Tröð

Sé farið akandi frá Vöðlum að Tröð þarf fyrst að krækja niður á þjóðveginn sem liggur fram Bjarnardal handan ár. Um þann veg er ekið úr Bjarnardal á Gemlufallsheiði þegar komið er norðan að og haldið til Dýrafjarðar. Að þessu sinni látum við vera að krækja niður á hina fjölförnu þjóðbraut en röltum þess í stað með hlíðarfætinum fram að Tröð. Með því lagi er varla nema 15 til 20 mínútna gangur milli bæjanna. Um það bil miðja vega á þeirri leið förum við yfir Berjadalsá, sem er auðveld yfirferðar, og skammt framan við ána komum við að landamerkjum jarðanna sem hér hefur áður verið gerð grein fyrir (sjá hér Vaðlar). Norðan við Traðartúnið eru Holtin sem svo heita.[1] Eitt þeirra heitir Stórholt en sunnan við það er Lómatjörn.[2] Grasið úr henni var kallað lómur eða lómagras.[3] Sef er í Lómatjörn og dálítið vatn í vætutíð en í þurrkum þornar hún upp.[4] Neðan við Holtin voru áður mýrarflákar sem hétu Ytrisund og Heimarisund[5] en mýrlendi þetta ásamt Langeyrum niður við ána er nú orðið að 10 hektara túni sem nær alveg að landamerkjum Traðar og Vaðla.[6]

Á leið okkar frá Vöðlum að Tröð njótum við þess að skoða hinar bröttu eggjar í brúnum Messuhornsins sem rísa við himin yfir bænum í Tröð en þó lítið eitt norðar. Fjallið Messuhorn skilur að Berjadal og Galtardal en sunnan við Galtardal blasa við augun tignarleg hamraþil Kaldbaks sem kallast á við eggjar Messuhorns og ríkja ásamt þeim yfir öllum dalnum. Gjáin í Kaldbak, sem nær ofan frá brún og niður úr klettunum, heitir Kjós og er í nónstað frá Tröð.[7] Í fjallshryggnum sem Messuhorn gengur fram úr er hæsta bungan í 724 metra hæð yfir sjávarmáli en þar sem kollur Kaldbaks sameinast hálendinu norðan og vestan við Gemlufallsheiði er hæð hans 741 metri. Hæsta fjallið á þessum slóðum er svo Miðhorn fyrir botni Galtardals. Efsta brún þess er í 755 metra hæð en fjall þetta er mun minna um sig en bæði Messuhorn og Kaldbakur. Svarta hamrabeltið, sem skagar þverhnípt fram úr Miðhorni, heitir Flug.[8]

Galtardalur er stór fjalldalur sem gengur vestur úr Bjarnardal. Hann er tveir til þrír kílómetrar á lengd og víðast hvar um tveir kílómetrar á breidd ef mæld er loftlína milli brúna. Frá hlaðinu í Tröð sést ekki nema upp í mynnið á Galtardal því Röndin, sem svo heitir[9] og er í dalsmynninu, skyggir á. Þessi rönd er nú oftast nefnd Leiti af heimafólki í Tröð.[10] Tvær ár falla úr Galtardal niður í Bjarnardalsá og heita Litlaþverá og Stóraþverá. Litlaþverá kemur úr Norðarikika og Stóraþverá úr Vestarikika en báðir þessir kikar eru í botni Galtardals, sinn hvorum megin við fjallið Miðhorn.[11] Báðar þverárnar úr Galtardal falla í Bjarnardalsá, nokkur hundruð metrum framan við Tröð og er stutt á milli þeirra.

Nálægt miðjum Galtardal eru miklar mógrafir, skammt frá norðurhlíð dalsins. Rétt heiman við þær er kofarúst 2½ x 2 metrar að flatarmáli. Hugsanlegt er að þetta hafi verið smalakofi og hefur verið byggðar upp við stóran stein. Örskammt frá kofarústinni er varða sem blasir við augum langt að þegar gengið er fram dalinn. Mjög skammt frá henni en þó aðeins heimar og fjær ánni virðist mega greina fornar tóttir í þúfnakraga á dálitlum grasbala. Á stöku stað mótar hér fyrir torfhleðslum en ekki auðvelt að gera sér grein fyrir húsaskipan því allt er þetta orðið ógreinilegt.

Umhverfis balann sem hér um ræðir er mýrlendi og vel má vera að vatnsagi frá því stuðli að eyðingu þessara tótta. Allt er hér úr torfi en inn í tóttinni sem helst er mynd á er þó steinn að sökkva í jörð. Sú tótt virðist vera um það bil 6 metrar á lengd og um 2 metrar á breidd. Til hliðar sést móta fyrir tveimur eða jafnvel þremur smáhýsum. Seljabæli og Seljabælishlíð eru hér á næstu grösum[12] svo líklegt má kalla að hér hafi verið sel. Óskar Einarsson læknir segir í bók sinni um aldarfar og örnefni í Önundarfirði að grasrimi hér á Galtardal heiti Seljabæli og nái frá Litluþverá og svolítið upp í fjallshlíðina.[13] Að sögn Óskars voru slægjulönd beggja vegna við þennan rima og hlíðina framan við Seljabæli segir hann heita Seljabælishlíð.[14] Allt gæti þetta passað ef gert er ráð fyrir seli á þessum stað. Tóttirnar sem hér um ræðir eru í um það bil 50 metra fjarlægð frá Litluþverá, nær norðurhlíð dalsins, en rétt framan við þær er örlítil lækjarsytra.

Nokkru heimar á Galtardal og alveg niður við Litluþverá eru svo aðrar tóttir og varla nema 100-200 metrar þarna á milli. Hér hafa staðið tvö samliggjandi hús, 4 x 1½ metri að flatarmáli hvort um sig. Alveg fast við þessi hús en þó nær dalbrúninni hefur svo staðið þriðja byggingin, álíka löng en um 2 metrar á breidd. Vísbendingar sjást um einn eða fleiri smærri kofa í þessari þyrpingu. Þessar tóttir líkjast mjög seltóttum og má telja nær fullvíst að hér hafi verið sel á fyrri tíð. Þriðja tóttin, sem hér var síðast lýst, gæti sem best hafa verið kví.

Með hliðsjón af því sem hér hefur verið sagt má telja alllíklegt að tvö sel hafi verið á Galtardal enda benda heimildir frá 17. og 18. öld til þess að þá hafi oftast verið tví- eða þríbýli í Tröð (sjá hér bls. 5). Hafi selin tvö verið á þeim stöðum sem hér var gerð grein fyrir sást vel á milli þeirra því ekkert skyggir á. Vel mætti hugsa sér að nafnið Seljabæli hafi upphaflega átt við lægðina á milli þessara meintu selja en upp í fjallshlíðina norðan hennar gengur grasrimi eins og sá sem Óskar læknir segir bera þetta nafn og hér var áður minnst á.

Að lokum skal þess getið að enn heimar á dalnum, alveg niður undir dalbrúninni og örskammt frá Litluþverá er enn ein tótt. Hún stendur ein sér og er um það bil 3 x 5 metrar að flatarmáli. Líklegast er að þarna hafi verið einhvers konar fjárbyrgi eða rétt.

Jörðin Tröð á allan Galtardal og allt land vestan Bjarnardalsár frá landamerkjunum á móti Vöðlum, sem hér hefur áður verið lýst, og fram að Seljaleiti þar sem selland staðarins í Holti tekur við.[15] Vegalengdin milli landamerkja Traðar, frá Merkisbletti og fram að Seljaleiti, er rösklega þrír kílómetrar sé farið beint af augum. Vegna breytinga á farvegi Bjarnardalsár á Tröð nú líka dálítið land fyrir austan ána.[16]

Tröð er forn bújörð og var jafnan talin 18 hundruð að dýrleika.[17] Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 er þess getið að í Tröð sé útigangur í betra lagi þegar vetur svo leggjast en tekið fram að nokkur hluti af engjum jarðarinnar sé kominn undir skriður.[18] Þar segir einnig að Bjarnardalsá spilli slægjulöndum á árbakkanum og í leysingum verði stundum nokkrar skemmdir á túninu í Tröð vegna aurframburðar úr lækjum.[19] Ástæðulaust mun vera að rengja þá fullyrðingu höfunda Jarðabókarinnar frá 1710 að einhver hluti engjanna í Tröð hafi spillst af vatnagangi og skriðuföllum. Orðum jarðarbókarmanna um þetta til styrktar má minna á hinar miklu landskemmdir sem urðu í Bjarnardal haustið 1626 og um er getið í Sjávarborgarannál. Þar segir:

 

Þann 5. Octobris og etc. féll svo fádæmalegt regn úr lofti um flestar sveitir, sérdeilis á Vestfjörðum víðast að öngvir menn (þá lifandi) mundu slíkt. Féllu skriður svo miklar að margar jarðir og pláss heil stórlega sköðuðust. Ár og vatnsföll höfðu stóran yfirgang, ruddu upp grjóti, aur og sandi, aftakandi víða allar engjar og eyrar, einkum í Bjarnadal vestur.[20]

 

Þessar fréttir er talið að höfundur Sjávarborgarannáls hafi tekið úr annál séra Sveins Símonarsonar, sem árið 1626 var prestur í Holti,[21] en sá annáll er nú glataður.

Í byrjun 20. aldar var Tröð talin vera allgóð beitarjörð, bæði sumar og vetur, og sæmileg slægnajörð.[22] Í heimild frá því um 1920 er túnið sagt vera harðlent og grýtt en engjar snögglendar á víð og dreif um bithaga.[23] Meðalheyfengur af túni og engjum jarðarinnar var þá 150 hestar af töðu og 200 hestar af útheyi.[24] Á þessum heyjum var talið unnt að framfleyta 5 kúm, 70 sauðkindum og 4 hrossum.[25]

Í annarri heimild frá fyrri hluta 20. aldar er þess getið að annað hvert ár heyi Traðarbændur fram við Seljaleiti, það er fremst í landareigninni, en hitt árið uppi í Galtardal.[26] Þar eru rennisléttar engjar báðum megin við Litluþverá og var talið að þar mætti jafnvel fá 300 hesta af votabandi.[27] Í landi Traðar er gott mótak[28] og munu mógrafirnar hafa verið uppi í Galtardal (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 358). Fyrir lok 14. aldar hafði Holtskirkja eignast rétt til móskurðar á tveimur áttfeðmingum í landi Traðar.[29] Þeim réttindum hélt kirkjan í margar aldir[30] og átti þetta ítak enn um miðbik 19. aldar.[31]

Í varðveittum heimildum er Traðar fyrst getið í Vilkinsmáldaga frá árinu 1397 þar sem greint er frá móskurðarréttindum Holtskirkju í landi jarðarinnar.[32] Um eigendur Traðar og ábúendur fyrir 1660 er allt ókunnugt nema það eitt að Holtskirkja virðist aldrei hafa átt jörðina enda þótt hún næði snemma eignarhaldi á öllum hinum jörðunum í Bjarnardal (sjá hér Holt).

Fyrsti eigandi Traðar sem um er vitað er Þorlákur Einarsson, sýslumaður á Núpi í Dýrafirði, en hann seldi jörðina mági sínum, Eggerti Hannessyni lögmanni, í miklum jarðaskiptum sem fram fóru þeirra í milli á Matthíasarmessu árið 1557.[33] Árið 1669 átti séra Snorri Jónsson a.m.k. 6 hundruð í Tröð en varð þá að láta þau af hendi.[34] Prestur þessi var sonur séra Jóns Magnússonar á Eyri í Skutulsfirði sem menn kölluðu Jón þumlung og kunnur er fyrir sitt hatramma stríð við meinta galdramenn.

Séra Snorri vígðist aðstoðarprestur föður síns árið 1665 og var honum ætlað að þjóna Hólssókn í Bolungavík[35] en á Hóli var annexía frá Eyri. Árið 1669 giljaði séra Snorri Ragnhildi Torfadóttur frá Kirkjubóli í Langadal við Djúp og varð hún þunguð af hans völdum.[36] Ragnhildur var dóttir séra Torfa Snæbjörnssonar á Kirkjubóli í Langadal sem andast hafði sumarið 1668.[37] Á síðustu dögum ársins 1669 tók stúlkan Ragnhildur léttasótt og andaðist af barnsförum. Frá þeim atburði og eftirmálum hans segir svo í Vatnsfjarðarannál yngri:

 

Eftir jólin ól Ragnhildur Torfadóttir á Kirkjubóli í Langadal barn hvert hún kenndi séra Snorra Jónssyni á Eyri, deyði síðan, einnig barnið skömmu síðar. Áttu þeir Einar og Páll Torfasynir eftir rétti og ráðspjöllum sókn. Stefndi Páll Snorra. Komst það mál til Alþingis og samdist þar fyrir lögmanna- og lögréttu tilhlutan. Skyldi Snorri greiða þeim bræðrum í rétt og ráðspjöll 10 hundruð í föstu og 20 hundruð í lausu.[38]

 

Bræður Ragnhildar, sem þarna koma við sögu, eru Einar Torfason, síðar prestur á Stað á Reykjanesi, og Páll Torfason sem þá var nýlega orðinn sýslumaður í norðurhluta Ísafjarðarsýslu og bjó lengst á Núpi í Dýrafirði.[39] Í Alþingisbókinni frá árinu 1669 sjáum við að jarðeignirnar, sem séra Snorri féllst á að greiða þeim bræðrum fyrir legorð þeirra sálugu systur, voru 6 hundruð í Tröð í Önundarfirði og 4 hundruð í Sveinseyri í Dýrafirði.[40] Með jarðarpartinum í Tröð fylgdi hálft þriðja kúgildi.[41] Vegna þessa sama barneignarmáls missti séra Snorri hempuna og varð aldrei prestur þaðan í frá en gerðist bóndi á Kirkjubóli í Skutulsfirði.[42]

Árið 1681 var tvíbýli í Tröð en þá bjuggu hér bændurnir Jón Jónsson og Guðlaugur Jónsson[43] og eru þeir fyrstu bændur sem hér hafa búið og þekktir eru með nafni. Þeir voru báðir leiguliðar.[44]

Á fyrri hluta 18. aldar var oft þríbýli í Tröð[45] og frá síðari hluta sömu aldar finnast dæmi um fjórbýli á jörðinni.[46] Í byrjun 19. aldar var hér tvíbýli[47] en 1826 og allt til loka 19. aldar bjó yfirleitt aðeins einn bóndi á allri jörðinni.[48]

Árið 1710 voru aðeins tveir sjálfseignarbændur í öllum Mosvallahreppi (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Annar þeirra var Magnús Jónsson sem bjó á 6 hundruðum í Tröð og átti sjálfur öll þessi jarðarhundruð nema eitt.[49] Hann var líka einn þriggja bænda í Tröð árið 1703 og átti þá Guðrúnu Jónsdóttur fyrir konu.[50] Þau voru þá bæði liðlega fertug.[51] Magnús var dóttursonur Þorleifs Sveinssonar, bónda í Innri-Hjarðardal, sem mun hafa átt hálfaTröð,[52] en Þorleifur var prestssonur frá Holti, bróðir Brynjólfs biskups (sjá hér Innri-Hjarðardalur) Árið 1753 þurftu bændurnir fjórir, sem þá bjuggu í Tröð, að greiða lausafjártíund af 2 til 5 hundruðum hver.[53] Guðrún Bernharðsdóttir, sem tíundaði 5 hundruð, þurfti auk tíundarinnar að greiða 40 fiska í skatt[54] en skattinn, sem rann til konungs, greiddu aðeins þeir bændur sem tíunduðu a.m.k. eitt hundrað fyrir hvern heimilismann og eitt hundrað þar að auk.[55] Heimilismenn Guðrúnar hafa því ekki verið nema fjórir.

Árið 1762 voru Bergsveinn Hafliðason og Guðmundur Jónsson eigendur Traðar.[56] Á því ári báru tveir bændanna í Tröð nafnið Guðmundur Jónsson[57] og má telja mjög líklegt að annar þeirra hafi verið sá Guðmundur sem átti part í jörðinni. Á 19. öld bjuggu svo sjálfseignarbændur í Tröð frá árinu 1826 og til aldarloka eins og hér verður nánar vikið að síðar (sjá hér bls. 9 og 12-14) og áttu þá alla jörðina.

Enda þótt nokkrir 18. aldar bændur í Tröð ættu part í jörðinni voru flestir sem þar bjuggu fyrir 1830 leiguliðar þó jörðin væri í einkaeign. Hér var áður minnst á séra Snorra Jónsson sem átti 6 hundruð í Tröð árið 1669 og lét þau þá af hendi við Pál Torfason sýslumann og Einar bróður hans upp í sektargreiðslu. Árið 1710 átti sonur Páls Torfasonar, Snæbjörn Pálsson, sem nefndur var Mála-Snæbjörn, nokkur hundruð í jörðinni en óvíst er hvort það hafi verið sömu hundruðin og faðir hans eignaðist árið 1669. Í Jarðabókinni frá 1710 eru svilarnir Mála-Snæbjörn og Páll lögmaður Vídalín sagðir eiga 6 hundruð í Tröð eður báðir þeir eins og höfundar Jarðabókarinnar taka til orða.[58] Þessi sameign svilanna bendir eindregið til þess að þeir hafi fengið hundruðin í Tröð frá tengdamóður sinni, Ástríði Jónsdóttur á Mýrum í Dýrafirði, sem reyndar var enn á lífi árið 1710 en nefna má að dætur hennar, eiginkonur Páls og Snpbjörns, töldust þá þegar vera orðnar eigendur að Mýrum[59] sem móðir þeirra átti áður. Ástríður á Mýrum var einkabarn séra Jóns Jónssonar í Holti og eiginkonu hans, Halldóru Jónsdóttur,[60] og mætti geta sér þess til að séra Jón hafi átt þennan þriðjung í Tröð sem síðar komst í eigu eiginmanna dótturdætra hans. Á síðari hluta 18. aldar áttu niðjar séra Jóns Jónssonar í Holti enn jarðarpart í Tröð því árið 1762 var Bergsveinn Hafliðason annar tveggja eigenda jarðarinnar[61] og mun óhætt að gera ráð fyrir að þar sé um að ræða séra Bergsvein Hafliðason á Stað í Grunnavík sem var tengdasonur Mála-Snæbjörns.[62] Löngu seinna komst jörðin í eigu Friðriks Svendsen, kaupmanns á Flateyri, sem seldi hana í marsmánuði árið 1825 Kjartani Ólafssyni á Eyri[63] er fluttist hingað skömmu síðar og bjó lengi í Tröð (sjá hér bls. 9-12).

Um kjör leiguliðanna sem bjuggu í Tröð á 18. öld er allgóðar upplýsingar að finna í Jarðabókinni frá 1710. Þar segir að landskuld af allri jörðinni hafi til forna verið 6 vættir,[64] það er 120 álnir, en árið 1710 var landskuldin 80 álnir af þeim tveimur þriðjungum jarðarinnar sem leiguliðar bjuggu á og svo einn lóðarstrengur fyrir hundraðið sem Magnús Jónsson hafði til ábúðar með þeim 5 hundruðum sem hann átti sjálfur.[65] Af þeim þriðjungi jarðarinnar sem Mála-Snæbjörn og Páll lögmaður Vídalín áttu saman var ábúanda gert að greiða 20 álnir í kaupstað og aðrar 20 álnir í landaurum en þessar síðarnefndu 20 álnir mátti líka greiða með peningum, það er einum sléttum dal.[66] Árið 1753 var landskuld af allri jörðinni enn óbreytt og taldist vera 6 vættir,[67] það er eitt kýrverð.

Tröð fylgdu frá fornu fari 6 kúgildi,[68] það er eitt kúgildi á hver 3 hundruð í jörð sem þýðir 2 ær á hvert jarðarhundrað og þannig var þetta enn árið 1753.[69] Í byrjun 18. aldar þurftu leiguliðar í Tröð að standa í skilum með landskuldina og leigur fyrir kúgildin en voru að öðru leyti lausir við kvaðir frá sínum landsdrottnum.[70] Á þeim árum kunnu einhverjir þó að greina frá því að einhverntíma áður hefði kvöð um skipsáróður fylgt ábúð á einum sjötta parti Traðar.[71]

Hjá bændunum þremur sem bjuggu í Tröð árið 1710 var bústofninn sem hér segir ef allt er lagt saman: 6 kýr, 1 kálfur, 52 ær, 40 sauðir, tveggja vetra og eldri, 21 veturgamall sauður, 52 lömb og 4 hross.[72] Til samanburðar má nefna að árið 1860 bjó einn sjálfseignarbóndi á allri jörðinni og bústofn hans var þá 4 kýr, 26 ær, 6 sauðir og hrútar, 16 gemlingar og 3 hross ef marka má upplýsingar úr búnaðarskýrslu.[73]

Fjöldi heimilisfólks í Tröð á 18. og 19. öld var allbreytilegur. Árið 1703 voru þar 18 sálir, sem skiptust á þrjú heimili, og árið 1762 voru þær 30 en þá voru heimilin fjögur.[74] Árið 1762 voru 23 þurfamenn á bæjunum fjórum í Bjarnardal og úr þeim hópi voru 9 í Tröð.[75] Flestir þessara þurfamanna í Bjarnardal gátu unnið eitthvað en fimm þeirra voru þó alls ekki verkfærir.[76] Árið 1801 áttu sextán manneskjur heima í Tröð og skiptust á tvö heimili en árið 1845 var þar bara eitt heimili með þrettán heimilismönnum.[77] Síðar á öldinni fór tala heimafólks í Tröð stundum upp undir tuttugu. Var til dæmis 19 árið 1860[78] og kynni að hafa farið enn hærra þó alltaf væri einbýli á jörðinni á síðari hluta nítjándu aldar.

Einn bændanna fjögurra sem bjuggu í Tröð árið 1762 var Jón Guðlaugsson og í manntalinu frá því ári er hann sagður 27 ára gamall.[79] Fjörutíu árum síðar bjó hann hér enn ásamt konu sinni sem hét Guðlaug Jónsdóttir.[80] Í sóknarmannatali frá árinu 1793 er bóndi þessi sagður vera forstöndugur.[81] Árið 1803 andaðist Guðlaug húsfreyja í Tröð og áttu þau hjónin þá engin börn á lífi.[82] Þegar Jón Guðlaugsson í Tröð missti konu sína var hann 68 eða 69 ára gamall en tveimur árum síðar gekk hann aftur í hjónaband og kvæntist Ólöfu Þórðardóttur, ekkju í Fremri-Breiðadal,[83] sem þá var liðlega fertug.[84] Enda þótt Jón væri orðinn sjötugur þegar hann kvæntist í annað sinn náði hann að gera nýju eiginkonunni barn sem því miður fæddist andvana.[85] Sjálfur andaðist hann 82ja ára gamall í Fremri-Breiðadal haustið 1816 og hafði búið þar síðustu árin.[86]

Árið 1793 var tvíbýli í Tröð. Sambýlismaður Jóns Guðlaugssonar var þá Jón Gíslason[87] sem fæddist á Þorfinnstöðum á árunum kringum 1740.[88] Kona Jóns Gíslasonar hét Guðrún Jónsdóttir[89] og er líklegt að þau hafi áður búið á Hvilft því Gísli sonur þeirra var fæddur þar.[90] Árið 1796 var Jón Gíslason í Tröð hreppstjóri í Mosvallahreppi og í sóknarmannatali frá árinu 1805 segir prestur að bóndi þessi í Tröð sé sérlega skýr og margfróður.[91]

Árið 1811 var Jón Gíslason enn bóndi í Tröð, orðinn ekkjumaður, en tveir synir hans bjuggu þá líka á jörðinni svo býlin voru þrjú.[92] Þessir tveir synir Jóns Gíslasonar og Guðrúnar konu hans hétu Gísli og Guðmundur. Sá eldri þeirra, Gísli, var fæddur um 1764 en hinn var fimmtán árum yngri eða því sem næst.[93] Gísli Jónsson bjó alllengi í Tröð en búskaparsaga Guðmundar bróður hans varð stutt því hann fórst í sprungu í móðskafli fyrir neðan Breiðadal þann 11. mars árið 1814.[94] Þegar Guðmundur Jónsson í Tröð týndi lífi á þennan voveiflega máta var hann hálffertugur að aldri og hafði verið kvæntur í 12 ár.[95] Kona hans var Marzibil Bernharðsdóttir sem stóð uppi ekkja með þrjú börn og ólétt að hinu fjórða þegar eiginmaður hennar andaðist. Hún giftist skömmu síðar á ný og gekk þá að eiga ekkjumanninn Nikulás Bjarnason, bónda á Kirkjubóli í Korpudal, sem áður hafði búið á Tannanesi.[96]

Gísli Jónsson, sem hér var áður nefndur og bjó á móti föður sínum og bróður í Tröð árið 1811, byrjaði búskap sinn þar um þrítugsaldur á árunum kringum 1795.[97] Að því sinni bjó hann aðeins skamma hríð í Tröð en fluttist þaðan á heimaslóðir konu sinnar í Keldudal í Dýrafirði.[98] Kona Gísla var Þuríður Jónsdóttir frá Hrauni í Keldudal, dóttir Jóns Jónssonar bónda þar og Ólafar Níelsdóttur konu hans.[99] Þessir tengdaforeldrar Gísla Jónssonar í Tröð hafa áður verið nefndir hér á nafn (sjá hér Hraun í Keldudal) en Jón tengdafaðir hans var bróðir Torfa Jónssonar úr Keldudal sem dæmdur var í tveggja ára tugthús á Alþingi árið 1790 fyrir illt orðbragð (sjá hér Hraun í Keldudal).

Í Keldudal bjuggu Gísli Jónsson frá Tröð og Þuríður kona hans á Saurum árið 1801[100] en síðar munu þau hafa búið í Svalvogum, ysta bæ í Þingeyrarhreppi, því a.m.k. eitt barn þeirra fæddist þar.[101] Árið 1811 voru Gísli og Þuríður komin aftur að Tröð, svo sem fyrr var getið, og þangað fluttist með þeim móðir Þuríðar, Ólöf Níelsdóttir frá Hrauni.[102] Árið 1816 voru Gísli Jónsson og Þuríður kona hans enn við búskap í Tröð[103] en fimm árum síðar voru þau farin þaðan.[104] Þuríður Jónsdóttir mun hafa andast árið 1825 og var þá gift vinnukona í Neðri-Breiðadal en Gísli lifði fimm árum lengur og var síðast húsmaður á Hesti.[105] Þegar Þuríður dó skráir prestur að hún hafi eignast ellefu börn og af þeim séu þrjú á lífi.[106]

Árið 1826 fóru hjónin Kjartan Ólafsson og Guðfinna Jónsdóttir að búa í Tröð[107] Einu ári fyrr höfðu þau fest kaup á jörðinni (sjá hér bls. 6) og tóku hana nú alla til ábúðar.[108] Kjartan Ólafsson, sonur hans og sonarsonur bjuggu síðan í Tröð, mann fram af manni, allt til ársins 1929 eða nokkuð á aðra öld og á því skeiði var þar nær alltaf einbýli.[109] Árið 1840 er Kjartan í Tröð sagður vera eigineignarmaður[110] sem staðfestir að hann hefur þá átt jörðina og fullvíst er að frá 1840 til 1929 voru þessir langfeðgar sjálfseignarbændur í Tröð en nánir ættingjar, það er systkini bónda og börn hans, voru þó stundum meðeigendur að jörðinni.[111]

Þegar Kjartan Ólafsson fluttist að Tröð var hann 34 ára gamall, fæddur 1792, en Guðfinna kona hans var um það bil þremur árum yngri.[112] Hún var dóttir Jóns Bjarnasonar á Gelti í Súgandafirði, sem drukknaði árið 1800, og Margrétar Guðnadóttur konu hans.[113] Kjartan í Tröð var hins vegar af hinni fornu höfðingjaætt á Núpi í Dýrafirði, áttundi maður í beinan karllegg frá Þorláki Einarssyni, sýslumanni á Núpi, en Þorlákur var bróðir Gizurar Einarssonar biskups og tengdasonur Hannesar Eggertssonar, hirðstjóra á Núpi (sjá hér Núpur).

Foreldrar Kjartans voru Ólafur Magnússon, sem fæddur var á Núpi og byrjaði búskap sinn þar, og kona hans, Þuríður, sem var dóttir séra Gísla Bjarnasonar prests á Mýrum í Dýrafirði og síðar á Stað í Súgandafirði.[114] Þau Ólafur Magnússon og Þuríður Gísladóttir fluttust frá Núpi sama ár og Kjartan sonur þeirra fæddist og fóru þá að búa á Eyri í Önundarfirði. Þau bjuggu á Eyri í 14 ár[115] og þar mun Kjartan hafa alist upp. Árið 1801 er hann níu ára gamall hjá foreldrum sínum á Eyri og þar eru þá líka fjórir bræður hans, tveir eldri og tveir yngri.[116]

Þegar faðir Kjartans í Tröð var um fimmtugsaldur tók hann þá undarlegu ákvörðun að flytjast til Englands og þangað fór hann árið 1805.[117] Ólafur Magnússon varð ekki langlífur þar ytra og er talið að hann hafi látist í Englandi árið 1806.[118] Óvíst er hversu margir úr fjölskyldu Ólafs fóru með honum til Englands en allt fór það fólk frá Eyri um svipað leyti.[119] Árið 1810 var ekkja Ólafs, Þuríður Gísladóttir, hins vegar tekin við búsforráðum á Eyri á nýjan leik[120] og allir urðu synir þessara hjóna ,sem upp komust, bændur í Önundarfirði nema Ólafur hattamakari sem bjó á Eyri í Skötufirði við Djúp.[121] Þuríður Gísladóttir lifði til ársins 1834 en dó þá um vorið hjá Kjartani syni sínum í Tröð.[122]

Þau Kjartan Ólafsson og Guðfinna Jónsdóttir voru gefin saman í hjónaband árið 1815 og byrjuðu búskap sinn á Eyri í Önundarfirði.[123] Þar bjuggu þau í röskan áratug en fluttust þaðan að Tröð árið 1826 eins og hér hefur áður verið nefnt. Kjartan stóð fyrir búi í Tröð í 26 ár og átti þar heima til dauðadags en hann andaðist haustið 1863.[124] Guðfinnu konu sína missti hann árið 1834 en kvæntist í annað sinn ári síðar og gekk þá að eiga ekkjuna Bergljótu Jónsdóttur en hún var dóttir Jóns Thorbergs, sem verið hafði verslunarstjóri á Patreksfirði, og Sigríðar Þóroddsdóttur konu hans sem var dóttir Þóroddar Þóroddssonar, beykis á Vatneyri,[125] en hann var líka afi Jóns skálds og sýslumanns Thoroddsen og má kallast ættfaðir allra eða nær allra Thoroddsena.

Faðir Bergljótar andaðist árið 1806[126] og tveimur árum síðar giftist móðir hennar Daða Jónssyni frá Sauðlauksdal sem síðar varð prestur á Söndum í Dýrafirði.[127] Fyrri maður Bergljótar hét Páll Pálsson og bjuggu þau alllengi á Melanesi á Rauðasandi[128] en í febrúarmánuði árið 1835 var hún nýlega orðin ekkja og var þá bústýra hjá stjúpföður sínum, séra Daða Jónssyni á Söndum,[129] en Sigríður eiginkona séra Daða og móðir Bergljótar, hafði andast vorið 1834.[130] Þegar Kjartan í Tröð missti konu sína sumarið 1834 mun honum fljótlega hafa orðið hugsað til bústýrunnar á Söndum sem einnig hafði misst maka sinn. Svo mikið er víst að haustið 1835 voru þau Kjartan og Bergljót gefin saman í hjónaband[131] og um svipað leyti fluttist hún frá Söndum að Tröð og tók þar við stjórn mála innanstokks.

Kjartan Ólafsson í Tröð var jafnan í röð helstu bænda í Mosvallahreppi um sína daga. Árið 1834 var hann orðinn hreppstjóri[132] og hélt því embætti í allmörg ár. Yfirleitt bjó hann einn á allri jörðinni en þó er finnanlegt dæmi um að annar maður byggi þar honum samtíða, skamma hríð á einhverjum parti jarðarinnar.[133] Heimilismenn Kjartans voru yfirleitt á milli 15 og 20 og Traðarheimilið því eitt hið fjölmennasta í hreppnum.[134] Sem dæmi má nefna að árið 1830 voru 16 manneskjur heimilisfastar hjá Kjartani en fjölmennari heimili voru þá aðeins tvö í öllum Mosvallahreppi, hjá kaupmanninum á Flateyri og sýslumanninum í Ytri-Hjarðardal.[135] Þetta sama ár bjó Kjartan með 4 kýr og 38 mjólkandi ær.[136] Fleiri kýr voru þá hvergi í hreppnum nema hjá kaupmanni, sýslumanni og presti og sömu sögu er að segja um ærnar.[137] Árið 1850 voru búandi menn í Mosvallahreppi um það bil fimmtíu.[138] Kjartan í Tröð var þá enn með eitt stærsta búið í hreppnum, 4 kýr og 30 ær auk 10 sauða og 16 gemlinga.[139] Fleiri kýr voru þá aðeins á tveimur býlum en væri spurt um fjölda ánna var bóndinn í Tröð í fimmta sæti.[140]

Á árunum 1830-1840 átti Kjartan í Tröð einn þeirra fáu áttæringa sem þá voru til í Mosvallahreppi.[141] Árið 1837 voru aðeins til fjögur slík stórskip í öllum hreppnum og átti bóndinn í Tröð eitt þeirra.[142] Þann 29. mars árið 1843 fórst skip þetta í hákarlalegu með sex mönnum sem allir áttu heima í Bjarnardal nema einn.[143] Sá sem ekki átti heima í dalnum var Bernharður Guðmundsson, bóndi á Þórustöðum, en hann var reyndar fæddur í Tröð, sonarsonur Jóns Gíslasonar sem lengi var bóndi þar (sjá hér bls. 7-8).

Ekki er nú vitað með vissu hver var formaður á áttæringnum þegar hann fórst en í prestsþjónustubókinni var fyrst ritað nafn Sæmundar Guðlaugssonar, bónda á Mosvöllum, þegar nöfn hinna drukknuðu voru skráð[144] sem bendir til þess að hann hafi verið formaður. Halldór Kristjánsson frá Kirkjubóli taldi hins vegar líklegra að Jón Jónsson, bóndi á Kirkjubóli í Bjarnardal, sem var tengdasonur Kjartans í Tröð, hafi stýrt skipinu til veiða.[145] Þegar áttæringurinn frá Tröð fórst var Jón þrítugur en Sæmundur hálfsextugur svo bæði aldurinn og tengdirnar við eiganda skipsins mæla með því að tilgáta Halldórs sé rétt þó fullar sannanir skorti í þeim efnum. Hér verða nöfn þeirra sem fórust 29. mars 1843 nú talin upp í sömu röð og þau eru færð inn í kirkjubókina:

 

  1. Sæmundur Guðlaugsson, bóndi á Mosvöllum, 55 ára.
  2. Jón Jónsson, bóndi á Kirkjubóli í Bjarnardal, 30 ára.
  3. Auðunn Kjartansson, bóndasonur í Tröð, 23 ára.
  4. Jón Jónsson, vinnumaður í Tröð, 55 ára.
  5. Björn Jónsson, bóndi á Vöðlum, 29 ára.
  6. Bernharður Guðmundsson, bóndi á Þórustöðum, 31 árs.

 

Auðunn Kjartansson, sem þarna drukknaði, var sonur Kjartans Ólafssonar í Tröð[146] sem missti því bæði son sinn og tengdason í þessu sama slysi. Röskum áratug síðar drukknaði svo annar sonur Kjartans í Tröð þegar þilskipið Katrín, sem gert var út frá Kaldá í Önundarfirði, týndist í hafi vorið 1854.[147] Sá drengur hét Jón og var liðlega tvítugur þegar hann drukknaði.[148]

Hið hörmulega sjóslys vorið 1843 var mikið áfall fyrir heimilið í Tröð og búnaðarskýrslur bera með sér að Kjartan bóndi hefur ekki lagt í að koma sér upp öðrum áttæringi.[149] Báturinn er kom í stað áttæringsins var sexæringur eða fjögra manna far[150] sem ætla má að hafi verið gerður út frá Kálfeyri á vorin en óvíst er hvort farið hefur verið í hákarlalegur á þeirri fleytu.

Með fyrri konu sinni eignaðist Kjartan Ólafsson í Tröð 12 börn og af þeim náðu 8 að verða tvítug, 4 synir og 4 dætur.[151] Hjónaband hans og seinni konunnar var hins vegar barnlaust,[152] enda voru bæði komin þó nokkuð á fimmtugsaldur þegar þau rugluðu saman reitum sínum árið 1835. Bergljót Jónsdóttir, seinni kona Kjartans í Tröð, átti hins vegar börn í sínu fyrra hjónabandi með Páli Pálssyni, bónda á Melanesi á Rauðasandi, og fylgdu a.m.k. sum þeirra henni til Önundarfjarðar.[153] Árið 1840 voru tvær dætur Bergljótar hjá þeim Kjartani í Tröð, Guðbjörg Pálsdóttir, sem þá var sögð 18 ára, og Ingibjörg Pálsdóttir, talin 9 ára.[154]

Einn sona Kjartans í Tröð var Rósinkranz sem fæddist á Eyri vorið 1825[155] og var því rétt eins árs gamall þegar hann fluttist með foreldrum sínum að Tröð. Þar ólst hann upp og í sóknarmannatali frá árinu 1844 lætur séra Sigurður Tómasson vera að nefna hann fullu nafni en kallar piltinn bara Kransa.[156]

Haustið 1849 gekk Rósinkranz að eiga Guðlaugu Pálsdóttur sem var ein dætra Bergljótar stjúpmóður hans úr hennar fyrra hjónabandi.[157] Guðlaug var tveimur árum yngri en Rósinkranz, fædd 30. júní 1827 á Melanesi á Rauðasandi.[158] Árið sem móðir hennar gekk að eiga Kjartan í Tröð var stúlka þessi tökubarn í Botni í Dýrafirði, hjá Sveini Magnússyni og Málfríði Pálsdóttur konu hans.[159] Þar var hún enn tíu árum síðar, kölluð uppalningsstúlka og orðin 18 ára.[160] Árið 1847 eða 1848 kom hún að Tröð[161] og dró þá brátt saman með þeim Rósinkranz.

Vorið 1852 tóku ungu hjónin, Rósinkranz Kjartansson og Guðlaug Pálsdóttir, við búsforráðum í Tröð.[162] Foreldrar þeirra, þau Kjartan og Bergljót, voru þá komin á sjötugsaldur og gerðust húsfólk í Tröð þegar ungu hjónin tóku við búinu.[163] Árið 1860 voru þau bæði á heimili barna sinna í Tröð en þá var Kjartan orðinn blindur. Hann andaðist í Tröð haustið 1863 en Bergljót dó tíu árum síðar.[164]

Þegar Rósinkranz Kjartansson tók við búi af föður sínum í Tröð vorið 1852 voru bæjarhúsin tekin út. Baðstofa Traðarfólksins var þá 11,3 x 4,5 álnir,[165] það er 20 fermetrar sem þótti þá mjög rúmgott húsnæði. Hæð baðstofuhússins frá gólfi og upp í mæni var rétt liðlega 6 álnir eða um 3,8 metrar og skiptist þannig að niðri var hæðin undir loft um það bil 1,72 metrar en uppi 2,07 metrar.[166] Á baðstofuloftinu voru þrjú stafgólf undir súð.[167] Búrið í Tröð var líka stærra en almennt var eða um það bil tíu og hálfur fermetri og eldhúsið tæplega níu fermetrar.[168] Bæjargöngin voru um sex metrar á lengd og liðlega einn metri á breidd.[169]

Rósinkranz Kjartansson bjó í Tröð frá 1852 til 1890 eða í 38 ár.[170] Hann bjó einn á allri jörðinni[171] og mun jafnan hafa verið með eitt stærsta búið í Mosvallahreppi. Í allgóðri heimild er fullyrt að á árunum 1870-1890 hafi Rósinkranz verið annar best stæði bóndinn í hreppnum og með annað stærsta búið.[172] Á þeim árum sem þau Guðlaug stóðu fyrir búi í Tröð var komið þar upp kálgarði,[173] færikvíar teknar í notkun[174] og fáum vikum áður en Rósinkranz dó kom eldavél á heimili þeirra Guðlaugar.[175] Þann 11. október 1890 andaðist Rósinkranz bóndi í Tröð[176] og var þá 65 ára gamall. Jón Guðmundsson frá Grafargili greinir frá andláti hans í dagbók sinni og lætur þess getið að hinn látni hafi allan sinn búskap búið við góð efni.[177] Af tólf börnum þessara Traðarhjóna komust níu yfir tvítugt og a.m.k. þrír synir þeirra urðu skipstjórar á þilskipum, þeir Sveinn Rósinkranzson á Hvilft, Páll Rósinkranzson á Kirkjubóli í Korpudal og Kjartan Rósinkranzson á Flateyri.[178] Allir voru þeir líka þátttakendur í skútuútgerð um lengri eða skemmri tíma á árunum kringum aldamótin 1900.[179] Sjálfur átti Rósinkranz Kjartansson í Tröð líka hlut í þilskipi á sínum síðustu árum[180] en stórtækastur á þessu svið varð, Bergur sonur, hans sem taldist eiga tvö þilskip árið 1906 og voru þau bæði gerð út frá Flateyri[181] þar sem Bergur rak líka verslun.

Einn margra sona þeirra Rósinkranz Kjartanssonar og Guðlaugar konu hans var Rósinkranz Rósinkranzson sem tók við búi í Tröð við andlát föður síns árið 1890[182] og bjó þar í nær 40 ár eða allt til ársins 1929 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 359). Kona hans var Guðrún Guðmundsdóttir frá Grafargili og voru þau gefin saman í hjónaband haustið 1889.[183] Eins og faðir hans og afi var Rósinkranz yngri talinn búa við góð efni[184] og Snorri Sigfússon, sem var skólastjóri á Flateyri frá 1912 til 1929,    segir að á þeim árum hafi verið búið snyrtilega í Tröð og bærinn þar verið allvel húsaður.[185]

Um 1920 var jörðin Tröð virt á 2.000,- krónur en hús, sem þá stóðu hér, voru talin 2.300,- króna virði.[186] Í fasteignamatsskjölum frá þeim tíma eru þau sögð vera þessi: Baðstofa úr timbri og torfi með járnþaki, 14 x 6 álnir, með viðbyggðum skúr, 14 x 4 álnir, skemma, hjallur, fjós, eldiviðarhús, 3 hlöður, 2 fjárhús og 2 hesthús.[187] Hús þau sem hér voru talin upp voru virt á 1.350,- krónur samtals en önnur hús í Tröð, sem engin nákvæm grein er gerð fyrir í fasteignamatsskjölunum voru virt á 950,- krónur. Árið 1930 var enn búið í gamla torfbænum í Tröð og ekki búið að leiða vatn í bæinn ef marka má upplýsingar úr fasteignabókinni sem út var gefin árið 1932.[188]

Frá Tröð liggur leið okkar fram Bjarnardal að rústunum af Holtsseli en í grennd við þær mun fornbýlið Arnkelsbrekka hafa verið. Stefnan er til suðurs og vegalengdin um það bil þrír kílómetrar sé veginum fylgt og farið beint af augum. Við höfum góðan tíma og getum því leyft okkur að litast dálítið um heima við bæinn og á leiðinni fram að landamerkjunum á Seljaleiti.

Ofan við túnið í Tröð er holt sem heitir Kýrholt[189] en stundum kallað Sjónarhóll á síðari árum.[190] Niður við Bjarnardalsá og rétt framan við túnið er Kerlingarholt, þá Háholt og fremst var Klukkuholt, svolítið fjær ánni, en það er nú komið undir veg.[191] Framan við túnið er líka gamall stekkur og í honum tvö lambabyrgi. Þessi stekkjartótt er rétt ofan við akveginn sem liggur heim að Tröð og beint niður af loðdýrahúsinu sem hér stendur nú.

Frá stekknum hentar vel að taka strikið í átt að hlaðtóttinni sem blasir við heiman frá Tröð þegar horft er í suð-suðvestur. Tótt þessi er enn í dag nefnd Hlað[192] og stendur norðan við Litlu-Þverá, mjög skammt frá árbakkanum. Hún er neðan við Lambahjalla sem svo heitir en mun ofar er Hríshjalli uppi í fjallinu Messuhorni.[193] Tóttin er stæðileg og við lauslega mælingu reynist ummál hennar vera yfir 20 metrar. Þegar Óskar Einarsson læknir spurðist fyrir um þetta mannvirki á árunum kringum 1930 fékk hann þau svör að þegar fé var beitt hér á haustin hefði það verið rekið inn í Hlaðið á kvöldin því of langt hefði verið talið að reka það heim á hverju kvöldi.[194] Í stað þess að hýsa féð var látið nægja að hlaðsetja það hér fram við ána en hlöð af því tagi sem hér má sjá leifar af voru opin fjárbyrgi með engu þaki.

Frá Hlaðinu við Litlu-Þverá væri fljótlegt að ganga upp í Galtardal en þangað förum við samt ekki í kvöld því stutt er síðan við vorum þar á ferð og skoðuðum fornar seltóttir (sjá hér bls. 1-2). Í stað þess að halda á brekkuna leggjum við leið okkar til baka niður með Litlu-Þverá og yfir Bláholt sem svo heitir en það er blágrýtisholt hér neðan við Hlaðið.[195]

Niður við Bjarnardalsá eru aðeins 300 metrar milli þveránna Litlu-Þverár og Stóru­-Þverár en á þeim spotta er brúin sem þjóðvegurinn liggur um yfir Bjarnardalsá og rétt hjá henni önnur eldri brú frá því um 1930 sem ekki er lengur notuð. Þar sem sú eldri stendur nú mun elsta brúin yfir Bjarnardalsá hafa verið[196] en hún var byggð árið 1892 (sjá hér Mosvallahreppur inngangskafli). Hér við brýrnar mætir akvegurinn frá Tröð sjálfri þjóðbrautinni sem liggur um Bjarnardal á Gemlufallsheiði. Við ármót Stóru-Þverár og Bjarnardalsár höfum við Kirkjuból á vinstri hönd, hinum megin við Bjarnardalsána en það er fremsti bær í Bjarnardal. Á leið okkar til baka frá Holtsseli munum við staldra þar við.

Andspænis Kirkjubóli en í landi Traðar er trjágarður rétt við þjóðveginn. Garður þessi heitir Þverárgerði[197] og liggur milli Litlu-Þverár og Stóru-Þverár. Trjágarði þessum var komið upp á vegum Skógræktarfélags Vestur-Ísfirðinga á árunum 1940-1950.[198] Inni í garðinum er gömul tótt og virðist vera stekkur með lambakró.[199] Frá öðrum stekk, nær túninu í Tröð, var áður sagt.

Frá brúnni yfir Stóru-Þverá er örskammt að rótum Kaldbaks, fjallsins mikla sem setur sinn sterka svip á allan dalinn eins og hér hefur áður verið lýst (sjá hér bls. 1). Holtin hér framan við ána heita Stóru-Þverárholt en hryggurinn sem gengur upp eftir fjallinu, skammt fyrir framan Stóru-Þverá, heitir Traðarháls.[200] Ofan við hann er Smjörhjalli, efsti hjallinn neðan kletta[201] og blasir við frá veginum. Ofar í fjallinu og upp af nýnefndum hjalla er strýtumyndaður klettur sem heitir Kerling.[202] Frá henni liggur sylla sem nefnd er Gangur um klettavegginn í austanverðum Kaldbak og nær alla leið fram í Skáldagrímsdal, þverdal í fjallendinu rétt sunnan við Kaldbak.[203]

Hér á brúnni yfir Stóru-Þverá getum við valið um tvær leiðir fram að Holtsseli. Annar kosturinn er sá að fylgja þjóðbrautinni sem fer smátt og smátt hækkandi í átt til Gemlufallsheiðar þegar kemur fram fyrir Kirkjuból. Frá henni mætti svo hlaupa niður að selinu sem er beint niður undan Skáldagrímsdal og er það skammur spölur. Hinn kosturinn er að fylgja gamla veginum, sem liggur neðar, og er það tvímælalaust skemmtilegri gönguleið. Hana veljum við nú og fyrr en varir er Kaldbakur ekki lengur fram undan en tröllsleg hamrabelti fjallsins þess í stað komin okkur á hægri hönd.

Á leiðinni frá Traðarhálsi fram að Seljaleiti skiptast á hvammar og skriður. Að sögn Magnúsar Guðmundssonar, sem nú (1994) hefur lengi búið í Tröð, er röðin þessi: Traðarháls, Urðarhvammur, Vaðalhvammsskriða, Vaðalhvammur, Djúpahvammsskriða, Djúpihvammur og Seljaleiti framan við hann.[204] Í bók Óskars læknis Einarssonar um aldarfar og örnefni í Önundarfirði er röðin ekki alveg svona og hvamminn sem Magnús segir tvímælalaust heita Vaðalhvamm nefnir Óskar Vaðlahvamm.[205] Í Djúpahvammi voru lömbin frá Tröð setin í fyrri daga[206] en nær beint á móti honum fellur Kálfabanaá niður hlíðina handan Bjarnardalsár í landi Kirkjubóls (sjá hér Kirkjuból í Bjarnardal). Ofan við Seljaleiti er breiður grasteigur, rétt neðan við klettana í Kaldbak, og heitir Fles.[207]

Seljaleiti er hryggur sem byrgir fyrir útsýni fram dalinn og á því eru landamerki Traðar og sellandsins[208] sem nú hefur tilheyrt staðnum í Holti í margar aldir. Frá Seljaleiti er mjög skammt að rústunum sem sýna hvar Holtsselið var eða um 800 metrar héðan og frá leitinu blasa þær við augum, skammt frá árbakkanum. Framan við Seljaleiti en heiman við Holtssel var hið forna býli Arnkelsbrekka[209] sem líkur benda til að hafi farið í eyði á 15. eða 16. öld eins og hér verður brátt gerð grein fyrir.

Frá Seljaleiti skundum við nú beint að seltóttunum og verðum í Holtsseli í nótt.

 

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Óskar Einarsson 1951, 109.

[2] Sama heimild.

[3] Sama heimild.

[4] Magnús Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 27.6.1994.

[5] Óskar Ein. 1951, 109.

[6] Magnús Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 27.6.1994.

[7] Óskar Ein. 1951, 108.

[8] Sama heimild, 109.

[9] Sama heimild.

[10] Magnús Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 27.7.1994

[11] Óskar Ein. 1951, 108.

[12] Sama heimild, 109.

[13] Sama heimild.

[14] Sama heimild.

[15] Óskar Ein. 1951, 109.

[16] Guðmundur Ingi Kristjánsson. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1994.

[17] Jarðab. Á. og P. VII, 106. Sóknalýs. Vestfj. II, 103.

[18] Sama heimild, 106-107.

[19] Sama heimild.

[20] Annálar IV, 253.

[21] Sama heimild.

[22] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók fasteignamatsnefndar V-Ís., löggilt 9.3.1916, bls. 71. Gjörðabók undirmats-

nefndar í V-Ís., löggilt 23.6.1919, bls. 154.

[23] Sömu heimildir.

[24] Sömu heimildir.

[25] Sömu heimildir.

[26] Óskar Ein. 1951, 109.

[27] Óskar Ein. 1951, 109..

[28] Fasteignamatsskjöl. . Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 23.6.1919, bls. 154.

[29] D.I. IV, 141-142.

[30] Jarðab. Á. og P. VII, 106-107.

[31] Sóknalýs. Vestfj. II, 107.

[32] D.I. IV, 141-142.

[33] D.I. XIII, 152.

[34] Alþ.bækur Ísl. VII, 154-155.

[35] Ísl. æviskrár IV, 303.

[36] Sama heimild.

[37] Ísl. æviskrár V, 30-31.

[38] Annálar III, 150.

[39] Ísl. æviskrár V, 30-31 og I, 388-389.

[40] Alþ.bækur Ísl. VII, 154-155.

[41] Sama heimild.

[42] Ísl. æviskrár IV, 303.

[43] Rtk.2.1. Stríðshjálpin 1681.

[44] Sama heimild.

[45] Manntal 1703. Jarðab. Á. og P. VII, 106-107. Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, eftirrit – þar Jarða- og

bændatal úr Ísafj.sýslu frá árinu 1735 eða þar um bil.

[46] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753. Manntal 1762.

[47] Manntöl 1801 og 1816.

[48] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrsla 1830. Manntöl 1835, 1840, 1845, 1850, 1860, 1870, 1880,

1890 og 1901. Ól. Þ. Kr. 1948, 73 (Frá ystu nesjum IV).

[49] Jarðab. Á. og P. VII, 106-107.

[50] Manntal 1703.

[51] Sama heimild.

[52] Jarðabréf frá 16. og17. öld. Útdrættir. (Kph. 1993), bls. 170 og 178-179.

[53] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[54] Sama heimild.

[55] Ólafur Björnsson 1953, 76-78 (Bókin Alþ. og fjárhagsmálin, ritg. Ólafs þar).

[56] Manntal 1762.

[57] Manntal 1762.

[58] Jarðab. Á. og P. VII, 106.

[59] Sama heimild, 67.

[60] Ísl. æviskrár III, 173.

[61] Manntal 1762.

[62] Ísl. æviskrár I, 145.

[63] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV. 6. Dóma-og þingbók 1817-1834, bls. 153.

[64] Jarðab. Á. og P. VII, 106-107.

[65] Sama heimild.

[66] Sama heimild.

[67] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[68] Jarðab. Á. og P. VII, 106-107.

[69] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[70] Jarðab. Á. og P. VII, 106-107.

[71] Sama heimild.

[72] Sama heimild.

[73] VA III, 417, búnaðarskýrslur 1860.

[74] Manntöl 1703 og 1762.

[75] Manntal 1762.

[76] Sama heimild.

[77] Manntöl 1801 og 1845.

[78] Manntal 1860.

[79] Manntal 1762.

[80] Manntal 1801. Ól. Þ. Kr.: Önfirðingar.

[81] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[82] Ól. Þ. Kr.: Önfirðingar.

[83] Sama heimild.

[84] Manntal 1801.

[85] Ól. Þ. Kr.: Önfirðingar.

[86] Sama heimild.

[87] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[88] Sóknarm.töl Holts í Önundarf. Manntöl 1801 og 1816.

[89] Sömu heimildir.

[90] Manntal 1816, vesturamt, bls. 693.

[91] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[92] Sama heimild.

[93] Sama heimild.

[94] Ól. Þ. Kr.: Önfirðingar.

[95] Sama heimild.

[96] Sóknarm.töl Holts í Önundarf. Manntal 1816, vesturamt, bls. 690-691.

[97] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[98] Manntal 1801, vesturamt, bls. 273. Ól. Þ. Kr.: Önfirðingar.

[99] Manntal 1801, vesturamt, bls. 274. Manntal 1816, vesturamt, bls. 693.

[100] Manntal 1801.

[101] Manntal 1816, vesturamt, bls. 693.

[102] Manntal 1816, vesturamt, bls. 693.

[103] Manntal 1816.

[104] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1. búnaðarskýrslur 1821.

[105] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[106] Sama heimild.

[107] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1. búnaðarskýrslur 1825 og 1826.

[108] Sama heimild.

[109] Sama askja, bún.skýrslur 1827 og 1828. Sóknarm.töl Holts í Ön.f. 1829-1900. Sbr. Firðir og fólk 1900-1999,  359.

[110] Manntal 1840.

[111] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916, bls. 71.

[112] Ól. Þ. Kr./ Önfirðingar.

[113] Ól. Þ. Kr. 1948, 73-74 og Manntal 1801, vesturamt, bls. 301.

[114] Ísl. æviskrár II, 43-44. Ól. Þ. Kr. 1948, 65-66 og 73-74.

[115] Ól. Þ. Kr. 1948, 65-66.

[116] Manntal 1801. Sbr. Ól. Þ. Kr. 1948, 63-78.

[117] Ól. Þ. Kr. 1948, 65-66.

[118] Ól. Þ. Kr. 1948, 65-66.

[119] Sama heimild.

[120] Sama heimild.

[121] Ól. Þ. Kr. 1948, 67-68 (Frá ystu nesjum IV).

[122] Sama heimild, 67.

[123] Sama heimild, 74. Sbr. Manntal 1816 og Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1. búnaðarskýrslur 1821.

[124] Ól. Þ. Kr. 1948, 73-74 og Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[125] Sama heimild. Manntal 1801, vesturamt, bls. 228-229. Sóknarm.tal Sauðlauksd.pr.kalls frá árinu 1782.

[126] Prestsþj.b. Sauðlauksdalspr.kalls.

[127] Ísl. æviskrár I, 302.

[128] Ól. Þ. Kr. 1948, 73-74.

[129] Manntal 1835.

[130] Ísl. æviskrár I, 302.

[131] Ól. Þ. Kr. 1948, 73-74.

[132] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1. búnaðarskýrslur 1834.

[133] Sama heimild og aðrar búnaðarskýrslur úr Mosvallahreppi frá árunum 1825-1855.

[134] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1. búnaðarskýrslur úr Mosvallahr. 1830-1837. VA III, 412, búnaðarskýrslur

  1. Sóknarm.töl Holts í Önundarf. 1830-1855.

[135] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1. búnaðarskýrslur 1830.

[136] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1. búnaðarskýrslur 1830.

[137] Sama heimild.

[138] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[139] Sama heimild.

[140] Sama heimild.

[141] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1. búnaðarskýrslur 1830, 1834 og 1837.

[142] Sama heimild.

[143] Prestsþj.b. Holts í Önundarf. Halldór Kr. 1977, 116-117 (Ársrit S.Í.).

[144] Sama heimild.

[145] H. Kr. 1977, 116-117.

[146] Ól. Þ. Kr. 1948, 73-76 (Frá ystu nesjum IV).

[147] Ól. Þ. Kr. 1948, 73-77.

[148] Sama heimild.

[149] H. Kr. 1977, 116-117 (Ársrit S.Í.). VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[150] VA III, 412 og 421, búnaðarskýrslur 1850, 1860 og 1870.

[151] Ól. Þ. Kr. 1948, 73-78.

[152] Sama heimild.

[153] Sama heimild. Manntal 1840.

[154] Manntal 1840.

[155] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[156] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[157] Ól. Þ. Kr. 1948, 76.

[158] Ól. Þ. Kr./ Önfirðingar.

[159] Manntal 1835.

[160] Manntal 1845.

[161] Ól. Þ. Kr./ Önfirðingar.

[162] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 6. Úttektabók 1835-1874, bls. 73-74.

[163] Sama heimild.

[164] Ól. Þ. Kr. 1948, 73-74.

[165] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 6. Úttektabók 1835-1874, bls. 73-74.

[166] Sama heimild.

[167] Sama heimild.

[168] Sama heimild.

[169] Sama heimild.

[170] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[171] Sama heimild.

[172] Jóhannes Davíðsson 1976, 92. Sbr. Lbs. 45824to, Dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili 13.10.1890.

[173] VA III, 421, búnaðarskýrslur 1870.

[174] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[175] Lbs. 45824to, Dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili 24.9.1890.

[176] Ól. Þ. Kr. 1948, 76.

[177] Lbs. 45824to, Dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili 13.10.1890.

[178] Ól. Þ. Kr. 1948, 76-77.

[179] Skj.s. sýlsum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 4. Hreppsbók 1849-1883 og Mosv.hr. 5. Hreppsbók 1883-1912.

[180] Sömu heimildir.

[181] Skj.s. sýlsum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 4. Hreppsbók 1849-1883 og Mosv.hr. 5. Hreppsbók 1883-1912.

[182] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[183] Lbs. 45824to, Dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili 15.9.1889.

[184] Snorri Sigfússon 1969, 115.

[185] Sama heimild.

[186] Fasteignabók 1921.

[187] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 154.

[188] Fasteignabók 1932.

[189] Óskar Ein. 1951, 109.

[190] Magnús Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 27.6.1994.

[191] Óskar Ein. 1951, 109. Magnús Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 27.6.1994.

[192] Sömu heimildir.

[193] Óskar Ein. 1951, 109.

[194] Sama heimild.

[195] Óskar Ein. 1951, 109.

[196] Guðm. I. Kristjánsson. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1994.

[197] Sama heimild.

[198] Sama heimild.

[199] Jóhanna Kristjánsdóttir Kirkjubóli. – Viðtal K.Ó. við hana 26.6.1994.

[200] Óskar Ein. 1951, 108.

[201] Sama heimild. Magnús Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 27.6.1994.

[202] Óskar Ein. 1951, 108.

[203] Sama heimild.

[204] Magnús Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 27.6.1994.

[205] Óskar Ein. 1951, 108.

[206] Sama heimild.

[207] Óskar Ein. 1951, 108. Magnús Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 27.6.1994.

[208] Óskar Ein. 1951, 108.

[209] Jarðab. Á. og P. VII, 105.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »