Höfði

Leiðin frá Næfranesi að Höfða er tæplega fjórir kílómetrar og liggur þjóðvegurinn nú með fjörunni. Hlíðin milli bæjanna heitir Höfðahlíð,[1] enda er hún nær öll í landi Höfða. Áður lágu þrjár götur út hlíðina, Miðgata sem var alfaravegur og svo Hæstagata og Bakkagata sem voru fjárgötur.[2] Rétt utan við landamerkin er engjablettur sem heitir Teigur[3] en utan við hann og neðan Miðgötu eru gamlar tóttir sem á síðari tímum hafa gengið undir nafninu Kot.[4] Þar er talið að býlið Hrafnabjörg hafi verið endur fyrir löngu.[5] Þarna sjást enn (1992) þrjár tóttir og er sú ysta greinilegust. Nærri lætur að flatarmál hennar sé 5×3 metrar en hinar tvær eru stærri. Í Jarðabókinni frá 1710 er getið um þetta eyðibýli og sagt að það sé á milli Næfraness og Höfða og í Höfðalandi.[6] Árni Magnússon tekur fram að þarna sjáist þá enn glögglega bæði tóttarústir og túngarðsleifar og giskar á að býli þetta hafi farið í eyði um 1500.

Ólafur Olavius nefnir líka eyðibýlið Hrafnabjörg í Ferðabók sinni sem út var gefin árið 1780.[7] Hann segir reyndar að kot þetta hafi verið í landi Næfraness[8] en sú fullyrðing virðist vera á misskilningi byggð og engin ástæða til að véfengja orð Jarðabókarinnar í þessum efnum.  Í Jarðatali Johnsens, sem út var gefið árið 1847, er eyðibýlið Hrafnabjörg líka sagt vera í landi Höfða og vísað í þeim efnum til jarðabókar sem safnað var til á fyrstu árum 19. aldar en aldrei var gefin út.[9]

Í þjóðsögu sem alþýðuskáldið Magnús Hjaltason færði í letur um aldamótin 1900 segir að síðast hafi búið á Hrafnabjörgum kona ein fjölkunnug mjög með ungum smalapilti.[10] Einu sinni lagði hún votan sjóvettling í mjólkurtrog sitt, er stóð með settri mjólk, segir þar, – en rjóminn var svo þykkur að aðeins dalaði undan vettlingnum. Er þá mælt að húsfreyja hafi sagt við smalann:

 

Nú held ég ætli að sneiðast um kjarnbeit á Hrafnabjörgum því að aldrei hefur það komið fyrir að rjóminn langstaðinn hafi ekki haldið vettlingnum og er þetta mikil afturför.[11]

 

Leitisnes er örnefni á Höfðahlíð dálítið utan við Hrafnabjörg.  Þaðan sér út í Höfðaoddann.[12]  Rétt utan við nes þetta er Fornistekkur.[13]  Þar byggði öldruð kona, sem Sigurlaug Jónsdóttir hét, húskofa á árunum kringum 1880 og bjó þar eitt sumar, líkklega 1881.[14] Inn og upp af Fornastekk stóð Pétursvarða er hlaðin var til minningar um Pétur Guðmundsson sem varð hér úti seint í nóvember árið 1893.[15] Pétur átti þá heima í Lambadal og var á leið heim til sín frá Höfða er manndrápsbylurinn stöðvaði för hans. Líkið fannst fjórum dögum síðar og segir Sighvatur Borgfirðingur er bjó á Höfða svo frá þeim atburði.

 

Auðunn í Botni kom. Hann sagði að Pétur gamli Guðmundsson í Lambadal sem hafði farið héðan 26. þ.m. væri ekki enn kominn inneftir. Við Jón Sigurðsson fórum að leita hans … [og] fundum líkið freðið með poka á baki, liggjandi á grúfu og stafinn undir honum inn á hlíð upp af Fornastekk, rétt við götuna ofantil. Jónarnir og ég bárum hann ofan í Stekkjartóttina, sóttum svo bát og fleiri menn og fluttum líkið úteftir og bárum það heim í mitt fjós til að þýða það.[16]

 

Utan við Höfðahlíð skagar Höfðaoddi fram í fjörðinn, um 500 metra langur og nær 500 metra breiður efst en mjókkar fram. Innan við oddann er Höfðabót.[17] Í riti frá síðari hluta 18. aldar segir að á gulri sandströnd andspænis Þingeyri séu Hollendingar vanir að setja upp skip sín til að hreinsa þau.[18]Augljóst virðist að þar mun átt við ströndina hér við Oddann. Á Höfðaodda, sem er mjög sléttlendur, er nú gróið tún en þar stóð áður, á árunum kringum aldamótin 1900, hvalveiðistöð Norðmanna sem hér verður síðar sagt frá (sjá hér bls. 46-68). Ofan við oddann tekur við gamla túnið á Höfða og þar standa bæjarhúsin í brekku utan við Höfðann sem áður var frá sagt (sjá hér Næfranes).

Út á við á Höfði aðeins land að Hjarðardalsá[19] og er það skammur spölur, einn kílómetri heiman frá bæjum, sem enn (1992) eru tveir á Höfða, en þarna er þó talsvert undirlendi og að stórum hluta ræktað land. Auk þess á Höfði mikið land sunnan og austan ár á Hjarðardal sem er langur dalur og liggur upp frá fjarðarströndinni við ós Hjarðardalsár og til austurs norðan við hálsinn sem hér var áður nefndur (sjá Næfranes) og síðan til norðausturs langt inn í fjallgarðinn að byggðarbaki. Þarna á Höfði land sín megin árinnar alveg fram að Fremra-Fannargili sem er á móti Fremri-Þverá[20] en þangað eru því sem næst 9 kílómetrar neðan frá árósnum. Sá hluti Hjarðardals sem er í landi Höfða er stundum nefndur Höfðadalur (sjá hér Næfranes). Þar er mikið beitiland en dalurinn þrengist mjög þegar komið er um það bil miðja vega neðan frá ströndinni og fram í botn.

Selflói heitir slægjuland fram á dalnum og er í landi Höfða. Þar eru gamlar mógrafir. Á árbakkanum, beint niður af gröfunum, var hjásetukofi en er nú fallinn í rúst.[21] Skammt fyrir framan kofarústirnar er stór einstakur steinn sem heitir Grásteinn. Fast með honum rennur Grásteinslækur.[22] Spölkorn fyrir framan Grástein var selið frá Höfða og eru seltóttirnar rétt hjá ánni, heimantil við stóra hóla er Háhólar heita.[23] Fram í selið er tæplega klukkutíma gangur frá bæjunum á Höfða. Tóttirnar eru a.m.k. sex og hér er mjaltakvíin á næstu grösum. Framan við Háhóla taka við Lághólar og þar vaxa hvít krækiber í einni lítilli laut.[24]

Hér var áður á það minnst að bændur á Næfranesi kynnu líka að hafa haft ær sínar í seli hér norðan við Hálsinn (sjá hér Næfranes) og þá að öllum líkindum í Höfðaseli. Engar öruggar heimildir liggja fyrir um þetta en vel má þó vera að svo hafi verið því hér er skammt að fara yfir Hálsinn sem ekki er nema 200 metra hár.

Allar líkur benda til að Einar Grímsson, sem bjó á Höfða á árunum kringum 1870, hafi síðastur manna verið með búsmala í Höfðaseli. Sighvatur Grímsson Borgfirðingur var bróðir Einars og fluttist að Höfða vorið 1873 eins og hér verður síðar rakið nánar (sjá hér bls. 12). Hann skrifar í dagbók sína 12. júlí 1873: Við Einar fórum fram á dal og ristum og tyrfðum upp Selið.[25]  Tveimur dögum síðar skrifar Sighvatur:  Einar færði rusl í Selið og 15. júlí bætir hann við:  Einar flutti í Selið.[26]

Af þessum orðum er ljóst að Einar Grímsson hefur hafst við í selinu um nokkurt skeið sumarið 1873 og þá vafalaust með fólk sitt og fénað en kona hans var Hólmfríður Vigfúsdóttir, systir dr. Guðbrands Vigfússonar er fáum árum síðar varð háskólakennari í Oxford. Mörg dæmi eru finnanleg um gjörólík ævikjör systkina og er hér komið eitt þeirra.

Einar Grímsson fluttist frá Höfða vorið 1877[27] og ekki verður séð í dagbókum Sighvats að aðrir hafi síðar átt sumardvöl í Höfðaseli. Selflóinn var hins vegar sleginn lengi enn[28] og vera kann að heyskaparfólk hafi þá gist í selinu einhverjar nætur.

Örskammt frá Höfðaseli en hinum megin við Hjarðardalsá er selið frá Hjarðardal sem frá er sagt á öðrum stað á þessum blöðum (sjá hér Fremri-Hjarðardalur).

Að fornu mati var Höfði talinn 30 hundraða jörð.[29] Í Jarðabókinni frá 1710 er útigangur sagður vera hér í skárra lagi, bæði á landi og í fjörunni.[30] Þar er kostum og ókostum jarðarinnar m.a. annars lýst með þessum orðum:

 

Torfrista lök, stunga næg. … Silungsveiði hefur verið gagnleg í Hjarðardalsá, hún hefur nú brugðist í margt ár. Hrognkelsaveiði hefur verið áður gagnvæn en ekki til hlunninda í margt ár.  Túnið spillist af aur og smáskriðum úr brattlendi.  Engjar eru ei aðrar en í svarðleysu mýrum sem spillast af sandfoki og skeljabrotum sem fjúka í slægjulandið í stórveðrum.[31]

 

Líklega hafa menn haft nokkuð til síns máls er þeir kvörtuðu yfir sandfoki á Höfðaengjar því í nýlegri heimild er þess getið að þar hafi land reynst erfitt til ræktunar vegna flatlendis og sands.[32] Gamla túnið á Höfða var hins vegar talið grasgefið en ákaflega þýft.[33]

Svo virðist sem mór hafi eitthvað verið notaður til eldiviðar á Höfða á árunum kringum aldamótin 1700 því í Jarðabókinni frá 1710 segir að lyngrif sé þar bjarglegt til eldiviðar með sverði[34] en í þessu samhengi getur svörður varla merkt neitt annað en mór. Í sömu heimild er hins vegar tekið fram að í landi Höfða hafi móskurður verið lítill og lakur og nú sé alveg hætt að skera þar mó. Árið 1840 var engum mó brennt á Höfða en fjalldrapi og sauðatað notað til eldiviðar.[35] Er þar komin enn ein vísbending um að þá hafi hið ágæta mótak í landi Næfraness og Lambadals verið lítið nýtt (sjá hér Næfranes og Ytri-Lambadalur).

Í rituðum heimildum er Höfða í Dýrafirði fyrst getið árið 1452, í kaupmálabréfi hjónanna Indriða Hákonarsonar og Guðrúnar Gísladóttur.[36] Bréfið er dagsett í Tungu í Önundarfirði þann 18. október 1452 og þar kemur fram að hálf jörðin Höfði, sem Indriði lagði í bú með sér, var þá metin á 15 hundruð[37] og hefur dýrleiki jarðarinnar því verið sá sami þá þegar og síðar hélst óbreyttur öldum saman.

Enda þótt Höfða sé hvergi getið í fornum heimildum frá því fyrir 1450 hafa ýmsir mætir menn leitast við að færa rök að því að Höfði sé landnámsjörð og hér hafi búið sjálfur Dýri sem frá er sagt í Landnámabók og menn hafa talið að Dýrafjörður væri kenndur við. Ákveðnustu talsmenn þessarar kenningar hafa að líkindum verið þeir Sigurður Vigfússon, sem um alllangt skeið var umsjónarmaður forngripasafnsins í Reykjavík, og Sighvatur Grímsson Borgfirðingur, fræðimaður og bóndi, er sjálfur bjó á Höfða í rösklega hálfa öld. Vel má reyndar vera að þeir sem fyrstir settust að í Dýrafirði hafi reist sér bæ þar sem nú er Höfði en erfitt mun  reynast að færa fullar sönnur á það.

Hér hefur áður verið fjallað um orð Landnámabókar um Dýra (sjá hér Þingeyrarhreppur, inngangskafli og Hvammur) en þau eru harla fá, aðeins sagt að hann hafi numið Dýrafjörð og búið þar að Hálsum.[38] Bæjarnafnið Hálsar er hvergi finnanlegt í öðrum heimildum um byggð og búsetu manna í Dýrafirði svo annað hvort hafa höfundar Landnámabókar búið það til eða jörðin, sem svo kynni að hafa verið nefnd, snemma fengið annað nafn. Flestir sem um þessi efni rituðu síðar töldu Hvamm eða Höfða vera líklegustu jarðirnar og þá einkum með tilliti til þess að þar má á báðum stöðum finna háls í landslaginu alveg á næstu grösum (sjá hér Hvammur).

Sigurður Vigfússon fornfræðingur fór sína fyrri rannsóknarferð um Dýrafjörð sumarið 1882 og taldi að henni lokinni að bær Dýra hefði staðið í Hvammi eða þar í grennd.[39] Sumarið 1888 fór hann aftur vestur í Dýrafjörð og sannfærðist þá um að landnámsjörðin Hálsar væri Höfði. Sigurður var við rannsóknir á Höfða í ágústmánuði 1888 og naut aðstoðar Sighvats Grímssonar Borgfirðings sem hér var heimamaður.[40] Sigurður gisti hjá Sighvati í tvær nætur en síðan fór Sighvatur með honum í Geirþjófsfjörð að kanna slóðir Gísla Súrssonar og Auðar konu hans.[41]

Skammt fyrir utan bæinn á Höfða taldi Sigurður sig finna tvær ákaflega stórar og fornlegar tóttir. Hina vestari segir hann vera nær 70 fet á lengd að utanmáli og a.m.k. 27 fet á breidd.[42]Það er sennilegt að þetta séu forn bæjarhús á Höfða og ef til vill hin elstu þar, skrifar Sigurður.[43]  Síðan bætir hann við:

 

Fyrir neðan þessar fornu tóttir liggur brekka eigi alllítil og er hún að kalla má eftir endilöngu túninu.  Fyrir neðan þá brekku, nokkurn veginn á flatlendi, beint niður undan hinum fyrri tóttum í 30 faðma fjarlægð, er tótt nokkur einstök, mjög einkennileg, stór og fornleg.  Tótt þessi er öll glögg og heldur mjög svo hinni upphaflegu lögun.  Hið neðra af veggjunum hefur verið hlaðið úr grjóti og því svo stóru að margir af steinum þeim að minnsta kosti verða ekki hrærðir af minna en fjórum mönnum nú á tíð og það ekki verkfæralaust.[44]

 

Sigurður tekur fram að í landnorðurenda þessarar tóttar sé afhús en öll sé tóttin 63 fet á lengd og 31 fet á breidd.[45] Fornfræðingurinn ber heimafólk  á Höfða fyrir því að þessi tótt heiti enn í dag Blóttótt og hafi verið nefnd því nafni svo lengi sem elstu menn muni.[46] Telur hann engum vafa undirorpið að þarna hafi staðið heiðið hof, enda hafi tótt þessi flest eða öll aðaleinkenni hin sömu og aðrar hoftóttir.[47]

Á dögum Sigurðar voru menn stundum býsna fljótir að dæma um fornar tóttir og töldu sig finna fjöldann allan af hofum. Allt hefur það verið véfengt síðar, stundum með gildum rökum, en út í þá sálma verður ekki farið hér. Hvað sem öðru líður er skemmtilegt að sjá hvernig hinn hrifnæmi fornfræðingur sannfærist er hann dvelur á Höfða um að einmitt hér og hvergi annars staðar hafi landnámsjörðin Hálsar verið. Um þetta ritar hann m.a. svo:

 

Mörg eru stórkostleg og fornleg einkenni á Höfða sem ég hafði eigi áður þekkt.  … Fyrir ofan bæinn er fjall langt er gengur til austurs og myndar syðri hlíð Hjarðardals. Allt þetta fjall, austur að vissri öxl sem nefnist Tindafjall, er lágur háls er liggur alla leið ofan að túninu á Höfða og endar þar í rana eða tagli. Fjallið er enn í dag, allt austur að öxlinni, nefnt Háls eða Hálsar. Svo er enn sagt að fara upp á hálsinn, hvort sem það er austarlega eða vestarlega. En uppi á hálsinum miðjum, þar sem hann er hæstur, er stundum kallaður höfði.*) Af því hefur bærinn á Höfða tekið nafn og mun það bæjarnafn vera komið upp í seinni tíð. Þá er ég var í Dýrafirði 1882 vissi ég eigi af þessum örnefnum og þekkti engin af fyrrgreindum einkennum er ég fann á Höfða. Þá hallaðist ég að þeirri skoðun að Hálsar, þar sem landnámsmaðurinn Dýri bjó, hefðu verið þar sem nú heitir Hvammur, fyrir utan Ketilseyri. En nú er ég kominn að raun um, með því að hér að Höfða heitir einnig Háls eða Hálsar og af því að hér hafa auðsjálega búið einhver stórmenni í fornöld, að Dýri hafi í öndverðu reist bæinn á Höfða og hafi bærinn þá heitið að Hálsum.[48]

 

*)  Þessi skýring Sigurðar á notkun nafnanna Háls og Höfði kemur ekki fyllilega heim við það sem hér hefur áður verið sagt um þau efni (sjá hér Næfranes) og heimafólk á Höfða gerir skýran greinarmun á Hálsinum, sem er upp af Næfranesi, og svo Höfðanum sem tekur við þar fyrir utan.[49]  Á fyrri hluta 20. aldar nefndi fólkið á Höfða þó brúnina ofan við bæinn stundum Heimriháls[50] en þar er Höfðinn orðinn að lágum rana.  Sú brún þessa sama rana sem snýr að Hjarðardal var þá líka nefnd Fremriháls.[51]  Ætla má að þetta orðafar hafi verið fast í sessi þegar Sigurður dvaldist á Höfða og skýringar á orðum hans sé þar að leita.

 

 

Engu er líkara en Sigurður hafi orðið fyrir hugljómun er hann vann að rannsóknum sínum á Höfða því í orðum hans er ekki lengur nokkur fyrirvari um bústað landnámsmannsins. Sú niðurstaða hefur án efa glatt Sighvat Borgfirðing og reyndar ekki ólíklegt að einmitt hann hafi átt stærstan þátt í að koma Sigurði á sporið. Hann hafði fjórum árum fyrr bent Birni M. Ólsen, síðar háskólarektor, á skálatótt Dýra í túninu á Höfða og ritar þá í dagbók sína:  Björn Ólsen kom að innan.  Hann skoðaði hér fornar tóttir, mældi skálatótt Dýra og skoðaði bækur hjá mér.[52] Aftur minnist Sighvatur á hinar fornu tóttir í dagbók sinni haustið 1890  og  segir þá:  Mældi og teiknaði upp tóttir Dýra því Norðmenn eru að grafa gegnum þær[53] en Norðmenn hófu rekstur hvalveiðistöðvar sinnar á Höfðaodda einmitt á því ári (sjá hér bls. 46-47).

Hér hefur verið látið að því liggja að ef til vill hafi Sighvatur Borgfirðingur átt verulegan þátt í að sannfæra Sigurð Vigfússon um að landnámsmaðurinn Dýri hafi búið á Höfða. Hvað sem slíkum bollaleggingum líður er þó ljóst að menn höfðu gert sér grein fyrir merkilegum fornminjum á Höfða löngu áður en Sighvatur fluttist þangað árið 1873.

Þann 24. ágúst árið 1818 sendi séra Jón Sigurðsson, er þá var prestur í Dýrafjarðarþingum, frá sér sérstaka skýrslu um fornminjar í sínum sóknum og kemst þar svo að orði:

 

Leifar af fornum þingstað eða dómhring meinast að vera á Höfða í Mýrasókn. Garðurinn er kringlóttur hér um 100 faðma umhverfis og í miðjum hringnum lítilfjörlegar leifar af tóttum. Þetta stendur á sléttri eyri neðantil við túnið. Þar finnst og svo í túni ferhyrndur garður álíka og lítill kirkjugarður með einni tótt í miðju er almennt segist hafa verið hof. En hvað sem um þetta er þá hafa þar á Höfða í fyrnd stórmenni búið, hvörs vegna nokkrir meina þetta hafi verið bústaður Dýra sem Landnáma nefnir „undir Hálsum” en aðrir mæla þar í mót og segja Dýri hafi búið máske í Hvammi.[54]

 

Hoftóttin sem nefnd er í fornminjaskýrslunni frá 1818 er rétt utanvert við veg þann sem Norðmenn létu leggja upp túnið á Höfða á árunum fyrir aldamótin 1900.[55] Um 1930 var tótt þessi stundum kölluð Goðatótt en var þá orðin breytt á ýmsa vegu af yngri byggingum.[56]

Sigurður Vigfússon fornfræðingur segir að tóttin hafi almennt verið kölluð Blóttótt (sjá hér bls. 5-6) og enn er hún auðfundin í sinni breyttu mynd því vegurinn sem Norðmenn létu á sínum tíma leggja upp túnið á Höfða er þar enn (1992) og liggur upp að stóru timburhúsi sem stendur á grunninum þar sem áður stóð íbúðarhús hins norska stöðvarstjóra við hvalveiðistöðina á Höfðaodda.[57] Timburhús þetta, sem áður var íbúðarhús eins bóndans á Höfða, hefur nú lengi staðið autt en svo má heita að blóttóttin, sem nú er friðlýst,[58] sé beint niður af því og skammt frá, í krika utanvert við veginn upp að húsinu og alveg við hann.[59] Umhverfis hana má greina leifar af fornum garði. Dómhringurinn á Höfðaodda, sem nefndur er í skýrslunni frá 1818, er hins vegar löngu horfinn vegna jarðrasks við framkvæmdir og einnig hinar stóru og fornlegu tóttir sem stóðu í 30 faðma fjarlægð ofan við Blóttótt og þeir Sigurður Vigfússon og Sighvatur Borgfirðingur glöddu sig við að skoða sumarið 1888[60] (sjá hér bls. 5).

Bænhúshóll, Bænhúspartur og Bænhúsgarður eru örnefni í túninu á Höfða sem heimafólki voru enn munntöm á fyrstu áratugum tuttugustu aldar og máske lengur.[61] Bænhús segir Árni Magnússon hafa verið á Höfða að fornu en var niður lagt fyrir minni þeirra manna sem hann hitti í Dýrafirði sumarið 1710.[62] Bænhústóttin á Höfða er þó enn sýnileg öllum sem skoða vilja og einnig mótar fyrir garði umhverfis tóttina og er hann að nokkru hringlaga. Ætla má að þarna hafi verið grafreitur. Um aldamótin 1900 stóðu gömlu bæirnir á Höfða, efri og neðri bær, örskammt hvor frá öðrum þar sem á allra síðustu árum hafa verið byggð fjós og hlaða.[63] Þær byggingar standa nú innst allra húsa á Höfða. Þar rétt fyrir ofan og lítið eitt innar er bænhústóttin.[64] Sighvatur Grímsson Borgfirðingur, bóndi og fræðimaður á Höfða, sem andaðist árið 1930, og kona hans, Ragnhildur Brynjólfsdóttir, eru grafin í heimagrafreit á Höfða og er legstaður þeirra í hinum forna bænhúsgarði. Stórt tré sem vex á leiðinu og steyptir veggir í kring vísa á þann stað þó nöfn hinna merku hjóna séu þar hvergi skráð.

Eins og áður var frá greint er Höfða fyrst getið í varðveittum heimildum árið 1452 (sjá hér bls. 4). Í heimildum frá 15. og 16. öld má finna örfá dæmi um kaup og sölur á jörðinni eða einhverjum hluta hennar[65] og virðist hún þá jafnan hafa verið í bændaeign.

Fyrsti bóndinn á Höfða sem sögur fara af er Hildibrandur Ormsson sem dæmdur var til dauða á Alþingi 30. júní 1624 og tekinn af lífi sama dag.[66] Í Alþingisdómnum er að vísu ekki tekið fram að Hildibrandur hafi verið frá Höfða en í viðauka við Vatnsfjarðarannál yngri staðhæfir séra Magnús Snæbjörnsson, prestur á Söndum, að svo hafi verið.[67] Séra Magnús var fæddur árið 1705 og ól nær allan sinn aldur í Dýrafirði eða allra næsta nágrenni svo ástæðulaust er að rengja orð hans um þetta.

Sök Hildibrands var sú að hann hafði fallið með mágkonu sinni, Sesselju Jónsdóttur, og barnað hana.[68] Ari Magnússon, sýslumaður í Ögri, dæmdi þau bæði til dauða í samræmi við gildandi lagaákvæði Stóradóms en skaut þó málinu til Öxarárþings þar sem endanlegur dómsúrskurður skyldi kveðinn upp.[69] Á Alþingi mælti Ari með því að þau yrðu náðuð, –konan vegna hennar unga brjóstbarns en Hildibrand vildi hann gera að böðli.[70] Þessi viðleitni Vestfjarðahöfðingjans til að komast fram hjá Stóradómi er reyndar allrar athygli verð enda þótt Holger Rosenkrantz höfuðsmaður, sem stóð fyrir málum á Alþingi, hafi ekki fengist til að taka tilmælin til greina. Í Alþingisbókinni segir að danski höfuðsmaðurinn hafi ekki talið verjandi að hlífa þeim Hildibrandi og Sesselju við dauðarefsingu og á það sjónarmið hafi lögmennirnir og lögréttan fallist.[71]Þessi fáráði, fátæki maður var strax á Alþingi aftekinn, segir þar[72] svo augljóst er að Ari hefur haft Hildibrand með sér til þings og hann verið höggvinn við Öxará. Orðalagið bendir hins vegar til þess að Sesselja hafi verið skilin eftir heima með sitt unga brjóstbarn. Ætla má að dauðadómnum yfir henni hafi þó verið fullnægt síðar og er líklegast að henni hafi verið drekkt.

Eigendur Höfða árið 1658 voru séra Jón Jónsson, Magnús Magnússon og tvær systur, Ingunn og Guðrún,[73] en föðurnafns þeirra er ekki getið. Presturinn sem átti hér jarðarpart þetta ár er efalítið séra Jón Jónsson í Holti í Önundarfirði, bróðursonur Brynjólfs Sveinssonar biskups (sjá hér Holt). Magnús sá Magnússon sem líka átti part úr Höfða árið 1658 var Magnús Magnússon, sýslumaður á Eyri í Seyðisfirði við Djúp, en hann fékk veitingu fyrir hálfri Ísafjarðarsýslu árið 1653, aðeins 23ja ára að aldri, og hélt því embætti lengi.[74] Sönnun þess að Magnús sýslumaður hafi verið einn af eigendum Höfða árið 1658 er að finna í Alþingisbókinni frá árinu 1692 en þá um sumarið féll á Alþingi dómur sem staðfesti eignarráð sýslumannsins yfir sex (eða fimm) hundruðum í Höfða og var í dómsorðinu tekið fram að hann hefði nær 37 ára hefðarhald á téðum jarðarparti.[75] Má því ætla að hann hafi náð honum undir sig um 1655.

Föðurafi Magnúsar sýslumanns á Eyri var Jón Magnússon, sýslumaður í Haga á Barðaströnd, sonur Magnúsar prúða Jónssonar og konu hans Ragnheiðar, dóttur Eggerts lögmanns Hannessonar í Saurbæ á Rauðasandi.[76] Eigendur Höfða árið 1658, þeir séra Jón Jónsson í Holti og Magnús Magnússon sýslumaður, voru þannig tengdir að kona séra Jóns, var föðursystir Magnúsar.[77] Eign þeirra beggja í Höfða kynni því að hafa verið erfðagóss komið frá hinum auðugu og voldugu Vestfjarðahöfðingjum á 16. öld, Eggerti lögmanni Hannessyni og tengdasyni hans, Magnúsi Jónssyni prúða, sýslumanni og skáldi, sem lengi sat í Ögri og síðan í Saurbæ á Rauðasandi. Magnús Magnússon, sýslumaður á Eyri í Seyðisfirði, var enn einn þriggja eigenda Höfða við lok ársins 1695.[78] Meðeigendur hans þá voru Ástríður Jónsdóttir á Mýrum (sjá hér Mýrar), fædd um 1645, einkabarn nýnefnds séra Jóns Jónssonar, og erfingjar Björns Þorvaldssonar, bónda í Hvammi hér handan við fjörðinn, sem andast hafði það sama ár.[79] Björn var af höfðingjaættum, sonur Þorvaldar söngmanns hins einsýna (sjá hér Hvammur), og hefur að líkindum verið allvel efnaður því það var hann sem reyndi með málsókn að ná í hundruðin sex (eða fimm) í Höfða af Magnúsi sýslumanni.[80] Málið kom fyrst til kasta Alþingis árið 1688 og svo aftur 1692 en í bæði skiptin fór bóndinn í Hvammi halloka.[81]

Á árunum upp úr 1700 átti Ástríður á Mýrum enn 12 hundruð í Höfða.[82] Árið 1703 voru önnur 12 hundruð úr jörðinni í eigu tveggja dætra Björns Þorvaldssonar í Hvammi og barna þriðju systurinnar sem þá mun hafa verið látin.[83] Systurnar tvær sem nefndar eru og voru eigendur fjögurra hundraða hvor í Höfða árið 1703 hétu Herdís Björnsdóttir og Þóra Björnsdóttir.[84] Herdís var þá gift Magnúsi bónda Níelssyni í Haukadal en Þóra virðist hafa verið ógift og er líklega sú Þóra Björnsdóttir sem árið 1703 var liðlega fertug vinnukona hjá Magnúsi bónda Sigurðssyni og konu hans, Vigdísi Björnsdóttur, í Hrauni í Keldudal.[85] Mjög sterkar líkur benda til þess að Vigdís í Hrauni hafi verið systir þeirra Herdísar og Þóru.[86] Sú þessara systra sem átt hafði fjögur hundruð í Höfða eins og þær Herdís og Þóra en hvergi er nefnd með nafni í nærtækum heimildum mun hafa verið gift Sigurði Guðmundssyni sem árið 1703 var búandi ekkjumaður í Lokinhömrum með fimm börn og sjö árum síðar áttu börn Sigurðar enn fjögur jarðarhundruð hér á Höfða.[87]

Björn Þorvaldsson í Hvammi andaðist árið 1695 eins og fyrr var nefnt án þess að hafa náð að eignast þann part úr Höfða sem Magnús sýslumaður Magnússon neitaði að láta af hendi. Á árabilinu frá 1703 til 1710 náði tengdasonur Björns, Magnús Níelsson, bóndi í Haukadal, hins vegar að eignast þau sex hundruð[88] og hefur að líkindum keypt partinn af dánarbúi sýslumannsins sem andaðist árið 1704.[89] Sumarið 1710 áttu niðjar og venslamenn Björns í Hvammi því 18 hundruð úr Höfða, alla jörðina nema þau 12 hundruð sem voru í eigu frúarinnar á Mýrum og fyrr var getið.

Árið 1762 voru eigendur Höfða tveir.[90] Annar þeirra var séra Bergsveinn Hafliðason, prestur á Stað í Grunnavík, en eiginkona hans, Halldóra Snæbjarnardóttir, var dótturdóttir Ástríðar Jónsdóttur á Mýrum (sjá hér Mýrar og Staður í Súgandafirði).[91] Hinn eigandi Höfða árið 1762 hét Páll Björnsson og mun hafa verið sá maður með því nafni sem þá bjó hér  í tvíbýli.[92] Að svo hafi verið má ráða af því að sonur Páls þess sem bjó á Höfða 1762 var tvímælalaust sjálfseignarbóndi hér árið 1805.[93] Hann hét Guðmundur Pálsson og bjó hér í þríbýli árið 1801 en í tvíbýli árið 1805.[94] Meðeigandi Guðmundar Pálssonar að Höfða árið 1805 var Margrét Tómasdóttir í Svalvogum en eina manneskjan með því nafni á öllum Vestfjarðakjálkanum fjórum árum fyrr var 68 ára gömul húsfreyja á Sæbóli á Ingjaldssandi, gift Gils Jónssyni hreppstjóra sem var 15 árum yngri.[95] Ætla má að það sé hún sem komin var að Svalvogum 1805 og átti þá part úr Höfða.

Guðmundur Pálsson, bóndi á Höfða, er sagður 28 ára gamall árið 1801[96] og mun því hafa verið fæddur árið 1773 eða því sem næst. Fyrri kona Guðmundar og húsfreyja hér á Höfða árið 1801 var Arnfríður Aradóttir en á þeim var um það bil tuttugu ára aldursmunur og var Arnfríður eldri en Guðmundur.[97] Hún var frá Reykjarfirði í Vatnsfjarðarsveit við Djúp, dóttir Ara Jónssonar, lögréttumanns þar, og eiginkonu hans, Guðrúnar Þórðardóttur.[98] Bróðir Arnfríðar var Guðmundur Arason, bóndi á Auðkúlu í Arnarfirði (sjá hér Auðkúla).

Vorið 1818 var Guðmundur Pálsson á Höfða orðinn ekkjumaður og kvæntist þá í annað sinn er hann gékk að eiga Halldóru Guðmundsdóttur frá Hóli á Hvilftarströnd í Önundarfirði (sjá hér Hóll).[99] Fyrstu hjúskaparárin bjuggu þau hér á Höfða en fluttust að Hóli á Hvilftarströnd 1821 eða 1822 og var Guðmundur þá hreppstjóri.[100]

Um 1840 missti hann seinni eiginkonuna (sjá hér Hóll á Hvilftarströnd) og var árið 1845 vinnumaður á prestssetrinu í Holti, kominn á áttræðisaldur.[101] Með seinni konu sinni, Halldóru Guðmundsdóttur, eignaðist hann níu börn (sjá hér Hóll á Hvilftarströnd) og eiga þau nú mikinn fjölda niðja.

Á 18. og 19. öld var oftast tví- eða þríbýli á Höfða[102] en hér átti þó eftir að fjölga á síðustu árum nítjándu aldarinnar er norska hvalveiðistöðin var reist á Höfðaodda. Hér verður síðar gerð nokkur grein fyrir þeim umsvifum en ekki má minna vera en á undan fylgi svolítil frásögn af þeim bóndamanni sem margir munu enn minnast hvenær sem þeir heyra Höfða í Dýrafirði nefndan. Sá maður er Sighvatur Grímsson Borgfirðingur, einn merkasti fræðimaður úr röðum íslenskra bænda bæði fyrr og síðar.

 

                 

                  Sighvatur Grímsson Borgfirðingur

 

Sighvatur fluttist að Höfða vorið 1873, rösklega þrítugur að aldri, og átti hér heima til dauðadags í janúar 1930. Ritverk hans, sem fæst hafa verið prentuð, eru hreint ótrúleg að vöxtum, enda notaði hann að heita mátti hverja frístund til lesturs og skrifta allt frá unglingsárum og fram á efstu ár. Viðamest allra ritverka hans eru Prestaæfir sem varðveittar eru í handriti í Landsbókasafni Íslands. Þar er að finna margvíslegan fróðleik um alla íslenska presta frá því um siðaskipti og fram undir 1930 og auk þess ýmsa mola um nokkra kirkjunnar þjóna úr pápísku. Þetta verk eitt sér er yfir 14.000 skrifaðar síður á lengd og að ritun þess vann Sighvatur í marga áratugi en alltaf þó með öðrum ritstörfum og daglegri búsýslu. Dagbækur Sighvats frá árunum 1863-1930 ná yfir 5.386 blaðsíður í handritasafni hans og mun enginn dagur hafa liðið svo í 67 ár að hann léti vera að hripa a.m.k. nokkrar línur í dagbók sína.

Af öðrum ritum Sighvats sem varðveitt eru í handritadeild Landsbókasafnsins og hann hefur sjálfur samið má nefna ættartölubækurnar, sem eru sex stór bindi, og einnig kvæði hans og rímur á um það bil 1.600 blaðsíðum.[103] Auk sinna frumsömdu ritverka skrifaði Sighvatur upp ósköpin öll af verkum annarra höfunda og má þar til dæmis nefna kvæðasafn í átta bindum og rímnasafn í sjö bindum en bæði til samans fylla þessi tvö söfn nær 9.000 blaðsíður.[104] Sjöunda bindi kvæðasafnsins er 730 blaðsíður og öll kvæðin sem þar er að finna eru eftir Sigurð Breiðfjörð.[105] Alls geymir safn þetta kvæði eftir 220 nafngreinda höfunda og að auk ýmis ljóðmæli sem Sighvatur vissi ekki hver hefði ort.[106]

Allt handritasafn Sighvats, sem nú er varðveitt í Landsbókasafni, er í 180 bindum og er meginhluti þess afskriftir hans sjálfs.[107] Sjálfur samdi Sighvatur líka ýtarlega skrá yfir nær allt safnið og flestum hinum stærri verkum fylgja nákvæm registur frá hans hendi.[108] Hinum mörgu sendibréfum sem Sighvati bárust hélt hann vel til haga og eru um 1.700 þeirra nú varðveitt í Landsbókasafni.[109]

Viðamesta ritverk Sighvats Borgfirðings er tvímælalaust Prestaæfirnar, sem hér voru áður nefndar, en allan þann fróðleik sem þar er að finna dró Sighvatur saman úr ritum er honum tókst að ná í og með bréfaskriftum við ýmsa merka fræðimenn.[110] Úr hópi slíkra bréfavina bóndans á Höfða má nefna dr. Jón Þorkelsson, Hannes Þorsteinsson og Jón Borgfirðing, alla í Reykjavík og dr. Finn Jónsson, prófessor í Kaupmannahöfn.[111]

Eins og áður var nefnt hefur mjög lítið af ritverkum Sighvats verið prentað nema það sem birtist í blöðum og tímaritum. Af slíku tagi má nefna greinar og fréttabréf, eftirmæli og nokkur kvæði.[112] Nokkrar lengri ritgerðir Sighvats komust líka á prent svo sem Skýringar yfir nokkur örnefni í Gull-Þóris sögu,[113] Ágrip af ævi Gísla Konráðssonar,[114] Ævisaga Jóns skálds Jónatanssonar[115] og Æviágrip Guðmundar „læknis” Guðmundssonar.[116] Árið 1912 var fyrirlestur Sighvats um Sigurð Breiðfjörð gefinn út sérprentaður og þess er einnig vert að geta að á árunum 1892-1898 bjó Sighvatur til prentunar nokkur rit Gísla Konráðssonar sem gefin voru út á Ísafirði.[117] Eitt þeirra var Sagan af Natani Ketilssyni.[118]

Hér verður ekki boðið upp á neitt allsherjar yfirlit um hin miklu og margvíslegu ritstörf Sighvats Borgfirðings en þeim sem fræðast vilja nánar um þau efni skal bent á ritgerð Finns Sigmundssonar sem birtist fyrst í Lesbók Morgunblaðsins 27. október 1940 en síðar í þriðja bindi annarrar útgáfu ritsins Frá ystu nesjum.[119] Í Íslenskum æviskrám nefnir Páll Eggert Ólason líka fáein rit Sighvats sem út hafa verið gefin á prenti og ekki eru talin upp í áðurnefndri ritgerð Finns.[120]

Viðdvöl okkar á Höfða yrði snubbóttari en skyldi ef ekki fylgdu hér nokkur orð um lífshlaup og lífshætti þessa undramanns, Sighvats Grímssonar, eins besta fulltrúa íslenskrar alþýðumenningar í þúsund ár. Í þeirri frásögn verður einkum stuðst við ritgerð Björns H. Jónssonar, skólastjóra á Ísafirði, um Sighvat og á henni byggt nema til annarra heimilda sé vísað.[121]

Sighvatur Grímsson fæddist í Nýjabæ á Akranesi sunnudaginn 20. desember 1840. Foreldrar hans voru hjónin Grímur Einarsson og Guðrún Sighvatsdóttir, almúgafólk sem átti ættir að rekja um Borgarfjarðarhérað og Dali. Er Sighvatur var á fjórða ári slitnaði upp úr sambúð foreldra hans og fylgdi drengurinn móður sinni næstu ár. Hún átti þá jafnan heima á Akranesi eða þar í grennd, var stundum ráðskona en annan tímann húskona er lifði á handafla sínum. Sagt er að móðir Sighvats hafi verið vel að sér og snemma kennt honum að lesa en ekki mun hún hafa verið skrifandi. Sighvatur lærði þó fljótt að skrifa og á ellefta ári hafði hann aflað sér þekkingar á fingrarími svo hann gat reiknað út tunglkomur, messur og mánaðardaga og skrifað almanök fyrir þá sem þess óskuðu. Er Sighvatur Grímsson var enn á barnsaldri varð móðir hans holdsveik og dó nokkrum árum síðar í hreppshúsinu á Skipaskaga. Við fermingu árið 1855 hafði Sighvatur lært allt kverið, bæði stóra og smáa stílinn, en séra Hannes Stephensen á Ytra-Hólmi, sem fermdi piltinn, hefur ekki talið hegðun hans vera til fyrirmyndar og færir til bókar að í þeim efnum sé þessi sonur Guðrúnar holdsveiku aðeins sæmilega skikkanlegur.

Er Sighvatur var á nítjánda ári yfirgaf hann æskustöðvar sínar á Skipaskaga og var næstu tvö ár vinnumaður, fyrst í Hvassahlíð hjá Fornahvammi í Norðurárdal en síðan á Leysingjastöðum í Hvammssveit. Á þeim árum eignaðist hann dóttur með stúlku sem hét Sólveig Einarsdóttir og var frá Hvammi í Kjós. Vorið 1861 komst Sighvatur út í Breiðafjarðareyjar og var þar fyrst vinnumaður hjá Ólafi Teitssyni í Sviðnum.[122] Við húsvitjun árið 1863 átti hann enn heima í Sviðnum[123] en næstu þrjú árin var hann jafnan í vinnumennsku hjá Jóhanni Eyjólfssyni og Salbjörgu Þorgeirsdóttur, konu hans, er þá bjuggu á jarðarparti í Flatey og hálfum Skálmarnesmúla. Oft var þessi vinnumaður Jóhanns og Salbjargar við selveiðar á haustin á Skálmarnesmúla en upp úr áramótum var hann sendur í ver, m.a. til Bolungavíkur þar sem hann gat sitt annað barn í lausum leik, dóttur sem fæddist haustið 1864. Barnsmóðir hans að því sinni hét Þórunn Einarsdóttir.[124]

Er Sighvatur kom í Breiðafjarðareyjar var hann tvítugur að aldri og hafði aldrei í skóla komið. Hann mun þó hafa verið mun betur að sér í bóklegum fræðum en títt var um pilta úr almúgastétt og í Flatey komst hann fljótt í kynni við hinn aldna fræðaþul og sagnaritara, Gísla Konráðsson, sem hafði flust til Flateyjar norðan úr Skagafirði árið 1852. Er fundum þeirra bar fyrst saman var drengurinn af Skipaskaga ekki nema tvítugur en Gísli Skagfirðingur kominn nokkur ár yfir sjötugt. Sá gamli að norðan sá fljótt hvað í Sighvati bjó og gerði hann að sínum lærisveini. Hvenær sem færi gafst frá daglegum önnum lagði Sighvatur leið sína í Norskubúð í Flatey og sat þar við fótskör meistara síns. Þar lærði hann flest og tók út dýrmætan þroska. Ef Sighvatur hefði aldrei komist í kynni við Gísla Konráðsson er hugsanlegt að örðug lífskjör hefðu náð að kæfa fýsn hans til fróðleiks og skrifta en eftir veruna í Flatey var hann svo vopnum búinn að slíkt var óhugsandi. Alla sína löngu ævi hélt hann áfram að leita sér þekkingar með lestri merkilegra bóka og varð snemma hámenntaður á sviði íslenskra fræða. Íslendingasögurnar en einkum Sturlungu mátti heita að hann kynni víða utan að var sagt um Sighvat af dómbærum manni sem var honum allvel kunnugur.[125]

Á Skálmarnesmúla kynntist Sighvatur Ragnhildi Brynjólfsdóttur úr Bjarneyjum sem var rösklega þremur árum yngri en hann. Þau ákváðu að ganga í hjónaband og voru gefin saman í Múlakirkju þann 29. nóvember 1865. Upp frá því fylgdust þau að meðan bæði lifðu og höfðu verið hjón í 64 ár og 47 daga er Sighvatur andaðist 14. janúar 1930. Vorið 1867 réð Sighvatur sig í vinnumennsku að Hjöllum í Gufudalssveit og fór konan þangað með honum, komin langt á leið að sínu fyrsta barni. Næsta fardagaár voru þau í húsmennsku á Miðhúsum í sömu sveit. Árið 1869 komst Sighvatur í bændatölu en þá um vorið fluttust þau hjónin að Klúku í Bjarnarfirði í Strandasýslu og hófu þar búskap. Klúka var ein lægst metna jörðin í allri sýslunni, aðeins 4 hundruð að fornu mati, og án allra hlunninda. Sighvatur bjó á Klúku í fjögur ár og bjargaðist af en veturinn 1872-1873 neyddist hann þó til að koma öllum börnum þeirra Ragnhildar, sem þá voru þrjú á lífi, fyrir á öðrum bæjum vegna mjólkurskorts því engin var kýrin í koti þessu. Er Sighvatur bjó á Klúku var hann um þrítugsaldur og hafði þá þegar nokkrar tekjur af skriftum en verkefni af því tagi buðust honum á því skeiði einkum hjá Jóni Guðmundssyni á Hellu í Steingrímsfirði sem var allt í senn, hreppstjóri, oddviti og sýslunefndarmaður. Hjá Jóni á Hellu lærði Sighvatur líka sitt af hverju um lækningar sem kom honum síðar að góðu haldi því í Dýrafirði var mjög oft til hans leitað er sjúkir þurftu hjápar við.

Í desembermánuði árið 1872 lét eigandi Klúku Sighvat vita að hann yrði að hverfa þaðan á komandi vori en þröngt var um jarðnæði á þessum árum og ekki í mörg hús að venda. Einar Grímsson, sem var eldri bróðir Sighvats, bjó þá á Höfða í Dýrafirði og hafði þar 6 hundruð til ábúðar. Sighvatur tók nú þá ákvörðun að fara á fund bróður síns og leita fyrir sér um jarðnæði á nýjum slóðum þar vestra. Þann 10. janúar 1873 lagði hann á Steingrímsfjarðarheiði og hélt síðan áfram út alla Langadalsströnd og Snæfjallaströnd uns komið var á móts við Æðey. Úr Æðey fékk hann sig fluttan yfir Djúpið og hélt svo ferðinni áfram gangandi, fór Álftafjarðarheiði og komst loks að Höfða þegar tíu dagar voru liðnir frá því hann lagði af stað að heiman. Í Dýrafirði fékk Sighvatur þá úrlausn sinna mála að ákveðið var að hann tæki á komandi vori til ábúðar þau 6 hundruð sem Einar bróðir hans hafði haft til ábúðar á Höfða en Einar kæmi sér fyrir með öðrum hætti. Er gengið hafði verið frá málum sneri Sighvatur aftur heim á leið norður að Djúpi og þaðan yfir Steingrímsfjarðarheiði. Allt ferðalagið, frá brottför til heimkomu, tók fullan mánuð, enda um langan veg að fara fyrir fótgangandi mann.

Vorið 1873 fluttist Sighvatur frá Klúku að Höfða með konu sína og börnin þrjú. Þann 11. maí rak hann kindur sínar vestur yfir Steingríms-fjarðarheiði, sex ær og tvo gemlinga. Ekki var bústofninn stærri. Tveimur vikum síðar komst hann af stað með konuna og börnin og flutti þá búslóð sína á fimm lánshestum en tvö þung bókakoffort sendi hann með Hellujaktinni til Ísafjarðar. Að þessu sinni fór Sighvatur sömu leið og um veturinn og tók ferðin nú tólf daga því stundum varð að halda kyrru fyrir vegna veðurs. Jarðarpartinum á Höfða fylgdu sex leiguær og aðrar sex kom hann með að norðan svo kvíaærnar urðu tólf fyrsta sumarið á Höfða.

Er Sighvatur kom að Höfða vorið 1873 var hann 32ja ára gamall. Hann hafði þá víða verið en hér varð hann brátt rótfastur og fluttist aldrei búferlum eftir ferðina löngu norðan úr Bjarnarfirði í Dýrafjörð. Árin sem Sighvatur átti heima á Höfða urðu nær 57. Frá 1873 til 1882 hafði hann oftast sex hundruð til ábúðar, nema fardagaárin 1874-1875 og 1875-1876 en þá var hann í húsmennsku og hafði ekkert jarðnæði. Frá 1882 til 1893 bjó Sighvatur á allri neðri bæjar jörðinni á Höfða sem taldist vera 12 hundruð. Eftir það hafði hann yfirleitt sex hundruð til ábúðar og eignaðist að lokum jarðarpartinn sem hann bjó á.[126]

Á árunum upp úr 1880 þurfti Sighvatur að greiða 14,- krónur á ári (um 90% úr ærverði) í landskuld af þeim 6 jarðarhundruðum sem hann hafði búið á frá árinu 1876 en einn gemling árlega af hinum 6 jarðarhundruðunum sem hann bætti við árið 1882.[127] Sex leiguær fylgdu hvorum jarðarparti svo alls urðu þær tólf.  Í leigur af þeim varð Sighvatur að greiða 42 pund af smjöri á hverju ári.[128] Landskuldin sem greidd var með krónunum fjórtán þótti honum vera svívirðilega há.[129] Jarðatal Johnsens frá árinu 1847 sýnir hins vegar að landskuld af hverjum sex hundruðum í Höfða var þá líka rétt um 90% úr ærverði[130] svo að í þessum efnum virðist Sighvatur ekki hafa setið við lakara borð en margir aðrir. Leigurnar, sem honum var gert að greiða fyrir innstæðukúgildin (ærnar tólf), voru líka að heita má í samræmi við ákvæði Jónsbókarlaga en þar var gert ráð fyrir fjórum fjórðungum af smjöri, það er 40 pundum, fyrir hverjar tólf leiguær.[131]

Bústofninn var jafnan lítill hjá Sighvati. Fyrstu árin var hann kýrlaus en var árið 1880 kominn með eina kú gelda og á árunum 1881-1900 var hann jafnan með eina eða tvær kýr.[132] Á þessum sömu árum voru ærnar oftast á milli tíu og tuttugu.[133] Haustið 1892 hugðist Sighvatur ala 34 ær, fleiri en nokkru sinni fyrr, en missti þær allar nema sex og kenndi um banvænum hval frá norsku hvalveiðistöðinni er þá var starfrækt á Höfðaodda.[134] Aldamótaárið voru kvíaærnar hjá Sighvati og Ragnhildi  á Höfða ekki nema tólf, jafnmargar og á þeirra fyrsta búskaparári þar.[135] Eitt hross var löngum á bænum.[136]

Heyfengur Sighvats var býsna misjafn frá einu ári til annars. Á árunum 1880 til 1900 náði hann oftast 30-60 hestum af töðu og 40-80 hestum af útheyi.[137] Yfirleitt dugðu þessi hey fyrir skepnurnar þó fyrir kæmi að fræðimaðurinn á Höfða yrði að leita til nágranna í vorharðindum. Á árunum 1881 og 1882 var tíðarfar með fádæmum hart og haustið 1881 var heyfengur víðast hvar með allra minnsta móti, líka á Höfða. Sami kuldi og bjargarleysi síðan á páskadag svo sums staðar er fé farið að falla margt og kýr hungraðar og geldar á mörgum bæjum, skrifar Sighvatur í dagbók sína 2. maí 1882.[138] Á þessu harða vori varð Sighvatur að leita til betur settra nágranna um hey og í dagbókunum má sjá að honum hefur þá verið hjálpað um a.m.k. 60-70 fjórðunga af heyi[139] eða sem svaraði þremur til fjórum hestum. Sú hjálp virðist hafa dugað því 3. júní á sama ári ritar bóndinn á Höfða í kompu sína:  Allt er hjá mér enn lifandi, bæði menn og skepnur,  fyrir guðs náð.[140]

Alls eignaðist Sighvatur Borgfirðingur a.m.k. fimmtán börn. Tvö fyrir hjónaband (sjá hér bls. 14), eitt fram hjá konu sinni[141] og tólf með henni[142] Af hjónabandsbörnunum missti Sighvatur sex á barnsaldri og dóu þrjú þeirra úr barnaveiki veturinn 1887-1888.[143] Hin sex náðu fullorðinsaldri og líka dæturnar tvær sem Sighvatur eignaðist fyrir hjónaband. Öll ólust hjónabandsbörnin upp hjá foreldrum sínum á Höfða nema Njáll sem fór snemma í fóstur til föðurbróður síns.

Mörgum kann að þykja undarlegt hvernig Sighvati auðnaðist að sjá heimili sínu farborða með ekki stærri bústofn en hér var áður lýst. Hann virðist þó aldrei hafa þurft að þiggja af sveit á þeim árum sem hann bjó á Höfða en fyrir kom að hann fengi lán úr sveitarsjóði til að kaupa sér kú.[144] Sighvatur bjargaðist af vegna þess að hann aflaði með margvíslegum hætti ærinna tekna umfram þær sem sýsl hans við kýr og kindur gaf af sér. Sú tekjuöflun var af tvennum toga. Annars vegar sótti hann lengi sjó eins og aðrir bændur á Vestfjörðum og dró þannig björg í bú en auk þess sinnti hann fjölmörgum öðrum störfum eins og hér verður síðar frá sagt og gáfu sum þeirra stundum þó nokkrar tekjur. Hins er einnig vert að geta að fræðimaðurinn á Höfða var líka notinvirkur bóndi og segir Kristinn Guðlaugsson á Núpi að hvergi hafi hann séð betur gengið um hey og hús en hjá Sighvati, þó að húsin væru léleg.[145]

Á árunum 1873-1890 reri Sighvatur a.m.k. ellefu vorvertíðir á Fjallaskaga.[146] Hann var aldrei formaður en jafnan í skiprúmi hjá öðrum, oft á litlum kænum með þriggja manna áhöfn.[147] Afli var misjafn. Sem dæmi má nefna að árið 1886 voru þeir þrír á báti, Sighvatur, Páll Einarsson í Hvammi og Jón Helgason í Grasi.[148] Róðrar urðu þá 24. Þeir fengu þá um 100 steinbíta í hlut og er þeir lögðu þorskinn frá þessari vorvertíð inn hjá Gramsverslun á Þingeyri um miðjan ágúst vigtaði hann 879 pund, þar af voru 350 pund smáfiskur.[149] Vorið 1888 var Sighvatur í skiprúmi hjá vini sínum, Samsoni Samsonarsyni, snikkara á Ásgarðsnesi við Þingeyri. Þeir voru þrír á bátnum og fengu 206 steinbíta í hlut en þorskafli þeirra sem fór í salt varð 1168 fiskar.[150] Saltfiskurinn var lagður inn í verslun og fyrir hann fengu þeir 25,- krónur í hlut.[151] Liðlega tvær krónur voru þá greiddar fyrir dagsverk um heyannir[152] svo ekki sýnist hluturinn nú hafa verið neitt til að státa af.

Fyrsta aldarfjórðunginn sem Sighvatur bjó á Höfða gekk fiskur oft langt inn á Dýrafjörð á sumrin og haustin. Eins og aðrir nýtti Sighvatur sér þá björg og reri til fiskjar úr heimavör þegar færi gafst með einhverjum sambýlismannanna á Höfða ellegar sonum sínum er þeir fóru að stálpast. Ragnhildur, kona Sighvats, fór líka stundum í róður. Konan og Guðbjartur [Björnsson] fóru á sjó, fengu 36 á skip, skrifar Sighvatur t.d. í dagbókina 25. ágúst 1884.[153] Vorið 1894 keypti Sighvatur gamla bátkænu og borgaði fyrir hana 10 krónur.[154] Við fórum fram með lóðina, ritar Sighvatur í dagbók sína 2. ágúst 1894, fengum 39 (13 fiska, 26 ýsur) og lögðum aftur.[155] Síðsumars og haustið 1894 urðu sjóróðrarnir frá Höfða býsna margir en Sighvatur og Pétur sonur hans reru þá með lóðir á bátnum sem keyptur hafði verið um vorið.[156]Oftast var maðkur úr Höfðaoddanum hafður í beitu en stundum rak smokk og haustið 1894 voru Hvammsmenn reyndar farnir að plægja kúfisk við Höfðaoddann.[157]

Framan af árum var Sighvatur oft í vinnu hjá Gramsverslun á Þingeyri og þá einkum við að bræða lýsi en einnig við út- og uppskipun og viðhald bygginga. Sumarið 1874 var hann oft í vinnu við ýmsan frágang á nýju verslunarbúðinni á Þingeyri, til dæmis að sementa kjallarann að innan[158] en verslunarhús þetta, sem enn stendur, var þá talið vera veglegasta verslunarhús á Vestfjörðum.[159] Árið 1879 var Sighvatur í nokkra mánuði við lýsisbræðslu á Þingeyri, frá maí og fram í júlí og svo aftur síðsumars og um haustið.[160] Ingibjörg Guðmundsdóttir, systurdóttir hans, sló þá og heyjaði fyrir skepnunum á Höfða.[161] Þann 26. ágúst 1879 lét Gram kaupmaður Sigurð Pálsson taka ljósmynd af bræðslumönnum sínum, þeim Sighvati Borgfirðingi og Pétri Jónssyni sem þá átti heima á Þingeyri.[162] Árið 1887 var Sighvatur 36 daga við lýsisbræðslu á Þingeyri og fékk þá í kaup 4,- krónur á dag[163] sem verður að teljast býsna góð borgun þegar meðalkaup fyrir dagsverk um heyannir taldist vera 2,27 krónur.[164] Á árunum 1876-1879 var Sighvatur líka fenginn á hverju ári eða því sem næst til að tjarga nýju timburkirkjuna á Söndum sem reist var árið 1876.[165] Á þessum árum þjónaði séra Jón Jónsson á Gerðhömrum Sandaprestakalli[166] og má ætla að hann hafi fengið Sighvat til þessa verks. Sumarið 1895 var Sighvatur í tvær vikur að byggja kjallarann undir húsi Jóhannesar Ólafssonar á Þingeyri[167] og er þá fátt talið af margvíslegum störfum hans þar og á bæjunum í grennd.

Fyrstu tvö árin sem norska hvalveiðistöðin var starfrækt á Höfðaodda vann Sighvatur þar um skeið[168] en að því er virðist bara þessi tvö ár, enda var honum bölvanlega við þessa grútarbræðslu og taldi sig verða fyrir stórum skaða af hennar völdum (sjá hér bls. 16).

Á sínum fyrstu árum í Dýrafirði fékkst Sighvatur mikið við lækningar og var hans þá oft vitjað þegar veikindi og sjúkdóma bar að höndum. Í lækningaferðir fór hann um allan Dýrafjörð, út á Ingjaldssand og í Auðkúluhrepp í Arnarfirði svo segja má að hann hafi um skeið verið helsti læknir íbúanna í þremur hreppum. Sighvatur var þá í góðum tengslum við Þorvald Jónsson, héraðslækni á Ísafirði, og fékk frá honum bæði lyf og leiðbeiningar. Lærður læknir settist fyrst að á Þingeyri árið 1888 og var það Oddur Jónsson. Þá voru 15 ár liðin frá því Sighvatur kom í Dýrafjörð. Þeim Oddi varð strax vel til vina en við komu hans mun læknisvitjunum að Höfða hafa fækkað. Sighvatur kunni margt fyrir sér í læknislistinni og tókst að hjálpa mörgum. Oft fékk hann eitthvað greitt fyrir lækningar sínar, – matvæli, fatnað eða peninga. Nokkrar tilvitnanir í dagbækur fræðimannsinsá Höfða gefa mynd af læknisstörfum hans en vandi er að velja því af mörgu er að taka.

Nokkrum dögum fyrir jól árið 1877 var Sighvatur sóttur til konu sem átti heima á Brekku á Ingjaldssandi – því hún liggur og er slæm á sönsum, eins og segir í dagbókinni. Sighvatur fór um Núpsdal og yfir heiði út á Sand, tók konunni blóð og fékk einar buxur fyrir hjálpina.[169]

Þann 10. júní 1878 segir Sighvatur svo frá atburðum dagsins:  Ég tók blóð Guðrúnu eldri á Næfranesi, setti svo eldglös á Kristján á Gemlufalli.[170] Síðast í febrúar 1879 var Sighvatur sóttur til Ásgeirs Jónssonar, bónda á Rafnseyri, sem hafði ákafa tannpínu. Hann fór þegar vestur og hafði með sér klór og ópíum. Honum tókst að lækna Ásgeir af tannpínunni og fékk að launum bæði smjörfjórðung (5 kíló) og fimm krónur.[171] Það var góð borgun.

Í janúar 1880 átti Kristján Össurarson á Múla erfitt með svefn.  Var Sighvats vitjað og sá hann strax úrræði. Ég sendi honum svefnvatn, stendur í dagbókinni.[172] Þann 16. júlí 1882 ritar Sighvatur á þessa leið í dagbók sína:

 

Sigurður fornfræðingur Vigfússon er hér á ferð í fornfræðarannsóknum. Hann hafði lent hér í oddanum og ætlaði að fá mig með sér inn á Valseyri en þá var ég farinn af stað inn að Næfranesi að lina ofsatak í Ingibjörgu Guðmundsdóttur sem liggur í mislingum og tókst það mjög vel.[173]

 

Það var sárt fyrir Sighvat að missa af tækifæri til að ræða við Sigurð fornfræðing og skoða með honum búðarústir á Valseyri en læknir hleypur ekki frá sínum sjúklingum.

Bensín var eitt þeirra lyfja sem Sighvatur notaði við erfiðum sjúkdómum, m.a. kíghósta.[174]  – Ég sendi Guðrúnu á Brekku mellifolíu [vallhumal]og bensín, skrifar Sighvatur haustið 1883.[175]

Stundum náðu lækningatilraunir hans ekki að bera árangur og þannig fór í Hvammi vorið 1884. Sighvatur skrifar: Einar dreyari* í Hvammi og Lárus sonur hans sóttu mig til að reyna að taka Sigríði Einarsdóttur blóð en við hana varð ekki ráðið fyrir brjáli.[176]

Í nóvember og desember árið 1885 var Sighvatur hálfan mánuð á Rafnseyri í lækniserindum. Þangað var hann sóttur til veikrar stúlku sem Þóra hét. Stúlkan var þungt haldin og lagði Sighvatur til að sent yrði eftir Davíð Scheving, lærðum lækni sem þá sat á Patreksfirði. Svo var gert og brást Davíð vel við. Þann 9. desember skrifar Sighvatur í dagbókina: Við Davíð vorum  báðir á Rafnseyri og stungum á Þóru. Töppuðum út úr henni

 

—————————————————————————————————

*Orðið er afbökun frá danska orðinu dröjari og merkir rokkasmiður eða rennismiður.

við eina ástungu 13 merkur.[177] Hér fór þó verr en skyldi því stúlkan andaðist nokkrum vikum síðar.[178]

Eftir heimkomuna frá Rafnseyri mun Sighvatur fljótlega hafa komið bíld sínum í viðgerð og ritar í dagbókina 31. mars 1886: Tók bíldinn minn úr aðgerð hjá Birni vert[179] en Björn þessi, sem var Magnússon, rak þá greiðasölu á Þingeyri. Bíldurinn var það verkfæri sem alþýðulæknar máttu síst án vera því með honum tóku þeir sjúkum og þjáðum blóð.

Stundum voru sjúklingar lagðir inn hjá Sighvati á Höfða. Þannig var um Sigurð Einarsson úr Bjarneyjum sem lagður var í land af skipi rétt að dauða kominn af skyrbjúg sumarið 1886. Sighvati tókst þó að hressa hann við á fáum dögum.[180]

Eins og áður sagði dró verulega úr læknisstörfunum hjá Sighvati er lærður læknir settist að á Þingeyri vorið 1888. Svo virðist sem Oddur læknir og Sighvatur hafi strax orðið góðir kunningjar og augljóst að hinn lærði læknir hefur kunnað að meta fræðimanninn á Höfða. – Oddur læknir gaf mér jakka, vesti og buxur, bestu föt, skrifar Sighvatur í marslok 1890 og á gamlársdag þetta sama ár sendi Oddur rommflösku að gjöf yfir á Höfða.[181] Oddur læknir var gefinn fyrir áfengan drykk og lenti af þeim ástæðum í mótbyr í Dýrafirði[182] en Sighvatur hélt þó alltaf tryggð við  hann. Síðustu nótt Odds hér í firðinum lágu þeir félagarnir í hlöðunni í Botni. Næsta dag, þann 7. október 1894, fylgdi Sighvatur Oddi lækni norður yfir Hestfjarðarheiði og að Kleifum í Seyðisfirði við Djúp.[183] Þar skildi leiðir en Sigurð Magnússon, eftirmann Odds í embætti héraðslæknis á Þingeyri, nefndi Sighvatur aldrei annað en hrossaskítslækni eða öðrum álíka nöfnum.[184]

Á árunum kringum 1880 fékkst Sighvatur nokkuð við bóksölu og fór þá stundum bæ frá bæ sem farandbóksali. Þann 21. nóvember árið 1877 tók hann bækur til sölu á Þingeyri fyrir 264 krónur.[185] Á næstu vikum fór hann víða um Dýrafjörð og bauð bækurnar til sölu. Þann 28. desember sama ár var hann á leið út í Keldudal með sölubækurnar og lenti þá í snjóflóði á Eyrarhlíð.[186] Úr snjóflóðinu komst hann þó með bækurnar heilar, seldi í Keldudal og var á gamlársdag kominn í Lokinhamra þar sem hann fagnaði nýju ári hjá Gísla bónda Oddssyni.[187] Í þessari söluferð komst Sighvatur lengst að Álftamýri.[188]

Bækurnar sem Sighvatur tók fyrst til sölu voru flestar eða allar frá Þorvaldi Jónssyni, lækni á Ísafirði, en fljótlega fór hann að fá sölubækur sendar frá Reykjavík.[189] Í sölulaun fékk Sighvatur 10% af andvirði seldra bóka[190] og þegar vel gekk fékk hann upphæðir sem vel munaði um fyrir þessa iðju sína. Á árinu 1878 munu tekjur hans af bóksölu t.d. hafa numið 80 krónum eða sem svaraði um það bil kýrverði því þá seldi hann að eigin sögn fyrir 800 krónur.[191] Um miðjan janúar á því ári fór Sighvatur á Ísafjörð að ná sér í bækur til að selja og seldi þá í Önundarfirði á heimleiðinni.[192] Fáum vikum síðar var hann kominn aftur í Önundarfjörð með bækur til sölu og seldi þá m.a. út í Valþjófsdal.[193] Tveimur árum seinna fór hann í bóksöluferð á Ingjaldssand og var sú ferð líka farin á þorranum.[194]

Auk þess sem hér hefur verið nefnt gegndi Sighvatur um lengri eða skemmri tíma ýmsum störfum í hjáverkum sem sum hver færðu honum svolitlar tekjur í aðra hönd. Ekki er ástæða til að telja það allt upp en nokkur þessara starfa skulu þó nefnd. Sighvatur fékkst svolítið við kennslu og má sem dæmi nefna að í janúarmánuði árið 1876 var hann fenginn yfir í Haukadal til að kenna Ólafi Guðbjarti Jónssyni, sem þá var á sextánda ári, í tvær vikur.[195] Fyrir þessa kennslu fékk Sighvatur greitt í matvælum en einnig borgaði faðir lærisveinsins honum 5 franka.[196] Dagana í Haukadal notaði Sighvatur líka til að bæta frönskukunnáttu sína en frönsku var hann þá að læra með hjálp kennslubókar.[197] Kristinn Guðlaugsson á Núpi sem mátti kallast nákunnugur Sighvati segir að bóndi þessi á Höfða hafi auk þekkingar á Norðurlandamálunum getað fleytt sér dálítið í ensku og frönsku og jafnvel latínu.[198]

Ýmislegt bendir til þess að fræðimaðurinn á Höfða hafi þótt góður handverksmaður. Eins og áður sagði var hann fenginn til að tjarga Sandakirkju en einnig var til hans leitað þegar múra þurfti niður eldavélar, hvort heldur sem var á Ásgarðsnesi eða Mýrum[199] og einnig til að múra grunna kirknanna á Söndum og Mýrum.[200] Sighvatur var líka stundum verkstjóri við ruðning sýsluvega, m.a. á Gemlufallsheiði þar sem hann tók líka þátt í að hlaða vörður.[201] Um 1890 voru Dýrfirðingar farnir að brúa einstaka ár (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 141) sem í vatnavöxtum áttu það til að hindra för manna. Í júlímánuði 1891 var Sighvatur verkstjóri við gerð brúar yfir Hjarðardalsá og í júní 1892 vann hann í nokkra daga við að brúa Núpsá.[202] Eins og nærri má geta voru brýr þessar gerðar af vanefnum og entust því ekki lengi.[203]

Ekki er kunnugt um að Sighvatur Borgfirðingur hafi reynt að lesa sér til um siglingafræði en þó var hann fenginn til þess sumarið 1892 að vísa norsku timburskipi leið frá Þingeyri til Flateyjar á Breiðafirði.[204] Tókst ferðin vel og kom Sighvatur aftur heim eftir rétt liðlega eina viku.[205] Fyrir þessa reisu fékk hann 44 krónur í ferðakostnað og dagpeninga. Áður hafði Sighvatur heimsótt sínar fornu slóður í Flatey haustið 1873, á sinu fyrsta búskaparári á Höfða.[206] Þá var Gísli Konráðsson, hans gamli lærimeistari, enn á lífi, kominn hátt á níræðisaldur, og áttu þeir þá sínar síðustu samverustundir. Er Sighvatur kom til Flateyjar með timburskipið nær tveimur áratugum síðar lagði hann leið sína upp í Bókahús að skoða handrit Gísla[207] en fann ekki þær bækur sem hann helst vildi sjá, hvað sem valdið hefur.

Á árunum 1880-1895 og reyndar lengur gegndi Sighvatur ýmsum opinberum störfum í sveit sinni um lengri eða skemmri tíma. Hann var úttektarmaður, stefnuvottur, bólusetjari, hundahreinsari, meðhjálpari og fleira og um fárra ára skeið átti hann sæti í hreppsnefnd og sóknarnefnd.[208]

Sóknarnefndarmaður og meðhjálpari var Sighvatur orðinn fyrir lok ársins 1887[209] en sex árum síðar segist hann vera hættur að sækja kirkju vegna óhæfilegs prests.[210] Einhver breyting varð þó á í þessum efnum síðar því á gamlárskvöld aldamótaárið 1900 fór Sighvatur til Mýrakirkju og flutti þar fyrirlestur við guðsþjónustugjörð og haustið 1902 var hann aftur kosinn í sóknarnefnd.[211] Í hreppsnefnd var Sighvatur kosinn 18. febrúar 1888 og átti sæti í henni til 4. október 1890.[212] Í pistli sem Sighvatur skrifar í árslok 1889 segist hann hafa orðið að gegna að mestu einn öllu í hreppsnefnd Mýrahrepps,[213] enda gladdist hann við að losna úr nefndinni á næsta ári. Sumarið 1892 var Sighvatur kjörinn varaformaður í Búnaðarfélagi Mýrahrepps en um haustið sagði hann sig úr félaginu, að eigin sögn vegna illrar og ómannlegrar tilhögunar þess.[214] Svo virðist reyndar að félagsstörf hafi ekki hentað Sighvati beint vel, enda ber dagbók hans þess merki að hann hefur verið ör í geði og hugurinn löngum bundinn við hin þjóðlegu fræði sem voru kjörsvið hans.

Sighvatur var þó jafnan mjög áhugasamur um stjórnmál og í sjálfstæðisbaráttunni við Dani fylgdi hann yfirleitt að málum þeim sem lengst vildu ganga. Á yngri árum var hann eindreginn stuðningsmaður Jóns Sigurðssonar forseta og hafa varðveist nokkur bréf sem þeim fóru á milli.  Örfáum dögum eftir að Sighvatur settist að á Höfða vorið 1873 ritar hann Jóni forseta bréf og segir þá m.a.:

 

Mikið væri gott að fá frá yður línu frá Alþingi ef guð lofar yður að lifa og ofurlítið ágrip um leið af því sem þá yrði mest í nýmælum og eins hvernig þér vilduð helst að menn höguðu sér. Ég skal reyna hvað ég get að innprenta mönnum ófalskan anda, þó það máske muni litlu, en áhugi manna er þó sannarlega að vakna …

Við verðum eins og þér hafið svo iðulega brýnt  fyrir mönnum að vera þolinmóðir og staðfastir, sem allt ríður á. Ég hef verið hér á tveim fundarsamkomum og reynt að leiðbeina mönnum í aðalmálum vorum og hefur verið gerður að því góður rómur. En úr öllum óþarfa æsingi vil ég draga, einasta að hafa staðfasta einurð og óbilandi þrek og lofa þeim aðeins að neyta ofurvalds en játa ekkert sem skerðir þjóðréttindi vor.[215]

 

Sighvatur Borgfirðingur var nær þrjátíu árum yngri maður en Jón forseti en hins vegar liðlega átján árum eldri en Skúli Thoroddsen. Fáum árum eftir andlát Jóns gerðist Sighvatur ákafur stuðningsmaður Skúla sem fyrst var kjörinn á þing fyrir Ísfirðinga haustið 1892.

Oft mun fátæktin hafa angrað Sighvat á Höfða og ekki var hann mildur í dómum um þá sem hann taldi hafa efnast á annarra striti. Kristinn Guðlaugsson á Núpi fluttist ungur maður til Dýrafjarðar árið 1892 (sjá hér Núpur) og átti þar heima æ síðan uns hann andaðist árið 1950. Hann var því vel kunnugur Sighvati á Höfða og skrifaði árið 1940 ágæta ritgerð um þennan sveitunga sinn. Um viðhorf Sighvats til hinna efnameiri í þjóðfélaginu kemst Kristinn svo að orði:

 

Fyrir kom það að í samtali við kunningja sína væri Sighvatur fremur svartsýnn um kosti einstakra manna, nær og fjær. Gat hann þá orðið allhvassyrtur. Helst voru það efnamenn sem slíkum örvum var beint að. Virtist honum þá grunsamt um að svo gæti vel verið að efnin væru að einhverju dregin saman á kostnað hinna snauðu. Jafnvel þótt einhverjir þessara manna greiddu götu hans gat komið fyrir að hann tæki því fálega. Mun honum þá hafa skilist svo að um gustukagreiða væri að ræða en ekki vináttu eða verðleika.[216]

 

Árið 1892 var öll Ísafjarðarsýsla ásamt Ísafjarðarkaupstað enn eitt kjördæmi. Nokkrum mánuðum fyrir alþingiskosningarnar á því ári tók Sighvatur að sér að gerast umboðsmaður Þjóðviljans í Dýrafirði, blaðsins sem Skúli Thoroddsen gaf út á Ísafirði. Þjóðviljinn hafði þá verið gefinn út í um það bil sex ár og umboðsmaður á undan Sighvati var Gestur Björnsson, búfræðingur í Fremri-Hjarðardal, sem fluttist til Ameríku 20. júní 1892.[217] Sighvatur tók við blaðinu tveimur dögum áður en Gestur fór og þá voru áskrifendurnir aðeins fimm á hans svæði sem líklega hefur verið allur Dýrafjörður.[218] Dagbók Sighvats ber með sér að hann hefur verið ötull við að útbreiða Þjóðviljann og fyrir lok ársins 1893 voru kaupendurnir orðnir átján.  – Móses á Bakka gekk í Þjóðviljann, sá 18. kaupandi hjá mér, ritar Sighvatur á jóladag 1893[219] og 15. maí 1895 skrifaði hann Skúla og bað um fleiri eintök af blaðinu.[220]

Er landshöfðingi vék Skúla Thoroddsen úr embætti sýslumanns Ísfirðinga haustið 1892 töldu stuðningsmenn Skúla að þar væri um að ræða grófar pólitískar ofsóknir. Eins og oft hefur verið rifjað upp átti Lárus H. Bjarnason, sem landshöfðingi sendi vestur til að taka við embættinu úr hendi Skúla, ekki sjö dagana sæla meðan hann átti að heita sýslumaður á Ísafirði. Á fyrstu dögum ársins 1893 fékk Sighvatur á Höfða fréttir frá Ísafirði sem gerðu honum glatt í geði. Þann 3. janúar færir hann tíðindin inn í dagbók sína og segir:

 

Sannfrétt er að Lárus, settur sýslumaður, hafi verið flengdur á beran búkinn á Ísafirði og dreginn inn á kamar á Þorláksmessukvöld af tveimur grímumönnum og afhýddur þar ósleitilega. Auk þess sitja Ísfirðingar um hann með mannsöfnuði. Skúli er enn sem frjáls maður og verður ekkert til saka fundið.[221]

 

Næstu daga var Sighvatur að yrkja Rassalínsraunir og flengingabálk og sendi norður til Skúla.[222] Ein vísa hans frá þessum dögum er svona:

 

Sú nýspurð er saga slyng,

  sveita ber það slaður,

  að til sé furðu fágætt þing,

  flengdur sýslumaður.[223]

 

Ekki var gleði Sighvats minni tveimur árum síðar þegar fréttist að hæstiréttur í Kaupmannahöfn hefði loks sýknað Skúla af öllum ákærum landshöfðingja. Þann 3. mars 1895 ritar Sighvatur í dagbókina á þessa leið:

 

Gísli [þ.e. Gísli sonur Sighvats] minn kom og tók Þjóðvilja sinn sem við höfum bundið inn. … Fréttist að Skúli Thoroddsen hefði unnið mál sitt við hæstarétt. Bæði Berg og Ellefsen sendu þegar hraðboða til [Ísafjarðar] að tilkynna honum tíðindin, jafnskjótt og gufuskip þeirra voru lögst og varð sendimaður Ellefsens litlu fyrri á fund Skúla. Það urðu gleðitíðindi öllum hér vestra að svo fór.[224]

 

Sighvatur skrifaði margt í Þjóðviljann, þar á meðal minningargreinar um ýmsa Vestfirðinga sem féllu frá á árunum kringum aldamótin 1900. Öll störf sín fyrir Þjóðviljann mun Sighvatur hafa unnið í sjálfboðavinnu en hins vegar fékk hann um skeið talsvert magn af matvælum frá verslun sem Skúli setti á stofn á Ísafirði er honum hafði verið vikið frá sýslumannsembættinu. Fyrir þá matbjörg mun Sighvatur ekki alltaf hafa þurft að greiða fullt verð og má sem dæmi nefna að árið 1897 gaf Skúli liðsmanni sínum á Höfða eftir 53ja króna skuld.[225]

Sighvatur átti víðar hauka í horni sem komu til liðsinnis þegar að kreppti og einu sinni þurfti á fjármunum að halda til að forða því að fræðimaðurinn á Höfða yrði settur í tugthúsið. Eins og mörgum öðrum í röðum samtíðarmanna Sighvats var honum heldur illa við flesta kaupmenn og þeirra þjóna. Eitt margra dæma um heift bóndans á Höfða út í búðarlokurnar er að finna í vísu sem Sighvati er eignuð og sagt er að hann hafi ort um Þórarin Guðmundsson sem afgreiddi vörur hjá Hæstakaupstaðarversluninni á Ísafirði.[226] Vísan er svona:

 

Ættin þín er yfrið smá,

                            ærið dyggðasljóvur.

                            Axlar-Birni ertu frá

                            argur búðarþjófur.

 

Þann 9. nóvember 1881 ritar Borgfirðingurinn á Höfða þessi orð í dagbók sína: Ég fór yfir á Þingeyri með Fensmark og var þar litla stund í prófi út af kjaftshöggi sem ég gaf Finni búðarloku á Þingeyri með náttpotti.[227]

Fensmark, sem þarna er nefndur, var sýslumaður í Ísafjarðarsýslu næstur á undan Skúla Thoroddsen en Finnur búðarloka, sem Sighvatur gaf á kjaftinn með hlandkoppnum, mun hafa verið Þórðarson eins og sjá má í sóknarmannatali Sandaprestakalls frá október 1881 en hann var þá búsettur á Þingeyri og er titlaður assistent.[228] Hann átti síðar lengi heima á Ísafirði, átti þar sæti í bæjarstjórn og rak m.a. bæði verslun og bakarí.

Það var Friðrik Wendel, verslunarstjóri á Þingeyri, sem kærði Sighvat fyrir árásina á Finn og er kærubréf hans til sýslumanns dagsett 29. október 1881.[229] Bréfið er á dönsku en þar segir:

 

Laugardaginn 15. þessa mánaðar var Sighvatur Grímsson frá Höfða í Mýrahreppi staddur í búðinni ásamt fleirum, meðal annarra Jóni Ólafssyni í Haukadal, Elíasi Bjarnasyni, Arnfinni Jónssyni og Auðuni Jónssyni sem allir þrír eiga heima í Lambadal. Þegar ég vék mér frá til að borða miðdegisverð varð Finnur Þórðarson sem hjá mér starfar eftir í búðinni. Skömmu síðar var ég kallaður út og látinn vita að Finnur væri kominn upp í herbergi sitt og bæði mig að koma þangað til sín. Er ég kom þangað upp sat hann á stól og úr andliti hans blæddi mjög mikið því hann hafði hlotið stórt sár rétt neðan við vinstra auga og á efri vör sem var alveg klofin. Finnur greindi mér nú frá því að Sighvatur Grímsson hefði án nokkurs tilefnis slengt framan í hann náttpotti og þannig veitt honum þessi sár sem úr blæddi.

Ég batt um sárin til bráðabirgða og gekk síðan strax út í búðina. Þar hitti ég menn þá sem hér voru áður nefndir en þeir höfðu orðið vitni að árásinni. Öllum ber þeim saman um að pottinum hefði Sighvatur kastað í Finn án nokkurs sérstaks tilefnis.

Strax eftir atvik þetta hafði Sighvatur þotið út úr búðinni og niður í fjöru. Þar hrinti hann pramma sínum á flot, reri sem skjótast yfir fjörðinn og hefur ekki sést hér síðan.

Maðurinn sem varð fyrir nefndum meiðslum varð að liggja í rúminu í marga daga en er þó nú orðinn nokkurn veginn jafn góður. Ég hef nú greint herra sýslumanninum frá þessari grimmilegu árás og fer þess á leit að ofbeldismaðurinn verði dæmdur til viðeigandi refsingar, honum sjálfum og öðrum til viðvörunar, svo friðsamir menn þurfi ekki í framtíðinni að óttast um líf sitt og limi.[230]

 

Dómabókin með réttarhaldinu yfir Sighvati út af nefndu kjaftshöggi er löngu brunnin en helstu gögn málsins eru engu að síður varðveitt í skjölum Vesturamtsins, þar á meðal útskrift af öllu sem fært var inn í dómabókina við réttarhald á Þingeyri 9. nóvember 1881. Þar yfirheyrði sýslumaður þá Finn búðarþjón og bóndann á Höfða.  Frá lýsingu Finns á atvikinu greinir sýslumaður á þessa leið:

 

Laugardaginn 15. fyrra mánaðar klukkan cirka 2 e.m. var hann (Finnur) einn af heimamönnum í búðinni og var Sighvatur Grímsson þar. Hafði hann keypt náttpott en vegna þess að hann var sprunginn nokkuð, hafði hann fengið pottinn fyrir nokkru minna en vanalegt verð og vissi Sighvatur af því að potturinn var gallaður. Sighvatur var dálítið kenndur því að hann hafði keypt lítið eitt af cognaki og drukkið það. Sagði þá Sighvatur að hann vildi fá plástur við pottinn og fékk Finnur honum dálítið stykki af Hamborgarplástri en hann sagði að hann vildi hafa annars konar plástur og man Finnur eigi hvern plástur Sighvatur tilgreindi og þegar Finnur sagði að sá plástur væri eigi til sagði Sighvatur: „Ég kasta pottinum annars í hausinn á þér.” Þetta ítrekaði hann oftsinnis og að endingu kastaði Sighvatur, sem stóð fyrir utan búðarborðið, pottinum rétt í andlitið á Finni sem eigi uggði að sér og var rétt fyrir innan borðið.

Potturinn brotnaði en hann getur þó eigi með vissu sagt nema það hafi komið af því að potturinn hafi um leið lent í járnsúlu sem gengur niður gegnum búðarborðið. Sakir þessa fékk hann áverka, þannig að efri vörin klofnaði alveg sundur og hann særðist undir vinstra auganu og var það sár hér um bil þumlungur á lengd og öðru minna sári særðist hann á nefinu. Tvær framtennur losnuðu í honum. Hann svimaði nokkuð en datt ekki. Út af þessu neyddist hann til að vera í rúminu þann dag og þrjá næstu daga og nokkra daga þar eftir gat hann ekkert unnið en varð að halda kyrru fyrir uppi á herbergi sínu.[231]

 

Í bókun sinni við réttarhaldið tekur Fensmark sýslumaður fram að enn sjáist merki allra þessara áverka á Finni og lætur þess getið að réttarvitnunum hafi þótt framburður Finns um stærð sáranna vera trúverðugur.[232]

Fyrir réttinum gerði Finnur þá kröfu að Sighvatur yrði dæmdur til að greiða sér eigi minna en 70,- krónur fyrir meiðsli, sársauka og vinnumissi.[233]

Næst var Sighvatur yfirheyrður og kannaðist hann við að hafa fleygt pottinum og þá hefði viljað svo óheppilega til að hann lenti í andlitinu á Finni sem þó hefði alls ekki verið sín ætlun.[234] Aðspurður kvaðst hinn ákærði hafa verið nokkuð töluvert kenndur er hann fleygði pottinum en þó eigi ráðlaus.[235] Í bókuninni um framburð Sighvats segir að hann hafi ekki getað tilgreint hver tilgangur hans hafi verið með því að kasta næturgagninu inn fyrir búðarborðið heldur muni hann hafa gert það í vitleysu og ráðleysi.[236]

Fyrir réttinum bauðst Sighvatur til að borga 30,- króna sekt til landssjóðs og allan málskostnað en sýslumaður tók sér frest til að úrskurða í málinu.[237] Við lok réttarhaldsins 9. nóvember fékk Fensmark sýslumaður Sighvat til að bjóða Finni 30,- króna borgun fyrir áverkann og skyldi sú upphæð innt af hendi fyrir lok næstu kauptíðar.[238] Finnur féllst þá á að láta sér þessar 30,- krónur nægja[239] en þar eð Fensmark taldi sig þurfa frest til að úrskurða um sektina til landssjóðs tókst ekki að ljúka málinu þá þegar.[240]

Þegar tveir mánuðir voru liðnir frá réttarhaldinu á Þingeyri sendi sýslumaður amtmanninum í vesturamtinu útskrift af því sem þar hafði verið bókað. Í bréfi sem með fylgdi kvaðst hann mæla með því að Sighvatur yrði dæmdur til að borga þá 30,- króna sekt sem hann hafði boðið svo og allan málskostnað og 30,- krónur í bætur til Finns.[241] Þessari tillögu sýslumanns hafnaði Bergur Thorberg amtmaður og gaf þau fyrirmæli að sektin yrði hækkuð úr 30,- krónum í 100,- krónur.[242]

Þann 19. ágúst 1882 mættu þeir Finnur Þórðarson og Sighvatur aftur fyrir rétt á Þingeyri og þar var amtsbréfið með kröfunni um 100,- króna sekt lesið upp.[243] Árið 1882 voru 100,- krónur meira en kýrverð.[244] Svo virðist sem Finni Þórðarsyni, er koppinn fékk í höfuðið, hafi ofboðið þessi háa sekt því nú bauðst hann til að láta 30,- króna skaðabæturnar til sín niður falla[245] og var það drengilega gert. Niðurstaðan varð því sú að Sighvati var gert að greiða áðurnefndar 100,- krónur í sekt til landssjóðs og allan málskostnað að auk.[246] Á þetta féllst hann án þess að dómur væri kveðinn upp[247] og með bréfi amtsins frá 5. apríl 1883 var fallist á tillögu sýslumanns um að ljúka málinu með þessum hætti.[248] Ekki hefur verið kannað hver málskostnaður var í þessu koppsmáli en ætla má að hann hafi skipt einhverjum tugum króna.

Sighvatur Grímsson var bláfátækur maður og hafði alls ekki fjárhagslegt bolmagn til að greiða bæði málskostnaðinn og hina háu sekt en í bréfi amtsins frá 5.4.1883 er tekið fram að verði sektin ekki greidd skuli 30 daga fangelsi koma í staðinn.[249] Það voru því tugthúsdyrnar sem blöstu við fræðimanninum á Höfða vorið 1883 og mátti búast við að honum yrði mjög fljótlega stungið inn. Svo fór þó ekki því velviljaðir sveitungar Sighvats hlupu undir bagga og greiddu sektina fyrir hann eins og sjá má í bréfi sem nýr sýslumaður í Ísafjarðarsýslu, Skúli Thoroddsen, ritaði amtmanni 9. janúar 1885 en þar kemst hann svo að orði:

 

… en mér hefir verið skýrt svo frá af kunnugum mönnum að sveitungar Sighvats hafi hlaupið undir bagga með honum og greitt sektina. Kvittun frá landfógeta get ég eigi fundið og hefir hún að líkindum glatast hjá C. Fensmark.[250]

 

Á þetta bréf Skúla hefur amtmaður eða einhver starfsmaður hans krotað 100 kr. borg. landfógeta 23. júní 1884[251] og þarf vart að efast um að þann dag hefur landfógeti fengið í hendur sektarféð sem greitt var fyrir Sighvat á Höfða.

Guðmundur Gíslason Hagalín rithöfundur segir á einum stað að það hafi verið afi sinn, Guðmundur Hagalín sem þá bjó á Sæbóli á Ingjaldssandi, er greiddi sektina fyrir Sighvat[252] og er reyndar ekki ólíklegt að hann hafi átt þar hlut að. Guðmundur Hagalín á Sæbóli var frá Mýrum í Dýrafirði og bjó þar nær alla ævi en aðeins fáein ár á Sæbóli (sjá hér Mýrar). Dóttursonur hans og nafni, Guðmundur G. Hagalín rithöfundur, segir svo frá koppsmáli Sighvats Borgfirðings og þætti afa síns í því að bjarga honum frá tugthúsvist:

 

Sighvatur var mikill sjálfstæðismaður og í hans augum voru kaupmenn –  og þá einkum danskir kaupmenn og þjónar þeirra – hinar fyrirlitlegustu blóðsugur. Ekki bætti það um að oft var hagur Sighvats þannig að hann varð að biðja um kaupstaðarlán og var honum stundum neitað. Eitt sinn var það að hann var staddur í Þingeyrarbúð og var allmikið ölvaður. Lenti honum þá saman við einn af verslunarþjónunum og var sá allháttsettur og þótti mikill bokki. Brigslaði hann Sighvati um fátækt hans og kvað hann, þótt hann lastaði Dani og danska kaupmenn, verða því feginn að leita á náðir þeirra til þess að forðast hungur. Sighvatur svaraði meinlega og hinn herti á brigslunum. Þreif þá Sighvatur næturgagn úr leir og fleygði í höfuð búðarmanninum. Brotnaði koppurinn og búðarmaðurinn skarst á höfði. Út úr þessu varð mál og var Sighvatur dæmdur til að greiða sextíu króna sekt en ef hann greiddi ekki sektina átti hann að sitja í fangelsi.

Sighvatur átti þess engan kost að inna af hendi greiðslu sektarinnar.  …  Loks fór hann út að Sæbóli á Ingjaldssandi þar sem Guðmundur Hagalín bjó þá. Tók Hagalín honum vel og lét honum í té það fé sem hann þurfti.

Þegar Hagalín kom næst vestur í Dýrafjörð létu menn það í ljós við hann að óþarft hefði verið af honum að hjálpa Sighvati og einhver spurði hann að því hvers vegna hann hefði gert það. Hagalín svaraði: „Ég kunni einhvern veginn ekki við það að fara að láta þá setja í tugthús eina fræðimanninn okkar hér á Vesturlandi”. [253]

 

Vel má vera að rithöfundurinn Guðmundur G. Hagalín færi hér eitthvað í stílinn en þó verður að telja líklegt að rétt sé farið með höfuðatriðin. Sighvatur tekur sjálfur fram að hann hafi verið mjög skuldugur um þetta leyti[254] og hefur því ugglaust átt erfitt með að standa að fullu í skilum við Gramsverslun á Þingeyri. Í skrifum Sighvats kemur líka fram að það var Mýrafólk sem reyndist honum best öðru sinni er hann þurfti á fjárhagslegri aðstoð að halda til að geta komið Pétri syni sínum í úrsmíðanám í Kaupmannahöfn. Þá var Guðmundur Hagalín reyndar látinn en Guðný á Mýrum, systir Hagalíns, og Friðrik Bjarnason, mágur þeirra systkina sem farinn var að búa á Mýrum, létu Sighvati í té fasteignaveð svo hann gæti tekið lán til að kosta utanför sonar síns.[255] Þriðji hjálparmaðurinn sem þá kom til liðs við Sighvat var Benedikt Oddsson í Fremri-Hjarðardal.[256] Á Mýrum var líka haldið sérstakt afmælishóf til heiðurs Sighvati er hann varð sjötugur 20. desember 1910 og fimm árum síðar var efnt þar til mikillar veislu í  tilefni af gullbrúðkaupi hjónanna á Höfða, Ragnhildar og Sighvats.[257]

Hér að framan hefur verið getið ýmissa starfa er Sighvatur Borgfirðingur hafði með höndum ásamt búskapnum á Höfða. Ætla mætti að tími hans til skrifta hafi því verið naumt skammtaður en engu að síður virðist hann alltaf hafa fundið sér tíma til að sinna fræðunum og þeirri köllun að festa orð á blað. Sé litið á verkefni Sighvats við ritstörf á árunum 1875-1895 kemur í ljós að þeim má skipta í fjóra meginflokka. Koma þá fyrst frumsamin verk, síðan uppskriftir í eigin þágu úr handritum, bókum blöðum og tímaritum, þá uppskriftir af margvíslegu tagi og bréfagerðir fyrir hina og þessa einstaklinga og loks skýrslugerðir fyrir hreppsnefndir og hreppstjóra.[258] Fyrir störf sem féllu undir tvo síðarnefndu flokkana fékk Sighvatur oft einhverja greiðslu og drýgði þannig tekjur sínar. Sem dæmi má nefna að í desember árið 1883 var hann að skrifa upp lækningabók fyrir Guðmund Jónsson á Mýrum. Bók þessi var um 40 arkir og fyrir afritið fékk Sighvatur 10,- krónur eða 25 aura á örkina.[259]

Auk annars skrifaði Sighvatur fjöldann allan af bréfum og var í bréfasambandi við ýmsa lærdómsmenn í Reykjavík og Kaupmannahöfn.  Sumir þessara manna sendu honum líka bækur, blöð og tímarit, ýmist að gjöf eða til láns. Einna drýgstir í þeim efnum sýnast hafa verið feðgarnir Jón Borgfirðingur í Reykjavík og sonur hans, doktor Finnur Jónsson, háskólakennari í Kaupmannahöfn.  Jón Jónsson Borgfirðingur var kunnur lærdómsmaður á sinni tíð þó ekki væri hann skólagenginn fremur en Sighvatur. Mjög kært sýnist hafa verið með þessum tveimur Borgfirðingum, enda þótt fundum þeirra bæri mjög sjaldan saman. Dagbækur Sighvats bera með sér að mjög drjúgur hluti af því sem út var gefið hérlendis og einhvers virði gat talist barst að Höfða, bækur, blöð og tímarit.

Í því skyni að gefa mynd af ritstörfum Sighvats, sýsli hans við bækur og tengslum við ýmsa lærdómsmenn er best að draga fram fáein sýnishorn af öllum þeim aragrúa sem um er getið í dagbókum hans. Öll eru þessi sýnishorn frá árunum 1876-1895, þegar Sighvatur var á aldrinum 35-55 ára, og eingöngu byggt á dagbókunum.

Þann 6. janúar 1876 fær hann hellublek hjá Hólmfríði Vigfúsdóttur, mágkonu sinni er þá átti heima á Höfða  (sbr. hér bls. 3) – en úr því skrifaði ég þá allt sem ég skrifaði, segir í dagbókinni. Hólmfríður var svo sem fyrr var nefnt systir Guðbrands Vigfússonar, háskólakennara í Oxford.

Þann 21. september 1877 fær Sighvatur senda orðabók Konráðs Gíslasonar. Bókina fékk hann frá Jóni Árnasyni, bókaverði og þjóðsagnasafnara. Árið 1878 er Sighvatur oft að skrifa skýringar við vestfirsk örnefni í Landnámabók og um haustið sendir hann Jóni Sigurðssyni forseta skýringarnar ásamt ritgerð um landnám, samtals átján og hálf örk.

Annan janúar 1879 bókar Sighvatur: Skrifaði Jesúnöfn fyrir Halldór á Brekku á Ingjaldssandi. Síðar í sama mánuði lýkur hann við afrit af Eyrbyggju fyrir F. R. Wendel, verslunarstjóra á Þingeyri. Öll sagan var 33 arkir og fyrir verk sitt fékk Sighvatur greidda eina rommflösku ásamt pundi af kaffi og pundi af kandís.

Þrítugasta mars 1879 skrifar Sighvatur erfiljóð Breiðfjörðs eftir Bólu-Hjálmar fyrir Hagalín og fimm dögum síðar er hann að skrifa upp úr Laga-Jónsbók gömlu fyrir nágranna sinn, Svein á Bakka. Síðustu dagana í febrúar 1880 er bóndinn á Höfða við skriftir vegna sveitarmálefna fyrir Guðmund Hagalín, sem hér var áður nefndur, en hann bjó þá í Meira-Garði.

Viðraði bækur mínar, skrifar Sighvatur í dagbók sína 24. júlí 1881 og skulum við vona að vel hafi viðrað þann dag á þessu kalda grasleysissumri.

Þann 29. október 1881 byrjaði þessi iðjumaður við skriftirnar að taka afrit af Hellismannasögu fyrir Björn Árnason, gullsmið á Ísafirði, og tæpum mánuði síðar fékk hann greidda 10 steinbíta á Lækjarósi fyrir Njálu. Undir miðjan nóvember á sama ári fór hann svo að skrifa upp Mágusar-rímur eftir Guðrúnu skáldu Jónsdóttur í Arnarfirði (sjá hér Borg) fyrir Arngrím Jónsson, skipherra í Ytri-Hjarðardal.

Á nýársdag árið 1882 fékk Sighvatur greiddar átta krónur frá Ebenezer Sturlusyni á Flateyri fyrir grafskrift og í marsmánuði á því ári er hann beðinn að skrifa upp sögu Jóns Indíafara. Annan október 1882 er hann að skrifa um fornyrði og tíu dögum síðar er viðfangsefnið Skraparotspredikun, komin frá ærslaleikjum námspilta í Skálholtsskóla á 18. öld.

Oft var fræðimaðurinn á Höfða að lána mönnum bækur, t.d. fékk Kristján Jónsson í Lægsta-Hvammi léðar hjá honum Árbækurnar allar, þann 8. nóvember 1882. Þar mun ugglaust átt við Árbækur Jóns Espólín sýslumanns. Tveimur vikum síðar fór Sighvatur út að Mýrum til að skrifa þar fornskjöl tilheyrandi Mýrakirkju og eignum hennar. Við þetta var hann í nokkra daga og gisti þá stundum á Mýrum.

Rétt fyrir jólin árið 1884 fór Sighvatur út að Núpi til að skrifa kirkjureikninga og fleira fyrir Guðmund Björnsson sem þar bjó en 15. janúar 1885 sat skrifarinn heima og var að rita upp Draugsrímu eftir Sigurð Breiðfjörð. Vorið 1885 fékk hann send frá doktor Finni Jónssyni í Kaupmannahöfn bæði bindin af Íslandslýsingu P. E. Kr. Kålunds en þennan danska vísindamann hafði Sighvatur hitt er Kålund ferðaðist um Vestfirði sumarið 1874.

Að kvöldi 10. febrúar 1886 var Sighvatur að reikna út dagsetningar helstu stórhátíða kirkjuársins, allt fram til ársins 1905, og sendi vini sínum, Jóni Borgfirðingi, rímtöflu með þessum upplýsingum nokkrum dögum síðar. Stundum voru menn að fá fræðaþulinn á Höfða til að þýða fyrir sig eitt og annað úr dönsku sem hann virðist hafa skilið prýðilega, a.m.k. á bók. Sem dæmi um slík viðfangsefni má nefna að seint í mars árið 1886 hófst Sighvatur handa við að leggja út úr dönsku Spádóms- og Draumabók fyrir Jón Þórðarson á Ísafirði.

Á höfuðdaginn árið 1886 var söguhetja vor að skrifa fyrir sjálfan sig úr fornritum og verkum séra Snorra Björnssonar á Húsafelli.  – Kláraði að skrifa frá Ívari Vestfirðing. Byrjaði þar við Komediu séra Snorra, ritar hann í bók sína að kvöldi þessa höfuðdags. Máske hefur verið lítið um þurrk svo ekki hafi þurft að sinna heyjum.

Í apríl 1887 skilaði Sighvatur verslunarstjóranum á Þingeyri Konversations Leksikoni sem hann hafði haft að láni og léði faktornum sama dag ritverk P. E. Kr. Kålunds sem hér var áður nefnt.

Árið 1888 var mikið um bóka- og blaðasendingar að Höfða. Í apríl fær Sighvatur senda Ísafold frá Birni Jónssyni ritstjóra og sögulegan fyrirlestur Bríetar Bjarnhéðinsdóttur um hagi og réttindi kvenna sem hún hafði flutt í Góðtemplarahúsinu í Reykjavík 28. desember 1887. Það var Jón Borgfirðingur sem sendi Sighvati þennan fyrsta opinbera fyrirlestur íslenskrar konu og síðar á sama ári sendi hann vini sínum á Höfða tvo aðra spánnýja bæklinga. Annar þeirra bar heitið Um Rasks-hneykslið en þar veittust nokkrir íslenskir stúdentar í Kaupmannahöfn að Þorsteini skáldi Erlingssyni fyrir að hafa ort það sem kallað var níð um Dani en kvæðið sem hneykslinu olli hafði Þorsteinn flutt á samkomu Íslendinga er haldin var í Kaupmannahöfn í tilefni þess að hundrað ár voru liðin frá fæðingu  hins ágæta málfræðings Rasmusar Kristians Rask. Þriðji bæklingurinn sem Sighvatur fékk sendan þetta sama ár var fyrirlesturinn sem Gestur Pálsson flutti í Góðtemplarahúsinu í Reykjavík 10. nóvember 1888 og kallaði Um lífið í Reykjavík. Sá pési var kominn vestur að Höfða fyrir jól. Allt sýnir þetta að bóndanum þar gafst kostur á að fylgjast með margvíslegum hræringum samtímans og að kynna sér nýjar stefnur og strauma.

Bæklingar og blöð voru ekki eina lesmálið sem Sighvatur fékk sent árið 1888 og fór því reyndar fjarri. Bækur af ýmsu tagi bættust líka í safn hans og má sem dæmi nefna að snemma í nóvember barst að Höfða sending frá doktor Finni Jónssyni í Kaupmannahöfn. Er pakkinn frá doktornum hafði verið opnaður gaf að líta Íslenska annála, Milton, Fljótsdælu, Króka-Refssögu og rímur. Vafalaust má telja að íslensku annálarnir sem Finnur sendi Sighvati hafi verið þeir sem Gustav Storm gaf út í Kristjaníu þetta sama ár og þegar Sighvatur nefnir hér Milton má ætla að um sé að ræða þýðingu séra Jóns Þorlákssonar á Bægisá á Paradísarmissi, kvæði enska 17. aldar skáldsins Johns Milton.

Ekki er ólíklegt að Sighvati hafi verið sárt um bækur sínar og líklega ekki alltaf verið auðvelt að verja þær fyrir húsleka. Í dagbókum hans má þó sjá að hann lætur sig hafa að lána unglingum sem hann treystir Íslendingasögur til lestrar. Bjarni á Næfranesi kom með Njálu en fékk Færeyingasögu og Eyrbyggju, skrifar Sighvatur 30. nóvember 1889 og hlýtur að eiga við Bjarna Kristjánsson á Næfranesi, sem þá var 14 ára.

Í desember 1889 fór Sighvatur norður á Ísafjörð og hitti þá meðal annarra Magnús Jochumsson er þar átti heima, bróður Matthíasar skálds. Magnús fékkst dálítið við að semja leikrit og meðan Sighvatur dvaldi á Ísafirði fékk Magnús hann til að skrifa upp tvo af þessum sjónleikjum, Brúðarhvarfið og Biðlana. Ekki er minnst á neina beina greiðslu fyrir þessa hjálp en fyrir hana sýnist þó hafa verið vel borgað því áður en Sighvatur hélt aftur til síns heims gáfu Magnús og Ástríður, kona hans, Borgfirðingnum buxur, vesti, jakka og yfirfrakka, – allt bestu föt, vönduð og mjög dýr eins og Sighvatur tekur fram í dagbókinni. Um miðjan mars árið 1890 var Sighvatur á Höfða alveg pappírslaus sem mátti heita óþolandi ástand fyrir slíkan mann. Þá sendi hann Pétur son sinn, er var um fermingaraldur, út á Fjallaskaga að sækja Sturlungu úr láni. Líklega hefur karlinn viljað skemmta sér við að lesa hana einu sinni enn í pappírsleysinu.

Ég endaði að leggja út inngang við Fóstbræðrasögu og greip í að yrkja ljóðabréf til Jóns Borgfirðings. Í kveld er ég rétt 50 ára, – ritar Sighvatur 20. desember 1890. Aldrei var slegið slöku við.

Í febrúar 1891 var skrifarinn á Höfða að byrja á ævisögu síns gamla lærimeistara, Gísla Konráðssonar, og segist ætla handritið doktor Konráði [syni Gísla] eða doktor Finni mínum. Í maí á sama ári náði hann að kaupa Laga-Jónsbók, prentaða á Hólum árið 1708, og gaf fyrir hana 75 aura. Seljandinn var Þorvaldur á Bakka. Skömmu síðar ritaði Sighvatur blaðagrein sem birtist í Ísafold 27. maí 1891 og ber heitið Hvalveiðar og heilagfiskiveiðar[260] Þar deilir hann hart á lúðuveiðar Ameríkumanna á fiskimiðunum úti fyrir Dýrafirði og heldur því fram að veiðar þessar spilli fyrir fiskveiðum heimamanna og þá einkum vegna niðurburðar því Ameríkumennirnir fleygi öllum fiski fyrir borð nema lúðunni. Í grein Sighvats kemur fram að allt frá árinu 1886 hafi fimm til sjö skip frá Gloucester í Bandaríkjunum komið árlega til Þingeyrar á hverju vori og stundað hér lúðuveiðar sumarlangt (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 196). Hverju skipi fylgi venjulega 10 bátar (doríur) sem notaðir séu við veiðarnar og hverri doríu fylgi lóðir með um það bil 1000 önglum. Er Sighvatur hafði gert grein fyrir öllu þessu herti hann sóknina og sagði:

 

Þessi lóðastappa tekur yfir stórt svæði sem nærri má geta og einlægt er verið að færa sig. Á lóðirnar kemur nokkuð af stórum þorski og steinbít og ógrynni af heilagfiski og skötu. Þegar lóðirnar eru dregnar er allri skötunni og steinbítnum sleppt í sjóinn og stundum því af heilagfiskinu sem þeim þykir of smátt. Má nærri geta hvort hér kemur ekki niðurburður því íslenskur maður sem var með þeim í fyrrasumar hefur sagt mér að í einum einasta róðri slepptu bátarnir frá því eina skipi sem hann var á fjórtán hundruð skötum fyrir utan allar smáflyðrur, fisk [þ.e. þorsk] og steinbít.

 

En það var fleira sem Sighvatur hafði að athuga við framgöngu þessara Ameríkumanna sem á árunum kringum 1890 höfðu sínar bækistöðvar á Þingeyri sumar eftir sumar.  Í sömu blaðagrein kemst hann líka svo að orði:

 

En hvað gera Ameríkumenn þessir gott? Þeir færa að vísu stórgróða og peningainntekt einni útlendri verslun hér á landi. En hverjum er það til lofs og dýrðar? Þeir drepa friðhelgan fugl hvar sem á næst og spilla með því einni dýrmætustu atvinnugrein landsins. Þeir spilla fiskiveiðum Vestfirðinga, hiklaust sagt, og hvað leggja þeir til lands- og sveitarþarfa? Það er víst flestum hulið nema Þingeyrarverslun. Þar á ofan tæla þeir til ólifnaðar fáfróðar stelpur og afleiðingarnar eru þær að börnin koma á framfæri fátækra foreldra mæðranna eða á sveitarfélög þeirra.[261]

 

Það voru sem sagt ekki bara lúðuveiðar Ameríkumanna sem ollu Sighvati áhyggjum heldur líka sú hætta að ungar stássmeyjar í Dýrafirði lentu í ástandinu sem svo var kallað hálfri öld síðar, þegar Ameríkumönnum tók fyrst að fjölga  að verulegu marki á landi hér.

Í janúarmánuði árið 1893 fékk Sighvatur í hendur gamla bók, ritaða í Kálfavík við Skötufjörð fyrir margt löngu. Handrit þetta fékk hann lánað á Mýrum en þangað var bókin komin frá Skálará í Keldudal. Næstu vikurnar var fræðimaðurinn á Höfða alltaf öðru hvoru að skrifa upp úr þessari Kálfavíkurbók sem hann segir hafa að geyma mjög margt fróðlegt og afarmerkilegt. Eitt af því sem Sighvatur skrifaði upp eftir þessu handriti var Elucidarius, gömul miðaldaspeki um lífið og tilveruna sem virðist hafa fallið honum vel í geð. Rit þetta, sem á sínum tíma var þýtt á margar Evróputungur, er að stofni til talið vera frá 12. öld en sumar afskriftir þess með margvíslegum yngri viðaukum sem hafa að geyma fróðleiksmola af nægtaborði síðari tíma vísinda.[262]

Í Kaupmannahöfn var Elucidarius gefinn út á prenti árið 1858 í tímaritinu Annaler for nordisk Oldkyndighed og Historie og sá Konráð Gíslason um þá útgáfu.[263] Hér birtist þetta gamla miðaldarit í bókinni Þrjár þýðingar lærðar sem kom út í Reykjavík 1989. Í inngangi þeirrar bókar segir Gunnar Harðarson að Elucidarius sé saminn um 1100 og lærðir menn geri ráð fyrir að höfundurinn sé prestur nokkur, Honorius Augustodunensis að nafni, og mun hann hafa alið aldur sinn hjá írskum Benediktsmunkum í Regensburg á Bæjaralandi.[264] Í Elucidariusi leitast höfundurinn við að veita svör við öllum helstu ráðgátum í kristinni trúfræði samtímans[265] en útbreiðsla ritsins sýnir að þörfin fyrir slíkar skýringar hefur verið ærin.

Riti þessu, sem Sighvatur Borgfirðingur var að skrifa upp árið 1893, hafði verið snúið á norrænt mál að minnsta kosti 700 árum fyrr[266] og á undan nær öllum öðrum kristilegum ritum.[267]

Byrjaði jólaskrá eftir Kálfavíkurbók, skrifar Sighvatur í dagbók sína 6. febrúar 1893 en þann dag var hann líka að semja ritgerð um kirkjugarðinn [á Mýrum] og ofn í kirkjuna er hann sendi sveitarblaðinu Dagsbrún sem þá var gefið út í Mýrahreppi en blað þetta var handskrifað og mun hafa verið látið berast bæ frá bæ.

Árið 1894 lánaði bóndinn á Höfða ýmsum bækur úr bókasafni sínu og þá um vorið sendi hann Guðbjörgu Sigurðardóttur á Þingeyri bæði bindin af Heilagramannasögum til láns. Á þorranum árið 1895 var hann marga daga að skrifa ýmislegt upp úr Sunnanfara sem dr. Jón Þorkelsson, er menn kölluðu Jón forna, gaf út í Kaupmannahöfn frá 1891 til 1896. Haustið 1895 gaf Sighvatur faktornum á Þingeyri þýsku útgáfuna af Finnbogasögu og er líða tók á nóvember á því ári fór hann að yrkja kvæði til Þorsteins Erlingssonar sem þá átti enn heima úti í Kaupmannahöfn. Þorsteinn var þá þegar orðinn þjóðkunnugt skáld, ekki síst vegna kvæða hans sem birtust í Sunnanfara og Sighvatur hefur því örugglega lesið. Í dagbókum fræðimannsins á Höfða verður hins vegar ekki séð að hann hafi hitt Þorstein er skáldið kom vestur á firði sumarið 1895 til að rannsaka fornminjar en vitað er að Þorsteinn skoðaði þá hið forna skipanaust Hrafns Sveinbjarnarsonar á Rafnseyri.[268]

Annan desember 1895 fór Sighvatur að skrifa upp þátt Gísla Konráðssonar um Harma-Kristínu og á jóladag 1895 var hann að skrifa bréf fyrir einn Norðmanninn í hvalstöðinni á Höfðaodda til Nathanaels Mósessonar á Bakka sem farinn var að læra skósmíði suður í Reykjavík.

Þau dæmi sem hér hafa verið dregin fram sýna fjölbreytnina í viðfangsefnum Sighvats við skriftirnar en eru þó aðeins lítið brotabrot af öllu því sem hann glímdi við með pennann að vopni. Við lauslega könnun þess sem Borgfirðingurinn á Höfða tók sér fyrir hendur á árunum 1875-1895 kemur margt í ljós. Áleitnust verður samt myndin af þessum mikla elju- og lærdómsmanni þar sem hann situr í verbúðinni á Fjallaskaga vorið 1889 og er að þýða úr dönsku á íslensku doktorsritgerð Jóns Þorkelssonar forna um skáldskapinn á Íslandi á 15. og 16. öld. Við þessa þýðingu var Sighvatur að fást alla vorvertíðina 1889 þegar ekki gaf á sjó.  – Ég kláraði að skrifa um skáldskapinn. Bókin er 679 blaðsíður í 4to, skrifar Sighvatur í dagbókina 1. júlí á því ári. Þremur dögum síðar fóru þeir Samson alfarnir heim af Skaga.

Þeir voru margir vermennirnir íslensku sem reyndu að auðga anda sinn í landlegum með lestri bóka og viðræðum við spaka menn. Hitt er þó líklega einsdæmi að óskólagenginn múgamaður í veri taki sér fyrir hendur að snúa lærðri doktorsritgerð af einu tungumáli á annað í landlegum og ljúki því verki fyrir vertíðarlok. Hvar í veröldinni skyldu menn finna þvílíkt dæmi? Verbúðirnar á Fjallaskaga voru lágreist hús úr torfi og grjóti, án allrar upphitunar. Þar voru moldargólf og moldarveggir og birtan í minnsta lagi að því er ætla má. Þeir sem vanist höfðu verbúðalífinu gátu þó látið sér líða vel margan dag og náðu oft að verjast kulda og trekki. Í frosti og hríðum gat kuldinn þó stundum orðið býsna ásækinn og þá ekki síst ef setið var við skriftir. Tveimur árum áður en Sighvatur sneri sér að doktorsritgerðinni um skáldskap Íslendinga á löngu liðnum öldum var hann líka við róðra á Fjallaskaga og skrifar þá í dagbók sína 20. maí: Við vorum á Skaga og gátum ekkert farið úr rúmum fyrir fönn og kulda og ekki litið í bók fyrir myrkri. Þann dag hefur hríðin úti meinað birtunni að komast inn um litla skjágluggann þó komið væri fram undir sauðburð. Þá var illt í efni fyrir þann sem nota vildi tímann til lesturs og skrifta.

Ekki er ólíklegt að margir láti sér detta í hug að Sighvatur Borgfirðingur hafi haft lítinn tíma til að sinna búi sínu heima á Höfða svo mikill tími sem fór hjá honum í ritstörf og fræðagrúsk. Þess verður þó sjaldan vart að hann hafi verið talinn búskussi og í dagbókum hans má sjá að hann hefur sinnt flestum búverkum til jafns við aðra og gert ýmislegt til að bæta jörð sína. Sighvatur bjó jafnan í neðri bænum á Höfða (sjá hér bls. 16) og þar átti hann heima til dauðadags.[269]

Er Sighvatur kom að Höfða árið 1873 var gamla baðstofan í neðri bænum orðin léleg en árið 1880 byggði hann nýja baðstofu.[270] Oftast var tví- eða þríbýli á Höfða á búskaparárum Sighvats og á árunum 1873-1879 bjuggu ekkjan Jóhanna Jónsdóttir og hennar heimilisfólk þar í sömu baðstofu og Sighvatur, bara í hinum endanum.[271] Haustið 1879 var baðstofuendinn hjá Sighvati orðinn svo lélegur að fólk gat varla hafst við í því moldargreni. – Við færðum okkur í gær í Jóhönnu endann á baðstofunni því hann er ofurlítið skárri, skrifar Sighvatur 17. september 1879.[272] Þar í Jóhönnu endanum hafðist hann við með sitt fólk allan veturinn til marsloka.[273] Sumarið 1879 hafði Sighvatur tekið út timbur til baðstofubyggingar fyrir 50,- krónur[274] og þann 7. maí 1880 var byrjað að rífa gömlu baðstofuna og byggja nýja.[275] Verkið sýnist hafa tekið liðlega einn mánuð því 10. júní á sama ári gat Sighvatur flutt með fólk sitt inn í þetta nýja húsnæði.[276] Líklega hafa þau hafst við í útihúsum meðan á baðstofubyggingunni stóð og þetta ár fór Sighvatur ekki til róðra á Skaga.  Baðstofan sem Sighvatur byggði árið 1880 og bjó í lengi síðan var 8 álnir á lengd og 6 álnir á breidd (um 19 fermetrar) með timburgafli á ytri enda og fjórum gluggum uppi og niðri.[277] Þegar Sighvatur talar þarna um glugga á hann líklega við rúður og hefur þá verið einn gluggi með fjórum rúðum uppi og annar niðri af sömu gerð. Enginn gluggi var hins vegar á baðstofuendanum sem Sighvatur flutti inn í hér á Höfða árið 1873.[278]

Þó gott væri fyrir fræðimanninn að komast með bækur sínar og handrit í nýju baðstofuna var hann samt alls ekki laus við húsleka, enda munu þær vistarverur hafa verið fáar á landi hér um 1880 sem ekki láku þegar mikið rigndi. Einn daginn í janúar 1882 lýsir Sighvatur ástandinu svo: Sunnan stormvindur, húðarregn allan daginn svo allt lak.  Við höfðum ekki rúmfrið.  Ég gat ekki látið inn ærnar né folann fyrir leka.  Ég greip í að skrifa kvæðin mín.[279]

Rösklega tíu árum síðar var ástandið óbreytt. – Ég gat aldrei sest á rúmið mitt fyrir leka, skrifar bóndinn á Höfða 2. nóvember 1891.[280]

Á árunum 1875-1900 byggði Sighvatur upp eða endurbætti flest útihús sem fylgdu þeim jarðarparti er hann bjó á,[281] m.a. kúahlöðu árið 1884 sem var 12 álna löng og 5 álna breið.[282] Á því ári setti hann líka timburgafl í innri enda baðstofunnar eins og verið hafði í ytri endanum frá því baðstofan var byggð fjórum árum fyrr.[283] Árið 1896 náði Sighvatur að setja járnþak á efri enda hlöðunnar og árið 1899 var baðstofan járnklædd að utan.[284]

Kristinn Guðlaugsson á Núpi sem þekkti vel til á Höfða hefur lýst húsakynnum fræðimannsins þar eins og þau voru á árunum 1892-1915 og komst þá svo að orði:

 

Bærinn á Höfða, sem Sighvatur bjó í, var einn hinn ömurlegasti í sveitinni. Baðstofan var uppi á lofti, með litlu porti, og var tæpast hægt að ganga uppréttur nema undir mæninum. Niðri voru veggir lítt eða ekki þiljaðir og birtan af skornum skammti. Þarna geymdi Sighvatur mestan hluta bóka sinna og handrita. Var það samanbundið í smærri og stærri bagga og þannig greint í sundur eftir höfundum, efni og aldri. Uppi á loftinu hafði hann einkum það af bókum og handritum sem hann á hverjum tíma þurfti helst að nota við ritstörfin. Var því raðað á borð sem stóð undir litlum stofuglugga, undir borðið og víðar þar sem tök voru að koma því fyrir.

Sjaldan skrifaði Sighvatur við borðið, heldur á lítilli fjöl eða púlti sem hann hafði á hnjánum. Sat hann þá venjulega á rúmi sínu.[285]

 

Kristinn lætur þess getið að þegar Sighvatur kom inn frá útiverkum hafi hann jafnan tekið sér penna í hönd[286] en skrifpúltið sem bóndinn á Höfða notaði mest og áður var minnst á er nú varðveitt í Landsbókasafni. Um 1915 var bærinn sem Sighvatur hafði búið í rifinn en lítið íbúðarhús reist í staðinn.[287] Gat fræðimaðurinn gamli þá raðað bókum sínum í hillur í dálitlu herbergi sem einnig var svefn- og íveruherbergi þeirra hjóna.[288]

Búnaðarfélag Mýrahrepps var stofnað 18. febrúar 1888 (sjá hér Mýrahreppur, inngangskafli, þar bls. 13) en lítið mun hafa verið um jarðræktarframkvæmdir í hreppnum fyrir stofnun þess. Á sama ári og félagið var stofnað fékk það Sæmund Eyjólfsson búfræðing til að standa fyrir framkvæmdum við túnasléttun á nokkrum býlum í hreppnum. Sæmundur var á Höfða nokkra daga í júlímánuði þetta sumar og risti þar ofan af þúfum. Hjá Sighvati sléttaði hann 122 ferfaðma og hafði lokið því verki 28. júlí.[289]Við Sigga reiddum 14 hesta af mold í pokum yfir nýju flötina sem búin er, skrifar Sighvatur í dagbók sína 26. júlí 1888.[290] Næsta sumar kom Sæmundur aftur og sléttaði þá 127 ferfaðma hjá Sighvati á einni viku.[291] Áfram var unnið að túnasléttun á Höfða næstu þrjú ár og á því skeiði unnu búfræðingarnir Jón Guðmundsson, lengi bóndi á Ytri-Veðrará, og Kristinn Guðlaugsson, síðar bóndi á Núpi, nokkur dagsverk hjá Sighvati.[292] Kaupið sem búfræðingum var greitt virðist þá hafa verið níu til tíu krónur á viku.[293] Allar þessar framkvæmdir bóndans á Höfða í jarðrækt og húsabyggingum bera ótvíræðan vott um framfarahug og markvissa viðleitni til að búa í haginn fyrir komandi tíma.

Dagbók Sighvats Borgfirðings ber með sér að hann þurfti löngum að ganga að búverkum til jafns við aðra bændur en hafði þó jafnan mikla stoð af konu sinni, Ragnhildi Brynjólfsdóttur, og líka af börnum þeirra er þau tóku að vaxa úr grasi. Ragnhildur mun hafa séð að mestu um garðræktina á Höfða en snemma á búskaparárum þeirra hjóna þar komu þau sér upp garðholu. Þar voru einkum ræktaðar kartöflur og næpur og vorið 1894 getur Sighvatur þess að konan hafi sáð botfelskum rófum í garðinn.[294] Árið 1889 var uppskeran tvær og hálf tunna af kartöflum og dálítið af næpum en tíu árum síðar þrjár tunnur af kartöflum og ein og hálf tunna af næpum.[295] Að þessum garðávöxtum frátöldum mátti heita að afurðir búsins á Höfða væru eingöngu það sem skepnurnar gáfu af sér nema menn vilji telja með fiskinn sem dreginn var úr sjó. Samt er þó a.m.k. eitt dæmi finnanlegt[296] um að Sighvatur hafi lagt æðardún inn í verslunina á Þingeyri en það voru bara níu kvint[297] sem á nútímamáli kallast 45 grömm.

Eins og annars staðar var hlóðaeldhús á Höfða á hinum fyrri búskaparárum Sighvats en kamína var líka í baðstofunni, a.m.k. allt frá árinu 1881. Þann 1. september á því ári sótti Sighvatur kamínu að Gemlufalli[298] og hefur hún komið sér vel í frosthörkunum sem þá fóru í hönd á komandi vetri. Eldiviðurinn var aðallega mór úr Lambadals- eða Næfranesgröfum en líka hrís og lyng sem rifið var fram á Hjarðardal. Konan og börnin sáu að mestu leyti um að rífa lyngið eins og sjá má í dagbókum Sighvats. Konan reif lyng, skrifar hann 11. október 1882 og átta dögum síðar koma þessi orð: Sótti hrís á Blesa fram á dal en konan reif.[299] Lyngið var jafnan rifið á haustin og seint í október árið 1894 reiddi Sighvatur heim þrjá hesta af fjalldrapa sem konan og börnin höfðu rifið.[300] Mórinn var skorinn í júlí, áður en farið var að slá, en sóttur á haustin inn í grafir og fluttur á báti heim að Höfða. Dagana 12. og 13. júlí 1895 var Sighvatur í mógröfum og með honum synir hans tveir, Pétur 19 ára og Kristján 10 ára. Í dagbókinni má sjá hvernig verkaskiptingin var. Sighvatur skrifar þar 12. júlí:

 

Við Pétur minn og Kristján fórum inn í Lambadalsgrafir.  Ég skar mó allan daginn, Pétur og Ólöf á Næfranesi báru en Kristján lét á börurnar.  Við verðum í nótt í Lambadal.

 

Og næsta dag bætir hann við: Ég skar mó til miðdegis og við Pétur bárum en Kristján grindaði af.[301]

Mikils var um vert að hafa nægan eldivið þegar vetur gekk í garð, ekki síst á árunum milli 1880 og 1890 sem voru mörg hver ein þau köldustu sem sögur fara af. Dagbækur Sighvats eru góð heimild um tíðarfarið í Dýrafirði á þessum árum. Þó er sá galli á gjöf Njarðar að ekki er alveg ljóst hvort bóndinn á Höfða mælir frostið á Celsius eða Réaumur á köldustu árunum 1881 og 1882 en í desember 1882 er hann þó örugglega kominn með Réaumur mæli[302] og notar hann næstu ár. Líklegast er að hann hafi verið með sams konar mæli allt það ár og líka árið 1881 þó að ekki sé það beinlínis tekið fram. Sé ráð fyrir því gert að svo hafi verið þá verður að hækka allar tölur um hita og kulda sem Sighvatur nefnir um 25% til að sjá hvert hitastigið var á þann mælikvarða sem við erum nú vön að nota. Niðurstaðan verður þá sú að á fyrstu þremur mánuðum ársins 1881 hafi frostið oft farið yfir 20 stig á Celsius og upp í 25 stig þegar kaldast  var.[303] Slík niðurstaða kemur reyndar alveg heim við aðrar mælingar frá sama tíma hér og þar á landinu en í árferðisannál segir að þennan vetur hafi frostið oft komist í 22-30 stig norðanlands.[304]

Í dagbókum Sighvats frá harðindaárunum upp úr 1880 er tíðarfarinu oft lýst með þessum orðum: Jökull á jörð. – Fjörðurinn alísa. Reyndar virðist Sighvatur hafa tekið svo til orða að fjörðurinn væri alísa ef mannheldur ís náði út í Þingeyrarodda og út undir Mýramel.

Á árunum 1881-1895 kom oft meira eða minna af hafís inn á Dýrafjörð og lætur nærri að svo hafi verið annað hvert ár að jafnaði á þessu tímabili.[305] Þann 20. apríl 1885 var hafísinn kominn vestur að Blakk, 8. mars 1890 var Ísafjarðardjúp sagt fullt af hafís, 25. janúar 1893 var hafís kominn inn að Valseyri og þar með inn undir Dýrafjarðarbotn og 30. desember á sama ári var Arnarfjörður fullur af hafís.[306]

Á þessum sömu fimmtán árum, 1881-1895, náði mannheldur lagnaðarís líka mjög oft út í Þingeyrarodda og út undir Mýramel. Í dagbókum Sighvats má sjá að árin sem þetta skeði voru ekki færri en níu á umræddu tímabili.[307] Í dagbókunum sést hins vegar sjaldan með óyggjandi hætti hversu langt ísinn náði út eftir firðinum þó stundum sé nefnt að hann hafi náð út í Mýramel.*)  [308]

Þann 4. apríl 1881 náði klakinn í Mýrakirkjugarði meðalmanni í öxl[309] og erfitt að koma niður líkkistu. Í öllum frosthörkunum barðist Sighvatur Borgfirðingur eins og aðrir við að framfleyta sér og sínum en lét þó aldrei deigan síga við skriftirnar. Harðindaveturinn 1881 var enga matvöru að fá á Þingeyri þar eð vöruskip Gramsverslunar hafði strandað í Færeyjum.[310] Margir Dýrfirðingar urðu því að fara á Ísafjörð, yfir tvær heiðar, til að sækja sér matvæli. Þennan vetur fór Sighvatur fjórar slíkar ferðir þangað norður og bar heim allt upp í 40 kíló af matvöru í hverri ferð.[311]

Þann 28. janúar 1881 voru Sighvatur og fleiri Dýrfirðingar á heimleið frá Ísafjarðarkaupstað með sínar þungu byrðar. Frostið var þá með allra harðasta móti. Sighvatur segir 20 stig niðri í byggð sem líklega merkir 25 stig á Celsius (sjá hér bls. 41). Þeir drógu kaupstaðarvöruna á sleða upp að lægra Austmannsfalli á Dagverðardal, skildu þar eftir fimm mjölpoka en lögðu síðan á Breiðadalsheiði.[312] Er  komið  var í náttstað um  kvöldið ritar Sighvatur í dagbók sína þessi orð:

 

Ég bar mín 50 pund af rúgi og hvítasykurtopp, 30 pund. Frostið var svo mikið uppi á heiðinni að í brennivínsflösku, sem ég bar í hendinni, varð brennivínið svo þykkt sem grautur og hné valla. … Alla kól nokkuð nema mig. Ég verð í nótt á Vöðlum.[313]

 

Tveimur dögum síðar fauk kirkjan á Núpi í Dýrafirði (sjá hér Núpur).

Jón Jónsson skraddari sem lengst átti heima á Ísafirði var dóttursonur Sighvats Borgfirðings og ólst upp á Höfða, – fæddur 1890. Hann lýsir afa sínum svo:

 

Sighvatur afi minn var í minna meðallagi maður, liðlegur, frekar hnellinn, snaggaralegur þegar vel lá á honum en hversdagslega var hann alltaf í skruddum sínum og lét allt ganga fyrir sem að þeim laut. Hann skrifaði

___________________________________

*)  Frostaveturinn mikla 1918 var gengið á ís og farið með hesta og sleða úr Hellufætinum utan við Mýrafell og yfir í Sveinseyrarodda[314] en sagt er að frostið hafi þá komist upp í 32 gráður á Celsius við norðanverðan Dýrafjörð.[315]

 

 

tyggjandi og var illa við ef mikill hávaði var gerður í kringum hann. Við vorum eiginlega eins og lús með saum þegar við vorum í nálægð hans nema hann legði allt frá sér, þá var hann hýr og fjörlegur í tali.  …

Afi minn hafði ýmis orðatiltæki sem hann bjó til sjálfur. Hann hafði margar samlíkingar um grút og hvalþjósur og gjúgur, oft í sambandi við heilaástand fólks sem honum fannst vera heldur svona heimskt. Hann naut þess að beita þeim. Ég ímynda mér að það komi aldrei sögukarl af hans tagi meir. … Efni voru léleg og ekki aðrar kröfur en að það væri til að éta og sæmilega hlýtt í baðstofunni. Hann hafði 30 lína olíulampa, blússlampa sem kallaður var og hann hitaði mikið á kvöldin.[316]

 

Jón skraddari getur um lækningar afa síns og segir þá af honum þessa sögu:

 

Einhver kvenmaður lá veikur og fékkst ekki fram úr og breiddi yfir höfuð. Afi var sóttur og spjallaði eitthvað við hana og fær hana til að tala við sig. Það kemur upp úr kafinu að það er huldumaður sem ásækir hana. Nú voru góð ráð dýr en hann vissi ráðið. Ef hann svæfi hjá henni í nótt byggist hann við að huldumaðurinn væri úr sögunni. Þetta átti að hafa gerst og stúlkunni batnaði og fékk aldrei kast eftir það.[317]

 

Alþýðuskáldið Magnús Hjaltason, sem fæddur var árið 1873, hafði talsverð kynni af Sighvati Borgfirðingi og festi á sínum tíma á blað ýmsar sögur um þennan margbrotna fræðimann á Höfða.[318] Ýmsar frásagnir Magnúsar lúta að samskiptum Borgfirðingsins við hitt og þetta kvenfólk er hann átti vingott við. Sögur þessar hefur Magnús greinilega hripað niður eftir frásögn annarra og má heita útilokað að gera sér grein fyrir hvað satt muni vera og hvað logið. Ótvírætt virðist þó af sögum Magnúsar að Sighvatur hafi framan af ævi sinni fengið orð fyrir kvenhylli. Ein saga Magnúsar er sú að Sighvatur hafi um skeið gert sér dátt við unga stúlku sem Margrét hét og þá átti heima á Höfða. Um þetta ritar hann meðal annars svo:

 

Var það eina nótt er Ragnhildur, kona Sighvats, kveikti ljós yfir ungu barni að Sighvatur kom fram úr rúminu frá Margréti. Varð honum þá þetta að orði sem margir síðan kunna: „Sterk eru forlögin kona, ég hef verið að villast í alla nótt og aldrei fundið rúmið mitt.” [319]

 

Magnús Hjaltason getur þess í sömu frásögu að Sighvatur hafi eignast barn með Margréti þeirri sem hér var nefnd og er sú barneign reyndar staðfest bæði í dagbókum Sighvats og í prestsþjónustubók Dýrafjarðarþinga frá árinu 1876. Manga átti stúlkubarn um nónbilið, ritar Sighvatur í dagbók sína 8. september 1876 og tíu dögum síðar bætir hann við: Séra Jón kom og skírði barnið sem Manga átti 8. þ.m., að nafni Margréti, og sem hún lýsti mig föður að.[320] Fimm dögum eftir skírnina koma svo þessi orð í dagbókinni: Barnið dó, okkar Möngu.[321]

Barnsmóðir Sighvats, sem hann kallar Möngu, hét Margrét Magnúsdóttir og var dóttir ekkjunnar Jóhönnu Jónsdóttur sem átti heima í sömu baðstofu og Sighvatur á fyrstu árum hans á Höfða.[322] Margrét var 14 ára þegar Sighvatur kom að Höfða en barn þeirra fæddist þremur árum síðar.[323] Ýmislegt í dagbókum Sighvats bendir til þess að hann hafi verið í tygjum við þessa ungu barnsmóður sína fyrstu tvö til þrjú árin eftir fæðingu og andlát barnsins sem þau náðu að smíða. Margrét var þá stundum úti á Ingjaldssandi en annan tímann á Höfða eða í næsta nágrenni. Fáein dæmi er sýna hug Sighvats til Möngu sinnar á þessum árum skulu nefnd og eru þau öll tekin upp úr dagbók hans. Þann 1. október 1877 kom Margrét í kynnisferð til móður sinnar á Höfða og daginn eftir ritar Sighvatur í dagbókina: Mánga var hér kyrr, – ég kvað 3 vísur.[324] Fyrsta vísan af þessum þremur byrjaði svo: Þó gleymt þér aldrei geti ég.[325] Þann 15. apríl 1879 minnist Sighvatur einu sinni sem oftar á Möngu og segir:  Mánga mín kom[326] og tæpum mánuði síðar, þann 14. maí 1879 párar hann þessi orð í dagbókina: Skrifaði Maungu minni. Sendi henni tíu skonrokskökur og sykur.[327]

Úr þessu tók fundum þeirra Sighvats og Margrétar Magnúsdóttur að fækka. Mánga mín í Fremstuhúsum átti stúlkubarn í morgun, ritar Sighvatur í dagbók sína 9. ágúst 1879. Þá voru tæplega þrír mánuðir liðnir frá því hann sendi henni bæði sykur og skonrok en í prestsþjónustubókinni má sjá að þetta barn kenndi hún ekki Sighvati heldur yngri manni sem hét Sigurlíni Kristjánsson.[328] Þau urðu nokkru síðar hjón[329] og bjuggu um skeið í Lambadal en síðan yfir 20 ár í Botni í Dýrafirði (sjá Firðir og fólk 1900-1999, 256).

Hér hefur nú um sinn verið leitast við að varpa dálitlu ljósi frá ýmsum hliðum á lífsaðstæður og alla tilveru Sighvats Grímssonar Borgfirðings. Hann var fátækur en þó fullgildur bóndi hér á Höfða í meira en hálfa öld og þurfti löngum að heyja erfiða lífsbaráttu til að tryggja sér og sínum hinar allra brýnustu nauðsynjar. Hvernig undramanni þessum tókst í stopulum hjástundum frá erfiðu brauðstriti að ljúka öllum sínum miklu ritverkum á sviði þjóðlegra fræða er og verður óráðin gáta. Slíkt gat þó aldrei gerst nema saman færi brennandi ástríða, ærið vit og fágætt þrek.

Síðustu 30 árin sem Sighvatur lifði voru kyrrlátari en hin fyrri, enda voru börn hans þá orðin sjálfbjarga svo minna þurfti fyrir lífinu að hafa. Á efri árum fór hann líka að fá ýmsar viðurkenningar fyrir hin miklu ritstörf sín. Allt frá árinu 1899 fékk hann árlega 50,- króna styrk frá Hinu íslenska bókmenntafélagi og síðar bættust aðrar styrkveitingar við.[330] Árið 1905 tókst Sighvatur ferð á hendur til Reykjavíkur til að kanna skjöl og heimsækja bréfavini sína.[331] Í þeirri ferð var um það samið að Landsbókasafnið greiddi honum 350,- krónur á ári til æviloka gegn því að safnið eignaðist að honum látnum öll hans mörgu handrit.[332] Árið 1912, þegar Sighvatur var kominn á áttræðisaldur, var samþykkt á Alþingi að veita honum 300,- króna styrk og einhver slíkur styrkur var honum veittur á fjárlögum æ síðan, mest 800,- krónur á ári þrjú síðustu æviárin.[333] Tíu síðustu árin fékk hann líka 300,- krónur á ári frá sýslunefnd Vestur-Ísafjarðarsýslu.[334]

Veturinn 1913 til 1914 flutti Sighvatur á Höfða fyrirlestur í húsakynnum Núpsskóla og talaði þar um bændur á Núpi á liðnum öldum.[335] Einn nemenda skólans þennan vetur var Guðmundur Hagalín, síðar kunnur rithöfundur, en hann var þá 15 ára gamall. Útliti Sighvats og rödd lýsir Hagalín svo:

 

Hann var maður lítill vexti, sköllóttur og skeggjaður mjög. Hann var ennismikill, loðbrýnn og smáeygur og djúpar rúnir reynslu og beiskju voru ristar á andlit honum. Hann hafði veikan en sérkennilegan málróm og var svo að heyra sem í röddina væri kominn nokkur ellibrestur.[336]

 

Undir lok ævinnar var handstyrkur Sighvats mjög á þrotum og varð hann þá að styðja hægri hendina með hinni vinstri er hann skrifaði.[337]

Í dagbók sína skrifaði Sighvatur síðast 12. janúar 1930 og þar lætur hann þess getið að Kristín á Bakka hafi verið hjá sér að þvo og þrífa. Daginn eftir ber nýrra við því þá lætur hann í fyrsta og síðasta sinn annan skrifa fyrir sig í dagbókina. Þar kemur fram að öldungurinn hefur mikil þyngsli fyrir brjóstinu og getur ekki klæðst. Kona hans var þá líka rúmliggjandi. Um atburði dagsins lætur Borgfirðingurinn færa til bókar að dóttursonur sinn og nafni, Sighvatur Jónsson, hafi farið yfir á Þingeyri og keypt þar fyrir sig eitt búnt af eldspýtum, eitt lampaglas, eitt glas af skilvinduolíu og sex pund af kandís.[338] Næsta dag, þann 14. janúar 1930, tók gamli maðurinn á Höfða síðustu andvörpin og safnaðist til feðra sinna. Hann var þá á nítugasta aldursári og hafði alllöngu fyrr arfleitt sýslunefnd Vestur-Ísafjarðarsýslu að öllum sínum prentuðu bókum sem reyndust vera um 2.300 bindi.[339] Allt hið mikla handritasafn Sighvats fór að honum látnum í Landsbókasafn Íslands eins og hér hefur áður verið nefnt en það voru 180 bindi og blaðsíðufjöldinn upp á marga tugi þúsunda (sjá hér bls. 12-13). Í ritgerð frá árinu 1940 segir Finnur Sigmundsson, síðar landsbókavörður, að hið mikla 22ja binda verk Sighvats Prestaæfir hafi þá um sinn verið mest lesna rit Landsbókasafnsins.[340]

Sighvatur Borgfirðingur var jarðsettur í heimagrafreit á Höfða og hvílir þar við hlið Ragnhildar konu sinnar. Niðjar þeirra búa  (1999) enn á Höfða.

Við sem komum hér nú snögga ferð dveljum um stund við legstað gamla Borgfirðingsins sem er rétt fyrir innan og ofan innstu húsin á Höfða (sjá hér bls. 8). Rétt fyrir innan og neðan legstaðinn stendur líka gömul hlöðutótt. Þá hlöðu átti Sighvatur.[341] Ungur að árum lagði hann upp frá Skipaskaga í sína löngu lífsför og endaði hér. Án hans væri Dýrafjörður fátækari en hann er. Frá grafreitnum leggjum við leið okkar niður á Höfðaodda þar sem norsk hvalveiðistöð var starfrækt í nokkur ár í kringum aldamótin1900.  Þar er líka frá ýmsu að segja.

 

 

 

Hvalveiðistöðin á Höfðaodda  (Framnesi)

 

Sumarið 1883 hófu Norðmenn hvalveiðar við Ísland og reistu á því ári tvær hvalveiðistöðvar, aðra á Langeyri við Álftafjörð en hina austur á Norðfirði.[342] Sú síðarnefnda var tekin niður fáum vikum eftir að hún var sett upp og næstu fimm árin var stöðin á Langeyri sú eina sem starfrækt var hérlendis.[343]

Hinn víðfrægi hvalveiðimaður Svend Foyn frá Túnsbergi í Noregi var einn þeirra sem stóðu fyrir fyrstu tilraunum Norðmanna til hvalveiða hér við land árið 1883 en hætti þátttöku í rekstrinum hér þá um haustið.[344] Svend Foyn var upphafsmaður iðnvæðingar í hvalveiðum og hafði fyrstur manna tekið sprengjuskutul í notkun við þessar veiðar. Áður höfðu hvalir verið skutlaðir og róið eftir þeim á árabátum en Svend Foyn lét smíða hraðskreiða gufuknúna stálbáta og hafði í stafninum fasta hvalabyssu sem skaut sprengjuskutli að hvalnum.[345] Á þannig bátum og með þess konar búnaði voru hvalveiðar stundaðar hér við land á árunum 1883-1915 en bátarnir voru gerðir út frá landstöðvum sem Norðmenn reistu og ráku bæði á Vestfjörðum og Austfjörðum.

Árið 1889 var norsk hvalveiðistöð reist rétt innan við Flateyri í Önundarfirði og fékk hún nafnið Sólbakki (sjá hér Sólbakki). Þriðja hvalveiðistöð Norðmanna á Íslandi tók til starfa á Höfðaodda við norðanverðan Dýrafjörð árið 1890[346] og á næstu árum átti slíkum vinnslustöðvum eftir að fjölga verulega. Fimm stöðvar bættust við á Vestfjörðum. Ein þeirra var á Suðureyri í Tálknafirði en hinar fjórar við Ísafjarðardjúp eða í Jökulfjörðum, það er að segja á Stekkeyri við Hesteyrarfjörð, Meleyri við Veiðileysufjörð, Dvergasteinseyri við Álftafjörð og Uppsalaeyri við Seyðisfjörð.[347] Allar voru þessar hvalveiðistöðvar reistar af Norðmönnum nema stöðin á Uppsalaeyri sem var í eigu Ásgeirsverslunar á Ísafirði og danskra fjármálamanna.[348] Um og eftir aldamótin reistu Norðmenn líka nokkrar hvalveiðistöðvar á Austfjörðum en skömmu eftir aldamót tók að draga úr hvalveiðunum og þá fór stöðvunum að fækka en tveimur var þó haldið gangandi allt til ársins 1915. Á því ári lauk hvalveiðum Norðmanna hér við land sem þeir höfðu stundað í aldarþriðjung.[349]

Eins og áður var nefnt tók hvalstöðin á Höfðaodda til starfa árið 1890 en þar var vinnslu afurða hætt árið 1903 (sjá hér bls. 67). Það var hlutafélagið Victor í bænum Tönsberg í Noregi sem lét reisa þessa hvalstöð, sem var sú eina í Dýrafirði, og stóð fyrir rekstri hennar.[350] Forstjóri félagsins fyrstu árin var Niels Bugge konsúll en er hann andaðist árið 1896 tóku synir hans við.[351] Forráðamenn félagsins höfðu rekið hvalveiðar frá Norður-Noregi áður en þeir hófu veiðar hér við land[352] og kunnu því góð skil á öllu sem að hvalveiðum laut og vinnslu hvalafurða. Hlutafé félagsins er talið hafa verið um 400.000,- krónur.[353] Framkvæmdastjóri fyrir rekstri félagsins í Dýrafirði og sá sem stjórnaði veiðunum var Lauritz Jakob Berg, fæddur 1845, en hann mun hafa verið þrautreyndur hvalveiðimaður er hann tókst á hendur að gerast veiðistjóri á Íslandi.[354]

Lauritz Berg kom fyrst til Dýrafjarðar svo kunnugt sé með strandferðaskipinu Thyru 26. september 1889.[355] Hann fór þá þegar frá Þingeyri yfir að Höfða til að kanna aðstæður á Höfðaoddanum fyrir hugsanlega hvalveiðistöð.[356] Hann mældi dýpið innan við oddann og fékk hjá Sighvati Borgfirðingi upplýsingar um ísalög.[357] Fjórum dögum eftir komu Bergs til Dýrafjarðar gekk hann frá samningi við eigendur Höfða um leigu á landi fyrir hvalstöð þar niðri á oddanum.[358] Eigendur jarðarinnar voru þá Jens Guðmundsson á Brekku í Þingeyrarhreppi, Sveinn Guðmundsson á Bakka, Jón Jónsson á Höfða og fleiri.[359] Samið var til þrjátíu ára og ákveðið að leigugjaldið yrði 100,- krónur á ári fyrstu tíu árin en síðan 150,- krónur.[360] Tveimur árum síðar náði Lauritz Berg að kaupa þrjú hundruð í Höfða og gaf hann 400,- krónur fyrir þann jarðarpart.[361]

Þriðja maí 1890 kom Lauritz Berg aftur frá Noregi og að því sinni með gufuskipinu Oscari, sem Sighvatur Borgfirðingur segir að hafi verið 1300 tonn.[362] Þrír hvalbátar voru þá líka með í förinni og ekki færri en 30 Norðmenn sem þegar í stað hófu framkvæmdir við byggingu hvalveiðistöðvar á Höfðaodda.[363] Þann 14. maí þetta sama vor fór Berg veiðistjóri norður á Ísafjörð til að fá sér íslenskan ríkisborgararétt og sama dag gátu fyrstu Norðmennirnir flutt í land úr gufuskipinu og komið sér fyrir í húsi sem byggt hafði verið á oddanum á þessum fáu dögum.[364] Næstu vikurnar var framkvæmdum haldið áfram og a.m.k. fjórtán Íslendingar ráðnir í vinnu. Fyrstu vikurnar fengu þeir að sofa í hlöðunni hjá Sighvati og í bænum á Höfða meðan ekki var búið að reisa sérstakan skála fyrir þá niðri á odda.[365] Þann 20. maí þetta sama vor var byrjað að grafa fyrir íbúðarhúsi fyrir kaptein Berg og fjölskyldu hans.[366] Húsið kom frá Noregi í tilbúnum einingum og var reist heima við bæ á Höfða (sjá  hér bls. 7-8) í þó nokkurri fjarlægð frá athafnasvæðinu niðri á oddanum.[367] Þann 4. júlí var farið að mála stofurnar í húsi framkvæmdastjórans. Viku síðar brá hann sér til Reykjavíkur og kom til baka 16. júlí með konu sína og fimm börn, þjónustustúlku og sex verkamenn úr Reykjavík sem ráðnir höfðu verið til vinnu í hvalstöðinni.[368]

Hvalbátarnir þrír hófu veiðar strax í maímánuði árið 1890 og þann 21. maí kom Elliði, einn bátanna, með fyrsta hvalinn.[369] Hinir bátarnir hétu Friðþjófur og Viktoría en þremur árum síðar bættist fjórði báturinn við, Ingibjörg.[370] Allt voru þetta gufubátar smíðaðir í Christianíu á árunum 1883-1893 og var sá minnsti 69 smálestir en sá stærsti 88 smálestir.[371] Allir þessir bátar voru enn við hvalveiðar frá stöðinni á Höfðaodda árið 1901 nema Friðþjófur en í hans stað var þá kominn Tordenskjold.[372] Þann 12. júní 1890 var farið að reyna gufuvélina í bræðsluhúsinu sem þá var búið að byggja og tveimur dögum síðar var byrjað að bræða af fullum krafti.[373] Lauritz Berg, sem í Dýrafirði var jafnan nefndur kapteinn Berg, gaf hvalstöðinni á Höfðaodda nafnið Framnes en íbúðarhús sitt uppi á Höfðatúni nefndi hann Friðheim.[374] Nöfnin á stöðinni og flestum hvalbátanna sem Berg gerði út eru greinilega sótt í Friðþjófssögu sænska rithöfundarins Esaiasar Tègner.

Framleiðslan virðist hafa gengið vel þetta fyrsta sumar og 2. ágúst lagði brikkskipið Friðþjófur af stað frá Framnesi með 1200 lýsisföt,[375] líklega til Bretlands því þar var aðalmarkaðurinn fyrir hvallýsið.[376] Hvalstöðin á Höfðaodda var starfrækt af fullum krafti í 13 ár, frá 1890-1902. Árið 1893 jukust umsvifin frá því sem áður hafði verið því þá um sumarið var byggð sérstök verksmiðja til að vinna mjöl úr kjöti og beinum hvalanna[377] en áður hafði áherslan nær eingöngu verið lögð á framleiðslu og sölu á hvallýsi og hvalskíðum. Efni í mjölverksmiðjuna var reyndar flutt til landsins sumarið 1892 eins og sjá má í dagbókum Sighvats Borgfirðings. Þann 21. júní 1892 ritar hann á þess leið: Gufuskip kom til Bergs, nýkeypt, hlaðið kolum og múrsteini til Gúanófabrikku sem á að setjast hér upp á Oddanum.[378] Líklega hefur verksmiðjan verið reist 1892 þó ekki tæki hún til starfa fyrr en 1893.

Nær allar byggingar sem tengdust hvalstöðinni, aðrar en íbúðarhús veiðistjórans, voru reistar á Höfðaoddanum innanverðum, skammt frá fjöruborði, og var mjölverksmiðjan rétt neðantil við miðjan oddann.[379] Í sjávarbakkanum má enn (1992) greina leifar af öskuhaugum sem sýna nokkurn veginn hvar vistarverur starfsmannanna voru.[380] Að frátöldum öskuhaugunum eru harla fáar minjar frá hvalstöðinni á Höfðaodda sjáanlegar nú, enda þótt umsvif væru hér ærin á sínum tíma. Múrsteinar úr grunni verksmiðjuhússins liggja þó enn í fjörunni. Eitt húsið sem Norðmenn reistu á oddanum var eins konar samkomuhús, þar sem m.a. voru haldnir dansleikir og efnt til mannfunda af ýmsu tagi.[381] Þar mun prestur líka stundum hafa messað (sjá hér 66-67).

Jón Jónsson, skraddari á Ísafirði, var fæddur á Höfða 4. febrúar 1890 og ólst þar upp. Hann var dóttursonur Sighvats Borgfirðings. Á gamalsaldri sagði Jón svo frá að braggarnir, sem verkamennirnir við hvalstöðina bjuggu í, hefðu verið fjórir, smedbraggi, flensibraggi, millibraggi og Íslendingabraggi.[382] Hann greinir líka frá því eftir hvaða lögmálum mönnum var skipt niður á braggana og kemst þá svo að orði:

 

Verkamennirnir, sem flestir voru norskir, bjuggu í bröggum, alllangt frá sjálfri bræðslustöðinni. Braggarnir voru nokkuð margir því að deilt var niður á þá eftir stöðu. Einn hét smedbraggi. Þar voru allir handverksmenn, t.d. trésmiðir, járnsmiðir og blikksmiðir. Svo var flensibraggi. Þar voru þeir sem kallaðir voru flensarar og skáru utan af hvalnum og kunnu að sundra honum. … Braggi þurrkunarmanna og ketilkúmsmanna var kallaður millibraggi. Það var ekki eins lélegt að vera flensari eins og að vera vanalegur ketilkúmsmaður. Þeir voru kallaðir kúmmarar. … Í Íslendingabragga voru svo íslensku verkamennirnir.[383]

 

Jón skraddari tekur fram að verkstjórar og kokkar hafi svo búið alveg sér og það húsnæði verið kallað messi.[384]

Magnús Gíslason, sem vann í hvalstöðinni á Höfðaodda sumarið 1901, lenti fyrst i bragga hjá norsku kúmmurunum, sem hann reyndar nefnir kómma og segir að þeir hafi verið þar um tuttugu í einum sal en í Íslendingabragganum hafi búið nær tuttugu menn í tveimur herbergjum.[385] Aðstæðum, húsaskipan og verktilhögun í stöðinni lýsir Magnús með þessum orðum:

 

Framnes eða Höfðaoddi var eins og tilvalinn staður fyrir hvalveiðistöð. Það var svo innarlega í firðinum að þar var oftast sléttur sjór.  Svo var oddinn eggsléttur og mátulega breiður fyrir hvalveiðistöðina. Að utanverðu var bryggja og kolageymsluhús upp af henni. En hinumegin á móti, innanvert á oddanum, var aðalstöðvarhúsið, stór og mikil bygging með miklum reykháfi. Lítið eitt ofar stóðu tvö hús, hvort hjá öðru, það voru íbúðarhús verkamanna. Milli þeirra lá gangur til hægðarauka fyrir kokkana að bera fram matinn.

Þegar hvalveiðibátarnir komu inn með hvali fóru þeir með þá inn fyrir oddann og lögðu þeim þar við bauju. Flensararnir urðu að haga vinnu eftir sjávarföllum því að sjór féll yfir flensuplanið á flæðum og var látið fjara þar undan hvalnum áður en spikið var tekið af honum. Kjötskurðarpallurinn var fyrir ofan flæðarmál, rétt við húshliðina. Þaðan gekk kjötið í skúffuelevator upp á efri hæð en þar féll það í rennur sem lágu að kötlunum. Ég vann um tíma við þessa katla, ók frá þeim soðnu kjöti til þurrkaranna. Þegar búið var að þurrka það var það malað og nefndu Norðmenn það kraftfóður.[386]

 

Þegar fjölmennast var á Höfðaodda munu um 100 manns hafa verið þar við störf í landi. Í heimildum sem varðveittar eru í ríkisskjalasafninu í Osló sést að árið 1892 voru 40-50 Norðmenn við vinnu á Framnesi og tíu árum síðar voru þeir orðnir 70.[387] Greinilegt er að Íslendingar sem unnu í hvalstöðinni á Höfðaodda voru oft um það bil 20[388] og kynnu að hafa verið fleiri þegar fjölmennast var. Í þessum tölum eru ekki taldir með þeir sem voru á hvalveiðibátunum en á þeim munu yfirleitt hafa verið sjö menn í hverri skipshöfn[389] eða 28 í allt á fjórum bátum. Sú fullyrðing Jóns skraddara að hátt á annað hundrað manns hafi unnið hjá stöðinni á sumrin[390] er því ekki fjarri lagi þó að varlegra hefði máske verið að segja –  á annað hundrað þegar flest var. Á veturna var aðeins unnið að viðhaldi í stöðinni og þá voru þar aðeins örfáir starfsmenn.

Hjá flensurunum var vinnutími óreglulegur eins og hér hefur áður komið fram því þeir urðu að sæta sjávarföllum en aðrir verkamenn í stöðinni unnu frá klukkan sex á morgnana til klukkan sjö síðdegis.[391] Þrír tímar fóru jafnan í mat og kaffi svo daglegur vinnutími hefur verið tíu stundir.[392] Klukkan að ganga sex á hverjum morgni gekk annar tveggja kokka sem í hvalstöðinni unnu fyrir hvers manns dyr í verkamannabröggunum og sló hljómfagurt stál með litlum hamri.[393] Op og skaffe, op og skaffe, kallaði hann þá jafnan um leið.[394] Þannig voru menn vaktir.

Sighvatur Borgfirðingur var í vinnu hjá verksmiðjunni vor og haust árið 1890 og fékk þá í kaup 12,- krónur á viku um vorið en kr. 1,50 á dag (9,- kr. á viku) um haustið.[395] Árið 1901 fékk Magnús Gíslason greiddar 40,- krónur á mánuði í kaup hjá hvalstöðinni fyrir verkamannavinnu en auk þess virðist hann hafa haft þar frítt fæði.[396]

Á árunum 1890-1902, að þeim báðum meðtöldum, voru 1644 hvalir fluttir á land til vinnslu í stöðinni á Höfðaodda eða 126 til 127 hvalir að jafnaði á ári.[397] Auk þess var búið að færa þangað 10 hvali til vinnslu vorið 1903 þegar félagið sem stöðina átti færði starfsemi sína þaðan austur á Mjóafjörð.[398] Alls voru því veiddir 1654 hvalir frá þessari stöð hér á Höfðaoddanum. Þessar tölur um heildarfjölda veiddra hvala eru fengnar úr dagbókum Sighvats Borgfirðings á Höfða en hann skráir allar komur báta með hval í dagbók sína og tekur fram hvaða bátur það sé sem kemur inn í hvert skipti. Þarna fer því ekkert á milli mála, a.m.k. er óhugsandi að Sighvatur hækki töluna en fremur mætti hugsa sér að gleymst hefði að færa einhverja hvali inn í dagbókina. Ástæðulaust er þó að gera ráð fyrir slíku svo nákvæmur sem Sighvatur var í þessum efnum. Opinberar eða hálfopinberar tölur, sem fram koma í öðrum ritum um fjölda veiddra hvala, eru hins vegar greinilega of lágar og virðist þar vera um vísvitandi falsanir að ræða. Doktor Joh. N. Tønnesen sem byggir á skýrslum félagsins segir t.d. í riti sínu Den moderne hvalfangsts historie (öðru bindi sem út kom í Sandefjord í Noregi árið 1967) að bátar hvalveiðistöðvarinnar á Höfðaodda hafi veitt 47 hvali árið 1890, 51 árið 1891 og 86 árið 1893.[399] Réttu tölurnar eru hins vegar 67 árið 1890, 71 árið 1891 og 131 árið 1893.[400] Á þessum þremur árum munar því 85 hvölum og sé um svipaða skekkju að ræða hin árin þyrfti að hækka allar tölur doktorsins um 46,2% til að fá rétta útkomu.

Skráning Sighvats Borgfirðings sýnir að fyrstu þrjú árin sem stöðin á Höfðaodda var starfrækt veiddust mun færri hvalir árlega en næstu tíu árin þar á eftir, enda voru bátarnir þá bara þrír en síðan fjórir (sjá hér bls. 49). Árin 1890 til 1892 var meðalveiði 77 hvalir á ári en 1893-1902 var hún 141 hvalur á ári.[401] Mest varð veiðin árin 1900 og 1901, 165 hvalir fyrra árið en 168 hið síðara.[402] Árið 1902 féll veiðin hins vegar niður í 124 og á næsta ári þar á eftir var starfrækslu stöðvarinnar hætt. Steypireyður, sem Sighvatur Borgfirðingur kallar bláhval, og langreyður voru þær tegundir sem bátar stöðvarinnar á Höfðaodda veiddu aðallega en einnig veiddist dálítið af Íslandssléttbak fyrstu árin.[403] Doktor Tønnesen segir að steypireyðarnar hafi orðir flestar árið 1896 en þá voru þær 108 samkvæmt skýrslum félagsins.[404] Mikla athygli vakti segir Tønnesen að bátar Victorfélagsins, sem allir voru gerðir út frá Höfðaodda, veiddu 5 Íslandssléttbaka á fyrsta starfsári stöðvarinnar og á næsta ári fengu þessir sömu bátar 7 slíka en aðeins 10 Íslandssléttbakar veiddust þá hér við land að hans sögn.[405]

Hvalbátarnir frá Höfðaodda leituðu víða fanga, ekki aðeins út af Vestfjörðum heldur líka á miðunum úti fyrir Norðurlandi. Skipin sem Victorfélagið hafði í flutningum milli landa voru þá stundum notuð til að flytja hvalina til Dýrafjarðar og komu þá yfirleitt með nokkra í einu. Gufuskip félagsins, Heimdallur, kom t.d. með fjóra hvali 3. júní 1894 og með þrjá 24. júlí á sama ári.[406] Sumarið 1895 voru allir fjórir hvalbátarnir fyrir norðan land um lengri eða skemmri tíma. Þeir drógu hvalina þá inn á Siglufjörð en þar tók Heimdallur við og flutti þá til Dýrafjarðar.[407]

Hvalveiðarnar virðast oftast hafa hafist í marsmánuði og staðið fram í september[408] en þá voru hvalbátarnir teknir í land og stóðu uppi í Höfðaoddanum yfir háveturinn.[409]

Vélaverkstæði var starfrækt á vegum stöðvarinnar með eldsmiðju og rennibekkjum[410] svo flestar viðgerðir gátu farið fram hér á oddanum. Þrír fyrstu íslensku togaravélstjórarnir höfðu allir kynnst meðferð gufuvéla hjá Norðmönnum og einn þeirra, Guðbjartur Guðbjartsson, stundaði járnsmíðanám á Höfðaodda á árunum 1893-1896.[411] Guðbjartur var fæddur á Læk í Dýrafirði 10. júní 1873[412] og hefur því verið 17 ára þegar hvalveiðistöðin á Höfðaodda tók til starfa. Árið 1907 varð hann vélstjóri á togaranum Jóni forseta og þar með fyrsti íslenski vélstjórinn sem ráðinn var á fyrsta togarann sem smíðaður var fyrir íslenska eigendur.[413] Á Höfðaoddanum kynntist hann fyrst meðferð og hirðingu véla og naut þar tilsagnar hins norska vélfræðings Hinriksens sem í allmörg ár hafði verklega yfirumsjón með rekstri hvalveiðistöðvarinnar í Dýrafirði.[414]

Er vinnslu lauk á haustin fóru norskir og íslenskir starfsmenn stöðvarinnar flestir til síns heima en komu aftur þegar vinnsla hófst á ný, síðla vetrar.[415] Nokkrir Norðmenn héldu þó oftast kyrru fyrir hér yfir veturinn og má sem dæmi nefna að í sóknarmannatölum skráðum í desembermánuði á árunum 1895-1897 er jafnan að finna nafn Henriks N. Henriksen en hann var þá um þrítugsaldur.[416] Í sóknarmannatalinu frá 31.12.1897 er hann sagður vera tekniker[417] svo telja má víst að þetta sé sá Henriksen vélfræðingur sem fyrstur manna kenndi Guðbjarti á vélar. Veturinn 1900-1901 voru fimm Norðmenn skráðir til heimilis á Framnesi, verkstjóri, maskínisti, smiður, bryti og verkamaður.[418] Í manntalinu frá 1. nóvember 1901 má sjá að fjórir Norðmenn dvöldust þá í hvalstöðinni á Höfðaodda og að því sinni voru þar líka sjö Íslendingar, fimm þeirra áttu heima í Dýrafirði eða í næsta nágrenni en tveir voru lengra að komnir, allt verkamenn.[419]

Meðan vertíð stóð yfir og vinnsla var í gangi voru gufuskip á vegum eigenda stöðvarinnar stöðugt í förum yfir hafið. Þau fluttu kol og aðrar nauðsynjar til stöðvarinnar og tóku þar afurðir til útflutnings.[420] Sum þessara skipa átti Victorfélagið en ætla má að önnur hafi verið tekin á leigu. Fyrir kom að þrjú hafskip lægju samtímis við Höfðaoddann[421] og sjaldan mun hafa liðið svo mánuður á annatíma hjá hvalstöðinni að ekki kæmi til hennar skip frá Noregi eða Bretlandi. Fyrstu árin voru gufuskipin Oscar og Biscaja í þessum flutningum ásamt fleiri skipum, m.a. Friðþjófi sem Sighvatur Borgfirðingur kallar brikkskip og hefur því líklega verið seglskip en gæti þó hafa verið með hjálparvél.[422] Veturinn 1894-1895 lá brikkskip sem stöðin átti mánuðum saman með kolafarm innan við Valseyri og beið þar vorsins.[423]

Gufuskipið Heimdal voru eigendur hvalstöðvarinnar á Höfðaodda með í sinni þjónustu a.m.k. frá árinu 1892[424] og skip þetta keypti forstjóri stöðvarinnar, Lauritz Berg, þann 25. febrúar 1897 í Tönsberg í Noregi.[425]  Í opinberum heimildum er flutningaskipið Heimdal ýmist sagt vera 386,5 eða 396 smálestir[426] og munar þar reyndar litlu. Þetta var tréskip með þrjú möstur, smíðað í Kragerö á Þelamörk í Noregi árið 1872.[427] Skipstjóri á Heimdal árið 1897 var Hans Christian Hansen en Dýrafjörður taldist þá vera heimahöfn skipsins.[428] Óljóst er hversu lengi nýnefnt gufuskip var í eigu Victorfélagsins sem rak hvalstöðina en síðustu árin sem stöðin á Höfðaodda var starfrækt var gufuskipið Alpha hennar helsti farkostur í flutningum milli landa.[429]

Ekki liggur á lausu hvert var framleiðsluverðmæti hvalstöðvarinnar á Höfðaodda en þess má geta að árið 1900 voru fluttar út hvalafurðir frá Íslandi fyrir kr. 2.098.534,- [430] en sú fjárhæð nam þá um 23,3% af andvirði allra útflutningsvara sem fóru héðan til annarra landa.[431]  Útflutningsverðmæti hvalafurðanna skiptist þannig árið 1900 að um 77% fengust fyrir lýsi um 18% fyrir hvalskíði og um 5% fyrir mjöl. Doktor Joh. N. Tønnesen, sem hefur áður verið nefndur, segir að 23 hvalveiðibátar hafi gengið til veiða frá stöðvum á Íslandi á árinu 1900 og samtals hafi þeir veitt 823 hvali á því ári.[432] Bátarnir sem gerðir voru út frá Höfðaodda það ár voru fjórir og fyrir liggur að þeir veiddu þá 165 hvali (sjá hér bls. 52). Hafi verðmæti útflutningsafurða frá Höfðaodda á árinu 1900 verið í réttu hlutfalli við fjölda hvalbátanna ætti það samkvæmt framansögðu að hafa numið kr. 364.935,- en sé miðað við fjölda veiddra hvala hækkar sú tala upp í kr. 420.546,-.  Með þetta í huga má telja líklegt að aldamótaárið 1900 hafi verðmæti hvalafurða sem út voru fluttar frá Dýrafirði numið um 400.000,- krónum og að árlegt útflutningsverðmæti hvalafurða frá stöðinni á Höfðaodda á árunum 1890-1902 hafi að jafnaði numið a.m.k. 300.000,- krónum. Með hliðsjón af þeim tölum sýnist útsvarið sem hinir norsku eigendur stöðvarinnar greiddu til Mýrahrepps ekki hafa verið hátt en það, ásamt öðrum gjöldum til hreppsins, fór hæst í 826,- krónur á ári en var lægst 513,- krónur á árunum 1891-1903.[433] Flest árin varð hins vegar verulegur tekjuafgangur af rekstrinum eða milli 11 og 12% að jafnaði á ári þau þrettán ár sem hvalstöðin var starfrækt.[434] Um útsvarsgreiðslurnar til Mýrahrepps er reyndar rétt að geta þess að þær voru lagðar á Lauritz Berg, framkvæmdastjóra hvalstöðvarinnar, en ekki á fyrirtækið sem átti hana.[435] Enda þótt greiðslan til sveitarfélagsins megi kallast hreint smáræði miðað við veltu og arðsemi hvalstöðvarinnar þá var hún engu að síður býsna stór hluti af heildartekjum hreppsins á þessum árum.[436] Sem dæmi má nefna að árið 1898 var Lauritz Berg gert að greiða kr. 723,72 í útsvar og önnur gjöld til sveitarfélagsins en heildartekjur þess á því ári námu kr. 1.676,75.[437]  Hliðstæðar tölur frá árinu 1901 voru kr. 826,18 frá framkvæmdastjóranum en kr. 1.801,21 í heildartekjur.[438] Dæmin tvö benda til þess að gjöldin sem kapteinn Berg greiddi árlega til hreppsins á árunum 1891-1903 hafi numið yfir 40% af öllum tekjum sveitarfélagsins á þeim tíma. Auk þess var hinum erlendu starfsmönnum stöðvarinnar er hér dvöldust árið um kring gert að greiða fáeinar krónur í útsvar, a.m.k. sum árin.[439]

Hlutafé Victorfélagsins sem átti og rak stöðina er sagt hafa verið kr. 400.000,- (sjá hér bls. 47-48). Á árunum 1890-1902 fengu hluthafarnir 460.000,- krónur greiddar í arð.[440] Arðgreiðslur héldu áfram eftir að félagið flutti starfsemi sína austur á Mjóafjörð árið 1903 og er það var leyst upp átta árum síðar fengu hluthafarnir enn 480.000,- krónur í arðgreiðslu.[441] Ekki sýnist fjarri lagi að ætla að um 280.000,- krónur af þeirri fjárhæð hafi verið gróði frá Dýrafjarðarárunum. Samkvæmt því hefur gróði hlutafjáreigendanna numið 740.000,- krónum á því skeiði eða um 57.000,- krónum á ári. Arður þeirra sem lögðu fram hlutafé í fyrirtækið sýnist því hafa verið 14-15% á ári og þætti enn gott í flestum greinum atvinnurekstrar.

Hér verður ekki ritað langt mál um áhrif hvalstöðvarinnar á mannlífið í Dýrafirði en ljóst er að þau voru margvísleg. Peningavelta jókst að mun, m.a. vegna þess að öll laun voru greidd út í peningum sem ekki hafði tíðkast áður. Allmargir heimamenn fengu vinnu í hvalstöðinni um lengri eða skemmri tíma og viðskipti hennar og þeirra aðkomumanna er þar störfuðu við verslunina á Þingeyri urðu veruleg. Samt munu Norðmennirnir hafa flutt mestallan mat sinn inn frá Noregi[442] en einn og einn nautgripur var þó keyptur til matar af bændum.[443] Frá 31.12.1889, sem var síðasta árið áður en hvalstöðin tók til starfa, og til 31.12.1895 fjölgaði íbúum Mýrasóknar úr 225 í 301 eða um 33,8%.[444] Án efa hefur rekstur stöðvarinnar átt drjúgan þátt í þessari fólksfjölgun en á sama tíma fjölgaði fólkinu aðeins um 6,6% í ytri hluta Mýrahrepps (Núpssókn og Sæbólssókn).[445] Eftir 1895 varð hins vegar ekki framhald á fólksfjölgun í Mýrasókn og reyndar fækkaði þar um sjö manneskjur á næstu fimm árum.[446] Engin veruleg fólksfækkun varð þó fyrr en stöðinni var lokað árið 1903 en tveimur árum síðar var íbúatalan í sókninni komin niður í 274.[447]

Hjá Norðmönnunum kynntust menn ýmsum nýjungum og þá ekki síst notkun véla og nýrrar tækni. Tækninýjungarnar var ekki aðeins hægt að skoða í verksmiðjunni, á vélaverkstæðinu og um borð í bátunum heldur líka á heimili framkvæmdastjórans en hann lét strax fyrsta sumarið leggja leiðslur fyrir rennandi vatn inn í íbúðarhús sitt. – Berg lét smíða yfir brunnhúsið og leggja járnpípur þaðan upp að húsi sínu, grafnar í jörð, skrifar Sighvatur Borgfirðingur 16. ágúst 1890 og sex vikum síðar tekur hann fram að vatnsbólið sé komið í stand hjá framkvæmdastjóranum.[448] Nýbreytni í skemmtanalífi fylgdi einnig komu Norðmannanna eins og síðar verður að vikið og heima við íbúðarhús framkvæmdastjórans var útbúinn sérstakur tennis- og krokkettvöllur[449] en iðkun slíkra leikja hlýtur mörgum að hafa þótt býsna undarlegt athæfi eins og allt var í pottinn búið hjá almúganum um 1890.

Talsverð stéttaskipting setti svip sinn á samfélag Norðmannanna eins og áður var að vikið og yfir öllum hópnum trónaði kaptein Berg, hæstráðandi til sjós og lands. Fyrstu fimm árin var hann hér árið um kring með alla sína fjölskyldu nema í sex mánuði frá 30.9.1893 til 1.3.1894.[450] Eftir 1895 virðist hann hins vegar ekki hafa haft hér vetursetu nema veturinn 1897-1898 og því aðeins verið hér sex mánuði eða svo hin árin.[451]

Lauritz J. Berg mun hafa haft á sér nokkurt höfðingjasnið og aldrei máttu börnin á Höfða kalla hann annað en kaptein Berg og ef þau mættu honum áttu þau að taka ofan.  – En hann tók aldrei ofan fyrir okkur, setti bara höndina upp að hattbarðinu, segir Jón skraddari sem sjálfur var eitt barnanna á Höfða.[452] Börn kapteinsins voru þó oft í útileikjum með börnum kotunganna á Höfða og þá var öll stéttaskipting fljót að gleymast.[453]

Lauritz J. Berg var 45 ára er hann settist að á Höfða sumarið 1890 en Martha kona hans mun hafa verið ellefu árum yngri.[454] Börn þeirra voru fimm er þau fluttust hingað til lands en sjötta barnið bættist við 12. október 1894, fætt á Höfða.[455] Hjá þeim var líka alltaf þjónustufólk og oftast tíu eða tólf manneskjur í heimili.[456] Þann 16. júlí 1890 kom frú Martha Berg fyrst að Höfða og með henni börn þeirra hjónanna. Fjölskyldan settist þá þegar að í hinu nýbyggða íbúðarhúsi sínu (sjá hér bls.48-49) og daginn eftir skrifar Sighvatur Borgfirðingur í dagbók sína:

 

Frú Berg fékk hjá okkur 4 potta af mjólk og fær það héðan af fyrst um sinn en vill ekki borga nema 15 aura fyrir pottinn sem alls staðar kostar 20 aura og sums staðar meira.[457]

 

Fimm dögum síðar fór Sigríður, dóttir Sighvats, þó til veru hjá frú Berg og var þar í vist næstu níu mánuði.[458]

Svo virðist sem bærilega hafi farið á með stórveldunum tveimur á Höfða fyrsta árið, þeim kaptein Berg og Sighvati Borgfirðingi, og vann Sighvatur þá talsvert við hvalstöðina (sjá hér bls. 19). Haustið 1891 tók kapteinninn hins vegar upp á því að vilja láta menn vinna í ákvæðisvinnu og taldi Sighvatur það vera tilraun til að lækka launin.[459] Á skilmálana sem í boði voru vildi Sighvatur ekki fallast og virðist ekki hafa unnið neitt við stöðina þaðan í frá.[460]

Á aðfangadag jóla árið 1891 ritar Sighvatur á þessa leið í dagbók sína:

Frú Berg sendi heim á báða bæina með kaffi, bankabygg, þrjú brauð, hvítasykur og hveiti. Börnin komu með jólagjafir frá sér og frúnni og frökeninni til barnanna og konunnar en ég var frí við það allt saman sem betur fer.[461]

 

Jólagjafirnar úr Friðheimi höfðu reyndar byrjað strax árið 1890 en Sighvatur virðist ekki hafa viljað láta eiga neitt hjá sér því þegar kom fram á næsta sumar skráir hann þetta í dagbókina: Kristján minn gaf Jakob Berg lambhrút móflekkóttan.[462] Drengirnir, Kristján Sighvatsson og Jakob sonur kapteinsins, voru þá báðir á barnsaldri.

Er Sighvatur missti nær allan fjárstofn sinn á árunum 1892 og 1893, að hann taldi vegna þess að skepnurnar hefðu étið eitraðan hval (sjá hér bls. 16-17), neitaði kapteinn Berg að greiða skaðabætur og svaraði illu einu að sögn þess sem fyrir skaðanum varð.[463] Eftir það nefndi Sighvatur kapteininn sjaldan annað en grútarhöfðingjann og valdi honum reyndar stöku sinnum þaðan af verri nöfn.[464] En þótt fræðimaðurinn á Höfða fyndi þessum nágranna sínum ýmislegt til foráttu þá bendir sitthvað til þess að kapteinninn hafi kunnað allvel að blíðka hina lítilþægari í hópi alþýðunnar. Jólagjafirnar voru áður nefndar og í einni heimild er þess getið að hann hafi ætíð gefið bændum kjötið af fyrsta hvalnum sem komið var með að landi í byrjun vertíðar og hafi hver maður þá getað fengið eins mikið og hann vildi af hvalkjötinu.[465]

Til byggingar hinnar nýju Mýrakirkju, sem reist var árið 1897 og enn stendur, gaf kapteinn Berg líka 500,- krónur sem var um 13% af öllum byggingarkostnaði eins og sjá má í reikningum kirkjunnar.[466] Dóttir kapteinsins segir víst reyndar á einum stað að faðir hennar hafi gefið allt timbrið í Mýrakirkju[467] sem er misskilningur því reikningar kirkjunnar sýna að gjöf hans nægði rétt liðlega til að borga flutningskostnað á því frá Noregi[468] en ætla má að timbrið hafi verið flutt með skipum hvalstöðvarinnar.

Á heimili framkvæmdastjórans var oft mikið um dýrðir. – Afmæli Bergs með flöggum og ýmsum skrípalátum, skrifar Sighvatur 11. febrúar 1893[469] og þremur mánuðum síðar hrjóta þessi orð úr penna hans: Flaggað var fyrir afmæli Soffíu, dóttur grútarhöfðingjans, bæði niðri frá og upp frá en ég gat ekki verið að því, nennti ekki að væta mitt flagg.[470] Fjórum árum síðar gifti séra Þórður Ólafsson á Gerðhömrum Soffíu þessa Berg norskum kennara frá Túnsbergi og voru þau gefin saman í nýju timburkirkjunni á Mýrum 18. júlí 1897, sama dag og kirkjan var vígð.[471] Við hjónavígsluna talaði séra Þórður eingöngu norsku.[472]

Margir innlendir og erlendir höfðingjar heimsóttu Berg og sumir þeirra gistu hjá honum í Friðheimi. Skúli Thoroddsen þáði næturgistingu hjá Berg nokkrum mánuðum eftir að honum var vikið úr embætti sýslumanns og Hannes Hafstein dvaldist þar síðar er hann var orðinn sýslumaður Ísfirðinga.[473] Séra Janus Jónsson í Holti í Önundarfirði kom í heimsókn sumarið 1894 og með honum Halldór Kr. Friðriksson sem þá var enn yfirkennari við lærða skólann í Reykjavík þó orðinn væri nær hálfáttræður.[474] Hans Ellefsen, forstjóri hvalstöðvarinnar á Sólbakka í Önundarfirði, kom alloft[475] en tíðastur gestur hefur að líkindum verið presturinn í Dýrafjarðarþingum, séra Þórður Ólafsson á Gerðhömrum, sem virðist hafa verið í miklu vinfengi við kaptein Berg og hans skyldulið.[476] Dönsku varðskipin hér við land lögðu oft leið sína inn á Dýrafjörð og ekki var óalgengt að yfirmenn þar um borð legðu þá leið sína að Höfða til að gleðjast með kaptein Berg og hans fólki. – Margt herrahyski af herskipinu kom í veislu til Bergs, skrifar Sighvatur 11. maí 1891[477] og einn júlídag tíu árum síðar var ein af dætrum Bergs pússuð saman við liðsforingja úr áhöfn danska varðskipsins Heimdal og fór sú athöfn fram í Mýrakirkju[478] þar sem systir brúðarinnar hafði líka gengið í hjónaband fjórum árum fyrr. Einn af íslensku verkamönnunum sem unnu í hvalstöðinni á Höfðaodda rifjaði síðar upp brúðkaupsdaginn þar sumarið 1901 og sagði þá frá á þessa leið:

 

Það voru flestir á stöðinni við sín daglegu störf þennan dag. En margir stálust til þess að gægjast út um verksmiðjugluggana þegar hermannafylkingin gekk á land.  … Síðan var veisla í Friðheim en svo nefndi kapteinn Berg íbúðarhús sitt. Eftir vinnu fóru ýmsir af verkamönnunum í skárri flíkurnar og gengu til veisluhússins og hrópuðu heill fyrir brúðhjónunum.  Síðar um kvöldið voru sendar þrjár eða fjórar vínflöskur í verkamannabraggana og matreiðslumanninum falið á hendur að útdeila úr þeim. Flestir fengu eitt staup en þeir sem tignuðu Bakkus mest fengu að renna út úr tveimur.[479]

 

Naumt hefur þetta verið skammtað hjá grútarhöfðingjanum.

Sumir gestanna sem dvöldust um lengri eða skemmri tíma á heimili kapteins Berg voru langt að komnir jafnvel alla leið frá Kína en mágur kapteinsins, sem þar var búsettur, dvaldist um skeið á Höfða sumarið 1895.[480] Norski heimskautafarinn Fridtjof Nansen kom að minnsta kosti tvisvar sinnum til Dýrafjarðar, fyrst sumarið 1888 en þá gisti hann á Þingeyri.[481] Hann var þá á leið til Grænlands og gekk síðar á því sumri með nokkrum félögum yfir þveran Grænlandsjökul. Þeir voru fyrstu mennirnir sem sigruðu hinn mikla breða norðursins með þessum hætti og Nansen, sem hafði forystu fyrir hópnum, varð heimsfrægur á skömmum tíma. Í annað sinn kom Fridtjof Nansen til Dýrafjarðar í lok júlí aldamótaárið 1900. Hann var þá líka í Grænlandsleiðangri á gufuskipinu Michael Sars og vildi í leiðinni heilsa upp á kaptein Berg á Höfða.[482] Sighvatur Borgfirðingur segir í dagbók sinni að Nansen og tveir aðrir stórherrar hafi heimsótt sig 1. ágúst[483] en Nansen segir það hafa verið 31. júlí.[484] Í bók sinni Frilufts-Liv segir hann frá heimsókn sinni til Sighvats en þeirra stuttu kynni urðu heimskautafaranum tilefni til dálítilla hugleiðinga um gamla Ísland á þröskuldi nýrrar aldar. Í endursögn og snúinn úr norsku á íslensku hljóðar kjarninn í þessum pistli Fridtjofs Nansen eitthvað á þessa leið:

 

– Ég heimsótti gamalt skáld, Sighvat Grímsson, sem er næsti nágranni Bergs.  Sighvatur er 60 ára gamall og af ytra útliti hans sér maður ekki að þar fari skáld. Hann stóð boginn við stutta orfið sitt og var að slá. Við tókum tal saman og hann reyndist hafa gott vald á danskri tungu. Ég sagði við hann að seinlegt hlyti að vera að slá svona þýfðan völl og spurði hvort ekki væri ráðlegt að fjarlægja þúfurnar og slétta túnið.  – „Nei, minn góði herra”, svaraði skáldið, ekki held ég það því þá yrði grasflöturinn í heild svo miklu minni.

Þetta var nú líka sjónarmið út af fyrir sig. Svo spurði hann hvort ég vildi ekki líta í bæinn. Við gengum til bæjar um göng sem voru hlykkjótt, lág og dimm, næstum eins og við kofa eskimóanna. Úr göngunum komum við inn í herbergi þar sem svo lágt var undir loft að ég gat ekki staðið uppréttur. Þarna lágu bækur og blöð sem staflað hafði verið upp með öllum veggjum, flest óinnbundið og efnið af margvíslegu tagi, allt frá Familie-Journaler til Íslendingasagna.

Við gengum upp stiga og komum þá í baðstofuna, vistarveru undir súð sem er allt í senn dagstofa, vinnuherbergi og svefnherbergi allrar fjölskyldunnar. Hér voru verkfærin hans, penni og blek á borði við gluggann en við skriftir situr hann jafnan á stólkolli með fjöl á hnjánum, undir pappírnum. Skáldið sýndi okkur handrit sín, sex þykk bindi um íslenska presta. Rithöndin var fögur og þétt skrifað á síðurnar. Svo komu fleiri bindi með viðaukum. Um innihaldið get ég ekki dæmt en magnið eitt ber vitni um fágæta elju. Og allt er þetta skrifað án nokkurrar vonar um að verkið verði prentað og gefið út. Rit sín gefur hann komandi kynslóðum og þau á að varðveita í háskólabókasafninu í Kaupmannahöfn ellegar á bókasafninu í Reykjavík.

Ég gat ekki annað en dáðst að þessum gamla manni sem ég stóð hér við hliðina á í þessu þrönga herbergi. Fyrir hvern vinnur hann? Ekki er það fyrir frægðina því hana öðlast hann ekki, nema ef vera skyldi eftir dauðann. Er það máske mannkynið sem hann vinnur fyrir og lyftir með starfi sínu? – Fátækur sem Job býr hann hér við hin þrengstu kjör og hefur aldrei í skóla komið en ætíð orðið að ganga að búverkum. Þakið á baðstofunni hans lekur og þegar rignir verður hann að beygja sig yfir blöðin sem hann situr með á hnjánum við skriftirnar. Þá falla droparnir á hans eigið bak og þannig ver hann sín dýrmætu handrit.

Þetta er Ísland! Land þjóðar sem lifir í fortíðinni og ornar sér við minningar um horfna tíð. Slíkt fólk lætur sig nútímann litlu varða og heldur sig við stuttorfið.

 

Með þessum orðum lýkur Fridtjof Nansen frásögn sinni af heimsókninni til Sighvats Borgfirðings en ljóst er að hinn vinnulúni fræðimaður á Höfða verður í huga langferðamannsins að skýru tákni fyrir hið gamla Ísland, okkar þjóðlíf í þúsund ár. Til er ljósmynd sem tekin var af Nansen og fleira fólki heima á Höfða þennan dýrðardag á síðasta sumri nítjándu aldarinnar. Því miður er Sighvatur ekki á þeirri mynd.

Flesta eða alla þá vetur sem fjölskylda Bergs dvaldist á Höfða var þar heimiliskennari.  Í sóknarmannatali frá 31.12.1895 er Guðrún Nielsen sögð vera þar kennslumey en þá voru þrír kennarar í Mýrahreppi.[485] Veturinn 1897-1898 var ungur Norðmaður er Sem Sæland hét kennari á heimili kapteinsins.[486] Þessi ungi maður kom aftur að Höfða fjórum árum síðar og dvaldist hér veturinn 1902-1903. Hann var þá við vísindalegar athuganir á eðli norðurljósa á vegum prófessors Kr. Birkeland.[487] Sem Sæland varð síðar rektor háskólans í Osló[488] og mun hafa gegnt því starfi á árunum 1927-1936.[489] Í Dýrafirði virðist þessi ungi vísindamaður hafa orðið hvers manns hugljúfi. Hann kenndi Birni Guðmundssyni, síðar kennara og um skeið skólastjóra á Núpi, að spila á fiðlu[490] en Björn var þá ungur bóndasonur á Næfranesi, næsta bæ við Höfða. Jón skraddari, sem var um 12 ára aldur þegar Sæland var að rannsaka norðurljósin á himinhvolfinu yfir Höfða, skoðaði oft hjá honum myndir af grískum marmaralíkneskjum og þegar hann sá þessar sömu líkneskjur á listasafni úti í London allmörgum árum síðar kannaðist hann strax við þær.[491]

Mjög kært sýnist hafa orðið með Sighvati Borgfirðingi og Sem Sæland. Sighvatur nefnir hann alloft í dagbók sinni og alltaf vinsamlega.

Er Sem Sæland var heimiliskennari hjá kaptein Berg kom fyrir að Sighvatur lánaði honum blöð og bækur[492] en kynni þeirra sýnast þó ekki hafa orðið veruleg fyrr en Sæland kom að Höfða öðru sinni haustið 1902. Í desembermánuði þá um veturinn fór Sighvatur að kenna honum íslensku og gekk þá nokkrum sinnum í viku hverri ofan á odda til að leiðbeina hinum unga eðlisfræðingi við íslenskunámið.[493] Hinn verðandi háskólarektor var þá 28 ára gamall en lærimeistarinn kominn á sjötugsaldur. Bækurnar sem Sighvatur notaði við kennsluna voru Lýsing Íslands eftir Þorvald Thoroddsen (ágripið sem út var gefið 1881) og Saga Natans Ketilssonar eftir Gísla Konráðsson[494] en sjálfur hafði Sighvatur séð um útgáfu þeirrar bókar á Ísafirði árið 1892.[495] Í aprílmánuði vorið 1903 situr hann við að yrkja afmælisvísur til Sælands og tveimur dögum síðar færir ungi vísindamaðurinn Sighvati þýska grammavigt að gjöf.[496] Líklega hefur mátt líta á þá gjöf sem eins konar skáldalaun.  Um þetta leyti skilar Sem Sæland kennara sínum líka miklu af bókum og rétt um sumarmál lagði Norðmaðurinn ungi af stað heimleiðis.[497]

Alpha fór og með henni Sem Sæland til Mjóafjarðar og svo til Englands og þaðan heim, skrifar Sighvatur í dagbókina 22. apríl. Þannig var ferðamátinn. Rétt er að taka fram að Sem Sæland var ekki eini Norðmaðurinn sem Sighvatur veitti kennslu í íslensku og má sem dæmi nefna að maður sem Anton Andersen hét gekk til hans í tíma veturinn 1890 til 1891.[498]

Margir þeirra sem unnu í hvalstöðinni voru líka í góðu vinfengi við hinn uppreisnargjarna kotbónda og fræðimann á Höfða eins og dagbækur hans bera með sér þó ekki verði það rakið hér. Kaptein Berg mun hafa reynt ýmislegt til að hindra að starfsmenn hans kæmust í brennivín og viljað sjá til þess að verslunarbúðin á Þingeyri væri lokuð þegar verkamennirnir áttu frí.[499] Sighvatur vinur þeirra kom þá stundum fljótt til hjálpar og marga flöskuna keypti hann fyrir norsku verkamennina á Þingeyri. Sem dæmi má nefna að 2. júní 1891 færði hann þeim 16 flöskur úr krambúðinni hjá Gram.[500]

Litli Jón, dóttursonur Sighvats, var fljótur að komast á bragðið hjá Norðmönnunum. Hann var 13 ára þegar rekstri hvalstöðvarinnar var hætt en mundi þó eftir að hafa þegið púns hjá kúmmurum og flensurum sem þar unnu. Eitthvað drakk ég af þessu, sagði hann síðar, þá skraddari á gamalsaldri,  –  og þegar ég vildi meira sögðu þeir: „Nej, gutten min, så blir du fuld.” [501]

Litli Jón var líka fljótur að læra norskuna og sumar vísurnar sem þeir sungu í verkamannabröggunum fylgdu honum ævilangt:

 

Lördagskvelde kommer

    og det er nok så bra

    med jenta meg da vandrar

    for jenta må jeg ha

    og kjöpar på sin gamle vis

    og kjöpar på sin billige pris

    kattekuk og toddy

    og lever som en gris.

 

Einhverjir í hópi Norðmannanna á Höfðaodda áttu harmoniku[502] en þvílíkt dragspil var fágætt þing í íslenskum sveitum fyrir 1890. Harmonikuböllin sem Norðmenn efndu til á Höfðaodda voru því mikil nýjung. Eins og eðlilegt var fagnaði æskulýðurinn þessari nýbreytni en mörgum hinna eldri þótti víst nóg um. Einn þeirra var Sighvatur Borgfirðingur eins og sjá má á ummælum hans um þessar skemmtanir unga fólksins. Svolítill hópur Norðmanna dvaldist um kyrrt á Höfðaodda allan veturinn 1890-1891 og héldu Norðmennirnir þá nokkur böll sem Sighvatur nefnir ýmist Norðmannadans eða kríkaleik.  Hann skrifar:

 

Þorpsstelpur [þ.e. úr Bakkaþorpi, – innsk. K.Ó.] komu til leika við Norðmenn.[503] – Ólöf á Næfranesi kom og fleira þess konar hyski í Norðmannadans.[504] – Margt flakkhyski og stelpur komu á Kríkaglennu til Norðmanna um kvöldið. Að því finnur Þórður prestur ekki því það er ólifnaður.[505]

 

Í góubyrjun þennan sama vetur fór harka að færast í málin. Sighvatur, sem var stefnuvottur, greinir frá á þessa leið:

 

Friðrik í Garði kom með stefnu frá Hagalín sem við birtum Ólöfu á Næfranesi, Sigríði Ólafsdóttur, nú á Fremstu-húsum, Vigdísi Mósesdóttur á Bakka og Þuríði Tómasdóttur á Bakka sem allar eru kærðar fyrir ærumeiðandi kjaftaslúður þegar þær voru síðast í Kríkaleik hjá Norðmönnum,  –  borgun 2,- krónur.[506]

 

Nokkuð mun hafa dregið úr dansgleðinni hjá ungmeyjunum við þessar hremmingar, a.m.k. minnist Sighvatur sjaldnar á kríkaleik næstu árin en þó má í bókum hans sjá að á oddanum var haldið ball 4. janúar 1902.[507] Í Friðheimi, heima hjá kaptein Berg, virðist líka hafa verið dansað stöku sinnum en þar hafði almúginn að sjálfsögðu engan aðgang. – Séra Þórður var í gær á gleðileik og balli hjá Berg og gat því ekki messað, skrifar Sighvatur seint í ágúst árið 1894[508] en ekki er getið annarra gesta á þeim gleðileik.

Norðmannaböllin á Höfðaodda voru ekki einu samkomurnar sem þar voru haldnar á þeim árum sem hvalstöðin var í rekstri. Þjóðmálafund sem þar var haldinn 6. janúar 1891 sóttu menn úr flestum eða öllum hreppum Vestur-Ísafjarðarsýslu en sá fundur virðist hafa verið hinn fyrsti í langri röð funda sem brátt var farið að nefna þing- og héraðsmálafundi. Næsti fundur af þessu tagi var haldinn á Þingeyri 26. febrúar 1892[509] en á fyrri hluta 20. aldar voru slíkir fundir yfirleitt haldnir árlega og sóttu þá kjörnir fulltrúar úr hreppunum fimm í Vestur-Ísafjarðarsýslu. Í dagbók sinni getur Sighvatur um fundinn sem haldinn var á Höfðaodda 6. janúar 1891 og segir að þann fund hafi sótt Önfirðingar, Dýrfirðingar og Arnfirðingar.[510] Frá þessum sama fundi er sagt nokkru nánar í dagbók Jóns Guðmundssonar frá Grafargili í Önundarfirði en hann var einn fundarmanna. Jón getur þess að fundurinn hafi verið haldinn í verkamannahúsinu og segir Matthías Ólafsson frá Haukadal hafa verið fundarstjóra en séra Þórð Ólafsson á Gerðhömrum fundarritara.[511]

Fundurinn stóð í 5-6 klukkustundir og þar var meðal annars rætt um sjálfstæðismál, alþýðumenntun, kvenfrelsi, afnám vistarskyldu og hvernig helst myndi unnt að koma fjársölunni í betra horf.[512] Einnig var rætt um að halda þjóðhátíð í Dýrafirði á komandi sumri í tilefni þess að 1000 ár væru liðin frá því hinir fyrstu landnámsmenn settust hér að.[513] Sú hátíð var haldin á Þingeyri í septembermánuði á sama ári (sjá hér Vaðlar og Botn í Dýrafirði). Merkilegt er að sjá hvað umræðuefnin á þessum fundi Vestur-Ísfirðinga í ársbyrjun 1891 hafa verið fjölbreytt. Ætla má að þar gæti áhrifa frá Skúla Thoroddsen sem þá hafði verið sýslumaður Ísfirðinga í sjö ár og var fyrst kosinn á þing sama ár og fundur þessi var haldinn en hann beitti sér manna mest fyrir afnámi vistarbandsins og auknum réttindum kvenna.

Í blaði Skúla, Þjóðviljanum, er sagt ýtarlega frá fundinum og birtar nokkrar ályktanir sem þar voru samþykktar.[514] Framsögu um stjórnarskrármálið hafði Guðmundur Á. Eiríksson, bóndi á Þorfinnsstöðum í Önundarfirði, en meðal þeirra sem þátt tóku í umræðum um það mál voru bræðurnir Jóhannes og Matthías Ólafssynir frá Haukadal[515] sem báðir urðu síðar þingmenn fyrir Vestur-Ísafjarðarsýslu. Í ályktun fundarins um sjálfstæðismálin og stjórnarskrána voru bornar fram mjög róttækar kröfur sem allar voru samþykktar af fundarmönnum í einu hljóði.[516] Meðal annars var þess krafist að vald konungs til að neita lagafrumvörpum er Alþingi hefði samþykkt um staðfestingu yrði frá honum tekið en í staðinn fengi hann aðeins frestandi synjunarvald.[517] Í sama anda er líka krafa fundarins um að konungkjörnum þingmönnum verði fækkað úr sex í fjóra[518] en þannig mátti koma í veg fyrir að hinir konungkjörnu gætu einir sér stöðvað framgang lagafrumvarpa í efri deild Alþingis.

Frásagnir af fundinum á Höfðaodda 6. janúar 1891 bera með sér að þar hafa menn lagst eindregið gegn miðluninni[519] sem þá hafði nýlega verið til umræðu á Alþingi og fól í sér nokkurt fráhvarf frá ýtrustu kröfum í stjórnarskrármálinu.

Ekki er ætlunin að fjalla hér rækilega um þennan stjórnmálafund sem haldinn var á þrettánda degi jóla í verkamannahúsinu á Höfðaodda árið 1891 en þrjár ályktanir hans um alþýðumenntun og félagsleg réttindi verður þó að nefna. Guðmundur Á. Eiríksson á Þorfinnsstöðum, sem hér var áður nefndur, lagði til að reynt yrði að koma upp skóla í hverri sveit og kvaðst álíta heppilegast að sameina prest og skólakennara, kirkju og skóla.[520] Þessi tillaga bóndans á Þorfinnsstöðum var borin fram 16 árum áður en börn urðu almennt skólaskyld á Íslandi og ljóst er að hann hefur hugsað sér að nota mætti kirkjurnar sem skólahús. Sumum fundarmönnum á Höfðaodda mun reyndar ekki hafa litist beint vel á þessa hugmynd Guðmundar en tillaga hans um málið var þó samþykkt með meirihluta atkvæða.[521]

Um kvenfrelsismálið urðu líka nokkrar umræður á þessum merkilega fundi og lauk þeim með samþykkt tillögu er séra Þórður Ólafsson, prestur á Gerðhömrum, lagði fram en þar var skorað á alþingismenn Ísfirðinga að bera fram frumvarp um jafnrétti kvenna við karlmenn.[522] Athygli vekur að sú tillaga var samþykkt í einu hljóði.[523] Árið 1891 voru öll hin fjölmörgu vinnuhjú á Íslandi enn skyldug til að ráða sig í ársvistir hjá bændum eða öðrum forráðamönnum og áttu því ekki kost á að leita sér atvinnu til sjávar eða sveita eftir frjálsu vali frá degi til dags. Baráttan gegn vistarbandinu var þá rétt að hefjast og á fundinum á Höfðaodda þann 6. janúar lagði Jón Guðmundsson á Grafargili í Önundarfirði til að skorað yrði á þingmenn Ísfirðinga að bera strax á næsta þingi fram frumvarp um afnám vistarskyldunnar.[524] Þessi róttæka tillaga vakti nokkrar umræður en var síðan samþykkt í einu hljóði.[525]

Það litla sem hér hefur verið sagt um fundinn á Höfðaodda í janúar 1891 ætti að nægja til að sýna hvaða andi sveif yfir vötnunum á þeirri samkomu og ljóst er að kröfur um sjálfstæði þjóðarinnar og jafnrétti þegnanna áttu hug og hjörtu fundarmanna.

Fleiri stjórnmálafundir voru haldnir á Höfðaodda á árunum kringum aldamótin 1900. Sighvatur Borgfirðingur á Höfða segir í dagbók sinni að Hannes Hafstein, sýslumaður og síðar ráðherra, hafi mætt sem boðflenna á einn slíkan sem haldinn var 28. febrúar 1902.[526] Af þeim orðum og ritaðri frásögn má ráða að eindrægnin sem setti svip á fund þann sem haldinn var í janúar 1891 var nú týnd og tröllum gefin,[527] enda mikil pólitísk átök að baki þegar hér var komið sögu og flokkaskipting orðin harðsnúin, ekki síst á Vestfjörðum. Þeir almúgamenn sem vildu samt helst fylgja bæði Hannesi og Skúla voru þá hiklaust skilgreindir sem pólitískir rugludallar.

Dansleikir og stjórnmálafundir voru ekki einu samkomurnar sem efnt var til hér á Oddanum á þeim árum sem rekstur norsku hvalveiðistöðvarinnar stóð með blóma. Nefna má að búfræðingar boðuðu hér til fundar í febrúar 1894 en tombóla var haldin í marslok 1895 og bindindisfundur 29. desember 1901.[528]

Læknir og prestur fengu líka afnot af húsum hvalstöðvarinnar á Höfðaodda.  Sigurður Magnússon, sem var héraðslæknir Dýrfirðinga og þeirra nágranna frá 1893 til 1899, bjó fyrsta veturinn í grútarbýli Bergs niðri á Oddanum eins og Sighvatur Borgfirðingur orðar það.[529] Sjálfur segist Sigurður hafa haft þar tvö herbergi og eldhús og tekur fram að Lauritz Berg hafi greitt sér 200,- krónur á ári fyrir að sinna læknisverkum við hvalstöðina og á heimili kapteinsins.[530] Hér hefur áður komið fram að séra Þórður Ólafsson var í góðu vinfengi við kaptein Berg og að kvöldi páskadags árið 1893 párar Sighvatur á Höfða í dagbók sína þessi orð:  –  Séra Þórður hélt um kveldið messugjörð í grútarhúsunum hjá Berg sínum. Á þriðja dag jóla árið 1894 var aftur messað á sama stað.[531] Ætla má að séra Þórður hafi prédikað á norsku við þessar guðsþjónustur eða máske á dönsku.

Sumarið 1902 veiddu bátar hvalstöðvarinnar á Höfðaodda talsvert færri hvali en fengist höfðu að jafnaði næstu tvö ár á undan og nam sá samdráttur um það bil 25% (sjá hér bls. 52). Engu að síður mátti þetta kallast meðalveiði væri miðað við allt tímabilið frá 1890 svo varla hefur þessi fækkun veiddra hvala ráðið úrslitum um að stjórn Victor-félagsins í Noregi ákvað að hætta rekstri stöðvarinnar og koma sér þess í stað upp nýrri hvalstöð austur á Mjóafirði. Hans Ellefsen á Sólbakka hafði flutt allan sinn rekstur austur á Mjóafjörð árið 1901 (sjá hér Sólbakki) og doktor Joh. N. Tønnesen segir að meginskýringin á þeirri ráðabreytni hafi auk bruna verksmiðjunnar á Sólbakka verið sú að bátar frá stöðvum á Vestfjörðum hafi er árin liðu orðið að elta hvalina æ lengra austur með landinu.[532] Ætla má að minnkandi veiði úti fyrir Vestfjörðum og Húnaflóa hafi líka valdið mestu um að stöðin á Höfðaodda var flutt austur.

Árið 1903 kom kaptein Berg til Dýrafjarðar þann 12. mars[533] eða um svipað leyti og hann var vanur. Bátarnir hófu líka veiðar en þeim lauk 10. maí er báturinn Ingibjörg kom að landi með síðasta hvalinn sem unninn var í verksmiðjunni á Höfðaodda.[534]  –  Alpha fór til Mjóafjarðar með Berg og hans Familíu og hestana alla, skrifar Sighvatur Borgfirðingur 15. júní 1903.[535] Um það leyti mun verksmiðjunni á Oddanum hafa verið lokað og hún tók aldrei til starfa á ný. Á þessu sama sumri komu hinir norsku eigendur stöðvarinnar í Dýrafirði upp nýrri hvalstöð í Hamarsvík í Mjóafirði og næstu árin stýrði Lauritz Berg rekstrinum þar.[536]

Í septembermánuði haustið 1903 kom kaptein Berg þó aftur að Höfða með fjölskyldu sína og hér á Oddanum voru hvalbátar Victor-félagsins settir upp eins og venja hafði verið í síðari hluta september.[537] Fáeinir Norðmenn voru hér líka um veturinn til að dytta að bátunum en sjálfur lét Berg í haf eftir fimm daga dvöl á Höfða.[538] Skipið Alpha sem Victor-félagið hafði í flutningum yfir Atlantshafið á þessum árum kom til Dýrafjarðar 22. mars 1904 og með því kaptein Berg.[539] Þá var farið að setja bátana niður og rífa sum af húsum hvalstöðvarinnar. Nú er búið að rífa Friðheim og hálfa gúanóbúðina, skrifar Sighvatur 6. apríl 1904,[540] en Friðheimur var íbúðarhús Bergs eins og hér hefur áður verið getið. Næstu nótt lagði Alpha af stað austur á Mjóafjörð með Berg og allan flutninginn eins og Sighvatur orðar það. – Nú er hér enginn af hans liði, skrifar karlinn 7. apríl, nema gæsli djöfull með sínum skækjum.[541] Kaptein Berg hélt þó áfram að koma til Dýrafjarðar vor og haust tvö næstu ár og hvalveiðibátana lét hann standa uppi á Höfðaoddanum tvo næstu vetur. Á þessum árum, 1904-1906, hélt kaptein Berg líka áfram að greiða útsvar til sveitarsjóðs Mýrahrepps en að vísu nær helmingi lægra en á hann hafði verið lagt næstu ár á undan.[542] Árið 1906 lét Berg hins vegar af störfum sem framkvæmdastjóri Victor-félagsins á Íslandi og dó 1907.[543] Eftir það voru hvalbátar félagsins aldrei teknir á land á Höfða[544] en hvalstöðin í Hamarsvík í Mjóafirði var starfrækt til ársins 1913, tvö síðustu árin af nýjum eigendum.[545]

Helstu byggingar hvalstöðvarinnar á Höfðaodda héngu uppi í átta ár frá því vinnslu hvalafurða var hætt eða allt til ársins 1911. Þann 14.september 1910 segir Sighvatur á Höfða frá tíðindum á þessa leið: Hér eru menn dag hvern að skoða Bergshúsin, sendir frá Milljónafélaginu sem líklega kaupir allt það gamla grútarinni.[546]  Þau kaup fóru fram skömmu síðar[547] og 1. ágúst 1911 færir Sighvatur enn nýjar fréttir er hann segir:  Nú var bræðsluhúsið rifið til grunna og Fabrikkan farin. En næsta dag bætir hann við: Gufuskip kom og tók hér lýsisjárnkassa úr fabrikkunni og fór svo.[548]

Einn þeirra sem unnu við að rífa hvalstöðina á Höfðaodda sumarið 1911 var Páll Kristjánsson frá Stapadal.[549] Þetta sama sumar kveðst hann líka hafa smíðað ferju til að flytja hesta yfir Dýrafjörð og var það stór bátur með gafli sem tekinn var úr svo hestarnir ættu létt með að ganga um borð.[550]

Haustið 1911 voru flest hin ytri ummerki hvalstöðvarinnar horfin á braut en mannlífið í Mýrahreppi varð aldrei hið sama og áður eftir norska ævintýrið sem þar hófst árið 1890. Við stöndum nú hér á Oddanum miðjum og svipumst um. Augun staðnæmast við húsin í Hvammi, handan fjarðar. Ef hátt er sungið í Hvammi má á kyrrum dögum heyra þann söng heima við bæ á Höfða. Að minnsta kost heyrði Sighvatur Borgfirðingur óm af því sem sungið var við húskveðju í Lægsta-Hvammi 27. september 1902 á útfarardegi Kristjáns Jónssonar, bónda þar.[551] Vegalengdin er rösklega tveir kílómetrar.

Svo förum við héðan, yfirgefum Höfða og þokum okkur áleiðis fram í Hjarðardal. Næsta býli sem við heimsækjum er Fremri-Hjarðardalur en þangað er aðeins hálftíma gangur sé farin beinasta leið. Við leggjum hins vegar dálitla lykkju á leið okkar milli bæjanna og komum við í selinu frá Höfða þar sem Hólmfríður Vigfúsdóttir mjaltaði kvíaær sumarið 1873 (sjá hér bls. 3). Seltóttirnar eru auðfundnar ef gengið er með ánni uns komið er að Háhólum (sjá hér bls. 3) en þangað er tæplega klukkutíma gangur heiman frá bæjunum á Höfða. Eftir góða hvíld í selinu vöðum við yfir Hjarðardalsá og gerum stuttan stans á árbakkanum hinum megin.

 

 

 

 

– – – – – – – – – – o o o o o – – – – – – – – – –

[1] Örnefnaskrá.

[2] Sama heimild.

[3] Jóhannes Davíðsson 1968, 43 (Ársrit S.Í).

[4] Örnefnaskrá.

[5] Sama heimild.

[6] Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín VII, 60.

[7] Ólafur Olavius 1964, I, 177-178.

[8] Sama heimild.

[9] J. Johnsen 1847, 193.

[10] Þjóðsögur og þættir II, 223-224.

[11] Sama heimild.

[12] Guðmundur Gíslason, Höfða. – Viðtal K.Ó. við hann 1.7.1992.

[13] Örnefnaskrá.

[14] Sama heimild.  Lbs. 23744to, Dagbók Sighvats Grímssonar Borgfirðings 18.3.1882.

[15] Örnefnaskrá.  Lbs. 23754to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 30.11.1893.

[16] Lbs. 23754to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 30.11.1893.

[17] Örnefnaskrá.

[18] Poul Löwenörn 1788. Beskrivelse over den Iislandske Kyst 1, 68.

[19] Jóhannes Davíðsson 1968, 44 (Ársrit S.Í.).

[20] Örnefnaskrá.

[21] Örnefnaskrá.

[22] Sama heimild.

[23] Sama heimild.

[24] Sama heimild.

[25] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 12.7.1873.

[26] Sama dagbók 14. og 15.7.1873.

[27] Sama dagbók 10.5.1877.

[28] Sama dagbók 4.9.1885.

[29] Jarðab. Á. og P. VII, 60.

[30] Sama heimild, 61.

[31] Jarðab. Á. og P. VII, 61.

[32] Jóhannes Davíðsson 1968, 44 (Ársrit S.Í.).

[33] Sóknalýsingar Vestfjarða II, 67.

[34] Jarðab. Á. og P. VII, 61.

[35] Sóknalýs. Vestfj. II, 67.

[36] D.I. V, 98-99.

[37] Sama heimild.

[38] Íslensk fornrit I, 180-181.

[39] Árbók Hins ísl. fornleifafélags 1883, 32-33.

[40] Sigurður Vigfússon 1892, 130-133. (Árbók Hins ísl. fornleifafélags).  Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 9. – 19.8.1888.

[41] Sömu heimildir.

[42] Sigurður Vigfússon. 1892, 130-133.

[43] Sama heimild.

[44] Sama heimild.

[45] Sigurður Vigfússon. 1892, 130-133 (Árbók Hins ísl. fornleifafélags).

[46] Sama heimild.

[47] Sama heimild.

[48] Sigurður Vigfússon. 1892, 130-133.

[49] Guðmundur Gíslason, Höfða. – Viðtal K.Ó. við hann 1.7.1992.

[50] Sama heimild. Örnefnaskrá.

[51] Sömu heimildir.

[52] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 11.8.1884.

[53] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 12.9.1890.

[54] Frásögur um fornaldarleifar 1983, II, 417.

[55] Vestf. sagnir III, 150.  Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 23.10.1891.

[56] Vestf. sagnir III, 150.

[57] Guðmundur Gíslason, Höfða. – Viðtal K.Ó. við hann 1.7.1992.

[58] Frásögur um fornaldarleifar 1983, II, 419.

[59] Guðmundur Gíslason, Höfða. – Viðtal K.Ó. við hann 1.7.1992.

[60] Frásögur um fornaldarleifar 1983, II, 419.

[61] Lbs. 23764to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 17. og 18.7.1911.  Lbs. 23744to, sama dagbók 17.7.1886.

[62] Jarðab. Á. og P. VII, 60.

[63] Guðmundur Gíslason, Höfða. – Viðtal K.Ó. við hann 1.7.1992.

[64] Sama heimild.

[65] D.I. V, 222,  VI, 154-155,  VIII, 194.

[66] Alþingisbækur Íslands V, 98.

[67] Annálar III, 93 og 105.

[68] Alþ.b. Íslands V, 98.

[69] Sama heimild.

[70] Sama heimild.

[71] Alþ.b. Íslands V, 98.

[72] Sama heimild.

[73] Lbs. 7974to, Jarðaskrár úr Ísafj.s. frá árunum 1658 og 1695.

[74] Ísl. æviskrár III, 443.

[75] Alþ.bækur Íslands VIII, 371. Sbr. þar bls. 202 og 581.

[76] Ísl. æviskrár III, 217, 431, 432 og 443.

[77] Ísl. æviskrár III, 172-173, 432 og 443.

[78] Lbs. 7974to, Jarðaskrár úr Ísafj.s. frá árunum 1658 og 1695.

[79] Sama heimild. Sbr Ísl. æviskrár III, 172-173 og Manntal 1703, 200. Annálar III, 380.

[80] Alþ.bækur Íslands VIII, 202 og 371.

[81] Sama heimild.

[82] Jarðabók Á. og P. VII, 60.

[83] Sama heimild XIII, 286-287.

[84] Sama heimild.

[85] Sama heimild. Manntal 1703, 195-199.

[86] Sbr. Jarðabók Á. og P. VII, 49-50 og Manntal 1703, 195.

[87] Jarðabók Á. og P. VII, 60. Sbr. sama XIII, 286-287 og Manntal 1703, 194.

[88] Jarðabók Á. og P. VII, 60. Sbr. sama XIII, 286-287.

[89] Ísl. æviskrár III, 443.

[90] Manntal 1762.

[91] Sama heimild. Ísl. æviskrár I, 145 og IV, 310. Sbr. Alþ.bækur Íslands XIII, 66-67.

[92] Manntal 1762.

[93] Rtk. Jarðabækur V. 16, Ísafj.sýsla 1805. Ól.Þ.Kr./Önfirðingar.

[94] Sömu heimildir. Manntal 1801, vesturamt, bls. 277 og 285.

[95] Sömu heimildir.

[96] Manntal 1801, vesturamt, bls. 277.

[97] Sama heimild.

[98] Ól.Þ.Kr. 1949, 105-106 (Frá ystu nesjum V).Lögréttum.tal, bls. 7.

[99] Ól.Þ.Kr. 1949, 105-106.

[100] Ól.Þ.Kr./Önfirðingar.

[101] Manntal 1845, vesturamt, bls. 282-283.

[102] Manntöl 1703, 1762, 1801, 1845.

[103] Finnur Sigmundsson / Lesbók Morgunbl. 27.10.1940.

[104] Sama heimild.

[105] Sama heimild.

[106] Sama heimild.

[107] Sama heimild.

[108] Sama heimild.

[109] Finnur Sigmundsson / Lesbók Morgunbl. 27.10.1940.

[110] Kristinn Guðlaugsson 1982, 265 (Frá ystu nesjum 2. útg., 3. bindi).

[111] Sama heimild, 266.

[112] Finnur Sigmundsson / Lesbók Morgunbl. 27.10.1940.

[113] Safn til sögu Íslands, 2. bindi.

[114] Tímarit  Bókmenntafélagsins, 18. árg.

[115] Blanda II.

[116] Blanda III.

[117] Ísl. æviskrár IV, 200-201.

[118] Sama heimild og sama III, 487.

[119] Finnur Sigmundsson / Lesbók Morgunbl. 27.10.1940.  Sami 1982, 269-272.

[120] Ísl. æviskrár IV, 200-201.

[121] Björn H. Jónsson  1961, 141-170 (Ársrit Sögufélags Ísfirðinga).

[122] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Flateyjar á Breiðafirði.

[123] Sama heimild.

[124] Sbr. Gunnar M. Magnúss 1973, 51-52.

[125] Kristinn Guðlaugsson 1982, 266 (Frá ystu nesjum 2. útg. 3. bindi).

[126] Björn H. Jónsson 1961, 159 (Ársrit S.Í.).

[127] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. Ársyfirlit 1882.

[128] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. Ársyfirlit 1882.

[129] Sama heimild.

[130] J. Johnsen 1847, 193.

[131] Þorvaldur Thoroddsen / Lýsing Íslands III, 45.

[132] Lbs. 23744to    og   23754to , Dagbækur Sighv. Gr. Borgf. Ársyfirlit 1873-1900.

[133] Sömu heimildir.

[134] Sömu heimildir.  Þjóðviljinn ungi II, 10, 14 og 23, sbr. sama blað III, 1.

[135] Lbs. 23744to og 23754to, Dagbækur Sighv. Gr. Borgf. Ársyfirlit 1873-1900.

[136] Sömu heimildir.

[137] Sömu heimildir.

[138] Lbs. 23744to og   23754to  , Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 2.5.1882.

[139] Sama dagbók, mars, apríl og maí 1882.

[140] Sama dagbók 3.6.1882.

[141] Lbs. 23744to og   23754to , Dagb. S. Gr. B. 8. og 23.9.1876.

[142] Sama dagbók 14.11.1888 og ársyfirlit frá því ári.  Björn H. Jónsson 1961, 149 (Ársrit S.Í.).

[143] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 8.11. og 26.11.1887 og 11.2.1888.

[144] Sama dagbók 28.5.1881.

[145] Kristinn Guðlaugsson 1982, 265 (Frá ystu nesjum 2. útg. 3. bindi).

[146] Lbs. 23744to, Dagb. S.Gr.B. 1873-1890.

[147] Sama heimild.

[148] Sama dagbók 28.4., 8.7. og 12.8.1886 og yfirlit um það ár.

[149] Sama heimild.

[150] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 19.4.1888 og yfirlit um það ár.

[151] Sama heimild.

[152] Stjórnartíðindi 1889 B, 21 og 25.

[153] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 25.8.1884.

[154] Lbs. 23754to, Dagb. S.Gr.B. 1894, ársyfirlit.

[155] Sama dagbók 2.8.1894.

[156] Sama dagbók, ágúst til nóv. 1894.

[157] Sama dagbók 23.8.1884, 19.8.1886, 14.8. og 29.10.1894.

[158] Lbs. 23744to Dagb. Sighv. Gr. Borgf. júlí og ágúst 1874.

[159] Landið þitt Ísland V, 140.

[160] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 1879.

[161] Sama dagbók, ársyfirlit 1879.

[162] Sama dagbók, 26.8.1879.

[163] Sama dagbók, ársyfirlit 1887.

[164] Stjórnartíðindi 1888 B, 28-29.

[165] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr.Borgf. 4. og 5.9.1876, 6.11.1878 og 23.7.1879.

[166] Sveinn Níelsson 1950, 189-190.

[167] Lbs. 23754to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. júní og júlí 1895.

[168] Lbs. 23744to, Dagb. S.Gr.B., ársyfirlit 1890 og okt. 1891.

[169] Sama dagbók 19. – 21.12.1877.

[170] Lbs. 23744to, Dagbók S.Gr.B. 10.6.1878.

[171] Sama dagbók 28.2. – 3.3.1879.

[172] Sama dagbók 23.1.1880.

[173] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr.Borgf.  16.7.1882.

[174] Sama dagbók 14.-16.8.1882.

[175] Sama dagbók 22.10.1883.

[176] Sama dagbók 18.5.1884.

[177] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr.Borgf.  9.12.1885.

[178] Sama dagbók, mars 1886.

[179] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 31.3.1886.

[180] Sama dagbók, júlí 1886.

[181] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf.  29.3. og 31.12.1890.

[182] Sama dagbók 23.2. og 18.3.1893.

[183] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 6. og 7.10.1894.

[184] Sama dagbók 7.2. og 12.4.1894.

[185] Sama dagbók 21.11.1877.

[186] Sama dagbók 28.12.1877.

[187] Sama dagbók 28.12.-31.12.1877.

[188] Sama dagbók, 3.1.1878.

[189] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 14.1.1878 og 3.10.1884.

[190] Sama dagbók, ársyfirlit 1877.

[191] Sama dagbók, ársyfirlit 1878.

[192] Sama dagbók 14.-16.1.1878.

[193] Sama dagbók 9.2.1878.

[194] Sama dagbók 13.2.1880.

[195] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf.,  janúar og febrúar 1876.

[196] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf.,  janúar og febrúar 1876.

[197] Sama heimild.

[198] Kristinn Guðlaugsson 1982, 267 (Frá ystu neskum 2. útg. 3. bindi).

[199] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 27.9. og 24.10.1885.

[200] Sama dagbók, ársyfirlit 1897.

[201] Sama dagbók 18.7.1878, 17.10.1885 og 30.7.1889.

[202] Lbs. 23744toog 23754to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf.  12.7.1891 og 12.6.-14.6.1892.

[203] Sama dagbók 6.12.1893.

[204] Sama dagbók, september 1892.

[205] Sama heimild.

[206] Sama dagbók, október 1873.

[207] Sama dagbók 15.9.1892.

[208] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 18.11.1885, 8.5.1886, 18.2.1888, 4.10.1890, ársyfirlit 1887, 1888,

1889, 1891.  Lbs. 23754to, Sama dagbók, ársyfirlit 1893 og 1897.

[209] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf., ársyfirlit 1887.

[210] Sama dagbók, ársyfirlit 1893.

[211] Sama dagbók, ársyfirlit 1900 og 28.9.1902.

[212] Sama dagbók 18.2.1888 og 4.10.1890.

[213] Sama dagbók, ársyfirlit 1889.

[214] Sama dagbók 9.7. og 22.10.1892 og ársyfirlit 1892.

[215] Lúðvík Kristjánsson 1955, 157.

[216] Kristinn Guðlaugsson 1982, 266 (Frá ystu nesjum 2. útg., 3. bindi).

[217] Lbs. 23754to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. júní 1892.

[218] Sama dagbók 18.6.1892.

[219] Sama dagbók 25.12.1893.

[220] Sama dagbók 15.5.1895.

[221] Lbs. 23754to, Dagbók Sighv. Gr. Borgf. 3.1.1893.

[222] Sama dagbók, 6. og 13.1.1893.

[223] Jón Guðnason 1968, 264-265.

[224] Lbs. 23754to, Dagbók Sighv. Gr. Borgf. 10.3.1895.

[225] Lbs. 23754to, Dagbók Sighv. Gr. Borgf. 1895-1900.

[226] Magnús Hjaltason / Gunnar M. Magnúss 1973, 52.

[227] Lbs. 23744to, Dagbók Sighv. Gr. Borgf. 9.11.1881.

[228] Sóknarm.töl Sandaprestakalls.

[229] Hsk. á Ísaf. nr. 222 (954). Bréf F.R. Wendel 29.10.1881 til sýslum. í Ísafj.sýslu.

[230] Hsk. á Ísaf. nr. 222 (954). Bréf F.R. Wendel 29.10.1881 til sýslum. í Ísafj.sýslu.

[231] VA-J B, nr. 2236. Útskrift úr dómabók Ísafj.sýslu, réttarhald á Þingeyri 9.11.1881.

[232] Sama heimild.

[233] Sama heimild.

[234] Sama heimild.

[235] Sama heimild.

[236] VA-J B, nr. 2236. Útskrift úr dómabók Ísafj.sýslu, réttarhald á Þingeyri 9.11. 1881.

[237] Sama heimild.

[238] Sama heimild.

[239] Sama heimild.

[240] Sama heimild.

[241] VA-J B, nr. 2236. Bréf C. Fensmarks sýslum. 11.1.1882 til amtm. yfir Vesturumdæm Íslands.

[242] Sama askja. Bréf amtm. í vesturamti 8.5.1882 til sýslum. í Ísafj.sýslu, afrit.

[243] Sama askja. Bréf C. Fensmarks sýslum. 20.8.1882 til amtm. yfir suður- og vesturamtinu og meðf.  útskr.

frá réttarhaldi á Þingeyri 19.8.1882.

[244] Stjórnartíðindi 1883 B, 21.

[245] VA-J B, nr. 2236. Bréf C. Fensmarks sýslum. 20.8.1882 til amtm. yfir suður- og vesturamtinu.

[246] Sama heimild.

[247] Sama heimild.

[248] Sama askja. Bréf amtm.  í suður- og vesturamtinu 5.4.1883 til sýslum. í Ísafj.sýslu, afrit.

[249] VA-J B, nr. 2236. Bréf amtm. Í suður- og vesturamtinu 5.4. 1883 til sýslum. Í Ísafj.sýslu, afrit..

[250] Sama askja. Bréf Skúla Thoroddsen 9.1.1885 til amtm. yfir suður og vesturamtinu.

[251] Sama heimild.

[252] Guðm. G. Hagalín 1951, 32-33.

[253] Guðm. G. Hagalín 1951, 32-33.

[254] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. ársyfirlit 1880.

[255] Lbs. 23754to, Dagb. S.Gr.B. 1.9.1895.

[256] Lbs. 23754to, Dagb. S.Gr.B. 1.9.1895.

[257] Björn H. Jónsson 1961, 169-170  (Ársrit S.Í.).

[258] Lbs. 23744to og 23754to, Dagbækur Sighv. Gr. Borgf. 1875-1895.

[259] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 22.12.1883.

[260] Ísafold XVIII. árg. 42. tbl.

[261] Sama heimild.

[262] Kulturhistorisk Leksikon for nordisk Middelalder III, 598-602.

[263] Ísl. æviskrár III, 369-370.

[264] Gunnar Harðarson 1989, 19.

[265] Gunnar Harðarson 1989, 20.

[266] Sama heimild, 23.

[267] Stefán Karlsson / Morgunbl. 24.4.1993.

[268] Bjarni Benediktsson frá Hofteigi 1958, 63.

[269] Guðmundur Gíslason, Höfða. – Viðtal K.Ó. við hann 1.7.1992.

[270] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf., ársyfirlit 1880.

[271] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga 1873-1880.  Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 10.4. og 17.9.1879.

[272] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf 17.9.1879.

[273] Sama dagbók 30.3.1880.

[274] Sama dagbók 17.6.1879.

[275] Sama dagbók 7.5.1880.

[276] Sama dagbók 10.6.1880.

[277] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf., ársyfirlit 1880.

[278] Sama heimild.

[279] Sama dagbók 18.1.1882.

[280] Sama dagbók 2.11.1891.

[281] Sama dagbók, 1875-1900.

[282] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf., 1884.

[283] Sama heimild.

[284] Lbs. 23754to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. ársyfirlit 1896 og 1899.

[285] Kristinn Guðlaugsson 1982, 264-265 (Frá ystu neskum 2. útg. 3. bindi).

[286] Sama heimild.

[287] Sama heimild, 268.

[288] Sama heimild.

[289] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 14.-28.7.1888.

[290] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 26.7.1888.

[291] Sama dagbók 14. – 20.7.1889.

[292] Sama dagbók 5.7.1890, 19.5.1891 og 24.7.1892.

[293] Sama dagbók 30.9.1890.

[294] Lbs. 23754to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 28.5.1894.

[295] Lbs. 23744to  og  Lbs. 23754to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. ársyfirlit 1889 og 1899.

[296] Sama dagbók 22.8. 1881.

[297] Sama heimild

[298] Sama dagbók 1.9.1881.

[299] Sama dagbók, 11.10. og 19.10.1882.

[300] Sama dagabók 20.10. og 25.10.1894.

[301] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 12. og 13. júlí 1895.

[302] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 9.12. og 14.12.1882.

[303] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 25.1., 26.1., 28.1., 11.2. og 24.3. 1881.

[304] Magnús Jónsson 1957, 229.

[305] Lbs. 23744to og 23754to, Dagbækur Sighv. Gr. Borgf. 1881-1895.

[306] Sömu dagbækur 20.4.1885, 8.3.1890, 25.1.1893 og 30.12.1893.

[307] Lbs. 23744to og 23754to, Dagbækur Sighv. Gr. Borgf. 1881-1895.

[308] Sömu dagbækur.

[309] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 4.4.1881.

[310] Sama dagbók 6.1. 1881.

[311] Sama dagbók, janúar-mars 1881.

[312] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 28.1.1881.

[313] Sama heimild.

[314] Guðmundur Bernharðsson 1985, 51.  Ottó Þorvaldsson 1980, 50-51.

[315] Guðm. Bernh. 1985, 51.

[316] Jón Jónsson / Guðjón Friðriksson 1975, 4-6 (Hljóðabunga).

[317] Jón Jónsson / Guðjón Friðriksson 1975, 4-6 (Hljóðabunga).  Sbr. Magnús Hjaltason / Gunnar M. Magnúss 1973, 54.

[318] Magnús Hjaltason / Gunnar M. Magnúss 1973, 44-61.

[319] Magnús Hjaltason / Gunnar M. Magnúss 1973, 44-61, 57-58

[320] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 8.9. og 18.9.1876.

[321] Sama dagbók 23.9.1876.

[322] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[323] Prestsþj.b. og sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[324] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 1. og 2.10.1877.

[325] Sama heimild.

[326] Sama dagbók 15.4.1879.

[327] Sama dagbók 14.5.1879.

[328] Prestsþj.b. Dýrafj.þinga.

[329] Sama heimild.

[330] Björn H.Jónsson 1961, 163 (Ársrit S.Í.).

[331] Sama heimild.

[332] Björn H.Jónsson 1961, 163 (Ársrit S.Í.).

[333] Sama heimild.

[334] Björn H. Jónsson 1961, 166-167 (Ársrit S.Í.).

[335] Guðm. G. Hagalín 1952, 205.

[336] Sama heimild.

[337] Finnur Sigmundsson / Lesbók Morgunbl. 27.10.1940.

[338] Lbs. 23774to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 12. og 13.1.1930.

[339] Björn H. Jónsson 1961, 166-168.

[340] Finnur Sigmundsson / Lesbók Morgunbl. 27.10.1940.

[341] Guðmundur Gíslason, Höfða. – Viðtal K.Ó. við hann 1.7.1992.

[342] Trausti Einarsson 1987, 51-52.  Joh. N. Tönnesen 1981, 20-24 (Ársrit S.Í.).

[343] Sömu heimildir.

[344] Trausti Einarsson 1987, 51-52.

[345] Sama heimild, 44-46.

[346] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 1890.

[347] Trausti Einarsson 1987, 54-56.

[348] Sama heimild.

[349] Trausti Einarsson 1987, 51-59.

[350] Sama heimild, 54.

[351] Joh.N. Tönnesen 1981, 40-42 (Ársrit S.Í.).

[352] Sama heimild.

[353] Trausti Einarsson 1987, 57.

[354] Joh. N. Tönnesen 1981, 40-42.

[355] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 26. – 30.9.1889.

[356] Sama heimild.

[357] Sama heimild.

[358] Sama heimild.

[359] Trausti Einarsson 1987, 112.

[360] Sama heimild.

[361] Sama heimild, 112-113.

[362] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 3. – 5.5.1890.

[363] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 3. – 5.5.1890.

[364] Sama dagbók 14.5.1890.

[365] Sama dagbók, maí og júní 1890.

[366] Sama heimild.

[367] Trausti Einarsson 1987, 89-91.  Jón Jónsson / Guðjón Friðriksson 1975, 13-14 (Hljóðabunga).

[368] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. júlí 1890.

[369] Sama dagbók, maí 1890.

[370] Sama dagbók, 1890-1893.

[371] Aðalskipaskrá nóv. 1870 – sept. 1896, 80-82.  Aðalskipaskrá 6.9.1895 – 17.6.1920 ,13.

[372] Magnús Gíslason 1949, 21.

[373] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. júní 1890.

[374] Magnús Gíslason 1949, 19-20.

[375] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 2.8.1890.

[376] Trausti Einarsson 1987, 63.

[377] Trausti Einarsson 1987, 64.

[378] Lbs. 23754to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 21.6.1892.

[379] Guðmundur Gíslason, Höfða. – Viðtal K.Ó. við hann 1.7.1992.

[380] Sama heimild.

[381] Guðmundur Gíslason, Höfða. – Viðtal K.Ó. við hann 1.7.1992.

[382] Jón Jónsson / Guðjón Friðriksson 1975, 14 (Hljóðabunga).

[383] Jón Jónsson / Guðjón Friðriksson 1975, 14 (Hljóðabunga).

[384] Jón Jónsson / G. Fr. 1975, 14.

[385] Magnús Gíslason 1949, 12 og 14.

[386] Magnús Gíslason 1949, 20-21.

[387] Trausti Einarsson 1987, 61.

[388] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 2.6. og 16.7.1890.  Magnús Gíslason 1949, 14.

[389] Trausti Einarsson 1987, 61.

[390] Jón Jónsson / Guðjón  Friðriksson 1975, 13.

[391] Jón Jónsson / Guðjón Friðriksson  1975, 14 (Hljóðabunga).

[392] Sama heimild.

[393] Magnús Gíslason 1949, 16.

[394] Sama heimild.

[395] Lbs. 2374to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. ársyfirlit 1890.

[396] Magnús Gíslason 1949, 23.

[397] Lbs. 23744to og Lbs. 23754to, Dagbækur Sighv. Gr. Borgf. 1890-1903.

[398] Sama heimild.

[399] Joh. N. Tønnesen 1981, 42.

[400] Lbs. 23744to og 23754to, Dagbækur Sighv. Gr. Borgf. 1890, 1891 og 1893.

[401] Lbs. 23744to og 23754to, Dagbækur Sighv. Gr. Borgf. 1890-1902.

[402] Sömu dagbækur.

[403] Sömu dagbækur.  Joh. N. Tønnesen 1981, 42 (Ársrit S.Í.).

[404] Joh. N. Tønnesen 1981, 42.

[405] Joh. N. Tønnesen 1981, 42.

[406] Lbs. 23754to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 3.6. og 24.7.1894.

[407] Sama dagbók, 4.6.1895.

[408] Lbs. 23744to og 23754to, Dagbækur Sighv. Gr. Borgf. 1892-1894.

[409] Sömu dagbækur, 1890-1902.

[410] Jón Jónsson / Guðjón. Friðriksson 1975, 14 (Hljóðabunga).

[411] Trausti Einarsson 1987, 93.

[412] Sjómannadagsblaðið 1984, 27-32.

[413] Sjómannadagsblaðið 1984, 27-32.

[414] Sama heimild.

[415] Lbs. 23744to og 23754to, Dagbækur Sighv. Gr. Borgf. 1890-1902.

[416] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga.

[417] Sama heimild.

[418] Sóknarmannatal Dýrafjarðarþinga 31. 12. 1900.

[419] Manntal 1901.

[420] Lbs. 23744to og 23754to, Dagbækur Sighv. Gr. Borgf. 1890-1902.

[421] Lbs. 23754to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 20.5.1895.

[422] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 3.5., 26.5., 2.8. og 21.9.1890, 21.6.1891, 1.3., 21.5. og 21.6.1892.

[423] Lbs. 23754to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 27.3.1895.

[424] Sama dagbók, 1892-1897.

[425] Skj.s. landshöfð. – skráningarmál 1896-1899, askja nr. 1.  Aðalskipaskrá 6.9.1895 – 17.6.1920, 12.

[426] Sömu heimildir.

[427] Aðalskipaskrá 6.9.1895 – 17.6.1920, 12.

[428] Skj.s. landshöfð. – skráningarmál 1896-1899, askja nr. I.

[429] Magnús Gíslason 1949, 15-16.  Lbs. 23754to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 12.3. og 15.6.1903.

[430] Trausti Einarsson 1987, 114 og 146.

[431] Sama heimild.

[432] Trausti Einarsson 1987, 65.

[433] Skj.s. sýslum. og sv.stj. V-Ís. Mýrahr. 16. Niðurjöfnunarbók 1875-1906.

[434] Trausti Einarsson 1987, 58.

[435] Skj.s. sýslum. og sv.stj. V-Ís. Mýrahr. 16. Niðurjöfnunarbók 1875-1906.

[436] Sama heimild.

[437] Sama heimild.

[438] Skj.s. sýslum. og sv.stj. V-Ís. Mýrahr. 16. Niðurjöfnunarbók 1875-1906.

[439] Sama heimild.

[440] Trausti Einarsson 1987, 58.

[441] Trausti Einarsson 1987, 58.

[442] Jón Jónsson / Guðjón Friðriksson 1975, 16 (Hljóðabunga).

[443] Lbs. 23744to og 23754to, Dagbækur Sighv. Gr. Borgf. 1890-1902.

[444] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga 1889-1905.

[445] Sama heimild.

[446] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga 1889-1905.

[447] Sama heimild.

[448] Lbs. 2374to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 16.8. og 2.10.1890

[449] Trausti Einarsson 1987, 89.

[450] Lbs. 23744to og 23754to, Dagbækur Sighv. Gr. Borgf. 1890-1895.  Sóknarm.töl Dýrafj.þ. frá sömu árum.

[451] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga 1896-1902.

[452] Jón Jónsson / Guðjón Friðriksson 1975, 14 (Hljóðabunga).

[453] Sama heimild.

[454] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga 1890-1900.

[455] Sama heimild.  Lbs. 2375to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 12.10.1894.

[456] Sóknarm.töl Dýrafj.þinga 1890-1900.

[457] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 17.7.1890.

[458] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf.  22.7.1890 og 18.4.1891.

[459] Sama dagbók  26.10.1891.

[460] Lbs. 23744to  og 23754to, sama dagbók, 1891-1895.

[461] Lbs. 23744to, Dagbók, Sighv. Gr. Borgf. 24.12.1891.

[462] Sama dagbók 24.12.1890 og 7.7.1891.

[463] Sama dagbók 31.12.1892 og ársyfirlit 1893.

[464] Lbs. 23754to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 1893-1895.

[465] Kristín Dahlstedt / Hafliði Jónsson 1961, 40.

[466] Gjörðabók Mýrakirkju 1802-1981, 149-152 (Bókin varðveitt 1992 hjá Bergi Torfasyni).

[467] Trausti Einarsson 1987, 90.

[468] Gjörðabók Mýrakirkju 1802-1981, 149-152.

[469] Lbs. 23754to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 11.2.1893.

[470] Sama dagbók 17.5.1893.

[471] Sigurður Magnússon, læknir, 1985, 97.

[472] Sama heimild.

[473] Lbs. 23754to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 22.4.1893.  Trausti Einarsson 1987, mynd nr. 23.

[474] Lbs. 23754to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 1.8.1894.

[475] Lbs. 23744to og 23754to, Dagbækur Sighv. Gr. Borgf. 1890-1895.

[476] Sömu dagbækur.

[477] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 11.5.1891.

[478] Magnús Gíslason 1949, 19-20.

[479] Magnús Gíslason 1949, 19-20.

[480] Lbs. 23754to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 19.7.1895.

[481] Fridtjof Nansen 1916, 118-119 (Frilufts-Liv).

[482] Sama heimild, 116-123.

[483] Lbs. 23754to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 1.8.1900.

[484] Fridtjof Nansen 1916, 120-123.

[485] Sóknarm.tal Dýrafj.þinga 31.12.1895.

[486] Trausti Einarsson 1987, 89.

[487] Sama heimild.

[488] Sama heimild.

[489] Norsk Alkunnebok, X, 490.

[490] Guðm G. Hagalín 1952, 198-199.

[491] Jón Jónsson / Guðjón Friðriksson 1975, 15-16 (Hljóðabunga).

[492] Lbs. 23754to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 29.12.1897.

[493] Sama dagbók, desember 1902.

[494] Sama dagbók, des. 1902 og jan. 1903.

[495] Ísl. æviskrár IV, 200-201.

[496] Lbs. 23754to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 16. og 18.4.1903.

[497] Sama dagbók 14. og 22.4.1903.

[498] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 1890-1891.

[499] Jón Jónsson / Guðjón  Friðriksson 1975, 15 (Hljóðabunga).

[500] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 2.6.1891.

[501] Jón Jónsson / G.Fr. 1975, 15.

[502] Trausti Einarsson 1987, 97-98.

[503] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 16.11.1890.

[504] Sama dagbók 30.11.1890.

[505] Sama dagbók 27.12.1890.

[506] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 23.2.1891.

[507] Lbs. 23754to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 4.1.1902.

[508] Sama dagbók 27.8.1894.

[509] Lbs. 45824to, Dagb. Jóns Guðmundssonar frá Grafargili 26.2.1892.

[510] Lbs. 23744to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 6.1.1891.

[511] Lbs. 45824to, Dagb. Jóns Guðmundssonar frá Grafargili 6.1.1891.

[512] Lbs. 45824to, Dagb. Jóns Guðmundssonar frá Grafargili 6.1.1891.

[513] Sama heimild.

[514] Þjóðviljinn 31.1. og 26.2. 1891.

[515] Sama heimild.

[516] Sama heimild.

[517] Sama heimild.

[518] Sama heimild.

[519] Sama heimild.  Sbr. Lbs. 45824to, Dagb. Jóns Guðmundssonar frá Grafargili 6.1.1891.

[520] Þjóðviljinn 31.1. og 26.2. 1891.

[521] Sama heimild.

[522] Sama heimild.

[523] Þjóðviljinn 31.1. og 26.2. 1891.

[524] Sama heimild.

[525] Sama heimild.

[526] Lbs. 23754to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 28.2.1902.

[527] Sama heimild.  Þjóðviljinn 18.4.1902.

[528] Lbs. 23754to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 17.2.1894, 31.3.1895 og 29.12.1901.

[529] Lbs. 23754to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 1.8.1893, 7.2. og 12.4.1894.

[530] Sigurður Magnússon, læknir, 1985, 74 (Endurminningar læknis).

[531] Lbs. 23754to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 2.4.1893 og 27.12.1894.

[532] Joh. N. Tønnesen 1981, 34 (Ársrit S.Í.).

[533] Lbs. 23754to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 12.3.1903.

[534] Sama dagbók, maí og júní 1903.

[535] Sama dagbók 15. júní 1903.

[536] Trausti Einarsson 1987, 54.  Joh. N. Tønnesen 1981, 42.

[537] Lbs. 23754to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. september 1903.

[538] Sama dagbók, 20.9. 1903.

[539] Lbs. 23754to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 22.3.1904.

[540] Sama dagbók 6.4.1904.

[541] Sama dagbók 7.4.1904.

[542] Skj.s. sýslum. og sv.stj. V-Ís. Mýrahreppur 16. Niðurjöfnunarbók 1875-1906.

[543] Joh. N. Tønnesen 1981, 42 (Ársrit S.Í.).

[544] Lbs. 23754to, Dagbækur Sighv. Gr. Borgf. 1906-1912.

[545] Joh. N. Tønnesen 1981, 42 og  43.

[546] Lbs. 23754to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 14.9.1910.

[547] Lbs. 23764to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 10.6.1911.

[548] Sama dagbók 1. og 2.8.1911.

[549] Páll Kristjánsson 1977, 48-49.

[550] Sama heimild.

[551] Lbs. 23754to, Dagb. Sighv. Gr. Borgf. 27.9.1902.

1000-1900

Guðmundur Justsson

Á fyrri hluta 20. aldar var Guðmundur Justsson, sem fæddist á Gemlufalli haustið 1841,[1] einna kunnastur þeirra sem búið höfðu á Dröngum, a.m.k. utan Dýrafjarðar,

LESA MEIRA »
1000-1900

Krossadalur

Í Krossadal var löngum tvíbýli á fyrri tíð, Hærri- og Lægri- (eða Neðri-) Krossdalur, og voru þetta ystu bæir við Tálknafjörð. Stundum var reyndar þríbýli

LESA MEIRA »
1000-1900

Arnarstapi

Arnarstapi og Krossadalur voru tvær ystu jarðirnar á norðurströnd Tálknafjarðar og hafa nú báðar verið í eyði frá því um 1940.[1] Frá verbúðatóttunum í Arnarstapavík

LESA MEIRA »