Norðureyri

Jörðin Norðureyri í Súgandafirði var 6 hundruð að dýrleika samkvæmt fornu mati.[1] Hún liggur á norðurströnd fjarðarins, beint á móti Suðureyri. Næsta jörð fyrir innan Norðureyri er Selárdalur og skiptir lækurinn Mígandi löndum milli þeirra eins og hér var áður nefnt. Ytri landamerki Norðureyrar eru við Norðureyrargil, sem er rétt fyrir utan túnið á Norðureyri,[2] en þar tekur við land Galtar sem er næsta jörð og sú ysta á norðurströnd Súgandafjarðar.

Á göngu okkar um Súgandafjörð komum við í land Norðureyrar frá Selárdal og könnum því fyrst hlíðina innan við bæinn. Öll hlíðin frá Míganda og út að Norðureyri heitir Norðureyrarhlíð og fjallsbrúnin ofan við hana Norðureyrarbrún.[3] Klettarnir ofan við fjöruna, innst í landi Norðureyrar, heita Mígandisbjörg en fram af þeim fellur fossinn Mígandi niður í fjöruna. Björgin eru beggja vegna við hann og því í landi beggja jarðanna, Selárdals og Norðureyrar. Hátt uppi í hlíðinni rennur Mígandi í þröngu klettagljúfri en rétt fyrir utan það og aðeins ofar er lítill hóll sem heitir Mígandisbristi.[4] Nokkru utar og ofar er hár hóll, sléttur að ofan. Hann heitir Mígandishóll en brekkan niður frá honum og inn að lækjargilinu er nefnd Mígandiskinn.[5]

Skammt fyrir ofan Mígandisbjörg og utan við lækinn er allstór lægð sem heitir Bjargalág.[6] Hún var talin vera álagablettur og sagt að búast mætti við óþurrkum ef þar væri borinn ljár í gras.[7] Nesin tvö utan við Mígandisbjörg heita Bolanes innra og ytra.[8] Magnús Hjaltason getur þess í dagbók sinni 4. ágúst 1915 að þann dag hafi hann og fleiri erfiðismenn frá Suðureyri farið inn í Bolanes að sækja möl.[9] Hana hefur líklega átt að nota í steinsteypu en fyrstu steinhúsin á Suðureyri voru byggð á árunum upp úr 1910.

Rétt fyrir utan Bolanesin er Bollhamarsvík en fjöruklettarnir ofan við hana heita Bollhamarsbjörg.[10] Utan við víkina gengur lítill klettur fram í fjöruna og er nefndur Bollhamar og slægjublettur uppi á bökkunum ber sama nafn.[11] Næsti hryggur fyrir utan þennan blett heitir Innra-Leiti og utan við það komum við í Seljapart sem liggur milli Innra-Leitis og Ytra-Leitis.[12] Nafnið á partinum bendir til þess að hér hafi búsmali fólksins á Norðureyri verið hafður í seli á fyrri tíð. Kristján G. Þorvaldsson segir að á Innra-Leiti séu gamlar tóttir[13] og kynnu það að vera seltóttir en þær fundust ekki við lauslega leit sumarið 1995. Grasteigur í hlíðinni ofan við Seljapart heitir Leitisteigur.[14]

Beint niður af Ytra-Leiti er Langoddi,[15] lítil flöt eyri sem gengur oddmjó fram í fjörðinn. Innan til í oddanum er Langoddasandur.[16] Á góunni árið 1890 fór Sigurður Sigurðsson, er þá var vinnumaður í Selárdal, stundum gangandi út á Langodda og hóaði þar á tímanum er hann átti von á að bátar frá Suðureyri væru að fara í róður.[17] Með þessu móti komst hann á sjó án þess að vera ráðinn í skiprúm.[18] Valdimar Þorvaldsson var þá drengur á tólfta ári í Selárdal og segir hann að hver sá formaður hafi þóst hólpinn sem náði að kippa Sigurði með á sjóinn því vinnumaður þessi hafi verið mikill fiskimaður.[19] Með þessu móti aflaði Sigurður heimilinu í Selárdal fiskjar í soðið[20] og líklega hefur hann verið lagður í land hér á Langoddanum þegar komið var úr róðri.

Á grynningunum innan og framan við Langodda eru margir stórir steinar og var einn þeirra nefndur Jesper á fyrri tíð.[21]

Klettabeltin í Norðureyrarhlíð heita Gjarðir og ná þær nær alla leið frá Míganda út að Norðureyri.[22] Beltin eru þrjú, Neðsta-Gjörð, Mið-Gjörð og Efsta-Gjörð.[23] Upp af Bollhamri, sem fyrr var nefndur, er á Efstu-Gjörð hnúkur sem heitir Háihnúkur en upp af Langodda og Ytra-Leiti eru Guludý, á milli Neðstu-Gjarðar og Mið-Gjarðar.[24] Ofan við Guludý er svolítill slakki í fjallið, alveg uppi undir brún, og heitir hann Seljahvilft.[25] Upp af henni er Seljahvilftaröxl, klettur undir brúninni.[26]

Guludý, sem hér var á minnst, blasa við augum í hlíðinni ofan við Langodda. Á fyrstu áratugum 20. aldar töldu ýmsir að blett þennan mætti alls ekki slá því á honum hvíldi bannhelgi.[27] Guðni J. Þorleifsson, síðar bóndi í Botni, var þá ungur vinnumaður á Norðureyri. Eitt sumarið var hann látinn slá Guludý og veiktist þá mjög alvarlega um haustið.[28] Um þetta ritar Kristján G. Þorvaldsson svo:

 

Eitt sinn er Guðni var vinnumaður hjá stjúpa sínum á Norðureyri var hann látinn slá Guludý. Hann var einn við sláttinn. Þótti honum slægjan ekki góð og vildi helst vera laus við að slá þarna. Hann lagði sig því og sofnaði brátt. Dreymdi hann að til hans kæmi kona er sagði honum að hætta að slá þarna, hefði hann þegar gert nóg illt þó ekki væri við bætt.

Þegar Guðni vaknaði fór hann heim og neitaði að slá þarna meira og var ekki slegið meir þar það sumar. Um haustið veiktist Guðni og var um tíma mjög þungt haldinn. Hann lá á næsta bæ, komst á fætur eftir langan tíma en mun aldrei hafa náð sömu heilsu og áður.[29]

 

Slægjuparturinn rétt fyrir utan Ytra-Leiti og Langodda heitir Leitispartur en hjallinn hér uppi í hlíðinni heitir Nautahjalli.[30] Hann er allhár og nær frá Leitisteig, sem er fyrir ofan Seljapart, og út alla hlíðina uns komið er á móts við Sandinn fyrir innan Norðureyri. Upp af Leitisparti og fyrir ofan nýnefndan Nautahjalla er í hlíðinni grasteigur er menn nefndu Breiðateig.[31]

Engjaplássið næst fyrir utan Leitispart heitir Stekkjarpartur.[32] Eins og vænta mátti eru þar rústir af grjóthlöðnum stekk sem verið hefur tvískiptur og með lambakró. Örfáum metrum fyrir innan stekkinn eru aðrar og að því er virðist miklu eldri tóttir. Stærð þeirra er slík að ætla má að hér hafi í fyrndinni staðið bær. Þessar tóttir eru í rauninni tvær en þó samstæðar og ekkert bil á milli. Sú innri er tvískipt langhús og grunnflöturinn um það bil 13 x 3 metrar en ytri tóttin, sem líka er tvískipt, mun vera um það bil 5 x 8 metrar. Allur grunnflötur þessara bygginga hefur því verið 80 fermetrar eða því sem næst. Þessar fornu tóttir eru aðeins spölkorn fyrir ofan brún sjávarbakkanna og rétt innan við þær er lítill lækur. Handan fjarðarins blasir við hús Orkubús Vestfjarða sem er hér nær beint á móti en þó aðeins innar.

Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 er tóttanna í Stekkjarparti getið og greint frá á þessa leið:

 

Munnmæli eru að bærinn hafi í fyrndinni staðið þar sem nú er stekkur frá Norðureyri og sjást þar byggingaleifar af tóttarústum en ekki sést þar til girðinga og segja sömu munnmæli að bærinn hafi þaðan fluttur verið undan skriðum og snjóflóðum og fyrir því má hér ei byggð setja.[33]

 

Mjög líklegt má telja að hin fornu munnmæli eigi við rök að styðjast því tóttirnar í Stekkjarparti eru svo stórar að útihús koma þar vart til greina. Hér hefur því að öllum líkindum staðið bær um lengri eða skemmri tíma á hinum fyrri öldum.

Hvarvetna í landareign Norðureyrar er veruleg hætta á snjóflóðum[34] og hafa þau oft valdið miklum skaða (sjá hér bls. 5 og 12-28). Má því telja nær fullvíst að húsin sem forðum stóðu hér í Stekkjarhvammi hafi sópast burt í einu slíku flóði. Vera má að bærinn hafi ekki verið færður niður á sjálfa eyrina, sem er um það bil hálfum kílómetra utar, fyrr en þær hamfarir voru um garð gengnar en hitt gæti líka verið að um eitthvert skeið hafi bæirnir verið tveir, annar hér og hinn þar. Allt er það nú hulið í blámóðu aldanna en hinar fornu tóttir vekja áleitnar spurningar sem því miður er ekki unnt að svara.

Grasteigar utan við Stekkjarpart heita Klifrimar en klettar þar fyrir neðan, ofan við fjöruna, heita að sögn Klifrimi.[35] Vegur lá eftir bökkunum, fyrir ofan klettana og niður af teigunum.[36] Var hann oft illur yfirferðar og létu menn sér detta í hug að sú væri skýringin á þessum nöfnum.[37] Utan við Klifrima er Hvammur[38] og þar fyrir neðan falleg sandfjara við sjóinn, alveg rétt fyrir innan Norðureyri. Heitir þar Sandur.[39] Eyrin er slétt og grasigróin. Nærri lætur að hún sé 300 metrar á lengd og um það bil 200 metrar á breidd. Svo langt aftur sem um er kunnugt hefur bærinn jafnan staðið framantil á eyrinni[40] og þar hangir enn uppi (1996) steinsteypt íbúðarhús síðasta bóndans á þessari fornu bújörð sem nú er komin í eyði. Húsið mun hafa verið byggt skömmu eftir 1920[41] en snjóflóðakljúfurinn sem áfastur er við efri gafl þess er að sögn aðeins eldri, reistur 1920.[42] Frá því merkilega mannvirki er sagt hér á öðrum stað (sjá bls. 26-27).

Við göngum nú í hlað á Norðureyri, leggjumst í grasið og hverfum á vit horfinnar tíðar.

Í Jarðabókinni frá 1710 er kostum og ókostum bújarðarinnar á Norðureyri lýst með þessum orðum:

 

Útigangur á landi lítill og svipull en í fjörunni í besta lagi. Torfrista og stunga lök og lítt nýtandi. Eldiviður er til keyptur frá Selárdalsskógi eður annars staðar. Selveiði hefur verið lítil, meinast vera, brúkast ei. Reki hefur ei heppnast í manna minni.

Túninu grandar sandfok. Engjarnar spillast stórlega af skriðum og grjóthruni. Hætt er kvikfé stórlega fyrir snjóflóðum og sjávarflæðum. Vatnsból er lítið og hættulegt til að sækja fyrir snjóflóðum á vetur. Kirkjuvegur torsóttur yfir Súgandafjörð en ekki mjög langur. Hreppamannaflutningur torsóttur. Hætt er bænum mjög svo fyrir snjóflóðum og hefur hann tekið tvisvar í manna minni en þó menn lífs af komist í hvort tveggja sinn. Oftar hefur á bæinn hlaupið sem gjört hefur ei alllítinn skaða, bæði á húsum og heyjum, kvikfénaði og skipum.

Heimræði er hér ár um kring og lending góð og ganga skip ábúandans svo mörg sem hann fær við komið. Nú gengur hér ekkert sökum efnaleysis og fólksfæðu.[43]

 

Í þessari lýsingu frá árinu 1710 segir að í manna minnum hafi snjóflóð tvívegis tekið af bæinn á Norðureyri og á þeim 283 árum sem síðan eru liðin (1993) hafa orðið hér miklir og margvíslegir skaðar af völdum snjóflóða eins og brátt verður gerð nánari grein fyrir (sjá hér bls. 12-28). Í bókinni Skriðuföll og snjóflóð segir höfundurinn, Ólafur Jónsson, að líklega hafi enginn bær á Íslandi eins oft eyðst af snjóflóðum eins og Norðureyri[44] og mun það vera nærri sanni.

Norðureyri var að fornu mati talin 6 hundraða jörð (sjá hér bls. 1) en við hið nýja jarðamat, sem lögfest var árið 1861, var dýrleiki jarðarinnar færður niður í 3,7 hundruð.[45] Við þá matsgerð voru Norðureyri og Laugar þær tvær jarðir í Súgandafirði sem lægst voru metnar.[46] Í Súgandafirði fór matið fram árið 1849 þó að niðurstöður þess væru ekki lögfestir fyrr en tólf árum síðar. Í matsgerðinni frá 31. júlí 1849 segir svo um Norðureyri: Kot þetta er að sönnu ekki ónotasælt en voðaverk er þar að byggja því þrisvar hefur í manna minnum orðið manntjón þar af skriðum á bæ.[47] Þarna er talað um manntjón af skriðum og mun vera átt við snjóskriður.

Í lýsingu Staðarsóknar í Súgandafirði frá árinu 1839 er þess getið að tún og hagar á Norðureyri og Gelti liggi einkar vel við sól og á þessum jörðum sé því allfljótt til jarðar á vorum.[48] Af þeim sökum mun kotið á Norðureyri hafa talist notasælla en ella hefði verið.

Valdimar Þorvaldsson frá Selárdal, sem fæddur var árið 1878, gerir mikið úr landkostum á Norðureyri er hann lýsir jörðinni og kemst þá svo að orði:

 

Þar er túnið slétt og útislægjurnar að mestu sléttar, inn og upp frá eyrinni. Beit er þar góð, sumar og vetur, og fjörubeitin er þar óvenju hagstæð alla leið kringum eyrina. … Þar var lending ágæt og útræði og fram um aldamót var spraka veidd að sumrinu í kringum eyrina og út eftir Boðanum og selur var þar nær en víðast annars staðar.[49]

 

Í Fasteignabók frá árinu 1932 er hrognkelsaveiði líka talin til hlunninda á Norðureyri.[50]

Árið 1916 var talið að á Norðureyri mætti fleyta fram 40 sauðkindum, einni kú, einum vetrung og einu hrossi.[51] Í matsgerð frá því ári er túnið sagt vera snögglent og harðlent, útengi snögglent, þurrlent og ógreiðfært en beitiland gott og nokkur fjörubeit.[52] Í þessari sömu matsgerð er líka tekið fram að snjóþungt sé á Norðureyri og snjóflóðahætta.[53] Árið 1916 var árlegur heyfengur af Norðureyrartúninu talinn vera 25 hestar en af engjum fengust að jafnaði 70 hestar af útheyi.[54] Við fasteignamatið sem unnið var að árið 1916 var Norðureyri aðeins virt á 800,- krónur, án húsa.[55] Hún var þá talin rýrasta kotið í Súgandafirði en jarðirnar Gilsbrekka og Keflavík voru þá virtar á 900,- krónur hvor.[56]

Í Jarðabókinni frá 1710 er tekið fram að heimræði sé frá Norðureyri árið um kring og lending góð (sjá hér bls. 4-5). Var það mikill kostur á lítilli jörð sem þess utan hafði upp á fátt að bjóða. Reyndar voru það ekki aðeins bátar heimamanna sem sóttu sjó frá Norðureyri á fyrri tíð því héðan reru stundum einn eða tveir aðkomubátar á vorin og flestir munu þeir hafa verið þrír á síðari hluta 19. aldar.[57] Ólafur Olavius, sem ferðaðist um Vestfirði árið 1775, segir Norðureyri vera verstöð[58] og í jarðabók frá árinu 1805 er þess getið að bóndinn á Norðureyri hafi 2 ríkisdalil á ári í tekjur af vertollum.[59] Til samanburðar má nefna að bændur á Suðureyri, hér handan fjarðarins, fengu þá greidda 8 ríkisdali á ári í vertolla af inntökuskipum.[60] Í þessari jarðabók er ekki getið um tekjur af slíkum tollum hjá ábúendum annarra jarða í Súgandafirði.[61] Á fyrstu árum 19. aldar var talið að þeir sem sóttu sjó frá Norðureyri mættu gera ráð fyrir tveimur vættum af steinbít í aflahlut, einni og hálfri vætt af þorski og löngu, einni vætt af riklingi (lúðu) og tæplega einum sjötta hluta úr vætt af ýsu.[62] Allt mun þetta vera miðað við hertan fisk en 40 kíló voru í hverri vætt. Slíkur aflahlutur var árið 1805 virtur á rétt tæplega 100 álnir[63] eða sem svaraði fimm ærgildum. Við róðra frá lendingunum í Staðardal mátti í byrjun nítjándu aldar vænta álíka hlutar og hjá þeim sem reru frá Norðureyri og eins voru horfurnar hjá þeim sem sóttu sjó frá Suðureyri eða Gelti.[64]

Á fyrri hluta 19. aldar munu einstaka menn úr hreppunum við innanvert Ísafjarðardjúp hafa róið héðan frá Norðureyri á vorin.[65] Valdimar Þorvaldsson staðhæfir að Gísli Bjarnason, bóndi á Ármúla í Nauteyrarhreppi, sem fæddur var um 1815, hafi róið frá Norðureyri um nokkurt skeið.[66] Valdimar fullyrðir líka að Ásgeir Ásgeirsson, síðar skipherra og stofnandi Ásgeirsverslunar á Ísafirði, hafi 12 eða 13 ára gamall verið við róðra með Djúpmönnum á Norðureyri og þá sem hálfdrættingur.[67] Ásgeir ætti þá að hafa verið hér við róðra um 1830 því hann var fæddur 1817.[68] Hvort Valdimar, sem sjálfur var fæddur árið 1878, fer þarna rétt með er ekki gott að segja. Einhver hefur sagt honum þetta en hversu traustur heimildarmaður það var vitum við ekki. Ásgeir var frá Rauðamýri í Nauteyrarhreppi[69] og að sögn Valdimars Þorvaldssonar reri bóndinn á Ármúla í sama hreppi frá Norðureyri á árunum kringum 1830.[70] Lætur Valdimar að því liggja að Ásgeir hafi verið í skiprúmi hjá honum.[71] Báðir foreldrar Ásgeirs skipherra, þau Ásgeir Ásgeirsson, bóndi á Rauðamýri, og kona hans, María Pálsdóttir, áttu reyndar ættir að rekja til Súgandafjarðar því Guðrún Þorsteinsdóttir, móðir Ásgeirs bónda og amma Ásgeirs skipherra, var prestsdóttir frá Stað (sjá hér Staður) og María Pálsdóttir á Rauðamýri var sonardóttir hjónanna Halldórs Pálssonar og Margrétar Sigfúsdóttur á Seljalandi í Skutulsfirði en þau voru bæði frá Kvíanesi í Súgandafirði (sjá hér Kvíanes). Óvíst er þó með öllu hvort þessi dálítið fjarlægu ættartengsl fólksins á Rauðamýri við Súgfirðinga kynnu að hafa stuðlað að ferð Ásgeirs unga Ásgeirssonar í verið á Norðureyri um 1830 en hugsanlegt er það.

Á liðnum öldum var stundum tvíbýli á Norðureyri. Svo var til dæmis á árunum 1790-1794 og líka nær alltaf á árunum frá því um 1810 til 1836.[72] Á síðari hluta 19. aldar sat oftast einn bóndi á jörðinni en þó var hér tvíbýli frá 1886 til 1898 og stundum voru hér húshjón svo að heimilin töldust vera tvö þó að ábúandinn væri einn.[73]

Bústofn þeirra sem bjuggu á Norðureyri var eins og víðast annars staðar nokkuð breytilegur ef marka má opinberar heimildir. Elstu heimildina um fjölda búfjár er að finna í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 en þá voru hér 3 kýr, 1 veturgamalt naut, 15 ær, 12 sauðir, tvævetra og eldri, 9 veturgamlir sauðir, 15 lömb og 1 hestur.[74]

Á Töflu 1 sem hér fylgir er sýnt hver var fjöldi búfjár á Norðureyri árin 1710 og 1791 og á árunum 1820 til 1900. Lömb, kálfar og folöld eru ekki talin með. Allt er þetta byggt á opinberum skýrslum sem gera má ráð fyrir að séu ef til vill ekki mjög nákvæmar hvað varðar fjölda sauðfjár.

 

Tafla 1[75]

 

Fjöldi búfjár á Norðureyri

 

 

Í Jarðabókinni frá 1710 er tekið fram að sökum efnaleysis og fólksfæðar gangi enginn bátur til veiða frá Norðureyri[76] en ekkjan sem þá bjó hér kynni þó að hafa átt gamlan bát. Árið 1791 var hér tvíbýli og þá stóð útgerðin með blóma því bændurnir áttu þá tvo báta hvor.[77] Það ár voru því fjórir bátar á Norðureyri. Tveir þeirra voru sexæringar eða fjögra manna för en hinir tveir voru minni.[78] Á árunum 1820-1900 voru umsvif fólksins á Norðureyri í útgerð og sjósókn hins vegar langtum minni en á því skeiði átti það að öllum jafnaði aðeins einn lítinn bát, tveggja eða þriggja manna far.[79] Árið 1830 voru þó tveir slíkir bátar í eigu þess og árið 1880 átti bóndinn á Norðureyri hálfan stærri bát, sexæring eða fjögra manna far, á móti bóndanum á Gelti.[80] Enginn annar bátur var þá til á Norðureyri ef marka má búnaðarskýrslur.[81]

Árið 1658 var landskuldin, sem bændur á Norðureyri þurftu að greiða eigendum jarðarinnar, 60 álnir á ári,[82] það er hálft kýrverð. Árið 1695 var upphæð landskuldarinnar óbreytt og svo var enn 1710.[83] Leiguliðanum sem bjó þá á Norðureyri var gert að greiða landskuldina í fiski sem hann átti að leggja inn hjá einokunarversluninni á Ísafirði.[84] Á átjándu öld lækkaði landskuldin lítið eitt. Árið 1753 var hún 55 álnir og tæplega hundrað árum síðar var hún komin niður í 50 álnir.[85] Árið 1916 taldist landskuldin af Norðureyri vera 20,- krónur[86] en sú fjárhæð svaraði þá aðeins til 15 álna eða því sem næst í landaurareikningi því kýrverðið var 162,- krónur.[87] Er hér var komið sögu var jarðarafgjaldið því aðeins einn fjórði hluti þess sem verið hafði á síðari hluta sautjándu aldar og fyrstu árum hinnar átjándu.

Innstæðukúgildin sem fylgdu Norðureyri voru aldrei mörg, enda bar jörðin ekki stóran bústofn. Árið 1658 var hér ekkert leigufé en undir lok sautjándu aldar fylgdi jörðinni eitt og hálft kúgildi[88] svo þá hafa leiguærnar verið 9 því sex ær voru í hverju kúgildi. Árið 1710 var hér aðeins eitt innstæðukúgildi og í Jarðabókinni frá því ári sést að leigurnar af því voru greiddar í smjöri eins og venja var,  heim til landsdrottins sem þá var sóknarpresturinn á Stað í Súgandafirði.[89] Seinna fækkaði leiguánum á Norðureyri því árið 1753 voru þær ekki nema þrjár, hálft kúgildi, og sú tala var enn óbreytt um miðbik nítjándu aldar.[90] Seinna fjölgaði leiguánum á ný og árið 1916 voru þær sex.[91]

Norðureyrar er fyrst getið í bréfi frá árinu 1471 en síðla sumars á því ári fékk  Halldór Hákonarson á Kirkjubóli í Valþjófsdal eignarumráð yfir nokkrum jarðeignum í Súgandafirði sem hjónin Sveinn Þorgilsson og Steinunn Jónsdóttir höfðu átt.[92] Ein þessara jarðeigna var Norðureyri og fékk Halldór á Kirkjubóli hana hálfa til fullrar eignar, þá eða skömmu fyrr, en yfir hinni hálflendunni, sem taldist vera eign barna Sveins og Steinunnar, fékk sami Halldór fullt og löglegt eignarumboð til þriggja ára[93] (sbr. hér Suðureyri).

Það sem hér var ritað sýnir að hjónin Sveinn Þorgilsson og Steinunn Jónsdóttir eru fyrstu eigendur Norðureyrar sem hægt er að nefna með nafni en næstur í þeirri röð kemur Halldór Hákonarson. Frá Halldóri, sem var stórefnaður lögréttumaður, er sagt hér á öðrum stað (sjá hér Kirkjuból í Valþjófsdal). Hvergi mun nú vera unnt að sjá hversu lengi Norðureyri var í eigu Halldórs og erfingja hans og allt er þoku hulið um eigendur jarðarinnar á sextándu öld og fyrri hluta sautjándu aldar.

Í jarðaskrá frá árinu 1658 er eigandi Norðureyrar sagður heita Lénarður[94] og má telja fullvíst að þar sé átt við Lénharð enska sem hér er sagt frá á öðrum stað en hann var bóndi á Kvíanesi frá því um 1630 og fram yfir 1670 (sjá hér Kvíanes). Líklegt er að Lénharður hafi eignast Norðureyri er hann kvæntist Ólöfu Sigfúsdóttur en fyrri eiginmaður hennar, Sveinn Andrésson á Kvíanesi, hafði átt þessa jörð eða að minnsta kost part úr henni[95] (sbr. hér Kvíanes).

Lénharður enski mun hafa andast um 1675 (sjá hér Kvíanes) og við andlát hans eða máske nokkru fyrr urðu stjúpsynir hans, Jón og Sigfús Sveinssynir, eigendur að Norðureyri.[96] Jón bjó á Suðureyri (sjá hér Suðureyri) en Sigfús á Kvíanesi (sjá hér Kvíanes).

Jón Sveinsson eignaðist 4 hundruð í Norðureyri en synir hans, Jón og Ólafur, seldu þau með samþykki föður síns 23. september 1679.[97] Kaupandinn var Sæmundur Magnússon, lögréttumaður á Hóli í Bolungavík.[98] Sæmundur seldi þessi sömu hundruð 25. apríl 1680 séra Jóni Torfasyni á Stað í Súgandafirði[99] og átti hann þau enn árið 1710.[100]

Sigfús Sveinsson á Kvíanesi virðist aldrei hafa eignast nema einn þriðja part úr Norðureyri, það er tvö hundruð. Þessi tvö hundruð átti hann sannanlega árið 1695[101] og mun hafa haldið þeim til dauðadags. Árið 1710 var Sigfús látinn en tengdasynir hans, þeir Jón Þorgilsson í Botni og Nikulás Bárðarson á Suðureyri, áður í , áttu þá sitt hundraðið hvor í Norðureyri[102] (sbr. hér Kvíanes). Jón Þorgilsson tekur reyndar fram í bréfi dagsettu 5. maí 1704 að það sé kona sín, Sigríður Sigfúsdóttir, sem eigi þetta eina hundrað í Norðureyri og það hafi hún erft eftir föður sinn, Sigfús Sveinsson, en hann fengið það í arf frá sínum föður, Sveini Andréssyni á Kvíanesi.[103] Landskuld af þessu eina hundraði var árið 1704 fimmtán fiskar.[104]

Í manntalinu frá 1762 er Bjarni Brynjólfsson sagður eiga Norðureyri[105] og mun þar vera um að ræða Bjarna Brynjólfsson, þáverandi óðalsbónda á Suðureyri, sem hér er sagt frá á öðrum stað (sjá Suðureyri). Bjarni var sonarsonur nýnefnds Jóns Þorgilssonar í Botni er átt hafði eitt hundrað í Norðureyri árið 1710 (sjá hér Suðureyri). Nokkrar líkur benda því til þess að einhver partur úr jörðinni hafi haldist býsna lengi í eigu niðja Sigfúsar Sveinssonar á Kvíanesi, sem fyrr var nefndur, en hann var stjúpsonur Lénharðar enska sem átti Norðureyri árið 1658 og langafi Bjarna Brynjólfssonar á Suðureyri. Bjarni andaðist árið 1784[106] og má vera að hann hafi átt Norðureyri allt til dauðadags.

Árið 1805 var jörðin Norðureyri komin í sjálfsábúð en þá bjó hér ekkjan Kristín Bergsdóttir[107] og er hún fyrsti sjálfseignarbóndinn sem hér hefur setið svo vitað sé með fullri vissu. Frá Kristínu segir hér nánar síðar (sjá bls. 32-41) en hún hóf búskap á Norðureyri árið 1790 ásamt seinni eiginmanni sínum, Þorkeli Jónssyni, sem drukknaði árið 1800.[108] Vera má að þau hafi keypt jörðina áður en Þorkell andaðist. Kristín Bergsdóttir stóð fyrir búi á Norðureyri allt til vorsins 1825 en þá fluttist hún með sonardóttur sinni og eiginmanni hennar að Ytri-Vatnadal.[109] Sterkar líkur benda til þess að Kristín hafi talist eigandi að Norðureyri allt til dauðadags en hún andaðist á tíræðisaldri haustið 1846 (sjá hér Ytri-Vatnadalur). Tvímælalaust er að á síðari hluta nítjándu aldar og á þeirri tuttugustu var jörðin yfirleitt í eigu niðja gömlu Kristínar Bergsdóttur. Þorleifur Þorkelsson, sonur hennar, sem bjó á Suðureyri, átti að minnsta kosti hálfa Norðureyri um 1860, ásamt börnum sínum.[110] Á árunum 1861 og 1864 keypti Lárentíus Hallgrímsson 3 hundruð í Norðureyri, það er hálfa jörðina, af nýnefndum Þorleifi og Örnólfi, syni hans.[111] Lárentíus var kvæntur Sigurborgu Bergsdóttur, sonardóttur Kristínar Bergsdóttur,[112] svo að jörðin hélst í ættinni. Sigurborg Bergsdóttir varð áöldruð og andaðist 97 ára gömul á Gelti árið 1905 (sjá hér Ytri-Vatnadalur og Göltur). Hún var þar síðustu árin hjá sonardóttur þeirra Lárentíusar, Guðrúnu Ólafsdóttur, og eiginmanni hennar, Guðmundi bónda Ásgrímssyni,[113] en þau hjónin áttu þá Norðureyri.[114]

Guðmundur Ásgrímsson á Gelti átti Norðureyri allt til ársins 1911 en þá seldi hann hana Kristjáni Sigurðssyni[115] sem eins og eiginkona Guðmundar var eitt af barnabörnum Sigurborgar Bergsdóttur og Lárentíusar Hallgrímssonar.[116] Kristín Bergsdóttir sem átti Norðureyri og bjó hér frá 1790 til 1825 var því langalangamma Kristjáns á Norðureyri og Guðrúnar Ólafsdóttur á Gelti.

Þegar Kristján Sigurðsson keypti Norðureyri hafði hann búið hér sem leiguliði í fimm ár. Búskap sinn hér hóf hann árið 1906 og bjó á jörðinni allt til ársins 1949[117] (sbr. hér Firðir og fólk 1900-1999, 454-455). Frá 1911 var hann jafnan sjálfseignarbóndi. Verðið sem Kristján galt fyrir Norðureyri árið 1911 var 1.400,- krónur. Sú upphæð er staðfest í fasteignamatsskjölum[118] en Magnús Hjaltason segir kaupverðið hafa verið 1.500,- krónur[119] og telur þá líklega með eitthvert fylgifé. Þetta verð þótti hátt en að sögn Magnúsar hafði Niels Wollan, norskur lifrarkaupmaður er þá var búsettur á Suðureyri, boðið þessa upphæð fyrir jörðina.[120] Árið 1911 var kýrverðið 116,80 kr.[121] svo nærri lætur að Norðureyri hafi verið seld fyrir 12 kýrverð.

Hér var áður minnst á hin tíðu snjóflóð á Norðureyri og verður nú gerð nokkru nánari grein fyrir þeim. Ólafur Jónsson, ráðunautur á Akureyri, setti um miðbik tuttugustu aldar saman mikið rit í tveimur bindum er hann nefndi Skriðuföll og snjóflóð. Þar er að finna margvíslegar upplýsingar, hvarvetna að af landinu, um skaða af völdum snjóflóða og skriðufalla á liðnum öldum og allt fram undir 1950. Í þessu riti kemst Ólafur svo að orði á einum stað að líklega hafi enginn bær á Íslandi eins oft eyðst af snjóflóðum og Norðureyri[122] og eru það orð manns sem tvímælalaust var mestur sérfræðingur á þessu sviði um sína daga.

Kristján G. Þorvaldsson frá Selárdal var vel kunnugur á Norðureyri og lýsir hann aðstæðum þar svo í ritgerð frá árinu 1949:

 

Norðureyri er mesta hættujörð hreppsins og er enginn blettur í landi hennar sem ekki falla á snjóskriður. Hafa þær oftsinnis valdið stórtjóni, bæði á mönnum og fénaði. Hlíðin upp af eyrinni er klettalítil upp á fjallsbrún en í hana dregur feiknamikinn snjó, sérstaklega í austlægri átt. Koma þar oft mjög stór hlaup og hefur snjórinn úr þeim stundum komið upp á land vestan við fjörðinn [á Suðureyri] og oft hafa þar orðið skemmdir af flóðöldu frá hlaupunum.

Tíðast falla hlaupin niður gilið utan við eyrina. Granda þau þá ekki bænum en oft hafa bændur misst fé sem var þar í fjörunni. Það þykir öryggi að gilið hlaupi sem tíðast. Þegar þar hleypur fer jafnframt snjór innar úr brúninni og þegar stutt er á milli hlaupa er það ekki meira en svo að það stöðvast ofanvert á eyrinni.

Í drögunum sem halla út að gilinu er klettur, nokkuð fyrir neðan brúnina, sem kallast Lægri-Óþoli. Talið var að bænum væri óhætt meðan hann fór ekki í kaf af snjó en þegar hann var horfinn var talin hætta á ferðum. Það jók mjög á hættuna að allt vatn varð að sækja upp undir hlíð en jafnvel smáhlaup gátu grandað þeim er vatnið sóttu.[123]

 

Eins og Kristján G. Þorvaldsson getur um í þessari frásögn sinni koma flest snjóflóðin á Norðureyri úr hinu mikla klettagili utan við eyrina. Það heitir Norðureyrargil[124] og nær frá fjöru að fjallsbrún. Alla tuttugustu öld og eitthvað lengur hefur bærinn á Norðureyri staðið þar sem hann stendur nú (1995), fremst á innanverðri eyrinni.[125] Áður mun hann hins vegar hafa staðið nokkru utar því þar voru bæjarrústir,[126] út á Þríhyrnunni sem svo heitir[127] en það er túnskiki neðarlega á utanverðri eyrinni (sjá hér bls. 68-69). Ætla má að sá bær hafi verið í hættu þegar stór hlaup komu úr gilinu en þau ná yfirleitt ekki inn að bæjarstæði síðustu bændanna á Norðureyri.[128] Stundum hleypur hins vegar öll hlíðin[129] og þá er allt í voða sem á Norðureyri er, kvikt og dautt.[130]

Sléttur hjalli á klettunum innan við Norðureyrargil heitir Flatur og er hann nokkru neðar en Lægri-Óþoli sem fyrr var nefndur.[131] Að sögn Þorleifs Guðnasonar, sem ólst upp á Norðureyri og var síðasti bóndinn sem stóð hér fyrir búi, koma stærstu hlaupin úr lautinni fyrir ofan Flatkletta en þeir eru beint upp af bænum og alllangt fyrir neðan efstu brún.[132]

Fjallsbrúnin ofan við bæinn á Norðureyri liggur í um það bil 500 metra hæð yfir sjávarmáli. Hlíðin er brött og mun hallinn vera um 30 gráður, úr brekkukverk og á fjallsbrún.[133] Vegalengdin frá brekkurótunum og að íbúðarhúsinu, sem stendur fremst á eyrinni, er 300 metrar eða því sem næst.[134] Um 50-60 metrum ofan við bæinn var á fyrri tíð þverbratt barð, dálítið sveiglaga.[135] Sú hlið þess sem sneri að fjallshlíðinni var fimm til sex metrar á hæð[136] og má vera að barð þetta, sem nefnt var Melborg[137] eða Borgin, hafi ekki verið náttúrusmíð heldur mannvirki til varnar gegn snjóflóðum.[138] Lítið sést nú af Melborginni því hún var lækkuð mjög mikið og sléttað yfir hana við ræktunarframkvæmdir fyrir nokkrum áratugum.[139]

Í ritinu Skriðuföll og snjóflóð, sem hér var áður vitnað í, gerir höfundur þess góða grein fyrir aðstæðum á Norðureyri og segir þá meðal annars:

Hlaupin á Norðureyri koma venjulega úr snjódyngjum er safnast ofarlega í fjallinu og helst í lok hríða. Fjallsbrúnin er slétt og skefur fram af henni svo að þar verður mikil snjósöfnun. Snjóflóð koma þarna stundum eftir fyrstu snjóa þótt ekkert hjarn sé undir en oftast hleypur á gömlu hjarni.

Ofarlega í hlíðinni, þar sem upptök snjóflóðanna venjulega eru, vottar víða fyrir dýjaveitum og má vera að þær eigi einhvern þátt í að hleypa snjóflóðunum af stað eða geri svellbunka sem snjórinn skríður á. Stundum hleypur öll hlíðin, utan fyrir Norðureyri og inn undir Selárdal.[140]

 

Elstu heimildina um snjóflóð á Norðureyri er að finna í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá árinu 1710 en þar segir að í manna minni hafi snjóflóð tvívegis tekið bæinn.[141] Í bæði skiptin slapp fólkið þó lifandi (sjá hér bls. 4-5).

Í annál séra Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal er getið um snjóflóð á Norðureyri vorið 1725.[142] Mun það hafa fallið 9. maí eða allra næstu daga þar í kring.[143] Flóðið tók af mestallan bæinn.[144] Að sögn séra Jóns í Hítardal bjargaðist fólkið en kvikfé allt með peningshúsum og búshlutir mestallir fórust.[145]

Í desembermánuði árið 1836 týndu sex manneskjur lífi í snjóflóði sem braut niður bæinn á Norðureyri.[146] Tvíbýli var þá á jörðinni og fórust báðir bændurnir, önnur húsfreyjan, ein vinnukona og tvö börn.[147] Í sóknarmannatali frá marsmánuði árið 1837 nefnir presturinn á Stað þrjár manneskjur er hann segir hafa bjargast úr flóðinu[148] en séra Eyjólfur Kolbeinsson á Eyri í Skutulsfirði segir þær hafa verið fjórar. Frásögn hans af slysinu birtist í mánaðarritinu Sunnanpóstinum í aprílmánuði árið 1838 og er á þessa leið:

 

Árið 1836, nóttina milli þess 17da og 18da desember, kom snjóskriða á bæinn Norðureyri í Súgandafirði í vestari parti Ísafjarðarsýslu sem braut allan bæinn niður. Urðu þar 10 manns undir, hvar af náðust lifandi, daginn eftir, tveir rosknir kvenmenn og tvö börn en sex voru dánir, bændurnir báðir, önnur húsfreyjan, vinnukona og tvö börn. Sama snjóskriða tók með sér um leið sexæring er stóð við sjóinn með öllu tilheyrandi og eyðilagði gjörsamlega. Hún hljóp yfir fjörðinn og á land hinum megin (því ís hefur legið á firðinum).

Út á firðinum fundust stög úr baðstofunni með áhangandi fötum. Tvær kýr voru í baðstofunni og náðist önnur þeirra tórandi. Mjög voru þær manneskjur sem náðust með lífi þjakaðar, bæði útvortis og innvortis, líkami þeirra marinn og þrútinn. Þetta eftir bréfi prestsins, séra Eyjólfs Kolbeinssonar, dat. 1836, 31. desember.[149]

 

Séra Pétur Guðmundsson í Grímsey getur líka um hið mannskæða snjóflóð á Norðureyri í riti sínu, Annál 19. aldar, en greinilegt er að hann byggir þar eingöngu á frásögn séra Eyjólfs Kolbeinssonar í Sunnanpóstinum.[150] Það gerir líka Þorvaldur Thoroddsen náttúrufræðingur en hann segir frá snjóflóðinu í fyrsta bindi ritverksins Lýsing Íslands.[151]

Fullvíst má telja að séra Eyjólfur Kolbeinsson greini rétt frá atburðum í öllum meginatriðum, enda festi hann frásögn sína á blað þegar aðeins voru liðnar um það bil tvær vikur frá því snjóflóðið féll. Staðhæfingin um að ís hafi legið á firðinum, milli Norðureyrar og Suðureyrar, er þó að líkindum röng því engar aðrar heimildir gefa til kynna að lagnaðarís hafi þá náð svo langt út eftir firðinum. Hitt var algengt eins og fyrr var getið að snjóflóð á Norðureyri yllu þvílíku sjávarróti að skemmdir yrðu á mannvirkjum handan fjarðar. Hugsanlegt er að séra Árni Helgason í Görðum, ritstjóri Sunnanpóstsins, hafi skotið þessari fullyrðingu um ísinn inn í frásögn séra Eyjólfs því hún er höfð innan sviga í ritinu. Ætla verður að snjór úr flóðinu hafi hlaupið á land vestan fjarðarins án þess að nokkur ísalög greiddu för skriðunnar. Dæmi um slíkt þekkja menn vel frá síðari tímum[152] og Magnús Hjaltason, sem var búsettur í þorpinu á Suðureyri í nokkur ár, segir að snjóflóð úr fjallinu ofan við Norðureyri fari oft yfir fjörðinn þótt auður sé.[153]

Séra Eyjólfur Kolbeinsson segir í Sunnanpóstinum að snjóflóðið er olli mannskaðanum á Norðureyri árið 1836 hafi fallið aðfaranótt 18. desember eins og sjá má hér að framan. Þessi dagsetning er þó að líkindum röng því báðir prestarnir sem þá voru við störf á Stað í Súgandafirði segja fólkið hafa andast 15. desember.[154] Sóknarpresturinn, séra Eiríkur Vigfússon, getur ekki um greftrunardag en aðstoðarprestur hans, séra Hjalti Þorláksson, sem færði öll prestverk inn í sérstaka djáknabók, segir fólkið hafa verið jarðað 18. og 19. desember.[155] Hvað dánardaginn varðar sýnist óhjákvæmilegt að taka prestana á Stað trúanlega því þeim ber saman og báðir voru þeir nær vettvangi en séra Eyjólfur Kolbeinsson.

Kristján G. Þorvaldsson, sem fæddist í Selárdal árið 1881 og ólst þar upp, átti á uppvaxtarárum sínum kost á að ræða við fólk sem komið var til vits og ára þegar mannskaðinn varð á Norðureyri undir lok ársins 1836. Á að minnsta kosti tveimur stöðum í ritum sínum minnist Kristján á þennan voveiflega atburð[156] og segir frá á þessa leið:

 

Hinn 15. desember 1836 hljóp snjóskriða á Norðureyri og varð af því hið mesta slys sem sögur fara af þar. Fórust þar 6 manns og sumt af þeim sem náðust lifandi varð fyrir nokkrum meiðslum. Tvíbýli var þá og fórust bændurnir báðir og önnur konan.

Snjókoma var þennan morgun og sást ekki yfir fjörðinn en Suðureyringar urðu varir við að skriðusnjór hafði gengið upp á Grundir, milli Mala og Suðureyrar. Skildu þeir strax hvað í efni var og brugðust skjótt við til hjálpar.

Fátt karlmanna var þá á Suðureyri. Þorleifur (Þorkelsson) var einn en sambýlismaður hans, Þórarinn Einarsson, hafði tvo unglinga um tvítugt, auk sín. Hjá Þórarni var einnig húsmaður, Páll Guðmundsson að nafni. Hann var giftur en kona hans var vinnukona á Norðureyri. Sagt var að hana hefði grunað að hlaupa myndi á Norðureyri þann vetur og hafi hún beðið mann sinn taka sig til Suðureyrar en hann gefið lítið út á það. Kvaðst hann myndu taka hana á Kerlingarskerinu ef hún lenti í snjóflóði en það er sker milli sundanna fram af Suðureyri. Var hún ein þeirra sem fórust.

Ætla má að Páll hafi tekið þátt í björguninni og má með vissu telja björgunarmennina fimm. Ég tel mig hafa heyrt að Gissur Einarsson í Selárdal hafi komið til hjálpar en aðrir bera það til baka. Dimmviðrið hefur þá byrgt honum sýn svo hann varð einskis var. En hvort sem mennirnir voru fleiri eða færri þá tókst þeim að grafa upp húsin og bjarga þeim sem lifandi voru til Suðureyrar þar sem þeim var veitt sú hjúkrun sem kostur var á. Líkin voru einnig flutt til Suðureyrar.[157]

 

Kristján segir þarna að tveir piltar um tvítugt hafi verið hjá Þórarni Einarssyni, bónda á Suðureyri, þegar mannskaðinn varð á Norðureyri og mun hann þá hafa í huga Illuga Örnólfsson, stjúpson Þórarins, og Þorkel Sigfússon. Þeir Illugi og Þorkell voru báðir hjá Þórarni á Suðureyri í marsmánuði árið 1836[158] og líklegt er að svo hafi einnig verið í desember á því ári. Illugi Örnólfsson varð seinna bóndi í Múla í Ísafirði við Djúp[159] (sjá hér Suðureyri) en Þorkell Sigfússon fór að búa í Bæ í Súgandafirði árið 1843 og bjó þar í liðlega 20 ár (sjá hér Bær). Ekki er ólíklegt að þessir ungu menn hafi tekið þátt í björgunarstarfinu á Norðureyri og vera má að tveir synir Þorleifs Þorkelssonar, bónda á Suðureyri, þeir Sigfús og Sigurður, sem voru 16 og 14 ára (sbr. hér Suðureyri), hafi líka verið með hópnum sem fór frá Suðureyri yfir fjörðinn þennan óblíða desemberdag.

 

Þau sem fórust í snjóflóðinu á Norðureyri árið 1836 voru:

 

  1. Jón Jónsson bóndi, um þrítugsaldur.
  2. Sigríður Aradóttir, kona hans, um fertugsaldur.
  3. Jón Jónsson bóndi, um fertugsaldur.
  4. Guðrún Jónsdóttir vinnukona, 56-58 ára.
  5. Guðmundur Guðbrandsson, 3ja ára, fæddur 28.9.1833.
  6. Rósinkranza Jónsdóttir, tæplega 2ja ára, fædd 5.1.1835.[160]

 

Þessi þrjú björguðust:

 

  1. Rósinkranza Ebenesersdóttir húsfreyja, 24 ára, fædd 4.12.1812.
  2. Sigurður Jónsson, sonur hennar, 4 ára, fæddur 24.4.1832.
  3. Þuríður Pálsdóttir vinnukona, 19 ára, fædd 14.4.1817.[161]

 

Í sóknarmannatali prestanna á Stað frá marsmánuði árið 1837 eru þessar þrjár manneskjur sagðar hafa bjargast[162] en í frásögn séra Eyjólfs Kolbeinssonar á Eyri í Skutulsfirði sem birtist í Sunnanpóstinum eru tvær konur og tvö börn sögð hafa komist af (sjá hér bls. 14). Óvíst verður að telja hvort börnin sem björguðust úr snjóflóðinu á Norðureyri hafi verið eitt eða tvö því heimildum ber ekki saman. Líklegra er þó að aðeins eitt barn hafi náðst lifandi úr rústunum því viðkomandi sóknarprestur nefnir ekki fleiri.

Í ritinu Vestfirskum ættum er minnst á þetta sama snjóflóð á Norðureyri og segir þar meðal annars svo: Kýr var undir palli dauð en barn (ekki vitað hvaða barn) hafði dottið í vilpuna hjá kúnni og það lifði.[163]

Þessi saga um barnið í fjósvilpunni gæti sem best verið sönn og er þá líklegast að það hafi verið drengurinn Sigurður Jónsson sem þar lenti því hann er eina barnið sem vitað er með fullri vissu að komst lifandi frá hinni hörðu raun.

Hér verður nú gerð nánari grein fyrir fólkinu sem lenti í hinu mannskæða snjóflóði á Norðureyri árið 1836 en flest af því hafði aðeins átt hér heima í skamman tíma.

Hjónin Jón bóndi Jónsson og Sigríður Aradóttir létu bæði lífið en af öllu fólkinu sem í flóðinu lenti var Sigríður sú manneskja sem lengst hafði átt heima á Norðureyri, allt frá vorinu 1827.[164] Hún var dóttir hjónanna Ara Þorkelssonar og Guðnýjar Pálsdóttur á Kvíanesi og hefur líklega fæðst árið 1795.[165]  Hún giftist fyrri eiginmanni sínum, Jóni Einarssyni frá Selárdal, 7. nóvember 1823 og voru þau næstu ár hjá foreldrum hennar á Kvíanesi en hófu búskap á Norðureyri vorið 1827 í tvíbýli á móti öðrum hjónum.[166] Jón Einarsson var sjö árum eldri en Sigríður, fæddur 1788.[167] Hann var sonur hjónanna Einars Magnússonar og Guðrúnar Pálsdóttur í Selárdal, og voru þau Sigríður náskyld því mæður þeirra voru systur.[168] Þessi fyrri eiginmaður Sigriðar Aradóttur náði aðeins að búa á Norðureyri í tæplega tvö ár því hann andaðist, 40 ára gamall, 3. mars 1829.[169]

Að manni sínum látnum hélt Sigríður áfram búskap og árið 1830 kom til hennar ungur vinnumaður norðan úr Jökulfjörðum, Jón Jónsson að nafni.[170] Hann gerðist strax fyrirvinna á búi ekkjunnar og haustið 1832 gengu þau í hjónband.[171] Jón þessi Jónsson kom að Norðureyri frá Marðareyri í Veiðileysufirði í Jökulfjörðum, sagður 25 ára gamall er hann fluttist í Súgandafjörð árið 1830.[172] Hann kynni þó að hafa verið tveimur árum yngri eða svo því að í sóknarmannatali frá marsmánuði árið 1836 er hann sagður vera 28 ára gamall.[173] Ef marka má upplýsingar úr sóknarmannatölum prestanna á Stað í Súgandafirði var Jón fæddur á Hrafnfjarðareyri í Jökulfjörðum[174] en í manntalinu frá 1816 er aðeins einn Jón Jónsson líklegur til að vera þessi piltur og hann var þá á Marðareyri, sagður 7 ára ómagi fæddur á Kvíum í Jökulfjörðum.[175]

Með fyrri eiginmanni sínum eignaðist Sigríður Aradóttir engin börn og þeim Jóni Jónssyni varð ekki heldur barna auðið.[176] Á öðru hjúskaparári þeirra Sigríðar barnaði Jón bóndi hins vegar unga vinnukonu á heimili þeirra hjóna. Hún hét Guðrún Jónsdóttir en drengurinn sem hún eignaðist með húsbónda sínum var skírður Sigurður.[177] Hann fæddist á Norðureyri 18. nóvember 1834 en var fluttur í reifum að Kvíanesi, fárra vikna gamall, og ólst þar upp (sjá hér Gilsbrekka). Hann varð seinna bóndi á Gilsbrekku. Fullyrt hefur verið að þessi Sigurður Jónsson hafi bjargast úr snjóflóðinu á Norðureyri en sú staðhæfing verður að teljast mjög hæpin eins og sýnt er fram á annars staðar í þessu riti (sjá hér Gilsbrekka). Líklegra er hitt að menn hafi ruglast á þeim nöfnum, Sigurði Jónssyni sem fæddist á Norðureyri 18. nóvember 1834 og Sigurði Jónssyni sem fæddist í Bæ 24. apríl 1832 en sá drengur var alveg tvímælalaust á Norðureyri þegar snjóflóðið féll og bjargaðist.[178]

Báðir bændurnir sem týndu lífi í snjóflóðinu á Norðureyri hétu Jón Jónsson. Sá sem hér hefur nú verið sagt frá og kvæntur var Sigríði Aradóttur var sá yngri þeirra.[179]

Jón Jónsson eldri hóf búskap á Norðureyri vorið 1836 og hafði því aðeins búið hér í nokkra mánuði er snjóflóðið mikla varð honum að bana.[180] Hann var kvæntur Rósinkrönzu Ebenesersdóttur sem bjargaðist úr flóðinu. Rósinkranza var fædd í Innri-Hjarðardal í Önundarfirði 4. desember 1812, dóttir hjónanna Ebenesers Guðmundssonar og Margrétar Bjarnadóttur[181] sem hér er sagt frá á öðrum stað (sjá Innri-Hjarðardalur). Hún missti föður sinn þegar hún var á fjórða ári og átta ára gömul fór hún í fóstur til föðurbróður síns, Magnúsar Guðmundssonar, bónda í Bæ í Súgandafirði, og eiginkonu hans Bergljótar Össurardóttur.[182] Á sínum unglingsárum var Rósinkranza vinnukona í Bæ[183] og þar var hún enn, 18 ára blómarós, vorið 1831 þegar Jón Jónsson, sem hún giftist síðar, gerðist vinnumaður hjá Magnúsi frænda hennar.[184] Jón var vinnumaður í Bæ í fimm ár, frá 1831 til 1836.[185] Hann kom þangað frá Seljalandi í Skutulsfirði og var þá sagður 34 ára en 35 ára í marsmánuði árið 1834.[186] Í sóknarmannatölum séra Eiríks Vigfússonar á Stað frá árunum 1832-1834 er vinnumaður þessi jafnan sagður vera fæddur í Mosdal.[187] Líklega er það alveg rétt en þá hefur hann reyndar verið nokkrum árum eldri en gefið er til kynna í embættisbókunum frá Stað. Hér þarf að hafa í huga að í sóknarmannatölum frá fyrri hluta 19. aldar gætir víða mikillar ónákvæmni varðandi aldur fólks og þarf enginn að láta sér bregða þó að skeiki allt að fimm árum.

Í Mosdal fæddist aðeins einn Jón Jónsson á árunum 1784-1804.[188] Hann kom í heiminn 21. apríl 1794 og var sonur hjónanna Jóns Jónssonar og Ólafar Þorleifsdóttur, sem þar áttu heima, en þau bjuggu síðar á Kirkjubólshúsum, hjáleigu frá Kirkjubóli í Korpudal í Önundarfirði.[189] Ætla verður að það sé þessi Jón Jónsson sem fluttist að Bæ vorið 1831 og hefur þá verið 37 ára, þremur árum eldri en skráð var við komu hans í Súgandafjörð.

Á sínu fyrsta sumri í Bæ náði Jón að festa sér Rósinkrönzu, hina ungu bróðurdóttur húsbóndans, og gerði henni barn. Sigurður sonur þeirra fæddist í Bæ 24. apríl 1832 og 7. október á sama ári voru vinnuhjú þessi gefin saman í hjónaband.[190] Þá var brúðguminn 38 ára en brúðurin að verða tvítug. Annað barn Jóns og Rósinkrönzu fæddist 5. janúar 1835.[191] Það var stúlka og var hún skírð nafni móður sinnar. Foreldrarnir voru þá enn vinnuhjú í Bæ en vorið 1836 fluttust þau að Norðureyri með bæði börnin og hófu hér búskap á hálfri jörðinni.

Er snjóflóðið mikla lagði bæinn í rúst á næstu jólaföstu týndu báðir bændurnir lífi eins og fyrr var nefnt. Barnið Rósinkranza Jónsdóttir, sem þá var að verða tveggja ára, fórst líka en móðir hennar og bróðir, þau Rósinkranza Ebenesersdóttir og Sigurður Jónsson, náðust lifandi úr rústunum.[192] Fáum vikum eða mánuðum síðar fluttust þau bæði vestur að Dalshúsum í Valþjófsdal til Kristínar Ebenesersdóttur, systur Rósinkrönzu, og eiginmanns hennar, Sturlu Jónssonar.[193] Þar ólu mæðginin aldur sinn næstu 40 ár og reyndar nokkru lengur. Sigurður Jónsson, sem var fjögra ára er hann lenti í snjóflóðinu, mun þaðan í frá hafa búið við örkuml. Í einni heimild er hann sagður hafa verið fatlaður eftir snjóflóðið á Norðureyri[194] og í annarri haltur eftir slysið.[195] Sigurður dó í Dalshúsum 20. ágúst 1879 og var þá 47 ára gamall þurfamaður.[196] Móðir hans, Rósinkranza Ebenesersdóttir, var þá enn á lífi. Hún fluttist frá Dalshúsum að Sæbóli á Ingjaldssandi árið 1885 og dó þar, 77 ára gömul, 25. mars 1890.[197] Frá Dalshúsum mun hún hafa flust að Sæbóli með systursyni sínum, Guðmundi Sturlusyni, sem hóf búskap á Sæbóli árið 1885 en hafði áður búið lengi í Dalshúsum[198] (sbr. hér Sæból).

Hér hefur nú verið sagt frá örlögum beggja hjónanna sem lentu í snjóflóðinu á Norðureyri og frá börnunum sem önnur þeirra áttu en hin áttu engin börn. Auk þessa fólks voru á Norðureyri, þegar snjóflóðið féll, tvær vinnukonur og þriggja ára drengur, sonur yngri vinnukonunnar.[199] Vinnukonurnar tvær voru reyndar mæðgur.[200] Þær hétu Guðrún Jónsdóttir og Þuríður Pálsdóttir.[201] Guðrún, sem var móðir Þuríðar, beið bana í snjóflóðinu og einnig drengurinn, Guðmundur Guðbrandsson, sem var sonur Þuríðar en hún bjargaðist.[202]

Guðrúnu Jónsdóttur sem týndi lífi á Norðureyri í desember 1836 segir presturinn á Stað hafa verið 56 ára gamla er hún andaðist en líklega hefur hún verið svolítið eldri því að í manntalinu frá 1801 er hún sögð vera 24 ára og 38 ára í manntalinu frá 1816.[203] Guðrún var fædd á Brekku í Dýrafirði.[204] Ekki er fyllilega ljóst hverjir voru foreldrar hennar en sú kenning er uppi að móðir hennar hafi verið Ingibjörg Egilsdóttir, sem var 44 ára húsfreyja á Brekku árið 1801, systir Jóns Egilssonar, bónda í Fremri-Breiðadal í Önundarfirði.[205] Sé kenning þessi á rökum reist má ætla að Ingibjörg hafi eignast þessa dóttur með fyrri eiginmanni sínum en föðurnafn hans liggur ekki fyrir.[206]

Guðrún Jónsdóttir, sem hér er frá sagt, ólst að meira eða minna leyti upp í Neðri-Breiðadal í Önundarfirði, hjá hjónunum Páli Þórðarsyni og Elínu Hjaltadóttur því haustið 1805 er hún sögð vera fósturdóttir þeirra.[207] Hún giftist þá Greipi Oddssyni[208] og skömmu síðar fóru þau að búa á jarðarparti í Neðri-Breiðadal (sjá hér Neðri-Breiðadalur). Greipur drukknaði í mannskaðaverðrinu mikla 6. maí 1812 og þá týndi einnig lífi Páll Þórðarson í Neðri-Breiðadal, fósturfaðir Guðrúnar (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Með Greipi eignaðist hún dótturina Gróu sem giftist Guðna Jónssyni og varð húsfreyja á Kirkjubóli í Valþjófsdal[209] (sbr. hér Kirkjuból í Valþjófsdal).

Á árunum upp úr 1812 dvaldist Guðrún Jónsdóttir áfram í Neðri-Breiðadal, hjá Elínu Hjaltadóttur, og er í manntalinu frá 1816 sögð vera fósturdóttir hennar.[210] Í því manntali er Guðrún talin 38 ára gömul og þar sést að hún hafði hjá sér í Neðri-Breiðadal dætur sínar tvær, Gróu Greipsdóttur, er fyrr var nefnd og orðin var 8 ára, og Ingibjörgu Sigurðardóttur er hún hafði eignast 16. ágúst 1814.[211] Faðir Ingibjargar var Sigurður Björnsson norðlenski en þessi stúlka komst upp og varð húsfreyja á Þorfinnsstöðum í Valþjófsdal.[212]

Ekkjan Guðrún Jónsdóttir í Neðri-Breiðadal giftist í annað sinn 30. september 1816 og batt þá trúss sitt við Pál Guðmundsson, ungan bóndason á öðru býli þar í Neðri-Breiðadal.[213] Þessi seinni eiginmaður Guðrúnar var fæddur 3. janúar 1794[214] svo hann hefur verið um það bil 16 árum yngri en sú sem hann gekk að eiga. Páll var sonur hjónanna Guðmundar Ólafssonar og Þuríðar Pálsdóttur sem bjuggu fyrst alllengi á Kvíanesi í Súgandafirði en seinna á Suðureyri.[215] Þaðan fluttust þau til Önundarfjarðar árið 1809 og fáum árum síðar fór Guðmundur að búa í Neðri-Breiðadal (sjá hér Kvíanes, Eyri  og Neðri-Breiðadalur).

Páll Guðmundsson og Guðrún Jónsdóttir stóðu fyrir búi í Neðri-Breiðadal í nokkur ár á árunum kringum 1820 en fluttust til Súgandafjarðar árið 1823 (sjá hér Neðri-Breiðadalur). Eina lifandi fædda barnið sem hjón þessi eignuðust var Þuríður, fædd 14. apríl 1817,[216] og fylgdi hún foreldrum sínum til Súgandafjarðar.[217] Á árunum 1823-1833 voru þau Páll og Guðrún jafnan vinnuhjú hjá Magnúsi Guðmundssyni, bónda í Bæ, nema fardagaárin 1828-1829 og 1829-1830,[218] og á þessu skeiði fylgdi Þuríður dóttir þeirra jafnan foreldrum sínum.[219] Svo virðist sem hagir þessa fólks hafi raskast við andlát Magnúsar í Bæ árið 1833. Þuríður Pálsdóttir var reyndar enn vinnukona í Bæ í marsmánuði árið 1834 en foreldrar hennar voru þá farin þaðan og höfðu, nauðug eða viljug, komið sér fyrir sitt í hvoru lagi.[220] Guðrún fór fyrst í Fremri-Vatnadal en Páll virðist ekki hafa verið í Súgandafirði fardagaárið 1833-1834.[221]

Fardagaárið 1834-1835 var Páll húsmaður á Suðureyri og er í manntalinu frá 1835 sagður vera vefari.[222] Guðrún kona hans var þá í Fremri-Vatnadal, talin húskona að hálfu.[223] Vorið 1835 fór hún að Norðureyri og gerðist vinnukona hjá hjónunum Sigríði Aradóttur og Jóni Jónssyni en Páll, eiginmaður hennar, sat um kyrrt á Suðureyri.[224] Þuríður, dóttir hjónanna Páls og Guðrúnar, fór með móður sinni að Norðureyri vorið 1835.[225] Hún var þá 18 ára og hafði næstu árin á undan verið vinnukona í Bæ.[226] Þar eignaðist hún dreng haustið 1833, þá aðeins 16 ára gömul.[227] Barnsfaðir hennar var Guðbrandur Jónsson, tæplega þrítugur vinnumaður á Garðsstöðum í Ögursveit,[228] og var Þuríður fjórða konan sem kenndi honum barn en þeim átti þó eftir að fjölga síðar, enda fór svo að ýmsir tóku að nefna hann Barna-Brand (sjá hér Bær). Frá Guðbrandi er sagt hér á öðrum stað en hann bjó um tíma í Botni í Súgandafirði og svo í Bæ frá 1848 til 1855 (sjá hér Bær).

Drengnum sem Þuríður Pálsdóttir eignaðist með Barna-Brandi var gefið nafnið Guðmundur og fór hann með móður sinni og ömmu að Norðureyri vorið 1835, þá á öðru ári.[229] Öll fóru þau til hjónanna Jóns Jónssonar og Sigríðar Aradóttur á Norðureyri og mæðgurnar, Þuríður Pálsdóttir og Guðrún Jónsdóttir, voru báðar vinnukonur hjá þeim í marsmánuði árið 1836.[230] Líklegt er að svo hafi einnig verið er snjóflóðið lagði Norðureyrarbæinn í rúst þann 15. desember á sama ári þó að hugsanlegt sé að þær hafi, önnur hvor eða báðar, fært sig á milli heimilanna tveggja á Norðureyri í fardögum 1836. Í munnmælum lifði sú saga að Guðrún hefði þá viljað komast burt frá Norðureyri vegna ótta við snjóflóð en Páll Guðmundsson, eiginmaður hennar sem var í húsmennsku á Suðureyri, hefði ekki viljað liðsinna henni í þeim efnum (sjá hér bls. 16 sbr Suðureyri).

Guðrún Jónsdóttir og dóttursonur hennar, Guðmundur Guðbrandsson, týndu bæði lífi í snjóflóðinu en Þuríður Pálsdóttir, móðir drengsins og dóttir Guðrúnar, náðist lifandi úr húsarústunum eins og hér hefur áður verið nefnt. Hún var þá 19 ára.[231] Mjög skömmu eftir slysið fór hún til hálfsystur sinnar, Gróu Greipsdóttur, húsfreyju á Kirkjubóli í Valþjófsdal, og dvaldist þar næstu 50 árin[232] (sbr. hér bls. 21-22). Heyrn Þuríðar mun hafa skaddast er hún lenti í snjóflóðinu á Norðureyri og er sagt að hún hafi þaðan í frá verið heyrnarlítil eða heyrnardauf.[233]

Þuríður giftist aldrei en árið 1844 eignaðist hún dótturina Kristínu sem kennd var Eiríki nokkrum Guðlaugssyni en ýmsir töldu að mágur Þuríðar, Guðni bóndi Jónsson á Kirkjubóli, væri réttur faðir að þessu barni.[234] Þuríður Pálsdóttir fluttist árið 1888 frá Kirkjubóli í Valþjófsdal á Ingjaldssand.[235] Hún var þá orðin liðlega sjötug og meira en fimmtíu ár liðin frá því hún barðist fyrir lífinu í bæjarrústum á Norðureyri.

Svo merkilega vill til að konurnar tvær sem björguðust úr snjóflóðinu á Norðureyri á jólaföstunni árið 1836, þær Þuríður Pálsdóttir og Rósinkranza Ebenesersdóttir, lifðu þaðan í frá í nágrenni hvor við aðra nær alla ævi. Báðar fóru þær til systra sinna í Valþjófsdal í Önundarfirði mjög skömmu eftir slysið, Þuríður til Gróu hálfsystur sinnar á Kirkjubóli en Rósinkranza til Kristínar systur sinnar í Dalshúsum sem voru gömul hjáleiga frá Kirkjubóli og túnin samliggjandi.[236] Þær Þuríður og Rósinkranza fluttust svo báðar á gamalsaldri úr Valþjófsdal út á Ingjaldssand. Rósinkranza fluttist að Sæbóli árið 1885 og dó þar fimm árum síðar (sjá hér bls. 20) hjá Guðrúnu Sakaríasdóttur, ekkju Guðmundar Sturlusonar,[237] en Þuríður fluttist á Ingjaldssand árið 1888 og var í lok þess árs búsett á Álfadal, næsta bæ við Sæból, hjá dóttur sinni er fyrr var nefnd, Kristínu Eiríksdóttur.[238] Þessi gamla kona, sem á unglingsaldri hafði bjargast úr snjóflóðinu á Norðureyri, var þá komin á áttræðisaldur. Þuríður hverfur úr sóknarmannatölum Dýrafjarðarþinga árið 1889[239] og er óljóst hvað um hana varð því viðkomandi prestur skráir hvorki andlát hennar né brottflutning úr prestakallinu[240] eins og honum bar þó skylda til.

Eina fólkið sem nú er uppi og á ættir að rekja til þeirra sem lentu í snjóflóðinu á Norðureyri 1836 eru niðjar Guðrúnar Jónsdóttur sem týndi lífi í þeim  hamförum. Dætur hennar þrjár, þær Gróa Greipsdóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir og Þuríður Pálsdóttir, eignuðust allar eitt eða fleiri börn[241] (sbr. hér Kirkjuból í Valþjófsdal). Dóttir Þuríðar, Kristín Ástríður Eiríksdóttir, var enn á Álfadal haustið 1890.[242] Hún varð háöldruð og dó hjá syni sínum í Reykjavík 19. apríl 1940.[243]

Sigurborg Bergsdóttir, sem fædd var árið 1808 og ólst upp á Norðureyri, var enn á lífi í Súgandafirði á árunum kringum aldamótin 1900.[244] Magnús Hjaltason hitti hana að máli árið 1899 og skráði þá eftir henni þessa sögu:

 

Frá aldaöðli hafði steinn einn, hár og digur, staðið framanvert í Norðureyraroddanum. Var hann svo hár að örlaði á hann um stórstraumsflæðar … en um 1830 kom svo geyst snjóskriða að steinn sá hvarf svo að hann hefur eigi sést síðan og hefur það verið ærin snegða að svo stór steinn skyldi hverfa á augabragði.[245]

 

Ætla má að snjóflóðið sem reif með sér þetta bjarg hafi verið það sem mannskaðanum olli 15. desember 1836.

Séra Andrés Hjaltason fluttist að Stað í Súgandafirði vorið 1839 og gerðist þá sóknarprestur Súgfirðinga (sjá hér Staður). Í sóknarlýsingu er hann ritaði síðar á því ári segir séra Andrés að bærinn á Norðureyri hafi þrisvar eyðilagst af snjóskriðu svo menn hafi sögur af og síðast 1836.[246] Í jarðamati frá árinu 1849, sem hér hefur áður verið vitnað til, segir að á Norðureyri hafi þrisvar í manna minnum orðið manntjón af völdum skriðufallla á bæinn (sjá hér bls. 5). Líklegt er að öll snjóflóðin, sem fólk hafði sögur af á árunum 1839 og 1849 hafi fallið eftir 1710. Úr öðrum heimildum liggur aðeins fyrir vitneskja um eitt tímasett snjóflóð á Norðureyri á 18. öld en það féll vorið 1725 og tók af mestallan bæinn (sjá hér bls. 14). Orð séra Andrésar og höfunda jarðamatsins frá 1849 benda hins vegar til þess að á átjándu öld hafi Norðureyrarbæinn ekki aðeins tekið af einu sinni heldur tvisvar. Með hinu er vart að reikna að fólkið sem séra Andrés ræddi við árið 1839 hafi haft nokkra hugmynd um þau tvö snjóflóð sem eyddu bænum á Norðureyri á sautjándu öld og um er getið í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 (sjá hér bls. 4-5). Á dögum séra Andrésar lá Jarðabókin óprentuð úti í Kaupmannahöfn svo líkurnar á því að hann hafi sótt sér fróðleik í hana eru engar. Af því sem hér hefur verið ritað má hins vegar ráða að eftir 1600 en fyrir 1850 hafi snjóflóð brotið Norðureyrarbæinn niður eigi sjaldnar en fimm sinnum og þrisvar orðið mannskaði í þeim hamförum.

Kristján G. Þorvaldsson segir að einn maður hafi farist í snjóflóði á Norðureyri veturinn 1856 og hafi hann verið að sækja vatn er hann lenti í flóðinu.[247] Kristján nefnir ekki manninn en segir söguna á þessa leið:

 

Veturinn 1856 varð aftur manntjón en þá var það aðeins einn maður sem fórst, var hann að sækja vatn. Skriðan fór yfir öll hús en var ekki snjómeiri en það að hún braut þau ekki niður. Þetta var að morgni dags. Maður var að láta í meisa handa kúm. Var það í upphlöðnu heyi því hlöður voru þá ekki. Hann var búinn að láta í meisana og var að láta hinn fyrsta út úr heyinu þegar skriðan kom. Tók hún meisinn og vettlinginn af hendi hans. Síðan hefur þar ekki orðið manntjón af völdum snjóflóða.[248]

 

Þessa sögu seljum við ekki dýrar en við keyptum og satt að segja er hún dálítið tortryggileg því að í prestsþjónustubókinni frá Stað er ekki getið um nokkurt mannslát á Norðureyri á árunum 1850-1860, sem orðið gæti henni til styrktar, en þar gerir prestur jafnan grein fyrir dánarorsök hinna látnu.[249] Ritverk Kristjáns G. Þorvaldssonar sýna að hann var vandaður maður með góða dómgreind. Vitandi vits fer hann ekki með lygar en spurning er hvort einhver annar, sem síður kunni að greina á milli ímyndunar og veruleika, kynni að hafa spunnið söguna upp og Kristjáni orðið á að taka hana trúanlega. Að prestinum hafi láðst að skrá mannslátið er í sjálfu sér ekki alveg útilokað en verður að teljast mjög ólíklegt. Á árunum 1854-1857 stóðu hjónin Ari Sigurðsson og Elísabet Guðmundsdóttir fyrir búi á Norðureyri en frá þeim er sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Staður, Bakkakot þar). Athugun á sóknarmannatölum frá þessum árum gefur ekki til kynna að nokkur af þeirra heimilisfólki hafi horfið úr tölu lifenda án þess að dauðsfallið væri fært til bókar hjá hjá presti[250] og allt fólkið sem átti heima á Norðureyri í marsmánuði árið 1857 var sannanlega á lífi og búsett í Súgandafirði einu ári síðar en þá var Norðureyri fallin í eyði og stóð jörðin að því sinni óbyggð í tvö ár.[251]

Vel getur reyndar verið að einhver heimamaður á Norðureyri hafi týnt lífi í snjóflóði er hann var að sækja vatn en árið sem Kristján tengir þann atburð við er að öllum líkindum rangt. Vera má að ein hinna þriggja mannskæðu snjóskriða sem matsmennirnir frá 1849 tala um hafi grandað manni sem sótti vatn en hvenær sá atburður gerðist vitum við ekki. Í Jarðabókinni frá 1710 er reyndar tekið fram að vatnsbólið á Norðureyri sé lítið og hættulegt til að sækja fyrir snjóflóðum á vetur.[252] Valdimar Þorvaldsson segir vatnið hafa verið sótt í læk sem var innantil við eyrina en tekur fram að sá lækur hafi oft týnst í miklum snjóum og þá hafi orðið að sækja vatnið í læk sem renni utantil við eyrina.[253] Var það langur vatnsvegur (sbr. hér bls. 4 og 13).

Þorvaldur Thoroddsen náttúrufræðingur kom í Súgandafjörð árið 1887 og fékk þá þær fréttir að um gilið fyrir ofan Norðureyri hefðu oft komið snjóflóð með miklum grjótburði á síðustu fimmtíu árum.[254] Að sögn Þorvaldar fór snjóflóð úr Norðureyrargili yfir fjörðinn árið 1882 og færði þar sexæring upp á annan bát.[255]

Í janúarmánuði árið 1909 féll stórt snjóflóð á Norðureyri.[256] Það klofnaði um Borgina, melbarðið ofan við bæinn (sbr. hér bls. 13), og lenti því ekki á honum en hljóp yfir fjörðinn og skemmdi vélbátinn Nítjándu öldina sem stóð uppi á Suðureyrarmölum.[257]

Í september árið 1911 mun gilið utan við Norðureyri hafa hlaupið fram og grafið sig niður.[258] Sagt er að sjórinn hafi þá orðið rauður sem blóð út að Gelti.[259] Mikið tjón varð í snjóflóði sem féll á Norðureyri 4. febrúar 1915 en það tók einu hlöðuna sem til var, hjall og tvo báta og skemmdi líka vatnsbólið.[260]

Snjóflóðahættan vofði sífellt yfir en Kristján Sigurðsson, sem var bóndi á Norðureyri frá 1906 til 1949, reisti árið 1920 eða því sem næst merkilegt mannvirki til varnar bænum.[261] Hann hlóð þá stóran fleyg úr grjóti ofanvert við bæjarhúsin.[262] Var fleygurinn jafnbreiður húsunum að neðan en hvöss egg sneri upp að fjallinu.[263] Utan um þennan steinfleyg steypti Kristján svo með sementssteypu.[264] Fáum árum síðar reif hann gamla torfbæinn og byggði tveggja hæða steinhús á sama stað.[265] Húsið og fleygurinn standa bæði enn (1995) og er það áfast við hann. Fleygurinn stendur við efri gafl hússins og er næst húsinu álíka breiður og gaflinn en lítið eitt lægri. Það var Bárður Jónsson, smiður í Bolungavík, sem sá um byggingu snjóflóðavarans fyrir Kristján bónda á Norðureyri[266] en þetta sérstæða varnarvirki reyndist mjög vel og mun hafa bjargað bænum í janúar 1930 og líka veturinn 1930-1931. Frá snjóflóðinu sem skall á íbúðarhúsi fólksins á Norðureyri 19. janúar 1930 segir Ólafur Jónsson svo:

 

Fór það á íbúðarhúsið sem snýr stafni að fjalli og er útbúið með snjóflóðakljúf, klofnaði um húsið og braut rúður í gluggum á annarri hlið þess. Þá tók það fjárhús er stóð fáum metrum austan við íbúðarhúsið. Fórust þar 45 kindur en 15 meiddust. Þetta varð um það leyti sem bóndinn, Kristján Sigurðsson, var vanur að fara í húsin en hann fór að þessu sinni óvenjulega seint og það hefur vafalítið bjargað lífi hans. Fjósið stóð framundan íbúðarhúsinu og sakaði ekki mikið.[267]

 

Kristján G. Þorvaldsson og Gunnar M. Magnúss segja þetta flóð hafa fallið snemma á árinu 1931[268] en það er tvímælalaust rangt eins og sjá má í þeim heimildum sem hér var vísað til. Auk fjárhússins tók þetta sama snjóflóð bæði hjall og geymsluhús, sem stóðu innst á eyrinni, og sópaði burt öllu sem í þeim var.[269] Næsta sumar reisti Kristján ný útihús fyrir hey og búfénað neðan við íbúðarhúsið og í vari af því.[270] Þau hús voru byggð úr steinsteypu.[271] Á fyrsta vetri þessara nýju útihúsa hljóp aftur á bæinn. Að sögn taldi Kristján bóndi það snjóflóð hafa verið mun meira en hið fyrra en engar skemmdir urðu þó á húsum að því sinni.[272] Ætla má að snjóflóðakljúfurinn ofan við íbúðarhúsið hafi orðið fólkinu til bjargar bæði 1930 og 1931. Síðastnefnda flóðið segir Ólafur Jónsson hafa fallið 22. janúar 1931 og hafi það hrifið með sér tvo báta.[273]

Þann 8. janúar 1939 fórust 26 kindur í snjóflóði á Norðureyri og kraftur þess sópaði sumum þeirra fram á fjörðinn.[274] Þetta hlaup tók líka lítinn steinsteyptan kofa er stóð innan og neðan við íbúðarhúsið, beint niður af stæði fjárhúsanna sem brotnað höfðu niður í snjóflóði níu árum fyrr.[275] Öldurót frá snjóflóðinu 8. janúar 1939 olli flóðbylgju sem gekk á land upp handan fjarðarins en hún mun þó ekki hafa valdið neinum skaða.[276]

Snjóflóð féll líka á Norðureyri 4. febrúar 1946 og braut flóðbylgjan frá því bryggjur á Suðureyri.[277] Hún tók líka báta sem stóðu þar á kambinum og færði þá upp á götu.[278] Niður við sjóinn á Suðureyrarmölum braut þessi sama flóðbylgja niður skúr en menn sem verið höfðu við vinnu í því húsi voru þá nýlega gengnir út.[279]

Um snjóflóð sem fallið hafa á Norðureyri á síðari hluta 20. aldar verður ekki fjallað hér en þess má þó geta að á annan dag jóla árið 1951 hljóp sjór á land á Suðureyrarmölum vegna snjóflóðs sem fallið hafði úr fjallinu ofan við Norðureyri.[280] Flóðbylgjan sem á land gekk vestan fjarðarins náði þá fast upp að dyrum þeirra húsa sem neðst standa á Mölunum.[281] Ætla má að hlaupið sem olli þessari flóðbylgju hafi komið úr Norðureyrargili því snjóflóð úr því valda nær ætíð sjóróti vestan fjarðarins en eru tiltölulega hættulítil á Norðureyri.[282]

 

Enn hefur fátt verið sagt frá fólkinu sem ól aldur sinn á þessari hættujörð á liðnum öldum. Um þá sem bjuggu hér fyrir 1700 veit reyndar enginn neitt því þeirra er hvergi getið í heimildum. Fyrsti bóndinn á Norðureyri sem við þekkjum nafn á er Þorleifur Guðmundsson sem bjó hér árið 1703.[283] Hann var þá 47 ára gamall og kvæntur Agnesi Halldórsdóttur sem var tíu árum yngri.[284] Agnes var seinni kona Þorleifs[285] en fyrri kona hans er talin hafa verið Kristín Pálsdóttir, sú yngri tveggja dætra Páls Ólafssonar á Suðureyri, sem báru Kristínar nafn, en Páll var sonur hins kunna skálds, séra Ólafs Jónssonar á Söndum í Dýrafirði og bjó á Suðureyri í Súgandafirði á síðari hluta 17. aldar (sjá hér Suðureyri).[286]

Árið 1703 voru sex börn Þorleifs bónda Guðmundssonar á lífi hér heima á Norðureyri.[287] Þrjú þessara barna, Sigurð, Pál og Margréti, hafði hann eignast með fyrri konunni og voru þau á aldrinum 14-16 ára en elsta barn hans með Agnesi var Halldór, talinn 7 ára árið 1703.[288] Tvær Kristínar áttu þau Agnes líka.[289] Sigurður Þorleifsson, sem hér var nefndur, mun hafa orðið gamall maður og talinn hafa verið húsmaður á Innri-Veðrará í Önundarfirði árið 1762.[290]

Árið 1710 var Þorleifur bóndi á Norðureyri dáinn en ekkja hans, Agnes Halldórsdóttir, bjó þá hér með 4 nautgripi, 15 ær og 21 sauð.[291] Á búi hennar voru líka 15 lömb og einn hestur.[292] Líklegt er að Þorleifur bóndi hafi andast í drepsóttinni stórubólu árið 1707 en fullvíst er það nú ekki.

Hvergi mun nú vera unnt að sjá hversu lengi ekkjan Agnes Halldórsdóttir stóð hér fyrir búi en á árunum kringum 1735 var maður að nafni Eiríkur Guðmundsson orðinn bóndi á Norðureyri.[293] Árið 1753 bjó hér Jón nokkur Helgason[294] og kynni það að vera sami maður og Jón sá Helgason sem sagður er hafa búið í Botni í Súgandafirði og var faðir Þorgils Jónssonar, bónda í Botni sem fæddur var árið 1740[295] (sjá hér Botn).

Bóndinn sem bjó á Norðureyri árið 1762 hét Jón Bjarnason og er í manntalinu frá því ári sagður vera 44 ára gamall.[296] Eiginkona hans er ekki nefnd með nafni í manntalinu en þar sést að hún var nokkrum árum eldri en bóndi hennar.[297] Árið 1762 áttu hjón þessi að minnsta kosti eitt barn á lífi, þrettán ára gamlan son sem dvaldist í foreldrahúsum.[298] Óljóst er hvaða Jón Bjarnason það var sem bjó hér á Norðureyri árið 1762 og einhverjar getgátur um það varla frambærilegar.

Hjónin Jón Þorleifsson og Guðrún Jónsdóttir virðast hafa byrjað búskap á Norðureyri um 1767 og hafa að líkindum búið hér í aldarfjórðung. Markús, sem var elsta barn þeirra, er í sóknarmannatali frá febrúarmánuði árið 1786 sagður vera 19 ára gamall og hann er í manntalinu frá 1816 talinn 49 ára.[299] Í því manntali er Markús sagður fæddur á Norðureyri[300] og einmitt það bendir eindregið til þess að foreldrar hans hafi verið tekin saman og komin að Norðureyri árið 1767. Hvort þau voru þá þegar komin hér með jarðarafnot er hins vegar ekki alveg víst þó að líklegt megi telja að svo hafi verið.

Fyrsta sóknarmannatalið úr Súgandafirði er frá því í febrúar árið 1786. Þau Jón Þorleifsson og Guðrún Jónsdóttir, kona hans, bjuggu þá hér á Norðureyri og áttu a.m.k. átta börn á lífi sem öll voru heima hjá foreldrunum.[301] Jón bóndi er þá sagður vera 50 ára gamall en Guðrún húsfreyja 45 ára.[302] Af börnunum átta, sem voru að vaxa upp á Norðureyri árið 1786, eru sex finnanleg í manntalinu frá 1816, Markús, sem þá var 49 ára bóndi í Keflavík norðan Galtar, Guðríður, sem þá var 48 ára ekkja og vinnukona á Stað í Aðalvík, Ingibjörg, sem þá var 40 ára húsfreyja á Steig í Veiðileysufirði í Jökulfjörðum, Guðrún, sem þá var 39 ára bústýra á Steinólfsstöðum í sama Veiðileysufirði, Jón, sem var 37 ára bóndi á Hesteyri, og Hallbera, sem árið 1816 var 34 ára gömul húsfreyja á Sæbóli í Aðalvík.[303]

Í manntalinu frá 1816 er allt þetta fólk sagt vera fætt á Norðureyri og aldur þess passar að heita má við aldur barnanna sem báru þessi sömu nöfn og enn voru í foreldrahúsum hér á Norðureyri árið 1786.[304] Er þá komin óbein sönnun fyrir því að þau Jón Þorleifsson og Guðrún Jónsdóttir hafi alltaf eða nær alltaf átt heima á Norðureyri á árunum 1767-1780 því manntalið frá 1816 sýnir að börn þeirra fæddust hér. Í sóknarmannatölum frá Stað sjáum við svo að þau stóðu hér alveg tvímælalaust fyrir búi frá 1785 til 1792[305] og verður þá að telja mjög líklegt að þau hafi búið hér óslitið í 25 ár, frá 1767 til 1792.

Í sóknarmannatalinu frá 1786 fær Jón Þorleifsson á Norðureyri þá einkunn hjá presti að hann sé siðferðisgóður og sæmilega skýr en um Guðrúnu húsfreyju segir þar að hún sé fróm og forstöndug og vel að sér.[306] Fáum árum síðar tjáir prestur sig aftur um Jón bónda Þorleifsson og segir þá að hann sé framkvæmdasamur og kostulega skýr.[307]

Þegar séra Þorsteinn Þórðarson á Stað húsvitjaði á Norðureyri í febrúarmánuði árið 1789 áttu hér heima sextán manneskjur.[308] Auk Jóns bónda Þorleifssonar og hans skylduliðs höfðust hér við í húsmennsku hjónin Eiríkur Jónsson og Cecilía Sæmundsdóttir, bæði á sextugsaldri, svo og Guðrún Jónsdóttir, sem prestur nefnir fátæka ekkju, og dóttir hennar, Guðfinna Snæbjörnsdóttir, um tíu ára aldur.[309] Líklegt er að á árunum 1784 og 1785 hafi móðuharðindin þrengt að þessu fólki eins og flestum öðrum landsmönnum og 14. nóvember 1786 andaðist nýnefnd Cecilía Sæmundsdóttir af rýrð og útslætti eins og prestur orðar það.[310] Hún átti þá enn heima á Norðureyri[311] og virðist hafa fallið úr hor.

Hjá Jóni bónda Þorleifssyni og Guðrúnu konu hans bættist hins vegar níunda barnið við um svipað leyti og Cecilía dó.[312] Það var stúlka og var henni gefið nafn hinnar látnu húskonu.[313] Sú Sesselja var árið 1816 vinnukona á Steinólfsstöðum í Veiðileysufirði í Jökulfjörðum.[314]

Hjónin Jón Þorleifsson og Guðrún Jónsdóttir hættu búskap á Norðureyri vorið 1792.[315] Þau fluttust þá að Botni og hokruðu þar á jarðarparti í eitt eða tvö ár en fóru síðan að búa í Keflavík norðan Galtar.[316] Þar voru þau 1795 og 1797 en 1799   komin aftur inn í Botn og töldust búa þar á fjórða býli.[317] Þaðan fóru þau mjög skömmu síðar og voru í febrúar árið 1801 komin til Guðríðar dóttur sinnar að Nesi í Grunnavík.[318] Gömlu hjónin úr Súgandafirði voru þá í húsmennsku á Nesi en Guðríður dóttir þeirra var þar húsfreyja, gift Oddi bónda Jónssyni.[319]

Í manntalinu frá 1801 er að vísu ekki tekið fram að húshjónin Jón Þorleifsson og Guðrún Jónsdóttir á Nesi í Grunnavík séu foreldrar Guðríðar húsfreyju þar. Engu að síður má telja nánast fullvíst að svo hafi verið því að aldur allra þessara þriggja persóna, sem upp er gefinn í manntalinu frá 1801, passar að heita má við aldur þeirra í sóknarmannatalinu úr Súgandafirði frá árinu 1786.[320] Auk þess má benda á að hjá Guðríði Jónsdóttur, húsfreyju á Nesi í Grunnavík, var árið 1801 tveggja ára stúlka, Kristín Markúsdóttir, sem sögð er vera bróðurdóttir hennar.[321] Ætla má að barnið hafi verið dóttir Markúsar Jónssonar frá Norðureyri er þá var bóndi í Botni í Súgandafirði og hér var áður nefndur. Hann átti sannanlega Kristínu fyrir dóttur sem fædd var árið 1798.[322] Sú stúlka er reyndar talin eiga heima hjá foreldrum sínum í Botni í manntalinu frá 1801 og sögð vera tveggja ára.[323] Hún kynni því að vera tvínefnd í því góða manntali en skýring þess gæti verið sú að í Botni hafi fólk litið svo á að barnið hafi aðeins verið sent norður í Grunnavík með afa sínum og ömmu til eins árs dvalar eða svo en Guðríður húsfreyja á Nesi hafi kosið að líta á þessa litlu bróðurdóttur sína sem sitt eigið fósturbarn og talið hana til heimafólks á Nesi. Sjálf var Guðríður barnlaus.[324] Árið 1816 var þessi sama Kristín Markúsdóttir vinnustúlka hjá Jóni Jónssyni, föðurbróður sínum á Hesteyri, og í manntalinu frá því ári er tekið fram að hún sé fædd í Botni í Súgandafirði.[325]

Guðrún Jónsdóttir, sem var húsfreyja á Norðureyri frá 1767 eða því sem næst og allt til ársins 1792, var enn á lífi árið 1816. Hún var þá hjá Jóni syni sínum Jónssyni, bónda á Hesteyri, sögð 75 ára gömul[326] (sbr. hér bls. 29-30). Í manntalinu frá 1816 er tekið fram að hún sé fædd í Botni í Súgandafirði[327] og má ætla að hún hafi verið dóttir einhvers þeirra þriggja Jóna sem þar bjuggu um miðbik 18. aldar (sjá hér Botn). Er hér var komið sögu var þessi fyrrum húsfreyja á Norðureyri orðin ekkja en sjö af börnum hennar voru þá á lífi, öll búsett í Sléttuhreppi eða Grunnavíkurhreppi nema Markús sem bjó í Keflavík í Suðureyrarhreppi (sjá hér bls. 29-30).

Síðustu tvö árin sem Jón Þorleifsson og Guðrún Jónsdóttir bjuggu á Norðureyri var hér tvíbýli því hjónin Þorkell Jónsson og Kristín Bergsdóttir fluttust hingað frá Gelti vorið 1790 og fengu þá þegar einhvern part úr jörðinni til ábúðar.[328] Við brottför Jóns Þorleifssonar og Guðrúnar, konu hans, vorið 1792 komu hingað önnur hjón, Jón Jónsson og Þorbjörg Bjarnadóttir, sem þá voru bæði liðlega þrítug, og fardagaárið 1792-1793 bjuggu þau hér í tvíbýli á móti Þorkeli og Kristínu.[329] Hugsanlegt er að Jón og Þorbjörg hafi verið hér við búskap í tvö eða þrjú ár en frá vorinu 1795 voru Þorkell og Kristín alveg tvímælalaust ein með alla jörðina.[330] Þau bjuggu hér búi sínu næstu ár en aldamótasumarið 1800 drukknaði Þorkell í hákarlalegu.[331] Kristín kona hans varð þá ekkja í annað sinn[332] en hún hélt búskapnum áfram og stóð hér fyrir búi allt til vorsins 1825.[333] Hún var því húsfreyja hér á Norðureyri í 35 ár og var árið 1805 orðin eigandi jarðarinnar (sjá hér bls. 11). Verður nú sagt nokkru nánar frá Kristínu og eiginmönnum hennar.

Kristín Bergsdóttir var fædd á Sæbóli á Ingjaldssandi á árunum 1751-1754.[334] Foreldrar hennar voru hjónin Bergur Ólafsson Sigurðssonar og Guðrún, dóttir Páls bónda á Kvíanesi Jónssonar, sú yngri tveggja dætra hans með því nafni.[335] Líklegt er að faðir Kristínar, Bergur Ólafsson á Sæbóli, hafi dáið ungur því hann finnst ekki í tölu bænda í vesturparti Ísafjarðarsýslu árið 1753 og ekki heldur 1762.[336] Jón Espólín, hinn fróði sýslumaður Skagfirðinga, segir að faðir Kristínar Bergsdóttur hafi verið sonur Ólafs Sigurðssonar og telur hana hafa verið eina barnið sem Bergur eignaðist.[337] Í manntalinu frá 1816 sést að Kristín var fædd á Sæbóli á Ingjaldssandi[338] og má því telja býsna líklegt að Ólafur Sigurðsson, sem var einn fjögurra bænda á Sæbóli árið 1753,[339] hafi verið föðurafi hennar.

Fyrri eiginmaður Kristínar var Jón Hákonarson, sonur Hákonar bónda á Gelti Björnssonar, en sá Hákon var launsonur Björns bónda á Meiri-Bakka í Skálavík Þorsteinssonar (sjá hér Göltur). Þau Kristín Bergsdóttir og Jón Hákonarson á Gelti virðast hafa gengið í hjónaband um 1775 því synir þeirra þrír, Bergur, Hákon og Jón, fæddust allir á árunum 1775-1782.[340] Jón Espólín nefnir þá alla með nafni og fer rétt með.[341] Synir Kristínar og Jóns Hákonarsonar fæddust á Gelti[342] svo ætla má að þau hafi búið þar.

Jón Hákonarson mun hafa andast 1782 eða 1783 og Kristín, ekkja hans, giftist öðru sinni 25. júlí 1784.[343] Seinni eiginmaður hennar var Þorkell Jónsson, er fyrr var nefndur, og þegar prestur skráir hjónavígsluna tekur hann fram að brúðguminn sé frá Vöðlum[344] í Önundarfirði. Þorkell var fæddur um 1760 og var því nokkrum árum yngri en Kristín.[345] Faðir hans hét Jón Þorleifsson.[346] Þorkell settist í bú Kristínar á Gelti og þar bjuggu þau í sex ár, frá 1784 til 1790.[347]

Á Gelti voru Þorkell og Kristín leiguliðar og ástæðan fyrir því að þau urðu að víkja þaðan hefur að líkindum verið sú að eigendur jarðarinnar hugðust hefja þar búskap (sjá hér Göltur). Líklegt er að Þorkell og Kristín hafi einnig verið leiguliðar á Norðureyri fyrstu árin en svo fór að þau náðu að kaupa þessa jörð, annað hvort bæði saman eða Kristín ein að Þorkeli látnum, því skjalfest er að hún átti Norðureyri árið 1805 (sjá hér bls. 11). Eins og fyrr var nefnt bjuggu hjón þessi hér í tvíbýli fyrstu árin en frá 1794 eða 1795 höfðu þau alla jörðina til ábúðar.[348] Er prestur húsvitjaði á Norðureyri í janúarmánuði árið 1793 voru hér þrír synir Kristínar af hennar fyrra hjónabandi, Bergur, Hákon og Jón Jónssynir.[349] Bergur er þá talinn 17 ára, Hákon 13 ára og Jón bróðir þeirra 11 ára.[350] Þorkell og Kristín áttu þá þrjár dætur, Kristínu sem var 7 ára, Guðrúnu 6 ára og Sigríði 1 árs, en haustið 1795 bættist við sonurinn Þorleifur.[351] Um svipað leyti eða skömmu fyrr fluttist Jón Þorleifsson, faðir Þorkels bónda, að Norðureyri og dvaldist hér hjá syni sínum og tengdadóttur næstu árin.[352] Hann fór frá Norðureyri árið 1801[353] og dó á Breiðabóli í Skálavík árið 1804, þá um áttrætt.[354] Þessi Jón Þorleifsson var ekki sá sami og annar maður með því nafni sem lengi bjó á Norðureyri og síðast í tvíbýli á móti Þorkeli Jónssyni á árunum 1790-1792.

Bú Þorkels og Kristínar var lítið á fyrstu árum þeirra hér. Haustið 1791 voru þau með 1 kú, 6 ær, 7 lömb, 3 aðrar sauðkindur og 1 hest.[355] Sambýlismaður Þorkels, Jón Þorleifsson, var þá með talsvert stærra bú því að hjá honum voru þrjár kýr en sauðféð var álíka margt hjá báðum.[356] Ætla má að búið hafi stækkað síðar hjá Þorkeli er hann fékk alla jörðina til ábúðar. Fjölmennt var á Norðureyri á árunum upp úr 1790 er Þorkell Jónsson og Jón Þorleifsson bjuggu hér í tvíbýli. Haustið 1791 voru 9 heimilismenn hjá Þorkeli og 12 hjá Jóni, alls 21.[357] Á aðeins einni jörð í Suðureyrarhreppi var þá fleira fólk.[358] Það var í Bæ en þar var þríbýli.[359]

Um Þorkel bónda Jónsson segir prestur árið 1793 að hann sé skikkanlegur og vel að sér og um Kristínu Bergsdóttur, konu Þorkels, kemst prestur þá svo að orði að hún sé dagfarsgóð og vel að sér.[360]

Sumarið 1800 varð heimilið á Norðureyri fyrir miklu áfalli. Þá um vorið höfðu elstu synir Kristínar húsfreyju, þeir Bergur og Hákon Jónssynir, verið í skiprúmi hjá Jóni bónda Bjarnasyni á Gelti.[361] Í vertíðarlok bað Jón háseta sína að mæta til skips 30. júlí ef sæmilega liti út með veður því ætlunin væri að fara í hákarlalegu.[362] Líklega hefur verið ráðgert að ýta úr vör að kveldi þessa dags því Kristján G. Þorvaldsson segir að bræðurnir tveir frá Norðureyri hafi lagt af stað heimleiðis úr kaupstaðnum á Ísafirði þennan sama dag.[363] Þeim gekk vel yfir heiðina og niður Botnsdalinn en þegar komið var út fyrir Gilsbrekku fór Bergur að kenna til máttleysis.[364] Hann varð brátt nær ófær til gangs og varð Hákon að styðja hann heim til bæjar í Selárdal.[365] Þar lagðist Bergur upp í rúm og sofnaði brátt en Hákon hélt ferðinni áfram.[366] Er hann kom að Norðureyri og sagði frá veikindum Bergs ákvað Þorkell bóndi, stjúpfaðir hans, að fara sjálfur í hákarlaleguna í stað piltsins sem lá veikur inn í Selárdal.[367]

Þeir Þorkell og Hákon héldu nú með færur sínar út að Gelti en það er af Bergi að segja að hann hresstist eftir skamma stund og kenndi sér þá einskis meins.[368] Hann kvaddi þá fólkið í Selárdal og hraðaði sér út að Norðureyri og þaðan út að Gelti í von um að ná skipinu áður en ýtt yrði úr vör.[369] Frá komu hans að Gelti segir Kristján G. Þorvaldsson á þessa leið:

 

Þegar hann kom á hlaðið á Gelti var honum sagt að mennirnir væru farnir út í Land en þaðan var róið en ekki kvaðst fólkið hafa séð bátinn koma fram úr vörinni. Enn var nokkur von en ekki mátti tefja. Hljóp Bergur þá sem mest hann mátti uns hann kom á Búðargilshrygg. Sá hann þá að báturinn var kominn fram úr vörinni og hafði sett upp mastur. Var seglið tafarlaust sett upp og bar ljúfur byr bátinn út með Töngum og hvarf hann brátt norður fyrir þá.[370]

 

Bergur sat eftir með sárt ennið því hann hafði haft fullan hug á að komast í leguna og fá tækifæri til að reyna sig við þann gráa. Síðar kom hins vegar á daginn að töfin, sem þessi ungi maður varð fyrir af völdum krankleikans, bjargaði í raun lífi hans því skipið frá Gelti týndist í hafi með allri áhöfn og kom aldrei til baka úr þessari leguferð.[371] Skipverjarnir sem fórust voru sex og í þeim hópi Þorkell Jónsson, bóndi á Norðureyri, og Hákon Jónsson, stjúpsonur hans,[372] sem þá var rétt um tvítugt[373] (sjá einnig hér Göltur).

Allt sem hér hefur verið sagt um ferð bræðranna, veikindi Bergs og þá skyndilegu ákvörðun Þorkels bónda að fara í hans stað í leguna er byggt á orðum Kristjáns G. Þorvaldssonar frá Selárdal. Þar á bæ hefur sagan lifað í liðlega hundrað ár og má telja nokkuð líklegt að hún sé í aðalatriðum rétt þó að nær 150 ár væru liðin frá atburðum er Kristján færði hana í letur á sínum efri árum. Húsfreyjan í Selárdal, sem tók á móti Bergi Jónssyni er hann kom þar veikur í hlað, var Guðrún Pálsdóttir, langamma Kristjáns G. Þorvaldssonar, en niðjar hennar bjuggu óslitið í Selárdal fram á hans daga.

Ekki verður feigum forðað né ófeigum í hel komið var stundum sagt á fyrri tíð og má ætla að slíkur þanki hafi vaknað hjá ýmsum sem heyrðu sagt frá skyndilegum veikindum og skjótum bata unga mannsins á Norðureyri er reyndi allt hvað hann gat til að komast með í feigðarför Jóns Bjarnasonar á Gelti og skipverja hans.

Þegar hákarlaskipið frá Gelti fórst varð Kristín Bergsdóttir á Norðureyri ekkja í annað sinn en hún missti þá bæði seinni eiginmanninn og einn sonanna sem hún hafði eignast með fyrri manninum. Svo virðist sem kona þessi hafi eflst við hverja raun því búskapnum hélt hún áfram og var búandi ekkja hér á Norðureyri næstu 25 árin.[374] Á því skeiði studdist hún fyrst við Berg, son sinn, þann sem missti af skipinu frá Gelti, en hann var um það bil 25 ára gamall þegar stjúpfaðir hans og bróðir drukknuðu.[375] Bergur kvæntist haustið 1801 konu sem Guðrún hét og var Jónsdóttir (sjá hér Staður, Staðarhús ytri þar). Fyrsta barnið sem Bergur og Guðrún eignuðust fæddist hér á Norðureyri 14. janúar 1802.[376] Það var drengur og var honum gefið nafn Hákonar, föðurbróður sins,[377] sem drukknaði aldamótasumarið 1800 og fyrr var nefndur.

Bergur Jónsson studdi móður sína við búskapinn á Norðureyri allt til ársins 1806 en þá eða einu ári síðar hóf hann búskap í Staðarhúsum ytri og bjó þar lengi.[378] Hefur áður verið frá honum sagt í þessu riti (sjá hér Staður, Staðarhús ytri þar).

Er Bergur fór frá Norðureyri varð Jón Jónsson, bróðir hans, forverksmaður móður þeirra.[379] Jón var nokkrum árum yngri en Bergur og hefur líklega verið fæddur árið 1781.[380] Hann kvæntist ekki og sat um kyrrt á Norðureyri öll árin sem móðir þeirra stýrði hér búi.[381] Árið 1812 lætur prestur þess getið að Jón sé frómlundaður en tíu árum síðar er hann sagður fáfróður og lítt kunnandi.

Elst þriggja dætra Kristínar Bergsdóttur og Þorkels Jónssonar hét Kristín eins og móðir hennar.[382] Hún giftist Sigfúsi Erlingssyni frá Botni haustið 1806[383] og um svipað leyti fengu þau ábúð á jarðarparti hér á Norðureyri.[384] Sigfús var fæddur skömmu eftir 1780, sonur hjónanna Erlings Sigfússonar og Ástríðar Guðmundsdóttur[385] sem hér er sagt frá á öðrum stað (sjá hér Botn). Sigfús bjó í tvíbýli hér á Norðureyri á móti tengdamóður sinni í nær hálfan annan áratug eða allt þar til hann andaðist 24. mars árið 1821.[386] Þau Sigfús Erlingsson og Kristín Þorkelsdóttir eignuðust nokkur börn.[387] Eitt þeirra var Þorkell sem seinna varð bóndi í Bæ (sjá hér Bær).

Við manntal 1. desember 1816 voru fimm manneskjur í heimili hjá Kristínu Bergsdóttur á Norðureyri en fjórar hjá Kristínu dóttur hennar og Sigfúsi.[388] Hjá Kristínu eldri voru þá synir hennar tveir, Jón Jónsson, 35 ára, og Þorleifur Þorkelsson, 21 árs,[389] er seinna varð bóndi á Suðureyri (sjá hér Suðureyri). Hjá henni var þá líka vinnukonan Herdís Narfadóttir, 23ja ára, og sonardóttir húsmóðurinnar, Sigurborg Bergsdóttir, fædd vorið 1808.[390] Hún var dóttir Bergs Jónssonar frá Norðureyri, sem þá var bóndi í Staðarhúsum og fyrr var frá sagt, en þessa stúlku hafði hann eignast fram hjá konu sinni með Bergljótu Össurardóttur, kornungri heimasætu í Bæ (sjá hér Staður, Staðarhús ytri þar og Bær).

Ekki er alveg ljóst hvenær Sigurborg kom til ömmu sinnar á Norðureyri. Í sóknarmannatali prestsins á Stað frá marsmánuði árið 1811 finnst nafn hennar ekki[391] og má vera að hún hafi gleymst. Ári síðar var hún tvímælalaust komin að Norðureyri, þá á fjórða ári, og hér ólst hún síðan upp á heimili ömmu sinnar, Kristínar Bergsdóttur.[392]

Árið sem Sigurborg Bergsdóttir varð 14 ára segir prestur að hún sé siðsöm en þó átti fyrir henni að liggja að verða barnshafandi er hún var að verða eða rétt orðin fimmtán ára.[393] Í þeim efnum gekk hún feti framar en móðir hennar, Bergljót Össurardóttir í Bæ, sem var 17 ára er hún eignaðist Sigurborgu (sjá hér Bær). Barnið sem Sigurborg eignaðist er hún var á sextánda ári var drengur og var hann skírður Bergur[394] í höfuðið á afa sínum, Bergi Jónssyni í Staðarhúsum, föður Sigurborgar. Faðir piltsins var Lárentíus Hallgrímsson er þá hafði verið vinnumaður á Norðureyri og í Selárdal um nokkurt skeið.[395] Bergur Lárentíusson fæddist 9. janúar 1824 og ólst að mestu leyti upp hjá afa sínum, Bergi í Staðarhúsum.[396]

Magnús Hjaltason átti tal við Sigurborgu Bergsdóttur árið 1899, er hún var um nírætt, og fór vel á með þeim (sjá hér bls. 24). Um svipað leyti heyrði hann líka rætt um barneign þessarar gömlu konu er hún var á fermingaraldri og færir almannaróm til bókar með þessum orðum:

 

Þá [1900] var enn lifandi á Gelti amma húsfreyjunnar, Sigurborg gamla Bergsdóttir, fædd í aprílmánuði árið 1806 [rétt 1808 – innsk. K.Ó.]. … Almennt var sagt að Sigurborg hefði verið ólétt er hún „gekk innar”(kristnaðist) um 1820. Sýndist það eigi hafa haft spillingu á heilsufar hennar því hún var hin hraustasta til dauðadags, dó á 100. aldursári, árið 1905 [rétt 97 ára – innsk. K.Ó.].[397]

 

Þessi frásögn Magnúsar er að líkindum byggð á svolitlum ýkjum því að Sigurborg fermdist vorið 1822 en prestur segir Berg, son hennar, hafa fæðst 9. janúar 1824[398] eins og fyrr var nefnt. Þá dagsetningu er varla hægt að rengja en þess skal samt getið að pilturinn fermdist vorið 1837[399] og ætti samkvæmt því að hafa verið einu ári eldri eins og almennt var sagt ef marka má þau orð Magnúsar Hjaltasonar sem hér var vitnað til. Dálítið undarlegt er líka að í sóknarmannatali frá árinu 1832 er Bergur Lárentíusson sagður hafa fæðst í Vatnadal[400] en Sigurborg, móðir hans, átti jafnan heima á Norðureyri uns hún fluttist að Ytri-Vatnadal vorið 1825.[401] Bergur Lárentíusson varð í fyllingu tímans bóndi í Lækjarhúsum, hjáleigu frá Stað í Súgandafirði, og seinna bjó hann í Bæ (sjá hér Bær).

Faðir Bergs Lárentíussonar, Lárentíus Hallgrímsson, fæddist á Hóli í Bolungavík 23. ágúst 1796 (sjá hér Ytri-Vatnadalur) og var því kominn hátt á þrítugsaldur er hann fór að glingra við ungmeyna Sigurborgu sem líklega hefur verið bráðþroska. Hann bar nafn afa síns Lárentíusar Erlendssonar á Hóli og mun hafa alist upp hjá honum að einhverju leyti (sjá hér Ytri-Vatnadalur) en sá Lárentíus var sonur Erlendar Ólafssonar, sýslumanns á Hóli, sem andaðist þar haustið 1772.[402]

Árið 1816 var Lárentíus Hallgrímsson hjá foreldrum sínum, Hallgrími Lárentíussyni og Þórdísi Pálmadóttur, á Ósi í Bolungavík[403] en vorið 1820 kom hann að Norðureyri og gerðist vinnumaður hjá Kristínu Bergsdóttur sem þá var hér búandi ekkja.[404] Þorleifur Þorkelsson, sonur Kristínar, fór frá móður sinni þetta sama vor yfir að Suðureyri[405] og má ætla að af þeim ástæðum hafi hún þurft á nýjum vinnumanni að halda. Að þessu sinni var Lárentíus á Norðureyri í tvö ár en fardagaárið 1822-1823 var hann vinnumaður í Selárdal,[406] næsta bæ fyrir innan Norðureyri. Vorið 1823 kom hann aftur til Kristínar Bergsdóttur á Norðureyri.[407]

Hér var þess áður getið að Bergur Lárentíusson hefði fæðst 9. janúar 1824 en 20. janúar 1825 voru foreldrar hans, þau Lárentíus Hallgrímsson og Sigurborg Bergsdóttir, pússuð saman af presti.[408] Brúðurin var þá aðeins 16 ára. Á sínum fyrstu árum í Súgandafirði fær Lárentíus þann dóm hjá viðkomandi sóknarpresti að hann sé hægferðugur og fáfróður í andlegu.[409]

Ef marka má vissar munnmælasögur hefur Lárentíus verið nokkuð ófyrirleitinn á þessum árum og hefnigjarn væri honum gert á móti skapi. Kristján G. Þorvaldsson segir frá því að haustið 1821 hafi Lárentíus verið í skiprúmi hjá Jakobi Guðmundssyni á Gelti.[410] Einn daginn kom hásetinn frá Norðureyri seint til skips og var Jakob farinn á sjó þegar Lárentíus mætti.[411] Er Jakob kom að landi um kvöldið heimtaði Lárentíus að sér yrði ætlaður hlutur við aflaskiptin þó að hann hefði ekki verið með í þessum eina róðri en því neitaði formaðurinn.[412] Sagt er að um 1820 hafi verið við lýði í Súgandafirði sú venja að hásetar sem af einhverjum ástæðum misstu úr einn og einn róður fengju engu að síður aflahlut úr þeim róðrum.[413] Sé það rétt hefur Lárentíus byggt kröfu sína á þessari hefð en Jakob á Gelti, sem hafði flust til Súgandafjarðar frá Breiðabóli í Skálavík þetta sama ár,[414] var óvanur slíku og vildi því ekki fallast á kröfuna. Um framhald þessarar deilu ritar Kristján G. Þorvaldsson svo:

 

Seint um haustið eða snemma vetrar hittust þeir Jakob og Lárentíus á Stekk á Galtarhlíð. Sló þar í harða rimmu millum þeirra. Voru báðir stórorðir og illorðir og skildu þeir með sterkustu heitingum á báðar hliðar.

Skömmu síðar fann Lárentíus vænan rekabút rekinn á Galtarhlíð. Var hann auðvitað eign Galtarbóndans en Lárentíus bar hann inn að Norðureyri, sagaði hann og klauf til eldsneytis. Sagði hann húsmóður sinni að brenna viðnum og kvað það ekki of mikið upp í hlutinn.[415]

 

Í febrúarmánuði árið 1822 andaðist Jakob bóndi á Gelti úr ókenndum sjúkdómi og varð Lárentíus þá mjög uggandi um sinn hag því hann óttaðist að dauður og afturgenginn yrði þessi fjandmaður hans sér enn erfiðari en í lifanda lífi.[416] Eitt ráð taldi hann sig þó kunna til að fyrirbyggja yfirvofandi ásókn og það var að komast að kistu hins látna.[417] Af einhverjum ástæðum var komið við á Norðureyri þegar lík Jakobs var flutt til greftrunar á Stað. Líkmönnunum var boðið heim og ætlaði Lárentíus þá að sæta lagi og komast óséður að kistunni í bátnum.[418] Ekki tókst honum þetta því ekkja Galtarbóndans, Hildur Kolbeinsdóttir, hélt kyrru fyrir í bátnum meðan líkmennirnir stöldruðu við á Norðureyri.[419]

Lárentíus svaf einn í rúmi undir baðstofuloftinu á Norðureyri og frá því sem fyrir hann bar nóttina eftir jarðarför Jakobs á Gelti segir Kristján G. Þorvaldsson á þessa leið:

 

Nóttina eftir jarðarförina vaknaði hann [Lárentíus] og sá þá Jakob standa fyrir framan rúmið allillilegan á svip. Lárentíus stökk þegar fram úr rúminu og óð að hinum dauða með steytta hnefa og hrópaði: „Ertu kominn helvískur árinn sem stalst af mér hlutnum.” Hinn sneri þegar undan en Lárentíus fylgdi fast eftir. Gætti hann ekki hvert farið var en varð þess brátt var að komið var út á tún og stefnt fram á Odda og niður í Tónu, vörina þar sem lent hafði verið með líkið daginn fyrr.

Þegar að sjónum kom breyttist svipurinn í eldglæringar sem dreifðust út yfir sjóinn og hvarf svo með öllu. Lárentíus ætlaði nú að fara til rúms síns en er að bænum kom var hann lokaður og komst maðurinn ekki inn. Varð hann því að fara og guða á glugga í baðstofunni. Kom húsmóðirin til dyra og opnaði fyrir honum.

Það var föst venja um þetta leyti að bæjum var lokað á kvöldin með loku úr tré eða járni. Var hvorki hægt að opna né loka nema að innan. Venja þessi mun hafa haldist fram á tuttugustu öld.

Ekki vitjaði Jakob Lárentíusar nema þetta eina sinn.[420]

 

Sögu þessa nefnir Kristján Gengið um læstar dyr og tilgreinir heimildarmenn sína.[421] Augljóst virðist að Lárentíus hafi sjálfur skemmt sér við að segja frá atburðum með líkum hætti og þarna er gert.

Á þeim árum sem Lárentíus Hallgrímsson var vinnumaður á Norðureyri, árunum 1820-1825, var hér jafnan tvíbýli.[422] Á annarri hálflendunni bjó Kristín Bergsdóttir, sem verið hafði húsfreyja á Norðureyri allt frá 1790, en á hinni dóttir hennar, Kristín Þorkelsdóttir, fyrst með fyrri eiginmanni sínum, Sigfúsi Erlingssyni, sem andaðist í marsmánuði árið 1821 (sjá hér bls. 36), síðan sem ekkja en frá haustinu 1822 með seinni eiginmanninum, Níels Jónssyni.[423] Þau Níels og Kristín bjuggu á Norðureyri allt til vorsins 1831 en fluttust þá að Gelti og verður nánar frá þeim sagt er við komum þangað (sjá hér Göltur).

Dauft virðist hafa verið yfir búskap mæðgnanna á Norðureyri haustið 1821 en þær voru þá báðar ekkjur og hafði sú eldri misst tvo eiginmenn en dóttir hennar einn. Kristín Bergsdóttir bjó þá með tvær kýr, sex ær, sjö lömb og einn hest, ef marka má búnaðarskýrslu, en Kristín dóttir hennar með eina kú, einn kálf, fimm ær og fjögur lömb.[424] Kristín eldri átti þá lítinn bát, sem var tveggja eða þriggja manna far, en Kristín Þorkelsdóttir átti engan bát.[425] Þrír fullfrískir karlmenn voru þá á Norðureyri[426] og hafa varla átt annríkt við að sinna þessum fáu skepnum. Tveir þeirra voru hjá Kristínu Bergsdóttur, Jón sonur hennar Jónsson og Lárentíus Hallgrímsson, en til Kristínar yngri kom Níels Jónsson, er hún giftist síðar, sem vinnumaður vorið 1821.[427]

Kristín Bergsdóttir fluttist burt frá Norðureyri vorið 1825.[428] Hún var þá komin nokkuð á áttræðisaldur og hafði verið hér húsfreyja í 35 ár.[429] Nú fylgdi hún sonardóttur sinni, Sigurborgu Bergsdóttur, og eiginmanni hennar, Lárentíusi Hallgrímssyni, að Ytri-Vatnadal en þau byrjuðu þar sinn búskap þetta sama vor.[430] Þá var Sigurborg aðeins 17 ára. Að Ytri-Vatnadal fylgdi þeim líka Jón Jónsson, sonur Kristínar, sem hér hefur áður verið nefndur.[431] Hann var þá kominn yfir fertugt en hafði jafnan haldið sig heima við og unnið að búi móður sinnar frá því hann komst á legg.[432]

Gamla húsfreyjan á Norðureyri, sem yfirgaf jörð sína á áttræðisaldri, átti þá fleiri ár fram undan en hún gat leyft sér að reikna með. Í Ytri-Vatnadal var hún hjá Sigurborgu og Lárentíusi í 20 ár og fluttist með þeim að Gelti vorið 1845 (sjá hér Ytri-Vatnadalur). Þar andaðist hún haustið 1846[433] og mun þá hafa verið komin nokkuð yfir nírætt (sjá hér bls. 32). Fáar konur í Súgandafirði hafa orðið eldri en í þann fámenna hóp komst þó sonardóttir Kristínar, Sigurborg Bergsdóttir, sem ólst upp hjá ömmu sinni á Norðureyri, því hún náði að verða 97 ára gömul og dó á Gelti eins og amman (sjá hér bls. 37 og Göltur).

Við brottför Kristínar Bergsdóttur frá Norðureyri vorið 1825 fengu dóttir hennar og tengdasonur, þau Kristín Þorkelsdóttir og Níels Jónsson sem fyrr voru nefnd, alla jörðina til ábúðar.[434] Sú skipan mála hélst þó aðeins í tvö ár því vorið 1827 fengu hjónin Jón Einarsson og Sigríður Aradóttir einhvern part úr jörðinni og hófu hér búskap í tvíbýli á móti Níels og Kristínu.[435] Jón Einarsson bjó hér aðeins í tæplega tvö ár því hann andaðist á góunni árið 1829 (sjá hér bls. 17-18) en Sigríður kona hans bjó áfram á Norðureyri allt þar til hún týndi lífi í hinu mannskæða snjóflóði sem féll á bæinn 15. desember 1836. Frá Sigríði og seinni eiginmanni hennar, Jóni Jónssyni, sem snjóflóðið varð líka að bana, hefur áður verið sagt á þessum blöðum (sjá hér bls. 17-18).

Sigríður Aradóttir og eiginmenn hennar bjuggu hér jafnan í tvíbýli.[436] Er Níels Jónsson og Kristín Þorkelsdótir fluttust frá Norðureyri að Gelti vorið 1831 tóku hjónin Hákon Bergsson og Ingibjörg Gísladóttir við jarðarpartinum sem þau höfðu búið á.[437] Hákon var sonarsonur Kristínar gömlu Bergsdóttur, sem var húsfreyja á Norureyri frá 1790 til 1825, og fæddur hér árið 1802 en foreldrar hans voru hjónin Bergur Jónsson og Guðrún Jónsdóttir sem bjuggu lengi í Staðarhúsum ytri.[438] Konu Hákonar, Ingibjörgu Gísladóttur, segir séra Eiríkur Vigfússon á Stað vera fædda á Hallsstöðum á Langadalsströnd við Djúp en hún var um það bil fimm árum yngri en eiginmaðurinn.[439] Þau Hákon og Ingibjörg bjuggu á Norðureyri í  fjögur ár, frá 1831 til 1835, og eignuðust hér a.m.k. eitt barn, dóttur sem gefið var nafnið Hallbera[440] en svo hét móðuramma Hákonar (sjá hér Staður, Staðarhús ytri þar), langamma barnsins. Hákon Bergsson fór frá Norðureyri vorið 1835 og næstu 30 árin mun enginn af niðjum Kristínar Bergsdóttur hafa staðið hér fyrir búi.[441] Þau Hákon og Ingibjörg, kona hans, fluttust inn í Djúp og bjuggu á Hallsstöðum árið 1845.[442] Tíu árum síðar var Hákon búandi ekkjumaður í Bæjum á Snæfjallaströnd og þá var María, systir hans, þar hjá honum[443] (sbr. hér Staður, Staðarhús ytri þar).

Hér er á öðrum stað sagt frá snjóflóðinu sem braut niður bæinn á Norðureyri 15. desember 1836 en sex manneskjur týndu lífi í þeim hamförum og þrjár björguðust naumlega (sjá hér bls. 14-24). Kristín Bergsdóttir, amma Hákonar Bergssonar, var enn á lífi þegar hið mannskæða snjóflóð féll á bæinn. Hún hafði ráðið hér ríkjum í 35 ár og síðan dóttir hennar og nýnefndur sonarsonur, hvert fram af öðru, næstu tíu árin, allt til vorsins 1835. Aftur á móti lenti enginn af niðjum Kristínar í snjóflóðinu 1836 og gætu hjátrúarfullir látið sér detta í hug að þetta fólk hafi fundið á sér að nú væri voðinn á næsta leiti er það setti punkt aftan við nær hálfrar aldar langa sögu svo skömmu áður en ósköpin dundu yfir.

Fardagaárið 1835-1836 bjuggu hér hjónin Jón Hallsson og Vilborg Þorsteinsdóttir í tvíbýli á móti Sigríði Aradóttur og Jóni Jónssyni[444] sem fyrr var frá sagt. Jón Hallsson og Vilborg stöldruðu ér aðeins við í eitt ár[445] og sluppu því við snjóflóðið. Þau komu hingað frá Stað og höfðu verið þar í húsmennsku en fluttust héðan vorið 1836 að Gelti og settust að í Keflavík norðan Galtar vorið 1837 (sjá hér Keflavík).

Hjónin sem hófu hér búskap á annarri hálflendunni vorið 1836 hétu Jón Jónsson og Rósinkranza Ebenesersdóttir. Hér hefur áður verið gerð grein fyrir þeim en hvorugt þeirra (sjá hér bls. 19-20) náði að una lífinu á Norðureyri nema í fáeina mánuði. Jón týndi lífi í snjóflóðinu 15. desember eins og sambýlismaður hans og alnafni en Rósinkrönsu var bjargað úr rústunum. Hún fór þá þegar burt héðan og fluttist vestur í Önundarfjörð (sjá hér bls. 19-20).

Við mannskaðann í desember 1836 fór Norðureyri í eyði og fardagaárið 1837-1838 bjó hér enginn.[446] Synir Kristínar Bergsdóttur, sem átti jörðina, þeir Bergur Jónsson í Staðarhúsum og Þorleifur Þorkelsson á Suðureyri, munu þá hafa nytjað hana að einhverju leyti[447] og má ætla að þeir hafi slegið túnið sumarið 1837. Nýr leiguliði kom að Norðureyri vorið 1838.[448] Hann fékk þó aðeins tvo þriðju hluta jarðarinnar til ábúðar, fjögur hundruð, því Þorleifur Þorkelsson á Suðureyri nytjaði tvö hundruð úr Norðureyri næstu árin.[449]

Fólkið sem fór að búa á Norðureyri vorið 1838 hefur varla átt margra góðra kosta völ því ætla má að sú ógn sem af snjóflóðahættunni stafaði á þessu býli hafi þá enn verið mjög ofarlega í hugum manna þar sem ekki var liðið nema hálft annað ár frá mannskaðanum. Bóndinn sem kom að Norðureyri vorið 1838 hét Sigurður Bjarnason.[450] Hann var þá 37 ára gamall en kona hans, Guðný Nikulásdóttir, stóð á fertugu.[451] Þau komu frá Fremri-Vatnadal og höfðu verið þar við búskap í þrjú ár.[452]

Sigurður fæddist 22. apríl 1801 á Arnarnesi í Dýrafirði en foreldrar hans, hjónin Bjarni Gunnarsson og Helga Þorláksdóttir, voru þar vinnuhjú.[453] Faðir Sigurðar, Bjarni Gunnarsson, mun lengi hafa verið vinnumaður á Arnarnesi.[454] Þegar Sigurður fermdist vorið 1818 átti hann heima á Gerðhömrum,[455] næsta bæ við Arnarnes. Að sögn prestsins var pilturinn þá vel kunnandi en daufur í skilningi.[456]

Um feril Sigurðar fyrstu árin eftir ferminguna ríkir óvissa en til Súgandafjarðar mun hann hafa komið árið 1827 eða því sem næst og fardagaárin 1827-1828 og 1828-1829 var hann vinnumaður hjá Elínu Illugadóttur, búandi ekkju á Suðureyri.[457] Haustið 1829 kvæntist hann Guðnýju Nikulásdóttur en þau voru þá bæði vinnuhjú í Bæ.[458]

Guðný var dóttir hjónanna Nikulásar Bjarnasonar og Salbjargar Gilsdóttur, fædd á Tannanesi í Önundarfirði 2. janúar 1798.[459] Frá foreldrum Guðnýjar er sagt annars staðar í þessu riti (sjá Tannanes og Kirkjuból í Korpudal). Árið 1816 var hún enn hjá föður sínum sem þá bjó á Kirkjubóli í Korpudal með seinni konu sinni, Marsibil Bernharðsdóttur.[460] Guðný Nikulásdóttir kom fyrst til dvalar í Súgandafirði vorið 1824 er hún varð vinnukona hjá hjónunum Örnólfi Snæbjörnssyni og Elínu Illugadóttur á Suðureyri.[461] Á næstu fimm árum var hún að minnsta kosti tvö ár á Suðureyri[462] og má telja líklegt að þar hafi hún komist í kynni við Sigurð Bjarnason er hún giftist haustið 1829.

Frá Bæ í Súgandafirði fóru Sigurður og Guðný að Ytri-Vatnadal vorið 1830 og voru þar vinnuhjú í tvö ár, hjá Lárentíusi Hallgrímssyni.[463] Elsta barn þeirra, drengurinn Ari, fæddist í Vatnadal 16. júlí 1830.[464] Vorið 1832 náðu hjón þessi að hefja búskap en þau fengu þá til ábúðar hálfa jörðina Keflavík og bjuggu þar í tvíbýli í þrjú ár, 1832-1835.[465] Í Fremri-Vatnadal voru þau síðan við bú frá 1835 til 1838.[466]

Er Sigurður og Guðný byrjuðu búskap sinn hér á Norðureyri vorið 1838 áttu þau fjögur börn á lífi sem öll voru fædd í Súgandafirði.[467] Á drenginn Ara var áður minnst en systur hans þrjár, Salbjörg, Helga og Sigríður, voru allar yngri en hann.[468] Sigríður var yngsta barnið, fædd 9. maí 1838,[469] og var hún því aðeins örfárra vikna gömul þegar fjölskyldan fluttist að Norðureyri í fardögum snemma í júní.

Hér á Norðureyri varð Sigurður Bjarnason að byrja á því að byggja upp nýjan bæ því snjóflóðið 15. desember 1836 hafði lagt þann gamla í rúst. Ekki verður nú sagt með fullri vissu hvort bærinn sem snjóflóðið braut niður stóð á alveg sama stað og bær Sigurðar en nær fullvíst má telja að frá 1838 hafi Norðureyrarbærinn jafnan staðið þar sem Sigurður reisti sinn bæ (sbr. hér bls. 13 og 26-27).

Þau Sigurður Bjarnason og Guðný Nikulásdóttir stóðu fyrir búi á Norðureyri í 16 ár, frá 1838 til 1854, og komu hér upp börnunum fjórum er fyrr voru nefnd.[470] Fyrstu árin á Norðureyri hafði Sigurður aðeins 4 hundruð til ábúðar því 2 hundruð voru nytjuð frá Suðureyri (sjá hér bls. 42) en árið 1850 var hann kominn með alla jörðina ef marka má búnaðarskýrslu frá því ári.[471]

Í sóknarmannatali frá árinu 1842 segir prestur Sigurð bónda á Norðureyri vera lítið að sér en Guðnýju, konu hans, betur að sér.[472] Í sóknarmannatali frá 1849 er kristindómsþekking beggja hins vegar talin góð.[473] Á búskaparárum Sigurðar og Guðnýjar hér á Norðureyri var stöku sinnum hjá þeim húsfólk. Nefna má Guðnýju Guðmundsdóttur sem var hér húskona árið 1840 og hafði hjá sér 10 ára dóttur, Júlíönu Guðmundsdóttur.[474] Fardagaárið 1850-1851 átti hér heima önnur húskona sem einnig hafði með sér stúlkubarn en þá höfðust hér við mæðgurnar Guðfinna Þorgilsdóttir, sem var liðlega fertug, og dóttir hennar, Guðbjörg Guðmundsdóttir, sögð 8 ára við húsvitjun í janúar 1851.[475] Þau Guðfinna Þorgilsdóttir, sem hér var nefnd, og Ari, sonur Sigurðar bónda og Guðnýjar húsfreyju, gengu í hjónaband haustið 1851 en sá hjúskapur stóð stutt því ekki voru liðnar nema rétt liðlega tíu vikur frá hjónavígslunni þegar Guðfinna dó úr landfarsótt.[476]

Bú Sigurðar Bjarnasonar á Norðureyri mun jafnan hafa verið fremur lítið. Árið 1840 bjó hann hér með eina kú, eina kvígu, sextán ær, níu lömb og einn hest.[477] Tíu árum síðar var búið orðið nokkru stærra, tvær kýr, þrettán ær, sextán gemlingar, sauðir og hrútar, þrettán lömb og einn hestur.[478] Bæði þessi ár átti Sigurður lítinn bát sem var tveggja eða þriggja manna far.[479]

Vorið 1854 hætti Sigurður að búa en Ari sonur hans tók þá við búsforráðum á Norðureyri.[480] Hinn ungi bóndasonur var þá nýlega kvæntur í annað sinn því haustið 1853 hafði hann gengið að eiga stúlkuna Elísabetu Guðmundsdóttur frá Hóli á Hvilftarströnd í Önundarfirði.[481] Þau Ari Sigurðsson og Elísabet, kona hans, stóðu fyrir búi á Norðureyri í þrjú ár og á þeim árum voru foreldrar Ara  hér í húsmennsku hjá syni sínum og tengdadóttur.[482] Frá Ara Sigurðssyni er sagt nánar á öðrum stað í þessu riti en frá Norðureyri fluttist hann að Botni og bjó þar í eitt ár en síðan í þrjú í hjáleigu á Keravíkurbökkum í landi Staðar í Súgandafirði (sjá hér Staður, Bakkakot þar). Þaðan fluttust Ari og Elísabet, kona hans, norður í Skálavík vorið 1861 en áttu þá aðeins fá ár ólifuð því Elísabet dó í janúarmánuði árið 1864 og Ari drukknaði á bát frá Skálavík í marsmánuði árið 1867 (sjá hér Staður, Bakkakot þar).

Foreldrar Ara, þau Sigurður Bjarnason og Guðný Nikulásdóttir, fylgdu syni sínum í öllum þessum flutningum milli bæja og fóru með honum norður í Skálavík árið 1861.[483] Þau komu hins vegar aftur til Súgandafjarðar árið 1866 og settust um kyrrt hjá Helgu dóttur sinni og eiginmanni hennar, Þórði Þórðarsyni í Vatnadal[484] (sjá hér Ytri-Vatnadalur). Þar andaðist Sigurður 1. mars 1876 en Guðný, kona hans, dó í Vatnadal 29. september 1878.[485]

Þau Sigurður Bjarnason og Guðný Nikulásdóttir, sem reistu bæinn á Norðureyri úr rústum vorið 1838, urðu mjög kynsæl er fram liðu stundir og voru niðjar dætra þeirra, Helgu og Sigríðar, lengi mjög fjölmennir í Súgandafirði.[486] Eitt af börnum Helgu var Guðrún Þórðardóttir, seinni kona Kristjáns Albertssonar á Suðureyri, en dóttir Sigríðar var Sigmundína Sigmundsdóttir, seinni kona Friðberts Guðmundssonar í Vatnadal.[487] Þriðja systirin frá Norðureyri var Salbjörg Sigurðardóttir.[488] Hún var eldri en hinar tvær og fluttist með manni sínum, Sigurði Guðmundssyni, norður í Engidal við Skutulsfjörð árið 1860.[489] Salbjörg kom aftur í Súgandafjörð árið 1865 og dó ekkja í Vatnadal mislingasumarið 1882.[490] Eitt barna hennar var Sigurður Sigurðsson sem fæddist 22. september 1858 í Bæ og dó í Bolungavík 23. júní 1942.[491]

Er feðgarnir Sigurður Bjarnason og Ari Sigurðsson fóru með allt sitt frá Norðureyri vorið 1857 féll jörðin í eyði og var óbyggð næstu tvö árin.[492] Hún var þá nytjuð af Guðmundi Guðmundssyni á Suðureyri og Lárentíusi Hallgrímssyni á Gelti[493] en eiginkonur beggja, þær Kristín Þorleifsdóttir og Sigurborg Bergsdóttir, voru sonardætur Kristínar Bergsdóttur[494] sem átt hafði Norðureyri og mun jörðin hafa verið í eigu niðja hennar á þessum árum (sjá hér bls. 11).

Fardagaárið 1859-1860 bjuggu hér hjónin Einar Brynjólfsson og Guðlaug Sigmundsdóttir en við brottför þeirra vorið 1860 féll jörðin aftur í eyði.[495] Frá Einari og Guðlaugu er sagt hér á öðrum stað (sjá Botn). Fardagaárin 1860-1861 og 1861-1862 bjó enginn á Norðureyri en vorið 1862 hófu hér búskap hjónin Jón Sakaríasson og Guðrún Þórðardóttir.[496] Þau komu hingað frá Keflavík norðan Galtar en þar höfðu þau búið í fimm ár.[497] Vorið 1862 áttu hjón þessi aðeins eitt barn á lífi, drenginn Þórarin sem var um sjö ára aldur, en dóttir þeirra, María Petrína, fæddist hér á Norðureyri í desember á því ári.[498] Með Jóni Sakaríassyni og Guðrúnu, konu hans, komu líka önnur hjón frá Keflavík og höfðust hér við í húsmennsku í eitt ár.[499] Þau hétu Jón Vigfússon og Guðný Einarsdóttir (sjá hér Keflavík). Frá Jóni Sakaríassyni er sagt svolítið nánar á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Keflavík) en hér á Norðureyri stýrði hann aðeins búi í tvö eða þrjú ár.[500]

Vorið 1864 eða 1865 urðu umskipti á Norðureyri en þá hófu hér búskap hjónin Sigurður Lárentíusson og Sigríður Árnadóttir.[501] Hann var þá liðlega þrítugur en hún átta árum yngri en eiginmaðurinn (sjá hér Botn). Sigurður var sonur hjónanna Lárentíusar Hallgrímssonar og Sigurborgar Bergsdóttur sem lengi höfðu búið á Gelti en áður í Ytri-Vatnadal.[502] Hann var því sonardóttursonur Kristínar Bergsdóttur, er verið hafði húsfreyja á Norðureyri frá 1790 til 1825, en hún átti á sínum tíma jörðina (sjá hér bls. 11 og 40-41). Skömmu áður en Sigurður byrjaði búskap sinn hér keypti Lárentíus, faðir hans, hálfa jörðina af feðgunum Þorleifi Þorkelssyni á Suðureyri, syni Kristínar Bergsdóttur, og Örnólfi, syni hans (sjá hér bls. 11). Vel má vera að Lárentíus hafi átt alla Norðureyri um skeið og sjálfur átti Sigurður 2 hundruð og 30 álnir í jörðinni er hann andaðist sumarið 1883 (sjá hér Botn) sem líklega hefur verið erfðagóss.

Eins og fyrr var nefnt átti Sigurður Lárentíusson Kristínu Bergsdóttur á Norðureyri fyrir langömmu og frá því hann hóf hér búskap árið 1864 eða 1865 voru niðjar hennar jafnan húsum ráðandi á þessari fornu bújörð allt þar til hún féll í eyði árið 1970, ef frá eru talin árin 1875-1882 og 1949-1956[503] (sbr. Firðir og fólk 1900-1999, 454).

Hjónin Sigurður Lárentíusson og Sigríður Árnadóttir bjuggu á Norðureyri í tíu eða ellefu ár en fluttust héðan inn í Botn vorið 1875 og hefur áður verið um þau fjallað í þessu riti (sjá hér Botn). Bústofn þeirra haustið 1870 var 1 kýr, 20 ær, 4 hrútar og sauðir, 12 gemlingar og 1 hestur.[504] Sigurður bóndi á Norðureyri átti þá lítinn bát sem var tveggja eða þriggja manna far.[505] Eitt barna Sigurðar Lárentíussonar og Sigríðar, konu hans, var Kristján sem seinna varð bóndi á Norðureyri og bjó hér í 43 ár á fyrri hluta tuttugustu aldar.

Fardagaárið 1875-1876 var Norðureyri í eyði en vorið 1876 settust hér að hjónin Jón Jónsson og Friðrika Friðriksdóttir.[506] Þau komu frá Hjarðardal í Önundarfirði.[507]

Jón var fæddur á Innri-Veðrará í Önundarfirði 10. júlí 1838 og var sonur hjónanna Jóns Sveinssonar og Dagbjartar Filippusdóttur[508] (sjá hér Innri-Veðrará). Dagbjört var fædd á Suðureyri í Súgandafirði 3. september 1805 og var dóttir hjónanna Filippusar Illugasonar og Guðbjargar Þorgilsdóttur er voru lengi vinnuhjú á ýmsum bæjum í Súgandafirði.[509] Föðurafi Dagbjartar var Illugi Jónsson[510] sem bjó á Laugum árið 1801 (sjá hér Laugar) en móðurafi hennar mun hafa verið Þorgils Jónsson sem bjó í Botni á árunum 1770-1790[511] og hér hefur áður verið frá sagt (sjá Botn). Jón Jónsson sem hóf búskap á Norðureyri vorið 1876 átti því ættir að rekja til Súgandafjarðar þó að hann væri fæddur í Önundarfirði og hefði alist þar upp.[512]

Friðrika Friðriksdóttir, eiginkona nýnefnds Jóns Jónssonar, hét fullu nafni Friðrika (eða Friðrikka) Jónína Georgína.[513] Hún fæddist á Brekku á Ingjaldssandi 7. október 1836 og var dóttir Friðriks Péturssonar Búsk, sem hér er sagt frá á öðrum stað (sjá Kaldá), og seinni konu hans, Guðrúnar Jónsdóttur[514] Föðurafi Friðriku var danskur verslunarmaður á Ísafirði (sjá hér Kaldá) og í manntalinu frá 1801 er faðir hennar nefndur Fridrich Peder Buschessen.[515] Árið 1858 eignaðist Friðrika dóttur með Halldóri Halldórssyni, síðar bónda á Hóli á Hvilftarströnd.[516] Sú stúlka hlaut einnig nafnið Friðrika en hún dó um þriggja ára aldur.[517]

Jón Jónsson og Friðrika Friðriksdóttir voru gefin saman í Holti í Önundarfirði haustið 1863.[518] Næstu ár áttu þau heima á ýmsum bæjum í Önundarfirði, m.a. á Vöðlum, og á árunum 1864-1870 eignuðust þau þrjú börn.[519] Öll börnin fylgdu foreldrum sínum hingað að Norðureyri vorið 1876, Friðrika Jónína, 11 ára, Ásgeir, 9 ára, og Pétur, 5 ára.[520] Á Norðureyri bættist fjórða barnið við, dóttirin Guðrún sem fæddist sumarið 1879.[521] Hún dó þriggja ára gömul en hin börnin komust upp.[522]

Jón bóndi Jónsson náði ekki að búa lengi á Norðureyri því hann andaðist, 42ja ára að aldri, 26. janúar 1881.[523] Ekkjan Friðrika hélt búskapnum áfram allt til vorsins 1889 og var hún því húsfreyja á Norðureyri í 13 ár.[524]

Bústofn Jóns og Friðriku vorið 1880 var 1 kýr, 17 ær, 3 sauðir og hrútar, 16 gemlingar og 1 hestur.[525] Jón bóndi á Norðureyri átti þá hálfan bát á móti Hálfdáni Brynjólfssyni, bónda á Gelti, og var báturinn sexæringur eða fjögra manna far.[526] Síðustu þrjú árin sem ekkjan Friðrika Friðriksdóttir bjó á Norðureyri hafði hún aðeins hálfa jörðina til ábúðar en á hinni hálflendunni bjó þá Jóhannes Albertsson sem verið hafði húsmaður hér frá 1882.[527] Síðasta sumarið sem Friðrika bjó á Norðureyri var hún kýrlaus en bjó með um það bil 20 fullorðnar sauðkindur og 12 gemlinga.[528] Þrjár af ánum voru leiguær[529] en hinar mun hún hafa átt sjálf, flestar eða allar. Friðrika átti þá líka bát, sexæring eða fjögra manna far,[530] svo hún var bærilega sett miðað við ýmsa aðra.

Er Jón bóndi Jónsson á Norðureyri andaðist í janúar 1881 voru synir þeirra Friðriku enn ungir að árum, Ásgeir 14 ára og Pétur 10 ára. Eldri drengurinn fór síðar á því ári frá Norðureyri og fluttist til Önundarfjarðar[531] svo móðir þeirra varð að fá sér vinnumann. Fyrsta ár hennar sem búandi ekkju var hjá henni Geir Gíslason, sem þá var á fimmtugsaldri,[532] seinna húsmaður á Eyri í Önundarfirði (sjá hér Eyri). Hann fór frá Norðureyri vorið 1882 en þá fékk Friðrika sér ungan vinnumann, Sigurð Sigurðsson að nafni.[533] Hann var þá 23ja ára, fæddur í Bæ í Súgandafirði haustið 1858.[534] Foreldrar hans voru Sigurður Guðmundsson og Salbjörg Sigurðardóttir[535] en faðir Salbjargar var Sigurður Bjarnason sem verið hafði bóndi hér á Norðureyri á árunum 1838-1854 (sjá hér bls. 42-45).

Sigurður Sigurðsson var vinnumaður hjá Friðriku Friðriksdóttur á Norðureyri í þrjú ár, frá 1882 til 1885,[536] og haustið 1884 barnaði hann dóttur hennar, Friðriku Jónínu Jónsdóttur sem þá var komin undir tvítugt.[537] Þeirra dóttir var Guðrún Jóna Sigurðardóttir sem fæddist á Norðureyri 5. maí 1885 og náði að komast upp.[538] Þegar barnið fæddist virðist Sigurður hafa verið farinn frá Norðureyri því hann er þá sagður vera vinnumaður á Suðureyri.[539] Seinna var hann vinnumaður í Selárdal í nokkur ár (sjá hér bls. 2 og Selárdalur) en mun hafa dáið í Bolungavík sumarið 1942.[540]

Undir lokin á búskap Friðriku Friðriksdóttur á Norðureyri var hjá henni vinnumaður sem Pétur hét Valentínusson.[541] Saman fluttust þau Friðrika húsfreyja og Pétur frá Norðureyri til Bolungavíkur vorið 1889[542] og munu síðar hafa gengið í hjónaband[543] þó að aldursmunur væri verulegur því Friðrika var 24 eða 25 árum eldri en þessi seinni eiginmaður hennar. Árið 1901 voru þau búsett í Bolungavík, í húsi sem kennt var við Pétur, og í manntalinu frá því ári er hann sagður fæddur í Setbergssókn á Snæfellsnesi.[544]

Friðrika Friðriksdóttir, áður húsfreyja á Norðureyri, varð nær 95 ára gömul en hún andaðist 20. ágúst 1931 hjá dótturdóttur sinni, sem hér var áður nefnd, og eiginmanni hennar, Halldóri Pálmasyni í Bolungavík.[545] Um niðja Friðriku má vísa til þess sem Eyjólfur Jónsson segir í riti er hann nefnir Niðjatal Sveins Jónssonar, bónda á Hesti í Önundarfirði, og Guðrúnar Jónsdóttur, konu hans.[546] Hér skal þess aðeins getið að Pétur Jónsson, sá yngri tveggja sona hennar og Jóns bónda Jónssonar á Norðureyri, fluttist til Kanada og mun hafa búið þar í Riverton í Manitoba.[547] Pétur ólst upp á Norðureyri frá 5 ára aldri og fluttist héðan á nítjánda ári norður í Skutulsfjörð vorið 1889.[548] Sagt er að hann hafi komið í heimsókn til Íslands árið 1930 en dáið, ókvæntur og barnlaus, á Gimli í Manitoba.[549] Hans er þó ekki getið í Vesturfaraskrá Júníusar H. Kristinssonar sem nær yfir tímabilið frá 1870 til 1914.[550]

Hjónin Jóhannes Albertsson og Sigríður Jónsdóttir fluttust að Norðureyri vorið 1882.[551] Þau höfðust hér við í húsmennsku næstu fjögur ár en fengu hálfa jörðina til ábúðar vorið 1886 og bjuggu hér allt til ársins 1898, jafnan í tvíbýli.[552] Frá Jóhannesi og Sigríði, konu hans, hefur áður verið sagt lítið eitt í riti þessu en þau fluttust vorið 1898 frá Norðureyri á Suðureyrarmalir og voru þriðja fjölskyldan sem settist að á Mölunum (sjá hér Suðureyri) en fólksstreymi þangað jókst á næstu árum svo úr varð þorp.

Jóhannes Albertsson var fæddur 4. ágúst 1855 í Ytri-Vatnadal en fluttist með foreldrum sínum að Gilbrekku vorið 1856 og ólst þar upp (sjá hér Gilsbrekka). Hann kvæntist Sigríði Jónsdóttur haustið 1877 en þau voru þá bæði vinnuhjú í Botni.[553] Frá uppruna Sigríðar, sem var 17 árum eldri en eiginmaðurinn, hefur áður verið greint (sjá hér Suðureyri). Vorið 1881 komst Jóhannes fyrst í bændatölu en hann fékk þá til ábúðar fáein jarðarhundruð í Botni.[554] Sá búskapur stóð aðeins í eitt ár því vorið 1882 gerðist hann húsmaður hér á Norðureyri eins og fyrr var nefnt. Þegar Jóhannes Albertsson og Sigríður, kona hans, fluttust að Norðureyri áttu þau fjögur börn, þrjár dætur og einn son.[555] Elsta barnið var fjögurra ára gamalt en það yngsta ellefu vikna.[556] Drengurinn Örnólfur ólst upp hjá föðurbróður sínum, Kristjáni Albertssyni á Suðureyri, og fór ekki með foreldrunum að Norðureyri en hingað komu þau með sínar ungu dætur.[557] Tvær þeirra, Albertínu, sem var fjögra ára, og Guðfinnu, á öðru ári, misstu þau hér, báðar í sömu vikunni, mislingasumarið 1882.[558] Það var fyrsta sumar þessarar fjölskyldu hér á Norðureyri. Yngsta dóttirin, María, sem var á fyrsta ári, lifði af og haustið 1884 eignuðust þessi fátæku hjón dreng sem þeim tókst að koma upp.[559] Honum gáfu þau nöfnin Albert Finnur,[560] að því er ætla má í minningu systranna tveggja sem dáið höfði í mislingunum.

Sigríður Jónsdóttir, eiginkona Jóhannesar Albertssonar, hafði eignast eina dóttur fyrir hjónaband, Guðrúnu Jónsdóttur sem fædd var árið 1866 og varð húsfreyja á Kvíanesi (sjá hér Kvíanes). Haustið 1882 var hún vinnukona hjá móður sinni og stjúpa hér á Norðureyri[561] og hefur líklega komið hingað með þeim um vorið.

Í sóknarmannatölum Staðarpresta er Jóhannes Albertsson talinn húsmaður á Norðureyri frá 1882 til 1886 en síðan bóndi eins og fyrr var nefnt. Í niðurjöfnunarskrá frá árinu 1888 sést að hann hafði þá hálfa jörðina til ábúðar, a.m.k. að nafninu til,[562] en bústofninn var hins vegar nær enginn, aðeins þrjár ær og einn gemlingur ef marka má búnaðarskýrslu frá sama ári.[563] Tuttugu menn töldust þá vera bændur í Suðureyrarhreppi og í þeim hópi var Jóhannes á Norðureyri, með annað tveggja minnstu búanna en hitt var á Kvíanesi hjá Friðriki Verner Gíslasyni sem þá bjó þar á einu jarðarhundraði.[564] Ljóst er að Jóhannes bóndi á Norðureyri hefur lifað á sjósókn. Árið 1888 átti hann samt engan bát[565] en ætla má að hann hafi verið í skiprúmi á Suðureyri.

Árið 1895 var bú Jóhannesar Albertssonar á Norðureyri orðið talsvert stærra en verið hafði sjö árum fyrr.[566] Enn var hann þó kýrlaus en var nú kominn með 12 ær og 10 gemlinga.[567] Auk þess átti hann eitt tryppi er hér var komið sögu en engan bát.[568] Jóhannes átti heima á Norðureyri í 16 ár, ýmist sem húsmaður eða bóndi, en á því skeiði hefur hann líklega aldrei eignast kú. Hann bjó hér jafnan í tvíbýli, fyrst á móti ekkjunni Friðriku Friðriksdóttur en frá 1889 á móti Þorleifi Sigurðssyni.[569] Er Jóhannes fór héðan vorið 1898 fékk Þorleifur alla jörðina til ábúðar.[570]

Þorleifur Sigurðsson, sem hóf búskap á Norðureyri vorið 1889, var þá þrítugur að aldri, fæddur 16. apríl 1859.[571] Hann var sonur hjónanna Sigurðar Þorleifssonar og Gróu Jónsdóttur er bjuggu um skeið á Laugum í Súgandafirði en áður á Látrum í Mjóafirði við Djúp og þar mun Þorleifur hafa fæðst (sjá hér Laugar). Sigurður, faðir Þorleifs bónda á Norðureyri, var eitt af mörgum börnum Þorleifs bónda Þorkelssonar á Suðureyri og konu hans, Valdísar Örnólfsdóttur (sjá hér Suðureyri), en sá Þorleifur var sonur Kristínar Bergsdóttur er var húsfreyja á Norðureyri frá 1790-1825 og áður var frá sagt.

Þeir Þorleifur Sigurðsson og Jóhannes Albertsson, sem voru sambýlismenn á Norðureyri frá 1889 til 1898, voru reyndar systkinasynir því Guðfinna Þorleifsdóttir á Gilsbrekku, móðir Jóhannesar, var dóttir Þorleifs Þorkelssonar á Suðureyri (sjá hér Suðureyri).

Þorleifur Sigurðsson fluttist með foreldrum sínum til Súgandafjarðar innan úr Djúpi árið 1865 eða því sem næst.[572] Hann ólst síðan upp hjá þeim á Laugum og var orðinn 15 ára er þau hættu að búa vorið 1874.[573] Um það leyti segir prestur þennan yngismann vera vel að sér.[574] Næstu tólf ár var Þorleifur jafnan vinnumaður á Suðureyri, lengst hjá Kristjáni Albertssyni.[575] Vorið 1884 gerðist ung stúlka úr Dýrafirði vinnukona hjá Kristjáni á Suðureyri. Hún hét Gunnjóna Einarsdóttir og var að verða sextán ára.[576] Öll voru þau systkinabörn, Kristján bóndi Albertsson, Þorleifur Sigurðsson, vinnumaður hans, og Gunnjóna, hin unga vinnukona.[577] Þorleifur Þorkelsson frá Norðureyri, afi þeirra allra, var líka hjá Kristjáni á Suðureyri á árunum kringum 1885, þá um nírætt (sjá hér Suðureyri), og átti kost á að veita barnabörnunum, Þorleifi Sigurðssyni og Gunnjónu, sína blessun er þau fóru að draga sig saman.

Þorleifur yngri og Gunnjóna voru samtíða á Suðureyri í tvö ár en vorið 1886 fóru þau bæði sem vinnuhjú að Laugum og síðan í húsmennsku á Gilsbrekku vorið 1887[578] (sjá hér Gilsbrekka). Ljóst virðist að þau hafi bundist heitum eigi síðar en 1886. Elsta barn þeirra, Guðni Jón, síðar bóndi í Botni, fæddist haustið 1887[579] en foreldrar hans voru hins vegar ekki pússaðir saman af presti fyrr en 9. september 1888.[580] Við hjónavígsluna er Þorleifur sagður vera húsmaður í Bæ en Gunnjóna hússtýra hans.[581] Frá Bæ færðu þau sig að Norðureyri vorið 1889 og hófu hér búskap á hálfri jörðinni eins og fyrr var nefnt (sjá hér bls. 51).

Gunnjóna Guðfinna Einarsdóttir, sem varð húsfreyja á Norðureyri vorið 1889, var fædd á Birnustöðum, næsta bæ fyrir innan Fjallaskaga í Dýrafirði, þann 13. júlí 1868.[582] Móðir hennar, Valdís Þorleifsdóttir, var þá búandi ekkja á Birnustöðum en faðir Gunnjónu, Einar Hákonarson, var vinnumaður þar.[583] Þau Valdís og Einar gengu í hjónaband fáum mánuðum síðar.[584] Valdís hafði áður verið gift Gunnari nokkrum Jónssyni og bjuggu þau um skeið á Birnustöðum.[585] Móðir Gunnjónu var dóttir Þorleifs Þorkelssonar sem lengi var bóndi á Suðureyri í Súgandafirði en síðar ráðsmaður á Fjallaskaga í Dýrafirði (sjá hér Suðureyri).

Einar Hákonarson, faðir Gunnjónu á Norðureyri, var fæddur á Hóli í Tálknafirði skömmu eftir 1840 og var sonur hjónanna Hákonar Grímssonar og Sesselju Jónsdóttur sem þar bjuggu.[586] Prestinum í Selárdal í Arnarfirði, sem þjónaði Tálknfirðingum, hefur reyndar láðst að skrásetja fæðingu Einars en síðar á ævinni var hann oft sagður fæddur í Laugardalssókn í vesturamti.[587] Kirkjustaður Tálknfirðinga var og er í Stóra-Laugardal og við hann er sóknin kennd.

Árið 1845 var Einar hjá foreldrum sínum á Hóli í Tálknafirði, sagður 4 ára gamall.[588] Þar var hann líka 1851, sagður 9 ára.[589] Haustið 1860 var hann orðinn vinnumaður á Neðrabæ í Ketildölum í Arnarfirði[590] og átti þar heima er hann fermdist vorið 1861, talinn 18 ára.[591] Foreldrar Gunnjónu voru bæði á líkum aldri því Valdís, móðir hennar, var fædd árið 1842 (sjá hér Suðureyri). Haustið 1870 voru Einar Hákonarson og Valdís, kona hans, við búskap á Leiti, einu býlanna í Alviðru í Dýrafirði.[592] Hjá þeim voru þá tvær dætur þeirra, Gunnjóna og Guðrún, og líka tvö börn sem Valdís húsfreyja hafði eignast með fyrri eiginmanni sínum, Jón 9 ára og Valdís 7 ára, Gunnarsbörn.[593]

Á uppvaxtarárunum fylgdi Gunnjóna jafnan foreldrum sínum uns hún var orðin nær 13 ára en þau bjuggu á Leiti frá 1869 eða 1870 til 1875 og síðan í tvíbýli í Innri-Lambadal til 1881.[594] Vorið 1881 gáfust þau Einar og Valdís upp á búskapnum en fóru í vinnumennsku að Ytri-Lambadal.[595] Gunnjóna dóttir þeirra, sem þá var að verða 13 ára, fór hins vegar að Mýrum og þar var hún léttastúlka í febrúar 1882.[596] Þá um vorið var hún tekin í kristinna manna tölu og við ferminguna segir prestur hegðun og kunnáttu þessarar léttastúlku vera ágæta og tekur fram að hún lesi dável.[597] Eins og fyrr var nefnt fluttist Gunnjóna til Kristjáns Albertssonar á Suðureyri vorið 1884. Hún kom þá frá Mýrum í Dýrafirði en foreldrar hennar, sem einnig gerðust vinnuhjú á Suðureyri árið 1884, komu frá Lambadal með Sesselju dóttur sína sem sögð var 13 ára.[598] Tvítug að aldri giftist Gunnjóna Þorleifi Sigurðssyni, haustið 1888, og vorið 1889 hófu þau búskap hér á Norðureyri.[599] Fyrstu níu árin bjuggu þau hér í tvíbýli á móti Jóhannesi Albertssyni.[600] Elsta barn Þorleifs og Gunnjónu, drengurinn Guðni Jón, fylgdi foreldrum sínum að Norðureyri en hann var þá á öðru ári.[601] Tvö yngri börn þeirra, Þorlaug Valdís og Sigurður, fæddust hér.[602]

Vorið 1891 var bústofn Þorleifs aðeins 10 ær og 10 gemlingar.[603] Hann átti þá hvorki kú né hest og ekki heldur bát.[604] Níu árum síðar hafði hagur Þorleifs vænkast til muna, enda var hann þá kominn með ábúð á allri jörðinni.[605] Tíundarskýrsla frá aldamótaárinu 1900 sýnir að Þorleifur bóndi á Norðureyri bjó þá með 2 kýr, 20 ær, 10 gemlinga og 1 tryppi.[606] Hann átti þá líka bát sem var reyndar aðeins tveggja manna far.[607] Áður hafði Þorleifur átt stærri bát á móti Sigurði bróður sínum, sem bjó á Gilsbrekku, og saman áttu þeir um skeið verbúð á Suðureyrarmölum (sjá hér Gilsbrekka).

Magnús Hjaltason var við barnakennslu hjá Þorleifi og Gunnjónu, konu hans, á Norðureyri veturinn 1899-1900, frá 6. nóvember til 28. janúar.[608] Nokkrum árum síðar ritaði hann nokkur orð um Þorleif og lýsir honum svo:

 

Þorleifur var góður maður og trúr og skyti ágætur, var um þetta leyti [um 1900] búinn að skjóta um 120 refi, auk annars, til dæmis sela er hann hafði allmarga fengið. Hann var meðalmaður á vöxt, skegglítill og góðlyndur.[609]

 

Skotleiknina sem Magnús minnist á kynni Þorleifur að hafa fengið að erfðum frá föður sínum sem líka var góð skytta (sjá hér Laugar).

Á búskaparárum Þorleifs Sigurðssonar og Gunnjónu Einarsdóttur voru oftast einhver skyldmenni þeirra hjá þeim hér á Norðureyri, auk barnanna.[610] Gróa Jónsdóttir, móðir Þorleifs, var hér hjá syni sínum frá 1890 til 1897 en fluttist þá í kaupstaðinn á Ísafirði.[611] Við brottför Gróu komu foreldrar Gunnjónu að Norðureyri, þau Einar Hákonarson og Valdís Þorleifsdóttir, og voru hér ýmist annað hvort eða bæði á árunum kringum aldamótin.[612] Frá 1892 til 1894 voru tvö af systkinum Þorleifs bónda líka vinnuhjú hér á Norðureyri, þau Guðbjörg og Valdimar.[613] Guðbjörg kom aftur að Norðureyri árið 1899 og hafði þá með sér ungan son sinn er hún hafði eignast á Ísafirði, Guðmund Bjarnason.[614] Faðir hans var, að sögn Magnúsar Hjaltasonar, Bjarni skáld Jónatansson, fæddur á Litlu-Þúfu í Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi 28. júlí 1875, fríður maður og kurteis og gáfaður vel.[615] Áður hafði Guðbjörg eignast dreng sem hún kenndi Kristjáni Sigurðssyni en það barn dó (sjá hér bls. 63-64).

Að Þorleifi bónda látnum lenti þessi systir hans, sem var einstæð móðir, í basli og mun hafa orðið að þiggja af sveit. Hún var enn á Norðureyri veturinn 1904-1905 og fékk þá frá hreppsnefnd Suðureyrarhrepps svohljóðandi bréf, dagsett 15. mars:

 

Við höfum frétt að þú munir vera búin að vista þig úr sveitinni og er þér þó kunnugt að þú ert ekki sjálfri þér ráðandi. Það er ósk okkar að þú getir verið kyrr þar sem þú ert því við þykjumst fullvissir um að þú eigir gott þar og sömuleiðis barnið en ef þú hefur fullgildar ástæður fyrir því að þú getir ekki verið þar sem þú ert þá verður þér komið fyrir einhvers staðar á öðrum stað í hreppnum því úr honum máttu ekki fara nema með leyfi hreppsnefndarinnar og verður það leyfi naumast veitt meðan þú ert í skuld við hreppinn en ef þú borgar skuldina og gefur okkur fullgilda sönnun fyrir uppeldi barnsins fram yfir fermingaraldur, þá er allt öðru máli að gegna. Við erum búnir að fá þig af Ísafirði með nógum kostnaði einu sinni og langar ekki til að fá þig aftur svoleiðis til fara.[616]

 

Í fundabók sem geymir afrit af bréfum hreppsnefndarinnar frá árinu 1905 sést að á fyrstu mánuðum þess árs hefur Guðbjörg ráðið sig í vist hjá Helgu Magnúsdóttur, fyrrverandi yfirsetukonu á Ísafirði, og ráð verið fyrir því gert að hún kæmi til hennar á vinnuhjúaskildaga þá um vorið.[617] Sama dag og hreppsnefndin skrifaði Guðbjörgu sendi nefndin Helgu þessari annað bréf og segir þar svo:

 

Við höfum heyrt að Guðbjörg Sigurðardóttir á Norðureyri muni vera orðin vistuð hjá yður næstkomandi vistarár. Hún hefur víst ekki tilkynnt yður að hún er naumast sjálfri sér ráðandi þar eð hún er í töluverðri skuld við hreppinn og verður henni ekki sleppt úr hreppnum nema því aðeins að hún borgi þá skuld og sjái fyrir barni sínu framvegis. Við höfum áður fengið hana frá Ísafirði með töluverðri skuld og okkur langar ekki til að fá hana þaðan aftur, máske í sama ástandi.[618]

 

Svo virðist sem þessar bréfaskriftir hafi dugað til að seinka brottför Guðbjargar úr Súgandafirði um þrjú ár. Árið 1905 fór hún ekki lengra en að Suðureyri en árið 1908 fara þau bæði úr Súgandafirði, hún og sonur hennar sem fyrr var nefndur, ef marka má sóknarmannatölin.[619] Presturinn nefnir þó ekki hvert þau fóru.[620]

Veturinn 1899-1900 var Magnús Hjaltason barnakennari hjá Þorleifi og Gunnjónu á Norðureyri frá 6. nóvember til 28. janúar. Hann var þá alveg nýlega tekinn saman við frænku sína, Guðrúnu Önnu Magnúsdóttur, er fylgdi honum æ síðan meðan bæði lifðu. Magnús kom að Norðureyri frá Botni þar sem hann hafði verið vinnumaður að hálfu en unnusta hans vinnukona að öllu (sjá hér Botn)). Er Magnús fór frá Botni varð Guðrún Anna þar eftir en hún gekk þá með fyrsta barn þeirra og var komin sjö mánuði á leið (sjá hér Botn). Hjá húsbændunum í Botni mun unnusta Magnúsar aðeins hafa verið lausráðin og líklega hefur Magnús vitað, er hann fór þaðan, að finna yrði henni annað skjól til að fæða barnið. Er liðinn var hálfur mánuður frá komu hans hingað að Norðureyri tók barnakennarinn sig til og skrifaði bréf til Guðrúnar Sigurðardóttur er þá var búandi ekkja í Bæ.[621] Í bréfinu bað hann hana að skjóta skjólshúsi yfir Guðrúnu Önnu og leyfa henni að fæða barnið í Bæ.[622] Við þessu bréfi fékk hann skömmu síðar jákvætt svar og 3. desember lagði hinn 26 ára gamli kennari af stað frá Norðureyri gangandi inn í Botn.[623] Þar kvaddi hann heitkonu sína til ferðar og saman gengu þau sem leið liggur út í Staðardal.[624] Í Bæ skildi hann stúlkuna eftir en hélt sjálfur til baka að Norðureyri.[625] Barnið fæddist svo í Bæ þann 5. janúar á nýju ári (sjá hér Bær). Boð voru send að Norðureyri er Guðrún Anna tók jóðsóttina en þegar Magnús kom á vettvang var barnið fætt fyrir hálfri annarri klukkustund.[626]

Við upphaf kennslunnar á Norðureyri þuldi Magnús stutt ávarp yfir börnunum. Þessi sín eigin orð varðveitti hann á skrifuðu blaði og hljóðuðu þau á þessa leið:

 

Góðu, kæru ungmenni!

Ég er kominn hingað til að leiðbeina ykkur í þeim greinum sem þið verðið að læra svo þið getið talist í flokki okkar, hinna fullorðnu. Þessa iðju mína, sem ég hef stundað síðan rúmt tvítugur að aldri, vil ég stunda með alúð í samvinnu við ykkur, góðu börn, í samvinnu við ykkur að því leyti að þið veitið með alúð og kostgæfni eftirtekt því sem ég tala við ykkur, ykkur til hjálpar í fræðslulegu tilliti.

Í nafni hans sem öllum hjálparþurfandi veitir líkn, sem aldrei lætur hreina og einlæga bæn óbænheyrða, það er í nafni Jesú Krists, skulum við, kæru börn, vinna að starfi okkar. Já, kæru börn, ó að allt okkar lífsstarf gæti verið í Jesú nafni.

Ég vil mega, heiðruðu ungmenni, áminna ykkur um að vera ástundunarsöm að læra, að vera gegn og bera virðingu fyrir þeim sem kennir ykkur. En þótt þið jafnan eigið að virða þann sem kennir ykkur, þá eigið þið ætíð að vera alúðleg, ljúfleg og kurteis við alla. Munið þetta, góðu börn.

Hamingjan breiði farsældarblóm á lífsveg ykkar, Amen. Í Jesú nafni, Amen!

 

Veturinn áður hafði Magnús verið við kennslu á bæjunum Keflavík og Gelti í Suðureyrarhreppi og kennslutilhögun sinni þar og á Norðureyri lýsti hann allmörgum árum síðar með þessum orðum: Hann lét börnin lesa rækilega yfir á morgnana það sem þau áttu að skila en yfirheyrslan byrjaði klukkan 10 fyrir hádegi og stóð yfir til klukkan 3 eftir hádegi.[627]

Síðdegis, milli klukkan 5 og 7, áttu börnin líka að sitja yfir lærdómnum og búa sig undir að svara þeim spurningum er vænta mátti að kennarinn legði fyrir þau næsta dag.[628]

Í dagbók sína skrifar Magnús Hjaltason eitt og annað um lífið á Norðureyri á þeim dögum er hann var þar við kennslu. Þar má sjá að fólkið sem hér bjó var farið að nota steinolíu.[629] Á jólaföstunni vildu húsráðendur birgja sig upp af þessum ágæta vökva og merkilegt er að sjá að ekki var farið í útibú Ásgeirsverslunar á Suðureyri til að kaupa olíu heldur norður í Keflavík.[630] Í þá ferð fór barnakennarinn og með honum Einar Hákonarson, faðir húsfreyjunnar.[631] Þeir komu til baka sama dag með tíu steinolíupotta er Pálmi Lárentíusson, bóndi í Keflavík, seldi Þorleifi bónda á Norðureyri.[632]

Á annan í nýári fóru þrjár manneskjur frá Norðureyri fram á sker að afla sölva, þau Þorleifur bóndi, Guðbjörg systir hans og nýnefndur Einar Hákonarson, – því sá er siður hér að gefa kúm jafnan söl með heyinu, skrifar Magnús.[633] Í dagbók sinni minnist Magnús oftar á siði fólksins sem bjó á Norðureyri og skrifar 19. janúar: Sá er siður hér á Norðureyri sem víða á Vestfjörðum að húsfreyjur halda upp á fyrsta dag þorra og gefa þá spað og nú farið að tíðkast mjög að gefa líka pönnukökur með kaffinu.[634]

Svo virðist sem Magnúsi Hjaltasyni hafi líkað vel við fólkið á Norðureyri, allt nema Einar Hákonarson, föður Gunnjónu húsfreyju.[635] Einar var í aldarlokin orðinn roskinn maður um sextugt og líklega hefur honum ekki heldur litist nema miðlungi vel á hinn unga skáldmælta barnakennara.

Þann 5. janúar þennan vetur ól heitkona Magnúsar Hjaltasonar honum dóttur eins og hér hefur áður verið nefnt en svo virðist sem Einar Hákonarson hafi talið að á síðustu vikum meðgöngutímans eða fyrstu dagana eftir barnsburðinn hafi Magnús verið kominn í tygi við Guðbjörgu Sigurðardóttur á Norðureyri, systur Þorleifs bónda,[636] en hún hafði áður eignast tvö börn í lausum leik (sjá hér bls. 54-55 og 63).

Er liðnir voru 10 dagar frá fæðingu dótturinnar frétti Magnús að Einar hefði komið boðskap sínum um þetta á framfæri við hreppsnefndina, – að ég væri í vináttu við Guðbjörgu á Norðureyri og að hann hefði heyrt mig eitt sinn fara í rúm til hennar í vetur eins og Magnús orðar það.[637] Við þessi tíðindi mun kennaranum hafa brugðið illilega í brún sem von var en allt er óljóst um það hvort einhver hæfa kann að hafa verið í orðum Einars. Í dagbók Magnúsar sjáum við reyndar að 1. desember þennan sama vetur kvað hann 5 vísur til Guðbjargar og þann 17. sama mánaðar slóst hún í för með honum út að Gelti en þangað var hann kvaddur til að skrifa bréf fyrir Guðmund bónda Ásgrímsson.[638] Slík vísnagerð hjá skáldyrðingi og samfylgd karls og konu milli bæja í skammdeginu segir út af fyrir sig ekki margt en gæti dugað til að gefa hugarfluginu lausan tauminn. Dálítið hæpið sýnist líka að reiða sig á hvað gamlir menn kunna að heyra í myrkri baðstofunnar.

Það var Guðmundur Sigurðsson á Langhól, einn þriggja hreppsnefndarmanna í Suðureyrarhreppi, sem varð fyrstur til þess að segja Magnúsi frá söguburði Einars.[639] Fáum dögum síðar kom öll hreppsnefndin að Norðureyri en í henni áttu sæti auk Guðmundar á Langhól þeir Eiríkur Egilsson á Stað og Guðmundur Guðmundsson í Rómaborg á Suðureyrarmölum sem var oddviti.[640] Magnús segir frá komu þeirra í dagbókinni og ritar á þessa leið:

 

Voru þeir með hinum óskynsamlegasta ofsa og arragangi við mig og Guðbjörgu, vinnukonu á Norðureyri. … Hreppsnefndin fór af stað aftur jafnfróð og hún kom því ekkert sannaðist af sök á mig né Guðbjörgu sem von var ekki til.[641]

 

Í nær þúsund ár höfðu hreppsnefndir um land allt strítt við að koma af sér ómegð og býsna oft var reynt, með misjöfnum árangri þó, að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða. Eitt tilhlaup af því tagi var hér í uppsiglingu. Þann 23. janúar greinir Magnús frá því að Þorleifur bóndi á Norðureyri hafi þann dag fengið boð frá oddvitanum í Rómaborg um að reka sig út.[642] Þorleifur var seinþreyttur til vandræða en hér var ekki á að lítast.

Magnúsi varð nú hugsað til heitkonu sinnar í Bæ og dóttur þeirra sem ekki var enn orðin þriggja vikna. Næsta dag settist hann við að skrifa heitkonunni bréf. Afrit af þessu bréfi færði hann inn í eina af bókum sínum en í því kemst hann meðal annars svo að orði:

 

Hjartkæra eina elskan mín.

Af heitu hjarta óska ég að bréf þetta hitti þig glaða og heila heilsu. … ég vitna það til hans sem er vinur allra sem á hans nafn vona að ég hvorki hef ætlað og hef ekki gert nokkrum manni baga með hérveru minni en megi ég ekki vitna máli mínu til almáttugs guðs, þá hætti ég líka að tala ….

Þú ert sá eini jarðneski vinur sem ég á og þér hef ég helgað hjarta mitt, já helgað mig með lífi og sál. Í hjarta þínu finn ég ekkert sem ég get lýtt en þótt ég hafi, sem ég þó sáriðrast, átalið þig stundum þá vona ég, elskan mín, að þú fyrirgefir mér það. Þú mátt því óhætt trúa því að ég elska þig af hjarta. Ég er fyrir löngu búinn að sjá tiltrú þína til mín og teldi ég mér það hina stærstu synd að brjóta hana af mér og vildi ekki missa hana fyrir allan veraldarinnar auð. …

Ekki veit ég í hvaða skyni Einar Hákonarson hefur leikið mig þannig út því það framast að ég veit hef ég ekkert gert honum til miska, ekki svo sem talað við hann eitt styggðaryrði, sem ekki er von því ég hef ekkert átt saman við hann að sælda. Hann hefur heldur ekki talað við mig neitt þessu slúðri viðvíkjandi en gert það allt á bak við mig og Guðbjörgu er hann fleirum sinnum búinn að rífast við, þó án þess að ég hafi heyrt.

Ekki kæmi mér á óvart þó þetta bragð Einars væri líkt og ráðið sem kona Pótífars greip til forðum. Það eru mestu vandræði með manninn hér á heimilinu. Gunnjóna, dóttir hans, húsmóðirin, er grátandi en hitt dauðhrætt. Hann er af og til að fara út að Gelti og vera það nætursakir. – Ekki veit ég hvað ég verð hér lengi en þegar ég fer héðan hef ég hvergi vísan stað, svo sem þú veist, fyrst ég fékk mig eftirgefinn hjá Jóhannesi [Hannessyni í Botni – innsk. K.Ó.].

Það er helgur sannleikur, þótt ég sjálfur segi frá, að ég held að enginn finni betur hvað vel er gjört en ég. Eins líka á hinn veginn hygg ég að enginn finni sárara til ef hann verður fyrir vondu eða ranglæti en ég. Ég vil heldur lifa nakinn í friði en við allsnægtir í sundurlyndi, ég get það ekki. Það er víst að okkar himneski faðir hefur sýnt á mér dásemdarverk sitt þar sem hann valdi mér þig til unnustu og þakka ég honum hjartanlega fyrir það. … [643]

 

Í bréfinu sem hér var vitnað til segist Magnús ekki vita hvenær hann fari frá Norðureyri. Hann átti þó aðeins eftir að vera hér í fjóra daga.[644] Þegar Magnús nefnir í bréfi sínu ráðið sem kona Pótífars greip til forðum gefur hann í skyn að Einar karlinn Hákonarson hafi sjálfur verið að manga til við Guðbjörgu en kosið að snúa staðreyndunum við.[645]

Er Þorleifur bóndi á Norðureyri hafði hugsað ráð sitt í fjóra daga frá því honum barst tilskipun Guðmundar í Rómaborg kom hann að máli við kennarann og kvaðst verða að láta hann fara vegna hótana hreppsnefndarinnar.[646] Næsta dag tók Magnús saman pjönkur sínar og yfirgaf Norðureyri.[647] Hann átti nú sem oftar í fá hús að venda en tók það ráð að fara rakleiðis út í Bæ og ræða við heitkonu sína sem þar dvaldist enn í skjóli ekkjunnar, Guðrúnar Sigurðardóttur.[648]Mátti fyllilega sjá á unnustu minni að miður heppileg áhrif hafði orðrómur sá haft á hana, ritar hinn vegvillti hrakningsmaður í dagbók sína þá um kvöldið.

Í nokkra daga hélt Magnús kyrru fyrir í Bæ en fór svo fótgangandi á Ísafjörð með auglýsingu er hann hugðist fá birta í blaðinu Hauki sem þar var gefið út.[649] Í auglýsingu þessari lýsti hann Einar Hákonarson á Norðureyri helberan ósannindamann.[650]

Magnús getur um auglýsinguna í dagbók sinni og hefur eflaust farið með hana á fund ritstjórans en hún virðist aldrei hafa birst í blaðinu.[651] Árið 1899 fylgdi Hauki sérstakt auglýsingablað en svo mun ekki hafa verið árið 1900[652] og engar auglýsingar eða aðsendar greinar birtust þá í því blaði.[653] Í þessum sviptingum tókst Magnúsi hins vegar að tryggja sér skriflega yfirlýsingu frá húsbændunum á Norðureyri, þeim Þorleifi Sigurðssyni og Gunnjónu Einarsdóttur, þar sem lýst var yfir að sjálfur væri hann friðsemdarmaður mesti og hafi á kennslutímanum ávallt komið fram til góðs ef eitthvað hafi á orðið misjafnt.[654] Í þessari sömu yfirlýsingu var einnig tekið fram að við kennsluna væri Magnús einstaklega nákvæmur og ástundunarsamur og í einu orði sagt mesta prúðmenni í sínum framgangi.[655]

Frá örðugu lífsstríði alþýðuskáldsins Magnúsar Hjaltasonar á fyrstu vikunum eftir brottför hans frá Norðureyri er sagt lítið eitt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Bær).

Hvort reiðiorð Magnúsar um Einar Hákonarson feli í sér eitthvert brot af sannleik um þann Tálknfirðing skal ósagt látið en vera má að karlinn hafi haft hug á Guðbjörgu þó gamall væri. Í skrifi frá árinu 1914 lætur Magnús þess getið að er hann var á Norðureyri hafi Einar og Valdís kona hans Þorleifsdóttir verið skilin að samvistum, enda hafi Einar ekki verið neinn geðhægðarmaður – öðru nær.[656] Sóknarmannatöl staðfesta að Valdís fór frá Norðureyri árið 1899 en Einar sat þar eftir.[657] Tveimur árum síðar var Valdís búsett hjá Sesselju, dóttur þeirra Einars, á Ósi í Bolungavík.[658] Er manntal var tekið 1. nóvember 1901 var Einar reyndar líka staddur á Ósi en sagður vera þar gestkomandi og eiga heima á Norðureyri.[659]

Eftir 1901 voru þau Einar og Valdís sjaldan undir sama þaki. Frá 1899 til 1907 eða 1908 var Valdís jafnan hjá Sesselju dóttur þeirra á Ósi í Bolungavík en þar var Einar aðeins talinn vera búsettur við ein áramót á því skeiði, það er í lok ársins 1903.[660] Valdís kom aftur frá Ósi að Norðureyri árið 1907 eða 1908 og átti hér heima þaðan í frá allt til dauðadags eða því sem næst en hún andaðist vorið 1918.[661] Skömmu eftir brottför Valdísar frá Ósi settist Einar þar að[662] og dó þar hjá Sesselju dóttur sinni 21. apríl 1915.[663]

Halldór Guðmundsson, sem lengi átti heima á Suðureyri, var með Einari Hákonarsyni í skiprúmi á Gelti vorið 1899 og lýsir honum á annan veg en Magnús Hjaltason. Um Einar skrifar Halldór þetta:

 

Einar var hagur maður og skar prýðilega í tré, bæði höfðaletur og annað til prýðis. Hann var duglegur til vinnu, bæði á sjó og landi. Að skapgerð var hann nokkuð ör í lund en hreinskilinn og drengur góður.[664]

 

Magnús Hjaltason lætur aftur á móti miklu betur af Valdísi, konu Einars Hákonarsonar, og virðist hafa náð að kynnast henni eitthvað þó að hún væri ekki á Norðureyri er hann var þar við kennslu. Magnús segir á einum stað að Valdís sé góð kona og skynsöm.[665] Vorið 1916 átti hún heima hjá Gunnjónu dóttur sinni á Norðureyri.[666] Magnús bjó þá í litlum kofa í þorpinu handan fjarðarins og einn daginn kom þessi gamla kona í heimsókn.[667] Hún sat þá góða stund hjá skáldinu sem áður kenndi dótturbörnum hennar á Norðureyri.[668] Þetta var síðasta vorið sem Magnús lifði. Hann getur um heimsóknina í dagbók sinni og kemst þá svo að orði að Valdís sé ágætiskona mikil.[669] Hann taldi hana þá vera áttræða[670] en hún var reyndar sex árum yngri, fædd 1842 (sjá hér Suðureyri).

Þorleifur Sigurðsson, bóndi á Norðureyri, sem hér var áður frá sagt, tengdasonur Valdísar, andaðist 28. apríl árið 1902 og var þá aðeins 43ja ára.[671] Ekkja hans, Gunnjóna Einarsdóttir, bjó áfram á jörðinni en fyrsta árið eftir andlát Þorleifs var hún þó aðeins með ábúð á henni hálfri.[672] Hin hálflendan var þá nytjuð frá Gelti en þar bjó Guðmundur Ásgrímsson[673] sem átti Norðureyri. Gunnjóna giftist í annað sinn 21. október 1906 en seinni maður hennar var Kristján Sigurðsson.[674] Húsfreyju þessari á Norðureyri lýsir Magnús Hjaltason svo:

 

Gunnjóna kona hans [Þorleifs á Norðureyri] var hinn mesti kvenforkur, rausnarkona með afbrigðum og dugleg, skapstór nokkuð. Hún var há vesti og þrekin, svört á hár og farfadökk í andliti, gustmikil í gangi.[675]

 

Gunnjónu á á Norðureyri og seinni eiginmanni hennar, Kristjáni Sigurðssyni, átti Magnús að lokum stærri skuld að gjalda en flestum öðrum því það voru þau sem buðu fylgikonu hans og ungum syni að dveljast hjá sér þegar allra verst stóð á fyrir hinum fyrrverandi barnakennara og hann átti hvergi hæli tryggt fyrir sig og sína en beið þess að verða dæmdur í tugthús (sjá hér Suðureyri) það var veturinn 1910-1911.

Kristján Sigurðsson sem kvæntist ekkjunni Gunnjónu Einarsdóttur árið 1906 mun þá hafa verið liðlega þrítugur að aldri[676] en Gunnjóna var átta árum eldri eða því sem næst (sjá hér bls. 52). Kristján var sonur hjónanna Sigurðar Lárentíussonar og Sigríðar Árnadóttur[677] og mun að líkindum hafa fæðst hér á Norðureyri. Sóknarprestinum sem þá þjónaði Súgfirðingum, séra Stefáni P. Stephensen í Holti, hefur reyndar láðst að bóka fæðingu þessa pilts[678] svo hyggilegt er að hafa svolítinn fyrirvara á um fæðingardaginn og þá einnig um fæðingarstað. Vorið 1889 var Kristján tekinn í kristinna manna tölu og er við ferminguna sagður fæddur 14. maí 1875.[679] Sé það rétt má ætla að hann hafi fæðst hér á Norðureyri því foreldrar hans bjuggu hér frá 1865 til 1875 en fluttust búferlum inn í Botn á því ári (sjá hér bls. 46). Nær fullvíst má telja að þeir búferlaflutningar hafi átt sér stað í fardögum, það er snemma í júní, svo sem venja var, og hefur Kristján þá verið um það bil þriggja vikna gamall.

Frá foreldrum Kristjáns Sigurðssonar er sagt hér á öðrum stað (sjá hér Botn) en af þeim hafði hann reyndar lítið að segja og bæði dóu þau sumarið 1883 þegar drengurinn var átta ára gamall. Í sóknarmannatölum Staðarpresta er Kristján fyrst nefndur 31. desember 1877 og er þá sagður vera tveggja ára tökubarn á Gelti.[680] Líklegt er að hann hafi farið að Gelti mjög skömmu eftir fæðinguna og þar ólst hann upp hjá föðurbróður sínum, Ólafi Lárentíussyni, og konu hans, Guðrúnu Þórðardóttur, og svo hjá dóttur þeirra, Guðrúnu Ólafsdóttur, og eiginmanni hennar, Guðmundi Ásgrímssyni, bónda á Gelti.[681] Þegar Kristján var fjögra og fimm ára var hann reyndar með frænda sínum og fóstra, Ólafi Lárentíussyni, í Bæ en Ólafur bjó þar frá 1879 til 1881.[682] Þaðan fór drengurinn aftur að Gelti vorið 1881 með Ólafi og Guðrúnu, konu hans, og átti þar jafnan heima þaðan í frá allt til ársins 1896.[683]

Sumarið 1893 voru Kristjáni Sigurðssyni kennd tvö börn og fæddist annað þeirra 13. júlí en hitt 13. ágúst.[684] Hann var þá 18 ára. Mæður þessara barna voru Guðbjörg Sigurðardóttir, sem hér var fyrr frá sagt, og Gróa, systir hennar, en bróðir þeirra var Þorleifur Sigurðsson, bóndi á Norðureyri, eiginmaður Gunnjónu Einarsdóttur sem Kristján kvæntist síðar.[685] Hér hefur áður verið sagt nokkuð frá Guðbjörgu (sjá bls. 54-61) en um Gróu, systur hennar, skal þess getið að hún ólst að miklu leyti upp á Gelti og átti þar heima þegar Kristján gerði henni barnið.[686] Systurnar Guðbjörg og Gróa voru báðar rétt liðlega tvítugar sumarið 1893. Guðbjörg var fædd á Laugum 8. mars 1871 og Gróa fæddist þar 24. júlí 1872.[687]

Barnið sem Gróa Sigurðardóttir eignaðist sumarið 1893 fæddist á Gelti þann 13. júlí.[688] Það var stúlka. Hún var skírð Sigríður Jóna og gekkst Kristján við faðerninu.[689] Þetta sumar var hin systirin vinnukona í Bæ.[690] Hún varð léttari 13. ágúst og ól dreng sem var skírður Guðbjartur.[691] Lýsti hún Kristján föður að barninu en hann neitaði.[692] Drengurinn Guðbjartur, sonur Guðbjargar, dó sama dag og hann fæddist, án þess að hafa verið feðraður, en stúlkan Sigríður Jóna, dóttir Kristjáns og Gróu, dó ellefu mánaða gömul 15. júní 1894.[693] Líklega hefur Kristján farið sér hægt í kvennamálum næstu árin því ekki er kunnugt um að honum hafi þaðan í frá verið kennt nokkurt barn fyrr en hann var sestur í bú hjá ekkjunni Gunnjónu hér á Norðureyri og hóf barneignir með henni.

Á árunum 1889-1896 var Kristján jafnan vinnumaður á Gelti[694] en fór vorið 1896 norður í Skálavík og var þar í eitt ár.[695]

Að Norðureyri kom Kristján Sigurðsson fyrst sem vinnumaður vorið 1897 og var hér vistráðinn hjá Þorleifi og Gunnjónu næstu fjögur ár.[696] Á þeim árum keypti hann 6 hundruð úr jörðinni Botni í Súgandafirði og var það jarðarskiki sem Steindór Sigurðsson, eldri bróðir hans, hafði átt (sjá hér Botn). Er Kristján fór frá Norðureyri vorið 1901 færði hann sig í Botn, án þess þó að taka þar við búsforráðum[697] og er manntal var tekið um haustið var hann í sjóbúð á Bolungavíkurmölum, sagður aðkominn frá Botni.[698] Á næsta ári andaðist Þorleifur bóndi á Norðureyri og vorið 1903 fór Kristján aftur til sinnar fyrri húsmóður, ekkjunnar Gunnjónu Einarsdóttur,[699] og gerðist forverksmaður hennar. Við lok ársins 1903 segir prestur hann reyndar vera lausamann á Norðureyri en tveimur árum síðar vinnumann og haustið 1906 gengu Kristján og Gunnjóna í hjónaband eins og hér var áður nefnt. Elsta barn þeirra, drengurinn Þorleifur Sigurbergur, var þá rétt liðlega eins árs[700] og seinna bættust við tvö önnur börn hjá þessum hjónum.[701]

Þegar Kristján kvæntist Gunnjónu tók hann við búsforráðum á Norðureyri og stýrðu þau bæði búinu allt þar til Gunnjóna dó en hún andaðist árið 1941 (sjá hér Firðir og fólk 1900-1999, 454). Að konu sinni látinni hélt Kristján búskapnum áfram og hætti ekki að búa fyrr en 1949 (sjá hér Firðir og fólk 1900-1999, 454). Þá hafði hann verið bóndi á Norðureyri í 43 ár og átt hér heima í 50 ár. Hann mun hafa hafst við á Norðureyri fram yfir áttrætt og ekki farið héðan fyrr en 1956.[702] Kristján keypti jörðina árið 1911 eins og hér hefur áður verið nefnt (sjá bls. 11-12) og var því lengst af sjálfseignarbóndi. Árið 1916 átti hann alla Norðureyri og þrjá áttundu hluta úr Botni[703] og svo mun lengi hafa verið.

Búskaparsaga Kristjáns Sigurðssonar verður ekki rakin hér, enda fór hann ekki að búa fyrr en komið var fram á tuttugustu öld. Svolítið hefur verið um hann ritað á öðrum vettvangi og þá einkum af Gunnari M. Magnúss.[704] Gunnar segir að Kristján bóndi á Norðureyri hafi verið maður fáorður[705] og ekki staðið lengi á tali við menn[706] en hann hafi haldið uppi heiðri vestfirsks tungutaks og talað með líkum hætti og fram kemur í vísunni alkunnu sem byrjar svo: Nordan hardan gerdi gard, geysi hardur vard hann … .[707] Ætla má að þetta sé nærri lagi hjá Gunnari því hann var sjálfur lengi búsettur í þorpinu á Suðureyri í Súgandafirði á blómaskeiði Kristjáns.

Oft fór Kristján yfir fjörðinn, einn á litlum pramma, frá Norðureyri að Suðureyri og aftur til baka. Rétt fyrir jólin árið 1913 komst bóndi þessi í hann krappan í slíkri ferð. Þá hvolfdi prammanum og Kristján, sem mun hafa verið ósyndur, fór í sjóinn.[708] Þegar menn komu til hjálpar á elleftu stundu var hann orðinn meðvitundarlaus og rankaði ekki við fyrr en eftir klukkutíma, að sögn Magnúsar Hjaltasonar sem þá var búsettur á Suðureyri.[709]

Lengst mun Kristjáns verða minnst fyrir aðgerðir sínar gegn snjóflóðahættunni á Norðureyri en það var hann sem á árunum kringum 1920 byggði hinn öfluga snjóflóðakljúf er enn stendur (1996) ofan við íbúðarhúsið sem nú er orðið hrörlegt (sjá hér bls. 26-27). Á búskaparárum Kristjáns mun mesta tjónið af völdum snjóflóða á Norðureyri hafa orðið 19. janúar 1930 en það varð 45 kindum að bana og eyðilagði gjörsamlega fjárhús, hjall og geymsluhús (sjá hér bls. 26-27). Vegna hins mikla skaða sem Kristján og Gunnjóna urðu þá fyrir réttu ýmsir sveitungar þeirra þeim hjálparhönd og í lok góu þennan sama vetur sendu hjónin á Norðureyri frá sér þakkarávarp af því tilefni. Það birtist í blaðinu Vesturlandi 29. mars 1930.

Við tökum nú að búa okkur til brottfarar frá Norðureyri. Um steinsteypta íbúðarhúsið, sem enn (1996) hangir hér uppi hefur áður verið rætt á þessum blöðum (sjá hér bls. 26-27). Það var byggt á árunum upp úr 1920. Grunnflöt þessa tveggja hæða húss segir Valdimar Þorvaldsson smiður vera 21 x 22 fet[710] eða liðlega 45 fermetra. Mun það láta nærri. Húsið er nú fyrir löngu orðið óhæft til íbúðar. Undir nokkrum hluta þess var kjallari.[711] Allt var það innanþiljað og skilrúmað með timbri.[712] Gólfið var líka úr tré og loftið yfir neðri hæðinni.[713]

Húsið á Norðureyri mun vera fyrsta íbúðarhúsið sem byggt var úr steinsteypu í Suðureyrarhreppi. Í manntalinu frá 1940 er það sagt vera 20 ára gamalt[714] og ætti þá að hafa verið byggt árið 1920. Vera má að það sé ekki alveg hárrétt og Valdimar Þorvaldsson segir húsið vera byggt 1925.[715] Fullvíst má telja að það hafi ekki verið byggt fyrir 1920 og ekki seinna en 1925 (sbr. hér bls. 26). Í Fasteignabók frá árinu 1932 er íbúðarhúsið á Norðureyri samt sem áður sagt vera úr timbri[716] en það er tvímælalaust rangt. Útihúsin sem byggð voru úr steinsteypu, sjávarmegin við íbúðarhúsið, sumarið 1930 (sjá hér bls. 27) eru nú rústir einar og lítil ummerki sjást um eldri gripahús því túnið hefur verið sléttað.

Torfbærinn sem fólkið á Norðureyri bjó í á fyrstu árum tuttugustu aldar stóð á sama stað og steinhúsið stendur nú (sjá hér bls. 13 og 26-27). Valdimar Þorvaldsson, sem þekkti hér vel til á þeim árum, segir að bæjardyrnar hafi snúið fram,[717] það er í átt að eyraroddanum. Bæjargöngin voru stutt en þegar inn var farið var eldhúsið á hægri hönd en baðstofan á vinstri hönd.[718] Inn í báðar þessar vistarverur var gengið úr bæjargöngunum.[719] Baðstofan var þiljuð innan og með lofti.[720] Þar uppi var hefluð skarsúð.[721]

Um 1890 var baðstofan á Norðureyri 7 x 12 fet,[722] það er 3,8 x 2,2 metrar eða liðlega 8 fermetrar. Tvö þverrúm voru þá á baðstofuloftinu og einn lítill gluggi á hvorri hlið.[723] Skömmu fyrir 1900 var baðstofan lengd úr tólf fetum í átján og í annan gaflinn var þá sett timburþil sem náði frá mæni niður að jörð.[724] Við þessa lengingu stækkaði grunnflötur baðstofunnar úr liðlega 8 fermetrum í liðlega 12 fermetra.

Á árunum kringum 1890 og allt til 1898 voru bæirnir á Norðureyri reyndar tveir[725] og svo mun að líkindum hafa verið frá 1882 en á því ári fluttust hingað hjónin Jóhannes Albertsson og Sigríður Jónsdóttir (sjá hér bls. 50-51). Þaðan í frá voru jafnan tvö heimili á Norðureyri uns Jóhannes fluttist yfir á Suðureyrarmalir árið 1898.[726]

Í bænum sem hér var lýst bjuggu frá 1889 hjónin Þorleifur Sigurðsson og Gunnjóna Einarsdóttir og svo Gunnjóna og seinni eiginmaður hennar, Kristján Sigurðsson, uns þau reistu steinhúsið á árunum upp úr 1920.[727] Jóhannes Albertsson og Sigríður, kona hans, bjuggu aftur á móti í torfkofa sem hann átti sjálfur og stóð á bakkanum, innan og neðan við hinn bæinn.[728] Hjá þeim var allt á einni hæð því ekkert loft var í kofanum.[729] Grunnflötur hans var 9 x 14 fet[730] eða 2,8 x 4,4 metrar, það er liðlega 12 fermetrar. Þetta hús var óþiljað innan en stúkað sundur í tvennt með skilrúmi úr tré.[731] Valdimar Þorvaldsson lýsir nánar húsakynnunum hjá Jóhannesi og segir: Fremra plássið var gangur, geymsla og eldhús, hlóð byggð inn í vegginn. Í innra plássinu voru rúmin og fólkið.[732]

Mjög líklegt má telja að Jóhannes hafi byggt þennan litla bæ vorið 1882 en hingað kom hann með fjölskyldu sína í fardögum á því ári. Þau Sigríður áttu þá fjögur börn á lífi en misstu tvö þeirra í hinum mannskæðu mislingum sem urðu mörgum að bana sumarið 1882 (sjá hér bls. 50-52. Sbr. hér Suðureyrarhreppur, inngangskafli). Ætla má að dæturnar tvær, sem Jóhannes og Sigríður, kona hans, misstu sumarið 1882, hafi dáið í hreysi því er hér var síðast lýst og þar mun einnig hafa fæðst yngsta barn þeirra, drengurinn Albert Finnur, sem fyrst leit dagsins ljós þann 13. nóvember 1884 og náði að vaxa úr grasi.[733]

Í torfkofanum sem Jóhannes Albertsson og fjölskylda hans höfðust við í mun fólk aldrei hafa búið eftir 1898 en vera má að hann hafi verið notaður sem fjárhús. Í hinum torfbænum hér á Norðureyri var aftur á móti búið allt þar til steinhúsið var reist á árunum upp úr 1920 eins og hér hefur áður verið nefnt. Svo virðist sem bærinn og útihúsin hafi verið í þokkalegu ástandi árið 1916 því að matsmennirnir sem virtu húsakost Súgfirðinga á því ári töldu húsin á Norðureyri vera 1.200,- króna virði.[734] Að Suðureyri frátalinni voru þá komin íbúðarhús úr timbri á fimm býlum í Súgandafirði, það er að segja í Selárdal, á báðum bæjunum í Botni og svo á Stað og í Bæ. Á öllum þessum býlum voru húsin talin verðmeiri en á Norðureyri árið 1916.[735] Á hinum sex býlunum, sem í byggð voru í Suðureyrarhreppi, bjó fólkið enn í torfbæjum eða í húsum úr torfi og timbri. Heildarmatsverð bæja og útihúsa á þessum sex býlum var 4.500,- krónur og hæst á Norðureyri,[736] 1.200,- krónur eins og fyrr var nefnt. Á Gelti, Kvíanesi og Laugum var matsverð húsanna lægra og einnig í Fremri- og Ytri-Vatnadal en Gilsbrekka og Keflavík lágu í eyði.[737]

Við stöndum nú á gamla bæjarhlaðinu á Norðureyri og áður en lagt verður af stað út að Gelti mun rétt að hyggja að fornum eyktamörkum fólksins sem hér bjó en þau voru, að sögn Kristjáns G. Þorvaldssonar, þessi: Dagmál – Klettafjall innan við Míganda (sjá hér Selárdalur). Hádegi – Kvíanesnúpur (sjá hér Kvíanes). Nón – innan við Nónhorn á Suðureyri (sjá hér Suðureyri). Miðaftann – Nesklauf á Sauðanesi (sjá hér Staður, bls. 1-2 þar). Náttmál – Galtartangar (sjá hér Göltur).[738] Fram skal tekið að ekkert fjall ofan við Suðureyri ber nú nafnið Nónhorn en ytra hornið á Breiðafjalli var nefnt svo á fyrri tíð og var eyktamark frá gamla Suðureyrarbænum sem fluttur var á nýtt bæjarstæði um eða upp úr 1760 (sjá hér Suðureyri). Nesklauf, er hér var nefnd sem eyktamark, er að því er ætla má yst á Sauðanesi. Sé horft þangað frá Norðureyri blasir við dálítill stallur, mjög skammt fyrir neðan efstu brún fjallsins og allra yst þar. Rétt fyrir innan þennan stall sýnist vera, – skoðað frá bæjarstæðinu á Norðureyri, – nokkuð áberandi gil sem nær frá efstu brún Sauðaness og alllangt niður í hlíðina. Líklegt má telja að það sé þetta gil sem heimafólk á Norðureyri nefndi Nesklauf.

Hlíðinni innan og ofan við Norðureyri hefur áður verið lýst á þessum blöðum (sjá hér bls. 1-4 og 12-13) en hún er snarbrött og mun hallinn vera um 30 gráður hér ofan við eyrina. Sé litið til fjalls beinist athyglin fljótt að Norðureyrargili sem er hér alveg rétt utan við eyrina og nær frá fjöru til fjalls. Úr því koma flest snjóflóðin sem ógnuðu mönnum og skepnum á þessari snjóflóðajörð eins og hér hefur áður verið nefnt. Héðan frá bænum blasir við sjónum kletturinn Neðri-Óþoli, sem einnig var nefndur Lægri-Óþoli, í drögunum sem halla út að Norðureyrargili. Hann er rétt ofan við ytri endann á hæstu klettagjörðinni, aðeins innan við bæinn og að heita má beint upp af bæjarlæknum sem fellur niður hlíðina.[739] Þegar klettur þessi stóð upp úr snjónum var bærinn á Norðureyri ekki talinn í verulegri hættu en fennti Neðri-Óþola á kaf var voðinn á næsta leiti.[740] Ofan við Neðri-Óþola er svo Efri-Óþoli, aurhnúkur í fjallsbrúninni.[741] Flat, er svo heitir, sjáum við líka en það er sléttur hjalli á klettunum innan við gilið, fyrir utan og neðan Lægri-Óþola[742] og alveg beint upp af bænum.[743] Að sögn kunnugra koma allra stærstu snjóflóðin á Norðureyri úr lautinni ofan við brún þessa hjalla.[744]

Þó að hlíðin ofan við Norðureyri sé brött og fjallsbrúnin í nær 500 metra hæð yfir sjávarmáli, þá var stundum farið hér beint yfir fjallið ættu menn erindi til Skálavíkur.[745] Frá brúninni ofan við Norðureyri var stefnan þá tekin á Bakkaskarð[746] og komið niður á Meiri-Bakka í Skálavík. Milli brúna er þessi leið um það bil hálfur annar kílómetri. Þarna uppi er villugjarnt (sjá hér Keflavík) og í slíkar ferðir mun sjaldan hafa verið lagt nema í björtu veðri.[747]

Við röltum nú af stað frá bæjarhlaðinu á Norðureyri en förum okkur hægt í fyrstu og litumst um á eyrinni. Á fyrri tíð náði túnið aðeins yfir fremri hluta hennar, upp á Melborgina,[748] sem hér hefur áður verið nefnd, en hún var aðeins 50-60 metrum fyrir ofan bæinn (sjá hér bls. 13). Ofan við Melborg var á fyrri tíð sandur og lágir melhólar.[749] Nú er Melborgin nær alveg horfin og mun hafa verið sléttuð út en við ræktunarframkvæmdir á fyrri hluta tuttugustu aldar var túnið stækkað svo það náði yfir alla eyrina og alveg upp að hlíðarfætinum.[750] Á síðustu búskaparárum Kristjáns Sigurðssonar, er hér stýrði búi frá 1906 til 1949 (sjá hér bls. 62-65), var áburður líka borinn á stóra bletti uppi í hlíðinni[751] til að auka heyfenginn.

Fremsti hluti túnsins á Norðureyri heitir Oddi.[752] Úr fjörunni neðan við hann eru aðeins 500-600 metrar yfir á fremsta odda Malanna utan við Suðureyri. Hér gátu menn því hóað yfir fjörðinn ef þeir þurftu á flutningi að halda og það gerði Magnús Hjaltason með góðum árangri 3. mars árið 1900.[753] Um þær mundir kostaði slíkur flutningur 75 aura[754] en karlmannskaup í fiskvinnu var þá 25 aurar (sjá hér Suðureyri). Í ferðum milli Norðureyrar og Suðureyrar var stundum farið innan við Hólma, þegar illt var í sjóinn og veður válynd,[755] en það er nafn á skerjunum framan og innan vð Norðureyri (sjá hér Suðureyri).

Skammt ofan við utanverðan Oddann er í Norðureyrartúni lítill skiki sem nefndur var Þríhyrna.[756] Á henni sáust lengi gamlar tóttir og var talið að þar hefði staðið bær (sjá hér bls. 13) en ritaðar heimildir sem fyrir liggja nægja ekki til að skera úr um hvort svo hafi verið. Ofan við Þríhyrnu er grjótkambur, sem brimið hefur hlaðið upp, og heitir hann Kambur.[757] Kamburinn nær upp með allri eyrinni að utanverðu og ver hana fyrir sjávargangi.[758]

Fram úr eyrinni utanverðri gengur rif með miklu stórgrýti og heitir það Norðureyraroddi.[759] Innan við hann var í fyrri daga vörin Tóna[760] og má ætla að nafnið tengist brimsoginu sem oft mun vera ærið á þessum stað. Um miðbik tuttugustu aldar var fyrir löngu hætt að nota Tónu sem lendingarstað[761] en í henni var að sögn lent með lík Jakobs bónda Guðmundssonar á Gelti í febrúarmánuði árið 1822 (sjá hér bls. 38-39). Nú er þessi gamla vör full af grjóti. Kristján Sigurðsson, bóndi á Norðureyri, sem hér var nýlega nefndur, byggði bryggju á innanverðri eyrinni, nokkuð fyrir ofan bæinn.[762] Sú bryggja er nú að engu orðin en við þann ágæta lendingarstað stendur enn  (1996) svolítið sjávarhús eða bátaskýli sem virðist hafa verið haldið við, þó að jörðin færi í eyði, og býður af sér góðan þokka. Spölkorn þar fyrir ofan var kvíaból fólksins á Norðureyri.[763] Í skrifi frá árinu 1949 er það sagt hafa verið inn og upp af Melborg[764] sem stendur heima.

Bæjarlækurinn á Norðureyri kemur úr hlíðinni ofan við eyrina og fellur til sjávar á Sandinum innan við hana.[765] Á liðnum öldum varð fólkið sem hér bjó að sækja allt neysluvatn upp undir hlíð,[766] því bæjarlækurinn rennur ekki fram eftir eyrinni. Oft voru þeir sem vatnið sóttu í mikilli hættu þegar snjóflóð vofðu yfir.[767] Í þessum efnum breyttist ekkert fyrr en á búskaparárum Kristjáns Sigurðssonar á fyrri hluta tuttugustu aldar. Hann gróf brunn hjá íbúðarhúsinu til að losna við vatnsburðinn ofan úr hlíð en vatnið sem fékkst í brunninum var ónothæft sökum seltu.[768] Á sínum síðustu búskaparárum hér á Norðureyri, skömmu fyrir 1950, lagði Kristján svo vatn í bæinn og leiddi það í plaströrum ofan úr hlíð.[769]

Grasteigur í brekkunni innan við bæjarlækinn heitir Bæjarteigur en fyrir utan lækinn er við hlíðarfótinn lind sem nefnd var Kaldavermsl.[770] Skammt fyrir ofan eyrina og nokkru utar en bæjarlækurinn er í hlíðinni tótt sem enn ber nokkuð mikið á. Hún er nær beint upp af bænum en þó aðeins innar. Nærri lætur að grunnflötur hússins, sem hér stóð áður, hafi verið 3 x 3 metrar. Það var á búskaparárum Kristjáns Sigurðssonar notað sem sumarfjós.[771] Gafl þessa húss var grafinn inn í brekkuna en samt brutu snjóflóð það niður, að minnsta kost tvisvar sinnum fyrir 1957.[772]

Nokkurt svæði í hlíðinni utan við bæjarlækinn á Norðureyri heitir Hryggir en stakur hryggur þar fyrir utan heitir Landbúahryggur.[773] Steindrangur sem stendur neðst í honum, skammt fyrir ofan eyrina, heitir Landbúi.[774] Nafnið er skemmtilegt og minnir á forna vættatrú. Í Vestur-Ísafjarðarsýslu eru reyndar allvíða steinar sem kenndir eru við landbúa eða landdísir og í Súgandafirði einum eru þeir að minnsta kosti fjórir, einn á Stað, annar í Botni, sá þriðji á Gilsbrekku og hinn fjórði hér (sjá hér Staður, Botn og Gilsbrekka). Utan við Landbúahrygg er Landbúagil en hryggurinn fyrir utan það heitir Langidrangi.[775] Hann nær frá götu upp í kletta.[776] Við þokum okkur nú út fyrir Langadranga og erum þá komin að sjálfu Norðureyrargilinu[777] er áður var frá sagt, hrikalegu klettagili sem nær frá fjöru að fjallsbrún. Í fjörunni neðan við gilið eru miklar þanghrannir en lítið um fé á beit. Sjávarkrikinn utan við Norðureyri heitir Bót[778] en utan við Norðureyraroddann og aðeins lengra fram á firðinum er Boði.[779] Þar mun vera örgrunnt og brýtur oft á Boðanum. Á honum veiddu menn spröku á fyrri tíð (sjá hér bls. 5-6).

Við Norðureyrargil eru landamerki jarðanna Norðureyrar og Galtar.[780] Hér kveðjum við því Norðureyri og allt fólkið sem þar hefur lifað. Utan við gilið hefjum við nýja för og göngum út að Gelti.

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 137.

[2] Örnefnastofnun / Kristján G. Þorvaldsson 1949, 141 og 144.

[3] Sama heimild, 144-145.

[4] Sama heimild, 142.

[5] Sama heimild.

[6] Sama heimild, 41-42 og 142.

[7] Sama heimild, 41-42.

[8] Sama heimild, 142.

[9] Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 4.8.1915.

[10] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 142.

[11] Sama heimild.

[12] Sama heimild.

[13] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 142.

[14] Sama heimild, 143.

[15] Sama heimild, 142.

[16] Sama heimild.

[17] Lbs. 44074to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 9-10.

[18] Sama heimild.

[19] Sama heimild.

[20] Sama heimild.

[21] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 142.

[22] Sama heimild, 143.

[23] Sama heimild.

[24] Sama heimild.

[25] Sama heimild.

[26] Sama heimild.

[27] Sama heimild, 42-43.

[28] Sama heimild.

[29] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 42-43.

[30] Sama heimild, 143.

[31] Sama heimild.

[32] Sama heimild.

[33] Jarðab. Á. og P. VII, 137.

[34] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 139.

[35] Sama heimild, 143.

[36] Sama heimild.

[37] Sama heimild.

[38] Sama heimild.

[39] Sama heimild.

[40] Sama heimild, 139.

[41] Þorleifur Guðnason. – Viðtal K.Ó. við hann 17.8.1995.  Sbr. Manntal 1940.

[42] Sami. – Viðtal fréttamanns við hann birt í fréttatíma Ríkissjónvarpsins 3.11.1995.

[43] Jarðab. Á. og P. VII, 137.

[44] Ólafur Jónsson 1957 II, 215-216.

[45] Ný jarðabók fyrir Ísland, 1861, 78.

[46] Sama heimild.

[47] Jarðamat 1849 – 1850 , varðveitt í Þjóðskjalasafni, Ísafj.sýsla.

[48] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 116.

[49] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 11.

[50] Fasteignabók 1932.

[51] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 211.

[52] Sama heimild.

[53] Sama heimild.

[54] Sama heimild.

[55] Fasteignabók 1921, 81.

[56] Sama heimild.

[57] Valdimar Þorvaldsson 1963, 56 (Ársrit S.Í.).

[58] Ólafur Olavius 1964, I, 185.

[59] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[60] Sama heimild.

[61] Sama heimild.

[62] Sama heimild.

[63] Sama heimild.

[64] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[65] Lbs. 39334to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 2 og 12.  Lbs. 44104to, Sami, bls. 135.

[66] Sömu heimildir.  Sbr. Sóknarm.töl Kirkjubólsþinga og Manntöl 1835, 1840, 1845, 1850, 1855 og 1860.

[67] Lbs. 39334to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 2 og 12.  Lbs. 44104to, Sami, bls. 135.

[68] Íslenskar æviskrár I, 88.

[69] Sama heimild.

[70] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 135.

[71] Sama heimild.

[72] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[73] Sama heimild.

[74] Jarðab. Á. og P. VII, 137.

[75] Jarðab. Á. og P. VII, 137.  Rtk. Isl. Journal 9, nr. 34, bún.sk. 1791.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, bún.sk. 1821 og 1830.  VA III, 408, 412, 417, 421 og 424, búnaðarskýrslur 1840, 1850, 1860, 1870 og 1880.  Skjöl

Suðureyrarhrepps, varðveitt þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902, tíundarskýrslur 1891 og 1900.

[76] Jarðab. Á. og P. VII, 137.

[77] Rtk. Isl. Journal 9, nr. 34, búnaðarskýrslur 1791.

[78] Sama heimild.

[79] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, bún.sk. 1821 og 1830. VA III, 408, 412, 417, 421 og 424, bún.sk.

1840, 1850, 1870 og 1880.  Skj. Suðureyrarhrepps, varðv, þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1902,

tíundarskýrslur 1891 og 1900.

[80] Sömu heimildir.

[81] Sömu heimildir.

[82] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.

[83] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695.  Jarðab. Á. og P. VII, 137.

[84] Jarðab. Á. og P. VII, 137.

[85] Jarða- og bændatöl 1752-1765, Ísafj.sýsla 1753.  J. Johnsen 1847, 196.

[86] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[87] Stjórnartíðindi 1917 B, bls. 114.

[88] Lbs. 7974to, Jarðaskrár úr Ísafj.sýslu frá árunum 1658 og 1695.

[89] Jarðab. Á. og P. VII, 137.

[90] Jarða- og bændatöl 1752-1765, Ísafj.sýsla 1753.  J. Johnsen 1847, 196.

[91] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[92] D.I. V, 645 og 648-649.

[93] Sömu heimildir.

[94] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.

[95] Jarðab. Á. og P. XIII, 304.

[96] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir, (Kph. 1993), bls. 171.  Jarðab. Á. og P. XIII, 304.

[97] Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir, bls. 171.

[98] Sama heimild.

[99] Sama heimild, 169.

[100] Jarðab. Á. og P. VII, 137.  Sbr. Lbs. 7074to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695.

[101] Lbs. 7074to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695.

[102] Jarðab. Á. og P. VII, 137.

[103] Sama heimild XIII, 304.

[104] Sama heimild.

[105] Manntal 1762.

[106] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[107] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805.

[108] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[109] Sömu heimildir.

[110] Skj.s. sýslum. og sv.stj.. Ís. XVI. 2. Veðmálabók 1856-1869, bls. 147.

[111] Sama heimild.

[112] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[113] Sömu heimildir.

[114] Manntal 1901, fylgiskjöl.

[115] Lbs. 22274to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 16.3.1911.

[116] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[117] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[118] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916, bls. 2.

[119] Lbs. 22274to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 16.3.1911.

[120] Sama heimild.

[121] Stjórnartíðindi 1912 B, bls. 62.

[122] Ólafur Jónsson 1957 II, 215-216.

[123] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 139-140.

[124] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 144.

[125] Ólafur Jónsson 1957 II, 253-254.

[126] Sama heimild.

[127] Þorleifur Guðnason. – Viðtal K.Ó. við hann 17.8.1995.

[128] Ólafur Jónsson 1957 II, 253-254.

[129] Sama heimild.

[130] Lbs. 47084to, Magnús Hjaltason.

[131] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 144.

[132] Þorleifur Guðnason. – Viðtal K.Ó. við hann 17.8.1995.

[133] Ólafur Jónsson 1957 II, 253-254.

[134] Sama heimild.

[135] Sama heimild.

[136] Sama heimild.

[137] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 144.

[138] Sbr. Ólafur Jónsson 1957 II, 254.

[139] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 12.

[140] Ólafur Jónsson 1957 II, 254.

[141] Jarðab. Á. og P. VII, 137.

[142] Annálar II, 599.

[143] Sama heimild.

[144] Sama heimild.

[145] Sama heimild.

[146] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[147] Sama heimild.

[148] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. mars 1837.

[149] Sunnanpósturinn III, 4. tbl., bls. 61.

[150] Annáll 19. aldar II, 85.

[151] Lýsing Íslands I, 154.

[152] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 139.

[153] Lbs. 47084to, Magnús Hjaltason, án bls.tals.

[154] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[155] Sömu heimildir.

[156] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 140.  Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar … , bls. 41-42.

[157] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar og Suðureyrarkauptúns, bls. 41-42.

[158] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[159] Manntal 1845, vesturamt, bls. 330.

[160] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. og Holts í Önundarf.  Ólafur Þ. Kristjánsson / Önfirðingar.

[161] Sömu heimildir.

[162] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[163] Vestfirskar ættir I, 240.

[164] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[165] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.  Manntal 1801, vesturamt, bls. 303.

[166] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[167] Sömu heimildir.

[168] Sömu heimildir.

[169] Sömu heimildir.

[170] Sömu heimildir.

[171] Sömu heimildir.

[172] Sömu heimildir.

[173] Sömu heimildir.

[174] Sömu heimildir.

[175] Manntal 1816 og nafnalykill þess.

[176] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[177] Sömu heimildir.

[178] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. mars 1837.  Ólafur Þ. Kristjánsson 1949, 104.  Vestf. ættir I, 240.

[179] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[180] Sömu heimildir.

[181] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar III, 283.  Vestf. ættir I, 211-240.

[182] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar III, 283.

[183] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[184] Sama heimild.

[185] Sama heimild.

[186] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[187] Sömu heimildir.

[188] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[189] Sama heimild og sóknarm.töl Holts í Önundarf.  Manntal 1816, bls. 690, sbr. þar bls. 693.

[190] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[191] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[192] Sömu heimildir.

[193] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar III, 283 og 315.

[194] Sama heimild, 315.

[195] Vestf. ættir I, 240.  Sbr. einnig Ól. Þ. Kr. 1949, 104 (Frá ystu nesjum V).

[196] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar III, 315.

[197] Sama heimild, 283.

[198] Vestf. ættir I, 236-240.

[199] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[200] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar I, 191 og III, 403.

[201] Sama heimild.

[202] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[203] Sömu heimildir.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar I, 191.  Manntal 1801, vesturamt, 290.  Manntal 1816, 689.

[204] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar I, 191.  Manntal 1816, bls. 689.

[205] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.  Sbr. Manntal 1801, vesturamt, bls. 267.

[206] Sbr. Manntal 1801, vesturamt, bls. 267.

[207] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar I, 191.

[208] Sama heimild.

[209] Sama heimild.

[210] Manntal 1816, bls. 689.

[211] Sama heimild.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar I, 191.

[212] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar I, 191 og II, 56.

[213] Sama heimild I, 191.

[214] Sama heimild III, 261.

[215] Sama heimild.

[216] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar III, 261 og 403.

[217] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[218] Sama heimild.

[219] Sama heimild.

[220] Sama heimild.

[221] Sama heimild.

[222] Manntal 1835.

[223] Sama heimild.

[224] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[225] Sama heimild.

[226] Sama heimild.

[227] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[228] Sömu heimildir.

[229] Sömu heimildir.

[230] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[231] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar III, 403.

[232] Sama heimild.

[233] Sama heimild.

[234] Sama heimild II, 163 og III, 403.

[235] Sama heimild III, 403.

[236] Sama heimild III, 283 og 403.

[237] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[238] Sömu heimildir.

[239] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[240] Sömu heimildir.

[241] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[242] Manntal 1890.

[243] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar II, 163.

[244] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[245] Lbs. 47084to, Magnús Hjaltason, án bls.tals.

[246] Sóknalýs. Vestfj. II, 114.

[247] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 140-141.

[248] Sama heimild.  Sbr. Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar … , bls. 55.

[249] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[250] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[251] Sömu heimildir.

[252] Jarðab. Á. og P. VII, 137.

[253] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 11-12.

[254] Þorvaldur Thoroddsen / Lýsing Íslands I, 154 (2. útg.).

[255] Sama heimild.  Sbr. Þorvaldur Thoroddsen 1888, 50 (Andvari XIV).

[256] Ólafur Jónsson 1957 II, 340.

[257] Sama heimild.

[258] Sama heimild I, 463.

[259] Sama heimild.

[260] Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 4.2.1915.

[261] Þorleifur Guðnason. – Viðtal við hann í fréttum Ríkissjónvarpsins 3.11.1995.

[262] Gunnar M. Magnúss 1977, 64.

[263] Sama heimild.

[264] Sama heimild.

[265] Sama heimild.  Þorleifur Guðnason. – Viðtal K.Ó. við hann 17.8.1995.  Manntal 1940.

[266] Þorleifur Guðnason. – Viðtal K.Ó. við hann 17.8.1995.

[267] Ólafur Jónsson 1957 II, 407.  Sbr. Vesturland 29.3.1930, bls. 2 og Almanak hins íslenska Þjóðvinafélags

um árið 1932 / Árbók Íslands 1930, bls. 47.

[268] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 141.  Gunnar M. Magnúss 1977, 64.

[269] Gunnar M. Magnúss 1977, 64.

[270] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 141.  Gunnar M. Magnúss 1977, 64.

[271] Sömu heimildir.

[272] Sömu heimildir.

[273] Ólafur Jónsson 1957 II, 409.

[274] Sama heimild, 421.

[275] Sama heimild.

[276] Ólafur Jónsson 1957 II, 421.

[277] Sama heimild, 429.

[278] Sama heimild.

[279] Sama heimild.

[280] Ólafur Jónsson 1957 II, 443.

[281] Sama heimild.

[282] Sama heimild.

[283] Manntal 1703.

[284] Sama heimild.

[285] Sama heimild.

[286] Vestf. ættir I, 51 og III, 15.

[287] Manntal 1703.

[288] Sama heimild.

[289] Sama heimild.

[290] Vestf. ættir I, 51.  Sbr. þar III, 15.

[291] Jarðab. Á. og P. VII, 137.

[292] Sama heimild.

[293] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, Ísafj.sýsla um 1735, eftirrit.

[294] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[295] Sbr. Vestf. ættir I, 367.

[296] Manntal 1762.

[297] Sama heimild.

[298] Sama heimild.

[299] Sóknarm.töl Staðar í Súg.  Manntal 1816, 700.  Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar … , 31.

[300] Manntal 1816, bls. 700.

[301] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[302] Sama heimild.

[303] Manntal 1816, 700, 724, 733, 734 og 735 og nafnalykill þess.  Sóknarm.t. Staðar í Súg. frá febr. 1786.

Sbr. Lýður Björnsson 1992, 177, 186, 195, 217 og 327 (Grunnvíkingabók II). Sbr. einnig Kristinn Kristmundsson og Þórleifur Bjarnason 1971, 267 og 369.

[304] Sömu heimildir.

[305] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[306] Sama heimild 1786.

[307] Sama heimild 1788 og 1789.

[308] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[309] Sama heimild.

[310] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[311] Sama heimild.

[312] Sama heimild og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[313] Sömu heimildir.

[314] Manntal 1816, 724.  Sbr. Lýður Björnsson 1992, 310.

[315] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[316] Sama heimild.

[317] Sama heimild.

[318] Manntal 1801, vesturamt, 352.  Sbr. Lýður Björnsson 1992, 177.  Sbr. Sóknarm.tal Staðar í Súg.  1786.

Sbr. Manntal 1816, 734.

[319] Sbr. Manntal 1801, vesturamt, bls. 352.

[320] Manntal 1801, vesturamt, bls. 352.  Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 1786.

[321] Manntal 1801, bls. 352.

[322] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[323] Manntal 1801, vesturamt, bls. 302.

[324] Lýður Björnsson 1992, 177.

[325] Manntal 1816, 735 og nafnalykill þess.

[326] Manntal 1816, 735.

[327] Sama heimild.

[328] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[329] Sama heimild.

[330] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[331] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[332] Manntal 1801, vesturamt, bls. 301.

[333] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[334] Manntal 1801, v.amt, 301. Manntal 1816, 700. Manntal 1845, 294.  Sóknarm.töl og pr.þj.b. Staðar í Súg.

[335] ÍB 104to, Ættatölubækur Jóns Espólín, dálkar 1782-1786 og 1794.

[336] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753. Manntal 1762.

[337] ÍB 104to, Ættatölubækur Jóns Espólín, dálkar 1782-1786 og 1794.

[338] Manntal 1816, 700.

[339] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[340] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Manntal 1801, vesturamt, 301.  Manntal 1816, 697 og 700.

[341] ÍB 104to, Ættatölubækur Jóns Espólín, dálkar 1782-1786 og 1794.

[342] Manntal 1816, 697 og 700.  Sbr. sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[343] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[344] Sama heimild.

[345] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.  Vestf. ættir II, 468.

[346] Vestf. ættir II, 468.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[347] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[348] Sama heimild.

[349] Sama heimild.

[350] Sama heimild.

[351] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[352] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[353] Sama heimild.

[354] Vestf. ættir II, 468.

[355] Rtk. Isl. Journal 9, nr. 34, búnaðarskýrslur 1791.

[356] Rtk. Isl. Journal 9, nr. 34, búnaðarskýrslur 1791.

[357] Sama heimild.

[358] Sama heimild.

[359] Sama heimild.

[360] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[361] Kristján G. Þorvaldsson 1983, 130-133 (Ársrit S.Í.).

[362] Sama heimild.

[363] Sama heimild.

[364] Sama heimild.

[365] Sama heimild.

[366] Sama heimild.

[367] Sama heimild.

[368] Sama heimild.

[369] Sama heimild.

[370] Kristján G. Þorvaldsson 1983, 130-133 (Ársrit S.Í.).

[371] Sama heimild.

[372] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[373] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[374] Sama heimild.

[375] Sama heimild.

[376] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[377] Sömu heimildir.

[378] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[379] Sömu heimildir.

[380] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Manntal 1801, vesturamt, 301.  Manntal 1816, 700.

[381] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[382] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[383] Sömu heimildir.

[384] Sömu heimildir.

[385] Sömu heimildir.  Vestf. ættir I, 153.

[386] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Vestf. ættir I, 153.

[387] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[388] Manntal 1816, 700.

[389] Manntal 1816, 700.  Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[390] Sömu heimildir.

[391] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[392] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[393] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[394] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[395] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[396] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[397] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 61.

[398] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[399] Sama heimild.

[400] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[401] Sama heimild.

[402] Ísl. æviskrár I, 443-444.

[403] Manntal 1816, 701.

[404] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[405] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[406] Sama heimild.

[407] Sama heimild.

[408] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[409] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[410] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 43-46.

[411] Sama heimild.

[412] Sama heimild.

[413] Sama heimild.

[414] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[415] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 43-46.

[416] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 43-46.

[417] Sama heimild.

[418] Sama heimild.

[419] Sama heimild.

[420] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 45-46.

[421] Sama heimild, 43-46.

[422] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[423] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[424] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1, búnaðarskýrslur 1821.

[425] Sama heimild.

[426] Sama heimild.  Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[427] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[428] Sama heimild.

[429] Sama heimild.

[430] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[431] Sama heimild.

[432] Sama heimild.

[433] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[434] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[435] Sama heimild.

[436] Sama heimild.

[437] Sama heimild.

[438] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[439] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf. 1832 og 1833.

[440] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Manntal 2.2.1835.

[441] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[442] Manntal 1845, vesturamt, bls. 333.

[443] Sama heimild.

[444] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[445] Sama heimild.

[446] Sama heimild.

[447] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar … , bls. 42.

[448] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[449] VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.

[450] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[451] Ól. Þ. Kr. 1953, 153 (Frá ystu nesjum VI).

[452] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[453] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.  Ól. Þ. Kr. 1953, 144 og 153.  Manntal 1801, vesturamt, 284.

[454] Ól. Þ. Kr. 1953, 144 og 153 (Frá ystu nesjum VI).

[455] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[456] Sama heimild.

[457] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[458] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[459] Ól. Þ. Kr. 1953, 153.  Manntal 1816, 691.

[460] Manntal 1816, 691.

[461] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[462] Sömu heimildir.

[463] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[464] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[465] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[466] Sama heimild.

[467] Manntal 1845, vesturamt, bls. 293-294.

[468] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[469] Sömu heimildir.

[470] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[471] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[472] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[473] Sama heimild.

[474] Sama heimild.

[475] Sama heimild.

[476] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[477] VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.

[478] VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[479] VA III, 408, búnaðarskýrslur 1840.  VA III, 412, búnaðarskýrslur 1850.

[480] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[481] Ól. Þ. Kr. 1953, 153-154 (Frá ystu nesjum VI).

[482] Sama heimild.

[483] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[484] Sömu heimildir.

[485] Sömu heimildir.

[486] Sömu heimildir.

[487] Sömu heimildir.

[488] Sömu heimildir.

[489] Sömu heimildir.

[490] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[491] Eyjólfur Jónsson 1967, 53 (Niðjatal Sveins á Hesti).

[492] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[493] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar … , bls. 55.

[494] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[495] Sömu heimildir.

[496] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[497] Sama heimild.

[498] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[499] Sömu heimildir.

[500] Sömu heimildir.

[501] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[502] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[503] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[504] VA III, 421, búnaðarskýrslur 1870.

[505] Sama heimild.

[506] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[507] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar I, 89.

[508] Eyjólfur Jónsson 1967, 15 og 52 (Niðjatal Sveins á Hesti).

[509] Sama heimild, 15.  Manntal 1816, 698.

[510] Prestsþj.b. og sóknarm.töl staðar í Súgandaf.

[511] Sóknarm.tal Staðar í Súgandaf. 1786.  Manntal 1816, 698.

[512] Sbr. Manntal 1845, vesturamt, 287.

[513] Eyjólfur Jónsson 1967, 51-53.

[514] Sama heimild, 52-53.

[515] Manntal 1801, vesturamt, 290.

[516] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[517] Sama heimild.

[518] Eyjólfur Jónsson 1967, 52-53 (Niðjatal Sveins á Hesti).

[519] Sama heimild, 52-64.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[520] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Sbr. Eyjólfur Jónsson 1967, 52-64.

[521] Eyjólfur Jónsson 1967, 52-64.

[522] Sama heimild.

[523] Eyjólfur Jónsson 1967, 52-64.

[524] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[525] VA III, 424, búnaðarskýrslur 1880.

[526] Sama heimild.

[527] Sóknarm.töl Staðar í Súg.  Skjöl Suðureyrarhr., varðv. þar. Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1892,

niðurjöfnunarskrá 1888.

[528] Sama Bók fyrir Suðureyrarhrepp 1888-1892, skýrsla um framtal til lausafjártíundar 1888.

[529] Sama heimild.

[530] Sama heimild.

[531] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar i Súgandaf.

[532] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[533] Sama heimild.

[534] Eyjólfur Jónsson 1967, 53.  Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[535] Sömu heimildir.

[536] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[537] Sömu heimildir. Eyjólfur Jónsson 1967, 52-60 (Niðjatal Sveins á Hesti).

[538] Sömu heimildir.

[539] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[540] Eyjólfur Jónsson 1967, 53.

[541] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.  Eyjólfur Jónsson 1967, 52-53.

[542] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[543] Eyjólfur Jónsson 1967, 52-53.

[544] Manntal 1901.

[545] Eyjólfur Jónsson 1967, 52-54.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar I, 89.

[546] Eyjólfur Jónsson 1967, 52-64.

[547] Eyjólfur Jónsson 1967, 64 (Niðjatal Sveins á Hesti).

[548] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[549] Eyjólfur Jónsson 1967, 64.

[550] Júníus H. Kristinsson 1983 / Vesturfaraskrá.

[551] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[552] Sama heimild.

[553] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[554] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[555] Sömu heimildir.

[556] Sömu heimildir.

[557] Sömu heimildir.

[558] Sömu heimildir.

[559] Sömu heimildir.  Sbr. Gunnar M. Magnúss 1977, 63 og 380-382.

[560] Sömu heimildir.

[561] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[562] Skj. Suðureyrarhr. varðv. þar. Bók fyrir Suðureyrarhr. 1888-1902, niðurjöfnunarskrá, dags. 2.11.1888.

[563] Sama Bók fyrir Suðureyrarhrepp, tíundarskýrsla dags. 23.6.1888.

[564] Sama Bók fyrir Suðureyrarhrepp, tíundarskýrsla daga. 23.6.1888, og niðurjöfnunarskrá, dags. 2.11.1888.

[565] Skj.s. Suðureyrarhrepps, varðveitt þar. Bók fyrir Suðureyrarhr. 1888-1902, tíundarskýrsla dags. 23.6. 1888 og niðurjöfnunarskrá, dags. 2.11. 1888.

[566] Sama Bók fyrir Suðureyrarhrepp, tíundarskýrsla dags. 11.11. 1895.

[567] Sama heimild.

[568] Sama heimild.

[569] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[570] Sama heimild.

[571] Vestf. ættir I, 250 og II, 535.

[572] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[573] Sama heimild.

[574] Sama heimild, 1874.

[575] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[576] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar i Súgandaf. og Dýrafj.þinga.

[577] Sömu heimildir.

[578] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[579] Vestf. ættir I, 250.

[580] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[581] Sama heimild.

[582] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[583] Sömu heimildir.

[584] Sömu heimildir.

[585] Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kristján G. Þorvaldsson: Saga Suðureyrar og Suðureyrarkauptúns, bls. 44.

[586] Sókn.m.töl og prestsþj.b. Selárdals. Sókn.m.tal Staðar í Súg. 1897, Norðureyri. Manntal 1901, Ós í Bol.

[587] Manntal 1860, Neðribær í Ketildölum í Selárdalspr.k..  Sóknarm.t. Staðar í Súgandaf. 1897, Norðureyri.

Manntal 1901, Ós í Bol.

[588] Manntal 1845, vesturamt 240.

[589] Sóknarm.töl Selárdals.

[590] Manntal 1860.

[591] Prestsþj.b. Selárdals.

[592] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[593] Sama heimild.  Sbr. Hsk. á Ísaf. nr. 190. Kr. G. Þorv.: Saga Suðureyrar og Suðureyrarkauptúns, 44-45.

[594] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[595] Sama heimild.

[596] Sama heimild.

[597] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[598] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[599] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[600] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[601] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Vestf ættir I, 250.

[602] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.  Manntal 1901.

[603] Skj. Suðureyrarhr. varðv. þar. Bók f. Suðureyrarhr. Skýrsla um framt. til lausafj.tíundar, dags.23.6.1891.

[604] Sama heimild.

[605] Sama Bók f. Suðureyrarhr.. Skýrsla um framtal til lausafjártíundar, dags. 25.10.1900.

[606] Sama heimild.

[607] Sama heimild.

[608] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 6.11. 1899 – 28.1.1900.

[609] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 59.

[610] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[611] Sömu heimildir.

[612] Sömu heimildir.

[613] Sömu heimildir.

[614] Manntal 1901, Norðureyri.

[615] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 60.

[616] Skj. Suðureyrarhr. varðv. þar. Fundabók fyrir Suðureyrarhrepps. 1889-1919, bréf hreppsnefndar

Suðureyrarhrepps 15.3.1905 til Guðbjargar Sigurðardóttur á Norðureyri, afrit.

[617] Sama Fundabók. Bréf hreppsn. Suðureyrarhr. 15.3.1905 til Helgu Magnúsd. á Ísaf. fyrrrv. yfirsetuk., afr.

[618] Sama heimild.

[619] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[620] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[621] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 3.12.1899.

[622] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 3.12.1899.

[623] Sama heimild.

[624] Sama heimild.

[625] Sama heimild.

[626] Sama heimild 5.1.1900.

[627] Lbs. 22304to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 29.1.1913.

[628] Lbs. 22304to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 29.1.1913.

[629] Lbs. 22184to, Sama dagbók 16.12.1899.

[630] Sama heimild.

[631] Sama heimild.

[632] Sama heimild.

[633] Sama dagbók 2.1.1900.

[634] Sama dagbók 19.1.1900.

[635] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 6.11.1899 – 6.2.1900.  Lbs. 22354to, bls. 138, Bréf M. Hj. 24.1. 1900 til unnustu hans, Guðrúnar Önnu Magnúsdóttur, afrit.

[636] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 15.1.1900.

[637] Sama heimild.

[638] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 1.12. og 17.12.1899.

[639] Sama dagbók 15.1.1900.

[640] Sama dagbók 20.1.1900.

[641] Sama heimild.

[642] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 23.1.1900.

[643] Lbs. 22354to, bls. 138-143. Bréf M. Hj. 24.1.1900 til Guðrúnar Önnu Magnúsdóttur, afrit bréfritara.

[644] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 28.1.1900.

[645] Sbr. Biblían, 1. Mósebók, 39. kafli.

[646] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 27.1.1900.

[647] Sama dagbók 28.1.1900.

[648] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 28.1.1900.

[649] Sama dagbók 6.2.1900.

[650] Sama heimild.

[651] Haukur, blað gefið út á Ísafirði, III. árg., árið 1900.

[652] Íslensk tímarit í 200 ár. Rvík 1991, bls. 172-173.

[653] Haukur, blað gefið út á Ísafirði, III. árg., árið 1900.

[654] Gunnar M. Magnúss 1956, 212.

[655] Sama heimild.

[656] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 60.

[657] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[658] Manntal 1901.  Sbr. Vestf. ættir II, 622.

[659] Sama heimild.

[660] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Ísafjarðarpr.kalls og Staðar í Súgandaf.

[661] Sömu heimildir.

[662] Manntal 1910.

[663] Prestsþj.b. Ísafjarðarpr.kalls.

[664] Lbs. 31524to, Halldór Guðmundsson, bls. 109.

[665] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 60.

[666] Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 28.5.1916.

[667] Lbs. 22334to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 28.5.1916.

[668] Sama heimild.

[669] Sama heimild.

[670] Sama heimild.

[671] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[672] Hsk. á Ísaf. nr. 227. Skýrsla um ábúðarhundruð í Suðureyrarhr., dags. 29.10.1902.

[673] Sama heimild.

[674] Hsk. á Ísaf. nr. 227. Skýrsla um ábúðarhundruð í Suðureyrarhr., dags. 29.10.1902.

[675] Lbs. 27364to, Magnús Hjaltason, bls. 59.

[676] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[677] Gunnar M. Magnúss 1977, 62-63.

[678] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[679] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[680] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[681] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[682] Sóknarm.töl og prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[683] Sömu heimildir.

[684] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[685] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[686] Sömu heimildir.

[687] Sömu heimildir.

[688] Sömu heimildir.

[689] Sömu heimildir.

[690] Sömu heimildir.

[691] Sömu heimildir.

[692] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[693] Sömu heimildir.

[694] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[695] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[696] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[697] Sama heimild.

[698] Manntal 1901.

[699] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[700] Prestsþj.b. Staðar í Súgandaf.

[701] Gunnar M. Magnúss 1977, 63.

[702] Sama heimild, 64.

[703] Fasteignamatsskjöl. Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919, bls. 208 og 211.

[704] Gunnar M. Magnúss 1977, 59, 64 og 65.  Sami 1978, 156-157.

[705] Sami 1977, 65.

[706] Sami 1978, 157.

[707] Sami 1978, 156.

[708] Lbs. 22314to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 16.12.1913.

[709] Lbs. 22314to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 16.12.1913.

[710] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 52.

[711] Sama heimild.

[712] Sama heimild.

[713] Sama heimild.

[714] Manntal 1940.

[715] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 52.

[716] Fasteignabók 1932.

[717] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 13.

[718] Sama heimild.

[719] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 13.

[720] Sama heimild.

[721] Sama heimild.

[722] Sama heimild.

[723] Sama heimild.

[724] Sama heimild.

[725] Sama heimild.

[726] Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[727] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 13-14 og 52.  Sbr. Sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[728] Sama heimild, 13-14.  Sbr. Sömu sóknarm.töl.

[729] Lbs. 44104to, Valdimar Þorvaldsson, bls. 13-14.

[730] Sama heimild.

[731] Sama heimild.

[732] Sama heimild.

[733] Sbr. Prestsþj.b. og sóknarm.töl Staðar í Súgandaf.

[734] Fasteignabók 1921.

[735] Sama heimild.

[736] Sama heimild.

[737] Sama heimild.

[738] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 141.

[739] Þorleifur Guðnason. – Viðtal K.Ó. við hann 17.8.1995.

[740] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 139.

[741] Sama heimild, 144.

[742] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 144.

[743] Þorleifur Guðnason. – Viðtal K.Ó. við hann 17.8.1995.

[744] Sama heimild.

[745] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 16.

[746] Sama heimild, 14-16.

[747] Sama heimild, 16.

[748] Sama heimild, 139.

[749] Sama heimild.

[750] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 139.

[751] Sama heimild.

[752] Sama heimild, 144.

[753] Lbs. 22184to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 3.3.1900.

[754] Lbs. 22174to, Sama dagbók 6.2.1898.

[755] Lbs. 22184to, Sama dagbók 22.12.1899.

[756] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 144.

[757] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 144.

[758] Sama heimild.

[759] Sama heimild, 143-144.

[760] Sama heimild, 144.

[761] Sama heimild.

[762] Sama heimild.  Sbr. Gunnar M. Magnúss 1977, 64.

[763] Þorleifur Guðnason. – Viðtal K.Ó. við hann 17.8.1995.

[764] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 144.

[765] Sama heimild.

[766] Sama heimild, 140.

[767] Sama heimild.

[768] Gunnar M. Magnúss 1977, 64-65.

[769] Gunnar M. Magnúss 1977, 64-65.  Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 140.

[770] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 144.

[771] Þorleifur Guðnason. – Viðtal K.Ó. við hann 17.8.1995.

[772] Ólafur Jónsson 1957 II, 254 (Skriðuföll og snjóflóð).

[773] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 144.

[774] Sama heimild.

[775] Sama heimild.

[776] Sama heimild.

[777] Sama heimild.

[778] Uppdr. Suðureyrarhrepps eftir Jón Hróbjartsson. Eftirpr. af örn.korti frá því um 1930, gefin út 1983.

[779] Sama heimild.

[780] Örn.st. / Kr. G. Þorv. 1949, 141.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »