Tannanes

Tannanes er innsti bær á norðurströnd Önundarfjarðar, nokkru utar en miðja vega milli Kirkjubóls í Korpudal og Innri-Veðrarár. Landamerkjum á móti Kirkjubóli hefur þegar verið lýst en á móti Veðrará eru þau við Merkisstein sem stendur dálítið ofan við veginn, rétt innan við Veðrarárskeið.[1] Heiman frá Tannanesi eru um það bil 700 metrar út að merkjunum.

Að þessu sinni komum við innan frá Kirkjubóli og rétt fyrir utan landamerki Kirkjubóls og Tannaness við Urðarlæk gefst okkur kostur á að skoða Kúhólmavað, sem er hið innsta af öllum vöðunum hér í Önundarfirði. Sjálfur Kúhólminn, sem vaðið er kennt við (sjá hér Mosvellir), blasir við augum en er þó nær landinu handan við Vöðin. Yfir Kúhólmavað mátti komast ríðandi þó orðið væri nokkuð hásjávað og ekki reiðfært lengur yfir hin vöðin hér fyrir utan. Hér hefur áður verið sagt frá hinum ýmsu vöðum yfir Önundarfjörð sem farið var um á hestum á fyrri tíð og öll eru fyrir innan Holtsodda (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli, Holt og Mosvellir). Ástæðulaust er að endurtaka þær frásagnir hér en um Kúhólmavað skal þess getið að leiðin yfir það lá um Kúhólma frá Mjóanesi á vesturströndinni, ef þaðan var komið, og á land nær hvar sem var hér innan við Tannann. Oft mun þó hafa verið komið í land eða lagt á vaðið við Hrísnes, sem er rétt utan við landamerkin, eða við Skriðutanga sem er nokkru utar.[2] Yfir Kúhólmavað var sláturfé rekið allt þar til farið var að flytja það á bílum og yfir Vöðin voru bæði kaupstaðarvarningur og afurðir bænda flutt á hestvögnum allt þar til bílar leystu gömlu kerrurnar af hólmi.

Fjallið utan við Urðarskál heitir Tannanesfjall[3] og nær rétt út fyrir bæinn á Tannanesi en fjallshlíðin er nefnd Tannaneshlíð.[4] Í fjallinu eru þrjú klettabelti og í miðbeltinu er Svarthamar sem svo heitir[5] og ber nafn með réttu. Lítið eitt utar og að kalla beint upp af bænum á Tannanesi er í svipaðri hæð og Svarthamar annar dökkleitur klettur og heitir Hnjótur eða Háihnjótur.[6]

Niður af bænum á Tannanesi gengur allstórt grasigróið nes í sjó fram. Nesið heitir Tanni[7] og því má líkja við rana eða stóra vígtönn. Ætla má að nafni bæjarins og nessins eigi sér skýringu í lögun þess en segja má að Tanninn sé sterkasta auðkennið á umhverfi bæjarins. Á fyrri hluta 20. aldar var Tanninn ræktaður upp smátt og smátt og gerður að túni.[8] Á fremri hluta hans er nú talsvert æðarvarp en túnið ofantil á Tanna er enn (1994) slegið á hverju sumri þó að jörðin sé komin í eyði.[9]

Tannanes er gömul bújörð, 24 hundruð að fornu mati.[10] Um 1920 var túnið hér talið vera í góðri rækt og sléttlent en nokkuð snögglent.[11] Engjar jarðarinnar voru líka snögglendar en greiðfærar og nærlægar.[12] Beitilandið sem jörðinni fylgdi var að dómi fasteignamatsmanna frá 1920 fremur lélegt en þó skjólgott.[13] Þá var talið að á jörðinni væri unnt að framfleyta 3-4 kúm, um 100 fjár og 4 hrossum.[14]

Í sóknalýsingunni frá 1840 eru skriður sagðar hafa valdið miklum skaða hér á Tannanesi[15] og í Jarðbókinni frá 1710 segir svo:

 

Skriða hefur á túnið hlaupið og nærri því á bæinn og hefur túninu stórum spillt. Er hér og árlega skriðna von. Engjarnar eru spilltar og spillast árlega af skriðum og er nærri helmingur þeirra aftekinn. Hagarnir eru og stórum spilltir af skriðum og ærið mjög eyddir.[16]

 

Álíka lýsingar á skriðuföllum er víða að finna í Jarðabók þeirra Árna og Páls svo ekki er vert að kippa sér upp við þær. Hitt sætir meiri tíðindum að í sömu bók segir líka að jörð þessi verði fyrir stórum troðningi af vermönnum og öðrum umfarandi sem reisi hér um engjarnar og troði þær niður.[17] Þessi fullyrðing um gróðurspjöll af völdum mikils átroðnings vermanna og annarra reisenda gæti bent til þess að um og fyrir 1700 hafi verið minna um ferðir yfir Skeiðisvað en síðar varð. Á áratugunum kringum aldamótin 1900 lögðu flestir sem fara þurftu yfir Vöðin leið sína um Skeiðisvað eða þá Kúhólmavað[18] en þeir sem fóru yfir á Skeiðisvaði komu aldrei í landareign Tannaness (sjá hér Mosvellir) svo að ekki gat verið mikill átroðningur af þeim hér á engjunum. Öðru máli gegndi um þá sem fóru yfir á Kúhólmavaði, Steinsvaði eða Garðsendavaði á leið sinni í eða úr veri á Kálfeyri því allir fóru þeir um engjar bændanna á Tannanesi og líka Fjarðarmenn sem áttu heima á bæjunum inni í Firði. Ætla má að átroðningur vermanna hafi verið bagalegastur þegar þeir voru á heimleið úr verinu í lok júní eða byrjun júlí en þá var skammt í slátt og annað en gaman að sjá grængresið troðið undir fótum.

Í Jarðabókinni frá 1710 sjáum við að þó nokkur skógur hefur verið í landi Tannaness á fyrri öldum því jörðinni Mosvöllum fylgdi skógarítak í Tannaneslandi.[19] Þar á móti áttu Tannanesbændur beitarrétt í landi Mosvalla.[20] Þessi samningur um gagnkvæm réttindi var þó úr gildi fallinn árið 1710 og hvorttveggja eyðilagt eins og komist er að orði í Jarðabókinni frá því ári.[21] Hlunnindi af öðru tagi sýnast ekki hafa verið veruleg á Tannanesi ef frá er talinn rauðmaginn sem um er rætt á öðrum stað (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli) og silungsveiði í Vöðunum (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 376)

Í heimildum frá því fyrir 1400 mun Tannaness hvergi vera getið en í skjali frá árinu 1446 er ein jarðanna sem Guðmundur Arason ríki átti í vesturparti Ísafjarðarsýslu nefnd Annarnes.[22] Sú jörð er þar sögð vera 24 hundruð að dýrleika[23] og má telja fullvíst að þetta sé Tannanes og nafnið hafi misritast. Í nýnefndri skrá yfir jarðeignir Guðmundar Arasonar er Annarnes talið upp hið næsta Veðrará og Kirkjubóli í Korpudal og Arnarnes í Dýrafirði getur það ekki verið því sú jörð hafði áður verið bókuð í þessari sömu eignaskrá.[24] Hundraðatalan passar líka alveg við Tannanes svo hér er ekki um að villast. Árið 1446 fylgdu jörðinni fjögur kúgildi.[25]

Árið 1509 átti Tannanes maður að nafni Þorsteinn Þorleifsson og þá um vorið seldi hann jörðina bróður sínum, Einari Þorleifssyni.[26] Frá þeirri sölu var gengið norður á Stað í Aðalvík með samþykki Halldóru Halldóttur, konu seljandans.[27] Að þessu sinni var Tannanes selt fyrir lausafé og átti Einar að greiða jarðarverðið í málnytukúgildum, uxum, geldingum, smjörum, vaðmálum og öðrum þarflegum peningum eins og komist er að orði í vitnisburði um þessi viðskipti bræðranna.[28] Bræðurnir Einar og Þorsteinn, sem þarna koma við sögu, munu hafa verið synir Þorleifs Björnssonar, hirðstjóra á Reykhólum,[29] og á árunum 1513-1516 var Einar þessi stundum einn dómsmanna þegar Björn Guðnason í Ögri eða hans bandamenn kvöddu menn úr röðum Vestfirðinga í dóma.[30]

Næst verður vart við Tannanes árið 1580 en á Alþingi þá um sumarið voru þessi orð færð til bókar:

 

Item lýsti Torfi Jónsson lögmála á jörðinni Tannanesi er liggur í Önundarfirði, hvörn lögmála honum fékk Jón Bjarnason með slíku verði sem þeim semdi. Eður hvað góðum mönnum þykir vert vera.[31]

 

Merking þessa mun vera sú að Torfi sé þarna að þinglýsa skuldbindandi loforði frá eiganda Tannaness um að selja sér jörðina og engum öðrum. Um Jón Bjarnason, sem þarna er nefndur, er allt ókunnugt en Torfi Jónsson sem þinglýsti lögmálanum mun vera Torfi lögsagnari á Kirkjubóli í Langadal við Djúp, sonur Jóns Ólafssonar, sýslumanns í Hjarðardal.[32] Torfi á Kirkjubóli var dóttursonur Björns Guðnasonar í Ögri,[33] tengdafaðir Þóru Jónsdóttur ríku í Dal, það er á Kirkjubóli í Valþjófsdal (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal), og langafi Páls Torfasonar, sýslumanns á Núpi í Dýrafirði,[34] föður Mála-Snæbjörns.

Árið 1658 átti séra Björn Snæbjörnsson á Staðastað 16 hundruð í Tannanesi[35] en hann var sonarsonur nýnefnds Torfa Jónssonar á Kirkjubóli í Langadal.[36] Sá þriðjungur jarðarinnar sem Björn átti ekki var þá í eigu Margrétar Bjarnadóttur, prestsfrúar á Stað í Grunnavík,[37] en hún hafði áður verið gift séra Torfa Bjarnasyni sem var bróðursonur Torfa Jónssonar á Kirkjubóli í Langadal.[38]

Árið 1695 taldist Páll Ámundason klausturhaldari á Kirkjubæjarklaustri eiga 16 hundruð í Tannanesi[39] en hann var tengdasonur séra Björns Snæbjörnssonar[40] sem hafði átt þessi sömu 16 hundruð 37 árum fyrr. Átta hundruðin í Tannanesi, sem Páll klausturhaldari átti ekki, skiptust þá jafnt á milli Bjarna Guðmundssonar og Þórðar Jónssonar.[41] Bjarni Guðmundsson sem þá átti 4 hundruð í Tannanesi er án efa Bjarni Guðmundsson, bóndi á Baulhúsum í Arnarfirði, því vitað er með vissu að hann átti þessi 4 hundruð í Tannanesi 15 árum síðar.[42] Þórður Jónsson, sem einnig átti 4 hundruð í Tannanesi árið 1695, mun svo tvímælalaust vera lögréttumaðurinn með því nafni sem bjó í Stóra-Laugardal í Tálknafirði[43] því Jón sonur hans, sem seinna gerðist bóndi á Sveinseyri í Tálknafirði, átti þennan jarðarpart árið 1710.[44] Líklegt má svo telja að sá Þórður Jónsson sem seldi Agli Bjarnasyni 4 hundruð í Tannanesi árið 1743[45] hafi verið sonur Jóns Þórðarsonar á Sveinseyri sem hér var síðast nefndur. Hver Egill Bjarnason var, sá sem keypti þessi jarðarhundruð af Þórði árið 1743, er ekki vitað en þess má geta að Bjarni Guðmundsson á Baulhúsum, sem áður hafði átt part í Tannanesi, átti son sem Egill hét[46] og má ætla að hann hafi tekið við búi á Baulhúsum af föður sínum því bóndinn sem þar bjó um 1735 hét Egill Bjarnason.[47] Ekki er ólíklegt að það hafi einmitt verið þessi Egill sem keypti 4 hundruð í Tannanesi af Þórði Jónssyni árið 1743 og 19 árum síðar var maður að nafni Gísli Egilsson annar tveggja eigenda jarðarinnar.[48]

Sextán hundruðin í Tannanesi, sem Páll Ámundason á Kirkjubæjarklaustri  hafði átt árið 1695, voru árið 1710 komin í hendur tengdasonar hans, Björns Jónssonar Thorlacius, spítalahaldara á Hörgslandi á Síðu,[49] sem síðar varð sóknarprestur í Görðum á Álftanesi.[50] Þórunn Pálsdóttir, fyrri kona Björns á Hörgslandi, var þá nýlega látin[51] en hún var fjórði ættliður frá Torfa Jónssyni, lögsagnara á Kirkjubóli í Langadal við Djúp, eins og sjá má á því sem hér hefur verið skrifað. Torfi eignaðist Tannanes um eða rétt eftir 1580 (sjá hér bls. 3) og greinilegt er að hann og niðjar hans hafa átt ýmist alla jörðina eða tvo þriðju parta hennar í a.m.k. 130 ár.

Árið 1762 voru umskipti orðin. Annar tveggja eigenda Tannaness var þá séra Þorsteinn Þórðarson á Stað í Súgandafirði en hinn hét Gísli Egilsson[52] eins og hér hefur áður verið nefnt. Árið 1765 keypti Bárður Illugason, bóndi í Arnardal við Skutulsfjörð, þau 16 hundruð sem séra Þorsteinn Þórðarson átti í Tannanesi og fylgdu með 2 kúgildi.[53] Fyrir þennan jarðarpart og kúgildin tvö gaf Bárður 66 ríkisdali í spesíumynt svo að hvert jarðarhundrað og hvert kúgildi hefur verið virt á 3 ríkisdali og 64 skildinga. Bárður Illugason í Arnardal, sem keypti 16 hundruð í Tannanesi árið 1765, var eins og mörgum er kunnugt ættfaðir Arnardalsættar er svo hefur verið nefnd.[54] Árið 1805 voru Guðmundur Bárðarson í Arnardal og Guðrún Halldórsdóttir þar eigendur Tannaness.[55] Guðmundur var sonur Bárðar Illugasonar[56] en Guðrún var tengdadóttir Bárðar, gift Ásgrími syni hans sem líka bjó í Arnardal.[57] Vitneskja um hversu lengi fram eftir 19. öld þeir Arnardalsmenn héldu einhverjum parti af Tannanesi í sinni eigu liggur ekki á lausu. Þó er vitað að árið 1820 hafði Jón Bjarnason, sem þá bjó á Gelti í Súgandafirði en síðar á Sæbóli á Ingjaldssandi, átt 8 hundruð í þessari jörð um eitthvert skeið og seldi þá þennan jarðarpart Örnólfi Snæbjörnssyni er bjó á Suðureyri í Súgandafirði[58] og kallaður var Örnólfur ríki.

Á nítjándu öld mun Tannanes oftast hafa verið í leiguábúð. Leiguliðar bjuggu hér árið 1847[59] og svo var enn árið 1901. Eigendur jarðarinnar voru þá Kjartan Þorvarðsson og Bóas Guðlaugsson á Innri-Veðrará.[60] Tuttugu árum síðar voru tveir þriðju hlutar jarðarinnar komnir í sjálfsábúð en Sigríður Jensdóttir, ekkja Bóasar Guðlaugssonar, átti þá enn þriðjung jarðarinnar.[61]

Árið 1658 var landskuldin af Tannanesi 160 álnir[62] eða sem svaraði einu og einum þriðja úr kýrverði. Þá upphæð urðu leiguliðarnir sem hér bjuggu að greiða landsdrottnum sínum ár hvert fyrir jarðarafnotin. Árið 1695 var landskuldin enn óbreytt.[63] Á næstu árum lækkaði landskuldin verulega og var fyrir 1707 komin niður í 110 álnir.[64] Í stórubólu féll landskuldin svo niður í 90 álnir eða þar um bil.[65] Árið 1753 var landskuld af Tannanesi komin niður í 3 vættir,[66] það er 60 álnir, og má ætla að landsgæði hafi þá verið talin þó nokkru minni en verið hafði hundrað árum fyrr. Í því sambandi má minna á orð Jarðabókarinnar frá 1710 um skaða af völdum skriðufalla (sjá hér bls. 2).

Í jarðabók sem samin var árið 1805 er yfirleitt gert ráð fyrir mun lægri landskuld af bújörðum en tíðkast hafði á 17. og 18. öld. Í þessari jarðabók, sem aldrei var lögfest, er aðeins gert ráð fyrir 29 álna landskuld af Tannanesi[67] sem svarar til tæplega einum fjórða úr kýrverði. Um miðbik 19. aldar var landskuldin hins vegar 60 álnir[68] og á árunum kringum 1920 taldist hún vera 3 ær[69] en loðin og lemd ær var jafnan metin á 20 álnir í landaurareikningi. Á fyrstu áratugum 20. aldar hefur landskuldin af Tannanesi því verið hin sama og hún var um miðbik 18. aldar.

Um 1440 átti Guðmundur ríki fjögur innstæðukúgildi hér á Tannanesi.[70] Um miðbik 17. aldar hafði leigukúgildunum sem jörðinni fylgdu fjölgað upp í átta og hélst sá fjöldi óbreyttur fram undir lok aldarinnar.[71] Á fyrri hluta 18. aldar fækkaði þessum kúgildum því árið 1710 voru þau sex og hálft og árið 1753 ekki nema fjögur.[72] Frá þeim tíma og allt fram á 20. öld virðist engin breyting hafa orðið á fjölda innstæðikúgildanna sem fylgdu Tannanesi.[73] Um 1920 voru hér 24 leiguær[74] en sex ær voru í hverju kúgildi svo innstæðukúgildin hafa verið fjögur. Leigurnar fyrir hvert kúgildi voru öldum saman tveir fjórðungar af smjöri, það er 10 kíló, og svo var enn um aldamótin 1900 hér á Tannanesi.[75]

Frá því snemma á 19. öld og fram til 1937 var nær alltaf tvíbýli á Tannanesi[76] (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 376). Á 18. öld og fyrstu árum 19. aldar var hins vegar mjög oft þríbýli á jörðinni[77] og stöku sinnum bjuggu hér fjórir bændur í senn.[78]

Fyrsti heimamaður á Tannanesi sem þekktur er með nafni hét Bjarni Jónsson og bjó hér árið 1674.[79] Hvort Bjarni hefur þá verið í bændatölu er reyndar ekki alveg víst því hugsanlegt er að hann hafi verið vinnumaður eða sonur búandi foreldra. Ástæða þess að nafn Bjarna á Tannanesi hefur varðveist í skjölum er sú að Valgerður nokkur Bjarnadóttir kenndi honum barn sem hann þrætti fyrir og málið kom til kasta Alþingis.[80]

Þegar barnsfaðernismál þetta var fyrst tekið fyrir á Mosvallaþingi vorið 1674 báru vottar að Bjarni hefði í fyrstu meðgengið barnið en síðar tekið þann kost að neita.[81] Frá þessu greindi Páll Torfason sýslumaður á Alþingi sumarið 1674 og þar komust lögmenn og lögréttumenn að þeirri niðurstöðu að rétt væri að gefa þeim sem heyrt höfðu Bjarna játa faðerninu kost á að staðfesta framburð sinn með eiði.[82] Þrátt fyrir þennan úrskurð lögréttunnar hafa sýslumennirnir tveir í Ísafjarðarsýslu greinilega verið hikandi við að ráðast í eiðatökua því þegar málið kom aftur til Alþingis næsta ár var enn ekki búið að sverja.[83] Nýr úrskurður var þá kveðinn upp í lögréttu og endurtekið að því aðeins geti framburður fyrrnefndra votta talist marktækur að þeir verði látnir sverja en jafnframt tekið fram að virðist valdsmönnum þeir [þ.e. vottarnir] ei þar til nýtir þá hafi téður Bjarni laga undanfæri.[84]

Með þessum úrskurði var lagt í vald sýslumannanna að meta hvort nokkurt mark væri takandi á framburði þeirra vitna sem kváðust hafa heyrt Bjarna á Tannanesi viðurkenna að hann væri faðir að barni Valgerðar. Málið lá nú í salti í tvö ár en kom enn til kasta Alþingis árið 1677. Í Alþingisbókinni frá því ári er komist svo að orði að títtnefndir vottar að orðum Bjarna hefðu átt að fá að sverja svo framt þeir valinkunnir reynist[85] en greinilegt er að sýslumennirnir í Ísafjarðarsýslu hafa ekki talið þá uppfylla þetta skilyrði. Í greinargerð um málið kemur fram að vottar þessir hafi, þegar á reyndi, ekki viljað standa við sínar fyrri fullyrðingar og því verið dæmdir öldungis frá þessu máli sökum fávisku og minnisleysis.[86]

Þegar svona var komið tók mjög að  halla á vesalings konuna, sem barnið hafði alið, en enn stóð hún fast á því að Bjarni Jónsson á Tannanesi væri faðir þess og enginn annar.[87] Gegn neitun Bjarna reyndust þeir sem sæti áttu í lögréttu ófáanlegir til að taka mark á orðum hennar. Fór því reyndar fjarri því þar var nú kveðinn upp sá úrskurður að leitað yrði til kirkjunnar um að setja þessari föllnu konu áminningar en nægði sú ráðstöfun ekki til að fá fram hið sanna í málinu skyldu sýslumenn ganga hið frekasta eftir sannleikanum við nefnda Valgerði. – Virðist vel til fallið , sem og viðgengist hefur, segir í úrskurði þessum, að nefnd Valgerður hafi nokkra líkamlega refsing eftir mati sýslumannanna, Páls Torfasonar og Magnúsar Magnússonar, ef ske mætti að sannleikur þessa máls kynni heldur þar fyrir í ljós að leiðast.[88]

Hvort Valgerður hefur með pyntingum verið knúin til að nefna fleiri hugsanlega barnsfeður en Bjarna er nú ekki vitað því málið kom ekki oftar til kasta Öxarárþings.

Árið 1681 var tvíbýli á Tannanesi og þá bjuggu hér bændurnir Andrés Eiríksson og Jón Eyfinnsson.[89] Þeir eru fyrstu bændur sem vitað er um með vissu að hér hafi búið því eins og áður sagði kynni Bjarni sá sem lenti í barnsfaðernismálinu að hafa verið vinnumaður eða máske sonur Jóns Eyfinnssonar. Um þá Andrés og Jón er engin vitneskja í boði nema nöfnin ein og svo það að þeir bjuggu hér á sinni hálflendunni hvor.[90] Líklegt er þó að Jón Eyfinnsson hafi verið bróðir Ásmundar Eyfinnssonar sem bjó á Hóli í Firði þetta sama ár (sjá hér Hóll í Firði) því ætla má að nafnið Eyfinnur hafi verið fátítt. Þegar manntal var tekið 1703 voru þeir Andrés Eiríksson og Jón Eyfinnsson ekki lengur á Tannanesi.[91] Líklega hafa þeir verið dánir því nöfn þeirra finnast hvergi í manntalinu þó leitað sé um alla Vestfirði.[92]

Um bændurna fjóra sem bjuggu hér árið 1703 og þeirra fólk er flest á huldu. Aðeins einn þeirra, Þórður Þorleifsson, var hér enn búandi árið 1710[93] en hinir kynnu að hafa dáið í stórubólu. Kona Þórðar Þorleifssonar hét Ólöf Bjarnadóttir og árið 1703 voru þau 47 og 48 ára.[94] Tvö börn þeirra voru þá á heimili foreldra sinna, 18 ára piltur og 10 ára stúlka.[95] Árið 1710 bjó Þórður hér á 8 jarðarhundruðum. Bústofn hans var þá 1 kýr, 8 ær, 1 tvævetra sauður, 3 veturgamlir sauðir, 8 lömb, 2 hross og 1 folald.[96] Bústofn hinna bændanna tveggja sem bjuggu á Tannanesi árið 1710 var nokkru stærri því þeir voru hvor um sig með 2 kýr og 14 og 15 ær.[97]

Flestir bændanna sem bjuggu á Tannanesi á 18. öld eru nú gleymdir að kalla því fátt er um þá vitað þó að kunnugt sé um nöfn á sumum þeirra. Öðru máli gegnir um ýmsa sem hér bjuggu á 19. öld. Um þá liggja fyrir nokkru meiri upplýsingar.

Árið 1801 voru fjögur heimili á Tannanesi því þá var hér kvæntur húsmaður auk bændanna þriggja.[98] Elstur þeirra er bjuggu á jörðinni um þetta leyti var Ólafur Jónsson, sem kominn var undir sextugt þegar 19. öldin gekk í garð, en kona hans, Margrét Jónsdóttir, var um það bil tíu árum yngri, fædd á Hesti árið 1752.[99] Ólafur dó á Tannanesi árið 1813 en þremur árum síðar taldist sonur þessara hjóna sem Jón hét standa fyrir búinu.[100] Margrét móðir hans var þar hjá honum og ein léttastúlka.[101] Fleira var heimilisfólkið ekki. Jón Ólafsson bjó á Tannanesi fram yfir 1820 og seinna á Efstabóli í skamman tíma en mun aldrei hafa kvænst.[102]

Einn bændanna sem bjuggu á Tannanesi árið 1801 hét Jón Sigurðsson en kona hans var Ingibjörg Tómasdóttir.[103] Jón var þá um fertugt en Ingibjörg komin um fimmtugt.[104] Jón þessi Sigurðsson andaðist á Tannanesi haustið 1805 en Ingibjörg lifði lengur.[105] Dóttir hennar var Salbjörg Gilsdóttir sem árið 1799 hafði gengið að eiga Nikulás Bjarnason[106] er hér hefur áður verið nefndur. Árið 1801 voru þau Nikulás og Salbjörg í húsmennsku á Tannanesi með börn sín þrjú, hann 27 ára en hún 23ja.[107] Fyrir hjónaband hafði Salbjörg eignast drenginn Gils Jónsson[108] sem árið 1801 mun hafa verið fósturbarn á Hesti, talinn 6 ára.[109] Árið 1805 voru Salbjörg og Nikulás komin að Kirkjubóli í Korpudal og þangað fluttist líka móðir Salbjargar, Ingibjörg Tómasdóttir, sem hér var áður nefnd.[110] Ingibjörg dó á Kirkjubóli 17. september 1810 og 3. janúar 1814 dó Salbjörg dóttir hennar, aðeins liðlega hálffertug að aldri.[111] Nikulás Bjarnason, maður Salbjargar, hélt hins vegar áfram sínum búskap á Kirkjubóli og kvæntist fyrr en varði á ný, ekkjunni Marsibil Bernharðsdóttur (sjá hér Kirkjuból í Korpudal).

Einn bændanna sem bjuggu á Tannanesi árið 1801 hefur enn ekki verið nefndur en sá hét Úlfur Sigurðsson og kona hans Vilborg Jónsdóttir.[112] Í manntalinu frá 1801 er Úlfur sagður 43ja ára gamall en eiginkonan 69 ára.[113] Þar er líka tekið fram að Úlfur sé hennar síðari eiginmaður.[114] Hann var fæddur á Hóli í Firði árið 1758 eða 1759[115] og hefur að líkindum verið sonur Sigurðar Jónssonar og Guðrúnar Bjarnadóttur sem þar bjuggu (sjá hér Hóll í Firði). Árið 1801 var ekkjan Vilborg Sigurðardóttir vinnukona hjá Úlfi[116] og hefur að líkindum verið systir hans því í manntalinu frá 1816 er tekið fram að kona með þessu nafni, sem hér var þá, sé systir Úlfs.[117] Samkvæmt manntölunum hefur hún að vísu aðeins elst um 7 ár á 15 árum en samt verður að telja mjög líklegt að þetta sé sama konan því ónákvæmni um aldur fólks var enn mjög mikil á fyrstu áratugum 19. aldar.

Vilborgu Sigurðardóttur, sem var vinnukona hjá Úlfi á Tannanesi árið 1801, fylgdi þá sonur hennar er hét Jón Jónsson og var fæddur 9. október 1785.[118] Árið 1810 var piltur þessi enn á Tannanesi en undir lok þess árs féll hann niður um ís og drukknaði á Ystavaði.[119] Yfir það var farið frá Ytri-VeðraráHolti (sjá hér Ytri-Veðrará og Holt). Slys þetta skeði 29. desember 1810 og í prestsþjónustubókinni frá Holti er frá því sagt með þessum orðum: Datt ofan í ís og deyði á svokölluðu Ystavaði Jón Jónsson, vinnumaður frá Tannanesi, 25 ára gamall. Að honum hefur verið leitað og finnst ekki. [120]

Næsta vor fannst líkið af Jóni og var hann jarðaður þann 12. maí.[121] Frá líkfundinum greinir prestur með þessum orðum:  Fannst á floti framundan Valþjófsdal þann 11. maí, líklega flosnaður frá ísjaka. Þó að kalla óskaddaður.[122]

Orð prestsins benda til þess að líkið hafi geymst frosið í ísnum nær allan þennan tíma sem vel getur verið rétt því tíðarfarinu á fyrri hluta ársins 1811 lýsir Jón Espólín svo:

 

Þá var bæði norðan og sunnan lands, og þó enn meira eystra, vor svo kalt og illt að aldrei létti kuldum og hríðum til þess er 8 vikur voru af sumri. Var það þá furðulegt er menn héldust við, bjargarlausir og heylausir víða. … veiðiskapur enginn því að ís lá yfir öllu landi … það ætluðu menn að aldrei mundi í jafnmiklu harðæri á hinum fyrri tíðum mannfall hafa svo lengi undan dregist.[123]

 

Jón Espólín, sem árið 1811 var sýslumaður norður í Skagafirði, furðar sig á því að fjöldi manna skuli ekki hafa fallið úr hungri í því árferði sem þá var og á mörgum heimilum víða um land var hungurvofan í gættinni á næstu árum þegar siglingateppa og dýrtíð af völdum hins mikla ófriðar í Evrópu bættust við.

Á fyrsta áratug 19. aldar eða um 1810 fluttust að Tannanesi hjónin Ísleifur Jósepsson og Guðrún Þórðardóttir. Þau höfðu áður búið í Bæ í Súgandafirði (sjá hér Bær) og á Mosvöllum. Árið 1801 voru þau á Mosvöllum[124] og þar voru þau enn árið 1805[125] en 1811 voru þau komin að Tannanesi.[126] Þegar manntal var tekið 1. febrúar 1801 var Ísleifur sagður 37 ára gamall en Guðrún kona hans 48 ára[127] Börn þeirra fjögur voru þá á aldrinum tveggja til fjórtán ára.[128] Árið 1816 hafði fjölskylda þessi búið á Tannanesi í nokkur ár og mun hafa orðið bjargarlaus þá um vorið. Þann 20. júní andaðist Guðrún húsfreyja og var jörðuð á Jónsmessunni. Frá dauða hennar greinir séra Þorvaldur Böðvarsson í Holti með þessum orðum:

 

Jörðuð í Holti (24.6.1816) Guðrún Þórðardóttir, kvinna bóndans, Ísleifs Jósefssonar á Tannanesi, 62ja ára, meinhæg og þolinmóð, mjög illa meðfarin. Sálaðist mjög snöggt þann 20. þ.m. án annarra vitanlegra orsaka en hungurs og atvinnuleysis. Á fjögur börn eftir, öll þroskuð nokkuð en ekki vel upp alin.[129]

 

Prestur gefur þarna til kynna að Guðrðun á Tannanesi hafi dáið úr hungri og þegar hann nefnir atvinnuleysi er meiningin sú að henni hafi ekki gefist kostur á að afla sér bjargræðis. Þau orð séra Þorvaldar að húsfreyja þessi á Tannanesi hafi verið illa meðfarin ber ef til vill að skilja sem sneið til Ísleifs bónda hennar en þó er það ekki alveg víst. Við andlát Guðrúnar í júní 1816 leystist heimili þeirra Ísleifs upp. Á skrá yfir íbúa Mosvallahrepps á því ári er hann ekki finnanlegur en tveir synir þessara hjóna, Guðlaugur og Torfi, voru þá hjá Úlfi Sigurðssyni á Tannanesi sem hér var áður nefndur.[130] Þeir voru þá báðir liðlega tvítugir.[131] Þorsteinn bróðir þeirra, sem var nokkru eldri, var kominn að Fremri-Vatnadal í Súgandafirði en Guðríður systir þeirra, sem var 16 ára, fór sem léttastúlka að Innri-Veðrará.[132]

Guðrún Þórðardóttir, sem varð hungurmorða hér á Tannanesi vorið 1816, var dóttir hjónanna Þórðar Hallssonar og Guðríðar Pálsdóttur sem bjuggu í Neðri-Breiðadal og á Kirkjubóli í Bjarnardal[133] en Ísleifur eiginmaður hennar var sonarsonur séra Torfa Ísleifssonar sem var prestur á Stað í Súgandafirði (sjá hér Staður og Bær í Súgandafirði). Móðir Guðrúnar, Guðríður Pálsdóttir, var líka úr Súgandafirði, bóndadóttir frá Kvíanesi.[134]

Líklegt má telja að Guðrún Þórðardóttir sem hér var frá sagt hafi síðust manna fallið úr hor hér á Tannanesi en síðan hún sálaðist eru nú (1996) liðin um það bil 180 ár sem ekki er langur tími.

Á árunum kringum 1830 skipti nokkuð ört um ábúendur á Tannanesi. Úr hópi þeirra sem þá bjuggu hér á jarðarparti í nokkur ár má nefna hjónin Jón Jónsson og Guðrúnu Jónsdóttur.[135] Jón þessi Jónsson var fæddur árið 1794, sonur hjónanna Jóns Oddssonar og Sigríðar Hákonardóttur sem bjuggu um skeið í Kirkjubólshúsum[136] (sjá hér Kirkjuból í Korpudal). Í marsmánuði árið 1829 gekk hann að eiga Guðrúnu þá sem hér var nefnd[137] og um svipað leyti fengu þau fáein jarðarhundruð til ábúðar á Tannanesi.[138] Þann 29. janúar 1834 fórst Jón þessi Jónsson á Tannanesi í snjóflóði á Óshlíð fyrir innan Bolungavík.[139] Guðrún eiginkona hans var lítið eitt yngri en Jón, fædd 30.12.1796 í Fremri-Breiðadal, en foreldrar hennar voru hjónin Jón Egilsson og Ólöf Þórðardóttir sem þar bjuggu.[140] Áður en Guðrún giftist Jóni Jónssyni eignaðist hún son með Sæmundi Guðlaugssyni, bónda á Mosvöllum (sjá hér Mosvellir), og var það Kristján Sæmundsson, fæddur 1826,[141] sem síðast var bóndi í Tungu í Firði og andaðist þar 18. janúar 1858 (sjá hér Tunga í Firði). Að Jóni Jónssyni látnum hélt Guðrún kona hans áfram búskap á Tannanesi[142] og giftist á ný haustið 1835.[143] Seinni maður hennar var Ólafur Þorkelsson frá Innri-Veðrará[144] og bjuggu þau á Tannanesi fram yfir 1840 en voru komin að Ytri-Veðrará árið 1845.[145] Þaðan fluttust þau svo árið 1856 út á Ingjaldssand.[146]

Á árunum 1830-1835 var Árni Mahalaleelsson bóndi á Tannanesi[147] og mun um skeið hafa haft hálfa jörðina til ábúðar. Árni, sem fæddur var árið 1796 eða því sem næst, var sonur hjónanna Mahalaleels Árnasonar og Guðrúnar Jónsdóttur sem árið 1801 voru við búskap í Þverdal í Aðalvík.[148] Mahalaleel var árið 1816 vinnumaður á Stað í Aðalvík og er nefndur Mahalel í manntali frá því ári.[149] Árni sonur hans var þá tvítugur smaladrengur í Tungu í Skutulsfirði, sagður fæddur í Þverdal í Aðalvík.[150] Fáum árum síðar fluttist hann til Önundarfjarðar og gekk snemma á árinu 1825 að eiga Ragnheiði, dóttur Björns Jónssonar, bónda í Neðrihúsum undir Hesti, og Geirlaugar konu hans.[151] Ragnheiður var komin yfir þrítugt þegar hún giftist Árna og hafði áður eignast tvö börn í lausum leik, sitt með hvorum manni.[152] Árið 1829 bjuggu þau Árni og Ragnheiður í Neðri-Breiðadal[153] en voru komin að Tannanesi árið 1830.[154] Búskaparár Árna Mahalaleelssonar á Tannanesi urðu ekki mjög mörg. Þegar manntal var tekið 2. febrúar 1835 var hann hér enn[155] en mun hafa flust út á Ingjaldssand þá um vorið eða síðar á því sama ári. Í aprílmánuði árið 1836 fór Árni í hákarlalegu með Móses Jónssyni á Sæbóli. Tíu vaskir menn voru með í þeirri leguferð og týndust allir í hafi þegar skipið fórst (sjá hér Sæból). Þegar Árni drukknaði, 11. apríl 1836, var hann vinnumaður á Brekku á Ingjaldssandi.[156]

Þegar Árni Mahalaleelsson fór út á Ingjaldssand tók Jón Björnsson mágur hans við jarðarpartinum sem Árni hafði haft til ábúðar. Jón var þá 35 ára gamall en svo fór að búskaparár hans hér á Tannanesi urðu fleiri en nokkurs annars úr hópi þeirra sem hér hófu búskap á 19. öld ef frá er talinn Einar Einarsson sem kom að Tannanesi í lok aldarinnar.[157] Jón Björnsson bjó á Tannanesi frá 1835-1860 svo búskaparár hans hér urðu 25.[158]

Jón var fæddur í Neðrihúsum í Hestþorpinu 11. mars árið 1800 og mun hafa alist þar upp.[159] Haustið 1824 kvæntist hann Guðnýju, dóttur Kolbeins Hildibrandssonar,[160] sem flust hafði úr Dýrafirði að Hesti árið 1820 (sjá hér Hestur), og Steinunnar konu hans.[161] Þau Jón Björnsson og Guðný Kolbeinsdóttir bjuggu um skeið á Vífilsmýrum[162] og þar var Jón vinnumaður þegar Guðný kona hans andaðist 14. febrúar 1835.[163] Seinna á því ári mun hann hafa flust að Tannanesi og tekið við búsforráðum af Árna mági sínum sem áður var nefndur. Jón var sannanlega kominn að Tannanesi haustið 1836[164] og af líkum má ráða að hann hafi farið þangað 1835. Þann 13. nóvember á því ári varð það sviplega slys að Ásgeir prófastur Jónsson, sem þá átti heima á Þórustöðum, drukknaði í Holtsvaðli á heimleið frá Tannanesi (sjá hér Holt). Í frásögn Sighvats Grímssonar Borgfirðings af þeim atburði segir meðal annars svo:

 

Svo bar við að Ásgeir prófastur hafði keypt sér kú af bónda þeim á Tannanesi er Jón hét og kallaður var „kerling”. Var kýrin komin til prófasts en hann reið til Tannaness með verð kýrinnar síðla dags, stóð þar við um stund og drakk brennivín nokkuð svo allmikið var hann ölvaður. Bauð Jón bóndi honum fylgd sína yfir Vöðin en prófastur kvað þess enga þörf. Var dimmt orðið að kveldi dags er hann reið frá Tannanesi … .[165]

 

Sé þarna rétt með farið hjá Sighvati hlýtur það að vera Jón Björnsson sem seldi Ásgeiri prófasti kúna því Jón Jónsson, sem bjó hér skömmu áður, fórst í snjóflóði í janúarmánuði árið 1834 eins og hér hefur áður verið greint frá. Aðrir Jónar koma hér vart til greina því enginn þeirra bjó á Tannanesi haustið 1835. Um ástæður þess að Jón Björnsson var nefndur kerling veit nú líklega enginn.

Um svipað leyti og Jón fluttist að Tannanesi eða mjög skömmu síðar tók hann saman við tæplega þrítuga ekkju sem hét Guðríður Bjarnadóttir og bjó í Efrihúsum undir Hesti.[166] Guðríður var fædd á Eyri í Ísafirði sumarið 1807, dóttir hjónanna Bjarna Þórðarsonar og Hildar Jónsdóttur er seinna bjuggu í Reykjarfirði við Djúp.[167] Haustið 1832 giftist Guðríður Páli Pálssyni, sem þá var vinnumaður á Ármúla, og fluttist skömmu síðar með honum til Önundarfjarðar þar sem þau hófu búskap í Efrihúsum.[168] Þann 11. janúar 1834 fórst Páll í snjóflóði á Breiðadalsheiði[169] en Guðríður bjó áfram í Efrihúsum[170] uns hún lét til leiðast að hefja búskap með Jóni Björnssyni á Tannanesi. Haustið 1836 voru þau gefin saman í hjónaband, skömmu fyrir veturnætur, en Guðríður hefur flust að Tannanesi einhverjum mánuðum eða heilu ári fyrr því þegar að giftingunni kom segir prestur hana vera bústýru brúðgumans.[171]

Þegar Jón Björnsson og Guðríður Bjarnadóttir voru pússuð saman átti hann eitt barn á lífi en hún ekkert.[172] Á næstu 17 árum eignuðust þau 6 börn sem öll komust upp.[173] Nokkur þeirra ílentust síðar í Súgandafirði og þar áttu þau Jón og Guðríður á Tannanesi lengi mikinn fjölda niðja.

Árið 1837 hafði Jón Björnsson aðeins 8 hundruð úr Tannanesi til ábúðar, það er einn þriðja úr allri jörðinni.[174] Þá var bústofninn ein kýr, tólf ær og einn hestur.[175] Þrettán árum síðar bjuggu þau Jón og Guðríður á hálfri jörðinni, það er tólf hundruðum.[176] Þá voru kýrnar orðnar tvær og þeim fylgdi einn kálfur en tala ánna var óbreytt.[177] Aðrar sauðkindur hans voru þá fimm, allt gemlingar.[178]

Árið 1860 höfðu þau Jón Björnsson og Guðríður kona hans baslað við búskap á Tannanesi í 25 ár. Þá um vorið færðu þau sig um set og fluttust að Kirkjubóli í Korpudal.[179] Þar stóðu þau fyrir búi í örfá ár[180] en árið 1863 fluttist Jón búferlum frá Kroppstöðum til Þórðar sonar síns sem þá bjó á Laugum í Súgandafirði og þar dó hann fyrir lok þess árs.[181] Guðríður kona hans lifði lengur en hún andaðist hjá Þórði syni þeirra sumarið 1878.[182] Hann var þá bóndi í Botni í Súgandafirði.[183]

Hér hefur áður verið minnst á Ólaf Þorkelsson, sem um skeið var sambýlismaður Jóns Björnssonar á Tannanesi, en aðrir sambýlismenn hans hér voru þeir Jón Jónsson, sem fæddist á Villingadal árið 1796, og Jón Jónsson sem fæddist á Kirkjubóli í Valþjófsdal árið 1825.[184] Jónar þessir tveir bjuggu hver á fætur öðrum á þeirri hálflendu sem Ólafur Þorkelsson hafði áður haft til ábúðar. Sá eldri þeirra átti fyrir konu, Guðrúnu Sigurðardóttur sem fæddist á Fjallaskaga í Dýrafirði árið 1811 en ólst upp á Hóli á Hvilftarströnd.[185] Þau Jón og Guðrún hófu búskap á Tannanesi upp úr 1840 og bjuggu hér uns Guðrún dó vorið 1851.[186]

Jón Jónsson, sem fór að búa á Tannanesi á árunum upp úr 1850 og bjó hér enn 1860, var yfirleitt nefndur Jón Gróuson.[187] Um hann verður nánar fjallað í Neðri-Breiðadal (sjá hér Neðri-Breiðadalur) en þar átti hann heima mun lengur en á Tannanesi.

Flestir bændanna sem hófu búskap á Tannanesi á síðari hluta 19. aldar bjuggu hér aðeins í fáein ár og urðu ekki rótgrónir. Hér hefur áður verið minnst á suma þeirra og má þar nefna Jóhannes norðurfall (sjá hér Kirkjuból í Korpudal), bræðurna Eirík og Guðmund Auðun Kristjánssyni (sjá hér Hóll í Firði og Tunga í Firði) og Kjartan Jónsson söðlasmið (sjá hér Mosvellir). Jóhannes norðurfall, sem var Guðmundsson, bjó á Tannanesi frá 1860 og eitthvað fram yfir 1870.[188] Eiríkur Kristjánsson bjó hér í nokkur ár í kringum 1880 en Guðmundur Auðun bróðir hans og Kjartan söðlasmiður voru hér um 1890.[189]

Hjónin Guðmundur Ólafsson og Ingibjörg Jónsdóttir bjuggu á Tannanesi um skeið á árunum kringum 1870[190] og aftur upp úr 1890.[191] Guðmundur var fæddur í Neðrihúsum undir Hesti árið 1836, sonur Ólafs Kolbeinssonar sem þar bjó (sjá hér Hestur) og konu hans, Elínar Markúsdóttur.[192] Haustið 1867 kvæntist hann Ingibjörgu Jónsdóttur, sem fæddist á Ytri-Veðrará árið 1840,[193] en foreldrar hennar, þau Jón Jónsson og Guðrún Sigurðardóttir, bjuggu um skeið á Tannanesi á árunum fyrir og um 1850 (sjá hér bls. 15).

Hjónin Guðmundur Ólafsson og Ingibjörg Jónsdóttir bjuggu aldrei mjög lengi á hverjum stað. Árið 1870 voru þau á Tannanesi, árið 1880 á Hóli í Firði, árið 1890 í Efrihúsum og þegar Guðmundur dó vorið 1894 var hann kominn aftur að Tannanesi og farinn að búa þar.[194] Þau Guðmundur og Ingibjörg eignuðust níu börn og eitt þeirra var Guðmundur Kr. Guðmundsson sem bjó hér á Tannanesi[195] frá 1911-1944 (sjá hér bls. 19).

Árið 1880 bjuggu á Tannanesi Eiríkur Kristjánsson, sem fyrr var nefndur, og maður að nafni Bjarni Jónsson.[196] Bjarni var fæddur á Næfranesi í Dýrafirði árið 1834 og bjó á Tannanesi með seinni konu sinni, Rósamundu Jóhönnu, sem var dóttir Guðmundar Guðmundssonar norðlenska.[197] Bjarni og Rósamunda gengu í hjónaband haustið 1872 en áður hafði hann verið kvæntur Guðrúnu Björnsdóttur og átti með henni soninn Daníel sem fæddur var árið 1865[198] og áður hefur verið nefndur á þessum blöðum (sjá hér Tunga í Valþjófsdal). Rósamundu hafði Guðmundur norðlenski eignast með Ingibjörgu Jónsdóttur sem um nokkurra ára skeið var sambýliskona hans á Næfranesi, Sveinseyri og Söndum í Dýrafirði (sjá hér Nesdalur og Sandar (Guðmundarskáli þar)). Rósamunda fæddist á Sveinseyri 8. desember 1851.[199] Árið áður höfðu foreldrar hennar eignast aðra dóttur, sem líka var skírð Rósamunda Jóhanna, en hún dó fárra daga gömul.[200]

Þegar Rósamunda yngri var á fyrsta ári var henni komið í fóstur og skömmu síðar slitnaði endanlega upp úr sambúð foreldra hennar. Stúlkan ólst upp í Valþjófsdal og mun sjaldan hafa séð sinn gamla föður sem var nær 30 árum eldri en móðir hennar. Þó náði Guðmundur norðlenski að heimsækja þessa dóttur sína í Tungu í Valþjófsdal vorið 1873.[201] Þá var hann 73ja ára gamall en Rósamunda 21 árs. Ári síðar giftist hún Bjarna Jónssyni og fóru þau þá að búa á Tannanesi.[202] Vorið 1880 bjuggu þau hér í tvíbýli með 2 kýr, 15 ær, 10 gemlinga, hest og tryppi.[203] Er þá talinn allur bústofninn og þrjár af ánum voru geldar.[204] Bjarni og Rósamunda bjuggu á Tannanesi í 16 ár en búskap þeirra hér lauk þegar Bjarni andaðist í lok marsmánaðar árið 1890.[205] Þau höfðu þá eignast níu börn og munu sjö þeirra hafa verið á lífi.[206]

Baðstofan sem Bjarni og Rósamunda bjuggu í á Tannanesi var 6 x 3,5 álnir,[207] það er liðlega 8 fermetrar. Hæðin var 3,3 metrar.[208] Á þessum híbýlum var einn gluggi með fjórum rúðum.[209] Göng sem lágu frá baðstofunni til útidyra voru um það bil 5,6 metrar á lengd en um 80 sentimetrar á breidd.[210] Eldhúsið hjá Rósamundu var 4,7 fermetrar að sögn úttektarmanna.[211]

Vorið 1890 fór hún frá Tannanesi og gerðist húskona á Kirkjubóli í Korpudal. Þar var hún með fimm af börnum sínum þegar manntal var tekið 1. nóvember 1890 og er sögð lifa af kvikfé.[212] Frá Kirkjubóli fór Rósamunda fljótlega að Eyri[213] og árið 1898 fluttist hún búferlum frá Flateyri til Ísafjarðar.[214] Þrír synir Bjarna Jónssonar á Tannanesi og Rósamundu konu hans, þeir Guðmundur, Jón og Ingimar, munu allir hafa orðið skipstjórar á Ísafirði.[215] Einn þessara bræðra, Ingimar Bjarnason, átti lengi heima í Hnífsdal[216] og varð þar árið 1924 fyrsti formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Hnífsdælinga.[217] Synir Ingimars voru togaraskipstjórarnir Bjarni og Halldór Ingimarssynir[218] sem urðu um skeið þjóðkunnir aflamenn og af flestum taldir afreksmenn á sjó.

Hér var áður minnst á Guðmund Auðun Kristjánsson sem bjó á parti úr Tannanesi í nokkur ár á síðasta og næst síðasta áratug 19. aldar. Hjá honum var sumarið 1887 kerling frá Hjallatúni í Tálknafirði sem Steinunn Jónsdóttir hét.[219] Jón Guðmundsson búfræðingur, sem seinna bjó lengi á Ytri-Veðrará, hitti kerlingu þessa á Tannanesi 3. ágúst 1887[220] en þá voru tæplega tveir mánuðir liðnir frá því hann kom til Flateyrar sunnan úr Dalasýslu og settist að í Önundarfirði (sjá hér Ytri-Veðrará). Nokkra skemmtun hefur búfræðingurinn ungi haft af tali og skringilegum frásögnum Steinunnar. Lítið brot af orðræðum hennar reyndi hann að festa á blað sama dag og segir skrifað í túninu á Tannanesi.[221] Meðal annars hripaði hann niður þetta:

 

Á Tannanesi tók ég mynd af pontu sem Steinunn Jónsdóttir átti frá Hjallatúni í Tálknafirði. Hefur hún átta um sjötugt og er ógift en á mörg börn. Úr pontunni dugar í 5½ dag þegar hún er fátæk en þegar hún er rík lætur hún hana troðfulla. Stúlkan stendur á boðstólum með pontuna í vasanum. Hún er amma í Kaupmannahöfn og á Flateyri og á móður hjá guði. Pontan er fundur og fannst í Eiríksjökli, tíu álnir í jörð af 6 vetra gömlu barni í hláku, náttmyrkri. Pontan fannst rétt fyrir páskana en það voru ekki sumarpáskar … 12 ár síðan hún fannst … . Í Steinunnar nafni, amen.[222]

 

Í lok ársins 1887 var Steinunn enn á Tannanesi og var þá sögð 67 ára gömul[223] svo hún hafði yngst um níu ár frá því um sumarið.

Við lok 19. aldar voru hér þrjú heimili.[224] Bændur á jörðinni voru þá Guðmundur Magnús Sveinsson, sem fæddur var á Hesti árið 1852, og Einar Einarsson sem fæddur var á Selakirkjubóli árið 1864.[225] Einar er í manntalinu frá 1901 sagður vera sjómaður[226] en í hreppsbók frá þessum árum sést að hann hefur þá haft lítið eitt meira en þriðjung jarðarinnar til ábúðar.[227] Þriðji heimilisfaðirinn á Tannanesi um aldamótin 1900 var Kristján Sveinsson sem var hér í húsmennsku. Í manntalinu frá 1901 er hann sagður vera bræðslumaður og Kristín Jónsdóttir kona hans bræðslukona.[228] Þau Kristján og Kristín voru þá bæði um sextugt og áttu sjálf litla timburhúsið sem þau bjuggu í.[229]

Guðmundur M. Sveinsson frá Hesti bjó hér á Tannanesi frá 1894 til æviloka en hann andaðist 57 ára gamall 4. apríl 1910.[230] Á búskaparárum sínum hér bjó Guðmundur með seinni konu sinni, Kristínu Friðriksdóttur sem fæddist í Keflavík norðan Súgandafjarðar 10. desember 1865.[231] Foreldrar hennar voru Friðrik Axel Axelsson (sjá hér Keflavík) og Helga Guðmundsdóttir.

Einar Einarsson, sem er nefndur sjómaður í manntalinu frá 1901, var lengi annar tveggja bænda á Tannanesi og bjó hér allt til ársins 1937 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 376). Kona hans var Guðmunda Atladóttir, fædd í Ytri-Hjarðardal árið 1865.[232] Á fyrstu dögum ævinnar var hún reyndar skírð Guðmundína og þegar hún var fermd nefnir prestur hana enn því nafni.[233] Nokkru síðar virðist kona þessi hins vegar hafa skipt um nafn því þegar hún giftist Einari 14. desember 1893 er hún nefnd Guðmunda.[234] Það nafn ber hún líka í manntölunum frá 1901 og 1910, þá húsfreyja á Tannanesi,[235] og þegar hún dó, 5. júní 1937, nefnir prestur hana Guðmundu en ekki Guðmundínu.[236]

Um 1920 bjuggu Einar Einarsson og Guðmunda kona hans á einum þriðja parti úr Tannanesi, það er 8 hundruðum, en Guðmundur Kr. Guðmundsson, sem var bóndi á Tannanesi frá 1911-1944 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 376), hafði 16 hundruð til ábúðar.[237] Baðstofan sem Einar og fjölskylda hans bjuggu þá í var 4 x 11 álnir eða liðlega 17 fermetrar.[238] Önnur bæjarhús hjá honum voru þessi: Eldhús, fjós, tvö fjárhús, hesthús, hlaða og geymsluhús.[239] Hjá Guðmundi var baðstofan aðeins stærri eða 5 x 9 álnir (tæplega 18 fermetrar) en önnur bæjarhús hjá honum voru: Eldhús, skemma, hjallur, hesthús, tvær hlöður og fjárhús.[240] Guðmundur Kr. Guðmundsson á Tannanesi var sonur hjónanna Guðmundar Ólafssonar og Ingibjargar Jónsdóttur[241] sem hér höfðu búið um nokkurt skeið á síðari hluta 19. aldar (sjá hér bls. 16). Guðmundur Kr. var sjálfseignarbóndi og um 1920 var hann búinn að girða nokkurn hluta af túninu.[242] Einar sambýlismaður hans var leiguliði og hjá honum var allt ógirt ef marka má lýsingu fasteignamatsmanna.[243] Hjá báðum fjölskyldunum á Tannanesi var matjurtagarður þegar hér var komið sögu og talið að um það bil fjórar tunnur af garðávöxtum fengjust úr hvorum garði.[244]

Á Tannanesi voru bæirnir nefndir efri bær og neðri bær.[245] Guðmundur bjó í efri bænum en Einar í neðri bænum.[246] Árið 1924 byggði Guðmundur íbúðarhús úr timbri (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 376) en Einar bjó enn í torfbæ um 1930.[247] Fólkið í efri bænum var þá með þrjár kýr, 45 ær og 2 hesta en í neðri bænum var bara ein kýr, 35 ær og 2 hestar.[248]

Tvíbýli hélst á Tannanesi allt til ársins 1937 en þá dó Guðmunda Atladóttir, kona Einars í neðri bænum,[249] og við konumissinn mun hann hafa gefist upp á búskapnum (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 376). Í efri bænum var búið allt til ársins 1972 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 376) en þá fór jörðin í eyði. Síðastur bjó á Tannanesi Ingimundur Guðmundsson, sonur Guðmundar Kr. Guðmundssonar og Jóhönnu Ingimundardóttur er hófu búskap í efri bænum árið 1911. Þau Ingimundur og Jensína Guðmundsdóttir, kona hans, tóku við búsforráðum árið 1944 og stóðu hér fyrir búi í 28 ár.

Að vetrinum er nú  (1994) jafnan mannlaust á Tannanesi en á sumrin er hér oftast fólk. Niðri á Tanna stendur nýlegur sumarbústaður og timburhúsinu frá þriðja áratug aldarinnar er haldið við. Það hús mun hafa verið reist á sama stað og gamli efri bærinn stóð áður.[250] Neðri bærinn stóð hins vegar svolítið utar og neðar, fyrir ofan og innan kartöflugeymslu sem sést þegar gengið er um túnið.[251] Fjarlægð milli bæjanna var ekki nema 25-30 metrar.[252] Engar rústir eru nú sjáanlegar þar sem neðri bærinn stóð. Húsið sem Kristján Sveinsson bræðslumaður og Kristín kona hans, sem hér voru áður nefnd, bjuggu í á árunum kringum aldamótin1900 mun hafa staðið um 70 metrum fyrir norðan efri bæinn.[253] Þar sem hjón þessi bjuggu á sinni tíð stendur nú (1994) torfkofi með bárujárnsþaki og er notaður sem reykhús.[254] Kofinn er rétt ofan við þjóðveginn og alveg út við hestagirðingu sem liggur þarna til fjalls.[255] Kristján bræðslumaður andaðist vorið 1905[256] en Kristín ekkja hans var áfram á Tannanesi í allmörg ár.[257]

Í bók sinni Þrepin þrettán segir Gunnar M. Magnúss sitthvað frá þessum bræðsluhjónum, Kristjáni og Kristínu, og telur þau hafa búið í skúr sem var áfastur við bræðsluhúsið á Flateyri.[258] Líklega hafa þau haldið þar til meðan verið var að bræða hákarlslýsið þó að heimilisföst væru á Tannanesi. Meðal þess sem Gunnar kunni frá þeim og lýsisbræðslunni að segja var þetta:

 

Á eyraroddanum [á Flateyri] var bræðsluhúsið. Þar bjuggu bræðsluhjónin, Kristján og Kristín. Þau voru komin yfir miðjan aldur þegar hér var komið sögu [á árunum 1905-1910 – innsk. K.Ó.]. Kristján bræðslumaður gegndi einhverju virðulegasta embætti staðarins og var kóngur í ríki sínu. Á Flateyri var mesta bræðslustöð Vestfjarða um þessar mundir eins og skýrslur bera með sér. Hákarlaskipin báru mikinn hlut að landi [sbr. hér Flateyri K.Ó.].

… Hann [bræðslumaðurinn] bar í fötum lifrina úr tunnum og ámum yfir í bræðslukerið sem náði honum í geirvörtur en undir kerinu logaði hinn eilífi eldur. … Bræðsluhjónin voru lítið á ferli utan ríkis síns. Þau unnu saman og hugsuðu um eldana en þurftu öðru hverju að skreppa upp í verslun.

… Bræðslumaðurinn bjó með kerlu sinni í skúr sem var áfastur við bræðslustöðina. Stöðin var ekkert stórhýsi en þægilega rúmgóð fyrir einn mann sem gat gengið í kringum kerið og hrært í eftir þörfum. Bekkur var við einn vegginn og borð við enda hans inn í horni. Þar var einn kjaftastóll sem oft lá brotinn saman.

Kristín eldaði í íveruskúrnum en kom oft með matinn yfir í bræðsluskúrinn til Kristjáns. Þar borðuðu þau saman. Þegar þau borðuðu fisk höfðu þau lýsi í bolla og difu bitunum í. … Kristján var venjulega í blússu og hafði boldangssvuntu framan á sér, bundna aftur fyrir. Hann gekk á klossum og bar beyglaðan hattkúf á höfði. Þessi klæðnaður gljáði af fituklessum. En fínlegar og mjúkar hendur hafði hann svo að enginn hafði mýkri hendur þar í sýslu, nema þá hún Kristín sem var í lýsinu eins og hann.

Í frístundum sínum og góðu veðri sat Kristján bræðslumaður á kjaftastólnum fyrir dyrum úti og reykti úr langri pípu, sams konar og heldri menn sáust með á myndum. Þessa forláta pípu hafði norskur skipstjóri gefið honum fyrr á árum fyrir hreystilega framgöngu hans til sjós. Skammt frá honum sat Kristín fyrir opnum dyrum en leit öðru hvoru til kabyssunnar sem var í horni skúrsins en reykrör lá á ská frá henni og upp úr þekjunni.

Kristín var hans ektakvinna og fór ekki fetið út fyrir landamæri ríkisins án þess hann vissi. Hún reykti úr krítarpípu. Menn höfðu séð myndir af Indíanakerlingum sem sátu reykjandi úti fyrir tjalddyrum. Og einhver sagði um bræðslustjórakonuna: -Nú höfum við fengið Indíánakerlingu.

Báðum þótti sopinn góður og það var ekki langt upp í verslunina að fá sér á pyttlu. Kristján átti alltaf inni í reikningi í þeirri miklu forretningu og lét skrifa hjá sér eftir þörfum. Þau supu af stút og létu pyttluna ganga milli sín.

Ef Kristján þurfti einhverra erinda vegna að fara upp á eyri, sagði hann Kristínu að rölta með sér. Það var ekki gáfulegt að skilja konu á þessum aldri eina eftir niðri í bræðsluverki þegar útlend skip lágu á höfninni og þessi erlendi lýður í landi var að sveima í námunda við verslunina, norskir, sænskir og franskir, og allir með glennt augun ef þeir sáu pils.[259]

 

Gunnar bætir því síðan við að stundum hafi Kristján lokað eiginkonuna inni í skúrnum þegar mikið var um franska sjómenn á Flateyri og eitt sinn stillti hann sér upp með bræðsluspaðann stóra að vopni, albúinn til þess að verja dyrnar og forða konunni frá solli.[260]

 

Í kvöld munum við ganga út að Veðrará innri en áður en lagt verður upp skulum við rölta hér fram á Tanna, nesið sem bærinn er kenndur við. Sjálfur er Tanninn um 270 metrar á lengd og um 100 metrar á breidd þar sem hann er breiðastur en fram úr honum gengur liðlega 100 metra löng tá sem er lítt gróin og fer nær öll í kaf á stórstraumsflæði.[261] Framantil á Tanna er nú æðarvarp eins og hér hefur áður verið nefnt (sjá hér bls. 2). Innan við Tannann liggur graslendið við sjóinn svolítið lægra. Þar heitir Grænanes eða Grænitangi, gróið land en óræktað.[262]

Frá fremsta odda Tannans eru varla nema 300 metrar yfir í Mosvallabót og var því fljótlegt að ríða hér yfir Vöðin. Þeir sem fóru yfir á Steinsvaði beindu hestunum til sjávar frá framanverðum Tannanum, þar sem gróið land endar en grjóttanginn tekur við.[263] Nokkru ofar er stór steinn í fjörunni  og heitir hann Vaðsteinn[264] Stefnt var á Mosvallabót (sjá hér Mosvellir). Jón Espólín greinir frá því að Sigurður Pálsson frá Kirkjubóli í Valþjófsdal, sonarsonur séra Ólafs Jónssonar, hins kunna skálds á Söndum í Dýrafirði, hafi riðið framan í Tannann í Önundarfirði og drukknað.[265] Orðalagið bendir til þess að Sigurður hafi verið á leið norður yfir Vöðin með stefnu á Tanna þegar hann drukknaði. Óljóst er hvaða ár slys þetta varð en líklegast er að Sigurður hafi drukknað á síðasta fjórðungi sautjándu aldar. Nafn hans virðist ekki vera að finna í manntalinu frá 1703[266] en systkini hans voru þá sum um fimmtugt en önnur um sextugt[267] (sbr. hér Suðureyri og Botn í Súgandafirði).

Rétt utan við Tannann eru tveir smátangar sem heita Garðsendi innri og Garðsendi ytri en við þá er kennt Garðsendavað sem riðið var þegar henta þótti frá Garðsendunum og yfir í Mosvallabót (sjá hér Mosvellir). Væri Skeiðisvað, sem er utar, orðið ófært hafa þeir sem komu utan að farið yfir á Garðsendavaði ef þar var fært.

Milli Garðsendanna tveggja er svolítill spölur, máske 100 metrar, en fram af Garðsendunum er stór steinn frammi í Vöðunum.[268] Steinn þessi heitir Garðsendasteinn og er lítið eitt handan við mið Vöð þegar héðan er horft[269] og heldur nær Veðrarárskeiði en Tanna. Við Ytri-Garðsenda eru tvær tóttir af gömlum naustum og hér var bátur fólksins á Tannanesi geymdur fram yfir 1960.[270] Þegar lágsjávað var varð að fara á bátnum fram fyrir Garðsendastein því ófært gat verið nær landi vegna grynninga.[271] Í sjávarbökkunum utan við Ytri-Garðsenda er gamla reiðgatan enn býsna greinileg.

Ofan við Garðsendana er nú komið ræktað tún en áður en farið var að slétta var þarna gamall hlaðinn garður sem náði úr fjöru við Innri-Garðsenda og upp undir akveginn sem nú er farinn.[272] Á vorin, þegar land var ekki farið að gróa að marki, sást reyndar móta fyrir þessum sama garði mun lengra í átt til fjalls og alveg upp í skriðufætur.[273] Væri staðið uppi í hlíðinni í kyrru veðri og horft fram á Vöðin sást líka móta fyrir malarhrygg á sjávarbotni.[274] Þessi hryggur náði frá Ytri-Garðsenda langt fram í Vöðin, alveg yfir undir Garðsendastein sem áður var nefndur.[275] Óhætt mun að segja að ummerkin í hlíðinni og malarhryggurinn á sjávarbotni úti í Vöðunum bendi til þess að hér hafi á fyrri tíð verið hlaðinn mikill vörslugarður og látinn ná ofan frá skriðufótum og að Garðsendasteini hér langt frammi í Vöðunum. Nafnið á steininum bendir líka eindregið til þess að hann hafi staðið við garðsendann.

Frá Tanna og Garðsendunum tökum við strikið út fjöruna og stefnum að Innri-Veðrará sem er næsti bær hér fyrir utan. Vegalengdin milli bæjanna er um það bil einn og hálfur kílómetri en frá Tannanesi að landamerkjunum við Merkishrygg og Merkisstein eru aðeins 700 metrar eða því sem næst.

Við landamerkjasteininn sem enn stendur á sínum stað, liðlega 50 metrum ofan við þjóðveginn,[276] skulum við nema staðar og rifja upp gamla sögu sem fóstra Magnúsar Hjaltasonar, Margrét Bjarnadóttir húsfreyja í Efrihúsum, kenndi honum ungum. Söguna er að finna í einu af mörgum handritum Magnúsar[277] og meginefni hennar þetta:

 

− Á fyrrihluta 19. aldar var húsfreyja á Innri-Veðrará sem Etilríður hét, hinn mesti kvenskörungur. Oft hvarf hún að heiman í rökkrinu og sást þá stundum koma innan úr engjum að dágóðri stundu liðinni. Það orð lá á að Etilríður væri í kynnum við huldufólk sem byggi í stóra landamerkjasteininum, um það bil miðja vega milli Tannaness og Innri-Veðrarár.

Seinna fluttist kona þessi búferlum frá Innri-Veðrará að Mosvöllum en þar, í hinum nýju heimkynnum, undi kýrin hennar sér illa í fyrstu.

Dag einn tekur Etilríður kúna, mýlir hana og leiðir alllangan veg að steini einum innanvert á Mosvallahálsi. Lét hún sveinstaula sem síðar sagði frá orðum hennar og athöfnum reka á eftir kúnni. Þegar þau komu að steininum leiðir hún kúna þrisvar sinnum í kringum hann og segir:

„Væru líkar kindur í þessum steini og Landamerkjasteininum á Tannanesi, þá gætu þær gert við að kýrskepnan sú arna stryki ekki.”

Að svo mæltu fór Etilríður heim en kýrin róaðist og hætti þegar í stað öllum strokutilraunum. −

 

Þannig var sagan sem Magnúsi Hjaltasyni var sögð á árunum um eða upp úr 1880. Nafnið Etilríður er harla fágætt og aðeins vitað um eina húsfreyju með því nafni fyrir 1850 í Mosvallahreppi.[278] Hún var Þórðardóttir og átti heima á Mosvöllum árið 1793.[279] Nær fullvíst má telja að þetta sé konan sem frá er greint í sögunni og hún hafi því verið dálítð eldri en þar er gefið til kynna. Að vísu liggja nú ekki á lausu heimildir fyrir því að hún hafi búið á Innri-Veðrará áður en hún fluttist að Mosvöllum en við því er heldur ekki að búast.

Etilríður Þórðardóttir dó á Vöðlum 3. febrúar 1798 af aldurdómskvillum með landfarsótt, sögð 84 ára gömul, og hafði þá lifað í ekkjustandi á fimmtánda ár[280] svo mann sinn hefur hún misst í móðuharðindunum. Ætla má að nafn hans hafi verið Guðmundur því dóttir Etilríðar, Hallbera Guðmundsdóttir, var húsfreyja á Mosvöllum árið 1793.[281] Árið 1801 var Hallbera komin að Kirkjubóli í Valþjófsdal, gift Jóni Magnússyni hreppstjóra þar.[282] Börn þeirra þar heima voru þá fimm á aldrinum 14-28 ára og eitt þeirra var Jóhann sem týndi lífi í mannskaðanum mikla 6. maí 1812, þá vinnumaður í Mosdal.[283] Annað barn þessara hjóna var Gróa, fædd um 1790, en sonur hennar var Jón, almennt nefndur Jón Gróuson, sem frá er sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Neðri-Breiðadalur). Etilríður Þórðardóttir hefur því verið langamma Jóns Gróusonar og allt í kvenlegg sem aldrei svíkur.

Hér við landamerkjasteininn er gott að leggjast í grasið á kyrru ágústkvöldi þegar rökkvar í hlíðum og minnast samskipta Etilríðar við hinar huldu vættir sem í steininum bjuggu. Þetta er stór steinn, hátt í tvær mannhæðir, prýddur mosa og skófum. Í kring eru aðrir smærri steinar og rétt utan við þann stóra sjást leifar af gömlum merkjagarði.

 

 

 

– – – – – – – – o o o – – – – – – –

[1] Óskar Einarsson 1951, 92.

[2] Sama heimild.

[3] Sama heimild.

[4] Sama heimild.

[5] Sama heimild.

[6] Sama heimild.

[7] Sama heimild.

[8] Daði Ingimundarson. Viðtal K.Ó við hann 4.7. 1994.

[9]  Daði Ingimundarson. Viðtal K.Ó. við hann 4.7. 1994.

[10] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII, 117.

[11] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[12] Sama heimild.

[13] Sama heimild.

[14] Sama heimild.

[15] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 102.

[16] Jarðab. Á. og P. VII, 117-118.

[17] Sama heimild.

[18] Óskar Ein. 1951, 16.

[19] Jarðab. Á. og P. VII, 108.

[20] Sama heimild.

[21] Jarðab. Á. og P. VII, 108.

[22] D.I. IV, 688.

[23] Sama heimild.

[24] Sama heimild.

[25] Sama heimild.

[26] D.I. VIII, 279-280.

[27] Sama heimild.

[28] Sama heimild.

[29] Sama heimild, registur.

[30] Sama heimild, 417, 484, 497-498, 581 og 588-589.

[31] Alþingisbækur Íslands I, 411.

[32] Alþ.bækur Íslands I, registur.  Íslenskar æviskrár V, 27.

[33] Sama heimild.

[34] Ísl. æviskrár IV, 311 og V, 27 og 30-31.

[35] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafjarðarsýslu frá árinu 1658.

[36] Ísl. æviskrár I, 248 og V, 27.

[37] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.  Ísl. æviskrár IV, 218-219.

[38] Ísl. æviskrár V, 22.

[39] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695.

[40] Ísl. æviskrár IV, 105.

[41] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695.

[42] Jarðab. Á. og P. VII, 117. Sbr. Jarðab. Á. og P. XIII, 258.

[43] Lögréttumannatal, bls. 541. Sbr. Jarðabréf  frá 16. og 17. öld. Útdrættir. (Kph. 1993), bls. 173. Sbr. Einnig Jarðab. Á. og P. XIII, 247-248.

[44] Jarðab. Á. og P. VII, 117. Lögr.m.tal, bls. 541.

[45] Alþ.bækur Íslands XIII, 219.

[46] Manntal 1703.

[47] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, eftirrit, Ísafj.sýsla um 1735.

[48] Manntal 1762.

[49] Jarðab. Á. og P. VII, 117.

[50] Ísl. æviskrár I, 251.

[51] Sama heimild.

[52] Manntal 1762.

[53] Alþ.bækur Íslands XV, 24.

[54] Vestfirskar ættir I, 55.

[55] Rtk. Jarðabækur V. 16. – Ísafjarðarsýsla 1805.

[56] Vestf. ættir I, 57.

[57] Sama heimild II, 453 og 561-562.

[58] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 6. Dóma- og þingbók 1817-1834, bls. 104.

[59]  J. Johnsen 1847, 195.

[60] Manntal 1901, fylgiskjöl.

[61] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.

[62] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.

[63] Sama askja. Jarðaskrá frá árinu 1695.

[64] Jarðab. Á. og P. VII, 117.

[65] Sama heimild.

[66] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[67] Rtk. Jarðabækur V. 16. – Ísafj.sýsla 1805.

[68] J. Johnsen 1847, 195.

[69] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.

[70] D.I. IV, 688.

[71] Lbs. 7974to, Jarðaskrár úr Ísafj.sýslu frá árunum 1658 og 1695.  Jarðab. Á. og P. VII, 117.

[72] Jarðab. Á. og P. VII, 117.  Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[73] J. Johnsen 1847, 195. Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.

[74] Sömu heimildir.

[75] J. Johnsen 1847, 195. Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.

[76] Manntöl 1816, 1835, 1840, 1845, 1850, 1855, 1860, 1870, 1880, 1890 og 1901. Skj.s. sýslum. og sv.stj.

Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1821, 1830 og 1834. VA III, 407, búnaðarskýrslur 1837.

[77] Jarðab. Á. og P. VII, 117. Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, eftirrit, Ísafj.sýsla um 1735. Jarða- og

bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753. Manntöl 1762 og 1801. Rtk. Jarðabækur V. 16. – Ísafj.sýsla 1805.

[78] Manntal 1703.

[79] Alþ.bækur Íslands VII, 300.

[80] Sama heimild, 300, 319 og 370.

[81] Sama heimild, 300.

[82] Sama heimild.

[83] Sama heimild, 319.

[84] Sama heimild.

[85] Sama heimild, 370.

[86] Alþ.bækur Íslands VII, 370.

[87] Sama heimild.

[88] Sama heimild.

[89] Rtk. 2.1. Stríðshjálpin 1681.

[90] Sama heimild.

[91] Manntal 1703.

[92] Sama heimild.

[93] Manntal 1703. Jarðab. Á. og P. VII, 117.

[94] Manntal 1703.

[95] Sama heimild.

[96] Jarðab. Á. og P. VII, 117-118.

[97] Sama heimild.

[98] Manntal 1801.

[99] Manntal 1801.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[100] Manntal 1816.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[101] Manntal 1816.

[102] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1821.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[103] Manntal 1801.

[104] Sama heimild.

[105] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[106] Sama heimild.

[107] Manntal 1801.

[108] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[109] Manntal 1801.

[110] Rtk. Jarðabækur V. 16. – Ísafj.sýsla 1805.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[111] Sama heimild.

[112] Manntal 1801.

[113] Sama heimild.

[114] Manntal 1801.

[115] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[116] Manntal 1801.

[117] Manntal 1816.

[118] Manntal 1801. Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[119] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[120] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[121] Sama heimild.

[122] Sama heimild.

[123] Jón Espólín / Árbækur XII, 51.

[124] Manntal 1801.

[125] Rtk. Jarðabækur V. 16. – Ísafj.sýsla 1805.

[126] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[127] Manntal 1801.

[128] Sama heimild.

[129] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[130] Manntal 1816.

[131] Sama heimild.

[132] Manntal 1816.

[133] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[134] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[135] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1830.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[136] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[137] Sama heimild.

[138] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1830.

[139] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[140] Sama heimild.

[141] Sama heimild.

[142] Manntal 1835.

[143] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[144] Sama heimild.

[145] Manntöl 1840 og 1845.

[146] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[147] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1830 og 1834.  Manntal 1835.

[148] Manntal 1801.

[149] Manntal 1816.

[150] Manntal 1816..

[151] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[152] Sama heimild. HalldórKristjánsson 1994, 145-146 (Ársrit S.Í.).

[153] Sama heimild.

[154] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1830.

[155] Manntal 1835.

[156] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[157] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.  Manntöl frá 19. öld.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.  Skj.s. sýslum og sv.stj. Ís.

  1. 1., búnaðarskýrslur 1821-1834.

[158] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[159] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.  Manntöl 1801 og 1816.

[160] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[161] Sama heimild.

[162] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1830.

[163] Manntal 1835.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[164] Prestsþj.b. Holts í Önundarf., − skrá yfir hjónavígslur.

[165] Frá ystu nesjum II, 89.

[166] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[167] Sama heimild.

[168] Sama heimild.

[169] Sama heimild.

[170] Manntal 1835.

[171] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[172] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[173] Sama heimild.

[174] VA III, 407, búnaðarskýrslur 1837.

[175] VA III, 407, búnaðarskýrslur 1837.

[176] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[177] Sama heimild.

[178] Sama heimild.

[179] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[180] Manntal 1860.

[181] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[182] Sama heimild.

[183] Sama heimild.

[184] Sama heimild.

[185] Sama heimild.

[186] Sama heimild.

[187] Sama heimild.  Manntöl 1850, 1855 og 1860.

[188] Manntöl 1860 og 1870.

[189] Manntöl 1880 og 1890.

[190] Manntal 1870.

[191] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[192] Sama heimild.

[193] Sama heimild.

[194] Sama heimild.

[195] Sama heimild.

[196] Manntal 1880.

[197] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[198] Sama heimild. Prestsþj.b. og sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[199] Prestsþj.b. Sandaprestakalls.

[200] VA III,243 – nr. 1847 II, dagb. Guðm. Guðmundssonar norðlenska 31.8., 1.9. og 6.9. 1850.

[201] Lbs. 23328vo, Dagbók Guðm. Guðmundssonar norðlenska 11.5.1873.

[202] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[203] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[204] Sama heimild.

[205] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.  Manntal 1890.

[206] Sömu heimildir og H. Kr. 1992, 110-111.

[207] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 7. Úttektabók 1875-1905, bls. 70.

[208] Sama heimild.

[209] Sama heimild.

[210] Sama heimild.

[211] Sama heimild.

[212] Manntal 1890.

[213] H. Kr. 1992, 110-111.

[214] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[215] Gils Guðmundsson 1977 I, 194.

[216] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[217] Gunnar M. Magnúss 1967, 122.

[218] H. Kr. 1992, 111.

[219] Lbs. án safnnr. – handrit úr fórum J. Guðm. búfræðings á Ytri-Veðrará, dagb. J.G. 3.8.1887.

[220] Sama heimild.

[221] Lbs. án safnnr. – handrit úr fórum J. Guðm. búfræðings á Ytri-Veðrará, dagb. J.G. 3.8.1887.

[222] Sama heimild.

[223] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[224] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.  Manntal 1901.

[225] Sömu heimildir.

[226] Manntal 1901.

[227] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 5. Hreppsbók 1883-1912.

[228] Manntal 1901.

[229] Sama heimild og fylgiskjöl með manntalinu.

[230] Eyjólfur Jónsson 1983, 46-47 (Ársrit S.Í.).

[231] Sama heimild.

[232] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[233] Prestsþjb. Holts í Önundarf.

[234] Sama heimild.

[235] Manntöl 1901 og 1910.

[236] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[237] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[238] Sama heimild.

[239] Sama heimild.

[240] Sama heimild.

[241] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[242] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[243] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[244] Sama heimild.

[245] Fasteignabók 1932. Sbr. Vestfirskar sagnir III, 253.

[246] Fasteignabók 1932.

[247] Fasteignabók 1932.

[248] Sama heimild.

[249] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[250] Daði Ingimundarson. – Viðtal K.Ó. við hann 4.7.1994.

[251] Sama heimild.

[252] Sama heimild.

[253] Sama heimild.

[254] Sama heimild.

[255] Sama heimild.

[256] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[257] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[258] G. M. M. 1978, 65-66.

[259] G. M. M. 1978, 65-68.

[260] Sama heimild, 69 og 73-77.

[261] Daði Ingimundarson. – Viðtal K.Ó. við hann 4.7.1994.

[262] Óskar Ein. 1951, 92. Daði Ingimundarson. – Viðtal K.Ó. við hann 4.7.1994.

[263] Ingimundur Guðmundsson. Viðtal K.Ó. við hann 22.2. 1994.

[264] Sama heimild.

[265] ÍB 164to. Ættatölubækur Jóns Espólín, dálkur 6434.

[266] Manntal 1703 og nafnaskrá þess.

[267] Manntal 1703, bls. 196 og 210.

[268] Ingimundur Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 22.2.1994.

[269] Ingimundur Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 22.2.1994.

[270] Daði Ingimundarson. – Viðtal K.Ó. við hann 4.7.1994.

[271] Sama heimild.

[272] Ingimundur Guðmundsson og Daði Ingimundarson. – Viðtöl K.Ó. við þá 22.2.1994 og 4.7.1994.

[273] Sömu heimildir.

[274] Sömu heimildir.

[275] Sömu heimildir.

[276] Daði Ingimundarson. – Viðtal K.Ó. við hann 4.7.1994.

[277] Lbs. 22354to, bls. 299-300.

[278] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[279] Sama heimild.

[280] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[281] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar. Manntal 1801.

[282] Sama heimild. Manntal 1801.

[283] Sömu heimildir.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »