Kaldá

Kaldá var frá fornu fari næst innsti bær á Hvilftarströnd og dregur jörðin nafn af ánni Kaldá sem streymir fram hér rétt innan við túnið og skiptir löndum milli Kaldár og Selakirkjubóls eins og hér hefur áður verið nefnt. Brú var byggð á ána árið 1894.[1] Á móti Hóli, sem er næsti bær fyrir utan, á Kaldá land út að Markhrygg sem svo heitir (sjá hér bls. 23). Milli innri og ytri landamerkjanna eru um það bil 600 metrar.

Bærinn á Kaldá stendur skammt ofan við þjóðveginn í um það bil 200 metra fjarlægð frá sjávarströndinni. Hér hefur verið búið fram á síðustu ár en nú (1994) má heita að jörðin sé komin í eyði því eini ábúinn dvelst á öldrunarstofnun út á Flateyri. Frá bænum er skammur spölur upp í Kaldárdal, sem hér var áður nefndur (sjá hér Selakirkjuból), en frá bæjarhlaðinu blasa við fjöllin handan Önundarfjarðar. Nær beint á móti er Þorfinnur en utar sjáum við Sporhamar og Hrafnaskálarnúp. Eina fjallið sem stendur að hluta í landi Kaldár er hins vegar Hólsfjall sem liggur að Kaldárdal og skiptir löndum hið efra milli jarðanna Kaldár og Hóls. Efsti hnúkur þessa hamrafjalls liggur í 721 metra hæð yfir sjávarmáli og álíka há er klettabrúnin á þeim enda fjallsins sem snýr að sjó en nípan sú heitir Hólshorn.[2]

Á Hvilftarströnd er alls staðar dálítið undirlendi. Hið gróna land nær yfirleitt neðan frá ströndinni og upp í um það bil 100 metra hæð og víðast hvar er þetta graslendi 500-700 metrar á breidd, úr fjöru og upp að fjallsrótum. Svo er einnig hér á Kaldá og auk þess á jörðin svolítið beitiland uppi á Kaldárdal, sín megin árinnar. Jörð þessi er samt landlítil eins og fram kemur í því sem hér hefur verið sagt.

Að fornu mati taldist Kaldá vera 12 hundraða jörð.[3] Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 er kostum jarðarinnar og ókostum lýst með þessum orðum:

 

Útigangur við lakari kost. Torfrista lök, stunga næg. Móskurður til eldiviðar. Selveiði hefur áður verið lítil en hefur nú ei heppnast í margt ár. … Engjar eru mestan part eyðilagðar fyrir skriðum. Úthagar eru ogsvo mjög hrjóstrugir. Hætt er kvikfé fyrir sjávarflæðum undir móðsköflum.[4]

 

Um hrognkelsatekju er einnig getið en hún sögð hafa brugðist í margt ár.[5]

Í álitsgerð matsmanna frá árunum kringum 1920 fær jörðin nokkru hærri einkunn. Þar er túnið sagt vera í góðri rækt en tekið fram að engjar séu snögglendar á víð og dreif um bithaga og beitilandið lítið.[6] Matsmennirnir láta þess einnig getið að hér sé snjóþungt og segja mótakið vera á þrotum.[7]

Jarðarinnar Kaldár í Önundarfirði er fyrst getið í máldaga Holtskirkju frá árinu 1397 en kirkjan í Holti var þá þegar orðin eigandi jarðarinnar.[8] Í þeim efnum varð engin breyting á næstu 500 árum því Holtskirkja átti Kaldá allan þennan tíma[9] og árið 1901 var jörðin enn í eigu kirkjunnar.[10] Um 1920 var kirkjan hins vegar búin að selja þessa gömlu eign sína en eigandi jarðarinnar var þá Finnur Guðmundsson[11] sem bjó hér á árunum 1916-1930 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 418).

Um 1570 þurftu bændur á Kaldá að greiða Holtskirkju 10 aura á ári í landskuld.[12] Í hverjum eyri voru þá sex álnir svo jarðarafgjaldið hefur verið 60 álnir, það er hálft kýrverð. Á 17. öld hækkaði landskuldin upp í 80 álnir[13] og árið 1710 var hún 4 vættir fiska[14] sem var sama og 80 álnir. Í Jarðabókinni frá því ári segir að þessi hafi landskuldarupphæðin verið frá fornu fari[15] svo gera má ráð fyrir að hún hafi hækkað upp í 80 álnir um 1600 eða á fyrri hluta 17. aldar.

Árið 1753 var landskuldin af Kaldá komin niður í 60 álnir á ný[16] og stóð sú tala óbreytt nær hundrað árum síðar.[17] Um 1920 hafði landskuldin verið 2 ær, það er 40 álnir, um eitthvert skeið[18] en matsmenn komust þá að þeirri niðurstöðu að sanngjarnt væri að hækka hana um hálft ærgildi,[19] úr 40 álnum í 50 álnir.

Í byrjun 18. aldar urðu landsetar Holtskirkju á Kaldá líka að leggja til mann í skiprúm á Kálfeyri yfir vertíðina[20] og má telja líklegt að svo hafi verið um alllangt skeið.[21] Áður en átjándu öldinni lauk voru allar slíkar kvaðir hins vegar afnumdar.[22] Sums staðar annars staðar á landinu gátu menn keypt sig undan kvöð um skipsáróður með þvi að greiða í staðinn 20 álnir á ári[23] sem svaraði einu ærgildi. Óvíst er hvort landsetar Holtskirkju hafi átt kost á því.

Árið 1681 fylgdu Kaldá þrjú innstæðukúgildi sem Holtskirkja átti.[24] Skömmu síðar fjölgaði þeim um eitt því árið 1695 voru þau orðin fjögur og fimmtán árum síðar var sú tala óbreytt.[25] Af þessum kúgildum urðu landsetar Holtskirkju á Kaldá að greiða leigu sem bættist við landskuldina. Lögleiga fyrir hvert kúgildi var 10 kíló af smjöri á ári[26] eða sem svaraði 20 álnum, einum sjötta hluta úr kýrverði. Væri smjör ekki til var þó heimilt að greiða 12 álnir í öðrum skileyri fyrir hvert leigukúgildi. Þegar leið á 18. öldina fækkaði leigukúgildunum á Kaldá úr fjórum í tvö og mun sú tala hafa haldist óbreytt fram á 20. öld.[27]

Fyrsti bóndinn á Kaldá sem hægt er að nefna með nafni er Jón Bjarnason sem átti hér heima árið 1681 og bjó þá á allri jörðinni.[28] Í byrjun 18. aldar var hér tvíbýli um skeið[29] og frá 19. öld finnast líka fáein dæmi um tvíbýli.[30] Oftast nær bjó þó aðeins einn bóndi í senn á Kaldá.[31]

Um fólkið sem hér undi lífi á 18. öld er nú lítinn fróðleik að finna í varðveittum heimildum. Nokkur nöfn liggja þó á lausu en segja fátt ein og sér.

Árið 1703 var ekkjan Vigdís Jónsdóttir annar tveggja ábúenda hér á Kaldá.[32] Hún var þá 52ja ára gömul og bjó með fjórum börnum sínum á aldrinum 11-25 ára.[33] Faðir þeirra allra hét Andrés[34] en föðurnafn hans er óþekkt. Á móti Vigdísi bjuggu hér hjónin Jón Gíslason og Valgerður Vilhjálmsdóttir sem bæði voru um sextugt árið 1703.[35] Þá var hér líka einhleyp húskona á sextugsaldri, Guðbjörg Vilhjálmsdóttir að nafni.[36] Líklegt er að sumt af þessu fólki hafi dáið í stórubólu árið 1707. Jón Gíslason bjó hér þó enn á sex hundruðum árið 1710 en á hinni hálflendunni var þá bóndi að nafni Magnús Þormóðsson.[37] Hjá Jóni var bústofninn þá 2 kýr, 10 ær, 5 sauðir tveggja og þriggja vetra, 7 veturgamlir sauðir, 12 lömb og einn hestur.[38] Hjá Magnúsi var búið álíka stórt, 1 kýr og 27 sauðkindur aðrar en lömb.[39] Hann átti líka eitt hross með fyli.[40]

Árið 1762 bjó hér bóndi sem Jón Guðmundsson hét og var þá sagður 43ja ára gamall.[41] Kona hans var fjórum árum yngri og á heimili þeirra voru þetta ár þrjú börn þeirra, öll innan við fimm ára aldur, ein vinnukona og tveir niðursetningar.[42] Líklegt má telja að það hafi verið þessi Jón Guðmundsson sem dó í Neðri-Breiðadal 8. júní 1788.[43]

Seint á átjándu öld og á fyrstu áratugum nítjándu aldarinnar bjuggu hjónin Sveinn Jónsson og Þuríður Gunnarsdóttir á Kaldá og mun búskapartími þeirra hér hafa verið hátt á fjórða tug ára. Í manntalinu frá 1816 sést að Þórarinn sonur þeirra, sem þá var 33ja ára gamall, var fæddur á Kaldá en Herdís systir hans, sem ýmist var talin einu eða þremur árum eldri, var hins vegar fædd í Holti.[44] Af þessu má ráða að þau Sveinn og Þuríður hafi komið að Kaldá um eða rétt eftir 1780 og í öðrum heimildum sést að þau bjuggu hér árið 1787.[45] Árið 1816 stóðu hjón þessi enn fyrir búi hér og Sveinn dó á Kaldá í byrjun ársins 1819.[46]

Sveinn Jónsson mun hafa fæðst árið 1745 eða þar um bil á Hóli á Hvilftarströnd en faðir hans hét Jón Jónsson og að líkindum hefur það verið sá Jón Jónsson sem bjó á Hóli árið 1762.[47] Faðir Sveins andaðist hér á Kaldá hjá syni sínum 16. maí 1796 og var þá talinn 85 ára gamall.[48] Þuríður Gunnarsdóttir, eiginkona Sveins á Kaldá, var á svipuðum aldri og hann, fædd á Gemlufalli í Dýrafirði en þar bjuggu foreldrar hennar, þau Gunnar Jónsson og Katrín Árnadóttir.[49]

Þau Sveinn og Þuríður eignuðust tvö börn sem náðu að vaxa úr grasi, Herdísi og Þórarin sem hér hafa áður verið nefnd, en fyrir hjónaband hafði Sveinn eignast dótturina Halldóru með annarri konu.[50]

Við húsvitjun árið 1803 fær Sveinn á Kaldá þá umsögn hjá presti að hann sé skikkanlegur og dável skýr í kristindóminum.[51] Um Þuríði konu Sveins segir prestur við sama tækifæri að hún sé einnig skikkanleg en nokkuð miður en hann í kristindóminum.[52] Ef marka má jarðabók frá árinu 1805 var bústofninn hjá Sveini þá í minnsta lagi, aðeins ein kýr og níu kindur.[53]

Eins og áður var getið andaðist Sveinn á Kaldá hér heima í janúarmánuði árið 1819 en Þuríður kona hans dó hjá Herdísi dóttur sinni, þá húsfreyju á Görðum, 8. nóvember 1820.[54] Séra Þorvaldur Böðvarsson, sem þá var prestur í Holti, lætur þess getið að hún hafi dáið úr landfarsótt og elliburðum með góðu mannorði fyrir ráðvendni og skikkanlegheit.[55]

Árið 1801 voru öll börn Sveins á Kaldá hér heima hjá föður sínum.[56] Dóttirin Halldóra, sem hann hafði eignast fyrir hjónaband, var þá komin um þrítugt og vorið 1801 eignaðist hún soninn Friðrik Pétursson Busch sem ólst upp hjá afa sínum og eiginkonu hans á Kaldá.[57] Faðir hans var Peter F. Busch sem þá var verslunarþjónn við Neðstakaupstaðar verslunina á Ísafirði en varð verslunarstjóri þar árið 1804 og gegndi því starfi sjö næstu ár.[58] Svo virðist sem Halldóra Sveinsdóttir á Kaldá hafi einkum lagt lag sitt við verslunarþjóna því fimm og hálfu ári síðar varð hún þunguð af völdum Jóns Jónssonar sem þá var verslunarþjónn á Flateyri.[59] Barnið sem þá kom undir fæddist andvana og fæðing þess dró móðurina til dauða.[60] Friðrik Pétursson Busch náði hins vegar að komast upp og varð bóndi á Brekku á Ingjaldssandi (sjá hér Brekka). Frá honum er nú kominn allfjölmennur hópur niðja.[61] Í munni fólks mun hann hafa verið nefndur Friðrik Búsk.[62] Síðustu árin sem Friðrik lifði var hann vinnumaður í Holti og var þá meðhjálpari við guðsþjónustur í Holtskirkju.[63] Hann dó í Holti 15. desember 1857.[64]

Um Þórarin, son Sveins og Þuríðar á Kaldá, sem fæddist árið 1782 eða því sem næst skal þess aðeins getið að hann bjó á Selakirkjubóli árið 1816 og hér á Kaldá árið 1829 en fluttist mjög skömmu síðar að Lambadal í Dýrafirði og bjó þar til æviloka.[65] Þórarinn var þríkvæntur og dó í Lambadal 4. ágúst 1856.[66] Börn Þórarins voru ekki færri en níu, hið elsta fætt árið 1808 en hið yngsta 41 ári síðar.[67] Úr þeim hópi má nefna bændurna Gils Þórarinsson á Arnarnesi og Guðmund Þórarinsson á Næfranesi en um niðja foreldra Þórarins, þeirra Sveins Jónssonar á Kaldá og Þuríðar konu hans, hefur Ólafur Þ. Kristjánsson skrifað skilmerkilega grein sem birtist árið 1953 í 6. bindi ritsins Frá ystu nesjum.[68]

Árið 1816 var tengdasonur Sveins Jónssonar farinn að búa á móti honum hér á Kaldá.[69] Sá hét Guðmundur Jónsson og var kvæntur Herdísi, dóttur Sveins og Þuríðar konu hans. Guðmundur mun hafa fæðst árið 1782 eða því sem næst því hann var sagður 5 ára á Hóli á Hvilftarströnd árið 1787.[70] Foreldrar hans hétu Jón Jónsson og Ingibjörg Guðmundsdóttir og bjuggu á ýmsum bæjum í Önundarfirði, m.a. í Neðrihúsum þar sem Guðmundur fæddist en einnig á Hóli á Hvilftarströnd og á Efstabóli.[71] Guðmundur kvæntist Herdísi Sveinsdóttur á Kaldá haustið 1812[72] og skömmu síðar fóru þau að búa.

Árið 1816 bjuggu Guðmundur og Herdís kona hans hér í tvíbýli eins og áður var nefnt en vorið 1819 færðu þau sig frá Kaldá að Görðum og voru þar við búskap næstu sjö árin.[73] Árið 1829 voru þau Guðmundur og Herdís hætt búskap og orðin vinnuhjú í Efrihúsum í Hestþorpinu.[74] Síðustu árin sem Guðmundur lifði var hann niðursetningur í Efrihúsum og andaðist þar 31. október 1851.[75]

Undir lok ævinnar mun þessi fyrrverandi bóndi á Kaldá hafa verið illa haldinn af þunglyndi svo hafa varð á honum gætur.[76] Ingileif Ólafsdóttir, sem fædd var árið 1841 og ólst upp í Hestþorpinu, sagði svo frá síðar að Guðmundur hefði fundist örendur í lænu skammt fyrir framan túnið á Hesti.[77] Að sögn Ingileifar voru það bræður hennar, Jón og Markús Ólafssynir, sem fundu líkið og lá Guðmundur með andlitið niðri í vatninu en þó ekki svo að höfuðið allt hefði verið í kafi.[78] Var það almæli í nágrenninu að draugurinn Arnardals-Sigga hefði orðið karlinum að bana.[79]

Herdís Sveinsdóttir frá Kaldá, eiginkona Guðmundar Jónssonar, lifði nokkru lengur og dó niðursetningur á Hesti 3. apríl 1856.[80]

Vorið 1821 fór annar Guðmundur Jónsson að búa á Kaldá (sjá hér Garðar) en 1829 höfðu hjónin Jón Ólafsson og Elín Eiríksdóttir tekið við jörðinni og bjuggu hér æ síðan uns Jón andaðist 14. maí 1841.[81] Jón Ólafsson fæddist á Eyri í Önundarfirði 1. júní aldamótaárið 1800, sonur Ólafs Magnússonar, hreppstjóra þar, og konu hans, Þuríðar Gísladóttur.[82] Faðir Jóns  mun hafa andast í Englandi árið 1806[83] en árið 1816 var Jón með móður sinni á Eyri hjá Kjartani bróður sínum[84] sem var níu árum eldri og bjó seinna lengi í Tröð. Þann 9. janúar 1825 gekk Jón Ólafsson að eiga Elínu, dóttur séra Eiríks Vigfússonar á Stað í Súgandafirði og konu hans, Ragnheiðar Halldórsdóttur.[85] Þau Jón og Elín voru á líkum aldri en hún þó árinu eldri.[86] Fyrst bjuggu þau örfá ár á Tannanesi[87] en síðan á Kaldá eins og hér var nefnt. Á búskaparárum þeirra hér virðast þau jafnan hafa haft alla jörðina til ábúðar.[88] Árið 1837 var bústofn þessara hjóna 2 kýr, 12 ær, 8 lömb og 1 hestur ef marka má það sem skráð er í búnaðarskýrslu.[89] Enginn bátur var þá til á Kaldá og ekki heldur 1830.[90]

Þegar Jón Ólafsson andaðist vorið 1841 var hann aðeins liðlega fertugur og lét eftir sig börn á ungum aldri, hið elsta 15 ára.[91] Þrjú þessara barna komust upp og var Albert elstur þeirra.[92] Hann varð síðar bóndi á Gilsbrekku í Súgandafirði[93] en sonur hans var Kristján Albertsson á Suðureyri (sjá hér Suðureyri). Elín Eiríksdóttir, ekkja Jóns Ólafssonar á Kaldá, giftist í annað sinn sumarið 1844.[94] Seinni maður hennar var Einar Jónsson frá Augnavöllum í Hnífsdal og bjuggu þau m.a. á Kirkjubóli í Korpudal (sjá hér Kirkjuból í Korpudal).

Síðasta árið sem Jón Ólafsson lifði og bjó á Kaldá voru hér hjá honum í húsmennsku hjónin Halldór Brandsson og Þóra Jónsdóttir.[95] Halldór var fæddur í Stagley á Breiðafirði árið 1801[96] en Þóra fæddist árið 1797 og var dóttir hjónanna Jóns Björnssonar og Gunnhildar Þorleifsdóttur sem þá bjuggu á Þorfinnsstöðum í Valþjófsdal.[97] Árið 1816 var Halldór niðursetningur hjá séra Tómasi Sigurðssyni, sem þá var prestur í Flatey, og með honum fluttist hann tuttugu árum síðar frá Garpsdal við Gilsfjörð í Önundarfjörð[98] en þá hafði séra Tómas fengið veitingu fyrir Holti. Þóru konu sinni kvæntist Halldór haustið 1836[99] og hafði þá aðeins verið örfáa mánuði í Önundarfirði. Hún hafði áður verið gift suður á Barðaströnd en var fyrir löngu orðin ekkja.[100] Í manntalinu frá 1840 segir að Halldór Brandsson sé húsmaður á Kaldá og lifi á sjó og landi.[101] Halldór mun aldrei hafa náð að komast í bændatölu og dó niðursetningur í Holti haustið 1846.[102]

Á fimmta áratug 19. aldar bjuggu hjónin Sæmundur Guðmundsson og Jóhanna Brynjólfsdóttir hér á Kaldá í skamman tíma[103] en árið 1848 voru þau komin að Selakirkjubóli.[104] Þá um haustið mun Kaldá hafa verið í eyði því í sóknarmannatali séra Lárusar M. Johnsen frá árinu 1848 er ekkert fólk skráð hér til heimilis[105] og reyndar fullvíst að jörðin var nytjuð frá Flateyri fardagaárið 1848-1849 (sjá hér Holt og Flateyri).

Vorið 1847 hafði hinn ölkæri aðstoðarprestur, séra Sigurður Tómasson, flust frá Holti að Flateyri ásamt konu sinni, Abigael Þórðardóttur, og um svipað leyti varð hann að láta af prestsstörfum vegna drykkjuskapar því Önfirðingar afsögðu þá með öllu að þiggja af honum nokkra klerklega þjónustu (sjá hér Holt). Á árinu 1848 dró til skilnaðar séra Sigurðar og eiginkonu hans og þegar kom fram í desember á því ári fór Abigael frá manni sínum, sem þá átti enn heima á Flateyri, og settist að á Kaldá (sjá hér Holt). Prestshjónin fyrrverandi höfðu þá haft jörðina á leigu frá síðustu fardögum og munu hafa nytjað hana að einhverju leyti frá Flateyri. Hér á Kaldá dvaldist Abigael frá 6. desember 1848 til 15. apríl 1849 eða nokkuð á fimmta mánuð í sínum vandræðum en fór þá að Gerðhömrum í Dýrafirði eins og hér hefur áður verið rakið (sjá hér Holt). Á Kaldá hafði hún hjá sér eina barn þeirra séra Sigurðar, stúlkuna Guðrúnu Ágústínu sem þá var 10 ára að aldri. Kuldalegt hefur verið fyrir þær mæðgur að setjast að í baðstofunni á Kaldá sem staðið hafði auð um nokkurt skeið en hér fengu þær að hírast þessa fjóra vetrarmánuði. Frá rás atburða sem varð undanfari skilnaðar séra Sigurðar og konu hans hefur áður verið sagt á þessum blöðum og verður ekki endurtekið hér en líklegt er að Önfirðingar hafi haft um nóg að tala veturinn sem frú Abigael sat á Kaldá.

Vorið 1849 munu hjónin Jón Indriðason og Hólmfríður Helgadóttir hafa byrjað búskap á Kaldá en þó er hugsanlegt að þau hafi ekki sest hér að fyrr en ári síðar.[106] Þau Jón og Hólmfríður komu að Kaldá frá Innri-Hjarðardal þar sem þau höfðu verið í húsmennsku.[107]

Jón Indriðason fæddist á Vífilsmýrum 28. júní 1816, sonur hjónanna Indriða Jónssonar og Kristínar Magnúsdóttur.[108] Kristín móðir hans hafði áður verið gift Sveini Oddssyni, bónda á Vífilsmýrum, sem týndi lífi í mannskaðanum mikla vorið 1812 (sjá hér Vífilsmýrar). Um 1820 fluttust foreldrar Jóns Indriðasonar að Fremri-Breiðadal (sjá hér Fremri-Breiðadalur) og þar mun hann hafa alist upp. Árið 1841 eignaðist hann dóttur með Guðrúnu Jónsdóttur sem þá var vinnukona í Fremri-Breiðadal.[109] Stúlkan var skírð Margrét og giftist í fyllingu tímans Ásgeiri Guðmundssyni sem lengi var bóndi og hreppstjóri á Arngerðareyri við Djúp.[110]

Haustið 1845 gekk Jón að eiga Hólmfríði Helgadóttur sem fæddist í Arnarbæli á Fellsströnd árið 1807 eða því sem næst.[111] Í manntalinu frá 2. nóvember 1845 sést að þau voru þá í húsmennsku í Ytri-Hjarðardal.[112] Fimm árum síðar voru Jón og Hólmfríður farin að búa á Kaldá en hjá þeim var fátt heimilisfólk, aðeins fjórar manneskjur vorið 1850,[113] enda áttu þau engin börn nema eitt sem fæddist andvana.[114] Þetta vor bjó Jón hér á Kaldá með 2 kýr, 1 kvígu, 18 ær, 6 gemlinga, 16 lömb og 2  hesta, annan þeirra taminn.[115] Hann átti þá einn sexæring eða fjögra manna far og annan minni bát að hálfu á móti nágranna sínum.[116] Líklegt er að Jón Indriðason hafi verið á skútum og haft fiskveiðar að aðalstarfi í allmörg ár. Í manntalinu frá 1845 er tekið fram að hann lifi af fiskveiðum[117] og í dagbók séra Sigurðar Tómassonar í Holti segir við 2. apríl 1842 að Jón Indriðason og annar maður séu alfarnir til jakta.[118] Orðalagið bendir til þess að þeir hafi þá verið á skútum frá öðrum fjörðum en Önundarfirði og þá að líkindum frá Ísafirði.

Veturinn 1853-1854 kom til Önundarfjarðar skonnortan Katrín sem Jón Indriðason á Kaldá hafði ásamt fleirum ráðist í að kaupa frá Hafnarfirði.[119] Nafn skipsins var reyndar þýskt og nefnt með fullu nafni hét það Kleine Katrine,[120] það er Katrín litla. Með kaupunum á Katrínu var í mikið ráðist. Engir bændur í Önundarfirði höfðu lagt út í skútuútgerð fyrr nema Magnús Einarsson á Hvilft og Finnur tengdafaðir hans en þegar hér var komið sögu hafði Magnús gert út þilskipið Boga um alllangt skeið með góðum árangri (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Helstu meðeigendur Magnúsar í þeirri útgerð voru séra Lárus M. Johnsen í Holti og Guðrún Þórðardóttir, sýslumannsekkja í Ytri-Hjarðardal, og um skeið Torfi Halldórsson, sem þá var skipstjóri á Boga, síðar lengi verslunarstjóri og útgerðarmaður á Flateyri (sjá hér Hvilft).

Ritaðar frásagnir benda til þess að það hafi verið Jón Indriðason sem stóð fyrir kaupunum á Katrínu og stjórn útgerðarinnar hafi verið í hans höndum.[121] Svo hörmulega tókst til að skipið fórst með allri áhöfn um mánaðamótin apríl/maí 1854[122] og hefur þá að líkindum verið í sínum fyrsta eða öðrum veiðitúr frá Önundarfirði. Í áhöfn Katrínar voru sex menn sem fórust allir.[123] Einn þeirra var Jón Indriðason á Kaldá sem þá var orðinn hreppstjóri en hann var stýrimaður á skipinu.[124] Skipstjóri var Jóhann Árnason sem þá var ráðsmaður hjá Gróu Greipsdóttur á Kirkjubóli í Valþjófsdal[125] en mann sinn, Guðna Jónsson, hafði hún misst í sjóinn tveimur árum fyrr þegar áttæringur, sem hann var formaður á, fórst með allri áhöfn í hákarlalegu (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal).

Í prestsþjónustubókinni frá Holti eru þeir sem fórust með Katrínu sagðir hafa drukknað í byrjun maímánaðar.[126] Í Annál 19. aldar er jaktin Litla Katrín hins vegar sögð hafa týnst í sama veðri og grandaði þremur opnum hákarlaskipum sem gerð voru út frá Bolungavík en þau fórust 30. apríl að sögn höfundar annálsins.[127] Þennan litla mun er best að láta liggja milli hluta. Í veðri þessu fórust þrjú þilskip úr Ísafjarðarsýslu og með þeim átján menn.[128] Þessi skip voru Litla Katrín frá Önundarfirði, Hákarlinn frá Dýrafirði (sjá hér Lækjarós) og Lovísa frá Ísafirði.[129] Með hákarlaskipunum þremur, sem hér voru síðast nefnd, fórust 24 menn[130] svo ljóst er að af skipum úr Ísafjarðarsýslu hafa að minnsta kosti 42 menn hlotið vota gröf í þessu mannskaðaveðri vorið 1854.

Gísli Konráðsson segir allrækilega frá þessum slysförum í Vestfirðingasögu sinni og ritar um Katrínu á þessa leið:

 

Ein af skútum þessum var nýkeypt frá Suðurlandi og var nefnd „Katrín”. … Skipari hennar Jóhann Árnason frá Valþjófsdal í Önundarfirði og hafði hann sótt hana suður um veturinn. Annar á henni var Jón Indriðason frá Kaldá í Önundarfirði, nýorðinn hreppstjóri. Hann var stýrimaður, ætlaði að kaupa þilskip þetta hálft. Var sagt hann tæki með sér í för þessa verð hennar í peningum og að auki hreppssjóð er hann ætlaði til láns að taka svo lokið fengi hann verð hálfrar skútunnar. Var hann og gróðamaður kallaður og er sagt þeir hefðu ráðið suður að sigla úr veiðarför þessari. Þriðji maður á henni var Guðmundur frá Selakirkjubóli, kallaður harðidýfill, allröskur sjómaður. Fjórði var Jón frá Tröð Kjartansson, sonar Ólafs þess er utan fór til Englands, þá fyrir 46 vetrum frá Eyri í Seyðisfirði. [Ólafur þessi fluttist til Englands frá Eyri í Önundarfirði sumarið 1805 – innsk. K.Ó.]  Fimmti Halldór sunnan úr Hafnarfirði. Hinn sjötti er ei nefndur. Er svo getið þilskips þessa í fréttabréfi … :

 

 

Katrín mundi þilskip þá,

þessu Jóhann réði,

var Önundarfirði frá

falið í þorskabeði.

 

Hálft til skriðar húnaljón

hugði kaupa glaða,

son Indriða, sá hét Jón,

sem var stýrimaða.

 

Hreppstjórn halur hafði snar

hann þá svelgdu boðar.

Var á talið voga mar

verðið flytti gnoðar.[131]

 

Viðvíkjandi þessari frásögn Gísla Konráðssonar er þess fyrst að geta að nöfn Önfirðinganna sem drukknuðu á Katrínu fer hann rétt með.[132] Elstur þeirra var Guðmundur Guðmundsson sem orðinn var 64 ára gamall.[133] Jón Indriðason var tæplega 38 ára, Jóhann skipstjóri 35 ára og Jón Kjartansson í Tröð 23ja ára, ókvæntur bóndasonur.[134] Erfitt er að gera sér grein fyrir hvort einhver fótur hafi verið fyrir orðrómnum um að Jón á Kaldá hafi tekið með sér verulega fjármuni þegar hann lagði upp í sína feigðarför. Gísli Konráðsson segir að í lok veiðitúrsins hafi þeir á Katrínu ætlað suður til að borga skipið og þess vegna hafi Jón tekið með sér alla þessa peninga. Haustið 1856 fóru fram opinber skipti á dánarbúum þeirra Jóns Indriðasonar og Jóhanns Árnasonar sem var skipstjóri á Katrínu.[135] Skiptagerðirnar bera með sér að það var N.Chr.Poulsen, kaupmaður í Hafnarfirði, sem seldi þeim Katrínu og honum skulduðu þeir báðir til samans 1.141 ríkisdal og 16 skildinga.[136] Vera kann að þá upphæð eða einhvern hluta hennar hafi þeir verið með um borð þegar skipið fórst en sú saga að Jón hafi tekið hreppssjóð Mosvallahrepps að láni og haft hann með sér á sjóinn fær ekki staðist.

Við skipti dánarbúsins á Kaldá kom ekkert fram sem benti til þess að Jón hreppstjóri hefði skuldað Mosvallahreppi einhverja peninga þegar hann drukknaði vorið 1854.[137] Hreppsbók Mosvallahrepps frá þessum árum sýnir líka að sveitarfélagið varð ekki fyrir neinu óvæntu fjárhagstjóni á árunum 1854-1860[138] en peningaeign hreppsins var þá yfirleitt milli 50 og 100 ríkisdalir þegar reikningar voru gerðir upp á haustin.[139]

Gísli Konráðsson segir að Jón Indriðason hafi ætlað sér að kaupa hálft skipið en uppgjör Erlendar Þórarinssonar sýslumanns á dánarbúum þeirra Jóns og Jóhanns skipstjóra verður tæplega skilið öðru vísi en svo að þeir hafi átt einn fjórða part í skútunni hvor. Í skiptagerðinni gerir sýslumaður grein fyrir eignum og skuldum dánarbús Jóns á Kaldá og segir m.a.: Frá Sjóábyrgðarfélagi Ísfirðinga fyrir ¼ úr 850 ríkisdölum er skipið Kleine Catrine var tekin í ábyrgð fyrir 212 ríkisdalir og 48 skildingar.[140] Í hinni skiptagerðinni, þeirri sem varðar eignir og skuldir dánarbús Jóhanns skipstjóra Árnasonar, er eignarhlut hans í Katrínu lýst með sama hætti.[141] Sjóábyrgðarfélag Ísfirðinga, sem þarna er nefnt, mun hafa verið stofnað með formlegum hætti seint á árinu 1853[142] og í blaðafrétt frá árinu 1854 segir að félagið ábyrgist hálft verð hvers skips.[143] Með þetta í huga virðist mega ætla að matsmenn Sjóábyrgðarfélagsins hafi virt Katrínu á 1.700 ríkisdali og skútan því verið tekin í ábyrgð fyrir 850 ríkisdali. Hér var þess áður getið að Jón á Kaldá og Jóhann skipstjóri skulduðu fyrri eiganda Katrínar samtals 1.141 ríkisdal og 16 skildinga þegar þeir drukknuðu. Þar af nam skuld Jóns 555 ríkisdölum en skuld Jóhanns var lítið eitt hærri.[144] Svolítið undarlegt má kalla að þessi skuld þeirra skuli hafa verið svona há ef þeir áttu bara sinn fjórða partinn hvor í skútunni og hún aðeins virt á 1.700 ríkisdali af Sjóábyrgðarfélaginu. Skýringu á þessu er erfitt að finna en líklegast verður að telja að söluverð skipsins hafi verið allmiklu hærra en tryggingamatið og að útborgunin, sem þeir Jón og Jóhann inntu af hendi, þegar þeir fengu skipið afhent, hafi verið mjög lítil.

Ekki verður nú séð með auðveldu móti hver eða hverjir áttu skonnortuna Katrínu litlu með þeim Jóni og Jóhanni. Líklegast er að hinn fyrri eigandi skipsins, Niels Christian Poulsen, kaupmaður í Hafnarfirði, hafi enn talist eiga það hálft. Hann hafði verið verslunarstjóri í Neðstakaupstað á Ísafirði á árunum kringum 1840 og átti þá mikil viðskipti við Önfirðinga sem lausakaupmaður (sjá hér Holt). Árið 1846 gerðist N. Chr. Poulsen kaupmaður í Hafnarfirði en hélt áfram tengslum við Vestfirðinga. Til marks um það má nefna að sumarið 1849 keypti hann hálfa skútu af Einari Jónssyni í Ögri fyrir 500 ríkisdali ef marka má orð prestsins sem þá þjónaði í Ögurþingum (sjá hér Holt). Um 1850 átti hann tvímælalaust hlut að skútuútgerð frá Ísafirði (sjá hér Holt) þó kominn væri suður í Hafnarfjörð. Þess er líka vert að geta að skonnortan Kleine Catrine hefur að líkindum verið gerð út frá Ísafirði eða a.m.k. stundað veiðar á Vestfjarðamiðum um alllangt skeið áður en Jón Indriðason á Kaldá og Jóhann Árnason eignuðust hlut í henni. Til marks um þetta má nefna að vorið 1848 kom skúta að nafni Katrín inn á Flateyjarhöfn og er nefnd að minnsta kosti tvisvar í dagbók séra Sigurðar Tómassonar frá því ári en hann var þá búsettur á Flateyri. – Kom inn Katrín, skrifar prestur í dagbókina 25. apríl 1848.[145] Um miðjan maí nefnir hann þetta sama skip og segir: Dreif Katrínu, mesti ofsi.[146] Ekki er til þess vitað að um miðbik 19. aldar hafi önnur þilskip en Kleine Catrine borið Katrínarnafn[147] svo líklegt verður að telja að það hafi verið þessi sama skonnorta sem lagðist á Flateyrarhöfn vorið 1848, fimm eða sex árum áður en Önfirðingar eignuðust hana að hálfu.

Hér skal þess að lokum getið að dánarbú Jóns Indriðasonar, hreppstjóra á Kaldá, reyndist vera þrotabú.[148] Eignir búsins voru metnar á 461 ríkisdal og 82 skildinga, þar með talið tryggingarféð frá Sjóábyrgðarfélaginu upp á 212 ríkisdali og 48 skildinga.[149] Heildarskuldir búsins reyndust vera 578 ríkisdalir og 52 skildingar[150] svo hér skorti 116 ríkisdali og 66 skildinga til að eignir búsins nægðu fyrir skuldum. Með þá niðurstöðu í huga verður auðveldara en ella að leggja trúnað á sögu Gísla Konráðssonar um peningana sem áttu að hafa farið í hafið með hreppstjóranum á Kaldá, − en það hafa þá verið hans eigin peningar sem til stóð að nota til að borga partinn í skipinu.

Að Jóni Indriðasyni látnum fór nýtt fólk að búa á Kaldá. Á sjálfri Jónsmessu sumarið 1854 voru bæjarhúsin tekin út,[151] baðstofa, eldhús og búr og var stærð þeirra þá sem hér segir: Lengd baðstofunnar var 6 álnir og 18 þumlungar en breiddin 3 álnir.[152] Baðstofan hjá Jóni Indriðasyni hefur því aðeins verið tæplega 8 fermetrar. Hún var í þremur stafgólfum og var eitt þeirra undir reisifjöl en hin tvö með árefti.[153] Tveir gluggar voru á baðstofunni, í henni var loft og þil fyrir gafli.[154] Búrið var sjö fermetrar eða því sem næst og eldhúsið um það bil fimm og hálfur fermetri.[155] Lengd bæjarganganna var um það bil 4,4 metrar.[156]

Hjónin sem tóku við búi á Kaldá vorið 1854 hétu Guðmundur Magnússon og Margrét Magnúsdóttir.[157] Guðmundur var fæddur 1817 en Margrét kona hans árið 1825.[158] Þau höfðu áður búið í fáein ár á Mosvöllum.[159] Guðmundur og Margrét bjuggu á Kaldá fram yfir 1860 en 1870 voru þau komin að Tungu í Valþjófsdal.[160] Guðmundur náði að verða hálfníræður en dó í Lambadal í Dýrafirði sumarið 1902.[161]

Árið 1860 var hér tvíbýli. Guðmundur og Margrét, sem hér voru síðast nefnd, bjuggu þá á öðru býlinu en á hinu réði húsum Guðbjörg Bjarnadóttir sem hafði verið gift Friðrik Svendsen, kaupmanni og agent á Flateyri.[162] Frá Guðbjörgu er sagt annars staðar í þessu riti (sjá hér Vífilsmýrar og Flateyri) en hér á Kaldá bjó hún í tvö ár, frá 1860 til 1862, en fluttist þá að Vífilsmýrum og bjó þar lengi. Haustið 1860 voru fjögur börn Guðbjargar hjá henni hér á Kaldá.[163] Þrjú þeirra voru á aldrinum 10-20 ára[164] og þau hafði hún eignast með Friðriki Svendsen kaupmanni. Fjórða barnið var tveggja ára stúlka sem bar nafn móður sinnar en faðir hennar var vinnumaður hjá kaupmannsekkjunni[165] (sbr. hér Vífilsmýrar).

Um 1870 bjuggu hjónin Björn Sakaríasson og Guðbjörg Torfadóttir á Kaldá í nokkur ár.[166] Þau komu hingað úr Dýrafirði árið 1866 en höfðu áður búið skamman tíma á Hvilft (sjá hér Hvilft). Seinna voru þau alllengi í húsmennsku á Selakirkjubóli (sjá hér Selakirkjuból) en árið 1889 fluttust þau aftur hingað að Kaldá og komu þá frá Ísafirði.[167]

Frá hjónunum Guðmundi Jónssyni og Rannveigu Guðlaugsdóttur, sem bjuggu hér á árunum kringum 1880, hefur áður verið sagt (sjá hér Fremri-Breiðadalur) en á þeim árum var hér líka einhleypur húsmaður sem hét Jón Jónsson[168] og var stundum nefndur Kaldár-Jón til aðgreiningar frá nöfnum sínum. Hann fæddist á Þorfinnsstöðum 5. nóvember 1835, sonur ógiftra vinnuhjúa.[169] Árið 1870 var hann enn á Þorfinnsstöðum[170] en mun hafa flust að Kaldá skömmu síðar. Um 1890 var Kaldár-Jón húsmaður í Neðri-Breiðadal og lifði á sjósókn.[171] Magnús Hjaltason nefnir hann Kaldár-Jón[172] og Ólafur Þ. Kristjánsson segir að hann hafi verið kenndur við Kaldá.[173] Jón þessi Jónsson dó 23. janúar 1899 og var þá vinnumaður á Flateyri.[174]

Haustið 1887 andaðist Guðmundur Jónsson sem þá hafði búið um skeið á Kaldá og hér var áður nefndur (sjá hér Fremri-Breiðadalur). Skömmu síðar tók Helgi Andrésson skipstjóri við jörðinni og bjó hér til 1894.[175] Hann var lengi skipstjóri á þilskipum frá Flateyri og átti heima þar á fyrstu áratugum tuttugustu aldar. Frá Helga segir nánar á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Flateyri). Á Kaldá bjó Helgi með konu sinni, Helgu Björnsdóttur, en hún var dóttir hjónanna Björns Sakaríassonar og Guðbjargar Torfadóttur sem áður höfðu búið hér og komu hingað aftur til dvalar árið 1889.[176] Helgi Andrésson skipstjóri og Helga kona hans voru bræðrabörn.[177]

Enginn bændanna sem bjuggu á Kaldá á 19. öld náði að búa hér mjög lengi nema Sveinn Jónsson sem stýrði hér búi á fjórða tug ára fyrir og eftir aldamótin 1800 (sjá hér bls. 4-6) en næstflest munu búskaparárin hafa orðið hjá Reinald Kristjánssyni sem fór að búa á Kaldá árið 1893 og bjó hér til 1912 og átti síðan heima í 9 ár í húsi sem hann byggði sér hér niður við sjóinn og nefndi Kaldeyri.

Reinald var fæddur 23. janúar 1866 í Eyrarhúsum í Tálknafirði, sonur hjónanna Kristjáns Gunnarssonar og Margrétar Jónsdóttur.[178] Við skírn og fermingu nefnir prestur hann Reinhald[179] og í opinberum heimildum er hann mjög oft nefndur Reinharður, fyrst í sóknarmannatali frá árinu 1883.[180] Sjálfur virðist hann hins vegar hafa kosið að nefna sig Reinald og sleppa há-inu úr skírnarnafninu því þannig er nafnið ritað í ævisögu hans sem færð var í letur eftir hans eigin frásögn og gefin út á bók í tveimur bindum.[181] Ævisögu Reinalds, sem nefnd var Á sjó og landi, skráði Ingivaldur Nikulásson og tekur fram að það hafi hann gert eftir sjálfs hans frásögn.[182] Í því sem hér verður ritað um Reinald er einkum stuðst við þessa prentuðu ævisögu hans.

Þegar drengurinn var þriggja ára gamall andaðist faðir hans og þaðan í frá ólst Reinald upp sem niðursetningur hjá vandalausum.[183] Í bernsku var hann lengst á Eysteinseyri í Tálknafirði og átti þar að eigin sögn illa vist.[184] Fimm ára missti hann móður sína er illur graðungur varð henni að bana.[185] Fjórtán ára gamall komst Reinald að Feigsdal í Arnarfirði og tók þá hagur hans að vænkast.[186] Þar var hann smali og segir kvíaærnar hafa verið 90.[187] Sextán ára varð þessi fyrrverandi sveitarómagi kokkur á þilskipi frá Bíldudal en sautján ára varð hann vinnumaður í Efrihúsum undir Hesti í Önundarfirði.[188] Þaðan strauk hann nokkrum mánuðum síðar, skömmu fyrir jól árið 1883, því hann taldi matinn óhæfilega naumt skammtaðan (sjá hér Hestur). Á árunum 1884-1889 var Reinald mest á Flateyri.[189] Þar var hann vinnumaður hjá Torfa Halldórssyni og a.m.k. tvö sumur á skútunni Hildu Maríu.[190] Snemma í janúar árið 1889 fór Reinald til róðra norður í Bolungavík og næstu fimm árin var hann sjómaður við Djúp, ýmist á þilskipum eða opnum bátum.[191] Á þessum árum átti hann fyrst heima í Bolungavík en svo á Ísafirði og í Hnífsdal.[192]

Í sóknarmannatölum frá árunum 1886-1893 finnst Reinald sjaldan eða aldrei skráður til heimilis á Flateyri eða á Ísafirði ellegar í Bolungavík eða Hnífsdal.[193] Ástæðulaust mun þó vera að draga í efa staðhæfingar hans sjálfs um að einmitt í þessum plássum hafi hann haldið sig árin átta sem hér voru nefnd. Í aðalmanntali frá 1. nóvember 1890 skýtur hann upp kollinum í Hnífsdal og er þá sagður vera lausamaður þar en eiga lögheimili á Flateyri.[194] Í ævisögunni segir Reinald að hann hafi verið lausamaður frá árinu 1889 og getur þess að árið 1891 hafi hann samið við hreppsnefnd Mosvallahrepps um að borga tíu krónur á ári til hreppsins hvort sem hann dveldist nokkuð eða ekkert þar í sveit.[195] Þegar þessi kóngsins lausamaður settist svo að í Önundarfirði á nýjan leik árið 1894 getur prestur um komu hans og bætir við: Hefur haft heimili á Flateyri um mörg ár en eigi verið sagt til hans.[196] Þessi orð ber að skilja svo að enda þótt Reinald teldi sig eiga fasta búsetu á Flateyri var hann hvergi skráður til heimilis, hvorki þar né annars staðar, og stóð því í vissum skilningi til hliðar við samfélagið.

Þann 25. mars 1894 kvæntist Reinald Aniku Magnúsdóttur, sem þá var vinnukona í Hnífsdal, en brúðgumann segir prestur eiga heima á Flateyri.[197] Reinald staðhæfir reyndar að þau hafi verið gefin saman í Eyrarkirkju á Ísafirði 2. apríl 1893[198] en hér er farið eftir embættisbók sóknarprestsins sem gaf þau saman því ætla verður að hann greini rétt frá brúðkaupsdeginum. Þegar Reinald og Anika gengu í hjónaband höfðu þau verið trúlofuð í um það bil eitt ár.[199] Frá fyrstu kynnum þeirra, sem líklega hafa orðið árið 1890 eða 1891, segir Reinald svo:

 

Dag einn um veturinn er ég var nýkominn af sjó gekk ég inn að svonefndum Búðarlæk til að þvo vasaklútinn minn. Sá ég þá stúlku er þvoði föt í læknum. Ég kastaði kveðju á hana og ætlaði að fara að þvo klútinn. Spyr hún mig þá hvort ég vilji ekki að hún þvoi hann fyrir mig og tek ég því með þökkum. Á meðan hún þvoði gafst mér kostur á að virða hana fyrir mér. Sá ég á handtökum hennar að hún mundi vera rösk og dugleg en slíks konuefnis þóttist ég þarfnast. Varð ég einnig mjög hrifinn af því hve fagureygð hún var. Leið nú nokkur tími uns ég bað hennar en fékk óðara hryggbrot. Féll mér það mjög þungt. Datt mér þá í hug að fara að drekka og reyna að gleyma hörmum mínum á þann hátt en sá þó brátt að slíkt mundi aðeins gera vont verra. Mundi mér betra að reyna að bera mig karlmannlega og komast af landi burt.[200]

 

Sem betur fór komst Reinald ekki til Ameríku og þar kom að stúlkan sem hann hitti fyrst við lækinn í Hnífsdal hét honum eiginorði. Við hina opinberu trúlofun þeirra var nærstaddur Símon Dalaskáld og kastaði fram þremur vísum. Fyrsta vísan var svona:

 

Í blómgarði æskunnar

í sem feginn keppti,

fljótt Reinaldur frægðarsnar

fagra meyju hreppti.[201]

 

Anika Magnúsdóttir var fædd á Kirkjubóli í Korpudal 11. maí 1865[202] og var því rösklega einu ári eldri en unnustinn. Foreldrar hennar voru Magnús Jónatansson og Guðrún Jónsdóttir sem enn voru ógift þegar Anika fæddist en gengu síðar í hjónaband.[203] Faðir Aniku var sonur Jónatans Jónssonar og Helgu Hjaltadóttur[204] sem bjuggu um skeið á Innri-Veðrará um miðbik 19. aldar (sjá hér Innri-Veðrará). Þegar Anika var 15 ára átti hún heima hjá foreldrum sínum sem þá bjuggu í Hlíðarhúsum á Snæfjallaströnd.[205]

Sjálfur segir Reinald að þau Anika hafi flust til Önundarfjarðar og byrjað búskap á Kaldá vorið 1893[206] en í prestsþjónustubókinni eru þau sögð hafa komið hingað ári síðar[207] og mun það réttara því sóknarmannatal frá 31. desember 1893 sýnir að þá voru þau ekki enn sest hér að.[208]

Bæjarhúsin á Kaldá voru tekin út í hendur Reinalds 21. febrúar 1894 en frá fór Helgi Andrésson skipstjóri sem hér hafði búið í örfá ár.[209] Við þessi ábúendaskipti var baðstofan 7 x 4,5 álnir,[210] það er 12,4 fermetrar. Hæð baðstofunnar frá gólfi og upp í mæni var rétt liðlega 4 metrar.[211]  Tæplega 2ja metra löng göng lágu frá baðstofunni til útidyra og tvær hurðir í dyrunum.[212] Búr og eldhús voru í slæmu standi en í stað þeirra fékk Reinald frá Helga nýja fjóshlöðu sem var tæplega 10 fermetrar að flatarmáli og um 3,5 metrar á hæð.[213]

Frá upphafi búskapar síns á Kaldá greinir Reinald svo:

 

Þegar við hjónin komum að Kaldá vorum við gersamlega efnalaus. Urðum við því að taka lán fyrir kú og hesti og einnig til að kaupa húsagarma fyrir 500,- krónur. Ekki var nú byrjunin glæsileg en við vorum sparsöm og guð blessaði okkar litlu efni. Konan mín var elskuleg og gerði sig ánægða með lítið, þótt hana vantaði margt, til þess að ég gæti staðið í skilum. Hún var ekki ein þeirra kvenna sem heimta allt með sjálfskyldu af mönnum þeirra heldur stóð hún mér jafnhliða og hjálpaði mér að rétta við og komast áfram og fæ ég henni það aldrei fullþakkað.[214]

 

Þegar Reinald hóf búskap á Kaldá var Holtskirkja enn eigandi jarðarinnar.[215] Alllöngu seinna náði hann að kaupa þessa ábýlisjörð sína og 1912 eða því sem næst seldi hann hana tengdasyni sínum fyrir 6.000,- krónur.[216] Reinald bóndi á Kaldá varð víða kunnur af póstferðum sínum milli Ísafjarðar og Bíldudals en þá erfiðu póstflutninga annaðist hann nokkuð á annan tug ára. Sjálfur sagðist Reinald hafa farið þessar póstferðir frá 1901 til 1915[217] en líklega hefur hann ekki tekið þær að sér fyrr en 1902. Magnús Hjaltason, sem átti heima á Grænagarði við Skutulsfjörð vorið 1902, segir í dagbók sinni 8. apríl á því ári að þann dag hafi Reinald komið úr póstferð til Bíldudals í stað hins vanalega Árna Sigurðssonar á Gildrunesi.[218] Orð Magnúsar benda eindregið til þess að þarna hafi Reinald verið að koma úr sinni fyrstu póstferð í Arnarfjörð en forveri hans, Árni Sigurðsson, sem átti heima á Gildrunesi við Skutulsfjörð, yst í gamla Ísafjarðarkaupstað, er enn titlaður aukapóstur í manntalinu frá 1. nóvember 1901.[219] Í ferðum var Reinald hinn mesti afreksmaður og nutu margir góðs af samfylgd við hann. Hér hefur áður verið sagt nokkuð frá ferðum hans yfir Breiðadalsheiði, sem urðu áður en lauk yfir 800, og skal til þess vísað (sjá hér Fremri-Breiðadalur).

Þegar Reinald hafði farið póstferðirnar í 12 ár orti Anika nokkrar stökur til bónda síns og hafði tvær þær fyrstu svona:

 

Tólf um ára skundað skeið

skjótur í ferðum varstu.

Á póstfarar langri leið

lúður og tösku barstu.

 

Aldrei var svo veður ært

vetrar stríðu hreggja,

að þér þætti ekki fært

út í það að leggja.[220]

 

Seinna var Reinald póstur í sjö ár á leiðinni milli Bíldudals og Selárdals í Arnarfirði.[221]

Fyrstu árin sem Reinald bjó á Kaldá var hann á skútum á sumrin og eitthvað var hann þá við róðra bæði frá Hnífsdal og Suðureyri í Súgandafirði.[222] Árið 1900 fór hann að vera heima við slátt að sumrinu en reri þá bæði vor og haust frá Kaldá.[223] Í þessum róðrum hafði hann mann með sér fyrstu árin en frá 1910 reri hann jafnan einn.[224] Árið 1936 taldi Reinald sig hafa róið einan á báti í 32 vertíðir,[225] ýmist úr Önundarfirði eða Arnarfirði. Samanlagður afli hans á öllum þessum vertíðum var 62.565 þorskar og ýsur, 28.690 steinbítar, 59.296 rauðmagar, 32.766 grásleppur og 7.731 stykki af öðrum fiskum.[226] Á þessum sömu vertíðum hafði Reinald að eigin sögn róið 8.160 sjómílur, einn á 2 árar, en það er aðeins 637 sjómílum styttri vegalengd en leiðin umhverfis hnöttinn sé farið eftir 66° breiddarbaug.[227]

Árið 1903 byggði Reinald íbúðarhús úr timbri hér á Kaldá en áður hafði hann byggt upp öll útihús á jörðinni.[228] Húsið frá 1903 stendur hér enn. Að þetta sé sama húsið má m.a. marka af manntölunum frá 1940 og 1950 en þar er íbúðarhúsið á Kaldá ýmist sagt vera frá því um 1900 eða um 1910.[229] Húsið er ein hæð og ris og í því voru árið 1940 þrjú herbergi og eldhús.[230] Á búskaparárum sínum stóð Reinald líka fyrir miklum jarðabótum, sléttaði og stækkaði túnið og leiddi vatn í bæ og fjós.[231] Þegar hann kom að Kaldá var meðalheyfengur af túninu að hans sögn talinn 30 hestar en var orðinn 100 hestar þegar hann fór.[232] Líklega er þetta ekki fjarri lagi því að í matsgerð frá árunum kringum 1920 segir að töðufall hér á Kaldá sé 90 hestar.[233] Þá voru fáein ár liðin frá því Reinald afhenti jörðina í annarra hendur. Um þetta leyti var talið að auk töðunnar fengjust á Kaldá 100 hestar af útheyi.[234] Í matsgerðinni sem hér var nefnd er getið um vatnsleiðsluna í bæ og fjós og túngarð úr grjóti og torfi er nái umhverfis túnið á þrjá vegu.[235] Í þessu sama skjali er túnið á Kaldá sagt vera í góðri rækt, sléttlent og heldur grasgefið en beitiland lítið og létt.[236] Jörðin var þá talin geta framfleytt 2 kúm, 50 fjár og 2 hrossum.[237]

Í þessari sömu matsgerð frá því um 1920 er húsið sem Reinald byggði sagt vera úr timbri, járnvarið, portbyggt og gólfflöturinn 8 x 9 álnir,[238] það er rösklega 28 fermetrar. Við húsið stóð þá skúrbygging, 8 x 4½ alin að flatarmáli.[239] Önnur hús á jörðinni árið 1920 voru hjallur með skúr, fjós, þrjár hlöður, tvö fjárhús, hesthús og kofi.[240] Flest þessara húsa mun Reinald hafa byggt upp. Hann lagði einnig síma heim að Kaldá mjög skömmu eftir að símstöð var opnuð á Flateyri en sú framkvæmd kostaði hann 400,- krónur[241] eða sem svaraði um það bil fjórum kúgildum.[242]

Til að drýgja tekjur sínar hafði Reinald ýmis úrræði. Í nokkur ár plægði hann kúfisk á vorin og seldi Djúpmönnum og seinni ár sín á Kaldá stundaði hann rauðmaga- og sprökuveiðar milli póstferða.[243]

Með Aniku konu sinni eignaðist karlinn sjö börn[244] sem flest eða öll munu hafa fæðst á Kaldá. Af þessum börnum náðu fjögur að vaxa úr grasi.[245] Sum þeirra voru enn á barnsaldri á árunum kringum 1910 og þá var stundum haldinn skóli á Kaldá fyrir þau og börn frá nálægum bæjum. Börnin fóru á skólann að Kaldá, skrifar Jón Guðmundsson, búfræðingur á Veðrará, í dagbók sína 4. janúar 1911[246] og hefur kennslan þá farið fram á heimili Reinalds og Aniku.

Árið 1913 hætti Reinald búskapnum og afhenti jörðina dóttur sinni og tengdasyni.[247] Sjálfur gerðist hann húsmaður[248] og kom sér upp nýju íbúðarhúsi hér neðan við túnið, örskammt frá sjó, og nefndi Kaldeyri.[249] Framkvæmdum sínum þar lýsir hann svo:

 

Flutti ég mig nú til sjávar og byggði þar steinhús, timburhús, hjall, fjárhús og hlöðu. Einnig byggði ég „bólverk” fyrir framan  húsið og kostuðu allar þessar byggingar 6.000,- krónur. Þótti mér þægilegt mjög að koma með afla rétt að húsdyrunum og gera að fiskinum á bólverkinu. Þetta nýja heimkynni mitt nefndi ég Kaldeyri.[250]

 

Í álitsgerð fasteignamatsmanna frá því um 1920 eru hús Reinalds á Kaldeyri virt á 3.800,- krónur en öll bæjarhús á Kaldá á 3.000,- krónur.[251] Frá Kaldeyri sótti Reinald sjó af kappi, reri til fiskjar á árabát sínum og stundaði sel- og fuglaveiðar.[252] Hér átti hann heima til 1920 en fluttist þá í Arnarfjörð og settist að á Melstað í Selárdal.[253]

Í Selárdal hélt Reinald áfram fiskiróðrum á árabáti sínum, Björgu, og tók að sér að flytja póstinn frá Bíldudal út í Ketildali.[254] Síðustu ár sín í Arnarfirði átti hann heima á Bíldudal en árið 1933 fluttist hann aftur til Önundarfjarðar og settist að hjá Magnúsi syni sínum á Görðum.[255]

Á Görðum kom hann sér upp litlu húsi sem stóð á sjávarbakka neðan við þjóðveginn og alveg á landamerkjum Garða og Hvilftar.[256] Í þessu húsi sínu átti hann heima og borgaði eiganda Hvilftar tíu krónur á ári í lóðarleigu af því að grunnur hússins var að nokkrum hluta í landi þeirrar jarðar.[257] Reinald póstur dó á Flateyri 2. október 1940 og var þá nýlega fluttur þangað frá Görðum. Sagt er að hann hafi aldrei viljað skulda neinum neitt og andlátsorðin sem hann mælti við konu sína hafi verið þessi: Nika, mundu að borga rótarstuðulinn.[258] Það var kaffibætirinn sem ekki mátti gleymast að borga. Anika Magnúsdóttir, kona Reinalds, lifði lengur en hann en hún andaðist á Bíldudal 18. apríl 1954, komin fast að níræðu.[259]

Á árunum 1916-1930 bjuggu á Kaldá hjónin Finnur Guðmundsson frá Görðum og Steinunn Jóhannesdóttir frá Hesti (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 418). Árið 1927 réðust þau í að virkja ána Kaldá og komu sér upp 3ja kílówatta heimilisrafstöð (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 418). Mun Kaldá hafa verið fyrsti sveitabærinn í Vestur-Ísafjarðarsýslu sem lýstur var upp og hitaður með rafmagni.[260]

Betúel Betúelsson í Höfn í Hornvík í Sléttuhreppi keypti Kaldá um 1930[261] og vorið 1931 fékk Guðmundur sonur hans jörðina til ábúðar en hann var þá 35 ára gamall.[262] Með Guðmundi Betúelssyni fluttust að Kaldá nokkur systkini hans, sem þá voru öll orðin fullorðinn,[263] og á árunum 1934 og 1935 hættu þau Betúel Betúelsson og Anna Guðmundsdóttir kona hans búskap sínum norður í Hornvík og fóru hingað að Kaldá til barna sinna.[264] Þegar Betúel kom að Kaldá var hann orðinn 77 eða 78 ára en hafði fyrrum stjórnað rekstri útibús Ásgeirsverslunar í Höfn í Hornvík.[265] Hann andaðist 94 ára gamall 18. janúar 1952 og hafði þá átt heima hér í 17 ár.[266]

Guðmundur Betúelsson bjó á Kaldá í nær sextíu ár og allan þann tíma var Anna systir hans ráðskona hjá bróður sínum (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 418). Hann andaðist í marsmánuði árið 1991 og síðan þá hefur Anna systir hans, sem fædd er árið 1901, dvalist að mestu á Flateyri[267] svo nú (1994) má heita að Kaldá sé komin í eyði.

Allt fólkið sem bjó hér áður er horfið á braut en í svipmóti gamla timburhússins sem Reinald póstur kom upp árið 1903 (sjá hér bls. 19) er enn einhver stoltarbragur. Rétt fyrir ofan húsið hjalar bæjarlækurinn enn sem fyrr og svolítið ofar kúrir gamall stekkur inn við ána.

Við árósinn hér niður við sjóinn standa enn útveggir íbúðarhússins sem Reinald byggði úr steinsteypu á öðrum áratug 20. aldar. Þennan stað nefndi hann Kaldeyri (sjá hér bls. 20-21) og húsinu mun hann hafa komið upp árið 1915 ef marka má upplýsingar í manntalinu frá 1940.[268] Í steinhúsi þessu var búið til ársins 1944 og það síðan notað sem sumarbústaður (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 418) en sumarið 1993 kveikti í því einn umhlaupandi strákur svo allt brann nema útveggirnir.[269] Húsið var ein hæð og ris og grunnflötur þess um það bil 4 x 5 metrar. Undir nokkrum hluta þess var steyptur kjallari og sér hans enn stað. Þessu húsi sínu valdi Reinald stað alveg á fjörukambinum og þar standa veggir þess á upphlöðnum reit eða palli sem líklega er um 80 fermetrar að flatarmáli. Nokkrar tóttir bera vitni um að hér utan við árósinn hafi staðið fleiri byggingar. Rétt utan við sviðna steinveggi íbúðarhússins er gamall bátur á hvolfi. Við sem göngum hér hjá sjáum að í honum hefur verið vél því skrúfan er enn á sínum stað. Að sögn kunnugra átti Guðmundur Betúelsson á Kaldá þessa litlu trillu.[270] Leifar af gömlu bátsspili eru hér líka og benda til þess að lendingin hafi verið örskammt fyrir utan íbúðarhúsið.

Úr fjörunni við Kaldeyri látum við fæturna bera okkur til baka upp túnið á Kaldá og svolítið lengra í átt til fjalls. Nú er langt liðið á júní og skaflinn í hlíðinni ofan við bæinn er ennþá býsna stór. Oft hverfur hann ekki fyrr en um miðjan júlí.[271] Holtin hér niður við sjávarbakkana heita Kaldárholt[272] og bakkarnir Kaldárbakkar[273] en hjallar uppi í hlíðinni, sem ná yfir þvert Kaldárland og út í Hólsland, heita Kaldárhjallar.[274] Um Kaldárdal, sem skerst inn í fjalllendið ofan við bæinn, var áður rætt og um fjöllin sem mest ber á þegar svipast er um frá hlaðinu á Kaldá (sjá hér bls. 1 og Selakirkjuból). Klettahjallinn við dalsmynnið heitir Hrútahjalli og er hann grasivaxinn að ofan.[275]

Frá skaflinum í hlíðinni þokum við okkur á ný í átt til sjávar og tökum strikið út að Hóli sem var næsti bær. Uppi í hlíðinni eru landamerkin milli jarðanna við Markhrygg[276] en hann sýnir sig rétt innan við gil eitt sem mikið ber á uppi í fjallinu. Frá Kaldá og út að merkjunum eru rétt um 500 metrar en 800 metrar frá þeim og út að Hóli.[277] Niður við sjó eru landamerkin skammt innan við miðja Grísavík[278] en í þessari litlu vík er falleg sandfjara sem laðar til dvalar. Engu að síður hröðum við nú för okkar út að Hóli en sú jörð hefur legið í eyði allt frá árinu 1907 með þeirri undantekningu þó að fólk hafðist þar við í nokkur ár á fjórða áratug aldarinnar (sjá hér Hóll á Hvilftarströnd).

 

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Eyjólfur Jónsson 1986, 145 (Ársrit S.Í.).

[2] Óskar Einarsson 1951, 84.

[3] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 122-123.

[4] Sama heimild.

[5] Sama heimild.

[6] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[7] Sama heimild.

[8] D.I. IV, 141.

[9] D.I. XV, 572-573.  Lbs. 7974to, Jarðaskrár úr Ísafj.sýslu frá árunum 1658 og 1695.  Jarðab. Á. og P. VII,

  1. Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753. Manntal 1762. Rtk. Jarðabækur V. 16. – Ísafj.sýsla
  2. J. Johnsen 1847, 196.

[10] Manntal 1901, fylgiskjöl.

[11] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[12] D.I. XV, 572-573.

[13] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695.

[14] Jarðab. Á. og P. VII, 122.

[15] Sama heimild.

[16] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[17] J. Johnsen 1847, 196.

[18] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.

[19] Sama heimild.

[20] Jarðab. Á. og P. VII, 122.

[21] Einar Laxness 1987, 274-276.

[22] Sama heimild.

[23] Einar Laxness 1987, 274-276.

[24] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.

[25] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695. Jarðab. Á. og P. VII, 122.

[26] Þorvaldur Thoroddsen / Lýsing Íslands III, 45-46.

[27] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.  J. Johnsen 1847, 196. Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók

fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.

[28] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.

[29] Manntal 1703.  Jarðab. Á. og P. VII, 122-123.

[30] Manntöl 1816 og 1860.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1821.

[31] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, eftirrit, Ísafj.sýsla um 1735.  Jarða- og bændatöl 1752-1767,

Ísafj.sýsla 1753.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1830.  Manntöl 1762, 1801, 1835,

1840, 1845, 1850, 1855, 1870, 1880, 1890 og 1901.

[32] Manntal 1703.

[33] Sama heimild.

[34] Sama heimild.

[35] Sama heimild.

[36] Sama heimild.

[37] Jarðab. Á. og P. VII, 122-123.

[38] Jarðab. Á. og P. VII, 122-123.

[39] Sama heimild.

[40] Sama heimild.

[41] Manntal 1762.

[42] Sama heimild.

[43] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[44] Manntal 1816, bls. 689.  Manntal 1801, vesturamt, bls. 290.  Sbr. Ól. Þ. Kr. 1953, 135-148 (Frá ystu nesjum VI).

[45] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[46] Manntal 1816.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[47] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[48] Ól. Þ. Kr. 1953, 135-136.

[49] Sama heimild, 136.

[50] Manntal 1801, vesturamt, bls. 290.  Sbr. Ól. Þ. Kr. 1953, 136-137.

[51] Ól. Þ. Kr. 1953, 136.

[52] Sama heimild.

[53] Rtk. Jarðabækur V. 16. – Ísafj.sýsla 1805.

[54] Ól. Þ. Kr. 1953, 136 (Frá ystu nesjum VI).

[55] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[56] Manntal 1801.

[57] Ól. Þ. Kr. 1953, 137.  Manntöl 1801 og 1816.

[58] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.  Manntal 1801, vesturamt, bls. 310.  Jón Þ Þór 1984, 90, 93 og 196.

[59] Ól. Þ. Kr. 1953, 137.

[60] Sama heimild.

[61] Sama heimild 137-140.

[62] Sama heimild.

[63] Sama heimild.

[64] Sama heimild.

[65] Sama heimild, 140.

[66] Sama heimild.

[67] Sama heimild, 140-147.

[68] Ól. Þ. Kr. 1953, 137., 134-152. (Frá ystu nesjum VI).

[69] Manntal 1816.

[70] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[71] Ól. Þ. Kr. 1953, 148 (Frá ystu nesjum VI).

[72] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[73] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 1. Hreppsbók 1786-1819 og 2. Hreppsbók 1819-1835.

[74] Ól. Þ. Kr. 1953, 149.

[75] Sama heimild, 149-150.

[76] Sama heimild.

[77] Sama heimild.

[78] Sama heimild.

[79] Sama heimild.

[80] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[81] Sama heimild.

[82] Sama heimild.

[83] Ól. Þ. Kr. 1948, 66 (Frá ystu nesjum IV).

[84] Manntal 1816.

[85] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[86] Sama heimild.

[87] Ól. Þ. Kr. 1948, 78 (Frá ystu nesjum IV).

[88] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., bún.sk. 1830 og 1834.  VA III, bún.sk. 1837.  Manntöl 1835 og 1840.

[89] VA III, 407, búnaðarskýrslur 1837.

[90] Sama heimild.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1830.

[91] Ól. Þ. Kr. 1945, 157-159 (Frá ystu nesjum III).

[92] Sama heimild.

[93] Sama heimild.

[94] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[95] Manntal 1840.

[96] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.  Manntal 1816, 644.

[97] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[98] Sama heimild.

[99] Sama heimild

[100] Sama heimild.

[101] Manntal 1840.

[102] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[103] Manntal 1845.

[104] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[105] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[106] Sama heimild.

[107] Sama heimild.

[108] Eyjólfur Jónsson 1967, 66 (Niðjatal Sveins á Hesti).

[109] Eyjólfur Jónsson 1967, 66 (Niðjatal Sveins á Hesti).

[110] Sama heimild.  Vestf. ættir I, 125-126 og II, 562.

[111] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[112] Manntal 1845.

[113] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[114] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[115] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[116] Sama heimild.

[117] Manntal 1845.

[118] ÍB 8268vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar 2.4.1842.

[119] Lbs. 12884to, bls. 427-428 (Gísli Konráðsson).  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 9. Skiptabók 1855-1860, bls. 126-128.

[120] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 9. Skiptabók 1855-1860, bls. 126-129.

[121] Lbs. 12884to, bls. 427-428.  Óskar Ein. 1951, 28.

[122] Lbs. 12884to, bls. 427-428.  Annáll 19. aldar II, 383.  Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[123] Lbs. 12884to, bls. 427-428 (Gísli Konráðsson).  Annáll 19. aldar II, 383.  Prestaþj.b. Holts í Önundarf.

[124] Lbs. 12884to, bls. 427-428.  Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[125] Sömu heimildir og Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[126] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[127] Annáll 19. aldar II, 383.

[128] Sama heimild.

[129] Sama heimild.  Lbs. 12884to, bls. 427-429.

[130] Annáll 19. aldar II, 383.

[131] Lbs. 12884to, bls. 427-428.

[132] Prestsþj.b. Holts í Önundarf. – dánir 1854.

[133] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[134] Sömu heimildir.

[135] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 9. Skiptabók 1855-1860, bls. 126-129.

[136] Sama heimild.

[137] Sama heimild.

[138] Skj.s. sýslum. og sv.stj. V-Ís. Mosv.hr. 4. Hreppsbók 1849-1883.

[139] Sama heimild.

[140] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 9. Skiptabók 1855-1860, bls. 126-129.

[141] Sama heimild.

[142] Lúðvík Kristjánsson 1960, 280.

[143] Sama heimild.

[144] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 9. Skiptabók 1855-1860, bls. 126-129.

[145] ÍB 8268vo, Dagbók séra Sigurðar Tómassonar 25.4.1848.

[146] Sama dagbók, 18.5.1848.

[147] Sbr. Gils Guðmundsson 1977 (Skútuöldin I-V, 2. útgáfa).

[148] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XII. 9. Skiptabók 1855-1860, bls. 128-129.

[149] Sama heimild.

[150] Sama heimild.

[151] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 6. Úttektabók 1835-1874, bls. 81-82.

[152] Sama heimild.

[153] Sama heimild.

[154] Sama heimild.

[155] Sama heimild.

[156] Sama heimild.

[157] Manntöl 1855 og 1860.

[158] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[159] Sama heimild.

[160] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[161] Sama heimild.

[162] Manntal 1860.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[163] Manntal 1860.

[164] Sama heimild.

[165] Sama heimild.

[166] Manntal 1870.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[167] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[168] Manntal 1880.

[169] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[170] Sama heimild.

[171] Manntal 1890.  Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 13.11.1892.

[172] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 13.11.1892.

[173] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[174] Sama heimild.

[175] Manntal 1890.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[176] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[177] Sama heimild.

[178] Prestsþj.b. Selárdals og Stóra-Laugardals.

[179] Sama heimild.

[180] Sóknarm.töl Holts í Önundarf. – Efrihús 1883.  Manntöl 1901 og 1910 – Kaldá í Mosv.hr.

[181] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1932, 1-94 og 1936, 1-59.

[182] Sama heimild 1932, 3.

[183] Sama heimild, 5.

[184] Sama heimild, 5-16.

[185] Sama heimild, 6.

[186] Sama heimild, 14-16.

[187] Sama heimild, 14-18.

[188] Sama heimild, 20-30.

[189] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1932, 30-37.

[190] Sama heimild.

[191] Sama heimild, 37-62.

[192] Sama heimild.

[193] Sóknarm.töl Holts í Önundarf. og Eyrar í Skutulsfirði.

[194] Manntal 1890.

[195] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1932, 43-44.

[196] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[197] Prestsþj.b. Ísafjarðar (Eyrar í Skutulsfirði).

[198] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1932, 55 og 62.

[199] Sama heimild.

[200] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1932, 55. Sbr. þar bls. 92.

[201] Sama heimild.

[202] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[203] Sama heimild.

[204] Sama heimild.

[205] Sama heimild.

[206] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1932, 62.

[207] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[208] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[209] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 7. Úttektabók 1875-1905, bls. 81.

[210] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 7. Úttektabók 1875-1905, bls. 81.

[211] Sama heimild.

[212] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 7. Úttektabók 1875-1905, bls. 81.

[213] Sama heimild.

[214] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1932, 43-44.

[215] Manntal 1901, fylgiskjöl.

[216] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1932, 71-72 og 80-84.

[217] Sama heimild, 69-71.

[218] Lbs. 22204to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 8.4.1902.

[219] Manntal 1901, Ísafj.kaupstaður, Árna Sigurðssonar hús. Lbs. 222o4to, Dagbók M. Hj. 27. og 28.11.1901

og 8.4.1902.  Sbr. Jón Þ. Þór 1984, 17.

[220] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1932, 80.

[221] Sama heimild, 91. Sömu 1936, 24.

[222] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1932, 63-67.

[223] Sama heimild, 68.

[224] Sama heimild, 68 og 74.

[225] Sama heimild 1936, 35-36.

[226] Sama heimild.

[227] Sama heimild.

[228] Sama heimild 1932, 71-77.

[229] Manntöl 1940 og 1950. Sbr. Anna Betúelsdóttir /Guðrún Guðlaugsdóttir. – Mbl. 26.7.1992, bls. C8.

[230] Manntal 1940.

[231] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1932, 71-74.

[232] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1932, 74.

[233] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[234] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919..

[235] Sama heimild.

[236] Sama heimild.

[237] Sama heimild.

[238] Sama heimild.

[239] Sama heimild.

[240] Sama heimild.

[241] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1932, 75.

[242] Stjórnartíðindi B 1908-1912, verðlagsskrár.

[243] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1932, 74-75.

[244] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[245] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1932, 74-75.

[246] Lbs. án safnnúmers. Skjöl Jóns Guðmundssonar búfræðings á Veðrará, laus dagbókarblöð.

[247] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[248] Sama heimild.

[249] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1932, 80.

[250] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1932, 80.

[251] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók yfirfasteignamatsnefndar í Ísafj.sýslu, löggilt 9.3.1916.

[252] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1932, 80-81.

[253] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.  Sbr. Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1932, 86.

[254] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1932, 91.

[255] Sama heimild, 89. Sömu 1936, 31 og 35.

[256] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.8.1994.

[257] Sama heimild.

[258] Sigurjón Einarsson. – Viðtal K.Ó. við hann 10.8.1994.

[259] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[260] Snorri Sigfússon 1969, 106 (Ferðin frá Brekku II).

[261] Anna Betúelsdóttir / Guðrún Guðlaugsdóttir. – Mbl. 26.7.1992, bls. C8.

[262] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[263] Sama heimild.

[264] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.  Kristinn Kristmundsson / Þórleifur Bjarnason 1971, 48.

[265] Sömu heimildir.

[266] Kristinn Kristmundsson / Þórleifur Bjarnason 1971, 48.

[267] Anna Betúelsdóttir / Guðrún Guðlaugsdóttir. – Mbl. 26.7.1992, bls. C8.

[268] Manntal 1940.

[269] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.8.1994.

[270] Sama heimild.

[271] Hagalín Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1994.

[272] Óskar Ein. 1951, 84.

[273] Hjörleifur Guðmundsson 1973, 77 (Ársrit S.Í.).

[274] Óskar Ein. 1951, 84.

[275] Sama heimild.

[276] Örn.skrá.

[277] Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.8.1994.

[278] Örn.skrá.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »