Tunga í Firði

Tunga er innsta jörð í Firðinum fyrir botni Önundarfjarðar og fór í eyði árið 1959. Til aðgreiningar frá Tungu í Valþjófsdal var þessi jörð mjög oft nefnd Tunga í Firði. Að fornu mati var hún yfirleitt talin 18 hundruð að dýrleika[1] en árið 1710 kunnu Önfirðingar frá því að segja að allmörgum áratugum fyrr hafi séra Jón Sveinsson í Holti þó talið þessa jörð dóttur sinni fyrir 20 hundruð og þannig hafi hún síðan verið tíunduð.[2] Séra Jón Sveinsson átti aðeins eina dóttur,[3] Þórunni, sem giftist Birni Snæbjörnssyni frá Kirkjubóli í Valþjófsdal árið 1643, en hann var þá skólameistari í Skálholti (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal). Nær fullvíst má því telja að hin verðandi skólameistarafrú í Skálholti hafi fengið Tungu í heimanmund.

Hér hefur áður verið gerð grein fyrir landamerkjum á móti Hóli en á hinn veginn á Tunga land á móti jörðinni Hesti og þar er það Hestá sem skiptir löndum, með þeirri undantekningu þó að rétt við tún þessara tveggja jarða er það Hvolpalæna sem segir til um merkin og á Tunga það land sem liggur milli ár og lænu.[4] Lænan sem þarna er nefnd rennur eftur gömlum árfarvegi og er talsvert nær Hesti en megináin.[5] Svo má heita að allt land Tungu sé í tungunni milli Tunguár og Hestár en þar er líka klettafjallið Tunguhorn sem setur sinn sterka svip á nær alla landareign jarðarinnar. Nafnið Tunguhorn er nú notað um allt fjallið[6] en í sóknalýsingu frá 1840 er það nefnt Tungufjall.[7]

Tunguá kemur úr vatni sem er uppi á Vatnabrekkum, fyrir botni Ekkilsdals,[8] og stefna hennar er frá suðri til norðurs. Hestá kemur undan Hestskarði (sjá hér Hestur) og meginstefna hennar er frá aust-suðaustri til vest-norðvesturs. Um 400 metrum neðan við bæjarstæðið í Tungu fellur Tunguá í Hestá og þar, handan við ármótin, er túnið á Hesti.

Heiman frá Tungu er aðeins hálfur kílómetri fram að rótum Tunguhorns. Fjallsbrúnin, sem við blasir frá hlaðinu í Tungu, er í 589 metra hæð yfir sjávarmáli en við botn Ekkilsdals er fjallið nokkru hærra en nær þó hvergi 700 metrum. Dalurinn vestan við Tunguhornið heitir Ekkilsdalur eins og hér hefur áður verið nefnt en eldra nafn á honum mun vera Arnkelsdalur (sjá hér Hóll í Firði). Um þennan dal fellur Tunguá. Loftlína frá Tungu og fram á fjallsbrún fyrir botni dalsins er tæplega fjórir kílómetrar.

Norðan við fjallið Tunguhorn er Hestdalur en sá hluti hans sem liggur vestan (sunnan) við Hestá kallast Tungudalur eða Tunguhlíð.[9] Norðan við dalinn er hið svipfagra fjall Hestur, sem hér er frá sagt á öðrum stað (sjá Hestur), en yfir sunnanverðum dalbotninum gnæfir Þverfell sem mun vera hæsta fjall í Önundarfirði en efsti kollur þess er í 908 metra hæð yfir sjávarmáli. Norðan við Þverfellið er Hestskarð.

Á fyrri tíð mun Tunga í Firði hafa þótt allgóð bújörð því hér er víðlent og gott beitiland.[10] Túnið var hins vegar bæði þýft og grýtt og lá enn undir skemmdum af Tunguá á árunum kringum 1920.[11] Slægjur þóttu reitingslegar og voru á víð og dreif um bithaga.[12] Í Jarðabókinni frá 1710 er gert mjög mikið úr skemmdum á túninu af völdum Tunguár en þar segir svo um tún og engi þessarar jarðar:

 

Á tún jarðarinnar gengur á sem hefur brotið það af til þriðjunga og spillir meir og meir. Annars vegar éta vatnsrásir rótina úr túninu og fordjarfa það. Engjunum hefur og áin spillt og tekið af þeirra mikinn hluta. Í öðrum stað hafa skriður öldungis aftekið engið.[13]

 

Vegna þessara orða skal tekið fram að árið 1840 þóttu engjarnar í Tungu hreint ekki sem verstar því þá var jörðin talin vera sæmileg slægnajörð.[14]

Árið 1700 var landskuld af Tungu 5 vættir,[15] það er fimm sjöttu hlutar úr kýrverði, en lækkaði árið 1705 niður í 4 vættir.[16] Sú fjárhæð var enn óbreytt árin 1753 og 1847[17] en á árunum kringum 1920 var landskuldin komin niður í 2 ær og hálfan gemling[18] en í landaurareikningi var hver ær virt á eina vætt (20 álnir).

Um 1700 fylgdu jörðinni 6 kúgildi (36 ær) og svo hafði verið eins lengi og þeir mundu sem elstir voru árið 1710.[19] Í stórubólu, sem hér geisaði árið 1707, fækkaði innstæðukúgildunum í Tungu úr sex í fjögur.[20] Árið 1753 voru þessi leigukúgildi, sem fylgdu jörðinni, ekki nema þrjú[21] og sú tala var óbreytt árið 1805.[22] Á árunum kringum 1920 fylgdu jörðinni enn 18 leiguær[23] sem svarar til þriggja kúgilda.

Jarðarinnar Tungu í Önundarfirði er fyrst getið í kaupmálabréfi frá 18. október 1452 en í bréfinu er tekið fram að það sé skrifað í Tungu í Önundarfirði.[24] Nær fullvíst má telja að þarna sé átt við Tungu í Firði því jörðin Tunga í Valþjófsdal, sem er líka í Önundarfirði, var yfirleitt kennd við dalinn en ekki við fjörðinn.

Fyrsti eigandi Tungu, sem um er kunnugt, er séra Jón Sveinsson sem var prestur í Holti og andaðist árið 1661. Hér var áður frá því greint að séra Jón, sem var bróðir Brynjólfs Sveinssonar biskups, hefði látið jörðina ganga til Þórunnar dóttur sinnar sem árið 1643 giftist Birni Snæbjörnssyni frá Kirkjubóli í Valþjófsdal (sjá hér bls. 1) en hann var þá skólameistari í Skálholti. Síðar var Björn lengi prestur á Staðastað á Snæfellsnesi. Árið 1710 átti Björn Jónsson Thorlacius, spítalahaldari á Hörgslandi á Síðu, þessa jörð[25]  en tengdamóðir hans, Þóra Björnsdóttir, var dóttir hjónanna séra Björns Snæbjörnssonar og Þórunnar Jónsdóttur frá Holti sem hér voru áður nefnd (sjá Vífilsmýrar).

Árið 1741 var Tunga í eigu Þóru Björnsdóttur Thorlacius, biskupsfrúar á Hólum[26] en hún var dóttir spítalahaldarans á Hörgslandi sem átti jörðina árið 1710. Ljóst er að á 17. og 18. öld hefur jörðin því verið mjög lengi í eigu sömu ættar, það er niðja séra Sveins Símonarsonar í Holti. Fyrstur þeirra ættmenna átti jörðina, svo vitað sé með vissu, séra Jón sonur hans en frá honum var biskupsfrúin á Hólum, sem hér var síðast nefnd, fjórði ættliður í beinan kvenlegg.

Maður Þóru Björnsdóttur var Halldór Brynjólfsson biskup og árið 1741 veðsetti hann Tungu og fleiri jarðeignir konu sinnar í Önundarfirði til tryggingar greiðslu á fjármunum sem hann hafði fengið lánaða hjá dönskum einokunarkaupmönnum til að borga kostnað af Kaupmannahafnardvöl sinni á því ári.[27]

Líklega hefur séra Halldór tapað jörðinni í hendur hinna dönsku einokunarkaupmanna því haustið 1744 seldi Hörmangarafélagið Guðrúnu Ásmundsdóttur í Hnífsdal 12 hundruð í Tungu í Önundarfirði en fyrir hönd félagsins sá Erlendur Ólafsson sýslumaður um þá sölu.[28] Með þessum jarðarhundruðum fylgdu 16 ær og var allt selt á 68 ríkisdali.[29] Um svipað leyti mun Þorkell Jónsson í Arnardal við Skutulsfjörð hafa eignast þau 6 hundruð í jörðinni Tungu sem Guðrún keypti ekki því hann var með vissu eigandi þeirra árið 1745 og seldi þau þá um haustið Þórdísi Jónsdóttur.[30] Þorkell þessi var nefndur Galdra-Keli og ættfróðir menn telja líklegt að hann hafi verið bróðir Jóns Jónssonar í Hnífsdal sem nýnefnd Guðrún Ásmundsdóttir hafði verið gift en sonur þeirra Jóns og Guðrúnar var Jón Jónsson, lögréttumaður í Hnífsdal.[31]

Árið 1762 var Tunga komin í eigu Magnúsar Oddssonar[32] og gera má ráð fyrir að þar sé um að ræða Magnús Oddsson, sem þá átti heima á Kirkjubóli í Skutulsfirði,[33] en var árið 1801 bóndi á Vífilsmýrum og er þá sagður 77 ára gamall.[34] Hann var þá kvæntur Guðnýju Björnsdóttur, sem var fjórum árum eldri,[35] og árið 1805 var Tunga komin í eigu Gissurar Jónssonar, sem var tengdasonur Guðnýjar, og Sveins Oddssonar sem var dóttursonur hennar.[36] Árið 1805 átti Gissur heima á Tjaldanesi,[37] líklega í Arnarfirði, en fluttist síðar að Bræðrabrekku í Bitru.[38] Sveinn Oddsson var árið 1805 farinn að búa á Vífilsmýrum og bjó þar enn þegar hann drukknaði vorið 1812 (sjá hér Vífilsmýrum).

Á árunum 1805-1813 komst jörðin í eigu Margrétar Guðnadóttur, húsfreyju á Gelti í Súgandafirði, því við skipti á dánarbúi hennar þann 22. apríl 1814 fékk Bjarni Jónsson, sonur Margrétar, Tungu í arf eftir móður sína.[39] Tíu árum síðar fluttust Bjarni og fjölskylda hans frá Gelti að Tungu[40] og hófu þá búskap á þessari eignarjörð sinni. Bjarni Jónsson frá Gelti andaðist í Tungu árið 1855 (sjá hér bls. 10) og hafði þá búið hér í liðlega 30 ár.[41] Að Bjarna látnum hélt ekkja hans áfram búskap í Tungu og síðan niðjar þeirra allt til ársins 1920 (sjá hér bls. 9-18). Frá 1824 til 1920 mun Tunga því yfirleitt hafa verið í sjálfsábúð eða ábúendur þar verið landsetar náinna ættingja sinna.[42]

Árið 1901 voru Þorkatla Bjarnadóttir og Bjarni Kristjánsson eigendur Tungu.[43] Þorkatla, sem var dóttir Bjarna Jónssonar frá Gelti, stóð þá enn fyrir búi á býli þessu (sjá hér bls. 12-13) en Bjarni Kristjánsson, sem átti einhvern part í jörðinni, er að öllum líkindum systursonur hennar með því nafni sem þá átti heima á Ísafirði og er í manntali frá árinu 1901 sagður vera fyrrverandi skipstjóri.[44]

Fyrstu bændurnir í Tungu, sem þekktir eru með nafni, eru þeir Bjarni Tómasson og Einar Þorleifsson sem bjuggu hér í tvíbýli árið 1681.[45] Líklega er það sami Einar Þorleifsson sem hér var bóndi 1681, 1703 og 1710, sagður 62ja ára árið 1703.[46] Einar þessi hefur því búið í Tungu í um það bil 30 ár eða lengur, lengst á hálfri jörðinni[47] en árið 1710 var hann eini bóndinn hér í Tungu.[48]

Á 18. öld mun oftast hafa verið hér tvíbýli[49] en þó kom fyrir að einn bóndi hefði alla jörðina til ábúðar[50] og dæmi finnast um þríbýli.[51]

Úr röðum þeirra sem bjuggu í Tungu á 18. öld skal minnt á Pantaleon Einarsson, sem stundum er reyndar bara nefndur Panti í bændatölum en hann var bóndi hér árið 1735 og líka 1753.[52] Árið 1753 hétu bændurnir í Tungu Pantaleon og Lífgjarn en Lífgjarn nokkur Jónsson var þá sambýlismaður Panta.[53] Ótvírætt virðist reyndar að í Önundarfirði hafi á 18. öld verið á dögum a.m.k. tveir menn sem hétu Pantaleon Einarsson því Panti sem bjó í Tungu árið 1735 getur ekki verið sá Pantaleon Einarsson sem dó á leið frá kirkju í janúarmánuði árið 1800 og frá er greint í prestsþjónustubókinni.[54] Ekki er unnt að fullyrða hvernig skyldleika þeirra hefur verið háttað en verið getur að Panti Einarsson sem bjó í Tungu árið 1735 hafi verið afi Pantaleons Einarssonar sem sagður var 79 ára að aldri þegar hann gaf upp andann á Mosvallaskeiði á leið frá kirkju í janúarmánuði árið 1800, þá ekkjumaður á Tannanesi.[55] Sonur Pantaleons eldri og faðir Pantaleons yngri gæti sem best hafa verið Einar Pantaleonsson sem var bóndi í Mosdal árið 1753.[56]

Hinn eldri Pantaleon mun hafa verið bærilega efnaður bóndi á sínum efri árum því ugglaust er það hann sem býr í Tungu árið 1753 og tíundar þá sex lausafjárhundruð.[57] Af átta bændum á jörðunum Vífilsmýrum, Hóli og Tungu var Panti sá sem átti næstmest lausafé á þessum tíma.[58] Líklegt er að þá hafi hann verið orðinn gamall því ætla má að Ari Pantason og Margrét Pantadóttir, sem bjuggu hvort um sig á nokkrum hundruðum í Tungu árið 1762 og voru þá 47 og 50 ára,[59] hafi verið hans börn. Þessi eldri Panti mun hafa verið fæddur um 1680 og má gera ráð fyrir að það sé hann sem árið 1703 var vinnumaður í Holti, sagður 22ja ára gamall.[60] Pantaleon Einarsson, sem bjó á Vífilsmýrum árið 1762,[61] og var þá sagður fertugur að aldri er hins vegar tvímælalaust Pantaleon yngri, sá hinn sami og andaðist á Mosvallaskeiði aldamótaárið 1800.

Árið 1790 bjuggu í Tungu hjónin Oddur Gíslason (sjá hér Vífilsmýrar) og Guðrún Sveinsdóttir.[62] Oddur var frá Kirkjubóli í Korpudal (sjá hér Vífilsmýrar) en foreldrar Guðrúnar höfðu búið á Ósi í Bolungavík.[63] Oddur bóndi í Tungu andaðist árið 1791 (sjá hér Vífilsmýrar) en Guðrún, kona hans, giftist í annað sinn haustið 1792.[64] Seinni maður hennar var Gissur Jónsson frá Görðum[65] sem var annar tveggja eigenda Tungu árið 1805 (sjá hér bls. 4). Gissur bjó hér í fjögur ár, frá 1792 til 1796, en fluttist þá að Vífilsmýrum.[66] Vorið 1795 fór Gísli Oddsson, sonur Guðrúnar húsfreyju og fyrri eiginmanns hennar, að búa hér í Tungu á móti Gissuri, stjúpföður sínum.[67] Gísli var þá um tvítugt eða liðlega tvítugur og kvæntist þetta sama vor stúlku sem hét Maren Guðmundsdóttir[68] og var fædd í Ögursveit við Ísafjarðardjúp.[69]

Guðmundur G. Hagalín rithöfundur, sem var niðji þessara hjóna, segir að foreldrar Marenar hafi búið á Borg í Skötufirði og þangað hafi Gísli frá Tungu farið að vorlagi til að bera upp bónorðið.[70] Að sögn Hagalíns fékk pilturinn algera neitun hjá foreldrum stúlkunnar en sjálf reyndist Maren fús til að ganga að eiga þennan önfirska bóndason.[71] Að því sinni varð Gísli þó frá að hverfa en um haustið kom hann aftur ríðandi þessa löngu leið og hafði þá söðulhest í taumi.[72] Þegar biðillinn nálgaðist Borg var komið kvöld en stúlkuna sem hann þráði hitti hann þó í túnfætinum, lyfti henni sem snarast í söðulinn og þeysti af stað í átt til heimahaganna.[73] Hafi þau farið fjallasýn norðan við Glámu er vegalengdin frá Borg í Skötufirði að Tungu í Önundarfirði um 30 kílómetrar en sú leið liggur efst í allt að 950 metra hæð yfir sjávarmáli. Aðrar reiðleiðir eru hins vegar talsvert lengri.

Þessi ættarsögn, sem Guðmundur G. Hagalín festi á bók, ber svip af ævintýri og vel má vera að allt sé þetta skáldskapur. Hitt er þó líklegra að sagan af brúðarráni Gísla í Tungu hafi ekki orðið til úr engu og hvað sem öðru líður geymir hún vísbendingu um að Maren hafi gengið með honum upp að altarinu án samþykkis sinna forráðamanna.

Foreldrar Marenar voru Guðmundur Þórðarson, sem fæddist á Borg í Skötufirði um 1750, og Solveig Þórðardóttir, kona hans, en faðir hennar var Þórður Ólafsson, stúdent í Vigur[74] og þar fæddist Maren árið 1771 eða því sem næst.[75] Sú staðreynd að faðir Marenar var fæddur á Borg í Skötufirði styrkir menn væntanlega í þeirri trú að hann kunni líka að hafa búið þar með konu sinni og dóttur eins og Guðmundur Hagalín heldur fram. Gallinn er bara sá að þessi meinti bóndi á Borg andaðist að minnsta kosti 7 árum áður en Maren dóttir hans gekk að eiga strákinn í Tungu.[76] Hún var því ekki eldri en 17 ára þegar faðir hennar dó og máske þó nokkru yngri. Það hefur því varla verið faðir stúlkunnar sem reyndi að koma í veg fyrir að hún tæki saman við Gísla.

Í skjallegum heimildum má sjá að móðir Marenar, Solveig Þórðardóttir, fór að eiga börn með nýjum eiginmani eigi síðar en árið 1789.[77] Seinni maður hennar hét Guðmundur Þorvarðsson og vorið 1789 fór hann að búa á Eyri í Önundarfirði (sjá hér Hvilft). Líklegt er að Maren hafi flust til Önundarfjarðar með móður sinni og fullvíst að þegar hún giftist Gísla í Tungu vorið 1795 átti hún heima á Hvilft hjá móður sinni og stjúpföður.[78] Þau höfðu þá búið þar í fjögur ár og áður tvö ár á Eyri (sjá hér Hvilft). Í prestsþjónustubókinni frá Holti segir svo um giftingu þeirra Gísla og Marenar:

 

1795 – 27. Aprilis trúlofað en 25. Maj fastnað eftir 3 lýsingar með yngismanninum Gísla Oddssyni frá Tungu, 19 ára, og yngismeynni Marinn Guðmundsdóttur frá Hvilft, 24 ára. Hans svaramaður stjúpfaðir hans, Gissur Jónsson í Tungu, hennar presturinn, séra Jón Sigurðsson í Holti. Skilmálar eftir norsku lögum.[79]

 

Þarna er Gísli sagður vera aðeins 19 ára gamall en ef marka má þann aldur sem tilgreindur er í manntölum frá árunum 1801 og 1845 hefur hann verið fjórum til sex árum eldri.[80]

Af því sem hér hefur verið sagt má ráða að hafi einhverjir forráðamenn Marenar Guðmundsdóttur reynt að hindra að hún gengi að eiga Gísla þá hafa það verið Solveig, móðir hennar, og Guðmundur Þorvarðsson sem var stjúpfaðir stúlkunnar. Athygli vekur að presturinn í Holti var svaramaður Marenar þegar hún gekk að eiga Gísla og gæti bent til þess að hjónavígslan hafi farið fram í óþökk stjúpföður hennar. Að minnsta kosti fylgdi hann henni ekki upp að altarinu eins og þó hefði mátt kallast eðlilegt. Við getum því héreftir sem hingað til alið á þeirri trú að Maren hafi játast Gísla í óþökk sinna forráðamanna. Allt bendir hins vegar til þess að það hafi verið í túnfætinum á Hvilft sem hann sveiflaði henni í söðulinn en ekki norður í Skötufirði.

Guðmundur Þorvarðsson, stjúpfaðir Marenar, varð skammlífur því hann andaðist snögglega sumarið 1796, aðeins hálffertugur að aldri eða því sem næst, og var þá orðinn hreppstjóri (sjá hér Hvilft). Hafi Maren átt í einhverju stríði við móður sína út af Gísla má ætla að þar hafi fljótlega gróið um heilt og svo mikið er víst að þegar móðir hennar varð ekkja í annað sinn fluttust þau Gísli og Maren frá Tungu að Hvilft og tóku þar við búsforráðum af Solveigu. Þar bjuggu þau í fáein ár (sjá hér Hvilft) en voru árið 1801 komin að Vífilsmýrum.[81] Seinna bjuggu þau á ýmsum jörðum í Önundarfirði og Dýrafirði, það er að segja í Ytri-Hjarðardal og Mosdal, á Sæbóli og í Meira-Garði og er þeirra víða getið í þessu riti.  Árið 1845 áttu þau gullbrúðkaup og voru þá búsett í Meira-Garði í Dýrafirði hjá Oddi syni sínum,[82] sem seinna fluttist að Lokinhömrum, (sjá hér Meiri-Garður)  en hann var tvöfaldur langafi Guðmundar G. Hagalín rithöfundar því báðir foreldrar hans voru barnabörn Odds Gíslasonar.

Árið 1801 var systir Gísla Oddssonar, sem Guðný hét, húsfreyja í Tungu.[83] Hennar eiginmaður, sem þá var annar tveggja bænda hér, hét Sigmundur Erlingsson og var frá Súgandafirði.[84] Þau Guðný og Sigmundur bjuggu síðar á Kroppstöðum og fluttust þaðan að Sæbólshúsum á Ingjaldssandi árið 1818.[85]

Sambýlismaður Sigmundar Erlingssonar í Tungu árið 1801 var Sigurður Sigurðsson, faðir Gunnhildar sem lengi bjó ekkja á Vífilsmýrum (sjá hér Vífilsmýrar) og hennar systkina.[86] Hér í Tungu dó í marsmánuði árið 1809 úr skyrbjúg og holdsveiki sveitarómaginn Sesselja Andrésdóttir, 59 ára að aldri.[87] Að sögn prestsins, séra Jóns Ásgeirssonar í Holti, hafði hún legið í um það bil 10 ár karlæg og kreppt og margslags kvellingum kramin.[88]

Árið 1816 bjó hér Hákon Hákonarson og hafði alla jörðina til ábúðar.[89] Hann var fæddur á Arnarnesi í Dýrafirði árið 1776 en Kristín Sigurðardóttir, kona hans, var fædd í Vatnadal í Súgandafirði árið 1777.[90] Hákon þessi Hákonarson var sonur Hákonar Bárðarsonar, bónda á Arnarnesi,[91] og að Arnarnesi fluttust þau Hákon Hákonarson og Kristín kona hans frá Grafargili árið 1834.[92] Þá var Bjarni, sonur þeirra, orðinn bóndi á Arnarnesi en hann var stjúpfaðir Torfa Halldórssonar á Flateyri (sjá hér Arnarnes).

Hér var áður frá því greint að árið 1814 hefði Bjarni Jónsson á Gelti í Súgandafirði fengið Tungu í Firði í arf eftir móður sína, Margréti Guðnadóttur, sem andaðist snemma á því ári (sjá hér bls. 4). Bjarni var þá innan við tvítugt en arfurinn sem hann hlaut var mun meiri en almennt var hjá bændafólki. Samtals voru eignirnar sem Bjarni erfði eftir móður sína virtar á 870 ríkisdali og 77 skildinga.[93] Tæpur helmingur arfsins var jarðeignir, það er að segja Tunga með 18 leiguám og hálfur Furufjörður í Grunnavíkurhreppi.[94] Tunga var 18 hundraða jörð og hvert hundrað virt á nær 13 ríkisdali[95] svo andvirði þessarar eignar taldist vera 270 ríkisdalir.[96] Tólf hundruð í Furufirði voru virt á 142 ríkisdali[97] svo nærri lætur að hvert jarðarhundrað þar hafi verið metið á 12 ríkisdali. Jarðeignirnar sem Bjarni erfði, ásamt leiguánum í Tungu, voru því virtar á 412 ríkisdali en í lausafjármunum af ýmsu tagi fékk hann 458 ríkisdali og 78 skildinga, þar af 329 ríkisdali í peningum.[98]

Við þessi skipti var hvert hundrað í jörð virt að jafnaði á milli 12 og 13 ríkisdali svo allur arfurinn, sem kom í hlut Bjarna, hefur numið andvirði liðlega 70 hundraða í jörð en í landaurareikningi var eitt hundrað  í jörð ávallt talið jafngilt kýrverði. Það sem Bjarni fékk borgað í peningum kynni þó að hafa reynst honum lakari kaupeyrir en vera átti vegna hinnar miklu verðbólgu sem sett hafði  margt úr skorðum á undanförnum styrjaldarárum. Á 17. og 18. öld voru jafnan reiknaðar 30 álnir í hverjum ríkisdal í öllum innanlandsviðskiptum og hvert jarðarhundrað (120 álnir) því virt á 4 ríkisdali.[99] Við skipti dánarbúsins á Gelti árið 1814 var hins vegar litið svo á að á móti hverju hundraði í jörð þyrfti liðlega 12 ríkisdali eins og hér hefur áður verið nefnt.

Þegar tíu ár voru liðin frá því Bjarni Jónsson fékk Tungu í arf fluttist hann hingað frá Gelti, ásamt konu og börnum, og hóf búskap á þessari eignarjörð sinni. Þar var ekki tjaldað til einnar nætur því Bjarni og kona hans, Herdís Narfadóttir, bjuggu síðan í Tungu til dauðadags og síðan niðjar þeirra allt til ársins 1920 eins og brátt verður nánar frá sagt.

Bjarni Jónsson, bóndi í Tungu, fæddist haustið 1795 á Gelti í Súgandafirði.[100] Hann var sonur Jóns Bjarnasonar sem þar bjó og Margrétar Guðnadóttur konu hans.[101] Faðir Bjarna drukknaði þegar skip hans fórst í hákarlalegu sumarið 1800 (sjá hér Göltur) en Margrét móðir hans bjó áfram á Gelti og giftist aftur öðrum Jóni Bjarnasyni. Árið 1816 var Bjarni enn á Gelti hjá þessum stjúpföður sínum en fáum árum síðar fluttust þeir til Önundarfjarðar þar sem Jón gerðist bóndi á Sæbóli (sjá hér Sæból) en Bjarni hér í Tungu.

Herdís Narfadóttir, sem varð kona Bjarna Jónssonar, var árið 1801 hjá foreldrum sínum, Narfa Tómassyni og Helgu Snjólfsdóttur, á Grundarhóli í Bolungavík og er þá sögð vera 8 ára gömul.[102] Árið 1816 var hún komin að Norðureyri í Súgandafirði[103] og þar hefur hún að líkindum komist í kynni við Bjarna er þá átti heima á Gelti sem var næsti bær. Haustið 1821 voru þau Bjarni og Herdís gefin saman í hjónaband en Guðfinna, sem var elsta barn þeirra, fæddist tveimur árum fyrr og var því óskilgetin.[104] Þegar Guðfinna fæddist árið 1819 voru báðir foreldrar hennar á Gelti og þar voru þau Bjarni og Herdís enn í húsmennsku þegar þau eignuðust sitt annað barn, Margréti sem fæddist 23. mars 1822.[105] Þegar hjónin Bjarni og Herdís fluttust frá Gelti að Tungu vorið 1824 voru börn þeirra orðin þrjú[106] en alls eignuðust þau níu börn á árunum 1819-1834. Af þessum barnahópi voru fimm heima í Tungu hjá foreldrum sínum árið 1845 en Guðfinna var þá gift og átti heima á Þingeyri.[107]

Árið 1847 var Bjarni í Tungu einn af fjórum sjálfseignarbændum í Mosvallahreppi en auk þeirra höfðu sýslumannsekkjan í Ytri-Hjarðardal og kaupmaðurinn á Flateyri sitt eigið jarðnæði til ábúðar.[108] Bændur í hreppnum voru þá um það bil 50 en níu af hverjum tíu úr þeirra hópi voru leiguliðar.[109]

Allan eða nær allan sinn búskap í Tungu var Bjarni eini bóndinn á jörðinni og oftast var hér einbýli á 19. öld.[110] Bústofn Bjarna og Herdísar í Tungu árið 1850 var sem hér segir ef marka má búnaðarskýrslu: 3 kýr, 1 kvíga, 1 kálfur, 30 ær, 20 gemlingar, 30 lömb og 3 hestar.[111] Bjarni í Tungu átti þá líka bát sem var sexæringur eða fjögra manna far.[112] Kálgarður var hins vegar enginn.

Árið 1855 andaðist Bjarni en ekkja hans, Herdís Narfadóttir, bjó áfram á jörðinni næstu ár í sambýli við Margréti, dóttur þeirra hjóna, og eiginmann hennar. Fyrri maður Margrétar var Kristján Sæmundsson, fæddur 1826, en hann var hórsonur Sæmundar Guðlaugssonar, bónda á Mosvöllum, sem drukknaði árið 1843 (sjá hér Mosvellir). Árið 1845 var Kristján kominn að Tungu og taldist þá vera þar húsmaður með einhverja grasnyt.[113] Honum fylgdi þá stjúpmóðir hans, Guðrún Jónsdóttir, komin yfir áttrætt.[114] Haustið 1846 gekk Kristján að eiga Margréti Bjarnadóttur í Tungu sem var a.m.k. fjórum árum eldri en hann.[115] Í nokkur ár bjuggu þau á hálfum Vöðlum[116] en haustið 1855 voru þau komin aftur að Tungu[117] og bjuggu hér næstu ár í tvíbýli á móti móður Margrétar.

Árið 1857 var Kristján bóndi í Tungu rétt liðlega þrítugur. Á því ári veiktist hann alvarlega og lá langa og þunga legu sem varð hans banalega.[118] Þegar Kristjáni elnaði sóttin í janúarmánuði 1858 var Guðmundur norðlenski, sem þá hafðist við í Hvammi í Dýrafirði (sjá hér Sandar í Dýrafirði), fenginn til að vitja hins sjúka. Guðmundur hafði lengi fengist við lækningar, stundum með góðum árangri (sjá hér Nesdalur). Um miðjan janúar 1858 skrifar Guðmundur í dagbók sína:

 

Jan.  13.     Að Mosvöllum í mestu ófærð, mjög þjáður.

 1. Að Hóli í Önundarfirði.
 2. Að Tungu til hins þjáða nervesyge K. Sæmundsson. Læt ég hita Syrote – slag undir hans fætur.
 3. Uppleysist undur af fúlum og ströngum vessum upp fyrir hné og linandi höfuðpínuna.
 4. Gaf honum styrkjandi dropa, sett stólpípa o.fl.
 5. 7 er ég kallaður til hans sökum þungs andláts er ¼ tíma þar eftir skeði, nefnilega um dægramótin. Annast um nábjargir hans kl. 11. Þar eftir taka til um hann og skrifa sgr. Kr. Vigfússyni [þ.e. Kristjáni Vigfússyni, hreppstjóra í Breiðadal, sem líklega hefur smíðað kistuna – innsk. K.Ó.] ekkjunnar vegna o.fl.
 6. Byrjuð smíði af Kr. og mér.
 7. Kláruð og förvuð að ½ .
 8. Stormur og regn, endað við förvun.
 9. Jarðsett. Haldin húskveðja.
 10. Kyrr að hugga ekkjuna.
 11. Að Hóli.
 12. Skrifa húskveðjuna og eftirmæli hins dána Kristjáns.
 13. Endað o.fl.
 14. Ýmislegt talað um Galtardal.[119]

 

Galtardalur, sem þarna er nefndur, er ugglaust sá í Þingeyrarhreppi (sjá hér Sandar) og ekki ólíklegt að Guðmundur hafi verið með ráðagerðir um að setjast þar að. Næsta dag var læknirinn um kyrrt á Hóli og náði þá að trúlofast 19 ára stúlku þó sjálfur væri hann kominn um sextugt (sjá hér Hóll í Firði).

Ekkjan Margrét Bjarnadóttir, sem Guðmundur norðlenski var að hugga hér í Tungu í byrjun þorra árið 1858, átti þá langa lífdaga fyrir höndum, enda var hún aðeins liðlega hálffertug  þegar hér var komið sögu. Þegar tuttugu mánuðir voru liðnir frá andláti Kristjáns Sæmundssonar giftist Margrét í annað sinn en sá sem þá gekk að eiga hana var Guðni Vigfússon frá Neðri-Breiðadal, bróðir Kristjáns Vigfússonar sem smíðað hafði utan um fyrri eiginmanninn.[120] Bræður þessir voru synir Vigfúsar Eiríkssonar, hreppstjóra í Neðri-Breiðadal, og Þorkötlu Ásgeirsdóttur konu hans. Hjónin Vigfús og Þorkatla voru bæði af prestaættum því Vigfús var sonur séra Eiríks Vigfússonar á Stað í Súgandafirði en Þorkatla dóttir séra Ásgeirs Jónssonar í Holti.[121]

Þau Guðni Vigfússon og Margrét Bjarnadóttir voru gefin saman 20. september árið 1860[122] og mun Guðni þá þegar hafa tekið við búsforráðum í Tungu.[123] Á þeim Guðna og Margréti var þó nokkur aldursmunur því Guðni var fæddur vorið 1836[124] en Margrét í marsmánuði árið 1822 (sjá hér bls.10).

Haustið 1860 bjuggu þau Guðni og Margrét hér í tvíbýli en Guðmundur Bjarnason, bróðir Margrétar, taldist þá hafa hálfa jörðina til ábúðar.[125] Herdís Narfadóttir, móðir systkinanna, var þá enn fyrir framan hjá Guðmundi syni sínum[126] en hún lifði til ársins 1869.[127]

Vorið 1861 fluttust Guðni og Margrét búferlum frá Tungu að Efrihúsum hjá Hesti[128] Þar andaðist Guðni árið 1874[129] en ekkja hans bjó áfram í Efrihúsum allt til ársins 1884. Hér verður síðar sagt lítið eitt frá dögum Margrétar Bjarnadóttur í Efrihúsum og hennar fólks en árið 1873 var ungur þurfalingur fluttur til hennar norðan úr Álftafirði, borinn í skinnstakki yfir Álftafjarðarheiði. Piltur þessi, sem hét Magnús Hjaltason, tók síðar að yrkja ljóð og rita dagbækur. Segir þar margt frá lífinu í Efrihúsum á árunum kringum 1880.

Guðmundur Bjarnason, sem bjó ókvæntur með Herdísi móður sinni í Tungu árið 1860, fluttist síðar að Efrihúsum til Margrétar systur sinnar. Þar lá hann í rúminu í 12 ár og var að sögn talinn þjást af geðveiki.[130] Þegar Margrét hætti að búa vorið 1884 fór Guðmundur bróðir hennar aftur að Tungu. Hann reis þá úr rekkju eftir 12 ára legu og var síðan daglega á fótum í mörg ár.[131] Guðmundur andaðist 76 ára gamall árið 1901 og var þá sveitarómagi á Hesti.[132]

Ein dætra Bjarna Jónssonar í Tungu og Herdísar konu hans var Þorkatla sem fæddist árið 1831.[133] Haustið 1856 giftist hún Jens Jóhannessyni, ungum bóndasyni frá Vífilsmýrum.[134] Sín fyrstu hjúskaparár áttu þau heima á Vífilsmýrum og síðan á Kaldá en tóku við búsforráðum í Tungu vorið 1866.[135] Jens Jóhannesson, sem hér var nefndur til sögu, mun á yngri árum hafa þótt efnilegur og mikils verið af honum vænst. Nokkrum mánuðum áður en hann kvæntist Þorkötlu valdi Andrés Hákonarson á Hóli hann til fylgdar með sér vestur í Arnarfjörð í áríðandi erindagerðum (sjá hér Hóll í Firði). Í skýrslu um ferðina, sem Andrés ritaði nokkrum árum síðar, kallar hann þennan nágranna sinn lipran gáfumann og heiðrað hreppstjóraefni (sjá hér Hóll í Firði). Líklega hefur Jens þá verið orðinn hreppstjóri þegar skýrslan var skrifuð árið 1862 og fullvíst er að hann gegndi því embætti um skeið.[136] Hann var búhagur í betra lagi, nærfærinn við fæðingarhjálp og meðhjálpari við guðsþjónustur í Holtskirkju.[137]

Þau Jens Jóhannesson og Þorkatla Bjarnadóttir eignuðust 13 börn og af þeim munu 6 eða 7 hafa náð að vaxa úr grasi.[138] Sama ár og yngsta barnið fæddist andaðist Jens bóndi, liðlega fertugur að aldri, og hafði þá búið í Tungu í átta ár.[139] Ekkjan Þorkatla bjó áfram á jörðinni með börnum sínum næstu áratugi og stóð hér fyrir búi allt til ársins 1904 en hún andaðist vorið 1905[140] (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 369). Meðan Jens Jóhannesson lifði munu hann og Þorkatla kona hans hafa verið með alla jörðina til ábúðar[141] en þegar Þorkatla var orðinn ekkja lét hún sér stundum nægja að búa hér í tvíbýli.[142] Sum árin var hún þó ein með alla jörðina.[143] Árið 1880 bjó Guðmundur Auðun Kristjánsson, systursonur Þorkötlu, á móti henni hér í Tungu en árið 1901 bjó Jón Sveinsson frá Vífilsmýrum hér á nokkrum hundruðum[144] en hann var síðar lengi bóndi á Innri-Veðrará. Báðir þessir bændur bjuggu hér aðeins í fáein ár. Guðmundur Auðun var bróðir Eiríks Kristjánssonar sem bjó alllengi á Hóli, næsta bæ við Tungu (sjá hér Hóll í Firði), en báðir voru þeir synir Guðfinnu Bjarnadóttur, systur Þorkötlu, og höfðu að meira eða minna leyti alist upp hjá móðurfólki sínu í Tungu.[145]

Vorið 1904 tók Hólmgeir Jensson við búi Þorkötlu móður sinnar í Tungu.[146] Hólmgeir bjó í Tungu frá 1904 til 1909[147] en á árunum 1910-1920 var Jens Jensson bróðir hans bóndi á jörðinni (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 369). Þegar Jens og fjölskylda hans fluttust frá Tungu að Efrihúsum árið 1920[148] voru 96 ár liðin frá því afi hans og amma, þau Bjarni Jónsson og Herdís Narfadóttir, hófu hér búskap (sjá hér bls. 8-9). Að einu ári frátöldu hafði þetta sama fólk búið í Tungu allan þann tíma og ein kynslóð tekið við af annarri eins og hér hefur verið rakið en nú varð breyting á og í hönd fóru nýir tímar sem ekki er ætlunin að fjalla um hér.

Á því 30 ára skeiði sem Þorkatla Bjarnadóttir bjó ekkja í Tungu var oft hart í ári og gera má ráð fyrir að stundum hafi verið erfitt að fæða og klæða allan barnahópinn. Hún komst þó jafnan af og þurfti aldrei að þiggja af sveit.[149] Öll voru börnin innan við tvítugt þegar faðir þeirra lést en þau elstu voru þó komin á unglingsaldur og hjálpuðu móður sinni til að halda í horfinu. Árið 1880 voru sex af börnum Þorkötlu heima í Tungu en annað fólk var þá ekki á hennar heimili þegar manntal var tekið.[150] Bústofn Þorkötlu var þá sem hér segir: 3 kýr, 21 ær, 12 gemlingar, 1 hestur og 2 tryppi.[151] Hjá Guðmundi Kristjánssyni frænda hennar, sem þá bjó á parti úr Tungu, var búið miklu minna því hann var kýrlaus og bjó með 7 ær og 5 gemlinga.[152] Enginn bátur var þá í eigu Tungufólks og ekki var hér kálgarður en Þorkatla húsfreyja var búin að koma sér upp færikvíum.[153]

Eitt barna ekkjunnar í Tungu var Hólmgeir Jensson sem ólst hér upp hjá Þorkötlu móður sinni.[154] Af honum er merkileg saga sem vert er að minna á.

Hólmgeir fæddist á Kaldá á geisladag, 13. janúar, árið 1866[155] en fluttist ungur með foreldrum sínum að Tungu. Þegar Jens faðir hans andaðist á miðjum þorra árið 1874 var Hólmgeir átta ára og mun þá þegar hafa farið að hjálpa til við búskapinn. Um og innan við tvítugt var hann sjö vertíðir á skútum[156] en hvert úthald á skútunum stóð þá venjulega frá páskum og fram á haust. Þegar Hólmgeir var 14 ára tók búnaðarskólinn í Ólafsdal til starfa. Haustið 1889 náði hann að komast í þennan merkilega skóla og útskrifaðist þaðan, 25 ára gamall, vorið 1891.[157] Hann var því einn fyrsti búfræðingurinn í Önundarfirði en sá allra fyrsti sem þar starfaði mun hafa verið Sæmundur Eyjólfsson, sem vann nokkra daga að jarðyrkju í Önundarfirði sumarið 1883 (sjá Mosvallahreppur inngangskafli. Sbr. Firðir og fólk 900-1900, 301, og sama 1900-1999, 326).

Þegar Hólmgeir var orðinn búfræðingur fór hann að vinna að jarðabótum í Múlasveit við Breiðafjörð og var þar við jarðyrkjustörf og barnakennslu í tvö ár.[158] Árið 1893 kom hann aftur til Önundarfjarðar[159] og settist að hjá móður sinni í Tungu.[160] Næstu tvö ár kenndi hann börnum í heimasveit sinni á veturna en vann á sumrin að jarðyrkjustörfum í Önundarfirði og Dýrafirði.[161] Árið 1894 höfðu nokkrir ungir menn í Önundarfirði forgöngu um stofnun framfarafélags sem hlaut nafnið Vonin.[162] Einn þeirra var Hólmgeir og á stofnfundi félagsins 4. mars 1894 var hann kosinn fyrsti formaður þess.[163] Félag þetta gaf á sínum fyrstu árum út handskrifað blað og gekkst fyrir ýmsum framfaramálum, m.a. byggingu brúar á ána Korpu (sjá hér Mosvallahreppur inngangskafli og Kirkjuból í Korpudal). Á árunum 1894-1904 var Hólmgeir nær alltaf formaður Vonarinnar og lét víðar til sín taka.[164] Seinna varð hann aftur formaður þessa félags og gegndi þá formannsstarfinu í fjölda ára.[165]

Hólmgeir Jensson í Tungu kynntist dýralækningum lítið eitt þegar hann var í skólanum í Ólafsdal[166] og á næstu árum tók hann að leggja sig eftir þekkingu á því sviði.[167] Varð hann brátt eftirsóttur dýralæknir þó sjálfmenntaður væri í fræðunum. Þann 23. janúar 1895 var Hólmgeir að lækna kú sem var bólgin á kviðnum, − lagði hann við klaka og bar á terpentínu.[168] Þessi aðferð bar góðan árangur.[169]

Einn alvarlegasti búfjársjúkdómurinn á þessum árum var bráðapestin sem í mörgum byggðarlögum varð fjölda sauðfjár að bana á hverjum vetri. Á árunum upp úr 1890 höfðu þær fréttir borist frá Noregi að þarlendur dýralæknir væri farinn að bólusetja fé við bráða og menn gerðu sér vonir um góðan árangur þó enn væri þessi viðleitni á tilraunastigi.[170]

Um svipað leyti fór Hólmgeir líka að bólusetja gegn bráðanum. Í blaðinu Þjóðviljanum unga sem út var gefið á Ísafirði er 11. febrúar 1895 sagt frá aðferð hans og m.a. komist svo að orði:

 

Hann fékk sér nýru úr bráðadauðri kind, lítið eða ekki skemmd, að honum virtist, og þurrkaði annað þeirra við hægan eld uns mylja mátti í duft en hitt nýrað steytti hann blautt og blandaði svo hvort um sig þannig að hann hafði 27 hluti af tæru vatni á móti einum hluta af nýra. Úr bóluefni því er hann hafði gert úr blauta nýranu bólusetti hann síðan tvo sauði veturgamla … .[171]

 

Öllu er þessu lýst nánar í frásögn blaðsins og þar er frá því greint að af 65 kindum sem Hólmgeir hafi bólusett á þremur bæjum í Önundarfirði hafi aðeins 3 drepist úr bráða.[172]

Þetta þóttu mikil tíðindi og haustið 1895 sigldi búfræðingurinn í Tungu til Noregs í því skyni að kynna sér helstu nýjungar í dýralækningum og var þar við nám næsta vetur.[173] Til þessarar ferðar fékk hann 400,- króna styrk úr sýslusjóði Ísafjarðarsýslu en aðrar 400,- krónur átti hann sjálfur.[174] Þegar Hólmgeir kom til Noregs voru fá ár liðin frá því norski dýralæknirinn Ivar Nielsen sýndu fyrstur manna fram á hvaða baktería ylli bráðafárinu og veturinn 1895-1896 báru þeir Hólmgeir og hann saman bækur sínar.[175]

Í Noregi var Hólmgeir fyrst í Tönsberg, þar sem hann naut handleiðslu amtsdýralæknisins, og síðan í Björgvin hjá Ivar Nielsen ríkisdýralækni[176] sem hér var áður nefndur.

Þegar Hólmgeir kom heim frá Noregi vorið 1896 var brátt farið að vitja hans víða að og hafði hann löngum ærnum verkefnum að sinna við lækningar á næstu árum og langt fram eftir ævi. Í marsmánuði árið 1897 samþykkti sýslunefnd Norður-Ísafjarðarsýslu að veita honum 150,- króna styrk til kaupa á sjónauka til rannsókna við bráðafársbólusetningu og fleiri húsdýrasjúkdóma.[177] Styrkurinn var þó veittur með því skilyrði að sama upphæði kæmi á móti frá Vestur-Ísafjarðarsýslu.[178] Á sama sýslunefndarfundi var líka samþykkt sérstök áskorun til Alþingis um að Hólmgeiri yrði veittur 800,- króna styrkur á fjárlögum til að setja sig niður sem aukadýralækni í norðurhluta Vesturamtsins.[179] Við afgreiðslu málsins á Alþingi var upphæðin hins vegar skorin niður í 300,- krónur.[180]

Á fyrstu árum tilraunanna með bóluefni gegn bráða varð yfirleitt að slátra fáeinum kindum sem ekki þoldu bólusetninguna. Í skýrslu Hólmgeirs frá 10. janúar 1899 segir að haustið 1898 hafi hann bólusett 467 kindur í Önundarfirði og við Djúp og úr þeim hópi hafi orðið að slátra 33 kindum vegna veikinda af völdum bóluefnisins sem reyndist of sterkt.[181] Af fénu sem Hólmgeir bólusetti haustið 1898 drapst hins vegar engin kind úr bráða.[182] Næsta ár bólusetti Hólmgeir mun fleiri kindur eða 1365, nær allar á bæjum við Ísafjarðardjúp.[183] Að því sinni hafði hann skammtinn veikari og nú brá svo við að af öllum þessum fjölda þurfti aðeins að slátra sex kindum vegna bólusetningarinnar.[184] Þannig þreifaði dýralæknirinn frá Tungu sig áfram með vísindalegri nákvæmni og átti manna mestan þátt í að útrýma bráðafárinu á Vestfjörðum. Að vetrarlagi ferðaðist hann oftast fótgangandi en lengstu ferðirnar sem hann fór í lækniserindum voru vestur í Tálknafjörð og norður í Jökulfirði.[185]

Haustið 1896 kvæntist Hólmgeir Sigríði Halldórsdóttur frá Vöðlum[186] og áttu þau heima á Vöðlum frá 1896-1904 en bjuggu síðan í Tungu frá 1904-1909.[187] Vorið 1909 fóru þau að búa á Þórustöðum og þar var Hólmgeir bóndi frá 1909-1931 (sjá hér Þórustaðir) en var síðan lengi á Flateyri og fékkst þá m.a. við barnakennslu.[188] Síðustu árin var hann hjá dóttur sinni og tengdasyni á Þórustöðum og andaðist þar í hárri elli 1. desember 1961.[189]

Dýralækningarnar stundaði Hólmgeir fram yfir áttrætt og var oft á ferðalögum með tól sín og tæki[190] en heima í Önundarfirði varð þessi sonur ekkjunnar í Tungu líka brautryðjandi á öðrum sviðum er vörðuðu framfarir í búnaði.

Hólmgeir Jensson var með fyrstu Önfirðingum að fá sér hestakerru og skilvindu.[191] Árið 1907 kom fyrsta sláttuvélin í Mosvallahrepp en reyndist ónothæf af því hún var alltof gisfingruð fyrir íslenskar engjar.[192] Fyrstu sláttuvélina í hreppnum, sem unnt reyndist að nota, fékk Hólmgeir seint á túnaslætti árið 1912 og kostaði hún 220,- krónur og aktygin 60,- krónur.[193] Þarna var Hólmgeir langt á undan flestum öðrum því árið 1920 voru enn ekki nema fimm sláttuvélar til á öllu félagssvæði Búnaðarsambands Vestfjarða.[194] Af þeim voru þrjár í Önundarfirði.[195] Sumarið 1913 hóf Hólmgeir votheysverkun, fyrstur manna í Önundarfirði, og hann varð líka fyrstur Önfirðinga til að taka upp nýja aðferð við túnasléttun þar sem sáðsléttur komu í stað þaksléttunar.[196] Framkvæmdir við fyrstu sáðsléttuna hóf hann árið 1920 en þá um haustið plægðu þeir Hólmgeir og Bernharð Halldórsson á Vöðlum um það bil hálfa dagsláttu í túninu á Þórustöðum.[197]

Á sínum búskaparárum gegndi Hólmgeir margvíslegum trúnaðarstörfum í frjálsum félögum og á vettvangi sveitarstjórnarmála[198] en út í þá sálma verður ekki farið nánar í þessu riti.

Hér hefur nú verið sagt dálítið frá fólkinu sem átti heima í Tungu á 19. öld og kringum aldamótin 1900. Af gamla Tungufólkinu bjó Jens Jensson hér síðastur eins og áður var nefnt, bróðir Hólmgeirs dýralæknis. Þegar Jens fór að búa í Tungu var hann kominn undir fimmtugt, fæddur á Vífilsmýrum árið 1861.[199] Á yngri árum lærði hann sjómannafræði og var skipstjóri um skeið en hafði líka fengist við barnakennslu og var kennari í Mosvallahreppi 1901-1905.[200] Snorri Sigfússon skólastjóri sem kynntist Jens þegar sá síðarnefndi var orðinn bóndi í Tungu segir að hann hafi verið fróðleiksmaður en dulur í skapi.[201]

Jens átti sjálfur jörðina[202] og bjó hér frá 1910 til 1920 eins og áður var frá greint. Þá var talið að í Tungu mætti fleyta fram tveimur kúm, áttatíu kindum og þremur hrossum[203] en árlegur heyfengur var um það bil 90 hestar af töðu og 200 hestar af útheyi.[204] Um 1920 stóðu á jörðinni þessi hús: Baðstofa sem var 10 x 5 álnir og tvær skúrbyggingar, sem voru áfastar við hana, fjós, 3 hlöður, 2 fjárhús, 4 kofar og hjallur.[205] Árið 1921 var jörðin með húsum, sem henni fylgdu, virt á 2.600,- krónur[206] en 17 árum fyrr, árið 1904, höfðu 15 af 18 jarðarhundruðum í Tungu verið seld fyrir 720,- krónur.[207] Ætla má að þá hafi Þorkatla Bjarnadóttir verið að selja einhverju barna sinna jörðina (sjá hér bls. 4 og 12-13), líklega Hólmgeiri sem fékk alla Tungu til ábúðar þá um vorið (sjá hér Firðir og fólk 1900-1999, 369).

Frá Tungu er ferð okkar heitið að eyðijörðinni Hesti en fyrst skulum við rölta lítið eitt um land fólksins sem áður bjó í Tungu. Frá fjallahringnum sem við blasir af hlaðinu og allra helstu kennileitum í landareigninni hefur áður verið sagt og verður því hér látið nægja að vísa til þeirrar frásagnar (sjá hér bls. 1-2. Sbr. Hól í Firði, þar bls. 1-2).

Frá bæjarhólnum í Tungu leggjum við fyrst leið okkar fram í Ekkilsdal sem er vestan við fjallið Tunguhorn. Árdalurinn sem Tunguá fellur um utan við túnið heitir Tunguárdalur og nær hann upp að gamalli tótt í mynni Ekkilsdals.[208] Tótt þessi er af gömlu sauðahlaði[209] en í slíkum byggingum, sem yfirleitt voru þaklausar, var sauðfénaði ætlað að leita skjóls fyrir veðri og vindum. Staðurinn tekur nafn af tóttinni og heitir Tunguhlað.[210] Þetta gamla sauðahlað er enn býsna stæðilegt og sker sig úr í landslaginu. Umhverfis það er græni liturinn sterkari en á næstu grösum. Skammt frá því er fallegur foss í Tunguá og heitir hann Hlaðfoss.[211] Áður var hér silungsveiði undir fossinum.[212] Dálítið framar eru í ánni nokkrir smáfossar og þegar kýrnar í Tungu voru reknar þangað fram eftir var talað um að reka þær fram á Fossa.[213] Þar fyrir framan, í nánd við miðjan dalinn, er klettadrangur rétt við ána og heitir hann Tungustrýta en handan við ána er Hólsstrýta.[214]

Fyrir margt löngu var telpa ein frá Tungu að reka ásauð og kýr heim Ekkilsdal.[215] Þoka sveimaði um dalinn og er stúlkan kom að Strýtu varð henni litið niður að ánni. Sá hún þá mann einn afarstóran vera að ausa vatni úr ánni upp í geysistórar skjólur.[216] Sýndist henni þær vera ekki minni en mykjuhrip.[217] Er þessi stóri maður leit upp varð telpan hræddari en frá megi segja og hljóp í ofboði heim að Tungu.[218]

Í vesturhlíð Tunguhornsins, þeirri sem snýr að Ekkilsdal, eru mikil klettabelti sem heita Björg og ná næstum alla leið frá dalsmynninu og fram í dalbotn[219] Neðan við Björgin er sæmilega greiðfær leið í fjallshlíðinni og var kallað að ganga fram með Björgum ef þar var farið.[220] Frá klettadrangnum Strýtu, sem hér var áður minnst á, er skammur spölur fram að Torfabrekkum en þær eru lynggróinn hjalli í fjallshlíðinni undir Tunguhorni, fram undir dalbotni.[221] Uppi á hjallanum var tekinn mór og þar er slægjuland.[222] Framan við Torfabrekkur liggur klettabelti þvert yfir dalbotninn en ofan við það er dálítið sléttlendi sem heitir Vatnabrekkur.[223] Þar uppi á brekkunum er lítið stöðuvatn.[224] Úr þessu vatni kemur Tunguá og fellur í fossum niður af Vatnabrekkum.[225] Ofan við þær er hlíðin fyrir botni dalsins og heitir hún Krubbuhlíð.[226] Þar er auðvelt uppgöngu en þó eru klettabelti efst í hlíðinni. Ofan við þau er slakkar sem heita Krubbur.[227]

Saga sem birtist á prenti árið 1941 bendir til þess að sum af börnunum, sem ólust upp í grennd við Ekkilsdal á fyrstu áratugum 20. aldar, hafi látið sér detta í hug að þar byggju tröll. Sumarið 1919 var pilturinn Karl Sveinsson, sem þá var 13 ára gamall og átti heima í Neðrihúsum í Hestþorpinu, að reka ær í haga, dag einn í lok sláttar.[228] Í leiðinni átti hann að færa 23ja ára gamalli systur sinni mat en hún hét Aldís Ósk og var að raka ljá á engjum.[229] Drengurinn átti sér einskis ills von þar sem hann rölti á eftir ánum en hrekkur við er hann heyrir ógurlega þungt fótatak á eftir sér.[230] Hann lítur um öxl og sér þá kerlingu sem var alveg afskræmilega ljót og hræðilega stórskorin, afar hrukkótt í framan og kolbrún á hörundslit, nefstór og munnvíð og öll hin ferlegasta ásýndum.[231]

Á flíkunum sem á henni héngu var bót við bót, allt karstagað með skinnsneplum og hvers kyns druslum en skinnvafningar á fótum.[232] Er kerlingin náði drengnum þreif hún í öxl hans og spurði heldur hvasst: Hvar er Ekkilsdalur?[233] Strákurinn benti í suðurátt og sagði: Hann er nú þarna.[234] Sleppti hún þá takinu og tók stefnu á dalinn, stórstíg og sporadrjúg.[235] Systkinin, Karl og Aldís Ósk, sáu kerlingarskrukkuna bæði þennan síðsumardag en aldrei sást hún aftur.[236] Að sögn Aldísar hafði hún verið líkari ófreskju en manneskju.[237]

Samt má vera að enn sé hún stundum á kreiki í hlíðum Ekkilsdals þar sem fáir eiga nú leið um. Fund hennar viljum við forðast og hröðum því för okkar til baka heim á Tunguholtin sem eru rétt ofan við túnið í Tungu.  Á þessum holtum er allt krökkt af berjum en við tefjum þar aðeins skamma stund, sveigjum síðan til austurs, fyrir Tunguhálsinn, og fetum okkur niður að hrörlegu íbúðarhúsinu í Tungu. Það er nú (1994) að falli komið þó byggt hafi verið úr steinsteypu, enda hefur jörðin staðið lengi í eyði.

Dalurinn norðan við Tunguhorn heitir einu nafni Hestdalur en sá hluti hans sem er vestan (sunnan) við Hestá er nefndur Tungudalur eða Tunguhlíð eins og hér var áður getið um (sjá hér bls. 2). Hestdalinn munum við skoða nánar síðar en að þessu sinni látum við nægja að kanna Tunguhlíðina og þann hluta dalsins sem er í landi Tungu en Hestá skiptir löndum milli jarðanna Tungu og Hests.

Neðan frá túninu í Tungu sjáum við vel hvernig Tunguhálsinn gengur fram úr Tunguhorni og nær upp undir miðja fjallshlíðina. Þar fyrir ofan taka við klettar. Hamraeggin sem snýr að bænum í Tungu heitir Tungurönd og er oftast nefnd Röndin í daglegu tali.[238]

Frá Tungu er alllangur spölur fram á Leitið þar sem bærinn í Tungu hvarf sjónum manna þegar gengið var fram dalinn.[239] Á þeirri leið dregur að sér athygli mikill berggangur sem skagar fram úr hamrabeltunum í Tunguhorni rétt framan við Röndina sem áður var nefnd. Þetta háa strengberg heitir Karlsfótur.[240] Utan við hann er Gjá og Gjáhryggur niður úr henni.[241] Annar álíka berggangur er í fjallinu Hesti hér hinum megin í dalnum og heitir hann líka Karlsfótur.[242] Nærri lætur að þessir tveir stórskornu Karlsfætur standi hvor á móti öðrum en sá í Tunguhorni er samt aðeins framar. Þriðji Karlsfóturinn er svo norðantil í fjallinu Hesti og snýr að Korpudal[243] en allir eru þessir berggangar hver öðrum líkir.

Upp af Tunguleiti sveigir klettabrúnin efst í Tunguhorni til vesturs en framan við Leitið taka við hið efra hvilftir og hnjúkar sem liggja þó talsvert lægra en sjálf fjallsbrúnin. Einu nafni eru hvilftir þessar nefndar Tunguhvilftir. Þær eru þrjár og heita Ystahvilft, Miðhvilft og Fremstahvilft. Milli Ystuhvilftar og Miðhvilftar er hnjúkurinn Önundur.[244] Af honum sér vel yfir Önundarfjörð og herma munnmæli að þar uppi hafi landnámsmaðurinn Önundur Víkingsson verið dysjaður.[245] Magnús Hjaltason segir að uppi á Önundi séu fjórir steinar með nokkru millibili er mynda kross frá norðri til suðurs.[246] Létu menn sér detta í hug að þar væri legstaður Önundar.[247]

Framan við Miðhvilft er Engishnjótur[248] og sýnist vera heldur lægri en Önundur en meiri um sig. Fremstahvilft er svo framan við Engishnjót, alveg fram við Þverá.[249]

Frá Tunguleitinu stefnum við nú fram að Þverá en þangað eru um það bil fjórir kílómetrar heiman frá Tungu. Rétt framan við Leitið verður á vegi okkar hringlaga fjárbyrgi, um 13 metrar í ummál og tóttin enn stæðileg. Örfáum metrum framar eru mun ellilegri tóttir sem líklegt má telja að séu seltóttir. Stærsta húsið hefur verið 2,5 x 6 metrar að flatarmáli eða því sem næst og þar hjá er minni tótt sem mælist 1,5 x 3 metrar. Í kring má sjá ummerki um a.m.k. þrjá smærri kofa. Hér framan við Leitið er svolítið undirlendi niður við Hestá og þar mun hafa verið heyjað.[250]

Nokkru framar á dalnum er svo hið mikla slægjuland sem alltaf var nefnt Engi en þaðan fengust um 100 hestar af heyi.[251] Á leið okkar frá Leiti og fram á Engi förum við um gróið land sem ber nafnið Lækir[252] en þar er dálítið votlent og nokkrir smálækir á ferð ofan úr hlíð og niður í Hestá. Tveir fossar, sem talsvert kveður að, eru í Hestá fyrir framan Leiti en heiman Þverá. Sá sem neðar er í ánni heitir Smjörteigsfoss en hinn Rjúkandi.[253] Smjörteigsfoss er rétt framan við fjallshnjúkinn Önund sem áður var nefndur. Fossinn fellur í gljúfri og alveg rétt fyrir neðan hann er kröpp beygja á ánni. Rjúkandi er talsvert framar en þó heiman við Engishnjót, hnjúkinn sem fyrr var nefndur og  er hér á hægri hönd þegar gengið er fram Engið. Þriðji fossinn, sem áður var á þessum slóðum, hét Hróbjargarfoss. Yfir hann féll haustið 1900 mikil skriða úr norðurhlíð dalsins (sjá hér Hestur) þar sem fjallið Hestur stendur, óhagganlegt að sjá. Að sögn Magnúsar Hjaltasonar, sem ólst upp í Hestþorpinu um 1880, á Hróbjargarfoss að vera eða hafa verið mjög skammt frá Rjúkanda því hann segir sömu skriðuna hafa fallið á báða þessa fossa eða alveg rétt hjá þeim.[254] Vera má að flúðirnar neðan við Rjúkanda hafi verið nefndar þessu nafni en gamalt fólk sagði Magnúsi Hjaltasyni að Hróbjargarfoss væri kenndur við selráðskonu frá Tungu.[255]

Heimantil við Rjúkanda og stutt frá ánni er hér í Enginu stór steinn sem lengi hefur verið nefndur Siggusteinn. Steinn þessi er liðlega 2 metrar á hæð og mikill um sig, enda sést hann víða að þegar horft er fram dalinn, m.a. frá bænum Hóli í Firði.[256] Við steininn er tengd munnmælasaga um mjaltakonu frá Hesti sem Sigríður hét og átti hún að hafa villst frá fjósinu að vetrarlagi og orðið úti undir Siggusteini.[257] Smalar frá Tungu fundu lík hennar um vorið með mjaltaföturnar á handleggjunum.[258] Fyrir ofan Siggustein og svolítið heimar stendur annar stór steinn sem þó er heldur minni en hinn.

Rétt framan við Rjúkanda eru ein eða fleiri tóttir mjög skammt frá árbakkanum. Sú stærsta og greinilegasta er um það bil 5 metrar á lengd og 2 metrar á breidd og svo virðist sem þverveggur hafi skipt henni í tvennt. Óljósar vísbendingar gefa til kynna að við hliðina á þessu húsi hafi ef til vill líka verið hlaðnir veggir en vera má að það séu bara þúfur og annað ekki. Hugsanlegt er að hér hafi verið sel frá Tungu um lengri eða skemmri tíma en við skyndiskoðun fannst þó engin kví. Minnt skal á að heimar á dalnum, rétt framan við Leiti, eru aðrar tóttir í Tungulandi sem líklegt virðist að séu seltóttir (sjá hér bls. 21). Magnús Hjaltason sem þekkti vel til á Hestdal, getur um örnefnið Sel, hérna megin við ána,[259] en gerir ekki nánari grein fyrir hvar sá staður sé.

Frá fossinum Rjúkanda og tóttinni framan við hann er fljótlegt að ganga fram að ármótum Þverár og Hestár. Á þeirri leið kemur í ljós mikið fjall á hægri hönd, handan Þverár. Norður úr því, í átt að Hestá, gengur allhár og langur klettastallur eða múli. Þennan klettastall mætti líka nefna seta enda heitir fjallið Setafjall en er líka nefnt Vatni.[260] Utan frá sjó mun fjall þetta jafnan hafa verið nefnt Vatni[261] en þar sem Heströndina ber í Vatna var fiskimið.[262] Hæsti kollurinn á Vatna er í 818 metra hæð yfir sjávarmáli[263] og er hann því talsvert hærri en bæði Tunguhorn og Hestur sem hvergi ná 700 metra hæð. Skýringu á nafninu Vatni töldu ýmsir vera að kollurinn á honum sæist utan frá hafi þó að vatnaði yfir fjöllin í kringum hann.[264] Vel má vera að þetta sé rétt og upphaflega hafi það aðeins verið hæsti kollurinn á Setafjalli sem var nefndur Vatni. Hólmgeir Jensson dýralæknir, sem ólst upp í Tungu í Firði en bjó seinna lengi á Þórustöðum, taldi hins vegar að nafnið Vatni ætti rætur að rekja til þess að við fjallsræturnar er lítið stöðuvatn,[265] vestantil við setann.[266] Úr þessu vatni undir Vatna kemur Þverá[267] sem er talsvert vatnsmikil. Vegna gljúfra er víðast hvar erfitt eða ómögulegt að komast yfir hana en gata liggur að vaðinu þar sem best er að fara.[268]

Við nemum samt staðar við ármót Hestár og Þverár og látum nægja að virða landið hér fyrir framan fyrir okkur úr nokkrum fjarska. Allt land framan við Þverá, í krikanum milli Þverár og Hestár heitir einu nafni Afrétti.[269] Fossinn í Þverá, sem blasir við augum frá ármótunum en þó í nokkrum fjarska, er fríður sýnum en nafn á honum þekkjum við ekki. Merkilegasta náttúrufyrirbærið þarna í Afréttinu er líklega fjallið Vatni sem hér var áður nefnt. Yfir hömrum þess, seta og syllum hvílir annarleg dul og þá einkum vegna þess að þetta mikla fjall er ósýnilegt að heita má frá öllum nálægum bæjum og alfaraleiðum í byggð. Undantekning frá þeirri reglu er sú að lítill partur úr klettabrún Vatna sést út um eldhúsgluggann á Kirkjubóli í Korpudal og af veginum frá Kirkjubóli að Hesti. Frá sjónarhólnum, sem gamla skólahúsið í Efrihúsatúninu hjá Hesti stendur á, sést hins vegar ekki snefill af Vatna því Tunguhornið og hinir lægri hnjúkar skyggja á hátignina. Frá Hvilft og Flateyri sést brúnin á Vatna og ber hana þaðan að sjá yfir Tunguhornið. Á þeim slóðum er líklega best að virða þetta merkilega fjall fyrir sér frá hæðarhrygg milli Hvilftar og Sólbakka þar sem akvegurinn liggur hæst. Þaðan blasir fjallsbrúnin við í góðu skyggni og líka stallurinn sem nefndur er Seti. Sitt hvorum megin við Vatna liggja fornar leiðir sem gangandi menn munu stundum hafa farið fjarða á milli.[270] Vestri leiðin var farin að Hjarðardal í Dýrafirði en sú eystri að Lambadal.[271] Sú leið mun hafa verið varasöm vegna hins mikla klettagljúfurs í botni Lambadals (sjá hér Ytri-Lambadalur).

Frá ármótum Hestár og Þverár, þar sem við stöndum nú, eru um það bil 4 kílómetrar heim að Tungu en loftlína frá Tungu og fram að fjallsbrúninni fyrir botni dalsins mælist vera um það bil 6 kílómetrar. Af þessu má sjá að í Afréttinu framan við Þverá er talsvert land og þar gengur fé á beit. Eitthvað var líka heyjað fyrir framan Þverá á fyrri tíð og sagt er að þar sé loðið brokengi niður við Hestá.[272]

Frá fjöllum og hvilftum umhverfis Tungudal og allan Hestdal hefur áður verið greint (sjá hér bls. 1-2 og bls. 21) en hið mikla fjall sem við blasir fyrir botni dalsins heitir Þverfell. Fjallið er hömrum girt hið efra en neðan við klettana er brött aurbrekka sem heitir Manntapabrekka.[273] Sú skýring er gefin á nafninu að mönnum sem komu úr Álftafirði yfir Hestskarð (sjá hér Hestur), sem er norðan við Þverfellið, hafi hætt til að víkja af réttri leið og hrapa úr Þverfellsendanum ofan í brekkuna.[274]

Úr drögum Manntapabrekku kemur svolítil árspræna, sem að sögn kunnugra heitir Tröllafossará,[275] og fellur í Hestá fram undir dalbotni. Orðmyndin Tröllafossá mun þó líka hafa verið til.[276] Í þessari á er Tröllafoss.[277]

Nú er dagur að kvöldi kominn og ekki tóm til að rannsaka eitt og annað sem skoðunarvert er á Hestdal fyrr en með nýjum degi. Við látum því vera að vaða yfir Hestá hér framfrá en snúum til baka heim að Tungu. Við túnfótinn þar vöðum við hins vegar yfir Tunguá í annað sinn á þessum degi og röltum síðan niður að gömlu brúnni yfir Hestá en þangað er aðeins fimm til sjö mínútna gangur frá Tungu. Svo stikum við yfir brúna og stöndum fyrr en varir í túninu á Hesti. Þar sláum við tjöldum og sofum rótt.

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 110-111. Sóknalýsingar Vestfjarða II, 102.

[2] Jarðab. Á. og P. VII, 110-111.

[3] Íslenskar æviskrár III, 282.

[4] Þinglýst landamerkjalýsing frá 20.3.1921, ljósrit í eigu Einars Guðbjartssonar á Flateyri.

[5] Lbs. 27364to, bls. 121-122 , (Magnús Hjaltason).

[6] Jensína Ebba Jónsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 29.6.1994.

[7] Sóknalýs. Vestfj. II, 98.

[8] Óskar Einarsson 1951, 100-101.

[9] Óskar Ein. 1951, 99.

[10] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 163.

[11] Sama heimild.

[12] Fasteignamatsskjöl: Gjörðaból fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916, bls. 74.

[13] Jarðab. Á. og P. VII, 110-111.

[14] Sóknalýs. Vestfj. II, 102.

[15] Jarðab. Á. og P. VII, 110-111.

[16] Sama heimild.

[17] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafjarðarsýsla 1753.  J. Johnsen 1847, 195.

[18] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 163.

[19] Jarðab. Á. og P. VII, 110-111.

[20] Sama heimild.

[21] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[22] Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafjarðarsýsla 1805.

[23] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916, bls. 74.

[24] D.I. V, 98-99.

[25] Jarðab. Á. og P. VII, 110-111.

[26] Alþingisbækur Íslands XIII, 58.

[27] Sama heimild.

[28] Sama heimild, 316. Vestfirskar ættir I, 30 og IV, 361-362 og 364-365.

[29] Sama heimild.

[30] Sama heimild, 316.

[31] Theódór Árnason 1968, 362-367, 370 og 383 (Vestf. ættir IV).

[32] Manntal 1762.

[33] Sama heimild.

[34] Manntal 1801.

[35] Sama heimild.

[36] Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafjarðarsýsla 1805.  Ól. Þ. Kr. 1949, 89-90.

[37] Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafjarðarsýsla 1805, Mosvallahreppur nr. 16.

[38] Ól. Þ. Kr. 1949, 89-90.

[39] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 2. Skiptabók 1811-1825.

[40] Prestsþjónustubækur Staðar í Súgandafirði.

[41] Manntöl 1835, 1840, 1845 og 1850. Ól. Þ. Kr./Önfirðingar.

[42] Manntöl 1840, 1845 og 1901 ásamt fylgiskjölum með manntalinu 1901.  J. Johnsen 1847, 195.

[43] Manntal 1901, fylgiskjöl.

[44] Manntal 1901.

[45] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.

[46] Manntal 1703. Jarðab. Á. og P. VII, 110-111.

[47] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681. Manntal 1703.

[48] Jarðab. Á. og P. VII, 110-111.

[49] Manntal 1703. Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, eftirrit, Ísafjarðarsýsla 1735. Jarða- og bændatöl

1752-1767, Ísafjarðarsýsla 1753.

[50] Jarðab. Á. og P. VII, 110-111.

[51] Manntal 1762.

[52] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, eftirrit, Ísafj.s. 1735. Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.s. 1753.

[53] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[54] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[55] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, eftirrit, Ísafj.s. 1735. Prestsþj.b. Holts í Ön.f., skrá yfir dána 1800.

[56] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[57] Sama heimild.

[58] Sama heimild.

[59] Manntal 1762.

[60] Manntal 1703.

[61] Manntal 1762.

[62] Ól. Þ. Kr. 1949, 89.

[63] Sama heimild.

[64] Sama heimild.

[65] Sama heimild.

[66] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosvallahreppur. 1. Hreppsbók 1786-1819.

[67] Sama heimild.

[68] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[69] Manntal 1845, vesturamt, bls. 271.

[70] Guðmundur G. Hagalín 1951, 9-10.

[71] Sama heimild.

[72] Sama heimild.

[73] Sama heimild.

[74] Vigurætt VI, 1385. Sbr. Ísl. æviskrár V, 109.

[75] Vigurætt VI, 1385.

[76] Vigurætt VI, 1385.

[77] Sama heimild.

[78] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[79] Sama heimild.

[80] Manntal 1801, vesturamt, bls. 295. Manntal 1845, vesturamt, bls. 271.

[81] Manntal 1801.

[82] Manntal 1845.

[83] Manntal 1801.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[84] Sömu heimildir.

[85] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[86] Sama heimild og Manntal 1801.

[87] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[88] Sama heimild.

[89] Manntal 1816.

[90] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[91] Sama heimild.

[92] Sama heimild. Vestf. ættir I, 90.

[93] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 2. Skiptabók 1811-1825. Skipti á dánarbúi Margrétar Guðnadóttur á Gelti

22.4.1814.

[94] Sama heimild.

[95] Sama heimild.

[96] Sama heimild.

[97] Sama heimild.

[98] Sama heimild.

[99] Jón J. Aðils 1971, 418-420. Gísli Gunnarsson 1987, 258.

[100] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[101] Sama heimild.

[102] Manntal 1801.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[103] Manntal 1816.

[104] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[105] Sama heimild.

[106] Sama heimild.

[107] Manntal 1845.

[108] J. Johnsen 1847, 194-196.  Manntöl 1845 og 1850.

[109] Sömu heimildir.

[110] Manntöl 1816, 1835, 1840, 1845, 1850, 1870 og 1890. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1. búnaðar-

skýrslur 1821 og 1830.

[111] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[112] Sama heimild.

[113] Manntal 1845.

[114] Sama heimild.

[115] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[116] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar og Manntal 1850.

[117] Manntal 1855.

[118] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[119] H. Kr. 1992, 87-88, (Ársrit S.Í.).

[120] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar. Sami 1945, 159-160.

[121] Ól. Þ. Kr. 1945, 159-160.

[122] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[123] Manntal 1860.

[124] Ól. Þ. Kr. 1945, 160.

[125] Manntal 1860. VA III, 417, búnaðarskýrslur 1860.

[126] Manntal 1860.

[127] Ól. Þ. Kr. 1953, 38-39.

[128] Sóknarmannatöl Holts í Önundarfirði.

[129] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[130] Lbs. 22384to, bls. 12-13 og 61-62, (Magnús Hjaltason).

[131] Sama heimild.

[132] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[133] Sama heimild.

[134] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[135] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[136] Guðmundur Ingi Kristjánsson 1983, 147, (Bóndi er bústólpi IV).

[137] Sama heimild, 150.

[138] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar. Guðm. I. Kr. 1983, 148. Manntal 1880.

[139] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[140] Manntöl 1880, 1890 og 1901. Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[141] Manntal 1870.

[142] Manntöl 1880 og 1901.

[143] Manntal 1890.

[144] Manntöl 1880 og 1901.

[145] Manntal 1880. Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar. Framætt og niðjar Eiríks Kristjánssonar og Önnu Þórarinsdóttur

frá Önundarfirði, bls. 2.

[146] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[147] Sömu heimildir.

[148] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[149] Guðm. I. Kr. 1983, 148, (Bóndi er bústólpi IV).

[150] Manntal 1880.

[151] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[152] Sama heimild.

[153] Sama heimild.

[154] Gils Guðmundsson / Tíminn 12.12.1961.

[155] Ísl. æviskrár VI, 220-221.

[156] Guðm. I. Kr. 1983, 150.

[157] Játvarður J. Júlíusson 1986, 57-58 (Nemendatal Ólafsdalsskóla).

[158] Sama heimild. Gils Guðm. / Tíminn 12.12.1961.

[159] Gils Guðm. / Tíminn 12.12.1961.

[160] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[161] Játv. J. Júlíusson 1986, 57-58.

[162] Guðm. I. Kr. 1983, 152-153 (Bóndi er bústólpi IV).

[163] Sama heimild.

[164] Sama heimild, 176.

[165] Sama heimild, 178.

[166] Sama heimild, 155.

[167] Sama heimild.

[168] Lbs. 45824to, Dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili 23.1.1895.

[169] Sama heimild.

[170] Þjóðviljinn ungi 11.2.1895, IV., bls. 51-52.

[171] Sama heimild.

[172] Þjóðviljinn ungi 11.2.1895, IV., bls. 51-52.

[173] Sama heimild 27.2.1897, VI., bls. 59.  Gils Guðm. / Tíminn 12.12.1961.

[174] Sömu heimildir.

[175] Þjóðviljinn ungi 15.3.1897, VI., bls. 62-63.

[176] Guðm. I. Kr. 1983, 159 (Bóndi er bústólpi IV).

[177] Þjóðviljinn ungi 6.4.1897.

[178] Sama heimild.

[179] Sama heimild.

[180] Guðm. I. Kr. 1983, 172.

[181] Þjóðviljinn ungi 6.2.1899.

[182] Sama heimild 30.12.1899.

[183] Sama heimild.

[184] Sama heimild.

[185] Guðm. I. Kr. 1983, 174 (Bóndi er bústólpi IV).

[186] Gils Guðm. / Tíminn 12.12.1961.

[187] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[188] Ísl. æviskrár VI, 220-221.

[189] Gils Guðm. / Tíminn 12.12.1961.

[190] Guðm. I. Kr. 1983, 174-175.

[191] Sama heimild, 162.

[192] Sama heimild.

[193] Sama heimild, 163.

[194] Sama heimild.

[195] Sama heimild.

[196] Sama heimild, 165. Sbr. Sigurður Sigurðsson 1937, 104-108 (Bún. Ísl. Aldarminning II).

[197] Sama heimild, 165.

[198] Ísl. æviskrár VI, 220-221. Guðm. I. Kr. 1983, 152-179.

[199] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[200] Sama heimild og Kennaratal.

[201] Snorri Sigfússon 1969, 112.

[202] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 163.

[203] Sama heimild.

[204] Sama heimild.

[205] Sama heimild.

[206] Fasteignabók 1921, bls. 80.

[207] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916, bls. 74.

[208] Óskar Ein. 1951, 100.

[209] Sama heimild.

[210] Sama heimild.

[211] Sama heimild.

[212] Sama heimild.

[213] Óskar Ein. 1951, 100.

[214] Sama heimild.

[215] Lbs. 47084to / Magnús Hjaltason.

[216] Sama heimild.

[217] Sama heimild.

[218] Sama heimild.

[219] Óskar Ein. 1951, 101.

[220] Sama heimild.

[221] Sama heimild.

[222] Sama heimild.

[223] Sama heimild.

[224] Sama heimild.

[225] Sama heimild.

[226] Sama heimild.

[227] Sama heimild.

[228] Íslenskir sagnaþættir og þjóðsögur 1941, II, 117-119. Prestsþj.b. og sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[229] Ísl. sagnaþ. og þjóðs. 1941, II, 117-119. Manntal 1910.

[230] Ísl. sagnaþ. og þjóðs. 1941, II, 117-119.

[231] Sama heimild.

[232] Sama heimild.

[233] Sama heimild.

[234] Sama heimild.

[235] Sama heimild.

[236] Sama heimild.

[237] Sama heimild.

[238] Jensína Ebba Jónsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 29.6.1994.

[239] Sama heimild.

[240] Óskar Ein. 1951, 100.

[241] Sama heimild.

[242] Óskar Ein. 1951, 97.

[243] Óskar Ein. 1951, 97.

[244] Sama heimild, 99.

[245] Sama heimild.

[246] Lbs. 47084to / Magnús Hjaltason.

[247] Sama heimild.

[248] Jensína Ebba Jónsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 29.6.1994.

[249] Sama heimild.

[250] Óskar Ein. 1951, 100.

[251] Sama heimild, 99.

[252] Sama heimild, 100.

[253] Jensína Ebba Jónsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 29.6.1994.

[254] Lbs. 22354to, 295-296/ Magnús Hjaltason.

[255] Lbs. 27364to, bls. 128/ Magnús Hjaltason.

[256] Jensína Ebba Jónsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 29.6.1994.

[257] Lbs. 27364to / Magnús Hjaltason, bls. 128.

[258] Sama heimild.

[259] Sama heimild.

[260] Óskar Ein. 1951, 99.  Jensína Ebba Jónsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 29.6.1994.

[261] Óskar Ein. 1951, 99.

[262] Guðm. I. Kr. – Viðtal K.Ó. við hann 26.6.1994.

[263] Kristján G. Þorvaldsson 1951, 74.

[264] Óskar Ein. 1951, 99.

[265] Sama heimild.

[266] Jensína Ebba Jónsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 29.6.1994.

[267] Óskar Ein. 1951, 99.

[268] Jensína Ebba Jónsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 29.6.1994.

[269] Óskar Ein. 1951, 99.

[270] Kristján G. Þorvaldsson 1951, 74.

[271] Sama heimild.

[272] Óskar Ein. 1951, 99.

[273] Óskar Ein. 1951, 99.

[274] Sama heimild.

[275] Sama heimild. Jensína Ebba Jónsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 29.6.1994.

[276] Lbs. 27364to, bls. 129/Magnús Hjaltason.

[277] Jensína Ebba Jónsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 29.6.1994.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »