Saurbær á Rauðasandi

Saurbær á Rauðasandi

Saurbær, sem oft var nefndur Bær á Rauðasandi, stendur við norðvesturhorn Bæjarvaðals, rétt vestan við Kirkjuhvamm. Hér var um aldir eitt mesta höfuðból á öllum Vestfjörðum. Margir sýslumenn sátu í Saurbæ og hér var um skeið lögmannssetur. Gósseigendur sem vart vissu jarða sinna tal áttu hér bústað og drottnuðu yfir fjölda landseta er bjuggu nokkrir í hjáleigunum kringum staðinn en aðrir á fjarlægari slóðum. Saurbæjarhöfðingjar áttu fjölda báta sem flestir reru í Útvíkum norðan Látrabjargs. Margir fyrirmannanna í Bæ  kunnu að notfæra sér gæði bæði lands og sjávar en einkum þó strit landsetanna mörgu til að styrkja sína eigin auðsöfnun. Fé þeirra stóð víða fótum.

Ekki er getið bústaðar fyrsta landnámsmannsins á Rauðasandi en telja má líklegt að hann hafi einmitt búið hér í Saurbæ.

Á síðari hluta 12. aldar bjó í Bæ Markús Gíslason og er sitthvað frá honum sagt í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar.[1] Kvæntur var Markús Ingibjörgu Oddsdóttur frá Söndum í Dýrafirði. Niðjar þeirra sátu í Bæ a.m.k. fram undir lok 14. aldar.[2]

Um þennan fyrsta bónda í Saurbæ, sem sögur fara af, er m.a. skráð:

 

Markús var eigi goðorðsmaður og var þó með öllu ríkur í héraði sínu. Svo lét hann bæ sinn húsa stórkostlega að hans bær var svo húsaður sem þeir, er best voru húsaðir á Vestfjörðum.

Síðan andaðist Ingibjörg, kona Markúss, og eftir hennar andlát fór Markús í brott af landi og lét höggva í Noregi kirkjuvið góðan. Hann fór suður til Róms og er hann fór sunnan frá Róm keypti hann klukkur góðar í Englandi og hafði þær með sér í Noreg. Síðan fór hann til Íslands með kirkjuviðinn og klukkurnar. Og er hann kom út hingað lét hann gera kirkju göfuglega á Rauðasandi og til þeirrar kirkju gaf hann klukkurnar og Ólafsskrín er hann hafði út haft. Sú kirkja var síðan vígð guði almáttugum og heilagri Máríu drottningu.[3]

 

Líklega hafa fáir Saurbæjarbændur gert víðreistara en Markús.

Markús í Bæ var þingmaður Jóns Loftssonar í Odda á Rangárvöllum. Erjur nokkrar voru með þeim Markúsi og Inga Magnússyni er bjó á Hvalskeri í Patreksfirði og veitti Ingi Markúsi banasár fyrir dyrum úti í Saurbæ tveimur nóttum eftir allraheilagramessu árið 1196.[4]

Þrjú börn áttu Markús með konu sinni og auk þess launson er Loftur hét. Tvö barna Markúsar, Magnús og Hallbera, fóru uppkomin til Grænlands og ílentust þar.[5]

Gísli Markússon var ungur er faðir hans var veginn en tók síðar við búi í Bæ. Hann kemur víða við sögu í Sturlungu. Á fyrri búskaparárum Gísla bjó Eyjólfur Kársson, sem síðar var í Flatey, á Stökkum á Rauðasandi (sjá hér Frá Saurbæ að Lambavatni). Margt varð þeim grönnum að deiluefni og segir Sturla sagnaritari svo frá viðskiptum þeirra:

 

Varð þeim margt til í byggðarlagi um fjárbeitir og annað. Gísla þóttu fylgdarmenn Eyjólfs glepja konur, þær er honum gast eigi að, og gerðist með þeim hinn mesti fjandskapur.

Það var á jólum er Stakkamenn komu til tíða. Þá var Gísla sagt að þeir væru í kirkju. Þá sendi hann til mann að læsa kirkjunni. Var Eyjólfur þar en Guðmundur í skotinu, – hann átti eigi kirkjugengt [var sekur – innsk. K.Ó.]. Gísli og hans menn hlupu til vopna og fóru til kirkju. Bað Eyjólfur þá griða en þess var varnað. Guðmundur gekk út úr skotinu og færði Gísla höfuð sitt. En Gísli lést þiggja mundu og kvaddi til heimamann sinn, þann er Guðmundur hafði áður illa leikið og glapið konu fyrir, að hann skyldi drepa hann. Þá leiddu þeir hann upp um garð og drápu hann þar. Eyjólfur komst út um glerglugg austur úr kirkjunni og hljóp út til Stakka og í kastala, er hann átti þar.[6]

 

Skömmu síðar fóru þeir Eyjólfur og Jón Ófeigsson, hálfbróðir hans, með flokk manna að Saurbæ og hugðust vinna á Gísla. Settust þeir um virkið. Nánar segir frá atburðum á þessa leið:

 

Þeir Eyjólfur höfðu matfátt og fóru til fjóss og ætluðu að taka naut nokkurt. Gekk Jón Ófeigsson, bróðir Eyjólfs, fyrst í fjósið. Þar var fyrir nautamaður Gísla og stóð í uxabási. Þá hjó hann á mót Jóni og kom á kinnina og rauf á hváftinum og úr jaxlana tvo. Féll hann þá út í fang sínum mönnum. En nautamaður hljóp innar eftir fjósinu og út í hlöðuvindauga og svo upp í virkið.[7]

 

Upp úr þessu fluttist Eyjólfur Kársson til Flateyjar og ekki tókst honum að standa yfir höfuðsvörðum Gísla.

Gísli Markússon í Bæ á Rauðasandi var löngum einn allra tryggasti liðsmaður Sturlunga, enda var hann kvæntur dótturdóttur Hvamm-Sturlu.

Árið 1232 var veldi Sturlu Sighvatssonar í hámarki á Vestfjörðum eftir víg Þorvaldssona úr Vatnsfirði. Þá um haustið var Sturlu stefnt utan en við brottför hans úr landi varð um sinn autt það sæti er hann hafði skipað. – Þá var enginn höfðingi í Vestfjörðum en þeir voru þá mestir af bændum Oddur Álason og Gísli á Sandi, og voru þeir hinir mestu vinir Sturlu, segir þar.[8] Eins og faðir hans varð Gísli í Bæ að láta sér nægja að vera talinn fyrir bændum en þó ekki höfðingi á borð við Sturlu eða aðra slíka.

Gísli Markússon fylgdi Sturlu Sighvatssyni í Bæjarbardaga í Borgarfirði vorið 1237 er Sturla hugðist þrengja að veldi Snorra föðurbróður síns.[9] Í Örlygsstaðabardaga árið eftir börðust Gísli og menn hans með Sighvati og Sturlu uns yfir lauk. Komst hann þá úr bardaganum ásamt Tuma Sighvatssyni, sem einn lifði þá eftir bræðra sinna fimm er á fundinum voru.[10]

Sumarið 1239 gerði Snorri Sturluson Gísla á Rauðasandi sekan skógarmann þar eð Gísli og hans sveitungar neituðu einir manna að sættast á gerð Snorra í málum þeirra er fylgt höfðu Sturlu í Bæjarbardaga tveimur árum fyrr.[11]

Litlu síðar er Gísli þó kominn til liðs við Órækju Snorrason, sem margir töldu þá vænlegast höfðingjaefni úr röðum Sturlunga. Með Órækju fór bóndinn í Saurbæ á Rauðasandi suður í Skálholt í ársbyrjun 1242. Hugðust þeir taka þar af lífi Gizur Þorvaldsson er staðið hafði fyrir vígi Snorra Sturlusonar fáum mánuðum fyrr. Ferð þessi reyndist þó flan eitt. Er hér var komið sögu var Gísli í Bæ orðinn roskinn maður. Í Skálholtsbardaga er honum lýst á þessa leið:

 

Gísli af Sandi gekk austan að forskálanum. Hann var í brynju og gráum kufli og hafði girt sig með álu. Önundur biskupsfrændi lagði til hans með spjóti. Varð Gísla hált og féll hann á þekjunni. Stóðu á honum spjótin og tóku tæpt til hans en hann komst eigi upp áður Teitur, sonur hans, tók til hans og reisti hann upp.[12]

 

Þarna var nærstaddur, líka í liði Órækju, Jón Ófeigsson, sá er forðum réðst til inngöngu í fjósið í Saurbæ (sjá hér bls. 2), og sagði hann Gísla fara óvarlega, gamlan mann og stirðnaðan. Gísli svarar: Þar skulum vér enn hvergi koma að ég gangi verr en þú.[13] Gísli var þá lítt sár og linnti nú brátt bardaganum en þeir Órækja og Gizur lögðu deiluefni sín í gerð Sigvarðar Skálholtsbiskups. – Og er Gísli af Rauðasandi reið í brott fram með kirkjugarðinum í Skálholti spurði Gizur Þorvaldsson hver þar færi. Gísli nefndi sig. Langt hafa slíkir sótt, sagði þá Gizur[14] og var orð að sönnu.

Sumarið eftir Skálholtsbardaga náðu þeir Gizur og Kolbeinn ungi Órækju á sitt vald á sáttafundi við Hvítárbrú og réðu nú einir að kalla landinu öllu. Vestfirðingar urðu þá að sverja Kolbeini unga Arnórssyni, höfðingja Skagfirðinga, trúnaðareiða. Þá var það enn Gísli í Saurbæ sem þverlega neitaði öllum slíkum svardögum þó að augljóst væri að hann mætti sín einskis gagnvart ofureflinu. Eyvindur prestur Ragnheiðarson úr Selárdal í Arnarfirði fékk þá talið Gísla inn á lausn sem lengi var í minnum höfð. Eyvindur prestur átti son ungan, sem Kolbeinn hét, og fékk gamla harðjaxlinn í Saurbæ til að fallast á að Kolbeini unga gæti hann því svarið trúnaðareið án þess að bindast með því Kolbeini þeim Arnórssyni er sárast hafði leikið ættbálk Sturlunga. Lét Gísli þetta gott heita og sór með þeim hætti sem Eyvindur hafði lagt til.[15]

Var nú skammt að bíða útkomu Þórðar kakala en þar sem hann var áttu nú vinir Sturlunga allir sína síðustu von. Er Þórður hóf liðsafnað treystist Gísli ekki lengur til herfara en fékk honum syni sína fjóra til fylgdar og hvatti alla alþýðu til stuðnings við Þórð. Í Þórðar sögu kakala segir svo um Gísla Markússon í Bæ:

 

Hann var mestur bóndi fyrir vestan Arnarfjörð og var þá mjög kominn á hinn efra aldur. Hafði hann og alla ævi verið í ferðum, fyrst með Sighvati en þá með Sturlu, er hann kom í Dali. Hafði og enginn maður verið einfaldari í öllum málaferlum við Sturlunga en hann. Átti hann þar og allt sitt traust er þeir voru.[16]

 

Gísli í Bæ andaðist árið 1258. Fjórum árum síðar leið þjóðveldið undir lok og hlaut þá Gizur Þorvaldsson jarlstign yfir landinu öllu.

Á fyrri hluta 15. aldar var Saurbær eitt af sex höfuðbólum Guðmundar ríka Arasonar á Vestfjarðakjálkanum. Í skránni frá 1446 yfir eigur Guðmundar Arasonar kemur fram að þá fylgdu höfuðbólinu 17 jarðir, allar í Rauðasandshreppi.[17] Þá voru í Saurbæ 45 kýr og 82 aðrir nautgripir, 160 ær og annað sauðfé 390. Hross voru 34 að tryppum meðtöldum, svín ellefu og sextán grísir.[18] Í sömu eignaskrá er húsbúnaði og búsmunum innan stokks í Saurbæ lýst svo:

 

11 sængur og 20, flestar nýar, alfærar að öllu með áklæðum og rekkjuvoðum. 5 manna línlök og fjögur hægindi glituð. Tvær mundlaugar stórar og þrjár litlar. Tveir vatnskallar, 8 tugir tréföt, 31 tinföt smá og stór. Tíu tugir borðdiskar rauðir. Tólf stórkönnur og níu hálfkönnur, ellefu smátinter. Sjö manna alklæðnaður með tilgild klæði og kostulegur húsbúningur um alla stofu og um litlu stofu. Vel fjörtíu staup og bikarar að auk. Fjórtán horn, sum búin, fjórtán katlar og voru í tveir stórkatlar, sex pottar. Fortjöld fyrir framan hjónasæng og í kringum sængina. Tunnur og pípur og önnur ölgögn óreiknuð. Fjórir borðdúkar kostulegir, fjórtán álna hver og þar til borðhandklæði og þar til aðrir margir um öll borð. Smiðja alfær til alls smíðis og öll önnur þarfindi innan garðs og utan, er til búskapar þurfti að hafa.[19]

 

Í Vestfirðingasögu sinni segir Arnór Sigurjónsson að líklega hafi Saurbær á Rauðasandi þótt mest jörð allra höfuðbóla Guðmundar á 15. öld og næstu öldum þar á eftir.[20]

Saurbæ hafði Guðmundur eignast með Helgu Þorleifsdóttur konu sinni, er þau gengu í hjónaband árið 1423, en fimm árum fyrr höfðu foreldrar Helgu, Þorleifur Árnason og Vatnsfjarðar-Kristín Björnsdóttir, keypt jörðina.[21]

Guðmundur Arason var sviptur eignum sínum og hrakinn í útlegð árið 1446 og hófust þá brátt langvarandi deilur um öll hans miklu auðæfi, þar á meðal um Saurbæ. Áttust þar einkum við niðjar Guðmundar og á hina hlið mágur hans, Björn Þorleifsson hirðstjóri, og hans niðjar.

Um 1480 sátu í Saurbæ um skeið Solveig, dóttir Guðmundar Arasonar, og eiginmaður hennar, Bjarni Þórarinsson, Mættust þeir þá í Skor, Bjarni Þórarinsson og Einar, sonur Björns Þorleifssonar hirðstjóra, og áttust þar illt við. Í vitnisburði liðsmanna Einars segir að Bjarni og hans fylgjarar hafi þar höggvið, slegið og skotið með byssum og bogum og tekið af Einari áttæring með rá og reiða, sjö sverð, tvo hjaltahnífa, eitt armbrysti, eina kistu, fimm manna hanska.[22]

Skömmu síðar náði Einar Björnsson Bjarna á sitt vald og lét taka hann af lífi á Brjánslæk í desember 1481 (sjá hér Brjánslækur).

Árið 1498 lauk loks deilunum um eignarráðin yfir Saurbæ og fleiri Guðmundareignum. Við sættargerð á Hallsteinsnesi í Gufudalssveit þann 15. september það ár fengu Andrés Guðmundsson á Felli í Kollafirði, sonur Guðmundar ríka, og synir hans Saurbæ og margar fleiri eignir Guðmundar í sinn hlut.

Eitt barna Andrésar á Felli var Ólöf sem séra Hallur skáld Ögmundarson spjallaði.[23] Haustið 1505 var Stefán Jónsson, biskup í Skálholti, á yfirreið um Vestfirði. Þann 19. september var hann staddur í Saurbæ á Rauðasandi og gekk þá fyrir hönd kirkjunnar til sátta við Andrés bónda um legorðssök þessa. Í yfirlýsingu, sem rituð var í Saurbæ þann dag, segir:

 

Stefán biskup í Skálholti gengur í fulla sátt og samþykki, bítaling og borgan við Andrés bónda Guðmundsson um þá vanvirðu og hugmóð, sem séra Hallur Ögmundsson hafði honum gert, sem tilheyrði legorðssök upp á hans dóttur, Ólöfu Andrésdóttur, með þeim gjöldum og greinum, er bréfið hermir.[24]

 

Séra Hallur, sem hér kemur við sögu, hafði verið heimilisprestur í Saurbæ og liggur eftir hann ýmis kveðskapur svo sem Maríuvísur og Maríublóm[25] heilagri guðs móður til dýrðar.

Einn þriggja sona Andrésar Guðmundssonar var Ari og gerðist hann bóndi í Saurbæ um aldamótin 1500. Mun hann hafa búið hér til dauðadags um 1535. Jón lærði ber Ara illa söguna og kallar hann Ara vonda í ritgerð sinni Um ættir og slekti.[26]

Enda þótt Ari Andrésson sæti sæmilega fastur í sessi í Saurbæ fór því fjarri að lokið væri deilunum um Guðmundareignir og ný erfðamál leiddu til ærinna sviptinga. Harðastar urðu deilur Ara um 1520 við Hannes Eggertsson er lengi sat á Núpi í Dýrafirði og tók við hirðstjóratign árið 1521 (sjá hér Núpur). Meðan Hannes var utanlands náði Ari undir sig tveimur höfuðbóla Guðmundar afa síns, Núpi og Brjánslæk, en fór brátt halloka fyrir Hannesi. Á Alþingi árið 1523 varð Ari að samþykkja að greiða Hannesi 240 kúgildi í bætur en áður hafði hann verið dæmdur til að skila jörðunum Brjánslæk og Núpi.[27]

Ögmundur biskup Pálsson lánaði Ara í Saurbæ fé til að greiða þessar miklu sektir en árið áður hafði Ari tekið stórmannlega á móti biskupi er Ögmundur náði loks landi á Vestfjörðum eftir hrakning til Grænlands. Dvaldi Ögmundur viku í Saurbæ með þrettán menn en síðan fékk Ari þeim öllum hesta.[28]

Kona Ara Andréssonar í Saurbæ var Þórdís Filippusdóttir frá Haga á Barðaströnd. Þau áttu ekki börn og við lát Ara tók Ögmundur biskup höfuðbólið Saurbæ undir sig og staðhæfði að Ari hefði gefið og goldið sér jörðina fyrir sín brot og sakferli.[29]

Þótt Ari væri barnlaus í hjónabandinu átti hann a.m.k. einn son. Jón lærði, er jafnan vill gera hlut Ara sem lakastan, hefur sögu að segja um frillutak hans og ýmsar afleiðingar þess. Meginefni þessarar sögu Jóns lærða er sem hér segir:

Ari í Saurbæ tók gifta konu nauðuga til frillu og hélt við hana í 13 eða 14 ár en rak mann hennar í þrældóm í kústofu út á Melanes. Samt gátu hjónin fundist stöku sinnum í leyni. Frillan eignaðist son sem skírður var Andrés. Vildi Ari eigna sér drenginn en er Andrés óx upp tók hann því illa og vildi aldrei kalla Ara föður sinn. Svo var það eitt sinn er stóra stofan í Bæ var alsetin en Melanesmaðurinn borðsettur hjá þrælum við dyr að drengurinn, sem þá var tólf ára, var hjá honum að vanda. Reiddist þá Ari og kvaðst mundu skilja þá að fullu og lét drepa Melanesmanninn þar undir borðum. Við þetta varð Andrés svo ólmur að hann reyndi, bæði í vöku og svefni, að ná lífi Ara.[30]

Það skal tekið fram að saga Jóns lærða er tortryggileg því að bréf liggja fyrir þar sem Andrés kallar Ara föður sinn. Andrés varð bóndi í Sauðlauksdal og kemur allvíða við skjöl og er þá ætíð nefndur Arason.[31] Tengsl Andrésar við Melanes kynnu þó að hafa verið staðreynd, a.m.k. gefur Ari þessum frillusyni sínum þá jörð ásamt annarri með sérstöku gjafabréfi, sem varðveitt er, og þáði Andrés gjöfina.[32]

Hér var þess áður getið að Ögmundur biskup eignaðist Bæ á Rauðasandi við andlát Ara bónda Andréssonar um 1535. Biskup átti höfuðbólið þó aðeins skamma hríð og gekk Bær kaupum og sölum næstu árin.

Árið 1554 festi Eggert lögmaður Hannesson kaup á jörðinni[33] og fluttist hingað búferlum, þá eða litlu síðar, frá Núpi í Dýrafirði. Eggert bjó í Bæ til 1580 og síðan niðjar hans um langan aldur.

Eggert Hannesson var fæddur um 1515. Hann var sonur Hannesar Eggertssonar hirðstjóra, er frá 1517 bjó ýmist á Núpi í Dýrafirði eða úti í Hamborg, og konu hans Guðrúnar eldri Björnsdóttur í Ögri Guðnasonar. Föðurfaðir Eggerts Hannessonar var Egget Eggertsson, lögmaður í Víkinni í Noregi, er aðlaður var árið 1488. Árið 1551 fékk Eggert Hannesson staðfest aðalsbréf afa síns.[34] Á ungum aldri var Eggert í þjónustu Ögmundar biskups, m.a. við erindrekstur bæði í Noregi og í Þýskalandi. Síðar fylgdi hann Gizuri Einarssyni utan til biskupsvígslu en Gizur kvæntist skömmu eftir heimkomuna Katrínu, systur Eggerts.

Um þrítugsaldur varð Eggert Hannesson sýslumaður yfir öllum Vestfjörðum. Lögmaður var hann í fimmtán ár, frá 1553, og hirðstjóri um skeið. Hann var fjáraflamaður í fremstu röð og trúlega auðugasti maður hérlendis um sína daga. Árið 1576 átti Eggert liðlega tólf hundruð hundraða tíræð í jarðeignum hérlendis[35] auk annarra stóreigna innanlands og utan.

Um 1545 fór Eggert að búa á Núpi í Dýrafirði með móður sinni en faðir hans var þá látinn fyrir liðlega tuttugu árum. Fyrsta kona Eggerts var Sigríður Þorleifsdóttir, sýslumannsdóttir frá Möðruvöllum í Eyjafirði, og fékk hann með henni mikinn auð. Sigríður varð skammlíf og náði ekkert barna þeirra Eggerts fullorðinsaldri. Önnur kona Eggerts var Sesselja Jónsdóttir, bóndadóttir sem ætla má að hafi verið dóttir Jóns murta Narfasonar er bjó á Kirkjubóli í Skutulsfirði.[36]. Þjóðsögur herma að faðir hennar, sem þar er nefndur Jón Þorbjarnarson, hafi átt þrjár dætur og hafi Sesselja verið olnbogabarn í foreldrahúsum meðan systur hennar skörtuðu fögrum klæðum og þurftu lítt að vinna.[37]

Frá fyrstu samfundum þeirra Eggerts og Sesselju er þannig sagt að Eggert hafi legið einn í tjaldi sínu á ferðalagi meðan sveinar hans voru í hestaleit. Féll þá skuggi af mannveru á tjaldið og lyfti lögmaður upp skörinni til að sjá hver þar væri á stjái. Var það stúlka væn yfirlitum en tötrum klædd. Býður Eggert stúlkunni í tjaldið og líst fljótt vel á hana. Leggur því meyna í sæng hjá sér þar í tjaldinu og gerir henni barn en gefur henni að skilnaði gullhring fagran.[38] Stúlkan, sem hér um ræðir, var Sesselja Jónsdóttir og féll lögmanni svo vel við hana á tjaldfundinum að hann tók hana sér til fylgilags. Áttu þau börn og buru og skildust ekki að fyrr en Sesselja dó, þá húsfreyja í Saurbæ á Rauðasandi. Skömmu fyrir andlát hennar voru tötrastúlkan og lögmaðurinn ríki gefin saman í lögformlegt hjónaband (sjá hér Núpur í Dýrafirði). Þriðja eiginkona Eggerts var Steinunn Jónsdóttir frá Svalbarði í Eyjafirði.[39]

Eggert Hannesson sinnti mjög verslun og viðskiptum og fékk konungsleyfi til að reka verslun á Skutulsfjarðareyri þar sem nú er Ísafjarðarkaupstaður.[40]

Ekki fékk Eggert að njóta auðæfa sinna í friði því árið 1579 þusti fjölmennur hópur enskra og máske hollenskra ræningja í hlað í Bæ og rændu hér flestu sem flytjanlegt var og leiddu húsbóndann á brott. Séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal ritar 200 árum síðar að Ræningjalág heiti þar í fjallinu sem ránsmenn þessir átu dögurð og Ræningjahóll (sjá hér Keflavík) þar sem varðmenn þeirra stóðu á verði.[41] Í skýrslu til Friðriks annars Danakonungs segir Eggert m.a. svo um þennan atburð:

 

Ég fátækur maður er með allri undirgefni fyrir yðar majestet klagandi, með hverjum hætti á þessu nærverandi ári, 1579, á Pétursmessu og Páls snemma morguns nær um þriðju stund hafa til míns garðs komit 60 fótgangandi menn, sem sig fyrir eingelska út gáfu, og ég meinti þá verið hafa, hverjir strax með ofbeldi hafa garðsins dyr upp brotið og með skotum og slögum svoddan upphlaup gert að ég meina að Tyrkjar skyldu eigi hafa kunnað verr að gera. … Eftir það hafa þeir mig fátækan mann til fanga tekið og öllum mínum bestu eigum rænt, sem virtar voru til 500 ríkisdala í gulli og silfri og þar að auki tveimur silfurdólkum, sem og allt mitt góss annað, sem þar var saman komið, einnig mitt heimafólk smánað. … Einnig hafa þeir kirkjuna þar upp brotið og því öllu rænt, sem þeir kunnu með sér færa, síðan mig klæðflett og nöktum upp á einn klárhest kastað og færðu mig svo með sér sex mílur vegs til þeirra skips og þar í fangelsi settu.

… Þessi reyfarakapteinn, sem sig nefndi William Smidt, hafði í skipinu 70 manns og 60 af þeim hlupu þar um alla nálæga staði 20 mílur um kring, rænandi allt hvað þeir náðu, og allt hvað þeim þénaði ekki hafa þeir fordjarfað og þar að auki allra handa ótukt og illan lifnað með konum og stúlkum nauðugum aðhafst. En þegar þeir 14 dagar voru úti og þeir höfðu alla þessa vonsku aðhafst og sáu að ég kunni ekki lengur gjald eður peninga gefa, hótuðu þeir að flytja mig svo langt í burtu að ég skyldi aldrei hvorki í Ísland né Þýskaland til kunnugra manna aftur komast, ef ég vildi ekki enn nú gefa þeim 2000 ríkisdali. Sigldu svo á Ísafjörð inn á eina höfn, sem heitir Skutulsfjörður og héldu mér þar um 14 daga í fangelsi og allan þennan tíma umgengust þeir eins og við Vatneyri og enn verr, með ráni og skammarlegum lifnaði með konum og stúlkum móti þeirra eigin vilja. Einnig hafa þeir þar eina kirkju upp brotið og rænt og þar nálægt í Sögundarfirði fjóra menn, yðar kongl. majestets undirsáta, myrt og drepið og mátti ég aumur maður á hverri stundu míns dauða væntandi vera.[42]

 

Í þessu sama bréfi skýrir Eggert konungi einnig frá málalyktum, sem urðu þessar:

Tengdasonur Eggerts, Magnús prúði er þá sat í Ögri, hafði ásamt fleirum forgöngu um að Henrik Gever, skipari frá Stade í Holtsetalandi, sem staddur hefur verið á Ísafirði, var fenginn til milligöngu. Skotið var saman í lausnargjald fyrir Eggert en ræningjarnir kröfðust enn 300 ríkisdala og gekkst Henrik Gever að lokum inn á að greiða þá fyrir hönd Saurbæjarbónda úti í Flessingen í Hollandi. Var þá Eggert laus látinn eftir um það bil mánaðar fangavist. Í bréfinu til konungs kemst hann svo að orði að áður hafi þó reyfararnir plundrað tvö skip á yðar majestets fríum straumum og af öðru því skipi þrjá menn svo með eldi pínt að einn af þeim hefur dáið. Alls telur Eggert skaða sinn vera um 8000 lybsk mörk en margir aðrir hafi einnig orðið fyrir verulegu tjóni.

William Smidt og félagar höfðu í hótunum við Eggert og kváðust mundu gera honum heimsókn í annað sinn ef hann kærði fyrir konungi – skyldu þeir annað ár aftur koma og oss miklu verr en nú plága og útleika. Hótanir þessar lét Eggert sem vind um eyru þjóta. Fór hann sjálfur út til Hollands og skildi ekki við málið fyrr en ræningjarnir höfðu verið hengdir.[43]

Jón Espólín hefur það eftir Ragnheiði, dóttur Eggerts, að kvensilfrið, sem greitt var til lausnar föður hennar, hafi verið upp á þrettán konur.[44]

Árið 1576, þrem árum fyrir ránið í Bæ, hafði vopnaburður verið dæmdur af með öllu á landi hér ef marka má orð Magnúsar prúða.[45] Má ætla að margur Vestfirðingur hafi saknað vopnabúnaðar fyrri tíðar er menn nú fóru svo halloka fyrir sextíu manna óaldarflokki erlendra sjóreyfara. Friðrik konungur annar brá líka skjótt við er honum bárust fregnir af ráninu í Bæ og öðrum ofbeldisverkum á Vestfjörðum sumarið 1579. Sendi hann árið eftir sex byssur og átta spjót í hverja sýslu á Íslandi.[46] Var sá vopnabúnaður þó harla naumur en árið 1581 kvað Magnús prúði upp þann sýslumannsdóm að allir menn hér á landi skyldu eiga vopn og verjur eftir fjárupphæð (sjá hér Örlygshöfn).

Eftir ránið undi Eggert ekki hag sínum í Saurbæ. Hann átti miklar eignir í Hamborg og fluttist þangað alfarinn árið 1580. Í Árbókum Espólíns er sagt á þessa leið frá búferlaflutningunum af Rauðasandi til Hamborgar:

 

Eggert hafði lengi safnað fé og sent utan, einnig skreið, smjör og vaðmál og látið setja á ávöxtu í Hamborg svo það var kallað þríkleift [þ.e. þrefalt – innsk. K.Ó.] við jarðir og lausafé það er hann lét hér eftir Ragnheiði dóttur sinni, konu Magnúsar.[47]

 

Jón Gizurarson, fræðimaður á Núpi í Dýrafirði, fæddur um 1590, var sonarsonur Guðrúnar, systur Eggerts Hannessonar. Hann nam gullsmíði í Hamborg.[48] Í ritgerð sinni um siðaskiptatímann segir Jón Gizurarson svo frá þessari brottför Eggerts, ömmubróður sins, frá Saurbæ:

 

Margir göfugir menn fylgdu Eggert til skips; hann sigldi að Vatneyri; þar var þá drykkja mikil, var þá sigling af Hamborg. En er hann hafði kvatt vini sína á landi og var til skips kominn, þá kvað hann þetta erindi:

 

Eitt sinn kemur hvert endadægur

allra lýða um síðir;

sá finnst enginn siklíng frægur

við sínum dauða ei kvíðir.

 

Hann giftist í Hamborg og bjó þar nokkur ár, hvar hann og andaðist í góðri elli.[49]

 

Vísan sem Eggert kvað við brottför sína mun vera úr Völsungsrímum hins óborna eftir Kálf Hallsson.[50]

Eggert Hannesson var hálfsjötugur eða þar um bil er hann fluttist af landi brott. Af börnum hans voru þá aðeins þrjú á lífi. Jón murti og Ragnheiður, er bæði áttu Sesselju Jónsdóttur fyrir móður, og svo laundóttir er hét Sesselja.[51] Jón murti varð ungur mannsbani á ferð í Borgarfirði. Hann fluttist þá til Hamborgar, nokkru á undan föður sínum, og ól þar síðan aldur sinn. Eggert Hannesson, sem í blóma lífs síns ríkti í aldarfjórðung við auð og völd í Bæ á Rauðasandi, andaðist í Hamborg árið 1583 eða því sem næst.

Er Eggert hvarf af landi brott settust að búi í Saurbæ Ragnheiður dóttir hans og Magnús Jónsson, eiginmaður hennar, sem kallaður var Magnús prúði. Bjuggu þau í Bæ uns Magnús andaðist árið 1591.

Magnús var Norðlendingur að uppruna, sonur Jóns lögréttumanns Magnússonar á Svalbarði við Eyjafjörð austanverðan og konu hans, Ragnheiðar Pétursdóttur, sem kölluð var Ragnheiður á rauðum sokkum. Um hana er þessi gamla baga:

 

Ragnheiður á rauðum sokkum rekur hesta

enga vill hún utan presta

auðarlín sig láta festa.

 

Synir Jóns og Ragnheiðar voru fjórir, Magnús prúði, Jón lögmaður, sem lengi bjó á Þingeyrum, Staðarhóls-Páll, sýslumaður með fleiru, og Sigurður sýslumaður á Reynistað. Launsonur Jóns á Svalbarði hét Kolbeinn. Sjaldan eða aldrei munu nokkrir bræður á landi hér hafa verið eins valdamiklir og þessir er sól þeirra skein í hádegisstað. Um sig og bræður sína orti Magnús prúði vísu þessa:

 

Sigurður, Jón og Kolbeinn klakkur,

kenni ég gjörla hann Manga;

og þó hann Páll sé augnaskakkur

allir fá þeir að ganga.[52]

 

Nokkur ágreiningur hefur verið um fæðingarár Magnúsar prúða en Jón Þorkelsson forni, er ritaði ævisögu hans, segir hann fæddan 1532 eða 1533 og færir að því rök með tilvísun í þær góðu Pontusrímur sem Magnús orti.[53] Á ungum aldri var Magnús prúði við nám í Þýskalandi og mun hafa talað þýsku reiprennandi.

Árið 1565 kvæntist hann Ragnheiði Eggertsdóttur sem þá var sextán ára heimasæta í Bæ á Rauðasandi. Magnús var þá ekkjumaður og hafði um skeið farið með sýsluvöld í Þingeyjarþingi. Ári fyrr en hann gekk að eiga Ragnheiði hafði hann flust vestur á firði[54] og átti þar heima æ síðan. Þau Ragnheiður bjuggu fyrstu fimmtán árin í Ögri við Ísafjarðardjúp og var Magnús þá lögsagnari í Ísafjarðarsýslu, a.m.k. í norðurhlutanum, og stundum líka í Strandasýslu. Fór hann með sýsluvöld í umboði tengdaföður síns, Eggerts í Bæ. Er Magnús fluttist frá Ögri að Saurbæ árið 1580 tók hann við sýsluvöldum í Barðastrandarsýslu og hélt þeim til dauðadags.

Magnús var efnaður vel er hann fluttist til Vestfjarða en með mægðunum við Eggert Hannesson í Saurbæ jukust efni hans stórlega. Árið 1578 ánafnaði Eggert Ragnheiði dóttur sinni og börnum þeirra Magnúsar sjö hundruðum hundraða, tólfræðum, og þrjátíu hundruðum betur í jarðeignum með 480 kúgildum.[55] Kom allur þessi auður í þeirra hlut er Eggert fluttist til Hamborgar tveimur árum síðar. Alls samsvaraði þetta 1320 kúgildum. Í einni heimild segir að allt það góss sem Eggert gaf Ragnheiði dóttur sinni hafi verið sautján hundruð hundraða, tólfræð,[56] eða liðlega 2000 kúgildi og er þá ugglaust meðtalið það sem Ragnheiður fékk í mála og heimanmund er hún giftist Magnúsi.

Jón Þorkelsson forni taldi þessi auðæfi svara til 200 þús. kr. á verðlagi ársins 1895.[57] Menn geta svo skemmt sér við að framreikna þá upphæð til núvirðis eftir þessari eða hinni vísitölu.

Magnús Jónsson í Saurbæ var af flestum talinn einn hinn merkasti Íslendingur á sinni tíð. Viðurnefni sitt prúði mun hann hafa hlotið sakir glæsimennsku í klæðaburði og öllum búnaði. Björn annálsritari á Skarðsá, sem var á unglingsaldri er Magnús lést, segir svo frá ferðum hans af Rauðasandi til alþingis á Þingvöllum:

 

Einn hans höfðingskapur var sá, er menn sáu altíð er hann reið á Alþing, að hans selskapur var auðkenndur frá annarra höfðingja fylgd í því, að þeir höfðu allir nær lagvopn, og setti hver einn upp sitt vopn er heim á Þingvöll riðu fyrst og voru það fjörtíu menn vel svo, er slík lagvopn höfðu. Þetta var svo hvert sumar meðan bóndi Magnús sat uppi því hver maður kepptist að vera í hans för er til þings erindi höfðu.[58]

 

Mun Magnús hafa litið á sig sem eins konar aðalsmann, enda fimmti maður frá Lopti ríka Guttormssyni, hirðstjóra á Möðruvöllum í Eyjafirði, sem á sínum tíma var herraður. Í innsigli sínu hafði hann fálkamerkið gamla[59] eins og segir í vísu séra Ólafs Halldórssonar um Magnús:

 

Færði hann í feldi blá

fálkann hvíta skildi á;

hver mann af því hugsa má

hans muni ekki ættin smá.

 

Frá vopnadómi er Magnús prúði kvað upp árið 1581 segir hér á öðrum stað (sjá Örlygshöfn) svo og merkilegri kaupsetningu hans, það er úrskurði um verðlag á innlendum afurðum og erlendum vörum (sjá Geirseyri og Vatneyri).

En Magnús prúði hugsaði ekki eingöngu um auð og völd. Hann var betur menntaður en flestir samtíðarmenn hans og einnig hið sæmilegasta skáld svo sem mansöngvarnir í Pontusrímum hans eru ljósast vitni um. Jón Þorkelsson segir svo í bók sinni um Magnús:

 

Var Magnús talinn með mestu lagamönnum á þeirri tíð, mælskumaður mikill, fróður í besta lagi á íslenska vísu og manna best að sér um allan fróðleik, er þá tíðkaðist erlendis meðal lærðra og viturra manna, einkum í heimspeki og mælskufræði og eru deili til þess að hann hafi átt gott bókasafn, bæði útlent og innlent.[60]

 

Meðal fræðirita er Magnús þýddi á íslensku eru Rhetorica, það er mælskufræði, og Dialectica, það er rökfræði. Báðar þessar ritgerðir hafa varðveist og munu vera hin elstu rit á vorri tungu sem runnin eru af rótum grískrar heimspeki.[61]

Þótt Magnús hafi látið mjög til sín taka um héraðsstjórn bendir sitthvað til þess að hann hafi verið heldur friðsamur og mikið er gert úr örlæti hans. Séra Ólafur Halldórsson á Stað í Steingrímsfirði orti m.a. um Magnús þessa kunnu vísu:

 

Virti hann meira vini en auð,

vænstu hélt því dæmi;

frá honum fór engin höndin snauð

til hans þó fátæk kæmi.[62]

 

Vart verður dregið í efa að Magnús prúði hafi látið sér annt um þjóðarvelferð Íslendinga og haft áhyggjur af vaxandi ágengni konungsvaldsins.

Um það leyti sem hann settist að á Vestfjörðum yrkir Magnús Pontusrímur sínar en í mansöng þriðju rímu segir m.a. svo:

 

Allra gagn það undir gár,

ósamþykkið veldur því;

enginn hirðir hvernig stár

hagur þessu landi í.

– – –

Undir kóng og kirkju er

komið vort góss en stiðna hót;

út af landi flýgur og fer

fátæktin þar tekst á mót.

– – –

Hef ég nú tólf og tuttugu ár,

trúi eg geri á sönnu skil;

ég efast hvort að Ísland stár

ef önnur gá sem þessi til.

 

Því skal hugsa hver mann til,

hann af guði skapaður er,

föður síns landi víst í vil

að vinna til gagns það þörf til sér.

 

Ekki stunda á eigið gagn,

annars nauðsyn líta á,

sem hann hefur til mátt og magn,

mætti landið uppreisn fá.[63]

 

Segja má að þessi boðskapur Magnúsar prúða í Pontusrímum sé enn í fullu gildi og verða þessar fáu vísur að nægja sem sýnishorn af kveðskap hans.

Séra Ólafur Halldórsson, sem fyrr var nefndur, bætti aftan við Pontusrímur að Magnúsi látnum. Yrkir hann þar mansöngva um þau Magnús og Ragnheiði Eggertsdóttur, konu hans. Um Ragnheiði, sem fimmtán eða sextán vetra var gefin Magnúsi, segir þar:

 

Hún var ung og vaxin vel,

væn og siðlát bæði,

brúðurin kunni um blíðuþel

að bæta sorg og mæði.

 

Ragnheiður hét reflabrík,

rík af nöðru sandi;

hygg ég varla hittist slík

hér á Ísalandi.[64]

 

Ragnheiður, sem fædd var um 1550, var rétt um fertugt er eiginmaður hennar andaðist árið 1591. Hún lifði ekkja í rösklega hálfa öld. Í Sýslumannaæfum Boga Benediktssonar segir svo um þessa lögmannsdóttur sem ætla má að á sinni tíð hafi verið ríkasta kona landsins:

 

Ragnheiður kvinna hans lifði lengi þar eftir og flutti við dauða Magnúsar að Sauðlauksdal og dó þar. Hennar prestur skuldaði hana fyrir ósæmilegt lauslæti og þess háttar í drykkjuskap. Ari og Jón synir hennar tóku upp orð prestsins. En af því að prestur tók þau aftur og bað fyrirgefningar á orðunum, þá fyrirgaf Ragnheiður þau presti guðs vegna.[65]

 

Ekkert barn Magnúsar af fyrra hjónabandi komst á legg en af börnum þeirra Ragnheiðar lifðu ellefu og er mjög verulegur hluti fólks sem nú lifir í landinu frá þeim kominn. Að minnsta kosti má það heita aumur Vestfirðingur sem ekki kann að rekja ættir sínar til Magnúsar prúða og Ragnheiðar Eggertsdóttur.

Mynd var máluð af þeim Magnúsi og Ragnheiði ásamt börnum þeirra og var lengi á altarisbrík yfir kórdyrum í Hagakirkju á Barðaströnd þar sem Jón sonur þeirra bjó, sá eldri með því nafni (sjá hér Hagi). Myndin er nú í Þjóðminjasafni.

Þegar Eggert Hannesson í Bæ ráðstafaði eignum sínum árið 1578 og ánafnaði Ragnheiði dóttur sinni og börnum þeirra Magnúsar flestar jarðeignir sínar hérlendis þá undanskildi hann sjálft höfuðbólið, Saurbæ á Rauðasandi.

Með sérstöku gjafabréfi ánafnaði hann einu dótturbarna sinna Saurbæ og var það Björn Magnússon, þá barn að aldri, er varð þeirrar náðar aðnjótandi. Í gjafabréfinu var tekið fram að Björn

 

skyldi sagðan Bæ, hvorki gjöfum gefa né sölum selja, panta eður veðsetja og hvorki fyrirfara né fyrirgera á sinni ævi. En ef þar af brygði skyldi sami garður, Bær á Rauðasandi, falla til hans samborinna bræðra, ef hann ætti eigi skilgetin börn eftir sig.[66]

 

Ekki er kunnugt um fæðingarár Björns en líklega hefur hann verið tæplega tvítugur þegar Magnús prúði, faðir hans, andaðist árið 1591. Ari Magnússon, síðar í Ögri, bróðir Björns, tók þá fyrst við sýsluvöldum í Barðastrandarsýslu og hefur trúlega setið í Saurbæ fyrstu árin. En árið 1598 tók Björn Magnússon við sýsluvöldum í Barðastrandarsýslu og mun a.m.k. frá þeim tíma hafa staðið fyrir búi í Saurbæ og hér bjó hann þaðan í frá til dauðadags árið 1635. Björn var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Sigríður Daðadóttir frá Skarði á Skarðsströnd en síðari konan var Helga, dóttir Arngríms lærða. Meðal barna Björns voru hálfbræðurnir Eggert sýslumaður og séra Páll í Selárdal, sem kunnur er af miklum lærdómi og magnaðri galdratrú. Eggert var sonur Sigríðar en Páll sonur Helgu.

Eggert Björnsson, sem fæddur var 1612, erfði Saurbæ eftir föður sinn og tók hér við búi við lát hans. Eggert var lengi sýslumaður í Barðastrandarsýslu. Kona hans var Valgerður Gísladóttir frá Bræðratungu. Voru þau gefin saman árið 1633. Var Valgerður þá sextán vetra og hafði verið föstnuð Eggerti þremur árum fyrr, barn að aldri.[67] Frá þeim kvennamálum segir svo í Sýslumannaæfum:

 

Árið 1629 leitaði Björn faðir hans honum kvonfangs til Kristínar, eldri dóttur Gísla lögmanns Hákonarsonar í Bræðratungu, og skyldi brúðkaup þeirra vera á öðrum misserum. En svo bar til að biskup Þorlákur á Hólum bað téðrar Kristínar. Þótti Gísla lögmanni illt að frávísa honum. Voru þeir þá feðgar, Björn sýslumaður og Eggert, komnir suður um land að vitja giftumálanna. Tók lögmaður þá það ráð að hann reið á móti þeim feðgum, sagði þeim hvernig komið var. Samdist þá svo með þeim að biskupi skildi eigi frá vísað en lögmaður hét Eggerti sinni yngri dóttur, Valgerði. Gekk svo biskup að eiga Kristínu 1630 og voru þeir feðgar brúðkaupsgestir að þeirri veislu haustið 1630 í Bræðratungu.[68]

 

Árið 1645 fluttist Eggert frá Saurbæ á annað höfuðból, Skarð á Skarðsströnd, og ríkti þar síðan til dauðadags árið 1681. Þó að Eggert flyttist að Skarði sleppti hann hvorki sýsluvöldum í Barðastrandarsýslu né eignarráðum yfir Saurbæjareignum. Hann hafði áfram bú í Saurbæ og lögsagnara til að gegna sýslumannsstörfunum.[69] Einn þeirra var Pétur Einarsson, síðar á Ballará, sem ritaði Ballarárannál.[70]

Um það leyti sem Eggert Björnsson fluttist frá Saurbæ að Skarði var Jacob Lazason hreppstjóri á Rauðasandi. Hann var margfróður maður, þýskur að ætt og skyldur Laza Diðrikssyni sem brenndur var á Alþingi árið 1675 fyrir galdra[71] að kröfu séra Páls í Selárdal. Jacob Lazason orti vísu þessa og ársetur 1646:

 

Sagan er fróð og fögur

um fullting Íslendinga,

hreysti geirs vit gustinn

gilda báru til hildar,

benfal beittu kænir,

bráðsinnis stríð háðu,

guði sé lof nú góðra

griða njótum og friðar.[72]

 

Árið 1675 tók tengdasonur Eggerts, Björn Gíslason, við embætti sýslumanns í Barðastrandarsýslu og settist að búi í Bæ á Rauðasandi. Hafði Eggert gefið honum jörðina.[73] Björn var þá nýkvæntur Guðrúnu Eggertsdóttur, hinni eldri tveggja dætra Eggerts með því nafni. Björn Gíslason andaðist tæplega þrítugur að aldri og hafði þá aðeins verið sýslumaður Barðstrendinga í fjögur ár. Talið er að banamein hans hafi verið sárasótt. Guðrún kona hans missti sjónina meðan sóttin herjaði á Björn og var blind æ síðan en börn þeirra dóu nýfædd.[74]

Guðrún Eggertsdóttir var 42 ára er Björn, maður hennar, andaðist. Ung hafði hún baðað í rósum og ættarauði. Nú skildu örlögin hana eftir blinda og barnlausa ekkju á miðjum aldri. Skap hennar hefur harðnað í raunum. Hún var langalangafabarn Eggerts lögmanns Hannessonar í Saurbæ. Þó að blind væri tók hún nú við öllum stjórntaumum á hinu forna ættaróðali og hélt þeim uns dauðinn sótti hana 87 ára gamla árið 1724.[75] Er Guðrún andaðist voru 170 ár liðin frá því Eggert Hannesson keypti Saurbæ.

Árni Magnússon prófessor ber Guðrúnu illa söguna. Á sautjándu og átjándu öld voru margir hérlendir gósseigendur og valdsmenn ærið harðdrægir við almúgann. Samt hefur Guðrún ríka í Bæ á Rauðasandi líklega seilst lengra en flestir hinna og ekki séð ástæðu til að fara dult með ágirnd sína, blind manneskjan. Á Rauðasandi mega sumir ekki eiga hest en verða að taka hann til leigu af landsdrottni, segir Árni Magnússon í Jarðabókinni frá 1703.[76] Hún bannaði landsetunum sem sagt að eiga hest svo að hún gæti haft tekjur af að leigja þessum kotungum klárana, auk ánna og kúnna sem hún átti á nær hverjum bæ í grenndinni. Í ársleigu fyrir hest tók Guðrún eina vætt[77] og hefur því fengið kýrverð á sex árum fyrir hvert hestlán.

Meðal annarra athugasemda Árna Magnússonar um viðskipti Guðrúnar Eggertsdóttur og landseta hennar eru þessar:

 

1) Þegar bóndinn vegna ómannúðlegra álagna getur ekki lengur staðið í skilum, þá er honum byggt út og af þeirri ástæðu verður hann að ganga sér til húðar…. . Svo gengur það til á eignum Guðrúnar Eggertsdóttur.

2) Á Rauðasandi eru nokkrir, sem kvígildin dóu fyrir, fyrir nokkrum árum. Stóð það svo nokkur ár að þeir þeim ei upp komið gátu. Guldu þeir svo leigurnar eftir þau dauð.

3) Sumir af Rauðsendingum (eigi þó margir) eru svo fátækir að þeir eigi eiga eldsgagnið. Þeim sömu ljær Guðrún Eggertsdóttir potta (járnpotta) og tekur 1½ fjórðung (af nokkurum 4 fjórðunga) í leigu þar eftir (ársleigu).[78]

 

Samkvæmt manntalinu frá 1703 var 21 heimilismaður í Saurbæ það ár[79] en Árni Magnússon segir heimilismenn vera 25 þetta sama ár.[80]

Alls var búið á nítján jörðum og  hjáleigum á Rauðasandi árið 1703 og voru allar þær jarðir í eigu Guðrúnar eða Saurbæjarkirkju nema þriðjungur úr Lambavatni.[81] Utan Rauðasands átti Guðrún 9 af 24 jörðum og hjáleigum sem búið var á í Rauðasandshreppi en frændi hennar, séra Páll í Selárdal, og sonur hans áttu átta þessara jarða.[82]

Bær á Rauðasandi hafði lengi verið miðstöð auðs og valda. Er Guðrún ríka Eggertsdóttir safnaðist til feðra sinna árið 1724 urðu þáttaskil í sögu Bæjar. Jörðin hélst að vísu áfram í eigu ættarinnar en auðurinn dreifðist og völdin með. Stórveldisskeiði Bæjarmanna var lokið. Tuttugu árum eftir dauða Guðrúnar settist séra Eggert Ormsson að búi í Bæ. Hann var þá eigandi jarðarinnar, dóttursonur Arnfríðar Eggertsdóttur sem var ein systra Guðrúnar og enn á lífi þegar Guðrún andaðist. Séra Eggert var á þessum árum aðstoðarprestur og þjónaði Saurbæjarsókn. Hann varð síðar prestur í Selárdal en sonur hans gerðist bóndi í Saurbæ.[83]

Árið 1845 var Jóhanna Eggertsdóttir húsmóðir í Saurbæ en hún var sonardóttir séra Eggerts Ormssonar.[84] Enn var jörðin í ættinni en Jóhanna var áttundi ættliður frá Eggerti Hannessyni lögmanni er keypt hafði Saurbæ nær 300 árum fyrr.

Sonur Jóhönnu og sonarsonur séra Jóns Ormssonar í Sauðlauksdal var Eggert Eggertsson. Hann kvæntist um þessar mundir Guðrúnu Gísladóttur frá Bæ á Selströnd í Strandasýslu og tók við búi í Saurbæ. Þann 22. desember 1850 andaðist Eggert, aðeins 29 ára að aldri. Vorið 1854 giftist ekkja hans Ara Finnssyni frá Eyri í Gufudalssveit en hann hafði tveimur árum fyrr gerst ráðsmaður hennar.[85] Þar með var Bær á Rauðasandi loks kominn úr höndum þess ættleggs er hér hafði hlykkjalítið haldið um taumana í þrjár aldir, allt frá því Eggert Hannesson keypti höfuðból þetta um siðaskipti. Eggertsnafn báru þeir báðir, sá fyrsti og hinn síðasti í þessari keðju ættliðanna.

Ari Finnsson, sem tók við búi í Bæ árið 1852, var atkvæðamaður í búskap og jafnan hinn mesti áhugamaður um stjórnmál og þjóðlegar framfarir. Enginn maður í alþýðustétt setti öndverðlega fram eins glöggar og rökstuddar skoðanir um þá þjónustu er alþýða ætlaðist til af þingmönnum, sem Ari Finnsson, segir Lúðvík Kristjánsson í riti sínu Vestlendingum.[86]

Í Saurbæ mun Ari hafa efnast vel. Árið 1875 fóru fram myntskipti er krónumynt var tekin upp í stað ríkisdala. Jóhann Jónsson á Bakka í Geiradal, sem sama ár tók við póstferðum frá Bæ í Króksfirði á Patreksfjörð, sagði frá því að þá hafi hann verið beðinn að taka 50 punda peningapoka hjá Gunnlaugi Blöndal, sýslumanni á Auðshaugi, og allt hafi þetta verið silfurdalir og spesíur frá Bæ á Rauðasandi.[87]

Þorvaldur Thoroddsen náttúrufræðingur heimsótti Saurbæ á búskaparárum Ara og segir að þar hafi allt verið með fornu höfðingjasniði.[88] Frá tengslum Ara við Jón Sigurðsson forseta er lítillega sagt hér á öðrum stað (sjá Gufudalssveit). Ari Finnsson andaðist í Saurbæ árið 1901, 83 ára að aldri, en þá hafði tengdasonur hans, Ólafur Ólafsson Thorlacius frá Dufansdal, tekið við stjórn búsins fyrir aldarfjórðungi.

Ólafur var fæddur árið 1851. Hann réðst sem bústjóri að Saurbæ 1876 og tveimur árum síðar kvæntist hann Halldóru, dóttur Ara Finnssonar og eiginkonu hans sem fyrr var nefnd.[89] Sjálfstæðan búskap hófu Ólafur og Halldóra í Saurbæ árið 1885 og bjuggu til 1916 er synir þeirra tóku við.

Á búskaparárum Ólafs Thorlacius voru margvíslegar framfarir að ryðja sér til rúms í íslenskum landbúnaði. Í öllum slíkum efnum stóð hann í fylkingarbrjósti sinna sveitunga, enda voru efnin mikil. Ólafur varð fyrstur manna til að hefja votheysverkun á Rauðasandi nokkrum árum eftir aldamótin.[90]

Sigurði Sigurðssyni ráðunauti þótti mikið til búskaparins í Saurbæ koma er hann ferðaðist um Barðastrandarsýslu árið 1916. Hann lýsir áveituframkvæmdum, sem byrjað var á árið 1905, og tekur fram að með áveitunni hafi engjar verið auknar og stórbættar. Sigurður segir gamla túnið í Bæ gefa af sér 200 hesta af töðu og 100-200 hestar fáist af nýju túni sem komið sé í rækt. Engjarnar telur hann með þeim bestu sem gerist og gefi þær af sér 1000-1200 hesta í meðalári. Þar sem best sé sprottið fáist 30-40 hestar af hektara.[91] Í minningarorðum um Ólaf Thorlacius og Halldóru konu hans í tímaritinu Óðni segir svo um framkvæmdir Ólafs:

 

Hann lét reisa steinsteypuhús – hið fyrsta af þeirri gerð þar um slóðir – stórt og reisulegt og afar rammgert að viðum, svo sem eru öll hús þar í Bæ. Jarðabætur hans voru einkum engjabætur, sem lánuðust ágætlega. Er þar skemmst af að segja að heyfengur í Bæ mun á síðustu búskaparárum Ólafs hafi verið orðinn þrefaldur við það, sem var er hann tók við jörðinni. Sláttuvél og rakstrarvél keypti hann fyrstur manna þar í sýslu, enda er nú mestur hluti engjanna í Saurbæ orðinn véltækur.[92]

 

Íbúðarhúsið mikla, sem Ólafur byggði í Saurbæ, stendur enn (1988).

Séra Sigurður Jensson, prófastur í Flatey, sagði um Ólaf Thorlacius að ef allir bændur væru eins og kirkjubóndinn í Bæ þá þyrfti engan prestinn.[93] Halldóra Aradóttir, kona Ólafs, átti alla ævi heima í Saurbæ. Hún var sögð gáfuð kona, fróð og minnug en var á langri ævi varla nokkru sinni nætursakir utan þessa heimilis síns.[94] Þau Ólafur og Halldóra létust bæði árið 1920.

Meðal helstu hlunninda í Bæ hefur löngum verið selveiði í Bæjarvaðli. Á síðari tímum áttu þrjár jarðir veiðirétt í vaðlinum, Saurbær, Kirkjuhvammur og Melanes.[95] Pétur Jónsson frá Stökkum segir að fyrr á árum hafi stundum veiðst þarna á annað hundrað kópa. Hann lýsir veiðinni svo:

 

Vitja varð lagnanna um hverja fjöru, hvernig sem viðraði, nætur sem daga, og var venjulega farið ríðandi. En fyrir kom að hestarnir lentu í sandbleytu og var erfitt að ná þeim upp. Fyrrum var það venjulega kvenfólksverk að vitja lagnanna svo sem önnur vorverk, fjárhirðing og annað heima, því að karlmenn fóru þá flestir í ver á sumarmálum og voru fram um messudaga [þ.e. fram yfir Jónsmessu – innsk. K.Ó.] en kvenfólk annaðist búin. … Stundum var dregið fyrir Bæjarós með selanótum á öndverðum slætti. Voru þá urturnar flestar lagstar frá en brimlarnir lágu uppi.[96]

 

Í Ferðabók Eggerts og Bjarna frá því um 1760 getur Eggert Ólafsson líka um álaveiðar á Rauðasandi. Segir hann álinn vera veiddan með aðferð er menn hafi lært af forfeðrum sínum. Aðferðinni lýsir Eggert svo:

 

Tekin er stöng með hnúð eða kringlóttu hjóli á öðrum endanum. Skyri er riðið á hjólið rétt við stöngina og henni svo stungið til botns. Álarnir, sem sækjast eftir þessari beitu, sjá hvíta litinn og skríða upp hjólið og vefja sig um stöngina og byrja að eta í ró og næði en þá er stönginni kippt upp.[97]

 

Það hefur oft verið ærið að starfa hjá vinnufólkinu í Saurbæ og margur gengið þar þreyttur til hvílu.

Ein þeirra kvenna sem stunduðu selveiðar við Bæjarós var Guðrún Finnsdóttir, systir Ara Finnssonar en hann gerðist bóndi í Bæ árið 1854. Í einni vitjunarferð Guðrúnar að ósnum bar nokkuð nýrra við. Í stuttu máli er efni sögunnar á þessa leið.

Er Guðrún var heimasæta í föðurgarði að Eyri í Kollafirði var hún í kærleikum við ungan smalamann þar á bænum sem Hallur hét Bjarnason. Var Hallur sex árum yngri en hún. Finnur Arason, faðir Guðrúnar, taldi Hall ekki vera dóttur sinni samboðinn og meinaði þeim að eigast. Árið 1862 kvæntist Hallur annarri konu, Jórunni Ólafsdóttur. Vorið eftir fluttist Guðrún ásamt föður sínum vestur að Bæ á Rauðasandi til Ara bróður síns. Var hún þá 35 ára gömul og átti heima í Saurbæ upp frá því uns hún andaðist ógift árið 1899.

Fyrsta veturinn sem Guðrún var í Saurbæ drukknaði Hallur, unnusti hennar frá fyrri tíð, niður um ís á Vatnsfirði. Slysið skeði á þriðja dag jóla 1863. Var Hallur einn á ferð milli Hjarðarness og Brjánslækjar og bar fjörtíu pund af smjöri. Saga þessi er geymd í Vestfirskum sögnum og þar er framhald hennar skráð á þessa leið:

 

Meðan karlmennirnir voru í verinu að vorinu vitjaði hún [þ.e. Guðrún Finnsdóttir], ásamt öðrum kvenmanni, selabanda í lögnunum í Bæjarósnum. Höfðu þær reiðingshesta með sér í ferðir þessar og reiddu kópana heim á þeim. Eitt sinn þegar Guðrún vitjar bandanna fann hún lík rekið á Bæjarrifi. Veit hún brátt að þetta er lík Halls Bjarnasonar því að hún finnur á því spjaldofin axlabönd með nafni hans. En axlaböndin þekkti hún því að hún hafði sjálf ofið þau og gefið Halli meðan þau áttu bæði heima í Kollafirði. Líkið var nú flutt heim að Bæ og jarðað þar í kirkjugarðinum. Þótti það undarleg tilviljun að það skyldi berast út allan Breiðafjörð og reka á Bæjarrifi og að Guðrún skyldi verða til þess að finna þar lík unnusta síns frá æskuárunum. En eftir þetta tók hún fásinnu nokkra og þunglyndi, sem hún losnaði ekki við meðan hún lifði. Gekk hún þó til allra starfa.[98]

 

Allt frá fyrstu öldum kristni á Íslandi hefur Saurbær verið kirkjustaður. Á kaþólskum tíma var hér sjaldan prestlaust, enda þótt veraldlegir höfðingjar hefðu öll staðarforráð í sinni hendi. Snemma á sextándu öld var sóknarkirkja sett í Sauðlauksdal (sjá hér Sauðlauksdalur). Til ársloka 1824 náði Saurbæjarsókn frá Stálfjalli að Blakksnesi, norðan Kollsvíkur, en þá var sókninni skipt og bænhúsið í Breiðavík gert að sóknarkirkju. Þaðan í frá náði Saurbæjarsókn aðeins yfir Rauðasand. Eftir 1600 sátu sóknarprestar yfirleitt ekki í Bæ. Dæmi voru hins vegar þess að aðstoðarprestar hefðu hér bústað sinn um nokkurra ára bil svo sem áður var frá greint um séra Eggert Ormsson nálægt miðri 18. öld. Á árunum 1811 til 1815 sat séra Eyjólfur Kolbeinsson, síðar lengi prestur á Eyri í Skutulsfirði, í Saurbæ. Hann var þá aðstoðarprestur séra Jóns Ormssonar í Sauðlaukdsal og það hafði hann verið frá 1802.[99] Svo virðist sem séra Eyjólfur hafi verið síðasti prestur í Bæ.

Í lok janúar árið 1966 fauk kirkjan í Saurbæ er þá var orðin gömul. Í nokkur næstu ár var hér engin kirkja. Þá var brugðið á það ráð að flytja á Rauðasand gamla timburkirkju frá Reykhólum.  Sú kirkja stendur nú í Saurbæ.[100] Hún var upphaflega vígð á Reykhólum árið 1856 en endurvígð hér í Saurbæ 5. september 1982.[101] Í Þjóðminjasafni Íslands er varðveittur fagurlega skorinn predikunarstóll héðan frá Bæ með íslensku bíldhöggvaraverki, smíðaður og skorinn af Jóni Greipssyni er bjó á Auðshaugi í Barðastrandarhreppi á áratugunum kringum 1600.[102] Hann var sonur séra Greips Þorleifssonar, sóknarprests á Stað á Snæfjallaströnd, en Greipur var fjórði ættliður í beinan karllegg, talið frá Birni hirðstjóra Þorleifssyni á Skarði á Skarðsströnd og konu hans Ólöfu ríku Loftsdóttur.[103] Þennan merka grip lagði Björn Magnússon sýslumaður kirkjunni til árið 1617 en hann var dóttursonur Eggerts Hannessonar lögmanns og sat lengi hér í Bæ.[104]

Ýmsir gamlir gripir eru enn varðveittir í Saurbæjarkirkju. Má þar nefna ljósahjálm sem talinn er vera sá hinn sami og um er getið í Gíslamáldaga frá árunum kringum 1570 en hefur reyndar að stórum hluta verið gerður upp.[105] Í sinni upprunalegu mynd eru hins vegar kirkjuklukkurnar tvær sem Eggert lögmaður Hannesson lét á sínum tíma steypa úr málmi enn eldri klukkna héðan frá Bæ.[106] Þessar klukkur Eggerts eru enn heilar og hljómgóðar, enda þótt liðið sé allnokkuð á fimmtu öld frá því hann lagði þær til kirkjunnar á sínum velmektarárum hér í Saurbæ.

Sá gripur sem ætla má að verði gestum sem að garði ber minnisstæðastur er minningartaflan frá árunum kringum 1700 sem nú er höfð fyrir altaristöflu í kirkjunni. Guðrún ríka Eggertsdóttir, húsfreyja í Saurbæ frá 1675 til 1724, sem hér var áður frá sagt (sjá bls. 17-18), lét gera töfluna til minningar um sjálfa sig og eiginmann sinn, Björn Gíslason sýslumann sem andaðist, aðeins 29 ára gamall, árið 1679.[107] Björn var sonur Gísla sýslumanns Magnússonar á Hlíðarenda í Fljótshlíð, sem nefndur var Vísi-Gísli, og konu hans, Þrúðar Þorleifsdóttur.[108] Myndir sem eiga að sýna Björn sýslumann í Bæ og Guðrúnu konu hans eru málaðar á töfluna og á milli þeirra er útskorið líkneski af Kristi á krossinum.[109]

Rök sem virðast óyggjandi hafa verið færð fyrir því að taflan sé gerð af séra Hjalta Þorsteinssyni, sóknarpresti og prófasti í Vatnsfirði við Djúp, og að hann hafi ýmislegt málað eða skorið allar þær mörgu myndir sem á henni eru.[110] Séra Hjalti  var án tvímæla helsti myndlistarmaður okkar Íslendinga um sína daga (sjá hér Hraun í Keldudal og Mýrar í Dýrafirði), fæddur í Möðrudal á Fjöllum árið 1665, prestur í Vatnsfirði frá 1692 til dauðadags árið 1754.[111] Í ritgerð sinni um minningartöfluna í Saurbæjarkirkju segir Þór Magnússon þjóðminjavörður að séra Hjalti hafi að líkindum verið hinn eini íslenski listamaður þeirra tíma, sem nam erlendis fagrar listir, enda hafi hann skarað langt fram úr fyrri tíðar mönnum, sem fengust við málaralist eða höggmyndalist (útskurð).[112]

Árið 1962 gaf Sigurvin Einarsson, alþingismaður í Saurbæ, Þjóðminjasafni Íslands þessa gömlu minningartöflu sem lengi hafði verið notuð sem altaristafla hér í kirkjunni.[113] Þá hafði kirkjan eignast nýja töflu en sú tafla gjöreyðilagðist þegar kirkjan fauk fjórum árum síðar.[114] Eftir flutning gömlu kirkjunnar frá Reykhólum hingað á Rauðasand og endurvígslu hennar hér haustið 1982 lánaði Þjóðminjasafnið Saurbæjarkirkju þessa merkilegu töflu og tók hún þá á ný við sínu hlutverki sem altarisbrík hér í Bæ.[115]

Ofan við myndir þeirra Björns og Guðrúnar á töflunni eru skjaldarmerki úr ættum þeirra. Í skjaldarmerki Björns er hvítur sitjandi fálki á rauðum (ætti að vera bláum) skildi, ofan á skildinum riddarahjálmur og þar ofan á situr fálki með þanda vængi. Skjaldarmerki Guðrúnar er í meginatriðum eins nema að einhyrningur kemur þar í stað fálka.[116] Hér er vert að hafa í huga að þau hjónin voru náskyld, þremenningar talið frá Magnúsi prúða Jónssyni og konu hans, Ragnheiði, dóttur Eggets Hannessonar lögmanns,[117] sem fyrr var frá sagt, en hann ríkti lengi hér í Bæ. Reyndar var þetta ekki eini skyldleiki þeirra hjóna því Björn var líka fjórði ættliður frá Staðarhóls-Páli Jónssyni, bróður Magnúsar prúða.[118]

Altaristaflan í Saurbæjarkirkju er vængjabrík. Innan á vængjunum eru sex myndir, þrjár á hvorum. Efst á vinstri væng  sést er Gabríel erkiengill birtist Maríu og boðar henni fæðingu sonarins. Sú mynd heitir Christi getnaður. Þar fyrir neðan er Christi fæðing og neðst á sama væng Christi skírn. Þar stendur Jesú í ánni Jórdan og Jóhannes skírari eys yfir hann vatninu.[119] Innan á hægri væng töflunnar er efst mynd sem sýnir er líkami Krists er lagður í gröfina og heitir Christi greftran. Fyrir neðan hann er Christi upprisa og neðst Christi afturkoma til dómsins. Þar situr Kristur í skýjum og beggja vegna við hann hinir upprisnu.[120] Neðst á þessari mynd sjást menn rísa úr gröfum sínum, safnast hinir hólpnu vinstra megin en hægra megin steypast hinir fordæmdu niður í elda helvítis.[121]

Utan á vængjunum er latnesk áletrun þýdd á íslensku hljóðar hún svo:

 

Helgað Kristi og góðri minningu göfugra hjóna, Bjarnar Gíslasonar, konunglegs sýslumanns í Barðastrandarsýslu, sem fæddist árið 1650, dó árið 1679. Lifði í 29 ár.- Guðrúnar Eggertsdóttur, heiðarlegrar og guðhræddrar húsfrúar, sem fæddist árið 163 [á að vera 1637, -K.Ó], dó árið  ……, lifði ….. ár.[122]

Áður en haldið verður brott frá höfuðbólinu Saurbæ er skylt að minna með örfáum orðum á hjáleigurnar sem áður voru margar í heimalandinu en nú eru flestar löngu horfnar. Á hjáleigunum fjórum sem búið var í sumarið 1703 var bústofninn í hverju koti yfirleitt tvær kýr, ein kvíga, þrjár til þrettán ær og fáeinar aðrar sauðkindur. Tveir hjáleigubændanna fjögurra höfðu hest en það var Guðrún ríka í Bæ sem átti nær allan þennan bústofn.[123]

Sjö hjáleigur varða kynntar hér:

 

  1. Hlíðarhvammur. Á eignaskrá Guðmundar Arasonar ríka frá árinu 1446 er Hlíðarhvammur sagður sex hundraða jörð.[124] Má ætla að hann hafi verið elsta hjáleigan í heimalandi Saurbæjar því að ekki eru aðrar nefndar á eignaskrá Guðmundar. Fyrsta manntalið sem hér var tekið er frá árinu 1703 og þá býr fólk enn í Hlíðarhvammi en í Jarðabók Árna og Páls kemur fram að á því ári hefur kotið farið í eyði. Ekki er vitað um byggð þar síðar.
  2. Hlíðarhvammshólar. Í Jarðabók Árna og Páls má sjá að þegar greinargerð bókarinnar um Rauðasandshrepp er undirrituð í júlí 1703 hafa ekki verið liðin 30 ár frá því fyrst var byggt þarna en áður voru þar fjárhús frá Hlíðarhvammi. Búið var í Hlíðarhvammshólum árið 1703 en þar mun byggð hafa tekið af í stórubólu fáum árum síðar.[125] Röð bæjanna í Jarðabók Árna og Páls bendir til þess að Hlíðarhvammur hafi verið fyrir vestan hjáleiguna Stekkadal og Hlíðarhvammshólar enn vestar.[126]
  3. Traðir. Árið 1703 var búið á Tröðum og þá er byggð sögð hafa hafist þar fyrir meir en 60 árum.[127] Traðir munu hafa verið í Saurbæjartúni.[128] Í skrá yfir byggð býli á Rauðasandi frá árinu 1746 eru Traðir ekki nefndar[129] og munu hafa farið í eyði á fyrri hluta 18. aldar og líklega aldrei byggst á ný. Manntöl, sem könnuð hafa verið frá fyrri hluta 19. aldar sýna að þá var ekki búið á Tröðum.
  4. Tóftavöllur. Um þessa hjáleigu má vísa til þess sem sagt var um Traðir og að auki nefna: Að sögn Jarðabókar Árna og Páls var fyrst byggt á Tóftavelli um 1650. Kotið er þar sagt hafa verið rétt utan við túnið í Saurbæ þar sem áður hafði verið geldneytafjós. Pétur Jónsson segir Tóftavöll hafa farið í eyði um aldamótin 1800[130] en ekki er hann nefndur 1746 (sjá Traðir).
  5. Hurðarbak. Þessa hjáleigu nefnir Pétur frá Stökkum í ritgerð sinni frá því um 1940 um Rauðasandshrepp og segir hana forna eyðihjáleigu í Saurbæjartúni.[131] Kot þetta er einnig nefnt í Jarðabók Árna og Páls[132] en í manntalinu frá 1703 má sjá að þá hefur ekki verið búið þar. Eigi er vitað um byggð þar síðar.
  6. Brattahlíð. Í manntalinu frá 1703 sést að þá hefur ekki verið búið í Brattahlíð en í Jarðabókinni frá sama tíma er kotið nefnt[133] og hefur þá legið í eyði. Ekki er vitað hvenær byggð hófst í Brattahlíð en árið 1746 er hjáleigan nefnd og þá enn sem eyðibýli.[134] Í manntali frá árinu 1801 sést að þá var búið í Brattahlíð og nærri lætur að þar hafi verið búið alla nítjándu öldina.[135] Brattahlíð var í túnjaðrinum utan og ofan við Saurbæ.
  7. Stekkadalur (eða Stakkadalur). Nafnið er ritað Stekkadalur 1703, 1801, 1816 og 1845 en Stakkadalur árið 1840[136] og stundum síðar. Af hinum fornu hjáleigum í heimalandi Saurbæjar var Stekkadalur lengst í byggð. Stekkadalur er um það bil einum kílómetra fyrir vestan Saurbæ og þar var búið fram undir miðja tuttugustu öld.[137] Í þessari hjáleigu var búið árið 1703 og í Jarðabók Árna og Páls segir að um það leyti séu liðin rösklega 50 ár frá því þar var fyrst byggt.[138] Þarna var áður stekkur frá Bæ.[139] Í Stekkadal mun hafa verið búið að staðaldri í þrjár aldir eða svo, frá því um 1650.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Sturlungasaga I, 350, 356, 387-396, 409 og 418.

[2] Ólafur Lárusson 1948, 7 (Árbók Barð.).

[3] Sturlungasaga I, 387-388.

[4] Sama heimild, 392-393.

[5] Sturlungasaga I, 415.

[6] Sama heimild, 63.

[7] Sama heimild, 65.

[8] Sturlungasaga II, 224.

[9] Sama heimild, 296 og 299.

[10] Sama heimild, 349-350.

[11] Sama heimild, 366-367.

[12] Sama heimild, 394.

[13] Sama heimild, 394-395.

[14] Sturlungasaga II, 396.

[15] Sama heimild III, 3-4.

[16] Sama heimild, 12-13.

[17] Dipl. isl. IV, 690.

[18] Sama heimild, 689.

[19] Dipl. isl. IV, 689-690.

[20] Arnór Sigurjónsson 1975, 70.

[21] Sama heimild, 43.

[22] Sama heimild, 215.

[23] Íslenskar æviskrár I, 10.

[24] Dipl. isl. VII, 797.

[25] Íslenskar æviskrár II, 302.

[26] Ólafur Lárusson 1948, 5 (Árbók Barð.).

[27] Sama heimild, 21 og 22.

[28] Sama heimild, 22.

[29] Sama heimild, 23.

[30] Ólafur Lárusson 1948, 24-25.

[31] Sama heimild.

[32] Sama heimild.

[33] Sama heimild, 26.

[34] Íslenskar æviskrár I, 320.

[35] Jón Þorkelsson 1895, 51 (Saga Magnúsar prúða).

[36] Theódór Árnason/Vestfirskar ættir IV, 368.

[37] Frá ystu nesjum I, 144.

[38] Sama heimild.

[39] Ísl. æviskrár I, 319-320.

[40] Jón Þorkelsson 1895, 51 (Saga Magnúsar prúða).

[41] Páll Eggert Ólafsson/Menn og menntir III, 296.

[42] Jón Þorkelsson 1895, 55-57 (Saga Magnúsar prúða).

[43] Sama heimild, 57-58.

[44] Jón Espólín: Árbækur V, 30.

[45] Jón Þorkelsson 1895, 63 (Saga Magnúsar prúða).

[46] Jón Espólín: Árbækur V, 31.

[47] Sama heimild.

[48] Íslenskar æviskrár III, 118.

[49] Jón Gizurarson 1856, 700 (Safn til sögu Ísl. og ísl. bókm. I, Kph. 1856). Sbr. Jón Þorkelsson 1895, 58.

[50] Jón Þorkelsson 1895, 58.

[51] Ísl. æviskrár I, 319-320.

[52] Bogi Benediktsson: Sýslumannaæfir II, 55-56.

[53] Jón Þorkelsson 1895, 11-12.

[54] Sama heimild, 32.

[55] Jón Þorkelsson 1895, 51 (Saga Magnúsar prúða).

[56] Sama heimild, 95.

[57] Sama heimild.

[58] Annálar Björns Jónssonar á Skarðsá,  Hrappsey 1774, 140-141.

[59] Jón Þorkelsson 1895, 90.

[60] Jón Þorkelsson 1895, 96 (Saga Magnúsar prúða).

[61] Sama heimild, 97-98.

[62] Sama heimild, 115.

[63] Jón Þorkelsson 1895, 66-67 (Saga Magnúsar prúða).

[64] Sama heimild, 36.

[65] Bogi Benediktsson: Sýslumannaæfir II, 55-56.

[66] Jón Þorkelsson 1895, 53 (Saga Magnúsar prúða).

[67] Bogi Benediktsson: Sýslumannaæfir II, 113.

[68] Sama heimild.

[69] Sama heimild.

[70] Ísl. æviskrár IV, 153-154.

[71] Þorvaldur Thoroddsen 1892-1896/Landfræðisaga I, 171.

[72] Tímarit Bóknenntafélagsins VIII, 90.

[73] Bogi Benediktsson: Sýslumannaæfir II, 113.

[74] Íslenskar æviskrár I, 214.

[75] Sama heimild. Bogi Benediktsson: Sýslumannaæfir II, 113.

[76] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 289.

[77] Sama heimild, 300.

[78] Sama heimild, 335-336.

[79] Manntal 1703.

[80] Jarðab. Á. og P. VI, 299.

[81] Sama heimild, 292-334.

[82] Sama heimild.

[83] Ísl æviskrár I, 314 og 325 og IV, 95-96. Annálar IV, 342 og VI, 498.

[84] Íslenskar æviskrár I, 325.  Manntöl 1801, 1816 og 1845.

[85] Manntal 1845.  Lúðvík Kristjánsson 1953, 122.

[86] Lúðvík Kristjánsson 1960, 86.

[87] Söguþættir landpóstanna I, 321.

[88] Þorvaldur Thoroddsen 1923, 98 (Minningabók II).

[89] Óðinn XX, 73.

[90] Pétur Jónsson 1942, 92 (Barðstrendingabók).

[91] Sigurður Sigurðsson 1919, 99 (Búnaðarsamband Vestfjarða, skýrslur og rit 1916-1917).

[92] Óðinn XX, 73.

[93] Óðinn XX, 73.

[94] Sama heimild 74.

[95] Pétur Jónsson 1942, 88 (Barðstrendingabók).

[96] Sama heimild.

[97] Eggert Ólafsson 1975, I, 349.

[98] Vestfirskar sagnir II, 72-75.

[99] Ísl. æviskrár I, 460-461. Sóknarm.töl Sauðlauksdalsprestakalls.

[100] Ari Ívarsson frá Melanesi 2000, 59-64 (Frá Bjargtöngum að Djúpi III).

[101] Sama heimild.

[102] Sama heimild, 32-42.

[103] Ísl. æviskrár II, 95-96 og V, 174-175.

[104] Sama heimild I, 235. Ari Ívarsson frá Melanesi 2000, 34 (Frá Bjargtöngum að Djúpi III).

[105] Ari Ívarsson frá Melanesi 2000, 32-34 (Frá Bjargtöngum að Djúpi).

[106] Sama heimild.

[107] Þór Magnússon 1982, 51-62 (Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1981).

[108] Ísl. æviskrár I, 214 og II, 67-68.

[109] Þór Magnússon 1982, 51-62. Þóra Kristjánsdóttir 2005, 96-98.

[110] Sömu heimildir.

[111] Ísl. æviskrár II, 363-364 og V, 207.

[112] Þór Magnússon 1982, 51-62 (Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1981).

[113] Sama heimild.

[114] Sama heimild.

[115] Þóra Kristjánsdóttir 2005, 96-98.

[116] Þór Magnússon 1982, 51-62 (Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1981).

[117] Ísl. æviskrár I, 314, II, 67-68, III, 431 og V, 182-183.

[118] Sama heimild III, 411 og 431 og IV, 123-124.

[119] Þór Magnússon 1982, 51-62 (Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1981).

[120] Sama heimild.

[121] Sama heimild.

[122] Þór Magnússon 1982, 51-62 (Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1981).

[123] Jarðab. Á. og P. VI, 299-301.

[124] Dipl. isl. IV, 690.

[125] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 213.

[126] Jarðab. Á. og P. VI, 334.

[127] Sama heimild, 299.

[128] Pétur Jónsson 1942, 90 (Barðstrendingabók).

[129] Ólafur Árnason 1957, 150 (Sýslulýsingar 1744-1749).

[130] Pétur Jónsson 1942, 90 (Barðstrendingabók).

[131] Sama heimild.

[132] Jarðab. Á. og P. VI, 334.

[133] Manntal 1703, 176. Jarðabók Á. og P. VI, 334.

[134] Sýslulýsingar 1744-1749, 150 (gefnar út 1957).

[135] Manntal 1801. Sóknarm.töl Sauðlauksdalsprestakalls.

[136] Manntöl  1703,1801, 1816 og 1845. Sóknalýs. Vestfjarða I, 212.

[137] Martin Schuler 1994, 61 (Búsetuþróun á Íslandi 1880-1990).

[138] Manntal 1703. Jarðabók Á. og P. VI, 300-301.

[139] Jarðab. Á. og P. VI, 300.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »