Þorfinnsstaðir og leiðin um Ófæruhlíð

Þorfinnsstaðir og leiðin um Ófæruhlíð

Þorfinnsstaðir eru næststærsta jörðin í Valþjófsdal, 24 hundruð að fornu mati.[1] Íbúðarhúsið stendur á hól í túninu og þar stóð áður gamli bærinn.[2] Ofan við túnið rís fjallið Þorfinnur, nær 700 metra hátt. Tveir sæmilega gangfærir þræðingar eru hér í háfjallinu. Sá efri er alveg upp undir brún og heitir Töflugangur. Hann endar á Veturlöndum, sem áður voru nefnd og eru upp af bænum Grafargili.[3] Neðri þræðingurinn heitir Gangur og endar á Hærri-Fuglahjalla, yst í Geldingadal í landi Grafargils.[4]

Frá Þorfinnsstöðum er tæplega einn kílómetri niður að sjó en örlítið lengra fram að Grafargili, rétt liðlega einn kílómetri. Enn styttra er yfir að Kirkjubóli, máske 300 metrar. Þar rennur Þorfinnsstaðaá á milli. Landamerkjum Þorfinnsstaða og Kirkjubóls hefur áður verið lýst (sjá hér Kirkjuból) en þau fylgja ánni og að nokkru gömlum árfarvegi. Rétt fyrir framan túnin á Þorfinnsstöðum og Kirkjubóli mætast Dalsá og Þorfinnsstaðaá, en Þorfinnsstaðir eiga allt land austan síðarnefndu árinnar, fram að merkjum á móti Grafargili, en þau eru við Merkjastein, skammt norðan við túnið á Grafargili.[5] Á móti Ytri-Hjarðardal eiga Þorfinnsstaðir land að Einhamri, sem er klettur í norðurhlíð Þorfinns, dálítið innan við Ófæruna sem sagt er frá hér nokkru aftar (sjá hér bls. 17-22).

Á ferð okkar um Valþjófsdal komum við að Þorfinnsstöðum frá Grafargili en þar er aðeins fimmtán mínútna gangur á milli. Á þeirri leið dregur fjallið Þorfinnur að sér athygli. Vesturhlíð þess, sem snýr að Valþjófsdal, er ærið brött en klettalaus að kalla og hefur því mildara yfirbragð en norðausturhlíð þessa sama fjalls sem snýr hamraveggjum sínum út að fjarðarströndinni.

Í vesturhlíð Þorfinns, sem við okkur blasir á göngunni frá Grafargili að Þorfinnsstöðum, eru þræðingarnir tveir sem fyrr voru nefndir,Töflugangur og Gangur.[6] Í fjallshlíðinni milli bæjanna skiptast á gil og hvolf en niður við ána var grösugt mýrlendi sem nú er nær allt orðið að túni.[7] Fremsta hvolfið í landi Þorfinnsstaða heitir Landamerkjahvolf, síðan kemur Hlaðhryggur, þá Hlaðhvolf og síðan í þessari röð: Stekkjargil fremra, Stekkjarhvolf, Stekkjargil heimra og Heimstahvolf sem nær að Bæjargili en þá tekur við Bæjarhvolf sem er fyrir ofan túnið á Þorfinnsstöðum.[8] Í Hlaðhvolfi er gömul tótt sem heitir Hlað[9] og stekkur var í hlíðinni ofan við Stekkjarpart sem er skammt fyrir framan gamla túnið en þar er þó Þurripartur á milli.[10] Partar þessir voru áður slægjulönd en hafa nú verið ræktaðir upp og gerðir að túni. Framan við fremra Stekkjargilið eru hér neðantil í miðju fjallinu svolitlar dældir sem heita því ágæta nafni Koppur, sem er kvenkynsorð í fleirtölu, og var því jafnan talað um Koppurnar.[11]

Á Þorfinnsstöðum nemum við staðar heima við bæinn, sem stendur á hól í túninu, en jörðin fór í eyði árið 1989.

Í lýsingu á Þorfinnsstöðum frá árunum kringum 1920 segir að túnið sé stórt, sléttlent og grasgefið, útengi snögglent og votlent en greiðfært og skammt þangað að fara heiman frá bænum, beitiland í meðallagi en lítil fjörubeit.[12] Í sömu heimild segir að á Þorfinnsstöðum sé allgott mótak og beitutekja.[13] Beitan, sem þarna er nefnd, var kúfiskur og á árunum kringum 1920 var talið að bóndinn, sem þá bjó á jörðinni, hefði um 100,- krónur á ári í tekjur af kúfiski.[14]

Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 má sjá hverjir voru taldir helstu ókostir jarðarinnar við upphaf 18. aldar. Um Þorfinnsstaði segir þar:

 

Þessi jörð er ærið hagaþröng og kynni ekki að byggjast ef hún nyti ei Grafargils lands. Hætt er bænum við snjóflóðum og hefur einu sinni háskalega áhlaupið en ekki verður bærinn vel færður. Snjóskriður með aur og grjóti falla á túnið. Engjunum spilla grjótskriður og snjóflóð sem bera aur og eru engjarnar hér af stórum spilltar. Hagarnir, þeir litlu sem voru, spillast árlega af skriðum og er mjög lítið eftir orðið. Torfristu á jörðin svo að segja enga. Útræði getur hér ekki vel verið, allra síst á vetur, því brimasamt er og illt að vakta skip frá skaða. Svörður til eldiviðar er hér lítill.[15]

 

Í þessari lýsingu mun sumt vera orðum aukið en þröngt mun þó hafa verið í högum á Þorfinnsstöðum.

Þorfinnsstaðir eru forn bújörð en jarðarinnar er þó hvergi getið í varðveittum heimildum fyrr en á 15. öld. Á 19. öld eða árunum kringum 1900 skemmtu menn sér hins vegar við að spinna upp sögur um landnámsmenn í Önundarfirði, meðal annars Þorfinn þann sem átti að hafa búið fyrstur manna á Þorfinnsstöðum.[16] Nafnið Þorfinnur varð mönnum efni í dálitla sögu sem skráð er í Vestfirskum sögnum. Þar segir:

 

Þorfinnur bjó á Þorfinnsstöðum. Sumir segja að hann hafi verið heygður uppi á fjalli fyrir ofan bæ sinn. En önnur sögn er það að hann hafi látið gullkistu sína upp á fjallshnúkinn Þorfinn sem er fyrir ofan Þorfinnsstaði og mælt svo um að enginn skyldi geta opnað hana nema sá sem bæri nafn sitt og væri alinn upp í heiðni. Nú var sveinn nokkur látinn heita Þorfinnur og ekkert sagt um Guð í uppvextinum. Þegar hann var orðinn 14 vetra fór hann upp á fjallið og vildi opna kistuna. En þegar honum gekk það illa bað hann Guð að hjálpa sér. Við það breyttist kistan í klett þann sem þar er enn.[17]

 

Eins og áður sagði er Þorfinnsstaða fyrst getið í heimild frá 15. öld, nánar tiltekið frá árinu 1428 (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal). Þann 27. nóvember 1439 voru Ingibjörg Halldórsdóttir frá Kirkjubóli í Valþjófsdal og Þórður Sigurðsson frá Haga á Barðaströnd gefin saman í hjónaband í Saurbæ á Rauðasandi.[18] Sama dag var gengið þar frá kaupmálabréfi þar sem fram kemur að Þórður hafði hálfan Haga til kaups við Ingibjörgu en á móti kom heimanfylgja Ingibjargar, sem var Þorfinnsstaðir, og þar til sex hundruð fyrir þrjá tugi hundraða.[19] Svo virðist sem hálfur Hagi hafi þarna verið virtur á 30 hundruð, þó sú jörð væri hærra metin síðar.[20] Þorfinnsstaðir töldust vera 24 hundruð (sjá hér bls. 1) og þá hefur þurft þessi sex hundruð til að jafna metin.[21] Hér hefur áður verið sagt frá foreldrum Ingibjargar, þeim Halldóri Jónssyni og Oddfríði Aradóttur á Kirkjubóli í Valþjófsdal (sjá hér Kirkjuból) en þau áttu um skeið allan dalinn. Oddfríður var systir Guðmundar ríka Arasonar á Reykhólum og var hann einn brúðkaupsvotta í nýnefndu brúðkaupi er systurdóttir hans fékk Þorfinnsstaði í heimanfylgju.[22]

Þorfinnsstaðir eru líka nefndir í vitnisburðarbréfi sem dagsett er á Kirkjubóli í Valþjófsdal 14. mars 1469. Þar votta fjórir menn að þeir hafi verið viðstaddir er Halldór Hákonarson á Kirkjubóli og séra Narfi Böðvarsson í Holti hittust á Þorfinnsstöðum sunnudaginn næsta fyrir Guðmundardag í langaföstu þetta sama ár.[23] Í bréfinu greina vitnin frá því að á þessum fundi á Þorfinnsstöðum hafi Halldór Hákonarson greitt séra Narfa þær bætur sem ráð var fyrir gert er ákveðið var að gera bænhúsið á Kirkjubóli að hálfkirkju er skömmu síðar yrði breytt í alkirkju (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal). Bæturnar sem Halldór greiddi kirkjunni í Holti á þessum fundi voru 5 hundruð í fríðu og segja vitnin að þetta hafi Halldór borgað með tveimur kúm, tveimur þrevetra nautum, tveimur tvævetra nautum og tveimur veturgömlum.[24] Er allir þessir nautgripir höfðu verið afhentir séra Narfa lýsti hann Halldór á Kirkjubóki kvittan og ákærulausan, að sögn þessara fjögurra manna, sem allir voru viðstaddir á Þorfinnsstöðum þennan vetrardag[25] ef marka má þeirra eigin orð.

Um 1570 hafði Eggert Hannesson lögmaður umráð yfir Þorfinnsstöðum og hefur þá annað hvort verið eigandi jarðarinnar eða haft hana að léni frá konungi.[26] Leiguliðinn, sem þá bjó á Þorfinnsstöðum, hét Brandur en í reikningakveri lögmannsins er föðurnafn hans ekki nefnt.[27] Landskuldin sem Brandur átti að greiða árið 1570 var 100 álnir og upp í þá greiðslu fékk lögmaðurinn fjórar ær og tíu álnir vaðmála.[28] Þá virðast 10 álnir hafa verið ógoldnar því ær með lömbum var jafnan virt á 20 álnir, það er einn sjötta hluta úr kýrverði.

Seinna mun séra Sveinn Símonarson í Holti hafa eignast Þorfinnsstaði því sonur hans, Brynjólfur biskup, fékk jörðina í arf[29] og þá að líkindum eftir föður sinn eða móður. Líklegt er að hin auðuga höfðingskvinna, Þóra í Dal, sem lengi bjó á Kirkjubóli í Valþjófsdal, hafi náð að eignast Þorfinnsstaði um 1650 því tvær sonardætur hennar voru eigendur jarðarinnar árið 1710,[30] hinar sömu og þá áttu bæði Kirkjuból og Grafargil hér í dalnum (sjá hér Kirkjuból og Grafargil). Í Jarðabókinni frá 1710 segir að landskuld af Þorfinnsstöðum hafi til forna verið 6 vættir í landaurum[31] en 20 álnir voru í hverri vætt svo þarna er árleg landskuld sögð hafa verið 20 álnum hærri en fram kemur í reikningakveri Eggerts Hannessonar frá árinu 1570. Í Jarðabókinni er tekið fram að skömmu fyrir stórubólu, sem hér geisaði á árunum 1707-1709, hafi landskuldin verið lækkuð niður í 5 vættir og árið 1710 var hún 4 vættir.[32] Um miðbik 19. aldar var landskuldin 90 álnir,[33] það er 4½ vætt. Þá var jörðin enn í leiguábúð.[34]

Árið 1710 fékk Árni Magnússon þær upplýsingar hjá Önfirðingum að til forna hefðu 6 innstæðukúgildi fylgt Þorfinnsstöðum og svo hafi enn verið í byrjun 18. aldar.[35] Árið sem Árni ræddi við Önfirðinga voru þessi kúgildi hins vegar ekki nema þrjú[36] og í Jarðatali Johnsens frá árinu 1847 eru þau sögð vera þrjú og hálft[37] eða sem svaraði 21 á með lömbum.

Fyrsti bóndi á Þorfinnsstöðum, sem hægt er að nefna með nafni, er Brandur sem hér bjó árið 1570 en hans var áður getið. Árið 1681 var tvíbýli á jörðinni en þá bjuggu hér leiguliðarnir Konráður Ámundason og Nikulás Sighvatsson á 12 hundruðum hvor.[38] Árið 1703 voru bændurnir á Þorfinnsstöðum þrír[39] en hafði aftur fækkað í tvo árið 1710.[40] Þeir sem þá bjuggu hér hétu Guðmundur Gilsson og Ámundi Sighvatsson.[41] Bústofn Guðmundar var 2 kýr, 13 ær, 12 sauðir tvævetra og eldri, 15 veturgamlir sauðir, 14 lömb og 1 hestur.[42] Bústofn Ámunda var 2 kýr, 11 ær, 8 sauðir tvævetra og eldri, 1 veturgamall sauður, 12 lömb og 1 hestur.[43] Þarna eru innstæðukúgildin, sem eigendur jarðarinnar áttu, talin með svo búfjáreign bændanna sjálfra hefur verið sem því svarar minni en tölurnar gefa til kynna.

Árið 1762 var þríbýli á Þorfinnsstöðum og voru bændurnir, sem þar bjuggu, allir fjölskyldumenn.[44] Þeir hétu Bjarni Nikulásson, Sveinn Ólafsson og Ögmundur Ísleifsson en eigandi jarðarinnar var þá Snæbjörn Pálsson[45] er menn nefndu Mála-Snæbjörn og bjó er hér var komið sögu fjörgamall á Álfadal á Ingjaldssandi (sjá hér Sæból og Álfadalur).

Á fyrstu áratugum 19. aldar og allt fram yfir 1840 var yfirleitt tvíbýli á Þorfinnsstöðum[46] en frá árunum upp úr 1840 og allt til loka aldarinnar bjó jafnan einn bóndi í senn á allri jörðinni.[47]

Í inngangskaflanum um Mosvallahrepp hefur verið sagt frá mannskaðanum mikla í Önundarfirði árið 1812 er átta bátar þaðan fórust í ofsaveðri á hafi úti þann 6. maí og um það bil 50 menn drukknuðu á einum degi. Þar var einnig getið um björgunarafrek Sveins Þorleifssonar, bónda á Þorfinnsstöðum, en hann var einn formannanna, sem fóru í róður þennan dag, og náði að bjarga sex mönnum af einum þeirra átta báta sem týndust í hafi. Tólf formenn reru þennan dag en aðeins fjögur skip náðu landi og af bátunum sem fórust varð engum bjargað nema þessum sex mönnum sem bóndinn á Þorfinnsstöðum og skipsmenn hans náðu að hrífa úr dauðans greipum við hinar erfiðustu aðstæður í ofsaveðri og stórsjó á hafi úti. Gísli Konráðsson segir að Sveinn á Þorfinnsstöðum hafi verið lítill maður vexti en hinn fimasti formaður og hverjum manni brattgengari.[48]

Þegar Sveinn Þorleifsson vann sitt björgunarafrek, 6. maí 1812, hafði hann búið á Þorfinnsstöðum um nokkurt skeið ásamt konu sinni, Helgu Jónsdóttur, en áður bjuggu þau í Mosdal og þar var hann fæddur.[49] Sveinn andaðist úr brjóstveiki í marsmánuði árið 1827 og var þá enn bóndi á Þorfinnsstöðum, sagður 60 ára gamall.[50]

Sambýlismaður Sveins Þorleifssonar var Sigmundur Vigfússon og bjuggu þeir báðir á Þorfinnsstöðum árið 1818.[51] Sigmundur var fæddur á Villingadal á Ingjaldssandi og sagður fertugur að aldri í marsmánuði árið 1818.[52] Sigmundur og kona hans, Guðrún Jónsdóttir, sem var fædd á Þorfinnsstöðum, bjuggu hér enn árið 1835[53] en árið 1840 voru sonur þeirra og tengdasonur farnir að búa að jörðinni.[54] Jón Sigmundsson, sem tók við búi af föður sínum á Þorfinnsstöðum á árunum 1835-1840, bjó hér enn árið 1855 og hafði þá, fyrstur manna um langt skeið, haft alla jörðina til ábúðar í a.m.k. tíu ár.[55]

Er Jón Sigmundsson á Þorfinnsstöðum andaðist árið 1856 höfðu ættmenn hans búið hér býsna lengi því Guðrún, móðir hans, var fædd á Þorfinnsstöðum um 1775,[56] dóttir hjónanna Jóns Jónssonar og Sesselju Jónsdóttur sem enn voru búandi þar árið 1801.[57]

Næstur á eftir Jóni Sigmundssyni fór Eiríkur Halldórsson að búa á Þorfinnsstöðum. Eiríkur var fæddur á Grafargili árið 1831, sonur Halldórs Eiríkssonar bónda þar (sjá hér Grafargil) og Þórunnar Einarsdóttur konu hans.[58] Kona Eiríks var Jóhanna Guðríður, dóttir Jóns Magnússonar og Guðrúnar Jónsdóttur sem bjuggu í Mosdal yfir 50 ár[59] (sjá hér Mosdalur). Eiríkur Halldórsson bjó á Þorfinnsstöðum frá 1857 til 1881 en hann andaðist árið 1883.[60] Eiríkur var hreppstjóri í Mosvallahreppi og hreppsnefndaroddviti síðustu árin sem hann lifði.[61] Bústofn hans í fardögum árið 1880 var 3 kýr, 30 ær með lömbum og 2 geldar, 9 gemlingar, 1 hrútur, 1 hestur og 1 tryppi.[62] Eiríkur átti þá hálfan bát á móti öðrum manni og var báturinn sexæringur eða fjögra manna far.[63] Tuttugu ferfaðma kálgarður var þá á Þorfinnsstöðum og færikvíar á bólinu.[64] Bæði kálgarðinum og færikvíunum höfðu hjónin á Þorfinnsstöðum komið upp á árunum milli 1870 og 1880.[65]

Eiríkur á Þorfinnsstöðum andaðist snögglega þann 18. október 1883 og var þá 52ja ára gamall. Jón Guðmundsson á Grafargili greinir frá andlátinu í dagbók sinni og bætir við:  Hann varð bráðkvaddur við hana Sandsá.[66] Presturinn í Holti segir Eirík hafa orðið bráðkvaddan í Sandvíkinni[67]en einmitt þar fellur Sandsá (nú ritað Sandá) á Ingjaldssandi til sjávar (sjá hér Sæból) svo hér er ekki um að villast.

Elsta barn Eiríks Halldórssonar og Jóhönnu, konu hans, var Guðmundur Ásgeir og tók hann við búi á Þorfinnsstöðum tveimur árum áður en faðir hans féll frá. Hann var þá innan við þrítugt, fæddur haustið 1853.[68] Guðmundur Á. Eiríksson var bóndi á Þorfinnsstöðum í nær 40 ár, frá 1881-1920 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 346), og átti sjálfur jörðina, a.m.k. á sínum síðustu búskaparárum.[69] Hann var atorkumaður í fremstu röð með mikil umsvif í búskap. Hreppstjóri var hann lengi og hafði á hendi margvíslega forystu í félagsmálum Önfirðinga.

Í æsku mun Guðmundur hafa haft fullan hug á að afla sér nokkurrar menntunar og hafði þá með sér í verið hina dönsku orðabók Konráðs Gíslasonar[70] sem út var gefin árið 1851. Seinna sagði hann svo frá að við sjóróðrana hefði hann þá talað við sjálfan sig á dönsku.[71] Haustið 1877 sigldi þessi sonur hreppstjórans á Þorfinnsstöðum til Kaupmannahafnar og dvaldist þar veturinn 1877-1878 við járnsmíðanám.[72] Þá var hann 24 ára gamall.

Sama árið og Guðmundur tók við búsforráðum á Þorfinnsstöðum kvæntist hann frænku sinni, Þórunni Halldóru Sveinbjarnardóttur frá Kirkjubóli í Valþjófsdal,[73] en þau voru bræðrabörn.[74] Þórunn andaðist í júnímánuði aldamótaárið 1900 og stóð Guðmundur þá uppi ekkjumaður með sjö börn.[75] Fimmtán mánuðum síðar kvæntist hann í annað sinn og gekk þá að eiga Önnu Vilhelmínu Brynjólfsdóttur.[76] Hún var dóttir Brynjólfs Guðmundssonar frá Mýrum í Dýrafirði og Láru Vilhelmínu Thomsen[77] frá Granda í Þingeyrarhreppi (sjá hér Mýrar og Grandi). Með seinni konunni eignaðist Guðmundur þrjú börn.[78]

Á fyrstu búskaparárum Guðmundar Eiríkssonar á Þorfinnsstöðum mun hafa verið þröngt um fjárhaginn hjá honum. Þann 1. janúar 1885 var skuld hans við Ásgeirsverslun á Flateyri liðlega 900,- krónur.[79] Andvirði þess sem hann lagði inn hjá versluninni árið 1885 nam hins vegar aðeins 268,80 krónum og var innan við þriðjungur af skuldinni en ársúttekt Guðmundar það sama ár var liðlega 200,- krónur.[80]

Inn á reikning Guðmundar hjá Ásgeirsverslun á Flateyri komu árið 1885 125,90 krónur fyrir fisk og fiskhluti en a.m.k. einn vinnumanna hans var þá í skiprúmi á skútu.[81] Fyrir kjöt fékk hann greiddar 95,40 krónur inn á reikning sinn hjá versluninni en aðrar greiðslur inn á þennan sama reikning námu 47,50 krónum og er um flest óljóst fyrir hvað þær hafa verið.[82]

Úttekt Guðmundar hjá Ásgeirsverslun árið 1885 virðist um flest hafa verið lík því sem almennt var með þeirri undantekningu þó að hann keypti alls ekkert brennivín eða aðra áfenga drykki og mjög lítið af tóbaki.[83]

Kaup Guðmundar á kolum og járni voru hins vegar meiri en almennt var því árið 1885 keypti hann 562½ pund af kolum hjá Ásgeirsverslun á Flateyri og liðlega 29 pund af járni.[84] Fyrir kolin og járnið þurfti hann að greiða 35,23 krónur.[85] Sú upphæð nam um 17% af allri úttekt hans hjá nefndri verslun yfir árið[86] og gefur vísbendingu um að bóndinn á Þorfinnsstöðum hafi fengist við járnsmíðar eins og hér var áður minnst á.

Af öðrum varningi sem Guðmundur Eiríksson keypti hjá Ásgeirsverslun á Flateyri árið 1885 má nefna 250 pund af mjöli (líklega rúgmjöli), 100 pund af rúgi, 50 pund af hrísgrjónum, 125 pund af grjónum (líklega bygggrjónum), 72 pund af brauði, 24 pund af smjöri, 100 pund af salti, 10 pund af kaffi, 1 pund af kaffibæti, 15 pund af kandíssykri, þrenn bollapör, einn trefil, fjögur ljáblöð og einn náttpott.[87] Verðið á þessum varningi var sem hér segir: Pund af mjöli kostaði 20 aura, pund af rúgi 9 aura, pund af hrísgrjónum 14 aura, pund af grjónum 13 aura, pund af brauði 25 aura, pund af smjöri eina krónu, pund af salti 4 aura, pund af kaffi 70 aura, pund af kaffibæti 40 aura og pund af kandíssykri 40 aura.[88] Bollapörin kostuðu 22 aura hvert, trefillinn 1,25 krónur, ljáblöðin 1,10 krónur hvert og náttpotturinn 85 aura.[89]

Búnaðarfélag Önfirðinga, er síðar fékk nafnið Búnaðarfélag Mosvallahrepps, var stofnað 1886 og var Guðmundur Á. Eiríksson á Þorfinnsstöðum kosinn fyrsti formaður þess (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 326). Formaður félagsins mun hann hafa verið í 26 ár[90] en þess verður að geta að á því tímabili lá félagsstarfsemin niðri í níu ár. Áður en Guðmundur tók við stjórn búsins úr höndum foreldra sinna árið 1881 höfðu þau komið sér upp kálgarði og færikvíum eins og fyrr var nefnt en að öðru leyti mun búskapurinn á Þorfinnsstöðum þá enn hafa verið með sama brag og tíðkast hafði í 1000 ár. Guðmundur tók hins vegar snemma að beita sér fyrir ýmsum nýjungum. Sem formaður búnaðarfélagsins hafði hann forgöngu um að ráða búfræðinga frá Ólafsdalsskólanum til starfa í Önundarfirði á árunum kringum 1890 en sá fyrsti sem þangað kom á vegum félagsins mun hafa unnið þar að jarðabótum sumarið 1886 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 326).

Með lærisveinum Torfa í Ólafsdal barst ný verkþekking út um byggðir landsins, ekki síst á sviði jarðræktar, og hjá þeim kynntust menn nýjum verkfærum sem áður voru óþekkt. Fyrstu hestakerruna, sem notuð var í Önundarfirði, mun Guðmundur hafa smíðað,[91] líklega um 1890 þó ekki sé vitað nákvæmlega um ártalið. Sigurður Sigurðsson, sem var búnaðarmálastjóri á árunum 1923-1935, segir að um síðustu aldamót hafi kerrur og vagnar verið sjaldséð nema á mestu fyrirmyndarheimilum[92]  og er smíði kerrunnar á Þorfinnsstöðum til marks um framfarahug Guðmundar.

Eitt þeirra verkfæra sem fyrstu búfræðingarnir frá Ólafsdal kenndu mörgum að nota voru hjólbörur. Sumarið 1887 réðst ungur búfræðingur til starfa hjá Torfa Halldórssyni á Flateyri, Jón Guðmundsson frá Ketilsstöðum í Dalasýslu en hann bjó síðar lengi á Ytri-Veðrará í Önundarfirði (sjá hér Ytri-Veðrará). Fáum mánuðum eftir komu Jóns til Önundarfjarðar sendir Guðmundur á Þorfinnsstöðum honum bréf og biður hann að lána sér teikningu af hjólbörum sem hann geti smíðað eftir. Bréfið er enn varðveitt og hljóðar svo:

Þorfinnsstöðum 11. janúar 1888.

Góði kunningi.

Efni lína þessara er að biðja þig að lána mér teikningu af hjólbörum sem ég get smíðað eftir og láta mig vita ef þú veist hvað þær kosta í Ólafsdal. Einnig vil ég biðja þig að skrifa mér bendingar þær sem þú heldur ég þurfi viðvíkjandi börunum. Héðan er ekkert að frétta sem skrifandi er. Ég vona eftir bréfi frá þér sem fyrst því ekki er að búast við að sjá persónuna sjálfa.

                                                   Með vinsemd

                                                   Guðm. Á. Eiríksson.[93]

 

Við smíði hestakerrunnar og hjólbaranna hefur komið sér vel fyrir bóndann á Þorfinnsstöðum að hafa í æsku numið klénsmíði úti í Kaupmannahöfn. Nú þykja hjólbörur og hestakerra ekki lengur merkileg verkfæri en um 1890 horfði málið öðru vísi við. Árið 1888 höfðu fáir bændur á Íslandi tekið hjólið í sína þjónustu en börur og kerrur á hjólum voru þá tákn hins nýja tíma sem fór í hönd.

Á allra síðustu árum 19. aldar var fyrst farið að girða tún á Íslandi með gaddavír.[94] Allt var það þó í mjög smáum stíl fram til ársins 1905.[95] Guðmundur á Þorfinnsstöðum var fljótur að tileinka sér nýjungar ef hann taldi þær horfa til bóta og mun hafa ráðist í að girða tún sitt með vír einna fyrstur allra Vestfirðinga.[96] Guðmundur Bernharðsson, sem fæddist á Kirkjubóli í Valþjófsdal árið 1899 og átti þar heima fyrstu árin, síðar bóndi á nýbýlinu Ástúni á Ingjaldssandi, segir frá á þessa leið:

 

Vorið 1904 eða 1905 tók ég eftir að starfsmenn hreppstjórans komu niður á árbakkann einn dag og fóru að reka niður staura til túngirðinga á Þorfinnsstöðum. Mun það vera fyrsta tilraun til túngirðinga á Vestfjörðum.[97]

 

Ætla má að ártölin, sem Guðmundur Bernharðsson nefnir, séu rétt því vorið 1905 fluttist hann burt úr Valþjófsdal með foreldrum sínum.[98] Ekki er þó fullvíst að girðingin á Þorfinnsstöðum hafi verið sú allra fyrsta á öllum Vestfjörðum en ein sú fyrsts hlýtur hún að hafa verið því að af 11.590 kílómetra löngum vírgirðingum, sem komið var upp á landinu öllu á árunum 1895-1934, voru aðeins 76 kílómetrar, það er 0,6%, teknir í notkun fyrir 1905.[99]

Í frásögn Guðmundar Bernharðssonar af bernskuárum sínum í Valþjófsdal getur hann þess líka að Guðmundur á Þorfinnsstöðum hafi átt tvö svín[100] en ætla má að slíkar skepnur hafi verið fáséðar í Önundarfirði og annars staðar á Vestfjörðum á fyrstu árum tuttugustu aldar. Drengurinn ungi á Kirkjubóli óttaðist þessi undarlegu dýr handan við ána og hann var líka hálfhræddur við eiganda þeirra, stóra skeggið hans og sterku röddina.[101]

Hér var áður minnst á færikvíarnar sem faðir Guðmundar Á. Eiríkssonar kom upp á Þorfinnsstöðum á árunum milli 1870 og 1880. Í þeim hafa fráfæruærnar verið mjólkaðar. Í þriðja bindi af Lýsingu Íslands birtir Þorvaldur Thoroddsen náttúrufræðingur ýmsar upplýsingar um mjög svo breytilega nyt ánna víðs vegar um landið. Meðalærnyt á landinu öllu árið 1918 var 40-45 pottar yfir sumarið[102] en Þorvaldur getur þess sérstaklega að sumarið 1910 hafi mórauð ær á Þorfinnsstöðum mjólkað 113½ pott og það þótt vorið hafi verið óvanalega hart vestra og sauðgróður komið seint.[103] Ekki er ólíklegt að Guðmundur bóndi á Þorfinnsstöðum hafi kunnað sitthvað fyrir sér í fjárrækt en skylt er þó að taka fram að ekki mjólkuðu allar ærnar á Þorfinnsstöðum svona vel því nytin eftir þá sem minnst mjólkaði var ekki nema 31 pottur þetta sama sumar.[104] Í ritinu Firðir og fólk 1900-1999 er sagt frá merkilegum tilraunum með gerð osta úr sauðamjólk sem hófust á Þorfinnsstöðum árið 1913 (sjá þar bls. 394). Fyrir þeim tilraunum stóð Jón Á. Guðmundsson, sem var sonur Guðmundar Á. Eiríkssonar, og hafði kynnt sér ostagerð í Frakklandi. Sjálfur var Guðmundur kosinn formaður Ostagerðarfélags Önfirðinga er það var stofnað árið 1923.[105]

Annar sonur Guðmundar Á. Eiríkssonar var Sveinbjörn og tók hann við búi á Þorfinnsstöðum úr hendi föður síns árið 1920 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 346). Við fasteignamatið, sem fram fór á árunum 1919-1921,  var reiknuð landskuld af Þorfinnsstöðum hækkuð um 50% sökum mikillar tún- og útgræðslu eins og matsmennirnir komast að orði.[106] Jörðin var þá talin geta framfleytt 4 kúm, 70 fjár og 6 hrossum.[107] Töðufengur í meðalári var orðinn 170 hestar en af útheyi fengust 280 hestar.[108] Túnið var algirt, með garði og vír og búið var að byggja haughús úr steinsteypu með járnþaki og salerni.[109] Stærð kálgarðsins var komin upp í 140 ferfaðma og úr honum fengust 6 tunnur[110] af kartöflum eða öðrum garðávöxtum.

Í matsgjörðinni frá árunum kringum 1920 er húsum á Þorfinnsstöðum lýst með þessum orðum: Baðstofa 17 x 6 álnir, skúr 17 x 3 álnir, geymsluhús, tvær hlöður, fjós, þrjú fjárhús, smíðahús stórt, hesthús, hjallur, skúr og smiðja, haughús.[111] Samtals voru hús þessi virt á 3.400,- krónur[112] en einnig var þar barnaskólahús, virt á 1.400,- krónur og hús í eigu Jóns Á. Guðmundssonar ostagerðarmanns sem var virt á 200,- krónur.[113]

Í stóra smíðahúsinu, sem þarna var nefnt, voru m.a. smíðaðir dekkbátar og færðar upp leiksýningar á vegum ungmennafélags sveitarinnar.[114]

Á því sem hér hefur verið tínt til úr gerðabókum fasteignamatsnefndanna frá árunum kringum 1920 má sjá að Guðmundur á Þorfinnsstöðum hefur bætt jörð sína mjög verulega og þar voru húsakynni með myndarbrag þó að enn væri búið í baðstofu að fornum hætti. Af 52 býlum í Mosvallahreppi árið 1921 voru aðeins 9 með hærra mat á jarðarhúsum og húsum ábúenda heldur en Þorfinnsstaðir.[115]

Guðmundur Á. Eiríksson átti alllengi sæti í hreppsnefnd Mosvallahrepps og var stundum oddviti hennar.[116] Við embætti hreppstjóra tók hann árið 1888 og gegndi því mjög lengi.[117] Það kom í hans hlut að tilkynna Skúla Thoroddsen sýslumanni að grunur hefði fallið á Sigurð Jóhannsson, húsmann á Eyri, um að vera með beinum eða óbeinum hætti valdur að dauða Salómons Jónssonar, er líka átti heima á Eyri en fannst dauður uppi á Klofningsdal 22. desember 1891 (sjá hér Eyri).[118] Bréfið sem Guðmundur á Þorfinnsstöðum skrifaði Skúla sýslumanni næsta dag er fyrsta skjalið af fjöldamörgum er snerta rannsóknina á dauða Salómons og þau eftirmál er í kjölfar hennar fylgdu – Skúlamálin svonefndu – er um alllangt skeið skiptu íbúum Ísafjarðarsýslu og Ísafjarðarkaupstaðar upp í tvær harðvítugar pólitískar fylkingar, albúnar til bardaga af hvaða tagi sem vera skyldi. Um þau átakamál verður ekki ritað hér, enda hefur margt og mikið verið um þau skrifað. Aðeins skal minnt á að það kom í hlut Guðmundar hreppstjóra á Þorfinnsstöðum að fara með Sigurði Jóhannssyni, Halldóri Torfasyni lækni og þremur vitnum í húskofa á Flateyri þar sem lík Salómons beið enn greftrunar þann 30. desember og hyggja að viðbrögðum Sigurðar er hann stæði frammi fyrir líki Salómons.[119] Hreppstjórinn taldi að þar inni hefði Sigurður, sem menn nefndu skurð, skipt litum[120] en léttvægt sönnunargagn var það og á hinn grunaða sannaðist aldrei neitt, enda varðist hann vasklega. Guðmundur á Þorfinnsstöðum mun nokkuð oft hafa látið að sér kveða sem hreppstjóri en bréfið, sem hann sendi sýslumanni vegna dauða Salómons Jónssonar, dró á eftir sér lengstan slóða allra hans mörgu embættisverka. Við því mátti reyndar búast því að einsdæmi var það á dögum Guðmundar að upp kæmu alvarlegar grunsemdir um manndráp í umdæmi hans.

Um embættisstörf Guðmundur er reyndar ekki ætlunin að fjalla nú en þess skal getið að Snorri Sigfússon, sem var skólastjóri á Flateyri frá 1912 til 1930, segir að hreppstjórinn á Þorfinnsstöðum hafi þá haft mest völd allra sinna sveitunga.[121]

Hér var þess áður getið að Guðmundur á Þorfinnsstöðum hefði tekið mikinn þátt í félagsmálum og verið fyrsti formaður Búnaðarfélags Önfirðinga sem stofnað var árið 1886. Um svipað leyti og búnaðarfélagið hóf starfsemi var Guðmundur líka formaður lestrarfélags er þá var starfandi í Mosvallahreppi.[122]

Í desembermánuði árið 1888 ákvað hópur manna í Önundarfirði að leita eftir inngöngu í Kaupfélag Ísfirðinga, hið elsta, sem þá hafði nýlega verið stofnað og var rekið sem pöntunarfélag (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Með þessum félagssamtökum hugðust bændur taka verslunina í sínar eigin hendur svo kaupmenn gætu ekki lengur haft þá að féþúfu. Fundurinn sem tók þessa ákvörðun var haldinn á Þorfinnsstöðum 27. desember 1888[123] og óhætt mun að slá því föstu að Guðmundur, bóndi þar, hafi ásamt Jóni Guðmundssyni á Grafargili haft forgöngu um stofnun kaupfélagsdeildarinnar í Önundarfirði. Í júnímánuði árið 1889 kom fyrsta vörusendingin frá útlöndum til kaupfélagsmanna þar[124] og fullvíst er að það var Guðmundur á Þorfinnsstöðum sem hafði reikningshaldið á hendi[125] og mun hafa átt að sjá um að menn stæðu í skilum. Þessum fyrstu verslunarsamtökum bænda í Önundarfirði varð ekki langra lífdaga auðið. Af einhverjum ástæðum virðast þau hafa lognast út af árið 1890 en þá var komin upp hugmynd um að versla undir eins manns nafni,[126] það er að sameinast um að versla hjá þeim kaupmanni sem hagstæðust kjör byði í það og það skiptið. Líklega hefur myndun slíkra samtaka þó aldrei orðið að veruleika hjá Önfirðingum. Árið 1918 var Kaupfélag Önfirðinga stofnað en það félag hélt uppi verslunarrekstri á Flateyri í yfir 70 ár. Við stofnun Kaupfélags Önfirðinga voru nær 30 ár liðin frá myndun fyrstu verslunarsamtaka bænda í Mosvallahreppi. Á þeim 30 árum hafði margt breyst en Guðmundur á Þorfinnsstöðum var enn á sínum stað og var árið 1918 valinn í fyrstu stjórn hins nýja samvinnufélags.[127]

Forvitnilegt gæti verið að skoða framgöngu Guðmundar Á. Eiríkssonar á þjóðmálafundunum, sem haldnir voru nær árlega í Vestur-Ísafjarðarsýslu frá því um 1890 og fram undir miðja tuttugustu öld, en samkomur þessar var snemma farið að nefna þing- og héraðsmálafundi. Hér verður þó aðeins staldrað við á fundinum sem haldinn var í verkamannahúsinu á Höfðaodda í Dýrafirði 6. janúar 1891 en sá fundur virðist reyndar hafa verið hinn fyrsti í langri röð slíkra þjóðmálafunda, þar sem menn úr hreppunum milli Stiga og Langaness komu saman í því skyni að ræða mál sem efst voru á baugi hverju sinni, móta stefnu og bera fram sameiginlegar kröfur.

Á fundinum 6. janúar 1891 hafði Guðmundur á Þorfinnsstöðum framsögu bæði um stjórnarskrármálið og alþýðumenntunarmálið.[128] Í ræðu sinni um stjórnarskrána lagði hann áherslu á að skipan efri deildar Alþingis yrði breytt[129] en þar áttu þá sæti 6 konungkjörnir þingmenn og 6 þjóðkjörnir svo hinir konungkjörnu gátu stöðvað framgang lagafrumvarpa. Krafa bóndans á Þorfinnsstöðum var sú að stöðvunarvaldi hinna konungkjörnu í efri deild yrði hnekkt og einnig vildi hann takmarka vald konungs til að synja lagafrumvörpum, er Alþingi hefði samþykkt, um staðfestingu.[130]

Í Þjóðviljanum, blaði Skúla Thoroddsen, sýslumanns á Ísafirði, er birt frásögn af ræðu Guðmundar um alþýðumenntunarmálið á þessum sama fundi. Þar segir:

 

  1. Eiríksson kvað það mega öllum ljóst vera að hið fyrsta skilyrði sannra þjóðarþrifa og framfara væri menntun alþýðu. En vegurinn til þess væri að fá upp unglingaskóla. Með því fengjust menntaðir unglingar sem gætu kennt börnunum heima fyrir. Talað hefði verið um að fá upp unglingaskóla fyrir hvert sýslufélag en hætt væri við að þeir skólar yrðu ekki sóttir af öðrum en þeim sem næstir væru. Heppilegra væri að fá upp skóla í hverri sveit. Kostnaður ætti ekki að þurfa að koma frá landssjóði heldur frá hlutaðeigandi sveitarfélögum og kvaðst hann álíta heppilegast að sameina prest og skólakennara, kirkju og skóla. Þannig ættu öll gjöld til þessa að renna í sveitarsjóð sem svo aftur gyldi prestinum og héldi við kirkju- og skólahúsi.[131]

 

Tillaga, sem Guðmundur flutti um málið, var borin upp á fundinum og samþykkt með meirihluta atkvæða en hún var á þessa leið: Fundurinn leyfir sér að benda á hvort eigi mundi heppilegt til eflingar alþýðumenntuninni að sameina prest og kennara, kirkju og skólahús.[132]

Vera má að ýmsum nútímamönnum kunni að virðast þessi boðskapur frá Þorfinnsstöðum um að breyta kirkjunum í skólahús og sameina prest og kennara svolítið kindarlegur en hafa ber í huga að tillagan var borin fram 16 árum áður en fræðslulögin frá 1907 tóku gildi og börn urðu almennt skólaskyld á Íslandi. Hugmyndin á bak við stofnun unglingaskólans á Núpi í Dýrafirði, sem tók til starfa 4. janúar 1907, var líka að vissu marki í samræmi við boðskap Guðmundar á Þorfinnsstöðum frá árinu 1891 því þar var það presturinn, séra Sigtryggur Guðlaugsson, sem hafði alla forystu á hendi og sá einnig um kennsluna.

Ljóst er að Guðmundur Á. Eiríksson hefur látið sig menntun barna og unglinga miklu skipta. Á Þorfinnsstöðum hófst skólahald löngu áður en fræðslulögin frá 1907 gengu í gildi. – Byrjuðu þeir að læra á Þorfinnsstöðum, Jóhannes Guðmudsson frá Tungu og Sumarliði Jónsson frá Mosdal, segir í heimild frá nóvembermánuði árið 1888.[133]

Þeir Sumarliði og Jóhannes gátu reyndar varla talist unglingar er þeir fóru til náms að Þorfinnsstöðum, annar 24 og hinn 25 ára.[134] Sumarliði varð síðar bóndi í Mosdal en Jóhannes fluttist til Dýrafjarðar og var síðast húsmaður á Bessastöðum í landi Mýra.[135] Hann var formaður á bátnum sem flutti Hannes Hafstein sýslumann út að breska togaranum Royalist þann 10. október 1899 og drukknaði þann dag á Dýrafirði í viðureign við hina bresku landhelgisbrjóta (sjá hér Mýrar).

Líklegt er að frá 1888 hafi einhverri kennslu í bóklegum fræðum verið haldið uppi á Þorfinnsstöðum flesta vetur, allt þar til Guðmundur Á. Eiríksson hætti að búa og einnig fyrstu árin þar á eftir. Í októbermánuði árið 1893 lætur Jón Guðmundsson á Grafargili þess getið í dagbók sinni að búið sé að ráða Margréti Magnúsdóttur, kærustu Jens Guðmundssonar, til að kenna börnum á Þorfinnsstöðum á komandi vetri.[136] Margrét sú sem þarna er nefnd mun hafa verið sonardóttir séra Arnórs Jónssonar, prests í Vatnsfirði, en hún giftist Jens A. Guðmundssyni búfræðingi er síðar varð kaupmaður á Þingeyri.[137]

Skólahús var reist á Þorfinnsstöðum árið 1904[138] þremur árum fyrir samþykkt fræðslulaganna frá 1907. Tótt hússins er enn sjáanleg þar í túninu, mjög skammt frá akveginum og í um það bil 50 metra fjarlægð frá heimreiðinni að bænum, sjávarmegin við hana.[139] Í þessu skólahúsi hélt Guðmundur Hjaltason alþýðufræðari fyrirlestur haustið 1914 á ferðalagi sínu um Vestfirði.[140] Hann kynnti sér þá bókakost feðganna á Þorfinnsstöðum, Guðmundar Á. Eiríkssonar og sona hans, og furðaði sig á að sjá þar bókina Flóra Bretlandseyja sem Jón ostagerðarmaður, sonur Guðmundar, mun hafa átt.[141] Allt bendir til þess að sjálfur hafi Guðmundur hreppstjóri verið vel heima á mörgum sviðum og í ritgerð sinni um Guðmund fullyrðir Snorri Sigfússon að Stjórnartíðindi og Alþingistíðindi hafi hann þaullesið fram á elliár.[142] Um stjórnmálaáhuga Guðmundar þarf ekki að efast og Snorri segir reyndar að á ráðherraárum sínum hafi Hannes Hafstein boðið hreppstjóranum á Þorfinnsstöðum að verða konungkjörinn þingmaður en Guðmundur hafi hafnað því boði.[143]

Snorri Sigfússon lýsir Guðmundi svo að hann hafi verið stór og föngulegur, fríður sýnum, greindarlegur og góðmannlegur, með festu í svip og fasi.[144] Vinnulagi hreppstjórans, þegar komast þurfti til botns í flóknum málum, lýsir Snorri með þessum orðum:

 

Hann reyndi ávallt að setja sig sem rækilegast inn í hvert það málefni sem hann þurfti að fást við, velta því sem best og rækilegast fyrir sér, lesa sér til ef eitthvað slíkt var að hafa og taka síðan þá ákvörðun sem flest rök mæltu með að rétt væri. Það varð því aldrei neinn flaustursgangur í kringum hann en deilur um eitt og annað gátu stundum tekið sinn tíma. Og erfitt gat þótt að sannfæra hann um að rétt væri að breyta um skoðun.[145]

 

Á gamalsaldri fluttist Guðmundur á Þorfinnsstöðum norður í Ófeigsfjörð á Ströndum, til sonar síns sem orðinn var bóndi þar.[146] Hann andaðist í Ófeigsfirði haustið 1945, kominn á tíræðisaldur, en var jarðsettur á Kirkjubóli í Valþjófsdal.[147] Í Íslenskum æviskrám segir um Guðmund að hann hafi verið málafylgjumaður en sáttfús.[148] Þar er þess einnig getið að hann hafi oft skrifað í blöðin og í Ársriti Sögufélags Ísfirðinga frá árinu 1957 er að finna merka ritgerð sem þessi atkvæðamikli bóndi á Þorfinnsstöðum skrifaði um aldarhátt í Önundarfirði á 19. öld. Sumt af þeim fróðleik sem þar er að finna þótti við hæfi að birta á ný í þessu riti eins og sjá má í inngangskaflanum um Mosvallahrepp.

Dvöl okkar á Þorfinnsstöðum er senn á enda en ekki megum við fara héðan án þess að hyggja fyrst að gömlum og merkilegum mannvirkjum. Neðan við túnið á Þorfinnsstöðum var Þorfinnsstaðaá brúuð haustið 1881[149] og mun það vera fyrsta brúarsmíð sem um er kunnugt í Önundarfirði.[150] Brúin var byggð fyrir samskotafé en hana tók af í kafaldsstormi 29. janúar 1882.[151] Önnur brú mun þó fljótlega hafa verið reist í stað þessarar en 8. nóvember 1891 svipti stórviðri henni niður í ána.[152] Umhverfis þessa brú var grindverk 9 og 11 tommur á kant, 16 álnir á lengd.[153] Veturinn 1891-1892 var brúin endurbyggð[154] og síðan þá mun yfirleitt hafa verið unnt að komast þurrum fótum yfir ána. Ekki er nú vitað með vissu hvar elsta brúin stóð en kunnugir telja líklegast að hún hafi staðið rétt fyrir neðan brúna sem nú er ekið yfir.[155] Þar sjást ummerki eftir brú sem þar var næst á undan þeirri sem nú er.

Rétt framan við brúna kom Jón Á. Guðmundsson, ostagerðarmaður á Þorfinnsstöðum (sjá hér bls. 10-11), sér upp íshúsi og var það grafið inn í bakkana ofan við árdalinn.[156] Engin ummerki þessa húss eru nú sýnileg.

Skólahúsið, sem reist var á Þorfinnsstöðum árið 1904, var yst og neðst í gamla túninu þar.[157] Um 1920 var húsið virt á 1.400,- krónur en önnur hús á Þorfinnsstöðum voru þá virt á 3.370,- krónur samtals og er þá ótalið hús Jóns ostagerðarmanns sem var virt á 200,- krónur.[158] Skólahúsið mun hafa verið rifið á árunum upp úr 1940[159] en þá var farið að kenna í samkomuhúsi Dalmanna á Kolbeinsholti í landi Tungu (sjá hér Tunga).

Hér á Þorfinnsstöðum er nú komið að kveðjustund. Við horfum upp í fjallshlíðina þar sem bæjarlækurinn rennur niður Bæjargilið og þornar aldrei.[160] Svo lítum við enn einu sinni yfir túnið og rifjum upp að á gömlu túngirðingunni voru að minnsta kosti fimm hlið.[161] Upp af brúnni var Brúarhlið. Væri farið fram að Grafargili lá leiðin um Fremrahlið. Fjallmegin var Efrahlið en ef stefnan var tekin inn á Ófæruhlíð og inn í Hjarðardal var gengið um Innrahlið.[162] Loks var það Móahliðið en neðan við það lá sjávargatan. Okkar för er heitið inn í Hjarðardal. Án þess að leggja umtalsverða lykkju á leið okkar röltum við samt fyrst niður að Þorfinnsstaðasjó en eins og fyrr var nefnt er sjávargatan frá Þorfinnsstöðum tæplega einn kílómetri á lengd.

Í Jarðabókinni frá 1710 segir að ekki sé með góðu móti hægt að stunda sjóróðra úr heimavör Þorfinnsstaðafólks því þar sé brimasamt og illt að vakta skip frá skaða.[163] Ekki er heldur kunnugt um að sjór hafi verið sóttur héðan að einhverju marki á síðari tímum.[164] Á fyrsta þriðjungi tuttugstu aldar voru samt miklar tóttir hér við lendinguna sem heimafólk á Þorfinnsstöðum taldi sýna að hin fornu naust á þessum stað hefðu verið býsna stór í sniðum.[165] Allar þessar totter, neðan við sjávarbakkana í landi Þorfinnsstaða, eru nú horfnar og mun Dalsáin hafa sópað þeim burt þegar hún flæmdist úr farvegi sínum og rann hér inn með ströndinni um skeið.[166]

 

 

Leiðin um Ófæruhlíð

 

Leiðin frá Þorfinnsstöðum að Ytri-Hjarðardal, sem er næsti bær inn með firðinum, er um það bil fimm og hálfur kílómetri. Meginhluti þessarar leiðar liggur með sjó, undir norðurhlíð Þorfinns og þar er Ófæran sem oft var mjög erfið yfirferðar á fyrri tíð. Við Þorfinnsstaðasjóinn kveðjum við Valþjófsdal og hefjum gönguna inn hlíðina norðan undir Þorfinni. Við fylgjum bílveginum en hér hefur nú (1993) verið akfært í nær hálfa öld, allt frá árinu 1949 (sjá Firðir opg fólk 1900-1999,347). Fjallið Þorfinnur rís hér snarbratt upp frá fjarðarströndinni með klettabrún í um það bil 700 metra hæð. Þar sem ganga okkar inn með firðinum hefst sveigjum við fyrir norðvesturrönd fjallsins. Hátt í þessari fjallsrönd eru tveir hjallar og heitir þar Hærrihjalli.[167] Sker eru hér við sjóinn. Skammt innan við árósinn í Valþjófsdal er Litlasker.[168] Á því sást jafnan vel hvernig stóð á sjó og hvort fjöruleiðin úr Valþjófsdal út í Mosdal og á Ingjaldssand væri fær.[169] Nokkru innar, um það bil miðja vega milli áróssins og Ófæru, er Langasker sem gengur í sjó fram og er talið tíu faðma langt.[170] Gamla leiðin lá úr fjörunni um Skollagötu en dálítið innan við hana komu menn að fyrrnefndri Ófæru sem var erfiðasti farartálminn á alfaraleið í öllum hreppnum. Nú er Skollagatan horfin en akvegurinn sem sprengdur var inn í bergið liggur yfir Ófærunefið.

Ófæra þessi, sem menn nefndu Dalsófæru[171] til aðgreiningar frá öðrum slíkum, er yst á hlíðinni norðan undir Þorfinni en hlíðin heitir Ófæruhlíð.[172] Frá árósnum í Valþjófsdal inn að Ófærunni eru varla nema 500 til 700 metrar.

Dalsófæra er klettastallar sem ganga í sjó fram en Ófærunefið er fremsti hluti þeirra. Fyrir það var algerlega ófært gangandi fólki nema á fjöru og með hesta varð ekki komist fyrir Ófæruna á fjöru nema stórstreymt væri.[173] Leiðin lá því yfir þessi klettaklungur. Í lýsingu séra Sigurðar Jónssonar á Holtsprestakalli er hann ritaði árið 1709 segir: Örðugleiki þessa kalls fyrir sóknarprestinn er sá mestur sem er út í Valþjófsdal að ferðast yfir Ófæruhlíðina … einkum vetrardag þá hálka eður harðfönn er og ei gefur sjóleiðis að flytja.[174]

Sumarið 1790 var Hannes Finnsson biskup í vísitazíuferð um Vestfirði. Skrifari hans þá var Steingrímur Jónsson, síðar biskup. Þann 13. ágúst voru þeir fluttir á báti úr Holti út í Valþjófsdal. Um Dalsófæru ritar Steingrímur í dagbók sína þann dag og segir: Þar mátti fara landveg svo tæpan við sjó að hestur skal tæpast komast með þófareiði; þar eru lögð borð sem á verður að gánga, en bjargið slútir fram yfir.[175]

Nánari lýsing á Dalsófæru er frá árinu 1840 en höfundur hennar er séra Tómas Sigurðsson, sem þá var prestur í Holti og varð að fara Ófæruna til að komast á annexíuna í Valþjófsdal. Lýsing séra Tómasar er svona:

 

Á veginum frá Holti til annexíunnar er sá nafnkunni háskalegi vegur, kallaður Dalsófæra, framan í bröttum, mjög tæpum klettum, hvar undir er sjór hvínandi. Yfir um klettaglufuna eru lögð þrjú tré á klettasnasirnar, að lengd 14-16 álna, en þau hvert við annað lagt er breiddin sem yfir er farið undir framslútandi circa yfir tvítugt háu bjargi. Trén eru hulin hellum og sandi. Hest berbakaðan má teyma yfir þetta sumardag eða þá autt er af snjó og klaka. Úr klettunum fyrir ofan drýpur vatn niður á trén sem í frostum verður að framflegnum, bröttum svellbunka, hvar af þessi vegur verður þá hart nær ófær öllum skepnum nema með því að höggva spor í klakann. Lík þessu verður svonefnd Ófæruhlíð, dalmegin Ófærunnar, þegar snjóar hafa gengið miklir og blotar koma, við hvað hún verður framflegin og nær ófær um að komast, utan færustu mönnum. Þess utan er um þennan annexíuveg sífellt steinkast þegar rigningar ganga og framúrskarandi skriðuhrun.[176]

 

Þessi greinargerð séra Tómasar gefur mjög skýra mynd af því við hvaða erfiðleika var að etja á vetrarferðum um Ófæruhlíð og þarf þar ekki mörgu við að bæta.

Þegar Þorvaldur Thoroddsen náttúrufræðingur reið úr Holti út í Valþjófsdal sumarið 1887 lágu trén, sem séra Tómas greindi frá, enn yfir klettagjána í Ófærunni. – Eru þar tré lögð yfir skarð í klettunum og reft yfir, segir Þorvaldur[177] en á öðrum stað er frá því greint að gjáin eða gilið í Ófærunni hafi oft verið brúað með hvalbeinum.[178]

Í elsta máldaga kirkjunnar á Kirkjubóli í Valþjófsdal segir að sóknarmörk milli Holtssóknar og Kirkjubólssóknar skuli vera við Hrossagötugil (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal). Máldagi þessi er frá árinu 1470. Örnefnið Hrossagötugil þekkist nú ekki en býsna líklegt verður að telja að það sé gilið í Ófærunni sem borið hafi þetta nafn, enda þótt mörk sóknanna séu nú lítið eitt innar á hlíðinni, nefnilega við Einhamar á landamerkjum Þorfinnsstaða og Hjarðardals.

Í lok hundadaga sumarið 1892 tók Margrét Jóhannesdóttir, húsfreyja í Dalshúsum, léttasótt og var Finnur Eiríksson, bóndi á Kirkjubóli, fenginn til að sækja ljósmóðurina sem átti heima á Innri-Veðrará. Jóhannes Davíðsson, sem var vel kunnugur Finni, segir svo frá ferðalagi hans:

 

Haust eitt í náttmyrkri þurfti kona í Dalnum á ljósmóður að halda en ljósmóðir sveitarinnar var búsett inni í firði á Innri-Veðrará. Var þá sem oftar leitað til Finns og brást hann vel við að vanda, söðlaði hesta og reið af stað. … Þegar kom að Ófærunni stoppaði hesturinn sem Finnur reið og vildi ekki fara lengra. Fór hann þá af baki til að aðgæta hverju þetta sætti og sá þá að Ófæran var hrunin. Sneri hann þá við heim í Dal og vakti bóndann í hærri bænum og bað hann að setja fram bát og koma inn fyrir Ófæruna og sagði honum hvað í efni væri. Reið samstundis út í náttmyrkrið og niður að sjó og inn fjöru að Ófærunni og sundreið fyrir framan þar sem ófært var. Hélt síðan áfram inn að bæ yfirsetukonunnar og fylgdi henni út að Ófærunni en þar beið báturinn og sundreið síðan sjálfur út fyrir Ófæruna. Konu og barni var borgið.[179]

 

Barnið sem fæddist í Dalshúsum í Valþjófsdal þann 22. ágúst 1892, daginn sem Ófæran hrundi, var Jón S. Steinþórsson[180] sem náði að verða 100 ára gamall og andaðist í Reykjavík 3. janúar árið 1994.

Jóhannes Davíðsson segir hér að sjálf Ófæran hafi hrunið en til skýringar er máske rétt að taka fram að það var Ófærubergið yfir hinni örmjóu klettagötu sem hrundi yfir götuna svo að leiðin lokaðist. Jón Guðmundsson á Grafargili segir í dagbók sinni 22. ágúst 1892 að svo mikið hafi hrunið úr efra berginu að menn hafi með engu móti getað komist leiðar sinnar, hvorki gangandi eða ríðandi þar sem vegurinn var.[181]

Við hrun Ófærunnar lokaðist alveg eina samgönguleiðin á landi milli fólksins í Valþjófsdal og Mosdal og annarra íbúa Mosvallahrepps og ýmsum mun í fyrstu hafa virst að sú lokun hlyti að vera varanleg því stórvirki í vegagerð voru þá enn óþekkt hér um slóðir. Á Hvilftarströnd, handan Önundarfjarðar, var þó hafin lagning vagnvegar fyrir forgöngu Hans Ellefsen, forstjóra hvalveiðistöðvarinnar á Sólbakka (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Verkstjóri við þá vegagerð sumarið 1892 var Jón Guðmundsson á Grafargili í Valþjófsdal.[182]

Daginn eftir að Ófærubergið hrundi var ákveðið að ráðast þegar í stað til atlögu við björgin sem lokað höfðu alfaraleið og reyna að sprengja fyrir nýjum vegi yfir klettaklungrin í Ófærunni.[183] Líklega hefur það verið Hans Ellefsen, hvalveiðiforstjóri á Sólbakka, sem réði mestu um það að svo skjótt var brugðist við. Í blaðagrein frá árinu 1903 kemst Bóas Guðlaugsson, þáverandi oddviti Mosvallahrepps, svo að orði um þátt Ellefsens í gerð nýja Ófæruvegarins:

 

Þá lagði herra Ellefsen til ókeypis ötulan mann er réð fyrir því að bora og sprengja fram klettinn og gera þar greiðan og tryggan veg yfir og lagði hann jafnframt til sprengiefni og tók enga borgun fyrir.[184]

 

Jón Guðmundsson á Grafargili og Norðmaður frá hvalveiðistöðinni á Sólbakka tóku að sér stjórn verksins.[185] Að sprengingum og lagningu nýs vegar yfir Ófæruna var unnið á vegum hreppsins eins og sjá má á skýrslu Jóns á Grafargili um launagreiðslur fyrir vinnu við Ófæruna þetta sumar en hún ber yfirskriftina Skýrsla um hreppsvegagerð í Mosvallahreppi 1892.[186]Byrjuðum við að sprengja fram Ófæruklettinn með púðri, skrifar Jón á Grafargili í dagbókina þann 24. ágúst[187] en þau orð hans sýna að hafist var handa aðeins tveimur dögum eftir að leiðin lokaðist. Jón lætur þess getið að Norðmaður, Hans að nafni, hafi haft umsjón með sprengingunum[188] og Þórður Sigurðsson í Breiðadal segir í ritgerð sinni um upphaf vegagerðar í Önundarfirði að Norðmaður þessi hafi verið verkfræðingur.[189] Þau ummæli verða ekki seld hér dýrar en þau voru keypt en benda má á að á árunum 1892 og 1893 bjó maður að nafni Hans Hansen á Sólbakka hjá Ellefsen og er nefndur verkamaður í sóknarmannatölum.[190] Hvort þetta muni vera sami maður skal ósagt látið. Norski Hans hafði 4,25 krónur í kaup fyrir hvern vinnudag við Ófæruna en dagkaup Jóns var 4,00 krónur.[191] Kaup annarra sem þarna unnu var lægra.[192] Til samanburðar skal þess getið að hjá þeim sem unnu á hvalveiðistöðinni á Sólbakka mun algengt mánaðarkaup hafa verið 30-40 krónur auk fæðis[193] eða frá 1,20 krónum til 1,60 krónur á dag.

Svo virðist sem norski Hans, sem stjórnaði verkum við sprengingarnar ásamt Jóni á Grafargili, hafi hætt eftir tæpan mánuð því 22. september 1892 flutti Jón hann yfir á Flateyri[194] og eftir það verður hans ekki vart í dagbókarskrifum samverkamannsins. Jón á Grafargili og fleiri héldu hins vegar áfram við sprengingar og vegagerð yfir Ófæruna til 28. október um haustið.[195] Þá var verkið langt komið en vorið 1893 var þó unnið að frágangi í nokkra daga, frá 12. til 18. maí.[196] Þessa daga stjórnaði Jón á Grafargili verkinu og segir í dagbók sinni 13. maí: Vorum við Ófæruna, skutum 4 skot, þar af eitt með dynamiti.[197]

Er vegaframkvæmdum lauk við Ófæruna vorið 1893 mun leiðin yfir þessa erfiðu torfæru hafa verið orðin miklu betri en áður[198] og nú hafði sjálft Ófærugilið, sem áður var farið yfir á trébjálkum eða hvalbeinum, verið fyllt upp með grjóti.[199] Enn var þetta þó tröllavegur og gat orðið alveg ófær að vetrarlagi. Til er lýsing kunnugra á Ófærunni eins og hún var á fyrstu áratugum tuttugustu aldar en þá mun götuslóðinn og umhverfi hans hafa litið út eins og frá var gengið vorið 1893. Þar segir:

 

Að innanverðu [það er innan við Ófærunefið – innsk. K.Ó.] er sprengd hilla í klettinn og er rið fyrir framan en í gil það, sem er fyrir innan nefið eða í beygjunni þar sem nefið beygist fram, er hlaðin cirka 2ja mannhæða há hleðsla. Stykkið frá hleðslunni og út á nefið, þar sem taka við aurskriður alllangan spöl út eftir, heitir Ófæra … . Síðasti spölurinn yfir nefið heitir Sleppið. … Gatan sem nú tekur við er uppi á háum klettum og getur verið illt að fara hana vetrardag, nefnilega þegar allt er framflegið af hjarni og svelli.[200]

 

Svo þröngur var þessi klettastígur að jafnan var illfært fyrir konur sem sátu í söðli og algerlega ófært með hesta væru baggar á báðum síðum.[201]

Til marks um erfiðleikana við að komast yfir Ófæruna þegar svellalög huldu götuslóðann verður hér að lokum tekin upp frásögn alþýðuskáldsins Magnúsar Hjaltasonar sem veturinn 1897-1898 var heimiliskennari á Brekku á Ingjaldssandi. Hann var þá á heimleið úr Súgandafirði á Ingjaldssand um miðjan mars og segir svo í dagbók:

 

Hélt frá Botni áleiðis heim. Gekk á ís yfir Önundarfjörð undan Veðrará innri. Fór járnalaus Ófæruna milli Hjarðardals og Valþjófsdals er tveir menn járnaðir höfðu snúið frá um daginn. Var boðið að gista á Kirkjubóli í Valþjófsdal sem ég þáði.[202]

 

Vart þarf að efa að margir muni hafi orðið að grípa til járna til að komast um torleiði þetta í vetrarferðum en í lýsingu ferðamanns, sem fór hér um haustið 1914, kemur fram að þá var búið að koma upp 9-10 faðma langri stólpagirðingu[203] og mun handriði þessu hafa verið ætlað að varna því að menn hröpuðu úr örmjórri klettagötunni fyrir björg.

Frá þjóðveginum innan við Ófæruna er gott að virða hana fyrir sér. Neðan við veginn heldur Ófærunefið enn sínum forna svip. Þarna í klettanefinu miðju lá gamla gatan, þar sem nú er svolítill grasblettur, og er álíka langt þaðan upp á akveg og niður í fjöru.[204] Einmitt þarna var handriðið sem Guðmundur Hjaltason nefndi stólpagirðingu og hafði Guðmundur Á. Eiríksson á Þorfinnsstöðum smíðað boltana í það.[205] Handriðið góða gegndi hér sínu hlutverki alveg þangað til bílvegurinn var lagður[206] árið 1949.

Enginn þarf nú lengur að óttast ygglibrún Ófærunnar því hér er kominn ágætur akvegur sem gott er að ganga en mynd alþýðuskáldsins sem skreið hér járnalaus um svellin fyrir 100 árum sækir á hugann. Innan við Ófæruna taka við Bjargaklettar meðfram sjónum og er hún í raun ysti hluti klettanna. Frá Ófærunni ná þeir hálfa leið inn að Einhamri sem er stakur klettur ofan við miðja hlíð.[207]

Við Einhamar eru landamerki Þorfinnsstaða og Ytri-Hjarðardals og þar eru líka mörk kirkjusóknanna tveggja í Holtsprestakalli.

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII, 95-99.

[2] Vigfús Ebenezersson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1993.

[3] Óskar Einarsson 1951 130-132.

[4] Sama heimild.

[5] Sama heimild, 131.

[6] Sama heimild, 130.

[7] Guðmundur Hallgrímsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1993.

[8] Óskar Ein. 1951, 131.

[9] Óskar Ein. 1951, 131. Örnefnaskrá.

[10] Óskar Ein. 1951, 131. Örn.skrá.

[11] Sama heimild, 130. Örn.skrá.

[12] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 147 og

Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916, bls. 67.

[13] Sama heimild.

[14] Sama heimild.

[15] Jarðab. Á. og P. VII, 99-100.

[16] Vestfirskar sagnir II, 80-88.

[17] Vestf. sagnir II, 87. Sbr. þar bls. 327-328.

[18] D.I. IV, 602-603.

[19] Sama heimild.

[20] Jarðab. Á. og P. VI, 278.

[21] D.I. IV, 602-603.

[22] Sama heimild.

[23] D.I. V, 535-536.

[24] D.I. V, 535-536.

[25] D.I. V, 535-536.

[26] D.I. XV, 473 og 521-522.

[27] Sama heimild.

[28] Sama heimild, 473.

[29] Jarðabréf frá 16. og 17. öld – Útdrættir, bls. 169-170.

[30] Jarðab. Á. og P. VII, 99.

[31] Sama heimild.

[32] Sama heimild.

[33] J. Johnsen 1847, 195.

[34] Sama heimild.

[35] Jarðab. Á. og P. VII, 99.

[36] Sama heimild.

[37] J. Johnsen 1847, 195.

[38] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.

[39] Manntal 1703.

[40] Jarðab. Á. og P. VII, 99.

[41] Sama heimild.

[42] Sama heimild.

[43] Sama heimild.

[44] Manntal 1762.

[45] Sama heimild.

[46] Manntöl 1801, 1816, 1835 og 1840.

[47] Manntöl 1845, 1850, 1855, 1870, 1880 og 1890. Firðir og fólk 1900-1999,346.

[48] Lbs. 12884to, bls. 57-61.

[49] Manntöl 1801 og 1816.

[50] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[51] Manntal 1816.

[52] Sama heimild.

[53] Manntal 1835.

[54] Manntal 1840.

[55] Manntöl 1840, 1845, 1850 og 1855.

[56] Manntal 1816.

[57] Manntal 1801. Sbr. Manntal 1816 – vesturamt, bls. 693 og 695.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[58] Ól. Þ. Kr. 1945, 155.

[59] Sama heimild.

[60] Sama heimild. Snorri Sigfússon 1977, 71. Sóknarmannatöl Holtsprestakalls.

[61] Vestfirskar ættir I, 380. Snorri Sigfússon 1977, 71.

[62] VA III, 424, búnaðarskýrsla 1880.

[63] Sama heimild.

[64] Sama heimild.

[65] Sbr. VA III, 421, búnaðarskýrsla 1870.

[66] Lbs. 45824to, Dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili 22.10.1883.

[67] Prestsþj.b. Holtspr.kalls.

[68] Vestf. ættir I, 380.

[69] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 147.

[70] Snorri Sigfússon 1977, 70.

[71] Sama heimild.

[72] Sama heimild.

[73] Sama heimild, 71.

[74] Ól. Þ. Kr. 1945, 155.

[75] Snorri Sigfússon 1977, 71-72.

[76] Sama heimild.

[77] Sama heimild.

[78] Sama heimild, 77.

[79] Hsk. á Ísaf. nr. 0123. Höfuðbók frá útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri, bls. 130.

[80] Sama heimild.

[81] Hsk. á Ísaf. nr. 0123. Höfuðbók frá útibúi Ásgeirsverslunar á Flateyri, bls. 130.

[82] Sama heimild.

[83] Sama heimild.

[84] Sama heimild.

[85] Sama heimild.

[86] Sama heimild.

[87] Sama heimild.

[88] Sama heimild.

[89] Sama heimild.

[90] Snorri Sigfússon 1977, 71.

[91] Snorri Sigfússon 1977, 71.

[92] Sigurður Sigurðsson 1937, 164 (Aldarminning B.Í.).

[93] Lbs. án safnnr. Gögn úr fórum Jóns Guðm., búfr. á Veðrará, bréf Guðm. Á Eiríkssonar 11.1.1888 til Jóns.

[94] Sig. Sig. 1937, 120.

[95] Sama heimild.

[96] Guðmundur Bernharðsson 1985, 15.

[97] Sama heimild.

[98] Guðm. Bernh. 1985, 15-16.

[99] Sig. Sig. 1937, 120.

[100] Guðm. Bernh. 1985, 15.

[101] Sama heimild.

[102] Þorvaldur Thoroddsen / Lýsing Íslands III, 339.

[103] Sama heimild.

[104] Jón H. Þorbergsson / Skýrsla Búnaðarsambands Vestfjarða 1913, bls. 28.

[105] Jens Hólmgeirsson 1978, 132-134. (Ársrit S.Í.).

[106] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916, bls. 67.

[107] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 147.

[108] Sama heimild.

[109] Sama heimild.

[110] Sama heimild.

[111] Sama heimild.

[112] Sama heimild.

[113] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916, bls. 67.

[114] Snorri Sigfússon 1977, 73.

[115] Fasteignabók 1921, 79-80.

[116] Snorri Sigfússon 1977, 71.

[117] Sama heimild.

[118] Jón Guðnason 1968, 142-153.

[119] Sama heimild, 154-157.

[120] Sama heimild.

[121] Snorri Sigfússon 1977, 68.

[122] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 21.10.1888.

[123] Sama dagbók 27.12.1888 – 15.1.1889.

[124] Sama dagbók 16.6.1889.

[125] Lbs. 45824to, Dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili  7.4.1890.

[126] Sama dagbók 27.12.1890 og 3.2.1891.

[127] Snorri Sigfússon 1977, 73.

[128] Þjóðviljinn 26.2.1891.

[129] Sama heimild.

[130] Sama heimild.

[131] Þjóðviljinn 26.2.1891.

[132] Sama heimild.

[133] Lbs. 45824to, Dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili 12.11.1888.

[134] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[135] Sama heimild.

[136] Lbs. 45824to, Dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili 15.10.1893.

[137] Ól. Þ. Kr. 1949, 90 og 1953,112 (Frá ystu nesjum V og VI).

[138] Guðmundur Ingi Kristjánsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.6.1993.

[139] Hagalín Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1994.

[140] Guðmundur Hjaltason / Lögrétta 10.2.1915.

[141] Sama heimild.

[142] Snorri Sigfússon 1977, 76.

[143] Sama heimild, 72.

[144] Sama heimild, 68.

[145] Sama heimild, 69.

[146] Íslenskar æviskrár V, 335.

[147] Snorri Sigfússon 1977, 69.

[148] Ísl. æviskrár V, 335.

[149] Lbs. 45824to, Dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili 1.10.1881.

[150] Sbr. Eyjólfur Jónsson 1986, 145-147 (Ársrit S.Í.).

[151] Lbs. 45824to, Dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili 1.10.1881 og 29.1.1882.

[152] Sama dagbók 8.11.1891.

[153] Sama heimild.

[154] Eyjólfur Jónsson 1986, 145.

[155] Guðm. Hallgrímsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1993.

[156] Örn.skrá. Guðm. Hallgrímsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1993.

[157] Guðm. I. Kristjánsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.6.1993.

[158] Gjörðabók fasteignamatsnefndar V-Ís., löggilt 9.3.1916.

[159] Guðm. Hallgrímsson. – Viðtal K.Ó. við hann 5.7.1993.

[160] Óskar Ein. 1951, 131.

[161] Örn.skrá.

[162] Örn.skrá.

[163] Jarðab. Á. og P. VII, 99-100.

[164] Örn.skrá.

[165] Sama heimild.

[166] Vigfús Ebenezersson. – Viðtal K.Ó. við hann 3.7.1993.

[167] Óskar Ein. 1951, 130.

[168] Sama heimild.

[169] Örn.skrá.

[170] Óskar Ein. 1951, 130.

[171] Sóknalýs. Vestfj. II, 106.

[172] Örn.skrá.

[173] Sama heimild.

[174] Skj.s. prófasta XIII. 1. B. 2., Skjalabók Holts í Önundarfirði 1484-1731, bls. 275.

[175] Veturliði Óskarsson 1993, 142-143 (Ársrit S.Í.).

[176] Sóknalýs. Vestfj. II, 106-107.

[177] Þorv. Thoroddsen: Ferðabók II, 122.

[178] Óskar Ein. 1951, 14-15.

[179] Jóhannes Davíðsson 1976, 98-99.

[180] Prestsþj.bækur og sóknarm.töl Holtspr.kalls.

[181] Lbs. 45824to, Dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili 22.8.1892.

[182] Þórður Sigurðsson 1968, 147 (Ársrit S.Í.).

[183] Lbs. 45824to, Dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili 23.8.1892.

[184] Bóas Guðlaugsson / Vestri 11.4.1903.

[185] Lbs. 45824to, Dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili 23.8.1892.

[186] Sama dagbók, − skýrslan er þar næst á undan dagbókarskrifum frá 13.5.1893.

[187] Sama dagbók 24.8.1892.

[188] Lbs. 45824to, Dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili, − sjá þar sérstaka skýrslu næst á undan dagbókarskrifum 13. maí 1893.

[189] Þórður Sigurðsson 1968, 147 (Ársrit S.Í.).

[190] Sóknarm.töl Holtspr.kalls.

[191] Lbs. 45824to, Dagb. J. Guðm. frá Grafargili − sjá þar sérst. skýrslu næst á undan dagb.skr. 13. maí 1893.

[192] Sama heimild.

[193] Frá ystu nesjum I, 26.

[194] Lbs. 45824to, Dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili 22.9.1892.

[195] Sama dagbók ágúst−október 1892.

[196] Sama dagbók maí 1893.

[197] Sama dagbók maí 1893.

[198] Þórður Sigurðsson 1968, 147 (Ársrit S.Í.).

[199] Óskar Ein. 1951, 130.

[200] Örn.skrá.

[201] Eyjólfur Jónsson. – Viðtal K.Ó. við hann 28.6.1993.

[202] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 15.3.1898.

[203] Guðmundur Hjaltason / Lögrétta 10.2.1915.

[204] Hagalín Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 2.8.1993.

[205] Sama heimild.

[206] Guðm. I. Kristjánsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.6.1993.

[207] Óskar Ein. 1951, 130.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »