Innri – Lambadalur

Innri – Lambadalur

Frá LangaskeriValseyri göngum við á 20 mínútum en eyri þessi skagar lítið eitt fram í fjörðinn og upp frá henni gengur svolítill dalur inn í fjalllendið. Á Valseyri mátti lengi sjá fjölmargar ævafornar búðatóttir og a.m.k. ein slík er þar enn finnanleg (1992). Í Gísla sögu Súrssonar er þess getið að Dýrfirðingar hafi boðið sonum Þorsteins þorskabíts, Þorgrími og Berki, til Hválseyrarþings og þangað hafi þeir komið sunnan af Snæfellsnesi ásamt tíu fylgdarmönnum.[1] Að þingi loknu þágu Snæfellingarnir heimboð í Alviðru og Haukadal.[2] Í sögunni er einnig frá því sagt er Gísli Súrsson og Þorkell bróðir hans og tveir mágar Gísla, Þorgrímur og Vésteinn, sórust allir fjórir í fóstbræðralag á vorþingi fáum árum síðar.[3] Sú frásögn er á þessa leið:

 

Ganga nú út í Eyrarhválsodda og rista þar upp úr jörðu jarðarmen svo að báðir endar voru fastir í jörðu og settu þar undir málaspjót það er maður mátti taka hendi sinni til geirnagla. Þeir skyldu þar fjórir undir ganga, Þorgrímur, Gísli, Þorkell og Vésteinn. Og nú vekja þeir sér blóð og láta renna saman dreyra sinn í þeirri moldu er upp var skorin undan jarðarmeninu og hræra saman allt, moldina og blóðið; en síðan féllu þeir allir á kné og sverja þann eið að hver skal annars hefna sem bróður síns og nefna öll goðin í vitni.[4]

 

Svardaga þessa rauf Þorgrímur þó um leið og þeir stóðu á fætur er hann neitaði að taka í hönd Vésteins bræðralaginu til staðfestingar. Til þeirrar stundar eiga flestir örlagaþræðir sögunnar rót sína að rekja.

Augljóst virðist að höfundur Gísla sögu telji að þingstaðurinn Hválseyri sé í Dýrafirði og að þar á sömu eyri sé að finna bæði Eyrarhvál og Eyrarhválsodda. Nú geta menn sagt sem svo að Gísla saga sé ekki annað en skáldskapur og kynnu að hafa nokkuð til síns máls. En hvað sem því líður er öllum staðháttum í Dýrafirði réttilega lýst í sögunni svo nær engu skeikar og því með öllu fráleitt að höfundur hennar hefði skáldað upp frásagnir af atburðum á Hválseyrarþingi nema vegna þess að því hafi almennt verið trúað á ritunartíma sögunnar að á þeirri eyri hafi þing verið háð á fyrri tíð. Um það hvort Hválseyri í Gísla sögu sé hin sama og nú heitir Valseyri þarf varla að velkjast í vafa. Nafnbreytingin er einföld og hvállinn stendur í hlíðinni rétt ofan við eyrina. Þegar komið er innan að kallar hann á athygli vegfarenda, nokkru áður en komið er á eyrina sem við hann er kennd.

Hér hefur áður komið fram að á fyrstu öldum byggðar í landinu virðast þingstaðir í Dýrafirði hafa verið tveir, á Þingeyri og Valseyri (sjá hér Þingeyri). Vissar líkur benda til þess að þingið hafi í fyrstu verið haldið á Valseyri en verið flutt þaðan til Þingeyrar. Allt er þetta þó óljóst og um Valseyrarþing er hvergi getið í fornum heimildum nema í Gísla sögu. Samkvæmt stjórnskipun sem hér var tekin upp þegar landinu var skipt í fjórðunga árið 962 eða skömmu síðar áttu allir Vestfirðingar að sækja þing til Þorskafjarðar (sjá hér Þingeyri). Einhvers konar þinghald var þó enn við lýði í Dýrafirði, líklega á Þingeyri, á árunum kringum 1200 því í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar er oftar en einu sinni talað um Dýrafjarðarþing.[5] Jón Jóhannesson prófessor segir í Íslandssögu sinni að ef til vill hafi vor- og haustþing fyrir einhvern hluta Vestfjarða verið haldin öðru hverju í Dýrafirði alveg frá fyrstu tíð og fram á 13. öld, enda þótt hinn almenni vorþingstaður allra Vestfirðinga væri í Þorskafirði frá því á 10. öld.[6] Aðrir hafa dregið í efa að þingin sem efnt var til í Dýrafirði á dögum Hrafns Sveinbjarnarsonar hafi verið eiginleg lögþing af því tagi sem stjórnskipanin gerði ráð fyrir.[7] Úr þessu er ekki unnt að skera en hitt sýnist ótvírætt að einhvers konar héraðsþing hafi um alllangt skeið verið haldin í Dýrafirði á þjóðveldisöld og þingstaðurinn þá ýmist verið Valseyri eða Þingeyri. Engar marktækar heimildir votta hversu víða að af Vestfjörðum menn sóttu þing til Dýrafjarðar en geta má þess að höfundur Gísla sögu Súrssonar segir Gest Oddleifsson hinn spaka í Haga á Barðaströnd hafa verið á Valseyrarþingi.[8]

Á síðari hluta 19. aldar skoðuðu ýmsir langt að komnir fræðimenn búðatóttirnar á Valseyri og rituðu ýmislegt um þær. Þann 10. ágúst 1874 kom P.E. Kristian Kålund á Valseyri.[9] Með honum var á Valseyri þennan dag Sighvatur Grímsson Borgfirðingur,[10] sem árið áður hafði flust til Dýrafjarðar og farið að búa á Höfða, og segist hann hafa gefið Kålund örnefnaskýringar er hann hafði ritað.[11]

Á Valseyri taldi Kålund sig finna fjórar eða fimm búðatóttir, allar mjög fornlegar.[12] Þrjár þessara tótta segir hann vera heillegar en hinar komnar að nokkru undir skriðu. Tóttirnar sem Kålund skoðaði stóðu allar þvert á nesinu, og voru 6-8 faðmar á lengd.[13] Dyr fann hann aðeins á þeirri stærstu og segir þær vera á miðjum langvegg sem að brekkunni snýr.[14]

Þann 16. júlí 1882 kom Sigurður Vigfússon fornfræðingur að Valseyri en hann var þá í rannsóknarferð um Vestfirði. Sigurður var fluttur þangað á bát frá Þingeyri og var F. R. Wendel faktor með í þeirri för.[15] Sigurður taldi sig þá finna leifar af 13 búðatóttum austan til á eyrinni og segir allar þessar tóttir vera mjög fornlegar og líkar hverri annarri að lögun.[16] Auk þess kom Sigurður auga á leifar tveggja annarra mannvirkja, líka austantil á eyrinni. Annað þeirra var hringlaga tótt, um 33 fet í þvermál, sem hann taldi að gæti hafa verið fjárbyrgi frá síðari tímum,[17] en hitt ferhyrnd tótt um það bil tíu faðma frá sjávarbakkanum, stærri en allar hinar, 44 fet á annan veginn og 42 fet á hinn[18] eða um 182 fermetrar. Þarna taldi Sigurður að kynni að hafa verið lögrétta.[19] Búðatóttirnar segir Sigurður allar snúa langveggjum að fjalli og fjöru en stærð þeirra sé dálítið breytileg, ein 36 x 22 fet, önnur 49 x 17 fet og sú þriðja 41 x 18 fet.[20]

Þann 9. ágúst 1888 kom Sigurður aftur á Valseyri og þá í fylgd með Sighvati Grímssyni Borgfirðingi. Í þeirri ferð fundu þeir þrjár búðatóttir í viðbót austantil á eyrinni og var tala þeirra þá komin upp í 16 að mati Sigurðar en heildartalan upp í 18 ef fjárbyrgið og lögréttan voru talin með.[21] Þá tölu staðfesti Sighvatur Borgfirðingur í vottorði er hann lét fornfræðingnum í té.[22] Sigurður Vigfússon benti á að líklegt væri að margar hinna fornu búða hefðu horfið undir skriðuna miklu er þekur stóran hluta Valseyrar og einnig væri greinilegt að sjór hefði brotið land á þingstaðnum. Mætti því gera ráð fyrir að búðirnar hefðu í upphafi verið mun fleiri en þessar sextán sem enn væru sjáanlegar.[23] Er Sigurður fornfræðingur kom að Valseyri sumarið 1883 hafði hann rannsakað búðatóttir á mörgum öðrum fornum þingstöðum. Tóttirnar á Valseyri segir hann líkjast mjög búðatóttum á öðrum slíkum stöðum en þó séu þær fornlegri en tóttir á hinum þingstöðunum.

Björn M. Ólsen, síðar háskólarektor, kom á Valseyri sumarið 1884 og skoðaði tóttirnar. Eins og Sigurður staðhæfir hann að þær séu mjög fornlegar að sjá og báðir hafna þeir algerlega öllum hugmyndum um að tóttir þessar gætu verið frá dögum Hansakaupmanna sem munnmæli voru um að hefðu verslað á Valseyri á 16. öld.[24] Björn vildi hins vegar ekki samþykkja þá hugdettu Sigurðar að sérstök lögrétta hefði verið á Valseyrarþingi og taldi allt sem stæði í Grágás benda til þess að lögin hefðu aðeins verið rétt á Alþingi við Öxará.[25]

Fullvíst er að þýskir Hansakaupmenn ráku verslun á Þingeyri á síðari hluta 16. aldar (sjá hér Þingeyri) og ef til vill hafa þeir eða Englendingar hafið verslun við Dýrfirðinga nokkru fyrr, jafnvel á 15. öld.[26] Engar öruggar heimildir eru þó fyrir því að Þjóðverjar eða aðrir hafi rekið verslun á Valseyri en munnmæli um verslunarrekstur þar á fyrri tíð virðast hafa lifað góðu lífi á 18. og 19. öld. Ólafur Olavius segir í bók þeirri er hann ritaði um ferðalög sín á Íslandi á árunum 1775-1777 að sagt sé að Hansakaupmenn hafi verslað á Valseyri og húsatóttir séu þar sjáanlegar.[27] Séra Jón Sigurðsson á Gerðhömrum minnist líka á sögusagnir um verslun á Valseyri í sóknalýsingu sinni frá árinu 1840 og kemst þá svo að orði:

 

Þar er sagt að hafi verið höndlunarstaður og skipalega og sjást þar enn nú nokkrar húsatóttir.  Líklega hafa þar höndlað á fyrri tímum kaupmenn þeir er hér versluðu áður Danir hófu hér stöðuga kaupverslun og vanir voru að byggja húskorn á Íslandi og þekja borðvið en rífa burt að hausti.  Skriða hefur fallið úr fjallinu ofan gil það er þar liggur og yfir meginpart eyrarinnar.[28]

 

Nú kann vel að vera að þýskir Hansakaupmenn hafi verslað eitthvað á Valseyri áður en danska einokunin var leidd í lög árið 1602. Til slíkrar starfsemi sýnist staðurinn þó alls ekki heppilega valinn og miklu eðlilegra að verslunarbúðir væru reistar utar með firðinum, t.d. á Þingeyri. Fyrir héraðsþing sem mönnum norðan frá Djúpi og sunnan úr Breiðafjarðarbyggðum var ætlað að sækja liggur Valseyri hins vegar mjög vel við því þangað er aðeins skammur spölur þegar komið er af Glámu. Verslunarferðum yfir Glámu er hins vegar alls ekki hægt að reikna með nema þá sem undantekningu frá almennri reglu. Lýsing Sigurðar Vigfússonar fornfræðings á búðatóttunum eins og þær litu út sumarið 1882 bendir líka mjög eindregið til þess að þetta hafi verið tóttir af fornum þingbúðum en ekki af verslunarhúsum. Sú var einnig skoðun Sigurðar.[29] Hafi einhvern tíma verið verslað á Valseyri munu þess hafa sést harla lítil merki fyrir 100 árum. Flestar búðatóttanna sem Sigurður Vigfússon og Sighvatur Borgfirðingur skoðuðu á Valseyri sumarið 1888 eru nú horfnar því vatn, aur og grjót berast stöðugt fram úr Valseyrargili og eyða tóttaleifunum smátt og smátt.[30]

Ein hringlaga tótt, sem sennilega hefur verið fjárbyrgi, stóð þó enn innantil á eyrinni sumarið 1992 og rétt hjá henni var þá enn sjáanleg ævaforn tótt sem sneri frá austri til vesturs og mældist um 13 metrar á lengd og fjórir á breidd. Fleiri tóttir fundust þá ekki á sjálfri eyrinni við lauslega skoðun en vilji menn sverjast í fóstbræðralag má enn ganga út í Eyraroddann og reisa þar jarðarmen.

Hér var áður minnst á ferð Sighvats Borgfirðings á Höfða og Sigurðar Vigfússonar fornfræðings hingað á Valseyri sumarið 1888 (sjá hér bls 3). Nær aldarfjórðungi síðar, nánar til tekið 13. ágúst 1911, kom Sighvatur hingað enn einu sinni og þá til að flytja fyrirlestur á útisamkomu sem hér var haldin þann dag.[31] Þetta var ungmennafélagsfundur og í fyrirlestri sínum fjallaði hinn sjötugi fræðimaður um manndáð og mannkærleika með dæmum frá fornöld.[32] Svo var glímt.[33]

Utan við Valseyri eru tóttir sem greinilegt er að tengjast hvorki þinghaldi né verslun. Hér er skammt milli fjalls og fjöru og tóttir þessar eru upp undir hlíðarfætinum, rétt utan við eyrina og má þar enn heyra árniðinn frá Valseyrará. Tvær tóttanna eru unglegar að sjá, enda mun hafa verið hér stekkur frá Lambadal seint á nítjándu öld og máske beitarhús. Aðrar mun fornlegri tóttir eru þó líka sjáanlegar á sama stað og með hliðsjón af því sem fram kemur í rituðum heimildum má slá því föstu að hér hafi eitt sinn staðið kotbýli. Um býli þetta er getið í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 en þar er kotið nefnt undir Borg og sagt vera fornt eyðiból á milli Botns og Innri-Lambadals, í Lambadalslandi.[34] Tekið er fram að tóttarústir séu greinilegar þar sem býlið stóð en þar sé nú stekkur frá Lambadal og kallað Hústún.[35]

Olavius sem ferðaðist dálítið um Dýrafjörð sumarið 1775 nefnir eyðibýli þetta Borgir og segir það hafa verið yfirgefið vegna skriðuhlaupa.[36] Jón Johnsen nefnir eyðibýlið Undirborg í landi Innri-Lambadals í Jarðatali sínu frá árinu 1847 og á þar ugglaust við þetta sama kot. Hvorugur þessara höfunda gerir skýra grein fyrir því hvar í landi Innri-Lambadals býli þetta sé og í Jarðabókinni frá 1710 er staðsetningin heldur ekki nákvæm. Sigurður Vigfússon auðveldar okkur hins vegar að fá botn í það mál en hann skrifar í ritgerð sinni Rannsókn um Vestfirði sem birtist árið 1884:

 

Ofantil vestast á eyrinni [þ.e. Valseyri – K.Ó.], nær hlíðinni, sést fyrir löngum garði.  Þar fyrir neðan sést fyrir gömlum tóttum.  Í þeim er nú stekkurinn frá Innri-Lambadal.  Hér hefur því verið eitthvert býli eða kot einhvern tíma.[37]

 

Tæplega þarf að efast um að Sigurður sé þarna að tala um kotið sem kennt var við Borg eða Borgir, enda tekur hann fram, alveg eins og Árni Magnússon í Jarðabókinni, að þar sé nú stekkur frá Lambadal. Steinþór Guðmundsson, sem lengi bjó í Lambadal um miðbik 20. aldar, staðhæfir líka án fyrirvara að á Valseyri hafi fyrrum verið býli sem Borg hét og getur þess jafnframt að utan við ána, upp undir dalbrúninni, séu grjóthólar er heiti Ytri-Borgir en innantil við ána séu Innri-Borgir.[38] Er þar komin skýring á nafni kotsins.

Skamma stund nemum við staðar hjá stekknum þar sem áður stóð bærinn undir Borgunum og hlustum á nið árinnar. Innan við Valseyrardalinn gleður fjallið Brennishorn augu þeirra sem hér staldra við en utan við Valseyrardal rís Lambadalshorn.[39] Bæði eru fjöll þessi um það bil 500 metra há. Frá Valseyri og Borgum tökum við strikið út að Innri-Lambadal.  Þann spöl má ganga á hálfri klukkustund.

Í Innri-Lambadal er nú allt í eyði en áður var þar löngum tvíbýli.  Bæirnir stóðu í um 500 metra fjarlægð frá ströndinni, alveg í mynni Lambadals sem er langur og grösugur dalur með stefnu dálítið austan við norður. Utan við túnið rennur Lambadalsá, komin af fjöllum ofan, en rétt handan við ána er bærinn Ytri-Lambadalur þar sem enn er búið góðu búi. Áin skiptir löndum milli jarðanna uns komið er fram að Selá, þverá sem fellur um innri hlíð Lambadals.[40] Frá túnfætinum í Innri-Lambadal eru um það bil tveir og hálfur kílómetri fram að Selá en fyrir framan hana á Ytri-Lambadalur allt land beggja vegna Lambadalsár.

Vera kann að allur Lambadalur hafi í fyrstu verið ein bújörð og í elstu heimildum sem varðveist hafa er bærinn aðeins nefndur Lambadalur.[41] Á síðari öldum var Innri-Lambadalur talinn 30 hundruð að dýrleika en sá ytri 60 hundruð.[42]

Árið 1658 var Innri-Lambadalur í eigu þriggja manna.[43] Einn þeirra var Þorvaldur Björnsson söngmaðurinn, hinn einsýni, er þá bjó í Hvammi í Dýrafirði (sjá hér Hvammur).[44] Meðeigendur Þorvaldar að Innri-Lambadal árið 1658 voru, séra Jón Jónsson, að því er ætla má þáverandi prestur í Holti í Önundarfirði (sjá hér Holt), og Bjarni Jónsson[45] sem líklegt er að hafi verið Bjarni Jónsson, auðugur bóndi er þá bjó á Hesti í Önundarfirði.

Við skipti á erfðafé sumarið 1681 eignuðust þrír bræður 6 hundruð í Innri-Lambadal, Ívar Þórólfsson, er síðar bjó á Geirseyri við Patreksfjörð, Bjarni Þórólfsson, síðar á Vatneyri við Patreksfjörð, og Sturli Þórólfsson.[46] Um 1700 átti Torfi Magnússon, lögréttumaður á Auðkúlu í Arnarfirði, önnur 6 hundruð hér í Innri-Lambadal en þessa jarðeign seldi hann haustið 1701 Torfa Hallssyni sem árið 1703 bjó á Steinanesi í Arnarfirði en síðar í Reykjarfirði í Suðurfjörðum Arnarfjarðar.[47]

Árið 1710 átti Jón Pálsson í Haukadal (sjá hér Haukadalur) 12 hundruð í Innri-Lambadal, nýnefndur Torfi Hallsson 6 hundruð og fyrrnefndir bræður, Bjarni og Ívar Þórólfssynir 4 hundruð hvor.[48] Þau fjögur hundruð sem þá eru ótalin átti Kristín Stulladóttir í Hrísdal í Arnarfirði[49] sem að líkindum hefur verið bróðurdóttir þeirra Bjarna og Ívars.

Árið 1762 var öldungurinn Snæbjörn Pálsson á Álfadal á Ingjaldssandi annar tveggja eigenda Innri-Lambadals[50], sá er margir nefndu Mála-Snæbjörn. Liðlega 40 árum síðar, árið 1805, voru eigendurnir þrír. Einn var Guðmundur Jónsson hreppstjóri, sem bjó hér þá á parti úr jörðinni, en hinir tveir voru Þorbjörn Jónsson, hreppsjóri á Baulhúsum í Arnarfirði og Guðlaugur Sveinsson, prófastur í Vatnsfirði við Djúp.[51]

Árið 1710 var þríbýli í Innri-Lambadal.[52] Einn ábúanda var þá Kristín Jostdóttir og hafði 20 hundruð til ábúðar.[53] Á þessum slóðum var nafnið Just við lýði í byrjun 20. aldar (sjá hér Drangar). Leigukúgildi voru hér tvö árið 1710 en höfðu verið sex fyrir bóluna miklu.[54] Talið var að hér mætti fóðra fimm kýr.[55] Í Jarðabókinni frá 1710 eru úthagar jarðarinnar sagðir vera í betra lagi en engjar spilltar af skriðum.[56]  Skógur var þá mjög tekinn að eyðast en samt talinn nægur til eldiviðar og kolagerðar.[57] Rétt til torfristu átti jörðin í landi Ytri-Lambadals mót skógarítaki.[58] Árni Magnússon segir í Jarðabókinni að í Innri-Lambadal séu bæði féð og smalinn í hættu fyrir snjóflóðum og auk þess sé kvikfé hætt fyrir sjávarflóðum undir móðsköflum á vetur.[59] Kirkjuvegurinn þótti langur út að Mýrum og erfitt að flytja sveitarómaga að Botni í kafófærð að vetrarlagi.[60]

Í Innri-Lambadal var búsmali hafður í seli yfir hásumarið á fyrri tíð eins og annars staðar í Dýrafirði. Selholt heitir fram á dalnum rétt heiman við Selá, fremst á eyrunum niður við á.[61] Þar sjást enn svolitlar tóttir og má ætla að þar hafi selið verið.[62] Frá bænum í Innri Lambadal var rúmlega hálftíma gangur fram að tóttum þessum við Selá.[63] Séra Jón Sigurðsson á Gerðhömrum segir í ritgerð sinni frá árinu 1840 að rétt utan við Valseyri hafi áður verið haft í seli frá Innri-Lambadal[64] en þar voru beitarhús á hans tíð. Líklega á prestur þarna við sama stað og hér var áður rætt um, þar sem á öldum áður var kotbýlið Borgir. Með hliðsjón af orðum séra Jóns og örnefnunum Selá og Selholt verður að telja líklegt að sel frá Innri-Lambadal hafi bæði verið fram á dalnum og inn undir Valseyri. Þó líklega ekki á báðum stöðum á sama tíma.

Fróðlegt er að sjá hvernig séra Jón á Gerðhömrum lýsir jörðinni í Innri-Lambadal árið 1840 en um hana ritar hann svo:

 

Þar er land mikið en yfrið hrjóstrugt og mjög útslægna lítið en það uppbætist af útigangi.  Skógur er þar nokkur sem fer minnkandi vegna brúkunar til kolagerðar og húsatróðs fyrir Mýra- Núps- og Sæbólssóknir. Mikill hluti Lambadalshlíðar liggur undir bæi þessa [þeir voru tveir í Innri-Lambadal, innskot K.Ó.]. Þar er hrís mest til eldsneytis brúkað.[65]

 

Orð prestsins benda ótvírætt til þess að um miðja 19. öld hafi fjöldi hreppsbúa fengið að rífa hrís og gera til kola á Lambadalshlíð. Allt fram undir 1870 voru ljáirnir smíðaðir heima á hverjum bæ og dengdir við eld úr viðarkolum. Þetta breyttist ekki fyrr en Torfaljáirnir (kenndir við Torfa Bjarnason í Ólafsdal) fóru að berast til landsins um 1870.[66] Á síðari hluta 18. aldar var talið að meðalbýli notaði árlega einn kolahest, fjórar tunnur yfir árið.[67] Ólafur Ólafsson frá Frostastöðum í Skagafirði, sem varð háskólakennari í Noregi, segir í ritgerð frá árinu 1789 að í Sléttuhlíð í Skagafirði taki það einn mann 12 daga að gera til kola upp á einn hest.[68] Varla hefur það gengið miklu fljótar á Lambadalshlíð.

Um kolagerð á landi hér ritar Jónas Jónasson frá Hrafnagili svo:

 

Annað vorverk var það sem mikið var að gert þar sem nokkurn skóg var að hafa eða fjalldrapa sem var í stærra lagi. Það var kolagerðin. Allir þurftu kola með á hverjum bæ til þess að dengja við og smiðir til ljáasmíða og hestjárna. Þurfti eitt kolakvartil til að smíða ljáinn. Skógurinn var höggvinn og hrísið rifið á haustin eða veturna. Svo var það afkvistað og afkvistið haft til eldiviðar. Leggir voru síðan kurlaðir í 3-4 þumlunga langa búta. Síðan var gerð kolagröf, einn til tveir faðmar að þvermáli og um tveggja álna djúp og kurlinu raðað í hana og var hið stærsta haft neðst. Kúfur var hafður á gröfinni, ein til ein og hálf alin á hæð. Svo var slegið eldi í botninn og látið brenna þangað til góður eldur var kominn í alla hrúguna. Þá var snöggtyrft yfir og mokað mold yfir svo að hvergi kæmist loft að. Síðan var opnað eftir þrjá daga eða fjóra og kolin tekin upp. Fjórar til fimm tunnur kola fengust úr slíkri gröf. Stillt veður þurfti að velja til kolagerðar svo að eigi hlytist óhapp af.[69]

 

Algengt verð á kolatunnu í viðskiptum manna á milli var fimm álnir,[70] liðlega 4% úr kýrverði. Ef til vill hafa þeir sem bjuggu í Botni og Innri-Lambadal getað selt eitthvað af kolum en engar heimildir hafa þó fundist um slík viðskipti.

Á 18. og 19. öld var nær alltaf tvíbýli í Innri-Lambadal en þó þríbýli árið 1801.[71] Á fyrri hluta tuttugustu aldar varð engin breyting á í þeim efnum og voru bændurnir tveir allt til ársins 1955 (sjá hér Firðir og fólk 1900-1999, 257 og 258). Bæirnir voru líka tveir og eru í manntali frá árinu 1910 nefndir efri og neðri bær.[72]

Innri-Lambadalur var að fornu mati 30 hundraða jörð.[73] Um aldamótin 1800 bjuggu hér hjónin Guðmundur Jónsson og Jóhanna Ásbjörnsdóttir.[74] Guðmundur var hreppstjóri og átti part úr jörðinni.[75] Lengst allra bjuggu hér á nítjándu öld hjónin Bjarni Bjarnason og Margrét Bjarnadóttir.[76] Bjarni var frá Ytri-Lambadal en stóð fyrir búi í Innri-Lambadal í nær 40 ár, frá 1840 til 1878.[77] Sambýlismaður hans var lengi bóndinn Þórarinn Sveinsson sem var Önfirðingur en bjó í Innri-Lambadal frá 1830 eða svo uns hann andaðist á áttræðisaldri sumarið 1856.[78] Hann var þríkvæntur.[79] Þriðja eiginkonan hét Valgerður Guðmundsdóttir og var um það bil 30 árum yngri en hann. Meðal barna þeirra voru Guðmundur Þórarinsson, lengi bóndi á Næfranesi, faðir Björns Guðmundssonar, skólastóra á Núpi, og Gils Þórarinssonar er varð bóndi á Arnarnesi,[80] faðir Guðnýjar Gilsdóttur er þar bjó síðust allra.

Um aldamótin 1900 bjuggu hér í tvíbýli þeir Kristján Kristjánsson og Jósep Jespersson, fæddur í Fróðársókn á Snæfellsnesi, og munu hafa  átt jörðina.[81]

Veturinn 1895-1896 var alþýðuskáldið og dagbókaritarinn Magnús Hjaltason heimiliskennari hjá Kristjáni sem þá bjó í neðri bænum.[82] Hér hefur áður verið sagt frá samdrætti þeirra Kristínar á Dröngum þennan vetur (sjá hér Drangar). Kristín sagði svo frá löngu síðar að á fyrstu samfundum þeirra hefði Magnús verið hátíðlegur í tali.[83] Hann lánaði henni bækur og er hann fylgdi henni í fyrsta sinn inn Lambadalshlíð ræddi hann mest , að hennar sögn, um hin duldu öfl í náttúrunni, ægimátt vinda og lífskraft sólarinnar.[84] Á þeirri ferð gætti hann þess að þéra stúlkuna sem var 19 ára.[85]

Þrjátíu árum síðar, vorið 1926, fóru hjónin Bjarni Sigurðsson og Gunnjóna Vigfúsdóttir að búa í Innri-Lambadal og fluttust hingað með sína stóru fjölskyldu utan af Fjallaskaga. Þau settust að í neðri bænum og nokkrum mánuðum eftir flutningana fæddist þeim fjórtánda barnið.[86] Húsakynnum í neðri bænum er Bjarni og Gunnjóna fluttust þangað lýsir sonarsonur þeirra svo í minningarorðum um föður sinn, síðasta bóndann sem lengi bjó í Innri-Lambadal:

 

Inn í bæinn lágu löng en þröng moldargöng. Yfir göngunum var ris með röftum á sperrum sem míglak í rigningartíð. Sinn moldarkofinn var til hvorrar handar við göngin. Þeir voru gluggalausir. Annar kofinn var búr en hinn hlóðaeldhús. Í báðum þessum kofum var moldargólf en gólfið inn göngin lagt grjóthellum. Þegar inn úr göngunum kom var sex metra löng og þriggja metra breið tótt, hlaðin úr grjóti og torfi, óþiljuð að innan en yfir baðstofa. Stafirnir sem héldu risinu uppi stóðu á steinum en ekki á fótstykkjum eins og venja var. Voru því engir gólfbitar. Fjalir af mismunandi lengdum og breiddum voru lagðar á moldargólfið og negldar saman á okum sem höfðu verið lagðir undir þær. Þar voru tveir fjögurra rúðna gluggar á austurhliðinni. Inn að þeim að utanverðu voru djúp grasigróin gluggahús. Það var því hálf skuggsýnt inni þó dagur væri. Gömul eldavél, enginn kjörgripur, var þarna inni við norðurgaflinn. Hún var ein húsmuna. Ekkert var þar sem hét borð eða skápur. Stigi lá upp á loftið við austurhliðina á milli glugganna. Baðstofan var undir skarsúð, portbyggð.[87]

 

Þau voru mörg lágreist bændabýlin á Íslandi á fyrri hluta tuttugustu aldar en það var hugur í fólkinu. Úr torfbænum lága í Innri-Lambadal þar sem börnin urðu fjórtán fór einn sonur á Alþingishátíðina á Þingvöllum árið 1930 og annar kom með útvarp í bæinn tveimur árum síðar.[88]

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Íslensk fornrit VI, 18.

[2] Sama heimild.

[3] Sama heimild, 22.

[4] Sama heimild, 22-23.

[5] Sturl. I, 352, 362 og 380.

[6] Jón Jóhannesson 1956, 98, og 282.

[7] Jakob Benediktsson 1974, 183 (Saga Íslands I).

[8] Ísl. fornrit VI, 20-21.

[9] Lbs. 23744to, Dagbók Sighvats Grímssonar Borgfirðings, xx.  P. E. Kr. Kålund 1985, 176-177.

[10] Lbs. 23744to, Dagbók Sighv. Gr. Borgf.

[11] Sama heimild.

[12] P. E. Kr. Kålund 1985, 176-177.

[13] Sama heimild.

[14] Sama heimild.

[15] Sigurður Vigfússon 1884, 10 (Árbók Hins ísl. fornleifafélags 1883).

[16] Sigurður Vigfússon 1884, 10-12 (Árbók Hins ísl. fornleifafélags 1883).

[17] Sami 1892, 127(Árbók Hins ísl. fornleifafélags 1888-1892).

[18] Sami 1884, 12 og 1892, 128.

[19] Sami 1884, 13.

[20] Sami 1884, 10-11.

[21] Sami 1892, 125-129.

[22] Sama heimild.

[23] Sami 1884, 10-13.

[24] Björn M. Ólsen 1885, 7-20.  Sigurður Vigfússon 1884, 15.

[25] Björn M. Ólsen 1885, 7-20 (Árbók Hins ísl. fornleifafélags).

[26] Jón J. Aðils 1971, 9-15.

[27] Ólafur Olavius 1964, I, 146.

[28] Sóknalýs. Vestfj., II, 64.

[29] Sigurður Vigfússon 1884, 15 og 1892, 128.

[30] Jóhannes Davíðsson 1968, 42 (Ársrit S.Í.).  Örnefnaskrá.

[31] Lbs. 23764to, Dagbók S.Gr.B. 13.8. 1911.

[32] Sama heimild.

[33] Sama heimild.

[34] Jarðab. Á. og P. VII, 56.

[35] Sama heimild.

[36] Ól. Olavius 1964, I, 177-178.

[37] Sigurður Vigfússon 1884, 12.

[38] Örnefnaskrá.

[39] Örn.skrá.

[40] Örnefnaskrá.

[41] Bisk. II, 479.  D.I. XV, 523.

[42] Jarðabók  Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 56-58.

[43] Lbs. 7974to , jarðaskrár úr Ísafj.s. frá árunum 1658 og 1695.

[44] Sama heimild. Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir. Kph. 1993, 157.

[45] Sömu jarðaskrár frá 1658 og 1695.

[46] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir. Kph. 1993,173. Sbr. Jb. Á og P. VII, 56 og Manntal 1703,180.

[47] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir, 163 og 180, Kph. 1993. Jarðabók Á. og P. VII, 56. Manntal 1703, 190. Sbr. Lbs. 7974to, jarðaskrá úr Ísafj.sýslu 1695.

[48] Jarðabók Á. og P. VII, 56. Sbr Jb. Á. og P. XIII, 212.

[49] Jarðabók Á. og P. VII, 56.

[50] Manntal 1762. Sbr. Alþ.bækur Íslands XIII, 67.

[51] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.s. 1805. Sbr. Manntal 1801.

[52] Jarðabók Á. og P. VII, 56.

[53] Sama heimild.

[54] Sama heimild.

[55] Sama heimild.

[56] Sama heimild.

[57] Sama heimild.

[58] Sama heimild.

[59] Sama heimild.

[60] Sama heimild.

[61] Örnefnaskrá.

[62] Sama heimild.

[63] Guðmundur Steinþórsson. – Viðtal K.Ó. við hann 4.7.1992.

[64] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 65.

[65] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 65.

[66] Þorkell Jóhannesson 1937 II, 218-219.

[67] Sama heimild.

[68] Rit hins íslenska lærdómslistafélags X, 149-160.

[69] Jónas Jónasson 1961, 66.

[70] Sama heimild.

[71] Manntöl 1703, 1762, 1801, 1835, 1840, 1845, 1850, 1855, 1860, 1870, 1880, 1890, 1901.

[72] Manntal 1910.

[73] Jb. Á. og P. VII, 56.

[74] Manntal 1801. Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.s. 1805.

[75] Sömu heimildir.

[76] Prestsþj.bækur. og sóknarm.töl Dýrafj.þinga. Manntöl frá 19. öld. Smt. Dýrafj.þinga.

[77] Manntöl frá 19. öld. Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[78] Ól. Þ. Kr. Önfirðingar. Manntöl frá 19. öld.

[79] Sömu heimildir.

[80] Ól. Þ. Kr. 1953, 135-148 (Frá ystu nesjum VI).

[81] Manntöl 1890 og 1901 og fylgiskjöl með manntalinu 1901.

[82] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[83] Kristín Dahlstedt / Hafliði Jónsson 1961, 42-43.

[84] Kristín Dahlstedt / Hafliði Jónsson 1961, 42-43.

[85] Sama heimild.

[86] Ágúst Guðmundsson / Morgunbl. 14.6.1991.

[87] Sama heimild.

[88] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »