Fremri-Breiðadalur og fjallvegurinn yfir Breiðadalsheiði

Fremri-Breiðadalur og fjallvegurinn yfir Breiðadalsheiði

Á norðurströnd Önundarfjarðar er Breiðadalur stærsti dalurinn. Hér hefur megindráttunum í svipmóti hans þegar verið lýst (sjá hér Ytri- Veðrará) og verður ekki endurtekið. Í dalnum eru tvær jarðir, Fremri-Breiðadalur og Neðri-Breiðadalur. Frá Fremri-Breiðadal eru tæplega tveir kílómetrar til sjávar en Neðri-Breiðadalur er skammt frá fjarðarströndinni. Land jarðanna tveggja í Breiðadal liggur allt fyrir norðan og vestan Breiðadalsá, sem einnig er nefnd Langá, því gróðurlendið hinum megin við ána er í landareign Ytri-Veðrarár eins og hér hefur áður verið gerð grein fyrir. Milli jarðanna tveggja í dalnum skiptist landið þannig að Neðri-Breiðadalur á allt land neðan frá sjó og fram að Þverá sem kemur úr Þverdal og fellur í Langá (Breiðadalsá) utantil við túnjaðar í Fremri-Breiðadal.[1] Við Þverá tekur við land Fremri-Breiðadals og á sú jörð allt land milli Þverár og Langár uns komið er fram að merkilæk sem fellur í Breiðadalsá neðantil við neðri seltóttina eins og það er orðað í landamerkjalýsingu frá árinu 1923.[2] Þrjár merkjavörður sögðu síðan til um legu landamerkjanna frá læknum sem hér var nefndur og upp á fjallsbrún.[3]

Á síðustu áratugum hafa bændur í Fremri-Breiðadal brotið mikið land til ræktunar og ná túnin nú alveg fram að landamerkjunum.[4] Sumarið 1994 lágu þessi miklu tún hins vegar óslegin því fólkið í Fremri-Breiðadal stundaði þá ekki lengur hefðbundinn búskap. Vegalengdin heiman frá bænum og fram að landamerkjunum er um það bil einn og hálfur kílómetri en seltóttirnar sem voru hér framan við merkjalækinn og minnst er á í landamerkjalýsingunni frá 1923 virðast nú vera horfnar.

Í bók Óskars Einarssonar læknis um aldarfar og örnefni í Önundarfirði segir að Fremri-Breiðadalur eigi land fram að Rauðsteini[5] en þessi rauðleiti steinn blasir hér við allhátt uppi í hlíðinni[6] en rétt ofan við hann taka berar skriður við af grónu landi. Allt land fyrir framan Rauðstein og merkjalækinn á svo Neðri-Breiðadalur og skiptist landareign þeirrar jarðar því í tvo aðskilda hluta.[7]

Nafnið á dalnum og jörðunum tveimur er hér ritað Breiðadalur en ekki Breiðidalur. Í þessum efnum hefur lengi verið við lýði mikill ruglingur eins og sjá má ef litið er í ritaðar heimildir frá 19. og 20. öld þar sem orðmyndirnar tvær eru báðar algengar. Um rétt og rangt í slíkum efnum er erfitt að dæma. Ef nota ætti almennar málfræðireglur til að skera úr um nafnið yrði niðurstaðan Breiðidalur því gera má ráð fyrir að nafn dalsins eigi rætur að rekja til þess hversu breiður hann er en ólíklegt að hann sé kenndur við einhvern breiða. Sú hugmynd að dalurinn hafi í fyrstu verið kenndur við breðann í heiðarkinninni fyrir dalbotninum fær ekki heldur stoð í rituðum heimildum. En þó að málfræðireglur séu góðar til síns brúks fer tungumálið sjálft stöku sinnum á svig við þær og leikur lausum hala.

Tæplega verður dregið í efa að í alþýðumáli hafi dalurinn og jarðirnar mjög lengi borið nafnið Breiðadalur því ef svo hefði ekki verið væru lærðir menn fyrir löngu búnir að útrýma þeirri mynd nafnsins. Í heimildum frá 16. og 17. öld er nafn jarðanna ritað Breiðadalur og svo er einnig í manntalinu frá 1703.[8] Í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1710 stendur hins vegar Breidedalur fremre og Breidedalur nedre.[9] Allt frá þeim tíma hefur þetta svo verið í ruglingi en þess má geta að af tíu dæmum frá 19. öld sem valin voru af handahófi voru sex með nafnmyndina Breiðadalur en fjórir skrifarar rituðu Breiðidalur. Í bók sinni Aldarfar og örnefni í Önundarfirði, sem út kom árið 1951, ritar Óskar Einarsson læknir Breiðidalur[10] en í Árbók Ferðafélags Íslands frá sama ári skrifar Kristján G. Þorvaldsson Breiðadalur[11] og þá nafnmynd notar líka Guðrún Ingibjörg Jónsdóttir frá Ytri-Veðrará í ritgerð frá árinu 1985.[12] Hinn merki læknir var langt að kominn og að sjálfsögðu langskólagenginn en þau Kristján og Guðrún vöndust frá blautu barnsbeini alþýðumálinu sem talað var í Önundarfirði og næstu byggðarlögum. Hvorugt þeirra hafði setið lengi á skólabekk. Hér er ekki lagt til að nafnmyndin Breiðadalur verði löggilt því smekkur hvers og eins verður að ráða því hvora myndina hann velur. Með vísan til þess sem hér hefur verið sagt hlýtur okkar val þó að verða Breiðadalur og sú mynd nafnsins er enn munntömust heimafólki í Breiðadal og á nálægum bæjum.[13] Álitamál er svo hvort nefna eigi bæina Breiðadal fremri og Breiðadal neðri ellegar Fremri-Breiðadal og Neðri-Breiðadal. Í rituðum heimildum er hvort tveggja mjög algengt og engin regla sjáanleg.

 

Fremri-Breiðadalur er gömul bújörð, 12 hundruð að dýrleika samkvæmt fornu mati.[14] Í Jarðabókinni frá 1710 er getið munnmæla um að bærinn hafi verið færður af nafnlausum tóttarústum sem þá voru sjáanlegar niður með ánni.[15] Í sama riti er kostum og göllum jarðarinnar lýst með þessum orðum: Útigangur í meðallagi. Torfstunga næg, rista lök. Svörður brúkast til eldiviðar. Túninu grandar Þverá með landbroti. Engjar snöggvar, úthagar sæmilegir.[16]

Í sóknalýsingunni frá 1840 eru báðar jarðirnar í Breiðadal sagðar fjallskriðum undirorpnar[17] og í álitsgerð fasteignamatsnefndar frá árunum kringum 1920 fær Fremri-Breiðadalur lélega umsögn. Þar segir: Jörðin hefur mótak. Túnið er lítið, snjóþyngsli mikil, vetrarbeit engin. Jörðin er að vorum dómi versta jörð hreppsins.[18]

Í álitsgerð undirmatsnefndar, sem einnig vann að fasteignamati á þessum sömu árum, kemur þó fram að túnið í Fremri-Breiðadal hafi verið í góðri rækt, beitilandið gott og að jörðinni fylgi gott mótak.[19] Þar er hins vegar líka sagt að túnið sé snögglent og þýft, engjar votlendar, snögglendar og ógreiðfærar og beitilandið þröngt, næðingssamt og snjóþungt.[20] Á þessum tíma var talið að hér væri unnt að fleyta fram 2 kúm, 40 sauðkindum og 2 hrossum[21] og Snorri Sigfússon, sem þá var skólastjóri á Flateyri, segir að mórinn úr Fremri-Breiðadal hafi verið alveg fyrirtak og 6 pokar af honum taldir jafnast á við eitt skippund af kolum.[22] Á síðustu 50 árum hafa skilyrði til búskapar hér í Fremri-Breiðadal breyst mjög mikið til hins betra, ekki síst vegna mikillar ræktunar.

Um jörðina Fremri-Breiðadal er fyrst getið í vitnisburðarbréfi frá árinu 1475 þar sem vottað er að Jón Einarsson, sem líklega hefur búið á Hvilft (sjá hér Hvilft), hafi selt hana Örnólfi Einarssyni bróður sínum sem átti heima í Hvestu í Arnarfirði og fór um skeið með sýsluvöld í Barðastrandarsýslu.[23] Söluverðið var að þessu sinni tíu málnytukúgildi og fjögur hundruð í fríðu.[24] Alllöngu síðar mun Örnólfur hafa gefið þessa sömu jörð Þorleifi syni sínum og var sá gjörningur staðfestur með dómi á Alþingi árið 1533.[25] Dómsmennirnir sjö töldu sannað að Örnólfur hefði gefið Þorleifi Fremri-Breiðadal með samþykki dóttur sinnar og tengdasonar, þeirra Rannveigar Örnólfsdóttur og Ólafs Jónssonar.[26] Þegar dómur þessi var kveðinn upp var Þorleifur Örnólfsson enn á lífi (sjá hér Eftstaból). Dómsniðurstaðan var þó sú að bræður tveir, Jón og Ólafur Þorgautssynir, ættu Fremri-Breiðadal með réttu[27] og má ætla að Þorleifur hafi ráðstafað jörðinni til þeirra. Vera kann að þeir hafi verið nánir ættingjar hans, máske sonar- eða dóttursynir.

Árið 1569 var Fremri-Breiðadalur í eigu hjónanna Jóns Nikulássonar og Helgu Jónsdóttur en á því ári seldu þau jörð þessa Birni Bjarnasyni á Kirkjubóli í Valþjófsdal sem þá keypti líka af þeim jörðina Innri-Veðrará (sjá hér Innri-Veðrará). Óljóst er nú hversu lengi Björn á Kirkjubóli átti Fremri-Breiðadal en árið 1658 var Þorlákur Arason orðinn eigandi jarðarinnar.[28] Þar er efalaust um að ræða Þorlák Arason, lögréttumann í Súðavík, því árið 1695 átti Helga dóttir hans jörðina[29] og átta árum síðar var hún komin í eigu sonar hennar sem Erlendur Jónsson hét og átti heima á Stórólfshvoli í Rangárvallasýslu.[30] Þorlákur Arason lögréttumaður, sem átti Fremri-Breiðadal árið 1658, var sonur Ara Magnússonar, sýslumanns í Ögri,[31] en Helga sem átti jörðina árið 1695 var eina barn Þorláks sem náði að vaxa úr grasi.[32] Hún giftist Jóni sýslumanni Vigfússyni á Stórólfshvoli og þeirra sonur var Erlendur Jónsson á Stórólfshvoli[33] sem átti Fremri-Breiðadal árið 1703.

Þau Þorlákur Arason, Helga dóttir hans og Erlendur sonur hennar áttu á sínum tíma báðar jarðirnar hér í Breiðadal en Snæbjörn Pálsson, sem seinna var af flestum nefndur Mála-Snæbjörn, keypti þær af Erlendi á Stórólfshvoli árið 1709.[34] Þau kaup fóru fram við Öxará þann 17. júlí og fyrir þessar tvær jarðir í Önundarfirði, Fremri-Breiðadal og Neðri-Breiðadal, greiddi Snæbjörn þrjá jarðarparta í Rangárvallasýslu.[35] Þær jarðeignir hafa að líkindum verið úr eigu móður hans sem var sýslumannsdóttir úr Rangárþingi.[36] Líklega hefur Snæbjörn fest kaup á Breiðadölunum fyrir hönd föður síns, Páls Torfasonar, sýslumanns á Núpi í Dýrafirði því árið 1710 var Páll sýslumaður skráður eigandi þeirra beggja.[37] Átta árum síðar lét sýslumaðurinn þessar tvær jarðir svo af hendi við tengdason sinn, séra Sigurð Sigurðsson í Holti, í jarðaskiptum þeirra á milli.[38]

Um miðbik 18. aldar átti Fremri-Breiðadal maður að nafni Ketill Sigurðsson[39] og bjó hann sjálfur á jörðinni.[40] Árið 1762 var Ketill 52ja ára gamall en kona hans var þá 48 ára.[41] Um nafn hennar er ekki vitað en þrjú börn þeirra voru enn í foreldrahúsum þetta ár, ein dóttir, sem var 22ja ára, og tveir synir, 14 og 16 ára.[42] Upplýsingar um ætt Ketils Sigurðssonar liggja ekki á lausu. Nærtækast væri að ætla að þessi sjálfseignarbóndi í Fremri-Breiðadal hefði verið sonur séra Sigurðar Sigurðssonar í Holti sem eignaðist jörðina árið 1718 og dó 76 ára gamall árið 1760 en svo mun þó ekki vera.[43] Ef til vill hefur þó verið um einhver tengsl að ræða því nokkru seinna komst jörðin í eigu séra Guðmundar Sigurðssonar á Stað í Aðalvík sem var sonur hins fyrri eiganda, séra Sigurðar Sigurðssonar í Holti.[44] Á þeim árum sem séra Guðmundur átti Fremri-Breiðadal var jörðin í leiguábúð og svo var enn árið 1847[45] og líka 1901.[46] Um aldamótin 1900 var Fremri-Breiðadalur í eigu Hjalta Sveinssonar í Súðavík[47] en hann var dóttursonur Ebenezers Guðmundssonar, bónda í Innri-Hjarðardal í Önundarfirði sem dó þar 45 ára gamall árið 1816.[48] Faðir Hjalta var Sveinn Sölvason sem um skeið var verslunarstjóri á Flateyri.[49] Hjalti Sveinsson dó árið 1903[50] og um 1920 var Fremri-Breiðadalur kominn í sjálfsábúð en þá bjó hér Friðrik Guðmundsson[51] rokkasmiður frá Selakirkjubóli.[52] Friðrik og fjölskylda hans bjuggu þá í torfbæ þar sem baðstofan var 5 x 9 álnir að flatarmáli en við bæinn var komin timburskúr sem var 5 álnir á lengd og 3 á breidd.[53]

Á síðari hluta 17. aldar var landskuldin af Fremri-Breiðadal 80 álnir,[54] það er tveir þriðju hlutar úr kýrverði. Um 1700 lækkaði jarðarafgjaldið úr 80 í 60 álnir og sú var upphæð þess bæði 1753 og 1847.[55] Á fyrstu árum 18. aldar var landskuldin greidd að hálfu með fiski og lýsi og að hálfu með ullarvörum og allt átti þetta að leggjast inn í kaupstað.[56] Við fasteignamat sem fram fór á árunum kringum 1920 komust matsmenn að þeirri niðurstöðu að hæfileg landskuld af Fremri-Breiðadal væri ein og hálf ær,[57] það er 30 álnir eða helmingi lægri fjárhæð en goldin hafði verið 1710, 1753 og 1847. Innstæðukúgildi sem fylgdu jörðinni voru lengi þrjú.[58] Árið 1658 voru þessi leigukúgildi sem fylgdu jörðinni þó þrjú og hálft[59] og um 1920 hafði þeim fækkað niður í tvö.[60]

Enginn bændanna sem bjuggu í Fremri-Breiðadal fyrir 1680 er þekktur með nafni en árið 1681 bjó hér leiguliði að nafni Jón Jónsson og hafði alla jörðina til ábúðar.[61] Á fyrri hluta 18. aldar var hér oft tvíbýli og svo var einnig árið 1762.[62] Á 19. öld mátti aftur á móti kallast regla að hér væri einbýli.[63]

Árið 1703 bjuggu í Fremri-Breiðadal bændurnir Jón Jónsson og Bjarni Bessason.[64] Bjarni var þá 33ja ára og Jón 43ja ára[65] svo varla getur verið að þetta sé sami Jón Jónsson og bjó einn á allri jörðinni 22 árum fyrr. Kona Jóns Jónssonar, sem hér var árið 1703, hét Þorbjörg Þormóðsdóttir en Bjarni Bessason bjó þá með bústýru sem hét Margrét Bessadóttir[66] og hefur líklega verið systir hans. Þeir Bjarni og Jón bjuggu hér báðir enn árið 1710 eða alnafnar þeirra og hafði Bjarni þá átta hundruð til ábúðar en Jón fjögur.[67] Hvort Einar Bjarnason, sem bjó hér á móti Jóni nokkrum Björnssyni árið 1735 eða því sem næst,[68] hefur verið sonur Bjarna Bessasonar skal ósagt látið.

Árið 1753 var Ketill Sigurðsson sem fyrr var nefndur farinn að búa í Fremri-Breiðadal og bjó þá einn á allri jörðinni.[69] Vel má vera að Ketill hafi átt jörðina þá þegar og fullvíst er að hann var eini eigandi hennar árið 1762.[70] Á því ári bjó hann hér hins vegar í tvíbýli á móti Ólafi Sumarliðasyni[71] sem talið er að hafi verið sonur Sumarliða Nikulássonar í Alviðru í Dýrafirði en faðir Guðmundar Ólafssonar á Kvíanesi í Súgandafirði[72] sem einnig bjó um skeið á Suðureyri í Súgandafirði og í Neðri-Breiðadal.[73] Um bústofn og lausafjáreign Ólafs er ekki vitað en Ketill tíundaði 5 lausafjárhundruð árið 1753[74] sem bendir til þess að hann hafi verið meðalbóndi.

Árið 1801 var Jón Egilsson farinn að búa í Fremri-Breiðadal.[75] Hann var þá talinn 38 ára gamall og hafði lifað í hjónabandi í 15 ár.[76] Tveimur árum síðar andaðist bóndi þessi af langvarandi meinlætum og offylli.[77] Kona Jóns Egilssonar var Ólöf Þórðardóttir frá Selakirkjubóli og hélt hún áfram búskap að manni sínum látnum.[78] Haustið 1805 giftist hún í annað sinn en seinni maður hennar var Jón Guðlaugsson sem áður bjó í Tröð (sjá hér Tröð). Á þeim var ærinn aldursmunur því Jón var kominn undir sjötugt þegar hann leiddi Ólöfu upp að altarinu en hún mun þá hafa verið um fertugsaldur.[79] Við lok ársins 1816 var Ólöf Þórðardóttir búandi ekkja í Fremri-Breiðadal en seinni eiginmaður hennar hafði andast þá um haustið.[80] Sjálf lifði Ólöf enn á átjánda ár en dó á Vöðlum 7. febrúar 1834.[81] Með fyrri manni sínum, Jóni Egilssyni, hafði hún eignast sjö börn og eitt þeirra var Guðrún Jónsdóttir sem um alllangt skeið var húsfreyja á Tannanesi (sjá hér Tannanes).

Á árunum kringum 1820 fóru hjónin Indriði Jónsson og Kristín Magnúsdóttir að búa í Fremri-Breiðadal og voru sannanlega komin hingað árið 1821.[82] Kristín dó árið 1834 en Indriði stóð hér áfram fyrir búi allt til ársins 1837 þegar Járngerður dóttir hans og eiginmaður hennar, Jón Sveinsson frá Hesti, tóku við.[83] Þau Jón og Járngerður bjuggu hér næstu 24 ár, allt til ársins 1861, svo samanlagður búskapartími þessa fólks hér í Fremri-Breiðadal varð að minnsta kosti 40 ár.

Indriði Jónsson var fæddur í Lambadal í Dýrafirði árið 1787 en foreldrar hans, Jón Jónsson og Guðrún Magnúsdóttir, bjuggu einnig í Meirihlíð og á Hóli í Bolungavík.[84] Guðrún móðir hans var dóttir Magnúsar bónda í Tungu í Bolungavík Sigmundssonar á Hóli í Bolungavík Sæmundssonar[85] og var því af hinni gamalgrónu Hólsætt[86] eða með öðrum orðum sagt úr niðjahópi hjónanna Sæmundar Árnasonar sýslumanns og konu hans Elínar, sem var dóttir Magnúsar prúða Jónssonar, en þau bjuggu lengi á  Hóli í Bolungavík á 16. og 17. öld.

Kristín Magnúsdóttir, kona Indriða, var fædd árið 1778 í Ytri-Hjarðardal, dóttir Magnúsar bónda Jónssonar og konu hans Járngerðar Jónsdóttur[87] er seinna bjuggu á Görðum.[88] Kristín giftist Sveini Oddssyni árið 1802[89] og bjuggu þau á Vífilsmýrum en Sveinn var einn hinna mörgu Önfirðinga sem drukknuðu 6. maí 1812 (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli og Vífilsmýrar) en Kristín missti þá bæði eiginmanninn og tvo bræður.[90] Þremur árum síðar giftist hún Indriða og bjuggu þau fyrst á Vífilsmýrum en fluttust þaðan að Fremri-Breiðadal.

Þau Kristín og Indriði eignuðust bara tvö börn, Járngerði, sem hér var áður nefnd, og Jón Indriðason[91] sem varð hreppstjóri og bjó síðast á Kaldá en drukknaði árið 1854 (sjá hér Kaldá). Þegar manntal var tekið 2. febrúar 1835 var Indriði í Fremri-Breiðadal orðinn ekkjumaður en bæði börn hans voru þá hér heima, Jón á nítjánda ári og Járngerður einu ári yngri.[92] Hún var þá kölluð bústýra hjá föður sínum.[93] Hálfu öðru ári síðar giftist Járngerður Jóni Sveinssyni, hinum yngri tveggja bræðra með því nafni,[94] og vorið 1837 tóku þau hér við búsforráðum eins og áður hefur verið nefnt.

Jón Sveinsson yngri fæddist á Hesti 12. júlí 1807[95] og var því rétt um þrítugt þegar hann fór að búa í Fremri-Breiðadal. Foreldrar hans voru Sveinn Jónsson á Hesti sem drukknaði 6. maí 1812 og kona hans Guðrún Jónsdóttir (sjá hér Hestur). Jón mun hafa alist upp hjá móður sinni á Hesti uns hann fluttist með henni og bróður sínum og nafna að Innri-Veðrará á árunum kringum 1820 (sjá hér Innri-Veðrará).

Fyrsta barn Jóns Sveinssonar og Járngerðar Indriðadóttur fæddist haustið 1835,[96] einu ári áður en þau gengu í hjónaband, og hefur bústýran unga í Fremri-Breiðadal því aðeins verið 17 ára þegar þetta fyrsta barn hennar kom undir. Á næstu árum fjölgaði börnum Jóns og Járngerðar mjög ört en sum þeirra dóu á ungum aldri.

Sumarið 1841 voru bæjarhúsin í Fremri-Breiðadal tekin út og svo virðist sem Jón og Járngerður hafi þá ætlað að færa sig burt héðan.[97] Ekkert varð þó úr því en í úttektargerðinni frá 10. júlí 1841 er að finna fróðlegar upplýsingar um bæinn sem þessi niðjasælu hjón bjuggu þá í.

Baðstofan var 5,5 x 4 álnir[98] það er um það bil 8,7 fermetrar. Hæðin frá gólfi og upp í mæni baðstofunnar var 3,77 metrar[99] svo vel má hugsa sér að í henni hafi verið loft. Áreftið á baðstofuþakinu var orðið fornt þegar úttektin var gerð og veggir baðstofuhússins í slæmu standi.[100] Búrið í Fremri-Breiðadal var liðlega 8 fermetrar en eldhús Járngerðar var mun minna, aðeins 3,2 fermetrar.[101] Lofthæð í búrinu 2,5 metrar en 2,8 metrar í eldhúsinu.[102] Göng lágu frá baðstofu til útidyra og voru þau liðlega fimm og hálfur metri á lengd en breiddin veggja á milli í göngunum var bara ein alin, tæplega 63 sentimetrar.[103] Baðstofunni og búrinu fylgdu hurðir á hjörum.[104]

Í úttektinni frá sumrinu 1841 er fátt markvert að finna um gripahúsin en þar má sjá að smiðja var á bænum.[105]

Vorið 1842 höfðu Jón Sveinsson og Járngerður kona hans eignast fimm börn en aðeins tvö þeirra voru á lífi.[106] Járngerður gekk þá með sjötta barnið[107] en Jón bóndi hennar lagðist þá með annarri konu og barnaði hana líka. Þessi lagskona bóndans í Fremri-Breiðadal hét Ingibjörg Jónsdóttir og var vinnukona á Görðum fardagaárið 1841-1842 en fluttist árið 1842 til bróður síns, Davíðs Jónssonar sem þá var bóndi á Ytri-Veðrará.[108] Barn Ingibjargar og Jóns bónda Sveinssonar fæddist 25. febrúar 1843[109] og hefur því komið undir um fardagaleytið 1842. Þegar Jón féll með Ingibjörgu var hún hálffertug og hafði skömmu áður eignast annað barn sem einnig kom undir í lausum leik.[110] Barnið sem hún kenndi bóndanum í Fremri-Breiðadal var stúlka sem gefið var nafnið Ingveldur Margrét.[111] Jón bóndi gekkst þegar í stað við faðerninu[112] en líklega hefur hann iðrast víxlspora sinna með Ingibjörgu.

Sumarið 1843 skrifaði Jón yfirvöldunum bréf og fór þess á leit að sér yrði náðarsamlegast sleppt við að greiða sekt fyrir hórdómsbrotið.[113] Í ágústmánuði árið 1844 höfðu enn engin svör borist við þessari málaleitan og var Jón farið að gruna að Þorkell Gunnlaugsson sýslumaður hefði aldrei sent gögnin sem umsókninni fylgdu til amtsins.[114] Hann ákvað því að snúa sér beint til Bjarna Þorsteinssonar, amtmanns á Stapa, og sendi honum 8. ágúst 1844 beiðni um eftirgjöf á hórdómssektinni.[115] Því bréfi fylgdi sérstök fyrirbón um sama efni frá eiginkonu Jóns, Járngerði Indriðadóttur, og vottorð um að allt væri með felldu frá hinum breyska aðstoðarpresti í Holti, séra Sigurði Tómassyni. Fyrirbónin sem Járngerður skrifaði undir 8. ágúst 1844 var orðuð á þessa leið:

 

Jafnvel þó að ektamaður minn, Jón Sveinsson, hafi orðið sekur í hórdómsbroti móti mér með ógiftri kvenpersónu, Ingibjörgu Jónsdóttur, í fyrsta sinn, er minn einlægur vilji að framhalda hjónabandi eftirleiðis. Fellur því mín auðmjúk ósk til yðar hávelborinheita að yður þóknist að eftirgefa ofannefndum manni mínum hórdómssektina, samkvæmt tilskipun af 24. janúar 1838, svo sem ég að öllu leyti hefi tekið hann í fullkomna sátt.[116]

 

Vottorð séra Sigurðar Tómassonar, dagsett sama dag, hljóðar svo:

 

Að hins vegar skrifuð fyrirbón konunnar Járngerðar Indriðadóttur í Breiðadal fremri um uppgjöf hórsektar manns hennar, Jóns Sveinssonar, sé ekki á neinum lastverðum ástæðum byggð eða hneykslanlegum kringumstæðum votta ég eins og undir eins að hún glöð og einlæg héreftir vill framhalda hjúskap með manni sínum fyrrnefndum. Að þetta sé sannleikur vitna ég undirskrifaður.[117]

 

Skemmst er frá því að segja að amtmaður féllst á að hórdómssektin yrði látin niður falla en gaf sýslumanni fyrirmæli um að þeim Jóni Sveinssyni og Ingibjörgu barnsmóður hans yrði meinað að dveljast innan sömu sóknar.[118]

Sumarið 1844 tók Eggert Briem við sýslumannsembættinu í Ísafjarðarsýslu en hann var þá ungur maður, liðlega þrítugur að aldri.[119] Sinn fyrsta vetur hér fyrir vestan bjó hann í kaupstaðnum á Skutulsfjarðareyri og þaðan skrifar hann Bjarna amtmanni einkabréf 8. janúar 1845.[120] Í því bréfi ræðir sýslumaður um ýmis vandamál tengd embættisrekstrinum og spyrst fyrir um hvort amtmaður gæti ekki fallist á að Ingibjörg, barnsmóðir Jóns Sveinssonar í Fremri-Breiðadal, fengi að vera um kyrrt í Önundarfirði. Tilmæli sín um þetta orðaði Eggert sýslumaður svo:

 

Sú í amtsbréfi 14. september næstliðinn nefnda Ingibjörgu kvað vera fimmtug kerling sem Jón í Breiðadal hvorki vill heyra né sjá. Ætli hún megi ekki vera kyrr ef ég get ekki komið henni burtu með góðu, með því Önfirðingar hneykslast máske meira á mjög miklum strangleika í þessu máli með því Sveinsson agent fær að hafa sína frillu undir sama þaki?

Mér sýnist að í þess háttar málum megi nokkuð fara eftir því sem á stendur, t.d. ef einhverri slíkri stelpu verður ekki komið fyrir meðgjafarlaust í annarri sókn en einhver í sókninni vill nota hana sem vinnukind, þá megi slíkt leyfast ef ekki verður vart við neinar samgöngur hennar við barnsföðurinn.[121]

 

Þessi tilmæli Eggerts sýna vel frjálslyndi hans og góðan vilja til að leysa mál fremur með lempni en hörku. Sveinsson agent sem nefndur er í bréfinu er án vafa Friðrik Svendsen sem var fyrrverandi kaupmaður á Flateyri þegar bréfið var skrifað. Hann var þá orðinn vanheill á geðsmunum og bjó með ráðskonu en eiginkonan, sem verið hafði, búsett í Danmörku (sjá hér Flateyri).

Líklega hefur það verið vegna tilmæla Eggerts Briem sem Bjarni amtmaður féllst á að Ingibjörg á Veðrará fengi að vera um kyrrt í Önundarfirði[122] en á komandi árum átti hún lengst af heima hjá Davíð bróður sínum og dó hjá honum á Kotum árið 1859.[123] Dóttir þeirra Jóns í Breiðadal, Ingveldur Margrét, fylgdi móður sinni á uppvaxtarárum en giftist síðar Guðmundi Eggertssyni frá Skálará í Keldudal og áttu þau heima á ýmsum bæjum í Mýrahreppi, síðast á Rana þar sem Ingveldur dó árið 1905.[124] Annar tveggja sona Ingveldar og eiginmanns hennar hét Ingibjartur og skömmu eftir andlát hennar fluttust þeir feðgar, Guðmundur Eggertsson og Ingibjartur sonur hans, að Lokinhömrum í Arnarfirði. Guðmundur G. Hagalín rithöfundur var þá að alast þar upp og hefur lýst þeim feðgum með eftirminnilegum hætti í bók sinni Ég veit ekki betur.[125] Brot úr þeirri lýsingu er að finna á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Núpur í Dýrafirði).

Með konu sinni, Járngerði Indriðadóttur, eignaðist Jón Sveinsson 17 börn sem fæddust á árunum 1835-1864 og öll nema eitt í Fremri-Breiðadal.[126] Sjö þessara barna náðu að eignast afkomendur og er nú mikill fjöldi fólks frá þeim kominn.[127] Frá hinu átjánda barni Jóns Sveinssonar, dótturinni sem hann eignaðist með Ingibjörgu Jónsdóttur, eru hins vegar engir niðjar á lífi og ekki er kunnugt um að Jón hafi haldið fram hjá konu sinni oftar en í þetta eina skipti þegar til varð barnfuglinn Ingveldur Margrét.

Jón Sveinsson í Fremri-Breiðadal var virtur bóndi og var annar tveggja hreppstjóra í sinni sveit í a.m.k. átta ár, frá 1848 til 1856, en var útnefndur til hreppstjóraembættis sumarið 1844.[128] Síðasta fardagaárið sem Jón og Járngerður bjuggu í Fremri-Breiðadal var 1860-1861. Bústofn þeirra í byrjun þess var 3 kýr, 16 ær, 8 gemlingar 1 hestur og 1 tryppi.[129] Hér var þá 20 ferfaðma kálgarður og hálfan bát átti Jón bóndi á móti öðrum, sexæring eða fjögra manna far.[130]

Vorið 1861 tóku hjón þessi í Fremri-Breiðadal sig upp eftir 24 ára búskap og fluttust að Hvilft þar sem þau fengu alla jörðina til ábúðar.[131] Þegar Jón Sveinsson hóf búskap á Hvilft var hann orðinn 54 ára gamall og þar dó hann sextugur að aldri 21. desember 1867.[132] Sex dögum síðar, á þriðja degi jóla, andaðist dóttir þeirra hjóna, Jóhanna Margrét, sem þá var 25 ára gömul ógift heimasæta á Hvilft.[133]

Járngerði Indriðadóttur, sem 17 ára gerðist bústýra föður síns og eignaðist síðan 17 börn með Jóni Sveinssyni, var ekki fisjað saman. Fimmtug varð hún ekkja en hélt búskapnum áfram á Hvilft í allmörg ár með aðstoð barna sinna. Árið 1873 stóð hún enn fyrir búi en 1. október þá um haustið giftust þrjú börn hennar, öll sama daginn.[134] Gift var í Holtskirkju en sameiginleg brúðkaupsveisla systkinanna haldin á Hvilft í samkomutjaldi sem reist var á bæjarhólnum.[135] Börn Járngerðar sem þarna gengu í hjónaband voru Guðmundur, Margrét og Jón.[136] Guðmundur kvæntist Stefaníu Friðbertsdóttur frá Vatnadal í Súgandafirði og bjuggu þau lengi í Fremri-Vatnadal.[137] Margrét giftist Einari Jónssyni, bróðursyni Magnúsar Einarssonar á Hvilft, og bjuggu þau alllengi á Görðum.[138] Þriðja barn Járngerðar Indriðadúttur sem gekk í hjónaband 1. október 1873 var Jón Jónsson sem kvæntist Arnfríði Þórarinsdóttur, dóttur Kristínar Þórarinsdóttur er þá átti heima á Stað í Súgandafirði.[139] Jón varð skammlífur því hann drukknaði með Aðalbirni Jóakimssyni á skútunni Jóhannesi vorið 1882, liðlega þrítugur að aldri.[140] Til er merkileg lýsing á brúðkaupsveislunni miklu á Hvilft haustið 1873 (sjá hér Hvilft). Búskap Járngerðar Indriðadóttur á Hvilft lauk vorið 1875 en hún dó hjá Guðrúnu dóttur sinni á Þórustöðum 2. desember 1878.[141]

Vorið 1861 fóru hjónin Guðlaugur Þorsteinsson og Jóhanna Jónsdóttir að búa í Fremri-Breiðadal og tóku þar við af Jóni Sveinssyni og Járngerði konu hans.[142] Þau Guðlaugur og Jóhanna komu að Fremri-Breiðadal frá Hóli á Hvilftarströnd en þar höfðu þau hafið búskap árið 1843 (sjá hér Hóll). Eitt barna þessara hjóna var Bóas, sem fluttist 12 ára gamall með foreldrum sínum hingað að Fremri-Breiðadal, en hann átti síðar lengi heima á Innri-Veðrará og var um alllangt skeið hreppsnefndaroddviti í Mosvallahreppi (sjá hér Innri-Veðrará).

Þegar Guðlaugur Þorsteinsson fluttist að Fremri-Breiðadal var hann kominn undir fimmtugt og átta eða níu árum síðar fékk hann búið í hendur dóttur sinni og tengdsyni, þeim Rannveigu Guðlaugsdóttur og Guðmundi Jónssyni.[143] Guðmundur var fæddur á Mosvöllum árið 1837, sonur Jóns Guðlaugssonar og Margrétar Guðmundsdóttur sem þar bjuggu.[144] Hann var því bróðir þeirra Gabríels Jónssonar á Efstabóli og Jens Jónssonar sem lengi bjó á Kroppstöðum. Guðmundur bóndi í Fremri-Breiðadal var á yngri árum skipstjóri á skútum um nokkurt skeið og var fyrst titlaður skipherra árið 1868 svo kunnugt sé.[145]

Með búskapnum í Fremri-Breiðadal stundaði Guðmundur sjómennsku og var um skeið skipstjóri á skútum sem gerðar voru út frá Ísafirði.[146] Í manntali frá árinu 1870 er Guðmundur nefndur skipherra.[147] Þau Guðmundur Jónsson og Rannveig Guðlaugsdóttir kona hans stóðu fyrir búi í Fremri-Breiðadal frá því um 1870 og til 1879 eða 1880[148] en fluttust þá að Kaldá. Þar andaðist Guðmundur haustið 1887 og var þá orðinn hreppstjóri[149] en á fyrstu búskaparárum sínum þar var hann oddviti hreppsnefndarinnar í Mosvallahreppi.[150]

Annar tveggja sona þessara hjóna sem upp komust var Guðjón Ágúst, fæddur 9. ágúst 1869.[151] Hann fluttist 19 ára gamall frá Kaldá til Ísafjarðar árið 1888 og er þá kallaður bókbindari[152] Tveimur árum síðar átti hann heima í húsi Sölva Thorsteinson, skipstjóra á Ísafirði, og er þá nefndur bókbindari og ljósmyndari.[153] Í júlímánuði árið 1895 var Guðjón Ágúst að taka ljósmyndir í Önundarfirði eins og sjá má í dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili.[154] Jón nefnir að vísu ekki föðurnafn ljósmyndarans en kunnugir telja fullvíst að um sé að ræða Guðjón Ágúst Guðmundsson, þann sem hér var áður nefndur.[155] Síðar á ævinni kaus Guðjón Ágúst að kenna sig við fæðingarstað sinn og nefndi sig Ágúst Breiðdal.[156] Hann fékkst mikið við ljósmyndun og átti lengi heima í Færeyjum en myndirnar sem hann tók fyrir aldamótin 1900 í Önundarfirði og víðar eru að öllum líkindum glataðar.[157] Er það mikill skaði því lítið er um svo gamlar ljósmyndir frá Vestfjörðum eða af Vestfirðingum nema helst frá Ísafirði þar sem ljósmyndastofa var sett á fót árið 1891.

Árið 1880 fóru hjónin Jóhann Jón Guðmundsson og Hildur Sveinbjörnsdóttir að búa í Fremri-Breiðadal og næstu 18 árin höfðu þau alla jörðina til ábúðar.[158] Hjón þessi fluttust að Fremri-Breiðadal frá Kleifum í Seyðisfirði við Djúp en bæði voru þau Djúpmenn að ætt og uppruna.[159] Jóhann var bóndasonur frá Kleifum í Seyðisfirði, fæddur 1844, en Hildur var nokkrum árum eldri, fædd í Nauteyrarhreppi árið 1838.[160]

Jóhann Guðmundsson andaðist í Fremri-Breiðadal 2. maí 1901[161] en síðustu þrjú árin sem hann lifði var hann þar í húsmennsku.[162] Hildur kona hans komst á níræðisaldur og dó í janúarmánuði árið 1921 á Vífilsmýrum hjá Sturlu syni þeirra sem lengi var húsmaður þar.[163]

Síðasti 19. aldar bóndinn í Fremri-Breiðadal var Guðmundur Guðmundsson sem tók við jörðinni vorið 1898 og bjó hér í 18 ár (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 415). Áður hafði hann verið hér fáein ár í húsmennsku.[164] Guðmundur fæddist á Kroppstöðum árið 1861, sonur hjónanna Guðmundar Jónssonar og Guðrúnar Mósesdóttur sem bjuggu þar um skeið[165] en móðir hans bjó síðar alllengi á Innri-Veðrará (sjá hér Innri-Veðrará). Kona Guðmundar Guðmundssonar var tíu árum yngri en hann.[166] Hún hét Jóhanna Ólöf Guðmundsdóttir og var dóttir Guðmundar Jónssonar, bónda á Grafargili, og Sesselju Sigurðardóttur vinnukonu.[167] Hún var hálfsystir Jóns Guðmundssonar frá Grafargili, sem lengi bjó á Kirkjubóli í Valþjófsdal, og voru þau samfeðra.[168] Þau Guðmundur Guðmundsson og Jóhanna kona hans bjuggu í Fremri-Breiðadal til 1916 en seinna áttu þau lengi heima á Selakirkjubóli.[169] Sum barna þeirra nefndu sig Breiðdal og má úr þeim hópi nefna Guðmund Breiðdal, innheimtumann í Hafnarfirði, sem fæddur var árið 1895.[170]

 

 

Þann 2. ágúst 1892 var vesæll sveitarómagi fluttur frá Hesti í Önundarfirði að Fremri-Breiðadal þar sem honum var ætlað að dveljast næsta árið.[171] Þetta var pilturinn Magnús Hjaltason sem þá var 19 vetra. Á Hesti hafði hann legið rúmfastur í hálft annað ár, frá því um veturnætur árið 1890 og þar til komið var langt fram á vor árið 1892 (sjá hér Hestur). Á Hesti taldi Magnús sig hafa orðið fyrir mjög illri meðferð eins og hér hefur áður verið rakið og var því feginn að losna úr prísundinni.

Þegar hann kom að Fremri-Breiðadal réðu hér húsum hjónin Jóhann J. Guðmundsson og Hildur Sveinbjörnsdóttir og hjá þeim dvaldist Magnús sem niðursetningur í eitt ár.[172]

Þegar komið var með drenginn að Fremri-Breiðadal var hann algerlega óvinnufær en hér náði hann að safna kröftum og var að verða fær um að bjarga sér þegar hann fór heðan tvítugur að aldri í ágústmánuði árið 1893.[173] Daginn eftir komu Magnúsar hingað að Fremri-Breiðadal skrifaði hann hreppsnefndinni í Súðavíkurhreppi, sem var fæðingarhreppur hans, og kærði Jóhannes Kristjánsson, bónda á Hesti, fyrir illa og ómannúðlega meðferð á sér.[174] Viku síðar kom Bjarni Jónsson, hreppstjóri í Súðavíkurhreppi, vestur yfir Álftafjarðarheiði til að kynna sér málavexti og fékk Jóhannes á Hesti til að ríða með sér út að Fremri-Breiðadal til fundar við Magnús.[175] Á þeim fundi samþykkti Jóhannes í votta viðurvist að greiða Magnúsi 26,- krónur í bætur innan þriggja vikna en tveimur árum síðar voru miskabætur þessar enn ógreiddar.[176] Með bréfi dagsettu 14. janúar 1893 fór Jóhannes þess hins vegar á leit að hreppsnefnd Súðavíkurhrepps borgaði sér 13 krónur fyrir að senda mann eftir lækni og meðulum til hjálpar Magnúsi.[177] Með sama bréfi gerði Jóhannes kröfu um að fá greiddar 12,- krónur fyrir að hafa haft Magnús á sínu heimili 12 dögum lengur en um hafði verið samið og 3,- krónur vildi hann fá fyrir að flytja niðursetninginn frá Hesti að Fremri-Breiðadal.[178] Neðan við þennan reikning bætti bóndinn á Hesti svo kröfu um þriggja króna greiðslu fyrir ómak sitt við að fara með hreppstjóra Súðavíkurhrepps til fundar við Magnús að Fremri-Breiðadal þann 10. mars 1892.[179] Öllum þessum kröfum hafnaði hreppsnefnd Súðavíkurhrepps[180] og mun Jóhannes þá ekki hafa talið sér skylt að inna af hendi áður umsamda greiðslu til Magnúsar.

Sín miklu og merkilegu dagbókarskrif hóf Magnús Hjaltason hér í Fremri-Breiðadal haustið 1892 og skrifar fyrst 22. október:

 

Vetrardagur fyrsti. Stillt veður heiðbjart. Mikið frost. Snjólaust. Um sumarið, 2. ágúst, færðist ég að Breiðadal undan Hesti úr höndum níðinganna, Jóhannesar Kristjánssonar, óðalsbónda á Hesti, og konu hans, Jónínu Sveinsdóttur. Hafði ég þá legið rúmfastur án þess nokkurn tíma að komast fram fyrir rekkjustokk frá því eftir veturnætur 1890 þangað til um vertíðarlok 1892 með óútsegjanlegum þjáningum.[181]

 

Sama dag gerir Magnús grein fyrir heimilisfólkinu í Fremri-Breiðadal og getur þess að Jóhann bóndi sé formaður á bát.[182] Auk Jóhanns og Hildar konu hans nefnir Magnús börn þeirra, Sturlu og Friðgerði, svo og föður bónda, Guðmund Sturluson, sem búinn var að vera blindur í 8 ár, og ennfremur Guðrúnu Ámundadóttur sem var niðursetningur á bænum.[183] Systkinin, Sturla og Friðgerður, voru nokkrum árum yngri en Magnús og mun Sturla hafa verið 13 ára en Friðgerður 16 þegar Magnús kom að Fremri-Breiðadal.[184]

Veturinn 1892-1893 virðist Magnús ekki hafa sinnt neinum störfum við búskapinn í Fremri-Breiðadal,[185] enda var heilsa hans enn bágborin þó ekki væri hann rúmliggjandi.  Hinn ungi drottins krossberari en svo nefndi Magnús sjálfan sig var þó engan veginn iðjulaus því hann las allt sem hann náði í og skrifaði margt. Á þessu eina ári sínu í Fremri-Breiðadal orti hann 110 kvæði og kviðlinga, þar af 18 ljóðabréf, og mun að jafnaði hafa sett saman fjórar vísur á dag.[186] Úr þessu mikla safni má nefna Bændarímu yfir Mosvallahrepp sem Magnús orti í desembermánuði árið 1892 og fylgir dagbókarskrifum hans frá þeim tíma.[187]

Í bréfi sem Magnús ritaði föður sínum 4. febrúar 1893 greinir hann frá líðan sinni og þeirri unun sem hann hafi af kveðskap. Um þessi efni kemst hann meðal annars svo að orði:

 

Það er svo fjarska kalt í baðstofunni að ég er alltaf skjálfandi. Það er ekki 3ja stiga hiti. Svo er ég svo yfirtak vesall, ég tek svo mikið út í höfðinu og svo brjóstinu. Það eru fjarska tök í höfðinu á mér, sérstaklega í hægra auganu svo ég hef ekki viðþol og verð að hafa nær því birgt fyrir augað, að ég sjái ekki birtuna. En síðan í morgun hef ég kveðið ljóðabréf til hennar Halldóru í Efrihúsum, 30 vísur undir hringhendu. Ég á eftir að hreinskrifa það, svo sendi ég henni það. Nær það verður veit ég ekki.

… Ég hef svo mikið gaman af rímum, sérstaklega vel kveðnum mansöngvum. Mér finnst þegar ég er farinn að kveða sem ég lífgist allur innvortis og útvortis.[188]

 

Meðal bóka sem Magnús bað föður sinn að útvega sér þennan vetur má nefna skáldsöguna Mann og konu eftir Jón Thoroddsen og sjálfa Njálu.[189] Faðir hans var þá vinnumaður í Holti hjá séra Janusi Jónssyni. Presturinn átti Njálu en Fertramsrímur, sem niðursetningurinn í Breiðadal vildi líka fá að láni, voru til á Vöðlum.[190]

Örfá dæmu úr dagbókarskrifum Magnúsar frá vetrinum sem hann dvaldist í Fremri-Breiðadal koma hér til fróðleiks. Þann 27. október ritar hann þetta:

 

Stillt veður og snjókoma mikil. Kominn allmikill snjór. Var fyrst húsað féð. Þurfti þá eigi að vonast eftir að það færi lengur út á því hausti því eftir að snjór var kominn í Breiðadal gat fénaður ekki staðið þar á beit sökum skafmoldar.[191]

 

Næsta vor lá féð úti í fyrsta sinni aðfaranótt 19. maí og 30. júní voru lömbin rekin á fjall.[192]

Á nýársdag árið 1893 skrifar Magnús alllangt mál í dagbókina og segir þá meðal annars:

 

Heilagri hamingjunni sé lof að ég er þó ekki og hef ekki verið í rúminu síðan ég kom hingað í Breiðadal því þó ég geti ekkert farið út af bænum þá get ég þó nú farið ofan og á ég þann styrkleika að þakka því að ég fluttist hingað því þau Jóhann og Hildur, húsbændurnir hér, hafa verið mér ágætlega góð … . Og þó þungt sé að verða að vera kominn upp á aðra á besta aldri með miklum hæfileikum, þá er þó sitthvað að vera hér og mega bera sinn kross óáreittur heldur en að vera í þeim stað sem manni er gert allt til kvalar og skapraunar í hverju atviki til lífs og sálar eins og mér var gert meðan ég var á Hesti.[193]

 

Þennan nýársdag fóru unglingarnir á bænum, systkinin Sturla og Friðgerður, ofan að Ytri-Veðrará til að skemmta sér en Magnús varð að sitja heima.[194] Um þetta ritar hann svo:

 

Þannig getur sá sem heilsuna hefur farið sem hann langar til og tekið þátt í gleði lífsins og notið sannarlegs yndis en ég sem stórþjáður drottins krossberari verð að vera heima og bera mína miklu heisuleysisbyrði en guð gefi mér þrek til þess, kannski það geti þá orðið öðrum til fyrirmyndar sem neyðin umkringir ef ég reyni að stríða sem best ég get og ber mig vel.[195]

 

Þann 5. mars 1893 skrifar Magnús: Skafmold á suðaustan, lítið frost. Kom Símon Dalaskáld og kváðumst við á. Þótti honum ég vera skjótkvæður.[196]

Mánuði síðar greinir Magnús frá því að hjónin Geirmundur Jónsson og Guðrún Einarsdóttir séu komin til veru í Fremri-Breiðadal.[197] Þau höfðu áður búið á Kirkjubóli í Korpudal við mikla fátækt svo hreppsnefndin varð að taka þau þar upp og hafði komið börnunum fyrir, öllum nema einu sem fékk að fylgja foreldrunum og kom með þeim að Fremri-Breiðadal.[198]

Þann 13. mars 1893 grípur Magnús dagbókina og skrifar:

 

Kom Júlíana Halldórsdóttir frá Hóli á Hvilftarströnd. Stúlka þessi býr til hesta, barnaleikföng, og gerir það ágætlega svo margir nær og fjær panta hjá henni slíka hluti. Kostar hvert dýr jafnaðarlega hjá henni eina krónu og er það ekki dýrt.[199]

 

Þegar Júlíana hestasmiður heimsótti fólkið í Fremri-Breiðadal þetta vor var Jóhann bóndi þar rétt ófarinn í verið. – Reiddi Geirmundur nokkuð af verdótinu þeirra Jóhanns ofan í Breiðadalsbót, skrifar Magnús í dagbók sína þann 12. apríl[200] og þann 15. sama mánaðar segir hann þá Jóhann og Geirmund hafa farið í verið út á Kálfeyri.[201] Þar voru þeir við róðra frá 15. apríl til 29. júní en komu oft heim um helgar.[202]

Veturinn sem Magnús dvaldist í Fremri-Breiðadal virðist honum yfirleitt hafa liðið bærilega, enda fór heilsa hans batnandi þó hægt miðaði í fyrstu. Vetrarkuldann í baðstofunni átti hann samt erfitt með að þola eins og sjá má í bréfinu frá 4. febrúar sem hér var áður vitnað í.

Daginn fyrir krossmessuna um vorið fóru Hildur húsfreyja og Friðgerður dóttir hennar með landskuldarærnar norður í Súðavík til Hjalta Sveinssonar sem þar bjó en hann var eigandi jarðarinnar í Fremri-Breiðadal.[203] Ætla má að þær hafi rekið ærnar yfir Álftafjarðarheiði og tveimur dögum síðar komu mæðgurnar til baka.[204] Landskuldarærnar hafa líklega verið þrjár því vitað er að nokkrum áratugum fyrr var landskuldin af Fremri-Breiðadal 60 álnir (sjá hér bls. 5), það er þrjú ærgildi.

Þegar leið á vorið fór krossberarinn á baðstofuloftinu í Breiðadal að hressast svo miklu munaði. Þann 18. maí slóst hann í för með Sturlu og Friðgerði ofan að Neðri-Breiðadal og var það í fyrsta sinn sem hann fór héðan á aðra bæi.[205] Á næstu vikum og mánuðum urðu ferðir hans að Neðri-Breiðadal mjög tíðar eins og brátt verður vikið nánar að og 7. júní fór hann út að Hvilft og gisti þar eina nótt.[206] Faðir Magnúsar var þá á Hvilft og þar orti drengurinn vísur um allt fólkið á bænum.[207] Frá Sveinbirni Magnússyni, föður húsfreyjunnar á Hvilft, fékk hann tvær krónur í skáldalaun,[208] líklega þau fyrstu á ævinni. – Varð ég hjartans feginn, skrifar Magnús í dagbók sína, því fyrir þær [krónurnar tvær] gat ég þó keypt mér bók.[209]

Þann 29. júní kom Jóhann bóndi úr verinu og næsta dag hjálpaði Magnús til við að reiða aflafenginn heim frá sjónum.[210] Mun það hafa verið hans fyrsta þátttaka í bústörfum frá því hann varð alveg óvinnufær og lagðist í rúmflet sitt á Hesti haustið 1890. Síðan þá voru nú liðin 2 ár og 8 mánuðir. Af dagbókarskrifum Magnúsar frá sumrinu 1893 má marka að honum var þó mjög sjaldan ætlað verk að vinna enda mun þrekið hafa verið lítið. Í ágústmánuði vann hann þó stöku sinnum eitthvað í heyi og kveðst einn daginn hafa verið í heybindingu yfir megn fram.[211]

Síðustu mánuðina sem Magnús dvaldist í Fremri-Breiðadal átti hann mikil samskipti við Ingibjörgu Guðmundsdóttur sem þá átti heima í Neðri-Breiðadal.[212] Hún var liðlega 20 árum eldri en hann og orðin fertug þegar kynni þeirra hófust.[213] Foreldrar Ingibjargar voru við getnað hennar og fæðingu ógift vinnuhjú.[214] Faðirinn, Guðmundur Jóhannesson, átti þá heima í Staðarhúsum í Súgandafirði en móðirin, Ólöf Björnsdóttir, var vinnukona á Mosvöllum þegar telpan fæddist.[215] Ólöf var sonardóttir séra Eiríks Vigfússonar á Stað í Súgandafirði og skömmu eftir fæðingu Ingibjargar giftist hún Jóni Jónssyni sem fæddur var á Selakirkjubóli árið 1825.[216] Þau Jón og Ólöf bjuggu lengi í Neðri-Breiðadal.[217] Guðmundur Jóhannesson, faðir Ingibjargar, varð hins vegar bóndi á Langhól, einu býlanna í Bæ í Súgandafirði (sjá hér Bær).

Þegar Magnús kynntist Ingibjörgu Guðmundsdóttur var hún búsett hjá móður sinni í Neðri-Breiðadal en hafði áður verið vinnukona á ýmsum bæjum, m.a. í Holti 1870, í Bæ í Súgandafirði 1880 og á Innri-Veðrará 1890.[218] Haustið 1887 hafði Ingibjörg eignast soninn Daníel með Guðmundi Guðbrandssyni sem sex árum fyrr hafði flust norðan frá Djúpi að Veðrará, þá 17 ára gamall vinnumaður.[219] Þessi barnsfaðir hennar giftist annarri konu árið 1891 en sonurinn Daníel mun að einhverju leyti hafa alist upp í Neðri-Breiðadal og fylgdi stundum móður sinni á uppvaxtarárum.[220]

Í dagbók sinni nefnir Magnús Hjaltason Ingibjörgu fyrst þann 23. maí 1893 og segir hana þá hafa komið að norðan.[221] Um mánaðamótin maí/júní fór Magnús þrisvar ofan að Neðri-Breiðadal á einni viku[222] og í júní og júlímánuði voru þau Ingibjörg stöðugt á ferð milli bæjanna til að heimsækja hvort annað.[223] Á þessu tveggja mánaða tímabili fór Magnús að minnsta kosti tíu sinnum ofan að Neðri-Breiðadal og þrettán sinnum kom Ingibjörg frameftir til hans.[224] Einu sinni fékk hún að gista[225] og tvisvar kom hún með Daníel son sinn.[226]

Eftir tveggja mánaða törn virðist hinn ungi en heilsubilaði niðursetningur hafa verið farinn að þreytast á samskiptunum við þessa miðaldra konu og 28. júlí skrifar hann í dagbókina:

 

Kom Ingibjörg Guðmundsdóttir frá Breiðadal neðri. Ég er fyllilega kominn að raun um það að Ingibjörg þessi er búin að fá mikla ást á mér og þykir mér það leiðinlegt þar sem hún er eins frekleg í svoleiðis sökum eins og hún er og hefur fengið orð fyrir að vera. Ingibjörg hefur verið mér ágætlega góð síðan ég kynntist henni hér í Breiðadal og virði ég hana mikið fyrir það og vildi feginn geta rétt henni hjálparhönd ef hún þyrfti þess með og fyndi mig meira að segja skyldugan til þess. Það er að mínu áliti fögur dyggð að vera þeim góður sem eiga sannarlega bágt og hefir Ingibjörg stundað vel þá dyggð hvað mig áhrærir.[227]

 

Þegar Magnús festi þessi orð á blað voru 19 dagar liðnir frá því hann fór síðast ofan að Neðri-Breiðadal, ef marka má dagbókina, og á þeim tveimur vikum sem hann átti enn eftir að dveljast í Fremri-Breiðadal fór hann þangað aldrei.[228] Ingibjörg hélt hins vegar áfram að koma fram eftir og hér lét hún sjá sig daginn áður en Magnús fór alfarinn frá Fremri-Breiðadal.[229]

Næsta vetur dvaldist Magnús í Eyrardal í Álftafirði og þangað sendi Ingibjörg honum mörg bréf en hann sendi henni kvæði.[230] Aftan við endurrit af kvæði sem skáldyrðingur þessi orti til vinkonu sinnar í Breiðadal hefur hann skrifað:

 

Kvæði þetta hef ég kveðið til hinnar sómafögru stúlku, Ingibjargar Guðmundsdóttur í Breiðadal neðri í Önundarfirði. Síðari hluta árs þess er ég dvaldi undir höndum Jóhanns Guðmundssonar í Breiðadal, eftir það ég var orðinn svo hress að ég gat komist bæjarleið (stutta), sem ekki var þó nema ofan að Breiðadal neðri, kynntist ég þessari ágætu stúlku er lét mér fljótt í ljósi sinnar dýru hjartagæsku vott, nefnilega aumkvaðist yfir mig sem mikinn drottins krossberara, er jafnan sýndi sig í fyllsta máta, hvort sem hún var heima hjá sér eða eigi á meðan ég var í Breiðadal og hefur sýnt sig enn til þessa því hún hefur skrifað mér mörg ágæt bréf síðan ég kom hingað í Eyrardal. Ég gleymi því ekki um alla ævi þessari manndáðarfögru manneskju er var mér svo góð alveg ókunnug mér eða lítt kunn áður en ég kom í Breiðadal.[231]

 

Frá síðari samskiptum þeirra Magnúsar og Ingibjargar er sagt á öðrum stað í þessu riti en vorið 1897 fluttist Ingibjörg til hans að Brekku á Ingjaldssandi (sjá hér Brekka). Í dagbók sinni frá þeim tíma kveðst Magnús hafa tekið hana að sér í gustukaskyni fyrir allan þann velvilja er hún sýndi honum í Breiðadal sumarið 1893.[232] Í sambúð þeirra á Brekku snerist allt hins vegar á hinn versta veg áður en langir tímar liðu eins og hér er lýst á öðrum stað (sjá Brekka). Ingbjörg mun hafa verið flogaveik en Magnús segir hana hafa verið haldna af hryllilegum veikleika er hann nefnir slagaveiki.[233] Frá endanlegum skilnaði Magnúsar Hjaltasonar og þessarar slagaveiku konu vorið 1898 er sagt á öðrum stað í þessu riti (sjá hér Drangar). Um feril Ingibjargar síðar á ævinni verður ekki orðlengt hér en þess má geta að hún andaðist á Mosvöllum 14. desember 1926 og var þá enn einhleyp manneskja.[234]

Í Fremri-Breiðadal dvaldist Magnús á vegum hreppsnefndar Súðavíkurhrepps er hafði komið honum þar fyrir og borgaði meðlagið sem með honum var greitt. Í bréfi sem Jóhann Guðmundsson, bóndi í Fremri-Breiðadal, ritaði oddvita Súðavíkurhrepps skömmu áður en komið var hingað með Magnús má sjá að hann gerir ráð fyrir að fá með ómaganum sömu meðgjöf og Jóhannes á Hesti hafði áður fengið,[235] það er 104,- krónur á ári (sjá hér Hestur). Í bréfinu tekur Jóhann hins vegar fram að fari heilsa kramarmannsins versnandi kynni hann að gera kröfu um hærri borgun.[236] Vel má vera að hreppsnefndarmönnum í Súðavíkurhreppi hafi vaxið í augum að greiða þetta háa upphæð út úr hreppnum og svo mikið er víst að áður en ár var liðið frá komu Magnúsar að Fremri-Breiðadal ákváðu þeir að hann skyldi fluttur norður í Álftafjörð á sinn fæðingarhrepp. Þann 11. ágúst 1893 skrifar Magnús þessi orð í dagbókina:

 

Fór Sturla út að Selakirkjubóli til að fá lánaðan hest því nú er áformað að Jóhann fari með mig á morgun inn í Súðavíkurhrepp, alfara héðan, en að hvaða bæ veit ég ekki. … Yfir það rúma ár sem ég hef dvalið hér í Breiðadal fremri í Önundarfirði hefi ég kveðið afar mikið.[237]

 

Næsta dag fór Jóhann með Magnús norður í Álftafjörð þar sem pilturinn var settur niður í Eyrardal.[238] Frá því ferðalagi segir Magnús fátt í dagbókinni en fullvíst má telja að þeir hafi riðið Álftafjarðarheiði, sömu leið og komið var með Magnús 7 vikna gamlan að Efrihúsum undir Hesti tuttugu árum fyrr (sjá hér Hestur).

 

 

Um aldir hefur Fremri-Breiðadalur verið áfangastaður ferðamanna sem fóru yfir Breiðadalsheiði milli Skutulsfjarðar og Önundarfjarðar. Þeir sem komu yfir heiðina að norðan vissu að hér var fyrsti bær vestan hins háa heiðarvegar og hinir, sem lögðu á heiðina að vestan, áttu hér síðast manna von áður en lagt var á fjallið, oft í tvísýnu veðri. Þjóðleiðin yfir Breiðadalsheiði hefur ætíð verið fjölfarin þó að vegurinn liggi efst í 610 metra hæð yfir sjávarmáli og ríðandi menn sem komu úr Önundarfirði hafi jafnan orðið að fara af baki og teyma hestinn til að ná heiðarskarðinu.

Guðrún I. Jónsdóttir sem ólst upp á Ytri-Veðrará, öðrum næsta bæ við Fremri-Breiðadal, greinir frá á þessa leið:

 

Aldrei var hægt að ríða yfir heiðina þó að sumarlagi væri. Hestar voru teymdir upp fjallið eftir skáhöllum troðningum og niður að norðanverðu en land er allt mun hægara þeim megin fjallsins. Þar sem farið var upp í heiðarskarðið var snjóskafl í heiðarkinninni sem aldrei tók upp. Þegar kom fram á sumarið, stundum ekki fyrr en um mánaðamót júní / júlí, var mokuð slóð í skaflinn svo hægt væri að fara yfir með hesta.[239]

 

Á þessum orðum sést að í átta eða níu mánuði á hverju ári var aðeins hægt að fara gangandi en yfir hásumarið fóru menn á hestum sem þó varð að teyma upp mestu brekkuna vestan undir heiðarskarðinu. Guðrún segir þarna að snjóskaflinn í heiðarkinninni hafi aldrei tekið upp og mun það rétt vera ef horft er til áranna á fyrsta fjórðungi 20. aldar. Guðmundur G. Hagalín rithöfundur, sem var búsettur á Ísafirði á árunum 1929-1945, segir hins vegar að sumarið 1929 hafi skafl þessi horfið í fyrsta skipti í manna minnum og á næstu árum hafi hann alltaf tekið upp öðru hverju.[240] Svo mun einnig hafa verið á árunum 1945-1970 en nú á síðustu árum (um 1990) hefur hann aldrei horfið.[241]

Eins og hér hefur verið rakið var fjallvegurinn yfir Breiðadalsheiði mjög erfiður ferðamönnum á fyrri tíð en mátti þó heita eina sæmilega færa leiðin milli Önundarfjarðar og Skutulsfjarðar ef frá er talin Þverdalsheiði sem stöku sinnum var farin frá bæjum í innfirðinum (sjá hér Efstaból) en hún er líklega enn verri viðfangs. Til verslunarstaðarins á Skutulsfjarðareyri, þar sem nú er Ísafjarðarkaupstaður, áttu Önfirðingar hins vegar oft erindi, a.m.k. á síðari öldum og urðu þá að leggja á heiðina hvort sem þeim var það ljuft eða leitt. Á Flateyri hófst ekki verslunarrekstur fyrr en um 1790 (sjá hér Flateyri) og fyrir þann tíma urðu Önfirðingar að sækja alla lögmæta verslun til Þingeyrar eða norður á Skutulsfjarðareyri. Mest voru viðskiptin þá við Þingeyri, m.a. vegna þess að Gemlufallsheiði var langtum auðveldari yfirferðar en Breiðadalsheiði. Á vissu skeiði einokunartímans var öllum sem bjuggu á norðurströnd Önundarfjarðar þó gert að versla á Skutulsfjarðareyri eins og sjá má í heimild frá árinu 1720 (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Á 19. öld var verslunarstarfsemin á Flateyri oft mjög smávægileg svo Önfirðingar þurftu þá enn að fara margar kaupstaðarferðir norður í Skutulsfjörð eða vestur í Dýrafjörð og á síðustu áratugum nítjándu aldarinnar ráku þeir sláturfé yfir Breiðadalsheiði á hverju hausti (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli).

Í dagbókum Magnúsar Hjaltasonar frá vetrinum 1892-1893 er að finna ýmsan fróðleik um ferðir yfir heiðina en Magnús átti þá heima í Fremri-Breiðadal.[242] Í dagbókum sínum getur Magnús um 18 menn sem fóru yfir Breiðadalsheiði í nóvembermánuði og 35 menn sem fóru yfir heiðina í mars.[243] Er þá talin ein ferð hjá mönnum sem fóru fram og til baka án þess að margir dagar liðu á milli. Nær allir þessir ferðalangar komu við í Fremri-Breiðadal og sumir gistu.[244] Skömmu eftir páska árið 1883 fóru 80 menn í einum hóp yfir Breiðadalsheiði, úr Önundarfirði til Ísafjarðar.[245] Ætla má að margir þeirra hafi verið ráðnir í skiprúm á Ísafirði eða annars staðar við Djúp. Einn í þessum fjölmenna hópi var Reinald Kristjánsson,[246] þá 17 ára, en hann varð síðar landpóstur á leiðinni frá Ísafirði til Bíldudals og mun hafa farið fleiri ferðir yfir Breiðadalsheiði en flestir eða allir aðrir (sjá hér Kaldá). Að sögn Reinalds fór hann þó aldrei síðar yfir nokkra heiði með eins marga samfylgdarmenn og þessa 80 sem fylgdust að úr Önundarfirði á Ísafjörð vorið 1883.[247]

Árið 1876 hófust reglubundnar póstferðir yfir Breiðadalsheiði og hafði Þorsteinn Thorsteinsson, kaupmaður og bakari á Ísafirði, umsjón með þeim fyrstu árin[248] en hann var þingmaður Ísfirðinga frá 1881 til 1885.[249] Fyrstur allra tók að sér þessar póstferðir maður að nafni Guðmundur Kjartansson sem var vinnumaður hjá Þorsteini Thorsteinsson og ýmsir nefndu Guðmund söngmann.[250] Fór hann frá Ísafirði til Þingeyrar og hafði viðkomustað í Holti.[251] Póstur til Flateyrar var þá látinn liggja eftir á Veðrará og þangað var komið með póst frá Flateyri í veg fyrir söngmanninn en Guðmundur þessi annaðist póstferðirnar frá Ísafirði til Þingeyrar í um það bil 10 ár.[252]

Á árunum 1886-1889 eða því sem næst voru þeir Kristján Hjálmarsson og Jósep Jóhannsson í póstferðum yfir Breiðadalsheiði[253] og segir svo frá þeim í ritinu Söguþættir landpóstanna:

 

Kristján Hjálmarsson var einnig í póstferðum fyrir Thorsteinsson. Hann var drykkjumaður mikill. Jósep sem kallaður var „hrafnasprengir”, bæði vegna hraðfæris síns og fljótfærni, var um eitt skeið í þessum vesturpóstferðum á vegum Thorsteinssons bakara en vart hefur það lengi verið. Jósep þessi var Jóhannsson. Hann var með afdæmum málóður og þótti ekki öruggt um frómleik hans heldur. Jósep var hamhleypa til ýmissar vinnu en nokkuð rusulvirkur og maður næsta ólatur. Hann kvæntist Össurínu Friðriksdóttur úr Hjarðardal, mestu myndarkonu, og bjuggu þau á ýmsum bæjum í Önundarfirði, fluttu síðan til Hnífsdals og fóru þaðan til Ameríku um 1912-1914.[254]

 

Fjórði pósturinn á leiðinni yfir Breiðadalsheiði, sem menn kunna að nefna, var Þorlákur snikkari Magnússon en hann fór þessar póstferðir frá 1889-1895.[255] Þá hafði póstleiðin reyndar verið lengd og fór Þorlákur jafnan frá Ísafirði að Rafnseyri og síðustu árin alla leið á Bíldudal, fékk þá flutning yfir Arnarfjörð.[256] Á þessum árum fór Þorlákur þó ekki allar póstferðir milli Ísafjarðar og Rafnseyrar. Til marks um það má nefna að 8. nóvember 1892 kom Kristján Oddsson, sem nefndi sig Dýrfjörð, að Fremri-Breiðadal og var þá í póstferð á þessari leið.[257]

Á árunum 1902-1915 var Reinald Kristjánsson póstur á títtnefndri leið en hann bjó þá á Kaldá á Hvilftarströnd (sjá hér Kaldá). Yfir Breiðadalsheiði fór Reinald 16 póstferðir á ári í 14 ár og fékk 55,- krónur fyrir hverja ferð frá Ísafirði til Bíldudals.[258] Í þessum reisum hafa ferðir Reinalds yfir heiðina orðið 448 (16x14x2) en alls taldi hann ferðir sínar yfir hana hafa orðið 866.[259]

Þau fáu orð sem hér hafa nú verið sögð um Breiðadalsheiðina og ferðir yfir hana eru mælt á hlaðinu í Fremri-Breiðadal en við munum nú halda þaðan og feta okkur fram dalinn í átt að heiðarskarðinu. Láta mun nærri að vegalengdin frá Fremri-Breiðadal að Tungu í Skutulsfirði, sem var fyrsti bær handan heiðar, sé um 13 kílómetrar ef farið er eftir bílveginum. Bein loftlína frá Fremri-Breiðadal upp í heiðarskarðið er hins vegar fjórir kílómetrar og milli sex og sjö kílómetrar þaðan að Tungu.

Ofan við túnið og aðeins framar en bærinn er Stekkjarholt.[260] Á holtinu er gamall stekkur um fjórir metrar á lengd og einn til tveir metrar á breidd. Skammt fyrir framan Stekkjarholt og aðeins hærra er Kolfinnubali.[261] Sagt var að þar hefði kona að nafni Kolfinna verið látin rífa hrís þangað til kuldi og hungur urðu henni að bana.[262]

Gömlu engjaplássin í landi Fremri-Breiðadals eru nú öll orðin að túni, þar á meðal Svörtusund sem voru lítið eitt framan við gamla heimatúnið og náðu alveg niður að Langánni.[263] Fyrir framan Svörtusund er dálítill foss í ánni og mun vera nafnlaus.[264] Lægðin framan við hann heitir Fosslægð[265] en upp af henni og rétt ofan við túnið er Grásteinsholt og tekur nafn af háum steini sem á því stendur.[266] Frá Grásteini er ekki langur spölur fram að landamerkjunum sem áður var lýst (sjá hér bls. 1). Framan við þau tekur Langdalurinn við en hann fylgir Neðri-Breiðadal eins og hér hefur áður verið nefnt. Fram í Langdal förum við ekki að þessu sinni en látum nægja að svipast um frá leitinu skammt framan við merkin.

Öll hlíðin hér undir Skógarhorni heitir Kolviðarhlíð[267] og benda nöfnin á fjallinu og hlíðinni eindregið til þess að hún hafi verið viði vaxin á fyrri tíð og hér hafi menn gert til kola.

Á fyrri tíð voru fráfærulömbin frá Neðri-Breiðadal jafnan rekin fram í Langdal og þar var stundum heyjað ef illa áraði, t.d. 1918.[268] Fremst í dalnum er lítill hóll sem heitir Kikhóll[269] en skoðun hans bíður betri tíma. Fjallið ofan við Langdal heitir Langdalsfjall og upp á það mun vera fært með hesta þar sem heitir Hestakleif.[270] Frá fjallsbrúninni ofan við Langdal er skammur spölur yfir í Leitishvilft og niður í Botnsdal í Súgandafirði. Þangað förum við ekki nú en víkjum þess í stað niður að Langá (Breiðadalsá) og vöðum yfir hana á móts við jarðgangnamunnann sem er hér handan ár og spölkorn framan við landamerki Fremri- og Neðri-Breiðadals. Þeir sem fóru Breiðadalsheiði á fyrri tíð, úr Önundarfirði í Skutulsfjörð, lögðu ýmist upp frá Ytri-Veðrará eða Fremri-Breiðadal og fram dalinn var þá ýmist farið Veðrarármegin eða Breiðadalsmegin. Þeir som komu frá Fremri-Breiðadal gátu farið hvar sem var yfir ána.[271] en hér í Brokinu (sjá hér Ytri-Veðrará) þar sem jarðgangnamunninn er nú komu leiðirnar saman og héðan var lagt á brattann upp Skógarbrekkur.

Svolítið framan við vegskálann gefst enn kostur á að skoða sýnishorn af gamla reiðveginum sem liggur hér upphlaðinn og vel frá genginn þó að fáir hafi lagt leið sína um hann síðustu 60 árin. Upp Skógarbrekkurnar lá reiðvegurinn í mun beinni stefnu en elsti akvegurinn[272] sem opnaður var fyrir umferð yfir heiðina haustið 1936. Á göngu okkar upp Skógarbrekkurnar sjáum við líka þennan gamla akveg sem lá í mörgum sveigjum og beygjum upp brattann en eitthvað mun hafa verið lappað upp á hann vegna notkunar í tengslum við jarðgangnagerðina nú á síðustu árum. Ofan við Skógarbrekkurnar vísa tvær eða fleiri vörður á gamla reiðveginn sem liggur rétt við fjallið Raufarhorn og er enn nokkuð greinilegur hér og þar.

Frá efstu brekkubrúninni í Skógarbrekkum er skammt að Kerlingarhól sem er stór og mikill um sig hér neðst í Heiðarhvilftinni og rétt við alfaraleiðina fornu og bílveginn sem farinn var frá 1936 til 1996. Gamla gatan, sem oftast var farin í fyrri daga, lá um rætur hólsins og þaðan beinustu leið upp í heiðarskarðið.[273] Aftur á móti liggur bílvegurinn upp fjallshlíðina sunnan við Heiðarhvilft og þaðan í sveig upp í Kinnina og úr henni í sjálft skarðið en handan þess fer að halla norður af. Í brekkunni vestan við heiðarskarðið sést gamla hestagatan enn og við bílveginn vestantil í skarðinu stendur varða sem vísar á hina fornu hestagötu sem þar er reyndar mjög greinileg. Norðan við skarðbrúnina er líka varða og önnur þar litlu neðar. Þessar tvær síðastnefndu vörður gefa til kynna hvernig alfaraleið göngufólks og ríðandi manna lá þegar halla tók norður af en í efstu brekkunum norðan við skarðið er hún mun sunnar en bílvegurinn og stefnir þar nær beint í austur.

Á leið upp Skógarbrekkurnar höfðum við fjallið Raufarhorn á hægri hönd en þegar komið er upp á Kerlingarhól blasir við annað fjall sunnan við Heiðarhvilft og heitir það Horn.[274] Milli þessara tveggja klettahorna er lítill kiki. Þegar gangandi menn fóru hér um að vetrarlagi á fyrri tíð þurfti stundum að víkja af alfaraleið til að varast yfirvofandi snjóflóð inni í Heiðarhvilftinni sem Óskar Einarsson læknir nefnir svo[275] en eins mætti kallast hvolf. Var þá sveigt fram hjá hvilftinni en farið frá Kerlingarhól beint í suður eins og leið liggur upp á fjallið Horn sem hér var áður nefnt.[276] Var það kallað að fara horn.[277] Hornbrúnin liggur í 725 metra hæð yfir sjávarmáli og því 115 metrum hærra en Breiðadalsskarð sem alfaraleiðin lá um þar sem nú er bílvegurinn. Þeir sem fóru horn gengu, þegar upp var komið, eftir fjallinu í átt að heiðarskarðinu og komu þannig í skarðið að ofan.[278] Með þessu móti gátu menn skotið sér undan bráðri hættu á snjóflóðum og var þá betri krókur en kelda.

Þegar Reinald Kristjánsson á Kaldá var póstur á leiðinni frá Ísafirði til Bíldudals hlóð hann ásamt öðrum manni upp vörðurnar sem vísuðu rétta leið þegar menn fóru horn.[279] Sjálfur segir hann að hvort sem menn komu að norðan eða vestan hafi þeir átt að fara fram hjá 18 vörðum þar uppi áður en beygt var.[280] Væri þeirri reglu ekki fylgt var dauðinn vís því fyrir neðan er hengiflug.[281] Á milli hverra tveggja varða voru 15 faðmar og að sögn Reinalds fóru þær aldrei á kaf í snjó.[282] Í bréfi sem Reinald skrifaði 6. apríl 1939, þá 73ja ára gamall, kemst hann svo að orði:

 

Þegar slysið mikla varð í Hnífsdal 1910, í þeim byl elti ég hundinn. Þá rataði ég ekki af því að ég fór Hornið. Þó eru ekki nema 15 faðmar á milli varða. Heiðin var ófær vegna hlaupa og var ekki farin í 3 vikur.[283]

 

Ef farið var horn á leið til Ísafjarðar komu menn aftur á alfaraleið í Breiðadalsskarði þar sem bílvegurinn liggur hæst.

Norðan við skarðið er leiðin greið um Dagverðardal að Tungu í Skutulsfirði. Að þessu sinni nemum við staðar í skarðinu, virðum þar fyrir okkur landslagið og skaflinn mikla sem enn heldur velli í Kinninni en snúum síðan til baka og fylgjum gömlu þjóðleiðinni í beina stefnu á Kerlingarhól. Skammt norðan og neðan við hann er fagurblátt fjallavatn sem seiðir okkur til sín í hljóðri dul. Að sögn kunnugra heitir það bara Vatn eða Vatnið.[284]

Á vatnsbakkanum er gott að hvíla lúin bein og minnast þeirra sem týnt hafa lífi í harðsóttri glímu við veðraham heiðarinnar. Á 125 ára tímabili, frá 1789 til 1914, urðu að minnsta kosti tíu menn úti á ferð yfir Breiðadalsheiði eða fórust þar í snjóflóðum og reyndar líklegt að þeir hafi verið eitthvað fleiri því talan tíu er lágmarkstala og byggist ekki á ýtarlegri könnun. Nöfn þeirra sem týndu lífi á heiðinni fyrir 1789 munu nú flest eða öll vera glötuð en þar sem sjö menn eða fleiri kvöddu hér lífið á 19. öld má telja líklegt að heildarfjöldi þeirra sem orðið hafa veðrum heiðarinnar að bráð sé ekki undir fimmtíu.

Í Vatnsfjarðarannál yngsta er þess getið að Jens Lassen, verslunarþjónn á Skutulsfjarðareyri, hafi orðið úti á Breiðadalsheiði snemma í janúar árið 1789.[285] Í prestsþjónustubók Eyrar í Skutulsfirði sjáum við að hann hefur verið 39 ára gamall og andlát hans borið að tveimur mánuðum síðar en sagt er í annálnum, það er 6. mars 1789.[286] – Dó úti í illviðri á Breiðadalsheiði, stendur þar og tekið fram að lík assistentsins hafi fundist 24. mars og verið jarðað fimm dögum síðar.[287] Sumarið 1789 reið Jón Arnórsson sýslumaður í Ísafjarðarsýslu til Alþingis og auglýsti þar eftir kröfum í dánarbú hins látna verslunarþjóns. Í auglýsingu sinni kemst sýslumaður svo að orði:

 

Under-assistentens vid Ísafjarðar fríhöndlun Jens Lassens, dødsfald á næstliðna vetri auglýsist hans erfingjum innanlands og utan og að í hans margskulduga, ofurfátæklega sterbúi skipti gjörist í Ísafjarðar kaupstað innan árs og dags. Þar til innkallast hans erfingjar að ganga frá arfi og gjaldi eða til og þá sanna sinn skyldugleika, líka sterbúsins skuldunautar og þeir að því heimtu hafa með antakanligar bevísingar, þá sérhvern skal rétt ske.[288]

 

Um Jens þennan Lassen sem króknaði á Breiðadalsheiði 6. mars 1789 heyrði Gísli Konráðsson ýmsar sögur, sumar ófagrar, þegar hann sat við fræðastörf í Flatey á Breiðafirði á árunum 1852-1877 en þar hafði Lassen verið undirkaupmaður 1778 og 1779. Þau ár hafa fáir munað sem uppi stóðu þegar Gísli kom til Flateyjar en foreldra sína hafa viðmælendur Gísla heyrt segja frá eigin kynnum af þessum breyska undirsáta dönsku konungsverslunarinnar.

Þegar Jens Lassen kom til Flateyjar sem undirkaupmaður gerðist hann að sögn Gísla óhóflega brugðinn til drykkju og ölæðis og kastaði út fé sínu, víni og varningi bæði til ungra kvenna og karla.[289] Gapastokk lét hann setja upp við Flateyjarkirkju til refsingar ósiðamönnum en þegar hann var sjálfur ákærður fyrir misferli rauk hann til og braut gapastokkinn niður því nú óttaðist hann að verða sjálfur dæmdur til að hírast í stokknum.[290]

Frá Flatey fór Jens Lassen til Ísafjarðar og átti þá ekkert nema ígangsfötin.[291] Á Ísafirði komst hann í þjónustu nafna síns, Jens Lassen Busch í Neðstakaupstað,[292] en lifði við fátæki mikið og litla virðingu, að sögn Gísla Konráðssonar sem einnig getur þess að hinn fyrrverandi undirkaupmaður í Flatey hafi orðið úti í illviðri á Breiðadalsheiði.[293]

Í miklu óveðri sem skall á 29. desember árið 1810 (sbr. hér Tannanes) varð ógiftur vinnumaður frá Eyri í Skutulsfirði úti á Breiðadalsheiði.[294] Hann hét Torfi Jónsson og ætlaði norður yfir heiðina þennan dag en lenti í moldbyl.[295] Lík hans fannst ekki fyrr en 14. maí um vorið og var þá orðið skaddað.[296] Líkið fannst móts við Fremri-Breiðadal og var talið að Torfi hefði snúið aftur þegar óveðrinu áskellti en honum auðnaðist ekki að ná til bæjar.[297]

Þann 11. janúar 1834 var ungur bóndi í Efrihúsum undir Hesti á ferð yfir Breiðadalsheiði og lenti í snjóflóði sem varð honum að bana.[298] Þessi ungi maður hét Páll Pálsson og var kvæntur Guðríði Bjarnadóttur er seinna varð eiginkona Jóns Björnssonar á Tannanesi (sjá hér Hestur). Þegar Páll týndi lífi var hann rétt liðlega þrítugur.[299] Lík hans fannst ekki fyrr en um vorið og var hann jarðsettur í Holti 3. júní.[300]

Á gamlársdag árið 1843 varð aftur banaslys í snjóflóði á Breiðadalsheiði.[301] Sá sem þá týndi lífi var Jón Þórarinsson, 35 ára gamall jaktamaður á Ísafirði.[302] Hann var jarðaður 24. janúar 1844.[303] Jón fæddist á Kaldá árið 1808 og ólst upp í Önundarfirði en fluttist árið 1831 að Lambadal í Dýrafirði[304] og átti þar heima um skeið.[305] Hann var sonarsonur Sveins Jónssonar sem lengi bjó á Kaldá.[306]

Sighvatur Grímsson Borgfirðingur á Höfða í Dýrafirði minnist á andlát Jóns Þórarinssonar í ritum sínum og greinir frá á þessa leið:

 

Var hann á ferð norður á Ísafjörð, ætlaði að verða þar á fiskiskipi. Fannst hann undir heiðinni þegar snjóa leysti. Var hann hraustmenni mikið og bar oft þungar klyfjar og svo var í þetta sinn. Oft bar hann yfir 10 fjórðunga.[307]

 

Þess skal getið til skýringar að 10 fjórðungar eru 50 kíló.

Kona Jóns Þórarinssonar var Kristín Einarsdóttir og höfðu þau verið gift í fjögur ár þegar Jón týndi lífi.[308] Líklega er það þessi Kristín Einarsdóttir sem var 34 ára gömul ekkja í vinnumennsku á Dröngum í Dýrafirði árið 1845 með dóttur sína Kristínu Jónsdóttur sem þá var sögð 5 ára gömul.[309]

Þann 12. nóvember 1855 fórst enn maður í snjóflóði á Breiðadalsheiði og var það Vigfús Eiríksson, bóndi og smiður í Neðri-Breiðadal.[310] Vigfús var 55 ára gamall þegar hann týndi lífi í snjóflóðinu.[311] Magnús Hjaltason ólst upp í Hestþorpinu í Önundarfirði á árunum kringum 1880 hjá tengdadóttur Vigfúsar og heyrði oft sagt frá feigðarför hans. Síðar greindi Magnús frá henni á þessa leið í rituðu máli:

 

Á útmánuðum 1855 [rétt er 12. nóvember 1855 – innsk. K.Ó.]  fórst í snjóflóði vestan til í heiðinni Vigfús smiður í Neðri-Breiðadal Eiríksson, prests að Stað í Súgandafirði Vigfússonar. Það varð með þeim hætti að hann, Vigfús, og 5 eða 6 menn aðrir, þar á meðal sonur hans, Kristján smiður í Breiðadal, voru að koma frá Skutulsfjarðareyri, þeir feðgarnir frá smíðum. Hét sá Bjarni er bar tólakistil þeirra. Ófærð var töluverð. Þegar þeir komu upp á heiðina hvíldu þeir sig. Og er þeir stóðu upp fór Bjarni sá er tólakistilinn bar á undan, hvatlega mjög. Hengja mikil var vestantil í heiðinni en er Bjarni kom fram á brúnina varð honum fótaskortur og féll hann áfram. Í því sprakk hengjan og fóru þeir félagar þar allir í og kaffærðust. Er nú fyrst að segja frá Kristjáni Vigfússyni. Þegar hann vissi af sér hafði hann lausan annan handlegginn og gat rifið sig upp. Sá hann engan mann. Tók hann þá að kalla. Var honum ansað og hann beðinn hjálpar. Fann hann þá einn félaga sinna. Hjálpuðust þeir síðan að við að leita hinna og grafa þá upp. Loks höfðu þeir fundið alla lifandi nema Vigfús smið, föður Kristjáns smiðs. Leituði þeir hans allt á vöku fram, fundu hann þá og var hann þá liðinn. Var grynnst ofan að honum í mjaðmarhöfuð. Færðu þeir líkið ofan á Kerlingarhól og veittu því nábjargir. Hét sá Þórður er bauðst til að vera einn hjá líkinu meðan hinir færu heim og útveguðu sleða og menn til að færa heim líkið. Þegar þeir voru farnir fór Þórður ofan í poka er Vigfús sálugi hafði borið, tók þar upp brennivínsflösku og saup á. Hresstist hann við það … . Um nóttina komu menn fram eftir með sleða og umbúðir. Var líkið flutt heim að Neðri-Breiðadal, heimili hins látna, rist utan af því fötin og síðan gjör kista að því. Var Vigfús smiður jarðaður í Holti.[312]

 

Næsti maður sem týndi lífi á Breiðadalsheiði var Bjarni Torfason úr Önundarfirði sem varð úti í lok mars eða byrjun apríl árið 1869. Bjarni var fæddur á Næfranesi í Dýrafirði vorið 1807 og var vinnumaður í Holti árið 1858.[313] Þegar Bjarni varð úti var hann á leið úr Skutulsfirði vestur yfir heiðina[314] og mun þá hafa verið sveitarkarl á Vífilsmýrum.[315] Lík hans fannst ekki fyrr en sumarið 1871 og var hann jarðaður á Eyri í Skutulsfirði 22. júlí á því ári.[316] Ljóst er að Bjarni hefur villst af leið eða hrakist undan veðri því lík hans fannst að sögn milli Botnsheiðar og Hestaklifs.[317] Hestaklif þetta er ugglaust sami staður og hér er nefndur Hestakleif (sjá bls. 25) en um klifið var farið upp úr botni Langdals, sem gengur fram úr Breiðadal, og yfir í Leitishvilft í Súgandafirði sem þar er næst Botnsheiðinni. Í annarri heimild segir reyndar að smalastelpa frá Tungu í Skutulsfirði, Ólöf Sveinsdóttir að nafni, hafi fundið beinagrindina af Bjarna uppi á Hnífafjalli[318] sem er skammt frá Tungu og liggur milli Tungudals og Dagverðardals í Skutulsfirði. Erfitt er nú að skera úr um á hvorum staðnum beinagrindin fannst.

Þann 1. apríl 1882 týndi Guðmundur nokkur Jónsson lífi á leið yfir Breiðadalsheiði og mun lík hans aldrei hafa fundist.[319] Guðmundur átti heima í Ísafjarðarkaupstað og segir Magnús Hjaltason að hann hafi verið sendur þaðan vestur á Þingeyri eftir ölföngum, brennivíni og rommi.[320] Magnús greinir nánar frá ferðum sendimannsins og þá m.a með þessum orðum:

 

Í norðurleið varð hann samferða öðrum manni. Þegar þeir komu í Önundarfjörð var að gjöra versta veður, byl. Gisti Guðmundur á Ytri-Veðrará hjá Jóni bónda Halldórssyni … en félagi hans fór að Fremri-Breiðadal og gisti þar. Daginn eftir var sama óveðrið þangað til um níu að hægði og birti nokkuð. Vildi þá Guðmundur fyrir hvern mun fara á stað frá Veðrará og héldu honum engin bönd. Kvaðst hann ætla að taka félaga sinn í Breiðadal og gista þar ef veður versnaði. Um kvöldið gerði aftakaveður á útnorðan. Ég man þann byl. Ég var þá í Efrihúsum undir Hesti … . Þegar bylnum létti fréttist að Veðrará að Guðmundur hefði ekkert komið við í Breiðadal heldur lagt á  heiðina. Sáu Breiðdælingar til hans. Hafði hann gengið mikið ákaflega. En fyrir því að útlit var ljótt og snjór ærinn vildi maður sá er gisti í Breiðadal ekki leggja á stað … . Þegar eftir hríðina var farið að leita að Guðmundi. Fannst poki hans vestan til í heiðinni en húfa hans, vettlingar og stafur brotinn norðan til í heiðinni. … Getið var til að hann myndi hafa farið á Vatnið, hnigið þar niður örmagna og andast og líkið síðan sokkið í Vatnið.[321]

 

Um miðjan febrúar árið 1898 lögðu fjórir ungir menn úr Valþjófsdal og af Ingjaldssandi upp í ferð norður að Djúpi til sjóróðra.[322] Þeir hétu Jörundur Ebenezersson, Guðmundur Jóhannesson, Jónas Hallgrímur Egilsson og Jón Sigurðsson.[323] Aðfaranótt 15. febrúar gistu þeir allir á bæjunum í Breiðadal og lögðu af stað þaðan klukkan 10 árdegis næsta dag.[324] Magnús Hjaltason greinir frá ferð þeirra og segir meðal annars:

 

Var þá hæglátt veður en er þeir voru skammt farnir syrti ákaflega og villtust þeir upp í Nautaskál. Þá rofaði til. Færð var hin versta, aldrei minna en í klyttur [þ.e. klyftir – innsk. K.Ó.] og brókarlinda. Þó komust þeir á heiðarbrún fyrir myrkur og við illan leik að vörðu einni norðantil við heiðina. Gerðu þeir tilraun til að komast lengra en þess var enginn kostur. Létu þeir fyrirberast undir vörðunni, hlóðu snjó að sér og settust niður. Veðrið var voðalegt, stormurinn afskaplegur og að því skapi fannfergjan og hélt því til seinni hluta nætur. Þá rofaði nokkuð til. Héldu þeir félagar þá úr skaflinum en þá var Jón Sigurðsson orðinn veikur og þraut hann brátt gönguna. Komu þeir honum ofan fyrir Vatnið og skildu þar við hann. Héldu svo til byggða … . Þótti mörgum slælegur viðskilnaður þeirra félaga á Jóni Sigurðssyni þar sem enginn vildi vera hjá honum í dauðastríði hans. … Þeir félagar Jóns Sigurðssonar gátu um hann í Tungu í Skutulsfirði. Fór þá Jón bóndi Ólafsson frameftir þegar með heitta mjólk en eigi rann nafna hans þá niður og andaðist hann þar sem hann var kominn. Jón Ólafsson veitti honum nábjargir, hlúði að líkinu eftir föngum og fór svo heim. Var líkið síðan sótt á sleða.[325]

 

Magnús Hjaltason segir í dagbók sinni frá 18. febrúar 1898 að mennirnir þrír sem komust lífs af hafi verið 16 klukkustundir um kyrrt í skaflinum.[326]

Jón Sigurðsson var frá Dalshúsum í Valþjófsdal.[327] Hann var jarðaður á Eyri í Skutulsfirði 22. febrúar 1898, sagður 19 ára.[328] Presturinn sem jarðsetti lætur þess getið að Jón hafi orðið úti.

Hér var áður minnst á Reinald Kristjánsson sem lengi var póstur á leiðinni yfir Breiðadalsheiði og átti hér því fleiri spor en flestir aðrir (sjá hér bls. 24). Þann 1. apríl 1908 lagði hann einu sinni sem oftar upp í ferð vestur yfir heiðina. Skammt framan við Tungu í Skutulsfirði náði honum stúlka sem þá var búsett á Ísafirði, Sigríður Einarsdóttir frá Hvammi í Dýrafirði. Bað hún Reinald að fá að fylgjast með honum vestur yfir heiðina en pósturinn hvatti hana til að snúa við og sagði ekki vera á kvenna færi að brjótast yfir heiðina í slíku veðri sem þá var skollið á og færðin ekki góð.[329] Þegar Sigríður heyrði hvað pósturinn ráðlagði henni brást hún að sögn reið við skynti sér á undan honum og lét sem óðslegast svo Reinald hafði ekki við henni í fyrstu.[330] Magnús Hjaltason, sem á sínum tíma færði í letur söguna af þessu ferðalagi, segir ýmsa hafa talið að brjálsemi muni hafa gripið Sigríði, enda hljóp hún af stað vettlingalaus og án þess að láta vita hvert hún ætlaði.[331]

Fram á Dagverðardal fór stúlkan að þreytast mjög og sótti þá að henni kuldi.[332] Í prestsþjónustubókinni frá Holti í Önundarfirði segir svo frá endalokum Sigríðar:

 

Varð úti á Breiðadalsheiði. Slóst í ferð með pósti illa útbúin og veður vont. Pósturinn, Reinharður Kristjánsson á Kaldá [hans rétta nafn var Reinald – sjá hér Hestur og Kaldá  − innsk. K.Ó.], kom henni með harðfylgi vestur yfir heiðina. Skildi þar við hana til að leita mannhjálpar en stúlkan var örend þegar til hennar var komið. Var máttvana er póstur skildi við hana.[333]

 

Magnús Hjaltason lýsir ferð þeirra, stúlkunnar og póstsins, svolítið nánar og segir að Reinald hafi ýmist borið hana eða dregið á skíðasleða.[334] Um framgöngu Reinalds bætir Magnús við þessum orðum:

 

Reinald póstur sýndi þá karlmennsku mikla og kom stúlkunni vestur fyrir heiði. Var þá svo af henni dregið að nálega var hún komin í andlátið. Hlynnti pósturinn að henni eftir föngum, hljóp svo til bæjar og fékk sér menn og fór sjálfur með til baka, fyrir því líka að skilið hafði hann póstflutninginn eftir [sjá hér bls. 34 -innskot K.Ó]. En er þeir komu þangað er stúlkan var var hún önduð. Færðu þeir líkið til bæja og var það síðan grafið að Holtskirkju.[335]

 

Útför Sigríðar Einarsdóttur var gerð 10. apríl 1908.[336] Magnús Hjaltason var henni eitthvað kunnugur eða þekkti hana að minnsta kosti í sjón og lýsir útliti hennar svo: Sigríður sáluga var gerðarstúlka í hvívetna, fríð sýnum, rjóð í andliti og slétt á kinn, meðalhá á vöxt og gild eftir hæð. Hún lét eftir sig einn son á lífi, Guðmund að nafni.[337]

Sjálfur greinir Reinald frá þessari feigðarför Sigríðar Einarsdóttur í bók sinni Á sjó og landi og ber í öllum meginatriðum saman við frásögn Magnúsar.[338] Hann segir þó að ferð þessi hafi verið farin í lok mars eða byrjun apríl 1912 en Magnús nefnir 1908. Prestsþjónustubókin frá Holti, sem hér var áður vitnað til, sýnir að þarna hefur Reinald misminnt en Magnús fer með rétt mál. Skíðasleðann, sem Magnús nefnir, segir Reinald ekki hafa verið með í þessari ferð en tekur fram að annars hafi hann oft haft með sér slíkan sleða í póstferðum yfir Breiðadalsheiði.[339] Póstinn sem Reinald bar í þessari ferð segir hann hafa verið 60 pund[340] en frá síðari hluta ferðarinnar og hörmulegum endalokum Sigríðar greinir hann með þessum orðum:

 

Þóttist ég í miklum vandræðum staddur því nú var stúlkan algerlega að þrotum komin af þreytu og kulda. Í sama bili mættum við manni er var að koma yfir heiðina. Hét hann Jósep og var kallaður „hrafnasprengir” (sjá hér bls. 24). Hét ég nú á hann til hjálpar og bað hann að taka af mér stúlkuna til byggða. Skuli hann setja svo mikið upp sem hann vilji, ég skuli borga. Hann svaraði að ég byði sér aldrei svo mikið að hann gerði það. Fór hann svo frá okkur og var þegar horfinn. Sá ég þá ekki annað ráð en að hafa selflutning á stúlkunni og töskunni og bera þær til skiptis vestur af heiðinni. Var stúlkan þá svo að segja að dauða komin en ég uppgefinn því nú voru þrjár stundir liðnar frá því er hún gafst upp.

Ég var búinn að koma henni í skjól undir heiðinni er ég neyddist til að skilja hana eftir. Heyrði ég það þá síðast til hennar að hún bað guð að hjálpa sér. Fór ég nú á skíðin og skurkaði alla leið ofan að Breiðadal. Var ég þá svo aðframkominn að ég varð að skilja töskuna eftir þar sem hún sást vel frá bænum. Var þá rétt með hörku að ég komst heim að bænum laus og liðugur. Sendi ég nú óðara menn af stað með sleða, föt og mjólk. En er þeir komu þangað sem stúlkan var var hún gaddfreðin. Voru þá aðeins tvær stundir frá því ég yfirgaf hana og þar til mennirnir komu. Ég lá uppi í rúmi í Breiðadal meðan líkið var sótt en konan mín kom með skíðasleðann og sótti töskuna. Var ég þá kominn á fætur og farinn að hressast og var það jafn snemma, að konan mín kom með töskuna og þeir komu með líkið í hlaðið.[341]

 

Tíundi maðurinn sem andaðist svo kunnugt sé á ferð yfir Breiðadalsheiði á því tímabili sem hér hefur verið tekið til skoðunar var Sigurður Magnússon sem tók síðustu andvörpin á Dagverðardal 22. desember 1914.[342] Sigurður var Hrútfirðingur að uppruna, fæddur á Borgum 2. janúar 1871 en hafði dvalist á Ísafirði um skeið og var síðast vinnumaður hjá Guðjóni Jónssyni, næturverði þar.[343] Sigurður var á heimleið úr Önundarfirði þegar kraftar hans þrutu þennan desemberdag árið 1914.[344] Yfir heiðina var hann samferða Stefáni Pálssyni Stephensen, prestssyni frá Holti, sem náði að koma honum ofan á Austmannsfall.[345] Er þangað kom var Sigurður orðinn með öllu ófær og hraðaði Stefán þá för sinni niður að Tungu í Skutulsfirði til að sækja hjálp.[346] Þegar Sigurðar var vitjað frá Tungu var hann með litlu lífi og andaðist áður en komið var með hann til bæjar.[347] Sigurður Hrútfirðingur var jarðsettur á Ísafirði 30. desember 1914.[348]

Á ferðum yfir heiðina þurfti margur maðurinn að beita öllu sínu harðfylgi til að ná byggðum því oft skall hurð nærri hælum þegar snjóflóð og stórviðri ógnuðu lífi og limum. Einn þeirra sem flestar áttu ferðirnar upp á Breiðadalsheiði á fyrsta þriðjungi tuttugustu aldar var Jón Guðmundsson, bóndi og búfræðingur á Ytri-Veðrará, og var hann þá stundum að fylgja ferðamönnum (sjá hér Ytri-Veðrará). Á sumardaginn fyrsta árið 1924 fór Jón á Ísafjörð og aftur til baka næsta dag. Frá þeirri ferð segir hann svo í dagbók sinni:

 

Var norðan þreifandi bylur með frosti til hádegis. Þá birti í þrjá tíma, svo setti á aftur sama bylinn til kvölds. Ég fór af stað frá Ísafirði eftir að birti upp. En fékk á mig veðrið þegar ég var kominn fram fyrir Tungu. Færðin var slæm, bæði á skíðum og skíðalaust svo ég ætlaði varla að komast. Heiðin hljóp með mig, ég fór á kaf og ætlaði varla að ná mér upp úr því eftir að hlaupið stoppaði. Skíðunum náði ég en stafinn missti ég.[349]

 

Ljóst er að þarna hefur Jón lent í snjóflóði og verið hætt kominn. Hann var þá á sextugasta aldursári. Í þessari ferð hefur bóndinn á Veðrará haft með sér skíði. Á árunum skömmu fyrir aldamótin 1900 munu einstaka menn í byggðunum næst Breiðadalsheiði líka hafa átt skíði sem þeir notuðu til ferðalaga[350] en annars var lítið um slík þarfaþing á árum áður. Eini fótabúnaðurinn voru ullarsokkar og skór úr skinni eða roði. Ólafur Olavius sem ferðaðist um Vestfirði árið 1775 segir að Önfirðingar noti einkum steinbítsroð í skó og hver maður slíti oft þremur eða fjórum pörum á dag.[351] Með hliðsjón af þeirri staðreynd þarf engan að undra þó að vegalengdin yfir þessa eða hina heiðina hafi stundum verið gefin upp í fjölda þeirra para af roðskóm sem á þurfti að halda til að komast byggða á milli.

Eggert Ólafsson, sem ferðaðist vítt um land upp úr miðri 18. öld, segir að Vestfirðingar séu meiri göngugarpar en aðrir Íslendingar.[352] Að hans sögn gengu Vestfirðingar oft 10 mílur á dag með þungar byrðar[353] en orðið míla notar Eggert um þá vegalengd sem menn gengu með góðu móti á einum klukkutima, það er fimm kílómetra. Til marks um það má til dæmis nefna að frá bænum Reykjafirði í Grunnavíkurhreppi segir hann vera 9 mílur að Stað í Grunnavík og 10 mílur að Árnesi.[354]

Oft báru menn þungar byrðar og segist Eggert vita dæmi þess að einn maður bæri 24 fjórðunga, það er 120 kíló, fjögra mílna leið yfir fjöll og dali í hitaveðri að sumri til.[355] Vegalengdin sem Eggert nefnir þarna er 20 kílómetrar eða þar um bil og gæti því mjög vel átt við leiðina frá verslunarstaðnum á Skutulsfjarðareyri og í Breiðadal. Erfitt er að trúa slíkri sögu en samt er þetta líklega rétt og til samanburðar má nefna að Guðmudur Justsson, sem uppi var á síðari hluta 19. aldar, er í trúverðugri heimild sagður hafa borið 100 kíló af kornmat frá Ísafirði og alla leið heim til sín að Dröngum í Dýrafirði í einni ferð (sjá hér Drangar). Sú vegalengd er um 50 kílómetrar og farið bæði yfir Breiðadalsheiði og Gemlufallsheiði. Fáir munu hafa leikið þetta eftir en minnt skal á að 28. janúar 1881 bar Sighvatur Borgfirðingur, fræðimaður á Höfða, 40 kíló af matvöru yfir Breiðadalsheiði en þá var frostið yfir 20 stig á Celsius niðri í byggð og uppi á heiðinni fraus brennivínið á flöskum Dýrfirðinga (sjá hér Höfði). Allir komust þeir samt til byggða að því sinni en suma kól nokkuð.

Þau orð sem hér hafa verið rituð um ferðir manna yfir Breiðadalsheiði á fyrri tíð gefa til kynna hvílík umskipti urðu þegar akfær vegur var loks lagður yfir heiðina á fjórða áratug tuttugustu aldar. Áður en bílar komu til sögunnar var yfirleitt látið nægja að hreinsa grjót af fjallvegum þegar snjóa leysti en lagnig vagnvega hófst í Önundarfirði um 1890 þegar byrjað var á veginum inn Hvilftarströnd (sjá hér Mosvallahreppur, inngangskafli). Í dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili sjáum við líka að eitthvað var unnið að vegarlagningu á Dagverðardal, norðan Breiðadalsheiðar, sumarið 1895.[356] Engir bílar voru þá til í landinu og ekki komið á dagskrá að leggja akfæran veg yfir heiðina. Fjörutíu árum síðar var hins vegar unnið af krafti að lagningu bílvegar yfir Breiðadalsheiði fyrir forgöngu sýslunefndar og var vegurinn opnaður til umferðar 2. september 1936.[357] Verkstjóri við þessa vegagerð var Lýður Jónsson og tókst honum að ljúka við lagningu vegar á síðustu 3500 metrunum fyrir 15.000,- krónur en í áætlun verkfræðings hafði verið gert ráð fyrir að kostnaður við þennan síðasta áfanga yrði þrefalt hærri.[358] Þegar bílar fóru að aka yfir Breiðadalsheiði var þetta hæsti fjallvegur landsins sem talist gat ökufær[359] en heiðarskarðið liggur í 610 metra hæð yfir sjávarmáli eins og hér hefur áður verið nefnt. Af sjálfu leiðir að heiðarvegur þessi var fyrstu áratugina aðeins opinn til umferðar yfir sumarmánuðina og stóð svo allt þar til stórvirk snjóruðningstæki komu til sögunnar.

Vegurinn yfir Breiðadalsheiði gegndi sínu merka hlutverki í sex áratugi en loks kom þar haustið 1996 að jarðgöng leystu hann af hólmi. Um þau verður ekki fjallað hér því okkar ferð er farin á vit hins liðna.

Við Vatnið og gamla Kerlingarhól er aftur orðið kyrrt, skrölt vélknúinna farartækja heyrist ekki lengur. Í síðasta sinn rennum við augum upp í heiðarskarðið og sjáum þá kom að norðan, Reinald póst á Kaldá með dauðvona stúlkuna, Guðmund sterka Justsson undir þungri byrði og Sighvat Borgfirðing sem reynir að súpa á flöskunni þó innihaldið sé farið að frjósa. Svo höldum við á niður dalinn fram hjá sofandi bænum sem næstur er heiðinni og sláum tjöldum við túnfótinn í Neðri-Breiðadal.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Örnefnaskrá.

[2] Sama heimild. Landamerkjabréf frá 3.11.1923, afrit varðveitt í Neðri-Breiðadal.

[3] Sömu heimildir.

[4] Halldór Mikkaelsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.8.1994.

[5] Óskar Einarsson 1951, 88.

[6] Halldór Mikkaelsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.8.1994.

[7] Sama heimild.

[8] D.I. VIII, 388. Lbs. 7974to, Jarðaskrár úr Ísafjarðarsýslu frá árunum 1658 og 1695.  Manntal 1703.

[9] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VII, 120.

[10] Óskar Ein. 1951, 88.

[11] Kristján G. Þorvaldsson 1951, 72.

[12] Guðrún I. Jónsdóttir 1985, 140.

[13] Halldór Mikkaelsson og Gunnlaugur Finnsson. – Viðtal K.Ó. við þá 30.8.1994.

[14] Jarðab. Á. og P. VII, 120.

[15] Sama heimild.

[16] Sama heimild.

[17] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 102.

[18] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.

[19] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[20] Sama heimild.

[21] Sama heimild.

[22] Snorri Sigfússon 1969, 108.

[23] D.I. V, 781 og registur þar.

[24] Sama heimild.

[25] D.I. IX, 665-666.

[26] Sama heimild.

[27] Sama heimild.

[28] Lbs. 7974to, Jarðaskrár úr Ísafj.sýslu frá árunum 1658 og 1695.

[29] Sama heimild.

[30] Jarðab. Á. og P. VII, 120. Lögréttumannatal, bls. 555. Íslenskar æviskrár III, 300.

[31] Lögréttumannatal, bls. 555.

[32] Sama heimild.

[33] Ísl. æviskrár III, 300.

[34] Lbs. 7974to, Jarðaskrár úr Ísafj.sýslu frá árunum 1658 og 1695. Alþingisbækur Íslands IX, 547.

[35] Alþ.bækur Íslands IX, 547.

[36] Ísl. æviskrár IV, 144.

[37] Jarðab. Á. og P. VII, 120.

[38] Alþ.bækur Íslands X, 545-546.

[39] Manntal 1762.

[40] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.  Manntal 1762.

[41] Manntal 1762.

[42] Sama heimild.

[43] Ísl. æviskrár IV, 256.

[44] Rtk. Jarðabækur V. 16. – Ísafjarðarsýsla 1805.  Ísl. æviskrár II, 180-181.

[45] J. Johnsen 1847, 195.

[46] Manntal 1901, fylgiskjöl.

[47] Sama heimild.

[48] Vestfirskar ættir I, 211 og 229.

[49] Sama heimild.

[50] Sama heimild.

[51] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.

[52] Eyjólfur Jónsson 1967, 84.  Frá ystu nesjum III, 158, V, 107 og VI, 74.

[53] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók undirmatsnefndar í V-Ís., löggilt 26.3.1919.

[54] Lbs. 7974to, Jarðaskrár úr Ísafj.sýslu frá árunum 1658 og 1695.

[55] Jarðab. Á. og P. VII, 120.  Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.  J. Johnsen 1847, 195.

[56] Jarðab. Á og P. VII, 120.

[57] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.

[58] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1695. Jarðab. Á. og P. VII, 120. Jarða- og bændatöl 1752-

1767, Ísafj.sýsla 1753.  J. Johnsen 1847, 195.

[59] Lbs. 7974to, Jarðaskrá úr Ísafj.sýslu frá árinu 1658.

[60] Fasteignamatsskjöl: Gjörðabók fasteignamatsnefndar í V-Ís., löggilt 9.3.1916.

[61] Rtk. 2. 1. Stríðshjálpin 1681.

[62] Manntal 1703. Jarðab. Á. og P. VII, 120. Bændatöl og skuldaskr. 1720-1765, eftirrit, Ísafj.s. um 1735.

Manntal 1762.

[63] Manntöl 1801, 1816, 1835, 1840, 1845, 1850, 1855, 1860, 1870, 1880, 1890 og 1901.  Skj.s. sýslum. og

sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1821 og 1830.

[64] Manntal 1703.

[65] Sama heimild.

[66] Sama heimild.

[67] Jarðab. Á. og P. VII, 120.

[68] Bændatöl og skuldaskrár 1720-1765, eftirrit, Ísafj.sýsla um 1735.

[69] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[70] Manntal 1762.

[71] Sama heimild.

[72] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[73] Manntöl 1801 og 1816.

[74] Jarða- og bændatöl 1752-1767, Ísafj.sýsla 1753.

[75] Manntal 1801.

[76] Sama heimild. Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[77] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[78] Sama heimild.

[79] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[80] Manntal 1816.  Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[81] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[82] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. XX. 1., búnaðarskýrslur 1821.

[83] Eyjólfur Jónsson 1979, 88-89.

[84] Sami 1967, 65.

[85] Sama heimild.

[86] Ísl. æviskrár IV, 379 og 385.

[87] Eyjólfur Jónsson 1967, 66.

[88] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[89] Sama heimild.

[90] Eyjólfur Jónsson 1979, 87 (Ársrit S.Í.).

[91] Sama heimild, 88.

[92] Manntal 1835. Sbr. Eyjólfur Jónsson 1967, 65-66.

[93] Manntal 1835.

[94] Eyjólfur Jónsson 1979, 88.

[95] Sami 1967, 65.

[96] Sama heimild, 65-67.

[97] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 6. Úttektabók 1835-1874. bls. 27.

[98] Sama heimild.

[99] Sama heimild.

[100] Sama heimild.

[101] Sama heimild.

[102] Sama heimild.

[103] Sama heimild.

[104] Sama heimild.

[105] Sama heimild.

[106] Eyjólfur Jónsson 1967, 65-93.

[107] Eyjólfur Jónsson1967, 65-93 (Niðjatal Sveins á Hesti).

[108] Eyjólfur Jónsson 1979, 90 (Ársrit S.Í.).

[109] Sama heimild.

[110] Sama heimild 89-90.

[111] Sama heimild.

[112] Sama heimild.

[113] Sama heimild, 92-93.

[114] Sama heimild.

[115] Sama heimild.

[116] Sama heimild.

[117] Eyjólfur Jónsson 1979, 93-94 (Ársrit S.Í.).

[118] Sama heimild, 92.

[119] Ísl. æviskrár I, 315-316.

[120] Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1964, 90-94.

[121] Sama heimild.

[122] Eyjólfur Jónsson 1979, 95-97.

[123] Eyjólfur Jónsson 1979, 90-91 (Ársrit S.Í.).

[124] Sama heimild  90-91 og 104-105.

[125] Guðm. G. Hagalín 1951, 191.

[126] Eyjólfur Jónsson 1967, 65-132.

[127] Sama heimild.

[128] Sami 1979, 92.

[129] VA III, 417, búnaðarskýrslur 1860.

[130] Sama heimild.

[131] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 4. Hreppsbók 1849-1883.

[132] Eyjólfur Jónsson 1979, 103.

[133] Sama heimild.

[134] Eyjólfur Jónsson 1979, 103 (Ársrit S.Í.).

[135] Sama heimild.

[136] Sama heimild.

[137] Sami 1967, 73 (Niðjatal Sveins á Hesti).

[138] Sama heimild, 96-110.

[139] Sama heimild, 111.

[140] Sama heimild.

[141] Sami 1979, 103.

[142] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[143] Sama heimild.

[144] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[145] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosvallahr. 4. Hreppsbók 1849-1883.

[146] Gils Guðmundsson 1977 I, 191.

[147] Manntal 1870.

[148] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[149] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[150] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[151] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[152] Sama heimild.

[153] Manntal 1890.

[154] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 21.7.1895.

[155] Guðm. I. Kristjánss. – Viðtal K.Ó. við hann 30.6.1993.  Eyj. Jónsson. – Viðtal K.Ó. við hann 28.6.1993.

[156] Sömu heimildir.

[157] Inga Lára Baldvinsdóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 16.11.1993.

[158] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.  Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 5. Hreppsbók 1883-1912.

[159] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[160] Sama heimild.

[161] Sama heimild.

[162] Skj.s. sýslum. og sv.stj. Ís. Mosv.hr. 5. Hreppsbók 1883-1912.

[163] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[164] Sóknarm.töl Holts í Önundarf.

[165] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[166] Sama heimild.

[167] Sama heimild.

[168] Sama heimild.

[169] Manntöl 1920 og 1930.

[170] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[171] Lbs. 22174to, Dagbók Magnúsar Hjaltasonar 22.10.1892. Lbs. 22354to, Bréf Magnúsar Hjaltasonar

12.12.1892 til Hjalta Magnussonar, afrit.

[172] Lbs. 22164to og 22174to, Dagbækur M. Hj. 1892 og 1893.

[173] Gunnar M. Magnúss 1956, 100-112.

[174] Gunnar M. Magnúss 1956, 71-72.

[175] Lbs. 22354to, Bréf M. Hj. 12.12.1892 til Hj. M., afrit.

[176] Lbs. 22354to, Bréf M. Hj. 12.12.1892 til Hj. M., afrit. Lbs. 22354to, bls. 17-20 (Málsbót). Sbr. Jólablað Baldurs 1953, bls. 4-5, bréf Ásgeirs Ásgeirssonar, oddvita Súðav.hr. 25.3.1893 til Jóh. Kristjánssonar á Hesti.

[177] Jólablað Baldurs 1953, bls. 5, bréf Jóh. Kristjánssonar 14.1.1893 til hreppsn. Súðavíkurhrepps.

[178] Sama bréf.

[179] Sama bréf.

[180] Jólablað Baldurs 1953, bls.5, bréf Ásg. Ásg.s., oddvita Súðav.hr. 25.3.1893 til Jóh. Kristjánss. á Hesti.

[181] Lbs. 22174to, Dagbók M. Hj. 22.10.1892.

[182] Sama heimild.

[183] Sama heimild.

[184] Manntal 1901.

[185] Lbs. 22164to og 22174to, Dagbækur M. Hj. 1892 og 1893.

[186] G. M. M. 1956, 91.

[187] Lbs. 22174to.

[188] Lbs. 22354to, bls. 128-130, bréf M. Hj. 4.2.1893 til Hj. M., afrit.

[189] Lbs. 22354to, Bréf M. Hj. 12.12.1892 og 4.2.1893 til Hj. M., afrit.

[190] Sömu bréf.

[191] Lbs. 22174to, Dagbók M. Hj. 27.10.1892.

[192] Lbs. 22164to, Dagbók M. Hj. 19.5. og 30.6.1893.

[193] Lbs. 22164to, Dagbók M. Hj. 1.1.1893.

[194] Sama heimild.

[195] Sama heimild.

[196] Sama dagbók, 5.3.1893.

[197] Sama dagbók, 4.4.1893.

[198] Lbs. 22164to, Dagbók M. Hj. 4.4.1893.

[199] Lbs. 22164to, Dagbók M. Hj. 13.4.1893.

[200] Sama dagbók, 12.4.1893.

[201] Sama dagbók, 15.4.1893.

[202] Sama dagbók, apríl, maí og júní 1893.

[203] Sama dagbók, 2.5.1893.

[204] Sama dagbók, 4.5.1893.

[205] Sama dagbók, 18.5.1893.

[206] Sama dagbók, 7. og 8.6.1893.

[207] Sama heimild.

[208] Sama heimild.

[209] Lbs. 22164to, Dagbók M. Hj. 7. og 8.6. 1893.

[210] Sama dagbók, 29. og 30.6.1893.

[211] Lbs. 22164to, Dagbók M. Hj. 5. og 10.8.1893.

[212] Sama dagbók, maí, júní, júlí og ágúst 1893.

[213] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[214] Sama heimild.

[215] Sama heimild.

[216] Sama heimild.

[217] Sama heimild.

[218] Sama heimild.

[219] Sama heimild.

[220] Sama heimild.

[221] Lbs. 22164to, Dagbók M. Hj. 23.5.1893.

[222] Sama dagbók, 28.5., 1.6. og 4.6.1893.

[223] Lbs. 22164to, Dagbók M. Hj., júní og júlí 1893.

[224] Lbs. 22164to, Dagbók M. Hj. júní og júlí 1893.

[225] Sama dagbók, 27.6.1893.

[226] Sama dagbók 7.7. og 10.7.1893.

[227] Sama dagbók, 28.7.1893.

[228] Sama dagbók, júlí og ágúst 1893.

[229] Sama dagbók, 11. og 12.8.1893.

[230] Lbs. 22354to, bls. 15-16.

[231] Lbs. 22354to, bls. 15-16.

[232] Lbs. 22174to, Dagbók M. Hj. 13.4.1897.

[233] Sama heimild.

[234] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[235] Jólablað Baldurs 1953, bls. 5, bréf Jóhanns Guðmundssonar 6.7.1892 til Hjalta Sveinssonar.

[236] Sama heimild.

[237] Lbs. 22164to, Dagbók M. Hj. 11.8.1893.

[238] Lbs. 22164to, Dagbók M. Hj. 12.8.1893.

[239] Guðrún I. Jónsdóttir 1985, 146.

[240] Guðm. G. Hagalín 1973, 86 (Stóð ég úti í tunglsljósi).

[241] Hagalín Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 18.5.1994.

[242] Lbs. 22164to og 22174to, Dagbækur M. Hj. frá árunum 1892 og 1893.

[243] Sama heimild.

[244] Sama heimild.

[245] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1932, 22.

[246] Sama heimild.

[247] Sama heimild.

[248] Söguþættir landpóstanna I, 356.

[249] Ísl. æviskrár V, 230.

[250] Söguþættir landpóstanna I, 356.

[251] Sama heimild.

[252] Sama heimild.

[253] Söguþættir landpóstanna I, 356-357.

[254] Sama heimild, 356.

[255] Sama heimild, 357.

[256] Sama heimild.

[257] Lbs. 22174to, Dagbók M. Hj. 8.11.1892.

[258] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1932, 69 og 90.  Sömu 1936, 37.

[259] Sbr. Sömu 1932, 90.

[260] Óskar Ein. 1951, 88.  Halldór Mikkaelsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.8.1994.

[261] Halldór Mikkaelsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.8.1994.

[262] Óskar Ein. 1951, 88.

[263] Sama heimild.  Halldór Mikkaelsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.8.1994.

[264] Sömu heimildir.

[265] Óskar Ein. 1951, 88.

[266] Sama heimild.  Halldór Mikkaelsson. – Viðtal K.Ó. við hann 30.8.1994.

[267] Óskar Ein. 1951, 88.

[268] Örn.skrá.

[269] Sama heimild.

[270] Sama heimild.

[271] Ásta Þórðardóttir. – Viðtal K.Ó. við hana 15.9.1994.

[272] Hagalín Guðmundsson. – Viðtal K.Ó. við hann 18.5.1994. Guðmundur Gunnarsson. – Viðtal K.Ó. við

hann 1.9.1994.

[273] Óskar Ein. 1951, 89.

[274] Sama heimild.

[275] Sama heimild.

[276] Sama heimild.

[277] Sama heimild.

[278] Óskar Ein. 1951, 89.

[279] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1936, 30-31.

[280] Sama heimild.

[281] Sama heimild.

[282] Sama heimild.

[283] Helgi Valtýsson / Söguþættir landpóstanna I, 368 (Akureyri 1942).

[284] Óskar Ein. 1951, 89.

[285] Annálar V, 431.

[286] Prestsþj.b. Eyrar í Skutulsf.

[287] Prestsþj.b. Eyrar í Skutulsf.

[288] Alþ.bækur Íslands XVI, 511-512.

[289] Lbs. 17704to, bls. 102.

[290] Sama heimild, bls. 102 og 105-107

[291] Sama heimild.

[292] Sama heimild.  Sbr. Jón Þ. Þór 1984, 84, 85, 89-91 og 107.

[293] Sama heimild.

[294] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[295] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[296] Sama heimild.

[297] Sama heimild.

[298] Sama heimild.

[299] Sama heimild.

[300] Sama heimild.

[301] Sama heimild.

[302] Sama heimild.

[303] Sama heimild.

[304] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[305] Lbs. 27364to, bls. 154/Magnús Hjaltason.

[306] Ól. Þ. Kr. 1953, 135-142 (Frá ystu nesjum VI).

[307] Sama heimild, 141-142.

[308] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[309] Manntal 1845.

[310] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[311] Sama heimild.

[312] Lbs. 27364to, bls. 145-146 /M. Hj.

[313] Ól. Þ. Kr. / Önfirðingar.

[314] Sama heimild.

[315] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[316] Prestsþj.b. Ísafjarðar.

[317] Sama heimild.

[318] Lbs. 27364to, bls. 147/M.Hj.

[319] Sama heimild, bls. 147-148. Eyjólfur Jónsson 1996, I, 46-47.

[320] Sama heimild.

[321] Lbs. 27364to, bls. 147-148/M.Hj..

[322] Lbs. 27364to, bls. 148-151.

[323] Lbs. 27364to, bls. 148-151/Magnús Hjaltason.

[324] Sama heimild.

[325] Sama heimild. Sbr. Lbs. 22174to, Dagbók M. Hj. 1896, bls. 18-22 og 132. Sbr. einnig Eyjólfur Jónsson 1996, I, 248-250.

[326] Lbs. 22174to, Dagbók M. Hj. 18.2.1898.

[327] Lbs. 27364to, bls. 148-151.

[328] Prestsþj.b. Eyrar í Skutulsfirði.

[329] Lbs. 27364to, bls. 151-153 /M.Hj.

[330] Sama heimild.

[331] Sama heimild.

[332] Sama heimild.

[333] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[334] Lbs. 27364to, bls. 151-153.

[335] Sama heimild. Sbr. Eyjólfur Jónsson 1996, I, 431-433.

[336] Prestsþj.b. Holts í Önundarf.

[337] Lbs. 27364to, bls. 153.

[338] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1932, 77-78.

[339] Sama heimild.

[340] Sama heimild.

[341] Reinald Kristjánsson / Ingivaldur Nikulásson 1932, 77-78.

[342] Lbs. 27364to, bls. 153-154 /M.Hj.

[343] Sama heimild. Prestsþjónustubækur Prestsbakka í Hrútafirði. Séra Jón Guðnason 1955, 115 (Strandamenn). Eyjólfur Jónsson 1996, II, 117 (fæðingarár og dagur ekki rétt þar.)

[344] Lbs. 27364to , bls. 153-154..

[345] Sama heimild.

[346] Sama heimild.

[347] Sama heimild.

[348] Prestsþj.b. Eyrar í Skutulsf.

[349] Guðrún I. Jónsdóttir 1985, 150-151.

[350] Jón Grímsson 1956, 35 (Ársrit Sögufél. Ísfirðinga).

[351] Ólafur Olavius 1964, I, 148,

[352] Ferðabók Eggerts og Bjarna I, bls. 267-268.

[353] Sama heimild.

[354] Sama heimild, 294.

[355] Sama heimild, 267-268.

[356] Lbs. 45824to, Dagbók J. Guðm. frá Grafargili 27.6.1895.

[357] Blaðið Vesturland 12.9.1936.  Óskar Ein. 1951, 16.

[358] Blaðið Vesturland 12.9.1936.

[359] Sama heimild.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »