Rétt utan við landamerki Tannaness og Innri-Veðrarár er Veðrarárskeið, dálítið móanes við sjóinn, og fram úr því gengur Skeiðistangi út í Vöðin.[1] Úr Skeiðistanga var lagt á Skeiðisvað, sem var fjölfarin leið á fyrri tíð, og komið að landi við Mosvallaskeið (sjá hér Holt og Mosvellir) handan Vaðanna. Í sóknalýsingunni frá 1840 er Skeiðisvað reyndar nefnt Veðrarárvað[2] svo ætla má að það nafn hafi stundum verið notað. Utan við Skeiðistanga er Hópið, svolítil vík eða vogur milli Hóptanga og Skeiðistanga.[3] Þeir sem komu utan að og ætluðu yfir á Skeiðisvaði riðu úr Hóptanga í Skeiðistanga fyrir framan Hópið og síðan úr Skeiðistanga á sjálft vaðið.[4] Framan við Hópið er nú komin fyrirhleðsla.
Hér er gott að ganga og skammur spölur frá Skeiðinu og heim í tún á Innri-Veðrará sem nú er komin í eyði (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 377). Jarðirnar Innri-Veðrará og Ytri-Veðrará, sem er hér 700 metrum utar, taka báðar nafn af ánni Veðrará sem fellur niður með utanverðu gamla túninu á Innri-Veðrará. Nafnið á ánni kallar hins vegar á skýringu. Fljótt á litið kynni einhver að láta sér detta í hug að hún sé kennd við veðrin sem sífellt eru breytileg. Máske er það heldur ekki með öllu útilokað en þá ætti nafnið að vera Veðraá. Í fornum skjölum frá 15. og 16. öld eru jarðirnar hins vegar alltaf eða nær alltaf nefndar Veðrará með erri.[5] Þannig er nafnið einnig ritað í jarðaskrám frá 17. öld[6] og í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710.[7] Á 18. öld fer hins vegar að bera á ruglingi við ritun bæjarnafnsins. Fyrst í manntalinu frá 1703 þar sem ritað er Veðraá[8] og síðan í Alþingisbókunum frá síðari hluta 18. aldar þar sem ýmist er ritað Veðrá, Veðraá eða Veðurá.[9] Í Alþingisbókum frá fyrri hluta sömu aldar er hins vegar jafnan ritað Veðrará[10] eins og reglan var í hinum eldri heimildum.
Með hliðsjón af því sem hér hefur verið sagt verður að telja að rétt nafn árinnar og jarðanna tveggja sé Veðrará og nú er sú nafnmynd almennt viðurkennd. En sé þetta hið upphaflega nafn eins og allar líkur benda til hafa áin og bæirnir ekki verið kennd við veðrið heldur veðurinn, það er að segja einhvern ákveðinn hrút, því að í fornu máli hafði karlkynsorðið veður m.a. merkinguna hrútur. Til var eignarfallsmyndin veðrar eins og sjá má í Íslenskri orðabók sem Menningarsjóður gaf út árið 1963 og nafnið Veðrará merkir því að öllum líkindun Hrútsá. Um tildrög nafngjafarinnar er hins vegar allt ókunnugt. Áður en lengra er haldið er svo vert að taka fram að í rituðum heimildum er ýmist talað um Innri-Veðrará eða Veðrará innri og hið sama á við um ytri Veðrarána. Sýnist þar eingöngu vera um smekksatriði að ræða.
Áin Veðrará kemur úr dal sem skerst inn í fjalllendið ofan við bæinn á Innri-Veðrará og heitir hann Jafnadalur.[11] Norðan við dal þennan er Veðrarárfjall en að sunnanverðu Vondafjall.[12] Neðst í Jafnadal er Langihryggur og rennur Veðrará undir hann en neðan við hrygginn er Háabrekka og þar fyrir neðan Litlidalur.[13] Úr Litladal fellur áin í fossi um Árgljúfur sem svo heita[14] í fjallshlíðinni ofan við túnið á Innri-Veðrará. Veðrarárfjall, sem snýr suðurhliðinni að Jafnadal en norðurhliðinni að Breiðadal,[15] er hömrum krýnt hið efra og nær fjallsbrúnin víða 600-700 metra hæð. Sá endi Veðrarárfjalls sem snýr fram að Vöðunum heitir Veðrarárhorn og gnæfir yfir bænum á Ytri-Veðrará. Héðan frá hlaðinu á Innri-Veðrará blasir fjall þetta líka við augum en handan við Vöðin er hér beint á móti prestssetrið Holt, hinn fornfrægi kirkjustaður, og aðeins 700 metrar landa á milli.
Innri-Veðrará er gömul bújörð sem í Jarðabókinni frá 1710 er talin 12 hundruð að dýrleika.[16] Sá mun dýrleiki jarðarinnar yfirleitt hafa verið talinn á síðari öldum en í skjali frá miðri 15. öld er hann sagður vera 8 hundruð.[17] Í sama skjali er Ytri-Veðrará sögð vera 16 hundraða jörð[18] en í Jarðabókinni frá 1710 og öðrum yngri heimildum er dýrleiki þeirrar jarðar talinn 18 hundruð.[19] Matið á báðum jörðunum virðist því hafa hækkað frá því sem þótti við hæfi á 15. öld og ljóst er að sú hækkun hefur átt sér stað fyrir 1534 því í kaupmálabréfi frá því ári er Innri-Veðrará metin á 12 hundruð.[20]
Í Jarðabókinni frá 1710 er útigangur sagður vera í meðallagi hér á Innri-Veðrará.[21] Þar er þess einnig getið að áin beri grjót á túnið en hagar og engi liggi undir skemmdum af völdum skriðufalla.[22] Beitilandið var þá talið hrjóstrugt og þrengra í högum en góðu hófi gegndi.[23] Hér hafði hins vegar verið gott mótak til eldiviðar en var í byrjun 18. aldar farið að rýrna ef marka má það sem í Jarðabókinni stendur.[24]
Í sóknalýsingunni frá 1840 er land Innri-Veðrarár sagt vera hrjóstrugt og grýtt[25] en í álitsgerð matsmenna frá árunum kringum 1920 fær jörðin mun hærri einkunn. Hún er þar sögð vera hæg til slægna og bjóða upp á góða sumarbeit, nægan móskurð og einhverja silungsveiði.[26] Þarna er hins vegar tekið fram að hér sé snjóþungt á vetrum.[27] Á þessum árum var túnið á Innri-Veðrará talið grasgefið og af því fengust 70 hestar af töðu en á engjum jarðarinnar mátti fá 120 hesta af útheyi.[28] Mógrafirnar voru rétt fyrir innan túnið (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 377).
Í Jarðabók Árna og Páls er minnst á eyðihjáleiguna Miðá í landi Innri-Veðrarár en í koti því var aðeins búið frá 1660 eða því sem næst og fram undir 1680.[29] Bærinn á Miðá stóð við heimatúnið á Innri-Veðrará.[30] Út frá þeirri staðsetningu og nafninu á bænum má láta sér detta í hug að Miðá hafi staðið rétt utan við ána því nafnið gefur til kynna að kot þetta hafi verið á milli bæjanna á Innri- og Ytri-Veðrará. Athugun staðhátta leiðir í ljós að vart kemur til greina að hjáleigukotið hafi staðið á nokkrum öðrum stað en einmitt þarna, rétt utan við ána, þar sem nú er svolítið tún fyrir ofan þjóðveginn. Á blettinum sem hér um ræðir verður oft mjög hvasst þegar sviptibyljir geisa og má kallast hreint veðravíti.[31] Vera kann að erfið glíma við veðrahaminn hafi átt sinn þátt í því að byggð lagðist af á Miðá svo skömmu eftir að til hennar var stofnað. Á þeim árum sem búið var á Miðá hafði hjáleigubóndinn þar þriðjung úr Innri-Veðrará til ábúðar[32] og hefur því búið á fjórum jarðarhundruðum.
Sumarið 1710 sögðu Önfirðingar Árna Magnússyni að til forna hefði verið bænhús á Innri-Veðrará en væri af fallið fyrir minni allra þálifandi manna.[33] Engar aðrar heimildir munu nú vera til um þetta bænhús en árið 1710 töldu menn sig enn geta bent á leifar kirkjugarðsins sem bænhúsinu fylgdi.[34]
Um jörðina Innri-Veðrará er fyrst getið í skránni frá 1446 yfir jarðeignir Guðmundar ríka Arasonar en hann hafði árin þar á undan átt bæði Ytri- og Innri-Veðrará og fleiri jarðir í Önundarfirði.[35] Nokkrum áratugum síðar var Innri-Veðrará komin í eigu Björns Guðnasonar í Ögri sem árið 1517 gaf jörð þessa syni sínum, Jóni yngri.[36] Í gjafabréfinu nefnir hann jörðina minni Veðrará.[37] Um þennan son Björns í Ögri er fátt kunnugt en hugsanlegt er að Helga Jónsdóttir, sem átti Innri-Veðrará árið 1534,[38] hafi verið dóttir hans. Hún giftist á því ári Páli Vítussyni, frænda séra Jóns Eiríkssonar[39] sem þá var prestur í Vatnsfirði.[40] Hvort það var sama Helga sem seinna giftist Jóni nokkrum Nikulássyni veit nú enginn en vel gæti það verið og skjalfest er að árið 1569 seldu hjónin Jón Nikulásson og Helga Jónsdóttir Birni Bjarnasyni jarðirnar Breiðadal hinn minni og Veðrará í jarðaskiptum.[41]
Í jarðaskiptabréfinu er tekið fram að báðar til samans séu jarðir þessar 24 hundruð að dýrleika[42] sem sýnir að það eru Innri-Veðrará og Fremri-Breiðadalur sem Jón og Helga hafa látið af hendi. Sá sem keypti jarðirnar tvær sem hér voru nefndar árið 1569 var Björn Bjarnason og mun óhætt að ganga út frá því sem vísu að þar sé um að ræða Björn Bjarnason sem á síðari hluta 16. aldar og fram yfir aldamótin 1600 bjó á Kirkjubóli í Valþjófsdal og var dóttursonur Björns Guðnasonar í Ögri (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal). Til þess bendir meðal annars sú staðreynd að frá jarðaskiptunum var endanlega gengið þar á Kirkjubóli.[43]
Árið 1658 var Snæbjörn Torfason orðinn eigandi Innri-Veðrarár[44] og mun það vera lögréttumaðurinn með því nafni sem þá átti heima á Kirkjubóli í Langadal við Djúp. Snæbjörn var sonarsonur Þóru Jónsdóttur[45] sem keypti Kirkjuból í Valþjófsdal af Birni Bjarnasyni á fyrstu árum 17. aldar og bjó þar síðan til æviloka en hún var nefnd Þóra í Dal (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal). Vitað er að Þóra gaf Snæbirni Innri-Veðrará haustið 1648[46]. Snæbjörn andaðist árið 1666[47] og þá eða skömmu síðar mun Innri-Veðrará hafa gengið til Eggerts sonar hans, sem einnig bjó á Kirkjubóli í Langadal, því hann átti jörð þessa bæði 1695 og 1710.[48]
Um 1720 lét Eggert á Kirkjubóli þessa jörð sína í Önundarfirði í hendur tengdasonar síns, Teits Arasonar, sem þá var sýslumaður í Barðastrandarsýslu, en Teitur seldi hana árið 1721 séra Páli Péturssyni á Álftamýri.[49] Með í kaupunum fylgdu líka 12 hundruð í Ytri-Veðrará og 7 kúgildi.[50] Fyrir allt þetta galt séra Páll 220 ríkisdali[51] svo verðið hefur verið býsna hátt eða um það bil 7 ríkisdalir fyrir hvert hundrað í jörð og hvert kúgildi.
Árið 1762 var séra Þorsteinn Þórðarson á Stað í Súgandafirði orðinn eigandi að Innri-Veðrará[52] og árið 1805 átti tengdasonur hans jörðina, Ásgeir Þorsteinsson, bóndi á Rauðamýri í Nauteyrarhreppi.[53] Ásgeir á Rauðamýri var afi Ásgeirs Ásgeirssonar sem síðar stofnaði Ásgeirsverslun á Ísafirði og rak það mikla fyrirtæki.
Árið 1847 var Innri-Veðrará enn í leiguábúð[54] en í manntalinu frá 1901 er Bóas Guðlaugsson oddviti, sem þá bjó hér, titlaður óðalsbóndi, enda átti hann jörðina.[55] Um tuttugu árum síðar var það ekkja Bóasar, Sigríður Jensdóttir á Flateyri, sem átti Innri-Veðrará.[56]
Á síðari hluta sautjándu aldar og fyrstu árum hinnar átjándu var landskuld af Innri-Veðrará 80 álnir, það er tveir þriðju hlutar úr kýrverði.[57] Í Jarðabókinni frá 1710 er tekið fram að landskuldina beri að greiða með þremur ríkisdölum í spesíumynt og gildi hver þeirra 10 fjórðunga[58] það er 25 álnir. Tvo fjórðunga eða fimm álnir vantaði þá upp á fulla greiðslu og er í Jarðabókinni tekið fram að þessi hluti landskuldarinnar sé greiddur í landaurum,[59] það er afurðum.
Árið 1753 hafði landskuldin af Innri-Veðrará lækkað og var komin niður í 60 álnir.[60] Sú fjárhæð var óbreytt nær 100 árum síðar[61] en í jarðabók frá árinu 1805 er aðeins gert ráð fyrir 21 alin í landskuld.[62] Sú lækkun mun aldrei hafa komið til framkvæmda (sjá hér Tannanes).
Á fyrstu áratugum tuttugustu aldar var landskuldin af Innri-Veðrará ein ær og einn gemlingur[63] eða sem svaraði 35 til 40 álnum og hafði þá lækkað verulega frá því sem áður var.
Innstæðukúgildi landeigenda hér á Innri-Veðrará voru oftast þrjú eða fjögur sem þýðir að oft og einatt hafa 18 eða 24 leiguær fylgt jörðinni. Árið 1446 voru leigukúgildin þrjú[64] en árið 1658 voru þau fjögur.[65] Árið 1695 hafði þeim fjölgað upp í fjögur og hálft[66] en eftir stórubólu, sem hér geisaði árið 1707, fækkaði þeim niður í þrjú.[67] Árin 1753 og 1847 var sú tala óbreytt.[68] Um 1920 hafði innstæðukúgildunum sem jörðinni fylgdu fækkað niður í tvö því þá voru hér 12 leiguær.[69]
Á 18. og 19. öld bjó yfirleitt aðeins einn bóndi í senn á Innri-Veðrará en hér var sjaldan eða aldrei tvíbýli.[70] Árið 1710 var bústofninn 3 kýr, 17 ær, 12 sauðir tvævetra og eldri, 7 veturgamlir sauðir, 14 lömb og 2 hross.[71] Árið 1805 var bústofninn hér á Innri-Veðrará mun minni eða 1 kýr og 15 sauðkindur ef mark má taka á jarðabók frá því ári.[72] Árið 1830 voru kýrnar aftur orðnar þrjár og þá voru hér átján ær í kvíum en 1870 voru kýrnar tvær og ærnar tólf.[73] Seinna fjölgaði ánum verulega og um 1930 var búið hér með tvær kýr, sextíu ær og þrjú hross.[74]
Í Sjávarborgarannál er frá því greint að þann 27. janúar árið 1628 hafi Þórður Eiríksson á Innri-Veðrará farist í snjóflóði[75] og mun frétt þessi vera tekin upp úr annál sér Sveins Símonarsonar í Holti.[76] Úr röðum heimilisfólks á Innri-Veðrará er Þórður þessi sá fyrsti sem hægt er að nefna með nafni en óvíst er hvort hann hefur verið hér bóndi eða vinnumaður. Í heimild frá árinu 1681 eru nefndir fjórir bændur sem bjuggu á Innri- og Ytri-Veðrará[77] en þar sést ekki hvernig þeir skiptust á þessar tvær jarðir. Fyrsti bóndinn sem bjó alveg tvímælalaust á Innri-Veðrará og nú er kunnur er því Jón Gíslason sem átti hér heima bæði 1703 og 1710 en kona hans hét Guðfinna Sturludóttir.[78] Árið 1703 var Jón 46 ára gamall en Guðfinna kona hans 43ja ára. Þrjú börn þeirra voru þá á heimilinu, Gísli, Ragnheiður og Þorlákur, hið elsta 7 ára.[79] Annað heimilisfólk var einn vinnupiltur og ein vinnustúlka, bæði um tvítugt, og svo 55 ára gömul húskona.[80] Um bústofn Jóns Gíslasonar á Innri-Veðrará árið 1710 hefur áður verið getið.
Um Lífgjarn Jónsson, sem hér bjó um 1735,[81] er ekkert vitað nema hvað hann hét. Líklegt er þó að þetta sé sá Lífgjarn Jónsson sem var 25 ára vinnumaður á Hvilft árið 1703[82] og vel gæti hann hafa verið sonur Jóns Lífgjarnssonar sem 1703 var 53ja ára gamall bóndi í Neðri-Breiðadal.[83] Einnig kemur til greina sá Lífgjarn Jónsson sem árið 1703 var 20 ára bóndasonur í Tungu í Valþjófsdal en báðir bændurnir sem þá bjuggu þar báru nafnið Jón Lífgjarnsson.[84]
Árið 1753 bjó Þórður Eiríksson á Innri-Veðrará og sýnist hafa verið allvel efnaður því hann tíundaði 14 lausafjárhundruð.[85] Til samanburðar má nefna að bændurnir fimm sem þá bjuggu á Tannanesi og Ytri-Veðrará tíunduðu líka 14 hundruð allir til samans, það er tæplega 3 hundruð hver að jafnaði.[86] Athygli vekur að bóndi þessi sem hér bjó árið 1753 bar sama nafn og Þórður Eiríksson á Innri-Veðrará sem týndi lífi í snjóflóði árið 1628 eins og áður var nefnt. Vera má að þar sé aðeins um tilviljun að ræða en hitt er líka hugsanlegt að einhver skyldleiki eða tengsl hafi verið milli þessara tveggja Þórða. Árið 1762 var Þórður Eiríksson farinn frá Innri-Veðrará og kynni að hafa verið dáinn en þá bjó hér maður að nafni Jón Hallsson með eiginkonu og þrjá syni milli tektar og tvítugs.[87] Hjá þeim var líka 78 ára gamall húsmaður sem hét Sigurður Þorleifsson.[88]
Þegar 19. öldin hófst bjuggu hér hjónin Þorkell Bjarnason og Helga Þórólfsdóttir.[89] Þau voru bæði úr Arnarfirði, Þorkell fæddur um 1763 og var 5 ára gamall á Borg árið 1769 en Helga fæddist í Selárdal og var einu ári yngri en hann.[90] Foreldrar hennar voru Þórólfur Jónsson Tálknfirðingur og Guðrún Þorkelsdóttir en Helga mun hafa alist upp hjá Bjarna Einarssyni í Skógum í Mosdal.[91] Þau Þorkell og Helga gengu í hjónaband árið 1788 og voru þá bæði vinnuhjú á Hrafnabjörgum í Auðkúluhreppi.[92]
Árið 1794 voru hjón þessi vinnuhjú hjá séra Jóni Ásgeirssyni á Söndum í Dýrafirði. Prestur átti þá tvær gjafvaxta dætur, Helgu og Þórdísi, og komst Þorkell í að gera annarri þeirra barn fram hjá konu sinni (sjá hér Sandar, Holt og Rafnseyri). Sú sem hann barnaði var Helga en Þórdís systir hennar varð síðar móðir Jóns Sigurðssonar forseta. Barn Þorkels, vinnumanns á Söndum, og prestsdótturinnar þar var stúlka sem fæddist 4. desember 1794 og hlaut nafnið Karitas (sjá hér Sandar og Rafnseyri) en það orð merkir kærleikur. Stúlkubarn þetta fluttist með afa sínum og ömmu frá Söndum að Holti í Önundarfirði árið 1796 og ólst þar upp en var síðan mjög lengi vinnukona hjá Þórdísi móðursystur sinni, prestsfrú á Rafnseyri (sjá hér Rafnseyri).
Enginn veit nú hvað því hefur valdið að Þorkell Bjarnason fékk að dveljast áfram á heimili prestshjónanna á Söndum þó að hann fíflaði dóttur þeirra og drýgði með henni hór. Um ástæður þess hafa fæst orð minnsta ábyrgð en svo mikið er víst að þegar séra Jón Ásgeirsson og Þorkatla kona hans fluttust frá Söndum að Holti árið 1796 var Arnfirðingur þessi enn vinnumaður hjá þeim og fluttist reyndar með þeim að Holti ásamt konu sinni og börnum þeirra.[93] Fáum árum síðar fór Þorkell svo að búa hér á Innri-Veðrará með eiginkonu sinni, Helgu Þórólfsdóttur, og hér voru þau árið 1801 með börn sín fimm á aldrinum 2ja-11 ára.[94] Í manntali frá því ári er Þorkell sagður vera smiður.[95] Árið 1805 bjó þessi sama fjölskylda enn á Innri-Veðrará með eina kú og fimmtán kindur[96] og áður en lauk mun Þorkell hafa eignast tíu börn með konu sinni.[97] Eitt þeirra var Ólafur sem um skeið var bóndi á Tannanesi og svo á Ytri-Veðrará (sjá hér Tannanes).
Árið 1816 var Helga Þórólfsdóttir, húsfreyja á Innri-Veðrará, orðin ekkja en stóð þá enn fyrir búi, komin á sextugsaldur.[98] Sex barna hennar voru þá enn heima og þegar manntal var tekið 1. desember á því ári var hér líka 16 ára léttastúlka, Guðríður Ísleifsdóttir[99] frá Tannanesi en móðir hennar hafði dáið úr hungri nokkrum mánuðum fyrr (sjá hér Tannanes). Fáum árum síðar hætti Helga Þórólfsdóttir að búa og fluttist frá Innri-Veðrará en hún dó í Fremri-Breiðadal árið 1829 og var þá vinnukona.[100]
Árið 1821 var Guðrún Jónsdóttir, sem áður var húsfreyja á Hesti, farin að búa á Innri-Veðrará.[101] Mann sinn, Svein Jónsson, bónda á Hesti, hafði hún misst í mannskaðanum mikla vorið 1812 (sjá hér Hestur og Mosvallahreppur, inngangskafli). Fyrstu árin eftir slysið bjó hún áfram á Hesti[102] en fluttist þaðan að Innri-Veðrará á árunum 1817-1820. Guðrún var fædd á Görðum í Önundarfirði um 1769, dóttir Jóns Magnússonar, bónda á Eyri í Önundarfirði og víðar, og fyrri konu hans sem einnig hét Guðrún Jónsdóttir.[103] Af börnum Sveins á Hesti og Guðrúnar konu hans komust upp tveir synir sem báðir hétu Jón[104] og fluttust þeir með móður sinni að Innri-Veðrará. Jón eldri var fæddur árið 1793 en Jón yngri árið 1807.[105]
Ekkjan Guðrún Jónsdóttir stóð fyrir búi á Innri-Veðrará allt til ársins 1834 þegar Jón Sveinsson eldri, sonur hennar, tók við.[106] Á sínum yngri árum fékk hún þá umsögn hjá presti að hún væri skýr og stjórnsöm.[107] Árið 1830 bjó hún hér með 3 kýr, 18 ær og 8 gemlinga.[108] Á búinu voru líka 2 tamdir hestar.[109] Jón Sveinsson, sem tók við búi af móður sinni árið 1834, var kvæntur Dagbjörtu Filippusdóttur sem fæddist á Suðureyri í Súgandafirði árið 1805.[110] Þau Jón og Dagbjört bjuggu á Innri-Veðrará frá 1834 til 1841[111] en síðast á Vífilsmýrum og í Neðri-Breiðadal.[112] Þegar Jón Sveinsson eldri lést árið 1863 var hann húsmaður í Ytri-Hjarðardal.[113] Skrá yfir niðja Jóns og Dagbjartar er að finna í bók Eyjólfs Jónssonar Niðjatal Sveins Jónssonar, bónda á Hesti í Önundarfirði, og Guðrúnar Jónsdóttur konu hans.[114]
Í úttektabók Mosvallahrepps gefst kostur á að sjá lýsingu á bæjarhúsunum á Innri-Veðrará eins og þau voru þegar Jóns Sveinsson og Dagbjört kona hans fóru þaðan vorið 1841.[115] Baðstofan var þá í góðu standi.[116] Hún var fjögur stafgólf en stutt hafa þau verið því að gólfflöturinn var aðeins 7,25 x 3,75 álnir[117] eða um það bil 10,7 fermetrar. Hæðin frá gólfi og upp í mæni var ekki nema 3,3 metrar svo að ólíklegt verður að telja að loft hafi verið í húsinu, enda er það ekki nefnt í úttektinni.[118] Búrið var 6,5 fermetrar en eldhúsið svolítið stærra eða 8,3 fermetrar.[119] Göngin frá baðstofudyrum til útidyra voru tæplega 5 metrar á lengd en ákaflega mjó, aðeins ein alin,[120] það er tæplega 63 sentimetrar. Þessum bæjarhúsum fylgdi þriggja kúa fjós.[121]
Árið 1845 voru hjónin Jónatan Jónsson og Helga Hjaltadóttir farin að búa á Innri-Veðrará.[122] Jónatan var fæddur á Múla í Gufudalssveit sumarið 1802 en Helga kona hans, sem var sjö árum eldri, fæddist á Stað í Grunnavík árið 1795.[123] Hún var ein af 18 börnum séra Hjalta Þorbergssonar og Guðrúnar Ólafsdóttur konu hans en í þeim fjölmenna systkinahópi var líka Ólafur sem nefndi sig Thorberg, faðir Bergs Thorberg landshöfðingja.[124] Móðir Helgu á Innri-Veðrará var dóttir séra Ólafs Einarssonar sem lengst var prestur í Skarðsþingum og síðar á Álftamýri[125] en hann dvaldist síðustu árin í Ytri-Hjarðardal hjá sonardóttur sinni, Guðrúnu Þórðardóttur sýslumannsfrú, og andaðist þar árið 1828.[126]
Þau Jónatan Jónsson og Helga Hjaltadóttir munu hafa gengið í hjónaband árið 1831 og bjuggu í nokkur ár á Vöðlum á árunum kringum 1840.[127] Á Innri-Veðrará bjuggu þau bæði 1845 og 1850 en árið 1855 voru Sigríður dóttir þeirra og Jens Jónsson, eiginmaður hennar, tekin hér við búi.[128] Helga var þá orðin ekkja en dvaldist áfram á Innri-Veðrará hjá dóttur sinni og tengdasyni.[129] Seinna fylgdi hún þeim að Kroppstöðum og andaðist þar árið 1877,[130] fimm árum áður en Bergur, bróðursonur hennar, tók við embætti landshöfðingja. Þau Jónatan Jónsson og Helga Hjaltadóttir á Innri-Veðrará eignuðust sex börn[131] og af þeim náðu a.m.k. þrjú að vaxa úr grasi.[132] Elst barnanna var Sigríður, fædd 1832.[133] Hún giftist Jens Jónssyni frá Mosvöllum árið 1854 og tóku þau þá við búsforráðum hér á Innri-Veðrará. Sigríður Jónatansdóttir var ljósmóðir og að sögn kunnugra hinn mesti skörungur en hún og Jens maður hennar bjuggu lengst á Kroppstöðum og því hefur áður verið frá þeim sagt á þessum blöðum (sjá hér Kroppstaðir).
Þau Sigrúður og Jens fluttust héðan að Kroppstöðum árið 1861 en komu hingað aftur 25 árum síðar og stóðu hér fyrir búi frá 1886 til 1894 (sjá hér Kroppstaðir).
Á árunum 1861-1886, þegar Jens og Sigríður voru á Kroppstöðum, bjuggu ýmsir hér á Innri-Veðrará. Úr þeim hópi má nefna Guðrúnu Mósesdóttur sem hér var búandi ekkja árið 1870.[134] Hún hafði áður búið á Kroppstöðum með manni sínum sem hét Guðmundur Jónsson[135] en hann varð skammlífur.[136] Guðrún var fædd árið 1831, dóttir Mósesar Jónssonar, bónda á Sæbóli á Ingjaldssandi, og konu hans Vigdísar Guðmundsdóttur.[137] Um fimm ára aldur missti hún föður sinn sem fórst í hákarlalegu árið 1836 (sjá hér Sæból á Ingjaldssandi). Vigdís móðir hennar giftist þá Guðmundi Guðmundssyni norðlenska (sjá hér Nesdalur) en Guðrún Mósesdóttir var árið 1845 tökubarn á Kroppstöðum hjá Markúsi Eyjólfssyni og Önnu Guðmudsdóttur.[138]
Árið 1870 var hún eini ábúandinn á Innri-Veðrará og bjó þá með 2 kýr, 12 ær, 5 gemlinga og 1 hross.[139] Ráðsmaður Guðrúnar var þá Kristján Vigfússon, sonur Vigfúsar Eiríkssonar og Þorkötlu Ásgeirsdóttur í Neðri-Breiðadal.[140] Með Kristjáni eignaðist Guðrún Mósesdóttir þrjú börn en hann hafði verið kvæntur tveimur konum og trúlofaður hinni þriðju áður en hann réðist til Guðrúnar.[141] Alls eignaðist Kristján 11 börn með 4 konum en hann dó 42ja ára gamall árið 1874.[142] Eitt barna Guðrúnar Mósesdóttur með Kristjáni Vigfússyni var Marsibil sem fæddist árið 1868.[143] Hún giftist Jóni Guðmundssyni frá Grafargili og bjuggu þau lengi á Kirkjubóli í Valþjófsdal (sjá hér Grafargil og Kirkjuból í Valþjófsdal). Þar andaðist Guðrún hjá dóttur sinni árið 1925[144] og var þá orðin 94 ára gömul.
Síðasti 19. aldar bóndinn á Innri-Veðrará var Bóas Guðlaugsson en hann var kvæntur Sigríði, dóttur Jens Jónssonar og Sigríðar Jónatansdóttur.[145] Bóas fæddist á Hóli á Hvilftarströnd árið 1849, sonur hjónanna Guðlaugs Þorsteinssonar og Jóhönnu Jónsdóttur.[146] Árið 1870 var hann vinnumaður hjá Jens Jónssyni á Kroppstöðum og kvæntist Sigríði dóttur hans haustið 1872.[147] Um 1880 var Bóas lausamaður og átti heima hjá tengdaforeldrum sínum á Kroppstöðum.[148] Hann mun þá hafa verið sjómaður á þilskipum og skútuskipstjóri um skeið því árið 1883 er hann titlaður skipherra.[149] Hann var þá skipstjóri á skonnortunni Svani sem keypt var til Önundarfjarðar 1880 eða 1881 (sjá hér Þorfinnsstaðir). Árið 1883 áttu þau Bóas og Sigríður kona hans enn heima á Kroppstöðum en fluttust að Innri-Veðrará vorið 1884.[150] Að því sinni bjuggu þau hér í tvö ár en fluttust til Ísafjarðar árið 1886 þegar tengdaforeldrar Bóasar færðu sig hingað frá Kroppstöðum.[151] Á Ísafirði var Bóas þó aðeins í eitt ár en kom aftur að Innri-Veðrará vorið 1888.[152] Næstu árin var hann hér húsmaður og er árið 1890 sagður lifa á fiskveiðum.[153] Þegar tengdaforeldrar Bóasar fluttust héðan að Ytri-Veðrará vorið 1894 urðu þau Bóas og kona hans hér um kyrrt.[154] Ekki tóku þau samt við jörðinni en kusu þess í stað að búa áfram í húsmennsku enn um sinn.[155] Bóndi á Innri-Veðrará varð þá Guðmundur Auðun Kristjánsson, sem hér hefur áður verið nefndur (sjá hér Tunga í Firði og Tannanes), og bjó hann hér frá 1894-1899.[156]
Vorið 1897 fluttist Bóas Guðlaugsson frá Innri-Veðrará að Tannanesi og bjó þar í tvö ár en kom aftur hingað árið 1899 og er í manntalinu frá 1901 sagður vera óðalsbóndi og oddviti á Innri-Veðrará.[157] Líklega hefur Bóas efnast dálítið á sjónum því um aldamót átti hann bæði Innri-Veðrará og part úr Tannanesi.[158]
Hreppsnefndaroddviti var Bóas orðinn árið 1893[159] og var enn oddviti þegar hann fór frá Innri-Veðrará árið 1903 og settist að á Flateyri.[160] Haustið 1908 gerðist Bóas símstöðvarstjóri, sá fyrsti í því embætti á Flateyri (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 388-389). Þessu nýja starfi gegndi hann til æviloka en dauða hans bar að 14. apríl 1914.[161] Kona Bóasar, Sigríður Jensdóttir, lifði lengur en hún dó í Tungu í Firði árið 1930.[162]
Um 1920 var talið að á Innri-Veðrará væri hægt að ala 2 kýr, um 40 sauðkindur og 2 hesta.[163] Fólkið sem átti þá heima hér var leiguliðar og bjó í torfbæ.[164] Baðstofan var 9 x 5½ alin að flatarmáli en önnur bæjarhús þessi: Búr, eldhús, fjós, tvö fjárhús, hjallur, skúr, eldiviðarhús, tvær hlöður, hesthús og kofi.[165]
Um 1930 var íbúðarhúsið úr bæði torfi og timbri og þá var búið að leiða vatn í bæinn.[166] Bústofninn var þá 2 kýr, 60 kindur og 3 hestar.[167] Búið var að girða túnið og úr matjurtagörðum fengust 14 tunnur af garðávöxtum.[168] Árið 1961 hætti síðasti ábúandinn á Innri-Veðrará öllum búskap (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 377)
Gamla íbúðarhúsið, sem stendur hér autt og yfirgefið, var árið 1950 talið timburhús að tveimur þriðju en einn þriðjungur úr steinsteypu.[169] Timburhúsið mun hafa verið byggt á fyrsta áratug 20. aldar[170] en það sem steinsteypt er bættist við um eða upp úr 1930.[171] Sum útihúsin eru líka uppistandandi hér á Innri-Veðrará en önnur fallin. Einn sumarbústaður er í landi jarðarinnar (1994) og vöktunarhús vegna æðarvarps.
Frá bæjarhlaðinu er fljótlegt að skreppa að fossinum sem áður var nefndur (sjá hér bls. 2) og upp í Litladal sem er ofan við fossbrúnina. Innan og neðan við Litladal er alllöng fjallsöxl sem heitir Tagl[172] og fram af taglendanum steypist fossinn niður í Árgljúfrin.[173] Kinnin í utanverðum Litladal er vaxin grasi og lyngi. Að sögn kunnugra verður mjög misvindasamt heima á Innri-Veðrará þegar norðvestan hvassviðri slær úr Kinninni og er það kallað flesjaveður.[174] Uppi í Litladal er Brúnklukkuholt og á því svolítil tjörn sem heitir Brúnklukkupollur.[175] Vatn úr pollinum þeim skyldi enginn drekka þó þyrstur sé því brúnklukkan étur lifrina úr þeim sem hana gleypa.[176]
Við kveðjum nú brátt Innri-Veðrará og allt fólkið sem hér ól aldur sinn á fyrri tíð. Í lok stuttrar dvalar skulum við ganga niður að hinum fornu naustum sem enn sér móta fyrir rétt innan við árósinn þar sem Veðrará fellur út í Vöðin. Í Jarðabókinni frá 1710 er greint frá sterklegum naustum sem stóðu hér í byrjun 18. aldar og notkun þeirra en þar segir svo:
Tvö áttaærings húsnaust og eins báts naust standa hér við sjóinn, sem bændur fram í sveitinni hafa byggt hér upp á sinn kost að viðum en af torfi og grjóti úr þessarar jarðar landi. Þar standa skipin þeim stundum ársins sem þau eru ei í verinu og geldur hver sá sem áttaæringana á 20 álnir í landaurum landsdrottni, eður í kaupstað 6 fjórðunga fiska. Ekki vita nálægir hvað eftir bátsnaustið gelst, þó er hér ekkert heimræði. Þessi naust hafa staðið hér um 20 ár.[177]
Hér sjáum við að það hafa verið bændurnir sem bjuggu inni í Firðinum er byggðu upp naustin á Innri-Veðrará og hér geymdu þeir skip sín milli vertíða. Ljóst er að í byrjun 18. aldar hafa Fjarðarmenn átt tvo áttæringa sem hér voru geymdir. Á þessum skipum hafa þeir sótt sjó frá Kálfeyri á vorin en síðustu 100 árin sem þaðan var róið sáust varla slík stórskip í þeirri veiðistöð (sjá hér Eyri). Fróðlegt er líka að sjá hvað landeigandinn fékk greitt fyrir að láta í té landskika undir naustin en nánari skýringu á því er að finna í yfirlýsingu þáverandi eiganda jarðarinnar, Eggerts Snæbjörnssonar (sjá hér bls. 4), sem út var gefin 17. júní 1703. Þar segir:
Fyrir nauststöðu og skipsuppsátur, öðrum léð en leiguliðanum, ei minna en á ári hvörju (meðan það stendur) 10 álnir og ei meir en 20 álnir. Enn öðrum manni léð skipsuppsátur og nauststaða. Hvað þar fyrir gelst veit ég ekki, því jarðarinnar leiguliða er það gefið af mér fyrir það sem hann kann troðning líða af þess fyrrgreinda skipseiganda hestum þá sína skipsfarma frá skipinu færir.[178]
Á árunum milli 1880 og 1890 höfðu bændur inni í Firðinum enn uppsátur hér fyrir báta sína.[179] Að sögn Magnúsar Hjaltasonar fóru þeir þá stundum í haustróðra til að fá sér í soðið og riðu þá heiman að hingað að Veðrará þegar róið var.[180]
Rétt innan við árósinn eru nú tvær tóttir sem gætu verið gömul naust. Aðrar tóttir á sjávargrundinni beint niður af íbúðarhúsinu á Innri-Veðrará benda til þess að tvö naust hafi líka verið þar og enn önnur þrjú niður af innsta hluta túnsins. Ekki er svo sem víst að allar þessar tóttir séu af naustum en líklegt að flestar þeirra séu það. Verið getur að tóttirnar séu misjafnlega gamlar og þess má geta að undir lok búskapar á Innri-Veðrará var bátur heimamanna þar jafnan settur upp rétt innan við árósinn.[181]
Frá naustunum niður við sjóinn flýtum við för að næsta bæ, sem er Ytri-Veðrará, og göngum þann stutta spöl á sjö mínútum. Leiðin liggur með sjó og við Grjóttanga, sem einnig var nefndur Skriðutangi og er um það bil 200 metrum utan við ána, förum við yfir landamerkin.[182] Stakir steinar standa hér upp úr sjónum en þegar fjarar kemur tanginn betur í ljós. Frá Grjóttanga liggur landamerkjalínan beint í klettabrún Veðrarárhorns[183] en svo heitir hornið á Veðrarárfjalli sem skartar sínum hamravegg yfir bænum á Ytri-Veðrará (sjá hér bls. 2).
– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –
[1] Óskar Einarsson 1951, 91. Ingimundur Guðmundsson – Viðtal K.Ó. við hann 22.2.1994.
[2] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 106.
[3] Ingimundur Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 22.2.1994.
[4] Sama heimild.
[5] D.I. IV, 688, D.I. VIII, 431 og 602-603, D.I. IX, 514-516 og 713-714 og D.I. XV, 166-167 og 194-196.
[6] Lbs. 7974to, Jarðaskrár úr Ísafj.sýslu frá árunum 1658 og 1695.
[7] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 118-119.
[8] Manntal 1703.
[9] Alþingisbækur Íslands XIV, 37 og 227 og XV, 13 og 63.
[10] Sama heimild XI, 159, 288, 494 og 550.
[11] Ingimundur Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 22.2.1994.
[12] Óskar Ein. 1951, 91-92.
[13] Sama heimild.
[14] Sama heimild.
[15] Sama heimild, 90-91.
[16] Jarðab. Á. og P. VII, 118.
[17] D.I. IV, 688.
[18] Sama heimild.
[19] Jarðab. Á. og P. VII, 119. Sóknalýs. Vestfj. II, 102. J. Johnsen 1847, 195.
[20] D.I. IX, 713-714.
[21] Jarðab. Á. og P. VII, 118-119.
[22] Sama heimild.
[23] Sama heimild.
[24] Sama heimild.
[25] Sóknalýs. Vestfj. II, 102.
[26] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.
[27] Sama heimild.
[28] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.
[29] Jarðab. Á. og P. VII, 118-119.
[30] Sama heimild.
[31] Daði Ingimundarson. – Viðtal K.Ó. við hann 4.7. 1994.
[32] Jarðab. Á. og P. VII, 118-119.
[33] Sama heimild.
[34] Sama heimild.
[35] D.I. IV, 688.
[36] D.I. VIII, 431 og 602-603.
[37] Sama heimild.
[38] D.I. IX, 713-714.
[39] Sama heimild.
[40] Íslenskar æviskrár III, 101.
[41] D.I. XV, 194-196.
[42] Sama heimild.
[43] D.I. XV, 194-196.
[44] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.
[45] Ísl. æviskrár IV, 311 og V, 30-31.
[46] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir. (Kph. 1993), bls. 164.
[47] Ísl. æviskrár IV, 311.
[48] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695. Jarðab. Á. og P. VII, 118. Sbr. sama XIII, 273-275.
[49] Alþ.bækur Íslands XI, 159 og 288.
[50] Sama heimild.
[51] Sama heimild.
[52] Manntal 1762. Ísl. æviskrár V, 234.
[53] Rtk. Jarðabækur V. 16. – Ísafj.sýsla 1805. Ísl. æviskrár V, 234.
[54] J. Johnsen 1847, 195.
[55] Manntal 1901 og fylgiskjöl með því.
[56] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.
[57] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658 og 1695. Jarðab. Á. og P. VII, 118.
[58] Jarðab. Á. og P. VII, 118.
[59] Sama heimild.
[60] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.
[61] J. Johnsen 1847, 195.
[62] Rtk. Jarðabækur V. 16. – Ísafj.sýsla 1805.
[63] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.
[64] D.I. IV, 688.
[65] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.
[66] Sama askja. Jarðaskrá frá árinu 1695.
[67] Jarðab. Á. og P. VII, 118.
[68] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753. J. Johnsen 1847, 195.
[69] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.
[70] Manntal 1703. Jarðab. Á. og P. VII, 118. Bændatöl og skuldaskr. 1720-1765, eftirrit, Ísafj.sýsla um 1735. Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarsk. 1821, 1830 og 1834. Manntöl 1762, 1801, 1816, 1835,1840, 1845, 1850, 1855, 1860, 1870, 1880, 1890 og 1901. Rtk. Jarðabækur V. 16. – Ísafj.sýsla 1805.
[71] Jarðab. Á. og P. VII, 118.
[72] Rtk. Jarðabækur V. 16. – Ísafj.sýsla 1805.
[73] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1830. VA III, 421, búnaðarskýrslur 1870.
[74] Fasteignabók 1932.
[75] Annálar IV, 255.
[76] Sama heimild.
[77] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.
[78] Manntal 1703. Jarðab. Á. og P. VII, 118.
[79] Manntal 1703.
[80] Sama heimild.
[81] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, eftirrit, Ísafj.sýsla um 1735.
[82] Manntal 1703.
[83] Sama heimild.
[84] Sama heimild.
[85] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.
[86] Sama heimild.
[87] Manntal 1762.
[88] Sama heimild.
[89] Manntal 1801.
[90] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[91] Sama heimild.
[92] Sama heimild.
[93] Prestsþjónustubækur Sanda í Dýrafirði og Holts í Önundarfirði.
[94] Manntal 1801.
[95] Sama heimild.
[96] Rtk. Jarðabækur V. 16. – Ísafj.sýsla 1805.
[97] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[98] Manntal 1816.
[99] Sama heimild.
[100] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[101] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1821. Eyjólfur Jónsson 1967, 4-7.
[102] Manntal 1816.
[103] Eyjólfur Jónsson 1967, 4-5.
[104] Sama heimild, 6.
[105] Sama heimild.
[106] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1821, 1830 og 1834. Manntal 1835.
[107] Eyjólfur Jónsson 1967, 6.
[108] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1830.
[109] Sama heimild.
[110] Eyjólfur Jónsson 1967, 15.
[111] Sama heimild og manntöl 1835 og 1840.
[112] Eyjólfur Jónsson 1967, 15.
[113] Sama heimild.
[114] Eyjólfur Jónsson 1967, 15-64.
[115] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 6. Úttektabók 1835-1874., bls. 25.
[116] Sama heimild.
[117] Sama heimild.
[118] Sama heimild.
[119] Sama heimild.
[120] Sama heimild.
[121] Sama heimild.
[122] Manntal 1845.
[123] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[124] Ísl. æviskrár II, 360-361 og IV, 85-86.
[125] Sama heimild IV, 38.
[126] Sama heimild IV, 38 og V, 109.
[127] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar. Manntal 1840.
[128] Manntöl 1845, 1850 og 1855.
[129] Manntal 1845.
[130] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[131] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[132] Manntal 1850.
[133] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[134] Manntal 1870.
[135] Manntal 1860.
[136] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[137] Sama heimild.
[138] Manntal 1845.
[139] VA III, 421, búnaðarskýrslur 1870.
[140] Manntal 1870. Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[141] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[142] Sama heimild.
[143] Sama heimild.
[144] Sama heimild.
[145] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar. Sóknarm.töl Holts í Önundarf.
[146] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[147] Sama heimild.
[148] Manntal 1880.
[149] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.
[150] Sama heimild.
[151] Sama heimild. Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[152] Sömu heimildir.
[153] Manntal 1890.
[154] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.
[155] Sama heimild.
[156] Sama heimild.
[157] Sama heimild. Manntal 1901.
[158] Manntal 1901, fylgiskjöl.
[159] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.
[160] Sama heimild.
[161] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.
[162] Sama heimild.
[163] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.
[164] Sama heimild.
[165] Sama heimild.
[166] Fasteignabók 1932.
[167] Sama heimild.
[168] Sama heimild.
[169] Manntal 1950.
[170] Manntöl 1940 og 1950.
[171] Manntal 1950. Sbr. Fasteignabók 1932, bls. 52.
[172] Óskar Ein. 1951, 91.
[173] Sama heimild.
[174] Sama heimild.
[175] Sama heimild.
[176] Jónas Jónsson 1961, 202 og 330 (Ísl. þjóðhættir).
[177] Jarðab. Á. og P. VII, 118-119.
[178] Jarðab. Á. og P. XIII, 273-275.
[179] Lbs. 22354to, bls. 363/Magnús Hjaltason.
[180] Sama heimild.
[181] Daði Ingimundarson. – Viðtal K.Ó. við hann 4.7.1994.
[182] Daði Ingimundarson. – Viðtal K.Ó. við hann 4.7.1994.
[183] Óskar Ein. 1951, 91.