Tálknafjarðarhreppur

Tálknafjarðarhreppur

Tálknafjarðarhreppur nær yfir Tálknafjörð frá TálknatáKálfadalsá[1] er fellur til sjávar um það 2,5 kílómetrum fyrir utan Krossadal sem var ysti bær á norðurströnd fjarðarins. Utan við ána taka við Selárdalshlíðar og heyra þær til hinum forna Ketildalahreppi.

Tálknafjörður liggur milli Patreksfjarðar og Arnarfjarðar og gengur inn úr norðanverðum Patreksfjarðarflóa frá norðvestri til suðausturs. Breidd fjarðarins er um fimm kílómetrar yst í fjarðarmynninu en fer síðan mjókkandi og er hún víðast aðeins einn til tveir kílómetrar þegar kemur inn fyrir Suðureyri og Stóra-Laugardal. Strandlengjan frá Tálknatá inn í fjarðarbotn er um 17 kílómetrar en að norðanverðu, úr fjarðarbotni út að hreppamörkum, um 23 kílómetrar. Fjöllin umhverfis Tálknafjörð rísa flest í 300 til 550 metra hæð yfir sjávarmáli. Á hreppamörkum að byggðarbaki nær fjalllendið nokkru meiri hæð á stöku stað. Botnaheiðarhnjúkur, fyrir botni fjarðarins, nær 588 metrum, Hálfdanarfell, við akveginn milli Tálknafjarðar og Bíldudals, 614 metrum og hálendið norðan Tálknafjarðar, milli fjallveganna Hálfdans og Krókalautar nær 677 metrum á hreppamörkum, norðan við Fagradal. Í Tálknafirði eru fjallahlíðar víða vel grónir og undirlendi nokkurt, einkum norðantil.

Um upphaf byggðar í Tálknafirði er fátt vitað og Tálknfirðinga sjaldan getið í fornritum. Í Landnámu segir að Þorbjörn tálkni og Þorbjörn skúma, synir Böðvars blöðruskalla, hafi komið út með Örlygi Hrappssyni og numið Patreksfjörð hálfan og Tálknafjörð allan til Kópaness.[2]

Hvað sem líður trú manna eða vantrú á sannleiksgildi frásagna Landnámu þá er athyglisvert að mörk landnámsins eru sögð við Kópanes en ekki við Kálfadalsá þar sem hreppamörk eru nú. Mjög er líklegt að landnámsmörkum hafi verið háttað á þann veg sem Landnáma greinir frá, a.m.k. eru hin landfræðilega eðlilegu mörk við Kópanes en ekki þar sem mörkin liggja nú. Selárdalur í Arnarfirði var höfðingjasetur um aldir og gera verður ráð fyrir að hinir voldugu Seldælir hafi snemma á öldum slegið eign sinni á strandlengjuna vestan Kópaness þar sem nú heita Selárdalshlíðar, alla leið inn að Kálfadalsá, og breytt þannig hinum elstu landamerkjum milli byggðanna í Tálknafirði og Arnarfirði. Þessi spölur er um tíu kílómetrar og enda þótt þar hafi aldrei verið byggð þá er land gott til beitar á hlíðunum.

Í byrjun átjándu aldar voru fimmtán bújarðir í Tálknafirði. Allar voru jarðirnar í byggð árið 1710 nema Höfðadalur sem farið hafði í eyði í stórubólu fáum árum fyrr.[3] Að auk voru árið 1710 byggðar átta hjáleigur eða önnur kotbýli af líku tagi en nokkur slík höfðu eyðst í bólunni. Tvíbýli var á mörgum jarðanna og sums staðar margbýli en alls voru þá 36 bændur í Tálknafirði.[4] Íbúafjöldi árið 1703 var 312 manneskjur.[5] Í byrjun nítjándu aldar var fjöldi bújarða sá sami og bændur töldust þá líka vera 36 en að auk áttu þá þrír húsmenn heima í hreppnum.[6] Íbúar voru þá 255.[7]

Í byrjun 20. aldar hafði aftur fjölgað í Tálknafirði en þá áttu hér heima 338 íbúar.[8] Þorp fór ekki að myndast í firðinum fyrr en 20. öldin var nær hálfnuð og árið 1960 bjuggu enn aðeins liðlega 130 manns í kauptúninu í Tálknafirði.[9]

Á fyrri öldum létu Tálknfirðingar yfirleitt ekki fara ýkja mikið fyrir sér og fáar sögur bárust héðan til fjarlægra héraða. Sjaldan mun þeim er hér bjuggu hafa brugðist sjávarafli. Til marks um það má nefna að hallærisárið 1701 var sent frá báðum biskupsstólunum, Skálholti og Hólum, eftir fiski vestur í Tálknafjörð.[10] Slíkar lestaferðir hafa þó verið ærið torsóttar. Lengi munu Tálknfirðingar hafa átt meiri viðskipti við erlendar þjóðir en flestir aðrir landsmenn, einkum við Hollendinga, og verður vikið nánar að því hér litlu aftar.

Eggert Ólafsson lætur þess getið skömmu eftir miðja 18. öld að hér um slóðir, milli Barðastrandar og Arnarfjarðar, sé sjaldgæft að sjá hávaxna menn.[11] Um það bil hundrað árum síðar sátu prestar landsins við að semja sóknalýsingar fyrir Hið íslenska bókmenntafélag og skyldi hver og einn lýsa sínu brauði. Tálknafjörður hefur ætíð verið ein kirkjusókn, Stóra-Laugardalssókn, og var hún öldum saman hluti af Selárdalsprestakalli. Séra Einar Gíslason í Selárdal samdi þó enga lýsingu á Tálknafirði og virðist hafa komið verkinu á nágrannaprest sinn, séra Þórð Þorgrímsson í Otradal í Arnarfirði. Frá hendi séra Þórðar liggur fyrir stuttaraleg lýsing, undirrituð 6. júní 1852, og segir hann þar m.a. þetta:

 

Tálknfirðingar eru allskarpir menn en mjög gengur úr sér stærð sú og afl, er Tálknfirðingar áður höfðu haft [sjálfur var séra Þórður talinn með allra sterkustu mönnum, sjá hér Brjánslækur – innsk. K.Ó.]. Helstu atvinnuvegir fjarðarbúa eru kvikfjárrækt og sjávarafli talsverður á vorum. Kvikfjárræktinni hamlar mjög bráðasótt sú, er þar gengur á hverjum vetri og almennt kallast svartidauði. (Sumir kalla sýki þessa „anda” af hjátrú þeirri að illur andi leggist á féð og þykjast nokkrir hafa séð kallinn í fuglslíki.) Ekki eru Tálknfirðingar enn menntamenn en þó hreyfir sér nú fremur en verið hefur hjá þeim löngun til mennta svo sem að nema skrift og reikningslist. Tún eru víða allgóð í Tálknafirði en engjar grýttar og litlar og landkreppa.[12]

 

Séra Benedikt Þórðarson tók við Selárdalsprestakalli árið 1864. Líklega hefur hann talið sóknalýsingar þær sem áður höfðu verið samdar fyrir Selárdals- og Stóra-Laugardalssóknir eitthvað dauflegar því árið 1873 tekur hann sig til og semur fyrir bókmenntafélagið nýjar lýsingar á báðum sóknunum. Spurningum félagsins um skemmtanir manna, siðferði og fleira svarar séra Benedikt á þessa leið:

 

Til skemmtunar hafa menn vinnuna og að lesa blöð og búnaðarrit og fleiri fræðibækur en helst fornsögurnar. … Siðferði er yfirhöfuð allgott, margir vænir og vandaðir menn, aftur aðrir misjafnir eins og gjörist almennt og heldur er það á framfara- en hnignunarstigi. Trúrækni er hér fróm og einföld og þekking trúarbragðanna á framfarastigi. Enginn læknir er hér í sóknum og enginn nær en á Ísafirði og suður í Króksfirði. Þetta eru hér vandræði.[13]

 

Kirkja Tálknfirðinga í Laugardal var á síðari öldum útkirkja frá Selárdal í Arnarfirði og prestssetur þá ekkert í firðinum. Þó sátu hér alloft aðstoðarprestar tíma og tíma, oftast í Laugardal en stöku sinnum á öðrum jörðum. Árið 1907 var Selárdalsprestakall lagt niður og var Laugardalssókn í Tálknafirði þá lögð til Eyraprestakalls og hefur síðan, allt til þessa (1988) verið þjónað frá Patreksfirði.[14]

Enginn opinber verslunarstaður var í Tálknafirði á einokunartímanum og var Tálknfirðingum gert að sækja verslun á Patreksfjörð.[15] Fullvíst er að erlendar duggur sóttu mjög inn á Tálknafjörð, bæði á 17. og 18. öld, og áttu heimamenn margvísleg viðskipti við duggarana, ekki síst Hollendinga.

Ekki er ólíklegt að Englendingar hafi átt veruleg viðskipti við Tálknfirðinga á 16. öld og fljótur var presturinn í Stóra-Laugardal, séra Guðmundur Skúlason, að koma um borð í ensku dugguna Salómon sem hleypti inn á Tálknafjörð undan norðaustanstormi seint í júnímánuði árið 1615. Frá því segir Jón Ólafsson Indíafari sem einmitt hafði tekið sér far með þessu skipi og var að hefja sína stórmerkilegu reisu um veröldina, þá rétt liðlega tvítugur piltur frá Svarthamri í Álftafirði.[16]  Ísak Bromwell, skipherra á Salómon, og áhöfn hans héldu að því sinni kyrru fyrir á Tálknafirði í tvo daga[17]  en ellefu árum fyrr höfðu Englendingar, sem lágu inni á Tálknafirði, gefið nokkrum Íslendingum brennivín sem þá var nær óþekktur drykkur á landi hér.[18]

Vestfirðingarnir sem brennivínið drukku hjá enskum að því sinni hvolfdu bát sínum á leiðinni í land og drukknuðu allir þrír. Einn þeirra var Ívar bóndi Eyjólfsson í Reykjarfirði í Suðurfjörðum Arnarfjarðar en hann gekk þegar í stað aftur og varð einn magnaðasti draugur er fólk hér um slóðir hafði þá komist í kynni við ef marka má frásögn Odds biskups Einarssonar, byggða á bréfi þáverandi sýslumanns Barðstrendinga.[19]

Hingað kom líka árið 1610 enskur leiðangur undir forystu landkönnuðarins Henry Hudson.[20] Þeir ætluðu sér til Grænlands en urðu frá að hverfa.[21] Einn af fylgdarmönnum Hudsons segir í bréfi rituðu hér vorið 1610 að þennan fjörð kalli landar hans Lousy Bay og er þar komin elsta heimildin um þetta nafn á Tálknafirði[22]  sem bæði Hollendingar og Frakkar notuðu síðar. Bréfritarinn lætur þess einnig getið í sama bréfi að baðlaug ein hér á ströndinni sé svo heit að í henni sé hægt að sjóða fugla.[23] Í enskri Íslandslýsingu sem birtist árið 1682 er líka minnst á heita laug í Tálknafirði og hún þá sögð vera hlaðin og hæfilega djúp[24]. Býsna líklegt má telja að laugin sem Bretarnir nefna bæði 1610 og 1682 sé Djáknalaug er svo var nefnd og hér er getið um á öðrum stað (sjá Litli- og Stóri-Laugardalur).

Til marks um samskiptin við Englendinga má enn nefna að Magnús Jónsson, sýslumaður í Haga á Barðaströnd, segir 11. janúar 1653 í bréfi til Brynjólfs biskups Sveinssonar að hann ætli þá um vorið norður í Tálknafjörð til að kanna hvort Englendingar, sem þangað sæki jafnan, vilji fallast á að borga eitt dalsvirði af hverju skipi til spítalanna.[25]

Frá því snemma á sautjándu öld og fram um miðbik átjándu aldar stóð kaupskapur við Hollendinga með blóma[26] og reyndar áttu þeir mun lengur viðskipti við Tálknfirðinga svo sem hér mun verða rakið. Eggert Ólafsson segir um 1760 að á Vestfjörðum leiti þeir einkum inn á Tálknafjörð og Jökulfirði og telji kaupmenn þá draga frá sér verslun þar um slóðir.[27]

Hollendingar nefndu Tálknafjörð Lus-Bay[28] og Lus-Baye ritar franski sjóliðsforinginn K. de Tremarec sem hér var við strandmælingar á árunum 1767 og 1768[29] (sjá hér Geirseyri og Vatneyri).

Heimildir sem fyrir liggja gefa til kynna að á fyrri hluta 17. aldar og fram yfir 1650 hafi borið hér meira á Englendingum heldur en Hollendingum eða Frökkum. Frá því um aldamótin 1700 eða máske skömmu fyrr eða skömmu síðar og fram á 19. öld voru það hins vegar Hollendingar sem Tálknfirðingar áttu mest samskipti við[30] (sjá hér Suðureyri og Kvígindisfell).

Í dómabók Barðastrandarsýslu frá árunum 1791 til 1804 má sjá að sumarið 1802 hefur Guðmundur Scheving, fulltrúi sýslumanns, sett rétt yfir Tálknfirðingum vegna kæru P. Hernings, kaupmanns á Vatneyri,  út af kaupskap þeirra við Hollendinga. Guðmundur Scheving lagði kapp á að rannsaka málið og m.a. fundust þá 12 hollenskar spesíur hjá Jóni Halldórssyni á Arnarstapa.[31] Tálknfirðingar voru þá dæmdir í nokkrar sektir fyrir ólögmæta verslun og meðal hinna ákærðu var Jón Þórðarson á Kvígindisfelli, eiginmaður Halldóru Guðmundsdóttur, en bæði koma þau  hér síðar við sögu (sjá hér Kvígindisfell).[32]

Lengi geymdust í minni margvíslegar sagnir um viðskipti Tálknfirðinga við þessa erlendu duggara, ýmist sannar eða lognar og allt þar á milli.

Jakob Aþanasíusson, sem hóf búskap í Barðastrandarhreppi upp úr miðri 19. öld, sagði Þorsteini skáldi Erlingssyni svo frá viðskiptum Tálknfirðinga við hollenska:

 

Tálknfirðingar versluðu mikið árlega við Hollendinga og seldu sumir aftur út frá sér um nærsveitirnar og græddu á …. . Allir hásetar á duggum Hollendinga versluðu jafnt, matreiðslumaður sem skipstjóri; mátti hver háseti hafa svo mikinn varning sem hann gat geymt í hvílu sinni og undir henni. Verslunarvörur þeirra voru reyktóbak, færi, önglar, klútar, alls konar fatnaður, sýróp, lakkrís, piparkökur, brennt kaffi, rauður sykur, Harlemmerolía, hör, hampur, léreft, strigi, ostur og rúsínur og firnin öll af alls konar leirvöru.

Vörur þær, sem þeir sóttust eftir að fá á móti voru: belgpeysur, sokkar og stórir sjóvettlingar. Ekkert af þessu mátti vera einlitt en allt röndótt og útprjónað með tíglum og rósum, mest fjögrablaða, og sá ég sumt af prjónlesi þessu. Oft var misjafnt verðlag á vörum þessum á sama skipinu. Þóttu Hollendingar engin barnameðfæri í viðskiptum. Var best að látast ekkert vilja kaupa og varð að þrasa við þá lengi um hvern hlut. Vel skildu þeir hvorir aðra, höfðu þeir búið sér til mál að tala saman á. Héldu Hollendingar sig tala íslensku en Íslendingar hollensku. …

Jón Arason hét hollenskur skipstjóri. Hann kom yfir 30 ár í Tálknafjörð og talaði hreina íslensku en þrætti fyrir að hann væri Íslendingur. Hann seldi mikið af klútum; þeir voru dökkir með hvítum bekkjum, höfðu konur þá fyrir sjöl og þóttu þeir gersemar að varanleik. Tálknfirðingar seldu klútinn á einn ríkisdal. Sá ég tvo af þeim klútum og voru alltaf kallaðir Jóns Arasonar klútar.

Jón Arason tók hvern með sér til Hollands, sem far vildi þiggja, og bjargaði oft með því sakamönnum, aldrei tók hann fiskvirði fyrir farið af neinum. Eitt sinn strauk með honum kona frá Rima þar í sveit, sem Guðrún hét, frá manni og börnum. En er til Hollands kom þekktu íslenskir menn hana þar, fóru til yfirvalda og kærðu Jón og er sannleikurinn vitnaðist var Jóni boðið að flytja hana aftur til sama lands og færa hana manni hennar. Þetta gerði Jón en skilaði henni þungaðri af sínum völdum og hafði þá tekið fargjaldið undir sjálfum sér, en allt friðþægði Jón þetta við mann Guðrúnar og undi hún vel síðan hjá manni sínum.[33]

 

Ekki verður nú fullyrt á hvaða tíma Jón Arason frá Hollandi átti sín margbreytilegu viðskipti við Tálknfirðinga. Þess má þó geta að í sömu frásögn Jakobs segir hann frá nafngreindu fólki í Tálknafirði, sem uppi var um 1800, og ferðum þess til Hollands. Líklega eru allar sögur hans um þessi efni frá svipuðum tíma.

Eldri mun vera saga sem Gísli Konráðsson rekur í syrpu sinni af Þórólfi Tálknfirðingi Jónssyni, sem hann segir hafa búið á Litla-Bakka og á Arnarstapa hér í firðinum. Eins og aðrir sveitungar hans átti Þórólfur viðskipti við Hollendinga. Um Tálknfirðing þennan ritar Gísli svo:

 

Skáld var hann kallaður og ákvæðinn. Þórólfur komst í kvennamál svo mjög mikið að lífleysi lá við. … Var það þá eitt kvöld að heimamaður hans sá hann einan úti reika og kveða vísu þessa fyrir munni sér, alláhyggjulega:

 

Þú sem hefir gæskugeð

guð til þinna vina

í kulinu norðan komdu með,

Kristur, Hollendina.

 

En þegar um kvöldið rann á byr norðan og lagði inn dugga hollensk. Þá nótt hvarf Þórólfur. Höfðu menn það fyrir satt að á hana hefði hann farið þó sumir ætluðu hann sér týnt hafa.[34]

 

Gísli bætir því við að nokkru síðar hafi Þórólfur komið aftur í Tálknafjörð og dvalist hér í þrjú ár. Að þeim tíma liðnum vöktust hin gömlu sakamál hans upp á ný svo tvísýnt var um líf hans. Heyrðu menn þá dag einn að Þórólfur kvað nýja vísu fyrir munni sér og bað enn um norðangarð svo duggarar leituðu landvarsins í Tálknafirði:

 

Nýr norðangarður

neyði Hollendske

hlýrinn svo harður

að haldist segl frá tré … .

 

Gerði þá drifaveður og streymdu Hollendingar inn á Tálknafjörð. Komst Þórólfur utan með þeim öðru sinni og spurðist þá eigi til hans langa hríð.[35]

Þeir voru margir sakamennirnir sem komust í duggu í Tálknafirði og burgu þannig lífi sínu (sbr. hér Frá Haga á Siglunes, Hreggstaðir þar). Ekki auðnaðist þó öllum sem óttast þurftu Brimarhólmsvist, höggstokk eða gálga að laumast í skip. Hér var áður sagt frá Tálknfirðingnum Þorleifi Jónssyni sem dæmdur var til að þola 360 vandarhögg fyrir smáþjófnað og síðan fyrstur Íslendinga sendur í Stokkhúsið í Kaupmannahöfn haustið 1745 til ævilangrar þrælkunar í járnum. Átján árum síðar voru Þorleifur og nokkrir fleiri landar úr Stokkhúsinu sendir til Vargeyjar á Austur-Finnmörku en þaðan átti enginn afturkvæmt (sjá hér Hagi).

Þorleifur Jónsson var reyndar ekki eini Tálknfirðingurinn sem sendur var í þrælkun í Stokkhúsinu um miðja 18. öld. Í árslok 1750 sátu þar þrír Tálknfirðingar og trúlega hafa fá byggðarlög á Íslandi átt þar fleiri fulltrúa á þeim árum. Nafnið Landbjartur hefur mikinn hljóm en þótt menn beri dýrðarnöfn dugar slíkt skammt til að seðja hungur eða hindra svangan mann í að stela sér kjötbita.

Á jólaföstu 1749 fóru þeir Landbjartur og Sigmundur félagi hans, báðir Jónssynir, í skemmu hreppstjórans í Stóra-Laugardal í Tálknafirði og kræktu sér þar í dálítið af hangikjöti. Líklega hafa þeir farið óvarlega með eld í umsvifum þessum því sömu nótt kviknaði í skemmunni og sambyggðu eldhúsi. Landbjartur var að sögn Jóns Espólín sonur Jóns Konráðssonar á Kvígindisfelli og konu hans, Guðrúnar Pétursdóttur, og segir Espólín Jón hafa verið hraustan og atorkusaman en föðuramma Landbjartar var að hans sögn Úlfrún Jónsdóttir, systir hinna sjö harðfengu Sellátrabræðra[36] (sjá hér Sellátur). Árið 1703 var Úlfrún Jónsdóttir einn fimm ábúenda á Kvígindisfelli hér í sveit og orðin ekkja.[37] Hjá henni voru þá fimm börn hennar á aldrinum 15-25 ára, þar á meðal tveir Jónar, og höfðu öll átt Koðrán fyrir föður.[38]

Í maí vorið 1750 lét Ólafur sýslumaður Árnason í Haga dæma þá Landbjart og Sigmund til að kagstrýkjast og erfiða í Bremerhólms fangelsi alla þeirra lífstíð.[39]

Dóm þennan þurfti æðri réttur að staðfesta svo að hægt yrði að senda Tálknfirðingana tvo í þá vist sem þeim var ætluð. Sveinn Sölvason, lögmaður norðan og vestan, sat á Munkaþverá í Eyjafirði og hefur sjálfur ritað svo í árbók sína við árið 1750:

 

Haldið extralögþing á Öngulsstöðum í Eyjafirði yfir 2 delinqventum vestan úr Barðastrandarsýslu, hvörjir um veturinn höfðu brotið upp eldhús í Stóra-Laugardal og stolið þar heilmiklu reyktu kjöti, en síðan sett eld í húsið. … Voru þessir þjófar dæmdir auk annars straffs í Kaupenhafnar­castell til að erfiða í járnum sína lífstíð.[40]

 

Hér er komin skýring á því hvers vegna ekkert finnst um mál þeirra Landbjartar í Alþingisbókunum. Hangikjötsþjófarnir hafa ekki verið fluttir að Þingvöllum við Öxará til dóms heldur norður í Eyjafjörð og síðan sendir utan með Akureyrarskipi.

Þann 12. október 1750 eru nöfn Landbjartar og Sigmundar færð inn í þrælarulluna í Stokkhúsinu og þar má sjá að báðir hafa þeir útstaðið húðlát og verið brennimerktir þjófsmarki á enni áður en þeir gengu á skip.[41] Landbjartur var 27 ára en Sigmundur 41 árs er þeir stigu á land í Kaupmannahöfn, hlekkjaþrælar. Þeir áttu þá eitt barn hvor uppi á Íslandi ef marka má þær upplýsingar sem skráðar eru í þrælarulluna[42] og líklega hefur Jón Landbjartsson, sem fermdur var 19 ára í Stóra-Laugardal árið 1767 og andaðist á fimmtugsaldri árið 1791, þá ókvæntur vinnumaður á Sellátrum í Tálknafirði,[43] átt brennimerktan hlekkjaþræl að föður.

Í Stokkhúsinu við Austurvegg urðu flestir skammlífir. Að vísu hélt Þorleifur Jónsson þar velli í átján ár en hinir Tálknfirðingarnir, Landbjartur og Sigmundur, geispuðu þar báðir golunni eftir um það bil þriggja ára dvöl. Lausir við járnin voru þeir bornir af samföngum út í þrælareitinn í Garnisonkirkjugarði.[44]

 

Elstu lýsingu á búnaðarháttum og búnaðarástandi í Tálknafirði er að finna í öðrum árgangi Búnaðarritsins. Hermann Jónasson, síðar skólastjóri búnaðarskólans á Hólum, ferðaðist sumarið 1887 um Barðastrandarsýslu og lýsir ástandinu í ritgerð sem birtist í Búnaðarritinu árið eftir. Um Tálknafjörð segir Hermann meðal annars þetta:

 

Á öllum jörðum í hreppnum eru nokkur tún en þau eru mjög grýtt og óslétt nema á Sveinseyri. Þar er fallegt og stórt tún og mikill hluti þess sléttur og grjótlaus. Á hverjum bæ eru 2-8 kýr en túnin eru í meiri og minni órækt því að áburðurinn hrekkur ekki nándar nærri á þau öll svo að ráði sé. Að sönnu er á sumum stöðum norðan við fjörðinn mikið og gott mótak en það er notað verr en skyldi. Mjög mikið af vatni kemur á vetrum og vorum fram í túnunum, sem hleypur niður í fjöllunum og kemur fram þegar hallinn minnkar. Á sumum jörðum gjörir þetta mjög mikil óþægindi því að túnunum verður fyrir þetta mjög hætt við kali og bæði bæjarhús og hlöður verður að steinbyggja og hafa rennur undir þeim.

Sauðfé er fremur fátt sökum þess að útheyskapur er sáralítill og landrými lítið. Aftur á móti er fjörubeit víðast góð. Á flestum bæjum er dálítil garðrækt, jöfnum höndum kál og kartöflur. … Mjög er erfitt með jarðabætur í þessum hreppi. Einkum er þó um túnarækt að ræða svo sem að girða þau og slétta. Sléttanir þar eru samt mjög seinunnar og dýrar sökum grjótsins í túnunum. Ennfremur mætti mikið bæta túnin ef áburður væri betur hirtur og notaður en gjört er.[45]

 

Hermann Jónasson ritar sitthvað fleira um Tálknafjörð. Bestu landjarðirnar telur hann vera Botn, Tungu og Laugardal en jarðabætur mestar hjá Árna Bjarnasyni, sýslunefndarmanni á Kvígindisfelli (sjá hér Kvígindisfell).

Á einu sviði búnaðarmála virðast Tálknfirðingar hafa staðið framarlega árið 1887 og er það heyþurrkunin. Hermann Jónasson hrósar íbúum Barðastrandarsýslu almennt fyrir góða heyverkun og þá einkum notkun á galtatjöldum, sem yfirleitt voru nefnd hærur (sjá hér Skáleyjar). Um þessi efni segir hann síðan:

 

Langalmennust eru þó galtatjöld í vestur sýslunni einkum í Tálknafjarðarhreppi, enda finnast þar bændur, sem eiga allt að 30 hærur. Þeir telja hærurnar eins og má bestu búmannseign enda telja þeir heyið svo gott sem komið inn þegar það er komið undir hærur. Flestir vinna hærurnar sjálfir. Í uppistöðuna er hafður allur versti ullarúrgangur. Uppistaðan er höfð tvöföld viðlíka gild og pokaþráður. Ívafið er úr uppleystum hrognkelsanetjum, sem eru orðin ónýt til veiða en ef þau eru eigi til þá úr ullarúrgangi. Best mundi þó hrosshár reynast því að það hleypur ekki. … Lykkjur eru hafðar í öllum hornum og á miðjum hliðum svo að hægt sé að festa í þeim steina eða hæla til þess að halda hærunum niður ef hvessir.[46]

 

Tuttugu árum eftir að Hermann Jónasson ferðaðist um Barðastrandarsýslu birtist í tímaritinu Frey greinargerð Guðjóns Guðmundssonar, ráðunauts Búnaðarfélags Íslands, um ástand og horfur í landbúnaði á Vestfjörðum. Guðjón segir fátt um Tálknafjörð sérstaklega. Þó getur hann þess að fé sé hér létt á fóðrum og gangi jafnvel af í góðum vetrum,[47] það er bjargist á útigangi. Í ritgerð Guðjóns kemur fram að árið 1907 eru fráfærur enn almennt við lýði í Vestur-Barðastrandarsýslu en víða aflagðar í austur sýslunni. Hann segir ærnar gera gott gagn, gefa 10-14 merkur smjörs yfir sumarið að meðaltali.[48] Ekki getur Guðjón þess að lömb væru ennþá kefld í Tálknafirði árið 1907. Í bók Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili, Íslenskum þjóðháttum, er hins vegar frá því greint að árið 1910 hafi lömb enn verið kefld á a.m.k. einum bæ í Tálknafirði[49] en slíkt mun á þeim tíma hafa verið orðið harla fátítt. Keflingin fólst í því að sívöl spýta var sett þversum í munn lambinu, undir tungunni. Gátu þá lömbin ekki sogið en bitið og jórtrað nokkurn veginn. Þannig voru þau látin ganga með kvíaánum yfir sumarið.[50]

Sauðféð í Tálknafirði og nálægum byggðum segir Guðjón Guðmundsson vera heldur rýrt:

 

Í Arnarfirði, Tálknafirði og Patreksfirði er mikið af mislitu fé, – flekkóttu, bíldóttu, golsóttu o.s.frv. Þetta fé er jafnrýrara en annað fé og auk þess ullin af mislitu fé í lægra verði en hvít ull.[51]

 

Guðjón fjallar líka nokkuð um kúabúskapinn í Vestur-Barðastrandarsýslu og segir kýrnar þar venjulega komast í 10-12 merkur en þær bestu í 14-16 merkur.

Í greinargerð Guðjóns kemur fram að árið 1904 hafa verið 29 býli í Tálknafirði. Meðalbústofn á hverju býli var þá 61 sauðkind, 3 nautgripir og 1,7 hross. Meðalfjöldi sauðfjár var þá lægri í Tálknafirði en í nokkrum öðrum hreppi Barðastrandarsýslu og meðalfjöldi nautgripa sá næstlægsti í sýslunni.[52] Tólf árum síðar hafði sauðfé fækkað um rösklega fjórðung í Tálknafirði. Voru þá – í fardögum 1916 – aðeins um 44 sauðkindur að meðaltali á hverju býli en nautgripum hafði fjölgað frá 1904 úr 88, samtals á öllum býlum fjarðarins, í 95.[53] Án vafa hefur svínarækt löngu verið horfin úr sögunni í Tálknafirði á þessum tíma en fyrr á öldum var hún nokkur svo sem sjá má í gömlum máldaga frá árinu 1300 og varðar jarðirnar Laugardal og Kvígindisfell.[54]

Enda þótt bústofn margra bænda í Tálknafirði væri í minnsta lagi á árunum kringum aldamótin 1900 þá er varasamt að draga af því þá ályktun að lífskjör hafi verið hér lakara en almennt gerðist í nálægum byggðum. Tálknafjörður lá vel við sjósókn og flestir íbúanna byggðu afkomu sína á sjávarafla að mjög verulegu leyti. Einnig má telja fullvíst að hvalstöðin, sem starfrækt var á Suðureyri í Tálknafirði samfellt frá 1893 til 1911, hafi fært allverulegar tekjur inn í sveitarfélagið.[55]

Í Stjórnartíðindum má finna upplýsingar um fjölda unninna dagsverka við jarðabætur í hinum ýmsu hreppum landsins á árunum kringum aldamótin 1900. Svo virðist sem Tálknfirðingar hafi í þeim efnum staðið nágrönnum sínum fyllilega á sporði. Í allri Barðastrandarsýslu voru á árunum 1890 til 1906 veittir styrkir af opinberu fé fyrir 21.357 unnin dagsverk við jarðabætur.*) [56]

Fjöldi býla í sýslunni árið 1904 var 240[57] og hafa þá unnin dagsverk alls verið um það bil 89 á hvert býli á þessum 17 árum eða 5,2 dagsverk á ári að meðaltali á hvert býli. Í Tálknafirði var heildarfjöldi unninna dagsverka 2.702 á þessum 17 árum. Þar töldust býlin vera 29 árið 1904 og hefur dagsverkafjöldi á hvert býli því verið 93 á tímabilinu öllu eða um 5,5 dagsverk á ári.

Árið 1916 var meðalstærð túna í Tálknafirði 2,9 hektarar á hvert býli og var það líkt því sem almennt gerðist í Barðastrandarsýslu.[58] Töðufengur af hverjum hektara var hins vegar með minnsta móti í Tálknafirði, aðeins 30 hestar á ári. Sérstaklega er þó áberandi hversu litlu útheyi menn ná í Tálknafirði eða aðeins 67 hestum á ári að meðaltali á hvert býli meðan aðrir hreppar í sýslunni eru með 84 til 257 hesta á hvert býli.[59] Skort á engjum hefur vetrarbeitin bætt upp að nokkru, ekki síst fjaran. Um landbúnað Tálknfirðinga í byrjun 20. aldar skal þess að lokum getið að þeir þóttu standa framarlega í garðrækt. Sigurður Sigurðsson ráðunautur telur árið 1916 Tálknafjarðarhrepp vera einn þriggja hreppa í Barðastrandarsýslu þar sem garðrækt sé einna mest og best.[60] Þá fengust 180 tunnur garðávaxta upp úr görðum hreppsbúa eða liðlega 6 tunnur á hvert býli að jafnaði. Yfir sýsluna í heild var meðaltalið nokkru lægra, milli fimm og sex tunnur.[61]

Árið 1901 fór Bjarni Sæmundsson fiskifræðingur um Vestfirði og kannaði þá ástand mála hvað sjávarútveginn varðaði. Örfáum árum síðar hófst sem kunnugt er vélvæðing bátaflotans en henni fylgdu margvíslegar breytingar. Um sjósókn frá Tálknafirði í byrjun 20. aldar ritar Bjarni m.a. svo:

 

 

____________________

*) Tvö fyrstu árin kemur dagsverkafjöldinn ekki fram með beinum hætti í Stjórnar­tíðindum heldur aðeins styrkupphæðin. Hér er með nokkrum rökum út frá því gengið að greiddur styrkur hafi verið 30 aurar á dagsverk þessi ár. Þar kynni þó örlitlu að skeika en það breytir ekki heildarmyndinni.

 

Aðalvertíðin er frá sumarmálum til sláttar og haustvertíð frá 20. viku sumars til nóvemberloka. Útræði helst frá Suðureyri og ágæt lending og frá Felli, Bakka, Sellátrum og Arnarstapavík (verstöð) að norðanverðu. Er þar allsstaðar aðgrunnt og brimasamt og lendingar lakari. Í vor gengu um tíu [bátar] alls og liggja sumir við í Arnarstapavík. Menn róa á haustin út í fjörðinn og eða flóann en á vorin fyrir steinbít á Kollsvíkurmið. Mest er brúkuð lóð og leggja menn alls 20-30 lóðir (með 100 önglum) á dag, lagt tvisvar, beitt í bjóð í bala eða í bátinn. Haldfæri eru töluvert brúkuð, einkum við steinbít úti fyrir og þá beitt slógi úr honum. Annars beita menn á síðari árum síld og kúfiski, sem er víða í firðinum. Svo hefur smokk verið lengi beitt [sjá hér Suðureyri]. … Kuðungi beita menn hér dálítið og veiða hann í firðinum á norskan hátt í háf, sem þorskhaus er bundinn í. Sandmaðki er og nokkuð beitt. … Útvegur var áður meiri en nú en er þó að aukast aftur samfara nýjum beitutegundum (síld og kúfiski) og meiri afla. … Haukalóðir þekktust ekki fyrir miðja öldina [19. öld – innsk. K.Ó.]. Hrognkelsaveiði var töluverð og brást sjaldan við innanverðan fjörðinn. Um 1880 aflaðist ekkert í firðinum á haustin og 1885 til 1888 brást þorskafli alveg.[62]

 

Hér hefur nú verið tínt til eitt og annað um mannlíf og atvinnuhætti í Tálknafirði um aldamótin 1900 og á fyrri tíð og því mál að hefja gönguferð um fjörðinn frá Tálknatá og síðan bæ frá bæ.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Jóhann Skaptason 1959, 140 (Árbók F.Í.).

[2] Íslensk fornrit I, 175.

[3] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 338-357.

[4] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 338-357.

[5] Manntal 1703.

[6] Manntal 1801.

[7] Sama heimild.

[8] Manntal 1901.

[9] Tölfræðihandbók 1984, 21.

[10] Öldin átjánda, bls. 9.

[11] Eggert Ólafsson 1975, I, 262.

[12] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 220.

[13] Sóknalýs. Vestfj. I, 249.

[14] Sveinn Níelsson 1950, 181-182 (Prestatal og prófasta).

[15] Jón J. Aðils 1971, 284.

[16] Reisubók Jóns Ólafssonar Indíafara 1992, 12-13. Helgi Þorláksson 1999, 96-97. Sbr. Sveinn Níelsson 1950, 182.

[17] Sömu heimildir.

[18] Helgi Þorláksson 1999, 98.

[19] Helgi Þorláksson 1999, 98-99.

[20] Sama heimild.

[21] Sama heimild.

[22] Sama heimild.

[23] Sama heimild.

[24] Sama heimild.

[25] Jón J. Aðils 1971, 589.

[26] Sama heimild, 579 og 611.

[27] Eggert Ólafsson 1975, I, 365.

[28] Trausti Einarsson 1987, 32.

[29] Sama heimild, 33.

[30] Sbr. Jón J. Aðils 1971, 606-607.

[31] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Barð IV. 3.

[32] Sama heimild.

[33] Jakob Aþanasíusson / Þorsteinn Erlingsson 1933, 116-118 (Sagnir Jakobs gamla).

[34] Gísli Konráðsson 1979, 340.

[35] Gísli Konráðsson 1979, 341.

[36] ÍB 114to Ættatölubækur Jóns Espólín, dálkur 2032.

[37] Mantal 1703, 183.

[38] Sama heimild.

[39] Björn Th. Björnsson 1975, 42-43.

[40] Annálar V, 25.

[41] Björn Th. Björnsson 1975, 44.

[42] Sama heimild.

[43] Prestsþjónustubækur Stóra-Laugardalssóknar.

[44] Björn Th. Björnsson 1975, 71-73.

[45] Hermann Jónasson 1888, 160.

[46] Hermann Jónasson 1888, 185 (Búnaðarritið).

[47] Guðjón Guðmundsson 1907, 131.

[48] Sama heimild.

[49] Jónas Jónasson 1961, 170.

[50] Jónas Jónasson 1961, 170

[51] Guðjón Guðmundsson 1907, 131 (Freyr, tímarit).

[52] Sama heimild, 132.

[53] Sigurður Sigurðsson 1919, 102 (Búnaðarsamband Vestfjarða/ Skýrslur og rit 1916-1917).

[54] Dipl. isl. IV, 7.

[55] Trausti Einarsson 1987, 74.

[56] Stjórnartíðindi 1890 til 1906.

[57] Guðjón Guðmundsson 1907, 132.

[58] Sigurður Sigurðsson 1919, 106.

[59] Sama heimild.

[60] Sama heimild.

[61] Sama heimild, 102, 105 og 106.

[62] Bjarni Sæmundsson 1903, 108-109 (Andvari, tímarit).

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »