Alviðra

Alviðra í Dýrafirði er talin vera landnámsjörð. Að fornu mati var jörðin 78 hundruð að dýrleika og engin jörð í Mýrahreppi var hærra metin nema Mýrar sem voru 80 hundruð áður en Lækjarós, sem byggðist úr þeirra landi, var gerður að sjálfstæðu býli.[1]

Í Sturlubók Landnámu segir svo:

 

Þórður hét maður Víkingsson eða son Haralds konunga hárfagra. Hann fór til Íslands og nam land milli Þúfu á Hjallanesi og Jarðfallsgils. Hann bjó í Alviðru. Þórður átti Þjóðhildi dóttur Eyvindar austmanns, systur Helga hins magra. Þorkell Alviðrukappi og hinn auðgi var son þeirra.[2]

 

Í Landnámabók er Þórður talinn hafa verið einn í hópi níu göfugustu landnámsmanna í Vestfirðingafjórðungi[3] sem engan þarf víst að undra fyrst sú hugmynd hefur komist á loft, með réttu eða röngu, að maðurinn væri launsonur Haralds konungs hárfagra. Reyndar voru það aðeins tveir af þessum göfugustu landnámsmönnum í fjórðungnum sem tóku sér bólfestu á Vestfjörðum, ef marka má orð Landnámabókar, – þeir Þórður Víkingsson og Úlfur skjálgi Högnason sem nam land á Reykjanesi við norðanverðan Breiðafjörð. Í Hauksbók Landnámu er frásögnin af landnámi Þórðar Víkingssonar mjög lík því sem ritað er í Sturlubók. Þar er þó sagt að Dýri landnámsmaður hafi gefið Þórði land milli Þúfu á Hjallanesi og Jarðfallsgils og komist svo að orði að flestir kalli Þórð verið hafa son Haralds konungs hárfagra.[4]

Að sögn Landnámabókar voru hin innri mörk á landnámi Þórðar Víkingssonar við Jarðfallsgil og virðist þar átt við gil það sem á síðari tímum hefur borið nafnið Glórugil og er skammt fyrir utan Hjarðardal (sjá hér Neðri-Hjarðardalur). Ytri mörk landnámsins voru hins vegar við Þúfu á Hjallanesi. Nafnið Hjallanes er nú horfið úr málinu en Þúfa er enn á sínum stað, yst á Skagafjalli og rétt innan við Nesdal. Þar rétt norðan til við Þúfuna eru enn landamerki Fjallaskaga og Sæbóls á Ingjaldssandi og mörk Núpssóknar og Sæbólssóknar.[5] Þau mörk eru æfaforn því í máldaga Sæbólskirkju, sem talinn er vera frá árinu 1306, segir að til hennar skuli leggjast tíundir og ljóstollar af öllum bæjum milli Þúfu og Hrafnaskálarnúps, nema frá Álfadal[6] en þar var hálfkirkja (sjá hér Álfadalur). Full ástæða sýnist til að ætla að fjall það sem nú heitir Skagafjall hafi borið nafnið Hjallanes á ritunartíma Landnámabókar og Nesdalur sem tekur við þar sem fjallið þrýtur hafi hlotið nafn sitt frá fjallinu. Tveir áberandi hjallar eru í röndinni þar sem Skagafjallið sveigir inn í Nesdal[7] og er ekki ólíklegt að hið forna nafn fjallsins eigi rætur að rekja til þeirra.

Landnám Þórðar Víkingssonar var að sögn hinna fornu höfunda býsna stórt því strandlengjan frá Glórugili og út undir Nesdal er um 30 kílómetrar á lengd. Innan landnámsmarkanna eru auk Alviðru hin fornu stórbýli Núpur og Mýrar og auk þess níu aðrar jarðir sem ætla má að hafi orðið bújarðir á fyrstu öldum byggðar í landinu.

Í Landnámabók eru taldir upp margir niðjar hins göfuga landnámsmanns í Alviðru og m.a. komist að þeirri niðurstöðu að Hvamm-Sturla Þórðarson, sem uppi var á 12. öld, hafi verið sjöundi ættliður frá honum.[8] Frá Þórði Víkingssyni sjálfum er hins vegar ekkert sagt umfram það sem hér hefur þegar verið rakið og utan Landnámabókar er hans hvergi getið í fornum ritum nema í Gísla sögu Súrssonar þar sem hann er sagður hafa numið alla norðurströnd Dýrafjarðar.[9]

Aö sögn höfunda Landnámabókar átti Þórður Víkingsson tvo syni.[10] Annar þeirra var Þorvaldur hvíti, faðir Mýra-Knjúks sem bjó á Mýrum í Dýrafirði (sjá hér Mýrar), en hinn Þorkell auðgi, sem líka var nefndur Þorkell Alviðrukappi, og bjó í Alviðru eftir föður sinn.[11] Á Þorkel í Alviðru er minnst nokkrum sinnum í Gísla sögu Súrssonar án þess þó að hann fái þar nokkra rækilega umfjöllun. Þau fáu orð sem höfundur sögunnar lætur falla um Alviðrukappann sýna þó að hann hefur verið talinn hinn mesti höfðingi og að því virðist goðorðsmaður.[12] Í Gísla sögu er Þorkell auðgi aldrei í aðalhlutverki en tengist samt örlagaþræði sögunnar með dálítið merkilegum hætti. Það er hann sem á erindi suður til Þórsnesþings er þeir bræður, Gísli og Þorkell Súrssynir, slást í för með honum.[13] Sú ferð leiddi til þess að Þorgrímur goði yfirgaf átthaga sína við Breiðafjörð, fluttist til Dýrafjarðar og kvæntist Þórdísi Súrsdóttur.[14] Ekki varð annað séð í fyrstu en vel færi á með þeim mágum í Haukadal, Þorgrími goða og Súrssonum, en er þeir gengu allir saman til dóma á vorþingi þá er það Þorkell í Alviðru sem spyr Gest Oddleifsson spaka þessarar spurningar: Hve lengi ætlar þú að kapp þeirra Haukdæla og yfirgangur muni vera svo mikill? Og Gestur svarar: Eigi munu þeir allir samþykkir hið þriðja sumar er þar eru nú í þeim flokki.[15] Hann reyndist sannspár.

Þorkell auðgi sat líka haustboð Gísla Súrssonar að Hóli í Haukadal kvöldið áður en Þorgrímur goði var veginn og gisti þar um nóttina.[16] Kunn eru orðin sem Gísli mælti við Auði konu sína er veislugestir hans voru allir gengnir til náða þessa örlaganótt: Ég hefi ekki gefið hesti Þorkels hins auðga og gakk þú með mér og lát loku fyrir hurð og vaki á meðan ég geng í brott og lát frá loku er ég kem aftur.[17] Síðan tók Gísli spjótið Grásíðu úr örkinni og gekk út. Þá nótt var Þorgrímur mágur hans veginn í lokrekkju sinni á Sæbóli þar í dalnum og nam Grásíða staðar í beðinum. Skömmu síðar var Gísli dæmdur sekur skógarmaður og þá kemur Þorkell í Alviðru enn við sögu því hann var fenginn til að segja Gísla tíðindin um sekt hans.[18] Er Gísli spyr ríkismann þennan hvaða liðsinnis hann megi af honum vænta eins og nú sé komið kveðst höfðinginn munu skjóta yfir hann skjóli en þó því aðeins að hann léti eigi fé sitt fyrir þá sök.[19] Að þeim orðum töluðum hverfur Þorkell auðgi úr sögunni án þess fram hafi komið nokkur skýring á því hvers vegna hann var nefndur Alviðrukappi.

Í Landnámabók er líka nefndur á nafn sonur Þorkels Alviðrukappa er Þórður hét og var kallaður örvönd eða örvhönd.[20] Ekki segir þar neitt nánar frá honum en í Fagurskinnu, sem geymir ýmsar frásagnir um Noregskonunga, er Þórðar þessa einnig getið og bróður hans sem þar er nefndur Skúmur en er í Jómsvíkingasögu kallaður Þorleifur skúma.[21]

Í Fagurskinnu er að finna ýtarlega frásögn af orrustunni í Hjörungavogi*) þar sem Hákon jarl Sigurðarson vann sigur á Jómsvíkingum. Við kynningu á liði jarls segir þar m.a. svo: Þessir voru íslenskir menn með Hákoni jarli: Skúmur og Þórður, er kallaður var örvhönd, synir Þorkels auðga vestan af Mýrum í Dýrafirði og Vigfúss Víga-Glúmsson

Ætla verður að það séu synir Þorkels auðga í Alviðru sem þarna er rætt um. Þeir eru að vísu sagðir vera frá Mýrum en í Landnámabók er bróðursonur Þorkels Alviðrukappa kenndur við Mýrar[22] svo hér er stutt á milli. Orrustan í Hjörungavogi er talin hafa verið háð árið 986 eða 987.[23] Þar voru þeir bræður, Þórður og Skúmur, á skipi með Hákoni jarli og var annar þeirra særður til ólífis áður en yfir lauk ef marka má frásögn Fagurskinnu en þar segir svo:

 

Þá leggur Hákon jarl skeið sína á annað borð Búa hinum digra og var þar hart viðnám. Áslákur hólmskalli og Hávarður höggvandi hlaupa upp í skip Hákonar jarls og drápu margan mann. Þórður og Skúmur bræður voru nær þeim staddir og véla þeir tveir um Hávarð. Heggur hann hendina hægri af Þórði en Skúmur hlaut mörg stór sár áður en Hávarður missti beggja fóta.[24]

 

Í þessari orrustu hafði Hákon jarl sigur og eftir bardagann gekk hann að Skúmi Þorkelssyni og sá hann sáran til ólífis og mælti: Svo illa hefur þinn faðir, ef þú skalt eigi heim koma til handa honum.

Um niðja Þórðar Víkingssonar, landnámsmanns í Alviðru, verður ekki fjallað nánar hér en þess má geta að hafi hann verið sonur Haralds

 

*) Hjörungavog hafa ýmsir talið vera vog þann sem nú heitir Liavåg á Sunnmæri í Noregi en ekki mun sú kenning vera óumdeild. (Jómsvíkingasaga 1969, myndatexti andspænis bls. 177.)

hárfagra Noregskonungs eins og margir töldu (sjá hér bls. 1), þá voru sonarsynir hans, – þeir Þórður og Skúmur, nánir ættingjar Hákonar jarls því sjálfur var jarlinn, að sögn Snorra, dótturdóttursonur Haralds konungs.[25]

Á síðari tímum hafa margir orðið til þess að gera lítið úr sannleiksgildi frásagna Landnámabókar af einstökum landnámsmönnum og fyrstu byggð í hinum ýmsu héruðum landsins. Í slíkum efnum verður reyndar oft stutt öfga á milli en álíka fráleitt sýnist að telja allt sem þar stendur vera hreinan skáldskap og hitt að taka allt trúanlegt sem hinir fornu höfundar bera á borð. Er Landnámabók var rituð var langur tími liðinn frá upphafi byggðar í landinu, nokkuð á þriðju öld, og því er einboðið að gera ráð fyrir margvíslegum missögnum hjá hinum ágætu höfundum er settu bókina saman. Sterk rök hníga einnig að því að sumir hinna svokölluðu landnámsmanna hafi verið búnir til af frásagnaglöðum mönnum í því skyni að fylla upp í eyður þar sem vitneskju skorti. Þar með er hins vegar engan veginn sagt að Landnámabók hafi ekkert sagnfræðilegt gildi því gera má ráð fyrir að margar frásagnir hennar byggi að meira eða minna leyti á sögulegum staðreyndum sem varðveist hafi í arfsögnum. Vandinn er hins vegar ærinn við að greina þarna á milli en út í þá sálma skal ekki farið nánar hér nema lítillega hvað varðar Alviðru.

Sé litið yfir það landsvæði sem hér um ræðir, norðurströnd Dýrafjarðar frá Jarðfallsgili að Þúfu á Hjallanesi, blasir við að fyrir þá sem komu að ónumdu landi gátu varla nema tveir staðir komið til greina við búsetuval, – annars vegar gróðurlendið innan við Mýrafell, þar sem nú eru Mýrar, og hins vegar svæðið þar sem nú eru Alviðra og Núpur. Ýmislegt bendir til þess að þessar tvær jarðir hafi í fyrstu verið ein og sama jörðin og borið nafnið Alviðra. Má þar nefna að allt fram á 16. öld leyfðu eigendur Alviðru sér að halda á loft þeirri kenningu að Alviðra ætti land með ströndinni alveg inn í Núpsá og jörðin Núpur átti því hvergi land að sjó. (sjá hér Núpur). Sú krafa Alviðrumanna bendir eindregið til þess að Núpur hafi byggst síðar en Alviðra og þá úr hennar landi því telja má óhugsandi að slík krafa hefði nokkru sinni komið upp ef Núpur hefði byggst á undan Alviðru. Hér hefur áður verið gerð grein fyrir landamerkjum Núps og Alviðru eins og þau voru ákveðin árið 1570 (sjá hér Núpur) en telja verður mjög líklegt að í fyrstu hafi Núpur aðeins átt land að hinum hlaðna garði sem um er talað i landamerkjaskjölum frá 16. öld og lá ofan úr fjalli niður í Núpsá fyrir innan Lambhaga. Á 14. öld eða máske fyrr hefur Núpsmönnum tekist að færa landamerkin út að Kaldalæk og fá þannig aðgang að sjó eins og landamerkjabréfið frá árinu 1368 sýnir (sjá hér Núpur) en næstu tvær aldir reyna eigendur Alviðru samt sem áður að fá þessu hnekkt og fullt samkomulag um þrætulandið tekst ekki fyrr en árið 1570 eins og hér hefur áður veði sýnt fram á (sjá hér Núpur). Öll saga landamerkjamálsins bendir eindregið til þess að Alviðra sé elsta býlið á þessum slóðum og að Núpur hafi byggst úr hennar landi. Önnur vísbending gefur hið sama til kynna en það er nafnið á hinu ágæta skipalægi utan við Mýrafell, fyrir landi Alviðru og Núps, en það heitir Alviðrubót. Í sóknarlýsingu sinni frá árinu 1840 segir séra Jón Sigurðsson að Alviðrubót nái frá Mýrafells ytri enda eða Núpsármynni og út að Hlaðsnesi,[26] sem er hálfum öðrum kílómetra fyrir utan Alviðru. Prestur tekur fram að á bótinni sé góð skipalega, sér í lagi með norðan vindi,[27] enda lá þar oft fjöldi seglskipa á fyrri tíð (sjá hér bls.19-24).

Sjálfur bjó séra Jón á Gerðhömrum, næsta bæ fyrir utan Alviðru, og á öðrum stað í sömu sóknarlýsingu kemst hann svo að orði um hið góða skipalægi fyrir landi Alviðru, Núps og Gerðhamra:

 

Skipalega er góð fyrir landi, [þ.e. fyrir landi Gerðhamra] sem og hvarvetna inn að Mýrafelli. Yfir höfuð er góður akkersbotn í öllum firðinum að utanverðu, hvers vegna framandi þjóða fiskarar hlaupa inn á hann í stormveðrum og önnur skip svo sem þá óhultustu höfn.[28]

 

Með því sem hér hefur verið sagt um hin fornu landamerki Núps og Alviðru og um nafnið á Alviðrubót er ekki sannað að Alviðra hafi verið landnámsjörð en allt styrkir þetta þó líkurnar á því að svo hafi verið. Aftur á móti mun aldrei verða upplýst hvort sá sem fyrstur bjó í Alviðru var sonur Haralds konungs hárfagra eða af öðrum og lægri stigum.

Núverandi landmerki Alviðru og Núps eru hin sömu og um var samið árið 1570, neðst Kaldilækur frá ósi að uppsprettu og síðan sjónhending upp eftir leitinu og svo rétt upp eftir hlíðinni á fjall upp (sjá hér Núpur). Þessi landamerki eru skammt innan við túnin í Alviðru en út með fjarðarströndinni á Alviðra land að Miðlendislæk.[29] Spölurinn heiman frá bæ og út að merkjunum er um það bil tveir kílómetrar.

Í Alviðru hefur löngum verið margbýlt og á 18. og 19. öld voru þar oftast fjórir eða fimm bændur (sjá hér bls.17-19). Innsti bærinn í Alviðru var Leiti og stóð uppi á brekkunni eða leitinu innst í landareigninni. Þar stendur enn íbúðarhús með sama nafni. Í sóknarmannatali frá árinu 1786 er býli þetta nefnt Ofanleiti[30] en ekki hafa fundist aðrar heimildir fyrir því nafni. Innan við leitið er merkjasteinn á móti Núpi og heitir Náttmálasteinn.[31] Heimabærinn í Alviðru, er stundum var nefndur svo, stóð hins vegar utan við þessa sömu brekku[32] á svipuðum slóðum og núverandi bæjarhús. Í sóknarlýsingunni frá 1840 er vísað á bæinn með þessum orðum:

 

Undir henni [þ.e. Leitisbrekkunni – innskot K.Ó.]  utanvert stendur bær sá er Alviðra heitir. Þar eru tveir bæir saman og sá þriðji stendur upp á brekkunni og er kallaður Leiti. Þessir bæir eru kallir Alviðruþorp.[33]

 

Árið 1710 voru heimabæirnir líka tveir og stóðu báðir innan garða en í Jarðabókinni frá því ári er ekkert minnst á Leiti og ekki heldur í manntalinu frá 1703.[34] Kunnugt er hins vegar um byggð á Leiti á 17. öld því þar bjó í nokkur ár séra Árni Loftsson, prestur í Dýrafjarðarþingum, sem áður átti heima á Klukkulandi og hér hefur fyrr verið frá sagt (sjá hér Klukkuland).

Frá Alviðrubænum eru um 500 metrar til sjávar en nokkru skemmra til fjalls. Fjallsbrúnin ofan við Alviðru er víðast hvar í 600-700 metra hæð og nær beint upp af bænum gengur svolítil dalskora inn í fjallið og heitir hún Litlidalur. Innan við Litladal er Skógarbrekkufjall sem nær inn fyrir landamerkin á móti Núpi en utan við dalinn er Alviðrufjall.[35] Fyrir botni Litladals er klettagirðing sem sýnist með öllu ófær gangandi mönnum. Um miðbik 19. aldar höfðu menn fyrir satt að fyrr á tíð hefði legið vegur úr Litladal yfir fjall að Alviðruselinu á Núpsdal.[36] Vera kann að hugmyndin um færan veg þarna á milli hafi þó aldrei verið annað en draumsýn og ófær var leiðin upp úr botni Litladals talin vera árið 1840.[37] Frá fjallsbrúninni ofan við dalbotninn eru hins vegar ekki nema 500 metrar yfir í Seljahvilft á Núpsdal en neðan við hana var sel Alviðrumanna (sjá hér Núpur). Utan við Litladal má reyndar komast upp á Alviðrufjall með góðu móti því þar er klettalaust að kalla á dálitlu svæði. En leggi menn þar á brattann og ætli sér í selið má búast við að flestir yrðu litlu eða engu skemur á leiðinni en með því að fylgja alfaraleið fram Núpsdal. Sú leið er um það bil sjö kílómetrar heiman frá Alviðru að seltóttunum á bökkum Núpsár.

Sumarhagar fyrir kvikfé eru litlir í Alviðru og slægjulönd hafa varla verið meiri en á góðri miðlungsjörð. Aðrir landkostir hafa ráðið meiru um það hversu hátt jörðin var metin. Í Jarðabókinni frá 1710 er fjörubeit sögð vera í betra lagi og torfrista og stunga bjargleg.[38] Auk þess eru talin upp hlunnindi svo sem reki, selveiði, hrognkelsatekja, bjarglegt mótak og síðast en ekki síst aðstaða til að róa úr heimavör bæði sumar og haust.[39] Að vísu er ekki gert mikið úr þessum hlunnindum í Jarðabókinni en sú virðist reyndar hafa verið regla þeirra sem miðluðu upplýsingum til höfunda hennar að gæta mjög hófs í öllu tali um landkosti.

Í sóknarlýsingunni frá 1840 segir að í Alviðru sé gott og grasgefið tún en tekið fram að það verði þó að teljast mjög lítið á 78 hundraða jörð.[40] Séra Jón Sigurðsson, sem samdi sóknarlýsinguna, segir nokkurt slægjuland vera fyrir neðan bæinn og brekkuna og getur sérstaklega um gott mótak.[41] Hann lætur vel af fjörubeitinni í Alviðru og tekur fram að sauðfé sé haft þar við sjó á vetrum og fjárhús byggð með tilliti til þess. Séra Jón hrósar líka lendingu Alviðrumanna utan við Kaldalæk og segir að auk heimamanna noti Núpsþorpsbúendur hana til uppsáturs.[42]

Um bændur og búalið í Alviðru á liðnum öldum er fátt kunnugt en hins vegar ýmislegt um eigendur jarðarinnar sem sumir voru í höfðingjatölu. Hér hefur áður verið minnst á Þórð Víkingsson landnámsmann í Alviðru og son hans Þorkel Alviðrukappa hinn auðga. Þorkell hverfur af blöðum Gísla sögu Súrssonar er hann hefur tilkynnt Gísla um sekt hans en sá atburður er talinn hafa átt sér stað vorið 964.[43] Í fornum ritum er þaðan í frá aldrei á Alviðru minnst fyrr en Órækja Snorrason kom hi ngað með alla sína sveit vorið 1236 og settist upp.[44] Sturla Sighvatsson frændi hans hafði þá hrakið Snorra, föður Órækju, úr Borgarfirði og lagt undir sig allt það hérað svo hinn mikli sagnameistari og bragfræðingur varð að flýja frá Reykholti austur í Skál á Síðu. Við þessi tíðindi tók Órækja, sem setið hafði þrjú ár í Vatnsfirði við Djúp, að safna saman miklu skipaliði undir Æðey. Hugðist hann halda með flotann suður á Breiðafjörð eða jafnvel Borgarfjörð og láta þar til sín taka.[45]

Sturla Þórðarson sagnaritari, sem var sjálfur í liði Órækju, segir að er þeir komu vestur fyrir Dýrafjörð hafi öllum flotanum verið snúið inn til Alviðru, nema einni ferju sem lenti í Kópavík fyrir vestan Arnarfjörð.[46] Eitt skipið í þessum flota var Langhúfur sem Sturla Þórðarson hafði sótt skömmu fyrr að Hallbjarnareyri í Eyrarsveit þar sem faðir hans bjó.[47]

Dvöl Órækju og manna hans í Alviðru varð lengri en ætlað hafði verið því þá lögðust að stormar miklir.[48]  Brátt fréttist að Sturla Sighvatsson væri kominn í Arnarfjörð með fjölmennt lið en í Alviðru tóku bændur í liði Órækju að kurra. – Gerðist þá kurr mikill í bóndum og voru allmargmæltir og sáttgjarnir, segir sagnaritarinn.[49]

Brátt dró til þess að efnt var til sáttafundar á Söndum í Dýrafirði. Þangað kom Sturla Sighvatsson með 100 til 200 menn en Órækja hafði aðeins 70 og varð hann að ganga að flestum þeim kostum sem Sturla bauð.[50] Engu að síður rauf Sturla brátt sætt þá er gerð var á Söndum og fór síðar um sumarið með Órækju upp í Surtshelli og lét þar meiða hann grimmilega.[51] Fór Órækja síðan utan um haustið og gekk suður.[52]

Sú staðreynd að Órækja kaus að setjast upp í Alviðru með sína 70 manna sveit vorið 1236 bendir til þess að þar hafi þá verð allgott bú því ekki hentaði slíkum flokki að dveljast á kotbýlum, allra síst í harðindum eins og þeim sem hrjáðu Vestfirðinga þetta vor. Um vist þeirra félaga í Æðey áður en siglt var til Dýrafjarðar segir Sturla sagnaritari svo: Þar var hörð vist því að vor var illt en vetur allgóður. Fjórtán hestar dóu í Æðey uppstigningardag meðan menn voru að mat, og bætir við að til landauðnar hafi þá horft við Ísafjarðardjúp, áður fiskur gekk upp á Kvíarmið.[53]

Í frásögn Sturlu Þórðarsonar af dvöl Órækju og manna hans í Dýrafirði vorið 1236 kemur ekkert fram um fólkið sem þá átti heima í Alviðru. Á öðrum stað í Íslendinga sögu Sturlu er hins vegar getið um Skeggja úr Alviðru sem þar bjó árið 1242[54] og er ekki ólíklegt að hann hafi einnig ráðið þar húsum sex árum fyrr er floti Órækju sigldi inn á Alviðrubót. Ekki er greint frá ætterni þessa eina 13. aldar bónda í Alviðru sem nú er þekktur með nafni, og föðurnafni hans hefur sagnaritarinn líklega verið búinn að gleyma er hann sat við skriftirnar og rifjaði upp atburði ársins 1242. Á því ári mátti heita að Kolbeinn ungi og Gizur Þorvaldsson réðu einir öllu á landi hér því veldi Sturlunga var hrunið. Fjögur ár voru liðin frá Örlygsstaðabardaga og haustið 1241 hafði Snorri verið veginn í Reykholti en Þórður kakali kom ekki til landsins fyrr en langt var liðið á árið 1242. Þá um sumarið höfðu Sturla Þórðarson og Órækja Snorrason verið sviknir af Gizuri og Kolbeini á sáttafundi við Hvítárbrú í Borgarfirði og Kolbeinn tekið þá báða í sína vörslu.[55] Órækju rak Kolbeinn úr landi en Sturlu Þórðarsyni voru settir þeir kostir að fá ellefu menn hina bestu úr Vestfirðingafjórðungi með sér og skyldu þeir allir tólf vinna Kolbeini trúnaðareiða.[56] Einn þeirra sem norður fóru til eiðatökunnar var Skeggi úr Alviðru en úr Ísafjarðarsýslu sóru eiðana auk hans Þórdís Snorradóttir í Vatnsfirði og Einar Þorvaldsson sonur hennar[57] sem þá var unglingur. Í hópi eiðamannanna sem norður fóru var líka Jórsala-Bjarni, sem Sturla sagnaritari segir að hafi verið mágur Skeggja úr Alviðru[58] og er nokkuð líklegt að Bjarni þessi hafi einnig verið úr Ísafjarðarsýslu þó að ekkert sé um það sagt hjá Sturlu.

Í fornum ritum er Skeggi úr Alviðru aðeins nefndur á þessum eina stað og þar er það eitt um hann sagt að hann hafi riðið norður að leita vináttu við Kolbein unga sumarið 1242 eins og hér hefur verið rakið. Sú frásögn nægir þó til að sýna að Skeggi hefur verið talinn í röð fremstu fyrirmanna á Vestfjörðum því ella hefðu svardagar af hans hálfu engu máli skipt fyrir Kolbein. Í frásögn sinni af eiðatökunni skipar Sturla sagnaritari honum á bekk með Þórdísi frænku sinni í Vatnsfirði, dóttur sjálfs Snorra Sturlusonar, og með Jórsala-Bjarna sem án nokkurs vafa hefur verið auðmaður og höfðingi því leiðin úr Dýrafirði austur í Miðjarðarhafsbotna var bæði löng og ströng og upp í þvílík ferðalög lögðu ekki aðrir en þeir sem talsvert áttu undir sér. Um Jórsala-Bjarna vitum við reyndar ekki annað en það að hann var mágur Skeggja í Alviðru og fór með honum norður í land sumarið 1242. Viðurnefnið segir hins vegar sína sögu og bendir alveg eindregið til þess að hann hafi komist austur til Jerúsalem, sem kristnir menn á þeirri tíð höldu helga borg. Líklegast er að Bjarni hafi farið þá för í hópi krossfaranna frá Þýskalandi og nálægum löndum sem árið 1228 lögðu upp í krossferð austur þangað undir merkjum Friðriks II Þýskalandskeisara.[59]

Frekari bollaleggingar um þá mága Skeggja úr Alviðru og Jórsala-Bjarna eru þó tilgangslitlar því allar heimildir skortir um líf þeirra og lukku. Flest bendir til þess að fáir mektarmenn hafi setið í Alviðru eftir daga Skeggja og mjög fárra sem þar bjuggu á næstu öldum er getið í varðveittum heimildum. Á 14. öld er nágrannabærinn Núpur orðinn höfðingjasetur eins og hér hefur áður verið rakið (sjá hér Núpur) og Núpsmenn búnir að ná undir sig nokkru af því landi sem áður var innan landamerkja Alviðru (sjá hér bls.4). Fyrir Núpi varð Alviðra að lúta í lægra haldi því ekki gat farið vel á því til lengdar að ríkismenn sætu á báðum jörðunum svo örskammt sem þar er á milli. Alviðra var þó áfram góð bújörð sem höfðingjar sóttust eftir að eiga eins og hér verður nánar vikið að síðar. Líklegt er að strax á 14. öld hafi samt verið byrjað að skipta jörðinni upp í parta þó vera kunni að ábúendum sem þar bjuggu hafi ekki fjölgað upp í fjóra og fimm fyrr en síðar.

Þann 5. september 1344 staldraði Jón Sigurðarson, biskup í Skálholti, við í Alviðru og vígði þar kirkju.[60] Engrar kirkju er getið í Alviðru fyrr en þessi var vígð og samkvæmt kirknaskrá Páls biskups Jónssonar frá árunum kringum 1200 voru kirkjurnar í Mýrahreppi aðeins þrjár er sú skrá var samin, ein á Mýrum, önnur á Núpi og sú þriðja á Ingjaldssandi.[61] Engu að síður er líklegt að kirkjan sem vígð var í Alviðru haustið 1344 hafi ekki verið sú fyrsta sem þar var reist því hún átti þá þrjár heilar klukkur og eina brotna.[62] Brotna klukkan bendir til þess að hér hafi fyrr verið hringt til tíða.

Máldaginn sem Jón Sigurðarson setti kirkjunni í Alviðru haustið 1344 hefur varðveist og þar má sjá að þetta var hálfkirkja sem þýðir að þar átti prestur að syngja messu annan hvern helgan dag.[63] Kirkjan var vígð guði til heiðurs og dýrðar og hans signuðu móður, júngfrú Maríu, hinum heilaga Ólafi og blessuðum Benedicto.[64] Í máldaganum er tekið fram að á Maríumessu hinni síðari (þ.e. 8. september) skyldi ætíð vera kirkjudagur í Alviðru og þann dag átti prestur að syngja þar allar kirkjudagshátíðir og fyrri messu.[65] Við vígslu kirkjunnar var því slegið föstu að heimafólk í Alviðru skyldi gjalda bóndanum þar, sem kirkjuna átti, allar sínar tíundir og ljóstolla en bóndi átti aftur á móti að greiða presti tvær merkur í tíða offur og kost með hverri messu.[66]

Helstu gripir kirkjunnar sem um er getið í nýnefndum máldaga voru þessir: Maríumynd, Ólafslíkneski, tveir krossar með líkneskjum og þrjú altarisklæði.[67] Um klukkurnar hefur áður verið getið. Auk þessa hafði Bárður bóndi, sem ugglaust hefur búið í Alviðru þegar kirkjan var vígð, lofað að gefa henni þriðja krossinn, svo og glerglugga og líkneski af heilögum Benedikt[68] frá Núrsía sem var einn af verndardýrlingum þessarar kirkju.

Á fyrri hluta 15. aldar var Alviðra ein fjölmargra jarða sem Guðmundur ríki Arason átti á Vestfjörðum.[69] Jörðin var þá talin tíu tugir hundraða að dýrleika með skaganum eins og ritað er í skrá yfir eignir Guðmundar sem talið er að hafi verið rituð árið 1446.[70] Skaginn sem þarna er talað um er alveg vafalaust jörðin Fjallaskagi því ýms gömul bréf frá 15. og 16. öld sýna að kirkjan í Alviðru var þá talin eiga hana.[71] Athygli vekur að Alviðra með Fjallaskaga er þarna metin á tíu tugi hundraða og ætti þá Alviðra ein að hafa verið 88 hundruð því ekki er annað vitað en Fjallaskagi hafi ætíð verið talinn 12 hundraða jörð.[72] Eftir 1600 var dýrleiki Alviðru hins vegar jafnan talinn 78 hundruð,[73] það er tíu hundruðum minni en þarna er gert. Vera má að í matinu á Alviðru sem fram kemur í eignaskránni frá 1446 sé að finna vísbendingu um hversu hátt jörðin var metin áður en landamerkjum hennar og Núps var breytt (sjá hér bls. 4 og Núpur).

Eins og áður sagði sýna ýmis bréf frá 15. og 16. öld að Alviðrukirkja var þá talin eiga Fjallaskaga. Elsta bréfið sem sýnir þetta er dagsett 10. október árið 1401 en það bréf taldi Árni Magnússon, prófessor og handritasafnari, reyndar að væri falsað.[74] Segir hann að gamla skriftin á skinnbréfi þessu sé skafin burt og skrifað svo á aftur með nýrri hendi.[75] Ætla má að þetta sé rétt hjá Árna en engu að síður stendur skýrum stöfum í Stefánsmáldaga frá árunum kringum 1500 að hálfkirkjan í Alviðru eigi Fjallaskaga eftir gamalla manna sögn og orðtaki.[76] Augljóst virðist því að á 15. öld hafi menn litið svo á að eigendur Alviðru ættu líka Fjallaskaga eða hefðu a.m.k. umráð yfir þeirri jörð í nafni Alviðrukirkju. Orð Árna Magnússonar breyta engu um þetta en gefa hins vegar vísbendingu um að álitamál geti verið hvort kirkjan hafi eignast Skaga með réttu eða röngu.

Árið 1547 felldu sex klerkar, sem Gizur biskup Einarsson hafði skipað í dóm, þann úrskurð að kirkjan í Alviðru ætti Fjallaskaga[77] og því er einnig haldið fram í vitnisburðarbréfi frá árinu 1568.[78] Yngsta heimild sem getur þess að Alviðrukirkja eigi jörðina Fjallaskaga er Gíslamáldagi frá árunum upp úr 1570 en þar segir: Hálfkirkjan í Alviðru á Fjallaskaga og tvö kúgildi. Item eitt altarisklæði í kirkjunni og tvær bjöllur, einn tjalddúkur.[79]

Aðrar virðast eignir kirkjunnar ekki hafa verið þegar hér var komið sögu og ekki annað að sjá en þar hafi verið heldur fátæklegt um að litast innan dyra. Eigandi þessarar vanbúnu kirkju hefur þó að öllum líkindum verið Eggert Hannesson lögmaður því hann keypti 20 hundruð í Alviðru árið 1567 og átti þar líka fleiri eða færri jarðarhundruð árið 1571.[80] Árið 1650 fór Brynjólfur biskup Sveinsson í vísitazíuferð um Vestfirði og var þá ákveðið að leggja niður kirkjuna í Alviðru.[81] Hún hafði þá staðið þar í meira en 300 ár. – Skipuð af þjónusta á hálfkirkju í Alviðru af biskupi, ritar höfundur Vatnsfjarðarannáls elsta er hann greinir frá tíðindum ársins 1650.[82] Alviðrukirkja hékk þó lengi uppi eftir að hún var afhelguð því Árni Magnússon getur þess í Jarðabókinni frá 1710 að bænhús standi enn í Alviðru en þar hafi engin embættisgjörð framin verið í 60 ár eða lengur.[83]

Alviðrukirkja stóð á brekkunni utan og neðan við íbúðarhúsið sem nú (1994) blasir við augum á Leiti, rétt ofan við þjóðveginn.[84] Á fyrstu áratugum tuttugustu aldar mótaði enn fyrir grafreitnum umhverfis kirkjuna og þegar akvegurinn var lagður komu þarna upp mannabein.[85] Þau voru grafin með viðhöfn í kirkjugarðinum á Núpi.[86]

Fyrsti maður sem skjalfest er að átt hafi Alviðru eftir 1400 er Guðmundur Arason á Reykhólum[87] sem af auðæfum sínum fékk viðurnefnið ríki. Árið 1446 var Guðmundur hrakinn í útlegð (sjá hér Núpur). Eignir hans voru þá gerðar upptækar og skömmu síðar varð Björn Þorleifsson, hirðstjóri á Skarði, eigandi að Alviðru. Við skiptingu á eignum Björns eftir víg hans árið 1467 kom Alviðra í hlut Einars jungkæra sem var sonur hirðstjórans.[88] Einar Björnsson er talinn hafa andast árið 1494[89] og ári síðar var hálfbróðir hans, Jón danur Björnsson á Rafnseyri, orðinn eigandi að Alviðru eða a.m.k. umráðamaður jarðarinnar.[90]

Jón danur á Rafnseyri dó árið 1508 en systursonur hans, Björn Guðnason í Ögri, erfði þá flestar eða allar hans eigni, nema þær sem ekkja Jóns hélt eftir (sjá hér Rafnseyri og Núpur). Tvímælalaust er að Björn í Ögri átti a.m.k. hálfa Alviðru því árið 1524 lét Ögmundur Pálsson, Skálholtsbiskup, dæma sér þennan jarðarhelming og fleiri eignir upp í sakferli Björns.[91] Þá voru sex ár liðin frá andláti héraðshöfðingjans í Ögri en Ögmundur var enn að gera upp sakir við hann og ná eignum af erfingjunum. Er biskup eignaðist hálfa Alviðru árið 1524 fylgdi Fjallaskagi þar með[92] sem eign Alviðrukirkju.

Enda þótt Ögmundur biskup hafi aðeins fengið hálfa Alviðru með dómnum frá árinu 1524 sýnist þó ótvírætt að hann hafi átt jörðina alla um eitthvert skeið. Árið 1534 seldi Ögmundur Guðrúnu Björnsdóttur á Núpi hálfa Alviðru og fleiri jarðeignir í jarðaskiptum[93] og um svipað leyti eða litlu síðar fær hann Guðrúnu í hendur til fullrar eignar þann hlut sem hún hefur ekki áður átt í Alviðru.[94] Er biskup afsalaði til Guðrúnar á Núpi þeim parti Alviðru sem hún hafði ekki eignast áður kvaðst hann einkanlega ráðstafa þessu svo þar eð hún gaf í vort vald þann hugmóð og forþrot sem séra Filippus hafði gjört henni.[95] Með þessum orðum vísar Ögmundur til þess að séra Filippus Jónsson, sem var prestur í Rauðasandsþingum, hafði numið gjafvaxta dóttur Guðrúnar á brott frá Núpi eins og hér hefur áður verið frá sagt (sjá Núpur).

Á því sem hér hefur verið ritað verður ekki annað séð en Guðrún á Núpi, sem var dóttir Björns Guðnasonar í Ögri, hafi eignast alla Alviðru í viðskiptum við Ögmund biskup á síðustu árum hans, 1534-1540. Með tilliti til þess kemur dálítið á óvart að til skuli vera bréf, dagsett 12. mars 1538, þar sem tilkynnt er að Ögmundur hafi fengið Ólöfu Björnsdóttur, systur Guðrúnar, og manni hennar, Sigfúsi Brúnmannssyni í Hrauni í Keldudal, hálfa Alviðru ásamt ýmsum fleiri jarðeignum.[96] Hér verður ekki reynt að leita skýringa á þessu því ótvírætt er að Guðrún á Núpi hefur átt alla Alviðru á árunum upp úr 1540. Skýrast kemur það fram er Katrín Hannesdóttir frá Núpi, – dóttir Guðrúnar Björnsdóttur, giftist Gizuri Einarssyni, biskupi í Skálholti, en frá móður sinni fékk hún þá jörðina Alviðru í heimanfylgju.[97]

Um landseta Gizurar biskups og Katrínar konu hans í Alviðru á árunum 1543-1548 skortir alla vitneskju en líklega hefur það verið vorið 1544 sem hinir illræmdu Lokinhamrabræður fóru þar vopnaðir um hús og hýbýli og rændu einu og öðru sem þeim lék hugur á að eignast. Í sakaskrá Ólafs Gunnarssonar í Lokinhömrum og bræðra hans sem Eggert Hannesson lét taka saman árið 1548 er m.a. getið þessarar ránsferðar Ólafs Gunnarssonar og lagsmanna hans. Um athafnir þeirra og framferði í Alviðru segir þar svo:

 

Sömuleiðis fór þráttgreindur Ólafur sama vorið til Alviðru með mörgum öðrum ómildum mönnum er þangað fóru með vopnum, steyttum byssum og logandi luntum. Gripu þaðan og tóku ranglega, fluttu og í burtu ferjuðu þá peninga sem í greindum stað voru kyrrsettir og undir míns hogbornasta herra kóngsins lás, frið og beskærmelse voru lýstir. Þrykktu svo niður míns herra kóngsins rétti og krúnunnar í Noregi. Lagði Ólafur Gunnarsson allan flutning og létta, bæði með skip og menn undir áðursagða peninga og fór sjálfur með.

 

Er Eggert Hannesson síðar lögmaður var að kljást við Ólaf Gunnarsson og bræður hans var hann sýslumaður í Ísafjarðarsýslu og átti heima á Núpi. Á þeim orðum Eggerts sem hér var vitnað til má sjá að í Alviðru hafa Lokinhamrabræður m.a. gerst svo djarfir að ræna skattpeningi konungs en annars staðar í þessu riti er ýmislegt tínt til um ofbeldisverk þeirra og yfirgang við friðsama nágranna (sjá hér Lokinhamrar og Arnarnúpur).

Það var Katrín, biskupsfrú í Skálholti, sem átti Alviðru þegar Lokinhamrabræður komu þangað og létu greipar sópa en ógnuðu heimafólki með hlöðnum byssum og logandi vöndlum. Katrín í Skálholti var systir Eggerts Hannessonar á Núpi og er maður hennar, Gizur Einarsson biskup, andaðist árið 1548 fluttist hún aftur vestur og er sagt að hún hafi gefið Eggerti próventu sína og verið á hans framfæri æ síðan.[98] Svo virðist sem fleiri niðjar Guðrúnar Björnsdóttur á Núpi hafi þó átt einhvern hlut í Alviðru um lengri eða skemmri tíma á árunum 1550 til 1570 því 18. apríl 1567 selur Hannes Björnsson, sem var bróðursonur Eggerts og Katrínar, Eggerti Hannessyni, frænda sínum, 20 hundruð í þessari sömu jörð.[99] Næstu árin átti Eggert svo Alviðru eða a.m.k. stóran part af henni eins og sjá má í reikningum hans frá árunum 1570 og 1571. Í reikningum Eggerts frá árinu 1570 kemur fram að þá býr í Alviðru maður að nafni Guðmundur Jónsson[100] og í reikningabók sína frá árinu 1571 skrifar Eggert þessi orð: Item í landskyld af Alviðru 6 vættir fiska og kúgildi nú í vor með tollveri á Skaga og 3 vættir í tolla af fyrra ári.[101] Er þessi orð voru rituð, árið 1571, var jörðin Fjallaskagi enn í eigu kirkjunnar í Alviðru (sjá hér bls. 9-10) og þar sem Eggert átti þá kirkju átti hann líka Fjallaskaga og fékk alla vertolla þaðan eins og reikningar hans bera með sér.

Um eigendur Alviðru á 17. öld er margt á huldu. Einn maður átti alla jörðina um 1680[102] en ekki er auðvelt að sjá hver það hefur verið. Einna líklegastur er Torfi Jónsson, sýslumaður í Flatey á Breiðafirði, en hann var sonardóttursonur Jóns Magnússonar sýslumanns sem keypti Mýrar í Dýrafirði árið 1618 (sjá hér Mýrar).[103] Tilgátan um að það hafi verið Torfi í Flatey sem átti alla Alviðru byggir þó eingöngu á því að Jón stúdent, sonur hans, átti sannanlega a.m.k. 19 hundruð í þessari jörð nokkrum árum síðar.[104]

Á árunum milli 1690 og 1700 er Jón Torfason frá Flatey að losa sig við ýmsar jarðeignir, sem hann hafði fengið í arf eftir foreldrana, og seldi þá Magnúsi Magnússyni, sýslumanni á Eyri í Seyðisfirði, 10 hundruð í Alviðru og Ásmundi Ketilssyni, er um skeið bjó á Fjallaskaga, 9 hundruð úr sömu jörð.[105] Er Magnús sýslumaður á Eyri, sem var ömmubróðir Jóns Torfasonar, lýsti kaupum sínum á jarðarpartinum í Alviðru á Alþingi árið 1695 kvaðst hann hafa keypt þessi hundruð af Hafnarstúdentinum, frænda sínum, fyrir bænarstað hans og vegna aðkallandi nauðsynjar seljandans.[106]

Jón stúdent Torfason frá Flatey var á árunum upp úr 1690 talinn vera við nám í Kaupmannahafnarháskóla.[107] Vel má vera að hann hafi átt meira í Alviðru en þessi 19 hundruð sem hann seldi Magnúsi og Ásmundi en hafi svo verið er fyllsta ástæða til að ætla að hann hafi sólundað þeirri eign í sukk og svínarí því á námsárum sínum náði hann að eyða sem svaraði 200 kýrverðum og þótti fáheyrt. Allar þær eignir hafði hann erft eftir foreldra sína.[108]

Jón Torfason stúdent var reyndar náskyldur flestum helstu höfðingjum í Ísafjarðarsýslu á þessum árum því Ragnheiður móðir hans átti Ara sýslumann Magnússon í Ögri fyrir afa og Magnús Jónsson prúða fyrir langafa.[109] Hinn svallgefni stúdent úr Flatey var systursonur séra Sigurðar Jónssonar, prófasts í Holti í Önundarfirði, sem reyndar kærði söluna á þeim níu hundruðum í Alviðru er Ásmundur Ketilsson keypti af stráknum. Í þeirri þrætu tókst prófastinum að lokum að hafa sitt fram því árið 1702 var lesin upp á Alþingi sáttargerð milli hans og Ásmundar þar sem Ásmundur féllst á að prófasti væri vítalaust að halda þessum níu hundruðum í Alviðru.[110]

Jón stúdent frá Flatey, sem á sínum tíma átti stóran part í Alviðru, starfaði um skeið í hergagnabúri Danakonungs.[111] Hann gekk síðan í danska herinn og varð skipsskrifari á Austurindíafari en dó úr pest sem gekk yfir Kaupmannahöfn árið 1712.[112]

Enginn kann nú lengur að greina frá samskiptum svallarans frá Flatey við landseta hans í Alviðru en í þeirra hópi hafa að líkindum verið Jón Björnsson og synir hans. Magnús Magnússon sýslumaður, sem keypti 10 hundruð í Alviðru af Jóni þessum stúdent frá Flatey árið 1695, skrifar sjálfur um helstu atburði þess árs í Eyrarannál og segir að þá hafi andast Jón Björnsson í Alviðru og tveir hans synir, allir giftir.[113] Líklegt er að Jón Björnsson í Alviðru, sem dó árið 1695, sé hinn sami og Jón Björnsson sem þar bjó árið 1681[114] en þá bjuggu þar líka bæði Bjarni Jónsson og Sveinn Jónsson.[115] Þeir Bjarni og Sveinn gætu sem best hafa verið synir Jóns og þeir dáið allir þrír í harðindunum sem gengu yfir landið árið 1695.

Tveir prestar munu hafa setið í Alviðru á 17. öld, séra Bjarni Arnórsson og séra Árni Loftsson. Séra Bjarni var prestur í Dýrafjarðarþingum frá 1625-1656 en hafði áður verið aðstoðarprestur séra Ólafs Jónssonar á Söndum.[116] Um uppruna hans eru menn ekki á eitt sáttir en sumir hafa talið að faðir hans hafi verið bróðir séra Sveins Símonarsonar í Holti í Önundarfirði.[117] Séra Bjarni mun fyrst hafa verið settur til að þjóna Sæbólskirkju á Ingjaldssandi en mjög skömmu síðar, líklega á sama ári, tók hann við öllum Dýrafjarðarþingum.[118] Prestur þessi bjó fyrst á Brekku á Ingjaldssandi en síðan í Alviðru ef marka má það sem sagt er í Íslenskum æviskrám og víðar.[119]

Um séra Árna Loftsson, sem var prestur í Dýrafjarðarþingum frá 1657-1671 hefur áður verið ritað á þessum blöðum (sjá hér Klukkuland) en hann bjó fyrst á Klukkulandi og svo í Alviðru. Að Alviðru mun séra Árni hafa verið kominn árið 1665 því Jón sonur hans, sem varð biskup í Skálholti, fæddist á því ári og er sagður fæddur í Alviðru.[120]

Séra Jón Sigurðsson á Gerðhömrum segir í sóknarlýsingu sinni frá árinu 1840 að séra Árni Loftsson sé eini presturinn sem búið hafi á Leiti í Alviðru en 10 hundruð úr Leiti voru lénsjörð þingapresta[121] sem þýðir að tekjur af þessari jarðeign hafa átt að renna til prestanna í Dýrafjarðarþingum. Prestsins ölmusujörð er Alviðra kölluð í Manntalinu frá 1762 en ætla verður að þau orð eigi aðeins við um þessi 10 hundruð úr Leiti sem 78 árum síðar voru lénsjörð þingapresta.

Býlið Leiti stóð innst í landi Alviðru eins og hér var áður frá sagt (sjá bls. 5 og 11) en í sóknarlýsingu sinni kemst séra Jón Sigurðsson svo að orði:

 

Sá partur jarðarinnar [Alviðru] sem heitir Leiti er 23 hundruð og 10 hundruð þar af er lénsjörð þingapresta hér. Þó hefur enginn þar búið nema einn, Árni að nafni sem bjó í Alviðru, auðugur maður, ég meina faðir biskups Jóns Árnasonar.[122]

 

Þessi orð séra Jóns verða vart skilin öðruvísi en svo að séra Árni hafi búið á Leiti og þar með í Alviðru. Jón Árnason biskup, sem ætla má af framansögðu að hafi verið fæddur á Leiti, var Skálholtsbiskup frá 1722-1743, næstur á eftir Jóni Vídalín. Um biskup þennan segir á einum stað að hann hafi verið maður ágætlega að sér og þótt bera af í guðfræði, stærðfræði, rímfræði og söngfræði.[123] Hann þótti snjall kennari en svo strangur að talið er að tveir nemenda einungis hafi sloppið við barsmíð hjá honum.[124]

Séra Árni Loftsson á Leiti átti löngum í útistöðum við ýmsa úr hópi sóknarbarna sinna (sjá hér Klukkuland) og kaus að yfirgefa Dýrafjörð árið 1671. Á búskaparárum sínum í Alviðru varð hann fyrir því að missa unga dóttur sína í hörmulegu slysi. Um þann atburð segir svo í Vatnsfjarðarannál yngri þar sem greint er frá atburðum ársins 1667: Barn séra Árna Loftssonar í Alviðru varð undir heygarði um vorið og deyði. Voru þar fleiri börn ásamt þessu að leika sér nær garðurinn féll en þau komust undan.[125]

Í Eyrarannál sést að barnið sem séra Árni missti með svo voveiflegum hætti var stúlka.[126] Síðar verður getið tveggja presta sem bjuggu á Leiti skamma hríð á síðari hluta 19. aldar (sjá hér bls. 24).

Árið 1710 voru fjórir eigendur að Alviðru og svo mátti heita að allir ættu þeir jafnan hlut, annað hvort 19 eða 20 hundruð.[127] Tveir þessara eigenda áttu heima í Dýrafirði, Páll Torfason, sýslumaður á Núpi, og séra Bjarni Brynjólfsson á Lækjarósi en hinir tveir voru börn Þorgríms Halldórssonar á Svínanesi og Þuríður Sæmundsdóttir í Haukadal í Árnessýslu.[128] Þuríður þessi var dóttir Sæmundar Eggertssonar á Sæbóli á Ingjaldssandi[129] og var árið 1710 orðin ekkja í annað sinn. Fyrri maður hennar hafði verið Eggert Jónsson í Flatey en síðari eiginmaðurinn var séra Halldór Torfason, prestur í Gaulverjabæ,[130] en hann var sonarsonur Jóns Gizurarsonar, bónda og fræðimanns á Núpi í Dýrafirði. Þuríður arfleiddi Orm Daðason sýslumann að eignum sínum[131] en hann seldi Eggerti Sæmundssyni á Sæbóli, bróður Þuríðar, 18 hundruð í Alviðru árið 1714.[132] Þorgrímur Halldórsson, faðir barnanna sem áttu 20 hundruð í Alviðru árið 1710, hafði verið kvæntur Sesselju Sæmundsdóttur frá Sæbóli, systur áðurnefndrar Þuríðar,[133] svo ætla má að faðir þeirra, Sæmundur Eggertsson á Sæbóli, hafi á sínum tíma átt a.m.k. hálfa Alviðru.

Í gömlu Alþingisbókunum má sjá eitt og annað um kaup og sölur á ýmist fleiri eða færri hundruðum út Alviðru á átjándu öldinni en ástæðulaust er að tína það allt til hér. Þess má þó geta að Mála-Snæbjörn átti part í Alviðru á árunum kringum 1740 og veðsetur hann ásamt fleiri jarðeignum árið 1741 er hann keypti Sæból á Ingjaldssandi af Ormi Daðasyni sýslumanni.[134] Árið 1762 var Snæbjörn enn einn þriggja eigenda Alviðru en hinir voru þá Jón Teitsson og Ragnheiður Sigurðardóttir.[135] Líklegast er að Jón Teitsson sem þarna er nefndur sé bróðursonur Snæbjarnar, sem einmitt hét því nafni. Hann varð síðar Hólabiskup en móðir hans og mágkona Snæbjarnar hét Ragnheiður Sigurðardóttir svo máske þarf ekki lengra að leita. Ekkert dæmi hefur fundist frá 18. öld um sjálfsábúð bænda í Alviðru en ekki voru það samt tómir ríkismenn sem náðu að eignast þar svolítið land. Er móðuharðindin tóku að þrengja að Vestfirðingum eins og öðrum landsmönnum árið 1784 átti Ragnheiður Sigurðardóttir, húskona í Litla-Laugardal í Tálknafirði, 10 hundruð í Alviðru. Ári síðar varð hún að selja kaupmanninum á Bíldudal þessa fasteign sína ásamt einni kú[136] og er ekki ólíklegt að hvort tveggja hafi farið upp í skuld.

Eins og áður var getið bjuggu fjórir bændur í Alviðru árið 1710. Í Jarðabókinni frá því ári segir að bæirnir í Alviðru séu þá tveir, sem báðir standi innan garða, og heiti sá minni Alviðruhús.[137] Þarna er ekki minnst á Leiti sem þó var í byggð á 17. öld. Athygli vekur að einn bændanna sem bjuggu í Alviðru árið 1710 hafði nákvæmlega 23 hundruð til ábúðar[138]  en sá hluti Alviðru sem fylgdi Leiti var einmitt 23 hundruð eins og fyrr var nefnt. Líklegt verður að telja að bóndi þessi hafi í raun haft Leiti til ábúðar en bæjarhúsin þar máske verið ónothæf.

Um Alviðruhús segir í Jarðabókinni frá 1710 að þau hafi í fyrstu verið hjáleiga byggð á fornu fjósstæði hér um fyrir 80 árum.[139] Í sömu heimild er tekið fram að Alviðruhúsum fylgi 20 jarðarhundruð úrskift einasta að túni og engjum.[140] Nafnið Alviðruhús á einu býlinu í Alviðru virðist ekki hafa náð að festa sig í sessi til frambúðar og svo er að sjá sem það hafi ekki verið notað í byrjun 19. aldar.[141]

Landskuld og kúgildaleigur sem bændur í Alviðru þurftu að greiða í byrjun 18. aldar voru með venjulegum hætti.[142] Þrír bændanna sem hér bjuggu árið 1710 voru lausir við allar kvaðir um mannslán eða annað af því tagi en sá fjórði, Gísli Brandsson, sem bjó á parti Páls Torfasonar sýslumanns, átti að leggja til mann í skiprúm á vorvertíð og reyndar ekki bara einn heldur tvo eða þrjá ef hann gerði svo marga til sjóar eða lét róa hér heima.[143]

 

Í Jarðabókinni frá 1710 er getið um öll helstu réttindi Alviðrumanna í landareign Núps, þau sem um var samið árið 1570 og hér hefur áður verið frá sagt (sjá hér Núpur), það er selstöðu á Núpsdal, rekaréttindin, rétt til móskurðar og veiðirétt í Berghyl.[144]

Hér hefur áður verið minnst á Alviðruhús og Leiti enbæði þau býli munu í fyrstu hafabyggst sem hjáleigur frá Alviðru. Aðrar hjáleigur frá fyrri öldum sem um er kunnugt í landi Alviðru eru Fagratröð og Hlaðsnes. Fagratröð var inn og niður af bænum,[145] á sjávarbökkum rétt utan við landamerkjalækinn. Þar standa tóttirnar enn og rétt ofan við bakkana er forn túngarður. Ýmsir létu sér detta í hug að hér hefði til forna verið akurgerði.[146] Fyrir nokkrum áratugum var sú kenning uppi að hinn umgirti blettur hjá Fögrutröð væri álagastaður og ekki væri ráðlegt að bera þar ljá í gras.[147] Núverandi bóndi í Alviðru hefur tekið tillit til þessa.[148]

Í Fögrutröð var búið fram á 17. öld en í Jarðabók Árna og Páls segir að býli þetta hafi farið í eyði um 1630 eða litlu fyrr.[149] Árni Magnússon lætur þess þó getið að einhverjir sem á lífi voru árið 1710 hafi talað við þann sem búið hafði síðastur í Fögrutröð.[150] Hjáleigubýlið Hlaðsnes stóð mun fjær heimabænum, á samnefndu sjávarnesi yst í Alviðrulandi, rétt fyrir innan Miðlendislæk.[151] Í Jarðabókinni frá 1710 er Hlaðsnes sagt vera fornt eyðiból.[152] Þar er ekki getið um hvenær kotið fór í eyði og má því ætla að byggð hafi lagst þar af fyrir 1600. Um miðja 19. öld mátti enn greina byggingamerki bæði í Fögrutröð og á Hlaðsnesi[153] en séra Jón Sigurðsson tekur fram í sóknarlýsingu sinni að á Hlaðsnesi sé túnið fallið í svarðleysu móa og aurgrjót.[154]

Á árunum 1681-1901 bjuggu yfirleitt fjórir eða fimm bændur í Alviðru.[155] Árið 1835 voru þeir samt bara þrír[156] og á þessum 320 árum fór tala bændanna í Alviðru stöku sinnum upp í sex.[157] Árið 1703 bjuggu þrír bændur á heimajörðinni og tveir í Alviðruhúsum[158] en 1785 bjuggu fjórir á heimajörðinni og einn á Leiti.[159] Á árunum kringum 1800 töldust yfirleitt tveir eða þrír bændur búa á Leiti og voru þá jafnvel fleiri en hinir sem bjuggu á heimajörðinni, – þrír á móti tveimur.[160] Á árunum 1835-1901 var hins vegar alltaf eða nær alltaf bara einn bóndi á Leiti.[161] Á síðustu árum 19. aldar var jafnan nokkuð um húsfólk í Alviðru en í heimildum frá 18. og 19. öld verður annars sjaldan vart við að jarðnæðislaust fólk hafi búið þar í þurrabúð. Einstök dæmi eru þó finnanleg, m.a. í manntölum frá árunum 1835 og 1840.[162] Frá þurrabúðarkotunum sem risu í Alviðru á árunum rétt fyrir aldamótin 1900 er sagt hér dálítið nánar á öðrum stað (sjá hér bls. 25-28) en ekki mun vert að draga lengur að geta um bardagann mikla á Alviðrubót sumarið 1856 er Bjarni Þorlaugarson úr Arnarfirði barðist þar lengi einn við átján Fransmenn.

Árið 1856 höfðu franskar skútur stundað veiðar á Íslandsmiðum í a.m.k. tvær aldir[163] og um langt skeið hafði mikill fjöldi þessara skipa sótt á fiskimiðin úti fyrir Vestfjörðum á hverju sumri. Oft lágu frönsku skúturnar hópum saman inni á Dýrafirði, bæði á Haukadalsbót og Alviðrubót, og árið 1855 tók keisarastjórnin í París að leita eftir heimild til að stofna franska nýlendu á Þingeyri í því skyni að reka þar fiskverkun í stórum stíl (sjá hér Þingeyri). Samskipti frönsku sjómannanna við Vestfirðinga voru margvísleg, þar á meðal vöruskipti sem báðir aðilar töldu sig hafa hag af (sjá hér Haukadalur). Oftast nær fóru hinir erlendu sjómenn með friði en stöku sinnum sló í brýnu og dæmi um það er bardaginn á Alviðrubót í júnímánuði árið 1856, örfáum vikum áður en Jerome Napóleon prins sigldi inn á Dýrafjörð og bauð kaupmanninum á Þingeyri að kaupa af honum allan þann stað (sjá hér Þingeyri).

Sumarið 1856 var ungur maður úr Arnarfirði skipstjóri á þilskipinu Phönix frá Ísafirði. Hann hét Bjarni Þorlaugarson og var fæddur á Rafnseyri 23. október 1827 en ólst að mestu upp á Tjaldanesi og Hjallkárseyri. Móðir Bjarna var Þorlaug Bjarnadóttir, sem á fæðingarári hans var vinnukona hjá séra Sigurði Jónssyni prófasti, föður Jóns Sigurðssonar forseta. Bjarni varð hins vegar föðurlaus og því jafnan kenndur við móður sína.

Fyrstu dagana í júní árið 1856 var Bjarni Þorlaugarson, skipstjóri á Phönix, á hákarlaveiðum úti fyrir Vestfjörðum en sigldi þann 10. júní undan stormi inn á Dýrafjörð og lagði skipi sínu á Alviðrubót.[164] Er þeir á Phönix komu inn á bótina lágu þar tíu erlend skip, fimm hollenskar húkkortur og fimm franskar loggortur.[165] Daginn eftir var Bjarna og þremur öðrum Íslendingum boðið um borð í frönsku loggortuna Sem Valerfe númer sjö frá Bologna að höndla við þá um stígvél og þess háttar smávegis.[166]

Um borð í Sem Valerfe sátu Fransmenn að sumbli, bæði skipverjar  á því skipi og gestir þeirra af annarri franskri skútu sem einnig lá á Alviðrubót.[167] Ekki höfðu Bjarni og menn hans dvalist lengi þarna um borð er Fransmennirnir tóku að áreita þá svo úr urðu grimmileg slagsmál. Þegar barist hafði verið í hálfan annan klukkutíma skipaði Bjarni félögum sínum að fara í land á jullunni, sem þeir höfðu komið á, og sækja hjálp. Bláir og blóðugir komust fylgdarmenn Bjarna við illan leik í julluna og reru til lands en komu ekki aftur fyrr en eftir meira en tvær klukkustundir.[168]

Bjarni Þorlaugarson var víst heljarmenni að burðum enda náðu Fransmennirnir aldrei að yfirbuga hann allan þann langa tíma sem hann varð að bíða þess að hjálp bærist úr landi. Sjálfur sagði hann svo frá fyrir rétti fáum mánuðum síðar:

 

Var ég þá einn eftir og varaði það hér um bil tvo og hálfan tíma þar til er þeir komu aftur úr landi. Stóð slagsmálið allan þennan tíma að öðru hverju. Voru það 18 manns er til skiftis sóttu að mér, börðu sumir mig með hnefum en sumir stóðu uppi á tunnum … og reyndu til að leggja bönd á mig til að binda mig og suma sá ég jafnframt ota hnífum eins og áður er sagt. Í hríð þessari var mér hrundið einu sinni á lúkarinn og kenndi ég þá mjög til í síðunni. Hlupi þeir þá fjórir ofan á mig og ætluðu að halda mér en ég fékk þeim af mér hrundið en þremur af þeim fékk ég í sömu svipan hrundið ofan í lúkarinn með hnefahöggi á einn þeirra. Það man ég að einn af þeim sem að mér sóttu var stýrimaðurinn á þessu skipi … og vildi mér það til að ég náði um fætur honum og hélt þeim utan um mig, – veifaði honum [þ.e. stýrimanninum] svo um mig og gat með því varið mig um hríð en varð að sleppa honum aftur vegna þess að þá voru ákaft borin bönd að mér.[169]

 

Íslendingunum sem í land fóru hafði Bjarni skipað að hafa þar upp á Daníel Ólafssyni, stýrimanni á íslensku slúpskipi sem Ísafjörður hét og einnig lá á Alviðrubót. Daníel var frá Álfadal á Ingjaldssandi[170] og hefur að líkindum verið vel að manni fyrst Bjarni taldi ástæðu til að leita sérstaklega eftir liðsinni frá honum. Svo virðist sem eitthvað hafi vafist fyrir sendimönnum Bjarna að finna Daníel, enda þótt hann væri staddur á Leiti, en að lokum kom þó kappi þessi með nokkra menn úr sinni skipshöfn út að frönsku loggortunni þar sem Bjarni Þorlaugarson stóð í ströngu. Þeir náðu þó aldrei að komast upp í skipið því Frakkar stóðu með barefli við lunninguna og vörnuði þeim uppgöngu.[171] Aftur á móti tókst Bjarna að lokum að stökkva niður í bátinn til Daníels og komst hann þannig á brott frá kvölurum sínum.[172] Um ástand sitt þegar hríðinni lauk hafði Bjarni þetta að segja þremur mánuðum síðar fyrir rétti:

 

Þegar ég kom um borð var ég á nýrri nærpeysu, nýlegu vesti, nýlegum vaðmálsbuxum. Allt þetta var rifið og stykkjað af mér er ég fór frá borði, þannig að hálsmálið á peysunni var rifið niður á öxlina, vestið var rifið svo að það tættist af mér, buxurnar rifnar öðru megin (einkum) ofanúr og hinu megin nokkuð svo þær flettust af mér. Hálsklúturinn var og stykkjaður af mér. Allur var ég þjakaður og særður en einkum í andliti, blár um augun og sprengt fyrir á og í munninum, svo að úr blæddi mjög. Höfuðið var mjög sárt af hártogum og var einn lokkur burt stykkjaður auk annars. Annars staðar fann ég mest til í síðunni og brjóstinu … og var ég ekki verkfær heila viku en kenndi mjög til í hálfan mánuð. Þeir Daníel fluttu mig yfir til Hollendingsins Peter Dan til að leita mér lækninga. Ekki veit ég til að nokkur hafi farist á þessu skipi á meðan á ásókninni stóð og aldrei vissi ég hið minnsta til að nokkur hrykki fyrir borð enda brúkaði ég hvorki nein vopn eða að ég sæi þá (Frakka) bera hvern á annan.[173]

 

Þessum síðustu orðum bætir Bjarni við vegna þess að einum eða tveimur dögum eftir bardagann fannst lík af nýlátnum frönskum sjómanni í flæðarmálinu út undir landamerkjum Alviðru og Gerðhamra.[174]

Margir urðu til þess að róma hetjuskap Bjarna skipstjóra í viðureign hans við hina ólmu Fransmenn á Alviðrubót[175] og sagt var frá bardaganum í Þjóðólfi[176] sem þá var eina blaðið sem út var gefið í Reykjavík.

Jens Sigurðsson frá Rafnseyri var árið 1856 kennari við lærða skólann í Reykjavík. Hann fór þá um sumarið vestur í Arnarfjörð að heimsækja móður sína og systur og hyggja að uppgjöri á dánarbúi föður síns sem látist hafði haustið 1855. Í vesturferðinni fékk Jens fréttir af viðureign Bjarna Þorlaugarsonar við Fransmennina átján á Alviðrubót og greinir bróður sínum, Jóni forseta Sigurðssyni, skömmu síðar frá atburðum í bréfi og þá með þessum orðum:

 

Á Vestfjörðum var nokkurt umtal um áflog milli franskra fiskara og Bjarna Þorlaugarsonar sem er nú orðinn skipherra fyrir fiskiskútu en var eins og þú manst ómagi í Arnarfirði og föðurlaus. Var það mælt að hann hefði þá drepið einn franskan dóna en sönnun fékk ég enga fyrir allri sögunni.[177]

 

Þessi ummæli skólakennarans sýna svo ekki verður um villst að ýmsir hafa talið að Bjarni hafi orðið mannsbani er hann barðist við Frakka þann 11. júní 1856. Með tilliti til þess er rétt að taka fram að allt sem fram kom við vitnaleiðslur sýslumanns fáum mánuðum síðar benti til þess að svo hefði alls ekki verið en líklegra sýnist að maðurinn sem fannst rekinn út undir Miðlendislæk hafi fallið fyrir hendi félaga sinna á einni frönsku skútunni.[178] Út í þá sálma verður þó ekki farið nánar hér en í Vestfirskum sögnum segir um Bjarna Þorlaugarson að hann hafi verið eitthvert fræknasta mikilmenni á sinni tíð, bæði heljarmenni að burðum og framúrskarandi lipur.[179] Sonur Bjarna skipstjóra á Phönix var Bjarni Bjarnason, bóndi og skipstjóri á Laugabóli í Mosdal í Arnarfirði (sjá hér Laugaból). Frá viðureign Bjarna Þorlaugarsonar við Frakkana átján á Alviðrubót er nánar sagt í dómabók Erlendar Þórarinssonar sýslumanns sem hér hefur einkum verið stuðst við og í söguþætti Jóns Helgasonar ritstjóra er hann nefndi „Kjaftshögg og heiðursmerki”.[180]

Daginn sem Bjarni Þorlaugarson komst í hann krappan á Alviðrubót var aðeins einn bóndi heima í Alviðru og var það Guðmundur Gíslason.[181] Líklegt er að hinir bændurnir hafi verið við róðra úti á Fjallaskaga. Kona Guðmundar Gíslasonar var Guðrún, dóttir Magnúsar Magnússonar, óðalsbónda á Núpi (sjá hér Núpur), en sonur hennar frá fyrra hjónabandi, Sakkarías [þannig ritaði hann sjálfur nafn sitt í dómabókina K.Ó.] Jensson, bjó einnig í Alviðru árið 1856. Allt þetta fólk hafði átt heima í Alviðru frá því um 1830 (sjá hér Núpur) og var því gamalgróið þar. Er hér var komið sögu var Guðmundur Gíslason orðinn hálfsextugur að aldri, kona hans komin um sjötugt og Sakkarías Jensson orðinn hálffimmtugur. Í vitnaleiðslum sýslumanns við réttarhald sem haldið var í Alviðru 13. september 1856 kemur fram að Guðmundur hefur greinilega verið vanur að umgangast bæði franska og hollenska sjómenn og átt við þá nokkur viðskipti.[182] Þetta sést m.a. á því að rétt eftir að viðureign Bjarna við Fransmennina lauk fór Guðmundur á bát sínum út í eina hollensku húkkortuna á Alviðrubót, án þess séð verði hvert erindi hans var, og örfáum dögum síðar fer hann um borð til þeirra sem ráðist höfðu á Bjarna Þorlaugarson til að taka á móti borgun fyrir nokkuð af kjöti.[183] Frá 1. apríl 1855 höfðu öll slík viðskipti verið gefin frjáls en áður voru þau bönnuð.

Við réttarhaldið í Alviðru haustið 1856 reyndi sýslumaður að fá upplýst hvort franski sjómaðurinn, sem um sumarið hafði fundist dauður út undir Miðlendislæk, kynni að hafa látist af mannavöldum og einnig var hann kominn í Dýrafjörð til að taka af fólki skýrslur um spjöll sem Frakkar höfðu unnið á eignum Alviðrubænda þetta sama sumar.[184]

Um dauða franska sjómannsins sem hollenski skipstjórinn Peter Dan eða Pjetre Don fann nýlega látinn í flæðarmálinu við Miðlendislæk tókst ekki að afla öruggrar vitneskju. Hollenski skipstjórinn flutti líkið um borð í frönsku loggortuna Sem Valerfe númer 7, sem hér var áður nefnd, og örfáum dögum síðar sá María Magnúsdóttir, sem þá var smalastúlka í Alviðru, að komin var steinhrúga með trékrossi upp úr í fjörunni undir Miðlendisskeri,[185] yst í landi Alviðru. Töldu menn að þar hefði sjómaðurinn verið dysjaður en þegar nánar var að gáð næsta dag voru steinarnir úr hrúgunni komnir á víð og dreif, enda hafði gert brimrót um nóttina. Líkið fannst því aldrei í annað sinn.

Í vitnaleiðslum sýslumanns kemur sitthvað fróðlegt í ljós um hegðun og spellvirki Frakka í Alviðru þessa sömu júnídaga. Á Leiti ruddust átta skipverjar af Sem Valerfe upp á baðstofuloft síðla nætur aðfaranótt 12. júní og höfðu barist við Bjarna Þorlaugarson daginn áður. Líklega hefur ölvíman ekki verið runnin af þeim er þeir héldu í land. Enginn karlmaður var heima á Leiti er flokkur þessi gekk þar í hlað og kvenfólkið í fasta svefni, – María Oddsdóttir húsfreyja og vinnukonur hennar tvær en sú fjórða var unglingsstúlka.[186] Í dómabók sýslumanns verður reyndar ekki annað séð en hinir drukknu sjómenn hafi hegðað sér nokkurn veginn skikkanlega í baðstofunni á Leiti því María húsfreyja kvartaði ekki við sýslumann yfir öðru en því að einn úr hópnum hefði stolið nýjum nærbuxum bónda hennar sem legið höfðu á tunnu í bæjardyrunum.[187]

Guðmundur Gíslason, sem hér var áður nefndur, hefur líklega haft andvara á sér þessa nótt því skömmu eftir að Fransmennirnir röskuðu næturró kvennanna á Leiti hraðaði hann sér þangað upp eftir. Er Guðmundur kom að Leiti voru sumir Frakkarnir komnir út og báðu nú Guðmund að útvega sér kaffi en aðrir voru enn inni í baðstofu.[188] Dálitlu síðar var kallað til Guðmundar að Frakkar væru að eltast við lambærnar niðri á bökkum og hljóp hann þá þangað ofan eftir. Fyrir réttinum kvaðst hann hafa komið þar að sem Frakkar leiddu lambá eftir fjörunni og kölluðu ákaft á jullu sína en lambið lá blátt og sprengt nokkru fjær.[189] Að sögn Guðmundar tókst honum að fá óróaseggina til að sleppa ánni en ullina höfðu þeir tætt af henni og lengi var skepnan bjöguð eftir þessa illu hremmingu.[190]

Næstu nótt lét mun fjölmennari hópur Fransmanna til sín taka í Alviðru og olli þar ýmsum skemmdum. Sakkarías Jensson, sem hér var áður nefndur, virðist þá hafa verið kominn heim og við vitnaleiðslur um haustið skýrði hann frá á þess leið:

 

Nóttina eftir, hér um bil um miðnætti, þá allt fólk var í svefni vaknaði fólk hér við að verið var að ríða húsum og brjóta inn glugga á baðstofunni með hávaða miklum. Voru þá komnir 17 af Frökkum heim að Alviðrubænum er munu hafa verið af öllum þeim þremur loggortum er lágu hér á læginu. Þeir riðu sem sagt húsunum og börðu utan, sprengdu úr glerglugga tvo á einni baðstofunni, rifu lítið eitt af þili frá hlöðu er stendur í bæjarþorpinu, slitu upp fjós er var lokað með tveimur hurðum, þar sem gripir voru inni, án þess þó að gera þeim neitt mein, brutu eikarsneril frá annarri baðstofu, reyndu til að troða sér inn um glugga þá er þeir höfðu úr brotið, vallarklárur tvær höfðu þeir tekið er síðan sáust hjá þeim úti á skipi en fengust ei aftur, armar á gluggakörmunum er þeir höfðu rifið úr baðstofunni fundust brotnir niður við sjó. Um sama leyti og þetta skeði eða litlu seinna frétti ég, Sakkarías, að af öðru frönsku fiskiskipi, er var brikkskip, höfðu nokkrir Frakkar um dagtíma tekið á eina niður við sjó hjá bænum Arnarnesi utar í firðinum, sem þó náðist hjá þeim aftur.[191]

 

Ýmislegt fleira kom fram við vitnaleiðslurnar um athæfi Frakka í Alviðru en ekkert af því sem þar er rakið geta talist alvarleg ofbeldisverk ef frá er skilin árásin á Bjarna Þorlaugarson og félaga hans. Engir dómar munu hafa verið kveðnir upp í þessum málum, enda var ekki hægt um vik að ná til sökudólganna og sýna fram á hvað hver einstakur hafði brotið af sér.

Þeir Guðmundur Gíslason og Sakkarías Jensson, stjúpsonur hans, sem hér komu við sögu bjuggu báðir lengi í Alviðru og þóttu gildir bændur. Árið 1845 voru þeir Guðmundur og Sakkarías með félagsbú[192] en sambýlismenn þeirra í Alviðru voru þá Jón Magnússon, sem í manntali frá því ári er sagður vera bóndi og skipasmiður, og Sveinn Sigmundsson[193] sem líklega hefur búið á Leiti því þar var hann sannanlega árið 1850.[194] Í heimild frá árinu 1847 má sjá að Alviðrubændur áttu þá nokkurn hluta í jörðinni[195] og líklega hefur Guðmundur Gíslason átt allan jarðarpartinn sem hann bjó á því árið 1835 er hann sagður vera sjálfseignarbóndi.[196]

Einn bændanna sem lengi bjuggu í Alviðru á 19. öld var nýnefndur Jón Magnússon sagður 38 ára bóndi, sjósóknari og skipasmiður í manntalinu frá 1845. Hann var fæddur á Ingjaldssandi en faðir hans, Magnús Jónsson, hóf búskap hér í Alviðru vorið 1821 og tók Jón hér við búi af föður sínum árið 1830. Kona Jóns var Borgný Guðmundsdóttir, dóttir Borgnýjar Jónsdóttur og Guðmundar Hákonarsonar, síðast bónda á Brekku á Ingjaldssandi, en hann var formaður á einum bátanna úr Önundarfirði sem fórust með allri áhöfn í mannskaðaveðrinu mikla, 6. maí 1812 (sjá hér Brekka á Ingjaldssandi og Mosvallahreppur, inngangskafli). Þrír synir Jóns Magnússonar í Alviðru og Borgnýjar konu hans drukknuðu á árunum 1860-1865, þeir Guðmundur og Jón er bátur þeirra sökk á Alviðrubót 25. maí 1861 og sjö menn fórust en þriðji bróðirinn, Jónas Jónsson frá Alviðru, drukknaði er þilskipið “Pröven” frá Ísafirði fórst vorið 1865 og var hann skipstjóri á þeirri skútu.[197]

Niðjar Jóns Magnússonar og Borgnýjar Guðmundsdóttur hafa búið í Alviðru allt til þessa dags og þráðurinn óslitinn frá því faðir Jóns hóf hér búskap árið 1821. Ættliðirnir sem hér um ræðir eru sex því sonardóttir Jóns og Borgnýjar var amma Jónu Kristjánsdóttur sem nú (1999) er húsfreyja í Alviðru.

Bændur sem bjuggu í Alviðru á 19. öld skiptu allmörgum tugum og íbúar þar frá upphafi til loka aldarinnar skiptu hundruðum. Allt átti þetta fólk sína sögu þó fátt sé um það að finna í varðveittum heimildum. Sjósókn hafa menn stundað af kappi frá Alviðru bæði fyrr og síðar og ýmsir kunnir skútuskipstjórar bjuggu þar eða áttu þar rætur. Nefna má Jón Gíslason sem átti heima í Alviðru árið 1840 en bjó síðar á Lækjarósi (sjá hér Lækjarós). Hann varð fyrstur allra manna í Dýrafirði til að hefja þilskipaútgerð eins og hér hefur áður verið frá sagt. Guðmundur Sigurðsson, skipherra á Mýrum, sem lengi var einn virtasti skipstjóri í Dýrafirði, ólst upp í Alviðru og var stjúpsonur Sakkaríasar Jenssonar (sjá hér Mýrar) sem gerði sýslumanni grein fyrir áreitni Frakka við Alviðrufólk sumarið 1856. Þá hefur Guðmundur verið 22ja ára gamall og líklega verið í veri út á Skaga. Fjórum árum síðar var hann orðinn skipstjóri og átti þá enn heima í Alviðru (sjá hér Mýrar).

Í sóknarmannatölum frá árunum 1872-1877 er Guðmundur Gunnarsson í Alviðru jafnan titlaður skipherra[198] en hann átti lengi heima í Alviðru og hefur á þessum árum verið skipstjóri á þilskipi, líklega frá Þingeyri, Flateyri eða Ísafirði. Guðmundur var fæddur á Fjallaskaga árið 1838 en bjó mjög lengi á Hrygg í Alviðru. Nafnið Hryggur sést ekki í eldri heimildum svo vera kann að Guðmundur hafi gefið býli sínu þetta nafn. Bær þessi stóð yst og efst í Alviðrutúninu, rétt hjá gamla fjósinu sem enn stendur þar uppi.[199] Guðmundur Gunnarsson á Hrygg var stýrimaður hjá Gísla Kristjánssyni frá Lokinhömrum á skútunni Hildu Maríu sumarið 1896.[200] Einn af sonum Guðmundar hét Ágúst. Hann lærði sjómannafærði í Danmörku og bjó lengi á Hrygg eftir föður sinn.[201] Ágúst á Hrygg var í mörg á skipstjóri á skútum Ásgeirsverslunar á Ísafirði, lengst á stórri skonnortu sem Lovísa hét.[202] Einnig var hann skipstjóri á öðrum skipum.[203] Hann hét fullu nafni Guðmundur Ágúst Guðmundsson og dó í Alviðru haustið 1948.

Flestir formenn og skipstjórar sem í Alviðru bjuggu voru jafnframt bændur þó jarðnæðið væri oft lítið. Prestarnir tveir, sem áttu heima í Alviðru á 17. öld og hér var áður frá sagt, hafa vafalaust einnig stundað búskap með embættisstörfunum en minna var um það hjá prestunum sem áttu heima í Alviðru á síðari hluta 19. aldar. Er séra Árni Loftsson fluttist frá Alviðru árið 1671 varð þess langt að bíða að prestur settist þar að á ný. Þó kom þar 193 árum síðar að nýr guðsmaður flytti sitt hafurtask inn í bæjarhúsin á Leiti og settist þar að. Prestur sá hét Ólafur Ólafsson og var kominn hátt á sextugsaldur er hann fékk veitingu fyrir Dýrafjarðarþingum 2. apríl 1864.[204] Séra Ólafur var Norðlendingur og staldraði aðeins við í Dýrafirði í þrjú ár. Sighvatur Borgfirðingur segir að hann hafi búið í eitt ár á Leiti en síðan hafst við í Alviðru, jarðnæðislaus, í tvö ár.[205]

Séra Ólafur Ólafsson mun hafa verið skáldmæltur, enda voru þeir systrasynir, hann og sjálfur Bólu-Hjálmar, skáldið góða.[206] Ólafur prestur mun ekki hafa verið við eina fjöl felldur. Hann var um skeið sýsluskrifari í Skagafirði en þjónaði þar líka ýmsum prestaköllum, bæði fyrir og eftir Dýrafjarðardvölina.[207] Einnig var hann oft í málarekstri fyrir kunningja sína og þótti kunna nokkuð fyrir sér í lögum.[208] Um séra Ólaf þennan segir Páll Eggert Ólason í Íslenskum æviskrám að hann hafi verið gáfumaður, vel að sér, kennimaður og raddmaður góður, skáldmæltur, mesti greiðamaður en hviklyndur og nokkuð drykkfelldur.[209] Líklega hefur séra Ólafur verið öll þrjú ár sín í Dýrafirði á Leiti. Hann sneri aftur norður vorið 1867 og næsta ár var prestlaust í Dýrafjarðarþingum.

Í febrúarmánuði árið 1868 var séra Jóni Eyjólfssyni veitt brauðið.[210] Hann fluttist til Dýrafjarðar vorið 1868 og settist að á Leiti í Alviðru.[211] Séra Jón Eyjólfsson var 54 ára gamall er hann settist að á Leiti ásamt konu sinni, Sigríði Oddsdóttur frá Atlastöðum í Fljótavík. Hann átti þá skammt eftir ólifað og andaðist á Leiti 3. júlí 1869.[212] Séra Jón Eyjólfsson var dóttursonur skáldprestsins séra Jóns Þorlákssonar á Bægisá í Eyjafirði[213] sem reyndar var Vestfirðingur að ætt og uppruna. Jón Eyjólfsson var lengst prestur á Stað í Aðalvík. Ein dóttir hans, Verónika að nafni, ílentist í Dýrafirði og giftist Ólafi Zakaríassyni í Ytrihúsum hjá Núpi. Sonur þeirra var Rögnvaldur Á. Ólafsson húsameistari, fyrsti íslenski arkitektinn (sjá hér Núpur, Ytrihús þar). Næsti prestur í Dýrafjarðarþingum var séra Jón Jónsson, sem fæddur var árið 1829. Hann vígðist 21. ágúst 1870 og fluttist vestur þá um haustið. Séra Jón Jónsson og Sigríður Snorradóttir, kona hans, áttu heima í Alviðru sinn fyrsta vetur í Dýrafirði og höfðust þar við í húsmennsku.[214] Vorið 1871 hófu þau búskap á Gerðhömrum og fluttust þangað. Frá séra Jóni, sem þjónaði Dýrafjarðarþingum í 14 ár, verður nánar sagt er farið verður um hlað á Gerðhömrum (sjá hér Gerðhamrar).

Á árunum kringum 1890 tók fólki að fjölga í Alviðru eins og víðar í Mýrahreppi. Árið 1885 voru þar bara fjögur heimili en 1890 voru þau orðin sex, þar af tvö á Leiti.[215] Annar húsbóndinn á Leiti árið 1890 er sagður vera sjómaður.[216] Árið 1895 voru heimilin orðin sjö, það er fjögur býli á heimajörðinni og eitt á Leiti og svo tvær þurrabúðir.[217] Á sóknarmannatali frá 31.12.1896 sést að þurrabúðirnar hétu Stöðlar og Nýbær. Þá voru tvær fjölskyldur á Stöðlum og ein í Nýbæ.[218] Nýbær mun hafa verið rétt hjá Leiti því prestur skrifar Nýbær við Leiti[219] en Stöðlar voru nær beint upp af bænum á Leiti, efst í túninu[220] og sér þar enn til tótta. Á árunum 1896-1900 voru jafnan tvær fjölskyldur á Stöðlum og ein í Nýbæ, nema hvað fólkið sem bjó í Nýbæ bæði 1898 og 1900 er árið 1899 sagt eiga heima á Brekku við Leiti og þá er Nýbær ekki nefndur.[221] Líklegt er að Nýbær og Brekka hafi verið eitt og sama kotið. Í sóknarmannatölum er nafnið Nýbær aldrei nefnt eftir 1900 en á Brekku við Leiti var búið næstu ár.[222] Valdimar Kristinsson á Núpi, sem fæddur er árið 1904, segir að bæði Stöðlar og Brekka hafi verið efst í túninu og Brekka hafi verið um það bil 200 metrum fyrir innan Stöðla.[223] Á Brekku við Leiti bjuggu síðast Guðbjörn Björnsson og hans fjölskylda[224] en þau fluttust þaðan að Læk árið 1910.[225] Síðar var hús sem nefnt var Brekka byggt innan við landamerki Alviðru og Núps, – beint út af Haukabergi,[226] en þessum tveimur Brekkum má ekki rugla saman.

Þann 1. nóvember 1901 voru níu heimili í Alviðru.[227] Í manntalinu sem þá var tekið eru sex þessara heimila bara sögð vera í Alviðru, án þess neitt annað nafn fylgi, en svo bætast við eitt heimili á Leiti, annað á Stöðlum og hið þriðja á Brekku.[228] Sex húsbændanna sem heima áttu í Alviðru á fyrsta ári tuttugustu aldar eru sagðir vera bændur en tekið fram að jafnframt stundi þeir sjó, allir nema einn sem var bóndi og söðlasmiður. Tveir heimilisfeður, sem ekki voru bændur, eru í manntalinu sagðir vera sjómenn og sá þriðji kallaður húsmaður.[229] Samtals taldist heimilisfólk í Alviðru vera 38 þann 1. nóvember 1901[230] en til samanburðar má geta þess að árið 1845 voru íbúarnir 39 og árið 1801 voru þeir 34.[231] Þá voru heimilin færri en fjölmennari. Um byggð í Alviðru á tuttugustu öld vísast til bókarinnar Firðir og fólk 1900-1999 en þó skal tekið fram að á Stöðlum var búið til ársins 1916 en eins og áður var getið fór Brekka í eyði árið 1910.

Guðmundur G. Hagalín rithöfundur var nemandi í Núpsskóla veturinn 1913-1914 og kynntist þá fólkinu sem var síðustu íbúarnir á Stöðlum, hjónunum Jóhannesi Jónssyni og Bjarneyju Þorleifsdóttur, sem hann reyndar kallar Friðriksdóttur, en þau voru þá búsett þar. Hann segir um Bjarneyju að hún hafi verið kattþrifin … sérlega umtalsfróm og að öllu hin vandaðasta manneskja.[232] Um Jóhannes, eiginmann Bjarneyjar, ritar Hagalín svo:

 

Jóhannes var lágur vexti og grannur en harðfrískur og með afbrigðum snar. Hann var fljótlátur nokkuð og funabráður en góðlátlegur og greiðvikinn og oftast glaður og hress í bragði. Hann skorti framtak og forsjá á við konu sína og leit mjög upp til hennar. Hann vitnaði oft til hennar í frásögnum sínum og orðræðum og ég heyrði hann segja: „Tala þú Bjarney! Þú kannt það.” – Bjarney sagði og eitt sinn þá er maður spurði hana um aldur Jóhannesar: „Hann er sjötíu og þriggja ára eftir því sem mér var sagður hann þegar ég tók við honum.” [233]

 

Um síðustu samfundi þeirra Jóhannesar Jónssonar ritar Guðmundur G. Hagalín á þessa leið:

 

Þau hjón urðu bæði gömul, Jóhannes lifði konu sína og hitti ég hann seinast blindan. En fjörið var ekki farið. Hann stóð á þúfu úti á túni og hoppaði í loft upp þegar ég var tekinn að ræða við hann og minna hann á sitthvað frá fyrri árum. Hann sté niður í laut og valt um koll en spratt upp eins og stálfjöður. – „Þar valt veislugaltinn”, sagði hann og skellihló.[234]

 

Þau hjónin, Bjarney og Jóhannes á Stöðlum, höfðu áður búið á Birnustöðum, utar á fjarðarströndinni og verður eitthvað fleira frá þeim sagt er þangað kemur (sjá hér Birnustaðir). Seinni áttu þau heima á Rana í Núpsþorpi og loks í Ytrihúsum en þar var Jóhannes enn á lífi 1942, sagður 87 ára.[235]

Jóhannes Davíðsson, sem fæddur var árið 1893 og átti lengst heima í Neðri-Hjarðardal í Dýrafirði, segir að fyrir og eftir aldamótin 1900 hafi verið tveir húsmennskubæir í túninu í Alviðru og hafi þeir sem þar bjuggu átt kindur en lifað mest á sjávargagni.[236] Að sögn Jóhannesar var annar þessara kofa kallaður [237] en ekki sést það nafn í manntölum eða sóknarmannatölum frá 19. öld. Frá hjónum sem um skeið áttu heima í Ró og aðstæðum þeirra þar segir Jóhannes með þessum orðum:

 

Þar bjuggu um tíma Jón Jónsson, kallaður smali, og kona hans Halldóra Björnsdóttir, systir Guðmundar Björnssonar er fór til Vesturheims um 1890 frá stórbúi á Núpi. Sagt var að kofinn hefði verið svo þröngur og lágreistur að Jón hefði orðið að fara ofan af loftinu á meðan Halldóra bjó um rúm þeirra hjóna og niður í stiga á morgnana til að geta klætt sig. Jón var þó lítill vexti og grannur.[238]

 

Í sóknarmannatölum má sjá að hjón þessi hafa átt heima í Alviðru og á Leiti í fimm ár, 1892-1897.[239] Í lok ársins 1892 er Jón sagður vera 50 ára en Halldóra 61 árs.[240] Síðasta árið þeirra í Alviðru áttu þau heima í Nýbæ við Leiti[241] en kynnu áður að hafa búið í . Sagt er að kofinn með því nafni hafi staðið rétt fyrir innan og neðan núverandi íbúðarhús í Alviðru.[242]

Valdimar Kristinsson á Núpi segir að enn eitt þurrabúðarkot í Alviðru hafi heitið Skemma og þar hafi hjónin Bjarni Jónsson og Sólveig Zakaríasdóttir átt heima á árunum milli 1910 og 1920.[243] Hús þeirra var með timburgafli en torfþaki.[244] Jarðfastur steinn var þar innandyra sem ekki hafði náðst að fjarlægja þegar húsið var byggt.[245] Bjarg þetta olli þó engum umtalsverðum baga.[246]

Nú eru gömlu kotin í Alviðru fyrir löngu horfin en enn er búskapur stundaður þar og búið myndarlega á nútímavísu. Við lítum einu sinni enn yfir sviðið en röltum síðan af stað niður í fjöru til að líta á gamla lendingarstaðinn við Alviðrusjó.

Lendingarstaðurinn er 300-500 metrum fyrir utan Kaldalæk sem skilur að lönd Núps og Alviðru. Ætla má að héðan hafi Alviðrumenn sótt sjó allt frá dögum Þórðar Víkingssonar. Á vorvertíð reru þeir eins og aðrir hér um slóðir frá Skaga en á sumrin og haustin var róið úr heimavör[247] og stundum skotist á sjó að vetrarlagi ef að líkum lætur.

Í sóknarlýsingunni frá 1840 segir að auk heimamanna noti Núpsþorpsbúendur lendinguna hér við Alviðrusjó til uppsáturs[248] en um aldamótin 1900 og á fyrstu áratugum tuttugustu aldar munu Núpsmenn hafa verið með báta sína innan við Kaldalæk (sjá hér Núpur). Árið 1927 fór Valdimar Kristinsson á Núpi að gera út vélbát, fyrstur manna við norðanverðan Dýrafjörð, og  samdi þá við Alviðrubændur um uppsátur fyrir bátinn hér við Alviðrusjó (sjá hér Núpur). Á árunum 1938-1940 var byggð hér bryggja[249] og stendur hún enn þó illa löskuð sé, rétt utan við gömlu lendinguna. Á árunum milli 1940 og 1950 var hér svolítil vélbátaútgerð. Þeir Valdimar Kristinsson á Núpi og Hallmundur Jónsson í Meira-Garði voru þá báðir formenn á vélbátum og lágu við ásamt skipshöfnum sínum í verbúðum sem stóðu utan við bryggjuna.[250] Alviðrumenn stunduðu þá líka sjósókn héðan og fiskurinn sem á land barst var verkaður að þeirrar tíðar hætti hér á athafnasvæðinu við Alviðrusjó.[251] Fimm eða sex tóttir eru nú sjáanlegar hér utan við bryggjuna og munu vera af verbúðum og beitarhúsum. Innan við bryggjuna stendur Fjalar, bátur Valdimars á Núpi, og þar er líka rúst af gömlu sjóhúsi.

Héðan úr fjörunni tökum við stefnuna út að Gerðhömrum sem eru næsti bær. Rétt utan við gamla túnið í Alviðru rennur Haukslækur en í honum sameinast lækir sem koma ofan af Litladal er hér var áður nefndur (sjá hér bls. 6). Við stiklum yfir Haukslæk og horfum skamma stund til fjalls. Þarna er Litlidalur og liggur nokkuð hátt. Í mynni hans er Álfhóll en fjallið fyrir botni dalsins heitir Illafjall.[252]

Spölurinn frá Alviðru út að Miðlendislæk, þar sem landamerkin eru, er um það bil tveir kílómetrar og liðlega einn kílómetri þaðan að Gerðhömrum. Á allri þessari leið er dálítið undirlendi á grónum sjávarbökkum og liggur þjóðvegurinn um bakkana. Alviðrufjall nær frá Litladal út að landamerkjunum en þar tekur við Gerðhamrahorn.[253] Fjallsbrúnin sem við horfum til á leið okkar milli bæjanna er í um það bil 700 metra hæð. Innst er Alviðrufjallið klettalaust að kalla en þegar utar dregur tekur við klettabrún með ókleifum hamraveggjum. Í fjallshlíðinni utan við Alviðru eru tvö gil. Innra gilið heitir Stekkagil en það ytra Torfhvammsgil.[254] Skammt utan við Alviðru er Kattalágarholt og nær alveg niður að sjó en í lægðinni utan við það sér enn móta fyrir hringmynduðum torfgarði á einum stað og inni í honum miðjum er svolítil hæð. Við lagningu þjóðvegarins hefur neðsti hluti garðsins verið rofinn og liggur vegurinn yfir hann. Garður þessi ber nafnið Þrælagerði[255] en enginn veit nú um uppruna þess. Gerðið sýnist vera 60-70 metrar í þvermál og sumir nefna að þarna hafi ef til vill verið kornakur.[256]

Séra Jón Sigurðsson minnist á gerði þetta í sóknarlýsingu sinni frá árinu 1840 og segir vera alþýðutrú að menn á fyrri öldum hafi gefið þrælum sínum, sem verðlaun fyrir trúa þjónustu eða annað sem þeim líkaði betur, svo mikið land sem þeir eða sá þeirra sem verðlaunin hlaut gæti umgirt á einum degi.[257] Niður af Þrælagerði er Þaravíkurnes við sjóinn og utan við það Þaravík.[258] Fyrir utan Þaravík blasa við sjávarklettar sem ganga nokkuð langt fram. Klettar þessir heita Stapar og í þeim verpir svartbakur.[259] Skammt utan við Stapa er Alviðrubarð en fyrir það er ófært um flæði.[260] Frá barðinu er skammt að Hlaðsnesi sem gengur í sjó fram rétt innan við Miðlendislæk. Þar stóð samnefnt kotbýli um skeið, hjáleiga frá Alviðru, en mun hafa farið í eyði fyrir 1600 (sjá hér bls. 17). Ólafur Olavius, sem ferðaðist um Vestfirði sumarið 1775 og rannsakaði margt, segir að býli þetta hafi heitið Hlaðsnes eða Hlaðsmór og fullyrðir að það hafi eyðst af vatnagangi og skriðuhlaupum.[261] Máske hefur það líka verið hér sem tveir fjármenn úr Alviðru fórust 26. janúar 1628  og með þeim eitt hundrað fjár. Um þann atburð er getið í Sjávarborgarannál og fréttin talin komin frá séra Sveini Símonarsyni sem þá var prestur í Holti í Önundarfirði.[262] Í annálnum er ekki sagt með hvaða hætti mennirnir fórust en nær fullvíst má telja að á þá hafi fallið snjóflóð.

Utan við Hlaðsnes er sérkennilegur gatklettur framan í sjávarbökkunum og heitir Rolluskúti[263] og þarna er Miðlendissker fram af lækjarósnum og minnir á franska sjómanninn sem hér rak dauðan á land sumarið 1856 (sjá hér bls. 20-21). Lækirnir í fjallshlíðinni hér fyrir ofan heita Stórulækir og sameinast allir að lokum í Miðlendislæk sem sprettur fram úr miðri fjallshlíð[264] og rennur á landamerkjum jarðanna frá því hann kemur úr svörtu bergi og þar til hann fer í sjó.[265] Við stiklum yfir lækinn og stöndum í landi Gerðhamra.

 

 

[1] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII, 55-93.

[2] Íslensk fornrit I, 180.

[3] Sama heimild, bls. 209 og 397.

[4] Sama heimild, bls. 181.

[5] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 82 og Örnefnaskrskrá.

[6] D.I. II, 360.

[7] Örn.skrá.

[8] Ísl. fornrit I, 180 og 182.

[9] Ísl. fornrit V, 4.

[10] Ísl. fornrit I, 180-183.

[11] Sama heimild.

[12] Ísl. fornrit V, 17, 18, 20, 21, 67.

[13] Sama heimild, 17.

[14] Sama heimild, 17-19.

[15] Sama heimild, 20-21.

[16] Sama heimild, 50-54.

[17] Sama heimild.

[18] Ísl. fornrit V, 67-68.

[19] Sama heimild.

[20] Ísl. fornrit I, 181-183.

[21] Ísl. fornrit XXIX, 131-133 og Jómsvíkingasaga (1969) bls. 180, 191 og 205.

[22] Ísl. fornrit I, 182.

[23] Kulturhistorisk Leksikon for nordisk Middelalder, dálkur 607.

[24] Ísl. fornrit XXIX, 133.

[25] Ísl. fornrit XXVI, bls. LXXIX, 142 og 163-164.

[26] Sóknalýs. Vestfj. II, 77.

[27] Sóknalýs. Vestfj. II, 77.

[28] Sama heimild, 78-79.

[29] Örn.skrá.

[30] Sóknarm.tal Dýrafj.þinga 1786.

[31] Örn.skrá.

[32] Sama heimild.

[33] Sóknalýs. Vestfj. II, 76.

[34] Jarðabók Á. og P. VII, 78-80 og Manntal 1703.

[35] Örn.skrá.

[36] Sóknalýs. Vestfj. II, 77.

[37] Sama heimild.

[38] Jarðabók Á. og P. VII, 79-80.

[39] Sama heimild.

[40] Sóknalýs. Vestfj. II, 77.

[41] Sama heimild.

[42] Sama heimild.

[43] Ísl. fornrit V, XLII.

[44] Sturl. II, 276-278.

[45] Sama heimild.

[46] Sama heimild.

[47] Sama heimild.

[48] Sama heimild.

[49] Sama heimild.

[50] Sama heimild, 279-280.

[51] Sama heimild, 280-285.

[52] Sama heimild.

[53] Sama heimild, 276.

[54] Sama heimild, 408.

[55] Sturl. II, 397-408.

[56] Sturl. III, 1-2 og II, 408.

[57] Sama heimild., 408.

[58] Sama heimild.

[59] Brockhaus Enzyklopädie 1970, 10. bindi, bls. 639-640.

[60] D.I. II, 786-787.

[61] D.I. XII, 13-14.

[62] D.I. II, 786-787.

[63] Sama heimild.

[64] Sama heimild.

[65] Sama heimild.

[66] Sama heimild.

[67] Sama heimild.

[68] Sama heimild.

[69] D.I. IV, 688.

[70] Sama heimild, 683-688.

[71] D.I. III, 670, VII, 81, XI, 559-560 og XV, 110-111.

[72] D.I. VII, 81 og Jarðabók Á. og P. VII, 84.

[73] Jarðabók Á. og P. VII, 78.

[74] D.I. III, 670.

[75] Sama heimild.

[76] D.I. VII, 81.

[77] D.I. XI, 559-560.

[78] D.I. XV, 110-111.

[79] D.I. XV, 575.

[80] D.I. XIV, 610-611 og XV, 523.

[81] Bps. A.II, 6-10.Vísitazíubækur Brynjólfs biskups Sveinssonar frá árunum 1639-1672.

[82] Annálar III, 72.

[83] Jarðabók Á. og P. VII, 78.

[84] Valdimar Kristinsson, Núpi. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992. Jóna B. Kristjánsdóttir, Alviðru. – Viðtal K.Ó.

við hana 8.7.1992.

[85] Valdimar Kristinsson, Núpi. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[86] Sama heimild.

[87] D.I. IV, 688.

[88] D.I. V, 501-502 og XII, 46-53.

[89] Ísl. æviskrár I, 340-341.

[90] D.I. VII, 286 og Arnór Sigurjónsson 1975, 183-184.

[91] D.I. IX, 243-244.

[92] Sama heimild.

[93] D.I. IX, 704-705.

[94] D.I. IX, 124-125.

[95] Sama heimild.

[96] D.I. X, 347-348.

[97] D.I. XI, 257.

[98] Páll E. Ól., Menn og menntir II, 451.

[99] D.I. XIV, 610-611.

[100] D.I. XV, 474.

[101] D.I. XV, 523.

[102] Jarðabók Á. og P. VII, 79.

[103] Ísl. æviskrár III, 432 og V, 28, – sbr. Alþ.bækur Íslands VIII, 516-517.

[104] Alþ.bækur Íslands VIII, 516-517 og IX, 71, – sbr. Ísl. æviskrár III, 294, 443 og 432.

[105] Alþ.bækur Íslands VIII, 516-517 og IX, 71.

[106] Alþ.bækur Íslands VIII, 516-517.

[107] Ísl. æviskrár III, 294.

[108] Ísl. æviskrár III, 294.

[109] Ísl. æviskrár V, 25 og III, 41-42.

[110] Alþ.bækur Íslands IX, 172 og 199, sbr. einnig VIII, 445-447.

[111] Ísl. æviskrár III, 294.

[112] Sama heimild.

[113] Annálar III, 380.

[114] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681, jarðaskrá og búenda i Skálholtsbiskupsdæmi.

[115] Sama heimild.

[116] Ísl. æviskrár I, 157.

[117] Sama heimild og Lbs. 23684to, XI,bls. 348-350 (Prestaæfir S.Gr.B.).

[118] Íslenskar æviskrár I, 157.

[119] Sama heimild.

[120] Jón Halldórsson / Biskupasögur I, 388. Ísl. æviskrár III, 44-45.

[121] Sóknalýs. Vestfj. II, 76-77.

[122] Sóknalýs. Vestfj. II, 76-77.

[123] Ísl. æviskrár III, 44-45.

[124] Sama heimild.

[125] Annálar III, 145.

[126] Annálar III, 275.

[127] Jarðabók Á. og P. VII, 78-80.

[128] Sama heimild.

[129] Ísl. æviskrár II, 273.

[130] Sama heimild.

[131] Sama heimild.

[132] Alþ.bækur Íslands X, 196.

[133] Sýslum.æfir I, 511 og II, 73.

[134] Alþ.bækur Íslands XIII, 66-67.

[135] Manntal 1762.

[136] Alþ.bækur Íslands XVI, 316.

[137] Jarðabók Á. og P. VII, 78-80.

[138] Sama heimild.

[139] Sama heimild.

[140] Sama heimild.

[141] J. Johnsen 1847, 194.

[142] Jarðabók Á. og P. VII, 78-80.

[143] Jarðabók Á. og P. VII, 78-80.

[144] Sama heimild.

[145] Sóknalýs. Vestfj. II, 77.

[146] Örn.skrá.

[147] Helgi Árnason, Alviðru. – Viðtal K.Ó. við hann 8.7.1992.

[148] Sama heimild.

[149] Jarðabók Á. og P. VII, 80.

[150] Sama heimild.

[151] Sama heimild og Sóknalýs. Vestfj. II, 77.

[152] Jarðabók Á. og P. VII, 80.

[153] Sóknalýs. Vestfj. II, 77.

[154] Sama heimild.

[155] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681. Manntöl og bændatöl frá 18. og 19. öld. Sóknarm.töl Dýrafj.þ. og Manntal 1901.

[156] Manntal 1835.

[157] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga 1787, 1788 og 1792. Manntal 1901.

[158] Manntal 1703.

[159] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[160] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga 1790-1803. Manntal 1801.

[161] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga 1870-1901. Manntöl 1835, 1840, 1845, 1850,1855 og 1860.

[162] Manntöl 1835 og 1840.

[163] K.Ó. 1986, 156  (Saga, tímarit).

[164] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV, 12. Dóma- og þingbók 1854-1859, bls. 91-96.

[165] Sama heimild.

[166] Sama heimild.

[167] Sama heimild.

[168] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV,12.  Dóma- og þingbók 1854-1859, bls. 91-96.

[169] Sama heimild.

[170] Jón Helgason 1984, 78 og Manntal 1845, vesturamt bls. 277.

[171] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV,12.  Dóma- og þingbók 1854-1859, bls. 91-96.

[172] Sama heimild.

[173] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV, 12.  Dóma- og þingbók 1854-1859, bls. 91-96.

[174] Sama heimild, bls. 94 og 97.

[175] Vestf. sagnir II, 210-220.

[176] Þjóðólfur 14. ágúst 1856.

[177] Lbs. 25904to, bréf Jens Sigurðssonar 13.8.1856 til Jóns Sigurðssonar forseta.

[178] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV, 12. Dóma- og þingbók 1854-1859, bls. 94 og 96-99.

[179] Vestf. sagnir II, 211.

[180] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV, 12.  Dóma- og þingbók 1854-1859, bls. 91-96 og Jón Helgason 1984, 54-78.

[181] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV, 12.  Dóma- og þingbók 1854-1859, bls. 96-101.

[182] Sama heimild.

[183] Sama heimild.

[184] Sama heimild.

[185] Sama heimild.

[186] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV, 12.  Dóma- og þingbók 1854-1859, bls. 96-101.

[187] Sama heimild.

[188] Sama heimild.

[189] Sama heimild.

[190] Sama heimild.

[191] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. IV, 12.  Dóma- og þingbók 1854-1859, bls. 96-101.

[192] Manntal 1845.

[193] Sama heimild.

[194] Manntal 1850.

[195] J. Johnsen 1847, 194.

[196] Manntal 1835.

[197] Annáll nítjándu aldar III, 126 og 273, sbr. Halldór Kristjánsson 1994, 115-119 (Ársrit S.Í.).

[198] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[199] Jóna B. Kristjánsdóttir, Alviðru. – Viðtal K.Ó. við hana 8.7.1992.

[200] Guðmundur G. Hagalín 1952, 210-211.

[201] G.G. Hag. 1952, 210-211.

[202] Sama heimild, 210-232.

[203] Sama heimild og Skútuöldin V, 117.

[204] Ísl. æviskrár IV, 69-70.

[205] Lbs. 23684to XI,  bls. 384-385 (Prestaæfir S.Gr.B.).

[206] Ísl. æviskrár IV, 69-70.

[207] Sama heimild.

[208] Ísl. æviskrár IV, 69-70.

[209] Sama heimild.

[210] Ísl. æviskrár III, 109-110.

[211] Sama heimild og Lbs. 23684to XI, bls. 385-393 (Prestaæfir S.Gr.B.).

[212] Sömu heimildir.

[213] Ísl. æviskrár III, 109-110.

[214] Sóknarm.tal Dýrafj.þinga, desember 1870.

[215] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga og Manntal 1890.

[216] Sömu heimildir.

[217] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[218] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[219] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga 1896-1900.

[220] Sigurjón Þóroddsson frá Alviðru. – Viðtal K.Ó. við hann 23.7.1992. Valdimar Kristinsson, Núpi. – Viðtal

K.Ó. við hann 3.7.1992. Sbr. Jóhannes Davíðsson 1968, 54 (Ársrit S.Í.).

[221] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[222] Ísl. æviskrár IV, 69-70.

[223] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[224] Sama heimild.

[225] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[226] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[227] Manntal 1901.

[228] Sama heimild.

[229] Manntal 1901.

[230] Sama heimild.

[231] Manntöl 1801 og 1845.

[232] G.G. Hag. 1952, 205-208.

[233] G.G. Hag. 1952, 207-208.

[234] G.G. Hag. 1952, 207-208.

[235] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[236] Jóh. Dav. 1968, 54 (Ársrit S.Í.).

[237] Sama heimild.

[238] Sama heimild.

[239] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[240] Sama heimild.

[241] Sama heimild.

[242] Jóna B. Kristjánsdóttir, Alviðru. – Viðtal K.Ó. við hana 8.7.1992.

[243] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[244] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[245] Sama heimild.

[246] Sama heimild.

[247] Jarðabók Á. og P. VII, 80.

[248] Sóknalýs. Vestfj. II, 77.

[249] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[250] Sama heimild.

[251] Jóna B. Kristjánsdóttir, Alviðru. – Viðtal K.Ó. við hana 8.7.1992.

[252] Örn.skrá.

[253] Sama heimild.

[254] Örn.skrá.

[255] Sama heimild.

[256] Valdimar Kristinsson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1992.

[257] Sóknalýs. Vestfj. II, 93.

[258] Örn.skrá.

[259] Sama heimild.

[260] Sama heimild.

[261] Ól. Olavius I, 177-178.

[262] Annálar IV, 255.

[263] Örn.skrá.

[264] Örn.skrá.

[265] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »