holt við augum sé litið í norðurátt og aðeins tveir kílómetrar á milli.

Vaðallinn, sem hér hefur áður verið gerð grein fyrir (sjá Holt), og neðsti hluti Bjarnardalsár skilja að lönd Mosvalla og Holts með þeirri undantekningu þó að Holt telst eiga Sjóarhólma sem þarna eru og svolitla landræmu upp frá ósi Bjarnardalsár sem heitir Holtsfit (sjá hér Holt og  Vaðlar). Frá bænum á Mosvöllum eru aðeins 800 metrar eða svo niður að Vaðlinum, þar sem skemmst er, en um það bil 1500 metrar að ósi Bjarnardalsár þar sem hún fellur í Vaðalinn. Sunnan við Vaðalbotnana, í norð-norðvesturátt frá bænum á Mosvöllum, eru gróin engjalönd og heita þar Mosvallafitjar.[4] Norður af Mosvallahálsi og beggja vegna við hálsendann er Mosvallaskeið sem svo heitir og nær að Vöðum og Vaðli. Þarna voru áður miklir aurmóar, sem í Gísla sögu Súrssonar eru nefndir melur, og náðu frá Mosvallafitjum, sem áður voru nefndar, að Mosvallabót.[5] Verulegur hluti þessara aurmóa er nú horfinn og þarna hefur orðið mikið rask vegna ýmissa framkvæmda.[6] Handan við Mosvallahálsinn eiga Mosvellir allmikið land sem áður en farið var að búa á nýbýlinu Kotum (Bethaníu) um miðja nítjándu öld náði alla leið inn að Hafradalsá þar sem land Vífilsmýra tekur við.[7] Vegalengdin frá Mosvallahálsi að Hafradalsá er um það bil 2,5 kílómetrar.

Nýbýlið sem ýmist var nefnt Bethanía eða Kot var reist í landi Mosvalla á fimmta áratug 19. aldar (sjá hér Kot-Bethanía) og fékk þá til afnota innsta partinn úr landareign Mosvalla, það er að segja allt land milli Tvísteina, sem svo heita í hlíðinni ofan vegar, og Hafradalsár sem áður var nefnd. Tvísteina þekkja fáir nú en á landamerkjunum sem við þá eru kennd stendur lítill staur rétt ofan við þjóðveginn og sýnir hvar merkin liggja.[8] Frá þessum landamerkjum Mosvalla og Kota eru aðeins um það bil 600 metrar að afleggjaranum sem liggur heim að bænum á Kotum.[9]

Þann part úr landi Mosvalla sem er innan við Mosvallahálsinn munum við kanna nánar síðar (sjá hér bls. 25-27) en að sinni skal aðeins tekið fram að þar er yst Mosvallaskeið en hlíðin sem nær frá Mosvallahálsi að Kotum heitir Bakkahlíð og fjallið yfir henni Bakkafjall.[10]

Öldum saman voru Mosvellir þingstaður Önfirðinga, allra nema Sandmanna, og hinn forni Mosvallahreppur náði yfir allan Önundarfjörð nema Ingjaldssand. Árið 1922 var gamla hreppnum skipt í Mosvallahrepp og Flateyrarhrepp (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli).

Enginn veit nú hvenær almennur hreppsfundur var fyrst haldinn á Mosvöllum né heldur hvenær fyrst voru dæmdir hér dómar. Líklegt er að jörðin hafi orðið þingstaður mjög snemma á öldum en elsta dæmið sem þekkt er um samkomuhald á Mosvöllum er frá sumrinu 1394 þegar Vigfús Ívarsson hirðstjóri stefndi þangað Þórði Sigmundssyni á Núpi í Dýrafirði vegna eftirmála bardagans sem orðið hafði á Núpi einu ári fyrr (sjá hér Núpur). Á þessum Mosvallafundi tókust sættir með Þórði á Núpi og Birni Einarssyni Jórsalafara en við þá sáttargerð voru meðal annarra viðstaddir æðstu embættismenn landsins, þeir Vigfús hirðstjóri og Þorsteinn Eyjólfsson lögmaður sem bjó á Urðum í Svarfaðardal (sjá hér Núpur). Á þessum sama Mosvallafundi sumarið 1394 gifti Þórður Sigmundsson á Núpi Ólöfu dóttur sína Ara Guðmundssyni er seinna bjó á Reykhólum en þau voru foreldrar Guðmundar Arasonar ríka sem mun hafa eignast fleiri jarðir á Vestfjörðum en nokkur annar maður er uppi hefur verið frá því land byggðist (sjá hér Núpur).

Í frásögnum annála af sáttafundinum á Mosvöllum árið 1394 kemur ekki fram með beinum hætti að þar hafi þá verið almennur þingstaður Önfirðinga en mjög líklegt verður þó að telja að svo hafi verið.

Elsti sýslumannsdómur frá Mosvöllum, sem nú er kunnugt um, er frá árinu 1498 og varðar eignarhald á jörðum í Dýrafirði og Arnarfirði (sjá hér bls. 16). Slíkt þarf engan veginn að koma á óvart því enda þótt Mosvellir væru fyrst og fremst þingstaður Önfirðinga, þá voru einnig haldin hér á 16. öld þriggja hreppa þing[11] og stöku sinnum almennileg héraðsþing.[12]

Ein af ástæðum þess að Mosvellir voru gerðir að þingstað hefur að líkindum verið sú hversu vel bærinn lá við samgöngum. Þar mættust í einum punkti leiðir þeirra sem komu utan úr Valþjófsdal, innan úr Firði, það er frá bæjunum sem standa við fjarðarbotninn, og frá Eyri og Veðrará, handan fjarðarins, og bæjunum þar á milli. Algengast var að þeir sem heima áttu handan við fjörðinn kæmu yfir hann á Skeiðisvaði (sjá hér bls. 24-25) en sé miðað við þá leið er vegalengdin frá Eyri að Mosvöllum ekki nema 10-11 kílómetrar. Frá Grafargili og Tungu í Valþjófsdal er leiðin að Mosvöllum einnig rösklega 10 kílómetrar svo einmitt hér hafa þeir sem lengst áttu að sækja til þingsins mæst á miðri leið. Fyrir þá sem komu yfir Gemlufallsheiði eða Breiðadalsheiði var líka fljótlegt að ríða að Mosvöllum þegar heiðin var að baki, tveir kílómetrar frá Kirkjubóli í Bjarnardal, sem er næsti bær við Gemlufallsheiði, og fjórir til fimm kílómetrar frá Fremri-Breiðadal, fyrsta bæ vestan Breiðadalsheiðar.

Enda þótt lega jarðarinnar og landfræðileg rök hafi nær örugglega átt sinn þátt í því að Mosvellir voru gerðir að þingstað kynni fleira að hafa ráðið þar nokkru um. Enginn veit nú hver eða hverjir bjuggu á jörðinni þegar hún var gerð að þingstað en líklegast er að sú ákvörðun hafi verið tekin á 10. eða 11. öld,[13] enda þótt elstu heimildir, sem varðveist hafa um reglulegt þinghald á Mosvöllum, séu talsvert yngri eða frá lokum 15. aldar eins og hér var áður nefnt.

Síðast var þingað á Mosvöllum árið 1823. Þá var gamla þinghúsið sem hér stóð orðið lélegt og komið á dagskrá að byggja nýtt á Þórustöðum en þangað færðist þinghaldið árið 1824 (sjá hér Þórustaðir). Með beinum hætti er unnt að færa sönnur á að Mosvellir hafi verið þingstaður Önfirðinga í 325 ár, frá 1498-1823, en líklegt er að svo hafi verið mun lengur.

Hér verður síðar sagt stuttlega frá fáeinum málum, sem um var fjallað á Mosvallaþingi á liðnum öldum (sjá hér bls. 16-23) og litið á minjar um þinghaldið sem hér eru enn sjáanlegar (sjá hér bls. 23-24), en fyrst skulum við huga lítið eitt nánar að sjálfri jörðinni og nokkrum einstaklingum úr hópi þeirra sem hér hafa alið aldur sinn.

Mosvalla er fyrst getið í Gísla sögu Súrssonar sem flestir munu telja að hafi verið rituð um miðbik 13. aldar[14] en greinir frá atburðum sem eiga að hafa gerst á 10. öld. Í Gísla sögu eru Mosvellir aðeins nefndir þar sem segir frá ferð húskarla Gísla Súrssonar er hann sendi úr Haukadal norður í Önundarfjörð með hin mikilvægu skilaboð til mágs síns og vinar, Vésteins Vésteinssonar á Hesti. Hér hefur áður verið sagt frá þeirri ferð og með hvaða hætti sendimennirnir og Vésteinn fórust á mis (sjá hér Arnkelsbrekka og Holtssel). Áður en samgönguhættir tóku að breytast á 20. öld lá almenn leið ríðandi manna, sem komu úr Dýrafirði og stefndu að Hesti, um túnið á Mosvöllum og beint þaðan yfir Mosvallaháls á gamlar reiðgötur sem liggja inn Bakkahlíð í átt að Vífilsmýrum og Hesti.[15] Þegar höfundur Gísla sögu segir sendimenn Gísla hafa riðið hið efra frá Mosvöllum að Hesti[16] má ætla að þeir hafi farið þessa leið því á Bakkahlíð liggja reiðgöturnar sums staðar uppundir skriðufótum.[17] Þessi leið var líka sú stysta þegar farið var ríðandi frá Mosvöllum að Hesti. Önnur leið lá úr Mosvallatúni um Reiðlág er svo hét og var þá krækt fyrir Mosvallaháls.[18] Lágin er nú að mestu horfin en úr henni gátu menn tekið stefnuna yfir Vöðin eða út yfir Vaðalinn. Þá leið gat líka verið eðlilegt að fara ef stefnt var að Kirkjubóli í Korpudal en varla að Hesti. Um leiðina úr Reiðlág og inn í Fjörð verður ekki sagt með réttu að hún liggi hið efra og því harla ólíklegt að höfundur sögunnar geri ráð fyrir að sendimenn Gísla hafi farið þá leið.

Þriðja leiðin lá svo niðri á leirunum og hana mátti fara þegar ekki var hásjávað.[19] Þegar Vésteinn Vésteinsson reið frá Hesti á leið vestur í Dýrafjörð kom hann við í Holti eins og frá er sagt í Gísla sögu.[20] Í sögunni segir að hann hafi riðið undir melinn hjá Mosvöllum þegar sendimenn Gísla fóru hjá hið efra.[21] Melurinn sem þarna er nefndur getur enginn annar verið en Mosvallaskeið sem allt fram á síðari hluta 20. aldar var hár melur utan við Mosvallabót og upp með Vaðlinum.[22] Þessi melur er nú að mestu horfinn vegna verklegra framkvæmda en það að Vésteinn ríður undir melinn sýnir að höfundur Gísla sögu telur hann hafa farið leirana, enda var það stysta leiðin frá Hesti að Holti og sú sem eðlilegt var að fara þar á milli ef ekki var hásjávað. Jafn sjálfsagt var að fara frá Mosvöllum að Hesti yfir hálsinn og hið efra eins og hér hefur áður verið lýst.

Hin forna reiðgata frá Mosvöllum inn Bakkahlíð í átt að Hesti er enn mjög greinileg og gott að fylgja henni um stund í minningu þeirra Vésteins og Gísla. Upp á Mosvallaháls var farið lítið eitt norðan við íbúðarhúsið, sem nú stendur á Mosvöllum, það er beint upp af hestaréttinni gömlu sem frá er sagt á öðrum stað (sjá hér bls. 24) og 50-80 metrum fyrir sunnan vegamótin þar sem ekið er inn í Fjörð. Handan við hálsinn kemur reiðgatan strax í ljós og liggur hún víða um 100 metrum fyrir ofan akveginn á Bakkahlíð. Fjarlægðin frá þessari fornu reiðgötu, sem liggur hér hið efra og niður á leirana fram undan Mosvallabót er um það bil einn kílómetri. Engar líkur væru því til þess að bræðurnir, sem Gísli sendi að Hesti, hefðu þekkt Véstein þegar hann reið út leirana við þriðja mann þó svo þeir hefðu séð mannareiðina í fjarska. Enga ástæðu höfðu þeir heldur til að reikna með að það væri Vésteinn sem riði út leirana og stefndi að Holti. Svo virðist sem höfundur Gísla sögu telji sendimennina hafa verið komna inn fyrir Mosvallaháls þegar Vésteinn og fylgdarmenn hans hurfu undir melinn því frásögn sína orðar hann á þessa leið: Nú ríður Vésteinn heiman og ber svo til að þá ríður hann undir melinn hjá Mosvöllum er þeir bræður ríða hið efra og farast þeir hjá á mis.[23]

Allt kemur þetta vel heim við staðhætti eins og þeir voru áður en melnum, það er að segja Mosvallaskeiði, var umturnað og eytt að mestu. Hitt er þó líka hugsanlegt að höfundur sögunnar geri ráð fyrir að Vésteinn hafi verið kominn undir melinn þegar sendimenn Gísla komu á Mosvallaháls og þeir hafi því aldrei séð mannareiðina en svo þarf alls ekki að vera. Á allri leiðinni frá Gemlufalli í Dýrafirði að Hesti í Önundarfirði gátu menn sem komu úr sitt hvorri átt hvergi farist á mis nema einmitt hér. Segja má að örlög Vésteins hafi ráðist hér í landareign Mosvalla en frá því hann var veginn snýst öll atburðarás sögunnar um afleiðingar þess launvígs. Mosvellir eru því tvímælalaust einn þeirra staða sem seint gleymast athugulum lesendum  Gísla sögu, bæði nær og fjær.

Í íslenskum fornritum eru Mosvellir hvergi nefndir á nafn nema í Gísla sögu og í öðrum heimildum frá því fyrir 1500 er jarðarinnar hvergi getið nema í dómnum frá árinu 1498 sem hér var áður minnst á (sjá bls. 2). Við lok 14. aldar munu Mosvellir enn hafa verið í einkaeign því nafn jarðarinnar er ekki að finna í eignaskrá Holtskirkju frá árinu 1397 (sjá hér Holt). Þegar Gísla máldagi var færður í letur á árunum upp úr 1570 var Holtskirkja hins vegar búin að eignast Mosvelli.[24] Nær fullvíst má því telja að kirkjan hafi eignast jörðina einhvern tíma á árunum 1397-1570. Árið 1901 voru Mosvellir enn í eigu kirkjunnar í Holti (sjá hér Holt) og höfðu þá verið kirkjujörð í a.m.k. 330 ár.

 

Að fornu mati var jörðin Mosvellir talin 24 hundruð að dýrleika eins og hér hefur áður verið nefnt. Á árunum upp úr 1570 var landskuld af jörðinni 1 hundrað, það er 120 álnir.[25] Árið 1710 var landskuldin enn hin sama og þá fylgdu jörðinni 8 innstæðukúgildi.[26] Í byrjun 18. aldar urðu leiguliðar Holtskirkju á Mosvöllum líka að gangast undir kvaðir um skipsáróður og dagsverk við slátt eins og lengi hafði verið.[27] Undan þessum vinnukvöðum munu þeir að líkindum hafa losnað seint á 18. öld.[28]

Fyrr á öldum áttu Mosvellir skógarítak í landi Tannaness handan við Vöðin en Tannanes átti á móti beitarréttindi í landi Mosvalla.[29] Í byrjun 18. aldar voru þessi gagnkvæmu réttindi úr sögunni og hvort tveggja eyðilagt eins og komist er að orði í Jarðabókinni frá 1710.[30]

Í sóknalýsingunni frá árinu 1840 eru Mosvellir taldir vera góð slægnajörð[31] og í álitsgerð fasteignamatsnefndar frá því um 1920 er túnið sagt vera gott.[32] Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 er hins vegar eingöngu minnst á ókosti jarðarinnar og mikið gert úr þeim. Þar segir:

 

Móskurð á jörðin engan. Eggvarp hefur hér verið af kríu og öðrum smáfugli en nú er þetta ekkert. Flæðihætt er hér sökum hólma sem fé fer í og flæðir ef ekki er vaktað, helst um stórstraum. Engjum hafa skriður stórum spillt. Skriður falla hér og á pening svo oft verður skaði að. Hagar jarðarinnar eru og af skriðum stórlega skemmdir. Engjunum öðrum megin spillir Bjarnardalsá, brýtur þær og ber á grjót.[33]

 

Bændurnir tveir sem bjuggu á Mosvöllum árið 1681 hétu Jón Jónsson og Ólafur Jónsson.[34] Um nöfn fólksins sem hér lifði og dó fyrir þann tíma er allt ókunnugt. Á 18. og 19. öld var oftast tvíbýli á Mosvöllum[35] en dæmi finnast um þríbýli[36] og árið 1762 bjó einn maður á allri jörðinni.[37]

Árið 1710 bjuggu hér bræðurnir Ásgrímur og Bjarni Ólafssynir og höfðu 12 hundruð hvor til ábúðar.[38] Bústofninn hjá þeim báðum samanlagt var sem hér segir: 7 kýr, 35 ær, 21 sauður eldri en veturgamall, 19 veturgamlir sauðir, 33 lömb, 3 hross og eitt tryppi.[39] Af þessum bústofni átti landeigandi 8 kúgildi[40] en þá kúgildatölu mátti til dæmis fylla með 30 mjólkurám að viðbættum 12 fullorðnum sauðum (þrevetra og eldri) og öðrum 12 veturgömlum.[41] Á þessu sést að Holtskirkja átti árið 1710 meir en þriðjung af bústofninum á Mosvöllum. Í leigur fyrir kúgildin átta munu þeir bræður hafa þurft að greiða 160 pund af smjöri á ári hverju til prestsins í Holti eins og lagaákvæði Jónsbókar kváðu á um. Í landskuld greiddu þeir 60 álnir hvor (hálft kýrverð) og átti einn þriðjungur þeirrar fjárhæðar að greiðast með innleggi í kaupstað, annar í fóðri og sá þriðji í landaurum,[42] það er gjaldgengum vörum. Þennan síðasta þriðjung landskuldarinnar var til dæmis hægt að greiða með einni vætt af fiski (40 kíló) því sex fiskvættir töldust vera kýrverð, það er 120 álnir.[43]

Um miðbik 19. aldar hafði kirkjukúgildunum á Mosvöllum fækkað úr átta í sex[44] en landskuldin var enn óbreytt.[45] Líklega hefur hún þá verið greidd með ýmsu móti en sem dæmi má nefna að 6. júní 1844 skrifar séra Sigurður Tómasson í Holti í dagbók sína þessi orð: Kom Jón Guðlaugsson með landskuld sína, gimbur og les[46] en sá sem þarna er nefndur mun ugglaust vera Jón Guðlaugsson, bóndi á Mosvöllum.[47] Af lesi, það er að segja prjónlesi, þurfti 15 pör að góðum tvíbandssokkum til að greiða 60 álna landskuld ellegar 90 pör af sjóvettlingum.[48]

Um Mosvallabændur á 18. öld og þeirra fólk er öll vitneskja af mjög skornum skammti þó að nöfn allmargra séu kunn. Nokkru meiri upplýsingar eru hins vegar í boði um þá tvo embættismenn sem sátu á Mosvöllum á árunum 1745-1765 en þeir voru báðir tengdasynir séra Sigurðar Sigurðssonar í Holti, annar aðstoðarprestur en hinn sýslumaður. Af þessum tveimur herramönnum nefnum við fyrst til sögunnar séra Hjalta Markússon en hann vígðist sem aðstoðarprestur séra Sigurðar árið 1745 og gegndi því embætti næstu 11 árin.[49]

Um fæðingarár séra Hjalta er ekki vitað með vissu en stúdent varð hann úr Skálholtsskóla árið 1742[50] og hefur því að líkindum verið fæddur um 1720. Hann var sonur Markúsar Bergssonar, sýslumanns í Ögri, og konu hans, Elínar Hjaltadóttur. Ætla má að séra Hjalti hafi borið nafn móðurföður sins, séra Hjalta Þorsteinssonar, málarans góða, er var prestur í Vatnsfirði við Djúp í 50 ár[51] og enn er mörgum kunnur vegna hagleiks síns og snilli. Faðir séra Hjalta Markússonar og afi hans voru báðir í fremstu röð embættismanna og þess má geta að bróðir hans, Björn Markússon, var lögmaður sunnanlands og austan í aldarþriðjung.

Séra Hjalti Markússon náði hins vegar aldrei því flugi sem margir ættmenn hans virtust eiga svo létt með. Að loknu stúdentsprófi var hann skamman tíma í þjónustu Erlendar Ólafssonar sýslumanns, sem þá bjó í Súðavík, en þegar hann hugðist taka prestvígslu árið 1744 gerði Ludvig Harboe hann afturreka, enda taldi hann þennan aðstoðarmann Erlendar sýslumanns vera hinn mesta einfeldning.[52] Ári síðar fékk Hjalti þó vígslu og gerðist aðstoðarprestur tengdaföður síns, séra Sigurðar Sigurðssonar í Holti, en séra Sigurður var þá kvæntur Elínu Markúsdóttur, sem var systir séra Hjalta, og var hún önnur eiginkona hans.[53]

Ekki er nú vitað með vissu hvort séra Hjalti settist strax að á Mosvöllum þegar hann kom í Önundarfjörð en fullvíst er að hér bjó hann árið 1753.[54] Þegar Hjalti Markússon gerðist aðstoðarprestur séra Sigurðar í Holti hefur ef til vill verið ráðið að hann fengi Gróu dóttur hans fyrir konu. Ljóst er að þau Hjalti og Gróa urðu hjón en áður hafði hún átt eitt eða fleiri börn í lausum leik.[55] Gróa var dóttir séra Sigurðar í Holti og fyrstu eiginkonu hans, Ástu Pálsdóttur frá Núpi í Dýrafirði, og því alsystir Halldóru sem giftist Jóni Teitssyni, frænda þeirra, er að lokum varð biskup á Hólum.[56]

Séra Hjalti var aðstoðarprestur tengdaföður síns frá 1745 til 1754 en á því ári sagði hann af sér embætti vegna vanheilsu.[57] Hann mun þá hafa verið orðinn holdsveikur og varð að lokum blindur og karlægur.[58] Séra Hjalti mun hafa dáið árið 1761[59] og hefur þá varla verið nema um fertugt en Gróa kona hans lifði nær 40 árum lengur.[60]

Vel getur verið að séra Hjalti hafi búið á Mosvöllum öll þau ár sem hann ól aldur sinn í Önundarfirði, það er frá 1745 til 1761, en hitt er líka hugsanlegt að búskapartími hans hér hafi verið eitthvað styttri. Svar við þeirri spurningu finnst ekki í þeim gögnum sem fyrir liggja. Árið 1753 hafði séra Hjalti ekki alla jörðina til ábúðar því bóndi einn, sem hét Páll Þórðarson, bjó á einhverjum parti hennar.[61] Séra Hjalti virðist þá hafa verið svolítið betur stæður en nágrannar hans í bændastétt því honum var gert að greiða lausafjártíund af tíu hundruðum en enginn bændanna tíu sem þá bjuggu á jörðunum í Bjarnardal tíundaði meira en fimm hundruð í lausafé.[62]

Eina barnið sem prestshjónin Hjalti og Gróa á Mosvöllum eignuðust svo vitað sé var Elín sem fæddist um 1750 og giftist í fyllingu tímans Páli Þórðarsyni er lengi bjó í Neðri-Breiðadal.[63] Páll í Neðri-Breiðadal fórst í mannskaðanum mikla vorið 1812 og var þá formaður á einum bátanna sem týndust í hafi (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli og Neðri-Breiðadalur). Ekkja hans, Elín Hjaltadóttir, náði háum aldri en andaðist á Þórustöðum sumarið 1835[64] (sjá hér Þórustaðir).

Árið 1760 var ungur lagakandidat settur sýslumaður í Ísafjarðarsýslu í stað Erlendar Ólafssonar sem vikið hafði verið frá embætti um stundarsakir meðan mál hans biðu úrskurðar dómstóla. Þessi ungi lagamaður, sem reyndar var orðinn 34 ára gamall, hét Sigurður Sigurðsson og var sonur séra Sigurðar Sigurðssonar sem lengi hafði verið prestur í Flatey á Breiðafirði.

Sigurður þessi sýslumaður fékk snemma viðurnefnið skuggi og hér hefur áður verið frá honum sagt vegna dauðadómsins yfir Ólöfu og Ívari á Gljúfrá í Arnarfirði, sem hann kvað upp árið 1761, en þau voru bæði tekin af lífi 22. ágúst 1763 (sjá hér Gljúfrá og Auðkúla). Fyrstu eitt til tvö árin í embætti sínu vestra átti Sigurður skuggi heima í Holti en vorið 1762 fór hann að búa á Mosvöllum og bjó hér sem sýslumaður í 3 ár (sjá hér Gljúfrá).

Þegar Sigurður tók við sýslumannsembættinu og fluttist frá Vestmannaeyjum vestur í Önundarfjörð mun hann hafa verið ókvæntur. Síðar gekk hann að eiga eina af dætrum séra Sigurðar Sigurðssonar í Holti en hann andaðist í desember 1760[65] þegar nafni hans, sýslumaðurinn, var alveg nýkominn í prestakallið eða væntanlegur á næstu dögum (sjá hér Gljúfrá). Sú af dætrum séra Sigurðar sem giftist Sigurði skugga hét Ásta og var um tvítugt þegar faðir hennar andaðist og hinn nýi sýslumaður birtist.[66] Árið 1762 voru þau orðin hjón[67] og hafa því að líkindum tekið saman mjög skömmu eftir komu Sigurðar vestur. Allra líklegast er reyndar að Sigurður skuggi hafi tekið við búsforráðum í Holti snemma á árinu 1761 og hann hafi staðið þar fyrir búi meðan náðarár ekkjunnar, stjúpmóður Ástu, var að renna út. Séra Jóni Eggertssyni var veitt Holtsprestakall 15. mars 1761 og hann vígður í maímánuði þá um vorið[68] en líklega hefur hann ekki tekið við búsforráðum á staðnum fyrr en vorið 1762 þegar Sigurður skuggi fór að búa á Mosvöllum. Í manntalinu frá 1762 sést að þá er hinn setti sýslumaður kominn að Mosvöllum og býr þar einn með sínu fólki á allri jörðinni.[69] Í manntalinu er hann nefndur Signor Sivert Sivertsen upp á dönsku, sagður 37 ára en eiginkonan 15 árum yngri.[70] Á þessu fyrsta búskaparári þeirra á Mosvöllum voru þau með 8 vinnuhjú, jafnmörg og hjúin voru á hinum þremur bæjunum í Bjarnardal, öllum til samans.[71]

Ekki er alveg ljóst hvenær Sigurður skuggi fór frá Mosvöllum. Vorið 1765 eða þá um sumarið tók Erlendur Ólafsson á ný við störfum sýslumanns í Ísafjarðarsýslu.[72] Nokkru síðar tók Sigurður aftur við sínu fyrra embætti í Vestmannaeyjum en þar hafði hann verið sýslumaður í 2 ár áður en hann kom vestur.[73] Við embættinu í Vestmannaeyjum tók hann þó ekki að fullu fyrr en 1768[74] svo verið getur að hann hafi búið á Mosvöllum eitthvað lengur en til 1765. Í Önundarfirði virðist sýslumaðurinn á Mosvöllum hafa fengið slæm eftirmæli hjá almúganum því sögur sem þar voru um hann sagðar á fyrstu áratugum tuttugustu aldar voru ekki fallegar ef marka má sýnishorn sem komst á prent í ritinu Frá ystu nesjum.[75]

Þar er því haldið fram að Sigurður skuggi hafi verið bæði drykkfelldur og lúsugur og það sem verra er að hann hafi lofað dauðadæmdri stúlku náðun ef hún yrði dugleg við heyvinnu á sýslumannssetrinu en svikið loforðið þegar á reyndi.[76] Slíkar sögur eru auðvitað eingöngu til marks um almannaróm sem reyndar kynni að hafa tekið ýmsum breytingum á hálfri annarri öld. Eina stúlkan í Ísafjarðarsýslu, sem um er kunnugt að Sigurður skuggi hafi dæmt til dauða fyrir sifjaspell og látið taka af lífi, er sú sem hér var áður nefnd, Ólöf Jónsdóttir frá Gljúfrá í Arnarfirði, og því er líklegast að sagan um sviksemi sýslumanns tengist henni. Þau Ólöf og Ívar, stjúpfaðir hennar, munu reyndar hafa verið síðasta fólkið á öllu landinu sem tekið var af lífi fyrir sifjaspell[77] og því má ætla að aftakan hafi lengi verið í minnum höfð í nálægum byggðum. Þess mun Sigurður skuggi hafa goldið en honum til lítilfjörlegra málsbóta skal minnt á að þau Ívar og Ólöf voru ekki hálshöggvin fyrr en hæstiréttur í Kaupmannahöfn hafði staðfest dauðadóminn og komið var bréf frá kónginum um að þau skyldu leidd á höggstokkinn (sjá hér Gljúfrá og Auðkúla).

Hér hefur áður verið minnst á söguna um flóðið sem tók búslóð sýslumanns þegar hann var að flytjast frá Mosvöllum (sjá hér Gljúfrá) og talið var hefnd æðri máttarvalda fyrir svik hans við hina dauðadæmdu stúlku. Í munni gamals fólks sem lifði í Önundarfirði 150 árum síðar var sagan af hefndinni sem kom að ofan sögð á þessa leið:

 

Eftir þetta fóru flestir hlutir að ganga sýslumanni miður en áður og það í svo ríkum mæli að ekki þótti einleikið. Gerðist hann drykkfelldur mjög og tók að sýna ýmiskonar vanrækslu í starfi sínu. Búið gekk smátt og smátt saman og óvinsældir hans í héraði fóru vaxandi með hverju ári. Þá skeði og sá einkennilegi atburður að sýslumaður gerðist lúsugur mjög og fékk ekki losnað við þá óværð, hverra ráða sem leitað var. …

Þegar hann flutti frá Mosvöllum var farið með búslóð hans niður í svokallað Arnarbæli en það er tangi nokkur sem gengur fram í Vöðin [sjá hér Holt], norðan við Vaðalinn. Þar fyrir framan eru þurrir leirar um fjörur en um flæðar er tanginn umflotinn sjó og má þá komast þangað á báti. Þegar búslóð sýslumanns hafði verið flutt í Arnarbælistanga gerði flóð, óheyrilega mikið, og gekk sjór yfir tangann svo allt flæddi burt sem þar var. Varð Skuggi fyrir hinum mesta skaða og hvarf að heita mátti slyppur og snauður frá Mosvöllum. Hefur aldrei flætt yfir Arnarbælistanga, hvorki fyrr né síðar. Var þetta óhapp sýslumanns talið refsing æðri máttarvalda fyrir brigðmælgina við sakakonu þá sem áður er um getið.[78]

 

Vel gæti sannleikskjarni leynst í þessari sögu um flóðið og fullyrðingar um að sýslumaður hafi verið lúsugur mun vera ástæðulaust að rengja. Lúsasögunni til stuðnings skal minnt á hina ágætu vísu Jóns Þorlákssonar, er síðar varð prestur á Bægisá, og ort var um Sigurð skugga en vísuna er hér að finna þar sem sagt er frá fólkinu á Gljúfrá sem dæmt var til dauða og tekið af lífi (sjá Gljúfrá).

Í Vestmannaeyjum var Sigurður skuggi sýslumaður í um það bil tvo áratugi en árið 1786 var honum veitt Borgarfjarðarsýsla og sat hann á Hvanneyri í nokkur ár sem sýslumaður Borgfirðinga.[79] Árið 1794 fékk hann lausn frá embætti og fór ári síðar til Kaupmannahafnar að leita sér lækninga.[80] Þar andaðist þessi fyrrverandi sýslumaður á Mosvöllum 18. ágúst 1798 og var þá kominn á áttræðisaldur.[81] Nær fullvíst má telja að Sigurður skuggi hafi aldrei komið í Önundarfjörð eftir brottför hans þaðan á árunum 1765-1768 en sonur hans og sonarsonur, þeir séra Tómas Sigurðsson og séra Sigurður Tómasson í Holti, náðu hins vegar að setja svip sinn á mannlífið í Mosvallahreppi um nokkurt skeið, mörgum áratugum síðar (sjá hér Holt).

Sigurður skuggi mun vera eini sýslumaðurinn sem setið hefur á Mosvöllum og á 19. öld bjuggu hér jafnan sléttir bændur.

Úr röðum bænda sem lengst bjuggu á Mosvöllum á 19. öld má nefna Jón Guðlaugsson sem fæddur var árið 1794[82] og hóf búskap á Mosvöllum á árunum milli 1821 og 1830.[83] Honum má ekki rugla saman við annan Jón Guðlaugsson sem bjó á Mosvöllum árið 1816 og fæddur var á Kirkjubóli í Bjarnardal árið 1782 eða því sem næst.[84] Jón Guðlaugsson, sem fór að búa á Mosvöllum skömmu fyrir 1830, var árið 1801 sjö ára barn á Þórustöðum í Önundarfirði hjá foreldrum sínum sem þar bjuggu, Guðlaugi Brynjólfssyni og Kristínu Sæmundsdóttur.[85] Sæmundur Guðlaugsson, bróðir Jóns, sem var sex árum eldri, fæddur 1788, var þá líka hjá foreldrum þeirra á Þórustöðum.[86]

Árið 1830 voru báðir þessir bræður orðnir bændur á Mosvöllum og bjuggu þar saman í tvíbýli næstu þrettán árin.[87] Báðir voru þeir bræður kvæntir menn og átti Jón Margréti Guðmundsdóttur fyrir konu en kona Sæmundar hét Guðrún Jónsdóttir og var nær 20 árum eldri en hann.[88] Árið 1837 bjuggu bræðurnir á 12 hundruðum hvor og var Jón þá með átta manns í heimili en hjá Sæmundi töldust heimilismenn vera fimm.[89] Hjá Jóni var bústofninn þessi árið 1837: 3 kýr, 1 kálfur, 12 ær, 3 gemlingar, 12 lömb og einn hestur.[90] Hjá Sæmundi var búið heldur minna, það er 1 kýr, 1 naut, 12 ær, 3 gemlingar, 11 lömb, 1 taminn hestur og 1 folald.[91] Engan bát áttu þeir bræður þá.[92]

Þann 29. mars árið 1843 drukknaði Sæmundur bóndi á Mosvöllum í hákarlalegu þegar áttæringur frá Tröð fórst í hafi (sjá hér Tröð og Kirkjuból í Bjarnard.). Í kirkjubókinni er Sæmundur talinn fyrstur þegar nöfn hinna drukknuðu voru skráð[93] sem bendir til þess að hann hafi verið formaður á bátnum. Öruggt er það samt ekki eins og hér hefur áður verið vikið að (sjá Tröð). Eina barn Sæmundar á Mosvöllum sem upp komst var drengur er hann átti framhjá konu sinni með annarri Guðrúnu Jónsdóttur.[94] Þessi sonur Sæmundar hét Kristján og var fæddur árið 1826. Kristján þessi Sæmundsson var faðir Jóhannesar Kristjánssonar sem lengi bjó á Hesti en niðjar hans síðar í Ytri-Hjarðardal.[95]

Jón Guðlaugsson bjó á Mosvöllum á þriðja tug ára. Árið 1850 hafði hann hálfa jörðina til ábúðar[96] eins og verið hafði árið 1837. Bú hans var þá orðið nokkru stærra en verið hafði 13 árum fyrr eða sem hér segir: 3 kýr, 1 kálfur, 18 ær, 3 sauðir og hrútar, 10 gemlingar, 18 lömb og 2 hestar.[97] Bóndi þessi á Mosvöllum andaðist 10. júní 1851 og var þá á sextugsaldri.[98]

Einn sona Jóns Guðlaugssonar og Margrétar konu hans var Jón Jónsson sem tók við búi á Mosvöllum af föður sínum[99] og bjó þar í allmörg ár en fluttist síðan að Kirkjubóli í Bjarnardal og drukknaði árið 1871 (sjá hér Kirkjuból í Bjarnardal). Úr hópi barna Jóns Guðlaugssonar má einnig nefna Jens, sem varð bóndi á Innri-Veðrará,[100] og Gabríel, sem lengi bjó á Efstabóli,[101] en hann var faðir Jóns Gabríelssonar, bónda á Fjallaskaga í Dýrafirði (sjá hér Fjallaskagi).

Þegar Sæmundur Guðlaugsson drukknaði árið 1843 varð Björn Eiríksson sambýlismaður Jóns Guðlaugssonar á Mosvöllum[102] og mun hafa fengið til ábúðar hálflenduna sem Sæmundur hafði áður. Björn var sonur séra Eiríks Vigfússonar, sem lengst var prestur á Stað í Súgandafirði, og áður en prestssonur þessi kom í Önundarfjörð hafði hann verið bóndi í Súgandafirði og á Meiri-Bakka í Skálavík.[103] Kona Björns Eiríkssonar var Valgerður Benediktsdóttir frá Blámýrum í Ögursveit og voru þau hjónin systrabörn.[104] Björn og Valgerður bjuggu á Mosvöllum á annan tug ára en höfðu þar stundum aðeins 6 hundruð til ábúðar.[105]

Árið 1860 var Egill Jónsson orðinn sambýlismaður Jóns Jónssonar á Mosvöllum[106] en Egill hafði áður búið á Blómsturvöllum í Ytri-Hjarðardal.[107] Hann var sonur Jóns Guðlaugssonar sem bjó á Mosvöllum árið 1816,[108] hins fyrri tveggja bænda með sama nafni sem hér bjuggu á 19. öld. Egill og kona hans, Jóhanna Nikulásdóttir, bjuggu á Mosvöllum fram yfir 1870[109] en þegar hann dó haustið 1879 var hann kominn í húsmennsku.[110] Sá sem tók við búi af Agli var tengdasonur hans, Kjartan Jónsson, sem kvæntur var Finnborgu Egilsdóttur.[111] Kjartan, sem fæddur var árið 1845, var sonur Jóns Arnfinnssonar skipherra og Margrétar Kjartansdóttur konu hans er bjuggu á Kirkjubóli í Bjarnardal[112] og hér hefur áður verið frá sagt (sjá Kirkjuból í Bjarnardal). Kjartan bjó aðeins í nokkur ár á Mosvöllum en fluttist þaðan að Tannanesi og bjó síðar lengi í Efrihúsum í Hestþorpinu.[113] Hann var söðlasmiður.[114]

Þegar Jón Jónsson, sem hér var áður nefndur, sonur Jóns Guðlaugssonar á Mosvöllum, fluttist þaðan að Kirkjubóli í Bjarnardal árið 1868 kom nýtt fólk að Mosvöllum og fékk til ábúðar hálflenduna sem Jón hafði búið á og áður faðir hans allt frá árunum milli 1820 og 1830. Bóndinn sem fluttist að Mosvöllum árið 1868 hét Gils Bjarnason og búskaparsaga hans þar varð lengri en nokkurs annars úr röðum bænda sem hér bjuggu á 19. öld eða 39 ár, frá 1868 til 1907 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 363).

Gils fæddist árið 1833, sonur hjónanna Bjarna Nikulássonar og Gunnhildar Sigurðardóttur er þá bjuggu á Kirkjubóli í Korpudal.[115] Þegar Gils var um 12 ára aldur andaðist faðir hans og skömmu síðar fluttist Gunnhildur móðir hans frá Kirkjubóli í Korpudal að Vífilsmýrum.[116] Þar stóð hún fyrir búi í liðlega 20 ár með stuðningi barna sinna[117] og vann Gils allan eða nær allan þann tíma á búi móður sinnar.[118]

Þegar Gils Bjarnason fór að búa á hálfum Mosvöllum vorið 1868 var hann enn ókvæntur þó orðinn væri nær hálffertugur og kvæntist reyndar ekki fyrr en tíu árum síðar.[119] Á þessum árum, 1868-1878, var Gunnhildur móðir hans fyrir framan hjá syni sínum og sá um stjórn mála í búri og eldhúsi þó farin væri að nálgast áttrætt þegar Gils lét loks verða af því að festa sér konu.[120]

Konan, sem Gils bóndi á Mosvöllum kvæntist haustið 1878, hét Guðmundína Jónsdóttir og var hún 18 árum yngri en brúðguminn.[121] Guðmundína var yngsta dóttir hjónanna Jóns Björnssonar og Guðríðar Bjarnadóttur en þau höfðu búið á Tannanesi í allmörg ár um miðbik 19. aldar (sjá hér Tannanes). Þau Gils og Guðmundína stóðu fyrir búi á Mosvöllum allt til ársins 1907 eins og hér hefur áður verið nefnt. Árið 1880 bjuggu þau með 3 kýr, 14 mylkar ær og 2 geldar, 12 gemlinga og 3 hesta en tíu árum fyrr hafði bústofninn hjá Gils verið heldur minni.[122] Hjónin Gils og Guðmundína eignuðust nokkur börn, þar á meðal Guðmund Gilsson sem lengi bjó í Innri-Hjarðardal (sjá hér Innri-Hjarðardalur), en sá sem tók við búi af þeim á Mosvöllum var fóstursonur þeirra, Guðmundur Bjarnason, og bjó hann í tvíbýli á hálfri jörðinni allt til ársins 1941 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 363).[123]

Á árunum kringum 1920 var Prestlaunasjóður orðinn eigandi Mosvalla.[124] Landskuld af jörðinni var þá 5 gemlingar á ári.[125] Af hinum gömlu innstæðukúgildum Holtskirkju á Mosvöllum, sem verið höfðu átta árið 1710 (sjá hér Holt), voru fjögur enn við lýði um 1920, það er 24 ær, og í leigu fyrir þær urðu ábúendur að greiða 80 pund af smjöri á ári hverju[126] eins og verið hafði samkvæmt Jónsbók. Á þessum tíma var jörðin Mosvellir virt á 3.800,- krónur án húsa en hús, sem á henni stóðu, á 2.400,- krónur.[127] Hjá Guðmundi Bjarnasyni, sem árið 1920 bjó á hálfri jörðinni, var baðstofan 14 x 5 álnir[128] eða um það bil 27 fermetrar. Við baðstofuna var kominn skúr og þar var gólfflöturinn 14 x 4 álnir.[129] Að sögn kunnugra var þetta reisulegur bær með torfveggjum en þil og stafnar úr timbri.[130] Önnur hús á hálflendunni sem Guðmundur bjó á voru þessi: Skemma, hjallur, tvær hlöður, tvö fjárhús, fjós, hesthús, haughús, eldiviðarhús og súrheystótt með járnþaki.[131] Öll húsin sem hér hafa verið talin voru virt á 1.600,- krónur samtals, og eignarhlutur Guðmundar í húsunum var metinn á 1.500,- krónur.[132]

Hjá Hjálmari Guðmundssyni, sem þá var sambýlismaður Guðmundar, var húsakosturinn mun lakari og aðeins talinn 800,- króna virði.[133] Baðstofan, sem hann bjó í, var 9 x 5½ alin[134] en önnur hús á þeim jarðarparti voru árið 1920 þessi: Búr, skemma, hjallur, smiðja, fjós, tvær hlöður, tvö fjárhús og hesthús.[135]

Á þessum tíma, árunum kringum 1920, var talið að á Mosvöllum væri unnt að framfleyta 4 kúm, 100 sauðkindum og 6 hrossum.[136] Af túninu fengust 140 hestar af töðu og talið var að á engjum mætti ná um það bil 300 hestum af útheyi.[137] Þessi heyfengur af allri jörðinni skiptist nokkurn veginn til helminga milli bændanna tveggja.[138] Hlunnindi voru engin á Mosvöllum að dómi fasteignamatsmannanna frá 1920 nema lélegt mótak.[139]

Á árunum upp úr 1880 stóðu tveir bæir á Mosvöllum og bjó Gils Bjarnason í ytri bænum en Brynjólfur Davíðsson í fremri bænum.[140] Í dagbók Magnúsar Hjaltasonar frá árinu 1896 sjáum við líka að þá hefur Gils verið í ytri bænum[141] þar sem Guðmundur Bjarnason, fóstursonur hans, bjó síðar.[142] Báðir bæirnir stóðu á sama túnbalanum, rétt fyrir neðan akbraut nútímans og svolítið ofar og utar en íbúðarhúsið sem nú stendur á Mosvöllum.[143] Milli bæjanna tveggja voru um það bil 30 metrar.[144] Um 1930 voru báðir bæirnir á Mosvöllum enn flokkaðir sem torfbæir[145] en líklega hefur Hjálmar bóndi í fremri bænum þá verið búinn að byggja nýja baðstofu því nú var verðmæti húsanna talið nokkurn veginn jafnt á báðum býlunum,[146] öfugt við það sem verið hafði einum áratug fyrr.

Þegar hér var komið sögu var búið að girða Mosvallatúnið en stærð þess var talin 6 hektarar.[147] Árið 1930 voru báðir bændurnir á Mosvöllum með jafn stóran bústofn, það er 2 kýr, 40 kindur og 3 hross hvor.[148] Bæði heimilin voru með matjurtagarð og höfðu reyndar komið sér upp slíkum görðum fyrir 1920.[149] Árið 1930 var annar garðurinn 800 fermetrar og úr honum fengust 14 tunnur garðávaxta.[150] Hinn var 220 fermetrar og uppskeran úr honum dugði til að fylla 3 tunnur.[151]

Hér hefur nú verið sagt lítið eitt frá nokkrum þeirra sem ólu aldur sinn á gömlu Mosvöllum á 18. og 19. öld og fyrsta þriðjungi 20. aldar. Áður var frá því greint að hér var öldum saman þingstaður Önfirðinga og þinghaldið ekki fært frá Mosvöllum fyrr en árið 1824 (sjá hér bls. 3). Af dómum sem upp voru kveðnir á Mosvallaþingi á 16., 17. og 18. öld hafa þó nokkrir varðveist og um aðra er meira eða minna vitað. Frá öldunum fyrir 1500 er hins vegar nær allt sem fram fór á Mosvallaþingi myrkri hulið.

Hér var áður sagt frá sáttafundinum, sem ýmsir ríkustu höfðingjar landsins efndu til á Mosvöllum sumarið 1394 (sjá hér bls. 2 og Núpur), en um samkomur er hér voru haldnar næstu 100 árin eru engar heimildir í boði. Fyrsta reglulega þinghaldið á Mosvöllum, sem við eigum kost á að lesa um í samtímaheimild, var haldið 1. júní árið 1498.[152] Vitnisburðarbréf um dóm sem þar var kveðinn upp var ritað í Breiðadal sama dag og er enn varðveitt.[153] Í bréfinu er frá því greint að nýnefndur dómur hafi verið kveðinn upp á almennilegu héraðsþingi á Mosvöllum og dómsmenn verið tilnefndir af Guðna Jónssyni er þá hafði kóngsins sýslu millum Geirhólms og Langaness.[154]

Efni dómsins varðar eignarhald á jörðunum Dufansdal í Arnarfirði og Meðaldal og Hólum í Dýrafirði og varð niðurstaða dómsmanna sú að kaup Þóris Steinólfssonar á jörðinni Dufansdal af Guðmundi ríka Arasyni skyldu teljast gild, enda þótt Guðmundur hefði á sínum tíma ógilt kaupin og tekið jörðina af Þóri.[155] Með þeim rökum var Ólafi Jónssyni, föður Einars Ólafssonar sem að líkindum hefur búið á Hvilft í Önundarfirði, dæmdur Dufansdalur.[156] Minnt skal á að Guðni Jónsson sýslumaður, sem tilnefnt hafði dómsmennina, var tengdasonur Björns hirðstjóra Þorleifssonar[157] og faðir Björns Guðnasonar í Ögri. Guðni var frá Kirkjubóli í Langadal við Djúp og bjó þar lengi.[158]

Frá árunum 1503-1518 eru til nokkrir dómar sem Björn Guðnason í Ögri, sýslumaður milli Geirhólms og Langaness, lét dæma á Mosvöllum[159] en merkilegasti Mosvalladómurinn frá þessu skeiði er máske sá sem upp var kveðinn 1. nóvember 1509 af dómsmönnum sem Jón Sigmundsson lögmaður hafði tilnefnt.[160] Sá tólf manna dómur var kveðinn upp á almennilegu 3ja hreppa þingi og fjallaði um ráðstöfun erfðagóss sem Solveig, dóttir Björns hirðstjóra Þorleifssonar á Skarði, hafði látið eftir sig.[161] Solveig hafði búið alllengi á Hóli í Bolungavík með Jóni nokkrum Þorlákssyni í óþökk margra nánustu ættingja sinna og áttu þau a.m.k. 6 börn saman en giftust aldrei með formlegum hætti.[162] Síðar gekk Solveig, sem var móðursystir Björns Guðnasonar í Ögri (hálfsystir móður hans), að eiga Pál Jónsson, síðast sýslumann á Skarði á Skarðsströnd, en hann var föðurbróðir Björns í Ögri.[163]

Solveig Björnsdóttir andaðist árið 1495 en hafði áður gengið frá erfðaskrá þar sem hún mælti m.a. fyrir um að börnin, sem hún hafði eignast með Jóni Þorlákssyni, skyldu fá 6 hundruð hundraða í arf eftir sig.[164] Um þennan arf stóðu langvarandi deilur og var dómurinn á Mosvöllum haustið 1509 einn anginn af þeim fjölþættu átökum. Þar höfnuðu dómsmennirnir kröfu eins sona Solveigar en féllust í aðalatriðum á kröfur Björns í Ögri sem þarna átti mikilla hagsmuna að gæta.[165]

Í dómi þessum frá 1. nóvember 1509 er m.a. komist svo að orði að þegar Solveig Björnsdóttir bjó með Jóni Þorlákssyni á Hóli í Bolungavík hafi hún verið illa til lokkuð frilla og sambúð þeirra Jóns sögð hafa verið á móti ráðagerð og vitorðum og vilja föður, móður hennar og bróður.[166]

Einn angi þessara sömu erfðamála og flækjunnar sem þeim tengdist kom aftur til kasta dómsmanna á Mosvöllum 27 árum síðar þegar Ögmundur biskup Pálsson var á yfirreið um Vestfirði í ágústmánuði árið 1536.[167] Undanfari málsóknarinnar, sem biskup stóð þá fyrir, var að árið 1530 hófust deilur um arftöku eftir Einar Jónsson á Hóli í Bolungavík, sem þá mun hafa verið nýlega látinn, en hann var sonur Solveigar Björnsdóttur og Jóns Þorlákssonar sem með henni hafði búið á Hóli.[168] Systir Einars sem Bríet hét eða Brigit var gift Ólafi Eiríkssyni á Nesi í Grunnavík og fyrir hönd konu sinnar og systra hennar kallaði hann til arfs eftir Einar bróður þeirra.[169] Í því máli lét Ögmundur biskup dæma í Holti í Önundarfirði 13. ágúst 1530 og kvaddi þar í dóm sex presta og sex leikmenn.[170] Að vilja Ögmundar varð niðurstaða dómsmannanna tólf sú að Bríet og systur hennar skyldu hvorki arftækar eftir móður sína né Einar heitinn eður hans bræður.[171] Magnús Jónsson, sem var bróðursonur Einars Jónssonar á Hóli, var hins vegar dæmdur réttur lögerfingi hans.[172]

Haustið 1531 var þessi dómsúrskurður frá Holti staðfestur í Skálholti en synir Bríetar og Ólafs Eiríkssonar á Nesi vildu ekki una þeim málalyktum. Einn þeirra var Illugi Ólafsson og reyndi hann að taka málið upp á Öxarárþingi sumarið 1533. Illugi kærði þar Ögmund biskup fyrir að halda Brigit (Bríetu) móður sína út af Hóli og Hólseignum í Bolungavík er hún teldi vera erfðaeign sína eftir Einar Jónsson bróður sinn.[173] Við Öxará nefndu lögmennirnir báðir 12 lögréttumenn í dóm en þeir komust að sömu niðurstöðu og hinir fyrri dómsmenn sem áður höfðu kveðið upp úrskurð sinn vestur í Holti

Þeir Bríetarsynir og Ólafs Eiríkssonar voru ekki færri en þrír, Illugi, Sigurður og séra Pantaleon sem prestur varð á Stað í Grunnavík.[174] Líklega hefur þeim kippt í kynið til ömmu sinnar, Solveigar Björnsdóttur, og móður hennar, Ólafar Loftsdóttur ríku á Skarði. Þegar dómur lögréttu féll Ögmundi biskupi í vil töldu þeir sig rangindum beitta og héldu stríðinu áfram, a.m.k. Sigurður en mál hans lét Ögmundur dæma hér á Mosvöllum 8. ágúst 1536.[175] Í þeim dómi sátu sex prestar og sex leikmenn, allir til kvaddir af biskupi.[176] Sumir prestanna voru langt að komnir og hafa efalaust verið hér á yfirreið með sínum herra en í hópi dómsmannanna voru þó a.m.k. tveir Vestfjarðaprestar, þeir Greipur Jónsson á Álftamýri og Halldór Gunnlaugsson á Stað á Snæfjöllum.[177] Allir leikmennirnir sem Ögmundur biskup kvaddi í dóminn voru svarnir lögréttumenn. Úr þeirra hópi má nefna Erling Gíslason, afa séra Ólafs Jónssonar skálds á Söndum í Dýrafirði, Þorstein Torfason, sem var sonur Torfa sýslumanns í Klofa Jónssonar og systursonur Björns Guðnasonar í Ögri, Sigfús Brúnmannsson á Hrauni í Keldudal, sem var tengdasonur Björns í Ögri, og Einar Murtason (Jónsson) sem fróðir menn telja að hafi verið sonur Jóns murta Einarssonar á Laugabóli við Djúp og að líkindum faðir Valgerðar sem giftist Jóni Björnssyni, syni Björns Guðnasonar í Ögri, og bjó með honum á Ytri-Veðrará.[178]

Í þessum dómi er frá því greint að Ögmundur biskup hafi kært Sigurð Ólafsson fyrir að hafa sýnt sig í fullri og allri óhlýðni og tekið fram að hinn ákærði hafi ekki haldið þann dándimannadóm sem áður hefði verið kveðinn upp í hans málum á alminnilegri prestastefnu.[179] Um Sigurð segja dómsmennirnir að hann hafi reynst ófáanlegur til að koma á fund biskups en þess í stað skotið sér undan norður um land og stundum út af landinu.[180]

Fyrir dómsmennina tólf á Mosvöllum var lagt skjal sem hinn ákærði hafði að sögn ritað með óskaplegum orðtökum upp á klerka og á allan kennidóm.[181] Með vísun til þessara skrifa Sigurðar komust dómsmennirnir að þeirri niðurstöðu að hann væri tvímælalaust fallinn á þessu máli og skyldi engan kost eiga á undanfæri.[182]

Án efa hefur dómsniðurstaðan falið í sér ávísun á bannfæringu og alla þá sem Sigurð höfðu styrkt og hyllt og samþykkt burt af landinu dæmdu tólfmenningarnir fallna í sömu sakir sem hann sjálfan.[183] Að lokum færðu þeir til bókar að öllum sem neytt hefðu matar og drykkjar með Sigurði Ólafssyni bæri að synja um sakramenti uns þeir hefðu tekið skriftir og fengið lausn hjá kirkjunni.[184]Um fésekt hér fari sem kirkjunnar lög vísa, segir þar.[185]

Viðskiptum Sigurðar Ólafssonar við Ögmund biskup lauk reyndar ekki með þessum Mosvalladómi því tveimur árum síðar kærði Ögmundur hann fyrir að hafa líkamlega samlagast sinni systur, Solveigu Ólafsdóttur.[186] Í því kærumáli var dæmt á Öxarárþingi 1. júlí 1538 og varð niðurstaða dómsmanna sú að Sigurði skyldi gefinn kostur á að sanna sakleysi sitt með tylftareiði.[187] Ekki verður nú um það sagt hvort Sigurður náði að koma fram eiðnum en sumarið 1538 var gamli biskupinn í Skálholti kominn á fallandi fót og tveimur árum síðar hrundi veldi hans allt eins og alkunnugt er.

Í Alþingisbókunum frá Öxarárþingi er alloft minnst á dóma sem upp voru kveðnir á Mosvallaþingi á 17. og 18. öld eða mál sem þar komu til umfjöllunar. Sumir þessara dóma eru birtir í Alþingisbókunum og hér verða nú dregin fram fáein sýnishorn.

Vorið 1674 var á Mosvallaþingi fjallað um framfæri og ættartölu Jóns nokkurs Markússonar og 5. júlí á sama ári kom málið til kasta lögmanna og lögréttu við Öxará. Í Alþingisbókinni segir:

 

Sömuleiðis upp las velnefndur Páll Torfason [þ.e. sýslumaðurinn í Ísafjarðarsýslu – innsk. K.Ó.] dóm, genginn í Ísafjarðarsýslu 1674, 25 Aprilis, að Mosvöllum við Önundarfjörð, um framfæri og ættartölu Jóns Markússonar. Er sett fyrir lögmenn og lögréttu hvort vottar sem hreppstjórar fram leiða um ættina skuli sína sögu ei sanna. Og var þar svo til svarað að sé efi á ætt eða sveitartiltölu standi gamalla skilvísra manna saga. En vilji nokkur efa sögn ærlegs ómagans, bevísi annað sannara. En sannbevísist efinn, þá sé ættin svarin í forsvaranlegan máta.[188]

 

Þann 19. apríl árið 1682 var Bjarni Þorleifsson, lögsagnari í vesturhluta Ísafjarðarsýslu, að dæma í málum á Mosvöllum. Þar var leiddur fram strokuþjófur, Jón Pétursson að nafni, sem tekist hafði að handsama.[189] Þremur árum fyrr hafði strokumanni þessum úr Ísafjarðarsýslu verið lýst á Alþingi og þá með þessum orðum:

 

Hár maður í meðallagi, grannvaxinn, grannleitur, skegglaus, keikvaxinn, breiður á herðar og enni, lítið hár, nokkuð bjart, ekki sítt og ekki þunnhærður. Aldur hans milli tvítugs og þrítugs.[190]

 

Sumarið 1679 var þess farið á leit að maðurinn sem svo var lýst yrði gripinn hvar sem hittast kynni og færður öðrum tveggja sýslumanna í Ísafjarðarsýslu, Páli Torfasyni á Núpi í Dýrafirði eða Magnúsi Magnússyni á Eyri í Seyðisfirði.[191] Þegar loks tókst að handsama þjófinn hafði Páli sýslumanni á Núpi verið vikið frá embætti um stundarsagir (sjá hér Núpur) og þess vegna kom í hlut Bjarna Þorleifssonar lögsagnara að dæma Jón Pétursson á Mosvallaþingi. Hver dómsniðurstaða Bjarna var sést nú ekki en fangann sendi hann suður að Þingvöllum með Pétri Pálssyni, sýslumanni í Strandasýslu og lét dómsorð sitt frá Mosvallaþingi fylgja með.[192]

Á Alþingi var mál Jóns Péturssonar tekið fyrir 29. júní 1682 og upplýst að hann hefði fyrir nokkrum árum stolið verðmætum sem metin voru á 10 ríkisdali og 20 álnir,[193] sem samanlagt gerir 320 álnir og svarar til liðlega hálfs þriðja kýrverðs. Fyrir þann þjófnað hafði Jón verið dæmdur en náð að strjúka og komst norður í Steingrímsfjörð.[194] Upplýst var að þar hefði hann svo stolið brúnskjóttum hesti og fornri klæðispeysu með öðru fleiru og fyrir þessar sakir dæmdu í guðs nafni lögmenn og lögréttumenn að hérnefndur Jón Pétursson skyldi á lífinu straffast sem sannbevísuðum þjófi hæfir.[195]

Í Alþingisbókinni sjáum við að lífsstraffið var á lagt þann 4. júlí[196] og hefur Jón efalaust verið hengdur.

Vorið 1687 sat Sæmundur Magnússon lögsagnari að dómum á Mosvöllum og þurfti þá m.a. að skera úr um hverjum bæri að framfæra laungetið piltbarn sem ætla má að fáir hafi viljað sinna. Niðurstaða þess máls er athyglisverð eins og sjá má í Alþingisbókinni. Þar segir:

 

Um framfæri þess laungetna barns, Halls Magnússonar, sem lögsagnarinn Sæmundur Magnússon með dómi fram ber úr Ísafjarðarsýslu, gengnum að Mosvöllum við Önundarfjörð 4. Aprilis þessa árs, virðist lögþingismönnum að foreldrum þess barns leyfilegt sé að færa það innan sýslu því til bjargræðis um sumartímann en eigi heimila vetrarvist fyrir það í þeirri sveit sem það í heiminn fæddist, eftir því sem hreppstjórar í þeim hrepp þar um skikkandi verða.[197]

 

Ljóst er að með þessum úrskurði er foreldrum barnsins, föður eða móður, veitt heimild til að biðja því brauðs um alla Ísafjarðarsýslu yfir sumartímann en hreppstjórum fæðingarhreppsins gert skylt að sjá hinu laungetna barni fyrir framfærslu að vetrinum þegar erfiðara var að flakka.

Oft gat verið erfitt að feðra börn sem skutust í heiminn yfirvöldunum til hrellingar og það fengu dómsmenn á Mosvöllum að reyna. Frá barnsfaðernismáli Gróu Jónsdóttur sem dæmt var í á Mosvallaþingi árið 1693 er sagt á þessa leið:

 

Um barnsfaðernislýsingu Gróu Jónsdóttur upp á þá menn Hall Jónsson og Markús Guðlaugsson var sá dómur upp lesinn í lögréttu sem velnefndur valdsmaðurinn Páll Torfason hafði ganga látið í Februario þessa árs að Mosvöllum við Önundarfjörð, og er sá sami dómur í öllum þar að lútandi aðkvæðum af lögmönnum og lögréttunni samþykktur á þann hátt að þeir Hallur og Markús annist báðir að jöfnuði barnið eftir réttri tiltölu móts við móðurina þar til það er 7 vetra, og í hvors þeirra ætt sem það þá líkist að skynsamra manna áliti, þá sé sá sami þess réttur faðir og inni hinum fullri fúlgu fyrir sinn kostnað og fyrirhöfn. Sömuleiðis að sá maður sem konuna annaðist í sínum sjúkleika skuli upp bera VI aura hálfan mánuð fyrir barnsburð og aðra VI aura næsta hálfan mánuð eftir en V aura á sjálfa sængurleguvikuna.[198]

 

Í annarri uppskrift af þessum sama dómi sést að móðir barnsins var vinnukona hjá bónda sem Jón Pálsson hét og það var hann sem átti að fá greiddar bætur fyrir að missa hana frá verkum um barnsburðartímann.[199] Alls áttu bæturnar að nema 17 aurum en 6 álnir voru í hverjum eyri svo þetta hafa verið 102 álnir, það er liðlega 5 ærverð, sem sýnist allgóð borgun. Jón Pálsson, Hallur og Gróa, sem hér koma við sögu, finnast ekki í Mosvallahreppi í manntalinu frá 1703[200] en Markús Guðlaugsson, sem nefndur er í dómnum, kynni að vera sá sem 10 árum síðar var 45 ára húsmaður í Dalshúsum.[201]

Annars staðar í þessu riti er sagt frá nokkrum atburðum á Mosvallaþingi og dómum sem þar voru kveðnir upp á 16., 17. og 18. öld. Við hæfi sýnist vera að vísa hér til þeirra frásagna en þar er helst að nefna:

 

  1. Dóm frá árinu 1548 í máli Ólafs Gunnarssonar í Lokinhömrum og bræðra hans sem beitt höfðu marga menn grófu ofbeldi (sjá hér Lokinhamrar).
  2. Dóm frá árinu 1594 um rauðmagaveiði í Önundarfirði (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli).
  3. Frásögn af eiðatökunni á Mosvöllum árið 1658, þegar Þuríður Jónsdóttir frá Kirkjubóli í Skutulsfirði, sem séra Jón þumlungur Magnússon á Eyri hafði ákært fyrir galdra, sór sakleysi sitt og tólf konur með henni (sjá hér Holt).
  4. Dauðadóm frá árinu 1677 í máli Bjarna Bjarnasonar galdramanns í Breiðadal (sjá hér Neðri-Breiðadalur).
  5. Frásögn af fyrirspurn séra Sigurðar Sigurðssonar á Mosvallaþingi árið 1729 er hann spurði þingheim hvort móðir sín, Helga Pálsdóttir, prestsfrú í Holti, hefði verið drukkin eða ódrukkin þegar hún, komin um áttrætt, seldi jörðina Arnarnes í Dýrafirði (sjá hér Holt).
  6. Dóm frá árinu 1736 í sifjaspellsmáli feðginanna í Mosdal sem tekin voru af lífi á Alþingi árið 1737 (sjá hér Mosdalur).

 

Að lokum skal minnt hér á þjófnaðarmál sem kom til dóms á Mosvallaþingi á höfuðdag sumarið 1789.[202] Dómari í því máli var Jón Arnórsson, sýslumaður í Reykjarfirði við Djúp, en hinn ákærði Jón Þórðarson, bóndi á Kroppstöðum í Önundarfirði.[203] Á þinginu dæmdi sýslumaður bóndann á Kroppstöðum til að erfiða eitt ár í því íslenska tugthúsi fyrir að hafa með launung tekið tvenna bandsokka, þrenna sjóvettlinga og eina háleista ásamt tveimur skinnbuddum sem Þorsteinn Bjarnason, bóndi á Hvilft, átti.[204] Auk tugthúsvistarinnar var Jón á Kroppstöðum dæmdur til að greiða 64 skildinga í málskostnað.[205]

Sumarið 1790 hafði Jón Arnórsson sýslumaður bóndann á Kroppstöðum með sér þegar hann reið til Alþingis og þar var þetta sama þjófnaðarmál tekið fyrir þann 12. júlí. Sá sem dæmdi í málinu á Þingvöllum var Magnús Stephensen lögmaður, síðar dómstjóri í landsyfirrétti og konferenzráð í Viðey. Magnús Stephensen var skipaður lögmaður norðan og vestan í ágústmánuði árið 1789, þá 26 ára að aldri,[206] og var mál Jóns á Kroppstöðum hið fyrsta sem hann dæmdi í með skipunarbréf í höndum.[207] Áður hafði hann verið varalögmaður í tvö ár.[208]

Hinn ungi Stephensen var ákafur talsmaður nýrra viðhorfa varðandi refsingar í sakamálum og dómar hans jafnan á langtum mildari nótum en áður hafði tíðkast. Þess fékk nú Jón á Kroppstöðum að njóta því Magnús stytti tugthúsvist hans úr tólf mánuðum í tvo.[209] Ljóst er þó að suður þar, á völlunum við Öxará, var karlinn frá Kroppstöðum hinn þverasti. Til marks um það má nefna að þegar sækjandi málsins lagði fram vottorð frá séra Jóni Sigurðssyni í Holti um að Jón á Kroppstöðum hefði undirkastað sig opinberlegri aflausn og beðið söfnuðinn forláts á sinni þjófnaðarsynd – þá mótmælti sakborningurinn harðlega og kvaðst aðeins hafa beðið söfnuðinn forláts á sínum misgripum.[210]

Þann 13. júlí 1790 settist Magnús Stephensen í dómarasæti í hinu hripleka lögréttuhúsi á Þingvöllum og kvað upp dóm sinn í buddumálinu úr Ísafjarðarsýslu en hann hljóðar svo:

 

Það er ei einungis af fjögurra samstemmandi vitna eiðsvörnum vitnisburði fyrir rétti að Mosvöllum þann 29. ágúst 1789 augljóst, að Jón Þórðarson á Kroppstöðum hafi þann 18. júlí sama ár, þá hann ásamt fleirum var staddur við skip skipherra Gregers á Önundarfirði, stolið úr bát Gils Jónssonar 2 skinnbuddum, eign Þorsteins Bjarnasonar á Hvilft, í hvörjum buddum voru tvennir bandsokkar, þrennir sjóvettlingar og eitt par háleista, hvörra þegar við skipið saknað var, reru menn strax eftir Jóni upp að Hvilftar nausti og fundu buddurnar hjá hönum fyrir ofan fjöru, hvað sjálfur Jón Þórðarson og hafði meðkennt, − heldur af attesti hans sóknarprests, séra Jóns Sigurðssonar, og tveggja hans fyrrverandi presta, útgefnu eftir Holtssafnaða húsvitjunarprotocoll, sem og allra þingvitnanna framburði fyrir rétti, að nefndur Jón Þórðarson hafi í næstu 20 ár öllum framar í Önundarfirði illa kynntur verið til orðs og æðis og sér misjafnlega hagað þó ei fyrri hafi undir dóm komið. Dæmist því rétt vera:

Jón Þórðarson skal fyrir einfaldan þjófnað í fyrsta sinn á nefndum tveim skinnbuddum með þar í verandi 2 pörum bandsokka, 3 pörum sjóvettlinga og 1 pari háleista, erfiða í tvo mánuði í því íslenska tugthúsi. En þar Þorsteinn Bjarnason fékk þessa muni sína óskaddaða og mæðulaust aftur og hönum þess vegna var nauðsynjalaust að leggja smáræði þetta lengra, búandi manni til falls, upp á hvört hann kann þó ei neinu að hafa kostað þar stefnufarir og dómar í delinkvents sökum ekki betalast, þá skulu þeir Þorsteini tildæmdu 64 skildingar í málskostnað niður falla.

Samt skal Jón Þorðarson fyrir sína staklegu frekju, grófyrði og dirfskulegu óskikkanlegheit hér fyrir lögþingisrétti, með hvörjum hann hefur auðsýnt sig öldungis ekki að vilja gæta þeirrar virðingar sem lögin skylda hann til að veita kóngsins rétti, oftsinnis þar um af réttinum áminntur, bæta áðurnefndum 64 skildingum til Hallbjarnareyrar­hospitals sem sýslumaður, Jón Arnórsson, hospitalsins vegna innkrefur. Skulu þessir 64 skildingar goldnir vera til sýslumannsins af fémunum Jóns innan 6 vikna frá þessa dóms dato. Undir aðför að lögum.[211]

 

Allt er þetta gott og blessað hjá lögmanninum og ekki síst það að ávíta Þorstein á Hvilft fyrir ástæðulitla málsýfing búandi manni til falls.

Hér verða frásagnir af dómsmálum á Mosvallaþingi nú látnar niður falla en áður en við hverfum á braut er rétt að svipast um og hyggja að hvort enn sjáist hér einhverjar minjar um hinn forna þingstað. Í heimild frá árunum kringum 1950 er Þinghústótt sögð vera nyrst í túninu á Mosvöllum.[212] Þar mun þinghúsið hafa staðið. Nú er tóttin horfin en kunnugir vita að hún stóð á hólbarði nyrst í túninu, nær beint í norður frá íbúðarhúsinu sem nú er búið í.[213] Frá hólbarðinu sem tóttin stóð á sýnast vera um það bil 400 metrar heim að íbúðarhúsinu.

Forvitnilegt hefði verið að virða fyrir sér þinghústóttina hér á Mosvöllum en til þess erum við of sein. Stóra hestaréttin er hins vegar enn mjög greinileg þó farin sé að að síga. Hún er í túnjaðrinum, alveg við sjálfa þjóðbrautina og í um það bil 200 metra fjarlægð frá íbúðarhúsinu. Réttin er um 400 fermetrar að flatarmáli og þarf vart að efa að hún hafi verið reist í tengslum við þinghaldið. Að stofni til kynni hún að vera frá því hér voru haldin þriggja hreppa þing en þá mun oft hafa verið fjölmennt á Mosvöllum og hrossaþröng um þingtímann. Þetta forna mannvirki ber að varðveita um ókomna tíð.

Frá hestaréttinni lítum við upp í Mosvallahálsinn sem gengur norður úr Mosvallafjalli og byrgir sýn til austurs og inn í Fjörðinn. Neðarlega á hálsinum eru að sögn tveir steinar sem heita Dagmálasteinar. Þar eru dagmál frá Mosvöllum.[214] Uppi í hálsinum eru tveir hjallar. Heitir sá neðri Háholt en sá efri Krubbuholt.[215] Ofan við Krubbuholtið er lautin Krubba og síðan koma fleiri lautir sem einu nafni eru nefndar Krubbur eða Krubbulautir.[216] Freistandi væri að kanna lautir þessar en það verður að bíða betri tíma. Þess í stað röltum við í átt að Mosvallaskeiði sem er hér norðan við túnið og nær alveg niður að Vaðlinum. Sá partur túnsins sem liggur næst Skeiðinu heitir Svalbarð[217] en Skeiðið sjálft er aurmóar sem liggja upp frá Vaðlinum austan við gamla slægjulandið á Mosvallafitjum (sjá hér bls. 1).

Um Skeiðisvað, sem kennt er við Mosvallaskeið, og um Kúhólmavað lágu áður tvær hinar fjölförnustu leiðir ríðandi manna yfir Vöðin[218] en svo heitir allur sá partur Önundarfjarðar sem er innan við Holtsodda. Frá túnjaðrinum erum við aðeins tíu mínútur að ganga yfir Skeiðið og stöndum nú hér þar sem Vaðallinn, milli Holts og Mosvalla, mætir Vöðunum (sjá hér Holt). Frá þessum stað beindu fyrri tíðar menn hestum sínum til sjávar og riðu sem leið lá yfir Skeiðisvað í stefnu á Skeiðistanga sem er lítið eitt innan við bæinn á Innri-Veðrará hér handan við Vöðin (sjá hér Holt). Þessi spölur milli landa er ekki langur, aðeins 800 metrar eða þar um bil. Nú er hér brú yfir Vaðalinn en áður var líka riðið yfir hann (sjá hér Holt). Þegar við gengum um heimaland staðarins í Holti gáfum við gaum að stökum steini á grynningunum framan við Vaðalinn. Þetta var steinninn Bóndi og nú sjáum við hann aftur, bara úr annarri átt. Ef ekki flaut sjór allt í kringum Bónda var Skeiðisvað talið fært en væri steinninn umflotinn urðu menn að bíða þess að leirarnir við steininn kæmu aftur undan sjó (sjá hér Holt). Nú fellur að og á skammri stund sjáum við öldurnar þokast upp fyrir gamla Bónda. Eins og hér hefur áður verið nefnt var Skeiðisvað ekki eina vaðið á þessum slóðum. Utar er Ystavað en innar eru Garðsendavað, Steinsvað og Kúhólmavað (sjá hér Holt, Tannanes og Ytri-Veðrará).

Yfir Vöðin var farið á hestum ef þannig stóð á sjó og einnig með hestvagna þegar þeir komu til sögunnar.[219] Yfir Ystavað var þó aldrei farið með vagna.[220] Á fyrri hluta 20. aldar notuðu bændur við innanverðan Önundarfjörð hestvagna til margvíslegra flutninga og voru vagnarnir helsta flutningatækið fram yfir 1950.[221] Menn fóru þá með hesta sína og vagna eins og leiðir liggja yfir Vöðin og einnig yfir Vaðalinn.[222] Bændur á Mosvöllum notuðu þó líka báta til flutninga.[223] Áll sem liggur inn eftir Vöðunum nær svolítið inn fyrir Bónda.[224] Innst er hann mjög grunnur en þar lögðu Mosvallamenn bátum sínum og notuðu hellustein í stað algengari legufæra.[225]

Yfir vetrartímann stóðu bátarnir á hvolfi við Naustanes sem var um það bil 200 metrum ofan við akveginn sem nú liggur yfir Vaðalinn.[226] Nes þetta er nú horfið vegna verklegra framkvæmda.[227] Lengra upp með Vaðlinum munu bátar frá Vöðlum og Tröð hafa átt sitt heimanaust.[228]

Við snúum nú til baka neðan frá Vaðli og hverfum á ný heim í tún á Mosvöllum. Héðan er ferðinni heitið að Kotum, býlinu sem reist var í landi Mosvalla um miðbik 19. aldar og búið var á í 120 ár. Við hestaréttina kveðjum við Mosvelli og þræðum hina fornu leið yfir Mosvallaháls og inn Bakkahlíð (sjá hér bls. 3-4).

Á þessum blöðum hefur áður verið minnst á þrjú innstu Vöðin í Önundarfirði, Garðsendavað, Steinsvað og Kúhólmavað. Til að virða þau fyrir sér er gott að líta yfir sviðið ofan úr hlíðinni. Handan fjarðarins sjáum við hér beint á móti bæinn Tannanes. Neðan við hann gengur allstórt grasigróið nes fram í fjörðinn og heitir það Tanni.[229] Utan við Tanna eru tveir smátangar sem heita Garðsendi innri og Garðsendi ytri.[230] Yfir Garðsendavað var farið úr fjörunni við Mosvallabót og komið í land við Garðsendana, skammt fyrir utan Tanna.[231] Mosvallabót er gróðurlendið sem tekur við fyrir innan Mosvallaskeið hér neðan við Bakkana.[232] Innsti parturinn af Bótinni er beint á móti Tanna.[233]

Steinsvað er lítið eitt innar. Yfir það var farið úr Mosvallabót og komið í land utantil á framanverðum Tanna, þar sem grjóttanginn endar og gróið land tekur við.[234] Ýmsir hafa talið að Steinsvað sé kennt við stóran stein sem heitir Vaðsteinn[235] en steinn þessi er í fjörunni á utanverðum Tanna og þó nokkru ofar en staðurinn þar sem komið var á land eða lagt á vaðið.[236]

Kúhólmavað var innsta vaðið og liggur úr Mjóanesi sem gengur út í Vöðin hér að vestanverðu, svolítið innan við Tanna.[237] Úr Mjóanesi var farið um grasigróinn hólma sem heitir Kúhólmi og í land hinum megin hvar sem var á ströndinni innan við Tanna.[238] Í Kúhólmavaði er leirbotn og þar gátu myndast djúpir pyttir svo stundum urðu hestar að grípa sundtökin.[239] Yfir Kúhólmavað var þó jafnan reiðfært nokkru lengur en á Skeiðisvaði[240] því hér inn frá fjaraði fyrr og flæddi seinna.

Hér innan við Bjarnardal eru Vöðin hvergi breiðari en 500-800 metrar og enn mjórri innan við Tanna.

Yfir Vöðin var sauðfé rekið til slátrunar á Flateyri um langt skeið á fyrri hluta 20. aldar og allt þar til farið var að flytja það á bílum nokkru eftir miðja öldina.[241] Oftast var féð rekið yfir á Kúhólmavaði eða Garðsendavaði en væri góð fjara kom fyrir að lagt væri á Skeiðisvað með fjárrekstur.[242] Á Garðsendavaði var minnst dýpi.[243] Þessir fjárrekstrar komu úr Bjarnardal og frá bæjunum þar fyrir utan en líka úr Valþjófsdal og af Ingjaldssandi.[244] Lengst var leiðin hjá Sandmönnum en þeir fóru reyndar að reka sláturfé alla leið til Ísafjarðar nokkru fyrir aldamótin 1900 (sjá hér Svipast um á Ingjaldssandi), áður en farið var að slátra að nokkru marki á Flateyri.

Haustið 1898 var alþýðuskáldið Magnús Hjaltason í slíkri ferð með Sandmönnum og segir frá henni í dagbók sinni.[245] Rekstrarmennirnir gistu þá í Holti og áttu þar illa vist.[246] Við rákum svo féð á Vað og sem leið liggur yfir Breiðadalsheiði, skrifar Magnús.[247]

Vegalengdin frá Mosvöllum að Kotum eða Bethaníu eins og býli þetta var líka nefnt er um það bil 2,5 kílómetrar og liggur leiðin um Bakkahlíð. Fjallið sem nefndist Mosvallafjall þegar horft var á það hinum megin frá heitir hér Bakkafjall.[248] Hið efra er það prýtt miklum hamravegg sem nær alveg frá Mosvallahorni inn að Hafradal sem er skál í fjallinu ofan við eyðibýlið Kot. Sá hamraveggur slitnar reyndar ekki þar sem hann sveigir inn í Hafradal en teygist áfram langa leið til suðausturs. Bakkafjallið nær hins vegar ekki nema að Hafradal en rétt utan og ofan við hann nær það mestri hæð, 751 metra yfir sjávarmáli.

Yst á Bakkahlíð, rétt innan við Mosvallahálsinn, er gömul tótt, skammt fyrir neðan akveginn. Hér mun áður hafa verið sauðahlað og hefur tóttin verið nefnd Hlað fram á okkar daga.[249] Á miðri leið okkar milli Mosvalla og Kota skulum við ganga til sjávar og skoða Mjóanes sem gengur hér lengst fram í Vöðin, innan við Mosvallabót og svolítið innan við nesið Tanna sem mest ber á hinum megin við Vöðin og áður hefur verið getið um. Lengi var því trúað af mörgum að á Mjóanesi væri álfabyggð og svo herma gamlar sagnir að hjá álfkonu sem þar átti heima hafi Ragnheiður Pálsdóttir, prestsfrú í Holti, fengið smyrsl sem hún notaði til að rjóða í augu nýfædds sonar síns og bera á allan hans líkama (sjá hér Holt). Drengurinn sem álfarnir í Mjóanesi efldu með þessum hætti á hans fyrsta ævidegi var að sögn gamals fólks í Önundarfirði Brynjólfur Sveinsson, síðar biskup í Skálholti, sem hér er frá sagt á öðrum stað (sjá hér Holt).

Á Mjóanesi ber hæst malarhól sem er grasigróinn að nokkru. Hann sýnist vera um það bil 5 metrar á hæð og rís upp frá fjöruborði vogsins sem er hér utan við nesið. Þessi hóll heitir Álfakirkja.[250] Þegar akvegur var lagður um Bakkahlíð á fyrri hluta tuttugustu aldar lét verkstjóri nokkur taka möl úr Kirkjunni til að nota í ofaníburð.[251] Mikla athygli vakti að mjög skömmu síðar missti verkstjórinn allan mátt í öðrum handleggnum og var þá hætt við alla malartöku á þessum stað því ýmsa grunaði að álfarnir vildu fá að vera í friði í kirkju sinni.[252]

Rétt fyrir innan Mjóanes er landamerkjalækur sem skilur að lönd Mosvalla og Bethaníu (Kota).[253] Lækur þessi mun heita Þverlæna[254] en ofar segja Tvísteinar til um merkin.[255] Innan við Mjóanes eru Sjóarhólmar sem þóttu gott slægjuland en þeir skiptast í Mosvallahólma, sem eru utan við landamerkin, og Kotahólma þar fyrir innan.[256] Um þessi fornu engjalönd hröðum við för okkar að Kotum.

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII, 108.

[2] Óskar Einarsson 1951, 104-105.

[3] Guðmundur Ingi Kristjánsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.6.1993.

[4] Óskar Ein. 1951, 105.

[5] Ingimundur Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 22.2.1994.

[6] Sama heimild.

[7] Óskar Ein. 1951, 103.

[8] Hjördís Hjörleifsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 6.7.1995.

[9] Hjördís Hjörleifsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 6.7.1995.

[10] Óskar Ein. 1951, 103-105.

[11] D.I. VIII, 290-296. D.I. XI, 630-635.

[12] D.I. VII, 383-384 og 763-765.

[13] Einar Laxness 1987, 200.

[14] Ísl. fornrit VI, XL-XLI.

[15] Ingim. Guðm. – Viðtal K.Ó. við hann 22.2.1994.

[16] Ísl. fornrit VI, 38-40.

[17] Ingim. Guðm. – Viðtal K.Ó. við hann 22.2.1994.

[18] Ingim. Guðm. – Viðtal K.Ó. við hann 22.2.1994.

[19] Ingimundur  Guðm. – Viðtal K.Ó. við hann 22.2.1994.

[20] Ísl. fornrit VI, 38-40.

[21] Sama heimild.

[22] Ingim. Guðm. – Viðtal K.Ó. við hann 22.2.1994.

[23] Ísl. fornrit VI, 39.

[24] D.I. XV, 572-574.

[25] Sama heimild, 572-573.

[26] Jarðab. Á. og P. VII, 108.

[27] Sama heimild.

[28] Einar Lax. 1987, 274-276.

[29] Jarðab. Á. og P. VII, 108.

[30] Sama heimild.

[31] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 102.

[32] Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916, bls. 72.

[33] Jarðab. Á. og P. VII, 108.

[34] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.

[35] Jarðab. Á. og P. VII, 108. Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, eftirrit, Ísafj.s. 1735 eða svo. Jarða- og

bændatöl 1752-1767, Ísafj.s. 1753. Manntöl 1801, 1816, 1835, 1840, 1845, 1860, 1870, 1880 og 1890.

[36] Manntöl 1703, 1850 og 1855.

[37] Manntal 1762.

[38] Jarðab. Á. og P. VII, 108.

[39] Sama heimild.

[40] Sama heimild.

[41] Skýrslur um landshagi I / Kph. 1858, 238-239.

[42] Jarðab. Á. og P. VII, 108.

[43] Skýrslur um landshagi I / Kph. 1858, 238-239.

[44] J. Johnsen 1847, 195.

[45] Sama heimild.

[46] ÍB 8268vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar 6.6.1844.

[47] Manntöl 1840 og 1845.

[48] Skýrslur um landshagi I, 1858, 238-239.

[49] Íslenskar æviskrár II, 360.

[50] Sama heimild.

[51] Sama heimild, 363-364.

[52] Sama heimild, 360.

[53] Sama heimild IV, 256 og 258.

[54] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[55] Ísl. æviskrár II, 360 og IV, 256.

[56] Sama heimild.

[57] Ísl. æviskrár II, 360.

[58] Ísl. æviskrár II, 360.

[59] Sama heimild.

[60] Sama heimild.

[61] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[62] Sama heimild.

[63] Ísl. æviskrár II, 360.

[64] Sama heimild.

[65] Ísl. æviskrár IV, 256.

[66] Ísl. æviskrár IV, 258.

[67] Sama heimild og Manntal 1762.

[68] Ísl. æviskrár III, 88.

[69] Manntal 1762.

[70] Sama heimild.

[71] Sama heimild.

[72] Ísl. æviskrár I, 443.

[73] Sama heimild IV, 258.

[74] Sama heimild.

[75] Frá ystu nesjum I, 104-106.

[76] Sama heimild.

[77] Inga Huld Hákonardóttir 1992, 206.

[78] Frá ystu nesjum I, 104-106.

[79] Ísl. æviskrár IV, 258.

[80] Ísl. æviskrár IV, 258.

[81] Sama heimild.

[82] Vestfirskar ættir I, 227.

[83] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1821 og 1830.

[84] Manntal 1816. Sbr. Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[85] Manntal 1801. Vestf. ættir I, 227.

[86] Manntal 1801. Vestf. ættir I, 380.

[87] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1830 og 1834. Manntöl 1835 og 1840. Sóknarm.töl

Holts í Önundarf.

[88] Manntöl 1835 og 1840.

[89] VA III, 407, búnaðarskýrslur 1837.

[90] Sama heimild.

[91] Sama heimild.

[92] Sama heimild.

[93] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[94] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[95] Vestf. ættir I, 380, – sbr. hér Ytri-Hjarðardalur.

[96] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[97] Sama heimild.

[98] Vestf. ættir I, 227.

[99] Manntöl 1855 og 1860.

[100] Vestf. ættir II, 588.

[101] Sama heimild I, 227.

[102] Manntal 1845.

[103] Ól. Þ. Kr. 1945, 156-157.

[104] Sama heimild.

[105] Manntöl 1845, 1850 og 1855. VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[106] Manntal 1860.

[107] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[108] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[109] Manntal 1870.

[110] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[111] Sama heimild. Manntal 1880.

[112] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[113] Sama heimild.

[114] Lbs. 22384to, bls. 62 (Magnús Hjaltason).

[115] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[116] Sama heimild.

[117] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[118] Sama heimild.

[119] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[120] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[121] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[122] VA III, 421 og 424, búnaðarskýrslur 1870 og 1880.

[123] Manntöl 1880, 1890, 1901, 1910, 1920, 1930 og 1940.

[124] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.

[125] Sama heimild.

[126] Sama heimild.

[127] Fasteignabók 1921, 79.

[128] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 157.

[129] Sama heimild.

[130] Snorri Sigfússon 1969, 114.

[131] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 157.

[132] Sama heimild.

[133] Sama heimild, bls. 156.

[134] Sama heimild.

[135] Sama heimild.

[136] Sama heimild og bls. 156 og 157.

[137] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 156 og 157.

[138] Sama heimild.

[139] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916, bls. 72.

[140] Þórður Sigurðsson 1986, 21.

[141] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 13.4.1896.

[142] Hagalín Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1994.

[143] Sama heimild.

[144] Sama heimild.

[145] Fasteignabók 1932.

[146] Sama heimild.

[147] Sama heimild.

[148] Sama heimild.

[149] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirm.n. í V-Ís., lögg. 26.3.1919, bls. 156-157. Fasteignabók 1932, 52.

[150] Fasteignabók 1932, 52.

[151] Sama heimild.

[152] D.I. VII, 383-384.

[153] Sama heimild.

[154] Sama heimild.

[155] Sama heimild.

[156] Sama heimild. Sbr. D.I. VI, 509-510 og 797.

[157] Ísl. æviskrár II, 195.

[158] Sama heimild.

[159] D.I. VII, 674-676. D.I. VII, 763-765. D.I. VIII, 186-187 og D.I. VIII, 641-645.

[160] D.I. VIII, 290-296.

[161] Sama heimild.

[162] Arnór Sigurjónsson 1975, 240-256.

[163] Ísl. æviskrár IV, 123.

[164] Arnór Sig. 1975, 462-463.

[165] D.I. VIII, 290-296. Arnór Sig. 1975, 415-416 og 429.

[166] D.I. VIII, 293.

[167] D.I. X, 78-80.

[168] D.I. IX, 545-546. Arnór Sig. 1975, 247 og 462.

[169] D.I. IX, 545-546.

[170] Sama heimild.

[171] Sama heimild.

[172] Sama heimild.

[173] D.I. IX, 674-676.

[174] Sama heimild og D.I. X, 78-80 og 878. Ísl. æviskrár IV, 150.

[175] D.I. X, 78-80.

[176] Sama heimild.

[177] Sama heimild. Ísl. æviskrár II, 95 og 255.

[178] Lögréttumannatal, bls. 110, 137, 451 og 582-583.

[179] D.I. X, 78-80.

[180] Sama heimild.

[181] Sama heimild.

[182] Sama heimild.

[183] Sama heimild.

[184] Sama heimild.

[185] Sama heimild.

[186] D.I. X, 364-366.

[187] Sama heimild.

[188] Alþingisbækur Íslands VII, 301.

[189] Alþ.bækur Ísl. VII, 565-566.

[190] Sama heimild, 463.

[191] Sama heimild.

[192] Alþ.bækur Ísl. VII, 565-566.

[193] Sama heimild.

[194] Sama heimild.

[195] Sama heimild.

[196] Sama heimild.

[197] Sama heimild VIII, 178.

[198] Alþ.bækur Ísl. VIII, 406.

[199] Sama heimild.

[200] Manntal 1703.

[201] Manntal 1703.

[202] Alþ.bækur Ísl. XVI, 543-544 og 546.

[203] Sama heimild.

[204] Sama heimild.

[205] Sama heimild.

[206] Ísl. æviskrár III, 457.

[207] Alþ.bækur Ísl. XVI, 541-546.

[208] Sama heimild.

[209] Sama heimild, 543-544 og 546.

[210] Sama heimild.

[211] Alþ.bækur Ísl. XVI, 546.

[212] Óskar Ein. 1951, 105.

[213] Hjördís Hjörleifsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 3.8.1993.

[214] Óskar Ein. 1951, 105.

[215] Sama heimild.

[216] Sama heimild.

[217] Sama heimild.

[218] Sama heimild, 16.

[219] Ingimundur Guðm. – Viðtal K.Ó. við hann 22.2.1994.

[220] Sama heimild.

[221] Sama heimild.

[222] Sama heimild.

[223] Sama heimild.

[224] Sama heimild.

[225] Sama heimild.

[226] Hagalín Guðm. – Viðtal K.Ó. við hann 18.5.1994.

[227] Sama heimild.

[228] Guðm. I. Kr. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1994.

[229] Óskar Ein. 1951, 92.

[230] Sama heimild.

[231] Sama heimild.

[232] Ingimundur Guðm. – Viðtal K.Ó. við hann 22.2.1994.

[233] Sama heimild.

[234] Ingimundur Guðm. – Viðtal K.Ó. við hann 22.2.1994.

[235] Óskar Ein. 1951, 92.

[236] Ingimundur Guðm. – Viðtal K.Ó. við hann 22.2.1994.

[237] Sama heimild.

[238] Sama heimild.

[239] Guðrún I. Jónsdóttir 1985, 145.

[240] Sama heimild.

[241] Ingim. Guðm. – Viðtal K.Ó. við hann 22.2.1994.

[242] Guðm. I. Kr. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1995.

[243] Sama heimild.

[244] Sama heimild.

[245] Lbs. 22174to, Dagbók M.Hj. 22.-24.9.1898.

[246] Sama heimild.

[247] Sama heimild.

[248] Óskar Ein. 1951, 105.

[249] Óskar Ein. 1951, 105.

[250] Sama heimild, 104-105.

[251] Sama heimild.

[252] Hagalín Guðm. – Viðtal K.Ó. við hann 2.8.1993.

[253] Sama heimild.

[254] Óskar Ein. 1951, 103. Ingimundur Guðm. – Viðtal K.Ó. við hann 22.2.1994.

[255] Óskar Ein. 1951, 103.

[256] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »