Suðureyri í Tálknafirði

Suðureyri í Tálknafirði

Frá Tálknatá að Suðureyri, ysta bæ við vestanverðan (sunnanverðan) Tálknafjörð, eru um sjö kílómetrar. Fyrsta spölinn verður að ganga um stórgrýtta og ógreiðfæra fjöru undir sæbröttum norðurhlíðum Tálknans, tveggja kílómetra leið, uns komið er í Hvannadal.

Hvannadalur er svolítil dalkvos sem skerst inn í hamravegg Tálknans og var þar stundum dálítið útræði. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín segir að þar telji menn verstöðu hafa verið í fyrndinni, enda sjáist þar einhver tóttabrot.[1] Þáttur Tálknafjarðar í Jarðabókinni er skráður árið 1710 og þá hafði lengi verið lítið um róðra úr Hvannadal. Um útræðið frá þessari veiðistöð sögðu Tálknfirðingar Árna Magnússyni þetta:

 

–  og hefur hér í manna minni einn maður um lítinn tíma á vor verið með skip sitt og gjört upp eina búðartótt, sem hann tjaldaði yfir með segli sínu en galt þó öngvan vertoll því hann var þar ekki að staðaldri. Lendingin er stórgrýtt og brimasöm og því getur hér ekki verstaða verið. Skipsuppsátrið er og mjög vont og hættulegt fyrir grjóthruni.[2]

 

Líklega hefur ekki verið heiglum hent að róa frá Hvannadal.

Ólafur Árnason, sýslumaður í Haga á Barðaströnd um og fyrir miðja 18. öld, gekk manna harðast fram gegn öllum þeim sem komust í kast við réttvísi stóradóms og annarra harðsnúinna lagabálka hins danska einveldis. Einn og einn brotamaður mun þó hafa sloppið undan refsivendi hans og komist í duggu á Tálknafirði. Í sýslulýsingu þeirri sem Ólafur ritaði árið 1746 segir að einmitt við Hvannadal sé góð lega fyrir stór hafskip og þar leiti Hollendingar stundum vars undan stormi og stórviðrum.[3] Kemur þetta vel heim við frásögnina af Hreggstaða-Jóni sem slapp úr járnum í Haga og beið tvær vikur á Suðureyri uns hann komst í duggu (sjá hér Frá Haga á Siglunes, Hreggstaðir þar).

Á 18. öld eða í byrjun 19. aldar varð Hvannadalur verstöð á nýjan leik. Hér voru fimm verbúðir og síðast róið héðan árið 1919.[4] Helsta verstöð Tálknfirðinga var þó löngum í Stapavíkum, norðan fjarðarins.

Innan við Hvannadal verður leiðin greiðfærari og brátt komið í Fáskrúðardali, tvær dalskvompur skammt utan við Suðureyri. Fjallshnúkurinn milli dalanna tveggja heitir Fálkahorn en innan við Fáskrúðardali er fjallið Miðaftanshyrna[5]. Rétt innan við það opnast Suðureyrardalur og héðan er aðeins liðlega einn kílómetri heim að bæjarstæðinu. Bærinn á Suðureyri stóð utanvert á dálítilli eyri sem gengur þarna norður í fjörðinn[6] Hér er nú allt í auðn og hefur svo verið hin síðustu ár. Upp frá Suðureyri gengur Suðureyrardalur til fjalls. Fyrir botni hans gengur fram fjallið Nónhorn en hvilftar tvær sín hvorum megin þess, heita Ytrihvilft og Innrihvilft.[7] Inn og upp af Suðureyrartúninu rís fjallið Stórhorn en víkin innan við Suðureyri heitir Suðureyrarbót og þótti þar áður góð höfn og besta lending.[8]

Suðureyri var talin með betri jörðum í Tálknafirði. Hér var í byrjun 18. aldar heimræði sumar og haust og fram á vetur en á vorvertíð reri Suðureyrarbóndi frá útveri.[9] Árið 1710 voru á Suðureyri átta nautgripir og 58 sauðkindur, auk 23ja lamba.[10] Útigangur var þá talinn í skárra lagi á landi en lakari í fjörunni, til eldiviðar svörður og tað.[11]

Árni Magnússon nefnir eina eyðihjáleigu á Suðureyri og hét Steinkví. Segir hann hjáleigu þessa hafa verið í heimatúninu og aðeins byggða í fáein ár fyrir bóluna miklu. Manntalið frá árinu 1703 staðfestir að þá var búið í Steinkví.[12] Einnig fékk Árni þær upplýsingar hjá heimamönnum í Tálknafirði árið 1710 að í fyrndinni muni hafa verið búið þar sem nú er stekkurinn á Suðureyri.[13]

Í aldanna rás hafa ýmsar sjókindur borist á land á Suðureyri. Einna furðulegust allra slíkra hefur líklega verið marmennill sá er árið 1733 kom hér upp úr maga á hákarli. Flestum sýndist hann vera undarlegt sambland manns og dýrs. Séra Vernharður Guðmundsson, sem þjónaði Stóra-Laugardalssókn frá 1744 til 1756, sendi Eggerti Ólafssyni, skáldi og náttúrufræðingi, skýrslu um fyrirbærið og birtir Eggert útdrátt úr skýrslunni í Ferðabók Eggerts og Bjarna. Þar segir:

 

Neðri hluta dýrsins vantaði með öllu en eftir var efri hlutinn niður að mjöðmum. … Stærðin var lík og 8-9 ára gamall drengur. Höfuðlagið var líkt og á manni. Hnakkabeinið var hvasst og útstætt. Hnakkagrófin var mjög djúp. Eyrun voru furðustór og náðu langt aftur. Tennurnar (hér er talað um þær almennt) voru langar og keilulaga og líktust framtönnum í steinbít. Tungan stutt og breið. Augnaliturinn líkastur og í þorski. Hárið á höfðinu var langt, strítt og svart á lit. Líktist það helst þursaskeggi og náði það niður á herðar. Ennið var hátt og bogadregið að ofanverðu. Húðin ofan augnabrúna var mjög hrukkótt. Brúnahár voru engin og hvergi hár sýnileg á skrokknum nema á hausnum eins og þegar er getið. Skinnið, bæði á hausnum og skrokknum, var ljósgulmórautt. Nasirnar voru tvær eins og í manni. Dældin undir miðnesinu mjög djúp. Hakan lítið eitt klofin, axlirnar háar en hálsinn harla stuttur. Handleggirnir svöruðu sér og á höndunum voru fimm fingur, sem þaktir voru húð og holdi en svo grannir að þeir líktust helst karlprjónum úr þorski. Brjóstið var líkt og á manni. Geirvörtur sáust varla. Hryggurinn var líkur og í manni en rifin mjög brjóskkennd. Þar sem húðin hafði nuddast burtu svo að sá í ketið var það svart og grófgert líkt og selaket. Dýrið lá vikutíma í fjörunni en var að lokum kastað í sjóinn aftur.[14]

 

Þannig var sagan um marmennil.

Sjálfur hallaðist Eggert helst að því að það sem kom upp úr hákarlsmaganum á Suðureyri hafi verið leifar af mannslíkama en héðan í frá mun tæplega fást úr slíku skorið.

Margir dugandi bændur hafa búið á Suðureyri í aldanna rás og verður brátt sagt nokkuð frá sumum þeirra. Fyrst skal þó getið þeirra tveggja presta sem fullvíst er að setið hafi á Suðureyri. Þegar fyrsta manntalið var tekið á Íslandi árið 1703 átti séra Guðmundur Vernharðsson heima hér. Hann var þá aðstoðarprestur gamla prófastsins í Selárdal, séra Páls Björnssonar, og þjónaði Stóra-Laugardalssókn.[15] Séra Guðmundur var föðurafi séra Jóns Þorlákssonar, skálds á Bægisá, og tók seinna við Selárdalsbrauði.

Nákvæmlega hálfri öld síðar, árið 1753, sat einn sona séra Guðmundar hér á Suðureyri.[16] Var það séra Vernharður sem síðar varð prestur í Otradal. Hann er talinn hafa vígst sem aðstoðarprestur séra Þorláks Guðmundssonar, bróður síns í Selárdal, árið 1744 og þjónaði Stóra-Laugardalssókn í tólf ár til 1756.[17]

Á síðari hluta 18. aldar bjó lengi á Suðureyri Jón Jónsson, sem andaðist hér 17. mars 1795, sagður þá 86 ára að aldri.[18] Jón þessi á Suðureyri var kallaður Jón bóndi[19] og bendir sú nafngift með fleiru til þess að hann hafi verið talinn í betri bænda röð. Kona Jóns bónda á Suðureyri hét Sigríður Jónsdóttir og sýnist hafa verið um það bil 20 árum yngri en hann.[20] Um æviferil Jóns bónda og konu hans er fátt vitað en telja má fullvíst að samskipti þeirra við Hollendinga hafi verið allnokkur. Börn áttu þau hjónin og koma þrjú þeirra hér við sögu: Ingibjörg, fædd um 1756, og Jónar tveir, sá eldri fæddur um 1760 og hinn yngri um 1768.

Ingibjörg Jónsdóttir á Suðureyri giftist ung manni er Guðmundur Bjarnason hét og eignuðust þau sex börn á árunum 1774 til 1784.[21] Í sóknarmannatali frá árinu 1786 má sjá að þau eru þá búsett á Suðureyri hjá foreldrum Ingibjargar og mörg barnanna þar hjá þeim, meðal annars sonurinn Ólafur. Guðmundur Bjarnason var þá 38 ára en Ingibjörg kona hans þrítug. Ári síðar, 1787, er Guðmundur horfinn úr sóknarmannatalinu frá Tálknafirði en Ingibjörg býr áfram hjá foreldrum sínum á Suðureyri næstu ár. Hún er þó aldrei talin ekkja, enda nafn Guðmundar Bjarnasonar ekki að finna á skrám yfir þá sem létust í Tálknafirði á þessum árum.[22] Hvað varð um Guðmund Bjarnason á Suðureyri?

Svar við þeirri spurningu finnum við hjá Jakobi Aþanasíussyni sem lengi bjó á Barðaströnd á síðari hluta 19. aldar og sagði Þorsteini skáldi Erlingssyni þetta:

 

Guðmundur hét maður, hann bjó á Lambeyri við Tálknafjörð. Kona hans hét Ingibjörg og var dóttir Jóns, sem kallaður var bóndi og bjó á Suðureyri og átti tvo Jóna að sonum. … Ingibjörg var stórlynd mjög og strauk því Guðmundur maður hennar til Hollands frá henni og börnunum og kom aldrei aftur til Íslands.[23]

 

Vel má vera að Guðmundur og Ingibjörg hafi búið um skeið á Lambeyri eins og Jakob segir en síðasta árið sem Guðmundur var í Tálknafirði áttu þau heima á Suðureyri og a.m.k. sum barna þeirra fæddust hér. Þetta skiptir þó ekki miklu.

Í Alþingisbókinni frá 1787 má reyndar sjá að Jakob fer ekki með fleipur eitt. Þar stendur:

 

Lýsist hérmeð manni er strauk í fyrra þann 24. júní úr Tálknafirði í Barðastrandarsýslu, meinast með hollenskum, að nafni Guðmundur Bjarnason, á meðalaldri, í hærra lagi og rauðleitur, nokkuð slefumæltur; hann eftirlét konu sína, Ingibjörgu Jónsdóttur, með 5 ungbörnum forstöðulausum. Aðvarast hvör maður, sem hann þekkir og tækifæri hefði að halda hann fastan, so hann komist til síns samastaðar. Sjálfur aðvarast hann bæði hérmeð og so í aviserunum í Kaupenhavn að mæta hjá konu sinni;. annars má hann vænta að verða álitinn á sínum tíma so sem sá, sem virkilega hefur strokið frá henni.[24]

 

Það er Bjarni Einarsson, sýslumaður Barðstrendinga, sem þannig lýsir eftir Tálknfirðingnum Guðmundi Bjarnasyni við Öxará 19. júlí 1787. En þótt þessum burthlaupna tengdasyni Jóns bónda á Suðureyri væri lýst og eftir honum kallað bæði á Alþingi og í dönskum blöðum þá bar það engan árangur. Guðmundur sat í náðum í Hollandi. Mjög athyglisvert er hins vegar hversu eindregið skjallegar heimildir staðfesta helstu þættina í Tálknfirðingasögu Jakobs Aþanasíussonar, – og hafa þó margir talið hann skálda liðugt þar.

Hér segir næst frá eldra Jóni, öðrum tveggja sona Jóns bónda á Suðureyri.

Sumarið 1786, þegar Guðmundur mágur hans strauk til Hollands, var eldri Jón farinn úr foreldrahúsum á Suðureyri. Árið eftir er hann skráður húsbóndi á Vindheimum, hjáleigu frá Kvígindisfelli á norðurströnd Tálknafjarðar. Hann er þá 27 ára, ókvæntur, en hjá honum dvelur Ólafur Guðmundsson, 9 ára tökubarn.[25] Drengur þessi fylgir Jóni áfram og má slá því föstu að þar sé kominn systursonur hans sem fæddur var 8. febrúar 1778,[26] sonur Ingibjargar og Guðmundar þess sem hlaupinn var til Hollands.

Litlu síðar kvæntist eldri Jón og gekk að eiga Helgu Gunnlaugsdóttur, sem var um það bil sjö árum eldri en hann, og bjuggu þau áfram á Vindheimum allt til ársins 1798.[27]

Hér verður nú að nefna til sögu eina dætra Ingibjargar á Suðureyri og Guðmundar í Hollandi, Halldóru að nafni. Halldóra var fædd á Suðureyri 16. janúar 1777.[28] Hún virðist hafa horfið úr Tálknafirði barn að aldri, á undan föður sínum, og því alist upp annars staðar að miklu eða öllu leyti.[29]

Árið 1798 er Halldóra 21 árs að aldri og er þá komin aftur í Tálknafjörð. Jakob Aþanasíusson segir frá á þessa leið:

 

Halldóra … varð þunguð af völdum Jóns Bóndasonar og voru þau of skyld þar sem hann var móðurbróðir hennar. Strauk hann því til Hollands áður en barnið fæddist og var í nokkur ár þar sem sjómaður en Hollendingar segja að hann drukknaði í Englandshafi. Halldóra fæddi stúlkubarn og er sú stúlka var fulltíða giftist hún Ásbirni nokkrum og átti með honum Ásbjörn, sem síðan varð hinn mikli sauðaþjófur á Þverá [sjá hér Um Kjálkafjörð, Hjarðarnes, …. – Þverá þar] og var Kristín þessi, dóttir Halldóru, mjög riðin við mál hans.[30]

 

Nú kann einhverjum að þykja saga Jakobs um barneign Halldóru og móðurbróður hennar tortryggileg. Allt er það þó sannleikanum samkvæmt, nema hvað Jakob eða skrásetjari hans ruglast dálítið á bræðrunum frá Suðureyri, sem báðir hétu Jón. Í skrána yfir fædda í Tálknafirði árið 1798 ritar séra Gísli Einarsson í Selárdal:

 

  1. ágúst skírð, fædd ejusdeus Kristín, óegta barn Halldóru Guðmundsdóttur á Lambeyri, ógiftrar. Lýsir hún barnsföður Jón Jónsson giftan mann, móðurbróður sinn, sem strokinn er með hollenskum úr Sauðlauksdalssókn frá konu sinni.[31]

 

Hér fer ekkert milli mála.

Enginn vafi er heldur á því að það er eldri Jón sem átt hefur barnið. Hann er enn búsettur á Vindheimum árið 1796 en finnst ekki í sóknarmannatölum úr Tálknafirði eftir 1797.[32] Helga Gunnlaugsdóttir, sem gift var eldra Jóni, býr áfram á Vindheimum árið 1801 (Kvígindisfell 5. býli), kölluð í manntali frá því ári húsmóðir í fyrsta hjónabandi en eiginmaðurinn hvergi finnanlegur þar.[33] Yngri Jón, sem síðar verður frá sagt, bjó hins vegar búi sínu á Suðureyri á þessum árum og átti hér konu og börn. Hjá honum verður engin breyting við barneign Halldóru árið 1798. Jón Espólín, hinn margfróði sýslumaður Skagfirðinga, segir reyndar að eiginkona Jóns Jónssonar á Vindheimum sem strauk með hollenskum hafi borið nafnið Guðrún og verið Tómasdóttir[34] en það kemur ekki heim við sóknarmannatöl úr Tálknafirði.

Eldri Jón frá Suðureyri var um það bil 37 ára gamall er hann féll með Halldóru frænku sinni á miðjum gormánuði 1787. Þá voru ellefu ár liðin frá því Guðmundur mágur hans og faðir hennar strauk til Hollands. Áður en 40 vikur voru liðnar frá barnsgetnaðinum brá hann á sama ráð og komst um borð, máske á Patreksfirði eða í Útvíkum, samanber orð séra Gísla hér ofar á blaðinu.

Nú er þess að minnast að barneign svo nákominna ættingja taldist vera sifjaspell og árið 1798 lá enn dauðarefsing við þvílíkum verknaði. Þarf því engan að undra þótt Jón á Vindheimum kæmi sér í duggu. Reyndar mun konungur yfirleitt hafa náðað slíka brotamenn er hér var komið sögu en trúlega engin vitneskja legið fyrir í Tálknafirði um að þar væri á vísan að róa. Þar um slóðir hafa eldri menn hins vegar munað vel aftöku Sigurðar ella og Guðrúnar Valdadóttur á Geirseyri fyrir barneignarbrot rösklega fjörutíu árum fyrr (sjá hér Geirseyri og Vatneyri). Þrátt fyrir það verður þess ekki vart að hin unga barnsmóðir, Halldóra Guðmundsdóttir, hafi gert tilraun til að komast úr landi, á fund föður síns í Hollandi, og var hún þó seld undir sömu sök og barnsfaðirinn. Jafnvel um sjötíu árum eftir barneign Halldóru með móðurbróður sínum var enn verið að dæma fólk til dauða fyrir barneignir með nánum ættingjum eða vegna tengda.[35]

Halldóra virðist samt hafa sloppið við slíkan dóm þó að hún sæti um kyrrt í Tálknafirði með barn sitt. Það átti hún sýslumanninum að þakka, óreiðupésanum Oddi Vídalín. Hér hefur áður verið sagt nokkuð frá Oddi (sjá hér Hagi) en hann var launsonur Halldórs Vídalín, klausturhaldara á Reynistað, og því hálfbróðir Reynistaðabræðra, sem úti urðu á Kili haustið 1780. Þann 1. febrúar 1801 vék amtmaður Oddi úr embætti sýslumanns Barðstrendinga vegna hneykslanlegs drykkjuskapar[36] og andaðist Oddur þremur árum síðar, hálffimmtugur að aldri, áður en endanlegur dómur hafði verið kveðinn upp í málum hans.

Næsti yfirmaður Odds Vídalín var Joackim Christian Vibe, amtmaður í vesturamtinu, sem verið hafði stórskotaliðsforingi í Noregi áður en hann settist í amtmannsembætti á Íslandi árið 1795 og bjó nú á Bessastöðum.[37]

Í bréfabók amtmanns má sjá að um mitt sumar árið 1799 hefur honum borist orðrómur um barnsfæðinguna á Lambeyri tæpu ári fyrr.[38] Hann hafði þá ekkert um málið heyrt frá Oddi sýslumanni. Amtmaður virðist nú hafa snúið sér með óformlegum hætti til Guðmundar Scheving frá Haga á Barðaströnd, sem þá dvaldist syðra, og beðið hann að kanna hvað hæft væri í þessum orðasveimi. Guðmundur var þá 22ja ára gamall og hafði árið áður komið til landsins frá háskólanámi í Kaupmannahöfn, án þess þó að hafa lokið prófi.

Þann 8. ágúst 1799 ritar Scheving amtmanni bréf og er þá staddur í Viðey hjá Ólafi Stefánssyni stiftamtmanni. Í bréfi þessu tilkynnir Scheving amtmanni að samkvæmt öruggum fréttum úr Barðastrandarsýslu geti hann nú staðfest allt sem þeim hafi áður farið á milli varðandi framgöngu Odds sýslumanns í barneignarmáli Halldóru Guðmundsdóttur og Jóns frænda hennar.[39]

Að þessum upplýsingum fengnum snýr Vibe amtmaður sér bréflega til Geirs Vídalín biskups, kynnir honum málið og biður hann rannsaka hvort viðkomandi sóknarprestur (séra Gísli Einarsson í Selárdal) hafi örugglega tilkynnt Oddi sýslumanni um brot þeirra Jóns og Halldóru svo sem honum bar.[40] Þann 5. september haustið 1799 ritar Geir biskup séra Jóni Ormssyni, prófasti í Sauðlauksdal, bréf og fer þess á leit að hann kanni hvort séra Gísli í Selárdal sé sekur um vanrækslu í máli Halldóru eða hvort sökin liggi hjá sýslumanni.[41]

Þessum tilmælur svarar séra Jón Ormsson 25. október þá um haustið og er það fyrsta bréfið úr Barðastrandarsýslu sem yfirvöldin syðra fá um barneignarmál þetta. Var þá liðið á fimmtánda mánuð frá barnsfæðingunni á Lambeyri. Í bréfinu segir séra Jón Ormsson meðal annars:

 

Greind Halldóra ól barn að Lambeyri í Laugardalssókn þann 6. ágúst 1798 og lýsti föður að því móðurbróður sinn, Jón Jónsson, sem var vinnumaður hjá mér en áður barnið fæddist burtstrokinn með hollenskum, nefnilega í majo fyrra ár. Þann 4. október næsteftirfylgjandi fann Halldóra sýslumann persónulega og gaf honum sjálf til kynna sitt brot, samt betalaði tvær spesíur uppí sína barneignarsekt, svo sem hans Quittering sýnir hvar af hér meðfylgir copia.[42]

 

Þarna kemur m.a. fram að Jón á Vindheimum hefur vikið frá heimili sínu í Tálknafirði áður en hann strauk úr landi og ráðið sig í vinnumennsku hjá prófasti.

Um þátt prestsins, séra Gísla, tekur prófastur fram í nýnefndu bréfi að honum hafi verið kunnugt um viðræður Halldóru og sýslumanns og þess vegna litið svo á að hann þyrfti ekki að tilkynna formlega um brotið fyrr en á næsta manntalsþingi ásamt öðrum saurlífisbarneignum, – allra helst þar sá lýsti barnsfaðir hafi verið svo fjarlægur að engin vissa hafi kunnað um það að fást, hvort hann vildi brotinu viðgöngu veita eður ekki.[43]

Í dómabók Barðastrandarsýslu frá þessum árum verður ekki séð að Oddur sýslumaður Vídalín hafi hreyft við sifjaspellsmálinu úr Tálknafirði. Sem áður sagði var Oddi vikið frá embætti þann 1. febrúar 1801 og 3. júní sama ár hóf Davíð Scheving, settur sýslumaður, réttarhald í Haga á Barðaströnd í málum hins burtrekna forvera síns. Í dómabókinni eru kæruefnin rakin og þar kemur m.a. fram að Oddur hefur gjörsamlega vanrækt að halda opinbera rannsókn vegna barneignar Halldóru Guðmundsdóttur með móðurbróður sínum. Þar er líka staðfest að þess í stað hafi hann afgreitt málið með þeim einfalda hætti að láta barnsmóðurina greiða sér tvær hollenskar spesíur og var kvittunin, sem hún hafði fengið fyrir þeirri greiðslu, nú lögð fram í réttinum.[44] Ugglaust hefur oft komið sér vel fyrir Tálknfirðinga að eiga hollenskar spesíur í handraða og ekki verður annað séð en þarna hafi Halldóra keypt sig undan dauðadómi með þessari dýrmætu mynt en máske hefur hún líka kunnað önnur tök á Oddi sýslumanni.

Þegar réttarhöld hófust í málum Odds sumarið 1801 voru nær þrjú ár liðin frá umræddri barneign Halldóru. Hún var þá komin í löglegt hjónaband með sér óskyldum manni og hafði alið honum annað barn. Svona vel hafði kvittunin frá Oddi dugað henni en samkvæmt því embættisbréfi taldist Halldóra laus mála. Enda þótt afglöp Odds sýslumanns í máli Halldóru væru augljós, þá hefur öðrum yfirvöldum trúlega ekki litist á að taka mál hennar upp á nýjan leik eins og komið var. Að minnsta kosti verður ekki séð að sifjaspellsmál hennar hafi nokkru sinni komið til dóms.[45]

Halldóra Guðmundsdóttir bjó í Tálknafirði langa ævi og er hér af henni mikil saga. Strax í ársbyrjun árið 1800 er hún komin með dóttur sína Kristínu, þá á öðru ári, að Sellátrum. Þar giftist hún 22. júní þá um sumarið Jóni Þórðarsyni, bóndasyni á bænum.[46] Þremur dögum síðar fæddist fyrsta barn þeirra hjóna.[47] Svaramaður Halldóru við brúðkaupið var hennar móðurbróðir, mönsjör Jón Jónsson.[48] Þetta er yngri Jón, þá bóndi á Suðureyri, og líklega hefur hann gert brúðina úr garði.

Halldóra og eiginmaður hennar fluttust skömmu eftir brúðkaupið að Kvígindisfelli þar sem þau bjuggu til æviloka, áttu börn og buru en þóttu stundum nokkuð harðdræg.[49] Frá Halldóru verður nánar sagt á blöðum þessum þegar staldrað verður við á Kvígindisfelli (sjá hér Vindheimar og Kvígindisfell). Því einu skal bætt við nú sem Ingivaldur Nikulásson, fræðimaður á Bíldudal, fæddur 1877, segir um fríðleik hennar:

 

Öllum sögnum ber saman um það að Halldóra hafi verið fríð kona. Árið 1920 spurði ég mann nokkurn, er þá var hátt á níræðisaldri og vel mundi Halldóru [hún dó 16.10.1858 – innsk. K.Ó.], hvernig hún hefði verið í hátt til þess að vita hvort lýsingu hans bæri saman við aðrar lýsingar, er ég hafði heyrt. Hann svaraði ekki öðru en þessu: „Hún var falleg, skínandi falleg!” [50]

 

Fyrst Halldóra á Felli var nú svona bráðfalleg á efri árum má nærri geta hvernig hún leit út í æskublóma sínum rétt um tvítugt. Sá glaði yndisþokki varð frænda hennar, Jóni bóndasyni, að falli. Halldóra varð hans örlagavaldur. Hennar vegna neyddist hann til að rífa sig upp með rótum, yfirgefa heimahagana fyrir fullt og allt og hverfa á vit ókunnra forlaga í því flata og blauta Hollandi. Hann kveður hrjóstrin og þúfnakargann á Vindheimum þar sem lambagras og geldingahnappur prýða dal og hól en í fjarlægum stað heilsa lúnum ferðamanni ókunnar jurtir, kornakrar og liljugrös.

Flest bendir til þess að þótt Halldóra sæti eftir í Tálknafirði þá hafi eldri Jón samt ekki farið einsamall til Hollands árið 1798. Hér var áður minnst á Ólaf Guðmundsson, bróður Halldóru, sem frá níu ára aldri ólst upp á Vindheimum hjá eldra Jóni, frænda sínum. Árið 1796 er Ólafur enn á Vindheimum hjá Jóni, þá átján ára gamall.[51] Sóknarmannatöl vantar frá árunum 1797 til 1799 en árið 1800, tveimur árum eftir barnsfæðinguna, eru þeir Jón og Ólafur báðir horfnir frá Vindheimum og úr Tálknafirði. Á aðalmanntalinu frá 1. febrúar 1801 finnst hvorugur þeirra innan allrar Vestur-Barðastrandarsýslu.[52] Um Ólaf þennan Guðmundsson ritar Jakob Aþanasíusson svo:

 

Að nokkrum árum liðnum [frá brottför föður hans til Hollands 1786, – innsk. K.Ó.] fór Ólafur til Hollands. Lærði hann þar sjómannafræði, kom síðan mörg ár sem skipstjóri til Tálknafjarðar og lagði jafnan skipi sínu fram undan bæ móður sinnar.[53]

 

Ætla verður að Jakob sé réttorður um þetta úr því skjalleg gögn sanna að hann greinir rétt frá Hollandsferðum bæði föður Ólafs og fóstra. Í Hollandi hefur Ólafur vænst þess að hitta föður sinn og með tilliti til þess sem hér var áður rakið um brotthvarf piltsins af íbúaskrá Vestur-Barðastrandarsýslu, þá verður að teljast mjög líklegt að þeir frændur, Ólafur og eldri Jón, hafi fylgst að til Hollands árið 1798.

Þess skal getið að Ingibjörg Jónsdóttir frá Suðureyri, móðir Ólafs og Halldóru, bjó á Lambeyri í Tálknafirði árið 1816.[54] Þessi dóttir Jóns bónda hafði þá misst til Hollands, fyrst eiginmanninn og seinna son sinn og bróður. Mun slíkt tæplega hafa verið algengt, enda þótt samskipti Tálknfirðinga við Hollendinga væru ærin.

Hér hefur um sinn verið sagt nokkuð frá eldra Jóni bóndasyni frá Suðureyri og börnum Ingibjargar systur hans, þeim Halldóru og Ólafi. Er þá mál að víkja nokkuð að þriðja barni Jóns bónda, það er að segja yngra Jóni, en frá honum og hans börnum er líka margt til frásagnar.

Slóð yngra Jóns varð önnur en bróður hans og nafna. Árið 1790 tók hann við búi á Suðureyri af föður sínum, Jóni bónda. Hann var þá 22ja ára að aldri og nýlega kvæntur Þórunni Þórðardóttur sem var árinu eldri. Þau bjuggu síðan lengi á Suðureyri og var hann bæði hreppstjóri og sáttanefndarmaður.[55] Á Suðureyri uxu börn yngra Jóns úr grasi og hafa án vafa hugsað sitt um frændur sína, sem strokið höfðu til Hollands og alla ættarsöguna. Úr þessum barnahópi komust a.m.k. þrjú til fullorðinsára og nöfn þeirra enn mörgum kunn. Elst var Ragnhildur sem árið 1813 giftist séra Einari Gíslasyni, þá aðstoðarpresti en síðar sóknarpresti í Selárdal. Áttu þau um skeið heima í Stóra-Laugardal í Tálknafirði meðan séra Einar var aðstoðarprestur föður síns, séra Gísla Einarssonar í Selárdal. Tvo syni átti yngri Jón á Suðureyri sem upp komust. Báðir lærðu þeir skipstjórafræði og urðu kunnir skútuskipstjórar. Sá eldri var Þorleifur Jónsson, síðar kaupmaður á Bíldudal, en hinn yngri, Jón Jónsson, kvæntist Margréti, systur Jóns forseta Sigurðssonar, og bjuggu þau á Steinanesi í Arnarfirði.

Þorleifur Jónsson frá Suðureyri mun fyrstur allra Vestfirðinga hafa tekið skipstjórapróf erlendis.[56] Hann var um sextán ára aldur þegar Ólafur Thorlacius á Bíldudal hóf skútuútgarð sína árið 1806, fyrstur Vestfirðinga. Á báðum Bíldudalsskútunum voru danskir yfirmenn fyrstu árin nema hvað Bjarni Þórðarson á Siglunesi var með aðra þeirra skamma hríð (sjá hér Frá Haga á Siglunes). Guðmundur Scheving í Flatey segir í ritgerð sinni frá 1832 að Þorleifur hafi árið 1809 tekið við skipstjórn á annarri Bíldudalsskútunni, slúpskipinu Sankti Jóhannesi. Scheving lýsir þessu nánar og segir: Hann var þá um tvítugsaldur og sá einasti af Vestfirðingum, að því sem mér er kunnugt, sem hafði tekið stýrimanns Examen.[57]

Ekki verður nú fullyrt hvort tengslin við Holland hafi ýtt undir utanför Þorleifs til náms í siglingafræðum á svo ungum aldri en vel er hugsanlegt að svo hafi verið. Jakob Aþanasíusson segir Þorleif hafa lært sjómannafræði í Hlésey[58] en svo heitir í Heimskringlu danska eyjan Læsø, sem liggur norðantil í Kattegat, tíu til tólf sjómílur undan strönd Norður-Jótlands.

Þorleifur Jónsson frá Suðureyri var skipherra á Sankti Jóhannesi til 1815 en tók þá við Mettu, hinni skútunni, sem keypt var til Bíldudals árið 1806.[59] Ólafur Thorlacius, kaupmaður á Bíldudal, andaðist árið 1815 og sá Bogi Benediktsson, síðar fræðimaður á Staðarfelli, um stjórn verslunar og útgerðar á Bíldudal næstu árin.[60] Árið 1819 bættist ný skúta í Bíldudalsflotann, Metha Christina, og segir Guðmundur Scheving að hún hafi verið smíðuð á Fjóni að undirlagi Þorleifs.[61] Líklegt er að Þorleifur hafi gerst skipstjóri á þessu nýja skipi, enda þótt Scheving nefni það ekki beinum orðum.

Á skipstjóraárum Þorleifs tóku vestfirskir jaktamenn sér yfirleitt hvíld frá fiskidrættinum á sunnudögum frá kl. 7:30 að morgni og til nóns. Á sumum skipum var þá lesinn lestur og sungið ef söngmenn voru um borð.[62] Einn maður stóð þó jafnan vakt á dekki meðan lesið var. Sunnudag einn kallar Þorleifur háseta sína í káetu til lestrar og les yfir þeim úr Vídalínspostillu. Þegar hann er kominn út í miðjan lesturinn tekur hann eftir því að hásetar fara að gerast órólegir. Hann lýkur samt lestrinum og ganga menn síðan á dekk. Sér Þorleifur þá að vaktmaðurinn, sem var góður fiskimaður, hefur staðið við drátt undir lestrinum og aflað vel. Víkur Þorleifur sér þá að honum og segir: Verði mér það til peninga sem auðið verður en aldrei skal ég græða á fiski þeim, sem veiddur er um helgidagalestra. Kastaði Þorleifur síðan fyrir borð öllum þeim fiski, sem dreginn hafði verið undir lestrinum.[63]

Árið 1827 var Þorleifur frá Suðureyri kominn hátt á fertugsaldur og hafði verið skútuskipstjóri í nær tvo áratugi við góðan orðstír. Á því ári fór hann í land og kvæntist Guðrúnu Oddsdóttur Hjaltalín frá Rauðará við Reykjavík, ekkju Ólafs Thorlacius, kaupmanns og útgerðarmanns á Bíldudal.[64] Hún var nær 30 árum eldri en brúðguminn. Ólafur hafði verið einhver auðugasti maður landsins og talið að dánarbú hans hafi verið hið stærsta, sem þekkst hafði á Íslandi um langan aldur.[65] Hér var því ekki í kot vísað. Þorleifur tók nú við Bíldudalseignum úr hendi Boga Benediktssonar sem þá fór að búa á Staðarfelli. Næstu þrjá áratugina ríkti Þorleifur sem kaupmaður og útgerðarmaður á Bíldudal. Stóð veldi hans þar traustum fótum, enda fékk hann brátt viðurnefnið ríki [66] og nefndi sig Johnsen. Nálægt 1855 seldi Þorleifur Bíldudalsverslun og settist aftur að á föðurleifð sinni, Suðureyri í Tálknafirði. Þangað fylgdi honum síðari kona hans, Helga Sigmundsdóttir, og börn þeirra.[67]

Þegar Þorleifur settist í kaupmannssætið á Bíldudal árið 1827 gerði hann Jón Jónsson, bróður sinn frá Suðureyri, að skipstjóra á skútunni Metha Christina.[68] Jón var þá vart tvítugur að aldri. Guðmundur Scheving kallar Jón skipherra í ritgerð sinni frá 1832 og svo er hann einnig titlaður á manntali frá 1835, þá til heimilis hjá Þorleifi bróður sínum á Bíldudal.[69] Sem áður sagði kvæntist Jón skipherra frá Suðureyri síðar Margréti prestsdóttur á Rafnseyri og þar er hann til heimilis árið 1845,[70] þegar Ísfirðingar kusu Jón Sigurðsson, mág hans, í fyrsta sinn á þing. Síðar fóru þau hjónin, Jón og Margrét, að búa á Steinanesi.

Hver sem tyllir sér á gamalt tóttarbrot á Suðureyri í Tálknafirði og svipast hér um fær ærið margt að hugsa um það fólk sem hér bjó og héðan kom, – ættbálk Jóns bónda. Nái  það sem hér er ritað að hjálpa einhverjum við að greina á milli allra Jónanna Jónssona sem hér áttu heima þá er vel.

Um aldamótin 1900 bjó á Suðureyri Jón Th. Johnsen, sonur Þorleifs kaupmanns á Bíldudal og síðari konu hans, Helgu Sigmundsdóttur.[71] Hann var 3. ættliður frá Jóni bónda. Heimildir sýna að Jón Th. Johnsen hefur verið hugmaður og framkvæmdasamur eins og margir þeir frændur. Trúlega líka allvel efnum búinn. Hann var fæddur um 1838[72] og því tæplega fimmtugur þegar Hermann Jónasson, síðar búnaðarskólastjóri, ferðaðist um Barðastrandarsýslu sumarið 1887. Hermann segir að þá sé enn lítið um jarðabætur í Tálknafirði en þó hafi mikið verið ræktað á Kvígindisfelli og talsvert á Suðureyri. Hér hafi J. Th. Johnsen stækkað túnið um 8-10 dagsláttur með mikilli fyrirhöfn sökum grjóts, er þar var.[73]

Eins og flestir aðrir Tálknfirðingar stundaði Jón Th. Johnsen bæði land og sjó, enda var enn gott að róa frá Suðureyri á hans dögum og ágæt lending.[74] Fjórtán árum eftir komu Hermanns Jónassonar í Tálknafjörð kom hingað annar vísindamaður, Bjarni Sæmundsson fiskifræðingur. Johnsen á Suðureyri og tveir menn aðrir fræddu hann þá um sjósókn og sjávarútveg Tálknfirðinga.[75] Bjarni fiskifræðingur ritar skýrslu um ferð sína um Vestfirði og segir þar að um 1870 hafi Johnsen á Suðureyri, fyrstur hérlendra manna, veitt smokk og þá á öngul er Frakkar gáfu honum.[76] Þeir langfeðgar á Suðureyri höfðu lengi haft góð tengsl við erlenda fiskimenn. Fáum árum síðar smíðaði svo Einar Gíslason í Hringsdal smokköngul, fyrstur Íslendinga, eftir mynd sem Jón Th. Johnsen gaf honum.[77]

Í uppvexti hafði Jón Th. Johnsen tengst skútuútgerð föður síns á Bíldudal. Þó að hann flyttist frá Bíldudal á ættaróðalið, Suðureyri í Tálknafirði, vildi hann halda uppi merki föður síns og hóf því skútuútgerð frá Suðureyri. Vorið 1888 réð Hallbjörn Oddsson, er síðar bjó lengi á Bakka í Tálknafirði, sig á skútuna Ingólf sem Johnsen gerði þá út frá Suðureyri.[78]

Í ævisögu sinni lýsir Hallbjörn rækilega vinnunni við að koma Ingólfi á flot í byrjun einmánaðar en yfir veturinn hafði skútan staðið í hrófi rétt innan og neðan við bæinn á Lambeyri.[79] Hann segir einnig frá vistinni um borð. Skipstjóri var Bjarni Bjarnason á Laugabóli í Mosdal í Arnarfirði en stýrimaður náfrændi útgerðarmannsins, Þorleifur í Hokinsdal,[80] sonur Jóns skipherra og Margrétar á Steinanesi. Hallbjörn ritar svo:

 

Einu sinni um vorið vorum við búnir að standa lengi í óðum fiski með nýja síld, sem J. Th. Johnsen hafði fiskað sjálfur, því hann hafði síldarnót og dró fyrir hana þegar hún sást í Suðureyrarbótinni eða annars staðar á firðinum. Síldin var þrotin hjá okkur og talsvert af fiski komið í skipið svo við ætluðum inn á Tálknafjörð til að losa úr því. Þegar við komum að Tálknanum mættum við bát frá J. Th. Johnsen með ferska síld og tókum við henni. Lögðum við síðan út aftur og stóðum í óðum fiski í þrjá daga svefnlaust, í viðbót við það sem við vorum búnir að standa á fyrri síldinni. Þá sigldi Bjarni inn að Suðureyri með matsveininn en lét okkur alla fara að sofa. … Þegar kom að Suðureyri vorum við allir porraðir út til að losa skipið. Við vorum þá svo ruglaðir eftir svefninn að við gerðum oft síðar gaman að ýmissi vitleysu, sem við höfðum sagt í óráðinu.[81]

 

Þannig var skútulífið og ekki lítil umsvif á Suðureyri á þessum árum, enda aflaðist vel á Ingólfi. Síðar tók Jón, sem kallaður var yngri, sonur J. Th. Johnsens, þar við skipstjórn.[82] En þótt mikið gengi á í kringum skútuútgerðina á Suðureyri, þá stóð hér meira til.

Árið 1883 höfðu Norðmenn hafið hvalveiðar við Ísland og voru fyrstu hvalstöðvar þeirra hér á landi reistar í Álftafirði við Ísafjarðardjúp og á Norðfirði eystra.[83] Þá hafði Norðmaðurinn Svend Foyn fyrir skömmu, fyrstur manna, hafið hvalveiðar á gufuknúnum stálbátum og með sprengjuskutli.[84] Á næstu árum voru síðan reistar allmargar hvalstöðvar, bæði á Vestfjörðum og Austfjörðum, sem nær allar voru í eigu Norðmanna. Stóð veiðiskapur þessi með blóma í nær þrjá áratugi.

Árið 1893 leigði Haugesunds Hvalfangerselskab land hér á Suðureyri undir hvalstöð og var stöðin reist sama ár innantil á eyrinni en þar er mjög aðdjúpt. Það var áðurnefndur Jón Th.Johnsen, sem leigði hvalveiðifélaginu landið og var leigan 200,- krónur á ári.[85] Leigusamningurinn er dagsettur 15. mars 1893 og þar kemur fram að land það sem stöðin fær leigt er 800 álna (502 metrar) strandlengja og breidd leigulóðarinnar hefur verið frá 70 og upp í 190 álnir. Að auk fengu Norðmennirnir 2304 ferálnir leigðar undir íbúðarhús.[86] Í leigusamningnum var sérstaklega tekið fram að eigandi jarðarinnar mætti ekki stunda sölu áfengra drykkja heima á Suðureyri né leyfa öðrum slíka starfsemi nema með samþykki forráðamanna hvalstöðvarinnar.[87] Leynir sér ekki að hinum norsku hvalveiðiforstjórum hefur staðið ærinn stuggur af brennivínsbölinu, – og máske talið sjálfa sig í hættu!

Það er Johan E. Stixrud sem undirritar samninginn fyrir hönd leigutakans, Stixrud & Co., en Haugesunds Hvalfangerselskab mun hafa yfirtekið samninginn áður en rekstur hófst.

Haugesunds Hvalfangerselskab var hlutafélag með um 220.000,- króna hlutafé og rak það stöðina á Suðureyri til ársins 1911 en þá lagðist starfsemin niður.[88] Félag þetta var yfirleitt nefnt Talkneselskabet. Forgöngumaður um stofnun þess var Peder Amlie en skömmu eftir að starfsemin hófst tók Erich Lindöe við forstjórastarfinu. Fyrsti framkvæmdastjóri félagsins á Íslandi eða veiðistjóri eins og það var kallað var Johan E. Stixrud frá Túnsbergi í Noregi.[89]

Stöðin sem flutt var til Suðureyrar hafði verið keypt af Rússum og áður staðið norður við Barentshaf í nágrenni Múrmansk.[90] Úr hvalnum var framleitt lýsi og mjöl og hvalskíðin voru líka útflutningsvara. Í sumum hvalstöðvum Norðmanna á Íslandi var þá engin mjölverksmiðja en á Suðureyri hófst mjölvinnsla strax á fyrsta ári.[91]

Fyrsta starfsár hvalstöðvarinnar á Suðureyri voru veiðar héðan stundaðar á tveimur bátum. Það sumar veiddust 42 hvalir og úr þeim fengust 2177 lýsistunnur og 768 mjölsekkir. Söluverðmæti framleiðslunnar var þá 82.000,- krónur.[92] Eitt besta veiðiárið mun hafa verið 1897 en þá veiddust 110 hvalir og úr þeim fengust 4700 lýsistunnur.[93] Aldamótaárið 1900 fjölgaði hvalveiðibátunum sem héðan voru gerðir út í þrjá og flestir urðu þeir fjórir.[94] Árleg lýsisframleiðsla var yfirleitt á bilinu 2000 til 4000 tunnur og á árunum 1900 til 1902 nam samanlagt söluverðmæti framleiðslunnar nær einni milljón króna.[95]

Hagnaður norsku eigendanna af rekstri hvalstöðvarinnar á Suðureyri varð verulegur flest árin og árlegar arðgreiðslur til hluthafa að jafnaði nær 16% af hlutafé á þeim átta árum sem upplýsingar liggja fyrir um og komust í 25% árið 1903.[96] Árið 1904 varð mikill bruni í hvalstöðinni á Suðureyri og skaðinn metinn á 100 þúsund krónur.[97] Dró þá nokkuð úr veiðunum. Árið eftir fór lýsisframleiðslan hins vegar öðru sinni yfir 4000 tunnur en þá var lýsisverðið í lágmarki.[98] Síðustu árin sem stöðin var rekin voru góð rekstrarár og árið 1909 metveiði, 135 hvalir.[99]

Árið 1911 var Talkneselskabet sameinað öðru veiðifélagi sem frá 1902 hafði stundað hvalveiðar frá Hesteyrarfirði.[100] Þar með lauk hvalveiðum Norðmanna frá Tálknafirði.

Bygging og starfræksla hvalstöðvarinnar á Suðureyri hefur ekki sætt litlum tíðindum í Tálknafirði árið 1893. Í stöðinni unnu að jafnaði 37, þar af tuttugu í kjötsuðuhúsi, ellefu í spikbræðsluhúsi og sex í gúanóverksmiðjunni.[101] Margir Norðmenn unnu í stöðinni en Íslendingar fengu þar líka vinnu. Við hvalinn unnu nær eingöngu karlmenn en þó voru stúlkur fengnar í að hreinsa hvalskíðin og bjuggu þær í sérstöku húsi á Suðureyri sem nefnt var Stúlknahús.[102]

Á árum norsku hvalstöðvarinnar hér fjölgaði íbúum Tálknafjarðar að mun. Árið 1890 voru þeir 272 en árið 1910 var íbúatalan komin upp í 341[103] og nam fjölgunin 25%. Í sjálfri hvalstöðinni voru þó aðeins örfáir menn búsettir árið um kring, einn Norðmaður og einn Íslendingur árið 1901 og átta Norðmenn árið 1910.[104] Tekjur hreppsins af hvalstöðinni sýnast reyndar hafa verið ótrúlega litlar miðað við framleiðsluverðmæti en stöðin greiddi aðeins 900,- kr. á ári til sveitarfélagsins á árunum 1893 til 1906 en svolítið hærri upphæð síðustu árin[105] eða frá 0,3 og upp í um 1% af söluverðmæti framleiðslunnar. Hallbjörn Oddsson sem bjó í Tálknafirði þegar stöðin var starfrækt á Suðureyri ritar:

 

Stöðin byrjaði með tvo báta til veiða og eitt afarstórt briggskip, er mig minnir að héti Friðþjófur, til flutninga og hafði hjálparvél. Eitt dæmi um nirfilskap stöðvarinnar var útsvarsgreiðsla hennar til Tálknafjarðarhrepps. Allt frá því að hún tók til starfa og þar til Guðmundur Jónsson á Sveinseyri varð oddviti eða í mörg ár borgaði hún til hreppsins aðeins 900,- krónur á ári með ummælum og ónotum en eftir því sem mig minnir klagaði hún samt aldrei útsvarið, er hún kallaði Nerósskatt.[106]

 

Hallbjörn segir reyndar líka að báðir hafi þeir Peder Amlie og Johan E. Stixrud verið álitnir misindismenn, sýpnir [smámunasamir]og harðdrægir.[107]

Svolitla mynd af Stixrud, verksmiðjustjóra á Suðureyri, er að finna á öðrum stað. Sigurður Briem, síðar póstmálastjóri, var settur sýslumaður í Barðastrandarsýslu sumarið 1893, þegar hvalstöðin hóf starfsemi sína, en á árunum 1894 til 1895 var hann settur sýslumaður Ísfirðinga. Eitt sinn á þessum árum var Sigurður samskipa Stixrud að vestan til Reykjavíkur og segir nokkuð frá því ferðalagi í Minningum sínum. Þar stendur m.a. þetta:

 

Stixrud hafði víst einhverntíma ætlað sér að verða skáld og var slyngur rímari en andann hefur víst vantað í skáldskapinn. Hann lenti því í hvalveiðunum. Mér var sagt að hann væri ágæt hvalaskytta og hann fór oft út með bátum sínum í þeim erindum þótt hann hefði ráðið þangað sérstakan skotmann.[108]

 

Sigurður heldur áfram frásögn sinni af ferðalaginu til Reykjavíkur:

 

Faldi ég mig niður í lest milli ullarpoka og hugði að þar mundi friðsamt en ekki leið á löngu fyrr en Stixrud var búinn að hafa upp á mér og vildi fá mig með sér í glauminn. Ég var fyrst tregur. Þá fann hann upp á því að það væri afmælisdagurinn sinn í dag og yrði ég því að drekka glas með sér og kunningjunum, Ásgeiri o.fl. [þ.e. Ásgeiri G. Ásgeirssyni, eiganda Ásgeirsverslunar á Ísafirði – innsk. K.Ó.]. Þá stóðst ég ekki mátið og fylgdist með honum. Ég komst að því síðar að þó Stixrud væri að bjóða okkur í afmælisveisluna sína þá átti hann ekkert afmæli þann dag.[109]

 

Líklega hefur Stixrud kunnað bærilega að lempa þá til sem hann gat haft gagn af og ekki látið sig muna um að leika á yfirvöldin þegar hentaði.

Einhverjum vegabótum munu Norðmennirnir hafa staðið fyrir í Tálknafirði. Gerðu þeir vegarsneiðing yfir Lambeyrarháls og byggðu trébrýr á þrjár smáár, Hólsá, Stóra-Laugardalsá og Sellátraá.[110] Tálknfirðingar bentu líka á starfrækslu stöðvarinnar til rökstuðnings kröfu sinni um að strandferðaksip kæmu við á firðinum en erindi þess efnis sendu þeir Alþingi árið 1895.[111]

Kaup þeirra Íslendinga sem unnu í hvalstöðinni á Suðureyri mun fyrstu árin hafa verið 2,- krónur á dag fyrir 12 tíma vinnu eða tæplega 17 aurar á tímann. Hallbjörn Oddsson segir að í Tálknafirði hafi daglaun karlmanna verið 1,50 krónur fyrir 12 tíma vinnu um 1890 en komist í 2,- krónur er stöðin hóf starfrækslu.[112]

Hallbjörn greinir frá einu og öðru varðandi hvalstöðina á Suðureyri og segir m.a.:

 

Strax er stöðin var komin í gang fengu margir þorpsbúar [hér hlýtur hann að eiga við Tálknfirðinga almennt því þorp var ekkert í firðinum – innsk. K.Ó.] atvinnu þar við hvalskurð og fleira. … Oft fór ég á stöðina er ástæður leyfðu og fékk þar ætíð atvinnu við eitt og annað, dag og dag, en fastréð mig þar aldrei því ástæður leyfðu það ekki. – Hval fékk almenningur þar oftast eftir vild, en dýrastur mun hann hafa verið þar af öllum stöðvum landsins og spik voru þeir tregir til að láta. …

Ekki var Stixrud forstjóri alúðlegur við menn er þeir komu til hvalkaupa, einkum urðu Víknamenn fyrir barðinu á honum. Hæddi hann þá og hermdi eftir þeim er þeir voru að biðja hann að selja sér hvalinn.[113]

 

Í sjálfsævisögu Hallbjörns er líka vikið að áhrifum hvalstöðvarinnar á fiskigengd í Tálknafirði og kemst hann þá svo að orði:

 

Þegar ég sat giftingarhóf Þorkels Magnússonar, svila míns, 1887 í Botni, var afar mikill afli í Tálknafirði alla leið inn á ósa, svo að hver bóndi réri sinni eigin bátkænu með húskarla sína fram undan bæ sínum og stórfiskaði, auðvitað á smokk, sem hafði gengið í fjörðinn. … En eftir að stöðin tók til starfa lagðist fiskurinn svo niður við hvalgrútinn í firðinum að hann fékkst alls ekki á lóðir hve góðri beitu, sem beitt var.[114]

 

Hallbjörn bjó á Bakka, norðan fjarðarins, og hefur haft nokkra skemmtun af að sjá hvalbátana stíma inn og út fjörðinn. Hann ritar:

 

Kapp var oft mikið milli hvalveiðibátanna og var altítt að þeir legðu hvölunum á Bakkabótinni, oft mörgum í einu á meðan þeir voru að sækja sér nýja viðbót. Flest man ég eftir að þar lægju 12 hvalir í einu fram undan Bakkabæjunum. Var þá gaman að horfa á bátana er þeir komu inn með marga hvali og bættu svo við sig því er þeir áttu í festum á víkinni. Man ég mest eftir 13 hvölum í lest á eftir einum bát en hryggilegt er að verða að horfa á erlendar þjóðir taka þannig bitann frá munninum á fátækum börnum þjóðarinnar. … Oft versluðu þeir við okkur bændur. Fengu hjá okkur ull, mjólk og nýtt kjöt eða kindur og seldu aftur sporða og bægsli með mjög góðu verði, einkum þegar þeir fóru út aftur til að sækja sér viðbót og höfðum við oft góðan hag af þeim viðskiptum.[115]

 

Sem áður sagði hættu Norðmenn starfrækslu hvalstöðvarinnar á Suðureyri árið 1911 og fjórum árum síðar lauk hvalveiðum Norðmanna frá landstöðvum á Íslandi, enda höfðu veiðarnar þá verið bannaðar með lögum.[116] Árið 1914 keypti Pétur A. Ólafsson, kaupmaður og útgerðarmaður á Patreksfirði, stöðina. Eitthvað af byggingum mun hann fljótlega hafa látið rífa og notað timbrið í hús sem hann byggði í Reykjavík. Er það Valhöll, númer 39 við Suðurgötu, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði lengi flokksmiðstöð.[117] Timbur þetta mun hafa þótt sérdeilis gott, enda var það upphaflega komið úr hvalstöð Rússakeisara við Múrmansk (sjá hér bls. 14).

Pétur A. Ólafsson stóð fyrir hlutafélagi sem nefndist Kópur og á þess vegum hófust selveiðar frá Suðureyri árið 1916. Þeim veiðum var þó hætt strax á næsta ári er skip félagsins sökk.[118] Á þriðja áratugnum var Pétur með fiskverkun á Suðureyri og árið 1935 hóf hlutafélagið Kópur á nýjan leik hvalveiðar héðan eftir 24 ára hlé.[119] Félagið hafði þá fengið undanþágu frá hvalveiðibanninu. Að því sinni var stöðin rekin í fimm ár uns heimsstyrjöldin síðari batt endi á hvalveiðarnar. Hér verður fátt sagt um rekstur hvalstöðvarinnar  á þessu síðara skeiði. Þess skal þó getið að alls veiddust þá 469 hvalir.[120] Til veiðanna voru leigðir norskir hvalbátar og voru áhafnir þeirra norskar nema íslenskir kyndarar.[121] Í landi unnu þá  nær eingöngu Íslendingar og Ebenezer Ebenezersson úr Önundarfirði var  veiðistjóri, reyndur maður frá Ellefsen á Sólbakka[122] (sjá hér Sólbakki).

Frá 1939 hefur enginn hvalur verið dreginn á land á Suðureyri og mannvirkin tóku brátt að grotna niður. Máttug hönd eyðingarinnar lét ekki á sér standa. Beinamjölsverksmiðjan var þó starfrækt haustið 1941 en síðan rifin og flutt til Keflavíkur við Faxaflóa.[123] Íbúðarbragganum var slefað til Patreksfjarðar og hann reistur þar á lóðinni Aðalstræti 74. Ýmis önnur mannvirki voru flutt frá Suðureyri á fjarlæga staði, heil eða að hluta,[124] en önnur féllu á heimaslóð fyrir tímans tönn.

Nú minna rústir einar á kvörnina sem hér malaði norskum gróðamönnum gull á aldahvörfum.

Aldrei myndaðist hér þorp kringum verksmiðjureksturinn, enda hvalstöðin jafnan aðeins starfrækt hluta úr ári. Hið gamla Suðureyrarfólk stóð hins vegar af sér öll veður og bjó hér búi sínu fram á síðari hluta 20. aldar. Árið 1982 áttu tvær manneskjur hér enn lögheimili en nú er jörðin í eyði. Senn kveðjum við líka en ásækin mynd Jóns bónda, barna hans og annarra  niðja, fylgir okkur á leið er við hröðum för okkar inn með firðinum.

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VI, 339.

[2] Sama heimild.

[3] Sýslulýsingar 1744-1749, 144 (gefnar út 1957).

[4] Lúðvík Kristjánsson 1982, 54. Sbr. Páll Hallbjörnsson 1969, 13.

[5] Örnefnaskrá Suðureyrar.

[6] Ingivaldur Nikulásson 1942, 111 (Barðstrendingabók).

[7] Örnefnaskrá Suðureyrar.

[8] Sóknalýsingar Vestfjarða I, 242. Örnefnaskrá Suðureyrar..

[9] Jarðab. Á. og P. VI, 339.

[10] Sama heimild, 338.

[11] Sama heimild.

[12] Manntal 1703.

[13] Jarðab. Á. og P. VI, 339.

[14] Eggert Ólafsson 1975, I, 315-316.

[15] Manntal 1703.  Íslenskar æviskrár II, 186.

[16] Jarða- og bændatal 1752-1767 II, 299 og 302.

[17] Íslenskar æviskrár V, 41.

[18] Manntal 1762.  Prestsþj.b. og sóknarm.töl Stóra-Laugardalssóknar.

[19] Jakob Aþanasíusson / Þorsteinn Erlingsson 1933, 118 (Sagnir Jakobs gamla).

[20] Manntöl 1762 og 1801. Sóknarm.töl Stóra-Laugardalssóknar.

[21] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Stóra-Laugardalssóknar.

[22] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Stóra-Laugardalssóknar..

[23] Jakob Aþanasíusson / Þorsteinn Erlingsson 1933, 118 (Sagnir Jakobs gamla).

[24] Alþingisbækur Íslands XVI, 352.

[25] Sóknarm.töl Stóra-Laugardalssóknar.

[26] Prestsþj.b. Stóra-Laugardalssóknar.

[27] Sóknarm.töl Stóra-Laugardalssóknar.

[28] Prestsþj.b. Stóra-Laugardalssóknar.  Manntal 1816, 669.

[29] Sóknarm.töl Stóra-Laugardalssóknar 1786-1795.

[30] Jakob Aþanasíusson / Þorsteinn Erlingsson 1933, 118-119 (Sagnir Jakobs gamla).

[31] Prestsþj.bækur Stóra-Laugardalssóknar.

[32] Sóknarm.töl Stóra-Laugardalssóknar 1786-1805.  Manntal 1801.

[33] Manntal 1801.

[34] ÍB 11.4to Ættatölubækur Jóns Espólín, dálkur 2032.

[35] Landsyfirréttar- og hæstaréttardómar í íslenskum málum 1802-1873, IX, 285, 394.

[36] Íslenskar æviskrár IV, 23.

[37] Magnús Ketilsson 1948, 120-121 (Stiftamtmenn. og amtm. á Íslandi).

[38] Skjalasafn vesturamts VA III 4, bls. 480, nr. 411.

[39] Sama skjalasafn, VA III 35, bréf nr. 827.

[40] Sama skjalasafn, VA III 4, bréf nr. 487 (bls. 523), J.Chr.Vibe 27. ág. 1799 til Geirs Vídalín.

[41] Biskupsskjalasafn, Bps. A, IV, 32, bréf nr. 251 árið 1799 (bls. 255).

[42] Biskupsskj.safn. Bps. A IV, nr 60 b. Bréf séra Jóns Ormssonar 25.10.1799 til Geirs Vídalín biskups.

[43] Sama bréf séra Jóns Ormssonar 25.10.1799 til Geirs Vídalín biskups.

[44] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Barð. IV. 3, bls. 198-209.

[45] Landsyfirréttar- og hæstaréttardómar í íslenskum málum 1802-1873.

[46] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Stóra-Laugardalssóknar.

[47] Manntal 1816, 669.

[48] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Stóra-Laugardalssóknar.

[49] Ingivaldur Nikulásson 1982, 47-65 (Þjóðsögur og þættir II).

[50] Sama heimild, 64.

[51] Sóknarm.töl Stóra-Laugardalssóknar.

[52] Sama heimild 1800.  Manntal 1801.

[53] Jakob Aþanasíusson / Þorsteinn Erlingsson 1933, 118 (Sagnir Jakobs gamla).

[54] Manntal 1816.

[55] Manntöl 1801 og 1816.

[56] Guðmundur Scheving 1832, 37 (Ármann á Alþingi IV, tímarit).

[57] Guðmundur Scheving 1832, 37 (Ármann á Alþingi IV, tímarit).

[58] Jakob Aþanasíusson / Þorsteinn Erlingsson 1933, 69.

[59] Guðmundur Scheving 1832, 37.

[60] Íslenskar æviskrár I, 262.

[61] Guðmundur Scheving 1832, 37.

[62] Ingivaldur Nikulásson 1942, 225 (Barðstrendingabók).

[63] Sama heimild, 225-226.

[64] Guðmundur Scheving 1832, 87-88.  Gils Guðmundsson 1977, I, 86-87.

[65] Gils Guðmundsson 1977, I, 86.

[66] Íslenskar æviskrár IV, 87.

[67] Manntöl 1855 og 1860.

[68] Guðmundur Scheving 1832, 88 (Ármann á Alþingi IV, tímarit).

[69] Manntal 1835.

[70] Manntal 1845.

[71] Jakob Aþanasíusson / Þorsteinn Erlingsson 1933, 71 (Sagnir Jakobs gamla).

[72] Manntal 1845, vesturamt, bls. 251.

[73] Hermann Jónasson 1888, 161 (Búnaðarritið).

[74] Bjarni Sæmundsson 1903, 108 (Andvari).

[75] Bjarni Sæmundsson 1903, 108 (Andvari).

[76] Sama heimild.

[77] Sama heimild.

[78] Hallbjörn Oddsson 1960, 129 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[79] Sama heimild, 131-133.

[80] Sama heimild, 129 og 134.

[81] Sama heimild, 136-137.

[82] Sama heimild, 134.

[83] Joh. N. Tønnesen 1981, 20-24 (Ársrit Sögufél. Ísfirðinga).  Trausti Einarsson 1987, 51.

[84] Trausti Einarsson 1987, 44-46.

[85] Sama heimild, 113 og 152.  Joh. N. Tønnesen 1981, 43 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[86] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Barð. XIII. 7, mál nr. 200.

[87] Sama heimild.

[88] Joh. N. Tønnesen 1981, 43.  Trausti Einarsson 1987, 54.

[89] Joh. N. Tønnesen 1981, 43.

[90] Sama heimild.

[91] Trausti Einarsson 1987, 64.

[92] Joh. N. Tønnesen 1981, 43-44.

[93] Joh. N. Tønnesen 1981, 43-44 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[94] Sama heimild

[95] Joh. N. Tønnesen 1981, 43-44.

[96] Trausti Einarsson 1987, 58.

[97] Sama heimild, 54.  Joh. N. Tønnesen 1981, 44.

[98] Joh. N. Tønnesen 1981, 44.

[99] Sama heimild, 45.

[100] Sama heimild, 57.  Trausti Einarsson 1987, 54.

[101] Trausti Einarsson 1987, 82.

[102] Sama heimild, 83.

[103] Sama heimild, 75.

[104] Manntöl 1901 og 1910.

[105] Trausti Einarsson 1987, 149.

[106] Hallbjörn Oddsson 1962, 144-145 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[107] Sama heimild.

[108] Sigurður Briem 1944, 145.

[109] Sigurður Briem 1944, 145.

[110] Trausti Einarsson 1987, 91.

[111] Sama heimild, 73.

[112] Hallbjörn Oddsson 1961, 176 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[113] Sami 1962, 145-146 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[114] Hallbjörn Oddsson 1962, 146-147 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[115] Hallbjörn Oddsson 1962, 147 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[116] Trausti Einarsson 1987, 133.

[117] Sama heimild, 89.  Sigurður Briem 1944, 145. Sbr. Símaskrár 1957 og1964.

[118] Trausti Einarsson 1987, 143.

[119] Sama heimild.

[120] Trausti Einarsson 1987, 143.

[121] Sama heimild.

[122] Sama heimild, 143-144.

[123] Trausti Einarsson 1987, 143-144.

[124] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »