Hóll í Firði

Hóll er einn þeirra þriggja jarða hér inni í Firði sem standa vestan (sunnan) við Hestá. Yst eru Vífilsmýrar, innst er Tunga og Hóll þar á milli. Eins og fyrr var nefnt er liðlega einn kílómetri frá Vífilsmýrum að Hóli en frá Hóli að Tungu er aðeins hálfur kílómetri og álíka langt yfir að Hesti sem er hinum megin við Hestá, nær beint á móti Hóli.

Hér hefur áður verið gerð grein fyrir landamerkjum Hóls og Vífilsmýra (sjá Vífilsmýrar) en milli Hóls og Tungu skiptir Tunguá löndum í aðalatriðum.[1] Hún kemur ofan af Ekkilsdal, fellur með túninu í Tungu og síðan í Hestá skammt þar frá. Enda þótt Tunguá falli í grófum dráttum á landamerkjunum á Tunga dálítið land Hólsmegin við hana, alveg niður við Hestá.[2] Heita þar Tungueyrar en á þessum slóðum mun áin hafa breytt um farveg.[3] Á móti Hesti er það svo Hestá sem segir til um landamerki (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 371) með þeirri undantekningu þó að handan árinnar telst Hóll eiga Breiðeyri er svo heitir.[4] Skýringu á því vita menn ekki en munnmæli hafa verið á kreiki um að eyri þessi hafi gengið undan Hesti og undir Hól fyrir lán á smiðju.[5]

Áður en lengra er haldið er vert að rifja upp hvaða forsetningar voru notaðar með bæjarnöfnum hér í Firðinum þegar rætt var um ferðir milli bæja. Frá Hóli var farið út að Vífilsmýrum, fram í Tungu, yfir að Hesti og útKirkjubóli í Korpudal.[6] Til samanburðar skal vísað á það sem hér er sagt um hliðstæða notkun forsetninga í tali þeirra sem áttu heima á Kirkjubóli í Korpudal (sjá Kirkjuból).

Um fjöllin, sem mest ber á frá hlaðinu á Hóli, hefur áður verið rætt (sjá Vífilsmýrar) en þau eru Krákur, Tunguhorn, Hestur og Kirkjubólsfjall.

Dalurinn, sem Tunguá fellur um og er vestan Tunguhorns, heitir Ekkilsdalur[7] og þar á Hóll allt land vestan árinnar eins og hér var áður nefnt. Í sóknarlýsingu frá árinu 1840 er dalur þessi nefndur Arnkelsdalur[8] og mun það vera eldra nafn. Vestan við Ekkilsdal er allhár hjalli eða hryggur og þar fyrir vestan er svo Hólsdalur sem liggur mun hærra en Ekkilsdalur.[9] Á nýnefndum hjalla eru Litlaborg og Stóraborg. Litlaborg blasir við heiman frá Hóli þar sem hæst ber uppi á hjallanum en Stóraborg sést ekki frá bæjarhlaðinu.[10] Á Hólsdal er dalsmynnið í 100-150 metra hæð yfir sjávarmáli og mestur hluti dalsins liggur í 200-300 metra hæð. Þar uppi er land samt allvel gróið. Loftlína frá Hóli og fram á fjallabrúnir fyrir botni Hólsdals og Ekkilsdals er um það bil fjórir kílómetrar en frá Tunguhorni að hamrabrúnunum vestan við Hólsdal eru um það bil tveir kílómetrar.

Áin sem fellur um Hólsdal og í Hestá neðan við túnið á Hóli heitir Hólsá. Hún á upptök sín í Grjótdal[11] en svo heitir ein fjögurra hvilfta sem ganga inn í fjalllendið vestan við dalinn og fyrir botni hans. Sameiginlegt nafn á þessum hvilftum er Hólshvilftir.[12] Fremst þeirra er Geldingadalur, þá Grjótdalur, síðan Litlidalur og loks Hvestur á móts við dalsmynnið en sú hvilft skiptist að sögn í Lægri-Hvestur og Hærri-Hvestur.[13] Líklegra verður þó að telja að upphaflegu nöfnin hafi verið Lægri-Hvesta og Hærri-Hvesta og samheitið Hvestur verið notað þegar talað var um báðar í senn. Milli Grjótdals og Litladals er Grjótdalshorn en Litlahorn milli Litladals og Hvestanna.[14] Utan við síðastnefndu hvilftina er fjallið Krákur og handan við það Hafradalur upp af eyðibýlinu Kotum. Klettabrúnirnar ofan við Hólsdal og Hólshvilftir eru víðast hvar í 750-850 metra hæð og fyrir botni dalsins ná þær 868 metrum.

Uppi á Hólsdal var heyjað á fyrri tíð[15] og þar mun hafa verið haft í seli. Nafnið sel fylgir tóttum sem kúra rétt framan við dalbrúnina þar sem bærinn hverfur þegar gengið er upp í dalinn.[16] Efsti fossinn neðan við dalbrúnina heitir líka Selfoss og Seljahjalli er þarna rétt hjá.[17] Tóttirnar, sem nefndar eru sel, eru farnar að síga í jörð og ekki lengur mjög greinilegar. Þó má sjá að þar eru mannaverk á. Tveir hólar eru þarna og lítil lægð á milli þeirra. Á fremri hólnum er tótt, 3 x 5 metrar að flatarmáli, sem gæti hafa verið kví. Á hinum hólnum má greina hleðslur en erfitt er að segja hvað húsin hafa verið mörg því þarna er allt að fara í karga. Vatn hafa selstúlkurnar þurft að sækja í Hólsá sem ekki er langt undan.

Niður úr Hólsdal fellur Hólsá í fallegum fossum sem óma blítt á kyrru sumarkvöldi. Allmiklu utar fer Stekkjarlækur sem kemur ofan úr Hvestum sína leið. Ofan við Holtin, sem svo heita, skiptir hann sér í Bæjarlæk og annan læk sem heldur nafninu Stekkjarlækur.[18] Báðir falla þessir lækir að lokum í Hestá eða lænu úr henni.[19]

Utan við gamla túnið á Hóli voru áður Hólsmóar og náðu út að landamerkjunum á móti Vífilsmýrum.[20] Stór hluti þessara móa hefur nú verið ræktaður upp. Á bökkum Stekkjarlækjar um miðja Hólsmóana var talið ágætt slægjuland.[21]

Hóll er gömul bújörð, 18 hundruð að dýrleika að fornu mati.[22] Til aðgreiningar frá Hóli á Hvilftarströnd, sem er önnur bújörð í Mosvallahreppi, var þessi Hóll oft nefndur Hóll í Firði. Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 er jörðin nefnd Hóll en aftan við nafnið látið fylgja með að hann sé kallaður inn í firði.[23]

Um 1920 var jörðin talin geta framfleytt 3 kúm, 120 kindum og 4 hrossum.[24] Í umsögn matsmanna frá þeim tíma er Hóll sagður vera ágæt beitarjörð og fremur góð slægnajörð, túnið þýft en í góðri rækt.[25] Um þetta leyti var heyfengurinn um 280 hestar af útheyi og 100 hestar af töðu í meðalári.[26] Gott mótak var í landareigninni en annarra hlunninda er ekki getið.[27]

Í Jarðabókinni frá 1710 er tekið fram að unnt sé að fóðra 6 kýr á Hóli[28] en þar er annars sagt mjög lítið um búskaparskilyrði á þessari jörð. – Engjunum spilla heldur en ekki skriður en sérdeilis fordjarfast þær af ám sem brjóta þær og bera á grjót, stendur þar[29] og annað ekki um kosti jarðarinnar eða galla. Í sóknalýsingunni frá 1840 er Hóll sagður vera notagóð jörð en slægnalítil.[30]

Í lok 17. aldar var árleg landskuld af Hóli 6 vættir,[31] það er eitt kýrverð, og talið að svo hafi verið frá fornu fari.[32] Þá var tvíbýli á jörðinni og árið 1701 var ákveðið að landskuldin af annarri hálflendunni skyldi greiðast með hálfum þriðja ríkisdal í spesíumynt.[33] Árið 1708 var landskuldin af þessari hálflendu lækkuð úr tveimur og hálfum í tvo ríkisdali[34] en sú fjárhæð var yfirleitt talin jafngild 60 álnum, það er hálfu kýrverði.[35] Um miðja 19. öld var landskuld af Hóli 110 álnir[36] en um 1920 var hún mun lægri, það er 2 ær og 2 gemlingar.[37]

Leigukúgildi, sem fylgdu jörðinni árið 1710, voru 5 og 2/3,[38] það er 34 ær. Um miðbik 19. aldar voru leigukúgildin fimm[39] en um 1920 voru leiguærnar 18[40] og kúgildin sem fylgdu jörðinni því ekki nema þrjú.

 

Um jörðina Hól í Önundarfirði er fyrst getið í vitnisburðarbréfi frá árinu 1467.[41] Í bréfinu er vottað að Halldór Hákonarson á Kirkjubóli í Valþjófsdal hafi heypt Hól með þremur kúgildum af séra Jóni Sveinssyni en látið á móti jörðina Hnjót í Örlygshöfn við Patreksfjörð.[42] Hér hefur áður verið sagt frá Halldóri Hákonarsyni sem keypti Hól árið 1467 (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal) en minna er vitað um séra Jón Sveinsson sem seldi honum jörðina.

Síðar á 15. öld komst jörðin í eigu Solveigar Björnsdóttur[43] en hún var dóttir Björns Þorleifssonar, hirðstjóra á Skarði á Skarðsströnd, og konu hans Ólafar Loftsdóttur ríku. Hér hefur áður verið sagt lítið eitt frá Solveigu og hinum flóknu og langvarandi deilum um skiptingu arfs eftir hana (sjá hér Mosvellir). Einn frænda Solveigar var Björn Guðnason í Ögri en Þóra Björnsdóttir, móðir hans, var hálfsystir hennar.[44] Árið 1509 taldi Björn í Ögri sig eiga jörðina Hól í Firði[45] en þá voru 14 ár liðin frá því Solveig Björnsdóttir andaðist.[46] Tveimur árum síðar, árið 1511, réðst Stefán Jónsson Skálholtsbiskup svo í að skipta hinum gamla Solveigararfi og kom þá Hóll í Önundarfirði ásamt fjórum jörðum í Bolungavík í hlut Jóns Jónssonar[47] sem var eitt barna Solveigar og Jóns Þorlákssonar er áður var frá sagt (sjá hér Mosvellir). Enginn veit nú hversu lengi þessi sonur Solveigar átti jörðina en svo virðist sem Magnús, sonur hans, hafi verið í náðinni hjá Ögmundi biskupi.[48]

Árið 1710 var Hóll í eigu Páls Torfasonar, sýslumanns á Núpi í Dýrafirði, og séra Jóns Torfasonar á Stað í Súgandafirði og áttu þeir sína hálflenduna hvor.[49] Báðir voru þessir embættismenn þá komnir um eða yfir sjötugt og kynnu því að hafa eignast jörðina löngu fyrr. Í bréfi sem dagsett er 28. maí árið 1703 segir séra Jón Torfason að hann hafi eignast sín 9 hundruð í Hóli við erfðaskipti milli sín og bræðra sinna og áður hafi langfeðgar hans þrír átt þessa hálflendu.[50] Í sama bréfi lætur séra Jón þess getið að hálflendunni fylgi þrjú kúgildi og ársleiga af þeim sé sex fjórðungar af smjöri,[51] það er 30 kíló. Prestur nefnir líka að kvöð um skipsáróður fylgi ábúð á þessum jarðarparti[52] en Árni Magnússon segir sjö árum síðar að þeir sem búi á hálflendu prestsins séu nú lausir við þessa fornu kvöð en hins vegar fylgi hún enn hinni hálflendunni hér á Hóli, þeirri sem Páll sýslumaður Torfason átti.[53]

Skömmu eftir 1710 virðast séra Jón Torfason og Páll sýslumaður hafa ráðstafað jörðinni til valinna erfingja því árið 1718 var Hóll í eigu Ástu Pálsdóttur frá Núpi og Þórunnar Pálsdóttur,[54] sem var tengdadóttir séra Jóns Torfasonar á Stað. Seint á því ári fékk Páll sýslumaður á Núpi sín 9 hundruð reyndar til baka frá Ástu dóttur sinni í jarðaskiptum.[55] Ásta var gift séra Sigurði Sigurðssyni í Holti í Önundarfirði og segir svo í Alþingisbókinni að í jarðaskiptum hafi Páll sýslumaður keypt 9 hundruð í Hóli fyrir hönd konu sinnar, Gróu Markúsdóttur, og seljandinn hafi verið séra Sigurður Sigurðsson fyrir hönd sinnar konu, Ástu Pálsdóttur.[56] Vel má vera að prestsfrúin í Holti hafi svo eignast þennan jarðarpart á ný fáum árum síðar því Páll sýslumaður andaðist árið 1720 og Gróa kona hans um svipað leyti.[57]

Í Alþingisbókinni frá 1719 segir að 26. september árið 1718 hafi Þórunn Pálsdóttir selt Tómasi Ásgrímssyni 10 hundruð í Hóli í Önundarfirði fyrir 15 hundruð í Barkarstöðum í Miðfirði og hafi hún fallist á að greiða mismuninn með lausafé.[58] Frá þessum kaupsamningi var gengið á Stað í Grunnavík[59] en líklegt er að þar sem talað er um 10 hundruð í Alþingisbókinni hafi átt að standa 9 hundruð því hin 9 hundruðin átti frúin í Holti, Ásta Pálsdóttir, eins og hér var áður nefnt.

Í Alþingisbókinni sést ekki hvaða Þórunn Pálsdóttir það var sem seldi hálfan Hól haustið 1718 en í ljósi þess að séra Jón Torfason á Stað í Súgandafirði átti þessa hálflendu árið 1710 má telja fullvíst að um sé að ræða Þórunni Pálsdóttur sem verið hafði tengdadóttir séra Jóns en var nú orðin ekkja. Til styrktar þeirri kenningu má nefna að í stað hálflendunnar á Hóli kaupir Þórunn jörð á heimaslóðum sínum í Miðfirði og ekki síður hitt að kaupin fara fram á Stað í Grunnavík en þar hafði Þórunn búið með eiginmanni sínum, séra Ólafi Jónssyni, syni séra Jóns Torfasonar á Stað í Súgandafirði.[60] Séra Ólafur Jónsson á Stað í Grunnavík, eiginmaður Þórunnar, andaðist í stórubólu árið 1707 en þegar jarðaskiptin fóru fram árið 1718 var faðir Þórunnar, séra Páll Jónsson á Mel í Miðfirði, enn á lífi[61] og má ætla að hann hafi litið til með fjármálum dóttur sinnar.

Þess er svo vert að geta að Þórunn Pálsdóttir frá Mel og séra Ólafur Jónsson á Stað í Grunnavík voru foreldrar Jóns Ólafssonar, fræðimanns í Kaupmannahöfn, sem jafnan var kenndur við Grunnavík, og Erlendar Ólafssonar, sýslumanns á Hóli í Bolungavík.[62] Þegar móðir þeirra seldi hálfan Hól í Önundarfirði voru þeir enn á barnsaldri, Erlendur tólf ára og Jón þrettán. Um Tómas Ásgrímsson, sem keypti hálflenduna af Þórunni, er fátt vitað en geta má þess að einn vinnumanna á Stað í Grunnavík árið 1703 bar einmitt þetta nafn.[63] Hann var þá 30 ára og átti aðeins einn alnafna á öllum Vestfjörðum.[64] Árið 1710 bjuggu prestsekkjan Þórunn Pálsdóttir og Tómas Ásgrímsson í einhvers konar samkrulli á þriðjungi Staðar í Grunnavík[65] og verður að telja mjög líklegt að það sé þessi Tómas sem keypti af henni hálfan Hól í Önundarfirði átta árum síðar

Árið 1762 var Snæbjörn Pálsson annar tveggja eigenda Hóls í Önundarfirði,[66] efalaust sjálfur Mála-Snæbjörn sem þá var orðinn háaldraður og átti heima á Álfadal á Ingjaldssandi (sjá hér Sæból á Ingjaldssandi). Snæbjörn var sonur Páls Torfasonar sýslumanns, sem átti hálfan Hól 50 árum fyrr, og kynni að hafa erft þessa eign. Meðeigandi Snæbjörns að jörðinni árið 1762 var kona sem hét Guðrún Bjarnadóttir[67] en hér verður ekki reynt að fá botn í hver hún hafi verið.

Árið 1805 var jörðin í eigu systranna Gróu og Kristínar Snæbjörnsdætra[68] og þarf vart að efa að systur þessar séu dætur Mála-Snæbjörns því með seinni konu sinni eignaðist hann tvær stúlkur sem báru einmitt þessi nöfn (sjá hér Sæból). Árið 1901 var það svo Torfi Halldórsson á Flateyri sem átti Hól[69] en Torfi Snæbjörnsson afi hans var albróðir þessara systra (sjá hér Sæból). Vera kann að Torfi á Flateyri hafi því fengið jörðina í arf og ljóst er að hún hefur verið býsna lengi í eigu ættingja hans.

Árið 1820 keypti Magnús Guðmundsson, bóndi í Bæ í Súgandafirði, hálfan Hól (sjá hér Bær í Súgandafirði) og þegar ekkja hans, Bergljót Össurardóttir, andaðist, fjörutíu árum síðar, átti hún enn þessa hálflendu og tvö og hálft hundrað úr jörðinni þar til viðbótar.[70] Við skipti á dánarbúi Bergljótar kom þessi jarðarpartur í hlut þriggja sonarbarna hennar en eitt þeirra var María Össurardóttir, kona Torfa Halldórssonar á Flateyri, og komu 2 hundruð og 60 álnir í hennar hlut.[71] Árið 1901 var Torfi eigandi Hóls[72] en eins og fyrr var nefnt var hann reyndar bróðursonarsonur nýnefndra systra, Gróu og Kristínar Snæbjörnsdætra, sem áttu þessa sömu jörð árið 1805.

Um bændur á Hóli fyrir siðaskiptin um miðbik 16. aldar eða þeirra heimilisfólk er ekkert vitað en um aldamótin 1600 bjuggu hér hjónin Bjarni Ólafsson og Margrét Guðmundsdóttir.[73] Hjá þessum hjónum var Brynjólfur biskup Sveinsson í fóstri hér á Hóli þrjú fyrstu æviár sín (sjá hér Holt) en hann fæddist í Holti 14. september árið 1605. Sjálfur hefur Brynjólfur greint svo frá að hjón þessi á Hóli hafi fóstrað sig fyrstu þrjú árin og tekur fram að þau hafi verið góðra manna.[74] Um Bjarna er vitað að hann var sonur séra Ólafs Jónssonar sem var síðasti kaþólski presturinn í Holti[75] og líka sá fyrsti sem þar gegndi prestsembætti í lúterskum sið (sjá hér Holt). Kona séra Ólafs Jónssonar og móðir Bjarna á Hóli var Steinvör Ólafsdóttir, dótturdóttir Solveigar Björnsdóttur hirðstjóra Þorleifssonar (sjá hér Holt) og systir Sigurðar Ólafssonar, sem átti í miklu stríði við Ögmund biskup Pálsson eins og hér er frá sagt á öðrum stað (sjá hér Mosvellir). Eitt kæruefna Ögmundar á hendur Sigurði var að hann hefði líkamlega samlagast sinni eigin systur, þó ekki Steinvöru heldur Solveigu Ólafsdóttur (sjá hér Mosvellir).

Ekki er nú vitað hvort Bjarni Ólafsson á Hóli átti jörðina þegar hann bjó hér í byrjun 17. aldar en eins og hér hefur áður verið frá greint átti Solveig Björnsdóttir, langamma hans, Hól undir lok 15. aldar. Vel má vera að Steinvör prestsfrú í Holti, móðir Bjarna, hafi að lokum náð að eignast jörðina en deilurnar um skiptingu eigna, sem Solveig amma hennar lét eftir sig, stóðu mjög lengi eða í því sem næst hálfa öld.

Árið 1681 var tvíbýli á Hóli. Annar bóndinn, sem þá bjó hér, hét Ásmundur Eyfinnsson[76] og er föðurnafnið athyglisvert því fáir munu hafa borið nafnið Eyfinnur á síðari öldum. Á 18. öld var fjöldi býlanna á Hóli mjög breytilegur. Árin 1703 og 1710 var hér þríbýli[77] og árið 1735 fjórbýli.[78] Bændurnir sem þá bjuggu á Hóli hafa því aðeins haft fjögur til fimm jarðarhundruð til ábúðar hver að jafnaði. Árið 1753 hafði býlunum fækkað um helming en þá bjuggu hér tveir bændur[79] og árið 1762 bjó Sigurður Jónsson einn á allri jörðinni, landseti Mála-Snæbjörns.[80]

Árið 1801 og 1901 var búið í tvíbýli á Hóli og svo var einnig 1870 og 1880[81] en algengast var á 19. öld að á jörðinni sæti aðeins einn bóndi í senn og hefði hana alla til ábúðar.[82] Árið 1753 var maður að nafni Sigurður Jónsson annar tveggja bænda á Hóli.[83] Árið 1762 bjó Sigurður einn á allri jörðinni með konu sinni, Guðrúnu Bjarnadóttur.[84] Hér voru þá átta börn þeirra, hið elsta ellefu ára drengur, þrjú vinnuhjú og þrír niðursetningar.[85] Niðjar þessara hjóna, Sigurðar Jónssonar og Guðrúnar Bjarnadóttur, bjuggu mjög lengi á Hóli og þegar Páll Sigurðsson, sem var sonarsonarsonur þeirra, andaðist, 34 ára gamall, árið 1851[86] höfðu þessir langfeðgar setið jörðina í a.m.k. 98 ár. Sá tími kynni þó að hafa verið mun lengri því ekki er ólíklegt að einhver hinna mörgu Jóna sem bjuggu á Hóli á fyrri hluta 18. aldar[87] hafi verið faðir Sigurðar Jónssonar sem hér bjó árið 1753 og áður var nefndur. Ekkja Páls Sigurðssonar hélt líka áfram búskap á Hóli að manni sínum látnum og þá með nýjum eiginmanni allt til ársins 1871[88] svo tuttugu ár bættust við í þann endann ef frjálslega er talið.

Árið 1801 bjó Þorlákur Sigurðsson í tvíbýli hér á Hóli[89] en hann var elsti sonur Sigurðar Jónssonar og Guðrúnar Bjarnadóttur sem áður voru nefnd.[90] Kona Þorláks hét Guðrún Guðmundsdóttir en hún mun hafa andast árið 1797.[91] Í mannskaðaveðrinu mikla 1812 drukknuðu tveir synir þessara hjóna, Guðmundur og Páll, báðir liðlega tvítugir að aldri, og áttu þá  heima hjá föður sínum hér á Hóli[92] (sbr. hér Mosvallahreppur,  inngangskafli). Eldri en þeir var Sigurður sem tók við búi af Þorláki föður sínum á árunum 1812-1816.[93] Hjá honum andaðist Þorlákur árið 1839, kominn undir nírætt.[94]

Sigurður Þorláksson var fæddur á Hóli árið 1784. Fyrri kona hans var Guðrún, dóttir Jóns Sigurðssonar sem var hreppstjóri um skeið og bjó á Vífilsmýrum.[95] Árið 1816 áttu feður þessara ungu hjóna báðir heima hjá börnum sínum hér á Hóli en Sigurður bjó þá einn á allri jörðinni.[96] Nokkru síðar andaðist Guðrún Jónsdóttir húsfreyja en Sigurður kvæntist á ný haustið 1825 og gekk þá að eiga Önnu Eyjólfsdóttur.[97] Þau Sigurður og Anna stóðu fyrir búskap á Hóli fram yfir 1840 en árið 1845 var Páll Sigurðsson tekinn við, sonur Sigurðar Þorlákssonar og fyrri eiginkonu hans.

Páll fæddist á Hóli vorið 1816 og haustið 1838 kvæntist hann Kristínu Hákonardóttur sem þá var hér vinnukona hjá föður hans.[98] Kristín var fædd á Kirkjubóli í Korpudal árið 1812.[99] Árið 1845 voru þau Páll og Kristín með 14 manna heimili hér á Hóli en faðir Páls og stjúpa voru í húsmennsku út af fyrir sig, með 15 ára son sem þau áttu, og höfðu einhverja grasnyt.[100] Alls taldist heimafólk á bænum því vera sautján. Um þetta leyti voru börn Páls og Kristínar orðin fjögur, vinnukonurnar voru fimm en aðeins einn vinnumaður.[101]

Síðasta heila árið sem Páll lifði var 1850. Þá um vorið var bústofn hans sem hér segir: 4 kýr, 1 kálfur, 25 ær, 4 hrútar og/eða sauðir, 16 gemlingar, 24 lömb og 3 hestar.[102] Enginn kálgarður var þá á Hóli og Páll átti engan bát.[103] Ekki er kunnugt hvernig heilsu Páls var háttað síðustu árin sem hann lifði en þegar hann dó á Pálsmessu árið 1851 bókar prestur að hann hafi verið allur með sárum á líkamanum.[104]

Í bænum sem Páll og Kristín, kona hans, bjuggu í hér á Hóli voru baðstofa, búr og eldhús.[105] Baðstofan var 10,5 álnir á lengd en aðeins 3 álnir á breidd[106] og hefur því verið 12,4 fermetrar eða því sem næst. Í úttekt frá árinu 1852 má sjá að í þessari baðstofu var loft.[107] Búr Páls og Kristínar á Hóli var 6 x 3 álnir[108] eða um það bil 7 fermetrar og eldhúsið jafnstórt búrinu.[109] Lengd bæjarganganna var fimm og hálfur metri eða rétt liðlega það.[110]

Þegar Páll Sigurðsson, bóndi á Hóli, andaðist voru börn þeirra Kristínar sem lifðu orðin sjö,[111] elst Guðrún, fædd 1838, en yngst Solveig, fædd 1850.[112] Móðir þeirra var þá 38 ára gömul og þurfti á fyrirvinnu að halda. Um vorið fékk hún bónorðsbréf í ljóðum frá Andrési Hákonarsyni,[113] hálffertugu rímnaskáldi úr Arnarfirði sem þá mun hafa verið við sjóróðra í verstöðinni á Hafnarnesi við vestanverðan Dýrafjörð (sjá hér bls. 11). Þegar Andrés ritaði bréfið höfðu þau Kristín aldrei sést[114] en einhverjar spurnir hefur hann af henni haft. Skemmst er frá því að segja að með ljóðaskrafi sínu tókst Andrési að heilla ekkjuna á Hóli og fyrir jól á þessu sama ári var hún orðin þunguð af hans völdum. Þann 8. júlí 1852 voru þau gefin saman í hjónaband og fimm vikum síðar fæddist barnið.[115]

− Þar tók hún Kristín starheyið ofan í töðuna, þegar hún átti hann Andrés, sagði Ingileif Ólafsdóttir á Kirkjubóli í Bjarnardal löngu síðar er hún ræddi um eiginmenn tengdamóður sinnar, Kristínar Hákonardóttur á Hóli.[116] Af Páli, fyrri eiginmanni Kristínar, fór það orð að hann hefði verið hagsýnn myndarbóndi en Andrés var talinn meira fyrir bókina en búskapinn.[117]

Bónorðsbréfið, sem Andrés sendi Kristínu, er enn varðveitt hjá niðjum hennar og afrit í Þjóðminjasafni.[118] Í bréfinu eru 30 vísur og hér koma tíu þeirra:

 

 

  1. vísa: Byrja ég ljóðin best indæl,

                 breytni sýni mjúka.

                 Komdu um eilífð sigursæl

                 sólin bjartra dúka.

 

  1. vísa: Öllum rómi tungu og tals

                 til þín sný ég lúður.

                 Gefi þér Jesús guðs son alls

                 góðs að njóta brúður.

 

  1. vísa: Þér ókenndur heiti ég hér,

                 hörð er sorgar viðja.

                 Mér í huga einurð er,

                 ójá, þín að biðja.

 

  1. vísa: Þig skal elska af þýðri dyggð,

                 þiljan auðs hin bjarta,

                 þar til dauðinn sára sigð

                 setur mér í hjarta.

 

  1. vísa: Mildur guð af moldu skóp

                 mann og kvinnu hreina.

                 Það er ei skarð í þennan hóp

                 þó ég fái eina.

 

  1. vísa: Eikin banda elskulig

                 eg þér fræðin letra.

                 Sjá, þér býð ég sjálfan mig,

                 síst ég neitt á betra.

 

  1. vísa: Eg þess bið með engan stans,

                 Adams minnsti af sonum.

                 Falin vertu í frelsarans

                 fögru blóðundonum.

 

  1. visa: Þú ef neitar þessu hér

                 þung mun hugarsýki.

                 Kvæðin ranna kannske mér

                 komi í himnaríki.

 

  1. vísa: Þrúður hringa þægilig,

                 þér ég nafn mitt tjái.

                 Andrés Hákons arfa mig

                 öldin heita náir.

 

  1. vísa: Lifðu í sóma síblessuð,

                 sólin bjarta, falda.

                 Þitt sé hæli góður guð

                 greitt um aldir alda.

 

Andrés Hákonarson var fæddur í Otradalssókn í Arnarfirði árið 1817 eða því sem næst og var fermdur í Selárdal árið 1831.[119] Fram undir þrítugt var Andrés vinnumaður á ýmsum bæjum í Arnarfirði,[120] m.a. á Baulhúsum en þar var hann haustið 1845 hjá Þorbjörgu Þorvaldsdóttur,[121] ekkju séra Markúsar Þórðarsonar sem áður var prestur á Álftamýri. Vorið 1851 mun hann að líkindum hafa róið frá verstöðinni Hafnarnesi, yst á vesturströnd Dýrafjarðar. Guðmundur norðlenski, sem hér er frá sagt á öðrum stað, settist að á Sveinseyri þetta vor (sjá hér Nesdalur) og skrifar í dagbók sína 7. júlí á því ári: Kom Andrés Hákonarson og Jón Sveinsson utan af Nesi.[122] Vorvertíð lauk oftast í fyrstu viku júlí svo ætla má að þarna sé sagt frá heimkomu vermanna. Um miðbik 19. aldar var aðalverstöð bænda í Þingeyrarhreppi enn á Hafnarnesi (sjá hér Höfn) svo allt kemur þetta heim og saman. Frá Sveinseyri fluttist Andrés til Önundarfjarðar á síðari hluta ársins 1851[123] en á Sveinseyri mun hann aðeins hafa átt heima skamma hríð því ekki finnst hann þar í manntali frá haustinu 1850 og hvergi í Þingeyrarhreppi.

Vel má vera að Andrés Hákonarson og Guðmundur norðlenski hafi verið eitthvað kunnugir áður en leiðir þeirra lágu saman á Sveinseyri árið 1851 og þaðan í frá máttu þeir kallast vinir og höfðu margt saman að sælda.

Þegar Andrés fluttist að Hóli mun hann hafa verið 34 ára gamall eða svo en ekkjan, sem hann kvæntist, var 5 árum eldri. Þau Andrés og Kristín Hákonardóttir bjuggu á Hóli í 20 ár, frá 1851 til 1871,[124] og komu þar upp börnum Kristínar af fyrra hjónabandi hennar. Saman eignuðust þau tvö börn en aðeins annað þeirra náði að verða fullorðið, dóttirin Hákonía Elín.[125] Þegar bæjarhúsin á Hóli voru tekin út við brottför Andrésar var stærð þeirra að heita má hin sama og verið hafði 1852[126] og hér var áður greint frá (sjá hér bls. 9).

Á fyrri hluta 20. aldar mundu margir Önfirðingar eftir Andrési Hákonarsyni og ýmsir þeirra munu hafa sagt svo frá að hann hafi verið lítill búmaður.[127] Líklega er það rétt því í búnaðarskýrslum sést að Andrési tókst ekki að halda við jafn stóru búi og hann fékk í hendur þegar hann kom að Hóli. Hér var áður sagt frá bústærðinni á Hóli árið 1850 en það var síðasta árið sem Páll Sigurðsson, fyrri maður Kristínar, lifði. Næsta ár tók Andrés við og árið 1860 hafði kúnum fækkað úr 4 í 3, ánum úr 25 í 16, og gemlingunum úr 16 í 9.[128] Andrés bjó þó einn á allri jörðinni og svo var enn árið 1868.[129] Síðasta búskaparár Andrésar á Hóli var fardagaárið 1870-1871.[130] Þá var stjúpsonur hans, Hákon Pálsson, farinn að búa á hálfri jörðinni og bú Andrésar orðið mjög lítið, það er 1 kýr, 1 kvíga, 9 ær, 4 gemlingar, 1 hestur og 1 tryppi.[131] Andrés og Kristín kona hans voru þá komin með kálgarð sem var um það bil 40 ferfaðmar að stærð.[132]

Sighvatur Grímsson Borgfirðingur segir á einum stað að Andrés Hákonarson hafi verið gáfumaður mikill og skáld allgott[133] og á öðrum stað er frá því greint að Andrés hafi m.a. ort níu rímnaflokka.[134] Á Landsbókasafni eru nú varðveittir þrír rímnaflokkar sem Andrés er höfundur að, Rímur af Elenu einhentu,[135] Rímur af Konráði keisarasyni[136] og Rímur af Póloster frækna.[137] Í Rímum af Flóresi og sonum hans, sem einnig eru varðveittar í Landsbókasafni,[138] hefur Andrés ort 1. rímu, sem áður vantaði þar eð handritið var skaddað er það kom í hendur bóndans á Hóli.[139] Auk þeirra rímnaflokka, sem nefndir voru hér að framan, er kunnugt um nöfn á fjórum öðrum, sem kunnugir fullyrtu að Andrés hefði ort, en þau handrit munu nú vera glötuð.[140] Þetta voru Rímur af Án bogsveigi, af Eymundi Hringssyni, af Gríshildi góðu og af Þorsteini bæjarmagni.[141]

Rímurnar af Elenu einhentu mun Andrés hafa ort fyrir Ásgrím Guðmundsson á Ísafirði[142] sem var skútuskipstjóri og tók einnig þátt í útgerð.[143] Þessar rímur kallar Andrés reyndar Raunir af Elenu einhentu í einu handriti því á titilblaðinu stendur:

 

Hér skrifast Raunir af Elenu einhentu úr dönsku snúið og í ljóðmæli upp sett af Andrési Hákonarsyni á Hóli inn í Önundarfirði. Byrjaðar árið 1852, síðast á því ári, endaðar 24. október Anno mundi 1858.[144]

 

Andrés segir þarna að efnivið í rímurnar hafi hann sótt í danska sögu en kunnugt er að sagan um drottningu þessa, sem lenti í margvíslegum raunum og höndin var höggvin af, var fyrst gefin út á dönsku um 1650.[145] Sjálf er saga þessi talin vera frá 13. öld og mun hafa verið þýdd á íslensku á fyrri hluta 17. aldar.[146]

Í rímnaflokknum sem Andrés orti um Elenu einhentu eru 28 rímur og fjöldi vísna eitthvað á þriðja þúsund.[147] Upphafsvísan er svona:

 

Rennur dagur, rökkrið flýr,

raddar svalan hljóði,

hefjist bragur núna nýr

nýtum spanga rjóði.[148]

 

Í fyrstu rímu þessa sama flokks er 55. vísan á þessa leið:

 

Maktar hávi úr sterkum stað

stýrir Rómaborgar,

Clement páfi, bréf oss bað

bera hér á torgar.[149]

 

Rímur Andrésar af Konráði keisarasyni voru ortar fyrir Kristján Jónsson á Kirkjubóli í Valþjófsdal[150] árið 1864 og munu aðeins vera til í uppskrift Kristjáns frá árinu 1897.[151] Í þessum rímnaflokki eru tólf rímur og í eftirmála bætir Andrés svo við sautján vísum með blessunaróskum til Kristjáns og konu hans,[152] Gróu Greipsdóttur (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal).

Í Rímum af Konráði keisarasyni eru tvær eftirfarandi vísur númer 55 og 56 í sjöttu rímu:

 

Þó var eitt sem Oddafreyr

opið náir kenna.

Bræði heittir Blámenn tveir

bragning móti renna.

 

 

Andlit blátt og hendur hér

höfðu og gular tennur.

Æði smátt þó álmaver

undan þessum rennur.[153]

 

Til kynningar á skáldskap Andrésar bónda á Hóli verða þessi sýnishorn látin nægja.

Óhætt mun að fullyrða að Andrés Hákonarson hafi verið drjúgur skrifari og svolítið brot af öllum hans mörgu uppskriftum og afritum hefur tekist að varðveita. Þar má nefna kver sem heitir Töfralist Edur edlilegur galdur[154] og annað með nokkrum særingaþulum.[155] Ef Andrés hefði verið á dögum 200 árum fyrr og skrifin sem þarna er að finna komist fyrir sjónir yfirvalda má búast við að honum hefði verið skipað á bekk með galdramönnum og þá gat verið stutt í bálið. Meðal þess sem Andrés hafði á boðstólum var Brynjubæn eður stefna Sæmundar fróða sem hann las til að stilla með reiði óvina sinna og einnig særingaþula sem ætluð var til að lækna kveisu.[156] Brot úr henni hljóðar svo:

 

Ég særi þig alls konar kveisa út af þessum manni, hans höfði og heila, hörundi og skinni, hálsi og herðum, úr brjósti og hjarta, yðrum og innyflum og úr öllum limum og liðum og öllum samsettum líkama. Hataðu Drottinn þennan kveisustað. Fyrr var Guð en heimur var gjörður og skal þig svo héðan reka svo sem Drottinn minn rak Djöfulinn úr hæsta himnaríki í afgrunn helvítis.[157]

 

Ekkert verður nú um það sagt hvort Andrés Hákonarson hefur sjálfur trúað á mátt særinga til varnar gegn ofstopafullum óvinum og skæðum sjúkdómum. Svo þarf alls ekki að hafa verið en fornum fróðleik af þessu tagi hefur hann, hvað sem öðru líður, viljað halda til haga, enda var maðurinn úr Arnarfirði þar sem galdratrúin lifði einna lengst.

Sighvatur Borgfirðingur lætur þess getið að Andrés Hákonarson og Guðmundur norðlenski hafi verið aldavinir.[158] Hann nefnir líka arfamál, sem Andrés hafi átt í, og segir Guðmund norðlenska hafa reynt allt sem hann gat til að liðsinna vini sínum í því máli.[159]

Um arfamál þetta hefur Halldór Kristjánsson frá Kirkjubóli ritað ágæta grein sem birtist í Ársriti Sögufélags Ísfirðinga árið 1989[160] og skal fróðleiksfúsum lesendum bent á að kynna sér hana. Einnig er varðveittur mikill fjöldi bréfa frá Andrési Hákonarsyni til Guðmundar norðlenska og er í mörgum þeirra rætt um arfamálið.[161] Bréfin sýna að þeir Andrés og Guðmundur hafa verið trúnaðarvinir.

Halldór Kristjánsson var nákunnugur fólki sem þekkti Andrés og lýsir honum svo: Hann var hneigður til fræðimennsku, ritstarfa og skáldskapar meir en býsýslu. Auk þess var hann nokkuð ölkær og bætti það ekki um.[162]

Hér verður ekki gerð ýtarleg grein fyrir arfamálinu, sem áður var nefnt, en þess skal þó getið að málið snerist um skiptingu arfs eftir Magnús Ólafsson, hálfbróður Andrésar, sem andaðist ókvæntur og barnlaus á Norðurfossi í Arnarfirði vorið 1855.[163] Við skipti á dánarbúinu komu tæplega 11 ríkisdalir í hlut Andrésar en hann taldi sig hafa átt að fá mun meira og hafði grun um að peningum og feitmeti úr eigu dánarbúsins hefði verið stolið áður en það var skrifað upp.[164] Einnig dróst úr hömlu að Jón Thoroddsen, sýslumaður í Barðastrandarsýslu, greiddi Andrési þá 11 ríkisdali sem hann þó átti að fá samkvæmt skiptagerðinni.[165] Fjárhæð þessa hafði Andrés fengið að láni hjá verslununum á Þingeyri og Bíldudal út á væntanlega greiðslu erfðafjárins.[166] Sýslumaður sendi honum hins vegar aldrei neina peninga en kvaðst hafa greitt verslunarstjóranum á Bíldudal hluta fjárhæðarinnar til að jafna skuld Andrésar þar.[167] Sá verslunarstjóri dó hins vegar skömmu síðar og enginn botn fékkst í málið um mjög langt skeið.

Í þessu stappi stóð Andrés í full 14 ár og málinu lauk ekki fyrr en skömmu áður en hann fór frá Hóli. Bréf hans til yfirvalda urðu mörg, þar á meðal til amtmanns og stiftamtmanns.[168] Stíllinn á sumum þeirra líkist mjög skrifum Guðmundar norðlenska svo vel getur verið að þeir félagarnir hafi báðir tekið þátt í að semja sum bréfin. Hitt er þó líka mögulegt að Andrés, sem var yngri maður, hafi tileinkað sér stíl Guðmundar, vinar sins, og lært af honum.

Í marsmánuði árið 1862 sendi Andrés Jóni Guðmundssyni, ritstjóra Þjóðólfs og málflutningsmanni í Reykjavík, skýrslu um málið, sem var stíluð til stiftamtmanns, og fylgdi henni bréf sem Andrés og Guðmundur norðlenski skrifuðu báðir undir og einnig Jens Jóhannesson sem þá bjó á Vífilsmýrum[169] en seinna alllengi í Tungu í Firði. Til að sýna stílinn verður nú birt hér eitt lítið brot úr þessari löngu skýrslu en þar segir:

 

Þegar tími laganna væntanlega var tilkominn voru þeir eftirlátnu fjármunir Magnúsar heitins registreraðir og verðlagðir án þess að mér væri tilkynnt dauðsfallið og segja sveitarmenn þar að dánarbúið hafi komið upp á 70-80 rdl. Þessa fjármuni seldi sýslumaður, Jón Thoroddsen, á uppboðsþingi og gekk hann framhjá mér sem hinir að tilkynna mér aðgjörðir þessar.

Sem önnur nýmæli að „Magnús væri dáinn, að búið væri að skrifa upp eftir hann, að búið væri að selja dánarbú hans á auction o.s.frv. fór nú í úthrópun háðs og undrunarfrétta að drynja í bergmálum milli allra núpa hér vestra af öllum tignum og ótignum reisendum.”

Ég sem þrumulostinn, frá mér numinn af fögnuði spratt nú upp af fögnuði þeim, lukkan nú – venju fremur – að nú væri mér fátækum fjölskyldumanni bættar flestar ef ekki allar búskaparnauðir mínar. Nú gæti ég bráðum með brauði mettað og klæðum klætt konu mina elskulega og blessuð börn okkar af arfsarði þeim sem ég að helfingi þóttist lögborinn til eftir þennan hálfbróður minn, oftnefndan Magnús heitinn. Og til þess að verða ekki fundinn að öllu í tölu hinna lötu, í hverra munn engin von er að steikt gæs fljúgi, fór ég að búa mig undir ferð héðan úr Önundarfirði og valdi mér til ráðuneytis og aðstoðar heiðrað hreppstjóraefni vort og lipran gáfumann, Jens Jóhannesson, og átti nú ekki að sleppa að gleiða greiparnar móti arfi mínum hjá þeim sem var af mér meinti sólklári réttlætis ráðherre, sýslumaður Jón Þóroddssen hefði falið arfhluta minn til geymslu.[170]

 

Andrés segir síðan frá ferð þeirra Jens Jóhannessonar í janúar 1856 yfir fjöll og firði uns þeir komu að bænum Fossi í Suðurfjörðum Arnarfjarðar þar sem hinn látni hálfbróðir hans hafði átt heima í fimmtu sveit héðan eins og það er orðað í skýrslunni.[171]

Fyrir Andrés varð þessi erfiða vetrarferð árangurslaus að kalla og við tók hið langa stríð sem lauk ekki fyrr en árið 1869 en þá fékk Andrés þessa 11 ríkisdali loks greidda úr dánarbúi Jóns Thoroddsen sýslumanns sem var þrotabú.[172] Halldór Kristjánsson hefur reyndar sýnt fram á að í raun hafi Andrés fengið arfinn tvíborgaðan, fyrst í vöruúttekt sem hann hafi aldrei greitt fyrir[173] og löngu seinna í beinhörðum peningum sem hann fékk borgaða 8. júlí 1869.[174]

Ein lítil tilvitnun í eitt margra bréfa sem Andrés ritaði Guðmundi norðlenska um arfamál sitt sýnir vel hvaða hugur var í honum og hversu skemmtilegur hann gat verið mitt í allri armæðunni. Í bréfinu kemst Andrés svo að orði:

 

Ég bið yður nú, elsku vin, að hreyfa nú enn við þessu í vetur og koma því nú svo langt sem það getur komist og dragið nú ekki af við arfsþjófinn minn Jón Þórðarson. Slíkir Helvítis eldibrandar eru ekki sparandi, hans bölvaða þrjóska, þögn og fóli verður honum að endingu til óhamingju. Ég skil nú ekki annað en hann og hans fylgjarar sem daglega fóttroða réttvísina muni orðnir plágaðir af daufum djöfli og þungu málleysi. Nú bið ég yður, elskulegi vinur, að gjöra gang í þessu svo það geti þó orðið honum og þeim að tímanlegri og eilífri skömm ef ekki getur orðið til ávinnings.[175]

 

Um liðsinni Guðmundar norðlenska við vin sinn þarf ekki að efast, enda segir Andrés sjálfur að Guðmundur hafi margsinnis hjálpað honum í þessu málavafstri.[176] Þegar Andrés á Hóli fékk sumarið 1868 bréf frá Bergi Thorberg amtmanni með ábendingu um að nú skyldi hann snúa sér til skiptaráðandans í dánarbúi Jóns Thoroddsen, − þá var hann fljótur að láta Guðmund norðlenska vita af þessari nýju glætu.[177] Hann skrifar Guðmundi 19. júlí og segir:

 

Ekki mun honum [þ.e. amtmanni] grunlaust um pretti Jóns dauða Þórðarsonar sýslumanns í arfamáli þessu. Þá bið ég yður nú auðmjúklega fyrst þér hafið margsinnis hjálpað mér áður hér við, þá bið ég yður nú í Herrans nafni að hjálpa mér hér við sem fljótast. Þó þeir hafi gjört þetta að öngu og þetta megi heita einskis virði við það sem það gat orðið þá er lítið betra en ekki. Ég þarf í engu falli að leggja yður orð í munn.[178]

 

Á þessum orðum má skilja að Andrés hafi ætlað Guðmundi að skrifa skiptaráðanda í dánarbúi sýslumanns fyrir sína hönd og að Guðmundur hafi áður skrifað fyrir hann eitthvað af bréfum eða skýrslum er málið vörðuðu. Þó er greinilegt að sjálfur var hann prýðilega ritfær.

Þegar Andrés sendi Guðmundi norðlenska bréfið, sem hér var síðast vitnað til, sumarið 1868, var farið að þrengjast mjög um hagi Guðmundar og á næsta hausti varð hann að hrekjast úr kofa sínum undir Fögrubrekku í landi Sanda í Dýrafirði og var settur niður sem ómagi hjá hreppstjóranum í Hólum, þar örskammt frá (sjá hér Sandar í Dýrafirði). Guðmundur var þá kominn undir sjötugt (sjá hér Nesdalur) og var þaðan í frá upp á aðra kominn. Nokkrum árum fyrr var hann hins vegar allvel sjálfbjarga og oft í ferðalögum sem skottulæknir. Þá mun hann öðru hverju hafa komið að Hóli til Andrésar, vinar sins, og fengið þar góðar móttökur. Árið 1848 hafði Guðmundur skilið við konu sína, Vigdísi Guðmundsdóttur, en á næstu árum bjó hann alllengi með annarri konu, Ingibjörgu Jónsdóttur, og eignaðist börn með henni (sjá hér Nesdalur). Sambúð þeirra lauk í janúar árið 1854 (sjá hér Sandar í Dýrafirði). Þegar Guðmundur kom heim frá Hollandi vorið 1855 var hann hálfsextugur að aldri en mun hafa haft fullan hug á að festa sér konu. Hjá Andrési, vini sínum á Hóli, mun hann hafa leitað fylgilags við a.m.k. þrjár stúlkur og var ein þeirra vinnukona á bænum, önnur stjúpdóttir Andrésar og sú þriðja systir hans. Frá öllum þessum kvonbænum verður nú sagt hér lítið eitt nánar.

Árið 1858 reisti Guðmundur skála sinn undir Fögrubrekku í landi Sanda í Dýrafirði og kallaði Guðmundarskála. Þar settist hann að þá um sumarið og með honum Guðrún Bjarnadóttir er kom frá Hóli í Firði þar sem hún hafði verið vinnukona (sjá hér Sandar). Þau bjuggu saman í um það bil 3 ár og eignuðust drenginn Oddmund sem ólst upp á Hóli hjá Andrési Hákonarsyni (sjá hér Sandar).

Sama ár og Guðrún Bjarnadóttir gerðist ráðskona hjá Guðmundi var hann líka í þingum við Guðrúnu Pálsdóttur á Hóli sem var elsta barn Kristínar Hákonardóttur, húsfreyju þar, og fyrri eiginmanns hennar.[179] Sönnun þessa er að finna í skrifum Guðmundar sjálfs. Í minnisbók sína hefur hann ritað uppkast að réfi til Guðrúnar og segir þar m.a.:

 

Í tilefni af trúlofun okkar GPD 1858.

Sú tíð var 1858, 28. janúar, að við bundum trú okkar. Sú tíð kom 1858 í aprílmánuði að þú skriflega brást því ásamt þínum foreldrum. Sú tíð kom á sama sumri að stjúpfaðir þinn bað forláts fyrir þína hlutdeild í því. Sú tíð kom 1860 að stjúpfaðir þinn og móðir vildu öðlast mína af guði gefna hjálp á hans sjúkdómsþjáningum. Þá stóð sú tíð sem móðir þín líka leitaði um sættir við mig fyrir þig …

Ég veit að þetta skeytingarleysi þitt er ekki sprottið af gáfnaskorti en ég bið fyrir þér ef stórlæti og hofmóður valda slíku. Þó þú viljir enn ekki gefa þessu gaum þá trú þú mér, þín ánægja mun ekki fastbundist geta við neinn elskara og þó að dyggðugur sé eins og heyri sagt um mann þann sem þú nú eftir sögu þjónar í tryggðum eða þjóna ættir með ótáldrægu hjarta en ekki breyta við hann sem mig að skrifa þig hans elskandi unnustu inn til dauðans, sjá bréf þitt til mín ritað í mars 1858 en í apríl sama ár senda mér skriflegt loforðarof þitt … .[180]

 

Fullvíst er að það er Guðrún Pálsdóttir á Hóli sem þetta bréf hefur verið ætlað því í dagbók Guðmundar sést að þar var hann 28. janúar 1858 og þann dag skrifar hann í dagbók sína þessi orð: Skrifað til GPD þar o.fl. og að kvöldi þess sama dags bindum við trúskap vorn.[181]

Við skoðun þessa gamla kvonbænamáls verður að hafa í huga að þegar Guðrún Pálsdóttir trúlofaðist Guðmundi norðlenska var hún aðeins 19 ára gömul[182] en hann kominn undir sextugt svo aldursmunurinn var nær 40 ár. Vinnukonan á Hóli, sem hann fékk í staðinn, var reyndar líka mjög ung, aðeins þremur árum eldri en unnustan sem brást (sjá hér Sandar).

Í skrifum sínum um Guðmund norðlenska vitnar Sighvatur Grímsson Borgfirðingur í bréf sem Andrés Hákonarson ritaði Guðmundi 8. mars 1858 og segir bréfið bera með sér að þá hafi verið komið í orð að Guðrún Bjarnadóttir færi sem ráðskona til Guðmundar.[183] Leit að þessu bréfi hefur því miður ekki borið árangur en sé dagsetningin, sem Sighvatur nefnir, rétt hefur bréfið verið skrifað nokkrum vikum áður en Guðrún Pálsdóttir sleit trúlofun þeirra Guðmundar. Líklegast verður því að telja að Andrési hafi ekki verið um það gefið að Guðmundur fengi stjúpdóttur hans og jafnvel verið farinn að bjóða honum vinnukonuna í staðinn áður en trúlofuninni var endanlega rift.

Guðrún Pálsdóttir á Hóli giftist síðar Markúsi Ólafssyni og bjó um skeið á Kotum.[184] Hún dó 11. janúar 1918, komin fast að áttræðu.[185] Fáum dögum áður en hún dó færði hún konu þáverandi héraðslæknis á Flateyri, Unni Skúladóttur Thoroddsen, útskorna rúmfjöl og bað hana geyma.[186] Sagði hún Unni að stjúpfaðir sinn, Andrés Hákonarson, hefði skorið fjölina og gefið sér.[187] Rúmfjöl þessi frá Hóli mun enn vera vel varðveitt (mynd af henni fylgir grein Halldórs) en í hana hefur Andrés skorið nafnstafi Guðrúnar, GPD, og ártalið 1862.[188] Fjölin er haglega skreytt með útskurði og í hana skorið með höfðaletri þetta vers:

 

Blessa þú Drottinn bæ og lýð,

blessa oss nú og alla tíð.

Blessun þína oss breið nú á,

blessuð verður oss hvíldin þá.[189]

 

Þriðja konan á Hóli sem Guðmundur norðlenski fór á fjörurnar við var Þuríður Hákonardóttir, hálfsystir Andrésar bónda. Sagan af trúlofun þeirra er komin frá Solveigu Pálsdóttur, systur Guðrúnar, sem hér var síðast frá sagt, og ætti því að vera sæmilega marktæk. Solveig fæddist á Hóli árið 1850 og var yngsta barn Kristínar Hákonardóttur, húsfreyju þar, og fyrri eiginmanns hennar.[190] Hún ólst upp á Hóli hjá móður sinni og stjúpföður, Andrési Hákonarsyni, og var um tveggja ára aldur þegar móðir hennar giftist Andrési.[191] Mjög skömmu eftir komu Andrésar að Hóli fluttist Þuríður systir hans þangað og var hún vinnukona á Hóli árið 1852.[192] Á árunum 1852-1863 var Þuríður oft vinnuhjú á Hóli og á árunum 1863-1870 var hún lengi vinnukona á Vífilsmýrum.[193] Solveig Pálsdóttir og Þuríður hafa því verið mjög lengi á sama bæ eða alveg í næsta nágrenni hvor við aðra á uppvaxtarárum Solveigar og allt þar til hún var orðin tvítug. Með hliðsjón af því má ætla að Solveig hafi þekkt þessa systur stjúpföður síns allvel.

Þuríður Hákonardóttir fæddist í Selárdalssókn í Arnarfirði árið 1828[194] og var því ellefu árum yngri en Andrés bróðir hennar. Á sóknarmannatali úr Holtsprestakalli frá árinu 1852 er hún sögð 30 ára[195] en hefur í raun ekki verið nema 24 ára. Það var fyrsta árið hennar á Hóli. Hvenær Guðmundur norðlenski bað Þuríðar er ekki alveg ljóst en Solveig segir það hafa verið þegar hann átti heima í skála sínum undir Fögrubrekku.[196] Líklegast verður því að telja að þetta bónorð hafi hann borið upp á árunum 1862 eða 1863 þegar Guðrún Bjarnadóttir, sem hér var áður nefnd, var farin frá honum og síðasta ráðskonan hans, Jóhanna Beta Gísladóttir, enn ekki komin til sögu (sjá hér Sandar í Dýrafirði).

Saga Solveigar Pálsdóttur af trúlofun Guðmundar norðlenska og Þuríðar Hákonardóttur á Hóli er skráð í fyrsta bindi af ritinu Frá ystu nesjum[197] og þar er að finna þessa ágætu lýsingu hennar á Þuríði:

 

Þuríður þótti einkennileg um margt. Skapstór var hún með afbrigðum og nettkvendi lítið. Lítt létu henni hannyrðir eða önnur innistörf en við alla þá vinnu sem þrek þurfti til gat hún sýnt hinn mesta dugnað. Málrómur hennar var sérkennilega dimmur, hrjúfur og líkastur karlmannsrödd. Rímnamanneskja var hún mikil og kvað oft við raust. Gekk hún stundum milli bæja á vetrum og skemmti fólki með kveðskap. … Greind var Þuríður í betra lagi, orðheppin og hagmælt. … Ekki þáði Þuríður aðrar betri gjafir en tóbaksbita. Þótti henni það mjög gott en oft skorti hana slíka hluti því fátæk var hún alla ævi. Tóbakið tuggði hún, lét síðan tuggurnar í skinntuðru, þurrkaði þær og reykti þær loks úr pípugarmi.[198]

 

Solveig segir hér að Þuríður hafi verið greind í betra lagi og þess má geta að þegar séra Stefán P. Stephensen í Holti gaf sóknarbörnum sínum einkunnir fyrir þekkingu á kristnum fræðum árið 1859 færir hann til bókar að kunnátta Þuríðar sé góð.

Þuríður Hákonardóttir hafði alist upp hjá vandalausu fólki í Ketildölum í Arnarfirði því móður sína missti hún um sex ára aldur.[199] Á Hóli sagði hún stundum sögur úr æsku sinni og lýsti því öllu sem ógurlegast hvernig með sig hefði verið farið.[200] Eitt sumar kvaðst hún hafa verið höfð fyrir hund. Var hún þá látin fylgja smalanum og send fyrir hverja kind.[201] Þótti henni hundsævin ill sem vonlegt var. Við Solveigu Pálsdóttur sagði Þuríður að engan mann væri henni svo illa við að hún vildi óska honum svipaðrar ævi og sín hefði verið.[202]

Solveig Pálsdóttir frá Hóli mundi vel eftir Guðmundi norðlenska sem kom oft að Hóli á uppvaxtarárum hennar. Þegar hún var tíu ára var Guðmundur liðlega sextugur svo hún þekkti hann aðeins sem gamlan mann. Um karlinn hafði Solveig þetta að segja:

 

Guðmundur hét maður og var kallaður hinn norðlenski. Hann þótti kvenkær mjög og leitaði víða þeirra erinda. Ekki var maðurinn þekkilegur og varð honum því miður gott til kvenna. Þó bjó hann með fleirum en einni en engin loddi hjá honum til lengdar. … Hann var mikill vinur Andrésar Hákonarsonar og kom árlega til að finna hann. Sat hann þá nokkra daga á Hóli og ræddust þeir við um mörg mál því báðir voru fróðir vel.[203]

 

Söguna af trúlofun Guðmundar norðlenska og Þuríðar Hákonardóttur á Hóli kunni Solveig vel og sagði frá á þessa leið:

 

Á ferðum þessum kynntist Guðmundur Þuríði, systur Andrésar. Kom þar að hann hóf bónorð til hennar en hún tók því þunglega í fyrstu. Guðmundur verður því ákafari og sækir fast sitt mál. Fór svo að lokum að Þuríður heitir honum eiginorði. Hélt karl síðan heim og þóttist hafa gert góða ferð þar sem brátt myndi rætast úr kvenmannsleysi sínu.

Liðu nú nokkrir dagar. Þá er það einhverju sinni meðan verið er að vinna á vellinum að Þuríður leggur frá sér hrífu sína og heldur heim til bæjar án þess að tala við nokkurn mann. Gengur hún til baðstofu, tekur upp blað og penna og situr við skriftir í tvo daga. Lengi vel fékk enginn að vita hverju þetta sætti en loks kom það í ljós að hún var að yrkja ljóðabréf til Gvendar norðlenska og var það uppsagnarbréf.

Er Þuríður hafði lokið kveðskapnum þóttist hún komin í ærinn vanda. Stafaði það af því að hún treysti engum til að fara með bréfið. Ákvað hún loks að skreppa með það sjálf enda þótt bæði væri yfir heiði og fjörð að fara. Lagði hún síðan af stað vestur Gemlufallsheiði. Fór hún ekki af stað fyrr en eftir miðjan dag og varð því seint fyrir. Ekki þótti henni taka því að vekja upp til að fá sig ferjaða yfir Dýrafjörð þar sem veður var gott og ekkert rak á eftir. Svaf kerling í kirkjugarðinum á Mýrum um nóttina.

Daginn eftir fékk hún sig flutta og hélt þegar að Fögrubrekku til Guðmundar. Gisti hún nætursakir hjá karli og féll vel á með þeim. Skildust þau með kærleikum en ekkert varð úr hjónabandi.[204]

 

Þuríður Hákonardóttir giftist aldrei og eignaðist ekkert barn.[205] Hún lifði að sögn fram yfir síðustu aldamót og var síðast einsetukerling á Ísafirði.[206]

Hér hefur nú verið sagt nokkuð frá kvonbænum Guðmundar norðlenska hér á Hóli en margvísleg tengsl þeirra Andrésar Hákonarsonar væri ástæða til að rannsaka sérstaklega.

Árið 1870 var Andrés að hætta búskap á Hóli, kominn á sextugsaldur. Þá fékk hann þá flugu í höfuðið að vilja setjast að í Nesdal, þröngri dalskoru fyrir opnu hafi milli Skagafjalls og Barða, en þar hafði Guðmundur norðlenski reist nýbýli og búið í sjö ár, frá 1839-1846. Þegar Andrés hóf upp þessa ráðagerð hafði bær Guðmundar staðið í eyði í 24 ár og á 19. öld hafði enginn búið í Nesdal nema Guðmundur (sjá hér Nesdalur). Efalaust hefur Guðmundur hvatt Andrés vin sinn til að leita sér staðfestu í Nesdal því þar hafði hann sjálfur unað lífinu betur en víðast annars staðar. Hér hefur áður verið greint frá bréfi Andrésar, dagsettu 15. ágúst 1870, til sýslumannsins í Ísafjarðarsýslu þar sem bréfritari leitar eftir heimild til að endurreisa byggð í Nesdal (sjá hér Nesdalur) og óþarft að endurtaka það sem þar var sagt. Ráðagerðir Andrésar um að setjast að í Nesdal náðu hins vegar aldrei að verða að veruleika. Þegar hann fór frá Hóli vorið 1871 fluttist hann fyrst að Kirkjubóli í Korpudal og var þar í húsmennsku í eitt ár.[207] Þaðan fóru þau hjónin, Andrés og Kristín kona hans, að Kotum vorið 1872 og áttu þar heima í 5 ár.[208]  Vorið 1873 komst Andrés aftur í bændatölu og var bóndi á Kotum frá 1873 til 1877. Frá Kotum fóru þau Andrés og Kristín að Vöðlum og voru þar húsfólk í 2 ár en árið 1880 voru þau komin að Innri-Hjarðardal og þar höfðust þau við í húsmennsku til æviloka. Þar kvaddi Andrés Hákonarson lífið 11. mars 1897, kominn um áttrætt og hafði verið ekkjumaður í hálft tíunda ár.[209]

Sighvatur Borgfirðingur, fræðimaður á Höfða í Dýrafirði, fékk fréttir af andláti Andrésar næsta dag og skrifar þá í dagbók sína:

 

Fréttist að Andrés Hákonarson gamli í Hjarðardal í Önundarfirði hefði dáið í gær. Hann var einn eftir hinna síðustu fornfróðu manna, bókavinur og vel hagmæltur, vel þenkjandi maður.[210]

 

Þegar Sighvatur segir hér að Andrés hafi dáið síðastur hinna fornfróðu manna er hann að líkindum að gefa til kynna að sá síðarnefndi hafi kunnað nokkuð fyrir sér í göldrum eða lagt sig eftir þekkingu á þvi sviði. Hér hefur áður verið vikið að uppskriftum Andrésar á gömlum særingaþulum og öðru efni sem varðaði töfra (sjá hér bls. 14) svo orð Sighvats þurfa engan veginn að koma á óvart.

Þegar Andrés Hákonarson dó var alþýðuskáldið Magnús Hjaltason við kennslu á Brekku á Ingjaldssandi en laugardaginn fyrir páska þá um vorið var hann staddur í Ytri-Hjarðardal á leið frá Brekku í ver á Kálfeyri. Þann dag skrifar Magnús í dagbók sína þessi orð:

 

Um morguninn fór ég inn að Innri-Hjarðardal og fékk að sjá þar bókasafn Andrésar Hákonarsonar er andaðist þar um miðjan þennan mánuð [rétt dags. 11. mars – innsk. K.Ó.] fjörgamall, bókamaður mikill og skáldyrðingur, orti 9 rímnaflokka, m.m., en kvað klaufalega og kenndi rangt. Var þó fróður mjög. Hann afritaði mikið, einkum rímur. Hann var bókbindari. Hann átti eina dóttur barna á lífi, Hákoníu að nafni, er var hjá föður sínum. Enga bók gat ég eignast úr dánarbúi Andrésar.[211]

 

Með þessum orðum Magnúsar Hjaltasonar ljúkum við frásögn af Andrési Hákonarsyni, sem lengi bjó á Hóli, en þess má geta að snapsglas hans var varðveitt á Minjasafninu á Flateyri  allt þar til snjóflóðið mikla lagði það að velli haustið 1995.

Um fólkið sem bjó á Hóli, á síðasta fjórðungi 19. aldar verður fátt sagt á þessum blöðum. Af bændum sem þá bjuggu hér náði aðeins einn að búa á jörðinni í 20 ár, Eiríkur Kristjánsson sem var bóndi á Hóli frá 1883-1903.[212] Eiríkur var fæddur árið 1847, sonur hjónanna Kristjáns Þórðarsonar og Guðfinnu Bjarnadóttur sem bjuggu á Rauðsstöðum í Arnarfirði og Kjaransstöðum í Dýrafirði.[213] Kristján, faðir Eiríks, var sonur Þórðar sem kallaður var Tómasson en almennt talinn sonur séra Jóns Sigurðssonar á Rafnseyri.[214] Móðir Þórðar var Guðrún Jónsdóttir rímnaskáld sem lengi átti heima í Stapadal en áður á Borg í Arnarfirði (sjá hér Borg).

Eiríkur Kristjánsson ólst upp hjá móðurfólki sínu í Tungu í Önundarfirði,[215] næsta bæ við Hól. Haustið 1875 gekk hann að eiga Önnu Þórarinsdóttur sem þá var 25 ára vinnukona í Tungu.[216] Anna var yngsta barn Kristínar Þórarinsdóttur sem síðast bjó á Stað í Súgandafirði (sjá hér Stað í Súgandafirði) og var því systir Kristínar Þórarinsdóttur, húsfreyju á Vífilsmýrum (sjá hér Vífilsmýrar). Fyrstu hjúskaparár sín voru þau Eiríkur og Anna um kyrrt í Tungu en árið 1880 voru þau farin að búa á Tannanesi.[217] Þaðan fluttust þau hingað að Hóli árið 1883 og bjuggu sjö árum síðar ein á allri jörðinni.[218] Þegar Eiríkur og Anna komu að Hóli áttu þau aðeins eitt barn á lífi en tvær dætur höfðu þau misst.[219] Á búskaparárum þeirra hér bættust fjögur börn við, sem öll komust upp, og einnig ólu þau upp dreng sem var systursonur Önnu.[220]

Þau Eiríkur og Anna voru leiguliðar því Torfi Halldórsson á Flateyri átti jörðina (sjá hér bls. 6 ). Á fyrstu búskaparárum Eiríks og Önnu á Hóli mun Torfi hafa nytjað sjálfur einhvern part af jörðinni og vel má vera að það hafi hann einnig gert síðar. Til marks um þetta má vitna í dagbókarskrif Jóns Guðmundssonar búfræðings frá árunum 1887 og 1888.[221] Jón Guðmundsson útskrifaðist sem búfræðingur frá Ólafsdal vorið 1887. Hann fluttist þá þegar vestur á Flateyri og gekk í þjónustu Torfa.[222] Síðar var hann lengi bóndi á Ytri-Veðrará í Önundarfirði (sjá hér Ytri-Veðrará).

Sumarið 1887 var Torfi með tvo kalrmenn og fjórar stúlkur við heyskap á Hóli[223] og sumarið 1888 lét hann heyja bæði á Hóli og Vífilsmýrum.[224]

Búnaðarfélag Önfirðinga, sem síðar fékk nafnið Búnaðarfélag Mosvallahrepps, var stofnað árið 1886 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 326 ) og sumarið 1887 lét Torfi Halldórsson Jón búfræðing vinna að jarðabótum á Hóli.[225] Þann 12. júlí hófst hann handa við þessa jarðyrkju og var næstu daga að rista ofan af, plægja, herfa og grafa skurði.[226] Að þremur vikum liðnum var komin 400 ferfaðma slétta í túninu á Hóli en svolítinn blett átti þó eftir að þekja.[227] Ekki er ólíklegt að þetta hafi verið einhverjar mestu jarðabætur í Önundarfirði á þessum allra fyrstu starfsárum búnaðarfélagsins en talið er að árið 1888 hafi Torfi verið einn af sex félagsmönnum þess. (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 326)

Þegar tuttugasta öldin gekk í garð bjuggu Eiríkur Kristjánsson og Anna Þórarinsdóttir enn hér á Hóli en þá var tvíbýli á jörðinni því á dálitlum parti bjuggu hjónin Daníel Bjarnason og Guðný Kr. Finnsdóttir.[228] Þau höfðu áður verið í þurrabúð á Læk, tómthúsbýli í landi jarðarinnar Tungu í Valþjófsdal (sjá hér Tunga í Valþjófsdal). Á Hóli voru þau aðeins í þrjú ár, frá 1899-1902.[229]

Um 1920 var Jónatan Magnússon eini bóndinn hér á Hóli og átti þá tæpan þriðjung í jörðinni en hinn eigandinn var þá Kristján Torfason á Flateyri.[230] Baðstofan sem þá var búið í á Hóli var 20 fermetrar en önnur jarðarhús voru þessi: Búr, eldhús, fjós, hjallur, eldiviðarhús, hesthús, súrheysþró, fjögur fjárhús, fjórar hlöður og þrír kofar.[231] Snorri Sigfússon skólastjóri, sem á þessum árum var búsettur á Flateyri, segir að á Hóli hafi þá verið vel hýst.[232] Árið 1932 var komið hér íbúðarhús úr timbri[233] en íbúðarhúsið sem nú er búið í var reist á árunum upp úr 1980. Þegar grafið var fyrir grunni þess kom mikið af gömlum hleðslum í ljós[234] svo líklegt er það standi á gömlu bæjarstæði. Um nýbýlið Grund, sem reist var neðantil við Hólstúnið árið 1937 og fór í eyði árið 1953, vísast til þess sem frá er sagt í ritinu Firðir og fólk 1900-1999 (sjá þar bls. 368).

Frá Hóli, þar sem enn er búið góðu búi, liggur leið okkar að eyðibýlinu Tungu. Sú ganga tekur aðeins sjö mínútur. Göngubrú er yfir Hólsá en Tunguá, sem streymir fram rétt utan við túnið í Tungu, þarf að vaða.

 

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Óskar Einarsson 1951, 100.

[2] Sama heimild.

[3] Sama heimild.

[4] Sama heimild, 102.

[5] Sama heimild.

[6] Jensína Ebba Jónsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 29.6.1994.

[7] Sama heimild.

[8] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 99.

[9] Jensína Ebba Jónsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 29.6.1994.

[10] Sama heimild.

[11] Jensína Ebba Jónsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 29.6.1994.

[12] Óskar Ein. 1951, 101.

[13] Sama heimild.

[14] Sama heimild.

[15] Jensína Ebba Jónsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 29.6.1994.

[16] Sama heimild.

[17] Sama heimild.

[18] Sama heimild.

[19] Sama heimild.

[20] Óskar Ein. 1951, 102.

[21] Sama heimild.

[22] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 110.

[23] Sama heimild.

[24] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 158.

[25] Sama heimildasafn. Sama heimild og Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916, bl. 73-74.

[26] Sömu heimildir.

[27] Sömu heimildir.

[28] Jarðab. Á. og P. VII, 110.

[29] Sama heimild.

[30] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 102.

[31] Jarðab. Á. og P. VII, 110.

[32] Sama heimild.

[33] Sama heimild.

[34] Sama heimild.

[35] Jón J. Aðils 1971, 418-420.

[36] J. Johnsen 1847, 195.

[37] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916, bls. 73.

[38] Jarðab. Á. og P. VII, 110.

[39] J. Johnsen 1847, 195.

[40] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916, bls. 73.

[41] D.I. V, 490.

[42] Sama heimild.

[43] D.I. VIII, 359.

[44] Íslenskar æviskrár I, 216 og 256-257.

[45] D.I. VIII, 291.

[46] Ísl. æviskrár IV, 123.

[47] D.I. VIII, 359.

[48] D.I. IX, 545-546.

[49] Jarðab. Á. og P. VII, 110. Sbr. Jarðabréf frá 16. og 17.öld. Útdrættir (Kph. 1993), bls. 169.

[50] Sama heimild XIII, 257.

[51] Sama heimild.

[52] Sama heimild.

[53] Sama heimild VII, 110.

[54] Alþingisbækur Íslands X, 455 og 545-546.

[55] Sama heimild, 546-547.

[56] Sama heimild.

[57] Ísl. æviskrár IV, 144.

[58] Alþ.bækur Ísl. X, 455.

[59] Sama heimild.

[60] Ísl. æviskrár IV, 60.

[61] Sama heimild, 124-125.

[62] Sama heimild, 60.

[63] Manntal 1703.

[64] Manntal 1703.

[65] Jarðab. Á. og P. VII, 267.

[66] Manntal 1762.

[67] Sama heimild.

[68] Rtk. Jarðabækur V, 16. Ísafjarðarsýsla 1805.

[69] Manntal 1901, fylgiskjöl.

[70] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 10. Skiptabók 1860-1864, bls. 56-62.

[71] Sama heimild.

[72] Manntal 1901, fylgiskjöl.

[73] Annálar I, 192.

[74] Annálar I, 192.

[75] Ísl. æviskrár IV, 57.

[76] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.

[77] Manntal 1703. Jarðab. Á. og P. VII, 110.

[78] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, eftirrit, Ísafjarðarsýsla 1735.

[79] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafjarðarsýsla 1753.

[80] Manntal 1762.

[81] Manntöl 1801, 1870, 1880 og 1901.

[82] Manntöl 1816, 1835, 1840, 1845, 1850, 1860 og 1890.

[83] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[84] Manntal 1762.

[85] Sama heimild.

[86] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[87] Manntal 1703. Jarðab. Á. og P. VII, 110. Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, eftirrit, Ísafj.sýsla 1735.

[88] Sóknarmannatöl Holts í Önundarfirði.

[89] Manntal 1801.

[90] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar. Manntal 1762.

[91] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[92] Sama heimild.

[93] Sama heimild.

[94] Sama heimild.

[95] Sama heimild.

[96] Manntal 1816.

[97] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[98] Sama heimild.

[99] Sama heimild.

[100] Manntal 1845.

[101] Sama heimild.

[102] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[103] Sama heimild.

[104] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[105] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 6. Úttektabók 1835-1874, bls. 68.

[106] Sama heimild.

[107] Sama heimild.

[108] Sama heimild.

[109] Sama heimild.

[110] Sama heimild.

[111] Halldór Kristjánsson 1989, 110. (Ársrit S.Í.).

[112] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[113] H. Kr. 1989, 110. Þjóðminjasafn Íslands – Þjóðháttadeild, svör Jóhönnu Kristjánsdóttur á Kirkjubóli í

Bjarnardal við spurningaskrá númer 79.

[114] Þjóðm.safn Ísl. – Þjóðh.deild, svör J. Kristjánsd. á Kirkjubóli í Bjarnardal við sp.skrá nr. 79.

[115] H. Kr. 1989, 110. Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[116] Þjóðm.safn Ísl. – Þjóðh.deild, svör J. Kristjánsd. á Kirkjubóli í Bjarnardal við sp.skrá nr. 79.

[117] Sama heimild.

[118] Þjóðm.safn Ísl. – Þjóðh.deild, svör Jóh. Kristjánsd. á Kirkjubóli í Bjarnardal við sp.skrá nr. 79.

[119] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[120] Sama heimild.

[121] Manntal 1845.

[122] VA III, 243 – nr. 1847 II, dagbók Guðm. Guðmundssonar 7.7.1851.

[123] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[124] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[125] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[126] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 6. Úttektabók 1835-1874, bls. 172-173.

[127] H. Kr. 1989, 110. (Ársrit S.Í.).

[128] VA III, 412 og 417, búnaðarskýrslur 1850 og 1860.

[129] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[130] Sama heimild.

[131] VA III, 421, búnaðarskýrslur 1870.

[132] Sama heimild.

[133] Sighvatur Grímsson Borgfirðingur / Blanda III, 156.

[134] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 24.4.1897.

[135] Lbs. 19394to og 25478vo.

[136] Lbs. 26428vo.

[137] Lbs. 29908vo.

[138] Lbs. 19424to.

[139] Finnur Sigmundsson 1966, II, 8 (Rímnatal I og II).

[140] Sama heimild.

[141] Sama heimild.

[142] Sama heimild I, 116.

[143] Jón Þ. Þór 1984, 165, 171, 207 og 229.

[144]    Lbs. 25478vo, rímnabók Andrésar Hákonarsonar.                                                                                                                               

[145] Danske Folkebøger VIII (Kph. 1920), bls. III-V, VII-IX, XXVI-XXVII.

[146] Sama heimild. Sbr. Lbs. 8404to.

[147] Lbs. 25478vo.

[148] Finnur Sigmundsson 1966, I, 116.

[149] Lbs. 2547 8vo

[150] Finnur Sigmundsson 1966, I, 319.

[151] Lbs. 26428vo.

[152] Finnur Sigmundsson 1966, I, 319.

[153] Lbs. 26428vo.

[154] Lbs. 23168vo.

[155] Lbs. 23078vo.

[156] Sama heimild.

[157] Sama heimild.

[158] Sighv. Gr. Borgf. / Blanda III, 156.

[159] Sama heimild.

[160] H. Kr. 1989, 93-125.

[161] Lbs. 23338vo, Bréf Andrésar Hákonarsonar til Guðmundar Guðmundssonar.

[162] H. Kr. 1989, 110.

[163] Sama heimild, 93-95.

[164] Sama heimild, 95-107 og 118-120.

[165] Sama heimild, 93-125.

[166] Sama heimild.

[167] Sama heimild.

[168] Sama heimild.

[169] Sama heimild, 95-108 og 120.

[170] H. Kr. 1989, 96-97 (Ársrit S.Í.).

[171] Sama heimild.

[172] Sama heimild, 124-125.

[173] Sama heimild, 103, 111 og 124-125.

[174] Sama heimild.

[175] H. Kr. 1989, 116 (Ársrit S.Í.).

[176] Sama heimild, 122.

[177] Sama heimild.

[178] Sama heimild.

[179] H. Kr. 1992, 99-101. Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[180] H. Kr. 1992, 100-101 (Ársrit S.Í.).

[181] H. Kr. 1992, 87-88 (Ársrit S.Í.).

[182] Sama heimild, 99.

[183] Blanda III, 156.

[184] H. Kr. 1992, 101.

[185] H. Kr. 1989, 91-92 (Ársrit S.Í.).

[186] Sama heimild.

[187] Sama heimild.

[188] Sama heimild.

[189] Sama heimild.

[190] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[191] Sama heimild.

[192] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[193] Sama heimild.

[194] H. Kr. 1989, 109 (Ársrit S.Í.).

[195] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[196] Frá ystu nesjum I, 117-120.

[197] Sama heimild, 117-120 og 156.

[198] Sama heimild.

[199] Frá ystu nesjum I, 117-120 og 156.  H. Kr. 1989, 109.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[200] Frá ystu nesjum I, 117-120.

[201] Sama heimild.

[202] Sama heimild.

[203] Sama heimild.

[204] Frá ystu nesjum I, 117-120.

[205] Sama heimild.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[206] Frá ystu nesjum I, 117-120.

[207] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[208] Sama heimild.

[209] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[210] Lbs. 23754to I, Dagbók  S. Gr. B. 12.3.1897.

[211] Lbs. 22174to, Dagbók M. Hj. 24.4.1897.

[212] Sóknarm.töl Holts í Önundarfirði.

[213] Framætt og niðjar Eiríks Kristjánssonar og Önnu Þórarinsdóttur frá Önundarfirði, fjölrit 1977.

[214] Framætt og niðjar Eiríks Kristjánssonar og Önnu Þórarinsdóttur frá Önundarfirði, fjölrit 1977.

[215] Sama heimild.

[216] Sama heimild.

[217] Sama heimild og Manntal 1880.

[218] Manntal 1890.

[219] Framætt og niðjar Eiríks Kristjánssonar og Önnu Þórarinsdóttur frá Önundarfirði, fjölrit 1977.

[220] Sama heimild.

[221] Lbs. Skjöl Jóns Guðmundssonar búfræðings á Ytri-Veðrará, dagbækur 1887 og 1888, án safnnúmers.

[222] Sömu dagbækur.

[223] Guðrún I. Jónsdóttir 1985, 131 (Bóndi er bústólpi VI).

[224] Lbs. Skjöl J. Guðm. búfr. á Ytri-Veðrará, dagbækur 1887 og 1888, án safnnúmers.

[225] Sömu dagbækur.

[226] Sömu dagbækur.

[227] Lbs. án safnnúmers. Skjöl J. Guðm. búfr. á Ytri-Veðrará, dagbækur hans 1887 og 1888,.

[228] Manntal 1901.

[229] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[230] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[231] Sama heimild.

[232] Snorri Sigfússon 1969, 112 (Ferðin frá Brekku II).

[233] Fasteignabók 1932.

[234] Jensína Ebba Jónsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 29.6.1994.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »