Rauðsstaðir

Milli Borgar og Rauðsstaða er aðeins tuttugu mínútna gangur og skilur Hófsá lönd jarðanna að eins og fyrr var nefnt. Rauðsstaðir fóru í eyði árið 1936[1] en bærinn stóð skammt frá sjó rétt utan við norðurhorn fjarðarbotnsins. Að fornu mati voru Rauðsstaðir 12 hundruð að dýrleika og Skjaldfönn, sem féll undir Rauðsstaði á 16. öld, önnur 12 hundruð (sjá Borg). Á síðustu öld var jörðin hins vegar aðeins metin á fjögur hundruð[2] og munu landspjöll hafa valdið. Séra Sigurður Jónsson tekur reyndar fram í ritgerð sinni frá árinu 1839 að fyrrum hafi engin tólf hundraða jörð í prestakallinu jafnast á við Rauðsstaði að engjaslægjum og hér hafi verið „ein bestu slægjulönd fram eftir Firðinum“ og „skógarland gott uppi í hlíðum“[3]Seinna var því trúað að á Rauðsstöðum hefði á fyrri tímum verið „tólf karla engi“ og aðeins þrjár jarðir á öllum Vestfjörðum átt þvílíkt slægjuland.[4] Árið 1839 voru menn hins vegar farnir „að taka í eftirþanka“ hvort hér væri búandi vegna skriðufalla.[5]

Um 1440 voru Rauðsstaðir ein af fjölmörgum jarðeignum Guðmundar ríka Arasonar[6] en kóngur átti jörðina frá árinu 1551 (sjá Borg) til ársins 1839.[7]

Yfir Rauðsstöðum gnæfir Rauðsstaðafjall og nær fram að Skjaldfannargili en þar fyrir framan er Fjarðarfjall og fremst Rauðsstaðahorn.[8] Frá Rauðsstöðum er hálfur annar kílómetri fram að nýnefndu gili en Árnagil sem einnig hefur verið nefnt Illagil er 500 metrum framar.[9] Talið er að fornbýlið Skjaldfönn hafi staðið þar sem skriðuhryggurinn neðan við Skjaldfannargil endar og rétt framan við lækinn sem fellur úr gilinu.[10] Um Skjaldfönn er getið í ýmsum skjölum frá 15. og 16. öld.[11] Ljóst er að jörðin var enn í byggð árið 1524 því þá fylgdu henni fimm kúgildi[12] en árið 1551 var hún fallin í eyði (sjá Borg). Í Jarðabókinni frá 1710 er Skjaldfannarkot sagt vera „fornt eyðiból“ í landi Rauðsstaða og tekið fram að þar sjáist tóttir og leifar af túngarði en skriða sé þó fallin yfir „allt þetta pláts“.[13] Enn sjást leifar af hlöðnum garði rétt framan við skriðuna miklu þar sem kjarrið í fjallsrótunum tekur við af túngresi hins horfna býlis.

Á öldum áður lá alfaravegur norðan frá Djúpi um Glámuheiði í Arnarfjörð og væri förinni heitið að Rafnseyri var Skjaldfönn fyrsti bær vestan heiðar. Hér hefur flokkur Þorvaldar Vatnsfirðings því riðið um hlað vorið 1210, í hinni fyrstu aðför hans að Hrafni á Eyri, og aftur í hríðinni á langaföstu árið 1213 er þeir náðu að taka Hrafn af lífi.[14] Í síðara skiptið voru þeir 32 og segir höfundur Hrafns sögu frá á þessa leið:[15]

Og er þeir komu ofan í Arnarfjarðarbotn til byggða þá bundu þeir menn alla á bæjum, þar sem þeir komu, að eigi væri njósn borin fyrir þeim til Eyrar. En þeir báru illa sín meinlæti, börn grétu en mæður eða feður máttu þeim eigi duga þar sem voru bundnir allir.

Í ferðir úr Auðkúluhreppi yfir Glámu og norður að Djúpi eða suður í Breiðafjarðarbyggðir var á síðari öldum ýmist lagt upp frá Rauðsstöðum, Borg eða Dynjanda. Hér lá leiðin upp með Hófsá og í stefnu á Stóruborg, háan urðarhjalla norðan árinnar.[16] Þaðan sér upp í Arnarfjarðarskarð en úr skarðinu tóku menn stefnu eftir því hvert ferðinni var heitið.[17] Upp með Hófsá sáust enn um 1950 miklir götutroðningar.[18]

Um 1870 var orðið lítið um ferðir yfir Glámu[19] en þekking á hinum fornu leiðum úr Arnarfirði til byggðanna við Breiðafjörð og Djúp mun þó aldrei hafa glatast og á áratugunum kringum síðustu aldamót voru Glámuferðir nokkuð tíðar.[20]

Við höfum nú um sinn staldrað við þar sem áður stóð bærinn á Skjaldfönn og á fimm til tíu mínútum er auðvelt að ganga fram að Árnagili sem hér var áður nefnt og við augum blasir í hlíðinni þegar að er komið. Hryggurinn neðan við það heitir Seljahryggur og lækurinn í gilinu Seljalækur.[21] Framan við þennan hrygg munu vera rústir af selinu frá Rauðsstöðum[22] og var talið að þangað væri 40 mínútna gangur heiman frá bænum. Enn framar eru Fjarðarmýrar, fremsta engjaplássið í landi Rauðsstaða.[23] Skógur ofan við mýrar þessar heitir Hrossasteinsskógur og nær fram að Tungulæk í botni dalsins.[24] Milli Tungulækjar og Hófsár er Álftamýrartunga[25] og nafnið stundum haft í fleirtölu.[26] Það skógarpláss átti Álftamýrarkirkja[27] en prestarnir sem sátu á Álftamýri gáfu landsetum kirkjunnar á
Hjallkárseyri kost á að nýta sér kjarrið í tungunni.[28] Hrís var síðast rifið í þessum kirkjuskógi um 1880.[29]

Úr dalbotninum hverfum við til baka heim undir túnið á Rauðsstöðum. Bakkarnir innan við það heita Innri-Bakkar og á þeim var stór steinn, hærri en mannhæð.[30] Hann hét Krummasteinn og þar var lengi háð fjölsótt hrafnaþing á hverju hausti.[31] Innan við nýnefnda bakka er hallalítil brekka, sem heitir Lukkuhallur, og frá henni slétt fit að ósi Hófsár.[32]

Af bændunum öllum sem hér bjuggu nefnum við aðeins einn, Benedikt Gabríel Jónsson, sem talinn var einhver mesti galdramaður í Arnarfirði um sína daga og var kvæntur föðursystur Jóns Sigurðssonar forseta.[33] Hann var bóndasonur frá Auðkúlu, næsta bæ við Rafnseyri, fæddur um 1773.[34] Um tvítugsaldur var hann við nám eða störf hjá séra Jóni Sigurðssyni á Rafnseyri. Fór þá svo að einkadóttir prestshjónanna tók að þykkna undir belti en upp kom sá kvittur að strákur þessi frá Kúlu hefði laumað prjónastokk með galdrastöfum undir höfðalag ungfrúarinnar og náð með þeim hætti að véla hana til ásta.[35] Stúlkan hét Helga og í fyllingu tímans ól hún son. Drenginn, sem skírður var Jón, kenndi hún Benedikt Gabríel og lét hann sér vel líka.[36]

Sagt er að Helga hafi engan mann viljað eiga nema barnsföður sinn en faðir hennar ekki talið við hæfi að hún giftist almúgastrák þó pilturinn væri góður smiður og frækinn sela- og hvalaskutlari.[37] Enn harðari í andstöðunni var þó Ólafur, elsti bróðir Helgu.[38] Liðu nú sjö ár og gekk hvorki né rak en þá kom þar að Ólafur Jónsson var kvaddur til að taka við embætti aðstoðarprests hjá föður sínum og lagði upp í langferð suður á Seltjarnarnes að taka vígslu.[39] Fyrir brottför prestssonarins var Benedikt Gabríel staddur á Rafnseyri og að fróðra manna sögn var það hann sem járnaði reiðskjóta Ólafs.[40] Spýtti hann þá í hófana og þuldi en svo fór að Ólafur stúdent drukknaði á sinni suðurreið þann 28. ágúst árið 1800 í ánni Pennu sem fellur í Vatnsfjörð þar sem nú er Flókalundur.[41]

Að Ólafi látnum hóf Benedikt Gabríel nýja sókn og náði að gera unnustu sinni annað barn. Sá drengur fæddist á Rafnseyri árið 1802 og var skírður Jón eins og hinn sem var níu árum eldri.[42] Við þessa barnsfæðingu féll gamla prestinum allur ketill í eld og mun hann hafa séð að ekki þýddi að spyrna lengur á móti broddunum. Hin tvífalleraða einkadóttir fékk því loks að ganga með sínum Gabríel og voru þau pússuð saman í hjónaband. Þau lifðu bæði vel og lengi, bjuggu fyrst á Karlsstöðum og svo hér á Rauðsstöðum frá 1808 eða svo til 1819.[43] Héðan fluttust þau að Reykjarfirði í Suðurfjörðum Arnarfjarðar og þaðan alllöngu síðar að Kirkjubóli í Skutulsfirði.[44] Þar átti Benedikt Gabríel heima er hann drukknaði í fiskiróðri, sjötugur að aldri, 20. desember árið 1843.[45]

Þess skal að lokum getið að sviplegt andlát Ólafs stúdents, sem drukknaði í Pennu, varð til þess að Sigurður bróðir hans, er var yngri, gerðist kapellán hjá karli föður þeirra árið 1802 og kvæntist ári síðar Þórdísi, dóttur prófastsins í Holti, en vera kann að hún hafi verið ætluð Ólafi. Þessi hjón eignuðust enn einn Jón, sem fæddist á Rafnseyri[46] þann 17. júní 1811, orðinn til úr ættanna kynlega blandi og var af mörgum talinn sómi Íslands, sverð þess og skjöldur. Er við minnumst hans kemur upp myndin af Benedikt Gabríel sem forðum járnaði hestinn á Rafnseyrarhlaði.

 

 

[1] Firðir og fólk 1900-1999, 117.

[2] Rtk. Jarðab. V. 16, Ísafjs. 1805. JJ 1847, 191. Sbr. Jb. Á. og P. VII, 11–12.

[3] Sóknalýs. Vestfj. II, 20–21 og 33.

[4] GV 1977, 83 (Ársrit S.Í.).

[5] Sóknalýs. Vestfj. II, 21.

[6] D.I. IV, 691.

[7] Lbs. 797 4to. Jarðaskrá úr Ísafjs. frá árinu 1658. Rtk. Jarðab. V. 16, Ísafjs. 1805. JJ 1847 191, 435 og 440.

[8] ÖÖ.

[9] Sama heimild.

[10] Sama heimild.

[11] D.I. IV, 691, VI, 41–43, IX, 243–244, X, 347–348, XII, 299–301. Sbr. þar bls. 475–476 og XV, 297–299.

[12] D.I. IX, 243–244.

[13] Jb. Á. og P. VII, 11. Sbr. ÞN 1951, 156–157 (Árbók F.Í.).

[14] Sturl. I, 359–368.

[15] Sama heimild, bls. 368.

[16] ÞN 1951, 157. ÖÖ.

[17] ÞN 1951, 157.

[18] Sama heimild.

[19] PEKr Kålund 1985 II, 169. Sbr. Vestf. þjóðs. 1909 I, 19–21.

[20] GV 1957, 162–163 (Hrakningar og heiðavegir IV). PJ 1942, 70 (Barðstr.bók). Sjá Botn í Dýrafirði.

[21] ÖÖ.

[22] Sama heimild.

[23] ÖÖ. ÞN 1951, 157 (Árbók F.Í.).

[24] ÖÖ.

[25] ÞN 1951, 157.

[26] ÖÖ.

[27] ÞN 1951, 157.

[28] D.I. IX, 29–30. Jb. Á. og P. VII, 12–13.

[29] ÞN 1951, 157.

[30] ÖÖ.

[31] Sama heimild.

[32] Sama heimild.

[33] JGJ 1953, 83–93 (Árbók Barðastr.sýslu). Vestf. þjóðs. II. 2., 101–111.

[34] Ísl. æviskrár III, 60 og 69. Manntöl 1801, vesturamt, bls. 260 og 1816, 681.

[35] JGJ 1953, 83–93.

[36] Sama heimild, bls. 85–86. Manntal 1801, vesturamt, bls. 259–260.

[37] Sömu heimildir. Vestf. þjóðs. II. 2., 101–103. TrÓ 1960, 223–226.

[38] JGJ 1953, 84–87 (Árbók Barðastr.sýslu).

[39] JGJ 1953, 84–88 (Árbók Barðastr.sýslu).

[40] Sama heimild. Ísl. æviskrár IV, 63. Sbr. þar II, 32.

[41] JGJ 1953, 84–88.

[42] Sama heimild. Ísl. æviskrár IV, 63.

[43] Manntal 1816, 681. Vestf. þjóðs. II. 2., 101–103.

[44] Sömu heimildir. Rtk. Jarðab. V. 16, Ísafjs. 1805. Prþjb. Rafnseyrar.

[45] Prþjb. og smt. Rafnseyrar, Otradals og Eyrar í Skutulsf.

[46] Sömu heimildir. Sbr. Manntal 1845, vesturamt, bls. 302 og Ísl. æviskrár III, 263.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »