Efstaból

Efstaból er ein þriggja jarða í eða við mynni Korpudals en hann gengur til austurs upp frá undirlendinu fyrir botni Önundarfjarðar og er nyrstur dalanna er þar setja svip á landslagið. Hinar jarðirnar tvær eru Kroppstaðir og Kirkjuból en allar þessar jarðir standa norðan við ána Korpu sem á upptök sín neðan undir Álftafjarðarheiði og fellur um Korpudal og hið gróðursæla láglendi upp frá innsta hluta Vaðanna við botn fjarðarins. Frá Efstabóli eru liðlega tveir kílómetrar til sjávar, niður að Vöðunum.

Efstaból og Kroppstaðir eru nú í eyði en enn er búið á Kirkjubóli (1994). Af þessum þremur jörðum er Efstaból fremst og liggur svolítið ofar í dalsmynninu en hinar tvær. Mjög stutt var á milli bæjanna, einn kílómetri eða því sem næst frá Efstabóli að Kirkjubóli og Kroppstaðir þar mitt á milli. Allir bæirnir á þessum þremur jörðum stóðu sunnan undir brattri fjallshlíð. Upp frá Efstabóli og Kroppstöðum skerst Kroppstaðaskál inn í hálendisbrúnina. Utan við skálina er Kirkjubólsfjall en framan við hana Kroppstaðafjall. Bæði eru fjöll þessi hömrum girt hið efra og á Kroppstaðafjalli er efsti kollurinn í 754 metra hæð yfir sjávarmáli. Klettahornið sem er framan við Kroppstaðafjall og rís yfir túninu á Efstabóli heitir Skeggi.[1]

Fjallið Hestur, sem hér hefur áður verið kynnt, snýr norðurhlið sinni að Korpudal og blasir við augum frá Efstabóli ef horft er í suðaustur. Korpudalur er um 7 kílómetrar á lengd ef mæld er loftlína frá túninu á Kroppstöðum og upp á brún Álftafjarðarheiðar sem liggur fyrir botni dalsins en um hana lá á fyrri tíð allfjölfarin leið milli Önundarfjarðar og Álftafjarðar. Heimantil á Korpudal er mikið gróðurlendi og þar er dalurinn allbreiður, víða um 300 metrar hlíða á milli, en um það bil þremur kílómetrum fyrir framan Efstaból þrengist hann verulega og verður hrjóstrugri.

Niður úr Kroppstaðaskál, sem hér var áður nefnd, ganga þrjú gil, Ystagil, Stekkjargil og Tvísteinagil.[2] Landamerki milli Efstabóls og Kroppstaða liggja frá tveimur steinum í Tvísteinagili niður í Merkislág við Korpu[3] og eru því mjög skammt fyrir utan Efstabólstúnið. Á móti Hesti er það áin Korpa sem skiptir löndum en sé litið fram dalinn á Efstaból land að Þverá. Vegalengdin frá bæjarhólnum og fram að landamerkjum er um það bil einn kílómetri en framan við Þverá og norðan Korpu á jörðin Kirkjuból í Korpudal allt land.[4] Þeir sem bjuggu á Efstabóli áttu þó rétt til beitar í landi Kirkjubóls fyrir framan Þverá.[5]

Efstaból er gömul bújörð, sögð 12 hundruð að dýrleika í Jarðabókinni frá 1710.[6] Sami dýrleiki er gefinn upp í jarðabókum frá 1805 og 1847[7] en í skrá yfir jarðeignir Guðmundar ríka Arasonar á Reykhólum frá árinu 1446 er Efstaból sagt vera 24 hundruð að dýrleika.[8] Líklegt er því að um miðbik 15. aldar hafi Efstaból átt meira land en það sem nú er innan landamerkja jarðarinnar og þá líklega fram á Korpudal. Allt er samt óljóst um þetta en vert er að hafa í huga að árið 1446 var nágrannajörðin Kroppstaðir virt á 12 hundruð[9] en síðar á 18 hundruð.[10] Dýrleiki Kirkjubóls í Korpudal virðist hins vegar hafa haldist óbreyttur.[11]

Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 segir svo um Efstaból:

 

Skógur hefur hér verið í manna minni brúkanlegur til kolgjörðar, er nú aldeilis eyddur.

Vetrarhart er hér, helst sökum stórviðra. Engjarnar eru af skriðum stórum skemmdar og eyddar að þriðjungi, svo spilla og engjunum lækir sem bera á þær grjót og aur. Snjóflóð hafa hér nokkrum sinnum peningi grandað.[12]

 

Eins og vænta mátti eru það aðeins ókostir jarðarinnar sem þarna eru taldir upp en fróðlegt er að sjá að í landi Efstabóls hefur skógur til kolagerðar enst fram á síðari hluta 17. aldar. Í sóknalýsingunni frá 1840 er tekið fram að þetta sé góð heyskaparjörð[13] og í matsgerð fasteignamatsmanna frá árunum kringum 1920 segir að á Efstabóli séu grasgefnar engjar og túnið í góðri rækt en bæði grýtt og þýft.[14] Í sömu matsgerð er tekið fram að engjarnar séu samfelldir móar út frá túni, hér sé létt sumarbeit en góð hestabeit á vetrum.[15] Eitthvert mótak var þá í landi Efstabóls en þótti í lakara lagi.[16] Um 1920 var talið að á Efstabóli mætti framfleyta 70 sauðkindum, 2 kúm og 2 hrossum.[17] Af túninu fengust þá árlega um það bil 65 hestar af töðu og á engjum mátti fá um 200 hesta af útheyi.[18]

Í byrjun 18. aldar var landskuld af Efstabóli 6 vættir,[19] það er eitt kýrverð eða 120 álnir, en lækkaði um hálfa vætt í stórubólu árið 1707.[20] Í Jarðabókinni frá 1805 er landskuldin hins vegar sögð vera aðeins 30 álnir og átti þá að greiðast með einum tvævetra sauð og 30 pundum af ull.[21] Sauðurinn og ullin voru þá metin á 15 álnir hvort.[22] Árið 1847 var landskuldin komin upp í 60 álnir,[23] sem svaraði til þriggja ærgilda, og um 1920 var hún ein ær, einn gemlingur og átta krónur í peningum[24] en sú greiðsla öll í heild svaraði þá til liðlega tveggja ærgilda.[25]

Árið 1446 fylgdu Efstabóli fjögur innstæðukúgildi[26] en á 17. öld voru kúgildin sem jörðinni fylgdu lengi sex og hálft[27] svo leiguærnar hafa þá verið 39 því 6 ær voru í hverju kúgildi. Um 1680 voru leigukúgildin þó ekki nema fimm og svo var einnig árið 1710.[28] Um miðbik 18. aldar voru þau komin niður í tvö og hálft og sú tala var óbreytt nær 100 árum síðar.[29] Um 1920 fylgdu jörðinni enn 12 leiguær,[30] það er 2 kúgildi. Leigan eftir þessar 12 ær var þá 40 pund af smjöri[31] eins og vera bar samkvæmt hinum fornu lagaákvæðum úr Jónsbók (sjá hér Mosdalur).

Árið 1710 var tvíbýli á Efstabóli og tala búpenings hjá báðum bændunum samanlagt sem hér segir: 5 kýr, 2 aðrir nautgripir, 30 ær, 18 sauðir tvævetra eða eldri, 19 veturgamlir sauðir, 23 lömb og 4 hross.[32] Opinberum tölum um fjölda búfjár er sjálfsagt að taka með nokkrum fyrirvara, einkum  hvað varðar sauðféð sem gera má ráð fyrir að víða hafi verið eitthvað fleira en upp var gefið. Tölur úr búnaðarskýrslum og öðrum opinberum heimildum gefa engu að síður allgóða vísbendingu í þessum efnum.

Árið 1805 var enn tvíbýli á Efstabóli en samkvæmt jarðabók frá því ári var samanlagður bústofn þessara tveggja bænda aðeins 2 kýr og 18 sauðkindur.[33] Árið 1821 var bústofninn þó orðinn enn minni, ef marka má búnaðarskýrslu, því þá var hér þurrabúð, engin kýr, bara 4 ær, 2 lömb og 1 hestur.[34] Einn bóndi bjó þá á jörðinni.[35]

Síðar á 19. öld var líka oftast einbýli á Efstabóli (sjá hér bls. 9-14) og á árunum 1830, 1850 og 1880 voru opinberar tölur um bústofninn þessar: 1830  2 kýr, 2 aðrir nautgripir, 20 ær, 4 sauðir og hrútar tvævetra og eldri 12 gemlingar, 12 lömb og 2 hestar;  1850 3 kýr, 1 kvíga, 20 ær, 8 gemlingar, 20 lömb og 2 hestar;  1880 3 kýr, 33 ær (af þeim voru 3 geldar), 24 gemlingar, 2 hestar og 1 tryppi.[36] Árið 1932 var enn búið á Efstabóli og þá var bústofninn 3 kýr, 80 sauðkindur og 3 hross.[37]

Í varðveittum heimildum er jörðin Efstaból fyrst nefnd á nafn í skránni yfir jarðeignir Guðmundar ríka Arasonar á Reykhólum sem talin er vera frá árinu 1446.[38] Guðmundur átti um 1440 mikinn fjölda jarða á Vestfjörðum, þar á meðal 12 jarðir í Mosvallahreppi og var Efstaból ein þeirra.[39] Mörgum þessara jarða náði Björn Þorleifsson hirðstjóri á Skarði á Skarðsströnd undir sig á árunum kringum 1450 (sjá hér Hestur) og við andlát Björns árið 1467 kom Hestur í Önundarfirði og allar þær jarðir er þar eru inn í firðinum í hlut Solveigar dóttur hans.[40] Ein þeirra var Efstaból. Hér hefur áður verið minnst á Solveigu þessa Björnsdóttur sem um skeið bjó á Hóli í Bolungavík (sjá hér Mosvellir). Talið er að Solveig hafi andast árið 1495[41] en fyrir andlát sitt hafði hún gengið frá erfðaskrá þar sem mælt var fyrir um að Korpudalsjarðirnar þrjár, það er Efstaból, Kroppstaðir og Kirkjuból, skyldu verða eign Kristínar, sem var eitt barna hennar og Jóns Þorlákssonar er hún fyrrum hafði búið með á Hóli í Bolungavík.[42]

Svo virðist sem Kristín hafi þó aldrei fengið að njóta þessara jarðeigna, nema ef vera kynni í mjög skamman tíma, því hinir voldugu frændur hennar neituðu að viðurkenna erfðarétt þessara systkina, barna Solveigar Björnsdóttur og Jóns Þorlákssonar, sem öll voru frilluborin (sjá hér Mosvellir). Af þessum ástæðum taldi Björn jungkæri Þorleifsson á Reykhólum, bróðursonur Solveigar Björnsdóttur, sig geta ráðstafað öllum þeim jörðum sem á dögum Guðmundar ríka Arasonar lágu undir höfuðbólið Núp í Dýrafirði og afhenti þær Andrési, syni Guðmundar ríka, með sérstöku samkomulagi þeirra á milli sem gengið var frá árið 1498 (sjá hér Hestur). Ein þessara jarða var Efstaból því allar jarðir Guðmundar ríka í Önundarfirði höfðu legið undir Núp.[43] Þegar samningur Björns jungkæra og Andrésar Guðmundssonar var dæmdur ógildur árið 1500 fékk Jón danur Björnsson á Rafnseyri allar þessar jarðir til eignar (sjá hér Hestur). en hann var móðurbróðir Kristínar Jónsdóttur sem hér var áður nefnd.

Við andlát Jóns dans árið 1508 náði Björn Guðnason í Ögri þessum jörðum undir sig (sjá hér Hestur) en hann var systursonur Jóns dans og þau Kristín því systrabörn. Um þetta leyti átti Björn í Ögri í harðsnúnum illdeilum við Stefán Jónsson, biskup í Skálholti, og sumarið 1511 kvað biskup upp þann úrskurð að erfðaskrá Solveigar Björnsdóttur skyldi teljast fullgild og Kristín dóttir hennar væri réttur eigandi að Efstabóli, Kroppstöðum og Kirkjubóli.[44] Jörðum þessum fékk hún þó ekki að halda til frambúðar óáreitt því frændi hennar, Björn Guðnason í Ögri sem þá var mestur veraldarhöfðingi á Vestfjörðum, taldi eins og áður var nefnt börn Solveigar og Jóns Þorlákssonar réttlaus til arfs eftir Solveigu. Engu að síður virðist hann hafa séð ástæðu til að gera Kristínu einhverja úrlausn ef marka má vitnisburðarbréf frá árinu 1567 því þar segir að Björn í Ögri hafi látið þessa frænku sína fá Ós, Gil og Hanhól í Bolungavík þegar hann tók af henni Korpudalsjarðirnar þrjár í Önundarfirði.[45]

Sá sem þetta vottaði hét Tómas Jónsson og er vitnisburðarbréf hans ritað á Suðureyri í Súgandafirði. Í bréfinu er m.a. komist svo að orði:

 

Þá heyrði ég bóndann Björn Guðnason því lýsa fyrir oss þar saman komnum [á Núpi í Dýrafirði – innsk. K.Ó.] að Solveig heitin Björnsdóttir hefði gefið dóttur sinni, Kristínu Jónsdóttur, jörðina Kirkjuból, Kroppstaði og Efstaból er liggja í Önundarfirði og því afgreiði hann henni þar Ós, Gil og Hanhól þar í genn til umbýtta því Björn þóttist það þá vel mega gjöra því hann hélt sig þá erfingja eftir Solveigu Björnsdóttur en þó vildi hann þessa gjöf Solveigar í öngvan máta rjúfa svo Kristín hefði ekki sinnar móður gjöf því hún skyldi snemma hafa gefið þessar fyrrgreindar jarðir Kristínu dóttur sinni en Björn hafði fengið þá Þorleifi Örnólfssyni þráttskrifaðar jarðir og því sagðist hann setja henni hinar í genn og beiði hana ekki að rjúfa þennan gerning við bóndann Þorleif á meðan hún haldi því sem hann setti henni í genn.[46]

 

Í vitnisburðarbréfinu sést ekki hvenær Björn Guðnason tók Korpudalsjarðirnar í sínar hendur en minnt skal á að hann andaðist árið 1518.[47] Jarðirnar þrjár, sem Björn tók af Kristínu Jónsdóttur, voru 60 hundruð að dýrleika, allar til samans,[48] og höfðu reyndar verið virtar á 66 hundruð árið 1446.[49] Dýrleiki jarðanna þriggja í Bolungavík sem hún fékk í staðinn var hins vegar ekki nema 48 hundruð[50] svo ekki voru þetta jöfn skipti.

Þorleifur Örnólfsson, sem Björn Guðnason lét hafa Efstaból, Kroppstaði og Kirkjuból í Korpudal, er eflaust lögréttumaðurinn með því nafni sem bjó á Eyri í Seyðisfirði við Djúp.[51] Hann var jafnan framarlega í flokki liðsmanna héraðshöfðingjans í Ögri og að Birni látnum sendi ekkja Björns Þorleif á konungsfund vegna átaka um jarðeignir sem Björn hafði átt.[52] Í vitnisburðarbréfi frá 23. apríl 1534 kveðst Þorleifur hafa verið búsettur við Ísafjarðardjúp í 44 vetur[53] svo útilokað má heita að hann hafi búið á jörðum þeim í Önundarfirði sem Birni Guðnasyni þóknaðist að fá honum til eignar eða umráða. Þorleifur mun hins vegar hafa átt ættir að rekja til Önundarfjarðar því talið er að Einar Jónsson á Hvilft hafi verið afi hans.[54]

Ekki er kunnugt hvenær Þorleifur andaðist en líklega hefur það verið um eða fyrir 1540 því hann kemur hvergi við skjöl eftir 1534.[55] Hvort Korpudalsjarðirnar hafi enn verið í eigu Þorleifs þegar hann dó veit enginn en eignir hans gengu þá til barna hórgetinnar dóttur hans[56] svo ætla má að þegar hann lést hafi engin skilgetin börn hans verið á lífi. Um nöfn þessara dótturbarna Þorleifs er ekki vitað en á árunum kringum 1560 settu aðrir ættingjar hans fram kröfu um að þau yrðu svipt öllu því erfðagóssi sem frá afanum var komið þar eð móðir þeirra hefði verið óskilgetin.[57] Sá sem harðast gekk fram í þessu hét Snorri Þorkelsson en afi hans, Magnús Þorkelsson að nafni, og Þorleifur Örnólfsson höfðu verði bræðrasynir.[58]

Þann 16. júní 1562 kvað Eggert Hannesson lögmaður upp úrskurð í þessari deilu og varð niðurstaða hans sú að Magnús Þorkelsson hefði á sínum tíma verið réttur erfingi Þorleifs og bæri því að afhenda barnabörnum Magnúsar allar þær eignir sem Þorleifur hefði átt.[59]

Einn þeirra sem dóm þennan dæmdu með Eggerti Hannessyni var Þórður Sigfússon[60] en útgefendur Fornbréfasafnsins telja að hann hafi verið sonur Sigfúsar Brúnmannssonar, lögréttumanns á Hrauni í Keldudal, og konu hans Ólafar sem var dóttir Björns Guðnasonar í Ögri.

Þegar tíu ár voru liðin frá því Eggert lögmaður kvað upp úrskurð þann sem hér var frá sagt var nýnefndur Þórður Sigfússon að reyna að fá viðurkennda kröfu sína um eignarráð yfir Efstabóli, Kroppstöðum og Kirkjubóli í Korpudal.[61] Kröfu þessa bar hann fram í nafni konu sinnar, Þórdísar Þorgeirsdóttur,[62] en rökstuðningur hans fyrir kröfunni liggur ekki fyrir og ekki er ljóst hverra manna eiginkona hans var. Um þetta leyti höfðu bræðurnir Illugi, Ólafur og Hallur Péturssynir umráð yfir þessum þremur jörðum[63] en þeir voru frændur séra Pantaleons Ólafssonar á Stað í Grunnavík[64] sem var systursonur Kristínar Jónsdóttur er hér var áður nefnd til sögu. Samkvæmt erfðaskrá Solveigar Björnsdóttur, sem andaðist árið 1495, var það Kristín þessi dóttir hennar sem átti að fá Korpudalsjarðirnar þrjár í arf og þá skipan staðfesti Stefán Jónsson Skálholtsbiskup með sérstökum úrskurði er hann kvað upp árið 1511 og hér hefur áður verið frá sagt. Nokkru áður eða skömmu síðar tók Björn Guðnason í Ögri þessar jarðir hins vegar af Kristínu (sjá hér bls. 4-5) en vera má að niðjum hennar eða öðrum niðjum Solveigar móður hennar hafi tekist að ná þeim aftur undir sig. Séra Pantaleon Ólafsson var dóttursonur Solveigar Björnsdóttur[65] og systursonur Kristínar svo líklegt verður að telja að áðurnefndir frændur hans, bræðurnir Illugi, Ólafur og Hallur Péturssynir, hafi verið úr þeim niðjahópi. Í þeim efnum liggja ótvíræðar sannanir þó ekki á lausu en tvímælalaust er að vorið 1572 höfðu bræður þessir eignarhald á þeim þremur jörðum sem hér er um rætt, Efstabóli, Kroppstöðum og Kirkjubóli í Korpudal.[66]

Á Alþingi þá um sumarið var krafa Þórðar Sigfússonar um að fá jarðir þessar afhentar til eignar tekin fyrir og sátta leitað.[67] Við sáttaumleitanir var séra Pantaleon eins konar umboðsmaður áðurnefndra frænda sinna eða stóð að minnsta kosti við þeirra hlið og áður en þingi lauk tókst að ganga frá samkomulagi.[68] Niðurstaðan varð sú að bræðurnir þrír, Illugi, Ólafur og Hallur, skyldu halda Kirkjubóli en Þórður Sigfússon fengi Efstaból og Kroppstaði.[69] Jafnframt var kveðið á um að þeir bræður og Þórður skyldu hafa beit og umrekstur um annarra land sem þarfnaðist hvorum tveggjum að skaðlausu.[70] Svo virðist sem séra Pantaleon hafi viljað fá einhverja umbun fyrir sína framgöngu við að ná sáttum því í sáttargerðinni frá Öxarárþingi er ekki aðeins kveðið á um eignarráð yfir Korpudalsjörðunum en líka tekið fram að þessi gamli Grunnavíkurprestur skuli fá í sinn hlut tvær jarðir við Skutulsfjörð, Arnardalina báða.[71] Skýringin á þessu gæti verið sú að Þórður Sigfússon hafði talið sig eiga fjárkröfu á hendur séra Panta[72] en kynni að hafa gefið hana eftir þegar samningar tókust um jarðirnar í Önundarfirði.

Um Þórð þennan, sem eignaðist Efstaból og Kroppstaði árið 1572, er fátt vitað. Eins og áður sagði er talið að hann hafi verið sonur Sigfúsar Brúnmannssonar á Hrauni í Keldudal en vera kann að sjálfur hafi Þórður átt heima norður við Djúp. Á árunum kringum 1550 hafði hann meðgerð með jörðinni Ósi í Bolungavík og reyndi þá að skjóta sér undan að greiða kirkjunni í Vatnsfirði þá vertolla sem Vatnsfjarðarprestar voru vanir að innheimta af bátum sem gerðir voru út frá Bolungavík.[73] Fyrir þetta var Þórður kærður og með dómi sem upp var kveðinn 7. október 1553 var honum gert að greiða tollana.[74]

Undir lok 16. aldar var Efstaból í eigu Ara Magnússonar, sýslumanns í Ögri, en 2. desember árið 1600 seldi hann jörðina hjónunum Bjarna Jónssyni og Guðrúnu Jónsdóttur[75] og má gera ráð fyrir að sá Bjarni Jónsson sé lögsagnarinn og lögréttumaðurinn sem allar líkur benda til að hafi búið á Kirkjubóli í Korpudal (sjá hér Kirkjuból í Korpudal).

Um aldamótin 1700 mun Efstaból hafa verið í eigu bræðranna Torfa Magnússonar, lögréttumanns á Auðkúlu í Arnarfirði, og Þorleifs bróður hans sem einnig átti heima á Auðkúlu.[76] Torfi lögréttumaður féll frá á árunum 1706-1710[77] og þegar Árni Magnússon ferðaðist um Vestfirði sumarið 1710 var Þorleifur Magnússon á Auðkúlu, bróðir Torfa, sagður eiga 3 hundruð í Efstabóli en dóttir Torfa, sem Kristín hét, talin eiga 9 hundruð.[78] Hún var þá aðeins 15 ára gömul eða þar um bil[79] en giftist árið 1722 séra Andrési Gíslasyni sem þá var prestur í Otradal.[80] Síðar á ævinni varð Kristín Torfadóttir frá Auðkúlu eiginkona séra Hallgríms Jónssonar á Rafnseyri[81] og árið 1762 átti hann sumar þær jarðeignir í Önundarfirði sem Kristín kona hans hafði eignast á ungum aldri (sjá hér Kirkjuból í Korpudal og Kroppstaði). Efstaból átti séra Hallgímur þó ekki er þar var komið sögu því jörðin var þá í eigu Jóns Þorleifssonar[82] en sonur Þorleifs Magnússonar á Auðkúlu sem Jón hét varð bóndi á Arnarnúpi í Dýrafirði[83] og má telja líklegt að það sé hann sem átti Efstaból árið 1762.

Árið 1805 átti Solveig Ólafsdóttir prestsekkja Efstaból[84] en hún var dóttir Ólafs Jónssonar, lögsagnara á Eyri í Seyðisfirði, og hafði verið gift séra Jóni Sigurðssyni, presti í Holti í Önundarfirði (sjá hér Holt). Árið 1805 var Solveig liðlega hálfsjötug[85] og andaðist reyndar þá um haustið.[86] Hún var þá komin á Bíldudal[87] til Jarþrúðar dóttur sinnar, sem var eina barn hennar, eiginkona Boga Benediktssonar er þá var verslunarstjóri þar[88] en bjó síðar lengi á Staðarfelli á Fellsströnd og iðkaði þar sín fræðistörf.

Við andlát Solveigar, haustið 1805, hafa Jarþrúður og Bogi fengið Efstaból að erfðum en þau voru auðsæl og fé þeirra stóð víða fótum. Ekki er kunnugt um hversu lengi Efstaból var í þeirra eigu en á 19. öld munu yfirleitt hafa búið hér leiguliðar[89] og svo var enn um aldamótin 1900.[90]

Fyrstu bændur sem um er kunnugt að búið hafi á Efstabóli eru þeir Jón Bjarnason og Sturli Jónsson sem bjuggu hér á sinni hálflendunni hvor árið 1681.[91] Þegar manntal var tekið árið 1703 bjó Jón Bjarnason hér enn, orðinn 67 ára, en kona hans, Guðrún Gissurardóttir, var tíu árum eldri.[92] Þá var Sturli Jónsson hins vegar látinn fyrir þrettán árum. Um andlát hans er getið í Eyrarannál en þar segir að Stulli Jónsson á Efstabóli hafi orðið bráðdauður þá hann ætlaði til kirkju á affangadaginn fyrir jól árið 1690.[93] Árið 1703 voru hjónin Guðlaugur Jónsson og Margrét Bessadóttir farin að búa á þeim jarðarparti sem Sturli hafði áður[94] og þá var hér líka áttræður sveitarómagi sem hét Guðmundur Jónsson en um hann segir svo í manntalinu: Guðmundur Jónsson hefur á tíundum á Efstabóli forsorgast og því sem hann í sumar að var hér í sveit sér reitti og ekki víðar flakkað.[95]

Á 18. öld var oft tvíbýli á Efstabóli[96] og svo var enn 1801, 1805 og 1816.[97] Á þessu skeiði bjó þó stundum einn bóndi á allri jörðinni[98] og frá því um 1820 var hér nær alltaf einbýli[99] (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 372).

Á árunum 1821-1829 bjó maður sem Páll Oddsson hét á Efstabóli [100] en bú hans var í fyrstu aðeins 4 ær og 2 gemlingar.[101]

Árið 1823 fluttust hjónin Ólafur Jónsson og Sigríður Ásgeirsdóttir norðan frá Ísafjarðardjúpi í Önundarfjörð og settust að á Mosvöllum.[102] Þar bjuggu þau í fáein ár en hófu búskap á Efstabóli vorið 1829 og bjuggu hér síðan næstu 30 árin.[103] Ólafur var sonur Jóns Einarssonar læknis á Ármúla á Langadalsströnd við Djúp og Sigríðar Gunnlaugsdóttur sem var síðari eiginkona hans.[104] Jón Einarsson, faðir Ólafs bónda á Efstabóli, lærði læknisfræði hjá Bjarna landlækni Pálssyni og útskrifaðist frá honum sem læknir sumarið 1776.[105] Vorið 1782 var Jón skipaður læknir á Vesturlandi og hélt hann því embætti til ársins 1811. Hann bjó á Ármúla frá árinu 1788 og allt til dauðadags en hann andaðist sumarið 1816.[106] Sigríður Ásgeirsdóttir, kona Ólafs Jónssonar sem fluttist með honum í Önundarfjörð, var dóttir Ásgeirs Þorsteinssonar, bónda á Rauðamýri á Langadalsströnd og var því föðursystir Ásgeirs Ásgeirssonar skipherra sem stofnaði Ásgeirsverslun á Ísafirði og gerðist umsvifamikill kaupsýslumaður.[107] Kona Ásgeirs Þorsteinssonar á Rauðamýri og móðir Sigríðar á Efstabóli var Guðrún Þorsteinsdóttir, dóttir séra Þorsteins Þórðarsonar sem lengst var prestur á Stað í Súgandafirði.[108]

Enda þótt hjónin Ólafur og Sigríður væru af embættismönnum komin voru þau sjálf slétt bændafólk og að því er virðist ekkert efnaðri en almennt var í bændastétt. Þegar þau fóru að búa á Efstabóli vorið 1829 voru þau á aldrinum 35-40 ára.[109] Ári síðar var bústofn þeirra sem hér segir: 2 kýr, 1 kvíga, 1 kálfur, 20 ær, 4  hrútar eða sauðir, 12 gemlingar, 12 lömb og 2 hestar.[110] Enginn bátur var þá í þeirra eigu.[111] Tuttugu árum síðar voru kýrnar orðnar þrjár en ánum hafði ekkert fjölgað ef marka má búnaðarskýrslu.[112] Á fyrstu mánuðum ársins 1859 var Ólafur Jónsson enn við bú á Efstabóli[113] og hafði þá um vorið búið hér í 30 ár. Síðar á því ári mun hann hafa andast í Ytri-Hjarðardal[114] og árið 1860 fluttist ekkja hans frá Hjarðardal á Ísafjörð.[115]

Árið 1859 eða 1860 fóru hjónin Gabríel Jónsson og Soffía Bjarnadóttir að búa á Efstabóli.[116] Þau voru þá ung að árum, Gabríel fæddur árið 1832 en Soffía 1829.[117] Gabríel var frá Mosvöllum, sonur Jóns Guðlaugssonar og Margrétar Guðmundsdóttur konu hans[118] sem hér hefur áður verið minnst á (sjá hér Mosvellir). Soffía kona hans var aftur á móti frá Tungu í Firði, ein margra barna Bjarna Jónssonar og Herdísar Narfadóttur[119] sem þar áttu lengi heima (sjá hér Tunga í firði). Tvær systur hennar voru lengi búandi ekkjur á öðrum bæjum hér í Firðinum, þær Margrét Bjarnadóttir í Efrihúsum og Þorkatla Bjarnadóttir í Tungu (sjá hér Hestur og Tunga í Firði).

Þau Gabríel Jónsson og Soffía Bjarnadóttir gengu í hjónaband haustið 1855 og bjuggu árið 1858 á Hóli í Firði[120] en fluttust þaðan hingað að Efstabóli einu eða tveimur árum síðar. Hér bjuggu þau í yfir 20 ár og komu upp nokkrum börnum en Soffía dó á Efstabóli í júnímánuði árið 1881[121] og fjórum árum síðar tók bróðursonur Gabríels við jörðinni (sjá hér bls. 14). Gabríel var talinn dugandi bóndi og um skeið var hann hreppstjóri í Mosvallahreppi.[122]

Þegar Gabríel hafði búið á Efstabóli í fáein ár fékk hann kverkamein sem útlit var fyrir að kynni að draga hann til dauða. Heimild um veikindi þessi er að finna í dagbók Guðmundar Guðmundssonar norðlenska,[123] sem lengi fékkst mikið við lækningar (sjá hér Nesdalur) og átti á þessum tíma heima í Guðmundarskála undir Fögrubrekku í landi prestssetursins Sanda í Dýrafirði. Í lok nóvember og byrjun desember árið 1862 dvaldist Guðmundur norðlenski á Efstabóli í nær tvær vikur við að lækna Gabríel af kverkameininu og náði góðum árangri.[124] Dagbók hans frá þeim tíma er dálítið skemmd af völdum bruna sem hún að líkindum hefur lent í þegar Guðmundur var á Hólum í Dýrafirði nokkrum árum síðar (sjá hér Sandar í Dýrafirði, Guðmundarskáli þar). Sumt af því sem Guðmundur skrifaði í dagbók sína þegar Gabríel kom á hans fund og dagana sem hann dvaldist á Efstabóli er þó unnt að lesa, meðal annars þetta:

 

 1. nóvember. Kom Gabríel Jónsson frá Efstabóli upp á líf og dauða, yfirfallinn af umbúningi lófastórs kverkameins í undanfarnar 11 vikur, án stórverkja en með jafnri aukningu hjarta- og brjóstþyngsla og þrekleysis. Þá ég hafði aðgætt og afheyrt hann hugga ég hann í angursemi hans um „að þetta sé dauðlegur krabbi … ” … og skoraði á mig að koma með sér  heim til sín að hann fengi að deyja þar undir mínum höndum og konu sinnar aðhjúkrun. Ég sem fyrr í von til míns mildiríka guðs um aðstoð hans lofa honum því þó ég fyndi mig þar til í mörgu tilliti efnakortan. En vegna tilbúnings míns og klárunar við nokkur skrif gat ég ekki verið tilbúinn fyrr en þann 23ja … .
 2. nóvember. Byrjum við í guðs nafni ferð okkar og þyngir honum (Gabríel) magnleysið o.s.frv. Komumst við að Kirkjubóli í Bjarnardal ½ veginn. Gat hann litla næringu tekið og óvært sofið. – Legg Gum. pl. yfir.
 3. nóvember. Komumst að heimili hans. Nú hafa 7 blíðveðursdagar fylgt. Um kveldið legg ég compresu af vel votu vaðmáli í sedativvand yfir heila meinið og þar utan yfir þykkt vaðmál smurt með kamphersalve. Ítrekað tvisvar á ½ dægri ásamt hand- og fótböðum.
 4. nóvember. Blessuð veðurblíða. Tek nú umbúðirnar frá og finn hafa linast mjög að neðan og síkkað. Er nú þvermál meinsins 4½ þumlungur … . Ég sker nú á skakk frá kver …  og upp á við stefnu til vinstri  …  úr hverju útvall  …  lyktandi gulgrá  …  lykt af henni þoldi enginn nærverandi, hvers vegna ég átti óhægt að beita handtökum við hinn sjúka hefði ekki hans staka stilling unnið bót á því. Ég mældi hol meinsins innan sem að þvermælir var ¾ þuml. styttra heldur en útvortis umgetið þvermál til vinstri hliðar. 1½ þumlungi styttri að lengdarmáli  …  en dýptin í réttri stefnu að barkakýlinu 2 2/3 þ.  Grjónabakstur úr nýmjólk hafði ég nú fyrir siappi í línskafstað og umslag, 5 sinnum á dag.
 5. nóvember. Skír heiðbirta. Nú fær hinn sjúki mikil andþrengsli í hálsinn og í sama spýr hann upp sömu materíu en getur engu niður rennt. Læt ég þá sauðafleski á tvinna fara með verkfæri ofan í kok honum, ríf frá sárinu og sker úr neðri enda þess á skakk (skraas) í línu að hægra eyra 2¼ þ. hvar út komu illa lyktandi 2 blárauðleitar lifrar … hin 3ja kom á eftir spanskgrænulit, gegnsæ með einni langri, hármjórri spíru útúr hverri kom græn-lifrauð slefja þá ég með sárahnífnum kreisti hana á blýplötu.

Í hasti kippti ég nú upp fleskiflísinni og spúði hann þá ekki meiru upp en fannst sem andinn dragist gegnum sárið með óbærilegri remmubeiskju. Þá hin mikla ómælda vilsa var út runnin fyllti ég sárið af accilis rótardufti hnoðuðu saman við glænýtt kúasmjör og lét inni vera í 20 tíma, og

 1. nóvember. Vitjaði ég um og hreinsaði sárið. Var þá sjáanleg rifa á milli fyrsta og annars barkahrings fyrir neðan barkakýlið. Þó fannst hinum sjúka sem minni andi legði eða dragist gegnum sárið. Á sama hátt fyllti ég sárið og utanyfir þykkt vaðmál smurt með kamphórusalve; en saltaði nýtt kúasmjör …  kamphórupulveri og lét hann  …  3 pillur þar af í einu 2-3  …  degi með affærandi þarmlút og eftir hverja verkun sprauta ég köldu vatni, ½ pela, inn til hans.
 2. nóvember – 2. desember. Söm veðurblíða. Er minn sami tiltektarháttur og þann 28. að fráteknum innnúning af kamphorolíu um og kring allt meinið tvisvar á dag.
 3. desember. Hláka. Gróinn barkinn, þverruð bólgan vinstra megin, skurðurinn þeim megin gróinn að barka og hinn sjúki getur án þjáninga rennt niður því er hann borða má. Nú læt ég kera af línskafi, smurðan lítið eitt utan með dragsalve, inn í sárið hægra megin við barkann og áðurnefndan bakstur utanyfir. Öll hantéring önnur hin sama sem fyrsta og annan.
 4. og 5. desember. Sama blíða og söm aðferð við hinn sjúka, utan nú er hann vaskaður með volgu sápuvatni hátt og lágt á víxl og sett sterkt affærandi þarmlút og háls og brjóst þvegið með kamphorspíritus.
 5. desember. Sama veður með hægu regni. Nú er sár hins sjúka gróið og holdfast orðið út að húð en sárið á húðinni 2/3 þumlungs á lengd aðeins opið sem þræði lík rifa.
 6. desember. 2 sd. í jólaföstu. Sama blíða en lítið frost. Hér get ég þess að sá litli vessi sem enn sést koma út úr rifusári hins sjúka ber enn í grænan lit og öll sársins útrunna vilsa (Materie) hefur spanskgrænulituð verið og þá dropi lak af sárahnífnum ofan á vinstri hendi mér þann 27. f.m. kom rauð bóla með sviða í áður en ég gat þvegið höndur mínar og skar ég hana þá af. Ekki gat ég svo áreiðanlegt sé fundið orsök hér til, allra síst þá sem ég vil opinbera hér.[125]

 

Hér lýkur langri tilvitnun í dagbók Guðmundar norðlenska en þann 8. desember bjóst hinn önnum kafni hómópati til brottfarar frá Efstabóli því á hann var kallað til hjálpar öðrum sárþjáðum sjúklingum.[126]

Dagbókarkaflinn, sem birtur er hér að framan, gefur allgóða vísbendingu um þau úrræði sem fyrir hendi voru þegar alvarleg veikindi steðjuðu að á fyrri tíð og almúgafólk átti þess engan kost að leita til langskólagenginna lækna. Góðir hómópatar urðu þá mörgum að liði og ótvírætt er að á sviði hinnar alþýðlegu læknislistar var Guðmundur norðlenski af mörgum talinn í fremstu röð (sjá hér Nesdalur). Hér á Efstabóli lánaðist honum að bjarga ungum bónda sem flestir munu hafa talið að væri merktur dauðanum. Svo vel tókst þó ekki alltaf til og er skemmst að minnast Kristjáns Sæmundssonar í Tungu í Firði, sem Guðmundur norðlenski var kallaður til í janúarmánuði árið 1858, en hann andaðist þegar þrír dagar voru liðnir frá komu Guðmundar að Tungu (sjá hér Tunga í Firði). Þeir Kristján í Tungu og Gabríel á Efstabóli voru bræðrasynir og svilar, báðir um þrítugsaldur þegar gamli hómópatinn tókst á hendur að reyna að bjarga lífi þeirra.

Frá Gabríel er þær fréttir að segja að hann varð gamall maður og átti eftir að lifa í liðlega 43 ár þegar hann losnaði úr nauð kverkameinsins á jólaföstu árið 1862. Ætla má að síðar á ævinni hafi hann oft hugsað hlýlega til Guðmundar norðlenska.

Magnús Hjaltason, sem ólst upp í Efrihúsum og á Hesti, mundi vel eftir Gabríel og Soffíu konu hans. Hjá Magnúsi fær Gabríel þann dóm að hann hafi verið maður nýtinn sem kunni vel að búa og Soffía á Efstabóli segir hann að hafi verið allgjörvuleg og heldur frjálslynd.[127]

Árið 1880 bjuggu þau Gabríel og Soffía enn góðu búi á Efstabóli með 3 kýr í fjósi og 30 ær í kvíum[128] en 7. júní á næsta ári dó Soffía eins og hér hefur áður verið nefnt. Þá fór að styttast í búskapnum hjá Gabríel því vorið 1885 fór hann frá Efstabóli og settist að hjá Jóni syni sínum sem þá var farinn að búa í Dalshúsum í Valþjófsdal.[129] Tveimur árum síðar fluttist hann með Jóni og fjölskyldu hans frá Dalshúsum að Gerðhömrum í Dýrafirði[130] en vorið 1889 fór Jón Gabríelsson að búa á Fjallaskaga (sjá hér Fjallaskagi) og þar andaðist gamli Gabríel hjá syni sínum og tengdadóttur 11. febrúar 1906.[131]

Börn Gabríels og Soffíu á Efstabóli voru sjö[132] og af þeim komust a.m.k. fjögur á legg.[133] Jón Gabríelsson, sem varð bóndi á Fjallaskaga, hefur áður verið nefndur en Kristján bróðir hans fluttist 26 gamall til Ameríku árið 1888.[134] Á búskaparárum Gabríels og Soffíu bjó Jens Jónsson, bróðir Gabríels, á Kroppstöðum, næsta bæ við Efstaból (sjá hér Kroppstaðir). Eitt barna hans var Jensína, sem varð kona Jóns Gabríelssonar frænda síns og bjó með honum í löngu og farsælu hjónabandi. Einhverjar sögur voru þó á kreiki um að á unglingsárum hefði Jensína gjarnan viljað fá Kristján Gabríelsson, bróður Jóns, fyrir eiginmann og var eftir henni haft að hún vildi frekar hann Kitta frænda sinn á hnjánum en hann Jónsa uppréttan.[135] Þvílíkt slúður má hafa til skemmtunar en hvort satt sé eða logið veit auðvitað enginn.

Síðasti 19. aldar bóndinn á Efstabóli var Jónatan Jensson, bróðursonur Gabríels og bróðir Jensínu sem hér var síðast nefnd. Jónatan fæddist á Innri-Veðrará árið 1854 en fluttist með foreldrum sínum að Kroppstöðum um eða innan við fermingaraldur. Kona Jónatans var Þorlákína Kristín Kristjánsdóttir frá Bjarneyjum á Breiðafirði og bjuggu þau á Efstabóli frá 1885 til 1908.[136] Frá Efstabóli fluttust þau að Engidal í Skutulsfirði og héldu þar áfram búskap.[137]

Við ábúendaskiptin á Efstabóli vorið 1885 voru bæjarhúsin tekin út. Baðstofan var þá 7 x 4 álnir utan stafa,[138] það er 11 fermetrar. Hæðin frá gólfi og upp í mæni var tæplega 3,8 metrar.[139] Í  baðstofunni var súð úr flettum borðvið.[140] Önnur bæjarhús voru búr og eldhús og svo tvenn göng.[141] Búrið var um það bil 4,7 fermetrar og þar var hæðin liðlega 3 metrar.[142] Eldhúsið var talsvert minna, aðeins 4,1 fermetri og þar var hæðin frá gólfi og upp í rjáfur ekki nema 2,2 metrar.[143] Önnur göngin lágu frá baðstofu til búrs og voru um það bil tveir og hálfur metri á lengd en aðeins 78 sentimetrar á breidd.[144] Ætla má að hin göngin hafi legið frá baðstofu til útidyra. Þau voru tæplega 5 metra löng og breiddin um það bil 1,10 metrar.[145] Í þessum göngum var lofthæðin 2,2 metrar og að sögn úttektarmannanna voru þau með þili fyrir úr heilborðum.[146]

Frá 1909 til 1922 bjuggu hjónin Þorvaldur Þorvaldsson og Kristín Halldórsdóttir hér á Efstabóli (sjá Firðir og fólk 1900-1999,372) en þau höfðu áður búið á Vífilsmýrum eins og hér hefur þegar verið nefnt (sjá hér Vífilsmýrar). Á sveimi okkar um bæjarhlöðin á Vífilsmýrum var gerð grein fyrir uppruna Þorvaldar og Kristínar. Þegar hjón þessi komu að Efstabóli var Þorvaldur orðinn 52ja ára en Kristín kona hans var 14 árum yngri.[147] Þau áttu þá 5 börn á lífi, hið elsta á 17. ári og tvö bættust í hópinn á búskaparárum þeirra hér.[148] Jörðin var þá talin geta framfleytt 70 fjár, 2 kúm og 2 hrossum.[149] Þau Kristín og Þorvaldur bjuggu í torfbæ og var stærð baðstofunnar 11 x 5½ alin[150] eða því sem næst 23,8 fermetrar. Önnur bæjarhús voru þessi: Eldhús, búr, fjós, þrjú fjárhús, tvær hlöður, hesthús, eldiviðarhús og skemma.[151] Um 1920 var Sæmundur Jóhannesson í Ytri-Hjarðardal aðaleigandi jarðarinnar og landskuldin sem Þorvaldur þurfti að greiða á hverju ári var ein ær, einn gemlingur og átta krónur í peningum.[152] Engin túngirðing var þá á Efstabóli[153] en matjurtagarðurinn sem var 150 ferfaðmar að stærð gaf af sér 3 tunnur af garðávöxtum.[154]

Á sínum yngri árum hafði Þorvaldur bóndi á Efstabóli róið margar vertíðir og á árunum um og upp úr 1890 var hann í nokkur sumur í skiprúmi hjá Ameríkumönnum sem þá stunduðu lúðuveiðar úti fyrir Vestfjörðum og höfðu sína aðalbækistöð á Þingeyri.[155] Í ritinu Frá ystu nesjum er að finna skemmtilega frásögn Þorvalds af veru sinni hjá Könum.[156] Hjá þeim hafði hann 100,- krónur í kaup á mánuði en hlutir þeirra sem reru á íslensku áraskipunum frá verstöðvum í Önundarfirði og Dýrafirði voru þá að hans sögn á bilinu frá 30,- krónum og upp í 60,- krónur eftir vertíðina.[157] Mánaðarkaupið hjá Þorvaldi hefur því verið um það bil fimmfalt hærra en almennt var við sjóróðra á vorvertíð því vertíðin stóð yfirleitt í tvo og hálfan mánuð. Snorri Sigfússon skólastjóri kynntist Þorvaldi og Kristínu þegar þau bjuggu á Efstabóli og segir þau hafa verið mestu sæmdar- og dugnaðarhjón. Um Þorvald kemst Snorri svo að orði að hann hafi verið gamall sægarpur, sigldur og skemmtilegur og lætur þess getið að bóndinn á Efstabóli hafi enn sótt sjó haust og vor úti í Valþjófsdal þó kominn væri um sextugt.[158]

Á Efstabóli var búið til ársins 1952 en síðan þá hefur jörðin verið í eyði (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 372). Efstaból var eini bærinn í Holtssókn sem ekki sást til frá kirkjustaðnum í Holti (sjá hér Holt) og héðan sést ekki til sjávar. Veggjabrot sýna að fólkið sem bjó hér síðast átti heima í húsi sem var að einhverju eða öllu leyti úr steinsteypu. Rústir þess er að finna á hól sem er yst í túninu en gamli bærinn hefur að líkindum verið svolítið framar þar sem eldri rústir blasa við á öðrum hól.

Frá bæjarhólnum á Efstabóli leggjum við leið okkar fram á Korpudal til að svipast þar svolítið um áður en snúið verður til annarrar áttar. Um dalinn og heiðarskarðið fyrir botni hans lá áður alfaraleið milli Önundarfjarðar og Álftafjarðar við Djúp eins og hér hefur áður verið lýst (sjá hér Hestur). Var þá farin Álftafjarðarheiði. Þessa leið var Magnús Hjaltason borinn í skinnstakki fárra vikna gamall haustið 1873 frá Hattardal í Álftafirði að Efrihúsum (sjá hér Hestur). Yfir Álftafjarðarheiði var hægt að fara á hestum en þar sem brattast var urðu menn að fara af baki og teyma.[159] Á árunum 1930-1950 kom bóndinn á Seljalandi í Álftafirði stundum yfir heiðina á haustin að vitja um kindur og var þá ríðandi.[160] Á þeim tíma var annars mjög lítið um ferðir yfir Álftafjarðarheiði.[161]

Um Korpudal, sem gengur nær beint í austur, fellur áin Korpa og við höfum áður litið yfir sviðið í þeim parti dalsins sem liggur sunnan árinnar en þar á jörðin Hestur allt land (sjá hér Hestur). Að þessu sinni munum við halda okkur norðan við ána.

Fyrsta spölinn liggur leið okkar um gróið land undir hlíðum Kroppstaðafjalls en klettahornið sem prýðir fjallsbrúnina heitir Skeggi.[162] Dálítið framan við túnið komum við að Bjartalæk[163] sem skoppar glaður niður fjallshlíðina. Nokkru framar er Þverá en fram að henni er um það bil einn kílómetri frá Efstabóli. Þverá kemur ofan af Þverdal sem er svolítill fjalldalur framan við Kroppstaðafjall og klettahornið Skeggja. Hún fellur í Korpu rétt framan við Þverárholt sem stendur hér nærri ármótunum.[164] Um Þverdal liggur gönguleið á Þverdalsheiði sem stundum var farin á fyrri tíð úr Önundarfirði í Skutulsfjörð.[165] Skutulsfjarðarmegin var komið af heiðinni niður í Dagverðardal en fyrsti bær þeim megin fjallsins var Tunga. Leið þessi er klettalaus ef rétt er farið en liggur hæst í um það bil 730 metra hæð yfir sjávarmáli og er því nokkru hærri en Breiðadalsheiði sem bílar óku um í sex áratugi. Vegalengdin milli bæja, frá Efstabóli að Tungu í Skutulsfirði, er um það bil 12 kílómetrar.

Yfir Þverdalsheiði fór Þuríður Jónsdóttir á Kirkjubóli í Skutulsfirði árið 1656 um veturinn fyrir jól[166] að Holti í Önundarfirði þar sem hún átti skjól fyrir ofsóknum séra Jóns Magnússonar þumlungs á Eyri í Skutulsfirði er látið hafði brenna bæði föður hennar og bróður nokkrum mánuðum fyrr (sjá hér Holt). Yfir heiðina og að Kirkjubóli í Korpudal fylgdi henni Snæbjörn Pálsson, sem verið hafði sambýlismaður föður Þuríðar á Kirkjubóli í Skutulsfirði og bjó þar enn við lok ársins 1656.[167] Í fótspor þeirra Þuríðar er enn unnt að ganga en nú er sjaldan farið yfir Þverdalsheiði og sú ferð bíður betri tíma.

Árið 1864 varð maður að nafni Þórður Jónsson úti á ferð yfir Þverdalsheiði.[168] Þórður mun þá hafa verið um sextugt og átti heima á Þórustöðum í Önundarfirði.[169] Upp í þessa sína hinstu för lagði hann um veturinn fyrir jól eða nánar tiltekið á skemmsta degi ársins.[170] Lík Þórðar mun hafa fundist nokkrum dögum síðar því hann var jarðaður í Holti 5. janúar 1865.[171] Þórður þessi Jónsson var stjúpsonur séra Daða Jónssonar sem síðast var prestur á Söndum í Dýrafirði, sonur Sigríðar Þóroddsdóttur konu hans og Jóns Thorberg, verslunarstjóra á Patreksfirði, sem var fyrri eiginmaður hennar.[172] Þórður var lengst ævinnar vinnumaður í Önundarfirði og Dýrafirði en þegar hann fluttist úr Sandasókn í Dýrafirði að Þórustöðum nokkrum mánuðum áður en hann týndi lífi kallar prestur hann matvinnung.[173]

Þegar Magnús Hjaltason fór að hlusta á sögur fóstru sinnar í Efrihúsum undir Hesti voru allmörg ár liðin frá því Þórður varð úti. Magnús segir hann hafa fundist dauðan í Þverá[174] sem gæti svo sem verið rétt þó að prestur segi hann hafa orðið úti á Þverdalsheiði. Greinilegt er að frásögn Magnúsar er þó ekki nákvæm, sem m.a. sést á því að hann segir Þórð hafa drukknað í Þverá á útmánuðum en séra Stefán í Holti bókar 21. desember sem dánardag. Saga Magnúsar er annars á þessa leið:

 

Þórður Jónsson hét sá er drukknaði í Árgilinu í Önundarfirði sem líka er nefnt Þverá og rennur ofan í Korpudal nokkuð fyrir framan Efstaból. Átti Þórður sá heima inni í Önundarfirði og var talinn lítill fyrir sér. Þá bjó á Efstabóli Gabríel hreppstjóri Jónsson Guðlaugssonar, faðir Jóns á Fjallaskaga og þeirra systkina. Þórður kom þar á glugga fyrir dag og beiddi Gabríel að ljá sér göngujárn. Gabríel svaraði: „Þó ég ætti tuttugu járn, þá léði ég þér engin.”

Fór Þórður svo á stað. Heiðríki var á og gaddharka mikil. Það var á útmánuðum. Þórður hrapaði til bana og fannst eigi fyrr en um vorið í ánni. Hafði hann haft sköturoðsvefjar á fótum og sást á aðra vefjuna upp úr vatninu. Orð Gabríels mæltust illa fyrir. Þetta sagði fóstra mín mér. Hún var tengdasystir Gabríels hreppstjóra.[175]

 

Í bók sinni, Á sjó og landi, segir Reinald Kristjánsson póstur frá ferð sem hann fór yfir Þverdalsheiði með Bjarna Kristjánssyni, skipstjóra í Efrihúsum, á útmánuðum árið 1884.[176] Reinald var þá 18 ára vinnumaður í Efrihúsum (sjá hér Hestur) og fór með Bjarna  húsbónda sínum í kaupstaðarferð til Ísafjarðar. Lét Bjarni hann bera 70 punda bagga báðar leiðir en gekk sjálfur laus og liðugur.[177] Á heimleiðinni fengu þeir stinningsveður af norðri með kafaldi en þegar á heiðarbrúnina kom ofan við Þverdal tók Reinald til íþróttar sinnar og renndi sér á svipstundu langt niður í dal á göngustafnum.[178]

Framan við Þverá á Kirkjuból allt land norðan Korpu eins og hér hefur áður verið nefnt (sjá hér Hestur). Fjallið sem rís með dökkum hamrabrúnum framan við Þverdal heitir Veturlandafjall og mun taka nafn af grasigrónum klettasyllum uppi í háfjallinu en þær nefndu menn Veturlönd.[179] Í mynni Þverdals er framan við Þverá dálítill múli sem heitir Öxl.[180] Fram og niður af Öxlinni eru Pálstóttir og áttu að verða beitarhús frá Kirkjubóli.[181] Tóttin sem þarna er enn á sínum stað er um það bil 8 x 3 metrar að flatarmáli. Lítið eitt framar eru eldri tóttir. Þar heitir Hlað[182] og hefur efalaust verið fjárbyrgi á fyrri tíð. Frá Pálstóttum fram að Hlaðinu eru aðeins 200-300 metrar. Síðarnefnda tóttin stendur svolítið ofar og fjær ánni. Hlaðið er að miklu leyti úr grjóti. Það er hringlaga, um 17 metrar að ummáli. Lækurinn sem tifar hér við Hlaðið heitir Hlaðslækur.[183]

Veturlandafjall nær fram að Seljahvilft[184] en að grundunum neðan við hvilftina er varla nema tveir og hálfur kílómetri heiman frá Efstabóli. Neðan við Seljahvilft er Seljaskriða og hér er líka Seljagil og Seljalækur[185] (sbr. hér Hestur bls. 70). Öll þessi örnefni benda eindregið til þess að hér hafi búsmali áður verið hafður í seli.

Mikil skriða sem enn er lítt gróin liggur hér yfir stóru svæði og ekki ólíklegt að selhús eða seltóttir hafi lent undir henni. Rétt heiman við skriðuna og í jaðri hennar eru reyndar tvær litlar tóttir sem mætti hugsa sér að hefðu verið kvíar. Fleira gæti þó komið til greina og einar sér duga þessar tóttir engan veginn til að sýna fram á að hér hafi verið sel. Þar eru örnefnin mun sterkari vísbending. Önnur tóttin er skammt frá ánni, vallgróin og sýnist vera 3 x 2,5 metrar að flatarmáli eða því sem næst. Hin tóttin er nokkru ofar og alveg í skriðujaðrinum. Hún er grjóthlaðin að mestu og veggirnir enn sæmilega heillegir. Stærðin er um það bil 3 x 2 metrar. Rétt hjá þessari síðarnefndu tótt eru rústir örlítils grjótkofa sem börn virðast hafa hlaðið og ætla má að hafi verið smalakofi. Flatarmál hans hefur varla verið meira en 2 x 1 metri.

Enginn veit nú hvenær ær voru síðast hafðar í seli hér fram á Korpudal en minnt skal á að í sóknalýsingu séra Tómasar Sigurðssonar í Holti frá árinu 1840 segir að á þeim tíma séu hvergi í prestakallinu brúkaðar selstöður nema í Holti.[186] Séra Tómas getur þess hins vegar að í dölum Önundarfjarðar sjáist víða seltóttir.[187] Hugsanlegt er að í byrjun 19. aldar hafi búsmali enn verið mjaltaður hér í seli því vitað er með vissu að þá var seljabúskapur enn stundaður á allmörgum bæjum í Dýrafirði (sjá hér Gemlufall, Mýrar, Meðaldalur, Haukadalur og Hraun í Haukadal).

Fjallið framan við Seljahvilft heitir Vondafjall[188] en hjallinn sem þar er neðan við háfjallið heitir Grjóthjalli.[189] Fram af honum er Hærri-Hrútahjalli en fyrir neðan þann hjalla er Lægri-Hrútahjalli.[190] Fram í dalbotninum skoppa glaðir lækir sem sjá ánni Korpu fyrir hennar daglega skammti af vatni og heita þar Árdrög eða Ártungur.[191] Ofan við Ártungurnar er há brekka sem liggur þvert yfir dalbotninn og heitir Lægri-Moldbrekka en enn ofar er Hærri-Moldbrekka (sjá hér Hestur). Neðan við heiðarskarðið er svolítil klettarönd sem þó er lítill farartálmi og heitir þar Klif.[192]

Þegar við nálgumst Klifið rifjast upp gömul vísa ókunns höfundar sem lagði leið sína yfir Álftafjarðarheiði á fyrri tíð:

 

Kannaði ég hann Korpudal,

í Klifinu greip mig leiði.

Aldrei ferðast aftur skal

Álftafjarðarheiði.

 

Að okkur sem nú stöldrum við í Klifinu sækja þó engin leiðindi og uppi í heiðarskarðinu ríkir gleðin ein. Handan við skarðið er brött brekka og í henni mikil snjóhengja þó komið sé fram í júlí. Fullvíst má telja að þar hafi oft verið erfitt að komast niður og að líkindum nokkur snjóflóðahætta. Þegar komið var úr Korpudal upp í skarðið, sem liggur í um það bil 700 metra hæð, munu flestir sem hér fóru um því hafa hækkað sig enn um örfáa metra og sveigt um leið til hægri þar sem hin eiginlega Álftafjarðarheiði tekur við. Sjálf heiðin er aðeins einn kílómetri eða svo og þar stóðu enn sumarið 1994 nokkrar vörður sem sýndu mjög greinilega hvernig leiðin lá á fyrri tíð.

Sunnan við heiðarskarðið og vestan við hina vörðuðu leið yfir sjálfa heiðina er fjallið Hnífar (sjá hér Hestur) en efstu brúnir þess munu vera í um eða yfir 800 metra hæð. Heiðin er slétt og grýtt og varða sem stendur á brúninni yfir Álftafirði sýnir hvar þar er best að fara niður. Sú leið er greiðfær en að þessu sinni kjósum við samt að snúa við á heiðarbrúninni og láta ferð í Álftafjörð bíða betri tíma.

Á göngu okkar yfir Álftafjarðarheiði rifjast upp gömul saga af ferð Andrésar Hákonarsonar, bónda og rímnaskálds á Hóli í Firði (sjá hér Hóll í Firði), yfir þennan sama fjallveg á árunum milli 1850 og 1860. Það var að haustlagi og reið Andrés meingröðum hesti, úrvalsgrip.[193] Hann var á heimleið úr Álftafirði í regnhríð og myrkri og segir Magnús Hjaltason frá á þessa leið.

 

En er kom norðanvert upp á heiðina kom það allt í einu í hestinn að Andrés kom honum varla úr sporunum og fór það svo versnandi að hann fór af baki og reyndi að leiða hann en allt fór á sömu leið.

… Andrési verður nú litið við og sér hann þá vætti einhverja, ekki ósvipaða manni, og sækir hún að honum þar sem hann stóð og hélt í hesttauminn. … Andrés tekur nú það ráð að hann skríður undir kvið hestsins og ver sig þar en hesturinn barði fram- og afturfótunum á víxl gegn mannskrímslinu, beitti opnum munni og varði þannig manninn og sig. … Gekk þetta svona alla nóttina uns komið var að degi. Hvarf þá óvættur þessi á burt suður á fjallið en maðurinn lofaði guð fyrir frelsi sitt.[194]

 

Úr skarðinu við vesturbrún heiðarinnar er létt að hlaupa til baka niður fannbreiðurnar í botni Korpudals því færið er eins og best verður á kosið og mikill snjór þó komin sé Þingmaríumessa.

Á leið heim dalinn reynum við að finna Þórðargrafir sem voru að sögn kunnugra einhvers staðar alllangt fyrir framan Þverá.[195] Um þessar mógrafir er sögð sú saga að eitt sinn fyrir langa löngu hafi smalapiltur sem Þórður hét ætlað að stela fola fram á Korpudal en ekki tekist betur til en svo að hann flæmdi folann ofan í eina mógröfina.[196] Drukknaði folinn í gröfinni en strákurinn var hengdur fyrir tiltækið og látinn hanga uppi í sáluhliði undir messu.[197] Vart þarf að efa að þessi ljóta saga hafi verið vel til þess fallin að halda ungviðinu frá því að stelast á hestbak í hjásetunni eða í smalamennsku.

Á Efstabóli stöldrum við enn við á gamla bæjarhlaðinu. Hingað kom sem gestur á árunum upp úr 1880 lítill tökudrengur frá Efrihúsum í Hestþorpinu. Það var Magnús Hjaltason. Stúlka á svipuðum aldri sem þá átti heima á Efstabóli sýndi honum gott viðmót og leiddi hann í leik með sér. Hún hét Elísabet Guðmundsdóttir og varð síðar húsfreyja í Bolungavík.[198] Drengurinn var óvanur leikjum en hér átti hann glaðar stundir. Löngu síðar orti hann kvæði til þessarar leiksystur sinnar. Þar eru fyrstu þrjár vísurnar svona:

 

Manstu Beta blíða

barnaleiki smá,

er við áttum víða

Efstabóli hjá,

gestur lítill glaður var,

töfra hilling ljóss með lit

lífið oss þá bar.

 

Framan fremst úr dölum

flughröð Korpa rann

út að sævarsölum

sveit því baga vann,

örvaði þó unga sál;

talaði hún – og talar enn –

tímans huldumál.

 

Brunaði Bjartilækur

brjóstum hlíðar frá,

fagur, furðu sprækur,

fjólulundum hjá,

með sitt gamla mærðarraus

fram í Korpu faðminn sér

fleygði eirðarlaus.[199]

 

Með þessar ljóðlínur alþýðuskáldsins á vörum víkjum við burt frá Efstabóli og röltum út að Kroppstöðum sem voru næsti bær en eru nú líka í eyði.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Óskar Einarsson 1951, 96.

[2] Sama heimild, 95.

[3] Sama heimild.

[4] Landamerkjabók, varðveitt hjá sýslumanni Ísafjarðarsýslu. Landamerkjalýsing nr. 131, þinglýst 27.5.1890.

[5] Sama landamerkjabók. Landamerkjalýsing nr. 85, þinglýst 18.7.1889.

[6] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII, 114.

[7] Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafjarðarsýsla 1805.  J. Johnsen 1847, 195.

[8] D.I. IV, 688.

[9] Sama heimild.

[10] Jarðab. Á. og P. VII, 114.

[11] D.I. IV, 688.  Jarðab. Á. og P. VII, 115.

[12] Jarðab. Á. og P. VII, 114.

[13] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 102.

[14] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[15] Sama heimild.

[16] Sama heimild.

[17] Sama heimild.

[18] Sama heimild.

[19] Jarðab. Á. og P. VII, 114.

[20] Sama heimild.

[21] Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafj.sýsla 1805.

[22] Sama heimild.

[23] J. Johnsen 1847, 195.

[24] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók Fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.

[25] Sama heimild, 73 og 77.

[26] D.I. IV, 688.

[27] Jarðab. Á. og P. VII, 114.

[28] Sama heimild. Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.

[29] Jarða- og bændatöl 1752-1767 Ísafj.sýsla 1753.  J. Johnsen 1847, 195.

[30] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók Fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.

[31] Sama heimild.

[32] Jarðab. Á. og P. VII, 114.

[33] Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafj.sýsla 1805.

[34] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1821.

[35] Sama heimild.

[36] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., bún.sk. 1830.  VA III, 412 og 424, búnaðarskýrslur 1850 og 1880.

[37] Fasteigabók 1932.

[38] D.I. IV, 688.

[39] Sama hemild, 683-694.

[40] D.I. V, 497-503.

[41] Íslenskar æviskrár IV, 123.

[42] Arnór Sigurjónsson 1975, 462.  D.I. XV, 44.

[43] D.I. IV, 683-694.

[44] Arnór Sigurj. 1975, 462.  D.I. VIII, 359-360.

[45] D.I. XV, 44.

[46] Sama heimild.

[47] Ísl. æviskrár I, 216.

[48] D.I. VIII, 359-360.

[49] D.I. IV, 688.

[50] Jarðab. Á. og P. VII, 152-153.

[51] Lögréttumannatal, bls. 566-567.

[52] Lögréttumannatal, 566-567. Arnór Sigurj. 1975, 456.

[53] Lögr.m.tal, 566-567.

[54] Ísl. æviskrár V, 265-266.

[55] Lögr.m.tal, 566-567.

[56] D.I. XIII, 738-743.

[57] Sama heimild.

[58] Sama heimild.

[59] Sama heimild.

[60] Sama heimild.

[61] Alþingisbækur Íslands I, 106-108.

[62] Sama heimild.

[63] Sama heimild.

[64] Sama heimild.

[65] Ísl. æviskrár IV, 150.

[66] Alþ.b. Íslands I, 106-108.

[67] Sama heimild.

[68] Sama heimild.

[69] Sama heimild.

[70] Sama heimild.

[71] Sama heimild.

[72] Sama heimild, 34.

[73] D.I. XII, 622-625.

[74] Sama heimild.

[75] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir (Kph. 1993), 163.

[76] Jarðab. Á. og P. VII, 114. Lögr.m.tal, 517.

[77] Lögr.m.tal 517.

[78] Jarðab. Á. og P. VII, 114.

[79] Manntal 1703.

[80] Lögr.m.tal, 517.  Ísl. æviskrár I, 8-9.

[81] Ísl. æviskrár II, 283.

[82] Manntal 1762.

[83] ÍB 124to, Ættartölubækur Jóns Espólíns 3259.

[84] Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafj.sýsla 1805.

[85] Manntal 1801, vesturamt, bls. 298.

[86] Ísl. æviskrár III, 264.

[87] Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafj.sýsla 1805, nr. 18.

[88] Ísl. æviskrár I, 262.

[89] J. Johnsen 1847, 195.

[90] Manntal 1901 og fylgiskjöl með því.

[91] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.

[92] Manntal 1703.

[93] Annálar III, 362.

[94] Manntal 1703.

[95] Sama heimild.

[96] Sama heimild. Jarðab. Á. og P. VII, 114. Bændatöl og skuldaskr. 1720-1765, Ísafj.sýsla um 1735, eftirrit.

[97] Manntöl 1801 og 1816. Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafj.sýsla 1805.

[98] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753. Manntal 1762.

[99] Skj.s. sýslum og sv.stj. V-Ís. Mosvallahreppur 2. Hreppsbók 1819-1835. Manntöl 1835, 1840, 1845,

1850, 1855, 1860, 1870, 1880, 1890 og 1901.

[100] Skj.s. sýslum. og sv.stj. V-Ís. Mosv.hr. 2. Hreppsbók 1819-1835.

[101] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1821.

[102] Ólafur Þ. Kristjánsson / Önfirðingar.

[103] Skj.s. sýslum. og sv.stj. V-Ís. Mosvallahreppur 2. Hreppsbók 1819-1835. Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

Sóknarmannatöl Holts í Önundarf.

[104] Ísl. æviskrár III, 98-99. Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[105] Ísl. æviskrár III, 98-99.

[106] Sama heimild.

[107] Ísl. æviskrár I, 88.

[108] Sama heimild V, 234. Manntal 1801, vesturamt, bls. 339.

[109] Manntal 1845, vesturamt bls. 285.

[110] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1830.

[111] Sama heimild.

[112] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[113] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[114] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[115] Sama heimild.

[116] Sama heimild. Manntöl 1855 og 1860.

[117] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[118] Sama heimild.

[119] Sama heimild.

[120] Sama heimild.

[121] Sama heimild.

[122] Lbs. 22384to, bls. 28/Magnús Hjaltason.

[123] VA-J 15, nr. 1847 II-1870, dagbók Guðmundar Guðmundssonar nóvember og desember 1862 (Skjöl vesturamtsins).

[124] VA-J 15, nr. 1847 II-1870, dagbók Guðm. Guðm.s. nóv. og des. 1862.

 

[125] VA-J 15 nr. 1847 II-1870, dagbók Guðm. Guðm.s. nóv. og des. 1862 (Skjöl vesturamtsins).

[126] VA-J 15 nr. 1847 II-1870, dagbók Guðm. Guðm.s. nóv. og des. 1862.

[127] Lbs. 22384to, bls. 28.

[128] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[129] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[130] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[131] Sama heimild.

[132] Sama heimild.

[133] Lbs. 22384to, bls. 28/Magnús Hjaltason.

[134] Vestfirskar ættir I, bls. 142.

[135] Lbs. 22384to, bls. 42-43/Magnús Hjaltason.

[136] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[137] Sama heimild.

[138] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 7. Úttektabók 1875-1905. bls. 35.

[139] Sama heimild.

[140] Sama heimild.

[141] Sama heimild.

[142] Sama heimild.

[143] Sama heimild.

[144] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 7. Úttektabók 1875-1905. bls. 35.

[145] Sama heimild.

[146] Sama heimild.

[147] Vestf. ættir II, 491-492.

[148] Sama heimild.

[149] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[150] Sama heimild.

[151] Sama heimild.

[152] Sama heimild.

[153] Fasteignabók 1932.

[154] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[155] Frá ystu nesjum I, 122-141. Sbr. Ragnheiður Mósesdóttir 1987, 13-23 (Ný Saga I).

[156] Sama heimild.

[157] Sama heimild, 130 og 141.

[158] Snorri Sigfússon 1969, 111 (Ferðin frá Brekku II).

[159] Guðrún Össurardóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 23.7.1994.

[160] Sama heimild.

[161] Sama heimild.

[162] Óskar Ein. 1951, 96.

[163] Sama heimild.

[164] Sama heimild.

[165] Kristján  G. Þorvaldsson 1951, 73.

[166] Séra Jón Magnússon 1967, 139-140 (Píslarsagan).

[167] Sama heimild.

[168] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[169] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[170] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[171] Sama heimild.

[172] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[173] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[174] Lbs. 27364to, bls. 111-112.

[175] Lbs. 27364to, bls. 111-112/Magnús Hjaltason.

[176] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1932, 27-30.

[177] Sama heimild.

[178] Sama heimild.

[179] Óskar Ein. 1951, 96.

[180] Sama heimild.

[181] Sama heimild.

[182] Sama heimild.

[183] Sama heimild.

[184] Sama heimild.

[185] Sama heimild.

[186] Sóknalýs. Vestfj. II, 104.

[187] Sama heimild.

[188] Guðrún Össurardóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 23.7.1994.

[189] Óskar Ein. 1951, 96.

[190] Sama heimild.

[191] Sama heimild.

[192] Lbs. 27364to, bls. 130/Magnús Hjaltason. Sbr. Óskar Ein. 1951, 96.

[193] Lbs. 47084to / Magnús Hjaltason.

[194] Sama heimild.

[195] Guðrún Össurardóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 23.7.1994.

[196] Óskar Ein. 1951, 96.

[197] Sama heimild.

[198] Gunnar M. Magnúss 1956, 54-56. Sbr. Sóknarm.töl Holts í Önundarf. 1874-1885.

[199] Sama heimild og Lbs. 22364to, bls. 128.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »