Ytri-Veðrará

Ytri-Veðrará er nú (1994) ysta jörð í Mosvallahreppi hér norðan við Vöðin því þegar hinum forna Mosvallahreppi var skipt árið 1922 var ákveðið að markalínan milli hreppanna skyldi liggja um Breiðadalsá (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 390-391.). Þar fyrir utan er nú Flateyrarhreppur. Land Ytri-Veðrarár nær frá landamerkjunum á móti Innri-Veðrará sem áður var gerð grein fyrir (sjá hér Innri-Veðrará) og út að Breiðadalsá en hún skiptir löndum milli Ytri-Veðrarár og jarðanna tveggja í Breiðadal sem eru Neðri-Breiðadalur og Fremri-Breiðadalur. Vegalengdin frá Ytri-Veðrará að Neðri-Breiðadal er tæplega einn kílómetri og milli Ytri-Veðrarár og Innri-Veðrarár eru aðeins 700 metrar eða því sem næst eins og áður hefur verið nefnt. Hér var því stutt á milli bæja.

Á síðari öldum var Ytri-Veðrará talin vera 18 hundraða jörð[1] en í heimild frá miðri 15. öld er dýrleikinn sagður vera 16 hundruð.[2] Um nafnið Veðrará hefur áður verið fjallað í þessu riti (sjá hér Innri-Veðrará).

Mest af beitilandi Ytri-Veðrarár liggur í Breiðadal þar sem jörð þessi á allt land sín megin ár og alveg upp á Breiðadalsheiði. Þann hluta dalsins nefndu kunnugir reyndar Veðrarárdal[3] og er það nafn enn notað af heimafólki.[4] Hinn fjölfarni akvegur sem liggur um dalinn í átt til heiðarinnar er því allur í landi Veðrarár en bærinn á Ytri-Veðrará stendur hins vegar á sjávarströndinni innan við dalsmynnið.

Yfir Breiðadalsheiði var á öllum öldum fjölfarin leið milli Önundarfjarðar og Skutulsfjarðar þar sem nú er Ísafjarðarkaupstaður og Ytri-Veðrará því jafnan í þjóðbraut. Um aldamótin 1900 og á fyrstu áratugum 20. aldar var hér lögferja[5] og líklegt má telja að svo hafi lengi verið. Á ferjuleiðinni voru tveir straumharðir álar skammt frá landi, sinn hvorum megin fjarðarins, en á milli þeirra grýttar grynningar sem komu upp á fjörunni.[6] Ef vel stóð á sjó fóru menn ríðandi yfir Vöðin (sjá hér bls. 2 og Innri-Veðrará, Mosvellir og Holt) en væri hásjávað var gripið til ferjunnar og menn fluttir yfir í Holtsmel sem er hér beint á móti. Þaðan er stutt að prestssetrinu í Holti og á alfaraleið um Bjarnardal á Gemlufallsheiði.

Síðasti ferjumaðurinn á Ytri-Veðrará var Jón Guðmundsson búfræðingur sem hér bjó á árunum 1901-1938 og hafði reyndar einnig búið hér í tvö ár nokkru fyrir aldamót.[7] Í bréfi sem Jón skrifaði sýslunefnd 28. febrúar 1908 kemst hann svo að orði:

 

Það er mikill munur að flytja einn eða marga í einu því svo háttar til handan fjarðarins, í Holtsmelnum, að þar flýtur ætíð illa að. Verður því að bera mennina úr bátnum lengri eða skemmri leið, eftir því hvernig stendur á sjó, stundum fleiri tugi faðma. Bátar fara illa þegar margir eru fluttir … . En botn er hér fjarska stórgrýttur.[8]

 

Um þetta leyti var ákveðið að ferjutollurinn skyldi vera 70 aurar fyrir einn mann og síðan stighækkandi upp í kr. 1,50 ef mennirnir væru fimm.[9] Ferjumannsstarfinu fylgdi sú kvöð að flytja bæði þá sem þurftu að komast vestur yfir Vöðin og hina sem ætluðu sér norður yfir þau. Fólkið á Ytri-Veðrará varð því ætíð að gefa gaum að hvort einhver kom á Holtsmel sem þurfti á flutningi að halda.[10] Sæist þar til ferðamanna var ferjubátnum ýtt á flot og þeir sóttir.[11] Ferðamenn sem komu í melinn í myrkri gátu líka kallað á ferjubátinn með því að hóa því kallið náði eyrum heimafólks á Ytri-Veðrará.[12] Í niðamyrkri var ljós sett út í glugga á Veðrará svo ferðamenn næðu að hóa þar alveg beint á móti.[13] Þó vegalengdin frá Ytri-Veðrará yfir í Holtsmel sé ekki nema tæpur kílómetri fór sjaldan minna en einn og hálfur klukkutími í hverja ferð hjá Jóni búfræðingi því tafsamt var að bera fólk og farangur í land eða úr landi og út í bátinn.[14] Á stórstraumsflóði voru ferðamenn stundum fluttir á bátnum inn í Mosvallaskeið[15] sem er mun lengri sjóleið en með því móti styttist gönguleið þeirra sem stefndu á Gemlufallsheiði um tvo og hálfan kílómetra eða því sem næst.

Þegar lágsjávað var voru ferðamenn oft reiddir yfir Vöðin á hestum[16] en kunnugir menn björguði sér sjálfir ef þeir voru ríðandi. Oftast var farið yfir á Skeiðisvaði sem liggur úr Skeiðistanga, dálítið innan við bæinn á Innri-Veðrará, og þaðan yfir í Mosvallaskeið eins og hér hefur áður verið lýst (sjá hér Innri-Veðrará). Á ysta reiðvaðið, sem heitir Ystavað, var hins vegar lagt úr fjörunni rétt innan við bæjarhólinn á Ytri-Veðrará og stefnt á Holtsstekk.[17] Var þá riðið um bæjarhlaðið á Ytri-Veðrará og sjávargötuna þaðan í Götuskarð sem svo heitir niður við fjöruna.[18] Yfir Ystavað var aldrei riðið nema um háfjöru og þar varð að þræða nákvæma leið vegna dýpis í álunum.[19] Á Ystavaði, sem stundum var nefnt Prestavað, drukknaði séra Jón Sigurðsson í Holti 9. júní 1796 (sjá hér Holt) en yfir það fóru eingöngu þeir sem ætluðu að Holti eða út á bæi og í Valþjófsdal.[20] Yfir Ystavað var aðeins fært skamma stund á hverri fjöru en þegar þar var orðið ófært mátti enn um sinn komast yfir á Skeiðisvaði því þar fellur seinna að og fyrr út.[21] Enn innar eru svo þrjú önnur vöð sem hér hefur áður verið gerð grein fyrir (sjá hér Mosvellir og Innri-Veðrará).

Af því sem hér hefur verið sagt má ráða að oft hefur verið gestkvæmt á Ytri-Veðrará og stundum urðu þeir sem þar bjuggu að fylgja ferðamönnum upp á Breiðadalsheiði, einkum að vetrarlagi þegar allt var á kafi í snjó[22] og aðeins hægt að ferðast gangandi. Einnig kom fyrir að ferðalangar yrðu hér hríðtepptir dögum saman[23] og þýddi ekki um að fást.

Ytri-Veðrará er forn búörð, talin 18 hundruð að dýrleika eins og hér var áður nefnt (sjá hér bls. 1). Gamli bæjarhóllinn er hér enn á sínum stað og Veðrarárhornið með sinni svipmiklu klettabrún að bæjarbaki. Fram úr fjallshlíðinni skagar Öxlin og niður úr henni gengur Veðrarárháls sem er utan til við túnið og nær alveg niður á veg.[24] Hér er enn búið árið um kring (1999).

Gamla túnið á Ytri-Vetrará var grasgefið og liggur vel við sól en það var erfitt til ræktunar vegna stórgrýtis og bratta.[25] Í landi jarðarinnar fram á Breiðadal voru víða allgóðar slægjur en skriður og mýrar skiptu þeim upp í parta og búta.[26] Á fyrstu áratugum 20. aldar var brokhey slegið langt fram á dalnum, alveg fram undir Skógarbrekkum.[27] Beitilandið var líka nær allt fram á Veðrarárdal (Breiðadal)[28] og var í matsgerð frá árunum kringum 1920 talið mikið og gott.[29] Fjörubeit var líka talsverð en þegar mikið var um snjó varð að ryðja slóð fyrir féð svo það kæmist í fjöruna því hér eru háir sjávarbakkar.[30] Fram af bökkunum myndaðist oft móður og þurfti mikla aðgæslu svo fé færi sér ekki að voða.[31]

Góð aðstaða til rauðmagaveiði í Holtsós og Vöðunum taldist til hlunninda á Ytri-Veðrará (sbr. Firðir og fólk 1900-1999, 378) og silungsveiði í lagnet var líka nokkur.[32] Í landi jarðarinnar var gott mótak[33] en mógrafirnar munu hafa verið fram á Veðrarárdal (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 378). Eitthvað var um reka eins og sjá má í Alþingisbókinni frá 1729 en þar er þess getið að á Veðrará hafi rekið gafl úr bát með stóru gati í miðjunni sem mannshöfuð kann í gegnum komast.[34] Rekatimbur þetta var boðið upp en fyrir það fékkst aðeins einn fiskur.[35] Á árunum kringum 1920 var talið að hér á Ytri-Veðrará mætti fleyta fram 4 kúm, 80 fjár og 4 hrossum.[36]

Í Jarðabókinni frá 1710 eru ókostir jarðarinnar tíundaðir rækilega en þar segir: Enginu granda til stórskaða skriður úr brattlendi og hafa eyðilagt þær meir en til helminga. Hætt er kvikfé á vetur fyrir sjávarflæðum og fyrir stórskriðum.[37] Í Jarðabókinni er þess líka getið að vetrarbeit sé hér minni en í meðallagi og þar er bæði torfrista og torfstunga sögð vera lök.[38] Í byrjun 18. aldar var þó notaður mór til eldiviðar hér á Ytri-Veðrará en einnig rifið lyng til eldiviðarstyrks.[39]

Um Ytri-Veðrará er fyrst getið í varðveittum heimildum í skjali sem talið er vera frá árinu 1446 og hefur að geyma skrá yfir jarðeignir Guðmundar ríka Arasonar.[40] Þar sést að Guðmundur átti bæði Ytri- og Innri-Veðrará og margar fleiri jarðir í Mosvallahreppi. Á árunum kringum 1500 var Ytri-Veðrará í eigu Jóns dan Björnssonar[41] sem var launsonur Björns Þorleifssonar hirðstjóra og átti heima á Rafnseyri.[42] Jón danur andaðist árið 1508[43] en fyrir andlát sitt hafði hann gefið jörð þessa frænda sínum og nafna, Jóni Björnssyni, syni Björns Guðnasonar í Ögri.[44] Um þessa gjöf vitnuðu árið 1530 séra Jón Eiríksson í Vatnsfirði og tveir menn aðrir og var vitnisburður þeirra tekinn gildur fyrir dómi.[45] Í dómi þessum frá Mosvöllum er jörðin nefnd Veðrará hin meiri[46] og þar segir m.a. svo:

 

Item í fyrstu grein kom þar fram fyrir oss bréf séra Jóns Eiríkssonar með heilu og ósködduðu hans innsigli, hvert að innihélt að hann hefði heyrt Björn bónda Guðnason því lýsa að Jón Björnsson sonur sinn ætti áður greinda jörð, Veðrará, og hann hefði það bréf að geyma að Jón heitinn Björnsson er danur var kenndur hefði goldið hana Jóni syni sínum í sárabætur og gefið með samþykki og jáyrði kvinnu sinnar, Kristínar Sumarliðadóttur … og því dæmum vér, fyrrnefndir dómsmenn, með fullu dómsatkvæði að öllu svo prófuðu og fyrir komnu þessa títtnefnda jörð, Veðrará hina meiri, verið hafa eign Jóns heitins Björnssonar [það er Jóns Björnssonar frá Ögri – innsk. K.Ó.] og nú fullkomlega hans erfingja síðan og þá hana réttilega mega halda, byggja og bæta fyrir hverjum manni utan það sýnist löglega að Jón danur og hans hústrú Kristín hafi ekki með lögum hana mátt gefa eður gjalda.[47]

 

Þegar þessi dómur var kveðinn upp árið 1530 var Jón Björnsson frá Ögri fallinn frá og málið hafði verið höfðað til að fá eignarrétt erfingja hans viðurkenndan.[48] Dómurinn ber með sér að sá réttur hefur verið umdeildur og dómsmennirnir greina frá því að Jón nokkur Sturluson hafi eignað sér jörðina og reist þar bú.[49] Óljóst er hver þessi Jón Sturluson muni hafa verið og í fyrrnefndum dómi er ekki gerð grein fyrir hans rökum í málinu. Hafi þau einhver verið var þeim engu að síður hafnað og niðurstaða dómsmannanna sú að erfingjar Jóns Björnssonar frá Ögri ættu Ytri-Veðrará með réttu.[50]

Sá sem sótti málið fyrir þeirra hönd var Einar Jónsson í umboði Valgerðar Einarsdóttur.[51] Líklegt er að þar sé um að ræða lögréttumanninn Einar Jónsson sem var dómsmaður á Mosvöllum árið 1536[52] en hvernig tengslum þeirra Valgerðar við Jón Björnsson var háttað verður ekki séð í fljótu bragði en vera má að þau hafi verið hjón.[53] Um það hvort sonur Björns Guðnasonar hafi búið á Ytri-Veðrará er ekki heldur hægt að fullyrða eitt eða neitt en fróðir menn telja að Björn hafi átt a.m.k. tvo syni sem báru nafnið Jón[54] og víst er að annar þeirra átti þessa 18 hundraða jörð í Önundarfirði. Heldur líklegra má telja að það hafi verið Jón yngri Björnsson sem átti Ytri-Veðrará því vitað er að honum gaf faðir þeirra Innri-Veðrará árið 1517 (sjá hér Innri-Veðrará). Er þá haft í huga að hentugt gat verið að eiga samliggjandi jarðir og hafi Jón búið á Ytri-Veðrará var ekki óeðlilegt að slíkur höfðingjasonur teldi sig þurfa báðar jarðirnar svo ábýlið gæti talist viðundandi.

Þegar lengra leið á sextándu öldina komst Ytri-Veðrará eða a.m.k. nokkur hluti jarðarinnar í eigu Eggerts Hannessonar lögmanns[55] sem var dóttursonur Björns Guðnasonar í Ögri og því systursonur Jóns Björnssonar sem hér var nú frá sagt. Árið 1570 fóru fram mikil jarðaskipti milli Eggerts og mágs hans, Þorláks Einarssonar, sýslumanns á Núpi í Dýrafirði, og í þeim skiptum lét Eggert m.a. af hendi fjögur og hálft hundrað í meiri Veðrará.[56] Hvort Þorlákur náði að eignast alla jörðina vitum við ekki.

Árið 1658 var Ragnhildur Steinþórsdóttir einn þriggja eigenda Ytri-Veðrarár[57] en hún var dótturdóttir Þorláks Einarssonar sýslumanns sem eignaðist part í jörðinni árið 1570.[58] Ragnhildur átti heima á Sæbóli á Ingjaldssandi. Hún hafði verið gift Eggert Sæmundssyni, bónda þar, sem drukknaði árið 1636, en eftir fráfall hans stóð Ragnhildur fyrir búi á Sæbóli í 22 ár (sjá hér Sæból).

Aðrir eigendur Ytri-Veðrarár árið 1658 voru kvinna séra Jóns Magnússonar og Þorleifur Sveinsson.[59] Þorleifur er efalaust sá sem bjó í Innri-Hjarðardal og var bróðir Brynjólfs Sveinssonar biskups (sjá hér Innri-Hjarðardalur) en séra Jón Magnússon, sem þarna er nefndur, mun vera presturinn á Eyri í Skutulsfirði sem fékk viðurnefnið þumlungur. Kona hans var Þorkatla Bjarnadóttir frá Kirkjubóli, að öllum líkindum því í Korpudal. Eiginkonur Þorleifs Sveinssonar og séra Jóns Magnússonar, þær Þorkatla og Guðlaug Bjarnadætur, voru systur (sjá hér Kirkjuból í Korpudal). Síðari eiginkona Þorleifs Sveinssonar hét Valgerður Tómasdóttir og við skipti á jarðeignum hans árið 1679 komu 3 hundruð í Ytri-Veðrará í hennar hlut.[60]

Árið 1695 var Eggert Snæbjörnsson á Kirkjubóli í Langadal við Ísafjarðardjúp orðinn einn þriggja eigenda Ytri-Veðrarár[61] en hann var dóttursonur Ragnhildar Steinþórsdóttur á Sæbóli[62] sem átti hér jarðarpart árið 1658. Annar þriggja eigenda Ytri-Veðrarár í byrjun ársins 1695 var séra Björn Þorleifsson,[63] prestur á Álftamýri, en hann var sonur Þorleifs Sveinssonar í Innri-Hjarðardal[64] sem verið hafði einn þriggja eigenda þessarar sömu jarðar 37 árum fyrr. Séra Björn andaðist árið 1695[65] og í jarðaskrá frá því ári eru erfingjar hans sagðir eiga þennan part úr Ytri-Veðrará.[66] Þriðji eigandinn árið 1695 var maður sem hét Jón Bjarnason[67] en hyggilegast mun vera að forðast allar tilgátur um hver hann kunni að hafa verið.

Árið 1710 átti Eggert Snæbjörnsson á Kirkjubóli í Langadal 12 hundruð í Ytri-Veðrará[68] en hann hafði líka átt einhvern part úr jörðinni fimmtán árum fyrr. Þau 6 hundruð sem Eggert átti ekki voru árið 1710 komin í hendur tveggja eða þriggja bræðra, þeirra Ísleiks Bjarnasonar á Bakka í Hnífsdal og Nikulásar Bjarnasonar á Gili í Bolungavík og þennan jarðarpart átti kannski með þeim þriðji bróðirinn sem hét Guðmundur Bjarnason eða barn hans.[69]

Um 1720 lét Eggert Snæbjörnsson þau 12 hundruð sem hann átti í Ytri-Veðrará af hendi við tengdason sinn, Teit Arason, sem þá var sýslumaður í Barðastrandarsýslu og bjó á Múla í Kollafirði.[70] Teitur sýslumaður mun hins vegar aðeins hafa átt þessi jarðarhundruð í stuttan tíma því árið 1721 seldi hann þau séra Páli Péturssyni á Álftamýri (sjá hér Innri-Veðrará).

Á árunum 1710-1727 náði Kolbeinn nokkur Magnússon að eignast þau 6 hundruð í Ytri-Veðrará sem Ísleikur, Nikulás og Guðmundur Bjarnasynir höfðu átt.[71] Kolbeinn þessi getur vart annar verið en ungur piltur með þessu nafni, sem árið 1710 átti heima í Meirihlíð í Bolungavík, sonur Magnúsar Bergssonar sem áður bjó á Hóli í Bolungavík en stjúpsonur Sigmundar Sæmundssonar sem þá bjó í Meirihlíð.[72] Árið 1710 átti piltur þessi sannanlega jarðeignir í Bolungavík,[73] enda voru bæði faðir hans og stjúpi af ætt Hólsmanna þar sem var auðsæl og hafði setið höfuðbólið Hól í Bolungavík frá því á 16. öld.[74] Kolbeinn bjó seinna í Skálavík ytri[75] en árið 1727 selti hann Markúsi Bergssyni, sýslumanni í Ögri, sem var hálfbróðir föður hans[76] þessi 6 hundruð í Ytri-Veðrará.[77] Árið 1751 var þessi sami jarðarpartur kominn í eigu Erlendar Ólafssonar sem tók við sýslumannsembættinu í Ísafjarðarsýslu af Markúsi Bergssyni.[78] Fimm árum síðar veðsetti Erlendur Íslands reiðara ýmsar jarðeignir sínar fyrir liðlega 200 vætta láni[79] en það voru liðlega 3 kýrverð. Ein eignin sem þarna fór í pant voru hundruðin sex sem sýslumaðurinn átti í Ytri-Veðrará.[80] Gera má ráð fyrir að Íslands reiðarinn sem veitti Erlendi lánið hafi verið faktor Hörmangarafélagsins á Skutulsfjarðareyri. Árið 1758 hætti Hörmangarafélagið verslunarstarfsemi hérlendis[81] en þá var Erlendur ekki búinn að greiða skuldina og ekki heldur árið 1760 þegar David von Einen, kaupmaður í Vestmannaeyjum, sem líklega hefur farið með umboð Hörmangarafélagsins, tók sig til og seldi jarðirnar sem sýslumaðurinn hafi veðsett félaginu.[82] Fullvíst má telja að greiðslur af skuldinni hafi þá verið fallnar í eindaga án þess að Erlendur hefði náð að borga því kröfum hans um að sölunni yrði rift var vísað frá með dómi á Alþingi árið 1766.[83]

Sá sem keypti jarðarpartinn í Ytri-Veðrará af David von Einen árið 1760 var Herman Aystrup, undirkaupmaður á Ísafirði, sem gaf 13 ríkisdali í spesíumynt fyrir þessi 6 jarðarhundruð og borgaði út í hönd.[84] Svo virðist sem undirkaupmaðurinn hafi gert þarna mjög góð kaup því á þessum tíma mun verðið á einu hundraði í jörð yfirleitt hafa verið 4 til 5 spesíudalir.[85]

Eigendur Ytri-Veðrarár árið 1762 voru þeir Herman Aystrup undirkaupmaður, sem hér var síðast nefndur, og séra Hallgrímur Jónsson á Rafnseyri.[86] Með hliðsjón af því sem hér hefur verið sagt má gera ráð fyrir að undirkaupmaðurinn hafi átt 6 hundruð í jörðinni en séra Hallgrímur 12 hundruð. Þann jarðarpart hefur presturinn að öllum líkindum erft eftir fyrri konu sína en hún var dóttir séra Páls Péturssonar á Álftamýri[87] sem keypti þessi 12 hundruð í Ytri-Veðrará árið 1721 (sjá hér bls. 6).

Í Jarðabók frá árinu 1805 eru eigendur Ytri-Veðrarár ekki nefndir með nafni en þess getið að jörðin sé eign þriggja manna úr bændastétt.[88] Jörðin var þá í leiguábúð[89] og svo var enn árið 1847.[90]

Jón Halldórsson, sem bjó á Ytri-Veðrará frá 1867-1889,[91] mun hins vegar hafa átt jörðina (sjá hér bls. 12-14), og ekkja hans, Ingibjörg Eiríksdóttir, seldi hana árið 1901.[92] Þeir sem þá keyptu voru Jón Guðmundsson búfræðingur, sem var tengdasonur Ingibjargar, og Jónatan Magnússon sem síðar bjó lengi á Hóli í Firði.[93] Frá 1901-1908 bjuggu þeir Jón og Jónatan í tvíbýli hér á Ytri-Veðrará, áttu jörðina og eru titlaðir óðalsbændur í manntalinu frá 1901.[94] Verðið sem Jón búfræðingur greiddi fyrir hálfa jörðina og húsin sem fylgdu var 700,- krónur og var kaupsamningurinn undirritaður 4. janúar 1901.[95]

Á sautjándu, átjándu og nítjándu öld var landskuld af Ytri-Veðrará jafnan 6 vættir[96] sem jafngilti einu kýrverði. Um 1920 bjuggu sjálfseignarbændur á jörðinni en þá var eðlileg landskuld talin vera 4 gemlingar[97] eða rétt liðlega helmingur af því sem áður var.

Árið 1446 voru innstæðukúgildin sem fylgdu jörðinni fjögur[98] en 1658 og 1695 voru þau fimm.[99] Í drepsóttinni stórubólu, sem hér geisaði árið 1707, fór annað tveggja býla á Ytri-Veðrará í eyði og þremur árum síðar var það ekki komið aftur í byggð.[100] Í bólunni fækkaði innstæðukúgildunum verulega og árið 1710 voru þau aðeins tvö.[101] Sú tala breyttist lítið síðar því bæði 1753 og 1847 fylgdu jörðinni tvö og hálft innstæðukúgildi.[102]

Fyrsti bóndinn á Ytri-Veðrará sem hægt er að nefna með nafni er Jón Sturluson sem bjó hér stuttan tíma en var rekinn burt með dómi árið 1530 (sjá hér bls. 5). Hugsanlegt er að Jón Björnsson, sem átti jörðina nokkrum árum fyrr og var sonur Björns Guðnasonar í Ögri (sjá hér bls. 4-5), hafi búið hér en tæplega mun þó unnt að sanna að svo hafi verið. Árið 1681 bjuggu fjórir bændur á Ytri- og Innri-Veðrará.[103] Þeir hétu Finnur Skeggjason, Björn Bessason, Bessi Nikulásson og Þórður Bjarnason en í heimildinni sem geymir nöfn þeirra verður ekki séð á hvorri jörðinni hver þeirra bjó.[104]

Á átjándu öld og fyrstu árum 19. aldar var yfirleitt tvíbýli á Ytri-Veðrará[105] en frá því um 1810 og fram að aldamótunum 1900 bjó hér yfirleitt aðeins einn bóndi í senn.[106] Undantekningar finnast þó frá þeirri reglu og má sem dæmi nefna að árið 1845 var hér tvíbýli.[107]

Árið 1703 var Jón Þorkelsson annar tveggja bænda á Ytri-Veðrará og bjó þá hér með bústýru sinni sem hét Vigdís Ásmundsdóttir.[108] Jón var þá 56 ára gamall en Vigdís fjórum árum yngri.[109] Árið 1710 bjó Jón hér enn og hafði þá 12 hundruð til ábúðar en þriðjungur jarðarinnar, það er 6 hundruð, var þá í eyði og svo hafði verið frá því stórabóla gekk þremur árum fyrr.[110] Bóndinn sem bjó á þeim jarðarparti árið 1703 hét Bjarni Eiríksson en kona hans Halla Ásmundsdóttir.[111] Líklegt má telja að þau hafi fallið í bólunni. Tún og engjar sem fylgdu eyðibýlinu nýtti Jón Þorkelsson til slægna og borgaði ekkert fyrir þau afnot nema tíund til fátækra.[112] Bóndi þessi bjó þá hér með 3 kýr, 1 kálf, 14 ær, 12 sauði tvævetra og eldri, 11 veturgamla sauði, 14 lömb og 1 hest.[113]

Árið 1762 var Ketill Þorleifsson annar tveggja bænda á Ytri-Veðrará þá 33ja ára gamall[114] en sonur hans var Guðmundur Ketilsson assistent sem varð verslunarmaður í Hæstakaupstað á Ísafirði og bjó árið 1816 í Tungu í Skutulsfirði.[115] Guðmundur var kvæntur Sigríði Helgadóttur, systur séra Árna Helgasonar stiftprófasts í Görðum,[116] og í manntalinu frá 1816 er hún sögð vera kona hans og ráðskona.[117] Sonur Guðmundar Ketilssonar frá Ytri-Veðrará og Sigríðar konu hans var Þórður Guðmundsson sýslumaður, lengst í Árnessýslu, sem fæddur var árið 1811, en hann var faðir Margrétar Andreu, konu séra Páls Sigurðssonar í Gaulverjabæ.[118]

Árið 1801 bjuggu á Ytri-Veðrará bændurnir Friðrik Þórðarson og Magnús Magnússon.[119] Friðrik drukknaði 6. maí 1812 þegar 45 menn úr Önundarfirði fórust á hafi úti á einum degi og að auk 4 Dýrfirðingar sem reru á bátum úr Önundarfirði (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Í mannskaðanum mikla fórst líka sonur Friðriks, Guðmundur að nafni, sem var 16 ára gamall, og Ólafur Magnússon, 19 ára, en hann var sonur Magnúsar Magnússonar, bónda á Ytri-Veðrará sem látist hafði tveimur árum fyrr.[120] Friðrik Þórðarson var á fimmtugsaldri þegar hann drukknaði en Guðmundur sonur hans ófermdur (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Líklegt er að Friðrik hafi verið bróðir Páls Þórðarsonar í Neðri-Breiðadal sem var formaður á einu skipanna er týndust í hafi 6. maí 1812. Til stuðnings þeirri kenningu má benda á að þegar sá fyrrnefndi gekk í hjónaband árið 1793 var Páll bróðir hans svaramaður.[121] Kona Friðriks var Margrét Guðmundsdóttir sem dó árið 1834, þá sveitarómagi á Ytri-Veðrará.[122] Hún var systir Vigdísar Guðmundsdóttur á Selakirkjubóli sem einnig missti mann sinn í sjóinn í mannskaðanum mikla.[123]

Magnús Magnússon sem bjó á móti Friðriki Þórðarsyni hér á Ytri-Veðrará árið 1801 var fæddur um 1760 og átti fyrir konu Guðrúnu Einarsdóttur sem var um það bil 5 árum yngri.[124] Magnús andaðist eins og áður sagði árið 1810. Eitt barna þessara hjóna var Jón Magnússon sem bjó mjög lengi í Mosdal[125] (sbr. hér Mosdalur). Hjá honum andaðist Guðrún Einarsdóttir móðir hans árið 1841.[126]

Árið 1816 bjó Jón Jónsson á Ytri-Veðrará og hafði alla jörðina til ábúðar.[127] Hann var fæddur á Brekku í Dýrafirði um 1780, sonur Jóns Péturssonar og Ingibjargar Egilsdóttur.[128] Föðurafi Jóns á Veðrará var Pétur Þorleifsson, sonur Þorleifs Magnússonar á Auðkúlu í Arnarfirði sem var bróðir Torfa Magnússonar lögréttumanns þar.[129]

Kona Jóns bónda á Ytri-Veðrará var Ólöf Helgadóttir, fædd suður á Snæfellsnesi á árunum kringum 1790[130] og var hún því um það bil 10 árum yngri en eiginmaðurinn. Þau Jón og Ólöf voru gefin saman í hjónaband árið 1814[131] og hófu þá þegar búskap á Ytri-Veðrará sem sést á því að elsta barn þeirra fæddist hér árið 1814 eða 1815.[132] Árið 1821 var Jón á Ytri-Veðrará orðinn hreppstjóri[133] og hér bjó hann til æviloka en dauða hans bar að 29. júní árið 1834.[134] Síðasta árið sem Jón lifði var bústofn hans þessi ef marka má búnaðarskýrslu: 3 kýr, 26 ær, 5 sauðir og hrútar eldri en eins árs, 6 gemlingar, 10 lömb og 1 hestur.[135] Í búnaðarskýrslu frá árinu 1834 er búpeningur þessi reyndar skráður á nafn ekkjunnar[136] því Jón andaðist þá um sumarið. Á hennar nafni er líka báturinn sem þau áttu að hálfu á móti öðrum, sexæringur eða fjögra manna far.[137]

Með konu sinni, Ólöfu Helgadóttur, eignaðist Jón á Ytri-Veðrará átta börn.[138] Elstur þeirra var Jón, sem varð bóndi á Hálsi á Ingjaldssandi, en yngst Ingibjörg, fædd 1828[139] sem um skeið var fylgikona Guðmundar Guðmundssonar norðlenska og eignaðist með honum þrjú börn (sjá hér Mosdalur og Sandar). Seinna giftist Ingibjörg Jóni Guðmundssyni sem um skeið bjó á Kirkjubóli í Valþjófsdal og svo í Tungu í Valþjófsdal.[140] Þar dó hún haustið 1865.[141]

Á árunum 1835-1850 skipti hér nokkuð oft um ábúendur. Úr hópi þeirra sem þá bjuggu á Ytri-Veðrará má nefna Jón Jónsson frá Villingadal, sem seinna bjó á Tannanesi (sjá hér Tannanes), Davíð Jónsson, sem fæddur var í Minni-Hattardal í Álftafirði árið 1799 en dó í Ytri-Hjarðardal árið 1862, og Ólaf Þorkelsson frá Innri-Veðrará sem áður bjó um tíma á Tannanesi (sjá hér Innri-Veðrará).[142] Þessir þrír menn voru bændur á Ytri-Veðrará um nokkurn tíma hver á árunum 1835-1850 en sá þeirra sem síðast var nefndur var hér áfram í húsmennsku með sína fjölskyldu allt til 1856 er hann fluttist út á Ingjaldssand.[143]

Árið 1850 var Þórður Andrésson bóndi á Ytri-Veðrará og stóð hann hér fyrir búi fram yfir 1860.[144] Þórður fæddist á Kirkjubóli í Korpudal árið 1823, sonur Andrésar Jónssonar bónda þar og konu hans Járngerðar Sigurðardóttur.[145] Árið 1845 kvæntist hann Jóhönnu Guðmundsdóttur frá Hóli á Hvilftarströnd en hún var dóttir hjónanna Guðmundar Pálssonar og Halldóru Guðmundsdóttur sem þar bjuggu.[146] Jóhanna var fædd á Höfða í Dýrafirði árið 1820 en þar bjuggu foreldrar hennar áður en þeir fluttust að Hóli.[147]

Þau Þórður og Jóhanna bjuggu seinna skamman tíma á Tannanesi og einnig á Kotum en árið 1876 fluttust þau frá Hjarðardal í Súgandafjörð.[148] Í allmörg ár var Þórður bóndi í Bæ í Súgandafirði (sjá hér Bær) og bæði dóu þau hjónin þar í sveit, Þórður á Gilsbrekku árið 1891 en Jóhanna í Selárdal árið 1893.[149] Börn þeirra sem upp komust voru sex.[150] Eitt þeirra var Jóhann Þórðarson, sem lengi var ráðsmaður hjá ekkjunni Sigríði Friðbertsdóttur í Selárdal, en önnur tveggja dætra Þórðar og Jóhönnu var Halldóra, kona Sigurðar Sigurðssonar, bónda á Gilsbrekku, og móðir Helga Sigurðssonar formanns sem síðast átti heima á Flateyri en áður í Súgandafirði.[151]

Árið 1867 fóru hjónin Jón Halldórsson og Ingibjörg Eiríksdóttir að búa á Ytri-Veðrará en hingað komu þau frá Brekku á Ingjaldssandi.[152] Við komu þeirra urðu hér þáttaskil, bæði vegna þess að Jón mun þá þegar hafa fest kaup á jörðinni[153] og ekki síður vegna hins að þau hjónin og þeirra fólk stóðu hér fyrir búi í 64 ár, það er frá 1867 til 1894 og frá 1901 til 1938 .[154] Á þeim sjö árum sem þarna voru á milli bjó annað fólk á jörðinni en ekkja Jóns Halldórssonar var þá eigandi hennar og átti hér jafnan heima.[155] Áður en Jón og Ingibjörg fluttust að Ytri-Veðrará höfðu búið hér leiguliðar sem ekki náðu að gróa fastir við torfuna.

Jón Halldórsson fæddist á Arnarnesi í Dýrafirði 4. mars 1826 og var sonur hjónanna Halldórs Torfasonar og Svanfríðar Jónsdóttur sem þar bjuggu.[156] Hann var bróðir Torfa Halldórssonar sem varð ungur skipstjóri á skútum og síðar umsvifamikill útgerðarmaður, verslunarstjóri og kaupmaður á Flateyri (sjá hér Arnarnes og Flateyri). Þeir bræður voru á líkum aldri en þó var Torfi þremur árum eldri. Báðir ólust þeir upp á Arnarnesi hjá móður sinni og stjúpa, Bjarna Hákonarsyni, en Halldór faðir þeirra drukknaði árið 1830 (sjá hér Arnarnes). Þá var Jón aðeins fjögra ára gamall. Vorið 1839 var hann fermdur og er þá sagður vera gáfaður, stilltur og vel að sér.[157] Haustið 1851 var Jón Halldórsson orðinn 25 ára gamall og gekk þá að eiga Ingibjörgu Eiríksdóttur, tvítuga bóndadóttur frá Hrauni á Ingjaldssandi, sem þá var vinnukona hjá móður hans á Arnarnesi.[158] Foreldrar Ingibjargar voru hjónin Eiríkur Tómasson og Kristín Nikulásdóttir í Hrauni[159] sem hér er frá sagt á öðrum stað (sjá hér Hraun á Ingjaldssandi). Um þetta leyti mun Jón hafa verið skipstjóri á skútu því þegar prestur skráir hjónavígsluna í bók sína haustið 1851 segir hann brúðgumann vera skipherra á Arnarnesi.[160] Fyrstu þrjú hjónabandsárin áttu þau Jón og Ingibjörg heima á Arnarnesi en hófu búskap á Brekku á Ingjaldssandi vorið 1854.[161] Þar bjuggu þau í 13 ár en fluttust eins og áður sagði frá Brekku að Ytri-Veðrará vorið 1867. Yngsta barn þeirra, Guðrún Ingibjörg, var þá fárra mánaða gömul, fædd 2. febrúar 1867, en af tólf börnum þessara hjóna náðu sex að komast upp.[162]

Síðasta fardagaárið fyrir komu Jóns Halldórssonar að Veðrará hafði Torfi bróðir hans nytjað tvo þriðju hluta jarðarinnar frá Flateyri en maður að nafni Sigurður Guðmundsson bjó þetta eina ár á 6 hundruðum úr jörðinni.[163] Vorið 1867 voru bæjarhúsin á Ytri-Veðrará tekin út í hendur Jóns Halldórssonar og var baðstofan þá fallin að viðum en stæðileg að veggjum.[164]  Stærð hennar var liðlega 15 fermetrar, lengdin 11 álnir en breidd 3,5 álnir.[165] Lofthæð í baðstofunni sem Jón Halldórsson og fjölskylda hans settust að í var um það bil 2,8 metrar[166] svo að heldur ólíklegt verður að telja að nokkurt loft hafi verið í því húsi. Um búr er ekki getið en eldhúsið var býsna stórt, um það bil 10 fermetrar.[167] Bæjargöngin voru stutt, aðeins 2,5 metrar og tæplega einn metri á breidd.[168] Jörðinni fylgdi tveggja kúa fjós og fjárhús yfir liðlega tuttugu ær.

Á sínum fyrstu búskaparárum á Ytri-Veðrará var Jón Halldórsson með það sem kallast gat meðalbú og rétt ríflega það. Sem dæmi má nefna að árið 1870 bjuggu þau hjónin með 2 kýr, 18 ær, 8 gemlinga, 3 hesta og 1 tryppi.[169] Báturinn sem Jón átti þá var lítill, aðeins tveggja eða þriggja manna far.[170]

Árið 1880 var búið á Ytri-Veðrará orðið stærra en verið hafði tíu árum fyrr. Á því ári bjó Jón með 3 kýr, 24 ær, 20 gemlinga og 3 hesta.[171] Af 50 bændum í Mosvallahreppi voru þá aðeins fjórir með fleiri kýr og níu með fleiri ær en þá eru ekki taldir með þeir tveir menn sem stærst höfðu búin, það er að segja séra Stefán P. Stephensen prestur í Holti og Torfi Halldórsson á Flateyri,[172] enda hæpið að flokka þá með bændum. Árið 1880 hafði bátaeign Jóns bónda á Ytri-Veðrará líka tekið stakkaskiptum því auk litla bátsins, sem áður var nefndur, átti hann nú hálfan stærri bát á móti öðrum manni.[173] Sá bátur var sexæringur eða fjögra manna far[174] og meðeigandinn Guðmundur Guðmundsson í Neðri-Breiðadal sem í búnaðarskýrslunni er líka sagður eiga hálfan bát af þessari stærð.[175] Sexæringurinn, sem þeir Jón á Ytri-Veðrará og Guðmundur í Neðri-Breiðadal áttu saman, hét Mjóni og hafði í nokkur ár sinn eigin reikning við verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri.[176] Um þetta leyti voru hjónin á Ytri-Veðrará líka búin að koma sér upp færikvíum og 30 ferfaðma kálgarði.[177] Stærstu garðarnir í Mosvallahreppi voru þá hjá Torfa á Flateyri og séra Stefáni í Holti en aðeins á tveimur öðrum bæjum var að finna stærri kálgarð en þennan.[178]

Á árunum upp úr 1880 var heimili Jóns Halldórssonar á Veðrará og Ingibjargar konu hans oft nokkuð fjölmennt. Ein vinnukonan þar á þeim árum var Kristjana Guðrún Björnsdóttir sem í verslunarbókum frá Flateyri er árið 1882 nefnd Kristjana trankokkur á Veðrará.[179] Óhætt virðist að slá því föstu að þessi vinnukona Jóns á Veðrará hafi unnið við að bræða hákarlslýsi hjá Torfa bróður hans á Flateyri því önnur skýring á starfsheitinu trankokkur kemur vart til greina.

Kristjana fæddist á Vífilsmýrum árið 1840 og giftist haustið 1863 Jóni Árnasyni, sem var fimm árum eldri en hún,[180] en faðir hans var Árni Mahalaleelsson sem hér er sagt frá á öðrum stað (sjá hér Tannanes). Sonur Jóns Árnasonar og Kristjönu trankokks var Björn Jónsson, sem um skeið var póstur á leiðinni milli Ísafjarðar og Rafnseyrar, en eiginmaður bræðslukonunnar eignaðist líka a.m.k. tvö börn fram hjá henni.[181]

Þann 23. nóvember 1889 lauk ævi Jóns Halldórssonar, bónda á Ytri-Veðrará, en Ingibjörg kona hans hélt áfram búskap og stýrði hér búi allt til ársins 1894. Þá leigði hún jörðina en dvaldist hér áfram og andaðist á Ytri-Veðrará 7. júlí 1908.[182] Nokkru síðar ritaði Sighvatur Borgfirðingur um hana minningargrein sem birtist í Þjóðviljanum. Hann segir þar m.a. þetta:

 

Þeir fjöldamörgu sem áttu leið um heimili þeirra hjóna, sem er í þjóðbraut, munu lengi minnast þeirra með þakklæti fyrir svo marga velvild og aðhjúkrun sem þar var jafnan á reiðum höndum, hvernig sem á stóð og á hverjum tíma árs sem var og það oft þegar menn þurftu bæði mat og nákvæma aðhlynningu á ferðum yfir hina erfiðu og hættulegu Breiðadalsheiði  sem er mjög fjölfarinn vegur á öllum tímum árs.

            Hún var umhyggjusöm kona og mikils metin í sveit sinni og lét miklu meira gott af sér leiða en margir þeir sem hafa þó meiri auðlegð á að taka og það sem mest var um vert að hún lagði jafnan gott til alls, hvar sem hennar var að einhverju getið. Þau hjón áttu saman 12 börn, dóu sex þeirra í æsku en sex náðu fullorðins aldri, auk þess ólu þau upp að öllu þrjú börn önnur en tóku miklu fleiri börn um lengri eða skemmri tíma.[183]

 

Haustið 1890 voru 12 manneskjur í heimili hjá Ingibjörgu húsfreyju á Ytri-Veðrará. Í þeim hópi var ungur búfræðingur, Jón Guðmundsson að nafni, sem í manntali frá þessu hausti er sagður vera lausamaður og daglaunamaður.[184] Hann var þá heitbundinn yngstu dótturinni á bænum, Guðrúnu Ingibjörgu Jónsdóttur sem þá var 23ja ára og einu ári síðar, 7. nóvember 1891, voru þau gefin saman í hjónaband.[185] Fram undan biðu þeirra 46 ár við sameiginlegan búskap og annað yndi, öll nema átta hér á Ytri-Veðrará.

Jón Guðmundsson var Dalamaður að uppruna, fæddur á Ketilsstöðum í Hvammssveit 11. desember árið 1864.[186] Hann útskrifaðist sem búfræðingur frá skólanum í Ólafsdal vorið 1887 og var þá þegar ráðinn til starfa hjá Torfa Halldórssyni á Flateyri,[187] föðurbróður stúlkunnar sem hann kvæntist fjórum árum síðar. Með bréfi rituðu í nóvembermánuði árið 1886 hafði Torfi á Flateyri snúið sér til Torfa Bjarnasonar, skólastjóra í Ólafsdal, og beðið hann að útvega sér búfræðing. Beiðni sína orðaði hann svo í bréfi til skólastjórans:

 

Efni þessara fáu lína er að biðja yður að útvega mér einhvern af lærisveinum yðar sem þér álítið duglegan til jarðyrkju. Helst vildi ég óska að maðurinn væri viðmótsgóður en umfram allt reglumaður, helst af öllu að hann væri bindindismaður því það eru flestir hér. Þó maðurinn sé ekki alveg bindindismaður þá fæst ég ekkert um það. Kaup vil ég gefa honum um árið 150,00 krónur og allt frítt nema föt, þau verður maðurinn að kaupa sjálfur en ég skal hjálpa til að þau verði svo ódýr eins og hægt er … .[188]

 

Upp á þessi kjör var hinn ungi búfræðingur fenginn til að fara vestur og kom með skipi til Flateyrar 5. júní 1887.[189] Líklega hefur Jón Guðmundsson verið annar búfræðingurinn sem kom til starfa í Mosvallahreppi en Júlíus Ólafsson, síðar bóndi á Miðjanesi, var hér við störf sumarið 1886 á vegum Búnaðarfélags Önfirðinga sem þá var alveg nýstofnað (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 326).

Þegar Jón fór vestur var hann 22ja ára og mun ekki hafa ætlað sér að setjast að í Önundarfirði til frambúðar. Engu að síður varð sú raunin á. Frá vorinu 1887 og til haustsins 1888 var hann á Flateyri í þjónustu Torfa en gerðist þá búðarmaður í útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri þar sem Jónas Th. Hall var verslunarstjóri.[190]

Veturinn 1889-1890 var búfræðingurinn enn við verslunarstörf á Flateyri eins og sjá má í bréfi er hann ritaði Torfa Bjarnasyni, skólastjóra í Ólafsdal, 2. febrúar 1890. Í þessu bréfi kemst hann m.a. svo að orði: … en þó ég sé við verslun nú þá er ég svona í og með hjá þeim hér með hvað búnaðinn snertir, legg þeim ráðin og svoleiðis og líklega verð ég heldur bóndi en kaupmaður.[191]

Veturinn 1890-1891 var Jón búfræðingur barnakennari hjá Kristjáni Oddssyni á Núpi í Dýrafirði og sumarið 1891 var hann eitthvað við jarðyrkjustörf í Mýrahreppi.[192] Þá um haustið kvæntist hann eins og áður var nefnt og fór að búa á Ytri-Veðrará á móti tengdamóður sinni. Að því sinni bjó hann hér aðeins í tvö ár en fluttist þá að Kroppstöðum ásamt Guðrúnu konu sinni. Þar bjuggu þau frá 1893 til 1901 en komu þá aftur að Ytri-Veðrará og bjuggu hér æ síðan allt þar til Jón burtkallaðist þann 8. febrúar 1938.[193]

Baðstofan sem Jón fékk til umráða hér á Ytri-Veðrará árið 1901 var 5,5 x 4,5 álnir,[194] það er tæplega 10 fermetrar. Hún var með lofti undir súð og þar uppi var alþiljað.[195] Einn gluggi var niðri í baðstofuhúsinu og hálfur annar gluggi uppi á loftinu.[196] Eldhúsið var 3 x 3 álnir[197] eða þrír og hálfur fermetri. Í úttekt frá vorinu 1901 er ekki getið um önnur bæjarhús en fjós fyrir eina kú, fjárhús og hlöðu sem fylgdu jarðarpartinum.[198]

Fyrstu árin bjó Jón hér í tvíbýli (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 379) svo ætla má að allt baðstofurýmið á Ytri-Veðrará hafi verið um 20 fermetrar á árunum rétt eftir aldamótin 1900. Baðstofan sem tengdafaðir Jóns búfræðings tók við, þegar hann fluttist hingað árið 1867, var hins vegar nokkru minni eða 15 fermetrar (sjá hér bls. 13) en þá var einbýli á jörðinni.

Jón Guðmundsson búfræðingur var merkur bóndi og tók mikinn þátt í félagsstörfum af ýmsu tagi. Með búskapnum gegndi hann líka margvíslegum opinberum störfum eins og hér verður brátt vikið að. Á Landsbókasafni er nú varðveitt nokkurt safn skjala og handrita úr hans fórum, þar á meðal brot úr dagbókum sem geyma ýmsan fróðleik.

Daginn eftir að Jón kom fyrst til Flateyrar hóf hann störf hjá Torfa og skrifar þá í dagbók sína: Tók ég til starfa hér á Flateyri og byrjaði á því að stinga upp kálgarð og hlaða upp veggina á honum.[199] Næstu daga var Jón að hlaða upp túngarð á Flateyri og var garður sá 2 álnir á hæð og 2 álnir á breidd neðst en ein alin efst.[200] Fyrstu dagana í júlí var búfræðingurinn í mógröfum en þann 12. sama mánaðar fór hann til jarðyrkjustarfa inn að Hóli í Firði.[201] Sú jörð var þá í eigu Torfa Halldórssonar á Flateyri (sjá hér Hóll í Firði). Þann 5. apríl 1888 var búfræðingurinn á Flateyri kominn yfir í Valþjófsdal og var þar að mæla og ákveða jarðabætur og reikna út til undirbúnings suður í amtið eins og hann kemst að orði í dagbókinni.[202]

Haustið 1888 var Jón búfræðingur kosinn bókavörður á fundi lestrarfélags sem þá starfaði í Önundarfirði[203] og seinna hlóðust á hann margvísleg félagsstörf. Á sínu fyrsta búskaparári á Kroppstöðum tók Jón þátt í að stofna hið merkilega framfarafélag sem nefnt var Vonin og frá er sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Hann var reyndar einn þeirra þriggja manna sem undirbjuggu stofnfund félagsins en til þess fundar var efnt 4. mars 1894 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 323-324). Félagið Vonin hóf strax útgáfu á handskrifuðu sveitarblaði og tók Jón búfræðingur að sér að rita fyrsta blaðið sem hann lauk við á Kroppstöðum mánudaginn 5. febrúar árið 1894.[204] Blað þetta hét Nútíminn og kom út í 10 ár.[205] Áður en útgáfa þess hófst hafði Jón haft dálítið með blöð að gera því á árunum 1888-1890 var hann umboðsmaður Reykjavíkurblaðanna Ísafoldar og Fjallkonunnar hér í Önundarfirði.[206] Í janúarmánuði árið 1890 voru fastir kaupendur Fjallkonunnar í Önundarfirði tíu.[207] Ekki er ætlunin að gera hér grein fyrir hinum ýmsu félagsstörfum Jóns búfræðings en þess skal þó getið að hann átti sæti í stjórn Búnaðarfélags Mosvallahrepps í 23 ár, var fyrst ritari frá 1897 til 1912 og síðan formaður frá 1912 til 1920.[208]

Jón búfræðingur var jafnan áhugasamur um stjórnmál og í bréfi er hann ritaði Gísla Kristjánssyni í Lokinhömrum 6. febrúar 1908 kemst hann svo að orði að í Önundarfirði fylgi allir landvarnarstefnunni og þjóðræðis.[209] Í sama bréfi leggur hann á ráðin um val á frambjóðanda í alþingiskosningunum sem fram fóru síðar á því ári[210] og snerust nær eingöngu um Uppkastið. Orð Jóns um fylgi við landvarnarstefnuna sýna að hann hefur verið andstæðingur Uppkastsins.

Meðal bréfa sem bárust að Ytri-Veðrará vorið 1916 var eitt frá Ottó N. Þorlákssyni, fyrsta forseta Alþýðusambands Íslands, en Alþýðusambandið var stofnað 12. mars á því ári. Bréf þetta er enn varðveitt[211] og þar fer Ottó þess á leit að Jón taki að sér að safna meðmælendum fyrir framboðslista Alþýðusambandsins (Alþýðuflokksins) við landskjörið sem ákveðið var að færi fram 5. ágúst 1916[212] en þá voru landskjörnir alþingismenn valdir í fyrsta sinn. Um svör Jóns við þessari málaleitan er ekki kunnugt en á sínum síðustu árum fylgdi hann Sjálfstæðisflokknum að málum að sögn kunnugra.[213]

Vilji menn heyra um opinber störf Jóns Guðmundssonar og önnur aukastörf sem hann gegndi með búskapnum er af mörgu að taka. Hér hefur áður verið sagt frá ferjumannsstarfinu (sjá bls. 1-2) en því tengdist margvíslegt liðsinni við ferðamenn og oft varð Jón að fylgja ferðamönnum yfir Breiðadalsheiði, einkum að vetrarlagi þegar færðin var slæm og allra veðra von.[214] Jón búfræðingur á Veðrará sá lengi um allar jarðræktarmælingar í Mosvallahreppi og nálægum byggðarlögum og var oft skipaður virðingarmaður jarða og húsa.[215] Árið 1916 var hann skipaður af stjórnarráðinu til að mæla og gera uppdrætti af öllum túnum og matjurtagörðum í Vestur-Ísafjarðarsýslu en skýrslur hans frá því starfi eru nú varðveittar í Þjóðskjalasafni.[216] Lengi var Jón stefnuvottur og einnig póstafgreiðslumaður því bréfhirðing var á Ytri-Veðrará.[217] Lögrétt var þar líka frá árinu 1916 fyrir bæina frá Görðum að Tannanesi og var Jón skipaður réttarbóndi.[218] Forðagæslumaður var hann um langt skeið og skoðunarmaður búpenings.[219] Oft var búfræðingurinn á Ytri-Veðrará fenginn til að sækja fé í kletta[220] því hann var fjallamaður og kunni að þræða syllurnar.

Árið 1908 vann Jón búfræðingur við að leggja fyrstu símalínuna í Önundarfirði og þaðan í frá var hann lagningar-, viðgerðar- og eftirlitsmaður með allri símalögn í Önundarfirði, frá Flateyri upp á Breiðadalsheiði, yfir fjörðinn í Holt og síðar inn í fjörð.[221] Þessu starfi fylgdi erfiði og vosbúð því í vetrarveðrum hlóðst oft ísing á símalínurnar og staurar brotnuðu í snjóflóðum og af öðrum ástæðum. Í einu veðrinu féllu 54 staurar á Hvilftarströnd.[222] Starfi sínu hjá Landsímanum gegndi Jón í nær þrjá áratugi, allt til ársins 1935 eða 1936.[223]

Í dagbókarskrifum Jóns á Ytri-Veðrará frá árinu 1908 er að finna merkilegar frásagnir af undirbúningu að lagningu fyrstu símalínunnar í Önundarfirði. Í janúarmánuði á því ári skrifar hann m.a. þetta:

 

Þriðjudaginn 7. janúar byrjaði Þórður á að reiða staurana. Ég var úti á Flateyri. Hann fór með 2 staura fram í Brok á tveimur hestum og hafði Jón Guðmund með sér. – Miðvikudaginn 8. vorum við báðir að reiða með 2 hesta hvor og einn dreng hvor.[224]

 

Þórður, sem þarna er nefndur, er efalaust Þórður Sigurðsson í Neðri-Breiðadal og drengurinn án efa Jón Guðmundur Guðmundsson frá Görðum en hann var 9 ára hjá ömmu sinni í Neðri-Breiðadal árið 1901.[225]

Þennan dag, 8. janúar, náðu þeir Þórður og Jón búfræðingur að koma 4 staurum fram á Skógarbrekkur og 6 staurum fram á Þverárholt.[226] Næstu daga halda þeir áfram að flytja staurana og á eitt dagbókarblaðanna hefur Jón krotað 40 aurar á staur[227] svo gera má ráð fyrir að þetta hafi verið ákvæðisvinna. Í lok mars skrifar Jón þessi orð í dagbókina: Fluttum við Þórður staura úr Bótinni upp fyrir túnið í Breiðadal og fram á engjarnar. Hann með 2 hesta og Siggu litlu og ég með 2 hesta og Odd. Við vorum í fjóra klukkutíma og færðum 20 staura.[228] Þann 4. október 1908 var svo opnuð símstöð á Flateyri.[229]

Ekki verður sagt hér nánar frá hinum ýmsu störfum Jóns Guðmundssonar á Ytri-Veðrará en lýsingu á honum sjálfum og Guðrúnu kona hans og ýmislegt um athafnir þeirra er að finna í ritgerð dótturdóttur þeirra, Guðrúnar Ingibjargar Jónsdóttur í ritinu Bóndi er Bústólpi.[230]

Í nemendatali Ólafsdalsskóla er líka varðveitt lýsing Guðmundar Inga Kristjánssonar á Kirkjubóli í Bjarnardal á Jóni búfræðing á Veðrará og er hún á þessa leið: Jón búfræðingur var fremur lágur maður en hnarreistur, lyftist sérkennilega í sporinu um leið og hann gekk. Félagsmaður góður, félagslyndur en þó fastheldinn við skoðanir sínar.[231]

Snorri Sigfússon skólastjóri segir að á Ytri-Veðrará hafi verið þrifnaður mikill og myndarbragur þegar Jón búfræðingur og Guðrún kona hans réðu hér húsum.[232]

Guðmundur G. Hagalín rithöfundur kom að Ytri-Veðrará síðla sumars árið 1920 og staldraði þar við á ferð frá Ytrihúsum í Dýrafirði á Ísafjörð. Hann minntist síðar hjónanna sem þá bjuggu hér, þeirra Jóns og Guðrúnar, og sagði frá á þessa leið:

 

Heimilisbragur var notalegur, framkoma hjónanna glaðleg og frjálsleg og þó mjög háttvís. … Jón bóndi var maður lítill vexti en snarlegur og rösklegur og áreiðanlega gæddur mikilli seiglu. … Guðrún húsfreyja var kona vel meðalhá, myndarleg, góðleg og gáfuleg og minnist ég þess einkum hvað augun voru skær og hýrleg. Þau hjón áttu allmikinn og góðan bókakost.[233]

 

Hér var þess áður getið að Jón Guðmundsson búfræðingur fluttist frá Kroppstöðum að Ytri-Veðrará vorið 1901 og keypti þá hálfa jörðina af tengdamóður sinni, Ingibjörgu Eiríksdóttur (sjá hér bls. 8). Næstu 17 árin bjó hann hér í tvíbýli (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 379) en frá 1918 og allt til dauðadags hafði hann alla jörðina til ábúðar.

Jón búfræðingur andaðist 8. febrúar 1938 og síðar á því ári fluttist ekkja hans frá Veðrará að Sólvöllum innan við Flateyri til dóttur þeirra og tengdasonar.[234] Þegar Jón á Veðrará dó var hann sá bóndi í Mosvallahreppi sem lengst hafði búið.[235] Á það minnti Guðlaugur Rósinkranz, síðar þjóðleikhússtjóri, í minningarorðum sem han ritaði um Jón og birtust í Tímanum. Guðlaugur segir þar að búfræðingurinn á Veðrará hafi alltaf verið boðinn og búinn að veita mönnum aðstoð ef með þurfti, hvort sem það var fylgd, gisting eða annar greiði.[236] Í blaðinu Vesturlandi var Jóns einnig minnst og tekið sérstaklega fram að hjá honum og Guðrúnu konu hans á Ytri-Veðrará hafi aldrei verið seldur greiði þó að oft væri margt um manninn og öllum vel veitt sem að garði bar.[237]

Nú gefst ekki lengur kostur á að hitta Jón búfræðing að máli hér á Ytri-Veðrará en skrif hans frá árinu 1911 bregða upp mynd af bænum sem þá var nýbyggður, gripahúsum, görðum og túni. Þessa lýsingu sína orðar Jón svo:

 

Byggður bær 9½ alin á lengd, 6 álnir á breidd, önnur hliðin úr timbri og annar gaflinn en hinn gaflinn hálfur úr timbri. Á bænum eru fimm sex rúðu gluggar og einn fjögurra rúðu. Fjós fyrir þrjár kýr, hesthús fyrir þrjá hesta, tvö fjárhús, annað fyrir rúmlega tuttugu kindur rosknar, hitt fyrir tuttugu lömb. Rófu- og kartöflugarðar 428 fermetrar, sléttur 566 ferfaðmar, skurðir 120 faðmar á lengd, túngarður úr grjóti einhlaðinn 80 faðmar á lengd og úr torfi með vörsluskurði sex fet á breidd 29 faðmar á lengd.[238]

 

Steinlögð stétt var framan við bæinn og steinaröð frá bænum að fjósi svo þar var hægt að ganga á milli án þess að vökna í fæturna.[239] Bæjarlækurinn rann úr uppsprettulind á hærra túninu og árið 1934 var lagt vatn í bæinn og fjósið og frárennsli úr eldhúsi.[240] Gott brunnhús var ofantil við bæinn með háum bunustokk.[241] Undir honum var þró sem þvottur var skolaður í.[242] Rimlahjallur var skammt frá bænum og á bak við hann útikamar.[243] Bær Jóns búfræðings stóð á nokkurn veginn sama stað og íbúðarhúsið sem nú (1999) er búið í hér á Ytri-Veðrará.[244] Á árunum milli 1930 og 1940 voru bæirnir á Ytri-Veðrará tveir en aðeins búið í innri bænum,[245] þeim sem Jón hafði byggt árið 1911. Lítið sund var á milli bæjanna þar sem nú er norðurhliðin á íbúðarhúsinu.[246]

Frá bröttum bæjarhólnum á Ytri-Veðrará sést vel til hafs en hryggurinn utan við túnið byrgir sýn til Breiðadals og út á Hvilftarströndina. Fjallið Breiðadalsstigi, fyrir ofan bæinn í Neðri-Breiðadal, blasir hins vegar við augum og lítur út eins og píramíti þegar á það er horft héðan frá bæjarhlaðinu á Veðrará.

Við höldum nú úr hlaði svo tóm gefist til að skoða, áður en daginn þrýtur, þann hluta Breiðadals sem er í landareign Ytri-Veðrarár og gamlir Önfirðingar nefna enn Veðrarárdal. Áður en stefnan verður tekin á dalinn skulum við samt rölta hér niður í fjöruna þar sem féð gekk áður á beit í þaranum þegar gróður jarðar var hulinn klaka og fönn (sjá hér bls. 3).

Niður af utanverðum bæjarhólnum eru þrjú gömul naust og virðast hvert um sig hafa verið sex til átta metrar á lengd. Eitt þeirra mun hafa verið endurbyggt fyrir fáum áratugum. Það er með þaki og var um skeið notað sem reykhús.[247] Frá þessum naustum voru menn ferjaðir yfir Holtsós á fyrri tíð eins og hér hefur áður verið rakið (sjá hér bls. 1-3). Innan við bæjarhólinn má enn sjá Götuskarð er svo heitir í sjávarbökkunum en úr fjörunni neðan við það var lagt á Ystavað þegar farið var héðan ríðandi yfir fjörðinn og stefnt á Holtsstekk (sjá hér bls. 2. Sbr. Holt). Nú er háfjara og sjávartangarnir uppi með allan sinn þaragróður. Niður af bæjarhólnum er Bæjartangi en dálitlum spöl innar, við landamerkin á móti Innri-Veðrará, er Skriðutangi.[248] Utan við Skriðutanga eru berar klappir og heita hér Klampir.[249] Utan við Bæjartanga er Húsatangi og ystur Skollatangi[250] en hann er rétt fyrir utan brúna og veginn yfir Önundarfjörð sem lokið var við að byggja árið 1980 eða því sem  næst.[251] Þar förum við upp úr fjörunni, stöldrum við á vegamótunum þar sem önnur akbrautin liggur í átt til Flateyrar en hin stefnir fram Veðrarárdal í átt til heiðarinnar. Veðrarárdal nefnir heimafólk þann hluta Breiðadals sem er Veðrarármegin við ána  og því í landi Veðrarár (sjá hér bls. 1). Að þessum vegamótum er varla nema hálfur kílómetri frá bæjarhlaðinu á Ytri-Veðrará og hér erum við stödd í mynni Breiðadals. Til að forðast umferðina á hinum fjölfarna þjóðvegi er best að ganga niður að ánni og fylgja henni fram dalinn.

Áin sem fellur um endilangan dalinn er ýmist nefnd Langá eða Breiðadalsá.[252] Óskar Einarsson læknir segir að á móts við bæinn í Fremri-Breiðadal og þar fyrir framan sé áin venjulega nefnd Langá[253] en Ásta Þórðardóttir, sem fædd er árið 1905 og ólst upp í Neðri-Breiðadal, segir að heimafólk þar hafi alltaf nefnt ána Langá.[254] Orð Ástu benda eindregið til þess að gamla nafnið á ánni sé Langá en fólk á öðrum bæjum mun þó snemma hafa farið að kalla hana Breiðadalsá og bæði nöfnin verða því notuð hér. Á þessi skiptir löndum milli Ytri-Veðrarár og jarðanna Neðri-Breiðadals og Fremri-Breiðadals. Síðan 1922 hafa hreppamörk einnig legið um Breiðadalsá en þá var hinum forna Mosvallahreppi skipt í Mosvallahrepp og Flateyrarhrepp sem nær yfir alla norðurströnd Önundarfjarðar fyrir utan ána (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli).

Jón Guðmundsson, búfræðingur á Ytri-Veðrará, sem hér var áður sagt frá, festi vorið 1921 á blað landamerkjalýsingu Ytri-Veðrarár og þar lýsir hann þessum landamerkjum dálítið nánar. Jón segir þar að Breiðadalsá skipti löndum svo langt sem hún nær að svonefndri Ártungu en bætir síðan við:

 

Þá koma tvær kvíslar, sín hvoru megin við tunguna. Önnur kvíslin kemur úr dálitlu vatni sem myndast í lægð neðantil við svonefndan Kerlingarhól en hin kvíslin kemur úr Lang(a)dal og renna þær svo saman við ártungusporðinn í Breiðadalsá, öðru nafni Langá.[255]

 

Frá þessum kvíslamótum, sem eru um það bil 2,3 kílómetrum fyrir framan bæinn í Fremri-Breiðadal og um 300 metrum framan við vegskálann sem hér stendur nú, segir Jón landamerkin liggja beint upp í öxl sem myndast framúr fjallinu fyrir miðjum dalnum og svo eftir öxlinni upp í fjallið þar sem það er hæst.[256]

Einhver ágreiningur var þó uppi á dögum Jóns búfræðings um landamerkin þarna fremst í dalnum, fyrir framan kvíslamótin, og mun hafa verið lagður fyrir sýslumann til úrskurðar.[257] Þingað var í málinu á Ytri-Veðrará og ýmsir þeirra sem kunnugastir voru kvaddir til að bera vitni.[258] Svo átti að fara að sverja en sú saga lifir að þá hafi Guðrún húsfreyja, eiginkona Jóns búfræðings, gengið í réttarsalinn og tilkynnt mönnum að hún vildi ekki af því vita að nokkur færi að sverja sig til helvítis fyrir þessi strá því rollurnar muni bíta hvoru megin lækjarins sem er.[259]

Í þinglýstri landamerkjaskrá frá árinu 1923 er þessum sömu landamerkjum lýst á örlítið annan veg en hjá Jóni búfræðingi á Veðrará. Í skránni frá 1923 eru merkin sögð liggja um árkvíslina sem kemur úr vatninu og þaðan á fjallsbrún en tekið fram að Veðrará eigi ítak aðeins til slægna sunnantil í svonefndri Ártungu,[260] það er fyrir norðan landamerkjakvíslina. Beitarréttur Veðrarár norðan kvíslarinnar hefur því ekki fengist viðurkenndur.

Í Breiðadal er allmikið undirlendi en meginhluti þess er handan við Breiðadalsá og því í landi jarðanna Neðri- og Fremri-Breiðadals. Neðst er Breiðadalur liðlega einn kílómetri á breidd og mjókkar ekki svo heitið geti fyrr en komi er á þriðja kílómetra frá sjó. Lengd dalsins má mæla með ýmsum hætti en loftlína frá sjávarströndinni og upp í heiðarskarðið fyrir botni dalsins er um það bil fimm kílómetrar. Bæirnir í Neðri-Breiðadal og Fremri-Breiðadal standa báðir rétt norðan við Breiðadalsá. Frá Neðri-Breiðadal er tæplega hálfur kílómetri til sjávar en milli bæjanna eru 1400 metrar eða því sem næst.

Sé dalurinn skoðaður frá brúnni yfir Breiðadalsá, rétt hjá bænum í Neðri-Breiðadal, rís Veðrarárfjallið á hægri hönd og nær fram að Folaldahvilft.[261] Ofan til við mitt fjallið er Breiðhilla sem er vel manngeng.[262] Héðan frá brúnni sjáum við þjóðveginn sem liggur fram dalinn og upp í Heiðarhvilft er svo heitir og þaðan í Breiðadalsskarð[263] sem er í 610 metra hæð yfir sjávarmáli en þar liggur vegurinn hæst. Fjallið sem við blasir fyrir botni dalsins heitir Þverfell og hlíðin Þverhlíð[264] en þar fyrir neðan er Ártungan sem  var nefnd fyrr. Ofan við bæinn í Fremri-Breiðadal rís fjallið Skógarhorn og skiptir Breiðadal í Langdal og Þverdal. Úr Langdal kemur önnur helsta upptakavísl Langár (Breiðadalsár) en úr Þverdal, sem er vestan við fjallið Skógarhorn, fellur Þverá og sameinast Langánni neðan við túnið í Fremri-Breiðadal. Utan við Þverdal og í hánorðri frá brúnni yfir Breiðadalsá er svo hið mikla fjall Breiðadalsstigi en brún þess liggur í 739 metra hæð yfir sjávarmáli. Veðrarárfjall nær líka 700 metra hæð en Skógarhorn er ívið lægra.

Við höfum nú litið yfir sviðið frá brúnni á þjóðveginum hjá Neðri-Breiðadal og þaðan leggjum við leið okkar fram dalinn. Á þessari kvöldgöngu höldum við okkur Veðrarármegin við ána, í landareign Ytri-Veðrarár.

Hér skammt frá ósnum fellur Langá (Breiðadalsá) um Árdal sem svo heitir og frá honum er gott að ganga um Árdalabörð uns komið er að gömlu engjastykki sem heitir Ólafspartur.[265] Skriðan upp af framanverðum Ólafsparti heitir Ólafsskriða en svolítið framar er Litlaskriða.[266] Á móts við Litluskriðu er lítill hóll niður við ána og á honum tóttarbrot.[267] Heitir þar Hlað.[268] Litlu áður en við komum á móts við bæinn í Fremri-Breiðadal komum við að Stóruskriðu sem er gegnt ármótum Þverár og Langár (Breiðadalsár) og nær alveg niður undir Langána.[269]

Dálítið framan vð Stóruskriðu blasir við hengiflug hið efra þar sem heitir Folaldahvilftarhorn.[270] Við horn þetta endar Veðrarárfjall en framan við það er stór skál sem liggur hátt og heitir hún Folaldahvilft.[271] Umhverfis skálina er Folaldahvilftarfjall en hjallinn fyrir neðan hana heitir Grjóthjalli.[272] Framan við hann eru Nautaskálarbrekkur og ofan þeirra Nautaskál.[273] Þegar farið var frá Veðrará fram í Folaldahvilft og Nautaskál (Nautahvilft) var það kallað að fara fram í hvilftar.[274]

Úr brekkunum neðan við Nautaskál kemur dálítill lækur og fellur niður í Langá.[275] Hann heitir Seljalækur og slægjuparturinn sem er að mestu heimantil við lækinn heitir Seljaengi.[276] Niður við Langá (Breiðadalsá) og rétt framan við Seljalæk er Sel.[277] Hér hafa bændur á Ytri-Veðrará haft búsmala sinn í seli á fyrri tíð en enginn veit nú hvenær ær voru síðast mjaltaðar á þessum stað. Eftir 1800 hefur það varla verið því árið 1840 segir presturinn í Holti að í Önundarfirði muni enginn maður eftir seljabúskap þar í sveit annars staðar en í Holtsseli (sjá hér Arnkelsbrekka og Holtssel). Heiman frá Ytri-Veðrará og fram í selið er vegalengdin um það bil tveir og hálfur kílómetri.

Seltóttirnar kúra hér enn og eru mjög greinilegar þegar að þeim er komið. Tóttirnar eru þrjár og allar samliggjandi. Nærri lætur að samanlagt flatarmál þeirra sé 9 x 3 metrar. Þessar gömlu tóttir hér í Veðrarárseli eru rétt við ána en þó innan girðingar sem er mjög skammt frá árbakkanum. Farvegur Seljalækjar mun eitthvað hafa raskast vegna skurðgraftar en líklega hefur hann fallið í ána 20-30 metrum heiman við selið. Kvíin sem ærnar voru mjaltaðar í er hins vegar 50-100 metrum framar en seltóttirnar. Hún er grjóthlaðin og stendur uppi á brekkunni ofan við árbakkann, örskammt frá einu stauravirki raflínunnar sem liggur um dalinn.

Svolítið framan við Sel komum við að Þverá sem kemur ofan úr Nautaskál.[278] Henni má ekki rugla saman við aðra Þverá sem hér var nýlega nefnd og fellur í Breiðadalsá hinum megin frá og talsvert neðar. Holtið sem Þverá úr Nautaskál klýfur í tvennt hér niðri á láglendinu heitir Þverárholt.[279] Framan við Nautaskálina er svolítil fjallsgnípa sem heitir Miðhorn og skilur hún að Nautaskál og Seljahvilft.[280] Niður af Seljahvilft eru Seljahvilftarbrekkur en framan við hana er fjallið Raufarhorn[281] og í brún þess er raufin mjög greinileg þegar horft er fram dalinn. Graslendið sem er hér niður við ána heitir Brok[282] og er gamalt engjapláss[283] en hinar bröttu brekkur sem þjóðvegurinn liggur um fyrir framan Seljahvilft og neðan við Raufarhorn heita Skógarbrekkur.[284] Um þær lá bílvegurinn sem fyrst var lagður á þessum slóðum í mörgum beygjum og bugðum. Í Brokinu stendur nú munni jarðganganna undir Breiðadalsheiði og hér var það sem Kristján Sæmundsson í Tungu í Firði (sbr. hér Tunga í Firði) sá á árunum kringum 1845 afarstóra, svarta flyksu eða ferlíki … ekki ósvipað kvenmanni en svo hátt að hann sá ekki upp fyrir það og digurt að því skapi.[285]

Kristján var þá að koma ríðandi úr kaupstað á Skutulsfjarðareyri og elti flyksan hann yfir Veðrarárháls (sjá hér bls. 3) og inn undir Innri-Veðrará en hvarf síðan út í myrkrið. Vona má að hér sé nú færra að ugga en áður var.

Neðst í Skógarbrekkunum snúum við til baka því ekki var ætlunin að leggja á Breiðadalsheiði í kvöld. Á morgun skoðum við heiðarveginn nánar en nú er mál að halda heim að Fremri-Breiðadal og hvílast þar í nótt. Við vöðum því hér yfir ána og göngum á hálfri klukkustund þennan skamma spöl úr neðstu Skógarbrekkunum til bæjar.

 

 

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 119. Rtk. Jarðabækur V. 16. – Ísafjarðarsýsla 1805.

  1. Johnsen 1847, 195.

[2] D.I. IV, 688.

[3] Lbs. 22164to og 22174to, Dagbækur Magnúsar Hjaltasonar 1892 og 1893.

[4] Halldór Mikkaelsson. Viðtal K.Ó. við hann 30.8. 1994.

[5] Guðrún I. Jónsdóttir 1985, 144 (Bóndi er bústólpi VI).

[6] Sama heimild.

[7] Sama heimild, 136, 139-140 og 144-146.

[8] Guðrún I. Jónsdóttir 1985, 144.

[9] Sama heimild.

[10] Sama heimild, 145.

[11] Sama heimild.

[12] Sama heimild, 156.

[13] Sama heimild.

[14] Sama heimild.

[15] Sama heimild.

[16] Sama heimild.

[17] Óskar Einarsson 1951, 90-91.

[18] Sama heimild. Guðrún I. Jónsdóttir 1985, 145.

[19] Guðrún I. Jónsdóttir 1985, 145.

[20] Guðrún I. Jónsdóttir 1985, 145.

[21] Sama heimild.

[22] Sama heimild, 146.

[23] Sama heimild.

[24] Óskar Ein. 1951, 90.

[25] Guðrún I. Jónsdóttir 1985, 142.

[26] Sama heimild.

[27] Sama heimild.

[28] Sama heimild.

[29] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[30] Guðrún I. Jónsdóttir 1985, 143.

[31] Sama heimild.

[32] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[33] Sama heimild.

[34] Alþingisbækur Íslands XI, 550.

[35] Alþ.bækur Íslands XI, 550.

[36] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[37] Jarðab. Á. og P. VII, 119-120.

[38] Sama heimild.

[39] Sama heimild.

[40] D.I. IV, 688.

[41] D.I. IX, 514-516.

[42] Ísl. æviskrár III, 72-73.

[43] Sama heimild.

[44] D.I. IX, 514-516.

[45] Sama heimild.

[46] Sama heimild.

[47] D.I. IX, 514-516.

[48] Sama heimild.

[49] Sama heimild.

[50] Sama heimild.

[51] Sama heimild.

[52] Lögréttumannatal, bls. 110.

[53] Sbr. Lögréttumannatal, bls. 263.

[54] Ísl. æviskrár I, 216-217.

[55] D.I. XV, 166-167.

[56] Sama heimild.

[57] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafjarðarsýslu frá árinu 1658.

[58] Lögréttumannatal, bls. 497. Sbr. Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir (Kph. 1993) bls. 164,166 og 172. Sbr. Einnig Jarðab. Á. og P. XIII, 273-274.

[59] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.

[60] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir. (Kph.1993), bls.170.

[61] Sama askja. Jarðaskrá frá árinu 1695.

[62] Ísl. æviskrár IV, 311. Lögréttumannatal, bls. 489-490.

[63] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695.

[64] Ísl. æviskrár I, 257-258.

[65] Sama heimild.

[66] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695. Sbr. Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir, (Kph. 1993) bls. 170 og 177.

[67] Sama heimild.

[68] Jarðab. Á. og P. VII, 119.

[69] Jarðab. Á. og P. VII, 119.

[70] Alþ.bækur Íslands XI, 159 og 288.  Ísl. æviskrár V, 5.

[71] Alþ.bækur Íslands XI, 495.

[72] Jarðab. Á. og P. VII, 151. Vestfirskar ættir I, 191-192. Sbr. Manntal 1703, nafnaskrá.

[73] Jarðab. Á. og P. VII, 151-152.

[74] Vestf. ættir I, 191-192. Lögréttumannatal, bls. 44-45 og 504-505. Ísl. æviskrár IV, 379 og 385.

Jarðab. Á. og P. VII, 144 og 148.

[75] Vestf. ættir I, 191-192.

[76] Sama heimild. Lögréttumannatal bls. 44-45.

[77] Alþ.bækur Íslands XI, 495.

[78] Sama heimild XIV, 37.

[79] Sama heimild, 227.

[80] Sama heimild.

[81] Jón J. Aðils 1971, 209.

[82] Alþ.bækur Íslands XV, 13 og 63.

[83] Alþ.bækur Íslands XV, 13.

[84] Sama heimild, 63.

[85] Jón J. Aðils 1971, 418-420. Sigfús H. Andrésson 1988, I, 144-145.

[86] Manntal 1762.

[87] Ísl. æviskrár II, 283.

[88] Rtk. Jarðabækur V. 16. – Ísafjarðarsýsla 1805.

[89] Sama heimild.

[90] J. Johnsen 1847, 195.

[91] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[92] Guðrún I. Jónsdóttir 1985, 140.

[93] Sama heimild.

[94] Sama heimild. Manntal 1901.

[95] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XVI. 9. Veðmálabók 1898-1907, bls. 213-214.

[96] Lbs. 7974to, Jarðaskrár úr Ísafj.sýslu frá árunum 1658 og 1695.  Jarðab. Á. og P. VII, 119.  Jarða- og

bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.  J. Johnsen 1847, 195.

[97] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.

[98] D.I. IV, 688.

[99] Lbs. 7974to, Jarðaskrár úr Ísafj.sýslu frá árunum 1658 og 1695.

[100] Jarðab. Á. og P. VII, 119.

[101] Sama heimild.

[102] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.  J. Johnsen 1847, 195.

[103] Rtk. 2.1. Stríðshjálpin 1681.

[104] Sama heimild.

[105] Manntal 1703.  Bændatöl skuldaskrár 1720-1765, eftirrit, Ísafj.sýsla um 1735.  Jarða- og bændatöl

1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.  Manntöl 1762 og 1801.  Rtk. Jarðabækur V. 16. – Ísafj.sýsla 1805.

[106] Manntöl 1816, 1835, 1850, 1855, 1860, 1870, 1880 og 1890.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1.,

búnaðarskýrslur 1821 og 1830.

[107] Manntal 1845.

[108] Manntal 1703.

[109] Sama heimild.

[110] Jarðab. Á. og P. VII, 119.

[111] Manntal 1703.

[112] Jarðab. Á. og P. VII, 119-120.

[113] Sama heimild.

[114] Manntal 1762.

[115] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.  Manntal 1816.  Sbr. Manntal 1801, vesturamt, bls. 310.

[116] Ísl. æviskrár II, 333.

[117] Manntal 1816.

[118] Vestf. ættir I, 294.  Ísl. æviskrár IV, 140 og V, 97.

[119] Manntal 1801.

[120] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[121] Sama heimild.

[122] Sama heimild.

[123] Sama heimild.

[124] Manntal 1801.

[125] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[126] Sama heimild.

[127] Manntal 1816.

[128] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[129] Sama heimild.

[130] Manntal 1816.

[131] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[132] Manntal 1816.

[133] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1821.

[134] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[135] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1834.

[136] Sama heimild.

[137] Sama heimild.

[138] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[139] Sama heimild.

[140] Sama heimild.

[141] Halldór Kristjánsson 1992, 109  (Ársrit S.Í.).

[142] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.  Manntöl 1840 og 1845.

[143] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.  Manntöl 1850 og 1855.

[144] Manntöl 1850 og 1860.

[145] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[146] Sama heimild.

[147] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[148] Sama heimild.

[149] Sama heimild.

[150] Ól. Þ. Kr. 1949, 107-108 (Frá ystu nesjum V).

[151] Sama heimild.  Gunnar M. Magnúss 1977, 66-67.

[152] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[153] Guðrún I. Jónsdóttir 1985, 167.

[154] Sama heimild, 167-169.  Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[155] Sömu heimildir.

[156] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[157] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[158] Sama heimild.

[159] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[160] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[161] Sama heimild, sjá þar skrár yfir fædda.

[162] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar. Guðrún I. Jónsdóttir 1985, 166.

[163] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 6. Úttektabók 1835-1874, bls. 136 og 150-151.

[164] Sama heimild.

[165] Sama heimild.

[166] Sama heimild.

[167] Sama heimild.

[168] Sama heimild.

[169] VA III, 421, búnaðarskýrslur 1870.

[170] Sama heimild.

[171] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[172] Sama heimild.

[173] Sama heimild.

[174] Sama heimild.

[175] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[176] Hsk. Ís. Askja 240. Verslunarbækur frá verslun Hjálmars Jónssonar á Flateyri. Höfuðbók nr. 5.

[177] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[178] Sama heimild.

[179] Sóknarm.töl Holts í Önundarf. Hsk. Ísaf. nr. 090. Höfuðbók frá útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri og

verslun Hjálmars Jónssonar þar.

[180] Vestf. ættir II, 438.

[181] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[182] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[183] Þjóðviljinn 31.12. 1909.

[184] Manntal 1890.

[185] Guðrún I. Jónsdóttir 1985, 134-136.

[186] Sama heimild, 128.

[187] Sama heimild, 127-128.

[188] Guðrún I. Jónsdóttir 1985, 127-128.

[189] Sama heimild.

[190] Lbs. án safnnr. Handrit úr fórum J. Guðm. búfræðings á Ytri-Veðrará, dagbók J.G. 1887 og 1888.

[191] Lbs. 30934to, Bréf J. Guðm. búfræðings, síðar á Veðrará, 2.2.1890 til Torfa Bjarnasonar í Ólafsdal.

[192] Guðrún I. Jónsdóttir 1985, 134.

[193] Sama heimild, 138-140.

[194] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 7. Úttektabók 1875-1905, bls. 114.

[195] Sama heimild.

[196] Sama heimild.

[197] Sama heimild.

[198] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 7. Úttektabók 1875-1905, bls. 114.

[199] Lbs. án safnnr. Handrit úr fórum J. Guðm. búfræðings á Ytri-Veðrará, dagbók J.G. 6.6.1887.

[200] Sama dagbók júní 1887.

[201] Sama dagbók júlí 1887.

[202] Lbs. án safnnr. Handrit úr fórum J. Guðm. búfræðings á Ytri-Veðrará, dagbók J.G. 5.4.1888.

[203] Sama dagbók 21.10.1888.

[204] Guðrún I. Jónsdóttir 1985, 137.

[205] Sama heimild.

[206] Lbs. án safnnr. Handrit úr fórum J. Guðm. búfræðings á Ytri-Veðrará, bréf Björns Jónssonar og

Valdimars Ásmundssonar til J.G. frá árunum 1888-1890

[207] Lbs. án safnnr. Handrit úr fórum J. Guðm. búfræðings á Ytri-Veðrará, bréf Björns Jónssonar og

Valdimars Ásmundssonar til J.G. frá árunum 1888-1890.

[208] Guðrún I. Jónsdóttir 1985, 138.

[209] Sama heimild, 156-157.

[210] Sama heimild.

[211] Lbs. án safnnr. Handrit úr fórum J. Guðm. búfr. á Ytri-Veðrará, bréf O. N. Þorlákss. 11.4.1916 til J.G.

[212] Sama heimild.

[213] Guðrún I. Jónsdóttir 1985, 158.

[214] Guðrún I. Jónsdóttir 1985, 146.

[215] Sama heimild, 138.

[216] Sama heimild, 138 og 160.

[217] Sama heimild, 138.

[218] Sama heimild.

[219] Guðrún I. Jónsdóttir 1985, 138.

[220] Sama heimild, 161.

[221] Sama heimild, 138.

[222] Sama heimild, 160.

[223] Sama heimild, 138.

[224] Lbs. án safnnr. Handrit úr fórum J. Guðm. búfræðings á Ytri-Veðrará, dagbók J.G. frá árinu 1908.

[225] Manntal 1901.

[226] Lbs. án safnnr. Handrit úr fórum J. Guðm. búfræðings á Ytri-Veðrará, dagbók J.G. frá árinu 1908.

[227] Sama dagbók, 30.3.1908.

[228] Sama dagbók, sama dag.

[229] Guðrún I. Jónsdóttir 1985, 159.

[230] Guðrún I. Jónsdóttir 1985, 127-171.

[231] Játvarður Jökull Júlíusson 1986, LXVII-LXVIII.

[232] Snorri Sigfússon 1969, 109.

[233] Guðm. G. Hagalín 1973, 84-86 (Stóð ég úti í tunglsljósi).

[234] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[235] Guðlaugur Rósinkranz/Tíminn 10.3.1938.

[236] Sama heimild.

[237] Vesturland 12.2.1938.

[238] Guðrún I. Jónsdóttir 1985, 142.

[239] Sama heimild, 162.

[240] Sama heimild.

[241] Sama heimild.

[242] Sama heimild.

[243] Guðrún I. Jónsdóttir 1985, 162.

[244] Hjördís Hjörleifsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 6.7.1995.

[245] Sama heimild.

[246] Sama heimild.

[247] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.8.1994.

[248] Guðrún I. Jónsdóttir 1985, 142-143.

[249] Óskar Ein. 1951, 90-91.

[250] Sama heimild.

[251] Vegamál, júlí 1984, 16.

[252] Lbs. án safnnr. Handrit úr fórum J. Guðm. búfr. á Ytri-Veðrará, landamerkjalýsing hans frá árinu 1921.

[253] Óskar Ein. 1951, 88.

[254] Ásta Þórðardóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 15.9.1994

[255] Lbs. án safnnr. Handrit úr fórum J. Guðm. búfr. á Ytri-Veðrará, landamerkjalýsing hans frá árinu 1921.

[256] Sama heimild.

[257] Guðrún I. Jónsdóttir 1985, 169.

[258] Sama heimild.

[259] Sama heimild.

[260] Örnefnaskrá. Landamerkjabréf dagsett 3.11.1923, afrit varðveitt í Neðri-Breiðadal.

[261] Óskar Ein. 1951, 90.

[262] Sama heimild.

[263] Sama heimild.

[264] Óskar Ein. 1951, 90.

[265] Sama heimild, 89-90.

[266] Sama heimild.

[267] Óskar Ein. 1951, 89-90.

[268] Sama heimild.

[269] Sama heimild.

[270] Sama heimild.

[271] Sama heimild.

[272] Sama heimild.

[273] Sama heimild. Halldór Mikkaelsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.8.1994.

[274] Ásta Þórðardóttir frá Breiðadal. Viðtal K.Ó. við hana 15.9. 1994.

[275] Óskar Ein. 1951, 89-90.

[276] Sama heimild.

[277] Sama heimild.

[278] Óskar Ein. 1951, 89-90.

[279] Sama heimild.

[280] Sama heimild.

[281] Sama heimild.

[282] Sama heimild.

[283] Guðrún I. Jónsdótti 1985, 142.

[284] Óskar Ein. 1951, 89-90.

[285] Lbs. 47084to / Magnús Hjaltason.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »