Múlasveit

Hinn forni Múlahreppur náði frá Deild í Kollafirði að Skiptá í Kjálkafirði. Oft var hreppurinn nefndur Múlasveit og verður því haldið hér.

Helstu firðir í Múlasveit eru þessir, talið að austan: Kollafjörður (að hluta), Kvígindisfjörður, Skálmarfjörður og inn úr honum Vattarfjörður, Kerlingafjörður og inn úr honum Mjóifjörður, Kjálkafjörður (að hluta). Milli fjarðanna ganga nesin misjafnlega langt út í Breiðafjörð, austast Bæjarnes, síðan Svínanes, þá Skálmarnes (öðru nafni Múlanes) og loks Litlanes. Undirlendi er mjög lítið í Múlasveit nema á Skálmarnesi (Múlanesi). Nesjafjöllin, sem skilja sundur firðina, eru yfirleitt 300-500 metra há, Bæjarnesfjall, Svínanesfjall, Skálmarnesmúlafjall og Litlanesfjall.

Fimmtán jarðir voru löngum í byggð í Múlasveit, auk einstakra hjáleigukota sem stundum var búið á. Allar þessar jarðir eru nú komnar í eyði en dæmi eru þess (1988) að fyrri ábúendur eða þeirra fólk dvelji í heimahögum að sumarlagi og nytji hlunnindi. Á manntalinu 1703 voru íbúar Múlasveitar 156. Þann 1. desember 1986 voru tvær manneskjur skráðar hér með lögheimili.

Á fyrri tímum sóttu bændur úr Múlasveit aðallega sjó frá verstöðvum í Útvíkum norðan Látrabjargs, Brunnum og Breiðavík[1] en frá því um 1870 og fram um aldamótin 1900 sóttu margir úr Múlasveit sjó frá verstöðvunum við utanvert Ísafjarðardjúp.[2] Verslun urðu menn að sækja alla leið á Bíldudal uns verslun hófst í Flatey á Breiðafirði árið 1777. Hér verður nú farin skoðunarferð um þessa eyðibyggð og staldrað ögn við hér og þar.

 

Yst á Bæjarnesi voru tvö býli, Bær austan á nesinu, við Kollafjörð, en Kirkjuból vestan á nesinu, við Kvígindisfjörð. Enginn akvegur liggur að Bæ frá öðrum jörðum í Kollafirði en úr Kvígindisfirði liggur jeppafær vegarslóði fyrir nesið. Bæjarhlíð heitir inn með Kollafirði að hreppamörkum. Í Landnámu er Bæjarnes nefnt Kvígandanes.[3]

Frá Bæ að Kirkjubóli eru aðeins 3-4 kílómetrar sé farið fyrir nes. Bænhús eða hálfkirkja var öldum saman á Kirkjubóli á Bæjarnesi og svo var enn í byrjun 18. aldar.[4] Annars áttu þrír austustu bæirnir í Múlasveit (Bær, Kirkjuból og Kvígindisfjörður) kirkjusókn að Gufudal og var það langur og erfiður kirkjuvegur.

Um aldamótin 1800 bjuggu Páll Sæmundsson og Málfríður Jónsdóttir á Kirkjubóli. Hann 69 ára og hún 50 ára.[5] Í þjóðsögum er greint svo frá atburði er hér varð á búskaparárum þessara hjóna. – Eitt sinn á engjaslætti hvarf lítil meystelpa, tökubarn, og fór Málfríður að leita  hennar. Gekk húsfreyja út á Langhól þar í túninu og svipaðist um eftir barninu. Sér hún þá að stúlkan klifrar upp klettana í Svartagili.

 

Flýtti Málfríður sér eftir henni og kallaði á hana. Sneri mærin við það aftur; leiddi Málfríður hana heim og spyr því hún færi svo afgeipa. Mærin segir að bláklædd kona segði sér að koma með sér, er mjög hafði verið lík Málfríði, en hyrfi sér er Málfríður kallaði.[6]

 

Frá Kirkjubóli eru um níu kílómetrar inn í botn Kvígindisfjarðar. Heitir þar fyrst Kirkjubólshlíð inn frá Kirkjubóli, fagurt land með skógarkjarri og vel gróð. Þar var áður sel frá Kirkjubóli. Á innri hluta þessarar leiðar er hins vegar ekkert undirlendi.

 

Vestantil í fjarðarbotninum stóð býlið Kvígindisfjörður. Yfir bænum gnæfir Öxlin í Svínanesfjalli en mikið grjóthólahraun, sem fallið hefur úr fjallinu, setur svip á umhverfið. Frá botni fjarðarins teygir Breiðdalur sig upp undir Klettsháls. Vestan við dalinn liggur akfær vegur frá Kvígindisfirði upp á þjóðveginn.

Hermann Jónasson, sem ferðaðist um Barðastrandarsýslu árið 1887 til að kanna þar búnaðarástand, segir að í Kvígindisfirði sé mór svo góður að hann hafi hvergi séð slíkan.[7]

Þorvaldur Thoroddsen fór um þessar slóðir ári á undan Hermanni og segir hann að Kvígindisfjörður sé þvengmjór og brattur á báðar hliðar.[8] Eru það orð að sönnu því að fjörðurinn er víða innan við einn kílómetra á breidd og hvergi breiðari en tveir kílómetrar.

Frá bænum í fjarðarbotni liggur leiðin um brattlendi út með Kvígindisfirði vestanverðum út á Svínanes en þar yst á nesinu stóð áður samnefndur bær. Milli bæjanna eru um 12 kílómetrar eða um þriggja stunda lestagangur. Á þeirri leið er komið að Svínanesseli eftir tæplega tveggja stunda gang frá forna bæjarhlaðinu í Kvígindisfirði. Ekki er getið byggðar í Svínanesseli á fyrri öldum en árið 1890 settust að hér í selinu hjónin Kristján Sigurður Sigfússon og Sigríður Guðmundsdóttir. Á manntali frá 1. nóvember 1890 er Kristján sagður húsmaður í Svínanesseli og þá er þar fernt í heimili. Auk hjónanna voru það dóttir þeirra, Guðrún Þorbjörg, fædd 1886, og Guðrún Guðmundsdóttir, systir húsfreyju.

Hér var ekki tjaldað til einnar nætur. Er aðalmanntal var tekið í Múlasveit 1. desember 1920 bjuggu þau Kristján og Sigríður enn í Svínanesseli ásamt dóttur sinni Guðrúnu Þorbjörgu og höfðu búið þá í þrjátíu ár.[9] Á heimilinu voru þá einnig tvær stúlkur á barnsaldri Guðrún fædd 1909 og Sigríður Kristrún fædd 1914, Guðjónsdætur báðar, sagðar tökubörn og ættingjar. Á þessu manntali er Kristján Sigfússon sagður fæddur 10. ágúst 1856 í Axlarseli í Múlasveit en þess skal getið að sumstaðar er greint á annan veg frá fæðingardegi og fæðingarstað hans í öðrum manntölum. Sigríður, kona Kristjáns, var um sextán árum eldri en bóndi hennar, talin fædd á Hofsstöðum í Gufudalssveit. Árið 1920 átti fjölskylda þessi enn nokkur búskaparár eftir í Svínanesseli. Um búskapinn á síðari árum Kristjáns í Selinu segir Bergsveinn Skúlason að hér hafi þá verið tíu til fimmtán ær, flestar mislitar, engin kýr en tvær til þrjár geitur og ein brúnskjótt hryssa.[10]

Sumarið 1921 bar ungan mann að garði í Svínanesseli og átti hann þar nokkurra daga dvöl. Þessi ferðalangur var Halldór Guðjónsson frá Laxnesi í Mosfellssveit. Þegar Halldór var nokkru síðar sestur að í klaustrinu Saint Maurice de Clervaux var fólkið í Svínanesseli og líf þess honum enn hugleikið. Í klausturdagbók skáldsins má sjá að við bænargjörð þann 16. febrúar 1923 hefur Halldór minnst sérstaklega barnanna í Seli í Múlasveit og beðið fyrir þeim.[11] Við skulum vona að sú fyrirbón hafi styrkt þau í sínu lífsstríði.

Líklega hefur Halldór orðið fólkinu í Svínanesseli minnisstæður, ekkert síður en það honum. Um dvöl hans hér hefur Jón Jóhannesson, skáld frá Skáleyjum á Breiðafirði, ritað svolítinn þátt, sem birtur er í bók Bergsveins Skúlasonar Þarablöð, þættir frá Breiðafirði. Jón Jóhannesson rekur frásögn Kristjáns af þessari gestkomu í Svínanessel og má þar m.a. lesa þetta:

 

Hann lá bara í baðstofukytrunni hjá okkur. Það fór ekki mikið fyrir honum. Hann var ákaflega lítillátur. Þegar hann háttaði á kvöldin vafði hann fötin sín saman brá utan um þau snæri og hengdi þau í sperrukverkina yfir rúminu, sem hann svaf í. Síðan skreið hann allsber undir sængurfiðuna, sem við lánuðum honum, og var steinsofnaður á augabragði. Hann hefur víst verið þreyttur.

Ég spurði hvers vegna hann færi svona með fallegu fötin sín. – „Það er óværan”, svaraði hann. „Ertu lúsugur, elstan?” – „Ég var það ekki.” … Gunna mín svaf hjá mömmu sinni meðan hann var hjá okkur. Rúmin í baðstofunni voru ekki nema þrjú. Á morgnana þegar hann vaknaði var það hans fyrsta verk að taka fataböggulinn úr kverkinni og hlaupa kviknakinn ofan í Bæjarvíkina og stinga sér í sjóinn. Við héldum þá að hann væri eitthvað vankaður og höfðum auga með honum meðan hann var í sjónum. En það var óþarfi að líta eftir honum. Hann var ekki brjálaður sem betur fór. Síðan klæddi hann sig niðri í víkinni. Kom brosandi heim og sagði að hér væri góð baðströnd. Svo drakk hann geitamjólk. Annað vildi hann helst ekki. Hann át okkur ekki út á húsganginn. Já, þetta var einkennilegur maður. En mikið var hann alþýðlegur og viðfelldinn.

… Gunna mín segir að Kiljan hafi verið í útlöndum. Hann hefur líklega sagt henni það, því verið svo þreyttur þegar hann kom. Ég kann ekki að nefna þau lönd. Svo kvaddi hann okkur öll ákaflega elskulega og þakkaði fyrir sig. Ég veit ekki hvert hann fór. Gunna mín sagði að hann mætti koma aftur. En hann kom ekki aftur.[12]

 

Þegar hálf öld var liðin frá þeim sælu orlofsnóttum er Halldór frá Laxnesi átti sumarið 1921 í Seli í Múlasveit ræddi Matthías Jóhannessen við hann. Viðtal þetta er birt í bók Matthíasar Skeggræður gegnum tíðina og þar kemst Halldór svo að orði:

 

En það er misskilningur að Veturhús á Jökuldalsheiði séu fyrirmynd að umgerð um líf Bjarts í Sjálfstæðu fólki. Ég var alókunnugur í Veturhúsum; þó ég færi þar um á skíðum einn vetrardag kynntist ég aldrei bóndanum, sem bjó þar, né sá hann. Aftur á móti var fyrirmyndin, ef nokkur var, að þessu mannlífi í litla bænum, sem Sjálfstætt fólk getur um, vestan af fjörðum. Þegar ég var unglingur á ferð með vini mínum, séra Halldóri Kolbeins, þar vestur frá var ég byrjaður að bera áhuga fyrir íslenska kotbóndanum og langaði til að skrifa um hann hetjusögu. Þá gaf ég öllum smáum kotum og íbúum þeirra sérstakar gætur. Ég tók meira að segja upp á því að verða eftir í svona kotum þegar ég var með séra Halldóri í húsvitjunarferðum. Frumfyrirmyndin að Sumarhúsum var kot sem hét Sel í Múlasveit. Þar er kveikjan að Sjálfstæðu fólki. En kotin í Jökuldalsheiðinni styrktu þessa mynd mína.[13]

 

Líklega er Bjartur í Sumarhúsum þekktari um veröld alla en nokkur önnur persóna úr skáldskap Halldórs Laxness. Frá Svínanesseli að Sumarhúsum er langur vegur á braut hugmynda og skáldskapar og enginn skyldi láta sér verða á að sameina kotin tvö í eitt. Engu að síður eru býsna merkileg þau orð Halldórs, sem hér var vitnað til, um tengsl Sumarhúsa við Sel í Múlasveit. Sá staður í veröldinni, er geymdi kveikjuna að Sjálfstæðu fólki á ekki skilið að gleymast. Milljónir manna í nálægum og fjarlægum þjóðlöndum þekkja Sumarhús og lífið sem þar var lifað í mynd skáldskapar. Sú mynd hefur margan heillað. Svínanessel þekkja fáir. Þó kynni pílagrímsferðum að fjölga út með Kvígindisfirði á komandi öld úr röðum vina Ástu Sóllilju og annars Sumarhúsafólks. Sjóböð í Bæjarvíkinni eru líka ætíð jafn holl fyrir andann, ekki síst þreyttum langferðamönnum.

 

Næst komum við að Svínanesi sem þótti góð bújörð. Héðan er víðsýni meira en frá öðrum bæjum í Múlasveit. Í Landnámabók segir að svín Geirmundar heljarskinns, landnámsmanns á Skarðsströnd við Breiðafjörð, hafi gengið á Svínanesi. Með þeim hætti hefur höfundur Landnámu viljað skýra nafnið. Í fornum máldaga Staðarkirkju á Reykjanesi frá árinu 1470 er talað um akurtröð á Svínanesi[14] og má því ætla að hér hafi fyrrum þótt vel fallið til kornræktar.

Kumbaravogur heitir niður við sjóinn á Svínanesi, örskammt fyrir vestan bæjarstæðið. Ólafur Olavius, sem rannsakaði hafnarskilyrði á Vestfjörðum sérstaklega árið 1775, kveðst hafa heyrt að á fyrri tíð hafi Þjóðverjar haft verslunarbækistöð á Svínanesi og höfn þeirra verið Kumbaravogur. Merkingin í orðinu kumbari er kuggur eða kubbslega smíðað skip. Olavius segir voginn þorna upp um fjöru og lýsir honum svo:

 

Tvær klettahleinar liggja að vognum, er hin eystri þeirra há en sú vestri er lægri. Fyrir botni vogsins er hár jarðbakki og hlífir hann ásamt hleinunum og nokkrum smáhólmum og skerjum vognum algerlega fyrir særóti úr öllum áttum, nema um mynnið, sem veit mót vestri en það er svo þröngt að ekkert öldurót til tjóns getur borist inn um það.[15]

 

Um 1840 sáust enn allglögg merki á tóttum upp af Kumbaravogi frá dögum Þjóðverja.[16]

Olavius fékk líka fréttir af því að Þjóðverjar hefðu haft fálkafangara á Svínanesi og greinir frá því í ferðabók sinni. Verslun Þjóðverja hér við land hófst á 15. öld og stóð með mestum blóma á 16. öldinni. Við upphaf einokunarverslunar Dana, í byrjun 17. aldar, voru Þjóðverjar hraktir frá bækistöðvum sínum á Íslandi og öll viðskipti við þá bönnuð.

Í sóknarlýsingu Múlasveitar frá því um 1840 getur Ólafur Sívertsen, prófastur í Flatey, um tvær aðrar bækistöðvar Þjóðverja í Skálmarfirði, vestan við Svínanes. Hann segir:

 

Á fyrri öldum er almæli að inn á Skálmarfjörð hafi enir þjóðversku kaupmenn siglt skipum sínum alla götu inn á Skálmarfjarðarbotn milli Skálmardals og Illugastaða. Heitir þar Sigmundareyri, sem húsin tjást að hafa staðið, og sést þar enn fyrir 6 faðma langri og því nær tveggja faðma breiðri tótt. Hafa skipin legið þar á blautum leirbotni um fjörur á þurru. Við miðju Skálmarfjarðar austanvert er og sagt að þjóðverskir hafi reist kauphöndlunarhús. Heitir þar Langeyri í Selskerjalandi og sjást þar lítil merki fyrir tóttum.[17]

 

Þegar komið er fyrir Svínanes tekur Skálmarfjörður við. Um fiskigengd í Skálmarfirði árið 1775 segir Olavius:

 

Inni á Skálmarfirði eru menn nýlega teknir að afla bæði þorsks og tittlings á haustin á handfæri en fiskurinn tekur ekki línu, sakir þess að sjávarskordýr éta beituna af önglinum.[18]

 

 

Frá Svínanesi og inn í botn á Skálmarfirði eru um 15 kílómetrar. Á þeirri leið voru tveir bæir Selsker og Illugastaðir. Frá Svínanesi eru um fimm kílómetrar að Selskerjum og þaðan svo sjö til átta kílómetrar að Illugastöðum. Hlíðin inn með Skálmarfirði er brött og stefnir fjarðarströndin fyrst lítið eitt vestan við norður en beygir síðan, þar sem Skeið heitir, til norðausturs.

Í fjörunni rétt innan við Selsker hitti Jósefína Jónsdóttir fyrir fjörulalla síðsumars árið 1883. Var lallinn lítið eitt stærri en stærstu sauðkindur, haus og háls mjög framdregnir og eins og krungur væri upp úr miðju bakinu. Sögu um fund Jósefínu og ókindarinnar skráði Magnús Hjaltason.[19]

Þann 25. júní 1954 fórst vélbáturinn Oddur frá Flatey á leið þaðan að Selskerjum.[20] Meðal þeirra er drukknuðu var húsfreyjan á Selskerjum og dóttir hennar, 26 ára gömul. Skömmu eftir slysið fór bærinn í eyði.

 

Illugastaðir standa á háum sjávarbökkum undir innsta hluta Svínanesfjalls. Héðan er örskammt að þjóðveginum þar sem hann kemur af Klettshálsi ofan í Skálmarfjörð og ekki nema tveir til þrír kílómetrar að bænum Skálmardal í botni Skálmarfjarðar. Um fjörur þornar Skálmarfjörðurinn upp út á móts við Illugastaði.

Innsti hluti Skálmarfjarðar skiptist í tvo innfirði sem Vattarfjall og Vattarnes skilja að. Eystri innfjörðurinn heldur nafni Skálmarfjarðar en sá vestri heitir Vattarfjörður.

Við botn Skálmarfjarðar austanverðan er Sigmundareyri þar sem talið er að Þjóðverjar hafi átt bækistöð á miðöldum svo sem fyrr var getið. Á Sigmundareyri var búið í nær áratug undir lok nítjándu aldar. Hjónin Jón Jónsson og Ólöf Kristjánsdóttir settust þar að árið 1885 ásamt þremur börnum sínum og áttu þar heima til 1893.[21] Síðasta árið sem Jón og Ólöf bjuggu á Sigmundareyri var þar líka önnur fjölskylda í húsmennsku, þau Guðbjartur Árnason og Halldóra Þórðardóttir með börn sín tvö, Ingibjörgu og Þórð. Þórður Guðbjartsson var yngsta barnið á Sigmundareyri árið 1893, þá á öðru ári. Hann var enn rólfær á Patreksfirði 85 árum síðar, fóstri skáldsins Jóns úr Vör.

Upp frá botni Skálmarfjarðar gengur Skálmardalur og þótti þar haglendi gott. Það segja menn reynt að hver ein sauðkind, sem færð er á vordag inn og norður í aðaldalinn, Skálmardal, lifni þar við og verði vel feit, þótt svo lémagna sé af hor að ei geti risið.[22] Skálmardalsá rennur um dalinn út í botn Skálmarfjarðar. Um Skálmardal lá áður þjóðbraut á Skálmardalsheiði og norður að Ísafjarðardjúpi. Af heiðinni var komið niður í Gerfidal við Djúp og síðan að bænum Kleifakoti rétt utan við Ísafjarðarbotn. Leiðin yfir Skálmardalsheiði liggur á sýslumörkum í um 550 metra hæð yfir sjávarmáli. Vegalengdin milli bæja, frá Skálmardal að Kleifakoti, er um nítján kílómetrar og var það skemmstur vegur milli byggða við Breiðafjörð og Djúp.

Þorvaldur Thoroddsen tekur sérstaklega fram í Ferðabók sinni að á Skálmardalsheiði sé enginn jökull en á korti Björns Gunnlaugssonar, sem prentað var árið 1844, er Glámujökull látinn ná alla leið austur á heiðina.[23]

 

Bærinn í Skálmardal stendur vestanvert við botn Skálmarfjarðar. Um miðja 18. öld var þar enn mikill skógur og óvíða meiri á Vestfjörðum, að sögn Eggerts Ólafssonar sem ritar svo: Í Skálmardal og beggja megin Þingmannaheiðar er bestur skógur, einnig í Arnarfirði og nokkrum innfjörðum Ísafjarðar að sunnanverðu.[24]

 

Akvegurinn liggur um túnið í Skálmardal og út á Vattarnes. Á nesinu stóð samnefndur bær. Þar var löngum þingstaður Múlahrepps. Á leiðinni frá Skálmardal að Vattarnesi er farið hjá Dómeyri og Dómarahvammi og má ætla að þessi örnefni tengist þinghaldi á Vattarnesi. Að bæjarbaki gnæfir Vattarfjall um 440 metrar á hæð.

Á 18. öld var sáralítið um túngarða á Íslandi og fornum vörslugörðum hafði lítt verið við haldið. Á Vattarnesi höfðu þó verið hlaðnir góðir garðar um túnið þegar Ólafur Olavius kom hingað haustið 1775. Segir hann að hér megi glögglega sjá hvílíkt gagn sé að slíkum görðum því að grasið var jafnhátt yst í túnjaðrinum og heima við bæinn en hins vegar nokkru lægra í miðju túninu.[25] Túngarðurinn góði á Vattarnesi var að mestu fallinn sextíu og fimm árum síðar er Ólafur prófastur Sívertsen ritaði lýsingu Múlasóknar.[26] Ferðamenn er leið áttu um Þingmannaheiði gistu oftast á Vattarnesi og þar átti Sumarliði Guðmundsson póstur marga nótt. Símstöð var  á Vattarnesi síðustu árin sem þar var búið.[27]

Frá Vattarnesi liggur leiðin inn í botn Vattarfjarðar og eru þrjár ár á þeirri leið, Þverá, Spræná og Fornaselsá, áður en komið er að sjálfri Vattardalsá, sem komin er um Vattardal norðan frá hálendi Glámu og fellur í fjarðarbotninn. Fornasel heitir neðst í Vattardal, örskammt frá þjóðvegi, en frammi í dalnum, svo sem 1½ km frá sjó, er Fífusel eða Fífustaðir. Það segir Árni Magnússon vera fornt eyðiból en tekur fram að árið 1710 sé þar selstaða frá Skálmarnesmúla.[28]

Upp frá botni Vattarfjarðar lá hin gamla þjóðleið á Þingmannaheiði og síðan um Þingmannadal að Vatnsfirði í Barðastrandarhreppi. Vegurinn um Þingmannaheiði liggur hæst í um 440 metra hæð yfir sjávarmáli og er leiðin milli fjarða um 24 kílómetrar. Á Þingmannaheiði er gróðurlítið en þeim mun meira um urð og grjót. Mörgum ferðamanni þóttu hrjóstur þessi ekki beint aðlaðandi svo sem fram kemur í þessari vísu:

 

Þess eins bið ég guð ef hann á mína sál

og ólmur vilt tyft’ana í reiði

að sting’enn’ í ís eða bik eða bál

en bar’ ekki á Þingmannaheiði.

 

Fleiri gerðir eru til af þessari vísu  en líklega veit nú enginn með vissu hver er sú rétta. Bergsveinn Skúlason frá Skáleyjum, sem ritaði margt um byggðir Breiðafjarðar, hefur fyrri partinn svona:

 

Drottinn minn! Ef ég á einhverja sál

og þú ætlar að tyfta hana í reiði.

 

Hann segir vísuna eftir Þorstein skáld Erlingsson[29] og má telja mjög líklegt að það sé rétt en Þorsteinn fór ríðandi um Dalasýslu og Barðastrandarsýslu á leið sinni til Arnarfjarðar sumarið 1895[30] og hlaut þá að reyna á eigin skinni harðleikni þessa langa og gróðurvana fjallvegar.

Vegur var ruddur yfir Þingmannaheiði árið 1951 og varð hún þá jeppafær og sæmilega fær öðrum bílum tveimur árum síðar.[31] Árið 1954 tókst vegagerðarmönnum að sigrast á Múlakleif innan við jörðina Múla í Kollafirði í Gufudalssveit og varð þá akfært frá Patreksfirði til Reykjavíkur.[32] Bílvegurinn yfir Þingmannaheiði var aðeins opinn að sumarlagi. Árið 1969 lauk vegarlagningu með ströndinni, frá Vattarfirði í Vatnsfjörð, og var akstri um Þingmannaheiði þá brátt hætt.[33] Tíu árum fyrr hafði akvegurinn yfir Dynjandisheiði verið opnaður og varð þá akfært frá Patreksfirði á Ísafjörð.[34]

Akvegurinn á Þingmannaheiði lá upp úr Kerlingarfirði skammt vestan við Eiðið mjóa milla Kerlingarfjarðar og Vattarfjarðar. Gamli reiðvegurinn um heiðina lá hins vegar sem áður sagði upp úr botni Vattarfjarðar og heita þar Þingmannarjóður, Þingmannakleif og Þingmannatjörn. Ætla má að öll þessi örnefni tengist ferðum Vestur-Barðstrendinga til Þorskafjarðarþings á þjóðveldisöld svo og ferðum þeirra sem komu til þingsins yfir Glámu. Ólafur Sívertsen prófastur segir að vísu í sóknarlýsingu Múlasóknar frá því um 1840 að úr fjölda byggðarlaga í vesturhluta Barðastrandar- og Ísafjarðarsýslu hafi menn um skeið sótt sameiginlegt þinghald á Vattarnesi og þá hafi örnefni þessi orðið til.[35] Engar skjallegar heimildir munu þó til fyrir því að Vattarnes hafi verið vettvangur slíkra héraðsþinga og verður að telja staðhæfingu prófastsins um þetta, vægast sagt, mjög hæpna.

Úr botni Vattarfjarðar liggur akvegur út á Eiðið sem skilur að Skálmarfjörð og Kerlingarfjörð. Milli þessara fjarða skagar mikið og hálent nes út í Breiðafjörð, ýmist nefnt Skálmarnes eða Múlanes, þríhyrnt að lögun og  tíu til tólf kílómetrar að lengd á hverja hlið. Eiðið, sem tengir nes þetta við baklandið, er aðeins um það bil einn kílómetri á breidd og þar rís landið ekki nema í 30-40 metra hæð yfir sjávarmál.[36] Fjalllendið sem þekur meginhluta nessins nær hins vegar víða um 300 metra hæð og heitir einu nafni Skálmarnesmúlafjall. Frá Eiðinu liggur akvegur út á Múlanes fyrst um bratta norðvesturhlíðina og síðan um undirlendið á suðvestanverðu nesinu en þar var öll byggðin, a.m.k. á síðari öldum.

Um austurhlíð Múlaness, út með vestanverðum Skálmarfirði, liggur hins vegar enginn akvegur en þar er þokkalega fært gangandi manni. Áður en lagt er á hlíðina er rétt að staldra ögn við í Axlarseli á Eiðinu austanverðu, rétt undir fjallsöxlinni. Ekki er unnt að rekja hér sögu byggðar í Axlarseli en þess má geta að hér munu síðast hafa búið hjónin Guðmundur Arason og Ingibjörg Jóhannesdóttir 1886 og 1887.[37] Guðmundur var föðurbróðir Hallbjörns Jónssonar er á síðari hluta 20. aldar hélt um skeið uppi greiðasölu fyrir vegfarendur á Vattarnesi.

 

Frá Axlarseli er gott að hefja gönguna. Fyrsta spölinn er ekkert undirlendi og heitir þar Brattahlíð en eftir svo sem þrjá stundarfjórðunga er komið að lítilli gróinni eyri og hefst þar svolítil ræma af undirlendi, sem síðan heldur áfram. Þarna við eyrina á bærinn Urðir, sem um er getið í Laxdælu, að hafa staðið og hlíðin enn nefnd Urðahlíð. Reimt var talið á Urðahlíð eftir að Sigfús Þorleifsson, faðir Kristjáns í Svínanesseli (sjá hér bls. 2-4), varð þar úti þann 18. desember 1870.[38] Sigfús var kvæntur bóndi á Skálmarnesmúla er hann andaðist og mun hafa verið rétt um fimmtugt en sagður kominn undir sextugt í prestsþjónustubókinni frá Flatey.[39] Hann var frá Suðureyri í Súgandafirði, sonur Þorleifs hreppstjóra Þorkelssonar og Valdísar Örnólfsdóttur ríka Snæbjörnssonar.[40]

Um galdrahjúin Kotkel og Grímu segir í Laxdælu að Hallsteinn goði á Hallsteinsnesi hafi fengið þeim bústað að Urðum í Skálmarfirði og var þeirra byggð ekki vinsæl.[41] Synir þeirra voru Hallbjörn silkisteinsauga og Stígandi. Á Urðum lét Kotkell gera seiðhjall mikinn. Þau færðust þar á upp öll. Þau kváðu þar harðsnúin fræði. Það voru galdrar.[42] Þannig segir Laxdæla frá athöfnum þessara Urðarbúa er þau mögnuðu hríðina gegn Þórði Ingunnarsyni og sökktu þannig skipi hans við Skálmarnes. Fórust þar allir sem á voru. Á öðrum stað segir um seiðlæti þeirra Kotkels og Grímu að fögur var sú kveðandi að heyra.[43]

Ekki er kunnugt um byggð á Urðum allt frá dögum seiðmanna þessara en í Jarðabók Árna og Páls er getið um Urðarsel á þessum stað. Þar segir: Urðarsel heitir selstæði á Urðarhlíð í Múlalandi og eru munnmæli að þar hafi í fyrndinni byggð verið en lítil sjást nú þess merki.[44]

Lesendur ritverka Halldórs Laxness þekkja Urðarsel í skáldsögunni Sjálfstæðu fólki. Með tilliti til þess sem hér hefur áður verið sagt um dvöl Halldórs í Svínanesseli og kveikjuna að Sjálfstæðu fólki (sjá bls. 4) hlýtur Urðarselið við Skálmarfjörð að koma í hugann þegar minnst er gömlu Hallberu frá Urðarseli, tengdamóður Bjarts í Sumarhúsum. En þau voru falleg sólarlögin í Urðarseli, segir Hallbera og þangað stefndi Bjartur með sitt fólk í sögulok. Frá Urðarseli í Múlasveit má enn líta fagran kvöldhimin.

 

Héðan frá Urðum eða Urðarseli er tveggja stunda gangur út með Skálmarfirði, fyrir nestána og að kirkjustaðnum Skálmarnesmúla, sem stendur undir fjallinu Múlatöflu, syðst og austast af bæjunum fimm á Múlanesi. Skálmarnesmúli er gamall kirkjustaður en fáir prestar hafa setið hér. Árið 1646 var Múlasókn lögð til Flateyjarprestakalls en hafði áður verið þjónað frá Gufudal.[45] Engin breyting varð síðan í þessum efnum fyrr en árið 1970 en þá voru bæði Skálmarnesmúlasókn og Flateyjarsókn lagðar til Reykhólaprestakalls. Núverandi kirkja á Skálmarnesmúla var byggð á árunum 1955-1960. Hafði þá verið kirkjulaust í sókninni frá 1924.

Fyrsti prestur sem kunnugt er um að setið hafi á Skálmarnesmúla var séra Nikulás Guðmundsson, er prestur var í Flateyjar- og Múlasóknum frá 1655-1709, langafi Eggerts Ólafssonar skálds og náttúrufræðings.[46] Eftir séra Nikulás tók við brauðinu dóttursonur hans, séra Sigurður Sigurðsson fæddur 1688, en hann bjó fyrst á Firði á Múlanesi en síðar í Flatey.[47]

Síðasti prestur sem sat á Skálmarnesmúla var séra Þorkell Guðnason er veitt var Flateyjarbrauð árið 1788. Hann bjó fyrstu árin í Flatey en frá 1795 á Múla uns hann fluttist árið 1809 í annað prestakall.[48] Séra Þorkell fær lof fyrir kennimannshæfileika í vísitazíuskýrslu Hannesar biskups Finnssonar frá 1790. Í æviskrám segir um séra Þorkel að hann hafi verið blóðtökumaður góður og bókbindari, með minnstu mönnum að vexti og óásjálegur en snar, stilltur vel og gestrisinn.[49] Í dagbók biskupsskrifara frá vísitazíuferð um Vestfirði árið 1790 segir að séra Þorkell hafi ári fyrr verið sagður sálaður á ísi[50] og hefur hann þá að líkindum verið hætt kominn.

Kirkjusókn var erfið frá mörgum bæjum í Múlasveit á fyrri tíð og svo var um allar samgöngur. Ólafur Sívertsen, prófastur í Flatey, segir um 1840 að sóknarfólkið komi aðallega sjóleiðis til kirkju en um vetur er genginn fjarðarísinn.[51]

Skálmarnesmúli er hlunnindajörð, enda eru fjölmargar eyjar fyrir landi sem tilheyra jörðinni. Fjærst landi af þessum eyjum er Heiðnarey. Í sóknarlýsingu Ólafs Sívertsen segir svo um hana:

 

Nafn sitt ber hún síðan öndverðlega á elleftu öld því sögn manna er: Þegar kristni var lögtekin á Íslandi árið 1000 og í fyrstu stigið fram yfir launblót, svo gekkst bóndinn að Múla fyrir því að hver helst sem vildi hafa launblót í frammi mætti koma á heimuglegan mannfund í eyju þessari öndverðlega að tvímánuði sumars en það er að liðnum hundadögum og fremja á þessum afsíðis liggjandi hólma blótsiðu sína en þó gjalda toll nokkurn til sín fyrir vöktun samkvæmisins, viðurgjörning, flutning og landlán.[52]

 

Til styrktar sögu sinni nefnir séra Ólafur að enn heiti þar í eynni Blótsteinn, Blóthvammur og Saurlífisgjá.

Við getum með nokkrum rökum vænst þess að Hrólfur sá á Skálmarnesi undir Múla, sem skemmti í veislunni góðu á Reykhólum á Ólafsmessu árið 1119, hafi haft glöggar spurnir af þessu samkomuhaldi á Heiðnarey og máske hefur það orðið honum frásagnarefni. Í Þorgils sögu og Hafliða segir m.a. svo frá veislugleðinni á Reykhólum. Í Þorgilssögu og Hafliða segir m.a. svo frá veislugleðinni á Reykhólum: Hrólfur frá Skálmarnesi sagði sögu frá Hröngviði víkingi og frá Ólafi Liðsmannakonungi og haugbroti Þráins berserks og Hrómundi Gripssyni – og margar vísur með. … Þessa sögu hafði Hrólfur sjálfur saman setta.[53] Hvað sem öðru líður hefur ekki verið dauft yfir skemmtanalífinu á Múlanesi forðum, á dögum Hrólfs þessa sagnameistara.

Á Skálmarnesmúla hefur oft verið vel búið. Til marks um það má nefna að árið 1906 hafði verið reist hér íbúðarhús úr timbri. Á Barðaströnd og í öllum landhreppum Austur-Barðastrandarsýslu voru þá aðeins tvö slík nýtísku hús finnanleg. Hitt timburhúsið var á bænum Firði, líka á Múlanesi.[54]

Rétt suðaustan við túnið á Skálmarnesmúla heitir Hellisvogur niður við sjóinn. Þar er skerjótt og hafa margir drukknað þar í lendingunni, m.a. tveir synir séra Nikulásar Guðmundssonar sem hér var áður nefndur og lengi bjó á Múla. Grundin þar upp frá vognum heitir Dauðagrund eða Líkagrund en þangað voru jafnan borin lík þeirra sem drukknuðu.[55]

Haugsnes heitir nestáin syðst á Múlanesi og segir í Laxdælu að þar sé heygður Þórður Ingunnarson sem drukknaði í sjó þar skammt frá af völdum galdrahyskisins á Urðum (sjá hér bls. 10).

Á Múlanesi er búsældarlegt um að litast, enda sagði Sigurður Sigurðsson ráðunautur að nesið væri hjartað úr skákinni en skákin sú var Múlasveit.[56]

 

Frá Skálmarnesmúla liggur akvegur í norðvestur með bæjarröðinni á Múlanesi og er þá komið fyrst að Ingunnarstöðum. Sá bær er kenndur við Ingunni Þórólfsdóttur, móður Þórðar Ingunnarsonar sem var annar maður Guðrúnar Ósvífursdóttur og hér hefur áður verið nefndur. Í Laxdælu segir að Ingunn hafi flust frá Ingunnarstöðum í Geiradal vestur á Skálmarnes.[57]

Milli Múla og Ingunnarstaða stendur steinn einn mikill. Þjóðsaga hermir að eitt sinn hafi búið á Ingunnarstöðum fátæk kona sem ekki gat greitt presti er þá bjó á Skálmarnesmúla það sem honum bar. Hafi prestur þá farið í fjósið á Ingunnarstöðum og sótt kúna sem var eini bjargarstofninn á bænum. Teymir nú prestur kúna frá Ingunnarstöðum og ætlar með hana heim að Múla. Ekki átti þó fyrir honum að liggja að njóta kýrinnar því á leiðinni milli bæja kemur bjarg mikið úr fjallinu. Verður prestur undir því og liggur þar enn. Kýrin lét sér ekki bylt við verða og sneri aftur heim að Ingunnarstöðum.[58] Steinn sá hinn mikli, sem presti varð að bana, minnir vegfarendur á sögu þessa. Hann stendur enn á sínum stað  ágjörnum til viðvörunar.

 

Frá Ingunnarstöðum er haldið að Hamri og er örskammt milli bæja. Undir Hamar liggur Hellisey, stærsta eyjan við Múlanes. Er hún vestarlega á Gráðvík sem gengur inn í Múlanesið frá suðvestri. Í sóknarlýsingu segir að byggð hafi verið í Hellisey á fyrri öldum, síðast á 14. öld en þá hafi tveir synir ekkju sem þar bjó týnst á heimleið úr Oddbjarnarskeri.[59]

 

Deildará er næsti bær vestan við Hamar og vestast á Múlanesi er svo Fjörður. Milli bæjanna Deildarár og Fjarðar fellur Lurká, komin um Lurkárdal úr Lómatjörn uppi á fjalli. Á Deildará bjó hreppstjóri sveitarinnar um 1840 og tekur Ólafur prófastur fram að hann kunni bæði reikning og dönsku.[60] Þessi hreppstjóri mun vera Einar Einarsson, síðar bóndi í Kvígindisfirði, sem árið 1840 var 38 ára,[61] bróðir séra Guðmundar Einarssonar frá Skáleyjum er var tengdasonur séra Ólafs Sívertsen.[62]

 

Fjörður þótti hlunnindajörð og fæst þar bæði dúnn og selur. Margar eyjar eru þar fyrir landi og kallast Fjarðarlönd. Eggver af máfum í Fjarðarbjargi er að nokkru gagni, en eftir þeim eggjum verður að síga í festi loftsig og er þetta mjög erfitt, segir í Jarðabók Árna og Páls.[63] Á Firði söng Guðmundur biskup Arason yfir bjargi og hefir þar aldrei barn dáið síðan né eldri maður, segir í Jarteiknabók.[64]

Bærinn Fjörður stendur við mynni Kerlingarfjarðar og fljótlegt að aka inn Fjarðarhlíð undir bröttum hömrum á þjóðveginn þar sem hann liggur um Eiðið. Kerlingarfjörður opnast til suðvesturs. Hann er víðast tveir til þrír kílómetrar á breidd en verður nokkru breiðari við Eiðið. Inn úr Kerlingarfirði gengur Mjóifjörður beint til norðurs, lítill innfjörður. Í Kerlingarfirði kvað vera 90 faðma dýpi í miðju, segir Þorvaldur Thoroddsen.[65]

Guðmundur biskup Arason hinn góði hafðist um skeið við í Kerlingarfirði og fór þá leynilega fyrir óvinum sínum. Það var sumarið 1219 sem Arnór Tumason ætlaði að flytja biskup nauðugan með sér úr landi og hafði búið för þeirra úr Hvítárósi. Þangað kom þá Eyjólfur Kársson úr Flatey, vinur Guðmundar, og náði að frelsa biskup á næturþeli. Riðu þeir Eyjólfur með biskup vestur Mýrar og brunnu þá hrælog af vopnum þeirra svo að lýsti af. Skömmu síðar stefndu þeir Eyjólfur og biskup för sinni í Kerlingarfjörð og lágu þar í skógum um hríð.[66] Á öðrum stað í Guðmundarsögu er sagt að biskup hafi lengi verið á Eiði um sumarið og þá vafalaust átt við Eiðið hér við Kerlingarfjörð. Nánar er staðnum lýst á þennan veg:

 

Það var óbyggð og útlegð og voru þar furðu miklir reimleikar … . Það var nótt eina er menn voru í hvílum og biskup. Þeir heyrðu út dunur miklar og margs kyns ill læti og glímur miklar. Þá tók eitt flagðið til orða: „Hér sofa drengir og hér sofa drengir.”

 

Segir síðan frá því að biskup gekk út úr tjaldi sínu með helga dóma sína og með vatn sitt og stökkul og hrakti á brott allt það tröllakyn. Að verki loknu sagði Guðmundur biskup við sína félaga að hvergi hafi hann komið þar sem jafnmargar óvættir og flögð hafi í einn stað saman komið sem hér í Kerlingarfirði.[67]

 

Sé haldið inn með Kerlingarfirði frá vegamótum á Eiðinu er brátt farið yfir Kerlingarfjarðará og litlu síðar komið að Eiðshúsaá. Eru þangað um það bil þrír kílómetrar frá áðurnefndum vegamótum. Eiðshúsaá, sem reyndar er aðeins svolítill lækur, dregur nafn sitt af fornu eyðibýli sem hér stóð skammt austan við ána. Býli þetta hét Eiðshús og fjallið þar fyrir ofan heitir enn Eiðshúsafjall.[68]

Í Jarðabók Árna og Páls er getið um Eiðshús og þau sögð forn eyðihjáleiga í úthögum fram með Kellingarfirði.[69] Á sama stað er tekið fram að þar hafi ekki verið búið síðustu sextíu árin eða lengur en stundum sé haft þar í seli frá bænum Firði á Múlanesi. Hefur kotið þá verið í eyði, a.m.k. frá 1650. Árni og Páll hafa samt spurnir af því að Eiðshús hafi verið talin sex hundraða jörð. Í sóknarlýsingu séra Ólafs Sívertsen frá árinu 1840 eru Eiðshús kölluð gamalt eyðibýli og sagt að hér séu stundum höfð beitarhús frá Firði.[70] Einnig getur séra Ólafur þess að hér standi fjárrétt Múlnesinga og Fjarðarbændur nýti til heyskapar fjallendisslægjur hjá Eiðshúsum.

Trúlega má fullyrða að aldrei hafi verið búið á Eiðshúsum eftir 1650 og allt þar til Guðmundur Sigfússon byggði hér upp árið 1895 og kallaði Stórarjóður. Bergsveinn Skúlason segir í Breiðfirskum sögnum að Guðmundur hafi sest að þar sem til forna hétu Eiðshús en seinna var kallað Fjarðarsel og búið þar alllengi.[71] Í sóknarmannatölum má sjá að þessi bústaður Guðmundur hefur þá gengið undir nafninu Stórarjóður og þar er hann skráður til heimilis frá 1895 til 1903 að báðum þeim árum meðtöldum.[72] Guðmundur var fæddur um 1845 og var bróðir Kristjáns Sigfússonar í Svínanesseli (sjá hér bls. 2-4). Í Stórarjóðri í Kerlingarfirði bjó Guðmundur með konu sinni, Sólbjört Einarsdóttur, og syni þeirra, Jóni Thorberg, er þá var á þrítugsaldri og síðar gerðist húskarl á Litlanesi í Múlasveit. Einnig var hjá þeim vinnukona.

Hallbjörn Jónsson frá Vattarnesi (f. 1890) segir í Breiðfirskum sögnum að Guðbjartur Árnason, sem hér var áður nefndur (bls. 6-7), hafi á síðustu árum 19. aldar búið í koti upp frá botni Kerlingarfjarðar er þá hafi verið nefnt Stórarjóður.[73] Þetta kemur ekki heim við skráðar upplýsingar í sóknarmannatölum. Samt er ekki hægt að útiloka að Guðbjartur kynni að hafa hafst hér við eitthvert árið þó að prestur hafi ekki orðið þess var.

Guðmundur Sigfússon yfirgaf sitt Stórarjóður árið 1903 og hvarf það bæjarnafn þá úr sögunni. Á sömu slóðum stóðu næstu árin beitarhús frá bænum Firði á Múlanesi og staðurinn nefndur Fjarðarsel á því skeiði. Tíðkaðist reyndar að beitarhúsamaður lægi hér við í selinu að vetrinum meðan fé var við hús.[74]

Haustið 1919 varð enn breyting á. Ari Guðmundsson hóf þá sjálfstæðan búskap í Fjarðarseli með um tuttugu kindur sem hann átti en áður hafði hann verið hér beitarhúsamaður Fjarðarbónda. Ari var einhleypur en með honum settist að í Selinu bróðursonur hans og nafni, Ari Jóhannesson, drengur á tíunda ári.[75]

Í byrjun þorra árið 1920 var mjög farið að ganga á vetrarforðann hjá þeim frændum og hélt Ari eldri þá út á Skálmarnesmúla að afla þeim nauðsynja. Samdægurs sneri hann heimleiðis á ný og lagði á Urðarhlíð með poka sinn þrátt fyrir aðvaranir og ískyggilegt veðurútlit. Hann braust áfram í kafsnjó meðan kraftarnir entust en örskammt frá beitarhúsunum varð hann að lúta í lægra haldi fyrir norðanbylnum sem engu hlífir. Varð úti örfáa faðma frá dvalarstað sínum, Fjarðarseli, segir í prestsþjónustubókinni. Dánardagur 23. janúar 1920.

Dag eftir dag beið drengurinn ungi frænda síns, einn í kofunum, og hafði ekki annað að nærast á en súrt slátur, freðið í tunnunum, og svolítið af strásykri. Hann passaði jafnan að gefa kindunum. Frá þeim hafði hann líka svolítinn yl en frændi hans hafði bannað honum að kveikja upp vegna eldhættu. Það var kalt í þessum nær kaffenntu beitarhúsum og þorrabylurinn stóð lengi. Að viku liðinni lagði bóndinn á Vattarnesi loks upp í póstferð og ákvað að huga í leiðinni að þeim nöfnum í Fjarðarseli. Kom þá á daginn hvað orðið var. Það hefur verið ærin þolraun fyrir svo ungan pilt að þreyja þorrann við slíkar aðstæður víðsfjarri öllum mönnum. Hann æðraðist samt lítt heldur gegndi skyldum sínum við féð og lét ljósið frá olíulampanum lýsa frá gluggaborunni út í hríðarmyrkrið þar sem hann vænti frænda síns dag hvern.

Í Sunnudagsblaði Tímans birti Jón Helgason þann 31. mars 1963 greinargóða frásögn af þessum atburðum, m.a. byggða á því sem Ari Jóhannesson hafði sjálfur sagt honum. Það sem hér hefur verið skráð er allt þaðan fengið.

Skammt austan við mynni Eiðshúsaár, á litlu nesi niður við sjóinn, kúra gamlar tóttir. Hér var það sem Fjarðarsel stóð. Þeir sem um veginn fara ættu sem flestir hafa ritgerð Jóns Helgasonar meðferðis og staldra við hjá þessum auðu tóttum í aleyddri byggð. Frásögn Jóns af atburðunum í Fjarðarseli á þorra 1920 ættu reyndar að vera skyldulesning í barnaskólum sem víðast á Íslandi, a.m.k. um alla Vestfirði. Þá læra menn um leið vísu Matthíasar Jochumssonar:

 

Skefur heiðar skafrenningur,

skarpan ennþá Norðri syngur.

Bíttu á jaxlinn, Breiðfirðingur.

Blástu meir þótt frjósi kló.

 

Frá Fjarðarseli og Stórarjóðri liggur leiðin um Svörtugiljahlíðar inn með Mjóafirði en í botni hans yfir Mjóafjarðará. Úr fjarðarbotninum eru um sex kílómetrar út með firðinum vestanverðum að Kirkjubóli á Litlanesi.

 

Litlanes heitir hálendisnesið milli Kerlingarfjarðar og Kjálkafjarðar en eldra nafn er Músarnes.[76] Hæst á nesinu er Litlanesfjall, 424 metrar yfir sjávarmáli þar sem hæst er. Harla lítið undirlendi er á Litlanesi en þó stóðu þar tveir bæir, Kirkjuból að austanverðu og bærinn Litlanes sem er rétt vestan við nestána. Skammt er á milli þessara tveggja bæja, aðeins tæplega þrír kílómetrar, en alllangt þaðan til annarra bæja væri farið á landi, enda samgöngur helst á sjó eða fjarðarísum á fyrri tíð. Nú liggur þjóðvegurinn um túnið á báðum bæjunum. Kirkjuból á Litlanesi er annað býlið með Kirkjubólsnafni í Múlasveit, hitt er Kirkjuból á Bæjarnesi sem áður hefur verið nefnt. Talið er að bænhús hafi verið á báðum Kirkjubólunum á fyrri öldum.[77]

Á Kirkjubóli á Litlanesi er túnstæðið ekki stórt. Ferðamaður sem staldrar við kynni að eiga erfitt með að gera sér í hugarlund að hér hafi verið fjölmennt heimili fyrir fáum mannsöldrum. Svolítil vitneskja um Jón Þórðarson, hreppstjóra og sáttanefndarmann, sem fæddur var 1748 og hér bjó langa ævi skýrir myndina. Í búskap sínum hér eignaðist Jón tuttugu og eitt barn með konum sínum tveimur og var kominn yfir áttrætt þegar síðasta barnið bættist við.[78] Í manntalinu frá 1816 má sjá að Jón er þá nýlega búinn að krækja sér í seinni konuna og er hún sögð 27 ára en hann 69. Ætla má að Jón bóndi á Kirkjubóli hafi stundað sjó af kappi því að vart hafa landafurðir búsins dugað til að metta alla þess munna. Máske hefur hann róið á Siglunesi þar sem Bjarni bróðir hans var frækinn formaður.

Árið 1914 bjuggu fjórar fjölskyldur á Kirkjubóli, þrír bændur og einn húsmaður.[79]

 

Á Litlanesi er grýtt jörð og þar hefur tún verið eitt hið minnsta á Íslandi, a.m.k. á byggðum býlum um 1960. Í sóknarlýsingu Ólafs prófasts Sívertsen frá árinu 1840 segir svo um steina tvo er hanga við standbergið og slúta ofan yfir túnið á Litlanesi:

 

Heitir annar þeirra Hangur en hinn Krukkur. Eru þeir ískyggilegir sjónum og því hefur gömul hjátrú fyrirspáð að þeir myndu falla yfir bæinn, nær helst sem þar væru þrenn hjón samankomin til veru. Þó er slíkt ekki að finna í þeim lítt merkilega pésa, Krukkspá, hvar mörgum hindurvitnum er ranglega eignað heimkynni.[80]

 

Líklega hafa menn ekki vænst þess að þrenn hjón byggju samtíða á Litlanesi í bráð. Þegar bílvegur kom að Litlanesi var fólkið horfið þaðan en vonandi hefur varðveist hjá Ríkisútvarpinu upptaka af viðræðuþætti sem Stefán Jónsson, þáverandi fréttamaður útvarpsins, tók við heimilisfólk á þessum bæ að kvöldi 19. júlí 1961 og útvarpað var skömmu síðar. Þá bjó hér sveitarskáldið Júlíus Sigurðsson með konu sinni Salbjörgu og húskarlinum Jóni Thorberg sem fyrr var nefndur (sjá hér bls. 14). Mælti Júlíus flest í ljóðum og pantaði t.d. símtal með þessum hætti:

 

Númer þrettán núll og einn

nú ég þarf í Reykjavík.

Garpurinn heitir Guð og steinn,

getur skorið klæði í flík.

 

Húskarlinn Jón Thorberg frá Stórarjóðri í Kerlingarfirði var þá enn málhress vel á sínum járnfæti, enda beitti hann óspart steinolíu til lækninga, innvortis og útvortis, bæði við menn og skepnur. Eina blekbyttu fulla af óhreinsaðri steinolíu hafði hann ungur haft með sér á sjóinn til drykkjar og þannig komist á bragðið.

Á Litlanesi er fimm kílómetra leið að sýslumörkum við Skiptá í innanverðum Kjálkafirði. Við ána tekur við Barðastrandarhreppur og er þá komið í Vestur-Barðastrandarsýslu. Hér verður samt ekki haldið rakleitt á Barðaströnd heldur snúið við og stefnan tekin frá Litlanesi út í Eyjar.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 113.

[2] Pétur Jónsson 1942, 151 (Barðstrendingabók).

[3] Íslensk fornrit I, 168.

[4] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 253.

[5] Manntal 1801.

[6] Þjóðsögur Jóns Árnasonar I, 46.

[7] Búnaðarrit II, 169.

[8] Þorvaldur Thoroddsen 1959, 44. (Ferðabók II).

[9] Manntal 1.12.1920.

[10] Bergsveinn Skúlason 1982 II, 204.

[11] Halldór Kiljan Laxness 1987, 60 (Dagbók hjá munkum).

[12] Bergsv. Skúlason 1984, 171-172.

[13] Matthías Jóhannessen 1972, 55-56.

[14] Dipl. Isl. V, 591.

[15] Ólafur Olavius 1965,  II, 244-245.

[16] Sóknalýs. Vestfj. I, 115.

[17] Sóknalýs. Vestfj., I, 114.

[18] Ól. Olavius 1965, II, 243.

[19] Frá ystu nesjum III, 162-163.

[20] Árbók Barðatrandarsýslu 1954, 125-126.

[21] Sóknarmannatöl Múlasóknar 1877 til 1900.

[22] Sóknalýs. Vestfj. I, 108.

[23] Haraldur Sigurðsson 1978, myndblað 43 (Kortasaga Íslands I).

[24] Eggert Ólafsson 1975 I, 255.

[25] Ól. Olavius: Ferðabók II, 243.

[26] Sóknalýs. Vestfj. I, 107.

[27] Bergsv. Skúlason 1972 II, 243.

[28] Jarðab. Á. og P. VI, 257-258.

[29] Bergsveinn Skúlason 1982, II, 244.

[30] Bjarni Benediktsson frá Hofteigi 1958, 62-63.

[31] Árbók Barðastrandarsýslu 1951, 110.  Sama árbók 1968-1974, 123.

[32] Munnlegar upplýsingar frá Jakobi Hálfdánarsyni hjá Vegagerð ríkisins.

[33] Árbók Barðastrandarsýslu 1968-1974, 123.

[34] Munnlegar upplýsingar frá Jakobi Hálfdánarsyni hjá Vegagerð ríkisins.

[35] Sóknalýs. Vestfj. I, 112.

[36] Þorv. Thoroddsen 1959, II, 42 (Ferðabók).

[37] Sóknarm.töl Múlasóknar.  Bergsv. Skúlason 1982 II, 237.

[38] Bergsv. Skúlason 1982 II, 230. Sbr. Prestsþj.bækur og sóknarm.töl Flateyjarprestakalls.

[39] Prestsþj.bækur Flateyjar dánir 1870/1871. Manntal 1870, Skálmarnesmúli. Prestsþj.bækur Staðar í Súgandafirði, fermdir 1834. Manntal 1845, vesturamt, bls. 291-292.

[40] Sóknarmannatöl Staðar í Súgandafirði og prestsþjónustubækur þaðan, fermdir 1834. Manntal 1845, vesturamt, bls. 291-292.

[41] Íslensk fornrit V, 95.

[42] Sama heimild, 99.

[43] Sama heimild, 106.

[44] Jarðab. Á. og P. VI, 258.

[45] Íslenskar æviskrár II, 137.

[46] Ísl. æviskrár III, 489-490.

[47] Sama heimild og sama IV, 255. Sbr. sama I, 324-325.

[48] Blanda III, 77.

[49] Ísl. æviskrár V, 149.

[50] Ársrit Sögufél. Ísf. 1993, 145.

[51] Sóknalýs. Vestfj. I, 109.

[52] Sóknalýs. Vestfj. I, 97.

[53] Sturlungasaga I, 38.

[54] Freyr IV, 133-134.

[55] Vestfirskar þjóðsögur III, 1, 34. Játv. Jökull Júlíusson 1979, 71.

[56] Búnaðarsamband Vestfjarða 1919/ Skýrslur og rit 1916-1917, 94.

[57] Íslensk fornrit V, 94.

[58] Þjóðsögur Jóns Árnasonar I, 462-463.

[59] Sóknalýs. Vestfj. I, 106.

[60] Sóknalýs. Vestfj. I, 106 og 115.

[61] Manntal 1840, Deildará.

[62] Lúðvík Kristjánsson 1953, 124 og 222. Manntal 1816, 646-647.

[63] Jarðab. Á. og P. VI, 263.

[64] Biskupasögur II, 484.

[65] Þorv. Thoroddsen 1908, I, 89. (Lýsing Íslands).

[66] Biskupasögur II, 332.

[67] Biskupasögur II, 482-483.

[68] Sóknalýs. Vestfj. I, 101 og 105.

[69] Jarðab. Á. og P. VI, 263.

[70] Sóknalýs. Vestfj. I, 105.

[71] Bergsv. Skúlason 1982, I, 218.

[72] Sóknarmannatöl Flateyjar- og Múlasókna

[73] Bergsv. Skúlason 1982, II, 237.

[74] Jón Helgason 1963, 300 (Sunnudagsblað Tímans).

[75] Sama heimild.

[76] Sbr. Manntal 1703.

[77] Lýður Björnsson 1967, 23 og 27 (Ársrit Sögufél. Ísfirðinga).

[78] Gestur Vestfirðingur III, 108.

[79] Sóknarm.tal Múlasóknar 1914.

[80] Sóknalýs. Vestfj. I, 104-105.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »