Grafargil

Frá fjallavötnunum fyrir botni Valþjófsdals eru um það bil þrír kílómetrar heim í hlað á Grafargili. Á þeirri leið er víða gott að virða fyrir sér fjöll og hvilftar sem lykja um dalinn. Hér hefur áður verið gerð grein fyrir helstu fjöllum í landareign jarðanna Kirkjubóls og Tungu (sjá hér Kirkjuból og Tunga í Valþjófsdal) og var þá síðast nefnt Miðdalsfjall þar sem dalurinn gengur lengst í suður, á landamerkjum Tungu og Grafargils.

Við austurendann á Miðdalsfjalli ber Þrítinda við himin.[1] Næst kemur fjallið Borg og upp á því er klettabrík sem heitir Kóróna.[2] Á þessum slóðum nær klettabrúnin mestri hæð, um það bil 750 metrum yfir sjávarmáli. Neðan undir Borginni er Nautahvilft og í henni er Nautahvilftarvatn.[3] Milli Miðdals og Nautahvilftar liggur klettastallur sem heitir Hádegishjalli.[4] Norðan við Nautahvilft er Nautahvilftartagl[5] og síðan fjallið Skjöldur en neðan við það er Hrútahvilft.[6] Aðeins neðar í hlíðinni og til hliðar við Hrútahvilft er svo Litlahvilft.[7] Einu nafni eru hvilftarnar í landi Grafargils nefndar Grafargilshvilftar.

Norðan við fjallið Skjöld er örmjó klettabrún milli Valþjófsdals og Hjarðardals. Þar er í brúninni Manntapaskarð[8] sem hér var áður getið um (sjá Ytri-Hjarðardalur). Neðan við Manntapaskarð er Krús,[9] grýtt og mosavaxið hvolf, og efst í henni Krúsarhjalli.[10] Fyrir neðan Krúsina er Litlahvilft sem áður var nefnd. Norðan við Manntapaskarð er Geldingadalur og nær fram að Krús.[11] Dalurinn liggur í álíka hæð og hvilftarnar sem fyrr voru nefndar.[12] Geldingardalur er í landi Grafargils[13] en Guðmundur Á. Eiríksson, sem lengi bjó á Þorfinnsstöðum, taldi sig hafa séð þar seltóttir og vildi meina að bændur á Þorfinnsstöðum hefðu haft þar búsmala í seli á fyrri tíð.[14] Enginn kannast nú við þessar seltóttir.[15] Norðan við Geldingadal tekur við hið mikla fjall Þorfinnur. Vilji menn ganga á Þorfinn er best að fara um Geldingadal og upp Veturlönd í suðurhlíð fjallsins.[16] Þar er klettalaust. Þorfinnur, sem skilur að Valþjófsdal og Hjarðardal er eitt tígulegasta fjallið við Önundarfjörð og segir nánar frá honum á öðrum stað (sjá hér Þorfinnsstaðir).

Á leið okkar úr botni Valþjófsdals heim að Grafargili fylgjum við Grafargilsánni niður Vatnabrekkur en neðan við þær, austan árinnar, eru Partsbrekkur en í þeim var fremsta slægjulandið á Grafargili.[17] Neðan við Partsbrekkur er Grafargilspartur og afmarkast annars vegar af Grafargilsá en hins vegar af læk sem kemur úr Nautahvilft og fellur í ána.[18] Neðarlega í Grafargilsparti er norðan í holti einu gömul tótt, um það bil 6 x 2,5 metrar að flatarmáli, en ekki er kunnugt nú hvers konar hús þetta var.

Fyrir framan lækinn sem kemur úr Nautahvilft er Stararlág en þar var mótekja.[19] Heiman við Nautahvilft er Nautahvilftartagl, sem áður var nefnt, klettóttur hryggur sem nær ofan úr fjalli og niður á Nautahjalla.[20] Heiman við læk þann sem síðast var getið og niður af framanverðri Hrútahvilft komum við í Seljalágar.[21] Þar eru lynggrónar tóttir af gömlu seli, þrjú sambyggð smáhús.[22] Eitt til tvö hundruð metrum heimar á dalnum eru tvær hringlaga tóttir sem nefndar eru Hlöð.[23] Önnur þeirra er meira áberandi en hin og lætur nærri að ummál hennar sé um það bil 18 metrar. Ætla má að þetta hafi verið sauðabyrgi. Ofan við Hlöðin renna margar lækjarsytrur niður hlíðina enda ber þetta svæði nafnið Lækir.[24] Uppi í hlíðinni hér fyrir ofan eru Lækjarklettar en Hrútahvilft þar fyrir ofan.[25] Hér er líka slægjuland sem ber nafnið Lækjarpartur.[26] Heiman við Hrútahvilft liggur leiðin um grösug engjalönd, Lynghólapart, Gyltupart og Giljapart[27] sem er skammt fyrir framan fremstu túnin á Grafargili.[28] Neðst í Gyltuparti er enn ein hringlaga tótt, lík hinum tveimur sem hér voru áður nefndar, en ofan við þetta engjapláss eru Smérteigar og þar fyrir ofan Smérteigaklettar.[29] Heiman við þá er allmikið gljúfur í hlíðinni og heitir Stóragil.[30] Niður undan þessu gili tekur Giljapartur við af Gyltuparti en enn heimar er Dagmálagil og um það rennur bæjarlækurinn á Grafargili.[31]

Við höfum nú um sinn verið á rölti um hin fögru engjalönd á Grafargili þar sem áður var heyjað á hverju sumri. Þegar gengið er heim dalinn niðar Grafargilsá á vinstri hönd og niður í árdalnum, rétt framan við túnið, komum við að gömlum stekk. Holtið ofan við stekkinn er við hann kennt og heitir Stekkjarholt[32] en eitthvað af Hlaðspartinum, sem var hér fyrir ofan holtið, er nú orðið að túni. Á stekknum niður við ána er gott að hvílast. Svo stöndum við á fætur og göngum í hlað á Grafargili.

Grafargil er forn bújörð sem á allt land austan Grafargilsár í Valþjófsdal, framan úr dalbotni og að landamerkjasteini sem stendur skammt norðan við túnið.[33] Frá bænum á Grafargili að landamerkjasteininum eru aðeins 200-250 metrar.[34] Þar tekur við land Þorfinnsstaða. Samkvæmt fornu mati var Grafargil 12 hundruð að dýrleika.[35] Landskuld af jörðinni var til forna 5 vættir, það er 100 álnir, en lækkaði eftir stórubólu og var árið 1710 ekki nema 3 vættir[36] eða 60 álnir. Um miðbik 19. aldar var árleg landskuld af Grafargili líka 60 álnir,[37] það er hálft kýrverð. Í byrjun 20. aldar taldist landskuld af jörðinni vera 2 ær[38] en hvert ærgildi samsvaraði 20 álnum í landaurareikningi.

Í byrjun 18. aldar fylgdu jörðinni fjögur og hálft innstæðukúgildi (27 ær) en voru ekki nema þrjú árið 1710.[39] Um miðja 19. öld voru kúgildin sem jörðinni fylgdu líka þrjú.[40]

Í Jarðabókinni frá 1710 fær Grafargil heldur slæma umsögn en þar segir svo um þessa jörð:

 

Vetrarhart er hér framar en almennilega í sveitinni. Torfrista er svo að segja engin. Engjunum spilla skriður, item gil sem ber á þær grjót. Högunum spilla hér og skriður eins og annars staðar. Hætt er kvikfénaði við holgryfjum. Þessi jörð mætir jafnligum átroðningi af peningi frá Þorfinnsstöðum sem varla getur annars staðar gengið en í þessarar jarðar landi sökum þrönglendis Þorfinnsstaða. Svörður til eldingar er hér mjög lítill og öngvu öðru að brenna úr jörðinni.[41]

 

Í sóknalýsingunni frá 1840 fær Grafargil mun betri einkunn. Þar er jörðin sögð vera góð heyskaparjörð og sérlega góð til beitar, einkum á sumardag.[42]

Í jarðarlýsingu frá því um 1920 er túnið á Grafargili sagt vera grasgefið og líka engjarnar.[43] Þar er líka tekið fram að sumarbeitin sé góð.[44] Af túninu fengust þá 70 hestar og um 160 hestar af engjunum, sem sagðar eru vera á dreif um bithaga.[45]

Í varðveittum heimildum er fyrst getið um jörðina Grafargil í gjafabréfi frá árinu 1428 sem hér hefur áður verð nefnt (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal). Með því bréfi gaf Halldór Jónsson á Kirkjubóli í Valþjófsdal dætrum sínum, Ingibjörgu og Valgerði, þrjár jarðir þar í dalnum, Grafargil, Tungu og Þorfinnsstaði.[46] Ekki er ljóst hvor dætranna hreppti Grafargil. Systur þessar voru dætur Halldórs bónda og Oddfríðar Aradóttur, konu hans, sem var hálfsystir Guðmundar ríka Arasonar á Reykhólum (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal). Í fornum bréfum sést að Ari Guðmundsson, faðir Oddfríðar og Guðmundar ríka, muni hafa átt allar jarðirnar í Valþjófsdal í byrjun 15. aldar[47] og héldust þær alllengi í eigu niðja hans að því er best verður séð.

Á síðari hluta 15. aldar voru hjónin Þorsteinn Sveinsson og Bergljót Halldórsdóttir eigendur Grafargils.[48] Fullvíst má telja að Bergljót þessi hafi verið dóttir Oddfríðar Aradóttur og fyrri eiginmanns hennar, Halldórs Jónssonar á Kirkjubóli, því vitað er að þau áttu Bergljótu fyrir dóttur og að eiginmaður hennar hét Þorsteinn.[49] Dóttir Þorsteins og Bergljótar var Halla sem gekk að eiga Grím Aronsson en henni hafði Þorsteinn, faðir hennar, ánafnað jörðina Grafargil áður en hún gekk í hjónaband.[50] Sá gerningur gekk þó til baka af sérstökum ástæðum ef marka má vitnisburð Jóns Þorsteinssonar, sem var bróðir Höllu, en vitnisburðarbréf hans er dagsett 30. janúar 1521. Í bréfinu lýsir Jón því yfir að hann hafi verið viðstaddur þegar Grímur og Halla skiluðu Grafargili aftur í hendur Þorsteins til fullkominnar eignar fyrir þá sök að Þorsteinn var þá viss orðinn að þráttskrifaður Grímur Aronsson hafði legið títtnefnda Höllu án vitundar og samþykkis föður hennar áður en búið var að gefa þau saman í hjónaband.[51]

Í bréfi sínu tekur Jón Þorsteinsson fram að þau Grímur og Halla hafi góðfúslega og fyrir utan allar þrengingar fallist á að skila Grafargili aftur í hendur Þorsteini, föður Höllu, þegar uppvíst var orðið um legorðið.[52] Um þetta vitnar bréfritari í skjöl sem legið hafi hjá bróður sinum, séra Grími Þorsteinssyni, sem þá var látinn.[53] Svo virðist sem þau Grímur Aronsson og Halla hafi búið á Grafargili um skeið sem leiguliðar Þorsteins, því í vitnisburðarbréfi Jóns Þorsteinssonar segir að Þorsteinn faðir hans hafi án allrar klögunar tekið landskuld af Grími Aronssyni og öllum öðrum sem á Grafafgili bjuggu þegar hann átti jörðina.[54]

Um mál Gríms og Höllu, sem töpuðu Grafargili úr höndum sér fyrir of bráðar samfarir, er reyndar líka til annar vitnisburður, sem einnig er frá árinu 1521,[55] en svo má heita að báðir séu þessir vitnisburðir samhljóða hvað varðar efni og innihald. Eins og hér var nefnt eru vitnisburðarbréf þessi skrifuð árið 1521 en ætla má að 30-50 ár hafi þá verið liðin frá því Grímur og Halla létu Grafargil af hendi. Í báðum bréfunum kemur fram að Þorsteinn Sveinsson, faðir Höllu, hafi síðar selt Halldóri Hákonarsyni á Kirkjubóli í Valþjófsdal jarðirnar Grafargil og Tungu í sama dal og fengið í staðinn frá Halldóri jörðina Eyri í Önundarfirði.[56] Halldór á Kirkjubóli var aðsópsmikill lögréttumaður en kemur síðast við skjöl árið 1480 (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal) svo líklegt verður að telja að hann hafi andast fyrir 1490. Með hliðsjón af því sýnist mega ætla að Grímur og Halla hafi tapað eignarráðum yfir Grafargili fyrir 1480 þó að hugsanlegt sé að þau hafi síðar búið þar um alllangt skeið. Halldór Hákonarson, sem keypti Grafargil og Tungu af Þorsteini Sveinssyni um eða fyrir 1480, var hálfbróðir Bergljótar Halldórsdóttur, konu Þorsteins, og sonur Oddfríðar Aradóttur sem hér var áður nefnd (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal).

Hér hefur áður verið rakið hvernig Kristín Guðnadóttir, sem var tengdamóðir Halldórs Hákonarsonar, náði að erfa Kirkjuból í Valþjófsdal að dóttur Halldórs látinni, sem áður hafði erft báða sína foreldra (sjá hér Kirkjuból). Frá Kristínu komst Kirkjuból í hendur sona hennar og þaðan til Björns Guðnasonar í Ögri sem var sonarsonur Kristínar. Líklegt er að Grafargil hafi farið þessa sömu leið og svo mikið er víst að árið 1536 var Ögmundur Pálsson, biskup í Skálholti, orðinn eigandi Grafargils[57] en hann sölsaði undir sig mikinn fjölda jarðeigna á Vestfjörðum sem Björn Guðnason í Ögri hafði átt. Þegar Ögmundur biskup var hrakinn úr embætti árið 1541 sló konungur eign sinni á fjölda jarða sem verið höfðu í eigu Ögmundar. Sumar þessara jarðeigna losaði kóngur sig við aftur áður en langir tímar liðu en aðrar héldust lengi í konungseign.

Um 1570 fór Eggert Hannesson lögmaður með sýsluvöld í Ísafjarðarsýslu og hafði að léni þær konungsjarðir á Vestfjörðum sem Ögmundur biskup hafði átt.[58] Svo virðist sem Grafargil hafi verið ein þessara jarða því að í reikningabók Eggerts frá árinu 1571 má sjá að hann hefur þá látið innheimta landskuld hjá bóndanum á Grafargili.[59]Item af Grafargili 80 álnir í landskuld, lukt í þetta fjórar ær með lömbum, stendur þar.[60] Upphæð landskuldarinnar, sem þarna var nefnd, er 20 álnum lægri en fullyrt er í Jarðabók Árna og Páls að landskuld af Grafargili hafi verið til forna (sjá hér bls. 3) en skýringar á þeim mismun verður ekki leitað hér. Lambærnar fjórar sem sendimaður Eggerts Hannessonar fékk afhentar á Grafargili árið 1571 hafa hvað sem öðru líður verið fullt gjald upp í 80 álna landskuld svo Eggert fékk frá Grafargili það sem honum lögum samkvæmt bar.

Líkurnar sem benda til þess að á 16. öld hafi Grafargil verið konungsjörð um nokkurt skeið eru allsterkar en taka verður fram að einnig er mögulegt að Eggert Hannesson hafi sjálfur átt þessa jörð á árunum kringum 1570 þegar hann var að rukka bóndann á Grafargili um árlega greiðslu landskuldarinnar. Í reikningabók Eggerts, sem hér er byggt á, tekur hann beinlínis fram að þar sé að finna reikningsskap upp á allar landskuldir úr Ísafjarðarsýslu, bæði af kóngsjörðunum og mínum sjálfs eins og hann kemst að orði.[61] Í bók sinni gerir lögmaðurinn hins vegar enga grein fyrir því hverjar þessara jarða séu konungseign og hverjar hann eigi sjálfur.

Ekki er vitað með fullri vissu hverjir áttu Grafargil á 17. öld en mjög líklegt verður að telja að jörðin hafi þá komist í hendur Þóru Jónsdóttur, hinnar auðugu ekkju sem þá bjó á Kirkjubóli í Valþjófsdal og jafnan var nefnd Þóra í Dal (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal). Fullvíst er að sonardætur hennar tvær áttu Grafargil árið 1710, dætur séra Björns Snæbjörnssonar sem báðar hétu Þorbjörg.[62] Systur þessar áttu þá líka bæði Kirkjuból og Þorfinnsstaði í Valþjófsdal.[63]

Árið 1762 átti monsjör Jón Árnason Grafargil en hann átti þá líka bæði Kirkjuból í Valþjófsdal og Mosdal í Önundarfirði og kynni að hafa verið dóttursonur Þorbjargar yngri Björnsdóttur sem fyrr var nefnd.[64] Svo virðist sem oft hafi því verið sömu eigendur að Grafargili og Kirkjubóli. Um miðbik 19. aldar bjuggu leiguliðar enn á Grafargili[65] en seinna komst jörðin í sjálfsábúð.[66]

Fyrsti bóndinn á Grafargili sem þekktur er með nafni er Grímur Aronsson sem þar bjó á síðari hluta 15. aldar og hér var áður nefndur (sjá bls. 4-5). Kona hans, Halla Þorsteinsdóttir, var af höfðingjum komin því hún var dótturdóttir Oddfríðar Aradóttur á Kirkjubóli (sjá hér bls. 4-5), sem var systir Guðmundar Arasonar á Reykhólum er líklega hefur verið mestur auðmaður á Íslandi um sína daga. Hundrað árum síðar, það er á árunum kringum 1570, bjó á Grafargili bóndi sem nefndur var Jón Dramb. Um hann er því miður ekkert vitað, annað en þetta skemmtilega nafn sem Eggert Hannesson skráir í sitt reikningakver. Þar stendur við árið 1570: Item hjá Jóni Dramb 80 álnir í landskuld af Grafargili, lukt í þetta 3 ær með lömbum og 2 sauðir veturgamlir.[67]

Árið 1681 bjuggu tveir leiguliðar á Grafargili og höfðu 6 hundruð hvor til ábúðar.[68] Þeir hétu Gils Þorleifsson og Jón Sighvatsson.[69] Árið 1710 bjó Gils Þorleifsson enn á Grafargili en þá var Gils Gilsson kominn á hina hálflenduna þar.[70] Líklega hefur hann verið sonur Gils Þorleifssonar sem árið 1710 var kominn á sjötugsaldur.[71]

Allur bústofninn á Grafargili árið 1710 var 5 kýr, 1 kvíga, 1 kálfur, 31 ær, 29 sauðir tvævetrir og eldri, 17 veturgamlir sauðir, 27 lömb og 4 hross.[72] Árið 1762 var tvíbýli á jörðinni[73] en í byrjun 19. aldar voru ábúendurnir orðnir þrír.[74] Slíkt þröngbýli mátti þó heita undantekning. Næstu áratugina var yfirleitt tvíbýli á jörðinni[75] og eftir 1870 bjó þar yfirleitt aðeins einn bóndi í senn.[76]

Annar þeirra tveggja bænda, sem lengst bjuggu á Grafargili á 19. öld, var Halldór Eiríksson en hann hafði þar búsforráð í nær 30 ár, frá 1829 til 1857 eða 1858.[77] Halldór var elsta barn séra Eiríks Vigfússonar, sem lengst var prestur á Stað í Súgandafirði, og konu hans, Ragnheiðar Halldórsdóttur frá Látrum í Mjóafirði við Djúp, en mikill fjöldi núlifandi Vestfirðinga á ættir að rekja til þessara prestshjóna.

Halldór Eiríksson fæddist 17. júlí 1793 að Gili í Bolungavík.[78] Faðir hans var þá aðstoðarprestur séra Hjalta Þorbergssonar á Eyri í Skutulsfirði, þjónaði Hólssókn í Bolungavík og bjó á Gili.[79] Að einhverju leyti mun Halldór hafa alist upp hjá afa sínum og nafna á Látrum í Mjóafirði því þar var hann til heimilis þegar manntal var tekið árið 1801 og er kallaður fósturbarn.[80] Árið 1816 er Halldór hins vegar heima hjá foreldrum sínum á Stað í Súgandafirði, orðinn 23ja ára gamall,[81] og árið 1825 gekk hann að eiga Þórunni Einarsdóttur, bóndadóttur frá Selárdal í Súgandafirði.[82]

Árið 1829 fluttust þau Halldór og Þórunn frá Selárdal að Grafargili[83] og munu í fyrstu hafa haft alla jörðina til ábúðar.[84] Bústofn Halldórs árið 1830 var 3 kýr, 1 kálfur, 26 ær, 17 aðrar sauðkindur eldri en eins árs, 16 lömb og einn hestur.[85] Bóndinn á Grafargili átti þá líka bát, sexæring eða fjögra manna far.[86] Fjórum árum síðar voru bændur á Grafargili orðnir tveir svo þrengra var orðið um hjá Halldóri.[87] Bústofn Halldórs var þá líka minni en verið hafði í byrjun, kýrin bara ein og ánum hafði fækkað úr 26 í 18.[88] Bátinn átti Halldór þó enn.[89] Í búnaðarskýrslu frá árinu 1837 sést að Halldór hefur þá búið á 8 hundruðum úr Grafagili en Gísli Jónsson, sambýlismaður hans, hafði þá 4 hundruð til ábúðar.[90] Árið 1850 voru jarðarhundruðin sem Halldór bjó á ekki nema 6 en þá var Guðmundur Jónsson, er alllengi var sambýlismaður hans, farinn að búa á hinni hálflendunni.[91] Báðir voru þessir bændur á Grafargili formenn á Kálfeyri vorið 1857.[92] Halldór andaðist á Grafargili árið 1863 en sonur hans hafði þá tekið þar við búsforráðum fyrir nokkrum árum.[93]

Börn Halldórs á Grafargili og Þórunnar konu hans, sem upp komust, voru fjögur, Ragnheiður, sem fluttist á Ingjaldssand, Sveinbjörn, er lengi bjó á Kirkjubóli í Valþjófsdal, Eiríkur hreppstjóri á Þorfinnsstöðum og Halldór sem gerðist bóndi á Hóli á Hvilftarströnd.[94] Seinni eiginmaður Ragnheiðar var Jón Jónsson Bjarnasonar á Sæbóli á Ingjaldssandi og þeirra sonur var Jón Jónsson, bóndi á Villingadal, er þar fórst í snjóflóði 20. desember 1886 (sjá hér Sæból og Villingadalur).

Guðmundur Jónsson, sem var sambýlismaður Halldórs Eiríkssonar á Grafargili um alllangt skeið, kom eins og Halldór úr Súgandafirði. Hann fluttist hingað frá Gelti vorið 1845[95] með móður sinni, Kristjönu Jónsdóttur, sem þá var nýlega orðin ekkja í annað sinn (sjá hér Göltur). Guðmundur kvæntist árið 1846 Vilborgu Markúsdóttur frá Kroppstöðum í Önundarfirði og tók um svipað leyti við búsforráðum hér á Grafargili af móður sinni.[96] Konu sína missti hann árið 1862.[97] Hún dó af barnsförum en þau hjónin höfðu þá eignast tólf lifandi börn.[98]

Guðmundur andaðist árið 1878 og var þá enn bóndi á Grafargili[99] en niðjar hans og Vilborgar bjuggu á jörðinni allt þar til hún fór í eyði árið 1989.[100] Eitt margra barna Guðmundar og Vilborgar var Kristjana, sem ung að árum fór að búa hér á Grafargili ásamt fyrri eiginmanni sínum, Jóni Helgasyni.[101] Árið 1878 missti hún þrjú af fjórum börnum sínum úr barnaveiki, öll í sama mánuðinum.[102] Fimmta barn hennar fæddist andvana á því ári og þá missti hún líka föður sinn en eiginmanninn haustið 1879.[103] Við þvílík áföll hefur margur bugast en húsfreyjan unga á Grafargili stóð af sér öll él, hélt búrekstrinum áfram og giftist í annað sinn haustið 1888.[104]

Er þyngstu áföllin dundu yfir átti Kristjana hauk í horni en það var bróðir hennar, Jón Guðmundsson, síðar bóndi á Kirkjubóli hér í Valþjófsdal, fæddur 1854. Á árunum 1880-1887 var hann jafnan búsettur á heimili systur sinnar og stundum nefndur ráðsmaður[105] en virðist þó hafa haft smíðar að aðalstarfi á því skeiði.[106]

Dagbók Jóns frá árunum 1880 til 1897 geymir margan fróðleik og hér er víða vitnað til þeirra skrifa. Jón Guðmundsson fæddist á Grafargili 21. október 1854[107] og mun hafa átt hér heima allt þar til hann kvæntist og reisti hús sitt Árnes í landi Kirkjubóls árið 1896 (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal). Þegar Reinharður Jónsson, seinni maður Kristjönu, tók við forstöðu búsins á Grafargili árið 1888 gafst Jóni, mági hans, meira tóm til að sinna smíðunum. Í dagbók Jóns Guðmundssonar frá árunum 1880-1897 sést að hann er þá mjög oft að smíða eða lagfæra hús og báta á bæjunum í Önundarfirði en einnig á Flateyri og hvalveiðistöðinni á Sólbakka.[108] Á árunum upp úr 1890 stjórnaði hann líka verkum við vegagerð og brúasmíði í Önundarfirði[109] eins og hér hefur áður verið minnst á og stundum var hann við smíðar eða verkstjórn í öðrum byggðarlögum.[110] Ætla má að Jón hafi verið snjall handverksmaður svo eftirsóttur sem hann var en verkefnin sem hann tókst á hendur að leysa voru nokkuð margbreytileg og má sem dæmi nefna að eitt sinn var hann fenginn til að smíða kassa utan um vitskertan mann á prestssetrinu í Holti.[111]

Á þessu sama skeiði tók Jón á Grafargili líka mikinn þátt í félagsmálum og sótti margs konar fundi (sjá hér bls. 12-13 og Mosvallahreppur, inngangskafli).

Jón Guðmundsson á Grafargili var jafnan einhleypur fram yfir fertugt og átti því máske betra með að stunda smíðavinnu og önnur störf hér og þar en ef hann hefði verið bundinn við fjölskyldu og bú. Mest var hann þó heima á Grafargili allt til ársins 1896. Í dagbók hans sjáum við ýmislegt um búskapinn og daglegt amstur manna í Valþjófsdal en fátt eitt af slíku tagi verður þó rakið hér.

Tvisvar sinnum sá Jón merkilegar loftsjónir frá bæjarhlaðinu á Grafargili og greinir frá þeirri fyrri á þessa leið:

 

Var ég úti á bæjarhlaði. Þegar ég hafði þar litla stund staðið sá ég koma eins og mórauðan hnykil yfir eldiviðarhús sem stóð á hlaðinu. Hann stefndi skáhallt niður úr loftinu með svo hraðri ferð að ég naumast eygði hann og þyturinn svo snöggur að maður getur aldrei slegið eins hart spýtu í gegnum loftið og hvarf með það ofan í jörðina. Ég hafði oft heyrt eins þyt en aldrei séð neitt fyrr.[112]

 

Þessa furðusýn sá Jón 15. ágúst 1880 en 19. janúar 1884 sá hann stjörnu leiftra fyrir honum Miðdal og varð þá þvínær eins  bjart og af tungli í fyllingu.[113] Um veðráttuna á harðindaárunum 1881 og 1882 ritar Jón á Grafargili eitt og annað. Í byrjun þorra árið 1881 er m.a. þessar setningar að finna í dagbókinni:

 

Hafís upp í fjörð. – Austan nístandi stormur, 24°. – Sami grimmdar hörkubruni, 24°. Baðstofan er héluð innan … og vatn fæst ekki nema niðri í á. Ég get þetta naumast því það frýs í pennanum. – Austnorðan grófur stormur. Hefur þessi stormur verið meiri en menn hér muna.[114]

 

Ljóst er að þessa daga hefur mælir Jóns á Grafargili sýnt 24 stiga frost en ekki er alveg víst hvort hann hefur notað Celsius eða Reaumur (sbr. hér Höfði). Líklega hefur þetta þó verið Celsius því að nokkrum árum síðar var Jón með þannig mæli.[115] Þennan vetur var mikill lagnaðarís á Önundarfirði. Þann 18. janúar til 25. mars var ísinn manngengur frá Flateyri yfir að Hjarðardalsnaustum og 7. mars var fjörðurinn allur hvítur af ís.[116]

Í lok mars voru margir komnir í þrot og var þá farið að skera búpening til að spara heyin.[117] Hafþök af hafís … farið að skera bæði kýr og fé, skrifar Jón í dagbókina þann 28. mars.[118] Norður á Ísafjarðardjúpi voru menn þá farnir að veiða hákarl upp um ísinn.[119]

Sumarið 1881 var samt byggð ný baðstofa á Grafargili, 12 x 6 álnir, og þiljuð innan um haustið.[120] Þann 4. nóvember var flutt í þess nýju baðstofu[121] sem máske hefur verið hlýrri en sú gamla.

Veturinn 1881-1882 var líka mjög harður. Þann 21. mars var Önundarfjörður allur lagður með ís[122] og um það leyti var farið að skera búpening frá heyjum í Dýrafirði.[123] Þann 1. maí þá um vorið var hafísinn enn upp við land. Mikið frost, en hafísinn nálægt, skrifar Jón þann dag og mánuði síðar segir hann að í allt vor hafi hafísinn verið skammt undan landi, til mikils hnekkis fyrir landsbúa.[124] Hann segir strandferðaskip, sem áttu að fara norður, hafa orðið að snúa við á Ísafirði og getur þess 2. júní að nú sé peningur farinn að falla víða hér í Önundarfirði, tvö heimili orðin sauðlaus og annað kýrlaust.[125]

Árin 1881 og 1882 hafa löngum verið talin hin mestu harðindaár á síðari hluta 19. aldar en í dagbók Jóns á Grafargili sést að oft voru miklar hörkur. Þann 8. mars 1892 var til dæmis 20 stiga frost í Önundarfirði.[126] Þá var allur fjörðurinn ísilagður því þar sem lagnaðarísinn þraut tók hafísinn við.[127]

Sumarið 1883 virðist heyskapur hafa gengið vel á Grafargili því þá fengust þar 275 hestar af útheyi.[128] Litlu minna fékkst af heyi sumarið 1884. Taðan af túnunu var þá 78 hestar en alls, með eyrum í kringum túnið, 88 hestar.[129] Af enginu fyrir ofan bæinn og samslægjueyrinni fengust 47 hestar og 92 hestar af Giljaparti.[130] Starhey af engjum var alls 232 hestar[131] en ekki er ólíklegt að heyið af Giljaparti sé talið þar með. Í jarðarlýsingu frá því um 1920 segir að á Grafargili sé heyfengur að jafnaði 70 hestar af töðu og 160 af útheyi[132] svo ætla má að grasspretta hafi verið með besta móti bæði 1883 og 1884.

Árið 1883 virðist Jón hafa byggt sér einhvers konar timburhús á Grafargili. – Er komið upp timburhúsið mitt, skrifar hann í dagbókina þá um haustið[133] svo hér er ekki um að villast. Haustið 1884 lauk Jón við að smíða innanum baðstofuna niðri[134] og á þar líklega við baðstofuna sem byggð var árið 1881. Herbergjaskipan undir baðstofuloftinu lýsir hann svo: Hún er þannig innréttuð: Stofa 4½ alin löng, 6 alin breið. Eldhús með eldunarvél 3½ alin lengd, 4 álnir á breidd. Búr 4 álnir á lengd, þvert yfir baðstofuna.[135]

Haustið 1888 giftust þau Kristjana Guðmundsdóttir á Grafargili, systir Jóns, og Reinharður Jónsson (sjá hér bls. 9) svo nú mátti búast við mannfjölgun. Það sama haust var byggður skúr við baðstofuvegginn á Grafargili[136] svo húsakynni hafa líklega verið orðin allgóð á þessum bæ þegar leið að lokum aldarinnar. Um 1920 var stærð baðstofunnar á Grafargili 12 x 6 álnir[137] sem kemur heim við málin á baðstofunni sem Jón byggði þar sumarið 1881 (sjá hér bls. 10). Þegar jörðinni var lýst um 1920 stóð við baðstofuvegginn skúr sem var 12 x 3 álnir að flatarmáli[138] og hefur að líkindum verið sá hinn sami og reistur var haustið 1888.

Eitthvað af fé úr Önundarfirði var selt til slátrunar á Ísafirði, a.m.k. frá árinu 1880,[139] en þegar fólki fór að fjölga á Flateyri opnaðist þar líka markaður fyrir kjöt. Haustið 1888 fór Jón á Grafargili yfir á Flateyri með 5 skrokka af veturgömlu fé sem vigtuðu til samans 103 kíló.[140] Á Flateyri fékk hann 9 og 10 aura fyrir hvert kjötkíló.[141]

Á þeim árum sem Jón Guðmundsson stóð fyrir búi Kristjönu systur sinnar á Grafargili var vélvæðing ekki hafin, hvorki við bústörfin eða inni á heimilunum. – Vorum að setja upp maskínuna, skrifar Jón þó í dagbók sína haustið 1882.[142] Þar hlýtur hann að eiga við eldavél og má því ætla að systkinin á Grafargili hafi orðið fyrri til en flestir aðrir Önfirðingar að fá sér slíkt þarfaþing. Fullvíst er að eldavél var komin að Grafargili tveimur árum síðar[143] en almennt munu eldavélar ekki hafa komið á bæi í Önundarfirði fyrr en um og upp úr 1890. Á árunum 1890-1893 setti Jón á Grafargili upp eldavélar á mörgum bæjum, þar á meðal á Kirkjubóli í Valþjófsdal og á prestssetrinu í Holti.[144]

Í febrúarmánuði árið 1892 var Jón að smíða taðvél heima á Grafargili[145] og sýnir það líka að hann hefur verið fljótur að tileinka sér nýjungar því notkun taðkvarna mun ekki hafa hafist fyrr en um 1880 er einstaka bændur á Norðurlandi fóru að koma sér upp slíkum verkfærum.[146]

Fyrri part sumars árið 1883 var Jón á Grafargili á skútu í 9 vikur og dró 1300 fiska.[147] Á næstu árum var hann stundum við sjóróðra á vorvertíð og skaust þess utan á sjó öðru hverju þegar aðstæður leyfðu. Árið 1889 smíðaði Jón sér bát.[148] Þremur árum síðar átti hann bát sem hét Elliði[149] og kynni að hafa verið sama skipið. Vorið 1892 var Jón með Elliða á Ingjaldssandi og reri þaðan frá 21. apríl til 11. júlí.[150]

Hér hefur áður verið sagt frá viðleitni Jóns á Grafargili til að koma á samtökum um félagsverslun í Önundarfirði á árunum kringum 1890 (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Á þeim árum var hann mjög virkur í félagsmálum og fús að mæta á fundum eins og dagbók hans ber með sér. Eitt besta dæmið um kapp Jóns á Grafargili í félagsmálum og stjórnmálum er að finna í dagbókarskrifum hans frá 4. apríl árið 1894 en þann dag fer hann frá Grafargili inn í fjörð til að safna samskotum til að styrkja þá sem standa í kærumálum á Ísafirði.[151] Fullvíst má telja að með fjársöfnun þessari hafi verið ætlunin að styrkja þá liðsmenn Skúla Thoroddsen á Ísafirði sem Lárus H. Bjarnason, hinn setti sýslumaður, hafði hafið málsókn gegn þegar búið var að dæma Skúla frá sýslumannsembættinu í undirrétti. Um þau málaferli má lesa í ævisögu Skúla eftir Jón Guðnason.[152]

Stuðningur Jóns á Grafargili við helstu baráttumál Skúla Thoroddsen kemur víðar fram. Nefna má að á þjóðmálafundinum sem haldinn var á Höfðaodda í Dýrafirði 6. janúar 1891 var það smiðurinn á Grafargili sem mælti fyrir tillögu um að ánauð vistarbandsins yrði létt af hinni fjölmennu stétt vinnufólksins.[153] Sú áskorun til stjórnvalda var samþykkt í einu hljóði á fundinum.[154]

Vorið 1889, þegar Jón á Grafargili var 34 ára gamall, tók hann sér ferð á hendur með póstgufuskipi til Reykjavíkur,[155] að því er virðist til að skoða sig um. Hann kom til Reykjavíkur 23. maí og tveimur dögum síðar fór hann að líta á söfnin. Skoðaði ég landsbókasafnið og málverkasafnið og forngripasafnið, rúm Jóns Sigurðssonar og þá húsmuni er hann brúkaði,  skrifar ferðalangurinn frá Grafargili í bók sína daginn þann.[156] Þá voru aðeins liðin 9 ár og 5 mánuðir frá því Jón Sigurðsson forseti andaðist.

Á árunum kringum 1890 fór almúgafólk á Íslandi yfirleitt ekki í löng ferðalög nema þeir sem fluttust til Ameríku eða áttu brýn erindi að rækja fjarri heimahögum. Í þessum efnum skar Jón á Grafargili sig úr. Árið 1893 brá hann sér til Skotlands og Noregs með einu af skipum hvalveiðistöðvarinnar á Sólbakka.[157] Sú ferð tók hálfan annan mánuð og segir Jón í dagbók sinni skemmtilega frá mörgu sem fyrir augun bar í utanlandsferðinni. Í erlendum borgum var margt með öðrum brag en tíðkaðist hér í strjálbýlinu og því fékk Jón frá Grafargili að kynnast bæði í Edinborg og Osló sem þá hét Kristiania. Þann 8. mars 1893 kom skipið sem Jón var á upp að skosku ströndinni og þann dag ritar hann í dagbók sína: Nú fórum við framhjá fyrsta bænum í Skotlandi. Var hann fallegur að sjá … . Fjarskinn allur af vitum á leiðinni og ósköpin öll í landi af ljósum.[158]

Það voru ekki síst ljósin sem vöktu undrun ferðamannsins því hér þekktist ekki annað en grútartýrur og steinolíulampar. Þann 9. mars lá Fridthjof, skipið sem Jón sigldi með, á höfninni í Leith. – Nú er búið að kveikja í landi og er mikið að sjá þann ljósaljóma, skrifar smiðurinn frá Grafargili í dagbókina þá um kvöldið.[159] Tveimur dögum síðar fór hann í fyrsta skipti upp í borgina og þar var svo margt fólk á götunum að alveg var fullt, svo maður varð að hliðra sér til svo að maður kæmist áfram.[160] Pakkhúsin í skosku hafnarborginni sýndust líka furðulega stór. Ferðalangurinn úr Valþjófsdal sló máli á tvö þessara húsa og reyndust þau vera 90 faðmar á lengd, hvort um sig.[161]

Er skipið hafði legið í viku á höfninni í Leith gafst Jóni kostur á að fara með járnbrautarlest upp til Edinborgar þar sem hann skoðaði kastalann. Í Edinborg steig hann líka upp í sporvagn og ferðin til Edinborgar var að mati dagbókarritarans skemmtilegasta stundin sem hann hafði upplifað í Skotlandi.[162]

Í Noregi var það skógurinn sem fyrst vakti furðu langferðamannsins. Skipið kom til Noregs 22. mars og var lagst að bryggju skammt frá Túnsbergi. Þann dag skrifar Jón í dagbókina: Hér eru hús allt í kring og skógurinn að því skapi sem nær því hylur allt og er það merkilegt hvernig trén geta vaxið upp úr berghólunum og klettasprungunum.[163]

Í Noregi skoðaði Jón m.a. sláttuvél og vagna og rakstrarvél og fleira kjöretöj eins og hann orðar það[164] en slík tæki var ekki farið að nota í Önundarfirði fyrr en aldarfjórðungi síðar.

Á heimferðinni frá Noregi sáu þeir á gufuskipinu Fridthjof fyrst til lands á Íslandi að morgni 14. apríl. Skipið var þá statt austan við Ingólfshöfða.[165] Líklega hefur Jón frá Grafargili minnst skóganna og gróðursins í Noregi er hann stóð á skipsfjöl og horfði upp til Vatnajökuls. Að venju skrifar hann í dagbókina þennan dag og segir þá: Var eyðilegt á land að sjá, skriðjökull fram í sjó og allt annað í snjó utan þvergníptir núpar.[166]

Að morgni 17. apríl var skipið komið norður fyrir Látraröst og undan Kópnum var smiðurinn úr Valþjófdal látinn taka stýrið.[167] Hér þekkti hann bæði haf og land og stóð við stjórnvöl gufuskipsins í röska tvo tíma. Þá voru þeir komnir norður á miðjan Önundarfjörð.[168]

Á árunum 1892-1896 var Jón frá Grafargili jafnan verkstjóri við lagningu vegar inn Hvilftarströnd í Önundarfirði (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Fyrir þá verkstjórn mun hann hafa fengið allsæmilega borgun. Þann 7. nóvember 1893 fékk hann uppgert fyrir vegavinnuna þá um sumarið. Eftirstöðvar sumarkaupsins sem hann fékk greiddar þennan dag voru 509,50 krónur.[169] Að kvöldi þessa útborgunardags skrifar Jón í dagbók sína þessi orð: … og nú á ég rúmar 700,- krónur hjá mér og eru það mestu peningar sem ég hef eignast í einu.[170] Fimmtán mánuðum síðar, þann 13. febrúar 1895, keypti hann 6 hundruð í Grafargili á uppboði og borgaði fyrir þau 605,- krónur.[171] Þetta var hálf jörðin. Þegar kaupin fóru fram átti Jón enn heima á Grafargili hjá systur sinni og mági, ókvæntur þó orðinn væri fertugur. Síðar á árinu 1895 dró hins vegar til þeirra tíðinda að hann trúlofaðist Marsibil Kristjánsdóttur, sem þá var vinnukona hjá Hans Ellefsen á Sólbakka, og sumarið 1896 gengu þau í hjónaband (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal). Á því ári byggði hann hús sitt Árnes í landi Kirkjubóls í Valþjófsdal og þar settust þau Marsibil að. Á þeim árum sem Jón og fjölskylda hans áttu heima í Árnesi, 1896-1905, mun hann reyndar hafa haft einhver jarðarafnot á Grafargili og í sóknarmannatölum frá þessum árum er Árnes alltaf talið með Grafargili, enda þótt húsið stæði í landi Kirkjubóls.[172] Árið 1905 gerðist Jón bóndi á Kirkjubóli og bjó þar í rösklega tvo áratugi (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal, sbr. Firðir og fólk 1900-1999, 341). Hann andaðist á Flateyri 27. október 1933.[173]

Jón Guðmundsson frá Grafargili var og er merkur fulltrúi þeirra alþýðumanna sem á árunum kringum aldamótin 1900 létu til sín taka í framfarasókn þjóðarinnar. Honum var margt til lista lagt og skilaði vel hverju því verki sem honum var trúað fyrir. Í Önundarfirði sér handarverka hans enn stað. Ýmislegt hefur hér verið tínt til úr dagbók þessa bóndasonar úr Valþjófsdal og er ætlað sem veganesti fyrir þá sem síðar kynnu að staldra við á hlaðinu á Grafargili þar sem við stöndum nú.

Bærinn sem Jón Guðmundsson og hans fólk bjó í stóð reyndar nokkru ofar í túninu og aðeins norðar en íbúðarhúsið sem hér er nú (1993). Snjóflóð braut gömlu bæjarhúsin niður 19. janúar 1930[174] og var þá byggt upp á nýju bæjarstæði.[175] Vegalengdin milli íbúðarhússins og gamla bæjarstæðisins er um það bil 50 metrar.[176] Þar sem gamli bærinn stóð er nú kálgarður og nokkur tré að falli komin, sem stóðu sunnan undir bæjargaflinum.[177]

Frá Grafargili liggur leið okkar að Þorfinnsstöðum. Steinninn sem sýnir hvar landamerkin milli jarðanna liggja er skammt fyrir norðan túnið á Grafargili. Þaðan er leiðin greið.

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Guðmundur Hallgrímsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1993.

[2] Sama heimild.

[3] Sama heimild.

[4] Vigfús Ebenezersson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1993.

[5] Sama heimild.

[6] Guðm. Hallgrímsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1993.

[7] Vigfús Ebenezersson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1993.

[8] Sama heimild.

[9] Sama heimild.

[10] Óskar Einarsson 1951, 131.

[11] Vigfús Ebenezersson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1993.

[12] Guðm. Hallgrímsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1993.

[13] Sama heimild.

[14] Örnefnaskrá.

[15] Guðm. Hallgrímsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1993.

[16] Vigfús Ebenezersson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1993.

[17] Óskar Ein. 1951, 133.

[18] Vigfús Ebenezersson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1993.

[19] Óskar Ein. 1951, 132.

[20] Sama heimild.

[21] Guðm. Hallgrímsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1993.

[22] Sama heimild.

[23] Sama heimild.

[24] Sama heimild.

[25] Óskar Ein. 1951, 132.

[26] Sama heimild.

[27] Sama heimild.

[28] Guðm. Hallgrímsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1993.

[29] Sama heimild.

[30] Sama heimild.

[31] Óskar Ein. 1951, 133.

[32] Guðm. Hallgrímsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1993.

[33] Sama heimild.

[34] Sama heimild.

[35] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 98-99.

[36] Sama heimild.

[37] J. Johnsen 1847, 195.

[38] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 146.

[39] Jarðab. Á. og P. VII, 98-99.

[40] J. Johnsen 1847, 195.

[41] Jarðab. Á. og P. VII, 98-99.

[42] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 103.

[43] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 146.

[44] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 146.

[45] Sama heimild.

[46] D.I. IV, 353-354.

[47] D.I. VIII, 339 og IX, 55-56.

[48] D.I. VIII, 775-777.

[49] D.I. VIII, 338-340.

[50] Sama heimild, 772-773 og 775-777.

[51] Sama heimild, 772-773.

[52] Sama heimild.

[53] Sama heimild.

[54] Sama heimild.

[55] D.I. VIII, 775-777.

[56] Sama heimild, 772-773 og 775-777.

[57] D.I. X, 83-84.

[58] Íslenskar æviskrár I, 319-320.

[59] D.I. XV, 522.

[60] Sama heimild.

[61] D.I. XV, 520.

[62] Jarðab. Á. og P. VII, 98.

[63] Sama heimild, 95 og 99.

[64] Manntal 1762. Sbr. Ísl. æviskrár I, 349.

[65] J. Johnsen 1847, 195.

[66] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 146.

[67] D.I. XV, 473.

[68] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.

[69] Sama heimild.

[70] Jarðab. Á. og P. VII, 98-99.

[71] Manntal 1703.

[72] Jarðab. Á. og P. VII, 98-99.

[73] Manntal 1762.

[74] Manntal 1801.

[75] Manntöl 1816, 1835, 1845, 1850 og 1855.

[76] Manntöl 1870, 1880 og 1890. Sbr. Firðir og fólk 1900-1999, 345.

[77] Sóknarm.töl Holtsprestakalls. Manntöl frá 19. öld. Ólafur Þ. Kristjánsson 1945, 155. (Frá ystu nesjum III).

[78] Ól. Þ. Kr. 1945, 155.

[79] Ísl. æviskrár I, 425.

[80] Manntal 1801.

[81] Manntal 1816.

[82] Ól. Þ. Kr. 1945, 155.

[83] Sama heimild.

[84] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrsla 1830.

[85] Sama heimild.

[86] Sama heimild.

[87] Sama heimildasafn XX. 1., búnaðarskýrsla 1834.

[88] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrsla 1834.

[89] Sama heimild.

[90] VA III, 407, búnaðarskýrsla 1837.

[91] VA III, 412, búnaðarskýrsla 1850.

[92] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. B. 2., verslunarskýrslur 1850-1878.

[93] Prestsþjónustubækur og sóknarm.töl Holtspr.kalls.

[94] Ól. Þ. Kr. 1945, 155-156 (Frá ystu nesjum III).

[95] Sóknarm.töl staðar í Súgandaf. Manntal 1845.

[96] Ól.Þ.Kr./Önfirðingar. Manntöl 1845 og 1850.

[97] Ól.Þ.Kr./Önfirðingar

[98] Sama heimild.

[99] Sama heimild.

[100] Prestsþjónustubækur og sóknarm.töl Holtspr.kalls. Firðir og fólk 1900-1999,345.

[101] Sömu heimildir.

[102] Prestsþjónustubækur og sóknarm.töl Holtspr.kalls

[103] Sömu heimildir.

[104] Prestsþjónustubækur og sóknarm.töl Holtspr.kalls

[105] Sömu heimildir.

[106] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 1880-1897.

[107] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[108] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 1880-1897.

[109] Sama heimild.

[110] Sama heimild.

[111] Sama dagbók 8.10.1890.

[112] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 15.8.1880.

[113] Sama dagbók 24.1.1884.

[114] Sama dagbók 26.1.1881, 28.1.1881, 29.1.1881 og 31.1.1881.

[115] Sama dagbók 6.3. 1890 og 23.3.1892.

[116] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 18.1.1881, 7.3.1881 og 25.3.1881.

[117] Sama dagbók 26.3.1881.

[118] Sama dagbók 28.3.1881.

[119] Sama dagbók 29.3.1881.

[120] Sama dagbók 11.7.1881 og 16.10.1881.

[121] Sama dagbók 4.11.1881.

[122] Sama dagbók 21.3.1882.

[123] Sama dagbók 29.3.1882.

[124] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 1.5. og 2.6.1882.

[125] Sama dagbók, 2.6. 1882.

[126] Sama dagbók 8.3.1892.

[127] Sama dagbók, sama dag.

[128] Sama dagbók 9.9.1883.

[129] Sama dagbók 26.7.1884.

[130] Sama dagbók 31.7. og 14.8.1884.

[131] Sama dagbók 13.9.1884.

[132] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 146.

[133] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 27.10.1883.

[134] Sama dagbók 6.12.1884.

[135] Sama dagbók, sama dag.

[136] Sama dagbók 25.9.1888.

[137] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 146.

[138] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 146.

[139] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 6.9.1880.

[140] Sama dagbók 8.10.1888.

[141] Sama dagbók, sama dag.

[142] Sama dagbók 9.11.1882.

[143] Sama dagbók 6.12.1884.

[144] Sama dagbók 24.9.1890, 4.6.1891, 11.9.1891, 2.10.1891 og 27.10.1893.

[145] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 13.2.1892.

[146] Jónas Jónasson 1961, 57 (Ísl. þjóðhættir). Sbr. Sigurður Sigurðsson 1937, 115 (B.Í. Aldarminning II).

[147] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 7.5. – 8.7.1883.

[148] Sama dagbók 21.2. og 23.4.1889.

[149] Sama dagbók 28.3.1890 og 21.4.1892.

[150] Sama dagbók 21.4. – 11.7.1892.

[151] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 4.4.1894.

[152] Jón Guðnason 1968, 351-355.

[153] Þjóðviljinn V, bls. 74-75, 26.2.1891.

[154] Sama heimild.

[155] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 22.5. – 4.6.. 1889.

[156] Sama dagbók 25.5. 1889.

[157] Sama dagbók frá árinu 1893.

[158] Sama dagbók 8.3.1893.

[159] Sama dagbók 9.3.1893.

[160] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 11.3.1893.

[161] Sama dagbók 12.3.1893.

[162] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 16.3.1893.

[163] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 22.3.1893.

[164] Sama dagbók 4.4.1893.

[165] Sama dagbók 14.4.1893.

[166] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 14.4.1893.

[167] Sama dagbók 17.4.1893.

[168] Sama dagbók, sama dag.

[169] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 7.11.1893.

[170] Sama dagbók, sama dag.

[171] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 13.2.1895.

[172] Sóknarm.töl Holts í Önundarfirði.

[173] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[174] Almanak hins íslenska þjóðvinafélags um árið 1932 / Árbók Íslands 1930, bls. 47.

[175] Eyjólfur Jónsson. – Viðtal K.Ó. við hann 28.6.1993. Firðir og fólk 1900-1999, 345).

[176] Guðm. Hallgrímsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1993.

[177] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »