Geirseyri og Vatneyri

Geirseyri og Vatneyri

Í landi jarðanna Geirseyrar og Vatneyrar er nú (1988) kauptúnið Patreksfjörður með tæplega 1000 íbúa. Bújarðirnar með þessum nöfnum eru ekki lengur til og tún þeirra löngu horfin undir lóðir og mannvirki í þorpinu.

Um tveir kílómetrar eru frá hreppamörkum við Altarisberg að Geirseyri. Innarlega á þeirri leið gengur Þúfneyri fram í fjörðinn. Þar stóðu Geirseyrarskúturnar uppi milli vertíða um og eftir aldamótin 1900.[1] Á Þúfneyri var þá þurrabúðarkot og bjó í því maður sem leit eftir skútunum.

Vatneyri er örskammt utan við Geirseyri. Þar reis snemma verslunarstaður og þangað sóttu íbúar Rauðasandshrepps öll sín kaupstaðarviðskipti á einokunartímanum og einnig bæði fyrr og síðar. Þorp fór hins vegar ekki að myndast á Patreksfirði fyrr en á síðasta þriðjungi 19. aldar og þá einkum í tengslum við þilskipaútgerðina. Fyrrum var kauptúnið oft nefnt Vatneyri eða Eyrar en nú ætíð Patreksfjörður. Um upphaf og þróun kauptúnsins hefur Guðjón Friðriksson sagnfræðingur ritað[2] en hér verður eingöngu sagt lítillega frá jörðunum Geirseyri og Vatneyri og frá versluninni fyrir daga þéttbýlisins.

Fyrsta byggð í núverandi Patrekshreppi var á Geirseyri og átti sú jörð allt það land sem núverandi Patrekshreppur nær yfir. Munnmæli gengu um landnámsmanninn Geir á Geirseyri og um miðja 20. öld töldu menn sig enn geta sýnt legstað hans þar í túninu.[3] Jarðarinnar er ekki getið í Landnámabók. Geirseyri var 30 hundraða jörð að fornu mati en síðar byggðist Vatneyri úr landi hennar og eftir það var Geirseyri talin tuttugu hundruð en Vatneyri tíu hundruð.

Geirseyrar mun fyrst getið í skjölum árið 1467 í skiptagerningi eftir Björn ríka Þorleifsson, hirðstjóra á Skarði, en jörðin hafði verið í hans eigu.[4]

Bærinn Geirseyri stóð á sjávarbökkum fyrir mynni tveggja dala, Mikladals og Litladals. Árnar sem falla um dali þessa bera nafn af þeim. Frá Geirseyri gengur Miklidalur lítið eitt norðan við austur á milli Geirseyrarmúla og fjallgarðsins sem skilur að Patreksfjörð og Tálknafjörð. Upp frá Geirseyri liggur dalurinn nær samsíða firðinum en beygir að lokum til norðausturs. Um Mikladal liggur nú þjóðvegurinn frá Patreksfirði til Tálknafjarðar, hæst í nær 370 metra hæð, og er komið niður í Tálknafjörð rétt utan við fjarðarbotninn. Frá Geirseyri að Norður-Botni í Tálknafirði eru um 12 kílómetrar. Litlidalur liggur nær beint í norðausturátt frá Geirseyri. Um hann lá gamall reiðvegur frá Geirseyri yfir Lambeyrarháls að Lambeyri í Tálknafirði. Beygir sá vegur til norðnorðausturs þegar komið er upp á hálsinn. Á þessari leið er farið hæst í 418 metra hæð en leiðin er um sex kílómetrar milli bæja. Norður úr Litladal skerst Eyvarargil inn í fjallgarðinn og um það lá gönguleið yfir í Smælingjadal í Tálknafirði en sá dalur er utan við Lambeyri.[5]

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín er jörðin Geirseyri nefnd Gesseyri[6] og það nafn mun sjást víðar í fornum skjölum. Síðar varð Geirseyrarnafnið fast í sessi. Enginn vísir að eyri er sjáanlegur á Geirseyri og hefur verið sett fram sú tilgáta að Vatneyrin sé sú eyri sem jörðin tók upphaflega nafn af,[7] enda var hún í landi Geirseyrar og aðeins skammur spölur á milli. Reyndar má ætla að bærinn á Geirseyri hafi verið færður eitthvað til í aldanna rás en þó ekki langt. Í Jarðabókinni ritar Árni Magnússon árið 1703: Gesseyrartún hefur í vetur af árhlaupi stóran skaða liðið. Á Gesseyri er háski að búa í bænum sökum voða af ánni og verður því bæinn að flytja.[8]

Tveir bændur bjuggu á Geirseyri árið 1703 og einn á Vatneyri. Allir stunduðu þeir sjó svo sem venja var og áttu hver og einn sinn bát, fjögra manna för. Nú kynnu menn að halda að þeir hafi róið úr heimavör á vertíð en svo var þó ekki. Allir reru þeir úr Hænuvík sem liggur utar og handan fjarðarins.[9] Í Jarðabók Árna og Páls er þó tekið fram að heimræði hafi verið frá Geirseyri áður fiskur lagðist frá fjörðum. Til hlunninda á Geirseyri telur Jarðabókin hins vegar hrognkelsaveiði og lítils háttar silungsveiði til beitu.[10] Bænhús segir Árni Magnússon hafa verið á Geirseyri en árið 1703, þá fyrir löngu …. eyðilagt.[11]

Árið 1703 var talið að á Geirseyri mætti fóðra sex kýr og 12 gemlinga en annar búpeningur varð að lifa á útigangi.[12] Heldur er gróðurlítið í Geirseyrarlandi og sama má segja um Vatneyri. Samt er hér fagurt út að líta, yfir fjörðinn þar sem fjöll og dalir blasa við í margbrotinni tign, út á Blakkinn og til hafs. Margur getur tekið undir með Þorvaldi Thoroddsen, sem ferðaðist um Patreksfjörð sumarið 1886, en hann segir fallegra á Patreksfirði en við flesta hina smærri firði og bendir á víðsýnið.[13]

Leyfi til verslunar á Geirseyri var fyrst veitt í desember 1852 og hófst verslun hér næsta vor í samkeppni við verslunina sem þá var rekin á Vatneyri. Það var Þorsteinn Thorsteinsson, síðar verslunarstjóri á Þingeyri og loks bóndi í Æðey við Ísafjarðardjúp, sem fyrstur hóf verslun á Geirseyri[14] (sjá hér Þingeyri). Á Geirseyri byggði Þorsteinn lítið verslunarhús með steinveggjum niður við sjóinn en þessa verslun sína rak hann aðeins í þrjú ár og lagðist þá verslun hér niður um sinn.[15]

Kunnastur bænda á Geirseyri, bæði fyrr og síðar, mun vera Markús Snæbjörnsson, sem hóf hér búskap árið 1866. Markús var þá 34 ára að aldri, bóndasonur frá Dufansdal í Arnarfirði. Hann komst ungur í siglingar á dönskum skipum og gerðist svo skútuskipstjóri á útvegi Brynjólfs Benedictsen í Flatey. Árið 1865 hóf Markús útgerð frá Geirseyri á skonnortunni Zephyr sem hann átti að hálfu á móti Brynjólfi.[16] Var það upphaf hinnar miklu þilskipaútgerðar sem rekin var frá Patreksfirði næstu áratugina.[17] Löngu fyrr , árið 1806,  hafði Ólafur Thorlacius, kaupmaður á Bíldudal, fyrstur innlendra manna hafið þilskipaútgerð frá Patreksfirði og gerði héðan  út tvær skútur í nokkur ár.[18]

Árið 1868 hóf Markús verslunarrekstur á Geirseyri í húsi því sem Þorsteinn Thorsteinsson hafði byggt. Árið 1877 var Geirseyri löggilt sem verslunarstaður en tekið fram að líta beri á Geirseyri og Vatneyri sem einn verslunarstað.[19] Markús Snæbjörnsson rak verslun á Geirseyri til ársins 1898 eða í 30 ár. Jafnframt stóð hann fyrir þilskipaútgerð, fiskverkun og margvíslegum öðrum umsvifum og hafði að auk allmikinn búskap.[20] Á Geirseyri byggði Markús á árunum 1877-1881 fyrsta steinhúsið á öllum Vestfjörðum. Var húsið á tveimur hæðum, hlaðið úr íslensku grjóti en veggirnir límdir með steinlími. Bjó Markús sjálfur á neðri hæðinni en leigði út efri hæðina.[21] Hús þetta er nú fallið. Enda þótt Markús seldi verslun sína árið 1898 hélt hann áfram búskap á Geirseyri. Þegar gamli kaupmaðurinn andaðist, 88 ára gamall, árið 1921 voru 55 ár liðin frá því hann hóf búskap á Geirseyri. Á því skeiði hafði sprottið upp þorp á Patreksfirði, sem við dauða Markúsar taldi hátt á fimmta hundrað íbúa.

Á annan Geirseyrarbónda frá fyrri tíð hefur þegar verið minnst, Guðbrand Jónsson er hingað fluttist frá Kvígindisdal (sjá hér Kvígindisdalur). Guðbrandur bjó 57 ára gamall á Geirseyri undir árslok 1817[22] og átti son í Hollandi. Úr hópi Geirseyrarbænda skal nefndur einn enn, Sigurður elli, en af honum fór  mikil saga.

Um Sigurð ella Jónsson og mál hans hefur ritað einna greinilegast Ingivaldur Nikulásson, fræðimaður á Bíldudal, og er frásögn hans birt í bókinni Þjóðsögur og þættir, öðru bindi.[23] Í fimmta bindi Blöndu er líka sagt nokkuð frá Sigurði ella[24] og þar stuðst við skrif Gísla Konráðssonar. Hér verður einkum byggt á þessum heimildum en séu aðrar heimildir nýttar er vísað til þeirra hverju sinni.

Sigurður elli bjó á Geirseyri á fyrri hluta 18. aldar. Hann var norðlenskur að ætt en kona hans, Helga, var dóttir Jóns Jónssonar í Hænuvík, eins hinna sjö Sellátrabræðra er kunnir voru á sinni tíð. Þær voru bræðradætur Helga, kona Sigurðar ella, og Guðrún Tómasdóttir, móðir séra Jóns Þorlákssonar, skálds á Bægisá. Sigurður elli var talinn harðgert hraustmenni og peningamaður mikill. Er hann gekk að eiga Helgu úr Hænuvík var hún barnshafandi af völdum annars manns. Hét sá Gunnar og átti heima á Barðaströnd, hörkumaður en snauður að fé. Hafði Gunnari verið meinað ráðahags við Helgu sakir fátæktar. Gísli Konráðsson staðhæfir að Gunnar þessi hafi verið móðurafi Eggerts Ólafssonar, þess er fyrstur byggði í Hergilsey á síðari öldum,[25] sem tímans vegna fær þó vart staðist (sbr. hér Hergilsey).

Barn Gunnars og Helgu hét Einar en Sigurður gekkst við barninu og var Einar því skráður Sigurðsson. Sigurður elli og Helga, kona hans, bjuggu alllengi í hjónabandi og eignuðust a.m.k. tvo syni, Þórarin og Jón, – auk Einars sem áður var nefndur.[26] Þar kom að Sigurður elli á Geirseyri missti konu sína og stóð uppi ekkjumaður. Fékk hann þá fyrir ráðskonu Guðrúnu nokkra Valdadóttur er áður hafði eignast barn með Einari þeim sem skráður var sonur hans.

Nokkru síðar eignaðist Guðrún annað barn og var Sigurður faðir að því barni. Nú var illt í efni því samkvæmt lagabálknum stóradómi var dauðasök að eignast barn með barnsmóður sonar síns. Einnig var sú kona dauðasek sem börn eignaðist með feðgum. Kom nú Sigurði í koll að hafa á sínum tíma gengist við faðerni Einars sem þó var alls ekki sonur hans. Í þessum vandræðum leitaði Sigurður elli til Gunnars Barðstrendings, hins rétta föður Einars, og bað hann að forða sér undan öxi með því að taka nú að sér faðerni nýfædda barnsins sem Guðrún Valdadóttir hafði alið. Þessu neitaði Gunnar þverlega þótt fé væri í boði, minnugur þess er Sigurður náði af honum kærustunni forðum. Sagt er að Sigurður hafi þá fengið annan mann, er Þórður hét, til að gangast við barninu og greitt honum fyrir peninga sem náðu upp undir þumal á sjóvettlingi. Þetta reyndist samt skammgóður vermir því við yfirheyrslur hjá Ólafi Árnasyni sýslumann ljóstraði Þórður öllu upp um viðskipti þeirra Sigurðar. Lét nú sýslumaður flytja Sigurð ella í járnum að Haga en Guðrún var sett í varðhald á Geirseyri. Síðan dæmdi Ólafur sýslumaður þau bæði til dauða, skyldi Sigurður hálshöggvinn en Guðrúnu drekkt. Ólafur Árnason lét af sýslumannsstörfum í Barðastrandarsýslu í ágústmánuði 1752[27] og má ætla að dómurinn yfir Sigurði ella og Guðrúnu Valdadóttur hafi verið eitt af síðustu embættisverkum hans. Ólafur var þó mættur á Alþingi sumarið 1753 og er þá kallaður fyrrum sýslumaður.[28] Þar lagði hann 12. júlí fram stefnu, dagsetta 18. júlí 1752, með hvörri hingað fyrir rétt stefnast sakapersónurnar Sigurður Jónsson og Guðrún Valdadóttir, sín á milli opinber að blóðskömm, til að líða endilegan lögþingisdóm fyrir drýgða blóðskömm, eins og segir í Alþingisbókinni.[29] Hvorugt þeirra mætti þó við Öxará sumarið 1753 og var borið við lasleika. Varð niðurstaða Alþingis sú að skjóta máli þeirra til eins extra lög-þings, sem á inniverandi sumri haldast skal á hentugum stað og tíma.[30]

Það kom í hlut Davíðs Scheving Hanssonar, sem settur var sýslumaður í Barðastrandarsýslu tvítugur að aldri í ágústmánuði 1752, að leiða mál Sigurðar ella og Guðrúnar til lykta. Sagnir herma að Scheving ungi hafi brátt gert sér ljóst að þau voru í raun alsaklaus af blóðskömm þar sem barnsfeður Guðrúnar, Sigurður og Einar, voru alls ekkert skyldir þó að skráðir væru sem feðgar. Leitaði Scheving sýslumaður að sögn tvívegis til Friðriks V Danakonungs, greindi honum frá málavöxtum og bað um náðun fyrir þetta Geirseyrarfólk. Synjaði kóngur náðunarbeiðninni og segir sagan að í síðara skiptið hafi Davíð Scheving ekkert svar fengið frá konungi en þess í stað pakka með konunglegu innsigli og upp úr honum hafi komið hvít skyrta með rauðum kraga. Þóttist þá sýslumaður vita hvers hann ætti von ef hann frestaði aftökum öllu lengur.

Það mun hafa verið sumarið 1755 sem Sigurður elli var hálshöggvinn á Hólavelli í Haga á Barðaströnd. Böðullinn hét Bjarni og ætlaði hann að rífa af gyllta silfurhnappa er Sigurður bar á skyrtu sinni. Sigurður elli sló hann þá kinnhest og mælti: Ekki átt þú, þrællinn þinn, neitt af þeim. Skulu þeir fylgja mér í jörðina. Bjóst Sigurður harðmannlega við dauða sínum og bað sýslumann að láta grafa sig þar sem mættist vígð mold og óvígð en bannað var að jarða lík sakamanna, er dæmdir höfðu verið til dauða, í vígðri mold. Áður en Sigurður elli lagðist á höggstokkinn bað hann fyrir sérstaka kveðju til Gunnars Barðstrendings sem áður var nefndur. Þegar Gunnari barst kveðjan veiktist hann, lá skamma hríð og andaðist síðan.

Guðrúnu Valdadóttur var drekkt á Mikladal, upp frá Geirseyri. Ingivaldur Nikulásson greinir frá aftöku hennar á þessa leið:

 

Kvöldið áður en líflát hennar skyldi fara fram saumaði hún sjálf poka þann eða sekk, er henni skyldi drekkt í að morgni – og vissi sjálf til hvers hann var ætlaður. Var hún hin rólegasta og sagði við sóknarprest sinn, séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal, að ekki þyrfti hún huggunarorð mannanna því að hún væri viss um sáluhjálp sína. Morguninn eftir reið flokkur manna með Guðrúnu inn á Mikladal og skyldi henni drekkt í hyl einum þar í ánni. Guðrún hafði söngrödd fagra. Á leið til aftökustaðarins söng hún sálm. Var það 27. sálmurinn í Passíusálmunum. Hún byrjaði á versinu: „Ó, vei þeim, sem að órétt lög”, og söng svo sálminn á enda. Fannst öllum mjög til um söng Guðrúnar og þótti þeim hún aldrei jafnfagurt sungið hafa. Þegar á aftökustaðinn kom var Guðrúnu drekkt og er mælt að Bjarni böðull yrði tvisvar að bæta grjóti í pokann svo að hún gæti sokkið og að lokum hélt hann henni niðri með broddstaf sínum uns hún drukknaði. Var hún síðan dysjuð á holti einu þar við veginn.[31]

 

Gísli Konráðsson segir að Davíð Scheving sýslumaður hafi átt erfitt með að horfa á aðfarir böðulsins er Guðrúnu var drekkt. Hafi sýslumaður gengið brott og tvívegis fallið nær í ómegin.[32]

Líklegt er að drekking Guðrúnar Valdadóttur uppi á Mikladal við Patreksfjörð hafi verið einhver síðasta aftaka hérlendis með þeirri aðferð. Að minnsta kosti er talið líklegt að konu hafi síðast verið drekkt á Alþingi sumarið 1749 í Drekkingarhyl.[33] Til er 18. aldar lýsing á aðförum íslenskra böðla við kvennadrekkingar og segir þar að hinni dauðaseku hafi verið haldið niðri með stöng uns hún var dauð.[34] Kemur þetta heim við lýsingu Ingivaldar, sem hér var vitnað til, á aftökunni á Mikladal.

Svolítinn eftirmála verður hér að hafa við þessi skrif um Sigurð ella, bóndann á Geirseyri sem dæmdur var á röngum forsendum og hálshöggvinn. Þess var áður getið að með Helgu konu sinni eignaðist Sigurður tvo syni og hét annar Jón. Gísli Konráðsson segir að Jón þessi Sigurðsson hafi farið utan og numið sigurverkasmíð (úrmagerí).[35] Margir Íslendingar leggja nú leið sína í Rosenborgarhöll í Kaupmannahöfn og skoða þar hinar ýmsu gersemar úr eigu Danakonunga á fyrri tíð. Meðal dýrgripa sem þar er að sjá er klukka ein frá 16. öld, sigurverk snilldarlega smíðað, og við hana er tengt um aldur nafn Jóns Sigurðssonar, íslensks úrsmiðs í Kaupmannahöfn á síðari hluta 18. aldar. Um sigurverkið í Rosenborgarhöll og íslenska úrsmiðinn, Jón Sigurðsson, ritar Björn Th. Björnsson svo:

 

Sigurverk þetta er kennt við höfund þess, Isak Habrecht, þann sama sem smíðaði úrverkin frægu í Strasbourg, og ber ártalið 1594. Það sýnir ekki aðeins stund, mánaðardag og ár, heldur og gang tungls og annarra reikistjarna. Þegar klukkan slær á heilli stund ganga Austurvegsvitringar fram fyrir Maríumynd á stétt hennar og hneigja sig en síðan leikur klukkan sálm. Að honum loknum galar gylltur hani efst á sigurverkinu og ný klukkustund er tekin við.

Habrechts-sigurverkið stóð áður fyrr í Kristjánsborg og var sýnt gestkomandi sem eitt helsta furðuverk Kaupmannahafnar. En þar kom einn dag á 17. öld að vitringarnir hættu skyndilega að hneigja sig, haninn að gala og af henni að sjá höfðu stjörnurnar aldeilis hætt göngu sinni. Eftir að klukkan hafði staðið þannig í hálfa öld var hún seld auðugum lyfsala. Úrsmiðir og aðrir hugvitsmenn reyndu með ýmsu móti að koma henni í gang en allt stóð við sama. Og gamli Habrecht varð ekki vakinn upp. Loks gerist það, árið 1797 [rétt 1786, sjá hér aftar – innskot K.Ó.] að íslenskur úrsmiður reynir sig við hana og sjá, þetta forna furðutól, meira í ætt við galdra en mannvit, fer að ganga. Haufflegheitin byrja á ný, hneigingar og hanagal, stjörnur og máni vakna af þyrnirósusvefni sínum og lalla sér af stað. Og það líður fullur mannsaldur áður þurfi að snerta við gangverkinu á ný. Við vitum lítið sem ekkert um þennan hugvitssama landa okkar, í dönskum heimildum er hann nefndur „Islænderen Jon Sivertsen”.[36]

 

Hér verður haft fyrir satt að þarna sé kominn sonur Sigurðar ella á Geirseyri, sá sem Gísli Konráðsson segir að farið hafi utan og numið sigurverkasmíð. Þó að Jónar Sigurðssynir væru margir á Íslandi þá er úrsmíðanám svo sérstætt fyrirbæri í röðum Íslendinga á 18. öld, þegar aðeins örfáar klukkur voru til í landinu, að útilokað má kalla að tveir íslenskir Jónar Sigurðssynir hafi þá starfað samtímis sem úrmakarar í Kaupmannahöfn. Dr. Jón Helgason biskup getur líka um þennan íslenska 18. aldar úrsmið í Kaupmannahöfn en segir því miður ekki liggja fyrir hverra manna hann hefir verið.[37]

Vera kann að úrsmiðurinn snjalli hafi ekki haldið faðerni sínu svo mjög á lofti eins og allt var í pottinn búið. Jón biskup segir söguna af Habrechts-klukkunni, sem hér var áður rakin, og getur þess að þetta furðulega sigurverk hafi lengi skreytt framhlið Kaupmannahafnar-hallar og hlýtur þar að eiga við konungshöllina Kristjánsborg. Um 1766 fékk bróðir Kínafarans, Árna Magnússonar frá Geitastekk, að gista í tvær vikur hjá Jóni Sigurðssyni, úrsmið í Kaupmannahöfn,[38] og má telja líklegt að sá Jón hafi verið sami úrsmiður og hér var áður nefndur.

Í Rosenborgarhöll var hið aldna sigurverk númer 367 meðal safngripa árið 1983.[39] Því fylgdi þá áletrun á latínu* og sagði þar að í fjölda ___________________________

*Latneska áletrunin hljóðar svo: Horologium hocce in arce regia per multos annos asservatum sed immortum emit et 1786 per I. Sivers renovat curavit Christoph Günter pharmacopola Hafniensis.

 

 

 

ára hefði sigurverkið verið varðveitt meðal dýrgripa konungs en síðan verið selt Christoph Günter, lyfsala Kaupmannahafnar, sem árið 1786 hafi fengið I. Sivers til að koma því aftur í gang.[40]

Í orðsendingu frá umsjónarmanni safngripa í Rosenborgarhöll, dagsettri 2. apríl 2008, segir að latneska nafnið I. Sivers standi hér að öllum líkindum fyrir Joen Sivertsen sem fengið hafi meistararéttindi í iðn sinni árið 1762 og samkvæmt upplýsingum frá Íslandi hafi verið fæddur í Barðastrandarsýslu árið 1734.[41] Allt kemur það prýðilega heim við þær innlendu heimildir sem hér hefur áður verið vitnað til. Í nýnefndri orðsendingu frá Rosenborgarhöll er líka staðfest að sigurverkið sem íslenski úrsmiðurinn endurlífgaði sé smærri gerð af hinu stórkostlega klukkuverki sem Isaac Habrecht smíðaði fyrir dómkirkjuna í Strasbourgh árið 1594 og tekið fram að annað sams konar verk, sem smíðað var fyrir Sixtus páfa V. (1585-1590), sé nú talið eitt af helstu dýrgripum British Museum í London.[42]

Hið aldna sigurverk sem nú prýðir einn salanna í Rosenborgarhöll og leikur þar enn listir sínar kom í höllina árið 1841 og hafði þá verið í einkaeign allt frá árinu 1784 er kóngur lét það af hendi.[43] Furðuverk gamla klukkusmiðsins var þá hætt að snúast og talið úr sér gengið.[44] Frá árinu 1759 til 1784 hafði það verið í konungshöllinni Kristjánsborg í Kaupmannahöfn og áður lengi í hertogahöllinni Gottorp í Suður-Slésvík[45] en öll Slésvík laut þá Danakonungi.

Þegar íslenski úrsmiðurinn, Jón Sigurðsson, kom öllu klukkuspili gamla Habrechts í gang á nýjan leik árið 1786 voru rösklega þrír áratugir liðnir frá því Sigurður elli var höggvinn á Hólavellinum í Haga. Saman höfðu þeir feðgar gengið til verka heima á Geirseyri, róið til fiskjar, slegið völl, sinnt búsmala og trúlega smíðað flest sem búið þurfti við. Síðan skildi leiðir. Leið föðurins lá á höggstokkinn í Haga en sonarins á vit óþekktra ævintýra þar sem konungsgersemar biðu þess að njóta lipurra fingra hans svo spilverk þeirra mættu hljóma á ný. Svo ólík eru örlög mannanna.

Túnið á Geirseyri er nú að mestu horfið undir götur og hús þorpsins á Patreksfirði en í Kóngsins garði úti í Kaupmannahöfn teygir Rosenborgarhöll enn turna sína til himins. Þeir sem þangað koma og virða fyrir sér hið forna klukkuspil mættu minnast feðganna beggja á Geirseyri, Sigurðar ella og sonar hans, Jóns úrmakara.

Frá Geirseyri var skammur spölur niður á Vatneyri, varla einn kílómetri út með firðinum og síðan niður Klifið, allbratta brekku. Um aldamótin 1900 var hlaðinn landamerkjagarður milli Geirseyrar og Vatneyrar. Náði garðurinn upp í urðir og fram á bakka og var nefndur Júlíus í höfuðið á Júlíusi Ólafssyni, búfræðingi og síðar bónda á Miðjanesi í Reykhólasveit, sem stjórnaði verkinu.[46] Lítið mun nú sjást eftir af garðinum þeim.

 

Vatneyri er allstór malareyri sem gengur út í fjörðinn og sýnist hafa myndast af framburði lækjar er fellur um Fjósadal, rétt utan við eyrina. Nafn sitt hlaut hún af dálitlu stöðuvatni sem hér var, utantil á eyrinni ofanverðri. Þetta vatn hefur nú fyrir nokkrum áratugum verið grafið út og er þar höfnin á Patreksfirði sem áður var vatnið. Yfir eyrinni rís bratt og gróðurlítið fjall. Heitir það Brellur(l-in borin fram eins og í Elli).

Á Vatneyri voru hafnarskilyrði betri frá náttúrunnar hendi en annars staðar við Patreksfjörð og auk þess gott athafnasvæði. Var því eðlilegt að kaupmenn veldu einmitt hana sem verslunarstað. Eggert Ólafsson talar að vísu um aðra eldri höfn nokkru innar[47] en ekki er ljóst hvar það hefur verið, ef til vill við Þúfneyri. Hitt er aftur á móti kunnugt að þegar á 16. öld stóð verslun með blóma á Vatneyri og ekki ólíklegt að hér hafi verið stundaður kaupskapur löngu fyrr.

Í skjölum sem varðveist hafa frá Eggerti Hannessyni, lögmanni í Bæ á Rauðasandi, má sjá að árið 1570 hefur þýskur kaupmaður, Árni Hesterborch að nafni, verslað á Vatneyri.[48] Af honum kaupir Eggert m.a. malt og salt, hveiti, bjór og mjöð, járn og saum, hnífa, króka, skæri, reimar, skyrtur og skriffæri.[49]

Magnús Jónsson prúði, tengdasonur Eggerts, var sýslumaður Barðstrendinga 1580 til 1591 og bjó í Saurbæ (sjá hér Saurbær á Rauðasandi). Hann mælti fyrir um verð á innlendum og erlendum vörum í sínu umdæmi og einnig um hegðun manna á kauptíðinni. Á Vatneyri var mönnum gert að reka sín viðskipti í samræmi við kaupsetningu og önnur fyrirmæli Magnúsar prúða. Kafla úr tilskipun sinni orðar hann á þessa leið:

 

En fyrst að upphafi set ég grið og frið allra manna á millum, hvar helst vér kunnum á þessum eyrum að finnast, morgna og á kvöld, dag og nóttu, á skipi og á landi, í tjöldum og úti á grundum; sé sáttur svo hver við annan í samförum öllum sem sonur við föður eður faðir við son. En hver sem á þessi grið gengur sé sá slíku sakaður sem lögin útvísa, hvort sem mönnum verður misþyrmt með orðum eður verkum þá aukist að helmingi réttur þeirra, sem fyrir vansa verða, en hinn hafi refsing eftir dómi.

 … En ég býð og vil að vér hegðum vorum háttum og hingaðkomu, hérvistum og burtförum, siðlega og hæfilega; hegðum og svo vorum háttum og uppstöðum, samdrykkjum og samförum að vér mættum betri vinir skiljast en finnast eður jafngóðir. Forðumst næturdrykkjur eður langar næturslímur, því þar af hefir oft komið mikið vont. Látum þessa útlenska menn mega hafa sína ró og náðir kvöld og morgna. Göngum af eyrinni í góðan tíma eftir kaupmanna vild, sem fyrir eiga að ráða. Komum á morgnana með góðum og venjulegum uppstöðum því þar sem margir koma saman verða ei allir eins siðaðir, sem oft hefur skeð, að svo skjótt sem menn hafa fengið ölvað sinni, svo hafa þeir setið á skemmdum og skammaryrðum við aðra menn. Nú hver er slíkt gerir svari slíku fyrir sem lögin setja þeim á hendur, sem rjúfa grið á réttum griðastöðum og skulu þó forðast meiri hegning eftir dómi.

Býð ég öllum og sérhverjum að þeir hafi réttar vogir, pundara og stikur, reiðslur og mælikeröld; en hver sem eitt af þessu hefir rangt í sinni tegund, svari fyrir eftir lögum.

En ef nokkrir verða kunnir og sannir að því, hvort heldur hann er útlenskur eða innlenskur, meiri háttar maður eða minni, að hann vegur rangt með réttum pundara eða stikar rangt með réttri stiku, eða mælir rangt með réttum mælikeröldum, svo það sé eyrisskaði, og verði það vitnisfast, svari sem fyrir annan stuld.

Býð ég og skipa að enginn geri meiri skuldir en hann viti sig mann til að bítala. … Svo er og skipað af gömlum forstjórum þessa lands að eigi seljist allur fiskur af landinu, þá hörð árferði eru, sakir alminnilegrar fátæktar og landsins nauðþurftar. … [50]

 

Sitthvað fleira fyrirskipaði Magnús prúði um skikkanlega hegðun sem þó verður ekki rakið hér. Nokkur dæmi um verðlagningu hans skulu nefnd og er þá vert að hafa í huga að sex vættir á landsvísu samsvöruðu kýrverði.

 

Innlendar vörur:

40 fiskar blautir ein vætt, lýsistunna 4 vættir, tvævetur sauður ein vætt, gamall sauður hálf önnur vætt, fjögurra vetra naut 6 vættir, gamalt naut 12 vættir, tvítug voð (þ.e. 20 faðmar af vaðmáli) 2 vættir og 6 vættir fiska fyrir hundrað[51] merkir væntanlega að fyrir liðlega 200 kíló af harðfiski* hafi átt að fást andvirði 120 álna, sem á landsvísu voru sex vættir.

 

Erlendar vörur:

Tunna víns 4 vættir, biktunna 4 vættir, tjörutunna 4 vættir, mjaðartunna 2

 

__________________________

* Fyrir 1619 voru 34,7 kíló í vættinni en eftir 1619 tæplega 40 kíló (sjá Magnús Már Lárusson, Skírnir 1958, bls. 244).

 

vættir, bjórtunna 1 vætt, mjöltunna 1 vætt, kvartel hunangs 1 vætt (og taki sextíu merkur), átta fjalir góðar 1 vætt, átta vaglskot 1 vætt, þrjátíu stikur af striga 1 vætt og átta stikur lérefts 1 vætt.[52]

 

Við verðlagsskrá sína bætir Magnús prúði þessum orðum:

 

En dýrindisléreft og forgóð klæði, gull og silfur kaupist eftir þeim dýrleika, sem sjálfum semur, þó svo að eigi megi okur af verða.

En allt annað smákram seljist og kaupist eftir sjálfra setningi og gömlu lagi, svo sem er konuhúfur, pungur, belti, skæri, skór, hnífar, ljáir og brýni, snæri og pálrekur, skeifur og naglar og allt annað seljist og kaupist eftir sjálfra setningi þó hvorumtveggja skaðlaust. Vörumst okur og rangan kaupskap.[53]

 

Það hefur sópað að Magnúsi prúða þegar hann kom ríðandi niður Klifið með sveit sína. Á Vatneyri urðu bæði erlendir og innlendir að hlíta hans boðum.

Þeir sem einkum versluðu á Vatneyri á síðari hluta sextándu aldar voru Lybikumenn, kaupmenn frá borginni Lübeck í Þýskalandi.[54] Árið 1602 hófst svo einokunarverslun Dana um land allt.

Þrettán árum síðar, haustið 1615, lagði flokkur erlendra manna undir sig verslunarstaðinn á Patreksfirði og sat hér um kyrrt heilan vetur. Þetta voru hvalveiðimenn frá Baskahéruðum Spánar, félagar Spánverjanna sem Ari sýslumaður í Ögri, sonur Magnúsar prúða, lét vega í Æðey og á Sandeyri við Ísafjarðardjúp þann 14. október 1615.[55]

Þá um sumarið höfðu þrjú skip frá Baskalandi verið að hvalveiðum við Ísland og oft legið við land norður á Ströndum. Aðfaranótt 21. september um haustið brotnuðu öll skipin í Reykjarfirði sunnan Gjögurs og héldu Baskarnir þá á átta smærri bátum, sem þeir áttu heila, vestur fyrir Horn. Alls voru það liðlega 80 menn. Komu þeir allir að Dynjanda í Jökulfjörðum og rændu þar skútu einni.[56] Skildust nú brátt leiðir þessara félaga, einn hópurinn fór inn í Ísafjarðardjúp, annar til Dýrafjarðar og sá þriðji og fjölmennasti hélt á Dynjandaskútunni til Patreksfjarðar. Frá örlögum þeirra, sem hugðu á veturvist í Æðey er nánar greint annars staðar í riti þessu (sjá Fjallaskagi). Hér skal þess aðeins getið að strax um haustið lét Ari Magnússon, sýslumaður í Ögri, vega þá flesta og hinir féllu 5. október í Dýrafjarðarslag, utan einn, sem slapp naumlega og komst í hóp þeirra landa sinna er sigldu til Patreksfjarðar.

Það voru um 50 baskar sem stigu á land á Vatneyri í október 1615. Í þeim hópi voru tveir hvalveiðiskipstjórar Stephan Telleria og Pétur de Aguirre.[57] Baskarnir brutu upp danska verslunarhúsið á Vatneyri og bjuggust þar um.[58] Árið 1950 gaf Jónas Kristjánsson, nú (1988) forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar, út bók um Spánverjavígin 1615. Hann birtir þar m.a. Víkingarímur sem ortar voru um framferði Baskanna og herfarir Vestfirðinga gegn þeim. Handrit með rímum þessum fékk Árni Magnússon á sínum tíma hjá Lopti Jónssyni í Flatey, syni Jóns Finnssonar, þess sem gaf Brynjólfi biskupi Flateyjarbók.[59] Á kápu handritsins sést að sjálfur hefur Jón Finnsson átt það árið 1633[60] og sýnir það að rímurnar hafa verið ortar skömmu eftir atburði þessa. Í umræddu handriti er höfundur rímnanna nefndur Jón G. S og í 21. vísu þriðju rímunnar kemur fram að á Patreksfirði hafa Baskarnir handtekið föður rímnaskáldsins.[61] Frómur veikur faðir minn var í fjandmanns höndum, hart nær reyrður hvörn dag böndum, segir þar. Um þessar mundir bjó Gottskálk Sturluson á Geirseyri og talið að Jón sonur hans gæti hafa verið farinn að búa á Vatnseyri árið 1615. Er Jón þessi Gottskálksson talinn líklegasti höfundur rímnanna[62] en algengt var að menn rituðu G. S. fyrir Guðmundsson eða eitthvert annað föðurnafn sem byrjaði á bókstafnum G. Víkingarímur eru mjög fjandsamlegar Böskum og því með öllu fráleitt að þær séu ortar af Jóni lærða sem var vinur hinna erlendu sjómanna og mest hefur ritað um Spánverjavígin en þó lítið um dvöl Baskanna á Vatneyri.

Hér verður nú sagt stuttlega frá því helsta sem fram kemur í Víkingarímum um athafnir Baskanna á Patreksfirði og hér í grennd.

Um veturnætur setjast þeir að á Vatneyri og búast þar um (þriðja ríma 17. og 18. vísa). Vetur var harður og átti það sinn þátt í því að heimamenn lögðu ekki á flótta þrátt fyrir ugg sinn og ótta. Um hegðun Baskanna fyrstu dagana á Vatneyri segir skáldið:

 

Kauðar frömdu kurteis hót og kysstu á hendur,

berhöfðaður hvör bófinn stendur

þó böðullinn væri þangað sendur.

(Þriðja ríma, 22. vísa.)

 

Bendir þetta til þess að Baskarnir hafi í fyrstu reynt að afla sér nauðsynja með friðsamlegum hætti, enda tekið fram í 24. vísu sömu rímu að æði þeirra hafi þá verið siðsamt og þeir beðið hvörn mann um drykk og klæði. En svo sem nærri má geta var ekki auðvelt fyrir almúga við Patreksfjörð að brauðfæða til lengdar fimmtíu erlenda nauðleitarmenn, enda hófu þeir brátt rán sér til bjargar:

 

Þegar sem nokkuð þrjóta þraut til þýðra vista

og höfðu ei allt sem hvörn kann lysta,

hjörtun tóku með reiði að byrsta.

 

– – –   

Heim til bæja hópurinn fór með harki og gjammi,

argir létu allt í frammi

sem illur krafði hrekkja vammi.

(Þriðja ríma, 32. og 35. vísa.)

 

Nauðugir urðu bændur að opna búr sín og skemmur og láta harkaliði þessu vetrarforða sinn í té.

Ljóst er af rímunum að Björn Magnússon, sýslumaður í Bæ á Rauðasandi, bróðir Ara í Ögri, hefur verið fjarverandi þennan vetur (fjórða ríma, 27. og 28. vísa) og má ætla að fyrir bragðið hafi dregist lengur en ella að veita Böskunum skipulegt viðnám.

Í Sauðlauksdal bjó á þessum tíma Ragnheiður Eggertsdóttir, ekkja Magnúsar prúða og móðir þeirra sýslumannanna Ara í Ögri og Björns í Bæ (sjá hér Saurbær á Rauðasandi). Ragnheiður var ein auðugasta kona landsins og á sjötugsaldri er Baskarnir gerðu henni heimsókn. Hún hefur þá minnst ránsins á Bæ á Rauðasandi, röskum aldarþriðjungi fyrr, er erlendir sjóreyfarar handtóku föður hennar og létu greipar sópa (sjá hér Saurbær á Rauðasandi).

Í Víkingarímum segir frá komu spænska Péturs og nokkurra manna hans að Sauðlauksdal þar sem fjölmenni var fyrir og telur rímnaskáldið að þar hefði verið unnt að ráða niðurlögum spænska fyrirliðans og manns hans (þriðja ríma, 28., 38., 39. og 40. vísa). En Ragnheiður lét ekki bera vopn á komumenn svo sem einhverjir hafa ætlast til. Þvert á móti héldu þeir glaðir frá garði í Sauðlauksdal og höfðu aflað þar ærinna vista:

 

Grannt þarf ekki greina um allt sem glósur hljóða,

þá lét færa þiljan rjóða

þrjósku lýðnum kostinn góða.

 

Fyrir ótta sakir ágæt brúður það af lét höndum,

hún þóttist stödd í þrautum vöndum

að þrasa í móti svoddan öndum.

(Þriðja ríma, 41. og 42. vísa.)

 

Máske er það rétt hjá rímnaskáldinu að ótti hafi fyrst og fremst ráðið því að þiljan rjóða og ágæt brúður (þ.e. Ragnheiður) gaf þess kost að spænski Pétur og lið hans næðu birgja sig upp í Sauðlauksdal. Aðrar skýringar gætu þó líka komið til greina og Jón lærði segir í 117. vísu Fjölmóðs að Ragnheiður og Björn sonur hennar hafi veitt Böskunum ölmusu vetur í gegnum.[63]

Svo virðist sem Baskarnir hafi búið alllengi að korni og kvikfé frá Sauðlauksdal og haft hægt um sig nema hvað heimafólk á Vatneyri gat stundum lítið sofið fyrir skotum og hrópum.

Undir jól var þó ránsfengur Baskanna á þrotum (þriðja ríma, 50. vísa). Hófu þeir þá gripdeildir í Tálknafirði eins og segir í rímunni:

 

Í fjörðinn Tálkna flokkurinn kom hinn flótta sanni,

lítið frá eg það lýður banni,

þeir leituðu heim að mörgum ranni.

 

– – –

Ybbnir heimta allt hvað menn skulu úti láta,

gjörir það ekki gumna káta,

glúpna virðar en kvendin gráta.

(Þriðja ríma, 55. og 58. vísa.)

 

Í ferðir til Tálknafjarðar fóru Baskarnir vopnaðir sverðum og spjótum og náðu þar mjöli, smjöri og fiski en líka nautgripum og fluttu allt til Vatneyrar.

Ekki leið á löngu uns spurnir bárust norður að Djúpi af framferði Baskanna á Vatneyri og þeim vanda er Patreksfirðingum og Tálknfirðingum hafði borið að höndum. Vel má vera að Ragnheiður í Sauðlauksdal eða einhver annar úr röðum fyrirfólks í nágrenni Vatneyrar hafi sent syni hennar, Ara í Ögri,  skýrslu um ástandið og beðist liðsinnis. Með konungsbréfi frá 30. apríl 1615 höfðu Biskaiar og aðrir þeir sem á Íslandi færu með ránskap verið úrskurðaðir rétttækir og réttdræpir hvar sem hittast kynnu og var þessi konungsúrskurður staðfestur með Alþingisdómi sumarið 1615.[64] Er Ari í Ögri lét veita Böskunum aðför í Æðey haustið 1615 hafði hann þennan lagagrundvöll að bakhjarli.

Þann 26. janúar árið 1616 var Ari sýslumaður staddur á Mýrum í Dýrafirði og kvaddi hann þá tólf menn úr Ísafjarðarsýslu í dóm til að rannsaka hvort þeir spönsku skipbrotsmenn mættu með nokkru móti friðhelgir vera hér í landi, er nú á Vatneyri liggja og sig hafa þar í vetur haldið með ráni og stuldi … og heitast hafa við líf og góss allmargra í Ísafjarðarsýsla.[65]

Einn dómsmanna var Jón Gizurarson og er það að líkindum fræðimaðurinn á Núpi í Dýrafirði með því nafni, hálfbróðir Brynjólfs biskups Sveinssonar.[66]

Þó að dómur tólfmenninganna sé kenndur við Mýrar í alþingisbókinni þá er svo að sjá sem frá honum hafi verið gengið með formlegum hætti í Ögri röskum mánuði síðar en tólfmenningarnir voru kvaddir í dóm.

 

Samþykkti með oss áður greindur valdsmann [Ari] þennan vorn dóm. Og til sanninda hér um þrykkti hann sínu innsigli með vorum fyrrskrifaðra dómsmanna innsiglum fyrir neðan þetta bréf, er skrifað var að Ögri í Ísafirði árum eftir lausnarans fæðing 1616, 27. dag febrúar, segir þar.[67]

 

Í dómsúrskurði tólfmenninganna segir m.a.:

 

Álítum vér fyrst að þessi þjóð [þ.e. Baskar – innsk. K.Ó.] hefur landið brúkað ekki alleinasta í óleyfi við vorn náðugasta herra kónginn heldur og í forboði stolið almennilega rekaviðum manna og jafnvel hús niður brotið sér til eldiviðar. Í þriðja lagi almúganum margvíslega ógnað og amað og stóra hindran gjört á hans næringu. Í fjórða máta almúgans fjármunum rænt og stolið … og nú þeir eru nauðstaddir skipbrotsmenn leita þeir ekki öðruvísi ölmusu en svo að þeir stela þar ekki síður er þeim er til góða gjört og ölmusa gefin, – en taka víðast óbeðið lífsbjörg manna og gagnlegar kýr eður þeir ganga svo ríkt að fólki með byssum og verjum að menn fyrir ótta sakir gefa þeim sína lífsbjörg en sitja snauðir eftir.[68]

 

Síðar í dómnum segir að nái Baskar á Vatneyri að komast brott af landinu án þess að mæta hér nokkrum skelk þá sé þess að vænta að þeir muni síðar reyna að koma fram hefndum fyrir þá landa sína er hér höfðu farið rænandi um Ísafjarðarsýslu og þegar verið vegnir. Um þetta komast dómsmenn svo að orði: Þá höfum vér að ugga og óttast … að hún [Baskaþjóð] brenni og bæði hús og heimili, myrði og mannskaða veiti konum og börnum og öllum þeim fyrir verða og hefni svo landa sinna.[69]

Dómsniðurstaðan varð líka í samræmi við þetta:

 

Og uppá það að vér með öðrum innbyggjurum sýslunnar mættum fundnir vera hollir og trúir vorum náðugasta kóngi, þeim lið að leggja er af hans náðar þegnum í Barðastrandarsýslu undir þeirra ráni liggja … þá í guðs nafni. Amen. … dæmdum vér fyrrtéða skipbrotsmenn með öllu friðlausa og sanna ránsmenn, dræpa og deyðandi, hvar þeir mega höndlast og alla innbyggjara Ísafjarðarsýslu skylduga vera þeim aðför að veita er valdsmaður til krefur. En hinir aðrir er heima sitja toll að gjalda eftir fjármunum svo að hann leggist fyrir kostnað þeirra er fara og til nokkurrar hýru.[70]

 

Ekki leynir sér að hér er stefnt að meiriháttar herútboði um alla Ísafjarðarsýslu og gjaldtöku af öllum þeim er sleppi við herkvaðningu. – Gjaldi þeir fjórðungs virði í mat eður öðru gjaldlegu er nokkra tíund gjöra, segir í dómnum en fjórðungur á landsvísu var sama og fimm fiskar eða einn áttundi úr ærverði. Ættu menn sem svaraði tíu jarðarhundruðum skyldi gjaldið vera helmingi hærra og enn hærra væru eignir metnar á fjörtíu hundruð eða þar yfir.[71]

Þá er í dómnum tekið fram að reyni einhverjir að skjóta sér undan herkvaðningu þá megi hinir sömu vænta þess að slíkum brotum verði skotið til Alþingis og refsidóms óskað þaðan:

 

Því skyldi almúginn þessarar aðfarar eður annarrar synjast mega er hernaður eður vandræði upp á koma, líf og góss allmargra við liggur, þá höldum vér það óbætilegan skaða gjöra mega … því svo stendur í þegnskyldu að eigi megi fávitrir menn synja höfðingjum réttrar þegnskyldu fyrir þrjósku sakir eður skammsýnrar óvisku.[72]

 

Líklega finnast vart yngri dæmi um svo alvarlega tilraun valdsmanna til meiriháttar herútboðs á Vestfjörðum, – en oft verður lítið úr því högginu sem hæst er reitt.

Er Ari Magnússon, sýslumaður í Ögri, reið til Alþingis sumarið 1616 hafði hann meðferðis bréf frá þremur prestum og níu leikmönnum vestra, dagsett 3. júní það ár í Holti í Önundarfirði. Þar segir að Ari hafi, með liðsafla úr Ísafjarðarsýslu, hafið aðför að Böskunum á Vatneyri, – þó sú aðför hindraðist fyrir sérlegar sakir, sem sá heiðursmann Ari B(óndi) Magnússon kann best frá að skýra.[73]

Nú er ekki svo vel að við getum yfirheyrt Ara sjálfan eða aðra þá sem í förinni voru um þessar sérlegu sakir. Í Víkingarímum, sem hér var áður vitnað til, kemur hins vegar skýrt fram að Ari lagði upp í herförina til Vatneyrar með 95 manna flokk en liðið sneri við í Tálknafirði. Í fjórðu rímu segir svo í 34. til 36. vísu:

 

Bjuggust þegar brátt til vegar

bragna lundar,

heiman spranga, hvörn til langar

hjörva fundar.

 

Saman völdust, síðan töldust

sex og níu

að örvakliði af Íslands liði

og átta tíu. [6 + 9 + 80 = 95, innsk. K.Ó.]

 

Frægðar snari fús var Ari

að fella spanska

hefndir rækja, heim að sækja

á húsið danska.

 

Rímnaskáldið hefur síðan á orði að lið Ara hafi gert langa reisu og skeiðað um dali og heiðar, annes og firði. Líklega hefur mönnum verið stefnt saman á einn stað í Tálknafirði og Djúpmenn úr fjórum hreppum þá farið Glámu í Arnarfjarðarbotn.

Ef marka má Víkingarímur hefur fundum nokkurra norðanmanna og einhverra úr hópi Baska borið saman í Laugardal í Tálknafirði er Baskar komu þangað til rána (fjórða ríma, 49. vísa). Á þeim fundi kom þó ekki til verulegra vopnaviðskipta. Náðu Baskar að flýja á bátum sínum en misstu þó einn sinna manna.

Skömmu síðar hófst herganga norðanmanna úr Tálknafirði til Patreksfjarðar og hafa þeir trúlega farið alfaraveg um Lambeyrarháls en eftir fundinn í Laugardal vissu Baskar hvers var að vænta. Á fjallinu lenda menn Ara í hinni verstu ófærð og þar brestur á norðanbylur með grimmdarfrosti. Í fjórðu rímu Víkingarímna segir í 84. og 85. vísu:

 

Um beðju basa bragnar kvasa

barmar lyndi,

í feykings mjalla fyrðar falla

á foldar strindi.

 

Að einum steini Austrar leyni

allir drógust,

svarta hríðin særði lýðinn,

saman slógust.

 

Herflokkur Ara bónda komst aldrei yfir Lambeyrarháls en sneri við í hríðinni. Náðu þessir hristar sverða með naumindum til bæja í Tálknafirði og máttu teljast heppnir þar hvíld að fanga (fjórða ríma, 87. vísa). Síðan sneri hver heim til sín eða eins og segir í rímunni: hvör til sinna halur heimkynna heilir komust (fjórða ríma, 92. vísa).

Undarlegt má það reyndar kalla að hraustir og týgjaðir Vestfirðingar láti einhvern venjulegan góubyl hindra ferðir sínar þegar stórt á að vinna og geri ekki einu sinni aðra tilraun þegar upp styttir. Hér þarf skýringar að leita. Í Víkingarímum er reyndar gefið í skyn að menn hafi talið hríðina  vera gjörningaveður og þess vegna ekki lagt á hálsinn á ný:

 

Segja gjörninga sig frá þvinga

af Sathans vælum

en hugur er enginn hörkufenginn

húsgangs þrælum. (Fjórða ríma, 97. vísa.)

 

Í rímunum má sjá að Baskarnir hafa haft eitthvað af byssum og púðri undir höndum, auk annarra vopna. Vestfirðingar voru flestir óvanir vopnaburði er hér var komið sögu og vel má vera að einhverjir hafi kiknað í hnjáliðunum þegar svo nærri hólminum var komið. Hitt er líka hugsanlegt, þó að fyrir því séu engar heimildir, að Baskarnir hafi yfirgefið Vatneyri um stund meðan lið Ara sat í Tálknafirði og menn ekki ráðist í að leita þá uppi svo illt sem verið hefur yfirferðar á þessum harða vetri. Að minnsta kosti hlutu Baskar að vita um liðsafnaðinn eftir fundinn í Laugardal og því ekki unnt að koma þeim á óvart næstu daga á eftir. Hvað sem um það er virðist ljóst að hefði dregið til bardaga á Vatneyri árið 1616 með um 50 Böskum og nær 100 Íslendingum þá hefði að líkindum orðið þar mannskæðari orrusta en hérlendar sögur frá síðustu sjö öldum greina frá.

Svo fór að Baskarnir komust lífs frá Vatneyri. Um vorið tóku þeir að róa í fjörðinn og afla fiskjar. Veturinn hér við ysta haf hafði verið þessum suðrænu hrakningsmönnum bæði langur og leiður. Einn bjartan dag, líklega á hörpu, sjá þeir loks skip sigla fyrir Blakkinn. Þetta var ensk fiskidugga og stefndi inn í lognið á firðinum. Í byrleysi átti skútan enga undankomuleið. Hvalveiðimennirnir fimmtíu, sem þreyð höfðu þorrann og góuna í dönsku kaupmannshúsunum á Vatneyri og vafalaust óttast þar um líf sitt flesta daga, réðust nú snarlega til uppgöngu í hið kærkomna skip, tóku það herskildi og sigldu brott úr firði heilags Patreks. Frá þeim atburði segir í fimmtu og síðustu rímu Víkingarímna.

Um framhaldið er margt óljóst þar eð heimildum ber ekki saman. Máske hafa þeir aldrei komist til síns kæra Baskalands. Sjávarborgarannáll, sem er ung heimild, segir við árið 1615:

 

Komu reyfarar illir á Patreksfirði vestur og vildu ræna alla Vestfirði en þeir urðu yfirunnir af Engelskum, hverja þeir höfðu þó áður tekið sér til liðsmanna í því efni, svo þeir drápu marga af þeim og sigldu svo burt.[74]

 

Hér hefur nú verið fjallað allítarlega um setu Baska á Vatneyri veturinn 1615-1616 og er mál að linni. Sem betur fór var hér um einstakan atburð að ræða. Líklega hefur enginn annar íslenskur verslunarstaður verið tekinn með vopnavaldi af erlendum sjómönnum og þeir ráðið á slíkum stað lögum og lofum vetrarlangt, a.m.k. ekki frá því Danir tóku Íslandsverslunina í sínar hendur í byrjun 17. aldar. Jörundur ríkti aðeins sex vikur í Reykjavík, hundadagana, en Baskar í sex mánuði á Patreksfirði.

Við upphaf dönsku einokunarinnar komst Patreksfjarðarverslun í hendur kaupmanna frá Málmey í Suður-Svíþjóð[75] en Danir höfðu þá enn yfirráð á  Skáni og því var Málmey í Danaveldi. Verslunina á Vatneyri ráku tíu Málmeyjarkaupmenn í samlögum nokkur ár.

Er einokun Dana á versluninni hafði verið við lýði skamma hríð fóru kaupmenn að hækka mjög verð á erlendum vörum frá því sem áður hafði tíðkast. Synir Magnúsar prúða, þeir Ari í Ögri við Ísafjarðardjúp og Björn í Bæ á Rauðasandi, er báðir fóru með sýsluvöld, reyndu vorið 1615 að hemja okur kaupmanna með nýrri kaupsetningu fyrir Vestfirði sem þó fékk aldrei lagagildi.[76] Fáum árum síðar gaf konungur sjálfur út verðlagsskrá þar sem að mestu var farið að vilja kaupmanna.[77]

Á einokunartímanum, árunum 1602 til 1787, var eitt vöruskip á ári stundum látið nægja fyrir Patreksfjörð og Bíldudal sameiginlega. Kaupsvið Vatneyrarverslunar náði yfir allan Rauðasandshrepp, Tálknafjörð og Barðaströnd fyrir utan Hagavaðal.[78] Árið 1703 var íbúafjöldinn á því svæði 1025 manneskjur.[79]

Árið 1662 varð Henrik Müller eigandi verslunarinnar á Vatneyri en hann var um skeið með valdamestu mönnum í Danmörku og sagður hinn fífldjarfasti í gróðabralli.[80] Þessi nýi eigandi Vatneyrarverslunar hafði tveimur árum fyrr átt mikinn þátt í að koma á einveldi konungs í Danmörku og þá verið skipaður umsjónarmaður ríkisfjárhirslunnar. Seinna var hann aðlaður en sonur hans var Christian Müller, fyrsti amtmaðurinn á Íslandi.[81]

Meðal þeirra sem ráku Patreksfjarðarverslun á tímabilinu frá 1680 til 1730 má finna Johann Klein og svo ekkju hans, einnig Andreas Bech og bræðurna Biering.[82]

Allt til ársins 1765 var verslun aðeins rekin á Vatneyri í nokkrar vikur á ári og þá eingöngu að sumri til. Árið 1764 tók Almenna verslunarfélagið við Íslandsversluninni og á aðalfundi þess vorið 1765 var samþykkt að hafa framvegis vetursetumenn á öllum Vestfjarðahöfnum.[83] Fyrstu verslunarstjórarnir sem höfðu hér vetursetu voru Dines Jespersen og Peter Hansteen.[84]Með konunglegri tilskipun sem gekk í gildi 1. janúar 1777 var svo mælt fyrir um vetursetu á öllum verslunarstöðum hérlendis.[85]

Á árunum 1770 til 1780 dró til ýmissa tíðinda á Vatneyri. 1771 til 1772 voru um tuttugu Norðmenn frá bænum Molde á vesturströndinni sendir til Íslands með efni í áttatíu báta. Áttu þeir að kenna Íslendingum bátasmíðar, siglingar og fiskveiðar í net, allt að hætti Sunnmæra í Noregi.[86] Nokkrir þessara Norðmanna settust að á Patreksfirði en hinir á Ísafirði, í Grundarfirði og í Hólminum  en Hólmsins kaupstaður, sem þarna mun vera átt við, var þá í Örfirisey hjá Reykjavík. Norðmennirnir áttu að dveljast hér í a.m.k. þrjú ár.[87] Skemmst er frá því að segja að viðleitni þessi bar lítinn eða engan árangur, enda fór því fjarri að Sunnmærabátarnir hentuðu til sjósóknar við Íslandsstrendur.

Árið 1774 hófst konungsverslunin síðari og var þá brátt hafist handa um viðameiri breytingar á sjósókn frá íslenskum höfnum. Í samræmi við tillögur Landsnefndarinnar fyrri var árið 1776 og á næstu árum hafin þilskipaútgerð á vegum danska ríkisins frá nokkrum höfnum á Íslandi. Ein þessara hafna var Patreksfjörður en þar komu einnig við sögu þrjár aðrar hafnir á Vestfjörðum, Ísafjörður, Þingeyri og Bíldudalur.[88] Á vorin sigldu konungsskipin til Íslands með erlendan varning, stunduðu síðan veiðar frá höfnum á Íslandi yfir sumarmánuðina og sigldu utan með íslenskar afurðir að hausti. Hugmynd Jóns Eiríkssonar konferenzráðs var sú að á þessari konungsútgerð gætu Íslendingar fengið æfingu í sjómennsku á þilskipum.[89]

Ekki er fyllilega ljóst hversu mikil umsvif konungsútgerðarinnar voru á Vatneyri en án vafa má fullyrða að talsverð hreyfing hafi fylgt Peter Hölter sem tók við starfi verslunarstjóra konungsverslunarinnar hér árið 1777, þegar Peter Hansteen, sem fyrr var nefndur, hvarf frá – um sama leyti og skútuútgerðin hófst.[90] Peter Hölter hóf fyrstur manna  saltfiskverkun á Vatneyri með aðferð sem kennd er við Terraneuf á Nýfundnalandi og hlaut hann sérstök verðlaun fyrir þá framtakssemi.

Á 17. öld var aðeins lítið eitt flutt út frá Íslandi af saltfiski sem kaupmenn létu þá salta í tunnur eða stafla blautum í lestir skipa.[91] Niels Horrebow, sem dvaldist hérlendis frá 1749 til 1751, ritar árið 1750 að kaupmenn á Íslandi salti fisk í mörg hundruð tunnur á ári en Íslendingar salti fisk sjálfir eingöngu til innanlandsneyslu því að þeir hafi ekki komist upp á eins gott lag með að verka hann og kaupmenn.[92] Ólafur Stephensen, síðar stiftamtmaður, mun að líkindum hafa látið salta fisk að Terraneufshætti fyrstur manna á Íslandi en á því byrjaði hann árið 1766.[93] Ólafur fluttist á því ári frá Leirá í Borgarfirði að Bessastöðum en útveg sinn hafði hann á Akranesi. Terraneufsaðferðin varð löngu síðar almenn við saltfiskverkun hér en slík söltun var forsenda saltfisksölunnar til Miðjarðarhafslanda[94] sem í byrjun 19. aldar varð mjög mikilvægur þáttur í atvinnulífi þjóðarinnar.

Peter Hölter, verslunarstjóri á Patreksfirði, hóf þannig saltfiskverkun fyrstur manna á Vestfjörðum og flutti út 130 skippund af slíkum fiski árið 1781 og enn meira árið eftir.[95] Um þetta leyti hefur verið líflegt á Vatneyri og þar eru skráðir til heimilis 43 íbúar á sóknarmannatali frá árinu 1782.[96] Samherji Hölters í fiskverkunarmálinu var Bjarni Einarsson, þáverandi sýslumaður Barðstrendinga (sjá hér Hagi á Barðaströnd).

Í þriðja árgangi Rita þess íslenska Lærdómslistafélags er greint frá verðlaunaveitingu Landbústjórnarfélagsins danska til Peters Hölter á Vatneyri árið 1783 og komst svo að orði:

 

Hefir kaupmaður Hölter tekið sér fyrir að gjöra merkilega endurbót á því að verka eftir Terraneufs hætti þann fisk er aflast í Patreks- og Tálknafirði. Sá fiskur, er veiðst hefir í þessum fjörðum, hefir hingað til verkaður verið sem harðfiskur og hafa Innbyggendurnir eigi einungis þarvið einskis ábata notið, heldur hefir þeim einnig verið ómögulegt að fá það staðist, þar verðlagið á fiskinum í höndluninni hefir eftir nýja taxtanum verið harla lítið, en þar á móti hátt á línum, járni og timbri. Kaupmaður Hölter, sem kom til kaupstaðarins árið 1777, gætti þessa og hins mikla skaða, bæði fyrir höndlunina og Innbyggendurna, sem þaraf hlotnaðist. Þess vegna fékk hann menn til að flytja sér fiskinn blautan og kenndi þeim ásamt þann söltunarhátt og aðferð, sem þarvið er höfð á Terraneuf, svo að fiskurinn hefir þarvið náð öllum þeim gæðum, sem hinn frá Terraneuf á til að bera.

… Eftir nákvæmu yfirlagi trúverðra manna hefir félagið fregnað að nær kostnaður á hvorutveggja verkuninni og verðlagið í jafnlanga tið er samanborið verði ábatinn af Terraneufsverkuninni móti þeirri almennilegu fiskherðingu, sem nú viðgengst, nær því tvöfaldur fyrir höndlunina en fyrir Innbyggarana sjálfa, er afhenda fisk í kaupstaðinn, þess að auki líka mjög merkilegur. … Þeim sem vegna vegalengdar og hættu í Patreksfirði geta eigi flutt blauta fiskinn til kaupstaðarins, hefir kaupmaður Hölter heitið smá-verðlaunum, 2 til 6 ríkisdala virðis, nær þeir vildu byrja að verka fiskinn á Terraneufshátt.[97]

 

Í frásögn þessari af verðlaunaveitingunni til Hölters á Vatneyri er að lokum tekið fram að hann hafi fyrstur manna á Íslandi látið salta haustafla með Terraneufsaðferð en í öðrum plássum hafi eingöngu verið saltaður á þennan hátt fiskur er veiðst hafi eftir Nýársleiti.

Allt sýnir þetta að Peter Hölter hefur verið framtaksmaður og líklega munað vel um hann á Vatneyri.

Á 17. og 18. öld stunduðu Englendingar, Hollendingar og Frakkar veiðar hér við land og einnig verulega launverslun. Danir reyndu öðru hvoru að hamla á móti launversluninni og má nefna sem dæmi að árið 1765 lét Almenna verslunarfélagið smíða sérstaka duggu er ganga skyldi á Patreksfjörð og Bíldudal en jafnframt hafa eftirlit með verslun útlendinga á Íslandi.[98] Náði hún um sumarið tveimur frönskum skútum en áhafnir þeirra höfðu verið staðnar að launverslun. Danakonungur mælti þá svo fyrir að þessum frönsku sjómönnum skyldi sleppt í vináttuskyni við konungshirðina í Frakklandi.[99]

Tveimur árum síðar, 1767, sendi franska stjórnin herskip til Íslands til að gæta franskra fiskimanna og veita þeim nauðsynlega aðstoð. Herskipið sigldi vestur á Patreksfjörð og var hér við mælingar á höfninni og næstu annesjum bæði 1767 og 1768.[100] Sjóliðsforingi á franska herskipinu var Kerguelen de Tremarec og hefur hann ritað bók mikla um sjóferðir sínar sem út kom í París árið 1771. Hann segir þar m.a. frá komu sinni til Patreksfjarðar í maí 1767 en þá lágu hér 36 fiskiskip að hans sögn og var ís á firðinum.[101] Að sögn þessa franska sjóliðsforingja voru 80 frönsk og 200 hollensk fiskiskip við veiðar á Íslandsmiðum sumarið 1767. Kerguelen de Tremarec segir skipslækni sinn hafa hjálpað mörgum sængurkonum á Íslandi en fjölmargar þeirra deyi af barnsförum. Svo er að sjá að sjóliðsforinginn og menn hans hafi einkum átt skipti við Íslendinga hér á Vatneyri og í nálægum byggðum. Hann segir flesta Íslendinga heilsulitla eftir fimmtugt og flestir deyi þeir úr brjóstveiki, skyrbjúg eða harðlífi.[102] Helsta fæðan sé þorskhausar á sumrin en kindahausar (svið) á veturna. Búkana af þorskum og kindum leggi menn aftur á móti inn í verslanir.

Kerguelen de Tremarec mun fyrstur manna hafa mælt höfnina á Vatneyri því að Danir byrjuðu ekki strandmælingar hér við land fyrr en 1776 en það ár gerði Lütken, kapteinn á dönsku strandgæsluherskipi, uppdrátt af Patreksfirði.[103] Þá hefur völundarhúsið á Vatneyrartanga máske enn verið sjáanlegt en um það orti Þorsteinn Böðvarsson sem kallaður var Latínu-Þorsteinn:

 

Ævin manns er eins og hús

er menn Völund kalla.

Þar inn margur fetar fús

en fær út ratað valla.[104]

 

Höfundur vísunnar ólst upp í Flatey hjá séra Sigurði Sigurðssyni sem andaðist árið 1753. Þorsteinn var stirðkvæður í æsku en fyrr en varði vitraðist sjálfur fjandinn honum í draumi og bauðst til að leggja honum til þvílíka skáldgáfu að hann gæti ort jafnhratt og aðrir töluðu. Tilboði þessu fylgdi aðeins eitt skilyrði, að hann mætti samt aldrei yrkja annað en níð. Að þessu gekk Þorsteinn sem þá var í Skálholtsskóla og varð þaðan í frá hið snjallasta níðskáld. Aftur á móti er talið að hann hafi aðeins ort eina meinlausa vísu um ævina og er það sú um völundarhúsið á Vatneyrartanga.[105]

Við upphaf ársins 1788 lauk hinu langa skeiði einokunar í verslunarrekstri á landi hér en við tók fríhöndlun er svo var nefnd. Breytingin var sú að nú máttu allir þegnar Danakonungs fást hér við kaupskap ef þeim sýndist svo en hins vegar gilti áfram algert bann við því að Íslendingar fengju að versla við þegna annarra þjóðhöfðingja. Stóð svo til ársins 1855. Þegar konungsverslunin hætti rekstri á Íslandi árið 1787 voru eignir hennar um land allt seldar. Tveir menn hófu verslunarrekstur hér á Vatneyri og kepptu í fáein ár um hylli viðskiptamanna í nálægum sveitum.[106] Annar þessara manna var Jochum Brinck Lund frá Farsund í Noregi, sem keypti þrjú af átta húsum konungsverslunarinnar á Vatneyri en gafst svo upp á rekstrinum eftir fimm ár og munu umsvif hans aldrei hafa verið mikil.[107]

Hinn sjálfstæði kaupmaðurinn sem hóf hér rekstur árið 1788 hét Peter Jensen Herning en hann hafði þá verið verslunarþjónn hjá konungsversluninni á Vatneyri um nokkurt skeið.[108] Herning keypti í byrjun þrjú af húsum konungsverslunarinnar, íbúðarhúsið, búðina og eitt pakkhús og með í þeim kaupum fylgdi 17 stórlesta skúta (um 44 smálestir) til vöruflutninga yfir hafið.[109] Nafn hennar var Örreden[110] (Urriðinn). Árið 1792 keypti Herning stærra skip sem hét Pauline og var 34 stórlestir (um 88 smálestir) og þremur árum síðar keypti hann af sölunefnd konungsverslunarinnar allstórt bjálkahús sem reist hafði verið hér á Vatneyri 1786.[111] Kaupverð hússins var 200 ríkisdalir og átti að greiðast á fimm árum.[112]

Á fyrstu árum verslunarreksturs síns hér kvartaði Herning mjög yfir viðskiptum manna á sínu kaupsvæði við erlenda fiskimenn[113] en þær kvartanir munu ekki hafa borið umtalsverðan árangur. Hann átti líka í nokkru stríði út af leigugjaldi fyrir verslunarlóðina. Eigandi Vatneyrar á þessum árum var Þóroddur Þóroddsson, sem verið hafði beykir við konungsverslunina,[114] afi Jóns Thoroddsen, skálds og sýslumanns. Kona Þórodds og amma Jóns Thoroddsen var Bergljót Einarsdóttir, systir Bjarna sýslumanns Einarssonar sem fyrr var frá sagt (sjá hér Hagi). Allir eða nær allir Thoroddsenar sem nú eru á dögum munu vera niðjar Þórodds beykis og Bergljótar. Í tíð konungsverslunarinnar hafði leigan af Vatneyri verið 15 ríkisdalir á ári en þegar Herning tók við rekstrinum vildi Þóroddur tvöfalda þá upphæð.[115] Ólafur Stephensen stiptamtmaður felldi að lokum þann úrskurð í deilunni að leigugjaldið skyldi vera 20 ríkisdalir.[116]

Frá árinu 1792 var Herning eini kaupmaðurinn á Patreksfirði. Hann þótti harðdrægur í viðskiptum  og haustið 1795 var hann sakaður um okur og kærður fyrir amtmanni.[117] Kæruskjalið er dagsett í Sauðlauksdal 16. október 1795 og undirritað af hópi manna sem telja Herning misbeita því alræðisvaldi sem hann í raun hafi þegar engin sé samkeppnin.

Peter Jensen Herning rak verslun sína á Vatneyri frá 1788 og fram yfir aldamótin 1800. Á þessum árum var hann ætíð búsettur í Kaupmannahöfn en verslunarstjóri hans hér var löngum Jón Thorberg sem bjó á Geirseyri og var tengdasonur Þórodds Þóroddssonar beykis er fyrr var nefndur.[118] Rétt um aldamótin 1800 keyptu þeir Herning og Jón Thorberg þilskip í félagi við Peter Hölter, fyrrum verslunarstjóra á Vatneyri, og hugðust hefja skútuútgerð.[119] Ekkert varð þó úr þeim ráðagerðum því skipið fórst í ofviðri alveg nýkomið til landsins.[120] Einn eigenda þilskipsins, Peter Hölter er fyrr var frá sagt, drukknaði árið 1806, þá kaupmaður í Stykkishólmi, er vöruflutningaskip hans brotnaði í spón á strandstað úti fyrir Þorlákshöfn.[121] Sama ár, 1806, andaðist Jón Thorberg verslunarstjóri þann 17. júní, 43ja ára að aldri[122] en ekkja hans, Sigríður Þóroddsdóttir, bjó áfram á Geirseyri.[123] Þórður Þóroddsson bróðir hennar, faðir Jóns skálds og sýslumanns Thoroddsen, er árið 1808 beykir á Vatneyri en enginn verslunarstjóri skráður til heimilis á Patreksfirði í sóknarmannatali frá því ári.[124]

Árið sem Jón Thorberg andaðist, 1806, var þilskip í eigu innlendra manna í fyrsta sinn gert út frá Patreksfirði. Var það upphaf þilskipaútgerðar frá Vestfjörðum ef frá er talin konungsútgerðin um 1780 (sjá hér bls. 19). Eigandi skipsins var Ólafur Thorlacius, kaupmaður á Bíldudal, en hann kaus að gera það út frá Patreksfirði. Örfáum árum fyrr hafði fyrsta íslenska þilskipið hafið veiðar (sjá hér Litli- og Stóri-Laugardalur).

Guðmundur Scheving, kaupmaður í Flatey á Breiðafirði, greinir frá upphafi þilskipaútgerðar á Vestfjörðum í fjórða árgangi tímaritsins Ármann á Alþingi sem út kom 1832. Sjálfur var Guðmundur einn allra helsti forgöngumaður slíkrar útgerðar (sjá hér Flatey). Í ritgerð sinni í Ármanni segir hann:

 

Fyrir árið 1806 hafði ekkert þilskip verið á Vesturlandi og eigi heldur neinn Íslendingur, er hafði vanist sjómennsku á þilskipum eða þilskipasmíði. En síðan má telja:

  1. Slúpskipið Ste. Johannes, 18 lestir að innanrúmi. Kaupmaður sálugi og riddari O. Thorlacius keypti það 1806 og hafði það á Patreksfirði. Lá skipið á vetrum við Litlueyri [í Bíldudal – innsk. K.Ó.] en var að fiskveiðum á sumrum. Stýrðu því danskir yfirmenn allt til 1809 en þá gjörðist Þorleifur Jónsson á Suðureyri [í Tálknafirði – innsk. K.Ó.] skipherra og var það allt til 1815 er það var látið utan fara til algjörlegrar endurbótar. Hann var þá um tvítugsaldur og sá einasti af Vestfirðingum, að því sem mér er kunnugt, sem hafði tekið stýrimanns examen.[125]

 

Nánar verður ekki fjallað hér um þessa merkilegu útgerð.

Bjarni Bjarnason var verslunarstjóri á Vatneyri frá því um 1810 og nokkuð fram yfir 1820 (sjá hér Sauðlauksdalur og Álftamýri). Hann bjó á Vatneyri.[126] Hjá honum var, að sögn, til húsa í fáein ár Guðbrandur Jónsson sem settur var sýslumaður Barðstrendinga árið 1812.[127] Guðbrandur var fyrsti sýslumaðurinn sem sat á Vatneyri en aðeins fáein ár því árið 1817 fluttist hann héðan að Feitsdal (Feigsdal) í Arnarfirði þar sem hann átti síðan heima í 30 ár. Guðbrandur sýslumaður var sterkur vel. Á Vatneyri skemmti hann mönnum með því að bregða tám á báðum fótum í handföngin á tveimur vættarlóðum [vætt = 40 kíló] og gekk svo á þeim sem tréskóm þar milli kaupstaðarhúsanna. Þótta það hraustlega leikið.[128]

Sumarið 1815 kom erindreki breska biblíufélagsins, Ebenezer Henderson, á Vatneyri ríðandi frá Tálknafirði. Hann hitti hér fyrir Bjarna faktor en Guðbrandur sýslumaður var ekki heima.[129] Henderson lætur vel af móttökunum hjá Bjarna sem gladdi kristniboðann með þeim fréttum að meira en helmingur þeirra eintaka af Ritningunni, sem hingað höfðu verið send, væru þegar seld og búið væri að panta flest þau eintök, er eftir væru.[130]

Þeir Bjarni faktor og einn manna hans reru  með Henderson yfir í Sauðlauksdal. Þar þótti ferðalangnum lendingin tvísýn og erfitt að kjaga sandinn heim til bæjar.

Í þeim sóknarmannatölum sem varðveitt eru úr Sauðlauksdals­prestakalli verður ekki séð að nokkur eigenda verslunarinnar á Vatneyri hafi tekið sér hér bólfestu fyrir 1824. En á því ári er Christian Michael Steenbach skráður til heimilis á Vatneyri ásamt konu sinni og syni og sagður kaupmaður.[131] Hann er þá 24 ára gamall og orðinn eigandi Vatneyrarverslunar (sjá hér Flateyri). Steenbach kaupmaður býr á Vatneyri næstu árin og rekur hér verslun sína. Líklega hefur hann lent í erfiðleikum um 1837 því á sóknarmannatali frá árinu 1838 er hann ekki lengur talinn kaupmaður á Vatneyri heldur verslunarstjóri. Þá er Jess Nicolaj Knudtzon orðinn eigandi verslunarinnar og býr á Vatneyri þetta ár, 28 ára gamall (sjá hér Grandi í Dýrafirði).[132] Upp úr þessu fer Chr. M. Steenbach burt frá Vatneyri en hann átti þó eftir að koma hér við sögu á nýjan leik.

  1. N. Knudtzon kaupmaður varð aftur á móti skammlífur því árið 1840 býr ekkja hans, Ane Margrethe Knudtzon, á Vatneyri, 25 ára gömul með ungan son þeirra. Hjá henni er þá bróðir hennar Lauritz Knudsen og líka ungur assistent, William Thomsen að nafni, sem flust hafði til Patreksfjarðar árið áður frá Holstein[133] sem þá taldist til Suður-Jótlands en er nú í Þýskalandi. Þá voru þrjú timburhús á Vatneyri.[134] Tveimur árum síðar er W. Thomsen þessi kvæntur ekkjunni og orðinn kaupmaður á Vatneyri. Þau bjuggu hér síðan næstu ár. Árið 1845 voru börn þeirra orðin fjögur og þá eru sautján manns í heimili hjá þessum kaupmannshjónum. Annað fólk var þá ekki búsett á Vatneyri.[135] Ane Margrethe, sem átti tvo kaupmenn á Vatneyri fyrir maka, bar fyrir hjónaband ættarnafnið Knudsen og var ein hinna fögru Knudsensystra frá Landakoti í Reykjavík. Sem ekkja bjó hún síðar alllengi á Granda í Dýrafirði (sjá hér Grandi og Þingeyri).

William Thomsen virðist hafa misst heilsuna strax um þrítugsaldur og andaðist á Vatneyri 22. júní 1853 úr tærandi sjúkdómi, aðeins 34 ára. Hann var þá enn titlaður kaupmaður.[136] Sex árum fyrr, árið 1847, fluttist til Vatneyrar frá Ólafsvík , Þorsteinn Thorsteinsson og hóf hann þá þegar verslunarrekstur hér. Þorsteinn var kaupmaður á Vatneyri í fjögur ár eða þar um bil, verslaði síðan á Geirseyri í þrjú ár (sjá hér bls. 2-3) en gerðist þá verslunarstjóri á Þingeyri (sjá hér Þingeyri).[137] Kona hans var Hildur, dóttir Guðmundar Scheving fyrrum kaupmanns og útgerðarmanns í Flatey. Þau voru bæði um þrítugsaldur er þau settust að á Vatneyri. Sonur Þorsteins fram hjá konu sinni var Pétur J. Thorsteinsson, hinn mikli athafnamaður á Bíldudal.[138] Þorsteinn Thorsteinsson var fyrsti innlendi kaupmaðurinn á Vatneyri og hóf fyrstur manna verslun á Geirseyri.

Árið 1855 kemur Chr. M. Steenbach aftur til Vatneyrar og gerist kaupmaður hér á nýjan leik eftir um það bil sextán ára fjarveru. Í manntali frá því ári má sjá að hann er þá eini kaupmaðurinn á Patreksfirði, orðinn ekkjumaður. Chr. M. Steenbach verslaði að þessu sinni á Vatneyri í rúman áratug en fluttist héðan til Danmerkur árið 1867.[139]

Árið 1865 seldi Steenbach Þorsteini Thorsteinsson yngri, bróður þess sem áður var nefndur með sama nafni, jörðina Vatneyri og verslunarstaðinn fyrir 4000 ríkisdali.[140] Þá voru á Vatneyri þrjú bjálkabyggð timburhús, það er verslunarhús, pakkhús og íbúðarhús, en öll þessi hús brunni til grunna 18. september 1866.[141] Önnur hús á Vatneyri árið 1865 voru lýsisbræðsluhús, gamall bær ásamt útihúsum og lítið timburhús sem slapp við eldinn og var síðar kallað Klampenborg.[142]

Eftir brunann fluttist Þorsteinn Thorsteinsson burt og féll þá verslun á Vatneyri niður um skeið. Þorsteinn seldi Vatneyri árið 1867 þeim Sigurði Bachmann og Jóhanni Chr. Thostrup og hófu þeir síðan verslunarrekstur er byggt hafði verið upp. Fáeinum árum síðar er Sigurður Bachmann orðinn eini eigandi Vatneyrar og rak hann hér verslun til ársins 1896.[143] Á hans dögum hófst þorpsmyndun á Patreksfirði.

Frá Patreksfirði fara flestir nú þjóðveginn um Mikladal eða sem leið liggur inn Raknadalshlíð. Við bregðum á annað ráð, röltum út með sjó og fyrir Tálkna. Á sumardegi er leiðin sæmilega greið gangandi fólki.[144] Frá Vatneyrinni og út á ysta odda Tálkna eru aðeins tæplega átta kílómetrar og álíka vegalengd þaðan inn að Suðureyri í Tálknafirði sem nú er komin í eyði. Tálkni er nafn á ysta hluta hamraskagans sem skilur að utanverðan Patreksfjörð og Tálknafjörð. Hæst nær skagi þessi um 550 metra hæð á vatnaskilum milli Vatneyrar og Suðureyrar. Yst við fjarðamótin er hæð fjallsins 472 metrar.

Rétt utan við Vatneyri skerst lítill dalur inn í fjallið og heitir Fjósadalur. Við mynni hans eru Vatneyrarengjar. Nokkurt berjaland er í dalnum. Stúlka ein fögur, sem Gróa hét, var eitt sinn á berjamó í Fjósadal. Rann þá á hana svefnhöfgi og heyrir hún kveðið að baki sér:

 

Stattu hjá mér, stúlkan mín.

Stutt er þar til birtan dvín.

Þú færð ber því þokkinn skín

og þekkt erum við móðir þín.

 

Gróa vaknaði við og sá sparibúinn mann sem hvarf þó jafnskjótt.[145]

Utan við Fjósadal taka við sæbrattar hlíðar og eru ýmist nefndar Vatneyrarhlíðar eða Tálknahlíðar.[146] Innst á hlíðunum eru svolitlir hagar en gróður fer minnkandi þegar utar dregur. Þremur og hálfum kílómetra fyrir utan Vatneyri er komið að Hlíðardal. Þar eru búðarústir á bökkum við sjóinn. Frá þessum stað var sóttur sjór í fáein ár, að vor- og sumarlagi, í byrjun tuttugustu aldar, áður en vélbátar komu til sögunnar.[147]

Utan við Hlíðardal gengur fram lágt klettanef sem heitir Molduxi. Utan við hann er djúpur vogur. Geta allstórir bátar lagst þar að klöppunum í ládeyðu.[148]

Yst á annesi Tálknans gnæfa svartbrýndir klettar yfir höfðum vegfarenda. Þar eru (1988) hreppamörk milli Patrekshrepps og Tálknafjarðar­hrepps við Tálknatá.[149] Þar verður á vegi flestra, sem um fjöruna fara, áletrun höggvin í stein. Merki stendur þar letrað og lýkur hér langri ferð um hinn forna Rauðasandshrepp.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Jóhann Skaptason 1959, 130 (Árbók F.Í).

[2] Guðjón Friðriksson 1973, 88-113 og 1974, 64-110 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[3] Jóhann Skaptason 1959, 132.

[4] Sama heimild, 132-133.

[5] Jóhann Skaptason 1959, 131 (Árbók F.Í.).

[6] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 332.

[7] Guðjón Friðriksson 1973, 88 (Ársrit S.Í.).

[8] Jarðab. Á. og P. VI, 333.

[9] Sama heimild.

[10] Sama heimild.

[11] Sama heimild, 332.

[12] Sama heimild, 333.

[13] Þorvaldur Thoroddsen 1959/ Ferðabók II, 15.

[14] Guðjón Friðriksson 1973, 105-106.

[15] Guðjón Friðriksson 1973, 105-106 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[16] Sama heimild.

[17] Sama heimild.

[18] Guðmundur Scheving 1832, 36-37 (Ármann á Alþingi IV).

[19] Guðjón Friðriksson 1973, 107. (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).  Jóhann Skaptason 1959, 134 (Árbók F.Í.).

[20] Guðjón Friðriksson 1973, 108-111.

[21] Sama heimild, 108.  Jóhann Skaptason 1959, 134.

[22] Manntal 1816, bls. 664.

[23] Þjóðsögur og þættir II, 1982, 65-74.

[24] Blanda V, 68-70 og 120.

[25] Gísli Konráðsson 1980, 36 (Syrpa II).

[26] Sama heimild.

[27] Íslenskar æviskrár IV, 28 og I, 307-308.

[28] Alþingisbækur Íslands XIV, 94.

[29] Alþingisbækur Íslands XIV, 94.

[30] Sama heimild.

[31] Þjóðsögur og þættir 1982, II, 71.

[32] Blanda V, 69.

[33] Björn Þorsteinsson 1986, 34 (Þingvallabókin).

[34] Sama heimild, 35.

[35] Gísli Konráðsson 1980, 36 (Syrpa II).

[36] Björn Th. Björnsson 1961, 177-178.

[37] Jón Helgason 1931, 158-159 (Íslendingar í Danmörku).

[38] Árni Magnússon frá Geitastekk 1945, 120-121, sbr. líka þar , bls. 12-13 og 104-127. Sbr. einnig Bergstein Jónsson 1963, 452.

[39] Rosenborg, vejledning 1983, 29.

[40] Rosenborg, vejledning 1983, 29.

[41] Tölvupóstur 2.4. 2008 frá Peter Kristiansen, museuminspektör Rosenborg, til Lilju Árnadóttur, fagstjóra munasafns Þjóðminjasafns Íslands.

[42] Sama heimild.

[43] Sama heimild.

[44] Sama heimild.

[45] Sama heimild.

[46] Vestfirskar þjóðsögur III, 1, 112.

[47] Eggert Ólafsson 1975, I, 364.

[48] Jóhann Skaptason 1959, 133 (Árbók F.Í.).

[49] Sama heimild.

[50] Jón Þorkelsson 1895, 85-88 (Saga Magnúsar prúða).

[51] Jón Þorkelsson 1895, 90 (Saga Magnúsar prúða).

[52] Jón Þorkelsson 1895, 86 (Saga Magnúsar prúða).

[53] Jón Þorkelsson 1895, 86.

[54] Jón J. Aðils 1971, 52.

[55] Jón Guðmundsson lærði 1892: Fjallkonan IX, 103-151.

[56] Jónas Kristjánsson 1950, XXVIII – XXIX (Spánverjavígin1615, útg. í Kph. – Inngangur).

[57] Jónas Kristjánsson 1950, XXVI (Spánverjavígin1615, útg. í Kph. – Inngangur).

[58] Sama heimild, XXVII.

[59] Jónas Kristjánsson 1950, XV.

[60] Sama heimild, XIV.

[61] Sama heimild, 52.

[62] Sama heimild, XVIII.

[63] Safn til sögu Íslands V. 3, 47, Rvk. 1916.

[64] Alþingisbækur Íslands IV, 309.

[65] Sama heimild, 313-314.

[66] Alþingisbækur Íslands IV, 313-314.

[67] Alþingisbækur Íslands IV, 316.

[68] Alþingisbækur Íslands IV, 314-315.

[69] Sama heimild, 315.

[70] Alþingisbækur Íslands IV, 315.

[71] Alþingisbækur Íslands IV, 315-316.

[72] Sama heimild, 316.

[73] Sama heimild, 319.

[74] Annálar IV, 248.

[75] Jón J. Aðils 1971, 69 og 88.

[76] Jón J. Aðils 1971, 86-88.

[77] Sama heimild.

[78] Sama heimild, 284.

[79] Sama heimild.

[80] Sama heimild, 117.

[81] Sama heimild, 118-119.

[82] Sama heimild, 149, 177, 178 og 181.

[83] Sama heimild, 237.

[84] Sigfús H. Andrésson 1988, II, 519-522 (Verslunarsaga Íslands 1774-1807).

[85] Jón Eiríksson 1964, I, 66 (Formáli Jóns Eiríkssonar konferenzráðs að Ferðabók Olaviusar).

[86] Jón Eiríksson 1964, I, 60 (Formáli Jóns Eiríkssonar konferenzráðs að Ferðabók Olaviusar).

[87] Jón Eiríksson 1964, I, 60 (Formáli Jóns Eiríkssonar konferenzráðs að Ferðabók Olaviusar).

[88] Sama heimild, 63.

[89] Sama heimild.

[90] Lúðvík Kristjánsson 1985, 324. Sigfús H. Andrésson 1988, II, 519-522 (Verslunarsaga Íslands 1774-1807).

[91] Lúðvík Kristjánsson 1985, 323.

[92] Sama heimild.

[93] Lúðvík Kristjánsson 1985, 323.

[94] Jón Eiríksson 1964, I, 59 (Formáli Jóns Eiríkssonar konferenzráðs að Ferðabók Olaviusar).

[95] Lúðvík Kristjánsson 1985, 324.

[96] Sóknarm.tal Sauðlauksdalspr.kalla 1782.

[97] Rit þess ísl. Lærdómslistafélags III, 291-292.

[98] Jón J. Aðils 1971, 611-612.

[99] Sama heimild, 612.

[100] Þorvaldur Thoroddsen 1902/ Landfræðisaga III, 93-94.

[101] Sama heimild, 94.

[102] Sama heimild, 95.

[103] Sama heimild, 85 og 89.

[104] Ólafur Davíðsson: Íslenskar þjóðsögur II, 311.

[105] Ólafur Davíðsson: Íslenskar þjóðsögur II, 311.

[106] Sigfús H. Andrésson 1988, II, 519-522 (Verslunarsaga Íslands 1774-1807).

[107] Sama heimild.

[108] Sama heimild.

[109] Sama heimild.

[110] Sama heimild.

[111] Sama heimild.

[112] Sama heimild.

[113] Sigfús H. Andrésson 1988, II, 519-522 (Verslunarsaga Íslands 1774-1807).

[114] Sama heimild.

[115] Sigfús H. Andrésson 1988, II, 519-522 (Verslunarsaga Íslands 1774-1807).

[116] Sama heimild.

[117] Sama heimild.

[118] Sama heimild. Sbr. Manntal 1801, vesturamt, bls. 229.

[119] Sama heimild.

[120] Sama heimild.

[121] Annáll nítjándu aldar I, 85.

[122] Prestsþj.bækur Sauðlauksdalsprestakalls.

[123] Sóknarm.tal Sauðlauksdalspr.kalls 1808.

[124] Sama heimild.

[125] Ármann á Alþingi 1832, IV, 87.

[126] Manntal 1816, 664.

[127] Blanda III, 175.

[128] Sama heimild.

[129] Ebenezer Henderson 1957, 300-301.

[130] Ebenezer Henderson 1957, 301.

[131] Sóknarm.töl Sauðlauksdalspr.kalls.

[132] Sóknarm.töl Sauðlauksdalspr.kalls.

[133] Sömu heimildir.  Prestsþj.b. Sauðlauksdalspr.kalls. Sbr. Manntal 1816, 429.

[134] Jóhann Skaptason 1959, 134 (Árbók F.Í.).

[135] Manntal 1845.

[136] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Sauðlauksdalspr.kalls.

[137] Sömu heimildir.

[138] Ísl. æviskrár VI, 509-510.

[139] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Sauðlauksdalspr.kalls.

[140] Guðjón Friðriksson 1973, 90 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[141] Sama heimild. Sbr. Árbók Barðastrandarsýslu 1959-1967, 7-8.

[142] Sama heimild.

[143] Sama heimild, 91-92.

[144] Jóhann Skaptason 1959, 132 Árbók F.Í.).

[145] Þjóðsögur og þættir 1981, I, 223.

[146] Landmælingar Íslands, Uppdráttur Íslands, blað 3, 1965.  Pétur Jónsson 1942, 107 (Barðstrendingabók).

[147] Pétur Jónsson 1942, 107.  Jóhann Skaptason 1959, 132 (Árbók F.Í.).

[148] Jóhann Skaptason 1959, 132.

[149] Sama heimild, 140.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »