Um Kjálkafjörð, Hjarðarnes og Vatnsfjörð

Um Kjálkafjörð, Hjarðarnes og Vatnsfjörð

 

Kjálkafjörður

Frá sýslumörkum við Skiptá í Kjálkafirði er skammur vegur inn í fjarðarbotn þar sem Austurá og Kjálkafjarðará sameinast og falla til sjávar í einum ósi. Öll austurhlíð Kjálkafjarðar er mjög brattlend og er þar ekkert undirlendi. Fyrir botni fjarðarins rísa Kjálkafjarðartungur stall af stalli og örskammt milli fjalls og fjöru.

Úr Kjálkafjarðaránum kom Rassbeltingur, sem líka var nefndur Hringsdalsdraugurinn, og lengi þótti einn skæðasti draugur í Barðastrandarsýslu. Einna greinilegast hefur Sighvatur Grímsson Borgfirðingur ritað um Rassbelting en sá fróðleikur var einkum ættaður frá þeim Bjarna skáldi Þórðarsyni á Siglunesi og Guðmundi jarðyrkjumanni Guðmundssyni í Litluhlíð á Barðaströnd[1] sem báðir koma hér nokkru síðar við sögu.

Það var upphaf Rassbeltings að maður nokkur sem Árni hét og var kallaður blóti þurfti að koma sér vel við Ólaf Árnason, sem sýslumaður var í Haga frá 1737 til 1752, og Halldóru konu hans. Hugðist Árni færa sýslumanni tvo brennivínskúta að gjöf til að blíðka þau hjónin og lagði upp með kútana í foraðsveðri frá Vattarnesi á Þingmannaheiði. Á heiðinni varð Árni blóti úti en vorið eftir spýtti Kjálkafjarðará líki hans í leysingum ofan í Kjálkafjörð og fann Einar að Haugi það.[2]

Sá sem fann líkið var Einar Snæbjarnarson, ungur maður á Auðshaugi. Skömmu áður hafði Einar beðið Guðrúnar, dóttur séra Guðmundar Vernharðssonar í Selárdal, en verið synjað. Féll Einari þungt synjunin og hugði hann á hefndir. Sumir segja að Einar á Haugi vekti nú sjálfur upp Árna blóta en aðrir greina svo frá að til þess hafi hann fengið Jón þann sem kallaður var skóli. Hvernig svo sem því var háttað komst Árni blóti á kreik þótt dauður væri og var draugur sá brátt nefndur Rassbeltingur af því hann hafði ól um mittið eða þar neðantil.[3] Öðrum búningi Rassbeltings er svo lýst að hann væri á mógrárri úlpu og með slapahatt á höfði.[4]

Rassbeltingur gekk nú ljósum logum og tók brátt að ásækja Sturlu Eyjólfsson, bónda í Hringsdal í Ketildölum, er fengið hafði Guðrúnar, prestsdótturinnar úr Selárdal sem Einari á Auðshaugi hafði verið synjað ráðahags við. Þess skal getið að Guðrún þessi var föðursystir séra Jóns Þorlákssonar, skálds á Bægisá.

 

Þar kom að Sturla bóndi fannst dauður í heygarði og segja sumir að hann væri hálsbrotinn. Dauður var og nautamaðurinn í fjósinu en þær systur, Kristín og Gróa, [dætur Sturlu og Guðrúnar] urðu þegar vitskertar. Guðrúnu var ekki unnið neitt mein sjálfri en ærnar skráveifur voru gerðar kvikfénaði.[5]

 

Eyjólfur , sonur Sturlu og Guðrúnar í Hringsdal, varð prestur á Brjánslæk 1779. Skömmu síðar fór Rassbeltingr að láta þar til sín taka. Birtist hann fyrst á Lækjarhömrum sunnudag einn. Margt gerði Rassbeltingur illt á Brjánslæk og truflaði prest oft fyrir altarinu svo að hann varð að þagna.[6]

Árið 1783 andaðist séra Eyjólfur Sturluson á Brjánslæk og töldu margir að Rassbeltingur væri valdur að dauða hans. Um dauða séra Eyjólfs hefur Þorsteinn skáld Erlingsson ritað eftir sögu Jakobs Aþanasíussonar er lengi var bóndi á Barðaströnd og segir svo:

 

En svo bar að dauða Eyjólfs að hann varð með köflum truflaður og var það eignað Rassbelting. Var þá sóttur Jón Kírúrgus. Prestur var óður og skipaði Kírúrgus að vefja hann í segl og bera hann út í kirkju, leggja hann fyrir altari og láta Saltarann undir höfuð hans. Presti hægði þegar í stað og dó. Kenndu menn því bæði Rassbelting og Kírúrgus um dauða hans.[7]

 

Aðrar sögur af Rassbelting verða ekki raktar hér en margar skráveifur gerði hann niðjum þeirra Sturlu og Guðrúnar í Hringsdal og nálægt aldamótunum 1900 ritar Sighvatur Borgfirðingur að enn verði þessa uppvaknings vart og sé hann orðinn að ættarfylgju.[8]

Þeir sem um Kjálkafjörð fara þegar skuggsýnt er ættu að svipast um við árnar í fjarðarbotninum. Máske einhver vegfarandi fái þá enn að líta mannsmynd í mógrárri úlpu með slapandi hatt og ólina seigu knýtta um þjó.

 

Hjarðarnes

Út með Kjálkafirði að vestan liggur leiðin fyrst undir Seljahjöllum sem enda við Þverá nær andspænis Skiptánni handan fjarðar en samt litlu utar. Upp með Þverá leynist dálítill dalur í fjallinu, Þverdalur, og var þar áður selstaða frá Auðshaugi. Voru karlmaður og kvenmaður látin vera þar með fé haust og vor fram um aldamótin 1900.[9] Árið 1840 var þetta eina selstaðan í hreppnum.[10] Utan við Þverá er enn svolítið skógarkjarr og fyrr en varir taka síðan við grónar grundir með sjó fram. Verður þá strax búsældarlegra um að litast. Er þá komið á Hjarðarnes en svo heitir nesið milli Kjálkafjarðar og Vatnsfjarðar. Nes þetta er víðast um átta kílómetrar á breidd, hálent en samfelld gróðurræma á kafla með ströndinni að austan- og sunnanverðu. Þar eru nú (1988) tveir bæir í byggð en áður voru þeir fleiri. Snemma mun hafa þótt gott undir bú á Hjarðarnesi og segir í Landnámu að þar hafi sauðum Geirmundar heljarskinns verið haldið til beitar. Á nafnið að vera dregið af sauðahjörð Geirmundar.

Austasta býli á Hjarðarnesi og þar með í Barðastrandarhreppi var Auðnir. Úr Kjálkafjarðarbotrni eru liðlega fimm kílómetrar að Auðnum og tvær smáár á leiðinni, fyrst Þverá og síðan Barká. Búið var á Auðnum í upphafi 18. aldar[11] og svo var enn tvö hundruð árum síðar. En á fyrstu árum tuttugustu aldar fór jörðin í eyði. Frá Auðnum eru um tveir og hálfur kílómetri yfir Kjálkafjörð að Litlanesi í Múlasveit. Í norðvestri frá Auðnum rís Auðnaöxl, hæsta fjall á Hjarðarnesi, og er brún axlarinnar í 571 metra hæð yfir sjávarmáli.

Frá Auðnum eru tæplega fjórir kílómetrar eftir þjóðveginum að Auðshaugi á suðaustanverðu Hjarðarnesi en þar er nú (1988) fyrsta byggt ból í hreppnum þegar ekið er út með norðanverðum Breiðafirði. Á leiðinni frá Auðnum að Auðshaugi er farið hjá Torfnesi, litlu nesi sem gengur út í mynni Kjálkafjarðar, en þar á nesinu hafa bændur á Auðshaugi ræktað upp tún.

Bærinn Auðshaugur er kunnur úr Gísla sögu Súrssonar. Á flótta undan Berki digra reri ambáttin Bóthildur með Gísla úr Hergilsey upp á Hjarðarnes. Var það lífróður, enda var hún alsveitt af mæði og rauk af henni er hún skildi við Gísla í fjörunni.[12] Komst Gísli naumlega til bæjar á Auðshaugi áður en Börkur og menn hans næðu að króa hann af. Refur bóndi og Álfdís kona hans tóku við Gísla og skýldu honum í rúmbotni sínum meðan liðsmenn Barkar leituðu sem ákafast um bæinn. Á Auðshaugi dvaldist Gísli í hálfan mánuð og sneri þaðan í Geirþjófsfjörð.[13] Við Hjarðarnes sunnanvert eru margar smáeyjar, m.a. Lynghólmar, svo sem 30 faðma undan landi, og þornar um fjöru út í hólmana. Þarna hafa ýmsir talið að ambáttin muni hafa skilað Gísla í land.[14]

Beint fram af bænum á Auðshaugi gengur höfði í sjó fram. Á háhöfðanum er hóll samnefndur bænum og var því trúað að gull væri fólgið í hólnum.[15]

Séra Hálfdan Einarsson getur þess í sóknarlýsingu sinni frá 1840 að bænhús hafi áður verið á Auðshaugi en veit greinilega ekkert nánar um það mál.[16] Engar aðrar heimildir staðfesta þetta svo kunnugt sé. Á síðari hluta 19. aldar var Auðshaugur sýslumannssetur um tíu ára skeið og sátu hér sýslumennirnir Gunnlaugur Blöndal frá 1872 til 1879 og Ásmundur Sveinsson frá 1879 til 1882.[17] Meðal bænda sem búið hafa á Auðshaugi er fræðimaðurinn Pétur Jónsson frá Stökkum á Rauðasandi en hann fluttist að Auðshaugi aldamótaárið 1900.[18]

Frá Auðshaugi eru um þrír kílómetrar að bænum Fossá á sunnan- verðu Hjarðarnesi. Nú eru aðeins þessir tveir bæir í byggð á nesinu en á milli þeirra, rétt austan við Fossá, var býlið Suður-Hamar sem fór í eyði árið 1904.[19] Fjallið heitir þar enn Hamarshyrna. Fossá er gamalt býli og nefnd strax í Gísla sögu. Árið 1509 var bjórtunna meðal þess sem bóndanum á Fossá var gert að greiða í landskuld af jörðinni[20] og bendir það til blómlegra viðskipta við erlendar þjóðir nema bjór hafi verið bruggaður heima á Fossá. Var bjórtunnan metin á 40 álnir eða þriðjung úr kýrverði.

Árið 1781 fluttist að Fossá Jón Teitsson, mikill framkvæmdamaður í búskap. Fjórtán árum síðar leitaði þáverandi sýslumaður Barðstrendinga eftir sérstakri viðurkenningu frá stjórnvöldum Jóni til handa vegna jarðabóta og annarra framkvæmda á Fossá. Umsögn votta um framkvæmdir Jóns hefur varðveist.[21] Þar kemur fram að karlinn hefur meðal annars hrundið þessu í framkvæmd:

 

  1. Byggt upp öll bæjarhúsin svo og fjárhús og heyhlöður.

 

  1. Byggt 240 faðma langan stórgripaheldan túngarð og við fjallsræturnar sérstakan 30 faðma varnargarð úr grjóti gegn skriðuföllum.

 

  1. Komið upp sérstöku áveitukerfi með aðskiljanlegum rennum og skurðum og þannig náð að veita bæði vatni og fjóshaugnum um allt túnið.

 

  1. Komið upp vatnsmyllu úr timbri til kornmölunar, útbúið tófugildru og komið á fót vísi að æðarvarpi.

 

  1. Látið byggja sauðagerði úr torfi og grjóti fyrir 160 fjár miðja vega milli bæjarins og fjarlægs beitilands.

 

  1. Tekið upp selstöðu rétt góða og gagnlega, sem í langan tíma hafði ei verið brúkuð og látið byggja þrjú selhús.

 

Þegar Jón Teitsson fékk vottorð upp á allar þessar framkvæmdir árið 1795 var hann 73 ára gamall ef marka má manntalið frá 1801.[22] Í vottorðinu kemur líka fram að heyfengur af túninu á Fossá hefur á búskaparárum Jóns vaxið frá því að vera 50 hestar í góðu ári upp í 80 hesta í meðalári.

Í sóknarlýsingunni frá 1840 kemur fram að Fossársel hefur verið inn með Vatnsfirði en á þeim tíma er reyndar hætt að nýta það.[23] Um byggingu selsins segir svo í vottorði því frá 1795 sem hér hefur verið notað sem heimild um framkvæmdir Jóns Teitssonar:

 

Er þetta sel frá bænum hér um lengstu bæjarleið, hvört pláss áður [var] mestanpart birkiskógur svo þykkvaxinn að varla verður í gegnum komist af mönnum eða fénaði án fatnaðar- og ullarskemmda. Hefur hann því höggvið götu í skóginn allt til selsins svo breiða að hún verður gengin og líka farið með áburð. Fleiri götur hefur hann í skóginn höggvið eftir hverjum sauðfé runnið getur án skaða fyrir ullina.[24]

 

Í vottorðinu um framkvæmdir Jóns Teitssonar segir að hann hafi tekið upp selstöðu sem í langan tíma hafði ei verið brúkuð. Eðlilegt sýnist að skilja þau orð svo að fyrrum hafi verið haft í seli frá Fossá á sama stað og Jón byggði upp. Fossársel var miðja vega milli Hörgsness, við mynni Vatnsfjarðar, og Uppsalaár sem fellur í Vatnsfjörð og skiptir löndum milli Fossár og Brjánslækjar.[25] Vegalengdin frá Hörgsnes að selinu var um það bil einn kilómetri.[26] Seltóttirnar voru alveg niður við sjó á Seltanga er svo heitir.[27] Þar rétt hjá en þó aðeins norðar er Selgil og um það fellur dálítill lækur.[28] Tóttunum í Fossárseli var gjöreytt þegar akvegur var lagður fyrir Hörgsnes.[29]

Í júnílok árið 1738 lagði gamall förumaður, Jón Gottskálksson að nafni, upp frá Brjánslæk og hélt sem leið liggur inn með Vatnsfirði. Hann hafði tvo hesta, reið annarri dróginni en létt trúss var á hinni. Karl fór sér hægt og við Vatnsfjarðarvaðal náði honum annar ferðamaður, Bótólfur Jörensson. Líklega hefur Bótólfur verið að koma frá Siglunesi eða verstöðvum í Rauðasandshreppi því hann var með steinbít á tveim eða þremur hestum. Sjálfur var Bótólfur gangandi og falaði nú af Jóni Gottskálkssyni að hann reiddi sig yfir vaðalinn. Ekki vildi Jón verða við þeirri bón og varð Bótólfur því að vaða. Hann var nú ævareiður Jóni og er hann náði honum á ný á nesjunum fyrir sunnan vaðalinn[30] hratt hann honum af baki, barði hann með grjóti og skildi þar við hann ósjálfbjarga og illa leikinn.

Nokkru síðar fundu konur úr Fossárseli Jón Gottskálksson þar á nesjunum nær dauða en lífi. Báru þær hann heim í selið í brekáni og gat hann gert þeim skiljanlegt að Bótólfur hefði grýtt sig og barið. Var selsmalinn sendur heim að Fossá til að segja tíðindin en þaðan var komið boðum til Ólafs Árnasonar, sýslumanns í Haga. Sendi hann þá sem hvatast sex menn að grípa Bótólf en sjálfur fór hann í selið að skoða karlinn.[31] Er sýslumaður kom í selið var Jón Gottskálksson látinn af sárum sínum en á Vattarnesi náðu sendimenn sýslumanns Bótólfi, settu hann í járn og fluttu að Haga. Þann 25. ágúst sama sumar var á Vaðli kveðinn upp dauðadómur yfir Bótólfi og dæmdi hann Ólafur sýslumaður ásamt meðdómsmönnum. Næsta vetur sat Bótólfur í járnum í Haga.

Sumarið 1739 tók sýslumaður Bótólf með sér suður að Þingvöllum við Öxará til að fá líflátsdóminn staðfestan á Alþingi. Þann 8. júlí, á fyrsta degi þingsins, var mál Bótólfs tekið fyrir og hafði Skúli Magnússon, hinn ungi sýslumaður Skagfirðinga en síðar landfógeti, verið skipaður verjandi óbótamannsins.

Tveimur dögum síðar var við Öxará upp kveðinn lögmannsdómur yfir Bótólfi fyrir manndráp hjá Fossárseli. Dómurinn hljóðaði svo:

 

Bótólfur Jörensson, sem af löglegum vitnum er yfirbevísaður, svo og sjálfur fyrir rétti svo vel heima í héraði sem hér fyrir lögþingisrétti hefur meðgengið að hans ásetningur verið hafi að drepa Jón Gottskálksson og þar til veitt honum áverka með þremur steinshöggum, hvar eftir nefndur Jón fám dögum síðar dáinn, skal eftir norsku lögum … missa sitt höfuð og ber sýslumanninum Ólafi Árnasyni að láta execution yfir honum ganga hér við Öxará löglega og útvega honum prest áður en executionen [þ.e. aftakan – innsk. K.Ó.] framfer.[32]

 

Það sem hér hefur verið sagt um mál Bótólfs er byggt á þeim frumgögnum málsins sem prentuð eru í Alþingisbókinni og á frásögn í Sagnaþáttum Fjallkonunnar þar sem stuðst er við skrif Gísla Konráðssonar.

Í Grímsstaðaannál sem Jón Ólafsson, lögréttumaður á Grímsstöðum í Breiðavík á Snæfellsnesi, ritaði er þess hins vegar getið að á Alþingi hafi ekki tekist að útvega böðul til að höggva Bótólf og því hafi Ólafur sýslumaður orðið að taka hann aftur með sér heim í Haga.[33] Full ástæða er til að ætla að Jón á Grímsstöðum fari þarna rétt með, maður fæddur 1691 og því á besta aldri þegar Bótólfur var dæmdur til dauða.[34] Gísli Konráðsson segir líka að á Þingvöllum hafi enginn böðull verið fáanlegur (sjá hér Frá Brjánslæk að Haga, – Vaðall þar).[35] Frá aftöku Bótólfs vestur á Barðaströnd greinir hann á þessa leið:

 

Bjarni búi hét böðullinn, sagður illmenni mikið, hafði bæði stolið og lagst út og verið upp gefnar sakir til að gerast böðull. Sigurður prestur Þórðarson á Brjánslæk taldi um fyrir Bótólfi. Iðraðist hann og var höggvinn af Bjarna utan til við Vaðilsá, í nesi því, er síðan er kallað Bótólfsnes. Sést þar enn fyrir dysinni.[36]

 

Bótólfur var sagður danskur í föðurkyn og ætla menn hann væri úr Þorskafirði.[37] Ein þeirra kvenna er sáu Bótólf í járnum í Haga, var Guðrún Bjarnadóttir, amma Guðmundar Guðmundssonar í Litluhlíð á Barðaströnd, þess er forgöngumaður varð um kartöflurækt (sjá hér Frá Haga á Siglunes). Guðrún sagði svo frá að Bótólfur hafi verið sá fríðasti maður, sem hún hefði séð.[38]

Áður en horfið verður frá Fossá og Fossárseli skal minnt á tvo nítjándu aldar bændur er bjuggu á Fossá og báðir voru fræknir sjósóknarar. Um miðja 19. öld bjó hér Jón Teitsson, alnafni þess Fossárbónda er hér var áður nefndur, og hafði Jón þessi yngri lengi verið hákarlaformaður og skipstjóri á jöktum Guðmundar Scheving í Flatey.[39] Eggert Magnússon frá Skáleyjum bjó á Fossá frá 1866 til 1886. Hann hafði ungur lært siglingafræði í Flensborg í Suður-Slésvík og frá Fossá lagði hann upp í sína frægðarför til Björvinjar í Noregi sumarið 1871 á skútunni Jóhannesi sem Hafliði í Svefneyjum átti (sjá hér Svefneyjar).

Enda þótt fátt eitt sé sagt frá Fossárbændum á fyrri tíð nægir þetta til að sýna að hér hafa búið merkismenn er skipuðu sér í fylkingarbrjóst, ýmist hvað varðaði bætta búnaðarhætti ellegar sjósókn og siglingar.

Skammt fyrir vestan Fossá þrýtur undirlendið með sjónum. Hér er birkikjarr í hlíðum og eftir skamman spöl er komið á suðvesturhorn Hjarðarnessins. Heitir þar Hörgsnes. Klettahjallar eru þar margir og uppi á einum þeirra, svo sem 40-50 metrum ofan við þjóðveginn sem ekið var um árið 1977, er Gíslahellir sem svo heitir. Þjóðsögur herma að í helli þessum hafi Ingjaldur í Hergilsey haldið útlagann, Gísla Súrsson, í þrjú sumur.[40] Haustið 1933 mældist hellirinn um 170 cm á hæð þar sem hann var hæstur, gólflengd mest um 5 metrar og breidd um 2,20 metrar.[41] Skógarkjarr er fyrir hellismunnanum og því nokkuð erfitt að finna hann.

Vatnsfjörður

 

Frá Hörgsnesi liggur þjóðvegurinn inn með Vatnsfirði um kjarrivaxnar hlíðar. Frá Hörgsnesi í Vatnsfjarðarbotn eru fjórir til fimm kílómetrar. Við Uppsalaá, nokkru innan við Hörgsnesið, eru landamerki milli Fossár og Brjánslækjar. Vatnsfjörður er ystur allra þverfjarðanna við norðanverðan Breiðafjörð. Í landi Brjánslækjar umhverfis Vatnsfjörð byggðust á fyrri tíð nokkur hjáleigukot og var búið á sumum þeirra fram yfir aldamótin 1900.

Á austurströnd fjarðarins var kotið Uppsalir, um það bil miðja vega á leiðinni frá Hörgsnesi inn í fjarðarbotn. Eigi er kunnugt hvenær fyrst var byggt á Uppsölum en í Jarðabók Árna og Páls frá byrjun 18. aldar kemur fram að þar hafi áður verið búið en býlið þá legið í eyði í a.m.k. 60 ár. Á 18. öld mun aftur hafa verið búið á Uppsölum um tíma því að í sóknarlýsingunni frá 1840 er sagt að þeir hafi farið í eyði á síðari hluta 18. aldar.[42]

Um miðja 19. öld var bú enn reist á Uppsölum. Ekkert fólk er hér í manntali frá árinu1845 en árið 1859 býr hér Jakob Aþanasíusson (sjá hér Frá Brjánslæk að Haga, Tungumúli þar). Það ár brennur bærinn ofan af Jakobi og hans fólki. Frá þeim atburði segir svo í gerðabók Flateyjar- framfarastiftunar: Árið 1859 missti stiftunin 9 bækur í bruna hjá öreiga bóndanum Jakob Athanasíussyni á Uppsölum. Engar líkur eru til taldar að hann bæti þær vegna fátæktar.[43]

Þarna er með fáum orðum dregin upp sterk mynd af fátæktarkjörum þess manns sem Þorsteinn Erlingsson kynnti allri þjóðinni síðar með bókinni Sagnir Jakobs gamla. Ekki er þess getið að bækur frá bókasafninu í Flatey hafi glatast nema í þetta eina skipti í öll þau 24 ár sem séra Ólafur Sívertsen veitti því forstöðu.[44] Á Uppsölum var síðast búið kringum aldamótin 1900.[45]

Þegar haldið er frá Uppsölum inn með Vatnsfirði er brátt komið að brúnni yfir Þingmannaá. Áin er allmikið vatnsfall og fellur um Þingmannadal, er teygist eina átta kílómetra upp til Þingmannaheiðar. Norðan við ána lá hin gamla alfaraleið til heiðarinnar og þar var akvegurinn lagður um miðja tuttugustu öld (sjá hér Múlasveit).

Leiðina yfir Þingmannaheiði töldu margir sex stunda lestagang milli fjarða eða sem svaraði einni þingmannaleið.[46] Oft var heiðin seinfarnari og öll leiðin milli bæja frá Vattarnesi í Múlasveit að Brjánslæk var töluvert lengri (sjá hér Múlasveit).

Austanvert við Vatnsfjarðarbotn, milli Þingmannaár og Vatnsdalsár, er fagurt skóglendi og heitir Mörk. Þar átti Hagakirkja skógarítak.[47] Austur frá Mörkinni heita Smiðjukleifar og þar upp af Smiðjuhnúkar. Um kleifarnar lá leiðin á Þingmannaheiði.

Rétt norðan við ósa Þingmannaár gengur svolítill tangi fram í fjörðinn er Smiðjunes heitir. Sumarið 1753 voru þeir Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson staddir í Vatnsfirði á einni rannsóknarferða sinna um Ísland. Í Ferðabók þeirra félaga ritar Eggert svo:

 

Svo herma menn almennt eftir forfeðrum sínum, að Gestur Oddleifsson, höfðingi er uppi var á 10. öld og nafnkenndur var sakir speki sinnar og réttdæmis, hafi átt smiðju þar í grennd og stundað þar rauðablástur. Smiðjan á að hafa staðið á litlum tanga, sem gengur fram í Vatnsfjörð. En þótt engar væru sagnirnar er enginn vafi á að þarna hefir slíkt starf verið unnið, en hver það hefir gert vitum vér eigi nema eftir sögusögninni. Staðurinn heitir enn í dag Smiðja og tanginn Smiðjunes. Við komum hér árið 1753 og fundum þá smiðjutóttina, sem enn er greinileg. Sýnilegt er að hún hefir verið reist hvað eftir annað en minnkað í hvert skipti. Langt er þó síðan hún hefir seinast verið reist því að veggirnir eru sokknir í jörð og innan í tóttinni vaxa allstór birkitré. Í miðri tóttinni er steinninn, sem steðjinn hefir staðið í, og er meitluð í hann djúp ferhyrnd hola. Allt umhverfið hefir verið vaxið birkiskógi. Það er sagt að Gestur hafi einkum notað járngrjótið og rauðann hinum megin árinnar. Við létum grafa í tóttina og eins utan hennar og fundum þegar í stað bæði kol og ösku. …

En sterkasta sönnunin fékkst þó árið 1760 þegar staðurinn var skoðaður öðru sinni. Áin hafði rifið grassvörðinn úr bakkanum nokkur skref frá tóttinni en þar fundust margir stórir svartir molar af járngjalli og þegar grafið var þar í jörðu var komið niður á sams konar gjall. Enginn vafi getur því lengur leikið á máli þessu því að gjallið sýnir ótvírætt að það er frá stórri smiðju eða járnvinnslustöð en ekki úr venjulegum smiðjuafli.[48]

 

Þetta voru orð Eggerts Ólafssonar. Árið 1889 var liðið nokkuð á aðra öld frá því Eggert skoðaði smiðjutóttina. Þá bar þarna að annan ferðalang, Sigurð Vigfússon fornfræðing. Miklar gersemar eru þetta á Sigurður að hafa sagt er hann skoðaði steinana tvo í smiðjutóttinni[49] og steðjaþróin klöppuð í annan þeirra.

Um rannsóknir sínar á smiðjunni ritaði Sigurður Vigfússon í Árbók Fornleifafélagsins árið 1893. Hann segir þar að smiðjutóttin sé á að giska 300 faðma [500-600 metra] upp af botninum í Vatnsfirði frá stórstraumsflæði talið, að norðanverðu við Þingmannaá við Smiðjufljót, sem kallað er í ánni. Vegalengd frá ánni um 13 metrar.[50] Sigurður lýsir tóttinni og segir m.a.:

 

Þegar ég kom að tóttinni fyrst voru á móti dyrunum í miðri tóttinni steinar 2 ákaflega miklir. Annar þeirra er með djúpri og víðri ferhyrndri steðjaþró og er þróin 5 þumlunga út á brún á hinn lengra veg en 4 þumlunga á hinn veginn; brúnirnar eru mjög svo máðar og fornlegar. Steðjaþróin er 5½ þumlungur á dýpt [14-15 cm – innsk. K.Ó.]. Steinn þessi eru mjög svo ferskeyttur með flötum hliðum á 2 vegu. Hann er rétt alin á hæð. Hinn steinninn hefur líka lögun. … Þessa steina lét ég grafa upp báða og velta þeim með vogum út úr tóttinni til þess að geta rannsakað gólfið. Þar fannst í kringum steinana bæði gjall og kolaaska … steinninn með steðjaþrónni stóð innar í miðri tóttinni en hinn steinninn framar, rétt á móti dyrunum. Það er því sjáanlegt að steinn þessi hlýtur að hafa verið reksteinn og ber hann þess merki að ofan að lúð hefur verið járn á honum.[51]

 

Sigurður lýsir smiðjunni mun nánar og þar á meðal leifum af sjálfum smiðjuaflinum. Steinunum góðu segist hann hafa látið koma fyrir á grjótbálkinum landsunnanmegin í tóttinni svo sem á innanverðum aflinum, í líkri afstöðu hverjum frá öðrum eins og þeir stóðu í tóttinni og eru þeir þar til sýnis.[52]

Með stuðningi af lýsingu Sigurðar er smiðjutóttin auðfundin, enda þótt vart sjái þar lengur fyrir útveggjum. Vegalengdin er tæplega hálfur kílómetri frá brúnni yfir Þingmannaá og gengið upp með ánni að norðanverðu uns komið er að lygnunni þar sem heitir Smiðjufljót. Þegar þangað er komið er tímabært að svipast um, tíu til fimmtán metrum frá árbakkanum, eftir merki um friðlýstar minjar og steininum forna með steðjaþrónni. Þann 10. ágúst 1988 stóð hann hér enn eins og Sigurður fornfræðingur hafði gengið frá honum 99 árum og 5 dögum fyrr. Skammt frá fannst á árunum milli 1860 og 1870 sleggja ein allmikil og mjög uppbarin í báða enda. Hún var að sögn Sigurðar fornlegri en aðrar sleggjur sem hann hafði augum litið. Sleggju þessa gaf honum Sigurborg í Flatey, dóttir Bárar-Ólafs.[53]

Enginn veit nú hvort Gestur spaki hefur lúð hér járn fyrir 1000 árum en í skrá frá árinu 1446 yfir eignir Guðmundar Arasonar á Reykhólum er talin meðal eigna hans á Brjánslæk rauðasmiðja stór með öllum tólum.[54] Gæti hún sem best hafa verið hér. Örnefnin í grennd, Smiðjuhnúkar Smiðjukleifar, Smiðjufljót og Smiðjunes benda sterklega til þess. Sagnir eru og um fornt býli á þessum slóðum, Smiðjumýrar,[55] en allt óljóst í þeim efnum.

Vestan við Mörkina fellur Vatnsdalsá úr Vatnsdalsvatni í botn Vatnsfjarðar og er spölurinn frá vatninu til sjávar aðeins um einn kílómetri. Áin er vatnsmikil og varð Þorvaldur Thoroddsen að sundríða hana á ferð sinni um Vestfirði sumarið 1886.[56] Upp frá fjarðarbotninum gengur Vatnsdalur og þekur vatnið drjúgan hluta af dalnum. Vatnsdalsvatn er eitt stærsta stöðuvatn á öllum Vestfjörðum, liðlega þrír kílómetrar á lengd frá suðri til norðurs og víðast 500 til 1000 metrar á breidd.

Við innanverðan Vatnsfjörð og við Vatnsdalsvatn er gróskumikið skóglendi og sumarfagurt að flestra dómi. Á göngu um skóginn við botn Vatnsfjarðar og hjá vatninu er margt sem gleður augað – ekki síst hin hávöxnu reynitré er skarta krónum sínum ofar laufþykkninu. Blikar í laufi birkiþrastasveimur, og skógar glymja skreyttir reynitrjám segir í Gunnarshólma, hinu kunna kvæði Jónasar Hallgrímssonar, og einmitt hér í þessum skógi náðu reynitrén að færa öðru skáldi, Hannesi Péturssyni, nýja sýn á ljóðmynd Jónasar. Í bók sinni Kvæðafylgsnum fjallar Hannes um Gunnarshólma og kemst þar á einum stað svo að orði:

 

Reynitré standa sums staðar stök í bjarkarskógum, það er sannyrði. Með því að bregða upp þessari mynd víkkar og lengir Jónas útsjónina, skógarnir eru ekki einasta svo hávaxnir að þrastasveimur blikar við laufkrónum heldur og víðlendir. Eins og nú er háttað mun óvíða sjást glöggvar en í Vatnsfirði við Barðaströnd, hvernig reynitré skreyta bjarkarskóga. Þar lyftist hrísla hér og hrísla þar upp yfir laufþykknið, þegar augum er rennt með hlíðum fram. Þótt það varði litlu, vill bókarhöfundur gera þá játningu, að það var á þessum stað fyrir mörgum árum að augu hans lukust upp og hann sá fyrir sér skógana sem Jónas lýsir í Gunnarshólma, skreytta reynitrjám, þangað til voru augu hans haldin, eins og sagt er, gagnvart þeirri ljóðmynd.[57]

 

Eggert Ólafsson segir í Ferðabók sinni að silungsveiði sé mikil í Vatnsdalsvatni[58] og svo er enn. Brattar fjallshlíðar eru inn með vatninu. Þar heitir Kálfahjalli að vestan en Útigönguhjalli að austan. Fyrir framan Vatnsdalsvatn er mikið undirlendi og heita þar Vatnsdalseyrar. Akfært er fram fyrir vatnið. Gróið undirlendið nær hér mun lengra fram í dalinn en sýnt er á sérkorti Landmælinga Íslands af Barðaströnd og nágrenni, á blaði 13 frá árinu 1965. Munar þar einum til tveimur kílómetrum. Að vestan fellur Stóragil niður á eyrarnar og í Vatnsdalsá. Lítið eitt framan við það rennur vatn niður klettahellu í hlíðinni. Á grundinni þar fyrir neðan er tótt af kofa sem hér mun hafa staðið fram á 20. öld. Sagnir herma að þarna hafi um skeið verið búið á fyrri tíð og býlið nefnt Helluhvammur.[59] Vel má þetta vera rétt en ekki er býlisins getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Reimt þótti í kofanum hjá Helluhvammi og við Stóragil er Sönghóll sem talinn var bústaður álfa. Þaðan töldu menn sig heyra óm af fögrum söng hólbúanna.[60]

Vatnsdalsár eru tvær á þessum slóðum, sú sem fellur úr vatninu til sjávar og önnur sem kemur norðan af fjöllum og fellur í norðurenda Vatnsdalsvatns. Hin síðarnefnda tekur í sig ýmsar þverár á leiðinni og er ærið vatnsmikil. Pétur Jónsson frá Stökkum segir að þeir sem fóru úr Dýrafirði eða Arnarfirði um suðurhjalla Glámuhálendisins til Vattarfjarðar (sbr. hér Botn í Dýrafirði, Glámuleiðir þar) hafi orðið að ríða Vatnsdalsá á Breiðavaði því annars staðar hafi hún ekki verið fær fyrr en langt niðri í dal.[61] Vað þetta segir Pétur vera nokkuð niður frá vatni því sem áin kemur úr inni á öræfum en það vatn er nafnlaust á korti Landmælinga Íslands nr. 12 sem út var gefið árið 1977 í mælikvarðanum 1:100.000.

Fyrir botni Vatnsfjarðar, vestantil við ána, er svolítið undirlendi sem nær frá vatnsbökkunum til sjávar. Heitir það Eið. Um 1780 var nýbýli reist á þessum slóðum og nefnt Vatnsdalsbakkar. Stóð bærinn skammt frá vatnsbakkanum, norðan núverandi þjóðvegar. Sér þar enn (1988) greinilega fyrir tóttum.

Í ritum Lærdómslistafélagsins frá árinu 1782 er frá því greint að Bjarni Einarsson, sýslumaður Barðstrendinga, hafi hlotið konungleg verðlaun fyrir forgöngu um byggingu nýbýlis í Vatnsdal í landi Brjánslækjar og annars í landi Haga þar sem sýslumaður bjó.[62] Sighvatur Borgfirðingur segir í Prestaæfum sínum að það hafi verið Jón Úlfsson sem ásamt konu sinni, Guðrúnu Pálsdóttur, reisti nýbýlið á Vatnsdalsbökkum.

Sóknarmannatöl frá 1788 og 1789 sýna að þá hafa hjón þessi enn búið á Vatnsdalsbökkum ásamt börnum sínum tveimur er líka hétu Jón og Guðrún. Reyndar er býlið kallað Vatnsdalur í sóknarmannatalinu frá 1788. Sóknarmannatalið frá 1790 sýnir að þá hefur Jón Úlfsson verið farinn frá Vatnsdalsbökkum með sitt fólk og mun enginn hafa búið þar síðan.[63]

Byggð á Vatnsdalsbökkum hefur því aðeins staðið í tæpan áratug. Líklega hefur Jón Úlfsson flust þangað frá Þverá við vestanverðan Vatnsfjörð en þar voru bæði börn hans fædd á árunum milli 1765 og 1770 svo sem sjá má í manntölum.[64]

Fjölskylda Jóns Úlfssonar átti heima á Vatnsdalsbökkum þegar móðuharðindin gengu yfir og þá voru börn hans á unglingsaldri. Þau komust bæði til manns og gátu sér nokkurt frægðarorð. Sonurinn varð prestur og nefndi sig Jón Vestmann. Hann var um skeið aðstoðarprestur í Flatey en þjónaði lengst suður í Selvogi og loks í Kjalarnesþingum.[65] Guðrún Jónsdóttir Úlfssonar átti löngum heima í Arnarfirði. Hún var rímnaskáld (sjá hér Borg í Arnarfirði og Stapadalur) og stundum kennd við bróður sinn og kölluð Vestmannssystir. Árið 1845 lifði hún áttræð í Stapadal við Arnarfjörð. Með Guðrúnu skáldkonu frá Vatnsdalsbökkum eignaðist séra Jón Sigurðsson á Rafnseyri, afi Jóns forseta, launson, að talið var, hét sá Þórður og kallaður Tómasson.[66]

Pétur frá Stökkum segir að síðastur manna hafi búið á Vatnsdalsbökkum seint á 18. öld Jón skóli, sem orðið hafi að hverfa úr skóla sakir fjölkyngi sinnar,[67] en aðrar heimildir benda til að Jón þessi skóli hafi dáið gamall og hrumur úti í Breiðafjarðareyjum litlu síðar en byggð hófst á Vatnsdalsbökkum.[68]

Frá Vatnsdalsbökkum liggur leiðin út með Vatnsfirði að vestan um Helluhlíð og brátt komið að sumarhótelinu í Flókalundi en þar hefur verið rekin greiðasala frá árinu 1961. Í kringum hótelið er nú (1988) risið hverfi orlofshúsa.

Þar sem Flókalundur stendur nú var áður kotbýlið Hella, hjáleiga frá Brjánslæk. Hellu er getið meðal jarða er lágu undir höfuðbólið á Brjánslæk á 15. öld.[69] Síðast var búið á Hellu um 1880[70] en byggð mun þó ekki hafa haldist þar samfellt allan þann tíma. Í Jarðabók Árna og Páls frá byrjun 18. aldar er Hella sögð hafa verið í eyði í 60 ár og í sóknarlýsingunni frá 1840 kemur fram að ekki hafi verið búið á Hellu frá 1811 til 1837.[71] Þess er getið að á Hellu hafi ekki verið unnt að hafa kýr og því hafi verið búið þar með geitur auk sauðfjárins.[72]

Örskammt fyrir vestan (norðan) Flókalund fellur áin Penna til sjávar, komin um Penningsdal af fjöllum. Tveir fjalldalir ganga vestur úr Penningsdal, fyrst Smjördalur en norðar Þverdalur. Í Smjördalstungum átti Hella slægjur og selför.[73]

Á fyrri tíð var um tvær leiðir að velja frá Hellu norður í Suðurfjörðu í Arnarfirði. Önnur leiðin lá til Trostansfjarðar. Var þá fyrst farið yfir vað á Pennu á svipuðum slóðum og þjóðvegurinn liggur nú en síðan beint upp taglið á Tröllhálsi og stefnan svo tekin á Breiðaskarð milli Klakks og Ármannsfells.[74] Þessa leið kallar Hallbjörn Oddsson Trostansfjarðarskörð[75] og má vera að stundum hafi verið farið Klakksskarð í stað Breiðaskarðs.

Hin leiðin lá að Botni í Geirþjófsfirði og var þá farið fram Penningsdal og Þverdal en síðan um Helluskarð yfir efstu drög Norðdals, vestan Lónfells, þá í Hærrivatnahvilft vestan við Botnshestinn og þaðan niður í Geirþjófsfjarðarbotn.[76] Segja má að akvegur nútímans frá Flókalundi á Dynjandisheiði norðan Geirþjófsfjarðar fylgi þessari leið í aðalatriðum en að sögn Péturs Jónssonar frá Stökkum var hún aldrei farin með hesta á fyrri tíð heldur aðeins af gangandi mönnum.[77] Frá Hellu var talinn um þriggja stunda gangur í Trostansfjörð og álíka langt að Botni í Geirþjófsfirði.[78] Gísli Vagnsson, er um skeið bjó á norðurströnd Arnarfjarðar en síðar lengi á Mýrum í Dýrafirði, segir það hafa verið kallað að fara Botnsskarð er þessi leið var farin frá Botni í Geirþjófsfirði suður í Vatnsfjörð.[79]

Vaðið á Pennu, sem fara þurfti yfir hvort sem leiðin lá í Trostansfjörð eða Geirþjófsfjörð, þótti hættulegt, enda foss einn þar rétt fyrir neðan. Munnmæli herma að 18 menn hafi drukknað í Pennu. Sama tala er víða nefnd þar sem slysfarir voru tíðar og hafa þeir sem supu hel í Pennu máske verið eitthvað færri. Hér verður aðeins minnt á einn.

Þann 28. ágúst árið 1800 kom ríðandi úr Arnarfirði ungur maður á suðurleið. Þetta var Ólafur Jónsson frá Rafnseyri, föðurbróðir Jóns forseta. Hann var í vígsluför til Reykjavíkur þar eð ákveðið hafði verið að hann gerðist aðstoðarprestur föður síns á Rafnseyri. Við vaðið á Pennu beið hans feigðin og lauk þar vígsluferðinni.[80] Pétur frá Stökkum segir hann hafa hrokkið fram af fossbrúninni og gerningum verið kennt um.[81]

Gamlir Arnfirðingar töldu sig vita meira um þessa gerninga. Þeir kunnu frá því að segja að Ólafur stúdent hafi staðið harðast gegn því að Benedikt Gabríel Jónsson fengi að eiga prestsdótturina á Rafnseyri, systur Ólafs sem Helga hét.

Er Ólafur skyldi leggja upp í vígsluförina kom það í hlut Bensa Gabríels að járna reiðhest hans, lítt taminn. Sáu menn að hann spýtti í hófinn og þuldi nokkuð fyrir minni sér. Er fréttir bárust af drukknun Ólafs í Pennu töldu ýmsir fullvíst að Benedikt Gabríel hefði með kunnáttu sinni komið honum í fossinn og varð hann brátt víðfrægur galdramaður.[82]

Nú þarf enginn að óttast vaðið á Pennu en á leiðinni frá Flókalundi norður á Dynjandisheiði er víða tignarlegt um að litast. Við Helluskarð austan við Hornatær eru nú vegamót. Þar liggur akvegur í vestur niður í Trostansfjörð og þaðan áfram út á Bíldudal en annar í norður fyrir Geirþjófsfjarðarbotn á Dynjandisheiði þar sem komið er í Ísafjarðarsýslu. Vestan Helluskarðsins raða sér Hornatærnar, einhverjar svipmestu klettaborgir á öllum Vestfjörðum og eru brúnir þeirra í 700-750 metra hæð. Í svo sem tveggja kílómetra fjarlægð, austur frá Helluskarði, rís Lónfell, hæsta fjall á þessum slóðum og nær 752 metra hæð yfir sjávarmáli. Er þaðan víðsýnt um að litast.

Frá Flókalundi liggur þjóðvegurinn áfram út með vestanverðum Vatnsfirði. Er þá fyrst farið yfir brú á Pennu, síðan um Partinn þar sem Flateyjarkirkja átti skógarítak,[83] yfir Grenjadalsá og Gíslalæk uns komið er að gömlum tóttum í svo sem þriggja kílómetra fjarlægð frá Flókalundi. Hér stóð áður býlið Þverá, hjáleiga frá Brjánslæk, nær beint á móti Hörgsnesinu handan fjarðar og samnefnt ánni sem fellur til sjávar aðeins utar.

Þverár er getið í gjafabréfi frá 26. mars 1508 og þá í hópi jarða er lágu undir Brjánslæk[84] sem bendir til þess að hér hafi verið búið a.m.k. frá því á 15. öld.

Í Jarðabók Árna og Páls frá byrjun 18. aldar er Þverá sögð sex hundraða kirkjujörð frá Brjánslæk.[85] Þá (1703) er búið í kotinu en tekið fram að það ár eigi landskuldin að falla niður fyrir umhirðing á jörðinni, sem hingað til hefur nídd verið og sumpart í eyði legið.[86] Árin 1794 og 1795 bjuggu á Þverá Bjarni Bjarnason og Guðrún Egilsdóttir með börn sín ung. Hann sagður sæmilega að sér en hún fáfróð.[87] Litlu síðar settust þau að á Sjöundá í næsta hreppi en þar lauk með alkunnum hætti harmsögu þessara hjóna (sjá hér Sjöundá).

Þann 16. ágúst 1858 var Ásbjörn Ásbjörnsson, bóndi á Þverá, dæmdur í landsyfirrétti fyrir sauðaþjófnað og þrjár konur á bænum fengu allar dóm fyrir hluttöku í þjófnaðinum.[88] Var dómur landsyfirréttar birtur í blaðinu Þjóðólfi 14. september 1858. Bóndinn var fundinn sekur um að hafa stolið níu sauðkindum og markað sér lamb undan annars manns á. Refsing hans var ákveðin 2 x 27 vandarhögg. Kona bónda var dæmd fyrir að hafa verið manni sínum samtaka í sauðaþjófnaðinum en að öðru leyti bera réttargjörðirnar með sér að henni hafi þó stundum verið það fremur nauðugt að eiga þátt með manni sínum að þjófnaði hans, segir í dómnum. Refsing hennar var samt ákveðin 40 vandarhögg. Vinnukona á bænum var talin uppvís að þátttöku í sauðaþjófnaði bónda – hún hjálpaði til að reka heim og slátra, hrærði í blóðinu og léði utanhafnarpils sitt til þess að bera í því heim til bæjar kroppinn af kindinni, segir þar. Einnig báru meðákærðir vinnukonuna þeim sökum að hún hafi jafnan eggjað bónda til þjófnaðarverka. Refsing hennar var ákveðin 40 vandarhögg. Móðir Þverárbóndans var einnig fundin meðsek. Segir í dómnum að séra Benedikt Þórðarson á Brjánslæk hafi verið fjárráðamaður hennar og hafi hún þóst eiga hjá honum nokkra fjármuni. Hafi hún eggjað son sinn til að stela sauð frá prestinum. Þó ekki sé það sagt beinum orðum í dómnum sýnist ljóst að sú gamla hafi með þessum hætti viljað jafna reikningana við guðsmanninn. Refsing hennar þótti hæfilega ákveðin 15 vandarhögg.

Kona þessi hét Kristín Jónsdóttir og var fædd 6. ágúst 1798 á Lambeyri í Tálknafirði.[89] Fæðing hennar sætti á sínum tíma miklum tíðindum og henni tengdust atburðir sem hér er frá sagt á öðrum stað (sjá Suðureyri í Tálknafirði).

Þegar Kristín á Þverá var dæmd til hýðingar, sextug að aldri, fyrir hlutdeild í þjófnaði á sauðum prestsins á Brjánslæk var móðir hennar, Halldóra á Felli, enn á lífi vestur í Tálknafirði, – einhver auðugasta kona Vestfjarða á þeirri tíð, áttræð að aldri (sjá hér Kvígindisfell). Sérstaka athygli vekur að séra Benedikt var einmitt eins konar fjárhaldsmaður móður Kristínar á Þverá (sjá hér Kvígindisfell) og ekki ólíklegt að Kristín hafi gert tilraun til að fá hjá honum einhverja fyrirframgreiðslu upp í móðurarfinn þegar skortur var í kotinu.

Halldóra gamla á Felli í Tálknafirði andaðist 16. október 1858. Þá voru nákvæmlega tveir mánuðir liðnir frá því Kristín dóttir hennar og annað Þverárfólk voru dæmd í landsyfirrétti fyrir sauðaþjófnaðinn. Nokkrum mánuðum síðar var dánarbúi Halldóru skipt og komu þá yfir 800 ríkisdalir, stórfé á almúgamælikvarða þess tíma (um 22 kýrverð), í erfðahlut Kristínar á Þverá, dótturinnar dæmdu, sem var elsta barn móður sinnar (sjá hér Kvígindisfell).

Í ljósi þessa er merkilegt að sjá hvað sagt er í dómsforsendum landsyfirréttar  um aðstæður Þverárfólks þegar ráðist var í að grípa sauðinn prestsins. Þar stendur þetta skrifað:

 

Að öðru leyti má þess geta að þegar þessari kind var stolið átti hinn ákærði, Ásbjörn Ásbjörnsson, í miklum bjargarskorti fyrir hyski sitt þar sem ekkert var þá annað til matar en harður steinbítur viðbitslaus og að öðru leyti er það upplýst að Ásbjörn átti við mikla fátækt að búa þó hann ekki leitaði bjargarstyrks hjá hlutaðeigandi sveitarstjórn.[90]

 

Það hefur verið stolt fólk sem bjó á Þverá og viljað bjarga sér sjálft í lengstu lög.

Vel má vera að eitthvað svipað hafi hent fleiri manneskjur á kotunum í Vatnsfirði. Að minnsta kosti kvartar séra Hálfdan Einarsson á Brjánslæk yfir illum fjárheimtum af Vatnsdal í sóknarlýsingu sinni frá 1840. Segir hann þar að enda þótt Vatnsdalur sé í rauninni eina afréttarland Barðstrendinga, þá vilji samt margir af þessum ástæðum heldur brúka þann sið að láta geldfé sitt ganga á fjöllum og heiðum þeim, sem næst liggja bænum, hvar þetta heimtist aftur jafnbetur.[91]

Á 19. öld var Þverá oftast í byggð og síðastur fyrri tíðar manna bjó hér Guðmundur Sigurðsson aldamótaárið 1900.[92] Sumarið 1988 hófst aftur byggð á Þverá.

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Ólafur Davíðsson: Íslenskar þjóðsögur I, 362-365.

[2] Sama heimild, 363.

[3] Þorsteinn Erlingsson 1933, 73 (Sagnir Jakobs gamla).

[4] Ólafur Davíðsson: Íslenskar þjóðsögur I, 363.

[5] Ólafur Davíðsson: Íslenskar þjóðsögur I, 363.

[6] Sama heimild.

[7] Þorsteinn Erlingsson 1933, 71-72 (Sagnir Jakobs gamla).

[8] Ólafur Davíðsson: Íslenskar þjóðsögur I, 365.

[9] Pétur Jónsson 1942, 67 (Barðstrendingabók).

[10] Sóknalýs. Vestfj. I, 199.

[11] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 266-267.

[12] Íslensk fornrit VI, 85.

[13] Sama heimild, 86-88.

[14] Sama heimild, 85.  Sigurður Vigfússon 1893, 3-5 (Árbók Hins ísl. fornleifafélags).

[15] Pétur Jónsson 1942, 67 (Barðstrendingabók).

[16] Sóknalýs. Vestfj. I, 202.

[17] Sóknarmannatöl Sauðlauksdalspr.kalls.

[18] Hákon Kristófersson í Haga 1952, 48 (Árbók Barðastrandarsýslu).

[19] Pétur Jónsson 1942, 68 (Barðstrendingabók).

[20] Dipl. isl. VIII, 268.

[21] Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1981, 126-132, vesturamt, bls. 219.

[22] Manntal 1801, vesturamt, 219.

[23] Sóknalýs. Vestfj. I, 199.

[24] Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1981, 128-129.

[25] Örnefnaskrá.

[26] Sama heimild.

[27] Sama heimild.

[28] Sama heimild.

[29] Sama heimild.

[30] Sagnaþættir Fjallkonunnar 1953, 139.

[31] Sagnaþættir Fjallkonunnar 1953, 139.

[32] Alþingisbækur Íslands XII, 463-464.

[33] Annálar III, 573-574, sbr. Annálar II, 727 og IV, 669.

[34] Annálar III, 435.

[35] Sagnaþættir Fjallkonunnar 1953, 139.

[36] Sama heimild, 140.

[37] Sama heimild, 139.

[38] Sama heimild, 139 og 140.

[39] Þorsteinn Erlingsson  1933, 15 (Sagnir Jakobs gamla).

[40] Vestfirskar sagnir I, 7-9. Örnefnaskrá.

[41] Vestfirskar sagnir I, 421.

[42] Sóknalýs. Vestfj. I, 201.

[43] Lúðvík Kristjánsson 1953, 158.

[44] Sama heimild.

[45] Pétur Jónsson 1942, 69 (Barðstrendingabók).

[46] Sama heimild.

[47] Sóknalýs. Vestfj. I, 195.

[48] Eggert Ólafsson 1975, I, 238.

[49] Pétur Jónsson 1942, 70 (Barðstrendingabók).

[50] Sigurður Vigfússon 1893, 5 (Árbók Hins ísl. fornleifafélags).

[51] Sama heimild, 5-6.

[52] Sigurður Vigfússon 1893, 7 (Árbók Hins ísl. fornleifafélags).

[53] Sama heimild, 6.

[54] Dipl. isl. IV, 689.

[55] Pétur Jónsson 1942, 69 (Barðstrendingabók).

[56] Þorvaldur Thoroddsen 1959/ Ferðabók II, 39.

[57] Hannes Péursson 1979, 63-64.

[58] Eggert Ólafsson 1975, I, 223.

[59] Einar Guðmundsson  á Seftjörn. – Viðtal K.Ó. við hann 10.8.1988.

[60] Sama heimild.

[61] Pétur Jónsson 1942, 70 (Barðstrendingabók).

[62] Rit þess íslenska Lærdómslistafélags 1782, III, 285.

[63] Sóknarmannatöl Brjánslækjarsóknar 1788-1800.  Pétur Jónsson 1942, 71.

[64] Manntal á Íslandi 1816, 681.  Íslenskar æviskrár III, 295.

[65] Ísl. æviskrár III, 295-296.

[66] Sama heimild III, 263.

[67] Pétur Jónsson 1942, 71 (Barðstrendingabók).

[68] Bergsveinn Skúlason I, 153-156 (Breiðfirskar sagnir 1982).

[69] Arnór Sigurjónsson 1975, 305.

[70] Pétur Jónsson 1942, 72.

[71] Sóknalýs. Vestfj. I, 201.

[72] Pétur Jónsson 1942, 72.

[73] Sama heimild.

[74] Sama heimild, 71.

[75] Hallbjörn Oddsson 1959, 176 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[76] Jóhann Skaptason 1959, 93 (Árbók FÍ.).  Pétur Jónsson 1942, 71 (Barðstrendingabók).

[77] Pétur Jónsson 1942, 71-72.

[78] Sama heimild.

[79] Gísli Vagnsson 1957, 162 (Ársrit S.Í.).

[80] Ísl. æviskrár IV, 63.

[81] Pétur Jónsson 1942, 71.

[82] Jón G. Jónsson 1953, 83-93 (Árbók Barð.).

[83] Pétur Jónsson 1942, 72 (Barðstrendingabók).

[84] Arnór Sigurjónsson 1975, 305.

[85] Jarðab. Á. og P. VI, 269.

[86] Sama heimild.

[87] Sóknarm.töl Brjánslækjarsóknar 1788-1800.

[88] Landsyfirréttar- og hæstaréttardómar 1802-1873, VIII, 103-107.

[89] Jakob Aþanasíusson /Þorsteinn Erlingsson 1933, 118-119.  Prestsþj.b. og sóknarm.töl Stóra-Laugardals og Brjánslækjar.

[90] Þjóðólfur X, 144, 14. sept. 1858.

[91] Sóknalýs. Vestfj. I, 199-200.

[92] Guðmundur Einarsson 1951, 77 (Árbók Barð.).

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »