Frá Brjánslæk að Haga

Frá Brjánslæk að Haga

Þegar haldið er frá Brjánslæk að Haga eftir akveginum er fyrst stefnt í suðurátt. Rétt sunnan við Brjánslæk ofan vegar stóð býlið Moshlíð sem fór í eyði árið 1959.[1] Jörðin var á fyrri tíð eign Brjánslækjarkirkju og segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín að landskuldin hafi verið 80 álnir. Betalast stundum í slætti og tekst hálfs mánaðar slátta fyrir tíu aura, segir þar.[2] Mun þá átt við sex álna aura og hefur Moshlíðarbóndi því greitt þrjá fjórðu hluta landskuldarinnar með hálfs mánaðar vinnu við slátt heima á Brjánslæk.

Í byrjun 19. aldar bjó í Moshlíð maður að nafni Jón Pálsson, sagður 67 ára í manntalinu frá 1801. Hann hefur þá verið liðlega sjötugur þegar F.C. Trampe greifi, sem amtmaður var yfir vesturamtinu 1804-1806 og síðan stiftamtmaður til 1810, kom vestur á Barðaströnd að heimsækja Guðmund Scheving í Haga.

Jón Pálsson í Moshlíð var þá fenginn til að flytja greifann frá Brjánslæk og út í Flatey. Á leiðinni hvessti og mun Trampe, sem var óvanur slíkum bátsferðum, ekki hafa gætt þess að sitja rétt í bátnum. Berðu þig að sitja réttar á skipinu á helvítis borunni, kallaði Jón formaður í Moshlíð þá til greifans. Einhverjir hásetanna inntu Jón eftir því hvort hann væri orðinn vitlaus að tala svona við háyfirvaldið. Greifinn skildi hvað sagt var og mælti þau orð sem fleyg urðu: Hann er hér yfir mér en ég ekki yfir honum.[3]

 

Spölkorn fyrir sunnan Moshlíð þrýtur undirlendið umhverfis Brjánslæk og liggur þjóðvegurinn síðan undir bröttum hömrum uns komið er að Arnórsstöðum þar sem sjávarströndin beygir til vesturs og fylgir vegurinn ströndinni. Frá Brjánslæk að Arnórsstöðum eru fjórir til fimm kílómetrar. Á Arnórsstöðum er nú (1988) tvíbýli, Efri- og Neðri-Arnórsstaðir, og stendur neðri bærinn skammt frá sjávarbakkanum. Yfir Arnórsstöðum gnæfir fjallið Arnórsstaðahyrna með hvössum brúnum. Í Jarðabók Árna og Páls frá byrjun 18. aldar er bæjarnafnið ritað Arnþórstader en á síðari tímum jafnan Arnórsstaðir. Á Arnórsstöðum er hætt við skriðuföllum og af þeim ástæðum var bærinn færður um 1880 frá fjallsrótunum niður á sjávarbakkana.[4] Skriða hafði þá brotið að nokkru gamla bæinn.

Í mars 1880 varð sá atburður á Arnórsstöðum, þegar fólk var allt háttað að kvöldlagi, að loftshlerinn í baðstofunni tók að skellast með undarlegum hætti og hélt því áfram þó að hlaðið væri á hann skrifpúlti og dragkistli með smíðatækjum. Var þetta talinn feigðarboði. Hálfum mánuði eftir hleraskelli þessa beið ungur maður á bænum bana er heygarður féll á hann. Var það Einar Guðmundsson en hann hafði manna mest reynt að stilla hlerann.[5]

Þjóðsögur herma að á fyrri tíð hafi lengi verið á Arnórsstöðum forláta kúakyn gulbröndótt. Skýringin var þessi: – Eitt sinn í foraðsveðri lagði bóndi á Arnórsstöðum af stað inn að Brjánslæk með yxna kú sem hann hugðist leiða þar undir naut. Um það bil miðja vega milli bæjanna, þar sem Dys heitir, gengur hann fram á sænaut í fjörunni og verður þar þrátt fyrir hríðina fagnaðarfundur með kúnni og sætarfinum. Kom bóndi heim með beljuna fyrr en ætlað var því ekki þurfti hann alla leið að Brjánslæk. Í fyllingu tímans ól kýrin fallega kvígu, gul- og rauðbröndótta, og fjölgaði svo smátt og smátt gripum af sækúakyni í fjósinu á Arnórsstöðum.[6]

 

Undan Arnórsstöðum, nær beint í suðaustur, liggja Sauðeyjar. Á milli er Sauðeyjasund og vegalengdin um tvær sjómílur. Í Sauðeyjum var jafnan búið fram um 1930 og voru þær einu byggðu eyjarnar í Barðastrandarhreppi. Vorið 1940 var enn gerð tilraun til að hefja búskap í Sauðeyjum en stóð aðeins fram á haustið sama ár.[7]

Í Laxdælu koma við sögu Ingjaldur Sauðeyjargoði og Hallur bróðir hans sem bæði vildi kjósa og deila þá er afla var skipt í Bjarneyjum. Tekið er fram að Ingjaldur hafi búið í Sauðeyjum.[8]

Auk Heimaeyjarinnar í Sauðeyjum eru þar nokkrar úteyjar en skammt á milli. Stærstar úteyjanna eru Þórisey og Skarfey. Sauðeyjar voru kirkjujörð frá Haga og töldust 20 hundruð að fornu mati.

Er Árni Magnússon kom í jarðabókarerindum á Barðaströnd vorið 1703 var Jón Ögmundsson, bóndi í Sauðeyjum, enn við róðra í Oddbjarnarskeri. Þaðan skrifar hann Árna 16. júní þá um sumarið, segir honum kost og löst á Sauðeyjum og frá samskiptum við landsdrottin sinn, Ara Þorkelsson, sýslumann í Haga. Brot úr þessu bréfi hljóðar svo og hefur stafsetningu verið breytt í nútímalegt horf:

 

En nú í haust eð var varð ég að skera eina kúna sökum heyjaleysis með húsbónda míns leyfi, Ara Þorkelssonar. En nú í vetur drápust fyrr skrifaðar 6 ær vegna heyjaleysis en tveimur hef ég hjálpað á þeim heyjum, sem ég á Sauðeyjum fengið hef, með þeim tilstyrk, sem ég fékk úr öðrum slægjueyjum, sem var úr Flateyjarlöndum, hlaðinn sexæringsfarm og fimm manna fars farm þar að auki. En til lands eður sjávar gæða á fyrrskrifaðri jörð Sauðeyjum er ei til að taka til gagnsmuna sé eður hjálpræðis, undan teknu eggvarpi litlu. En sagt er að jörðinni Sauðeyjum eigi að fylgja eftir kirkjunnar máldaga, Drápsker og Flataflaga svo heita, en húsbóndi minn í byggingu frá tekið hefur. En fyrir sinn góðan vilja hefur hann, húsbóndi minn, léð mér hálf skerin og hálfa flöguna til gagnsmuna, sem er lítil selveiði þá svo heppnast og eggvarp.[9]

 

Jón Ögmundsson lætur þess síðan getið að hann hafi tekið við Sauðeyjum í niðurníðslu og byggt þar allt upp. Árni Magnússon greinir frá því í Jarðabókinni að til forna hafi sjö til níu skip róið frá Sauðeyjum á vorvertíð.

Í sóknarlýsingu séra Hálfdans Einarssonar frá 1840 er æðarvarp sagt vera til muna í Sauðeyjum og fáist þar 20 pund árlega af dún.[10] Vatnsskortur var til verulegs baga í Sauðeyjum og varð stundum að flytja kýr í land að sumrinu af þeim sökum en vatn sótt á báti til heimilisneyslu.[11]

Um 1860 bjó í Sauðeyjum bóndi er Jón hét Jóhannesson. Hann var dugnaðarmaður mikill og drykkjumaður og þótti nokkuð óhægur viðureignar ef hann var við öl.[12] Sumarið 1861 fór Jón verslunarferð til Flateyjar. Var hann þar í þrjá daga því vörur hafði hann miklar og svaf þá fólk hans lítið en hann ekkert.[13] Að morgni sunnudagsins 4. ágúst hélt Jón í Sauðeyjum á brott frá Flatey og fór þá fyrst upp að Haga en þangað hafði hann lofað að flytja séra Guðjón Hálfdanarson, er þá var prestur í Flatey.[14] Á skipi með Jóni voru tvær konur og einn karlmaður og voru þau öll drukkin er þau komu að Haga.[15]

Eftir messu um daginn áttu þeir tal saman Jón í Sauðeyjum og Jón Thoroddsen, sýslumaður í Haga: Meira met ég nú skektuna mína en hana Rauðku yðar þó að hún sé orðlögð, segir Sauðeyjabóndi, því hún getur sett yður af baki og beinbrotið yður en það gerir skektan mín mér aldrei. Sýslumaður svarar: Ekki kollvætir Rauðka mín mig. – Það gerir skektan mín ekki heldur, segir þá Jón úr Sauðeyjum. Þess vildi ég óska ef ósk mín dygði, svarar sýslumaður og lauk þar orðahnippingum þeirra.[16]

Í hvítalogni ýtti Jón í Sauðeyjum úr vör frá Hagasjó og reri heim á leið. Undan Arnórsstöðum hvolfdi skektunni og fórust þau þar öll, formaðurinn sjálfur, Jóhanna, Jarþrúður og Guðmundur.[17]

Um páskaleytið 1877 varð eftirminnilegt slys við Sauðeyjar. Á skírdag lögðu fjórir menn af stað frá Hergilsey upp í Sauðeyjar á litlum báti. Tveir mannanna áttu heima í Sauðeyjum en hinir tveir voru feðgar, þá búsettir undir Jökli. Síðari hluta dagsins gerði norðan stórviðri með miklu frosti og kafaldséljum. Mikið ísrek var á eyjasundunum. Nærri lá að bátinn hrekti út fyrir Sauðeyjar og var þá nær engin von um björgun. Svo fór þó ekki heldur festist báturinn í ísnum innan við Dyratind í nánd Þóriseyjar í Sauðeyjum. Í kulda og veðraham næturinnar lét einn fjórmenninganna lífið og hafði sá gengið harðast fram í að forða þeim frá því að hrekjast út á opið haf. Undir kvöld á föstudaginn langa greiddist ísinn nokkuð í sundur og tókst þeim sem eftir lifðu í bátnum þá að ná lendingu þar sem heitir í Rifinu í Sauðeyjum. Sá hét Pétur Bjarnason sem kuldinn nísti til dauða þessa vetrarnótt en faðir hans, sem lifði af, varð örkumlamaður, missti flestar tær af báðum fótum og fingur af höndum.[18]

 

Frá Arnórsstöðum er skammur vegur að Rauðsdalsbæjum, Efri- og Neðri-Rauðsdal. Bæirnir tveir standa í mynni lítils dalverpis sem Rauðsdalur heitir, sinn hvorum megin Rauðsdalsár.

Skammt fyrir innan Rauðsdal heitir Krossanes við sjóinn. Árni Magnússon segir að undir þessu Krossanesi hafi til forna (áður fiskiríet sló feil) verið verstaða fyrir tvö til fjögur skip á vorvertíð.[19] Pétur Jónsson frá Stökkum lætur þess getið að fyrrum hafi verið veiðistöð þar sem heitir Rauðsdalsklauf, milli Rauðsdals og Arnórsstaða, líklega fram á 18. öld.[20] Pétur ritar um 1940 að þarna hafi orðið tveir bátstapar í minni þálifandi manna.[21] Vera má að ein og sama lendingin hafi ýmist verið kennd við Krossanes eða Rauðsdalsklauf.

Utan við Rauðsdal gengur langur og sérkennilegur berggangur í sjó fram. Í flæðarmálinu og fyrir framan það eru skörð í klettabrík þessa en stakir drangar teygja sig í beina stefnu út með landinu í og framan við fjöruborðið. Hér heita Reiðskörð en sumir nefna Rauðsdalsskörð. Nokkru dýpra, í eins kílómetra fjarlægð frá landi, er Stórfiskasker og kynni að vera framhald af sama bergganginum.[22] Á Stórfiskaskeri strandaði bandarísk skonnorta, sem hér var við lúðuveiðar, árið 1885.[23]

Um Reiðskörð lá alfaravegur meðan ferðast var á hestum. Var jafnan riðið um skörðin þegar lágsjávað var en um flóð varð að fara uppi á bökkunum. Í Reiðskörðum heitir á einum stað Skottagjóta. Ganga þar tvö klettanef fram hvort gegn öðru en gjótan á milli jafnvíð upp úr og niður úr.[24] Sagnir herma að þarna hafi Sveinn skotti verið hengdur en hann var sonur Axlar-Bjarnar, frægasta morðingja á Íslandi. Í þjóðsögum segir m.a. svo frá Sveini:

 

Sveinn fór víða um land eftir að hann komst á legg, bæði stelandi og strjúkandi, gat börn víða og þótti djarftækur til kvenna. … Bæði var hann hýddur norður í Þingeyjarsýslu fyrir stuld og aðra óknytti og aftur á Alþingi 1646 var honum dæmd hýðing fyrir sömu sakir svo mikil sem hann mætti afbera og þar með skyldi hann missa annað eyrað. Eftir það hélt Sveinn sig á Vestfjörðum. … Loksins var Sveinn handtekinn þegar hann vildi nauðga konu bóndans í Rauðsdal á Barðaströnd en bóndi var ekki heima. Lét hún binda Svein með reifalinda sínum og hélt hann Sveini af því hann hafði gleymt að taka fram um reifalinda í samningnum við kölska. Var Sveinn svo dæmdur og hengdur í Rauðuskörðum 1648.[25]

 

Varðveist hefur bréf eitt er Brynjólfur biskup Sveinsson ritaði veraldlegum yfirvöldum þann 27. júní 1646. Bréfið er sent konunglegrar majestets fullmektugum fógeta yfir Íslandi, lögmönnum báðum og allri lögréttu. Með umræddu bréfi virðist Brynjólfur framselja Svein skotta þessum veraldlegu höfðingjum á Alþingi við Öxará. Í bréfinu segir:

 

Vitið góðir herrar og gunstugir vinir að þessi aum og fáráð manneskja, Sveinn Björnsson, er nú hingað kominn í guðs auglit og guðhræddra yfirdómara, allra helst og sérdeilis hingað fram fluttur undir veraldlegs yfirvalds leiðrétting af kristilegri kirkju, í móti sjálfs síns vilja og ásetningi, hver kristileg kirkja um það kvartar og kærir fyrir yður, guðs dýrðar og sinnar velferðar vegna, að þessi auma og fortapaða manneskja hefur svo lengi í hirðuleysi, forsmán og foröktun guðs heilaga nafns og hans orða og sakramenta mest allan sinn aldur alið, og sig í djöfulsins ríki og íþróttum iðkað á margan hátt með ókristilegum lifnaði og vondum athöfnum, sem næsta í því öllu stiptinu, og jafnvel hinu, mun kunnugt og opinbert vera, svo hann um þann langa tíma meir og meir hefur fjarlægst vorum guði en samlagast djöflinum og lifað sem einn holdlegur djöfull í margan máta án guðs ótta, snarað frá sér allri umhyggju sinnar sáluhjálpar og síns viðskilnaðar við þetta líf, að auk þeirra annarra stórglæpa, sem honum mega kannske á hendur bevísast og hér verða ekki fram taldir. Biður því kristileg kirkja guðs þá veraldlegu valdstjórn, sína meðsystur, dóttur og þjónustu í guði, að sjá einhver góð ráð og kristileg meðul þar til, að þvílík óstjórnleg guðs foröktun gangist ekki svo opinberlega við í landinu, né þessu Skálholtsstipti. … Svo er nú þessi maður guði og yður afhentur til þeirra aðgjörða og réttar, er heilagur andi gefur ráð til, en kirkjan tekur af honum sitt varðhald og ábyrgist yður, hvern hún hefur geymt hingað til, upp á rétt vegna óguðlegs framferðis, hvar á guð allsmektugur honum og öðrum bót vinni.[26]

 

Það tók valdsmennina og heilagan anda ekki langan tíma að ákveða hvað gera skyldi við Svein skotta. Aðeins liðu tveir dagar frá því biskup ritaði bréfið, sem hér var vitnað í, uns dómur var kveðinn upp í lögréttu um það straff sem Sveinn Björnsson, kallaður Skotti, skyldi eftir lögum líða fyrir guðs orða og sakramentanna foraktan og sína óráðvendni … .[27] Í dómnum segir síðan:

 

Ályktaðist af lögmönnum báðum, herra Árna Oddssyni og herra Magnúsi Björnssyni, og lögréttunni með samþykki Jens Söffrenssonar, að greindur Sveinn skyldi fá húðlát svo mikið sem hann má bera og missa annað eyrað og ábyrgist sig sjálfur. Og skyldi strax innan átta vikna, án stórra forfalla, vera kominn vestur í sína sveit, sem sögð er í Ísafjarðarsýslu, og vinni sér þar fóstur. En finnist hann annarsstaðar síðan þessar átta vikur eru umliðnar, svo hann geri nokkuð stráksverk eptir þenna dag, þá sé hann rétttækur og dræpur, hvar sem hann verður síðar fundinn.[28]

 

Í Alþingisbókinni frá 1646 kemur fram að 30. júní það ár var húðlátsrefsingin lögð á Svein skotta við Öxará og skorið af honum annað eyrað svo sem mælt var fyrir um í dómsorðinu. Þennan sama alþingisdóm hafa Barðstrendingar vafalaust haft í huga tveimur árum síðar þegar þeir hengdu Svein skotta í Reiðskörðum og hafa því talið sig framfylgja dómsúrskurði er þeir leiddu hann í gálgann.

Ýmsar sögur voru sagðar af niðjum Sveins skotta, sem lengi vel munu flestir hafa átt óblíða ævi. Bjarni kóri var dóttursonur Sveins. Hann átti síðast heima í Krossadal í Tálknafirði. Kona hans hét Sigurfljóð. Um dætur þeirra, langafabörn Sveins skotta, er ritað á þessa leið:

 

Salvör hét ein dóttir þeirra Bjarna og Sigurfljóðar. Henni varð seint um mál og hafði aldrei heyrst til hennar orð þegar hún var á fjórða ári en þá heyrðist hún eini sinni biðja fjandann að hjálpa sér til þess að ná gimburskel upp úr pallrifu og fór hún að tala úr því. Þegar Sigurfljóð sagði seinna frá atburði þessum, bætti hún ávallt við: Þá þóttist ég lofa guð er ég heyrði hana Sölku tala.

Ástríður hét önnur dóttir Bjarna og Sigurfljóðar. Hún var kona fríð sýnum eins og fleira fólk, sem komið er af Axlar-Birni og Sveini skotta. Vísa þessi var kveðin undir nafni manns þess, er fékk hennar, og svo hennar sjálfrar:

 

Á enga líst mér eins og þig,

þótt allar fyrir mér virði.

Átján vildu eiga mig

í honum Tálknafirði.[29]

 

Í Reiðskörðum munu fleiri hafa verið hengdir en Sveinn skotti. Þjóðsögur herma að naut hafi eitt sinn horfið frá Ástríði auðgu er bjó í Rauðsdal um miðja 17. öld. Þá bjó á Hellu í Vatnsfirði fátækur bóndi sem Bjarni hét og oft var nefndur Hellu-Bjarni. Hann reri þá frá Krossanesi, veiðistöð í landi Rauðsdals. Í verinu hafði Bjarni kæfu í skrínu sinni svo sem algengt var og fengu ýmsir að smakka á kæfunni, enda þótti hún góð. Kom nú upp sá kvittur að kæfan væri af stórgrip og myndi Hellu-Bjarni hafa stolið nauti Ástríðar. Magnús Jónsson, sem þá var sýslumaður og sat í Miðhlíð á Barðaströnd, sendi menn inn í Krossanes og lét grípa Bjarna áður en hann færi úr skinnfötum. Þótti slíkt fáheyrt því að almennt var virt það siðalögmál að sjóklæddur maður væri friðhelgur og ekki mætti leggja á hann hendur. Knúði sýslumaður Hellu-Bjarna til að játa á sig nautsstuldinn og lét síðan hengja hann í Reiðskörðum, í gjótunni þar sem Sveinn skotti fékk að dingla fáum árum síðar og þá hlaut nafnið Skottagjá.[30]

Í munnmælum hefur einnig varðveist sú saga að bóndinn í Skarðatúni, litlu eyðikoti rétt ofan við Reiðskörð, hafi líka verið hengdur í skörðunum.[31]

Í sóknarlýsingu frá árinu 1840 nefnir séra Hálfdan Einarsson Skarðatún sem eyðikot á þessum slóðum og lengi töldu menn sig sjá móta þar fyrir túngarði og bæjarrústum.[32] Í Reiðskörðum þótti löngum reimt eftir aftöku Sveins skotta og var þeim slæðingi kennt um slysfarir séra Guðbrands á Brjánslæk er hann hrapaði til bana í skörðunum í mars 1779 (sjá hér Brjánslækur).

Í Efri-Rauðsdal bjó um 1840 Davíð Scheving, fæddur 1802, sonur Guðmundar Scheving, kaupmanns í Flatey. Um tvítugt fór Davíð utan til náms í Kaupmannahöfn en tók þó aldrei aðgöngupróf inn í háskólann vegna svalls og óreglu. Í annað sinn sigldi hann til náms haustið 1826 en lenti þá í klandri og kom aftur huldu höfði til foreldra sinna í Flatey næsta ár. Reynt var að koma hinum unga kaupmannssyni í aðstoðarprestsstöðu en biskup synjaði þeirri málaleitan. Taldi hann Davíð hafa fyrirgert stúdentsréttindum sínum. Fór hann þá að búa í Rauðsdal.

Þann 24. ágúst 1842 var Davíð við heyvinnu með fólki sína á Skarðamýrum hjá Rauðsdal. Vék hann frá vinnufólkinu og ætlaði heim til bæjar en fannst skömmu síðar örendur í Rauðsá vestan við Rauðsdal. Var talið að hann hafi ætlað að stikla yfir ána á hrífuskafti er hann hafði með sér en fallið og rotast.[33] Í æviskrám segir að Davíð Scheving í Efri-Rauðsdal hafi verið stjórnlaus drykkjumaður en annars fengið allgott orð og verið skáldmæltur.[34] Líklega hefur Davíð haft á sér nokkurt höfðingjasnið, a.m.k. segir séra Hálfdan Einarsson í sóknarlýsingunni frá 1840 að Hærri-Rauðsdalur sé einn þeirra þriggja bæja þar sem best sé húsað á Barðaströnd. Hinir tveir voru Brjánslækur og Hagi.[35]

Tveimur árum eftir lát Davíðs hóf búskap í Efri-Rauðsdal Helgi Bjarnason sem um skeið var hreppstjóri og talinn atkvæðamesti bóndi á Barðaströnd um miðja 19. öld. Um Helga eru skráðar ýmsar sagnir er lýsa honum sem miklum dugnaðarmanni.[36]

Á góunni 1855 skall snögglega á ofsaveður á Barðaströnd, þreifandi bylur með háaroki og hörkufrosti. Fé Helga í Rauðsdal var þá margt á beit niður við sjó í námunda við beitarhús hjá Reiðskörðum. Er Helgi kom að fénu þennan dag var það flætt á skeri einu undan landi og stóð á harða aðfalli. Frá úrræðum Helga við þessar aðstæður hefur verið greint með þessum orðum:

 

Hann óð fram í skerið og tók sjórinn honum í buxnastreng. Nú tók hann það ráð að handsama tvo gamla forustusauði, er hann átti, og batt hann þá niður með sokkaböndum sínum. Síðan rak hann féð út í en það gekk illa því að stormurinn stóð af landi og forustusauðina vantaði í hópinn. Þegar féð var komið út í leysti hann sauðina og tengdi þá lauslega saman með sokkaböndunum svo að þeir syndi samhliða í land. Sjálfur fer hann milli þeirra, heldur með sinni hendinni í hvorn sauð og lætur þá synda með sig í land.[37]

 

Upp úr þessu volki fékk Helgi í Rauðsdal lungnabólgu og dó 5. mars 1855.

Á svipuðum slóðum varð Kristján bóndi í Neðra-Rauðsdal úti nokkru eftir aldamótin 1900. Stóð hann yfir fé sínu á jólum á Grafarhlíð milli Rauðsdalsbæja og Hvamms. Hreppti hann áhlaup mikið og tókst eigi að koma fénu til húsa en fannst sjálfur látinn skammt utan við Reiðskörð.[38]

Þessi tvö síðustu dæmi um ævilok bænda í Rauðsdal varpa svolitlu ljósi á þá lífsbaráttu sem ekki varð undan vikist í fyrri daga.

 

Frá Rauðsdal að Hvammi er tæplega klukkutíma gangur um Grafarhlíð. Þegar komið er á Hrafnanes, innan við Hvamm, breikkar undirlendið milli fjalls og fjöru. Þaðan í frá er gróið land með sjónum út alla Barðaströnd, smáhallandi mýrar eða sléttar grundir, og yfirleitt hálfur til þrír kílómetrar frá hlíðarfótum í fjörur, sem hér eru víða þaktar ljósum skeljasandi. Ríðandi manni verður hér fátt til tafar, enda þótti reiðvegur greiðari um Barðaströnd en flest eða öll önnur byggðarlög á Vestfjörðum.

Á söguöld bjó í Hvammi Þorkell Súrsson, bróðir Gísla.[39] Hingað fluttist hann úr Haukadal í Dýrafirði er Gísli bróðir hans hafði vegið Þorgrím goða. Þess er getið í Gísla sögu að Þorkell hafi verið ofláti mikill[40] og þar er búnaði hans svo lýst er hann kom til Þorskafjarðarþings: Þorkell hafði gerskan hatt á höfði og feld gráan og gulldálk um öxl en sverð í hendi. Með því sverði vá Bergur Vésteinsson Þorkel þar á þinginu[41] og vildi hefna föður sins (sjá hér Haukadalur í Dýrafirði).

Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 segir um Hvamm: Jörðin fordjarfast jafnlega á túni og engjum af skriðum úr fjallinu svo mikið af túninu er þar af eytt. Stórviðrasamt er þar, hætt fyrir hús og hey. Á sama stað er þess getið að skriður hafi eyðilagt hjáleiguna Hvammshús.[42]

Um 1880 mun helmingur túnsins í Hvammi hafa eyðilagst í skriðuföllum og var bærinn þá fluttur neðar á túnið.[43] Um aldamótin 1900 töldu menn sig enn geta bent á ýmsar minjar í Hvammi frá búskaparárum Þorkels Súrssonar. Forn tótt út og upp af gamla bæjarstæðinu var nefnd Þorkelsfjós og þar átti fjós hans að hafa verið. Í keldu niður af gamla bænum var sagt að Þorkell hefði fólgið gull sitt og ævaforn kringlótt tótt, nokkuð fyrir innan gamla Hvammsbæinn, var talin hoftótt hans.[44] Sigurður Vigfússon fornfræðingur lét grafa í tótt þessa á ferð sinni um Vestfirði árið 1889 og tók undir kenninguna um hof á þessum stað.[45]

Nýbýlið Bólstaðarhlíð í Hvammslandi er fyrst nefnt í sóknarmannatali árið 1916 og var þar búið samfellt til 1933 eða 1934.[46] Bærinn í Bólstaðarhlíð stóð í Hvammstúni á svipuðum slóðum og íbúðarhúsið sem reist var í Hvammi eftir 1980.[47] Hvammur þótti góð heyskaparjörð og hagasælt á vetrum.

 

Skammt utan við Hvamm skerst Hagavaðall inn í landið, um þrír kílómetrar á lengd og allt að tveggja kílómetra breiður undan bænum Vaðli. Þegar ekið er frá Hvammi með vaðlinum austanverðum er fyrst komið að bænum Hamri. Hér bjó Davíð Scheving Hansson, fyrrum sýslumaður Barðstrendinga, í elli sinni á árunum 1809 til 1815. Hér heimsótti breski biblíumaðurinn Ebenezer Henderson hann um hádegisbil 10. júní 1815.[48] Nokkru síðar á því sama sumri andaðist Davíð (sjá hér Hagi).

Á Hamri varð fyrst vart við drauginn Mókoll sem frá er sagt í þjóðsögum. Draug þessum kom á stjá Guðbrandur Jónsson sem fæddur var um 1760 og lengi bjó á Geirseyri við Patreksfjörð[49] en áður í Kvígindisdal. Taldi hann sig eiga Halldóri Ólafssyni sem þá dvaldi á Hamri skuld að gjalda, – sendi honum innsiglað bréf en úr því flaug fluga ofan í Halldór sem ærðist þá og dó fáum dögum síðar.

 

En litlu síðar sáu menn draug í mannslíki, einkum gekk hann um á Hamri og næstu bæjum, en svo lýstu menn draugi þessum að hann væri á mórauðum peysugarmi, svörtum buxnagörmum með mórauða lambhúshettu þríbrotna á höfði, á vöxt við fjórtán eða fimmtán vetra piltungsmann, og fyrir það var hann kallaður Mókollur.[50]

 

Einna harðast gekk Mókollur að Gunnlaugi bónda Gíslasyni í Raknadal við Patreksfjörð og Kristínu dóttur hans sem giftist séra Jóni Vestmann er um skeið var prestur í Flatey (sjá hér Flatey svo og Um Kjálkafjörð, Hjarðarnes og Vatnsfjörð, – Þverá þar). Þegar séra Jón Vestmann fluttist úr Flatey vorið 1807 austur að Kálfafelli í Fljótshverfi treystist kona hans ekki til að fara með honum. Olli því Mókollur. Var hún þá flutt að Ármúla við Ísafjarðardjúp til Jóns læknis Einarssonar og dvaldist þar í tvö eða þrjú ár án þess að losna undan ásókn Mókolls. Var henni þá fylgt um landið þvert austur að Kálfafelli í Fljótshverfi til manns síns

 

og batnaði þá með öllu fásinnan er hún kom að Kálfafelli. En sagnir eru það vestra að Mókollur fylgdi henni allt austur að Jökulsá á Sólheimasandi og sneri þar vestur aftur í átthaga sína.[51]

 

Nú hefur Mókollur víst ekki sést lengi, hvorki á Hamri né við Jökulsá.

Í sóknarlýsingu frá 1840 er getið um tvö kot niður undan Hamri er bæði höfðu þá lengi verið í eyði. Var annað kallað á Skeiði en hitt hét Bergjakot.[52]

Nú má heita að túnin liggi saman á Hamri og Vaðli sem er næsti bær. Mörkin milli kirkjusóknanna tveggja á Barðaströnd lágu þó milli þessara bæja. Var Hamar í Brjánslækjarsókn en Vaðall í Hagasókn.

 

Bærinn Vaðall á Barðaströnd er fornt býli er dregur nafn sitt af vaðlinum mikla er hann stendur við, áðurnefndum Hagavaðli. Á þjóðveldisöld var ein helsta hafskipahöfn landsins í Vaðli á Barðaströnd þar sem nú heitir Hagavaðall. Í Íslendingasögum er þess getið a.m.k. sextán sinnum að skip hafi komið út í Vaðli á Barðaströnd eða hafskip staðið þar uppi. Oftar en einu sinni steig þar á land Þorgeir Hávarsson, kominn af hafi.[53] Og frá Vaðli á Barðaströnd lagði Guðný Böðvarsdóttir, móðir Snorra Sturlusonar, upp í utanlandsför sína með Ara sterka árið 1186, þremur árum eftir andlát eiginmanns hennar, Hvamm-Sturlu.[54]

Í Vaðli hefur á þeirri tíð verið héraðsmiðstöð í vissum skilningi og hið fjölbreytilegasta mannlíf er skip farmanna komu af hafi eða lágu við festar. Hér hafa kaupstefnur verið haldnar eins og á öllum slíkum höfnum og hingað hafa sótt bæði háir og lágir úr nágrenni og fjarlægari sveitum til gleðskapar og í brýnni erindum. Í byrjun 14. aldar var litið svo á að Vaðill á Barðaströnd væri einn af fjörðum landsins eins og sjá má í Fjarðatali frá árinu 1312.[55]

Nú er Hagavaðall mun grynnri en áður var. Um flæðar er hann þó sem fjörður yfir að líta en þornar að mestu um fjörur. Heimamenn á Barðaströnd telja líklegast að skipalægið forna hafi verið að austanverðu í vaðlinum, líklega í nánd við Brandshólma hjá bænum Vaðli.[56]

Á síðari öldum voru þrjú vöð talin á Hagavaðli. Yst var Steinbogavað milli Hagaodda og Hvammsodda. Þar er vaðallinn aðeins um 500 metrar á breidd en ósinn straumharður. Þarna var aðeins farið á stórstraumsfjöru og þá eftir skeri sem Steinbogi heitir.[57] Miðvaðið var kallað Brandshólmavað en á fyrri hluta tuttugustu aldar var það orðið ófært vegna sandbleytu. Þriðja og efsta vaðað var svo Krosslækjarvað, undan bænum á Krossi eða þar í grennd.[58]

Jörðin Vaðall á Barðaströnd er kunn úr Gísla sögu Súrssonar en höfundur sögunnar segir Þorgerði, móður Gests hins spaka í Haga Oddleifssonar, hafa búið á Vaðli. Er Gísli var sekur orðinn leitaði hann ásjár hjá Þorkeli bróður sínum í Hvammi á Barðaströnd en Þorkell vildi eigi við honum taka. Síðan segir í sögunni:

 

Hann fer nú út í Vaðil til móður Gests Oddleifssonar og kemur þar fyrir dag og drepur á dyr. Gengur húsfreyja til dyra. Hún var oft vön að taka við skógarmönnum og átti hún jarðhús. Var annar jarðhússendir við ána en annar við eldahúsið hennar og sér enn þess merki.[59]

 

Hjá Þorgerði, móður Gests, dvaldist Gísli í tvo vetur við gott atlæti áður en hann fór í Hergilsey.

Tvíbýli var löngum á Vaðli. Hærri-Vaðall, tíu hundruð að dýrleika, varð fátækrajörð samkvæmt gjafabréfi frá 4. júní 1677 og skyldi verja jarðarafgjaldinu, svo og leigum fyrir kúgildin er jörðinni fylgdu, til fátækraþarfa.[60]

Gefendurnir voru Magnús Magnússon, sýslumaður á Eyri í Seyðisfirði við Ísafjarðardjúp, og bróðir hans, Þorleifur Magnússon, bóndi í Haga á Barðaströnd.[61] Jarðarpartinn og kúgildin sem honum fylgdu gáfu þeir handa fátækum í Ísafjarðar- Stranda- og Barðastrandarsýslum og í gjafabréfinu var tekið fram að úthlutun þessa fátækrastyrks skyldi jafnan vera á hendur falin einum ráðvöndum manni í Barðastrandarsýslu.[62] Gjöfin var gefin fyrir ölmusupeninga úr nefndum sýslum, er faðir þessara bræðra, Magnús Jónsson sýslumaður,  er lengi bjó í Miðhlíð á Barðaströnd en áður í Haga, hafði innheimt og stóðu inni í dánarbúi hans.[63] Hærri-Vaðall sem gefinn var til fátækraþarfa taldist þriðjungur úr allri jörðinni eða 10 hundruð en að fornu mati taldist allur Vaðall vera 30 hundruð að dýrleika.[64]

Þingstaður hreppsins var lengi hér. Í heimild frá árinu 1411 er getið um almennt héraðsþing á Vaðli og um miðja 17. öld var þingstaðurinn líka hér.[65] Á árunum 1650-1760 þinguðu sýslumenn yfirleitt hér,[66] á hinum forna þingstað, en á síðasta fjórðungi átjándu aldar var jafnan þingað í Haga.[67] Svo var einnig á árunum 1800-1820 en næstu fimmtíu árin var þingstaðurinn ýmist í Haga eða á Vaðli.[68]

Í sóknarlýsingu Hagasóknar frá árinu 1840 er frá því greint að bænhús sé talið hafa verið á Hærra-Vaðli fyrir margt löngu.[69] Ekki er þó kunnugt um neinar eldri heimildir er staðfesti að svo hafi verið.

Í Gísla sögu segir að jarðhús Þorgerðar, móður Gests hins spaka Oddleifssonar, sem oft var vön að taka við skógarmönnum, hafi náð úr eldhúsi hennar og út að ánni og tekið fram að ummerki um jarðhúsið séu enn sjáanleg á ritunartíma sögunnar. Á Efri-Vaðli blasir enn við augum fornt garðlag sem liggur frá gamla bæjarstæðinu þar og út að brekkubrúninni við árdalinn hjá Vaðalsá. Þetta garðlag var friðlýst árið 1931 og við friðlýsinguna lýsti Matthías Þórðarson, þáverandi þjóðminjavörður, því svo: Fornt garðlag er liggur þráðbeint frá bænum út eftir vellinum að hól þeim er Þinghóll heitir.[70]

Að stefna garðlagsins sé beint á gamla bæjarstæðið staðfestir Hákon Jónsson, núverandi bóndi á Vaðli, og greinir einnig frá því að við undirbúning hlöðubyggingar á þessu bæjarstæði árið 1964 hafi menn komið niður á alveg glerharða forna gólfskán.[71] Að sögn Hákonar var oft lítið um neysluvatn á Vaðli á fyrri tíð og því hreint ekki ólíklegt að reynt hafi verið að grafa jarðgöng til að auðvelda för manna í vetrarhríðum út að ánni.[72]

Séu orð Gísla sögu um jarðgöngin milli eldahúss og ár á Vaðli höfð í huga er býsna merkilegt að enn skuli blasa við augum hið forna garðlag sem hér var frá sagt. Við vitum ekki hvort undir því kunni að finnast ummerki um leynigöng ætluð skógarmönnum sem heimafólk á Efri-Vaðli hafi einnig notað í harðindum til að sækja vatn en vel færi á því að fornleifafræðingar rannsökuðu þetta áður en langt um líður því erfitt mun að finna skýringu á tilvist garðlagsins hafi það aldrei verið þak á undirgöngum. Komi í ljós að þarna hafi engin undirgöng verið ættu menn að skoða hvort ummerki um slíkt mannvirki kynni að finnast á Neðri-Vaðli, á leiðinni frá forna bæjarstæðinu þar út að ánni.

Upp frá Vaðli skerst Vaðalsdalur í norðaustur. Um hann fellur Vaðalsá og til sjávar við túnjaðarinn á Vaðli. Handan við ána á Vaðall svolitla landspildu við sjóinn og sé gengið frá árósnum í vesturátt, út með ströndinni, er örskammt að Bótólfsnesi sem er nesið næst ósnum.[73] Þar eru klettar ofan við fjöruna en lágur tangi gengur út í Hagavaðal. Yfir nokkurn hluta tangans fellur sjór, þegar sjávarstaðan er hæst, en þó ekki yfir fremsta oddann. Bótólfsnes er kennt við sakamanninn Bótólf Jörensson sem hér var tekinn af lífi haustið 1739.[74] Ætla má að Bótólfur hafi verið höggvinn en frá máli hans er sagt hér á öðrum stað (sjá Um Kjálkafjörð, Hjarðarnes og Vatnsfjörð, – bls. 5-7 þar).

 

Frá Vaðli er skammur vegur að bænum Krossi sem stendur austantil við botninn á Hagavaðli, skammt frá sjó. Í þjóðsögum er þessa frásögn að finna:

 

Í Haga á Barðaströnd var kerling er tók eftir því sem stendur í sálmi Hallgríms Péturssonar: „Holdið má ei fyrir utan kross eignast á himnum dýrðarhnoss”. – Þegar búið var að lesa mælti hún: „Það skal þó ekki svo grátt leikið að mér verði til fordæmingar að vera fyrir utan Kross”, – og tók hún í snatri saman tjörgur sínar og strýkur með þær inn yfir Hagavaðal og fær sér vist á Vaðli, en næsti bær fyrir utan Vaðal heitir Kross og er hann innar á Ströndinni en Hagi.[75]

 

Milli Kross og Tungumúla, sem er næsti bær fyrir utan, gengur Mórudalur norður í fjalllendið. Dalurinn er skógi vaxinn brúna á milli og um hann fellur áin Móra. Í Jarðabók Árna og Páls frá byrjun 18. aldar segir að á Krossi sé skógur ánægjulegur til kola og eldiviðar.[76] Tekið er fram að skógurinn sé einnig léður öðrum til kolagerðar og sortulyng sæki menn að Krossi af öðrum bæjum.[77]

Í sóknarlýsingunni frá 1840 er getið um Krosslaug niður undan Krossi.[78] Þar var sundlaug byggð fyrir nokkrum áratugum. Önnur heitari laug er í austurhlíð Mórudals. Þar var kennt sund áður en laugin niður við Vaðalinn var byggð.[79] Á Krossholtum, utan við bæinn Kross, hefur á síðustu árum risið svolítill þéttbýliskjarni í kringum félagsheimili og skóla.

Frá Krossi lá gömul þjóðleið norður að Fossi í Arnarfirði. Var þá farið fram Mórudal, síðan beygt til norðvesturs um Geldingadal og farið hæst í 487 metra hæð yfir sjávarmáli. Þar á háfjallinu heita Vegamót[80] því þar sameinast reiðgatan frá Krossi um Mórudal og leiðin frá Tungumúla um Leikvöll vestan Tungumúlafjalls sem báðar eru farnar að Fossi í Arnarfirði. Leiðin frá Krossi að Fossi er um 15 kílómetrar. Hún var talin fjögra stunda lestagangur.[81] Sé farið frá Tungumúla er leiðin að Fossi heldur styttri.

Þegar komið er upp úr botni Mórudals birtist á vinstri hönd þverhníptur klettahjalli, 15-16 metra hár, skammt frá hinni fornu reiðgötu. Heitir hann Sjömannabani. Gömul munnmæli skýra nafnið með þeim hætti sem hér segir. Eitt sinn fóru átta menn af Barðaströnd norður að Fossi að sækja bát. Hugðust þeir setja bátinn yfir Fossheiði en hrepptu hríðarbyl á leiðinni. Pétur frá Stökkum greinir svo frá örlögum:

 

Hafi þeir vegna hríðarinnar orðið uppi á hjallanum í stað þess að fara neðan við hann. Þeir renna nú bátnum suður eftir hjallanum og hafa veðrið í bakið. Einn var við afturstafn og ýtti eftir. Vissi hann þá ekki fyrr en báturinn og allir sjö félagar hans steyptust fram af hamrinum niður í urðina og biðu þar bana en hann stóð einn eftir og var til frásagna.[82]

 

Meðal fyrri tíðar bænda á Krossi er að finna Jón skóla sem hér bjó nálægt miðri 18. öld og margt kunni fyrir sér. Hann bjó síðar á Undirtúni hjá Brjánslæk (sjá hér Brjánslækur).

Um aldamótin 1900 bjó á Krossi Sæmundur Jóhannesson. Hann aflífaði fyrstur manna í Barðastrandarhreppi skepnur sínar með skotvopni, mörgum áratugum áður en aðrir Barðstrendingar tóku upp þann hátt.[83]

 

Frá Krossi liggur leiðin að Tungumúla og er það stutt bæjarleið. Bærinn Tungumúli stendur vestantil við botn Hagavaðals um einn kílómetra frá sjó, sunnan undir Tungumúlafjalli. Vegurinn frá Tungumúla á Fossheiði liggur eftir klettahjalla vestan í Tungumúlafjalli. Heitir hjallinn Leikvöllur og var vegurinn nefndur Leikvallarvegur.[84] Haustið 1875 hrapaði Guðmundur Þorláksson fram af Leikvallarklettum og beið bana. Var hann fyrsti póstur á leiðinni frá Bæ í Króksfirði á Bíldudal og Patreksfjörð.[85] Í Söguþáttum landpóstanna er sagt nokkuð frá Guðmundi Þorlákssyni pósti og hans feigðarför.[86]

Í byrjun september 1875 lagði Guðmundur upp frá Bíldudal og hugðist gista hjá Ólafi Thorlacius í Dufansdal en leggja á Fossheiði að morgni. Skömmu eftir komu hans að Dufansdal bar þar að garði Sveinbjörn nokkurn Björnsson, er síðar fór til Ameríku, og ætlaði hann líka inn yfir Fossheiði. Vildi Sveinbjörn óðfús leggja strax á heiðina og hvatti póstinn mjög til ferðar. Fóru þeir frá Dufansdal er langt var liðið á kvöld. Úrhellisrigning var og koldimmt. Um fótaferðatíma morguninn eftir kemur Sveinbjörn upp á gluggann í Tungumúla og spyr hvort Guðmundur póstur sé þar. Í Tungumúla var Guðmundur vanur að gista en nú hafði hann ekki komið þangað. Sveinbjörn kvaðst hafa skilið við Guðmund á vegamótunum á heiðinni og sjálfur farið Mórudal en talið víst að Guðmundur færi Leikvöll.

Leit var nú hafin að Guðmundi og fannst lík hans að lokum í skógarrunna, klætt gulri regnkápu. Leit út fyrir að hann hefði stokkið fram af klettinum og komið niður á höfuðið, því að það var mjög brotið, ritaði Jakob Aþanasíusson sem þá var bóndi í Tungumúla.[87]

Guðmundur póstur bjó á Skáldstöðum í Reykhólasveit er hann hrapaði til bana fram af Leikvallarklettum. Hann var að sögn hraustmenni til burða og spakmenni hið mesta.[88] Meðal barna hans var Sumarliði síðar póstur á þessari sömu leið (sjá hér Múlasveit, Þingmannaheiði þar).

Vestan Tungumúlafjalls og Leikvallar gengur Arnarbýlisdalur norður í fjöllin. Um hann fellur Arnarbýlisá og  var heiðin norður frá dalnum stundum nefnd Arnarbýlisheiði[89] en oftar Fossheiði.

Tungumúli var kirkjujörð frá Haga. Í byrjun 18. aldar var hér tvíbýli og hvíldu þá ýmsar kvaðir á Tungumúlabændum fyrir utan sjálfa landskuldina og kúgildaleigurnar sem þeim var gert að greiða. Í Jarðabók Árna og Páls segir svo um kvaðir þessar: Kvaðir eru skipsáróður sinn af hverjum og stundum hestlán eftir advenant. Dagsláttur fyrir nautslán til kúa og ein kolatunna af hverjum í kvöð.[90]

Í Sturlungu er frá því greint að eftir handtöku Guðmundar Arasonar biskups í Grímseyjarför þeirra Sighvats og Sturlu árið 1222 hafi Aron Hjörleifsson biskupsvinur farið huldu höfði á Vestfjörðum um skeið. Frá Krosseyri í Geirþjófsfirði stökk Aron þá til Barðastrandar og var í helli í Arnarbælisdal á kosti konu þeirrar er bjó í Tungumúla, segir þar.[91]

Í fjallshlíðinni austan við Arnarbýlisdal, skammt frá áðurnefndum Leikvallarvegi, stendur enn Aronshellir.[92] Í þjóðsögum er ritað að eldra nafn á helli þessum sé Ármannshellir og hafi hann fengð nafn sitt af Ármanni útilegumanni sem þar átti að hafa dvalist á dögum Gests Oddleifssonar hins spaka í Haga.[93]

Á síðari hluta 19. aldar bjó um skeið í Tungumúla Jakob Aþanasíusson sem hér hefur áður verið nefndur (sjá Um Kjálkafjörð, Hjarðarnes og Vatnsfjörð, – Uppsalir þar). Hann var þá hreppstjóri. Í ritgerð um bændur á Barðaströnd kringum aldamótin 1900 segir Guðmundur Einarsson að Jakob hafi verið talinn vífinn um skör fram, fengist við lækningar og getað lesið dálítið í erlendum málum.[94] Jakob bjó líka lengi á Gerði, utar á Ströndinni. Hann byrjaði fyrstur manna á Barðaströnd á því að grafa skurði til áveitu. Var þetta þó nokkru fyrir aldamót [1900] og jók hann grasfeng á býli einu, Gerði, til stórra muna með þessum framkvæmdum, ritar Hákon Kristófersson í Haga.[95] Var þetta áður en fyrstu búfræðingarnir á Barðaströnd, þeir Stefán Pétursson og Samúel Eggertsson, síðar skrautritari, fóru að láta hér til sín taka.[96]

Jakob Aþanasíusson var fæddur 7. desember 1826 að Bæ í Hrútafirði, óskilgetinn og ólst upp á hrakningi.[97] Þegar Jakob var 26 ára að aldri kvæntist hann og hóf búskap á Uppsölum í Vatnsfirði við Barðaströnd.[98] Í formála Guðmundar G. Hagalín að bókinni Sögnum Jakobs gamla kemur fram sá misskilningur að Jakob hafi búið á Uppsölum í Selárdal í Arnarfirði. Tveimur bæjum með sama nafni er þarna ruglað saman.

Á Uppsölum í Vatnsfirði bjó Jakob í allmörg ár (sjá hér Um Kjálkafjörð, Hjarðarnes og Vatnsfjörð – Uppsalir þar) en fluttist þaðan að Tungumúla nálægt 1860.[99] Í Tungumúla bjó hann enn árið 1878 en árið 1879 er hann kominn að Gerði og mun hafa búið þar nær tvo áratugi.[100] Um aldamótin 1900 fluttist Jakob til Reykjavíkur og hafði þá verið bóndi í Barðastrandarhreppi í nær hálfa öld. Í Reykjavík var Jakob tíður gestur á heimili Þorsteins Erlingssonar skálds og skráði Þorsteinn eftir honum fjölda sagna. Jakob andaðist í Reykjavík árið 1915, einu ári síðar en Þorsteinn. Sagnir Jakobs gamla, er Þorsteinn hafði ritað, komu hins vegar ekki á prent fyrr en 1933 og þá með formála eftir Guðmund G. Hagalín rithöfund er sá um útgáfuna. Upplýsingar um Jakob fékk Hagalín m.a. hjá frú Guðrúnu Erlings, ekkju Þorsteins. Guðmundur Hagalín ritar svo:

 

Jakob var maður gáfaður og fjölhæfur. Hann var hagmæltur vel og fróðleiksmaður hinn mesti, enda var hann ákaflega minnugur. Hann þótti mjög heppinn smáskammtalæknir og var hans vitjað víðs vegar að úr Barðastrandarsýslu. Læknaði hann fyrst með allopathiskum meðulum og mun hann hafa lært meðferð þeirra er hann dvaldi hjá séra Jóni Halldórssyni í Stórholti, … . Þá var hann og mjög laginn við að hjálpa konum í barnsnauð. Var hann ljósfaðir fjölda barna. Kona ein vestra sem hann hafði setið yfir sagði frú Guðrúnu Erlings að hans hendur hefðu verið „þær mýkstu líknarhendur, sem á sér hefðu snert”.

… Jakob var meðalmaður á allan vöxt, fríður sýnum, smáeygur en snareygur. Hann var ræðinn, glaðlyndur og skemmtilegur. Röddin var dimm en hlý og dálítið sérkennileg. Vanalega talaði hann hægt og vandaði orðalag sitt. „Karl minn” eða „kona góð”, sagði hann oft í viðræðum. Kvenhollur þótti hann nokkuð og orð lék á því að kvenþjóðin virti hann viðlits.[101]

 

Með konu sinni, Þorgerði Hannesdóttur, eignaðist Jakob fjölda barna og auk þess ólu þau hjónin upp átta börn vandalaus.[102] Ýmsar sögur hafa gengið um Jakob Aþanasíusson og vísur eftir hann voru lengi á hvers manns vörum á Barðaströnd og í nálægum sveitum.

Ekki má minna vera en ein þessara vísna hans sé látin fylgja hér og er hún sögð úr fréttabréfi er Jakob ritaði. Vísan er svona:

 

Öll er hún Barðaströnd orðin að ís,

eldurinn logandi hélar og frýs;

kotungar klökugir syngja.

Um Hagafit skeiða á skautum sem ljón

og skemmta sér Satan og stórbóndinn Jón;

í faðmlögum kjaftarnir klingja.[103]

 

Við Hagavaðal niður frá Tungumúla heitir Refshólmi og talinn kenndur við Króka-Ref sem frá er sagt í Króka-Refs sögu. Þar segir að Refur hafi í uppvexti á Kvennabrekku verið eldsætinn og enga hafði hann aðra iðn fyrir stafni en veltast fyrir fótum mönnum, er þar gengu.[104] Þó kom þar að hann varð mannsbani og var þá sendur til dvalar í Haga hjá móðurbróður sínum, Gesti Oddleifssyni. Gestur spaki vildi reyna frænda sinn og bað hann smíða fyrir sig selabát. Fékk hann Ref í hendur bæði tól og öll smíðaefni og hóf Refur bátasmíðina í hrófi þar niður við vaðalinn. Að nokkrum mánuðum liðnum kom Gestur að líta á verkið og hafði Refur þá smíðað haffæran byrðing svo stóran að talið var að stærri skip hefðu ekki komið út hingað. Skip þetta gaf Gestur Króka-Ref, frænda sínum. Sigldi hann á því til Grænlands og bjó þar í átta ár svo sem frá er sagt í sögu hans.[105]

Í lýsingu Hagasóknar frá árinu 1840 segir svo: Refshólmi er nefndur innarlega í Hagavaðli. Þar eru tvær lítilfjörlegar tóttir. Skal önnur þeirra verið hafa smiðja Refs, hvar hann smíðaði skipið, en hin hrófið fyrir það.[106] Pétur frá Stökkum segir í ritgerð frá fyrri hluta 20. aldar að Refshólmi sé allstór grashólmi í Hagavaðli og þar sé afarstórt og fornlegt naust.[107] Telur hann líklegt að þar hafi farmenn haft skipauppsátur á þjóðveldisöld.

Naustið forna í Refshólma skoðaði höfundur þessara orða þann 10. ágúst 1988. Ekki verður nú séð að lengd þess hafi verið mikið yfir tíu metra og sýnist því fremur miðuð við breiðfirskan teinæring en hafskip. Bent skal á að Egill, sem smíðaður var í Hvallátrum á Breiðafirði rétt eftir aldamótin 1900 og taldist teinæringur að stærð, er um ellefu metrar á lengd.[108] Aftur á móti benda líkur til þess að hafskip þau er hingað sigldu á þjóðveldisöld (knerrir) hafi mörg verið um það bil tvisvar sinnum lengri heldur en Egill en stærð þeirra þó misjöfn.[109]

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Einar Guðmundsson, Seftjörn. – Viðtal K.Ó. við hann 10.8. 1988.

[2] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 271.

[3] Ólafur Davíðsson: Íslenskar þjóðsögur III, 141-142.

[4] Pétur Jónsson 1942, 73 (Barðstrendingabók).

[5] Vestfirskar sagnir I, 89-90.

[6] Þjóðsögur og þættir I, 1981, 22.

[7] Einar Guðmundsson, Seftjörn. – Viðtal K.Ó. við hann 10.8.1988.

[8] Íslensk fornrit V, 28-29.

[9] Jarðab. Á. og P. VI, 272.

[10] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 201.

[11] Pétur Jónsson 1942, 74 (Barðstrendingabók).

[12] Þorsteinn Erlingsson / Jakob Aþanasíusson 1933, 12.

[13] Sama heimild.

[14] Sama heimild.  Blanda VIII, 100.

[15] Þorsteinn Erlingsson / Jakob Aþanasíusson 1933, 13.

[16] Sama heimild.

[17] Sama heimild.

[18] Þórarinn Einarsson 1968, 105-107 (Árbók Barð. 1957-1958).

[19] Jarðab. Á. og P. VI, 275.

[20] Pétur Jónsson 1942, 75 (Barðstrendingabók).

[21] Sama heimild.

[22] Þorvaldur Thoroddsen 1959, 29 (Ferðabók II).

[23] Pétur Jónsson 1942, 75.

[24] Sama heimild, 74.

[25] Þjóðsögur Jóns Árnasonar II, 120-121.

[26] Alþingisbækur Íslands VI, 166-168.

[27] Alþingisbækur Íslands VI, 166-168.

[28] Sama heimild, 168-169.

[29] Ólafur Davíðsson: Íslenskar þjóðsögur III, 227-228.

[30] Sama heimild, 225-226.

[31] Pétur Jónsson 1942, 75 (Barðstrendingabók).

[32] Sóknalýs. Vestfj. I, 201.  Pétur Jónsson 1942, 75.

[33] Vestfirskar þjóðsögur I, 390-391.

[34] Ísl. æviskrár I, 307.

[35] Sóknalýs. Vestfj. I, 203.

[36] Vestf. sagnir I, 385-405.

[37] Sama heimild, 399.

[38] Pétur Jónsson 1942, 74 (Barðstrendingabók).

[39] Íslensk fornrit VI, 63 og 74.

[40] Sama heimild, 29.

[41] Sama heimild, 90.

[42] Jarðab. Á. og P. VI, 275-276.

[43] Pétur Jónsson 1942, 75 (Barðstrendingabók).  Vestf. sagnir I, 5.

[44] Vestf. sagnir I, 6-7.

[45] Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1893.

[46] Pétur Jónsson 1942, 75. Sóknarmannatöl Brjánslækjar.

[47] Böðvar Guðjónsson, Tungumúla. – Viðtal K.Ó. við hann 11.8.1988.

[48] Ebenezer Henderson 1957, 292-293.

[49] Þjóðsögur Jóns Árnasonar I, 326.  Manntal á Íslandi 1816, 664.

[50] Sama heimild, 326-327.

[51] Sama heimild, 327-328.

[52] Sóknalýs. Vestfj. I, 201.

[53] Íslensk fornrit VI, 183 og 194.

[54] Sturlunga saga II, 4-5.

[55] Dipl. isl. III, 15.

[56] Einar Guðmundsson, Seftjörn. – Viðtal K.Ó. við hann 11.8.1988.

[57] Pétur Jónsson 1942, 77 (Barðstrendingabók).

[58] Sama heimild.

[59] Íslensk fornrit VI, 75.

[60] Jarðab. Á. og P. VI, 276.  Sóknalýs. Vestfj. I, 203.

[61] Sóknalýs. Vestfj. I, 203. Annálar III, 231. Sbr. Ísl. æviskrár III, 443 og V, 183.

[62] Annálar III, 231.

[63] Sama heimild. Sbr. Íslenskar æviskrár III, 432.

[64] Jarðabók Á. og P. VI, 276. Sóknalýs. Vestfj. I, 203.

[65] Dipl. isl. III, 736-738. Alþingisbækur Íslands VI, 348.

[66] Alþ.b. Ísl. VI, 348, VII, 26 og 318, VIII, 474, IX, 217, X, 383, XI, 381, XII, 461-462 og XIV, 297-298.

[67] Skj.s. sýslumanna og sveitarstjórna, Barð. IV, 1-13 (Dóma- og þingbækur).

[68] Sama heimild.

[69] Sóknalýs. Vestfjarða I, 202.

[70] Fornleifavernd ríkisins, vefsíður / Skrá um friðlýstar fornleifar, fyrsta útgáfa 1990.

[71] Hákon Jónson á Vaðli. – Viðtal K.Ó. við hann 23.7.2008.

[72] Hákon Jónsson á Vaðli. – Viðtal K.Ó. við hann 23.7.2008.

[73] Sama heimild.

[74] Sbr. Annálar III, 573-574.

[75] Þjóðsögur Jóns Árnasonar V, 353-354.

[76] Jarðab. Á. og P. VI, 277.

[77] Jarðab. Á. og P. VI, 277.

[78] Sóknalýs. Vestfj. I, 198.

[79] Jóhann Skaptason 1959, 101 (Árbók F.Í.).

[80] Söguþættir landpóstanna III, 184.

[81] Jóhann Skaptason 1959, 101 (Árbók F.Í.).

[82] Pétur Jónsson 1942, 76 (Barðstrendingabók).

[83] Guðmundur Einarsson 1951, 75 (Árbók Barð.).

[84] Pétur Jónsson 1942, 77 (Barðstrendingabók).

[85] Sama heimild.

[86] Söguþættir landpóstanna I, 314-319 og III, 184-185.

[87] Sama heimild I, 318.

[88] Sama heimild I, 317.

[89] Vestf. sagnir III, 195.

[90] Jarðab. Á. og P. VI, 278.

[91] Sturlunga saga II, 132.

[92] Pétur Jónsson 1942, 77 (Barðstrendingabók).

[93] Þjóðsögur Jóns Árnasonar IV, 34.

[94] Guðmundur Einarsson 1951, 73 (Árbók Barð.).

[95] Hákon Kristófersson 1952, 52 (Árbók Barð.).

[96] Sama heimild, 41-42.

[97] Guðmundur G. Hagalín 1933, bls. 3, formáli (Þorsteinn Erlingsson: Sagnir Jakobs gamla).

[98] Þorsteinn Erlingsson / Jakob Aþanasíusson 1933, 3 og 42.

[99] Sama heimild, 3-4.

[100] Sama heimild. Sbr. Sóknarm.töl Brjánslækjar.

[101] Þorsteinn Erlingsson / Jakob Aþanasíusson 1933, 4.

[102] Sama heimild.

[103] Þjóðsögur og þættir 1982, II, 23.

[104] Íslendingasögur IV, 403.

[105] Íslendingasögur IV, 408-420.

[106] Sóknalýs. Vestfj. I, 206.

[107] Pétur Jónsson 1942, 79 (Barðstrendingabók).

[108] Lúðvík Kristjánsson 1982, 316.

[109] Sami 1981, 96 (Vestræna).

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »