Nesdalur

Nesdalur liggur að opnu hafi og skerst inn í fjallgarðinn sem skilur að Dýrafjörð og Önundarfjörð. Dalur þessi liggur frá norðvestri til suðausturs og er rösklega þrír kílómetrar á lengd en breidd milli hlíðarfóta er hvergi meiri en hálfur kílómetri. Norðan (norðaustan) við dalinn er hið mikla fjall Barði, sem rís úr sjó við mynni Önundarfjarðar, en hinum megin við dalsmynnið gnæfir ysta rönd Skagafjalls, sem áður hét Hjallanes (sjá hér Mýrahreppur, inngangskafli), við mynni Dýrafjarðar.

Í Nesdal var búið um nokkurra ára skeið, bæði á 18. og 19. öld, en óvíst verður að telja hvort þar muni hafa verið mannabyggð á fyrri öldum. Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 er greint frá stofnun nýbýlis í Nesdal á fyrstu árum 18. aldar og jafnframt fullyrt að þar hafi aldrei fyrr byggð verið.[1] Með hliðsjón af því verður að telja óljósar sagnir frá 19. öld um forna byggð í dalnum[2] harla lítils virði. Ýmsir hafa þó viljað meina að í Nesdal hljóti að hafa verið búið á miðöldum og fært fram þau rök að í heimildum frá 14. og 15. öld, er varða rekaréttindi kirkjunnar á Mýrum í Dýrafirði, sé talað um skáladyr í Nesdal (sjá hér Mýrar). Kenningin er þá sú að skáladyrnar, sem þarna eru nefndar, sýni að bær hljóti að hafa verið í dalnum þegar máldaginn og vitnisburðarbréfið, sem hér koma við sögu, voru skráð.[3] Í fljótu bragði kunna þessi rök að virðast góð og gild en hér verður að hafa í huga að útræði var frá Nesdal á fyrri öldum[4] og í fornu máli var algengt að orðið skáli væri notað í merkingunni verbúð[5]. Skáladyrnar í Nesdal þurfa því alls ekki að hafa verið bæjardyr og gætu rétt eins hafa verið dyr á verbúð.  Um þetta er þó ekkert hægt að fullyrða og engu að síður mögulegt að búið hafi verið í Nesdal um lengri eða skemmri tíma á miðöldum þó að hvergi verði séð að svo hafi verið.

Nesdalur er í landareign jarðarinnar Sæbóls á Ingjaldssandi en bænhúsið sem áður var á Álfadal átti þó þriðjung dalsins og þrjár kirkjur áttu þar beitarrétt (sjá hér Svipast um á Ingjaldsandi). Í byrjun 18. aldar áttu Sæbólsmenn þrjár verbúðir í Nesdal.  Um útræðið þar segir svo í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710:

 

Þrjár vermannabúðir standa í þessum Nesdal sem tilheyra Sæbóli og eigandi Sæbóls tók vertolla eftir eður brúkaði sjálfur eina. Nú er ekki nema ein brúkuð og lágu þar við um næstu vertíð tvær skipshafnir sem guldu vertoll til eiganda Sæbóls (einn fjórðung fyrir mann).[6] – (sbr. hér Fjallaskagi).

Er séra Jón Sigurðsson á Gerðhömrum ritaði sóknarlýsingu sína árið 1840 var verstöðin í Nesdal liðin undir lok fyrir löngu eins og sjá má á orðum hans. Séra Jón kveðst hafa heyrt að þar hafi áður verið hafðar verbúðir á sjávarbökkunum norðan við Nesdalsá og tekur fram að enn megi sjá merki þess.[7]

Enda þótt Nesdalur hafi aldrei verið sjálfstæð bújörð svo kunnugt sé þykir rétt að dalur þessi fái hér sérstaka umfjöllun með líkum hætti og bújarðirnar. Um þetta ræður mestu að bóndi sá sem hér bjó um nokkurra ára skeið skömmu fyrir miðja 19. öld á sér merkilega sögu sem ekki tengist Sæbóli á Ingjaldssandi nema að litlu leyti. Að sömu niðurstöðu stuðlar einnig sú staðreynd að landfræðilega séð er alls ekki hægt að flokka Nesdal með Ingjaldssandi því þar á milli er yfir nær 400 metra háan fjallveg að fara.

Eins og áður sagði liggur Nesdalur milli Skagafjalls og Barða en röndin á Skagafjalli sem að dalnum snýr heitir Söðlarönd og í henni eru Lægri-Söðlar og Hærri-Söðlar (sjá hér Fjallaskagi). Dalurinn er umluktur háum fjöllum á allar hliðar nema þá sem snýr að úthafinu og víðast hvar eru klettabrúnir fjallanna í 500-600 metra hæð yfir sjávarmáli. Norðantil í dalnum rís fjallið Búðarhorn upp frá sjávarbökkunum[8] og mun eiga nafn sitt að þakka fyrstu verbúðinni sem reist var við rætur þess. Klettahorn þetta er reyndar ekki annað en partur af hinum mikla Barða er sjálfur snýr sínum tröllslegu hamraveggjum til hafs norðan við Nesdal og vestan við mynni Önundarfjarðar.

Undir Búðarhorni er Búðahlíð og nær hún fram að Loðnuhvilft sem liggur hátt í fjallinu[9]  í eins til tveggja kílómetra fjarlægð frá dalsmynninu. Víða á Vestfjörðum hefur tíðkast að nefna einstaka staði sitt hvoru nafni eftir því hvort um þá var talað í landi eða úti á sjó. Dæmi um þetta höfum við hér í Nesdal því í fiskiróðrum mun Loðnahvilft hafa verið kölluð Purka.[10]

Framan við Loðnuhvilft tekur við Merarhjallafjall og nær fram að Nesdalsskarði.[11] Skarð þetta er fyrir dalbotninum og um það var farið úr Nesdal yfir á Ingjaldssand. Um skarðið sem liggur í 388 metra hæð lá bærilegur reiðvegur og hér er nú (1992) jeppavegur sem gera má ráð fyrir að sé þó aðeins fær í nokkrar vikur, eftir miðjan júlí. Báðum megin við Nesdalsskarð heita í Nesdal Dalkinnar en fyrir neðan skarðið er Skarðsbrekka.[12]

Aurhólar rétt neðan við skarðið heita Fiskihólar[13] og munu hafa verið notaðir af sjómönnum sem mið. Þeir eru á hægri hönd þegar jeppavegurinn er farinn úr Nesdal upp í skarðið en á vinstri hönd er þarna, fremst í dalnum, mýrardrag sem heitir Mjósund.[14] Þar fyrir neðan er svo Vatnahvilft.[15] Undan Skarðsbrekkunni kemur Nesdalsá en hún fellur um miðjan dalinn á leið sinni til sjávar.[16] Tvö vötn eru í dalnum. Hið fremra heitir Litlavatn en það neðra Stóravatn og leggur áin leið sína um þau bæði.[17] Fyrir neðan Stóravatn hverfur hún á löngum kafla og rennur þar undir Stóruskriðu[18] sem orðið hefur til fyrir ævilöngu í miklu framhruni úr suðvesturhlíð dalsins. Fjallið ofan við skriðuna heitir Stóruskriðufjall[19] en hinum megin í dalnum er Merarhjallafjall sem áður var nefnt.

Í Stóruskriðu voru mörg tófugreni og sums staðar hreinustu höfuðból á hennar vísu, að sögn Guðmundar Einarssonar, bónda á Brekku á Ingjaldssandi,[20] sem á fyrri hluta tuttugustu aldar lá á grenjum í Nesdal í a.m.k. 180 nætur (sjá hér Brekka).

Theodór Gunnlaugsson, sem á sínum tíma færði í letur ýmsar frásagnir Guðmundar refaskyttu á Brekku, skráði orð hans á þessa leið:

 

Neðantil í vesturhlíð dalsins hef ég oftast haldið til. Þar er geysistór urð sem heitir Stóraskriða. Hún nær næstum því frá brún og yfir fyrir miðjan dal. Og hún er svo stórgrýtt að á nokkrum stöðum má ganga neðanjarðar undir stórgrýtinu. Það mun vera um 10 mínútna gangur þvert yfir skriðuna. Gömul munnmæli herma að þarna hafi verið sléttar grundir áður en skriðan féll og tíu bæir staðið þar en allir orðið undir skriðunni. Þetta er þó alveg ósannað og ekki líklegt.

… Refaskyttum hefur aftur á móti þótt erfitt að eiga við hana [tófuna] í þessari skriðu því tófan er horfin niður í urðina þegar minnst varir. Svo kemur hún máske út þar sem ólíklegast er og þá langt frá þeim stað sem hún hvarf.

Stóraskriða er grá og gróðurlítil til að sjá. Hún er því fremur óálitleg við fyrstu sýn. En því lengur sem ég hef kynnst henni þeim mun fegurri hefur hún virst mér. Og langt er síðan mér fór að þykja verulega vænt um hana. Hún hefur gefið mér mörg umhugsunarefni. Þegar gengið er um hana finnur maður marga smábolla og lautir með fjölbreyttum gróðri og angandi grösum. Í huganum hef ég oft borið þessa gráu urð saman við mannlífið og þóst finna þar nokkurn skyldleika.[21]

 

Þannig mæltist gömlu refaskyttunni sem reyndar skýrði mál sitt nánar þó ekki verði farið lengra út í þá sálma hér. Stóraskriða hafði líka oft verið honum gjöful og þar tók hann eitt vorið sex mórauða yrðlinga með hvítar tær og hvítan blett á bringu.[22] Fyrir ungviði þetta fékk hann 900 krónur sem nægðu til að koma upp ágætu geymsluhúsi heima á Brekku.[23]

Stóravatn, sem er hér rétt framan við skriðuna, er allt að 9 föðmum á dýpt[24] og þar mátti veiða silung bæði vetur og sumar.[25] Neðst í dalnum, út við sjó, er talsvert graslendi og heitir þar Land fyrir vestan (suðvestan) ána en Lægribakkar norðan árinnar.[26] Framan við Lægribakka eru Hærribakkar[27] en samheiti var Nesdalsbakkar. Á Lægribökkum stóð býlið sem reist var í Nesdal árið 1839 (sjá hér bls. 18-19).

Dalur þessi hefur löngum verið nýttur til beitar og einnig var hér útræði á fyrri tíð eins og áður hefur verið nefnt. Á 14. öld höfðu kirkjurnar á Núpi og Mýrum í Dýrafirði og kirkjan í Holti í Önundarfirði tryggt sér beitarréttindi í Nesdal.[28] Bæði Núpskirkja og Holtskirkja áttu þá beitarrétt í dalnum fyrir fimm kúgildi (30 ásauði) hvor en Mýrakirkja fyrir fimmtán kúgildi.[29] Í Gíslamáldaga frá árunum upp úr 1570 má sjá að öll þessi réttindi kirknanna stóðu óbreytt og þar er þess sérstaklega getið að eigendur Mýrakirkju megi nýta sér beitina í Nesdal krossmessna á milli[30], það er frá 3. maí til 14. september. Þarna er líka tekið fram að Sæbólskirkja á Ingjaldssandi eigi þriðjung í Nesdal[31] og í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 er greint svo frá að eigendur Nesdals séu Sæból, Sæbólskirkja og bænhúsið á Álfadal á Ingjaldssandi og eigi sinn þriðjunginn hver eftir því sem almennilega heyrzt hefur.[32] Um aldamótin 1900 taldi bóndinn sem þá bjó á Álfadal sig eiga ótvíræðan rétt til að reka búfé til beitar í Nesdal[33] sem kemur heim við orð Jarðabókarinnar. Í Jarðabókinni frá 1710 er líka getið um beitarréttindi kirknanna á Núpi og Mýrum og í Holti og þau sögð vera hin sömu og kveðið sé á um í fornum máldögum.[34] Öll héldust þessi réttindi fram á 20. öld[35] og þess má geta að árið 1841 veitti presturinn sem þá hafði staðarforráð í Holti Jóni Jónssyni, bónda á Fjallaskaga, leyfi til nautagöngu í Nesdal.[36] Á síðari hluta nítjándu aldar og fyrstu áratugum hinnar tuttugustu gengu allt upp í 15 geldneyti á beit í Nesdal sumarlangt.[37] Stundum struku nautin yfir Nesdalsskarð og þótti Sandmönnum þau vera illir gestir.[38] Ætla má að naut hafi einnig verið rekin til beitar í Nesdal á fyrri öldum því að í skarðinu er forn grjótgarður sem átti að varna för þeirra til mannabyggða á Ingjaldssandi.[39] Garður þessi var nefndur Fremrigarður.[40]

Jóhannes Davíðsson sem fæddur var árið 1893 og ólst upp á Ingjaldssandi lýsir honum svo:

 

Grjótgarður þessi var nær axlarhár, tvíhlaðinn að mestu. Náði hann upp að ófærri urð að vestan og var þar örugg vörn en að austanverðu [norðanverðu] var hægt gripum að komast upp fyrir hann ef mjög áleitnir voru.[41]

 

Jóhannes greinir líka frá því að fram yfir miðja tuttugustu öld hafi garðinum verið haldið við og hann þá jafnan verið gripheldur.[42] Er koma þurfti stórgripum í eða úr Nesdal var rifið skarð í garðinn en ætíð hlaðið strax upp í það aftur þegar gripirnir voru komnir í gegn.[43]

Ýmsar sögur lifa enn á vörum fólks um flótta undan mannýgum nautum er sluppu úr Nesdal. Má þar minna á smalastúlkuna úr Hrauni sem tók það fangaráð að skreiðast niður há og brött árgljúfur við Gálgafoss í Selá á Ingjaldssandi en nautið stóð öskrandi á barmi gljúfursins og þorði ekki niður.[44]

Nú þarf enginn lengur að óttast mannýga griðunga úr Nesdal og skarðið í hinum forna varnargarði stendur opið ár og síð. Þar liggur nú (1993) akfær vegarslóði í gegn sem þó er aðeins fær jeppum eins og hér var áður nefnt. Vegur þessi frá Ingjaldssandi í Nesdal mun hafa verið lagður á árunum skömmu fyrir 1970.[45]

Árið 1839 ritaði séra Jón Sigurðsson á Gerðhömrum lýsingu á Nesdal sem enn stendur í fullu gildi.  Hann segir þar meðal annars þetta:

 

Norðan fram við Þúfuna kemur vík sem áður var kölluð Nesvík en nú er hún kölluð Nesdalspollur. Þar gengur langur dalur fram sem heitir Nesdalur. Þar er nú, á þessu ári, stofnuð nýlenda neðst við sjó.  Áður er mælt að þar hafi meiri byggð verið en sé í eyði lögð bæði af skriðum og öðru snemma á tímum. … Á dalnum er besta beitarland vetur og sumar og nokkuð slægjuland, bæði neðarlega og framarlega. Nokkru fyrir manna minni nú var áður stofnuð þar nýlenda en varaði mjög stutta stund, eða fá ár, vegna illræmis um geldingahvarf.[46]

 

Séra Jón tekur fram að í Nesdal hafi fundist gott mótak og segir þar vera góða lendingu á sléttum sandi undir háum sjávarbökkum.[47]

Á öðrum stað er þessari sömu lendingu lýst dálítið nánar og þá með þessum orðum:

 

Lendingin er austan [norðan] ár undir háum bökkum sem eru samfelldir þvert yfir dalinn. Er þar sandblettur eða malarfjara skammt vestan við Barðahornið en stórgrýtt fjara strax austar [norðar] undir standberginu niður af sjávarhillunum. En sker eru vestan við lendinguna, vestur að ánni, og er hvergi lendandi í Nesdal nema á þessum litla bletti.[48]

 

Í lýsingu sinni á Nesdal drepur séra Jón Sigurðsson á hugmyndir sem uppi voru um forna byggð hér í dalnum og getur um tilraunir síðari tíma manna til að hefja hér búskap. Síðar verður rætt um nýlenduna sem stofnuð var hér neðst við sjó árið 1839 en fyrst er rétt að víkja að 18. aldar byggðinni í Nesdal. Um þá tilraun til nýbýlisstofnunar segir séra Jón að hún hafi verið gerð nokkru fyrir manna minni nú og að því sinni hafi fólk aðeins búið í dalnum í fáein ár. Tímasetningin er dálítið óljós og vera má að prestur eigi þarna við sömu nýbýlisstofnun í Nesdal og um er getið í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 en þar segir:

 

Í þessum Nesdal var fyrir 5 eða 6 árum sett byggð að forlagi eiganda Sæbóls og hafði hér aldrei fyrr byggð verið.  Landskuld var 20 álnir. Leigukúgildi ekkert. Byggðin hélst í 2 ár og ekki lengur og ömuðust þeir við byggðinni sem tiltölu áttu til Nesdals ásamt Sæbólseiganda. Ekki kann hér aftur að byggjast án haga þeirra sem beit eiga í dalnum enda var þessi byggð líkari búðarstæði en bæ og var þar aldrei nein kýrin. Útræði mátti hér vera ef búandinn hefði svo megnugur verið, hafði hann og lítinn bát sér til fiskiafla.[49]

 

Af orðum Jarðabókarinnar er ljóst að þessi fyrsta mannabyggð í Nesdal sem um er vitað með fullri vissu hefur aðeins varað í tvö ár, 1704-1706 eða 1705-1707, og að fólkið sem þá settist að í dalnum hefur búið við þurrt hús.

Mjög sterkar líkur benda til að nokkrum árum síðar hafi aftur verið farið að búa í Nesdal og að því sinni hafi fólk haldist hér við í mun lengri tíma. Heimildin sem gefur þetta til kynna er bréf sem Andrés Hákonarson á Hóli í Önundarfirði ritaði sýslumanninum í Ísafjarðarsýslu 15. ágúst 1870 en Andrés var þá að leita eftir leyfi til að setjast að í Nesdal og hefja þar búskap.[50] Þau áform Andrésar komust aldrei til framkvæmda en í nýnefndu bréfi segir hann m.a. þetta:

 

Þó gat „Þorkatla” byggt upp bæ fyrir Þorleif þann sem langaði til að lengja líf í Nesdal, hafði þrjár manneskjur fyrst, kom þar upp þremur mannvænlegum börnum, bjó þar yfir 30 ár og var jafnan umsjónarmaður kvikfénaðar hennar og Mála-Snæbjarnar. … Þorleifur hafði fram að „Vatnsgarði” og „Stóru fjallurð”. Á sínu 22. búnaðarári segja barnabörn Guðrúnar Þorleifsdóttur að Þorleifur hafi sagt langföður Skaga-Jóna síðustu, Gunnari, eitt sinn er saman töluðu sem vinir, að eitt haust hefði hann átt „50 stórsprökuhöfuð, 15 þriggja fjórðunga mörva (35 allskosta), 200 rafabelti, 3 tunnur skyr á allraheilagramessu og fengið þó allt hjá fóstru sinni sem dræpist eða ræki smálegt og þó slægist stórt í”. [51]

 

Í bréfi Andrésar kemur fram að Þorkatla sú sem þar er nefnd er Þorkatla ríka Jónsdóttir en hún var 44 ára húsfreyja á Sæbóli árið 1703[52]  og bjó þar ekkja frá 1719-1739 (sjá hér Sæból).[53] Til marks um ágæti beitarinnar í Nesdal nefnir Andrés að Þorkatla hafi haft þar 200 geldinga, 126 dilkær, 15 hross og 11 nautkindur og auk þess hafi búpeningur frá kirkjustöðunum, Núpi, Holti og Mýrum þá gengið þar á beit.[54] Í lok bréfsins vitnar Andrés á Hóli í orð Guðrúnar, dóttur Þorleifs þess sem bjó í Nesdal á dögum Þorkötlu ríku, og segir hana hafa sagt svo frá að þrátt fyrir allan þennan fjölda búfjár í högunum hafi faðir hennar getað aflað heyja fram í Vatnaskálarengi, Hryssuhjöllum og Hátúnsengi.[55]

Ekki er vandalaust að meta heimildagildi frásagna þeirra sem bréf Andrésar Hákonarsonar hefur að geyma. Hafa verður í huga að bréfritarinn sem fæddur var árið 1817[56] er þarna að segja frá ástandi á fyrri hluta 18. aldar og lýsa atburðum sem gerðust 70 til 100 árum áður en hann var sjálfur í heiminn borinn. Flestu sem þarna stendur er því sjálfsagt að taka með nokkurri varúð. Engu að síður verður að telja harla ólíklegt að frásögn Andrésar af búskap Þorleifs þessa í Nesdal á dögum Þorkötlu ríku sé hreinn tilbúningur frá rótum. Vitneskju sína um búskaparlán Þorleifs hér í dalnum kveðst Andrés hafa frá niðjum hans, barnabörnum Guðrúnar Þorleifsdóttur, en ætla má að það fólk hafi flest verið á góðum aldri þegar Andrés fluttist í Önundarfjörð árið 1851. Sjálf gæti Guðrún sem best hafa alist upp hjá föður sínum í Nesdal og líklega er það hún sem finnst 69 ára gömul ekkja á Álfadal á Ingjaldssandi í manntalinu frá 1801.[57]

Með hliðsjón af öllu þessu verður að telja mjög líklegt að nefndur Þorleifur hafi í raun búið í Nesdal á fyrri hluta 18. aldar og þá að öllum líkindum eftir 1710. Sé svo hefur tvívegis verið stofnað til búskapar hér á árunum 1700 til 1740 því áður var greint frá tilraun til nýbýlisstofnunar sem gerð var á árunum kringum 1705 og stóð í tvö ár. Orð Andrésar Hákonarsonar benda til þess að Þorleifur sá sem hann segir frá hafi búið í dalnum mun lengur, hvort sem búskaparár hans hér hafa nú verið fleiri en þrjátíu eins og Andrés fullyrðir, eða allmiklu færri. Í bréfi því frá 1870 sem hér er byggt á kemur fram að í Nesdal hefur Þorleifur verið með einhvern búskap á eigin vegum en jafnframt haft umsjón með búpeningi frá Sæbóli sem hér var í hagagöngu. Svo hefur hann líka lifað á sjósókn, ekki síst lúðuveiðum, ef marka má frásögnina af matarbirgðum þessa gæfumanns á allraheilagramessu eitt haustið í Nesdal. Athyglisvert er líka að Þorleifur er sagður hafa fengið allan neðri hluta dalsins fyrir sinn eiginn búskap, fram að Vatnsgarði og Stóru fjallurð  en ætla má að þar sé átt við Stóruskriðu sem nú er nefnd (sjá hér bls. 3) og varnargarð úr grjóti sem náði frá Stóravatni upp í Þröngugötuhóla er svo heita en þeir eru framan við Loðnuhvilft.[58] Auk þess mátti hann nýta sér engjabletti enn framar í dalnum, að sögn heimildarmanna Andrésar, eins og hér hefur áður verið getið.

Greinilegt er að niðjar Þorleifs hafa litið svo á að þessi langafi þeirra hafi verið í náðinni hjá Þorkötlu ríku og er hún reyndar nefnd fóstra hans í bréfi Andrésar Hákonarsonar. Í manntalinu frá 1703 verður ekki séð að Þorkatla ríka hafi átt einhvern Þorleif fyrir fósturson en hjá ekkjunni Guðrúnu Þorleifsdóttur, sem átti heima í hjáleigunni Sæbólshúsum, er þá skráður til heimilis sonur hennar sem Þorleifur hét og var Bjarnason.[59] Hann var þá 16 ára. Mjög líklegt verður að telja að það sé þessi piltur sem Þorkatla ríka gerði síðar að bónda í Nesdal, enda hreint ekki ólíklegt að hann hafi snemma ráðist í hennar þjónustu og gæti af þeim ástæðum hafa kallað hana fóstru sína. Í manntalinu frá 1703 finnst að minnsta kosti enginn annar Þorleifur sem líklegt má kalla að hafi litið á Þorkötlu ríku sem fóstru sína. Í bændatali frá árinu 1735 eða því sem næst er Þorleifur Bjarnason sagður vera einn fjögurra bænda á Sæbóli.[60] Hann gæti þá sem best hafa búið í Nesdal því dalurinn er í Sæbólslandi og með hliðsjón af orðum Andrésar Hákonarsonar, sem áður var vitnað til, verður að telja býsna líklegt að svo hafi verið. Átján árum síðar var Þorleifur þessi ekki lengur í tölu bænda á Ingjaldssandi eða þar í grennd.[61]

Haustið 1835 fluttist að Núpi í Dýrafirði maður sem Guðmundur hét og var Guðmundsson.[62] Hann var Skagfirðingur að ætt og uppruna en hafði borist til Dýrafjarðar vorið 1834 er hann var hálffertugur að aldri.[63] Fáum vikum áður en Guðmundur settist að á Núpi hafði Jón S. Ögmundsen, héraðslæknir á Flateyri við Önundarfjörð, gefið út embættisbréf þar sem hann felur þessum Norðlendingi að starfa sem blóðtökumaður í byggðum Vestur-Ísafjarðarsýslu og nágrenni þeirra.[64] Veturinn sem Guðmundur sat á Núpi var hann í húsmennsku hjá séra Jóni Sigurðssyni[65] sem þar hafði verið prestur frá 1832 en séra Jón sat síðar lengi á Gerðhömrum. Er Guðmundur kom í Dýrafjörð var hann maður einhleypur og svo var enn er hann settist að á Núpi haustið 1835. Þar komst hann brátt í kunnleika við fólk sem átti heima á Ingjaldssandi en þau kynni urðu honum örlagarík. Um þessar mundir bjuggu á Sæbóli á Ingjaldssandi bændur tveir og hét annar Jón Bjarnason en hinn Móses Jónsson. Kona Mósesar hét Vigdís Guðmundsdóttir og áttu þau fimm börn á lífi er hér var komið sögu. Elsta barn þeirra var 17 ára dóttir sem hét Jóhanna María[66] og mun Guðmundi blóðtökumanni hafa litist allvel á hana. Í marsmánuði árið 1836 varð að ráði að Guðmundur flyttist frá Núpi til Mósesar á Sæbóli og kom hann þangað einhvern fyrsta daginn í apríl.[67] Að sögn Guðmundar hafði Móses þá boðið honum dóttur sína fyrir konu.[68]

Áður en Guðmundur kom í Dýrafjörð hafði hann vanist sjómennsku og fáum dögum eftir komu hans á Ingjaldssand vorið 1836 hugðist Móses bóndi á Sæbóli senda hann í hákarlalegu í sinn stað.[69] Ekki lét Guðmundur sér bregða við þetta en þegar komið var í fjöru neituðu skipverjar að fara í leguna nema Móses stýrði skipinu eins og hann var vanur.[70] Móses bóndi lét þá til leiðast og þar í fjörunni fékk Guðmundur honum nesti sitt og skinnklæði, tóbak sitt og tóbaksdósir en sneri að því búnu heim til bæjar því ekki kom til greina að þeir færu báðir.[71] Í þessari hákarlalegu drukknaði Móses og allir þeir tíu menn sem á skipinu voru.[72] Var talið að þeir hefðu farist fyrir Sauðanesi þann 11. apríl.[73] Allir voru menn þessir af Ingjaldssandi og tveir þeirra vinnumenn á heimili Mósesar og Vigdísar á Sæbóli.[74]

Ekki þarf hér að fara mörgum orðum um hversu hrikalegt áfallið var sem byggðin á Ingjaldssandi varð fyrir er Móses á Sæbóli og skipverjar hans fórust vorið 1836. Í þeim efnum nægir að benda á að heimilin á Sandinum voru aðeins tólf um þetta leyti[75] og fjórtán mánuðum fyrir slysið var heildaríbúatalan þar 103.[76]

Á næstu vikum eftir slysið hafa hreppstjórarnir í Mýrahreppi haft ærið verk að vinna við að forða ekkjum og munaðarleysingjum á Sandinum frá bjargarleysi og tryggja hag þeirra í bráð og lengd. Einna verst var útlitið hjá Vigdísi á Sæbóli sem átt hafði Móses fyrir eiginmann en stóð nú uppi ekkja með fimm börn, flest innan fermingar, og það sjötta á leiðinni. Þar blasti við að leysa yrði heimilið upp ef ekki tækist að tryggja henni dugandi fyrirvinnu hið allra fyrsta og helst að gifta hana á ný.

Eignir Mósesar höfðu að vísu verið töluverðar því hann taldist eiga hálflenduna sem hann bjó á en það voru 30 jarðarhundruð.[77] Vegna skulda mun hann þó ekki hafa átt jörðina nema að nafninu til því Guðmundur norðlenski hefur það eftir Brynjólfi Hákonarsyni, hreppstjóra á Mýrum, að eignir dánarbúsins að frádregnum skuldum myndu varla hafa dugað ekkjunni og börnum hennar til forlagseyris lengur en í eitt ár.[78]

Strax eftir slysið kom það í hlut blóðtökumannsins að norðan að sjá fyrir heimili Vigdísar, enda þótt aðeins væru liðnir örfáir dagar frá því hann settist þar að. Af hans hálfu var sú skipan þó aðeins hugsuð sem neyðarráðstöfun til bráðabirgða en fyrr en varði tóku ýmsir málsmetandi menn að beina til hans mjög eindregnum áskorunum um að taka þetta bjargarlitla heimili að sér til frambúðar og gerast fyrirvinna ekkjunnar með það í huga að kvænast henni síðar.[79] Jón Jónsson, hreppstjóri á Fjallaskaga, orðaði þetta einna fyrstur við Guðmund en síðan hver af öðrum, þar á meðal hinn fyrrverandi sýslumaður, Ebenezer Þorsteinsson í Hjarðardal í Önundarfirði.[80] Svo fór að Guðmundur lét undan öllum þessum þrýstingi og féllst á að takast forstöðu heimilisins á hendur til frambúðar og kvænast ekkjunni.[81] Haustið 1837 voru þau gefin saman í hjónaband[82] en til þess leiks sagðist Guðmundur síðar hafa gengið nauðugur.[83]

Þau Guðmundur og Vigdís bjuggu áfram á Sæbóli til ársins 1839 en fluttust þá hingað í Nesdal og bjuggu hér næstu sjö árin.[84] Er Guðmundur kom í Nesdal munu nær hundrað ár hafa verið liðin frá því Þorleifur sá sem hér var áður nefndur (sjá hér bls. 6-8) hætti sínu búskaparbasli. Allan þann tíma hafði dalurinn verið í eyði. Hér varð því að byggja allt upp frá grunni og í það verk réðst Guðmundur norðlenski. Um búskap hans í Nesdal mætti margt segja og verður hér drepið á sumt af því síðar en áður en lengra er haldið sýnist nauðsynlegt að gera svolítið nánari grein fyrir hinum merkilega hómópata úr Norðurlandi sem fertugur að aldri reisti byggð í þessum eyðidal við ysta haf.

Guðmundur fæddist á Víðivöllum í Blönduhlíð í Skagafirði 10. nóvember 1799, sonur Guðmundar Árnasonar og Hólmfríðar Jónsdóttur.[85] Foreldrar drengsins, sem bæði voru af skagfirsku bergi brotin, voru þá nýgift vinnuhjú hjá Vigfúsi Scheving, sýslumanni á Víðivöllum.[86]

Í lífssögu sinni sem Guðmundur ritaði um sjötugsaldur gerir hann enga grein fyrir uppruna sínum eða uppvexti norðanlands en lætur nægja að geta þess að hann sé úr Skagafirði.[87] Í öðrum skrifum Guðmundar sem varðveist hafa verður hvergi vart við frásagnir af uppvaxtarárum hans þar og svo virðist sem hann hafi aldrei neitt viljað um þau ræða. Sú þögn vekur grunsemdir um að þessi fyrstu ár ævinnar hafi verið honum erfið.

Stefán Jónsson, bóndi og fræðimaður, á Höskuldsstöðum í Blönduhlíð, sem fæddur var árið 1892, reyndi á sínum tíma að kanna hvar Guðmundur sá sem hér um ræðir hefði alist upp. Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að nær fullvíst mætti telja að hann væri sá Guðmundur Guðmundsson sem á árunum 1801-1813 er skráður sem ómagi í hreppsbókum Akrahrepps.[88] Árið 1812 var meðlagið með dreng þessum 180 fiskar og er hann þá sagður lítið vinnandi en árið eftir gefur hreppstjórinn honum einkunnina:  latur, lyginn, ófrómur.[89]

Á árunum 1811-1814 varð hér veruleg mannfækkun af völdum hallæris sem að nokkru leyti átti rætur að rekja til vöruskorts og dýrtíðar vegna siglingateppu. Á þessum fjórum árum fækkaði landsmönnum um á annað þúsund eða 2,24%[90] en við sambærilega fækkun nú á dögum (1993) myndi íbúafjöldinn lækka um 5-6 þúsund. Á þessum árum bjó fjöldi manna við sult og seyru og ætla má að hundruð manna hafi fallið úr hor. Um aðbúð og ástand sveitarómaga í Skagafirði í þvílíku árferði mun óþarft að fara mörgum orðum en ýmsir sem dugur var í reyndu að stela sér til matar frá þeim sem nægar áttu birgðirnar.

Vorið 1814 var Guðmundur Guðmundsson orðinn 14 ára gamall og var þá heimilisfastur á Vöglum í Blönduhlíð hjá Jóni bónda Jónssyni sem menn kölluðu dauðablóð.[91] Þetta vor var ýmsu matarkyns stolið frá Ara Arasyni, lækni á Flugumýri, og féll skjótt grunur á hinn fyrrverandi sveitarómaga á Vöglum sem nú átti að heita að farinn væri að vinna fyrir sér.[92] Var Guðmundur handtekinn og fluttur að Viðvík til Jóns Espólín sýslumanns. Við réttarhald sem þar fór fram 12. apríl 1814 meðgekk pilturinn að hafa í vikunni fyrir pálmasunnudag farið um nótt að Flugumýri og komist þar inn um glugga.[93] Úr skálanum á læknissetrinu kvaðst hann hafa tekið fjóra fiska, fjórar hákarlsbeitur og bita og tvo magála.[94] Ferð þessa að Flugumýri sagðist Guðmundur hafa farið ríðandi á hesti húsbónda síns, enda hefði húsmóðirin eggjað sig til fararinnar.[95] Aðspurður gaf hann þau svör að hann væri fæddur á Víðivöllum og hefði verið tekinn í kristinna manna tölu á síðastliðnu vori.[96] Áður en réttarhaldinu lauk færði Espólín sýslumaður til bókar að hinn ungi hákarlsþjófur liti vesællega út [97]  og má ætla að pilturinn hafi borið merki vannæringar.

Dómur í þjófnaðarmáli þessu var kveðinn upp á Stóru-Ökrum 5. maí þetta sama vor.[98] Þar var Guðmundur dæmdur til að þola 20 vandarhögg og húsbændur hans, hjónin Jón Jónsson og Guðrún Jónsdóttir á Vöglum, voru einnig dæmd til hýðingar fyrir að hafa etið af matnum sem drengurinn stal og verið í vitorði með honum.[99] Fengu þau 12 vandarhögg hvort og auk þess var þeim gert að greiða málskostnað og skaðabætur til Ara læknis á Flugumýri.[100] Í Sögu frá Skagfirðingum getur Jón Espólín sýslumaður um mál þetta og segir þar að pilturinn hafi stolið hákarlinum að áeggjan húsbónda síns[101] en ekki verður séð í dómabókinni að svo hafi verið.[102]

Ætla má að sú niðurlæging sem hýðingunni fylgdi hafi lengi brunnið í blóði þessa uppreisnargjarna sveitarómaga því skrif hans síðar á ævinni bera með sér að hann var bæði stoltur og stórlyndur og vildi í lengstu lög reyna að halda höfði frammi fyrir máttarstólpum samfélagsins. Reyndar má telja líklegt að brennimark hýðingarinnar hafi valdið miklu um að Guðmundur kaus að þegja um sín æskuár þegar hann tók sig til og fór að rita lífssöguna.

Um feril Guðmundar frá 1814 til 1833 er nær ekkert vitað með vissu.  Í ættartölubókum sínum kallar Jón Espólín sýslumaður hann flæking[103] og verður með hliðsjón af því að telja líklegt að Guðmundur hafi snemma lagst í ferðalög. Í bréfi sem hann ritaði Jóni Sigurðssyni forseta árið 1869 segist Guðmundur vera fæddur í Skagafirði og þar hafi hann alist upp til 15. aldursárs.[104] Í sama bréfi segist hann hafa farið úr Skagafirði til frænda síns, Sveins Pálssonar læknis,[105] en Sveinn átti frá 1809 til 1840 heima í Vík í Mýrdal. Vel má vera að þarna sé rétt með farið. Í prestsþjónustubókum og sóknarmannatölum Reynisþinga finnst þó ekkert sem dugi til staðfestingar á því að Guðmundur hafi dvalist hjá Sveini lækni í Vík um lengri eða skemmri tíma en frá árunum 1814-1832 eru reyndar nær engin sóknarmannatöl til úr Reynisþingum í Mýrdal.[106] Í nýnefndu bréfi kallar Guðmundur Svein lækni í Vík frænda sinn. Frændsemi þeirra virðist samt ekki hafa verið mjög náin en báðir voru þeir reyndar niðjar Steingríms Magnússonar sem bjó á Hofi í Skagafjarðardölum á 17. öld og það fólk allt kallar Jón Espólín Steingrímsætt.[107] Guðrún Jónsdóttir, húsfreyja á Vöglum, sem Guðmundur dvaldist hjá vorið 1814 og dæmd var með honum til hýðingar, var aftur á móti náinn ættingi Sveins Pálssonar, læknis í Vík, því þau voru systkinabörn.[108] Vera kann að hún eða hennar nánustu ættingjar hafi haft milligöngu um að koma drengnum suður yfir Kjöl og austur í Mýrdal þegar hýðingin var um garð gengin.

Í bréfinu sem Guðmundur skrifaði Jóni forseta árið 1869 getur hann næst um dvöl sína í Reykjavík eða næsta nágrenni hennar og lætur að því liggja að þangað hafi hann borist austan úr Vík.[109] Í Reykjavík segist hann tvisvar sinnum hafa séð viðtakanda bréfsins skrýða Steingrím biskup í dómkirkjunni[110] og hlýtur það að hafa verið á árunum 1830-1833 þegar Jón Sigurðsson var biskupsritari í Laugarnesi. Jón forseti gegndi margvíslegum trúnaðarstörfum um dagana en líklega kannast fáir við að hann hafi verið meðhjálpari í dómkirkjunni. Orð Guðmundar um það verður þó að taka trúanleg.

Í Reykjavík kveðst Guðmundur norðlenski hafa verið í kunningsskap við Jón Thorstensen landlækni í þrjú ár og á því sama skeiði hafi hann einnig komist í kynni við Einar Jónsson, kaupmann í Reykjavík, sem var föðurbróðir Jóns forseta og faðir Ingibjargar er síðar varð eiginkona forseta.[111] Þessa tvo menn, Jón landlækni og Einar kaupmann, segir Guðmundur hafa verið búna að gefa sér meðmæli og lofa sér styrk til að sigla til Kaupmannahafnar þegar skyndilega varð breyting á högum hans.[112]

Í lífssögu sinni segist Guðmundur hafa verið ferðbúinn að sigla til Danmerkur árið 1833 en Krieger stiftamtmaður hafi þá leitað eftir því að hann tækist á hendur ferð úr Reykjavík vestur í Tálknafjörð til að rannsaka kærumál sem Jón Þórðarson, hreppstjóri á Kvígindisfelli, hafði borið upp við stiftamtmann.[113]

Um dvöl Guðmundar í Reykjavík árið 1833 þarf vart að efast en hæpnara er að hann hafi í þrjú ár verið í kunningsskap við landlækni sem fram til ársins 1833 bjó í Nesi við Seltjörn en fluttist þá til Reykjavíkur.[114] Gegn svo langvarandi kynnum þeirra mælir sú staðreynd að nafn Guðmundar norðlenska finnst ekki í sóknarmannatölum Reykjavíkurprestakalls frá árunum kringum 1830. Hér verður þó að taka fram að aðeins eru til tvö sóknarmannatöl úr Reykjavík frá umræddu skeiði, annað frá desember 1828 og hitt frá haustinu 1832.[115]

Frásögn Guðmundar af kunningsskap hans við landlækni er því miður hvorki hægt að sanna né afsanna en mun fráleitari virðist staðhæfing hans um upphaflegt erindi sitt til Vestfjarða. Eins og áður var getið segir Guðmundur í skrifum sínum frá árinu 1869 að L. A. Krieger stiftamtmaður hafi sent sig frá Reykjavík til Tálknafjarðar árið 1833 til að fá botn í illvíga lagaþrætu sem upp var komin þar í firðinum.[116] Slíka fullyrðingu er reyndar með engu móti hægt að taka gilda. Í fyrsta lagi má heita nær óhugsandi að æðsti embættismaður landsins brygði á það ráð að senda óskólagenginn múgamann landshorna á milli til að rannsaka flókin lögfræðileg álitamál. Við könnun á bréfabók Kriegers frá árinu 1833 kemur líka í ljós að frá honum hefur Guðmundur ekki fengið slíkt erindisbréf.[117]

Mjög líklegt virðist engu að síður að söguhetja vor hafi komið vestur með Jóni Þórðarsyni, hreppstjóra á Kvígindisfelli, sumarið 1833 því lýsingar hans á ferð þeirra úr Reykjavík til Tálknafjarðar verða að teljast trúverðugar.[118] Í samtölum við Jón Þórðarson og aðra heimamenn í Tálknafirði hefur Guðmundur strax kynnst hinum hatrömmu deilum sem þar geisuðu á árunum 1831-1834 og áttu rætur að rekja til eftirmála ránsins sem framið var í Krossadal haustið 1831. Um þessi þrætumál verður ekki fjallað hér en í varðveittum gögnum sem þeim tengjast er staðfest að Jón Þórðarson á Kvígindisfelli fór til Reykjavíkur sumarið 1833 til að bera þar upp sínar umkvartanir.[119]

Enda þótt Guðmundur norðlenski hafi ekki komið að deilumálunum í Tálknafirði sem sérstakur sendimaður stiftamtmanns náði hann þó að skrifa undir eitt bréf sem Krieger stiftamtmanni var sent vegna þessa rifrildis Tálknfirðinga.[120] Undir það skrifar hann þó ekki einn heldur með Sveini Þorvaldssyni, silfursmið í Hvammi í Dýrafirði, sem hafði gerst eins konar verndari Bjarna Pálssonar í Krossadal er Sveinn taldi órétti beittan af Jóni Þórðarsyni, hreppstjóra á Kvígindisfelli. Áður en Guðmundur kom vestur hafði Sveinn hafið afskipti af þrætumálum Tálknfirðinga og ritaði á árinu 1832 tvö bréf um þau til Bjarna Thorsteinsson amtmanns. Með þessum bréfum sendi hann líka rækilegar skýrslur.[121]

Í áðurnefndu bréfi, sem þeir Sveinn í Hvammi og Guðmundur norðlenski sendu stiftamtmanni 30. janúar 1834, minnist Guðmundur ekkert á að viðtakandinn hafi fáum mánuðum áður sent sig vestur til að rannsaka þau mál sem um er fjallað í bréfinu. Í bréfi sem Krieger stiftamtmaður ritaði Bjarna Thorsteinsson, amtmanni í vesturamti, 18. júní 1834 sést líka að hann telur sig alls ekkert hafa með þessi Tálknafjarðarmál að gera og sendir því bréf og greinargerð þeirra félaga, Guðmundar norðlenska og Sveins í Hvammi, beint til vesturamtsins eins og eðlilegt var.

Allt sýnir þetta að Guðmundur norðlenski hefur ekki komið vestur sem einhvers konar erindreki eða umboðsmaður stiftamtmanns. Deilumálunum í Tálknafirði hefur hann hins vegar fengið að kynnast náið er hann dvaldist þar mánuðum saman á síðari hluta ársins 1833 og þó máske enn frekar hjá silfursmiðnum í Hvammi sem áður hafði lagt sig fram um að rannsaka hvað þarna var á seyði og halda uppi vörnum fyrir Bjarna í Krossdal.

Með tilliti til þess sem hér hefur verið sagt er sjálfsagt að taka frásögnum Guðmundar af ferli hans á árunum 1814-1833 með varúð en engu að síður má telja líklegt að hann hafi dvalist um lengri eða skemmri tíma bæði í Mýrdalnum og í Reykjavík eða þar í grennd. Um komu hans í Tálknafjörð árið 1833 þarf ekki að efast, enda þótt tilefni ferðarinnar þangað kunni að hafa verið annað en hann lét í veðri vaka 36 árum síðar.

Dvöl Guðmundar Guðmundssonar í Tálknafirði varð hins vegar ekki löng því til Dýrafjarðar var hann kominn vorið 1834[122] og hefur máske borist þangað nokkrum mánuðum fyrr þar eð skýrslan um Tálknafjarðarmál, sem stiftamtmaður fékk senda og Guðmundur átti hlut að, er dagsett í Hvammi 30. janúar á því ári (sjá hér bls. 14). Í Dýrafirði settist þessi aðkomumaður fyrst að í Hærri-Hvammi hjá Sveini Þorvaldssyni, bónda og silfursmið, sem hér hefur áður verið nefndur.[123] Nokkru eftir komu sína þangað var Guðmundur sendur til róðra á Fjallaskaga. Þar komst hann fimm sinnum á sjó vorið 1834 en í júnímánuði á því sama ári andaðist Sveinn í Hvammi og tókst Guðmundur þá á hendur að veita búi ekkju hans forstöðu til bráðabirgða.[124] Í Dýrafirði var hann jafnan nefndur Guðmundur læknir eða Guðmundur norðlenski og verður því haldið hér.[125]

Í þriðja hefti tímaritsins Blöndu er að finna ritgerð eftir Sighvat Grímsson Borgfirðing sem ber heitið Æfiágrip Guðmundar „læknis” Guðmundssonar norðlenska og er þar sagt margt frá Guðmundi og gerð allrækileg grein fyrir ferli hans þau rösklega 50 ár sem hann átti heima í Dýrafirði og þar í grennd.[126] Sighvatur hitti Guðmund a.m.k. einu sinni á síðustu æviárum Norðlendingsins[127] og líklegt verður að telja að fræðimaðurinn á Höfða hafi oftar vitjað um gamla Skagfirðinginn sem á sínum síðustu árum var löngum niðursetningur á Skálará í Keldudal (sjá hér Skálará). Að Guðmundi látnum eignaðist Sighvatur ýmsa pappíra úr hans fórum og byggir hann ritgerð sína að nokkru leyti á þeim. Sjálfa lífssöguna, er Guðmundur ritaði árið 1869, virðist hann þó ekki hafa haft undir höndum, enda var hún send Bergi Thorberg, sem þá var amtmaður í vesturamtinu, mjög skömmu eftir að hún var samin.

Í hinni ágætu ritgerð Sighvats eru því miður nokkrar villur eins og oft vill verða þegar skortur er á fullgildum heimildum og ekki á öðru en sögusögnum að byggja. Nefna má að hann segir Guðmund ekki hafa komið að Hvammi fyrr en vorið 1835 en áður hafi hann verið bæði í Meðaldal og Haukadal og komið þangað úr Tálknafirði.[128] Manntalið frá 2. febrúar 1835 tekur hins vegar af öll tvímæli um þetta því þar er Guðmundur skráður til heimilis í Hvammi og sagður vera þar fyrirvinna hjá Rannveigu Hjaltadóttur, ekkju Sveins Þorvaldssonar gullsmiðs[129] sem kemur algerlega heim við orð Guðmundar sjálfs í lífssögunni. Hann segist þar hafa haft alla bústjórn á hendi hjá ekkjunni í Hvammi í eitt ár rúmt [130]  eða frá því bóndi hennar andaðist í júnímánuði 1834 og til haustsins 1835 en þá fluttist Guðmundur að Núpi eins og hér var áður frá sagt (sjá bls. 9). Engu að síður er þó hugsanlegt að hann hafi átt nokkurra daga eða jafnvel fárra vikna dvöl í Haukadal og/eða Meðaldal á leið sinni úr Tálknafirði í Hvamm veturinn 1833-1834. Og vel getum við trúað þeirri sögu Sighvats að þessum langferðamanni hafi litist vel á unga blómarós í Haukadal, Guðnýju Ólafsdóttur, sem þá var um það bil að verða gjafvaxta og giftist síðar Ólafi Jónssyni, bónda á Auðkúlu í Arnarfirði.[131]

Í manntalinu frá 2. febrúar 1835 er Guðmundur sagður vera 31 árs gamall[132] en var þá í raun fjórum árum eldri (sjá hér bls. 11). Með hliðsjón af allri þeirri ónákvæmni sem ríkjandi var á þessum tíma í staðhæfingum um aldur fólks þarf þessi mismunur engan veginn að koma á óvart. Öllu grunsamlegra verður að telja þegar Guðmundur segist í marsmánuði 1869 vera 62ja ára[133] en í bréfi rituðu 5 mánuðum síðar 63ja ára og átta mánaða.[134] Í raun var karlinn þá orðinn 69 ára og má kallast flestum líklegri til að hafa vitað sinn rétta aldur. Vera má að hann hafi viljað láta líta svo út að þau ár sem hann kaus að þegja um í lífssögunni og eru móðu hulin væru mun færri en þau voru í reynd og þess vegna sagt sig allmiklu yngri en hann var. Væri aldurinn sem hann gaf upp 1869 tekinn gildur var líka nær útilokað að menn sem kynnu að líta í dómabækurnar að norðan fengju þá hugmynd að það hefði verið hann sem var hýddur fyrir hákarlsþjófnað árið sem Napóleon mikli Frakkakeisari var hrakinn frá völdum og sendur í útlegð til eyjarinnar  Elbu. Með það í huga gat líka verið freistandi að strika út nokkur æviár.

Margt bendir til þess að strax á sínum fyrstu árum í Dýrafirði hafi Guðmundur norðlenski notið trausts og virðingar hjá fjölda manna. Á árunum 1834 til 1836 er hann tvisvar kallaður til að standa fyrir búi hjá ekkjum virtra bænda sem misst höfðu menn sína og bjarga heimilunum yfir erfiðasta hjallann, fyrst í Hvammi og síðan á Sæbóli. Bæði þessi verkefni leysti hann af hendi með prýði. Orð hefur líka farið af lækningum hans strax á þessum árum því haustið 1835 var hann af héraðslækni kvaddur til þess með formlegum hætti að þjóna sem blóðtökumaður í Vestur-Ísafjarðarsýslu og þar í grennd (sjá hér bls. 9). Slíkt skjal hefði auðvitað aldrei verið gefið út nema maðurinn væri talinn kunna talsvert fyrir sér á sviði læknisfræðinnar. Útnefning Guðmundar sem blóðtökumanns, svo skömmu eftir komu hans í Dýrafjörð, styrkir þá skoðun að hann hafi í raun haft einhver kynni af Sveini Pálssyni, lækni í Vík, og Jóni Thorstensen landlækni eins og hann segir sjálfur í bréfinu til Jóns forseta sem hér var áður vitnað til (sjá hér bls. 12-13). Hugsanlegt er að hjá þessum ágætu læknum hafi hinn fátæki en gáfaði piltur úr Skagafirði komist í kynni við nokkur frumatriði læknislistarinnar. Um lækningar Guðmundar mætti rita langt mál en verður þó ekki gert að sinni.  Sjálfur kemst hann svo að orði í lífssögunni að um það leyti sem hann var settur blóðtökumaður hafi hann aldrei haft frið, hvorki nótt né dag, fyrir fólki sem til hans leitaði í lækniserindum.[135] Til marks um traust hinna lærðu héraðslækna á Guðmundi má nefna að árið 1841 fékk hann aftur bréf upp á að vera viðurkenndur blóðtökumaður og var það skjal gefið út af A. P. Jensen sem þá var héraðslæknir og sat á Ísafirði.[136] Þá var Guðmundur búsettur í Nesdal.

Hér hefur áður verið sagt frá helstu atburðum er leiddu til þess að Guðmundur norðlenski kvæntist ekkjunni Vigdísi Guðmundsdóttur á Sæbóli á Ingjaldssandi og gerðist bóndi þar árið 1837 en áður hafði hann verið ráðsmaður hennar í eitt ár (sjá hér bls. 9-10). Fyrsta árið sem Guðmundur bjó á Sæbóli var hann þar í tvíbýli á móti Jóni Bjarnasyni er bjó á hinni hálflendunni.[137]

Í tíundarskýrslu frá haustinu 1837 er Guðmundur talinn fyrir búinu á Sæbóli og er þá sagður eiga 30 jarðarhundruð.[138] Þetta sýnir að hann hefur við giftinguna tekið við öllum eignum dánarbúsins en eins og hér var áður getið taldist fyrri maður Vigdísar eiga þau 30 hundruð er þau höfðu haft til ábúðar á Sæbóli. Eign þessari fylgdu hins vegar mjög miklar skuldir (sjá hér bls. 10) og í bréfi sem Guðmundur norðlenski ritaði löngu síðar segist hann hafa orðið að láta hálflenduna á Sæbóli af hendi en fengið í staðinn leyfi til að reisa nýbýli í Nesdal.[139] Fullvíst er að Guðmundur fékk hálft Sæból til eignar með Vigdísi konu sinni og því til sönnunar má auk tíundarskýrslunnar nefna að bæði 1836 og 1837 skrifar hann ásamt Jóni Bjarnasyni undir vísitazíugerðir sem einn eigenda Sæbólskirkju.[140]

Norðlendingurinn sem hér er frá sagt náði ekki að búa lengi á Sæbóli. Hann átti þar í ýmsum brösum og var árið 1838 gert að greiða tíu fiska til fátækra fyrir að lumbra á presti norðan úr Djúpi sem kominn var í heimsókn á Ingjaldssand. Heimild um þetta fann Sighvatur Borgfirðingur nokkrum áratugum síðar í hreppsreikningum Mýrahrepps og segir frá á þessa leið:

Í hreppsreikningum Mýrahrepps í Dýrafirði haustið 1838 stendur:

 

Útlát frá Guðmundi Guðmundssyni á Sæbóli fyrir óverðskuldaða misþyrmingu á séra Magnúsi Þórðarsyni til fátækra 10 fiskar. Þá hélt séra Jón Sigurðsson Dýrafjarðarþing og bjó á Gerðhömrum, tengdabróðir séra Magnúsar. Hefur séra Magnús verið þar í kynnisför á því ári og líklega farið út að Sæbóli með séra Jóni á annexíuna en Guðmundur læknir Guðmundson úr Skagafirði bjó þá á Sæbóli en var síðar í Nesdal. Hann var gáfumaður mikill, ör í lund og enginn veifiskati. Má ætla að þar hafi verið brennivín á borðum og þá slegist í illdeilur en allir voru þeir drykkjumenn, Guðmundur og báðir prestarnir, séra Jón og séra Magnús, enda engin spakmenni við öl neinn þeirra þriggja þó margt væri vel um þá alla.[141]

 

Við þessar upplýsingar frá Sighvati má bæta að séra Magnús Þórðarson, presturinn sem Guðmundur norðlenski barði átti árið 1838 heima á Eyri í Seyðisfirði við Djúp og þjónaði Ögurþingum.[142] Seinna sat hann lengi á Hvítanesi í Ögursveit og var kvæntur Matthildi, dóttur Ásgeirs prófasts Jónssonar í Holti í Önundarfirði.[143] Eitt barna þeirra var Hjalti[144] faðir Magnúsar Hjaltasonar, alþýðuskálds og dagbókarritara sem hér kemur víða við sögu. Sektin sem Guðmundi var gert að greiða fyrir að hafa barið prestinn var 10 fiskar en 40 fiskar voru í ærgildinu.

Tíundarskýrslur sýna að árið 1838 hefur Guðmundur norðlenski selt Guðmundi Bjarnasyni, er þá fór að búa á Sæbóli, helming jarðeignar sinnar þar[145] en Guðmundur sá kom frá Ósi í Bolungavík. Sighvatur Borgfirðingur taldi að Jón og Guðmundur Bjarnasynir á Sæbóli hefðu verið bræður[146] en svo mun þó ekki hafa verið.[147]

Um svipað leyti og Guðmundur Bjarnason fór að búa á Sæbóli var ákveðið að Guðmundur norðlenski færi þaðan og reisti nýbýli í Nesdal en eins og áður var getið er dalur þessi í landareign Sæbóls. Sjálfur fullyrðir Guðmundur norðlenski að sambýlismenn sínir á Sæbóli, þeir Jón og Guðmundur Bjarnasynir, hafi hvatt sig mjög eindregið til þeirrar ráðabreytni.[148]

Að eigin sögn hóf Guðmundur framkvæmdir í Nesdal sumarið 1838[149] en dalurinn hafði þá verið í eyði í nær heila öld eða jafnvel lengur (sjá hér bls. 6-8). Þetta fyrsta sumar byggði blóðtökumaðurinn norðlenski eitt hús hér í dalnum og hafði þar stúlku en hélt jafnframt áfram búskap á Sæbóli.[150] Á því sumri varð hann að eyða 23 vinnudögum í sjúkravitjanir.[151] Árið 1839 flutti Guðmundur sig alveg í Nesdal[152] og virðist þá hafa tapað öllum eignarráðum á Sæbóli án þess að eignast Nesdal í staðinn.

Enginn skriflegur samningur virðist hafa verið gerður um ábúð Guðmundar norðlenska í Nesdal er hann hóf þar búskap og kemur það skýrast fram í prófastsvísitazíu frá júlímánuði árið 1839 en Sæbólskirkja taldist eiga þriðjung í dalnum (sjá hér bls. 4. Sbr einnig hér Sæból og Álfadalur). Í vísitazíugerðinni frá 14. júlí 1838 segir að afréttið Nesdalur sem kirkjan á Sæbóli eigi mikinn part í sé nú byggt sem nýlenda án nokkurs ennú fengins skilmála um afgift til kirkjunnar framvegis.[153]

Svo virðist sem Guðmundur hafi viljað slá eign sinni á dalinn (sjá hér bls. 21-23) en þar var við ramman reip að draga. Reyndar fór því fjarri að allt væri á hreinu um eignarráðin (sjá hér Sæból og Álfadalur) og í búnaðarskýrslu frá árinu 1844 segir eign óviss þegar getið er um nýbýlið í Nesdal.[154]

Bæ sinn hér í Nesdal reisti Guðmundur norðlenski upp úr fornum tóttum á sjávarbökkunum norðan ár, undir fjallinu Búðarhorni.[155] Í neðstu klettum þess er Sveltistallur en efst í því og þó framantil við sjálft hornið er hóllinn Manntapabali.[156] Bærinn sem Guðmundur norðlenski byggði í Nesdal árið 1839 var rúmgóður og öllu var þar haganlega fyrir komið.  Baðstofan var 6 álnir (3,8 metrar) á breidd og í henni voru 5 stafgólf undir súð en þilhús í öðrum enda.[157] Öðrum bæjarhúsum lýsir Guðmundur svo í lífssögu sinni: Búr, níu álna langt og 5 álnir á breidd.  Eldhús og smiðja í öðrum enda, 10 álna langt, 5½ alin á breidd. Fjós fyrir fjórar kýr þó ég ætti ekki nema þrjár. Hjallur 9 álna langur og 51/2 alin á breidd. Fjárhús fyrir 30 fjár.[158]

Að sögn þeirra sem nú búa á Sæbóli á Ingjaldssandi rifu Sæbólsbændur tóttina af bæ Guðmundar norðlenska á árunum milli 1910 og 1920 og byggðu upp úr henni rétt sem nú stendur þar sem áður var bærinn.[159] Þessa frásögn nákunnugra manna er varla hægt að rengja og ætti bærinn þá að hafa staðið fremst á sjávarbakkanum, rétt norðan við ána, því þar er réttin. Aðeins norðan við réttina er tótt sem að öllum líkindum er af verbúðinni sem hér var reist snemma á tuttugustu öld (sjá hér bls. 47-48). Nokkru ofar og þó á Lægribökkum eru svo að minnsta kosti fimm tóttir á litlu svæði og mætti ætla að þar hafi staðið kotbýli. Ef til vill eru þetta þó eingöngu útihúsarústir en sagnir herma að bæjarlækurinn hafi runnið í gegnum bæ Guðmundar norðlenska í Nesdal.[160]

Framkvæmdum sínum við sjávargötuna í Nesdal lýsir Guðmundur norðlenski svo:

 

Líka ruddi ég með uppsprengingu kletta og upphleðslu sjóarmegin 24¾ faðma [46,5 metra] og 4 faðma breiða götu frá fjöru og upp á bakka á snið því bakkarnir voru svo brattir sem veggir upp yfir lendingunni. Nú mátti setja, þó áttahringar kæmu, fimm í götuna, hvern upp af öðrum, og öllum festa yfir með böndum er reirð urðu á surtarbrandsþollum og tilgerðum, klöppuðum og hlöðnum götum á báðum veggjum götunnar, hvar knappast varð áður gengið nema af sauðfé. Allir sem í minni tíð hleyptu frá Ísafjarðardjúpi og víðar að í Nesdal brúkuðu, auk sjálfs mín, götu þessa sem ugglaust vígi fyrir hvert skip móti stormi og sjógangi.[161]

 

Með framkvæmdum þeim sem þarna er lýst virðist Guðmundur hafa unnið þjóðþrifaverk sem komið gat að góðum notum og tryggt öryggi þeirra sem kusu að lenda í Nesdal er þeir náðu ekki heimahöfn. Í Nesdal var ætíð gott að lenda nema í norðvestanátt og brimi.[162] Enginn greinileg ummerki lendingarbóta Guðmundar norðlenska eru nú sjáanleg í Nesdal og vera má að frásögn hans af þeim sé eitthvað orðum aukin.

Sjávargötuna ruddi Guðmundur að eigin sögn á sínu fyrsta búskaparári í dalnum og á því ári reisti hann líka allar þær byggingar sem hér hafa verið nefndar.[163] Síðar bætti hann um betur svo alls urðu húsin er hann reisti í Nesdal fimmtán að tölu.[164] Sú tala þarf ekki að vera fjarri lagi því auk kofanna er staðið hafa þar sem nú eru tóttirnar fimm, sem hér voru áður nefndar má ætla að allmörg hús hafi verið fremst á sjávarbökkunum, þar sem nú er réttin og verbúðartóttin sem áður var minnst á. Ein þrískipt tótt, nokkuð stór, er svo dálítið heiman við Stóruskriðu og hefur þar að líkindum verið fjárbyrgi. Þröngugötu sem liggur yfir hraunshólatagl fram á dalnum breikkaði hann líka svo um munaði. Þar var áður ófært með klyfjahest vegna þrengsla en Guðmundur breikkaði götuna og ruddi braut sem var tveir faðmar á breidd og þrettán að lengd.[165] Að eigin sögn lagði hann hér 378 ríkisdali og 42 skildinga í kostnað við byggingarframkvæmdir fyrir utan eigin vinnu[166] og máttu það kallast verulegir fjármunir.

Í Nesdal búnaðist Guðmundi vel, enda var hann á sínum búskaparárum í dalnum fær í flestan sjó og mun hafa nýtt sér eins og best mátti verða hin fengsælu fiskimið sem hér eru örskammt frá landi. Um fiskisældina í Nesdal kemst Sighvatur Borgfirðingur svo að orði:

 

Silungsveiði er þar nokkur í vatni fram í dalnum og hvergi getur fiskisælli veiðistöð en þar á flestum tímum árs, og fiskur allt vor og sumar, fram á vetur, oft uppi í landsteinum.[167]

 

Vorið 1838 reri Guðmundur norðlenski í fyrsta sinn frá Nesdal. Aflinn var þá 500 þorskar, fyrir utan smáfisk, og 134 limir af heilagfiski.[168]  Ekki verður séð hversu margir róðrarnir voru en með sér á bátnum hafði hann einn kaupamann, stúlku og ellefu ára dreng.[169]

Á árunum sem Guðmundur norðlenski bjó í Nesdal var hann jafnan með 8 til 11 manna í heimili og eitt árið voru að auk tvær manneskjur hjá honum í húsmennsku svo íbúatalan fór á því ári upp í 13.[170] Mjólkandi kýr voru oftast tvær en auk þess ól hann yfirleitt eina kvígu og í þrjú ár var hann með naut.[171] Mylkar ær voru ekki nema sex árið 1840 en fimm árum síðar voru þær orðnar tuttugu og ein.[172] Sauðir og hrútar voru oftast á bilinu frá fjórum og upp í átta, flestir síðasta árið, 1845, og þá átti Guðmundur ellefu gemlinga en þeir höfðu aldrei verið fleiri en tólf.[173] Auk þessa fénaðar átti hann jafnan tvo hesta á þessum árum.[174]

Árið 1840 virðist bóndinn í Nesdal hafa verið bátlaus en á árunum 1841-1845 átti hann jafnan bát sem ýmist er sagður vera 4-6 manna far eða minni.[175] Í búnaðarskýrslum sést að Guðmundur hefur líka komið sér upp kál- eða kartöflugarði í Nesdal og er hann sagður hafa verið 20 ferfaðmar á stærð.[176] Garður þessi er að vísu aðeins nefndur í einni skýrslu og er hún frá árinu 1843.[177] Ummerki um kálgarð má enn (1993) sjá í Nesdal, rétt við árósinn, í brekkunni ármegin við réttina sem hér hefur áður verið nefnd.  Mjög líklegt er að þar sé kominn kálgarður Guðmundar norðlenska og það þótt garður þessi sé aðeins 10 ferfaðmar en ekki 20 eins og fullyrt er í búnaðarskýrslunni frá 1843. Í lífssögunni segir Guðmundur norðlenski kál- og kartöflugarða sína í Nesdal reyndar hafa verið tvo og hafi ummál þess stærri verið 40 faðmar.[178] Garðurinn sem enn sést móta fyrir niður við árósinn gæti verið sá minni.

Á búskaparárum sínum í Nesdal þurfti Guðmundur oftast að greiða 15 fiska á ári (þ.e. 6,25% úr kýrverði) í opinber gjöld sem þá nefndust tíund og aukatillag.[179] Síðasta heila árið í Nesdal voru þessi gjöld hans þó komin upp í 20 fiska,[180] enda var bú hans þá stærra en áður. Bændur í Mýrahreppi voru þá 50 að presti meðtöldum. Úr þeim hópi guldu 15 minna til samfélagsins en nýbýlingurinn í Nesdal, 6 aðrir voru með tuttugu fiska eins og hann en 28 greiddu hærri gjöld.[181] Greinilegt er að Guðmundur norðlenski hefur þarna verið um það bil að komast í tölu miðlungsbænda. Í manntali frá árinu 1845 er Guðmundur sagður vera nýbýlisbóndi í Nesdal sem lifi af grasnyt og fiskveiðum en einnig tekið fram að hann sé blóðtökumaður.[182]

Á sínu fyrsta búskaparári í Nesdal fór Guðmundur norðlenski strax að reyna að tryggja sér rétt til búsetu þar í dalnum um alla framtíð en í þeim efnum var við ramman reip að draga. Bændurnir á Sæbóli, þeir Jón og Guðmundur Bjarnasynir, voru sjálfseignarbændur[183] og þar sem allur eða nær allur Nesdalur fylgdi Sæbóli (sjá hér Sæból og Álfadalur) voru það þeir sem höfðu umráð yfir dalnum og vildu nota hann áfram til beitar eins og löngum hafði tíðkast. Auk þess áttu kirkjurnar á Núpi og Mýrum og kirkjan í Holti fornan beitarrétt í Nesdal (sjá hér bls. 4) svo hér var þröngt setinn bekkurinn. Að sögn Guðmundar veittu allir þessir aðilar honum heimild til að setjast að í Nesdal og hefja þar búskap[184] en annað mál var að tryggja honum framtíðarréttindi þar.

Haustið 1839 sneri Guðmundur sér til Friðriks Svendsen, kaupmanns og útgerðarmanns á Flateyri, og bað hann að leita eftir því við rétt yfirvöld að sér yrði tryggður varanlegur ábúðarréttur í Nesdal.[185] Svendsen brást vel við þessu erindi Guðmundar og ritaði strax bréf um málið til amtmanns.[186] Árangur af þeirri málaleitan varð þó enginn.

Er Guðmundur hafði búið í Nesdal skamma hríð tók hann að bægja nautum og hrossum annarra manna burt úr dalnum[187] eins og hann væri þar kóngur í ríki sínu. Þetta framferði hans mun bændunum á Sæbóli og fleira fólki hafa mislíkað og þann 2. október árið 1840 sögðu Sæbólsbændur upp öllum samningum við bóndann í Nesdal og byggðu honum út með bréfi.[188] Bréfinu svaraði Guðmundur með níðkvæði um þá Sæbólsmenn og sat sem fastast þrátt fyrir útbygginguna.[189] Ein vísan í þessu kvæði Guðmundar er svona:

 

  Ef volaða guðs og konginn kúgið,

  kannske með fjártals afdráttum,

  fátækra einnig fjaðrir sjúgið,

  ef fáið korn í viðskiptum,

  –  undir hegningu laga er laug

  því lítinn skilning berið á þaug.[190]

 

Þennan kveðskap Guðmundar kærðu Sæbólsmenn fyrir sáttanefnd[191] en engir friðarsamningar munu þó hafa tekist.

Skömmu síðar brá Guðmundur sér norður í Reykjarfjörð við Djúp á fund Þorkels Gunnlaugssonar sýslumanns er þar sat og fór þess á leit að sýslumaður tryggði honum full umráð yfir Nesdal og rétt til búsetu þar.[192] Eftir sólarhringsbið fékk Nesdalsbóndinn í hendur úrskurð sýslumanns.[193] Þar var tekið fram í fyrstu málsgrein að honum væri bannað að meina hlutaðeigendum að beita geldfénaði sínum í dalnum samkvæmt fornri venju en síðar í sama plaggi var kveðið á um að Guðmundur ætti frjálsa ábúð á nýbýli sínu þar og honum væri heimilt að verja sitt slægnaland.[194] Í bréfi sem Guðmundur skrifaði fáum árum síðar bendir hann á að þetta tvennt hafi eiginlega alls ekki getað farið saman því hinar litlu slægjur sem um hafi verið að ræða séu hér og þar í smáreitingi um allan dalinn.[195] Engu að síður urðu báðir málsaðilar að búa við hinn tvíbenta úrskurð sýslumanns næstu árin.

Árið 1844 varð Eggert Briem sýslumaður í Ísafjarðarsýslu og sumarið 1845 sneri Guðmundur norðlenski sér til hans og bað um liðsinni í sínum málum varðandi Nesdal. Hann virðist þá hafa verið í góðum kynnum við ýmsa embættismenn í Ísafjarðarsýslu og þeirra fólk. Sem dæmi um þetta má nefna að við skipti á dánarbúi Ebenezers Þorsteinssonar, fyrrverandi sýslumanns í Ytri-Hjarðardal í Önundarfirði, sumarið 1844 var Guðmundur í Nesdal fulltrúi ekkjunnar.[196] Það var því enginn venjulegur múgamaður sem leitaði liðsinnis hjá Eggerti Briem sýslumanni í deilunum um Nesdal sumarið 1845. Tilmæli sín í fimm liðum setti hann fram í bréfi er hann ritaði sýslumanni 2. ágúst þetta sumar og óskir sínar orðar hann þar á þessa leið:

 

 1. Að mér útmælist land allt hér í Nesdal, samt rekaland  frá  svokallaðri Vestari Þúfu á Fjallaskaga að vestan og til Drífuhamars undir Skerjabarða að norðanverðu.
 2. Að mér tildæmist þetta umgetna pláss til lands og lagar til allrar eigindómsbrúkunar – afgjaldslaust alla mína lífdaga, hvort heldur ég sit hér sjálfur alltaf sem búandi eða ég leigi það öðrum sem ala önn fyrir mér í mínum aldurdómi, ef á þarf að halda. Samt að ég eigi ráð á að kjósa næstan ábúanda á þetta býli eftir mína daga.
 3. Að ég sé hérfrá inntil fullra 20 ára úthlaups, ef svo lengi lifi, frí við að gjalda kóngstíund, skatt – þó þeim fjárhlut næði er honum nemdi, – gjaftoll og lögmanns en greiddi jafnan árlega svokallaðan sakamannamálakostnað eða þá peninga sem undir því nafni alþjóðlega eftir tiltölu gjaldast þurfa.
 4. Að enginn megi án viðlagðra sekta beita hér áminnst land eða aðrar ínytjar hafa af því til lands eða vatns, fjalls eða fjöru, án míns leyfis.
 5. Að nýbýli þetta eftir minn dag verði aldrei eyðipláss framar svo framt ófyrirsjáanleg stóróhöpp ekki sannast því ollað hafa.[197]

 

Í bréfi þessu til Eggerts sýslumanns nefnir Guðmundur býli sitt í Nesdal Nýjaból og orð hans bera með sér að þar vildi hann una lífinu allt til loka.

Skömmu eftir að Guðmundur norðlenski kom sínum tilmælum á framfæri við Eggert sýslumann barst þeim síðarnefnda einnig bréf frá bændunum á Sæbóli. Þar var þess krafist að Guðmundur yrði þegar í stað dæmdur til að hverfa í brott frá Nesdal, enda hefði hann leyft sér að reka þaðan búpening í eigu manna sem þar ættu tvímælalausan beitarrétt.[198]

Eins og fyrr var rakið lætur Guðmundur þess sjálfur getið að hann hafi rekið úr dalnum bæði naut og hross (sjá hér bls. 22). Í skjali dagsettu 3. febrúar 1846 segist hann hins vegar hafa vaktað sauði Sæbólsbænda í Nesdal á hverjum vetri allt frá því hann hóf sinn búskap hér árið 1839.[199] Guðmundur segir þarna að í öll þessi ár hafi Sæbólsbændur jafnan haft 42-60 sauði og þar yfir í dalnum í 6-14 vikur framan af vetri en síðari hluta vetrar hafi þeir yfirleitt verið með um 30 fjár í dalnum.[200] Bóndinn á Nýjabóli segist ætíð hafa litið til með þessu fé og ekkert af því hafi drepist í Nesdal utan einn sauður.[201] Til samanburðar nefnir hann að áður en farið var að búa í dalnum hafi Sæbólsbændur misst þar fjölda fjár á hverjum vetri.[202] Enga borgun kveðst Guðmundur hafa fengið fyrir þessa vöktun sauðanna frá Sæbóli og ekki heldur fyrir vinnu sína við að byggja upp hlað til skjóls fyrir útigangsféð frá Sæbóli sem átti að bjarga sér í Nesdal.[203] Þetta síðastnefnda mannvirki segist Guðmundur hafa byggt einasta til að geta látið þeirra fé þar inn í sjóargangi þegar hann húsbyrgði sínar eigin kindur.[204] Fyrir allt þetta gerði nýbýlisbóndinn í Nesdal nú kröfu um að fá greidda 104 fiska og áskildi sér allan rétt til að hækka þá kröfu ef ekki næðist samkomulag um önnur deilumál hans við Sæbólsbændur.[205]

Er sýslumaður hafði kynnt sér þrætumál bændanna á Sæbóli og í Nesdal boðaði hann til eins konar sáttafundar á heimili séra Jóns Sigurðssonar á Gerðhömrum.[206] Í lífssögu Guðmundar norðlenska er að finna allýtarlega frásögn af gangi mála á þeim fundi og þar er greint frá niðurstöðum hans. Guðmundur talar þar mjög hlýlega um Eggert sýslumann og séra Jón á Gerðhömrum og á orðum hans má skilja að þeir hafi báðir verið honum vinveittir.[207] Laganna vegna gat sýslumaður þó ekki tekið kröfur hans til greina en með lempni fékk hann alla sem hlut áttu að máli til að samþykkja að Guðmundur fengi að setja fram öll þau skilyrði er hann teldi sig þurfa að fá uppfyllt ef hann féllist á að fara úr Nesdal.[208] Og þegar blóðtökumaðurinn á Nýjabóli hafði þegið sjálfdæmið og gert grein fyrir skilmálunum lagði sýslumaður allt kapp á að fá mótherja hans til að kyngja þeim undanbragðalaust.[209]

Á sáttafundinum á Gerðhömrum, sem líklega hefur verið haldinn 3. febrúar 1846, féllst Guðmundur á að fara úr Nesdal en helstu skilyrðin sem hann setti fyrir brottför sinni voru þessi:

 

 1. bandamenn [þ.e. þeir sem vildu hann burt úr Nesdal] greiddu honum 5 ríkisdali fyrir ferðina á sáttafundinn.
 2. Að honum yrði tryggð ábúð á 10 jarðarhundruðum á Þorfinnsstöðum í Önundarfirði eða á Sveinseyri í Dýrafirði ellegar þá á Næfranesi í sama firði og fengi þar viðunandi húsakynni.
 3. bandamenn tækju að sér að rífa allar byggingar í Nesdal og borga fullu verði ef eitthvað skemmdist.
 4. bandamenn sæu um að flytja allt lifandi og dautt, á landi og sjó, án skaða, dauða eða vondrar meðferðar á þá jörð sem Guðmundur fengi til ábúðar.[210]

 

Í lok yfirlýsingar sinnar um skilyrðin tók Guðmundur sérstaklega fram að þar sem rætt væri um flutningana í 4. lið væri átt við allar hans eigur í Nesdal. Með hans eigin orðalagi hljóðaði textinn svo:

 

Hér er allt hvað mér til heyrir innibundið í og er þar í mykjuhaugur fjóss míns og allt [skal það flytjast] án fæðis eða drykkjar og án allra tillaga af mér, utan hvað mér kann inngefast þá ef lifi.

 

Að sögn Guðmundar féllust bandamenn á alla þessa skilmála en Sighvatur Borgfirðingur lætur þess getið að Guðmundur hafi þó samþykkt að þeir slyppu við að flytja fjóshauginn en í staðinn hafi þeir orðið að kaupa alla mykjuna í Nesdal.[211]

Svo skemmtilega vill til að hin skriflega skuldbinding sem bandamenn létu í té hefur varðveist og er nú geymd í Héraðsskjalasafninu á Ísafirði.[212] Skjal þetta er að vísu ódagsett en ætla má að frá því hafi verið gengið á fyrrnefndum fundi á Gerðhömrum sem haldinn var á þorra árið 1846.  Yfirlýsingin hljóðar svo:

 

Ef að jörðin Þorfinnsstaðir verður byggð bónda Guðmundi Guðmundssyni á Nesdal þá lofum við undirskrifaðir að hann fái frían flutning á öllum efnum sínum þangað og að borga afgjaldið eftir hans uppástungu í 2 eða 3 ár til eigandans, bónda Jóns Bjarnasonar á Sæbóli, eftir tiltölu og samkomulagi okkar á milli.[213]

 

Undir þessari yfirlýsingu standa nöfn 12 bænda í Mýrahreppi og hafa þeir allir ritað þau með eigin hendi nema einn.[214] Fyrstur skrifar undir Guðmundur Bjarnason[215] og mun það ugglaust vera sá maður með því nafni sem bjó á Sæbóli og hér hefur komið við sögu. Guðmundur Brynjólfsson á Mýrum var sá eini sem skrifaði undir yfirlýsinguna með fyrirvara sem var á þessa leið:

 

Guðmundur Brynjólfsson er samþykkur ofanskrifuðum skilmálum, þó með því móti að þeir úr Núpssókn sem Nesdal nota til beitar hafi leyfi hjá hlutaðeigendum sem ítökin eiga eftirleiðis en brúki ekki leyfislaust eins og áður.[216]

 

Minnt skal á að Guðmundur var umráðamaður Mýrakirkju en bæði hún og Núpskirkja áttu frá fornu fari beitarréttindi í Nesdal og líka Holtskirkja í Önundarfirði (sjá hér bls. 4).

Niðurstaðan varð sú að Guðmundur norðlenski fluttist ekki að Þorfinnsstöðum en fékk þess í stað til ábúðar jarðarpart á Næfranesi og fóru flutningarnir fram um sumarmál vorið 1846.[217] Búferlaflutningum þessum lýsir Guðmundur svo:

 

Bandamenn komu að sækja flutning á þremur skipum að færa að Næfranesi og var framhaldið flutningunum í 5 daga  …  56 fjár á landi, 3 kýr á sjó en tveir hestar og ein hryssa á landi.[218]

 

Í Dýrafirði munu flutningar þessir frá Nesdal að Næfranesi lengi hafa verið í minnum hafðir. Er Sighvatur Borgfirðingur fluttist í Dýrafjörð vorið 1873 voru 27 ár liðin frá hinum sögulegu búferlaflutningum úr Nesdal.  Sighvatur heyrði þó margt um þá rætt og kemst m.a. svo að orði er hann fjallar um atburð þennan:

 

„ … og það hafa þeir menn sagt er þar voru nærstaddir að ekki hafi verið að öllu vandalaust að hlýða þeim fyrirskipunum er Guðmundur „læknir” sagði fyrir um meðferð á fjármunum sínum þegar hann var fluttur úr Nesdal inn að Næfranesi. … Sjálfur stóð hann með hendur á síðum en snerti ekki á nokkrum hlut en öllu varð að haga eftir hans boði og banni í smáu og stóru en ekki fengu þeir menn sem að því unnu hjá honum svo mikið sem svaladrykk og þegar að Næfranesi kom urðu þeir menn að bera allt heim frá sjó og inn í hús og láta hvern hlut á þann stað sem hann skipaði fyrir.[219]

 

Í Nesdal hafði þessi hrakningsmaður úr Norðurlandi séð bú sitt blómgast, ekki síst vegna nálægðar við gjöful fiskimið. Jóhannes Davíðsson, sem fæddur var árið 1893 og ólst upp á Álfadal á Ingjaldssandi, heyrði margt talað um Guðmund norðlenska á sínum uppvaxtarárum og segir frá á þessa leið:

 

Finnur Eiríksson frá Hrauni sagði mér að móðir sín, Kristín Nikulásdóttir, hefði eitt sinn heimsótt Guðmund meðan hann bjó í Nesdal. Þótti henni þar vænlegt um að litast. Þar voru hjallar þéttskipaðir með rikling og rafabelti og gnægð annarra fiskifanga. Enda bóndinn öll sumur á sjó, þegar tóm gafst, og var breiddur hvítur dúkur á hús þegar hann átti að koma í land til að raka upp heyið á kvöldin.[220]

 

Það hefur verið sárt fyrir Guðmund norðlenska að yfirgefa Nesdal.  Þar hafði hann unað sér vel og séð árangur verka sinna í batnandi efnahag. Fyrir mann sem alist hafði upp á hrakningi í eymd og örbirgð var slík fótfesta ekki lítils virði. Við brottförina úr Nesdal hefur honum máske boðið í grun að fram undan væru dimmari dagar og sú varð líka reyndin á. Einhverja augnablikssvölun hefur hin stolta en viðkvæma lund blóðtökumannsins fundið í því að láta bandamenn, sem hann taldi sér óvinveitta, annast flutningana úr Nesdal en þurfa sjálfur ekkert að gera nema standa og gefa fyrirskipanir. Slíkt var þó skammgóður vermir.

Á Næfranesi átti Guðmundur norðlenski heima í fimm ár, frá 1846 til 1851. Þar búnaðist honum af ýmsum ástæðum mun lakar en í Nesdal. Vorið 1847 ákvað hann að skilja við Vigdísi konu sína en þau höfðu þá verið gift í tæplega 10 ár og flest börn Vigdísar frá fyrra hjónabandi hennar orðin sjálfbjarga. Sjálfur var Guðmundur enn barnlaus, enda var Vigdís komin yfir fertugt er hann gekk nauðungur að eiga hana (sjá hér bls. 9-10). Þann 1. maí 1847 rituðu bæði hjónin undir yfirlýsingu um skilnað að borði og sæng svo og skiptingu allra sameiginlegra eigna en plagg þetta var jafnframt bréf til amtmannsins í vesturamtinu þar sem farið var fram á að hann veitti samþykki sitt fyrir skilnaðinum.[221] Þann 21. febrúar 1848 gaf Bjarni Þorsteinsson amtmaður út formlegt leyfi fyrir skilnaðinum.[222]

Í yfirlýsingunni um skilnað að borði og sæng og skiptingu eigna segir m.a. svo:

 

Af tveimur kúm læt ég (bóndinn) konuna hafa þá yngri. Af tveimur hestum þann yngri. Af nú aðeins lifandi en flestum sjáanlega að falla, 15 ám, fær hún sjö o.s.frv. Af matvælum – til að mynda – af 6 fjórðungum smjörs og tólgar 3 fjórðunga og 2 pund. Af tveimur og hálfu sauðarfalli, eitt fall o.s.frv. Af dauðum búshlutum eftir samkomulagi, utan hún eftir lætur mér – sem góðviljuga gjöf – allt verktöj, stofu- og vasaúr. Hér í móti lofa ég að borga – frá mér – af 8 ríkisbankadala og 76 skildinga skuld við Dýrafjarðarhöndlun … .[223]

 

Er Guðmundur fluttist að Næfranesi vorið 1846 fékk hann þar til ábúðar átta hundruð sem Símon Sigurðsson, bóndi og skipstjóri, á Dynjanda í Arnarfirði átti.[224] Í Nesdal hafði Guðmundur byggt sér baðstofu sem var 6 álnir á breidd og 5 stafgólf (sjá hér bls. 19) en á Næfranesi var honum vísað í langtum lakari húsakynni því þar var baðstofan nær helmingi minni, 3 álnir á breidd og 3 stafgólf.[225] Sum húsin á Næfranesi voru að falli komin er Guðmundur kom þangað. Um bæjargöngin sem lágu frá baðstofu til útidyra og voru 15 álnir á lengd segir til dæmis í úttektinni frá 30. maí 1846 að þau séu mikið lasleg að viðum og veggjum með lélegri hurð og dyrastöfum.[226] Fjárhús sem stóð upp á túninu, einstæðingur, var að kalla fallið að viðum og víða að veggjum en aftur á móti var fjósið nokkurn veginn stæðilegt.[227]

Búskap sinn á Næfranesi byrjaði Guðmundur árið 1846 með eina kú og kvígu, 26 ær, 12 sauði 13 gemlinga og tvo hesta.[228] Vorið 1847 skildi hann við Vigdísi konu sína eins og fyrr var getið og á því ári er nafn hans alls ekki að finna í búnaðarskýrslum úr Mýrahreppi.[229] Árið 1848 er hann svo sagður hafa tvö hundruð til ábúðar á Næfranesi en þá var bústofninn kominn niður í eina kú, fjórar ær, fimm sauði og tvö lömb.[230] Sá skepnufjöldi hélst nokkuð stöðugur næstu þrjú árin og hest eignaðist Guðmundur á ný árið 1849.[231] Vorið 1851 hvarf Guðmundur norðlenski frá Næfranesi og fluttist yfir Dýrafjörð. Í úttektabók Mýrahrepps má sjá að síðasta árið sem hann var á Næfranesi hefur hann verið þar í húsmennsku því jarðnæðinu sleppir hann vorið 1850 og fór úttektin fram 20. maí.[232] Úttektargerðin sýnir að Guðmundur hefur haft umráð yfir átta hundruðum á Næfranesi allt til vorsins 1850,[233] enda þótt hann sé aðeins talinn búa á tveimur hundruðum í búnaðarskýrslum frá árunum 1848-1850.

Niðurstaða úttektarinnar sem fram fór vorið 1850 varð sú að fráfarandi ábúanda bæri að greiða 3 ríkisdali í álag vegna jarðarhúsa sem gengið höfðu úr sér á þeim fjórum árum sem hann hafði haft jarðarskika þennan til umráða og einnig var honum gert að standa skil á 8 leiguám er fylgt höfðu jarðarpartinum.[234] Eitthvað vafðist fyrir hómópatanum að reiða fram þessa þrjá ríkisdali og var að lokum svo um samið að hann greiddi einn dal en Guðmundur Brynjólfsson, hreppstjóri á Mýrum, lofaði að greiða hina tvo fyrir næstu kauptíð.[235] Þegar skila átti leiguánum gat Guðmundur norðlenski aðeins afhent fjórar en hinar fjórar vantaði.[236] Málalyktir urðu þær að hann lofaði að afhenda eiganda jarðarinnar tvær ær í viðbót í næstu fardögum en greiðslu fyrir þær tvær kindur sem þá vantaði enn svo full skil væru gerð lofaði Guðmundur hreppstjóri á Mýrum að ábyrgjast.[237]

Í lífssögu sinni segir Guðmundur norðlenski ýmislegt frá árum sínum á Næfranesi og tengist sumt af því hjónaskilnaðinum.  Hann ritar þar á þessa leið:

 

Af skeytingarleysi konunnar og ótrúskap sonar hennar, þess sem hirða átti sauðfénað á Næfranesi á mínu fyrsta og öðru ári þar, missti ég 57 fjár af hor og óþrifum þá ég valla hafði náttleingis frið heima sökum grasserandi sótta og sjúkdóma, til að mynda mislingasótt…. flugtaksótt… og kvefsótt fyrir utan allar slasanir, jóðsóttir, eftirburðarsóttir, áfall, brjóst- og mæðris-krabba, mánaðarteppa, blóðfall, hvítarás og móðursýki og ótal fleira.[238]

 

Í þessum orðum er að líkindum ekkert ofsagt um hinar tíðu læknisvitjanir að Næfranesi á árunum kringum 1850 því dagbækur Guðmundar frá þeim árum bera með sér að hann hefur haft ærið að starfa við lækningar og sjúkravitjanir.[239]

Í lífssögunni rekur Guðmundur aðdraganda hjónaskilnaðarins og segir þá meðal annars:

 

Þegar bandamennirnir sem samsærislega höfðu fengið konu mína til að brúka allan óvilja og þverúð í móti mér og þar hjá ná frá mér því sem hún gæti af dagregistrum [dagbókum] mínum, einkum þeim sem þeir héldu innihalda ágrip af viðureign þeirra mér til handa og þar að auki voru þeir búnir að töfra svo þau stjúpbörn mín sem til vinnu voru fær orðin að þeir sama ár ætluðu að taka þau en skilja mig eftir með þrjú hin yngstu og eitt veikt! Þá kom sú gremja í mig að þó ég létist sem fyrr og síðar fela málefni mín á vald míns himneska föður tók ég þó hið verra mér til raunaléttis með köflum sem var (Br.viin) af hvers völdum ég hlaut einmitt nýja sorg og freistingar.[240]

 

Strax eftir skilnaðinn að borði og sæng vorið 1847 mun Vigdís, kona Guðmundar, hafa farið frá Næfranesi.  Hann fékk sér þá ráðskonu og greinir frá atburðum á þessa leið:

 

Af bágindum mínum gat ég ekki verið einn og ég varð því að fá …  en þó unga kvenmannspersónu sem stofnaði mér til þeirrar freistingar að girnast hana sökum hennar þýðlyndis og fríðleika – eins og Davíð hitti – þó þessi væri ekki gift! Og eftir rúmt eitt og hálft ár átti ég sveinbarn efnilegt með henni sem varð heitið Sigurður Amlin. Um þetta nafn bað franskur skipherra, vel dannaður og góður maður, sem ég hafði læknað sama sumar af hættum sjúkdómi, – blóðfalli að heila.[241]

 

Sú barnsmóðir Guðmundar norðlenska sem hann þarna segir frá hét Ingibjörg Jónsdóttir og var frá Veðrará í Önundarfirði.[242] Ingibjörg var um tvítugt er hún kom til Guðmundar að Næfranesi snemma á árinu 1848 en sonur þeirra, Sigurður Amlín, fæddist 18. september 1849.[243] Á árunum 1848-1853 og fram í janúar 1854 voru þau Guðmundur og Ingibjörg oftast í sambúð, fyrst á Næfranesi og síðar á Sveinseyri og Söndum, handan fjarðarins.[244] Sú sambúð var stundum stormasöm, einkum undir lokin, enda var stúlkan um það bil 30 árum yngri en gamli skottulæknirinn. Með Ingibjörgu eignaðist Guðmundur þrjú börn. Eitt þeirra dó fárra daga gamalt[245] en tvö komust upp, Sigurður Amlin, sem hér var áður nefndur, og Rósamunda Jóhanna[246] sem fæddist á Sveinseyri 8. desember 1851.[247] Ingibjörg, barnsmóðir Guðmundar og fylgikona hans um skeið, giftist síðar Jóni Guðmundssyni á Kirkjubóli í Valþjófsdal og bjuggu þau alllengi í Tungu þar í dalnum.[248] Hér er á öðrum stað sagt frá sambúð Guðmundar norðlenska og annarrar konu, sem Guðrún Bjarnadóttir hét, á árunum um og upp úr 1860 (sjá hér Sandar, Guðmundarskáli þar) en með henni eignaðist hann soninn Oddmund sem náði fullorðinsaldri svo alls urðu börn Guðmundar þrjú er upp komust. Fyrir áhugafólk um ættfræði er auðvelt að kynna sér hverjir niðjarnir eru en úr þeirra hópi skal hér aðeins nefnt nafn Guðmundar Sigurðssonar, hins kunna vélsmiðs á Þingeyri, sem fæddur var árið 1884,[249] en hann var sonarsonur Guðmundar norðlenska.

Áður en skilist verður við Guðmund norðlenska er vert að segja hér lítið eitt nánar frá lækningum hans og ferðinni sem hann fór til Hollands árið 1854. Svo virðist sem Guðmundur hafi í raun haft lækningar að aðalstarfi allt frá árinu 1835 er hann var fyrst settur blóðtökumaður með embættisbréfi frá héraðslækni (sjá hér bls. 9) og allt til ársins 1868 er kraftar hans tóku mjög að þverra. Brot sem varðveist hafa úr dagbókum Norðlendingsins og ýmis önnur gögn úr hans fórum gefa til kynna að þannig hafi þetta verið. Undantekning frá þessu mun þó vera árin sjö í Nesdal en hann lagði kapp á að sinna búi sínu og byggja upp. Þar var líka mun erfiðara að ná til hans fyrir flesta þá sem þurftu á lækni að halda í hinu stóra umdæmi heldur en síðar varð er blóðtökumaðurinn settist að á Næfranesi og seinna á Sveinseyri og svo á Söndum.

Úr fórum Guðmundar norðlenska hafa varðveist fjölmargir vitnisburðir um framgöngu hans við lækningu sjúkra og sýna þeir að margir hafa haft tröllatrú á kunnáttu hans og leikni við að lina þjáningar og bjarga mannslífum frá bráðum dauða. Úr hópi þeirra sem létu Guðmundi slík vottorð í té má nefna séra Odd Sveinsson á Rafnseyri, séra Jón Sigurðsson á Gerðhömrum (síðar á Söndum), Símon Sigurðsson, skútuskipstjóra á Dynjanda, Jón Gíslason á Söndum (áður á Lækjarósi), séra Arngrím Bjarnason á Álftamýri, Sigríði Markúsdóttur á Baulhúsum, Guðmund Guðbrandsson, hreppstjóra í Hólum, séra Jón Ásgeirsson á Álftamýri, Guðmund Ólafsson, hreppstjóra á Horni í Mosdal, Pál Símonarson á Dynjanda, Margréti Sigurðardóttur á Steinanesi (systur Jóns forseta) og Jón Bjarnason, hreppstjóra í Stapadal.[250]

Flestra þessara vottorða aflaði Guðmundur árið 1869 er heilsa hans var á þrotum og hann var farinn að leita eftir opinberum styrk sem viðurkenningu fyrir læknisstörfin. Fáein sýnishorn þessara skrifa þykir rétt að birta og verður þá fyrst fyrir valinu vitnisburður Margrétar Sigurðardóttur er hún skrifar eigin hendi heima á Steinanesi 29. júlí 1869.  Þar segir:

 

Sá góðfrægi menntamaður, herra Guðmundur Guðmundsson, sem hefur um langa tíð, með leyfi undanfarinna eða fyrrverandi læknara, hjálpað mörgum sjúkum, meira af sérlegu hugviti sínu í húsmeðala og jurta tilreiðslu heldur en með meðalabrúkun og hagað sér í því með ráðvendni, siðsemi og hreinlæti, bæði á mínu heimili og annars staðar sem mér er alkunnugt og ótal mörgum hefur hann hjálpað til góðrar heilsu sem ekki hefur fyrir manna sjónum verið lífs von.

Vildi ég því, ef mínar bænir megna nokkuð, óska og biðja að hann gæti fengið styrk frá stjórninni sér til hjálpar þar hann er nú í mestu þörf, bæði vegna fátæktar og heilsubrests, sér til lífsviðurværis. Þetta mitt frumvarp eða bón fel ég helst á hendur, að hann vildi gjöra svo vel og hjálpa honum, bróður mínum elskulegum, arkivsekretera, riddara og Alþingisforseta, herra Jóni Sigurðssyni á Kaupmannahöfn.

                                           Til staðfestu mitt nafn

                                           Margrét Sigurðardóttir.[251]

 

Löngu fyrr, nánar til tekið vorið 1847, hafði faðir Margrétar á Steinanesi og Jóns forseta, séra Sigurður Jónsson á Rafnseyri, reyndar lýst sig samþykkan mjög lofsamlegum vitnisburði er Símon Sigurðsson, hreppstjóri og skútuskipstjóri á Dynjanda, lét Guðmundi norðlenska í té.

Í þeirri yfirlýsingu Símonar er m.a. komist svo að orði:

 

… að hann [Guðmundur] með sínum nákvæmu tilraunum nú tvisvar sinnum hefur hjálpað konu minni, Þorbjörgu Bjarnadóttur, mikið vel og viðrétt hana með guðshjálp af sinum þunga og stranga sjúkdómi, af hverjum ei var sjáanlegt annað fyrir mannasjónum en hún mundi deyja. Ég get ei annað vitnað en maðurinn er vel greindur í læknisvísdómi, sérlega nákvæmur við sjúkar og veikar manneskjur og heppinn mörgum fremur í sínum þess háttar tilraunum, hvarum enn lifandi manneskjur vitna sem settur læknir var frá genginn. Hann hefur um undanfarna tíð hjálpað margri manneskju, linað og læknað ýmsa kvilla með meðulum eður blóðtöku … .[252]

 

Neðan á þetta vottorð hefur séra Sigurður Jónsson á Rafnseyri skrifað 29. apríl 1847:

 

Ofanskrifaðan vitnisburð um heppnis tilraunir í lækningum herra Guðmundar á Næfranesi mörgum fremur eða flestum sem hér við þær hafa fengizt vil ég samþykkja. 

 

 1. Jónsson.[253]

 

Af hinum mörgu vitnisburðum um lækningar Guðmundar norðlenska er einna merkilegastur sá sem Jón Bjarnason, hreppstjóri í Stapadal, gaf honum sumarið 1834 en Jón var þá stýrimaður á skútunni Margréti Maríu sem þeir áttu saman, hann og Símon á Dynjanda, eins og frá er sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Dynjandi). Vitnisburður Jóns Bjarnasonar er dagsettur 29. ágúst 1834 og segir þar meðal annars:

 

Þann 4. þessa mánaðar var ég sem stýrimaður á þilskipi okkar herra S. Sigurðssonar á Dynjanda. Þá veiktist kona mín elskuleg svo að herra Ögmundsen [þ.e. hinn lærði héraðslæknir á Flateyri – innskot K.Ó.] sem til hennar var sóttur tjáði hana ekki eftir eiga „utan mest 16-18 tíma”. Gömul yfirsetukona sem þjónkun veitti konu minni kom því til leiðar við læknirinn þá hann ætlaði af stað að nefndur Guðmundur væri sóttur sem læknirinn ánægjusamlega leyfði og áfýsti. Herra G. Guðmundsson var sóttur þá lækni var burtu fylgt og að sendimannsins og alls míns heimilisfólks vitni mjög hryggur og efablandinn af skammlífisspádóm læknis um konuna. … Nú kom til mín bréfið um sjúkdóm konu minnar elskulegrar og leystum við því upp af Önundarfirði og komum undir bæ minn hér á fjórða degi frá komu herra Guðmundar og mér sem skipherra og öllum utanhúss og innan til stærstu gleði finn ég konuna glaða og vel talandi, uppi sitjandi, verkjalausa en hjálparmann hennar sofandi sem lítinn svefn sem engan hafði fengið fyrri frá því heiman fór. Eftir þetta var hann hjá okkur í 3 daga og var þá konan komin á flakk, kennir nú einskis meins, lof sé guði að eilífu. Þetta mikla verk herra Guðmundar fyrir guðs innblástur og gáfur umbuni guð honum lífs og liðnum.[254]

 

Þetta vottorð Jóns Bjarnasonar í Stapadal um frábært læknisafrek Guðmundar norðlenska staðfesir líka gamli presturinn á Álftamýri, séra Markús Þórðarson, og sjálfur héraðslæknirinn, J. S. Ögmundsen á Flateyri.[255]

Í dagbókum Guðmundar norðlenska og öðrum ritum úr fórum hans sést að hann hefur verið sóttur til sjúklinga á svæði sem náði að minnsta kost frá Tálknafirði að Skötufirði við Djúp, að báðum þeim fjörðum meðtöldum. Síðla árs 1853 var Guðmundur mánaðartíma við lækningar í Tálknafirði og á árunum 1856-1859 vitjaði hann sjúklings í Kálfavík í Skötufirði.[256]

Frásagnir Guðmundar sjálfs af lækningum hans væru efni í heila ritgerð en út í þá sálma verður lítið farið hér. Örfá dæmu skulu þó nefnd. Þann 22. nóvember 1853 kom Guðmundur að Krossadal í Tálknafirði og virðist hafa dvalist þar í rösklega viku.  Hann ritar þá m.a. í dagbók sína:

 

23.11. Skoða konuna og er uppfylli hennar upp að öxlum og ofan í mið læri og saman á hryggnum, 3 álnir ¾ þuml. á breidd.  Allar æðar bláar og útþrútnar og allur líkaminn, sinar og bein.

24.11. Læt laga kviðstykki yfir þykktina o.fl. … Gaf konunni uppleysandi pulver sem verkar.

 • Gjöri konunni böð og uppsölu.[257]

 

Í lífssögu sinni segir Guðmundur að konan sem hér um ræðir hafi verið Ingibjörg húsfreyja í Krossadal og á 5 dögum hafi hann tappað af henni nær 14 lítrum af vatni.[258]

Fróðlegt er að sjá lýsingu Guðmundar á því er hann læknaði franska skipstjórann Amelin Delout árið 1849 en í höfuðið á honum nefndi hann son sinn, Sigurð Amlin. Í júlímánuði 1849 ritar Guðmundur meðal annars þetta í dagbók sína:

 

 • Séra Jón á Gerðhömrum kemur að sækja mig til eins fransks capetains að nafni Amelin Delout og með honum af stað að Gerðhömrum.[259]

 

Er þeir komu að Gerðhömrum sagði franski stýrimaðurinn að skipstjóri sinn væri dauður úr slagi en Guðmundur fór þó strax um borð og taldi sig greina blóðsókn að höfði og bólgu í hjartanu.[260]

Um kvöldið ritar Guðmundur áfram í dagbókina:

 

Bregð ég nú fyrir vit hins veika hoffmannsdropum, við hverja innsmogning hinn sjúki hrökkur við, hrærist og kemur fram úr rúmi – köie – sínu. Tók ég honum þá strax blóð og hálftíma eftir gaf ég honum inn 25 kamfórudropa. Ræð honum til þess næringarmáta er ég þá get látið útvega, nefnilega: Súpu af nýju kjöti, hvar í látist ein matskeið af muldu (raffineruðu) hvítasykri og ein teskeið mulið salt til hvers potts. Og nú eftir að hafa sagt þeim veika að hann á landi yrði að ganga undir frekari kúr, annars væri hann dauðans herfang og hann hafði beðið mig að koma til sín hið fyrsta og ég svarað honum (gegnum minn tolk) að ég skyldi koma þann áttunda, fór ég heim. [261]

 

Næsta dag 7. júlí skrifar Guðmundur:

 

Hvass. Kom heim [að Næfranesi] klukkan 6 f.m. Var á ferð um nóttina. Svaf til klukkan ½ 11. Fer að lesa mig betur inn að sjúkdóm þess veika og orsökum hans. Þykist það fljótt finna og bý mig til þessa vandasama verks og er búinn klukkan 9 e.m.[262]

 

Næsta dag, 8. júlí, fer hómópatinn aftur að vitja um sjúkling sinn og ritar í dagbókina að kvöldi:

 

Klukkan 3 e.m. byrja ég ferðina og þá ég er ferðbúinn kemur maður að sækja mig. Ég af stað og kl. ½ 6 e.m. er ég kominn að Gerðhömrum og kl. ½ 9 loksins er ég fluttur þaðan um borð til þess veika og er hann mikið þjáður. Hefur þó ráð og dauft mál og þannig, eftir tilsögn minni, er hann fluttur að Alviðru.[263]

 

Næstu daga er Guðmundur um kyrrt í Alviðru og reynir að lækna franska skipstjórann. Þann 12. júlí sjást fyrstu batamerkin. – Batnar fyrir guðs náð þeim sjúka vel og kl. 4 e.m. fer ég frá honum og kem heim kl. ½ 7, ritar Guðmundur í dagbók sína þann dag.[264]

Sex dögum síðar, 18. júlí, færir skottulæknirinn á Næfranesi þetta inn í dagbókina: Fæ boð frá þeim franska og fer að vitja hans.  Kem að Alviðru kl. 4½.  Hefur honum þá versnað af svefnleysi og annarra hávaða.

Guðmundur gistir í Alviðru og skrifar í bók sína að kvöldi næsta dags, 19. júlí:

 

Logn og sólskin.  Ég gjöri Amlin fótabað með mustarði og tek honum dálítið blóð, hérumbil 12 lóð, sem hefur (kalb. ??) svartan, brúnan bólgulit. Er honum til ánægju til kl. 5 og kl. 5½ fer ég heim. Heim kem ég kl. 8. Er þá þjónustustúlka mín ekki hýr en heldur orðfúl.[265]

 

Þann 29. júlí var franski skipstjórinn orðinn alheill að kalla. Þann dag skrifar Guðmundur í dagbók sína:

 

Að Núpskirkju, finn Capitanie Amelin og kveð hann nú, máske í síðasta sinn, heilbrigðan. Guð annist hann. Hann var öllum löndum mínum sem læknað hefi fremur hlýðinn og auðveldur og munu landar mínir heiður hafa af rómi hans um mín verk erlendis. Það gleður mig.[266]

 

Að lokum kemur hér eitt sýnishorn af dagbókarfærslum Guðmundar þar sem hann gerir grein fyrir læknisstörfum sínum í næsta nágrenni við heimili sitt á Næfranesi. Dæmi þetta er líka frá árinu 1849 en 25. apríl á því ári ritar hann inn í dagbókina:

 

Til sama bæjar [Lambadals] og sömu konu [Guðrúnar Bjarnadóttur frá Hólum] að láta hana hreinsast niður og set spanskfluguplástur á hennar hnakkagróf við hennar grimmu höfuðpín. Set þrjú blóðhorn á Maríu Sigurðardóttur á Ytri-Lambadal og fer heim en skipa téðri Guðrúnu til mín að koma á næsta degi ef lifi.[267]

 

Eins og áður var frá skýrt átti Guðmundur heima á Næfranesi frá 1846 til 1851. Fyrstu árin þar var hann með ábúð á 10 jarðarhundruðum en búskapurinn gekk illa því mest af tíma húsbóndans fór í lækningar og ferðalög. Síðustu árin á Næfranesi gat Guðmundur varla talist bóndi en átti þó fáeinar skepnur. Samkvæmt tíundarskýrslu frá vorinu 1850 átti hann eina kú, þrjár ær, þar af tvær geldar, fjóra sauði, einn gemling og einn hest.[268]

Vorið 1851 náði Guðmundur að festa kaup á stofuhúsi á Sveinseyri sem kostaði 80 ríkisdali.[269] Hann fluttist þá búferlum yfir Dýrafjörð 23. maí og settist að á Sveinseyri.[270] Þann 10. júní 1851 fór blóðtökumaðurinn yfir að Næfranesi að sækja kindur sínar sem voru 10, þar af 4 ær með lömbum, – og er allur búsmalinn, skrifar hann í dagbók sína þann dag.[271] Þann 12. júlí þetta sama sumar var skemma Guðmundar svo sótt á bát að Næfranesi og flutt að Sveinseyri.[272] Ingibjörg Jónsdóttir, fylgikona læknisins, fluttist með honum að Sveinseyri og þar fæddist þriðja barn þeirra, Rósamunda Jóhanna 8. desember 1851.[273]

Er hér var komið sögu voru hreppstjórarnir í Dýrafirði farnir að hafa talsverðar áhyggjur af þeirri byrði er áframhaldandi barneignir svo roskins manns með svo ungri fylgikonu kynnu að valda og var þeim gert að slíta sambúðinni.[274] Fardagaárið 1852-1853 var Ingibjörg í Holti í Önundarfirði hjá séra Lárusi M. Johnsen en Guðmundur fór þá að sækja um konungsleyfi til að kvænast henni og var þó að eigin sögn mjög hikandi í þeim efnum.[275] Vorið 1853 hófu þau Guðmundur og Ingibjörg sambúð á ný og þá á Söndum þar sem læknirinn hafði tekið að sér að annast skrifarastörf fyrir vin sinn, séra Jón Sigurðsson, sem þetta sama vor fluttist þangað frá Gerðhömrum.[276] Aldrei kom þó til þess að þau Guðmundur og Ingibjörg gengju í hjónaband og sambúð þeirra á Söndum varaði aðeins í nokkra mánuði. Frá skilnaði þeirra þar í janúarmánuði árið 1854 og þeim atburðum sem til hans leiddu er sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Sandar, Guðmundarskáli þar).

Hér hefur nú verið sagt frá ýmsu er varðar líf og starf Guðmundar norðlenska á þeim 16 árum sem hann var búsettur í Mýrahreppi, 1835-1851, og ferill hans rakinn allt til ársins 1854 en á fyrri hluta þess árs var hann a.m.k. með annan fótinn í Meira-Garði hjá vini sínum þar, Oddi Gíslasyni, bónda og skútuútgerðarmanni. Allt er þetta með nokkrum hætti tengt veru hans í Nesdal því einmitt hér átti hann sín bestu ár og hér hefði hann helst viljað búa til æviloka. Um búskap Guðmundar og lækningar er ekki ætlunin að fjalla nánar að sinni en geta verður þess að hinn margvísi skottulæknir var á árum sínum í Nesdal og á Næfranesi mjög áhugasamur um allt sem laut að sjálfstæðisbaráttu okkar Íslendinga. Vegna fátæktar hafði hann ekki kosningarétt til Alþingis en mætti engu að síður á báða fundina sem Jón Sigurðsson forseti hélt með kjósendum sínum á Ísafirði 1845 og 1847. Á hinn fyrri þessara tveggja funda kom hann úr Nesdal og á hinn síðari frá Næfranesi. Þarna var um langan veg að fara og má slá því föstu að fáir, ef nokkrir, múgamenn án kosningaréttar hafi komið lengra að á þessa fundi.

Bréf sitt til Jóns forseta, ritað 22. febrúar 1855, byrjar Guðmundur með þessum orðum: Auðmjúklega þakka ég yður fyrir elskuleg atlot og viðræður á þeim tveimur fundum sem ég naut þeirrar ánægju að umgangast yður á Ísafirði.[277]

Fundirnir tveir á Ísafirði, sem Guðmundur vísar þarna til, geta ekki verið neinir aðrir en kjósendafundirnir 1845 og 1847, sem hér voru áður nefndir, því Jón forseti efndi aldrei síðar til slíkra funda með kjósendum í kjördæmi sínu. Í bréfi sem Guðmundur ritaði Jóni forseta löngu síðar, það er 26. ágúst 1869, minnir hann enn á samfundi þeirra sumarið 1845 og segir:

 

… og á þeim fyrsta alþingisundirbúningsfundi og á leiðinni frá Holti og á þann fund á Ísafirði, – sáumst við, og þá þér prýdduð fundarhús það á Skutulsfjarðareyri sáuð þér þá forseti fundar þess, herra Eggert Briem, kippti mér til hægri handar sér og þá heyrðuð þér víst oft nefndan „Guðmund í Nesdal”.[278]

 

Á árunum 1843-1849 fór stjórnmálaáhugi mjög vaxandi víðast hvar á landinu, ekki síst á Vestfjörðum, og í byrjun árs 1849 var ákveðið að efna á komandi sumri til almenns þjóðmálafundar á hinum forna þingstað á Kollabúðum við botn Þorskafjarðar.[279] Sá fundur var haldinn í júnímánuði og varð hinn fyrsti af mörgum Kollabúðafundum sem um árabil máttu kallast helstu stjórnmálasamkomur Vestfirðinga. Ekki er nú vitað hvort Guðmundur norðlenski mætti á einhvern þessara funda en þegar boðað var til fyrsta Kollabúðafundarins vorið 1849 kom það í hans hlut að láta Dýrfirðinga vita um fyrirhugað fundarhald eins og sjá má í dagbók hans frá 22. apríl 1849 en þar stendur: Undirskrifa mig og stíla að miklu boðsbréf um fundsókn á þann gamla Vestfirðingaþingstað Kollabúðareyrum.[280]

Allt sýnir þetta að Guðmundur í Nesdal hefur verið mikill áhugamaður um þjóðmál og viljað leggja sitt af mörkum í frelsisbaráttu þjóðarinnar. Hins sama verður einnig vart í dagbók Guðmundar frá árinu 1850 en þá um vorið mætti hann enn á fund á Ísafirði þar sem kosnir voru tveir fulltrúar til að mæta á hinn fræga þjóðfund sem haldinn var í Reykjavík sumarið 1851. – Á fundinn og talaði djarft og var séra Lárus kosinn fulltrúi annar, ritar blóðtökumaðurinn í dagbók sína um kvöldið.[281]

Séra Lárus, sem hann nefnir þarna, er án vafa Lárus M. Johnsen, sem þá var prestur í Holti í Önundarfirði og góður vinur Guðmundar, því eins og alkunnugt er var hann annar tveggja fulltrúa Ísfirðinga á þjóðfundi. Hinn fulltrúinn sem kosinn var á sama Ísafjarðarfundi var Jón Sigurðsson forseti.

Gaman hefði verið að geta hlýtt á ræðu Guðmundar norðlenska á þessum kjörfundi á Ísafirði þegar hvað mestur hugur var í mönnum og hann talaði djarft eins og vænta mátti. Enginn kostur gefst þó á slíkri skemmtan. Aftur á móti mætti láta sér detta eitt og annað í hug um efnið í þessari lýðhvöt hómópatans á Næfranesi og líklega hefur hann haldið sínum norðlenska framburði þrátt fyrir langa dvöl á Vestfjörðum.

Sumarið 1853 átti Guðmundur norðlenski heima á prestssetrinu Söndum í Dýrafirði hjá sér Jóni Sigurðssyni og virðist þá hafa verið kominn með þá flugu í höfuðið að sigla til Hollands með duggurum sem stunduðu veiðar úti fyrir Vestfjörðum. Þann 3. ágúst 1853 skrifar hann í dagbókina: Fór í gær til hollenskra og fæ ekki farið með þeim, aftur í dag og prestur með og fer á sama veg.[282]

Í janúarmánuði árið 1854 skildi Guðmundur endanlega við sína ungu fylgikonu og barnsmóður, Ingibjörgu Jónsdóttur (sjá hér Sandar, Guðmundarskáli þar) og virðist þá eða skömmu síðar hafa einsett sér að leggja allt kapp á að komast til Hollands. Næstu mánuði dvelst hann á ýmsum bæjum í Dýrafirði, m.a. í Hvammi, hjá Jóni Sveinssyni, og í Meira-Garði, hjá Oddi Gíslasyni, og fyrir lok hundadaga sumarið 1854 tókst honum að tryggja sér flutning til Rotterdam.[283] Þann 22. ágúst steig hinn hálfsextugi og margreyndi blóðtökumaður á skipsfjöl og byrjaði ferð sína til þess blauta Hollands.[284] Brottför sinni frá Íslandi og aðdraganda hennar lýsir Guðmundur sjálfur svo í bréfi er hann ritaði Jóni Sigurðssyni forseta frá Rotterdam 22. febrúar 1855:

 

Ég mátti heita sem ráðvilltur og eirðarlaus heima. Ég fékk innblástur að sigla með hollenskum í þeim tilgangi að nema undirstöðu í þessa lands sproki þar sem höndlunarfrelsi Íslendinga við aðrar þjóðir var nú að opnast. Signor Oddur minn á Garði, ráðsettur og heiðvirður maður (og sem staðfastur tryggðavinur minn), ásamt Jón Sveinsson, hreppstjóri á Hvammi, og ýmsir fleiri áfýstu mig þessarar ferðar. Og þá ég var staddur á Garði, einmitt í þessu þanka- og ráðagrufli kom þar sá hollenski skipherra, að nafni Petur Don, sem Oddur minn bað að taka mig að sér, með hverjum ég og hingað kom [þ.e. til Rotterdam – innskot K.Ó.].[285]

 

Á öðrum stað lætur bréfritari þess getið að skipstjórinn Pétur Don sem flutti hann yfir hafið hafi verið frá bænum Vlaardingen[286] sem er í næsta nágrenni við Rotterdam.

Í þeirri lífssögu Guðmundar norðlenska sem varðveist hefur segir hann ekkert um veru sína í Hollandi en tekur fram að fyrir brottför sína frá Íslandi hafi hann sett þrjá menn til að annast öll sín mál hér heima, þá séra Lárus M. Johnsen í Holti, Odd Gíslason í Meira-Garði og Jón Sveinsson í Hvammi.[287] Í lífssögunni greinir Guðmundur líka frá því hversu mikið hann þurfti að leggja á borð með sér til að fá sig fluttan yfir hafið en það var ein kálflaus kýr og þrír sauðir.[288]

Veturinn 1854 til 1855 dvaldist söguhetja vor í borginni Rotterdam í Hollandi en kom aftur til Íslands vorið 1855, líklega í maímánuði.[289]

Engar dagbækur, er Guðmundur norðlenski kann að hafa ritað í Hollandi, hafa komið í leitirnar en bréfið sem hann sendi Jóni forseta frá Rotterdam og ýmis plögg úr fórum þessa djarfhuga langferðamanns gefa innsýn í viðfangsefni hans þar ytra og varpa ljósi á aðstæður. Í bréfinu til Jóns Sigurðssonar gerir Guðmundur nokkra grein fyrir athöfnum sínum í Rotterdam og tilgangi ferðarinnar en erindið sem Hollandsfarinn á við Jón er að biðja hann að útvega sér peninga að láni frá Eiríki Olsen, sem líklega hefur verið staddur í Kaupmannahöfn, en hann hafði verið verslunarstjóri í Neðstakaupstað á Ísafirði og var nú orðinn kaupmaður á Bíldudal.[290] Peningana eða ígildi þeirra kvaðst Guðmundur þurfa að nota til að greiða skuldir sínar í Rotterdam og kosta ferð sína til baka heim til Íslands en lánið bauðst hann til að greiða með smíðavinnu við hús kaupmannsins á Bíldudal er heim kæmi.[291] Að líkindum verður nú hvergi séð hvernig þeir Jón forseti og Eiríkur Olsen brugðust við þessari bón hins fyrrverandi bónda í Nesdal sem nú var að sökkva í skuldir úti í Hollandi. Svo mikið er þó víst að karlinn komst heim um vorið hvað svo sem orðið hefur um skuldirnar.

Í því skyni að varpa svolitlu ljósi á dvöl Guðmundar norðlenska í Hollandi og sýna hver helstu hugðarefni hans voru þar ytra verða nú birt fáein brot úr áðurnefndu bréfi hans til Jóns forseta. Guðmundur segir þar:

 

Fyrir utan að komast niður í ……  hefi ég lagt stund á að skoða og skilja sölumáta og peningaútreikning þeirra hér á móti okkar og sökum þess að fiskarar héðan hafa svo mikið áður ræmt af nýari húsabygging hér af blá- og grágrýtisklettum, sem færðir voru hingað erlendis frá og ég sjálfur sá, þá mér var það hér sýnt, – þá lagði ég mig eftir steinhöggvarakonstinni og rétt grét þá ég vissi ríkdóm Íslands af svoddan arðlausan, já til hindrunar í túnum, engjum og á vegum, liggja utan það lítið sem af þessum gullvæga sjóð (sem sumir hér nefna) brúkað hefur verið í Reykjavík og Laugarnesi og sér þar ekki högg á vatni og höfum við þó, Íslendingar, fengið hvatir til að færa oss slíka, – sem ég nú svo nefni, blessan guðs í nyt í Lærdómslistafélagsriti 15. bindi, blaðsíðu 215-226. … 

Mér gafst og til að gráta í fyrstu þá ég fékk aðgangsrétt að ganga inn til eins hins fremsta steinhöggvara hér, þá þeir undirþjónandi sögðu að það væru nógir skógar og timbur á Íslandi þar sem ekki væri höggvinn steinn til húsanna, – að við Íslendingar værum bræður Grænlendinga bæði í tungumáli voru og að hafa moldarholur til íbúðar og fleira.

Þetta allt hefur fallið af sjálfu sér. Svo hefi ég lagt mig eftir að sjá á járn- og trésmíði, einkanlega járnhjólamaskínur og held ég nú mætti koma á gang róðrarsnúningsmaskínum á stærri og smærri skipum á Íslandi, hvar um signor M. [Magnús – innskot K.Ó.] Einarsson á Hvilft hefur oft talað en meint að bestilla mundi þurfa hjólin en nú sé ég þess enga þörf og líka heyrir okkur þá ekki til framkvæmdarhugmynd slík ef við skyldum verða að fá erlendis frá helstu hlutina.[292]

 

Er Guðmundur hefur gert forseta grein fyrir hugmyndum sínum um blessun steinhúsa og róðrarvéla fyrir Íslendinga og líka greint frá heimsókn sinni til eins heimuglegs hugmyndasmiðs þar í Rotterdam, – þá víkur hann að fjárhagsástæðum sínum og segir:

 

… hef ég nú miklu til kostað, hvað ég mun síðar í ljós leiða ef lifi. Nú er ég kominn í skuldir því ég hafði ekki frá Íslandi utan 49 spesíur danskar og fáan klæðnað … en guð veit ég hef löngun til að auðga landa mína með því sem ég hér yfirgríp og þar sem ég á börn á Íslandi hef ég þá ærutilfinningu að ég vil heldur þjóna þar en hér. Af öllu þessu flýtur þá að ég mun verða hér skuldugur um 100 ríkisdali í miðjan marsmánuð.[293]

 

Í svolitlum viðauka, sem hinn stórhuga ferðamaður bætir aftan við Hollandsbréf sitt til Jóns forseta , segir hann meðal annars:

 

En þó ég ekki komi lifandi til landa minna bið ég yður áminna þá að þeir heldur með réttum lærdómi brúki steinana til húsa sinna og annars heldur en að menn og skepnur séu að detta um þá. Verkfæri þessara fyrirtækja má öll smíða á Íslandi en sjálfsagt kostar það járn og kol, – en hvað er það á móti öllum fordjörfunarkostnaðinum í fúa á viðum og upprótun þeirra bestu grasbletta, jafnvel túnanna, til veggja og þaka. Forlátið mér alla mína hér í þekkjanlegu og óþekkjanlegu feili og auðsýnið mér þá aðstoð sem í yðar valdi stendur; og ekki mun það ógleðja mína ógleymanlegu velgjörara og yðar foreldra þó þér nú styðjið mig og (máske) fleiri yður tengda. Ó! Forlátið ofdirfskurugl þetta sem hitt en hjálpið mér að ég hér í Hollandi, já stóru Rotterdam, ekki standi lengi á svelli freistinganna með kollótt prik mannlegrar hjálpar hér. – Lifið sælastur síðast.[294]

 

Bréfin sem Jón forseti fékk frá löndum sínum voru mörg og misjafnlega skemmtileg en ætla má að þessi orðsending frá Rotterdam hafi vakið hjá honum nokkra kátínu hvernig svo sem til hefur tekist með erindreksturinn við Eirík Olsen.

Frá kotbýlinu í Nesdal til heimsborgarinnar Rotterdam var og er langur vegur og ásýnd náttúru og mannlífs ærið ólík á þessum tveimur stöðum. Áræði Guðmundar norðlenska og leiftrandi hugmyndaflug hans nægði þó til að brúa bilið milli hins þrönga afdals vestan undir Barða og stórborgarinnar á flatneskjum Hollands sem um miðbik 19. aldar var ein helsta miðstöð verslunar og viðskipta í öllum heiminum. Sjálfur kunni þessi fyrrverandi ómagi Akrahrepps og húðstrýkti hákarlsþjófur álíka vel að fóta sig á þúfnakarganum í Nesdal og strætum Rotterdam. Á báðum stöðum gekk hann með upprétt höfuð.

Á lausum blöðum og í litlum kompum hefur varðveist eitt og annað smálegt sem Guðmundur skrifaði veturinn sem hann dvaldist í Hollandi. Þar má sjá að skipið sem hann sigldi með hefur komið að landi í Vlaardingen, smábæ sem liggur nær Norðursjávarströndinni en sjálf Rotterdam. Fyrir að sækja eigur sínar til þessa smábæjar og flytja þær til borgarinnar þurfti ferðalangurinn að greiða eitt gyllini.[295] Á sérstakan miða hefur Guðmundur skráð ýmis útgjöld sín og þar má sjá að hann hefur keypt sér föt fyrir 20 gyllini og líka skó og stígvél fyrir samtals 4 gyllini.[296] Skipstjóranum Pétri Don, sem flutti hann yfir hafið, borgar Guðmundur 10 gyllini,[297] sem líklega hefur verið greiðsla upp í skuld því hjá honum hafði þessi framandi gestur í Rotterdam fengið lánuð 12 gyllini og 10 danskar spesíur að eigin sögn.[298] Fyrir kennslu í sumum hlutum þurfti Guðmundur að greiða rösklega 4 gyllini en fyrir annað sem upp er talið á miðanum voru útgjöldin smærri.[299] Til kirkju og fátækra gaf hann rösklega tvö gyllini og meðal annarra útgjalda má nefna cigara og staup, pappír og blek, bækur, brennivín og cigar, almanak, tvær vagnkeyrslur, plástra og ýmsar aðgerðir á fatnaði. Meðal þess sem Guðmundur keypti í Rotterdam var líka það sem hann kallar eina danska og hollenska grammetik sem gjörð er fyrir hollensku lærlinge.[300] Úr fórum hans hefur varðveist brot úr hollensk/dönsku orðasafni, prentuðu,[301] og gætu það sem best verið leifarnar af þessari bók.

Á móti öllum þessum útgjöldum var sem vænta mátti lítið um tekjur. Þó virðist Guðmundur hafa verið með eitthvað af meðulum í fórum sínum og náð að selja húsmóður sinni kamfórudropa og fleira þesslegt.[302] Húsbóndann lét hann hafa eitt par af sokkum og annað af vettlingum[303] og mun hafa átt að vera greiðsla upp í skuld.

Svo virðist sem fyrrverandi bóndi í Nesdal hafi náð að læra dálítið í hollensku þennan vetur sem hann dvaldist í Rotterdam. Enn er varðveitt kompan sem hann skrifaði í sitt hollensk/íslenska orðasafn.[304] Líklegt er að fáir Íslendingar sem uppi voru samtíða Guðmundi eða fyrr hafi lært öllu meira í hollensku en hann nema ef vera skyldi Jón Hreggviðsson frá Rein á Akranesi sem nokkrum mannsöldrum fyrr hljóp yfir það blauta Holland.

Meðan Guðmundur dvaldist í Rotterdam varð hann alltaf að mæta öðru hvoru í ráðhúsi borgarinnar og gera grein fyrir hvaða erindum hann væri að sinna í Hollandi.[305] Í bréfi sem hann skrifar P. F. Hoffman borgarstjóra 2. janúar 1855 gerir hann grein fyrir tilgangi ferðar sinnar og segist fyrst og fremst vera kominn til að læra hollensku.[306] Bréfið til borgarstjórans er á hollensku og virðist ritað með hendi Guðmundar. Þar minnir hann á að Hollendingar hafi stundað veiðar við Íslandsstrendur allt frá árinu 1644 en á Íslandi sé ekki nokkur maður sem kunni hollensku.[307] Guðmundur segir í bréfinu að sér hafi því dottið í hug að fara að læra hollensku en fyrir hollenska fiskimenn sem kynnu að verða skipreika á Íslandi geti komið sér vel að hitta fyrir Íslending sem skilji mál þeirra.[308] Bréfritarinn minnir borgarstjórann líka á þá staðreynd að nú alveg nýlega hafi Íslendingum verið veitt heimild til að versla við allar þjóðir og með hliðsjón af mögulegum viðskiptum við Hollendinga sé aðkallandi að einn eða fleiri Íslendingar fái tækifæri til að nema hollenska tungu.[309]

Allt er þetta af skynsamlegu viti fram sett hjá langferðamanninum sem áður bjó í Nesdal og ætla má að bréfið hafi virkað vel á borgarstjórann sem fékk það í hendur.

Í bréfi sem Guðmundur skrifaði er hann var nýlega kominn aftur heim segir hann frá samskiptum sínum við þennan sama borgarherra, P. F. Hoffmann og kemst þá svo að orði:

 

Þá ég til Rotterdam kom og borgarherra og ráðgjafi konungs þar, herra P. F. Hoffmann, spurði mig um tilgang minnar komu þar, – þann 26. október síðast liðinn, glæddist og styrktist sami andi í brjósti mínu svo að ég að fengnum fresti svaraði þeim eðalsinnaða herra skriflega samkvæmt umgetnum þanka þann 2. janúar.  …

Fyrir utan bókmenntir sem bæði tilhlýddi að komast niður í á tungu þessari o.s.frv. keypti ég að mega ganga inn á handverksskóla þar sem hugmyndir og framkvæmdir voru í blómstrandi framförum. Horfðist svo á sem útsóun peninga minna, – sem litlir voru, til þess myndi að engu verða samkvæmt þanka mínum en fyrir guðs og nefnds borgarherra tilhlutan greiddist aðgangur minn í því efni svo að ég fékk um þrettánda frían aðgang til hverrar undirvísunar sem ég girntist, hvar fyrir guði og þeirri eðallyndu hollensku þjóð séu ódauðlegar þakkir.[310]

 

Á minnisblöð Guðmundar norðlenska frá Rotterdamvetrinum er ýmislegt ritað og er sumt á hollensku.[311] Einn miðinn, sem reyndar er skrifaður á móðurmáli eigandans, gefur til kynna klæðaburð Guðmundar í Nesdal er hann spókaði sig á strætum Rotterdam.  Á miðanum stendur:

 

Ég á hjá konunni hér einn nýjan svartan klút, eina bláa vaðmálstreyju, einar bláar vaðmálsbuxur, eitt selskinn, tvenna sokka, gamlan frakka, tvo sekki, einn kodda, yfirsæng, eitt líntau, eina ullarskyrtu og nærbuxur. Þrjú sparlök.[312]

 

Varla hefur sá sem enn átti allt það sem hér var talið upp verið á flæðiskeri staddur þó að skuldir og skortur á farareyri þrengdu kosti hans.

Eins og áður var getið komst Guðmundur norðlenski heim frá Rotterdam vorið 1855 og hefur að líkindum fengið far með einhverju hinna hollensku fiskiskipa er hingað sigldu. Ekki er þó vitað með neinni vissu hvernig heimferðinni var háttað. Sjálfur segist hann hafa stigið á land í Dýrafirði og farið beint að Meira-Garði þar sem Oddur Gíslason vinur hans bjó.[313] Daginn eftir heimkomuna var Guðmundur sóttur til rasandi konu sem átti að fara að slá utan um í Önundarfirði en hana læknaði hann í skyndi með því að þvo allan líkama hennar upp úr heitu sápuvatni, kamfórusalve og brennivíni og gefa henni síðan inn hálfan pela af rauðvíni og nokkra dropa af ópíum ásamt hæfilegri jurtafæðu.[314]

Er Guðmundur kom úr sinni Hollandsreisu hafði hann frá ærið mörgu nýstárlegu að segja er hann hafði sjálfur séð í Hollandi og munu sumar sögur hans hafa þótt lyginni líkastar. Í Rotterdam var margt að sjá sem erfitt gat verið að ímynda sér fyrir þá sem ósigldir voru og vanir fábreytni og kyrrstöðu. Vera má að Hollandsfarinn hafi stundum farið með ýkjur til að krydda frásagnir sínar en jafnvel þó svo hefði ekki verið hlutu margir að eiga erfitt með að trúa lýsingum hans. Sögur Guðmundar norðlenska frá Hollandi bárust mann frá manni og tóku ýmsum breytingum á langri leið. Sumar þeirra lifðu fram á daga núlifandi fólks og er fram liðu stundir fóru ýmsir sem skemmtu fólki með kostulegum lygasögum að leggja þær Guðmundi norðlenska í munn. Ágætt dæmi um það má finna hjá Guðmundi G. Hagalín rithöfundi sem segir föður sinn hafa haft eftir Guðmundi að eitt sinn er sá síðarnefndi bjó í Nesdal hafi hann náð í æðarkollu að haustlagi, alið hana með gemlingunum og rekið hana á fjall um vorið – og svo lógað henni næsta haust með sextíu punda falli og tveim fjórðungum af mör.[315]

Í skrifum Guðmundar norðlenska sem varðveist hafa verður þess reyndar hvergi vart að hann hafi verið lygnari en almennt gerist og verður þó að viðurkenna að skýringin sem hann gaf á upphaflegu erindi sínu til Vestfjarða sýnist með engu móti geta staðist (sjá hér bls. 13-15). Er karlinn kom heim frá Hollandi var hann hins vegar uppfullur af hugmyndum um breytingar og framfarir sem hér þyrftu að verða í verklegum efnum og vildi fá menn til að sameinast um stórt átak á því sviði. Þar var hann óðfús að leggja fram krafta sína í þágu lýðsins en skorti fé til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd. Líklegt er að ýmsum hafi þótt sumt sem Guðmundur sagði um verklag og tækniþekkingu Hollendinga næsta ótrúlegt og þarf þó ekki að hafa verið um neinar stórkostlegar ýkjur að ræða í frásögnum hans.

Þann 2. júlí 1855 var Guðmundur norðlenski staddur í Ytri-Hjarðardal í Önundarfirði hjá sýslumannsekkjunni Guðrúnu Þórðardóttur. Hann er þá nýlega kominn frá Hollandi og ritar þann dag bréf sem hann stílar til allra presta og hreppstjóra í vesturparti Ísafjarðarsýslu.[316] Í þessu bréfi gerir hann grein fyrir helstu hugmyndum sínum um verklegar nýjungar og hvetur til myndunar samtaka um að hrinda þeim í framkvæmd. Bygging húsa úr tilhöggnum steini og róðrarvélar í báta og skip eru þau nýmæli á þessu sviði sem hann setur efst á blað,[317] alveg eins og í bréfum er hann ritaði Jóni forseta nokkrum mánuðum fyrr (sjá hér bls. 39-41). Í nýnefndu bréfi til presta og hreppstjóra bætir hann hins vegar fleiru við og hvetur m.a. til þess að farið verði að verka fisk fyrir hollenskan markað og sigla með hann þangað á íslenskum skipum.[318] Í híbýlum manna vildi Guðmundur að komið yrði fyrir nýjum eldstóm og benti á að með því móti gæfist kostur á að draga úr notkun eldiviðar um allt að því helming.[319] Handslökkvitæki gegn eldsvoða hafði hann líka séð í Hollandi og hvatti til þess að sem flestir fengju sér þvílík tól. Er Guðmundur víkur að hugmynd sinni um róðrarvél í þessu bréfi til presta og hreppstjóra kveðst hann vilja koma á gang verkfærum til að létta undir það mæðusama sjóerfiði.[320] Á einu blaðinu sem varðveist hefur úr fórum Guðmundar norðlenska er að finna nokkrar grunnteikningar hans af róðrarvélinni ásamt ýtarlegum skýringum á tveimur blöðum.[321] Teikningar þessar segist Guðmundur hafa dregið upp úti í Rotterdam[322] og ekki fer milli mála að oft hefur hann brotið heilann um þetta tækniundur sem hann sá í hillingum og taldi sig geta gert að veruleika ef hann aðeins fengi í hendur dálítið af peningum.

Lítið er nú vitað um undirtektir vestfirsku prestanna og hreppstjóranna, sem sumarið 1855 fengu í hendur bréf Guðmundar með tilmælum hans um stuðning við hugmyndir sínar, en ætla má að hinum ákafa hugsjónamanni hafi þótt svörin vera í daufara lagi. Bréfið ber hins vegar með sér að ætlun hans hefur verið að fá hóp manna til að gangast undir skuldbindingu um fjárhagslegan stuðning við sig svo hann gæti losnað úr skuldum og helgað sig því viðfangsefni að ryðja braut fyrir verklegar nýjungar í þágu alþjóðar.[323]

Í þessu sama bréfi frá 2. júlí 1855 tekur hugmyndasmiðurinn fram að þrjár manneskjur hafi nú þegar boðist til að rétta sér hjálparhönd, þau Erlendur Þórarinsson, sýslumaður á Ísafirði, Pétur Guðmundsson, verslunarstjóri á Ísafirði, og maddama Guðrún Þórðardóttir, sýslumannsekkja í Ytri-Hjarðardal í Önundarfirði.[324]

Undir lok bréfsins til prestanna og hreppstjóranna orðar Guðmundur tilmæli sín um fjárhagslegan stuðning á þess leið:

 

Að síðustu hlýt ég þess geta að efnaleysi mitt og skuldir bægja mér frá að geta af sjálfsefli, eftir þvílíkan kostnað, komið nokkrum fyrirtækjum á fót án félagssamtaka. … En ef samtök ýmsra héraðsflokka eða bæjarmenn á Ísafirði vildu heiðarlega forsorga mig, myndi ég leitast við að smíða hugmyndir um hvernig og með hvaða hægustum kostnaði framannefnt og fleira framkvæmd öðlaðist – og myndi ég þá ekki síður finna skyldu mína í að heiðra og þjóna að heill og hagsæld slíkra félaga heldur en opinberlega láta heiður þjóðar minnar í ljósi erlendis.[325]

 

Er Guðmundur norðlenski kom úr siglingunni og festi þessi orð á blað hefur traust hans á eigið hugvit líklega ekki mátt meira vera. Vafalaust hafa margir litið á hann sem skýjaglóp og loftkastalasmið sem hætti til að virða blákaldar staðreyndir veruleikans að vettugi. Okkur sem nú lifum kynni líka að sýnast nokkur hæfa í því mati. Hinu má þó síst af öllu gleyma að Guðmundur norðlenski var að mörgu leyti á undan sinni samtíð og hugsaði hátt í stað þess að láta baslið smækka sig. Hús úr tilhöggnum steini eins og þau sem hann vildi láta reisa úr íslensku grjóti urðu að vísu aldrei mörg en þegar bóndinn í Nesdal hafði legið í um það bil aldarfjórðung í gröf sinni var farið að byggja hús úr steinsteypu vítt og breitt um landið. Það hefði glatt Guðmund norðlenska að sjá slíkar byggingar og vita landa sína hætta að hafa moldarholur til íbúðar. Róðrarvélin sem skottulæknir Dýrfirðinga taldi sig geta boðið upp á árið 1855 var aldrei sett í bát en um það bil hálfri öld síðar fóru Vestfirðingar að fá vélar í báta sína og losnuðu undan því mæðusama sjóerfiði sem stritið við árarnar var. Þann dag sem fyrsti vélbáturinn sást kljúfa öldurnar hefði Guðmundur norðlenski hoppað hæð sína í loft upp af einskærri gleði ef hann hefði þá enn verið ofar moldu og í fullu fjöri. Að lokum er vert að nefna að þegar hinn fyrrverandi bóndi í Nesdal bauð fram þjónustu sína árið 1855 og vildi gerast eins konar ráðunautur í atvinnumálum þá talaði hann víðast hvar fyrir daufum eyrum. Sú þekking sem hann náði að afla sér í Hollandi mun því hvergi hafa komið að notum. Nú þykir hins vegar sjálfsagt að bjóða upp á þjónustu menntaðra ráðunauta á hinum ýmsu sviðum atvinnulífsins og þörfin fyrir vökula hugmyndasmiði talin brýn. Þeir sem seint og um síðir kynnu að vilja snúa sér til Guðmundar norðlenska eiga þess hins vegar ekki lengur kost. Hann lifði þó í 30 ár eftir heimkomuna frá Hollandi og átti þá alltaf heima í Dýrafirði. Frá þessum síðustu æviárum hins sérstæða hómópata og hugsjónamanns er sagt annars staðar í þessu riti (sjá Sandar, Guðmundarskáli þar, og Skálará).

Er Guðmundur sigldi til Hollands árið 1854 hafði hann verið búsettur á Vestfjörðum í rösklega 20 ár. Á því skeiði átti hann lengst heima í Nesdal og einmitt hér, fjarri alfaraleið, virðist hann hafa unað sér best. Við sem nú gerum okkur glaðan dag hjá fornum tóttum í Nesdal sjáum enn móta fyrir handaverkum þessa snilldarmanns. Héðan fluttist hann nauðugur vorið 1846 og hér hefur aldrei verið búið síðan. Á árunum kringum 1870 reyndi Andrés Hákonarson, sem lengi bjó á Hóli í Önundarfirði, að fá leyfi til að hefja búskap í Nesdal[326]  en tilraunir hans í þá átt báru ekki árangur.[327]

Er Búi Jónsson bjó á Fjallaskaga á árunum 1871-1885 (sjá hér Fjallaskagi) mun hann hafa heyjað eitthvað í Nesdal, a.m.k. sum árin, en ekki er kunnugt um að þar hafi síðar verið borinn ljár í gras.[328]  Úr dalnum var heyið flutt á báti inn að Fjallaskaga.[329]

Á þeim nær 150 árum sem liðin eru (1993) frá því Guðmundur norðlenski fór úr Nesdal hefur a.m.k. tvisvar sinnum verið stundað héðan útræði að sumarlagi. Sumarið 1906 eða 1907 voru tveir menn frá Flateyri hér við róðra, þeir Greipur Oddsson og Magnús Ísleifsson.[330] Greipur var með lítinn vélbát og hafði einn háseta en Magnús reri á árabát og hafði unglingspilt fyrir háseta.[331] Fjölskylda Magnúsar var með honum í Nesdal þetta sumar.[332] Gunnvör Árnadóttir, eiginkona hans, var fanggæsla en fósturdóttir þeirra, Þuríður Jónsdóttir, sem var 17 ára, fór stundum með fóstra sínum á sjóinn.[333] Sonur Magnúsar og Gunnvarar, Gunnar M. Magnúss, sem gerðist löngu seinna rithöfundur, dvaldist líka hjá foreldrum sínum í Nesdal þetta sumar.[334]  Hann var þá sjö eða átta ára.

Í bók sinni Þrepin þrettán segir Gunnar dálítið frá þessari sumardvöl á sjávarbakkanum í Nesdal sem varð honum ungum merkileg reynsla.

Þeir Magnús og Greipur höfðu samvinnu um uppsátur, beituöflun og kaupstaðarferðir til Flateyrar en voru annars með aðskilinn rekstur.[335] Báðir reru eingöngu með handfæri og beittu kræklingi en hans var aflað mjög innarlega í Önundarfirði.[336] Fólkið hafðist við í gömlum tóttum frá tíð Guðmundar norðlenska og var byrjað á að hreinsa þær og refta yfir.[337] Líklegt má telja að veggir hafi einnig verið lagfærðir. Um miðin sem róið var á segir Gunnar:

 

Fiskimiðin eru aðallega tvö: Purkugil og Gilhorn. Þar staðnæmdist sunnangönguþorskurinn á sandblettum og þar var oft uppgripaafli í vægum straumum og liggjanda. Af bökkunum sáum við bátana á miðunum. Þeir voru ekki lengra undan en svo að vel mátti greina ef skipverjar veifuðu hatti.[338]

 

Suma daga sat drengurinn hátt uppi í hlíðinni í nánd við klettasyllur Barðans og eitt sinn bar svo við að hann sá mórauða kind stökkva niður á ofurlitla grastó þar sem hún lenti í sjálfheldu og svalt til bana.[339]

Kvöld eitt komu sjö graðungar framan úr dalnum niður á sjávarbakkann og létu ófriðlega.[340] Fólkið var þá að matast inni í verbúðinni en sumum leist víst ekki á blikuna þegar hin mannýgu naut tóku að reka horn sín í veikbyggða hurðina á kofanum.[341] Magnús greip þá bakhlaðning sem hann hafði með sér í verið, hlóð byssuna og setti hlaupið út um glufu við dyrnar.[342] Síðan reið skotið af með háum hvell og miklum púðurreyk.[343] Stærsti graðungurinn sem verst hafði látið virtist hafa fengið hvellinn í eyrað. Hann kiknaði við og hrökklaðist undan með hausinn lafandi.[344] Allt fólkið þustu nú út úr verbúðinni og með hávaða og köllum og spýtum að vopni rak það graðungana á undan sér langt fram á dal og varð síðan lítið við þá vart í nánd við verbúðina.[345]

Allur sumaraflinn var saltaður og sólþurrkaður í Nesdal og í septemberbyrjun sendi Ásgeirsverslun á Flateyri stóran flutningabát til að sækja fiskinn.[346] Varð flutningabáturinn að fara tvær ferðir því vel hafði aflast.[347]

Sumarið 1924 var róið frá Nesdal á tveimur litlum skektum frá því í maí og fram í september.[348] Formaður á annarri þeirra var Óskar Jónsson, sem alist hafði upp á Fjallaskaga, en á hinni var Sigurður Jóhannesson frá Þingeyri formaður.[349] Tveir menn voru á hvorri skektu og tveir við beitningu í landi svo alls voru sex menn í hópnum.[350] Allir höfðust þeir við í verbúð sem þeir byggðu sjálfir uppi á bökkunum fyrir ofan lendinguna.[351] Í bók sinni Á sævarslóðum og landleiðum segir Óskar Jónsson frá veru þeirra félaga í Nesdal þetta sumar og minnist á baráttu þeirra við hin mannýgu naut sem gengu þar á beit. Að sögn Óskars var lengi ekki farandi út úr búðinni án þess að hafa barefli í hendi en ráðið sem best dugði gegn nautunum var að varpa að þeim púðurkerlingum.[352]

Nú eru nautin líka horfin á braut og öskur þerra rjúfa ekki lengur kyrrð dalsins. Í fjörunni neðan við sjávarbakkana og spölkorn norðan við árósinn skoðum við lendinguna (sjá hér bls. 6) þar sem Skagfirðingur vor ýtti forðum bát úr vör. Þaðan er gott að fylgja flæðarmálinu í átt að Þúfu uns komið er að Bjartalæk sem streymir í fossi út úr sjávarbakkanum.[353] Þar snúum við til baka og tyllum okkur niður á réttarveggnum skamma stund.  Svo kveðjum við Guðmund norðlenska og fólkið allt sem hér bjó. Gott væri ef hugur þess fylgdi okkur á leið fyrsta spölinn á ferð þeirri sem við hefjum nú yfir á Ingjaldssand.

 

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 86.

[2] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 82.

[3] Óskar Einarsson 1951, 153.

[4] Jarðabók Á. og P. VII, 86-87.

[5] Lúðvík Kristjánsson 1982, 403.

[6] Jarðabók Á.og P. VII, 86-87.

[7] Sóknalýs. Vestfj. II, 83.

[8] Sama heimild.  Óskar Ein. 1951, 164.

[9] Óskar Ein. 1951, 164-165.

[10] Sama heimild, 181.

[11] Sama heimild, 164.

[12] Sama heimild 164-165.

[13] Sama heimild.

[14] Óskar Ein. 1951, 164-165.

[15] Sama heimild.

[16] Sama heimild.

[17] Sama heimild.

[18] Sama heimild, 164-165.

[19] Guðni Ágústsson. -Viðtal K.Ó við hann 2. ág. 1993.

[20] Theodór Gunnlaugsson 1960, 167.

[21] Sama heimild, 167-168.

[22] Guðmundur G. Hagalín 1953, 103-106.

[23] Sama heimild.

[24] Jóhannes Davíðsson 1968, 64 (Ársrit S.Í.).

[25] Sóknalýs. Vestfj. II, 82.

[26] Óskar Ein. 1951, 164-165.

[27] Sama heimild.

[28] D.I. III, 197, 324 og 330, D.I. IV, 141, 143 og 144.

[29] Sama heimild.

[30] D.I. XV, 572, 575 og 576.

[31] D.I. XV, 574.

[32] Jarðabók Á. og P. VII, 86-90.

[33] Jóhannes Davíðsson 1981, 121 (Ársrit S.Í.).

[34] Jarðabók Á. og P. VII, 86.

[35] Óskar Ein. 1951, 153.

[36] ÍB 8258vo Dagbók séra Sigurðar Tómassonar 31. mars 1841.

[37] Þorvaldur Thoroddsen / Ferðabók II, 123.  Óskar Ein. 1951, 153.  Jóhannes Davíðsson 1981, 121.

[38] Óskar Ein. 1951, 153.

[39] Jóhannes Davíðsson 1981, 114 (Ársrit S.Í.).

[40] Örn.skrá.

[41] Jóhannes Davíðsson 1981, 114.

[42] Sama heimild.

[43] Sama heimild.

[44] Sama heimild.

[45] Sama heimild.

[46] Sóknalýs. Vestfj. II, 82-83.

[47] Sama heimild.

[48] Jóhannes Davíðsson 1981, 113 (Ársrit S.Í.).

[49] Jarðabók Á. og P. VII, 86.

[50] Lbs. 23338vo bréf Andrésar Hákonarsonar 15.8.1870 til Stefáns Bjarnarsonar sýslum. (afrit).

[51] Sama heimild.

[52] Manntal 1703.

[53] Óskar Ein. 1951, 156.

[54] Lbs. 23338vo bréf Andrésar Hákonarsonar 15.8.1870 til St. B. sýslum. (afrit).

[55] Sama heimild.

[56] Ólafur Þ. Kristjánsson / Önfirðingar.

[57] Manntal 1801.

[58] Jóhannes Davíðsson 1981, 111 (Ársrit S.Í.).

[59] Manntal 1703.

[60] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, Ísafjarðarsýsla um 1735, eftirrit.

[61] Jarða- og bændatöl 1752-1767,  Ísafj.s. frá árinu 1753.

[62] VA III, 243 nr. 1847 I,  Lífssaga Guðmundar Guðmundssonar, 1. partur.

[63] Sama heimild.

[64] Sama heimild. Lbs. 23338vo, bréf Guðm. Guðm. 14.5.1853 til M. Gíslas., sýslum. á Ísaf.

VA III, 243 nr. 1847 I, vottorð séra O. Sveinss. á Rafnseyri 7.6.1858 um lækningar Guðm. Guðm.

[65] VA III, 243 nr. 1847 I,  Lífssaga Guðm. Guðm. 1. partur.

[66] Manntal 2.2.1835.

[67] VA III, 243 nr. 1847 I,  Lífssaga Guðm. Guðm. 1. partur.

[68] Sama heimild.

[69] Sighv. Gr. Borgfirðingur 1924-1927, 122-124 (Blanda III).

[70] Sama heimild.

[71] Sama heimild.

[72] Sama heimild.

[73] Sama heimild.

[74] Sama heimild.  VA III, 243 nr. 1847 I,  Lífssaga Guðm. Guðm. 1. partur.  Prestsþj.b. Dýrafj.þinga

[75] Manntal 1835.

[76] Sama heimild.

[77] Skj.s. sýslum. og sveitarstj. V-Ís. 3. Mýrahr., hreppsbók 1835-1848.

[78] VA III, 243 nr. 1847 I,  Lífssaga Guðm. Guðm., 1. partur.

[79] Sama heimild.

[80] Sama heimild.

[81] Sama heimild.

[82] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[83] VA III, 243 nr. 1847 I,  Lífssaga Guðm.Guðm., 1. partur.

[84] Sama heimild.

[85] Sighv. Gr. Borgf. 1924-1927, 120, (Blanda III). Stefán Jónsson 1985, 216,  (Ritsafn II). Prestsþj.b. Miklabæjarpr.kalls.

[86] Stefán Jónsson 1985, 216-217.

[87] VA III, 243 nr. 1847 I,  Lífssaga Guðm. Guðm., 1. partur.

[88] Stefán Jónsson 1985, 216-217.

[89] Sama heimild.

[90] Tölfræðihandbók 1984, 9.

[91] Stefán Jónsson 1985, 209-219.

[92] Sama heimild.

[93] Stefán Jónsson 1985, 209-219 (Ritsafn II).

[94] Stefán Jónsson 1985, 216-217.

[95] Sama heimild.

[96] Sama heimild.

[97] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Skag. V. 12,  Dóma- og þingbækur Skagafj.sýslu.

[98] Stefán Jónsson 1985, 209-219.

[99] Sama heimild.

[100] Sama heimild.

[101] Jón Espólín / E. Bjarnason 1977, 79, sbr. þar bls. 169.

[102] Stefán Jónsson 1985, 209-219.

[103] ÍB 114to  Ættartölubækur Jóns Espólín 3A 2128.

[104] E.10.4. bréf Guðm. Guðm. 26.8.1869 til Jóns Sigurðssonar forseta.

[105] Sama heimild.

[106] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Reynisþinga.

[107] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Reynisþinga.

[108] ÍB 94to  – 16 4to ,  Ættartölubækur Jóns Espólín.

[109] E.10.4. bréf Guðm. Guðm. 26.8.1869 til Jóns Sigurðssonar forseta.

[110] Sama heimild.

[111] Sama heimild.

[112] Sama heimild.

[113] VA III, 243 nr. 1847 I  Lífssaga Guðm. Guðm., 1. partur.

[114] Ísl. æviskrár III, 324.

[115] Sóknarm.töl Reykjavíkurpr.kalls.

[116] VA III, 243 nr. 1847 I  Lífssaga Guðm. Guðm., 1. partur.  Sbr. E.10.4. Bréf G.G. 26.8. 1869 til J. Sig. forseta.

[117] Stiftamtm.safn I, nr. 58, St / SA, bréfabók L.A. Kriegers 1832-1834.

[118] VA III, 243 nr. 1847 I  Lífssaga Guðm. Guðm., 1. partur.

[119] VA III, 141 nr. 2904 II  bréf Sveins Þorvaldssonar í Hvammi í Dýrafirði 30.1.1834 til vesturamtsins, afrit. Sbr. Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar 1802-1873, IV. bindi, dómur 4.8. 1834.

[120] Sama askja,  bréf Sveins Þorvaldssonar og Guðm. Guðm. til stiftamtm. ásamt meðfylgjandi skýrslu dagsettri 30.1.1834.

[121] Sama askja og 2904 III  bréf Sveins Þorvaldssonar 27.9 og 21.12.1832 til B. Thorst. amtm, skýrslur fylgja báðum bréfunum.

[122] VA III, 243 nr. 1847 I , Lífssaga Guðm. Guðm., 1. partur.

[123] Sama heimild. Sbr. Manntal 2.2. 1835.

[124] Sama heimild.

[125] Sighv. Gr. Borgf. 1924-1927, 120 (Blanda III). Sbr. Halldór Kristjánsson 1992, 67-95 (Ársrit S.Í.)

[126] Sama heimild, 120-166.

[127] Lbs. 23744to  Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 30.1.1883.

[128] Sighv. Gr. Borgf. 1924-1927, 120-121 (Blanda III).

[129] Manntal 2.2.1835.

[130] VA III, 243 nr. 1847 I  Lífssaga Guðm. Guðm., 1. partur.

[131] Sighv. Gr. Borgf. 1924-1927, 120-121.

[132] Manntal 1835.

[133] VA III, 243 nr. 1847 I  Lífssaga Guðm. Guðm., 1. partur.

[134] E.10.4. bréf Guðm Guðm. 26.8.1869 til Jóns Sigurðssonar forseta.

[135] VA III, 243  nr. 1847 I  Lífssaga Guðm. Guðm., 1. partur.

[136] VA III, 243 nr. 1847 I,  vitnisb. sr. Odds  Sveinss. um störf Guðm. norðl., dags. 7.6.1858.

[137] Sighv. Gr. Borgf. 1924-1927, 125 (Blanda III).

[138] Skjs. sýslum og sv.stj. V-Ís. 3. Mýrahr. hreppsb. 1835-1848.

[139] E.10.4.  bréf Guðm. Guðm. 25.8.1869 til Jóns Sigurðssonar forseta.

[140] Kirknasafn,  Kirkjustóll Sæbólskirkju 1829-1889.

[141] Lbs.  23684to  Prestaæfir S.Gr.B. XI. 1, 62.

[142] Ísl. Æviskrár III, 464.

[143] Sama heimild.

[144] Sama heimild.

[145] Skj.safn sýslum. og sv.stj. V-Ís. 3. Mýrahr. hreppsb. 1835-1848.

[146] Sighv. Gr. Borgf. 1924-1927, 124-127 (Blanda III).

[147] Séra Jón Ólafsson 1961, 122 (Ársrit. S.Í.).

[148] Lbs. 23338vo  bréf Guðm. Guðm. 3.2.1846 til ónefnds viðtakanda (afrit).

[149] VA III, 243 nr. 1847 I  Lífssaga Guðm. Guðm., 2. partur.

[150] Sama heimild.

[151] Sama heimild.

[152] Sama heimild.

[153] Kirknasafn XIII. 5. A.4. Kirkjustóll Sæbólskirkju 1829-1889.

[154] VA III, 410  búnaðarskýrsla 1844.

[155] Sighv. Gr. Borgf. 1924-1927, 127 (Blanda III).

[156] Óskar Ein. 1951, 164.  Jóhannes Davíðsson 1981, 113 (Ársrit S.Í.).

[157] VA III, 243 nr. 1847  I Lífssaga Guðm. Guðm., 2. partur.

[158] Sama heimild.

[159] Guðm. og Guðni Ágústssynir. – Viðtal K.Ó. við þá 1.7.1993.

[160] Sigurvin Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 28.6.1993.

[161] VA III, 243 nr. 1847 I  Lífssaga Guðm. Guðm., 2. partur.

[162] Sighv. Gr. Borgf. 1924-1927, 127 (Blanda III).

[163] VA III, 243 nr. 1847 I  Lífssaga Guðm. Guðm., 2. partur.

[164] Sama heimild.

[165] VA III, 243 nr. 1847 I  Lífssaga Guðm. Guðm., 2. partur.

[166] VA III, 243 nr. 1847 I  Lífssaga Guðm. Guðm., 2. partur.

[167] Sighv. Gr. Borgf. 1924-1927, 128 (Blanda III).

[168] VA III, 243 nr. 1847 I  Lífssaga Guðm. Guðm., 2. partur.

[169] Sama heimild.

[170] Skj.safn sýslum. og sv.stj. V-Ís. 3. Mýrahr., hreppsb., 1835-1848.

[171] Sama heimild.

[172] Sama heimild.

[173] Sama heimild.

[174] Sama heimild.

[175] Skj.safn sýslum. og sv.stj. V-Ís. 3. Mýrahr., hreppsb., 1835-1848. VA III, 408-411 búnaðarskýrslur.

[176] Sömu búnaðarskýrslur.

[177] VA III, 408-411 búnaðarskýrslur.

[178] VA III, 243 nr. 1847 I  Lífssaga Guðm. Guðm., 2. partur.

[179] Skj.safn sýslum. og sv.stj. V-Ís. 3. Mýrahr. hreppsb. 1835-1848.

[180] Sama heimild.

[181] Sama heimild.

[182] Manntal 1845.

[183] J.  Johnsen 1847, 194.

[184] Lbs. 23338vo  bréf Guðm. Guðm. 2. ág. 1845 til Eggerts Briem sýslum. (afrit).

[185] Sama heimild.

[186] VA III, 243 nr. 1847 I  bréf Friðriks Svendsen 11.11. 1839 til Bj. Þorsteinss. amtm. (afrit).

[187] VA III, 243 nr. 1847 I  Lífssaga Guðm. Guðm., 2. partur.  Sighv. Gr. Borgf. 1924-1927, 129 (Blanda).

[188] VA III, 243 nr. 1847 I  Lífssaga Guðm. Guðm., 2. partur.

[189] VA III, 243 nr. 1847 I  Lífssaga Guðm. Guðm., 2. partur. Sighv. Gr. Borgf. 1924-1927, 134-135.

[190] Sömu heimildir.

[191] VA III, 243 nr. 1847 I  Lífssaga Guðm. Guðm., 2. partur.  Sighv. Gr. Borgf. 1924-1927, 134-135.

[192] Lbs. 23338vo  bréf Guðm. Guðm. 2.8. 185 til E. Briem sýslum. (afrit).

[193] Sama heimild.

[194] Sama heimild.

[195] Sama heimild.

[196] Halldór Kristjánsson 1987, 94 (Ársrit S.Í.).

[197] Lbs. 23338vo   , Bréf Guðm. Guðm. 2.8. 1845 til Eggerts Briem sýslumanns, afrit.                                              

[198] VA III, 243 nr. 1847 I  Lífssaga Guðm. Guðm., 2. partur.

[199] Lbs. 23338vo   , Bréf eða yfirlýsing Guðm. Guðm. dagsett á Gerðhömrum 3.2. 1846.

[200] Lbs. 23334to  bréf eða yfirlýs. Guðm. Guðm. dags. 3.2.1846.

[201] Sama heimild.

[202] Lbs. 23334to  bréf eða yfirlýs. Guðm. Guðm. dags. 3.2.1846.

[203] Sama heimild.

[204] Sama heimild.

[205] Sama heimild.

[206] VA III, 243 nr. 1847 I  Lífssaga Guðm. Guðm., 2. partur.

[207] Sama heimild.

[208] Sama heimild.

[209] Sama heimild.

[210] Sama heimild.

[211] Sighv. Gr. Borgf. 1924-1927, 139 (Blanda III).

[212] Hsk. á Ísaf. nr. 206 , yfirlýsing um flutning á eigum Guðm. Guðm. Frá Nesdal, undirrituð af 12 mönnum.

[213] Sama heimild.

[214] Sama heimild.

[215] Sama heimild.

[216] Hsk. á Ísaf. nr. 206 , yfirlýsing um flutning á eigum Guðm. Guðm. Frá Nesdal.

[217] VA III, 243 nr. 1847 I  Lífssaga Guðm. Guðm ., 2. partur.

[218] Sama heimild.

[219] Sighv. Gr. Borgf. 1924-1927, 139-140  (Blanda III).

[220] Jóhannes Davíðsson 1981, 120-121 (Ársrit S.Í.).

[221] Lbs. 23338vo  bréf hjónanna Guðm. Guðm. og Vigdísar Guðm. dags. 1.5.1847 til Bjarna Þorsteinssonar amtmanns, afrit..

[222] Lbs. 23338vo  bréf B. Þorst. amtm. dags. 21.2.1848.

[223] Lbs. 23338vo  bréf hjónana Guðm. Guðm. og Vigdísar Guðm. dags. 1.5.1847 til amtmanns.

[224] Skj.s. sýslum. og sv.stj. V-Ís. 5. Mýrahr. úttektab. 1835-1868, úttekt Næfranesi 30.5. 1846.

[225] Skj.s. sýslum. og sv.stj. V-Ís. 5. Mýrahr. úttektab. 1835-1868, úttekt Næfranesi 30.5. 1846.

[226] Sama heimild.

[227] Sama heimild.

[228] VA III, 411-412  búnaðarskýrslur 1846-1851.

[229] Sama heimild.

[230] Sama heimild.

[231] VA III, 411 og 412  búnaðarskýrslur 1846-1851.

[232] Skj.s. sýslum. og sv. stj. V-Ís. 5. Mýrahr. úttektab. 1835-1868, úttekt Næfranesi 20.5. 1850.

[233] Sama heimild.

[234] Sama úttektargerð og viðauki við hana frá 30.6. 1850.

[235] Sama heimild.

[236] Skj.s. sýslum. og sv. stj. V-Ís. 5. Mýrahr. úttektab. 1835-1868, úttekt Næfranesi 20.5. 1850 og viðauki frá 30.6. sama ár.

[237] Sama heimild,  úttektargerð frá 20.5.1850 og viðauki við hana frá 30.6.1850.

[238] VA III, 243  nr. 1847 I  Lífssaga Guðm. Guðm., 3. partur.

[239] Lbs. 23328vo  dagb. Guðm. Guðm. 1848 nr. 1849.  VA III, 243 nr. 1847 II dagb. sama 1850-1851.

[240] VA III, 243 nr. 1847 I  Lífssaga Guðm. Guðm., 3. partur.

[241] VA III, 243 nr. 1847 I  Lífssaga Guðm. Guðm., 3. partur.

[242] Sighv. Gr. Borgf. 1924-1927, 144-145 (Blanda III).

[243] Sama heimild

[244] VA III nr. 243 nr. 1847 I  Lífssaga G.G. 3. partur.  Lbs. 23328vo  dagb. G.G. 1848,1849,1853,og 1854. VA III, 243-1847 II  dagb. sama 1850-1851.

[245] VA III, 243 nr. 1847 II  dagb. Guðm. Guðm. 31.8.-6.9.1850.

[246] Sighv. Gr. Borgf. 1924 nr. 1927, 144-145.

[247] Prestsþj.b. Sandapr.kalls.

[248] Sighv. Gr. Borgf. 1924-1927, 144-145.

[249] Manntal 1930.

[250] VA III, 243 nr. 1847 I,  ýmis vottorð um lækningar Guðm. Guðm.  E.10.4.  ýmis sams konar vottorð sem fylgja bréfi Guðm. Guðm. 25.8. 1869 til Jóns Sigurðssonar forseta..

[251] E.10.4.  yfirlýs. þessi fylgir bréfi Guðm. Guðm. 25.8.1869 til Jóns Sigurðssonar forseta.

[252] VA III, 243 nr. 1847 II,  vottorð Símonar Sig. á Dynjanda dags. 26.3.1847.

[253]  Sama heimild.

[254] VA III, 243 nr. 1847 II,  vottorð undirr. af J. Bjarnas. og Kristínu Bárðard konu hans.

[255] Sama heimild.

[256] Lbs. 23328vo  Dagb. Guðm. Guðm., nóv. og des. 1853. Lbs. 23338vo  Bréf Bárðar Jónssonar í Kálfavík 6.3.1856 og 3.4.1859 til Jóns Sveinssonar í Hvammi.

[257] Lbs. 23328vo  Dagb. Guðm. Guðm., 1853.

[258] VA III, 243 nr. 1847 I  Lífssaga Guðm. Guðm., 3. partur.

[259] Lbs. 23328vo  Dagbók Guðm. Guðm., júlí 1849.

[260] Lbs. 23328vo  Dagbók Guðm. Guðm., júlí 1849.

[261] Sama heimild.

[262] Sama heimild.

[263] Lbs. 23328vo  Dagb. Guðm. Guðm. júlí 1849.

[264] Lbs. 23328vo  Dagb. Guðm. Guðm. júlí 1849.

[265] Sama heimild.

[266] Sama heimild.

[267] Sama heimild.

[268] Skj.safn sýslum og sv. stj. V-Ís. 4. Mýrahr. hreppsbók 1849-1868.

[269] VA III, 243 nr.1847 I,  Lífssaga Guðm. Guðm., 3. partur.

[270] VA III, 243 nr. 1847 II,  Dagbók Guðm. Guðm. janúar – ágúst 1851.

[271] Sama heimild.

[272] VA III, 243 nr. 1847 I,  Dagbók Guðm. Guðm. 1851.

[273] Prestsþj.b. Sandapr.kalls,  sbr. VA III, 243 nr. 1847 I,  Lífssaga Guðm. Guðm., 3. partur.

[274] Prestsþj.b. Sandapr.kalls,  sbr. VA III, 243 nr. 1847 II, Dagb. Guðm. Guðm. 10.8.1851.

[275] VA III, 243 nr. 1847 I  Lífssaga Guðm. Guðm., 3. partur.

[276] Sama heimild.

[277] E.10.4.  Bréf Guðm. Guðm. 22.2.1855 til Jóns Sigurðssonar forseta.

[278] E.10.4.Bréf Guðm. Guðm. til Jóns Sigurðssonar forseta 26.8.1869.

[279] Lúðvík Kristjánsson 1960, 221-227.

[280] Lbs. 23328vo  Dagb. Guðm.Guðm. 22.4.1849.

[281] VA III, 243 nr. 1847 II  Dagb. Guðm. Guðm. 27. og 28.5. 1850.

[282] Lbs. 23328vo  Dagbók Guðm. Guðm. 3.8. 1853.

[283] VA III, 243 nr. 1847 I  Lífssaga Guðm. Guðm., 3. partur.

[284] Sama heimild.

[285] E.10.4. Bréf Guðm. Guðm. til Jóns Sigurðssonar forseta 22.2. 1855.

[286] VA III, 243 nr. 1847 I  Lífssaga Guðm. Guðm., 3. partur.

[287] VA III, 243 nr. 1847 I  Lífssaga Guðm. Guðm., 3. partur.

[288]Sama heimild.

[289] Sama heimild.  E.10.4. Bréf Guðm. Guðm. til Jóns Sigurðssonar forseta  22.2. 1855.

[290] E.10.4. Bréf Guðm. Guðm. til Jóns Sigurðssonar forseta  22.2. 1855.

[291] Sama heimild.

[292] E.10.4. Bréf Guðm. Guðm. til Jóns Sigurðssonar forseta 22.2. 1855.

[293] Sama heimild.

[294] E.10.4.  Bréf Guðm. Guðm. 22.2.1855 til Jóns Sigurðssonar forseta.

[295] Lbs. 23328vo  Blað í skrifkompu Guðm. Guðm., auðkennt með orðunum Það ég úti læt og ávinn.

[296] Sama heimild.

[297] Sama heimild.

[298] E.10.4.  Bréf Guðm. Guðm. til Jóns Sigurðssonar forseta 22.2. 1855.

[299] Lbs. 23328vo  Blað í skrifkompu Guðm. Guðm., auðkennt með orðunum Það ég úti læt og ávinn.

[300] Lbs. 23328vo  Blað í skrifkompu Guðm. Guðm., auðkennt með orðunum Það ég úti læt og ávinn.

[301] Lbs. 23328vo  Brot úr prentuðu hollensk / dönsku orðasafni.

[302] Lbs. 23328vo  Blað í skrifkompu Guðm. Guðm., auðkennt með orðunum Það ég úti læt og ávinn.

[303] Sama heimild.

[304] Lbs. 23328vo  Sama skrifkompa og hér var síðast nefnd.

[305] Lbs. 23338vo  Minnisblöð Guðm. Guðm. frá vetrinum 1854-1855.

[306] Lbs. 23338vo  Bréf Guðm. Guðm. 2.1. 1855 til P. F. Hoffmann borgarstjóra (afrit).

[307] Sama heimild.

[308] Sama heimild.

[309] Sama heimild.

[310] Lbs. 23338vo  Bréf Guðm. Guðm. 2.7. 1855 til presta og hreppstjóra í vesturparti Ísafj.s.

[311] Lbs. 23328vo og Lbs. 23338vo  Ýmis minnisblöð Guðm. Guðm. frá vetrinum 1854-1855.

[312] Lbs. 23338vo  Minnisblöð Guðm. Guðm.

[313] VA III, 243 nr. 1847 II  Lífssaga Guðm. Guðm., 4. partur.

[314] Sama heimild.

[315] Guðm. G. Hagalín 1973, 60.

[316] Lbs. 23338vo , Bréf Guðm. Guðm.2.7. 1855 til presta og hreppstjóra í vesturparti Ísafj.sýslu.

[317] Sama heimild.

[318] Lbs. 23338vo  Bréf Guðm. Guðm. 2.7. 1855 til presta og hreppstjóra í vesturparti Ísafj.sýslu.

[319] Sama heimild.

[320] Lbs. 23338vo  Bréf Guðm. Guðm. til presta og hreppstjóra 2.7. 1855.

[321] Lbs. 23338vo  Blað m. nokkrum teikn. Guðm. Guðm. og skýringartexta hans á tveimur blöðum.

[322] Sama heimild.

[323] Lbs. 23338vo  Bréf Guðm. Guðm. 2.7. 1855 til presta og hreppstjóra í vesturparti Ísafj.sýslu.

[324] Sama heimild.

[325] Lbs. 23338vo , Bréf Guðm. Guðm.2.7. 1855 til presta og hreppstjóra í vesturparti Ísafj.sýslu.

[326] Lbs. 23338vo  Bréf Andr. Hákonarsonar til St. B. sýslumanns 15.8.1870 (afrit) og bréf Bergs  Thorberg amtmanns  til sama 22.3.1870 (afrit).

[327] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga 1870-1900.

[328] Jóhannes Davíðsson 1981, 120  (Ársrit S.Í.).

[329] Jóhannes Davíðsson 1981, 120.

[330] Gunnar M. Magnúss 1978, 104-110, sbr. þar bls. 10-11 og   manntal 1901, Ásbjarnarhús á Flateyri.

[331] Gunnar M. Magnúss 1978 bls. 104-105.

[332] Sama heimild.

[333] Gunnar M. Magnúss 1978, 104-105.

[334] Sama heimild.

[335] Sama heimild.

[336] Sama heimild.

[337] Sama heimild, 104.

[338] Sama heimild, 105.

[339] Sama heimild, 105-106.

[340] Sama heimild, 108-109.

[341] Gunnar M. Magnúss 1978, 108-109.

[342] Sama heimild 108-109.

[343] Sama heimild.

[344] Gunnar M. Magnúss 1978, 108-109.

[345] Sama heimild.

[346] Gunnar M. Magnúss 1978, 108-109.

[347] Sama heimild, 108-109.

[348] Óskar Jónsson 1956, 47-49.

[349] Sama heimild.

[350] Sama heimild.

[351] Sama heimild.

[352] Sama heimild.

[353] Óskar Ein. 1951, 165.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »