Kirkjuból í Korpudal

Kirkjuból í Korpudal

Kirkjuból í Korpudal er eitt af fjórum Kirkjubólum í Önundarfirði en hin þrjú eru Kirkjuból í Valþjófsdal, Kirkjuból í Bjarnardal og Selakirkjuból á Hvilftarströnd. Allar þessar jarðir varð að aðgreina hverja frá annarri og snemma mun hafa verið brugðið á það ráð að kenna þrjár þeirra við dalina sem hér voru nefndir en nafnið á Selakirkjubóli dugði eitt og sér.

Bærinn sem við erum nú komin að og oftast er nefndur Kirkjuból í Korpudal stendur þó ekki eins og ætla mætti fram í Korpudal  heldur neðan við dalsmynnið og svolítið utan við það. Á Korpudal á Kirkjuból hins vegar allt land fyrir framan Þverá og norðan Korpu eins og hér hefur áður verið nefnt (sjá hér Efstaból) en sá hluti landareignarinnar er skilinn frá heimalandinu því jarðirnar Efstaból og Kroppstaðir liggja þarna á milli. Í landi Kirkjubóls fyrir framan Þverá áttu þeir sem bjuggu á Efstabóli beitarrétt (sjá hér Efstaból) og ætla má að fénaður frá Kroppstöðum hafi einnig gengið þar á beit.

Annað nafn á Kirkjubóli í Korpudal er Kirkjuból í Firði og mun bærinn oft hafa verið nefndur svo á 19. öld.[1] Fór ég inn að Kirkjubóli í Firði og að Tröð, skrifar Jón Guðmundsson frá Grafargili í dagbók sína 15. apríl 1892[2] og mörg fleiri dæmi um þetta nafn er að finna í rituðum heimildum. Byggðin fyrir botni Önundarfjarðar var á fyrri tíð nefnd Fjörðurinn eins og hér hefur áður verið frá sagt og tekið svo til orða að þessi eða hinn sem þar átti heima byggi inni í Firði (sjá hér Vífilsmýrar). Talað var um Hól í Firði og Tungu í Firði og þess vegna í alla staði eðlilegt að kenna Kirkjuból líka við Fjörðinn og segja Kirkjuból í Firði. Nafnið Kirkjuból í Korpudal er þó líka gamalt og svo virðist sem það hafi yfirleitt verið meira notað, a.m.k. í gögnum af hátíðlegra tagi. Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 er jörðin nefnd Kirkjuból í Korpudal, – Kirkjuból (kallað í Korpudal), stendur þar.[3] Í sóknalýsingunni frá 1840 er jörðin einnig nefnd Kirkjuból í Korpudal[4] og á okkar öld hefur það nafn verið ríkjandi.

Bænhús var hér á Kirkjubóli í kaþólskum sið og allt fram undir 1630 (sjá hér bls. 26). Ætla má að nafnið Kirkjuból hafi jörðin fengið af bænhúsinu því kirkjueign mun hún aldrei hafa verið (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal og Kirkjuból í Bjarnardal). Enginn veit nú hvenær bænhúsið var reist en varla hefur það verið fyrr en alllangt var liðið á elleftu öld og má því telja nær fullvíst að jörðin hafi byggst þó nokkru áður en nýnefndu guðshúsi var komið upp. Ef svo hefur verið hlýtur hún að hafa verið nefnd öðru nafni í fyrstu og allt þar til menn fóru að kenna hana við bænhúsið og nefna Kirkjuból. Um hið forna nafn liggja engar heimildir fyrir en með hliðsjón af nafni jarðarinnar Efstabóls og legu Efstabóls, Kroppstaða og Kirkjubóls er auðvelt að láta sér detta í hug að upphaflega nafnið hafi verið Ból eða Neðstaból. Sú tilgáta er gamalkunn[5] og líka sú hugmynd að jörðin hafi í fyrstu verið nefnd Korpudalur[6] sem er hreint ekki ólíklegt. Af jörðunum þremur í og við mynni Korpudals er Kirkjuból stærst, 30 hundruð að dýrleika samkvæmt fornu mati,[7] en hinar jarðirnar tvær voru virtar á 36 hundruð, báðar til samans, árið 1446[8] og á 30 hundruð árið 1710.[9] Þennan mun á stærð jarðanna má ef til vill túlka sem vísbendingu um að á þessum slóðum hafi fyrst risið bær á Kirkjubóli og sá sem hann reisti hafi helgað sér allan Korpudal norðan ár. Tilgátan um Korpudal sem hið forna bæjarnafn fellur vel að þeirri hugmynd en þá verður að gera ráð fyrir að bæði Efstaból og Kroppstaðir hafi byggst eitthvað síðar. Sú staðreynd að beitilandið framan við Þverá taldist vera séreign Kirkjubóls (sjá hér Efstaból) ýtir líka undir hugmyndir um að allur Korpudalur norðan ár hafi í fyrstu verið óskipt land og Kroppstaðir og Efstaból hafi byggst út úr landi jarðarinnar sem nú heitir Kirkjuból. Hér verður þó að leggja áherslu á að um þessi efni er engin ótvíræð vitneskja í boði.

Í Firðinum fyrir botni Önundarfjarðar eru sjö fornar bújarðir (sjá hér Vífilsmýrar). Á ferð okkar um þennan hluta Mosvallahrepps stöldruðum við fyrst við á Vífilsmýrum en komum síðast að Kirkjubóli. Af jörðunum sjö eru þessar tvær yst, Vífilsmýrar að vestanverðu (sunnanverðu) en Kirkjuból að norðanverðu. Svo má heita að bærinn á Vífilsmýrum sé beint á móti Kirkjubóli og vegalengdin þar á milli, yfir flatlendið, um það bil einn kílómetri. Álíka langt er frá Kirkjubóli til sjávar. Þess var áður getið að fram að Kroppstöðum er vegalengdin aðeins hálfur kílómetri en að Tannanesi, sem er næsti bær fyrir utan Kirkjuból, er leiðin mun lengri eða því sem næst tveir og hálfur kílómetri. Þegar rætt var um ferðir á aðra bæi í Firðinum talaði heimafólk á Kirkjubóli um að fara fram að Kroppstöðum og fram að Efstabóli, fram eða innHesti, fram í Tungu, yfir að Hóli og yfir að Vífilsmýrum.[10]

Landamerkjum Kirkjubóls á móti Kroppstöðum hefur áður verið lýst (sjá hér Kroppstaðir) en á móti Tannanesi á Kirkjuból land út að Urðarlæk[11] sem kemur ofan úr Urðarskál og sameinast Korpu rétt áður en hún fellur út í Vöðin. Út að landamerkjalæknum er um það bil einn kílómetri heiman frá Kirkjubóli.

Á fyrstu árum 20. aldar var enn tvíbýli hér á Kirkjubóli. Annar bærinn stóð þá á sama stað og íbúðarhúsið sem nú er búið í (1994) en hinn fáeinum metrum framar og ofar, rétt framan við kálgarðinn sem var á milli bæjanna.[12]

Bærinn á Kirkjubóli stendur sunnan undir brattri hlíð Kirkjubólsfjalls sem er hömrum krýnt hið efra og er klettabrúnin yfir bænum talin vera í 719 metra hæð yfir sjávarmáli. Sé horft frá hlaðinu á Kirkjubóli í suður eða suðaustur, vestur eða suðvestur blasir hvarvetna við hið gróðursæla flatlendi sem ásamt fjallahringnum setur sterkan svip á allt umhverfið hér inni í Firðinum. Um þessa grænu flatneskju falla árnar Korpa og Hestá og víða eru þar smálænur því hér er mýrlent. Á leið sinni til sjávar fellur Korpa fast við túnið á Kirkjubóli og norðan hennar á Kirkjuból allt land innan þeirra marka sem hér hefur áður verið lýst. Handan við Korpu á jörðin líka allmikið land neðantil í tungunnni milli Korpu og Hestár, allt að merkjalínunni sem þar skilur að land Kirkjubóls og Kroppstaða. Þar er neðst Korglæna um það bil mitt á milli Korpu og Hestár og fylgja landamerkin milli Kirkjubóls og Vífilsmýra þeirri lænu og síðan öðrum smálænum þegar ofar dregur.[13]

Eins og áður var nefnt taldist Kirkjuból í Korpudal vera 30 hundraða jörð að fornu mati.[14] Í matsgerð frá árunum kringum 1920 er kostum og ókostum jarðarinnar lýst með þessum orðum: Á jörðinni er næg og góð mótekja, jörðin er góð slægnajörð, vetrarbeit engin en sumarbeit sæmileg. Engjarnar eru sléttar og nokkur hluti flæðiengi. Túnið liggur vel til jarðabóta.[15] Í annarri matsgerð frá svipuðum tíma er tekið fram að tveir fimmtu hlutar af túninu séu sléttlendi, útengi grasgefið og samfellt út frá túni.[16] Þarna er þess líka getið sérstaklega að hægt sé að veita vatni á engjarnar og þær séu véltækar.[17] Af túninu á Kirkjubóli fengust á árunum kringum 1920 220 hestar af af töðu og á engjum jarðarinnar fengust 800 hestar af útheyi.[18] Þá var talið að hér mætti framfleyta 8 kúm, 160 fjár og 8 hrossum.[19]

Á þessum orðum má sjá að í byrjun 20. aldar þótti Kirkjuból í Korpudal vera ágæt bújörð að flestu leyti og í sóknalýsingunni frá 1840 er jörð þessi sögð vera heyskaparjörð.[20] Þar er hins vegar tekið fram að Korpudalsá sem nefnist Korpa brjóti land jarðarinnar og valdi þannig einhverjum spjöllum.[21] Í Jarðabókinni frá 1710 er ekki sparað að draga fram ókosti hinna ýmsu jarða. Þar er þessi lýsing gefin á landsgæðum hér á Kirkjubóli:

 

Kolviðarskóg hefur jörðin átt en er nú aleyddur. Silungsveiði hefur hér nokkur verið, er nú engin síðan Hekla gaus og dreifði ösku hér yfir landið. [Heklugosið 1693 – innsk. K.Ó.] Engjar eru stórum fordjarfaðar af því að skriða hljóp í ána og stemmdi hana upp á engjarnar og bar hún þar svo á aur og leir. Flæður spillir og engjunum og bera á aur og grjót. Högum jarðarinnar hafa skriður stórlega spillt. Í einum hluta haganna þar sem hann er bestur er stórum hætt fyrir snjóflóðum. Flæðihætt er hér í grásflóðum við ós einn.[22]

 

Fram skal tekið að grásflóð sem þarna er síðast talað um hlýtur að vera misritun fyrir grasflóð en í hæstu flæðum gengur sjór upp á graslendið milli Hestár og Korpu,[23] jafnvel alla leið upp að Skipholti sem var rétt utan við túnfótinn á Kirkjubóli.[24] Slík flóð koma þó aldrei nema á haustin.[25]

Kolviðarskógurinn, sem sagður var aleyddur árið 1710, hefur efalítið verið fram í Korpudal. Þar voru enn einhverjar birkihríslur um og upp úr miðri 20. öld.[26] Hríslur þessar voru uppi í hlíðinni skammt fyrir framan Þverá[27] og vel má vera að þær tóri þar enn. Merkilegt er að sjá hjá Árna Magnússyni þá staðhæfingu að öskufall frá Heklugosinu 1693 hafi gjöreytt öllum silungi úr Korpu og lækjunum í landi Kirkjubóls. Líklega hefur silungsveiðin verið lengi að ná sér á strik eftir öskufallið en á síðustu áratugum 19. aldar var hér mjög mikið um silung og ærin búbót að honum. Magnús Hjaltason, sem fæddur var árið 1873 og ólst upp hér í nágrenninu, getur um silungsveiðina á Kirkjubóli í ævisögu sinni og segir frá á þessa leið:

 

Í bæjarlæknum á Kirkjubóli var veiði mikil (silungur) og heyrði ég í ungdæmi mínu að hann hefði áður verið lagður á móti kúgildi. Börn Bjarna og Jósabetu [hjóna sem bjuggu á Kirkjubóli fram yfir 1880 – innsk. K.Ó.] veiddu afarmikið í læknum, einkum haust og vor, fengu oft 400-600 á dag af smábirtingi eða jafnvel meira. Seildust þau innundir bakkana og náðu silungnum þann veg í holum og voru þau oft blaut frá hvirfli til ilja. En þau höfðu nóga mjólk, frjálsræði og gott atlæti svo þau sakaði ekki hið minsta þótt illa væru til fara.[28]

 

Í bók sinni frá árinu 1951 um Aldarfar og örnefni í Önundarfirði minnist Óskar Einarsson læknir líka á silungsveiðina á Kirkjubóli í Korpudal og segir:

 

Bæjarlækur kemur úr hlíðinni fyrir ofan túnið og rennur út í Hreinlát [mýri utan við túnið – innsk. K.Ó.]. Í læk þessum var furðumikil silungsveiði er metin var sér á eitt hundrað. Bæjarlækurinn rann framhjá bæjarhorninu og var siður húsfreyjunnar að grípa þar silunginn með hendinni undan holum bakka þegar vantaði í pottinn. Fyrir nálega 50 árum flutti ungur dugnaðarbóndi á jörðina [Páll Rósinkranzson – innsk. K.Ó.]. Hann tók sig til og veitti læknum úr farvegi sínum á haustin og tíndi allan silunginn í einu upp úr farveginum og fór svo þrjú haust en þá var silungurinn þrotinn. Seinna var lækurinn tekinn til áveitu.[29]

 

Óskar læknir getur líka árið 1951um silungsveiði í Korpu og Hestá og segir að hún hafi verið talsverð en farið minnkandi á fyrri hluta 20. aldar og stórsilungur sé alveg horfinn.[30]

Í Þórðar sögu kakala er nefndur Guðmundur Sigríðarson sem bjó á Kirkjubóli í Önundarfirði um 1240[31] og sami maður kemur einnig við sögu í Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar. Hér hafa áður verið leidd rök að þvi að Guðmundur þessi muni hafa búið á Kirkjubóli í Valþjófsdal (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal) og við komu okkar þangað var frá honum sagt (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal). Einhverjir kynnu þó að vilja meina að mektarbóndi þessi á 13. öld gæti eins hafa búið hér og er þá komið efni í deilu sem aldrei verður skorið úr með óyggjandi hætti.

Elsta heimildin sem geymir nafn Kirkjubóls í Korpudal svo ótvírætt megi kalla er skráin frá 1446 yfir jarðeignir Guðmundar ríka Arasonar á Reykhólum.[32] Þar er Kirkjuból sagt vera ein 33ja jarða Guðmundar sem lágu undir höfuðbólið á Núpi en þær voru allar í Önundarfirði eða Dýrafirði.[33] Þarna er Kirkjuból talið næst á eftir Vífilsmýrum en næst á undan Tannanesi og sagt vera 30 hundraða jörð.[34] Fullvíst má telja að um sé að ræða Kirkjuból í Korpudal þó nafnið á dalnum fylgi ekki með því ekkert hinna Kirkjubólanna í Önundarfirði og Dýrafirði var 30 hundruð að dýrleika.[35] Staðsetning þess í jarðaskránni, milli Vífilsmýra og Tannaness, bendir lika eindregið til hins sama. Þess verður reyndar að geta að í Jarðabókinni frá 1710 segir að gamlir menn telji sig hafa heyrt að Kirkjuból í Korpudal hafi í fyrstu aðeins verið virt á 24 hundruð, áður en hjáleigan Kirkjubólshús byggðist.[36] Þessar sögusagnir eru þó mjög óljósar og því ekkert á þeim að byggja, enda segir í Jarðabókinni að aðrir telji sig hafa heyrt að 100 árum fyrr hafi matið á jörðinni verið hið sama og í byrjun 18. aldar, það er 30 hundruð að hjáleigunni meðtalinni.[37] Með hliðsjón af þessu verður að telja yfirgnæfandi líkur á því að 30 hundraða Kirkjubólið í jarðaskránni frá 1446 sé Kirkjuból í Korpudal og að dýrleiki jarðarinnar hafi þá verið talinn 30 hundruð, hinn sami og jafnan er nefndur í yngri heimildum.

Til er vitnisburðarbréf frá árinu 1460 um ranglegt hald Guðmundar Arasonar á annarra manna jarðagóssi.[38] Þar lýsir Einar Þórðarson frá Haga á Barðaströnd, sem áður var skrifari Guðmundar Arasonar, því yfir að Guðmundur hafi þóst taka Kirkjuból og Eyri í Önundarfirði að erfðum en aðrir hafi véfengt réttmæti þeirrar ráðstöfunar.[39] Nafn Eyrar kemur þarna dálítið spanskt fyrir sjónir því sú jörð er ekki á skránni frá 1446, sem hér var áður nefnd, en þar eru taldar upp allar jarðir sem Guðmundur átti þegar hann var hrakinn í útlegð og jarðirnar teknar undir konung. Hugsanlegt er að þarna sé því ekki allt með felldu en í skrá frá árinu 1478 um dýrleika þeirra jarða úr safni Guðmundar Arasonar sem þá var ráðgert að skila aftur til fyrri eigenda er enn á ný að finna nöfn Eyrar og Kirkjubóls í Önundarfirði.[40] Á þessu skjali frá árinu 1478 er Kirkjuból sagt vera 30 hundraða jörð[41] sem kemur heim við skrána frá 1446.

Þegar Guðmundur Arason var hrakinn í útlegð árið 1446 voru allar hans miklu jarðeignir gerðar upptækar og fengnar konungi í hendur (sjá hér Núpur í Dýrafirði). Ekki leið þó á löngu uns Björn Þorleifsson hirðstjóri náði að eignast mikið af þessu jarðagóssi og við skiptingu arfs eftir hann árið 1467 fékk Solveig dóttir hans m.a. Hest í Önundarfirði og allar þær jarðir sem þar eru inni í fjörðinn, fráteknu Kirkjubóli út frá Breiðadal, eins og það er orðið í skiptagerningnum.[42]Kirkjuból út frá Breiðadal er án nokkurs vafa Selakirkjuból en Kirkjuból í Korpudal hefur Solveig Björnsdóttir fengið í sinn hlut eins og aðrar jarðir hér inni í Firðinum sem Guðmundur Arason hafði átt og síðan faðir hennar.

Fyrir andlát sitt árið 1495 gekk Solveig Björnsdóttir frá erfðaskrá sem hér hefur áður verið sagt frá (sjá hér Hestur eða Efstaból). Þar ánafnaði hún dóttur sinni, Kristínu Jónsdóttur, Kirkjuból í Korpudal, Efstaból og Kroppstaði[43] en á næstu áratugum stóðu um þessar jarðir miklar deilur sem hér hefur áður verið gerð grein fyrir (sjá hér Efstaból). Björn Guðnason í Ögri átti þær um skeið, síðan Þorleifur Örnólfsson, lögréttumaður á Eyri í Seyðisfirði, og á Alþingi árið 1572 var um það samið að bræðurnir Illugi, Ólafur og Hallur Péturssynir skyldu halda Kirkjubóli í Korpudal en láta af hendi Efstaból og Kroppstaði (sjá hér Efstaból). Bræður þessir voru frændur séra Pantaleons Ólafssonar á Stað í Grunnavík, sem var dóttursonur Solveigar Björnsdóttur er átt hafði þessar jarðir, og vera kann að þeir Péturssynir hafi einnig verið hennar niðjar.

Kirkjubóli fengu þeir bræður þó aðeins að halda skamma hríð því árið 1573 var Ólafur Pétursson dæmdur frá haldi á Kirkjubóli[44] og má ætla að þeir bræður hafi þar með misst öll tök á jörðinni. Sá sem stóð fyrir þessum dómi var Bjarni Jónsson sem þá var lögsagnari í vesturparti Ísafjarðarsýslu.[45] Bjarni var sonur Jóns Ólafssonar, sýslumanns í Hjarðardal, og er sagður hafa búið á Kirkjubóli í Önundarfirði (sjá hér bls. 11-12). Ætla má að þar sé átt við Kirkjuból í Korpudal og Bjarni hafi náð jörðinni undir sig þegar búið var að dæma hana af Ólafi Péturssyni.

Árið 1658 voru eigendur Kirkjubóls þrír, séra Páll Björnsson, séra Ólafur Þorleifsson og Bjarni Þorleifsson.[46] Prestarnir tveir eru án vafa séra Páll Björnsson í Selárdal og séra Ólafur Þorleifsson, aðstoðarprestur á Söndum,[47] og telja má nær fullvíst að þriðji eigandinn sé bróðir séra Ólafs, Bjarni Þorleifsson, síðar lögsagnari í vesturparti Ísafjarðarsýslu.[48] Þeir Ólafur og Bjarni Þorleifssynir voru sonarsynir Bjarna Jónssonar lögsagnara sem hér var nýlega nefndur[49] og vitneskjan um að þeir hafi átt hálft Kirkjuból í Korpudal árið 1658 styrkir þá hugmynd að afi þeirra hafi búið á þessu Kirkjubóli og hann hafi náð að eignast jörðina, a.m.k. hálfa. Að svo hafi verið er reyndar tekið fram í Jarðabók Árna og Páls[50]

Árið 1695 var séra Ólafur Þorleifsson á Söndum enn á lífi og átti þá Kirkjuból í Korpudal að hálfu á móti Ingibjörgu Pálsdóttur[51] sem var dóttir séra Páls Björnssonar í Selárdal. Eiginmaður hennar var Jón eldri Magnússon á Eyri í Seyðisfirði við Djúp, sonur Magnúsar Magnússonar, sýslumanns á Eyri.[52] Ingibjörg Pálsdóttir var búandi ekkja á Eyri í Seyðisfirði árið 1703, sögð 49 ára gömul á manntalinu frá því ári,[53] og árið 1710 var önnur hálflendan hér á Kirkjubóli enn í hennar eigu.[54] Séra Ólafur Þorleifsson á Söndum, sem átt hafði hálft Kirkjuból árið 1695, féll frá ári síðar.[55] Hann var ókvæntur og barnlaus[56] og að líkindum hafa systursynir hans, bræðurnir Torfi og Þorleifur Magnússynir sem bjuggu á Auðkúlu í Arnarfirði, erft eignarhlut séra Ólafs í Kirkjubóli. Til þess bendir mjög eindregið sú staðreynd að árið 1710 áttu nýnefndur Þorleifur og stúlkan Kristín á Auðkúlu, sem var dóttir Torfa bróður hans, þennan sama jarðarhelming.[57]

Árið 1710 var Kristín Torfadóttir á Auðkúlu aðeins 15 ára gömul[58] en hún giftist síðar séra Andrési Gíslasyni og seinni eiginmaður hennar var séra Hallgrímur Jónsson á Rafnseyri sem átti hálft Kirkjuból í Korpudal árið 1762.[59] Sá jarðarhelmingur hafði þá verið í eigu sömu ættar eða fólks sem henni tengdist að minnsta kosti nokkuð á aðra öld eins og sjá má af því sem hér hefur verið ritað og sá tími kynni að hafa verið mun lengri.

Hin hálflendan hér á Kirkjubóli, sú sem séra Páll Björnsson í Selárdal átti árið 1658, var líka lengi í eigu sömu ættar því að Páli látnum eignaðist Ingibjörg dóttir hans þau jarðarhundruð eins og hér hefur þegar verið rakið og árið 1746 voru þau í eigu dóttur Ingibjargar, sem Ólöf hét, og hennar eiginmanns.[60] Ólöfu hafði Ingibjörg Pálsdóttir eignast með eiginmanni sínum, Jóni Magnússyni á Eyri í Seyðisfirði[61] en maður Ólafar var Sigurður Jónsson, sýslumaður á Hvítárvöllum í Borgarfirði.[62] Haustið 1746 seldi Sigurður á Hvítárvöllum, sem þá hafði látið af embætti, Jóni Greipssyni 10 hundruð í Kirkjubóli í Korpudal[63] og árið 1748 keypti Jón Greipsson 5 hundruð í sömu jörð af séra Runólfi Runólfssyni sem var tengdasonur Sigurðar sýslumanns og Ólafar konu hans.[64] Þessi 5 hundruð, ásamt einu og hálfu kúgildi, keypti Jón fyrir 30 ríkisdali[65] og hefur því gefið liðlega fjóra og hálfan ríkisdal fyrir hvert hundrað og fyrir kúgildið.

Jón Greipsson, sem keypti hálft Kirkjuból í Korpudal á árunum 1746-1748, er efalítið sami Jón Greipsson og bjó á Efstabóli árið 1735 en hafði flutt sig að Kirkjubóli fyrir 1753.[66] Jón Greipsson var einn þriggja bænda á Kirkjubóli í Korpudal árið 1753[67] og sé það hann sem keypti hálflenduna nokkrum árum fyrr hefur hann búið hér í sjálfsábúð. Jarða- og bændatal frá árinu 1753 sýnir að bóndi þessi hefur verið betur stæður efnalega en almennt var því lausafjáreign hans er þá talin 13 hundruð en aðrir bændur á Kirkjubóli, Kroppstöðum og Efstabóli tíunduðu þá að meðaltali innan við 5 hundruð hver af lausafé.[68] Árið 1762 hefur Jón Greipsson að líkindum verið dáinn en hálflendan sem hann hafði átt á Kirkjubóli var þá í eigu Guðrúnar Andrésdóttur sem var hér búandi ekkja með tvo uppkomna syni.[69] Erfitt mun vera að færa sönnur á að þau Guðrún Andrésdóttir og Jón Greipsson hafi verið hjón en býsna líklegt verður það að teljast.

Árið 1805 var Halldóra Magnúsdóttir í Miðdal orðin eigandi að öllu Kirkjubóli í Korpudal.[70] Þar mun eflaust vera um að ræða Halldóru Magnúsdóttur í Miðdal í Bolungavík en eiginmaður hennar, Sigurður Jónsson að nafni, dó 46 ára gamall 3. mars 1804 og átti þá heima í Miðdal.[71] Árið 1801 áttu Sigurður og Halldóra heima á Geirastöðum í Bolungavík og þá var hún 41 árs en hann 43ja.[72] Um hugsanleg ættartengsl Halldóru Magnúsdóttur við hina fyrri eigendur Kirkjubóls er allt ókunnugt.

Árið 1810 varð Ebenezer Þorsteinsson sýslumaður í Ísafjarðarsýslu og settist að í Ytri-Hjarðardal í Önundarfirði (sjá hér Ytri Hjarðardalur). Nokkrum árum síðar var hann sannanlega orðinn eigandi Kirkjubóls í Korpudal og árið 1825 ánafnaði hann jörð þessa eiginkonu sinni, Guðrúnu Þórðardóttur.[73] Ebenezer sýslumaður dó haustið 1843 og við skipti á dánarbúi hans kom til álita hvort gjafabréfið frá 1825 skyldi tekið gilt.[74] Sá sem tók við sýslumannsembættinu af Ebenezer var Eggert Briem og vorið 1845 kvað hann upp þann úrskurð að fyrrnefnt gjafabréf skyldi tekið gilt og ekkjan Guðrún væri því réttur eigandi að Kirkjubóli.[75] Dánarbú Ebenezers sýslumanns var virt á 6.848 ríkisdali og 50 skildinga en Kirkjuból eitt og sér var virt á 1.110 ríkisdali.[76] Árið 1845 var opinbert kýrverð í vesturamtinu 25 ríkisdalir og 32 skildingar[77] og yfirleitt var eitt jarðarhundrað talið jafngilda einu kýrverði. Með hliðsjón af því er matið á Kirkjubóli, sem var 30 hundraða jörð, býsna hátt, 1.110 ríkisdalir í stað 760 ríkisdala ef miðað hefði verið við kýrverðið. Mat þetta bendir eindregið til þess að um miðbik 19. aldar hafi jörðin í raun verið talin meira virði en hundraðatalan gaf tilefni til að ætla.

Einhvern tíma á árunum 1845-1857 mun sýslumannsekkjan í Hjarðardal hafa selt Jóni Gíslasyni skipherra hálft Kirkjuból í Korpudal því þegar Jón keypti af henni Ytri-Hjarðardal árið 1858 fékk hún þessa hálflendu til baka upp í hluta af kaupverðinu sem skipherrann átti að greiða fyrir Ytri-Hjarðardal.[78]

Guðrún Þórðardóttir, ekkja Ebenezers sýslumanns, andaðist hjá Önnu dóttur þeirra í Vigur haustið 1865.[79] Einu börnin sem Ebenezer sýslumaður og Guðrún kona hans höfðu eignast voru tvær dætur, Ingibjörg sem giftist hálfbróður móður sinnar, Kristjáni Skúlasyni, sýslumanni á Skarði á Skarðsströnd, og Anna sem giftist fyrst Kristjáni Guðmundssyni, hreppstjóra og dannebrogsmanni í Vigur, en síðar Sigmundi Erlingssyni, bónda í Vigur.[80] Skömmu áður en Guðrún Þórðardóttir andaðist gaf hún Önnu dóttur sinni í Vigur og Sigmundi eiginmanni hennar eftir 1.500 ríkisdala skuld en þar til mótvægis ánafnaði hún Ingibjörgu dóttur sinni á Skarði 15 hundruð í Kirkjubóli í Korpudal og hjáleigunni Kirkjubólshúsum.[81] Á þessu má sjá að Guðrún Þórðardóttir, sem lengi var sýslumannsfrú í Ytri-Hjarðardal, átti a.m.k. hálft Kirkjuból alveg þangað til hún andaðist haustið 1865 en þá voru 40 ár liðin frá því eiginmaður hennar gaf út sérstakt bréf um að hún skyldi eignast jörð þessa eftir sinn dag.

Við undirbúning þessa rits hefur ekki verið kannað hversu lengi Ingibjörg Ebenezersdóttir á Skarði átti hálfa jörðina hér á Kirkjubóli en að lokum skal tekið fram að árið 1901 voru bræðurnir Kjartan og Páll Rósinkranzsynir frá Tröð orðnir eigendur jarðarinnar.[82] Páll hafði þá búið í tvíbýli hér á Kirkjubóli í tíu ár (sjá Firðir og fólk 1900-1999,374) en sambýlismaður hans var leiguliði.

Áður en lengra er haldið mun rétt vera að fara nokkrum orðum um landskuldina, sem hinir ýmsu leiguliðar hér á Kirkjubóli þurftu að greiða á fyrri tíð, og huga að fjölda innstæðukúgilda sem jörðinni fylgdu. Árið 1658 var landskuld af Kirkjubóli 280 álnir[83] eða sem svaraði 14 vættum. Árið 1695 var landskuldin komin niður í 11 vættir[84] eða sem svaraði 220 álnum. Árið 1710 var landskuldin 9½  vætt eða 190 álnir og hafði þá nýlega lækkað um eina vætt vegna skriðu sem féll á engjarnar árið 1706 og um hálfa vætt vegna afleiðinga stórubólu sem hér geisaði árið 1707.[85] Árið 1753 var landskuldin óbreytt frá því sem verið hafði 1710[86] en í jarðabók frá árinu 1805 er aðeins gert ráð fyrir 76 álna landskuld.[87] Um miðbik 19. aldar var landskuldin hins vegar 190 álnir[88] eins og verið hafði 100 árum fyrr en um 1920 hafði áætluð landskuld af jörðinni lækkað um helming og var þá 4 ær og 1 gemlingur[89] eða sem svaraði um það bil 95 álnum. Tekið skal fram að hér að framan er ætíð átt við landskuld af jörðinni allri að hjáleigunni Kirkjubólshúsum meðtöldum.

Um 1700 var gert ráð fyrir að landskuldin væri öll eða nær öll greidd í kaupstað[90] og í jarðabók frá árinu 1805 er tekið fram með hvers konar afurðum beri að greiða landskuldina. Bændurnir tveir sem þá bjuggu á heimajörðinni á Kirkjubóli áttu báðir til samans að greiða landeiganda þrjá tveggja ára sauði og 26 pund af ull í landskuldina.[91] Sauðirnir þrír voru virtir á 15 álnir hver en ullin á hálfa alin pundið.[92] Tekið var fram að annar helmingur ullarinnar skyldi vera hvítur en hinn mislitur.[93] Frá hjáleigubóndanum í Kirkjubólshúsum átti landeigandi svo að fá einn eins árs gamlan sauð, átta pund af hvítri ull og önnur átta af mislitri.[94] Eins árs sauðurinn var þá talinn 10 álna virði[95] svo landskuld af hjáleigunni einni taldist vera 18 álnir eða tæpur fjórðungur af heildarlandskuldinni sem eigendur Kirkjubóls fengu greidda.

Elsta heimild um fjölda innstæðukúgilda á Kirkjubóli í Korpudal er skráin frá 1446 yfir jarðeignir Guðmundar ríka Arasonar (sjá hér bls. 5) en þar eru kúgildin sem fylgdu jörðinni sögð vera sex.[96] Árið 1658 hafði leigukúgildunum fjölgað verulega því þá voru þau orðin ellefu og sú tala var óbreytt árið 1695.[97] Árið 1710 voru innstæðukúgildin mun færri, ekki nema sjö og hálft og hafði fækkað úr átta í sex á heimajörðinni og úr þremur í eitt og hálft í hjáleigunni.[98]

Árið 1753 voru hér aðeins fjögur leigukúgildi.[99] Sterkar líkur benda til þess að einn þeirra sem þá bjuggu á Kirkjubóli hafi verið sjálfseignarbóndi og átt hálfa jörðina eins og hér hefur áður verið rökstutt (sjá hér bls. 8). Ef svo hefur verið er þar vafalaust komin skýring á fækkun leigukúgildanna því sjálfseignarbóndi getur eðli málsins samkvæmt ekki verið með búfé á leigu frá landeiganda. Árið 1847 voru innstæðukúgildin hér á Kirkjubóli líka fjögur[100] en í matsgerð frá árunum kringum 1920 eru þau sögð vera sex eða nánar til tekið 36 leiguær.[101] Þá hafði jörðin að vísu verið í sjálfsábúð um nokkurt skeið[102] svo gera verður ráð fyrir að tala leiguánna, sem upp er gefin, segi til um fjölda þeirra eins og hann var þegar leiguliðar bjuggu síðast á jörðinni áður en matið fór fram.

Fyrsti maður sem þekktur er með nafni og verulega líklegt má telja að hafi búið á Kirkjubóli í Korpudal er Bjarni Jónsson lögsagnari sem uppi var á síðari hluta 16. aldar. Í varðveittum heimildum sést að Bjarni hefur tvímælalaust búið á einhverju hinna fimm Kirkjubóla í Önundarfirði og Dýrafirði en þar verður ekki séð með óyggjandi hætti á hvaða Kirkjubóli það var. Ýmist er fullyrt að hann hafi búið á Kirkjubóli í Önundarfirði[103] eða á Kirkjubóli í Dýrafirði[104] og einstakir höfundar ekki einu sinni samkvæmir sjálfum sér hvað þetta varðar. Hér hefur áður verið sýnt fram á að nær útilokað má kalla að Bjarni hafi búið á Kirkjubóli í Valþjófsdal (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal) og fyrst svo er verður að telja langlíklegast að slíkur fyrirmaður hafi setið á Kirkjubóli í Korpudal sem er stærsta jörðin með Kirkjubólsnafni hér um slóðir að Kirkjubóli í Valþjófsdal frátöldu. Til hins sama bendir líka sú staðreynd að um miðbik 17. aldar áttu sonarsynir Bjarna lögsagnara hálft Kirkjuból í Korpudal (sjá hér bls. 6-7). Engar

 

slíkar vísbendingar gefa hins vegar til kynna að hann hafi átt eða búið á Kirkjubóli í Dýrafirði.

Bjarni sá Jónsson, sem hér var nefndur til sögu, var sonur Jóns Ólafssonar, sýslumanns í Hjarðardal (sjá hér bls. 6-7), og seinni konu hans, Ingunnar Brynjólfsdóttur.[105] Árið 1573 gegndi hann sýslumannsembætti í vesturhluta Ísafjarðarsýslu, líklega sem lögsagnari,[106] en svo voru þeir menn nefndir sem kvaddir voru til starfa sem staðgenglar sýslumanna. Kona Bjarna var Guðrún, talin laundóttir Jóns Björnssonar í Flatey á Breiðafirði.[107] Börn þeirra voru sex og má úr þeim hópi nefna Þorleif, sem varð prestur á Söndum í Dýrafirði, Þorkötlu, sem varð kona séra Jóns Magnússonar þumlungs á Eyri í Skutulsfirði, og Guðlaugu, sem giftist Þorleifi Sveinssyni í Innri-Hjarðardal,[108] bróður Brynjólfs Sveinssonar, biskups í Skálholti.

Af bændum á Kirkjubóli á 17. öld eru aðeins þekktir með nafni þeir þrír menn sem hér bjuggu árið 1681, þeir Jón Jónsson, Arnór Ólafsson og Jón Ketilsson.[109] Þeir höfðu þá 10 hundruð hver til ábúðar[110] og einn þeirra hefur búið í hjáleigunni Kirkjubólshúsum. Líklegt er að það hafi verið Jón Ketilsson því hann er talinn síðastur í röðinni.[111] Vera kann að Jón þessi Ketilsson hafi auk Kirkjubólshúsa haft hálfa Kroppstaði undir og búið á tveimur jörðum í senn (sjá hér Kroppstaðir).

Hjáleigan Kirkjubólshús taldist vera fullur þriðjungur úr allri jörðinni, það er 10 hundruð[112] og í Jarðabókinni frá 1710 segir að þar hafi byggð hafist fyrir minni allra þálifandi manna.[113] Fullvíst má því telja að fólk hafi byrjað búskap í hjáleigunni fyrir 1650 og vel má vera að þar hafi býli fyrst verið reist alllöngu fyrr, máske á 15. eða 16. öld.

Ætla má að hjáleigubærinn hafi staðið þar sem nú heitir Húsatún en það er aðeins utar en heimatúnið á Kirkjubóli og ofan við bílveginn. Þegar gerður var kálgarður þar í hallanum um miðbik 20. aldar kom í ljós gamall öskuhaugur[114] sem bendir eindregið til mannabústaðar frá fyrri tíð alveg á næstu grösum. Í Kirkjubólshúsum var búið allt til ársins 1866.[115] Þó kom fyrir að byggð félli þar niður stuttan tíma en kunnugt er um slíkt dæmi frá fimmta áratug 19. aldar.[116] Hér verður síðar getið fáeinna bænda sem bjuggu í hjáleigunni (sjá hér bls. 21-22) og svolítil grein gerð fyrir fólki því sem þar var síðast (sjá hér bls. 22-23).

Á 18. öld var oft þríbýli á Kirkjubóli[117] og þá mun hafa verið algengast að tveir bændanna sætu á heimajörðinni og einn í hjáleigunni. Frá 18. öld eru þó líka finnanleg dæmi um að hér hafi verið fjórbýli og bjuggu þá tveir bændur á heimajörðinni og tveir í hjáleigunni.[118]

Árið 1801 voru heimilin á Kirkjubóli og í Kirkjubólshúsum fimm.[119] Búandi menn voru þá fjórir en auk bændanna og þeirra fólks hafðist hér við húsmaður með sjö manna fjölskyldu og er í manntali tekið fram að hann hafi líka einhver jarðarafnot.[120] Á fyrri hluta 19. aldar og fram undir 1860 munu bændur á heimajörðinni þó oftast hafa verið tveir og svo einn í hjáleigunni.[121] Árið 1835 var þó aðeins húsfólk í hjáleigunni.[122] Um 1860 fjölgaði býlunum á Kirkjubóli upp í fimm og bjuggu þá fjórir bændur á heimajörðinni og einn í hjáleigunni.[123] Á þeim árum hefur verið hér meira þröngbýli en góðu hófu gegndi, enda var breytingar ekki langt að bíða því 1866 féllu Kirkjubólshús endanlega úr byggð[124] og árið 1870 höfðu tveir bændur alla jörðina til ábúðar.[125] Á síðasta þriðjungi 19. aldar var hér yfirleitt tvíbýli en dæmi finnast þó um annað því 1890 var hér aðeins einn bóndi og svo húskona sem sögð var lifa af kvikfé.[126]

Af flestum bændanna, sem bjuggu á Kirkjubóli í Korpudal á liðnum öldum, fer fáum sögum. Svolitla vitneskju um nokkrar manneskjur úr hópi fólksins sem hér átti heima fyrir 1900 er þó að finna á víð og dreif.

Árið 1703 bjuggu hér bræður tveir, Bjarni og Jón Jónssynir, og hafa að líkindum haft hálfa heimajörðina til ábúðar.[127] Báðir voru þeir 62ja ára gamlir þegar manntal var tekið á því ári og í manntalinu er tekið fram að þeir séu tvíburar og ráði báðir fyrir búinu.[128] Tvíburarnir voru ókvæntir en áttu samt þrjá syni á aldrinum 7-22ja ára, sem allir hétu Jón og áttu heima hjá feðrum sínum hér á Kirkjubóli.[129] Af sonunum þremur átti Bjarni tvo og Jón einn.[130] Um móður eða mæður drengjanna er ekki getið en hjá þeim bræðrum var árið 1703 45 ára gömul bústýra, Þuríður Jónsdóttir að nafni.[131] Sambýlismenn tvíburanna voru Oddur Jónsson og Jón Jónsson,[132] sem að líkindum hefur búið í Kirkjubólshúsum því vitað er að maður með því nafni bjó þar sjö árum síðar.[133] Jón Jónsson, sem síðast var nefndur, var 39 ára árið 1703 og átti Guðrúnu Ketilsdóttur fyrir konu en Oddur var þá 50 ára og kona hans hét Guðrún Gísladóttir.[134] Báðar voru þessar Guðrúnar lítið eitt yngri en eiginmenn þeirra.[135]

Oddur Jónsson bjó enn á Kirkjubóli árið 1710[136] og líklegt er að Andrés Oddsson,sem var annar tveggja bænda á heimajörðinni um 1735,[137] hafi verið sonur hans. Víst er að Oddur átti son sem Andrés hét og sá var hér 16 ára á heimili foreldra sinna árið 1703.[138] Jónarnir tveir Jónssynir sem bjuggu í Kirkjubólshúsum um 1735[139] gætu líka sem best verið úr niðjahópi þeirra sem hér bjuggu í byrjun aldarinnar en um slíkt er þó ekkert hægt að fullyrða og ekki heldur um Gísla Jónsson sem bjó á parti úr heimajörðinni 1735 og 1753.[140]

Hér var áður minnst á Jón Greipsson sem keypti 15 hundruð í Kirkjubóli á árunum 1746-1748 (sjá hér bls. 8) en maður með því nafni bjó hér á heimajörðinni árið 1753.[141] Sambýlismenn hans voru þá tveir og má ætla að annar þeirra hafi búið í hjáleigunni. Eins og áður var tekið fram benda allar líkur til þess að Jón Greipsson, sem keypti hálft Kirkjuból í Korpudal skömmu fyrir 1750, sé sami maður og bóndinn með því nafni sem hér bjó árið 1753. Á 18. og 19. öld var annars fátítt að sjálfseignarbændur byggju á Kirkjubóli uns breyting varð á í þeim efnum á árunum kringum aldamótin 1900.

Árið 1762 stóðu konur fyrir búi á þremur af fjórum býlum á Kirkjubóli og í Kirkjubólshúsum.[142] Líklegt er að allar hafi þær verið ekkjur. Á heimajörðinni bjuggu Guðrún Andrésdóttir og Hallfríður Oddsdóttir en Ingibjörg Þórðardóttir bjó á parti úr hjáleigunni.[143] Allar voru konur þessar komnar yfir fimmtugt og áttu hver um sig eitt eða fleiri uppkomin börn.[144]

Undir lok 18. aldar voru hjónin Oddur Jónsson og Margrét Bjarnadóttir í hópi búenda á Kirkjubóli[145] en árið 1801 var sonur þeirra sem Jón hét orðinn bóndi hér.[146] Jón þessi Oddsson var kvæntur Sigríði Hákonardóttur, dóttur Hákonar Bárðarsonar, bónda á Arnarnesi í Dýrafirði, og eiguðust þau tíu börn.[147] Árið 1805 bjuggu Jón Oddsson og Sigríður kona hans í Kirkjubólshúsum[148] og hugsanlegt er að þau hafi einnig verið þar 1801 því í manntalinu frá því ári er ekki tekið fram hverjir bjuggu á heimajörðinni og hverjir í hjáleigunni. Jón Oddsson og Sigríður kona hans voru afi og amma Benedikts Oddssonar sem bjó í Fremri-Hjarðardal í Dýrafirði á síðari hluta 19. aldar.[149]

Bernharður Guðmundsson var líka einn bændanna hér á Kirkjubóli árið 1801.[150] Hann er þá sagður vera 47 ára gamall en kona hans, Halldóra Guðmundsdóttir, einu ári eldri.[151] Hún mun hafa verið frá Eyri í Önundarfirði.[152] Hjónin Bernharður og Halldóra dóu bæði skömmu eftir 1810, hann 1811 en hún 1813.[153] Börn þeirra voru sex, elst Marsibil sem giftist fyrst Guðmundi Jónsson í Tröð en seinna Nikulási Bjarnasyni og bjuggu þau hér á Kirkjubóli um skeið.[154] Sonur hennar var Bernharður Guðmundsson sem drukknaði árið 1843 (sjá hér Tröð), afi Bernharðar Guðmundssonar sem lengi bjó á Kirkjubóli í Valþjófsdal á fyrri hluta 20. aldar.[155]

Húsmaðurinn sem átti heima á Kirkjubóli eða í Kirkjubólshúsum árið 1801 hét Guðmundur Arason.[156] Hann var fæddur í Tungu í Firði árið 1755 eða því sem næst.[157] Kona hans hét Guðrún Gísladóttir.[158] Árið 1801 áttu þau 5 börn á lífi heima á Kirkjubóli en alls munu þau hafa eignast 10 börn.[159] Árið 1811 var Guðmundur þessi Arason bóndi á Efstabóli en árið 1816 var hann vinnumaður hjá Elínu Hjaltadóttur í Neðri-Breiðadal.[160] Guðmundur dó haustið 1828 og var þá lausamaður á Flateyri.[161]

Flestir 19. aldar bændur á Kirkjubóli komu og fóru og bjuggu hér aðeins í nokkur ár. Einna lengst teygðist úr búskap feðganna Sigurðar Sigurðssonar og Jóns sonar hans ef búskapartími þeirra beggja er lagður saman. Sigurður Sigurðsson, sem fæddist í Ytri-Hjarðardal á árunum upp úr 1760, hóf búskap hér á Kirkjubóli á árunum 1811-1816 en Jón sonur hans fluttist héðan að Vöðlum á árunum 1852-1855.[162] Samanlagður búskapartími þeirra hér varð því um 40 ár. Sigurður Sigurðsson hafði búið um skeið í Tungu í Firði og svo á Vífilsmýrum áður en hann fluttist hingað að Kirkjubóli.[163] Kona hans hét Guðrún Bjarnadóttir og voru þau gefin saman í hjónaband 2. desember 1795.[164] Hjón þessi munu hafa eignast sjö börn[165] og þrjú þeirra stóðu með mökum sínum fyrir búi á Kirkjubóli um lengri eða skemmri tíma, Járngerður sem giftist Andrési Jónssyni, Gunnhildur sem giftist Bjarna Nikulássyni og Jón sem kvæntist Kristínu Einarsdóttur og bjó hér fram yfir 1850.[166]

Árið 1835 stóð Sigurður Sigurðsson enn fyrir búi á Kirkjubóli þó orðinn væri sjötugur og bjó hér þá í tvíbýli á móti Andrési Jónssyni, tengdasyni sínum sem áður var nefndur.[167] Bjarni Nikulásson, sem einnig var tengdasonur Sigurðar, var þá í húsmennsku á Kirkjubóli eða í Kirkjubólshúsum en þeir Sigurður og Andrés bjuggu á allri jörðinni.[168] Bjarni Nikulásson var sonur Nikulásar Bjarnasonar og Salbjargar Gilsdóttur, fyrri konu hans, en Nikulás hafði átt heima á Kirkjubóli um skeið og var þar nú húsmaður.[169]

Árið 1840 var Jón Sigurðsson tekinn við búi af föður sínum og bjó hér þá í þríbýli á móti mágum sínum, þeim Andrési Jónssyni og Bjarna Nikulássyni sem bjó í Kirkjubólshúsum.[170] Elstur þessara þriggja mága og sambýlismanna á Kirkjubóli var Andrés sem fæddist í Fremri-Breiðadal 11. janúar 1785.[171] Hann kvæntist Járngerði Sigurðardóttur, sem áður var nefnd, árið 1820[172] og fór þá þegar að búa á parti úr Kirkjubóli.[173] Hér á Kirkjubóli mun Andrés hafa búið í 25-30 ár[174] en varð að lokum brjálaður og dó úr ellilasleika árið 1854.[175] Járngerður kona hans dó fjórum árum síðar.[176] Börn þeirra voru fjögur.[177]

Árið 1837 skiptist bústofninn á Kirkjubóli þannig milli bændanna þriggja: Andrés var með 2 kýr, 15 ær, 3 gemlinga, 14 lömb, 1 hest og 1 folald.[178] Jón Sigurðsson var með 2 kýr, 1 kvígu, 1 kálf, 15 ær, 3 gemlinga, 15 lömb og 2 hesta en Bjarni Nikulásson, sem bjó í Kirkjubólshúsum, með 2 kýr, 12 ær, 2 gemlinga, 11 lömb og 1 hest.[179] Allir höfðu þeir tíu jarðarhundruð til ábúðar[180] og bjuggu því á einum þriðja parti jarðarinnar hver.

Bjarni Nikulásson fæddist á Tannanesi árið 1800 og kvæntist Gunnhildi Sigurðardóttur á Kirkjubóli, sem var á svipuðum aldri, árið 1824.[181] Næstu árin munu þau oftast hafa átt heima á Kirkjubóli en Bjarni komst þó ekki í bænda tölu fyrr en Kirkjubólshúsin losnuðu úr ábúð um 1835.[182] Í Kirkjubólshúsum eða á Kirkjubóli bjó hann síðan til dauðadags en andaðist 3. mars 1845 úr brjóstmeinlætum og er þá sagður bóndi á Kirkjubóli í Firði.[183] Þau Bjarni og Gunnhildur eignuðust 13 börn[184] og þegar manntal var tekið, átta mánuðum eftir lát Bjarna, var ekkjan Gunnhildur með tvö barna sinna á heimili Jóns bróður síns hér á Kirkjubóli.[185] Annað þessara barna var Gils Bjarnason, sem seinna varð bóndi á Mosvöllum (sjá hér Mosvellir), en sjálf var Gunnhildur lengi búandi ekkja á Vífilsmýrum (sjá hér Vífilsmýrar).

Jón Sigurðsson, sem tók við búi á Kirkjubóli af föður sínum árið 1836 eða því sem næst, bjó hér á hálfri heimajörðinni í nær tvo áratugi.[186] Jón fæddist árið 1807 á Vífilsmýrum en fluttist með foreldrum sínum hingað að Kirkjubóli innan við tíu ára aldur.[187] Jón kvæntist Kristínu Einarsdóttur úr Skutulsfirði árið 1836.[188] Börn þeirra voru fjögur.[189] Jón á Kirkjubóli var um skeið hreppstjóri í Mosvallahreppi ásamt Sturlu Jónssyni í Dalshúsum[190] og má því ætla að hann hafi þótt allvel til forystu fallinn. Þann 4. janúar 1852 missti bóndi þessi á Kirkjubóli konu sína[191] og leið þá ekki á löngu uns hann fluttist burt héðan. Þegar tvö ár voru liðin frá andláti Kristínar gekk Jón að eiga seinni konu sína, sem hét Ingibjörg Bjarnadóttir, og árið 1855 fluttust þau búferlum að Vöðlum.[192] Þau eignuðust þrjú börn og bjuggu um skeið í Ytri-Hjarðardal en þegar Jón Sigurðsson frá Kirkjubóli andaðist suamrið 1871 var hann húsmaður á Vöðlum.[193]

Allmargir bændur hófu búskap á Kirkjubóli í Korpudal á síðari hluta 19. aldar en enginn þeirra náði að búa hér mjög lengi nema Páll Rósinkranzson sem tók við hálfri jörðinni árið 1891 og bjó til 1926 (sjá hér bls. 23-25). Fáeina hinna er þó vert að nefna á nafn. Árið 1849 tók Einar Jónsson við þeim parti jarðarinnar sem Andrés Jónsson og Þórður, sonur Andrésar, höfðu búið á og bjó Einar hér síðan næstu 12 árin.[194] Einar var fæddur á Augnavöllum í Hnífsdal árið 1808 eða því sem næst.[195] Árið 1844 kvæntist hann ekkjunni Elínu Eiríksdóttur sem búið hafði á Kaldá með fyrri eiginmanni sínum, Jóni Ólafssyni frá Eyri í Önundarfirði.[196] Elín var fædd árið 1799, dóttir séra Eiríks Vigfússonar, sem lengst var prestur á Stað í Súgandafirði, og konu hans, Ragnheiðar Halldórsdóttur.[197] Þau Einar og Elín fluttust frá Kirkjubóli að Kotum (Bethaníu) árið 1861 og þar dó Einar árið 1863.[198] Elín lifði til ársins 1872 en andaðist þá á Tannanesi.[199]

Árið 1855 fór Jóhannes Guðmundsson frá Hóli á Hvilftarströnd að búa á þeim parti af Kirkjubóli sem Jón Sigurðsson hafði áður.[200] Jóhannes, sem fæddur var árið 1824, var þá nýkvæntur Ragnheiði Jónsdóttur en móðir hennar var Elín Eiríksdóttir sem þá var húsfreyja hér á Kirkjubóli og áður var nefnd.[201] Jóhannes þessi er sagður hafa verið nefndur Jóhannes norðurfall.[202] Þau Jóhannes og Ragnheiður bjuggu hér á Kirkjubóli frá 1855 til 1860. Seinna bjuggu þau í nokkur ár á Tannanesi og árið 1880 var Jóhannes á Selakirkjubóli.[203]

Haustið 1860 bjuggu fjórir bændur á Kirkjubóli og einn í Kirkjubólshúsum.[204] Um vorið höfðu bændurnir á heimajörðinni hins vegar ekki verið nema þrír.[205] Stærst var búið hjá Örnólfi Magnússyni sem bjó með 2 kýr, 17 ær, 2 gemlinga og 1 tryppi.[206] Örnólfur var fæddur árið 1824 á Meirahrauni í Skálavík en ólst upp í Önundarfirði að verulegu leyti og máske alveg.[207] Kona hans, Sigríður Sigurðardóttir, var úr Súgandafirði. Örnólfur dó á Kirkjubóli haustið 1863 úr brjóstveiki.[208] Þá var Sigríður kona hans aðeins liðlega þrítug og seinna eignaðist hún barn með Birni Torfasyni en hann var þá ráðsmaður Guðbjargar Bjarnadóttur, ekkju Friðriks J. Svendsen kaupmanns, og í sambúð með henni á Vífilsmýrum[209] (sbr. hér Vífilsmýrar). Barn þetta, sem var drengur, dó 8 ára gamall en eitt barna Sigríðar með Örnólfi Magnússyni var Hálfdan Örnólfsson, hreppstjóri í Meirihlíð í Bolungavík, fæddur 1855.[210] Annað barn þeirra var María Sigríður sem fæddist hér á Kirkjubóli árið 1862.[211] Hún varð síðar húsfreyja í Kálfavík í Skötufirði við Djúp, gift Jóni Hjaltasyni sem þar bjó.[212]

Þegar Örnólfur Magnússon lá fyrir dauðanum fóru Bjarni Guðmundsson og Jósabet Þorleifsdóttir að búa á Kirkjubóli. Þau tóku vorið 1863 við ábúð á þeim 10 hundruðum sem Örnólfur hafði búið á og fór þá fram úttekt á bæjarhúsunum sem fylgdu þeim jarðarparti.[213] Baðstofan sem Örnólfur og hans fólk hafði búið í var 7 x 4 álnir[214] eða rétt liðlega 11 fermetrar. Hæðin frá gólfi og upp í rjáfur var um það bil 3,45 metrar[215] svo vel má hugsa sér að loft hafi verið í húsinu. Ekki er getið um búr í úttektinni og eldhúsið var í minnsta lagi, aðeins tæplega fjórir fermetrar.[216] Göngin voru þrír til fjórir metrar á lengd og um einn metri á breidd en lofhæð í þeim segja úttektarmennirnir að hafi verið 1,57 metrar eða því sem næst[217] og hafa þá margir orðið að beygja höfuðið þegar gengið var í bæinn.

Þau Bjarni Guðmundsson og Jósabet kona hans, sem hófu búskap á Kirkjubóli vorið 1863, bjuggu hér síðan í 23 ár eða allt til ársins 1886. [218] Bjarni fæddist í Meira-Garði í Dýrafirði 28. desember 1839 sonur hjóna sem þar voru í vinnumennsku. Foreldrar Bjarna, sem hétu Guðmundur Jónsson og Þórunn Magnúsdóttir,[219] slitu samvistir þegar hann var á fyrsta ári. Haustið 1840 var móðir hans komin með drenginn að Lækjarósi, sögð skilin við mann, en Guðmundur sem var 17 árum eldri en Þórunn var þá enn um kyrrt í Meira-Garði, orðinn fertugur.[220]

Bjarni Guðmundsson mun hafa alist upp í Önundarfirði að meira eða minna leyti en Jósabet kona hans var úr Skutulsfirði og fluttist 1862 frá Arnardal hingað að Kirkjubóli.[221] Haustið 1864 giftist hún Bjarna en þá hafði hún búið með honum sem ráðskona hér á Kirkjubóli í eitt ár.[222] Á þessum blöðum var áður sagt frá silungsveiðum barna Bjarna og Jósabetar í bæjarlæknum en með því að seilast með höndunum inn undir bakkana náðu þau stundum að sögn um og yfir 500 smásilungum á dag þegar best gekk á vorin eða haustin (sjá hér bls. 4). Magnús Hjaltason, sem kynntist fólkinu á Kirkjubóli á uppvaxtarárum sínum, segir að þau Bjarni og Jósabet hafi verið hinir mestu dugnaðarforkur og vel að sér um margt og börn þeirra sjö hraust og mikil fyrir sér.[223] Frá Kirkjubóli fluttist Bjarni Guðmundsson og fjölskylda hans að Kroppstöðum árið 1886 og þar bjuggu þau í nokkur ár en þegar Bjarni dó um jólaleytið árið 1913 var hann húsmaður á Efstabóli.[224] Jósabet, kona Bjarna, dó á Gemlufalli árið 1920 en þar dvaldist hún hjá Önnu dóttur sinni, eiginkonu Guðmundar Engilbertssonar[225] sem um skeið bjó á Birnustöðum í Dýrafirði (sjá hér Birnustaðir).

Þegar Bjarni og Jósabet bjuggu á Kirkjubóli hafa þau að líkindum haft 15 jarðarhundruð til ábúðar því hér var tvíbýli á þeim árum og hjáleigan Kirkjubólshús fallin úr byggð. Um 1870 var Markús Ólafsson frá Neðrihúsum í Hestþorpinu sambýlismaður Bjarna[226] en frá Markúsi og Guðrúnu Pálsdóttur konu hans, sem seinna bjuggu á Kotum, hefur áður verið sagt (sjá hér Hestur og Kot).

Árið 1874 fluttust hjónin Árni Jónsson og Kristín Jóhannsdóttir að Kirkjubóli og hófu búskap á parti úr jörðinni í sambýli við Bjarna og Jósabet.[227] Þau Árni og Kristín komu hingað norðan úr Grunnavíkurhreppi og bjuggu á Kirkjubóli í átta ár, 1874-1882.[228] Þegar hjón þessi komu að Kirkjubóli voru þau á fertugsaldri og við lok ársins 1875 voru börnin á heimilinu orðin sex, hið elsta tíu ára.[229] Þau Árni og Kristín munu hafa verið fátæk en séra Stefán P. Stephensen í Holti bókar árið 1874 að Kristín sé vel að sér.[230] Á næsta ári segir hann að hún sé sæmilega uppfrædd en Árni bóndi fáfróður.[231] Svo virðist sem presti hafi verið eitthvað í nöp við fólk þetta því inn í húsvitjanabók sína færir hann árið 1875 svofellda lýsingu á heimili Árna og Kristínar: Bækur varla til húslestra, fátækt mikil og stakt óþrifa- og eymdarheimili.[232]

Þessum dómi prestsins er líklega best að taka með varúð. Magnús Hjaltason, sem ólst upp í nágrenni við Árna og Kristínu, ber mikið lof á hana fyrir gáfur en tekur fram að Árni hafi ekki verið vinsæll. Um hjón þessi kemst Magnús svo að orði:

 

Árni bóndi var ekki vinsæll enda talinn fingralangur en Kristín kona hans var bráðgáfuð og hagorð og víst hin eina fullorðna kona inn í Önundarfirði er kunni að skrifa á þeim tíma er hér segir frá. Þau Árni voru fátæk og óþrif voru þar mikil eins og … hjá Jósabet og Bjarna en allt var stálhraust fólkið og ekki veiklun á neinu.[233]

 

Ummæli Magnúsar um skriftarkunnáttuna eru athyglisverð og benda til þess að lítið hafi verið um skriftarkunnáttu hér inni í Firðinum hjá kvenfólki sem fætt var fyrir 1850. Slíkt þarf reyndar alls ekki að koma á óvart og hugsanlegt er að Magnús geri of mikið úr yfirburðum Kristínar í þessum efnum. Hina hagmæltu og vel skrifandi fátæku húsfreyju á Kirkjubóli nefnir Magnús Hjaltason Kristínu Söebeck,[234] enda var hún dóttir Jóhanns Söebeck sem var danskrar ættar og fluttist sem beykir frá Kaupmannahöfn að Kúvíkum í Strandasýslu árið 1835.[235] Jóhann kvæntist íslenskri konu, Steinunni Jónsdóttur, og bjuggu þau lengi í Veiðileysu í Árneshreppi í Strandasýslu.[236] Kristín Söebeck Jóhannsdóttir, húsfreyja á Kirkjubóli, var dóttir þessara hjóna.[237] Einn bræðra Kristínar var Friðrik Ferdinand Söebeck, bóndi í Reykjarfirði í Árneshreppi, en kona hans var Karólína Fabína Söebeck, borin Thorarensen,[238] sem margir kannast við úr kvæði Þórbergs Þórðarsonar er hann nefndi Gömul minning.[239]

Árið 1890 virðist hafa verið fremur dauft yfir búskapnum hér á Kirkjubóli. Bjarni og Jósabet voru þá komin að Kroppstöðum og Kristín Söebeck og Árni maður hennar horfin á braut.[240] Eini bóndinn á jörðinni var þá Salómon Þ. Jónsson, tæplega fertugur ekkjumaður úr Álftafirði, sem bjó hér skamman tíma.[241] Hann var síðast húsmaður á Ytri-Veðrará og týndi lífi er bátur sem hann var formaður á fórst á Ísafjarðardjúpi 4. nóvember 1897.[242] Á þessum bát fórust fimm menn úr Mosvallahreppi og sá sjötti sama dag á öðrum bát þar norður frá í aftaka áhlaupsveðri.[243] Þegar Salómon, sem búið hafði hér á Kirkjubóli, drukknaði 44 ára gamall lét hann eftir sig sjö börn.[244]

Þegar manntal var tekið haustið 1890 var ekkjan Rósamunda Guðmundsdóttir í húsmennsku hér á Kirkjubóli með börn sín fimm á ungum aldri.[245] Hingað hafði hún komið frá Tannanesi um vorið en mann sinn hafði hún misst á einmánuði þetta sama ár.[246] Rósamunda var dóttir Guðmundar Guðmundssonar norðlenska og verður nánar frá henni sagt á Tannanesi þar sem hún bjó með manni sínum í allmörg ár (sjá hér Tannanes).

Hér hefur nú verið minnst stuttlega á flesta bændurna sem bjuggu á Kirkjubóli á 19. öld en áður en lengra er haldið skulum við staldra við í Kirkjubólshúsum, hjáleigunni hér rétt utan við túnið sem féll úr byggð árið 1866. Áður hefur reyndar verið minnst á ýmsa sem þar bjuggu (sjá hér bls. 12-16  og Hestur) og því fáu við að bæta.

Á fyrstu árum 19. aldar bjuggu í Kirkjubólshúsum hjónin Jón Jónsson og Ólöf Þorleifsdóttir.[247] Um 1820 bjó Einar Hákonarson hér í hjáleigunni[248] en um 1830 var Davíð Jónsson tekinn við.[249] Frá Bjarna Nikulássyni og Gunnhildi Sigurðardóttur konu hans, sem bjuggu í Kirkjubólshúsum um 1840, hefur áður verið sagt (sjá hér bls. 16) en Bjarni andaðist árið 1845. Skömmu eftir lát Bjarna fór Kristján Hallgrímsson að búa hér í hjáleigunni. Hann var fæddur á Ósi í Bolungavík vorið 1817 og kvæntist haustið 1838 Margréti Magnúsdóttur sem var sex árum eldri en hann, fædd á Arnarnúpi í Dýrafirði árið 1811.[250] Þau Kristján og Margrét bjuggu í Kirkjubólshúsum í nokkur ár kringum 1850.[251] Hjón þessi eignuðust 14 börn en flest þeirra dóu ung.[252] Kristján drukknaði við sjóróðra í Bolungavík árið 1860 og átti þá heima í Lambadal í Dýrafirði.[253] Dóttursonur Kristjáns Hallgrímssonar og Margrétar konu hans var Kristján Guðleifsson sem var annar tveggja bænda hér á Kirkjubóli[254] á árunum 1912-1924 (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 374).

Árið 1860 voru hjónin Jón Guðmundsson og Sigríður Aradóttir búandi í Kirkjubólshúsum og þar voru þau enn í marsmánuði árið 1862.[255] Jón var fæddur í Þjóðólfstungu í Bolungavík árið 1821 en Sigríður kona hans var fædd á Blámýrum í Ögursveit.[256] Þau fluttust með börn sín tvö úr Ögursveit til Önundarfjarðar árið 1854 og höfðust við á ýmsum bæjum í Mosvallahreppi næstu ár.[257] Árið 1863 fóru þau aftur norður að Djúpi og fluttust þá frá Efrihúsum undir Hesti til Bolungavíkur.[258]

Á árunum 1861-1864 bjuggu hjónin Jón Andrésson og Helga Magnúsdóttir í Kirkjubólshúsum[259] og þegar Jón Guðmundsson og Sigríður kona hans fóru burt árið 1863 fluttust hingað mæðgurnar Helga Ebenezersdóttir og Helga Pálsdóttir svo jafnan voru heimilin í hjáleigunni tvö á árunum upp úr 1860.[260] Baðstofan sem þessar tvær fjölskyldur bjuggu í var 6 x 4 álnir[261] eða 9,5 fermetrar. Eldhúsið var 6,5 fermetrar og búr virðist ekkert hafa verið í þessum bæ ef marka má úttekt frá 12. júlí 1865.[262] Í kofanum voru hins vegar þriggja metra löng bæjargöng sem voru liðlega 60 sentimetrar á breidd með hurð og þilgarmi fyrir.[263] Hér hefur áður verið sagt frá nýnefndum mæðgum en Helga Pálsdóttir, sem var dóttir Helgu Ebenezersdóttur, var árið 1865 flutt hreppaflutningi með dætur sínar tvær frá Kirkjubólshúsum suður í Reykhólasveit (sjá hér Hestur). Dæturnar hafði Helga eignast 1863 og 1864 en faðir þeirra var Bjarni Jónsson sem sagður er hafa verið vinnumaður í Tungu í Firði.[264] Þegar hreppstjórar Mosvallahrepps gripu inn í og létu flytja Helgu á sinn fæðingarhrepp við Breiðafjörð var hún 26 ára gömul.[265]

Helga eldri, móðir Helgu Pálsdóttur, hafðist við í Kirkjubólshúsum fram á árið 1866 eins og hér hefur áður verið nefnt (sjá hér Hestur) og er þá  sögð vera  húskona hér í hjáleigunni.[266] Ekki var hún ein þetta síðasta ár því önnur kona, sem hét Ólöf Hallgrímsdóttir, var hér líka í húsmennsku[267] og árið 1865 settust hjónin Árni Jónsson og Elín Jónsdóttir líka að í kofunum sem hér stóðu þá.[268] Þegar Árni og Elín fluttust norðan úr Skutulsfirði að Kirkjubólshúsum árið 1865 er hann sagður vera flækingur á sveit.[269] Hann var þá talinn 44 ára gamall en Elín kona hans nokkrum árum yngri.[270] Allt var þetta fólk í Kirkjubólshúsum þegar prestur húsvitjaði í marsmánuði árið 1866 en ári síðar var það farið og allt komið í eyði í hjáleigunni.[271] Á þeim árum sem síðan eru liðin mun enginn hafa reynt að draga fram lífið í Kirkjubólshúsum[272] en Árni Jónsson, sem síðastur manna settist að í hjáleigunni, var árið 1870 þurfamaður hér heima á Kirkjubóli.[273]

Árið 1874 hékk eitthvað af hjáleigukofunum enn uppi. Á því ári seldi Stefán Bjarnarson hálft Kirkjuból í Korpudal með hálfum Kirkjubólshúsum.[274] Kaupandinn var annar Árni Jónsson,[275] líklega sá sem bjó hér í nokkur ár um 1880. Í úttektargerðinni frá 22. maí 1874 er tekið fram að lengd hálfra bæjarhúsanna í hjáleiguni sé 5,75 álnir og breiddin 3,5 álnir[276] en þá hafa þessi lágreistu híbýli staðið auð.

Síðustu nítjándu aldar bændurnir á Kirkjubóli í Korpudal voru Páll Rósinkranzson og Sveinn Jón Sigurðsson.[277] Sveinn og kona hans, Kristín Björg Guðmundsdóttir, voru leiguliðar og bjuggu hér aðeins frá 1898 til 1903 (sjá Firðir og fólk 1900-1999,374). Þau voru bæði Önfirðingar, hann fæddur á Hesti árið 1870 en hún á Hóli í Firði árið 1872.[278]

Páll Rósinkranzson og kona hans Skúlína Hlíf Stefánsdóttir hófu búskap á Kirkjubóli árið 1891 og stóðu hér síðan fyrir búi í 35 ár (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 374). Þau bjuggu hér lengst af í tvíbýli en Páll eignaðist hálfa jörðina á sínum fyrstu búskaparárum eða um það leyti sem hann hóf búskap.[279] Árið 1901 átti Kjartan bróðir hans hina hálflenduna[280] en um 1920 hafði Kristján Guðleifsson, sem þá bjó hér, náð að eignast þann jarðarpart.[281]

Páll Rósinkranzson var fæddur 4. október 1864 í Tröð í Önundarfirði, einn margra sona Rósinkranz Kjartanssonar og Guðlaugar Pálsdóttur sem þar bjuggu lengi. Þegar Páll kvæntist Skúlínu haustið 1890 átti hann enn heima í Tröð en hún hafði þá um skeið verið vinnukona í Holti.[282] Skúlína fæddist í Hrappsey á Breiðafirði 15. desember 1867 en kom fyrst til Önundarfjarðar með séra Janusi Jónssyni vorið 1884.[283] Að því sinni mun hún aðeins hafa verið í Holti í eitt ár en kom þangað í annað sinn sem vinnukona árið 1888 og þá frá Reykjavík.

Á yngri árum var Páll Rósinkranzson skipstjóri á skútum eins og bræður hans, þeir Sveinn á Hvilft og Kjartan á Flateyri[284] en Bergur bróðir þeirra var um skeið kaupmaður á Flateyri og gerði þaðan út þilskip (sjá hér Flateyri). Páll á Kirkjubóli mun hafa verið þátttakandi í útgerðinni sem Bergur bróðir hans stóð fyrir á árunum rétt eftir aldamótin 1900 og átti þá um skeið hálfa skútu. Hann var síðasti bóndinn í Mosvallahreppi sem lagði fé í skútuútgerð (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli).

Enda þótt Páll Rósinkranzson hæfi búskap á Kirkjubóli árið 1891 var hann áfram á skútum öll vor og sumur hin næstu ár. Í sóknarmannatali frá fyrsta búskaparári Páls hér á Kirkjubóli er hann nefndur skipstjóri og svo er einnig sum hin árin á síðasta áratug 19. aldar[285] (sbr. hér Flateyri). Páll var lengi skipstjóri á Gretti, 26 tonna skonnortu sem smíðuð var í Danmörku árið 1880.[286] Fyrstu eigendur Grettis voru Hjálmar Jónsson og Torfi Halldórsson á Flateyri en seinna var skip þetta selt Ásgeirsverslun á Ísafirði og feril sinn endaði það að lokum í Stykkishólmi á árunum kringum 1950.[287] Á Gretti mun Páll Rósinkranzson einkum hafa stundað hákarlaveiðar.[288] Hann þótti áræðinn og dugmikill skipstjóri og var talinn aflamaður í betra lagi.[289] Bræðrunum þremur frá Tröð sem urðu skipstjórar á þilskipum lýsti kunnugur með þessum orðum: Var Sveinn höfðinglegastur, Kjartan afla- og gróðamestur en Páll eitilharðastur og ákafastur.[290]

Halldór Kristjánsson frá Kirkjubóli í Bjarnardal ritaði árið 1948 líflega frásögn um hákarlaveiðarnar á Gretti og lífið þar um borð, byggða á skipsdagbók Páls Rósinkranzsonar frá árunum 1897 til 1898 og samtölum við menn úr skipshöfninni. Þessi ritsmíð Halldórs er prentuð í Skútuöldinni og þar lýsir hann m.a. margvíslegum svaðilförum hins djarfhuga skipstjóra á Gretti og manna hans.[291] Þegar Bergur Rósinkranzson hóf skútuútgerð frá Flateyri rétt eftir aldamótin 1900 varð Páll skipstjóri hjá honum,[292] enda var hann meðeigandi í þeirri útgerð eins og hér var áður nefnt.

Páll Rósinkranzson á Kirkjubóli var mikill kappsmaður bæði á sjó og landi. Hann var mjög áhugasamur um allar framfarir í búnaði og bætti jörð sína verulega.[293] Árið 1907 festu Páll á Kirkjubóli og Guðmundur Bjarnason, sem þá bjó í í Ytri-Hjarðardal, kaup á sláttuvél og var það fyrsta sláttuvélin sem kom til Önundarfjarðar.[294] Því miður reyndist sláttuvélin ónothæf vegna þess að hún var of gisfingruð.[295] Páll Rósinkranzson tók allmikinn þátt í félagsmálum og lét sig sveitarmálefni miklu varða. Hann var einn þriggja manna sem undirbjuggu stofnfund Vonarinnar, hins merkilega framfarafélags sem hóf starfsemi sína árið 1894 og undirbúningsfundurinn fyrir stofnun félagsins var einmitt haldinn hér á Kirkjubóli (sjá Mosvallahreppur, inngangskafli). Páll átti um skeið sæti í hreppsnefnd Mosvallahrepps og Snorri Sigfússon, sem var skólastjóri á Flateyri frá 1912 til 1929, segir hann hafa verið mjög fyrir bændum þar inni í Firðinum.[296]

Fyrsta árið sem Páll Rósinkranzson bjó á Kirkjubóli hófst hann handa um húsabætur. Fer að smíða við baðstofuna hjá Páli Rósinkranzsyni á Kirkjubóli í Korpudal, skrifar Jón Guðmundsson frá Grafargili í dagbók sína 22. september árið 1891.[297] Þann 17. október þetta sama haust var baðstofan tilbúin og þann dag fluttust Páll og Skúlína kona hans búferlum frá Tröð að Kirkjubóli.[298] Árið 1912 byggði Páll íbúðarhús úr steinsteypu hér á Kirkjubóli (sjá Firðir og fólk 1900-1999,375) og var það byggt utan um gamla bæinn.[299] Hús þetta var miklu stærra og vandaðra en almennt var í sveitum landsins á þeim tíma og í því er enn búið (1994). Húsið er tvær hæðir og kjallari, portbyggt og grunnflöturinn um 74 fermetrar ef marka má matsgerð frá því um 1920.[300] Hús sem talin voru fylgja hálflendunni er Páll bjó á voru þá virt á 1.040,- krónur en hans eigin hús á 5.200,- krónur.[301] Á engu býli í hreppnum voru þá verðmeiri hús ef frá er talið prestssetrið í Holti og hús Finns Finnssonar á Hvilft.[302]

Árið 1920 var líka búið að girða túnið á Kirkjubóli og var túngirðingin hjá Páli 480 faðmar.[303] Matjurtagarður þeirra hjóna var þá 180 ferfaðmar og úr honum fengust 10 tunnur af garðávöxtum.[304]

Árið 1926 tók sonur Páls Rósinkranzsonar og Skúlínu konu hans við búi af foreldrum sínum á Kirkjubóli (sjá Firðir og fólk 1900-1999,374). Þegar Páll andaðist árið 1930[305] bjó Stefán sonur hans á allri jörðinni og var sjálfseignarbóndi.[306] Um það leyti var vatn komið í bæinn og þá var túnið orðið ellefu hektarar.[307] Það var þá næststærsta túnið í öllum hinum forna Mosvallahreppi.[308] Heyfengur á Kirkjubóli var þá 330 hestar af töðu og 650 hestar af útheyi, meiri en á nokkru öðru bændabýli í hreppnum og álíka mikill og á prestssetrinu í Holti.[309]

Við augum þeirra sem nú staldra við á Kirkjubóli í Korpudal blasa margvísleg ummerki um ræktunarframkvæmdir þeirra feðga, Páls Rósinkranzsonar og Stefáns Pálssonar en samanlagður búskapartími þeirra beggja hér varð 73 ár (sjá Firðir og fólk 1900-1999,374). Húsið góða frá árinu 1912 talar líka sínu máli.

Þegar Árni Magnússon, prófessor og handritasafnari, ræddi við bændur í Önundarfirði sumarið 1710 fékk hann þær upplýsingar að bænhúsið, sem áður var á Kirkjubóli í Korpudal, hefði verið affellt fyrir 80 árum eða svo, það er um 1630.[310] Síðan þá er liðinn langur tími, hátt á fjórðu öld, en nokkur örnefni hér í gamla heimatúninu minna enn á þetta forna guðshús og gefa til kynna hvar það muni hafa staðið. Bænhúslág heitir lægð í túninu 100-200 metrum innan við bæinn og þar seytlar Bænhúslækur sína leið.[311] Utan við lágina og rétt hjá henni er Bænhúshóll.[312] Þúfurnar í brekkunni innan við Bænhúshól sýna enn að hér hefur verið grafreitur og snúa flestar í austur og vestur eða því sem næst. Umhverfis þennan dauðra manna reit má enn merkja hlaðinn torfgarð sem hefur verið yfir 40 metrar á lengd og náð neðan úr láginni og upp á hólbrúnina. Breiddin á bænhúsgarðinum, það er að segja grafreitnum, er um 30 metrar.

Fullvíst má telja að bænhúsið hafi staðið uppi á hólnum sem við það er kenndur. Á árunum milli 1930 og 1940 fór Stefán Pálsson, sem þá bjó á Kirkjubóli, að slétta þarna úr þúfum en kom þá brátt niður á tótt sem hann og aðrir töldu vera af bænhúsinu.[313] Til marks um það var einkum haft að dyrnar sneru beint í vestur[314] eins og venja er á kirkjum. Tóttarveggirnir voru mjög greinilegir og inni í tóttinni virtist vera eitt upphlaðið leiði.[315] Það nefndu menn Káraleiði.[316] Við þennan fund hætti Stefán öllum ræktunarframkvæmdum þar á hólnum og fór þess á leit við þjóðminjavörð að tóttin og grafreiturinn yrðu friðlýst.[317] Ekkja Stefáns bónda á Kirkjubóli, Guðrún Össurardóttir, telur að þegar ræktunarframkvæmdum var hætt á Bænhúshól hafi mold sem búið var að róta til verið mokað yfir bænhústóttina og hún hulin sverði á ný.[318] Með hliðsjón af því verður að telja óvíst hvort nokkur tóttanna sem nú eru sjáanlegar hér sé af bænhúsinu. Ein þeirra snýr þó í austur og vestur og er hún um 5 x 2 metrar að flatarmáli.

Innan við Bænhúslág er Stórholt og mun vera að nokkru í landi Kroppstaða.[319] Á því var þurrkaður mór en mógrafirnar voru ofan við holtið í landi Kroppstaða.[320] Síðustu áratugina sem tekinn var upp mór sótti fólkið á Kirkjubóli þó mest af sínum mó í grafir fram á Hestdal.[321] Ofan við Bænhúslág og Stórholt er Bæjarhryggur en landamerki Kirkjubóls og Kroppstaða eru innantil á honum eins og hér hefur áður verið nefnt. Bæjarhryggurinn nær niður undir tún og neðan við hann, efst í túnfætinum var kvíabólið.[322]

Dvöl okkar hér á Kirkjubóli er nú senn á enda. Við lítum þó enn einu sinni yfir sviðið, fjallahringinn og hið grösuga flatlendi milli bæjanna hér í Firðinum. Yst í gamla heimatúninu og alveg við akveginn þar sem hann liggur að brúnni yfir Korpu var Skipholt sem nú hefur verið sléttað út.[323] Frá þessum stað eru nú a.m.k. 800 metrar niður að árósnum þar sem Korpa fellur út í Vöðin en eins og nafnið bendir til mátti komast hingað á allstórum bátum þegar hásjávað var.[324] Á síðustu 1000 árum hefur efalaust orðið hér nokkur landmyndun vegna framburðar ánna, Korpu og Hestár, svo líklegt er að á fyrstu öldum byggðar í landinu hafi mátt komast að Skipholti á stærri bátum en síðar varð. Um aldamótin 1900 var doría Páls bónda á Kirkjubóli enn geymd við Skipholt eins og sjá má í dagbók Jóns Guðmundssonar búfræðings sem bjó á Kroppstöðum á árunum 1893-1901. Athöfnum sínum þann 30. apríl 1896 lýsir hann með þessum orðum: Ég fór út á Flateyri og Kitti í Efrihúsum með mér á Páls doríunni innan úr Skipholti og lent um kvöldið í Korglænu. Við fórum eftir hval.[325]

Á flæðinni mun hafa verið unnt að komast á doríu að Skipholti á þessum tíma en máske hefur sjávarstaðan verið lægri þegar þeir lentu í Korglænu um kvöldið. Lænan sú er um það bil mitt á milli Korpu og Hestár (sjá hér Vífilsmýrar) og þar eru landamerki milli Kirkjubóls og Vífilsmýra.

Rétt framan við Skipholtið var hróf og þar geymdi Páll Rósinkranzson bátinn sem hann notaði til aðflutninga frá Flateyri á kaupstaðarvöru fyrir heimilið á Kirkjubóli.[326] Á þeim árum sem Páll var skútuskipstjóri (sjá hér bls. 24) notaði hann bátinn til aðdrátta af þessu tagi, einkum á haustin, og náði að flytja vörurnar alveg heim í túnfótinn á bátnum.[327] Stefán Pálsson, sem tók við búi af föður sínum skömmu fyrir 1930, notaði hins vegar aldrei bát við heimflutning á kaupstaðarvörum.[328] Stefán geymdi sinn bát út á Veðrará og notaði hann eingöngu til rauðmagaveiða.[329] Hestar voru honum kærari en bátar, enda lærður söðlasmiður og hafði söðlasmíði fyrir atvinnu með búskapnum.[330]

Kirkjubólsfjallið er fagurt á að líta þegar við hefjum gönguna út að Tannanesi. Í munni heimafólks á Kirkjubóli hét það reyndar Bæjarfjall[331] og svo er vonandi enn. Á leið okkar út að Tannanesi fylgjum við þjóðveginum því þar er nú lítil umferð síðan Önundarfjörður var brúaður hjá Ytri-Veðrará. Þegar við höldum úr hlaði rifjast upp að lagningu akfærs vegar frá Flateyri að brúnni yfir Korpu lauk ekki fyrr en árið 1921, enda þótt byrjað væri á vegarlagningu inn Hvilftarströnd um 1890.[332] Í fyrstu voru hestvagnar einu ökutækin sem fóru um veginn en seinna komu til sögu sjálfrennandi bifreiðar.

Frá Kirkjubóli er um það bil einn kílómetri út að Urðarlæk en við hann eru landamerki Kirkjubóls og Tannaness.[333] Lækurinn kemur úr Urðarskál hér uppi í fjallinu og rennur niður fjallshlíðina rétt utan við Urðina[334] sem dregur að sér athygli vegfarenda. Neðst í Urðinni er Urðarfótur en í honum átti útburður að vera grafinn og heyrðust stundum í honum hljóðin.[335]

Landamerkjalækurinn utan við Urðina fellur í Korpu rétt ofan við ós hennar þar sem áin rennur út í Vöðin. Hér var þess áður getið að allur innsti hluti Önundarfjarðar, það af firðinum sem er fyrir innan Holtsodda, heitir einu nafni Vöð og þornar að mestu upp á hverri fjöru (sjá hér Mosvellir og Mosvallahreppur, inngangskafli). Frá landamerkjunum við Urðarlæk er einn og hálfur kílómetri út að Tannanesi því öll vegalengdin milli bæjanna er tveir og hálfur kílómetri. Dálítið utan við merkin förum við niður í fjöruna og fylgjum henni uns komið er heim í tún á Tannanesi.

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –[1] Prestsþjónustubækur Holts í Önundarfirði.

[2] Lbs. 45824to, Dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili 15.4.1892.

[3] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 115.

[4] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 102.

[5] Óskar Einarsson 1951, 94.

[6] Sama heimild.

[7] Jarðab. Á. og P. VII, 115.

[8] D.I. IV, 688.

[9] Jarðab. Á. og P. VII, 114.

[10] Guðrún Össurardóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 23.7.1994

[11] Óskar Ein. 1951, 95.

[12] Guðrún Össurardóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 23.7.1994.

[13] Óskar Ein. 1951, 102.

[14] D.I. IV, 688. Jarðab. Á. og P. VII, 115.

[15] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.

[16] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[17] Sama heimild.

[18] Sama heimild.

[19] Sama heimild.

[20] Sóknalýs. Vestfj. II, 102.

[21] Sama heimild.

[22] Jarðab. Á. og P. VII, 115-116.

[23] Óskar Ein. 1951, 93.

[24] Guðrún Össurardóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 23.7.1994.

[25] Sama heimild.

[26] Kristján G. Þorvaldsson 1951, 73. Guðrún Össurardóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 23.7.1994.

[27] Guðrún Össurardóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 23.7.1994.

[28] Lbs. 22384to, bls. 30-31.

[29] Óskar Ein. 1951, 95.

[30] Sama heimild, 94.

[31] Sturlunga III, 14-15.

[32] D.I. IV, 688.

[33] Sama heimild.

[34] Sama heimild.

[35] Jarðab. Á. og P. VII, 42, 95, 107, 115 og 121.

[36] Sama heimild, 116.

[37] Sama heimild.

[38] D.I. V, 215-217.

[39] Sama heimild.

[40] D.I. VI, 141-142.

[41] Sama heimild.

[42] Arnór Sigurjónsson 1975, 241.

[43] Sama heimild, 462.

[44] Bogi Benediktsson: Sýslumannaæfir II, 181.

[45] Bogi Benediktsson: Sýslumannaæfir II, 181.

[46] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.

[47] Íslenskar æviskrár IV, 91 og 111-112.

[48] Sama heimild I, 190.

[49] Sama heimild V, 173.

[50] Jarðab. Á og P. XIII, 264.

[51] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695.

[52] Ísl. æviskrár IV, 111-112 og III, 443.

[53] Manntal 1703.

[54] Jarðab Á. og P. VII, 115.

[55] Ísl. æviskrár IV, 91.

[56] Sama heimild.

[57] Jarðabók Á. og P. VII, 115. Sbr. Lögréttumannatal, bls. 517 og Ísl. æviskrár V, 173.

[58] Manntal 1703.

[59] Manntal 1762. Lögr.m.tal, bls. 517. Ísl. æviskrár II, 283.

[60] Alþingisbækur Íslands XIII, 368. Ísl. æviskrár IV, 235.

[61] Ísl. æviskrár IV, 235 og 111-112.

[62] Sama heimild.

[63] Alþ.bækur Ísl. XIII, 368.

[64] Sama heimild, 403. Ísl. æviskrár IV, 235.

[65] Alþ.bækur Ísl. XIII, 403.

[66] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, Ísafj.sýsla um 1735, eftirrit. Jarða- og bændatöl 1752-1767,

    Ísafj.sýsla 1753.

[67] Sama heimild.

[68] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[69] Manntal 1762.

[70] Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafj.sýsla 1805.

[71] Prestsþj.b. Eyrar í Skutulsfirði og Hóls í Bolungavík.

[72] Manntal 1801.

[73] Halldór Kristjánsson 1987, 92-93 (Ársrit S. Í.).

[74] Sama heimild, 93-95.

[75] Sama heimild, 95-97.

[76] Sama heimild.

[77] Skýrslur um landshagi I, 262 (Kph. 1858).

[78] H. Kr. 1987, 97.

[79] Sama heimild, 97-100.

[80] Ísl. æviskrár I, 311-312.

[81] H. Kr. 1987, 100.

[82] Manntal 1901, fylgiskjköl.

[83] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.

[84] Sama heimild, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695.

[85] Jarðab. Á. og P. VII, 115-117.

[86] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[87] Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafj.sýsla 1805.

[88] J. Johnsen 1847, 195.

[89] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.

[90] Jarðab. Á. og P. VII, 115-117.

[91] Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafj.sýsla 1805.

[92] Sama heimild.

[93] Sama heimild.

[94] Sama heimild.

[95] Sama heimild.

[96] D.I. IV, 688.

[97] Lbs. 7974to, Jarðaskrár úr Ísafj.sýslu frá árunum 1658 og 1695.

[98] Jarðab. Á. og P. VII, 115-117.

[99] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[100] J. Johnsen 1847, 195.

[101] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.

[102] Sama heimild.

[103] B.B.: Sýslumannsæfir II 614-624. Ísl. æviskrár I, 174 og V, 173. ÍB 154to. Ættartölubækur Jóns Espólín, 7. bindi, dálkur 6001. Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr.B. XI, 1, bls. 168-169 og XI, 2, bls. 1103.

[104] Ísl. æviskrár III, 233. Lögréttumannatal (Rvk 1952), bls. 55. Lbs. 23684to, Prestaæfir S.Gr. B. XI, 2, bls. 620.

[105] Ísl. æviskrár I, 174.

[106] Sama heimild.

[107] Sama heimild.

[108] Ísl. æviskrár I, 174. Ísl. æviskrár III, 218-219.

[109] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.

[110] Sama heimild.

[111] Sama heimild.

[112] Jarðab. Á. og P. VII, 115-117.

[113] Sama heimild.

[114] Guðrún Össurardóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 23.7.1994.

[115] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[116] Manntal 1845.  J. Johnsen 1847, 195.

[117] Manntal 1703. Jarðab. Á. og P. VII, 115-117. Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[118] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, Ísafj.sýsla um 1735, eftirrit.  Manntal 1762.

[119] Manntal 1801.

[120] Sama heimild.

[121] Manntöl 1816, 1840, 1850 og 1855. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1821 og 1830. VA III, 407, búnaðarskýrslur 1837.

[122] Manntal 1835.

[123] Manntal 1860.

[124] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[125] Manntal 1870.

[126] Sama heimild og Manntöl 1880, 1890 og 1901.

[127] Manntal 1703.

[128] Sama heimild.

[129] Sama heimild.

[130] Sama heimild.

[131] Sama heimild.

[132] Sama heimild.

[133] Jarðab. Á. og P. VII, 115-117.

[134] Manntal 1703.

[135] Sama heimild.

[136] Jarðab. Á. og P. VII, 115-117.

[137] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, Ísafj.sýsla um 1735, eftirrit.

[138] Manntal 1703.

[139] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, Ísafj.sýsla um 1735, eftirrit.

[140] Sama heimild. Bændatöl og skuldaskrár 1752-1767, Ísafj.sýsla um 1753.

[141] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[142] Manntal 1762.

[143] Sama heimild.

[144] Sama heimild.

[145] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[146] Sama heimild. Manntal 1801.

[147] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[148] Rtk. Jarðabækur V. 16. Ísafj.sýsla 1805.

[149] Ól. Þ. Kr. 1953, 145.

[150] Manntal 1801.

[151] Sama heimild.

[152] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[153] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[154] Sama heimild. Manntal 1816.

[155] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[156] Manntal 1801.

[157] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[158] Manntal 1801.

[159] Sama heimild. Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[160] Manntal 1816.

[161] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[162] Sama heimild. Manntöl 1816, 1850 og 1855.

[163] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[164] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[165] Sama heimild.

[166] Sama heimild.

[167] Manntal 1835.

[168] Sama heimild.

[169] Sóknarm.töl Holts í Önundarf. Manntöl 1816 og 1835. Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[170] Manntal 1840. VA III, 407, búnaðarskýrslur.

[171] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[172] Sama heimild.

[173] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1821.

[174] Sama heimild og sama askja, búnaðarskýrslur 1830. Manntöl 1835, 1840, 1845 og 1850.

[175] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[176] Sama heimild.

[177] Sama heimild.

[178] VA III, 407, búnaðarskýrslur 1837.

[179] Sama heimild.

[180] Sama heimild.

[181] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[182] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., bún.sk. 1830 og 1834. Manntal 1835. VA III, 407, bún.sk. 1837.

[183] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[184] Sama heimild.

[185] Manntal 1845.

[186] VA III, 407, búnaðarskýrslur 1837. Manntöl 1835, 1840, 1845 og 1850. Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[187] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[188] Sama heimild.

[189] Sama heimild.

[190] Manntal 1845.

[191] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[192] Sama heimild. Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[193] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[194] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[195] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[196] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[197] Sama heimild.

[198] Sama heimild. Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[199] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[200] Sama heimild. Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[201] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[202] Ól. Þ. Kr. 1949, 108. Sami 1945, 108.

[203] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[204] Manntal 1860.

[205] VA III, 417, búnaðarskýrslur 1860.

[206] Sama heimild.

[207] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[208] Sama heimild.

[209] Sama heimild.

[210] Vestfirskar ættir I, 136 og 364-365.

[211] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[212] Sama heimild.

[213] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosvallahr. 6. Úttektabók 1835-1874, bls. 128.

[214] Sama heimild.

[215] Sama heimild.

[216] Sama heimild.

[217] Sama heimild.

[218] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[219] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[220] Manntal 1840.

[221] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[222] Sama heimild og Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[223] Lbs. 22384to, bls. 29-30.

[224] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[225] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[226] Manntal 1870.

[227] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[228] Sama heimild.  Sóknarm.töl Holts í Önundarf.  Manntal 1880.

[229] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[230] Sama heimild.

[231] Sama heimild.

[232] Sama heimild.

[233] Lbs. 22384to, bls. 30.

[234] Lbs. 22384to, bls. 30.

[235] Jón Guðnason 1955, 445 (Strandamenn).

[236] Sama heimild.

[237] Sama heimild.

[238] Sama heimild.

[239] Þórbergur Þórðarson 1975, 162-164 (Edda). Sami 1950, 20-23 (Bréf til Láru).

[240] Manntal 1890.

[241] Sama heimild. Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[242] Prestsþj.b. og sóknarmannatöl Holts í Önundarf.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[243] Sömu heimildir.

[244] Sömu heimildir og Eyjólfur Jónsson 1996, I, 238-242.

[245] Manntal 1890.

[246] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[247] Manntöl 1801 og 1816.

[248] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1821.

[249] Sama askja, búnaðarskýrslur 1830 og 1834.

[250] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[251] Sama heimild. Manntal 1850.

[252] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[253] Sama heimild.

[254] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[255] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.  Manntal 1860.

[256] Ól. Þ Kr. / Önfirðingar.

[257] Sama heimild.

[258] Sama heimild.

[259] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[260] Sama heimild.

[261] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 6. Úttektabók 1835-1874, bls. 133.

[262] Sama heimild.

[263] Sama heimild.

[264] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[265] Sama heimild.

[266] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[267] Sama heimild.

[268] Sama heimild. Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 6. Úttektabók 1835-1874, bls. 133.

[269] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[270] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[271] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[272] Sama heimild.

[273] Manntal 1870.

[274] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 6. Úttektabók 1835-1874, bls. 187.

[275] Sama heimild.

[276] Sama heimild.

[277] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[278] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[279] Manntal 1901, fylgiskjöl.

[280] Sama heimild.

[281] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.

[282] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[283] Sama heimild og sóknarm.töl Holts í Önundarfirði.

[284] Gils Guðmundsson 1977 I, 204-206 og 215.

[285] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[286] Gils Guðm. 1977 I, 206-208 (Skútuöldin, 2. útgáfa). H. Kr. 1977 V, 81-83 (Skútuöldin, 2. útgáfa).

[287] Sömu heimildir.

[288] Sömu heimildir.

[289] Gils Guðm. 1977 I, 206-208.

[290] Sama heimild.

[291] H. Kr. 1977 V, 81-94.

[292] Gils Guðm. 1977 I, 215.

[293] Óskar Ein. 1951, 94.

[294] Guðmundur Ingi Kristjánsson 1983, 162 (Bóndi er bústólpi IV).

[295] Guðmundur Ingi Kristjánsson 1983, 162 (Bóndi er bústólpi IV).

[296] Snorri Sigfússon 1969, 110 (Ferðin frá Brekku II).

[297] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 22.9.1891.

[298] Sama dagbók 17.10.1891.

[299] Guðrún Össurardóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 23.7.1994.

[300] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[301] Sama heimild.

[302] Fasteignabók 1921.

[303] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[304] Sama heimild.

[305] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[306] Fasteignabók 1932.

[307] Sama heimild.

[308] Sama heimild.

[309] Fasteignabók 1932.

[310] Jarðab. Á. og P. VII, 115.

[311] Óskar Ein. 1951, 95. Dagbjört Óskarsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 30.6.1994.

[312] Óskar Ein. 1951, 95.

[313] Guðrún Össurardóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 23.7.1994.

[314] Sama heimild.

[315] Guðrún Össurardóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 23.7.1994.

[316] Sama heimild.

[317] Sama heimild.

[318] Sama heimild.

[319] Guðrún Össurardóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 23.7.1994.

[320] Sama heimild.

[321] Sama heimild.

[322] Sama heimild.

[323] Sama heimild.

[324] Óskar Ein. 1951, 95.

[325] Lbs. án safnnúmers. Handrit úr fórum J. Guðm. búfræðings á Ytri-Veðrará. Dagbók hans 30.4.1896.

[326] Guðrún Össurardóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 23.7.1994.

[327] Sama heimild.

[328] Sama heimild.

[329] Sama heimild.

[330] Guðrún Össurardóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 23.7.1994.

[331] Óskar Ein. 1951, 95.

[332] Þórður Sigurðsson 1968, 145-149 (Ársrit S.Í.).

[333] Óskar Ein. 1951, 95.

[334] Sama heimild.

[335] Lbs. 47084to / Magnús Hjaltason.

 

 

 

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »