Svalvogar

Frá fornu fari virðist ysti hluti hins mikla hálendisskaga sem skilur að Arnarfjörð og Dýrafjörð hafa borið nafnið Sléttanes. Til marks um þetta má nefna að í Þórðar sögu kakala, sem talin er hafa verið rituð fyrir lok 13. aldar, er talað um Selvoga á Sléttanesi[1] en Selvogar eru gamalt nafn á hinu forna býli sem nú hefur lengi verið nefnt Svalvogar. Í vitnisburðarbréfi frá því um 1510 er nafnið Sléttanes líka greinilega notað í þessari sömu merkingu.[2] Til að fyrirbyggja misskilning sýnist hins vegar nauðsynlegt að taka strax fram að Sléttanes heitir einnig gróið og sléttlent nes, þar sem fyrrum stóð um skeið samnefndur bær, einum til tveimur kílómetrum fyrir utan hreppamörk Auðkúluhrepps og Þingeyrarhrepps. Augljóst virðist að nes þetta við sjóinn og býlið sem þar stóð hafi í öndverðu hlotið nafnið Sléttanes og þar er nafnið svo náttúrlegt sem verða má með tilliti til staðhátta. Síðar, en þó snemma, hefur Sléttanesheitið færst yfir á ysta hluta fjallgarðsins mikla sem skilur að firðina tvo og á strandlengjuna sem tengir saman fjarðarmynnin. Við þessu er ekkert að segja því þróun tungumálsins er ekki alltaf rökrétt. Hitt skal þó tekið fram að lítið er um sléttlendi á annesjum þessum nema þar sem Sléttanesbærinn stóð.

Hér hefur áður verið gerð grein fyrir hinum fornu hreppamörkum við Litlabarð milli Hvamms og Tóar á Svalvogahlíð (sjá hér Auðkúluhreppur, inngangskafli) og skal sú þula ekki endurtekin. Þar á sjávarbökkunum hefjum við gönguna og stefnum að Svalvogum sem á síðari öldum voru fyrsti bær í Þingeyrarhreppi ef farið var úr Arnarfirði fyrir nes. Þangað er rösklega klukkutíma gangur frá hreppamörkum. Við röltum út sjávarbakkana með opið haf á vinstri hönd en til hægri Tóarfjallið sem nær alveg út að Svalvogum.

Við upphaf þessarar ferðar erum við stödd á Hvammsgilsbökkum en svo heita sjávarbakkarnir innan og utan við gömlu hreppamörkin.[3] Rétt utan við mörkin er gil í fjallinu og heitir Hvammsgil.[4] Milli gils þessa, sem nær upp á fjallsbrún, og bergstrengsins sem skildi á milli hreppanna er dálítið hvolf í hamravegg fjallsins og heitir Hvammur en slétt flöt í honum miðjum heitir Leikvöllur.[5] Mikill gróður er í Hvamminum, enda verpir þar grúi fugla. Þangað er erfitt að komast og aðeins hægt með því eina móti að fara upp Hvammsgil sem er illfært og síðan inn á við eftir tæpum og fláum berghillum.[6] Sauðfé sem komst í Hvamminn fór sjaldan þaðan af sjálfsdáðum en til að sækja það dugðu aðeins hinir færustu menn.[7]

Geitatóttir heitir allstórt svæði niðri á bökkunum og nær frá Hvammsgili út að Hlaðsnesi.[8] Nafnið bendir til þess að hér hafi á fyrri tíð verið reistir einhverjir kofar eða skýli fyrir geitur sem þá hafa lifað og leikið sér hér á hlíðinni. Engar marktækar heimildir eru þó finnanlegar um geitabúskap í Svalvogum. Í Lokinhömrum var börnum hins vegar sögð sú þjóðsaga á fyrstu árum tuttugustu aldar að forðum tíð hefði bóndi nokkur í Lokinhömrum átt 50 geitur og verið með þær í húsi úti á Geitatóttum.[9] Til skýringar var látið fylgja að landamerki Lokinhamra og Svalvoga hefðu þá verið talsvert utar en síðar varð eða nánar til tekið við Stórabala fyrir utan Hlaðsnes.[10] Sérstakur geitasmali átti þá að hafa verið hafður árið um kring úti á Geitatóttum en viðskiptum Lokinhamrabónda við einn slíkan, sem Ásbjörn hét og kominn var norðan af Ströndum, lauk svo að bóndinn varð að afhenda honum allt land frá Litlabarði að Stórabala.[11] Svo var frá sagt að Ásbjörn geitasmali hefði síðan gerst bóndi í Svalvogum og Geitatóttir þá orðið hluti af Svalvogalandi.[12] Í þjóðsögu þessari er tekið fram að Ásbjörn smali hafi byggt sér allstóran kofa á Geitatóttum til að búa í og líka smiðju en þar hafi áður verið hlaða og geitakofi.[13]

Utan við Geitatóttir hækka sjávarbakkarnir lítið eitt og ganga örlítið lengra fram. Þar heitir Hlaðsnes. Innan til á Hlaðsnesinu er stór og nær hringlaga tótt og önnur langtum minni  þar rétt hjá. Ætla má að stærri tóttin sé rústir af fjárbyrgi sem að líkindum hefur verið ætlað fyrir sauði, – nema menn vilji frekar tengja það við geitur.

Innan og utan við Hlaðsnesið eru svolitlar víkur við ströndina, nefndar Innri- og Ytri-Hlaðsnesvík.[14] Þjóðsögur voru sagðar um byggð í Hlaðsnesvík og átti kot samnefnt víkinni að hafa verið í byggð öðru hverju á fyrri öldum en landið nytjað frá Lokinhömrum þess á milli.[15] Falleg er sagan af Gunnhildi bóndadóttur úr Hlaðsnesvík sem bjargaðist ein á barnsaldri er skriða féll á bæinn.[16] Síðan ólst hún upp í Svalvogum en þar rændu henni hollenskir duggarar er hún var orðin gjafvaxta og léku hana grátt.[17] Bjargvætt sinn Brand hinn rauða í Svalvogum, sem unni henni af öllu hjarta, eignaðist hún að lokum fyrir mann og bar gæfu til að forða honum frá því að verða mannsbani er kostur gafst á að hefna gamalla harma á skipreika stýrimanni.[18] – Gaman hefði verið að geta sýnt fram á að allt væri þetta satt og rétt og þar með að foreldrar Gunnhildar hefðu búið hér í Hlaðsnesvík. Í reynd er slíkt hins vegar ekki mögulegt en í heimild frá árinu 1805 er sagt að hjáleigukot hafi í fyrndinni staðið í Hlaðsnesvík.[19]

Hlaðsnesvíkur er fyrst getið í heimildum svo kunnugt sé í byrjun 18. aldar og þá var hér svolítil verstöð. Gera má ráð fyrir að verstöðin hafi verið i Innri-Hlaðsnesvíkinni því varla er lendandi í hinni. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá árinu 1710 segir að úr Hlaðsnesvík, skammt frá eyðibýlinu Sléttanesi, hafi sjóróðrar hafist árið 1692 og þaðan hafi æ síðan róið tvö eða þrjú skip á vorin.[20] Tvær verbúðir voru í vík þessari árið 1710 sem skipverjar byggja á sinn kost að viðum en brúka landið til ristu og stungu.[21] Vertollur var hálfur ríkisdalur sléttur fyrir hvert skip.[22] Líklega hefur útræði ekki haldist mjög lengi á þessum stað. Ólafur Olavius nefnir ekki Hlaðsnesvík er hann telur upp helstu verstöðvar á þessum slóðum árið 1775[23] og yngri heimildir vitna ekki svo kunnugt sé um útræði héðan.

Hér við Hlaðsnesið varð hörmulegt slys sumarið 1890 er fimm menn drukknuðu uppi við landsteina. Undir lok ágústmánaðar á því ári sendi Gísli Oddson, bóndi í Lokinhömrum, þrjá vinnumenn sína á báti norður að Höfðaodda í Dýrafirði en þar var þá rekin hvalveiðistöð. Erindi mannanna var að kaupa eitthvað af hvalmeti þar í stöðinni.[24] Frá Höfðaodda fór báturinn undir myrkur laugardaginn 30. ágúst, kom við í Haukadal og hélt þaðan klukkan tíu um kvöldið.[25] Formaður í ferð þessari var Jón Halldórsson, kvæntur vinnumaður í Lokinhömrum, en á heimleiðinni voru fimm menn á bátnum og drukknuðu allir.

Guðmundur G. Hagalín rithöfundur, sem fæddur var árið 1898 og ólst upp í Lokinhömrum, segir að veður hafi verið gott er báturinn fórst og talið hafi verið að þeir sem á honum voru hafi róið upp á stein nokkurn undir Svalvogahlíð, mjög skammt frá landi.[26] – Ottó Þorvaldsson, sem fluttist að Svalvogum árið 1905 og átti þar heima í hálfa öld, segir að líkin hafi rekið upp í Hlaðsnesvíkina og almennt verið álitið að báturinn hafi lent á steini sem þarna sé fram af Hlaðsnesinu en hann færi í kaf um hálffallinn sjó.[27]

Formaður í þessari feigðarför var Jón Halldórsson, kvæntur vinnumaður í Lokinhömrum, 33ja ára, en hinir fjórir sem líka fórust voru: Jónas Jónsson, vinnumaður í Lokinhömrum, 23ja ára, Jón Jónsson, vinnumaður í Lokinhömrum, 59 ára, Jón Helgason á Hrafnabjörgum, 50 ára, og Ari Guðmundsson, bakari frá Ísafirði.[28] Sá síðast nefndi hafði verið í vinnu í hvalstöðinni á Höfðaodda í Dýrafirði en tók sér far með bátnum til að heimsækja systur sína í Lokinhömrum.[29]

Frá Hlaðsnesinu hröðum við för að Sléttanesi og er það skammur spölur. Rétt innan við Sléttanes er allbreið vík er Seljavík heitir.[30] Upp af víkinni og alveg út undir Sléttanesi eru gamlar tóttir sem heimafólk í Svalvogum á tuttugustu  öld kallaði Sel.[31] Um aldamótin 1900 voru þar beitarhús.[32] Rétt ofan við seltúnið er alllangur hjalli sem heitir Seljahjalli.[33] Í sóknarlýsingunni frá því um 1840 segir séra Bjarni Gíslason á Söndum að selið frá Svalvogum hafi verið þar á hjallanum og búsmali Svalvogabænda verið hafður í seli allt til ársins 1830.[34] Tóttirnar benda þó til þess að selið hafi verið undir hjallanum en ekki á honum.

Utan við seltúnið er stórt gil sem Seljagil heitir en utan við gilið er Sléttanes.[35] Á Sléttanesi er mikið graslendi og þar hafa Svalvogamenn getað drýgt heyfeng sinn alla tíð frá því hin forna bújörð sem hér var á miðöldum féll úr byggð. Innarlega á nesinu mótar fyrir tóttum og þar er talið að miðaldabærinn hafi staðið.[36] Er ræktunarmál komust á dagskrá létu kunnugir sér detta í hug að hér mætti rækta 20 kúa tún[37] en aldrei varð þó neitt úr slíkum framkvæmdum.

Í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar, sem rituð var um miðja 13. öld, er þess getið að einn þingmanna Hrafns hafi búið á Sléttanesi.[38] Bóndi sá er ekki nefndur með nafni en hann vann sér það helst til frægðar að stela hval frá Þorvaldi Snorrasyni Vatnsfirðingi, er Þorvaldur gisti í Lokinhömrum,[39] og átti þannig nokkurn þátt í að koma af stað illdeilum þeirra Þorvalds og Hrafns. Enn var búið á Sléttanesi árið 1446 því þá fylgdu jörðinni tvö kúgildi eins og sjá má í skrá frá því ári yfir eignir Guðmundar ríka Arasonar sem lagðar voru undir konung.[40] Í Jarðabókinni frá 1710 segir að ekki hafi verið búið á Sléttanesi í næstu tvö hundruð ár eða lengur [41] og samkvæmt því ætti jörðin að hafa fallið í eyði um 1500 eða jafnvel fyrr. Sléttanes var þó enn talið sjálfstæð tólf hundraða bújörð árið 1557 er Guðrún Björnsdóttir seldi syni sínum, Eggerti Hannessyni lögmanni, Lokinhamra ásamt Dalsdal, Sléttanesi og Svalvogum[42] en samt má vera að jörðin hafi þá verið komin í eyði. Á fyrri tíð töldust jarðirnar Sléttanes og Svalvogar vera 12 hundruð hvor að dýrleika[43] en nokkru eftir að Sléttanes féll úr byggð var jörðin sameinuð Svalvogum sem þaðan í frá töldust 24 hundruð að dýrleika. Ummerki hins forna búskapar á Sléttanesi eru nú vart sjáanleg en hér er víðsýnt og fagurt að líta til hafs og hauðurs.

Víkin utan við Sléttanes heitir Stórfiskavík. Þar er talið að verið hafi landamerki Sléttaness og Svalvoga til forna. Margt rekur á fjörur hér við ysta haf en á Svalvogahlíð átti Rafnseyrarkirkja öldum saman allan hvalreka, frá Tóargili yst í landi Lokinhamra og að Svaðshól[44] sem er rétt norðan við landamerki Svalvoga og Hafnar. Minniháttar vogrek frá Sléttanesi og Svalvogum var hins vegar alloft auglýst til kaups á Alþingi við Öxará og ekki allt merkilegt sem þar var boðið. Sem dæmi má nefna að árið 1725 auglýsti Markús Bergsson sýslumaður á Alþingi eftir kaupanda að vogreki frá Svalvogum og var það: Biti brotinn úr útlensku skipi, að lengd 5 álnir, greipar digur, af greni og – vildi enginn meira fyrir gefa en fimm fiska.[45]

Frá Sléttanesi er fljótfarið heim í hlað í Svalvogum, enda aðeins tveir kílómetrar þarna á milli og liggur leiðin til norðurs í átt til Dýrafjarðar. Rétt sunnan við túnið í Svalvogum er dálítið nes við sjóinn og endar fremst í lágum klettarana sem í munni heimamanna hét Hamarinn [46] en stundum var nefndur Svalvogahamar á öðrum bæjum. Skammt sunnan við hann strandaði breski togarinn Langanes veturinn 1935-1936 og fórust þar allir sem á honum voru.[47]

Í víkinni sunnan við Svalvogahamar er skjólgott nema í vestanátt og þar var lengi aðallending Svalvogamanna.[48] Þangað er aðeins tíu mínútna gangur heiman frá bænum. Önnur lending er heima við túnið þar sem heita Siggatóttir.[49]

Í Jarðabókinni frá 1710 segir að mikil verstöð hafi risið í Svalvogum um 1670 og haldist þar að því sinni fram til 1693.[50] Á þessu skeiði reru 8 til 15 bátar frá Svalvogum á hverju vori en verbúðir voru aldrei fleiri en fimm því sjófólkið lá hér lengst við tjöld en ekki búðir, segir í Jarðabókinni.[51] Í sömu heimild er þess getið að vertollur í Svalvogum hafi á þessum árum yfirleitt verið einn fjórðungur fiska, þ.e. 5 fiskar, af hverjum vermanni (einn áttundi úr ærverði) og verstaðan sögð hafa verið við heimalendingu.[52] Fljótt á litið bendir slíkt orðalag til þess að 17. aldar verstöðin hafi verið heima við tún í Svalvogum en ekki við Hamarinn sem er um það bil 500 metrum sunnar. Hugsanlegt er þó að út í frá hafi verið talað um Hamarslendinguna sem heimalendingu í Svalvogum á árunum kringum 1700 þegar útræði þar var niður fallið en ný verstöð sprottin upp í Svalvogalandi þar sem heitir Hlaðsnesvík (sjá hér bls. 3), miklu fjær bæjarhúsum.

Um og upp úr aldamótunum 1900 var aðallending heimamanna í Svalvogum við Hamarinn og þaðan reru þeir til fiskjar bæði vor og haust.[53] Var þá talað um að lenda á Hamri.[54] Við bæjarvörina hjá Siggatóttum var hins vegar ekki talið lendandi nema í sumarblíðu.[55] Sú staðreynd sýnir svo varla er um að villast að 17. aldar verstöðin í Svalvogum hlýtur að hafa verið við Hamarinn. Á fyrstu árum 19. aldar stundaði séra Sigurður Jónsson á Rafnseyri sjóróðra frá Svalvogahamri á vorvertíð og þar er hann sagður hafa verið í veri er Jón sonur hans fæddist, sá er síðar gerðist þjóðskörungur og flestir nefndu forseta (sjá hér Rafnseyri). Ætla má að fleiri en kapelláninn á Rafnseyri hafi verið með báta sína við Svalvogahamar á vorin á þeim árum og um 1840 var þar ein þriggja verstöðva á ströndinni fyrir Sléttanesi (sjá hér Þingeyrarhreppur, inngangskafli).

Hálfum fjórða áratug síðar, árið 1876, virðist útræði enn hafa verið stundað frá Svalvogahamri. Bjarni á Núpi hleypti hingað á Skaga vestan af Hamri, ritar Sighvatur Borgfirðingur í dagbók sína 29. júní 1876 en hann var þá við róðra á Fjallaskaga við norðanverðan Dýrafjörð.[56] Sá Hamar sem þarna er nefndur getur vart verið nokkur annar en Svalvogahamar og meðan sjór var sóttur á árabátum var jafnan talað um að þessi eða hinn formaður hefði orðið að hleypa ef hann náði ekki landi í sinni eigin verstöð og varð að leita annað til landtöku. Orð Sighvats benda því eindregið til þess að Bjarni Kristjánsson, bóndi á Núpi, hafi róið frá Svalvogahamri vorið 1876, enda þótt flestir formenn í Mýrahreppi væru þá með báta sína á Fjallaskaga.

Við Svalvogahamar má enn greina rústir af a.m.k. níu verbúðum en þar mun hafa verið lítið um útræði eftir 1880 (sjá hér Þingeyrarhreppur,  inngangskafli). Heimamenn í Svalvogum héldu hins vegar áfram að sækja sjó frá Hamrinum enn um sinn.

Eins og áður var getið hafa Svalvogar talist vera 24 hundraða jörð síðustu fjórar aldirnar eða allt frá því hin forna bújörð Sléttanes var sameinuð þeim. Af túninu í Svalvogum sem var lítið, grýtt og þýft fengust þó aðeins tvö kýrfóður[57] en graslendið á Sléttanesi og góð aðstaða til sjósóknar hafa hækkað matið á jörðinni. Í Jarðabókinni frá 1710 er vetrarbeit fyrir sauðfé líka sögð vera góð á landi og nokkur í fjörunni.[58] Þar er einnig getið um hvannatekju í björgum í Svalvogalandi sem þó brúkist lítt því mannhætta sé til að sækja.[59] Eldsneytisöflun var erfið í Svalvogum því þar var sáralítið um mó. Í Jarðabókinni segir að elt sé taði undan kvikfé með þönglum og þara sem rekur af sjó.[60] Sama lag var á í þessum efnum 200 árum síðar, á fyrstu árum tuttugustu aldar, þó aðfenginn mór væri þá líka notaður með.[61] – Svo þurfti að bera upp úr þarabúlkunum við sjóinn þang og þöngla, þurrka það eldsneyti á klöppum og klettum og bera síðan í hús ef leit út fyrir vætu. Þannig lýsir Ottó Þorvaldsson eldsneytisöflun Svalvogafólks á uppvaxtarárum sínum hér, 1905-1920, og tekur fram að þang og þönglar hafi þá verið aðaleldsneytið, sótt í fjöruna á hverju vori.[62] Að sögn Ottós var sama lag haft á í þessum efnum hjá nágrönnum Svalvogafólks í Lokinhömrum og Höfn.

Eldra nafn á Svalvogum er Selvogar. Þeirra er fyrst getið í Þórðar sögu kakala sem rituð var á síðari hluta 13. aldar. Veturinn 1242 til 1243 sat Þórður á Söndum í Dýrafirði en færði sig um vorið yfir fjörðinn að Mýrum.[63] Þórður átti von á að höfðingi Skagfirðinga, Kolbeinn ungi, kynni þá og þegar að stefna fjölmennu skipaliði til Vestfjarða í því skyni að gera út um deilumál þeirra. Er skammt var liðið á sumar barst Þórði sú frétt að vart hefði orðið við skip frá Kolbeini norður á Hornströndum en frá viðbrögðum kakala við þeirri frétt segir svo í sögunni:

 

Þórður gerði þá sína menn á alla vega frá sér til liðsafnaðar en setti njósn fyrir þá Kolbeinsmenn að hann yrði var um ferðir þeirra í þann tíma er þeir kæmu. Stefndi hann öllum skipum og mönnum saman á Sléttanesi í Selvágum. Komu þá saman þrír tugir skipa og þrjú alskipuð mönnum. Heimti þá Þórður saman hina bestu menn og leitaði ráðs við þá.[64]

 

Fagur hefur þessi floti verið við Svalvogahamar og óvíst hvort fleira fólk hefur nokkru sinni verið saman komið í Svalvogum en þennan sumardag árið 1243. Talað er um 33 skip en er þeir Þórður og Kolbeinn börðust í Flóabardaga ári síðar var Þórður með 12 skip og á þeim 210 menn.[65] Í flota Þórðar við Svalvoga hafa ugglaust verið bæði smærri og stærri skip og þar á meðal flest þau er einu ári síðar héldu norður á Húnaflóa til fundar við Kolbein. Við sem nú stöndum á Svalvogahamri skulum beina sjónum okkar að fjórum skipum í flota Þórðar: Staðarferjunni úr Holti sem þeir Kolbeinn grön og Hákon galinn stýrðu, Ógnarbrandinum, sem var eitt skipa Djúpmanna, en honum stýrðu Nikulás Oddsson og Sigmundur Gunnarsson í Súðavík ásamt þriðja manni, Trékyllinum, sem Bjarni Brandsson og Páll gríss Kálfsson stýrðu, en þar á voru margir Dýrfirðingar og ekki má gleyma Rauðsíðunni, sem Bárður Þorkelsson á Söndum í Dýrafirði stýrði, en hún var mest af öllum skipum Þórðar.[66] Nákvæmar lýsingar á einstökum skipum Vestfirðinga í flota Þórðar kakala hafa ekki varðveist en hér á Hamrinum sjáum við þau fyrir okkur samt.

Á hinum fjölmenna Svalvogafundi Þórðar og liðsmanna hans var rætt hvort skipaliði Vestfirðinga skyldi þá þegar stefnt norður fyrir Horn en niðurstaðan varð sú að fara að sinni aðrar leiðir.[67] Engu skal hér um það spáð hvernig farið hefði ef Þórður hefði haldið strax norður með flota sinn sumarið 1243 en líklegt er að sjálfur hafi hann stundum spurt sig þeirrar spurningar síðar.

Til er gamalt vitnisburðarbréf um landamerki Svalvoga sem sagt er vera frá 29. júní árið 1411. Bréf þetta hafa útgefendur Fornbréfasafns talið hugsanlegt að væri falsbréf og kalla það varhugavert.[68] Hvað sem því líður eru landamerki þau sem bréfið nefnir í aðalatriðum  hin sömu og rétt voru talin á síðari öldum.[69] Í hinu forna bréfi segir svo um landamerki Svalvoga:

 

Að vestanverðu eru merkin í barðið litla milli Geitatótta og Tóargils en milli Svalvoga og Hafnar skiptist land við Kögurinn eftir gömlum garði er þar liggur og sjónhending í Hafnarskarð.[70]

 

Í nefndu bréfi sem sagt er frá árinu 1411 er tekið fram að þessi landamerki hafi frá ómunatíð verið talin rétt.

Á fyrri öldum voru Svalvogar yfirleitt í eigu stóreignamanna en leiguliðar bjuggu á jörðinni. Úr hópi eigenda jarðarinnar má nefna: Á 15. öld Guðmund ríka Arason á Reykhólum.[71] Á 16. öld Björn Guðnason í Ögri,[72] Ögmund Pálsson, biskup í Skálholti,[73] og Eggert Hannesson, lögmann í Bæ á Rauðasandi.[74]

Um 1650 voru Svalvogar í eigu Magnúsar Gizurarsonar, lögréttumanns og bartskera í Lokinhömrum.[75] Hann var hálfbróðir Brynjólfs biskups Sveinssonar og við andlát Magnúsar árið 1668 erfði Brynjólfur jörð þessa.[76] Árið 1710 voru Svalvogar enn í eigu ættmenna Brynjólfs biskups en eigendur jarðarinnar voru þá Sveinn Torfason, klausturhaldari á Munkaþverá í Eyjafirði, og Þuríður Sæmundsdóttir frá Sæbóli á Ingjaldssandi, ekkja séra Halldórs Torfasonar, prests í Gaulverjabæ, en þeir Sveinn og Halldór voru bræður, synir séra Torfa Jónssonar í Gaulverjabæ sem var bróðursonur Brynjólfs biskups, nánasti samverkamaður hans og aðalerfingi.[77]

Árið 1727 keypti Ormur Daðason sýslumaður hálfa Svalvoga af Páli Sveinssyni, síðar lengi djákna í Viðey, en hann var sonarsonur séra Torfa Jónssonar í Gaulverjabæ.[78] Árið 1752 voru allir Svalvogar komnir í eigu séra Markúsar Snæbjörnssonar, er þá var prestur í Árnesi á Ströndum en síðar í Flatey á Breiðafirði, en hann var sonur Mála-Snæbjörns.[79] Sumarið 1787 virðist Þórður Ólafsson, bóndi og stúdent í Vigur, hafa verið orðinn eigandi Svalvoga en hann var tengdasonur séra Markúsar í Flatey sem andaðist í janúar á því ári. Þórður gerðist um þetta leyti innheimtumaður konungstíunda í Ísafjarðarsýslu og veðsetti kóngi hálfa Svalvoga til tryggingar fyrir greiðslu tíundanna.[80]

 

Ekki er nú kunnugt hver bjó í Svalvogum árið 1243 er Þórður kakali stefndi þangað sínu fjölmenna skipaliði en fyrsti bóndinn í Svalvogum sem sögur fara af er Brynjólfur Sigurðsson sem hinir harðskeyttu Gunnarssynir í Lokinhömrum píndu og meiddu svo örkuml hlutust af á árunum skömmu fyrir 1550 (sjá hér Lokinhamrar). Í bréfum um ofbeldisverk Ólafs Gunnarssonar og bræðra hans er reyndar hvergi tekið fram með ótvíræðum hætti að Brynjólfur hafi búið í Svalvogum en þar var hann fóthöggvinn og öll bendir frásögnin af samskiptum hans við Lokinhamrabræður eindregið til þess að hér hafi Brynjólfur átt heima.[81] Óljóst er reyndar hvað lá að baki ákvörðun Lokinhamrabræðra um aðför að Brynjólfi en vel má vera að honum hafi gleymst um sinn hversu illt er að egna heljarmanninn.

Ekki er ljóst hversu lengi Brynjólfur muni hafa búið í Svalvogum en í dómi frá árinu 1542 er getið Brynjólfs nokkurs og manna hans sem tóku dauðan hval fyrir landi Svalvoga og fluttu að landi í Höfn.[82] Ætla má að þar sé kominn hinn sami Brynjólfur og Lokinhamrabræður limlestu fáum árum síðar. Í Höfn lét Sigfús Brúnmannsson, lögréttumaður í Hrauni, skera hvalinn og tók afurðirnar til sín.[83] Vel gætu það hafa verið samantekin ráð þeirra Sigfúsar og Brynjólfs að færa hvalinn að landi í Höfn en ekki í Svalvogum og svo virðist Guðrún Björnsdóttir á Núpi, ekkja Hannesar Eggertssonar hirðstjóra og mágkona Sigfúsar Brúnmannssonar, hafi litið á. Hún var þá eigandi Svalvoga og kærði bæði Brynjólf og Sigfús mág sinn fyrir hvaltökuna.[84]

Snemma á 17. öld bjó maður sem Gissur hét í Svalvogum en föðurnafns hans er ekki getið. Séra Magnús Snæbjarnarson, sem prestur var á Söndum 1736-1783, segir frá því í viðauka við Vatnsfjarðarannál yngri að Gissur þessi hafi drukknað árið 1627.[85] Frásögn séra Magnúsar af þeim atburði er á þessa leið:

 

Drukknaði Gissur í Svalvogum og hans hásetar fyrir Geltinum, ætluðu á Strandir í seinustu viku vetrar; hleypti á útnyrðingi um nóttina. Þá sneru þeir aftur og að Skálavík. Hér var þá farið á Strandir um þann tíma en lagðist af síðan.[86]

 

Í þessari frásögn séra Magnúsar af örlögum bóndans í Svalvogum kemur fram að á fyrri hluta 17. aldar hafa Dýrfirðingar sótt rekavið norður á Strandir því önnur erindi getur Gissur í Svalvogum varla hafa átt á þær slóðir um sumarmál árið 1627. Orð séra Magnúsar verða tæplega skilin á annan veg en svo að slíkum viðarferðum úr Dýrafirði hafi verið hætt fyrir nokkru er þau voru fest á blað um 1780 eða nokkru fyrr en fullkunnugt er að bæði úr Skutulsfirði og af Barðaströnd var rekaviður enn sóttur norður á Hornstrandir á stórum byrðingum á fyrri hluta 18. aldar.[87]

Tvíbýli var í Svalvogum í byrjun 18. aldar[88] og svo var einnig hundrað árum síðar.[89] Á 19. og 20. öld var hér oftast einbýli en stundum þó tvíbýli.[90] Frá einstökum bændum í Svalvogum á síðari öldum verður fátt sagt á þessum blöðum en þess skal getið að hér er á öðrum stað rætt um hjónin Gísla Jónsson og Maren Oddsdóttur (sjá hér Minni-Garður) sem bjuggu í Svalvogum frá 1871-1882.

Í skáldsögu sinni Sturlu í Vogum fjallar Guðmundur G. Hagalín rithöfundur um líf útnesjafólksins í Svalvogum og næsta nágrenni á árunum kringum aldamótin 1900. Þegar bókin kom út árið 1938 töldu ýmsir sem kunnugir voru á þessum slóðum sig finna í henni myndir úr veruleikanum í bland við skáldskapinn. Hér verður þó engin tilraun gerð til að rekja þá þræði.

Árið 1905 settust að í Svalvogum hjónin Þorvaldur Kristjánsson og Sólborg Matthíasdóttir en þau og þeirra niðjar stóðu hér æ síðan fyrir búi allt til ársins 1976.[91]

Þorvaldi og Sólborgu og þeirra fólki búnaðist vel í Svalvogum en á fyrstu áratugum tuttugustu aldar var þar flest með fornu lagi eins og víðar. Þorvaldur stundaði sjó af kappi á sínu fjögra manna fari en hjá Sólborgu voru stundum yfir 70 ær í kvíum.[92] Í Svalvogum var fært frá og ær mjaltaðar fram til 1942 eða 1943.[93] Ottó, sonur Þorvaldar og Sólborgar, tók við búi af foreldrum sínum árið 1936 en hann átti heima í Svalvogum nær óslitið í hálfa öld, frá 1905-1955. Bók hans Svalvogar kom út árið 1980 og er þar ýmsan fróðleik að finna um líf og starf Svalvogafólks á fyrri hluta tuttugustu aldar.

Kirkjusókn áttu Svalvogamenn að Hrauni í Keldudal. Spölurinn þar á milli er sjö kílómetrar og þurfti að sæta sjávarföllum til að komast fyrir Hafnarófæru.[94] Í byrjun 18. aldar lifðu enn munnmæli um bænhús sem verið hefði í Svalvogum að fornu[95] og má telja mjög líklegt að svo hafi verið í kaþólskum sið, enda þótt heimildir skorti til staðfestingar á munnmælunum. Gamlar tóttir í Svalvogatúni voru reyndar enn nefndar Bænhústóttir um miðja tuttugustu öld og eru þær suður af íbúðarhúsi en austur af gripahúsum.[96]

Hjá útnesjafólkinu í Svalvogum var kaupstaðarleiðin til Þingeyrar nær þrefalt lengri en kirkjuvegurinn að Hrauni eða um 20 kílómetrar. Þó ekki sé um fjallveg að fara var leiðin mjög erfið á köflum, einkum að vetrarlagi, en skammt innan við Hafnarnes og á Eyrarhlíð ganga ófærur í sjó fram sem oft töfðu för manna. Ekkert var hægt að flytja á hestum og þótti reyndar í frásögur færandi ef menn fóru lausríðandi fyrir Eyrarófæru.

Langt var að róa inn Dýrafjörð áður en vélar komu í báta og mikið af kaupstaðarvörunni lögðu Svalvogamenn á bakið og báru heim til sín. Gangandi maður var þó sjaldan minna en fimm klukkustundir úr Svalvogum inn á Þingeyri og lengur í ófærð að vetrarlagi. Þá var eftir að komast til baka með fulla poka í bak og fyrir og hljóta slíkar ferðir að hafa verið hverjum meðalmanni þolraun. Á fyrri tíð voru flestir hins vegar vanir því að reyna á kraftana til hins ýtrasta og urðu margir sterkir vel. Dæmi voru þess að menn flyttu 80 pund af vörum í einni slíkri ferð[97] og stundum hafa pokarnir ugglaust verið enn þyngri. Þorvaldur Kristjánsson, sem jafnan sótti sjó af kappi frá Svalvogum, einkum á haustin, fékk vél í bát sinn áriði 1924[98] og léttust þá kaupstaðarferðirnar að mun því reynt var að nota bátinn sem mest til flutninga.

Í Svalvogum varð stundum að grípa til nýstárlegra úrræða við aðdrætti á kaupstaðarvarningi. Frostaveturinn mikla 1918 var orðið nær olíulaust þar heima og á Þingeyri var enga ólíu að fá. Þorvaldur bóndi smíðaði þá sérstakan skíðasleða, hlóð á hann tómum olíubrúsum og lagði af stað norður á Flateyri en frést hafði að þar væri enn hægt að fá keypta olíu. Hestheldur ís var þá á Dýrafirði út á móts við Núp og Sveinseyrarodda og fór Þorvaldur með sleðann á ís yfir fjörðinn í báðum leiðum.[99] Með Þorvaldi í þessari ferð var Kristján sonur hans. Olíuna fengu þeir á Flateyri og komust heim á þriðja degi en þungur var sleðinn og leiðin löng.[100] Árið 1939 kom sími í Svalvoga[101] og hefur verið mikill fengur að því tæki á slíkum stað. Jeppafær vegur var hins vegar ekki lagður úr Keldudal að Svalvogum fyrr en árið 1973 og þá ekki á vegum Vegagerðar ríkisins. Það var Elís Kjaran Friðfinnsson frá Kjaransstöðum í Dýrafirði sem að eigin frumkvæði réðist með jarðýtu sinni á blágrýtisbergið í fjallshlíðinni ofan við Hafnarófæru þar sem illgerlegt hafði verið talið að leggja akfæran veg. Með þolinmæði og þrautseigju tókst honum að marka dálitla syllu í hamravegginn, nógu breiða til þess að hægt væri að læðast þarna yfir á bíl. Þar sem bergið var erfiðast viðfangs heita Hrafnholur. Þar hefur vegurinn nú verið breikkaður dálítið og má að sumarlagi kallast sæmilega fær öllum venjulegum fólksbílum. Í björgunum ofan og neðan við þennan vegarslóða verpir fýll en óvíða munu finnast dæmi þess að akvegir hafi verið lagðir í miðju fuglabjargi. Eins og áður sagði komust Svalvogar fyrst í vegasamband við umheiminn árið 1973 en árið eftir ruddi Elís akfæra braut frá Svalvogum inn að Lokinhömrum í Arnarfirði. Að því er best er vitað réðst hann í þessar framkvæmdir af hreinum hugsjónaástæðum sem sjálfboðaliði í lífsstríði útnesjafólksins. Í hugum þeirra sem slíkt kunna að meta mun nafn hans lengi lifa.

Ekkert fólk býr nú í Svalvogum. Síðustu íbúarnir fluttust þaðan árið 1978[102] en þá þurfti ekki lengur fólk til að sinna daglega um vitann sem hér var reistur árið 1920.[103] Svalvogavitinn þjónar samt enn sínu hlutverki á mannauðum stað og stendur hér um það bil fimm mínútna gang frá bænum.

Flesta daga ársins svarrar brim við sjávarklettana í Svalvogum. Þungur niður úthafsöldunnar er hér hinn sami og áður en enginn ber nú lengur þang og þöngla úr fjöru til að tryggja sér og sínum dálítinn yl í frosthörkum komandi vetrar. Þeir sem leita snertingar við náttúru landsins ættu að gista nótt í Svalvogum. Þar er gott að vaka og gott að dreyma enn sem fyrr.

Samt hljótum við brátt að yfirgefa þá töfra sem hér bjóðast og halda ferð okkar áfram til næsta bæjar sem er Höfn. Við hverfum frá gömlu lendingunni hjá Siggatóttum, stöldrum við á Brítarholtinu, hólbarði rétt fyrir ofan túnið, þar sem kona forn er Brít hét liggur grafin.[104] Þar mátti aldrei hrófla við neinu, hvorki steini né þúfu, og ekki þótti við hæfi að iðka barnaleiki á holtinu því. Efst í túnkrika upp undir Brítarholti er uppsprettulindin Vínhola en þaðan var neysluvatn tekið í Svalvogum.[105] Úr henni fáum við okkur að drekka en tökum svo stefnu á vitann. Skammt norðan við hann eru landamerki milli Svalvoga og Hafnar sem er næsti bær.

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Sturlunga III, 44.

[2] D.I. IX, 57 og 58.

[3] Örnefnaskrá.

[4] Guðmundur G. Hagalín 1952, 187 (Úr blámóðu aldanna).

[5] Sama heimild.

[6] Sama heimild.

[7] Sama heimild.

[8] Guðmundur G. Hagalín 1952, 42.

[9] Sama heimild, 41-49, (Úr blámóðu aldanna).

[10] Sama heimild.

[11] Sama heimild.

[12] Sama heimild.

[13] Sama heimild.

[14] Sigurjón Jónasson. – Viðtal K.Ó. við hann, júlí 1991.

[15] Guðm. G. Hagalín 1952, 75 Ak.

[16] Sama heimild, 97-126.

[17] Sama heimild.

[18] Sama heimild.

[19] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.s. 1805.

[20] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 30.

[21] Sama heimild.

[22] Sama heimild.

[23] Ólafur Olavius, I, 1964, 185.

[24] Þjóðviljinn IV, 6.9.1890.  Lbs. 23744to, Dagbók Sighvats Grímssonar Borgfirðings.

[25] Sömu heimildir.

[26] Guðm. G. Hagalín 1951, 57.

[27] Ottó Þorvaldsson 1980, 11.

[28] Lbs. 23744to, dagbók S.Gr.B.  Prestsþj.bók Rafnseyrarpr.kalls.

[29] Lbs. 23744to, dagbók S.Gr.B.

[30] Örn.skrá.

[31] Sama heimild.

[32] Sama heimild.

[33] Sama heimild.

[34] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 58.

[35] Örnefnaskrá.

[36] Sama heimild.

[37] Ottó Þorvaldsson 1980, 108.

[38] Sturl. I, 350 og 409.

[39] Sama heimild.

[40] D.I. IV, 688.

[41] Jarðab. Á. og P. VII, 29.

[42] D.I. XIII, 248.  Sbr. D.I. XIII, 518.

[43] Sama heimild.  Jarðab. Á. og P. VII, 28-29.

[44] D.I. IV, 146.  D.I. XV, 579.  Jarðab. Á. og P. VII, 15.

[45] Alþingisbækur Íslands XI, 281.

[46] Ottó Þorvaldsson 1980, 10.

[47] Sama heimild, 101.

[48] Sama heimild, 10.

[49] Sama heimild.

[50] Jarðab. Á. og P. VII, 29.

[51] Sama heimild.

[52] Sama heimild.

[53] Ottó Þorvaldsson 1980, 12.

[54] Örn.skrá.

[55] Ottó Þorvaldsson 1980, 12.

[56] Lbs. 23744to, Dagbók Sighv. Gr. Borgf. 29.6.1876. Sbr. sóknarmannatööl Dýrafjarðarþinga 1875 og 1876.

[57] Ottó Þorvaldsson 1980, 10.

[58] Jarðab. Á. og P. VII, 29.

[59] Sama heimild.

[60] Jarðab. Á. og P. VII, 29.

[61] Ottó Þorvaldsson 1980, 12 og 21.

[62] Ottó Þorvaldsson 1980, 12 og 21.

[63] Sturl. III, 38-40.

[64] Sama heimild, 44.

[65] Sama heimild, 78-80.

[66] Sturl. III, 78.

[67] Sturl. III, 44.

[68] D.I. IX, 29.

[69] Ottó Þorvaldsson 1980, 12.

[70] D.I. IX, 29.

[71] D.I. IV, 688.

[72] D.I. IX, 243-244.

[73] Sama heimild, 704-705.

[74] D.I. XIII, 248.

[75] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir (Kph. 1993), 169-170.

[76] Sama heimild.

[77] Jarðab. Á. og P. VII, 28 og XIII, 63-65 og 365.  Lögréttumannatal, 503.  Ísl. æviskrár II, 273 og IV, 377.

Safn til sögu Íslands I, (Kph. 1853), 646.  Sbr. Jarðabr. frá 16. og 17. öld. Útdrættir, 169-170 og 174.

[78] Alþ.bækur Íslands XI, 618.  Ísl. æviskrár IV, 141-142 og 377-378.

[79] Alþ.bækur Íslands XIV, 83.  Ísl. æviskrár III, 474-475.

[80] Alþ.bækur Íslands XVI, 354.

[81] D.I. XI, 443-445, 513, 633-638 og XII, 540.

[82] D.I. X, 699-700.

[83] Sama heimild.

[84] Sama heimild.

[85] Annálar III, 107.

[86] Annálar III, 107.

[87] Ísl. æviskrár V, 8.  Gestur Vestfirðingur III, 108-109.

[88] Manntal 1703.  Jarðab. Á. og P. VII, 28.

[89] Manntal 1801.

[90] Manntöl og sóknarm.töl Sandasóknar.

[91] Ottó Þorvaldsson 1980, 8, 58, 73, 74, 108 og 109.

[92] Sama heimild, 25, 46, 52-53 og 63.

[93] Sama heimild, 26-27.

[94] Jarðab. Á. og P. VII, 29.

[95] Jarðab. Á. og P. VII, 29.

[96] Örn.skrá.

[97] Ottó Þorvaldsson 1980, 79.

[98] Sama heimild, 63.

[99] Sama heimild, 50-51.

[100] Sama heimild.

[101] Sama heimild, 76.

[102] Ottó Þorvaldsson 1980, 99.

[103] Sama heimild, 52-53.

[104] Sama heimild, 14-16.

[105] Örn.skrá.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »