Hvallátur við Látrabjarg og verstöðin Brunnar

Hvallátur við Látrabjarg og verstöðin Brunnar

Frá BjargtöngumBlakknesi við sunnanverðan Patreksfjörð liggur strandlengjan til norð-norðausturs. Loftlína milli þessara tveggja annesja er um 18 kílómetrar. Byggðin þar kallast Útvíkur en helstu víkurnar eru Látravík, Breiðavík og Kollsvík. Við allar þessar þrjár víkur hefur verið búið frá upphafi Íslandsbyggðar og á fyrri tíð var hér oft mikið fjölmenni, heimafólk og vermenn. Á Hvallátrum bjó landnámsmaðurinn Þórólfur spörr sem að sögn Landnámabókar nam Útvíkur, aðrar en Kollsvík, og einnig Keflavík og vesturströnd Patreksfjarðar.[1] Víkurnar þrjár eru allar stuttar en breiðar og auk þeirra skerast inn í ströndina smærri víkur og vogar svo sem Seljavík, rétt norðan við Bjargtanga, en þar mun einnig hafa verið búið á miðöldum. Brattir fjallsmúlar ganga í sjó fram og skilja víkurnar að, Brunnanúpur milli Seljavíkur og Látravíkur, Bjarnarnúpur milli Látravíkur og Breiðavíkur, Breiður á milli Breiðavíkur og Kollsvíkur. Í öllum Útvíkum er ljósgulur skeljasandur áberandi við ströndina og sums staðar nær foksandur upp í miðjar fjallahlíðar. Talsvert gróðurlendi er í öllum víkunum, minnst þó í Látravík, en að baki hrjóstrug fjöll. Hér verður nú fjallað nánar um byggðina í Útvíkum.

 

Hvallátur í Rauðasandshreppi eru vestasta byggt ból á Íslandi og stóðu býlin í einum hnapp nyrst í Látravík, fjóra til fimm kílómetra í norðaustur frá Bjargtöngum. Ábúendur á Hvallátrum voru sjaldan færri en þrír[2] og stundum fleiri, auk húsfólks. Bændabýlin þrjú á Látrum hétu Heimabær, Húsabær og Miðbær. Fjölmennust var byggðin kringum aldamótin 1900 og á fyrstu áratugum tuttugustu aldar en þá var hér nokkuð um fólk sem hafði litlar eða engar grasnytjar. Aldamótaárið 1900 bjuggu á Látrum 45 manneskjur og virðist íbúafjöldinn jafnan hafa verið á bilinu 34 til 48 á árunum 1880 til 1900.[3] Á fyrstu áratugum 20. aldar var íbúatalan heldur hærri: 48 1910, 51 1920 og 47 1930. Ekki fækkaði verulega fyrr en eftir 1950.[4] Nú liggur við auðn (1988)  og stendur Ásgeir Erlendsson einn undir merkjum hin síðustu ár með hjálp dóttur sinnar.

Sjór var löngum sóttur af kappi frá Látrum og verður hér litlu aftar fjallað sérstaklega um sjósókn héðan og verstöðina á Brunnum í landi Látra. Góð afkoma Látramanna byggðist ekki síst á sjósókn og bjargferðum en einnig stóð sauðfjárbúskapur hér lengi með blóma.

Um hlunnindi og landkosti á Látrum segir m.a. svo í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá byrjun 18. aldar:

 

Eggver og fuglveiði í Látrabjargi og Látranúp (alias Bjarnarnúp) óþrjótandi en verður eftir að síga og er mannhætta. Selfengur alleina með að skjóta þá því lagnir eru þar engar. Uppidráp hefur þar og verið og kynni enn að vera þegar svo félli. … Sölvafjara hefur góð verið en rénar. Hrognkelsafjara hefur þar góð verið en minnkar þar mjög. Fjörugrös kunna þar að fást ef vill. Útigangur í fjöru er þar í besta lagi og er þar upp á byggt um fullorðið fé. Allra þessara hlunninda njóta leiguliðar tolllaust. Engjar á Látrum eru öldungis engar. … Tún og hagi fordjarfast af sandfoki úr sjó. Vatnsból þrýtur þar á vetur. … Reki hefur þar nokkur verið meðan rak, þó hefur Látraröst hann alltíð stórum frádregið. Heimræði er þar í betra lagi. Lending góð en sandur fýkur á og skemmir aflann.[5]

 

Í þessari upptalningu er m.a. minnst á sölvafjöru á Látrum. Sölvatangi heitir hér skammt frá bænum þar sem nú (1988) er sjúkraflugvöllur. Þar átti Sauðlauksdalskirkja rétt til að hirða sölin 60 fjörur á ári og munaði um minna.[6] Varðandi fjörubeitina kemur fram í Jarðabókinni að fullorðnu sauðfé hefur ekki verði ætlað hey. Fjaran átti að nægja.

Hermann Jónasson, síðar skólastjóri búnaðarskólans á Hólum og bóndi á Þingeyrum, ferðaðist um Barðastrandarsýslu sumarið 1887 og kannaði búnaðarástand. Hann kom að Látrum og ritar í skýrslu sinni allítarlega um búskapinn þar. Um fjörubeitina segir Hermann:

 

Á vetrum er mjög lítið beitiland fyrir sauðfé á Látrum en fjörubeit er þar ágæt og er talið að þar sé 18 vikna fjara. Sauðfé er þar fremur fátt en margt er tekið til vetrarfóðurs, enda er þar vanalega á vetrum 300-500 sauðfjár og stundum fleira. Lifir féð nær eingöngu á fjörunni og vanalegt er að því sé eigi gefið nema 6-7 sinnum á vetri, en auðvitað þyrfti að gefa því oftar ef vel væri. Vel byrgir teljast samt menn þar ef þeir hafa 1/8 part úr hesti af töðu handa hverri fullorðinni kind.[7]

 

Á fyrri hluta 20. aldar var fénu venjulega sleppt um það leyti sem róðrar hófust[8] það er í nánd við páska. Er þá  vert að rifja upp það sem séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal ritaði á sínum tíma um fjörubeit á Vestfjörðum. Í bók sinni Grasnytjar segir Björn að á Vestfjörðum sé fjörubeit einstakra jarða mæld í vikum, það er 6, 8, 12 eða 18 vikna fjara eftir því hversu lengi féð geti lifað á fjörunni einni.[9] Á sama stað lætur séra Björn þess getið að þar sem eingöngu sé treyst á fjörubeit verði stundum fjárfellir ef þararek bregðist.

Fjögur býli voru á Látrum árið 1887 og kýrnar átta, að sögn Hermanns Jónassonar. Tún mætti verða þar mjög stórt og gott því að feikn má fá af áburði, segir Hermann.[10] Er hann þá að hugsa um þang og fiskslóg sem áburð. Í skýrslu sinni minnist hann líka á beitina á Látrabjargi og segir að þar vaxi einkum töðugresi. Á bjarginu gekk sumarlangt geldfé frá Látrum og fleiri bæjum og land þar svo kjarngott að talið var að því fé væri borgið sem skreiðst gæti þangað á vorin.[11]

Þegar Sigurður Sigurðsson ráðunautur ferðaðist um Barðastrandarsýslu árið 1916, nær þrjátíu árum síðar en Hermann, átti Erlendur bóndi Kristjánsson á Látrum ennþá sauði, sem þá var orðið fátítt. Skárust sumir sauðir Erlendar með 30 kílóa falli og jafnvel þar yfir en mörinn 10 kíló.[12]

Pétur Jónsson frá Stökkum ritar nálægt 1940 um búskapinn á Hvallátrum og þá á þessa leið:

 

Á Hvallátrum hefur um langan aldur verið margbýlt og mikil búpeningsáhöfn, einkum sauðfé. Nú eru þar átta búendur. Tún eru þar stór, greiðfær, sendin og nokkuð harðlend. Kartöflugarðar eru þar ágætir og allmiklir. Engjar eru mjög litlar, aðeins valllendisblettir á bjargbrúninni. Fjörubeit er mikil og útigangur fyrir sauðfé mikill svo að lömb eru stundum eigi tekin í hús fyrr en á þorra og sleppt með einmánuði. Hefur vetrarbeit löngum þótt gagnsöm og kjarngóð á Látrabjargi en mörg kindin hefur þar hrapað.[13]

 

Þegar ekið er frá Látrum út á Bjargtanga liggur leiðin um Skollahillu framan í Brunnanúp. Vestan við núpinn er Seljavík og upp frá henni Seljadalur. Þarna í næsta nágrenni Bjargtanga er land vel gróið. Básar er fornt örnefni hér við sjóinn og sér þar móta fyrir tóttum. Gísli Konráðsson ritar að hér hafi til forna verið býlið Básar en farið í eyði í svartadauða.[14] Ekki er þessa eyðibýlis getið í Jarðabók Árna og Páls en í sóknarlýsingu séra Gísla Ólafsson frá 1840 eru Básar sagðir hafa eyðst í svartadauða.[15] Vel kann þetta að vera rétt þó ekkert sé um það vitað með vissu, a.m.k. hefur allvíða verið lakara undir bú en hér. Það fylgir sögu Gísla Konráðssonar að á hverjum jólum hafi horfið frá Básum ungur sveinn eða meystelpa og hefðu þau heilluð verið. – Sagt er að upp undan Smáhömrum hafi eitt sinn fundist lindi eða föt nokkur af telpu einni, er þannig hafði horfið frá Básum.[16] Kórbás heitir einn básinn, ekki ólíkur kórnum í kirkjum kristinna.

Þegar Hermann Jónasson kom að Látrum sumarið 1887 var búsmali enn hafður í seli á Seljadal við brún Látrabjargs. Frá Látrum eru því kýr og ær hafðar í seli á sumrum suðvestur undir bjarginu, segir Hermann.[17] Eyjólfur Sveinsson á Lambavatni á Rauðasandi greinir svo frá um 1940  að Látramenn hafi stundað seljabúskap fram undir aldamót.[18] Segir Eyjólfur að jafnan hafi verið flutt í selið laugardaginn í 11. viku sumars en heim úr selinu laugardaginn í 19. viku sumars. Þá reglu mátti ekki brjóta því ella var talin hætta á að kýrnar gengju fyrir björg.[19] Mjólkin var reidd heim daglega og gerðu það selsmalarnir. Það var talin mikil trúnaðarstaða að vera selráðskona en um leið eftirsótt og skemmtilegt starf.[20] Selráðskonurnar sáu um mjaltir og önnuðust smjör- og skyrgerð. Milli mála fóru þær stundum til hjálpar brúnafólki meðan sig stóðu yfir.[21] Í sóknalýsingum Sauðlauksdalsprestakalls frá árinu 1840 kemur fram að þá var hvergi haft í seli í Rauðasandshreppi nema á Látrum.[22]

Ekki hefur tekist að grafa upp hvaða ár var hætt að hafa í seli frá Látrum en fullyrða má að það hafi verið á árunum 1888 til 1896. Vitnisburður Hermanns Jónassonar liggur fyrir um árið 1887. Erlendur Kristjánsson hóf búskap á Látrum árið 1896. Dóttir hans Jóna, sem fædd er árið 1903, kann hin bestu skil á öllu er varðar búskaparhætti á Látrum frá þeim tíma. Hún er þess fullviss að enginn Látrabænda hafi haft í seli eftir að faðir hennar byrjaði þar sinn búskap en telur að skammt hafi þá verið umliðið frá því seljabúskapnum var hætt.[23]

Í Árbók Ferðafélags Íslands frá árinu 1959 er fullyrt að haft hafi verið í seli á Látrum fram á tuttugustu öld.[24] Engrar heimildir er þar getið og með tilliti til orða Jónu Erlendsdóttur verður sú fullyrðing að dæmast röng. En þótt ekki hafi verið haft í seli á Látrum nema fram um 1890, máske til 1895, þá er ekki kunnugt um að seljabúskapur með fornu lagi hafi haldist lengur við óslitið annars staðar á Vestfjörðum (sjá hér Holt í Önundarfirði og Flateyri) og varla nema á örfáum stöðum yfir landið allt. Látrasel er því hinn merkasti staður sem vert er að gefa nokkru nánari gætur.

Þorvaldur Thoroddsen segir að á öllum sínum ferðum um Ísland á árunum 1881 til 1898 minnist hann þess ekki að hafa fundið eitt einasta sel, er enn hafi verið notað sem sumarhús.[25] Svo virðist sem Þorvaldur hafi ekki haft spurnir af selinu á Látrum, þó að hann kæmi hingað 1886, en aðrar heimildir sanna að þá hefur selið tvímælalaust verið í notkun. Til glöggvunar á sögulegri stöðu Látrasels skal þess að lokum getið að árið 1902 segir Sigurður Sigurðsson ráðunautur í blaðagrein að þá muni þrír eða fjórir menn á landinu öllu hafa búsmala í seljum að sumarlagi.[26]

Í þjóðsögum er getið um eldhús, búr og baðstofu í Látraseli en þar segir frá því er tveir smalar frá Látrum fundu eitt sinn ókunna stúlku litla sofandi í rúmi í selinu, fríða í andliti með bjart hár. Hún var á bláum vaðmálsfötum með röndótta vefjarsvuntu, í dökkum sokkum með nýja óbrydda sauðskinnsskó með hvítum þvengjum.[27] Ekki þorðu smalarnir að vekja þá er í selinu svaf en hlupu heim að Látrum. Veit því enginn hvort stúlkan fríða var mannaættar eða álfa.

Enn geta ferðalangar litast um í Látraseli ofarlega í Seljadal. Höfundur þessara orða kom þar að kveldi dags þann 9. ágúst 1988 og naut leiðsagnar Ásgeirs Erlendssonar á Látrum. Heiman frá Látrum er klukkutíma gangur í selið eftir hinum fornu selgötum að baki Brunnanúps. Sé komið neðan frá Bjargtöngum fram dalinn verður tótt af fjósi frá Miðbæ fyrst á vegi manna þegar komið er að selrústunum. Annað fjós hefur staðið stakt í brekkunni fjær bjargbrúninni. Meginþyrping selrústanna er þarna örskammt frá, beggja vegna við lækjarfarveg. Þar er þriðja fjósið og tvennar kvíar þar sem ær hafa verið mjaltaðar. Sel tveggja Látrabænda hefur verið norðan við lækinn en selhús þriðja bóndans sunnan lækjar. Telur Ásgeir að Húsabær hafi átt selið sunnan lækjar. Selhús voru yfirleitt skipt í þrjár vistarverur, búr, eldhús og svefnhús[28] en þess utan fjós og kvíar eftir atvikum. Rústirnar í Látraseli sýna þessa skiptingu. Sunnan lækjar hafa vistarverurnar greinilega verið þrjár og norðan lækjar, þar sem sel tveggja bænda eru sambyggð, hafa kofarnir verið fimm eða sex.

Árið 1988 var um það bil öld liðin frá því selstúlkur og smalar nutu síðast sumardýrðarinnar í Látraseli. Þök voru þá löngu fallin af selhúsunum og dyr ærið signar. Hellur yfir tveimur dyranna héngu þó enn uppi og þar gátu sæmilega grannir menn smeygt sér inn um hinar fornu gáttir.

Ein síðasta selráðskonan í Látraseli var Svanborg Árnadóttir, fædd 1869, – dóttir Árna Thoroddsen í Heimabæ á Látrum. Þorvaldur Thoroddsen minnist ekki á selið er hann segir frá komu sinni að Látrum árið 1886. Samt hafa menn enn fyrir satt að Svanborgu þessa og Guðrúnu Haflínu Jónsdóttur úr Keflavík, sem fædd var 1862, hafi Þorvaldur sagt vera þær laglegustu stúlkur er hann hefði séð á ferð sinni það sumar.[29]

Í kringum Látrasel er mikið gróðurlendi og þar var heyskapur stundaður lengi fram eftir tuttugustu öld. Slægjulöndum í kringum selið var þá skipt milli Látrabænda í hlutfalli við jarðarhundruð hvers og eins og voru þetta nefndir partar. Heyið var sett inn í seltóttirnar.[30] Sjálfsagt þótti á yngri árum Ásgeirs Erlendssonar, sem fæddur er 1909, að allir Látramenn er leið áttu í nágrenni selsins gengju þar við til að athuga hvort hurðir hefðu opnast, fé t.d. hnubbað þær upp, eða eitthvað annað gengið úr skorðum.[31]

Frá Látraseli er skammur vegur austur að Miðmundahæðum. Þar eru enn rústir af bæli sakamanns er einn Látrabænda á fyrri tíð fæddi þar að sögn heilan vetur og kom svo í duggu með vorinu.[32] Byrgið hefur verið grafið í jörð að mestu en hlaðið innan með grjóti og þakið hellum. Reyndar hafði bæði Látramönnum og öðrum lengi verið ókunnugt um hvar felustað þennan væri að finna uns Ásgeir Erlendsson vitavörður gekk fram á byrgið á tófugöngu fyrir nokkrum áratugum. Ummerkin um mannvist leyndu sér þá ekki.

Á heimleið úr selinu að Látrum hentar vel að staldra við á Gildruhjalla, sunnantil í Brunnanúp, og huga að ævafornri og mosavaxinni refagildru úr grjóti. Þar var egnt fyrir skolla á fyrri tíð og svo um búið að væri komið við agnið féll steinhella yfir dyrum gildrunnar á hæla dýrsins svo það gat sig hvergi hrært.[33]

 

Um sjósókn frá Hvallátrum hefur skýrast ritað Pétur Jónsson frá Stökkum á Rauðasandi og er þá ritgerð hans að finna í Barðstrendingabók sem út kom 1942. Hér verður stuðst við skrif Péturs auk annarra heimilda.

Í byrjun 18. aldar var ekkert útræði frá Látrum og þá reru héðan aðeins þrír heimabátar í eigu Látrabænda og Helgu Eggertsdóttur, systur Guðrúnar ríku í Saurbæ, en Helga átti þá jörðina.[34] Bátarnir þrír voru allir mjög litlir, aðeins þriggja manna för. Segir Árni Magnússon bændurna hafa á orði að æskilegt væri að fá stærri báta. Enda þótt skipverjar væru allir heimamenn á Látrum varð samt að greiða landeiganda tvo fjórðunga í vertoll af hverjum manni,[35] það er tíu kíló af harðfiski eða sem næst tíu steinbíta. Svo virðist sem vertollurinn á Látrum hafi ekki tekið verulegum breytingum þaðan í frá. Um 1880 var hann tíu steinbítar af hverjum manni og tólf steinbítar á Brunnum í Látralandi.[36]

Í Jarðabók Árna og Páls segir svo um sjósókn frá Látrum og Brunnum á fyrri öldum:

 

Þar hefur verið verstaða tilforna, bæði heima við Látur og svo á Brunnum í Látralandi. Segja gamlir menn þar verið hafa til vers 20 skip eða þar um. Heima við Látur kynni vera verstaða enn ef menn vildu heldur þar róa en heima hjá sér. En á Brunnum er allt eyðilagt af sandi og vatnsleysi og er það yfir 80 ár að þar ekkert skip róið hefur. Til þessarar Brunna verstöðu skulu tilforna hafa sótt Dýrfirðingar, Arnfirðingar, Tálknfirðingar og það íbland vegna þess að þeir hafa, per conniventiam [þ.e. með því að eigendur hafa látið sem þeir sæju ekki], haft fuglveiði og egg úr Látrabjargi, tolllaust, sem menn meina.

Álftamýrarbúð skal heita á Brunnum, eyðilögð af sandi með hinum. Skal hafa verið eign Álftamýrarkirkju.[37]

 

Allt eru þetta merkilegar upplýsingar og í Jarðabókinni má sjá að þegar hún var samin hefur sjósókn verið í lágmarki, ekki aðeins frá Látrum heldur Útvíkunum öllum. Þar var þá útræði að marki eingöngu frá Láganúpsveri í Kollsvík en þaðan gengu fjórir bátar auk heimabátanna.[38] Verstaða var þá einnig í Láturdal, yst við vestanverðan Patreksfjörð (sjá hér Hænuvík og Sellátranes).

Verstöðin Brunnar í landi Hvallátra er rétt norðan við Brunnanúp og er þangað um hálftíma gangur heiman frá Látrum. Þaðan og úr heimavör á Látrum var mikið útræði á 19. öld en ekki er kunnugt um að Arnfirðingar eða Dýrfirðingar hafi þá gert þar út eins og verið hafði fyrrum samkvæmt því sem ritað er í Jarðabókinni frá 1703 og hér var áður nefnt.

Um miðja 18. öld eða fyrr hafa útróðrar frá Látrum hafist á ný. Ólafur Árnason, sýslumaður í Haga, segir í sýslulýsingu sinni frá árinu 1746 að bæði heiman frá Látrum og frá Brunnum sé róið til fiskjar á vorin og hafist menn hér við í verbúðum.[39] Því miður gefur Ólafur engar upplýsingar um fjölda báta eða verbúða.

Eggert Ólafsson greinir frá ýmsu varðandi sjósókn í norðurhluta Barðastrandarsýslu um 1760. Hann ritar m.a.:

 

Á vertíð verður hver bóndi að leggja vinnumönnum sínum til fullan smjörskammt, ef útgerð þeirra á að kallast lögmæt, því að vermenn fá engan mjólkurmat … . Annars stunda þar margir fátækir bændur fiskveiðar, sem hvorki hafa mjólk né smjör og lifa algerlega á nýjum fiski. Yfir vertíðina borða sjómenn aðeins tvisvar á dag, það er kvelds og morguns. Þeir hafa aldrei með sér nesti á sjóinn en sýrublöndu taka þeir með sér í róðrana til drykkjar. Sagt er að þeir, sem búa við Látrabjarg og í verstöðvunum þar fyrir norðan, séu miklir matmenn. Það er einnig hvarvetna viðurkennt hér á landi að sveitamenn, og einkum þó þeir sem ekki stunda sjó, séu minni matmenn en  hinir. Líkt er þessu háttað með fuglana. Sjófuglar hafa hvapakenndara kjöt, eru magastærri og verpa stærri eggjum en landfuglar.[40]

 

Illt hefur verið að róa feitmetislaus á Brunnum.

Þegar liðlega sjötíu ár voru liðin frá drukknun Eggerts Ólafssonar ritar séra Gísli Ólafsson í Sauðlauksdal sóknalýsingar sínar, árið 1840, og segir þar: Látrum tilheyra Brunnar, sem er veiðistaða óbyggð, hvar allir innlendir og af Barðaströnd róa á vorin frá páskum til sláttar, einnig á Látrum og Breiðuvík.[41] Með orðinu innlendir á séra Gísli ugglaust við íbúa Rauðasandshrepps. Ber þá að skilja orð hans svo að um þetta leyti hafi nær allir bændur í Rauðasandshreppi og á Barðaströnd sótt sjó frá Brunnum, Látrum eða Breiðavík, ellegar sent þangað menn í ver. Kemur þetta vel heim við aðrar upplýsingar (sjá hér Keflavík). Séra Gísli getur hins vegar ekki um sjósókn manna úr Austur-Barðastrandarsýslu frá Látrum eða Breiðavík og er trúlegt að hún hafi þá ekki verið veruleg en átti hins vegar eftir að aukast síðar.

Pétur Jónsson frá Stökkum ritar að á árunum 1850 til 1890 hafi menn úr Flateyjarhreppi, Múlasveit og af Barðaströnd stundað mjög sjóróðra á vorin frá Látrum og Brunnum.[42] Hann getur þess einnig að einstaka menn úr Gufudalssveit hafi sótt héðan sjó og fiskalestir jafnvel gengið frá Látrum suður í Reykhólasveit.[43]

Á þessu tímabili reru yfirleitt sex til átta bátar frá Brunnum, álíka margir frá Látranesi, skammt norðan við Látrabæi, og líka svipaður fjöldi heiman frá Látrum[44] eða alls um 20 bátar. Vertíð stóð frá sumarmálum til messna, það er frá því um 20. apríl og til júníloka. Þá átti eftir að flytja heim fiskinn og var því oft ekki lokið fyrr en undir miðjan júlí.

Aðstæðum á Brunnum lýsir Pétur frá Stökkum svo:

 

Þar eru sandauðnir einar allt í fjall upp, svo að bæði verður að reisa búðir og vergögn á sandi, en lending er þar allgóð, eftir því sem um er að ræða fyrir opnu hafi, einkum í svonefndum Mjóavogi. Þar var talin því nær líflending. Sandurinn þótti ærið hvimleiður þar sökum þess hve illt var að verja fiskifangið fyrir sandfoki meðan það var í herslu. Hins vegar var miklu styttra þaðan til sóknar suður fyrir röstina þegar aðalfiskislóðin var þar, sem oftast var.[45]

 

Allmargir útróðramannanna höfðu búðir sínar og steinbítsgarða á Látranesi undir Bjarnarnúp, nyrst í Látravík. Þar var þó engin lending og urðu þeir að setja upp báta sína á Látrarifi, beint niður undan Látrabæjunum.[46] Löngu síðar voru gerðar þarna lendingabætur en þá var komið langt fram á 20. öld.[47] Um aðstæður á Látranesi á 19. öld ritar Pétur frá Stökkum m.a. þetta:

 

Á Nesinu varð að seila, eins og á hinum stöðunum [þ.e. draga fiskinn í land á seilaról – innsk. K.Ó.], en þar var engin lending. Seilin var því sett á streng, síðan var beðið efir lagi, manni sleppt á land með enda seilarlínunnar, sem bundinn var um annan handlegg hans. Var það gert til þess að hann hefði báðar hendur lausar því að illt var að fóta sig á stórgrýtinu ef næsta ólag náði honum áður en upp var komið. Maður sá var kallaður „seilarmaður”. Hann varð að vera bæði frískur og fótviss. Átti hann síðan að draga upp seilina og kasta af henni í ruðninginn meðan hinir fóru með bátinn út á rifið og settu hann. Sjaldan var svo ládautt við Nesið að ekki þyrfti að sæta lagi til að koma manni þar á land.[48]

 

Meginhluti útróðramannanna hafði sína verstöðu á Brunnum eða Látranesi en auk Látrabænda reru nokkrir Rauðsendingar heiman frá Látrum.[49]

Róðrabátarnir voru sexæringar. Á flestum voru sex menn en á sumum sjö, stundum einn hálfdrættingur. Verbúðunum og aðstæðum þar er lýst á þessa leið:

 

Þegar í verið var komið búðuðu menn sig fyrst, sem kallað var, komu föggum sínum fyrir í verbúðunum. – Rúmstæði voru til í búðunum, eða a.m.k. fjalir í rúmstokka. Einn bátur var um hverja búð, þrjú eða fjögur rúm gátu verið í hverri. Tveir voru saman í hverju rúmi. Voru þeir kallaðir lagsmenn. Skrínurnar voru settar á rúmstokkana til beggja enda, þannig að opið vissi að rúminu. Höfðalögin voru sitt í hvorn enda. Grjóti var hlaðið undir rúmstokkana og sandi mokað upp í rúmstæðið. Búðirnar voru flestar 9-10 álna langar [um 6 metrar] og um þrjár álnir á breidd með mæniás, stoðum og skáröftum lögðum á veggi. Hellur voru í stað áreftis og skaraðar svo að lítt eða ekki lak. Þakið var svo yfir með torfi. Engir glergluggar voru á búðum þessum heldur aðeins göt við veggjabrúnir, sem birtu lagði inn um. Veggjahæð var meðalmanni vel í öxl. Voru þeir hlaðnir úr brimbörðu grjóti einu saman að innan en úr grjóti og torfi að utan. Annars voru búðir þessar beitarhús Látrabænda á vetrum.[50]

 

Á verbúðunum voru dyrnar ýmist á hliðarvegg eða gafli. Heima á Látrum hefur ein verbúð hangið uppi fram á síðustu ár, Hagamannabúð, talin byggð um eða upp úr miðri 19. öld.[51]

Dæmi munu hafa verið þess að einstaka skipshafnir lægju við tjald. Um Helga Bjarnason, hreppstjóra í Rauðsdal á Barðaströnd, fæddan 1798 og dáinn 1855, er m.a. ritað á þessa leið:

 

Helgi reri margar vertíðir á Látrum og hafði jafnan uppsátur á Brunnum. Þar lá hann við tjald. Reru þá 14 skip frá Brunnum en af því að ekki voru til verbúðir nema handa 12 skipshöfnum lágu tvær við í tjöldum á svonefndum Brunnatanga.[52]

 

Það hefur ekki verið auðvelt að fjölga verbúðum á berum sandinum í þessari verstöð.

Mat höfðu vermenn á Látrum og Brunnum með sér að heiman, allan nema fisk, og einnig sængurfatnað, kodda og dýnu.

Til vertíðarinnar, sem stóð í 12 vikur með heimflutningi, var matarskammtur hvers og eins þessi: 20 kg af harðfiski, 20 kg af mjöli í brauð, 20 kg af kjöti og 15 kg af feitmeti (smjöri og floti). Til drykkjar yfir vertíðina voru mældir út 40 lítrar af sýru á mann.[53] Þessi skammtur af mat og drykk taldist lögútgerð og sýnist hafa verið viðunandi. Kaffi og sykur munu húsbændur ekki hafa talið sér skylt að leggja mönnum sínum til á þeim árum (1850-1890), segir í sömu heimild. Oft þrengdist nokkuð í búi hjá vermönnum þegar leið að vertíðarlokum og síðustu vikuna kölluðu menn Roðaviku. Á Látrum höfðu menn þó yfirleitt nóg að bíta þó að lækkaði í skrínunni að heiman því að auk fiskjar úr sjónum áttu menn þess kost að sækja fugl og egg í bjargið.[54]

Við hverja verbúð var yfirleitt lítill grjótkofi til kaffihitunar og eldamennsku. Kölluðust kofar þessir krór,

 

í þeim var hitað kaffi eftir að það komst í notkun, svo var og soðið í þeim endur og sinnum, helst sprökur, steinbítshausar, spildingar [þ.e. lúðuhryggir – innsk. K.Ó.] og þess háttar, sem lítt rýrði hlutina, enda var ærið illt til eldiviðar.[55]

 

Olíuvélar eða önnur álíka nýtískuleg eldunartæki þekktust ekki í þessum verstöðvum fyrr en eftir 1880.

Ávallt var tvíróið dag hvern þegar gaf og urðu róðrar stundum ellefu á viku. Svo stöðugar gæftir voru kallaðar sjódyngjur.[56] Sæta varð sjávarföllum við róðrana svo að meðstraumur yrði bæði úr landi og að.

Látraröst var viðsjárverður þröskuldur í vegi allra sem sjó sóttu frá Látrum og Brunnum. Jafnan varð að fara yfir röstina ef sótt var suður fyrir Bjargtanga og væri hún úfin var farið yfir hana þétt við tangaoddann. Þar er röstin aðeins nokkrar bátslengdir á breidd.[57] Um Látraröst ritar Gísli Konráðsson á þessa leið:

 

Fram af Bjargtöngum í haf vestur streymir hin nafnkennda Látraröst, um útfall í norður en í hásuður um aðfall; er svipmikið og tignarlegt að sjá röstina af bjarginu í haf út svo langt sem augað eygir, einkum í norðanvesturs-bjartviðri og stórstraums-norðanútfalli því þá sést röstin glöggvast sem hvítfossandi elfa félli með óðstreymi meir en tíræð allt í landsbrún út, en sær heldur eðli sínu beggja vegna þar rastarstreymið æsir hann eigi.[58]

 

Þeir sem reru frá Látrum á 19. öld veiddu eingöngu á handfæri og aflinn var aðallega steinbítur en líka þorskur og heilagfiski.[59] Beitt var steinbítsgörn og lifur. Afli var slægður um borð.

Hver skipshöfn hafði sinn eigin reit úr hnullungagrjóti. Þangað var fiskurinn borinn úr bátnum, átta til tíu steinbítar í byrði. Slíkur reitur var nefndur ruðningur. Til hliðar við ruðninginn var hlaðinn grjótbálkur og steinhella lögð yfir bálkinn. Á þessari hellu var fiskurinn flattur.[60]

Allur steinbítur var hertur á grjótgörðum, sem byggðir voru í því skyni, og kúlaður fyrir hersluna. Lúðuriklingur var þurrkaður í hjöllum og þorskur á reitum.[61] Steinbítsgarðarnir og ruðningurinn nefndust einu nafni vergögn og sá hver skipshöfn um sína búð og sín vergögn. Steinbítsgörðunum er lýst á þessa leið:

 

Steinbítsgarðarnir voru allir einhlaðnir, meðalmanni undir hönd að hæð. Þeir smáþynntust eftir því sem ofar dró og aðeins smágrjót efst. Venjulega voru þeir mjög fallnir á vori hverju er komið var til vers og varð þá að hlaða garðana að mestu eða öllu upp aftur. – Auk þess hafði hver bátshöfn hrýgjugarð, sem steinbítnum var hrúgað á jafnótt og hann harðnaði. Þeir garðar voru tvíhlaðnir neðan.[62]

 

Leifar þessara gömlu steinbítsgarða blasa enn við á Látrum og minna á líf fyrri tíðar.

Á Brunnum og Látrum þótti á síðari hluta 19. aldar allgott ef þrjú hundrað stór (360 fiskar) fengust til hlutar yfir vertíðina. Var sá afli talinn bestu sex vætta virði [63] en í landaurareikningi voru sex vættir sama og kýrverð. Aflametið á Látrum frá árabátatímanum mun eiga Erlendur Kristjánsson sem hér bjó en hann fékk vorið 1907 tíu hundruð stór til hlutar af steinbít auk annars afla.[64]

Að lokinni vertíð fluttu menn fiskinn heim til sín, ýmist á sjó eða landi, og var aflanum ekki skipt milli skipverja fyrr en heim var komið. Þeir sem lengst voru að komnir, svo sem Eyjamenn, fóru fyrst heim á róðrabátunum fullfermdum og sóttu önnur og stærri skip, áttæringa eða teinæringa, til að flytja fiskinn. Flest báru fiskaferðaskipin 16-24 hundruð tólfræð af steinbít, auk annars afla sem venja var að fylgdi.[65] Þau hafa því að öllum jafnaði ekki þurft að fara nema eina ferð. Væri tíð óhagstæð gat heimflutningurinn samt tekið hátt í tvær vikur en strauma og sjávarföll urðu menn jafnan að nýta til hins ýtrasta með hlaðin skip á langri leið.

Ættu formenn á Látrum eða Brunnum sjálfir róðrarbátinn höfðu þeir ekki formannshlut en væru þeir formenn fyrir aðra galt bátseigandi formannskaup af bátshlutnum og var það vættarvirði[66] eða sem svaraði 60 steinbítum hertum.

Ekki var farið að salta fisk til útflutnings á Látrum fyrr en 1882 en þá hófst hér söltun á þorski.[67] Allt til þess tíma var ríkjandi sú verkunaraðferð sem hér hefur áður verið lýst. Þess er þó rétt að geta að á síðari hluta 18. aldar lögðu menn að sumrinu inn blautan fisk hjá Patreksfjarðarverslun[68] og um 1780 fór Hölter, kaupmaður á Patreksfirði, að láta salta þar fisk að Terraneufshætti, a.m.k. haustaflann[69] (sjá hér Geirseyri og Vatneyri).

Ástæða væri til að athuga nánar hvort þessar hræringar hafi haft einhver áhrif á verkunaraðferðir í verstöðvunum í Útvíkum. Ekki liggur fyrir að svo hafi verið en hins vegar kunnugt að um miðja 19. öld og fram yfir 1880 var að heita mátti allur vertíðaraflinn hertur.

Pétur Jónsson frá Stökkum segir að fram til 1890 hafi mjög verið sótt til sjóróðra á Hvallátrum sunnan úr sýslunni, einkum úr Múlasveit, Flateyjarhreppi og af Barðaströnd og svo af Rauðasandi.[70] Segir hann 15 báta hafa róið frá verstöðvunum á Látrum árið 1882. Aðrar heimildir staðfesta að útræðið á Látrum hefur enn staðið með blóma á árunum milli 1880 og 1890.

Þorvaldur Thoroddsen, sem kom að Látrum 1886, segir að áður hafi menn úr fjarlægum héruðum vestanlands sótt sjó frá Látrum jafnvel úr Reykhólasveit og Steingrímsfirði.[71] Hann segir að nú rói þaðan færri en áður og helst séu það menn úr Vestureyjum, Múlasveit og af Barðaströnd.

Þorvaldur nefnir ekki tölu bátanna en Hermann Jónasson, síðar búnaðarskólastjóri, sem kom að Látrum ári síðar, segir bátana, er þaðan rói, vera um og yfir 20.[72] Má því telja víst að sjósókn útróðramanna frá verstöðvunum á Látrum hafi haldist fram til 1890 eða þar um bil í svipuðu horfi og verið hafði næstu áratugi á undan nema hvað margir úr landhreppum Austur-Barðastrandarsýslu fóru að róa frá verstöðvum við Ísafjarðardjúp upp úr 1870 (sjá hér Gufudalssveit).[73] Eitthvað var um útræði frá Látrum eftir 1890 en að allverulegu leyti tók Kollsvíkurver þá við af verstöðvunum á Brunnum og Látranesi[74] (sjá hér Kollsvík og Kollsvíkurver).

Þegar Sigurður Sigurðsson ráðunautur kom að Látrum árið 1916 reru héðan fáir aðrir en heimamenn en enn var það steinbíturinn sem mest veiddist af.[75] Í steinbítsróðrum var jafnan ýtt úr vör á fjöru en komið að á flæði.[76] Árið 1921 fengu Látramenn sinn fyrsta vélbát og hét hann Kópur, smíðaður af Gísla Jóhannssyni á Bíldudal.[77] Upp úr miðri 20. öld kom þar að ekki var lengur unnt að manna bát á Látrum sakir fámennis.[78] Höfðu þá orðið mikil umskipti.

Hér hefur nú verið fjallað um sjóróðra frá Látrum á vorvertíð. Heimamenn sóttu einnig sjó héðan á öðrum árstímum. Um 1885 gengu fjögur opin skip til hákarlaveiða frá Látrum á veturna og voru 10 til 11 menn á hverju skipi.[79] Á hákarlaveiðum voru Látramenn yfirleitt a.m.k. einn heilan sólarhring í hverri legu, enda voru hákarlamiðin níu til þrettán sjómílur undan Bjargi.[80]

Á fyrstu áratugum 20. aldar var enn farið í hákarlaróðra frá Látrum að vetrarlagi og hófust þeir róðrar oftast í góubyrjun.[81] Var þá róið á Barðsmið, beint undan Barðinu í Látrabjargi en frá Bjarginu var tveggja til þriggja klukkustunda róður á hákarlamiðin suður í Breiðubugt.[82] Bátarnir sem farið var á í hákarlaróðrana frá Látrum á þessum árum voru fjögurra og fimm manna för.[83] Hákarlslýsið var þá enn eftirsótt söluvara og að sögn Ásgeirs Erlendssonar á Látrum, sem fæddur var 1909, báru þeir menn af um krafta og hreysti sem tóku eina matskeið af hákarlslýsi á hverjum morgni og aðra að kvöldi.[84] Eftir Ásgeiri var líka haft: Það þótti ekki viðbit ef það var ekki 1/3 1/3 hákallalýsi og 2/3 mörfeiti – það var hákallslýsisbræðingur.[85]

Ferðamenn sem að Látrum koma ættu að taka sér góða stund á Brunnum. Búðarústir og leifar af steinbítsgörðum minna á horfna tíð og sandurinn geymir margt í dul sinni. Verbúðatóttirnar eru a.m.k. ellefu. Sé farinn akvegurinn heiman frá Látrum er fyrst komið að tveimur búðatóttum á Brunnatanga. Voru þær nefndar Tangabúðir. Nokkru utar er Brunnavogur og við hann tóttir Vogsbúðar. Í Brunnavogi þótti skárst lending í þessari verstöð en aðeins eitt skip gat haft þar uppsátur. Nær Brunnanúp kemur svo þyrping búðatótta við Brunnabót en þar var aðallendingin. Innst þessara búða var Lækjarbúð, kennd að sögn við lækjarsytru er þarna rennur. Búð þessa átti eigandi Húsabæjar á Látrum. Næst var búð sem ekki er nú vitað nafn á. Sagnir herma að í henni hafi Samúel nokkur á Kirkjubóli haft aðsetur um eða upp úr 1885 með sína skipshöfn og hjá honum hafi Hákon Kristófersson, síðar bóndi og alþingismaður í Haga, verið hálfdrættingur, barn að aldri, jafnvel aðeins átta ára gamall.[86] Þá koma tóttirnar af Bæjarbúð en ætla má að hún hafi verið kennd við Saurbæ á Rauðasandi. Tóttirnar sýna reyndar að þarna hafa verið tvær verbúðir hlið við hlið, sambyggðar. Enn utar eru svo tvennar slíkar samstæður, það er fjórar búðir alls, en um nöfn á þeim er ekki kunnugt. Allt sem hér er sagt um nöfn búðanna er byggt á orðum Ásgeirs Erlendssonar, vitavarðar á Látrum,[87] sem fullyrða má að oftar hafi átt leið um Brunna en nokkur annar, – á leið sinni að og frá Bjargtangavita.

Hjá Vogsbúð liggur Júdas, steinninn sem jafnan sveik ef reynt var að nota hann í hleðslu. Hálfdrættingar voru svo látnir reyna að lyfta honum frá jörðu og þóttu menn að meiri ef þeir réðu við Júdas. Nú liggur hann við götu, sagður 130 kíló að þyngd. Ekki langt í burtu er Brynjólfstak. Þennan stein bar Brynjólfur Eggertsson á Sjöundá í burðaról úr fremstu fjöru, árið 1845 að talið er,[88] og hingað upp.  Steininn lagði Brynjólfur frá sér milli Lækjarbúðar og Bæjarbúðar.[89] Bjarg þetta er sagt vera 281 kíló og þótti hver sá vel liðtækur sem gat látið vatn renna undir steininn.[90] Barnabarn Brynjólfs sterka var Jón Runólfsson, bóndi á Skógi á Rauðasandi.[91] Nú reisa fáir Brynjólfstak á rönd.

Á Brunnum er dysin Kárni og Kúlureiturinn skammt frá, nálægt ystu búðunum. Þjóðsögur herma að þegar Gottskálk nokkur bjó á Látrum hafi fjölmennur flokkur ránsmanna gengið hér á land. Voru ræningjar þessir á annað hundrað að tölu. Ráku þeir naut og sauði Látramanna til strandar í ákafa. Heimamenn snerust til varnar og með þeim vermenn á Brunnum. Lauk svo bardaganum að hinir erlendu ránsmenn voru allir felldir. Kárni hét fyrirliði ræningja þessara og ber dysin nafn hans en í Kúlureitnum voru flestir félaga hans huslaðir og töldu menn dysjarnar enn sjáanlegar á fyrstu áratugum 20. aldar.[92]

Nú verður ekki fullyrt hvort fótur kann að vera fyrir sögum þessum en minna má á að samkvæmt tilskipun Danakonungs frá 30. apríl 1615 voru erlendir ránsmenn réttdræpir hér á landi hvar sem náðust.[93] Einmitt á því ári voru margir Spánverjar vegnir á Vestfjörðum, svo sem kunnugt er, en ef marka má orð Jóns lærða Guðmundssonar, sem árið 1615 var um fertugsaldur og búsettur á Vestfjarðakjálkanum, komust þeir sem fóru til Patreksfjarðar undan að því sinni (sjá hér Geirseyri og Vatneyri).

Nú eru Kárni og Kúlureiturinn friðlýstir og hafa verið það allt frá árinu 1931[94]en sagt er að oft hafi mannabein fundist í Kúlureit. Rústir verbúðanna á Brunnum og hinir gömlu fiskgarðar þar hafa einnig verið friðlýst svo og verbúðarústir og steinbítsgarðar á Látranesi, norðan við bæina á Látrum.[95]

Síðast var róið frá Brunnum aldamótaárið 1900.[96] Einn skipverja á bátnum sem síðast var róið á til fiskjar frá þessari fornu veiðistöð var Þórður Ólafsson, síðar bóndi á Múla á Barðaströnd, og lifði hann lengst allra úr þeirri skipshöfn.[97] Þann 1. desember 1982 átti Þórður enn heima á Innri-Múla, þá 95 ára gamall.[98]

Í Útvíkum gat verið margt að ugga. Erlenda ránsmenn hafa hraustir vermenn líklega ekki óttast svo mjög en verra gat verið að ráða við lofteld þann, sem Eggert Ólafsson segir að einkum geri vart við sig í sveitinni næst Látrabjargi. Um fyrirbærið ritar Eggert svo:

 

Hann sést aðeins á vetrum þegar hálfskýjað er og hvassviðri og skafhríð en kollheiður himinn. Á nóttinni og í rökkrinu sýnist þá stundum allt loftið standa í björtu báli og getur sýn þessi staðið stundarkorn. Á jörðu verður albjart líkt og af eldingu en ljós þetta hreyfist ekki nálægt því eins hratt eins og eldingarleiftrin. … Fólkið á þessum slóðum skelfist mjög við þessa sýn því að það þekkir ekki hina réttu orsök og heldur að hér séu eldingar á ferðinni. Skepnur og einkum þó hestar hræðast einnig lofteldinn. Hestar verða trylltir af fælni og hlaupa í allar áttir og stökkva jafnvel fyrir björg þar sem þeir hálsbrotna eða limlestast á annan hátt.[99]

 

Eggert segir merkilegasta dæmið um slíkan lofteld vera frá 25. janúar 1762.

Frá Brunnum og Látrum hefur margur farist í sjó á liðnum öldum. Um sjóslysin verður þó lítt fjallað hér, aðeins minnst á örfá þeirra.

Árið 1812 reru allir bátar frá Látrum mánudaginn fyrir kóngsbænadag, það er í þriðju viku eftir páska. Formaður á bátnum Hauki var Guðmundur Þorsteinsson, ráðsmaður Sigríðar Magnúsdóttur en hún bjó þá ekkja á Látrum. Sex aðrir voru í skiprúmi hjá Guðmundi. Voru þrír þeirra heimilsmenn hjá Sigríði en hinir þrír voru allir úr Gufudalssveit.[100]

Þennan dag var mikill steinbítsafli og drekkhlóðu menn bátana. Tveimur dögum fyrr hafði Guðmundur látið ryðja einhverju af steinbítsaflanum fyrir borð til að ná landi en hlotið fyrir þungar ákúrur hjá húsmóður sinni. Nú bannaði hann hásetum sínum að ryðja þó að báturinn væri greinilega of hlaðinn. Í Látraröst urðu þeir fyrir áföllum og tók báturinn að sökkva. Fórst Guðmundur þar og menn hans allir nema Björn Arnfinnsson frá Hallsteinsnesi í Gufudalssveit, síðar bóndi á Klett í Kollafirði. Honum var bjargað af kili[101] (sjá hér Gufudalssveit). Í Annál nítjándu aldar segir að þessi bátstapi hafi orðið 5. maí.[102]

Í Látramanna- og Barðstrendingaþætti sínum segir Gísli Konráðsson frá nokkrum sjóslysum á Látrum á fyrri hluta 19. aldar. Árið 1820 fórst Gunnlaugur Jónsson, bóndi á Melanesi, í hákarlalegu frá Brunnum og með honum sjö menn aðrir.[103] Ári síðar fórst Eggert Jónsson, bóndi í Saurbæ á Rauðasandi, í lendingu á Brunnum. Hann var sonur séra Jóns Ormssonar í Sauðlauksdal. Gísli Konráðsson segir svo frá:

 

Eggert hélt í land og var heim kominn undir búðirnar utan fyrir Bolabás. Reri hann á boða og var að sjá sem vangá ein olli því. Hvolfdi við það skipinu og drukknuðu þar fjórir, Eggert sjálfur, Bjarni Magnússon og Árni synd og Bjarni Jónsson en á kjölinn komust Jón smiður, Jón Ísleifsson og Magnús Bjarnason. Þórður Bjarnason frá Lambavatni, einn formanna, lagði að á eftir skipi sínu og fékk borgið þeim öllum er á kjölnum voru. Hafði og Jón smiður þegar slegið úr negluna er hann komst á kjölinn.[104]

 

Vorið 1837 reri Gísli Ísleifsson, bóndi í Tungu í Örlygshöfn, frá Brunnum. Fórst þá skip hans með allri áhöfn, tíu mönnum. Er mælt að þilskip eitt sæi það að Gísli færist í Látraröst með öllum hásetum sínum, segir Gísli Konráðsson.[105]

Hér hefur þá verið getið þriggja sjóslysa við róðra frá Brunnum á árunum 1820 til 1837 en 21 maður týndi lífi í þessum slysum. Í Annál nítjándu aldar er bátur frá Breiðavíkurveri sagður hafa farist með tíu mönnum árið 1837[106] og mun þarað líkindum átt við sama slysið og hér var frá sagt.

Vorið 1888 fórst bátur frá Látrum í róðri og má ætla að þeir hafi róið úr heimavör. Báturinn fórst í Látraröst 2. maí og drukknuðu allir sem á honum voru, Dagbjartur Gíslason og tveir aðrir frá Látrum og tveir frá Vatnsdal.[107]

 

Margir hafa búið á Látrum og flestir verið gildir bændur og góðir bjargmenn og sjósóknarar. Aðeins örfáir þeirra hafa verið nefndir hér. Af Látrabændum á 19. öld hefur m.a. verið minnst á Björn Bjarnason, er fyrstur seig í Heiðnakastið (sjá hér Látrabjarg), og Árna Thoroddsen sem komst í Jötunsaugu er svo heita í bjarginu (sjá hér Látrabjarg). Einn enn skal nefndur hér frá þeirri öld, Össur Össurarson.

Össur var fæddur árið 1808 og bjó á Hvallátrum í Rauðasandshreppi frá 1847 til dauðadags 1874 en áður á samnefndum bæ í Breiðafjarðareyjum.[108] Séra Matthías Jochumsson kallar Össur á Látrum vitsmunamann mikinn án þess þó að rökstyðja þá fullyrðingu.[109] Líklega hefur Matthías lesið ritgerðirnar sem Össur skrifaði fyrir Bréflega félagið í Breiðafjarðareyjum en Össur var einn af stofnendum félagsins og skrifaði nokkrar ritgerðir fyrir það.[110]

Ein ritgerða Össurar bar nafnið Ekkert líferni er guði þægt nema það sé mönnum nytsamlegt og í annarri ritgerð hvatti hann til stofnunar meðalafélaga.[111] Skrif þessa Látrabónda bera með sér að hann hefur verið mjög félagslega þenkjandi, mælt á kvarða samtíðar hans. Hugmyndir Össurar á Látrum um meðalafélög vísa fram til starfsemi sjúkrasamlaga og almannatrygginga er hófst nær heilli öld síðar.

Enda þótt Látramenn væru flestir jarðbundnir og hversdagsgæfir bændur má samt finna í þeirra röðum ýmsa er skáru sig úr, m.a. landkönnuð, galdramann og prest sem framdi brúðarrán.

Líklega er Látra­-Clemens, sem uppi var á 16. öld, einn fyrsti bóndi á Hvallátrum sem menn kunna að nefna ef frá er talinn landnámsmaðurinn Þórólfur spörr en um tilveru hans utan Landnámabókar kynni einn og annar að efast. Reyndar er ekki fullvíst að Clemens þessi sé kenndur við Látra í Rauðasandshreppi en líklegt má það kalla. Látra-Clemens sigldi að sögn Jóns Espólín til Gunnbjarnareyja. Munu eyjar þær vera eitt og hið sama og hin dularfullu Gunnbjarnarsker, sem frá er sagt í Landnámu og Eiríks sögu rauða, og talin voru í vestur frá Íslandi. Við árið 1580 ritar Jón Espólín í Árbækur sínar:

 

Svo segja sumir að Látra-Clemens hafi þá siglt með enskum í Gunnbjarnareyjar og að þær sjáist úr hellugati á fjallinu Rit við Ísafjarðarmynni, og að sá Clemens hafi seinna verið svikinn af Þórði, þjónustumanni sínum, er þaðan af var kallaður tryggðarofi; það veit ég engan sann á.[112]

 

Greinilegt er að Espólín veit heldur lítið um þennan landkönnuð frá Látrum en höfðingi hefur maðurinn verið úr því hann átti sér þjónustumann. Sérstaka athygli vekur að Clemens er sagður hafa farið með enskum bara einu  ári síðar en menn af þeim þjóðflokki rændu í Bæ á Rauðasandi og víðar á Vestfjörðum (sjá hér Saurbæ). Máske leynast þarna tengsl á milli þó að ekkert verði um slíkt fullyrt.

Á fyrri hluta 18. aldar bjó á Hvallátrum Jón Ólafsson sem kallaður var Jón frændi. Mikið galdraorð fór af Jóni og átti hann að hafa sagt kunningja sínum að sig vantaði aðeins einn staf til að geta hugsað mann dauðan og reyndar væri sá stafur á leiðinni.[113] Ýmsir töldu Jón frænda hafa sagnaranda og kæmu honum fáir hlutir á óvart. Til marks um þetta var haft að þótt Jón væri staddur í Haga á Barðaströnd gat hann séð er maður tók frá honum hefil heima á Látrum.[114] Lengi átti Jón frændi í væringum við Þormóð Eiríksson, skáld í Gvendareyjum á Breiðafirði. Loks magnaði Þormóður mórauða tófu til að drepa frænda og sendi hana vestur á Látrabjarg. Jón frændi var þar við sig á Jónsmessunótt. Var hann vanur að fara óbundinn í festinni og láta höfuðið síga ofan á undan og þótti það fjölkynngisbragð hans.[115]

Tófa Þormóðs kom á bjargbrúnina er frændi var staddur niðri á Slakkhillu. Þefaði dýrið af festinni og stakk sér síðan niður í bjargið. Við komu dýrsins steyptist Jón úr hillunni ofan í fjöruurðina og lá þar dauður. – Lík Jóns var flutt heim í lambhús og sagt var að vantaði í það hjartað. Reimt þótti í húsinu eftir. Þar heitir síðan Jónshald er hann hrapaði.[116]

Það var um 1740 sem skolli Þormóðs grandaði Jóni frænda á Látrum. Ólafur Árnason sýslumaður skrifaðu upp bú Jóns og var eftir honum haft að oft hefði hann galdur séð en aldrei annan eins djöful. … Galdraskræður Jóns voru brenndar í Melaskarði við Látralæk en Ólafur tók þó af þeim kver eitt og stakk hjá sér.[117]

Skömmu eftir dauða Jóns frænda fannst þessi vísa í Klofavörðu, beinakerlingunni vestast á Látraheiði:

 

Féll úr bjargi frægðar mann,

fárleg voru þau dæmi.

Ólétt varð ég eftir hann,

aldrei fram þó kæmi.

 

Prestar hafa ekki setið á Látrum á síðari öldum en frá kaþólskum tíma má finna dæmi þess. Á fyrri hluta 16. aldar bjó hér séra Filippus Jónsson og átti hann jörðina. Var Filippus sonur Jóns Jónssonar sem kallaður var Jón Íslendingur og bjó í Sauðlauksdal. Séra Filippusar á Látrum er nú einkum minnst fyrir það að hann fór á skipi héðan norður að Núpi í Dýrafirði og nam þaðan á brott unga stúlku af vestfirskum höfðingjaættum.[118] Stúlkan sem séra Filippus hafði heim með sér frá Núpi hét Solveig Bjarnadóttir en foreldrar hennar voru Bjarni Andrésson, bóndi á Brjánslæk, sonarsonur Guðmundar ríka Arasonar á Reykhólum, og Guðrún eldri Björnsdóttir í Ögri Guðnasonar. Bjarni, faðir Solveigar, dó ungur en Guðrún móðir hennar giftist skömmu síðar Hannesi Eggertssyni hirðstjóra og bjuggu þau á Núpi. Hannes andaðist nokkru eftir 1530 en Guðrún ekkja hans bjó áfram á Núpi (sjá hér Núpur í Dýrafirði).

Líklega hefur séra Filippus ekki lagt upp í sína frægðarför að Núpi fyrr en eftir dauða Hannesar hirðstjóra. Sagnaritarar telja að jómfrú Solveig hafi gengið bærilega fús á skip Látraklerks, enda þótt móðir hennar, sem hafði forræðið á hendi, væri með öllu andsnúin slíku ráðslagi.[119]

Ekki er kunnugt hversu lengi þeim séra Filippusi og Solveigu auðnuðust samvistir en bústýra hans var hún um skeið og áttu þau barn saman. Síðar var Solveig gefin öðrum manni.

Séra Filippus Jónsson á Látrum var talinn manna skurðhagastur og sagt að hann hafi skorið annan tveggja lúðra sem Ögmundur Pálsson hafði með sér á konungsfund er hann hélt utan til biskupsvígslu árið 1521.[120]

Á Látrum hefur Filippus prestur sungið tíðir í bænhúsinu sem hér stóð á hans dögum. Í byrjun 18. aldar var það bænhús fyrir löngu niður lagt[121] en í handriti frá 19. öld er það sagt hafa staðið rétt fyrir sunnan bæinn.[122]

Í marktækri yngri heimild er bænhúsið sagt hafa staðið í Heimabæjartúninu á Látrum, neðan við Bænhúshól sem enn bar það nafn á dögum fólksins sem síðast átti hér heima.[123] Þetta var lítið torfhús, 8 x 4 álnir eða því sem næst 5 x 2,5 metrar.[124] Það var síðast notað sem skemma en að lokum rifið og íbúðarhús byggt á rústunum.[125]

Nú er mál að kveðja þá Jón frænda og séra Filippus og allt það fólk sem búið hefur á Látrum. Við stöldrum við hjá Látranesi norðvestan við túnið. Þar stendur jarðfastur steinn, sléttur að ofan og nær meðalmanni í mjöðm. Við stall þennan liggja fjórir lábarðir hnullungar sem ekki er létt að ná taki á, – fornir aflraunasteinar Látramanna. Amlóðar tveir, sagðir 96 og 107 kíló, hálfsterkur, talinn 144 kíló, og fullsterkur, sagður 177 kíló.[126]  Í annarri heimild eru nöfn steinanna sögð vera Amlóði, Hálfsterkur, Fullsterkur og Alsterkur.[127]Við Amlóða má reyna en Fullsterk mun þungt að færa á stall.

Á Látranesi, rétt við túnjaðarinn, stendur líka Steinka, bjarg sem fallið hefur úr núpnum og er nú jarðfast. Á Steinku æfðu börnin á Látrum sig í bjargklifri. Er steinn þessi fjórir til fimm metrar á hæð og sú hlið hans sem notuð var til æfinga lóðrétt að kalla. Sá sem komst upp á Steinku þótti brátt fullfær til annarra bjargferða.[128]

Gott hefur verið að alast upp á Látrum við fjölbreytta atvinnuhætti, furður hafs og lands og þann sagnabrunn sem aldrei þraut. Nú (1988) er Ásgeir hér einn eftir Erlendsson, þessi gamli útvörður vestfirskra byggða, bjargfastur á fornri rót og gildur fulltrúi allra hinna sem áttu hér sín ævispor. Lengi hefur Ásgeir annast vitann á Bjargtöngum og þegar við höldum úr hlaði sjáum við hann stefna þangað eina ferðina enn. Hér var fyrst reistur viti árið 1913 en sá sem nú (1988) stendur á þessum vestasta odda landsins er frá árinu 1948.[129]

Nú liggur bílvegur frá Látrum yfir Látraháls til Breiðavíkur og þaðan áfram um Hafnarfjall til Örlygshafnar við Patreksfjörð. Bílfært varð yfir Hafnarfjall árið 1954.[130] Utantil á Hafnarfjalli varð Guðmundur Ólafsson póstur bráðkvaddur 23. janúar 1907. Hann var þá í fyrstu póstferðinni sem farin var frá Patreksfirði að Breiðavík, ekkjumaður um sextugt og átti heima á Rauðasandi.[131]

Milli Látravíkur og Breiðavíkur gengur Bjarnarnúpur í sjó fram en að baki núpnum er Látraháls og þar lá áður þjóðgata frá Látrum að Breiðavík á svipuðum slóðum og akvegur liggur nú. Yfir hálsinn eru aðeins átta kílómetrar eða svo milli bæja og er það létt ganga.

Er Þorvaldur Thoroddsen náttúrufræðingur hafði ritað um steinbítsveiðarnar á Látrum bætti hann því við að reyndar töluðu Vestfirðingar stundum um þetta og þetta margra roðskóa heiði, þegar þeir gæfu upp lengd fjallvega.[132] Yfir langa heiði þurfti marga skó meðan fótabúnaður manna var úr steinbítsroði. Hér í Rauðasandshreppi væri enn vel til fundið að bregða upp roðskónum og mæla þannig lengd allra fjallveganna í hreppnum.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Íslensk fornrit I, 175.

[2] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 311.  Eyjólfur Sveinsson 1942, 206 (Barðstrendingabók).

[3] Sóknarmannatöl Sauðlauksdalspr.kalls.

[4] Sama heimild. Manntöl 1910, 1920, og 1930.

[5] Jarðab. Á. og P. VI, 312.

[6] Bergsveinn Skúlason 1964, 228.  Eyjólfur Sveinsson 1942, 205 (Barðstrendingabók).

[7] Hermann Jónasson 1888, 157 (Búnaðarritið).

[8] Ásgeir Erlendsson/Hilmar Árnason, – Vesturland, blað, 5.6. 1994.

[9] Björn Halldórsson 1783, 227.

[10] Hermann Jónasson 1888, 157 (Búnaðarritið).

[11] Sama heimild.

[12] Sigurður Sigurðsson 1919, 103-104 (Búnaðarsamband Vestfjarða, skýrslur og rit 1916-1917).

[13] Pétur Jónsson 1942, 95 (Barðstrendingabók).

[14] Vestfirskar sagnir I, 163.

[15] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 213.

[16] Vestfirskar sagnir I, 163.

[17] Hermann Jónasson 1888, 157 (Búnaðarritið).

[18] Eyjólfur Sveinsson 1942, 204 (Barðstrendingabók).

[19] Ásgeir Erlendsson. – Viðtal K.Ó. við hann 9.8.1988.

[20] Eyjólfur Sveinsson 1942, 204.

[21] Magnús Gestsson 1971, 185 (Látrabjarg).

[22] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 212.

[23] Jóna Erlendsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 20.8.1988.

[24] Jóhann Skaptason 1959, 120.

[25] Þorvaldur Thoroddsen 1919/ Lýsing Íslands III, 212.

[26] Sigurður Sigurðsson: Fjallkonan 1902, nr. 13.

[27] Þjóðsögur Jóns Árnasonar III, 19.

[28] Sigurður Sigurðsson: Fjallkonan 1902, nr. 13.

[29] Ásgeir Erlendsson. – Viðtal K.Ó. við hann 9.8.1988.

[30] Sama heimild.

[31] Ásgeir Erlendsson. – Viðtal K.Ó. við hann 9.8.1988.

[32] Bergsveinn Skúlason 1964, 237-238.

[33] Bergsveinn Skúlason 1964, 239-240.

[34] Jarðab. Á. og P. VI, 312.

[35] Sama heimild, 313.

[36] Lúðvík Kristjánsson 1983, 102.

[37] Jarðab. Á. og P. VI, 312.

[38] Jarðab. Á. og P. VI, 311-317.

[39] Sýslulýsingar 1744-1749, 149 (gefnar út 1957).

[40] Eggert Ólafsson 1975, 266-267.

[41] Sóknalýsingar Vestfjarða 1952, 211.

[42] Pétur Jónsson 1942, 96 og 193-195 (Barðstrendingabók).

[43] Sama heimild, 94 og 151.

[44] Sama heimild, 195 og 198.

[45] Sama heimild, 195.

[46] Sama heimild.

[47] Bergsveinn Skúlason 1964, 226-227.

[48] Pétur Jónsson 1942, 198 (Barðstrendingabók).

[49] Sama heimild, 195.

[50] Sama heimild, 195-196.

[51] Lúðvík Kristjánsson 1982, 422.

[52] Vestfirskar sagnir I, 395-396.

[53] Pétur Jónsson 1942, 193 (Barðstrendingabók).

[54] Sama heimild, 199.

[55] Sama heimild, 198-199.

[56] Sama heimild, 196.

[57] Pétur Jónsson 1942, 196-197 (Barðstrendingabók).

[58] Vestfirskar sagnir II, 310.

[59] Pétur Jónsson 1942, 197 (Barðstrendingabók).

[60] Sama heimild, 196.

[61] Sama heimild, 198.

[62] Sama heimild, 196.

[63] Sama heimild, 202.

[64] Pétur Jónsson 1942, 202 (Barðstrendingabók).

[65] Pétur Jónsson 1942, 200.

[66] Sama heimild, 202.

[67] Sama heimild, 96.

[68] Eggert Ólafsson 1975, I, 267.

[69] Rit þess ísl. Lærdómslistafélags III, 291-293.  Lúðvík Kristjánsson 1985, 324.

[70] Pétur Jónsson 1942, 96.

[71] Þorvaldur Thoroddsen 1959/ Ferðabók II, 23.

[72] Hermann Jónasson 1888, 157 (Búnaðarritið).

[73] Pétur Jónsson 1942, 151 (Barðstrendingabók).

[74] Guðbjörn Guðmundsson 1907, 131 (Freyr IV, tímarit).

[75] Sigurður Sigurðsson 1919, 100 (Búnaðarsamband Vestfjarða – skýrslur  og rit 1916-1917).

[76] Ásgeir Erlendsson/Hilmar Árnason – Vesturland, blað, 5.6. 1994.

[77] Sama heimild.

[78] Ásgeir Erlendsson. – Viðtal K.Ó. við hann 9.8.1988.

[79] Þorvaldur Thoroddsen 1959/ Ferðabók II, 24.

[80] Sama heimild.

[81] Ásgeir Erlendsson/Hilmar Árnason, – Vesturland – blað, 5.6. 1994.

[82] Sama heimild.

[83] Sama heimild.

[84] Sama heimild.

[85] Sama heimild

[86] Ásgeir Erlendsson. – Viðtal K.Ó. við hann 9.8.1988.

[87] Sama heimild.

[88] Magnús Guðmundsson, Morgunblaðið í júní 1988.

[89] Örnefnaskrá Hvallátra.

[90] Bergsveinn Skúlason 1964, 235.

[91] Magnús Gestsson 1971, 211 (Látrabjarg).

[92] Vestfirskar sagnir I, 167-170.

[93] Einar Laxness 1977, 153.

[94] Fornleifavernd ríkisins, vefsíður/Skrá um friðlýstar fornleifar, fyrsta útgáfa 1990.

[95] Sama heimild.

[96] Ásgeir Erlendsson/Hilmar Árnason, – Vesturland, blað, 5.6. 1994.

[97] Sama heimild.

[98] Kjörskrá við alþingiskosningar 1983.

[99] Eggert Ólafsson 1975, II, 228.

[100] Frá ystu nesjum I, 99-100.

[101] Frá ystu nesjum I, 100-103.

[102] Annáll nítjándu aldar I, 159.

[103] Lbs. 4034to, bls. 128-130.

[104] Sama heimild, bls. 130-132.

[105] Sama heimild, bls. 136-137.

[106] Annáll nítjándu aldar II, 98.

[107] Prestsþj.bækur Sauðlauksdalspr.kalls.

[108] Lúðvík Kristjánsson 1953, 111-112.

[109] Matthías Jochumsson 1959, 92.

[110] Lúðvík Kristjánsson 1953, 52, 111 og 257.

[111] Sama heimild.

[112] Jón Espólín/Íslands Árbækur V, 31-32.

[113] Þjóðsögur JónsÁrnasonar, I, 533.

[114] Sama heimild.

[115] Sama heimild, 535.

[116] Sama heimild.

[117] Sama heimild.

[118] Ólafur Lárusson 1948, 11 (Árbók Barðastrandarsýslu).  Íslenskar æviskrár II, 5-6.

[119] Ólafur Lárusson 1948, 11 (Árbók Barðastr.sýslu).  Íslenskar æviskrár II, 5-6.

[120] Íslenskar æviskrár II, 6.

[121] Jarðab. Á. og P. VI, 311.

[122] Vestfirskar sagnir I, 171.

[123] Örnefnaskrá Hvallátra.

[124] Sama heimld.

[125] Sama heimild.

[126] Þorsteinn Einarsson 1984, 100 (Ársrit Sögufél. Ísfirðinga).

[127] Örnefnaskrá Hvallátra.

[128] Bergsveinn Skúlason 1964, 228.

[129] Guðmundur L. Hafsteinsson og Kristján Sveinsson 2002, 264.

[130] Bergsveinn Skúlason 1964, 222.

[131] Söguþættir landpóstanna I, 336.

[132] Þorvaldur Thoroddsen 1959/ Ferðabók II, 24.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »